Sýning Guðrúnar Kristjánsdóttur í Hallgrímskirkju 2014
eftir Ólaf Gíslason
Á brennheitt andlit/ fellur blátt regn/ hinna blávængjuðu daga.
Inn í hugans neind/ kemur nóttin/ eins og nafnlaus saga.
Og nekt þess sem er/ týnir nálægð sín sjálfs/ út í nætur og daga.
Sú mynd sem skáldið Steinn Steinarr dregur hér upp í 13. ljóðinu um Tímann og vatnið er merkingarlaus út frá hefðbundinni rökhugsun og verður að flatneskju ef við reynum að skýra merkingu hennar út frá reglum rökhugsunarinnar. Það tugumál sem hér talar til okkar vísar út fyrir þá rökvísi sem segir okkur að regndropinn sé bara vatn, andlitið bara gríma og dagurinn bara tala í dagatalinu. Þetta er tungumál sem vísar út fyrir fyrirfram skilgreinda merkingu orðanna og talar máli myndanna. Og myndirnar sem orðin mynda eiga sér heldur ekki skilgreinda fyrirmynd sem við getum umorðað eða ummyndað til frekari „útskýringar“. Þessi orð og þessar myndir skáldsins smeygja sér inn í vitund okkar og skilja eftir sig för eða áverka, sem við getum ekki skilgreint án þess að detta ofan í hreina flatneskju þess hversdagsleika þar sem órar draumanna hafa verið útilokaðir og öll hættusvæði afgirt og merkt sem bannsvæði. Engu að síður erum við snortin. Snortin vegna þess að við finnum bergmál af þessari mynd innra með okkur, hún opnar okkur sýn inn í áður hulda innheima okkar sjálfra. Þessi mynd, sem er svo einföld að hún er næstum því ekki neitt, verður samt eitthvað óendanlega stórt. Eins og dropinn sem fyllir skál vitundar okkar og gárar vatnið út í óendanleikann…
Þetta gerist þegar skáldin ná því marki að búa til lifandi tákn, tákn sem lifa ekki fyrir merkingu sína, heldur fyrir virknina eina og áhrifin sem þau framkalla. En eins og sálfræðingurinn Jung sagði, þá er hið lifandi tákn ávalt tvírætt, það vísar út fyrir heim skigreininganna yfir í hið dulvitaða eða óþekkta og endanlega vísar það aftur í sjálft sig og ekkert annað, því ekkert annað getur framkallað virkni þess. Það er einkenni alls skáldskapar að hann rýfur fyrirfram skilgreind ytri mörk tungumálsins, skáldið er ávalt statt á hættusvæði óranna þar sem rökhyggjuna þrýtur og demónar geðveikinnar gerast ráðríkir. Demónar þeirrar sturlunar sem býr í öllum mönnum og við þekkjum meðal annars úr draumum okkar. Það er sú sturlun sem sálfræðin hefur kallað dulvitaða kviku hins náttúrlega hvatalífs mannsins. „Égið er ekki húsbóndi á sínu heimili“, sagði Freud, og daglegt líf sérhvers manns er bundið spennu milli regluverks rökhugsunarinnar og þeirra löngunaróra sem skáldin ein kunna að gefa form í táknmyndum sínum. Táknmyndum sem gefa löngunum okkar og draumum vængi. Langanir og draumar eru önnur hliðin á sálarlegri vöntun. Okkur langar ekki í það sem við höfum, heldur það sem við höfum ekki. Langanir okkar eru drifkrafturinn sem við nærumst á, og skáldin hjálpa okkur að skynja langanir okkar og gefa þeim vængi. Að þekkja langanir sínar og drauma og kunna að fylgja þeim eftir er leiðin til þess að verða við sjálf. Það er vegferð sem endist svo lengi sem lífið sjálft, svo lengi sem löngunin til að lifa er til staðar. Til þess að skilja og skynja langanir okkar og drauma þurfum við táknmyndir. Þess vegna er skáldskapurinn manninum lífsnauðsyn.
Þegar við höfum skilgreint merkingu táknmyndarinnar hættir hún að vera tákn vegna þess að skilgreiningin hefur innbyrt hinn dulvitaða og óþekkta hluta myndarinnar, svipt hana virkni sinni og gert hana að merki. Hún opnar ekki lengur sýn inn á hættusvæði hins dulda heims langana okkar, vísar okkur ekki lengur leiðina til okkar sjálfra. Þess vegna er okkur lífsnauðsyn að endurnýja tungumálið, rjúfa varnarmúrana og öryggiskerfin sem hið staðlaða tungumál samfélagsins lokar okkur inni í.
Franski heimspekingurinn Gaston Bachelard hefur skrifað merkilegar bækur um sálfræði efnisheimsins, einkum með tilliti til höfuðskepnanna, jarðar, vatns, lofts og elds. Bók hans, „Sálfræði vatnanna“ ber fljótt á litið ögrandi titil, þar sem okkur hefur verið kennt að líta á efnisheiminn sem sálarlausan. Boðskapur Bachelards er hins vegar sá, að gagnvart manninum er náttúran lifandi vera, því maðurinn samamsamar sig ekki bara með náttúrunni, heldur er hann líka hluti af henni, og því er sálgreining vatnanna honum jafn sjálfsögð og sálgreining náungans. Og reyndin er sú, ef litið er til fortíðarinnar, að frá upphafi vega hefur maðurinn manngert náttúruöflin og sálgreint þau í goðsögum sínum og trúarbrögðum.
Í bók sinni gerir Bachelard mikilvægan greinarmun á því sem hann kallar formlegt og efnislegt ímyndunarafl. Hið formlega ímyndunarafl tekur til ytra útlits hlutanna, skrautfengni og yfirborðs, hið efnislega ímyndunarafl tekur til dýpri og innri eðliseiginleika efnisins, eiginleika er geta tekið til kynferðis, eðliskosta eða áráttu svo dæmi séu tekin: eldurinn er karlkyns eins og loftið, jörðin er kvenkyns eins og vatnið, vatnið hneigist að hinu lárétta, eldurinn að hinu lóðrétta, sólsetur á sjónarrönd hafsins tengir saman himinn og jörð og felur í sér dauða og endurfæðingu o.s.frv.
Iðntæknisamfélagi samtímans hættir til að líta á náttúruna og efnisheiminn sem hráefni fyrir manninn til úrvinnslu og neyslu. Samkvæmt þeirri sýn hefur okkur verið kennt að náttúran sé sálarlaust hráefni. Ljóðaflokkur Steins Steinars um Tímann og vatnið, sem hér var vitnað til, sýnir hins vegar djúpan skilning á sálfræði vatnanna: þau birta okkur örlög mannsins. Hið lifandi vatn uppsprettulindarinnar linnir ekki látum fyrr en það hefur náð endamarki sínu í láréttum hafsfletinum: „sársauki vatnsins er án enda“ segir Bachelard, og bætir við: „Í dýpsta kjarna efnisins eru dulin gróðuröfl að verki. Í nótt efnisins vaxa svört blóm sem hafa sitt mjúka yfirborð og sinn ilm.“ Heimspekingurinn grípur þannig til skáldamálsins til að skýra mál sitt og gæti þess vegna tekið undir með Steini Steinarr: „en draumur minn glóði /í dulkvikri báru/ á meðan djúpið svaf. Og falin sorg mín/ nær fundi þínum/ eins og firðblátt haf“.
Vatnið í kringlóttri glerskál Guðrúnar Kristjánsdóttur hvílir á svörtum sandi á gólfinu í fordyri Hallgrímskirkju og gárast af fallandi dropum úr loftinu við niðandi undirleik tóna Danéls Bjarnasonar. Það er umlukt af bláma veggjanna sem leiðir okkur áfram inn í sjálfa kirkjuna allt inn að kórhvelfingunni þar sem bláminn í gluggaröðinni ber okkur áfram út í dagsbirtuna.
Spyrjum ekki hvað þessi innsetning merkir, því hún er ekki útskýring á neinu, ekki frekar en ljóðið um tímann og vatnið. Við getum leitað í goðafræði og guðfræði vatnanna og spunnið úr þeim ótal hliðstæður og vísanir sem gætu verið fróðlegar sögulega séð: sögur um hreinsun, dauða og endurfæðingu, sögur um vatn lífsins og mjólk jarðarinnar, sögur um vatnið sem mynd sálarinnar og skálina sem móðurkviðinn og mjólkurþrungið móðurbrjóstið, sögur um gárurnar á vatninu sem frjóvgun andans og sögur af heilsulindum Asklepiusar og Maríu og heilsulaug Betesda í Jóhannesarguðspjalli, það eru allt sögur um sálfræði vatnanna sem tengjast þessari mynd, en á endanum vísar hún fyrst og fremst í sig sjálfa. Hún er tilraun til að kafa ofan í ímyndunarafl efnisins sem er á endanum ímyndunarafl okkar sjálfra, vegvísir á leiðinni að verða við sjálf.