JEAN-LUC NANCY OG VEGSUMMERKI LISTARINNAR

Jean-Luc Nancy (1940 - 2021) er meðal kunnustu heimspekinga Frakklands á síðari hluta 20. aldar. Hann hefur skilið eftir sig fjölmörg rit um tilvistarvandamál í samtíma okkar, um verufræði, stjórnmál, trúmál og listir, en hann starfaði lengst af sem prófessor í heimspeki við háskólann í Strasburg. Skrif hans um listir hafa vakið sérstaka athygli, ekki síst um samtímalist. Hann hefur meðal annars skrifað fyrir Listasafn Reykjavíkur inngang að bókinni "Sjónarmið - Á mótum myndlistar og heimspeki". Í þessari frumlegu ritgerð leggur Nancy út frá hugleiðingum Hegels um endalok listarinnar og skýrir þær þversagnir hughyggjunnar sem liggja til grundvallar þeim endalokaspám sem einkennt hafa listumræðuna á Vesturlöndum í langan tíma og byggja á þeirri tvíhyggju sem felst í Hugmyndinni annars vegar og hinni efnislegu og skynjanlegu eftirgerð hennar hins vegar. Þessi þýðing er unnin upp úr ítalskri útgáfu Diabasis á ritgerðasafninu Le Muse í þýðingu Chiara Tartarini frá 2006.Þýðingin er frá 2013.
Jean-Luc Nancy
Vegsummerki listarinnar

eða „Le vestige de l‘art“

Hvað er það sem lifir eftir af listinni? Kannski bara slóð hennar, vegsummerkin. Það er í það minnsta umhugsunarefni okkar nú, enn einu sinni. Með því að leggja til að yfirskrift þessarar ráðstefnu verði „Vegsummerki listarinnar“ (Le vestige de l’art) hef ég aðeins eitt í huga: með þeirri fullyrðingu að það eina sem eftir lifi af listinni sé farvegurinn – hverful slóð og nær ómerkjanleg brot – vonast ég til að geta leitt okkur á slóðir sjálfrar listarinnar, eða í það minnsta á slóðir einhvers sem nálgaðist kjarna hennar, ef við gefum okkur þá tilgátu að það sem eftir standi sé jafnframt það sem veitir mesta viðnámið. Síðan þurfum við að spyrja okkur þeirrar spurningar, hvort þessi kjarni falli ekki undir skilgreiningu slóðarinnar, og hvort listin sýni ekki best eigin inntak og átakasvæði þegar hún gerir sig að eigin ummerkjum. Þetta merkir að þegar listin hefur  yfirgefið mikilfengleik þeirra verka sem skapa heima, þá virðist sem hún sé liðin hjá, þar sem hún sýni ekki annað en eigin farveg. Þetta verður viðfangsefni okkar hér í dag, við munum kanna til þrautar hvað felist í vegsummerkjunum (le vestige).

Við erum stödd hér í Jeu de Paume safninu, þar sem þið hafið hvatt mig til að ræða málefni samtímalistarinnar – á þessum undarlega stað þar sem listin gerir ekki annað en að fara hjá. Það sem eftir situr er hið liðna, umgangurinn á milli vettvangs nærveru og lífs sem listin á í flestum tilfellum ekki afturkvæmt til. (En kannski er safnið ekki „staður, heldur saga“ eins og Jean-Louis Déotte hefur sagt[i], samheiti sem er vettvangur umferðarinnar sem slíkrar, gegnumstreymisins frekar en fortíðarinnar; vettvangur ummerkjanna (vestige)).

Hvarvetna spyrja menn sig, á milli vonar og ótta, hvort list okkar tíma sé ennþá list. Þetta eru aðstæður fullar af fyrirheitum, andstætt því sem bölsýnisfólkið heldur fram, því þær sýna að fólk er enn að velta fyrir sér hvað listin sé.  Eða með öðrum og veigameiri orðum, hver sé kjarni hennar. Orðið kjarni er þungavigtarorð, sem kann hugsanlega að vekja þá grunsemd hjá einhverjum að með því sé heimspekin að taka sér vissan skilgreiningar- eða eignarrétt . En við ætlum okkur hins vegar að losa um þetta orð og gera það að sínum eigin ummerkjum. Eins og er lítum við til þeirra fyrirheita sem í því kunna að felast.  Mun þessi umræða kenna okkur eitthvað nýtt um „kjarna“ listarinnar?

Fyrst og fremst þurfum við að skýra málin, því í gangi eru margs konar umræður sem blandast saman.  Þær hafa kannski upphaflega sameiginlega forsendu eða sameiginlegt sjónmál í því sem við köllum tilveru listarinnar, en hér  verður nauðsynlegt að greina á milli ólíkra sviða. Ég mun leiða umræðuna áfram stig af stigi með tölusetningu, nánar tiltekið í 10 tölusettum liðum.

1.

Fyrst höfum við umræðuna um listmarkaðinn, eða listina sem markaðsvöru, og hvernig markaðurinn hafi grafið undan henni og tæmt hana af inntaki sínu og veru. Þetta er eins og við vitum umræða um staði og vettvang þessa markaðs, um virkni hans og þau einkafyrirtæki og þær opinberu stofnanir er koma að honum, hvaða hlutverki markaðurinn gegni  í „menningunni“, allt umræða sem er full af ágreiningi.

Ég ætla hins vegar ekki að fjalla um þessi ágreiningsefni. Ég er ekki dómbær um þau. Enn einu sinni býð ég einungis upp á umræðu um kjarna listarinnar eða ummerki hans – og þar með umræðu um söguna sem leiðir til slíkra vegsummerkja.  Slík umræða leiðir okkur ekki umsvifalaust  að tilteknum verklagsreglum.  Samningaleiðin á milli ólíkra forsendna er af öðrum toga. Ég mun því ekki bjóða fram „kenningu“ er boði nýtt verklag,  eða nýja framkvæmd markaðsins, og enn síður nýjar verklagsreglur listarinnar sjálfrar.

En um leið og ég kem inn á umfjöllun um samspil listarinnar og umræðunnar um hana, og það á okkar tímum, þar sem slík umræða hefur verið túlkuð sem merki um ofvöxt heimspekinnar  og meira og minna tvíræða meðábyrgð hennar á gífurlegri verðbólgu og virðisauka í listheiminum eða á kostnað hans, þá vil ég hér nota tækifærið og halda fram hinu þveröfuga, að vinnan við það að hugsa og segja frá listinni eða ummerkjum hennar sé í sjálfu sér með einstökum hætti samofin og innifalin í  sjálfri listsköpuninni. Þannig hefur það verið frá því „listin“ kom til sögunnar,  (hvenær svo sem við viljum tímasetja fæðingu hennar, í Lascaux hellamálverkunum, meðal Forn-Grikkja eða með þessum vatnaskilum, þessum umskiptum sem við köllum „endalok listarinnar“). Í öllum þessum tilvikum setur listin fram spurninguna um „tilveru“ sína: leitar að slóð sinni og uppruna.  Kannski hefur hún alltaf falið í sér tiltekið samband við slóð sína (vestige) og  upprunarannsókn (investigation).

(Hins vegar virðast mörgu listaverk samtímans –kannski of mörg – setja sér það meginmarkmið að grafa undan fræðilegum forsendum sínum, að minnsta kosti verður vart annað séð, – en  það er annað form vegsummerkja.  En einmitt þessi staðreynd er til marks umþá leyndu þrá sem þjáir listamennina, og er á engan hátt „fræðileg“: þörfina á að sýna „listina“ sjálfa, þörfina á eigin έχϕϱασιϛ  (ekphrasis= skýringartexti, neðanmálsgrein).)

Hvað varðar markaðinn, þá vildi ég bæta því við, að ekki nægir að fordæma hvernig listaverkin eru háð fjármálavaldi kapítalismans þegar sýnt er fram á hvernig verðlagning listaverka fer úr böndunum – eða hvað valdi því að sjálft gildi verkanna fari út af sporbrautinni , ef svo mætti að orði komast, (út frá notagildi, siðferðisgildi og einnig merkingarlegu gildi).

Málið snýst hvorki um að afsaka né heldur réttlæta hvað sem er, né heldur að leiða hjá sér að markaðurinn hafi ekki bara áhrif á viðskipti með listaverkin, heldur líka á þau sjálf. Við þurfum eingöngu að segja: siðferðisleg fordæming fullnægir okkur engan veginn. Þetta er heldur engin nýlunda ef litið er til sögu listarinnar – hún þurfti ekki að bíða eftir okkur til að verða saga listmangaranna.  (Það sem er nýtt er eingöngu aðstæður efnahagslífsins og fjármagnsins. Með öðrum orðum,  þá er hér um pólitískan vanda að ræða í dýpstu, erfiðustu og  vandmeðförnustu merkingu þess orðs). Listin hefur kannski alltaf staðið utan markaðslögmálanna, ótæk vegna ofgnóttar eða skorts. Við þurfum að hugleiða þennan útafakstur af sporbrautinni  (í gegnum marvíslega miðlun, afvegaleiðslu og blekkingar) í samhengi við hin erfiðustu veðmál og viðkvæmustu vandamál er fylgja starfinu að hugsa listina: að hugsa og leggja mat á það sem er ómetanlegt eða utan allra verðlagsskala. Samkvæmt mælikvarða og á forsendum ummerkjanna (vestige).

2.

Í þeirri umræðu sem kenna má við „hreina fagurfræði“ getum við greint tvö svið.

Fyrsta sviðið: Það skilningsleysi og sú andúð sem samtímalistin vekur, er spurning um smekk. Í þessu tilfelli er öll umræða til góðs. Ekki í krafti þessa huglæga frjálslyndis varðandi smekk og liti (sem ekki eru umræðuefni), heldur vegna þess að í umræðunni um smekkinn og smekkleysuna (ef ekki er um að ræða almenna félagslega þvingun eða ofstæki) er hann ekki annað en bæling þess forms sem leitað er að, þess stíls sem er ósýnilegur meðan hann er í mótun og menn skynja áður en menn geta greint merkingu hans.  Smekkurinn og umræðan um hann er það sem listin færir okkur, samfara eigin ummerkjum.  Hann er tillaga um form, tillaga um skissu að tímabili eða heimi. Í þessum skilningi myndi ég óska mun meiri umræðu um smekkinn en raunin ber vitni… Að þau átök kæmu aftur upp í nýrri mynd sem við þekkjum frá Hernani (skáldsögu Victors Hugo um átök rómantíkur og klassíkur) eða Dada… Ég ætla ekki að leiða þessa umræðu lengra, en hún hefur eins og menn vita verið mörkuð af Kant. (Nema til að benda á, að á okkar tímum er ekki hægt að tefla fram „heimi“ sem viðmiði. Ekki er  við listamennina eða listina að sakast um þessa vöntun, eins og sumir gera, heldur við „heiminn“ eða fjarveru hans…).

Annað svið (sem útilokar ekki hið fyrra, en þar sem smekkurinn á ekki við). Án þess að vera sér þess meðvituð eða vilja vita það taka skilningsleysið og andúðin sjálf mið af því, rétt eins og hömlulaus lofsöngurinn, að listin getur ekki lengur skilið sjálfa sig né fallið undir þær reglur sem henni voru áður eiginlegar.  Trúlega felur sérhvert verkefni sem helgast af hugtakinu „list“ í sér einhverjar leifar slíkra reglna: þegar við segjum „list“ höfum við að minnsta kosti alltaf í huga „hina miklu list“, það er að segja eitthvað í líkingu við þau stóru form sem eru „meðvituð endurspeglun heimsmyndar síns tíma“ (þetta er setning höfð eftir Lawrence Durell úr Alexandríukvartettinum). Þegar við segjum „list“  köllum við fram yfirbragð (cosmetica) sem hefur til að bera kosmíska vídd, vídd er varðar byggingu og jafnvel sköpun alheimsins. En ef engum alheimi (cosmos/ χοσμοϛ) er til að dreifa, hvernig getum við þá gert tilkall til slíkrar listar? Skorturinn á χοσμοϛ er kannski grundvallar stærðin í okkar heimi: orðið heimur hefur á okkar tímum ekki sömu merkingu og χοσμοϛ. Þetta felur í sér að „list“ getur ekki merkt „list“ í þessum skilningi. (Þetta var röksemdin fyrir upphaflegri tillögu minni að yfirskrift þessa fundar: „Listin án listar“).

Með því að innrita borgríkið πόλιϛ (polis) inn í χοσμοϛ (kosmos/alheiminn) getum við skilið undirliggjandi merkingu í þessari setningu Georges Salles: „Listin greinir sig frá því sem á undan kom og gerir sig einmitt vegna þess að hún tjáir annars konar raunveruleika miðað við einfalda formlega umbreytingu: hún endurspeglar annan mann. […] Það sem við þurfum að festa hönd á er hvenær tiltekin formleg fylling gerir sig gildandi sem trygging fyrir fæðingu nýrrar samfélagsgerðar.“[ii] En þar sem heimur okkar er ekki lengur kosmískur, þá er okkar πόλιϛ (polis/borgríki) ópólitískt í þeim skilningi sem þessi orð gefa til kynna.

Auk afmörkunar þessa kosmoslausa heims og þessarar „ópólitísku“ borgar er því við að bæta sem ekki ber að vanmeta, og kemur fram í hinni frægu yfirlýsingu Adornos:  „Eftir Auschwitz verður öll menning, líka sú sem beitir fyrir sig áríðandi gagnrýni, að sorphaugamat.“[iii]  Auk þess gildis sem orðið „Auschwitz“ felur í sér, verður það hér að samheiti yfir mörg önnur óbærileg fyrirbæri. Þessi ummæli réttlæta hins vegar ekki að listaverkinu sé breytt í „sorphaugamat“.  Það verður þvert á móti skelfilegur endurómur þeirrar athugasemdar sem Leiris lét frá sér fara löngu fyrir stríðið, eða árið 1929: „Eins og málum er háttað er ekki lengur hægt að sýna eitthvað sem ljótt eða viðbjóðslegt. Jafnvel saurinn verður fallegur.“[iv] Við getum hvorki losað okkur undan ruslahaugum heimsins og heimsósómans né breitt yfir þá. Það er þannig sem engum χοσμοϛ (kosmos) er til að dreifa. Við höfum hins vegar engin hugtök um list án χοσμοϛ og án πόλιϛ, rétt eins og slík list eigi að vera til staðar, eða að enn sé um „list“ að ræða.

Þannig eru allar þær ásakanir, tilvísanir og öll þau hvatningarorð sem beint er til listarinnar á forsendum  hins ímyndaða χοσμοϛ eða tiltekinnar πόλιϛ, sem listin ætti að standa ábyrg fyrir eða ganga sjálfkrafa út frá, staðlausir stafir, því slík tilgáta á sér að okkar mati enga haldbæra forsendu. Þannig er ekki hægt að hugsa sér þann vettvang „listarinnar“ þar sem hægt væri að beina til hennar slíkum spurningum, tilmælum eða bónum.

Í þessum mæli – sem er í raun ómælanlega víður – beitir listin sjálfa sig óvægilegum gjörningi og áreynslumiklu ferli er tekur mið af eiginlegum kjarna hennar sem er orðinn að ráðgátu, ráðgátu sem birtist í hennar eigin ummerkjum (vestige). Ekki í fyrsta skiptið: kannski er öll saga listarinnar mörkuð spennu og þvingunum gagnvart hennar eigin ráðgátu. Spennu og þrengingum sem virðast á okkar tímum vera í hámarki. Kannski virðist það bara vera þannig. Kannski sjáum við hér blossa upp átök sem eiga sér að minnsta kosti 10 alda sögu – eða allt frá tilurð Vesturlanda. Eitt er að minnsta kosti ljóst, að „listin“ stendur völtum fótum á merkingu sinni, rétt eins og „heimurinn“ á reglu sinni og áfangastað. Í þessum skilningi er enginn ágreiningur um hvert skuli stefna:  við verðum að fylgja þessum gangi mála, og við verðum að kunna að gera það. Það tilheyrir reglu og skyldu hinnar ströngustu þekkingar, en ekki ásökununum, formælingunum eða hinum blindu lofgjörðum.

3.

Rétt er að hafa í huga að allar ásakanirnar eða einföldu fullyrðingarnar um tæmingu listarinnar eru komnar til ára sinna. Kant skrifaði að kannski hefði listin „náð óyfirstíganlegum mörkum sínum, sem ekki yrði lengur hliðrað til.“[v] Í málflutningi Kants rekast slík mörk á við ómælanlega aukningu þekkingarinnar. Hér er ekki um staðfestingu á endanlegri tæmingu að ræða, heldur er þetta fyrsta yfirlýsingin um „endamörk“ undir hinu tvíræða formerki óstöðvandi fullnustu listarinnar. Við þekkjum einum of vel yfirlýsingar Hegels um að listin tilheyri fortíðinni sem birtingarmynd hins sanna. Renan, sem kannski hafði í heimildarleysi eftir Hegel, skrifaði í lok 19. aldarinnar: „Hin mikla list […] mun hverfa. Sú tíð mun renna upp, að listin tilheyri fortíðinni.“[vi] Duchamp gaf frá sér þessa yfirlýsingu: „Listin hefur þegar verið hugsuð til grunna“.[vii]

Einungis athugasemdir við þessar fjórar fullyrðingar og afdrif þeirra myndu kalla á gríðarlega vinnu. Ég læt mér hér nægja að draga fram eina niðurstöðu. Listin á sér sögu, kannski er hún hrein saga í sjálfri sér, það er að segja ekki framþróun heldur umgangur, atburðarás, birting, brotthvarf, atburður. [viii] En hún býður alltaf upp á fullkomnunina, upp á framkvæmdina. Ekki fullkomnun sem endanleg markmið og endamörk sem stefnt er að, heldur þá fullkomnun sem felst í komu og kynningu eins staks hlutar, eins og það sem er mótað fullkomlega í samræmi við veru sína, í sinni entelechia, svo stuðst sé við orð frá Aristótelesi sem merkir „veru mótaða fullkomlega samkvæmt markmiði sínu“. Um er að ræða fullkomnun sem er stöðugt í gangi, en leyfir ekki framþróun frá einni entelechia til annarrar.

Þannig er saga listarinnar saga sem dregur sig sífellt til hlés og fyrirvaralaust, frá sögunni og sagneðli sínu í skilningi framvindu og „framfara“. Við gætum orðað þetta þannig: listin er ávalt í einu og öllu önnur list (ekki bara annað form, annar stíll, heldur annar „kjarni“ „listarinnar“) –allt eftir því hvernig hún „svarar“ öðrum heimi, annari πόλιϛ, – en hún er um leið allt sem er, það er að segja öll listin í sjálfri sér…

Þessi framkvæmd án enda, eða öllu heldur þessi endanlega fullvinnsla, ef við höfum í huga framkvæmd sem takmarkast við það sem hún er, og opnar einmitt þess vegna  fyrir tilkomu annarrar framkvæmdar, og er því einnig óendanleg fullvinnsla – þessi þversagnafulli háttur fullkomnunarinnar er kannski það sem öll listhefð okkar kallar á og forðast um leið að hugsa. Þessi tvíræði gjörningur á sér djúpstæðar forsendur, sem við komum að síðar. En með þessum tvíræða  hætti vísar hefðin á endamörkin, á endalokin í sinni einföldustu mynd, og brátt á sjálfan dauðann sem í raun gæti verið afskrift tiltekins forms, skyndimynd tiltekins gjörnings, brottfall tiltekinnar birtingar – og því ávallt tiltekið brotthvarf.  Erum við þess megnug að hugsa þetta? Þið verðið að skilja að þetta felur í sér að hugsa ummerkin (vestige).

Um er að ræða knýjandi nauðsyn.  Því ef atburður listarinnar fullkonar sig til þess að hverfa, ef hann endurtekur sig í sögu sinni, ef hann jafnvel spinnur þessa sögu sína sem hrynjandi  endurtekninga sinna (og ég legg áherslu á að þetta hafi jafnvel gerst hljóðlega allt frá Lascaux), þá merkir það að atburðurinn hafi einkenni nauðsynjarinnar fyrir listina. Við getum ekki komist í gegnum þetta með útskúfunar- og blessunarorðum. Þar sem ég ætla mér ekki hér og nú að fara inn í umræðu um smekkinn ætla ég þar af leiðandi ekki heldur að leggja endanlegan dóm á samtímalistina, dóm sem til góðs eða ills myndi meta hana á mælikvarða hinnar endanlegu fullkomnunar (sem væri um leið óhjákvæmilega guðfræðilegur dómur og þar með kosmólógiskur og mannfræðilegur). Þvert á móti legg ég til rannsókn á hvers eðlis „full-komnunin“ eða hin endanlega/óendanlega fullkomnun sé í því sem eftir lifir þegar verk sýnir sig og þráast við að sýna sig.  Hugsun mín snýst um þetta: endanlega full-komnun, eða fullkomnun slóðarinnar.

4.

Ef við viljum vera nákvæm og gaumgæfa vel orðin og sögu þeirra, þá verðum við að viðurkenna að til er skilgreining listarinnar sem felur allar aðrar skilgreiningar í sér (að minnsta kosti á Vesturlöndum – en „listin“ er vesturlenskt hugtak.) Við getum með nokkurri vissu sagt það um skilgreiningu Hegels:  listin er hin skynjanlega birtingarmynd Hugmyndarinnar. Engin önnur skilgreining er það frábrugðin, að hún feli í sér beina andstöðu við þessa. Hún felur í sér veru og kjarna listarinnar fram að okkar tímum. Ólík blæbrigði sem við getum fundið allt frá Platóni til Heideggers (a.m.k. fram að hinum kunna texta Um uppruna listaverksins; – öðru máli gegnir um fyrstu útgáfu textans eins og Emmanuel Martineau gekk frá honum 1987. Hér er ekki tilefni til frekari könnunar þessa máls, sem væri þörf.) Eftir það er komið að okkur: við ræðum  og skeggræðum um hið ytra og innra í þessari skilgreiningu. Við þurfum að takast á við hana, hún varðar grundvallaratriði, sem mig langar til að sýna fram á að við höfum náð að yfirvinna.

Þessi skilgreining veldur heimspekinni ekki bara hugarangri, heldur kallar hún á skilgreiningar er virðast standa utan hinnar heimspekilegu orðræðu. Tökum dæmi af orðum Durells, sem ég vitnaði til hér að framan; þau segja ekki annað en þetta. Eða orð Josephs Conrad: „listina […] má skilgreina sem tilraun einstaklings til að gera hinum sýnilega heimi skil með því að leiða sannleikann í ljós, margbreytilegan sannleika en samt einn, eins og hann hvílir á bak við allar myndir heimsins.“ [ix] Eða þessi skilgreining sem Norman Mailer hefur eftir Martin Johnson: „Listin er miðlun tilfinninganna“[x], eða Dubuffet: „Það er engin list án ölvunar. Hvað þá, geggjaða ölvun! Láttu rökhugsunina veltast! Hvílík geggjun! […] Listin er ástríðufyllsta æðið sem maðurinn getur fundið…“[xi]

Til þess að höndla ekki bara einfalda samsemd, heldur djúpa sameiginlega merkingu þessara sjónarhorna, nægir að hafa í huga að hin hegelska Hugmynd er alls ekki það sama og hin vitsmunalega Hugmynd. Hún er hvorki hinn hugsaði skilningur né hugmynd framsetningar.  Hugmyndin felur í sér samsöfnun ákvarðana Verunnar í sig og fyrir sig (við getum líka gróft tiltekið kallað hana sannleika, merkingu, frumlag, sjálfsveru). Hugmyndin er kynning verunnar eða hlutarins fyrir sér sjálfri. Hún er þannig sinn innri sýnileiki og mótun, eða hluturinn sjálfur sem hið séða , bæði í mynd nafnorðsins (ít.: „vista“ )(hluturinn séður og höndlaður í sýnilegu formi)  og sem lýsingarorðið (hinn séði hlutur, höndlaður í formi sínu út frá sjálfum sér eða kjarna sínum).

Það er í þessum  skilningi sem listin er hinn skynjanlegi sýnileiki þessa skiljanlega (og þar af leiðandi ósýnilega) sýnileika. Hið ósýnilega form (sem Platon kallaði eidos) hverfur inn í sjálft sig og gerir sig sýnilegt. Þannig leiðir hún í ljós og sýnir Veru sína sem form og form Veru sinnar.  Allar stórar hugsanir um „eftirlíkinguna“ hafa aldrei snúist um  annað en eftirlíkingu Hugmyndarinnar  eða myndarinnar, þessarar Hugmyndar –(sem þið skiljið vel að er ekki annað en sjálfspeglun tilverunnar, hermilist hennar í handanverunni). Þar af leiðandi eru allar hugsanir Hugmyndarinnar hugsanir myndarinnar eða eftirlíkingarinnar. Einnig og umfram allt, þegar horfið er frá eftirlíkingu ytri forma eða í þessum skilningi, frá „náttúrunni“. Allar slíkar hugsanir eru þannig guðfræðilegar,  því þær þrjóskast við að snúast í kring um hið mikla viðfangsefni „hinnar sýnilegu myndar hins ósýnilega Guðs“, sem var skilgreining Krists hjá Origen.

Allur módernisminn sem talar um hið ósýnilega, eða hið ósýnanlega, er þannig stilltur inn á braut þessa viðfangsefnis.  Það er alltaf þetta sem skýrir setninguna sem grafin er á legstein Pauls Klee og Merleau-Ponty vitnar til: „Ég er óhöndlanlegur (ósýnilegur) í nánd minni og íveru (immanenza). [xii]

Það sem gildir hér er sýnileiki hins ósýnilega sem slíks, eða framsetning hugmyndarinnar, einnig í þversagnarkenndri nærveru eigin hyldýpis, eigin formyrkvunar eða eigin fjarveru.  Það er einmitt þetta sem myndar fegurðina, allt frá Platóni til okkar daga, og enn frekar frá Plotínusi, en samkvæmt honum felst nálgun fegurðarinnar í því að verða ég sjálfur, í minni innstu veru, hreint ljós og hrein sýn, „einasta augað sem greint getur hina æðstu fegurð.“ Hina æðstu fegurð eða dýrð sannleikans eða merkingar verunnar. Listin, eða hin skynjanlega merking hins algilda skilnings. Enn í dag er það þetta sem lætur hið fagra yfirbjóða sjálft sig í hinu „háleita“ og síðan í hinu „hryllilega“ eins og í hinu „gróteska“ og í „íróníunni“, í almennu brottfalli (entropia) formanna eða í hreinum og klárum ready made hlut.

5.

Sumir hrapa kannski í flýtinum að eftirfarandi niðurstöðu: listin er komin á endastöð sína og hefur lagt upp laupana vegna þess að ekki er lengur til staðar nein Hugmynd sem hægt er að kynna eða vegna þess að listamaðurinn vill ekki lengur vera í því hlutverki (eða hefur misst sjónar á merkingu hugmyndarinnar). Ekki sé lengur um neina merkingu að ræða, eða menn vilji ekki lengur vita af henni. Við erum flækt í afneitun merkingarinnar og í „viljanum til endalokanna“ sem Nietzsche notar til að lýsa tómhyggjunni. Þannig er listamaðurinn leynt eða ljóst beðinn um að endurheimta Hugmyndina, hið Góða, hið Sanna og hið Fagra…

Þetta er veikburða orðræða þeirra sem telja að það nægi að veifa fánum „gildanna“ og halda á lofti siðferðilegu ákalli. Jafnvel þótt viðurkennt sé að tiltekinn listamaður haldi fram vissri tómhyggju (þeir listamenn sem Nietzsche sagði að „kysu heldur sögu og náttúru kaldhæðninnar“ [xiii]) þá þurfum við engu að síður að beita allt öðrum aðferðum við að rannsaka rætur og afleiðingar slíkrar tómhyggju og draga af henni aðrar niðurstöður. Að svo miklu leyti sem listin nær tilteknum endamörkum í raun, þar sem hún nær því marki að raungera og draga um leið eigin endamörk, þó hún sé ennþá skilgreind og skilin sem „skynjanleg birtingarmynd Hugmyndarinnar“, þá nemur hún staðar og afvopnar sjálfa sig undir síðasta ljósgeisla Hugmyndarinnar, í hinum hreina og myrka afkima hennar.  Á þessum mörkum er ekkert eftir lengur nema sjálf hugmyndin um listina, eins og hreinn og klár kynningargjörningur sem hverfist um sjálfan sig.  Slíkar leifar virka hins vegar ennþá sem Hugmynd, meira að segja sem hin hreina Hugmynd hinnar hreinu merkingar, eða eins og fullkominn sýnileiki án annars inntaks en ljóssins sjálfs: eins og hinn hreini og myrkvaði kjarni algildrar sjálfshermilistar.

Ekkert hljómar jafn platónskt eða hegelskt eins og þau form þar sem hreinleikinn einn ríkir, efnisleg eða hugmyndaleg hreinsun sem birtist í formi naumhyggju, gjörnings eða atburðar. Segja má um slíka list að hún sé list botnfalls hugmyndarinnar. Slík Hugmynd kveikir engu að síður – ef hún hefur virkni botnfallsins – óendanlega þrá eftir merkingu og sýningu merkingar. En þetta botnfall er ekki það slóðareinkenni sem hér verður til umfjöllunar, heldur ranghverfa þess.

Satt að segja er mikilvægustu þætti í samtímalist okkar ekki að finna í formleysu eða afmyndun, í smekkleysu eða hinu auvirðilega, heldur í leitinni, viljanum og lönguninni eftir merkingu. Það er löngun til að gefa merkingu og sýna – heiminn og heimsósómann, tæknina og þögnina, sjálfsveruna og fjarveru hennar, líkamann, sýndarveruna, merkingarleysuna, eða hreinan og kláran vilja til að merkja.  „Leitin að merkingu“ er meira og minna meðvitað leiðarstef þeirra sem gleyma, eins og Wagner í Parsifal, að formgerð rannsóknarinnar er formgerð flóttans og glötunarinnar, þar sem hin eftirsótta merking tapar smátt og smátt öllu blóði sínu.

Þannig láta þeir kröfu eða áköll hugmyndarinnar taka sig kviknakta í bólinu. Ekki síst fyrir þá sök að þeir eru gjörsnauðir af viðmiðum og lyklum að slíkum viðmiðum (sem eitt sinn heyrðu undir trúarbrögðin, goðsögurnar, sögrnar, hetjudáðirnar, náttúruna, tilfinningarnar, áður en þau urðu lyklar sjónarinnar sjálfrar eða skynjunarinnar, atburðarins eða efnisins og þannig áfram allt til hins sjálfsvísandi forms).  Þar sem þessi eftirspurn eftir Hugmyndinni birtist okkur í listinni í sinni einföldustu og áköfustu mynd, sjáum við listina tæma sig og ganga sér til húðar: eftir stendur ekki annað en hin frumspekilega löngun hennar. Hún er ekki annað en endurvarp, útkall í átt að endamörkum/endamarkmiði, er beinist að innantómu τελος/θεός  (telos/þeos) sem hún getur enn myndgert. Semsagt tómhyggja, en eins og einföld ranghverfa hughyggjunnar/Idealismans.  Ef Hegel leit svo á að listin hefði lokið hlutverki sínu vegna þess að Hugmyndin hefði náð að sýna sig í sinni eigin mynd, í hinu heimspekilega hugtaki, þá var sjónarmið tómhyggjusinnans hið gagnstæða: listin endar á því að sýna sjálfa sig í sínu eigin inntakslausa hugtaki.

6.

Með þessu höfum við hins vegar ekki tæmt alla möguleika á skilgreiningu listarinnar – og  möguleika listarinnar sjálfrar. Við höfum ekki lokið reikningsskilunum á endalokum og endamarkmiðum hennar, en þau fela í sér flókna afkima sem eru rótin að öllum ögrunum listarinnar á okkar dögum.  Til þess að ná utan um þennan afkima þurfum við að ganga skrefinu lengra í greiningunni á „sýningu Hugmyndarinnar“.

Þetta eru skref sem ná yfir tvenna tíma, þar sem sá fyrri nær ennþá til Hegels, (og til allrar hefðarinnar í gegnum hann) en seinni tíminn varðar tímann frá endamörkum Hegels til okkar daga (í gegnum Heidegger, Benjamin, Bataille, Adorno).

Fyrra tímabilið segir okkur að „hin skynjanlega birtingarmynd Hugmyndarinnar“ sé algild frumforsenda Hugmyndarinnar. Með öðrum orðum gæti Hugmyndin ekki verið það sem hún er – kynning hlutarins í sannleika sínum – nema fyrir tilverknað og gegnum þessa reglu skynjunarinnar. Hún er hvort tveggja í senn, eigin úthverfa og úthverfan sjálf sem hið brottnumda í afturhvarfinu til sjálfrar sín sem Hugmynd. Hugmyndin verður að stíga út úr sjálfri sér til að verða hún sjálf. Þetta er það sem við köllum díalektíska nauðsyn. Eins og allir sjá, þá felur þetta í sér vissa tvíræðni:  annars vegar er listin ávalt nauðsyn – og hvernig gæti hún þá hætt að vera til? – en hins vegar eru endalok Hugmyndarinnar boðuð. Ég ætla ekki að dvelja frekar við þessa tvíræðni, þó vissulega sé margt hægt að læra af því hvernig hún hefur haft mótandi áhrif á Fagurfræði Hegels, og flækt hana með duldum hætti, eða jafnvel grafið undan áætluninni um „endalok listarinnar“.

Ég vil huga að síðara tímabilinu, því sem Hegel náði ekki að lifa, og getur ekki náð utan um, en situr eftir til frambúðar sem dreggjar tvíræðninnar (og er sá tími sem þessi tvíræðni opnar með sínum hætti). Í stuttu máli má skilgreina þetta síðara tímabil með eftirfarandi hætti: þegar Hugmyndin kynnir sig dregur hún sig í hlé sem Hugmynd. Þetta er sú skilgreining sem við þurfum að kanna nánar.

Kynning Hugmyndarinnar felur ekki í sér útisýningu þess sem er fyrir innan, ef hið innra er það sem það er – „innrýmið“- hún felst einungis í útikynningu þess sem er útistandandi.  (Þegar upp er staðið er hér um að ræða stranga rökfræði sjálfspeglunarinnar.)  Í stað þess að finna sjálfa sig og hverfa aftur til sjálfrar sín sem hinn fullkomni ósýnileiki hins sýnilega það þurrkar Hugmyndin út fullkomleika sinn til þess að verða það sem hún er – en það felur í sér að hún getur ekki verið það sem hún er og getur aldrei orðið.

Með öðrum orðum: að merkingin felist í brotthvarfi Hugmyndarinnar, þar finnum við kannski það sem eftir situr af heimspeki Hugmyndarinnar, þar liggur kannski grafið það sem við eigum eftir að hugsa.

Þetta felur í sér að fráhvarf merkingarinnar verði ekki á nýjan leik ósýnanleg Hugmynd er þurfi að sýna, þar liggur það sem gerir þetta botnfall og hugleiðingu þess að sérstöku verkefni listarinnar. Því ef þetta fráhvarf felur ekki í sér ósýnilega hugmynd sem þarf að gera sýnilega, þá stafar það einvörðungu af því , að allt á sér stað á hinu sýnilega sviði eins og hið sýnilega sjálft (eða hið skynjanlega í heild sinni). Hér er því um að ræða verkefni fyrir listina sem fæli ekki í sér kynningu Hugmyndarinnar, heldur kallaði á öðruvísi skilgreiningu.

7.

Það er hér sem dreggjarnar verða að slóð eða ummerkjum (vestigio). Ef ekki er um neitt ósýnilegt að ræða, verður heldur engin sýnileg mynd hins ósýnilega. Með fráhvarfi hugmyndarinnar, eða með þeim atburði sem skekið hefur sögu okkar í tvær aldir (eða í 25 aldir…), þá dregur myndin sig líka í hlé. Og eins og við munum sjá, þá er slóðin hin hliðin á myndinni.

Myndin dregur sig í hlé sem eftirlíking eða vofa Hugmyndarinnar, hennar bíður ekki annað en að hverfa inn í þessa sömu huglægu nærveru. Hún dregur sig til hlés sem mynd af,  sem mynd af einhverju eða einhverjum sem væri ekki, hvorki það né hann, mynd. Hún eyðir sér sem eftirmynd eða ásjóna verunnar, sem ásjóna guðs á Veronikuklæðinu, sem  þrykkimynd tiltekins stimpils eða tjáning einhvers óhugsanleika.  (Takið eftir þessari setningu, því við komum síðar að þessu atriði, að kannski er það sem eyðir sér, tiltekin mynd: maðurinn sem ímynd Guðs.)

Í þessum skilningi erum við frekar myndlaus siðmenning en sú „siðmenning myndanna“ sem situr nú undir ásökunum um glæpi gegn listinni, því við erum siðmenning án Hugmyndar.  Á okkar tímum bíður listarinnar það verkefni að svara þessum heimi og að svara með honum.  Það snýst ekki um að gera myndir af þessari fjarveru Hugmyndarinnar, því í slíku tilfelli væri listin áfram bundin hinni veru- og trúfræðilegu reglu um mynd hins ósýnilega, reglu þessa Guðs sem menn áttu að „ímynda sér óhugsandi“  eins og Montaigne komst að orði. Hér er því um annars konar verkefni að ræða, og rök þess þurfum við að greina til hlýtar.

Ef listin er skilgreind sem samband myndarinnar og Hugmyndarinnar, eða samband myndarinnar og hins óhugsandi (tvöfalt samband sem í stórum dráttum ákveður skilin á milli hins fagra og hins háleita í hefðbundnum skilgreiningum heimspekinnar á listinni) þá mun gjörvöll listin augljóslega draga sig í hlé með myndinni. Það var einmitt þetta sem Hegel sá fyrir sér. Ef röksemdafærsla hans hlaut svo góðar undirtektir að hún var þróuð áfram og rangfærð, þá var það vegna þess að hún var sönn, vegna þess að listin hætti að gegna hlutverki sínu sem mynd. En það var hið verufræðilega og trúarlega hlutverk hennar: það er einmitt í trúarlegu samhengi sínu eða hlutverki sem hin hegelska list verður „erfðagóss fortíðarinnar“. En kannski byrjaði listin eða endurlifnaði með öðrum hætti, kannski byrjaði hún öðruvísi að verða sýnileg, kannski opinberaði hún ekki sýnileika sinn sem mynd, heldur lét hún skynja sig með öðrum hætti.

Út frá þessum skilningi sjáum við fyrir okkur hvernig heimur án mynda leggur fram í ríkum mæli, heilt fjall af myndum þar sem menn geta ekki fundið sig lengur, þar sem listin finnur sjálfa sig ekki lengur. Heilt flóð af sviðsmyndum (vedute) þar sem hið sjáanlega og skiljanlega er sjálft í molum og vísar ekki til neins. Sviðsmyndir sem veita ekki innsýn í neitt og sjá ekki neitt: sviðsmyndir án sýnar. (Sjáið fyrir ykkur útþurrkun þeirrar rómantísku veru þar sem listamaðurinn var sjáandinn). Eða hins vegar hið gagnstæða, heiminn yfirfullan af róttæku andófi myndanna, eins og Adorno segir[xiv],  og liggur þannig sjálfur undir grun um að vera hjátrúarfullur, ef það sem sérhver mynd hvílir á er einungis angistin andspænis „tóminu“.  Þessi „vísun í tómið“ opnar þannig sviðsmynd enn stærri tvíræðni:  annað hvort „tómið“ framsett af þráhyggju eða sjúklegri áráttu og skilið sem neikvæði Hugmyndarinnar, eins og neikvæð Hugmynd eða  hyldýpi Hugmyndarinnar (eins og tómarýmið í sjálfshermilist hennar) – eða þá að það er skilið með öðrum hætti. Það er einmitt það sem ég vildi gera að tillögu minni undir nafni þess næstum tóms sem felst í ummerkjunum (vestigium).

8.

Það sem eftir situr við fráhvarf myndarinnar , eða það sem situr eftir í brotthvarfi hennar, eins og sjálft brotthvarfið, er í raun og veru slóðin (vestigium). Þetta hugtak hefur borist okkur frá guðfræðinni og dulspekinni, og kannski ekki af ástæðulausu. Við höfum fengið það að láni til þess að aðlaga það markmiðum okkar.  Guðfræðingarnir hafa virkjað mismuninn á myndinni og slóðinni, til þess að geta greint á milli þess spors sem Guð hefur skilið eftir sig í hinni viti bornu skepnu annars vegar, í manninum sköpuðum í mynd Guðs, og hins vegar í öðrum formum þessa spors, í öðrum skepnum og verum sköpunarverksins. Þessi önnur form, eða slóðarformið, hafa eftirtalin einkenni (hér samkvæmt greiningu heilags Tómasar frá Aquino): slóðin (il vestigio) er fyrirbæri sem „stendur einungis fyrir orsakasamhengi orsakarinnar, en ekki form hennar“.[xv] Tómas tekur dæmi af reyknum, þar sem orsökin liggur í eldinum.  Þegar hann fjallar um merkingu orðsins vestigium, sem vísar einkum til iljarinnar eða skósólans, fótsporsins, bætir  hann við: „Vestigium samsvarar ekki orsök sinni eða fyrirmynd, ólíkt því sem við sjáum í „styttu Merkúrs sem stendur fyrir guðinn Merkúr“ og er mynd (immagine).  (Við þurfum að hafa í huga að samkvæmt aristótelískum skilningi er fyrirmyndin einnig orsök, hin „formlega orsök“.)

Í styttunni höfum við Hugmyndina, eidos, og líkneskju guðsins. Í reyk slóðarinnar (fumo vestigale) er eidos eldsins ekki til staðar. Hægt væri líka að segja að styttan byggi yfir sínu „innra“, eins konar „sál“, sem reykurinn hefði ekki. Eldurinn varðveitir ekki annað en brennslu sína. Við segjum gjarnan „þar sem er reykur, þar er eldur“, en hér hefur reykurinn fyrst og fremst gildi sem fjarvera eldsins, sem fjarvera forms eldsins. (Ólíkt þeim eldi, segir Heilagur Tómas, sem er tendraður fyrir tilverknað elds sem kveikir í.) Engu að síður hugum við ekki að þessari fjarveru sem slíkri, við tökum ekki tillit til ómögulegrar myndgervingar eldsins, heldur beinum við athygli okkar að nærveru slóðarinnar (vestigio), að leifum hennar og að opnun nærveru hennar.  (Vestigium er dregið af vestigare eða rekja slóð einhvers, hugtak af ókunnum uppruna sem ekki verður rakinn. Það felur ekki í sér rannsókn, heldur einungis verknaðinn að leggja spor sín í slóð annarra.)

Eldurinn er vissulega til samkvæmt guðfræðinni: hann er eldur Guðs – og það er einungis þessi eldur sem er til í raun og veru, í einu og öllu. Hitt eru aska og reykur (alla vegar eru þetta sjónarmið annars póls hinnar guðfræðilegu greiningar –á meðan hinn stendur fast við staðfestingu og játningu sköpunarverksins í heild sinni.)  Ég leita því ekki að beinum uppruna „slóðarinnar“ út frá guðfræðinni. Ef svo væri, væri ég enn með leifar guðfræðinnar innanborðs. Við höfum dæmi um þá staðreynd að slóðin hafi fullkomlega trúarlegt innihald í jaðar-helgisögnum íslams: farið eftir fótspor Múhameðs á því augnabliki er hann steig til himna. Á bak við hina kristnu guðfræði er líka að finna andlega og biblíulega hefð um sporin og slóðina. En spor Guðs verða áfram hans spor, og Guð eyðir sjálfum sér ekki í þeim. Við leitum annars; listin vísar til annars. Of mikil starsýni á orðið „slóð“ (vestigium), eins og á hvaða orð sem er, gæti orðið til þess að við gæfum því heilaga merkingu í einhverjum skilningi sem eins konar helgar líkamsleifar (annað form „leifa“). Hér þurfum við hins vegar að tileinka okkur merkingarfræði sem felur sjálf í sér slóðina: ekki láta merkinguna nema staðar frekar en fót förumannsins.

Það sem ég legg til hér og nú við þessar aðstæður –og þar er að mínu viti lagt beint út frá Hegel, – er að listin sé reykur án elds, slóð án guðs, en ekki framsetning Hugmyndarinnar. Endalok listarinnar sem myndgerving (immagine), fæðing listarinnar sem „vestigium“ eða slóð. Nema við áttum okkur á þeirri staðreynd að listin hafi alltaf verið „vestigium“ (og hafi alltaf verið undanskilin hinni trúfræðilegu-verufræðilegu hefð). En hvernig getum við skilið þetta?

9.

Í listinni þurfum við því að greina á milli myndar og slóðar – jafnt í hverju einstöku listaverki  og kannski í þeim öllum. Við þyrftum að greina á milli þess sem virkar eða þess sem kallar á skilgreiningu forskriftarinnar eða frumorsakarinnar, líka þeirrar neikvæðu, og þess sem setur fram eða sýnir  – einungis hlutinn, eitthvað,  og þannig séð hvað sem er, en ekki með hvaða hætti sem er, ekki sem (í)mynd Tómsins, og heldur ekki sem hreint niðurrifsstarf (iconoclastia). Eitthvað í formi eða mynd slóðar og ummerkja.

Þegar við reynum að greina ætluð markmið þessa einstaka hugtaks (vestigium) sem birtist eins og  framandi aðskotahlutur sem erfitt er að henda reiður á, mitt á milli nærveru og fjarveru, á milli alls og einskis, á milli myndar og Hugmyndar, þá þurfum við að sneiða hjá þessari díalektísku tvennu til þess að ná til  vestigium. Við þurfum fyrst og fremst að hafa í huga að fyrir guðfræðingunum er vestigium Dei hið skynjanlega, sjálfur skynjanleiki þess að vera skapaður. Maðurinn er mynd (imago) sem viti borinn en slóðin (vestigium) er skynjanleg. Þetta felur í sér að hið skynjanlega er sá þáttur eða sá háttur sem myndin notar til að eyða sér og láta sig hverfa. Þannig glatast Hugmyndin – en skilur eftir för sín, kannski, en ekki eins og spor forms síns: eins og hið troðna, spor hennar eigin fráhvarfs.  Ekki form sjálfshermu hennar, og heldur ekki hið almenna form sem eigin-eftirmynd, heldur það sem eftir situr þegar Hugmyndin hefur ekki átt sér stað.

Þar sem við höldum okkur á mörkum hins veru- og trúfræðilega þegar við göngum út frá Hegel til þess að fara fram úr honum, á slóð sem er honum framandi, þá förum við að ytri mörkum endanleika listarinnar, í þeim tilgangi að binda enda á þessi endalok með öðrum atburði. Þá megum við ekki skoða hlutina með gleraugum tvennunnar skynjandi sýning og tjáð hugmynd. Við þurfum að horfast í augu við vandann með eftirfarandi hætti:  formið-hugmyndin draga sig í hlé og slóðarform  þessa brotthvarfs  er það sem hinn platónski orðaforði okkar kallar „skynjanlegt“.  „Fagurfræðin“ sem rannsóknarvettvangur  og hugsun um hið skynjanlega fjallar ekki um annað. Farið er ekki hið skynjanlega far hins óskynjanlega: það er merki eða far hins skynjanlega sem sín eigin skynjun/merking (sens). Guðleysið sjálft (og kannski hafði Hegel þegar áttað sig á því).

Hvað getur þetta merkt? Reynum að ganga lengra í leit okkar að vestigium. Þetta hugtak merkir il fótarins og far hennar eða spor. Við getum dregið fram tvö einkenni þess sem eru ekki beinlínis tengd myndinni.  Í fyrsta lagi er fóturinn andstæða andlitsins, ilin er faldasta ásjóna eða yfirborð líkamans. Við gætum leitt hugann að framsetningunni í summa atheologica (Guðleysingja-grallaranum), í Kristi látnum í málverki Mantegna, og í iljunum sem þar vísa beint að augum okkar.[xvi] Við gætum líka haft í huga að orðið ásjóna  (face) á rætur sínar í orði sem felur í sér merkinguna að setja eða leggja fram án þess að vísa til einhvers. Í okkar tilfelli er vísunin í ekkert nema jörðina, jarðveginn sem ber, en er ekki lengur undirstaða eða skiljanlegt frumlag, heldur eingöngu rými, svið og umferðarstaður. Með ilinni erum við komin á hið lárétta svið, hið slétta à plat, víðáttu sléttunnar án tengsla við hina lóðréttu spennu.

Umferðin felur í sér annan þáttinn:  Slóðin vitnar um umgang, um för, um dans eða stökk, um framvindu, hliðarspor, kollvörp, komu og för, umferð. Þetta eru ekki rústir, sem eru leifar hjólfara einhverrar návistar,  heldur er um beina snertingu við jörðina að ræða.

Vestigio eru leifarnar eftir umgang.[xvii] Ekki er um mynd hans að ræða, því þessi sami umgangur er ekki annað en slóð hans.  Um leið og hann gerist er hann liðinn hjá. Eða öllu heldur þá hefur hann  aldrei „gerst“ sem umgangur til þess síðan að vera lagður til hliðar. Slóðin er, ef svo mætti segja, sín eigin snerting og virkni, án þess að vera verk sitt. Eða svo við notumst við ofangreind hugtök, þá er slóðin óendanleg fullvinnsla (eða ófullvinnsla) en ekki hin endanlega fullkomnun. Það er engin nærvera í umganginum: umgangurinn er einungis kominn í ljós. Það er ekki hægt að halda því fram að umgangurinn eigi sér beinlínis stað.  Hins vegar getum við sagt í sárabót að staður í sterkustu merkingu þess orðs, sé alltaf slóð (vestigium) umferðar (pas).  Umgangurinn, sem er sín eigin slóð, er ekki eitthvað ósýnilegt – hann er hvorki Guð né umgangur Guðs – og heldur ekki  hið hreyfingarlausa yfirborð hins sýnilega. Umgangurinn ljær sýnileika ósýnileikans hrynjandi, eða hefur endaskipti á honum ef svo mætti segja.  Þessi hrynjandi felur í sér framvindu og rof, línu og línubil, setningarbrot og stam.  Hann felur því í sér fígúru, en þessi fígúra[xviii] er ekki mynd eins og við höfum skilið það orð hér.  Umgangur fígúrunnar, eða slóðin, er farvegur hennar, rúmfang hennar.

Við þurfum þess vegna að neita okkur um að nefna eða skilgreina veru slóðarinnar. Vegsummerkin eru ekki kjarni – og kannski  er það einmitt þetta sem gæti leitt okkur á slóð „kjarna listarinnar“.  Það sem opnast okkur er sú staðreynd, að listin sé í raun og veru sín eigin slóð (vestigio).  Hún er ekki útþynnt framsetning Hugmyndarinnar, og heldur ekki framsetning útvatnaðrar Hugmyndar.  Hún sýnir nokkuð sem er ekki „Hugmynd“, hún sýnir hreyfingu, komu, umgang, brottfall sérhverrar birtingar nærverunnar. Þannig gerist það í Inferno Dantes, að enn einn skipsskaðinn eða enn ein grjótskriðan eru hinum fordæmdu merki –sem þeir fá ekki að sjá – um ósýnilegan umgang lifandi sálar. [xix]

10.

Með því að hliðra til spurningunni um veruna stöndum við frammi fyrir spurningu gerandans. Þar bíður okkar spurningin: hver gengur um garð? Hvers slóð er það, sem hér er á dagskrá?

Þetta er ekki slóð guðanna, miklu frekar væri þetta merki brotthvarfs þeirra. En slíkt brotthvarf á sér jafn langa sögu og listin í Lascaux. Ef Lascaux merkir „list“,  ef listin hefur ekki smám saman skriðið úr móðurlífi galdursins og síðan trúarbragðanna, heldur vísað óforvarandis til annarrar líkamsstellingar – ef hún hefur ekki verið förin eftir hnjábeygjurnar heldur skóförin – þá hefur spurningin um myndina aldrei átt við listina. Myndadýrkunin og heift helgimyndbrjótanna snérust einungis um Hugmyndina.  Þetta kemur alls ekki í veg fyrir lífrænt samband listarinnar við trúarbrögðin (hér þyrfti að leggja gaumgæfilegt mat á ólíka innbyrðis þætti þess sambands). En innan trúarbragðanna er listin alls ekki átrúnaðarefni. (Hegel hefði skilið þetta).

Hér væri tilefni til umfjöllunar um umferð dýranna, hrynjandina í göngulagi þeirra og limaburði, um hin flóknu vegsummerki þeirra, slóðir hóffara , klaufa og lyktar, um allt það sem fyrir manninum eru dýraslóðir. Einnig hér væri þörf á að skoða það sem Bataille kallaði „skepnan frá Lascaux“. (Gerum ráð fyrir að við getum leitt hjá okkur alla aðra umferð –að frátöldum dýrunum – allan þrýsting, allar strokur og snertingar, útleggingar, öldugælur og klór…)

En ég gæti dottið í þá gildru að segja að slóðin sé einkenni mannsins. Ekki sem manns-myndin, ekki maðurinn lögmálsbundinn í mynd sinnar eigin Hugmyndar, eða Hugmyndarinnar um hvað honum tilheyri. Það á við um manninn, að við getum með erfiðismunum gefið honum nafnið „maður“ ef við eigum í mesta basli við að losa hann undan Hugmyndinni, undan hinni húmanísku guðfræði. En köllum hann í tilraunaskyni förumanninn (el passant ). Alltaf förumaður og alltaf hver sem er, enginn –ekki þannig að hann sé í nafnleysi, heldur er slóðin ekki vottorð hans. [xx] Semsagt alltaf samur við sig (comune).

Hann fer hjá, hann er umrenningurinn: hann er það sem einnig er kallað tilvera (esistere). Að vera til: hinn verandi  gangur sjálfrar verunnar. Koma, brottför, fylgd, yfirferð mæranna, hlé, hrynjandi og brottfall verunnar. Þannig verður engin spurning um merkingu, heldur einungis umgangur,  eins og allir atburðir merkingarinnar, eins og öll nærvera hennar.  Það væru tvær leiðir að því að vera til staðar, eða að til-verunni (prae-esse): veran andspænis Hugmyndinni, kynnt fyrir Hugmyndinni, og sú til-vera (essere davanti) sem kemur á undan, líður hjá og er alltaf þegar farin. (Á latínu getur vestigium temporis merkt augnablikið sem er líðandi andartak. Ex vestigio= umsvifalaust, hér og nú.)

Engu að síður er nafn mannsins áfram nafn,  Hugmynd og mynd – og yfirlýst útmáun þess hefur ekki verið til einskis. Trúlega gerist það, þegar við þurfum að nefna það á ný með algjörlega nýju tónfalli, að það merki líka höfnun hins angistarfulla andófs myndanna, án þess að þurfa að kalla á ný til leiks mann húmanismans, það er að segja sjálfspeglun Hugmyndar hans. En til að ljúka þessu gætum við líka prófað að máta annað orð, talandi um gens. „Fólkið“, slóðar-orð, nafnlaust heiti  hins nafnlausa og hins ruglaða, almennt nafn í sinni bestu merkingu, þar sem fleirtölumyndin[xxi] kæmi í veg fyrir hið altæka (la generalità), vísaði frekar til hins einstaka sem þess sem ávallt er í fleirtölu, hins einstaka meðal tegundanna (genres), kynjanna, þjóðflokkanna (gents) þjóðanna, lífgjafanna (generateurs de vie), tegundanna  (hvað eru margar tegundir (genres)[xxii] innan listanna? Hvað margar undirtegundir? Hins vegar er engin list sem á sér engan geranda…) og hið einstaka/margfalda meðal kynslóðanna og afkomendanna, í straumiðu umgangsins, komunum og brottförunum, stökkunum og hrynjandinni. – Listin og fólkið (gens): ég læt ykkur eftir þessa fyrirsögn fyrir aðra umræðu.

[i] J.-L. Déotte, Le Musée, l‘origine de l‘esthétique, L‘Hartmattan, París 1993.

[ii]  Sama rit, bls. 17.

[iii] T.W.Adorno Dialettica negativa, trad. it. C.A.Donolo, Einaudi, Torino 1970, bls. 331.

[iv] M.Leiris, Journal 1922-1989, Gallimard, París 1992, bls.154.

[v] I.Kant, Kritik der Reiner Vernuft, §47

[vi] E.Renan, Dialoghi filosofici, Giovene, Milano, 1946, bls. 63.

[vii] M.Duchamp, tilvitnun úr N.Arambasin, La conception du sacré dans la critiqued‘art en Europe entre 1880 et 1914, doktorsritgerð í trúarlegri mannfræði, Université Paris IV-Sorbonne, nóvember 1992, bls. 204. Þetta verk hefur að geyma verðmæta námu upplýsinga varðandi umræðuna um „endalok listarinnar“ og hvaða áhrif hún hefur haft á listina og umræðuna um hana á umræddu tímabili.

[viii] Jan Patocka hefur sett fram ýmsar hugmyndir í þessa átt; sbr. J.Patocka L‘art et le temps, POL, París 1990.

[ix] J.Conrad, Formáli að Il negro di „Narciso“, Milano 1955, bls. 19

[x] N.Mailer, Pieces and Pontifications, New English Library, 1983.

[xi] J.Dubuffet, Noti per i fini letterari, Milano 1971, bls. 62-63.

[xii] M.Merleau-Ponty L‘œil et l‘espirit,

[xiii] F.Nietzsche, La volontà di potenza, III, 850, Milano 2001, bls. 461.

[xiv] T.W.Adorno, Dialettica negativa, Torino 1970, bls. 289.

[xv] Tommaso d‘Aquino, Summa theologiae, I, q.5, a.7, Róm 1962, bls. 226-227.  Um myndina og vestigium hjá Heil Tómasi, sjá G.Didi-Huberman Fra Angelico. Dissemblance et figuration, París 1990. Ég hef annan skilning en hann og bíð upp á ekki-díalektíska túlkun á vestigium: en innan guðfræðinnar á hin dialektíska túlkun Didi-Hubermans vel heima.

[xvi] Við getum reyndar líka borið þetta saman við Kennslustund dr. J. Deyman í líffærafræði eftir Rembrandt.

[xvii] Þegar minnst er á skref felur það í sér virðingarvott við Blanchot og Derrida.

[xviii] Um vandamál fígúrunnar, sjá Ph.Lacoue-Labarthe og J.-L.Nancy, Scène, „Nouvelle Revue de Psychanalyse“ haustútg. 1992.

[xix] Dante, Inferno, XII, 28 og XIII, 27.

[xx] Hér er kveðja til Thierry de Duve (Fais n‘importe quoi… í Au nome de l‘art, Minuit, París 1981

[xxi] Á frönsku er fleirtölumyndin af gent=gens.

[xxii] Nancy notar hér orðaleik með afleiddar myndir latneska orðstofnsins genus/gens, sem felur í sér merkinguna „fólk“ en einnig „getnað“ og það að geta, bæði í merkingunni geta af sér og skapa og kunna.

Forsíðumyndin er „Án titils“ eftir Claudio Parmiggiani frá 1995.

FAGURFRÆÐILEG OG TRÚARLEG „LEIÐSLA“ ÓLAFAR NORDAL

Það var í marsmánuði árið 2010 sem Ólöf Nordal stóð fyrir óvenjulegum listviðburði á vegum Listvinafélags Hallgrímskirkju, þar sem saman fóru sýning í kirkjuanddyrinu á gifsafsteypum af andlitum 25 nágranna Ólafar, sem allir voru sóknarbörn kirkjunnar og búsettir á Sjafnargötunni, flutningur á stuttu tónverki eftir föður hennar, Jón Nordal, við 35. Passíusálm Hallgríms Péturssonar og upptökur á einradda söng sóknarbarnanna á versi Hallgríms, sem heyra mátti úr hljóðnemum víðsvegar í kirkjunni. Ólöf hafði leyft mér að fylgjast með tilurð þessa verks, sem hún gaf nafnið „Leiðsla“. Reyndar var erfitt að sjá fyrir sér verkið áður en það var sviðsett, en ég skrifaði eftirfarandi texta fyrir þennan listviðburð, sem varð mér tilefni til umhugsunar um hugsanleg tengsl eða skyldleika fagurfræðilegrar og trúarlegrar reynslu. Texti minn fór því langt út fyrir efnislega umgjörð verksins, en leiddi vonandi í ljós þær sögulegu rætur sem verkið vísaði í og tengja saman sögu kristindómsins og sögu listarinnar á Vesturlöndum. Ástæðan fyrir birtingu þessarar ritsmíðar nú er ekki bara sú að nú stendur yfir yfirlitssýning á verkum Ólafar að Kjarvalsstöðum, heldur líka sú tilviljun að ég er nýbúinn að lesa gagnmerka grein sem ítalski heimspekingurinn Giorgio Agamben hefur nýlega gefið út í kveri sem hann kallar „Creazione e anarchia – L‘opera dárte nell‘età della religione capitalista“ (Sköpun og stjórnleysi – listaverkið á tímum trúarbragða kapítalismans, Neri Pozza editore 2017). Í fyrstu ritgerð bókarinnar, „Archeologia dell‘opera d‘arte“ (Fornleifafræði listaverksins) setur Agamben einmitt fram ættfræðikenningu um sameiginlegar rætur og skyldleika kristinnar liturgiu eða helgisiða og þeirrar þróunar sem við þekkjum úr listasögu samtímans sem leiðir okkur frá listmuninum sem hlut eða sýningargrip til verknaðarins eða atburðarins og þeirrar tímabundnu reynslu sem hann kann að fela í sér. Vonandi gefst mér tækifæri til að fjalla nánar um þessar hugmyndir hér á þessum vettvangi á næstunni.

Leiðsla

Um samband fagurfræðilegrar og trúarlegrar reynslu í verki Ólafar Nordal í Hallgrímskirkju 2010.

Deilan innan kirkjunnar um helgimyndirnar á 8. og 9. öld snerist ekki bara um guðfræði, heldur líka um fagurfræðileg og merkingarleg gildi listar og mynda almennt. Þótt deilan hafi staðið meira og minna í tæpar tvær aldir, þá réðust úrslit hennar annars vegar í kirkjuþinginu í Hieria 754 (þar sem helgimyndir voru bannaðar) og hins vegar í öðru kirkjuþinginu í Nikeu 787, þar sem bannið var afturkallað og helgimyndbrjótarnir voru dæmdir trúvillingar.

Röksemdirnar fyrir banni helgimyndanna má finna víða í Gamla testamentinu (t.d. 5. Mósebók, 27, 15:Bölvaður er sá maður sem býr til skurðgoð eða steypt líkneski, andstyggð Drottni, handverk smiðs, og reisir það á laun! Og allur lýðurinn skal svara: Amen”).

Þessar sömu röksemdir gilda enn í dag innan gyðingdóms og íslam. Röksemdirnar gegn helgimyndum á frumkristnum tíma hafa hugsanlega að einhverju leyti tengst þeim fornrómverska sið að gera mynd keisarans sýnilega á mynt og í höggmyndum á opinberum stöðum um allt heimsveldið eins og til dæmis í rómversku dómshúsunum, þar sem mynd keisarans vitnaði um guðdómlega nærveru hans sem trygging fyrir framgang laga og réttar. Myndir keisaranna voru skurðgoð í augum gyðinga og frumkristinna. Hins vegar hafði notkun kristinna helgimynda tekið á sig ýmsar undarlegar myndir á fyrri hluta miðalda, sem fólust meðal annars í mikilli verslun með helgimyndir sem urðu uppspretta ríkidæmis klaustranna . Sá undarlegi siður þekktist einnig að skrapa málningu af helgum myndum og setja út í messuvínið svo neytendurnir næðu nánara sambandi við guðdóminn.

Ástæðurnar fyrir banninu voru því bæði pólitískar og guðfræðilegar, en sú ákvörðun að aflétta þessu banni átti eftir að hafa mótandi áhrif á þróun vestrænnar myndlistar og varðaði því ekki einungis guðfræðileg álitamál, heldur líka fagurfræðileg, listfræðileg og heimspekileg vandamál er tengjast hinu leyndardómsfulla sambandi myndarinnar og þess sem hún átti að sýna.

Hvernig og með hvaða hætti getur helgimyndin staðið fyrir þann yfirskilvitlega ósýnileika sem fólginn er í guðsmynd kristindómsins og hugmyndinni um “hið heilaga” í víðara samhengi?

Í sögu heimspekinnar er hægt að rekja þessa deilu aftur til Platons annars vegar, þar sem hann sagði að efnislegar myndir væru ávallt dauft endurskin hugmynda er ættu sér ekki efnislega, heldur andlega og eilífa tilvist handan hins skynjaða og fallvalta efnisheims. Hugmyndir helgimyndbrjótanna falla vel að þessum hugmyndum Platons. Hins vegar taldi Aristóteles að maðurinn gæti dregið sértækar ályktanir af hinum efnislega skynheimi og byggt þannig upp skipulagða þekkingu sína, ýmist með beinni skynjun eða óbeinni, þar sem hinn skynjaði efnishlutur miðlar tilteknum andlegum sannleika sem merki eða tákn. Í þessu samhengi verður helgimyndin að tákni þar sem Kristsmyndin gegnir lykilhlutverki sem “myndin af Guði”. (Sbr. Jóh. 1,18: „Enginn hefur nokkurn tímann séð Guð; sonurinn eingetni sem hallast að brjósti föðurins, hann hefir veitt oss þekking á honum”. Sbr. Einnig Bréf Páls til Kólossusmanna: “Því hann (Kristur) er ímynd hins ósýnilega Guðs, frumburður allrar skepnu”.)

Sigurinn gagnvart helgimyndbrjótunum markar því að einhverju leyti sigur hins aristótelíska sjónarmiðs gagnvart hugmyndum Platons, um leið og hann veitir mannslíkamanum vissa uppreisn æru sem sköpunarverkið er Guð skapaði “í sinni mynd”.

Annað kirkjuþingið í Nikeu kveður skýrt á um að myndin geti verið raunverulegur staðgengill guðdómsins, og þannig tekið óbeint við því hlutverki Krists að vera “mynd Guðs”.

Þetta samband myndar og fyrirmyndar er í raun og veru galdur sem veitir myndlistinni ótrúlegt vald, og því ekki óeðlilegt að um það hafi verið deilt.[i] Hið guðfræðilega og fagurfræðilega gildi helgimyndanna var talið felast í mætti þeirra til að hrífa hinn trúaða og tengja hann „brennandi þrá“ þeirra fyrirmynda er lágu til grundvallar myndsköpuninni (einkum Faðirinn, yfirleitt sýndur sem skeggjaður eldri maður eða sem mannshönd, Heilagur Andi, yfirleitt sýndur sem hvít dúfa, og sonurinn sýndur sem Kristur og Guðsmóðirin sem María. Auk þeirra voru píslarvottar frumkristninnar vinsælt myndefni helgimynda.) Listin hafði það hlutverk að hrífa menn til trúar á grundvelli sjónskynsins og þeirra tilfinninga sem það vakti.

Sigurinn yfir helgimyndbrjótunum árið 787 markaði þau vatnaskil á milli gyðingdóms og íslam annars vegar og kristindómsins hins vegar, sem guðfræðilega felast í þeirri trú að Kristur hafi verið raunveruleg holdgerving Guðs. Á meðan gyðingdómur og íslam eru fyrst og fremst trúarbrögð orðsins, þá er kristindómurinn trúarbrögð myndarinnar sem birtist okkur í hinum sýnilega líkama Krists. Hvorki gyðingdómur né íslam eiga sér myndlistararf sem er sambærilegur við myndlistararf hins kristna heims. Þó þetta sögulega spor marki tímamót má segja að deilurnar um ráðgátu myndanna hafi haldið áfram allt fram á okkar daga. Vestræn myndlist var á miðöldum fyrst og fremst trúarleg kirkjulist er þjónaði meðal annars sem „biblía hinna fátæku“ við miðlun á kristnum boðskap og kristinni guðfræði.

Með endurreisninni og húmanismanum fær myndlistin hliðstæða stöðu og vísindin sem rannsókn á veruleikanum út frá húmanískum hugmyndum um samræmi í sköpunarverkinu á milli alheimsins, náttúrunnar og mannsins. Þótt tilkoma húmanismans hafi haft í för með sér bæði afhelgun og veraldarhyggju var hann engu að síður rökrétt framhald þeirrar kristnu hugmyndar að Orðið varð að Manni og Maðurinn að þeirri kórónu sköpunarverksins sem Guð hafði falið herradæmi yfir bæði jörðinni og öllum skepnum jarðarinnar. Deilurnar um helgimyndirnar blossuðu þó upp á nýjan leik með siðaskiptum Lúthers, þar sem enn og aftur var ráðist gegn helgimyndunum, nú sem skurðgoðum hins miðstýrða kirkjuvalds, á meðan gagnsiðbót rómversk-kaþólsku kirkjunnar margelfdi framleiðslu helgimyndanna í þeirri listhefð sem við nú kennum við barokk og byggði sem áður á mögnun hughrifa og sefjunarmætti myndmálsins.

Með tilkomu Upplýsingarinnar á 17. og 18. öld varð til ný verkaskipting á milli vísinda, listar og trúar, sem átti eftir að hafa varanleg áhrif á skilning okkar Vesturlandabúa á myndmálinu. Verkaskiptingin felur í sér aðgreiningu á hinu fagra, sanna og góða, þar sem sannleikurinn verður vettvangur vísindanna, fegurðin vettvangur listaakademíunnar og nýrra listasafna fyrir almenning um leið og skilið er endanlega á milli hins trúarlega og veraldlega valds, á milli kirkjunnar og ríkisvaldsins. Í kjölfarið verður fagurfræðin til sem fræðigrein um gildi hins fagra í sjálfu sér, fræðigrein sem fjallar um hugtök eins og smekk, tilfinningar, snilligáfu, hið háleita, dómgreindina o.s.frv., þar sem þýski heimspekingurinn Immanuel Kant var hvað áhrifamestur.

Mælikvarði þessara fyrstu hugmynda fagurfræðinnar byggðu að verulegu leyti á hugmyndum Aristótelesar um eftirlíkingu veruleikans (mimesis) út frá heilbrigðri dómgreind og smekk. Kant verður einna fyrstur til að greina á milli trúarlegrar og fagurfræðilegrar reynslu, þar sem sú síðarnefnda er skýrð út frá reynslunni af upplifun hins háleita í náttúrunni, þar sem ekki er gerður skýr greinarmunur á náttúrlegri og listrænni fegurð. Fegurðin sem áður hafði verið tengd hinni trúarlegu upplifun, nytsemd eða þekkingu, var nú í fyrstra skipti í sögunni talinn sérstakur verðleiki í sjálfum sér.

Á 19. öldinni sjáum við hvar Hegel andæfir gegn Kant með hughyggju sinni þar sem hann skilgreinir myndverkið sem hina skynjanlegu birtingarmynd hugmyndarinnar, þar sem myndin af Guði sem heilagri þrenningu sameini í einni hlutlægri mynd hið algilda og hið sérstaka.  Hegel gerði þannig ólíkt Kant skýran greinarmun á náttúrlegri og listrænni fegurð, en hugmyndir hans tóku meðal annars mið af nýklassísku stefnunni í myndlist í upphafi 19. aldar.  Hegel varð líka fyrstur manna til að boða tæmingu listarinnar á hinu fagurfræðilega inntaki sínu. Sú þýska hughyggja sem hafði algild fegurðarviðmið og byggði í grundvallaratriðum á því að maðurinn gæti höndlað hið algilda í gegnum rökhyggju sína eða tilfinningar var einkennandi fyrir evrópska borgarastétt við upphaf iðnbyltingarinnar og á blómaskeiði nýlendustefnunnar, en fljótlega koma til sögunnar heimspekingar á borð við Kierkegaard og Nietzshce sem grafa undan þessari hugmyndafræðilegu yfirbyggingu. Þar gengur Nietzsche lengst í gagnrýni sinni á hina algildu mælikvarða þegar hann segir í Götterdämmerung að „hinn sanni heimur sé orðinn að skáldskap“, það er að segja að allar myndir vísindanna, trúarinnar og listarinnar af veruleikanum séu skáldskapur er styðjist ekki við neinn haldbæran grunn. Einungis sé um túlkanir á veruleikanum að ræða. Kierkegaard, sem var trúaður, ólíkt Nietzsche, taldi trúna vera náðargjöf en ekki eitthvað sem menn gætu áunnið sér með góðri eða skynsamlegri hegðun, trúin væri eitthvað sem maðurinn gæti móttekið handan allra borgaralegra siðalögmála. Hin algildu sannleiksviðmið Hegels voru fyrir Kierkegaard skýjaborgir sem undantekning hinnar einstaklingsbundnu reynslu afhjúpaði.

Þótt Nietzsche hafi í upphafi hrifist af tónlist Wagners sem endurnýjun hins dionysiska lífsviðhorfs og þeirrar frelsunar sem hann fann í afturhvarfi til hins goðsögulega, þá var dálæti hans á tónlistinni blandið vantrú og jafnvel heift. En fyrir Nietzsche var skáldskapurinn engu að síður helsta haldreipi mannsins í þeirri viðleitni hans að gefa lífinu merkingu. Yfirlýsing hans um „dauða Guðs“ fól í sér greiningu á grundvallar brestum í evrópskri menningu, sem átti síðan eftir að birtast ekki bara í tveim heimsstyrjöldum, heldur líka á sviði listanna í þeirri viðvarandi kreppu sem tilkoma módernismans og framúrstefnunnar fól í sér, þar sem hver stefnan tekur við af annarri í fagurfræði og listum í örvæntingarfullum tilraunum til að réttlæta gildi og inntak listarinnar með afneitun fortíðarinnar og megináherslu á gildi hins nýja í sjálfu sér.

Hið fagra verður nú óendanlegt viðfangsefni túlkunar út frá sálgreiningu Freuds og Jung, samfélagsgreiningu Marx, merkingarfræði Saussure og mannfræði Claude Levi Strauss svo dæmi séu tekin. Þar með var myndlistin komin langan veg frá sínum trúarlegu rótum, sem höfðu falist í því að gera hið ósýnilega (guðdóminn) sýnilegt í gegnum eftirlíkingu þess kraftaverks sem fólst í því að Orðið gerðist hold í Jesú Kristi og gekkst undir lögmál náttúrunnar með dauða sínum á krossi.

Þessi aðskilnaður trúarlegrar og fagurfræðilegrar reynslu virðist í fljótu bragði vera algjör og óafturkallanlegur, en ef betur er að gáð má finna í þessari sögu ákveðin „söguleg örlög“, sem ekkert skýrir betur en einmitt sú róttæka breyting sem kristindómurinn innleiddi með fagnaðarerindinu sem fólst í fæðingu Krists, holdgervingu Orðsins og fyrirheitinu um endalokin og endurkomu lausnarans. Þar með hætti sagan að vera sú hringrás árstíðanna er laut ófrávíkjanlegum lögmálum náttúrunnar og varð í staðinn að línulegu ferli sem átti sitt upphaf í erfðasyndinni, sína lausn í fæðingu Krists og sitt markmið og frelsun í upprisunni, endurkomunni á dómsdegi og endanlegum sigri yfir dauðanum.

Alla tíð síðan höfum við skráð sögu okkar inn í þetta mynstur, sem í heimi vísindanna felur í sér leiðina frá böli fáviskunnar og hindurvitnanna til lausnar tækniframfaranna og frelsunar í endanlegu valdi mannsins yfir náttúrunni.

Í heimi hagfræðinnar felur þetta sögumynstur í sér leiðina frá fátækt og stéttakúgun til lausnar markaðsins eða byltingarinnar og framtíðarsamfélags eilífs vaxtar og allsnægta.

Í heimi listanna er þetta sögulega mynstur líka innritað í ferli sem felur í sér leið mannsins frá fjötrum til frelsunar, frelsun undan þeim fjötrum sem líffræðilegar aðstæður setja manninum og kalla á viðþolslausa leit hans að handanveru í andlegum og efnislegum skilningi, til þeirrar handanveru sem gerir manninn andlega meðvitaðan um sögu sína og merkingu hennar og greinir hann þannig frá dýrunum.

Eftirsókn framúrstefnunnar á 20. öldinni eftir gildi hins nýja í sjálfu sér er líka saga sem rita má inn í þennan kristna söguskilning sem hefur verið mótandi fyrir alla þróun vestrænnar menningar, hvort sem er á hinu efnislega/veraldlega eða hinu andlega sviði. Holdgerving orðsins í Kristi er á guðfræðimáli kallað kenosis, sem merkir líka tæming. Orðið tæmdi sjálft sig með því að verða sýnilegt í mynd Krists. Síðan hefur saga vestrænnar menningar einkennst af tæmingu þess sem var og opnun gagnvart því sem kemur, eins og boðað er í fagnaðarerindinu. Í stað þess að líta til þess fordæmis sem var í upphafi (eins og goðafræði fjölgyðistrúarbragðanna kennir) einkennist vestræn menning af stöðugri opnun gagnvart því sem koma skal. Þannig er hægt að skilja kristindóminn sem tæmingu þess sem var, og opnun gagnvart því sem koma skal í ljósi hins kristna fyrirheits um að maðurinn geti náð valdi yfir náttúrunni og yfirstigið hin miskunnarlausu lögmál hennar. Það er sú framvinda sögunnar sem sjaldan hefur verið í jafn mikilli óvissu og á okkar tímum.

Því er þessi langa saga rakin hér, að Ólöf Nordal hefur með verki sínu „Leiðsla“ komið inn í þessa sögu með nokkuð óvenjulegum hætti. Hún leitast við að rjúfa þá einangrun hinnar fagurfræðilegu reynslu í okkar samfélagi, sem einkennist af stofnanaramma listasafnanna og listagalleríanna, og færa hana að einhverju leyti til síns trúarlega uppruna, inn á vettvang „hins heilaga“ eða inn í kirkjuna.

Hið heilaga er á latínu kallað „sacer“, og þar merkir hugtakið eitthvað sem stendur nálægt guðdómnum, er ósnertanlegt, en um leið smitandi og hættulegt. Það er í þeim skilningi sem Guð birtist Móse sem ósýnileg og ósnertanleg vera og bannaði honum að nálgast logandi þyrnirunnann sem þó ekki brann og var „heilög jörð“ og neitaði að segja til nafns síns, því hann „er sá sem hann er“. Orðið sakramenti er dregið af þessu latneska orði og merkir á máli guðfræðinnar „skynjanlegt merki guðdómlegrar náðar“ eða það brauð og vín sem menn neyta við altarisgöngu sem raunverulegs eða táknræns staðgengils blóðs og holds Krists.

Ólöf hefur hugsað verk sitt út frá sálmaversi Hallgríms Péturssonar úr 35. Passíusálmi, þar sem skáldið biður þess í auðmýkt að móðurmálið megi duga því til að draga upp mynd af hinum krossfesta Kristi fyrir þjóð sína. Það er myndin af Guði sem hefur „tæmt sig“ í efnislegri mynd og lagst undir miskunnarlaus lögmál náttúrunnar í dauðanum á Golgata.

Þetta er táknmynd sem við eigum erfitt með að skilja og skáldið nær ekki að sýna okkur nema með því að freista þess að lifa sig inn í þennan yfirskilvitlega atburð í gegnum tungumálið. Dauði Kristrs á krossinum hefur öll einkenni hins heilaga, því þar tengjast saman tvær andstæður í einni mynd sem öll rökhyggja segir okkur að eigi ekki saman: orðið verður ekki bara að holdi, heldur verður Kristur viðskila við Föðurinn og lærisveinana sem afneita honum. Hann  fer niður til Heljar.

Það er eðli allra táknmynda að þær eiga sér tvær hliðar: eina hlið sem við þekkjum og skiljum (líkama Krists og þjáningu hans) og aðra sem við getum ekki skilgreint á máli rökfræðinnar (holdtekningu orðsins, dauða þess og viðskilnað við Guð og ferð þess niður til Heljar). Það er innlifun skáldsins í þennan yfirskilvitlega veruleika í gegnum tungumálið sem gerir sálma Hallgríms að miklum skáldskap.

Versið sem Ólöf hefur valið sér lýsir í raun aðstæðum sem allir listamenn þekkja, því þrátt fyrir margendurteknar yfirlýsingar um dauða listarinnar og tæmingu á innihaldi hennar og inntaki, þá hættir maðurinn aldrei að finna hjá sér þá þörf sem hefur knúið hann til að leita þeirrar reynslu sem býr handan rökhyggjunnar og efnisveruleikans og þar af leiðandi á svæði hins óþekkta.

Það gildir einu hvort um er að ræða trúarlega eða veraldlega listsköpun, það er ávallt kjarni hennar að leita inn á það svið mannlegrar reynslu sem er yfirskilvitlegt og í þeim skilningi heilagt. List verður aldrei sköpuð úr því sem er fyrirfram þekkt , skilið og skilgreint. Við getum kallað það ferðalag listamannsins inn í eigin dulvitund eða innlifun skálds í ferðalag Krists til Heljar, hvort tveggja er í raun og veru ferðalag á vettvang „hins heilaga“ þar sem mörkin á milli hins fagra og ljóta, hins góða og illa, hins skiljanlega og yfirskilvitlega mást út. Það er hættusvæði þess logandi þyrnirunna sem Móse sá og furðaði sig á að gæti ekki brunnið þótt hann stæði í ljósum logum.

Það er vandi allra listamanna að gefa slíkri reynslu efnislega og skynjanlega mynd, og í auðmjúkri bæn sálmaskáldsins finnum við ekki bara vanmátt trúmanns gagnvart yfirskilvitlegum veruleika, heldur líka vanmátt listamanns gagnvart fátækt og forgengileik þess efnislega meðals sem honum stendur til boða: í þessu tilfelli móðurmálið, sem er óljós skrift á blaði, vindur í raddböndum okkar og flöktandi myndir sem hljóðin vekja í hugskoti okkar. Það er þessi reynsla sem gerir manninn mennskan hvort sem við köllum hana trúarlega eða fagurfræðilega – og það er kannski einmitt þarna sem þessi tvö reynslusvið mætast á ný í verki Ólafar.

Ólöf hefur fengið föður sinn, Jón Nordal tónskáld, til að gera fallegt og einfalt sönglag við sálmaversið, sönglag sem gefur textanum nýja tímanlega vídd, færir hann yfir á nýtt tímasvið er færir okkur eitt andartak út fyrir þann þrönga líffræðilega tíma sem hjartsláttur okkar mælir, um leið og laglínan vekur okkur aftur til vitundar um endanleik hins lifaða tíma þegar söngurinn slokknar og tónlistin hverfur í tómið.

Þrjátíu og átta sóknarbörn í Hallgrímskirkju, öll nágrannar Ólafar af Sjafnargötunni, hafa auk þess tekið þátt í sköpun verksins. Þar af lögðu 24 rödd sína í verkið og syngja sálmaversið hver með sínu nefi án undirleiks inn á hljómkerfi sem útvarpar lágstemmdum söng þeirra frá hátölurum sem komið er fyrir undir kirkjubekkjum á víð og dreif um kirkjuna, ein rödd úr hverjum hátalara. Einnig lögðu 25 einstaklingar andlit sín í verkið, og tók Ólöf gifsafsteypur af þeim, sem hafa verið settar upp í kirkjuanddyrinu. Jafnframt verður sálmalagið leikið úr klukkunum í kirkjuturninum þegar tilefni gefst.

Hinn sýnilegi hluti þessa listaverks eru gifsafsteypurnar af andlitum sóknarbarnanna 25. Listakonan hefur lagt til tæknilega útfærslu afsteypunnar, en sóknarbörnin andlit sín. Þessi andlit vekja undarlega tilfinningu nálægðar og fjarlægðar í senn. Þær eru af eðlilegum ástæðum allar með lokuð augun og áreynslulausa andlitsdrætti, og minna þannig á dauðagrímur eins og þær sem oft voru teknar af látnu fólki fyrir tíma ljósmyndarinnar. Að einhverju leyti eru þessar andlitsgrímur skyldar ljósmyndinni, en skilja sig frá henni að því leyti að verknaðurinn er tæknilega annar og krefst lengri tíma en það tekur að smella af einni ljósmynd. Við vitum að þessar afsteypur eru nákvæm eftirlíking fyrirmyndanna, en samt eru þær undarlega framandlegar og fjarlægar í allri sinni líkamlegu nánd. Hvers vegna?

Gifsmyndirnar fela í sér hlutgervingu persónunnar eða þeirrar sjálfsveru sem sérhvert andlit geymir. Sjálfsvera okkar er síkvik og virk í vilja sínum og ásetningi, hugsunum sínum og hreyfingu. Gifsafsteypan er hreyfingarlaus og dauð. Til þess að líkjast sjálfri sér þarf sjálfsveran að hverfa út úr sjálfri sér og umbreytast í mynd. Slík hlutgerving felur í sér táknrænan dauða persónunnar, sem þannig öðlast framhaldslíf sem dauður hlutur, á meðan viðkomandi einstaklingur er víðs fjarri og heldur áfram sinni tilveru sem einhver annar. Þessar myndir virka ekki bara undarlega og framandlegar á okkur, heldur ekki síður á þá sem hafa ljáð verkinu andlitsmynd sína og sjá í því eins konar tvífara sinn. Gifsafsteypan verður eins og tvöföldun þeirrar persónu sem er ein, hún felur í sér umhverfingu á sjálfsveru viðkomandi í einhvern annan, sem er orðinn að framandlegum dauðum steini, rétt eins og sá sem horfði í augu Medúsu samkvæmt hinni grísku goðsögn. Orðið persóna er upphaflega grískt og þýðir gríma.

Í hefðbundnu leikhúsmáli er talað um „dramatis personae“ á latínu, þegar birtur er listi yfir persónur leiksins. Andlitsmyndirnar 25 í kirkjuanddyrinu eru persónurnar í þessum helgileik og standa fyrir persónurnar sem lifa sig inn í bæn sálmaskáldsins í gegnum sönginn. Þær vitna um eins konar kenosis, þar sem sóknarbörnin hafa í vissum skilningi „tæmt“ sjálfsveru sína í gifsmyndina og skilið hana eftir þar. Þetta er helgileikur með sínu „dramatis personae“ þar sem sóknarbörnin koma saman til þess að taka undir bænaákall skáldsins um að fátæklegur og brothættur efniviður listaverksins megi ná að lyfta því og söfnuðinum upp yfir sínar líffræðilegu aðstæður til þeirrar handanveru sem gefur ímyndunaraflinu flug, gerir manninn mennskan og gefur lífi hans merkingu.

Hvernig greinum við þá hina fagurfræðilegu og trúarlegu reynslu í þessu óvenjulega verki?

Sú hefðbundna verkaskipting milli hins fagra, sanna og góða, sem tíðkaðist á 19. öldinni, hefur beðið nokkuð skipbrot á okkar tímum. Vísindin hafa ekki lengur þann einkarétt á sannleikanum sem Upplýsingin hélt fram. Sú algilda fegurð sem átti sín vígi í listasöfnum, listaakademíum og sýningarsölum hefur vikið fyrir nýjum skilningi, þar sem söfnin eru víðast hvar hætt að vera athvarf fyrir þann „sunnudagsgöngutúr hversdagslífsins“ sem Hegel kallaði listnautnina. Safngestir leita nú ekki síður sannleiksreynslu í listasöfnunum en í vísindastofnunum háskólasamfélagsins.

Heimspekingar verufræðinnar á borð við Martin Heidegger og Hans Georg Gadamer hafa lagt áherslu á að svokölluð fagurfræðileg reynsla snúist ekki um það að upplifa hið fagra í sjálfu sér, heldur þá upplifun að sjá sannleikann gerast, ekki sem vísindalega sönnun tiltekinnar staðreyndar, heldur sem tímatengda reynslu og atburð, sem við upplifum sem „sanna reynslu“ af því að hún hefur áhrif á okkur og breytir sýn okkar á veruleikann. Sá sem verður fyrir „fagurfræðilegri reynslu“ verður ekki samur maður eftir það vegna þess að hann hefur öðlast „sanna reynslu“.

Í samtímanum sjáum við þá breytingu að mörg listasöfn breytast frá því að vera hof sem er helgað fegurðinni í sjálfri sér, yfir í að vera menningarmiðstöðvar þar sem atburðir gerast og fólk getur sameinast í upplifun sem þarf ekki að tengjast afmörkuðum efnislegum hlut í tíma og rúmi, heldur reynslu og samskiptum sem flytja okkur í annan tíma, rétt eins og tónlistin í þessu verki.

Verkið „Leiðsla“ er ekki tilkomið sem fagurfræðilegur hlutur sem við getum notið „með hlutlausri fullnægju“ og úr fjarlægð í þar til sniðnu hofi fegurðarinnar, eins og fagurfræðingar hins klassíska skóla gátu komist að orði, heldur er verkið sviðsetning eða innsetning sem býður okkur upp á „leiðslu“ inn í þann heim sálmaskáldsins sem er um leið reynsla allra skapandi listamanna: að yfirstíga þau tilvistarlegu takmörk sem lífeðlisfræðilegri tilveru mannsins eru búin, og stíga yfir á svið þess óþekkta, þar sem mörk hins sanna og hins falska, hins fagra og ljóta, hins góða og hins illa, hins heilbrigða og hins sjúka verða ekki greinanleg út frá rökhyggjunni einni, heldur birtast okkur í yfirskilvitlegri reynslu. Reynslu sem kann að breyta sýn okkar á heiminn og gefa lífi okkar nýja merkingu. Er sú reynsla trúarleg eða fagurfræðileg? Svari hver fyrir sig, í þessu tilfelli skiptir svarið ekki öllu máli.

———————————

[i] „Því oftar sem þau (Faðirinn, Kristur og Heilög Guðsmóðir) njóta áhorfs í gegnum myndgervingu helgimyndanna, því meir munu þeir sem horfa verða upphafnir í minningu um brennandi þrá frummyndanna… Við segjum enn og aftur að hægt er að heiðra þau með reykelsisfórn eða kertaljósi samkvæmt hinni guðræknu hefð forfeðranna, heiðurinn sem þannig er veittur helgimyndinni fellur fyrirmyndinni í skaut. Og sá sem dýrkar helgimyndina dýrkar kjarna (ipostasis) þess sem málaður er, því þannig er kenning okkar helgu feðra. Það er að segja hefð hinnar heilögu almennu kirkju, sem hefur meðtekið fagnaðarerindið heimsenda á milli.“ Úr yfirlýsingu Annars Kirkjuþingsins í Nikeu um helgimyndir. Hér tekið úr bók L.Russo: „Vedere l‘invisibile“, útg. Aestetica edizioni, Palermo 1997, bls. 147.

Samtal við Ævar Kjartansson í Ruv frá 2010

Hin goðsögulega heimsmynd Forngrikkja í ljósi kristindómsins

Hljóðupptaka úr Ríkisútvarpinu á samtali við Ævar Kjartansson um heimsmynd goðsögunnar og kristindómsins í ljósi samtímans. Smellið á setninguna hér að ofan. Samtalið varir í um 45 mínútur.

Tvær raddir um heimspeki tungumálsins III – Agamben

Giorgio Agamben:

 

HUGMYND TUNGUMÁLSINS

(Ritgerð þessi birtist upphaflega í tímaritinu „aut aut“ 1984)

Allir þeir sem hafa alist upp í kristilegu eða gyðinglegu umhverfi kannast við orðið opinberun. Það þýðir hins vegar ekki að þeir geri sér endilega grein fyrir merkingu þess. Ég mundi vilja hefja þessa umfjöllun mína á tilraun til skilgreiningar á merkingu þessa hugtaks. Það er reyndar sannfæring mín að rétt skilgreining á þessari merkingu sé mikilvæg fyrir efni þessa fundar okkar og alls ekki framandlegt viðfangsefni heimspekiumræðunnar, það er að segja þeirrar umræðu sem sagt er að geti snúist um hvað sem er, að því tilskyldu að hún snúist fyrst og fremst um þá staðreynd að hún sé að tala. Það sem einkennir allan skilning á hugtakinu opinberun er að hún stangist ávallt á við lögmál rökhugsunarinnar. Það þarf ekki endilega að fela í sér – jafnvel þótt kirkjufeðurnir hafi oft lagt áherslu á þetta atriði – að inntak opinberunarinnar þurfi jafnan að birtast rökhugsuninni sem eitthvað fráleitt. Sá mismunur sem hér um ræðir er nokkuð enn róttækara, sem varðar sjálft svið opinberunnarinnar, það er að segja sjálfa byggingu hennar.

Ef inntak opinberunarinnar væri þess eðlis – til dæmis sá fáránleiki að bleikir asnar mynduðu söngkór á himinfestingu Venusar – að rökhugsunin og tungumálið gætu sagt fram og séð fyrir sér þetta inntak á eigin forsendum, þá myndi hún á sama augnabliki hætta að vera opinberun. Það sem hún færir okkur þarf ekki bara að vera eitthvað sem ekki væri hugsanlegt án opinberunarinnar,  heldur líka að hún skilyrði möguleika þekkingarinnar almennt.

Það er þessi róttæki munur á sviði opinberunarinnar sem kristnu guðfræðingarnir kenna okkur þegar þeir segja að hið eina inntak opinberunarinnar sé Kristur sjálfur, það er að segja orð Guðs, og það sem gyðinglegu guðfræðingarnir eiga við þegar þeir segja okkur að opinberun Guðs sé fólgin í nafni hans.

Þegar Páll postuli vildi skýra fyrir Kólossumönnum merkingu þeirrar hagfræði sem fælist í hinni guðdómlegu opinberun skrifaði hann: „til þess að orð Guðs sé fullnustað, leyndardómurinn sem hefur verið hulinn kynslóðunum fram til þessa, en nú hefur verið opinberaður“ (Kol, 1, 25-26)[i]. Í þessari setningu er „leyndardómurinn“ [to mysterion] falinn í „orði Guðs“ [ton logon tou theou]. Leyndardómurinn sem var falinn, en er nú opinberaður, varðar ekki tiltekinn veraldlegan eða ímyndaðan atburð heldur einfaldlega orð Guðs.

Ef guðfræðihefðin hefur ávallt lagt þennan skilning í opinberunina að hún feli í sér eitthvað sem mannleg rökhugsun geti ekki skilið á eigin forsendum, þá getur merking hennar ekki verið önnur en þessi: inntak opinberunarinnar felst ekki í einhverju sem hægt er að tjá í krafti málfarslegra yfirlýsinga vaðandi það sem er (jafnvel þó um væri að ræða hina æðstu veru), heldur í sannleika sem varðar sjálft tungumálið, þá staðreynd að tungumálið (og þar með þekkingin) sé til. Merking opinberunarinnar felst í því að maðurinn geti gert sér mynd af (eða opinberað) það sem er í gegnum tungumálið, en hann geti ekki opinberað sjálft tungumálið. Með öðrum orðum: maðurinn sér heiminn í gegnum tungumálið, en hann sér ekki tungumálið. Þessi ósýnileiki opinberandans í því sem hann opinberar er orð Guðs, það er opinberunin.

Með þessum hætti segja guðfræðingarnir að opinberun Guðs sé um leið yfirbreiðsla hans, eða enn fremur að með orðinu opinberi Guð sig sem hið óskiljanlega (yfirskilvitlega). Hér er ekki um að ræða einfalda neikvæða skilgreiningu eða tiltekinn ágalla skilningsins, heldur segja þeir að hér sé um að ræða grundvallandi kjarna guðdómlegrar opinberunar, sem einn guðfræðingur orðaði með þessum orðum: „hin æðsti sýnileiki í hinu dýpsta myrkri“ og „opinberun hins óþekkjanlega“. Enn einu sinni getur þetta ekki haft aðra merkingu en þessa: það sem hér er opinberað er ekki tiltekinn hlutur sem hægt væri að fræðast ýtarlegar um – en ekki er hægt að þekkja vegna skorts á marktækum meðulum til þekkingaröflunar: það sem hér er opinberað er sjálf afhjúpunin, sú staðreynd að til staðar sé opnun tiltekins heims og tiltekinnar þekkingar.

Frá þessum sjónarhóli virðist myndbygging þrenningarguðfræðinnar vera strangasta og skilvirkasta tilraunin til að hugsa þversögn þessara frumlægu aðstæðna orðsins sem formáli Jóhannesarguðspjalls tjáir með því að segja: en arché én ho logos, „í upphafi var Orðið“. Sú hreyfing um einingarþrenningu Guðs sem við höfum fræðst um í gegnum tenginguna frá Níkeu („Credo in unum deum…“)[ii] segir ekkert um hinn veraldlega heim okkar, hún hefur ekkert verufræðilegt inntak (ontico), en gengur hins vegar út frá þeirri nýju reynslu af orðinu sem kristindómurinn hefur innleitt í heiminn. Svo stuðst sé við orð Wittgensteins, þá segir þetta ekkert um hvernig heimurinn sé, en afhjúpar að heimurinn , að tungumálið sé. Orðið sem er í upphafi altækt, og er þannig hin algilda forsenda, gengur ekki út frá neinu öðru en sjálfu sér, hefur ekkert fyrir sér sem getur skýrt það eða afhjúpað sem slíkt (orðið á sér ekki orð) og hin þrenningarlega bygging þess er ekki annað en hreyfing eigin sjálfs-afhjúpunar. Þessi opinberun orðsins, þessi ekki-forsenda sem er hin eina og sanna forsenda, er Guð. „Og orðið var Guð“ (Jóh., 1,1).

Hin sanna merking opinberunarinnar felst þannig í að sýna fram á að sérhvert orð og sérhver þekking mannsins eigi rætur sínar og forsendur í opnun sem yfirskyggi hvort tveggja í það óendanlega; um leið snýst þessi opnun ekki um annað en sjálft tungumálið, möguleika þess og tilvist.  Eða eins og Hermann Cohen hinn mikli gyðinglegi guðfræðingur og frumherji hins nýkantíska heimspekiskóla sagði, þá er merking opinberunarinnar sú að Guð opinberar sig ekki í einhverju heldur gagnvart einhverju, og að opinberun hans felist því ekki í öðru en Schöpfung der Vernuft, sköpun rökhugsunarinnar. Opinberunin merkir ekki einhverja tiltekna yfirlýsingu um heiminn, ekki eitthvað sem hægt er að tjá í gegnum tungumálið, heldur að orðið, að tungumálið, sé.

En hvað felur yfirlýsing eins og þessi í sér: að tungumálið sé?

Það er frá þessum sjónarhóli sem við verðum að huga að þeim klassíska stað þar sem vandamálið um samband opinberunar og rökhugsunar var sett á dagskrá, það er í hinni verufræðilegu rökræðu Anselmos. Þeirri mótbáru var þegar beint að Anselmo[iii], að ekki gæti staðist að einföld framsögn orðsins Guð, (quid maius cogitare nequit) fæli óhjákvæmilega í sér tilvist Guðs. En sú vera sem staðfestir tilveru sína með einfaldri eigin framsögn er hins vegar tungumálið. Tungumálið er það sem óhjákvæmilega á forsendu sína í sjálfu sér.  Það sem hin verufræðilegu rök sanna felur þannig í sér að ef mennirnir tala, ef til eru dýr með rökhugsun, þá sé til staðar guðdómlegt orð í þeim skilningi að alltaf er til staðar forvera hinnar merkingargefandi virkni og opnunar opinberunarinnar (aðeins í þessum skilningi -það er að segja aðeins í þeim skilningi að Guð sé nafn forveru tungumálsins, tilveru þess í arché [hinum skilyrðislausa uppruna] – verður tilvist Guðs sönnuð með verufræðilegum rökum).

En andstætt því sem Anselmo hugsaði þá tilheyrir þessi opnun ekki sviði hinnar merkingarbæru orðræðu, hún er ekki merkingarbær fullyrðing, heldur einfaldur atburður tungumálsins handan allra hugsanlegra merkinga.

Út frá þessu sjónarhorni er hollt að endurlesa andmæli mikils en vanmetins rökfræðings, Gaunilone[iv], gegn rökum Anselmos. Gegn þeirri fullyrðingu Anselmos að framsögn orðsins Guð fæli óhjákvæmilega í sér tilvist hans gagnvart þeim sem skildi orðið, sýndi Gaunilone fram á reynslu fávitans eða villimansins gagnvart merkingarbærri orðræðu sem fæli vissulega í sér reynslu af atburði tungumálsins, að um væri að ræða vox, mannlega orðræðu, en honum væri hins vegar fyrirmunað að skilja merkingu hennar. Gaunilone segir að slíkur fáviti eða villimaður hugsi ekki

„..röddina sjálfa, það er að segja hljóm atkvæðanna og bókstafanna, sem er í vissum skilningi sannur hlutur, heldur merkingu hinnar heyrðu raddar. Þó ekki eins og hún væri hugsuð af þeim sem þekkir hvaða merkingu menn eru vanir að leggja í slíka rödd (og sem hugsi hana þannig samkvæmt hlutarins eðli [secundum rem], jafnvel þó hún sé einungis sönn í hugsuninni), heldur eins og hún væri hugsuð af þeim sem ekki þekkir merkingu hennar og hugsi einungis samkvæmt hræringu þeirrar sálar sem reynir að gera sér mynd af áhrifum hljóðheims raddarinnar og merkingar hans.“

Reynsla sem byggir ekki lengur á einskæru hljóði og ekki enn á merkingu, þessi „hugsun raddarinnar einnar og sér“ („cogitato secundum vocem solam“ eins og Gaunilone orðar það) opnar fyrir hugsunina vídd frumlægrar rökvísi (logica aurorale) sem vísar til hreinnar tilveru tungumálsins án þess að um nokkurn tiltekinn merkingaratburð væri að ræða, og sýnir þannig enn einu sinni möguleikann á hugsunum handan merkingarbærra fullyrðinga. Sú rökfræðilega vídd upprunans sem er til staðar í opinberuninni felst því ekki í hinu merkingarbæra orði, heldur í því orði sem án nokkurrar merkingar merkir merkinguna sjálfa. (Kenningar hugsuða á borð við Roscellino verða að skiljast frá þessu sjónarhorni, en þeir töldu sig hafa skilið „merkingu raddarinnar“ og fullyrtu að hin algildu gildi [essenze universali] væru ekki annað en flatus vocis [vindur raddarinnar]. Flatus vocis er í þessu samhengi ekki einfalt hljóð, heldur eins og bent hefur verið á, röddin sem hrein vísbending um atburð tungumálsins. Þessi rödd fellur að algildari merkingarvídd, að sjálfri verunni.)  Þessi gjöf raddarinnar til tungumálsins er Guð, hið guðdómlega orð. Nafn Guðs, það er að segja nafnið sem nefnir tungumálið, er þannig orð án merkingar (eins og dulspekihefðin hefur óþreytandi síendurtekið fyrir okkur).

Samkvæmt tungutaki rökhugsunar okkar samtíma getum við þannig sagt að merking opinberunarinnar felist í því að til sé meta-tungumál (tungumál sem fjallar um tungumálið) og að í því tungumáli felist ekki merkingarbær orðræða, heldur hrein og merkingarlaus rödd. Tilvist tungumálsins er jafn fullviss og hún er óskiljanleg, og þessi óskiljanleiki og þessi fullvissa mynda saman trú og opinberun.

Sá meginvandi sem felst í heimspekilegri framsetningu varðar þessa sömu röð vandamálanna. Heimspekin fæst satt að segja ekki eingöngu við það sem er opinberað í gegnum tungumálið, heldur fæst hún líka við opinberun sjálfs tungumálsins.

Öll heimspekileg framsetning, hvert svo sem viðfangsefni hennar er, verður jafnframt að gangast við þeirri staðreynd að þar er í gangi orðræða sem í sérhverri framsögn sinni talar umfram allt tungumálið sjálft. (Þar liggur hin grundvallandi nálægð  – og einnig fjarlægð – milli heimspeki og guðfræði, að minnsta kosti jafn gömul og hin aristótelíska skilgreining á fyrstu heimspekinni sem theologikè.)

Þetta mætti einnig tjá með því að segja að heimspekin feli ekki í sér heimssýn, heldur sýn á tungumálið, og staðreyndin er sú að hugsun okkar samtíma hefur haldið sig kannski um of einmitt á þessari slóð. Hér rekumst við hins vegar á vandamál sem stafar af þeirri staðreynd -sem er innifalin í skilgreiningu Gaunilone á röddinni – að það sem tekist er á um í heimspekilegri framsetningu geti ekki falist einfaldlega í orðræðu er snúist um tungumálið, geti ekki falist í meta-tungumáli er fjalli um tungumálið. Röddin segir ekki neitt, heldur sýnir sig, rétt eins og form rökhendingarinnar samkvæmt Wittgenstein, og hún getur því ekki orðið viðfangsefni orðræðu. Heimspekin kemst ekki hjá því að leiða hugsunina að endamörkum raddarinnar: hún getur ekki sagt röddina (að því er virðist að minnsta kosti).

Hugsunin í samtímanum hefur með staðföstum hætti gert upp við sig þá staðreynd að ekki geti verið um algilt og endanlegt meta-tungumál að ræða, og að sérhver tilraun til að búa til meta-tungumál muni fela í sér bakfærslu án enda. Þversögn hins hreina heimspekilega ásetnings felst engu að síður einmitt í því að orðræðan þarf að fjalla um tungumálið og sýna fram á takmörk þess án þess að búa yfir meta-tungumáli. Með þessum hætti rekst hin heimspekilega umræða óhjákvæmilega á það sem myndaði innihaldslegan kjarna opinberunarinnar: logos en archè, orðið sem myndar hið skilyrðislausa upphaf, það er hin algilda frumforsenda (eða eins og Mallarmé skrifaði eitt sinn, sögnin er upphaf sem mótast í gegnum afneitun sérhvers upphafs). Sérhver rökfræði og sérhver heimspeki sem eru meðvituð um eigin verksvið verða sífellt og síendurtekið að mæla sig við dvalarstað þessa orðs í upphafinu.

Ef hægt er að finna eitthvert atriði sem heimspekiskólar samtímans virðast geta sammælst um, þá felst það einmitt í viðurkenningu þessarar forsendu. Þannig hefur túlkunarheimspekin (l‘ermeneutica) gengið út frá þessari óhjákvæmilegu forgangsstöðu merkingargjafans með því að halda fram – samkvæmt mottói Schleiermachers sem opnar Sannleika og aðferð[v] – að „í túlkunarheimspekinni gildi aðeins ein frumforsenda: tungumálið“ eða þar sem Apel[vi] túlkar hugtakið „tungumálsleikurinn“ hjá Wittgenstein sem handanverða frumforsendu sérhverrar þekkingar. Í túlkunarheimspekinni er þessi fyrir fram gefna forsenda hin algilda frumforsenda sem hægt er að endurskapa og vekja vitund um, en verður aldrei umflúin. Í fullu samræmi við þessar frumforsendur getur túlkunarheimspekin ekki annað en stuðst við hefðina og endalausa túlkunarmöguleika þar sem hinn endanlegi sannleikur og sjálfur grundvöllurinn liggja ósagðir utan sjóndeildarhringsins. Hún getur spurt sig hvernig skilningurinn verði til, en látið hjá líða að hugsa þann skilning sem gerir sérhvern skilning mögulegan. „Í sérhverjum gjörningi sínum samtengist yrðingin hinu ósagða“, segir Gadamer, „því sem hún vísar í sem andsvar og áköllun.“ (Þannig getum við skilið hvernig túlkunarheimspekin -þótt hún styðji sig við Hegel og Heidegger- skilji eftir í skugganum einmitt þá hlið hugsunar þeirra sem gerði tilkall til algjörrar þekkingar og endaloka sögunnar annars vegar og atburðar [Ereignis] og endaloka sögu verunnar hins vegar.)

Það er í þessum skilningi sem túlkunarheimspekin tekur sér stöðu -þó ekki með jafn róttækum hætti og virðast kann – andspænis þeim orðræðum vísindanna og hugmyndafræðinnar sem, verandi meira og minna meðvitaðar um forveru hinnar merkingargefandi virkni, aftengja hana sem frumforsendu og leyfa henni að leika lausum hala í sínum öfluga og valdamikla eyðingarmætti. Ekki er reyndar í sjónmáli hvernig túlkunarheimspekin ætti að geta sannfært þessar orðræður um afstöðubreytingu, allavega ekki ef horft er til hversu meðvitaðar þær eru orðnar í tómhyggju sinni um eigin archè. Ef grundvöllurinn er hvort sem er bæði ósegjanlegur og ófrávíkjanlegur, ef hann stendur alltaf í bakgrunni hins talandi manns og varpar honum þannig inn að endamörkum sögu sinnar og örlaga, þá getur sú hugsun sem man eftir og gerir sér dælt við þessar forsendur virst siðferðilega sambærileg við þann sem gefur sig örlögum sínum á vald og upplifir til botns (en í raun er ekki um neinn botn að ræða) allt ofbeldið og botnleysið.

Það er því engin tilviljun að fram hafi komið í virðingarverðum frönskum heimspekiskóla á okkar tímum sú hugsun að tungumálið skuli vissulega skoðað út frá upphafi sínu, en að þessi dvalarstaður upphafsins (archè) eigi sér hina neikvæðu byggingu ritmálsins og gramma[vii] Tungumálið á sér enga rödd, heldur er það frá upphafi vega óendanleg röð sjálfvísandi tákna og ummerkja (traccia e autotranscendimento infinito). Með öðrum orðum: tungumálið sem er í upphafi felur í sér eigin ógildingu og endalausa framvísun á skilafresti sínum, og merkingargjafinn er ekki annað en hið óhagganlega merki þessa botnleysis.

Ekki er óeðlilegt að þeirri spurningu sé varpað fram, hvort þessi viðurkenning á frumforsendu tungumálsins sem einkennir hugsun samtímans geti í raun og veru verið tæmandi fyrir verkefni heimspekinnar. Þar með væri því haldið fram að hugsunin teldi að eigin verkefni væri lokið með viðurkenningunni á því sem myndar hið dýpsta inntak trúarinnar og opinberunarinnar: staðsetning logos (rökhugsunarinnar) í archè (upprunanunm). Það sem guðfræðin lýsti sem óskiljanlegt fyrir rökhugsunina er nú viðurkennt af rökhugsuninni sem frumforsenda hennar. Sérhver skilningur byggir á hinu yfirskilvitlega.

En er ekki með þessu verið að fela í skugganum einmitt það sem átti að vera hið heimspekilega viðfangsefni umfram allt annað, það er að segja útilokun og aftenging (assoluzione) frumforsendunnar? Var heimspekin ekki einmitt orðræðan sem vildi frelsa sig frá allri frumforsendu, einnig hinni algildustu af öllum frumforsendum, sem kristallast í formúlunni: er tungumálið? Er verkefni hennar ekki einmitt að skilja hið óskiljanlega? Kannski kristallast núverandi vandkvæði heimspekinnar einmitt í afskrift þessa verkefnis, frávísun sem dæmdi þjónustustúlkuna til að giftast húsfreyju sinni, guðfræðinni. Rétt eins og vandkvæði trúarinnar falla saman við innlimun hennar af hálfu rökhugsunarinnar. Afnám landamæranna á milli trúar og rökhugsunar markar jafnframt kreppu beggja, það er að segja gagnkvæman dómsdag þeirra.

Hugsun samtímans nálgast nú óðum þau endamörk sem virðast gera nýja trúarlega tímamóta- afhjúpun orðsins ómögulega. Upprunaeðli (arché) rökhugsunarinnar (logos) er endanlega staðfest, engin ný ímynd hins guðdómlega, engin ný söguleg örlög geta hafið sig yfir tungumálið. Á þeim punkti sem tungumálið hefur staðsett sig endanlega í archè afhjúpar það einnig sitt algilda botnleysi. Nafnið á sér ekkert nafn, ekki er neinu meta-tungumáli til að dreifa, ekki einu sinni í merkingarlausri röddinni. Ef Guð var nafn tungumálsins, þá felur setningin „Guð er dauður“ einungis í sér að tungumálið eigi sér ekki lengur nafn. Sú opinberun sem tungumálið hefur framkvæmt er orð sem Guð hefur endanlega sagt skilið við. Og manninum hefur verið varpað í þetta tungumál án þess að eiga sér guðdómlega rödd eða orð er tryggja honum mögulega útgönguleið úr endalausum leik hinna merkingarbæru setninga. Þannig upplifum við okkur loksins ein á báti með orðum okkar, einsömul með tungumálinu í fyrsta skiptið, yfirgefin af allri botnfestu. Þetta er sú kópernikusarbylting sem hugsun okkar tíma hefur tekið í arf frá tómhyggjunni. Við erum fyrsta mannfólkið sem hefur orðið sér fullkomlega meðvitað um tungumálið. Allt það sem liðnar kynslóðir hafa hugsað sem Guð, veru, anda, dulvitund, allt þetta sjáum við nú silfurtært sem það sem það er: nöfn tungumálsins. Sérhver sú heimspeki, trúarbrögð eða þekking sem ekki hefur öðlast vitund um þessi umskipti tilheyrir óhjákvæmilega fortíðinni í okkar augum. Þær yfirbreiðslur sem guðfræðin, verufræðin og sálfræðin hafa breitt yfir okkur mannfólkið eru núna fallnar til jarðar og við erum nú upptekin af því að skila þessum spjörum, einni af annarri, til föðurhúsa sinna, tungumálsins. Við horfum nú á tungumálið klæðalaus, þetta tungumál sem hefur afsalað sér öllum guðdómleik og öllum ósegjanleik: fullkomlega opinberað og ófrávíkjanlega bundið upprunanum. Rétt eins og skáldið sem horfist í fyrsta skiptið í augu við músu sína (listagyðjuna) þá horfist heimspekin nú í augu við tungumálið (þetta er orsök þess að Platon gat kallað heimspekina „hina æðstu músík“, því músan (listagyðjan) nefnir reynsluna af frumlægasta tungumálinu).

Tómhyggjan upplifir þessa sömu reynslu af orðinu sem Guð hefur yfirgefið. En hin ítrasta opinberun tungumálsins er túlkuð af tómhyggjunni með þeim skilningi að ekki sé lengur neitt að opinbera, að sannleikur tungumálsins felist í því að afhjúpa tóm allra hluta. Fjarvera meta-tungumálsins birtist þannig sem hið neikvæða form frumforsendunnar og tómið sem hinsta yfirbreiðslan, hinsta nafn tungumálsins.

Ef við hugum aftur að mynd Wittgensteins af flugunni í fluguflöskunni[viii] þá gætum við sagt að hugsun samtímans hafi lokið því verkefni að viðurkenna óhjákvæmileik flöskunnar fyrir fluguna sem fangelsi hennar. Frumveran og botnleysa hinnar merkingargefandi virkni fela í sér frumforsenduna sem kemur ávallt á undan hinum talandi manni þar sem hann virðist ekki eiga sér neina útgönguleið. Mennirnir eru dæmdir til gagnkvæms skilnings í gegnum tungumálið. Enn einu sinni verður horft framhjá því sem fólst í mynd Wittgensteins, en það er einmitt hin upprunalega áætlun um möguleika þess að hleypa flugunni út úr vatnsglasinu.

Verkefni heimspekinnar verður einmitt endurheimt á þeim punkti þar sem hugsun samtímans virðist hafa lagt það frá sér. Ef það reynist satt, að flugunnar bíði fyrst og fremst að horfast í augu við glasið sem hún er lokuð inni í, hvað skyldi þá felast í slíkri sýn? Hvað merkir það að sjá endamörk tungumálsins og gera þau sýnileg? (Glasið er ekki einhver tiltekinn hlutur fyrir flugunni, heldur það sem hún sér hlutina í gegnum.) Er sú samræða möguleg -án þess að vera meta-tungumál og án þess að falla í gryfju hins ósegjanlega – sú samræða sem segir tungumálið sjálft og sýnir takmörk þess?

Forn hugsunarhefð hefur séð þennan möguleika sem kenninguna um hugmyndirnar[ix]. Andstætt þeirri túlkun sem sér í kenningunni hinn ósegjanlega grundvöll meta-tungumálsins, þá felst þvert á móti í hugmyndakenningunni fortakslaus viðurkenning á nafnleysi (anonimia) tungumálsins og þeirri samnefningu  (omonimia) sem ræður sviðinu (það er á þessum forsendum sem okkur ber að skilja áherslu Platons á samnefninguna á milli orðanna og hlutanna og höfnun Sókratesar á allri órökvísi (misologia). Það voru einmitt þessi takmörk og þessi tvíræðni mannlegs tungumáls sem opnuðu leiðina að „hinu díalektíska ferðalagi“ hugsunarinnar. Ef sérhvert orð mannanna á forsendu sína í öðru orði, ef hið forsendubundna vald tungumálsins á sér engin takmörk, þá er öll von borin um endimörk tungumálsins. Hins vegar væri hið fullkomna tungumál þar sem öll samnefning (omonimia) og öll merki væru ótvíræð, tungumál gjörsneytt öllum hugmyndum.

Hugmyndin er í einu og öllu innifalin í leiknum á milli nafnleysis (anonimia) og samnefningar (omonimia) í tungumálinu. Hvorki hinn eini er og á sér nafn, né hann er ekki og hefur ekki nafn. (Né l‘uno è e ha nome, né esso non è e non ha nome). Hugmyndin er hvorki nafn (meta-tungumál) né sýn hlutar er stendur utan tungumálsins (slíkur hlutur, slíkur ósegjanleiki er ekki til) heldur er hún sýn sjálfs tungumálsins. Þar sem tungumálið, sem er miðill allra hluta og allrar þekkingar fyrir manninn, er sjálft ómiðlað (immediato=milliliðalaust). Ekkert getur náð til hins talandi manns án miðlunar – nema tungumálið sjálft, sjálf miðlunin. Slík ómiðluð miðlun (mediazione immediata) felur í sér einasta möguleika mannsins til að höndla upphafið sem hefur verið leyst frá öllum forsendum, einnig eigin forsendu. Það felur í sér að höndla þá archè anypothetos  (það skilyrðislausa upphaf) sem Platon fjallar um í Ríkinu[x] og kynnir sem telos (markmið), sem uppfyllingu og endamörk autos ho logos, sjálfs tungumálsins, og um leið sem „hlutinn sjálfan“ og viðfangsefni (affare) mannsins.

Ekkert mannlegt samfélag getur í raun og veru risið á grundvelli fyrir fram gefinnar forsendu – hvort sem það væri þjóðin eða tungan eða forsenda samskiptanna sem túlkunnarheimspekinni er tamt að tala um. Það sem sameinar mannfólkið sín á milli felst hvorki í náttúrunni né í guðdómlegri rödd né í hinum sameiginlegu fangabúðum hins merkingarbæra tungumáls, heldur í sýn sjálfs tungumálsins og þar með í reynslunni af takmörkum þess og tilgangi (fine). Sannkallað samfélag er eingöngu samfélag án frumforsendu.  Hin hreina heimspekilega framsetning getur því ekki falist í framsetningu eigin hugmynda um tungumálið eða heiminn, heldur er hún framsetning hugmyndar tungumálsins (l‘idea del linguaggio). .  

[i] Í íslensku biblíuþýðingunni frá 1956 hljóðar setningin svona: „En hans þjónn er ég orðinn samkvæmt því embætti, sem Guð hefur mér á hendur falið yðar vegna: að flytja Guðs orð óskorað, leyndardóminn sem hefur verið hulinn frá því aldir og kynslóðir urðu til; en nú hefur hann verið opinberaður Guðs heilögu, er hann vildi gjöra kunnugt hvílíkur er dýrðar ríkidómur þessa leyndardóms meðal heiðinna þjóða, sem er Kristur meðal yðar, von dýrðarinnar.“

[ii] Sbr kvæðabálkinn Lilju frá 14. öld sem eignaður hefur verið Eysteini Ásgrímssyni munki: Almáttigr guð allra stietta/ yfirbjóðandi eingla og þjóða /ei þurfandi staða nie stunda/ staði haldandi í kyrrleiks valdi /senn verandi úti og inni /uppi og niðri og þar í miðju /lof sie þier um aldr og æfi /eining sönn í þrennum greinum.

[iii] Einn kunnasti guðfræðingur 12. aldar í Evrópu, stundum kenndur við fæðingarborg sína Aosta á N-Ítalíu

[iv] Gaunilone (um 994 – um 1083 ) franskur munkur og heimspekingur frá Tours í Frakklandi

[v] Sbr: Hans Georg Gadamer: Wahrheit und Methode,1986.

[vi] Karl-Otto Apel, þýskur heimspekiprófessor, (1922-2017)

[vii] Hér vísar Agamben óbeint í rit franska heimspekingsins Jacques Derrida, einkum L‘ecritureet la difference frá 1967 og De la grammatologie frá sama ári.

[viii] Hér er vísað til 309 í Philospphical Investigations eftir L. Wittgenstein: „What is your aim in Philosophy? -To show the fly the way out of the fly bottle“. Fluguflaskan er glas eða glerílát notað til að veiða flugur. Einu sinni inni eiga þær enga færa útgönguleið. Glerílátið verður hér ímynd tungumálsins í túlkun Agambens.

 

[ix] Hér vísar Agamben í frummyndakenningu Platons.

[x] Sbr Ríkið II, 511B: „[Skynsemin] notar ekki tilgátur sem forsendur, heldur sem raunverulegar tilgátur – sem fótfestu eða stökkpall – til að hefja sig upp til hins skilyrðislausa upphafs alls sem er. Þegar hún er búin að höndla upphafið, heldur hún aftur niður á við og notar sem haldreipi allt sem háð er upphafinu uns hún er komin á enda.“ Þýðing Eyjólfs Emilssonar. „Hið skilyrðislausa upphaf“ er hér þýðing á archè anypothetos.

Einkennismyndin er skissa málarans Rafaels að freskómálverki hans í Vatíkansafninu sem sýnir Opinberun: Guð birtist Móses sem logandi runni í eyðimörkinni og hann blindast.

 

HINN FAGRI DAUÐI III – Galimberti um Krist og Sókrates

Þessi bókarkafli sem túlkar samanburð á dauða tveggja örlagavalda í sögu vestrænnar menningar tengist efni í grein Carlo Sini um „Rökleysu dauðans“, þar sem báðir textarnir leitast við að greina rætur frumspekilegrar hugsunar í vestrænni heimspekiumræðu.

Námsefni fyrir Listaháskólann

Umberto Galimberti:

Dauði Sókratesar og dauði Jesú

Kafli úr bókinni Psichiatria e fenomenologia, endurútgáfa frá 2006. Fyrsta útg. 1979.

Á þessum degi þurftu vinirnir að bíða þess að Ellefumenningarnir[i] leystu Sókrates úr hlekkjum sínum og bæru honum hina opinberu yfirlýsingu um að stund dauðans væri upp runnin. Þegar þeir komu inn í klefann sáu þeir Santippu með yngri soninn í fanginu þar sem hún brast í grát við komu þeirra og gaf frá sér sársaukavein. „Heyrðu, Kríton, láttu einhvern fylgja henni heim“[ii] voru viðbrögð Sókratesar, sem eftir að hafa þannig losað sig við hlekki líkamans, gat nú óáreittur tekið sér sæti á rúmstokknum til þess að ræða við lærisveina sína um þá „fýsilegu áhættu“ sem að hans mati fólst í ódauðleika sálarinnar.

Hann sýnir engin angistarmerki , enga örvæntingu eða depurð vegna þess lífs sem nú var komið á sína endastöð, einungis samkvæmni milli lífsins og ævistarfs kennarans. Einnig þessi örlagastund var fullnýtt til þjónustu við ævistarf kennarans til þess að auka áhrifamátt þess, og ef stundin er andvökunótt dauðans þá er rætt um ódauðleika sálarinnar til þess að sanna hana, ekki endilega með krafti röksemdanna heldur í krafti þeirrar heiðríkju hugans sem sér einungis nýtt upphaf í endalokunum.

„En heyrðu, Sókrates, segðu okkur þó hvernig við eigum að haga jarðarför þinni.“ „Eins og ykkur þóknast“ var svarið. Og hann hélt áfram með bros á vör: „Kæru vinir, mér tekst ekki að sannfæra Kríton um að hinn raunverulegi Sókrates er sá sem ræðir við ykkur hér og nú, en ekki sá sem hann mun innan skamms sjá sem liðið lík.“[iii]. Að svo mæltu hvarf hann inn í næsta herbergi til að þvo sér. Á eftir honum komu Kríton, synirnir og vinnukonur heimilisins, sem Sókrates dvaldi með fram undir sólsetur, allt þar til sendiboðinn kom til þess að færa honum grátandi skilaboðin um að dauðastundin væri upp runnin.

Lærisveinarnir grátbiðja hann um að bíða, eins og aðrir höfðu gert, þar til sólin væri sest. En Sókrates vildi komast hjá því að verða til athlægis með því að halda dauðahaldi í lífið þegar það hefur verið tæmt. Hann drekkur eitrið í einum teig, án nokkurs óttamerkis, án litbrigða eða nokkurra svipbrigða horfði hann til lærisveinanna með sínu nautslega augnaráði og sagði: „Hvað segið þið? Leyfist mann að skála við nokkurn með þessum drykk?“[iv]. Svo tók hann að ganga um gólf þangað til hann hætti að finna fyrir þyngd fótanna, þá lagði hann sig, og þegar líkaminn tók að kólna sagi hann: „Kríton, við skuldum Aeskliposi hana; færðu honum hanann og gleymdu því ekki.“. „Skal gert“ svaraði Kríton, „en er ekki eitthvað annað sem þú vilt segja okkur?“ Við þessari spurningu kom ekkert svar.“[v]

Forngrikkir höfðu þann sið að fórna hana til Aeskliposar, þessa guðs læknislistarinnar, þegar þeir höfðu læknast af einhverju meini. Með því að frelsa sálina frá líkamanum hafði dauðinn „læknað“ þennan kvilla eða sjúkdóm sem kemur í veg fyrir að sálin „samsamist og sé ein með sjálfri sér“ og þess vegna gleymdu lærisveinarnir ekki að færa Aeskliposi þessa fórn.

Andlátsorð Sókratesar hafa lengi vakið sterk viðbrögð og aðdáun og gera það enn, en á bak við þessar tilfinningar hvílir engu að síður ótvíræð merking: við sjáum hér afneitun líkamans í sinni róttækustu mynd. Ef svo væri ekki væri óhugsandi að „bindast dauðanum vinarböndum“ og horfa til hans með því augnaráði sem dauðvona sjúklingur getur einungis beint til þess sem handan allrar huggunar er enn fær um að fullvissa hann um framtíð á þessari jörð. Það er engin þörf á því að atyrðast út í Nietzsche til að skilja að það er ekki vonin um ódauðleika sálarinnar heldur hin róttæka afneitun líkamans sem hér hefur skipti á dauðanum og „hinni miklu heilsu“, hinum harmsögulega eftirleik þjáningarinnar og hamingju lækningarinnar [vi]

Síðasta stunan og dauðinn herðir óafturkræft tök sín á líkama Sókratesar. Þegar „lækningin“ var afstaðin lokaði Kríton augum og munni þessa líkama, sem enn voru opin.[vii]

Rembrandt_Hví hefur þú yfirgefið mig

Rembrandt: Drottin, hví hefur þú yfirgefið mig?

Ef við snúum okkur nú frá textanum í Faedon að sambærilegum frásögnum í guðspjöllunum sem lýsa dauða Jesú, þá lesum við að þeir sem fylgdu honum í Getsemane-garðinn höfðu sofnað á meðan Jesú fór að „skjálfa og fyllast angist“, þannig að hann sagði við þá: „Sál mín er sárhrygg allt til dauða; bíðið hér og vakið.“ (Matt. 14, 34)

Ólíkt Sókratesi, þá var Jesú óttasleginn, hann óttaðist ekki mennina sem ætluðu að drepa hann, ekki sársaukann sem var undanfari dauðans, Jesú óttaðist dauðann í sjálfum sér, þennan óvin Guðs, þessa algjöru einangrun og hina róttæku einsemd.

Það er algjörlega gagnslaust að vilja þurrka burt þessa frásögn guðspjallanna af skelfingu Jesú með tilbúnum gerviskýringum. Þeir andstæðingar kristindómsins sem á frumkristnum tíma undirstrikuðu andstæðurnar sem hægt er að lesa út úr dauða Jesú og Sókratesar, höfðu þá þegar gleggri sýn en hinir kristnu álitsgjafar. Jesú er raunverulega skelfingu lostinn andspænis „hinum mikla óvini Guðs“ og skortir alla þá sálarró Sókratesar sem gengur sallarólegur í faðm hinnar „miklu vinkonu“. „Abba, faðir! allt er þér mögulegt; tak þennan bikar frá mér“( Matt. 14, 36).

Þetta er bikar dauðans, sem ekki er hægt að skála með. Ef dauðinn er í raun og veru óvinur Guðs, þá felur drykkur af þessum bikar í sér viðskilnað við Guð. Að vera ekki lengur í örmum hans, heldur í örmum hins mikla óvinar. Þess vegna heyrum við ópið af krossinum: „Guð minn, Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig?“ (Matt. 15,34).

Jesú er ófær um að afbera þessa einsemd. Hann kallar ekki bara á nærveru Guðs í Getsemane-garðinum, heldur líka á nærveru lærisveinanna. Hann gerir hvað eftir annað hlé á bænalestri sínum til þess að nálgast þá þar sem þeir liggja sofandi. Hann vill finna sig umkringdan lífinu, ef hann getur ekki lengur stólað á eigið líf, þá í það minnsta á líf lærisveinanna. „Getið þið ekki vakað með mér eina stund?“ Og að lokum úrkula vonar: „Sofið bara og hvílist. Stundin er runnin upp. Sjá, mannssonurinn er framseldur í hendur syndaranna. Standið upp, förum; sjá, sá er í nánd er mig svíkur.“( Matt. 14,42).

Síðan tekur aftökusenan við. Sókrates drekkur óðjurtarsafann með yfirvegaðri ró. Jesú gefur hins vegar frá sér ógreinanleg hljóð (Matt. 15,37), örvæntingaróp. Hér er ekki lengur um að ræða þann dauða sem er vinur sálarinnar, heldur dauðann í öllum sínum hryllingi. Hér opnast hyldýpisgjáin á milli grískrar hugsunar annars vegar og hinnar gyðinglegu-kristnu hefðar hins vegar. Hyldýpisgjáin á milli kennisetningarinnar um ódauðleika sálarinnar og trúarinnar á upprisu líkamanna. Þessi trú er aðeins hugsanleg þar sem dauðinn, en ekki líkaminn, er skilinn sem óvinur Guðs. Þess vegna verður ekki um neina frelsun að ræða nema með sigrinum á dauðanum.

Slíkan sigur getur Jesú ekki boðið upp á með því að halda einfaldlega áfram að lifa eins og ódauðleg sál, það er að segja án þess í raun og veru að deyja. Hann getur ekki sigrast á dauðanum nema með því að deyja í raun og veru, það er að segja með því að ganga inn á það svið dauðans sem er tómið, viðskilnaðurinn við Guð. Þar verður hann að segja skilið við lífið í raun og veru og hætta að lifa eins og ódauðleg sál, hann verður að glata dýrmætasta gildi sínu sem er gildi lífsins. Það er einungis á þessum forsendum sem frelsunin öðlast merkingu, frelsun sem skiptir tímanum í tvennt: fyrir og eftir sigurinn á dauðanum.

Í huga Grikkjans var þetta allt óskiljanlegt. Fyrir honum er líkaminn hið illa, og sem slíkur á hann ekki að lifa áfram. Sá hluti mannsins sem þarf að lifa áfram, það er að segja sálin, deyr alls ekki.

Hinn kristni segir að Grikkinn geti ekki skilið dauðann, vegna þess að hann þekkir ekki hugtakið sköpun, hann þekkir ekki það jákvæða sem býr í öllum skepnum sköpunarverksins, hvort sem þær eru sýnilegar eða ósýnilegar (Mós. 1, 31) og heldur ekki harmleik dauðans, sem felur í sér tortímingu og eyðingu sköpunarinnar. Grikkinn er fullkomlega ófær um að skilja upprisuna sem felur í sér sigurinn yfir dauðanum, en ekki yfir líkamanum, sem eins og allir aðrir hlutir er sköpunarverk Guðs. Þess vegna hæðist hann að boðskap Páls um upprisu líkamanna[viii]. Í augum Grikkjans var dauðinn óhjákvæmileg nauðsyn fyrir áframhaldandi og eilíft líf sálarinnar.

Með því að þurrka út allan greinarmun og öll forréttindi eins hluta mannsins fram yfir annan var ekki annað hægt fyrir hina kristnu trú en að maðurinn myndi rísa upp í heild sinni, því það er allur maðurinn sem deyr, sálin og líkaminn. Orð Páls postula verða ekki skilin með öðrum hætti, enda samræmast þau fullkomlega hefð Gamla testamentisins. „Dauðinn er uppsvegldur í sigur. Dauði, hvar er sigur þinn? Dauði hvar er broddur þinn?“ (Fyrra Kórintubréf 15, 54-55)

Þrátt fyrir þetta þá hefur kenning Sókratesar um ódauðleik sálarinnar borið sigur á Vesturlöndum yfir boðun kristninnar um upprisu líkamanna. Faedon bar sigurorð af Guðspjöllunum. Hinir kristnu, sem höfðu hugann einungis við líkamann, vænta sér nú ódauðleika sálarinnar eftir dauðann. Tvö þúsund ára gengisfelling líkamans hefur dregið verulega máttinn úr fyrirheiti Krists, og þar með úr merkingu verka hans á jörðinni.

Ef merking hinnar gyðinglegu-kristnu hefðar gerir að engu það samspil (dialettica) á milli þess lífs sem er skapað af Guði og dauðans sem er afleiðng syndarinnar, þá verður það skiljanlegt hvers vegna Jesú segir, þar sem hann læknar hina sjúku: „Syndir þínar eru fyrirgefnar“ (Matt. 2,5). Það er í raun ekki hægt að bregðast gegn neikvæði syndarinnar nema með því að draga úr verkan dauðans með innspýtingu lífs, það er að segja með því að lækna hina sjúku og reisa hina látnu upp frá dauðum. Sérhvert kraftaverk er brot úr upprisu, það er brot af sigri lífsins yfir hungrinu, yfir sjúkdómunum, yfir dauðanum. Grikkinn skilur það þannig, að líkaminn þurfi nauðsynlega að deyja, vegna þess að hann er af hinu illa. Fyrir hinni gyðinglegu-kristnu hefð deyr líkaminn vegna þess að í upphafi var framin synd. Fyrirgefning syndarinnar felst því í upprisu líkamans.

Hlutirnir æxluðust hins vegar ekki þannig. Það gerðist líka eftir upprisu Krists að nokkrir kristnir menn urðu veikir og einhverjir dóu. Útskýring Páls á þessu reynist ekki sannfærandi: „Hver maður prófi því sjálfan sig, og síðan eti hann af brauðinu og drekki af bikarnum. Því að sá sem etur og drekkur, hann etur sjálfum sér til dóms, ef hann gjörir ekki greinarmun á Líkamanum. Fyrir því eru svo margir sjúkir og vanheilir á meðal yðar, og allmargir deyja (Fyrra Kórintubréf 11, 28-30). Til þess að gera greinarmun á þessum Líkama þurfti augu „andans“, hin holdlegu augu hefðu aldrei dugað til þess.

[i] Dómararáðið sem dæmt hafði Sókrates til dauða fyrir að spilla æskunni í Aþenu með orðum sínum.

[ii] Platon: Faedon, 60a.

[iii] Sama rit, 115 e

[iv] Sama rit 117 b.

[v] Sama rit 118 a

[vi] F. Nietzshe: Socrates und die Tragödie (1870)

[vii] Platon: Faedon, 118 a

[viii] Sjá Postulasöguna, 17, 31-32: „…með því að hann hefur ákveðið dag, á hverjum hann muni láta mann sem hann hefur fyrirhugað, dæma heimsbyggðina með réttvísi, og hefur hann veittöllum fullvissu um það, með því að hann reisti hann við frá dauðum. Er þeirheyrðu reynda upprisu dauðra gjörðu sumir gys að, en aðrir sögðu: Vér munum hlusta á þetta hjá þér í annað sinn.“

Eftirmáli:

Þessi túlkun Umberto Galimberti á dauðastund tveggja helstu örlagavalda í sögu vestrænnar hugsunar er góð viðbót við texta Carlo Sini um „Rökleysu dauðans“. Báðar þessar ritsmíðar segja okkur að hluta til sömu söguna: söguna um upphaf frumspekilegrar hugsunar í sögu Vesturlanda. Hugsunar sem felur í sér aðskilnað efnis og ands, sálar og líkama. Eins og fram kemur í texta Galimberti er þessi hugmynd um tilvist sálarinnar sem aðskilins veruleika er geti orðið viðskila við líkamann ekki gyðingleg eða kristin í uppruna sínum. Sköpunarverk Guðs var eitt, heilt, gott og ódeilanlegt. Eyðing þess í heild sinni var uppgjöf ganvart dauðanum, sem var óvinur Guðs.

Sókrates og Platon litu öðruvísi á málin. Þeir voru óbundnir af hinni gyðinglegu sköpunarsögu. Þeir fundu upp sálina sem sjálfstætt og aðgreinanlegt fyrirbæri, líffæri sem væri ekki bara hugtakslega ólíkt líkamanum, heldur gæti það orðið viðskila við hann og lifað áfram um eilífð, að því tilskyldu að líkaminn dæi. Dauðinn var því nauðsynleg forsenda fyrir frelsun sálarinnar.

Þegar boðskapurinn um upprisu líkamanna reyndist óframbærileg, þegar á frumkristnum tíma, þá uppgötvaði Páll postuli að hægt væri að leysa þennan vanda með því að skilja sálina frá líkamanum og endurvekja upprisuboðskapinn í grískri mynd:

Sáð er jarðneskum líkama, en upp rís andlegur líkami. Ef jarðneskur líkami er til, þá er og til andlegur líkami.“ (Fyrra Kórintubréf 1,44).

Sú tenging líkamans við syndina og hið óhreina sem Sókrates og Platon halda fram í Faedoni er sameiginleg hugsun Páls postula. En hvernig kemur hún saman við gyðinglega hefð Gamla testamentisins? Um þetta segir Galimberti í framhaldi kaflans um Sókrates og Krist:

Framhald grískrar mannfræði hjá Páli og Jóhannesi

(brot úr bókarkafla)

„Gyðingar Gamla testamentisins þekktu holdið (basar) sem hinn upplifaða íverustað syndarinnar og syndina sem tjáningu dauðans þar sem hún fæli í sér rof á bandalaginu við „Hinn Lifandi“, sem með Lögmálinu hafði sannað vald anda síns (ruah).

Páll viðheldur sambandinu hold-synd-dauði, en með ímyndum holdsins og syndarinnar og dauðans tekur hann einnig Lögmálið, Lögmálið sem fyrir mann Gamla testamentisins var tjáning bandalagsins við Hinn Lifandi, merki anda hans (ruah). Þetta kemur ljóslega fram í Rómverjabréfinu:

Því þegar við vorum í holdinu, störfuðu ástríður syndanna, þær sem lögmálið hafði vakið, í limum vorum, svo að vér bærum dauðanum ávöxt. En nú erum vér leystir undan Lögmálinu, þar sem vér erum dánir því sem áður hélt oss bundnum, svo að vér þjónum í nýjum anda (pneuma) en ekki í fyrnsku bókstafs. „(Rómv. 7, 5-7)

Með þessu er andi (ruah) Gamla testamentisins orðinn að holdi (sarx) Nýja testamentisins . Sigur Krists á dauðanum er svo afgerandi að bandalaginu við Hinn Lifandi verður ekki lengur viðhaldið í gegnum Lögmálið eins og Páll segir: „Hvað var þá lögmálið? Vegna afbrotanna var því bætt við og þangað til afkvæmið kæmi, sem fyrirheitið hljóðaði um.“ (Galata 3, 19)

„Afkvæmið“ var Hinn Upprisni.
Ef við hugleiðum þá róttæku hugtakalegu umbreytingu sem falin er á bak við þá málfarslegu samfellu sem hér virðist vera á yfirborðinu, þá getum við fylgt örlögum sálarinnar og líkamans í hinni kristilegu hefð sem trú Páls lagði grunninn að með predikun sinni á Agórunni (torginu) í Aþenu, það er að segja í því hugmyndafræðilega samhengi sem samkvæmt hinu platonska uppeldi Aþeninga hikar ekki við að yfirfæra kosmíska tvíhyggju Holdsins og Andans yfir í þa mannfræðilegu tvíhyggju sem felst í sál og líkama. Þar með var lagður grunnurinn að þeirri uppgjöf kristindómsins gagnvart platónismanum sem átti eftir að móta skilninginn á manninum á Vesturlöndum.“

Þemað um líkamann tekur breytingum í takt við mannfræðilegan skilning Páls allt til ársins 50 e.Kr., ársins sem hann skrifar í Kórintu Fyrsta bréfið til Þessalóníkumanna, þar sem hann taldi dýrlega endurkomu (parusia gloriosa) Herrans yfirvofandi. Þar sem biðtíminn var svo skammur taldi Páll, eins og reyndar allir félagar hins fyrsta kristna safnaðar, að ekki stafaði lengur nein hætta frá dauðanum sem Kristur hafði sigrað í eitt skipti fyrir öll. Hann beið því beinnar upphafningar til himna í góðri trú. Andspænis „óvæntum“ dauða nokkurra kristinna manna reyndist postulinn nauðbeygður að skipta um skoðun og að gera ráð fyrir upprisu hinna dauðu, og meðal eftirlifendanna (að honum sjálfum meðtöldum) beinni flugferð til himna. Hann skrifar þannig í Fyrsta bréfinu til Þessalonikíumanna (4, 15-17):

Því að það segjum við yður og höfum fyrir oss orð Drottins, að […] þeir sem dánir eru í trú á Krist munu fyrst upp rísa; síðan munum vér sem lifum, sem eftir erum, verða ásamt þeim hrifnir burt í skýjum til fundar við Drottinn í loftinu

Í krafti fullvissunnar um að lifa af talar Páll í upphafi ekki um ódauðleika sálarinnar, heldur um upprisu hinna dauðu, sem felur þar með í sér afneitun hinnar grísku mannfræðileu tvíhyggju. Hann tengir þessa upprisu jafnframt beint við upprisu Krists og takmarkar upprisuna eingöngu við hina trúuðu, því ef dauðinn er „gjald syndarinnar“ (Rómverjabréfið 6,23) þá eru engin rök fyrir upprisu syndaranna.“

Galimberti greinir síðan frá því hvernig Páll snýst smám saman til hinnar grísku tvíhyggju sálar og líkama í kjölfar þess að hann hafði sjálfur mátt horfast í augun við dauðann í lífsháska sem hann lenti í í Efesos. Af því leiddi sú sannfæring hans að „meðan við eigum heima í líkamanum erum við að heiman frá Drottni“ (Síðara Kórintubréf 5,6).

Seinna segir Galimberti:

„Í síðari guðfræði Páls og í guðfræði Jóhannesar verðum við að lesa hugtök eins og líkami, dauði, líf og upprisa með táknrænum skilningi. Þau vísa ekki til þess raunveruleika sem nefndur er, heldur til þess sambands mannsins við Guð sem í Gamla testamentinu var miðlað í gegnum Lögmálið en í Nýja testamentinu í gegnum Krist“. […]

„Af þessari stuttu lesningu á Biblíutextum kemur skýrt fram að í hinni gyðinglegu hefð er enginn mannfræðilegur klofningur á milli sálar og líkama, heldur er um kosmískan klofning að ræða á milli lífs og dauða, á milli Hins Lifandi og hins mikla óvinar hans, sem tekur á sig ólíkar og mismunandi myndir er verða æ táknrænni og tengjast mismunandi menningarlegum upplifunum gyðingdómsins…“

og enn fremur þetta:

„Regla trúarinnar er skilyrðislaus, og sem slík ekki til umræðu. Hin táknrænu einkenni orðræðunnar, sem vísa allt frá hinu yfirskilvitlega til hinnar hversdagslegu reynslu, þolir ekki að vera þvinguð inn í merkingarvísanir sem haldið er innan rökhugsunar mannshugans. Ef við fylgjum þessari vegslóð, þessari slóð sem saga okkar hefur þegar gengið eftir, þá á það ekki að koma á óvart að sjálfstæði sálarinnar gagnvart líkamanum, sem skólaspeki miðalda boðaði, hafi verið yfirfærð á þann klofning sem heimspekingurrinn Descartes kallaði res cogitans (hinn hugsaði hlutur) og res extensa (hinn ytri veruleiki) og að „guð Abrahams, Ísaks og Jakobs“ hafi verið yfirfærður sem ábyrgðarmaður „hins rökfræðilega lögmáls“ er tryggi samkvæmni þessara tveggja raunveruleika sem hafa að ósekju verið aðskildir.“

(Psichiatria e fenomenologia, bls. 81.)

Forsíðumyndin er málverk Jacques-Louis David af dauðastund Sókratesar

 

 

 

HEIMSPEKINGURINN Á TORGINU RÆÐIR UM SANNLEIKANN – Galimberti

HEIMSPEKINGURINN Á TORGINU TALAR UM SANNLEIKANN

Í gær var ég viðstaddur merkilega samkomu í baðstrandarbænum Francavilla al Mare, sem er á Adríahafsströnd Ítalíu á svipaðri breiddargráðu og Róm. „Filosofia al mare“ var yfirskrift atburðarins sem hefur farið hér fram árlega síðastliðin 5 ár eða svo. Samkoman var auglýst kl. 21:30, en þegar ég mætti á Largo Modesto della Porta, torgið við járnbrautarstöðina, um hálftíma fyrr voru nær öll sæti upptekin á torginu og fólk streymdi enn á staðinn, greinilega ungt fólk og konur í meirihluta. Halda mætti að einungis poppstjörnur drægju að sér slíkt públikum nú til dags, en það var greinileg spenna í loftinu þegar einn kunnasti og víðlesnasti heimspekingur Ítalíu á okkar tímum steig á sviðið til að fjalla um jafn einfalt og flókið efni og „sannleikann“ í ljósi heimspekinnar.

Eftir rúmlega klukkustundar yfirferð, þar sem Galimberti rakti sögu „sannleikans“ allt frá Homer og Platon í gegnum gyðingdóm og kristni, Ágústínus kirkjuföður, og heilagan Tómas frá Aquila, til uppruna samtímans í gegnum Galilei og Newton, Descartes, og Kant, en ekki síst Nietzsche og Heidegger, upphófust vel mótaðar fyrirspurnir og eitilskörp svör fyrirlesarans, sem í þessum fyrirlestri sínum tók fram að hann væri ekki kristinn heldur grískur í hugsun þótt segja mætti um samtíma okkar allan að hann væri gengsýrður af kristnum hugsunarhætti sem liti á fortíðina sem syndafall, samtímann sem yfirbót og framtíðina sem frelsun, hvort sem hún er skilin í hinni heilögu Jerúsalem og himnaríki Ágústínusar, hinu stéttlausa jafnréttissamfélagi Karls Marx eða framtíðarútópíu vísindanna um fullkomna stjórn mannsins á náttúrunni.

Francavilla al Mare er suður-ítalskur smábær sem telst ramm-kaþólskur, og það er kannski ekki síst þess vegna sem það kom á óvart hve mikla athygli og hve jákvæð viðbrögð þessi ræða heimspekingsins vakti, ekki síst í ljósi gagnrýnnar umræðu um sögu kristindómsins. Umberto Galimberti hefur gengið í fótspor Sókratesar í fagi sínu með því að fara út á meðal fólksins og tala tæpitungulaust á máli sem flestir skilja. Í þessu hlutverki sínu er hann nú orðinn keppinautur poppstjarnanna á torgum Ítalíu, einkum meðal unga fólksins, og er það ekki síst eftirtektarvert á tímum þar sem heimspekin á alls staðar í vök að verjast á Vesturlöndum

Hvað var það sem Galimberti vildi svo segja okkur um „sannleikann“?

Hann hóf má sitt á því að lýsa yfir þeirri skoðun sinni að í fyrsta lagi væri „sannleikurinn“ með ákveðnum greini ekki til, og í öðru lagi væri þetta hugtak sögulega skilyrt, svokallaður sannleikur væri mótaður af sögulegum aðstæðum á hverjum tíma, og því ekki um eilífan sannleika að ræða.

Okkar skilningur á þessari sögu er af tvennum sögulegum rótum, forn-grískum og gyðinglegum-kristnum.

Hinn forngríski skilningur á sannleikanum tengdist ljósinu og sjóninni: það er satt sem við sjáum. Hinn gyðinglegi (og síðar kristni) skilningur á sannleikanum tengist virkninni: við framkvæmum sannleikann.

Í stuttu máli var þetta þannig þar til Platon kom til sögunnar og hélt því fram að skynfæri okkar gætu ekki verið mælikvarði á sannleikann, því enginn skynjar sama hlutinn nákvæmlega eins. Þannig urðu hugmyndin og hugtakið til, frummyndir sem búa á hinu yfir-úraníska himinhvolfi og verða frumforsenda sannleikans, nokkuð sem við getum ekki skynjað með líkamanum, heldur með því „líffæri“ sem Platon kallaði psyke, anima eða sál. Líffæri sem á sér engan stað í líkama okkar. Þannig gátu menn búið til hugtök á borð við „tré“ sem vísar ekki bara til tiltekins trés, heldur allra trjáa á jörðinni. Sértekningin verður til sem þurrkar burt allan mismun til þess að finna sameiginlegan kjarna, og þar með verður sálin viðskila við líkamann. Með þessu lagði Platon grundvöllinn að vesturlenskri hugsun eins og hún er iðkuð enn í dag.

Hugmyndin um sálina er eingöngu grísk, hún var ekki til í gyðingdómi og ekki heldur í kristindóm fyrr en heilagur Ágústínus rændi þessu hugtaki frá Platon til að heimfæra það upp á hina kristnu landafræði um himnaríki og jarðríki, þar sem hið yfir-úraníska himinhvel verður að því himnaríki sem setur jarðríkinu reglur sínar í náttúrunni og samfélagi mannanna.

Fyrir Platon var sálin (psyke) nauðsynlegt líffæri til að skapa forsendur fyrir altækum skilningi er næði til allra manna: hugtakið stóll nær ekki bara til stólsins sem ég sit í heldur til allra stóla, og felur þannig í sér abstraktion eða sértekningu sem setur almennan algildan mælikvarða og þurrkar um leið út mismun allra stóla.

Með því að skipta hinu yfir-úraníska himinhvolfi frummyndanna út fyrir himnaríki bjó Ágústínus til alþýðlega kristna útskýringu á Platonisma, sem mótar skilning okkar á sannleikanum enn í dag. Galimberti vildi hins vegar rekja þessi umskipti enn lengra aftur, eða til fyrstu biblíuþýðingarinnar á grísku, þar sem armenska hugtakið „nefes“ var þýtt sem psyke, en það hefur fullkomlega líkamlega merkingu á armensku, segir Galimberti, og nefnir dæmi þar sem nefes merkir „háls“ eða „gola“ sem einnig getur merkt bragðskyn á ítölsku, en líka önnur dæmi þar sem biblían segir „auga fyrir auga, tönn fyrir tönn og „nefes fyrir nefes“, þar sem nefes á armensku merkir líf eða kyrkingu en ekki sál eða anda. Hinir frumkristnu trúðu á upprisu holdsins, en ekki á upprisu „hins andlega líkama“ eins og sagt er í kristnum jarðaförum á okkar dögum.

Í sögu hinna guðfræðilegu hugmynda um sannleikann lagði Galimberti megináherslu á hugmyndir heilags Tómasar frá Aquinas, sem hann taldi boða byltingu. Tómas sagði trúna ekki hafa neitt með sannleikann að gera, heldur viljann: Ég vil trúa, þess vegna geri ég það. Trúin verður ekki studd rökum, þvert á móti segir Tómas að menn verði að fórna skilningi sínum til þess að taka trú. Þessi skilningur heilags Tómasar hefur verið þaggaður í hel af kirkjustofnunum okkar tíma, segir Galimberti. Trúin hefur ekkert með sannleikann að gera og getur ekki gert tilkall til hans. Þess vegna ætti umburðarlyndið að vera aðal kristindómsins. Hið þveröfuga hefur hins vegar gerst í eingystrúarbrögðunum þrem, gyðingdómi, islam og kristni: boðorð eins og „þú skalt ekki aðra guði hafa“ loka á alla dialektík, á alla opna umræðu milli andstæðra skoðanahópa þar sem umburðarlyndið felur í sér þann skilning að viðmælandinn kunni að búa yfir meiri vitneskju eða þekkingu en þú sjálfur. Umburðarlyndi er annað og meira en „kristilegur kærleikur“, það er viðurkenning á gagnaðilanum og að hann kunni að hafa rétt fyrir sér. Umburðarlyndi af þessum toga er hins vegar aðal heimspekinnar, og í því felst reginmunur.

Þegar hinum guðfræðilega kafla um sögu sannleikans lauk í ræðu Galimberti snéri hann sér að vísindabyltingunni og tilkomu húmanismans. Þetta tvennt fellur algjörlega saman, segir hann, því vísindin og sú tæknihyggja sem er kjarni hennar yfirfærir valdið og „náttúrulögmálin“ frá hinu yfir-úraníska himinhvolfi Platons og hinni himnesku Jerúsalem Ágústínusar í hendur vísindamannanna sem nú setja náttúrunni reglur sínar rétt eins og dómari sem leggur spurningar sínar fyrir sakborning í réttarsal. Þau svör sem náttúran gefur við spurningum vísindanna verða „náttúrulögmál“ uns annað verður sannað. Húmanisminn felur það í sér að það er ekki lengur Guð heldur vísindamaðurinn sem setur náttúrinni lögmál sín. Þar með er náttúran ekki lengur bundin vilja Guðs, heldur orðin að hráefni fyrir manninn til að umbreyta henni og nýta eins og hvert annað hráefni.

Vísindin viðurkenna þannig að „sannleikurinn“ er tímabundinn og sögulega skilyrtur uns annað verður sannað, og sagan kennir okkur að vísindabyltingin er samfelld bylting og óstöðvandi. Vísindin hafa í raun ekkert með sannleikann að gera, sagði Galimberti, heldur virkni og nákvæmni spurninganna.

Kant kenndi okkur að rökhugsun mannsins um kjarna hlutanna væri takmörkum háð, en það var Nietzsche sem í eitt skipti fyrir öll batt enda á goðsögurnar um hinn eilífa sannleika með því að segja okkur að allar kennisetningar okkar um sannleikann væru bundnar óttanum við hið ómælanlega og viljanum til valds og að endanlega væru allar staðhæfingar trúar og vísinda um staðreyndir máls ekki annað en túlkanir á staðreyndum. Sögulega skilyrtar túlkanir er byggðu á lífsviljanum, viljanum til valdsog óttanum við óreiðuna. Þess vegna forðast allir vottar sannleikans að fjalla um hið óræða og ómælanlega. Ef ekkert stendur eftir nema túlkanir vaknar sú spurning hvort heimurinn sé skáldskapur, sagði Galimberti, en benti á að Nietzsche hefði einnig afneitað honum sem vitnisburði um sannleikann. Nietzsche markar hádegisstundina í hugmyndasögu okkar, sagði Galimberti, stundina þegar skuggi sólar er stystur.

Vísindin, og sú tæknihyggja sem í henni er falin á sér engin markmið. Rannsóknir vísindanna á okkar tímum beinast að óteljandi smáatriðum sem enginn hefur heildarsýn yfir og enginn veit hverjar niðurstöðurnar verða. Saga vísindanna er orðin að blindingsleik þar sem náttúran er hráefni til efnislegra afnota án þess að menn geti séð afleiðingarnar fyrir. Þetta blasir við hvarvetna í samtíma okkar.

Galimberti gerði innskot í ræðu sína með spurningu um örlög líkama mannsins í þessari þróun. Í þessum efnum hefur líkaminn sætt sömu örlögum og náttúran: Hann er ekki lengur hluti þess lífheims, sem Edmund Husserl kallaði „Lebenswelt“, hann er samsafn líffæra, efnaskipta og vökvaflæðis (hydraulica), og okkur hefur verið kennt að líta þannig á hann, einkum þegar við veikjumst. En sú staðreynd að við segjum frekar að við séum þreytt en að við séum með þreyttan líkama sýnir okkur að enn lifir í tungumálinu og í daglegu lífi okkar þessi ódeilanlegi skilningur á líkama okkar í órjúfanlegum tengslum við umhverfið og náungann. Augnlæknirinn rannsakar auga okkar eins og hlut, en þegar við horfumst í augu við aðra manneskju opnast fyrir okkur heimur tilfinninga og tjáninga er hefur allt aðra merkingu.

Í stuttu máli tók Galimberti undir sjónarmið Nietzsche um að leit mannsins að sannleika í gegnum vísindi og listir væri knúin af viljanum til valds, óttanum við óreiðuna og óttanum við hinn grímulausa veruleika.

Það sem Nietzsche vildi segja og er enn í gildi er sú dyggð og það hugrekki sem þarf til að horfast í augu við veruleikann eins og hann er án lögmálshyggju þeirra fordóma sem búa í okkur öllum. Við höfum þörf fyrir samræðu og samtali ólíkra sjónarmiða, þörf fyrir það umburðarlyndi sem nær út yfir allan „kristilegan kærleika“ og miðar að því að horfast í augu við þá raunveru þar sem viðurkennt er að höfuðandstæðingurinn kunni að hafa eitthvað til málanna að leggja sem þig vantar. Þar kemur heimspekin að notum, sagði Galimberti, en um leið horfumst við í augu við að það er búið að leggja hana af sem skyldunámskeið í öllum Evrópulöndum nema hér á Ítalíu.

Það var kannski þessi sérstaka athugasemd sem varpaði ljósi á þann mikla áhuga sem þessi heimspekistund á Largo Modesta del Porta vakti í baðstrandarbænum Francavilla al Mare 6. Júlí 2017.

Barokk – hermilistin, sýndarveruleikinn og máttur ímyndunaraflsins III -Jean Baudrillard

Framrás líkneskjanna

La precession des simulacres

eftir Jean Baudrillard

 

Ritgerð þessi er ein merkasta ritgerð franska táknfræðingsins Jean Baudrillards og hefur haft mótandi áhrif á þá fræðigrein og alla umfjöllun um táknmál myndlistar frá því hún kom út árið 1981. Ritgerðin hefur mikla þýðingu fyrir skilning okkar og túlkun á táknmáli barokklistarinnar á 17. öld og þýðingu hennar fyrir hið postmoderna myndmál samtímans. Þýðing þessi birtist áður  í ritgerðarsafni Baudrillards, "Frá eftirlíkingu til eyðimerkur", sem kom út á vegum Reykjavíkurakademíunnar og Bjarts árið 2000. Hún er hér í endurskoðaðri mynd. Þrem köflum úr ritgerðinni hefur verið sleppt.

Líkneskið er aldrei það sem hylur sannleikann, – það er sannleikurinn sem breiðir yfir það að hann er ekki til staðar.

Líkneskið er ekta.

                                                                                    Ecclesiastes

 

Ef við gætum tekið sögu Borgesar um kortagerð landmælingamanna keisaradæmisins sem snjalla allegóríu um eftirlíkingar, (en þeir höfðu gert svo nákvæmt landakort að það þakti nákvæmlega allt landsvæðið sem það myndaði), þá hefði sagan myndað lokaðan hring fyrir okkur og ekki miðlað öðru en ísmeygilegum þokka annarar gráðu líkans (simulacre). En með hnignun keisaradæmisins hafði kortið trosnað og eyðilagst, þannig að eftir stóðu aðeins stöku leifar úti í eyðimörkinni – eins og frumspekileg fegurð gamalla rústa sem vitna um keisaralegt stolt og hrörnun, rétt eins og um rotnandi hræ væri að ræða sem leitaði aftur til uppruna síns í jarðveginum, eða eins og aldraður tvífari sem endar með því að verða ruglað saman við fyrirmynd sína.

Nú á tímum er sértekningin ekki lengur fólgin í kortinu, eftirmyndinni, speglinum eða hugtakinu. Eftirlíkingin er ekki lengur bundin við landsvæðið, hlutstæða veru eða efni. Hún felst í framleiðslu raunveruleikalíkana sem byggja ekki á frumgerð eða veruleika, heldur á ofurraunsæi. Landssvæðið er ekki lengur forsenda kortsins, og það stendur heldur ekki eftir þegar myndin er horfin.  Framvegis er kortið forsenda landsvæðisins – framsókn líkneskjanna (précession des simulacres) – það getur af sér landssvæðið, og ef við ættum að endurupplifa sögu Borgesar nú á dögum, þá væru það leifar landsvæðisins sem lægju rotnandi eins og hráviði ofan á kortinu. Það eru leifar raunveruleikans sem hér liggja eins og hráviði fyrir fótum okkar á eyðimörk sem ekki heyrir lengur undir keisaraveldið, heldur okkur sjálf. Eyðimörk sjálfs raunveruleikans.

Í raun er þessi dæmisaga gagnslaus, jafnvel þótt við snúum henni við. Það eina sem eftir stendur er kannski dæmisagan um keisaradæmið. Því það er á grundvelli sams konar heimsvaldastefnu sem hermivélar samtímans reyna að láta veruleikann, allan veruleikann, falla nákvæmlega að líkönum sínum. En það er ekki lengur um tvo valkosti að ræða, kortið eða landssvæðið. Eitthvað hefur horfið: hinn afgerandi mismunur á þessu tvennu, sem gerði sértekninguna svo heillandi. Því það er mismunurinn sem skapar skáldskap landakortsins og gerir landssvæðið heillandi, galdur hugtaksins og seiðmagnað viðmót raunveruleikans. Þessi myndgerving veruleikans, sem nær hámarki sínu og er skrumskæld í brjálæðislegri áætlun landmælingamannsins um fullkomið samræmi á milli kortsins og landsvæðisins, hverfur með eftirlíkingunni þegar hún er orðin frumlægur gerandi og framleiðandi sem hefur slitið á alla hugtakslega rökræðu við veruleikann. Með myndlíkinu hverfur öll frumspeki. Ekki er lengur um neina speglun verunnar að ræða, enga hliðstæðu verunnar og birtingarmyndar hennar, ekkert samband hugtaks og veruleika. Miklu frekar verður vídd líkansins erfðafræðileg smættun veruleikans. Raunveruleikinn er framleiddur úr mótum, örgjörvum, minniskubbum og stýrilíkönum. Með þessu er hægt að fjöldaframleiða raunveruleikann út í það óendanlega. Hann þarf ekki lengur að lúta lögmálum rökhyggjunnar, því hann tekur ekki lengur mið af einhverri fyrirmynd eða frumforsendu. Hann byggist í einu og öllu á virkninni. Þar sem raunveruleikinn er ekki lengur settur fram í umbúðum myndlíkingarinnar er hann alls ekki raunverulegur lengur. Hann er ofurraunverulegur: afurð ljómandi samruna samvirkra líkana í sýndarrými án andrúmslofts.

Öld eftirlíkinganna hefst þannig með útþurrkun allra viðmiða um leið og horfið er yfir í rými sem lýtur ekki lengur forsendum raunveruleikans eða sannleikans – eða það sem er öllu verra: með tilbúinni endurreisn viðmiða í táknkerfum sem í rauninni eru meðfærilegra efni en sjálf merkingin, vegna þess að þau verða auðveldlega aðlöguð hvers konar jafngildingarkerfum, öllum tvenndarandstæðum og allri venslafræði algebrunnar. Það er ekki lengur um eftirhermu að ræða, eða endurgerð, ekki einu sinni skopstælingu.  Málið snýst miklu frekar um það að tákn veruleikans komi í stað veruleikans sjálfs. Það felur í sér frávísun sérhvers raunverulegs ferlis með kerfisbundnum tvífara þess. Um er að ræða ofurtrausta, forskrifaða og óskeikula vél hinnar fullkomnu lýsingar sem framleiðir öll merki raunveruleikans og sneiðir markvisst framhjá öllum hverfulleika hans. Raunveruleikinn fær aldrei framar tækifæri til að sýna sig: þetta er meginhlutverk líkansins í kerfi sem er merkt dauðanum eða öllu heldur ótímabærri upprisu sem ekki býður lengur upp á neina valkosti, ekki heldur á dauðastundinni. Um er að ræða ofurveruleika sem er brynjaður gegn ímyndunaraflinu og allri aðgreiningu raunveruleika og ímyndunar, þar sem eingöngu er rúm fyrir sporbraut með reglubundinni endurkomu líkana og tilbúinna eftirlíkinga á mismun.

Hin guðdómlega frávísun myndanna

Að gera sér upp eitthvað (dissimuler) er það sama og að þykjast ekki hafa það sem maður hefur. Að líkja eftir einhverju (simuler) er það sama og að látast hafa það sem maður hefur ekki. Annað gefur til kynna nærveru, hitt fjarveru. En málið er flóknara en svo, því hermilistin er ekki bara fólgin í því að þykjast. “Sá sem gerir sér upp veikindi getur einfaldlega lagst í rúmið og látið sem hann sé veikur. Sá sem líkir eftir veikindum framkallar einhver af sjúkdómseinkennunum á sjálfum sér” (Littré). Þannig láta uppgerðin og látalætin raunveruleikalögmálið ósnert: mismunurinn liggur alltaf í augum uppi, hann er bara falinn á bak við grímu. Hins vegar grefur hermilistin (simulation) undan mismuninum á því sem er “ekta” og því sem er “falsað”, því sem er “raunverulegt” og því sem er “ímyndað”. Ef það er tilfellið að eftirherman (eða hermikrákan) framkalli “sönn” sjúkdómseinkenni á sjálfum sér, er hún þá sjúk eða heilbrigð? Það er ekki hægt að meðhöndla eftirhermuna á hlutlægan hátt annað hvort sem sjúkling eða heilbrigða manneskju. Bæði sálfræðin og læknisfræðin nema óhjákvæmilega staðar á þessum punkti, en handan hans mæta þau þeim sannleika um sjúkdóminn, sem aldrei verður upplýstur. Því ef hægt er að “framleiða” hvaða sjúkdómseinkenni sem er, og ekki er lengur hægt að líta á þau sem hverja aðra staðreynd úr ríki náttúrunnar,  þá verður að líta svo á að hægt sé að líkja eftir hvaða sjúkdómi sem er eða að hann sé látalæti, og þar með er grundvellinum kippt undan læknisfræðinni sem slíkri, þar sem hún kann aðeins að meðhöndla “sanna” sjúkdóma út frá hlutlægum orsökum þeirra. Geðlæknisfræðin hefur þróast með tvíræðum hætti á mörkum sjúkdómslögmálsins. Sálgreiningin hefur hins vegar yfirfært sjúkdómseinkennin frá hinu líkamlega sviði yfir á svið dulvitundarinnar. Þar trúa menn því að hið síðarnefnda sé raunverulegt, raunverulegra en hinar líkamlegu orsakir, en hvers vegna skyldi hermilistin nema staðar við þröskuld undirmeðvitundarinnar? Hvers vegna skyldi ekki vera hægt að “framkalla” “úrvinnslu” dulvitundarinnar á sama hátt og önnur sjúkdómseinkenni hinnar klassísku læknisfræði? Draumarnir eru löngu orðnir að framleiðsluvöru.

Geðlæknastéttin (fylgjendur firringarkenningarinnar) heldur því auðvitað fram, að “sérhverri geðrænni firringu fylgi röð tiltekinna sjúkdómseinkenna, sem hermirinn (simulator) er sér ómeðvitaður um, en væru þau ekki til staðar er ólíklegt að geðlæknirinn léti blekkjast”. Þessi fullyrðing (frá árinu 1865) er sett fram í nauðvörn tiltekins sannleikslögmáls og til þess að losna undan áleitnum spurningum sem eftirlíkingin vekur upp: þeirri staðreynd að sannleikur, viðmið og hlutlægt orsakasamband hafa gufað upp.

Hvernig eiga læknavísindin að bregðast við einhverju sem liggur beggja vegna sjúkdómsgreiningarinnar og  beggja vegna heilbrigðisins, hvernig eiga þau að bregðast við endurgerð súkdóms í röksemdafærslu sem getur ekki lengur talist sönn eða fölsk? Hvað getur sálgreiningin gert við endurgerð orðræðu dulvitundarinnar í rökræðu eftirlíkingar (simulation) sem aldrei verður afhjúpuð, þar sem hún er heldur ekki ósönn?

Hvernig getur herinn brugðist við þeim sem gera sér upp sjúkdóma?

Venjan hefur verið sú að afhjúpa þá og refsa síðan á forsendum eyrnamerkingarlögmálsins. Í dag geta þeir endurhæft mjög snjallan uppgerðarsjúkling rétt eins og hann væri jafngildi “raunverulegs” homma, hjarta- eða geðsjúklings. Jafnvel hernaðarsálfræðin víkur sér undan hlutlægnireglu Descartes og hikar við að draga mörkin á milli hins sanna og upplogna, á milli tilbúinna sjúkdómseinkenna og raunverulegra sjúkdómseinkenna. “Ef hann er svona snjall að leika brjálæðing, þá hlýtur hann að vera brjálaður”. Þetta er líka rökrétt ályktun í þeim skilningi að allir geðsjúklingar eru eftirhermur (simulators), og þessi skortur á skilum milli eftirlíkingar og raunveruleika er versta tegund undirróðurs.

Gegn þessari óvissu þurfti hin hefðbundna skynsemiregla að vígbúa sig með öllum tiltækum hugtökum sínum. Á okkar dögum hefur þessi vígvæðing hins vegar slegið vopnin úr höndum rökhyggjunnar á nýjan leik og þar með drekkt sannleikslögmálinu.

Utan læknisfræðinnar og hermennskunnar, sem eru óskasvið hermilistarinnar, þá snertir þessi vandi trúarbrögðin og eftirlíkingu guðdómsins. “Ég bannaði allar líkneskjur (simulacre) í hofinu, því sá guðdómur sem blæs lífsanda í náttúruna verður ekki sýndur.”

Engu að síður er það hægt. En hvað verður um guðdóminn þegar hann opinberar sjálfan sig í helgimyndum, þegar hann er fjölfaldaður í eftirlíkingum? Heldur hann áfram að vera hið æðsta drottinvald, sem einfaldlega er efnisgert í myndum sem sjónræn guðfræði? Eða er hann leystur upp í eftirlíkingar sem einar hafa til að bera þann glæsibrag og vald sem skapar hrifningarmáttinn – verður hin sjónræna framleiðsluvél helgimyndanna látin koma í stað hinnar hreinu og skýru Hugmyndar um Guð?

Það var einmitt þetta sem helgimyndbrjótarnir óttuðust, en þúsund ára deila þeirra er enn á meðal okkar í dag. Áfergja þeirra í að eyðileggja myndirnar stafaði einmitt af því að þeir skynjuðu þetta altæka vald líkneskjanna, hversu auðveldlega þau geta þurrkað Guð út úr vitund fólks, og þann yfirþyrmandi og tortímandi sannleika sem þau gefa í skyn: að þegar öllu sé á botninn hvolft, þá hafi aldrei neinn Guð verið til, að einungis eftirlíkingin sé til, og að endanlega hafi Guð aldrei verið til öðruvísi en sem líki sjálfs sín.

Ef þeir hefðu látið sér nægja að trúa því að myndirnar yfirskyggðu hina platónsku hugmynd um Guð, þá hefði ekki verið nein ástæða til að eyðileggja þær. Það er hægt að afbera hugmyndina um afmyndaðan sannleika. En hin frumspekilega örvænting þeirra stafaði af vitundinni um að á bak við myndirnar væri ekkert, og að þær væru í rauninni ekki myndir eins og frummyndin gæfi tilefni til, heldur fullkomin myndlíki sem lýsa til eilífðar í sinni eigin dýrð og aðdráttarafli. En þessum dauða hins guðdómlega viðmiðs þarf að bægja frá með öllum tiltækum ráðum.

Við getum þannig séð að helgimyndbrjótarnir, sem oft voru ásakaðir fyrir að fyrirlíta og afneita myndum, voru í raun þeir sem skildu hið sanna gildi þeirra, andstætt þeim sem dýrkuðu myndirnar og sáu einungis í þeim endurspeglanir og létu sér þær nægja til að dýrka Guð sinn í hillingum.

Einnig mætti halda hinu gagnstæða fram: að þeir sem dýrkuðu helgimyndir hafi verið nútímalegastir og ævintýralegastir í hugsun, þar sem þeir hafi séð á bak við hugmyndina um birtingu Guðs í spegli myndanna það brotthvarf og þann dauða Guðs, sem guðdómsbirting myndanna sýnir (og sem þeir vissu trúlega að stóðu ekki fyrir neitt, að þær voru einfaldlega leikur, og einmitt stórbrotnasti leikur allra leikja – að þeir hafi þekkt þá hættu sem fólgin er í því að afhjúpa myndir, þar sem þær gefa í skyn þá staðreynd að það er ekkert á bak við þær).

Þetta var afstaða Jesúítanna á barokktímanum, sem byggðu pólitíska stefnu sína á raunverulegu brotthvarfi Guðs og á veraldlegri og sjónrænni stýringu á vitundarlífi safnaðarins – uppgufun Guðs í guðdómsbirtingu valdsins.

Um var að ræða endalok handanverunnar, sem ekki var lengur annað en fjarvistarsönnun þeirrar stjórnlistar er hafði losað sig undan öllum utanaðkomandi áhrifum og táknum . Á bak við barokkyfirbragðið sjáum við hina gráu hátign hins pólitíska valds.

Þannig hefur málið alltaf snúist um hinn banvæna eyðingarmátt myndanna. Þær myrða raunveruleikann, þær myrða fyrirmynd sína rétt eins og hinar býsönsku helgimyndir gátu drepið sjálfsímynd guðdómsins.

Gegn þessari banvænu getu myndanna hafa menn teflt röklegum viðmiðunarmætti mynda sem sjónræns og skiljanlegs miðils raunveruleikans. Öll trú og allt trúartraust  Vesturlanda var byggt á þessum skilningi á myndgervingunni: að táknið gæti haft dýpt merkingarinnar að viðmiði, að táknið gæti orðið staðgengill merkingar, að eitthvað gæti tryggt þessi skipti – og þessi gulltrygging merkingarinnar var auðvitað Guð. En hvað gerist ef hægt er að líkja eftir mynd Guðs, ef hægt er að smætta hann niður í þau tákn sem staðfesta tilvist hans? Þá verður allt kerfið holt að innan, það verður ekki annað en tröllvaxið líki eða líkneski: ekki óraunverulegt, heldur myndlíki sem getur aldrei komið í stað þess sem er raunverulegt, heldur einungis í staðinn fyrir sjálft sig í endalausri hringrás án viðmiðs né umgerðar.

Þetta á við um hermilistina í þeim skilningi að hún sé andstæða myndgervingar (représentation). Slík myndræn framsetning byggir á þeirri forsendu að jafngildi sé á milli táknsins og veruleikans sem það vísar til (jafnvel þótt slíkt jafngildi sé útópískt, þá er þetta grundvallaratriði). Hermilistin byggist hins vegar á andhverfu þessarar útópíu jafngildingarinnar, hún byggir á hinni róttæku afneitun merkisins sem gildis, hún byggir á tákninu sem fráhvarfi og dauðadómi yfir öllum viðmiðum og vísunum. Á meðan myndgervingin reynir að innbyrða eftirlíkinguna með því að túlka hana eins og falska framsetningu, þá gleypir hermilistin allt myndgervingarkerfið eins og það leggur sig sem líki eða líkneski (simulacrum).

Myndin hefði þá eftirfarandi þróunarstig:

1          hún speglar djúpstæðan veruleika

2          hún dylur og umbreytir eðli hins djúpstæða veruleika

3          hún felur fjarvist hins djúpstæða veruleika

4          hún hefur alls engin veruleikatengsl: hún er sitt eigið líkneski og ekkert annað.

Í fyrsta tilfellinu er myndin góð birting.: framsetningin er sambærileg við altarissakramentið.

Í öðru tilfellinu er myndin ill birting: hún er hliðstæða bölbænarinnar.

Í þriðja tilfellinu lætur myndin eins og hún sé birting einhvers. Hún samsvarar fjölkyngi.

Í fjórða tilfellinu hefur hún alls ekkert með birtingu að gera lengur, heldur einvörðungu eftirlíkinguna.

Umskiptin frá táknum sem láta sem eitthvað sé, til tákna sem gefa í skyn að ekkert sé, marka vendipunktinn. Fyrrnefndu táknin hafa með guðfræði sannleikans og leyndarinnar að gera (en hugmyndafræðin byggir einmitt á þessu). Seinna tilfellið markar upphaf tímaskeiðs líkneskjanna og hermilistarinnar, þar sem ekki er lengur til staðar neinn Guð til að staðfesta eigin eftirlíkingu, né heldur nokkur dómsdagur er megnar að greina satt frá lognu, raunveruleikann frá tilbúinni upprisu hans, því allt er þegar og fyrirfram dáið og upp risið.

Þegar raunveruleikinn er ekki lengur eins og hann var vanur að vera, öðlast fortíðarþráin sína raunverulegu merkingu. Við sjáum hvarvetna haldið á lofti merkjum raunveruleikans og goðsögnum um upprunann. Við sjáum hvarvetna haldið á lofti fjölnota sannleika, hlutlægni og upprunavottun. Hið sanna breiðir úr sér og lífsreynslan; við sjáum upprisu hins fígúratíva í myndinni þar sem viðfangið og inntakið eru horfin. Það er í gangi örvæntingarfull framleiðsla á raunveruleika og tilvísunum, framleiðsla sem á sér einungis hliðstæðu í hinni örvæntingarfullu framleiðslu á efnislegum hlutum.

Þannig birtist hermilistin á því þróunarstigi sem að okkur snýr: hertækni raunveruleikans, nýraunsæisins og ofurveruleikans, en hinn algildi tvífari hennar er herstjórnarlist fælingarinnar.

…………… (Hér vantar millikafla: Ramses eða hin bleiklitaða upprisa….

Ofurraunvera og ímyndun

Disneyland er hin fullkomna fyrirmynd allra flókinna eftirlíkingakerfa. Í fyrsta lagi er um að ræða leik með blekkingar og drauga: Sjóræningjarnir, Villta vestrið, Future World  o.s.frv. Vinsældir fyrirbærisins eru sagðar vera þessum ímynduðu heimum að þakka. En það sem dregur fjöldann að þessum stað er vafalaust miklu frekar hinn samfélagslegi smáheimur, þessi gleðiríka og trúarlega upplifun hinnar raunverulegu Ameríku í hnotskurn með öllum sínum dásemdum og ágöllum.

Menn leggja bílum sínum fyrir utan, fara í biðraðir innan garðsins og eru fullkomlega einir og yfirgefnir við útganginn. Í þessum ímyndaða heimi er eini draumleikurinn fólginn í þeirri eðlislægu hlýju og nálægð, sem falin er í manngrúanum og þeirri fullnægjandi ofgnótt glingurs sem þarna gegnir því markvissa hlutverki að viðhalda margbreytileikaáferðinni. Andstæðan við hina fullkomnu einsemd bílastæðisins – raunverulegar einangrunarbúðir – er algjör.

Eða öllu heldur: þegar inn er komið verður aragrúi smátækja og glingurs til að segulmagna manngrúann í ákveðinn straum, fyrir utan beinist einsemdin aðeins að einu tæki: bílnum. Fyrir einskæra tilviljun (sem áreiðanlega á sinn þátt í töfraljóma þessa heims) var þessi djúpfrysti smábarnaheimur fundinn upp og búinn til af manni sem nú er sjálfur djúpfrystur: Walt Disney, sem nú bíður upprisu sinnar í mínus 180 °C.

Við getum rakið hina hlutlægu mynd Bandaríkjanna í gegnum Disneyland, jafnvel niður í formgerðir einstaklinganna og manngrúans. Öll hin bandarísku gildi eru hér sýnd í hnotskurn og á teiknimyndaformi. Smurð og niðursoðin. Þannig opnast möguleikinn á hugmyndafræðilegri greiningu á Disneylandi (L. Marin gerir það vel í Utopies, jeux d’espaces / Draumalönd, leikið með rýmið): þverskurður af hinum ameríska lífsmáta, lofgjörð um hin amerísku gildi, upphafin ummyndun þversagnarkennds veruleika.

Vissulega. En bak við allt saman hvílir eitthvað annað, og þessi “hugmyndafræðilega” ábreiða gegnir einmitt því hlutverki að breiða yfir þriðja stigs eftirlíkingu: Við höfum Disneyland til þess að fela þá staðreynd að það er hið raunverulega land, öll hin “raunverulega” Ameríka, sem er Disneyland (á sama hátt og fangelsi eru til þess að fela þá staðreynd að það er samfélagið í heild sinni, í hinni augljósu alnánd sinni, sem er fangabúðir). Disneyland er kynnt sem ímyndaður heimur til þess að fá okkur til að trúa því að allt hitt sé raunverulegt, þegar staðreyndin er sú að öll Los Angelesborg, og öll sú Ameríka sem umlykur hana, tilheyra ekki lengur raunveruleikanum, heldur sviði hins ofurraunverulega og eftirlíkingarinnar.

Málið snýst ekki lengur um falska birtingarmynd raunveruleikans (hugmyndafræði) heldur um að fela þá staðreynd að hið raunverulega er ekki lengur raunverulegt, og þar með að bjarga raunveruleikalögmálinu.

Myndaheimur Disneylands er hvorki sannur né falskur. Hann er fælingarvél, sem hefur verið sett á svið í varnarskyni til að endurgera uppspuna raunveruleikans. Af þessu stafar veikleiki og barnaleg úrkynjun þessa myndheims. Þetta er kynnt sem heimur barnanna til þess láta okkur trúa því að hinir fullorðnu séu annars staðar, í hinum “raunverulega” heimi, og til að fela þá staðreynd að hinn raunverulegi barnaskapur er alls staðar, og einkum þó meðal þeirra fullorðnu, sem sækja í þennan stað til að leika börn og til þess að ala með sér sjálfsblekkingar um eigin barnaskap.

Þar við bætist að Disneyland er ekki eini staðurinn. Enchanted Village, Magic Mountain, Marine World: Los Angeles er umlukt slíkum “orkuveitum ímyndunarinnar” sem mata þessa borg á raunveruleika og raunveruleikaorku, þessa borg sem einkennist umfram allt af því að hún er ekkert annað en samskiptanet endalausrar, óraunverulegrar hringrásar: borg í ævintýralegri stærðargráðu, en án rýmis eða víddar. Þessi borg, sem er ekkert annað en tröllaukið kvikmyndahandrit og endalaus skoðunarferð, er jafn háð þessum gamla ímyndunarheimi fyrir hið ósjálfráða taugakerfi sitt, heimi sem búinn er til úr merkjum æskunnar og upplognum draugum, eins og hún er háð raforkuverunum, kjarnorkuverunum og kvikmyndaverunum. 

Pólitískur seiður

Watergate. Sama sviðsmynd og Disneyland (ímynduð áhrif sem fela þá staðreynd að raunveruleikinn er ekki frekar til innan en utan hinnar tilbúnu markalínu): hér eru það hins vegar hneykslunaráhrifin sem fela það að ekki er um neinn mun að ræða á staðreyndum málsins og ákærunni (Washington Post blaðamennirnir beita sömu aðferðum og CIA-leyniþjónustan). Sama aðgerð, þótt hér sé leitað til hneykslisins sem meðals til að endurlífga siðferðilegar og pólitískar reglur, leitað til ímyndunarinnar sem meðals til að endurlífga raunveruleikalögmál sem stendur höllum fæti.

Afhjúpun hneykslis felur ávallt í sér hyllingu til laganna.

Það var einmitt þannig sem Watergate-málinu tókst að festa þá vissu í hugum manna að Watergatemálið væri hneyksli. Í þessum skilningi var hér um einstakan vímugjafa að ræða: stórskammtur af pólitísku siðgæði á heimsvísu. Það mætti taka undir með Bourdieu að “hið sérstaka eðli allra valdasamskipta er að látast í einu og öllu og að sækja ekki styrk sinn í annað enn látalætin sem slík.” Á bak við þetta liggur sá skilningur að fjármagnið, sem er bæði siðlaust og samviskulaust, geti aðeins virkað í skjóli siðferðilegrar yfirbyggingar, og að hver sá sem endurlífgi þessa opinberu siðvakningu (með vanþóknun, ákæru o.s.frv.) styrki ósjálfrátt reglu fjármagnsins, rétt eins og blaðamennirnir á Washington Post gerðu.

Þetta er hins vegar bara hugmyndafræðileg formúla, og þegar Bourdieu setur hana fram, þá gengur hann út frá því að “valdasamskipti” feli í sér sannleika kapitalískrar yfirdrottnunar, og hann ákærir  sjálfur þetta valdasamband sem hneykslunarefni.  Hann er því í sömu nauðhyggju- og siðapredikunarstöðu og blaðamennirnir á Washigton Post. Hann er í sömu hreinsunarherferðinni, til styrkingar hinnar siðferðislegu reglu, þeirrar sannleiksreglu sem elur af sér hið raunverulega táknræna ofbeldi samfélagsreglunnar, langt handan allra valdasamskipta, sem eru ekki annað en síbreytileg og sinnulaus samstilling siðferðislegrar og pólitískrar vitundar fólksins.

Það eina sem fjármagnið biður okkur um, er að við tökum því sem rökrænu fyrirbæri eða berjumst gegn því í nafni rökhyggjunnar, að við tökum því sem siðferðilega réttmætu fyrirbæri  eða berjumst gegn því í nafni siðferðisins. Því á þessu tvennu er enginn munur í þeim skilningi að hvorutveggja má lesa á gagnvirkan hátt. Áður fyrr þurfti að láta sem hið raunverulega hneyksli væri ekki til; nú er dagsskipunin að fela fyrir alla muni þá staðreynd að það sé ekki til staðar í raun og veru.

Watergate er ekki hneyksli: þetta er það sem þarf umfram allt að koma fram, því þetta er það sem öllum er umhugað um að fela, þessi þykjustuleikur sem ber grímu hinnar efldu siðferðisvitundar, siðferðilegra skelfingarkasta sem magnast þegar við nálgumst grundvallar sjónarspil fjármagnsins: hið tafarlausa miskunnarleysi þess, yfirgengilega grimmd þess og grundvallarsiðleysi þess. Það er þarna sem hneykslunarefnið liggur, hneykslunarefni sem ekki á heima í því kerfi siðferðilegrar og efnahagslegrar jafngildingar sem hefur verið grundvöllur vinstrisinnaðrar hugsunar, allt frá Upplýsingunni til kenningasmíða kommúnismans.

Fjármagnið gefur ekki fimmeyring fyrir hugmyndina um þann samfélagssáttmála sem þröngvað er upp á það. Það er í eðli sínu refjalaus og siðblind ófreskja, ekkert annað. Það er hin “upplýsta” hugsun sem reynir að stjórna fjármagninu með því að setja því reglur. Og öll sú ákæra sem rúmast innan hinnar byltingarsinnuðu hugsunar stefnir að því að ásaka fjármagnið fyrir að fylgja ekki leikreglunum. “Valdið er óréttlátt. Réttlæti þess er stéttarréttlæti. Fjármagnið arðrænir okkur…o.s.frv.” – rétt eins og fjármagnið væri tengt samfélaginu sem það stjórnar í gegnum sáttmála. Það eru vinstri öflin sem halda uppi þessum spegli jafngildingarinnar andspænis fjármagninu í þeirri von að það muni sjá að sér og falla fyrir þessari hillingamynd hins samfélagslega sáttmála, og uppfylla skyldur sínar gagnvart samfélaginu í heild sinni (um leið verður engin þörf á byltingunni, það nægir að fjármagnið gangist undir hina skynsamlegu skiptaformúlu).

Staðreyndin er sú að fjármagnið hefur aldrei verið samningsbundið því samfélagi sem það drottnar yfir. Það er nornaseiður hinna félagslegu samskipta, það er ögrun við samfélagið og það ætti einungis að mæta því á þeim forsendum. Það er ekki hneyksli að vera ákærður á grundvelli siðferðislegrar eða efnahagslegrar skynsemishyggju, það er áskorun sem bregðast þarf við á grundvelli táknmálsreglnanna.

Moebius: skrúfugangur neikvæðisins

Því var Watergate einungis gildra sem kerfið bjó til í því skyni að góma andstæðinga sína –eftirlíking hneykslis sem hafði endurlífgandi markmið. Þessi markmið líkamnast í kvikmyndahandritinu í persónu, sem kallast “Deep Throat” og var sagður vera dularfullur mikilsmetinn Repúblikani sem vafði hinum vinstrisinnuðu blaðamönnum um fingur sér í því skyni að losa sig við Nixon – hvers vegna ekki?

Allar tigátur eru mögulegar, þótt þeirra sé reyndar ekki þörf. Vinstri öflin taka sjálfviljug að sér að gera það sem hægri öflin ætla sér, og vinna verkið af mikilli prýði. Það væri auk þess mikill barnaskapur að sjá þar hinn hreina skjöld. Því hægri-öflin taka líka sjálfviljug að sér að framkvæma áform vinstri-aflanna. Allar tilgátur um leikbrúður og leikbrúðustjóra virka gagnkvæmt í endalausum skrúfgangi. Því strengjabrúðuleikurinn er fljótandi orsakasamhengi þar sem neikvæði og jákvæði tímgast og skarast í gagnkvæmri víxlverkun, þar sem ekki er lengur um virkni eða óvirkni að ræða hjá öðrum hvorum aðilanum. Lögmáli hins pólitíska veruleika verður ekki bjargað nema með því að setja geðþóttastopp á þetta hringrásandi orsakaferli. Pólitískum trúverðugleika er viðhaldið með eftirlíkingu hefðbundins, þröngs sjónarhorns (þar sem auðvitað er gengið út frá “hlutlægri”  greiningu, baráttu o.s.frv.). En ef allt hringferli sérhvers verknaðar eða atburðar er hugsað í kerfi þar sem línuleg framvinda og gagnvirkar andstæður eru ekki lengur til, í sviði sem hefur verið tekið úr sambandi með hermilist, þá flæðir undan allri sannfæringu, sérhverjum verknaði lýkur við enda hringferlisins eftir að hafa komið öllum til góða og dreifst um víðan völl.

Er eitthvert tiltekið sprengjutilræði á Ítalíu verknaður öfgafullra vinstrisinna, eða er um ögrun hægri-öfgasinna að ræða? Eða er tilræðið sviðsetning miðjuaflanna gerð í því skyni að koma óorði á alla öfgasinna til hægri og vinstri og styrkja þar með eigin stöðu sem var orðin ískyggilega veik? Eða var hér kannski á ferðinni atburðarás, sem sett var á svið af lögreglunni til þess að kynda undir kröfur um öryggisgæslu, lög og reglu í samfélaginu? Allar þessar tilgátur eru jafn sannar, og leitin að sönnunargagni – hinni hlutlægu staðreynd málsins – mun ekki geta afstýrt þessum svimandi túlkunarmöguleikum. Við erum stödd í röksemdafærslu eftirlíkinga sem hefur ekkert með staðreyndarökfræði eða aðrar rökfræðireglur að gera. Eftirlíkingin einkennist af forgangsstöðu líkansins, allra líkana sem gerð eru utan um hinar lítilvægustu staðreyndir. Líkönin koma fyrst, og fylgihnettir þeirra (eins og sprengjutilræðin) svífa í kring í raunverulegu segulsviði atburðanna. Staðreyndirnar hafa ekkert að segja lengur í sjálfum sér, þær verða til við skörun líkananna. Einstakur atburður getur jafnvel orsakast af öllum líkönunum samtímis. Það er þessi flýting, þessi forgangsröðun, þetta skammhlaup, þessi samruni staðreynarinnar og líkans hennar (enginn skoðanaágreiningur, engin gagnverkandi pólamyndun, engin neikvæð rafmögnun eða skautasamsláttur) sem opna alltaf fyrir allar hugsanlegar túlkanir málanna, jafnvel hinar þverstæðufyllstu túlkanir – allar eru þær sannar í þeim skilningi að þær eru jafngildar innan ramma þess líkans sem þær koma frá í sjálfsprottnu hringferli.

Kommúnistar ráðast á Sósíalistaflokkinn eins og það vaki fyrir þeim að riðla einingu vinstri aflanna. Þeir segja staðfestu sína stafa af nauðsyn þess að taka enn róttækari afstöðu. Í rauninni er hún til komin vegna þess að þeir vilja ekki pólitísk völd. En er ástæðan fyrir því að kommúnistar vilja ekki pólitísk völd í þessari stöðu sú, að það kæmi vinstriöflunum í heild illa, eða er það vegna þess að það myndi veikja stöðu þeirra sjálfra innan vinstri samfylkingarinnar – eða vilja þeir ekki völd af prinsippástæðum? Þegar Berlinguer gefur yfirlýsinguna “Menn mega ekki hræðast þá tilhugsun að sjá kommúnista komast til valda á Ítalíu”, þá merkir yfirlýsingin allt í senn:

Að það er ekkert að óttast, því þótt kommúnistar komist til valda þá muni þeir ekki breyta grundvallarforsendum kapítalismans í neinum efnum.

Að ekki sé nein hætta á að þeir muni nokkurn tímann komast til valda (af þeirri ástæðu að þeir vilja það ekki); og jafnvel þótt svo færi, þá myndu þeir einungis gera það í umboði annarra.

Að í raun og sannleika sé ekkert raunverulegt vald lengur til, og því sé engin hætta á því lengur að einhver muni hrifsa það til sín eða endurheimta það.

En ennfremur: Ég, Berlinguer, er ekki hræddur við að sjá kommúnista hrifsa völdin á Ítalíu – sem ætti að liggja í augum uppi, en þó ekki vegna þess að…

Það getur einnig þýtt hið gagnstæða (hér þarf enga sálgreiningu): Ég er hræddur við að sjá kommúnista hrifsa völdin (ekki að ástæðulausu, jafnvel fyrir kommúnista).

Allar þessar röksemdir eru samtímis sannar. Þetta er leyndardómur orðræðu sem er ekki lengur bara tvíræð, eins og stjórnmálaumræðan verður gjarnan, heldur afhjúpar hún og miðlar ómöguleika þess að taka ákveðna valdaafstöðu, ómöguleika afdráttarlausrar afstöðu innan orðræðunnar. Þessi röksemdafærsla er ekki einkenni neins flokks sérstaklega. Hún gengur í gegnum alla orðræðu, án þess að hún ætlist til þess.

Hver getur leyst úr þessari flækju? Það er að minnsta kosti hægt að höggva á Gordíonshnútinn. Þá gerist það sama og í Möbíusar-rununni, ef hún er klofin í tvennt myndast viðbótarspírall án þess að gagnvirkni yfirborðanna sé leyst (sbr. gagnverkandi hringrás tilgátanna). Hadesarheimar hermilistarinnar eru ekki lengur kvalastaðir, heldur staðir ísmeygilegs, illskeytts og óhöndlanlegs umsnúnings á merkingu – þar sem jafnvel þeir sem hlutu dóma sína í Burgos (í spánsku borgarastyrjöldinni – innsk. Þýð.) verða um leið gjöf Francos til vestræns lýðræðis, sem sér í dómunum tilefni til að endurvekja hinn útvatnaða húmanisma sinn. Með hneykslanlegum andmælum sínum varð það aftur til þess að styrkja Franco í viðleitni hans að sameina spánskan almenning gegn erlendri íhlutun.

Hvar er sannleikurinn í öllu þessu, þegar slíkir árekstrar hnýta saman hagsmuni án vitundar þátttakendanna í leiknum?

Hér er um að ræða samstillingu tiltekins kerfis og ýtrustu andhverfu þess, eins og um tvo enda í holum bjúgspegli væri að ræða, hina “illræmdu” sveigju hins pólitíska rýmis sem er segulmagnað í hringferli með gagnverkandi umskiptum á milli hægri og vinstri, íbjúg sveigja sem er eins og hinn illi skratti umskiptinganna; allt kerfið, óendanleiki fjármagnsins útbreiddur yfir eigin yfirborð, án nokkurra endimarka?

Gildir svo ekki hið sama um svið nautnar og kynhvatar? Um samstillingu nautnar og verðs, girndar og fjármagns? Samstilling nautnarinnar og lögmálsins, hinn endanlegi unaður og ummyndun lögmálsins (sem skýrir hversu hátt þeim er hampað í tilskipun dagsins). Einungis fjármagnið fær að njóta, sagði Lyotard áður en það hvarflaði að honum að við fyndum nautn í fjármagninu. Nautnin tekur á sig margar myndir hjá Deleuze: dularfullur umsnúningur sem breytir nautn -sem er “byltingarsinnuð í sjálfri sér og vill eins og óviljandi það sem hún vill” – í það að þrá eigin bælingu og að skapa sér sjúklega tortryggt fasistískt kerfi?

Illkynjaður umsnúningur sem veitir þessari byltingu nautnanna sömu grundvallar tvíræðnina og við sjáum í hinni byltingunni, þeirri sögulegu.

Öll viðmiðin flækja orðræðu sína inn í þvingandi Moebískt hringferli. Það er ekki langt síðan kynlíf og vinna voru taldar tvær ósættanlegar andstæður. Nú á dögum hafa báðar sameinast í sams konar eftirspurn. Áður fyrr sótti orðræða sagnfræðinnar mátt sinn í andstæðuna við náttúruna, orðræða nautnarinnar mátt sinn í andstöðu við valdið: á okkar dögum skiptast þessi svið á merkjum og leiksviðum.

Það tæki of langan tíma að fara í gegnum allan listann yfir gagnvirka neikvæðni, öll þessi fælingarsvið sem leitast við, eins og við sáum í dæminu af Watergate, að kveikja líf í dauðvona lögmál með sviðsettu uppgerðarhneyksli, draugi eða morði. Eins konar hormónalækning gegn  neikvæðni og kreppu. Málið snýst ætíð um að sanna raunveruleikann með ímyndunum. Að sanna sannleikann með hneyksli. Að sanna lögmálið með lögbroti. Að sanna vinnuna með verkfalli. Að sanna kerfið með kreppu og fjármagnið með byltingu. Og ef því er að skipta, að sanna þjóðfræðina með útrýmingu á viðfangi hennar (sbr. Tasaday-þjóðflokkinn). Og eins og fara gerir:

að sanna leikhúsið með and-leikhúsi,

að sanna listina með and-list,

að sanna uppeldisfræðina með and-uppeldisfræði,

að sanna geðlæknisfræðina með and-geðlæknisfræði o.s.frv. o.s.frv.

Allt umbreytist í andhverfu sína í því skyni að framlengjast í hreinni mynd. Sérhvert form valds, allar stofnanir þess, tala um sjálf sig í formi afneitunar. Með því að gera sér upp eigið andlát reyna þessar stofnanir að komast undan sínu raunverulega dauðastríði.

Valdið getur sviðsett eigið morð í því skyni að enduruppgötva ljómann af eigin tilvist og réttlætingu. Þannig var það með amerísku forsetana: Kennedyarnir voru myrtir vegna þess að þeir höfðu enn til að bera pólitíska vídd. Aðrir eftirkomendur þeirra – Johnson, Nixon, Ford – verðskulduðu ekki annað en sviðsett látaleikstilræði, eftirlíkingar á morðum. Þeir þurftu engu að síður á þessum ljóma tilbúinnar ógnar að halda, til þess að breiða yfir þá staðreynd að þeir voru ekki annað en leikbrúður valdsins.

Fyrr á tímum þurfti konungurinn (og líka guðinn) að deyja. Í því fólst styrkur hans. Nú á tímum gerir hann sitt smánarlega besta í því að látast deyja í því skyni að halda í blessun valdsins. En jafnvel það er horfið.

Eina lausn og fjarvistarsönnun alls valds er að sækja sér nýtt blóð í sinn eigin dauða, að endurnýja hringferlið með spegilmynd kreppunnar, neikvæðinnar og and-valdsins. Sama gildir  um sérhverja valdastofnun sem reynir að rjúfa vítahring síns fullkomna ábyrgðarleysis og ekki-tilvistar, vítahring eilífrar endurkomu sinnar og eilífs og síendurtekins dauða.

Herstjórnarlist raunveruleikans

Ómöguleiki þess að uppgötva aftur hið algilda svið raunveruleikans er nátengdur ómöguleika þess að sviðsetja blekkingu. Blekkingin er ekki lengur möguleg, vegna þess að raunveruleikinn er ekki lengur mögulegur. Hér stöndum við andspænis hinu pólitíska vandamáli skopstælingarinnar, ofurhermilistarinnar eða hinnar særandi eftirlíkingar.

Til dæmis:  það væri fróðlegt að vita, hvort tiltekið kúgunarkerfi myndi ekki bregðast harðara við uppgerðarandófi en raunverulegu andófi? Því raunverulegt andóf gerir ekki annað en að koma róti á hlutina, á meðan uppgerðarandóf raskar sjálfum forsendum raunveruleikalögmálsins. Að ganga á svig við lög og reglur eða fremja ofbeldi eru ekki jafn alvarleg brot, því þau varða eingöngu uppskiptingu raunveruleikans. Eftirlíkingin er langtum hættulegri, því hún gefur ávallt í skyn, á skjön við viðfang sitt, að sjálf lögin og reglan séu ef til vill ekki annað en eftirlíking.

Erfiðleikinn sem við stöndum frammi fyrir er í réttu hlutfalli við áhættuna sem við tökum.

Hvernig á að líkja eftir ofbeldisverki og sannreyna áhrif þess?

Setjið á svið þjófnað í stórmarkaði: hvernig á að sannfæra öryggisverðina um að um þykjustu-þjófnað hafi verið að ræða?

Hér getur ekki verið um neinn “hlutlægan” mun að ræða: það er sami verknaðurinn og sömu merkin að verki í báðum tilfellum. Í rauninni hallast verksummerkin í engu frekar að öðrum þættinum en hinum. En hvað lög og reglu varðar, þá eru þau alltaf á bandi raunveruleikans.

Farið og setjið á svið tilbúið mannrán. Gætið þess vandlega að vopn ykkar séu ekki skaðvænleg (annars gætuð þið átt á hættu að fremja ofbeldisverk). Krefjist lausnargjalds og komið því þannig fyrir að aðgerðin veki sem víðtækust viðbrögð. Reynið að fara eins nálægt “sannleikanum” og mögulegt er í þeim tilgangi að láta reyna á viðbrögð kerfisins við fullkominni eftirlíkingu. Þetta er dæmt til að mistakast: þessi vefur tilbúinna merkja mun óhjákvæmilega flækjast saman við raunveruleikann (lögreglumaður mun hleypa af skoti við fyrstu sýn; viðskiptavinur í bankanum fellur í öngvit eða deyr af hjartaáfalli; einhver greiðir ykkur lausnargjald í reiðufé.) Í stuttu máli munuð þið fyrirvaralaust vera stödd í raunveruleikanum miðjum, en eitt hlutverk hans er einmitt að innlima sérhverja tilraun til eftirlíkingar, að smætta allt niður í eins konar veruleika: þannig virkar einmitt hið ríkjandi kerfi, löngu áður en stofnanir þess og réttlæti komu til sögunnar.

Allur þungi þessa kerfis, sem einungis getur séð og skilið á forsendum einhvers konar raunveruleika –vegna þess að það virkar hvergi annars staðar –  allur þessi þungi verður ekki skilinn nema í ljósi ómöguleika þess að einangra þetta eftirlíkingarferli. Augljósri eftirlíkingu lögbrots verður annað hvort mætt með vægari refsingu (vegna þess að það hafði engar “afleiðingar” í för með sér) eða þá að fyrir hana verður refsað sem brot gegn opinberum starfsmönnum (t.d. ef verknaðurinn hefur leitt til þess að kalla varð út lögreglulið “að þarflausu”). Slíkum verknaði verður hins vegar aldrei mætt sem eftirlíkingu, því það er einmitt í því tilfelli sem ekki verður hægt að finna neina jafngildingu í raunveruleikanum og því enga refsingu. Valdið getur með engu móti mætt áskorun eftirlíkingarinnar.

Hvernig er hægt að refsa fyrir tilbúna eftirlíkingu á góðverki eða dyggð? Þó er hún ekki síður alvarleg en eftirlíking glæpsins.

Skopstælingin leggur að jöfnu löghlýðni og lögbrot, og það er alvarlegasti glæpurinn, því hann kippir stoðunum undan forsendum laganna. Ríkjandi kerfi stendur ráðþrota andspænis henni, því lagasetningin er annarrar gráðu líking á meðan eftirlíkingin er þriðju gráðu líkan, handan sannleika eða lygi, handan jafngildingar, handan þeirrar rökrænu aðgreiningar sem allt samfélagslegt vald og öll lagskipting samfélagsins hvíla á. Það er því hérna í trássi við allan raunveruleika, sem við eigum að leita hinnar samfélagslegu reglu.

Þarna liggur ástæða þess að samfélagsreglan veðjar alltaf á raunveruleikann. Þegar um óvissu er að ræða tekur hún alltaf þessa afstöðu (þess vegna vildu þeir frekar skilgreina eftirhermuna sem brjálæðing). Þetta verður hins vegar æ erfiðara, því það er nær ógjörningur að einangra eftirlíkingaferlið. Í krafti getuleysis þess raunveruleika sem umlykur okkur verður hið gagnstæða jafn satt (og þessi gagnkvæmni verður hluti af eftirlíkingakerfinu og valdi getuleysisins): það er ekki lengur hægt að einangra raunveruleikaferlið eða að sanna raunveruleikann.

Þannig verða allar gíslatökur, flugvélarrán og viðlíka atburðir um leið eins og eftirlíkingar eða uppgerðaraðgerðir, í þeim skilningi að þessir atburðir eru fyrirfram forritaðir í merkjakerfi og sviðsetningarritúöl fjölmiðlanna, forskrifaðir í myndgervingu sinni, framsetningu og mögulegum afleiðingum.

Í stuttu máli þá birtast þessir atburðir eins og merkjakerfi sem sniðið er sérstaklega að endurbirtingu þeirra sem merki, og alls ekki í ljósi “raunverulegra” markmiða þeirra. Þetta verður þó alls ekki til þess að draga broddinn úr þeim. Þvert á móti verða atburðirnir eins og yfirraunverulegir atburðir án inntaks eða markmiðs, fullkomlega óleysanlegt vandamál fyrir þá samfélagsreglu sem einungis kann að virka innan ramma raunveruleikans, innan ramma skilgreindra meðala og markmiða.

Sem yfirraunverulegir atburðir eru þeir smættaðir óendanlega hver gagnvart öðrum (sama mætti reyndar segja um svokallaða sögulega atburði: verkföll, mótmælaaðgerðir, efnahagskreppur o.s.frv.) Skilgreiningarreglan getur aðeins haft vald yfir skilgreiningaratriðum. Vald sem byggir á viðmiðum getur einungis ráðið við viðmið, en stendur ráðþrota andspænis endalausri endurkomu eftirlíkinga, sem eru eins og gjörningaþoka sem ekki lýtur lengur þyngdarlögmáli raunveruleikans – þannig leysist valdið upp í frumeiningar sínar í þessu rými, og verður eftirlíking valds (úr tengslum við markmið sín og tilgang og fullkomlega helgað virkni valdsins og fjölföldun þess).

Einu vopn valdsins og eina herstjórnarlist þess andspænis þessari upplausn, er að endurskapa raunveruleika og raunveruleikaviðmið í sífellu og alls staðar. Þannig getur það sannfært okkur um raunveruleika samfélagsreglunnar, um þyngdarlögmál efnahagslífsins og skýr markmið framleiðslunnar. Í þessum tilgangi grípur það helst til orðræðu kreppunnar, en líka – hvers vegna ekki? – orðræðu væntinganna og óskhyggjunnar. Slagorðið “Gerið drauma ykkar að veruleika!” má skilja sem hið endanlega slagorð valdsins, því í heimi án viðmiða verður ruglingur á raunveruleikalögmálinu og nautnalögmálinu skaðlausari en bráðsmitandi yfirraunveruleiki. Reglurnar umlykja okkur áfram og valdið hefur alltaf rétt fyrir sér.

Yfirraunveruleiki og eftirlíking eru banabiti sérhvers ásetnings og sérhverrar viðmiðunarreglu. Þau endursenda valdinu þetta fælingartæki, sem það hefur sjálft stuðst við svo lengi.

FÆLINGARMÁTTUR FJÁRMAGNSINS

Þegar öllu er á botninn hvolft, þá var það fjármagnið sem varð fyrst til þess í sögunni að þurrka út öll viðmið, öll mannleg markmið, það var fjármagnið sem gróf undan sérhverri hugsjónalegri aðgreiningu milli hins sanna og falska, hins góða og illa, í þeim tilgangi að koma á þessu róttæka skiptalögmáli jafngildingarinnar, járnlögum fjármagnsvaldsins. Það var fjármagnið sem fyrst nýtti sér fælinguna, sértekninguna og það að slíta hlutina úr samhengi sínu og uppruna. Og ef það var fjármagnið sem ól á raunveruleikanum og raunveruleikalögmálinu, þá var það einnig fyrst til að afnema það með því að afskrifa sérhvert notagildi, sérhverja raunverulega jafngildingu, sérhverja framleiðslu og verðmæti með sömu óraunveruleikatilfinningu og við þekkjum úr fjárhættuspilunum og alvaldi stjórnsýslunnar.

Nú hefur þessi sama röksemdafærsla snúist tvíefld gegn fjármagninu. Og þegar það langar til að snúast gegn þessum glötunarspíral með því að senda frá sér síðasta blikið af raunveruleika til þess að treysta síðasta geislablik valdsins, þá getur það ekki gert annað en að margfalda merkin og hraða eftirlíkingaleiknum.

Svo lengi sem valdið fann sér ógnað af raunveruleikanum brá það fyrir sig fælingu og eftirlíkingu og leysti þannig upp sérhverja mótsögn með því að framleiða jafngildandi merki.

Nú á dögum, þegar það finnur sér ógnað af  eftirlíkingum og hermilíkönum (hættan á því að gufa upp í leik merkjanna) bregður það fyrir sig raunveruleika og kreppu, það spilar út endurframleiddum félagslegum, efnahagslegum  og pólitískum trompspilum. Hér er um líf eða dauða að tefla fyrir valdið. En það er þegar orðið of seint.

Þetta skýrir helstu taugaveiklunareinkennin í okkar samtíma: stöðuga og margeflda framleiðslu og endurframleiðslu á raunveruleika.

Hin framleiðslan, sem snýst öll um að framleiða vörur og nytjahluti, sú framleiðsla sem tilheyrir gullöld hinnar pólitísku hagfræði, skiptir ekki lengur máli og hefur ekki gert það alllengi. Samfélagið reynir nú með öllum ráðum að framleiða og offramleiða endurreisn þess raunveruleika sem stöðugt smýgur því úr greipum. Það er ástæða þess að efnisleg framleiðsla okkar samtíma tilheyrir hinu ofurraunsæja. Það viðheldur öllum einkennum, og allri röksemdafærslu hefðbundinnar framleiðslu en er þó ekki nema veikur endurómur hennar (ofurraunsæissinnarnir eru þannig helteknir af sem sannverðugastri líkingu við raunveruleika sem er gjörsneyddur allri merkingu og öllum þokka, allri dýpt og allri orku sviðsetningarinnar).

Þannig sjáum við ofurraunsæi eftirlíkingarinnar birtast hvarvetna í líkingu veruleikans við sig sjálfan.

Á síðustu árum hefur valdið með sama hætti  ekki framleitt annað en merki síns eigin líkans. Um leið sjáum við aðra birtingarmynd valdsins: eftirspurn samfélagsins eftir merkjum valdsins, heilagt bandalag sem sækir líf í eigin tortímingu. Allur heimurinn tilheyrir þessu bandalagi meira og minna sameinaður í skelfingunni vegna yfirvofandi tortímingu stjórnmálanna. En valdaleikurinn verður að lokum ekki annað en gagnrýnin þráhyggja um valdið, – þráhyggja um dauða þess, þráhyggja um lífsnauðsynlega varðveislu þess, sem magnast eftir því sem það gufar meira upp.

Þegar valdið hefur algjörlega horfið verðum við rökrétt séð fullkomlega á valdi þess – vofa sem hangir þegar yfir okkur alls staðar og birtist bæði í léttinum yfir að hafa losnað við það (enginn vill það lengur, allir vísa því til annarra) og í eftirsjá og söknuði. Geðdepurð valdalausra samfélaga: það er hún sem hefur einmitt fætt af sér fasismann, þennan overdose af sterkum viðmiðum í samfélagi sem getur ekki hætt að syrgja liðna tíð…..

Við erum öll á sama báti: ekkert samfélag samtímans getur lært að vinna úr söknuði sínum eftir raunveruleika, eftir valdi, eftir hinu félagslega í sjálfu sér, sem er falið í þessu hruni. Því reynum við að komast undan með tilbúinni endurgerð veruleikans. Það liggur beint við að þetta mun enda í sósíalisma. Fyrir tilverknað óvæntrar atburðarásar og vegna kaldhæðni, sem tilheyrir ekki lengur sögunni, mun sósíalisminn rísa upp úr dauða hins félagslega – rétt eins og dauði Guðs fæðir af sér trúarbrögðin.

Öfugsnúin atburðarás, sem ekki verður skilin með neinum skynsemisrökum.

Rétt eins og sú staðreynd að valdið sé ekki lengur til staðar, nema til þess eins að fela þá staðreynd að það sé ekki lengur til. Þetta er hermilíkan sem getur haldið áfram út í það óendanlega, því ólíkt hinu “sanna” valdi sem er, eða öllu heldur var, byggt á herkænsku og styrkleikahlutföllum, þá stendur ekkert á bak við þetta vald annað en opinber eftirspurn, og það helgast því af lögmálum framboðs og eftirspurnar, en ekki af ofbeldi og dauða. Fullkomlega sótthreinsað af hinu pólitíska eðli sínu byggir það rétt eins og hver önnur markaðsvara á framleiðslu og neyslu fjöldans. Neisti þess er horfinn, það eina sem eftir stendur er skáldsagan um pólitíska veröld sem var.

Hið sama gildir um vinnuna. Neisti framleiðslunnar, ofbeldið sem liggur að baki hennar, er horfið. Allir framleiða og framleiðslan vex og vex, en vinnan hefur breyst yfir í eitthvað annað: þörf (eins og Karl Marx hafði séð fyrir, en þó ekki fullkomlega í sömu veru), eitthvað sem lýtur samfélagslegri eftirspurn, rétt eins og frítíminn, sem er jafngilding vinnunnar í lífshlaupi okkar. Eftirspurn sem er í réttu hlutfalli við glötun þeirrar fórnar sem í vinnunni var fólgin.

Sömu umskiptin hafa orðið á gæfunni og valdinu: leiksvið  vinnunnar er tilkomið til þess að fela þá staðreynd að hin raunverulega vinna og hin raunverulega framleiðsla eru ekki lengur til staðar. Sama gildir reyndar um veruleika verkfallsins ef því er að skipta: það felur ekki lengur í sér að lögð sé niður vinna, heldur er það hinn póllinn í ritúali vinnuársins. Það er rétt eins og að með því að lýsa yfir verkfalli hefðu allir tekið vinnustað og stöðu sína með valdi og hafið framleiðslu, rétt eins og í sjálfskipaðri hersetu samkvæmt sömu reglum og áður giltu, um leið og þeir lýsa yfir ótímabundinni vinnustöðvun.

Þetta er enginn draumsýn úr vísindaskáldsögu: hvarvetna sjáum við tvöföldun vinnuferlisins og tvöföldun verkfallsferlisins. Verkföllin eru innifalin í hlutunum eins og minnistap og í framleiðsluferlinu eins og kreppan. Það er því ekki lengur um að ræða vinnu eða verkföll, heldur eru hvort tveggja að verki í senn, það er að segja eitthvað alveg nýtt: galdur vinnunnar, skynvilla, sviðsleikur, svo ekki sé sagt æsileikur (melodrama), samfélagsleg sviðsetning á hinu auða samfélagsleiksviði.

Hér er ekki lengur um hugmyndafræði vinnunnar að ræða – hina hefðbundnu siðfræði sem bregður hulu yfir hið “raunverulega” vinnuferli og hið “hlutlæga” arðránsferli – heldur er hér um leikmynd vinnunnar að ræða. Á sama hátt er ekki um að ræða hugmyndafræði valdsins, heldur leiksvið valdsins. Hugmyndafræðin vísar eingöngu til útúrsnúnings úr veruleikanum í gegnum merkin, hermilistin samsvarar skammhlaupi veruleikans og tvöföldun hans í gegnum merkin.

Það hefur alltaf verið markmið hugmyndafræðilegrar greiningar að endurreisa hið hlutlæga ferli; það er alltaf falskt vandamál að vilja endurbæta hinn undirliggjandi veruleika hermilíkansins.

Þetta skýrir endanlega hvers vegna valdið er að öllu samanlögðu svo samstíga allri hugmyndafræðilegri orðræðu og allri rökræðu um hugmyndafræði, því það eru allt saman orðræður um sannleika – alltaf af hinu góða og því til þess fallnar að verjast hinu banvæna höggi eftirlíkingarinna, einnig og ekki síst ef þær eru byltingarkenndar.

…………….. (Hér vantar lokakaflana: Endalok Panopticons og  Sporbrautirnar og kjarnorkan…..

Hugmyndafræði og landafræði í Ferðabók Tómasar Sæmundssonar

Eftirfarandi myndasýning fylgdi fyrirlestri sem ég flutti í Bessastaðakirkju 2013 fyrir Vinafélag Bessastaða. Erindið er viðbót við greinina um Tómas Sæmundsson og bregður ljósi á það umhverfi sem hann kom úr og það umhverfi sem mætti honum í Grand Tour ferðinni, og hvernig hann tengdi þetta tvennt saman. Myndasýningin er á pdf-formi og sést með því að klikka á þessa fyrirsögn:

Hugmyndafræði og landafræði Tómasar

Augu mín opnuðust og ég sá hin fögru löndin – Tómas Sæmundsson

Augu mín opnuðust og eg sá hin fögru löndin

Grand Tour Tómasar Sæmundssonar

Tómas_Sæmundsson úr Andvara 1888

Tómas Sæmundsson. Koparstunga merkt H.P. Hansen, birtist í tímaritinu Andvara 1888.

(Grein þessi var upphaflega rituð fyrir hátíðarrit Skandinaviska föreningen i Rom, sem gefið var út af Carlsson Bokförlag í Stokkhólmi 2010 í tilefni 150 ára afmælis félagsins. Þar birtist stytt útgáfa greinarinnar í danskri þýðingu Niels Vendelbjerg. Sjá:Till Rom – Nordiska konstnärer i Rom under 150 år, bls 61–85. Greinin birtist í eftirfarandi mynd í bókmennta-tímaritinu Skírni, haustútgáfa 2012. Ég vil þakka Kjartani Ólafssyni fyrrv. ritstjóra fyrir yfirlestur og góð ráð.)

 

Nú ert þú kominn burt úr hinum mjúku móðurhöndum fósturjarðarinnar, og jafn snart sagði hjarta mitt mér, að hvað sem lægi fyrir mér að sjá af fegurð landa og staða, þá yrði hún mér þó ætíð í allri sinni fátækt dýrlegasti bletturinn á jarðríki.

Tómas Sæmundsson í bréfi til föður síns, Kaupmannahöfn 30. ágúst 1827

 

Árið 1832 hélt íslenski guðfræðikandidatinn Tómas Sæmundsson í tveggja ára ferðalag frá Kaupmannahöfn suður um meginland Evrópu til Ítalíu og í Miðjarðarhafssiglingu frá Napoli með viðkomu í Grikklandi, Tyrklandi, Möltu og Sikiley og síðan landleiðina frá Napoli um Róm með viðkomu í París og London á heimleiðinni til Kaupmannahafnar og þaðan til Íslands. Tómas kom til Rómar um svipað leyti og H.C. Andersen. Hann var í reglulegu sambandi við Bertel Thorvaldsen veturinn 1833, þegar hann var að vinna að stofnun Danska bókasafnsins í Róm, sem var forveri Skandinavisk forening. Tómas var fyrsti Íslendingurinn með klassíska menntun sem tókst á hendur slíkt ferðalag. Hér er brugðið upp mynd af ferðalaginu, og hvernig Ítalía og Miðjarðarhafslöndin komu þessum unga Íslendingi fyrir sjónir.

 

Íslenskt veganesti

Þegar Tómas Sæmundsson steig á skipsfjöl í fyrsta skipti á ævinni og sigldi til framhaldsnáms í guðfræði og heimspeki við Kaupmannahafnarháskóla í ágústmánuði 1827 kvaddi hann land sem hvorki átti sér borg né akvegi, bændasamfélag sem ekki þekkti iðnbyltingu 18. og 19. aldar og átti fáan húsakost er þætti boðlegur á meginlandi Evrópu. Íbúafjöldi eyjarinnar losaði rúm 50 þúsund, þar af voru íbúar Reykjavíkur um 600 og bjuggu í húsaþyrpingu sem myndaði þrjár götur: Aðalstræti, Strandgötuna (Hafnarstræti) og Löngustétt (Austurstræti). Einungis 40 hús í bænum voru byggð úr öðru byggingarefni en tilfallandi torfi, ótilhöggnu grjóti og rekaviði. Sjálfur var Tómas tvítugur bóndasonur af Suðurlandi og átti að baki tveggja vetra skólagöngu hjá prestinum í Odda á Rangárvöllum og 4 vetra nám í Bessastaðaskóla á Álftanesi, þar sem hann hafði lært bæði latínu og grísku, málfræði, stærðfræði, eðlisfræði og guðfræði. Hann þekkti vart annað af Íslandi en Suðurlandsundirlendið, Álftanesið og Reykjavík og ekki önnur farartæki en hestinn. Það er nánast útilokað að ímynda sér á okkar tímum hvaða tilfinningar og væntingar bærðust í brjósti þessa unga sveins á siglingunni til Hafnar, en þangað kominn var hann ekki í nokkrum vafa um að þetta örsnauða og harðbýla land á hjara veraldar væri „dýrlegasti bletturinn á jarðríki“. Þetta var upphafið að sjö ára útivist (með stuttri sumardvöl á Íslandi 1829) sem átti eftir að verða einhver sú viðburðarríkasta sem sögur fara af meðal Íslendinga á 19. öldinni. Allan þann tíma átti Ísland hug hans og hjarta, og það fór aldrei á milli mála hjá Tómasi að tilgangurinn með menntun hans í Kaupmannahöfn og ferðalaginu um meginland Evrópu, Ítalíu Grikkland og Tyrkland, var fyrst og síðast að gera hann hæfari til að þjóna fósturjörðinni.

Vegarnesti hans var íslensk bændamenning eins og hún gerðist best á þessum tíma, vinnusemi, nægjusemi og lestur guðsorðabóka í bernsku, klassísk framhaldsmenntun í anda upplýsingarinnar á Bessastöðum. Hann tók með sér sagnaarf Íslendinga og þekkingu á söguljóðum Hómers sem Sveinbjörn Egilsson kennari hans hafði þýtt á íslensku. Og hann tók með sér kunnáttu í tungumálum og frjálslynda lúterska guðfræðikenningu, sem Jón Jónsson skólameistari á Bessastöðum hafði innrætt honum. Eftir ársdvöl í Kaupmannahöfn skrifar hann árið 1828 til vinar síns Jónasar Hallgrímssonar sem þá var enn í Bessastaðaskóla:

Eg sé að sönnu að alt er hér betra og þægilegra, þegar peninga ekki skortir, en ég hef samt svo mikla löngun til að finna kerlinguna hnarreistu heima, hana móður okkar; ég vil heldur lifa í sulti og seyru í kaföldunum þar, en í þessari paradís eða réttara sagt í þessum glaumi og skarkala – í þessu ólguhafi hvar óbilugustu klettarnir sem maður ætlar að grípa og halda sér fast við, þegar í ramman rekur, falla um koll og svíkja mann við minnsta iðukast; nei, hér vil ég ekki vera! (T. S. 1907: 46–47)

Þrátt fyrir yfirlýsingar á borð við þessa naut Tómas lífsins og þeirrar aðstöðu sem hann hafði við Kaupmannahafnarháskóla, þar sem hann lagði höfuðáherslu á guðfræði- og heimspekinám, en var auk þess vakandi og opinn fyrir öllum þeim fróðleik og allri þeirri menntun sem honum stóð til boða. Sá háskólakennari sem virðist hafa haft mest áhrif á Tómas var guðfræðikennarinn H.N. Clausen sem taldist frjálslyndur guðfræðingur af rómantíska skólanum og hafði andæft gegn altækri rökhyggju upplýsingarinnar eins og hún birtist til dæmis hjá Grundtvig. Clausen hafði verið nemandi Schleiermachers hins þýska sem Tómas átti eftir að hitta í Berlín og hrífast af. Tómas fór eina ferð til Íslands sumarið 1829 og fór þá ríðandi norður í land með viðkomu í Garði í Aðaldal, þar sem hann kynntist Sigríði Þórðardóttur, dóttur sýslumannsins í Norður-Þingeyjarsýslu. Munu þau hafa trúlofast á laun, og beið Sigríður eftir heitmanni sínum í fimm ár, en hann kom ekki aftur í Aðaldalinn fyrr en alkominn úr utanlandsferðum sínum í október 1834, þegar þau gengu í hjónaband. Tómas lauk guðfræðiprófi með „besta karakter“ í janúar 1832, 24 ára gamall, og var þá þegar farinn að huga að ferðalagi um meginland Evrópu. Ekki til þess að tefja fyrir heimferðinni, þar sem heitkonan beið hans, heldur þvert á móti til að auka við menntun sína og þekkingu á menningarmálum almennt og helstu tungumálum álfunnar, þýsku, ítölsku, frönsku og ensku „svo eg geti haft fullt gagn af bókverkum þeirra, en til þessa er hið einasta tilhrökkvandi meðalið að uppihalda sér 1–2 ár meðal þeirra. […] Utanlandsreisa upp á 1 eða 2 ár er fyrir öllum hér það sem rekur lestina, og heyrir nauðsynlega með til að stúdera heilt út,“ segir hann í bréfi til föður síns vorið 1832 (T. S. 1907: 99 og 101).

 

Hugmyndin um ferðina miklu

Þótt Tómas segi föður sínum að slíkt ferðalag tilheyri almennu námi átti hugmynd hans að ferðinni sér enga hliðstæðu meðal íslenskra námsmanna í Kaupmannahöfn á þessum tíma. Til ferðarinnar þurfti bæði fjárráð og áræði, og telja má víst að það hafi verið áræði Tómasar og kjarkur sem einnig gerði honum kleift að fjármagna ferðina, sem kostaði þegar upp var staðið um 1500 ríkisdali (sem samsvaraði kaupverði þriggja meðalstórra jarða á Íslandi samkvæmt Jóni Helgasyni). Það voru faðir hans, vinir og velgjörðarmenn sem lánuðu honum fé til fararinnar, og trúlega einnig væntanlegur tengdafaðir hans, sýslumaðurinn í Aðaldal. Tómas fékk engan opinberan styrk til ferðarinnar. Faðir hans taldist vel stæður bóndi á íslenskan mælikvarða og væntanlegur tengdafaðir hans var embættismaður konungs, og sjálfur var Tómas slíkum gáfum gæddur að hann gat ótrauður stefnt til metorða á Íslandi eftir heimkomuna. En það sem greiddi götu hans best var áræðið og óslökkvandi fróðleiksfýsn sem takmarkaðist ekki við höfuðáhugasvið hans, guðfræðina og heimspekina, heldur birtist einnig í vakandi áhuga á framgangi allra vísinda, svo og verklegra framkvæmda og á bókmenntum, siðum og háttum þeirra þjóða sem hann heimsótti. Eftir heimkomuna hafði Tómas vetrardvöl í Garði í Aðaldal og mun hafa notað tíma sinn þar til að skrifa það handrit sem hann skildi eftir sig ófullklárað þegar hann lést, langt fyrir aldur fram 1841, þá 34 ára gamall eftir sex ára starf sem sóknarprestur að Breiðabólstað í Fljótshlíð, nálægt bernskuslóðunum. Handritið rekur hluta af ferðasögu hans en var um leið hugsað sem alþýðlegt alfræðirit um evrópska samtímamenningu, og er því sem slíkt einstök heimild um sýn íslensks menntamanns á samtíma sinn. Handritið var ekki prentað fyrr en rúmum 100 árum síðar (T. S. 1947) og kom því aldrei fyrir sjónir samtímamanna Tómasar, en viðhorf sín til samtímans birti hann hins vegar í tímaritinu Fjölni sem hann gaf út ásamt þrem boðberum þjóðfrelsis og rómantíkur á Íslandi, skáldinu Jónasi Hallgrímssyni og fræðimönnunum Konráð Gíslasyni og Brynjólfi Péturssyni. En tímarit þetta kom út árlega 1835–39 og aftur 1843–47 og markar upphaf þeirrar þjóðernisvakningar á Íslandi sem lyktaði með sjálfstjórn 1918 og stofnun lýðveldis 1944. Þar var fjallað jöfnum höndum um bókmenntir, stjórnmál og samfélagsmál á alþýðlegan en hvatvísan hátt í anda rómantísku stefnunnar.

 

Hinn rómantíski bakgrunnur

Fyrsta útgefna ritverk Tómasar kom þó út á dönsku árið 1832, skömmu áður en hann hélt í suðurgöngu sína. Ritgerðin Island fra den intellectuelle Side betragtet virðist skrifuð um svipað leyti og hann lauk kandídatsprófi og fjallar einkum um mikilvægi og skipulagningu menntamála á Íslandi. Ritgerðin lýsir þeim nýja metnaði og stolti fyrir hönd þjóðarinnar, sem átti eftir að einkenna útgáfu Fjölnis, og á milli línanna má lesa þann eldmóð sem rómantíska stefnan hafði blásið þessum kornunga menntamanni í brjóst. Í lok ritgerðarinnar, sem augsýnilega er skrifuð fyrir dönskumælandi lesendur, er dregin upp eftirfarandi mynd af Íslandi, sem fróðlegt er að skoða í ljósi þeirrar myndar sem Tómas átti eftir að draga upp af helstu menningarborgum álfunnar, Berlín, Róm, Konstantínópel, París og London:

Farsæld er möguleg á Íslandi: það er ekki svo stjúpmóðurlega úr garði gert sem menn vilja oft vera láta. Aðeins sá, sem sér auðlegð náttúrunnar einungis í ávaxtatrjám og kornökrum, getur neitað Íslandi um gæði hennar. Þegar ég lít vítt og breitt um sviðið í kring um mig og sé grænar fjallshlíðarnar, sem eru hvítdoppóttar af litríku sauðfé; þar sem yfirsveimandi fuglagerið hefur umbreytt dökkum hömrunum í hvítt, eins og til að fela fyrir sjónum okkar hvar snjórinn byrjar; þar sem fuglarnir í mergð sinni myrkva sólina eins og staðgenglar skýjanna sem fjallatopparnir hafa rænt himninum. Eða hvernig laxa- og silungatorfur forða sér undir vatnsyfirborðið til að verjast loftárásum þeirra yfir fjallavatninu, læknum eða hægfljótandi ánni, þar sem þeir fela sig í malarbotninum. Eða hvernig æðurin kennir ungunum sínum sundtökin við fæðingarsker sín, til þess að geta sem fyrst skilað skerinu til eiganda síns; eða hvernig þorsktorfurnar leita skjóls og dauða í kjöltu hins skelfda fiskimanns undan gráðugum kjafti hvalanna, þar sem þorskurinn stekkur sjálfviljugur upp í bátinn eins og til að sýna hversu miklu fremur hann kjósi meðferð fiskimannsins og þann milda dauða sem hann getur fært honum. Sannlega segi ég ykkur, að þegar ég sé allt þetta, finn ég mig ekki í neinni dauðri eyðimörk, sem hugmyndaflugið geymir. Nei! Þá kemst ég fyrst í áþreifanlega snertingu við lífið í alheiminum, þetta líf sem gegnsýrir alla náttúruna. Þá heyrir mitt líkamlega eyra og þá sér mitt líkamlega auga það sem Sálin fær einungis hugboð um við áhorf  jurtanna; þá verð ég þess fullviss að hin íslenska náttúra mun ekki skilja börn sín eftir án þeirra efnislegu gæða er gera áhyggjulaust og hamingjuríkt líf mögulegt, og að þau munu geta höndlað það sem þeim hingað til hefur verið synjað um, þegar þau hafa með menningunni lært að nýta sér gæði hennar. Menningin er möguleg á Íslandi; því af sínu náttúrlega upplagi er Íslendingurinn ekki ver úr garði gerður en aðrir íbúar jarðarinnar, og í því sem hér á undan var ritað hef ég reynt að varða leiðina til framfara miðað við aðstæður. Hvað siðferðisvitundina snertir, þá mun engin efast um hana, þar sem hún byggir á manninum sjálfum, en það er einmitt hin íslenska náttúra og lyndiseinkunn landsmanna sem mun næra hana. Íslensk náttúra hvetur vart til þess að menn setji sér yfirborðskenndar lífsnautnir hins ríka sem æðstu siðferðismarkmið. Hún mun án efa vera til þess fallin að beina huganum hærra og viðhalda alvöru hans. Þannig hefur náttúran í reyndinni mótað þjóðarskapgerðina: sú innhverfa, djúphygli og trúarlega vitund, sem oft mætir okkur, eru mótaðar af henni, einkenni sem geta ekki annað en létt undir dyggðugu líferni, þegar menn hafa með fullum skilningi numið heilagleika skyldunnar. Þannig verða Upplýsing og Menning forsendur alls hins – forsendur sem ég gekk út frá í upphafi og liggja til grundvallar því sem á eftir fer, en réttmæti þess vildi ég sanna frá upphafi máls míns og stæri mig nú af að hafa sannað. (T.S. 1832)

Rétt er að vekja athygli á að sú ljóðræna mynd frá árinu 1832, sem hér er dregin upp, svipar mjög til tveggja höfuðverka Jónasar Hallgrímssonar, ljóðanna Ísland sem birtist fremst í fyrsta tölublaði Fjölnis 1835, og Gunnarshólma sem birtist fyrst í 4. árgangi Fjölnis 1838. Textinn sýnir hvílíkur áhrifavaldur Tómas hefur verið á Jónas, bæði hugmyndalega og fagurfræðilega. Páll Valsson hefur bent á annan áhrifavald Jónasar, sem var skáldið Adam Oehlenschläger. Ljóð hans Island  ber mörg einkenni Íslands eftir Jónas, en eins og Páll segir þá er „myndmál Jónasar miklu betra og hann gengur ekki nándar nærri jafn langt í fortíðarhyllingu og Adam Oehlenschläger. Jónas á erindi við samtíma sinn en Oehlenschläger er fastari í fortíðinni.“ (Páll Valsson 1999: 116-117.)

Þessi innblásna mynd af Íslandi er í raun sá bakgrunnur sem Tómas hefur þegar málað í þá mynd af heiminum sem hann dregur upp í handriti sínu að Ferðabókinni; það er frá þessum sjónarhóli sem hann leggur í ferðalag út í heiminn í þeim tilgangi að afla sér þekkingar og takast á við það verkefni að gera menninguna ekki bara „mögulega“, heldur líka raunverulega á Íslandi.

Þessi mynd segir okkur ekki mikið um hvernig hið raunverulega Ísland leit út, heldur er þetta upphafin mynd í anda rómantísku stefnunnar sem segir okkur jafnframt að Tómas sá Evrópu með hennar gleraugum á ferðalagi sínu. Sú sýn hafði þegar fest rætur í brjósti hans þegar hann yfirgaf Ísland, en hún skerptist og fágaðist á námsárunum í Kaupmannahöfn, og því er ferðalýsing hans mótuð af þeim anga rómantísku stefnunnar sem við getum kallað norrænan og þýskan og dregur enn dám af þeim lúterska píetisma sem mótað hafði upplýsingaöldina á Íslandi og á Norðurlöndum. Hann talar um siðferðilegt eðli íslenskrar náttúru og siðferðilega markhyggju hennar, sem hafi mótandi áhrif á þjóðarskapgerðina og þar með á eðlisbundin siðferðileg markmið hennar. Þessar hugmyndir eiga rætur sínar í þýskri hughyggju, sem við getum til dæmis fundið hjá Friedrich Schelling sem hélt því fram að í náttúrunni væri innbyggt afl er stefndi að fullkomnun: „Hvað er í raun og veru hin fullkomna mynd hlutarins? Ekkert annað en skapandi líf hans, tilvistarkraftur hans. Sá sem sýnir náttúruna sem dautt fyrirbæri getur aldrei höndlað það djúpstæða ferli, svipað hinu efnafræðilega, sem getur af sér í gegnum hreinsandi mátt eldsins hið hreina gull fegurðarinnar og sannleikans“ (Schelling 1807/1989).

Þessi trú á eðlislægan siðferðilegan og fagurfræðilegan kraft í náttúrunni, sem Tómas notar ekki bara til að réttlæta föðurlandsást sína, heldur líka trúarsannfæringu sína, er mikilvægur þáttur í því flókna fyrirbæri sem við köllum í daglegu tali rómantík, en þetta vandmeðfarna hugtak felur í sér margvíslegar innri andstæður sem sjást best í því að jafn ólíkir málarar og Caspar David Friedrich og Francesco Goya teljast til rómantísku stefnunnar, eða jafn ólíkir myndhöggvarar og Thorvaldsen og Jean-Baptiste Carpeaux. Það sem þessir listamenn áttu sameiginlegt var í raun andóf gegn þeim skilningi upplýsingarinnar, að náttúran væri hlutlægt og dautt fyrirbæri er byggi yfir vélrænu orsakalögmáli og að rétt eins og vísindin gætu birt okkur hina „réttu“ og endanlegu mynd náttúrunnar þá gerði myndlistin hið sama með sem nákvæmastri eftirlíkingu hennar. Það var þessi „raunsæislega“ eftirlíking hinnar dauðu náttúru sem Schelling andæfði gegn í stefnuriti sínu um náttúruna í myndlistinni, og þar átti hann bandamenn fyrst og fremst í því tilfinningaþrungna tilvistardrama sem við finnum í verkum skálda eins og Byrons eða Hoffmans og myndlistarmanna eins og Caspars Davids Friedrich, Gericault eða Goya.

 

Þegar þýska rómantíkin bjargaði heimspekinni

Tómas Sæmundsson leggur sig fram við það í handritinu að ferðabók sinni að skýra evrópska heimspekiumræðu úr samtímanum fyrir íslenskum lesendum sem voru alþýða manna til sveita, bændur og vinnuhjú. Það er forvitnileg lesning og hjálpar líka til við að skýra þá mynd sem hann bregður síðan upp af fjarlægari löndum eins og Ítalíu, Grikklandi og Tyrklandi. Í þeirri umræðu er það efnishyggja upplýsingarinnar sem veldur Tómasi áhyggjum:

Sú meining í heimspekinni hafði helzt tekið yfirhönd að hið líkamliga, það sem maður sæi og þreifaði á, væri það einasta sem menn gætu reitt sig upp á … Hér með upphafðist þá allur munur góðs og ills, og þegar sálin hætti að vera til, gat og ekkert annað líf til verið; var því einsætt að hvör mætti lifa og láta sem vildi. Gekk Frakkland á undan öðrum með slíkum lærdómum. Má hér af líta að heimspekin – svo fagra útvortis mynd sem hún í skálda, mælskumanna og annarra gáfumanna munnum hafði upp á sig tekið – þó mundi að innan vera svipt sínum grundvelli og vera allskammt frá gröf sinni ef svo færi fram. (T. S. 1947: 130)

Það er hér sem Tómas segir Kant veita óæskilegri þróun innan heimspekinnar viðnám með rannsókn sinni á rótum og mörkum mannlegrar skynsemi. Tómas bendir á að rannsókn hans hafi leitt til þess að það eitt gæti maður reitt sig á, sem reynsla manns næði til, en hún væri nú aðeins gegnum skilningsgáfur sálarinnar manns eignUm sameiningu hinnar sýnilegu veraldar og ósýnilegu gat hann því, sem og flaut af sjálfu sér, ekkert upp kveðið … Lengra gat hann nú ekki upp eftir hafið sig frá tíðar sinnar líkamliga hlutanna skoðunarmáta, en hið andliga hafði nú fengið nokkru meira vald en fyrri. Það vantaði að hefja það enn betur og útjafna, hlaða í – hnita saman hið líkamliga og andliga. (T. S.1947:  131)

Hér sér Tómas heimspekinginn Fichte sem nýjan bjargvætt þar eð hann hafi með hughyggju sinni haft endaskipti á hlutunum: Maðurinn sem „næst fyrir Kants daga var raunar [ekki] orðinn annað en moldarklumpur sem festur var við hina sýnilegu veröldu og enginn ódauðlegur andi gat haft til íbúðar, þar eð þvílík andanna veröld ekki var til, og sem þar af leiddi ekkert frjálsræði gat haft“ (Tómas Sæmundsson 1947: 131). Nei, samkvæmt Fichte varð veröldin nú að engu, hið líkamlega var ekkert, maðurinn, andinn og frjálsræðið var allt. Og allt hvað maðurinn skynjar með hinum líkamligu skilningarvitum er ekki annað en sjónhverfingar sem orsakast af því hvernig maðurinn hlýtur að verða meðvitandi um sjálfan sig. Maðurinn sjálfur og frjálsræðið er það einasta sem til er – það getur hver sagt sjálfum sér að hann er til – en maður getur ekki orðið um sjálfan sig áskynja, nema hann setji sig í nokkurs konar mótsetningu með öðru. Þannig skapast manni líkamlig veröld, er í sjálfu sér engan veruleik hefir, annað en þannig nokkurs konar skuggi af sjálfum manni er hún ekki. (T. S. 1947: 131)

Áhersla Fichte á frelsi mannsins, hinn einstaklingsbundna vilja og verknaðinn gerir hann að einum af brautryðjendum rómantíkurinnar með róttæku andsvari við nauðhyggju orsakalögmáls upplýsingarinnar. Með orðum Isaiah Berlin spyr Fichte okkur þessara spurninga:

Hver er húsbóndinn, náttúran eða ég? Ég er ekki skilyrtur af markmiðum, það er ég sem skilyrði markmiðin. Heimurinn … er ljóðið sem innra líf okkar dreymir. Þetta er dramatísk og skáldleg aðferð til að segja að reynsla sé eitthvað sem ég ákveð í krafti viðbragða minna. (Berlin 1999: 89)

Eftir innrás Napoleons í Þýskaland breyttist einstaklingshyggja Fichte í þýska þjóðernishyggju sem var knúin dulrænum krafti er kom frá náttúrunni.

 

Þýsk náttúruheimspeki og þjóðernishyggja

Tómas segir í Ferðabók sinni um Friedrich Schelling: „Hann fann í náttúrunni guð, ekki síður en í hinum ósýnilega parti mannsins … Vissan um hið ósýnilega átti nú að verða stærri en Kant hafði ætlað, þar eð hið sýnilega og ósýnilega varð að einu“ (T. S. 1947: 132). Tómas fjallar einnig um Hegel sem nemanda Schellings og getur þess að hann hafi ekki náð að hlusta á fyrirlestra hans í Berlín, því hann hafi látist veturinn áður en Tómas kom til borgarinnar. Tómas segir Hegel hafa talið hugsjón og sálfræði Schellings „óskiljanlega“ og viljað „víkja [henni] til síðu“. Hins vegar segir Tómas að hann hafi hlustað á tvo fyrirlestra eftirmanns Hegels í Berlín sumarið 1832, norsk-danska heimspekingsins Henriks Steffens. Hafi annar fjallað um jarðfræði en hinn um trúarbragðaheimspeki (T. S. 1947: 133). Segir Tómas Steffens hafa „líkst mest Schelling“ og skortir hann orð til að lýsa hrifningu sinni á orðfari hans og mælskulist, en hann segir að Steffens sé „hálf-Íslendingur ættaður frá Norvegi“. Segir hann Steffens hafa verið flæmdan frá Danmörku vegna „Norðmannsins frjálsræðisanda“. Steffens hafði mikil áhrif, ekki bara á Tómas, heldur líka á Jónas Hallgrímsson, og átti þannig sinn óbeina þátt í þeirri þjóðernisvakningu sem tímarit þeirra félaga, Fjölnir, stóð fyrir á Íslandi.

Annar þýskur heimspekingur sem hafði mikil áhrif á þjóðernishyggju Tómasar var Johann Gottfried Herder, sem Isaiah Berlin (1999: 65) kallar „forföður allra þeirra förumanna og leikmanna er flækjast um heiminn til að tileinka sér hvers kyns glötuð lífsform, dásamandi allt það sem er sérkennilegt og undarlegt, allt það sem er upprunalegt og ósnortið“. Herder var andófsmaður gegn yfirgangi Frakka og Breta í Evrópu og boðaði sameiningu þýskumælandi ríkja á meginlandinu í andófi gegn nýlendustefnu Napoleons og draumum hans um heimsyfirráð:

Hvers vegna getum við ekki skapað alheimsríki af þeim toga að allir geti fundið sig eiga heima í því eins og fullkomnir múrsteinar, og myndað þannig byggingu er muni standast um allar aldir, vegna þess að það byggir á bjargfastri reglu, sem er sannleikurinn, sem menn hafa höndlað með óskeikulum aðferðum? – allar slíkar hugmyndir eru merkingarlaust rugl og þversögn; og með því að draga þessa kenningu fram í dagsljósið stakk Herder hinum skelfilegasta ríting í skrokk evrópskrar rökhyggju, sem hún hefur aldrei náð sér af. Í þessum skilningi er Herder vissulega einn af feðrum rómantísku stefnunnar. Það er að segja, hann er einn af feðrum þeirrar stefnu sem einkennist meðal annars af afneitun einingarinnar, afneitun samræmisins, afneitun samræmanleika hugsjónanna, hvort sem er í hugsun eða verki. (Berlin 1999: 67)

Í umfjöllun sinni um Herder segir Tómas í Ferðabók sinni, að verk hans séu til þess fallin „að vekja föðurlandsást og elsku til alls þess sem fallegt er og gott. Hann hefur skilið og útlagt skáldskaparandann allra tíða, og Ideen zur Philosophie der Geschichte der Menscheit eru álitnir djúpsærustu og hæstu athugasemdir yfir veraldarsöguna sem til eru á þýsku“ (T. S. 1947: 112).

Tómas kemur frekar inn á þessa afstæðishyggju Herders í almennri umfjöllun sinni um evrópskar bókmenntir, þar sem hann gerir upp við hin altæku gildisviðmið upplýsingarinnar og segir meðal annars:

Rannsókn allra hluta leiddi menn til að ætla að þeir vissu allt, meðan þeir ekki vildu kannast við að þeir vissu ekkert. Mennirnir urðu því að guðum eins og skeð hafði hjá hinum gömlu heiðingjum; varð þar af loks í samstemmu við aldanna stefnu yfir höfuð trúleysi og fjarvera allrar sannfæringar. Gekk Frakkland hér sem í öðru á undan öðrum löndum. Þeirra fremstu rithöfundar strönduðu upp á ýmsan hátt á þessu skeri (Racine og Corneille i formen, Voltaire í gehalt), þar til mannligur andi ruddi sér upp á annan veg braut gegnum þrengslin. […] Hinn gamli útvalaandi sýndi sig … í hinu stærsta óhæfi hjá Voltaire, með hvörjum hann og deyði út eftir það hann í andaslitrunum rétt sem hafði af sér getið hina frönsku stjórnarbyltingu. Hann fór og um Norðurlönd, og hjá oss er enda hans afkvæmi messusöngbókin og aðrar bækur margar sem fæðst og getizt hafa um aldamótin … En jafnframt þessari stefnu, sem rekja má í bókum gegnum allar tíðir og sem sér í lagi tiltalar og framleiðist af þekkingar og skilningsafli mannligrar sálar, er þar og önnur sem hefir sín upptök frá hinnar sömu sálar tilfinningaafli, að svo miklu leyti sem þetta er sálarinnar eiginlega frumvera, hvaðan allar sálarinnar verkanir er í síðara lífinu koma í ljós hafa rétt sem rætur sínar. Hefur hún ekki síður af og til smíðað spegil sinn í margs konar bókum, og sér í lagi þeim, hvar tilfinnanin helst plagar að heima eiga, skáldskaparins verkum (T.S. 1947: 118–119).

Í stað hinnar stöðluðu hugsunar Upplýsingarinnar komu þær bókmenntir tilfinninganna er byggðu á eðlislægum þjóðlegum grunni:

Menn urðu þess varir að sérhvör þjóð á hjá sjálfri sér, fyrr en hún vissi þar af eður hafði með meðvitund til þess verkað, hvað hið bóklega snertir mál og margs konar ritgjörðir, sem fæðst hafa í þeirra eigin landi löngu áður en hún fór að hafa nokkur afskipti við aðrar þjóðir eður þekkti nokkurn útlendan lærdóm. Hér gat þá ei annað talað en sömu þjóðar ómengaða náttúra, hennar andliga eðli, og hér fengu menn nokkuð að styðjast við um það hvað í því bókliga ætti bezt við sérhvöra þjóð. Þessu tóku menn nú að safna saman, það varð þeim sem þjóðarhelgidómur og átrúnaðargoð. Menn tóku að útleggja þetta og byggðu þar á framvegis allar bókligar sýslanir og athugasemdum þeim um þjóðarinnar upprunaliga og eðliliga háttalag sem þær bentu til og menn tóku nú að grafast eftir. (T. S. 1947: 121)

Rétt er að hafa í huga þegar við lesum þennan sérkennilega texta Tómasar að hann er hér að fjalla um flókin heimspekileg vandamál úr evrópskum samtíma, orða þau á íslenskri tungu þar sem engin hefð var fyrir slíkri orðræðu, og hann beinir orðum sínum ekki til menntamanna, heldur fyrst og fremst til íslensks alþýðufólks, sem var nær eingöngu bændafólk og vinnuhjú. Enda tekur Tómas það fram í inngangsorðum Ferðabókar sinnar, að stærsti vandinn við ritun hennar hafi falist í að finna orðræðunni eðlilegan búning á íslensku máli, sem ekki ætti sér orð og hugtök um ótal marga hluti í evrópskum samtíma. En þessi erfiðleiki hefur virkað á Tómas frekar sem hvatning en hitt, eins og fram kemur í þessum kafla þar sem hann heldur fram rómantískri afstæðishyggju um sannleikann, sem er mjög í anda Herders:

Snilldarritin verða því næstum eins þjóðkunn nú á dögum sem hin lærðu ritin, sér í lagi síðan (…) hinir lærðu ekki gjörðu sér framar það að venju að rita á latínu er skyldi vera sameiginlegt mál allra hinna lærðu, heldur tóku upp á því, er þeir fundu að latínan var óeinhlít til nú á dögum að gefa klæðnað öllum þönkum vísindamannsins, að rita um alls slags lærð efni á móðurmáli sínu. Fengu þannig vísindin alþjóðligra snið og urðu kunnugri í föðurlandi sínu, en þau tóku jafnframt í gegnum málið á sig stærri þjóðernis kápu. Sannleikurinn tók að líta öðru vísi út í einu landi en öðru, og hinir lærðu um heiminn urðu ekki jafnkunnugir eftir það þeir töluðu ekkert sameiginlegt mál sem öllum væri jafn skiljanligt. (T. S. 1947: 124)

 

Guðfræðilegar rætur

Trúarskoðun Tómasar er fyrst og fremst studd tilfinningalegum rökum og byggð á eðlishyggju, sem hann lýsir meðal annars með eftirfarandi orðum:

Trúarbrögðin eru hið innst innrætta í mannligri náttúru, þau viðvíkja hinu ósýniliga, já því óskiljanligasta af öllu, því hæsta og mikilvægasta, því guðliga sem hið mannliga aldrei getur gripið. Þau hafa sitt sæti í tilfinnunum sem maðurinn veit af strax og lífið fer að vakna í hans brjósti, eru þar fyrir löngu áður en skilningurinn varð var þar við, og eru þar án þess maður skilji þar í, og hvört maður skilur þar í eður ekki, og þau yfirgrípa með vaxandi framförum alla hans veru, allar hans framkvæmdir. (T. S 1947: 137)

Þessi ríka áhersla á tilfinningalegar og eðlislægar rætur trúarinnar eru í anda þess lúterska rétttrúnaðar sem Tómas hafði numið hjá kennurum sínum við Kaupmannahafnarháskóla, þar sem lögð var áhersla á barnatrú og beint og milliliðalaust samband einstaklingsins við guð. Jafnframt er hér hafnað öllum tilraunum fulltrúa upplýsingarinnar til að sanna tilvist guðs með rökum vísindanna. Þessi afstaða virðist valda Tómasi nokkrum vanda þegar kemur að hinni guðfræðilegu rökræðu, sem eðli málsins samkvæmt á erfitt með að leggja mælistiku sína á tilfinningalífið. Enda segir Tómas þann löst algengan meðal fræðimanna „sem að sönnu hafa nóga upplýsta skynsemi og geta gefið ritum sínum alla þá útvortis fullkomnun sem vísindin heimta, en hjarta þeirra finnur aldrei þar til, það er kalt og setningar þeirra ná aldrei að stjórna þeirra breytni“ (T. S. 1947: 138).

Eins og að framan var sagt var Tómas undir áhrifum og handleiðslu danska guðfræðingsins H.N. Clausen í guðfræðinámi sínu í Kaupmannahöfn, en Clausen hafði verið nemandi hins þekkta þýska guðfræðings og heimspekings Fr. D.E. Schleiermacher. Stærstur hluti ferðabókarhandrits Tómasar segir frá um tveggja mánaða dvöl hans í Berlín sumarið 1832, en þar var Schleiermacher bæði háskólakennari og predikari, og sótti Tómas alla fyrirlestra hans og predikanir sem hann gat. Í þessum kennimanni fann Tómas þá guðfræði er gæti sætt rökhyggju vísindanna og tilfinningar trúarlífsins. Þessum sáttum lýsir Tómas með þeim orðum, að skynseminni „getur vel skilist að yfirnáttúrlegir hlutir geti að borið á jörðinni, og að náttúrunnar skapari og herra ekki sé undirgefinn þeim náttúrunnar lögum sem hann hefir sett.“ Segir hann nútíma guðfræðinga „útlista þann undarliga og einstaka atburð í veraldarsögunni, um Kristi komu til veraldar, eins og hvörn annan atburð, hvar að sönnu ekkert frábrugðið því alminnilega undir búi, heldur megi þeir sem alls staðar í veraldarsögunni sjá Guðs föðurligu stjórn sem er allt í öllu“ (T. S. 1947: 140). Kemur hér fram sú lúterska viðleitni Tómasar til að svipta kristindóminn þeirri dulhyggju og þeirri ytri umgjörð helgisiðanna sem hann átti eftir að kynnast betur í hinum kaþólska heimi Evrópu.

Þrem dögum eftir komu sína til Berlínar var Tómas kynntur fyrir Schleiermacher og brá honum í brún er hann sá að þessi risi innan hinnar lútersku guðfræði var „ekki hærri en svo sem mér í hönd, svo að í hvört sinn verður að hlaða undir hann er hann prédikar, og allur vanskapaður með hnút á bakinu, andlitið þó fallegt og viðfellilegt, höfuðið hvítt af hærum. Má eg játa að eg ekki hef nálgast neinum manni með stærri lotningu en hönum, er mér kom í hug hin stóra sál er bjó í þessum lítilfjörlega líkama“ (T. S. 1947: 144). Töluðust þeir við á latínu þar sem Tómas var ekki enn búinn að temja sér þýskt talmál.

 

Helgimyndir kaþólskunnar og fagurfræði píetismans

Leið Tómasar suður Evrópu lá frá Berlín meðal annars um Dresden, Prag, München, Salzburg og síðan suður yfir Alpana til Ítalíu. Í Dresden kynnist hann norska málaranum Johan Christian Dahl, sem þar kenndi við Listaakademíuna, og nefnir hann landslagsverk hans meðal þess merkasta er hann sá af myndlist þar, auk verka Rafaels og Correggios. Verkum Dahls átti hann síðan eftir að kynnast betur á vinnustofu Thorvaldsens í Róm.

Það er fyrst í Baiern og Suður-Þýskalandi sem Tómas kynnist kaþólsku umhverfi, og þar gera strax vart við sig fordómar hans gagnvart kaþólskum siðum: „Á tvennu verður maður nú sér í lagi var við að maður er kominn í kaþólskt land, fyrst að til beggja handa við veginn er alsett betlurum, körlum og konum, ungum og gömlum, sem með uppréttum höndum biðja í Maríu og allra heilagra nafni um ölmusu, og hefir maður fyrir slíkum skríl oft litla ró, annað það að á hvörri hæð næstum stendur krossmark eður myndarstytta einhvörs heilags manns, oftast úr tré málað margvíslega, stundum fúið og mosavaxið, eður þá dálítið bænahús úr múrsteini“ (T. S. 1947: 223). Þarna birtist strax andúð hans á helgimyndum, dýrlingadýrkun og það sem við gætum kallað lúterska fordóma gagnvart trúarlegri myndlist og formlegum helgisiðum kirkjunnar. Í þessum efnum er Tómas kannski ekki fullkomlega samkvæmur sjálfum sér, því um leið og hann hæðist að trúarlegri myndlist þá hefur hann meðtekið þá rómantísku fagurfræði að fegurðin helgist einvörðungu af sjálfri sér:

Hún [listin] er sjálfráður leikur ímyndunarkraftarins, hún er frjáls, fylgir þeim lögum sem hún sjálf gefur, þóknast alleina sjálfrar sín vegna, hún hefir verð í sjálfri sér … Þó að hugsjónarlig fegurð sé það er snilldin með flugi ímyndunarkraftarins leitist við að skapa og leiða fyrir sjónir, þá vanrækir hún aldrei sannleikann, en sannleiki hennar er með margvíslegu móti. Haldi maður snilldin ljúgi, kemur það til af því að menn ekki hafa rétt athugað hvað sannleiki er í hvörjum hlut. (T. S. 1947: 333)

Þegar kemur hins vegar að opinberun hins trúarlega sannleika eða hinnar trúarlegu reynslu í efnislegri mynd listaverksins virðist sem lútersk trúarsannfæring hans taki undir þá fullyrðingu Platons, að myndlistin sé villuleiðandi og óhæf til að miðla andlegum sannleika, því menn hætti að greina á milli myndarinnar og þess sem hún á að sýna:

Einhvör náttúrlig óafvitandi tilfinnan kenndi mönnum skyldugleik hins sýnilega og ósýnilega, maður sá að það sem var fagurt útlits mætti vera gott … Allar hinar hærri hugsjónir, en sér í lagi hinar hæstu, trúarbrögðin, þessi ósýnilega tilhneiging sem knýr manninn til að leita hins ósýnilega, hefir hjá öllum þjóðum hlotið að ífærast líkamligum sýniligum meðulum til þess manni gjörist þar um ímyndunin hægari, sem yfir höfuð veitir örðugt að vera lengi á flugi. Þannig er öll skurðgoðadýrkun skeð þegar menn hættu loks að að skilja myndina frá hlutnum. […] Djöfulinn létu menn sér nl. ekki nægjast með í þankanum að vita sem höfund alls hins illa, heldur urðu menn að festa þennan þanka við einhvörja sýnilega mynd; ímyndunin bjó því til hendur, dró upp hin ótrúligustu skrímsli er hvörgi var að finna í náttúrunni, til að gjöra hlutinn því afskræmiligri og til að geta enn betur speglað sig í hönum. Kirkjusagan hefur dæmi upp á meðal hálfsiðaðra þjóða að þær með engum fortölum létu fá sig til að taka við trúnni, en þegar fyrir þeim var uppmálað helvíti og hinn síðasti dagur féllst þeim allur ketill í eld og vildu gjarnan hafa siðaskipti. Þar af má sjá nauðsyn snilldarinnar fyrir mannliga skynsemi, hér af má líta hennar miklu verkanir í mannligu lífi. (T. S. 1947: 330–331)

Hér helgast listin og fegurðin semsagt ekki af sjálfri sér heldur þjónar hún því hlutverki að þröngva hálfsiðuðum þjóðum til réttrar trúar á fölskum forsendum. Hér virðist Tómas einkum hafa í huga miðaldalist og barokklist, þar sem myndlistin var meðvitað notuð til trúarlegrar innrætingar. Mótsögnin felst í því að Tómas virðist hér hafa tileinkað sér þann skilning J.C. Winckelmanns að miðaldalistin væri frumstæð og barokklistin úrkynjuð vegna þess að þær höfðuðu hvor á sinn hátt of mikið til tilfinninga og ástríðna mannsins. Það væri aðal göfugrar listar að höfða til „hinnar hlutlausu fullnægju“ og til skilnings áhorfandans, en ekki espa upp tilfinningar hans. Þessi afstaða Winckelmanns hafði haft mótandi áhrif á Goethe, sem sá hvorki miðaldalistina í Feneyjum né mósaíkina í Monreale fyrir utan Palermo í Ítalíuferð sinni þó hann ætti þar leið um. Og barokklistin í Róm, sem var í raun andsvar Jesúítareglunnar við uppreisn Lúters gegn kirkjuvaldinu, var eitur í beinum þessara lúterstrúarmanna og eimir jafnvel enn af því meðal lúterskra á okkar dögum. Rétt er þó að geta þess að Winckelmann tók kaþólska trú, trúlega fyrst og fremst til að auðvelda honum starfsframa hjá Páfastóli, þar sem hann gerðist helsti ráðgjafi páfans um fornleifafræði fornaldarinnar.

Sjávarsýn við Miðjarðarhafið

Eftir tveggja mánaða dvöl í Vínarborg hélt Tómas suður á bóginn yfir Alpana og segir svo frá ferðinni í bréfi til föður síns dagsettu í Róm 25. mars 1833:

Eftir 10 daga reisu yfir fagurt fjallaland hér um [bil] 75 mílur gegnum syðra Austurríki, Steiermark og Krain, kom ég til Triest, er liggur við adríatíska fjarðarbotninn austanverðan. – Þar sá ég eftir langa bið sjóinn aftur; hér er Þýskaland á enda og þýska málið úti eins og þýska náttúran; skógarnir og kornakrarnir eru að mestu horfnir, og naktir klettar komnir í staðinn, – víngarðar nógir og olíutré, – asnar og múlasnar í staðinn fyrir fé, kýr og hesta. Hér er mikil höndlun og fallegur staður; hér koma meðal annars skip frá Reykjavík að selja saltfisk og kaupa kræsingar. Eftir 3 daga fór ég héðan vesturyfir fjarðarbotninn til Venedig (Feneyja), sem er einhver undarligasti staður í heimi, byggður af mönnum mitt upp úr sjónum, meir en mílu frá landi. Hann hafði einu sinni næstum allt Miðjarðarhafið í sinni hendi og ber enn nú stór merki sinnar fyrri praktar við hliðina á nærverandi eymd. (T. S. 1907: 120)

Tómas staldraði við fimm daga í Feneyjum og segir hvergi frekar frá þeirri dvöl, en þegar hann í fyrrnefndu sendibréfi til föður síns lýsir framhaldi ferðarinnar og reynir að draga upp mynd af Ítalíu í fáum orðum, lítur hún svona út:

steig [ég] nú á Vallands fastaland, sem undir eins er það fegursta í Norðurálfunni og það merkilegasta í veraldarsögunni; þar er og allt það, er mennirnir hafa fallegt gert, sameinað. Málið: vallenskan eða ítalienskan er hið fegursta mál, sem talað er – og trauðlega eru nokkursstaðar mennirnir fallegri … Ill stjórn hefur … gert þetta lukkulega land í margar aldir ólukkulegt. (T. S. 1907: 121)

Tómas segist fyrst hafa komið til Páfaríkisins í Ferrara, „og vildi [ég] ekki eiga að kaupa af karlinum syndafyrirgefningu núna, því hann tekur hér um bil 60 sk fyrir að skoða passann minn“ (T. S. 1907: 121). Síðan liggur leið hans um Bologna og Flórens, þar sem hann dvaldi í viku, en síðan tók ferðalagið frá Flórens til Rómar fimm daga. Í bréfi til föður síns frá Róm, 25. mars 1833, dregur hann í fáum orðum upp eftirfarandi mynd af Ítalíuskaganum:

Valland er yfir höfuð mjótt land, eftir hvers miðju gengur hár fjallahryggur, Appennini, er myndar dali á báðar hliðar, þar til kemur niður til sjávar. Víðast er hér skóglaust og líkist því meira brekkunum á Þórsmörk (ef burt eru tekin öll flögin og sandarnir) en nokkru öðru landi, er ég hefi séð; hér vex einir og lyng og smáhríslur eins og þar, en fram yfir Þórsmörk hefir þetta land hinn bezta vínvið, lárvið, pálmavið og hinar fegurstu jurtir, sem skapaðar eru! Hér eru nógir fuglar og fiskar; stærri trén eru mest eikartré, kornið bankabygg, og mikið af sauðum uppi í fjöllunum. Í einum af þessum fögru dölum liggur Róm með sjónum fyrir sunnan, en fjöllum mátulega háum á allar hinar síðurnar; í miðjum dalnum rennur Tíberfljótið og í gegnum bæinn og tekur á móti ótöluligum lækjum frá báðum síðum. Hér kemur aldrei vetur, sjaldan ský á himinn eða vindur; kýrnar koma því árið um kring ekki í hús. (T. S. 1907: 121–122)

Þórsmörk, svæðið sem hér verður eins og bakgrunnur myndarinnar af Ítalíu, er landsvæði sem telja verður óbyggilegt, þótt þar hafi reyndar verið reist þrjú býli á landnámsöld samkvæmt Landnámu, sem fljótt lögðust í eyði vegna vetrarhörku og sambandsleysis við umheiminn. Þetta fjalllendi með sínum bröttu líparítskriðum og hrikalegu giljum, þar sem finna má lágvaxið birkikjarr og heitar laugar til að ylja sér við, er bakgrunnur myndarinnar sem Tómas dregur upp af Ítalíu. Það þarf talsvert ímyndunarafl til að sjá samhengið á milli „il bel paese“ og Þórsmerkur, en skýringin kann að liggja í því, að sem unglingur mun Tómas hafa heimt sauðfé föður síns úr sumarbithögum í Þórsmörk, og því hafa þeir feðgar báðir verið vel kunnugir á þessum slóðum.

 

Sæludagar í borginni eilífu

Engin skýring er til á því að í handrit Tómasar að Ferðabók hans vantar mikilvægasta kaflann sem segir frá fjögurra mánaða dvöl hans í Róm, „hvar ég hafði átt næstum 4ra hina ánægjulegustu mánuði og sælustu daga ævinnar“ eins og segir í upphafi frásagnar af ferð hans frá Róm til Napoli. En til Rómar kom hann 10. desember 1832, og hélt áfram suður til Napoli 28. mars 1833. Einasta varðveitta sendibréf hans frá Róm er til föður hans og kemur fátt þar fram. Áhrifin af Rómardvölinni koma hins vegar fram víðsvegar í texta hans þar sem hann fjallar um almenn málefni, fagurfræði, heimspeki, trúmál og almenn þjóðþrifamál. En áður en hann yfirgefur Róm í frásögn sinni, segir hann þó með eftirminnilegum hætti frá páskadagsmorgni við Péturskirkjuna. Lýsingin ber þess vott að trúarlegur ágreiningur hins lúterska rétttrúnaðarmanns og páfavaldsins hafi kannski hvergi truflað skynjun hans og skilning á allri þeirri listrænu umgjörð, sem Páfagarði var sett, eins og við þessa upplifun. Enda byrjar frásögn Tómasar með þessum orðum:

Það er einkenni eins og allra ófullkominna trúarbragða, er taka hið útvortis fram yfir það innvortis – bókstafinn fyrir andann, – að láta sér í öllu annt um að fá á mannanna líkamlega skilning orkað og ífæra trúna svo nokkurs konar líkamligri mynd, svo menn komist ekki hjá að verða varir við hana, – en aldrei gætir þess eins stórkostlega sem við þetta tækifæri. (T. S. 1947: 255)

Hér á Tómas við helgiathafnir dimbilvikunnar í kaþólskum sið og prósessíu páfans á páskadagsmorgni, sem hann lýsir með eftirfarandi hætti:

Að vísu þá er um alla föstuna kyrrt og hljótt hjá því sem endranær, en þó tekur yfir úr því síðasta vikan fyrir páskana byrjar; það er þá svo sem allur bærinn ífærist sorgarbúningi, allt er þegjandi, klukknahljómurinn hættir og hinar fögru vatnsæðar, borgarinnar einhvör hin mesta prýði, hætta að spýta, svo sem væri sjálfur dauðinn yfir hana kominn. Þetta stendur þar til ofarla páskanóttina. Undir páskamorguninn snýr við blaðinu; í þúsunda tali hljóma þá klukkurnar aftur frá turnunum; í einu vetfangi er kúfur Péturskirkjunnar frá efsta til neðsta skreyttur ótöluligri mergð olíuljósa, svo að ei einungis bærinn og landið umhverfis, heldur jafnvel skýin taka birtu af. Vestan frá sjó og austan úr fjöllum, af öllum þeim hæðum hvaðan fyrst grilla má Róm langar leiðir burtu, þegar bezt var skyggni um fagran dag, getur hana nú að líta svo sem í himnesku ljósi eður ljóma meðan alls staðar er nótt. Sjálfur upprisinn gengur hinn heilagi faðir fram á musterisburstina, og þó hann sé lítill í samanburði við steinmyndir postulanna kringum hann, hefir hann [ekki] lítið fyrir stafni, því meðal alls konar söngvara og hljóðfæraglaums boðar hann nú hátíðina og lýsir blessan yfir hinum mikla grúanum, er neðan frá hinum stóra forgarðinum sem fram af er kirkjunni veitir hönum á hnjánum sína tilbeiðslu og mænir upp til hans þar svo sem æðri veru beri við skýin. Með hönum eru í för uppi á þaki kirkjunnar, sem nærri má geta, allur skarinn hinna geistligu svo þúsundum skiptir, og er hvör ífærður þeim skrúðanum sem hans stétt hæfir og hann á fegurstan til. Þegar maður nú þar á ofan setur sér fyrir sjónir morgnana, eins og þeir eru á þessum ársins tíma í Ítalíu, og hvörsu allt er við höndina sem til fegurðar horfir, getur ei hjá því farið, að þvílík sjón fái á hvörn mann sem hefir tilfinning, jafnvel þó hann ekki láti sig í villu leiða af útborði hlutanna og ætli, eins og páfaátrúendur, hann hafi séð svo sem nokkurt heilagra samneyti. (T. S. 1947: 255–156)

Þótt tilfinnanlegt gat sé í heimildum okkar um dvöl Tómasar í Róm, ef frá er talin þessi litríka frásögn, þá má finna stöku heimildir um Rómardvöl hans. Ævisöguritari Tómasar, Jón Helgason biskup, hefur eftir ættingjum munnlegar frásagnir um að Tómas hafi notið gistivináttu Bertels Thorvaldsen sem var forvitinn um ættjörð föður síns, og Tómas kynntist norrænum listamönnum í Róm bæði á vinnustofu Thorvaldsens, heimili hans og á veitingahúsi sem norrænir listamenn sóttu. Einn þessara listamanna var danski myndhöggvarinn H.V. Bissen (1798–1868) sem sagður er höfundur vangamyndar af andliti Tómasar, sem prýðir legstein hans á Breiðabólstað. Þá eru frásagnir af kynnum Tómasar og Giuseppe Mezzofanti (1774–1849), bókavarðar Vatíkansafnsins,  sem var málvísindamaður og þekktur fyrir að hafa 70 tungumál á valdi sínu. Tómas segir frá því í Ferðabókinni, nýkominn til Napoli, að hann hafi fyrir tilviljun hitt þar á götu vin sinn Bindesböll. Það mun hafa verið arkitektinn Michael G.B. Bindesbøll (1800–1856), höfundur Thorvaldsen-safnsins í Kaupmannahöfn, og hafa þeir vafalaust kynnst á vinnustofu Thorvaldsens. Tómas segist hafa skoðað Napoli í fylgd þessa frumkvöðuls nýklassískrar byggingarlistar á Norðurlöndum fyrstu daga sína þar. Arthur Dillon lávarður, sem var samskipa Tómasi til Íslands 1834, segir frá því í ferðasögu sinni frá Íslandi að Tómas hafi talað góða ítölsku, og mun tíminn í Róm ekki síst hafa nýst honum til tungumálanáms (Dillon 1840).

 

Rangárþing og hinar pontísku forir

Eins og sjá má af lýsingu Tómasar er upplifun hans af Páfagarði, með meistaraverkum Michelangelos og Rafaels, lituð af trúarskoðunum hans og uppeldi, og má kannski draga af hugleiðingum hans þá ályktun, að fegurðin hafi gildi í sjálfri sér þegar hún tekur til veraldlegra hluta, en hins vegar beri að gjalda varhug við þeirri myndlist eða byggingarlist er reyni að miðla trúarlegum sannleika. Í þessum efnum virðist Tómas jafnvel standa nær Kalvin en Lúter, en hér er um greinilega mótsögn að ræða í túlkun hans á þeim veruleika sem hann upplifir á Ítalíu, og jafnvel enn frekar er hann kemur til Grikklands og Tyrklands.

En það eru ekki bara hugmyndir hans um tilfinningarök barnstrúarinnar og píetismans gegn kirkjuvaldinu sem móta sýn hans á ítalskan veruleika. Íslensk náttúra og bernskuslóðir hans koma líka þar við sögu, eins og sjá mátti af dæminu um Þórsmörk hér að framan. Þessar fyrirmyndir bernskustöðvanna verða þó með enn meiri ólíkindum þegar hann grípur til samanburðar við bernskuslóðir sínar í Rangárþingi á Íslandi í lýsingu sinni á landslagi umhverfis Róm og í Lazio-héraði, kannski í veikri tilraun til þess að lýsa ítalskri náttúru fyrir íslenskri bændaalþýðu með skiljanlegum hætti. Þannig rekumst við á eftirfarandi landslagsmynd hans, þar sem Róm verður hliðstæður miðpunktur og Oddi á Rangárvöllum:

Það er nokkuð svipuð fjallasjón og byggðarlag frá Róm að sjá eins og hjá oss í Rangárvallasýslunni, svo sem frá Odda, og væri þá Skarðsfjall Soracte, fjöllin fram af Heklu Sabínafjöll, en Fljótshlíðarfjöllin (þó þau séu heldur mikil fyrirferðar og ekki nógu laus að austan til) albaniska fjallið. Velletri bæri þá að standa utarliga í Fljótshlíðinni, en hérað Volskanna er áþekkt vikinu á milli hennar og Eyjafjalla, og þó breiðara, en fjallgarðurinn fyrir sunnan það Eyjafjöllum, og stendur þá líkt á með Terracina eins og austustu bæina undir Eyjafjöllum, nema hvað Terracina liggur á sjávarbakkanum og ekkert bil er orðið á milli lands og sjávar. Landeyjarnar eru sem Pontisku forirnar, og fjall er þar einmana út við sjóinn, nú áfast við landið, – áður kvað það hafa verið ey, en landinu þokað út á seinni öldum, og var hún kennd við Circe. Segir sagan að Odysseifur hafi komið þar við á flakki sínu eftir Trójumannabardaga, meira en 1100 árum fyrir Kristi fæðingu, og þar hafi hún gjört félaga hans að svínum, líklega gefið þeim vel í staupinu (en sjálfan töfraði hún hann til ásta við sig, svo að tafðist fyrir hönum heimförin). Eynni hagar að sínu leyti ekki ólíkt í samanburði við landið og Vestmannaeyjum hjá okkur. (T. S. 1947: 264)

Það þarf engan kunnugan til að átta sig á hversu langsótt þessi samlíking er, í raun er hún eins fjarri allri líkingu og hægt er að hugsa sér, og erfitt að ímynda sér hvað vakir fyrir Tómasi annað en að freista þess að vekja ímyndunarafl samlanda sinna út frá því sem þeir þekkja fyrir. Þó má segja að „Pontísku forirnar“, sem eru flatlendið suður og austur af bænum Latina, eigi það sammerkt með Landeyjum að hafa verið marflatt mýrlendi á þessum tíma. Fyrst og fremst er þó samlíkingin til þess fallin að minna okkur á, hvernig sú mynd og sú reynsla, sem við höfum fyrirfram mótaða í huga okkar, verður til að móta þá mynd sem við gerum okkur af því sem við sjáum í fyrsta skipti og reynum að lýsa með orðum. Auga mannsins kemur aldrei saklaust að sínu verki, eins og Ernst Gombrich sagði, maðurinn túlkar það sem hann sér út frá reynslunni og því sem hann þekkir fyrir (sbr. Gombrich 1989: 291–329). Rétt eins og landslagsmálverkið líkir meira eftir landslagshefðinni og öðrum myndum en eftir sjálfri náttúrunni, þá líkir hin skráða lýsing eftir því sem augað og tungan þekkja fyrir.

Napoli og Campania felix

Í rauninni verður ítölsk náttúra Tómasi stöðugt undrunarefni, en hún nær hámarki sínu þegar hann sér yfir Napoliflóann og Campania felix:

Allt hvað skáldin hafa sungið um goðalundanna fegurð og indæli eður ódáinsakur er hér orðið orð að sönnu, og yfir hálsa þessa og flatir horfði Virgilíus, þegar hann var að lýsa Elysíum-völlum og samastað hinna ófarsælu í 6tu bókinni af Æneasardrápu. Hér er sífellt vor, blómi jarðarinnar hverfur aldrei; ein jurtin lifnar eða blómgast þegar önnur fölnar; á öllum árstíðum eru hinir dýrmætustu ávextir í köstum til sölu um torgin, og margar þúsundir manna eiga ekkert húsaskjól, því kuldinn nær hingað ekki og sjógolan dregur svo úr hitanum að vel er viðunandi. (T. S. 1947: 276)

Fyrsta upplifun Tómasar af náttúrufegurð Campania-héraðs virðist eiga sér stað við Formia þar sem þokunni léttir skyndilega og þá blasir þetta við:

Við stigum af vagninum í einhvörjum fegursta aldingarði, – citrónu og guleplaskógar, myrtusviðar og lárviðar og ilmandi glæsiligustu jurtir, hvað innan um annað, bar fyrir hvört sem litið var; vertshúsið var líkara kóngshöll en gestaherbergi. Fyrir neðan fætur okkar var sjórinn eins og spegill til að líta, og var niður til hans hátt nokkuð og bratt, en allur flóinn blasti við rétt á móti, og hinum meginn við hann eður fyrir sunnan hann gaf að líta álengdar Vesúvíus-eldfjallið í allri hátign sinni, fjöllin umhverfis Neapels-flóann og eyjarnar er liggja vestur þaðan út með sjónum; vestanvert eður til hægri handar við okkur var nesið sem við höfðum yfir farið, og fer það lækkandi eftir sem vestar dregur , og niður við Gaeta, hvar kastali var byggður upp á kletti nokkrum. Til vinstri handar eður fyrir norðan okkur og austan er meginfjallið, en neðan til með indælustu hlíðum niður til sjávar, austan og inn með flóanum; eru hlíðar þessar þaktar víngörðum og aldintrjám. Sólin var farin að lækka svo skugga bar á hér og hvar um fjöllin og varð af því afbreytingin enn meiri. Hér er einhvör mesta veðurblíða og afdrep fyrir norðanvindunum; er því jörðin sífellt eins, á vetrum og á sumrum ífærð sínum fegursta skrúðbúningi. Við stóðum hér við tímakorn og skemmtum okkur með því að litast um í fegurð þessari. Er herbergi þetta og aldingarður, Villa di Cicerone, kennt við Cicero, hinn mikla speking og mælskumann Rómverja, sem mælt er að hafi átt hér lystigarð og verið hér myrtur… Aldingarðsvörðurinn, viðfelldinn unglingur, (sem) taldist vera rómverskur … gjörði sér ánægju af að leiða okkur um garð sinn og sýna okkur þær jurtirnar og trén, sem honum þókti mest til koma, og fyllti vasa okkar með guleplum, sem hann tók af trjánum og voru nú fyrst komin að því að verða fullþroskuð frá því sumrinu áður; svo langan tíma þarf þessi fagri ávöxtur til þess að spretta að honum veitir ekki af vetrinum með, og verður því ekki stundaður nema þar sem enginn vetur kemur. (T. S. 1947: 270–271)

Þegar nær kemur Napoli dregur Tómas upp lifandi mynd af umhverfi borgarinnar og þeirri töfraslungnu náttúru sem myndar umgjörð hennar, þar sem eldfjallið Vesúvíus trjónir yfir öllu. Vesúvíusi líkir hann eðlilega við eldfjallið Heklu, en segir það nokkuð lægra og í lögun áþekkt og öll eldfjöll, ávalt að ofan með eldvörpu í kollinum, bratt nokkuð niður til miðs, en þaðan af aflíðandi til allra hliða, hvar hraunleðjan og vikurinn hafa staðar numið. Kringum allt fjallið eru nú fagrar byggðir, og vaxa langt upp efir því hin ágætustu vín. Sunnanvert við það lá forðum Pompeji, en vestanvert og á sjávarbakkanum Herculanum; liggur þar nú hraun yfir, og er nú þar byggt ofan á hrauninu, hvar borgin var undir.; slitnar ei húsrunan með sjónum þaðan til Napoliborgar. (T. S. 1947: 278)

Um borgina og umhverfi hennar í heild sinni segir Tómas að hún „eigi ekki maka sinn í heimi“ hvað varðar náttúrufegurð og fornminjar, „en minna mun flestum þykja um borg þessa varið að því leyti sem til þeirra nær sem í henni búa, og fáir ætla eg mundi gjöra sér krók til Napoli eður hafa elju á að dvelja þar lengi …“ Almennir fordómar og neikvætt umtal um íbúa Napoli virðast hafa verið landlæg á þessum tíma ekki síður en á okkar dögum, enda tekur Tómas það fram um leiðsögumann sinn í Villa di Cicerone, að hann hafi verið stoltur af rómverskum uppruna sínum, „enda hafa napólskir sér í lagi illt orð á sér út í frá, og þykir því fáum mikið til koma að telja sig í ætt við þá“ (T.S. 1947: 271). Lýsing Tómasar á borginni er ítarleg og greinargóð og segir hann Napoli réttilega vera allra borga mest á Ítalíu og ríkasta af fé og íbúum. „Teljast í henni eitthvað 358.000 innbúar, þar á meðal alténd 60.000 lazarónar“ (T. S. 1947: 275–276), en svo virðist sem Tómas kalli stétt atvinnuleysingja og heimilislausra því nafni. Borgarlandslaginu lýsir hann meðal annars með þessum orðum:

Borgin liggur … austan og sunnan í fjallás eður holti og nær niður á sjávarbakkann; er undirlendið meira að austan til, og standa þar fremstu húsin á nokkurs konar malarkambi fram við sjóinn og sléttum flöt fyrir ofan hann, en að vestan eru húsin, að undanteknum þeim er næst eru sjónum, í brattri brekku, svo hvört tekur við upp af öðru, en fyrir ofan þau og efst uppi á holtinu er kastali. Fer grein úr holtinu aflíðandi suður í sjó í aflöngum hrygg nokkrum gegnum staðinn vestanvert og skagar þar nokkuð á sjó út, og stendur þar úti í sjónum annar meginkastalinn og sín vík hvörjum megin; á þeirri víkinni sem fyrir austan er, niður undan aðalhluta bæjarins, er herskipalegan og útbúnaðarhús þeirra, og upp þaðan kóngsgarðurinn hjá torgi miklu. Þar fyrir austan er höfnin, og halda að henni 2 steinveggir sem hlaðnir eru langt út í sjó til að taka við bárunum sem utan koma þá vindur stendur inn flóann. […] Vesturendi borgarinnar er langfegurstur, því með endilöngum sjávarbakka fyrir ofan flæðarmál er einhvör yndælasti lystigarður (Villa reale), en fyrir ofan hann vestur með holtinu 2 beinar húsaraðir sem mjög hefir verið til vandað. Þá tekur brekkan við alskrýdd aldingörðum og lysthúsum, hvaðan sjá má yfir öll nærliggjandi héröð, og skagar fjallás þessi þegar undirlendinu sleppir fyrir vestan víkina út í sjó. (T. S. 1947: 276–277)

Þótt Tómas hafi notið leiðsagnar arkitektsins Bindesbølls um götur Napoli virðist það ekki hafa dugað honum til að læra að meta þá mikilvægu byggingarlist sem þar er að finna: „Í Napoli eru fá hús sem mikið kveður að eður taki fram í því algenga, og trauðla er önnur borg á Ítalíu hvar kirkjurnar bera eins lítið af öðrum húsum að hæð og viðhöfn eins og hér, og eru þær þó að tölu ekki færri en 300 í borginni. Meðal annarra opinberra bygginga má helst geta ráðhússins og dýrgripabúrsins“ (T.S. 1947: 280). Lýsir hann fornminjasafninu vel og segir það „mikla höll … meðal fyrstu húsa til hægri handar þá komið er inn fyrir borgarhliðið eftir þjóðveginum frá Róm“. Tómas segir safnið hafa 90 stofur með fornminjum, fágætum gripum og snilldarverkum, mest rómverskar og forngrískar fornminjar, en einnig muni frá Egyptalandi og Hetrúríu og frá Suðurhafseyjum. Mest þykir honum koma til fornminjanna frá Pompei og Herculanum, en einnig verður honum tíðrætt um Farnese-safnið, sem flutt var til Napoli frá Róm 1788, einkum höggmyndirnar af Herkúlesi og Farnese-nautinu. Segir hann um Herkúles að hann sé „að mestu leyti þrefalt stærri en mennskur maður, tilbúinn úr hvítum marmara“ og að aðdáunarvert þyki „hvað vel og sannliga hefir tekizt að leiða aflið og karlmennskuna í ljós í vöðvafari og beinalögun líkneskisins“. Getur hann og réttilega til um höfunda verksins (Glykon eftir frummynd Lysippusar). Tómas getur einnig uppruna Farnese-nautsins frá Rhodos, höfunda þess Apolloniusar og Tauriscusar og heimilda Pliniusar um verkið og söguna á bak við það. „Fær það mestrar undrunar hvað feikilega stórt þetta listasmíði er og hvað boli er nautslegur“ (T. S. 1947: 284).

 

Fýsilegasta ferð sem stofnuð hefur verið

Þótt Tómas hafi upphaflega ekki ætlað sér sunnar en til Sikileyjar í ferð sinni, hafði sú hugmynd komið upp í huga hans skömmu áður en hann yfirgaf Róm, að freistandi væri að taka þátt í fyrirhugaðri skemmtisiglingu um Miðjarðarhafið sem auglýst hafði verið meðal ferðamanna í borginni. Sagði Tómas þetta „hina fýsilegustu ferð sem nokkurn tíma hefir stofnuð verið“, og gekk boðsbréf um hana um mestan hluta Evrópu, þar sem boðin voru 100 skipsrúm en auk farþega var „næstum annað eins af þjónustufólki að meðtöldum öllum hásetum skipsins“. Siglingin átti að taka fjóra mánuði með viðkomu á fjölda merkra sögustaða á Grikklandi, í Tyrklandi, á Möltu og Sikiley.

Í Napoli grennslaðist Tómas enn frekar fyrir um ferð þessa, en komst fljótt að þeirri niðurstöðu að hún yrði honum fjárhagslega ofviða. Í Napoli hafði hann leitað aðstoðar sendiráðsfulltrúa Dana í borginni, Frideriks Siegfried Vogt, og hafði Vogt verið honum hjálplegur í ýmsum efnum, leiðbeint honum um áhugaverða staði og aðstoðað hann við að fá heimild til að skoða fornleifauppgröftinn í Pompei, sem þá var ekki opinn almenningi. Vogt hafði hvatt Tómas til þessarar farar, en hann hafði gefið frá sér hugmyndina og var ferðbúinn til Messina að kvöldi 11. apríl þegar hann fékk heimsókn sendifulltrúans sem segir honum að hann hafi rætt við útgerðarmann skipsins og fengið slíkan afslátt á fargjaldi fyrir Tómas að honum snerist hugur. Skipið lét úr höfn fimm dögum síðar og stóð siglingin í fjóra mánuði eða til 9. ágúst, þegar akkerum var varpað í Napoli á ný. Segir Tómas á einum stað í Ferðabók sinni að engum manni hafi hann kynnst á öllu ferðalagi sínu er hann eigi „svo mikið gott upp að unna“ sem Vogt sendiráðsfulltrúa í Napoli (T. S. 1947: 189).

Því miður vantar sjálfa ferðasöguna af þessari siglingu í ferðabókarhandrit Tómasar, þar sem einungis er minnst á upphaf ferðarinnar. Af sendibréfum Tómasar má hins vegar ráða hvílíkt ævintýri hér var um að ræða:

Um borð voru fleiri kongar, prinsar og konunglegar persónur, lengri eða styttri part af reisunni. Hér mátti meðal hálfs annaðs hundraðs manna sjá fólk af öllum stöndum og heyra undir eins töluð ein 20 tungumál. Þvílík reisa hefir því víst aldrei verið gerð, og hér var svo mikið allareiðu á skipinu að sjá og læra að það borgaði ómakið að gera hana. Þar að auki eru löndin, sem við nú sáum, eins nafnfræg í veraldarsögunni (svo sem heila Grikkland, hvers inndælasti staður er Aþenuborg), eins og hin önnur fyrir sína fögru náttúru (svo sem höfuðstaður Tyrkjalanda: Konstantínópel, þar sem við vorum í 15 daga. Hann er miklu fegurri en Neapel og svoleiðis fegurst af öllum stöðum sem til eru).

Þannig segir Tómas frá í bréfi til föður síns 28. ágúst 1834, þá nýkominn til baka til Napoli. Af bréfum Tómasar má lesa eftirfarandi leiðarlýsingu frá Napoli: Messina, Catania, Siracusa, Corfu, Patras, Korintuflói, Delfi, Pyrgas, Olympia, Navarino, Naflion, Mykena, Argos, Hydra, Poros, Ægina, Istmos-eiðið, Kórinta, Aþena, Smyrna, Mytilene-eyja, Tenedos-eyja, Trója, Hellusund, Marmarahafið, Konstantínópel, Svartahafið, Zanthe-eyja, Siracusa, Agrigento, Palermo, Napoli.

Af þessum stöðum standa Aþena og Konstantínópel upp úr í minningu Tómasar, en viðdvölin var fimm dagar í Aþenu og 15 dagar í Konstantínópel. Aþena var meira og minna í rústum eftir undangengnar styrjaldir, og töldust íbúar hennar nú í hundruðum en ekki hundruðum þúsunda eins og á stórveldistíma hennar.

Allir vita, hve mikið þessi bær hefir gert fyrir heiminn, enda á enginn bær, hvað leguna snertir, við betri kjör að búa. […] Í Róm – á Foro Romano – verður að grafa 20 fet á jörð ofan til þess að geta þar staðið á „klassískri grund“, en í Aþenuborg stendur enn óhreyfður kletturinn, þar sem Sókrates talaði gegn Alkibiadesi, og Períkles ávarpaði lýðinn, og á Akropolis hefði mátt líta listaverk Phídiasar, eins og hefðu þau verið gjörð fyrir 10 árum, ef siðleysi manna hefði ekki á síðustu árum fengið að eyðileggja þau – þó, sem betur fer, ekki nema að hálfu leyti. Að Rómaborg einni undanskilinni hefir mér hvergi fundizt tíminn líða jafnfljótt og þá 5 daga, sem ég dvaldist í Aþenuborg. Það sem Aþenuborg hefur fram yfir Róm er sjálf náttúran og rústirnar, sem þar gefur að líta; en hvað snertir gripasafnið í Aþenuborg, bæinn sjálfan og íbúana, getur ekki verið um neinn samanburð að ræða. (Jón Helgason 1941: 91-93)

Rétt eins og borgarbragurinn í Aþenu bar sögunni sorglegt vitni, þá gerðist hið þveröfuga við komuna til Konstantínópel, þar sem Tómas verður dolfallinn þegar við fyrstu sýn borgarinnar:

Alt, sem Ølenschlæger eða hvaða skáld annað sem er eða málarar hafa nokkuru sinni sagt eða snortið með tilfinningar vorar, verður áhrifalaust í samanburði við það mál sem náttúran sjálf talar hér, og við þær tilfinningar sem hún vekur í sálu þess manns, er fer framhjá keisara-höllinni (serailinu) [á aðra hönd] og Skútarí [á hina], og í fyrsta sinn sér Galata blasa við sér með Sæviðarsund (Bosporus) hægra megin og höfnina [„Gullhornið“ svonefnt, sem norrænir menn til forna kölluðu Stólpasund] vinstra megin. (Jón Helgason 1941: 95)

Hrifning var svo almenn á skipinu að jafnvel Napolibúarnir um borð gátu ekki orða bundist: „Con questo la città di Napoli non puó compararsi.“ Tómas ber Tyrkjum vel söguna og ber blak af slæmu orðspori þeirra. Gerir hann stóran greinarmun á Grikkjum og Tyrkjum: „Í staðinn fyrir gríska glannaskapinn gefur hér að líta rólynt fólk, óframgjarnt, góðviljað og ábyggilegt, yfirleitt tilvalið fólk, sem taka mundi fram ýmsum af Norðurálfu-þjóðunum, ef hlotið hefði betri menntun.“ (Jón Helgason 1941: 95). Og í bréfinu til föður síns frá Napoli segir hann berum orðum: „Grikkir eru slæmir menn en Tyrkir góðir!“ (T. S. 1907: 125)

Tómasi virðist ekki eins uppsigað við íslamska helgisiði og þá kaþólsku, hann dáist að því hversu „hátíðlegt“ andrúmsloftið sé í moskunum, „enda séu Tyrkir yfirleitt trúhneigðir menn en þó umburðarlyndir í garð manna, sem eru annarar trúar, gagnstætt því sem almennt sé haldið“.

Þegar Tómas kemur til Smyrna á vesturströnd Tyrklands (nú Izmir), þar sem hann dvaldi í viku, fer sýn hans á umhverfið að litast af skáldskap Þúsund og einnar nætur og hann dregur upp eftirfarandi mynd í bréfi til vinar:

Mér fannst, sannast talað, ég vera kominn í annan heim, þegar ég kom til Tyrkja, eftir að hafa verið meðal Grikkja – þó allhægt sé að lynda við Grikkina sem hér búa …Hér gaf að líta miklar úlfalda- og múlasnalestir. Hér mátti sjá þræla, sem í stórhópum voru reknir til sölutorgsins, þar sem þá skyldi selja. Konur allar voru með gula skó á fótum og slæðu fyrir andliti og í fylgd með þeim var fjöldi ambátta og geldinga. (Jón Helgason 1941: 93)

 

Um samband kvenlegrar fegurðar og fagurrar náttúru

Flest bendir til að Tómas hafi verið trúr þeirri heitmey sem hann hafði bundist með leynd norður í Aðaldal í Þingeyjarsýslu örlagasumarið 1829, og sá ekki aftur fyrr en eftir 5 ára ferðalag sitt um heiminn. Það kom þó ekki í veg fyrir að hann gæfi hinni kvenlegu fegurð gaum, og kemur það nokkrum sinnum fram í ferðabókarhandriti hans og sendibréfum. Það er athyglisvert við þær athugasemdir að hann tengir jafnan saman ytra útlit og kynþokka kvenna annars vegar og það náttúrlega umhverfi sem þær eru sprottnar úr hins vegar. Ein fyrsta athugasemd hans um þessi efni kemur fram í kaflanum um veruna í Dresden í Þýskalandi, en þar segir Tómas:

Konur eru í Dresden aðdáanliga fríðar, og sá eg þar ekki ófrítt stúlkuandlit jafnt meðal allra stétta. Hefir fátt á ferð minni undarligar fyrir mig komið en hvað stór munur þess var í Berlín og hér. Sýnist það og víða, að kvenfólk sé svo bundið til náttúrunnar að fríðleikur þess fari mikið eftir fegurð hennar. Vinnukonur í Dresden búa sig snoturligar en víðast annars staðar og áþekkt kaupstaðarkonum á Íslandi … (T. S. 1947: 219)

Ekki eru finnanlegar beinar heimildir um mat Tómasar á kvenlegum yndisþokka á Ítalíu, en í bréfi til föður síns segir hann Ítalíu vera „fegursta land í Norðurálfunni og það merkilegasta í veraldarsögunni; þar er og allt það, er mennirnir hafa fallegt gert, sameinað. Málið: vallenskan eða ítalíenskan er hið fegursta mál, sem talað er – og trauðlega eru nokkursstaðar mennirnir fallegri“ (T. S. 1907: 120–121).

Þótt Tómas beri Grikkjum almennt illa söguna, þá segir hann eftir heimsókn sína til grísku eyjarinnar Mýtílene og til Smyrnu á vesturströnd Tyrklands, að landslag á Mýtilene sé engu líkt hvað fegurð snertir, og sama eigi við um kvenfólkið, „sem hljóti að vera jafn-andlitsfrítt nú og það var á dögum grísku skáldkonunnar Sappho“. Álítur hann að „alls yfir séu grískar konur öllum öðrum konum fríðari“; þetta hafi honum ekki orðið ljóst fyrr en hann kom til Smyrnu, því „á sjálfu Grikklandi fái konur varla leyfi til að koma undir bert loft“ (Jón Helgason 1941: 93–94)

Það sérstæða samhengi sem Tómas virðist finna á milli kvenlegrar fegurðar eða líkamsfegurðar og náttúrunnar er kannski ekki jafn langsótt og ætla mætti, því hliðstæðar hugmyndir koma fram í tímamótaverki þýska listfræðingsins Johanns J. Winkelmanns, Saga listar fornaldarinnar, sem var rituð 1764, og var ekki bara tímamótaverk í ritun listasögu, heldur líka hugmyndafræðilegur grunnur nýklassísku stefnunnar eins og hún birtist t.d. hjá Bertel Thorvaldsen. Tómas minnist á Winckelmann í Ferðabók sinni og segir engan fyrr né síðar hafa með svo miklu lífi og gáfum útlagt og lýst hinum gömlu snilldarverkum. En í upphafi umfjöllunar sinnar um gríska myndlist fornaldarinnar segir Winckelmann að eina skýringuna á yfirburðum grískrar myndlistar í gjörvallri listasögunni sé einmitt að finna í loftslaginu:

Áhrif loftslagsins hljóta að blása lífi í þau sáðkorn sem listin vex upp af, og Grikkland var hið útvalda land fyrir þetta sæði … Margt af því sem okkur er tamt að rekja til ímyndunaraflsins var ekki annað en náttúran sjálf meðal Grikkja. Eftir að náttúran hafði sveiflast frá hinu kalda til hins heita fann hún miðpunkt sinn, ef svo mætti segja, í Grikklandi, þar sem loftslag er í fullkomnu jafnvægi milli veturs og sumars … Þar sem nattúran er hvað minnst umvafin þokumóðu og mistri er hún skjótvirkari í viðleitni sinni að gefa líkömunum þroskaðra form, hún getur af sér tignarlegar verur, einkum kvenverur, og í Grikklandi hefur hún gefið mannfólki sínu hið fullkomnasta og háleitasta form … og engin önnur þjóð hafði líkamsfegurðina í jafn miklum metum. (Winkelmann 1764/1993)

Winckelmann gerði að vísu greinarmun á náttúrlegri fegurð og listrænni fegurð, en um leið og hann setur fram heilstæða kenningu um guðdómlegt eðli fegurðarinnar sem er „skynjuð með skilningarvitunum en skilin með hugsuninni“ út frá hinum fegurstu fordæmum náttúrunnar, þá setur hann jafnframt fram heilstæða og ítarlega kenningu um fagurfræði mannslíkamans er byggi á stærðfræðilegum hlutföllum út frá tölunni þrem. Nálgast þessi fagurfræði Winckelmanns mjög að vera kynþáttahyggja þar sem hann telur m.a. þykkar varir og inndrægt og kúlulaga nef blökkumanna, flatt andlit og skásett lítil augu Asíubúa vera afbrigðileg frávik frá hinni fullkomnu fyrirmynd sem hann sá meðal Grikkja, og stóð næst mynd hans af skaparanum sjálfum. Tómas virðist undir áhrifum Winckelmanns hvað þetta varðar, en athyglisvert er samt, að í hans huga virðist Ísland ekki falla undir þessa kenningu hvað loftslagið snertir, því kaupstaðarkonur á Íslandi jafnast til fulls á við vinnukonurnar fögru sem hann sá í Dresden.

 

Heimförin frá Napoli

Þegar Tómas kemur til Palermo fær hann að vita að styrkumsókn hans til fararinnar hefur verið hafnað af dönskum yfirvöldum, en hann setur þá stefnuna á París og segir í bréfi til föður síns sem hann ritar kominn til Napoli 28. ágúst 1833, að hann stefni á að „halda þar út [þangað] til í desember. Komi mér úr því engin hjálp, verð ég að setja mig þar niður?! Því alstaðar í Evrópu er ég matvinnungur, ef ég vil vera kyrr, en reist get eg ei af eigin kröftum“ (T. S. 1907: 125).

Tómas dvaldi um einn mánuð í Napoli áður en hann hélt af stað norður á bóginn í septemberbyrjun. Leiðin norður lág í gegnum Róm og Flórens, til Livorno, Pisa, Lucca, Genova, Milano og Torino. Þaðan hélt hann í gegnum Sviss og Austurríki með viðkomu m.a. í Sion, Chamonix, Genf, Lausanne, Bern, Luzern, Zürich, Schaffenhausen og Basel. Þaðan yfir frönsku landamærin um Strasbourg til Parísar, en þangað kemur hann um miðjan nóvember 1833. Í bréfi til vinar segir hann um þetta ferðalag að „í flestöllum af þessum stöðum hef ég staðið við í 2–3 daga og í öllum þeim stærri svo sem í viku, og ekki ætla ég margt merkilegt í neinum þeirra, sem ég ekki hefi séð“ (Jón Helgason 1941: 96–97).

Í París virðist ferðasjóður Tómasar hafa verið upp urinn, en hann segir í bréfi til föður síns, sem hann skrifaði í Kaupmannahöfn 4. júní 1834, að „einn af vinum mínum hefir þar brúkað yðar góðsemi, eftir hann sjálfur var búinn að reita sig inn að skyrtunni, svo ég ei skyldi deyja úr hungri og skuldheimtararnir ei framar létu honum svefnró. Dönsku stjórninni hefir nefnilega farist ver við hinn eina Íslending, sem vogaði sér út í veröldina, en trúlegt sýndist og ég gat ímyndað mér, svo ég hef ei af henni fengið einn skilding til ferðarinnar ...“ (T. S. 1907: 126–127).

Tómas kennir fjárskorti og illum aðbúnaði í París um veikindi sín sem urðu til þess að hann varð að leggjast inn á sjúkrahús í lok febrúar 1834 og dvaldi þar þjáður af lungnabólgu og/eða berklum með þrálátum blóðspýtingi fram til 3. maí. Tómas lét veikindi og fjárskort ekki aftra þeim staðfasta vilja að fara til Lundúna, áður en hann sneri til Kaupmannahafnar. Hann fer frá París í byrjun maí til Lundúna, á greinilega stutta viðdvöl, og siglir þaðan til Hamborgar og frá Hamborg kemur hann til Kaupmannahafnar þann 16. maí, og vantaði þá þrjár vikur á að ferðin sem hófst 7. júní 1832 hefði staðið í tvö ár. Í Kaupmannahöfn verða fagnaðarfundir Tómasar og vina hans, sem eru þá þegar farnir að undirbúa útgáfu Fjölnis. Um leið og hann vinnur að undirbúningi tímaritsútgáfunnar sækir hann um prestsembætti sem hafði losnað á Breiðabólstað, skammt frá æskuslóðum hans í Rangárþingi. Hann fær embættið og því var ferð hans ekki lokið: hann stefndi markvisst heim til Íslands og norður í Aðaldal til að hitta heitkonu sína, Sigríði Þórðardóttur. Tómas hafði misst af „vorskipunum“ sem sigldu til Íslands, en hann frétti að Fredrik Carl Christian krónprins (síðar Friðrik VII konungur) væri á Íslandi og að „corvettan“ Najaden ætti að sækja prinsinn í ágústmánuði. Fékk Tómas ókeypis far með skipinu, sem hreppti afar slæmt veður á leiðinni, og tók siglingin til Íslands réttar þrjár vikur, en til Íslands komst Tómas 31. ágúst 1834. Er þessari siglingu lýst með eftirminnilegum hætti í fyrsta tölublaði Fjölnis 1835.

Sú Reykjavík sem mætti heimsborgaranum Tómasi Sæmundssyni í sumarlok 1834 minnti í litlu eða engu á þá fjölmörgu staði sem hann hafði heimsótt í heimsreisu sinni. Af um 600 íbúum bæjarins voru fimm embættismenn konungs: einn stiftamtmaður, einn bæjarfógeti, einn dómari landsyfirréttar, einn landlæknir og einn lyfsali. Biskupinn bjó í Laugarnesi, sem þá var fyrir utan bæinn. Aðrir bæjarbúar voru tómthúsmenn, handverksmenn og bændur sem lifðu af stopulli erfiðisvinnu og bjuggu flestir í torfkofum. Helstu menntamenn landsins voru kennarar við Bessastaðaskóla og bjuggu þeir á Álftanesi og í Görðum. Tómas sat að kvöldi fyrsta dags í Reykjavík veislu Kriegers stiftamtmanns til heiðurs krónprinsinum, sem var að ljúka Íslandsferð sinni. Tómas dvaldi rúmar þrjár vikur í Reykjavík og nágrenni og þáði gistivináttu Steingríms Jónssonar biskups í Laugarnesi, en fljótt kom að því að honum héldu engin bönd: hann þurfti að komast í Aðaldalinn að hitta heitmey sína, sem hafði beðið hans í fimm ár.

Erfiðasti áfangi ferðarinnar

Á þessum tíma var Ísland vegalaust land með óbrúaðar ár. Ferðalagið frá Reykjavík norður í Aðaldal var trúlega erfiðasti áfanginn á allri heimsreisu Tómasar, en hann hélt ríðandi frá Reykjavík þann 25. september. Ferð hans lá um Reykholt, Gilsbakka, Kalmanstungu, Grímstunguheiði, Víðidal, Þingeyrar, Svínavatn, Blöndudal, yfir jökulána Blöndu og áfram um Svartárdal, Vatnsskarð, Víðivelli í Skagafirði, yfir Héraðsvötn í Steinsstaði í Öxnadal og til Akureyrar, en þaðan var síðasta dagleiðin í Garð í Aðaldal. Hafði Tómas þá setið á hestbaki og riðið vegleysur um fjöll og dali og farið yfir grýttar urðir, mela og úfin heiðalönd og yfir allmörg stórfljót á tíu dögum í misjafnri veðráttu og hreppt fyrsta hríðarveður haustsins á síðasta degi ferðarinnar.

Þoldi ég betur ferðalagið en ég nokkurn tíma hafði getað vænst, því ég hafði aldrei meira á mig reynt síðan ég lasnaðist, en fann mig þó oft ver á mig kominn en eftir þessa ferð,“ segir hann í bréfi til föður síns (T. S. 1907: 137–138). Tómas hafði fylgdarmann flestar dagleiðirnar, á leiðinni fékk hann gefinn reiðhest og hafði tvo til reiðar og svo er að sjá af frásögn hans í bréfinu til föðurins, að ekkert hafi þótt eðlilegra en að slá reiðskjótana af í lok ferðarinnar, þar sem ekki hefði verið hugsað til fóðuröflunar fyrir þá yfir bjargræðistímann. Tómas gat komið hestum sínum í fóður gegn því að skorin voru tíu lömb fyrir hvorn hest og til viðbótar greidd „ein spesía og ríksort“ á mánuði í fóðurkostnað. Segir þessi saga nokkuð um þær efnahagsaðstæður er ríktu á þessum „dýrðlegasta bletti á jarðríki“, sem Tómas hafði kvatt með söknuði sjö árum áður, þegar hann hélt til náms í Kaupmannahöfn. Í áðurnefndu bréfi til föður síns segir Tómas enn fremur um ferðina norður: „En ég sé engin líkindi til að ég muni nokkurn tíma iðrast ferðarinnar, og ég hefi sem stendur orsök til að vera ánægðari með hagi mína en nokkurn tíman áður … 8 dögum eftir að ég kom hingað var lýst yfir af prédikunarstól og brúðkaup stóð í Garði þann 24 október eða föstudaginn fyrstan í vetri“ (T. S. 1907: 139). Sæmundur faðir Tómasar, sem bjó á Eyvindarholti í Vestur-Eyjafjallahreppi, þar sem hann var hreppsstjóri, sá sér ekki fært að fara norður til að vera við brúðkaup sonar síns.

Þrem vikum eftir að Tómas kom í Garð var hann kvæntur maður. Þar hafði hann nú vetursetu, sinnti almennum bústörfum og vann trúlega í ferðabókarhandriti sínu, auk þess sem hann vann að greinaskrifum fyrir Fjölni. Biskup kallaði Tómas til Reykjavíkur til prestvígslu um vorið, og var hann vígður til Breiðabólstaðarprestakalls í Dómkirkju Reykjavíkur 24. maí 1835, en við jörðinni og prestakallinu tók hann formlega 5. og 6. júní (Eggert Ásgeirsson 2007: 41). Frá Breiðabólstað reið hann svo norður Sprengisand að sækja eiginkonu sína og búslóð í Garði. Var búslóðin flutt á klökkum í hestalest suður yfir Sprengisand. Á leiðinni hrepptu þau óveður og villtust af leið, og þá gerðist það að hestarnir ráfuðu á bithaga í þessari eyðimörk, sem trúlega varð þeim til bjargar, og heitir síðan Tómasarhagi. Haga þennan gerði Jónas Hallgrímsson ódauðlegan í ljóði um vin sinn og ferð hans: „Tindrar úr Tungnajökli/ Tómasarhagi þar / algrænn á eyðisöndum / er einn til fróunar. // Veit eg hér áður áði / einkavinurinn minn / aldrei ríður hann oftar / upp í fjallhagann sinn. // Spordrjúgur Sprengisandur / og spölur er út í haf / hálfa leið hugurinn ber mig, / það hallar norður af.“

Tómas sinnti preststörfum, ritstörfum og bústörfum bóndans á Breiðabólstað þau fáu ár sem hann átti ólifuð. Hann var farsæll í embætti, mikilvirkur í ritstörfum sínum og átti í góðu hjónabandi. Þeim hjónum varð fimm barna auðið, en hann lést 17. maí 1841 af völdum þess sjúkdóms er hann hafði fengið í París og losnaði aldrei við. Yngsta dóttir Tómasar lést sama dag og hann, 4 mánaða gömul. Tengdamóðir hans, sem dvaldi á heimili hjónanna, hafði látist 12. maí, og önnur dóttir Tómasar, Sigríður, lést nóttina fyrir jarðarförina sem fór fram 4. júní. Þann dag kvaddi Sigríður Þórðardóttir eiginmann sinn, móður sína og tvær dætur í kirkjugarðinum á Breiðabólstað.

 

Veröldin séð með augum gestsins og leiðsögumannsins

Segja má að ævistarf Tómasar Sæmundssonar hafi falist í því að tengja Ísland við umheiminn á ný. Félagarnir sem stóðu að útgáfu Fjölnis brúuðu á ný þá gjá sem hafði myndast á milli þessarar strjálbýlu eyju í norðurhöfum og umheimsins. Sjálfur var Tómas eins og leiðsögumaður ráðvilltrar þjóðar sem þekkti ekki annan heim en nokkrar veðurbarðar þúfur, úfnar öldur úthafsins og náttúruöfl sem lokuðu fyrir alla möguleika á yfirsýn yfir heiminn. Í ferðabókarhandriti hans er brot úr kafla, sem hann hefur hugsað sem inngang að þessum leiðarvísi Íslendinga um menningarheima Evrópu. Kaflinn hefst á lýsingu og útskýringu höfundar á því ótrúlega fyrirbæri sem borgarmenning er í augum Íslendinga. Þessi lýsing segir meira en mörg orð um það, hversu mjög íslenska þjóðin hafði fjarlægst menningu heimsins, þjóðin sem eitt sinn hafði sent syni sína og dætur yfir úthöfin til að finna meginlönd á borð við Grænland og Norður-Ameríku. Í stað torfkofanna sem Íslendingar þekktu sem hina náttúrlegu mannabyggð blasir þá þessi sjón við:

… þannig er nú einn samfastur húsaklasi sem stendur beint upp af fletinum er borgin er byggð á, þverhníptur á alla vegu, á að sjá sem sker eður eyja, og hefur því einn slíkur í sumum málum svo kallaður verið. Eru nú í hverri borg slíkir hólmar margir og hafa ýmsa lögun, og þá er staðurinn sem regluligast byggður er þeir eru rétthyrningar og ganga hvör öðrum fremst jafnsíðis. Sundin sem nú aðskilja hvörn þeirra frá öðrum og liggja aftur á bak og áfram í margar áttir er það sem götur eða stræti nefnist. Eru þau oftast svo breið að vagnar geti á þeim mætzt, og þeir fótgangandi hafi þó nægilegt rúm fram með húsum báðum megin; og aðskilur göngumannavegi frá hestvagni oftast rásir og ræsi sem flytja burtu vatn það er ofan streymir af húsþökum eður út úr húsum berst. Eru strætin oftast flórlögð. Má nærri geta að [mörgum] sem slíkum vegum eru óvanir finnist þröngt um sig er hann stundum sem mílum skiptir gengur milli rétt sem háfjalla er nærri lykjast saman yfir höfði hans og ei sér nema litla rönd himins yfir höfði sér; verður því og frá sér numinn er hann sér allt um kring sig sífelldan mannusla með alls kyns hætti, vagna og hesta arg og hávaða svo varla heyrir manns mál. Er varla til ófrýniligri sjón en frá háum turni að líta yfir stóra borg. Húsþökin fyrir neðan mann, sem oftast eru úr brenndum leir, með öllum sínum ójöfnum eru sem brunahraun sem reykháfarnir er fylla loftið með sífelldum reyk og svælu gjöra enn líkara eldgjósandi fjöllum, og á milli þessa grillir maður niður á göturnar sem í djúpa gjá og sér þaðan fólk og hesta á hreyfingu sem kvikindi og ber þaðan upp til manns argið og skarkalann. Gefur það nokkurn þanka um hvörnig við munum líta út frá hærri himnastöðum … (T. S. 1947: 290)

Lýsing þessi á það sammerkt með lýsingu Tómasar á landslagi í námunda við Róm og Napoli, að orðin ná ekki utan um veruleikann nema styðjast við það sem augað þekkti fyrir. Þannig verða fjalladalirnir og eldfjöllin og eyjar og sker Tómasi nærtækust samlíking þegar lýsa skal borgarlandslaginu. En þegar kemur síðan að menningunni blasir meðal annars þetta við:

…höfuðborgar landsins vitja allir sem bein hafa í hendi, eyða þar fé sínu; þar er höfðingjanna aðsetur helzt. Í borgunum finna menn minna til veðráttunnar hörku og óblíðu en á landinu; þar er allt unnið og framkvæmt í húsum inni, lítil stritvinna nauðsynlig, störfin eru á öllum tímum árs hin sömu og minni nauðsyn á að taka nær sér á einum tíma en á öðrum en á landinu, hvar allt hefir sína stund. Má af öllu þessu stærra punti við koma í borgum; safnast og þangað allt hvað skemmtunum og gleði unnir, vegna þess þar eru stærri glaðværðir og menn geta verið sér úti um stærri margvísligar nautnir; er þar og öll hin hærri menntun búandi. Til að flýta og koma til leiðar öllu þessu er þangað safnað öllu því sem fegurðarkeimur er að. Allt hvað upp á einhvern hátt þykir merkiligt, prýðiligt eður nytsamt fyrir staðarbúa eður fyrir almenniliga menntun er því þangað safnað svo það ekki megi kalla sett undir mæliask. Eru því í öllum stórum stöðum margvíslig söfn sem vanaliga eru haldin á opinberan kostnað og því á ákveðnum dögum opin til heimillrar inngöngu hvörjum er sjá vill til menntunar sér og ánægju … (T. S. 1947: 292)

Það var lesendum Tómasar framandleg hugsun að atvinna væri ekki árstíðabundin og að hana mætti stunda í húsaskjóli árið um kring. Þessari lýsingu á menningarumgjörð stórborganna fylgja síðan nákvæmar lýsingar á þeim margvíslegu og framandlegu stofnunum er fylgja stórborgarmenningunni: listasöfnum, fornminja- og náttúrugripasöfnum, bókasöfnum, leikhúsum og háskólum, sem og þeim margvíslegu starfsstéttum er tilheyra hinum ólíku geirum borgarmenningarinnar. Öll ber lýsingin merki þess að hún er rituð fyrir þjóð sem vart þekkti tvílyft hús, vegi, holræsi eða menningarstofnanir sem fylgja borgarmenningunni, hafði aldrei hlýtt á tónleika eða séð leiksýningu eða listasafn.

Sjálfur gerir Tómas þá játningu, að á ferðalagi sínu um heiminn hafi hann uppgötvað margt sem hann hafði ekki haft getu eða hugmyndaflug til að ímynda sér fyrr en hann sá það með eigin augum, einkum hvað varðar byggingarlist og myndlist:

Hef eg þar fyrir mér eigin reynslu, og hafði eg varla hugað að hinum smíðandi snilldum, öllu þeirra ágæti, þeirra mikilvægu verkunum í veraldarsögunni … og í mannligu lífi, hvað mikið þar um er talað í bókum, og oft ómögulegt án þess að bera skynbragð að skilja heil merkisrit eður að taka þátt í samræðum siðaðra manna, fyrr en augu mín opnuðust [og] eg sá hin fögru löndin hvar snilldin eiginliga á heima ásamt náttúrunnar indæli og himinsins blíðu. (T. S. 1947: 338)

Tómas Sæmundsson og félagar hans í kringum tímaritið Fjölni opnuðu Ísland fyrir nútímanum.

 

Heimildir

Berlin, Isaiha. 1999. The Roots of Romanticism: The A.W. Mellon Lectures in the Fine Arts. Princeton, NJ: Princeton University Press.

Dillon, A. 1840. A Winter in Iceland and Lappland. London: Henry Colburn.

Eggert Ásgeirsson. 2007. Tómas Sæmundsson og Sigríður Þórðardóttir. Reykjavík: Eggert Ásgeirsson.

Gombrich, Ernst. 1989. Art and Illusion: A Study in the Psychology of Pictorial Representation. Princeton, NJ: Princeton University Press.

Jón Helgason. 1941. Tómas Sæmundsson: Æfiferill hans og æfistarf. Reykjavík: Ísafold.

Jónas Hallgrímsson. 1989. Ritverk Jónasar Hallgrímssonar I. bindi.  Ljóð og lausamál. Ritstj. Haukur Hannesson, Páll Valsson og Sveinn Yngvi Egilsson. Reykjavík: Svart á hvítu.

Páll Valsson. 1999. Jónas Hallgrímsson Ævisaga. Reykjavík, Mál og menning.

Schelling, Friedrich. 1989. Le arti figurative e la Natura [Über das Verhältnis der bildenden Künste zur Natur, 1807]. Ítölsk þýðing og ritstj. G. Moretti og L. Rustichelli. Palermo: Aesthetica edizioni.

Tómas Sæmundsson. 1832. Island fra den intellectuelle Side betragtet. Kjøbenhavn: Græbe & Søn.

Tómas Sæmundsson. 1907. Bréf Tómasar Sæmundssonar; gefin út á hundrað ára afmæli hans 7. júní . Ritstj. Jón Helgason. Reykjavík: Sigurður Kristjánsson.

Tómas Sæmundsson. 1947. Ferðabók Tómasar Sæmundssonar. Ritstj. Jakob Benediktsson. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag.

Winkelmann J.J. 1993. Storia dell’arte nell’antichità [Gesichte der Kunst des Altertums, 1764]. M.L. Pampaloni þýddi. Milano: Arnoldo Mondadori Editore.

 

%d bloggers like this: