LESSKILNINGUR OG TILFINNINGALEGT ÓLÆSI – Umberto Galimberti

 

Boðflenna tómhyggjunnar og hið tilfinningalega ólæsi

… unga fólkinu líður illa, jafnvel þótt það geri sér ekki grein fyrir því. Ekki vegna þeirrar hefðbundnu tilvistarkreppu sem einkennir uppvaxtarárin, heldur vegna þess að boðflenna hefur gert sig heimakomna í húsi þess, gegnsýrt hugsanirnar  og smeygt sér inn í tilfinningalífið, máð út framtíðardraumana, deyft  ástríðurnar og sogið úr þeim allt blóð.

Fjölskyldurnar eru felmtri slegnar, skólinn er ráðþrota, einungis markaðurinn sýnir unga fólkinu áhuga með því að leiða það á vit skemmtanalífsins og neyslunnar, þar sem neyslan beinist ekki að þeim hlutum sem úreldast jafnóðum, heldur að sjálfu lífi unga fólksins, þessu lífi sem megnar ekki lengur að setja sér framtíðarmarkmið fagurra fyrirheita. Þannig snýst lífið um að upplifa núið af sem mestri ákefð, ekki vegna þess að það sé uppspretta gleði, heldur vegna þess að það getur jarðað angistina sem alltaf gerir vart við sig þegar landslagið tekur á sig mynd  merkingarlausrar eyðimerkur.

Þessi dökka mynd af líðan unga fólksins í samtímanum eru upphafsorðin í bók ítalska heimspekingsins Umberto Galimberti "L'ospite inquietante - il nichilismo e i giovani" frá árinu 2007, sem ég þýddi á íslensku á útgáfuárinu og kallaði "Boðflennan, -unga fólkið og tómhyggjan". Þýðingin náði aldrei athygli útgefandans og lenti því í gagnabanka á skýinu, en þetta var metsölubók á Ítalíu er varðaði tilvistarvanda unga fólksins og stöðu þess andspænis óvirku skólakerfi, ráðalausum foreldrum og samfélagi er bauð ekki lengur upp á þá björtu framtíðarsýn og vonir sem foreldrakynslóð eftirstríðsáranna hafði fundið í sívaxandi tækniframförum, hagvexti og neyslu. Það sem blasti við Galimberti var mynd hinnar "merkingarlausu eyðimerkur" samtímans.

Það er einkenni ritstíls Galimberti að tala tæpitungulaust og ráðast beint að umfjöllunarefni sínu án málalenginga, og rétt að taka þessi orð hans með þeim fyrirvara. En þó þessi bók sé orðin 16 ára gömul er eins og gildi hennar sanni sig enn og aftur í þeirri umræðu sem nú hefur enn einu sinni vaknað til lífsins hér á landi í tilefni mælinganiðurstaðna hins evrópska skólaverkefnis sem kennt er við borgina Pisa, og varðar lesskilning unga fólksins okkar og vanmátt skólans, heimilanna og samfélagsins, andspænis vanda sem enn einu sinni er gjarnan túlkaður sem tæknilegur og kennslufræðilegur vandi, en Galimberti vill kenna við "tilfinningalegt ólæsi" er eigi sé djúpstæðari forsendur en nokkur lestækni eða kennslufæði nær að höndla, og varðar skilning okkar á hinum ómælanlegu gildum mennskunar sem endanlega liggja til grundvallar sérhverri menningu, hvort sem hún býr við auðlegð eða fátækt, hátækni eða handverkssamfélag. Það eru þau gildi sem Galimberti sér nú á hverfanda hveli með vísun í kenningar Nietzsche um tómhyggjuna sem hann kallaði kjarna og "boðflennu" tæknisamfélags iðnbyltingarinnar.

Inngangsorð Galimberti halda áfram í þessari lýsingu hans á tilfinningalegri vanlíðan unga fólksins í samtímanum:

"Ef ungt fólk er beðið um að lýsa vanlíðan sinni, þá skortir það orðin til þess, því það hefur þegar náð því stigi tilfinningalegs ólæsis sem aftrar því að bera kennsl á eigin tilfinningar og þá sérstaklega að gefa þeim nafn. Og hvaða nafn á svo sem að gefa því tómi sem hefur sest um unga fólkið og heltekið það? Á þessari eyðimerkurgöngu mannlegra samskipta, þar sem ekki er lengur að finna neinn hljómgrunn innan fjölskyldunnar og skólinn er líka hættur að vekja áhuga, kafna öll orð í fæðingu sem geta hvatt til dáða eða boðað örvandi framtíðarsýn. Þetta orðleysi á sér ekki betri samsvörun en ópið, sem stundum nær að rjúfa þykka brynju þagnarinnar er umlykur einsemd þeirrar leyndu depurðar sem einkennir tímalaust sálarástand þess er býr undir ofríki boðflennunnar, sem Nietzsche kallar „tómhyggju”.Því er það að orðin sem vísa til vonarinnar,  einlægu orðin og hvatningarorðin, orð fyrirheitanna og orðin sem vilja lina hina leyndu þjáningu, eru á sveimi í kringum unga fólkið eins og ærandi hávaði sem enginn nemur."

Galimberti leggur í bók sinni megináherslu á að sérhver menntun er staðið geti undir því orði, sé sé ávöxtur tilfinningalegrar ástríðu, og að ekkert "læsi" eða "lesskilningur" hafi menntunargildi ef hinn tilfinningalegi hvati köllunarinnar er ekki til staðar. Árangursríkt skólastarf byggist ekki bara á lestækni, heldur á sjálfsmynd og sjálfsmati einstaklingsins og þar með á tilfinningalegri köllun er beinist að vonum um bjartari framtíð og heilsteyptara samfélag.

Ég man enn eftir því þegar við gengum undir lestrarpróf skeiðklukkunnar í Austurbæjarskólanum á 5. áratug síðustu aldar. Þá var skeiðklukkan mælikvarði á lestrarkunnáttu, og ekki spurt um skilning. Hinn nýi mælikvarði evrópsku Pisa-verkefnisins hefur vissulega sagt skilið við skeiðklukkuna og reynt að mæla getu unga fólksins til að nýta sér lestur við notagildið: hvernig nýtist lestrarkunnáttan við að skilja þann flókna heim sem samtími okkar býður uppá, og þar virðast mællikvarðarnir alls staðar sýna minnkandi árangur, og þar eru íslensk ungmenni sögð reka lestina samkvæmt könnunarstuðli Pisa.

Ekki kann ég skil á þeirri mælitækni sem stuðst er við í þessum samanburði, en hitt virðist nokkuð ljóst, ef marka má skilning Galimberti, að mælikvarðarnir á tilfinningalíf unga fólksins koma þar lítt við sögu, enda vandséð hvernig bregða eigi mælistiku á tilfinningalífið: hjartað kallar á aðra hugsun en rökvísin og verður ekki greint í prósentum. Engu að síður stöndum við frammi fyrir þeirri staðreynd, að ekki er hægt að tala um árangur í menntastarfi ef hann er ekki borinn fram af ástríðu tilfinninga og jákvæðri sjálfsímynd. Það sem Galimberti vill segja okkur í bók sinni er að skólinn, fjölskyldan og samfélagið hafi vanmetið gildi hins tilfinningalega læsis og eina leiðin til að leiðrétta þá afturför sem Pisa-mælingarnar sýna, ekki bara á Íslandi, heldur í allri Evrópu, felist í að beina sjónum að þessum tilfinningalega vanda.

Í bók sinni fer Galimberti um víðan völl í greiningu sinni á því menningarlega umhverfi sem samtími okkar býður unga fólkinu, auðvitað með sérstakri greiningu á ítölskum veruleika, og lætur enga hellulögn ósnerta, hvort sem hún felur lokaðan heim fjölskyldulífsins, skólans, skemmtanalífsins eða markaðslögmálanna. Í tilefni yfirstandandi umræðu um Pisa-samanburðinn datt mér í hug að birta örfáa kafla úr texta Galimberti, áhugafólki til umhugsunar, og staðæmdist í því vali við umfjöllun hans um það "tilfinningalega ólæsi" sem hann skilur sem eina af rótum vandans, en vafasamt er að slíkt ólæsi falli undir mælikvarða Pisa-rannsóknarinnar. Þetta er 4. kafli bókarinnar:

BOÐFLENNAN, IV. kafli

Hið tilfinningalega ólæsi

 

Það sem mestu máli skiptir er ósýnilegt augunum. Það sést bara með hjartanu.

De Saint-Exupèry, Litli prinsinn, 1941

1. Stafróf tilfinninganna

Við þekkjum ofsabræðina á því hvernig blóðið rennur til handanna og auðveldar þeim að grípa til vopnsins eða kreppa hnefann á meðan tíðni hjartsláttarins eykur hormónaframleiðslu, meðal annars á adrenalíni, sem framkallar nægjanlega orku til að framkvæma þróttmikinn gjörning.

Við þekkjum hræðsluna þegar blóðstreymið liggur til hinna stóru vöðva stoðkerfisins, til dæmis fótleggjanna, sem gera flóttann auðveldari, á meðan andlitið fölnar af blóðleysi.

Við þekkjum ástina með vakningu ósjálfráða taugakerfisins sem vekur viðbrögð andstæð þeim er verða í bardaganum eða á flóttanum, sem einkenna reiðina og hræðsluna.

Við þekkjum depurðina sem hægir á efnaskiptunum og gerir okkur kleift að takast á við umtalsverðan missi, ástarsorg eða dauðsfall. Hvernig maðurinn lokast inni í sjálfum sér, hvernig dofnar á öllum viðbrögðum við ytra áreiti og hvernig menn og dýr leita skjóls í felustöðum sínum til að finna öryggi þegar depurð og varnarleysi sækja á.

Nú á tímum getur taugalífeðlisfræðin sagt okkur næstum allt um tilfinningar okkar, en hún hefur ekki ennþá sagt okkur það sem Aristóteles fjallar um í riti sínu Um mælskulistina ( Retorica, Bók II, 1378 a). þar sem segir: „Tilfinningarnar tengjast vitsmunalegu starfi þar sem þær láta segjast af sannfæringunni.” Þetta merkir að hægt sé að mennta tilfinningalíf okkar, og ef við viljum betra samfélag, þá þarf að mennta það.

Við lesum daglega fréttir af brjálæðiskenndum voðaverkum sem spretta af stjórnlausum hvötum. Þannig lesum við um skrifstofukonur sem voru drepnar fyrir framan tölvur sínar, um nágranna sem reyna að nauðga konunni í næsta húsi, um stúlkur sem boðið er í vinaheimsókn óvitandi um að þar eigi þær að lifa sitt síðasta ævikvöld, um nýfædd börn skilin eftir í ruslagámum, um börn sem drepa foreldra sína með sleggjum; vaxandi tíðni slíkra frétta hefur nú skipað Ítalíu í annað sætið á eftir Bandaríkjunum hvað slíka atburði varðar.

Við þetta bætist hraðvaxandi aukning þunglyndistilfella, eða þreföldun meðal þeirra sem eru fæddir eftir 1945,  miðað við afa þeirra og ömmur. Og hlutfall sjálfsvíga hefur stóraukist, einkum meðal unga fólksins, sem þjáist vegna misheppnaðrar skólagöngu, vonbrigða í ástalífinu eða jafnvel vegna efnahagsvandamála, sem er dæmigert fyrir  háþróuð þjóðfélög þar sem peningar eru mælikvarði allra hluta.

Hvernig tengist allt þetta menntun tilfinninganna?

Þetta tengist vegna þess að sá sem ekki hefur lært stafróf tilfinninganna, sá sem hefur látið rætur hjartans visna, hann berst um heiminn haldinn óljósum ótta, og er þess vegna stöðugt í ofbeldisfullri viðbragðsstöðu sem oft tengist vænisýki, og hneigist til að líta á náungann sem mögulegan óvin, sem vert sé að óttast eða ráðast gegn. Harmleikir eins og þeir sem hér voru raktir eru þess eðlis að ekki er hægt að afgreiða þá  með yfirborðskenndum hætti sem „sálfræðileg tilfelli” sem þannig er stungið undir stól. Tíðni slíkra tilfella skyldar okkur öll til alvarlegri umhugsunar.

2. Grundvallartraustið

Hefur unga fólkið okkar enn til að bera sál sem er þess megnug að vinna úr árekstrum og halda að sér höndum samfara slíkri úrvinnslu?

Getum við fundið í menningu þess og lífsstíl þá tilfinningalegu menntun, sem gerir því kleift að tengjast, og þar með þekkja tilfinningar sínar, ástríður sínar, gæði kynlífsins og birtingarmyndir árásarhneigðar sinnar? Eða er því kannski þannig varið, að tilfinningaheimurinn lifi innra með því, án þess að það viti af því, rétt eins og ókunnur gestur sem það kann ekki einu sinni að nefna á nafn? Ef sú væri raunin, þá getum við  búist við að tíðni atburða  á borð við þá sem áður voru taldir aukist til muna, því erfitt er að ímynda sér hvernig hægt er að hafa stjórn á eigin lífi án fullnægjandi sjálfsþekkingar.

Hér er ég ekki að tala um eftirá-þekkingu sem kann að draga einhvern sem er kominn á unglings- eða fullorðinsárin til geðlæknis í leit að sál sinni, eða jafnvel í lyfjabúðina í tilraun til þess að deyfa hana. Hér er ég að fjalla um þá aðhlynningu tilfinningalífsins sem hefst með fæðingunni, þegar nýburinn grípur um brjóst móðurinnar og finnur með móðurmjólkinni umönnunina, skeytingarleysið eða höfnunina. Þetta eru hreyfingar sem hinn utanaðkomandi skynjar ekki, en ráða samt úrslitum um menntun nýburans í þeim heita kjarna sem Michail Balint kallar svo, eða það „grundvallartraust”, sem er frumforsenda þess að vera í heiminum án þess að vera þjakaður af angist (Sjá: M. Balint, Primary Love and Psycho-analytic Technique (1952)).

Síðan kemur þroskinn, og í uppeldisaðferðum frumbernskunnar sé ég marga feður og mæður sem örva líkamlega og vitsmunalega menntun barna sinna, en ekki þá tilfinningalegu menntun, sem er menntun til þess að finna til, að hrífast og að hræðast. Allt þetta lærir barnið af sjálfu sér eftir mætti, en þó fyrst og fremst með þeim tækjum sem því standa ekki til boða.

Það er farið úr íþróttasalnum í sundlaugina, því börnin þurfa að fá fallegan líkama; það er farið úr einni útskýringunni í aðra, stundum yfirborðslega, stundum svolítið betur, og stundum með útúrsnúningi, því það þarf að þroska skilningsgáfuna, en hver eru þau óbeinu samskipti sem eiga sér stað meðan á öllu þessu stendur, og menn finna meira fyrir með maganum en höfðinu, þessi óbeinu samskipti sem segja til um hvort móðurinni eða föðurnum sé treystandi, því við finnum fyrir nálægð þeirra á fyrstu óvissusporum lífsins? Aðhlynning líkamans, aðhlynning skilningsins, en hversu mikil aðhlynning sálarinnar?

Hér þreifa hinir fullorðnu fyrir sér í nokkurri óvissu. Þeir miðla ástinni í gegnum hlutina sem þeir kaupa í stórum stíl til að fullnægja þeim löngunum og þrám ungabarnsins sem tóm samskiptanna vekur, þetta tóm sem gerir strax vart við sig með viljaleysinu, sleninu, í andófinu og í alvarlegustu en jafnframt duldustu tilfellunum, í uppgjöf þunglyndisins.

Á þessu tímaskeiði, sem einkennist af mjög miklu ytra áreiti og örvun samfara  samskiptaleysi, verðum við vör við fyrstu merkin um það tilfinningalega afskiptaleysi sem verður æ algengara á okkar tímum og veldur því að barnið finnur engan tilfinningalegan hljómgrunn  andspænis þeim atvikum og því viðmóti sem mætir því.

Hvernig skyldi standa á þessu?

Það er skortur á tilfinningalegri menntun. Fyrst í fjölskyldunni, þar sem börnin eyða tíma sínum í kyrrlátri einsemd með húslyklana í vasanum og sjónvarpið sem barnapíu. Svo í skólanum undir oft og tíðum grámyglulegu augnaráði kennaranna, þar sem þau hlusta á gagnslausa orðræðu, sem vísar í menningu sem er í órafjarlægð frá því sem sjónvarpið hefur boðið þeim upp á sem grundvöll tilfinningalegra viðbragða.

Þannig er þetta brothætta, daufa og innhverfa tilfinningalíf, sem skólinn forðast að mennta, það veltist um í þessu lífleysi sem óvirkt nám tölvuleikjanna og  internetsins hefur vanið unga fólkið á, með tilheyrandi flóttaleiðum inn í draumana eða goðsögurnar, í fálmkenndri leit að sjálfsmynd. Því miður gerir vanmátturinn við að greina rætur eigin tilfinninga það að verkum að efasemdirnar um að útlínur sjálfsmyndarinnar verði greindar vakna allt of snemma.

Allt er þetta litað gagnrýnislausri neyslu sem ofgnóttarsamfélagið gerir mögulega, þar sem hlutirnir eru þegar í boði áður en löngunin til þeirra vaknar, þannig að það er ekki löngunin sem kallar á þá – og þeirra er neytt af áhugaleysi og yfirdrepsskap einstaklingshyggjunnar, þar sem fylling hlutanna mætir tómi hinna töpuðu  tilfinningasambanda.

3. Menntun tilfinninganna

Til þess að fylgja þessari röksemdafærslu eftir þurfum við að átta okkur á því að tilfinningin felst fyrst og fremst í tengslum. Við getum lesið tilfinningalegar gáfur okkar út úr gæðum tilfinningatengsla okkar. Skólinn gæti eflt þessar gáfur með því að innleiða lestrarkennslu tilfinninganna, sem Daniel Goleman nefndi réttilega svo, þannig að auk stærðfræðinnar og tungumálanna verði einnig þjálfuð hæfni í grundvallaratriðum persónulegra tengslamyndana, en þær eiga rætur sínar í elstu tilfinningamiðstöðvum heilans  og hafa gert manninum kleift að hefja sögu sína og vegferð.(Sbr: D. Goleman, Intelligenza emotiva (1995)).

Hér kemur í hugann sú kenning Eugenio Scalfari að siðferðið sé eðlishvöt, sú eðlisávísun samstöðunnar sem tryggir varðveislu tegundarinnar til þess að lifa af, oft í andstöðu við hina einstaklingsbundnu eðlishvöt. Þeir voru ófáir sem hristu hausinn yfir þessari smættun siðferðisins niður á svið eðlishvatarinnar, eftir að hafa íklætt siðferðið hefðarfullum skartklæðum. En Goleman staðfestir þessa tilgátu:

Þar sem menntun tilfinninganna leiðir okkur til hluttekningarinnar sem fólgin er í að lesa tilfinningar annarra og þar sem umhyggja fyrir öðrum getur ekki orðið án skynjunar á þörfum og vanlíðan annarra, þá liggja rætur óeigingirninnar í hluttekningunni sem menn öðlast með menntun tilfinninganna, sem leyfir hverjum og einum að sýna það siðferðisþrek sem tímar okkar þarfnast svo mikið: sjálfsstjórn og samkennd.[5]

Nú á tímum, þegar allar tölfræðimælingar benda til þess að okkar kynslóð búi við fleiri tilfinningavandamál en fyrri kynslóðir, er menntun tilfinninganna látin sitja á hakanum. Þetta veldur því að yngsta fólkið býr við meiri einsemd, er þunglyndara, ofstopafyllra, uppreisnargjarnara, taugaveiklaðra, hvatvísara, árásargjarnara og ver undir lífið búið, vegna þess að það býr ekki yfir þeim tilfinningalegu meðulum  sem eru nauðsynleg til að öðlast eiginleika eins og sjálfsskilning, sjálfstjórn, hluttekningu. Vissulega geta menn talað án þessara eiginleika, en ekki hlustað, ekki leyst deilur eða unnið saman.

Það er vert að ráðleggja þeim kennurum sem  standa í því á hverjum degi að fella dóma um vitsmunalega getu nemenda sinna, að hugleiða fyrst hversu mikla tilfinningamenntun þeir hafa veitt nemendunum, því þeir geta í það minnsta ekki falið það fyrir sjálfum sér að vitsmunirnir og lærdómurinn nýtast ekki ef þeir fá ekki næringu frá hjartanu.

Ef skólinn er ekki alltaf fær um að veita þá sálfræðilegu menntun sem gerir ekki bara kröfur um vitsmunalegan, heldur líka tilfinningalegan þroska, þá gæti samfélagið kannski veitt síðasta tækifærið, ef gildi þess væru ekki einskorðuð við neyslu, frama, peninga, ímynd og varðveislu einkalífsins, heldur fælu einnig í sér svolítinn vott af samstöðu, tengslamyndunum, samskiptum og samhjálp, sem geta demprað þau andfélagslegu einkenni er auðkenna æ meir kjarnafjölskylduna í menningu okkar.

4. Hið sviðna hjarta

Á okkar tímum er það sem gerist innan veggja heimilisins innibirgt og ekki til umræðu, og það sem gerist utan veggja þess er meðhöndlað með þeim huliðsblæjum sem við berum á degi hverjum til þess að gæta þess að ekkert verði upplýst um þau tilfinningaátök, gleðina og sorgina, sem menn upplifa innan vel verndaðra veggja heimilisins.

Í eyðimörk þeirra tilfinningalegu samskipta sem við fengum aldrei að læra sem ungabörn, sem við kynntumst aldrei sem unglingar og sem okkur hefur verið kennt að halda í skefjum á fullorðinsaldri, kemur verknaðurinn upp á yfirborðið, sérstaklega hinn ofbeldisfulli verknaður, sem kemur í stað allra orðanna sem við höfum látið ósögð, bæði við náungann -vegna sjálfsprottinnar tortryggni- og við sjálf okkur – vegna tilfinningalegs málstols.

Þess vegna þarf það að gerast áður en við leggjumst á sálfræðibekkinn, þar sem skipst er á orðum gegn greiðslu sem og kunnugt er, og áður en við látum lyfin kæfa endanlega öll orðin sem gætu gert okkur kleift að fjalla um og kynnast sálarástandi okkar; fyrst þurfum við að átta okkur á nauðsyn fyrirbyggjandi tilfinningalegrar menntunar sem svo lítil færi gefast á í fjölskyldunni, skólanum eða samfélaginu,.

Þetta á sérstaklega við um okkar samfélag, sem hefur þróað með sér einstaklingshyggju, valmöguleika og frelsi sem voru óþekkt í fyrri samfélögum er sátu föst í viðjum fátæktar og  trúarhefða sem virkuðu eins og varnarmúrar. Sem betur fer eru þessar viðjar nú rofnar, en spurningin er hvort sú nýja einstaklingshyggja, sem er að festast í sessi, sé þess umkomin að fylla upp í það rými frelsis og einsemdar sem henni standa til boða. Ég tel að svo sé ekki.

Vegna þessa er mikið verk að vinna í forvarnarstarfi sálrænnar menntunar (en ekki bara menntunar líkamans og rökvísinnar) til þess að menn séu í stakk búnir að takast á við þennan samtíma okkar sem hefur lokað öllum umhugsunarleiðum, gert samskiptaleiðirnar marklausar en umfram allt sviðið hjartað, sem er líffærið sem við notum til að finna, áður en við gerum okkur grein fyrir, hvað er hið góða og hvað er hið illa.

En hver tekur að sér að hlúa að hjartanu á okkar dögum? Hjartanu í dýpstu merkingu þess orðs, eins og Pascal lýsir því þegar hann talar um esprit de finesse er eigi að ríma við esprit de géometrie (Sbr: B. Pascal, Pensées § 21)   það er að segja við rökhugsun okkar, sem án hjartans verður ekki bara björt og köld, heldur frumorsök hins illa, þess algilda illa sem lýst er í Mósebók, þegar dregin er upp mynd af Lúsífer og hann sagður „hinn gáfaðasti meðal englanna” (Sbr: 1.Mósebók, 3, 1.)

5. Eyðimörk tilfinninganna

Við höfum kynnst geðveikinni sem ofvirkni ástríðunnar. Við sjáum sjúkdómseinkennin, við vitum til hvers þau geta leitt, við sjáum fyrir okkur  mögulegar afleiðingar. Á okkar tímum verður þess hins vegar æ meira vart meðal unga fólksins að geðveikin taki á sig mynd kulda og rökhyggju, sé fullkomlega dulin og brjótist út við ófyrirsjáanlegustu aðstæður sem enginn getur séð fyrir eða grunað að séu í aðsigi.

Það átti til dæmis við um stúlkurnar þrjár af millistétt í bænum Sondrio sem fyrir fáum árum drápu nunnu. Þannig var það einnig í Sesto San Giovanni þar sem drengur, sem einnig var af vel stæðu heimili, lenti í fangelsi fyrir að hafa stungið vinkonu sína með hnífi á skólalóðinni. Sama má segja um atburð í borginni Padovu, þar sem piltur drap föður sinn, sem var háskólaprófessor, og lagði síðan eld að líkinu í húsgarðinum.

Það eru ekki mörg ár liðin frá því  að stúlka ein í bænum Novi Ligure, sem dagblöðin sögðu fallega og gáfaða, alda upp í góðri fjölskyldu og menntaða í einkaskóla á vegum kirkjunnar, stakk móður sína 40 hnífsstungum og bróður sinn 56, í samvinnu við kærasta sinn og jafnaldra. Dögum saman stóðst hún yfirheyrslur lögreglunnar án þess að sýna minnstu tilfinningaleg viðbrögð.

Það sem öll þessi tilvik eiga sameiginlegt er skelfilegt tilefnisleysið. Það er andspænis því ófyrirsjáanlega, því sem enginn getur látið sig gruna, sem sú frumlæga angist brýst fram sem fyrstu mennirnir upplifðu þegar þeir stóðu frammi fyrir heimi sem þeir kunnu hvorki að lesa út úr né greina.

Þegar ekkert tilefni er sjáanlegt, þegar æðið sem venjulega fylgir geðveikum gjörningum er ekki til staðar, þá þarf að grafa enn dýpra til að skilja hvaða einstaklingar það séu og hvernig þeir séu gerðir, sem framkvæma svo hryllilega verknaði án þess að sýna nokkur tilfinningaleg viðbrögð.

Þessi einkenni eru þekkt í geðlæknisfræðinni þar sem þau eru flokkuð undir „geðröskun“ [psicopatia] eða „félagsfötlun“ [sociopatia]. Sá sem er haldinn geðröskun er fær um að fremja hryllilegustu gjörninga án þess að þeir virðist snerta hann hið minnsta tilfinningalega. Hjartað er ekki í tengslum við hugsunina og hugsunin ekki í tengslum við verknaðinn. En er enginn sem gerir sér grein fyrir því hversu útbreitt þetta fyrirbæri er meðal ungs fólks?

Tilhneigingin virðist vera sú að horfa framhjá vandanum. Góð menntun, sérstaklega það borgaralega uppeldi sem kennir að menn eigi að halda öllum tilfinningalegum öfgum í skefjum, hefur sniðið fyrir þessa krakka klæði góðrar hegðunar, staðlaðs tungutaks og stjórnar á tilfinningalífinu, þannig að þau eru eins og brynjuð, og nákomnir ættingjar eiga enga möguleika á að skilja hvað þeir eru að hugsa. Að baki liggur skortur á eðlilegum tilfinningaþroska sem hefur tæmt tilfinningalífið og gert það bæði óvirkt og tjáningalaust, þannig að atburðir lífsins fara framhjá þessu fólki án nokkurrar þátttöku, án eðlilegra tilfinningalegra viðbragða gagnvart því sem gerist.

Betur settar fjölskyldur búa yfirleitt yfir góðum menningarlegum jarðvegi, þar sem jafnan er brugðist við vandamálunum með yfirveguðum hætti ef við þeim er brugðist á annað borð, þar sem fólk hækkar aldrei róminn, þar sem ekki er grátið og ekki hlegið, og þó fyrst og fremst þar sem samskipti eru óvirk, því þegar börnin hafa veitt sínar upplýsingar um hvað sé að gerast í skólanum og hvenær þau komi heim eftir skemmtanir laugardagskvöldsins, þá fá þau að njóta sjálfstæðis síns. Undir yfirborðinu er hins vegar falinn grímuklæddur ótti foreldranna við að opna þá ráðgátu sem börn þeirra eru orðin þeim.

Það á við um börnin eins og dýrin, að þau finna á sér þegar foreldrarnir eru óttaslegnir, og þegar slíkar áhyggjur eru ekki til staðar finna þau í staðinn fyrir tilfinningalegu afskiptaleysi foreldranna. Þessi börn velferðarinnar og rökhyggjunnar sem hafa verið ein frá því þau voru agnarlítil, geymd í umsjá sjónvarpsins eða í vörslu leiguliða barnapíanna, þau vaxa upp með ærslafullu hjarta í byrjun, hjarta sem kallar á tilfinningalega umhyggju, en þegar þessi umhyggja gerir ekki vart við sig, þá taka þau vonbrigðin út fyrirfram með kaldhæðni til þess að verja sig gegn því svari ástarinnar sem þau óttast að muni aldrei koma.

Á þessu þroskastigi verður það hjarta, sem eitt sinn var ærslafullt og ákallandi, flatt og innilokað, reiðubúið að gefa sig ýmist á vald depurðarinnar eða leiðindanna.  Og þegar tilfinningalegir stormar skella á hjarta sem er skrælnað vegna þess að það hefur ekki verið vökvað, þá dregur það sig inn í skel sína með óvinnandi varnarmúrum sem styrktir eru með góðu uppeldisreglunum, kurteisinni og líkamsræktinni sem þau hafa fengið í vel búnum líkamsræktarstöðvum rökhyggjunnar.

Er þá ekki allt í sómanum? Á yfirborðinu verður ekki annað séð en svo sé. Það gengur ekki svo illa í skólanum, þau kunna sig og klæða sig líka vel, og gríman sem þau bera að því er virðist áreynslulaust, ber vott um fullkomna þjálfun.

Kynlífið, þegar því er til að dreifa, er tæknilegt og líkamlegt, því þessir krakkar hegða sér „frjálslega”, þau dansa með krampakenndum hætti á diskótekunum, saman með öllum hinum í einsemd sinni. Smáskammtur af alsælu [ecstasy] gefur það létta tilfinningastuð sem á vantar, en það er ekki til umtals, það er gert til að tolla í tískunni, til þess að vera eins og hinir sem tilheyra „hópnum”, líka vel menntuðum hópi, í þeirri von að vinirnir veiti þær leifar tilfinningalegrar huggunar, sem hjarta þeirra þyrstir réttilega í, rétt eins og það væri sjálfstætt líffæri.

En svo kemur að því að allt springur í loft upp. Spenna rökhyggjunnar sem aldrei hefur blandast tilfinningunum, varðstaðan um kurteisisreglurnar sem eru löngu orðnar eitt með skortinum á einlægninni og getur verið ómeðvituð, leiðinn sem hvílir eins og mara á tilfinningalífinu og kemur í veg fyrir að það verði í takt við umheiminn, búa til þessa eitruðu blöndu sem jarðar égið hjá þessum ólánssömu ungmennum, þannig að þau bregðast við í þriðju persónu með gjörðum sem saga mannsins á erfitt með að heimfæra upp á sjálfa sig.

Þetta eru gjörðir sem réttarfarið á erfitt með að meðhöndla, og þar með líka samfélagið, sem stöðugt leitar að tilefni verknaðarins til að friða sjálft sig. En tilefnið er í raun og veru ekki til staðar, eða ef það er til staðar, þá er það í svo miklu ósamræmi við harmleikinn vegna þess að gerendurnir gera sér ekki grein fyrir því. Leitin að tilefninu ber okkur langt í burt, eins langt og líf gerendanna leiðir okkur til uppruna síns, eftir lífsbraut sem hefur veitt kennslu í öllu  nema því að skapa tengsl á milli tilfinninganna og hugans, milli hugans og hegðunarinnar, og á milli hegðunarinnar og þess tilfinningalega enduróms sem atburðir heimsins hafa stimplað í hjarta þeirra.

Þessar tengingar, sem gera manninn að manni, hafa aldrei myndast og því verða til ævisögur er geta leitt til gjörninga sem eru sögunum svo ótengdir að þeir verða ekki einu sinni skynjaðir sem eigin gjörningar. Einmitt vegna þess að hjartað er ekki í tengslum við hugsunina, og hugsunin ekki í tengslum við hegðunina, vegna þess að hin tilfinningalegu samskipti hafa brugðist, og um leið menntun hjartans sem er það líffæri er lætur okkur finna  áður en við hugsum, finna hvað sé rétt og hvað sé ranglátt, hver ég er og hvað ég geri í þessum heimi.

6. Sálarstyrkurinn

Nú á tímum er það kallað „álagsþol” [resilienza], einu sinni var það kallað „sálarstyrkur“ [forza d’animo], en Platon kallaði það thymoeidés og staðsetti það í hjartanu (Sbr: Ríkið, Bók IV, 440b-440e). Hjartað er myndlíking fyrir tilfinninguna, orð sem ennþá endurómar hið platónska thymoneidés.

Tilfinningin er ekki tilfinningasemi, ekki illa dulin depurð, hún er ekki tæring sálarinnar, ekki óhuggandi einsemd. Tilfinningin er kraftur. Sá kraftur sem við finnum á bak við hverja ákvörðun. Þegar við höfum greint alla kosti og galla tiltekinnar röksemdafærslu þá tökum við ákvörðun vegna þess að við finnum sjálf okkur betur í einu vali en öðru. Sá er ekki sæll sem vegna hagræðis eða veikleika velur leið sem ekki er hans, sá er ekki sæll sem verður sem ókunnugur í eigin lífi.

Sálarstyrkurinn, sem er ekkert annað en kraftur tilfinninganna, ver okkur gegn þessari firringu, lætur okkur finna að við erum heima hjá okkur, með sjálfum okkur. Þar er heilsuna að finna. Eins konar samsvörun við okkur sjálf, sem forðar okkur frá öllum þeim „útisetum”  [altrove] lífsins sem við leiðumst oft inn á vegna þess að aðrir, sem við teljum okkur háð, fara einfaldlega fram á það, og við kunnum ekki að segja nei.

Þörfin fyrir viðurkenningu og löngunin til þess að vera elskaður leiða okkur inn á brautir sem tilfinningarnar segja okkur að séu ekki okkar eigin, og þannig veiklast sálarstyrkurinn og lætur undan sjálfum sér í gagnslausri eftirsókn eftir því að þóknast öðrum. Á endanum veikist sálin, því eins og við öll vitum þá er veikin myndlíking, myndlíking fyrir útafaksturinn [devianza] á vegslóð lífsins.

Það þarf að mennta unga fólkið til að verða það sjálft, algjörlega það sjálft.  Í því er sálarstyrkurinn fólginn.  En til þess að vera við sjálf þurfum við að taka okkar eigin skugga opnum örmum.  Hann er það í okkur sjálfum sem við höfum afneitað. Myrkur hluti sem fær okkur til að finnast við „hæfð í hjartastað” þegar einhver snertir við honum. Því skugginn er lifandi og vill vera meðtekinn. Myndverk sem er án skugga lætur ekki í ljós innihald sitt. Þegar skugginn hefur verið meðtekinn veitir hann okkur af krafti sínum. Þá hættir stríð okkar við okkur sjálf og því getum við sagt: „Já einmitt, ég er líka þetta.” Og sá friður sem þannig vinnst veitir okkur þann sálarstyrk og kjark sem þarf til að horfast í augu við sársaukann, án þess að flýja á náðir sjálfsblekkingarinnar.(Sbr. C.G. Jung, Aion. Beiträge zur Symbolik der Selbst (1951), kafli 2: “Der Schatte”)

„Allt það sem ekki gerir út af við mig gerir mig sterkari.”, skrifar Nietzsche (Sjá Nachgelassene Fragmente (1888-89)). Þess vegna er okkur nauðsynlegt að ganga í gegnum þau landsvæði sem eru sáð sársaukanum, en reyna ekki að flýja þau. Þau svæði sem tilheyra okkur sjálfum og þau sem tilheyra öðrum.  Því sársaukinn tilheyrir lífinu með sama rétti og hamingjan. Ekki sá sársauki sem er ávísun á eilíft líf, heldur sársaukinn sem óhjákvæmilegur kontrapúnktur lífsins, sem hin daglega mæða, eins og myrkur þeirrar sýnar sem ekki greinir undankomuleið. Engu að síður leitar hún hennar, því hún veit að næturmyrkrið er ekki eini litur himinsins.

Það er ekki síst unga fólkið sem þarf á sálarstyrk að halda á okkar tímum. Það nýtur ekki lengur baklands hefðarinnar, því lögmálstöflurnar sem geymdu siðalögmálin eru brotnar, tilgangur tilverunnar er horfinn og stefna hennar í algjörri óvissu. Sagan segir ekki lengur frá lífi forfeðranna, og þau orð sem feðurnir beina til sona sinna og dætra eru í senn mörkuð öryggisleysi og óvissu. Augnaráð þeirra mætast, en oft til þess eins að forðast hvort annað.

Engu að síður er það svo að þó unga fólkið játi það aldrei, þá bíður það eftir einhverju eða einhverjum er ferji það áfram, því úthafið sem það siglir á er ógnvekjandi, einnig þegar útlit þess er draumkennt. Áhættan sem það tekur þegar því tekst að sneiða hjá ýtrustu lausnum er sú að eyða ævistundunum án tilfinninga, án göfgi, villuráfandi meðal þess smáfólks sem lætur sér nægja, samkvæmt Nietzsche, að lifa á „einum duttlungi fyrir daginn og öðrum fyrir nóttina, bara að heilsan sé í lagi.” („Man hat sein Lüstchen für den Tag und seinen Lüstchen für die Nacht: aber  man ehrt die Gesundheit“).  Þannig tapar smáfólkið sambandinu við sjálft sig í hávaða heimsins.

Almennar smáástríður eru á sveimi í útbrunnum sálum þessara ungmenna, en ná ekki að vekja þær. Þær skortir þróttinn. Það er búið að róa þær niður með þeim lífsfyrirmyndum sem blásnar eru út sem jafnvægi og góð menntun, en eru í raun svefn, meðalmennska og gleymska eigin sjálfs. Það vantar hugrekki sæfarans sem hefur með myndlíkingu Nietzsche „yfirgefið landið sem var einungis verndarsvæði, látið alla fortíðarþrá lönd og leið, en talið kjark í hjarta sitt.“ (Sbr: F. Nietzsche, Svo mælti Zaraþústra; Bók III: “Innsiglin sjö” bls. 230). Hjarta sem er ekki tilfinningasamt mótvægi  rökhugsunarinnar heldur kraftur hennar, lífgjafi hennar allt þar til hugmyndirnar sem eru uppblásnar af ástríðum verða virkar og marka söguna. Sögu sem eykur fullnægjuna.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

INTIFADA – UPPREISN Í LANDINU HELGA – IV.

Heimsókn til Taybeh, sem áður hét Efraim

 

Bærinn Taybeh, sem í Biblíunni heitir Efraim, er skammt frá Jerúsalem. Hann var einn síðasti áfangastaður Krists á leið hans til Jerúsalem og Golata. Bærinn hefur verið kristinn allt frá þeim tíma og sumir segja að það hafi verið Kristur sjálfur sem kristnaði íbúana. Eftir að Kristur hafði vakið Lasarus frá dauðum staðnæmdist hann í Efraim með lærisveinum sínum (Jóh. 11.54). Leiðsögumaður minn um Palestínu var Kólumbíumaður, en átti ættir að rekja til bæjarins. Við vorum í sömu erindagjörðum og nutum gistivináttu frændfólks hans í þessum kristna bæ.Í þessum pistli segir frá löngu samtali sem ég átti við kaþólska sóknarprestinn í bænum, föður Johnny Sansoor, áður en ég kvaddi Palestínu og hélt aftur til Amman í Jórdaníu.

„Eitt máttu vita: þegar þú kemur heim þá verður þú spurð um ástandið hérna. í þeim efnum get ég aðeins ráðlagt þér eitt: forðastu allar umræður um slíkt. Þær verða engum til gagns. Hefur þú annars orðið vör við nokkuð alvarlegt?“

„Nei.“

„Ekki ég heldur.“ „Ég get bara talað um hvað Ísrael sé yndislega fallegt land, hvað loftslagið sé gott og hvað mannlífið sé fagurt…“

„Já, einmitt…“

Þetta er brot úr samtali sem ég varð vitni að eitt kvöldið í Jerúsalem. Ég hafði verið í Ramallah um daginn og horft á hermennina skjóta á börnin. Ég varkominn til Jerúsalem eftir erfiðan dag, og hafði sest niður við útiveitingahús handan Zíon-hliðsins í hinum hebreska hluta borgarinnar. Því engar veitingar er að fá í hinum arabíska hluta hennar vegna verkfalla. Við næsta borð sátu maður og kona. Konan var breskur gyðingur í pílagrímsferð, maðurinn trúlega búsettur í Jerúsalem. Ég hafði heyrt með öðru eyranu að þau voru að ræða trúarleg málefni gyðingdómsins. Vandamál dagsins í dag afgreiddu þau með ofangreindum setningum.

Þótt ég hafi ekki haft tíma eða aðstöðu til að ferðast mikið um Ísrael á þessu ferðalagi mínu, eða  kynna mér afstöðu gyðinga þar til þeirra gífurlegu vandamála sem ég varð vitni að á herteknu svæðunum, þá ímynda ég mér að afstaða margra íbúa Ísraels mótist á þessa leið: Vandamálinu er markvisst og kerfisbundið skotið undan, eins og það sé ekki til. Þessi afstaða kemur einnig fram í ísraelskum fjölmiðlum. Þannig sagði dagblaðið Jerúsalem Post nýverið frá því að stjórnvöld hefðu tekið upp þá „mannúðlegu“ stefnu gagnvart íbúum Gaza-svæðisins að nú yrði á ný opnað fyrir þann möguleika að íbúar þess gætu sótt vinnu í Ísrael. Þess var hins vegar að engu getið að fiskimennirnir í Gaza liðu hungur af því að stjórnvöld höfðu bannað þeim að sækja sjóinn. Að jafnvel hungrið var liðtækt meðal fyrir stjórnvöld til  að kúga þetta fólk til hlýðni og undirgefni. Og að með því að kippa grundvellinum undan sjálfstæðum efnahag arabanna mátti ná sér í ódýrt vinnuafl.

Hjá kaþólskum presti í Taybeh

„Hingað til mín hefur komið fjöldi fólks, bæði kristnir menn, gyðingar og múslimar, til þess að ræða ástandið á herteknu svæðunum. Ég hef alltaf byrjað á því að spyrja viðkomandi hvort þeir hafi komið til Gaza. Hafi þeir ekki komið þangað, þá byrja ég á því að fara með fólkið þangað. Palestínuvandinn verður ekki skilinn nema menn komi þangað, og séu menn ánægðir með það sem þar fer fram, þá er kominn grundvöllur til að ræða málin. Ég frétti að þú hafir þegar verið í Gaza, og þess vegna var ég fús að ræða við þig.“

Faðir John Sansoor, sóknarprestur í Taybeh. Hann var enginn venjulegur prestur, heldur starfaði sem raunverulegur "hirðir" safnaðarins og stóð fyrir skólastarfi, sálgæslu, félagsmálum, heilugæslu og virtist með hugann við allt er varðaði bæjarfélagið. Hámenntaður maður í fornmálum, grísku, hebresku og latínu auk þess sem hann talaði bæði ensku og frönsku reiprennandi. Hann var svo bráðlifandi og fordómalaus að hann hefði kannski verið greindur með ADH-ofvirkni ef ef ekki hefðu verið tilvistarlegar aðstæður sem knúðu hann áfram. Ógleymanlegur maður. Því miður eyðilagðist myndin sem ég tók af honum, en þessa fann ég á vef kaþólsku kirkjunnar í Landinu helga.

Þetta sagði faðir John J. Sansoor, sóknarprestur í bænum Taybeh, sem hét áður Efraím, en ég átti langt samtal við hann í safnaðarheimili bæjarins kvöldið áður en ég hélt til baka frá Vesturbakkanum yfir til Amman í Jórdaníu. Bærinn Taybeh / Efraím er kristinn bær, eini hreinkristni bærinn á Vesturbakkanum að sögn, og hefur trúlega verið það allt frá dögum Krists. Bæjarbúar segja jafnvel að það hafi verið Kristur sjálfur sem kristnaði Efraím, en frá því er sagt í Jóhannesarguðspjalli (11,54) að Kristur hafi dvalið ásamt lærisveinum sínum í Efraím nokkrum dögum fyrir krossfestinguna. Í bænum eru rústir frá þessum tíma. Bærinn er um 20 km austan Jerúsalem, en þar fyrir austan tekur við eyðimörkin, Jórdandalur og norðurendi Dauðahafsins. Í bænum búa nú um 1200 kristnir arabar og um 100 múslimar. Fyrir 6 daga stríðið voru íbúarnir 3000, yfir helmingur þeirra hefur flúið vegna hernámsins.

Mikilvægi upplýsinganna

„Við höfum mikla trú á blaðamönnum. Þeir eru eins konar trúboðar okkar tíma. Þeir eiga að geta hjálpað heiminum að finna lausn á vanda okkar. Blaðamenn eiga ekki að taka afstöðu með eða á móti deiluaðilum, heldur eiga þeir að hjálpa báðum aðilum til að finna lausn vandans. Og þeir eiga að hjálpa til með að leiðrétta þá brengluðu mynd, sem heimurinn hefur fengið af vandamálum okkar,“ segir faðir Sansoor.

– Að hvaða leyti hefur heimurinn fengið brenglaða mynd?

„Jú, allir halda að arabar vilji reka alla gyðinga burt úr Palestínu. En það er ekki rétt. Palestínumenn eru gestrisin þjóð. Þeir buðu gyðinga velkomna á sínum tíma, og frá upphafi lifðu gyðingar og arabar í sátt og samlyndi. Það voru zíonistar sem notfærðu sér gestrisni Palestínumanna og ráku þá úr landi sínu. Í öðru lagi þá hafa þeir sem leita lausnar á Palestínuvandanum alltaf rætt við þá Palestínumenn sem aldrei misstu neitt. En það dugar ekki til. Gyðingarnir verða að byrja á því að ræða við flóttamennina. Þá sem búa í flóttamannabúðunum. Því það er á þeim sem vandinn brennur heitast. Eins og þú veist, þá er það slík reynsla að koma til Gaza, að maður fyrirverður sig. Mér líður jafnan illa í marga daga eftir að hafa farið þangað. Palestínumennirnir í flóttamannabúðunum þar hafa verið sviptir allri sjálfsvirðingu, öllum eignum sínum, öllu. Heimurinn þarf að færa þeim sjálfsvirðingu sína aftur“.

Uppreisn barnanna

Götumynd úr flóttamannabúðum á Vesturbakkanum. Ljósm. olg

– Hvaða þýðingu hefur Intifadan, – uppreisnin -, í þessu samhengi? Markar hún ekki leið þessa fólks til endurheimtrar sjálfsvirðingar?

„Það er athyglisvert með þessa uppreisn, að allir reyna að eigna sér hana eftir á. En þetta er sjálfsprottin uppreisn, sjálfsprottin uppreisn barnanna. Börnin hafa í 20 ár horft á foreldra sína niðurlægða. Ég hef spurt börnin hér hvers vegna þau kasti grjóti. Svörin sem ég hef fengið hafa verið á sömu lund. Börnin eru í fyrsta lagi að segja gyðingunum að þeim falli ekki við þá, að þau vilji ekki þola návist þeirra.

Í öðru lagi markar grjótkastið andstöðu barnanna við foreldra sína. Foreldrana sem hafa í 20 ár lifað í hræðslu við gyðinga. Þau eru að segja við foreldra sína að þeir séu huglausir og fullir af uppgjöf, þau eru að segja þeim að það sé betra að deyja en að lifa undir hernámi.

í þriðja lagi þá er grjótkastinu beint til útlendinganna. Við þá vilja börnin nú segja: Þið hjálpuðuð gyðingum til þess að verða hamingjusamir í okkar landi- og gerðuð okkur þar með að óhamingjusamri þjóð. Nú ætlum við að leggja þetta land í rúst til þess að allir megi vera óhamingjusamir.“

Börnin stjórna okkur

-Átt þú við að foreldrarnir standi ekki að baki þessari uppreisn með sama hætti og börnin?

„Nei, foreldrarnir eru ekki á sama máli og börnin. En við höfum ekki lengur neina stjórn á börnunum. Það eru þau sem stjórna okkur – og það er hættulegt. Börn eru alltaf börn og hafa ekki þroska hinna fullorðnu. Við sjáum að þau grípa til heimskulegra örþrifaráða. Við sjáum þau brenna akra og plantekrur fyrir gyðingum. Slík örþrifaráð eru í augum barnanna eðlileg, því þau eru í samræmi við þá ætlun þeirra að leggja landið í rúst. Gyðingar, sem dags daglega eru viti bornir menn, hafa hagað sér eins og fávitar frammi fyrir þessum vanda. Hugsaðu þér bara: ef barn grýtir fullorðinn mann, þá er eðlilegt að hinn fullorðni brosi og reyni að skilja, hvers vegna barnið framdi þennan verknað. Hann drepur ekki barnið eða limlestir. Slík viðbrögð eru bæði fávísleg og koma heldur ekki að haldi. Ég get sagt þér að ég rek skóla hér í sókninni, og það hefur komið fyrir nokkrum sinnum undanfarna mánuði að börnin hafa grýtt skólahúsið og brotið rúður. Ég hef þá reynt að komast að því hvaða börn hafa verið að verki, og ég hef spurt þau, hvers vegna þau hafa gert þetta. Svörin eru jafnan á þá lund að þau hafi verið beitt einhverju misrétti í skólanum eða ekki fengið réttláta einkunn eða umsögn. Ég hef ekki refsað þessum börnum, heldur rætt við þau og reynt að skilja þau, og ég get sagt þér að í 70% tilfella hafa þau síðan komið sjálfviljug og bætt skaðann sem þau hafa valdið.

Það hjálpar hins vegar ekki að loka skólanum, berja börnin eða brenna. Það mun ekki stoppa þau af. Börnin eru viss í sínum rétti, og þau munu halda áfram á sinni braut þar til hinir fullorðnu viðurkenna rétt þeirra. Ég get sagt þér að börn hafa ekki hatur í hjarta sínu. Ég þekki börn sem kasta grjóti í hermenn á morgnana en selja þeim síðan kökur um eftirmiðdaginn. En nú, þegar stjórnvöld í Ísrael eru farin að berja börnin, limlesta og fangelsa, þá eru þau að sá hatri í hjarta þeirra. Og það gerir ástandið þúsund sinnum hættulegra en það hefur verið.“

Persónubundið hatur

– Átt þú við að uppreisnin sé ekki knúin fram af hatri?

„Sjáðu til, fram að þessu hefur hatrið verið óhlutbundið og ópersónulegt hatur á milli þjóða. Eins og á milli þjóða sem eiga í stríði. Hættan er sú að hatrið verði persónubundið. Ég get nefnt þér dæmi: Í síðustu viku umkringdu ísraelskir hermenn hús einnar fjölskyldu í sókn minni. Þeir fóru inn í húsið og tóku yngri soninn. Áður höfðu þeir tekið eldri soninn úr fjölskyldunni með sama hætti, og þá hafði móðir hans misst fóstur af geðshræringu og hræðslu. Þegar hermennirnir komu í annað sinn sagði faðirinn við forsvarsmann þeirra:

„Ef kona mín missir fóstur í annað sinn mun ég drepa þig…“

Í stríði þekkja menn ekki andstæðing sinn, hann er óhlutbundinn, ef svo mætti segja. En hér er þetta að þróast yfir á annað og hættulegra stig. Og þið blaðamenn verðið að koma gyðingum í skilning um að ekki megi breyta þessari deilu á milli þjóða yfir í persónubundið hatur.“

Tvískinnungur arabaríkjanna

– En standa ekki aðrar arabaþjóðir að baki uppreisninni?

„Arabaheimurinn er nú stöðugt að biðja Palestínumenn um að halda uppreisninni áfram, en þeir veita henni ekki raunverulegan stuðning, eða gera það að minnsta kosti illa. Staðreyndin er sú að við vorum ekki búnir undir uppreisnina. Hún hefur komið illa við okkur á margan hátt, sérstaklega alla félagslega þjónustu og uppbyggingu. Þar ríkir nú upplausn. Sjúkrahús, skólar, gistihús og fyrirtæki, sem rekin eru af einkaaðilum hér á herteknu svæðunum, geta ekki lengur greitt laun. Ef uppreisnin heldur áfram munu mörg þessi fyrirtæki þurfa að loka.

Tökum sem dæmi skólann, sem ég stjórna hér í bænum. Í þessum skóla eru 374 börn og þar vinna 20 kennarar. Þetta er kristinn skóli, rekinn fyrir skólagjöld barnanna. Ég greiði kennurunum laun fyrir skólagjöldin. Foreldrar hafa ekki lengur efni á að greiða skólagjöldin og eru líka ófús að gera það, þar sem skólinn hefur lengi verið lokaður vegna skipunar hernámsyfirvaldanna. Ég hef greitt kennurunum laun þótt skólinn hafi verið lokaður frá því í desember fram í maí. Ég hef ekki efni á að greiða kennurunum laun mikið lengur við óbreyttar aðstæður, og ég mun því neyðast til að loka skólanum okkar. Hér er líka rekið lítið hótel fyrir kristna pílagríma. En frá því uppreisnin hófst hafa margir pílagrímahópar afpantað gistingu. Ég get því ekki lengur greitt starfsfólki hótelsins laun. Þetta eru bara dæmi sem sýna okkur hvað er að gerast. Ástandið er í rauninni mjög alvarlegt. Við getum líkt ástandinu við særðan mann í bardaga sem finnur ekki fyrir sárum sínum af því að hann er upptekinn af orrustunni. En þegar hann slakar á, finnur hann fyrir sárum sínum. Við munum finna illa fyrir sárum uppreisnarinnar í nóvember og desember næstkomandi.“

– Fyrirgefðu að ég spyr, en hvernig stendur á því að þú hefur 374 nemendur í barnaskóla í 1100 manna söfnuði? Eru fjölskyldur svona barnmargar?

„Nei, í skóla mínum eru líka börn úr öðrum bæjum. Börn sem eru uppvís að því að hafa kastað grjóti að ísraelskum hermönnum eru svipt öllum rétti til skólagöngu í skólum sem reknir eru af Ísraelsríki það sem eftir er ævinnar. Við höfum allmörg þessara barna í okkar skóla, og það eru líka börn múslíma.“

Uppreisnin þarf stuðning

– Hvernig bregðist þið við þessum vanda?

„Það er mikilvægt að allir stuðningsmenn Palestínumanna geri sér grein fyrir því, að hér blasir við hrein upplausn. Og hún getur leitt til annarrar bylgju atgervisflótta. Til dæmis er læknirinn okkar hér nú að íhuga að flytjast til Ástralíu. Hættan eykst stöðugt á því að fólk fyllist örvæntingu og yfirgefi landið. Frá því uppreisnin byrjaði hafa 50 ungir menn yfirgefið Efraím og farið til annarra landa. Ef þessu heldur áfram án utanaðkomandi stuðnings erum við glötuð. Og það sorglega er, að mikið af því fé, sem sent er til herteknu svæðanna til stuðnings Palestínumönnum, lendir í höndum stjórnvalda í Ísrael eða Jórdaníu. Vegna þessa hef ég gripið til nokkuð sérstaks ráðs meðal vina minna í Frakklandi. Þeir koma hingað mikið í pílagrímsferðir, og með þeim hef ég gert samning um kílógramm pílagrímsins. Þeir sem hingað koma taka með sér kílógramm af einhverju, sem kemur okkur til góða, í einu eða öðru formi. Þá er það staðreynd að það hjálparfé sem berst í gegn[1]um kirkjuna kemst til skila. Ég hef líka stofnað bankareikning í Frakklandi fyrir starf okkar hér við skólann, heilsugæslustöðina og fleira. En enn sem komið er dugar þetta ekki.“

– Hvað er stór hluti Palestínuaraba kristinnar trúar?

„Þeir kristnu eru um 4,5 – 5% af Palestínumönnum, en áhrif þeirra eru meiri en fjöldinn segir til um, því þeir áttu yfirleitt landeignir og höfðu betri afkomu og menntun.“

Á milli vonar og ótta

– Hvað telur þú að muni gerast í náinni framtíð?

„Hér lifa allir á milli vonar og ótta. Við vitum að gyðingar (ekki Ísraelsmenn) vilja byggja gyðingaríki sem er bara fyrir gyðinga, og þeir eru reiðubúnir að leggja á sig allar hugsanlegar þjáningar til að ná þessu marki. Uppreisnin veldur því að margir Palestínumenn yfirgefa landið. Það þjónar hagsmunum gyðinganna. Uppreisnin gerir arabana stöðugt fátækari. Endanlega munu þeir neyðast til að hverfa aftur að því að vinna fyrir gyðingana. Það þjónar hagsmunum gyðinganna. Því ef gyðingar leyfa aröbum að vera í ríki sínu, þá eiga þeir aðeins að fá að vera þar sem þrælar. Og fjórar miljónir gyðinga þurfa eina miljón arabaþræla til þess að vinna skítverkin fyrir sig.

Í upphafi vakti uppreisnin athygli umheimsins. Nú virðist heimurinn hins vegar vera búinn að fá nóg af þessari uppreisn, sem engum árangri skilar. Fréttirnar verða hluti hversdagsins, eins og gerðist í Víetnamstríðinu og hungursneyðinni í Eþíópíu. En þrátt fyrir þetta er eitt atriði mikilvægt: uppreisnin kann að valda því að samviska sumra réttsýnna Ísraelsmanna vakni, og það væri jákvætt fyrir Palestínumenn. Því að mínu mati getur lausn Palestínuvandans einungis komið frá Ísraelsmönnum sjálfum. Allt fram á þennan dag hafa þeir verið blindir á það óréttlæti sem þeir hafa framið gagnvart Palestínumönnum. Þegar sá dagur rennur upp að Ísraelsmenn gera sér ljóst hvað þeir hafa gert Palestínumönnum, þá munu þeir leita lausnar á vandanum. Uppreisnin er nú að opna augu réttlátra manna í Ísrael. Þetta fólk mun bregðast við á sinn hátt, og kannski semja frið. Og fyrir mér er þetta hið eina jákvæða við uppreisnina.“

Að gera illt verra

-En uppreisnin kemur sér líka illa fyrir stjórnvöld. Ísrael virðist þegar vera orðið lögregluríki og ekki sjáanlegt að því linni…

„Já, það er mikilvægt að allir þeir, sem telja sig vera raunverulega vini gyðinga, segi þeim sannleikann um það óréttlæti sem þeir fremja nú. Því annars munu þeir einungis halda áfram að gera illt verra. Hvað ætla Ísraelsmenn að gera við tvær miljónir Palestínumanna? Ætla þeir að drepa þá, reka þá úr landi, eða gerast nýir nasistar? Eða ætla þeir að láta fólksfjölgun araba kæfa sig?

Nú hafa þeir gert Vesturbakkann að stóru fangelsi. Ef þeir sjá ekki að sér nú, á meðan þeir eru sterkir, þá munu þeir sökkva út í fenið. Þeir munu haga sér eins og krossfararnir á miðöldum. Þeir munu leggja Transjórdaníu undir sig, og svo Sýrland og Egyptaland og seilast eftir norðurströnd Afríku, og á endanum munu þeir glata öllu saman. Rétt eins og krossfararnir.“

Ríkjabandalag í Landinu helga?

– Hvaða ráð vilt þú gefa Ísraelsmönnum? Eiga þeir að samþykkja sjálfstætt ríki Palestínumanna?

„Þeir eiga fyrst og fremst að leita sátta. Þeir verða að viðurkenna sjálfa sig sem semíta, og Ísrael og Ísmael verða að bindast bræðraböndum á ný.

Ég ann Landinu helga, og ég vildi ekki sjá því skipt í tvo hluta. Ég vil sjá það sem eitt land byggt tveim þjóðum. Kannski tvö ríki í ríkjabandalagi. Ég held að þegar Palestínumenn eru að krefjast sjálfstæðs ríkis, þá séu þeir að krefjast hins meira til þess að fá það minna: grundvallaratriði eins og réttinn til vegabréfs. Hugsaðu þér hvernig þessum málum er háttað núna: ég var eitt sinn spurður af landamæraverði, hverrar þjóðar ég væri. Mér vafðist tunga um tönn. Og eftir að hafa skoðað skilríki mín kvað vörðurinn upp dóm sinn: „Þér eruð Palestínumaður af jórdönsku þjóðerni með ísraelska ferðaheimild… “ Hvernig er þetta hægt?“

Hænan og gulleggin

– Þú sagðir áðan að hjálpin sem send væri til Palestínumanna á herteknu svæðunum kæmist ekki til skila. Hvernig má það vera?

„Þú verður að skilja, að gyðingar utan Ísraels fundu til sektarkenndar gagnvart Palestínumönnum þegar Ísraelsríki var stofnað. Það voru ekki síst þeir sem áttu frumkvæði að stofnun flóttamannahjálparinnar, UNWRA, sem hefur fætt Palestínumenn síðastliðin fjörutíu ár. Þetta ástand minnir á hænuna sem verpir gullegginu. Ekki síst fyrir arabaríkin. Arabaríkin taka við fjárstuðningi víðsvegar að vegna vanda Palestínumanna. Þeir veita litlum hluta þessa fjár til Palestínumanna, en stinga bróðurpartinum í eigin vasa. Fyrir þeim er það mikilvægt að halda hænunni lifandi – í flóttamannabúðunum. Í fyrsta lagi til þess að fá meira fé, og í öðru lagi til þess að viðhalda styrjaldarástandi við Ísrael. Í reynd vilja þeir ekki sjá lausn á vandanum, heldur óbreytt ástand. Nákvæmlega sama gildir um gyðinga. Þeir vilja viðhalda styrjaldarástandi við arabaríkin, því fyrir þá sök hafa þeir uppskorið samúð og ómældan fjárstuðning víðs vegar að. Friður í Palestínu mun ganga af hænunni sem verpir gulleggjunum dauðri.“

Arafat er sonur okkar fólks

– Þetta er harður dómur um arabaríkin. En hvernig lítur þú á PLO? Eru þau samtök seld undir sömu sök?

„Nei, Arafat og hans menn eru synir fólksins hérna. Þeir skilja vandann vegna þess að hann brennur líka á þeim. Ég veit að það er betra að semja við hann og hans menn en við Jórdani eða Sýrlendinga. Annars eru stjórnmál ekki minn vettvangur. En sem kristinn maður get ég ekki annað en látið mig mannréttindi varða, og það eru mannréttindi sem málið snýst um.“

– Er eitthvað sem þú vildir segja að lokum?“

„Ég höfða til réttsýni, mannúðar og örlætis lesenda þinna. Að þeir megi skilja þennan vanda, að þeir megi segja gyðingum sannleikann um það sem þeir eru að gera og að þeir veiti okkur þá aðstoð sem okkur er nauðsynleg til þess að lifa af þær þrengingar sem þjóð okkar má nú líða.“

 

 

 

 

INTIFADA – UPPREISN Í LANDINU HELGA – III.

Dagur í Gaza

Við tókum leigubíl frá Jerúsalem til Gaza. Það var rúmlega tveggja klukkustunda akstur í gegnum blómlega akra Ísraels þar sem áveitur tryggðu hvarvetna hámarksuppskeru. Þegar við komum að mörkum hernámssvæðisins í Gaza, sem Ísraelsmenn lögðu undir sig 1967, vorum við stöðvaðir af ísraelskum hermönnum og leigubílstjórinn fékk ekki að fara lengra. Hann var arabi. Hervörðurinn hristi höfuðið þegar við sögðumst samt vilja fara inn. „Þið hafið ekkert hingað að gera“, sagði hann og skoðaði skilríki okkar. En hleypti okkur svo í gegn, þegar við höfðum fundið annan bíl sem hafði leyfi til að fara inn. Og óskaði okkur ánægjulegrar dvalar um leið og hann minnti okkur á að Gaza-svæðinu væri alltaf lokað frá kl. 22  til 03 að morgni.

Gaza-svæðið er eitt þéttbýlasta svæði jarðarinnar. Það er um 50 km á lengd og 5 km á breidd. Samkvæmt heimildum UNWRA bjuggu 445.397 palestínskir flóttamenn á þessu svæði í júní 1987. Um helmingur þessara flóttamanna býr í átta flóttamannabúðum, hinn helmingurinn býr utan búðanna. Palestínskir flóttamenn eru yfir 2/3 hlutar íbúa svæðisins sem eru yfir 600.000. Svæðið var undir egypskri lögsögu frá 1948, þar til Ísrael lagði svæðið undir sig í sex daga stríðinu 1967. Flóttamannabúðirnar eru hins vegar frá 1948, þegar Ísraelsríki var stofnað, en þá voru 200.000 Palestínumenn hraktir yfir á Gaza-svæðið. Í sex daga stríðinu gerðust um 38.000 flóttamenn á Gaza flóttamenn í annað sinn, og flúðu þá yfir til Jórdaníu undan hörmungum stríðsins. Nú býr um fimmtungur allra skráðra palestínskra flóttamanna á Gaza-svæðinu.

Úr öskunni í eldinn

Þegar komið er inn í borgina Gaza er það fyrsta sem maður tekur eftir að sorphirða virðist engin í borginni. Sorpið liggur og rotnar á víð og dreif á götunum í steikjandi sólarhitanum, sem fer upp í 40 gráður eða meira um þetta leyti. Og ég hafði ekki dvalið nema um 20 mínútur í borginni þegar ég sá herjeppana koma með sírenuvæli eftir aðalgötunni og táragasský leggjast yfir göturnar í fjarska. Ef hægt er að segja að það ríki umsátursástand á Vesturbakkanum, þá ríkir styrjaldarástand í Gaza. „Hér getur allt gerst hvenær sem er og ekkert kemur lengur á óvart“, sagði blaðamaður sem starfar við fréttastofu í borginni. Og okkur varð litið út um gluggann á skrifstofu hans og sáum herjeppa hverfa á brott með hvítklæddan fanga.

Ísraelskur herjeppi á götunni í Gaza. Myndin er tekin úr skrifstofuglugga blaðamannanna. Ekki er leyfilegt að ljósmynda ísraelska hermenn í Gaza. Ljósm. olg

Það voru tveir ungir menn sem unnu á þessari fréttastofu. Annar þeirra, sá eldri og reyndari, var nýsloppinn úr fangelsi. Hann bjó á skrifstofunni og eina atvinnutækið þeirra beggja var sími. Þeir söfnuðu upplýsingum um það sem var að gerast á svæðinu og komu þeim áleiðis. Og þeir báðu fram aðstoð sína við okkur eftir getu. Ég bar fram óskir um að sjá sjúkrahús, flóttamannabúðir, og hitta einhvern fulltrúa Palestínumanna á svæðinu að máli.

Í snarhasti var fundinn fyrir okkur bíll og bílstjóri. Meiri vandkvæðum var bundið að finna hvaða flóttamannabúðir voru opnar, því útgöngubann ríkti í flestum þeirra. Það þýðir í raun að fólkið innan búðanna er bjargarlaust og sambandslaust við umheiminn. Vænlegast þótti að fara að búðunum við ströndina, sem ganga undir nafninu Beach-camp (Strandbúðirnar). En þegar á hólminn var komið þorði bílstjórinn ekki að fara með okkur inn í búðirnar og sagði þær fullar af hermönnum og að þar mætti búast við átökum á hverri stundu.

Heimsókn á sjúkrahús

Við fórum því á Shéfra-sjúkrahúsið, sem er lítið sjúkrahús í Gaza. Enginn læknir var til viðtals, en hjúkrunarmenn leiddu mig að fjórum rúmum, þar sem lágu ungir menn um eða undir tvítugu sem höfðu verið lamdir af ísraelsku hermönnunum.

Sjúklingur nr. 1. Ljósm. olg

Sjúklingur nr 1:

„Það voru mótmæli í Jabalia-búðunum, þar sem ég bý, og þeir komu inn í hús mitt, drógu mig út og hófu að lemja mig. Þetta voru óbreyttir hermenn og þeir lömdu mig og fóru svo með mig í nálægar herbúðir. Þar sáu þeir að ég var orðinn illa á mig kominn, svo að þeir slepptu mér og ég fór á sjúkrahúsið. Þar gekkst ég undir uppskurð vegna alvarlegs brots á handlegg. Um það bil mánuði síðar, þegar ég var enn með gifsið á handleggnum, komu þeir aftur í búðirnar. Þar voru strákar sem köstuðu grjóti í hermennina og þeir fóru um allt að leita þeirra. Þeir komu líka í mitt hús, en fundu engan þeirra, aðeins mig þar sem ég lá í rúminu með gifsið á handleggnum. Þeir drógu mig út og hófu að lemja mig á gifsið og þeir brutu handlegg minn á ný. Þeir fóru aftur með mig í herbúðirnar, en þegar þeir sáu að ég hafði misst meðvitund og gat ekki farið í fangelsi var mér sleppt, og vinir mínir fóru svo með mig hingað á sjúkrahúsið. Ég er með tvö brot á handleggnum núna. Þetta gerðist með mig.“

Sjúklingur nr. 2. Ljósm. olg

Sjúklingur nr. 2: „Ég var á gangi úti á götu þegar hermenn komu til mín og sögðu mér að fjarlægja vegartálma sem einhver hafði lagt á götuna. Ég neitaði því og þá tóku þeir mig, reyrðu saman á mér hendurnar og festu reipið síðan aftan í herjeppann. Síðan var ég dreginn eftir götunni a.m.k. 30 metra eða þangað til ég hafði nær misst meðvitund. Þeir skildu mig þannig eftir á götunni alblóðugan og sáran um allan líkamann.“

Sjúklingur nr. 3. Ljósm. olg

Sjúklingur nr. 3: „Ég var úti á götu og sá hvar krakkar voru að kasta grjóti að hermönnum. Ég lagði á flótta þegar ég sá hvað var í vændum. Þeir eltu mig á stórum herbíl, drógu mig inn í bílinn og börðu mig þar og spörkuðu í mig. Ég hlaut nefbrot, augnskaða, áverka á hálsi þannig að ég get varla hreyft höfuðið og innvortis blæðingar og áverka, þannig að ég á mjög erfitt með að hreyfa mig. Þegar þeir höfðu misþyrmt mér skildu þeir mig eftir á götunni.“

Sjúklingur nr. 4 (ca. 16-17 ára): „Ég var einn á gangi þegar þeir stoppuðu mig og spurðu um skil[1]ríki. Fyrst héldu þeir mér í 15 mínútur eða svo. Þá komu 4 her[1]menn og börðu mig án tilefnis. Þeir lögðu mig á götuna og spörkuðu í andlitið á mér með hermannastígvélunum. Svo fluttu þeir mig á sjúkrahúsið. Ég er með brotið nef og marga áverka á höfði.“

Ég þurfti ekki fleiri vitni, en hjúkrunarmennirnir á þessu litla sjúkrahúsi sögðu mér að þeir hefðu fengið 400 tilfelli þessu lík  síðastliðna 6 mánuði. Og þetta var aðeins lítið sjúkrahús og eitt af mörgum í Gaza. Aðbúnaður þar líktist reyndar ekki sjúkrahúsi, og hreinlætisaðstaða var þar verri en engin, því salernin minntu meira á svínastíu en mannabústað.

Gaza Centre for Right and Law

Við fórum á stofnun sem heitir Gaza Centre for Right and Law og hittum þar fyrir dr. Abu Jaffar, lögfræðing, blaðamann og skáld og fyrrverandi starfsmann UNWRA. Þetta er menntamaður á sjötugsaldri sem gaf af sér mikinn þokka og talaði af fullkominni yfirvegun og yfirlætisleysi þess sem býr yfir mikilli reynslu og visku. Hann tjáir okkur að stofnun þessi hafi verið mynduð af nokkrum lögfræðingum frá Gaza-svæðinu árið 1985. Stofnunin hafi sett sér að vinna að því að lög og mannréttindi væru virt á svæðinu í samræmi við alþjóðleg mannréttindaákvæði. Stofnunin hefur samband og samvinnu við alþjóðasamtök eins og Amnesty International, Alþjóðasamtök lögmanna í Genf og Christian Aid. Meginstarfið hefur hingað til falist í því að safna upplýsingum, gera rannsóknir og gefa út skýrslur og miðla þekkingu og rannsóknum til útlanda. Auk þess veitir stofnunin einstaklingum lögfræðiaðstoð endurgjaldslaust. Annar mikilvægur þáttur í starfseminni er einnig að koma upp lögfræðibókasafni í Gaza, en slíkt er ekki fyrir hendi enn.

Intifadan, uppreisn unga fólksins í Palestínu 1987, var framkvæmd með heimatilbúnum vopnum. Hér sýnir ungur drengur ljósmyndara heimatilbúið vopn sitt. Ljósm. olg

Dr. Abu Jaffar:

„Intifadan eða uppreisnin hófst hér á Gaza-svæðinu þann 9. desember 1987. Hvað felst í henni? Jú, íbúar svæðisins eru að láta í ljós vilja sinn. Þeir sætta sig ekki lengur við ríkjandi ástand. Þeir vilja að almenn mannréttindi séu virt. Þeir vilja sinn sjálfsákvörðunarrétt, þeir krefjast réttar til ríkisfangs, til þess að mynda eigið ríki. Þessi uppreisn kom innan frá, henni er ekki stýrt að utan. Og hvernig er þessum kröfum svarað? Þeim er svarað með táragasi, gúmmíkúlum og föstum skotvopnum. Þeim er svarað með fjöldarefsingum eins og útgöngubanni á heilar flóttamannabúðir eða jafnvel allt svæðið. Þeim er svarað með húsrannsóknum. Hús og heimili eru lögð í rúst með jarðýtum. Og þeir sem eru uppvísir að því að tala við blaðamenn eru kallaðir fyrir og fangelsaðir.

Frá 9. des. 1987 til 11. júní sl. höfum við heimildir fyrir því að 520 einstaklingum hafi verið misþyrmt með barsmíðum hér á Gaza-svæðinu. Á sama tíma hafa 99 hlotið sár af gúmmíkúlum og 469 hafa hlotið sár af föstum skotum. 65 hafa látist af skotsárum, 20 hafa látist af völdum táragass. Síðastliðna 3 mánuði höfum við heimildir um 33 konur sem misstu fóstur af völdum táragass og 3 konur sem misstu fóstur vegna barsmíða. Á tímabilinu frá 9. des. sl. og út janúar voru 30 heimili lögð í rúst með jarðýtum í einum flóttamannabúðunum og þann 5. febrúar sl. kl. 17:00 var 22 einstaklingum á aldrinum 12 – 70 ára misþyrmt með barsmíðum í einum búðunum.

Þetta eru svörin sem þetta fólk hefur fengið við kröfum sínum um grundvallaratriði allra mannréttinda eins og eigið vegabréf og eigin þjóðfána. Palestínumenn hafa verið neyddir til að nota þær baráttuaðferðir sem þeir vildu síst nota. Því Palestínumenn eru friðelskandi þjóð og saga þeirra sannar það. Þegar Palestína var undir yfirráðum Tyrkja greiddu þeir sérstakan skatt til þess að komast hjá því að þurfa að senda syni sína í herinn. Þeir hafa alltaf tekið vel á móti gestum, og þeir tóku einnig vel á móti gyðingum á sínum tíma. En gyðingar hafa misnotað gestrisni þeirra með því að flæma þá burt af landi sínu og svipta þá eignum sínum og sjálfsvirðingu.“

-Hvaða framtíðarlausn sérð þú fyrir þér á þessari deilu? –

,,Ég er skáld, og framtíðarsýn mín mótast af því. Þótt framtíðin kunni að virðast svört, þá er ég bjartsýnismaður. Menn geta beitt ofurefli í skjóli vopna, en þegar til lengdar lætur geta menn aldrei réttlætt nærveru sína með vopnavaldi. Við sjáum það af sögunni: Frakkar héldu Alsír í skjóli vopna en urðu um síðir að hörfa. Indverjar lutu bresku yfirvaldi í 300 ár en jafnvel breska heimsveldið varð að lokum að leggja niður vopnin. Dæmin eru fjölmörg. Mér verður oft hugsað til þeirra orða Sókratesar, að það sé betra hlutskipti að líða misrétti en að beita því gagnvart öðrum. Og ef menn hafa liðið misrétti, eins og gyðingar hafa gert, hvernig geta þeir þá leyft sér að beita því gegn öðrum?

Ég er af menntafólki kominn. Faðir minn var kennari í heimspeki og sálarfræði. Mér er minnisstætt það sem hann sagði við mig þegar ég var ungur drengur. Ég hafði þá fengið mína fyrstu fræðslu í trúarbrögðum múslima, og var að myndast við að gera bæn mína samkvæmt kenningum kóransins í fyrsta skipti. Þegar ég hafði gert bæn mína kallaði faðir minn mig til sín og sagði: Ég ætla ekki að skipta mér af þínum trúariðkunum, því trú sína velur maður sjálfur. En eitt langar mig til að biðja þig um: áður en þú ferð með bænir þínar vil ég að þú segir við sjálfan þig: „ég óttast engan og ég elska alla“. Þetta gerði ég, og löngu síðar skildist mér að þarna hafði faðir minn kennt mér kjarna allra trúarbragða, sem er kærleikur. Og þessi afstaða föður míns hefur mótað líf mitt. Þess vegna óttast ég ekki um framtíðina. Hins vegar getum við spurt okkur hvað réttlæti það að skapa alla þessa óþörfu þjáningu? Því slæmur málstaður getur ekki sigrað.“

Meðal sjómanna

Við kvöddum þennan mæta mann og héldum á fréttastofuna, þar sem starfsbróðir minn var að senda fréttaskeyti í gegnum síma. Þegar hann frétti að við hefðum ekki komist í flóttamannabúðirnar á ströndinni fór hann nokkrum vel völdum orðum um hugleysi bílstjórans okkar, og sagðist fara með okkur sjálfur. Við fengum annan bíl og bílstjóra af götunni og ókum inn að búðunum. Fylgdarmaður okkar var þekktur í búðunum, og þegar börnin ætluðu að þyrpast í kringum okkur og gera hávaða eins og gerst hafði í Ramallah, þá gaf hann þeim fyrirskipanir og þau hlýddu. Í stað þess að elta okkur og heimta að vera ljósmynduð, þá fóru þau á varðberg, dreifðu sér um búðirnar og létu skilaboð ganga þegar hermannajepparnir sem voru á eftirlitsferðum um búðirnar nálguðust. Við máttum oft taka til fótanna eða forða okkur inn í næsta kofa, en með aðstoð barnanna komumst við ferða okkar óséðir. Við komumst í gegnum búðirnar niður að ströndinni, og þar sá ég í fyrsta skipti Miðjarðarhafið í þessari ferð. Fyrir neðan strandgötuna voru verbúðakofar í röðum sem mynduðu gott skjól. Bátar voru einnig í röðum á ströndinni, litlar skektur sem tóku ekki nema 1-2 menn, og þarna voru sjómenn að gera að netum sínum. Því fólkið í Beach-camp hefur lífsviðurværi sitt af fiski. Mér var tjáð að hernaðaryfirvöldin hefðu ákveðið að ryðja öllum verbúðunum í burt næstu daga í öryggisskini. Nokkrir sjómenn voru þarna að draga bát á land, aðrir að gera að netum.

Sjómenn í strandbúðunum á Gaza leita skjóls undan sólinni. Þeim hefur verið bannað að sækja sjóinn. Ljósm. olg

Ég gaf mig á tal við þá og spurði hvernig útgerðin gengi. Þeir sögðu að yfirvöldin væru að eyðileggja fyrir þeim lífsbjörgina. Ákveðið hefði verið að setja skatt sem næmi 1000 jórdönskum dínörum (hátt í árslaun verkamanns) á hvern bát fyrir að sækja sjóinn. Enginn fiskimaður þarna hefur möguleika á að reiða fram slíka fjárhæð. Þeir sem ekki borga eru fangelsaðir fyrir að fara út. Og þeir bentu mér á að allir bátarnir sem væru netalausir á ströndinni væru í eigu sjómanna sem þegar væru komnir í fangelsi. „Við höfum ákveðið að fara í verkfall í einn dag, og ef þessum ákvæðum verður ekki breytt, þá höfum við ekki önnur ráð en að hlaða stóran bálköst hér á ströndinni og brenna bátana okkar.“

Er mikill fiskur í sjónum?

„Nei, stóru bátarnir hirða allt. Við förum út klukkan 4 á morgnana og leggjum netin og sofum svo í bátnum og komum að landi um eftirmiðdaginn. Veiðin gerir lítið meira en að næra fjölskyld[1]una. En ef við missum hana höf[1]um við ekkert að borða.“

Með hungurvofuna að vopni

Við héldum upp í kampinn á ný, og heimsóttum eina fiskimannafjölskyldu. Húsakynnin voru eins og ég hafði séð áður: hlaðnir múrsteinskofar með bárujárnsþaki, afgirtur garður með steyptu og hvítskúruðu gólfi. Inni í kofanum var eldri kona á flatsæng og grét með ekkasogum. Maður hennar, sem reyndist 58 ára þótt hann virtist vera eldri, var hjá henni. Og tveir synir hans birtust fljótlega, nokkrar yngri konur og sægur af börnum. Það voru 35 munnar að mata í þessari fjölskyldu. Húsmóðirin var greinilega sjúk, elsti sonurinn var nýkominn úr fangelsi og annar sonurinn var veikur af brjósklosi í baki.

Hluti sjómannafjölskyldunnar á Gaza. Það voru 35 munnar að fæða í þessari fjölskyldu. Ljósm. olg

„Ég er fæddur í Jaffa 1930. Fjölskylda mín átti sitt hús og sitt land og sitt lífsviðurværi þar. Ég flúði hingað 1948. Ég hef stundað sjóinn og ég á 5 syni sem allir eru sjómenn. Nú heimta þeir að við borgum 1000 dínara hver og einn. Ég er hættur að sækja sjóinn. Ég hef engar tekjur og húsið er matarlaust. Við erum seld undir guðs náð. Sjómenn eru stolt fólk eins og þú, sem kemur frá Íslandi, veist. En það er búið að ræna okkur allri sjálfsvirðingu. Jafnvel aðstoðin sem okkur er send frá Evrópu lendir í vösum gyðinganna. Við þurfum að kaupa aðstoðina frá fiskifélaginu sem gyðingarnir stjórna. Aðstæðurnar hér eru verri en í Líbanon, því hér er verið að svelta okkur til hlýðni. Ég vil að þú komir þessum skilaboðum á framfæri við íslenska sjómenn, því að ég veit að sjómenn allra landa finna til samstöðu. Sjómenn eru stolt fólk.“

Þessi lífsreyndi sjómaður horfði til mín vonaraugum eins og ég gæti veitt honum einhverja björg. Dóttir hans færði okkur tebolla og börnin hópuðust í kringum okkur. Hann sýndi mér lúin persónuskilríki gefin út af bresku landsstjórninni fyrir 1948, eins og til að sanna mál sitt. Það var eina vegabréfið hans. Hann sýndi mér leyfisbréfið sem hernámsyfirvöldin höfðu gefið honum til þess að sækja lífsbjörgina í sjóinn. Nú gilti það ekki lengur. Ég kvaddi þessi sjómannshjón með kossi og fyrirvarð mig fyrir þá niðurlægingu sem ég hafði séð.

Reynsla af fangavist

Þegar við gengum í gegnum búðirnar til baka sáum við hermannajeppa í fjarska og fylgdarmaður minn tók á sprett. Við hlupum sem fætur toguðu á eftir honum á milli kofaraðanna og yfir opin skolpræsin þar sem dauðar rottur og annar óþrifnaður lá á víð og dreif. Þetta var leikvöllur berfættu barnanna í búðunum.

Þegar við töldum okkur hólpna spurði ég fylgdarmann okkar hvað myndi gerast ef þeir sæju okkur?

-„Þeir taka myndavélina þína og filmurnar. Og þeir setja mig í fangelsi aftur.“

-Hvernig var vist þín í fangelsinu?

-„Þeir handjárnuðu mig og bundu fyrir augun þannig að ég vissi ekki fyrr en eftir nokkra daga hvar ég var staddur. Þeir létu mig standa uppréttan með hendur bundnar fyrir aftan bak í nokkra daga og létu mig hoppa dag og nótt. Svo var ég settur í klefa sem var 1×0,5 m að flatarmáli. Það var ekki hægt að leggjast niður. Ég held að ég hafi verið í þeim klefa í 3 daga, annars man ég það ekki. En ég þekki menn sem hafa verið í þannig klefa í 18 daga. Þeir spörkuðu í mig með hermannaklossunum og köstuðu sandi í vit mín… Ég held ég hafi verið þarna í 2 vikur, ég man það ekki, sagði þessi starfsbróðir minn og vildi ekki ræða það meira.

Tveir heimar

Starfsbræður mínir í Gaza lögðu hart að okkur að gista yfir nóttina. Við gætum sofið á skrifstofunni. Það væri hvort sem er engan bíl að fá, og brátt yrði Gaza-svæðinu lokað. Á morgun yrði allsherjarverkfall, og þá myndum við geta séð raunveruleg átök. Ég þurfti að beita öllum mínum sannfæringarkrafti til að fá fylgdarmann okkar til að aðstoða okkur við að finna bíl. Þegar við komum í bæinn var allt krökkt af hermönnum. Fylgdarmaður okkar gekk 30 metrum á undan okkur og við létum sem við þekktum hann ekki. Hann setti sjálfan sig í hættu með því að leiðbeina okkur.

Að lokum fann hann bíl sem var reiðubúinn til að aka okkur til Tel Aviv. Við komumst klakklaust í gegnum vegabréfsskoðun til Tel Aviv, og þaðan með áætlunarvagni til Jerúsalem. Þar lentum við á stássgötu borgarinnar, þar sem ferðamenn sitja við útikaffihúsin yfir ölglasi. Þetta var eins og að sitja á Café de Paris við Via Veneto í Róm. Áhyggjur heimsins voru víðs fjarri. Á skemmtistaðnum „Underground disco“ var unga fólkið að skemmta sér og þar glumdi við ærandi disco-tónlist: „Tell me lies, tell me lies, tell me sweet little lies…“ rétt eins og maður væri kominn í Hollywood-skemmtistaðinn  í Ármúlanum. Þetta var eins og eiturvíma, og þegar ég breiddi yfir mig lakið uppi á hótelinu seint um kvöldið fór ég að gráta. Olg.

INTIFADA – UPPREISN Í LANDINU HELGA – II.

Á VESTURBAKKANUM

Ég hafði fengið sérstakt leyfi hjá innanríkisráðuneytinu í Amman til þess að fara yfir á Vesturbakkann um brúna við norðurenda Dauðahafsins. Á landamærunum var margfaldur vörður jórdanskra yfirvalda annars vegar og ísraelskra hernámsyfirvalda hins vegar. Svæðið utan vegar á milli landamærastöðvanna var lagt jarðsprengjum. Ferðaheimild jórdanska innanríkisráðuneytisins dugði mér til að fá ísraelska ferðaheimild inn á hernámssvæðið og þar með inn í Ísrael líka. Rútubíll ók okkur að landamærunum, og þegar öll toll- og vegabréfsskoðun var afstaðin var tekinn leigubíll til Jerúsalem. Ungur maður með arabískt nafn en suðuramerískt vegabréf var mér samferða til Jerúsalem. Þegar okkur gafst tækifæri til þess að tala saman opinskátt komumst við að því að við vorum nokkurn veginn í sömu erindagerðum, og ákváðum því að taka saman gistingu í hinum arabíska hluta Jerúsalem. Ég komst síðan að því að þessi félagi minn var af palestínskum uppruna og átti ættir að rekja til bæjarins Taybeh sem er eini kristni bærinn í Palestínu,  og leiðsögn hans og aðstoð áttu eftir að verða mér ómetanleg.

Á fréttastofunni

Við byrjuðum á því að leita uppi fréttastofu Palestínumanna í Jerúsalem, Palestinian Press Service. Þetta er sjálfstæð og óháð fréttastofa sem gegndi mikilvægu hlutverki við miðlun frétta frá hernumdu svæðunum fyrstu mánuði uppreisnarinnar. Fréttastofan miðlaði fréttum til stóru alþjóðlegu fréttastofanna og var meira til hennar vitnað þar en til ísraelskra heimilda þar til fyrir fáeinum vikum að henni var lokað af ísraelskum yfirvöldum. Við vissum af lokuninni, en fórum engu að síður á staðinn og hittum þar fyrir einn af þeim sem unnið höfðu við fréttastofuna frá upphafi.

„Því miður getum við litla aðstoð veitt,“ sagði maðurinn. „Þótt við vildum gjarnan veita ykkur Ieiðsögn og aðstoð, þá er það ekki hægt, því flestir fréttamennirnir okkar sitja nú í fangelsi. Eins og þið sjáið er hér búið að loka fyrir alla starfsemi og við sitjum hér nánast með bundið fyrir munninn.“

– Getur þú ekki ráðlagt okkur til hvaða staða við eigum að fara og við hverja við eigum að tala?

– Þið verðið að fara til Gaza, þar er ástandið alvarlegast. Annars get ég bara sagt þér að allir Palestínumenn eru jafngóðir til þess að tala við. Þeir munu allir segja þér sömu söguna. Hvar sem þú kemur á herteknu svæðin og í flóttamannabúðirnar finnur þú fólk sem tjáir sig daglega með því að hætta lífi sínu og limum. Heldur þú að þetta fólk sé ekki þess umkomið að segja þér hvað því býr í brjósti og hvað hér er að gerast?

Á fundi í Ramallah

Þegar við komum til Ramallah, borgar sem liggur í tæplega klukkustundar akstur norður frá Jerúsalem, var eins og bærinn væri líflaus. Klukkan var rúmlega 12, og allar götur voru mannlausar, verslanir og veitingahús lokuð, ekkert að sjá nema járnhlera fyrir gluggum verslana og stöku herjeppa á ferli um mannlausan bæinn undir steikjandi hádegissól. Við heimsóttum ungt fólk sem sat á fundi í húsagarði og ræddi ástandið. Þetta voru nemendur og kennarar við háskólann í Ramallah, Palestínuarabar sem búið höfðu í hersetnu landi bróðurpart ævi sinnar, en voru ekki flóttamenn. Það er stúlka um tvítugt sem verður fyrir svörum:

„Hér eins og annars staðar á Vesturbakkanum og Gaza-svæðinu hafa verið stöðug verkföll allt frá því að intifadan (uppreisnin) byrjaði fyrir hálfu ári. Verslanir og þjónusta er ekki opin nema þrjár klukkustundir á dag eða fram undir hádegið, þá er öllu lokað. Og í hverri viku eru einhverjir dagar sem lokað er allan daginn. í síðustu viku var bara opið tvo morgna, í þessari viku verður allsherjarverkfall í einn dag og annan í þeirri næstu. Þetta er liður í þeirri friðsamlegu andspyrnu sem við beitum gegn hernáminu. Auk verkfallsbaráttunnar þá neitar fólk hér á hersetnu svæðunum að borga skatta til yfirvalda. Hér borgar enginn skatt nema stærri iðnfyrirtæki, sem þurfa að sækja aðföng og fyrirgreiðslu til Ísraelsstjórnar. Þau neyðast til að borga skatta. Svo leitumst við eftir megni við að sniðganga ísraelskar vörur í verslunum. Það er liður í að gera okkur efnahagslega sjálfstæðari. Við höfum til dæmis komið upp hér í bænum palestínsku mjólkurbúi og framleiðum þar okkar eigin jógúrt. Yfirvöld gerðu allt sem þau gátu til þess að stöðva það, en þeim tókst það ekki. Nú kaupir enginn hér ísraelska jógúrt, og það hefur komið hart niður á mjólkuriðnaði þeirra, því jógúrt er mikilvægur þáttur í mataræði okkar. Við leitumst einnig við að verða sem mest sjálfbjarga um allar smærri lífsnauðsynjar, og höfum meðal annars lagt áherslu á að rækta grænmeti fyrir fólkið, hvar sem því verður við komið, svo  við þurfum ekki að vera upp á ísraelskt grænmeti komin. Þetta er liður í okkar þjóðfrelsisbaráttu, og Ísraelsmenn hafa þegar fundið fyrir þessu. Við höfum heimildir um 14 ísraelsk fyrirtæki sem hafa orðið að loka eftir að uppreisnin hófst, vegna þess að vörur þeirra seljast ekki lengur. Skattatapið er tilfinnanlegt fyrir hernámsyfirvöldin, og þeir eru nú farnir að stöðva bíla á leiðinni á milli Ramallah og Jerúsalem og kanna hvort viðkomandi hafi greitt skatt. Hafi hann ekki gert það er bíllinn tekinn í pant. En yfirvöldin hafa í svo mörgu að snúast að þau geta aldrei sinnt þessu.

-En kemur þetta ekki verst niður á Palestínumönnunum sjálfum? Kemur ekki að því að þeir neyðist af efnahagslegum ástæðum til þess að þýðast hernámsyfirvöldin?

„Auðvitað kostar þetta fórnir fyrir fólkið. Menn verða að skera niður neyslu sína og útgjöld. Margir, t.d. kennarar, hafa verið án launa mánuðum saman. Smærri atvinnufyrirtæki eiga í erfiðleikum með að greiða laun og öll efnahagsumsvif hafa dregist saman. En verkfallið hefur líka aukið á samstöðu fólksins. Nú gerist það iðulega að fólkið tekur sig saman um að verja hús sem hermenn ætla að ráðast inn í til þess að taka fanga. Það gerðist ekki áður. Við stefnum að því að stofna hér skipulagsnefndir á hverfagrundvelli sem eiga að skipuleggja einstaka þætti uppreisnarinnar. Til dæmis að skipuleggja varnir gegn hernum. Skipuleggja ræktun á sjálfsnægtargrundvelli o.s.frv. Í rauninni kemur uppreisnin verst niður á börnunum, og það voru líka börnin sem hrundu henni af stað. Og þá einkum í flóttamannabúðunum.

Börn í flóttamannabúðum við Ramallah. Ljósm. olg

Börnin gátu ekki lengur horft upp á foreldra sína niðurlægða. Lokun skólanna varð til þess að auka mjög á spennuna þeirra á meðal. Ofbeldishneigðin meðal barnanna veldur okkur áhyggjum og er á vissan hátt ógnvænleg. En um leið trúum við því að meðal þessara barna sé að vaxa upp nýtt forystuafl fyrir palestínsku byltinguna, og það teljum við jákvætt. Nei, þeir geta ekki svelt okkur til hlýðni. Við erum reiðubúin að halda áfram í verkfalli í ár í við[1]bót, og við vitum að það er samstaða um það meðal fólksins. Intifadan er ekki að fjara út. Hún er hins vegar að breyta um stefnu: Friðsamlegt andóf almennings verður almennara og um leið víðtækara. Við lítum það jákvæðum augum, og það kemur sér illa fyrir stjórnvöld.“

Skotið á börnin við Amari-flóttamannabúðirnar

Þegar við nálguðumst Amari flóttamannabúðirnar í útjaðri Ramallah sáum við hvar krakkar á aldrinum 8-10 ára voru að leggja steina á veginn eins og til þess að loka inngangshliðinu að búðunum, sem annars staðar eru lokaðar með steyptum blikktnnum. Skyndilega birtist herjeppi á fleygiferð. Einn hermannanna stóð upp og skaut táragasskotum að börnunum á meðan bíllinn var á ferð. Táragas fyllti húsagarðinn þar sem þau höfðu flúið í felur. Börnin hurfu samstundis, en hermennirnir stukku undir næsta vegg með hríðskotabyssur á lofti. Krakkarnir komust undan og jeppinn hélt áfram för sinni umhverfis búðirnar.

Ísraelskir hermenn með alvæpni skjóta táragasi að 8-10 ára gömlum skólabörnum í útjaðri flóttamannabúðanna í Ramallah. Ljósm. olg.

í kjölfarið komu örvæntingafullar mæður í leit að börnum sínum. Skotvopnin sem hermennirnir nota gegn börnunum í flóttamannabúðunum eru þrenns konar: í fyrsta lagi táragashylki, framleidd í Bandaríkjunum á þessu ári. Á hylkjunum stendur að þau geti verið banvæn, og megi aðeins notast af atvinnumönnum. Svo eru gúmmíkúlur með stálsívalning innan í. Kúlur þessar eru þumlungs-sverar og 1,5 sm. á lengd. Síðan nota þeir einnig föst skot og eru patrónurnar álíka stórar og notaðar eru til hreindýraveiða hér á landi. Táragashylkin hafa orðið mörgum Palestínumönnum að bana á undanförnum mánuðum og valdið fósturláti hjá þunguðum konum. Gúmmíkúlurnar eru hins vegar til þess fallnar að skapa mikla áverka, og sem dæmi má nefna að auga var skotið úr 9 mánaða stúlkubarni með gúmmíkúlu á Vesturbakkanum á meðan ég dvaldi þar. Föst skot eru líka notuð, þegar hin vopnin þykja ekki duga nægilega vel. Þau eru yfirleitt banvæn.

Þegar herjeppinn var horfinn komu mæðurnar skelfingu lostnar og kölluðu á börn sín, en fundu ekki. Þetta var dagleg reynsla flestra mæðra um öll hernumdu svæðin. Flóttamannabúðunum í Amari hafði verið lokað með því að steypa eða hlaða upp á milli húsasunda alls staðar nema á þrem stöðum. Tveir staðir voru minna áberandi, en þaðan gat herinn komist inn í búðirnar með herjeppa sína og brynvagna. Aðalinnganginum var hins vegar lokað með tvöföldum steyptum tunnuvegg og aðeins skilið eftir metersbreitt haft til þess að ekki kæmust fleiri en einn í einu út. Þannig voru allar flóttamannabúðir sem ég sá á Vesturbakkanum umgirtar, og þetta gerir yfirvöldum mögulegt að setja útgöngubann á búðirnar og loka fólkið þannig inni. Slíkum refsiaðgerðum er mikið beitt, einkum á Gaza-svæðinu.

Ekkja og limlest börn

Þegar við gengum inn um aðalinngang Amari-búðanna var hermaður með hríðskotabyssu uppi á næsta húsi og fylgdist með okkur. Við gengum að miðstöð UNWRA (Flóttamannahjálpar SÞ) í búðunum til þess að biðja um leiðsögn. Þeir sem þar voru sögðust allt vilja fyrir okkur gera annað en að leiða okkur um búðirnar, því herinn bannaði þeim það. Þessi UNWRA-miðstöð var sýnu fátæklegri en sú sem ég hafði séð í Jórdaníu. Þarna voru 2 menn en engar upplýsingar að fá annað en að þarna byggju um 6000 manns. Sjúkraskýlið virtist lokað. Við fórum á eigin ábyrgð inn í búðirnar og brátt safnaðist um okkur hópur óðamála barna.

Óðamála stúlkur í Amari-flóttamannabúðunum veitast að ljósmyndara með grjótkasti. Ljósm. olg

Ég hefði ekki komist óhultur úr þessari atlögu nema vegna þess að ég hafði þarna fylgd arabískumælandi Palestínumanns sem gat kynnt erindi okkar. Börnin í flóttamannabúðunum eru tortryggin gagnvart ókunnugum og grýta þá sem liggja undir grun um að vera á bandi hernámsliðsins. En þau vildu allt fyrir okkur gera þegar þau vissu um erindi okkar. Þau sögðu að hermennirnir myndu eyðileggja myndavélar okkar ef þeir sæju okkur taka myndir. Þau sýndu okkur táragashylkin og gúmmíkúlurnar og skothylkin. Og þau vísuðu okkur um göturnar. Þetta voru ýmist moldargötur eða steyptar götur með opnu skolpræsi eftir miðri götunni. Húsin voru eins og í Jórdaníu, kofar hlaðnir úr múrsteini með lausum bárujárnsplötum ofan á, sem voru festar niður með grjótfargi.

Í fyrsta kofanum sem við komum í var kona sem hafði orðið ekkja þann 27. janúar síðastliðinn.  Þessi kona missti mann sinn frá mörgum börnum þegar hann kafnaði af völdum táragass þann 27. Janúar síðastliðinn. Sonur hennar, um það bil 9 ára, var með skotsár á upphandlegg eftir fast skot. Hún hafði sent hann út fyrir búðirnar að kaupa jógúrt og hann kom til baka með sundur skotinn handlegg. Hús hennar var fullt af börnum, ég veit ekki hvað hún átti mörg þeirra. Hún sýndi okkur brotna spegla og brotinn skáp og brotinn vegg: hermennirnir höfðu ráðist inn í kofann hennar.

Ekkja með 10 ára gamlan son sem kom heim með sundurskotinn handlegg eftir að hafa farið út að kaupa jógúrt. Hún sýnir okkur soninn og táragashylki sem Ísraelsher notar gegn palestínskum börnum. Ljósm. olg,

Móðir í Amari-búðunum  sýnir okkur síðusár 10 ára sonar sem var sleginn af hermönnum þannig að nýrað sprakk. Ljósm. olg.

Við fórum í næsta kofa við hliðina. Þar sýndi móðir 10 ára gamals pilts okkur ör á síðu hans. Hann hafði verið sleginn svo á mjóhrygginn að annað nýrað sprakk. Fleiri börn sáum við sem höfðu fengið sár og krakka[1]skarinn sem safnaðist í kringum okkur var svo óðamála að erfitt var að athafna sig. Strákarnir vildu ólmir láta ljósmynda sig og tróðust hver fram fyrir annan upp að vélinni. Þeir gerðu sigurmark[1]ið og héldu steinum á lofti. Það var áberandi að andrúmsloftið í þessum búðum var allt annað en í Jórdaníu.

Ójafn leikur

Taugaspennan var gífurleg og ofbeldið lá í loftinu. Enda leið ekki á löngu þar til ungir menn um tvítugt komu til okkar og sögðu að innan skamms myndu hermennirnir gera innrás í búðirnar og það yrði barist. Þeir ráðlögðu okkur að fara út. Tíu ára piltur fylgdi mér út úr búðunum en félagi minn varð eftir fyrir innan. Ég fór í kringum búðirnar að aðal innganginum, þar sem ég komst inn í húsasund á bak við þvottasnúrur. Þaðan hafði ég yfirsýn yfir aðalgötuna í búðunum. Fjórir herjeppar og einn trukkur tóku þátt í árásinni á búðirnar. Einn eða tveir bílar biðu við aðalinnganginn á meðan hinir keyrðu inn í búðirnar og skutu táragasi og gúmmíkúlum að íbúunum. Táragasský lagðist yfir búðirnar. Ég sá börn og unglinga á hlaupum í táragassvækjunni kastandi grjóti að herjeppunum. Þessi börn kunna ekki að hræðast lengur.

Aðal-inngangurinn að Amari-búðunum, lokaður með steyptum blikktunnum. Utan inngangsins voru herjeppar með alvæpni. Unglingar þyrptust að og köstuðu grjóti yfir tunnurnar í átt að hermönnunum. Ljósm. olg.

Herjeppar koma aðvífandi inn í búðirnar og skjóta táragasi að unglingunum. Gatan og nánasta umhverfi fyllist af táragasi. Ljósm. olg.

Herjeppi með alvæpni á götunni, en sjúkrabíll frá UNWRA og ísraelskir herjeppar fyrir utan hliðið. Enginn slasaðist alvarlega í þetta skiptið. Ljósm. olg.

Áhlaupið stóð með stuttum hléum í tæpa klukkustund. Sjúkrabíll kom að aðal innganginum, en enginn var tekinn í hann. Þegar herbílarnir voru farnir gekk ég inn í búðirnar. Á fólkinu var að sjá að þetta væri eins og daglegur viðburður. Enginn hafði hlotið alvarleg sár í þetta skipti og mér var vísað til félaga míns sem var í góðum félagsskap inni í búðunum. Þegar við kvöddum Amari-búðirnar voru herjeppar á sveimi allt um kring.

Umsátur í Kafir Malik

Ofangreindir atburðir gerðust á öðrum degi mínum á Vesturbakkanum. Sama dagf ór ég einnig til bæjarins Kafir Malik. Þetta er um 2000 manna þorp sem liggur á milli Ramallah og Jeríkó. Inni á torginu í bænum voru allir veggir útmálaðir í slagorðum og ábúðarmiklir menn sátu hljóðir í skugganum undir þakskeggjum. Það ríkti hatursþrungið andrúmsloft þarna á torginu og grjótslöngur og tætlur af fána PLO héngu í símastrengjum. Þessir menn virtust reiðubúnir í stríð. Brátt fengum við að heyra sögu þeirra:

Í þrjá mánuði höfðu ísraelsku hermennirnir gert allmargar tilraunir til að komast inn í þetta þorp, bæði til að heimta skatt af fólkinu, og einnig til að leita eftirlýstra manna. Átta sinnum höfðu þeir orðið frá að hverfa vegna vegatálma og grjótkasts þorpsbúa. í þessum átökum höfðu yfir 30 herjeppar verið skemmdir. Þá greip herinn til þess ráðs að loka bænum. Í 30 daga var skrúfað fyrir vatn og rafmagn og engum hleypt inn í bæinn eða út úr honum. Þrjátíu  dagar án aðfanga, 30 dagar án sjúkraþjónustu. Síðan var bærinn umkringdur með yfir 2000 manna herliði og ráðist var inn í þorpið með brynvörðum bílum og þyrlum. Einn maður var skotinn á færi, trúlega úr þyrlu, í þessari innrás. Hermennirnir settust að í skólanum. sem umluktu skólalóðina. Þeir eyðilögðu bækur í skólanum og ég sá hvar þeir höfðu notað eitt hornið á skólalóðinni til þess að gera þarfir sínar. Víðar sáum við verkummerki eftir jarðýtur í bænum, sem höfðu meðal annars valdið skemmdum á fallegum mörghundruð ára gömlum olívulundi.

Vitni á torginu

Maður á torginu:

„Bróðursonur minn var á gangi með vini sínum hér fyrir utan bæinn. Þeir gengu samhliða, en skyndilega fær vinur hans skot í höfuðið og liggur dáinn í götunni. Hinn hljóp inn í næsta hús, en hermennirnir hlupu á eftir honum, drógu hann út, börðu með kylfu í höfuðið. Börðu hann síðan á skrokkinn með stórum plánka, handjárnuðu síðan og settu í fangelsi í tvo daga. Meðan á umsátrinu stóð vorum við í 30 daga ljóslausir alls lausir. Við fundum að við gátum vel haldið út eitt ár í viðbót ef því er að skipta. Við höfum engu að tapa.“

Annar maður:

„Hér í nágrenninu var 45 ára maður, 4 barna faðir, drepinn með skoti í höfuðið, þar sem hann stóð álengdar og var að horfa á óeirðir. Í fréttum var sagt að þetta hefði verið tvítugur maður og að hann hefði verið að kasta bensínsprengju.“

Læknir úr bænum Taibeh sem þarna var staddur:

„Þeir grófu tvo bræður í jörð hér skammt frá þannig að aðeins andlitin stóðu upp úr og spörkuðu í þá. Síðan drógu þeir þá upp og tvíbrutu á þeim handleggina. Ég hef líka fengið staðfest að hermennirnir hafi brennt ungan mann í ofni hér skammt frá og kastað síðan líkinu í kalt vatn. Ég veit ekki hvort sagan af barninu sem kastað var úr þyrlu er sönn, en hún er ekki ótrúlegri en margt annað sem ég hef séð… Eitt get ég líka sagt þér, að sjúklingar mínir hér, þeir hafa ekki efni á að borga læknisþjónustu ef eitthvað alvarlegt kemur fyrir færð þú enga þjónustu á sjúkrahúsunum hér nema þú greiðir fyrir fram….“

Bóndi á torginu:

„Og sért þú arabi er þér bannað samkvæmt lögum að bora eftir vatni. Vatnið skiptir öllu máli við landbúnaðinn hér. Sérðu þorpið þarna uppi á hæðinni? Þetta er nýlenda gyðingalandnema. Þeir taka landið okkar og þeir taka vatnið frá okkur. Gyðingur sem býr í New York hefur meiri rétt á vatninu okkar og landinu okkar heldur en við…“

Landslagið sem fæddi Krist

Biblíumynd sem á að lýsa þeim slóðum Krists sem umlykja landslagið sem hér er lýst.

Á leiðinni frá Kafir Malik mættum við mörgum herjeppum sem voru á eftirlitsferðum um sveitirnar. Landslagið þarna kom kunnuglega fyrir sjónir. Það var sama landslagið og ég hafði séð á biblíumyndunum sem mér voru gefnar þegar ég gekk til prests sem barn. Fjárhirðarnir litu meira að segja eins og hirðingjarnir á Betlehemsvöllum. Enda eru þetta heimahagar Krists og biblíulegir sögustaðir í hverju þorpi. En eitthvað hafði breyst. Það var uppreisnarástand í Landinu helga. Daginn eftir fórum við á Gaza-svæðið. Ég átti erfitt með að ímynda mér á þessari stundu, að næsti dagur yrði ennþá erfiðari. En sú varð raunin. Meira um það á miðvikudaginn kemur. -ólg

 

INTIFADA – UPPREISN Í LANDINU HELGA – I

Ferðalagið til Landsins helga

Ferðasaga í fjórum þáttum frá flóttamannabúðum Palestínumanna í Jórdaníu, um Vesturbakkann, Jerúsalem og Gaza-svæðið í júní 1988
Þessi ferðasaga birtist í fjórum hlutum í Þjóðviljanum í júlí 1988. Hún var uppskera erfiðustu ferðar lífs míns, sem ég tókst á hendur á eigin kostnað í júnímánuði 1988 frá Rómaborg til Amman í Jórdaníu, og þaðan áfram til Jerúsalem og um Vesturbakkann og Gaza-svæðið og aftur til baka. Ég hafði starfað við erlend fréttaskrif á Þjóðviljanum um árabil, og ritað margar greinar um Palestínuvandann. Á þessum tíma var ekkert internet og eina beina samband fréttamanns við umheiminn var símriti  Reuters-fréttastofunnar. Ég var alltaf vantrúaður á þessa upplýsingaeinokun og stóðst því ekki tækifærið að fljúga beint frá Róm, þar sem ég var staddur, til Amman. Í þessari ferð upplifði ég veruleika sem var í engu líkur heimsmynd Reuters-fréttastofunnar, og ferðin breytti heimsmynd minni fyrir lífstíð.  Greinarnar eru nú endurbirtar hér á hugrunir.com í tilefni atburða undanfarinna vikna á Gaza-svæðinu. Ferðasagan hefur að mínu mati enn sitt gildi til aukins skilnings á því sem nú er að gerast í Palestínu. Ferðasagan er með ljósmyndum sem ég tók sjálfur. Endurvinnsla greinanna úr Þjóðviljanum hefur vakið til nýs lífs endurminningar sem héldu mér andvaka vikum saman eftir að ég kom heim.

Intifadan, uppreisnin á hinum herteknu svæðum Ísraelsríkis á Vesturbakka Jórdanár og Gaza-svæðinu hafði staðið í hálft ár þegar ég lenti á flugvellinum í Amman í Jórdaníu. Erindið var að sjá með eigin augum þann veruleika sem sjónvarpið og aðrir fjölmiðlar hafa leitast við að miðla til okkar þessa mánuði með þeim árangri að flestir eru nú hættir að taka eftir því þótt barn sé limlest eða skotið til bana, heimili lögð undir jarðýtur eða hermenn grýttir af börnum. Í flugvélinni á leiðinni las ég í erlendum blöðum að uppreisnin væri að fjara út, að allt væri nú að færast í eðlilegt horf og skólarnir væru nú loksins opnaðir aftur eftir hálfs árs lokun.

Tíu dagar í Palestínu

Ég dvaldi 10 daga í Palestínu, þar af 5 daga á Vesturbakkanum og Gaza-svæðinu, og 5 daga í Jórdaníu. Þar skoðaði ég meðal annars stærstu flóttamannabúðir Palestínumanna í Miðaustur löndum, þar sem búa nærri 100.000 flóttamenn. Á herteknu svæðunum skoðaði ég flóttamannabúðir, heimsótti sjúkrahús, skóla og aðila sem láta sig mannréttindi varða, og ég hitti fólk, sem hvarvetna tók mér af stakri gestrisni og reyndist óðfúst að veita mér upplýsingar og leiðsögn, jafnvel þótt það tæki þar með mikla áhættu.

Ég sá börn og unglinga hlaða vegatálma og kasta grjóti að hernámsliðinu. Ég hitti limlest börn, ekkjur og sveltandi flóttamenn. Ég sá hermenn beita skotvopnum gegn börnum og unglingum og ég sá táragasskýin leggjast yfir flóttamannabúðirnar og göturnar í Gaza. Ég upplifði mannlausa bæi og þögn sem var hlaðin ofbeldi og spennu, sem er ekki rofin af öðru en vélarhljóði herjeppanna sem hringsóluðu um mannlausar göturnar undir brennheitri hádegissólinni meðan á allsherjarverkfallinu á herteknu svæðunum stóð. Ég sá heimili sem höfðu verið lögð undir jarðýtur, ég hitti menn sem höfðu sætt misþyrmingum í fangabúðum herstjórnarinnar og ég heyrði óteljandi sögur af óhæfuverkum ísraelska hersins. Ég talaði við kristna araba og múslima, óbreytt alþýðufólk og menntamenn, lækna, lögfræðing og prest. Ég kynntist palestínsku konunum sem hafa yfir sér sérstakan þokka og reisn, þar sem þær ganga teinréttar í sínum síðu kuflum með nauðþurftir heimilisins á höfðinu. Ég naut ótrúlegrar gestrisni þessa fólks og var boðinn besti viðgjörningur hvar sem ég kom. Ég sá dýpri niðurlægingu og örbirgð en ég gat ímyndað mér, örvæntingu, ótta og vonleysi, og ég upplifði einnig óbilandi kjark og baráttuvilja fólks sem virtist ekkert óttast og storkaði hernámsliðinu af fullkomnu æðruleysi. En fyrst og síðast sá ég börnin sem þekkja ekki annan veruleika en þennan: berfættu börnin sem léku sér í kringum opin skolpræsin í moldargötum flóttamannabúðanna eða æfðu sig í að hlaða vegatálma úr smásteinum, börnin sem sýndu mér stolt teygjubyssurnar og slöngurnar sem þau beita gegn ísraelska hernámsliðinu, börnin sem voru óðamála að tjá sig um það sem þau höfðu upplifað og börnin sem stóðu á verði til þess að vara mig við hermannajeppunum sem hringsóluðu um flóttamannabúðirnar. Börn sem höfðu misst föður sinn, börn með skotsár, limlest börn, skítug börn með glampa í augum sem gaf til kynna undarlegt sambland af heift og sakleysi. Börn sem eru öðruvísi en öll önnur börn sem ég hef áður séð, því þau hafa andlit sem eru rúnum rist af ábyrgð og reynslu af daglegu ofbeldi, en í gegnum þessa g reynslunnar glittir engu að síður í hyldýpissakleysi barnssálarinnar sem getur illa greint á milli leiks og alvöru.

Palestínskir drengir í afslöppun á Vesturbakkanum. Ljósm. olg.

Reynsla mín þessa daga á herteknu svæðunum var bæði erfið og yfirþyrmandi, en hún sann færði mig um tvennt:

Uppreisnin, eða intifadan eins og Palestínuarabarnir kalla hana, var ekki að fjara út. Hún hefur trúlega þvert á móti aldrei verið víðtækari en nú. En hún mun sennilega breyta um farveg.

Samstaðan um friðsamlega andspyrnu gegn yfirvöldum á hernámssvæðunum er víðtækari en áður, en jafnframt eru einnig teikn á lofti um stigmögnun ofbeldis. „Þegar barn á fjórða ári er farið að spyrja hina fullorðnu að því hvernig eigi að búa til mólótofkokteila, þá getum við reiknað með að það muni grípa til sinna ráða fyrr en varir að óbreyttum aðstæðum,“ sagði læknir á Vesturbakkanum við mig, og bætti því við að foreldrar hefðu ekki lengur neina stjórn á börnum sínum.

Sú mynd sem við höfum fengið í gegnum fjölmiðla af á standinu á herteknu svæðunum í Palestínu er blekkjandi. Fjölmiðlarnir ná einfaldlega ekki að bregða upp mynd af því viðvarandi ógnarástandi sem þarna ríkir, heldur færa þeir okkur veruleikann í brotakenndu formi sem bundið er við einstakar myndir eða atburði. Ástandið á herteknu svæðunum og í flóttamannabúðum Palestínumanna þar er ein faldlega mun alvarlegra en okkur hefur verið sagt. Ég hef fylgst með þessu máli í gegnum fjölmiðla um árabil og skrifað um það fjölmarga fréttapistla og greinar hér í blaðið okkar í gegnum árin. Veruleikinn kom hins vegar yfir mig eins og köld vatnsgusa: hvernig var þetta mögulegt?

Hér á eftir og í næstu blöðum munu birtast frásagnir af því sem ég reyndi og sá í Palestínu þessa 10 daga. Frásögnin verður í fjórum hlutum. í fyrsta hlutanum er sagt frá heimsókn í Baqaá-flótta mannabúðirnar skammt fyrir utan Amman í Jórdaníu. í næsta hluta verður sagt frá ferð minni yfir á Vesturbakkann, til Jerúsalem, Ramallah og fleiri bæja og þorpa. Þriðja frásögnin verður af ferð minni á Gazasvæðið og fjórði og síðasti þátturinn verður að mestu viðtal við kaþólskan prest frá kristna bænum Efraím á Vesturbakkanum.

Kyrr kjör í Baqaà

Þegar komið er að Baqaá-flóttamannabúðunum fyrir utan Amman í Jórdaníu líta þær fljótt á litið út eins og fátæklegur bær úr þriðja heiminum. Húsin með fram þjóðveginum eru lágreist og hrörleg, en sum þeirra hafa verið máluð og þarna má sjá hvers kyns starfsemi í gangi, bílaverkstæði og aðra þjónustu við vegfarendur, handverksmenn að störfum o.s.frv.
Þegar inn í búðirnar er komið eru húsin hrörlegri, göturnar þrengri og þrengslin augljósari. Fólkið býr í kofum sem eru flestir hlaðnir úr múrsteini. Bárujárnið á þakinu er fergt niður með grjóti, og sumir kofarnir eru ein faldlega gerðir úr blikki. Víðast eru moldargötur, en sum staðar eru göturnar steyptar eða malbikaðar með opinni skólprennu eftir miðri götunni.

Börnin í flóttamannabúðunum í Baqaà í Jórdaníu, þar sem búa um 100 þúsund flóttamenn. Gatan er steypt, en opið skolpræsi eftir miðri götunni. Húskofarnir hlaðnir úr steini með blikkþaki. Ljósm. olg.

Í Jórdaníu rignir ekki 6 mánuði ársins, en á regntímanum sem varir frá nóvember fram í apríl verða moldargöturnar í flóttamannabúðunum að forarvilpu sem nær að minnsta kosti í ökla. Markaður var í gangi þegar ég kom inn í búðirnar, og þar var fjölbreytt úrval varnings og mannlíf allt hið framandlegasta í norrænum augum. Mannmergðin var mikil og þarna mátti auk hvers konar lífsnauðsynja fá ýmiskonar þjónustu, svo sem eins og rakstur og klippingu og veitingar voru seldar á götum úti, einkum djúpsteikt brauð og mjölbollur. Þarna mátti einnig sjá flestan þann varning, sem finna má á venjulegum arabískum markaði, fatnað, skó, búsáhöld, fiðurfé á fæti, egg, ávexti, grænmeti, baunir og mjöl, en kjöt er af skornum skammti, enda munaðarvara fyrir alþýðu manna í Jórdaníu. Gjafafatnaður frá Evrópu var þarna á boðstólnum í stórum stíl gegn vægu verði, og er hann seldur til ágóða fyrir flóttamannahjálpina. Þá kom á óvart að sjá þarna verslað með gull og skartgripi, en gullið gegnir mikilvægu hlutverki í hefðbundnum samskiptum fólks í arabaheiminum. Einnig kom á óvart að sjá þarna starfræktan banka, en allt þetta fjölbreytilega líf og þjónusta jók á þá tilfinningu að hér væri mannlíf með tiltölulega eðli legum hætti miðað við það sem gerist í fátækrahverfum Amman og annarra borga í Jórdaníu.

Palestínskar konur á útimarkaðnum í Baqaà flóttamannabúðunum í Jórdaníu. Ljósm. olg.

Seinna átti ég eftir að kynnast því að aðstæðurnar þarna voru hátíð miðað við það sem finna má á Vesturbakkanum, og síðan er farið er úr öskunni í eldinn þegar komið er á Gaza-svæðið, sem liggur á mörkum Ísraels og Egyptalands, en þar ríkir nú styrjaldarástand.

Lykt af mannlífi

Gönguferð í gegnum markað inn í Baqaá er ekki síður upplifun fyrir lyktarskynið en sjónina. Þarna blandast saman ilmur af kryddjurtum eins og basil og myntu, fnykur af fiðurfé og óþefur úr opnum skólpræsum, kaffi- ilmur og kardimommu, þefur af rotnandi grænmeti og úrgangi, stækja af olíusteikarpottum sem eru úti á götunum, ilmur af smyrslum og steinkvötnum kvennanna og sæt lykt af appelsínum, fíkjum og öðrum ávöxtum, sem fylla hlaðna bekki og borð og blandast einnig góðum ilminum frá ofni bakarans.

Eftir tilvísun lá leið mín í gegn um endilangan markaðinn um hálftíma hægan gang að miðsvæði flóttamannabúðanna þar sem var að finna miðstöð UNWRA, (United Nations Relief and Works Agency), en það er sérstök flótta mannahjálp Sameinuðu þjóð anna fyrir Palestínuaraba, sem starfað hefur frá 1949 í Jórdaníu, Líbanon, Sýrlandi, á Vesturbakkanum og á Gaza-svæðinu. Hjá UNWRA fengum við flestar þær upplýsingar, sem hér koma fram, og var mér meðal annars sýnt sjúkraskýli og skóli sem stofnunin rekur auk þess sem mér var boðið að skoða venjulegt heimili í búðunum. Eldhús fjölskyldunnar var í sérstöku afdrepi inni á lóðinni. Þar er bæði ísskápur og gaseldavél.

25 sent á dag

Baqaá-búðirnar eru fjölmennustu flóttamannabúðir Palestínuaraba í Miðausturlöndum. Skráðir flóttamenn þar eru tæp 70.000, en mér var tjáð að raun verulegur fjöldi í búðunum nálgaðist 100.000. Af þessum fjölda eru tæplega 60.000 skráðir flótta menn frá 1948, þegar Ísraelsríki var stofnað, hinir komu eftir 6 daga stríðið 1967. Skráðir kofar í búðunum eru 7650, sem þýðir að í hverjum kofa búa að meðaltali yfir 10 manns. Palestínskir flóttamenn í Jórdaníu búa að því leyti við aðrar aðstæður en á herteknu svæðunum að þeir hafa allir rétt á fullgildu jórdönsku vegabréfi og þeir hafa fullan aðgang að jórdönskum vinnumarkaði. Alls eru tæplega 850.000 palestínskir flóttamenn skráðir í Jórdaníu, þar af voru um 210.000 skráðir búsettir í flóttamannabúðum fyrir ári. Jórdanía er jafnframt það land sem hýsir flesta palestínska flóttamenn, eða 38% allra skráðra flóttamanna sem eru taldir vera meira en 2,2 miljónir. Til aðstoðar þessu fólki hefur UNWRA haft um 200 miljónir dollara á ári, eða rúmlega 25 cent á mann á degi hverjum. Ef tekið er tillit til þessa þrönga fjárhags verður skiljanlegra hvað hjálpin virðist í mörgum tilfellum fátækleg og ófullnægjandi. Auk þess sem ytri aðstæður gera aðstoð oft á tíðum illframkvæmanlega, bæði á herteknu svæðunum og í Líbanon. Alls eru 10 palestínskar flóttamannabúðir í Jórdaníu. Fjórar þeirra hafa verið starfræktar frá 1948, hinar voru settar upp eftir 6 daga stríðið 1967.

Þéttbýli hættulegt heilsunni

Ég skoðaði heilsugæslustöð UNWRA í Baqaá undir leiðsögn forstöðumanns hennar. Þar eru starfandi 7 læknar, þar af einn tannlæknir. Hjúkrunarkonur og -menn eru 19 og ljósmæður eru 6. Þetta starfslið þjónar mannfjölda sem er álíka mikill og íbúar Reykjavíkur. Vinnuálagið á læknana er gífurlegt, eða 100 – 160 sjúklingar á dag, og sögðust þeir sinna að minnsta kosti fjórum sinnum fleiri sjúklingum á dag en læknar utan búðanna. Húsakynnin eru frumstæð skýli, byggð fyrir gjafafé frá ríkisstjórn Kanada, og voru skýli þessi tekin í notkun fyrir tæpu ári. Sérstakt sjúkraskýli fyrir börn er frá sama tíma, reist fyrir norskt gjafafé. Mér var tjáð að heilbrigðisvandamál þau sem við væri að etja væru mörg af félagslegum rótum og stöfuðu af of miklu þéttbýli, þekkingarskorti, óhollri fæðu og ófullnægjandi barnaumhirðu. Algengustu sjúkdómarnir eru öndunarfærasjúkdómar, meltingartruflanir svo sem niðurgangur, háls-, nef- og eyrnasjúkdómar, sníklafaraldrar, húðsjúkdómar, hjarta- og æðasjúkdómar og sykursýki. Mér var tjáð að bólusetningarherferð hefði skilað góðum árangri og að faraldssjúkdómum eins og malaríu, berklum og lömunarveiki hefði verið útrýmt. Barnadauði í búðunum er 47 börn af hverjum 1000, sem er lægri tala en fyrir Jórdaníu í heild. Helsta hættan fyrir börnin stafar af þrengslum (sem auka á smithættu), opnum skolpræsum (neðanjarðarræsi voru sögð í smíðum), og ófullnægjandi umhirðu vegna barnmergðar. Meðalfjölskyldustærðin er 7,2 börn, og í búðunum fæðast að meðaltali 2200 börn á ári eða 6 börn á dag.

Börn í ómegð

Í barnasjúkraskýlinu var okkur tjáð að komið væri með nýfædd börn í ungbarnaeftirlit einu sinni í mánuði á fyrsta aldursári. Haldin er sjúkraskrá yfir öll nýfædd börn, og ef það sýnir sig að þau þroskast ekki eðlilega, þá eru þau tekin í daglega meðhöndlun og sett á sérstakt fæði, auk þess sem foreldrum er kennd barnaumhirða. Áhersla er lögð á nýtingu móðurmjólkur, þar sem vatnsblandað mjólkurduft eykur mjög á smithættu. Barnalæknirinn tjáði okkur að vanhirða á börnum stafaði ekki bara af vankunnáttu, heldur líka af því að fjölskyldur væru svo stórar að foreldrar önnuðu ekki að sinna öllum börnum sínum nægilega vel. Okkur var tjáð að enginn liði fæðuskort í búðunum, en um 1700 manns þiggja daglegar matargjafir. Þetta þýðir að fólkið í búðunum er að stórum hluta efnahagslega sjálfbjarga og karlmenn sækja mikið vinnu utan búðanna. Það vakti furðu mína að sykursýki skyldi vera meðal algengari sjúkdóma, þar sem hún er yfirleitt rakin til ofneyslu. Sérfræðingurinn í meðhöndlun þessa sjúkdóms tjáði mér að í búðunum væru skráð 500 tilfelli, og væri orsökin annars vegar rakin til rangrar fæðusamsetningar (of mikil kolvetni), hins vegar til innbyrðis skyldleika íbúanna og til áhrifa af þeirri streitu sem þéttbýlið og aðrar aðstæður í búðunum hafa í för með sér. Aðspurðir um það hvernig læknarnir meðhöndluðu niðurgang, sem er einn skæðasti barnasjúkdómurinn í mörgum fátækum löndum, sögðu læknarnir að við honum væri gefin saltupplausn í því skyni að koma í veg fyrir vatnstap sem væri hættulegasta afleiðing niðurgangs. Auk þess að tala við lækna sjúkraskýlisins kom ég einnig á rannsóknastofuna, þar sem unnið var að greiningu sýna. Það er óhætt að segja að aðstaða þar hafi verið engin. Ein lítil smásjá og kannski eitt eða tvö lítil tæki í viðbót, og mér var tjáð að allar mikilvægari greiningar væru sendar á sjúkrahús í Amman.

Fimmtíu nemendur í skólabekk

Eftir heimsóknina á sjúkraskýlið kom ég í stúlknaskóla þar sem prófum var að Ijúka og síðustu nemendurnir rétt að fara heim. Skólastýran sagði mér að þarna væru um 1500 nemendur á gagnfræðaskólastigi. Stórt port myndaði skólalóðina og voru byggingar skólans allt í kringum portið. Þetta eru bárujárnsskúrar með kennslustofum þar sem ekkert er innandyra nema bekkir og svört tafla á vegg. Nemendur eru 50 í hverjum bekk og svo þétt setinn bekkurinn að ekki komast fleiri í hverja „stofu“. Skrifstofa skólastýrunnar var líka í bárujárnskofa, og þótt þar væri snyrtilegt innan dyra var engin kennslugögn eða bækur þar að sjá, eða afdrep fyrir kennara. Veggir er sneru inn að skólalóðinni voru skreyttir myndum eftir nemendur sem sýndu palestínskar konur að störfum innan sem utan heimilis.

Kennslukonan í skólastofu 50 nemenda í flóttamannabúðunum í Baqaà. Ljósm. olg.
Átta í flatsæng á 9 ferm.

Að Iokum var mér boðið að sjá dæmigert heimili í þessum flóttamannabúðum. Þetta var heimili 9 manna fjölskyldu, sem bjó í tveim kofum og hafði litla lóð innan veggja að auki. Þarna sem annars staðar þar sem ég kom inn á heimili palestínskra flóttamanna var gætt fyllsta þrifnaðar. Gólfin voru steypt og hvítskúruð. Fjölskyldan var ættuð frá Hebron, og varð landflótta þegar Ísraelsher lagði undir sig Vesturbakkann árið 1967. Eftir 21 ár í útlegð var ættmóðirin orðin ekkja, og naut hún þeirra forréttinda að búa ein í öðrum kofan um, sem var gerður úr ómáluðum blikkplötum negldum á grind. Þetta var öldruð kona, og kofinn hennar var kannski 3×3 m. að flatarmáli.

Ættmóðir níu manna fjölskyldu í kofa sínum í Baqaà. Ljósm. olg

Húsmóðirin var kornung að sjá, en átti þó 6 börn, og sváfu þau með foreldrum sínum í flatsæng á gólfinu í hinum kofanum. Var vandséð hvernig átta manns gátu komist þar fyrir. Eldhús var í sérstöku afdrepi, þar sem var bæði gashella og vaskur með rennandi vatni. Garðurinn á milli kofanna var kannski 3x4m, og þar voru snúrur fyrir þvotta. Húsgögn voru þarna nær engin, eða þægindi, að frátöldum dýnunum, og engar voru hirslurnar til að varðveita jarðneskar eigur þessara öreiga. Þegar ég ljósmyndaði móðurina með nokkrum barna sinna inni í svefnskála hennar mátti sjá að henni var brugðið og tár komu fram í óttaslegnu andliti hennar.

Sex barna móðir í flóttamannabúðum í Baqaà ásamt tveim sonum sínum. Svefndýnur fjölskyldunnar eru í stafla  undir laki í baksýn. Ljósm. olg

Það var eins og hún væri að spyrja sjálfa sig og umheiminn þeirrar áleitnu spurningar, hver yrði framtíð þeirra barna, sem hún hefði alið í þennan heim. Daginn eftir hélt ég yfir á Vesturbakkann og þar uppgötvaði ég nýja veröld, og um leið að flóttamannabúðirnar í Jórdaníu voru konunglegar miðað við ástandið sem þar ríkti. En meira um það í blaðinu næsta föstudag. -ólg

NIETZSCHE: FÖRUMAÐURINN OG SKUGGI HANS III.

 

NIETZSCHE UM GILDRU TUNGUMÁLSINS, FRELSI VILJANS OG SKEMMTIKRAFT GUÐS

Í þessum þriðja og síðasta kafla úr verki Nietzsche birti ég hér þrjú orðspjót, sem fela í sér þrjú sjónarhorn á villuráf mannsins um heim staðreyndanna, um vegleysur tungumálsins og samanburðinn á skopskyni mannsins og skapara hans. Þetta villuráf á sér sameiginlegan leiðarvísi í hlutverki tungumálsins sem er í senn blessun mannsins og bölvun.

Þessi þrjú orðspjót birta að hætti Nietzsche djúphugsaðar og raunverulegar athuganir á flóknum heimspekilegum vanda sem heimspekin hefur glímt við frá upphafi vega. Sérhvert þessara þriggja orðspjóta væri metnaðarfullum akademískum heimspekingum efni í þykka doðranta upp á hundruð blaðsíðna og óteljandi bindi, en Nietzsche fann aldrei hjá sér kvöð til akademískra málalenginga: hér segir hann flókin heimspekileg vandamál um tungumálið, frelsi viljans, jafngildingu og sundurgreiningu  staðreyndanna og hið mannlega sjónarhorn sagnfræðinnar í örfáum orðum og í meitluðum ritstíl sem á sér varla hliðstæðu. Í heild sinni er Nietzsche hér að benda okkur á takmörk þeirrar frumspeki sem ávallt er lögð til grundvallar, hvort sem við fjöllum um huglæg hugtök eins og frelsi, „hlutlægar“ skoðanir vísinda og þekkingar eða sagnfræði er tekur óhjákvæmilega mið af manninum andspænis alheimi sem á sér yfirskilvitleg endamörk handan allrar mennsku.

Ekki er tilefni til að orðlengja um þessa pistla umfram það sem liggur í augum uppi: til dæmis vandamál „staðreyndanna“ sem Nietzsche átti eftir að afgreiða síðar með fullyrðingu sinni um að „ekki séu til staðreyndir, heldur einungis túlkanir á staðreyndum“, með þeirri viðbót að einnig þessi yfirlýsing fæli í sér túlkun. Þessi fræga yfirlýsing Nietzsche hefur orðið mörgum hreintrúarmanninum hneykslunarefni, en Nietzsche bendir hér á þá grunnforsendu allrar fyrirbærafræði, að skynjun og skilningur veruleikans sé óhjákvæmilega bundinn gagnkvæmu sambandi, þar sem aðskilnaður áhorfandans frá viðfangi sínu felur óhjákvæmilega í sér sjónarhorn sem er jafn hverfult og tíminn sjálfur: hugmyndinn um „hlutinn í sjálfum sér“ sem „hlutlægt“ viðfang vísindalegrar rannsóknar felur alltaf í sér frumlægar forsendur sem eru hverfular eins og tíminn, og því er hugmyndin um eilífan sannleika vissulega falleg en óhjákvæmilega fallvölt eins og tíminn í ljósi eilífðarinnar.

Það er tungumálið sem hefur fært manninum þetta verkfæri til „hlutlægrar“ rannsóknar á veruleikanum, sem er dýrunum forboðið. Hér bendir Nietzsche einfaldlega á að um leið og hugtökin gefa okkur tilfinningu fyrir því að við höfum hlutina í hendi okkar þegar við höfum orðað þá, þá blasir hið þveröfuga við, því til dæmis orðið „hönd“ er ekki til í veröldinni sem hlutur í sjálfum sér, heldur einungis sem líffæri er eigi sér jafn margræða reynslu og þekkingu og rekja má til fjölda forfeðra okkar frá örófi alda. Engin hendi er „hlutur í sjálfum sér“ heldur tengd órjúfanlegum böndum tiltekins líkama með öllum þeim flókna tengslabúnaði og sögu sem því fylgir. Mynd líffærafræðanna af hönd okkar er sértekning sem á sér ekki sannanlega samsvörun, hvorki í hljóðmyndunum orðsins né á líkskurðarborðinu, þar sem höndin hefur verið aftengd allri reynslusögu sinni frá upphafi vega.

Það er þetta sem Husserl, Heidegger, Merleau-Ponty og aðrir frumkvöðlar fyrirbærafræðanna tóku upp frá Nietzsche og lögðu sig eftir að skilja í löngum og flóknum fræðiritum er sýna sögu þekkingarleitar mannsins í nýju ljósi.

Tilhneigingin að einangra „staðreyndirnar“ frá umhverfi sínu til að öðlast „rétta“ mynd af veruleikanum er stöðugt virk í samtíma okkar, einnig í þessum skrifum.

Til þess að sjá hversu villandi þessi einangrun „staðreyndanna“ getur verið nægir að kveikja á sjónvarpinu þessa stundina og sjá myndirnar af hryðjuverkaárásinni 6. október síðastliðinn, þar sem hrottafengnar aftökur og mannrán eiga sér stað. Sjónvarpið sýnir okkur þetta í nafni „staðreyndanna“ til að auka á augljósan hrylling atburðarins, þar sem hann er sýndur „sem slíkur“, aftakan „í sjálfri sér“ sem „staðreynd“.

Óhugnaðurinn sem slíkar myndir vekja er ekki til þess fallinn að vekja skilning á vandamálinu. Ef við stöndum frammi fyrir vanda sem þessum, þá er fyrsta skilyrði þess að lausn verði fundin, að við hættum að líta á „staðreyndina sem slíka“ en reynum að spyrja okkur hvernig slík voðaverk geta átt sér stað. Það kallar á að athyglinni sé beint að því sem Nietzsche kallar hið samfellda „flæði“ verðandinnar: hver var saga þessara fórnarlamba voðaverkanna, og hver var saga gjörningsmannanna?

Getur verið að hægt hefði verið að koma í veg fyrir voðaverkið? Var um að kenna lélegri gæslu við víggirðinguna sem hefur haldið 2,3 miljónum Palestínumanna innilokuðum áratugum saman án allra þeirra gæða sem við teljum forsendur „frelsis“? Voru gjörningsmennirnir að sleppa í fyrsta skiptið úr búrum sem hafði hindrað frelsi þeirra frá fæðingu? Voru fórnarlömbin búsett á landsvæði sem hafði tilheyrt fjölskyldum gjörningsmannanna, landi sem þeir töldu sig eiga erfðarétt á?

Þessar spurningar eru ekki settar fram til að réttlæta voðaverkin, og heldur ekki til að fordæma þau. Slíkir dómar leysa ekki vandann. Þeir frelsa ekki fólk í gíslingu og þeir vekja ekki fórnarlömb voðaverka upp frá dauða. Slíkar spurningar eru hins vegar nauðsynlegar ef raunverulegur vilji er fyrir hendi til að leysa vandann.

Slíkur vilji var ekki sjáanlegur í fréttaskýringu ítalska sjónvarpsins, sem ég var að horfa á. Slíkur vilji hefur ekki verið merkjanlegur hjá stjórnvöldum þeirra Evrópuríkja sem stofnuðu til þessa vandamáls með gyðingaofsóknum, heimsstyrjöldinni síðari og sviknum loforðum og mannréttindabrotum á íbúum Palestínu í lok heimsstyrjaldarinnar. Leitin að skilningi á voðaverkunum í ísraelsku samyrkjubúunum handan fangelsisgirðinga Gaza-svæðisins leiðir okkur að sögu Evrópu og þátt Evrópuríkja í að skapa þennan vanda.

„Staðreyndasýningar“ sjónvarpsfréttanna eru til þess fallnar að breiða yfir þessi tengsl og fela orsakasamhengið. Á meðan slík „fréttamennska“ er ástunduð er tilgangslaust að tala um „fordæmingu“ voðaverka og „fortakslausan rétt til sjálfsvarnar“. Það eru hin innantómu orð sem ekki breyta öðru en að kynda undir þá tilfinningaþrungnu hatursorðræðu sem blæs súrefni á stríðseldana. Það er í þessum skilningi sem við eigum að taka orð Nietzsche um „staðreyndirnar“ alvarlega.

Í örfáum orðum bendir Nietzsche okkur á að samsemd orðanna og hlutanna sé blekking, og að þessi blekking hafi jafnvel leitt manninn í aðra villu um hinn frjálsa vilja: Var vilji gjörningsmanna Hamas-samtakanna „frjáls“, gildir það sama um vilja þeirra hermanna sem látið hafa sprengjuregn rigna yfir varnarlaust og innilokað fólk í heila viku og skilið eftir sig á fimmta þúsund fórnarlömb og enn fleiri limlesta?

Nietzsche segir okkur að þar sem „staðreyndirnar“ og „hlutirnir“ séu bundnir samfelldu og órjúfanlegu flæði orsakar og afleiðingar sé tómt mál að tala um frjálsan vilja. En það þarf ekki að þýða að skilningur sé ómögulegur. Þvert á móti er hann eina leiðin til að hafa stjórn á viljanum.

Síðasta orðskeytið í þessari samantekt varðar þann trúarlega skilning á manninum sem kennir okkur að hann sé kóróna sköpunarverksins og í raun arftaki Guðs og yfirvald hans á jörðinni. Hér fer Nietzsche á kostum og snýr endanlega upp á mannhyggju húmanismans með bví að sýna manninn sem skemmtikraft og „apakött“ þess Guðs sem óhjákvæmlega búi við ógnir leiðans í allt of langri eilífð sinni og hafi því skapað manninn sem skemmtikraft. Þó maðurinn hafi skopskyn umfram dýrin, þá verður allur samanburður við skopskyn Guðs að hjómi, þar sem hégómagirnd mannsins beitir hinum „frjálsa vilja“ til eigin niðurlægingar og sjálfstortímingar er lýkur með mannlausri jarðarför hins síðasta manns og umbreytir plánetunni jörð í fljúgandi ljómandi grafardyngju mannkynsins.

Það er heilsubót af því að lesa Nietzsche


Friedrich Nietzsche:

Förumaðurinn og skuggi hans III.

Þrjú orðspjót um frjálsan vilja, gildrur tungumálsins og manninn sem skemmtikraft Guðs

 

11. Frelsi viljans og einangrun staðreyndanna

Hin hefðbundna og ónákvæma athugun okkar á hlutunum sér fyrir sér tiltekin hóp fyrirbæra sem mynda eina heild og athugun okkar kallar þessa einingu staðreynd. Á milli þessarar einingar og annarra ímyndum við okkur tómarými, og einangrum þannig sérhverja staðreynd. Sannleikurinn er hins vegar sá, að virkni okkar og þekking er ekki mótuð af röð staðreynda sem eru aðskildar með tómarými, heldur er um samfellt flæði að ræða. Við sjáum þannig að trúin á sjálfstæðan vilja mannsins er ósamræmanleg hugmyndinni um samfleytt og óstöðvandi flæði, sem ekki verður sundurslitið og einangrað.

Trúin á frjálsan vilja gengur út frá því að sérhver athöfn sé einstök og ódeilanleg. Að hún feli í sér stak-hugsun afmarkaðra eininga (Atomatismus) á sviði viljans og þekkingarinnar. – Við meðtökum staðreyndirnar með sama hætti og við leggjum óljósan skilning í bókstafina: við tölum um eins bókstafi: þeir eru hvorki þessir né hinir. Nú fellum við hins vegar jákvæða eða neikvæða dóma á þessum fölsku forsendum sem segja að til séu eins staðreyndir, að til sé stigveldisregla staðreyndakvía er eigi sér hliðstæðu í stigveldisafstæðu gildanna. Þetta felur í sér að við einangrum ekki bara tiltekna staðreynd, heldur einnig staðreyndaflokka er gefa sig út fyrir að vera eins (góðverk, illvirki, öfund eða umhyggja o.s.frv.), en hvort tveggja byggir á misskilningi. Orðið og hugtakið eru augljósustu vitnisburðirnir um trú okkar á einangrun tiltekinna hópa atvika. Við notum þau ekki bara til að merkja hlutina, heldur teljum við okkur þegar hafa í hendi okkar kjarna þeirra. Enn í dag erum við sífellt leidd af orðunum og hugtökunum til þess að ímynda okkur hlutina í einangrun sinni, einfaldari en þeir eru í raun og veru, við sjáum ódeilanleika þeirra þar sem þeir eru hver um sig í sjálfum sér og fyrir sjálfan sig. Tungumálið felur í sér heimspekilega goðafræði sem stingur endurtekið upp höfðinu, hversu vandir sem menn vilja vera að virðingu sinni. Átrúnaðurinn á hinn frjálsa vilja, það er að segja átrúðnaðurinn á eins staðreyndir og einangraðar staðreyndir, þessi átrúnaður á sinn guðspjallamann og sinn lögfræðilega verjanda í tungumálinu.

12. Grundvallarvillurnar

Til þess að maðurinn finni til einhverrar andlegrar velþóknunar eða andúðar þarf hann að vera á valdi annarrar af þessum tveim blekkingum: að hann trúi á jafngildi tiltekinna staðreynda eða tilfinninga og geti þannig brugðist stundlega við með vísun í fyrri reynslu, og fundið þar fullvissa samsvörun eða mismun (eins og gerist um sérhverja endurminningu), og finni þannig til velþóknunar eða andúðar, – eða þá að hann trúir á hinn frjálsa vilja, til dæmis þegar hann hugsar „ég hefði ekki átt að gera þetta“, „þetta hefði getað farið öðruvísi“. Þannig upplifir hann með sama hætti andúð eða velþóknun. Án þessara yfirsjóna, sem eru að verki í sérhverri velþóknun eða andúð, hefði aldrei neitt mannkyn komið til sögunnar – en grundvallartilfinning sérhvers manns er og verður sú, að maðurinn sé frjáls vera í heimi nauðsynjarinnar. Hann er hinn eilífi Taumaturg eða galdralæknir, hvort sem hann vinnur til góðs eða ills, hann er hin undraverða undantekning, ofurskepnan og næstum-Guðinn, sem felur í sér merkingu sköpunarverksins, hið óhugsandi jafnt og hið ósegjanlega, hið endanlega hugtak hinnar kosmísku ráðgátu alheimsins, hinn mikla yfirdrottnara og smánara náttúrunnar, hann er veran sem kallar sína sögu sögu alheimsins. – Vanitas vanitatum homo.

 

14. Manneskjan sem skemmtikraftur alheimsins

Ætla mætti að til væru í heiminum verur gæddar dýpra skopskyni en mannfólkið, þó ekki væri nema til að skynja til fulls þá fyndni sem fólgin er í því að maðurinn skuli líta á sjálfan sig sem æðsta markmið alheimsins, og að mannkynið er þá fyrst sátt með sjálft sig þegar það hefur sett sér trúboðsmarkmið er taki til veraldarinnar allrar. Ef einhver Guð hefur skapað heiminn, þá hefur hann skapað manninn sem apakött Guðs, sem óendanlegt tilefni til skemmtunar í allt of langri eilífðartilveru hans.

Hljómkviða himinhvolfanna sem umlykja jörðina væri þá aðhláturssöngur allra annarra skepna sem umlykja manninn. Það er ekki án sársauka sem þessi depurðarþjáða eilífðarvera etur uppáhalds dýrinu sínu á vaðið til þess að geta notið hinna harmsögulegu og metnaðarfullu tilþrifa þess, notið túlkananna á þjáningu þess og umfram allt á hinni andlegu uppátekt hégómafyllstu skepnunnar – í mynd uppfinningamanns þessa uppfinningameistara. Því sá sem fann upp manninn sér til skemmtunar var gæddur meira skopskyni en maðurinn, og var meira fyrir fyndnina gefinn.

Einnig hér, þar sem okkar mannkyn niðurlægir sjálft sig af frjálsum vilja, einnig hér hittir hégómagirnd okkar í mark, því að minnsta kosti í því efni er varðar hégómagirndina vildum við mennirnir vera framúrskarandi og stórbrotnir umfram aðrar skepnur.

Hin einstaka staða okkar í alheiminum! Guð minn góður, hún á sér engan líka!

Stjörnufræðingarnir okkar, sem stundum þurfa raunverulega að líta til sjóndeildarhrings sem er aðskilinn frá jörðinni, veita okkur skilning á því að þeir örsmáu agnardropar lífs, sem finna má í alheiminum, hafa nær enga þýðingu ef litið er til heildareðlis þess óhemjuúthafs framtíðar og fortíðar sem finna má í óendanlegum fjölda þeirra himnakroppa er bjóða upp á lífsskilyrði sambærileg jörðinni hvað varðar framleiðslu lífs; þeir eru reyndar fjölmargir, en engu að síður í afar takmörkuðu magni, ef borið er saman við óendanlegan fjölda allra hinna, er aldrei hafa reynt uppsprettu lífs eða hafa fyrir margt löngu læknast af slíkri uppákomu. Einnig hafa stjörnufræðingarnir  sagt okkur að miðað við tímanlega tilveru þessara himnakroppa þá hefur tilverutími lífsins varað stundarkorn, eins og augnabliksgos, er markast af óralöngum aðdraganda, og það getur því hvorki talist áfangastaður né endanlegt markmið tilveru þeirra.

Hugsanlegt er að maurinn í skóginum hafi jafn sterkt ímyndunarafl þess að sjá sjálfan sig sem endanlegt markmið og tilgang skógarins og við, þegar við ímyndum okkur nánast óviljandi að  endalok mannkynsins feli í sér endalok jarðarinnar.

Reyndar erum við full hæversku þegar við staðnæmumst við þann atburð sem við skipuleggjum ekki sjálf, það er að fylgja síðasta manninum til grafar í alheimsrökkri guðanna. Jafnvel hinn harðsvíraðasti meðal stjarnfræðinganna á erfitt með að hugsa sér jörðina án lífs öðruvísi en sem ljómandi og svífandi grafardyngju mannkynsins.

 

Forsíðumyndin er ljósmynd eftir Claudio Parmiggiani frá 1972: Afritun eða "Deiscrizione"

NIETZSCHE: FÖRUMAÐURINN OG SKUGGI HANS II. – EIGNARÉTTURINN OG RÉTTLÆTIÐ

NIETSCHE UM EIGNARRÉTTINN OG SIÐFERÐI GÓÐS OG ILLS

Næsta orðspjót Nietzsche sem hér er birt á eftir textabrotinu um stríðið, fjallar um réttlætið og náttúrleg talmörk jafnréttis í mannlegu samfélagi.

Nietzsche er þekktur fyrir andúð sína á lýðræði og sósíalisma, og þá jafnframt fyrir áherslu sína á frelsi einstaklingsins. En þessi skilningur á Nietzsche er ekki einhlítur, eins og sjá má af eftirfarandi textabroti. Rétt er að hafa í huga að þessi samtöl förumannsins Nietzsche við skugga sinn eru skráð á ferðalagi hans um svissnesku Alpana síðsumars 1879, þegar hann var 35 ára.

Seinni hluti 19. aldarinnar í Evrópu einkenndist meðal annars af eftirstöðvum Napoleonsstyrjaldanna í upphafi aldarinnar, og síðan af iðnvæðingu og vaxandi nýlenduveldi Erópuríkja með tilkomu eimreiða, rafmagns og annarra tækninýjunga. Á þessu tímabili verður til ný stéttaskipting, sem Marx og Engels skilgreindu manna best í Kommúnistaávarpinu frá 1845. Þeir Marx og Engels stóðu einnig á bak við Fyrsta alþjóðasamband verkalýðsins, sem var stofnað 1864, og fyrsta bindi Kapítalsins eftir Karl Marx kom út 1873, og var því tiltölulega nýtt þegar Nietzsche skrifar orðspjót sín um „Förumanninn“.

Það sem hér skiptir þó kannski mestu máli með tilliti til tíðaranda „Förumannsins“ er „Prússneska stríðið“ sem Napoleon III. hóf gegn tilraunum Bismarks til að sameina Þýskaland 1870. Því lauk með kyrfilegum ósigri Frakka, er aftur leiddi af sér stofnun „Parísarkommúnunar“ 1871, en það var í raun sósíalísk bylting er fól í sér stórfelldar umbætur í jafnræðisátt og aðskilnað ríkis og kirkju, allt framkvæmt í heiftarbræði og með ofbeldi byltingarinnar. Parísarkommúnan stóð einungis í 3 mánuði og henni lauk með blóðbaði þar sem 10 þúsund Parísarbúar voru felldir á einni viku og franska lýðveldið, sem kennt var við Versali var stofnað.

Ágreiningur og vinslit Nietzsche og Wagners verða vart skilin án þessa sögulega bakgrunns þar sem þjóðernissinnuð og rómantísk andúð Wagners á alþjóðahyggju og nýlendustefnu Napoleonstímans birtist í endurvakningu hins „frumgermanska menningararfs“ eins og hann birtist til dæmis í Niflungahringnum, og var í takt við hið nýja Prússland Bismarks.

Nietzsche hafði uppgötvað að hin þjóðernissinnaða herkvöð Wagners gegn frönsku nýlendustefnunni var ekki sú dionýsiska endurvakning sem hann hafði haldið, heldur afsprengi nýrrar þjóðernissinnaðrar borgarastéttar, og að sigurinn yfir Frökkum hafði ekki bara kallað fram sósíalíska byltingu í París, sem síðan varð kæfð í blóði eftir þriggja mánaða  ógnarstjórn. Athugasemdir Nietzsche um náttúruleg takmörk jafnaðarstefnunnar sem hér birtast, og hina tvíræðu merkingu réttlætisumræðunnar, verður að skoða í þessu ljósi.

Nietzsche beinir gagnrýni sinni ekki að höfundum Kommúnistaávarpsins, sem hann hefur vafalaust þekkt, heldur rekur hann gagnrýni sína á tvíbenta jafnréttishugsjón sósíalista til hugmynda Platons um sameignarsamfélagið í „Ríkinu“, þar sem útópían byggði í raun á miðstjórnarvaldi heimspekinganna, sem einir hefðu „sannleikann“ á sínu valdi. Í stuttu máli heimfærir Nietzsche sósíalískar hugmyndir jafnaðarstefnu og kommúnisma á 19. öldinni undir hinn frumspekilega hugmyndaheim Platons, og það er kannski fyrst og fremst á þessum forsendum sem hann rökstyður andúð sína á sósíalisma og lýðræði víða í seinni ritum sínum, andúð sem virðist fara frekar vaxandi með árunum. Nietzsche var jafn andvígur þýskum þjóðernishroka og blóðugri ógnarstjórn Parísarkommúnunnar, því hann vildi huga lengra og byggja rök sín á djúpri þekkingu á mannlegu eðli. Nietzsche sá í gegnum falsið í notkun jafnaðarhugtaksins, en eins og kemur fram í lokasetningunni merkir það ekki að hann hafi í raun verið á móti þeim jöfnuði er væri siðmenntuðum mönnum eðlislægur.

Friedrich Nietzsche

Förumaðurinn og skuggi hans II.

 

285. Ef réttlætið getur komið í stað eignarhaldsins

Ef tilfinningin fyrir óréttlæti eignarréttarins gerir sterklega vart við sig – en vísar stóra klukkuverksins eru enn á ný á þessum punkti, – þá eru tvö atriði sem geta endurstillt verkið: annars vegar jöfn eignadreifing, hins vegar afnám séreignarinnar og endurheimt hinnar samfélagslegu sameignar. Þetta síðasta úrræði er í sérstöku uppáhaldi hjá sósíalistunum okkar, sem hafa horn í síðu þess forna gyðings er boðaði: þú skalt ekki stela. Samkvæmt þeim ætti sjöunda boðorðið frekar að segja: þú skalt ekki eiga.

Tilraunir í átt til staðfestingar fyrri reglunnar hafa oft verið reyndar í fornöld, en þó aðeins í takmörkuðum mæli og án raunverulegs árangurs, sem ætti einnig að vera okkur lærdómur. Það er auðvelt að segja: „jafnstór landskiki fyrir hvern og einn“, en hvílík depurð fylgir ekki þeirri nauðsyn sem í yfirlýsingunni felst: að skipta upp landi og deila. Glötun ævagamals erfðagóss sem er kastað á glæ! Þegar vörðurnar á jarðarmörkunum eru rifnar niður fara undirstöður siðferðisins sömu leið. En ekki nóg með það: hvílík endurvakin vonbrigði nýrra landeigenda, hvílík öfund og hvílík reiði, því aldrei geta tveir jarðarskikar verið eins, og jafnvel þó svo væri, þá myndi öfundin gagnvart nágrannanum aldrei viðurkenna slíka jafngildingu. Og hversu lengi myndi slík jafngilding duga er fæli í sér svo eitraðar rætur? Innan fárra ættliða hefur einum og sama skikanum verið skipt í fimm hluta, en hjá öðrum er hann óskiptur. Og þar sem þessi regla kom til framkvæmda með svo ströngum og ósveigjanlegum erfðaskiptareglum, þar sem skikarnir voru vissulega jafnir, en leiddu um leið af sér vansæla einstaklinga með ólíkar þarfir, þá skildi hún ekkert eftir nema öfundina gagnvart foreldrum og nágrönnum og löngunina til að umbylta öllu.

Ef seinni reglunni hefði hins vegar verið fylgt, og landinu skilað til samfélagsins, þar sem aðkoma einstaklingsins væri til bráðabirgða og í formi verktakans, þá myndi það leiða til landeyðingar. Maðurinn ber aldrei umhyggju fyrir því sem hann hefur einungis tímabundin afnot af, og gerist því jarðvöðull og landaspillir.

Þegar Platon segir að sérhyglina skuli uppræta í krafti eignarréttarins, þá mætti svara því til, að þegar maðurinn hafi verið sviptur sérhygli sinni þá hafi höfuðdyggðirnar fjórar fokið með, -eða eins og segja mætti: engin farsótt yrði mannkyninu skaðvænlegri en ef það væri einn daginn svipt hégóma sínum. Hvað væru hinar mannlegu dyggðir annars án hégóma og sérhygli? Það er langt í frá að hér sé því haldið fram að dyggðirnar séu einungis nafnið eitt og gríman.

Grundvallar útópía Platons, sem sósíalistarnir lofsyngja enn í dag, byggir á meingölluðum skilningi á manninum sjálfum: Platon horfði framhjá sögu tilfinningalegrar siðferðiskenndar mannsins, hann skildi ekki uppruna þeirra grundvallargæða sem búa í mannssálinni. Skilningur hans á hinu góða og illa var, rétt eins og í fornöldinni,  bundinn við svart og hvítt, sem fól í sér að um væri að ræða róttækan eðlismun á hinum góðu og hinum illu mönnum, á hinum góðu og illu gæðum.

Til þess að eignarrétturinn blási mönnum í brjóst trúartraust og bjartsýni á framtíðina og efli þannig siðferðisvitundina þarf að halda opnum öllum leiðum í smærri atvinnurekstri og koma í veg fyrir fyrirhafnarlausa og skyndilega auðsöfnun. Taka þarf allar greinar samgangna og viðskipta úr höndum einstaklinga og einkafyrirtækja. Þetta á við um allar þær atvinnugreinar er bjóða upp á mikla og skjóta auðsöfnun, en það á ekki síst við um öll viðskipti með peninga.  Hér gildir hið sama um stóreignamennina og hina eignalausu:  báðir hóparnir fela í sér hættu fyrir samfélagið.

…………………………..

Forsíðumyndin er sögulegt málverk um Parísarkommúnuna eftir óþekktan höfund

NIETZSCHE – FÖRUMAÐURINN OG SKUGGI HANS I. – STRÍÐIÐ

RAUNIR FÖRUMANNSINS - STRÍÐ OG FRIÐUR
Hvaða ferðafélaga er hægt að velja sér þegar langt er í enn eitt langferðalagið með 10 kílóa hámark í ferðatöskuna? Auðvitað nýt ég blessunarlega félagsskapar Unu í enn einni langferð okkar til Ítalíu á 42 ára farsælu sambúðarferli, en bókarlaus á ég erfitt með að ferðast. Ég valdi seinna bindið af stórvirki Friedrich Nietzsche, „Mannlegt allt of mannlegt“, með þeim ásetningi að njóta samskipta við ferðalanginn sem skrifaði „Förumaðurinn og skuggi hans“ á ferðalagi um Engidadalinn og St. Moritz í Sviss síðsumars árið 1879. Nietzsche var einn á ferð, hrjáður af sjúkdómi sem hann átti eftir að glíma við ævilangt, en hafði félagsskap af skugga sínum, sem varð honum efni í 350 „orðspjót“ eða hugdettur, skrifaðar á þrem mánuðum, og mynda þennan einstaka lokakafla ritsins sem markar viðskilnað Nietzsche við áhrifavaldinn Richard Wagner og á vissan hátt einnig við þau áhrif frá Schopenhauer, sem mátti finna í fyrsta verki hans, „Fæðing harmleiksins“ frá 1872, byltingarverkinu sem markaði endurmat á goðsagnaheimi Forn-Grikkja með upphafningu hins dionysíska sem Nietzsche hafði fundið enduróminn af í tónlist Wagners.

Þótt Nietzsche nefni Wagner hvergi með nafni í „Mannlegt allt of mannlegt“, þá mátti sjá það þegar í tileinkunn bókarinnar til Voltairs, að Nietzsche var með þessu verki sínu að hafna þýskri þjóðernisrómantík Wagners og þeirri dulspeki sem hún endurspeglaði, um leið og hann var að takast á við rökhyggju upplýsingarinnar og þeirrar nýklassíkur sem fylgdi frönsku stjórnarbyltingunni og Nietzsche var greinilega ekki ósnortinn af. Í raun og veru er hann kannski að reyna með þessu verki að skrifa sig frá hvorutveggja og leitast við að skapa nýjan hugmyndagrundvöll handan þjóðernislegrar afturhaldsstefnu Wagners og alþjóðahyggju frönsku byltingarinnar á grundvelli vísindalegrar frumspeki.

„Förumaðurinn og skuggi hans“ er í raun og veru sjálfstætt verk, ekki skrifað með beinum og fyrir fram gefnum ásetningi hvað varðar form og byggingu, heldur er um að ræða hugleiðingar sem ganga í allar áttir án mikillar formhyggju, þar sem umræðan snýst um trúmál, listir, siðferði í samtímanum, stjórnmál, fornfræði, heimspeki og evrópskan veruleika á seinni hluta 19. aldar. Skrifin endurspegla hugsanir sem urðu að sjálfstæðri bók, bók sem ekki átti sér fyrir fram gefinn ásetning, heldur er öllu frekar um að ræða sjálfsprottinn samtalsvettvang við skuggann sem endurspeglar efahyggju förumannsins gagnvart öllum fyrir fram gefnum sannleika og siðalögmálum.

Það er undarleg staða að eiga í samtali við förumanninn og skugga hans fyrir um 140 árum síðan, á tímum sem einkennast ekki bara af ógnvekjandi harmleik stríðsins í Úkraínu með daglegum stríðsfréttum um skotgrafarhernað og mannfall sem talið er í hundruðum þúsunda, þegar síðan bætist við stríðið um Palestínu, sem nú yfirskyggir Úkraínustríðið með stríðsglæpum sem eiga sér ekki hliðstæðu frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar. Við lestur samtalsbókar förumannsins og skugga hans undir aðdraganda fyrri heimsstyrjaldarinnar (sem Nietzsche virtist sjá fyrir) öðlast hryllingsfréttirnar frá Úkraínu og Palestínu nýja vídd, sem meðal annars má lesa úr eftirfarandi „orðspjóti“ um stríðið, sem Nietzsche gat hvorki séð með hetjuljóma þjóðernishyggju Wagners né þeim hetjuljóma alþjóðahyggjunnar sem Napóleonstyrjaldirnar höfðu leitt yfir Evrópu. Í þessum skrifum er Nietzsche raunsæismaður sem horfir beint á samfélagsveruleikann og sér í honum bæði ógn og von.

Ég hef ákveðið að birta hér á vefnum valin orðspjót úr samtali förumannsins við skugga sinn, sem væntanlega munu birtast hér á vefnum eftir því sem tími og aðstæður leyfa. En fyrsta orðspjótið er einmitt helgað stríðinu – og friðnum – og bregður um leið óvæntu ljósi á samtíma okkar nú um stundir.

Friedrich Nietzsche:

Förumaðurinn og skuggi hans

 

284. Meðal hins sanna friðar.

Á okkar tímum viðurkennir engin ríkisstjórn að hún viðhaldi herafla sínum til að fullnægja þörfinni fyrir hugsanlega landvinninga. Heraflinn er allur í þjóustu varnarmálanna. Við heyrum lofsönginn um göfgi siðalögmálsins um réttinn til sjálfsvarnar. Þetta felur hins vegar í sér eftirfarandi: að eigna sjálfum sér siðsemina og nágrannanum siðleysið, því réttmætt telst að líta svo á, að hann sé haldinn óbilandi löngun til landvinninga og yfirgangs, og því sé Ríki okkar nauðugur sá kostur að huga vel að meðulum hinnar lögmætur sjálfsvarnar. Þar að auki er nágrannaríkið þögult sem gröfin, og neitar því nákvæmlega eins og okkar ríki að það hafi nokkur yfirgangsáform á sínum prjónum, þvert á móti gefur það í skyn að það viðhaldi hernaðarstyrk sínum einungis í þeim tilgangi að tryggja lögmæta vörn. Þannig útskýrum við að hætti hræsnarans og hins útsmogna afbrotamanns hvað liggi til grundvallar vígbúnaðarþörfum ríkisins, þess ríkisvalds sem er þess fullbúið að beita fátækt og varnarlaust fórnarlamb miskunnarlausum yfirgangi. Á okkar tímum standa öll ríki þannig andspænis náunga sínum: þau herma ill áform upp á nágrannann og góðmennsku á eigin geðþótta.

En þessi hugsunarháttur er hrein ómennska, illgjörn eins og stríðið. Eða öllu heldur felur hann í sér ögrun og hvatningu til stríðsreksturs, því eins og við sögðum, þá ber hann siðleysið upp á náungann og leitast þannig við að vekja upp árásargjarnar kenndir og gjörðir.

Við þurfum að afskrifa kenninguna um heraflann sem meðal til lögmætrar sjálfsvarnar með sama hætti og við afneitum ofsóknaræðinu. Hver veit nema upp renni sá dagur að þjóð nokkur, kunn af hernaðarsigrum sínum og háþróuðum samfélagsreglum og hernaðartækni, sem hún hefur áunnið sér með dýrum fórnarkostnaði, gefi allt í einu út yfirlýsingu af frjálsum vilja: „Við slíðrum sverðin…“ Og hún eyðir þar með öllum vígbúnaði sínum frá hinu minnsta til hins stærsta. Að gera sig varnarlausan á hátindi hernaðarmáttar síns á forsendum göfuglyndis – þetta er verkfæri hins sanna friðar, sem ávallt þarf að hvíla á friðsemd tilfinninganna, á meðan hinn svokallaði „vopnaði friður“ sem við mætum nú í öllum löndum, hvílir á tilfinningum ofstopans sem reiðir sig hvorki á sjálfan sig né nágrannann og megnar ekki að leggja niður vopn sín af ástæðum sem stafa annars vegar af ótta og hins vegar af hatri. Það er betra að farast en að lifa í ótta og hatri, og helmingi skárra að farast en að lifa við ótta og hatur náungans. Slík yfirlýsing ætti að marka stærsta hátíðisdag sérhvers siðmenntaðs ríkis!

Sem kunnugt er skortir ráðamenn hinna frjálslyndu þjóða stundarfrið til að hugleiða mannlega náttúru, annars væri þeim ljóst að starf þeirra væri til einskis þegar þeir vinna að „miklum niðurskurði til vígbúnaðar“. Einmitt þegar hörmungar stríðsins ná hámæli gerir einnig vart við sig sú eina tegund Guðs er þar getur hjálpað. Hið hávaxna tignartré stríðshetjanna verður einungis einu sinni fellt, og þá fyrir tilverknað eldingarinnar. En eins og þið vitið vel, þá kemur eldingin úr skýjunum – af himni ofan.

…………..

Forsíðumyndin er koparstunga Antonio Pollaiolo: "Stríð hinna nöktu" frá 15. öld

GIANNI VATTIMO ER LÁTINN

Gianni Vattimo er látinn. Tilkynningin barst mér á netrásinni Dante-channel í gærkvöld. Hann var umdeildur og áhrifamikill í allri heimspekiumræðu á Ítalíu og þekktur um víða veröld fyrir bækur sínar og fyrirlestra. Hann var eftirsóttur kennari við háskólann í Torino, þar sem hann kenndi fræðilega heimspeki og fagurfræði frá 1982. Heimspekirit hans hafa verið þýdd á fjölmörg tungumál, en ég eignaðist fyrstu bækur hans á ítölsku 1995, og þær höfðu djúptæk áhrif og urðu mér að leiðarljósi inn í samtímann: „La fine della modernità“(1991) og „Oltre l‘interpretazione“ (1994) voru bækur sem kenndu mér að lesa og skilja samtímann og urðu mér hvatning til að lesa í því skyni bæði Nietzsche og Heidegger.

Kynni mín af Vattimo takmörkuðust þó ekki við bækurnar, því árið 1998 fengum við hann til að koma til Íslands og kenna á vikulöngu alþjóðlegu námskeiði sem kallað var „Seminar on Art“, og ég átti frumkvæði að ásamt með Halga Þorgils Friðjónssyni og Hannesi Lárussyni. Það var atburður sem lengi verður í minnum hafður, en ásamt með Vattimo voru kennarar á þessu námskeiði listamaðurinn Claudio Parmiggiani og Liborio Termine prófessor í kvikmyndafræðum við háskólann í Torino. Þessi atburður leiddi til þess að Claudi Parmiggiani lagði undir sig Listasafn Íslands með eftirminnilegri einkasýningu árið 1999 og reisti útilistaverkið „Viti“ á Sandskeiði undir Vífilfelli, sem vígt var í janúar aldamótaárið 2000.

Vattimo reyndist ekki bara snjall rithöfundur, heldur frábær og afburða skemmtilegur kennari, félagslyndur með afbrigðum og hrókur alls fagnaðar þar sem hann fann sig í vinahópi.

Vattimo var sérstaklega menntaður í þýskri heimspeki, þar sem hann hafði meðal annars stundað nám hjá Hans Georg Gadamer, og þýtt höfuðverk hans, „Wahrheit und Metode“ á ítölsku. Hann var því mótaður af túlkunarheimspeki Gadamers og fyrirbærafræði Heideggers, auk þess sem hann skrifaði tvær mikilvægar bækur um Nietzsche, sem áttu stóran þátt í endurvakinni athygli á þýðingu Nietzsche fyrir samtímann.

Ég hélt sambandi við Vattimo eftir námskeiðið eftirminnilega, fékk hann meðal annars til að skrifa merka grein í sýningarskrá Listasafns Íslands fyrir tímamótasýninguna „80/90 Speglar samtímans“ sem haldin var í nóvember 1998 með úrvali verka frá Samtímalistasafninu í Oslo. Íslenska þýðingu þessarar greinar má finna hér: https://wp.me/p7Ursx-1gR .

Greinin er dæmigerð fyrir hugsun Vattimo, skilning hans á hlutverki og stöðu listarinnar í samtímanum. Hún er um leið dæmigerð fyrir þann hóp lærisveina hans og félaga, sem kenndu sig við „hina vanmáttugu hugsun“ eða „pensiero debole“. En það var í raun eins konar lærdómur sem Vattimo vildi draga af arfinum frá túlkunarheimspeki Gadamers og verufræði / fyrirbærafræði Heideggers, sem voru meginviðfangsefni hans sem heimspekings. Segja má að Vattimo hafi leitt þessa lærifeður sína inn í samtímann með túlkunaraðferðum sínum og geiningu á takmörkum allrar frumspeki, verufræði og túlkunarheimspeki.

Í annað skipti hitti ég Vattimo óvænt í Havana á Kúbu nokkrum árum seinna í tilefni af einkasýningu Claudio Parmiggiani í Ríkislistasafninu í Havana, þar sem Parmiggiani sýndi sínar brenndu skuggamyndir horfinna bóka, hljóðfæra, listmuna og fiðrilda. Það voru sannkallaðir fagnaðarfundir.

Vattimo var einnig upptekinn af hinni kristnu arfleifð sem hann hafði mótast af í kaþólsku umhverfi frá bernsku. Uppgjör hans við kristindóminn urðu samhliða uppgötun hans á eigin kynhneigð, sem var samkynjuð og um leið fordæmd af kirkjunni sem syndsamleg frávik frá ætlunarverki skaparans. Vattimo gekkst snemma við þessu fráviki frá syndaskrá kirkjunnar, sem kannski varð einnig til að auka á dálæti hans og glímu við Friedrich Nietzsche.

„Hin vanmáttuga hugsun“ Vattimo tók þannig mið af Nietzsche þar sem hann sagði tæknisamfélag samtímans einkennast af „tómhyggju“ er lægi til grundvallar þeirri verufræði er byggði á hlutgervingu fyrirbæranna og trú á „staðreyndir“ í þeim tækniheimi sem einkennist umfram allt af þeim hraðfara umbreytingum, sem Heidegger sagði lýsa sér í „gleymsku verunnar“.

Vattimo fann skyldleika með þeirri „gleymsku verunnar“, sem Heidegger var hugleikin sem kjarni frumspekinnar, og þeim firringaráhrifum (Verfremdung) sem Karl Marx hafði skilgreint sem fylgifisk vinnunnar á forsendu fjármagnsins. Vattimo sneri þannig baki við Kristilega Demókrataflokknum sem hafði myndað hryggjarstykkið í ítölskum stjórnmálum frá stríðslokum og hann gerðist meðal annars þingmaður ítalskra vinstrimanna á Evrópuþinginu eitt kjörtímabil eftir að hann lauk störfum sem háskólakennari. Hann var þó aldrei sáttur við arftaka ítalska kommúnistaflokksins, PD, og snérist beinlínis gegn honum á síðari árum  fyrir að hafa yfirgefið þau kommúnísku gildi sem hann fann hjá Marx og voru handan alls sovésks kommúnisma og allrar „alræðishyggju ríkisvaldsins“ sem honum fylgdu.

Þegar hinar „Svörtu Dagbækur“ Heideggers sáu dagsins ljós fyrir nokkrum árum, dagbækur sem vörpuðu nýju ljósi á stuðning Heideggers við nasismann í Þýskalandi, þá tók Vattimo virkan þátt í þeirri umræðu sem útgáfan vakti á þeim forsendum að hin örlagaríku mistök Heideggers hafi verið í hreinni mótsögn við þau meginatriði í heimspekihugsun hans sjálfs, er snerist um gagnrýni á þeim frumspekilega hugsunarhætti er gegnsýrði hið afhelgaða tæknisamfélag nútímans, hvort sem um væri að ræða sovéskan kommúnisma eða bandarískan kapítalisma. Bæði þessi samfélagsform byggðu á vissulega á tæknihugsun er ætti rætur sínar í frumspekilegri hlutgervingu, en nasisminn hefði í raun trompað bæði Bandaríkin og Sovétríkin með upphafningu á „fósturjörðinni“ og „kynstofninum“ og sögulegu hlutverki þessara hugtaka í framvindu sögunnar. Vattimo vildi þannig gagnrýna pólitíska hugsun Heideggers frá vinstri, út frá forsendum sem hann fann í heimspeki Heideggers sjálfs. Vattimo sagði þannig að heimspekihugsun Heideggers hefði átt meiri skyldleika við Marx en gagnrýnendur hans frá hægri og vinstri hefðu áttað sig á.

Það er mikill sjónarsviptir af persónu Gianna Vattimo úr ítölsku og evrópsku menningarlífi. Hér á þessari vefsíðu er að finna tvær þýðingar á textum hans: ritgerðin „Listreynslan á tímum fjölhyggjunnar“ er hér: https://wp.me/p7Ursx-1gR. Og ritgerð hans um Claudio Parmiggiani, sem birtist í bók Listasafn Íslands um list Parmiggiani frá árinu 2000: „Skáldskapur fjarverunnar“ er hér: https://wp.me/p7Ursx-jm

 

HEIDEGGER, SINI OG ROVELLI UM EREIGNIS, TÍMANN OG VERUNA

Um atburðinn, tímann og veruna sem eru ekki, því þeir gerast

Inngangur
Um fallið ofan í orðagryfju Martins Heideggers og alvarlega tilraun til víðsýnni upprisu

 

Fyrir nokkrum vikum rakst ég á ritgerð á netinu, sem Ragnheiður Eiríksdóttir skrifaði til meistaraprófs í heimspeki við Háskóla Íslands 2011 og hefur titilinn „Viður-eign Verunnar – fyrirbærafræði Heideggers til bjargar mannkyninu“. Ritgerðin vakti athygli mína þar sem nánast enga umfjöllun er að finna á vefsíðum Háskóla Íslands um þennan heimspeking sem telja verður einn áhrifamesta heimspeking Vesturlanda á 20. öldinni, þannig að erfitt er að átta sig á evrópskri heimspekiumræðu í samtímanum án einhverrar þekkingar á kenningarsmiðnum sem boðaði „endalok heimspekinnar“ (sbr. Ritgerðina „Endalok heimspekinnar og viðfangsefni hugsunarinnar“ frá 1964). Þá var ritgerðin ekki síður forvitnileg vegna þess að meginefni hennar er túlkun á hugtakinu „Ereignis“, sem Heidegger taldi eitt mikilvægasta hugtakið í kenningasmíð sinni eftir „umsnúninginn“, þar sem hann hafði gefist upp á því upphaflega ætlunarverki sínu að skrifa seinna bindi höfuðverksins Sein und Zeit frá 1926. Þessi ritgerð vakti athygli mína vegna þess að það kallar á virðingarverða dirfsku og áræði  að skrifa meistaraprófsritgerð inn í það fálæti sem íslenskir heimspekingar hafa sýnt Heidegger, en leiðbeinendur Ragnheiðar voru þeir Páll Skúlason og Björn Þorsteinsson. Þá var sú tilraun Ragnheiðar líka forvitnileg að skýra hugmyndir Heideggers um atburðinn (Ereignis) með íslensku þýðingunni „viður-eign“.

Ég las því ritgerðina fullur áhuga og eftirvæntingar, en þó mér finnist framtakið enn vera lofsamlegt, þá verð ég að viðurkenna að hvorki þýðingartilraunin viður-eign né endanleg túlkunartilraun Ragnheiðar á hugtakinu Ereignis í kenningarsmíð Heideggers eftir stríð urðu til þess að lyfta þokunni, sem gjarnan hefur grúft yfir þessu orði, sem í öllum orðabókum er þýtt sem atburður á íslensku. Lesturinn varð hins vegar einnig til þess að ég fann til vanmáttar að setja fram beina gagnrýni á þessa annars skemmtilegu tilraun Ragnheiðar, sem aftur varð  til þess að ég steypti mér eina ferðina enn ofan í orðagryfju Heideggers, og fór að lesa þá ritgerð sem kannski var hin endanlega tilraun hans til að skýra mál sitt -eða skýra hvers vegna vandinn væri ósegjanlegur í formi yfirlýsinga. En þannig hljóða lokaorðin í fyrirlestrinum sem Heidegger flutti við háskólann í Freiburg árið 1962 og hann kallaði Zeit und Sein, en það er titill sem felur í sér endaskipti á titli höfuðritsins Sein und Zeit frá 1926.

Þessi ritgerð var fyrst gefin út í sérprenti í París 1962, en kom síðar út í heildarritsafni Heideggers undir bókartitlinum  Zur Sache des Denkens, 2007, en þetta ritgerðasafn átti ég í mínum fórum í ítalskri útgáfu frá sama ári undir titlinum Tempo e Essere.

Ítalska þýðingartilraunin er allrar virðingar verð, og mér fannst eins og búast mátti við að lestur hennar hjálpaði mér til að greiða úr þokunni sem lengi hefur umleikið Ereignis Heideggers. Ég saknaði þess sárlega að Ragnheiður skyldi ekki hafa lesið þessa mikilvægu ritgerð, og taldi að það hefði hjálpað henni til að létta á þokunni, en hún byggir túlkunarviðleitni sína einkum á bókinni Beiträge zur Philosophie (Vom Ereignis), sem Heidegger skrifaði á árunum 1936-38.

Ég var þó ekki allsendis viss um að ég hefði komist til botns í þessari ráðgátu (sem snertir verufræðina sérstaklega en einnig fyrirbærafræðina í evrópskri samtímaheimspeki) og fór því að leita þýska frumtextans á netinu. Það var gervigreind netsins sem vísaði mér á frönsku frumútgáfuna á þýsku í bókasafni Hönnu Arendt frá 1962, kver með eiginhandaráskrift höfundar til þessarar fyrrum ástkonu sinnar. Ég komst að þeirri niðurstöðu að ég yrði að geta þýtt texta Heideggers á íslensku til þess að skilja hann til fulls, og þá þurfti ég frumtextann, þótt ég sé alls ekki jafn læs á þýsku og ítölsku.

Til þess að gera langa sögu stutta, þá komst ég að því að frumtextinn var mér eins og orðagryfja og ég gæti aldrei ráðið við allt verkið innan skynsamlegs tímaramma. Að betur hugsuðu máli réðist ég til atlögu við síðasta þriðjung ritgerðarinnar og birti hana hér. Ekki til þess að skapa viðurkennda faglega þýðingu, heldur frekar til að prófa málgetu minnar íslenskukunnáttu í viðleitninni að hefja mig upp úr þeirrar orðagryfju sem ég hafði hafnað í.

Þessi glíma kostaði bæði tíma og vangaveltur sem ekki þarf að orðlengja hér, en vitandi það að  þessi tilraun mín til íslenskrar endursagnar gefur engan vegin „rétta“ mynd af frumtextanum, þá má á vissan hátt segja það sama um ítölsku þýðinguna og vafalaust aðrar, sem gefnar hafa verið út af viðurkenndum forlögum.

Sú spurning sem vaknaði hjá mér við lestur frumtextans var ekki síst sú, hvort hugsanleg væri að  orðaleikir höfundarins og tilraunir til að yfirstíga gildrur frumspekilegra yfirlýsinga ættu sér ekki mun auðveldari og beinni útgönguleiðir en frumtextinn býður upp á – eins og Heidegger gefur sjálfur í skyn: „Við hefðum kannski losnað með einu höggi úr öllum þessum erfiðleikum, úr öllum þessum flóknu útskýringum og öllum þessum ófrjóu vangaveltum, aðeins ef við hefðum fundið svarið við þeirri einföldu spurningu sem lengi hefur beðið eftir sínu svari:

„Hvað er atburðurinn (das Ereignis)?“

Atburðurinn verður að leyndardómi hjá Heidegger vegna þess að hann felur í sér og sameinar með sérstökum hætti tvo þætti: tíma og veru. Það sem þessir þættir eiga sameiginlegt er að þeir eru ekki, heldur gerast þeir og eiga sér stað. Tíminn er ekki án veru og veran er ekki án tíma. Skilningur „verufræðinnar“ á „verunni í sjálfri sér“ og „tímanum í sjálfum sér“ er hinn stóri misskilningur frumspekinnar í heild sinni, og undir lokin gerir Heidegger þá játningu að það form fyrirlesturs sem texti hans byggir á hljóti nánast óhjákvæmilega að fela í sér þessa villu að einhverju leyti.

Himnasending Carlo Sini á Youtube

 
Carlo Sini flytur innlegg sitt um Ereignis á Dante Chanel nýverið

Þessi niðurstaða mín var að einhverju leyti í mótun þegar upp sprettur á tölvuskjá mínum atvik sem varð eins og hugljómun: ítalska vefgáttin „Dante Channel – il futuro della filosofia“ sendi mér splunkunýtt innlegg ítalska heimspekingsins Carlo Sini í einhverja málstofu um erindi heimspekinnar í samtímanum undir yfirskriftinni „Ereignis – L‘evento e il suo rimbalso“. Ég sá það strax að ekki einu sinni vefgáttin sem kennir sig við skáldið Dante gat treyst fullkomlega á ítalska þýðingu sína á Ereignis.

En þetta innlegg Sini var mér eins og himnasending sem veitti mér ómetanlegan stuðning við upprisuna úr orðagryfju Heideggers. Það var eins og innleggið talaði beint inn í þau vandamál sem ég var að velta fyrir mér. Vandinn var hins vegar sá að þetta innlegg Sini var flutt blaðalaust fyrir framan tölvuskjá og því ekki um fyrir fram skrifaðan texta að ræða. Andagift þessa manns er með ólíkindum, ekki síst í ljósi þess að hann er fæddur 1933 og er því níræður á þessu ári. Þó Sini hafi ekki flutt lesinn fyrirlestur, heldur talað beint frá hjartanu, þá hafði YouTube fréttaveitan „hljóðritað“ orð hans og sett í tímaröð á þetta innlegg sem tekur um 30 mínútur auk svara við fyrirspurnum.

Að vel athuguðu máli ákvað ég að freista þess að endursegja þetta innlegg Sini sem eftirmála við þýðingarvanda minn á texta Heideggers. Sini gerir í raun það sem Heidegger var að biðja um, að losa okkur úr orðagryfjunni með einu höggi, með því að tala beint ú frá hjartanu.

Sini segir í upphafi að viðureign hans við Ereignis eigi sér langa sögu, og sú viðureign hafi ekki hafist við lestur á Heidegger, heldur við lestur á verkum bandaríska heimspekingsins Charles S. Peirce (1839-1914), sem oft hefur verið kallaður „faðir bandarísks pragmatisma“ en orðið „pragmatismi“ stendur í raun fyrir þá heimspekihugsun er byggir á „raunsæi“ og „gagnsemi“ (og er þar með laus við hugmyndafræðilega yfirbyggingu). Það eru einmitt áhrifin frá Peirce og hvernig hann hefur tengt þau evrópskri umræðu um fyrirbærafræði, verufræði, heimspeki tungumálsins og túlkunarheimspeki almennt, sem gera Sini að einum frumlegasta og áhrifamesta heimspekingi samtímans á Ítalíu á okkar tímum. Sjálfur hef ég notið þess að sitja tvö námskeið hans og lesa mörg verka hans, en hvergi hafði ég fundið jafn ótvíræða og samþjappaða samtengingu hans á Peirce og Heidegger eins og við sáum í þessu stutta og samþjappaða innleggi.

Þess vegna ákvað ég, uppljómaður af þessu innleggi, að freista þess að leggja við hlustirnar og endursegja orð meistarans, einnig með hliðsjón af „hljóðritun“ frá YouTube. Upptakan er á þessari vefsíðu YouTube: https://youtu.be/O8rUf8-GVuo?si=RSI_DnYdlRf6eAo5.

Sini byrjar að fjalla um þá augljósu hugmynd Peirce að sérhver túlkun byggi á annarri túlkun og leiði okkur í óendanlega keðju túlkana. Túlkunin í anda Peirce verður því skýringin á vandanum við að „túlka“ Ereignis. En Sini kynnir okkur fyrir nýju hugtaki sem hann setur í samhengi Ereignis og er „stacco“ á ítölsku. Þetta orð getur merkt „rof“, „fráhvarf“, „viðskilnað“ eða „slit“ á íslensku, allt eftir samhengi þess. Og Sini notfærir sér barnsfæðinguna til að skýra þetta hugtak og tengsl þess við sérhvern atburð. Atburð sem tengist óhjákvæmilega tíma og rými. Þegar nýburinn kemur úr móðurlífi á sér stað „stacco“ með róttækum hætti, og Sini lýsir fyrir okkur hvernig við getum búið til óendanlegar túlkunarkeðjur í báðar áttir hins línulega tímamynsturs til að „túlka“ orsök og afleiðingu atburðarins og bendir okkur á hvernig túlkunin endurkasti ávallt túlkunarmynd túlkandans sjálfs.

Þar er mikilvægt hugtak hjá Sini, sem er „il rimbalso“ og sýnir okkur hvernig endurkastið er ávallt „endurkast og afleiðing eigin uppruna“. Það sem við segjum á uppruna sinn í okkur sjálfum og endurómar þannig uppruna sinn í óendanlegri upprunakeðju sem skýrist best út frá túlkun Sini sjálfs á barnsfæðingunni. Lausnina á þessari þversögn, sem er um leið þversögn Heideggers í glímunni við Ereignis er að sögn Sini ekki að finna í þekkingarfræðilegri greiningu, heldur tengist hún því sem hann kallar „pratiche affettive“ og ég hef reynt að þýða sem „ virka tilfinningalega reynslu“, en kallar þó á dýpri skýringu. En út frá þessu vill Sini taka undir Heidegger um að það sé löngu tími til kominn að skilja við hlutgervingu verufræðinnar og frumspekinnar og skýringum þessara fræða á „hlutnum í sjálfum sér“. Þessi villa frumspekinnar er að mati Sini „uppfinning tungumálsins“ á Vesturlöndum, mikilvæg uppfinning að sínu marki er liggi til grundvallar allrar tækni og „vísindalegri hugsun“, en leiði okkur framhjá þeim fallvaltleika hlutanna sem gerir það að allir hlutir breytast með tímanum og jafnvel píramídarnir í Egyptalandi eru ekki þeir sömu í dag og þeir voru í gær, hvað þá fyrir 3000 árum.

Mikilvægasta niðurstaða Sini felst í þeim skilyrðum sem öll mannleg viðleitni til skilnings á heiminum er háð og tengist jarðarmöndlinum eða snúningi og halla öxuls jarðarinnar, sem við erum háð þó hann virki hvorki á Mars né Venusi.

Annað skilyrðið er fallvaltleiki mannsins og að sérhver mannvera talar út frá eigin aldursskeiði og reynslu.

Þriðja ófrávíkjanlega skilyrði allra túlkana mannsins á atburðum og sannleika tilverunnar er sú staðreynd að við tilheyrum málsamfélagi sem við höfum ekki smíðað sjálf, tungumálið talar okkur, og það gera líka fjölskyldutengslin og þjóðmenningin sem við búum við og eru ekki í okkar höndum.

Ég læt þetta nægja um þetta munnlega innlegg Sini, sem „talar frá hjartanu“ sem hans „virka tilfinningalega reynsla“ er hefur ekkert með frumspeki og verufræði að gera.

Skammtafræði tímans og Carlo Rovelli

En þetta ferðalag mitt um tímann og veruna er ekki búið, því þegar ég var búinn að fá þessa skýringu Carlo Sini á því hvernig „atvikið atvikast“ (das Ereignis ereignet) þá kemur upp í huga mér bók sem ég las í sumar um tímann eftir ítalska eðlisfræðinginn Carlo Rovelli. Og allt í einu sá ég fyrir mér hvernig hugmyndir Heideggers og Sini um tímann og verunnar geta fallið saman við nýjustu hugmyndir eðlisfræðinnar um „skammtafræðin“, sem segja okkur eins og Heidegger að tíminn sé ekki heldur gerist á mörgum ólíkum sviðum og sé því einungis til út frá tilteknum afstæðum. Carlo Rovelli er að ég held meðal kunnustu eðlisfræðinga samtímans, nú á besta aldri og gegnir prófessorsstöðum í Frakklandi og Bandaríkjunum í skammtafræðunum um tímann, alheiminn (cosmos) og smáheiminn (microcosmos). Lestur bókarinnar um tímann var mér hugljómun í sumar, en nú er ég búinn að tína bókinni í bókasafni mínu. En þegar ég leitaði að myndbandi Rovelli um tímann, þá fann ég þennan snilldarlega TED-fyrirlestur á YouTube, sem skýrir fyrir okkur hvers vegna tíminn sé ekki til: það er engin tími til í sjálfum sér, hins vegar eru til margir tímar sem allir byggja á afstæðum eða „skilyrðum“ eins og þeim sem Carlo Sini fjallar um. Þessi einstaki fyrirlestur er fluttur á ítölsku en er talsettur á ensku. Ég treysti mér ekki til að þýða hann, enda styðst Rovelli við sviðsmyndir og látbragðslist, en fyrirlesturinn tekur saman stórar hugmyndir með afar skýrum hætti á einungis 15 mínútum. Fyrirlesturinn má finna á þessari vefsíðu: https://www.youtube.com/watch?v=xeHHjGKwZWM

 

VIÐUREIGN HEIDEGGERS VIÐ EREIGNIS
-atburðinn sem samtengir tíma og veru
Seinni hluti ritgerðarinnar ZEIT UND SEIN frá 1962

(Tilraun til að endursegja hið ósegjanlega í texta Martins Heideggers um „Ereignis“ frá árinu 1962 : Martin Heidegger: Zeit und Sein, En hommage à Jean Beaufret, útg. PLON, Vortrag gehalten am 31. Januar 1962 im Studium Generale der Universität Freiburg i. Br. Frumtextinn var fenginn af vefsíðu bókasafns Hönnu Arendt, og má nálgast hann í gegnum þessa Qr-mynd :

Endursögnin er unnin með hliðsjón af ítalskri útgáfu Corrado Badocco: Tempo e Essere, útg. Longanesi, Milano 2007.)

………………………..

… Tíminn er ekki. Hann er gefinn (Es gibt die Zeit). Gjöfin sem gefur tímann markast af nándinni sem hafnar og varðveitir (der verweigernd-vorenthaltenden Nähe). Hún býður fram opnunina í rýmis-tíma, en varðveitir einnig það sem þegar hefur verið afskrifað sem hið liðna, en er varðveitt í hinu ókomnar.

Gjöfin sem færir hinn sanna tíma ákvarðast af nánd sem felur samtímis í sér hafnandi-forvörslu.[i]  Hún býður fram hið opna sem felst í tíma-rýminu og varðveitir það sem hið þegar orðna hefur afskrifað og það sem verður varðveitt í hinu ókomna. Við köllum Gjöfina sem hinn eiginlegi Tími býður fram grisjandi og varðveitandi framlag (Reichen)[ii]. Þar sem framlagið er sjálft gjöf, þá er felst í hinum eiginlega Tíma. Að því marki sem framboðið sjálft er gjöf gjafar falin í hinum eiginlega tíma.

En hvar er tíminn gefinn og tíma-rýmið? [iii]

Jafn aðkallandi og slík spurning kann að virðast við fyrstu sýn, þá leyfist okkur ekki að spyrja þessarar spurningar á þessum forsendum, forsendum tiltekins „hvar“, eða tiltekins staðar tímans. Því sjálfur hinn eiginlegi tími – eða hinn auðgaði og opnaði heimavöllur (Bereich) þess þrefalda framboðs er takmarkast af aðvífandi nálægð – , þessi eiginlegi tími er sú frumlæga staðsetning (die vorräumliche Ortschaft ) sem ein  gæti boðið upp á möguleika staðsetningarinnar“..

Vissulega má segja að allt frá árdögum heimspekinnar, og í hvert skipti sem hún hefur hugleitt tímann, þá hafi einnig verði spurt  hvar honum sé ætlaður staður. Í því samhengi hefur fyrst og fremst verið vísað í hinn útreiknaða tíma, skilinn eins og ferlið sem myndar samfellu í framhaldi einnar stundar til annarrar.

Því var lýst yfir, að hinn tölusetti tími, sem við beitum við útreikninga okkar, gæti ekki verið án ψϑχή (psyke), án animus, án sálar, án vitundar og anda. Tíminn er ekki gefinn án mannsins. En hvað þýðir þetta „ekki án“? Er maðurinn sá sem gefur tímann, eða er hann sá sem tekur á móti honum? Og ef maðurinn er sá sem tekur á móti tímanum, hvernig gerir hann það þá?

Er maðurinn fyrst og fremst maður sem tekur á móti og leitar til tímans við hvaða tækifæri sem gefst og á hvaða augnabliki sem er?

Hinn sanni Tími felur í sér nánd þess þrefalda framboðs opnunar (lichtenden Reichen)  er sameinast hinu liðna og því sem koma skal í návist verunnar.

Hinn sanni tími hefur þegar náð manninum sem slíkum í þeim skilningi að hann getur verið maður að því tilskyldu að hann sé innan þessarar þrískiptu opnunar og útsettur fyrir nándina sem ríkir með höfnun sinni og geymd. Hér er ekki um neina athöfn eða framleiðslu að ræða. Hér er gjöfin einungis gefin í þeim skilningi sem við höfum lagt í hana, það er að segja í því örlæti sem opnar tímarýmið.

Að því gefnu að það framlag gjafarinnar, sem felst í gjöf tímans, sé skilið með þeim hætti sem hér var bent á, þá stöndum við engu að síður andspænis ráðgátunni sem fólgin er í þessu „það“ sem við nefnum svo, þegar við segjum „það er (gefinn) Tími“ (es gibt Zeit) og „það er (gefin) Vera“ (es gibt Sein).

Þegar við tölum um ópersónulegt „það“ eykst hættan á því að kalla af handahófi til leiks óskilgreint afl, sem er ætlað að virkja sérhverja „gjöf“ Verunnar og Tímans. En það sem er tilfallandi og handahófskennt verður ekki jafn áberandi, ef við leggjum áherslu á þann skilning á „gjöfinni“ sem við höfum hér reynt að sýna fram á. Það gerist einmitt ef við gætum þess gagnvart Verunni að skilja hana sem návist Tímans, sem opið svið auðgað af „rjóðrinu“ er opnar fyrir margfalda nærveru.

Orðið „að gefa“ í orðasambandinu „es gibt Sein, („það gefur Veru“, á íslensku: það er Vera) sýnir sig að vera eins konar örlög (Geschick), eins og um væri að ræða nándarörlög Verunnar í sínum margbreytilegu sögulegu myndum.

Orðatiltækið „að gefa“ í sambandinu „það er gefinn tími“ sýnir sig að vera eins og framboð sem opnar fjórvíddarrými.

Að því marki sem Veran í skilningi nærveru sýnir sig í líkingu Tímans, þá styrkir það áðurnefnda tilgátu, sem segir að hinn sanni Tími , eða hið fjórfalda grundvallarframboð hins opna, sé að finna í „þaðinu“ sem gefur Veru,  því sem gefur núverandi veru. Þessi tilgáta virðist fullkomlega staðfest ef við göngum út frá þeirri staðreynd, að einnig sú vera sem er fjarverandi gefi sig til kynna af og til sem verumáti nærverunnar. En þegar það sem „hefur verið“ og lætur þannig ekki lengur nærveru vera til staðar, – einnig þegar hún nálgast okkur sem erum í núverunni – þegar það lætur þannig í ljós nærveru ekki-verunnar, þá sjáum við verumátann þar sem framboð opnunarinnar veitir sérhverri veru nærveru í hinu opna.

Hinn sanni Tími birtist þannig eins og „það“ sem við nefnum þegar við segjum „það er Vera“ (Es gibt Sein). Örlögin sem gefa veruna dvelja í framboði „Tímans“.  Felur þessi síðasta vísbending í sér að Tíminn sé það „það“ sem veitir „veruna“?

Því fer víðs fjarri. Staðreyndin er sú að Tíminn reynist sjálfur vera gjöf tiltekins „þaðs“ („Es gibt“) og að gjöf þess hafi að geyma vettvanginn þar sem nærvera er í boði.

Þannig er „þaðið“ ennþá óskilgreint og dularfullt, og við sjálf stöndum agndofa andspænis þessari ráðgátu, sem við höfum engin svör við.

Til þess að leysa ráðgátuna er ráðlegt að skilgreina Þaðið  sem gefur út frá „gjöfinni“ sem áður var nefnd. Þessi gjöf hefur sýnt sig að vera örlagagjafi Verunnar, það er að segja eins og Tími í merkingu opnandi framboðs.

(Getur það verið að við séum enn rugluð og komum ekki auga á lausn þessarar ráðgátu, vegna þess að við látum leiða okkur í þá villu tungumálsins – eða nánar tiltekið í hina málfræðilegu túlkun tungumálsins, – í þeim skilningi að fyrir tilverknað þessarar villu séum við föst í þessu „þaði“, sem verður að „gefa“ án þess að gefa sjálft sig?

Þegar við segjum „Es gibt Sein“ (bókstaflega: það gefur Veru) eða „Es gibt Zeit“ (það gefur Tíma, sbr. „það rignir, það gefur á bátinn…), þá segjum við setningu. Samkvæmt málfræðireglunum á setning að fela í sér frumlag og umsagnarlið. Setningarfrumlagið þarf ekki nauðsynlega að vera „Subjekt“ í merkingunni „ég“ eða tiltekin „persóna“. Málfræðin og rökfræðin skilja setninguna með „þaðinu“ hins vegar sem ópersónulegan umsagnarlið án frumlags, það er að segja umsögn án geranda/frumlags (Subjekt). Í öðrum indógermönskum tungumálum – eins og í grísku og latínu – er þessu „þaði“ ekki til að dreifa, að minnsta kosti ekki sem stakt orð með tilsvarandi hljóðmynd (Fonema). Það ber þó ekki að skilja þannig að í þessum tungumálum sé ekki að finna þá hugsun er liggur til grundvallar „þaðinu“: í latínu „pluit“ (það rignir), á grísku „χρη“ (það er nauðsynlegt).

En hvað merkir þetta „það“?

Málvísindin og heimspeki tungumálsins hafa ýtarlega fjallað um málið, án þess þó að finna marktæka skýringu. Merkingin sem hefur verið lögð í þetta „það“ nær allt frá því að vera hið léttvægasta yfir í að vera demónískt.

Þaðið sem við leggjum okkur í munn þegar við segjum „Es gibt Sein“ (það er vera), „Es gibt Zeit“ (það er tími), vísar með háleitum hætti til einhvers sérstaks, en á þessum stað getum við ekki farið út í dýpri skýringar á því. Því látum við okkur nægja hugleiðingu um grundvallaratriðin.

Samkvæmt rökfræðilegri-málfræðilegri túlkun er það sem hér er haldið fram eitthvað sem sýnir sig sem frumlag (Subjekt): eins og ύποχείμγογ, -„það sem er fyrir hendi“, það sem er með einhverjum hætti til staðar. Það sem er eignað „subjektinu“ sem umsagnarliður þess og sýnir sig vera þegar til staðar sem samnánd (mit-Anwesende) með viðeigandi hlut, eins og hið gríska συβεβηχός, accidens (tilfallandi): „fundarsalurinn er upplýstur“. Í „þaðinu“ sem við finnum í setningunni „Es gibt Sein“ er tiltekin vera til staðar sem talar um eitthvað sem er í grundvallaratriðum nærverandi (anwest). Því er hér tiltekin „vera“ sem talar með tilteknum hætti.

Ef við setjum þá síðastnefndu í stað „þaðsins“, þá verður setningin „Es gibt Sein“ (það gefur veru) að „Sein gibt Sein“, eða „Vera gefur veru“. Þannig lendum við í gildruna sem minnst var á í upphafi fyrirlesturs okkar: „Veran er“.

En Veran „er“ ekki frekar en tíminn.

Því segjum við skilið við þessa tilraun til að ákveða, nánast á eigin spýtum, hvað þaðið er í sjálfu sér.

Við horfumst hins vegar í augu við eftirfarandi: Þaðið tilnefnir – að minnsta kosti í nærtækustu túlkun, nærveru einhverrar veru sem er fjarverandi.

Andspænis þeirri staðreynd að málvenjan „Es gibt Sein“ og „Es gibt Zeit“ feli ekki í sér fullyrðingu um hlutinn, jafnvel þótt bygging setningarinnar hafi einvörðungu falið það í sér samkvæmt málfræðingunum allt frá tímum Grikkja og Rómverja, þá teljum við engu að síður þann möguleika fyrir hendi, að með því að segja „Es gibt Sein“ og „Es gibt Zeit“ sé þrátt fyrir allt  ekki um að ræða talsmáta er feli í sér setningar byggðar á sambandi frumlags (Subjekt) og umsagnarliðs (Prädikat).

Hvernig eigum við þá að skilja þetta Es (það) sem við berum fram þegar við segjum einmitt „Es gibt Sein“ og „Es gibt Zeit“?

Eingöngu þannig að hugsa þetta „það“ út frá virkni sagnarinnar „að gefa“ (Es gibt), það er að segja að ganga út frá „gjöfinni“ sem örlög, sem rýmisskapandi framboð. Bæði gjöfin og örlögin hanga saman, þar sem hið fyrra, það er að segja örlögin, hvíla í hinu seinna, í því að bjóða upp á opnun rýmis (lichtenden Reichen). )

Með örlagasendingu Verunnar og fyrir tilverknað Tímans birtist yfirtaka eða eignarhald er stafar frá Verunni sem nærveru og frá Tímanum sem yfirráðasvæði hins opna í sjálfu sér.

Im schicken des Geschickes von Sein, im Reichen der Zeit zeigt sich ein Zueignen, ein Übereignen, nämlich von Sein als Anwesenheit und von Zeit als Bereich des Offenen in ihr Eigenes.

Það sem bæði tímann og veran eiga sameiginlegt samkvæmt þeirra eigin eðli og ákvarðar samveru þeirra eða sambúð köllum við das Ereignis, „atburðinn“..

Við getum þá fyrst, og aðeins núna, hugsað okkur hvað þetta orð (Ereignis) merkir, hafandi í huga hvað felst í og tilheyrir bæði Verunni og Tímanum sem örlög og yfirtaka. Bæði Veruna og Tímann köllum við hluti .

Was dieses Wort nennt, konnen wir jetzt nur aus dem her denken, was sich in der Vor-Sicht auf Sein und auf Zeit als Geschick und als Reichen bekundet, dahin Zeit und Sein gehören. Beide, Sein sowohl wie Zeit nannten wir Sachen.

Tengiliðurinn „og“ sem lagður er á milli Tímans og Verunnar varð hins vegar útundan í skilgreiningu á gagnkvæmu sambandi þeirra.

Að svo komnu máli getum við strax séð hvað lætur þessa tvo hluti tilheyra hvor öðrum, það er að segja það sem felur ekki bara í sér báða hluti með eðlislægum hætti, heldur varðveitir þá líka í samþættingu sinni og viðheldur þeim sem slíkum, það er að segja afstaða beggja hluta, er atburðurinn (das Ereignis).

Afstæði hluta er ekki eitthvað sem hægt er að bæta við eftir á, eins og um væri að ræða viðbótar- samband (aufgestocktes Verhältnis) er kæmi til eftir á, á milli Veru og Tíma. Einungis þessi staða hluta getur látið veruna og tímann gerast (Ereignen) á grundvelli þess sambands sem þeim er eiginlegt, einmitt með því að láta það gerast (Ereignen) sem er hulið í örlögunum og á yfirráðasvæði hins opna rjóðurs (im lichtenden Reichen).

Með setningunum „Es gibt Sein“ og „Es gibt Zeit“  er það þetta „Es“ (það) sem gefur og staðfestir sig þannig sem atburðinn (das Ereignis).

Þótt þessi síðasta fullyrðing sé rétt, þá er hún ekki sönn, og það orsakast af því að staða hlutanna sem um ræðir hefur verið hulin. Án þess að átta okkur á því, þá höfum við sett fram ástand hluta rétt eins og eitthvað er væri til staðar á meðan við reynum að hugsa návistina sem slíka.

 

Við hefðum kannski losnað með einu höggi úr öllum þessum erfiðleikum, úr öllum þessum flóknu útskýringum og öllum þessum ófrjóu vangaveltum, aðeins ef við hefðum fundið svarið við þeirri einföldu spurningu sem lengi hefur beðið eftir sínu svari:

Hvað er atburðurinn (das Ereignis)?“

Í þessu viðfangi myndi kannski leyfast að bæta óvart við annarri spurningu: Hvað merkir hér „að svara“ og „svar“?

Að svara felur í sér þá segð er samsvarar því ástandi „hluta“ sem um er að ræða, það er að segja ástandi atburðarins. En ef ekki er hægt að segja til um ástand umræddra hluta í formi fullyrðinga, þá getum við ekki vænst þess að svar okkar geti falið í sér fullyrðingu. Þetta felur hins vegar í sér játningu á getuleysi gagnvart því að hugsa  það sem hér kallar á fullnægjandi um-hugsun. Kannski væri heppilegra að hafna ekki bara svarinu, heldur fyrst og fremst spurningunni?

Hvernig er annars ástatt með þessa fullkomlega réttmætu spurningu, sem er nánast sjálfgefin: „Hvað er atburðurinn (das Ereignis)? Með því að spyrja okkur þessarar spurningar erum við að spyrja okkur um hvað er (Was-sein), um eðli (Wesen), um raunverulegan veruhátt atburðarins og návist (west und d.h. anwest).

Með þessari að því er virðist saklausu spurningu, „Hvað er atburðurinn?“ leitum við eftir svari um eðli atburðarins.

En þegar sjálf Veran sýnir sig nú að vera eitthvað sem hefur með atburðinn að gera, og að hún sæki návist sína til hans, þá leiðir spurningin okkar aftur að því sem fyrst kallaði á skilgreiningu okkar: „Veran“ skilgreind út frá Tímanum.

Eins og forsjál yfirferð okkar hefur leitt í ljós um „þaðið“, þá á það í gagnkvæmu flækjusambandi við vísun (Weisen)  gjafarinnar, útsendinguna (das Schicken) og  yfirráðasviðið, (das Reichen). Útsending verunnar felst þá í  upplýsandi-skýlandi (lichten-verbergenden) framlagi (Reichen) hinnar margþættu návistar á sviði hins opna tímarýmis.[iv]

En framlag gjafarinnar er jafnt komið undir útsendingu og virkjun atburðarins (Ereignen). Það síðastnefnda, það er að segja hinn sérstaki eiginleiki atburðarins, ákvarðar einnig merkingu þess sem hér er kallað „Beruhen“ eða „hvíld“ eða „hvíla“.

Það sem hér hefur verið sagt leyfir okkur, eða jafnvel skyldar okkur til að segja hvernig ekki eigi að hugsa atburðinn (Ereignis). Það sem við köllum í daglegu tali Ereignis getur ekki lengur staðið fyrir viðtekna merkingu orðsins, það er að segja í merkingu „uppákomu“ eða tilfallandi „atviks“ eða tilfellis – en ekki  út frá orðstofninum Eignen, það er að segja að tileinka eða eigna sér, eins framlagið sem  skýlir og verndar („Eignen als dem lichtend verwahrenden Reichen und Schicken.“).[v]

Þannig höfum við nýverið heyrt þá yfirlýsingu að innan Evrópska Viðskiptabandalagsins hafi myndast eining, er kalla megi evrópskan atburð (Ereignis) er hafi heimssögulega þýðingu. Þegar við sjáum hér yrðingu orðsins „Sein“ (vera) setta í samhengi við orðið „Ereignis“ (atburður) þá heyrum við orðið eingöngu í hefðbundnum skilningi þess, og þá finnum við jafnframt formlega vöntun þess að fjallað sé um „atburð verunnar“ (Ereignis des Seins). Því án verunnar (Sein) getur engin verund verið sem slík. Samkvæmt þessu má halda því fram að Veran (das Sein) sé mikilvægasti og æðsti atburður (Ereignis) sem um getur.

Er það ekki svo, að eini tilgangur þessa fyrirlesturs sé að beina sjónum okkar að Verunni sjálfri sem Ereignis?

Satt og rétt. Vandinn er einungis sá, að við leggjum aðra merkingu í orðið (Ereignis) en þá viðteknu. Samkvæmt því verður það knýjandi nauðsyn, að hugleiða hið lítt áberandi en engu að síður vandmeðfarna og margræða orð „als“ (eins og, sama og).

Ef við göngum út frá því að við höfnum  hefðbundinni merkingu orðsins „Ereignis“ í umræðu okkar um veru og tíma og tökum í hennar stað þá merkingu gilda sem skilja má sem sendingu viðveru  skýlandi rjóðurs tíma-rýmisins (im Schicken von Anwesenheit und lichtendem Reichen des Zeit-Raumes)[vi], þá er umræðunni um „veruna sem atburð“ ennþá ólokið.

„Vera sem Ereignis“ –á bernskudögum heimspekinnar hugsaði hún verund (Seienden) verunnar sem ίδέα (hugmynd), eins og actualitas, sem vilja og – það sem nú mætti hugsa sér – sem Ereignis. Í þeim skilningi fæli „atburðurinn“ í sér nýja túlkun á „Verunni“ (Sein) , sem ef rétt væri skilið, fæli í sér framlengingu á frumspekinni. Í því tilfelli fæli „als“ (eins og , sama og)  í sér Ereignis sem einn hátt verunnar, (Art des Seins), þar sem atburðurinn er undirsettur verunni (Sein), er myndaði undirstöðuhugtakið í sinni föstu merkingu.

Ef við hugsum Veruna hins vegar – eins og hér hefur verið leitast við að gera, sem núveru og viðveru (Anwesen und Anwesenlassen) er örlögin hafa gefið, og að veran hvíli að sínu leyti og samkvæmt sjálfri sér í rjóður-skjóli tímarýmisins, þá er veran  tengd orðinu “Ereignen” (að láta gerast).  Þar liggja upptök gjafarinnar og þar liggur skilgreining þess að gefa. Í því tilfelli væri  Veran einn veruháttur atburðarins og atburðurinn ekki einn verumáti Verunnar.

Slíkur umsnúningur er hins vegar of ódýr hjáleið. Hún kannar ekki efnislega afstöðu hlutanna. „Atburðurinn“ er ekki formerkið sem umvefur og samstillir veru og tíma. Rökfræðilegar afstæður hafa hér ekkert að segja, því ef við íhugum sjálfa veruna og fylgjum því sem henni er eðlislægt, þá sýnir hún sig sem gjöfin – gjöf þess tíma sem er í boði, gjöf nærverunnar frá hendi örlaganna. Gjöf viðverunnar er eign/eiginleiki Ereignis (atburðarins).

Veran hverfur í atburðinum. Í samhenginu : Vera sem Ereignis“. Með orðatiltækinu  „Vera sem Ereignis“ (Sein als das Ereignis) fær orðið „sem“ (als) nú þessa merkingu: Vera (Sein), láta vera til staðar í atburðinum (Anwesenlassen geschickt im Ereignen), Tíma vísað í atburðinn (Zeit gereicht im Ereignen.) Tími og Vera eiga sér stað í atburðinum. (Zeit und Sein ereignet im Ereignis) En hvað með atburðinn? Er nú hægt að segja eitthvað meira um hann?

Á vegferð okkar var þegar búið að hugsa ýmislegt, en eiginlega var eitt ósagt, nefnilega það sem varðar orðið „að gefa“ í merkingunni að færa til eignarhald. Einmitt þetta, sem á svæði hins orðna  og tilkomna felur í sér afneitun (Verweigerung) núverunnar og yfirbreiðslu (Vorenthalt) núverunnar. Það sem hér var nefnt eignarhald (Ansichhalten), afneitun (Verweigerung), yfirbreiðsla (Vorenthalt) sýna það sambærilega við sjálfsafsal (Sichentziehen), í stuttu máli: fráhvarf (Entzug). En ef litið er til eðlisháttar gjafarinnar sem felst í þessu afsali, (það er að segja að bjóða fram og tileinka) og að hann hvíli í atburðinum, þá hlýtur afsalið að fela í sér sérkennileg einkenni atburðarins. Umræðan um þetta atriði fellur ekki undir efni þessa fyrirlesturs.

(Þar sem hér er einungis um fyrirlestur að ræða verður hér dregið saman með ófullkomnum hætti það sem telst hið sérstæða við atburðinn (das Ereignis).

Framlegð (Schicken) til örlaga Verunnar er skilið sem Gjöf, þar sem gjafarinn sjálfur heldur sjálfum sér til hlés dregur sig þannig út úr afhjúpuninni. (wobei das Schickende selbst an sich Das Schicken im Geschick des Seins wurde gekennzeichnet als ein Geben, wobei das Schickende selbst an sich hält und im Ansichhalten sich der Entbergung entzieht.

Í hinum eiginlega Tíma og tímarými hans birtist framboð hins liðna, það er að segja framboð þess sem ekki lengur er til staðar og þar með afneitun þess. Með því að bjóða fram hið ókomna birtist afneitun hins liðna í ríki framtíðarinnar, það er að segja í ekki orðinni nútíð, for-inntaki hennar.

In der eigentlichen Zeit und ihrem Zeit-Raum zeigte sich das Reichen des Gewesen, also von nicht mehr Gegenwart, die Verweigerung dieser; es zeigte sich im Reichen von Zukunft, also von noch-nicht Gegenwart, der Vorenthalt dieser.

Afneitun og for-inntak bera sömu einkenni og sjást í sjálfshlédrægni framboðsins.

Verweigerung und Vorenthalt bekunden denselben Zug wie das Ansichhalten im Schickcn: nämlich das Sichentziehen.

Að því marki sem örlög Verunnar hvíla í framboði tímans og hann hvílir sjálfur í Atburðinum þá boðar verðandin sem sitt helsta einkenni þá staðreynd að undanskilja það sem henni er eiginlegast undan ótakmarkaðri afhjúpun.

Sofern nun Geschick des Seins im Reichen der Zeit und diese mit jenem im Ereignis beruhen, bekundet sich im Ereignen das Eigentümliche dass es sein Eigenstes der schrankenloseo Entbergung entzieht.

Að hugsa út frá „Ereignen“ (að eiga sér stað) felur þetta í sér: Það afsalar sjálfu sér í sama skilningi. Eignarafsalið fylgir  því að eiga sér stað. Þar með er ekki sagt að það að eiga sér stað afsali sjálfu sér, heldur verndar það sinn eiginleika.

Vom Ereignen her gedacht heisst dies : Es enteignet sich in dem genannten Sinne seiner selbst. Zum Ereignis als solchem gehört die Enteignung. Durch sie gibt das Ereignis sich nicht auf, sondern bewahrt sein Eigentum.

Aðra furðu atburðarins (að eiga sér stað) getum við séð betur um leið og við hugleiðum það sem hér var nýsagt.

Das andere Eigentümliche im Ereignis erblicken wir, sobald wir deutlich genug schon Gesagtes bedenken.

Í Verunni sem nærveru birtist sú nálgun er við mannfólkið mætum að því leyti að við nemum og ofskynjum þessa nálgun sem megineinkenni manneskjunnar.

Im Sein als Anwesen bekundet sich der Angang, der uns Menschen so angeht, dass wir im Vernehmen und Übernehmen dieses Angangs das Auszeichnende des Menschsens erlangt haben.

Þessi ofurnæmni gagnvart ágengni nærverunnar á sér hins vegar sinn samastað í þeirri inniveru framboðsins  sem fjórvíddareigind Tímans hefur fært okkur.

Dieses Übernehmen des Angangs von Anwesen beruht aber im Innestehen im Bereich des Reichens, als welches uns die vierdimensionale eigentliche Zeit erreicht hat.

Að því marki sem Vera og Tími eru einungis finnanleg í atburðinum, þá fylgja honum þau undarlegu einkenni að þegar maðurinn skynjar Veruna í innrými hins eiginlega Tíma leiða þau mannfólkið að innsta eðli sínu. Í þeirri stöðu tilheyrir manneskjan atburðinum.

Sofern es Sein und Zeit nur gibt im Ereignen, gehört zu diesem das Eigentümliche, dass es den Menschen als den, der Sein vernimmt, indem er innesteht in der eigentlichen Zeit, in sein Eigenes bringt. So geeignet gehört der Mensch in das Ereignis.

Þessi aðild hvílir í þeirri áberandi sameiningu sem atburðurinn veitir. Það er í gegnum hana sem manninum öðlast aðild að atburðinum. Það er þess vegna sem við getum aldrei séð atburðinn fyrir okkur, hvorki sem andstæðu né sem hið allt umfaðmandi. Það er orsök þess að hin fyrirsjáanlega og grundvallandi hugsun hefur svo lítið að segja um Atburðinn / Ereignis  eða þann talsmáta sem felst í segðinni.

Dieses Gehören berüht in der das Ereignis auszeichnenden Vereignung. Durch sie ist der Mensch in das Ereignis eingelassen. Daran liegt es dass wir das Ereignis nie vor uns stellen können, weder als ein Gegenüber, noch als das alles Umfassende. Darum entspricht das  vorstellend-begründende Denken so wenig dem Ereignis wie das nur aussagende Sagen.

Hvorki getur það gerst í gegnum sjálfa Veruna né gegnum sjálfan Tímann að við öðlumst innsýn í framboð Verunnar eða framlag tíma-rýmisins til skilnings á því hvað „Atburðurinn“ segir. En skyldi mögulegt að finna á þessari leið eitthvað annað en einfalda Hugsunarmynd?  Á bak við þennan grun finnum við þá skoðun að Atburðurinn hljóti þó að búa yfir verund einhverrar „Veru“. Engu að síður: Atburðurinn er hvorki né heldur er um gefinn Atburð að ræða. Það sem þessar fullyrðingar segja er einungis umsnúningur hluta-afstæðna, rétt eins og við vildum finna uppsprettuna í sjálfu fljótinu.

Hvað er þá til ráða? Einungis þetta: „das Ereignis ereignet“ (Atvikið atvikast). Þar með segjum við frá hinu sama um það sama til hins sama. Þetta virðist ekki segja okkur neinn skapaðan hlut.  Það segir heldur ekki neitt, svo lengi sem við heyrum hið sagða einungis sem setningu (Satz) og afgreiðum hlustunina út frá rökfræðinni. Rétt eins og þegar við meðtökum linnulaust það sem er sagt með þessum hætti  eins og aðvörun til eftirþanka (Anhalt für das Nachdenken) og hugsa þannig að þetta sama feli ekki í sér neitt nýtt, heldur hið elsta af öllu gömlu í hugsun landa sólsetursins[vii]: hið ævaforna, það sem liggur falið í nafninu A- λήθεα (a-leþeia)[viii]. En í þessu nafni, sem er upprunalegasti leiðarvísir hugsunarinnar, talar nokkuð sem er skuldbindandi fyrir sérhverja hugsun, að því tilskyldu að hún standi undir nafni sem hugsun.

Þegar sjónum var beint að Verunni í gegnum hinn eiginlega Tíma, þá var óhjákvæmilegt að hugleiða eiginleika hennar – út frá Atburðinum (Ereignis), án þess að horfa til tengsla hans við Verundina (dem Seiendem)

Að hugsa Veruna án Verundarinnar merkir: Vera án baksýnis til hinnar frumspekilegu hugsunar.  Slíkt baksýnisáhorf er engu að síður enn ráðandi í viðleitninni að yfirvinna frumspekina. Af þessari ástæðu er nauðsynlegt að segja skilið við þessa „yfirstig“ og segja skilið við sjálfa frumspekina.

Ef slíkt yfirstig reynist nauðsyn, þá varðar það þá hugsun sem snertir Atburðinn sérstaklega í því skyni að segja hann – segja hann út frá honum sjálfum og í ljósi hans (um Es aus ihm her auf Es zu  – zu sagen).

Það verður alltaf forgangsverkefni að yfirstíga þær hindranir sem eiga auðvelt með að gera slíka segð marklausa.

Hindrun af þessari tegund er einnig fólgin í því að segja Atburðinn í fyrirlestrarformi. Fyrirlesturinn hefur sett okkur takmarkanir yfirlýsinganna.

 

[i] Das Geben, das Zeit ergibt, bestimmt sich aus der verweigernd-vorenthaltenden Nahe. Orðrétt: Gjöfin sem gefur tíma ákvarðast af nálægð sem felur í sér höfnun og varðveislu í senn.

[ii] Orðið „Reichen“ merkir sem nafnorð „yfirráð“ en er líka til sem sagnorðið að ná yfir, að rétta fram eða jafnvel bjóða fram eða að nægja. Heidegger notar þetta orð mikið í tilraun sinni til að yfirvinna það sem honum finnst vera aðskiljandi viðleitni frumspekinnar: að skilja hlutinn frá veru hans. Veran og tímin taka til hvors annars og geta hvorugt án hins verið í atburðinum.

[iii] Þegar Heidegger segir að tími sé „gefinn“ gengur hann líka út frá þýskri málhefð: „Es gibt Zeit“: „það er tími“.

[iv] Þessi kafli er hér settur á skáletri -sem ekki er í frumriti- vegna þess að hér er Heideggger mikið í mun að segja kjarna málsins í stuttu máli með sínum sérstaka orðaforða og þeirri umbreyttu merkingu þekktra orða sem hann nýtir sér til að yfirstíga hið hefðbundna tungumál frumspekinnar. Þessi kafli er því illþýðanlegur á önnur tungumál án þess að merkingin misfarist að meira eða minna leyti, eins og um ljóðaþýðingu væri að ræða. Á þýsku hljómar þetta kaflabrot svona:

Wenn nun aber das Sein selbst sich als solches erweist, was in das Ereignis gehört, und aus ihm die Bestimmung von Anwesenheit empfängt, dann fallen wir mit der vorgebrachten Frage zu dem zurück, was allererst seine Bestimmung verlangt : das Sein aus der Zeit. Diese Bestimmung zeigte sich aus der Vor-Sicht auf das “ Es „, das gibt, im Durchblick durch die ineinander verfugten Weisen des Gebens, das Schicken und Reichen. Schicken von Sein beruht im lichtend verbergenden Reichen des mehrfältigen Anwesens in den offenen Bereich des Zeit-Raumes.

Das Reichen aber beruht in eins mit dem Schicken im Ereignen. Dieses, d.h. das Eigentümliche des Ereignisses, bestimmt auch den Sinn dessen, was hier das Beruhen genannt wird.“

 

[v] Hér skýrir Heidegger enn frekar hvernig hann gefur hugtakinu „Ereignis“ (atburður) nýja merkingu. Hann rekur hugtakið til orðstofnsins „Eignen“ sem hefur með „eigin..“ að gera og „eign“: „Eignen als dem lichtend verwahrenden Reichen und Schicken.“ Hér þýðir „lichten“ það að skapa rjóður í skógarþykkni, að grisja og mynda skjól og „verwahren“ að skýla og varðveita..

[vi] Þessi orðskýring Heideggers á „Ereignis“ er ekki auðþýdd á íslensku eða önnur tungumál, enda á hún að fela í

sér alla merkingu þessa fyrirlesturs í fimm orðum!

 

[vii] Land sólsetursins (das Abendland) er þýsk orðmynd enska orðsins „occident“ sem er aftur dregið af latnesku sögninni occidere, sem þýðir að falla eða ganga til viðar (sólsetur) og er viðurkennt samheiti um Evrópulönd.

[viii] Gríska orðið „aleþeia“ merkir nánast „af-hjúpun“, að svipta hulu af einhverju. Heidegger leggur mikla áherslu á þann skilning Forngrikkja, að sannleikurinn hafi þessa merkingu – sem atburður.

 

CARLO SINI UM EREIGNIS

Innlegg í umræðuþátt Dante Chanel um erindi heimspekinnar í samtímanum þar sem Carlo Sini fjallar um hugtakið Ereignis í heimspeki Martins Heideggers. Íslensk endursögn á munnlegri frásögn á sjónvarpsrás Dante Chanel: https://youtu.be/O8rUf8-GVuo

Í þessu spjalli mun ég nálgast þetta umfangsmikla efni í samþjöppuðu máli innan gefins tímaramma.

Ég vonast til að geta gefið hugmynd um hvernig ég kýs að setja fram spurningu Heideggers um Ereignis, en það er efni sem ég hef vissulega velt fyrir mér um langan tíma og varðar merkingu atburðarins. Þar hef ég fylgt tvennum hugvekjum:

Í fyrsta lagi er það sú fyrirmynd og það fordæmi sem við finnum í merkingarfræði bandaríska heimspekingsins Charles S. Peirce, og í öðru lagi umfjöllun Martins Heideggers, sem í mínu tilfelli kom seinna til sögunnar, því fyrst glímdi ég við vandann við lestur Peirce.

Þegar Heidegger talar um að „atburður sé gefinn“ (Es gibt Ereignis) þá felur Þetta framboð samtímis í sér undanskot eða yfirbreiðslu, og hér vil ég undirstrika orðið samtímis, en samtímis merkir hér bæði á sama tíma og í sama skilningi. Sú hugsun er handan hefðbundins forms í rökfræði frumspekinnar og verufræðinnar, þar sem veran (l‘ente) er eins konar undirbygging (sustruzione) eins og bæði Heidegger og Husserl orðuðu það, hver með sínum hætti. Samkvæmt þessum skilningi á það að bjóða sig fram og hylma yfir að hafa sömu merkingu og sama tíma.

Eigum við einhver orð til að skýra þetta? Augljóslega ekki. Því er það svo að menn hafa almennt umgengist atburðinn eins og sjálfgefinn, eins og atburður merkingarinnar hafi gróflega sagt nánast enga merkingu.

Þessa spurningu mætti nálgast með einföldum hætti með því að segja að atburður jákvæðrar þekkingar[1] feli ekki í sér merkingu (significato) og geti því ekki verið viðfang tiltekinnar þekkingar.

Kjarni málsins er þá þessi: atburður tiltekinnar þekkingar er ekki nein þekking.

Í þessum skilningi verður atburðurinn sem hlutlæg reynsla að tveim hlutum: Til dæmis getum við sagt „nú er dagur“ eða „nú er nótt“; um er að ræða tvo hluti eða þætti sem ekki eru á sambærilegum sviðum eða tveir hlutir sem ekki eru á sama vettvangi (t.d. „nótt“ og “nú“).

Við getum auðveldlega sagt þetta, atburður tiltekinnar hlutlægrar reynslu eða jákvæðrar þekkingar og þessi sama þekking tilheyra ekki sama sviði eða vettvangi, en hvernig eigum við að hugsa það?

Þar verða málin erfiðari. Sérhver jákvæð þekking (sapere positivo), sérhver „staðreynd“, hefur ávallt með tiltekna reynslu að gera og felur þannig í sért tiltekna túlkun, eins og Peirce hefði sagt. Slík túlkun byggir aftur á öðrum áður tilkomnum túlkunum. Þessi staðhæfing leiðir okkur inn í keðjuverkun, þar sem hvorki sést til upphafs né enda. Keðjuverkun sem leysist upp í tóminu, eða hinu óskilgreinanlega, þar sem sérhver túlkun kallar á aðra.

Enginn vafi leikur á því að þegar jákvæð þekking er að verki og segir okkur „nú er dagur“ eða „nú er nótt“, þá fela þessar fullyrðingar í sér túlkun á röð merkja og atvika er kalla á fyrir fram gefna þekkingu og túlkanir.

Við höfum dæmi um þetta hjá Peirce, til dæmis þar sem hann talar um tvær persónur á sjávarströnd er horfa á skip í fjarska: Önnur spyr hina: hvort er þetta farþegaskip eða flutningaskip? Peirce segir að til þess að geta sagt eitthvað um þetta þurfi viðkomandi að búa yfir margvíslegri þekkingu, sem myndar óendanlega keðju, til dæmis þekkingu á því hvað sé skip, hvað sé farþegi og farangur og hvað sé sjór o.s.frv. Í þessu liggja forsendur þess að túlka atburð eða atvik með jákvæðum hætti. Um er að ræða óendanlega keðju túlkana, sem segja má að sé stöðugt á dagskrá jákvæðrar þekkingar, en feli engu að síður í sér tiltekinn mismun. Einnig sú þekking sem býr við hvað mesta staðfestu og föstustu hefðir kallar á túlkanir. Samfélög sem virðast fastmótuð í hefðum sínum eru einnig breytingum háð. Þekkingin tekur breytingum, byrjar á fyrirliggjandi túlkun, en túlkar stöðugt upp á nýtt, þar sem ekki verður um fullkomlega samsvarandi túlkun að ræða ef tvær persónur spyrja sömu spurningar næsta dag o.s.frv.

Því vaknar sú spurning, sem fyrir mig er hin stóra spurning, og ég vona að þið hlustið á og getið tekið undir: Hvað er það sem skapar mismun og tekur breytingum á ferli mannlegrar þekkingar og á vegferð sannleikans, og hvers vegna tekur það breytingum?

Að mínu mati er þetta óhjákvæmileg spurning, ef við viljum skilja hvað sé á seyði umhverfis orðið „atburður“, orðið „Ereignis“, (hjá Heidegger) eða orðið „Firstness“ og „icon“ (hjá Peirce).

Ég ætla að reyna að svara þessari spurningu með einföldum hætti, sem þið kunnið kannski að kalla einfeldnislegan, með því að ganga út frá orðinu „stacco“ (=hlé, millibil, fráhvarf, rof, viðskilnaður).

Um er að ræða „stacco“ eða rof á milli túlkana sem voru framkvæmdar í gær og í dag.

Þetta „stacco“ á sér stað frá einni mínútu til annarrar, frá einum degi til annars, frá því sem ég segi núna  og verður óhjákvæmilega annar hlutur þar sem hann er settur í nýtt samhengi og tekur á sig ólíka tíma ef svo mætti segja.

Þegar ég tala um „stacco“ (rof) og býð fram þessa ímynd sem er þröskuldur fráhvarfsins, þá finn ég þörf fyrir skjótan skilning. Ég notfæri mér tvær ímyndir eða tvær orðmyndir ef svo mætti segja, er birtast í barnsfæðingunni á milli hins ófædda og nýburans. Ég orða þetta svona: „il stacco“ eða rofið sem á sér stað á milli fóstursins og nýburans. Ég ætla að skýra hvað ég á við:

Eins og þið sjáið þá tek ég hér sáraeinfalt dæmi: Líkami nýburans segir skilið við líkama móðurinnar. Þessi líkami kemur úr líkama móðurinnar, úr frumlægum efnisheimi sem er líkami hennar, úr „heimi“ móðurlíkamans -og meðtekur þannig mismun síns eigin líkama, sem öðlast þar með eigin aðstæður við eigin fæðingu í þann heim sem umlykur hann.

Aðstæðurnar sem umlykja þennan líkama fela í sér afar tvíræðan atburð, atburð sem við erum vön að heimfæra upp á þekkingu fæðingarlækninganna; – en einnig upp á þekkingu okkar, sem búum þegar yfir fyrir fram gefinni þekkingu er byggir á þegar tilbúnum túlkunum o.s.frv., og gera þennan atburð að hlut, að viðfangi tiltekinna vísinda og Þekkingar.

Sú þekking nær ekki til hans sem hefur lent í þessu rofi og fráhvarfi, sem við öll höfum engu að síður gengið í gegnum. Fæðing okkar getur aldrei orðið viðfang jákvæðrar þekkingar, eða öllu heldur þá getur hún orðið viðfang jákvæðrar þekkingar, en aldrei sem atburður fráhvarfsins, því um fráhvarfið er ekki hægt að hafa orð, því allt sem sagt verður kemur eftirá, þegar rofið er afstaðið. Einnig það sem ég kann að hafa vitað Þegar ég sagði skilið við líkama móður minnar, ég get sagt það núna vegna þess að með öðrum orðum þá komum við úr heiminum til þess að vera í heiminum.

Og þegar kemur að „verunni í heiminum“ þá er orðasafn Heideggers okkur mikilvægt. Hvað felist í því að „vera sjálfum sér“ (esserci, afturbeygt form sagnarinnar að vera) með frumlægum hætti? Nokkuð sem í skilningi Heideggers merkir að vera eigin örlög og eigin áfangastaður, og að takast á við eigin tilfallandi tilkomu, þetta fall í viðskilnaðinn er verður við upprunann sem er líkami móðurinnar og við tilkomu líkama heimsins.

Ekki er um að ræða mismun mismunar viðskilnaðarins, því ljóst er að það sem er fyrir hendi kemur allt frá móðurinni, allt frá móðurlífinu. Það er að segja allt frá upprunanum, þessum fyrir fram túlkaða uppruna er kom á undan, þar sem allt vísar á það sem áður kom, og getur aldrei falið í sér merkingu jákvæðrar þekkingar, því sérhver jákvæð þekking ætti sér alltaf forföður, þið skiljið, þar sem forfaðirinn hefur að geyma óendanlega röð fráhvarfa og viðskilnaða og á sér vissulega ekki stað í goðsögulegum uppruna.

Þetta er leið okkar til að tjá óvirkni (inattualità) forföðurins, en þessi óvirkni er alltaf virk, ég veit ekki hvernig á að segja það, forfaðirinn er alltaf hér en ekki í einhverjum goðsögulegum uppruna, hann er alltaf hér, einnig í þeim vesæla manni sem hér talar, hann er til staðar í ímynd upprunans, fráhvarfsins og þröskuldarins sem hefur framkallað þann síðasta sem hér talar um forföðurinn, talandi um sig sjálfan, talandi um verund sína (esserci) þar sem hann hefur til að bera sitt „ci“ (afturbeygða viðskeytið -st á íslensku við sögnina að „vera“). Um er að ræða það sem felst í lönguninni eftir upprunanum við viðskilnaðinn.

Í þessum skilningi getum við haft í huga ímynd föður og móður, sem verða augljóslega til sem slík með tilkomu sonarins, og það er í ljósi sonarins sem einhver verður faðir eða móðir.

Um er að ræða frákast sem felst í fráskildum líkama er býr við þessi sérkenni vegna sinna sérstæðu aðstæðna  og síns umlykjandi heims, eða Umwelt eins og sagt er, í sinni tilvist (esserci) er byggir á aðskildum heimi.

Um er að ræða tilveru sem á sér stað í sambandi löngunar, þarfa og fullnægju. Það er þá hér sem við komum ef til vill auga á þversögnina sem mig langar til að leggja áherslu á:

Við erum samtímis innan þeirra aðstæðna sem við endursköpum og endursegjum. Við erum afurð og afleiðing föðurins og móðurinnar og við erum afleiðing óendanlegra raða aðskilnaða (stacchi), við erum afleiðing forföðurins og við erum innan þessa alls, en á sama tíma erum við, þessi afurð, þessi afleiðing og þessi forsenda, þeir sömu sem í ljósi lifandi virkni og leit að orðum, fjölyrða um þennan uppruna.

Þetta þýðir efnislega að forsendan sem við göngum út frá er um leið uppruni þess sem við segjum. Við erum um leið afurð annar sögu, (sem heimspekingurinn Vico hefur réttilega bent á). Við erum samtímis afkvæmi risaskepnanna sem Vico fjallar um og um leið þeir sömu sem búa til skepnuskapinn frá Vico,  því það eru við sem tölum um skepnuskapinn hjá Vico, við, okkar menning , okkar samtíð, okkar köllun, aðstæður okkar og saga.

Eins og þið sjáið þá er ekki hægt að hlaupast undan þessu, það er ekki hægt að láta sem ekkert sé og nota orðaforða heimspekinnar án þess að spyrja hvaðan þessi skilningur heimspekinnar kemur, og með hvaða rétti ég geti stuðst við hann í hugsunarleysi, eins og hann væri gagnsætt gler sem hægt væri að horfa í gegnum til að segja sannleikann.

Það er ekki hægt að iðka heimspekina án þess að spyrja spurningarinnar um orðaforðabúr hennar. Því segjum við um þessa síðustu birtingarmynd mismunarins að hún tali máli allrar keðjunnar, og þar með að ég gæti ekki verið til öðruvísi en sem afleiðing forföðurins – en forfaðirinn er ekki  hlutur, hann er ekki jákvæður atburður, ekki staðreynd sem getur orðið viðfang jákvæðrar þekkingar, þekkingarinnar um fæðinguna, heldur afturbeygð merking tilveru minnar. Tilveru sem upphefst með hinu upphaflega rofi (stacco originario) sem hefur fætt af sér afleiðingu mína og vaxandi þekkingaröflun.

Það þarf að hugsa báða hlutana, og þessir hlutir, sem eru hér, geta ekki verið samtímis, á sama tíma og í sama skilningi, þeir geta ekki fallið undir neina þá rökfræði hlutlægninnar er tilheyri jákvæðri þekkingaröflun. Það eru þessar afleiðingarnar sem tala, gætið að því!

Þær eru vera afleiðingarinnar sem talar einnig um rof (stacco) atburðar upprunans, um forföðurinn og allar ímyndir frákastsins.

Og þetta varðar augljóslega ekki bara  forföðurinn og nýburann, þeir eru ímyndir augnabliksins sem er að gerast á hverju augnabliki, og á hverju augnabliki deyr þekkingin í andaslitrum sínum.

Þekkingin ber með sér firringu frá lífinu sjálfu, sagði hinn mikli Hegel í riti sínu Fyrirbærafræði andans, og hið sama gerist í öllum hinum jákvæðu vísindum: þau rannsaka uppruna alheimsins eða uppruna mannsins, en gera það út frá eigin lífsreynslu og eigin þekkingariðkun. Þessu má aldrei gleyma, við erum að tala um endurspegluð viðföng.

Uppruni mannsins og uppruni alheimsins eru tvírætt endurkast, sem með vafasömum hætti endurspeglar hinstu ímyndir veru sinnar, og eiga að skiljast sem afleiðingar eigin uppruna.

Ég vil nú minna ykkur á atburð sem gerðist nýverið í Eþýópíu, um 50 km. suður af AddisAbeba. Þar fundust leifar af steinhöggsverkstæði þar sem stunduð var vinnsla á hrafntinnugrjóti. Getið þið ímyndað ykkur tímasetninguna, þessi steinsmiðja var virk fyrir einni milljón og tvö hundruð þúsund árum síðan, sem felur í sér afturfærslu uppruna áhalda í sögu mannsins um 500 þúsund ár.

Þessi uppruni verkfærisins, þessarar framlengingar handarinnar, er því tilkomin löngu fyrir tilurð homo sapiens.

Hvað segir þessi þekking okkur í raun og sannleika? Segir hún okkur eitthvað óumdeilanlega satt? Nei.

Hún er endurvarpsáhrif þess sem við erum sjálf, því þessir menn kunnu einmitt að höggva til hrafntinnu. Við komumst aldrei út úr þessum endurspeglunarhring. Við þurfum að horfast í augu við þennan samtíma – og ég mun brátt segja hvers vegna það er mikilvægt.

Hin jákvæðu vísindi, og hin jákvæða almenna skynsemi vísindamanna yfirleitt, eru alls ekki fær um að skilja þennan hnút og leysa hann. Þvert á móti leitast þau full fordóma við að horfa fram hjá honum.

Það breytir hins vegar ekki mikilvægi þeirri vinnu mannfræðinganna að túlka ummerki og segja sannleikann á grundvelli þessara túlkana á þessari hrafntinnuvinnslu o.s.frv…, um þennan ævaforna safnhaug  o.s.frv., segja frá þessu tímaskeiði, allt er þetta jákvæð og stórmerkileg þekking, en þar er algjörlega horft framhjá forsendu hennar. Þversögn þessarar tvöföldu hreyfingar og þessa enduróms .

Lausnin er reyndar ekki þekkingarfræðilegs eðlis og Það er hingað sem ég vildi ná.

Mig minnir að ég hafi minnst á hugtakið praxis, það var hluti af hinu stórbrotna innsæi hins unga Heideggers, sem náði langt út fyrir kennara hans Husserl, einmitt vegna þess að hann gerði sér með djúpstæðum hætti grein fyrir hvernig það sem ég hef kallað virka tilfinningalega reynslu (pratiche affettive), verður afgerandi um atburð hlutarins, atburð fyrirbærisins.

Þannig verður lausnin ekki fræðilegs eðlis, lausn spurninga af þessari tegund verður ekki fundin með neinni verufræði… hér verðum við að segja basta!, nóg komið af verufræði, við höfum fengið okkur fullsödd af henni… veran (l‘ente) í sjálfri sér, þessi hugsun er uppfinning tungumáls tiltekinnar menningar og tiltekinnar þjóðar og tiltekinnar hefðar sem er vissulega fögur og alls ekki ómerkileg eða tekin sem eitthvað léttvægt, rétt eins og hægt væri að tala um veruna eins og ekkert væri.

En ímyndið ykkur einhvern seiðkarl eða einhvern samtímamann Hómers, sem talaði um „veruna sem slíka“…

Við skulum ekki vaða reyk: verufræðin er liðin undir lok og frumspekin líka. Þökk sé hinu háa virðingarstigi heimspekinnar, sem hefur haft hugrekki til að segja þetta á okkar tímum, allt frá Heidegger, allt frá Husserl og Wittgenstein o.s.frv.

Lausnin er hvorki fólgin í  þekkingarfræði né kenninngasmíð né hagnýtri siðfræði. Hún mælir ekki afleiðingar eða svaravenjur á borð við þekkingu á frumstæðum mönnum eða þekkingu á Miklahvelli eða frumstæðri heimsmyndasmíð, er hefur í för með sér hinar eða þessar afleiðingar.

Ég ætla að reyna að skýra mál mitt betur á nokkrum mínútum með einni ímynd: í stað þess að tala um fóstrið og nýburann, þá ætla ég að tala um jarðarmöndulinn, um þennan öxul jarðar sem setur manninum eftirtalin þrjú skilyrði sem ekkert okkar fær umflúið, og tengjast hreyfingu jarðarinnar eða öllu heldur samhæfingu sérhvers mannlegs atburðar og tiltekins tíma, dagsetningar og stundar.

Núna er dagur, ekki nótt, klukkan er ellefu að morgni þennan dag á þessari árstíð og á þessum tíma æviskeiðs axis terrae,(jarðarmöndulsins). þetta er fyrsta skilyrðið sem við megum ekki gleyma.

Annað skilyrðið er að ég tala til ykkar út frá mínu aldursskeiði. Það er ekki bara að maðurinn sé staðsettur á sérstöku tímaskeiði jarðarinnar, hann er staðsettur á sínu tímalega æviskeiði, hann er ungbarn, krakki, maður, fullvaxta og gamalmenni.

Þriðja skilyrðið er að sérhver manneskja tilheyrir tilteknum upprunalegum hóp, tiltekinni menningu, samfélagi og tungumáli, og þetta segir okkur að skilyrðin eru aldrei í þínum höndum, þetta sagði Husserl einu sinni í snjallri ritgerð.

Hin tolemaísku[2] skilyrði eru óyfirstíganleg , við getum ekki frelsað okkur undan Því tolemaíska skilyrði að vera afkvæmi tímans, aldursskeiðsins og menningarinnar. Hver og einn, alltaf. Við tökum þessi tolemaísku skilyrði með okkur, einnig til tunglsins eða hvert sem við viljum fara. Hinir tolemaisku skilmálar eru, ef svo mætti segja, skilyrði okkar kópernísku þekkingar[3]. Þannig þurfum við að tengja Husserl við Giordano Bruno.

Þessir þrír skilmálar jarðarinnar eiga rætur sínar í „móður jörð“, og stafa þannig af heildarmynd heimsins, þar sem hin kóperniska hugmynd er ekki þekkingarfræðilegs eðlis, eða öllu heldur er kópernínsk í þeim skilningi að hún verður að siðfræði. Að þeim mörkum sem Giordano Bruno verður túlkaður í gjörningi sem verður kópernískur,  þar sem hann er að stofni til tolemaískur.

Þegar við sjáum þessi tvöföldu samtímalegu tengsl, þá sjáum við ráðgátuna sem felst í sambandi nýburans og forföðurins, á milli atburðar og áforma sem einungis þannig öðlast siðferðilega merkingu er kennir okkur að anda að okkur einhverri lausn. Ég þakka kærlega fyrir áheyrnina, ég er sæll að vera hér meðal ykkar og ef um spurningar að ræða…. (rödd Sini drukknar í lófaklappi viðstaddra).

…………………

[1] Hugtakið „jákvæður“ í þessu samhengi er þýðing á „positivo“ og merkir hér þekking sem byggir á sannri reynslu

[2] Skilyrði sett af gríska stjarnfræðingnum Claudius Ptolomaeus (gríska Ptolemaikos) er setti fram skipulega heimsmynd jarðarmiðjunnar í borginni Alexandríu í Egyptalandi á 2. öld e.Kr.

[3] Þekking heimsmyndar Kóperníkusar um sólarmiðjuna frá 16. öld.

 

TÍMINN ER EKKI TIL

Ítalski eðlisfræðingurinn Carlo Rovelli færir  sönnun fyrir því að tíminn sé ekki til á TED Como-fyrirlestri nýverið. Fyrirlesturinn tekur 15 mínútur og er með enskum texta á þessari vefslóð:

 

%d