
Horft á handanveru himinhvolfsins.
Óreiða alheimsins frá sjónarhóli jarðarinnar
Þessi skemmtilega ritgerð Carlo Sini er birt í "Appendici" eða viðaukum aftast í bókinni "Leikur sannleikans" (Opere: Il gioco della veritá -Semiotica e ermeneutica, Volume I, Tomo II, Jaca Book, Milano 2019, bls 279-285) og er ádeila á viðtekna trú í samtímanum á "hlutlægan sannleika". Sannleikurinn er ekki "hlutlægur" segir Sini, því hann er ekki "hlutur", heldur atburður, og sá almenni átrúnaður á "hlutlægni" til dæmis í allri umræðu um vísindi í samtímanum, er knúinn áfram af engu öðru en einmitt ástríðunni, ástríðunni sem er huglægt fyrirbæri og er þar með talið hagsmunatengt, afstætt og í alla staði óáreiðanlegt. Sini á hér í meistaralegri samræðu við samtíma sinn, ekki síst fulltrúa svokallaðs "nýraunsæis" í samtímanum, en ekki síður við kollega sinn Gianni Vattimo, sem hefur innleitt hugtakið "Hin veika hugsun" í ítalskri samtímaheimspeki, hugsun er lítur á möguleika heimspekinnar fyrst og fremst sem túlkun er byggi á eldri túlkun og vísi til annarrar túlkunar í það óendanlega. Hér er semsagt á ferðinni snörp ádeila á tvær höfuðslóðir í ítalskri og evrópskri samtímaheimspeki, þá sem kennir sig við nýraunsæi og hina sem byggir á túlkunarheimspekinni eða Hermeneutics eins og það er kallað upp á ensku. Eitursnjöll ritgerð og hrein skemmtilesning, sem fyllir upp í spurningar við lestur færslunnar um "Tæknina og ofbeldið". Þýðingin og uppsetningin er nýendurbætt í febrúar 2023.
Carlo Sini:
Ástríða sannleikans
Ástríðurnar eru fyrirbæri sem tilheyra hinu innra og huglæga. Sannleikurinn er hins vegar það sem er, eitthvað hlutlægt og handfast, eitthvað sem er óháð ástríðum okkar. Þessi útbreiddi hugsunarháttur er ekki ástæðulaus. Engu að síður vildi ég sýna fram á að einnig sannleikurinn er í kjarna sínum ástríða, reyndar að ekkert sé jafn ástríðuþrungið og einmitt hann. Til að rökstyðja þessa staðhæfingu verður óhjákvæmilega að kollvarpa þeirri útbreiddu skoðun sem lítur á sannleikann sem eitthvað “hlutlægt”: það er vandasöm aðgerð og ekki hættulaus, því hún mun fá marga til að hugsa að “í raun og sannleika” hljóti sá sem heldur fram slíkum efasendum um hinn “hlutlæga sannleika” að vera “níhilisti” (tómhyggjusinni), einhver andstæðingur rökhyggjunnar og sérstaklega vísindalegrar rökhyggju og aðferðarfræði. Einhver ómerkilegur sófisti, ídealisti eða afsprengi áhangenda tískubólu túlkunarfræðanna, í stuttu máli eitthvert “illmenni” eins og Kant sagði í gríni um sjálfan sig.
Hvað um það, hvernig svarar maður slíku? Ástríða sannleikans er sjálfum mér augljóslega svo í brjóst borin að hún leyfir mér ekki að hlaupast undan slíkri áhættu.
Hin almenna og opinbera skoðun segir okkur þetta: sannleikur felst í því að segja, tjá, merkja og sýna hlutina eins og þeir eru, en ekki eins og ég held að þeir séu eða vildi að þeir væru. Ástríða mín óskaði sér þess að þú elskaðir mig í raun og veru, að eftir dauðann biði okkar annað líf þar sem réttlætið ríkir o.s.frv. En elskar þú mig í raun og veru? Og bíður okkar í raun og veru annað líf þar sem hið góða ríkir eitt? Sú staðreynd að mér hugnist að hugsa þannig er engin sönnun á sannleika slíkra hugsana. Þetta virðist benda til eftirfarandi: ég er ekki nægilega upplýstur um hvernig hlutirnir eru í sjálfum sér, handan allra langana minna og óskhyggju minnar. Þetta er án alls vafa ávallt satt um sérhverja staðhæfingu. Ég er ekki einu sinni nægilega upplýstur um sjálfan mig, um eðli og umfang minna eigin ástríðna og langana, hvað þá um það sem er “fyrir utan sjálfan mig”.
Þá spyr ég sjálfan mig: hvernig gæti ég orðið nægjanlega upplýstur? Til dæmis: ætti ég að verða þess megnugur að horfa beint inn í hjarta þitt, eða sjá með eigin augum þetta fyrirheitna land og lífið í handanverunni sem bíður okkar allra? Ímyndum okkur eitt andartak að slíkt væri hægt. Hluturinn sjálfur birtist okkur beinlínis sem slíkur: hjarta þitt eða handanheimurinn. En hvað merkir þetta “beinlínis”? Augu mín sjá aldrei allt sem er í sjónmáli, og það er einmitt þess vegna sem ég leiði það hjá mér hvort þú elskir mig í raun og veru (mig grunar innst inni að þú leiðir það líka hjá þér) og hvort handanheimurinn sé í raun og veru til. En það er einnig rétt, að án augnanna myndi ég ekki sjá neitt. Þversögn hins meinta hlutlæga sanneika liggur einmitt hér: Hún ímyndar sér hluti sem eru sýnilegir án augnanna og raunverleika er geti sýnt sig þó við horfum ekki á hann. Við sjáum ekki ástina í sjálfri sér, og heldur ekki handanheiminn. Við sjáum hins vegar mörg meint ummerki. Hvort þau merkja ást þína eða handanveruna er sú áhætta sannleikans sem við erum sífellt undirseld. Þetta eru óyfirstíganlegar hindranir. En þú segir: Hvað varðar handanheiminn að minnsta kosti, þá höfum við kannski önnur augu þar, eða jafnvel að hluturinn sýni sig án þess að nauðsynlegt sé að skoða hann í genum merki hans.
Kæri vinur, ef þessi orð þín eiga að hafa merkingu þurfum við bæta þessu við: Hlutunum getur verið þannig varið (eins og þú heldur nú fram), en þá værum við ekki til staðar; annað hvort vegna þess að við værum eitt og hið sama með hlutnum eða viðfangi okkar, í einu og öllu, eða þá að við værum sérstakar verur sem ekki er hægt að ímynda sér, og ég get ekki skilið hvernig gætu varðveitt nokkur tengsl við það sem ég er nú. Það verður handanheimur, en hann kemur mér ekki við, hvorki er um mig að ræða né þann handanheim sem ég er að tala um. Þannig get ég ekki séð hvernig þessi “handanheimur í sjálfum sér” sé frábrugðinn þeirri hugmynd að lífið muni vafalaust halda áfram með dauða mínum, en ekki mitt líf eða það sem er líf fyrir mig.
Það er ekki hægt að undanskilja augað frá sjóninni, það er ekki hægt að undanskilja merkin frá hlutunum sem þau merkja, það er ekki hægt að útiloka túlkunina frá sannleikanum. Hér er hins vegar ekki um að ræða “getuleysi” okkar sem hugsanlega muni breytast með tímanum, eða fyrir tilverknað guðdómlegrar náðar. Um er að ræða eðli sannleikans og reynslunnar sem við höfum ávallt af honum. Það merkir ekki, eins og einhver sjálfskipaður “heimspekingur” gæti haldið, að borðið sé ef ég hugsa það, og að hinsti sannleikur þess búi í höfði mér. Þessi heimskulega aðferð við að smætta svokallaðar hughyggjukenningar (eða kenningar túlkunarheimspekinnar á okkar tímum) er einungis vitnisburður um ruddaskap þess sem þannig hugsar, kannski mótaður óljóst af einhverri pólitískri eða þekkingarfræðilegri ástríðu. Þetta á hvorki við um mig né nokkurt ímyndað einstakt og tiltekið “ég”. Enginn heimspekingur hefur nokkru sinni gælt við þá hlægilegu hugsun, að borðið sé þegar ég hugsa það, og sé ekki þegar ég gleymi því, eða þá að það sé undir mér komið að túlka það sem borð eða dúfu. Sannleikurinn (um borðið eins og sérhvern hlut) er örlög sem sérhverjum er trúað fyrir, þar sem sérhver er það sem hann er. Við erum ekki “andspænis heiminum”, virk í okkar litlu heilabúum ímynduðum utan heimsins, en þannig eru mismunandi fáránlegar eða tilbúnar hugmyndir um það hvernig heimurinn sé gerður. Augljóslega erum við “í” heiminum, og allt það sem við hugsum um heiminn, um veruleika hans og sanneika, er sjálft hluti af heimi sem hreyfist í og með honum og framleiðir okkur sjálf, hlutina okkar og merki þeirra fyrir okkur.
Þetta er ástæða þess að ég segi að sannleikurinn sé ástríða. Við göngumst undir það sem Peirce kallaði áhrif sannleikans eða “tilætluð ummerki”. Vitringarnir þrír (á Betlehemsvöllum) voru ekki frjálsir að túlka halastjörnurnar eins og þeir gerðu eða öðruvísi, og hvað okkur varðar, þá höfum við ekki frjálst val um hvort við viljum styðjast við sömu túlkun og vitringarnir eða viljum byggja á nýjustu niðurstöðum stjörnufræðinnar. Þegnarnir eru holdgerving arfborinna hefða sem móta þá, þeir ástunda lifnaðarhætti og þekkingu sem gera þá að þeim þegnum sem þeir eru, og eru þess valdandi að þeir mæta heiminum eins og þeir umgangast hann. Þetta á einnig við um okkar samtíma, eða í almennara samhengi um þá heimspekilegu rökfræðihugsun sem við erum til dæmis að fást við hér og nú til góðs eða ills.
Við erum alltaf í sannleikanum (Arstóteles sagði þetta líka með sínum hætti), því að vera lifandi vera felur í sér lifnaðarhætti sem festa sig í sessi, samræmast og breytast á öldufaldi sigurgöngu og sammælis. Þetta felur í sér málfarslegar siðvenjur, tjáningu og samskipti sem njóta sammælis, felur í sér tilgátur og átrúnaði (til dæmis að þú elskir mig eða að handanheimurinn sé til staðar), allt byggt á túlkunum og íhlutunum sem eiga sínar forsendur og sína þrautsegju (þar til annað kemur í ljós, eins og sagt er).
Þannig er veran í sannleikanum sem við búum í og getum ekki staðið utan við. Lífshættir breytast og þekkingin, túlkunarvenjur og talsmátar taka á sig nýja og áður óhugsandi mynd. Börnin eru öll englabörn. Börnin eru lítil og ómeðvituð glæpakríli sem stýrast af dulinni kynhvöt. Halastjörnurnar eru leiðarvísir allra velviljaðra manna. Halastjörnurnar eru tilviljanakenndur efnismassi úr himingeimnum.
Við sjáum nú að það sem ég skilgreini sem veruna í sannleikanum frá sjónarhorni mannsins, grundvallandi ástríða hans, grundvallandi eins og við blasir eða skynja má af því sem hér hefur verið sagt, einnig varðandi allar aðrar ástríður hans; þessi vera í sannleikanum er líka veran í villunni, nokkuð sem er ekki síður grundvallaratriði. Hér komum við að afgerandi spurningum. Til þess að stytta málið og tjá mig á sem skilmerkilegastan hátt fækka ég þeim í tvær.
Fyrsta spurning: ef ástríðan á sannleikanum og stöðug ástundun hennar leiðir manninn í samfellda veru í villunni, ertu þá ekki að segja að sannleikurinn sé ekki til, og að ástríðan á sannleikanum sé endanlega “óþörf og gagnlaus”? Felur hún ekki einmitt í sér níhilismann, afstæðishyggjuna, efahyggjuna og annað af þeim toga?
Önnur spurning: Þú staðhæfir að þú standir vörð um veru mannsins í sannleikanum, að hann eigi að “gangast undir hann” með ólíkum hætti eftir stað og stund í altækri veru í villunni. Hvernig getur þú neitað því að til séu ólíkar villur eða öllu heldur villa og sannleikur?
Menn fornaldarinnar hugsuðu heiminn með vissum hætti (til dæmis að jörðin væri miðja alheimsins), nokkuð sem við vitum nú með vissu að er ekki rétt. Sannleikurinn hefur þannig þróast í vissa átt, sem ræðst af því hvernig hlutunum er varið, en ekki af því hvernig mennirnir umgangast þá, tala um þá og hugsa þá. Það er rétt, að hlutirnir eru eins og mennirnir segja þá vera, en það er til önnur forsenda umfram þá sem mennirnir segja um hlutina á hverjum tíma, nokkuð sem engin skoðun getur haft áhrif á, nokkuð sem þvert á móti leiðir skoðanirnar stöðugt nær sannleikanum samkvæmt skilningi vísindanna.
Að vera í sannleikanum, að vera í villunni: ég segi að það sé eitt og hið sama.
Þú andmælir og segir sannleikann ekki vera villu, og öfugt (augljóslega geri ég mér líka grein fyrir því, dettur þér í hug að ég skilji þetta ekki?). Þú bætir við að sannleikur sem er í villu sé ekki sannleikur og geti því ekki verið sannleikurinn (með ákveðnum greini). Því sé ég að leika ljótan leik með orðin, en endanlega haldi ég því fram að sannleikurinn sé ekki til. Því sé ég hættulegur eða öllu heldur heimskur tómhyggjumaður (níhilisti) sem er vanhæfur um að hugsa það rétt sem hann segir.
Takk fyrir þetta. Snúum okkur þá að þér. Með sambærilegum hætti segi ég að þú hugsir sannleikann með hjátrúarfullri blætishugsun og lítir á hann sem hlut, sem eitthvað “algilt” (assoluto), þ.e.a.s. aðskilið og skilyrðislaust gagnvart sérhverri tjáningu og hugsun, án þess að gera þér grein fyrir að það er einmitt þú sem skilyrðir hann þannig, nokkuð sem öll reynsla okkar andmælir. Auðvitað hugsa hinir sönnu tómhyggjumenn þetta ennþá þannig, þeir sem aðhyllast afstæðishyggjuna og efahyggjuna. Þeir sem láta sig dreyma um fjöþættan og veiklaðan sannleika (miðað við hinn frumspekilega sannleika, eins og þeir segja). Einnig þeir halda því fram að sannleikurinn sé algildur, að hann ætti í það minnsta að vera það. En þar sem slíkur sannleikur er ekki í sjónmáli, þá sé það sem sjáist “veiklaður sannleikur” sem við erum nauðbeygð að játast og hugsanlega að gleðjast saman yfir, því þegar öllu er á botninn hvolft þá er auðveldara að lifa með honum en með hinum krefjandi og algilda sannleika. Í báðum tilfellum er um hjátrú og hlutadýrkun að ræða.
É held því hins vegar fram að sannleikurinn ekki bara sé, og að annað væri óhugsandi, heldur líka að hann blasi við hverjum og einum. Munurinn er sá að ég lít á hann sem atburð en ekki hlut eða algilda vídd, ekki eitthvað “í sjálfu sér eins og það er” (eins og kreddutrú okkar ímyndar sér hann).
Ef þú hugsar sannleikann sem tilkomu ímynda hans, það er að segja eins og hinar áþreifanlegu ástríður hans, þá er það sem þú hugsar sannleikurinn, og þessi hugsun sem hér er skrifuð á blað er ein ástríða hans eða ímynd, eða hún er atburður hans þar sem sannleikurinn er ávallt til staðar, það er að segja í tilteknum gjörningi eða verknaði, sem í þessu tilfelli okkar er iðkun heimspekinnar. Þessi uppákoma í tiltekinni iðkun -eða þessi staðreynd, þar sem sannleikurinn gerist með því að iðka hann eins og hann er iðkaður, festir síðan í sessi hina almennu mælikvarða sem gera okkur kleift innan atburðar sannleikans að greina á milli merkinga sem við dæmum sem sannar eða falsar.
Innan sagnfræðiiðkunarinnar -eins og við skiljum hana á okkar tímum -telst sú hugmynd að tengja Platon við Móses, og telja slík tengsl forsendu hinnar kristnu opinberunar, fullkomin endaleysa. Engu að síður voru þessi tengsl ástríðufullur sannleikur fyrir Marsilio Ficino. Einmitt innan hefðar sagnfræðiritunarinnar, en iðkun sagnfræðinnar er, eins og öll iðkun, ein aðferð til að kalla fram sannleikann, en ekki eitthvað sem á að herma upp á og bera saman við einhvern meintan hlutlægan sannleika í sjálfum sér.
Þegar sagt er að heimspekin sé og hafi verð með þeim hætti sem heimspekisagan endursegir hana, þá er það ein leið sannleika til að gerast, en ekki eitthvað satt, vegna þess að sannleikurinn sé sjálfur sögulegur eða sagnfræðilegur. Slík hugsun felur í sér hreina klifun og sýnir að viðkomandi er fullkomlega blindur á eigin iðkun og sér hana í hjátrúarfullu ljósi eins og líffæri ósmitað af hinu sanna.
Hið sanna í sjálfu sér er hið sanna sem á sér stað, en við megum ekki rugla saman tilkomu hins sanna, atburði þess, og þeirri merkingu sem verður til við þennan atburð. Merkingin er hið sanna sem skilur eftir sig ummerki þar sem það gerist. Ef þú leggur að jöfnu merkið og atburð þess, ef þú samsamar merkið og merkingu merkisins við atburð þess (þú munt ekki finna annað merki utan mín), eða ef þú þvert á móti lítur á sérhvert merki sem ófullnægjandi, vegna þess að þú heimfærir það huglægt upp á meintan sannleika – eitthvað sem er í sjálfu sér eins og það er, handan merkja sinna, þá skortir þig skilning á sannleikanum, jafnvel þótt þú sért á þinn hátt vitnisburður hans, einmitt með þeim hætti og í þeirri mynd sem þú iðkar hann. Ástríða þín er einnig bundin sannleikanum og nú sérð þú vel að hún er í villu eins og allar ástríður.
Sú staðreynd að ástríða þín er í villu, það er að segja í fjarlægð, vegna tiltekinna ummerkja og hefða, gerir hana ekki ósannari sem slíka, óvirkari í atburðarás sannleikans í ímyndum sínum og siðvenjum. Ekki nema þú haldir áfram að trúa því að sannleikurinn sé dómur er snerti tiltekinn hlut í sjálfum sér, en ekki tiltekna iðkun (til dæmis iðkun dómsúrskurðarins, sem ein aðferðin í atburði sannleikans), í samræmi við þá kenningu mína sem meðtekur sannleikann sem ástríðu, að þegar allt kemur til alls, þá sé einungis tiltekin siðfræði sem samsvarar sannleikanum en ekki tiltekin rökfræði. Svo bæti ég þessu við: því einnig rökfræðin er ekki annað en tiltekin siðfræði, það er að segja tiltekin aðferð til að búa í sannleikanum, umgangast hann og tjá hann með tiltekinni iðkun sem er sönn með róttækum hætti í veru sinni í villunni.
Að því gefnu að mér hafi fram að þessu tekist að gera mig skiljanlegan verður ekki erfitt að takast á við seinni spurninguna, sem ég mun einungis gera lauslega. Mér virðist auðskilið að sannleikurinn, eins og ég skil hann, sé í villu, það er að segja að við séum á samfelldri vegferð frá villunni til sannleikans, jafnvel þótt hann sé aðeins brotakenndur og á stöðugri vegferð eins og margir vísindamenn tala um, einmitt vegna þess að sannleikurinn er ekki tiltekinn hlutur er væri þegar til staðar eins og hann er, án okkar vitundar, heldur sé hann einmitt atburður. Sem slíkur setji hann engin takmörk á rannsóknina, eða eins og réttara væri að segja, engin takmörk á ástríðuna. Hins vegar eru menn vanir að andmæla þessu með því að benda á að jörðin hafi ekki verið talin miðpunktur okkar litla heims, jafnvel á tímum Aristótelesar: þá þegar var sólin búin að taka þetta sæti miðjunnar.
Þetta er óumdeilanlega rétt fullyrðing, að því tilskyldu að menn gangist jafnframt skilyrðislaust undir eftirtaldar staðhæfingar (venjulega faldar):
-að jörðin, sólin og hinar stjörnurnar séu hlutir í sjálfum sér, óháðir þeim mannlegu augum sem sjá þá, og óháðir þeim orðum sem nefna þá (í raun erum við að afneita þessu um leið og við nefnum þá);
– að því tilskyldu að sú iðkun stjarnfræðinnar og þeir iðkendur hennar sem höfðu tileinkað sér aðferðir hennar á dögum Aristótelesar, hafi verið sömu gerðar og iðkendur hennar á okkar tímum.
(Við vitum mæta vel að sú er ekki raunin, en við gleymum því stöðugt að sá stjarnfræðilegi og algildi alheimur sem við höfum lengi verið að móta, er árangur okkar skilgreindu rannsóknaraðferða, þannig að við erum sjálfkrafa undirseld þeim.
Við erum afsprengi þessara vísindahefða, sem hugsa það sem sjálfsagðan hlut að til sé algildur stjarnfræðilegur alheimur, sem er skoðaður af augum er séu með sama hætti algild og „hlutlæg“ – með öðrum orðum, þá er „hlutlægnin“ ástríða vísinda okkar. Það er í senn virðingarverð og afgerandi aðferð við framkvæmd sannleikans, og um leið einkennisímynd vísindanna fyrir veru þeirra í villunni.)
Fullyrðingin að jörðin hafi ekki verið miðja alheimsins á tíma Aristótelesar, heldur sólin, er jafnframt rétt að því tilskyldu að þekkingin sé endurspeglun hlutanna eins og þeir eru í raun og veru, óháð öllum hagsmunum (en ekki tiltekin iðja, tiltekin siðfræði, það er að segja aðferð til þess að byggja og búa í heiminum og staðfesta okkur þar sem iðkendur þeirrar iðju sem í raun er ástunduð þannig að til verða hlutir, möguleikar og sambönd, það er að segja án þess að íhuga að hagsmunahlutleysið sé ein mynd hagsmunagæslunnar og ímynd ástríðunnar, nefnilega ástríðu sannleikans.
Við getum reyndar ekki ákveðið niðurstöður þekkingariðju okkar fyrir fram, hins vegar hafa menn bent á að yfirleitt sé hún sigursæl. Hvernig gæti það gerst ef þekkingariðjan væri ekki í samræmi við heiminn eins og hann er?
Einmitt, en trúið þið því í raun og veru að auga Aristótelesar hafi ekki á sínum tíma upplifað sína sigra? Eða augu vitringanna? Ástríður okkar eiga sér langa keðju. Hefðirnar framlengja sig í gegnum breytingar, og sama gildir um orðin, þannig að jörðin og sólin bæði eru og eru ekki það sama fyrir Aristótelesi og okkur.
Frá ómunatíð höfum við dvalið í ástríðum skynjana okkar og hugsana, við höfum tekið sigra þeirra í arf, breytt stefnu þeirra vegna þess að þessi ástríða sannleikans, sem knýr okkur áfram, bendir okkur líka á nýja hagsmuni sem umbreyta gömlum hlutum og einnig okkur sjálfum, okkur sem erum á valdi þessarar ástríðu.
Það er ekki lengur nein ráðgáta fólgin í að sjónin afhjúpi heiminn fyrir mér og staðsetji mig með ákveðnum hætti sem mannkynið hefur frá upphafi sínu fram á okkar daga spunnið; né heldur er sú staðreynd ráðgáta að stjörnusjónaukinn Hubble hafi fært okkur á allra síðustu árum hluti sem enginn lifandi maður gat áður ímyndað sér. Hvers vegna hefð hann ekki átt að gera það? Er hann ekki einmitt sjónauki í sannleikanum, þó það sé með hans máta, það er að segja í merkjum villunnar sem hann dvelur í?
Er það ekki af hinu góða að ég sé á varðbergi gagnvart merkjum ástar þinnar ef ég vil skilja betur sannleika ástríðna okkar, – eða hvert þær eru að leiða okkar sem undirsátar þeirra og ástleitnir gerendur? Þurfum við á altækri ást að halda til þess að sjá og vita hvort þú elskar mig? Er algildur heimur okkur nauðsyn ef heimurinn sem ég tala um er heimur augna minna og sjónauka?
Endanlega verður ástríða sannleikans spurning samtvinnuð örlagasögu okkar sem þegnar hennar (soggetti), og með hvaða hætti við göngumst undir hana innan tiltekinnar hefðar (pratiche). Merki ástríðna okkar þurrausa aldrei sannleikann, ekki frekar en að orðin sem við notum tæmi möguleika tungumálsins.
Tungumálð er heldur ekki tiltekinn hlutur, heldur atburður segðarinnar í gegnum sín tjáningarfullu merki. Um leið tjá merki ástríðu okkar (eins og orð tungumála okkar), sem verða til í mismun sínum, samstöðu með ástríðum og merkjum fortíðarinnar, og leggja þannig grunninn að samstöðu og mismun framtíðarinnar.
Þú munt ekki finna hina algildu ást í neinu augntilliti eða orði; en getur þú kannski andmælt því að ástin gagnsýri sérhvert það orð og sérhvert augnatillit sem vilja sýna og tjá ástleitnina? Er atburður ástarinnar ekki einmitt fólginn í þessu, og engu öðru, jafnvel þótt hann sé í villu og villuráfandi í merkjum sínum? Hvaða ást vilt þú umfram þessa sem þú dvelur í raun og veru í, og getur íklæðst innan óbrúanlegra fjarlægða hins ófullgerða, langananna, eftirsjárinnar og minnisins? Það er einmitt ástin sem gerist, ef hún gerist, í villum hinna ástleitnu ástríðna, og hvergi annars staðar. Það er einmitt sannleikurinn sem gerist í villu sérhverrar ástríðu. Og kannski þyrftum við einnig að hugsa með sama hætti um hið eilífa líf; en til þess þyrftum við aðrar og sérhæfðar ástríður, þar sem ég verð að viðurkenna ólæknandi vanþekkingu mína.
Like this:
Like Loading...