Samtal við Ævar Kjartansson í Ruv frá 2010

Hin goðsögulega heimsmynd Forngrikkja í ljósi kristindómsins

Hljóðupptaka úr Ríkisútvarpinu á samtali við Ævar Kjartansson um heimsmynd goðsögunnar og kristindómsins í ljósi samtímans. Smellið á setninguna hér að ofan. Samtalið varir í um 45 mínútur.

Stríðið í spegli Dionysosar – Ragnar Kjartansson

Hugleiðingar um leikverk Ragnars Kjartanssonar myndlistarmanns og Kjartans Sveinssonar tónskálds, sem flutt var í Þjóðleikhúsinu vorið 2018.

Leikstjórn:
Ragnar Kjartansson
Tónlist:
Kjartan Sveinsson
Hljómsveitarstjóri:
Bjarni Frímann Bjarnason
Leikmyndarhöfundur:
Ragnar Kjartansson
Hljómsveit:
Sinfóníuhljómsveit Íslands
Útfærsla leikmyndar:
Leikari:
Hilmir Snær Guðnason
Aukaleikarar:
Adolf Smári Unnarsson, Aron Martin de Azevedo og Guðjón Bergmann Ágústsson
Útfærsla leikmyndar:
Axel Hallkell Jóhannesson og Jana Wassong
Búningar:
Helga I. Stefánsdóttir
Lýsing:
Halldór Örn Óskarsson
Dramatúrg:
Henning Nass
Sýningastjórn:
Elín Smáradóttir
Málarar:
Anda Skrejane, Anton Hägebarth, Camilla Hägebarth, Christoph Fischer, Julia Krawczynski

Hugleiðingar um leiksýningu Ragnars Kjartanssonar og Kjartans Sveinssonar

í Þjóðleikhúsinu í júní 2018

 

Að vera samtímabær felur í sér að staðsetja sig í núinu með því að skynja umfram allt forneskju þess.

Einungis sá sem skynjar ummerki og spor hins forna í hinu nútímalegasta og nýjasta getur kallast samtímabær.

Fornfálegt (arcaico) merkir  það sem stendur nálægt arkhé, það er að segja upprunanum.

En upprunann er ekki að finna á tímalínu fortíðarinnar.

Hann er samtímis hinni sögulegu verðandi og hættir ekki að virka innan hennar,

ekki frekar en fóstrið hættir virkni sinni í hinni þroskuðu lífveru eða barnið í sálarlífi hins fullorðna.

Bæði þessi fjarlægð og þessi nálægð sem einkenna hið samtímabæra byggja á þessari nálægð við upprunann sem hvergi er eins öflugur í virkni sinni og í núinu.

Giorgio Agamben: Che cosa é il contemporaneo?

Ragnar Kjartansson Stríð 2018-5

Svið og hljómsveitargryfja Þjóðleikhússins í sýningunni „Stríð“

 

Sýningin hófst með tregafullum tónum strengja sinfóníuhljómsveitarinnar úr gryfjunni framan við sviðið, trega sem varð sífellt ómstríðari þar til þungt og dimmrautt fortjaldið opnaðist með hægð og við blasti landslagsmynd sem færði okkur fyrst inn í þokufullan heim Caspars Davids Friedrich,  þar sem síðustu leifar sígandi rauðglóandi sólar sáust í gengum þoku- og reykmettaðan himin í landslagi sem smám saman birtist okkur eins og vígvöllur með skotgröfum og eyðilögðum ummerkjum afstaðinna stríðsátaka, brotin vagnhjól, brotnir burðarásar og hálfkulnaðir varðeldar, landslag sem smám saman tók að minna okkur á Sigur Dauðans eftir Pieter Breughel frá 16. öldinni. Tregafullur ómur strengjanna magnaðist með undirleik málmblásara og smám saman kviknaði líf á sviðinu með kveinstöfum þar sem leikarinn skreið upp úr einni gröfinni með harmkvælum, helsár og máttfarinn.

C D Friedrich Menn hugleiða tunglið 1819Caspar David Friedrich: Horft frá eikinni, 1819

Íklæddur blóðugum hermannabúningi sem tilheyrði 19. öldinni braust hann upp úr skotgröf sinni og veltist síðan um í þessu drungalega umhverfi þar sem lík þriggja vopnabræðra hans lágu eins og hræ inn á milli logandi glóðarelda og brotinna mannvirkja stríðsins. Í heila klukkustund horfðum við á Hilmi Snæ Guðnason brjótast um í þessu gæfusnauða, rökkvaða og reykmettaða umhverfi án þess að gefa frá sér önnur hljóðmerki en stunur, kvein og örvæntingaröskur. Hann fór kollsteypur, hnaut um brunarústir, brotnar stoðir og burðartré, studdist stundum við byssustinginn, stundum við sverðið, þurrkaði blóð og svita af andliti sínu og fötum, horfði skilningssljóum augum yfir sviðið eins og sært dýr, féll um koll við liðið lík vopnabróðurs síns, rak upp kveinstafi, faðmaði líkið í örvæntingu og skreið að lokum með harmkvælum upp á hól þar sem hann náði að standa í báða fætur með byssustinginn á lofti yfir höfði sér þegar skyndileg sprenging kvað við, hann féll til jarðar og hvítur reykjarmökkur steig til himins baksviðs. Tjaldið féll, síðustu tónar hljómsveitarinnar dóu út og við kvað dynjandi lófatak áhorfenda. Klukkustundar dauðastríð hafði liðið hjá eins og í andrá og undarleg löngun eftir að fá að sjá meira gerði vart við sig. En lófatakið og fögnuður okkar áhorfenda vakti spurningar, ekki síður en sjálf upplifunin: hvað höfðum við séð, hverju vorum við áhorfendur að fagna?

Sá fordómafulli grunur læddist að mér að áhorfendur væru að fagna sýningu sem hefði sýnt vonsku stríðsins og blessun friðarins, en ég var ekki viss, og um mig fór ónotahrollur. Ég hafði ekki svar á reiðum höndum um hvað ég hafði upplifað, en það var eitthvað allt annað en einföld siðapredikun um greinarmun hins góða og illa. Það var eitthvað sem varðaði kjarna leikhússins, einhverjar óljósar spurningar sem eftir stóðu og ég átti ekki umsvifalaus svör við. Hvers vegna greip mig löngun til að horfa lengur á þetta landslag, horfa lengur inn í þennan spegil og hlusta lengur á þennan tregafulla og ómstríða takt tónlistarinnar sem fylgdi atburðarás og efni leikmyndarinnar eins og hanskinn fylgir höndinni og höndin fylgir hanskanum. Hér er ekki um að ræða samband frumlags og andlags, geranda og þolanda, heldur fullkomlega erótískt og gagnkvæmt samband sem endurspeglast í látbragði leikarans og innlifun áhorfendanna.

Það sem gerði þessa sýningu ögrandi og áleitna var ekki síst söguleysið: við vitum ekkert um persónulegar aðstæður hermannsins, ekkert um fortíð hans eða framtíðardrauma, ekkert um hvaða málstað hann hefur þjónað sem hermaður og ekkert um hvað knýr hann áfram í gegnum alla sýninguna til að berjast gegn óhjákvæmilegum endalokum sínum. Við erum vitni að hinum nakta lífsvilja eins og hann var túlkaður í skrifum Arthurs Schopenhauers um „Heiminn sem vilja og myndgervingu“. Maðurinn er knúinn áfram af ósjálfráðum hvötum sem Sigmund Freud, sporgöngumaður Schopenhauers, kenndi við Eros og Þanatos: getnaðarhvötina og eyðingarhvötina, þessa árásargirni sem er manninum meðfædd sem vörnin fyrir afkvæmi sín, fjölskyldu, hús og föðurland og er sama hvötin og hefur gert ástina og stríðið að fylgifiski mannkynsins frá upphafi vega. Það sem við sáum hér var hinn nakti lífsvilji, án vísunar í önnur rök en sjálfan sig, sem trúlega er það sama og Nietzsche kallaði viljan til valds. Lífið hefur sín eigin meðfæddu rök sem réttlætast af sjálfum sér og engu utanaðkomandi valdi, hvorki guðfræðilegu né pólitísku eða hugmyndafræðilegu. Það er líf án ytri eða yfirlýsts tilgangs, líf sem náttúran hefur skapað fyrir tilviljun og eyðir fyrir eigin nauðsyn til að gera eigin viðkomu mögulega. Hin eilífa hringrás hins sama, svo vitnað sé aftur til Nietzsche.

Að horfa á dauða annarra

Það dularfulla við dauðann er að þó þekkingin um dauðann verði að teljast ein af forsendum mennskunnar (dýrin kunna ekki að óttast dauðann því þau þekkja ekki hugtakið, eru ekki mótuð af tungumálinu), þá hefur enginn lifandi maður reynt hann á eigin skinni og enginn er því til frásagnar um þessa reynslu. Að horfa á dauða annarra er hins vegar æ hversdagslegri reynsla í okkar samtíma. Allar sjónvarpsstöðvar heimsins hafa þetta efni á dagskrá sinni daglega í ómældu magni í samkeppni sinni um áhorf og auglýsingatekjur. Eftirspurnin myndar greinilega framboðið. Það er eins og eftirspurnin endurspegli ekki bara óttann við eigin dauða, heldur líka undirliggjandi hugsun sem bælir þennan ótta eða bægir honum frá: „þetta kemur aldrei fyrir mig.“

Í frægum texta um dauðann sem Sigmund Freud skrifaði undir lok fyrri heimsstyrjaldarinnar segir hann meðal annars: „Okkur er reyndar fyrirmunað að ímynda okkur eigin dauða; alltaf þegar við reynum það uppgötvum við að við lifum hann af sem áhorfendur. Sálgreiningin getur þannig ályktað að í grunninn trúi enginn á eigin dauða: í undirvitundinni eru allir sannfærðir um eigin ódauðleika.“ [i]

Ef undirliggjandi ótti við dauðann skýrir framboð hans í sjónvarps og myndmenningu samtímans, þá er hið framlengda dauðastríð hermannsins okkar af öðrum toga. Dauðinn í sjónvarpinu eða kvikmyndinni er skyndilegur og ofbeldisfullur, hann snýst ekki um hið langvinna dauðastríð hins nakta lífs andpænis óhjákvæmilegum endalokum. Leiksýningin „Stríð“ er engin friðþæging  gegn óttanum við eigin dauða eins og morðsenan í sjónvarpinu. Hvaða dauðastríð er þetta þá?

XIR34819

Gustave Courbet: Deyjandi hermaður (sjálfsmynd 1844-54. Musee d’Orsay)

Vísbendingar hljóðheimsins, taktsins og sviðsmyndarinnar

Rétt eins og orðlaus angistarvein hermannsins útiloka okkur meðvitað frá allri túlkun á tilvistarlegri sögu hans, fortíð og framtímadraumum, þá eru aðrar vísbendingar í þessari sýningu sem óhjákvæmilega snerta upplifun og túlkun hennar: það eru til dæmis augljósar vísanir í sögu myndlistarinnar þar sem upp koma í hugann málverk ekki bara eftir Friedrich og Breughel, heldur líka hin sögufræga sjálfsmynd Courbets sem særður og deyjandi hermaður frá árinu 1845. Svo ekki sé minnst á fjölmargar myndir Goya um „Hörmungar stríðsins“ og mynd Manets af aftöku Maximilians í mexikósku byltingunni. Allt myndir sem sýna okkur ofbeldið í sinni nöktu mynd og án pólitískrar hluttekningar: hið nakta líf í grimmd sinni og varnarleysi.

Auk þessara myndrænu vísana í listasöguna höfum við vísanir sem snerta sögu leiklistarinnar og tónlistarinnar: Tónlistin sem gefur sýningunni takt sinn eins og kórinn í forngrískri leiklistarhefð, látbragðið sem verður, eins og dans satíranna í forngrískum harmleik, að jarðnesku ákalli til guðdómsins og hinna ódauðlegu, uml, stunur og örvæntingaróp leikarans sem opinbera jarðneskar rætur hinna dauðlegu með óviðjafnanlegri innlifun Hilmis Snæs Guðnasonar: vísanir sem leiða okkur að sviði hins gríska harmleiks þar sem óhjákvæmilegur endanleiki mannlegrar tilveru tekst á við hin óyfirstíganlegu lögmál náttúrunnar í spegilmyndinni af heiminum. Spegilmynd sem sjálf er hluti af þessum sama heimi og er því sjálfur veruleiki hans.

Spegill Dionysosar

Okkur er kennt að vestræn leikhúshefð eigi sinn uppruna í dýrkun Dionysosar, guðsins sem var sonur Seifs og dauðlegrar konu, guðsins sem dó og endurfæddist til eilífs lífs fyrir tilstilli Seifs. Hvernig gat Dionysos dáið? Honum hafði verið komið barnungum í fóstur í fjarlægu landi til að bjarga honum undan hefndarmorði Heru, sem ekki vildi sætta sig við þetta afkvæmi húsbónda síns utan hjónabands. En Hera átti sér bandamenn, sem jafnframt voru óvinir Seifs og hinna olympísku guða. Títanirnir gerðust bandamenn hennar, risarnir sem voru ímynd hinna frumstæðu og stjórnlausu náttúruafla og hins stjórnlausa hvatalífs, risarnir sem urðu að lúta í lægra haldi í valdabaráttu hinna olympísku guða fyrir röð og reglu í þeim heimi sem stýrt var með konunglegu valdi Þrumuguðsins Seifs. Valdi sem kom að ofan og var lóðrétt eins og eldingin og boðaði nýja reglu gegn óreiðu náttúruaflanna.

Títanirnir fundu upp snilldarbragð þegar þeir gáfu Dionysosi barnungum leikföng, meðal annars spegil sem hann lét töfrast af. Dáleiddur horfði hann í spegilinn og sá hann brotna í höndum sér um leið og Risarnir, sem stóðu að baki honum, rifu hann sjálfan á hol og átu. Seifur brást ævareiður við þessu ofbeldi hinna stjórnlausu náttúruafla, sendi eldingar sínar umsvifalaust niður á Títanina svo þeir urðu að ösku, og upp af ösku þeirra var líkamsleifum Dionysosar safnað saman og hann endurlífgaður: Guðinn sem fæddist tvisvar, í seinna skiptið af ösku Títananna, guðinn sem færði mannkyninu vínið og jarðneska tengingu sína og varð Guð þeirrar leiklistar sem varð til í Grikklandi fyrir 2600 árum sem vettvangur harmleiksins og gleðileiksins, þeirrar myndar af heiminum sem var arftaki goðsagnanna og undanfari vestrænnar heimspeki sem leiksvið hinnar dýpstu þekkingar um rök mannlegrar tilveru og óyfirstíganleg lögmál náttúrunnar. Leikhús undir beru lofti sem var ekki bara mynd af heiminum heldur um leið heimurinn sjálfur sem atburður í sínu náttúrlega umhverfi á milli himins og jarðar.

Það er ekki að ástæðulausu að mér verður hugsað til þessarar sögu þegar ég reyni að skilja viðbrögð mín við Stríði, þessu sviðsverki Ragnars Kjartanssonar myndlistarmanns og Kjartans Sveinssonar tónskálds, sem gengur svo á skjön við leikhúshefð samtímans að hún kallar á leitina að rótum hennar. Mismunur og merking verða aldrei til án samanburðar. Skilningur hins nýja verður til við enduruppgötvun hins gleymda (fortíðarinnar og upphafsins) í nýrri mynd. Mnemosyne, gyðja minnisins, var móðir allra listagyðjanna, og ekkert nýtt verður til án samtals við hið liðna í gegnum þá endurminningu hins horfna sem listagyðjan færir skáldunum: endurtekning hins horfna og gleymda í nýrri og hreinni mynd.

Með sama hætti og satírarnir í hinu forngríska leikhúsi dönsuðu á hringsviðinu (sem kallað var „orkester“) framan við upphækkaða senu leikaranna og snéru baki í áhorfendur til að magna upp þá stemmingu sem gerði Guðdóminn sýnilegan á sviðinu, þá snéri Bjarni Frímann Bjarnason hljómsveitarstjóri baki við áhorfendum í hljómsveitargryfju Þjóðleikhússins þar sem kynngimagnaður forleikur Sinfóníuhljómsveitarinnar kallaði fram þessa sviðsmynd eyðingar og dauða í allri sinni skelfilegu fegurð. Satírar hins forngríska leikhúss voru með tagl og grímu og höfðu gjarnan asnaeyru og mynd hins reista getnaðarlims á milli fóta sinna: þeir voru í senn menn og dýr og þeir slógu málmgjöll undir söng sínum sem kallaður var Ditirambi. Hlutverk þeirra fólst ekki síst í að vera eins konar tengiliður er myndaði takt og samhljóm á milli sviðsins og áhorfendanna, hins mannlega og þess guðdómlega sem sýningin fól í sér með grimmd sinni og fegurð, gleði sinni og harmi. En leikur þeirra átti líka að tengja saman himin og jörð, mynda einingu gerandans og viðmælandans í upplifun sem fól í sér gagnkvæma þátttöku og eins konar vígslu inn í leyndardóma mannlegrar tilveru, þar sem gengið var inn í spegilmyndina af heiminum og okkur sjálfum í senn.

Það er í þessu samhengi sem myndin af hinum unga, saklausa og hugfangna Dionysosi kemur upp í hugann þar sem hann situr með brotna spegilmynd sína í fanginu. Spegillinn var gjöf Títananna en um leið lymskulegt hefndarbragð þeirra gegn Þrumuguðinum og þessu eftirlætis afkvæmi hans. Hvað var það sem Dionysos sá í speglinum, og hvaða boðskapur felst í því að hann brotnaði í höndum hins unga og saklausa drengs?

Ég var búinn að velta vöngum yfir þeim spegli sem þeir Ragnar og Kjartan höfðu brugðið upp fyrir mér í Þjóðleikhúsinu, hvernig ég hafði með einhverjum hætti upplifað sjálfan mig í þessari spegilmynd og um leið eitthvað annað, eitthvað sem ég gat hvorki höndlað né komið orðum yfir.

Sikileysk vitrun

Það var mér því ótrúleg upplifun í vangaveltum mínum um þetta leikhúsverk að fá tækifæri til að ræða þessar spurningar við ítalska heimspekinginn Carlo Sini, þegar ég sótti nýverið námskeið í heimspekiskóla hans í borginni Modica á Sikiley. Námskeiðið bar yfirskriftina „Takturinn og ímyndin, staðir listarinnar og hugsunarinnar“ og það var ekki að ástæðalausu að umræðan leiddi smám saman til þessarar spurningar um spegil Dionysosar, sem goðsagan geymir sem leyndarmál: hún segir okkur eingöngu að í þessu áhorfi mætti Dionysos dauða sínum og endurfæðingu. Ekki hvað hann sá í raun og veru.

Allt í einu mynduðust ný hugmyndatengsl. Ekki síst þegar Carlo Sini minntist í framhjáhlaupi á annað áhorf í spegilinn: Veggmálverkið í „Villa dei misteri“ í Pompei, þar sem ungmenni eru leidd inn í leyndardóma ástarinnar í gegnum dionysiska vígsluathöfn. Í þessari einstöku freskómynd frá 1. öld e.Kr. sjáum við meðal annars hvernig ungur sveinn gengur undir þessa manndómsvígslu með því að horfa í spegil sem Sílenus, hinn sídrukkni fylgimaður og staðgengill Dionysosar, bregður upp fyrir auglit hans í silfuríláti með spegilfægðum botni. Andlit sveinsins, sem horfir í botn kersins, ber vott um skelfingu og furðu, sem myndin skýrir fyrir áhorfandanum með sviðsettum blekkingarleik þar sem annar piltur falinn að baki drengsins bregður upp grímu Sílenusar með glettniglampa í auga. Í stað þess að sjá eigin ásjónu í speglinum sér drengurinn grímu og ásjónu Sílenusar, grímu sem opnar ekki bara sýn í heim vímunnar, heldur vísar beinlínis í þann heim sem Dionysos stendur fyrir í heild sinni. Það er gríma leikhússins og um leið gríma þess harmsögulega dauða og endurfæðingar sem þarna er sýndur sem kjarni allrar raunverulegrar manndómsvígslu og þar með allrar reynslu af ástinni.

9889433_orig

Villa dei misteri í Pompei: Silenus sýnir drengnum spegilmynd sína, 1. öld e.Kr.

Tilgáta Sini er sú að rétt eins og aðstoðarsveinn Silenusar brá óséður upp hinni dionysisku grímu hans til að sýna drengnum hans sanna andlit, þá hafi Títanirnir sem gáfu hinum unga Dionysosi spegilinn staðið að baki honum, albúnir að rífa sveininn á hol og éta hann. Hann sá mynd þeirra fyrir sér dáleiddur í eigin spegilmynd, mynd sem sundraðist í marga parta, síðan réðust þeir á hann, rifu hann á hol og átu, þennan son þrumuguðsins sem refsaði þeim umsvifalaust með eldingunni er brenndi þá til ösku. Líkami Dionysosar var endurmótaður úr ösku Títananna (sem eru þannig hinar jarðnesku og frumlægu rætur hans) og hann vakinn til nýs lífs sem sá ódauðlegi guð vímunnar og leikhússins sem við þekkjum. Fórnarathöfnin sem aftaka og át guðsins fól í sér lifir enn í hinni kristnu mynd sinni í altarisgöngunni þar sem söfnuðurinn neytir blóðs og holds Guðssonarins.

Goðsagan í samtímanum

Carlo Sini fór á kostum í túlkun sinni og endursögn á ólíkum goðsögum og goðsagnaheimum á námskeiði okkar og færði rök fyrir því að þessir sagnaheimar fælu allir í sér tilbrigði við tiltölulega fá en endurtekin stef, sem öll snérust í kjarna sínum um minninguna um upphafið, um leyndardóma fæðingar, dauða og eilífs lífs.

Manndómsvígsla drengsins frá Pompei felur í sér umbreytingu frá sakleysi barnsins sem kann ekki frekar en dýrin að greina rétt frá röngu, sannleika frá lygi, og er ómeðvitað um yfirvofandi eigin dauða, inn í heim sektar og samvisku, inn í heim orðanna og tungumálsins, heim úrskurðar og aðskilnaðar dómgreindarinnar, sem jafnframt er heimur ástarinnar og dauðans og vitundarinnar um þann ódauðleika sem guðirnir einir standa fyrir, handan góðs og ills,  en mönnunum er forboðinn. Við þekkjum hina kristnu útgáfu af þessu söguminni í frásögn Mósebókar af sköpuninni og syndafallinu.

Gríman og spegillinn

Hið ævaforna tákn leikhússins er hin tvöfalda gríma harmleiksins og gleðileiksins. Hvort tveggja sjáum við í raun í grímu Dionysosar, og í grímu Sílenusar, staðgengils hans. Gríman er boðberi dauðans vegna tómra augngátta sinna og óbreytanlegs svipmóts. Hún vekur að þessu leyti upp skelfingarhroll, ekki síst hjá börnum (sem ekki hafa lært að greina lygina frá sannleikanum). Um leið er hún lifandi mynd leikarans sem ber hana. Hún á sér lengri sögu en leikhúsið sem endurvakning hinna dauðu í ævafornri forfeðradýrkun þar sem hinn grímuklæddi dansari var eins og uppvakningur forfeðranna sem endurlífgaði tengslin við þann uppruna sem er óhöndlanlegur og horfinn á vit óminnisins. Forfeðurnir vakna til lífsins á ný í því tómarými sem er falið á milli leikarans og grímu hans. Þegar sammæli myndast á milli áhorfenda og leikara um raunveruleika sýningarinnar verða hinir dauðu að lifandi samfélagslegum veruleika, veruleika þess eilífa lífs sem er handan  einstaklingsbundinnar tilveru hinna dauðlegu. Gríman var sú táknmynd sem Mnemosyne, móðir listagyðjanna, gaf Thalíu dóttur sinni, svo hún mætti færa hinum lifandi tengsl við þá horfnu fortíð sem er um leið forsenda allrar framtíðarsýnar. Atburður leiksýningarinnar felst í þessum gagnkvæma leik þar sem heimurinn er sýndur ekki sem hlutur í sjálfum sér, heldur sem gagnvirk og tímabundin upplifun. Ekki bara mynd af heiminum, heldur heimurinn í mynd sinni sem atburður.

Spegillinn á það sammerkt með grímunni að hann sýnir það sem ekki er með tvíræðum hætti. Við sjáum okkur sjálf horfa á okkur sjálf utan við okkur sjálf. Sálgreinirinn Jacques Lacan hefur sagt að sjálfsvitund barna vakni við að þau upplifi spegilmynd sína við um 6 mánaða aldur. Spegilmyndin myndar tómarými fjarlægðar sem er sambærileg við bilið á milli leikarans og grímu hans. Hvenær gerist spegilmyndin, hvenær verður hún til? Á því óhöndlanlega augnabliki sem verður á milli áhorfsins og þess sem við sjáum sem óraunverulegan veruleika. Þegar við horfum sjálf á okkar eigin áhorf.

Hvernig koma þessar vangaveltur um Dionysos, spegilinn og grímuna heim og saman við leikhúsverkið „Stríð“?

Upphafleg spurning mín snérist um hvað hefði snert svo sterklega við mér í þessari leikhúsupplifun. Þar sem ég gat með engu móti meðtekið hana sem einfeldnislega yfirlýsingu um böl alls stríðsreksturs, án tillits til tilgangs eða málstaðar, hlaut svarið að liggja annars staðar. Kannski var það einmitt vegna „söguleysis“ og tilgangsleysis þessa dauðastríðs sem ég fékk það á tilfinninguna að þessi leikhúsupplifun nálgaðist kjarna og uppruna leikhússins sem slíks með nýjum og óvæntum hætti.

Fyrsta hugboð mitt var að þetta væri ekki bara dauðastríð hermannsins, þess eilífa hermanns sem hefur fylgt mannkyninu frá upphafi vega, heldur líka dauðastríð þeirrar listar sem getur ekki dáið, en þrjóskast við með því að sýna eigin dauða.

Listin á tímum eftirkomendanna

Við lifum á tímum eftirkomendanna: við höfum lagt „nútímann“ að baki og lifum í „samtímanum“ samkvæmt viðteknum talsmáta. Hugtakið „nútími“ er íslenska orðið yfir það sem á flestum tungumálum er kennt við „modern“ á meðan „samtíminn“ kallast á við það tískuorð sem á flestum evrópumálum kallast „contemporary“ . Tískuorðið sem tók við af postmodernismanum sem hugtak um endalok heildarfrásagnarinnar í hugvísindum og listum. Nútíminn einkenndist af trú á framfarir og af heildrænni sýn á söguna sem markaða leið til frelsunar og framfara. Frelsunar undan hlekkjum fortíðarinnar og undan allri „fornaldarhugsun“. Í samtímanum hefur sagan verið leyst upp í afmarkaðar  örsögur og rannsóknir í anda mannfræðinnar, þar sem sagnfræðileg markhyggja á undir högg að sækja, hvort sem um er að ræða „blessun nýlendustefnunnar“, kommúnismans  eða leið mannsins til „herradóms yfir náttúrinni“.

Í „nútímanum“ einkennist fortíðin af fáfræði og fátækt, núið af framförum og framtíðin af frelsun mannsins og allsnægtum. Framfaratrú upplýsingastefnunnar var arftaki hinnar kristnu arfsagnar um erfðasyndina, friðþæginguna og endanlega himnaríkissælu. Ólíkt þessari kristnu og bjartsýnu trú á fyrirheitin um eilíft líf alsnægtanna í framtíðinni, þá hefur samtíminn einkennst af umhugsun og upplifun dauðans í ólíkum myndum: við höfum upplifað upplausn og dauða feðraveldisins, fjölskyldumyndarinnar og þjóðríkisins á tímum alþjóðavæðingar tækninnar og markaðsins. Við höfum upplifað dauða kommúnismans og fasismans, þjóðernishyggjunnar og „hugmyndafræðinnar“ og síðast en ekki síst höfum við upplifað umræðuna um „dauða listarinnar“. Eftirlifendur nútímahyggjunnar lifa í skugganum af óvissri og ógnvekjandi framtíð mannsins og vistkerfis hans á jörðinni.

Við þessar aðstæður er ekki óeðlilegt að eftirlifendurnir í samtímanum beini sjónum sínum til fortíðarinnar og upprunans, vilji þeir skilja aðstæður hins munaðarlausa arftaka nútímahyggjunnar. Það er ekki bara feðraveldið sem hefur misst valdsvið sitt í samtímanum (blessuð sé minning þess) heldur hafa spádómsorð Nietzsche um „dauða Guðs“ og gengisfellingu allra gilda orðið æ háværari á öllum sviðum okkar samfélags. Ítalski heimspekingurinn Giporgio Agamben hefur bent á það að tilvera eftirlifendanna í samtímanum sé óskiljanleg án þess að hugað sé að upprunanum. Og hann bætir við að upprunans sé ekki að leita á tímabandi sagnfræðinnar heldur í verðandi sérhvers atburðar. Uppruninn er nálægur og fjarlægur í senn, því hann er, eins og heimurinn í heild sinni, atburður sem við erum hluti af, en ekki hlutur sem við skoðum utan frá úr ímyndaðri fjarlægð. Það er í þessum skilningi sem sýningin „Stríð“ eftir Ragnar Kjartansson og Kjartan Sveinsson er sannkallað samtímaverk sem leiðir okkur í kviku þess uppruna, sem reynist þrátt fyrir alla viðleitni óhöndlanlegur: allir forfeður eiga sína forfeður í hið óendanlega. Það er Mnemosyne, gyðja minnisins og móðir listagyðjanna sem vísar okkur á þessa vegslóð með því að færa okkur grímu og brotinn spegil Dionysosar til umhugsunar. Við horfðum í þessa grímu og þennan spegil í sýningunni „Stríð“.

[i] Sbr. S. Freud: Reflections on War and Death / II. Our Attitude Towards Death, https://www.bartleby.com/282/2.html

Ragnar Kjartansson Stríð 2018-8

Lokasenan í sýningu Þjóðleikhússins á „Stríði“

Grein þessi var skrifuð síðastliðið sumar í baðstrandarbænum Bibione á Ítalíu. Hún var skrifuð fyrir hausthefti tímaritisins Skírnis, en þar sem ekki reyndist rúm fyrir textann í haustheftinu er greinin nú birt hér í fyrsta skipti. Ljósmyndir frá sýningunni eru birtar með leyfi Þjóðleikhússins og Ragnars Kjartanssonar.

HINN FAGRI DAUÐI VI – Argan um Caravaggio

CARAVAGGIO OG DAUÐINN

Námsefni fyrir Listaháskólann

 

Textabrot úr ritgerðinni Il „realismo“ nella poetica del Caravaggio eftir Giulio Carlo Argan

Eftirfarandi textabrot er frá árinu 1956 og birtist fyrst í ritinu Scritti di Storia dell‘Arte in onore di Leonoro Venturi. Hér endursagt úr ritgerðasafninu Immagine e persuasione – saggi sul barocco, útg. Feltrinelli 1986, bls. 147 – 160. Höfundurinn Giulio Carlo Argan (1909-1992) var einn áhrifamesti listfræðingur 20. aldarinnar á Ítalíu, höfundur margra fræðirita um listasögu og um menningarminjar Ítalíu. Hann gegndi stöðu borgarstjóra Rómar á árunum 1976-79 og skrifaði m.a. Storia dell‘Arte Italiana í 3 bindum frá 1968. Í skrifum Argans má greina áhrif frá svokölluðum „íkonologiskum skóla“ Warburg-stofnunarinnar í London og áhrif frá fyrirbærafræði Heideggers og Maurice Merleau-Ponty. Ritgerðin um svokallað raunsæi Caravaggios er skrifuð í anda þessarar módernísku hefðar og veitir einstaka innsýn í málaralist meistarans og hið byltingarkennda inntak hennar. Hér er einungis endursagt lítið (en mikilvægt) brot ritgerðarinnar sem varðar hugleiðingar Caravaggios um dauðann og málaralistina.

 

Caravaggio Canestra_di_frutta_1599

Caravaggio: Ávaxtakarfa, 1594-1598 (Natura morta)

….Ef sagan er fólgin í hinni lifandi náttúru getur það sem er handan hennar ekki verið annað en „kyrralífið“ eða „la natura morta“ (hin dauða náttúra).

Það er alkunna að þessi grein málaralistarinnar (la natura morta) á sinn uppruna hjá Caravaggio. Við getum rakið hina táknrænu frumspekilegu merkingu momento mori (áminningarinnar um dauðastundina) til skáldskaparlistar Caravaggios sem tryggur og stöðugur fylginautur hennar. Hlutirnir eru „sýnilegir“ vegna þess að gerðir mannanna hafa glatað gildi sínu, eru endanlegar. Nærvera eða ákall hlutanna felur í sér fjarveru mannanna, í „kyrralífsmyndunum“ (natura morta) eru hlutirnir ekki lifandi, heldur eftirlifendur (það sem eftir stendur).

Listgagnrýnendur sautjándu aldar eru sér fullkomlega meðvitaðir um að endalok málaralistar ímyndunaraflsins og sögumálverksins leiða sjálfkrafa til niðurstöðu „genre“-málverksins[i] og kyrralífsmyndanna. Þar er ekki um frjálst val að ræða, heldur óhjákvæmilega nauðsyn. Hvað getum við annars lesið út úr endalokum ímyndunaraflsins, uppfinninganna og sögunnar annað en endalok sjálfs lífsins? Hvað annað getur falist í þeim raunveruleika sem menn reka sig á sem endamörk, þeim raunveruleika sem ekki felur í sér framþróun, launsagnir eða túlkunarmöguleika, þeim raunveruleika sem er til staðar og ákallar en er þó ekki? (allavega getur hann ekki orðið viðfang hugleiðslu eða hermilistar, heldur einungis athafnar). Hvað annað getur falist í þessum raunveruleika en sjálfur dauðinn?

Hluturinn sem ber enga merkingu lengur[ii]… sem býður ekki upp á neinn möguleika röklegs samhengis í tíma og rými, sá hlutur sem veitir engan möguleika á handanveru utan sjálfs sín, enga yfirfærslu í anda launsagnarinnar, slíkur hlutur felur raunverulega í sér hugsun dauðans. Hugsun sem endurtekur sig með síaukinni áherslu í öllu málverki Caravaggios. Vel að merkja þá eru kyrralífsmyndir Caravaggios (ekki þarf að útskýra að einnig sum mannlífsmálverk Caravaggios falla undir þennan flokk, til dæmis strákarnir með ávaxtakörfuna, María Magdalena o.fl.) mynda forleikinn að hinum miklu harmsögulegu málverkum Caravaggios, rétt eins og hugleiðsla listamannsins um þann raunveruleika sem eftir stóð hafi leitt hann til rannsóknar á hinum raunverulega skurðpunkti, að mærunum á milli hérveru og þarveru og jafngildrar ráðgátu beggja þátta.

Það er augnablikið þar sem ástríða verunnar umbreytist skyndilega í algjört hreyfingarleysi ekki-verunnar. Það er fyrst í þessum skurðpunkti sem raunveran afhjúpar sig í öfgafullri birtu og krafti, þar sem hún á sér hvorki forsendur né fyrirheit og leyfir engin önnur sambönd utan andhverfunnar, þessi raunvera er einvörðungu og altekið hún sjálf. Hún er í senn viðfang og form, raunveruleiki og tákn, því formið er ekki lengur jafngildi heldur afleitt ástand, óhjákvæmileg útkoma eða örlög viðfangsins (þar liggur ástæða þeirrar áherslu sem Caravaggio leggur á hinar jarðnesku leifar sem hafa „form“ persónunnar án þess að vera hún), með sama hætti og ekki er hægt að þekkja raunveruleikann í heild sinni eða eftir á, né heldur gera tilkall til sýningar hans í heild sinni sem „náttúruna sjálfa“. Sérhvert brotabrot raunveruleikans verður tákn hans í heild sinni og þessi táknræna merking verður einungis höndluð í því ofbeldi sem rýfur jafnvægið eða tætir í sundur heildarmynd „náttúrunnar“ til þess að draga fram „brotið“ í sinni hrjúfu og misþyrmdu mynd.

caravaggio Fórn Ísaksb 1601-2

Caravaggio: Fórn Ísaks (myndhluti) 1603

Í skáldskaparmáli Caravaggios (því einnig Caravaggio á sitt skáldskaparmál, sínar goðsagnir) hverfist dauðinn aldrei yfir í annað líf í yfirferð frá hinu náttúrlega til hins yfirnáttúrlega (sem aftur á móti væri ekki annað en hið frumspekilega augnablik hins mögulega eða hugsanlega): hann er atburðurinn sem lokar fyrir, heggur endanlega á alla náttúrlega framvindu, festir raunveruleikann í endanlegum aðstæðum algjörs afstöðuleysis, í samsemd og andstæðu ekki-verunnar.

Raunsæi Caravaggios er ekkert annað en sú sýn á heiminn sem er vakin af hugsuninni um dauðann í stað hugsunarinnar um lífið. Þess vegna er list hans ónáttúruleg, and-söguleg og and-klassísk – en þess á stað þrunginn örvæntingarfullri og djúpri trúhneigð. Dauðinn er alltaf hugsaður sem líkamlegur dauði, tilefnislaus og rakalaus atburður en jafnframt óafturkræft og endanlegt áfall: aftaka eða morð (Júdit sker höfuðið af Holofernosi; Abraham ber hnífinn að hálsi Ísaks; heilagur Matteus undir hrottafenginni stungu sverðsins; heilagur Pétur naglfestur á krossinn með ofbeldi; Davíð með afskorið höfuð Golíats; heilagur Jóhannes hálshogginn o.s.frv.).

Caravaggio Golíat Borghese

Caravaggio: Höfuð Golíats (myndhluti) 1610

Það er myrkrið sem breiðir úr sér að afstöðnum hinum skyndilega dauða, hyldýpisgjáin, skelfing eftirlifendanna (Kristur lagður í gröfina, María látin, heilög Lúsía jarðsett, Lasarus dreginn upp úr gröf sinni). Við megum heldur ekki gleyma því að Lomazzo ráðlagði listmálurunum (samkvæmt fordæmi Leonardos) að fara og virða fyrir sér látbragð hinna dauðadæmdu þar sem þeir voru leiddir á aftökustaðinn, „að taka eftir boga augnbrúnanna og eftir augngotunum og eftir þessu lífi“, og að djúp löngun, nánast kvíði þess að endurupplifa mörkin á milli lífs og dauða, leiddu Leonardo að líffærafræðilegum rannsóknum hans. Viðfangsefni dauðans verður síðan samtvinnað siðaskiptunum, sem einnig voru skilyrt atburðinum, þessum skilum sem skyndileg umskipti frá einni siðferðilegri „vídd“ til annarrar fela í sér, frá „falsinu“ til hins „sanna“. Þar er ekki um hreinsun (kaþarsis) að ræða eða sigur, heldur eins konar sunddýfu ofan í veruleikann sjálfan.

Á bak við hinn hráa og raunsæislega vitnisburð um fyrirbæri „dauðans“ (sannkallað fyrirbæri þar sem það á sér hvorki forboða né eftirmála, er einungis það sjálft) hvílir trúlega hugsun sem átti eftir að ná útbreiðslu víða, ekki bara innan barokklistarinnar á Ítalíu: lífið er draumur og dauðinn er skyndileg uppvakning: náttúran, sagan og raunveruleikinn tilheyra ímynduninni og draumnum, það sem er andstætt ímyndunaraflinu verður einungis „snert“ þegar fortjald draumsins er rifið og hin óumflýjanlega spurning um veruna og ekki-veruna kemur eins og svipuhögg í stað hinnar flöktandi samfellu hins sanna og líkinga þess.

Það er af þessum sökum sem ljósið verður aldrei skærara en þegar skuggaveröldin myndar bakgrunn þess. Það er af þessum sökum sem hreyfingin verður aldrei jafn ofsakennd og þar sem hún er fryst í mynd sinni. Það getur því aldrei komið til neinnar samræðu, skoðanaskipta eða framvindu í þessum aðstæðum endimarkanna, né heldur getur verið um sannferðuga hermilýsingu (rappresentazione) að ræða: málaralistin er það sérstaka ferli þar sem hin náttúrlega samlíking, sem er blekking, raungerir sjálfa sig í ímyndinni: hún leysir ekki vandann, heldur afhjúpar hann.

Andstætt hinni klassísku jafngildingu málverksins og ljóðlistarinnar[iii] setur Caravaggio fram mismuninn á málverkinu og ljóðlistinni og heldur fram forgangsröð hins fyrra. Hér þarf einnig að hafa í huga hvernig hugsun Leonardos liggur til grundvallar skáldskaparmáls Caravaggios: hin djúphugsaða og langt í frá akademíska eða bókmenntalega ígrundun hans um málverkið og ljóðlistina.

Á milli þessara tveggja sviða býr vissulega grundvallar „skyldleiki“ vegna þess að „málverkið er ljóð sem við sjáum en heyrum ekki, og ljóðið er blint málverk“. Þannig verður málaralistin undirseld dómi þess sem er „fæddur án heyrnar“ og ljóðlistin dómi hins „blinda frá fæðingu“. Hugleiðið þannig „mun þess að hlusta á frásögn af einhverju augnayndi í tímanlegri framvindu frásagnarinnar -og að sjá það í þeirri skyndingu sem náttúran veitir“. Því vissulega eru þau vísindi aðdáunarverðari sem sýna verk náttúrunnar en þau sem sýna verk gerandans, það er að segja þau verk mannanna sem felast í orðunum“. Það ber að hafa í huga að vissulega eru verk mannanna líka „verk náttúrunnar“, en við eigum einmitt að horfa á þau sem slík, en ekki í gegnum munnlegar frásagnir, í gegnum söguna. Raunveruleiki ljóðlistarinnar er umtúlkun, raunveruleiki málverksins er án miðlunar orðsins. Ljóðlistin felur í sér miðlun og er þannig eftirgerð, málverkið er nærvera án undangenginnar rökhugsunar. Þess vegna er málverkið annað og meira en ljóðlistin: það er þessi beina íklæðning (icasticità), þessi beina eftirlíking, þessi athöfn sem veitir myndinni umframgildi sem felst ekki í sýningu veruleikans, heldur í sjálfstæðum veruleika.

Þess vegna má halda því fram að frá þessum upphafspunkti hafi raunsæisstefnan sett sig upp á móti natúralismanum : natúralisminn er viðtekin og átakalaus úrlausn á vandamáli raunveruleikans , raunsæið felst hins vegar í vitundinni um þann óendanlega vanda sem raunveruleikinn ber með sér. Það er þetta vandamál raunveruleikans sem öðlast siðferðilega vídd hjá Leonardo og þekkingarfræðilega séð í framhaldinu hjá Caravaggio.

Sá sögulegi leiðarþráður sem rekja má í málverki Caravaggios, sérstaklega þar sem verk hans þróast frá verkunum sem voru fyrst og fremst hugsuð sem „ljóðrænur“ eða jafnvel sem söguljóð (strákarnir með ávextina, myndirnar sem sýna unga tónlistarmenn, myndirnar af Maríu Magdalenu, Hvíldin í Egyptalandi) þróunin frá þessum verkum til hinna harmsögulegu verka hans er eins og rökrétt framhald hugsunar Leonardos um „raunsæislega“ yfirburði málaralistarinnar gagnvart ljóðlistinni. Við sjáum hvernig hinni tímanlegu og rýmislegu vídd sögunnar er mætt með rýmisleysi og tímaleysi ljóðlistarinnar í fyrri verkunum. Í seinni verkunum birtist andófið gegn sögunni í vægðarlausu söguleysi atburðarins. Á eftir depurðaræðinu (furor malinconicus) í fyrri myndunum fylgir hið siðferðislega æðiskast (furor morale) (eða hið hetjulega æði (furor eroico) í anda Giordano Bruno).

Caravaggio Bakkus

Caravaggio: Bakkus, 1596-7

caravaggio_salomè_con_la_testa_del_battista_1607 (1)

Caravaggio: Salóme með höfuð skírarans, 1607

………….

Af ofangreindum ástæðum er raunveruleikinn ávalt harmsögulegur. Ekki sem harmsaga sjálfs sín, heldur harmsaga mannsins. Málaralist Caravaggios markar vissulega millibilsástand. Ekki þó á milli listar og ekki-listar, heldur á milli trúarlegs skilnings sem felur í sér óljósan umbótavilja (við erum öll eitt með raunveruleikanum, við þekkjum hann ekki og við þekkjum ekki okkur sjálf, einungis náðin sem kemur okkur á óvart í sínu blinda tilvistarlega æði getur bjargað okkur („siðbótaröflin“)) og hins strangkaþólska skilnings (maðurinn býr yfir frjálsu sjálfdæmi, en reynsla sögunnar sem kristallast í agavaldi Kirkjunnar sannfærir hann um að velja hið góða („gagnsiðbótin“)).

Caravaggio er því listamaðurinn sem kemur til Rómar úr norðri, þar sem áhrifa Siðbótarinnar gætti í ríkari mæli, gróska nýrrar trúrækni, trúrækni sem varð fljótt kaffærð og gleymd, en skildi engu að síður eftir sig allmörg spor er leiddu til opnari félagslegrar vitundar er sýndi hinum minna megandi aukinn áhuga og leyfði lágstefndum natúralisma að mæla sig gagnvart hinum hástemmda natúralisma: lýsandi hermilist (il pittoresco) andspænis hinu háleita.

Þegar Bellori[iv] skrifaði „aldrei getum við lesið hræringar sálarinnar nema í tímanlegu ferli eða í gegnum tiltekin upplifuð augnablik“, þá má sjá að þótt hann hafi ekki beinlínis vísað í Caravaggio þá hafði hann augljóslega í huga það frysta og afgerandi nánast þrumuslegna látbragð (samkvæmt ráðleggingu Leonardos) sem finna má í þöglum stellingunum í verkum hans.

En hugsanlega sá hann einnig fyrir að málarinn yrði að hafa í huga með tilliti til áhrifamáttar hermilistarinnar þau tilfinningaáhrif sem falla undir tiltekna tilburði þar sem „skáldið varðveitir hugmynd reiðinnar, óttans, depurðarinnar og sælunnar o.s.frv.“. Látbragðið í verkum Caravaggios er fordæmalaust, algjörlega utan við allar sögulegar tilvísanir eða þá mannlegu tilfinningaflokka sem voru á þessum tíma að festa sig í sessi, einkum hjá Guido Reni. Þar með skorti látbragðið í verkum Caravaggios algjörlega það sem Aristóteles hafði kallað „grundvöll siðvenjanna“. Það er ekki bara að þá skorti rökréttar sögulegar forsendur, þeir geta heldur ekki orðið forsenda nokkurrar uppbyggilegrar dómskvaðningar eða úrskurðar. Í fyrsta skipti gerist það að málari máli án annars tilgangs en að raungera til fulls eigin tilveru, það sem við myndum í dag kalla „veruna í heiminum“, sitt eigið Dasein (til-vist)[v].

Þegar Lomazzo[vi] (sem gekk augljóslega út frá skilgreiningum Leonardos á ástríðunum sem „huglægum áföllum“) segir að „ástríður mannsins séu ekki annað en tilteknar hræringar (moti) er leiði frá tilteknum áföllum“ og að málaranum beri ekki aðeins að „sýna hinar hefðbundnu ástríður sálarinnar í gegnum tilheyrandi látbragð og limaburð, heldur líka í gegnum það sem er tilfallandi eða óvænt og þannig að sýna í einum líkama ólíkar tilfinningar og ástríður“. Af þessum orðum má auðveldlega lesa að hér er verið að fjalla um tilfallandi og óviðráðanleg viðbrögð og hræringar, ástríður er vakna andspænis óvæntum og ófyrirsjáanlegum atburði.

Þessi viðbrögð mótast ekki af fyrirfram forskrifuðum náttúrlegum eða siðferðilegum rökum, og verða því ekki flokkuð í hefðbundnar forskrifaðar kvíar hins góða og hins illa. Þau mótast hins vegar af djúpri sjálfsprottinni siðferðiskennd sem setur þá kröfu á listamanninn að sýna ekki hlutleysi eða afskiptaleysi heldur lifandi þátttöku í því sem er að gerast. Hann þarf því að samsama sig fullkomlega með atburðinum án þess þó að leggja fram siðferðisdóm út frá píslum fórnarlambsins eða ruddaskap morðvargsins eða skelfingu sjónarvottanna.

Það er vissulega rétt að Lomazzo var enn bundinn af kenningunum um skapgerðirnar („vessakenningin“) og kemst því ekki hjá því að viðurkenna að viðbrögð mannanna séu alltaf á sömu lund, en „skapgerðin“ sem stjórnar veruhætti okkar og viðbrögðum gagnvart veruleikanum er ennþá að hans mati eitthvað huglægt og forskrifað, sem leiðir til réttlætingar verka okkar utan allrar rökvísi, sögulegra raka eða jafnvel náttúrlegra. Endanlega getur málarinn ekki verið annað en vitnisburður um þær djúpu hræringar sem eiga sér stað í manninum, eða svo notuð séu orð Lomazzo sjálfs: „hræringameistari“ (esperto motista).

Þessi tækniorðasmíð gefur til kynna hvernig hún vísi til mannlegs látbragðs og hreyfinga utan allra hugsana um röklegar forsendur og markmið. Hreyfigin hreyfingarinnar vegna, þau eðlisviðbrögð er fela í sér nánast með tilraunakenndum hætti veruna andspænis ekki-verunni (l‘esistere dal non-esistere). Þetta er í raun og veru hin eina „raunverulega“ forsenda mannlegrar tilvistar. Og bæði Leonardo og Michelangelo gangast inn á þessa forsendu, hvor með sínum hætti: Leonardo með sinni áherslu á hina tímanlegu íveru (immanentismo), Michelangelo með sinni áherslu á altæka handanveru (trascendentalismo assoluto).

Hjá Leonardo heltekur hreyfingin (il moto) sérhverja mannlega persónu og endurmótar hana í gegnum óendanlegan hreyfimátt (dinamismo) alheimsins. Fyrir Michelangelo heltekur hreyfingin alheiminn í hreyfimætti sem beinir sálinni stöðugt að því að yfirstíga sjálfa sig. Caravaggio varð fyrstur til að skynja með innsæi sínu hvernig niðurstaða þessara gagnstæðu sjónarmiða væri möguleg; andstæð sjónarmið, sem höfðu komið fram á fyrrihluta 16.aldar og sett söguskoðun húmanismans í kreppu, fengu sína úrlausn (syntesu) í siðferðilegri en ekki rökfræðilegri niðurstöðu Caravaggios.

Raunsæi Caravaggios er ekki fólgið í raunsæislýsingu hlutarins, heldur í lýsingu hins huglæga (soggetto) sem staðfestir eigin tilvist og sína virku nærveru í sérhverju brotabroti og sérhverju augnabliki hins óendanlega raunveruleika. Um er að ræða siðferðilegt raunsæi, sem mótast í athöfninni en ekki í lögmálsreglunum, því einungis athöfnin frá einu andartaki til hins næsta gerir frelsunina mögulega (ekki í handanheiminum heldur í hérverunni); frelsunina frá athafnaleysinu (non-fare) og tilvistarleysinu (non-esistere). Það er frelsun frá því sinnuleysi (inerzia) sem ber með sér andlegan og líkamlegan dauða. Athöfnin raungerir sjálfa sig með því að hrífa augnablikið úr tóminu, þetta augnablik sem síðan hverfur aftur í tómið. Tilvistin getur ekki orðið að sögu. Giordano Bruno orðaði þetta á þessa leið: „það sem við höfum upplifað er ekkert (nulla), það sem við upplifum er punktur, það sem við eigum ólifað er ekki ennþá punktur, en það er aftur punktur sem er hvort tveggja í senn „verðandi og verðandi orðinn“ (insieme sarà e sarà stato).[vii]

Caravaggio Giuditta_decapita_Oloferne

Caravaggio: Júdit afhöfðar Holofernes, 1602

[i] „genre“-málverk er sú málaralist sem verður til samfara barokklistinni á 17. öld og felur í sér „hlutlæga lýsingu“ hins ytri veruleika, hvort sem umm er að ræða kyrralíf, landslag, borgarumhverfi og arkitektúr eða svokallaðar „þjóðlífsmyndir“, þar sem leitast er við að lýsa hinum ytri veruleika án þess að leggja í hann önnur siðferðileg markmið.

[ii] Athyglisverð er sú ástríðufulla áhersla sem gagnrýnandinn Bellori leggur á að ávextirnir á borðinu í málverki Caravaggios Kvöldverður í Emmaus séu „utan uppskerutímans“ (þ.e.a.s. gamlir og skemmdir) á meðan ávextirnir í málverki Barocci „sýni“sína árstíð og beri þannig með sér „hinn raunverulega tíma“.

[iii] „Ut pictura poesis“ (Ljóðlistin er eins og málaralistin) er orðatiltæki sem á rætur að rekja til rómverska skáldsins Hórasar og var upphafið á endurreisnartímanum sem spakmæli um að sömu lögmál lægju til grundvallar þessara listgreina. Þýski gagnrýnandinn Lessing gagnrýndi þennan skilning á 18.öldinni þegar hann lagði áherslu á að ljóðlistin hefði (líkt og tónlistin) tímanlega framvindu og vídd á meðan myndlistin hefði eina tímanlega vídd nærverunnar (væri synkrónísk).

[iv]Giovanni Pietro Bellori (1613-1696) myndlistarmaður og listfræðingur,höfundur bókarinnar Vite de’Pittori, Scultori et Architetti Moderni (Líf málara, myndhöggvara og arkitekta samtímans), mikill áhrifamaður í listheiminum á 17. og 18.öld.

[v] Hér er vísað í hugtakanotkun Martins Heideggers sem varð mótandi fyrir alla tilvistarspeki á 20. öldinni.

[vi] Giovanni Paolo Lomazzo (1538-1592), einn af fulltrúum mannerismans í málaralist á N-Ítalíu á 16. öld og höfundur mikilvægra texta um listfræði þess tíma.

[vii] Giordano Bruno (1548-1600) ítalskur heimspekingur og munkur af reglu domenikana sem brenndur var á báli af rannsóknarrétti kaþólsku kirkjunnar í Róm 17. Fenrúar árið 1600 fyrir trúvillu sem fólst m.a.algyðistrú (þar sem náttúran og Guð voru eitt og hið sama) og jákvæðri túlkun á sólmiðjukenningu Kóperníkusar og hugmynd um óendanleika alheimsins. Ofangreindar hugmyndir koma fram í riti hans Eroici Furori.

Forsíðumynd: Fórn Ísaks, 1603

HINN FAGRI DAUÐI V. -Mæðraveldið og Marija Gimbutas

Endursögn á brotum úr Inngangi að tímamótaverki Mariju Gimbutas „Tungumál Gyðjunnar“ sem setur steinaldarmenningu Evrópu í nýtt ljós og greinir tungumál Gyðjunnar sem táknmál fæðingar, frjósemi, lífs og dauða í eilífri hringrás tímans.

Námsefni fyrir Listaháskólann

HIN MIKLA GYÐJA STEINALDARMENNINGARINNAR

OG LEYNDARDÓMAR LÍFS OG DAUÐA

 

Evrópsk listasaga hefst með táknmyndum Gyðjunnar miklu, segir Marija Gimbutas

 

(Endursögn á kaflabrotum úr Inngangi Mariju Gimbutas að bók hennar The Language of the Goddess (1989), tímamótaverki í evrópskri fornleifafræði, sem dregur upp nýja mynd af steinaldarmenningu í Evrópu fyrir innrás indóevrópskrar menningar.)

…Ég hef beint rannsóknum mínum að tímaskeiði sem hefst með upphafi jarðræktar í Evrópu, fyrir um það bil 9000 – 8000 árum síðan. Akuryrkjubændur steinaldarinnar mótuðu formgerðir menningar sinnar á tímaskeiði sem tók yfir allmargar árþúsundir. Lifnaðarhættir er byggðu á söfnun lífsviðurværis viku fyrir framleiðslu matvælanna og dýraveiðarnar viku fyrir kyrrstæðum búskap, án þess þó að þessi umskipti hefðu í för með sér tiltakanlegar breytingar í formgerðum táknrænnar myndsköpunar; einungis var um hægfara innleiðingu nýrra forma og nýrra aðferða við efnistökin. Í raun eru það ekki umbreytingar á táknmálinu í gegnum árþúsundin sem vekja undrun, heldur miklu frekar samfellan sem má rekja allt aftur til forn-steinaldar.

Gyðjumyndir síð-steinaldar (fæðingargyðjan sýnd í eðlilegum fæðingarstellingum, frjósemisgyðjan sem eykur og margfaldar vöxtinn og er sýnd þunguð og nakin; gyðjan sem gefur lífið og næringuna, verndargyðjan sem sýnd er í mynd konufuglsins með útstæð brjóst og lendar; og drottning dauðans ssem birtist nakin og mjóslegin, „grindhoruð“); allar þessar gyðjumyndir er hægt að rekja til þess tímaskeiðs þegar fyrstu útskurðarmyndirnar sjást, skornar í bein, fílabein eða stein um það bil 25.000 f.Kr. með sínum táknum (kvensköp, þríhyrningar, brjóst, „chevron“-zik-zak mynstur, kúft form og íhvolf) allt aftur í enn fjarlægari tíma.

Megin viðfangsefnið í táknmáli Gyðjunnar eru leyndardómar fæðingarinnar, dauðans og endurfæðingarinnar, ekki einskorðaðir við líf mannsins, heldur leyndardóma alls lífs á Jörðinni og reyndar í allri Veröldinni. Tákn og ímyndir snúast um hina parþenógenisku Gyðju meyfæðingarinnar og meginhlutverk hennar sem Lífgjafinn, sem Drottning Dauðans og (ekki síður mikilvægt), Gyðja endurfæðingarinnar sem Móðir Jörð, Gyðja frjóseminnar sem er ung og öldruð í senn, vaxtarbroddur og sölnun gróðurs jarðar. Sem einasta uppspretta lífsins sækir hún orku sína í uppsprettulindirnar og brunnana, til sólarinnar og tunglsins, og til raka jarðarinnar. Þessi kerfisbundni táknheimur stendur fyrir goðsögulega hringrás tímans sem ekki er línuleg, og birtist í listinni sem merki hreyfingarinnar: spíralform sem snúast og tengjast innbyrðis, hlykkjóttir og spíralmyndaðir snákar, hringir, hálfmánar, horn og spírandi sáðkorn.

Snákurinn var tákn lífsorkunnar og endurfæðingarinnar, einstaklega vinaholl skepna og alls ekki skaðleg. Jafnvel litirnir höfðu aðra merkingu en tíðkaðist í hinum indóevrópska heimi: Svart er ekki litur dauðans eða undirheimanna. Hann er litur frjóseminnar, litur hinna rakafullu hellishvelfinga og hins raka jarðvegs, litur móðurlífs gyðjunnar þar sem lífið verður til.

Hvítt er hins vegar litur dauðans, litur beinanna, gagnstætt hinni indóevrópsku hefð, þar sem hvítt og gult eru litir hins skjannabjarta himins og litir sólarinnar.

Það er með engu móti hægt að rugla þeirri heimspeki sem gat af sér þetta táknmál saman við hinn indóevrópska hirðingjaheim og hina herskáu guði hans, sem riðu hestum og voru herrar þrumunnar og hins sólbjarta himins, eða hinna votu undirheima. Það er hugarheimur þar sem Gyðjurnar eru ekki skapandi heldur fegurðardísir. „Venusarímyndir“, eiginkonur himnaguðanna.

Það er undravert að ekki verði vart stríðsmynda og mynda er sýna yfirdrottnun karlmennskunnar í þeirri list sem beinist fyrst og fremst að Gyðjunni. Hún endurspeglar félagslegt samskiptaform þar sem konurnar gegna lykilhlutverki sem ættbálkahöfðingjar eða drottningar fórnarathafnanna. Hin forna Evrópa og Anatolía (núverandi. Tyrkland) voru ásamt með hinni míónísku Krít samfélög sem við köllum „gilaníönsk“ (hugtak komið frá mannfræðingnum Riönu Eisler, myndað af grísku orðstofnunum „gy“ eða „gyné“=kona og „an“ eða „anèr“=maður. Bókstafurinn „L“ sem tengir þessa orðstofna stendur fyrir „legare“ (lat.) eða að tengja saman, þannig að hugtakið tengir saman kven- og karlræði). Um er að ræða samfélagsform í jafnvægi, hvorki mótað af feðraveldi né mæðraveldi, samfélagsform sem endurspeglast í þeim trúarbrögðum, þeirri goðafræði og þjóðháttum sem rannsóknir hafa leitt í ljós á hinum fornu þjóðfélögum Evrópu og hinni mínóísku menningu og staðfest er í línulegri samfellu kerfisbundinnar mæðradýrkunar, einnig í hinu forna Grikklandi, í Etrúríu (á Ítalíuskaganum), í Róm, í Baskalöndum og fleiri Evrópulöndum.

Á meðan menning Evrópuþjóða hélt áfram að búa við frið og ná umtalsverðri blómgun á sviði lista og byggingarlistar á fimmta. árþúsundinu fyrir Krist tók önnur menningarhefð að myndast á síð-steinöld (seinni hluta fimmta árþúsundsins f.Kr.) meðfram bökkum Volgu í sunnanverðu Rússlandi, menning sem byggði á tamningu hestsins og smíði banvænna vopna og náði allt suður til Svartahafsins. Þetta nýja menningarmynstur átti eftir að hafa óhjákvæmilegar breytingar í för með sér á hinn forsögulega tíma Evrópu, ég kalla það „Kurgan“-menninguna (kurgan merkir „haugur“ eða „hörgur“ á rússnesku), því hinir dauðu voru grafnir í hringlaga hörgum sem huldu grafhvelfingar höfðingjanna.

Megineinkenni Kurgan-menningarinnar sem varðveist hafa á Volgusvæðinu frá sjöunda. og sjötta árþúsundinu f.Kr. bera vitni um feðraveldi, minni háttar akuryrkju, húsdýrahald (þar með talin tamning hesta ekki síðar en á fimmta árþúsundinu), mikilvægi hestsins innan helgisiðanna og megináherslu á notkun vopna (bogi og örvar, spjót og sveðja). Þetta eru allt einkenni sem koma heim og saman við niðurstöður rannsókna á upprunasögu indóevrópskrar menningar á sviði málvísinda og samanburðar-goðafræði – um leið og þessi menningarheimur er andstæða þeirrar gilanísku forn-evrópsku menningar sem var friðsöm, bundin við fasta búsetu og háþróaða akuryrkju og átti sér merkar hefðir í byggingarlist, höggmyndalist og leirkerasmíði.

Endurtekin tímabil óstöðugleika og innrása frá kurgan-fólkinu – sem ég skilgreini sem frum-indóevrópskan kynstofn- bundu endi á hina fornu evrópsku menningu sem miðast við tímaskeiðið 4300 – 2800 f.Kr. Umskiptin fólu í sér umskipti frá gilanísku samfélagi til karlveldissamfélags og frá mæðrahyggju til feðrahyggju. Svæðin sem mynda gríska Eyjahafið og vestasti hluti álfunnar veittu lengsta viðnámið gegn þessari þróun. Þetta á sérstaklega við um eyjar eins og Teru, Krít, Möltu og Sardinínu, þar sem hin forna menning Evrópu blómstraði í öfundsverðri friðsemd allt til um það bil 1500 f.Kr, þúsund til fimmtán hundruð árum eftir að Mið-Evrópa hafði tekið sínum stakkaskiptum.

Trúarbrögð Gyðjunnar og táknmyndir hennar lifðu hins vegar áfram á mörgum stöðum eins og neðanjarðarstraumur. Satt best að segja eru mörg þessara tákna enn til staðar sem myndir í listum okkar og bókmenntum, kraftmikil sáðkorn sem búa í goðsögum okkar, eða frumgerðir sem birtast í draumum okkar.

Við lifum ennþá undir ægivaldi þessarar ofbeldisfullu og karllægu innrásar og við erum rétt að byrja að átta okkur á þessari framlengdu firringu frá hinni sönnu Evrópsku Arfleifð: gilanísk menning án ofbeldis sem beinist að jörðinni.

Í þessari bók er í fyrsta skiptið boðið upp á áþreifanlega vitnisburði slíkrar ævafornrar menningar, sem og hið táknræna tungumál hennar, en leifar þess eru enn til staðar í táknmálskerfum okkar.

Fosögulega gyðjan Tyrkland 4050-3700 fKr

Hin Mikla Gyðja Steinaldarmenningarinnar, leirmynd frá Anatoliu 4050-3700 f.Kr.

…..

Eins og fram kemur í þessari bók þá er ekki um það að ræða á forsögulegum tíma að ímyndir dauðans yfirskyggi ímyndir lífsins, heldur samtvinnast þær við táknmyndir endurfæðingarinnar. Sú sem er boðberi Dauðans og Yfirdrottnari Dauðans tengist þannig endurfæðingunni. Um þetta finnum við óteljandi vitnisburði: höfuð hrægammsins er sett á milli brjóstanna, gin og tennur villigaltarins eru umlukin brjóstum (eins og sjá má í Catal Huyuk helgistaðnum í miðju Tyrklandi frá sjöundu öld f.Kr.), myndir af Uglugyðjunni frá V-Evrópu sem sjá má á steinveggjum risagrafhýsanna þar sem brjóst eru mynduð á súlustöngunum, eða þar sem innri líkami Gyðjunnar myndar völundarhús sköpunarkraftsins með kvensköpin í miðju.

Myndir sem sýna móðurlífið sem slíkt, nautshauskúpuna (sem hefur svipað form) eða sambærileg dýraform: -fiskur, froskur, karta, broddgöltur eða skjaldbaka gegna öll mikilvægu hlutverki sem táknmyndir endurfæðingar á forsögulegum tíma við lok steinaldar og lengi fram eftir. Á nýsteinöld tóku hof og grafhýsi á sig mynd eggsins , kvenskapanna eða móðurlífs Gyðjunnar eða form alls líkama hennar. Margt bendir til að Risasteingrafirnar við ytri mörk Vestur-Evrópu hafi átt að sýna leggöng og þungaðan kvið (hringlaga tolos) Gyðjunnar. Form grafar er hliðstætt náttúrlegum hól eða hæð í landslaginu með táknrænum steini á toppnum er átti að merkja omphalos (naflann), hið algilda tákn hins þungaða kviðs Móður Jarðar með sinn naflastreng, eins og finna má vitnisburð um í evrópskum þjóðsögum.

Hið gagnkvæma hlutverk að gefa lífið og gefa dauðann í einni goðamynd er sérstaklega einkennandi fyrir ríkjandi Gyðjuhugmyndir. Sú sem gefur lífið og fæðinguna getur umbreyst í skelfingarmynd dauðans. Þá er hún mjóslegin og nakin eða einfaldlega bein með töfragæddum þríhyrningi kvenskapanna þar sem upphefst ummyndunin frá dauða til lífs. Andlitsdrættirnir, sem oft taka á sig grímu fuglshöfuðs, og veiðiklærnar líka, vísa til tengslanna við rándýrseðlið og átvaglssvipurinn með skögultennurnar og opið ginið og örsmá augun tengja Gyðjuna við eiturslönguna.

Hin mjóslegna og nakta kvenmynd frá fyrrihluta steinaldar, sem er tálguð úr beini án útistandandi brjósta (er votta um frjósemina), er forboði þeirra stífu og mjóslegnu nektarmynda sem koma fram á fornöld Evrópu skornar í marmara eða alabastur eða ljóslitan stein eða bein: allt efni sem bera með sér lit dauðans.

Grímur Gyðju Dauðans (frá miðbiki fimmta. árþúsunds f.Kr.) sem eru opinmynntar og munnstórar, með skögultennur og stundum lafandi tungu, gætu hafa verið fyrirmyndir grísku Gorgónanna (Medúsu), en þær eru engan veginn skelfingarmyndir er umbreyta áhorfandanum í stein, heldur eru þær sýndar með býfluguvængi og með snáka eins og loftnet, oft skreyttar með teikningu er sýnir býflugnabú: allt augljós merki endurfæðingar.

Meðal þeirra efnisatriða sem teljast verða fyrirferðamikil eru tákn orku og opnunar. Spíralar, horn, hálfmánar, hálfhringir (U-form), krókar, axir, hundar, geitur og æstir menn (með reistan lim) sem mæla sig við rísandi flóðgátt lífsins; snákur, lífsins tré og Gyðjan í mannlegri mynd eða hinn þungaði kviður hennar, allt eru þetta tákn lífsorkunnar.

Gagnstæð höggormshöfuð eða staðsett innan spíralsin fylla skrautmynstur hinnar Fornu Evrópu með sínum hreyfingum og mótstöðum. Hringiður, krossar og fjölbreytilegar myndir ferhyrninga eru lifandi tákn hreyfiaflanna í náttúrunni sem tryggja fæðingu lífsins og láta hringekju tímans snúast frá dauðanum til lífsins til þess að einmitt þetta líf viðhaldi sjálfu sér. Í þessum umbreytingaferlum verður stórbrotnasta ummyndunin sú sem felur í sér ummyndun eins lífs í mörg önnur: frá einni nautshauskúpu til býflugnabúrsins, til fiðrildanna og jurtanna, allt birtingarmyndir Gyðju endurfæðingarinnar.

Myndheimur Gyðjunnar felur alltaf í sér ólíka flokka táknmynda: Sértekningar eða myndletur (a V, a X, a M, a Þríhyrningur, a froskur), sýningar (augu, brjóst, fuglsklær) og dýr sem vísa til ólíkra eðlisþátta Gyðjunnar (snákur, fugl, gylta, naut, froskur, býfluga). Þessir þrír efnisflokkar eru samtvinnaðir í þéttriðnu neti er á rætur sínar í heildrænni sýn á alheiminn á þeim tíma þegar náttúran hafði ekki verið aðgreind í efnisflokka eins og tíðkast í háskólum samtímans, á þeim tíma þegar mennirnir voru ekki einangraðir frá allt umlykjandi umheimi sínum og á þeim tíma þegar það var fullkomlega eðlilegt að finna mátt Gyðjunnar í fuglinum eða steininum eða einungis í augum hennar eða brjóstum eða einfaldlega í helgirúnum hennar.

Sérhver kafli þessarar bókar er helgaður öllum þessum efnisflokkum.

Steinaldargyðjur 40-10þús áras-europe-paleolithic

Evrópskar steinaldargyðjur frá 40.000 – 10.000 f. Kr.

Forsíðumyndin er frá Catal Hoyuk í Anatolíu (Tyrklandi) og er 7-8 þúsund ára gömul.

HINN FAGRI DAUÐI IV -Barthes og ljósmyndin

Bókarkafli úr hinu sígilda riti Roland Barthes um ljósmyndina, La Chambre Claire frá 1980

Námsefni fyrir Listaháskólann

Roland Barthes:

Bjarti klefinn / La chambre claire

Kafli 38 úr „Hugleiðingum um ljósmyndun“

 

Allir þessir ljósmyndarar sem eru að störfum í heiminum, staðráðnir í að höndla það sem er að gerast, gera sér ekki grein fyrir að þeir eru boðberar Dauðans. Þetta er aðferð okkar tíma til að meðtaka Dauðann: með afneitandi fjarvistarsönnun þess sem er óafvitandi „lifandi“ og ljósmyndarinn er sérfræðingur í. Því ljósmyndunin þarf á sérstakri sögulegri tengingu að halda við það sem Edgar Morin kallar „kreppu dauðans“ og hófst um miðbik nítjándu aldar. Í stað þess að tengja tilkomu ljósmyndarinnar stöðugt við tilfallandi félagslegar og efnahagslegar aðstæður hefði ég frekar kosið að tengja tilkomu hennar einnig við mannfræðilega stöðu Dauðans og þessa nýja myndmáls. Dauðinn verður að eiga sinn stað í samfélaginu, og ef hann á sér ekki lengur (eða í minni mæli en áður) griðarstað í trúarbrögðunum, þá kallar hann á nýjan stað, til dæmis í þessari mynd sem framleiðir Dauða á meðan hún leitast við að varðveita lífið.

Samhliða því að helgisiðirnir hverfa í skuggann gæti ljósmyndunin samsvarað innrás hins táknlausa Dauða í okkar nútímalega samfélag, þess dauða sem stendur utan trúarbragðanna, utan helgisiðanna eins og skyndileg sunddífa ofan í hinn bókstaflega dauða. Líf / Dauði : þetta viðmið hefur verið smættað niður í einfaldan smell, þennan smell sem skilur upprunalegu uppstillinguna frá hinni endanlegu framköllun.

Með Ljósmyndinni höldum við innreið inn í hinn flata Dauða. Dag nokkurn þegar ég var að yfirgefa kennslustofu mína sagði einn nemandi við mig með vanþóknunartóni: „Þér talið um Dauðann á mjög flatan hátt.“ – Rétt eins og hryllingur dauðans væri ekki einmitt fólginn í flatneskju hans!. Hryllingurinn er þessi: ekkert að segja um dauða þeirra sem ég elskaði mest, ekkert að segja um ljósmynd þeirra sem ég hugleiði án þess að nokkurn tíman komast að kjarna hennar, umbreyta henni. Eina „hugsunin“ sem ég get nálgast er sú, að á eftir þessum fyrsta dauða hafi minn eigin dauði verið innritaður og að á milli þeirra sé ekkert annað en biðin. Ég hef ekkert annað haldbært en þessa kaldhæðni: að tala um „ekkert að segja“.

Eini möguleiki minn til að umbreyta Ljósmyndinni er höfnunin: annað hvort skúffan eða ruslakarfan. Hún á sér oftast ekki bara sömu örlög og pappírinn (endingarleysið), því jafnvel þó hún sé fest á sterkari undirstöðu þá er hún samt ofurseld eyðileggingunni: rétt eins og lífrænn vefur þá sprettur hún upp af silfurkorninu, blómstrar á yfirborðinu stundarkorn, eldist síðan og deyr… Hún fölnar, veiklast og hverfur undan áreiti ljóssins og rakans, hún er ekki til annars en að kasta henni í ruslið.

Eldri samfélög sáu til þess að minnið, sem er staðgengill lífsins, væri ódauðlegt, og að minnsta kosti þeir hlutir sem töluðu máli Dauðans væru í sjálfum sér ódauðlegir. Þannig var Minnisvarðinn.

Samfélag nútímans hefur afneitað Minnisvarðanum með því að gera hina (dauðlegu) Ljósmynd að almennum og á vissan hátt náttúrlegum vitnisburði um „hið liðna“.

Hér höfum við þversögn: sama öldin fann upp Söguna og Ljósmyndina. En Sagan er tilbúin minning samkvæmt ákveðnum formúlum sem eru hrein vitsmunaleg orðræða er afnemur hinn goðsögulega Tíma – og Ljósmyndin er viss flóttalegur vitnisburður hennar. Þannig er allt á okkar tímum eins og undirbúningur okkar kynslóðar fyrir þetta getuleysi: að glata mættinum til að skynja varanleikann með táknrænum eða tilfinningalegum hætti. Tími Ljósmyndarinnar er líka tími byltinga, andófs, morða og sprengjutilræða, í stuttu máli tími óþols, timi alls þess sem afneitar þroskaferlinu. – Það leikur enginn vafi á því að undrunin yfir „einu-sinni-var“ á einnig eftir að hverfa. Hún er þegar horfin: Ég veit ekki hvers vegna, en ég er einn af síðustu vitnisburðum hennar (vitnisburður hins ótímabæra), og þessi bók er forneskjuleg ummerki þess.

Hvað er það sem við sjáum hverfa ásamt með þessari gulnuðu ljósmynd sem dofnar og mun einn góðan veðurdag hafna í ruslinu – ef ekki af mínum völdum, (of hjátrúarfullur til þess), þá í það minnsta þegar ég dey? Það er ekki bara „lífið“ (þessi voru lifandi, sátu lifandi fyrir linsunni), heldur einnig, -hvernig eigum við að orða það? – líka ástin.

Andspænis einu ljósmyndinni sem ég get fundið af föður mínum og móður saman, af þessu pari sem ég veit að elskaði hvort annað, andspænis þessari mynd geri ég mér grein fyrir þessu: þetta er ástar-dýrgripur sem mun glatast að eilífu, því um leið og ég er farinn mun enginn annar lengur geta borið þessu vitni: ekkert verður eftir nema tillitslaus Náttúran.

Þetta er svo átakanlegur og óbærilegur holskurður að einungis í þessari öld ljósmyndarinnar skynjaði Michelet Söguna sem Andmæli ástarinnar: í því skyni að viðhalda ekki bara lífinu, heldur einnig því sem hann kallaði með sínu úrelta orðalagi hið Góða, Réttlætið, Eininguna, o.s.frv.

Forsíðumynd: Alexander Gardner: Lewis Paine, dauðadæmdur fangi, 1863

HINN FAGRI DAUÐI II -Carlo Sini

Námsefni fyrir Listaháskólann

Fá viðfangsefni eru algengari í listsköpun mannsins en ástin og dauðinn. Ástin í sínum margvíslegu myndum eins og hún birtist sem lífgjafi í löngunum mannsins og þrám, í togstreitu efnis og anda, sálar og líkama, hins eina og hins margbrotna. Dauðinn eins og hann birtist í sínum margvíslegum myndum sem tortímandi lífsins, sem ógnvaldur allra áforma mannsins og rökhugsunar, sem endalok tímans, sem endurlausnari og frelsari sálarinnar. Í öllum listgreinum sjáum við þessar birtingarmyndir þeirra frumkrafta í sálarlífi mannsins sem Sigmund Freud kenndi við Eros og Þanatos, guði ástarinnar og dauðans í grískum goðsagnaheimi.

Undanfarin ár hef ég staðið fyrir nokkrum námskeiðum í Listaháskólanum sem báru yfirskriftina Eros og fjölluðu m.a. um myndbirtingar ástarinnar í myndlistinni þar sem gengið var út frá hugmyndum Platons eins og þær eru settar fram í Samdrykkjunni.

Nú er komið að framhaldi þessara námskeiða þar sem ljósinu verður varpað á skuggahlið Þanatosar, guðs dauðans og gleymskunnar. Námskeiðið ber yfirskriftina „Hinn fagri dauði“ sem vísar bæði til titils á ritgerð franska mannfræðingsins Jean-Pierre Vernant um forngrískan hugmyndaheim dauðans , en einnig til þess hvernig maðurinn hefur leitast við að upphefja dauðann í listrænni fegurð í gegnum aldirnar, ekki síst í þeirri viðleitni að gefa honum merkingu eða fela ógn hans undir grímu fegurðarinnar.

Meðal lesefnis í þessu námskeiði eru ritgerð Sigmundar Freud um lífshvötina og dauðahvötina sem hann skrifaði 1919 og kallaði „Handan vellíðunarlögmálsins“ (ísl. þýðing Sigurjóns Björnssonar 2002), ritgerð Vernants um forngrískan hugmyndaheim, bókarkafli Umberto Galimberti um dauða Sókratesar og Krists, kafli úr ritgerð eftir Giulio Carlo Argan um Caravaggio og dauðann, textabrot eftir Nietzsche um „dauða Guðs“ og eftirfarandi ritgerð ítalska heimspekingsins Carlo Sini um rökleysu dauðans. Sini telst vera einn fremsti fulltrúi þess heimspekiskóla sem kenndur er við fenomenologiu eða fyrirbærafræði á Ítalíu, og ber þessi ritgerð merki þess.

Eitthvað af lesefni þessa námskeiðs verður birt hér á vefsíðu minni. Áður er komin ritgerð Vernants um tvær ásjónur dauðans meðal Forn-grikkja. Hér birtist hins vegar ritgerð Carlo Sini, sem upphaflega er fyrirlestur haldinn á alþjóðlegu þingi heimspekinga í Milano 1984, síðan birtur í bókinni „Il profondo e l’espressione -Filosofia, psichatria e psicoanalisi“, Lanfranchi editori, Milano 1991.

 

Carlo Sini:

Rökleysan og dauðinn

Lengi hefur verið bent á það að sterk tengsl sé að finna á milli dauðans og hreinnar rökleysu. Hins vegar er erfiðara að skilgreina í hverju þessi tengsl séu fólgin og um þau ríkja engin sammæli. Ég sting upp á að við byrjum á eftirfarandi fullyrðingu: dauðinn er atburðurinn sem mátar þekkinguna.

Við munum vel eftir hinni snjöllu setningu Heideggers: „Ekki enn sem komið er, en engu að síður hvenær sem er.“ Þannig er hægt að skilgreina dauðann sem það er á máli skáklistarinnar mátar sérhver áform, sérhverjar rökrænar áætlanir mannsins, þar sem yfir sérhverri mannlegri athöfn grúfi dauðinn með sitt stundaglas. Kannski væri réttara að segja: með sinni ævarandi nærveru: ekki ennþá, en engu að síður hvenær sem er. Dauðinn vanvirðir áform okkar og framtíðarsýn einmitt vegna þessarar ævarandi nærveru sinnar, hann lokar – eins og við vitum öll -framtíðina inni í hinu óútreiknanlega og ófyrirsjáanlega, hann afskrifar alla röklega áætlanagerð. Þetta er ástæða þess að dauðinn birtist okkur sem hin hreina rökleysa og engin áætlanagerð getur fellt hann inn í líkindareikning sinn. Atburður dauðans er ósamrýmanlegur allri röklegri þekkingu og af því eru sprottnar allar þær sálrænu skapgerðir sem við þekkjum af eigin reynslu: fáránleikinn, niðurlægingin, tilvistarskipbrotin; allt skapgerðirnar sem eru svo lifandi í myndagerð miðalda, en einnig á sautjándu öldinni.

Dauðinn grefur þannig undan öllu skipulagi hinna lifandi, og það er þess vegna sem hann vekur viðbjóð þess sem lifir, því hann er hitt andlit hans, hin myrkvaða, dularfulla og ósýnilega ásjóna hans. Allt þetta á sér stað í sérhverri einstaklingsbundinni reynslu eins og við öll þekkjum: hún horfist í augu við mátleikinn í taflinu í gegnum hugleiðslu dauðans – leikinn sem skákar sérhverri mannlegri reynslu í kjarna sínum.

En hver er kjarni hinnar einstaklingsbundnu reynslu? (Eða að minnsta kosti þeirrar einstaklingsbundnu reynslu sem við erum vön að nefna svo?)

Kjarni hinnar einstaklingsbundnu reynslu er eining sjálfsins sem viðvera í tímanum, eining sem stýrir og gerir sínar áætlanir um framtíð sjálfsins. Þannig blasa að mínu mati við okkur viðbjóðslegustu þættirnir fyrir sérhvern eistakling sem hugleiðir dauðann.

Fyrsta atriði: að ég verði ekki lengur til staðar.

Annað atriði: að ekki sé um neitt „eftir“ að ræða eftir dauðann, heldur eilíft tóm (Og síðan? Hvað svo? Spyr Jago (í leikriti Shakespeares)) Hvað svo? Svo lýkur tímanum í mynd sem við getum engan veginn séð fyrir okkur eða ímyndað okkur.

Ef við hugleiðum nú þessa þætti eins og við upplifum þá í raun og veru (og það er engin tilviljun að við upplifum þá svona) þá eru þeir bókstaflega óhugsandi. Það er engin hugsun möguleg í fjarveru sjálfsins, það er ekki hægt að hugsa um endalok okkar tíma, um það sem tekur við á eftir okkur, um það sem er „ekki lengur neitt“.

Með öðrum orðum, þá getur rökhugsunin ekki gert sér rökræna mynd af dauðanum. Á máli Sigmundar Freuds mætti orða það þannig, að á meðan einstaklingurinn talar um dauðann, þá trúi hann í raun ekki á eigin dauða, hann geti ekki trúað á þennan ógeðslega atburð sem er sérstakt ógeð sérhverrar hugsunar.

Þannig sjáum við glöggt hvernig sjálfið í sinni tímanlegu vídd mætir dauðanum, en einnig hvernig þessir tveir þættir samsvara hver öðrum. Báðir gera tilkall til hins ótímabundna, til nærveru á sérhverri stundu, því án hennar væri ekki um neina stund að ræða. Því er einungis við að bæta að sjálfið gerir tilkall til þessa tímaleysis á sviði mögulegs raunveruleika, þessarar nærveru sem gefur einingu lífsins merkingu. Dauðinn býr hins vegar yfir tímaleysi sínu í krafti samsvarandi fjarveru, í fjarveru þess raunveruleika sem verður ómögulegur.

Ef við munum nú eftir setningu Heideggers („Dauðinn er nánasti möguleiki ómöguleika okkar“), ef við stöldrum við merkingu þessa „nákomna ómöguleika“, þá stöndum við andspænis reynslu sem er svo einkennandi fyrir samtímamann okkar þar sem hin rökrænu áform sjálfsins gufa upp og opna þvert á móti fyrir okkur sýnina inn í tómið. Það er með þessum hætti sem dauðinn birtist okkur sem hin skýrasta birtingarmynd rökleysunnar, atburðar sem rökhyggjan á ekkert svar við.

En eru málin einmitt þannig vaxin? Mér virðist vænlegt að leggja fram eftirfarandi spurningu að svo komnu máli.

Fyrsta athugasemdin sem mér virðist mikilvæg varðar hina andstæðu samsvörun sem áður var sett fram, andstæðu hinnar rökrænu þekkingar, þekkingar sjálfsins, tímavídd sjálfsins og röklegrar þekkingar annars vegar og tímavídd dauðans hins vegar, á milli nærveru sjálfsins og endanleika þess. Vekur þessi undarlega samsvörun sem birtist svo skýrt í báðum þáttum engan grun um enn dýpri tengsl? Er mögulegt að hér sé einfaldlega um að ræða yfirlýst misræmi – röklega þekkingu andspænis órökrænum dauða – og að hér geti verið um samsvörun að ræða er bregði ljósi á óvænta sameiginlega þætti? Hvernig getum við brugðist við svo erfiðri spurningu? Við gætum stytt okkur leið til þess að komast strax að kjarna málsins með eftirfarandi hætti:

Við getum til dæmis spurt þessarar spurningar: er dauðinn staðreynd eða þekking? Eða er hann staðreynd og þekking? Ef hann er hvort tveggja, um hvers konar þekkingu og hvers konar staðreynd er þá að ræða?

Það sérstæða við dauðann sem staðreynd er að við getum ekki upplifað hana. Það var Epikúros sem benti fyrstur á þetta samkvæmt vesturlenskri hugsunarhefð: dauðinn er það sem gerist utan okkar eigin reynslusviðs. Við ættum jafnvel að taka enn sterkar til orða: í kjarna sínum felur dauðinn í sér fjarveru sérhverrar reynslu. Ef við getum sammælst um þá hefðbundnu skilgreiningu, að atburður sé allt það sem gerist fyrir reynslu okkar, þá blasir við að dauðinn er ekki „atburður“ að því leyti að hann snertir ekki reynslu okkar. Því er hann fjarverandi allri reynslu með róttækum hætti. Hegel hafði áttað sig á þessu að einhverju leyti þegar hann á einum stað komst svo að orði í framhjáhlaupi í Fyrirbærafræði andans: „Dauðinn, – ef við viljum nefna þennan óraunveruleika því nafni“. Dauðinn á sína viðveru fjarri reynslunni. Ekkert merki markar hann, ekkert merki vekur hann upp, jafnvel þótt segja megi að sérhvert merki gefi hann í skyn vegna þess að sérhvert merki er ávísun.

Enn á ný stöndum við frammi fyrir forvitnilegri samsvörun: Sjálfið og dauðinn. Hið fyrra er samtvinnað merkjum reynslunnar eins og lifandi nærvera túlkunarinnar á meðan merki dauðans fela í sér fjarveru sérhverrar túlkandi reynslu. Engum blöðum er um það að fletta að dauðinn birtist okkur sem eina staðreyndin sem engin reynsla er til vitnis um. Hvers konar staðreynd er hann þá? Við þá spurningu bætist sama spurning um fæðinguna. Semsagt: dauðinn er staðreynd sem er aldrei „tiltekin staðreynd“, sem hefur engin einkenni staðreyndar og er því vandséð hvernig hægt sé að tala um hann almennt sem „staðreynd“ eða „atburð“.

Ef við spyrjum okkur nú þessarar spurningar: hver er þekking dauðans? Þá getum við strax hlaupið að niðurstöðu okkar, því við verðum umsvifalaust að segja: þekking dauðans er vissulega engin þekking, hún er ekki þekking meðal annarra þekkinga (þekking þessa eða hins, þekking skilgreindra staðreynda eða reynslu), því staðreynd dauðans, sem er utan mannlegs reynslusviðs, á sér ekki skilgreinanleg einkenni út frá þessu eða hinu er gæti samsvarað skilgreinanlegri þekkingu.

Því virðist mér aðeins eitt svar vera mögulegt við þessari spurningu: dauðinn er ekki tiltekin þekking, hann verðskuldar allt annað merki og allt aðra skilgreiningu. Dauðinn er þekkingin.

Ef vel er að gáð og tekið er mið af þeirri stuttu röksemdafærslu sem við höfum gengið í gegnum fram að þessu, þá er þetta mjög undarleg niðurstaða. Sögðum við ekki í upphafi að dauðinn væri það sem setti þekkinguna í mátstöðu? Að hann væri hreinn viðbjóður og ósamkvæmni, að hann væri út frá sjálfri skilgreiningunni það sem forðast þekkinguna og hefur hana að athlægi? Hvernig höfum við þá getað komist að þeirri niðurstöðu að dauðinn væri „þekkingin“ tout court (stutt og laggott).

Verður þessi niðurstaða ekki þegar að þverstæðu ef við bara spyrjum okkur: hvað veit maðurinn? Hvað er það sem sérhver maður veit, ekki bara fyrir tilviljun, heldur einmitt vegna þess að hann er maður?

Af öllum þeim margbreytileika þekkingarinnar sem tíminn hefurleitt í ljós hjá ólíkum siðmenningum, frá ólíkum stöðum, frá menningarsvæðum og ólíkum menningarstigum, af öllum þessum óteljandi og ómælanlegu mismunum er það ein þekking sem er gegnumgangandi og örugg og verður áfram sameiginleg arfleifð allra, óbreytanleg og algild. Það sem allir menn vita, að því tilskyldu að þeir séu í rauninni menn, er að minnsta kosti þetta: að dauðinn er óhjákvæmilegur. Er mögulegt að vera maður í fullri merkingu orðsins án þess að vita þetta? Það er augljóslega ekki hægt.

Maðurinn er ekki dýrið sem talar, eins og hefðin hefurkennt okkur; dýrið sem ræður yfir logos (rökhugsun).Hann er vissulega þetta, en áður en að því kom var hann veran sem þekkir það að deyja. Nokkuð sem ekki er án tengsla við þá getu hans að ráða yfir tungumáli, en það kallar á umhugsun sem við verðum að eiga okkur til góða um stund. Þetta er ástæða þess að Heidegger hefur fullkomlega rétt fyrir sér þegar hann endurtekur í sífellu að maðurinn sé „hinn dauðlegi“. Lýsingarorð sem tjáir raunverulegan kjarna sinn því oftar sem hann endurtekur það. Maðurinn er „hinn dauðlegi“, veran sem er þess umkomin að deyja.

Hegel hafði þegar bent á að það eru dýrin sem falla, einungis maðurinn deyr. Því getum við sagt: þekking dauðans er hápunkturinn í mannfræðilegri þekkingu (án þess þó að leggja neina þá merkingu í orðið „mannfræðilegur“ er vísi til mannvísinda og hinna skilgreindu þekkingarsvæða þeirra í almennri merkingu).

En hvernig verður þessi þekking til? Hvernig getum við gengið út frá eða gert ráð fyrir tilkomu hennar? Getum við einfaldlega eignað hana vitundinni? Getum við óáreitt ímyndað okkur fyrirframgefna vitund sem er gædd þeirri þekkingu að hún verði að deyja? Er þetta leiðarþráðurinn sem við eigum að fylgja til þess að skilja hvers konar þekking felist í þekkingunni um dauðann, sem við höfum nú uppgötvað að er „þekkingin“ í sjálfri sér og trúlega forsenda allrar annarrar þekkingar? Að þessi þekking leiði í ljós þá einstöku staðreynd að hún eigi sér hvergi stað í reynslu vitundarinnar?

Kannski gætum við hér bent á aðra útgönguleið úr þessari röksemdafærslu með eftirfarandi hætti (auðrataða en ekki djúpsótta leið í vissum skilningi): Þekkingin um dauðann verður til þegar maðurinn sér það sem dýrið getur ekki séð, en það er einfaldlega líkið, „il mortuum“. Hér þarf augljóslega útskýringu: hvað felst í því að slík reynsla verði til, ekki reynsla dauðans, heldur líksins, „mortuum“ og hvernig verður slík reynsla möguleg?

Ef hlutunum er nokkurn veginn varið eins og ég hef lýst þeim, þá þurfum við að minnsta kosti að nema staðar við þessa bráðabyrgða athugun eða niðurstöðu: Dauðinn er alls ekki ósamkvæmur þekkingunni, hann er engan veginn rökleysa sem veldur þekkingunni viðbjóði, öllu heldur er hann grundvöllur þekkingarinnar. En engu að síður verðum við að stíga eitt spor í viðbót, sem mér virðist afgerandi í viðleitni okkar bregða ljósi á það sem við erum að hugsa. Grundvöllur þekkingarinnar, já, en hvaða þekkingar?

Mér verður hugsað til afstöðu Heideggers, einnig vegna þess að mér virðist hún styðjast við athugun sem verðskuldar gagnrýni. Heidegger, sem er einhver dýpsti hugsuðurinn um málefni dauðans, talar um dauðann sem „hinn nákomnasta möguleika“ (nákominn persónunni, einstaklingnum og vitundinni, -þetta eru allt hugtök sem ríma ekki beinlínis við anda heimspekihugsunar Heideggers). En þegar hann talar um „nákominn möguleika“ á hann vitaskuld við að til staðar sé rödd vitundarinnar, að til staðar sé innri veruleiki mannlegrar tilveru er skynji að yfirþyrmandi nærvera dauðans er til staðar með einstökum og einmanalegum hætti (af því ráðast ásakanir gegn honum um vissa tilhneigingu til nútímalegrar einstaklingshyggju, þrátt fyrir allt.). Hið sanna vandamál dauðans varðar ekki þekkingu þess eðlis að „menn deyi“ eða „fólk látist“ -með hið ópersónulega „menn“ í upphafi setningar- eins og til dæmis í setningunni „menn deyja en það þýðir ekki ég“ („ég er ódauðlegur“, eins og Freud segir). Því er það að andspænis spurningunni sem hér er til umræðu (hver er þekking dauðans?) þurfum við, til þess að fylgja afstöðu Heideggers, að svara svona: hin nákomna þekking felur ekki í sér þá ópersónulegu þekkingu sem tjáð er með orðunum „menn deyja“.

Mér virðist sem þessi afstaða Heideggers, sem er svo mikilvæg og hefur verið svo afgerandi í mörgum heimspekileiðöngrum samtímans, búi enn við vissa tvíræðni. Mér virðist sem Heidegger dvelji við þá sálfræðilegu einkavæðingu dauðans sem á var minnst, og á ekki rætur sínar og forsendur í nútímanum að mínu mati. Þessi sálfræðilega einkavæðing dauðans á sína útbreiðslu og sína sigursælu framgöngu í nútímanum og á okkar tímum sína algjöru yfirburði, en rætur hennar liggja (og hér segi ég með ögrandi og róttækum hætti nákvæmlega það sem ég meina) í Faedon eftir Platon[i].Það merkir við uppsprettur og uppruna frumspekihefðar Vesturlanda. Í Faedoni sjáum við hinn fyrsta nútímalega dauða, hinn fyrsta einstaklingsbundna dauða og fyrsta dauðann sem birtist okkur sem nákomnasti möguleiki einstaklingsins. Sókrates er fyrsti maðurinn sem deyr eins og við í þessum texta – með öllum tilheyrandi harmagráti og tilfinningasemi viðstaddra sem taka þátt í samræðunni, og þá sérstaklega hjá einum, sem truflar sálarró viðstaddra með óviðeigandi grátkvælum, truflar þá sálarró sem Sókrates gerði tilkall til hjá viðstöddum en þó einkum hjá sjálfum sér.

Fyrst og fremst vildi ég þó minnast þess augnabliks í þessari samræðu (Sókratesar og lærisveinanna) sem er orðið svo víðfrægt að ástæða er til að spyrja sig, hvers vegna: hin fræga og nú orðið útþvælda spurning um hanann sem átti að færa Aeskliposi sem fórnargjöf[ii]. Hvers vegna er þetta atvik svo minnisstætt okkur öllum? Hvers vegna er það á allra vörum svo það er nánast orðið almenningseign? Vegna þess að helgiathöfnin og hið heilaga hafa dáið andspænis dauða Sókratesar. Þessi hinsta ósk hans er í raun og veru vottur um enn eina aristókratíska kveðju sem sál Sókratesar leyfir sér gagnvart lesandanum. Þessi viðurkenningarvottun til hefðarinnar[iii] er allt sem þarf (menn vita að þetta verður túlkað með ólíkum hætti) en vissulega felur hún í sér boðun hinnar nútímalegu sálarfræði í sínu grundvallandi frelsi frá heiminum og heilagleika heimsins, vitund sem horfir til helgiathafnarinnar úr fjarlægð, sem horfir einmitt til hennar út frá frelsinu.

Við verðum að átta okkur á að það nægir ekki að ákalla mátt helgiathafnarinnar, það dugar ekki að fordæma með helgiathöfninni hina hversdagslegu neysluvenju, þennan óhemjuskap sem einkennir nútímamanninn. Það dugir ekki til, því við verðum að viðurkenna að þessi afhelgun, þessi útúrsnúningur helgiathafnarinnar, hefur með vissum hætti verið gegnumgangandi í öllum Platonismanum sem gegnsýrir alla menningu okkar, hún er gegnumgangandi í gagnrýninni á hið heiðna ritúal sem hreinan skepnuskap, hefur lifað af meðvitaða formælingu þess og framsetningu hins andlega, kristna helgisiðar sem andsvar við hinu heiðna ritúali.

Að því sögðu er ekkert eðlilegra en að dauðinn verði í síauknum mæli sálfræðilegt atriði, og að hinni einstaklingsbundnu tilfinningu bjóði jafnan við sorgarsiðunum sem falsi, sem yfirborðsmennsku, því í þessari vegferð var þegar ráðið það sem Sókrates hafði ákveðið í upphafi: að það sem máli skipti sé sálin, á meðan líkaminn sé einskær fangaklefi og heimurinn einskært tóm.

Hugum aftur að spurningunni: „hvaða þekking?“. Er það í raun og veru rétt, að þekking dauðans sé þekking hins nákomnasta möguleika? Eða er það ekki frekar satt sem Heidegger útilokar? Að þekkingin samsvari þeirri staðreynd að ekki sé um staðreynd að ræða, – dauðann – og einmitt þess vegna sé þessi þekking opinber þekking? Eina þekkingin sem er þess megnug að tala um dauðann með samkvæmum hætti er einmitt hin gagnkvæma innri þekking (sapere intersoggettivo). Þekking dauðans er opinber þekking sem liggur til grundvallar upplýsingamiðlun allrar annarrar þekkingar okkar.

Eins og þegar hefur verið haldið fram (sérstaklega af Gentile[iv]), þá deyjum við hinum fyrst og fremst, þeim sem eftir lifa. Það er þess vegna sem dauðinn hefur til að bera það tímaleysi og algildi sem tilheyrir hugtakinu. Hvernig eigum við að gera okkur mynd af dauðanum í því hvíta rými hugtaksins sem vísar einungis til einmanalegrar angistar hinnar einstaklingsbundnu sorgar? Menn deyja hinum í tímaleysi hugtaksins, í tímaleysi hins platónska eidos (ímyndar), í óendanlegri tilvísun merkisins.

Einnig hér var Hegel á réttu róli þegar hann benti á samkvæmni hugtaks og dauða, skilnings og dauða. Enn á ný þurfum við að kanna það sem við höfðum áður skotið á frest í máli okkar: það er þekking dauðans sem grundvallar möguleika tungumálsins. Það er þekking opinbers sannleika sem gerir röddinni kleift að verða vox publica (opinber rödd), að miðla merkingum allra, sem tjáðar eru í tímaleysi fyrir alla.

Ef við köfum nú dýpra ofan í þessa tilgátu, þessa tillögu að skilningi á vandanum, þá þurfum við að bæta þessu við: að dauðinn er inntak sérhvers tákns, hann er inntak sérhverrar samfélagslegrar eða opinberrar ímyndar. En hvað merkir „opinber“? Ég held að við getum ekki sloppið svona billega frá uppskiptingunni „opinber / einka…“ sem okkur er oft tamt að nota nú til dags, réttilega til þess að lýsa aðstæðum okkar. Okkur hættir til að gleyma því að þessi uppskipting felur í sér ákveðna þætti í okkar siðmenningu er horfa öðruvísi við öðrum siðmenningum.

Til eru hefðir og menningarheimar þar sem það hefur enga merkingu að tala um eitthvað sem er „prívat“. Með sama hætti getur sá sannleikur sem er sameiginlegur heilu samfélagi ekki talist léttúðlega til hins „opinbera“. Það sem mér sýnist hins vegar óbreytanlegt í okkar siðmenningu og öllum öðrum er að menn þurfa að koma sér upp sameiginlegri sýn á líkið, á upplifun þessarar reynslu, til þess að sjálft samfélagið geti staðist og verið virkt. Mér virðist jafnframt blasa við að líkið, þegar það birtist sem lík, virki sem það merki er gefi til kynna fjarveru sem hér birtist sem nærvera, fjarvera sem er til staðar í nærverunni en merki um leið ómælanlea fjarlægð.

Hvað er það sem líkið gefur til kynna? Hvað er það sem á vantar? Eina skynsamlega svarið á þessu stigi málsins er að líkið skortir þessa opinberu rödd, vox publica, nafnið, hið sameiginlega tungumál, það sem gerir það að verkum að gildi mitt birtist ekki bara í minni beinu og innhverfu upplifun. Eða öllu heldur: ég á mér beina reynslu einungis þar sem ég öðlast gildi í orðræðu hins, í orðum hins, í nafni hins. Margir fræðimenn hafa haldið því fram að fyrsta orðið hafi verið nafn, kannski nafn guðanna. Fyrsta nafnið hljómar í nærverunni, í sameiginlegri og opinberri nærveru, í opinberu orðspori. Einungis þannig er hinn líflausi líkami líkið sem hefur glatað nafni sínu (la vox) og sem slíkur verður þessi líflausi líkami ákallaður, særður fram, uppvakinn, greftraður og lofsunginn eins og sú fjarvera sem engu að síður er nærverandi sem félagsleg frumforsenda.

Í hefðinni gengur þetta allt undir nafninu „sál“ (anima), en auðvitað þurfum við hér að gera greinarmun á ólíkum samfélagsáformum. Það sem einkennir okkar siðmenningu, það sem eflir okkar opinbera líf, veru okkar sem opinberar persónur og síðan sem lík, á sína frumforsendu í hugtakinu. Það er þarna sem umskiptin verða. Og þar sem okkar samfélag á frunmforsendu sína undir hugtakinu, og hefur þannig fjarlægt aðra táknræna þætti dauðans, þá getur það á okkar tímum umgengist dauðann með vísindalegum hætti, tæknilega og sálfræðilega og þá jafnframt með þeim holskurði sem réttilega hefur verið kvartað undan, þeirri gjá er myndast andspænis hinni opinberu stofnun andlátsins með því að fela hinu opinbera auga umsjón þess. Þannig er andlátið falið í umsjá hjartalínuritans sem mælir hjartsláttinn og færir okkur fréttir af andlátinu (eins og sjónvarpsfréttirnar). Það er klofningurinn á milli þessa klíníska-vísindalega dauða, þessa tæknilega og upplýsingatengda dauða, og þess dauða sem birtist sem einstaklingsbundin angist, angistarfull einsemd , sem sálfræðileg örvænting andlátsins.

En þessum klofningi, þessari firringu sem við kvörtum svo undan, verður ekki andæft. Heimspekingurinn getur allavega ekki andæft gegn honum ef ekki er gengið að rótum stofnanalegra ákvarðana í menningu okkar, og að handan þeirra verði reynd samræða um reynsluna af opinberun dauðans eins og við getum fundið hana í öðrum menningarheimum. Ég hef ekki trú á því að þau vandamál sem samtímamaðurinn upplifir andspænis dauðanum verði leyst með einföldu afturhvarfi til helgisiðanna eða einföldu ákalli til mögulegrar eilífrar framtíðar sem þversagnarlaust hugtak (þar þyrfti að spyrja sig um hvaða opinbera tíma væri að ræða og hverjum væri ætluð þessi eilífa framtíð). Við höfum þörf fyrir yfirgripsmikla anamnesi (gríska orðið yfir minni), yfirgripsmikið minni um vandamál dauðans sem nær út yfir þessa uppskiptingu hins „opinbera og einkalega“ sem við höfum búið við allt frá Faedon, og á sér beint framhald í vísindum og tæknihugsun samtímans, hugsanlega einnig með frelsandi útgönguleið í farteskinu. Kannski munu þau einnig færa okkur nýja reynslu og ný örlög hvað varðar skilninginn á hinu opinbera og hinu einkalega, nýjan skilning á þeirri þekkingu sem fellur saman við þá eðlisbundnu þekkingu mannsskepnunnar, sem er þekking dauðans. Semsagt ekki endilega eitthvað sem gengur þvert gegn öllu því sem einkennir nútímamanninn, heldur þvert á móti gengur í gegnum reynslu er byggi á víðfemu minni um upprunann er geti í þessum skilningi opnað fyrir örlög, sem þó verða óhjákvæmilega alltaf örlög dauðans. En, eins og margir hafa bent á, dauðaörlög er fela einnig í sér og bera með sér möguleika lífs.

Á þeirri stundu þegar áhersla er lögð á að dauðinn sé ekki staðreynd, þegar undirstrikað er að dauðinn er ekki þekking heldur forsenda þekkingar, þeirrar þekkingar sem er af opinberum toga, á þeirri stundu virðist mér augljóst að þá séu menn jafnframt að segja þetta: hættum nú að byggja samfélag okkar á hinni döpru ímynd útfararinnar. Minnumst þess,að handan við hina opinberu þekkingu og handan þessarar staðreyndar sem menn hugsa sem hið óhugsanlega – og opnar um leið fyrir hugaróra -, handan alls þessa er stöðugt og án afláts til staðar sigursælt afl gegn þessari hugsun sem felst í töfrum lífsins. Töfrar sérhvers augnabliks sem sjálfir mæta hugsunum dauðans, sem sjálfir sigrast á honum í hverju augabliki, í altíma sem vissulega getur ekki án dauðans verið (hitt andlit þeirra); töfra sem eru ekki veikari, ekki síður alltumlykjandi, ekki síður valdameiri, og umfram allt ekki minna mannlegir.

[i] Fedon er samræðubók Platons þar sem Sókrates talar við lærisveina sína í fangelsinu á dauðadegi hans. Í samræðunni færir Sókrates rök fyrir ódauðleika sálarinnar sem búi í líkamanum eins og fugl í búri. Samræðan er í raun greinargerð fyrir „frummyndakenningu“ Platons um hinar „hreinu“ hugmyndir og það hvernig sálin smitast og óhreinkast af dvöl sinni í líkamanum. Samkvæmt þessu tekur Sókrates dauða sínum fagnandi. Þessi aðgreining sálar og líkama átti eftir að hafa mótandi áhrif á kristindóminn og alla hugmyndasögu Vesturlanda.

[ii] Andlátsorð Sókratesar voru tilmæli hans til vinar síns Kritons um að gleyma ekki að færa Aeskliposi, guði læknislistarinnar í grískum goðaheimi, hana að fórnargjöf sem þakkargjörð fyrir að hafa leyst sál Sókratesar úr viðjum líkamans.

[iii] Sókrates hafði helgað líf sitt rökræðulist heimspekinnar, og þar með hafnað þeim goðsögulega skilningi á veröldinni sem ríkjandi var í Grikklandi á hans tíma. Andstaða Sókratesar við þessa hefð var ekki síst ástæðan fyrir dauðadómi hans.

[iv] Giovanni Gentile (1875-1944)var merkur ítalskur heimspekingur sem gegndi m.a. embætti menntamálaráðherra á valdatíma Mussolini.

Forsíðumyndin er stillimynd úr kvikmynd Ingemars Bergman, „Sjöunda innsiglið“ frá 1957 og sýnir leikarana Bengt Ekerot í hlutverki Dauðans og Max von Sydov í hlutverki krossfararriddarans Antoniusar.

ÞEKKING MERKJANNA VI – Carlo Sini

CARLO SINI:

UPPNÁM MERKISINS OG DAUÐINN

 

VI

Postscriptum

Eftirmáli bókarinnar Il sapere dei segni, bls. 151-152

 

Á meðan Sókrates dvaldi í fangelsinu í Aþenu, sinni síðustu vistarveru, sótti endurtekið á hann sami draumurinn. Hann sagði vinum sínum frá þessu þar sem þeir söfnuðust í fangaklefann á hinsta degi hins dauðlega lífs heimspekingsins. Í draumnum var ítrekað farið fram á það við Sókrates að hann „fremdi tónlist“: „O Socrates, mousiken poiei kai ergazou…“ „Sókrates, þú átt að semja músík og flytja hana“ (Fedon, 60e)[i]

„Ég hélt þá“, sagði Sókrates, „að draumurinn væri að hvetja mig til að gera það sem ég var þegar upptekinn af, það er að segja að helga mig músíkinni með heimspekinni, þar sem heimspekin er göfugasta músíkin („os philosophias men ouses megistes mousikes“, 61a).

Þá helltist sú efasemd yfir hann að draumurinn merkti að hann ætti að fremja músík í bókstaflegri merkingu, að um væri að ræða að poiein mythous all‘ou logous, „að semja sögur en ekki rðksemdafærslur“. Því ákvað hann að eyða síðustu dögum sínum í það verkefni að umrita dæmisögur Fedrosar yfir í ljóðlist og tónlist, kannski í þeim tilgangi að mennta „smádrenginn“ sem í okkur öllum óttast myrkrið og hopar andspænis dauðanum, um leið og hann huggaði hann með þeirri tónlist sem hann hafði alist upp við í bernsku.

Að leiðarlokum getum við fyrir okkar hönd tekið áhættuna af því að setja fram okkar túlkun á hvatningarorðum draumsins. Við gætum til dæmis minnst þess að hafa skilið það svo, að tónlistin andæfi ekki gegn tungumálinu, heldur þvert á móti undirbúi það með því að heimfæra orðin til merkingarlegs uppruna þeirra, það er að segja inn í þá fjarlægð sem takturinn (ritmo) framkallar, sem er hinn frumlægi sláttur atburðarins og heimsins, mousike cosmopoietica, takturinn sem allir hlutir heimsins eiga rætur sínar í. Í þessum skilningi er heimspekin í raun og veru þekking og iðkun dauðans, eins og Platon vildi hafa það, en við leiðarlok þess lífs sem einkennir einmitt hinn dauðlega sem stöðugt sveiflast á milli dauðans og eilífs lífs.

Í þessari sveiflu býður heimurinn sig fram í ímyndum (figure) sem eru tækifæri hugsunarinnar og „músíkölsk“ form, „frásagnarleg“ merki sem leiðbeina og styðja okkar daglegu „framkvæmd“ (esecuzione) lífsins[ii]. Í gegnum þessar ímyndir náum við fram til þess skilnings á harmleiknum og friðinum, á tortímingunni og endurfæðingunni, sem Whitehead talar um. Skilnings er opnar leið að heimspekilegri hugsun og að iðkun músíkurinnar (mousike) þar sem innöndun (aspirazione) endurfæddrar og mögulegrar fegurðar heimsins stendur ekki í vegi fyrir eyðandi og uppbyggjandi verki dauðans og örlaganna sem geymsla sérhvers merkis hins liðna og ókomna: kærleikur hugtaksins sem afþakkar „bráð“ sína til þess að lífið megi ganga um garð í eilífri endurkomu þeirra túlkana sem koma munu.

 

[i] Orðið „músik“ sem notað er í flestum tungumálum um „tónlist“ er grískt að uppruna og hefur víðari og dýpri merkingu en íslenska orðið, það sem það er dregið af orðinu „musa“ sem merkir listagyðja, og vísar því óbeint til fleiri listgreina, auk þess sem Mnemosyne, gyðja minnisins, var jafnframt móðir listagyðjanna. Bein þýðing á „musica“ sem tónlist getur því í vissum tilfellum (eins og hér) verið takmarkandi eða beinlínis röng, þar sem hún strikar yfir goðsögulegan merkingarbakgrunn orðsins.

 

[ii] Orðið esecuzione hefur tvöfalda merkingu: framkvæmd og aftaka.

ÞEKKING MERKJANNA V. – Carlo Sini

CARLO SINI:

UPPNÁM MERKISINS OG DAUÐANS

 

V

VINNA DAUÐANS

 

(Síðasti hluti V. og síðasta kaflans í bókinni Il sapere dei segni – Filosofia e semiotica, útg. af Jaca Book í Milano 2012, bls. 144 – 150)

 

Heimspekileg þekking er með sínum hætti form visku eða speki. Ef þetta reynist rétt þá er friðsamleg sambúð við heiminn einn þáttur hinnar heimspekilegu venju (abito), túlkunaraðferð hennar. Samkvæmt fornum málshætti mætti segja að hin heimspekilega túlkun hlæi hvorki né gráti, heldur skilji. Þetta felur ekki í sér hátterni hreins afskiptaleysis. Hins vegar felur það í sér iðkun meðvitundar sem ég myndi skilgreina með þessum orðum: meðvitund um algjöra samfellu og samstillingu sannleika og villu í iðkun ímyndar hennar og í sérhverri ímynd (figura). En þessi meðvitund er hins vegar ekki annað en réttur skilningur á merkinu eða öllu heldur hinu merkingarlega sambandi, það er að segja þeirri eðlislægu grundvallarvísun hins „symballico“ sem í merkinu er fólgin[i] . Hvernig verður merkið til? Hvernig stendur jafnframt á því að í raun er ekki um merki að ræða, heldur merkingartengsl (relazioni segniche) þar sem eitthvað vísar í eitthvað annað að hætti túlkandans. Ættum við þá ekki frekar að spyrja: hvernig verður túlkandinn til? Hvernig mætir (attende) túlkandinn heiminum og hvernig skilur hann (intende) heiminn? Hvernig komum við í heiminn og hvernig upplifum við hann? Eða einnig, hvernig skynjum við heiminn í skynjanlegum „gæðum“ hans eða hvernig gerir heimurinn vart við sig í okkur, þar sem hann gerir okkur að skynjandi frumlagsveru?

Við höfum rakið ýmsar og ólíkar slóðir merkjanna, og kynnst ýmsum ævintýrum þeirra. Nú vitum við að ekki er um einfalt og beint svar að ræða við spurningum okkar. Sérhvert svar verður umfram allt sjálfsævisögulegt: Það lýsir frekar þeim lífs-ímyndum sem spyrjast fyrir en umboðinu til að veita svör. Svarið sýnir okkur ættfræðilegan uppruna spurningarinnar en ekki „hlutlæga“ niðurstöðu spyrjandans. Þessi meðtekni skilningur er einmitt hin „heimspekilega reynsla“, virkjun heimspekiiðkandans og hinna sérstöku starfshátta hans. Hann kennir okkur að forsenda sérhverrar spurningar og sérhvers svars er að þau séu fyrirfram fast skorðuð í tiltekinni ímynd heimsins, í tiltekinni venju (abito)[ii] hins tiltekna heims, innan tiltekinna lífshátta, næstum þannig að segja mætti: segðu mér spurningu þína og ég skal segja þér hver þú ert. Svörin segja okkur frá þessum spurningarvenjum sem gera um leið visst fjarlægðarafstæði mögulegt -og þar með tiltekna „þekkingu“ – gagnvart þeim hlutum sem spurningin beinist að.

Sérhver túlkunarvenja syngur og segir frá þeim heimi sem á upptök í atburði sínum á forsendum þess sjónarhorns miðjufjarvíddarinnar (prospettiva) sem einkenna hana. Í þeim skilningi getum við sagt að venjan (l‘abito) hafi „innritað“ í sjálfa sig takt eigin endurkomu og þau endurkynni sem sá taktur felur í sér: Þar sem formin koma fram („hér koma þau aftur!“) í samfelldri endurtekningu með tilbrigðum og ummyndunum.

Við gætum orðað það þannig að sá ávinningur sem túlkandinn öðlast með þekkingunni glatist samtímis í verunni, því hann fjarlægist hana óhjákvæmilega. Sá uppruni sem er endurheimtur í nýju endurvörpuðu formi sínu sekkur stöðugt dýpra í ómælanlega og óhöndlanlega fjarlægð. Hver eða hvað var „forfaðirinn“? Að láta hann fæðast í spurningu okkar, sem erum þegar „fædd“, felur í sér að fela hann óminninu á vald, það er að segja endurminningu hins ómögulega. Ómöguleika þess að höndla „forföðurinn“ í nærveru þeirrar einföldu veru sem er hér og nú. Forfaðirinn hverfur í djúpið, hann hafði frá upphafi látið sig hverfa til þess að gera endurkomu sína mögulega sem „forfaðir“.

Í fjarlægð merkisins blikar tómið sem stöðugt er „ímyndað“ í atburði heimsins. Í glufu merkisins og á þröskuldi þess skelfur heimurinn eins og endurómandi bergmál; þetta bergmál sem myndar útlínur ímyndarinnar í „áru“ hennar, á sviði hennar og í inntaki hennar. Heimurinn notfærir sér eftirlíkinguna og enn frekar samstillinguna (la sintonizzazione) í því skyni að endurtaka hið sama í gegnum mismun – og opnar þannig fyrir samræðu heimsins. Heimurinn gefur mismun sínum form í ímyndinni og endurómandi áru hennar. Í rými andartaksins og á útlínu hins lóðrétta heljarþreps er staður merkisins, einmitt þar sem merkið á heima, þar sem fjarlægð merkisins er til staðar og tilkall þess til framtíðarinnar[iii]. Ef okkur tekst að hugsa þá heildarmynd sem þessi tjáning vísar til er augljóst að það er heimurinn sjálfur sem á endanum er hinn raunverulegi túlkandi. Hann er hvortveggja í senn jarðvegurinn (sem Peirce kallaði Ground) og hin efnislega undirstaða allra efnisþátta sem ímyndirnar holdgerast í, um leið og þær ummyndast í merki. Grunnurinn er undirstaða alls afstæðis merkjanna sem leysast upp á ferð sinni í gegnum hann, hann er afgrunnur túlkunarinnar sem gerir venjuna (abito) mögulega og færir okkur þá óstöðvandi óvissu sem fólgin er í tilvísun merkisins. Í þessum skilningi er fyrsti túlkandi okkar hin villuráfandi pláneta, hið kvika líf þeirrar jarðar sem er gerð úr „efni hlutanna“.

Sá atburður heimsins sem við sjáum hér sem hinn fyrsta túlkanda er alltaf þegar orðinn: hann er forfaðirinn sem hefur þegar skilið eftir sig „þarna“. „þarnað“ sem opnar fyrir svarið. Í þessum skilningi er atburður heimsins í heild sinni einnig heimurinn sem ófrávíkjanleg hlutlægni: hlutlægni þess sem er endanlega orðið og þess sem endanlega gerist (perennemente accaduto-accadente). Hér liggja rætur þess „einhvers sameiginlega“ sem gera líkindin lík, merkið og viðfang þess, þannig að hið fyrrnefnda geti orðið að helgimynd (icona) eða ímynd (figura) hins síðarnefnda í svari þriðja aðila. Þetta svar gengur út frá helgimyndinni sem merkingu og staðfestir þannig eininguna í mismuninum. Þar með höfum við þegar leyst eða uppleyst leyndardóm merkisins eða þess sem barnið og móðirin eiga sameiginlegt og gerir þeim kleift að skilja hvort annað, og síðan okkur öllum hinum.

Heimurinn er okkur sameiginlegur frá upphafi og líka þessi jörð sem „nærir okkur og stýrir“. Hún er okkur sameiginleg í sinni endanlegu ímynd, í ímyndaðri og merktri mynd sinni eins og staður holdgerðrar undirstöðu sem líður (transita) og lætur okkur líða hjá (ci transita) eins og ímyndir merkjanlegra og virkra afstæðna. Heimurinn er þannig hinn endanlegi túlkandi og hin endanlega undirstaða, augljóslega ekki sem „hlutur“ eða „form“ eða „venja“ (abito) (með öllum sínum tilfinningum og röksemdum), heldur sem samfelld framvinda (transitorietà) ekki-viðvarandi (impermanente) atburðar. Það er þannig sem hann dregur útlínur þröskuldsins eða mörk skjálftasvæðis síns, útlínur áru sinnar og enduróms. Við gætum tekið undir með Schneider og sagt að við værum holdgerðar og tímabundnar tambúrínur heimsins: tambúrínur gerðar úr titrandi og sveiflukenndri húð heimsins.

Í sinni mynd og með sínum hætti (eins og við munum hann) sagði Ágústínus að hann væri gerður úr húð Krists, þess sem á ögurstund krossins lærir biturðina sem felst í fjarveru föðurins, sem er um leið þögn forföðurins. En sú tambúrína sem er Kristur titrar í takti mögulegrar upprisu og frelsunar frá hinu illa.

Hinn heimspekilegi túlkandi leitar ekki sérstaklega til þekkingarinnar á hlutum heimsins eða hinum sérstöku viðföngum merkjanna þegar hann leggur atburðinn við viðfang sitt eins og sérstakan enduróm leitarinnar að sannleikanum (eða viljans til sannleika, eins og Nietzsche orðaði það). Leit hans beinist öllu frekar að tilurð ímynda helgimyndasmíðanna, þessara ímynda er gera merkingartengsl merkisins og iðkun þekkingarinnar á heiminum möguleg. Áhugasvið hinnar heimspekilegu iðkunar hefur með ættfræði að gera (genealoga) en ekki þekkingarfræði (gnoseologia): það að skilja og sýna fram á úr hvers konar iðju þær ímyndir heimsins sem við umgöngumst eru sprottnar. Svo haldið sé áfram með fyrrnefnt dæmi: ekki hinn hlutlægi sannleikur um líf Krists, heldur vegurinn sem hann var og hvað það var sem gerði hann mögulegan. Í þessum sama skilningi beinist iðkun heimspekinnar umfram allt að ímynd og venjum (abito) iðkenda heimspekinnar og að gera þær að fyrsta viðfangi ættfærslunnar. Við leggjum stund á uppeldis- og kennslufræðilega áætlun í því skyni að aðlaga venjur (abito) heimspekiiðkunarinnar að tilfallandi titringi heimsins og samfelldum takti innsláttar og útsláttar hans (sistole e diastole). Í þessum skilningi er iðkun heimspekinnar með sínum hætti „tónlistarlegs“ eðlis, þar sem hún samsvarar heiminum í gegnum kontrapunkt með andsvörum sínum.

Ólíkt þeim venjum (abito) sem gilda um þekkinguna innan hinna sérhæfðu greina visindanna, þá sýnir heimspekihefðin önnur frávik. Eins og við höfum sagt þá beinist hún að því að samstilla hinn túlkandi heimspeking við takt heimsins. Hún stefnir hins vegar ekki að framkvæmd þessarar samstillingar í gegnum endurtekningu á titringi heimsins í eigin lifandi líkama (Leib). Slík samstilling er öllu heldur fólgin í hugleiðslunni: sá sem hugleiðir staðsetur sig á lóðréttri brún atburðar heimsins og samræmir hann andardrætti sínum. Með þessari aðferð gerist endurtekningin ekki í tvöfölduðum líkama eða eftirgerðum líkama. Það er aðferð hinnar listrænu iðkunar. Við gætum fundið þessa tvo þætti hugleiðslu og heimspeki samtvinnaða í fornöldinni, þar sem helgiathöfnin og iðkun fórnarathafnarinnar voru um leið eins konar taktviss list (eins og enn á sér stað í leikhúshefð Austurlanda og að hluta til einnig í málaralist þeirra). Iðkun heimspekinnar á ekkert skylt við helgiathöfnina eða goðsögnina eða listina eða dómsmálin (ítalska orðið rito (=helgiathöfn) og diritto (=lagaréttur) eru samstofna) jafnvel þótt hún geti átt tilfallandi snertifleti með öðrum greinum og gert þær að sínum, nokkuð sem á reyndar við um allar greinar þekkingarinnar sem hafa gengið í gegnum sín sögulegu umbreytingarskeið og samkrull. Til dæmis má segja um vestrænar bókmenntir að þær hafi stundum tekið á sig heimspekilega mynd og hugtakanotkun. Ólíkt heimspekinni mættu þau fordæmi sem þannig hafa átt sér stað skilgreinast sem form eftirlíkingar: eftirlíkingarinnar á takti heimsins í líkamanum og andsvari hlutanna. Eins og sjá má, þá höfðu fornaldarmennirnir og þá sérstaklega Platon fulla ástæðu til að halda því fram að listin væri „eftirlíking“, nokkuð sem hefur vakið andmæli meðal módernistanna – sem aftur hafa rangt fyrir sér í að tala niðrandi um mimesis. Við höfum horft á eftirlíkinguna í verki þar sem til verða virk og gagnkvæm samskipti á milli móður og nýbura og í þeirri flóknu iðkun merkjamáls sem tíðkast meðal hinna heynarlausu. Hinn heimspekilegi túlkandi er einnig samstíga takti heimsins, en hann gerir það í ímynd (figura) kenningarinnar (theoria)[iv], í iðkun hennar sem ritlist. Ritlist, sem Platon sagði að þyrfti að sýna sig, umfram allt og áður en til skriftarinnar kæmi, sem ergois te kai logois – í verki og í talmálinu. Það er hér sem dyggðin, hin heimspekilega arete, þarf að framkvæma sína frumraun í verki, ósnortin af allri hjátrú og eftir því sem hægt er af ónauðsynlegum þekkingarvísunum eða bókmenntalegum og fagurfræðilegum útúrdúrum.

Hin heimspekilega teoria er í raun og veru hystoria: episteme hystorike, sagði Platon í Sófistanum. Teoría sem „myndlýsing á tilurð og verðandi heimsins. (Wittgenstein segir í Tractatus að heimspekilegar yrðingar séu myndlýsingar), og að frásögn hennar sé safnað í sögu“. Sjálfsævisöguleg frásögn um lögmálin og frumorsakirnar (sagði Aristóteles) er dregin af almennri reynslu stafrófs-skriftarinnar, merkingu hennar og altæku („hugtakslegu“) gildi hennar. Þannig menntar iðkun heimspekinnar alla menn (soggetto universale) en um leið þjálfar hún tiltekið vitni, Vistor, (V)ystoria og latneska orðið video skýrir sig sjálft.[v] Í þessu samhengi talaði Husserl um heimspekinginn sem „verkþjón mannkynsins“ er stendur vörð um og tryggir algilda mælikvarða og gildi. Þau eru hugtakaleg „sérsvið“ hans og „sérkenni“  sem algild (assoluti) – .ef við skilgreinum án skuldbindingar – en þau eru jafnframt hjátrú hans.  Þessi frásögn sem byggir af nauðsyn á rökfræðilegri klifun (tautologia) hins hugtaksbundna logos er algjörlega sjálfráð eins og margoft hefur verið tekið fram, allt frá Aristótelesi til Hegels. Hún er óháð og hefur enga þörf fyrir goðsögur, fórnarathafnir eða opinberanir, hún reiðir sig hvorki á þær né boðar. Þvert á móti dregur hún upp sýn og ferli „alheimssögunnar“ í skilningi heimsborgarans. Lítum bara til nútímalegra höfunda eins og Voltaires, Kants og Schillers; Fichte, Hegels og Marx; Husserls og Heideggers, og langt á undan þeim til Vico.

Sagnfesting“ atburðar heimsins fellur eðlilega saman við altæka „afhelgun“ („profanazione“ universale). Örlagasaga Vesturlanda sem við gátum með innsæi séð hefjast með áformum Alexanders mikla er snérust um landvinninga Austursins örlagasagan sem átti sitt framhald og með hinni fullkomnu endurtekningu þessara áforma sem við sjáum í viðamesta verkefni sem mannkynssagan þekkir eða man eftir (verkefni sem í það minnsta fram á okkar dag er í táknrænum skilningi glæstara en lendingin á tunglinu): verkefni Kólumbusar. Einnig hann reyndi að finna Austrið, og í þessari ímynd Austursins, sjálfan upprunann, en með því að fara að endimörkum Vestursins þar sem örlögin buðu honum að mæta hinni endanlegu merkingu þess nútíma sem við erum enn stödd í. Að ganga til botns í hinni „evrópsku tómhyggju“ til þess að færa sönnur á merkingu og örlög vestrænnar siðmenningar, heimspeki hennar, trúarbragða hennar og vísinda eins og Husserl hafði fullkomlega séð fyrir í Krisis. Þannig endurtaka örlögin sig í „endanlegri“ ímynd Vesturlanda, ímynd sem holdgerist í því sem Heidegger kallaði „ameríkanismann“ og „hið tröllaukna“ og við sjáum sem núverandi mótvægi gegn Indlandi og Kína. Þjóðernið sem Husserl talaði þegar um sem mögulega spegilmynd hins mannfræðilega sannleika okkar. Það er staðreynd að einmitt í þann mund sem ég skrifa þessi orð færir heimspressan okkur þær upplýsingar að Kína sé í þann veginn að stíga fram úr Bandaríkjunum og Japan í efnahagslegu tilliti og taki sér nú stöðu sem ný þungamiðja heimsins, ekki síst í pólitískum skilningi: keisararnir snúa aftur.

Ef við stöldrum við þessa mynd, sem vissulega er of gróflega dregin, þá getum við engu að síður komið auga á það í botni örlaga Vestursins hvernig hið yfirlýsta sjálfræði og sjálfstæði hinnar heimspekilegu orðræðu hverfur í svelginn: einnig hún sekkur til botns, eignast sitt sólsetur og hverfur inn í sjálfa sig, ekki til að láta sig hverfa, heldur öllu frekar til að mæta enn einni ummyndun hins „sögulega“ anda hennar, hins sögulega þekkingargrunns hennar (episteme hystorike). Nietzsche hafði fullkomlega séð þetta fyrir. Einmitt hann sem í seinni Inattuale (Unzeitgemäße Betrachtungen) hafði sett fram róttækustu andmælin gegn sögunni, vísindunum og hinum sögulega anda; í Hin glöðu vísindi, orðskviðu nr 337 sem ber hina merkingarþrungnu yfirskrift „Mannkyn framtíðarinnar“ lætur hann í ljós þá sömu tilfinningu sem Whitehead hafði beint gegn efahyggju Hume. Það var tilfinning „sögulegs anda“ sem Nietzsche segir að „við í nútímanum höfum tekið að skapa, hlekk fyrir hlekk, níðþunga keðju sem leggst með síauknum þunga á framtíðina […] Þessi guðdómlega tilfinning mun þá kallast – mannkyn“. Hin róttæka söguhyggja varð þannig í þessari mynd sú tilfinning er leggst í friðsemd (án þess að gera sér grein fyrir hvað hún er að gera, segir Nietzsche) yfir ímyndir okkar um opinberun heimsins, handan allrar andspyrnu eða fyrirfram meðvitaðrar eyðleggingar. Það eru venjur túlkunariðjunnar, gæði sem eru sprottin úr afstæði merkjanna og bera hvert um sig vitni um atburð sannleikans í þeirri auðugu verðandi sem fólgin er í merkingarlegri villu merkisins.

Handan allra átaka ímynda andans heldur heimspekin uppi samræðum þeirra í mismuninum (ekki í þeim yfirborðskennda ruglingi sem nú er algengur) vegna þess að tónlist alheimsins kallar á öðruvísi áslátt, aðra hljóðfæraskipan og margröddun við hæfi.

Í anda myndlíkingarinnar (en líka í raunsæislegum skilningi) felur þetta í sér að í stað þess yfirvarps að ætla sér að leggja undir sig Austrið sé ráðist í tilraun til brúarsmíðar á milli Austurs og Vesturs. Þetta felur jafnframt í sér að hverfa frá þeirri brjáluðu áætlun að sundurgreina upprunann og endurheimta hann – nokkuð sem gjörvallur leiðangur okkar um heim merkjanna hefur leitt í ljós og undirstrikað. Það merkir að losa sig undan þeirri forfeðrasturlun sem við höfum fundið í Gige og Ödipusi[vi], undan þeim oflátungsfullu áætlunum þeirra að ná valdi yfir lífinu og dauðanum, jafnvel þó það kostaði ofbeldi og blóðskömm. Það er einmitt í þessum myndum sem við getum lesið þá yfirvofandi hættu sem við búum við. Viljinn til að gerast herrar og yfirboðar örlaganna í gegnum nauðgunina á náttúrunni og í gegnum hina „raunsæislegu“ hjátrú sem Husserl talaði um, því einmitt þetta er okkar bókstafstrú. Afsal þessara áforma felur kannski í sér að hverfa frá hinni sígildu hugmynd um „Alheimssöguna“ (Storia universale) til þess sem mætti kalla „hnattræn saga“ (storia globale) er myndi jafnframt kalla á að Austrið léti af sinni bókstafstrú. Slíkt getur hins vegar ekki gerst nema Austrið sjálft vakni til vitundar, að þeir sjálfir boði slíkt afsal í orði og verki.

Með þessum „viðmótsþýða“ hætti ítrekar heimspekin þekkingu sína á merkinu, ekki bara merkingarfræði sem vísindin um merkin, eða sem „rökfræði“ eins og Peirce komst að orði og Wittgenstein tók upp eftir honum, heldur fyrst og fremst sem þekking ímyndanna (figura) og viðbúnaður til að láta atburðinn gerast (orðalag sem hefði þóknast Heidegger) með því að endurframkalla jafn óðum tóm sitt og í tómi sínu. Þannig erum við leidd að grundvallarspurningu þekkingarinnar og grundvallarþekkingu hennar sjálfrar. Við erum með öðrum orðum að segja að við verðum að láta dauðann framkvæma sína vinnu, því það er endanlega í þessari vinna útþurrkunar og eyðingar sem merkin verða til. Það er einmitt dauðinn sem er hinn virki og sanni skapandi[vii] þeirra. Merkið er ekkert annað en „leifar“ með þeirri áru sem umlykur líkama þess, þar sem hann er merktur af gegnumstreymi lífsins (transito della vita), þetta og ekkert annað gerir merkið „merkingarbært“.

Við komumst þá til botns í leyndardómi merkingarfræðinnar (semiotica) og að kjarnanum í sambandi hennar við heimspekina: semiotica og heimspeki. Heimspekin mætir hér ímynd sinnar ítrustu þekkingar: Meditatio mortis (=Hugleiðslan um dauðann) eins og spekingar fornaldarinnar komust að orði. En heimspekin snýr baki við viðleitninni til að yfirstíga dauðann og öðlast vald yfir hinu eilífa lífi. Öllu heldur beinir hún athygli sinni að þeim skilningi sem kennir að dauði og eilíft líf, sannleikur og villa, eru í augum mannsins einn og sami atburðurinn, sami þröskuldurinn og sama reynslan.

Eðli merkisins er reyndar til vitnis um þetta. Leifar, vegsummerki, merktir líkamar eru í sjálfum sér eftirmyndir dauðans, bæld eða kæfð rödd, vox clamans in deserto (=rödd hrópandans í eyðimörkinni). Merkin eru vísbendingin um þennan dauða, þann sama dauða sem barnið er falið á vald við fæðingu sína, því vissulega mun það deyja ef enginn svarar því, ef heimurinn bregst ekki við fæðingarópinu, en það mun líka deyja þótt heimurinn svari því, því einmitt svarið mun leiða það til vitundar um sína dauðlegu veru. Að vera falinn dauðanum og umsjón hans á sérhverju augnabliki, verandi áleiðis með hverju Tikki hjartans.

Það breytir því ekki að ummerkin, leifarnar, sporin, hinir merktu líkamar eru einnig tilefni þeirrar minningar sem heitir á ítölsku ri-cor-do, sem túlka má sem endurfærslu til hjartans (cuore), til hins reglubundna upprunalega taktsláttar þess, einmitt í gegnum reynslu óminnisins og gleymskunnar, það er að segja í gegnum hið merkingarþrungna afl fjarlægðarinnar. Sú upplausn sem skilur eftir sig og gefur frá sér ummerki og leifar skapar skilyrðin fyrir endurgerð ímyndarinnar (figura): ímyndir lífsins sem varðveita áru sína er dregur allt að sér í hringiðuna. Þar með er gönguferð okkar lokið í endurfundum formsins, í endurminningunni sem er frásögn og söngur lífsins: það sem opnast í aðskilnaðnum og endurvaknar í eyðingunni. Þessi skilningur er þannig hin djúpa tónlist heimspekinnar, lífstaktur hennar og möguleg ummyndun.

[i] Sbr. C. Sini: „Il symbolon“ birt í „I segni dell‘anima. Saggio sull‘immagine“, útg. Laterza, Róm og Bari 1989, bls. 163-172). (Orðið „symballico“ er dregið af gríska orðinu symballein sem merkir að tengja saman tvo skylda en ólíka hluti þannig að þeir myndi eina heild. Innsk. Þýð.)

[ii] Sini notar víðar í þessum kafla orðið „abito“ sem merkir ekki bara venja, siður eða háttsemi, heldur er algengasta merking orðsins „alklæðnaður“ eða „kjóll“, og tengist þannig grímu-hugtakinu. Með því að nota hugtakið abito vísar Sini til venjunnar sem „grímu“ í skilningi Nietzsche. Við setjum okkur venju með sama hætti og við íklæðumst fatnaði í formi grímunnar.

[iii] Hér grípur Sini til orðaleikja sem eru óþýðanlegir: „Nella figura e nella sua aura risonante il mondo modula la sua differenza: nello spazio di un attimo e nella verticalità del profilo di una soglia: appunto là dove è di stanza un segno, o dove è di stanza la distanza del segno e la sua istanza di futuro.“ Í daglegu tali merkir „stanza“ herbergi eða rými. „Distanza“ merkir þá fjarlægð og „istanza“ merkir áskorun, beiðni eða tilmæli. Öll þessi orð virðast hafa sameiginlegan stofn.

[iv] Sini notar hér orðið „theoria“ þar sem hinn rétta ítalska orðmynd er teoria án h. Orðmyndin „theoria“ vísar til gríska orðstofnsins „theos“ sem tengir teoríu við guðdóminn.

[v] Latneska orðið video merkir “ég sé“. (V)ystoria merkir þá sjónarvottur sögunnar. Innsk. Þýð.)

[vi] Gige og Ödipus eru persónur úr grískri goðafræði sem misnota vald sitt: Gige fann töfrastafinn sem gerði honum kleift að leggjast með drottningu konungsins af Lidiu, drepa konunginn og hrifsa völdin. Ödipus drap föður sinn, konung Þrakíu, giftist móður sinni og var í senn faðir og bróðir barna þeirra.

[vii] Ef til vill er rétt að minna hér á að „dauðinn“ er kvenkynsorð á ítölsku, „la morte“ og sem tortímandi og skapandi vera er hann kvenvera.

ÞEKKING MERKJANNA II – Carlo Sini

CARLO SINI:

UPPNÁM MERKISINS OG DAUÐANS

(L‘inquietudine del segno e la morte)

II.

HVAÐ ÞEKKIR ÞEKKINGIN?

(Che cosa sa il sapere?)

(Kafli úr „Il sapere dei segni“ bls. 129-134)

 

Vitneskja og þekking (conoscienza e sapere) eru tengslafyrirbæri og því afstæð. Sá sem hallast að því að gagnrýna þessa fullyrðingu með því að gefa þeim neikvæðan stimpil sem „afstæðishyggju“ hefur ekki skilið hvað er vitneskja og hvað er þekking, en fyrst og fremst hefur hann ekki skilið það sem hann segir. „Afstæðið“ er ekki gallamerki á þekkingunni, eitthvað sem ætti að vekja með okkur ófullnægju, heldur er það hið rétta eðli hennar eða tilveruskilyrði hennar. Að þekkja merkir að setja upp merkjanlegar afstæður, merkja eitthvað með einhverju öðru, og opna þannig svið mismunar og fjarlægðar sem þekkingin byggir á, svið þar sem hún getur raungert sig. Það er ferli sem eðli sínu samkvæmt leiðir ávallt til nýrrar opnunar og aldrei til útilokunar. Að ímynda sér, láta sem eða láta sig dreyma um, að tiltekið merki falli algjörlega saman við hinn merkta hlut, felur í sér upplausn hvors tveggja: hlutarins og merkis hans. Við hefðum ekki lengur neina merkingu, neinn sannleika og neina reynslu. Við hefðum engan tilgang og ekkert virkt líf undir merki sannleikans og hinnar endalausu framkvæmdar hans, það er að segja enga núveru, fortíð og framtíð. Þekkingin getur einungis öðlast visku sína sem tilfallandi holdgerving sannleikans sem atburður. Að því marki sem hann skilgreinir sig og afmarkar, að því marki sem hann sýnir ummerki sín undir merki örlaganna (Peirce hefði sagt: örlagabundinn sannleikur).

En hvað „veit“ þekkingin? Með þessari spurningu opnum við svið mannfræðilegrar grundvallarþekkingar, það er að segja það svið sem allir þekkja, það svið sem gerir okkur að því sem við erum einungis í gegnum þekkinguna: mannlegar verur, það er að segja „dauðlegar“ verur.

Við höfum minnst á hvernig þessi þekking verður til í gegnum mátt orðsins. Það er í gegnum stöðu sína sem talandi dýr sem maðurinn verður einnig hinn dauðlegi: dýrið sem veit að það mun deyja, sem stendur andspænis dauðanum og hefur hann innra með sér.

Það er fyrir tilverknað nafngiftarinnar sem maðurinn sér muninn á líkinu og nafninu og endursér í líkinu mynd dauðans. Aðeins hann sér fyrir sér „leifar“ dauðans, leifar sem gefa honum einkenni „hagstjórnarlegs“ dýrs, leifar sem hann hefur frá ómunatíð sýnt mikla umhyggju, í gegnum greftrunarsiði og jarðafarir sem eru óþekktar í dýraríkinu. Vitundin um dauðann er þannig afleiðing þessarar fjarlægðar sem hefur verið nefnd og meðvituð og þar með gerð möguleg með tilkomu tungumálsins, hljómfalli þess og takts sem tengir nærveruna við fjarveruna.

Þegar maðurinn gengur undir merki tungumálsins yfirgefur hann um leið „hið eilífa líf“ dýranna: líf sem er ósnert af „þekkingu“ sem hefur verið mótuð undir merkjum þess sem var og þess sem kemur á eftir. Með þeirri vitneskju um dauðann sem tungumálið hefur opnað fyrir manninum gengur hann inn í svið tímans, verður sonur tímans sem frumforsenda og inntak allrar þekkingar. Þannig „öðlast“ maðurinn tíma: afmarkað lífsrými umlukið eigin afneitun, því hin hreina vera er tímalaus, hún einfaldlega „er“ og er því í þessum skilningi eilíft líf. Hið eilífa líf dýrsins og Guðs, en í hugmyndaheimi frummannanna var þetta náskylt eða eitt og hið sama.

„Að vera eða vera ekki? Það er vandinn…“ sagði Hamlet Hann sagði þessi orð þar sem hann hugleiddi hauskúpu sem nýkominn var úr gröf sinni. Maðurinn getur ekki hlaupist undan spurningunni, því vera hans er frá byrjun glötuð í dauðanum, sem er hvort tveggja í senn, þekking hans, það er að segja hinn sérstaki „kostur“ hans að vera dauðlegur.

Ef við lítum til þessarar þekkingar sjáum við samstundis það þversagnarkennda sem í henni felst. Þversagnirnar sem vekja óvissu og ótta hjá Hamlet, sem liggur undir ofsóknum afturgöngu föður síns og minninganna um hann. Hvort tveggja í senn kross hans og örlagavaldur. Við getum sagt að engin þekking sé öruggari en þessi, enginn vitnisburður algildari: hún varðar alla á öllum tímum og við allar aðstæður. Einmitt þess vegna varðar hún einnig mig. Engin þekking er jafn sjálfsæfisöguleg, því hún snýst beinlínis um mig, jafnvel þó hverjum og einum reynist það erfitt að ímynda sér og trúa því í raun og veru að við skulum vita fyrir fram um eigin dauða.

En hvað um það, þrátt fyrir óafturkræfa nauðsyn og óhjákvæmileik þá getum við ekki fullyrt að þessi sannleikur sé „algildur“. Í raun og veru er hann afstæður, afstæður gagnvart þekkingu hins „sagða“. Þannig verður þessi meinti sannleikur og forgangsvissa að flatus vocis („vindur raddarinnar“) eða „for-sögn“ (pro-fesia). Tilgáta um framtíðina er kallar nauðsynlega á forsagnarlegan vitnisburð sem málsins vegna er ekki til staðar. Frægt er tilsvar Heideggers: „Sem stendur ekki núna en engu að síður hvenær sem er“. Tilsvarið varðaði dauðann og virðist tjá óumdeilanlegan sannleika. Dauðinn getur hrifsað okkur á hvaða augnabliki sem er, fullkomlega án tillits til áforma okkar, aldurs okkar, verðleika okkar eða vansæmdar, tilfinninga annarra eða væntinga heimsins. Við vitum mætavel að þetta getur gerst á hverri stundu. Vitundin um þessi yfirþyrmandi afhroð, þessa andhverfu allrar rökvísi sem kemur eins og þruma úr heiðskýru lofti yfir meint áform okkar og breytir þeim á svipstundu í ösku, er ávöxtur almennrar samvitundar og almennrar reynslu. Hver er sá sem ekki veit þetta?

„Sem stendur ekki núna, en engu að síður hvenær sem er“: er þetta vel sagt? Með fullri virðingu fyrir Heidegger og fyrir þeirri röksemdafærslu sem lá að baki orða hans, nei, þetta var ekki vel að orði komist! Við skulum leiðrétta: sem stendur ekki ennþá og því á engu augnabliki og aldrei. Hinn sjálfsævisögulegi þáttur þessarar þekkingar um dauðann er vissulega gefinn í skyn í setningunni, en einmitt þess vegna er honum ávallt skotið á frest (differito). Þannig sjáum við að sú þekking sem virðist liggja hvað mest í augum uppi og á sér hvað tryggastan sönnunarvott og er í raun uppruni og fordæmi allrar annarrar þekkingar, liggur alls ekki í augum uppi, er ekki alethes[i]. Þannig uppgötvum við að þekkingin þekkir veruna sem ekki er einmitt vegna þess að hún er samtímis veran sem ekki veit. Að hafa sönnunargögnin í hendi sér felur einmitt í sér að taka á móti þeim. Í okkar tilfelli við iðkun tungumálsins: að taka við þeim án þess að vera þau.

Með öðrum orðum: við erum að segja að þekkingin feli í sér að hafa fjarlægð á veruna. Fjarlægð á tiltekið merki, tiltekna segð. Þekkingin hefur veruna í mynd „hins vitaða“ , en hún er ekki sú vera sem veit. Ef það væri tilfellið, ef við segðum til dæmis að þekking okkar væri munkurinn sem við ræddum um, þá myndi hún ekki vita það. Um leið verður að segja, svo allri hjátrú sé afstýrt, að eina veran sem við getum nálgast og borið skynbragð á, eina veran sem við getum í raun fjallað um, er sjálfur atburður þekkingarinnar. Atburður fjarlægðar hans frá merkinu innan okkar virka og túlkandi lífs, sem ímynd (figura) okkar virka og túlkandi lífs. Þekkingin höndlar atburðinn í formi og ímynd þess sem gerist, en er sjálf atburður. Atburður sem hugsanlega er hægt að yfirfæra á vitaða fjarlægð atburðarins en ekkert annað, einmitt á þennan atburð[ii].

Þekkingin er í eðli sínu mörkuð fjarvíddinni, og því „afstæð“. Einungis þannig geta menn vitað: að glata verunni með því að setja hana í vissa fjarlægð. Menn öðlast þekkingu einungis með því að glata verunni, en þessi inntaka þekkingar er um leið ný ímynd (figura) verunnar: vera óafvitandi um eigin getu til að eiga sér þekkingu í framtíðinni. Þannig á það við um atburð verunnar, það er að segja heiminn sem gerist, eins og við gætum sagt, þar sem heimurinn týnir sér þegar í þessari segð, í einhverri þekkingu eða ímynd mynda og orða, þessi atburður er sem sagt óhjákvæmilegur (indeclinabile). Í þessum skilningi er hann „algildur“ (assoluto), það er að segja leystur frá öllum túlkunartilraunum eða fjarlægðarímyndum. Þekkingin er einnig afstæð, hún er merking til orðin innan hins merkingarfræðilega þríhyrnings (triangolo della relazione semiotica). Þættina tvo (þekkinguna og atburðinn) er hins vegar hvergi að finna nema í samfallandi mismun þeirra og alls ekki í ímynduðum aðskildum heimum eða ólíkum veruleika eins og t.d. náttúru og anda, hérveru og handanveru og öðru sambærilegu. Atburðurinn er tilkoma þessarar fjarlægðar sem gerir vart við sig í afstæði merkjanna, alltaf með tilteknum hætti en um leið í síendurtekinni óendanlegri fjarlægðarmyndun. Fjarlægð sem er upprunalegur mismunur er opnast gagnvart svari túlkandans og hyldýpi endursýnarinnar á hann sjálfan og heiminn: hér birtist hann enn á ný, en í breytilegum ummerkjum nætur og dags, tungls og sólar, lífs og dauða. Vitundin um veruna og veran í þekkingunni sem bregða lit á hvort annað og bergmála í merkinu.

Þessi munur á því að vera og hafa er í raun hinn eiginlegi mismunur merkisins. Við höfum leitt vef hans í ljós hvað varðar hin hagstjórnarlegu hugtök eignar og lífs. Hér er það hin merkingarfræðilega spurning (questione semiotica) sem allt snýst um. Við „höfum“ eitthvað í fjarlægðinni sem merkið skapar og afmarkar, eða í gegnum hina merkjanlegu afstöðu. Það sem einfaldlega „er“, hinn hreini atburður eða hin hreina vera lífsins, er hin algjöra markleysa (indeterminatezza assoluta) eins og Hegel hefði sagt. Þessi hreini atburður verður hvorki nefndur né tilgreindur. Eitthvað sértækt og ímyndað sem ekki einu sinni orðið „vera“ nær utan um. (sem kunnugt er notaðist Heidegger við hugtakið yfirstrikað, afskrifaði það með þverstrikinu og lét það þannig birtast og hverfa í senn.) Reyndin er sú að sérhver fullyrðing er afstæð, hún tekur samtímis til verunnar og ekki-verunnar, sagði Platon í Sófistanum. Ef við viljum halda því fram að veran sé einstök, eða til sé ein og hrein vera o.s.frv., þá felur það sem við segjum þegar í sér að segja tvennu, afstæðu, merkir semsagt að andmæla sjálfum sér eins og Platon bendir á í Parmenidesi[iii]

Að leggja mat á það sem er jafngildir að þýða það yfir í merki, það er að segja að „höndla“ það í gegnum mismun sem er í fjarlægð frá verunni eða frá því sem þetta orð telur sig standa fyrir. Veran er aldrei viðfang þekkingarinnar, viðfang hennar er merking sem ákvarðast af merkjagjöf innan tiltekinnar svörunarvenju túlkandans. Þessi hringrás hvílir í sjálfri sér á merkingarlegum sjóndeildarhring sem talar um sjálfan sig en ekki um veruna. Eða þá að hann talar um veruna eingöngu út frá sjálfum sér. Ef við segjum þannig að veran sé efni, eða andi, eða hrein og klár afleiðing Miklahvells (Big Bang) eða afleiðing frjáls og skapandi verknaðar, þá erum við ekki að tala um veru í eiginlegri merkingu, heldur um hina einu mögulegu efnisgerð verunnar út frá sjóndeildarhring þess skilnings sem túlkandinn stendur fyrir. Veran getur eingöngu gerst undir merki fjarlægðar túlkandans, þar sem túlkandinn er sjálfur þegar túlkaður eins og erfingi langrar keðju túlkenda sem ekki verður séð fyrir endann á. Veran er ekki til staðar í þeirri mynd sem merkingarnar sýna hana innan afstæðna merkjanna (smættuð niður í „efni“ eða „anda“ o.s.frv.) heldur er hún til staðar sem atburður sjálfra afstæðnanna, atburður þess lifandi og túlkandi lífs sem er í túlkuninni með þeim hætti sem það túlkar. Túlkandinn getur til dæmis sagst veðja á efnið eða andann, djöfulinn eða algóðan Guð, en við höndlum ekki veru túlkandans með túlkuninni sem hann setur fram. Það er hins vegar í þessari túlkun sem hið þekkta og túlkaða og ímyndaða líf líður hjá og glatar sjálfu sér.

Endurtökum: Þekkingin felst í að höndla verunna í gegnum merkið. Nánar til tekið í gegnum þau sveigjanlegu merkingartengsl er felast í merkingunni (það sem Peirce kallaði representamen, eða hvað merkið í sjálfu sér merkir fyrir túlkandann). Það þýðir tangarhald á verunni úr fjarlægð þar sem hún er með vissum hætti glötuð í þekkingunni, af-mynduð í ímyndun sinni. Engin ímynd gæti reyndar myndgert hana jafnvel þótt atburður hennar væri fyrir okkur hvorki annars staðar né annað en myndir hans. Veran er glötuð í þekkingunni; en um leið finnum við hana alltaf aftur í þekkingunni að því marki sem þekkingin er leið endurkomunnar, leið endurkynnanna (riconoscimento), leiðin sem við köllum „hér kemur hann aftur!“

Allar þessar vangaveltur sýna okkur á endanum hvað hægt er að þekkja og hvað er skynsamlegt að þekkja. Fyrir mennina er umfram allt skynsamlegt að vita sig í þekkingunni um dauðann. Þeir sameinast um það að vera mannlegir í þessari „vitneskju“ (evidenza). En að hafa þessa vitneskju er í sjálfu sér „vera“ sem hefur dauðann inn í sér og fyrir stafni án þess nokkurn tímann að vera þar. Eins og Hegel sagði, þá er vitundin um dauðann það sértækasta og innihaldslausasta sem til er: það er einmitt þekking, en ekki vera. Með því að gefa okkur dauðann eins og „þekkingu“, færa hann þekkingunni á vald, erum við um leið að halda honum í fjarlægð. Hamlet sem hugleiðir höfuðkúpu Yoricks haldandi henni í armslengd til þess að sjá hana betur er fyllilega lifandi. Þess vegna spyr hann spurningarinnar staðsettur mitt á milli verunnar og ekki verunnar. Sem innantóm þekking léttir dauðinn á óttanum: hann skelfir stráklinginn sem er í okkur, sagði Platon. Merkingarleysi hans er með einhverjum hætti óþolandi, og því þurfum við stöðugt að fylla hann og breiða yfir hann með einhverjum tilgátum, röksemdafærslum eða sögusögnum, ímyndunum eða myndum. Þetta hafði Heidegger skilið mætavel.

Þekking og dauði geta reyndar ekki farið saman né heldur þekking og eilíft líf. Hins vegar eru „dauði“, „líf“ og „eilíft líf“ þegar til staðar sem ímyndir þekkingarinnar, þekkingar hinna dauðlegu, ímyndir sem eru þegar í fjarlægð frá því sem þær vildu merkja: þessum atburði, þessari veru sem að því leyti sem hún veitir þekkingu er óþekkjanleg og verður aldrei staðfest í þekkingu.

[i] Alethes er gríska orðið yfir sannleika og merkir það sem er gert sýnilegt: a er neikvætt forskeyti og lethe merkir gleymska, leynd eða felur. Sannleikur er þá samkvæmt grískum skilningi það að svipta hulunni af einhverju. Innsk. Þýð.

[ii] Hér er enn einu sinni endurtekin röksemdafærslan frá hjartslættinum. Atburður TOC er ennþá TOC, hann segir okkur ekkert annað en þennan atburð sem beinist óendanlega að takörkunum, „takmörkum ímyndarinnar (figura)“. Upphafsþema vegferðar okkar finnur hér sinn „endanlega“ sannleika.

[iii] Þema mótsagnarinnar er grundvallaratriðið í skrifum Vincenzo Vitiello. Sjá t.d. Non dividere si dal no. Tra filosofia e letteratura, Roma, Bari 1996.

HEIMSPEKINGUR HUGLEIÐIR KERTALJÓS – Gaston Bachelard

Fyrir nokkrum árum varð ég upptendraður af skrifum franska heimspekingsins Gaston Bachelards (1884-1962) um táknmál og sálfræði efnisheimsins. Í kjölfarið bjó ég til nokkur námskeið og fyrirlestra fyrir Listaháskóla Íslands og Endurmenntun HÍ sem báru heiti höfuðskepnanna, „Jörð vatn loft og eldur“. Meðal námsefnis þessara námskeiða voru nokkrir kaflar sem ég þýddi úr verkum Gastons Bachelards. Hér er eitt þessara textabrota, fyrsti kaflinn úr meistaraverki hans um eldinn: La flamme d’une chandelle, sem var eitt af því síðasta sem hann skrifaði. Bachelard var menntaður í sögu vísindanna en mörg frægustu verka hans eru á sviði bókmenntagagnrýni og sálgreiningar þar sem vitund dagdraumanna og virkni mannshugans gegna lykilhlutverki eins og fram kemur í þessum texta. 

Þessi þýðing er gerð eftir ítalskri útáfu frá Milano 1966. Textinn gefur innsýn í skilning Bachelards á hugtakinu „rệverie“, sem gegnir lykilhlutverki í bókmenntarýni hans, og mætti hugsanlega kalla „draumaheim“ á íslensku eða „heim dagdraumanna og ímyndunaraflsins“, en það er það ástand þegar vitund mannsins yfirgefur þær þröngu forsendur sem henni eru settar í reynsluheimi hversdagsins og gefur sig á vald ímyndunaraflsins og draumsins, „rệve„, verandi engu að síður með fullri vökuvitund. Þannig er „rệverie“ Bachelards vitundarástand sem er mitt á milli svefns og vöku og einkennist af miklu frelsi hugans. Slíkt hugarástand er að hans mati ekki síður marktækt fyrir þekkingu mansinns á heiminum en sú aðferð sem þekkingarfræði vísindahyggjunnar býður uppá. 

Þýðingin var gerð 2009.

Heimspekingur hugleiðir kertaljós

eftir Gaston Bachelard

I.

Einu sinni, á tímum sem jafnvel draumarnir hafa gleymt, gat loginn á einu kerti komið hinum vitru til að hugleiða; hann gat orðið hinum einmana heimspekingi uppspretta endalausra drauma.

Við hlið hlutanna á skrifborði hans, sem voru fangar forms síns, við hliðina á bókunum sem veittu seinvirka leiðsögn, gat kertaloginn vakið upp endalausar hugsanir og kallað fram takmarkalausar myndir. Fyrir mann sem gaf sig á vald draumheimanna var kertaloginn á þeim tíma fyrirbæri heimsins. Menn lögðu sig fram um að læra um byggingu heimsins af þykkum doðröntum, en svo var það örlítill logi – ó, skoplega þekking! – sem tendraði gátuna ljóslifandi fyrir honum.

Lifir allur heimurinn kannski ekki í einum kertaloga? Og á login sér ekki líf? Er hann kannski ekki hið sýnilega merki nákominnar veru, merki um leynilegan mátt? Hefur þessi logi kannski ekki til að bera allar þær innri þverstæður sem veita grundvallarforsendum allrar frumspeki sprengikraft sinn? Til hvers að leita að díalektík hugmyndanna þegar hægt er að finna í hjarta svo einfalds fyrirbæris alla díalektík staðreyndanna og alla díalektík fyrirbæranna? Loginn er fyrirbæri án efnismassa, en engu að síður er hann sterk vera.

Ef við mögnum upp þær myndir sem sameina lífið og logann vaknar sú spurning, hvaða svið myndlíkinga við ættum að rannsaka til þess að geta skrifað „sálfræði“ loganna og um leið „eðlisfræði“ lífsloganna! Myndlíkingar? Á þeim tímum ævafornrar þekkingar þar sem loginn kom hinum vitru til að hugsa voru myndlíkingar sama og hugsanir.

II

En jafnvel þó viska hinna fornu bóka sé dauð, þá lifir áhuginn á heimi dagdraumanna (rêverie) enn. Í þessu litla kveri ætlum við að reyna að þýða allar heimildir okkar, hvort sem þær berast okkur úr fórum heimspekinganna eða skáldanna, yfir á frumgerðir dagdraumanna (rêverie primaria).

Allt kemur okkur við og allt tilheyrir okkur þegar við endurheimtum rætur einfaldleikans í draumum okkar – eða í skilaboðum frá draumheimum annarra.

Andspænis litlum loga tölum við heiminn á siðferðilegum forsendum. Jafnvel á einfaldri vökunótt verður kertisloginn fordæmi fyrir heiðskírt og brothætt líf. Vissulega mun hinn minnsti andblær rugla það, rétt eins og framandleg hugsun gerir við heimspekinginn sem hugleiðir. En þegar hið mikla ríki einsemdarinnar kemur í raun og veru, þegar stund heiðríkjunnar rennur upp í raun og veru, þá mun sami friður breiðast yfir hjarta dreymandans og hjarta logans, þá mun loginn varðveita form sitt og loga, eins og fjallviss hugsun, þráðbeint upp til móts við hin lóðréttu örlög sín.

Þannig gat kertaljósið verið næmur mælikvarði á rósemd sálarinnar á þeim tímum þegar menn létu sig dreyma hugsandi og hugsuðu dreymandi. Það var hárnæmur mælikvarði á þá ró sem legst yfir alla hina örsmáu hluti tilverunnar – mælikvarði þeirrar rósemdar sem veitir náð framvindunnar yfir þá viðveru sem fylgir flæði hins heiðskíra ríkis dagdraumanna (rêverie).

Viljið þið endurheimta rósemina? Andið ofurljúft andspænis litlum loga sem framkvæmir staðfastlega sína ljósvinnu.

III.

Þannig er hægt að umbreyta eldgamalli þekkingu í lifandi heim dagdraumanna (rêverie). Við ætlum hins vegar ekki að leita okkur heimilda í ævafornum og máðum handritum. Þvert á móti mundum við vilja endurfæra öllum þeim myndum sem hafa til að bera draumkennda vídd, þann geislabaug ónákvæmninnar sem gerir okkur kleift að hleypa myndinni inn í okkar eigin dagdraumaheim.

Það er einungir í gegnum dagdraumana sem við getum miðlað einstæðum myndum. Rökhugsunin (l’intelligenza) verður ráðþrota þegar kemur að því að sundurgreina rêverie fávíss manns. Einnungis örfáum síðum af þessari stuttu ritgerð verður varið til þess að kynna til sögunnar texta þar sem gamalkunnar myndir sýna sig með þeim hætti að þær virðast vilja segja okkur leyndardóma heimsins. Hversu létt verk er það ekki fyrir draumamann alheimsins að hverfa frá sínum litla loga að hinum stóru plánetum himinsins! Þegar við verðum sett í þessar aðstæður í gegnum lesturinn, þessa uppmögnum stærðanna, þá getum við ekki annað en glaðst. En við getum ekki lengur sett hrifningu okkar inn í kerfi. Af öllum rannsóknum okkar munum við ekki halda eftir nema örlitlum myndbrotum.

Þegar tiltekin mynd öðlast kosmísk gildi, þá jafngildir hún svimandi hugsun.

Slík mynd-hugsun, slík hugsun-mynd, hefur enga þörf fyrir skýringu og samhengi. Logi sem hugleiddur er af sjáanda er draugakenndur veruleiki sem kallar fram yfirlýsingu orðsins. Hér á eftir munum við bjóða fram margvísleg dæmi um þessar hugsanir-myndir, sem sýna sig í leiftrandi orðum. Oft gerist það að þessar myndir-hugsanir-orðasambönd lita skyndilega texta sem virðist fljóta lygnt áfram. Joubert, hinn skynsami Joubert, skrifar: „Loginn er rakur eldur“[1] Við munum í framhaldinu bjóða upp á mörg tilbrigði við þetta þema: samsemdin á milli logans og læksins. Í þessum inngangskafla látum við nægja að benda á hana til þess að undirstrika frá upphafi þann dogmatisma sem einkennir það sem við köllum rêverie og verður fyrst leiftrandi þegar hann vekur bælda þekkingu til lífsins. Það nægir ein þversögn til þess að snúa upp á náttúruna og frelsa dreymandann undan lágkúru palladómanna um hversdagslega hluti.

Því er það að lesandi Pensées eftir Joubert nýtur sín, einnig hann, við að nota ímyndunaraflið. Hann sér þennan raka loga, þennan logandi vökva, sem rennur upp á við, upp til himna eins og lóðréttur lækur.

Hér þurfum við að skjóta að athugasemd sem heyrir eingöngu undir heimspeki hins bókmenntalega ímyndunarafls. Mynd-hugsun-orð á borð við þessi orð Jouberts má kalla tjáningarfullt örlæti. Orðin í henni yfirstíga hugsunina. Og það rêverie sem talar er með sínum hætti yfirstigið af því rêverie sem skrifar. Þótt varla leyfist að segja það, þá er það svo að þetta rêverie „hins raka loga“ skrifar sig sjálft. Loginn hefur freistað rithöfundarins. Joubert hefur ekki staðist þessa freistingu. Við verðum að vonast til að skynsamt fólk og sanngjarnt fyrirgefi þeim sem ljá eyra við demónum blekbyttunnar.

Ef formúla Jouberts væri hugsun, þá væri hún ekki annað en of einföld þversögn. Ef hún væri mynd þá væri hún óljós og hverful. En þar sem við finnum hana í bók mikils siðapostula, þá opnar þessi formúla fyrir okkur heim hins alvarlega dagdraums. Sá tónn sem hér er sleginn með samslætti ímyndunar og sannleika gefur okkur einföldum lesendum heimild til þess að dreyma í alvöru, rétt eins og andi okkar starfaði í fullkominni heiðríkju innan draumaheims (rêverie) af þessari gerð. Í þeim dagdraumaheimi alvörunnar sem Joubert leiðir okkur inn í er eitt fyrirbæri heimsins tjáð og þar með höndlað. Það er tjáð í handanveru síns eigin veruleika. Það hefur skipti á eigin veruleika og mannlegum veruleika.

Ef við endurgerum fyrir sjálfum okkur mynd af klefa heimspekingsins sem hugleiðir, þá sjáum við kertið á borði hans ásamt stundaglasinu, tvær verur sem vísa báðar til mannlegs tíma, en svo ólíkar í stíl sínum. Loginn er stundaglas sem rennur upp á við. Hann er léttari en sandurinn sem rennur niður. Loginn myndar eigið form, rétt eins og tíminn sjálfur hefði stöðugt eitthvað fyrir stafni.

Í heiðríkri hugleiðslu verða loginn og stundaglasið tjáning á samsemd (comunione) hins létta tíma og hins þunga tíma. Í mínum dagdraumaheimi tjá þau samsemd tíma kvensálarinnar (anima) og karlsálarinnar (animus). Mér yrði það ljúft að láta hugann reika um tímann, þá verðandi sem rennur og þá verðandi sem flýr, ef ég gæti sameinað í ímynduðum klefa mínum kertið og stundaglasið.

En heimspekingurinn sem ég sé fyrir mér metur meira lærdóminn af loganum sem lyftist en lærdóminn af sandinum sem sekkur. Loginn kallar þann sem vakir til þess að lyfta augum sínum frá örkinni, yfirgefa tíma skyldunnar, tíma lestursins, tíma umhugsunarinnar. Í loganum er tíminn þátttakandi í vökunni.

Já, sá sem vakir andspænis loga sínum gerir hlé á lestrinum. Hugsar um lífið. Hugsar um dauðann. Loginn er viðkvæmur og flöktandi. Þetta ljós, sem andblærinn slekkur og neistinn kveikir. Loginn er auðveld fæðing og auðveldur dauði. Líf og dauði standa hér saman, hlið við hlið. Líf og dauði eru í mynd sinni fullkomnar andstæður. Hugsanaleikir heimspekinganna sem ástunda þrætulist sína um veruna og tómið í tóntegund hinnar hreinu rökfræði, taka á sig átakanlega áþreifanlega mynd andspænis ljósi sem fæðist og deyr.

En þegar menn dreymir enn dýpra, þá glatast þetta ljómandi hugsunarjafnvægi um líf og dauða. Hvert verður bergmál þessa orðs í hjarta dreymandans um kertaljósið: slökkvist! Án alls vafa munu orðin yfirgefa uppruna sinn og fara að lifa framandlegu lífi, lífi sem tekið er að láni hjá tilviljunum hreinna hliðstæðna. Hvert er hið mikla inntak hugtaksins slökkvist? Lífið eða kertið? Myndlíkingasagnirnar geta hrært upp í ólíkustu myndum sínum. Sögnin slökkvist getur látið hvað sem er deyja, hvort sem það er hávaði eða hjarta, ást eða ofsabræði.

En sá sem kallar eftir hinni sönnu merkingu, hinni upprunalegu merkingu, verður að kalla fram aftur dauða kertaljóssins.. Goðsögufræðingarnir hafa kennt okkur að lesa drama ljóssins í sjónarspilum himinsins. En í klefa dreymandans verða hversdagslegir hlutir goðsögur um heiminn. Kertaloginn sem slokknar er sól sem deyr. Kertaloginn deyr með mjúklegri hætti en jafnvel stjarnan á himninum. Kveikurinn bognar, kveikurinn sortnar. Loginn hefur tekið sitt ópíum úr skugganum sem umlykur hann. Loginn deyr vel; hann deyr með því að lognast út af.

Sérhver dreymandi kertisloga, sérhver dreymandi lítilla loga, þekkir þetta vel. Allt er dramatískt í lífi hlutanna og lífi alheimsins. Menn dreymir tvisvar þegar menn dreymir í félagsskap kertisins. Hugleiðslan andspænis kertinu verður samkvæmt orðum Paracelsusar upphafning heimanna tveggja, exaltatio utriusque mundi.[2]

Við sem erum einfaldir heimspekingar hinnar bókmenntalegu tjáningar munum í framhaldinu einungis gefa dæmi um þessa tvöföldu upphafningu eins og þau birtast hjá skáldunum. Að ætla sér að hjálpa þessum draumum, þessum misvísandi draumum, með hugsunum, vönduðum hugsunum, hugsunum annarra, til þess er tíminn þegar, eins og við sögðum í upphafi, útrunninn.

En meðal annarra orða, hver hefur nokkurn tíman kunnað að búa til skáldskap með hugsuninni?

IV.

Til þess að réttlæta þá fyrirætlun okkar að takmarka okkur við þær heimildir sem geta enn teymt okkur inn á svæði hinna alvarlegu dagdrauma er nálgast drauma skáldsins, munum við taka eitt dæmi af mörgum mögulegum um heilt samsafn mynda og hugmynda sem sótt er í gamla bók sem ekki getur gert tilkall til hluttekningar okkar eða þátttöku, hvorki vegna hugmynda sinna né mynda. Teknar úr sínu sögulega samhengi geta þessar síður ekki einu sinni talist nein afrek hugmyndaflugsins. Þessar blaðsíður geta heldur ekki talist hafa með skipulagningu þekkingar að gera. Við verðum að líta á þær eingöngu sem samsafn hugsana sem einkennast af oflæti og einfeldningslegum myndum. Heimild okkar verður því andstæða þeirrar upphafningar myndanna sem við elskum að upplifa. Það verður ofgnótt ímyndunaraflsins.

Eftir að hafa gert athugasemdir við þessa krefjandi heimild munum við hverfa aftur til fíngerðari mynda, sem eru ekki eins gróflega njörvaðar saman í eitt kerfi. Þar munum við finna hvatningu sem við getum fylgt eftir á okkar eigin persónulegu forsendum og upplifað gleðina sem fylgir ímyndunaraflinu.

V.

Í umfjöllun sinni um Zohar[3] í bókinni Traité du feu et du sel skrifaði Blaise de Vigenère:

Til er tvöfaldur eldur, þar sem annar er sterkari og gleypir hinn í sig. Sá sem vill kynnast honum ætti að hugleiða þann eld sem kviknar og rís í kveiktu eldstæði eða venjulegum blyslampa, því eldurinn rís ekki nema hann sé bundin rotgjörnu efni og hann sameinast ekki andrúmsloftinu. En í þessum eldi sem rís eru tveir logar: einn er hvítur og lýsir og skín með bláum rótum sínum efst uppi; hinn er rauður og er samrunnin eldiviðnum og kveiknum sem hann brennir. Hinn hvíti stefnir beint upp, en hinn rauði er lokaður undir og losnar ekki frá efninu um leið og hann nærir hinn logann á því sem fær hann til þess að lýsa og ljóma.[4]

Hér er upphaf rökræðunnar um hið virka og óvirka, um þolandann og gerandann, um hinn brennda og þann sem brennir – um díalektík hinnar þáliðnu tíðar (patecipi passati) og núliðnu tíðar (partecipi presenti) sem hefur verið eftirlæti heimspekinga allra tíma.

En í augum „hugsuða“ eldsins, eins og við getum sagt um Vigenère, verða staðreyndirnar að opna gildishlaðna sjóndeildarhringa. Gildið sem hér þarf að höndla er ljósið. Þannig verður ljósið æðsti gildismælikvarði eldsins. Það verður að drottnandi gæðum þar sem það gefur staðreyndum merkingu og gildi sem annars voru merkingarlausar. Upplýsingin er raunverulegur ávinningur. Vigenère lætur okkur raunverulega finna hvílíka þraut hinn efnislegi eldur verður að ganga í gegnum til þess að breyta sér í hvítan loga, til þess að ávinna sér þetta ríkjandi gildi sem er fólgið í hvítunni. Þessi hvíti logi „er ávalt sá sami án þess að breytast eða flökta eins og hinn loginn gerir, sem stundum sortnar, stundum verður rauður, gulur, bláleitur, fjólublár eða túrkislitaður.“

Guli loginn verður þannig andgildi hins hvíta loga. Kertisloginn er lokaður vígvöllur gildis og andgildis. Hvíti loginn verður að „útrýma og eyða“ þeim efnisþáttum sem næra hann. Fyrir höfund sem uppi var fyrir vísindasögulegan tíma gegnir loginn þannig jákvæðu hlutverki í hagkerfi heimsins. Hann er verkfæri til þess að smíða betri heim.

Þannig erum við reiðubúin að meðtaka hinn siðferðilega boðskap: hin siðferðilega vitund okkar verður að verða hvítur eldur „sem brennur þann sora sem hún hýsir“.

Og sá sem brennur vel logar hátt. Vitundin og loginn hafa hin sömu örlög hins lóðrétta. Hinn einfaldi logi kertisins dregur vel upp mynd þessara örlaga, hann sem „fer sjálfkrafa upp á við og hverfur til uppruna síns eftir að hafa framfylgt hlutverki sínu í neðra, án þess að umbreyta nokkru sinni ljóma sínum í annan lit en þann hvíta“.

Texti Vigenère er langur. Við erum búin að þjappa honum mjög mikið saman. Hann getur verið þreytandi aflestrar. Hann hlýtur að verða illþolanlegur þegar hann er lesinn sem hugmyndatexti er skipuleggur þekkingu. Sem texti úr heimi dagdraumanna kemur hann mér hins vegar fyrir sjónir sem rêverie er sprengir öll mörk, sem felur í sér alla heimsins reynslu, hvort sem hún á rætur sínar í manninum eða heiminum. Um leið og fyrirbæri heimsins hafa öðlast svolítinn áþreifanleika og einingu verða þau að mannlegum sannleika.

Siðferðisboðskapurinn sem lokar texta Vigenère hlýtur að flæða til baka inn í sérhvern kima hans. Þessi siðferðiboðskapur hvíldi með leynd í þeim hagsmunum, sem dreymandinn hafði gagnvart kerti sínu. Hann skoðaði það út frá siðferðilegum sjónarhóli. Fyrir honum opnaði það siðferðilegar dyr að heiminum, aðgengi að siðferði heimsins.

Hefði hann kannski vogað sér að skrifa um kertaljósið ef hann hefði einungis talið það vera brennda tólg? Dreymandinn hafði á borði sínu það sem við getum með fullum rétti kallað fyrirbæri – dæmi. Eitt efni, það auvirðilegra og lægra setta, framleiðir ljós. Það hreinsar sig um leið með verknaði sínum þar sem það gefur ljósið. Hvílíkt lýsandi dæmi um virka hreinsun! Og það eru sjálf óhreinindin, sem framleiða hið hreina ljós með því að tortíma sjálfum sér. Þannig verður hið illa næring hins góða. Í loganum finnur heimspekingurinn fyrirbæri – fordæmi, kosmískt fyrirbæri og dæmi um manngervingu. Með því að fylgja þessu fyrirbæri-fordæmi getum við „brennt sora okkar“.

Hinn hreinsaði eldur, hreinsunareldurinn, upptendrar dreymandann tvisvar, bæði í augunum og sálinni. Hér eru myndlíkingarnar raunveruleiki og þegar raunveruleikinn hefur verið meðtekinn af hugsuninni verður hann myndlíking um mannlega göfgi. Hana hugleiðum við með því að beita myndlíkingu á veruleikann. Gildi texta Vigenère væri annað ef hann væri greindur á forsendum táknhyggjunnar. Myndin sýnir okkur, táknmálið staðfestir. 

Fyrirbærið sem hefur verið hugleitt á trúverðugan hátt er ekki eins og táknið, hlaðið sögulegum forsendum. Táknið er sambræðsla hefða af margvíslegum og ólíkum uppruna. Það er ekki hægt að vekja upp allar þessar upprunasögur í hugleiðslunni. Líðandi stund verður fortíð menningarinnar yfirsterkari. Sú staðreynd að Vigenère hafi lesið Zoharinn kom ekki í veg fyrir það að hann endurheimti í fullkominni frumgerð sinni þann dagdraumaheim (rêverie) sem hin gamla bók þóttist setja fram sem þekkingu. Um leið og lesturinn kallar fram draum hætta menn að lesa. Ef kertið upplýsir þá gömlu bók sem talar um logann, þá nær tvíræðni hugsananna og dagdraumanna sínum ystu mögulegu mörkum.

Engin fleiri tákn, ekki meira af tvöföldu tungumáli sem þýðir efnið yfir í anda eða öfugt. Með Vigenère göngum við inn í þá sterku einingu dagdraumanna sem sameinar manninn og heim hans, í þá sterku einingu dagdraumanna (rêverie) sem ekki verður rofin með þrætubókardíalektík hlutveru og hugveru. Í slíku heimi dagdraumanna verður heimurinn allur holdgerving örlaga mannsins í öllum sínum smáhlutum. Og í innileik leyndardóms síns vill heimurinn ekkert frekar en örlög hreingerningarinnar. Heimurinn er frjókorn betri heims, rétt eins og hinn þungi og guli logi er frjókorn hins leikandi hvíta loga. Í krafti hvítleika síns og í krafti viðleitninnar til þess að öðlast hvítleikann nær loginn sínum náttúrlega áfangastað og fylgir þannig ekki bara reglum hinnar aristótelísku heimspeki. Hér hafa verið höndluð gildi sem standa öllum öðrum gildum ofar er hvíla á hinum efnislegu gildum. Afturhvarf til hinna náttúrlegu heimkynna felur vissulega í sér skipulega tiltekt, endurreisn á skipulagningu heimsins. En hvað varðar hvíta ljósið, þá er það siðferðileg regla sem drottnar yfir hinni efnislegu reglu. Sá náttúrlegi staður sem loginn leitar að er siðfræðilegt svið.

Það er þess vegna sem loginn og myndir logans sýna okkur hvort tveggja í senn gildi mannsins og gildi heimsins. Þau sameina siðfræði „smáheimsins“ og hina stórbrotnu siðfræði alheimsins.

Dulhyggjumennirnir sem fjölluðu um örlög og tilgang eldfjallsins hafa ekki sagt annað en þetta í aldanna rás, þegar þeir hafa staðhæft að það sé vegna góðkynja virkni eldfjalla jarðarinnar „sem hún hreinsar sig af sora sínum“. Michelet hélt þessu enn fram á síðustu öld. Sá sem hugsar svo stórt getur vel látið sig dreyma hið smáa og trúað því að litla kertaljósið hans þjóni því hlutverki að hreinsa heiminn.

VI.

Ef við beinum rannsókn okkar að vandamálum helgisiðanna, þá byggjum við á eins konar æðri táknfræði, táknfræði sem í sinni upprunalegu mynd var reist á siðferðilegum og trúarlegum gildum. Þar lendum við augljóslega ekki í neinum vandkvæðum með að finna enn dramatískari táknfræðilegar vísanir fyrir logann og eldana en þær sem verða til með fullri einlægni í dagdraumaheimi þess sem dreymir kertaljós.

Við teljum hins vegar að það sé áhugavert að beina ljósinu fyrst að almennari og einfaldari fyrirbærum frekar en þeim dagdraumaheimum sem kalla á langsóttari og fjarlægari hliðstæður. Hliðstæða er í sjálfri sér upphafstákn, tákn sem ekki hefur tekið á sínar herðar fulla ábyrgð. Misvægið á milli hins skynjaða og hins ímyndaða fer samstundis út í öfgar. Loginn verður ekki lengur viðfang skynjunarinnar. Það breytist í heimspekilegt viðfang. Þá verður allt mögulegt.

Heimspekingurinn getur sallarólegur ímyndað sér andspænis kertaljósi sínu að hann sé vitni heimsins sem brennur. Loginn er fyrir honum heimur sem leitar á vit framtíðarinnar.

Dreymandinn sér hins vegar í loganum sína eigin veru og sína eigin framtíð. Í loganum fer rýmið að bylgjast og tíminn æsir sig. Allt skelfur þegar ljósið skelfur. Er verðandi eldsins ekki hið dramatískasta og það mest lifandi sem við getum fundið í allri verðandi.

Heimurinn líður með hraði ef við ímyndum okkur hann í eldinum. Þannig getur heimspekingurinn látið sig dreyma allt – ofbeldi og frið – þegar hann dreymir heiminn andspænis kertinu.

____________________________________________________

Forsíðumynd: Iðrun Maríu Magdalenu eftir Georges de la Tour frá 1630-35

 

[1] J. Joubert, Pensées, París 8. útg. 1862, bls. 163. Fyrstu vatnsefnislogarnir voru stundum kallaðir „eldsuppsprettur“ sbr. Edouard Foucaud, Les Artisans illustres, Paris, 1841, bls. 263.

[2] Tilvitnun frá C.Gustav Jung, ParacelsiaGesammelte Werke, Freiburg, Olten, 1978)

[3] Zohar er dulspekirit um kabbalafræði, trúlega ritað á 13. öld á Spáni á miðalda-hebresku og aramísku. Kabbalafræðin eru dulspekileg útlegging á Torah, fimm bókum Móse úr Gamla Testamentinu, sem eru grundvöllur trúarbragða gyðinga.

[4] Blaise de Vigenère, Trait du feu et du sel (Ritgerð um eld og salt), París 1628, bls 108

%d