Augu mín opnuðust og ég sá hin fögru löndin – Tómas Sæmundsson

Augu mín opnuðust og eg sá hin fögru löndin

Grand Tour Tómasar Sæmundssonar

Tómas_Sæmundsson úr Andvara 1888

Tómas Sæmundsson. Koparstunga merkt H.P. Hansen, birtist í tímaritinu Andvara 1888.

(Grein þessi var upphaflega rituð fyrir hátíðarrit Skandinaviska föreningen i Rom, sem gefið var út af Carlsson Bokförlag í Stokkhólmi 2010 í tilefni 150 ára afmælis félagsins. Þar birtist stytt útgáfa greinarinnar í danskri þýðingu Niels Vendelbjerg. Sjá:Till Rom – Nordiska konstnärer i Rom under 150 år, bls 61–85. Greinin birtist í eftirfarandi mynd í bókmennta-tímaritinu Skírni, haustútgáfa 2012. Ég vil þakka Kjartani Ólafssyni fyrrv. ritstjóra fyrir yfirlestur og góð ráð.)

 

Nú ert þú kominn burt úr hinum mjúku móðurhöndum fósturjarðarinnar, og jafn snart sagði hjarta mitt mér, að hvað sem lægi fyrir mér að sjá af fegurð landa og staða, þá yrði hún mér þó ætíð í allri sinni fátækt dýrlegasti bletturinn á jarðríki.

Tómas Sæmundsson í bréfi til föður síns, Kaupmannahöfn 30. ágúst 1827

 

Árið 1832 hélt íslenski guðfræðikandidatinn Tómas Sæmundsson í tveggja ára ferðalag frá Kaupmannahöfn suður um meginland Evrópu til Ítalíu og í Miðjarðarhafssiglingu frá Napoli með viðkomu í Grikklandi, Tyrklandi, Möltu og Sikiley og síðan landleiðina frá Napoli um Róm með viðkomu í París og London á heimleiðinni til Kaupmannahafnar og þaðan til Íslands. Tómas kom til Rómar um svipað leyti og H.C. Andersen. Hann var í reglulegu sambandi við Bertel Thorvaldsen veturinn 1833, þegar hann var að vinna að stofnun Danska bókasafnsins í Róm, sem var forveri Skandinavisk forening. Tómas var fyrsti Íslendingurinn með klassíska menntun sem tókst á hendur slíkt ferðalag. Hér er brugðið upp mynd af ferðalaginu, og hvernig Ítalía og Miðjarðarhafslöndin komu þessum unga Íslendingi fyrir sjónir.

 

Íslenskt veganesti

Þegar Tómas Sæmundsson steig á skipsfjöl í fyrsta skipti á ævinni og sigldi til framhaldsnáms í guðfræði og heimspeki við Kaupmannahafnarháskóla í ágústmánuði 1827 kvaddi hann land sem hvorki átti sér borg né akvegi, bændasamfélag sem ekki þekkti iðnbyltingu 18. og 19. aldar og átti fáan húsakost er þætti boðlegur á meginlandi Evrópu. Íbúafjöldi eyjarinnar losaði rúm 50 þúsund, þar af voru íbúar Reykjavíkur um 600 og bjuggu í húsaþyrpingu sem myndaði þrjár götur: Aðalstræti, Strandgötuna (Hafnarstræti) og Löngustétt (Austurstræti). Einungis 40 hús í bænum voru byggð úr öðru byggingarefni en tilfallandi torfi, ótilhöggnu grjóti og rekaviði. Sjálfur var Tómas tvítugur bóndasonur af Suðurlandi og átti að baki tveggja vetra skólagöngu hjá prestinum í Odda á Rangárvöllum og 4 vetra nám í Bessastaðaskóla á Álftanesi, þar sem hann hafði lært bæði latínu og grísku, málfræði, stærðfræði, eðlisfræði og guðfræði. Hann þekkti vart annað af Íslandi en Suðurlandsundirlendið, Álftanesið og Reykjavík og ekki önnur farartæki en hestinn. Það er nánast útilokað að ímynda sér á okkar tímum hvaða tilfinningar og væntingar bærðust í brjósti þessa unga sveins á siglingunni til Hafnar, en þangað kominn var hann ekki í nokkrum vafa um að þetta örsnauða og harðbýla land á hjara veraldar væri „dýrlegasti bletturinn á jarðríki“. Þetta var upphafið að sjö ára útivist (með stuttri sumardvöl á Íslandi 1829) sem átti eftir að verða einhver sú viðburðarríkasta sem sögur fara af meðal Íslendinga á 19. öldinni. Allan þann tíma átti Ísland hug hans og hjarta, og það fór aldrei á milli mála hjá Tómasi að tilgangurinn með menntun hans í Kaupmannahöfn og ferðalaginu um meginland Evrópu, Ítalíu Grikkland og Tyrkland, var fyrst og síðast að gera hann hæfari til að þjóna fósturjörðinni.

Vegarnesti hans var íslensk bændamenning eins og hún gerðist best á þessum tíma, vinnusemi, nægjusemi og lestur guðsorðabóka í bernsku, klassísk framhaldsmenntun í anda upplýsingarinnar á Bessastöðum. Hann tók með sér sagnaarf Íslendinga og þekkingu á söguljóðum Hómers sem Sveinbjörn Egilsson kennari hans hafði þýtt á íslensku. Og hann tók með sér kunnáttu í tungumálum og frjálslynda lúterska guðfræðikenningu, sem Jón Jónsson skólameistari á Bessastöðum hafði innrætt honum. Eftir ársdvöl í Kaupmannahöfn skrifar hann árið 1828 til vinar síns Jónasar Hallgrímssonar sem þá var enn í Bessastaðaskóla:

Eg sé að sönnu að alt er hér betra og þægilegra, þegar peninga ekki skortir, en ég hef samt svo mikla löngun til að finna kerlinguna hnarreistu heima, hana móður okkar; ég vil heldur lifa í sulti og seyru í kaföldunum þar, en í þessari paradís eða réttara sagt í þessum glaumi og skarkala – í þessu ólguhafi hvar óbilugustu klettarnir sem maður ætlar að grípa og halda sér fast við, þegar í ramman rekur, falla um koll og svíkja mann við minnsta iðukast; nei, hér vil ég ekki vera! (T. S. 1907: 46–47)

Þrátt fyrir yfirlýsingar á borð við þessa naut Tómas lífsins og þeirrar aðstöðu sem hann hafði við Kaupmannahafnarháskóla, þar sem hann lagði höfuðáherslu á guðfræði- og heimspekinám, en var auk þess vakandi og opinn fyrir öllum þeim fróðleik og allri þeirri menntun sem honum stóð til boða. Sá háskólakennari sem virðist hafa haft mest áhrif á Tómas var guðfræðikennarinn H.N. Clausen sem taldist frjálslyndur guðfræðingur af rómantíska skólanum og hafði andæft gegn altækri rökhyggju upplýsingarinnar eins og hún birtist til dæmis hjá Grundtvig. Clausen hafði verið nemandi Schleiermachers hins þýska sem Tómas átti eftir að hitta í Berlín og hrífast af. Tómas fór eina ferð til Íslands sumarið 1829 og fór þá ríðandi norður í land með viðkomu í Garði í Aðaldal, þar sem hann kynntist Sigríði Þórðardóttur, dóttur sýslumannsins í Norður-Þingeyjarsýslu. Munu þau hafa trúlofast á laun, og beið Sigríður eftir heitmanni sínum í fimm ár, en hann kom ekki aftur í Aðaldalinn fyrr en alkominn úr utanlandsferðum sínum í október 1834, þegar þau gengu í hjónaband. Tómas lauk guðfræðiprófi með „besta karakter“ í janúar 1832, 24 ára gamall, og var þá þegar farinn að huga að ferðalagi um meginland Evrópu. Ekki til þess að tefja fyrir heimferðinni, þar sem heitkonan beið hans, heldur þvert á móti til að auka við menntun sína og þekkingu á menningarmálum almennt og helstu tungumálum álfunnar, þýsku, ítölsku, frönsku og ensku „svo eg geti haft fullt gagn af bókverkum þeirra, en til þessa er hið einasta tilhrökkvandi meðalið að uppihalda sér 1–2 ár meðal þeirra. […] Utanlandsreisa upp á 1 eða 2 ár er fyrir öllum hér það sem rekur lestina, og heyrir nauðsynlega með til að stúdera heilt út,“ segir hann í bréfi til föður síns vorið 1832 (T. S. 1907: 99 og 101).

 

Hugmyndin um ferðina miklu

Þótt Tómas segi föður sínum að slíkt ferðalag tilheyri almennu námi átti hugmynd hans að ferðinni sér enga hliðstæðu meðal íslenskra námsmanna í Kaupmannahöfn á þessum tíma. Til ferðarinnar þurfti bæði fjárráð og áræði, og telja má víst að það hafi verið áræði Tómasar og kjarkur sem einnig gerði honum kleift að fjármagna ferðina, sem kostaði þegar upp var staðið um 1500 ríkisdali (sem samsvaraði kaupverði þriggja meðalstórra jarða á Íslandi samkvæmt Jóni Helgasyni). Það voru faðir hans, vinir og velgjörðarmenn sem lánuðu honum fé til fararinnar, og trúlega einnig væntanlegur tengdafaðir hans, sýslumaðurinn í Aðaldal. Tómas fékk engan opinberan styrk til ferðarinnar. Faðir hans taldist vel stæður bóndi á íslenskan mælikvarða og væntanlegur tengdafaðir hans var embættismaður konungs, og sjálfur var Tómas slíkum gáfum gæddur að hann gat ótrauður stefnt til metorða á Íslandi eftir heimkomuna. En það sem greiddi götu hans best var áræðið og óslökkvandi fróðleiksfýsn sem takmarkaðist ekki við höfuðáhugasvið hans, guðfræðina og heimspekina, heldur birtist einnig í vakandi áhuga á framgangi allra vísinda, svo og verklegra framkvæmda og á bókmenntum, siðum og háttum þeirra þjóða sem hann heimsótti. Eftir heimkomuna hafði Tómas vetrardvöl í Garði í Aðaldal og mun hafa notað tíma sinn þar til að skrifa það handrit sem hann skildi eftir sig ófullklárað þegar hann lést, langt fyrir aldur fram 1841, þá 34 ára gamall eftir sex ára starf sem sóknarprestur að Breiðabólstað í Fljótshlíð, nálægt bernskuslóðunum. Handritið rekur hluta af ferðasögu hans en var um leið hugsað sem alþýðlegt alfræðirit um evrópska samtímamenningu, og er því sem slíkt einstök heimild um sýn íslensks menntamanns á samtíma sinn. Handritið var ekki prentað fyrr en rúmum 100 árum síðar (T. S. 1947) og kom því aldrei fyrir sjónir samtímamanna Tómasar, en viðhorf sín til samtímans birti hann hins vegar í tímaritinu Fjölni sem hann gaf út ásamt þrem boðberum þjóðfrelsis og rómantíkur á Íslandi, skáldinu Jónasi Hallgrímssyni og fræðimönnunum Konráð Gíslasyni og Brynjólfi Péturssyni. En tímarit þetta kom út árlega 1835–39 og aftur 1843–47 og markar upphaf þeirrar þjóðernisvakningar á Íslandi sem lyktaði með sjálfstjórn 1918 og stofnun lýðveldis 1944. Þar var fjallað jöfnum höndum um bókmenntir, stjórnmál og samfélagsmál á alþýðlegan en hvatvísan hátt í anda rómantísku stefnunnar.

 

Hinn rómantíski bakgrunnur

Fyrsta útgefna ritverk Tómasar kom þó út á dönsku árið 1832, skömmu áður en hann hélt í suðurgöngu sína. Ritgerðin Island fra den intellectuelle Side betragtet virðist skrifuð um svipað leyti og hann lauk kandídatsprófi og fjallar einkum um mikilvægi og skipulagningu menntamála á Íslandi. Ritgerðin lýsir þeim nýja metnaði og stolti fyrir hönd þjóðarinnar, sem átti eftir að einkenna útgáfu Fjölnis, og á milli línanna má lesa þann eldmóð sem rómantíska stefnan hafði blásið þessum kornunga menntamanni í brjóst. Í lok ritgerðarinnar, sem augsýnilega er skrifuð fyrir dönskumælandi lesendur, er dregin upp eftirfarandi mynd af Íslandi, sem fróðlegt er að skoða í ljósi þeirrar myndar sem Tómas átti eftir að draga upp af helstu menningarborgum álfunnar, Berlín, Róm, Konstantínópel, París og London:

Farsæld er möguleg á Íslandi: það er ekki svo stjúpmóðurlega úr garði gert sem menn vilja oft vera láta. Aðeins sá, sem sér auðlegð náttúrunnar einungis í ávaxtatrjám og kornökrum, getur neitað Íslandi um gæði hennar. Þegar ég lít vítt og breitt um sviðið í kring um mig og sé grænar fjallshlíðarnar, sem eru hvítdoppóttar af litríku sauðfé; þar sem yfirsveimandi fuglagerið hefur umbreytt dökkum hömrunum í hvítt, eins og til að fela fyrir sjónum okkar hvar snjórinn byrjar; þar sem fuglarnir í mergð sinni myrkva sólina eins og staðgenglar skýjanna sem fjallatopparnir hafa rænt himninum. Eða hvernig laxa- og silungatorfur forða sér undir vatnsyfirborðið til að verjast loftárásum þeirra yfir fjallavatninu, læknum eða hægfljótandi ánni, þar sem þeir fela sig í malarbotninum. Eða hvernig æðurin kennir ungunum sínum sundtökin við fæðingarsker sín, til þess að geta sem fyrst skilað skerinu til eiganda síns; eða hvernig þorsktorfurnar leita skjóls og dauða í kjöltu hins skelfda fiskimanns undan gráðugum kjafti hvalanna, þar sem þorskurinn stekkur sjálfviljugur upp í bátinn eins og til að sýna hversu miklu fremur hann kjósi meðferð fiskimannsins og þann milda dauða sem hann getur fært honum. Sannlega segi ég ykkur, að þegar ég sé allt þetta, finn ég mig ekki í neinni dauðri eyðimörk, sem hugmyndaflugið geymir. Nei! Þá kemst ég fyrst í áþreifanlega snertingu við lífið í alheiminum, þetta líf sem gegnsýrir alla náttúruna. Þá heyrir mitt líkamlega eyra og þá sér mitt líkamlega auga það sem Sálin fær einungis hugboð um við áhorf  jurtanna; þá verð ég þess fullviss að hin íslenska náttúra mun ekki skilja börn sín eftir án þeirra efnislegu gæða er gera áhyggjulaust og hamingjuríkt líf mögulegt, og að þau munu geta höndlað það sem þeim hingað til hefur verið synjað um, þegar þau hafa með menningunni lært að nýta sér gæði hennar. Menningin er möguleg á Íslandi; því af sínu náttúrlega upplagi er Íslendingurinn ekki ver úr garði gerður en aðrir íbúar jarðarinnar, og í því sem hér á undan var ritað hef ég reynt að varða leiðina til framfara miðað við aðstæður. Hvað siðferðisvitundina snertir, þá mun engin efast um hana, þar sem hún byggir á manninum sjálfum, en það er einmitt hin íslenska náttúra og lyndiseinkunn landsmanna sem mun næra hana. Íslensk náttúra hvetur vart til þess að menn setji sér yfirborðskenndar lífsnautnir hins ríka sem æðstu siðferðismarkmið. Hún mun án efa vera til þess fallin að beina huganum hærra og viðhalda alvöru hans. Þannig hefur náttúran í reyndinni mótað þjóðarskapgerðina: sú innhverfa, djúphygli og trúarlega vitund, sem oft mætir okkur, eru mótaðar af henni, einkenni sem geta ekki annað en létt undir dyggðugu líferni, þegar menn hafa með fullum skilningi numið heilagleika skyldunnar. Þannig verða Upplýsing og Menning forsendur alls hins – forsendur sem ég gekk út frá í upphafi og liggja til grundvallar því sem á eftir fer, en réttmæti þess vildi ég sanna frá upphafi máls míns og stæri mig nú af að hafa sannað. (T.S. 1832)

Rétt er að vekja athygli á að sú ljóðræna mynd frá árinu 1832, sem hér er dregin upp, svipar mjög til tveggja höfuðverka Jónasar Hallgrímssonar, ljóðanna Ísland sem birtist fremst í fyrsta tölublaði Fjölnis 1835, og Gunnarshólma sem birtist fyrst í 4. árgangi Fjölnis 1838. Textinn sýnir hvílíkur áhrifavaldur Tómas hefur verið á Jónas, bæði hugmyndalega og fagurfræðilega. Páll Valsson hefur bent á annan áhrifavald Jónasar, sem var skáldið Adam Oehlenschläger. Ljóð hans Island  ber mörg einkenni Íslands eftir Jónas, en eins og Páll segir þá er „myndmál Jónasar miklu betra og hann gengur ekki nándar nærri jafn langt í fortíðarhyllingu og Adam Oehlenschläger. Jónas á erindi við samtíma sinn en Oehlenschläger er fastari í fortíðinni.“ (Páll Valsson 1999: 116-117.)

Þessi innblásna mynd af Íslandi er í raun sá bakgrunnur sem Tómas hefur þegar málað í þá mynd af heiminum sem hann dregur upp í handriti sínu að Ferðabókinni; það er frá þessum sjónarhóli sem hann leggur í ferðalag út í heiminn í þeim tilgangi að afla sér þekkingar og takast á við það verkefni að gera menninguna ekki bara „mögulega“, heldur líka raunverulega á Íslandi.

Þessi mynd segir okkur ekki mikið um hvernig hið raunverulega Ísland leit út, heldur er þetta upphafin mynd í anda rómantísku stefnunnar sem segir okkur jafnframt að Tómas sá Evrópu með hennar gleraugum á ferðalagi sínu. Sú sýn hafði þegar fest rætur í brjósti hans þegar hann yfirgaf Ísland, en hún skerptist og fágaðist á námsárunum í Kaupmannahöfn, og því er ferðalýsing hans mótuð af þeim anga rómantísku stefnunnar sem við getum kallað norrænan og þýskan og dregur enn dám af þeim lúterska píetisma sem mótað hafði upplýsingaöldina á Íslandi og á Norðurlöndum. Hann talar um siðferðilegt eðli íslenskrar náttúru og siðferðilega markhyggju hennar, sem hafi mótandi áhrif á þjóðarskapgerðina og þar með á eðlisbundin siðferðileg markmið hennar. Þessar hugmyndir eiga rætur sínar í þýskri hughyggju, sem við getum til dæmis fundið hjá Friedrich Schelling sem hélt því fram að í náttúrunni væri innbyggt afl er stefndi að fullkomnun: „Hvað er í raun og veru hin fullkomna mynd hlutarins? Ekkert annað en skapandi líf hans, tilvistarkraftur hans. Sá sem sýnir náttúruna sem dautt fyrirbæri getur aldrei höndlað það djúpstæða ferli, svipað hinu efnafræðilega, sem getur af sér í gegnum hreinsandi mátt eldsins hið hreina gull fegurðarinnar og sannleikans“ (Schelling 1807/1989).

Þessi trú á eðlislægan siðferðilegan og fagurfræðilegan kraft í náttúrunni, sem Tómas notar ekki bara til að réttlæta föðurlandsást sína, heldur líka trúarsannfæringu sína, er mikilvægur þáttur í því flókna fyrirbæri sem við köllum í daglegu tali rómantík, en þetta vandmeðfarna hugtak felur í sér margvíslegar innri andstæður sem sjást best í því að jafn ólíkir málarar og Caspar David Friedrich og Francesco Goya teljast til rómantísku stefnunnar, eða jafn ólíkir myndhöggvarar og Thorvaldsen og Jean-Baptiste Carpeaux. Það sem þessir listamenn áttu sameiginlegt var í raun andóf gegn þeim skilningi upplýsingarinnar, að náttúran væri hlutlægt og dautt fyrirbæri er byggi yfir vélrænu orsakalögmáli og að rétt eins og vísindin gætu birt okkur hina „réttu“ og endanlegu mynd náttúrunnar þá gerði myndlistin hið sama með sem nákvæmastri eftirlíkingu hennar. Það var þessi „raunsæislega“ eftirlíking hinnar dauðu náttúru sem Schelling andæfði gegn í stefnuriti sínu um náttúruna í myndlistinni, og þar átti hann bandamenn fyrst og fremst í því tilfinningaþrungna tilvistardrama sem við finnum í verkum skálda eins og Byrons eða Hoffmans og myndlistarmanna eins og Caspars Davids Friedrich, Gericault eða Goya.

 

Þegar þýska rómantíkin bjargaði heimspekinni

Tómas Sæmundsson leggur sig fram við það í handritinu að ferðabók sinni að skýra evrópska heimspekiumræðu úr samtímanum fyrir íslenskum lesendum sem voru alþýða manna til sveita, bændur og vinnuhjú. Það er forvitnileg lesning og hjálpar líka til við að skýra þá mynd sem hann bregður síðan upp af fjarlægari löndum eins og Ítalíu, Grikklandi og Tyrklandi. Í þeirri umræðu er það efnishyggja upplýsingarinnar sem veldur Tómasi áhyggjum:

Sú meining í heimspekinni hafði helzt tekið yfirhönd að hið líkamliga, það sem maður sæi og þreifaði á, væri það einasta sem menn gætu reitt sig upp á … Hér með upphafðist þá allur munur góðs og ills, og þegar sálin hætti að vera til, gat og ekkert annað líf til verið; var því einsætt að hvör mætti lifa og láta sem vildi. Gekk Frakkland á undan öðrum með slíkum lærdómum. Má hér af líta að heimspekin – svo fagra útvortis mynd sem hún í skálda, mælskumanna og annarra gáfumanna munnum hafði upp á sig tekið – þó mundi að innan vera svipt sínum grundvelli og vera allskammt frá gröf sinni ef svo færi fram. (T. S. 1947: 130)

Það er hér sem Tómas segir Kant veita óæskilegri þróun innan heimspekinnar viðnám með rannsókn sinni á rótum og mörkum mannlegrar skynsemi. Tómas bendir á að rannsókn hans hafi leitt til þess að það eitt gæti maður reitt sig á, sem reynsla manns næði til, en hún væri nú aðeins gegnum skilningsgáfur sálarinnar manns eignUm sameiningu hinnar sýnilegu veraldar og ósýnilegu gat hann því, sem og flaut af sjálfu sér, ekkert upp kveðið … Lengra gat hann nú ekki upp eftir hafið sig frá tíðar sinnar líkamliga hlutanna skoðunarmáta, en hið andliga hafði nú fengið nokkru meira vald en fyrri. Það vantaði að hefja það enn betur og útjafna, hlaða í – hnita saman hið líkamliga og andliga. (T. S.1947:  131)

Hér sér Tómas heimspekinginn Fichte sem nýjan bjargvætt þar eð hann hafi með hughyggju sinni haft endaskipti á hlutunum: Maðurinn sem „næst fyrir Kants daga var raunar [ekki] orðinn annað en moldarklumpur sem festur var við hina sýnilegu veröldu og enginn ódauðlegur andi gat haft til íbúðar, þar eð þvílík andanna veröld ekki var til, og sem þar af leiddi ekkert frjálsræði gat haft“ (Tómas Sæmundsson 1947: 131). Nei, samkvæmt Fichte varð veröldin nú að engu, hið líkamlega var ekkert, maðurinn, andinn og frjálsræðið var allt. Og allt hvað maðurinn skynjar með hinum líkamligu skilningarvitum er ekki annað en sjónhverfingar sem orsakast af því hvernig maðurinn hlýtur að verða meðvitandi um sjálfan sig. Maðurinn sjálfur og frjálsræðið er það einasta sem til er – það getur hver sagt sjálfum sér að hann er til – en maður getur ekki orðið um sjálfan sig áskynja, nema hann setji sig í nokkurs konar mótsetningu með öðru. Þannig skapast manni líkamlig veröld, er í sjálfu sér engan veruleik hefir, annað en þannig nokkurs konar skuggi af sjálfum manni er hún ekki. (T. S. 1947: 131)

Áhersla Fichte á frelsi mannsins, hinn einstaklingsbundna vilja og verknaðinn gerir hann að einum af brautryðjendum rómantíkurinnar með róttæku andsvari við nauðhyggju orsakalögmáls upplýsingarinnar. Með orðum Isaiah Berlin spyr Fichte okkur þessara spurninga:

Hver er húsbóndinn, náttúran eða ég? Ég er ekki skilyrtur af markmiðum, það er ég sem skilyrði markmiðin. Heimurinn … er ljóðið sem innra líf okkar dreymir. Þetta er dramatísk og skáldleg aðferð til að segja að reynsla sé eitthvað sem ég ákveð í krafti viðbragða minna. (Berlin 1999: 89)

Eftir innrás Napoleons í Þýskaland breyttist einstaklingshyggja Fichte í þýska þjóðernishyggju sem var knúin dulrænum krafti er kom frá náttúrunni.

 

Þýsk náttúruheimspeki og þjóðernishyggja

Tómas segir í Ferðabók sinni um Friedrich Schelling: „Hann fann í náttúrunni guð, ekki síður en í hinum ósýnilega parti mannsins … Vissan um hið ósýnilega átti nú að verða stærri en Kant hafði ætlað, þar eð hið sýnilega og ósýnilega varð að einu“ (T. S. 1947: 132). Tómas fjallar einnig um Hegel sem nemanda Schellings og getur þess að hann hafi ekki náð að hlusta á fyrirlestra hans í Berlín, því hann hafi látist veturinn áður en Tómas kom til borgarinnar. Tómas segir Hegel hafa talið hugsjón og sálfræði Schellings „óskiljanlega“ og viljað „víkja [henni] til síðu“. Hins vegar segir Tómas að hann hafi hlustað á tvo fyrirlestra eftirmanns Hegels í Berlín sumarið 1832, norsk-danska heimspekingsins Henriks Steffens. Hafi annar fjallað um jarðfræði en hinn um trúarbragðaheimspeki (T. S. 1947: 133). Segir Tómas Steffens hafa „líkst mest Schelling“ og skortir hann orð til að lýsa hrifningu sinni á orðfari hans og mælskulist, en hann segir að Steffens sé „hálf-Íslendingur ættaður frá Norvegi“. Segir hann Steffens hafa verið flæmdan frá Danmörku vegna „Norðmannsins frjálsræðisanda“. Steffens hafði mikil áhrif, ekki bara á Tómas, heldur líka á Jónas Hallgrímsson, og átti þannig sinn óbeina þátt í þeirri þjóðernisvakningu sem tímarit þeirra félaga, Fjölnir, stóð fyrir á Íslandi.

Annar þýskur heimspekingur sem hafði mikil áhrif á þjóðernishyggju Tómasar var Johann Gottfried Herder, sem Isaiah Berlin (1999: 65) kallar „forföður allra þeirra förumanna og leikmanna er flækjast um heiminn til að tileinka sér hvers kyns glötuð lífsform, dásamandi allt það sem er sérkennilegt og undarlegt, allt það sem er upprunalegt og ósnortið“. Herder var andófsmaður gegn yfirgangi Frakka og Breta í Evrópu og boðaði sameiningu þýskumælandi ríkja á meginlandinu í andófi gegn nýlendustefnu Napoleons og draumum hans um heimsyfirráð:

Hvers vegna getum við ekki skapað alheimsríki af þeim toga að allir geti fundið sig eiga heima í því eins og fullkomnir múrsteinar, og myndað þannig byggingu er muni standast um allar aldir, vegna þess að það byggir á bjargfastri reglu, sem er sannleikurinn, sem menn hafa höndlað með óskeikulum aðferðum? – allar slíkar hugmyndir eru merkingarlaust rugl og þversögn; og með því að draga þessa kenningu fram í dagsljósið stakk Herder hinum skelfilegasta ríting í skrokk evrópskrar rökhyggju, sem hún hefur aldrei náð sér af. Í þessum skilningi er Herder vissulega einn af feðrum rómantísku stefnunnar. Það er að segja, hann er einn af feðrum þeirrar stefnu sem einkennist meðal annars af afneitun einingarinnar, afneitun samræmisins, afneitun samræmanleika hugsjónanna, hvort sem er í hugsun eða verki. (Berlin 1999: 67)

Í umfjöllun sinni um Herder segir Tómas í Ferðabók sinni, að verk hans séu til þess fallin „að vekja föðurlandsást og elsku til alls þess sem fallegt er og gott. Hann hefur skilið og útlagt skáldskaparandann allra tíða, og Ideen zur Philosophie der Geschichte der Menscheit eru álitnir djúpsærustu og hæstu athugasemdir yfir veraldarsöguna sem til eru á þýsku“ (T. S. 1947: 112).

Tómas kemur frekar inn á þessa afstæðishyggju Herders í almennri umfjöllun sinni um evrópskar bókmenntir, þar sem hann gerir upp við hin altæku gildisviðmið upplýsingarinnar og segir meðal annars:

Rannsókn allra hluta leiddi menn til að ætla að þeir vissu allt, meðan þeir ekki vildu kannast við að þeir vissu ekkert. Mennirnir urðu því að guðum eins og skeð hafði hjá hinum gömlu heiðingjum; varð þar af loks í samstemmu við aldanna stefnu yfir höfuð trúleysi og fjarvera allrar sannfæringar. Gekk Frakkland hér sem í öðru á undan öðrum löndum. Þeirra fremstu rithöfundar strönduðu upp á ýmsan hátt á þessu skeri (Racine og Corneille i formen, Voltaire í gehalt), þar til mannligur andi ruddi sér upp á annan veg braut gegnum þrengslin. […] Hinn gamli útvalaandi sýndi sig … í hinu stærsta óhæfi hjá Voltaire, með hvörjum hann og deyði út eftir það hann í andaslitrunum rétt sem hafði af sér getið hina frönsku stjórnarbyltingu. Hann fór og um Norðurlönd, og hjá oss er enda hans afkvæmi messusöngbókin og aðrar bækur margar sem fæðst og getizt hafa um aldamótin … En jafnframt þessari stefnu, sem rekja má í bókum gegnum allar tíðir og sem sér í lagi tiltalar og framleiðist af þekkingar og skilningsafli mannligrar sálar, er þar og önnur sem hefir sín upptök frá hinnar sömu sálar tilfinningaafli, að svo miklu leyti sem þetta er sálarinnar eiginlega frumvera, hvaðan allar sálarinnar verkanir er í síðara lífinu koma í ljós hafa rétt sem rætur sínar. Hefur hún ekki síður af og til smíðað spegil sinn í margs konar bókum, og sér í lagi þeim, hvar tilfinnanin helst plagar að heima eiga, skáldskaparins verkum (T.S. 1947: 118–119).

Í stað hinnar stöðluðu hugsunar Upplýsingarinnar komu þær bókmenntir tilfinninganna er byggðu á eðlislægum þjóðlegum grunni:

Menn urðu þess varir að sérhvör þjóð á hjá sjálfri sér, fyrr en hún vissi þar af eður hafði með meðvitund til þess verkað, hvað hið bóklega snertir mál og margs konar ritgjörðir, sem fæðst hafa í þeirra eigin landi löngu áður en hún fór að hafa nokkur afskipti við aðrar þjóðir eður þekkti nokkurn útlendan lærdóm. Hér gat þá ei annað talað en sömu þjóðar ómengaða náttúra, hennar andliga eðli, og hér fengu menn nokkuð að styðjast við um það hvað í því bókliga ætti bezt við sérhvöra þjóð. Þessu tóku menn nú að safna saman, það varð þeim sem þjóðarhelgidómur og átrúnaðargoð. Menn tóku að útleggja þetta og byggðu þar á framvegis allar bókligar sýslanir og athugasemdum þeim um þjóðarinnar upprunaliga og eðliliga háttalag sem þær bentu til og menn tóku nú að grafast eftir. (T. S. 1947: 121)

Rétt er að hafa í huga þegar við lesum þennan sérkennilega texta Tómasar að hann er hér að fjalla um flókin heimspekileg vandamál úr evrópskum samtíma, orða þau á íslenskri tungu þar sem engin hefð var fyrir slíkri orðræðu, og hann beinir orðum sínum ekki til menntamanna, heldur fyrst og fremst til íslensks alþýðufólks, sem var nær eingöngu bændafólk og vinnuhjú. Enda tekur Tómas það fram í inngangsorðum Ferðabókar sinnar, að stærsti vandinn við ritun hennar hafi falist í að finna orðræðunni eðlilegan búning á íslensku máli, sem ekki ætti sér orð og hugtök um ótal marga hluti í evrópskum samtíma. En þessi erfiðleiki hefur virkað á Tómas frekar sem hvatning en hitt, eins og fram kemur í þessum kafla þar sem hann heldur fram rómantískri afstæðishyggju um sannleikann, sem er mjög í anda Herders:

Snilldarritin verða því næstum eins þjóðkunn nú á dögum sem hin lærðu ritin, sér í lagi síðan (…) hinir lærðu ekki gjörðu sér framar það að venju að rita á latínu er skyldi vera sameiginlegt mál allra hinna lærðu, heldur tóku upp á því, er þeir fundu að latínan var óeinhlít til nú á dögum að gefa klæðnað öllum þönkum vísindamannsins, að rita um alls slags lærð efni á móðurmáli sínu. Fengu þannig vísindin alþjóðligra snið og urðu kunnugri í föðurlandi sínu, en þau tóku jafnframt í gegnum málið á sig stærri þjóðernis kápu. Sannleikurinn tók að líta öðru vísi út í einu landi en öðru, og hinir lærðu um heiminn urðu ekki jafnkunnugir eftir það þeir töluðu ekkert sameiginlegt mál sem öllum væri jafn skiljanligt. (T. S. 1947: 124)

 

Guðfræðilegar rætur

Trúarskoðun Tómasar er fyrst og fremst studd tilfinningalegum rökum og byggð á eðlishyggju, sem hann lýsir meðal annars með eftirfarandi orðum:

Trúarbrögðin eru hið innst innrætta í mannligri náttúru, þau viðvíkja hinu ósýniliga, já því óskiljanligasta af öllu, því hæsta og mikilvægasta, því guðliga sem hið mannliga aldrei getur gripið. Þau hafa sitt sæti í tilfinnunum sem maðurinn veit af strax og lífið fer að vakna í hans brjósti, eru þar fyrir löngu áður en skilningurinn varð var þar við, og eru þar án þess maður skilji þar í, og hvört maður skilur þar í eður ekki, og þau yfirgrípa með vaxandi framförum alla hans veru, allar hans framkvæmdir. (T. S 1947: 137)

Þessi ríka áhersla á tilfinningalegar og eðlislægar rætur trúarinnar eru í anda þess lúterska rétttrúnaðar sem Tómas hafði numið hjá kennurum sínum við Kaupmannahafnarháskóla, þar sem lögð var áhersla á barnatrú og beint og milliliðalaust samband einstaklingsins við guð. Jafnframt er hér hafnað öllum tilraunum fulltrúa upplýsingarinnar til að sanna tilvist guðs með rökum vísindanna. Þessi afstaða virðist valda Tómasi nokkrum vanda þegar kemur að hinni guðfræðilegu rökræðu, sem eðli málsins samkvæmt á erfitt með að leggja mælistiku sína á tilfinningalífið. Enda segir Tómas þann löst algengan meðal fræðimanna „sem að sönnu hafa nóga upplýsta skynsemi og geta gefið ritum sínum alla þá útvortis fullkomnun sem vísindin heimta, en hjarta þeirra finnur aldrei þar til, það er kalt og setningar þeirra ná aldrei að stjórna þeirra breytni“ (T. S. 1947: 138).

Eins og að framan var sagt var Tómas undir áhrifum og handleiðslu danska guðfræðingsins H.N. Clausen í guðfræðinámi sínu í Kaupmannahöfn, en Clausen hafði verið nemandi hins þekkta þýska guðfræðings og heimspekings Fr. D.E. Schleiermacher. Stærstur hluti ferðabókarhandrits Tómasar segir frá um tveggja mánaða dvöl hans í Berlín sumarið 1832, en þar var Schleiermacher bæði háskólakennari og predikari, og sótti Tómas alla fyrirlestra hans og predikanir sem hann gat. Í þessum kennimanni fann Tómas þá guðfræði er gæti sætt rökhyggju vísindanna og tilfinningar trúarlífsins. Þessum sáttum lýsir Tómas með þeim orðum, að skynseminni „getur vel skilist að yfirnáttúrlegir hlutir geti að borið á jörðinni, og að náttúrunnar skapari og herra ekki sé undirgefinn þeim náttúrunnar lögum sem hann hefir sett.“ Segir hann nútíma guðfræðinga „útlista þann undarliga og einstaka atburð í veraldarsögunni, um Kristi komu til veraldar, eins og hvörn annan atburð, hvar að sönnu ekkert frábrugðið því alminnilega undir búi, heldur megi þeir sem alls staðar í veraldarsögunni sjá Guðs föðurligu stjórn sem er allt í öllu“ (T. S. 1947: 140). Kemur hér fram sú lúterska viðleitni Tómasar til að svipta kristindóminn þeirri dulhyggju og þeirri ytri umgjörð helgisiðanna sem hann átti eftir að kynnast betur í hinum kaþólska heimi Evrópu.

Þrem dögum eftir komu sína til Berlínar var Tómas kynntur fyrir Schleiermacher og brá honum í brún er hann sá að þessi risi innan hinnar lútersku guðfræði var „ekki hærri en svo sem mér í hönd, svo að í hvört sinn verður að hlaða undir hann er hann prédikar, og allur vanskapaður með hnút á bakinu, andlitið þó fallegt og viðfellilegt, höfuðið hvítt af hærum. Má eg játa að eg ekki hef nálgast neinum manni með stærri lotningu en hönum, er mér kom í hug hin stóra sál er bjó í þessum lítilfjörlega líkama“ (T. S. 1947: 144). Töluðust þeir við á latínu þar sem Tómas var ekki enn búinn að temja sér þýskt talmál.

 

Helgimyndir kaþólskunnar og fagurfræði píetismans

Leið Tómasar suður Evrópu lá frá Berlín meðal annars um Dresden, Prag, München, Salzburg og síðan suður yfir Alpana til Ítalíu. Í Dresden kynnist hann norska málaranum Johan Christian Dahl, sem þar kenndi við Listaakademíuna, og nefnir hann landslagsverk hans meðal þess merkasta er hann sá af myndlist þar, auk verka Rafaels og Correggios. Verkum Dahls átti hann síðan eftir að kynnast betur á vinnustofu Thorvaldsens í Róm.

Það er fyrst í Baiern og Suður-Þýskalandi sem Tómas kynnist kaþólsku umhverfi, og þar gera strax vart við sig fordómar hans gagnvart kaþólskum siðum: „Á tvennu verður maður nú sér í lagi var við að maður er kominn í kaþólskt land, fyrst að til beggja handa við veginn er alsett betlurum, körlum og konum, ungum og gömlum, sem með uppréttum höndum biðja í Maríu og allra heilagra nafni um ölmusu, og hefir maður fyrir slíkum skríl oft litla ró, annað það að á hvörri hæð næstum stendur krossmark eður myndarstytta einhvörs heilags manns, oftast úr tré málað margvíslega, stundum fúið og mosavaxið, eður þá dálítið bænahús úr múrsteini“ (T. S. 1947: 223). Þarna birtist strax andúð hans á helgimyndum, dýrlingadýrkun og það sem við gætum kallað lúterska fordóma gagnvart trúarlegri myndlist og formlegum helgisiðum kirkjunnar. Í þessum efnum er Tómas kannski ekki fullkomlega samkvæmur sjálfum sér, því um leið og hann hæðist að trúarlegri myndlist þá hefur hann meðtekið þá rómantísku fagurfræði að fegurðin helgist einvörðungu af sjálfri sér:

Hún [listin] er sjálfráður leikur ímyndunarkraftarins, hún er frjáls, fylgir þeim lögum sem hún sjálf gefur, þóknast alleina sjálfrar sín vegna, hún hefir verð í sjálfri sér … Þó að hugsjónarlig fegurð sé það er snilldin með flugi ímyndunarkraftarins leitist við að skapa og leiða fyrir sjónir, þá vanrækir hún aldrei sannleikann, en sannleiki hennar er með margvíslegu móti. Haldi maður snilldin ljúgi, kemur það til af því að menn ekki hafa rétt athugað hvað sannleiki er í hvörjum hlut. (T. S. 1947: 333)

Þegar kemur hins vegar að opinberun hins trúarlega sannleika eða hinnar trúarlegu reynslu í efnislegri mynd listaverksins virðist sem lútersk trúarsannfæring hans taki undir þá fullyrðingu Platons, að myndlistin sé villuleiðandi og óhæf til að miðla andlegum sannleika, því menn hætti að greina á milli myndarinnar og þess sem hún á að sýna:

Einhvör náttúrlig óafvitandi tilfinnan kenndi mönnum skyldugleik hins sýnilega og ósýnilega, maður sá að það sem var fagurt útlits mætti vera gott … Allar hinar hærri hugsjónir, en sér í lagi hinar hæstu, trúarbrögðin, þessi ósýnilega tilhneiging sem knýr manninn til að leita hins ósýnilega, hefir hjá öllum þjóðum hlotið að ífærast líkamligum sýniligum meðulum til þess manni gjörist þar um ímyndunin hægari, sem yfir höfuð veitir örðugt að vera lengi á flugi. Þannig er öll skurðgoðadýrkun skeð þegar menn hættu loks að að skilja myndina frá hlutnum. […] Djöfulinn létu menn sér nl. ekki nægjast með í þankanum að vita sem höfund alls hins illa, heldur urðu menn að festa þennan þanka við einhvörja sýnilega mynd; ímyndunin bjó því til hendur, dró upp hin ótrúligustu skrímsli er hvörgi var að finna í náttúrunni, til að gjöra hlutinn því afskræmiligri og til að geta enn betur speglað sig í hönum. Kirkjusagan hefur dæmi upp á meðal hálfsiðaðra þjóða að þær með engum fortölum létu fá sig til að taka við trúnni, en þegar fyrir þeim var uppmálað helvíti og hinn síðasti dagur féllst þeim allur ketill í eld og vildu gjarnan hafa siðaskipti. Þar af má sjá nauðsyn snilldarinnar fyrir mannliga skynsemi, hér af má líta hennar miklu verkanir í mannligu lífi. (T. S. 1947: 330–331)

Hér helgast listin og fegurðin semsagt ekki af sjálfri sér heldur þjónar hún því hlutverki að þröngva hálfsiðuðum þjóðum til réttrar trúar á fölskum forsendum. Hér virðist Tómas einkum hafa í huga miðaldalist og barokklist, þar sem myndlistin var meðvitað notuð til trúarlegrar innrætingar. Mótsögnin felst í því að Tómas virðist hér hafa tileinkað sér þann skilning J.C. Winckelmanns að miðaldalistin væri frumstæð og barokklistin úrkynjuð vegna þess að þær höfðuðu hvor á sinn hátt of mikið til tilfinninga og ástríðna mannsins. Það væri aðal göfugrar listar að höfða til „hinnar hlutlausu fullnægju“ og til skilnings áhorfandans, en ekki espa upp tilfinningar hans. Þessi afstaða Winckelmanns hafði haft mótandi áhrif á Goethe, sem sá hvorki miðaldalistina í Feneyjum né mósaíkina í Monreale fyrir utan Palermo í Ítalíuferð sinni þó hann ætti þar leið um. Og barokklistin í Róm, sem var í raun andsvar Jesúítareglunnar við uppreisn Lúters gegn kirkjuvaldinu, var eitur í beinum þessara lúterstrúarmanna og eimir jafnvel enn af því meðal lúterskra á okkar dögum. Rétt er þó að geta þess að Winckelmann tók kaþólska trú, trúlega fyrst og fremst til að auðvelda honum starfsframa hjá Páfastóli, þar sem hann gerðist helsti ráðgjafi páfans um fornleifafræði fornaldarinnar.

Sjávarsýn við Miðjarðarhafið

Eftir tveggja mánaða dvöl í Vínarborg hélt Tómas suður á bóginn yfir Alpana og segir svo frá ferðinni í bréfi til föður síns dagsettu í Róm 25. mars 1833:

Eftir 10 daga reisu yfir fagurt fjallaland hér um [bil] 75 mílur gegnum syðra Austurríki, Steiermark og Krain, kom ég til Triest, er liggur við adríatíska fjarðarbotninn austanverðan. – Þar sá ég eftir langa bið sjóinn aftur; hér er Þýskaland á enda og þýska málið úti eins og þýska náttúran; skógarnir og kornakrarnir eru að mestu horfnir, og naktir klettar komnir í staðinn, – víngarðar nógir og olíutré, – asnar og múlasnar í staðinn fyrir fé, kýr og hesta. Hér er mikil höndlun og fallegur staður; hér koma meðal annars skip frá Reykjavík að selja saltfisk og kaupa kræsingar. Eftir 3 daga fór ég héðan vesturyfir fjarðarbotninn til Venedig (Feneyja), sem er einhver undarligasti staður í heimi, byggður af mönnum mitt upp úr sjónum, meir en mílu frá landi. Hann hafði einu sinni næstum allt Miðjarðarhafið í sinni hendi og ber enn nú stór merki sinnar fyrri praktar við hliðina á nærverandi eymd. (T. S. 1907: 120)

Tómas staldraði við fimm daga í Feneyjum og segir hvergi frekar frá þeirri dvöl, en þegar hann í fyrrnefndu sendibréfi til föður síns lýsir framhaldi ferðarinnar og reynir að draga upp mynd af Ítalíu í fáum orðum, lítur hún svona út:

steig [ég] nú á Vallands fastaland, sem undir eins er það fegursta í Norðurálfunni og það merkilegasta í veraldarsögunni; þar er og allt það, er mennirnir hafa fallegt gert, sameinað. Málið: vallenskan eða ítalienskan er hið fegursta mál, sem talað er – og trauðlega eru nokkursstaðar mennirnir fallegri … Ill stjórn hefur … gert þetta lukkulega land í margar aldir ólukkulegt. (T. S. 1907: 121)

Tómas segist fyrst hafa komið til Páfaríkisins í Ferrara, „og vildi [ég] ekki eiga að kaupa af karlinum syndafyrirgefningu núna, því hann tekur hér um bil 60 sk fyrir að skoða passann minn“ (T. S. 1907: 121). Síðan liggur leið hans um Bologna og Flórens, þar sem hann dvaldi í viku, en síðan tók ferðalagið frá Flórens til Rómar fimm daga. Í bréfi til föður síns frá Róm, 25. mars 1833, dregur hann í fáum orðum upp eftirfarandi mynd af Ítalíuskaganum:

Valland er yfir höfuð mjótt land, eftir hvers miðju gengur hár fjallahryggur, Appennini, er myndar dali á báðar hliðar, þar til kemur niður til sjávar. Víðast er hér skóglaust og líkist því meira brekkunum á Þórsmörk (ef burt eru tekin öll flögin og sandarnir) en nokkru öðru landi, er ég hefi séð; hér vex einir og lyng og smáhríslur eins og þar, en fram yfir Þórsmörk hefir þetta land hinn bezta vínvið, lárvið, pálmavið og hinar fegurstu jurtir, sem skapaðar eru! Hér eru nógir fuglar og fiskar; stærri trén eru mest eikartré, kornið bankabygg, og mikið af sauðum uppi í fjöllunum. Í einum af þessum fögru dölum liggur Róm með sjónum fyrir sunnan, en fjöllum mátulega háum á allar hinar síðurnar; í miðjum dalnum rennur Tíberfljótið og í gegnum bæinn og tekur á móti ótöluligum lækjum frá báðum síðum. Hér kemur aldrei vetur, sjaldan ský á himinn eða vindur; kýrnar koma því árið um kring ekki í hús. (T. S. 1907: 121–122)

Þórsmörk, svæðið sem hér verður eins og bakgrunnur myndarinnar af Ítalíu, er landsvæði sem telja verður óbyggilegt, þótt þar hafi reyndar verið reist þrjú býli á landnámsöld samkvæmt Landnámu, sem fljótt lögðust í eyði vegna vetrarhörku og sambandsleysis við umheiminn. Þetta fjalllendi með sínum bröttu líparítskriðum og hrikalegu giljum, þar sem finna má lágvaxið birkikjarr og heitar laugar til að ylja sér við, er bakgrunnur myndarinnar sem Tómas dregur upp af Ítalíu. Það þarf talsvert ímyndunarafl til að sjá samhengið á milli „il bel paese“ og Þórsmerkur, en skýringin kann að liggja í því, að sem unglingur mun Tómas hafa heimt sauðfé föður síns úr sumarbithögum í Þórsmörk, og því hafa þeir feðgar báðir verið vel kunnugir á þessum slóðum.

 

Sæludagar í borginni eilífu

Engin skýring er til á því að í handrit Tómasar að Ferðabók hans vantar mikilvægasta kaflann sem segir frá fjögurra mánaða dvöl hans í Róm, „hvar ég hafði átt næstum 4ra hina ánægjulegustu mánuði og sælustu daga ævinnar“ eins og segir í upphafi frásagnar af ferð hans frá Róm til Napoli. En til Rómar kom hann 10. desember 1832, og hélt áfram suður til Napoli 28. mars 1833. Einasta varðveitta sendibréf hans frá Róm er til föður hans og kemur fátt þar fram. Áhrifin af Rómardvölinni koma hins vegar fram víðsvegar í texta hans þar sem hann fjallar um almenn málefni, fagurfræði, heimspeki, trúmál og almenn þjóðþrifamál. En áður en hann yfirgefur Róm í frásögn sinni, segir hann þó með eftirminnilegum hætti frá páskadagsmorgni við Péturskirkjuna. Lýsingin ber þess vott að trúarlegur ágreiningur hins lúterska rétttrúnaðarmanns og páfavaldsins hafi kannski hvergi truflað skynjun hans og skilning á allri þeirri listrænu umgjörð, sem Páfagarði var sett, eins og við þessa upplifun. Enda byrjar frásögn Tómasar með þessum orðum:

Það er einkenni eins og allra ófullkominna trúarbragða, er taka hið útvortis fram yfir það innvortis – bókstafinn fyrir andann, – að láta sér í öllu annt um að fá á mannanna líkamlega skilning orkað og ífæra trúna svo nokkurs konar líkamligri mynd, svo menn komist ekki hjá að verða varir við hana, – en aldrei gætir þess eins stórkostlega sem við þetta tækifæri. (T. S. 1947: 255)

Hér á Tómas við helgiathafnir dimbilvikunnar í kaþólskum sið og prósessíu páfans á páskadagsmorgni, sem hann lýsir með eftirfarandi hætti:

Að vísu þá er um alla föstuna kyrrt og hljótt hjá því sem endranær, en þó tekur yfir úr því síðasta vikan fyrir páskana byrjar; það er þá svo sem allur bærinn ífærist sorgarbúningi, allt er þegjandi, klukknahljómurinn hættir og hinar fögru vatnsæðar, borgarinnar einhvör hin mesta prýði, hætta að spýta, svo sem væri sjálfur dauðinn yfir hana kominn. Þetta stendur þar til ofarla páskanóttina. Undir páskamorguninn snýr við blaðinu; í þúsunda tali hljóma þá klukkurnar aftur frá turnunum; í einu vetfangi er kúfur Péturskirkjunnar frá efsta til neðsta skreyttur ótöluligri mergð olíuljósa, svo að ei einungis bærinn og landið umhverfis, heldur jafnvel skýin taka birtu af. Vestan frá sjó og austan úr fjöllum, af öllum þeim hæðum hvaðan fyrst grilla má Róm langar leiðir burtu, þegar bezt var skyggni um fagran dag, getur hana nú að líta svo sem í himnesku ljósi eður ljóma meðan alls staðar er nótt. Sjálfur upprisinn gengur hinn heilagi faðir fram á musterisburstina, og þó hann sé lítill í samanburði við steinmyndir postulanna kringum hann, hefir hann [ekki] lítið fyrir stafni, því meðal alls konar söngvara og hljóðfæraglaums boðar hann nú hátíðina og lýsir blessan yfir hinum mikla grúanum, er neðan frá hinum stóra forgarðinum sem fram af er kirkjunni veitir hönum á hnjánum sína tilbeiðslu og mænir upp til hans þar svo sem æðri veru beri við skýin. Með hönum eru í för uppi á þaki kirkjunnar, sem nærri má geta, allur skarinn hinna geistligu svo þúsundum skiptir, og er hvör ífærður þeim skrúðanum sem hans stétt hæfir og hann á fegurstan til. Þegar maður nú þar á ofan setur sér fyrir sjónir morgnana, eins og þeir eru á þessum ársins tíma í Ítalíu, og hvörsu allt er við höndina sem til fegurðar horfir, getur ei hjá því farið, að þvílík sjón fái á hvörn mann sem hefir tilfinning, jafnvel þó hann ekki láti sig í villu leiða af útborði hlutanna og ætli, eins og páfaátrúendur, hann hafi séð svo sem nokkurt heilagra samneyti. (T. S. 1947: 255–156)

Þótt tilfinnanlegt gat sé í heimildum okkar um dvöl Tómasar í Róm, ef frá er talin þessi litríka frásögn, þá má finna stöku heimildir um Rómardvöl hans. Ævisöguritari Tómasar, Jón Helgason biskup, hefur eftir ættingjum munnlegar frásagnir um að Tómas hafi notið gistivináttu Bertels Thorvaldsen sem var forvitinn um ættjörð föður síns, og Tómas kynntist norrænum listamönnum í Róm bæði á vinnustofu Thorvaldsens, heimili hans og á veitingahúsi sem norrænir listamenn sóttu. Einn þessara listamanna var danski myndhöggvarinn H.V. Bissen (1798–1868) sem sagður er höfundur vangamyndar af andliti Tómasar, sem prýðir legstein hans á Breiðabólstað. Þá eru frásagnir af kynnum Tómasar og Giuseppe Mezzofanti (1774–1849), bókavarðar Vatíkansafnsins,  sem var málvísindamaður og þekktur fyrir að hafa 70 tungumál á valdi sínu. Tómas segir frá því í Ferðabókinni, nýkominn til Napoli, að hann hafi fyrir tilviljun hitt þar á götu vin sinn Bindesböll. Það mun hafa verið arkitektinn Michael G.B. Bindesbøll (1800–1856), höfundur Thorvaldsen-safnsins í Kaupmannahöfn, og hafa þeir vafalaust kynnst á vinnustofu Thorvaldsens. Tómas segist hafa skoðað Napoli í fylgd þessa frumkvöðuls nýklassískrar byggingarlistar á Norðurlöndum fyrstu daga sína þar. Arthur Dillon lávarður, sem var samskipa Tómasi til Íslands 1834, segir frá því í ferðasögu sinni frá Íslandi að Tómas hafi talað góða ítölsku, og mun tíminn í Róm ekki síst hafa nýst honum til tungumálanáms (Dillon 1840).

 

Rangárþing og hinar pontísku forir

Eins og sjá má af lýsingu Tómasar er upplifun hans af Páfagarði, með meistaraverkum Michelangelos og Rafaels, lituð af trúarskoðunum hans og uppeldi, og má kannski draga af hugleiðingum hans þá ályktun, að fegurðin hafi gildi í sjálfri sér þegar hún tekur til veraldlegra hluta, en hins vegar beri að gjalda varhug við þeirri myndlist eða byggingarlist er reyni að miðla trúarlegum sannleika. Í þessum efnum virðist Tómas jafnvel standa nær Kalvin en Lúter, en hér er um greinilega mótsögn að ræða í túlkun hans á þeim veruleika sem hann upplifir á Ítalíu, og jafnvel enn frekar er hann kemur til Grikklands og Tyrklands.

En það eru ekki bara hugmyndir hans um tilfinningarök barnstrúarinnar og píetismans gegn kirkjuvaldinu sem móta sýn hans á ítalskan veruleika. Íslensk náttúra og bernskuslóðir hans koma líka þar við sögu, eins og sjá mátti af dæminu um Þórsmörk hér að framan. Þessar fyrirmyndir bernskustöðvanna verða þó með enn meiri ólíkindum þegar hann grípur til samanburðar við bernskuslóðir sínar í Rangárþingi á Íslandi í lýsingu sinni á landslagi umhverfis Róm og í Lazio-héraði, kannski í veikri tilraun til þess að lýsa ítalskri náttúru fyrir íslenskri bændaalþýðu með skiljanlegum hætti. Þannig rekumst við á eftirfarandi landslagsmynd hans, þar sem Róm verður hliðstæður miðpunktur og Oddi á Rangárvöllum:

Það er nokkuð svipuð fjallasjón og byggðarlag frá Róm að sjá eins og hjá oss í Rangárvallasýslunni, svo sem frá Odda, og væri þá Skarðsfjall Soracte, fjöllin fram af Heklu Sabínafjöll, en Fljótshlíðarfjöllin (þó þau séu heldur mikil fyrirferðar og ekki nógu laus að austan til) albaniska fjallið. Velletri bæri þá að standa utarliga í Fljótshlíðinni, en hérað Volskanna er áþekkt vikinu á milli hennar og Eyjafjalla, og þó breiðara, en fjallgarðurinn fyrir sunnan það Eyjafjöllum, og stendur þá líkt á með Terracina eins og austustu bæina undir Eyjafjöllum, nema hvað Terracina liggur á sjávarbakkanum og ekkert bil er orðið á milli lands og sjávar. Landeyjarnar eru sem Pontisku forirnar, og fjall er þar einmana út við sjóinn, nú áfast við landið, – áður kvað það hafa verið ey, en landinu þokað út á seinni öldum, og var hún kennd við Circe. Segir sagan að Odysseifur hafi komið þar við á flakki sínu eftir Trójumannabardaga, meira en 1100 árum fyrir Kristi fæðingu, og þar hafi hún gjört félaga hans að svínum, líklega gefið þeim vel í staupinu (en sjálfan töfraði hún hann til ásta við sig, svo að tafðist fyrir hönum heimförin). Eynni hagar að sínu leyti ekki ólíkt í samanburði við landið og Vestmannaeyjum hjá okkur. (T. S. 1947: 264)

Það þarf engan kunnugan til að átta sig á hversu langsótt þessi samlíking er, í raun er hún eins fjarri allri líkingu og hægt er að hugsa sér, og erfitt að ímynda sér hvað vakir fyrir Tómasi annað en að freista þess að vekja ímyndunarafl samlanda sinna út frá því sem þeir þekkja fyrir. Þó má segja að „Pontísku forirnar“, sem eru flatlendið suður og austur af bænum Latina, eigi það sammerkt með Landeyjum að hafa verið marflatt mýrlendi á þessum tíma. Fyrst og fremst er þó samlíkingin til þess fallin að minna okkur á, hvernig sú mynd og sú reynsla, sem við höfum fyrirfram mótaða í huga okkar, verður til að móta þá mynd sem við gerum okkur af því sem við sjáum í fyrsta skipti og reynum að lýsa með orðum. Auga mannsins kemur aldrei saklaust að sínu verki, eins og Ernst Gombrich sagði, maðurinn túlkar það sem hann sér út frá reynslunni og því sem hann þekkir fyrir (sbr. Gombrich 1989: 291–329). Rétt eins og landslagsmálverkið líkir meira eftir landslagshefðinni og öðrum myndum en eftir sjálfri náttúrunni, þá líkir hin skráða lýsing eftir því sem augað og tungan þekkja fyrir.

Napoli og Campania felix

Í rauninni verður ítölsk náttúra Tómasi stöðugt undrunarefni, en hún nær hámarki sínu þegar hann sér yfir Napoliflóann og Campania felix:

Allt hvað skáldin hafa sungið um goðalundanna fegurð og indæli eður ódáinsakur er hér orðið orð að sönnu, og yfir hálsa þessa og flatir horfði Virgilíus, þegar hann var að lýsa Elysíum-völlum og samastað hinna ófarsælu í 6tu bókinni af Æneasardrápu. Hér er sífellt vor, blómi jarðarinnar hverfur aldrei; ein jurtin lifnar eða blómgast þegar önnur fölnar; á öllum árstíðum eru hinir dýrmætustu ávextir í köstum til sölu um torgin, og margar þúsundir manna eiga ekkert húsaskjól, því kuldinn nær hingað ekki og sjógolan dregur svo úr hitanum að vel er viðunandi. (T. S. 1947: 276)

Fyrsta upplifun Tómasar af náttúrufegurð Campania-héraðs virðist eiga sér stað við Formia þar sem þokunni léttir skyndilega og þá blasir þetta við:

Við stigum af vagninum í einhvörjum fegursta aldingarði, – citrónu og guleplaskógar, myrtusviðar og lárviðar og ilmandi glæsiligustu jurtir, hvað innan um annað, bar fyrir hvört sem litið var; vertshúsið var líkara kóngshöll en gestaherbergi. Fyrir neðan fætur okkar var sjórinn eins og spegill til að líta, og var niður til hans hátt nokkuð og bratt, en allur flóinn blasti við rétt á móti, og hinum meginn við hann eður fyrir sunnan hann gaf að líta álengdar Vesúvíus-eldfjallið í allri hátign sinni, fjöllin umhverfis Neapels-flóann og eyjarnar er liggja vestur þaðan út með sjónum; vestanvert eður til hægri handar við okkur var nesið sem við höfðum yfir farið, og fer það lækkandi eftir sem vestar dregur , og niður við Gaeta, hvar kastali var byggður upp á kletti nokkrum. Til vinstri handar eður fyrir norðan okkur og austan er meginfjallið, en neðan til með indælustu hlíðum niður til sjávar, austan og inn með flóanum; eru hlíðar þessar þaktar víngörðum og aldintrjám. Sólin var farin að lækka svo skugga bar á hér og hvar um fjöllin og varð af því afbreytingin enn meiri. Hér er einhvör mesta veðurblíða og afdrep fyrir norðanvindunum; er því jörðin sífellt eins, á vetrum og á sumrum ífærð sínum fegursta skrúðbúningi. Við stóðum hér við tímakorn og skemmtum okkur með því að litast um í fegurð þessari. Er herbergi þetta og aldingarður, Villa di Cicerone, kennt við Cicero, hinn mikla speking og mælskumann Rómverja, sem mælt er að hafi átt hér lystigarð og verið hér myrtur… Aldingarðsvörðurinn, viðfelldinn unglingur, (sem) taldist vera rómverskur … gjörði sér ánægju af að leiða okkur um garð sinn og sýna okkur þær jurtirnar og trén, sem honum þókti mest til koma, og fyllti vasa okkar með guleplum, sem hann tók af trjánum og voru nú fyrst komin að því að verða fullþroskuð frá því sumrinu áður; svo langan tíma þarf þessi fagri ávöxtur til þess að spretta að honum veitir ekki af vetrinum með, og verður því ekki stundaður nema þar sem enginn vetur kemur. (T. S. 1947: 270–271)

Þegar nær kemur Napoli dregur Tómas upp lifandi mynd af umhverfi borgarinnar og þeirri töfraslungnu náttúru sem myndar umgjörð hennar, þar sem eldfjallið Vesúvíus trjónir yfir öllu. Vesúvíusi líkir hann eðlilega við eldfjallið Heklu, en segir það nokkuð lægra og í lögun áþekkt og öll eldfjöll, ávalt að ofan með eldvörpu í kollinum, bratt nokkuð niður til miðs, en þaðan af aflíðandi til allra hliða, hvar hraunleðjan og vikurinn hafa staðar numið. Kringum allt fjallið eru nú fagrar byggðir, og vaxa langt upp efir því hin ágætustu vín. Sunnanvert við það lá forðum Pompeji, en vestanvert og á sjávarbakkanum Herculanum; liggur þar nú hraun yfir, og er nú þar byggt ofan á hrauninu, hvar borgin var undir.; slitnar ei húsrunan með sjónum þaðan til Napoliborgar. (T. S. 1947: 278)

Um borgina og umhverfi hennar í heild sinni segir Tómas að hún „eigi ekki maka sinn í heimi“ hvað varðar náttúrufegurð og fornminjar, „en minna mun flestum þykja um borg þessa varið að því leyti sem til þeirra nær sem í henni búa, og fáir ætla eg mundi gjöra sér krók til Napoli eður hafa elju á að dvelja þar lengi …“ Almennir fordómar og neikvætt umtal um íbúa Napoli virðast hafa verið landlæg á þessum tíma ekki síður en á okkar dögum, enda tekur Tómas það fram um leiðsögumann sinn í Villa di Cicerone, að hann hafi verið stoltur af rómverskum uppruna sínum, „enda hafa napólskir sér í lagi illt orð á sér út í frá, og þykir því fáum mikið til koma að telja sig í ætt við þá“ (T.S. 1947: 271). Lýsing Tómasar á borginni er ítarleg og greinargóð og segir hann Napoli réttilega vera allra borga mest á Ítalíu og ríkasta af fé og íbúum. „Teljast í henni eitthvað 358.000 innbúar, þar á meðal alténd 60.000 lazarónar“ (T. S. 1947: 275–276), en svo virðist sem Tómas kalli stétt atvinnuleysingja og heimilislausra því nafni. Borgarlandslaginu lýsir hann meðal annars með þessum orðum:

Borgin liggur … austan og sunnan í fjallás eður holti og nær niður á sjávarbakkann; er undirlendið meira að austan til, og standa þar fremstu húsin á nokkurs konar malarkambi fram við sjóinn og sléttum flöt fyrir ofan hann, en að vestan eru húsin, að undanteknum þeim er næst eru sjónum, í brattri brekku, svo hvört tekur við upp af öðru, en fyrir ofan þau og efst uppi á holtinu er kastali. Fer grein úr holtinu aflíðandi suður í sjó í aflöngum hrygg nokkrum gegnum staðinn vestanvert og skagar þar nokkuð á sjó út, og stendur þar úti í sjónum annar meginkastalinn og sín vík hvörjum megin; á þeirri víkinni sem fyrir austan er, niður undan aðalhluta bæjarins, er herskipalegan og útbúnaðarhús þeirra, og upp þaðan kóngsgarðurinn hjá torgi miklu. Þar fyrir austan er höfnin, og halda að henni 2 steinveggir sem hlaðnir eru langt út í sjó til að taka við bárunum sem utan koma þá vindur stendur inn flóann. […] Vesturendi borgarinnar er langfegurstur, því með endilöngum sjávarbakka fyrir ofan flæðarmál er einhvör yndælasti lystigarður (Villa reale), en fyrir ofan hann vestur með holtinu 2 beinar húsaraðir sem mjög hefir verið til vandað. Þá tekur brekkan við alskrýdd aldingörðum og lysthúsum, hvaðan sjá má yfir öll nærliggjandi héröð, og skagar fjallás þessi þegar undirlendinu sleppir fyrir vestan víkina út í sjó. (T. S. 1947: 276–277)

Þótt Tómas hafi notið leiðsagnar arkitektsins Bindesbølls um götur Napoli virðist það ekki hafa dugað honum til að læra að meta þá mikilvægu byggingarlist sem þar er að finna: „Í Napoli eru fá hús sem mikið kveður að eður taki fram í því algenga, og trauðla er önnur borg á Ítalíu hvar kirkjurnar bera eins lítið af öðrum húsum að hæð og viðhöfn eins og hér, og eru þær þó að tölu ekki færri en 300 í borginni. Meðal annarra opinberra bygginga má helst geta ráðhússins og dýrgripabúrsins“ (T.S. 1947: 280). Lýsir hann fornminjasafninu vel og segir það „mikla höll … meðal fyrstu húsa til hægri handar þá komið er inn fyrir borgarhliðið eftir þjóðveginum frá Róm“. Tómas segir safnið hafa 90 stofur með fornminjum, fágætum gripum og snilldarverkum, mest rómverskar og forngrískar fornminjar, en einnig muni frá Egyptalandi og Hetrúríu og frá Suðurhafseyjum. Mest þykir honum koma til fornminjanna frá Pompei og Herculanum, en einnig verður honum tíðrætt um Farnese-safnið, sem flutt var til Napoli frá Róm 1788, einkum höggmyndirnar af Herkúlesi og Farnese-nautinu. Segir hann um Herkúles að hann sé „að mestu leyti þrefalt stærri en mennskur maður, tilbúinn úr hvítum marmara“ og að aðdáunarvert þyki „hvað vel og sannliga hefir tekizt að leiða aflið og karlmennskuna í ljós í vöðvafari og beinalögun líkneskisins“. Getur hann og réttilega til um höfunda verksins (Glykon eftir frummynd Lysippusar). Tómas getur einnig uppruna Farnese-nautsins frá Rhodos, höfunda þess Apolloniusar og Tauriscusar og heimilda Pliniusar um verkið og söguna á bak við það. „Fær það mestrar undrunar hvað feikilega stórt þetta listasmíði er og hvað boli er nautslegur“ (T. S. 1947: 284).

 

Fýsilegasta ferð sem stofnuð hefur verið

Þótt Tómas hafi upphaflega ekki ætlað sér sunnar en til Sikileyjar í ferð sinni, hafði sú hugmynd komið upp í huga hans skömmu áður en hann yfirgaf Róm, að freistandi væri að taka þátt í fyrirhugaðri skemmtisiglingu um Miðjarðarhafið sem auglýst hafði verið meðal ferðamanna í borginni. Sagði Tómas þetta „hina fýsilegustu ferð sem nokkurn tíma hefir stofnuð verið“, og gekk boðsbréf um hana um mestan hluta Evrópu, þar sem boðin voru 100 skipsrúm en auk farþega var „næstum annað eins af þjónustufólki að meðtöldum öllum hásetum skipsins“. Siglingin átti að taka fjóra mánuði með viðkomu á fjölda merkra sögustaða á Grikklandi, í Tyrklandi, á Möltu og Sikiley.

Í Napoli grennslaðist Tómas enn frekar fyrir um ferð þessa, en komst fljótt að þeirri niðurstöðu að hún yrði honum fjárhagslega ofviða. Í Napoli hafði hann leitað aðstoðar sendiráðsfulltrúa Dana í borginni, Frideriks Siegfried Vogt, og hafði Vogt verið honum hjálplegur í ýmsum efnum, leiðbeint honum um áhugaverða staði og aðstoðað hann við að fá heimild til að skoða fornleifauppgröftinn í Pompei, sem þá var ekki opinn almenningi. Vogt hafði hvatt Tómas til þessarar farar, en hann hafði gefið frá sér hugmyndina og var ferðbúinn til Messina að kvöldi 11. apríl þegar hann fékk heimsókn sendifulltrúans sem segir honum að hann hafi rætt við útgerðarmann skipsins og fengið slíkan afslátt á fargjaldi fyrir Tómas að honum snerist hugur. Skipið lét úr höfn fimm dögum síðar og stóð siglingin í fjóra mánuði eða til 9. ágúst, þegar akkerum var varpað í Napoli á ný. Segir Tómas á einum stað í Ferðabók sinni að engum manni hafi hann kynnst á öllu ferðalagi sínu er hann eigi „svo mikið gott upp að unna“ sem Vogt sendiráðsfulltrúa í Napoli (T. S. 1947: 189).

Því miður vantar sjálfa ferðasöguna af þessari siglingu í ferðabókarhandrit Tómasar, þar sem einungis er minnst á upphaf ferðarinnar. Af sendibréfum Tómasar má hins vegar ráða hvílíkt ævintýri hér var um að ræða:

Um borð voru fleiri kongar, prinsar og konunglegar persónur, lengri eða styttri part af reisunni. Hér mátti meðal hálfs annaðs hundraðs manna sjá fólk af öllum stöndum og heyra undir eins töluð ein 20 tungumál. Þvílík reisa hefir því víst aldrei verið gerð, og hér var svo mikið allareiðu á skipinu að sjá og læra að það borgaði ómakið að gera hana. Þar að auki eru löndin, sem við nú sáum, eins nafnfræg í veraldarsögunni (svo sem heila Grikkland, hvers inndælasti staður er Aþenuborg), eins og hin önnur fyrir sína fögru náttúru (svo sem höfuðstaður Tyrkjalanda: Konstantínópel, þar sem við vorum í 15 daga. Hann er miklu fegurri en Neapel og svoleiðis fegurst af öllum stöðum sem til eru).

Þannig segir Tómas frá í bréfi til föður síns 28. ágúst 1834, þá nýkominn til baka til Napoli. Af bréfum Tómasar má lesa eftirfarandi leiðarlýsingu frá Napoli: Messina, Catania, Siracusa, Corfu, Patras, Korintuflói, Delfi, Pyrgas, Olympia, Navarino, Naflion, Mykena, Argos, Hydra, Poros, Ægina, Istmos-eiðið, Kórinta, Aþena, Smyrna, Mytilene-eyja, Tenedos-eyja, Trója, Hellusund, Marmarahafið, Konstantínópel, Svartahafið, Zanthe-eyja, Siracusa, Agrigento, Palermo, Napoli.

Af þessum stöðum standa Aþena og Konstantínópel upp úr í minningu Tómasar, en viðdvölin var fimm dagar í Aþenu og 15 dagar í Konstantínópel. Aþena var meira og minna í rústum eftir undangengnar styrjaldir, og töldust íbúar hennar nú í hundruðum en ekki hundruðum þúsunda eins og á stórveldistíma hennar.

Allir vita, hve mikið þessi bær hefir gert fyrir heiminn, enda á enginn bær, hvað leguna snertir, við betri kjör að búa. […] Í Róm – á Foro Romano – verður að grafa 20 fet á jörð ofan til þess að geta þar staðið á „klassískri grund“, en í Aþenuborg stendur enn óhreyfður kletturinn, þar sem Sókrates talaði gegn Alkibiadesi, og Períkles ávarpaði lýðinn, og á Akropolis hefði mátt líta listaverk Phídiasar, eins og hefðu þau verið gjörð fyrir 10 árum, ef siðleysi manna hefði ekki á síðustu árum fengið að eyðileggja þau – þó, sem betur fer, ekki nema að hálfu leyti. Að Rómaborg einni undanskilinni hefir mér hvergi fundizt tíminn líða jafnfljótt og þá 5 daga, sem ég dvaldist í Aþenuborg. Það sem Aþenuborg hefur fram yfir Róm er sjálf náttúran og rústirnar, sem þar gefur að líta; en hvað snertir gripasafnið í Aþenuborg, bæinn sjálfan og íbúana, getur ekki verið um neinn samanburð að ræða. (Jón Helgason 1941: 91-93)

Rétt eins og borgarbragurinn í Aþenu bar sögunni sorglegt vitni, þá gerðist hið þveröfuga við komuna til Konstantínópel, þar sem Tómas verður dolfallinn þegar við fyrstu sýn borgarinnar:

Alt, sem Ølenschlæger eða hvaða skáld annað sem er eða málarar hafa nokkuru sinni sagt eða snortið með tilfinningar vorar, verður áhrifalaust í samanburði við það mál sem náttúran sjálf talar hér, og við þær tilfinningar sem hún vekur í sálu þess manns, er fer framhjá keisara-höllinni (serailinu) [á aðra hönd] og Skútarí [á hina], og í fyrsta sinn sér Galata blasa við sér með Sæviðarsund (Bosporus) hægra megin og höfnina [„Gullhornið“ svonefnt, sem norrænir menn til forna kölluðu Stólpasund] vinstra megin. (Jón Helgason 1941: 95)

Hrifning var svo almenn á skipinu að jafnvel Napolibúarnir um borð gátu ekki orða bundist: „Con questo la città di Napoli non puó compararsi.“ Tómas ber Tyrkjum vel söguna og ber blak af slæmu orðspori þeirra. Gerir hann stóran greinarmun á Grikkjum og Tyrkjum: „Í staðinn fyrir gríska glannaskapinn gefur hér að líta rólynt fólk, óframgjarnt, góðviljað og ábyggilegt, yfirleitt tilvalið fólk, sem taka mundi fram ýmsum af Norðurálfu-þjóðunum, ef hlotið hefði betri menntun.“ (Jón Helgason 1941: 95). Og í bréfinu til föður síns frá Napoli segir hann berum orðum: „Grikkir eru slæmir menn en Tyrkir góðir!“ (T. S. 1907: 125)

Tómasi virðist ekki eins uppsigað við íslamska helgisiði og þá kaþólsku, hann dáist að því hversu „hátíðlegt“ andrúmsloftið sé í moskunum, „enda séu Tyrkir yfirleitt trúhneigðir menn en þó umburðarlyndir í garð manna, sem eru annarar trúar, gagnstætt því sem almennt sé haldið“.

Þegar Tómas kemur til Smyrna á vesturströnd Tyrklands (nú Izmir), þar sem hann dvaldi í viku, fer sýn hans á umhverfið að litast af skáldskap Þúsund og einnar nætur og hann dregur upp eftirfarandi mynd í bréfi til vinar:

Mér fannst, sannast talað, ég vera kominn í annan heim, þegar ég kom til Tyrkja, eftir að hafa verið meðal Grikkja – þó allhægt sé að lynda við Grikkina sem hér búa …Hér gaf að líta miklar úlfalda- og múlasnalestir. Hér mátti sjá þræla, sem í stórhópum voru reknir til sölutorgsins, þar sem þá skyldi selja. Konur allar voru með gula skó á fótum og slæðu fyrir andliti og í fylgd með þeim var fjöldi ambátta og geldinga. (Jón Helgason 1941: 93)

 

Um samband kvenlegrar fegurðar og fagurrar náttúru

Flest bendir til að Tómas hafi verið trúr þeirri heitmey sem hann hafði bundist með leynd norður í Aðaldal í Þingeyjarsýslu örlagasumarið 1829, og sá ekki aftur fyrr en eftir 5 ára ferðalag sitt um heiminn. Það kom þó ekki í veg fyrir að hann gæfi hinni kvenlegu fegurð gaum, og kemur það nokkrum sinnum fram í ferðabókarhandriti hans og sendibréfum. Það er athyglisvert við þær athugasemdir að hann tengir jafnan saman ytra útlit og kynþokka kvenna annars vegar og það náttúrlega umhverfi sem þær eru sprottnar úr hins vegar. Ein fyrsta athugasemd hans um þessi efni kemur fram í kaflanum um veruna í Dresden í Þýskalandi, en þar segir Tómas:

Konur eru í Dresden aðdáanliga fríðar, og sá eg þar ekki ófrítt stúlkuandlit jafnt meðal allra stétta. Hefir fátt á ferð minni undarligar fyrir mig komið en hvað stór munur þess var í Berlín og hér. Sýnist það og víða, að kvenfólk sé svo bundið til náttúrunnar að fríðleikur þess fari mikið eftir fegurð hennar. Vinnukonur í Dresden búa sig snoturligar en víðast annars staðar og áþekkt kaupstaðarkonum á Íslandi … (T. S. 1947: 219)

Ekki eru finnanlegar beinar heimildir um mat Tómasar á kvenlegum yndisþokka á Ítalíu, en í bréfi til föður síns segir hann Ítalíu vera „fegursta land í Norðurálfunni og það merkilegasta í veraldarsögunni; þar er og allt það, er mennirnir hafa fallegt gert, sameinað. Málið: vallenskan eða ítalíenskan er hið fegursta mál, sem talað er – og trauðlega eru nokkursstaðar mennirnir fallegri“ (T. S. 1907: 120–121).

Þótt Tómas beri Grikkjum almennt illa söguna, þá segir hann eftir heimsókn sína til grísku eyjarinnar Mýtílene og til Smyrnu á vesturströnd Tyrklands, að landslag á Mýtilene sé engu líkt hvað fegurð snertir, og sama eigi við um kvenfólkið, „sem hljóti að vera jafn-andlitsfrítt nú og það var á dögum grísku skáldkonunnar Sappho“. Álítur hann að „alls yfir séu grískar konur öllum öðrum konum fríðari“; þetta hafi honum ekki orðið ljóst fyrr en hann kom til Smyrnu, því „á sjálfu Grikklandi fái konur varla leyfi til að koma undir bert loft“ (Jón Helgason 1941: 93–94)

Það sérstæða samhengi sem Tómas virðist finna á milli kvenlegrar fegurðar eða líkamsfegurðar og náttúrunnar er kannski ekki jafn langsótt og ætla mætti, því hliðstæðar hugmyndir koma fram í tímamótaverki þýska listfræðingsins Johanns J. Winkelmanns, Saga listar fornaldarinnar, sem var rituð 1764, og var ekki bara tímamótaverk í ritun listasögu, heldur líka hugmyndafræðilegur grunnur nýklassísku stefnunnar eins og hún birtist t.d. hjá Bertel Thorvaldsen. Tómas minnist á Winckelmann í Ferðabók sinni og segir engan fyrr né síðar hafa með svo miklu lífi og gáfum útlagt og lýst hinum gömlu snilldarverkum. En í upphafi umfjöllunar sinnar um gríska myndlist fornaldarinnar segir Winckelmann að eina skýringuna á yfirburðum grískrar myndlistar í gjörvallri listasögunni sé einmitt að finna í loftslaginu:

Áhrif loftslagsins hljóta að blása lífi í þau sáðkorn sem listin vex upp af, og Grikkland var hið útvalda land fyrir þetta sæði … Margt af því sem okkur er tamt að rekja til ímyndunaraflsins var ekki annað en náttúran sjálf meðal Grikkja. Eftir að náttúran hafði sveiflast frá hinu kalda til hins heita fann hún miðpunkt sinn, ef svo mætti segja, í Grikklandi, þar sem loftslag er í fullkomnu jafnvægi milli veturs og sumars … Þar sem nattúran er hvað minnst umvafin þokumóðu og mistri er hún skjótvirkari í viðleitni sinni að gefa líkömunum þroskaðra form, hún getur af sér tignarlegar verur, einkum kvenverur, og í Grikklandi hefur hún gefið mannfólki sínu hið fullkomnasta og háleitasta form … og engin önnur þjóð hafði líkamsfegurðina í jafn miklum metum. (Winkelmann 1764/1993)

Winckelmann gerði að vísu greinarmun á náttúrlegri fegurð og listrænni fegurð, en um leið og hann setur fram heilstæða kenningu um guðdómlegt eðli fegurðarinnar sem er „skynjuð með skilningarvitunum en skilin með hugsuninni“ út frá hinum fegurstu fordæmum náttúrunnar, þá setur hann jafnframt fram heilstæða og ítarlega kenningu um fagurfræði mannslíkamans er byggi á stærðfræðilegum hlutföllum út frá tölunni þrem. Nálgast þessi fagurfræði Winckelmanns mjög að vera kynþáttahyggja þar sem hann telur m.a. þykkar varir og inndrægt og kúlulaga nef blökkumanna, flatt andlit og skásett lítil augu Asíubúa vera afbrigðileg frávik frá hinni fullkomnu fyrirmynd sem hann sá meðal Grikkja, og stóð næst mynd hans af skaparanum sjálfum. Tómas virðist undir áhrifum Winckelmanns hvað þetta varðar, en athyglisvert er samt, að í hans huga virðist Ísland ekki falla undir þessa kenningu hvað loftslagið snertir, því kaupstaðarkonur á Íslandi jafnast til fulls á við vinnukonurnar fögru sem hann sá í Dresden.

 

Heimförin frá Napoli

Þegar Tómas kemur til Palermo fær hann að vita að styrkumsókn hans til fararinnar hefur verið hafnað af dönskum yfirvöldum, en hann setur þá stefnuna á París og segir í bréfi til föður síns sem hann ritar kominn til Napoli 28. ágúst 1833, að hann stefni á að „halda þar út [þangað] til í desember. Komi mér úr því engin hjálp, verð ég að setja mig þar niður?! Því alstaðar í Evrópu er ég matvinnungur, ef ég vil vera kyrr, en reist get eg ei af eigin kröftum“ (T. S. 1907: 125).

Tómas dvaldi um einn mánuð í Napoli áður en hann hélt af stað norður á bóginn í septemberbyrjun. Leiðin norður lág í gegnum Róm og Flórens, til Livorno, Pisa, Lucca, Genova, Milano og Torino. Þaðan hélt hann í gegnum Sviss og Austurríki með viðkomu m.a. í Sion, Chamonix, Genf, Lausanne, Bern, Luzern, Zürich, Schaffenhausen og Basel. Þaðan yfir frönsku landamærin um Strasbourg til Parísar, en þangað kemur hann um miðjan nóvember 1833. Í bréfi til vinar segir hann um þetta ferðalag að „í flestöllum af þessum stöðum hef ég staðið við í 2–3 daga og í öllum þeim stærri svo sem í viku, og ekki ætla ég margt merkilegt í neinum þeirra, sem ég ekki hefi séð“ (Jón Helgason 1941: 96–97).

Í París virðist ferðasjóður Tómasar hafa verið upp urinn, en hann segir í bréfi til föður síns, sem hann skrifaði í Kaupmannahöfn 4. júní 1834, að „einn af vinum mínum hefir þar brúkað yðar góðsemi, eftir hann sjálfur var búinn að reita sig inn að skyrtunni, svo ég ei skyldi deyja úr hungri og skuldheimtararnir ei framar létu honum svefnró. Dönsku stjórninni hefir nefnilega farist ver við hinn eina Íslending, sem vogaði sér út í veröldina, en trúlegt sýndist og ég gat ímyndað mér, svo ég hef ei af henni fengið einn skilding til ferðarinnar ...“ (T. S. 1907: 126–127).

Tómas kennir fjárskorti og illum aðbúnaði í París um veikindi sín sem urðu til þess að hann varð að leggjast inn á sjúkrahús í lok febrúar 1834 og dvaldi þar þjáður af lungnabólgu og/eða berklum með þrálátum blóðspýtingi fram til 3. maí. Tómas lét veikindi og fjárskort ekki aftra þeim staðfasta vilja að fara til Lundúna, áður en hann sneri til Kaupmannahafnar. Hann fer frá París í byrjun maí til Lundúna, á greinilega stutta viðdvöl, og siglir þaðan til Hamborgar og frá Hamborg kemur hann til Kaupmannahafnar þann 16. maí, og vantaði þá þrjár vikur á að ferðin sem hófst 7. júní 1832 hefði staðið í tvö ár. Í Kaupmannahöfn verða fagnaðarfundir Tómasar og vina hans, sem eru þá þegar farnir að undirbúa útgáfu Fjölnis. Um leið og hann vinnur að undirbúningi tímaritsútgáfunnar sækir hann um prestsembætti sem hafði losnað á Breiðabólstað, skammt frá æskuslóðum hans í Rangárþingi. Hann fær embættið og því var ferð hans ekki lokið: hann stefndi markvisst heim til Íslands og norður í Aðaldal til að hitta heitkonu sína, Sigríði Þórðardóttur. Tómas hafði misst af „vorskipunum“ sem sigldu til Íslands, en hann frétti að Fredrik Carl Christian krónprins (síðar Friðrik VII konungur) væri á Íslandi og að „corvettan“ Najaden ætti að sækja prinsinn í ágústmánuði. Fékk Tómas ókeypis far með skipinu, sem hreppti afar slæmt veður á leiðinni, og tók siglingin til Íslands réttar þrjár vikur, en til Íslands komst Tómas 31. ágúst 1834. Er þessari siglingu lýst með eftirminnilegum hætti í fyrsta tölublaði Fjölnis 1835.

Sú Reykjavík sem mætti heimsborgaranum Tómasi Sæmundssyni í sumarlok 1834 minnti í litlu eða engu á þá fjölmörgu staði sem hann hafði heimsótt í heimsreisu sinni. Af um 600 íbúum bæjarins voru fimm embættismenn konungs: einn stiftamtmaður, einn bæjarfógeti, einn dómari landsyfirréttar, einn landlæknir og einn lyfsali. Biskupinn bjó í Laugarnesi, sem þá var fyrir utan bæinn. Aðrir bæjarbúar voru tómthúsmenn, handverksmenn og bændur sem lifðu af stopulli erfiðisvinnu og bjuggu flestir í torfkofum. Helstu menntamenn landsins voru kennarar við Bessastaðaskóla og bjuggu þeir á Álftanesi og í Görðum. Tómas sat að kvöldi fyrsta dags í Reykjavík veislu Kriegers stiftamtmanns til heiðurs krónprinsinum, sem var að ljúka Íslandsferð sinni. Tómas dvaldi rúmar þrjár vikur í Reykjavík og nágrenni og þáði gistivináttu Steingríms Jónssonar biskups í Laugarnesi, en fljótt kom að því að honum héldu engin bönd: hann þurfti að komast í Aðaldalinn að hitta heitmey sína, sem hafði beðið hans í fimm ár.

Erfiðasti áfangi ferðarinnar

Á þessum tíma var Ísland vegalaust land með óbrúaðar ár. Ferðalagið frá Reykjavík norður í Aðaldal var trúlega erfiðasti áfanginn á allri heimsreisu Tómasar, en hann hélt ríðandi frá Reykjavík þann 25. september. Ferð hans lá um Reykholt, Gilsbakka, Kalmanstungu, Grímstunguheiði, Víðidal, Þingeyrar, Svínavatn, Blöndudal, yfir jökulána Blöndu og áfram um Svartárdal, Vatnsskarð, Víðivelli í Skagafirði, yfir Héraðsvötn í Steinsstaði í Öxnadal og til Akureyrar, en þaðan var síðasta dagleiðin í Garð í Aðaldal. Hafði Tómas þá setið á hestbaki og riðið vegleysur um fjöll og dali og farið yfir grýttar urðir, mela og úfin heiðalönd og yfir allmörg stórfljót á tíu dögum í misjafnri veðráttu og hreppt fyrsta hríðarveður haustsins á síðasta degi ferðarinnar.

Þoldi ég betur ferðalagið en ég nokkurn tíma hafði getað vænst, því ég hafði aldrei meira á mig reynt síðan ég lasnaðist, en fann mig þó oft ver á mig kominn en eftir þessa ferð,“ segir hann í bréfi til föður síns (T. S. 1907: 137–138). Tómas hafði fylgdarmann flestar dagleiðirnar, á leiðinni fékk hann gefinn reiðhest og hafði tvo til reiðar og svo er að sjá af frásögn hans í bréfinu til föðurins, að ekkert hafi þótt eðlilegra en að slá reiðskjótana af í lok ferðarinnar, þar sem ekki hefði verið hugsað til fóðuröflunar fyrir þá yfir bjargræðistímann. Tómas gat komið hestum sínum í fóður gegn því að skorin voru tíu lömb fyrir hvorn hest og til viðbótar greidd „ein spesía og ríksort“ á mánuði í fóðurkostnað. Segir þessi saga nokkuð um þær efnahagsaðstæður er ríktu á þessum „dýrðlegasta bletti á jarðríki“, sem Tómas hafði kvatt með söknuði sjö árum áður, þegar hann hélt til náms í Kaupmannahöfn. Í áðurnefndu bréfi til föður síns segir Tómas enn fremur um ferðina norður: „En ég sé engin líkindi til að ég muni nokkurn tíma iðrast ferðarinnar, og ég hefi sem stendur orsök til að vera ánægðari með hagi mína en nokkurn tíman áður … 8 dögum eftir að ég kom hingað var lýst yfir af prédikunarstól og brúðkaup stóð í Garði þann 24 október eða föstudaginn fyrstan í vetri“ (T. S. 1907: 139). Sæmundur faðir Tómasar, sem bjó á Eyvindarholti í Vestur-Eyjafjallahreppi, þar sem hann var hreppsstjóri, sá sér ekki fært að fara norður til að vera við brúðkaup sonar síns.

Þrem vikum eftir að Tómas kom í Garð var hann kvæntur maður. Þar hafði hann nú vetursetu, sinnti almennum bústörfum og vann trúlega í ferðabókarhandriti sínu, auk þess sem hann vann að greinaskrifum fyrir Fjölni. Biskup kallaði Tómas til Reykjavíkur til prestvígslu um vorið, og var hann vígður til Breiðabólstaðarprestakalls í Dómkirkju Reykjavíkur 24. maí 1835, en við jörðinni og prestakallinu tók hann formlega 5. og 6. júní (Eggert Ásgeirsson 2007: 41). Frá Breiðabólstað reið hann svo norður Sprengisand að sækja eiginkonu sína og búslóð í Garði. Var búslóðin flutt á klökkum í hestalest suður yfir Sprengisand. Á leiðinni hrepptu þau óveður og villtust af leið, og þá gerðist það að hestarnir ráfuðu á bithaga í þessari eyðimörk, sem trúlega varð þeim til bjargar, og heitir síðan Tómasarhagi. Haga þennan gerði Jónas Hallgrímsson ódauðlegan í ljóði um vin sinn og ferð hans: „Tindrar úr Tungnajökli/ Tómasarhagi þar / algrænn á eyðisöndum / er einn til fróunar. // Veit eg hér áður áði / einkavinurinn minn / aldrei ríður hann oftar / upp í fjallhagann sinn. // Spordrjúgur Sprengisandur / og spölur er út í haf / hálfa leið hugurinn ber mig, / það hallar norður af.“

Tómas sinnti preststörfum, ritstörfum og bústörfum bóndans á Breiðabólstað þau fáu ár sem hann átti ólifuð. Hann var farsæll í embætti, mikilvirkur í ritstörfum sínum og átti í góðu hjónabandi. Þeim hjónum varð fimm barna auðið, en hann lést 17. maí 1841 af völdum þess sjúkdóms er hann hafði fengið í París og losnaði aldrei við. Yngsta dóttir Tómasar lést sama dag og hann, 4 mánaða gömul. Tengdamóðir hans, sem dvaldi á heimili hjónanna, hafði látist 12. maí, og önnur dóttir Tómasar, Sigríður, lést nóttina fyrir jarðarförina sem fór fram 4. júní. Þann dag kvaddi Sigríður Þórðardóttir eiginmann sinn, móður sína og tvær dætur í kirkjugarðinum á Breiðabólstað.

 

Veröldin séð með augum gestsins og leiðsögumannsins

Segja má að ævistarf Tómasar Sæmundssonar hafi falist í því að tengja Ísland við umheiminn á ný. Félagarnir sem stóðu að útgáfu Fjölnis brúuðu á ný þá gjá sem hafði myndast á milli þessarar strjálbýlu eyju í norðurhöfum og umheimsins. Sjálfur var Tómas eins og leiðsögumaður ráðvilltrar þjóðar sem þekkti ekki annan heim en nokkrar veðurbarðar þúfur, úfnar öldur úthafsins og náttúruöfl sem lokuðu fyrir alla möguleika á yfirsýn yfir heiminn. Í ferðabókarhandriti hans er brot úr kafla, sem hann hefur hugsað sem inngang að þessum leiðarvísi Íslendinga um menningarheima Evrópu. Kaflinn hefst á lýsingu og útskýringu höfundar á því ótrúlega fyrirbæri sem borgarmenning er í augum Íslendinga. Þessi lýsing segir meira en mörg orð um það, hversu mjög íslenska þjóðin hafði fjarlægst menningu heimsins, þjóðin sem eitt sinn hafði sent syni sína og dætur yfir úthöfin til að finna meginlönd á borð við Grænland og Norður-Ameríku. Í stað torfkofanna sem Íslendingar þekktu sem hina náttúrlegu mannabyggð blasir þá þessi sjón við:

… þannig er nú einn samfastur húsaklasi sem stendur beint upp af fletinum er borgin er byggð á, þverhníptur á alla vegu, á að sjá sem sker eður eyja, og hefur því einn slíkur í sumum málum svo kallaður verið. Eru nú í hverri borg slíkir hólmar margir og hafa ýmsa lögun, og þá er staðurinn sem regluligast byggður er þeir eru rétthyrningar og ganga hvör öðrum fremst jafnsíðis. Sundin sem nú aðskilja hvörn þeirra frá öðrum og liggja aftur á bak og áfram í margar áttir er það sem götur eða stræti nefnist. Eru þau oftast svo breið að vagnar geti á þeim mætzt, og þeir fótgangandi hafi þó nægilegt rúm fram með húsum báðum megin; og aðskilur göngumannavegi frá hestvagni oftast rásir og ræsi sem flytja burtu vatn það er ofan streymir af húsþökum eður út úr húsum berst. Eru strætin oftast flórlögð. Má nærri geta að [mörgum] sem slíkum vegum eru óvanir finnist þröngt um sig er hann stundum sem mílum skiptir gengur milli rétt sem háfjalla er nærri lykjast saman yfir höfði hans og ei sér nema litla rönd himins yfir höfði sér; verður því og frá sér numinn er hann sér allt um kring sig sífelldan mannusla með alls kyns hætti, vagna og hesta arg og hávaða svo varla heyrir manns mál. Er varla til ófrýniligri sjón en frá háum turni að líta yfir stóra borg. Húsþökin fyrir neðan mann, sem oftast eru úr brenndum leir, með öllum sínum ójöfnum eru sem brunahraun sem reykháfarnir er fylla loftið með sífelldum reyk og svælu gjöra enn líkara eldgjósandi fjöllum, og á milli þessa grillir maður niður á göturnar sem í djúpa gjá og sér þaðan fólk og hesta á hreyfingu sem kvikindi og ber þaðan upp til manns argið og skarkalann. Gefur það nokkurn þanka um hvörnig við munum líta út frá hærri himnastöðum … (T. S. 1947: 290)

Lýsing þessi á það sammerkt með lýsingu Tómasar á landslagi í námunda við Róm og Napoli, að orðin ná ekki utan um veruleikann nema styðjast við það sem augað þekkti fyrir. Þannig verða fjalladalirnir og eldfjöllin og eyjar og sker Tómasi nærtækust samlíking þegar lýsa skal borgarlandslaginu. En þegar kemur síðan að menningunni blasir meðal annars þetta við:

…höfuðborgar landsins vitja allir sem bein hafa í hendi, eyða þar fé sínu; þar er höfðingjanna aðsetur helzt. Í borgunum finna menn minna til veðráttunnar hörku og óblíðu en á landinu; þar er allt unnið og framkvæmt í húsum inni, lítil stritvinna nauðsynlig, störfin eru á öllum tímum árs hin sömu og minni nauðsyn á að taka nær sér á einum tíma en á öðrum en á landinu, hvar allt hefir sína stund. Má af öllu þessu stærra punti við koma í borgum; safnast og þangað allt hvað skemmtunum og gleði unnir, vegna þess þar eru stærri glaðværðir og menn geta verið sér úti um stærri margvísligar nautnir; er þar og öll hin hærri menntun búandi. Til að flýta og koma til leiðar öllu þessu er þangað safnað öllu því sem fegurðarkeimur er að. Allt hvað upp á einhvern hátt þykir merkiligt, prýðiligt eður nytsamt fyrir staðarbúa eður fyrir almenniliga menntun er því þangað safnað svo það ekki megi kalla sett undir mæliask. Eru því í öllum stórum stöðum margvíslig söfn sem vanaliga eru haldin á opinberan kostnað og því á ákveðnum dögum opin til heimillrar inngöngu hvörjum er sjá vill til menntunar sér og ánægju … (T. S. 1947: 292)

Það var lesendum Tómasar framandleg hugsun að atvinna væri ekki árstíðabundin og að hana mætti stunda í húsaskjóli árið um kring. Þessari lýsingu á menningarumgjörð stórborganna fylgja síðan nákvæmar lýsingar á þeim margvíslegu og framandlegu stofnunum er fylgja stórborgarmenningunni: listasöfnum, fornminja- og náttúrugripasöfnum, bókasöfnum, leikhúsum og háskólum, sem og þeim margvíslegu starfsstéttum er tilheyra hinum ólíku geirum borgarmenningarinnar. Öll ber lýsingin merki þess að hún er rituð fyrir þjóð sem vart þekkti tvílyft hús, vegi, holræsi eða menningarstofnanir sem fylgja borgarmenningunni, hafði aldrei hlýtt á tónleika eða séð leiksýningu eða listasafn.

Sjálfur gerir Tómas þá játningu, að á ferðalagi sínu um heiminn hafi hann uppgötvað margt sem hann hafði ekki haft getu eða hugmyndaflug til að ímynda sér fyrr en hann sá það með eigin augum, einkum hvað varðar byggingarlist og myndlist:

Hef eg þar fyrir mér eigin reynslu, og hafði eg varla hugað að hinum smíðandi snilldum, öllu þeirra ágæti, þeirra mikilvægu verkunum í veraldarsögunni … og í mannligu lífi, hvað mikið þar um er talað í bókum, og oft ómögulegt án þess að bera skynbragð að skilja heil merkisrit eður að taka þátt í samræðum siðaðra manna, fyrr en augu mín opnuðust [og] eg sá hin fögru löndin hvar snilldin eiginliga á heima ásamt náttúrunnar indæli og himinsins blíðu. (T. S. 1947: 338)

Tómas Sæmundsson og félagar hans í kringum tímaritið Fjölni opnuðu Ísland fyrir nútímanum.

 

Heimildir

Berlin, Isaiha. 1999. The Roots of Romanticism: The A.W. Mellon Lectures in the Fine Arts. Princeton, NJ: Princeton University Press.

Dillon, A. 1840. A Winter in Iceland and Lappland. London: Henry Colburn.

Eggert Ásgeirsson. 2007. Tómas Sæmundsson og Sigríður Þórðardóttir. Reykjavík: Eggert Ásgeirsson.

Gombrich, Ernst. 1989. Art and Illusion: A Study in the Psychology of Pictorial Representation. Princeton, NJ: Princeton University Press.

Jón Helgason. 1941. Tómas Sæmundsson: Æfiferill hans og æfistarf. Reykjavík: Ísafold.

Jónas Hallgrímsson. 1989. Ritverk Jónasar Hallgrímssonar I. bindi.  Ljóð og lausamál. Ritstj. Haukur Hannesson, Páll Valsson og Sveinn Yngvi Egilsson. Reykjavík: Svart á hvítu.

Páll Valsson. 1999. Jónas Hallgrímsson Ævisaga. Reykjavík, Mál og menning.

Schelling, Friedrich. 1989. Le arti figurative e la Natura [Über das Verhältnis der bildenden Künste zur Natur, 1807]. Ítölsk þýðing og ritstj. G. Moretti og L. Rustichelli. Palermo: Aesthetica edizioni.

Tómas Sæmundsson. 1832. Island fra den intellectuelle Side betragtet. Kjøbenhavn: Græbe & Søn.

Tómas Sæmundsson. 1907. Bréf Tómasar Sæmundssonar; gefin út á hundrað ára afmæli hans 7. júní . Ritstj. Jón Helgason. Reykjavík: Sigurður Kristjánsson.

Tómas Sæmundsson. 1947. Ferðabók Tómasar Sæmundssonar. Ritstj. Jakob Benediktsson. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag.

Winkelmann J.J. 1993. Storia dell’arte nell’antichità [Gesichte der Kunst des Altertums, 1764]. M.L. Pampaloni þýddi. Milano: Arnoldo Mondadori Editore.

 

%d