HVERNIG VERÐ ÉG ÞAÐ SEM ÉG ER?

Hvernig verðum við það sem við erum?

Spurningar um hina heilsteyptu og brotnu sjálfsmynd mannsins

Með tilvísunum í rit Nietzsche, Freuds, Heideggers og endursögn á merkum fyrirlestri eftir Carlo Sini

 

Nauðsyn krefur að í upprunastað sínum

munu mennirnir einnig mæta tortímingu sinni

því þeir greiða hvor öðrum sekt og lausnargjald óréttlætisins

samkvæmt reglu tímans.

Anaximander

 

 

  1. NIETZSCHE

Þessi spurning er undirtitill bókarinnar „Ecce Homo. Wie man wird was man ist“ („Sjáið manninn – Hvernig verður maður það sem maður er“) eftir Friedrich Nietzsche frá árinu 1888. Þetta er eins konar sjálfsvarnarrit, þar sem Nietzsche rekur líf sitt í gegnum höfundarverkið með túlkun á ritverkum sínum fram að þeim tímamótum sem hann fann kannski nálgast og urðu rúmu ári síðar, er hann varð heltekinn af geðveiki.

Í formála segist hann finna til skyldunnar að segja hver hann sé, ekki síst vegna þess misskilnings sem hann hafi mætt í lífinu. Í innganginum segir hann meðal annars það hafa verið köllun hans og hlutverk í lífinu að steypa skurðgoðum af stalli á þeim tímum þegar sannleikurinn hafð glatað gildi sínu, merkingu sinni og trúverðugleika, með uppgötvun hins upplogna heims hugsjónanna, …með uppgötvun hins „sanna heims“ og „heims ásýndarinnar“,  það er að segja uppgötvun hins upplogna heims og raunveruleikans. […] Lygi hugsjónanna (des Ideals) hafði til þessa falist í flótta frá veruleikanum, þar sem mannkynið hafi logið sjálft sig allt að rótum sinnar dýpstu eðlisávísunar, inn í falska tilbeiðslu gilda er skyldu vera þau einu er gætu leitt það til velsældar og hins æðsta réttar og framtíðar“.

Hér er Nietzsche augljóslega að vísa til platónismans, til hughyggju Platons, þar sem hann sagði hinn varanlega og óbreytanlega sannleika felast í frummyndunum sem eru af andlegum toga, á meðan hin skynjanlegi efnisveruleiki væri blekking eða skuggamynd sannleikans, rétt eins og líkaminn var fangelsi sálarinnar. Barátta Nietzsche gegn þessari tvíhyggju var nánast upp á líf og dauða.

Nietzsche var augljóslega hinn stóri helgimyndabrjótur er réðst með heift á allar helgimyndir síns samtíma um siðferði og trúarbrögð, um leið og hann kynnir sig til leiks sem „lærisvein heimspekingsins Díonysusar“ er kjósi frekar hlutverk satírsins en dýrlingsins. Í þessum  formála frábiður Nietzsche sér hlutverk siðapostulans, og frábiður sér í raun og veru fylgispekt lærlinganna. Formálanum að þessari játningabók lýkur hann með þessum orðum:

„Hér talar enginn öfgamaður, hér er ekki „predíkað“, hér er ekki krafist trúar: með hæglæti sínu og sínum mjúka takti hafa Þessar orðræður til að bera ótæmandi ljósfyllingu og hina dýpstu hamingju sem  drýpur af textanum í dropatali, frá orði til orðs. Þau ná einungis til hinna útvöldu. Hér telst hlustunin til einstakra forréttinda. Engum er gefinn frjáls hlustun á orð Zaraþústra. … Er Zaraþústra þá ekki sá sem dregur á tálar?… En hvað segir hann þá sjálfur, þegar hann hverfur fyrst inn í einsemd sína? Einmitt hið gagnstæða við það sem sérhver „vitringur“, „dýrlingur“, „frelsari“ eða aðrir „decadens-menni“ myndu sagt hafa. Ekki bara orð hans eru öðruvísi, hann sjálfur er öðruvísi:

Einn kveð ég nú, kæru lærisveinar! Þið skuluð líka fara, einir! Þannig vil ég hafa það.

Farið burt frá mér og gætið ykkar á Zaraþústra! Eða öllu frekar: blygðist ykkar hans vegna! Kannski sveik hann ykkur.

Hinn vitri á ekki bara að elska óvini sína, hann verður líka að kunna að hata vini sína.

Lærimeistaranum er illa launað ef við verðum alltaf lærlingar hans. Hvers vegna viljið þið ekki slíta í sundur lárviðarsveig minn?

Segist þið trúa á Zaraþústra? En hvaða máli skiptir Zaraþústra? Þið tilheyrið aðdáendasöfnuði mínum, en hvaða máli skipta trúarsöfnuðirnir?

Þið hafið ekki enn leitað ykkar sjálfra: þið funduð mig. Þannig gera hinir trúræknu, þess vegna er vægi hins trúrækna lítið.

Nú heiti ég á ykkur að tína mér og finna sjálfa ykkur. Og ég mun ekki snúa aftur fyrr en þið hafið allir afneitað mér!

Friedrich Nietzsche.

Leikhúsgrímur. Rómversk mósaík, 2. öld e.Kr.

Ráðgáta sjálfsins

Nietzsche talar alltaf til okkar í þversögnum. Ekki bara til að blekkja okkur eða villa okkur sýn, heldur til að vekja okkur til vitundar um að veruleikinn sjálfur sé þversagnafullur. Þegar betur er að gáð felur spurning hans um „hvernig við verðum það sem við erum“ líka í sér þversögn. Þannig segir hann í 9. grein kaflans um  „Hvers vegna ég er svona snjall“, að engin hætta jafnist á við þá að horfast í augu við það sem felst í spurningunni um að „verða það sem maður er“. Hún leiðir í ljós að maður hefur ekki hugmynd um hvað hann er.“

Ekki þarf að fjölyrða um margræðni þessarar spurningar, og vandi hennar endurspeglast í sögu hugmyndanna, allt frá samræðunni í Gorgíasi Platons, þar sem Sókrates afhjúpar vandann með því að ráðleggja Kaírefóni að spyrja Gorgías að því er virðist þessarar einföldu spurningar: hvað ert þú?

Við erum vön að svara svona spurningum með einföldum hætti: ég er Jón eða Gunna. Ég er maður eða kona, ég er sjómaður eða sjúkraliði o.s.frv. Sókrates notar spurninguna til að mæla mælskulistina við sannleikann í endalausum spurningum sem stilla Gorgíasi upp við vegg andspænis þeirri grímu sem við öll notum þegar við gerum grein fyrir okkur sjálfum: hvort sem það er skírnarnafn, starfsheiti, trúfélag, þjóðerni eða pólitísk sannfæring. Við komumst ekki undan grímunni.

Gríman var Nietzsche hugleikin, og inntak hennar á rætur sínar í leikhúsinu, ekki síst í gríska harmleiknum. Hún opnar fyrir okkur tengslin á milli sýndar og veruleika. Þegar Nietzsche segist vera lærisveinn „heimspekingsins Díonysusar“ og kjósa það heldur að vera satír en spámaður, þá er satírinn sú grímuklædda vera með asnaeyru og tagl sem syngur ditirambi staðsettur mitt á milli áhorfrenda og persóna harmleiksins á sviðinu, satírinn er sú vera sem vekur áhorfandann til vitundar um átök hins dýrslega og mannlega í harmleiknum, en leikararnir á sviðinu bera líka grímur sem „dramatis personae“, þar sem latneska orðið „persona“ hefur einfaldlega merkinguna „gríma“.

Ef gríman fær okkur til að hugleiða mun ásýndar og veruleika, snýst spurningin um „hvað við erum“ þá um  að svipta okkur grímunni, til þess að finna veruleikann, okkar „innri mann“ á bak við grímuna?

Fyrir Nietzsche er málið ekki svo einfalt. Hann áttaði sig á að spurningin fól í sér flókið frumspekilegt vandamál, sem snerti meðal annars grundvallaratriði í kenningum Descartes um frumforsendur hinnar vísindalegu aðferðar. Í orðspjótum sínum í „Handan góðs og ills“ kemst hann meðal annars svona að orði:

„Á fyrri tíð trúðu menn nefnilega á sálina líkt og menn trúðu á málfræðina og hið málfræðilega frumlag. Þá var viðkvæðið: „ég“ er skilyrði, „hugsa“ er umsögn og skilyrt. Hugsun er athöfn sem krefst þess að við hugsum okkur að hún hafi frumlag sem orsök. Því næst reyndu menn með aðdáunarverðri seiglu og klókindum að losa sig úr þessu neti með því að spyrja, hvort ekki gæti hugsast að þessu væri þveröfugt farið: „hugsa“ væri skilyrðið og „ég“ hið skilyrta. „Ég“ væri sem sagt niðurstaða sem hugsunin sjálf kemst að“.

Í þessum örfáu orðum  bendir Nietzsche á rökvilluna í þeim orðum Descartes, að setningin „ég hugsa“ geti verið hin frumlæga forsenda sannleikans, þar sem ekki er hugað að „ég“-hugtakinu og hvað það feli í sér: að það væri hugsanlega tilbúningur hugsunar sem réttlætir sjálfa sig. Og Nietzsche bætir reyndar við:

„Þegar öllu er á botninn hvolft vakti fyrir Kant að færa sönnur á að ekki væri hægt að sanna sjálfsveruna með henni sjálfri, né heldur hlutveruna. Honum hefur sjálfsagt ekki þótt það fráleitur möguleiki að sjálfsveran, með öðrum orðum „sálin“, ætti sér sýndartilvist.[i]

Sú ráðgáta sem Nietzsche afhjúpar hér í örfáum orðum  hefur kostað margan heimspekinginn heilu doðrantana af vangaveltum um það hála svell sem hin mikla yfirbygging frumspekinnar hvílir á í hugmyndasögu Vesturlanda og sögu vísindanna.

2. SIGMUND FREUD

Sá klofningur sjálfsins, sem Nietzsche greindi með mynd sinni af grímunni og þeim undirliggjandi eðlishvötum sem hún felur, verður honum jafnframt fyrirmyndin að andstæðu hins appoloníska ytra forms og hins díonysiska (og tilfinningalega) inntaks mannssálarinnar, skilgreining sem varð í sálgreiningu Sigmundar Freud að skilgreiningu á klofningi „égsins“ og dulvitundarinnar. Hann segir í ritgerð sinni „Undir oki siðmenningar“ frá árinu 1929:

„Að öllum jafnaði er tilfinning okkar fyrir eigin sjálfi, „égi“ okkar, einhver sú traustasta fullvissa sem við höfum. Okkur virðist þetta „ég“ vera algjörlega sjálfstætt, ein heild og vel greind frá öllu öðru. Hins vegar er sú tilfinning blekking ein. Sjálfið heldur áfram inn á við, rennur inn í hið dulvitaða sálarlíf, án nokkurra skýrra landamerkja. Það fellur saman við það sem við köllum „það“, og er raunar forhlið þess. Þetta var fyrst leitt í ljós með rannsóknum sálkönnunar, en þær rannsóknir fræða okkur um margt fleira varðandi tengsl sjálfs og þaðs. En mörkin á milli sjálfs og hins ytra heims virðast þó vera skýr og greinileg.“[ii]

3. MARTIN HEIDEGGER

Innkastið og hjarðmennskan

Í stuttu máli komst Freud að þeirri byltingarkenndu niðurstöðu, að „égið væri ekki húsbóndi á eigin heimili“. Þessi niðurstaða var „kópernísk bylting“ í hugmyndasögunni og breytir miklu um hvernig við svörum spurningu Nietzsche. Ekki verður farið frekar út í þá flóknu hlið málsins hér, en bent á aðra mikilvæga athugasemd við þessa spurningu, sem við getum fundið hjá Martin Heidegger í greiningu hans á verunni sem „veru-í-heiminum“ í höfuðriti hans „Vera og Tími“ frá árinu 1927.

Þar vildi Heidegger meðal annars opna fyrir skilgreiningu okkar á sjálfinu og veru þess sem „sam-veru“ er væri ekki bundin við einstaklinginn sem slíkan, heldur samfélagið og „umhyggju“ hans gagnvart því umhverfi sem hann er staddur í hverju sinni, og hann hefur í raun ekki valið sér sjálfur.

Maðurinn velur sér ekki foreldra, móðurmál eða það trúarlega, menningarlega, sögulega  og pólitíska umhverfi sem hann fæðist í, og hann speglar sjálfsmynd sína í. Okkur er „kastað inn“ á leiksvið tilveru okkar án eigin vitundar eða vals, þar er hið blinda afl náttúrunnar að verki og það hefur óhjákvæmilega mótandi áhrif á sjálfsmynd okkar og skilning okkar á „sjálfsverunni“ segir Heidegger:

„Innkastið (Die Geworfenheit) er veruháttur tiltekinnar veru, sem skilyrðir ávallt möguleika hennar. Þetta gerist að því marki sem sjálfsveran skilur sjálfa sig út frá þessu innkasti (og endurvarpar (entwirft) sjálfri sér um leið á út frá þeim aðstæðum). Veran-í-heiminum, sem er verunni jafn upprunaleg og áþreifanleg og sam-veran með öðrum, er því þegar í eigin ónáð (ist je umwillen seiner selbst). Þetta sjálf er því fyrst og fremst óekta sjálf, þetta „maður-gerir-sjálf“ (das Man-selbst). Veran í heiminum er alltaf þegar útrunnin (immer schon verfallen). Hina dagsdaglegu meðaltals-veru má því skilgreina sem hina útrunnu-afskrifuðu (verfallend-erschlossene) veru í heiminum, sem innkast-frákast (geworfen-entwerfende) verunnar í heiminum.  þar sem vera þess í heiminum, ásamt sam-veru hinna, felur í sér sönnustu mögulegu getu þess til sjálfsveru“.[iii]

Þetta „maður-gerir-sjálf“ orðalag er klaufaleg íslensk endursögn á þýska „Man“-hugtakinu sem felur í sér „afturbeygða“ mynd sagnorða í „samtölu“: Man geht, liegt, schlaft o.s.frv,: Maður gengur, liggur, sefur o.s.frv. eins og menn ganga, liggja og sofa almennt. Þetta þýska orðalag (das Man í hvorugkyni, ekki der Mann í kk.) er sérsktaklega til umræðu í 27. Kafla Veru og Tíma Heideggers, sem ég hef þýtt og birt hér á vefsíðunni (sjá: https://wp.me/p7Ursx-1af). Þar vekur Heidegger meistaralega athygli á virkni múgsefjunar og „hjarðmennsku“, sem Nietzsche var svo tíðrætt um, og hvernig hún hefur mótandi áhrif á sjálfsveru okkar og þá sjálfsímynd sem Nietzsche er að spyrjast fyrir um: hvernig verðum við það sem við erum?

Hér verður spurning Nietzsche því enn flóknari, það er ekki bara að égið sé „ ekki húsbóndi á eigin heimili“, heldur er okkur kastað inn í til-veru sem mótar sjálf okkur umfram allt annað: foreldrarnir, móðurmálið, samfélagið, stofnanir þess, fjölmiðlun, samfélagsmiðlar o.s.frv. Ekkert að okkar eigin vali. Ef við tökum þessar glöggu greiningar alvarlega verður spurning Nietzsche enn ágengari: hvernig verðum við það sem við erum?

Undanfarið hafa þessar spurningar verið mér hugleiknar og þess vegna réðst ég einnig í að þýða ekki bara ritgerð Heideggers um múgsefjunina, heldur líka ritgerðina um „Reglu Samsemdarinnar“ (Satz der Identität, sjá https://wp.me/p7Ursx-1eC). Þar tekur Heidegger enn upp þráðinn um þetta efni, og leiðir okkur inn í flókinn merkingarvef sagnorðsins að vera. „Ég er Jón eða Gunna“. Það er ekki bara spurningin um hver sé ég, heldur líka hvað felist í sagnorðinu að vera. Í þessari ritgerð Heideggers sjáum við „afbyggingu“ hinnar einföldustu setningar frumlags, umsagnar og andlags, sem við erum vön að taka sem sjálfgefna.

Það mætti dvelja lengi við þessa „afbyggingu“ Heideggers á sálfræðinni, en látum hér staðar numið í bili, og snúnum okkur að enn öðru sjónarhorni á þennan vanda, sem virtist svo augljós í fyrstu: hvernig verðum við það sem við erum?

4. CARLO SINI

Heilsteypt líf og brotið

Nýlega rakst ég á hljóðritun á fyrirlestri sem ítalski heimspekingurinn Carlo Sini hélt í hertogahöllinni í Ferrara fyrir 13 árum síðan og hafði sem yfirskrift þessa spurningu Nietzsche: Hvernig verður maður það sem hann er? Sini er reyndur fyrirlesari sem á að baki áratuga kennslu við háskólann í Milano og hann er vanur að tala blaðalaust, einnig í þessum meistaralega fyrirlestri. Ég hef ekki séð útskrift þessarar orðræðu og ekki fundið skrifaðan texta hans um efnið (þó meistaraleg túlkun hans á sögu og virkni spegilmyndarinnar í menningarsögu Vesturlanda tengist efninu, sjá V. Bindi í Opere, Transito Verita, út. 2012, bls. 792-840). Í þessum fyrirlestri er Sini að leggja út frá þessari spurningu Nietzsche, og nálgun hans kemur vissulega á óvart og varpar enn nýju ljósi á vandann. Þó greinilega megi merkja tengsl við hugmyndir Heideggers um „veruna-til-dauðs“ sem hann setur m.a. fram í 51. Kafla Veru og Tíma (Das Sein zum Tode und die Alltäglichkeit des Daseins). Þetta er áhrifamikill og sögulegur fyrirlestur og ég tek mér hér það bessaleyfi að endursegja hann á íslensku í meginatriðum. Fyrirlesturinn tók rúma klukkustund að viðbættum spurningartíma. Ólíkt Heidegger talar Sini til okkar á vönduðu talmáli sem er hverjum auðskiljanlegt sem vill hlusta.

Sini hóf mál sitt á að varpa fram þeirri spurningu hvaða merkingu það hafi, þegar við tölum um það „falska líf“ sem Nietzsche kennir við sýndarveru og felst í þeirri grímu sem við berum þegar við kynnum okkur fyrir umheiminum eða horfum í eigin barm. Því hið „sanna“ eða „ósanna“ í þessu tilfelli eigi sér tvær hliðar, hina opinberu og samfélagslegu annars vegar og hina einstaklingsbundnu innhverfu tilveru hins vegar. En þetta tvennt tengist þó óhjákvæmilega.

Sjálfsmyndin sem valkostur eða örlög

Sini gengur beint til  verks, og segir ögrandi og að allri mælskulist slepptri, þá sé „hið falska líf“ (vita inautentica) það líf sem við ástundum hvert og eitt frá degi til dags. Þetta er hin ögrandi forsenda fyrirlestursins, sem Sini segir að feli í sér hinar almennu tilvistaraðstæður hvers og eins. Hann gefur sér frá byrjun að við lifum öll lífi sem ekki sé í rauninni heilsteypt og upprunalegt. Og hann spyr:

„Er mælikvarði okkar á hið heilsteypta og sanna líf fólginn í lífsfyllingunni og ánægjunni, eða er hann annars staðar að finna? Hvað er það sem ég á við, þegar ég held því fram að við lifum öll  „ósönnu“ lífi (inautentico)? Hér þurfum við að stíga einu skrefi lengra og átta okkur á að ekkert okkar er hann sjálfur að eigin vali. Þetta er grundvallaratriði: við vorum ekki með í ráðum þegar okkur var valinn fæðingartími, foreldrar, móðurmál, samfélag o.s.frv. Við höfum eingöngu fundið okkur í þessari aðstöðu, og slík aðstaða er í sjálfri sér ekki upprunalega sönn (autentico) eða heilsteypt hvað okkur varðar, þessar aðstæður eru ekki þær sem ég innst inni óskaði mér eða mótaði. Innst inni er ég þannig ekki neitt. Eða eins og Sartre komst að orði: „ég hef gert það úr mér sem hinir hafa gert mér“. Það gildir um alla að þeir eru það sem foreldrar, vinir og samferðamenn haf gert úr þeim, með góðu eða illu. Lífsmáti okkar er þannig sögulega skilyrtur, og einungis þetta felur í sér að hinn upprunalegi trúverðugleiki sjálfsins er víðs fjarri.

Ef við viðurkennum að efnið sem við erum gerð úr er ekki upprunalegt og frá okkur komið, heldur afleitt af þeim kringumstæðum sem okkur hafa verið skapaðar, þá breytir það mælikvarða okkar á gildi hins sanna og ósanna í þessu samhengi.

Frumleikinn og hugsanir annarra

Fátt hefur vakið mér meiri furðu en þá, að mæta fólki sem segist í mikilli einfeldni hugsa með eigin höfði. Sannleikurinn er hins vegar sá, að enginn hugsar með eigin höfði, og þetta held ég að sé fyrsti lærdómurinn sem góður kennari færir nemendum sínum. Að gera þá meðvitaða um að það sem þú hugsar er ekki þitt. Í okkar samfélagi er í gangi mikil mælskulist um frumleika í hugsun og sköpun, en tungumál okkar og hugsun eru fengin að utan, -til góðs eða ills. Sannur frumleiki er afar sjaldgæft fyrirbæri, og þar sem það er að finna, þá byggir það á ofurmannlegri fyrirhöfn sem fáum er gefin. Ég geri mér grein fyrir að þessi lærdómur fellur ekki í kramið hjá unga fólkinu – og hefði  heldur ekki þóknast mér ungum, en hann segir okkur meðal annars að spurning Nietzsche segi okkur fyrst og fremst að við eigum að gera okkur grein fyrir okkar eigin ótrúverðleika þegar kemur að hinu upprunalega og sanna lífi. Að við fæðumst ekki frumleg, og til þess að öðlast þann hæfileika þurfum við að ganga óraveg í gegnum þá tilbúnu veru sem aðrir hafa gert úr okkur til góðs eða ills.

Einnig þar sem við höldum á lofti harðri gagnrýni á umhverfi okkar eða samfélag, þá er það ekki vegna þess að það sé okkar uppfinning, því sú leið hefur oft og lengi verið farin í rás kynslóðanna. Rétt eins og val okkar á sjónvarpsrásum á sér lítil takmörk, þá er enginn skortur á fordæmum uppreisnarmannanna gegn sínum samtíma.

Ég vil ekki að þið skiljið mig þannig að ég sé sjálfur að bera fram gagnrýni á samtímann, ég er hér fyrst og fremst að setja fram fyrirbærafræðilega lýsingu á aðstæðum okkar. Hér áður fyrr skiptust menn í flokka eftir takmörkuðu framboði: menn gátu verið „raunsæismenn“, „Girondínar“, „Jakobínar“, „Montaigneistar“ og svo framvegis, en nú á tímum blasir við okkur framboð valkosta á magnskala vöruhúsanna.

Ef við lítum aftur til spurningar Nietzsche, þá skulum við átta okkur á að hún kennir okkur að vita hver við erum út frá þessu forsendum. Þegar þú gerir þér grein fyrir skorti þínum á frumleika, að þú sért afurð tiltekins samfélags, tiltekins staðar og stundar, tiltekinnar menningar, þá felur það ekki í sér neitt  neikvætt, þar sem það á við um alla. Allir eru þannig gerðir, að þeim meðtöldum sem hér talar.

Að horfast í augu við brotakennda sjálfsmynd

Vitundin um þessar aðstæður gætu opnað fyrir nýjan skilning á hinu ófrumlæga í eigin garði, og að hið „sanna“ fælist þá í að vera sér meðvitaður um eigin skort á upprunalegum frumleika. Við það bætist svo, að ég og allir aðrir hafa tileinkað sér tiltekinn smekk, fundið valkosti o.s.frv., en vel að merkja, ég er ekki einn um þá, það hafa margir aðrir gert. Þar skiptir aldur í raun ekki máli, heldur meðvitundin um skort okkar á upprunalegum heilsteyptum frumleika. Það er ekki frumlægur eiginleiki að vera Evrópubúi eða kristinnar trúar eða fara í kirkju á sunnudögum. Kierkegaard, sem var haldinn djúpri trúhneigð, hafði skömm á þeim sem ástunduðu kirkjusókn í nafni trúar sinnar, því trúarvitund þeirra væri fölsk. Að nálgast hið upprunalega og altæka í kristindómnum reyndist honum dýrkeypt reynsla.

Skortur okkar á upprunalegum og sönnum frumleika er ekki bara spurning um félagslegt eða menningarlegt val – val á sjónvarpsrás eins og ég sagði í gríni, heldur er um að ræða grundvallar spurningu sem snýst endanlega um val á því hver eigi að vera í heiminum og hver ekki.

Þetta krefst sérstakrar umhugsunar: að gera sér grein fyrir þessu afgerandi vali og þeim mismun og aðgreiningu sem í vali okkar felst. Sú staðreynd að við erum stödd hér í kvöld, í þessari borg, í þessu menningarumhverfi, í þessari menningarhefð, felur óhjákvæmilega í sér að ekki er pláss fyrir aðra, og að þeir eru ekki viðstaddir. Því sérhver ákvörðun, sérhver samsömun, sérhver hefð, velur sína dauðu. Þetta val snýst endanlega um þá sem geta lifað og þá sem geta það ekki. Hér er ekki einvörðungu um að ræða sök okkar siðmenningar eða menningarheims, því allir eru þeir þeirrar gerðar. Þessir menningarheimar eru í þessum skilningi allir óekta eða vanheilir, því þeir hafa að geyma sitt innritaða ofbeldi. Þeir búa allir yfir frumlægu ofbeldi, því þeir telja sig sjálfa vera holdgervingu þess sem er réttlátt, fagurt og gott.

Anaxímander:  aðgreining og endurgjald lífs og dauða

þessu samhengi minnir Sini okkur á gríska heimspekinginn Anaximander (610-546 f.Kr.) sem sagði að öll afmörkun eða aðgreining fæli í sér andstæður er væru upp á líf og dauða. Allt sem fæðist er skapað af hinu óaðgreinda og verður við sköpun sína aðskilið og er þannig dæmt fyrir óréttlætis sakir til að deyja og hverfa aftur til hins óaðgreinda og rýma fyrir nýrri aðgreiningu í hringrás sköpunar og dauða. Þessi skilningur Anaximanders, segir Sini, felur í sér að lífið séi í innsta eðli sínu markað af ofbeldi og óréttlæti. Þetta sé augljóst í dýraríkinu: við vitum að á þessu augnabliki eru risavaxnar skepnur í undirdjúpunum sem gleypa í sig miljónir smádýra.  Í dýraríkinu er valið augljóst: þar sem einn er þar er ekki annar. Sama sjáum við reyndar í heimi mannanna,  en þar hafa háþróuð menningar- og trúarsamfélög sett sér efnahagslegar reglur sem segja skýrt til um hverjir séu inni og hverjir úti. Hvaða afkomendur lifi af og hverjir ekki, hvernig þeim er skammtað lífsviðurværi. Þetta er ekki ónáttúrlegt. Þó svo að ég sé ekki að aðhafast neitt í þessum efnum er ég þátttakandi í þessari baráttu andstæðanna, þessu óréttlæti, og þetta telst ekki til hins ófrumlæga eða til sýndarinnar sem situr um líf mitt, en það getur gert mig mjög vansælan, án þess að ég geri mér fulla grein fyrir ástæðunni.

Þessi fyrstu skref sem við þurfum að stíga til að átta okkur á hvað gæti falist í sviknu eða óekta lífi eru umdeilanleg og vel fallin til umræðu, en þá komum við jafnframt að spurningunni um hvað felist í því lífi sem er heilsteypt (autentico). Við getum haft ólíkar skoðanir á því sem hér hefur verið sagt, en ég vildi meina að í  því felist að minnsta kosti vottur af einlægni. Ef við lifum ekki sönnu lífi, hvað felst þá í þessu sanna lífi? Við sögðum að jafnvel þó við aðhefðumst ekki neitt værum við samsek í þessu óréttlæti lífsins: til dæmis er ég sjálfur hlutaðeigandi, og þar með samsekur um ástand háskólamenntunar hér á landi eftir hálfrar aldar starfsreynslu sem nemandi og kennari. Aðgerðir mínar eða aðgerðarleysi hafa leitt til ástands sem gerir mig vansælan. Þar er ég ekki einn um sökina, en ég er hlutaðeigandi.

Eðlislægt ofbeldi lífsins?

Fyrsta skrefið til þess að átta sig á hvað við erum, er að skilja að við erum hlutaðeigendur að óhjákvæmilegu ofbeldi, og það er kannski ekki sérlega uppörvandi. En það er rétt að átta sig á að lögmál lífsins fela óhjákvæmilega í sér ofbeldi; eitthvað sem útilokar og eitthvað sem verndar og skýlir. Þetta er að mínu mati það harmsögulegasta í mannlegu samfélagi. Þessi mafíu-hugsunarháttur: við erum hér, þeir eru þarna, komdu með mér, berjumst gegn þeim… Við höfum á réttu að standa því þeir vaða í villu, og jafnvel þó við vöðum í villu þá er rétturinn okkar megin því við erum við.

Þetta er eitthvað það aumasta sem við getum horft upp á, og það skildi Nietzsche vel. Hann skildi að einnig burðarkarlarnir í hinu stéttskipta samfélagi hefðu sinn átakavettvang, hann væri ekki bundinn við yfirstéttina þar sem hinar stóru ákvarðanir í lífinu eru teknar. Þetta gerist líka meðal þeirra lægst settu í kjöllurum og fátæktarhverfum samfélagsins. Hver er vinur og hver er óvinur, alls staðar blasir þessi spurning við. Vináttan er mikilvæg í lífi manna, en þegar hún snýst um hagsmunagæslu og skjól verður hún jafnframt óekta og lyktar af falsi.

Þegar ég horfi yfir farinn veg lífs míns finn ég til djúprar skammar. Skammar vegna smámuna sem gældu við sjálfhverfa hagsmunagæslu eða þar sem kom til átakavettvangs af ýmsu tagi. Hvernig get ég komið fram á opinberum fyrirlestri um heilsteypt og falskt líf án þess að horfa í eigin barm? Þess vegna stefnir fyrsta skrefið að því að skilja hvað felist í heilsteyptu lífi, að átta sig á eigin veikleika. Ekki til að iðka sjálfsafneitun eða meinlæti, heldur til að horfast heiðarlega í augu við eigið líf og hætta að ganga um eins og hinn frumlegi handhafi sannleikans í einu og öllu. Fátt er aumara, en það þýðir heldur ekki að við eigum að vanmeta okkur sjálf, því við erum öll af þessum sama toga. Þar er engin undantekning. Við þekkjum öll sögur af einstöku fólki sem hefur lagt allt í sölurnar fyrir hugsjónir sínar, jafnvel lífið. Ég er ekki að kalla eftir slíku, en við þurfum engu að síður fyrirmyndir og viðmið til þess að geta greint á milli hins heilsteypta og vanheila lífs.

Hér vildi ég leiða umræðuna inn á nýjar slóðir. Skoða málið frá öðrum sjónarhóli. Við vorum búin að átta okkur á þeim skilningi Nietzsche, að fyrsta skrefið til að öðlast skilning á hinu heilsteypta lífi fælist í því að átta sig á eigin brotalömum. Að við séum öll óhjákvæmilega undirseld hinu vanheila, að við tilheyrum öll hjörðinni, eins og Nietzsche sagði, því félagsþáttakan felur alltaf í sér hjarðmennsku. Undan því verður ekki skotist, og það getur líka átt sína kosti. Ef allir væru hreinir af hjarðmennskuhugsun yrði trúlega erfitt með allt félagslíf.

Hin kosmíska skuld Anaxímanders

Þetta var fyrsta forsendan, en nú vildi ég víkja að annarri, sem ristir enn dýpra. Í því sambandi vildi ég aftur víkja að orðum Anaximanders, sem lét eftir sig örfáar hnitmiðaðar setningar, því ekki lá dagblaðapappírinn á lausu á hans tíma, hvað þá bækurnar og stafrænu gagnabankarnir. En orð hans og nokkurra samtímamanna hans hafa orðið tilefni skrifa sem fylla óteljandi bindi og alfræðiorðabækur á okkar tímum. Hann kenndi okkur að meðal hinna villtu dýra í lofti, láði og legi gilti aðeins eitt lögmál valdsins. Þar ríkir enginn vafi: mitt líf er þinn dauði. Þetta á við um dýrin, en ekki manninn, því manninum hefur hlotnast lagasetning Guðsins, segir Anaximander. Lagasetning réttlætisins. Það er rétt – að hluta til – því þetta samtal okkar vitnar um að okkur skortir ekki skynjun á réttlætiskenndinni og getunni til að ákæra óréttlætið og þau óheilindi sem við mætum, en það er ekki satt að því leyti, að á þeim sviðum þar sem maðurinn hefur þróað getu sína til hins ýtrasta valds, þá hefur hann sýnt sig að vera skelfileg vera, eða eins og Hesíódos, eitt af skáldum forngrikkjanna sagði: af öllum lifandi verum er maðurinn hinn skelfilegasta, því hann á það til að drepa fórnarlömb sín í því magni sem er óhugsandi meðal dýranna, þar sem jafnan er leitað eftir valdajafnvægi.

Við erum ekki bara dugleg að drepa okkur til matar eða annars, heldur til útrýmingar eins og nú er gert í áður óþekktum mæli, þar sem um 40 dýrategundir verða útdauðar á degi hverjum vegna breytinga á loftslagi og vistkerfi af manna völdum. En ekki bara það, maðurinn hefur notað lagasetningar sínar fyrir réttlætið til gagnkvæmra útrýmingarherferða, herferða sem verða æ umfangsmeiri eftir því sem nær dregur okkur í tímanum. Með síauknum eyðingarmætti vopnanna eykst jöfnum höndum afkastageta þeirra. Eitt sinn gat maðurinn drepið náungann með steini eða trjálurki, nú upplifum við umfangið í stjarnfræðilegum tölum. Andspænis þessum staðreyndum verða orðskviðir Anaximanders augljósir: Þetta eru örlög mannanna. Ekki bara að þeir greiði sína kosmísku skuld heldur greiðir sérhver skuld sína til hins með dauða sínum.

Lífið til dauðans og lífið gegn dauðanum

Ég vildi nú nota síðustu 10 mínúturnar til að vekja athygli á þessu. Hið vanheila líf er fyrst og fremst fólgið í gleymskunni á eigin brotalöm. Ég þarf ekki að taka það fram, að þetta eru hugsanir sem margir heimspekingar hafa fjallað um, ekki síst Martin Heidegger: Samkvæmt honum leggjum við mikið á okkur til að gleyma einu grundvallaratriði, sem er dauðleiki okkar. Stór hluti þess menningarlífs sem við lifum virðist fyrst og fremst beinast að yfirbreiðslu í formi dægrastyttingar. Heidegger talar um skvaldrið í samtímanum, að við búum við endalausa eymd yfirbreiðslunnar sem stýrir hversdagslífi okkar í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að hugsun okkar haldi áfram og nái þeim punkti sem við öll vitum af, sem er okkar eigin dauðleiki. Einmitt þetta sem greinir okkur frá öðrum lífverum: dýrin eru sér vissulega ekki meðvituð um eigin dauðleika, því þau eiga ekki orðin, og eins og Hegel sagði, þá lýkur lífi dýranna, en þau deyja ekki. Það er maðurinn sem deyr, og tekur þannig út refsingu fyrir ofbeldi sitt. En einnig hér þurfum við að hugsa málið, því þetta er kjarni málsins: Maðurinn tekur ekki út refsingu sína vegna þess að hann er ofbeldisfullur. Hann er ofbeldisfullur vegna þess að hann vill ekki deyja. Þetta er skilningur sem Freud setti fram, en ekki bara hann, því Anaximander virðist hafa sagt það sama. Þetta er skilvirkasti skilningurinn (á spurningum Nietzsche og Anaxímanders) að mínu mati, óttinn við dauðann og sú þráhyggja að fela sig á bak við þessa veraldlegu brjóstvörn og  þennan samfélagslega skjöld eða grímu, þessa ósönnu persónugervingu sem við lítum ómeðvitað á sem tryggingu gegn dauðleikanum, þessa leit eftir tryggingu, því þarna eru börn mín og afkomendur og þetta eru vinirnir og þeir sem kunna að meta mig og elska mig, Þessi þráhyggja að búa sér til þessa brjóstvörn, þennan skjöld sem lítum  ómeðvitað til sem tryggingu gegn  dauðleikanum, eða sem fráhvarf eða yfirbreiðsla, eða eins og Tolstoy komst svo vel að orði: „Auðvitað mun ég líka deyja, það er vitað mál, … en sá sem segir þetta trúir því ekki að þetta sé satt“. Þetta er orðatiltæki og talsmáti, ein leiðin til afþreyingar.

Þannig snýst líf samfélagsins um afþreyingu, yfirbreiðslu, frestun, um hið daglega og samfellda skvaldur og þessi skelfilega tónlist sem fylgir okkur hvert fótmál, allt þetta vanheila sem sýnir okkur endanlega hvað er heilsteypt í okkur sjálfum. Kannski er þetta það sem Nietzsche vildi sagt hafa og hugsaði einnig, þegar hann spurði: hvernig verður þú það sem þú ert?

Hvað erum við, þegar allt kemur til alls, nema einmitt hin dauðlegu. Í því felst reisn okkar, mikilfengleiki okkar og háski, -harmleikur okkar ef þið viljið orða það þannig. Þá felst það að „verða það sem maður er“ í því að verða dauðlegur, verða meðvituð um dauðleika okkar, ekki til þess að setja öskuna (sorgarmerkið) á kollinn, draga sig út úr heiminum, lausnir sem ekki eru sérlega sannfærandi, heldur að gera sér grein fyrir þeirri miklu framleiðslugetu og örvun, sem í dauðanum er fólgin.

Málið snýst ekki um að berjast gegn dauðanum, að lifa lífi gegn dauðanum, afneita honum með öllum mögulegum hætti í gegnum trúarbrögðin, sem lofa lífi í handanverunni – sem menn mega blessunarlega hafa, eftir því hvaða skilning menn leggja í slíkt – eða með því að hafna slíkum hugsunum vegna þess að ég vil ekki hugsa um það, heldur hvernig leikurinn fór hjá Milan í gærkvöld. Ég hef þannig þúsund möguleika til afþreyingar, sem í sjálfu sér er ástæðulaust að andmæla. Það er ekki aðalatriðið, heldur að uppgötva hvaða dýrgrip maðurinn hefur á milli handanna þar sem hann einn allra lífvera býr yfir vitundinni um dauðann. Sem er jafnframt vitundin um að dauðinn og einungis dauðinn er sá sem framkvæmir hið raunverulega val. Það er hann og einungis hann sem kveður á um hvort sáðkorn mannkynsins fái að blómstra.

Dauðinn sem bjargræði lífsins

Hver var það sem bjargaði orðskviðum Anaximanders eða Hesíódosar annar en dauðinn? Aðeins dauðinn sem ekkert okkar hefur vald yfir. Dauðinn sem fylgir í engu rökhugsun okkar eða óskhyggju, hann sem í augum okkar er eins og slysaskot. Kannski hafði Anaximander skilið það rétt, kannski ekki,  að dauðinn væri ekki afneitun einhvers, það er hann sem hefur framkvæmt sitt val, blessunarlega ekki við með okkar þrönga og trega sjónarhorn, með okkar smáu og vanheilu sýn á hlutina sem takmarkast við okkar litla og afmarkaða heim, heim okkar, hinna dauðlegu. Hversu dauðleg sem við erum, loksins verðum við dauðleg, loksins vöknum við til vitundar um dauðleika okkar í stað þess að hugsa gegn honum. Ég held að þessi vitund breyti öllu um skilningi okkar á gildi lífsins, þannig öðlast það óviðjafnanlegt gildi, því engu verður viðhaldið en öllu miðlað. Þar sem ég get ekki viðhaldið því, þá verður allt gefið. Allt verður gefið til þess að því sé miðlað í gegnum dauðleika minn og yfirfært á það sem við gætum með almennum hætti kallað „hið eilífa líf“. Dauðinn, dauðleikinn og vitundin um það sem við verðum, það er að segja dauðleg, fær okkur til að skilja ódauðleika lífsins. Slík yfirlýsing er í formi sínu myndlíking eða allegóría, það merkir ekki ódauðlegt líf í hefðbundnum skilningi samkvæmt málfræðireglunum. Við höfum hið dauðlega líf og vitundina um að við munum deyja, en við höfum líka vitund um líf sem heldur áfram handan við mitt eigið líf, innan míns eigin lífs. Þannig tekur allt á sig nýja mynd, börnin eru börn, foreldrarnir eru foreldrar innan sinna takmarka, en þeir eiga sér ekki afkvæmi til að kasta þeim í stríð við önnur afkvæmi til þess að tryggja þeim framtíð. Þau eru afkvæmi eins og öll önnur, þau eru dauðleg. Þannig öðlumst við sýn sem útilokar ekki ástríðu ástarinnar, en gerir ástina ekki að brjóstvörn gegn dauðanum. Ég dey af því ég er faðir og dauðlegur en dauðleiki minn var innritaður í getu mína til að geta afkvæmi. En það er mikilvægt að vita að einnig það sem ég hef getið í heiminn er dauðlegt. Það gerir ekki annað en að miðla þessu lífi, sem við köllum eilíft. Sú eilífð er reyndar ekki undir okkur komin, heldur undir viðkomu lífsins og staðfestu, en framvinda þess gengur í gegnum okkur og hefur gengið í mannkynið sem homo sapiens í sjötíu þúsund ár og sem manntegund í hundruð þúsundir ára. Lífið á jörðinni á sér nokkra milljarða ára sögu…

Ef við skoðum okkur sjálf í þessu ljósi, án þess að yfirgefa okkar þrönga sjónarhorn, því enginn getur yfirgefið sitt sjónarhorn, heldur til þess að veita þessu sjónarhorni þá reisn sem það verðskuldar í gegnum dauðleika sinn, þá verður þetta litla sjónarhorn kannski að einhverju sem við gætum kallað heilsteypt, miðað við þær brotalamir sem við finnum í hinu einstaklingsbundna lífi, hinum einstaklingsbundnu vandamálum af félagslegum, efnahagslegum, siðferðilegum eða andlegum toga. Þetta er tilraun: að hugsa í raun og veru að líf okkar sé undirorpið dauðanum, reynum að hugsa það eins og Heidegger benti á: ekki sem atburð er á sér endapunkt með dauðanum, því þessi dauði varðar hina. Því enginn lifir eigin dauða. Enginn lifir sig dauðan, eins og hinn mikli Epíkúrus sagði: „þegar dauðinn er, þá er ég ekki, þegar ég er, þá er ekki dauði“. Dauðinn er ekki síðasti atburður lífsins, heldur deyjum við hinum. Ekki er um að ræða að taka inn í okkar dauðlega líf dauða okkar eigin takmarkana. Að verða meðvitaður um eigin dauðleika útilokar ekki þá hugsun að dauðinn snerti mig ekki, þar sem ég dey öðrum. Þetta felur líka í sér að líf okkar er án landamæra því landamæri fela í sér það sem er innan og utan þeirra. Landamærin snú því ekki að okkur, og líf okkar á sér ekki mörk. Heidegger talaði „fyrirfram gefna ákvörðun“. Nú dey ég. Nú er dauðastundin komin. Í dag er ég dáinn. Og dauðinn heldur viðstöðulaust áfram vali sínu. Hann velur úr minningum mínum, ummerkjum mínum og þeim verkum sem ég hef skilið eftir mig. Hann velur úr minningum ykkar hvað mig varðar. Rökin fyrir því hvað ég er koma fyrst og fremst frá hinum, sagði Pierce, vissulega ekki frá mér. Þetta er ávöxtur hins daglega dauða. Hið lífgefandi og goðsögulega val. Valið sem segir: þetta hafði merkingu. Hvað höfum við gert undanfarna daga? Það eru þúsund hlutir, en það sem hefur merkingu er undir vali dauðans komið. Með því að láta hina hlutina falla hefur ljósinu verið beint að þessum. En hann sagði líka þessi orð sem ekki gleymast: vonum að við eignumst marga slíka. Takk fyrir.

 

Þessi fyrirlestur er hér endursagður eftir hljóðritun frá þessari vefsíðu: (32) Carlo Sini – Come si diventa ciò che si è – 21-10-2010 – Ferrara – YouTube

Forsíðumyndin er málverkið Narkissus eftir Caravaggio.

——————————————————-

[i] F. Nietzsche: Handan góðs og ills, í þýðingu Þrastar Ásmundssonar og Artúrs Björgvins Bollasonar, útg. Hið ísl. Bókmenntafélag 2021 bls. 168-169.

[ii] S. Freud: Undir oki siðmenningar í þýðingu Sigurjóns Björnssonar, Hið ísl. Bókmenntafélag 1997, bls. 14.

[iii] M. Heidegger Sein und Zeit, 6. Kafli, 39. grein. Þessar setningar eru jafn mikilvægar og þær eru ill-þýðanlegar. Í heild hljómar þessi skilgreining Heideggers á sjálfsverunni og samverunni í heiminum svona á frummálinu: „Die Geworfenheit aber ist die Seinsart eines Seienden, das je seine Möglichkeiten selbst ist, so zwar, dass es sich in und aus ihnen versteht (auf sie sich erwirft). Das In-der-Welt-sein, zum den ebenso ursprünglich das Sein bei zuhandenem gehört wie das Mitsein mit Anderen, ist je umwillen seiner selbst. Das Selbst aber ist zunächst und zumeist uneigentlich, das Man-selbst, Das In-der-Welt-sein ist immer schon verfallen. Die durchschnittliche Alltäglichkeit des Daseins kann demnach bestimmt werden als das verfallend-erschlossene, geworfen-entwerfende In-der-Welt-sein, dem es in seinem Sein bei der „Welt“ und in dem Mitsein mit Anderen um das eigenste Seinkönnen selbst geht.

HEIDEGGER UM SAMSEMD MANNS OG VERU Á TÍMUM TÆKNINNAR

UMSNÚNINGUR VERUNNAR Á TÍMA TÆKNINNAR SAMKVÆMT HEIDEGGER

Þessi tilraun mín til að þýða texta Martins Heideggers um „Reglu Samsemdarinnar“ er trúlega glæpsamlegt glapræði. Hún er tilkomin af ólíkum ástæðum. Fyrst þegar ég keypti kverið um "Samsemd og mismun" á Ítalíu fyrir tveim eða þrem árum síðan, var það ekki síst vegna þess að ég hafði verið að velta fyrir mér hugtakinu „identitet“ í merkingunni sjálfsmynd, og það vakti forvitni mína að kynnast skilningi Heideggers á því. Ég hafði þá mótað með mér þann skilning sálgreiningarinnar (ekki síst hjá Lacan) að sjálfsmyndin sé fengin frá „hinum“: í gegnum foreldrana, tungumálið, skólann og aðrar samfélagsstofnanir o.s.frv. Skilningur sem enn er í fullu gildi í sjálfu sér, en á sér eðlileg mörk. Sérstaklega þar sem hann segir okkur að sjálfsmyndin sé enginn fasti, heldur eitthvað síbreytilegt sem okkar eigið "sjálf“ hefur tiltölulega lítið um að segja. Hvernig breytist sjálfsmyndin, og hvað ræður henni? Hvar eru mörkin á milli þess að vera og „tilheyra“ í þessu sambandi? Hvers vegna skiptast menn í flokka og ekki síst: hvað ræður flokkun okkar og niðurröðun náunga okkar í skilgreind hólf er hafa með „sjálfsímynd“ að gera? Ekki bara út frá þjóðerni, þjóðfélagsstétt eða trúarbrögðum, heldur jafnvel út frá fylgispekt  við tiltekin íþróttafélög eða poppstjörnur? Kannski segir skilningur sálgreiningarinnar á sjálfsímyndinni ekki alla söguna, kannski hefur verufræði Heideggers eitthvað um þetta að segja, sem sálgreiningin eða félagsfræðin ná ekki að skýra?

Það er óhætt að segja að ég varð furðu lostinn, þegar ég las þennan texta fyrst. Hér var enga sálgreiningu eða félagsfræði að finna, heldur vaðið beint í þá rökfræðilegu, verufræðilegu og merkingarfræðilegu ráðgátu sem felst í sögninni að vera. Eftir að Heidegger hafð gefist upp á hinni miklu áætlun sinni um útgáfu  seinna bindis stórvirkisins „Vera og tími“ frá 1927, og gengið í gegnum þann harmleik og örlagsögu Evrópu, sem fólst í síðari heimsstyrjöldinni, aðild hans að þýska  nasistaflokknum 1933-45 og kjarnorkusprengjunum í Hiroshima og Nagasaki, þá urðu óhjákvæmileg umskipti í heimspekiskrifum hans, umskipti sem kennd voru við „die Kehre“ eða umsnúninginn, sem erfitt er þó að skilgreina, en birtist kannski ekki hvað síst í þessari stórmerku ritgerð, sem kom út þremur örlagaríkum áratugum eftir „Veru og tíma“. Eftir stendur engu að síður, að þrátt fyrir „aðildina“ að nasistaflokknum, sem var ófyrirgefanleg vanvirðing við heimspekina, þá hafa skrif þessa stórfurðulega heimspekings haft víðtækari áhrif á heimspekiumræðu á Vesturlöndum á síðari hluta tuttugustu aldar en flestra annarra.

Óvænt tengist þessi fyrirlestur um samsemdina ritgerð Heideggers um tæknina frá 1953, og felur í sér nánari útfærslu þeirra hugmynda, en um leið má lesa út úr þessari ritgerð eins konar „andsvar“ við þeirri gagnrýni sem Carlo Sini hefur sett fram á Heidegger, og birtist m.a. í tveim ritsmíðum sem ég hef nýlega birt hér á "hugrunir.com" um merkingarfræði og um „tækni og ofbeldi“. Segja má að það ríki visst „ástarhatur“ á milli þessara heimspekinga, sem á sér bara samsvörun í sambandi og glímu Heideggers við Nietzsche. Það liggur rauðglóandi strengur á milli þessara þriggja höfunda, þar sem merkingarfræðilegt framlag Sini skiptir miklu máli, og skapar sérstöðu hans. En glíman við „verufræði“ Heideggers er um leið alls staðar nálæg.

Heidegger gengur beint til verks með rökfræðilegri greiningu á þversögninni sem hann sér í viðteknum skilningi á verunni, á sagnorðinu að „vera“ eitthvað. Hvað merkir A=A spyr Heidegger, og leiðir okkur umsvifalaust í að því er virðist óleysanlega flækju. Hér er jafnaðarmerkið merki þeirrar samsemdar er segir okkur að eitt sé sama og það sjálft: ég er ég. Ég er það sama og ég. Þetta er augljóst samkvæmt viðteknum skilningi, en ef við lítum nánar á málið lendum  við í flækju, sem endanlega leiðir í ljós ákveðna bresti í umgengni okkar gagnvart tungumálinu. Hver er ég, og að hvaða leyti er ég það sama og sjálfsmynd mín? Með hvaða hætti verða maður og vera eitt og hið sama? Með hvaða hætti verða hugur og vera eitt og hið sama, eins og Parmenídes sagði „á vordögum vestrænnar hugsunar“ fyrir nær 2500 árum síðan?

Hér kemur tæknin í raun til sögunnar, sá skilningur á tækninni sem Heidegger hefur sett fram með hugtakinu Gestell, sem er nýyrði, erfitt í þýðingu, en merkir í raun sam-stillingu, það að stilla einhverju upp til samfélagslegrar notkunar eða meðferðar. Við þekkjum enduróm þessa orðs til dæmis í „matarstellinu“ eða „settinu“, því sem lagt er á borð fyrir okkur. Við tökum því sem sjálfgefnu viðfangi til daglegs brúks. Í þessari þýðingu hef ég yfirleitt stuðst við orðið „innsetningu“ í vafasamri viðleitni til þess að klæða orðasmíð Heideggers í íslenskan búning. Heidegger segir að hin frumspekilega umgengni okkar við tungumálið hafi leitt okkur til að taka veruna sem gefinn hlut, rétt eins og „máfastellið“ á kaffiborði ömmu okkar. Þessi málfarsnotkun sé í raun tæknilegs eðlis og hafi með „Gestell“ að gera. Hér er í raun um tiltekið afsal að ræða eða valdbeitingu.

Ekki batnar flækjan þegar kemur að því að „tilheyra“: , gehören eða zusammengehören. Ég „er“ ekki Íslendingur, heldur „tilheyri“ ég íslenskri þjóð eða þjóðerni. Ef þessi vera felst í því að tilheyra, þá felur það í sér eignarafsal á sjálfinu, segir Heidegger, og leiðir okkur þannig yfir í eitt uppáhalds orð hans: „Ereignis“.

Heidegger segir þetta þýska orð óþýðanlegt á aðrar tungur, og líkir mikilvægi þess við hið gríska „logos“ og hið kínverska „tao“. Þessi nokkuð hrokafulla fullyrðing virðist mér vera endurómur undirliggjandi þjóðernishyggju og hugmynda höfundar um sögulegt hlutverk Þýskalands í heiminum, sem sjaldan kemst á yfirborðið í heimspekiritum Heideggers, en vottar þó fyrir í  umsögn hans um mikilfengleik „þjóðernissósíalismans“ í „Einführung in der Metaphysik“ frá árinu 1935.

Í hinni vönduðu Þýsk-íslensku orðabók bókaútgáfunnar Opnu frá 2008 er Ereignis þýtt sem atburður, viðburður eða tilfelli. Í þessari þýðingu hef ég látið Ereignis að mestu óþýtt eða gert vafasama tilraun með að nota „atviks-reynslu“.

Heidegger leggur þann skilning í hugtakið að það feli í sér eignarhald, viðburð sem eignar sér manninn eða maðurinn eignar sér. Í raun og veru virðist „umsnúningurinn“ (die Kehre), sem gjarnan er sögð hafa átt sér stað hjá Heidegger á eftirstríðsárunum, felast í þeim umsnúningi er umbreyti þeim atburði tækninnar sem eignar sér manninn sem viðfang, hlut eða kennitölu, í þann gjörning sem er manninum „eiginlegur“. Þetta er sá umsnúningur innsetningarinnar (tækninnar) sem felur í sér „stökkið“ yfir í þá nýju „samsemd“ sem Heidegger sér fyrir sér, og felur um leið í sér umsnúning á þeirri „reglu samsemdarinnar“ sem titill fyrirlestursins felur í sér. Eða svo vitnað sé í textann:

„Vegferðin frá reglunni sem fullyrðing um Samsemdina  til reglunnar sem stökk til eðlisuppruna Samsemdarinnar hefur umbreytt hugsuninni. Þegar horft er til samtímans, þá finnum við hér ástæðu þess að við sjáum, handan aðstæðna mannsins, samstillingu veru og manns á grundvelli þess sem umfram allt tengir þau saman í gagnkvæmu eignarhaldi, það er að segja der Ereignis (atviks-reynslan).“

Þessi „umsnúningur“ Heideggers felur í sér gagnrýni á þann „hlutlæga sannleika“ sem á vissan hátt virðist samhljóða gagnrýni Carlo Sini á vísindin sem trúarbrögð hins endanlega sannleika. Heidegger og Sini virðast sammála um að „hlutlægni“ vísindanna eigi rétt á sér og færi manninum margvíslegan ávinning, en hins vegar feli átrúnaðurinn á vísindalegar tilgátur -og aðferðafræðina við að setja þær fram - í sé yfirvofandi hættu, sem Sini kallar reyndar „ógnarstjórn“ eða „terrorisma“. Í þessu skyni setur Heidegger fram þessa spurningu:

…hvar var sú ákvörðun tekin, að náttúran sem slík skuli um alla framtíð vera náttúra nútíma eðlisfræði, og að sagan skuli einungis birtast sem viðfang sagnaritunarinnar? Það er rétt, að  við getum ekki hafnað núverandi tækniheimi, og okkur leyfist heldur ekki að eyðileggja hann, að því tilskyldu að hann geri það ekki af sjálfsdáðum.“

Síðasta fullyrðingin í þessari setningu Heideggers gengur hins vegar þvert á hugsun Sini, sem lítur á það sem frumspekilega þversögn að líta á manninn og tæknina sem andstæða gerendur í sögunni.

Það er hins vegar enginn skortur á sjálfsöryggi í lok fyrirlesturs Heideggers, þar sem hann segir það hafi tekið mannkynið tvö þúsund ár að leysa ráðgátu Parmenidesar um samsemd hugsunar og veru (sem ekki eru eitt og það sama). Heidegger telur sig hér hafa leyst þessa gátu, og segir í lokin þau spámannlegu orð að "með því að hugsa það sem áður var hugsað munum við umsnúa því sem enn er óhugsað".

 Martin Heidegger:

 Regla Samsemdarinnar

Fyrirlestur fluttur í tilefni 500 ára afmælis háskólans í Freiburg 1957, hér þýddur úr bólkinni „Identität und Differenz“, Pfullingen Verlag 1957, með hliðsjón af ítalskri þýðingu Giovanni Gurisatti, „Identità e differenza“, Adelphi edizioni 2013.

Ríkjandi skilningur á reglu Samsemdarinnar er samkvæmt jöfnunni A=A. Þessi regla gildir sem æðsta regla hugsunarinnar. Við skulum freista þess að hugleiða þessa reglu stundarkorn. Því reglan ætti að kenna okkur hvað felst í hugtakinu Identität (ísl.:  samsemd, sjálfsmynd, jafngildi, kennimark…).

Þegar hugsun okkar mætir tilteknu viðfangsefni og fylgir því eftir, getur átt sér stað að hún taki breytingum á leiðinni. Vegna þessa er ráðlegt héðan í frá að hafa gátur á slóðinni, frekar en inntakinu. Framvinda þessarar samkomu hefur þegar hindrað okkur í að veita leiðinni verðskuldaða athygli.

Hvað er það sem formúlan A=A segir okkur, eins og samsemdarreglan er venjulega túlkuð? Formúlan nefnir jafngildi A og A. Jafna byggir á tveim þáttum. Eitt A er eins og annað. Er þetta það sem samsemdarreglan vill segja okkur? Augljóslega ekki. Hið sama heitir á latínu idem, og á grísku τό αυτό (to auto). Í þýskri þýðingu merkir τό αυτό: das Selbe , „hið sama“. Þegar einhver takmarkar sig við að endurtaka hið sama, t.d.: jurt er jurt – þá talar hann í klifun (Tautologie). Til þess að eitthvað sé hið Sama dugar alltaf eitt. Ekki er þörf á tveim hugtökum eins og í jafngildingunni.

Jafnan A=A fjallar um jafngildi. Hún kallar A ekki það sama. Þannig felur ríkjandi jafngildisformúla einmitt það sem reglan vildi segja: að A sé A, það er að segja að sérhvert A sé sjálft það sama (jedes A ist selber dasselbe).

Þegar við umritum Samsemdina (das Identische) með þessum hætti má heyra fornt orð hljóma, sem Platon notaði til að skýra samsemdina, orð sem vísar í enn fornara orðalag. Í Sófistanum (254d) talar Platon um στασιϛ (stasis) og κίνησιϛ (kinesis), um kyrrstöðu og umskipti. Í þessu tilfelli lætur hann útlendinginn segja: ονκον αύτών έκαστον τοϊνν μεν δυοϊν ετερόν εστιν, αυτό δ‘εαυτώ αυτόν. (Oukoun auton hekaston toin men duoin heteron estin, auto d‘heauto tauton.):

„Nú er ljóst, sagði hann, að sérhver þessara tveggja er annar, en sjálfur er hann sá sami“.

Platon lætur sér ekki nægja að segja „έκαστον αυτό ταυτό“ (hekaston auto tauton) eða „sérhver sjálfur hinn sami)“,  heldur „έκαστον έαυτό ταυτό“ (hekaston heauto tauton) eða sérhver í sjálfum sér hinn sami). Þágufallsmyndin „heauto“ merkir: sérhvert eitthvað sjálft stendur fyrir sjálft sig – er nákvæmlega fyrir sjálft sig og með sér sjálfu. Rétt eins og grískan hefur þýsk tunga þann kost að skýra Samsemdina (das Identische) með sama orðinu en í ólíklum beygingarmyndum.

Hæfasta jafnan fyrir samsemdarregluna, A er A, segir því ekki aðeins: sérhvert A er sjálft það sjálft, hún segir einnig: með sjálfu sér er sérhvert A sjálft það sama. Í samsemdinni eru innifalin þessi „með“-tengsl, það er að segja samtenging, eins konar samband eða niðurstaða (Synthesis): Eining í sameiningu. (Die Einung in eine Einheit).

Af þessu leiðir sú staðreynd að í sögu vestrænnar hugsunar hefur Samsemdin (das Identität) einkenni sameiningar. En þessi eining er engan veginn það litlausa tóm þess sem dvelur sambandslaust í sínum eiginleika (einem Einerlei). En vesturlensk hugsun þurfti meira en tvö þúsund ár til að koma auga á að þetta samband, sem endurómar snemma sem ríkjandi samband hins sama með sjálfu sér innan Samsemdarinnar (Identität), þar sem það hefur hlotið varanlegt skjól í fastmótuðu formi slíkrar tengingar (Vermittlung).

Það var fyrst með heimspeki hughyggjunnar (des spekulatven Idealismus) sem Leibniz og Kant lögðu grunninn – og síðan í gegnum Fichte, Schelling og Hegel – þar sem fundin var undirstaða (Unterkunft) fyrir hið samþætta (synthetischen) eðli Samsemdarinnar. Þessai undirstöðu verður ekki lýst hér. Aðeins eitt verður hins vegar að hafa í huga: frá og með hughyggjunni (spekulativen Idealismus) verður þeirri hugsun andmælt, að hægt sé að sýna  einingu Samsemdarinnar sem einskæran eiginleika (blosse Einerlei) og að hægt sé að horfa út frá einingu ríkjandi tengsla (Vermittelung). Þar sem slíkt gerist er Samsemdin einingus sýnd með sértækum (abstrakt) hætti.

Einnig í betrumbættu formúlunni „A er A“ sjáum við eingöngu mynd hinnar sértæku (abstrakte) Samsemdar. Er það í raun og veru þannig? Segir Samsemdarreglan eitthvað um Samsemdina? Nei, alla vega ekki beint út. Öllu heldur gengur Samsemdarreglan út frá fyrir fram gefinni merkingu Samsemdarinnar, og hverju hún tilheyri. Hvernig getum við skilið betur þessa gefnu forsendu?

Við náum utan um reglu Samsemdarinnar ef við hlustum af athygli á grunntón hennar, og hugleiðum hann, í stað þess að endurtaka kæruleysislega formúluna „A=A“. Í raun og veru hljóðar hún svona: A er A. Hvað heyrum við? Með þessu „er“ segir reglan okkur hvernig sérhver vera (Seiende) er, nefnilega: hún sjálf, með sjálfri sér hið sama.

Samsemdarreglan talar um veru verunnar (Sein des Seienden). Sem lögmál (Gesetz) hugsunar er reglan (der Satz) einungis gild að því tilskyldu að hún sé lögmál verunnar (Gesetz des Seins), en hún segir okkur að sérhverri veru sem slíkri tilheyri Samsemd, eining með  sjálfri sér.

Það sem Samsemdarreglan segir okkur á grundvelli grunnhljómsins, eins og hann er sagður, er nákvæmlega það sem hin samanlagða hugsun hinna evrópsku  landa sólsetursins hugsar, nefnilega þetta: Eining Samsemdarinnar myndar grundvallarþátt í veru verundarinnar. Hvar sem er og hvernig sem við mætum verunni, hver svo sem hún kann að vera, þá stöndum við frammi fyrir ávarpi Samsemdarinnar. Ef slíkt ávarp er þögult gæti veran ekki birst i verund sinni. Þar af leiðandi væri heldur ekki um nein vísindi að ræða. Þá væri þeim ekki fyrirfram tryggð samsemd viðfangs þeirra, og vísindin gætu því ekki verið það sem þau eru. Með þessari baktryggingu gera vísindin vinnu sína mögulega. Engu að síður er höfuð-framsetning Samsemdar viðfangs vísindanna aldrei áþreifanleg nytsemd fyrir vísindin. Þess vegna byggir árangur og frjósemi vísindalegrar þekkingar fyrst og fremst á einhverju gagnslausu. Ákall samsemdar viðfangsins talar, hvort sem vísindin leggja við hlustir eða ekki, láta hið heyrða sem vind um eyru þjóta, eða láta það trufla sig.

Ákall Samsemdarinnar talar úr verund verunnar. En þegar það gerist í fyrsta skipti að vera verundarinnar (Sein des Seienden) nái með tjáningarfullum hætti inn í tungumál vestrænnar hugsunar, það er að segja hjá Parmenídesi, þá talar τό αυτό (to auto), eða „hið sama“, með næstum yfirdrifinni áherslu. Ein setning Parmenídesar hljóðar svona:

Τό γάρ αύτό νοεϊν έστϊν τε καί εϊναι – (to gar auto noein estin te kai einai)

„Hið sama er reyndar bæði skynjun (hugsun) og vera“.

Hér er tvennt ólíkt – „hugsun og vera“ – hugsað sem hið sama. Hvað merkir þetta? Eitthvað allt annað í samanburði við þá kenningu frumspekinnar sem við þekkjum, nefnilega að Samsemdin tilheyri verunni.

Parmenídes segir: veran tilheyrir samsemd. En hvað merkir samsemd í þessu samhengi? Hvað merkir orðið „to auto“ – hið sama hjá aparmenídesi? Hann gefur okkur ekkert svar við þessari spurningu. Hann leggur fyrir okkur ráðgátu sem við getum ekki hlaupist undan. Við verðum að viðurkenna að í frumbernsku hugsunarinnar, löngu áður en Samsemdarreglan kom til sögunnar, er það samsemdin sjálf sem talar, og einmitt í setningu sem staðfestir:  hugsun og vera eru eitt í hinu sama og á grundvelli hins sama.

Allt í einu höfum við nú túlkað to auto /hið sama. Við túlkum  einsleikann (die Selbigkeit) sem það sem heyrir saman (Zusammenhörigkeit). Nærtækt er að hugsa þessa samstæðu (Zusammenhörigkeit) sem það er síðar var almennt þekkt sem Samsemd (Identität).

Hvað skyldi koma í veg fyrir þá ályktun? Ekkert minna en sjálf reglan (Satz) sem við lesum í Parmenídesi. Hann segir einmitt nokkuð annað, það er að segja að veran tilheyri -ásamt með hugsuninni – hinu sama. Á grundvelli tiltekinnar Samsemdar er veran skilgreind sem einkenni (Zug) þessarar Samsemdar. Sú Samsemd sem síðar var hugsuð af frumspekinni, er þvert á móti skilin sem einkenni verunnar (Zug im Sein vorgestellt). Því getum við ekki skilgreint þá Samsemd sem Parmenídes talar um á grundvelli þessarar framsetningar frumspekinnar á Samsemdinni.

Sú samkvæmni (Selbigkeit) hugsunar og veru sem kenning Parmenídesar fjallar um á sér eldri rætur en sú Samsemd sem frumspekin skilgreinir sem einkenni (Zug) verunnar (Sein).

Leiðandi hugtak í kenningu Parmenídesar, „to auto“ eða „hið sama“, er okkur óljóst. Við skiljum við það í myrkrinu. En um leið játum við að sú kenning þar sem þetta orð er upphaflega nefnt, feli í sér skilaboð.

Í millitíðinni höfum við hins vegar fyrir fram gengið út frá því að samkvæmni (Selbigkeit) hugsunar og veru sé staðfest í samstæðu (Zusammengehörigkeit) beggja. Við höfum þar með sýnt fljótfærni, ef til vill af nauðsyn. Við verðum því að endurskoða þessa fljótfærni. Það getum við líka gert, ef við höldum ekki fast við að þessi tiltekna samstæða feli í sér endanlega túlkun, eða einnig að hún sé hin eina og endanlega túlkun á sameðli (Selbigkeit) hugsunar og veru.

Ef við hugsum samstæðuna (Zusammengehören =að heyra saman) með hefðbundnum hætti, þá sjáum við, rétt eins og áherslan í hugtakinu „að heyra saman“ (gehören) gefur til kynna, að merking þess að tilheyra (Sinn des Gehörens vom Zusammen) gengur út frá einingu. Í þessu tilfelli merkir „gehören“ (að tilheyra) það að vera innritaður og fastskipaður (zugeordnet und eingeordnet) innan reglu tiltekinnar samstæðu, innsettur í einingu tiltekins margfeldis, innritaður (zusammengestellt) í einingu kerfisins, sem miðlað er í gegnum sameinandi miðju tiltekins reglubindandi samruna (Synthesis). Heimspekin skilgreinir þessa aðild sem nexus og connexio (tengipunkt og samtengingu), eða sem hin nauðsynlegu sambandstengsl eins við annað.

Hins vegar er einnig hægt að hugsa þetta „Zusammengehören“ sem „Zusammen-gehören“. Það merkir: samveran (das Zusammen) ákvarðast hér af „Gehören“ (tilheyra). Hér mætir okkur sú spurning hvaða merkingu beri að leggja í það að „tilheyra“. Og hvernig hægt sé einungis á þeim grundvelli að ákveða þá sameiningu sem í því felst. Svarið við þessari spurningu er nærtækara en vænta mætti, en þó ekki handfast.

þökk sé þessari ábendingu, þá nægir okkur hér, ef við hugleiðum þann möguleika að hugsa það að tilheyra ekki lengur út frá einingu samstæðunnar (Einheit des Zusammen), að hugsa þessa samstæðu út frá reynslu þess að tilheyra. En er það ekki svo, að þessi möguleiki sýni sig að vera hreinn innantómur orðaleikur, sem uppdiktar eitthvað er eigi sér enga stoð í veruleikanum?

Þannig lítur það út, þar til við höfum beitt nánari athugun og látið vandann tala sínu máli.

Tilhugsunin um að tilheyra í skilningi „Zusammengehören“ (bókstaflega: sam-tilheyra) er sprottin af tilteknum aðstæðum, sem þegar hafa verið nefndar og auðvelt er að missa sjónar af, vegna þess hve augljósar þær eru. En þessar aðstæður verða okkur strax nærtækar ef við skoðum eftirfarandi: Með því að skilgreina Zusammengehören sem Zusammengehören eftir skilaboðin frá Parmenídasi, höfðum við þegar bæði hugsunina og veruna í huga, það er að segja það sem á sér í sjálfu sér gagnkvæma samstæðu (zueinandergehört).

Ef við leggjum þann skilning í hugsunina, að hún sé það sem einkennir manninn, þá öðlumst við samvitund um Zusammengehören (sameiginlega aðild) sem varðar manninn og veruna. Umsvifalaust mætum við spurningunni: Hvað merkir veran (Sein)? Hver, eða hvað, er manneskjan? Öllum má vera ljóst að án viðunandi svara við þessum spurningum missum við fótfestuna, grunninn sem sérhver trúverðug hugsun um Zusammengehören (sam-band) manns og veru hlýtur að byggja á. En á meðan við spyrjum spurninga af þessu tagi erum við fangar þeirrar tilraunar að líta á einingu manns og veru sem samstillingu er kalli á skilgreiningu, annað hvort út frá manninum eða verunni. Þar með verða hin eftirlátnu og hefðbundnu hugtök um Manninn og Veruna (Sein) forsenda flokkunar og  aðgreiningar hvorutveggja.

Hvað myndi gerast ef við hættum að einblína á samstillingu  (Zusammenordnung) manns og veru í því skyni að finna einingu þeirra, en hugleiddum þess í stað hvort og hvernig þessi samtvinna gæti falist fyrst og fremst í  gagnkvæmri aðild (ein Zu-einander-Gehören)?

Það er einmitt nú sem við sjáum þann möguleika að skynja, þó ekki nema úr fjarlægð,  samhengi (Zusammengehören) manns og veru út frá hefðbundnum skilningi á eðli þeirra en þó einungis úr fjarlægð. Úr hvaða fjarlægð?

Maðurinn er augljóslega tiltekin verund (etwas Seiendes). Sem slík deilir hann heild verunnar með steininum, tréinu og erninum. Hér merkir það að tilheyra að vera innstilltur (eingeordnet) í veruna. En það sem einkennir manninn felst í þeirri staðreynd að sem hugsandi vera, sem er opinn gagnvart verunni, er hann innsettur (gestellt) í veruna, leiddur (bezogen) af henni og samsvarar (entspricht) henni. Maðurinn er í raun og veru  þessi samsvörun (Bezug der Entsprechung), og hann er aðeins þetta. „Aðeins“ er hér engin lítillækkun, heldur ofgnótt. Í manninum  ríkir aðild (Gehören) að verunni, aðild sem tilheyrir verunni, því honum hefur verið trúað fyrir henni.

Og veran? Hugsum við veruna samkvæmt upphaflegri merkingu hennar sem nærveru (Anwesen)? Veran er hvorki tilfallandi í manninum né í undantekningunni. Veran dvelur og varir í manninum aðeins að því marki sem hún með tilkalli sínu kemur manninum við (angeht). Hún er þá fyrst til staðar sem nærvera (Anwesen) í manninum, þegar hann er opinn gagnvart verunni. Slík vera, sem er greinilega til staðar, hefur þörf fyrir opnun upplýsingar, og það er í gegnum þessa þörf sem hún er mannverunni gefin. Þetta merkir hins vegar engan veginn að veran eigi sér eingöngu stað fyrir tilstilli mannsins. Þvert á móti blasir við:

Maðurinn og veran eru hvort öðru falin,  þau tilheyra hvort öðru. Frá upphafi hafa Maðurinn og veran án frekari umhugsunar um þetta gagnkvæma samhengi  tekist á við  (empfangen) þessar sömu eðlislægu reglur (Wesenbestimmungen) sem þau hafa öðlast frumspekilegan skilning á í gegnum heimspekina.

Þessu ríkjandi sambýli manns og veru er ákaft hafnað (verkennen) af okkur, svo lengi sem við takmörkum okkur við að skilja alla hluti innan regluverka og miðlunar, hvort sem er með eða án díalektíkur. Við finnum þá einungis tengingar  sem eru annað hvort fastbundnar verunni eða manninum og túlka samhengi manns og veru ávallt sem samfléttu.

Við erum því alls ekki á leiðinni í þessa sambúð (Zusammengehören). Hvernig finna menn leiðina inn í  slíka einhendingu (Einkehr)? Það gerum við með því að hafna hugsun framsetningarinnar (des vorstellenden Denkens)[i].

Þessi höfnun er setning sem felur í sér stökk. Hún felur í sér stökk frá þeirri viðteknu reglu, að líta á manninn sem rökhugsandi dýr, sem í samtímanum er orðið að frumlagi (Subjekt) gagnvart viðföngum (Objekte) sínum. Stökkið felur líka í sér brotthvarf frá verunni (Sein). Allt frá frumbernsku vestrænnar hugsunar hefur veran hins vegar verið hugsuð sem sá grundvöllur sem er forsenda sérhverrar veru  sem  verund (jeded Seiendes als Seiendes)[ii].

Hvert stefnir stökkið sem stekkur frá grundvellinum? Er það kannski stökk ofan í hyldýpið?

Já, jafn lengi og við sjáum einungis fyrir okkur stökkið innan jafngildisreglu hinnar frumspekilegu hugsunar. Hins vegar er svarið nei, ef við stökkvum og gefum okkur lausan tauminn. Hvert? Þangað sem við erum þegar komin, það er að segja tilheyrandi verunni (Sein). Veran tilheyrir okkur reyndar, því einungis hjá okkur getur hún verið, það er að segja sem nærvera (Anwesen)[iii].

Þannig reynist óhjákvæmilegt að taka stökk, vilji maður reyna sambýli (Zusammengehören) manns og veru á eigin skinni. Þetta stökk er hin fyrirvaralausa (das Jähe) og óafturkræfa einstefna inn í þessa sam-veru (Gehören) sem veitir manninnum loks möguleika þeirrar einingar (Zueinander) manns og veru, og þar með möguleika á samstillingu beggja þátta. Stökkið er þessi skyndilega (Jähe) innganga inn á sviðið, þar sem maður og vera hafa þegar í eðli sínu fundið hvort annað í krafti gagnkvæmrar nálgunar. Inngangan inn á svið þessarar ofureiningar (Übereinigung) samstillir og ákvarðar þá fyrst reynslu hugsunarinnar.

Þetta er undarlegt stökk, sem væntanlega mun færa okkur þann skilning, að við stöldrum ekki nægilega við þar sem við erum í raun og veru stödd. Hvar erum við stödd? Í hvaða samstillingu (Konstellation) veru og manns?

Svo virðist sem ekki sé lengur til staðar sú þörf, sem við höfðum  á árum áður, fyrir nákvæmar leiðbeiningar til þess að koma auga á samstillinguna sem varðar manninn og veruna. Ætla mætti að núna myndi það nægja að nefna orðið Atómöld til að upplifa hvernig veran birtist okkur í kjarna sínum á okkar tímum, í heimi tækninnar. En eigum við þá einfaldlega að setja sama-sem-merki á milli tækninnar og verunnar? Nei, augljóslega ekki. Ekki nema við lítum þannig á (Vorstellen) þennan heim í heild sinni, að kjarnorkan, hin útreiknaða skipulagning manneskjunnar og sjálfvirknin, séu kjarni þessa heims. Hvers vegna leyfir slík sýn á hinn tæknivædda heim, hversu ítarlega sem hún er útfærð, hvers vegna leyfir hún okkur engan veginn að sjá samstillingu veru og manns?

Það er vegna þess að sérhver greining aðstæðna er of skammsýn, þar sem sú heildarsýn á tækniheiminn sem nú er fyrir fram gengið út frá, hvílir á grundvelli mannsins, og er séð sem sköpunarverk hans. Tækniheimurinn, séður í sínum víðasta skilningi og í sínum margbreytilegu birtingarmyndum, er meðtekinn sem sú áætlun mannsins er þvingi hann til að ákveða, hvort hann vilji verða þræll eða herra eigin áætlunar.

Með þessari sýn (Vorstellung) á heildarmynd tækniheimsins er allt smættað niður í manninn, nokkuð sem,  þegar til kastanna kemur, kallar á að siðfræði tækniheimsins verði meðtekin. Þar sem maðurinn er heltekinn af þessari sýn, styrkir hann sjálfan sig í þeirri trú, að tæknin sé einungis vandamál er snúi að manninum. Ekki er hlustað á kall verunnar sem talar inn í eðli tækniheimsins.

Einsetum okkur nú, í eitt skipti fyrir öll, að hætta að horfa á (vorzustellen) tæknina einungis sem tæknilegt fyrirbæri, það er að segja það sem tilheyri manninum og vélum hans. Virðum það ákall sem í okkar samtíma tilheyrir ekki eingöngu manninum, heldur kemur frá allri veru (Seiende), náttúru og sögu. Hvaða ákall (Anspruch) er hér um að ræða? Gjörvallri tilveru okkar er nú ögrað úr öllum áttum – stundum í leikaraskap, stundum með ofríki, stundum með æsingi (gehetzt), stundum með nauðung – okkur er tilskipað að gangast undir útreikninga og áætlunargerð allra hluta. Hvað er það sem talar í þessari ögrun? Er hún kannski sprottin af persónulegum duttlungum mannsins? Eða er hún hugsanlega tilkomin af sjálfri verunni, með þeim hætti að hún kalli okkur til síns útreiknanleika og sinnar skipulagsbærni? Er jafnvel sjálf veran þá undirsett ögruninni, að verundinni (das Seiende) sé skipað í sæti innan sjóndeildarhrings reiknanleikans? Þannig er það í raun og veru. Ekki bara það. Í sama mæli og verunni er ögrað, gerist það sama með manninn, það er að segja að hann er innstilltur[iv] (gestellt), í þeim tilgangi að tryggja verund (Seiende) hans og sem auðlind og forðabúr (Bestand) áætlanagerða hans og útreikninga og tryggja nýtingu (Bestellen) hennar um ófyrirsjáanlega framtíð.

Nafnið á þessari samsetningu (Versammlung) ögrunarinnar, sem samstillir veru og mann með þessum hætti, hljómar sem „Ge-Stell“ (möguleg bókstafleg íslensk þýðing: „inn-stilling“ eða „sam-stilling“). Menn hafa brugðist hart við þessari orðanotkun.  En í stað þess að segja „stellen“ (stilla) hafa menn notað „setzen“ (setja), án nokkurra athugasemda, þegar fjallað er um „Gesetz“ (lögfræðilega tilskipun eða lagasetningu). Hvers vegna má þá ekki nota orðið „Gestell“ ef horfa þarf á ríkjandi aðstæður?

Sama á við þegar fjallað er um hvernig maðurinn og veran varða hvort annað innan heims tækninnar. Þá erum við að fjalla um virkni inn-stillingarinnar (Ge-stell). Með því að höfða með gagnkvæmum hætti til mannsins og verunnar, heyrum við ákallið sem ákvarðar heildarsamstillingu (die Konstellation) okkar samtíma. Inn-stillingin snertir okkur umsvifalaust. Að því gefnu að slík umfjöllun sé leyfileg nú á tímum, þá getum við sagt að innstillingin sé okkur nákomnari (seiender) en öll kjarnorkan og öll vélvæðingin, nákomnari en öll skipulagningaráráttan, upplýsingaáráttan og sjálfvirkniáráttan. Þar sem merking þess sem við köllum Gestell (innstilling) er ekki sjáanleg innan sjóndeildarhrings hinnar fyrirstillandi hugsunar (des Vorstellens) þegar við íhugum veru verundarinnar (das Sein des Seiendes) sem nærveru (Anwesen)  – þá kemur „inn-stillingin“ okkur ekki lengur við sem eitthvað nákomið (Anwesendes) og þess vegna er það (das Getstell) okkur framandlegt. Innstillingin verður okkur framandleg vegna þess að hún er ekki það nýjasta, heldur færir hún okkur í fang það sem hefur fyrst náð algjöru valdi yfir samstillingu veru og manns.

Samvera (Zusammengehören) manns og veru í gegnum gagnvirkan ögrunarmáta færir okkur óþægilega nær því, hvernig maðurinn er ofurseldur (vereignet) verunni, en veran hins vegar tileinkuð (zugeeignet) manninum. Í ísetningunni ríkir einkennilegt afsal og tileinkun. Það gildir um þetta eignarhald, þar sem maður og vera eru eignuð hvort öðru, að það feli í sér reynslu, það er að segja að ganga inn í það sem við köllum „Ereignis“ (atburður-reynsla). Orðið Ereignis er myndað úr þróaðri þýsku. Orðið „Ereignen“ var upprunalega „er-äugen, það er að segja „að koma auga á“, síðan „aneignen“, það er að segja „eigna sér“ eða til-einka sér.

Samkvæmt því sem hér hefur verið sagt á orðið „Ereignis“ (atburður) héðan í frá að verða leiðandi orð í þjónustu hugsunarinnar. Þar sem orðið er þannig hugsað sem leiðandi hugtak, er ekki hægt að þýða það. Ekki frekar en gríska leiðsagnarorðið λόϒος (logos) og hið kínverska „Tao“.

Orðið Ereignis merkir hér ekki lengur það sem við skiljum í daglegu tali sem hvers kyns atvik, tiltekinn hlut sem gerist. Héðan í frá er orðið notað sem singulare tantum (einstak). Merking þess á sér stað (ereignet sich) einungis í eintölu (Einzahl), nei, ekki einu sinni lengur sem Zahl (tala), heldur sem (ein)stak (einzig).

Það sem við upplifum í gegnum hina nútímalegu tækniveröld sem samstillingu veru og manns er forleikur þess sem Ereignis merkir.[v] Þetta þýðir þó ekki að við þurfum nauðsynlega að festast í forleiknum. Í Ereignis talar sá möguleiki að hann umbreyti hinni hreinu yfirdrottnun innstillingarinnar (Gestell) í upprunalegt „Ereignen“ (atviksreynslu-uppákomu).

Slíkur umsnúningur á ísetningunni (Ge-stell) út frá Ereignis, fæli í sér brot á hinu atvikstengda,(ereignishafte) -nokkuð sem manðurinn einn gæti aldrei gert – en það fæli í sér afnám ofríkis tækniheimsins og umbreytingu þess í þjónustuhlutverk innan þess sviðs sem veitir manninum eiginlegan aðgang að atviks-reynslunni (Ereignis).

[ þessi setning er mikilvæg en erfið í þýðingu: Eine solche Verwindung des Ge-Stells aus dem Ereignis in dieses brachte die eireignishafte , also niemals von Menschen allein machbare, Zurucknahme der technischen Welt aus ihrer Herrschaft zur Dienstschaft innerhalb des Bereiches, durch den der Mensch eigentlicher in das Ereignis reicht.]

Hvert hefur þessi vegferð leitt okkur?

Hún hefur leitt okkur að inngöngu hugsunar okkar í þetta einfalda, sem við köllum Ereignis í ströngustu merkingu þessa orðs. Svo virðist sem við höfum ratað í þá hættu að hafa, af fullkomnu kæruleysi, leitt hugsun okkar í eitthvað almennt og fjarrænt, á meðan það sem orðið Ereignis (atburðs-reynsla/uppákoma) vildi segja, er aðeins hin mesta nálægð þessarar bráðu nándar sem við erum þegar stödd í. Því hvað gæti staðið okkur nær en það sem lætur okkur nálgast það sem okkur tilheyrir, þar sem við verðum hlutaðeigandi (Gehörende),  das Ereignis (uppákoman)?

Atviks-reynslan (Ereignis) er í sjálfri sér sveiflukennt svið, þar sem maður og vera ná hvoru öðru í eðli sínu, ná tökum á eðlislægri veru (Wesendes) sinni, þar sem þau létta af sér öllum þeim skilgreiningum sem frumspekin hefur lagt á þau.

Að hugsa atviks-reynsluna sem Ereignis felur í sér uppbyggilegt framlag til byggingar á þessu sveiflukennda sviði. Efniviðinn í þessa svífandi byggingu sækir hugsunin í tungumálið, endurómur þess er það mýksta en einnig það viðkvæmasta og jafnframt burðugasta í svífandi byggingu atviks-reynslunnar (Ereignis). Að því marki sem eðli okkar er yfirfært á (vereignet) á tungumálið búum við í Ereignis (atviks-reynslunni).

Við höfum nú hafnað á þeim stað á vegferð okkar þar sem hin grófa en óhjákvæmilega spurning vaknar: hvað hefur atviks-reynslan (Ereignis) með Samsemd (Identität) að gera?

Svar: ekkert.

Hins vegar deilir Samsemdin mörgu, ef ekki öllu, með atviks-reynslunni. Hvernig má það vera? Svar okkar felst að snúa nokkur skref til baka til þess sem áður var sagt.

Atviks-reynslan (der Ereignis) felur í sér gagnkvæma sameignun (vereignen) manns og veru í eðlislægri  samveru þeirra. Fyrsta og áhrifamesta ljósblossa atviks-reynslunnar sjáum við í inn-stillingunni (Ge-stell). Hann felur í sér kjarna tækniheims nútímans. Í inn-stillingunni sjáum við hvernig vera og maður tilheyra hvort öðru, þar sem virkni þess að tilheyra ákvarðar gerð „samverunnar“ og einingu hennar. Samfylgdin inn í spurninguna um að tilheyra sameiginlega (Zusammengehören), þar sem það að tilheyra hefur forgang fram yfir hið sameiginlega (zusammen), leiddi okkur að setningu Parmenídesar: „Hið sama er einmitt að hugsa jafnt og að vera“.

Spurningin um merkingu þessa sama er spurningin um eðli Samsemdarinnar (Identität). Kennisetning frumspekinnar segir okkur að Samsemdin sé megineinkenni verunnar. Nú kemur hins vegar í ljós að veran og hugsunin tilheyra bæði tiltekinni samsemd, sem á rætur að rekja í þessari tegund sameiginlegrar tilheyrnar (Zusammengehörenlassen) sem við köllum atviks-reynslu (Ereignis). Eðli Samsemdar er eiginleiki atviks-reynslunnar (Ereignis).

Ef svo færi að við fyndum eitthvað handfast í tilraun okkar til að vísa hugsuninni á stað eðlisuppruna Samsemdarinnar, hvað væri þá orðið af yfirskrift fyrirlestrar okkar? Merking yfirskriftarinnar Regla Samsemdarinnar (Der Satz der Identität) hefði tekið breytingu.

Orðið Satz (regla) gefur sig nánast fram í formi grundvallarreglu, þar sem gengið er út frá því að Samsemdin sé eitt af einkennum verunnar (Sein), það er að segja grundvalkareinkenni verundarinnar (Seienden). Þessi regla í skilningi fullyrðingar, hefur á vegferð okkar umbreyst í reglu í formi stökks, sem verður viðskila við veruna  (Sein) sem grundvöllur verundarinnar (Seienden), og hafnar þannig í hyldýpinu. Þetta hyldýpi reynist þó hvorki hið innihaldslausa tóm, né hið formyrkvaða villuráf, heldur: das Ereignis (atviks-reynslan). Í das Ereignis sveiflast eðli þess sem eitt sinn var kallað heimili verunnar, en það er tal tungumálsins. Satz verunnar segir nú: Stökk sem eðli Samsemdarinnar kallar eftir, fyrir brýna þörf, ef sameiginleg aðild (Zusammengehören) manns og veru á að takast í eðlslægu ljósi des Ereignis (atviks-reynslunnar).

Vegferðin frá reglunni sem fullyrðing um Samsemdina  til reglunnar sem stökk til eðlisuppruna Samsemdarinnar hefur umbreytt hugsuninni. Þegar horft er til samtímans, þá finnum við hér ástæðu þess að við sjáum, handan aðstæðna mannsins, samstillingu veru og manns á grundvelli þess sem umfram allt tengir þau saman í gagnkvæmu eignarhaldi, það er að segja der Ereignis (atviks-reynslan).

Að því gefnu að okkar bíði sú framtíð, að innstillingin (das Gestell) tali til okkar sem Ereignis – í gagnvirkri ögrun (Herausforderung) manns og veru innan útreiknings hins reiknanlega – að manneskjan og veran í eiginleika sínum fremji sitt eignarafsal (enteignet), þá væri leiðin opin og frjáls, þar sem manneskjan fengi í fyrsta skipti að reyna verundina, heild nútíma tækniheims, náttúruna og söguna, og þá fyrst og fremst veru þessa í heild sinni.

Svo lengi sem umhugsunin um heiminn á tímum kjarnorkunnar, og öll ábyrgðin sem henni fylgir, takmarkar sig einungis við það friðþægjandi markmið sem felst í friðsamlegri notkun kjarnorkunnar, þá er hugsunin hér komin hálfa leið. Á forsendu þessarar hálfnuðu vegferðar hefur tækniheimurinn  tryggt enn frekar sína frumspekilegu yfirdrottnun.

En hvar hefur sú ákvörðun verið tekin, að náttúran sem slík skuli um alla framtíð vera náttúra nútíma eðlisfræði, og að sagan skuli birtast einungis sem viðfang sagnaritunarinnar? Það er rétt, að við getum ekki hafnað núverandi tækniheimi eins og hann væri djöfullegur tilbúningur, og okkur leyfist heldur ekki að eyðileggja hann, að því gefnu að hann geri það ekki af sjálfsdáðum.

Enn síður skyldum við hins vegar aðhyllast þá skoðun að tækniheimurinn sé þess eðlis að í honum felist fullkomin vörn. Þessi skoðun lítur á það allra nýjasta (das Aktuelle), sem hún er heltekin af, sem hinn eina sanna raunveruleika. Þessi skoðun felur í sér  hreina draumóra, og því alls enga framtíðarsýn (Vordenken) þeirra er sjá fyrir sér hvatningu (Zuspruch) í eðli komandi Samsemdar manns og veru.

Hugsunin þurfti meira en tvö þúsund ár til að skilja eiginlega (eigens) jafn einfalt samband og þá miðlun sem á sér stað innan Samsemdarinnar. Eigum  við þá að halda því fram, að hið hugsandi inngrip í eðlisuppruna Samsemdarinnar geti raungerst á einum degi? Þessi innkoma kallar á stökk, og einmitt af þeirri ástæðu kallar hún á sinn tíma. Það er tími umhugsunarinnar, sem er annar en tími útreikningsins, sem á okkar tímum hvílir eins og lamandi ok á hugsuninni. Í dag höfum við „hugsunarvélar“ er reikna á einni sekúndu þúsundir af jöfnum, sem þrátt fyrir tæknilega nytsemd sína eru þýðingarlausar.

Hvað eina sem við reynum að hugsa og hvernig sem við gerum það, þá hugsum við á leikvangi arfleifðarinnar. Það er hún sem ræður, þegar hún frelsar okkur í gegnum hugleiðsluna frá eftirþanka (Nachdenken) til forsjálni (Vordenken) sem felur ekki lengur í sér neina áætlanagerð.

Einungis þegar við beinum hugsun okkar að því sem áður var hugsað verður hugsun beint að því sem enn er óhugsað.

(Erst wenn wir uns denkend dem schon Gedachten zuwenden, werden wir verwendet fur das noch zu Denkende.)

(Forsíðumyndin er samklippa eftir Erro frá 1958 ásamt kápumynd ítölsku útgáfunnar á þessari ritgerð. Þýska textann fann ég á netinu.)

:::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::

[i] „Vorstellenden Denken“ er vandþýtt hugtak sem erfitt er að finna samsvarandi orð fyrir á íslensku. Í ítalskri þýðingu Giovanni Gurisatti er þetta þýtt sem „Pensiero rappresentativo“ og væri vafalaust þýtt sem „representative thinking“ á ensku. Það leysir ekki íslenska þýðingarvandann, en orðið „Vorstellung“ er meðal annars „sýning“ á íslensku, en bókstaflega merkingin er „fram-setning“ eða jafnvel „fyrir-stilling“, sem hefur hins vegar aðra og neikvæðari merkingu á íslensku: „hvað á þetta að fyrirstilla?“ Þessi íslenska orðmynd rímar reyndar skemmtilega við gagnrýni Heideggers á „fyrirstillandi hugsun“, en gengur þó trúlega of langt í hlutdrægni sinni. Endanlega merkir Vorstellende Denken hjá Heidegger þá hugsun frumspekinnar sem hefur fyrir fram gefna forsendu í niðurstöðu sinni.

[ii] Seiende er lýsingarháttur nútíðar af sögninni sein, sem merkir að vera. Á íslensku væri bein þýðing „verandi“. Seiende getur hins vegar haft margræða merkingu á þýsku, bæði sem háttur sagnar og nafnorð, ekki síst í meðförum Heideggers, sem hefur gert „veruna“ að sínu mikilvægasta heimspekilega viðfangsefni. Sú þýðing sem hér er notuð er ekki nákvæm, og sjálfsagt umdeilanleg.

[iii] Anwesen merkir hjá Heidegger að vera til staðar, andstætt við Abwesen, sem merkir að vera fjarverandi. Hugtakið hefur þannig með beina virkni að gera. Þriðja afleidda myndin af Wesen getur verið Vorwesen, sem merkir að vera rotnaður eða „fordjarfaður“. Sem nafnorð getur Anwesen einnig þýtt landareign eða staðareign. Í daglegu sveitamáli stundum kallað „eignin“.

[iv] Heidegger notar hér sögnina gestellen, sem við getum þýtt sem „að innstilla“ eða „setja í“, en þetta orð er hér notað með vísun í nafnorðið „Gestell“, sem er lykilorð (og nýyrði) Heideggers í allri umfjöllun hans um tæknina. Orðið felur í sér að tæknin, sem í hefðbundinni þýsku er „Technik“, sé ekki bara hlutlaust fyrirbæri, heldur feli það í sér „inn-stillingu“ er varði veru mannsins og allrar annarrar veru í heiminum, þeim heimi sem maðurinn hefur gert að „viðfangi“ sínu. Sögnina notar Heidegger hér til að skýra í framhaldinu merkingu lykilhugtaks hans: Gestell. Þýðing þess á íslensku verður aldrei nákvæm án skýringar: innsetning, ísetning, innstilling, samstilling o.s.frv. Heidegger hefur rétt fyrir sér að þetta erorð sem ekki er hægt að þýða, ekki frekar en „Ereignis“.

[v] Ef svíkja ætti Heidegger með því að reyna að þýða „Ereignis“ þá er um að ræða atburð sem er eiginleg upplifun eða einstaklingsbundin reynsla („atviks-reynsla“) sem hefur með hugtökin „eign“ og „eiginlegur“ að gera. Atburður þar sem maður og vera eru eitt. „Uppákoma“. Hugtaksleg og merkingarfræðileg tengsl má finna við orðið Erfahrung=upplifun, reynsla.

 

CARLO SINI UM TÆKNI OG OFBELDI

TÆKNIN SEM MEÐAL,TRÚARBRÖGÐ EÐA ÓGN
Sú þýðing á grein Carlo Sini um tækni og ofbeldi sem hér er birt, er eins konar framhald nýlegrar færslu um Sini og merkingarfræði Heideggers, þar sem vitnað var til greinar Heideggers um tæknina frá 1953. Þessi grein Sini birtist fyrst 1982, á þeim tíma á Ítalíu sem kenndur var við „ár blýsins“, þar sem hryðjuverkahópar öfgamanna til hægri og vinstri fóru með báli og brandi um samfélagið. Ritgerðin var endurútgefin í safnritaflokknum Opere 2021. Þótt það ástand sem ríkti 1982 hafi í sjálfu sér verið ærið tilefni skrifa sem þessara, þá er það ekki meginefnið, heldur má segja að Sini hafi hér tekið Heidegger á orðinu um að eðli tækninnar væri ekki tæknilegs eðlis, heldur kallaði það á nýja hugsun. Hugsun sem endurspeglaðist í máltilraunum Heideggers í þeirri viðleitni hans að yfirstíga tungutak frumspekinnar. Það voru tilraunir sem skiluðu vart tilætluðum árangri og kölluðu á nýja nálgun.

Sú nýja hugsun sem Sini beitir hér til greiningar á vandanum um tæknina og ofbeldið snýst ekki um tíðindi dagsins, heldur beinist hún ekki síst að eðlislægum uppruna ofbeldis og tækni í sögu mannkynsins, þar sem hann hefur rannsókn sína með goðsögninni um Prómeþeif og greiningu hennar. Að þessu leyti fer hann aðrar leiðir en Heidegger, og þessi rannsókn sem hann gerir með aðstoð fornfræðingsins Karls Kerényi, bregður vissulega óvæntu ljósi á vandann. Eftir stórfróðlega endursögn þessarar goðsögu, þar sem lesa má þá visku að maðurinn sé í raun ekki kominn til sögunnar fyrr en hann höndlaði tæknina. Það var atburður sem  goðsagan eignar Promeþeifi, þessum náttúruguði af títönskum uppruna sem færði manninum eldinn með svikum, og opnaði þannig fyrir þá vegferð sem maðurinn hefur ratað alla tíð síðan, og greint sig þannig frá dýrunum. Eldurinn og tæknin voru fórnargjafir Prómeþeifs, sem hann galt um leið fyrir með ævarandi kvalafullum refsingum Seifs. Þessar gjafir gerðu manninum kleift að afla sér lífsviðurværis, sem fengið var með svikum. Promeþeifur kenndi manninum líka hvernig bæta átti fyrir svikráðin með fórnargjöfum: Eldurinn og vopnin gerðu honum kleift að ná tökum á náttúrunni og drepa dýrin sér til matar, en hann átti að endurgjalda guðunum með blóðfórnum til að ná sátt við guðina og umheiminn. Að kveikja eld og drepa dýr sér til matar var upphaf sögu og siðmenningar mannsins, og hvort tveggja skuldsetti hann gagnvart guðunum og náttúrunni.  Blóðfórnin var forsenda sáttagjörðar á milli guða og manna, mannsins og alheimsins.

Sini rekur síðan í stuttu og meitluðu máli hvernig dauði guðanna og afhelgun náttúrunnar leiddu smám saman til þess hugarástands sem við kennum við nútímatækni. Í stuttu máli segir Sini að samtími okkar einkennist af „vísindatrú“ er byggi á þeirri frumspekilegu forsendu sem aðskilur frumlag og andlag, hugveru og hlutveru, en framkvæmir síðan þann galdur sem eignaður hefur verið heimspekningnum Descartes og felst í jafngildingu þessara andstæðna: res cogitans og res extensa. Þessi galdur, sem er undirstaða nútímavísinda, færði himininn niður á jörðina og var forsenda þeirrar afhelgunar náttúrunnar, sem síðan hefur leitt mannkynið áfram allt til rányrkju okkar tíma. 
Þessi frumspekilegi galdur er að mati Sini orðinn að „hugmyndafræði“, sem er rót „ógnarstjórnar þess frjáls vilja“, sem Hegel las út úr frönsku stjórnarbyltingunni á sínum tíma fyrir tæpum 200 árum síðan. Þannig rekur Sini ofbeldið til frumspekinnar og stofnanavæðingar hennar í gegnum ríkisvaldið og stofnanir þess. 

Hryðjuverkaógn kerfisandstæðinga samtímans er í þessari grein Sini túlkuð sem hin hliðin á ógnarstjórn tækninnar. Ekki er ástæða til að endursegja þessa athyglisverðu greiningu frekar hér. Hins vegar er rétt að benda á nokkuð sem ekki kemur skýrt fram í þessum texta, en hefur einkum á síðari árum orðið áberandi í málflutningi Sini um tæknina. En það er deilan um hvort tæknimenningin sé að leiða mannkynið í glötun og hafi umbreyst frá hjálpartæki til gjöreyðingarvopns. Þessi ótti kemur þegar fram hjá Heidegger í greininni frá 1953, sem er skrifuð meðal annars í skugga kjarnorkuvopnanna og vígbúnaðarkapphlaups eftirstríðsáranna. Síðar lýsti Heidegger yfir þeim áhyggjum sínum að tæknin væri að vaxa manninum til höfuðs, og að hann væri að eðlisfari ófær um að stjórna henni. „Aðeins Guð getur hjálpað okkur“ sagði þessi guðleysingi í frægu viðtali við tímaritið Der Spiegel árið 1966, 10 árum fyrir andlát sitt. Heimsstyrjöldin og atburðirnir í Hiroshima og Nagasaki höfðu áhrif á þessa umræðu, og þau má meðal annars sjá hjá einum af nemendum Heideggers frá því fyrir stríð, gyðingnum Günther Anders, sem hafði flúið til Bandaríkjanna og giftist þar fyrrverandi ástkonu Heideggers, Hönnu Arendt, sem einnig var gyðingur. Anders gerðist einhver atkvæðamesti baráttumaður gegn kjarnorkuvánni (og síðar gegn styrjöldinni í Vietnam) með skrifum sem birtust m.a. í tveggja binda verki hans Die Antiquiertheit des Menschen: Über die Zerstörung des Lebens im Zeitalter der dritten industriellen Revolution.Skrif Anders hafa haft víðtæk áhrif, meðal annars á Ítalíu, þar sem heimspekingurinn Umberto Galimberti vitnar til dæmis gjarnan í Anders og segir tæknina hafa vaxið manninum yfir höfuð og muni leiða siðmenninguna í glötun. Galimberti hefur nýverið gefið út bók um Heidegger.

Carlo Sini hefur gagnrýnt þessa umræðu á einni meginforsendu: það er ekki hægt að greina á milli mannsins og tækninnar og setja þessa þætti fram sem tvo andstæða "vilja". Maðurinn og tæknin eru eitt, því án tækninnar er maðurinn ekki til, og tæknin ekki án mannsins. Í þessu samhengi hefur Sini lagt áherslu á verkfærin sem framlengingu líkamans og að tungumálið sé merkasta tækniundur sem maðurinn hefur fundið upp. Fyrir Sini eru notkun tungumálsins og tækninnar óaðskiljanleg vandamál, og ákall hans um „nýja hugsun“ í lok greinar sinnar er til vitnis um það. Ástæða þess að þetta er hér tekið fram er meðal annars sú, að hugsanlega má lesa þann skilning út úr þessum texta Sini, að tæknin sé óvinur mannsins. En það sem Sini er hér að andæfa gegn er ekki tæknin sem slík, heldur hvernig við hugsum hana í gegnum „vísindatrúna“ og átrúnaðinn á hinn „hlutlæga sannleika" tæknivísindanna, í stuttu máli  sjálfa „framfaratrúna“ í nafni tæknimenningar samtímans. Þessi ritgerð er hvöss ádeila á samtíma okkar sem byggir á djúpri sögulegri þekkingu og óvæntu sjónarhorni á eitt mikilvægasta vandamál samtímans.

PS.: Vegna þess hve sagan af Prómeþeifi gegnir mikilvægu hlutverki í þessari grein er rétt að benda á frábæra endursögn franska trúarbragðafræðingsins Jean-Pierre Vernant á sköpunarsögu hinnar grísku goðafræði og hlutverk Prómeþeifs í henni, en hana má finna hér á vefnum á íslensku: https://wp.me/p7Ursx-qC

T. Beisson: Prómeþeifur hlekkjaður,  koparstunga um 1800- eftir málverki Salvatore Rosa
Calo Sini:

TÆKNI OG OFBELDI

 

Kafli úr verki Carlo Sini: Dalla semiotica alla tecnica – OPERE, Volume II, Tomo I – In cammino verso l‘evento. Útg:. Jaca Book, Milano 2021. Bls. 393-408. Upphaflega birt í bókinni Kinesis – Saggio di interpretazione, útg. Milano  1982

Tæknin sem vandamál hugsunarinnar

Á síðari tímum höfum við horft upp á að ofbeldi í sínum nútímalega búningi, þá ekki síst sem hryðjuverkastarfsemi, hefur náð útbreiðslu sem hnattrænt fyrirbæri. Við sjáum líka að vöxtur tækninnar hefur á tiltölulega stuttum tíma orðið að hnattrænu fyrirbæri í formi tæknilegrar skipulagningar hinnar tilvistarlegu og samfélagslegu veru mannsins. Eru einhver tengsl á milli þessara fyrirbæra? Ef svo væri, hvers eðlis eru þau tengsl þá? Þessar spurningar eru til umræðu í eftirfarandi texta.

Ef það reynist rétt að tæknin, kjarni hennar og örlög, séu á okkar tímum orðin að vaxandi og vandleystri ráðgátu, og að vandamál ofbeldisins tengist tækninni djúpum og órjúfanlegum böndum,  þá skiptir hér meginmáli að þessi vandi verður ekki skilinn með viðunandi hætti á forsendum pólitískra greininga eða félagsfræðilegra, sálfræðilegra, lögfræðilegra og sagnfræðilegra rannsókna. Þrátt fyrir alla verðleika þessara fræða gætu þau aldrei nálgast rætur fyrirbærisins sem þau rannsaka, því þessar rætur ná djúpt ofan í jarðveg sem þessi fræði hafa engan aðgang að.

Ástæðan er sú, að þessi fræði og greiningaraðferðir þeirra byggja með sínum hætti á vísindalegri tækni og ganga því út frá tæknilegri aðferðarfræði (la ratio tecnologica) og eru því ófær um að setja spurningu við eigin aðferð. Ef rétt reynist að ofbeldi okkar samtíma eigi rætur sínar í eða sé nátengt tækniveröld samtímans, og þar með starfsháttum stjórnmálafræðinnar, félagsfræðinnar, sálfræðinnar o.s.frv. , sem eru hver með sínum hætti tjáningarmáti nútímatækninnar, þá verður þráðurinn sem tengir tæknina við ofbeldið og orsakasambandið þar á milli óhjákvæmilega utan verksviðs þessara fræða.

Hið sama gildir um vel meinandi „siðferðisáköll“ og hvatningar til „siðferðilegrar“ endurvakningar í félagslegu andófi gegn hryðjuverkastarfseminni og um hina göfugu en skammsýnu hvatningu til „vandaðri nýtingar tækninnar“, til þess að gera hana að hliðhollu „verkfæri“ í meðhöndlun mannsins. Ekki er hægt að útiloka að einmitt þessi „siðferðilegu“ sjónarhorn séu afurð hinnar vísindalegu tæknibyltingar samtímans, en þar að auki blasir við öllum að slík áköll og tillögur leiða ekki til viðunandi lausna, jafnvel þótt þau séu síendurtekin í daglegum hvatningum hinna ábyrgustu aðila í öllum meginfjölmiðlum heimsins. Þau falla vanbúin í sinn grýtta jarðveg.

Vandamál tækninnar er fyrst og fremst vandamál „hugsunarinnar“, og það á ekki síst við um hugsanleg tengsl hennar við ofbeldið. Í þessu tilfelli getum við einungis gert okkur vonir um að nálgast kjarna vandans með iðkun tiltekinnar hugsunaraðferðar (via di pensiero). Það munum við reyna að gera hér, þó innan þeirra hlutlægu og huglægu marka þessarar umræðu sem geta okkar mætir.

Prómeþeifur og goðsögulegur uppruni tækninnar

Fyrst þurfum við að hafa í huga að tæknin er manninum eðlislæg frá upphafi. Það merkir að maðurinn er vera techne (hið gríska orð fyrir tækni). Elstu merkin sem hafa fundist um „mannlega tilvist“ eru „tæknilegar“ leifar er tengjast notkun „verkfæra“ er gera samband mannsins og umheimsins „mannleg“ (vitna um „mannlegt“ vistkerfi frábrugðið hinu „dýrslega“). Maðurinn hefur gert sér grein fyrir þessum sannleika frá ómunatíð eins og margar goðsagnir eru til vitnis um. En þessar goðsögur vitna einnig um  annað,   að maðurinn hafði djúpa tilfinningu fyrir tengslum tækninnar við ofbeldið. Hin upphaflega tilgáta okkar finnur þarna staðfestingu sína.

Við erum hins vegar upptekin af því sem einkennir tækni samtímans (ólíkt hinni fornu og forsögulegu tækni) hvað varðar meint samband hennar við ofbeldið, það er að segja hvað einkenni okkur sem mannverur, menn tækniheims samtímans. Þetta er spurning sem er á vissan hátt „ómöguleg“, því hún felur í sér (svo stuðst sé við orð Hegels) að ætla sér að beina sjónum vitundar okkar að því sem gerir vart við sig á bak við þessa sömu vitund. Við skulum engu að síður reyna að svara, reyna að því marki sem mögulegt er að beina „utanaðkomandi“ sjónarhorni að því „tæknilega“ atferli sem einkennir okkur. Við getum til dæmis spurt okkur hvernig frummaðurinn upplifði tæknina á forsendum þess sem ákveðnar goðsögulegar hefðir segja til um. Hvað merkir það út frá sjónarhóli hins frumlæga, eða að hluta til frumlæga goðsagnaheims, þegar við segjum að maðurinn sé vera tækninnar (techne)!

Þetta er augljóslega flókin spurning og að gefnum forsendum getum við ekki annað en takmarkað okkur við einstakt tilfelli tiltekinnar hefðar. Við snúum okkur þannig að persónu Promeþeifs úr hinum forngríska goðsagnaheimi, eins og hún hefur verið endursögð af Karoly Kerényi[i].

Hver er Prómeþeifur? Ímynd hans er flókin og þversagnakennd; náttúra þessa guðs breiðir úr sér oft að landamærum og út yfir landamæri þess sem við erum vön að skilja sem það er einkenni hinn gríska anda. Almennt má segja að Prómeþeifur sé guð af ætt Títana og tilheyri þeim heimi sem ríkti á undan hinni kosmísku reglu Seifs og hinna Olympísku guða. En Prómeþeifur er einstakt tilfelli meðal hinna grísku guða að því leyti að hann deilir með manninum því eðli að búa við viðvarandi líkamlega og andlega þjáningu. Það er einmitt í krafti þessa einkennis sem Prómeþeifur er Guð málamiðlunar á milli hins guðdómlega og mannlega. En fyrst og fremst er hann Guð þess aðskilnaðar, sem á sér stað á milli ódauðleika Guðanna og dauðleika mannsins. Um þetta segir Pindar: „Eitt er kyn mannanna og Guðanna, frá einni sameiginlegri móður drögum við anda okkar“, en síðan eru þeir aðskildir af „æðri máttarvöldum“: bróðurparturinn  tilheyrir Guðunum, næstum ekkert mönnunum. Um þetta segir Kerényi: „Mannkynið á uppruna sinn, rétt eins og Guðirnir, í Jarðargyðjunni Gaiu  […] maðurinn er annar póllinn. Hinn er myndaður af hinum himnesku verum“.

Hér er um róttækan mismun að ræða: mennirnir, „skapnaður til eins dags“, sem hafa mátt þola úthýsingu á jörðinni og fjötra hinna dauðlegu, á meðan það sem umlykur þá er hinn póllinn: hinn himneski póll og ríki ódauðleikans. Þetta er orsök þess að maðurinn er sem slíkur þjáður af ólæknandi banvænu sári.  En eins og við vitum, þá var Prómeþeifur líka særður lifrarsári sem örn Seifs, sólarguðsins, hélt opnu og endurnýjaði á hverjum morgni.

Þannig verður mynd okkar af Prómeþeifi smám saman skýrari sem guðdómlegur forfaðir, fyrirmynd og alter ego mannkynsins. Ásamt með Atlas bróður sínum markaði hann endimörk þeirrar jarðar sem mönnunum var úthlutuð. Atlas afmarkaði vesturlandamæri hins gríska alheims, það var hann sem framkvæmdi aðskilnað himins og jarðar og gerði möguleg umskipti dags og nætur og tilkomu tímans.

Prómeþeifur afmarkar hins vegar austurlandamærin, þar sem hann dvelur hlekkjaður við tinda Kákasusfjalla. Kerényi segir að þeir „umlyki kringlu tímans og mannkynsins innan ramma erfiðis og þjáningar“.

En ef Atlas framkallar aðskilnað hins mannlega og guðdómsins með aðskilnaði himins og jarðar, á milli tímans og eilífðarinnar, hvernig virkar þá þáttur Prómeþeifs í þessum aðskilnaði?

Kerényi segir þetta[ii] hafa gerst með tveim frumlægum gjörningum, sem áttu að leiða til „hins endanlega viðskilnaðar þess mannlega og Guðdómsins, aðskilnaðar er lagði grunninn að hinu mannlega formi tilverunnar“: uppfinning fórnarveislunnar og þjófnaður eldsins.

Í raun er hér um tvo frumlæga „tæknilega“ gjörninga að ræða, er marka grundvallareðli mannsins og örlaga hans. Um leið eru þetta tveir „ofbeldisfullir og saknæmir“ gjörningar sem ráðast inn í hina lífrænu jafnvægishrynjandi náttúrunnar, hinnar „guðdómlegu náttúru“, og valda þannig ólæknandi áverka og sári.

Nautsfórn í Grikklandi til forna.

Kerényi segir: Báðir þessir gjörningar fela í sér glæpsamlega röskun en um leið bjargræði fyrir þann sem leitaði sér næringar. Annar þeirra fólst í drápi dýrsins […] hinn frumlægi gjörningurinn fól í sér heimtu eldsins í gegnum þjófnað og rán. Engu að síður vann Prómeþeifur til sátta með því að stofna til fórnarathafnarinnar og sætta þannig Guði og menn. Hin gríska fórnarathöfn skilgreinir samtímis mismuninn og samfélagið á milli manna og Guða. Um þetta skrifar Kerényi í kaflanum Helgidómur máltíðarinnar:

[Hugmyndin um máltíðina hjá Grikkjum, Etrúum og einnig hjá Rómverjum, byggðist] á títanskri uppfinningu: það var einmitt dýrafórnin sem varð forsenda fullkominnar hátíðarveislu og uppspretta helgidóms hennar. Orðið heilagur („sacro“) tengist þessum blóðuga gjörningi, bæði á grísku og latínu. Bæði tungumálin tjá hugtakið „sacrificare“ (fórna) í skilningnum að „gera heilagt“ eða „framkvæma hið heilaga“. Þetta var hinn mikli og skelfilegi gjörningur mannsins í leit hans að næringu; gjörningur sem reyndist honum jafnframt heillavænlegur, uppfundinn af títönskum huga þar sem drápið fer fram í eins konar sakramenti með hinu drepna dýri, og opnar uppsprettu fyrir varðveislu mannlegs lífs. […] Mannkynið getur ekki skapað sér líf úr lífi dýranna án þjófnaðar og blóðsúthellinga. Og dýrin tilheyra hinu ekki-mannlega, það er að segja, þau tilheyra öllu umhverfi mannsins, öllu því sem umvefur okkur, allri jörðinni og stjörnunum sjálfum: allt þetta tilheyrir ríki Guðanna […] Þessir frumlægu gjörningar, sem engin máltíð getur án verið,  það að kveikja eldinn og drepa dýrið [hinir frumlægu „tæknilegu“ gjörningar] eru hryllilegir og óguðlegir í augum fornmannsins, þeir eru innrás í guðdómlegan félagsskap og fela í sér holskurð, sundurlimun og afskorning á líkama þess sem á sér lífrænan uppruna – einnig eldurinn, sem er „náttúrlegur“ og lífrænn – þessir gjörningar fela þannig í grundvallaratriðum í sér helgispjöll. Það sem þeir eiga engu að síður sameiginlegt (það er að segja tendrun eldsins og dráp dýrsins sameinuð í samhæfðri athöfn) er ennþá heilagra en sjálf hátíðarveislan: það er fórnin sem einnig veitir máltíðinni sinn heilagleika.

Með þessum hætti er hið helgaða eðli techne skilgreint í heimi hins goðsögulega manns. En jafnframt hið kosmíska eðli hennar: hin mannlega techne öðlast kosmískt samhengi innan byggingar alheimsins (diakosmesis), þar sem hún finnur sér stað og merkingu.

Þessi eðliseinkenni birtast okkur greinilega í mynd Prómeþeifs, þar sem hann er sýndur með oddmjóa derhúfu handverksmannsins í líkingu við Hefaistos, Guð eldsins, og Hermes (Guð logos (orðsins), -en hann myndi verðskulda aðra og lengri umfjöllun).

Prómeþeifur skapar manninn. Grísk lágmynd, Prado-safnið

Með hjálp Prómeþeifs öðlast mennirnir vilja til að umbylta aumum tilvistaraðstæðum sínum með slægð (sem einnig var einkenni Hermesar) og uppgötva tæknina. Þannig er Prómeþeifur sá sem bjargar mannkyninu með tæknigjöfum sínum. „Mennirnir þiggja frá Prómeþeifi það sem tilheyrði Guðunum einum: eldinn“, segir Kerényi. En gjöfinni fylgja óhjákvæmilega „svikráðin“, tilfinningin fyrir ranglætinu, sektarkenndin og refsingin sem fylgja mannlegri tilvist.

Hins vegar er Prómeþeifur ekki einfalt alter ego (staðgengill) mannsins. Hann er kosmískur og himneskur Guð. Kerényi hefur beint sjónum sínum að hinum náttmyrku hliðum hans. Hinn himneski bakgrunnur Prómeþeifs leiðir hins vegar í ljós tungl-eðli hans sem Guð (þar sem hann er oft sýndur með sigð mánans í hendi sér).

Prómeþeifur þjáist af sári sem stöðugt grær og opnast á ný , rétt eins og Hera, hin sígilda tungl-gyðja, en í sári hennar eru ummynduð tíðahvörf tunglsins. Prómeþeifur er, rétt eins og Hera, upphafinn í bilinu á milli Guða og manna, sáttaberi og boðberi í senn (hann er í raun boðberi Títananna eins og Hermes er boðberi hinna Olympísku Guða)

Svo er það lifrin: staður sársins, sem örn Seifs rífur stöðugt upp á ný. Hún er merki náttmyrkursins. „Lifrin sem vex á ný yfir nóttina var boðberi kosmískrar myndar næturhiminsins […] og var talin hinn myrkvaði íverustaður ástríðanna.[iii]

Niðurstaða Kerényi er þessi: „Í þeirri guðdómlegu þjáningu nátthrafnsins (ástríðufullur, vansæll og særður banasári) og í náðargjöf eldsins, er að finna kjarna hins títanska og hins ofurmannlega[…] Í þeirri formyrkvun  sem við höfum fundið hjá Prómeþeifi má auðveldlega finna vanbúnað og skort þeirrar veru sem sér í eldinum (la techne) ómissandi hjálpartæki til að öðlast fullkomnara líf.

Ekki má gleyma því, að sá eldur sem hinn títaníski maður nýtir sér til að mæta hinum guðdómlegu dýrum, er af himneskum uppruna. Með því að höndla hann á jörðu niðri, og gera hann að eigin „verkfæri“, sýnir maðurinn tengsl sín við guðdóminn. Þessi tengsl eru hins vegar tilkomin í gegnum svikráð, og eru því ekki minni helgispjöll en aftaka dýrsins. Sáttin við hið heilaga og Guðina er einungis tilkomin vegna þess að eldurinn er einnig áhald fórnarathafnarinnar. En þetta merkir á sama tíma nýja diakosmesis, nýja skipan í byggingu alheimsins. Í kjölfar hins títanska heims kemur heimur hinna olympísku Guða. Prómeþeifur greiðir úr eigin vasa kostnað þessarar umbreytingar í nafni mannkynsins.

Þessi endurvakta mynd Prómeþeifs upplýsir okkur þannig um hvernig hið goðsögulega mannkyn upplifði, skynjaði og hugleiddi tæknina. Þegar við höfum nú náð þessum sjónarhóli, sem er okkur svo fjarlægur, líka sálfræðilega, en engu að síður ekki með öllu óskiljanlegur; því enn getum við meðtekið mynd hans og skilið nokkur ummerki hennar (ummerki sem enn má túlka sem fjarlægan mannlegan lífsmáta). Því getum við nú, þegar við höfum endurlífgað sambandið við ævaforna merkingu hinnar sérstöku tæknivæðingar mannsins og tengsl hennar við ofbeldið, þá getum við spurt:

„Brottvísun dýrsins“ og afhelgun heimsins

Hver eru megineinkenni nútímatækninnar og nútímamannsins?

Enn á ný stöndum við frammi fyrir spurningu sem virðist endanlega óleysanleg. Hér þurfum við að finna nálgun sem er jafn myndræn og hún er djúp. Ef við leitum til dæmis til Galileo Galilei, þá gætum við sagt að ólíkt hinni fornu tækni, þá hafi nútímatæknin „fjarlægt dýrið“. Hvað merkir þessi afar sérstæða fullyrðing? Við skulum sjá hvað Galilei segir í alþekktu textabroti:

Ég segi að ég finni vel fyrir þeirri nauðsyn, um leið og ég skynja tiltekið efni eða líkama, að ég þurfi að skilja í sömu mund mörk hlutarins og mynd í þessari eða hinni myndlíkingu, og að hún sé lítil eða stór  miðað við aðrar, að hún sé staðsett á þessum eða hinum staðnum og á þessum eða öðrum tíma, að hún hreyfist eða er kyrrstæð, að hún snertir eða snertir ekki annan líkama, að hún er ein, fáeinar eða margar, ekkert ímyndunarafl getur leyft mér að losa myndina þá frá þessum skilyrðum. En að þessi líkami skuli vera hvítur eða rauður, beiskur eða sætur, hávaðasamur eða þögull, ilmsætur eða með óþef, að þessu leyti finn ég enga kvöð hjá mér til að meðtaka hann á þessum óhjákvæmilegu forsendum. Þvert á móti, ef skynfærin hefðu ekki skynjað, þá hefði kannski orðræðan og ímyndunaraflið fyrir sjálfu sér aldrei verið. Hvað varðar hugsun mína um þessi brögð, lyktir, liti o.s.frv. ]frá sjónarhóli skynjandans eins og hann skynjar, þá séu þau ekki annað en innantóm nöfn, en eigi sér eingöngu stað í hinum skynjandi líkama, ef ég hins vegar fjarlægi dýrið, þá væru þessi gæði jafnframt fjarlægð og eyðilögð […][iv]

Sú „brottvísun“  sem Galileo talar hér um á sér augljósa „gnoseologíska“ (þekkingarfræðilega) skýringu; hún setur fram aðferðarfræðilega reglu nútíma vísinda og sjálfan grundvöll „tæknivæðingar“ (tecnicità) þeirra. En þessi yfirlýsing Galileo fær annað yfirbragð ef við tengjum hana -vissulega í algjöru sjálfdæmi – við þá slóð, sem við höfum hingað til fylgt, á slóðir tækninnar.

Ef við notfærum okkur myndlíkingu Galileo, þá gætum við dregið þá ályktun, að það að „fjarlægja dýrið“ tákni aftengingu heims goðsögunnar og hins heilaga, dýranna og Guðanna sem tilheyra honum, svo ekki sé minnst á þau grundvallar tengsl sem maðurinn hafði við hvorutveggja í skiptum fyrir eigin „staðsetningu“. Með því að fjarlægja hinn goðsögulega heim hverfa einnig þær tæknilegu „ímyndir“ sem maðurinn var holdgerving fyrir í þessum goðsagnaheimi.

Hjá hinum forsögulega eldsmið, svo dæmi sé tekið, voru eldurinn, áhöldin, málmurinn, klæðnaðurinn, verklagsreglurnar og trúarreglurnar jafnt sem efnahagsleg og þjóðfélagsleg staða smiðsins, ekki aðskilin eða aðgreinanleg frá hinni goðsögulegu-kosmísku stöðu listar hans eða techne. Sama á við um veiðimanninn og bogann, örvarnar, dýrin og tilheyrandi guðaverur sem sýndu íveru sína í þessum hlutum sem lifandi vitnisburð hinnar almennu reglu. Það er einmitt hin „merkingarfræðilega“ staða mannsins sem leiðir í ljós þessa einkennandi íveru þeirra þátta sem greina hinn goðsögulega mann frá nútímamanninum. Eins og Jean-Joseph Goux hefur bent á, þá er hið forna merki margvísandi og hefur að geyma (eins og við myndum segja) myndrænar ummyndanir (metaforico e metonimico). Hið forna merki á sér líkamlega aðild að heiminum, það er efnislegur hluti hans eins og það er hluti mannsins, sem sjálfur er ekki annað en sambræðsla kosmískra merkja.

Hið nútímalega merki verður hins vegar í æ ríkari mæli hreint meðal eða tæki, sértækt og gagnsætt. Staða þess verður formleg og hefðbundin og umfram allt magnræð (miðað við gæðalega efniseigind hins forna merkis). Hægt væri að fylgja slíkri þróun eftir frá hinu gríska logos fram til málvísinda Saussure og þeirrar formfestu sem finna má í tungumáli hins stafræna og stýrifræðanna. Ef við göngum í anda Galileo út frá forskrift hins stærðfræðilega merkjamáls, þá leysist merkið upp fyrir okkur í hreint flæði „upplýsingamengja“ (quanti di informazione)[v]. Við verðum að hugsa alla þessa vegferð sem innifalda nærveru þess sem við höfum skilgreint sem „brottvikningu dýrsins“ samkvæmt Galileo: brottkast hinna goðsögulegu gæða (sem hjá Galileo urðu einungis „ruglaðar“ og „ónákvæmar“ upplýsingar hinna „dýrslegu“ skynfæra.) Þar er meðtalin afhelgun náttúrunnar. Við það bætist eðlilega sú enn lengri vegferð, sem hefur valdið dauða Guðanna („Hinn mikli Pan er dáinn!“[vi]) og í kjölfarið fæðingu hinnar grísku rökhugsunar (ratio) sem fékk sína endurnýtingu í gegnum hinn kristna skilning á heiminum, manninum og guðdómnum.

Allt þetta var löngu orðið á tíma Galilei, þegar hann boðaði þessi mjög svo nútímalegu tímahvörf, sem fólust í vísindalegri og tæknilegri fræðikenningu um algilda mótsetningu á milli mannsins og heimsins. Heimurinn varð að hreinu efnislegu viðfangi, realitas objectiva (hlutlægur veruleiki) og maðurinn varð hið hreina andlega frumlag (mens sive anima sive spiritus). Á sviði heimsins finnum við nú „líkamana“ (i corpi), þar með taldar þær vélar eða „vélmenni“ (automi), sem eru dýrin og sjálfur líkami mannsins. Andspænis heiminum finnum við hins vegar cogitationes (hugrenningar) með sínum meðvitaða ásetningi.

Klofningur veruleikans og ógnarstjórn Hegels

Þessar aðstæður, sem leggja grunninn að fæðingu nútíma tækni, fá sína dýpstu hugtakslegu framsetningu í riti Hegels, Fyrirbærafræði andans. Í krafti rökhugsunar Galileo, það er að segja hinnar nútímalegu rökhugsunar, klofnar raunveruleikinn í tvöfaldan kjarna og þessa gagnstæðu „massa“ hinnar „hreinu hugsunar“ og hins „hreina efnis“. Hegel segir okkur að með sértekningu frá þessum „afmörkuðu veruháttum“ sem eru „verðandi hins séða, hins smakkaða o.s.frv., sitji eftir hið hreina efni eins og hinn heyrnarlausi vefnaður og hreyfing í sjálfri sér“: „hið hreina efni er það sem eftir stendur þegar við framkvæmum sértekningu  frá sjóninni, heyrninni, bragðskyninu o.s.frv.“ Hið „algilda efni“ gerir sig þannig sem „hið hreina í sjálfu sér, sem er hvorki hlustað né lagt undir bragðskynið.“ En það gerir sig þannig fyrir hina hreinu hugsun sértekningarinnar (pensiero astraente) (við gætum sagt fyrir hina vísindalegu-tæknilegu hugsun): með þessum hætti mætast kjarnarnir tveir „í hugsun hinnar cartesísku frumspeki, þar sem veran og hugsunin eru í sjálfum sér sami hluturinn […] hugsunin er hlutareðli eða hlutareðlið er hugsun“  (il pensare é cosalità, o cosalità é il pensare).

En hvernig mætast þessi tvennu „hlutareðli“ hinna sértæku andstæðna? Eins og við munum, þá segir Hegel: í hugtaki hins „nýtanlega“. Nýtanleikinn er kjarni þess heims sem hefur verið smættaður niður í hlut handa hugsun, sem sjálf hefur verið smættuð niður í hlut (res extensa – res cogitans). Hið nýtanlega hefur að sínu leyti þann kost að „vera fyrir annan“, og felur þannig nákvæmlega í sér eðli áhaldsins eða meðalsins. Með nytsemdinni ná „báðir heimarnir [hins hreina efnis og hinnar hreinu hugsunar] fullum sáttum, himininn hefur stigið niður á jörðina og fest þar rætur“. Atlas hefur fengið brottvísunina.

Með þessum frægu útskýringum Hegels höfum við þegar fengið í hendurnar lýsingu á hinum sérstæða kjarna nútíma tækni. En við munum að næsta skrefið sem Hegel tók, strax á eftir, er það sem leiðir okkur beint inn í fæðingu heims „ógnarstjórnarinnar“ (terrore). Hann ákvarðast af því þegar hið „altæka frelsi“ er leyst úr hlekkjum sínum – í nafni nytsemdarinnar og sem „frelsi viljans“: „hið altæka frelsi upphefst til hásætis heimsins án þess að nokkurt vald geti veitt því mótspyrnu.[vii] (Heimur „ógnarstjórnarinnar“ birtist sem kunnugt er í endursögn Hegels á frönsku stjórnarbyltingunni í Fyrirbærafræði andans).

Ógnarstjórn í kjölfar frönsku stjórnarbyltingarinnar 1793.

Út frá því sem þegar hefur verið sagt getum við lagt fram niðurstöður með eftirfarandi hætti. Forsendur nútíma tækni eru: 1) viljinn til þekkingar stofnsettur af frumspekilegri rökhugsun (ratio).(viljinn til sannleika, sagði Nietzsche, sem er dulargríma viljans til valds).  2) Sá kristni skilningur sem gerir heiminn að „táradal“ og náttúruna að handverki Guðs: saman færa þessar forsendur manninum sögulegt-guðfræðilegt markmið: „konungsríki himnanna“, sem síðan hefur verið dregið niður á jörðina undir hugtakið „framfarir“.

Fyrir nútímamanninn eru heimurinn og náttúran eins og hreinn staður (luogo) og hreint meðal (mezzo). Staður samkvæmt skilningi Newtons, „einföld staðsetning efnishluta í tómu rými“ (eins og Whitehead komst að orði). „Meðal“ sem þýðing í anda tæknilegrar nytjastefnu á áðurnefndri hreinni efnislegri „staðsetningu“.

Á þessum stað og með þessu meðali öðlast viljinn altækt frelsi. Það er að segja frelsi undan „dýrinu“. Með öðrum orðum, þá gerist það í tækniheimi nútímans og fyrir tilstilli hinnar frumspekilegu-vísindalegu-trúarlegu undirstöðu hans, að maðurinn leitar ekki lengur að merkingu holskurðarins, ofbeldisins, villunnar (vulnus) og sektarinnar gagnvart náttúrunni. Þar sem Guðirnir eru dánir og hin heilaga merking náttúrunnar er horfin, verður heimurinn að hlutlausu átakasvæði boðbera viljans til átaka. Þessir árekstrar fá einnig nafngiftir á borð við „að raungera viljann“, eða díalektíska þróun „Égsins“.

Þegar jörðin hefur fengið stöðulækkun niður í „hlut“ og „stað“ (meðal), stendur viljinn ekki frammi fyrir öðru en sjálfum sér, og þar sem hann horfist í augu við sjálfan sig, skapar hann vettvang fyrir átök hinna ólíku vilja. Þessi átök líta á jörðina sem efirsóknarvert viðfang. Rökrétt nýting heimsins felur í sér baráttu um yfirráð yfir „náttúrlegum orkulindum“ (Heidegger myndi segja að náttúran væri smækkuð niður í „orkuforðabúr“). Hin rökrétta nýting (sfruttamento razionale) felur jafnframt í sér stofnsetningu og aðferðarfræði skipulegrar yfirdrottnunar, eins og bæði Bacon og Descartes höfðu séð fyrir (hið nútímalega ríkisvald).

Að lokum þetta: í stað hins forna ofbeldis, sem skilur manninn frá náttúrunni og leiðir hann á ný til hennar í gegnum fórnarathöfnina og hið helga sakramenti (comunione) með dýrinu[viii], stöndum við nú frammi fyrir ógnarstjórninni (il terrore), það er að segja þeim heimi sem er knúinn áfram af viljanum til átaka.

Þessi sama barátta (lotta) felur í sér uppbyggingu víðtæks stofnanasambands, sem einkennist af sérstæðri pólitískri og menningarlegri ógnarstjórn. Markmið þessara stofnana (sem virðist taka á sig æ skýrari mynd) er einokun á náttúrlegum orkulindum og drottnun yfir allri plánetunni. En þar sem þetta stofnanasamband er í sjálfu sér afurð tæknivélar samtímans, þá verður hinsta og djúptækasta hlutverk þessara afla að framleiða „viljana“ („sálirnar“) í gegnum kerfisbundna virkjun upplýsingatækni og almenningsvitundar (nokkuð sem kalla mætti, allt frá frönsku stjórnarbyltingunni, „mótun almenningálitsins“.) Mótun almenningsviljans (le voluntà í flt.) og stýring hans er þannig hinsta markmið og merking (senso) tæknivélar samtímans  (framleiðsla mannsins), en í því birtist um leið síðasta umbreyting merkingarfræðilegrar stöðu hins mannlega.[ix]

Hryðjuverkið sem óskilgetin afurð stofanavaldsins

Andspænis hinu samþætta stofnanavaldi finnum við þann vilja sem snýst gegn stofnanavaldinu („byltingarsinnana“), en virkjar með sínum hætti iðkun tæknilegrar og opinberrar ógnarstjórnar (terrore). Þessi „vilji“ [„viljar“ í flt. Hjá Sini] er einnig með sínum hætti afurð tæknivélar samtímans og þeirrar nytjahyggju dreifðra brota hins frjálsa vilja á ólíkum vígstöðum. Það kemur heldur ekki á óvart, að þegar það gerist að þessir  viljahópar komast til valda, þá skuli þeir endurgera þá stofnanavæddu ógnarstjórn sem er frumorsök núverandi vansældar okkar eða vanmáttartilfinningar andspænis þessu sögulega tímaskeiði, sem við erum nú að upplifa. Það sýnir sig að vera merkt sameiginlegum örlögum, sem nálgast það æ meir að verða hnattræn. Það er engin tilviljun, að þessi þróun skuli eiga sér stað samfara útbreiðslu tækninnar, upplýsingaiðnaðarins og stóriðjusamfélagsins.

Við skulum nú reyna að skýra það sem hér hefur verið sagt í samþjöppuðu máli með nánari greiningu á hugtakinu nútímatækni og tengslum þess við það sérstaka ofbeldi sem við köllum ógnarstjórn eða terrorisma.

Nútímatæknin hefur fyrst og fremst til að bera þrenn einkenni, sem mætti skilgreina á eftirfarandi hátt: það er skilvirkni hennar, hlutlægni hennar og hið opinbera einkenni hennar.  Við skulum líta á hvert einkenni fyrir sig.

Skilvirkni nútímatækninnar.

Hin praktíska skilvirkni er ekki augljóst séreinkenni nútímatækninnar, hún nær einnig til hinnar fornu tækni, hún er öllu heldur einkenni allrar tækni. En það sérstaka við nútímatæknina er umfang og aðferð hinnar praktísku skilvirkni. Það á sér fyrst og fremst eina skýringu: nútímatæknin er „hlutlaus“ í þeim skilningi að hún er „sitt eigið markmið“ (fine a se stessa).

Hin forna tækni er ekki bundin hinu vélræna gangverki (meccanico-strumentale), hún starfar innan sjóndeildarhrings og viðmiðs sem eru af kosmískum og heilögum toga, þar sem ekki er um neina „hlutlausa“ þætti að ræða, er hafi enga merkingu í sjálfri sér. Heimurinn, merki hans og hinir ólíku þættir hans, hafa öll til að bera ákveðna merkingu. Sérhver mannleg athöfn hefur mótaða merkingu af þessum heildræna sjóndeildarhring, nokkuð sem gerir að verkum að hrein „huglæg“ (soggettivo) afstaða gagnvart heiminum og hlutunum verður bæði óhugsandi og óskiljanleg. Þannig verður sérhver hrein „kenning“ (pura „teoria“) er þjóni eigin markmiði óhugsandi, og sama gildir um hreint „áhorf“ (stare a vedere) í anda Aristótelesar eða Husserls , eða hina hreinu tæknilegu-þekkingarlegu „reynslu“ (puro prassi) í anda Galilei.

Með brottvísun dýrsins, það er að segja brottvísun heilagleika náttúrunnar og mannsins, sýnir nútímatæknin hins vegar að hún beinist að vel skilgreindum praxís, sem á sér einungis eitt markmið er felst í sjálfri útkomunni (en þetta merkir að tæknin setur sjálfa sig sem sitt æðsta markmið, sinn eigin skilning á heiminum). Með því að ryðja öllum öðrum markmiðum úr vegi hefur nútímatæknin einbeitt sér að náttúru sem er smættuð í hluti  (oggetti) (með virkjun hinnar smættandi hlutlægni), en sú einbeiting beinist síðan að brotum þessara hluta og aftur að brotabrotum þeirra. Hún kallar á „nytsamar“ upplýsingar til skilnings á hinni hreinu vélrænu virkni fyrirbæranna, það sem kallast schematismus latens (eða undirliggjandi bygging). Í þessum tilgangi leggur tæknin „grundvallar spurningar“ fyrir náttúruna, þar sem hún stillir henni upp með rannsóknartækjum sínum í þeim tilgangi, eins og Galileo kemst að orði, að þvinga hana til að gefa „nákvæm“ svör.

Skilvirkni nútímatækninnar byggir þannig á eftirtöldum atriðum:

  • Stigvaxandi smættun heimsins, allt frá dýrunum til sjálfs mannslíkamans og hluta sem eru í sjálfum sér án merkingar, allt til samsettra og sundurgreinanlegra véla með tilliti til magns og hreyfanleika. Þetta merkir: allur heimurinn er eitt yfirgengilegt tæki, rétt eins og mannslíkaminn er tæki hugans.
  • Merkingarfræðileg aftenging (neutralizzazione) merkisins, sem þannig er smættað niður í hreinan miðil, hreint verkfæri sem setur heiminn í samband við sálina með viljafastri virkni sinni.
  • Brottvísun, gerð möguleg í krafti ofantalins og í krafti viljans andspænis heiminum og „merkingarlausum“ hlutum hans. Um er að ræða brottvísun alls tilgangs er ekki samræmist hinni hreinu virkni tækjanna og áhrifum þeirra. Með því að einbeita sér að þessum áhrifum gerir maðurinn innrás í náttúruna, sem hefur verið afhelguð í forvarnarskyni. Gagnvart slíkum holskurði finnur maðurinn ekki til minnstu sektarkenndar. Gjörvallur alheimurinn er „mold og grjót“. Dýrin eru vélmenni. Tæknibúnaðurinn, sem hefur verið einangraður sem hreint meðal í hlutleysi sínu, er frjáls til að vinna á forsendum virkni sem er sitt eigið markmið.

Hið „opinbera“ eðli nútímatækninnar.

 Afhelgun merkisins – og smættun þess niður í hreint meðal til hefðbundinna afnota og  til upplýsinga- og fjölmiðlunar – stjórnar nú nútímalegu eðli menningarinnar og þekkingarinnar sem menning og þekking á tímaskeiði tækninnar. Þekkingin verður „opinber“, „mælanleg“, „miðlunarhæf“, eins og Descartes komst að orði: móttækileg sérhverri meðalgreind. Það eina sem til þarf er að hinni „almennu skynsemi“ sé stýrt samkvæmt ströngustu aðferðarfræði. Þannig fæðist tækni aðferðafræðinnar. Hin tæknilega-vísindalega þekking er „opinber“, bæði vegna þess að hún getur hentað öllum, en einnig vegna þess að fræðilega séð getur hver og einn leitað staðfestingar á niðurstöðum hennar. Þær má einnig skera niður í úrklippur, túlka þær og kenna. „Kenna öllum allt“ sagði Comenius, og opnaði þannig leið kennslufræðanna inn á tímaskeiði tækninnar.

Hin opinbera þekking er sögulega samþjöppuð í menningu upplýsingatækninnar. Hið æðsta yfirvald upplýsinga tekur jafnt yfir náttúru (smækkuð í upplýsingamengi, það er að segja megindleg skilaboð (mælanleg) – og menningu á vettvangi stofnana, sem hafa með miðlun þekkingar og pólitískt uppeldi „almenningsálitsins“ að gera.

Auglýsingamiðlun rökvísinnar (ragione) felur þannig í sér hinstu ummyndun hins frumspekilega hugtaks sannleikans. Sannleikurinn er ekki lengur adaequatio intellectus et rei, (samsemd skilnings og hlutar) heldur notitiae et rei. Þar sem nototia jafngildir rumor (hávaði): serpit hic rumor, „þessi frétt nær útbreiðslu“, sagði Cicero.

Einkenni hlutlægninnar í nútímatækninni.

Hin tæknilegu (strumentale) hlutlægniseinkenni samtímatækninnar fela í sér að niðurstöður hennar öðlast yfirbragð hlutlægni. „Brottvísun dýrsins“ opnar fyrir leiðina að hlutlægum skilningi á heiminum. Hin tæknifræðilega iðja felst fyrst og fremst í  aðferðarfræði smækkunar veruleikans í „hlut“. Nútímatæknin fyrirskipar þannig verklag sem afneitar og fjarlægir alla aðra merkingu mannlegrar tæknivirkni. Þessi verklagsregla er síðan yfirfærð á hugmyndafræði hinnar vísindalegu hlutlægni. Hin hagnýta smættun náttúrunnar niður í hluti verður að „hlutlægni“ vísindalegrar þekkingar. Það sem er kallað realitas objectiva (hlutlægur veruleiki) verður veritas objectiva et unica (hinn eini hlutlægi sannleikur).

Túlkun tækni-vísindanna á alheiminum gefur sig þannig út fyrir að vera opinberun á hinum algildu og hlutlægu eiginleikum veruleikans „í sjálfum sér“. Það sem vísindin „gera“ með heiminn verður það sem heimurinn „er“ í sjálfum sér. Sú forgangsbrottvísun á öllum þeim eðliseinkennum, er sýna sig að vera hvorki mælanleg né meðfærileg sem meðal eða viðfang, fær þannig á sig hugmyndafræðilegt dulargervi, sem birtist í þeirri sannfærandi fullyrðingu, að hinn „eini og sanni“ veruleiki sé sá heimur sem markast af þeim hreina stærðfræðilega-efnislega mælanleika sem vísindin búa til.

Nútímavísindin gefa út yfirlýsingu: það er enginn annar sannleikur til nema minn. Þessi sannleikur byggir ekki á inntaki sínu (sem er sögulega breytilegt), heldur á aðferðinni. Þar höfum við enn og aftur óhjákvæmilega hlutlægni hinnar „opinberu“ upplýsingaveitu:  þú munt ekki hafa aðra aðferð en mína.

Með því að sýna þessi þrjú megineinkenni hinnar tæknilegu vísindabyltingar samtímans höfum við komist að niðurstöðu þessarar vegferðar okkar.

Þetta fóstbræðralag tækni og ofbeldis (tækni-ógnarstjórn) blasir við augum okkar í sínum grundvallaratriðum. Fyrsta atriðið varðar einmitt þema hlutlægninnar sem við ræddum síðast. Þegar hin vísindalegi-tæknilegi skilningur á heiminum kynnir sig sem veritas objectiva afskrifar hann allan annan skilning sem fals, blekkingu, frumstæða fordóma og rökleysu. Þessi kreddufesta í anda ógnarstjórnarinnar, sem einkennir menningu nútíma tæknivísinda, er auðvitað einungis teoretískur. Í samræmi við þá aðferðarfræðilegu hugljómun (ispirazione „strtturale“) sem liggur henni til grundvallar hefur tæknimenningin innleitt þá heildarumbreytingu á plánetunni jörð sem nú blasir við allra augum. Um þessi framkvæmdaáform ríkir reyndar „opinbert“ samkomulag. En það er einmitt þetta meinta „samkomulag“ sem afhjúpar eðli ógnarstjórnarinnar

Feyerabend um aðskilnað kirkju og trúfélaga

Feyerabend hefur sagt að „aðskilnaður Ríkis og Kirkju“ skuli fela í sér aðskilnað ríkis og vísinda, sem eru nýjasta, kreddufastasta og ofstopafyllsta trúarstofnunin. Slíkur aðskilnaður gæti orðið eini möguleiki okkar til að framfylgja þeirri mennsku sem við eigum til, en við höfum ekki enn náð að fullnusta.[x]

Með öðrum orðum, þá hefur hin vísindalega hugmyndafræði einkennt svokallaða ógnarstjórn stofnananna. Hið „opinbera“ samkomulag varðandi tæknilega skipulagningu lífsins, er ávöxtur tæknilegrar tilskipunar (imposizione) sem staðfestir og breiðir út altækt eðli hins vísindalega sannleika.

En Feyerabend segir um þetta, að vísindin séu „eitt af mörgum formum hugsunar sem maðurinn hafi þróað með sér, og ekki endilega það besta. Þau eru fyrirferðarmikil (vistosa), hávaðasöm, ófyrirleitin, en í eðli sínu framúrskarandi aðeins að mati þeirra sem hafa þegar tileinkað sér tiltekna hugmyndafræði eða veitt henni samþykki sitt, án þess að hafa nokkurn tímann rannsakað kosti hennar og takmarkanir“.

Við skulum fylgja Feyerabend í nokkrum dæmigerðum röksemdafærslum hans:

„Framganga vísindanna gerist með valdbeitingu (forza), en ekki með röksemdafærslu (þetta á einkum við um fyrrverandi nýlendur þar sem vísindin og trúarbrögð bræðra-ástarinnar (amore fraterno) voru borin fram sem augljósir kostir, án nokkurs samráðs við íbúana, hvað þá með umræðu). Nú er okkur orðið ljóst að skynsemishyggjan (razionalismo), sem tengist vísindunum, veitir okkur enga hjálp við úrlausn vandamála er varða samband vísinda og goðsagna. Við vitum einnig út frá könnunum af öðrum toga, að goðsögurnar eru mun farsælli en boðberar skynsemishyggjunnar hafa viljað viðurkenna. […].

Tilkoma nútíma vísinda gerist samfara innrásum og undirokun Vesturlandabúa á kynþáttum sem ekki tilheyra Vesturlöndum. Kynþættirnir sæta ekki bara líkamlegri undirokun, heldur glata þeir líka vitsmunalegu sjálfstæði sínu og eru þvingaðir til að tileinka sér trúarbrögð sem eru  dauðþyrst í blóð bræðraástarinnar: kristindóminn. („la religione assetata di sangue dell‘amor fraterno: il cristianesimo“). Gáfuðustu íbúarnir hljóta umframviðurkenningu: þeir fá innvígslu í launhelgar hinnar vesturlensku skynsemishyggju og hátind hennar: vísindi Vesturlanda. […]

Á okkar tímum hefur smám saman verið undið ofan af þessari þróun. Reyndar með miklum semingi, en engu að síður með viðsnúningi. […] En vísindin halda enn yfirdrottnun sinni. Þau viðhalda drottnunarvaldi sínu vegna þess að þeir sem iðka þau eru ófærir um að skilja , og ekki reiðubúnir að játast, annars konar hugmyndafræði. Ástæðan er sú að þeir hafa valdið til að framfylgja eigin löngunum, og vegna þess að þeir nota þetta vald nákvæmlega eins og forverar þeirra notuðu sitt vald til að þvinga kristindóminn upp á þær þjóðir sem urðu á vegi þeirra í landvinningastríðunum. […]

Þrátt fyrir þetta hafa vísindin engan stærri forræðisrétt (autorità) en önnur lífsform, af hvaða tagi sem þau kunna að vera. Markmið vísindanna eru vissulega ekki mikilsverðari en þau markmið sem leiða lífsmátann í tilteknu trúarsamfélagi eða hjá þjóðflokki sem er sameinaður á forsendum tiltekinnar goðsögu. […] [Einungis] aðskilnaðurinn á milli vísinda og ríkis getur skapað okkur möguleika á að yfirstíga þá æðisgengnu villimennsku sem einkennir hinn vísindalega-tæknilega samtíma okkar.“[xi]

Algildingin á hlutlægni hins vísindalega sannleika (þessi tegund séstakrar hjátrúar, eins og Feyerabend kemst að orði) framkallar eðliseinkenni hreinnar blindu andspænis staðsetningu okkar innan sjóndeildarhrings heimsvaldastefnu tækninnar. Atburður tækninnar afvegaleiðir okkur og villir okkur sýn. Stefna og tilgangur (il senso) þessarar vegferðar eru okkur hulin, og sjálf er hún okkur að mestu hulin, því við erum heltekin af hreyfingu þessa atburðar. Þessar aðstæður má skýra í stuttu máli með tveim dæmum.

Fyrra dæmið varðar mannfræðilega-tæknilega (antropologico-strutturale) túlkun okkar á tækninni, sem er fyrir okkur nánast sjálfgefin, eða vandalaus (a-problematica). Það er í okkar augum friðsamlegt að tækniheimurinn feli í sér tækjabúnað (strumenti) sem er í sjálfu sér hlutlaus, tækjabúnað smíðaðan af manninum og falinn honum til afnota samkvæmt hans góða eða illa vilja. Okkur nægir að staðfesta notkun hugtaka á borð við „tækjabúnaður“, „hlutleysi“, „vilji“ til að átta okkur á takmörk slíks hugsunarháttar, það er að segja hvernig hann er sprottinn úr þeirri nútímalegu  tæknihyggju sem hann vill leggja mat á. En frá árinu 1953 hefur Martin Heidegger sýnt glögglega fram á í ritgerð sinni um tæknina, hversu einfeldnislegur slíkur hugsunarmáti er, yfirborðslegur og í grunninn villuleiðandi. Án þess að rekja hér röksemdafærslu Heideggers nægir að benda á tvö atriði.

Í fyrsta lagi er það sú blekking, að tæknin sé einungis einfalt verkfæri sem mannlegur vilji hafi til ráðstöfunar. Sameiginleg reynsla okkar horfist daglega í augu við þessa þversögn, sem er ekki síst í mótsögn við anda hinna tæknilegu áforma, sem í kjölfar árásar sinnar á náttúruna snýr sér nú á síðustu tímum með samsvarandi hætti að „sálunum“, bæði í gegnum hina úthugsuðu ógnarstjórn upplýsingaflæðisins og í gegnum svokölluð húmanísk vísindi. Hið tæknilega verklag drottnar yfir vitund okkar og breiðir nú hina algildu markleysu (það sem Nietzsche kallaði tómhyggju) út yfir heim náttúrunnar jafnt og heim svokallaðra „andlegra gilda“.

Í öðru lagi felur hin mannfræðilega / tæknilega túlkun á tækninni í sér bæði hrokafulla og kreddufulla afneitun alls annars skilnings á techne. Hún horfir algjörlega fram hjá því að möguleg tilvist hennar byggir á þeirri aðgreiningu sem hin frumspekilega rökhyggja (ratio) gerir á frumlagi og andlagi, sjálfinu og heiminum.  Eins og við höfum bent á, þá er slík túlkun tæknileg útskýring á tækninni, nokkuð sem er afleiða virkni nútímatækninnar, fædd af henni og einmitt þess vegna ófær um að skilja hana. Það er því engin furða að verkfærið, sem telst viljalaust í sjálfu sér, geri uppreisn ef svo mætti segja, eða losi sig frá manninum, og eftir að hafa gælt við „viljann til valds“ færi það honum álíka  sértækar (astratte) fordæmingar og formælingar, sem fela bæði í sér barnalega hugaróra og fordæmingu tækninnar sem djöfullegrar uppfinningar og tortímandi vítisvélar.

Að slökkva á töfraljóma heimsins samkvæmt Max Weber

Seinna dæmið varðar þá túlkun sem skiptir tilveru mannsins í tvenn tímaskeið: hið fyrra er tímaskeið goðsagnanna og trúarbragðanna, tímaskeið sem einkennist af samkomulagi á milli hins huglæga og hins hlutlæga heims, á milli mannlegra langana og vilja annars vegar, og kosmískra viðburða hins vegar. Seinna tímaskeiðið einkennist hins vegar af því sem Max Weber kallaði Die Entzauberung der Welt – þar sem slökkt er á töfraljóma heimsins. Ekki er lengur um goðsögulegar blekkingar að ræða, aðskilnaður verður á milli verunnar og gildanna, veruleikinn sem nú er skilgreindur af vísindunum út frá hlutlægum skilmálum virðist sinnulaus um langanir og markmið mannsins. Með staðfestingu á „dauða Guðs“ opnast fyrir manninum kosmískt merkingarleysi alheimsins sem umlykur hann, þannig að hans bíður ekki annað en að tengjast hinni tæknilegu virkni æ fastari böndum, iðkandi vísindalegat „raunsæi“ og stóískt hugrekki í því skyni að halda áfram áformunum yfirdrottnun hinnar blindu náttúru, þar sem stýring hennar að framtíðarmarkmiði virðist æ ótryggari, því að lifa af.

Einkenni þessa skilnings, rétt eins og hin mannfræðilega/tæknilega túlkun á tækninni, er sú staðreynd að hann er fullkomlega afkróaður í heimi tæknivísindanna og goðsögum hans um hlutlægnina. Þannig er þessi skilningur áfram haldinn blindu gagnvart þeim jarðvegi sem hann er sprottinn af. Hann felur í raun í sér smækkun heimsins og mannsins niður í algjöra markleysu undir merki örlagabundinnar tómhyggju reynslunnar af nútímatækninni sem veritas obiectiva et unica (einn og hlutlægur sannleikur). Sannfæringin að hafa komist til botns í skilningnum á hlutunum í eitt skipti fyrir öll stærir sig nú af réttinum til að mæla sig við fortíð sem hann ekki skilur, og geta dæmt hana án áfrýjunarréttar eins og upphafin á hátind píramíða veraldarsögunnar (eins og Nietzsche komst að orði um söguhyggjuna). Með hroka valdsins, en án nokkurra gildra röksemda, veður þessi skilningur áfram í fordæmingu á blekkingum annarra, án þess að gera sér grein fyrir sínum eigin, í blygðunarlausri vissu um að sannleikur heimsins muni verða sagður komandi árþúsundum sem „álfasögur“ eins og Whitehead komst að orði um nútíma eðlisfræði og hinar „hlutlægu“ endursagnir söguhyggjunnar.

Þessi skilningur sýnir sama hrokann í þeim barnalega misskilningi að líta á heim goðsagnanna sem „huglægan“ andstætt meintri „hlutlægni“ hins vísindasinnaða manns, hafandi þannig horft framhjá því að frumlag og andlag (soggetto e oggetto) eru einmitt hugtökin sem liggja til grundvallar rökvísi (ratio) frumspekinnar og hinnar fræðilegu-praktísku heildaráætlunar nútíma tækni og vísinda. Slíkur skilningur gerir sér heldur ekki grein fyrir að hlutlægnihugsun vísindanna er einmitt hliðstæða hinnar öfgafyllstu hughyggju (soggettivismo) samkvæmt aðkallandi greinargerð sem sett var fram með óyggjandi táknrænum, virkum og lýsandi hætti hjá Descartes. Það er einmitt smækkun heimsins niður í hlut / viðfang sem felur í sér fullkomna „mannlægni“ (umanizzazione) tilvistarinnar, það er að segja smækkun sérhvers veruleika niður í vilja hins tæknivædda manns, tilgang hans og markmið. Einmitt þannig hefur hin öfgafyllsta mannhyggja (antropomorfismo) fest rætur í hjarta nútímatækninnar um leið og hún sækir nú á náttúruna frá öllum hliðum til þess að afskrifa hana niður í orku sem er nýtanleg, meðfærileg, stýrileg eins og útreiknanlegur sjóður og höfuðstóll.

Þessar síðustu ábendingar ættu að hafa skýrt með fullnægjandi hætti þau tengsl sem djúpt undir niðri tengja tæknina við svonefnda ógnarstjórn stofnananna (terrorismo istituzionale). Nútímatæknin er í kjarna sínum ógnarstjórn vegna þess að hún dulbýr hlutlægniáráttu sína sem hinn eina sanna og „hlutlæga“ skilning á heiminum. Þannig er nútímaútgáfan á hinum einu sönnu trúarbrögðum sem vanvirða og fyrirlíta bæði fræðilega og í verki sérhverja aðra mannlega starfshætti og lífshætti sem finna má í heiminum. Hin árangursdrifna iðkun nútímatækninnar er að ófyrirsynju túlkuð sem altækt gildisviðmið. Hins vegar er hagkvæmni hennar stórlega ýkt og að stórum hluta fyrirskipuð í gegnum yfirdrottnandi ógnarstjórn upplýsingatækninnar og skipulagða mótun „almenningsálitsins“. Það sem er í rauninni vélbúnaður til útbreiðslu og vaxtar hinnar tæknilegu áætlunargerðar er dulbúið sem óhjákvæmileg nauðsyn sem er bæði hlutlæg og óafturkræf. Við höfum enga gilda röksemd eða sönnun er geti tryggt okkur fyrir því að sá heimur, sem vísindin hafa lýst og hefur verið virkjaður af tækninni, sé hinn eini „sanni“, né heldur höfum við sönnun fyrir því að hann sé fullkomlega og ófrávíkjanlega „sannari“ en aðrir heimar mannlegrar reynslu. En þessi staðreynd er falin undir dulargervi hugmyndafræðilegrar ógnarstjórnar formyrkvaðrar andrökhyggju, sem ver sig einmitt með því að setja and-rökhyggjustimpilinn og formyrkvunina á mögulega andstæðinga sína, og umfram allt með því að útiloka þá frá framvindu hins „opinbera“ sannleika.

Um nýja hugsun handan frumspekinnar

En hvað getum við þá sagt um þá ógnarstjórn okkar samtíma sem kannski er mest dæmigerð og við getum skilgreint sem and-stofnanalega hryðjuverkastarfsemi? Þetta fyrirbæri er ekki síður en hið áðurnefnda nátengt kjarna og örlögum nútímatækninnar hvað varðar almenna og dæmigerða starfshætti, sem einkennast einmitt af þeim tveim þáttum sem  einkenna tæknibyltingu samtímans: það eru verklagseinkennin (carattere strumentale) og hvernig þau eru háð opinberu upplýsingaflæði. Hryðjuverkagjörningurinn sýnir sig fyrst og fremst sem hreint „meðal“ (mezzo), sem í sjálfu sér er „saklaust“, handan góðs og ills. Hann er meðal sem hinn huglægi vilji nýtir sér til að framkalla „góð“ markmið. Viljinn til hryðjuverksins telur sig í raun frjálsan af því að nota „verkfærið“ til þess svo að kasta því frá sér þegar hinu endanlega heimslokamarkmiði (fine escatologico) er náð. Þessi vilji er sér ómeðvitaður um að vera í raun afurð hins „borgaralega“ og tæknimótaða hugsunarháttar og vera þræll hans.

Í öðru lagi er hryðjuverkagjörningurinn fyrst og fremst hávaði (rumor), það er að segja fréttaefni (notitia). Hann er hávaðaverk til að skapa fréttaflutning, í þeim tilgangi að stimpla sig inn sem „opinber“ atburður er hræri við hjörtunum og leiði þau að markmiðum sínum. Þetta eru þættirnir sem gefa hryðjuverkagjörningnum merkingu. Merkingu sem í innsta kjarna sínum er tæknilegs eðlis.

Hryðjuverkagjörningurinn er svo langt frá því að vera valkostur við kerfið því hann er annað andlit þess. Hann stýrist af djúpri nauðsyn, sem verður ekki smættuð niður í sálfræðilegar eða félagsfræðilegar forsendur tilkomnar af huglægri örvæntingu eða hreinni fjárhagslegri eða efnislegri vansæld. Þessar sjúkdómsgreiningar eru hins vegar ráðandi  í skilningi hinnar vísindalegu tæknihyggju á tilverunni og ná ekki utan um rætur fyrirbærisins.

Til að skilja rætur, merkingu og örlög samtímatækninnar, þær djúpu umbreytingar sem hún hefur leitt af sér og verða sífellt ágengari gagnvart manninum,  þurfum við að leita út fyrir hina frumspekilegu og vísindalegu rökhugsun (ratio) Vesturlanda. Við þurfum, eins og sagt var í upphafi, að leita nýrra leiða fyrir hugsunina.

:::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::

[i] K. Kerényi: Prometeo: il mitologema greco dell‘esistenza umana, birt í bókinni Miti e misteri, Boringhieri, Torino 1979.

[ii] Sama rit, bls. 186-187

[iii] Sama rit, bls. 227

[iv] G. Galilei: Il Saggiatore. Útg. Nazionale.

[v] Sbr. J.J.Goux, Gli iconoclasti. Marx, Freud e il monoteismo, útg. Marsilio, Venezia 1979.

[vi] Sbr. frásögn Plutarcosar af bátsferð undan ströndum Corfú þar sem heyrðist kallað yfir hafið: „Hinn mikli Pan er dáinn!“. Úr De defectu oraculorum, 17, 1. öld e.Kr.

[vii] Heimur „ógnarstjórnarinnar“ birtist eins og við vitum í endursögn Hegels á frönsku stjórnarbyltingunni (Fyrirbærafræði andans, kafli VI, B). Tilvitnanir Sini eru teknar úr ítalskri þýðingu E.De Negri, La Nuova Italia, Flórens 1936.

[viii] „al posto della antica violenza, che separa gli uomini dalla natura e insieme li riconduce a essa tramite il sacrificio e la comunione sacrale con l‘animale…“ Hér er mikilvægt að skilja hugtakið „comunione sacrale“, en comunione þýðir bókstaflega „samfundur“ og er notað enn í dag um altarisgöngu í kaþólskum sið, þar sem söfnuðurinn „samsamast“ guðdómnum með því að dreypa á víni og borða oblátu sem hið umbreytta hold og blóð Krists. Þetta latneska tungutak varðveitir enn tengslin við horfna blótsiði sem okkar lútherska samfélag er hætt að skilja. Þýðandi.

[ix] Nánari útfærslu þessa máls er að finna í þriðja þættinum í fyrsta hluta þessarar bókar:  Passare il segno – semiotica, cosmologia, tecnica, bls. 229-340.

[x] P.K. Feyerabend: Contro il metodo, ítölsk þýðing í útg. Feltrinelli, Milano 1979, bls. 244. Um höfundinn er fjallað í tímaritinu „L‘uomo, un segno“, IV, 2-3, 1980 í ritgerðum G. Giorello, M. Mondadori, V. Vitiello, P. D‘Alessandro og M. Santambrogio.

[xi] Sama rit 243-244 passim.

CARLO SINI UM MERKINGARFRÆÐI HEIDEGGERS

TUNGUMÁLIÐ OG TÆKNIN HJÁ HEIDEGGER OG CARLO SINI

Tilefni þess að ég réðst í það að þýða valda kafla úr stórvirki Carlo Sini um Merkingarfræðina og tæknina  síðastliðið sumar er nokkuð flókin saga. Eftir að hafa fylgst með fréttum af stríðsrekstri í Evrópu í nokkra mánuði fór ekki hjá því að sú spurning vaknaði, að hvaða marki þessi styrjaldarátök ættu rætur sínar í tækninni: endalausar fréttir af ólíkum tegundum vopna og samanburði á tæknilegum mætti ólíkra tegunda vakti óhjákvæmilega spurningar um skyldleika tækni og ofbeldis: að hvaða merki ráðast styrjaldir af tæknilegum forsendum og hver eru hin raunverulegu tengsl á milli tækni og ofbeldis?

Þessar vangaveltur leiddu mig til þess að lesa ritgerð Martins Heideggers „Spurningin um tæknina“ sem upphaflega var erindi sem hann flutti í Tækniháskólanum í Munchen 1953 og var síðan gefið út í ritgerðasafninu Vorträge und Aufsätze ári seinna.

Þessi ritgerð bauð vissulega upp á athyglisverða rannsókn á eðli tækninnar, ekki síst sú niðurstaða að spurningin um eðli tækninnar væri ekki tæknilegs eðlis, heldur hefði meira með tungumálið og veruna að gera og eðli hvorutveggja. En tungumálið er kannski stórbrotnasta og skilvirkasta tækniundrið sem maðurinn hefur smíðað, en uppruni þess og virkni er okkur sífelld ráðgáta.

Það sem vakti furðu mína við lestur ritgerðar Heideggers var hvernig tungutak hans breyttist eftir því sem á textann leið, og orðin og hugtökin virtust sífellt verða langsóttari og reyna meira á þanþol orðanna hvað varðaði merkingarbærni og rætur þeirra. Ég fékk sterka tilfinningu fyrir því að Heidegger væri í þessum texta að gera tilraun til að yfirstíga hið frumspekilega eðli tungumálsins í leit að upprunalegri og trúverðugri orðræðu en við þekkjum úr daglegu tali. Í raun án þess að takast það. Til dæmis notar hann orðið „Gestell“ fyrir tækni, en það er þýskt nýyrði sem helst mætti líkja við „ísetningu“ á íslensku, það stendur fyrir ísetningu viðfangsins til úrvinnslu, ávinnings og bjargræðis fyrir manninn.

Fyrst las ég ritgerðina á ítölsku í þýðingu Gianni Vattimo. Sú þýðing verður að teljast nokkuð þrekvirki. Svo réðst ég á frumtextann og sá þann augljósa vanda sem Vattimo hafði staðið frammi fyrir við þýðingu sína, sem virðist í raun óvinnandi vegur er krefjist ekki minni átaka við tungumálið en ljóðræn endursögn hins dýpsta skáldskapar. Ég prófaði að máta íslenskuna við þessa tilraun og sá að það var mér í raun ofraun. En ef við ættum að „túlka“ einhverja niðurstöðu úr þessum merka texta Heideggers, þá væri hún sú, að tækni hefði tvíþætt eðli þar sem saman fara „afhjúpun“ (Entbergung) og „yfirbreiðsla“ (Verbergung). Þetta eru tveir eðlisþættir sannleikans í hugtakaheimi Heideggers. Sannleika sem endanlega verður að hættulegum leyndardómi þar sem hann leiðir hugann að skyldleika tækninnar og listarinnar. Þeirra tíma í Grikklandi til forna, þegar listirnar voru kallaðar „techne“. En rétt eins og rætur tækninnar eru ekki tæknilegs eðlis að mati Heideggers, þá er rætur listarinnar ekki að finna í hinu „listræna“. Ásókn mannsins í bjargræði, hvort sem þau eru af andlegum eða efnislegum toga, veldur því „neyðarástandi“ (Notstand) „að við upplifum eðli tækninnar ekki á hreinum tæknilegum forsendum, og að við njótum listarinnar ekki lengur á grundvelli hreinnar fagurfræði.“

Lokaorð ritgerðar Heideggers um spurningu tækninnar eru á þessa leið í vanburða endursögn:

Við upphaf örlagasögu Vesturlanda risu listirnar í Grikklandi í þær hæstu hæðir afhjúpunar sem þeim voru gefnar.

Þær framkölluðu nærveru guðanna, leiddu samtal hinna guðdómlegu og mannlegu örlaga í ljós.

Og listin var einungis kölluð „techne“.

Hún var einstök og margföld afhjúpun.

Hún var fróm (fromm, πρόμοϛ, promos), það er að segja staðföst í umhirðu og vernd sannleikans.

Rætur listarinnar er ekki að finna í hinu listræna (das Artistische).

Listaverkin  voru ekki einn framleiðslugeiri menningarinnar.

Hvað var listin?

Var hún kannski helguð skammvinnum hátíðarstundum?

Hvers vegna hafði hún þetta auvirðilega nafn „techne“?

Það var egna þess að  hún fól í sér framsetningu og tilkomu afhjúpunar og tilheyrði því „poietis“ (ποίησιϛ).

Þetta orð varð síðar nafnið á þeirri afhjúpun sem gegnsýrir sérhverja list hins fagra, það er að segja póesíunni, hinu skáldlega.

Skáldið sjálft færði okkur þessi orð:

„Wo aber Gefahr ist, wächst

Das Rettende auch“

(Þar sem hættan er til staðar, þar / blómstra bjargráðin líka)

Skáldið sagði okkur einnig:

„…dichterisch wohnet der Mensch auf dieser Erde.“

(„… skáldlega byggir maðurinn þessa jörð“.)

Hið skáldlega leiðir sannleikann í þann ljóma sem Platon kallaði  τò έκϕανέστατον (to ekvanestaton), það sem skín allra skærast.

Hið skáldlega gegnsýrir (durchwest) sérhverja list, sérhverja afhjúpun verðandinnar (des Wesenden) til hins fagra.

Skyldu hinar fögru listir vera kallaðar til hinnar skáldlegu afhjúpunar?

Gæti verið að sú afhjúpun, sem listirnar gera upprunalegt tilkall til, svo að þær öðlist sinn hlut í vexti og umhirðu (hegen) bjargræðisins, efni til nýs og endurvakins trúnaðartrausts?

Enginn getur sagt fyrir um hvort listin geti staðið undir þessum æðstu eðlis-möguleikum sínum, mitt í háspennu hættunnar.

Við getum hins vegar orðið bergnumin (erstaunen).

Gagnvart hverju?

Gagnvart hinum gagnstæða möguleika, að það gerist hvarvetna þar sem tæknin gerir innreið sína með ógnarhraða; að einn góðan veðurdag muni allt sem hefur með tækni að gera, sjálfur kjarni tækninnar, sýni veru sína í atburði sannleikans.

Þar sem eðli tækninnar hefur ekkert með hið tæknilega að gera skiptir meginmáli að kryfjandi hugleiðing okkar, og afgerandi viðbrögð okkar við henni, eigi sér stað á svæði sem er annars vegar hagvant á sviði tækninnar, og hins vegar á svæði sem í grunni sínum er henni gjörólíkt.

Slíkt svæði er svæði listarinnar.

Einungis þó að því tilskyldu, að hin listræna afstaða útiloki sig ekki frá því stjörnumerki sannleikans sem eftirspurn okkar beinist að.

Með slíkri eftirspurn staðfestum við það neyðarástand (Notstand) að við upplifum eðli tækninnar ekki á hreinum tæknilegum forsendum, og að við njótum listarinnar ekki lengur á grundvelli hreinnar fagurfræði.

Því áleitnari sem spurningar okkar um eðli tækninnar verða, þeim mun leyndardómsfyllra verður eðli listarinnar.

Því meir sem við nálgumst hættusvæðið, því skærara verður ljósið sem lýsir vegslóða bjargræðisins, því ákafari verða spurningar okkar.

Því hið fróma (die Frömmigkeit) felst í því að spyrja.

…………………………………………………………………………………………………………………..

Niðurstaða Heideggers er ekki einhlít, hann vantar enn hin réttu orð. En hann sér fyrir sér hættu tækninar og spyr hvort listsköpuninn geti orðið manninum til bjargræðis í fjarveru hinnar hreinu fagurfræði.

Þó þessi niðurstaða Heideggers hafi ekki fullnægt væntingum mínum, þá endar hún á hvatningu til frekari spurninga. Sú hvatning leiddi mig á slóð Carlo Sini í bindi hans um merkingarfræðina og tæknina, þar sem segja má að hann taki Heidegger á orðinu um leið og hann setur fram markverða gagnrýni á röksemdafærslu hans. Sá greinarmunur sem Sini gerir á hugtakinu „merki“ annars vegar og „tákni“ hins vegar, skiptir hér máli, og má trúlega rekja til merkingarfræði bandaríska heimspekingsins Charles S. Peirce. Sömuleiðis skiptir hér máli sú áhersla sem Sini leggur á „vítahring túlkunarfræðanna“ sem Heidegger virðist vera læstur inní. Skilningur Sini á erindi Peirce inn í hina mið-evrópsku heimspekihefð um veruna og fyrirbærin er afar athyglisverð og kallar á frekari spurningar. Ég réðist í að endursegja tvö kaflabrot í verki hans sem snerta þennan vanda. Hér kemur hið fyrra:

 

Carlo Sini:

 Túlkun og merkingarfræði hjá Heidegger

 

Kaflar úr ritinu „Dalla semiotica alla tecnica,– il cammino verso l‘evento“

Ritstj. Florinda Cambria. Birt í  2. Bindi, 1.hefti ritsafnsins Opere, útg. JacaBook, Milano 2021

Bls, 34-41

 

I.10

Hin misskilda grundvallarþýðing vandamálsins um merkið

(La misconosciuta essenzialità del problema del segno)

Í greiningu sinni á vísun merkisins í ritinu Sein und Zeit framkvæmir Martin Heidegger afgerandi stefnubreytingu sem leiðir til þeirrar niðurstöðu (að mörgu leyti til bráðabirgða) er nær hámarki í greiningu hins túlkunarfræðilega hringferlis tungumálins. Þessi stefnubreyting hefur hins vegar ekki verið skilin til fulls, hvorki af höfundinum né mörgum túlkendum Heideggers í samtímanum. Þetta hefur gerst vegna þess að vandamál merkisins og kjarni „vísunarinnar“ hafa verið fullkomlega vanrækt í hinni merkingarfræðilegu hugsun. Þetta sést best af efnislegri fátækt greiningarinnar á merkinu í Sein und Zeit, sem engu að síður er sögð hafa verið meginforsenda niðurstöðunnar um heimseðli (mondità) og upplausn spurningarinnar um Dasein  (til-veru). Það efnislega klúður í þeirri greiningu á vandamálum tungumálsins sem fylgir í kjölfarið er skýrasti vitnisburðurinn um þetta. Heidegger virðist ekki hafa á hreinu hvað hann er að segja þegar hann talar um merkið. Reyndar hefur hann þar tekið gagnrýnislaust í arf skilningin sem fram kemur í Logische Untersuchungen eftir Edmund Husserl.

Heidegger áttar sig til dæmis ekki á því að öll greining tilvistarstefnunnar er í ljósi merkisins.  Sjálfur lýsir hann því yfir að sérhver hlutur hafi í sér eðli vísunarinnar (er „eitthvað fyrir…“), en honum láist að draga af þessu þá náttúrlegu afleiðingu að sérhver hlutur feli í sér eðliseinkenni merkisins. Samsvarandi ályktun ætti hann að draga af verundinni (esserci – Dasein) en túlkunareðli þessara hugtaka verður ekki skilið öðruvísi en innan merkjasabands (relazione segnica). Þvert á móti hugsar Heidegger merkið einfeldnislega: eins og vísir, heilkenni, einkenni, forspá o.s.frv., það er að segja á grundvelli flokkunar sem er ekki bara mjög tilviljanakennd og ófullkomin, heldur fyrst og fremst mótuð af hinni raunvísindalegu fyrirbærafræði (fenomenologia empirica). Hann telur sig geta auðveldlega afgreitt merkið eins og við afgreiðum til dæmis verkfæri trésmiðsins: hamarinn, hefilinn, sögina, naglbítana o.s.frv.: þetta eru tæki sem þjóna vinnunni… Þess vegna getur hann skrifað: „vísunin (il rimando) sem hinn verufræðilegi grunnur merkisins, getur af þessum sökum ekki verið skilinn sjálfur sem merki.“

Þessi setning felur í sér tvíræðni og misskilning. Augljóst er að ef „merki“ lýsir „einkennum“, „heilkennum“, „áverkum“ og öðru þvílíku, þá getur vísunin ekki verið annað heilkenni eða annað einkenni. En grundvallarvandinn er: hvernig og hver setur fram heilkenni sem „merki“? Á hvaða grundvelli gerist það, ef ekki er vísað til reynslunnar af vísuninni? Það að vísa er merkjasamband (relazione segnica), hvað annað getur það verið?

Heidegger ruglar saman almennum merkjum, sem hafa þegar gengið í gegnum áþreifanlega flokkun sem afmarkaðir hlutir, og sjálfu merkjasambandinu.  Auk þess ruglar hann saman hinni verufræðilegu tilvist merkisins (að vera flokkað í merkjasambönd sem…) en það á við um hlutina sem vísa, og þau merki sem eru til fyrir hefðarsakir (á grundvelli þegar tilfallandi tungumáls). Þessi síðasti samruglingur er engu að síður meginreglan í hinni raunvísindalegu merkingafræði (semiotica empirica) okkar samtíma. Einnig hún horfir framhjá nauðsyn þess að greina setlög merkisins: merkjasamböndin (la relazione segnica) (eða þann verufræðilega eiginleika vísunarinnar, þar sem tengjast saman maðurinn, heimurinn og allir hlutir heimsins (i pragmata): tungumálið og hin hefðbundnu merki.

Eðli þessa misskilnings, sem við munum skýra frekar þegar á líður, ákvarðar ekki bara tilfallandi upplausn hinnar túlkunarfræðilegu rannsóknar Heideggers. Þvert á móti leiðir hann til túlkunarfræðilegrar landeyðingar. Endanlega útkoman verður „þögn“ hugsunarinnar, því ekki er um neina undankomuleið að ræða undan því sem við köllum í dag „tómhyggju“ (nichilismo) sem endimörk hinnar frumspekilegu hugsunar. Af þessu leiðir einnig ómöguleiki þess að hugsa uppbyggilega „kjarna tækninnar“ sem hið örlagaþrungna vandamál mannsins og samtímans. Út frá þessum misskilningi höfum við mætt þeim tveim valkostum (báðir óásættanlegir), sem felast í uppgjöf gagnvart tómhyggju tækninnar annars vegar (kannski með glaðværri yfirbreiðslu), og hins vegar í dulspekilegum flótta á vit hinnar þöglu og ennþá mjög svo „húmanísku“ biðstöðvar þess sem enginn þekkir.

Þessar vangaveltur sem hér verða á vegi okkar nú, munu ekki ná áhrifamætti sínum og þungavigt, því þær eru hér komnar með löngum fyrirvara miðað við það langa ferðalag sem við eigum fyrir höndum. Þær eru engu að síður settar hér fram sem leiðbeinandi viðvörun, sem bíður þolinmóð sinna komandi sönnunargagna og sinnar útlistuðu merkingar.

Fyrst um sinn er hins vegar betra að halda áfram að fylgja slóð Heideggers.

 

I.11

Merkingarbærnin og túlkunin

(La significatività e l‘interpretazione – eða „að hafa túlkað til að geta túlkað“)

Vegferð Heideggers á sér mikilvæga áfanga í hugmyndinni um  „merkingarbærni heimsins“. Verundin (l‘esserci, Dasein) er stöðugt í túlkunarsambandi við eigin veru, það er að segja heim sinn, og „veru-sína-í-heiminum“. Þegar verundin túlkar sjálfa sig í veru sinni er hún ávallt í nákomnu sambandi við „nærveruna“, sem er forsenda sjónarhorns hennar og dvalar (í heiminum). Nú er heimurinn í sjálfu sér hinn túlkunarfræðilegi sjóndeildarhringur (orizzonte ermeneutico). Samvitundin (la compresione)[i] um heiminn sem er verundinni eiginleg, er sjálf heimsveran (mondità). Þessi samvitund er grundvöllur heildarsambanda er gera merkingarbærni heimsins mögulega. „Hún tjáir byggingu heimsins, eða það sem er hinn varanlegi íverustaður hennar“.

Sem kunnugt er þá vísar verundin sem slík til ákveðins heims. Heidegger segir að henni fylgi í meginatriðum það að vera vísaður. Af þessu leiðir að

„Merkingarbærnin sem verundin (l‘esserci) er ávallt hlutbundin, felur í sér verufrtæðilegan möguleika þess að verundin geti með samvitund sinni (comprensione) og túlkun opnað eitthvað sem „merkingar“ (significati), er síðan skapapa möguleika fyrir orðið og tungumálið.“

„Samvitundin“ og hinar „tilfinningalegu aðstæður“ eru hér grundvallarþrep sem stíga þarf til þess að ná til orðsins og tungumálsins. Þessi þrep, sem við látum okkur nægja að nefna hér með nafni, og ættu að vera vel kunn öllum lesendum Sein und Zeit, varða leið okkar að lokum til „túlkunarinnar“ (Auslesung).

Túlkunin er úrvinnsla þeirra möguleika sem samvitundin leggur fram. Það er ekki samvitundin sem sem sprettur af túlkuninni, heldur þvert á móti: þegar við höfum fyrirfram gefna samvitund (pre-compresione) getum við túlkað, það er að segja unnið merkingarbærni heimsins út frá for-skilningi okkar. Hér verður til það sem við köllum hið túlkunarfræðilega hringferli („circolo ermeneutico“). Með öðrum orðum, þá sýnir hin samvitaða sýn (visione compredente) þegar og mætir hinu nothæfa (hamarinn sem hamar til að…, borðið sem borð til að… o.s.frv.)

Við þurfum því ekki að gera grein fyrir hinni túlkandi samvitund í „skilgreindri fullyrðingu“ (það er að segja með fullyrðingu og dómsúrskurði tungumálsins): „Hin einfaldasta for-umsögn (visione pre-predicativa) hins nýtanlega er þegar í sjálfri sér meðvituð samnýting („comprendente-utilizzante“).

Engu að síður kallar túlkunin á tvær frumforsendur. Sú fyrri varðar fyrir fram gefinn vilja til túlkunar, ásetning sem stafar af því að vera frá upphafi hluti af heildarbyggingu tiltekinnar merkingarbærni. Seinni forsendan er sú að afhjúpun og nálgun hins „samvitaða“ verði til undir leiðsögn tiltekins sjónarhorns (prospettiva) er festi í sessi sjónarhornið er stjórni túlkuninni. Þessar tvær forsendur segja okkur að mati Heideggers, að aldrei sé um hlutlaust mat á tiltekinni heimild að ræða. Slíkt ímyndað hlutleysi er einungis einfeldningslegur draumur sagnahefðarinnar og nútíma vísindahyggju.  Sérhver „fyrirliggjandi heimild“ sem svo er kölluð „er ekkert annað en augljós og óumdeilanleg skoðun túlkandans, ályktun sem er óhjákvæmilega innifalin í allri túlkunarviðleitni eins og það sem telst „fyrirliggjandi“ grundvöllur sérhverrar túlkunar“.

Hvað er lagt til grundvallar sérhverrar túlkunar? Það sem lagt er til grundvallar er tilgangurinn (il senso, merkingin og markmiðið)[ii], merking og markmið verunnar (verundarinnar). Spurningin um merkingu og markmið verunnar og for-samvitundina um hana finnur hér sitt fyrsta svar. For-samvitund (pre-compresione) og markmið og merking verunnar felast í verundinni sem verunni-í-heiminum í hlutverki túlkandans.

Hvernig er verundin í heiminum? Hún er þar eins og  „útkastið“ (essere gettato): hugtakið esserci[iii] hefur alltaf sitt afturbeygða viðskeyti „ci“ því veran fylgir ávallt eigin verund. Með hvaða hætti virkar „ci“? Á bak við það liggur tilfinningaskalinn (tonalità emotiva) og samvitundin (comprensione). Sjóndeildarhringur heimsins -eða heimsvera heimsins – opnast í gegnum „útkast“ tilfinningaskalans og túlkun samvitundarinnar. Þessi heimsvera (mondità) er merkingarbærnin (þar sem sjóndeildarhringur heimsins fellur, eins og sagt er, saman við hinn túlkandi (hermeneutiska) sjóndeildarhring; eða með öðrum orðum sagt, þá er hann sú for-samvitund sem við gengum út frá í upphafi). Opnun hins túlkunarfræðilega (hermeneutiska) sjóndeildarhrings gerir það að verkum að hin heimslæga vera (ente intramondano) sýnir sig, og við getum tileinkað okkur hana með frumlægum rétti sem nýtanleika. Þannig verður hið nýtanlega (i pragmata) meðtekið af okkar forsjálu umhverfisumhyggju í gegnum tilfinningaskala samvitundarinnar. Nánar tiltekið: hið nýtanlega er meðtekið sem tæki til…, eins og tilvísun. Þessi tilvísun afhjúpar í gegnum merkið heildarmynd vísananna, það er að segja merkingarbærni heimsins.  Þannig öðlast heimurinn „tilgang“ sem er innifalinn í samvitundinni og gerir sig greinanlegan í túlkuninni. Sérerhver túlkun þarf því að hafa meðtekið innifalda túlkunarvirkni, hún þarf því með einhverju móti að hafa túlkað til þess að geta túlkað. Þannig blasir við augum okkar vandamál hins „hermeneutiska hringferlis“.

I.12

Hringferli túlkunarfræðinnar

(Il circolo ermeneutico)

„Circulus vitiosus Deus“

(Friedrich Nietzsche)

Sérhver túlkun sviðsetur ákveðið sjónarmið, tiltekið sjónarhorn, tiltekna afstöðu. Sjónarhornið felur í sér for-samvitundina um það sem á að túlka. For-samvitund merkir: að búa þegar yfir grófri túlkun, að hafa þegar fundið sér sjónarhorn þar sem hin útlagða túlkun á sér greinanlegt ættarból. Það er einmitt túlkunin sem segir okkur að sérhver verði það sem hann er, hvernig  hann fram-kallar (pro-getta) sitt eigið tilkomna útkast með túlkun eigin veru. Allt þetta birtist okkur til umhugsunar í hugtakinu „esserci“ (sem má skilja sem „að vera til-kallaður“ – innsk. olg.)

Það sem hér hefur verið sagt um túlkunina afhjúpar hins vegar tiltekinn vítahring (circulus vitiosus), þar sem gengið er út frá því sem menn vildu gegnum-lýsa (di-mostrare) eða sanna.

Hinn vísindalegi hugsunarháttur samtímans hefur hins vegar sett sig upp á móti þessum vítahring, eins og Heidegger segir: „ekki síst þar sem hin viðtekna samvitund (comprensione) byggir á hinni almennu sannfæringu fólks og heimsins sem það lifir í“. Þetta er ástæða þess að sagnaritunin er skilin frá hinum „ströngu“ og „nákvæmu“  vísindum: Sagnfræðin er ekki fullkomlega vísindaleg (eins og sjá má af því að sagnaritunin og önnur húmanísk hugvísindi hafa sína eigin vísindalegu aðferðafræði, vegna þess að hið sérstaka túlkunarverksvið þeirra getur aldrei losað sig fullkomlega úr viðjum hins hermeneutíska hringferlis túlkunarfræðanna. Þegar sagnfræðingurinn gefur fortíðinni merkingu getur hann aldrei losað sig að fullu undan eigin sjónarhorni, vali á sínu persónulega (eða huglæga) sjónarmiði eða undan fordómum síns samtíma.  Um þetta skrifar Heidegger:

„Þar sem ekki verður hjá því komist að skapa sér sjónarhorn enda vísindi sagnfræðnnar á að sætta sig við ónákvæmari aðferðarfræði. Menn telja sig með einhverjum hætti geta yfirstigið þennan skort á nákvæmni með því að gera tilkall til „andlegrar merkingar“ „viðfangsefnisins“. Sagnfræðingurinn hefði vissulega þá óskastöðu að hægt væri að losna undan þessu hringferli og geta haldið í vonina um að sagnfræðiritunin gæti einn góðan veðurdag fundið fastan grunn til að standa á, er væri óháður höfundi sínum, eins og menn telja að gildi um náttúruvísindin. En ef menn sjá vítahring í þessu hringferli, og ef menn stefna að því að losna undan honum eða „hafa á tilfinningunni“ að um óbætanlega ónákvæmni sé að ræða, þá hafa menn misskilið samvitundina (la comprensione) í einu og öllu.“

Hvað á Heidegger hér við? Að með því að hafna „hringferlinu“ geti hin nútímalega hugsun íklæðst þekkingarlegum búningi náttúruvísindanna (en einnig þau fela í sér túlkun)? Þessi búningur, sem er afleiddur en ekki upprunalegur, (hann endurspeglar ekki hina upprunalegu samvitund og túlkun verunnar-í-heiminum hvað varðar sjálfa „afstöðuna“ (rispetto) og „sjónhendingu“ (colpo d‘occhio) vísindanna.

Málið snýst ekki um að hafna hringferlinu. Heidegger segir að hið mikilvæga „snúist ekki um að komast út úr hringferlinu, heldur að starfa innan þess með viðeigandi hætti“. Hringferlið „tilheyrir byggingu merkingarinnar (senso), sem er fyrirbæri er stendur föstum rótum í grundvallarmerkingu verundarinnar (esserci) og hinnar túlkandi samvitundar (comprensione). Sú vera sem er veran-í-heiminum fylgir sinni eigin veru og hefur hringferlisbyggingu sem er af verufræðilegu tagi.“

En hvernig er hægt að starfa innan þessa hringferlis „með viðeigandi hætti“? Almennt gildir að láta það ekki festast í sessi á grundvelli persónulegra fordóma okkar, á grundvelli „almenningsálitsins“ eða þess sem „sagt er…“ Þess í stað ætti túlkunin að stuðla að því að sjónarhornið spretti af sjálfu sér, einmitt eins og „hlutskiptið“ sem skapast af útkasti okkar, að vera „varpað inn á völlinn af örlögunum“. Þessi örlagaskilningur Heideggers samsvarar að stórum hluta greiningu Peirce á mismuni á „einstaklingsbundnum“ og „opinberum“ sannleika.

(Samanber kafla Heideggers um „almenningsálitið“ í Vera og Tími, í íslenskri þýðingu hér á hugrunir.com: https://wp.me/p7Ursx-1af)

I.13

Merki, tungumál og heimur

(segno, linguaggio e mondo -vandinn að tala án mótsagna)

Hvernig getum við komið orðum að merkingu túlkunarinnar? Fyrst og fremst þurfum við að átta okkur á að þessi greining er undirstaða framsetningar merkinganna, sem að sínu leyti verða mögulegar vegna almennrar merkingarbærni verunnar-í-heiminum. Engu að síður kemur túlkunin orðum að án þess að leita beinlínis að dómskvaðningum (að logos). Heidegger segir að „skorturinn á orðum þýði ekki skort á túlkun“. Öllu heldur sé um það að ræða, hvort túlkunin meðtaki eða hafni hinu nýtanlega við ríkjandi og fyrirfram gefnar (preveggente) umhverfisaðstæður. Hins vegar byggja möguleikar tungumálsins og orðsins – það er að segja hin málfarslega framsetning – á túlkuninni.

Hér vegum við og metum muninn á spurningunum sem settar voru fram í upphafi á grundvelli málvísinda Saussure. Tungumálið ræðst ekki í greiningu á fyrirliggjandi óreiðukenndum og formlausum aðstæðum, sem væru í þessu tilfelli hugsunin og hið raddbundna hljóð. Ennþá síður greinir það heiminn (sem fyrirfram var óreiðukenndur) í þær merkingar og þá hluti sem mynda heiminn. Spurningarnar um „stað“ hins málfarslega merkis og hinn eðlisbundna raunveruleika /ekki raunveruleika finna engu að síður sitt svar. Vegna þess að tungumálið er í heiminum og það er þessi í-vera sem veitir því með einhverjum hætti raunveruleika.

Engu að síður er heimurinn ekki lengur hugsanlegur hér sem einföld nærvera tiltekinnar heildar „hluta“, og tungumálið er ekki raunveruleiki sem dvelur í heiminum eins og fiskurinn í vatninu eða lykillinn í skráargatinu. „Heimur“ myndar hið túlkandi hringferli verundarinnar (esserci), það er að segja tiltekna afstöðu, sem tengir saman (colloca) og veitir innsæi í sjálfa verundina og heiminn í höfuðskautum hennar í gegnum samstillinguna. „Heimurinn“ er þannig sú „vera-í-heiminum“ sem tilheyrir hinu fyrirfram gefna (prveggiante), hagræðandi (manipulante) og nýtingarvæna (usante – i pragmata). Veran-í-heiminum opnar fyrir möguleika nytsemdarinnar þar sem hún felur í sér óendanlega vísun í hringferli „heimsverunnar“ (mondità) (í það að hafa alltaf túlkað til þess að geta túlkað). Hringferlið „heimur-túlkun“ felst einmitt í þessu, sem er staður tungumálsins. Hann færir orðinu efnisþáttinn sem felst í sambandinu „merkingar-hlutir“ eins og eitthvað sem einfaldlega er til staðar og því nefnanlegt.

Hið málfarslega merki á þannig sinn stað í túlkuninni og samvitundinni, sem eru bundin tilfinningaböndum. En túlkun, samvitund, tilfinningaskali, framsett áform, pragmata, nýtanleiki og að lokum verund og heimur, eru að sínu leyti merkjalegar afleiður (funzioni) er koma á undan tungumálinu  (hinu málfarslega merki) enda þótt Heidegger hafi ekki séð það fyrir.

Verundin (l‘esserci) eins og sá „túlkandi“ sem stendur stöðugt frammi fyrir því verkefni að túlka eigin veru (veru-sína-í-heiminum) og hefur túlkað hana frá upphafi vega, og heimurinn, sem staður heimsverunnar (mondità) (staður merkingarbærninnar) sem hefur alltaf verið til staðar, eru ennþá tvíræð og óáþreifanleg fyrirbæri að því leyti að Heidegger nær ekki þeirri verufræðilegu vísun merkisins sem liggur þeim til grundvallar og tengir þau saman.

Einnig tungumálið reynist þannig leyndardómsfullt í kjarna sínum. Við sjáum ekki enn hvernig við getum talað án mótsagna.

I.14

Vandamál málvísindanna

(Problemi della linguistica)

Hver er hin sérstaka aðferð hinnar málfarslegu framsetningar? Í fyrstu nágast Heidegger vandamálið undir merki fullyrðingarinnar: „Fullyrðingin er athöfn sem ákvarðar og miðlar“.

Fullyrðing er hins vegar tvírætt hugtak. Heidegger greinir þrenna þætti þess. Í sinni upprunalegustu merkingu felur fullyrðingin í sér „yfirlýsingu“ (logos sem apofansis). Um er að ræða sýningu nýtanleikans í nýtileika sínum. Í öðru lagi merkir fullyrðing „ákvörðun“ í gegnum forsögn (til dæmis  þegar sagt er „þungt“ um „hamarinn“). Þannig höfum við náð úrskurðinum (il giudizio). Þessi tenging er hins vegar ekki upprunaleg. Sem dómsúrskurður fullyrðingarinnar leysir hann umsögnina (l predicato) sem felst í verunni/hlutnum undan ógreinanleika sínum. En til þess að slíkt sé hægt þarf fyrst að styðjast við forskoðun (pre-visione), sjónarhorn á hlutinn. Á bak við dómsúrskurðinn liggur alltaf túlkun og sjónarhorn hennar (það er að segja hinn hermetíski túlkunarhringur). Þannig sjáum við greinilega að öll rökfræðin (og frumspekin sem byggir á henni) er í villu, eða réttara sagt ber hún fram staðlausar fullyrðingar, þegar hún meðtekur úrskurðinn sem réttan og upprunalegan stað sannleikans: dómsúrskurðurinn er einungis afleiddur staður (luogo derivato). Þessi villa hefur einnig ratað inn í nútíma rökfræði, þar sem úrskurðurinn byggir á kerfi samsvarana er verða viðfangsefni útreikninga. Þessi nútíma röksemdafærsla (logistica) telur sér trú um að hafa sett vandamáli sannleikans fram með ströngum hætti. Í raun og veru gerir hún það ennþá með aðferð sem er hvorki heil né upprunaleg (genuino né originario). Hin nútímalega röksemdafærsla virkar á yfirborðinu vegna þess að hún horfir fram hjá hinum túlkunarfræðilega (hermeneutíska) sjónarhóli. Hún á það sammerkt með hinni frumspekilegu hefð, að gleyma vandamálinu um merkingu verunnar. Hin nútímalega röksemdafærsla (la logistica) byggir því heiminn með einfeldningslegum hætti, rétt eins og fiskurinn í vatninu og lykillinn í skráargatinu. Þessi röksemdafærsla, sem telur sig hafa sett fram svo róttæka gagnrýni á frumspekina, er ekki annað en ýtrasti afleggjari hennar, með sama hætti og tæknin.

Að lokum merkir fullyrðingin (þriðja grein fullyrðingarinnar hjá Heidegger) „(fjöl)miðlun“ og „tjáningu“ (comunicazione og espressione). Sem slík tekur hún í arf báðar fyrri merkingarnar. Fjölmiðlunin á það sameiginlegt með hinum (í gegnum fullyrðinguna) „að vera fyrir hið yfirlýsta“. Frekar en að afhjúpa viðfangsefnið gerist það oftar að (fjöl)miðlunin breiði yfir það og gerist staðgengill þess með orðræðu sem er nær því vera „heyrst hefur…“ Bæði Heidegger og Husserl telja að tungumálið glati upprunalegum áhrifamætti sínum í gegnum (fjöl)miðlunina. Það gerist með því að við meðtökum orðið (logos) fullkomlega „útflett“ (dispiegata) í fjölmiðluninni, en ekki í sinni upprunalegu mynd.  Hvernig getum við fundið hið upprunalega form tungumálsins? Hér höfum við spurninguna sem er hið raunverulega vandamál í Sein und Zeit, bæði hvað varðar framsetningu spurningarinnar og svarið við henni.

Leiðarþráðurinn í tilraunum Heideggers til að veita svar við þessari spurningu er einmitt hugtakið (fjöl)miðlun (comunicazione), sem hann skilur í upprunalegri merkingu en við erum vön. Að þessu leyti fjarlægist Heidegger sjónarmið Husserls með afgerandi hætti, hefur reyndar endaskipti á röksemdafærslu hans.

„Í fjölmiðluninni (comunicazione) verður til framsetning samvitaðrar sam-veru (essere-assieme comprendente). Hún raungerir sameiginlega þátttöku (compartecipazione) á hinum sameiginlega tilfinningaskala og í sam-vitund sam-verunnar. Fjölmiðlunin felur ekki í sér yfirfærslu upplifaðrar reynslu, skoðana eða væntinga, frá innrými tiltekinnar hugveru til innrýmis annarrar. Sam-verundin (con-esserci) hefur þegar verið afhjúpað í hinum sameiginlegu tilfinningalegu viðbrögðum og í meðtekinni sam-vitund. Sam-veran er raungerð í orðræðunni með tjáningarfullum hætti. Hún er því þegar til staðar, en ekki með sameiginlegri þátttöku, því hún hefur ekki enn verið staðfest og aðlöguð […] Með talinu tjáir verundin sig, ekki vegna þess að hún hafi áður verið innilokuð í innrými er væri andstæða hins ytra, heldur vegna þess að sem vera-í-heiminum er hún þegar „fyrir utan“ með samvitundinni (comprendendo). Það sem tjáð er, er einmitt úti-veran, hin sérstaki háttur tilfinningaskalans.“

En hvernig verður tjáningin möguleg, talandinn? Almennt er tungumálið tjáning orðræðunnar (Grikkir kölluðu hana logos, en þeir hugsuðu á upprunalegri hátt, en ekki í hinum vitsmunalega tillærðu afleiðum vísindalegra og faglegra greininga, þeir áttu sér ekki hugtak á borð við „tungumál“). Hvað er orðræðan? Orðræðan er tilvistarlegur bróðir (coorginario) aðstæðna tilfinningaskalans og samvitundarinnar; hún mótar hina mögulegu samvitund „-st“-viðskeytisins í að talast-við; í þeirri skynjun eða samvitund sem einkennir einmitt „ci“-viðskeytið í esserci eða verundinni. Verundin með sinn tilfinningaskala skilur í gegnum túlkunina; þannig nær „heildarmynd merkinga samvitundarinnar til orðsins. Merkingarnar brjóta sér leið inn í orðin.“

Hvernig „brjóta þau sér leið“? Hvernig „komast“ þau? Heidegger segir okkur það ekki. Hann undirstrikar bara, að við höfum annars vegar merkingarnar og hins vegar „orðin-hlutina“. Saussure ályktaði með sambærilegum hætti að nefnarinn (il significante) og hið merkta (significato) ættu sér ekki tilvist á undan merki tungumálsins.

Til þess að orðræðan verði „orð“, það er að segja tungumál og miðlun (comunicazione) þarf hún hins vegar að verða „heimslæg“ (mondano), það er að segja verða aðgengileg „sem veraldlegur hlutur (ente intramondano), sem áhald eða nytjahlutur (utilizzabile)“. Hér nær Heideggar að mæta Husserl í skilningnum á fyrirbærafræðinni almennt. „Hægt er að brjóta tungumálið upp í orð-hluti sem eru einfaldlega til staðar“. Þannig öðlast orðræðan vídd, sem er ekki eins sönn og upprunaleg (og getur þannig orðið viðfangsefni vísindalegra athugana). En hið djúpa eðli orðræðunnar er ennþá óljóst. Til hægðarauka býður Heidegger okkur upp á aðeins tvo tilvistarlega möguleika er byggja á orðræðunni: „hlustunina“ (l‘ascoltare) (að hlusta á og skilja hina) og „þögnina“ (tacere) (eins og það að hafa eitthvað dýpra og merkingarþrungnara að segja sem þaggar niður í „blaðri“ hins vanburða tungumáls). Á grundvelli þessara athugana dregur Heidegger þá ályktun að

fram þurfi að fara endurskoðun á málvísindunum út frá upprunalegri verufræðilegum grunni […] Efna þarf til rannsóknar á þeim grundvallarformum er gera sérhverja framsetningu mögulega og skiljanlega í merkingum, án þess að takmarka sig við hinn sam-veraldlega (intramondano) hlut er leiði til fræðilegra hugleiðinga og eru tjáðar í tilgátum (propositioni) […] Hin heimspekilega rannsókn þarf engu að síður að einsetja sér í eitt skipti fyrir öll að spyrja þeirrar spurningar, hver sé veruháttur tungumálsins almennt, rannsóknin þarf líka að segja til um hvort tungumálið hafi veruhátt (modo d‘essere) hins veraldlega nytjahlutar eða hvort það hafi veruhátt verundarinnar, eða kannski hvorugt. Hvernig þarf vera tungumálsins að vera til þess að hægt sé að tala um „dautt tungumál“? Hvað merkir það verufræðilega, þegar sagt er að tiltekið tungumál þróist eða hrörni? Við höfum málvísindi, en engu að síður er vera hlutarins sem þau fjalla um áfram falin í myrkrinu, ekki bara það, heldur er sjóndeildarhringur þessara vísinda hulinn myrkri. Er það kannski tilviljun að merkingarnar séu fyrst og fremst og helst af öllu „veraldlegar“ (mondani), forritaðar af merkingarbærni heimsins og fyrst og fremst „innan rýmisvíddar“ (spaziali)? Eða að um sé að ræða „staðreynd“ framborna af tilvistarlegri og verufræðilegri  nauðsyn? Hvers vegna?

Málvísindi samtímans hafa ekki veitt nein svör við slíkum spurningum. Þau eru varla í stakk búin til að mæta þeim, veita þeim „áheyrn“, og „skilja“ þær (comprenderli) þar sem þau skortir nauðsynlega verufræðilega-hermetíska samvitund (consapevolezza). Þetta á líka við um Heidegger sjálfan, sem engu að síður á skilið viðurkenningu og mikið lof fyrir að hafa haft kunnáttu til að setja spurninguna fram með djúpvitrum hætti: einnig hann horfir fram hjá því hvaða leið sé í boði til að nálgast vandann. Það er í þessu samhengi sem merkingarfræði Peirce hefur sitt að segja. Nokkuð sem merkingarfræði og málvísindi samtímans ráða ekki við. Þótt þau geri sér oft dælt við Peirce reynast þau enn einu sinni ófær um að hlusta og skilja.

[i] Comprensione er venjulega þýtt sem skilningur á íslensku, en forskeytið com- vísar til þess að um sameiginlegan skilning er að ræða. Þar sem þessi þáttur er mikilvægur í hugsun Heideggers (og Sini) er orðið hér þýtt sem „samvitund“, sem er ekki nákvæmlega það sama, en undirstrikar hins vegar að hér sé ekki átt við einstaklingsbundinn skilning, heldur sameiginlegan tilteknu samfélagi eða heimi.

[ii] Ítalska orðið „senso“ hefur margræða merkingu, t.d. vit, skyn, skynfæri, skynjun, tilfinning, þýðing, merking o.s.frv. Beinast liggur kannski við að þýða það hér sem merkingu, en það býður upp á misskilning, því hér er átt við merkingu er á sér stefnu eða markmið fram í tímann, til dæmis þá að „lífið hafi merkingu“. Slík merking á sér ekki einhlítt svar, og því getum við ekki fundið einhlíta eða „rétta“ þýðingu í þessu samhengi.

[iii] Ítalska hugtakið esserci, sem hér hefur verið þýtt sem „verund“ er myndað af sögninni essere (=að vera) og afturbeygða viðskeytinu „ci“ sem samsvarar að vissu leyti íslenska afturbeygða viðskeytinu „-st“ (til dæmis að fara og að farast, gera og gerast o.s.frv. Afturbeygt viðskeyti við sögnina að vera er ekki til á islensku, en á bak við þetta viðskeyti felst alltaf virk þátttaka eins eða fleiri. Þannig myndi sagnmyndin „gettarci“ á ítölsku merkja að kasta sér, þar sem frumlagið er innifalið í sögninni að kastast. „Essere gettato“ merkir hins vegar að einhverjum er kastað í eða á e-ð. Heidegger skilur það þannig að manninum hafi verið kastað í heiminn af ókunnum aðila og ókunnum ástæðum, í raun og veru sér að ósekju.

Albrecht Durer: Melancolia I. Koparstunga  1514. Listin og tæknin andspænis óleysanlegri ráðgátu hins algilda sannleika.

CARLO SINI: SAMRÆÐA UM HLUTINN, MERKIÐ OG FJARLÆGÐINA

Hluturinn sem merki samkvæmt Carlo Sini

 

Kaflinn um „Heimspekina og merkingarfræðina“ í heildarútgáfu verka Carlo Sini: Opere, Volume I, Tomo I.

Fyrra bindið (af tveim) í fyrstu bók þessarar heildarútgáfu hefur titilinn „Lo spazio del segno – Semiotica ed ermeneutica“ (Rými merkisins – Merkingarfræði og túlkunarfræði)
Fyrsta bindið í ritsafni Carlo Sini, sem kom út hjá Jaca Book 2017 (470 bls.) í ritstjórn Florindu Cambria, fjallar að stórum hluta um uppgjör Sini við Nietzsche og Heidegger og frumspekina í heild sinni og framlag hans til merkingarfræðinnar, þar sem Sini leiðir hugmyndir bandaríska heimspekingsins Charles S. Peirce um "merkin" inn í þá heimspekilegu deilu sem hefur einkennt  samtímann og verið lýst sem gjá eða klofningi milli  heimspekiskóla sem kenndir hafa verið við „meginlands-heimspeki“ annars vegar og heimspekiskóla hins engilsaxneska pragmatisma hins vegar. Í þessari deilu gegnir tungumálið mikilvægu hlutverki og hið frumlega í nálgun Sini felst ekki síst í því að tengja merkingarfræði Peirce inn i þessa deilu og hugmyndir hans um virkini „merkisins“, sem er í raun samheiti yfir orðin, myndirnar og táknin sem við notum til að nálgast hlutina og okkur sjálf. Í þessu samhengi eru „hlutirnir“ (þar með taldir mennirnir) kynntir til sögunnar sem „merki“. Greining Carlo Sini á virkni merkisins er hér sett fram í samtalsformi á snilldarlegan hátt og skýrir fyrir okkur á tiltölulega auðskildu talmáli þær heimspekilegu ráðgátur sem felast í venslum mannsins, merkisins og hlutarins, ráðgátur sem hafa verið til umræðu hér á vefnum í textum Kants, Nietzsche, Heideggers, Lacans og Agambens. Þessi kafli er framhald undangenginnar umræðu Sini um heimspekina og merkingarfræðina, um  formgerðarstefnu  Claude-Levi Strauss og Saussure, um fyrirbærafræði og and-húmanisma Heideggers og Strauss, húmanisma og tilvistarstefnu Sartre og fornleifafræði hugmyndanna hjá Foucault. Þessi kafli veitir okkur í stuttu máli nýja og skýra innsýn í þá umræðu sem ég hef dregið fram hér á vefnum í endursögn á textabrotum þessara höfunda. Auk þess má lesa þennan kafla sem stutta kynningu á frumlegasta framlagi Sini í þessari umræðu, en það er tenging fyrirbærafræðinnar, túlkunarheimspekinnar og hins bandaríska pragmatisma í nokkuð heilsteypta heimspekilega hugsun. Vonandi tekst mér að skrifa samantekt með samanburði á hugmyndum þessara höfunda á næstunni og birta hér á vefnum.

Merkið og fjarlægðin

Þegar talað er um endalausa merkingarfræði (semiosi infinita) rekumst við oft á -með hrapallegum afleiðingum – þá almennu og venjubundnu hefð að líta á merkið sem „natúralískt“ fyrirbæri: merkið er þannig skilið sem hver annar hlutur meðal hluta: við höfum tréin, fljótin, hallirnar, bílana, hundana, börnin og svo merkin (í almennum skilningi: til dæmis merki hins talaða og ritaða tungumáls, umferðarskiltin, stafróf heyrnarlausra-mállausra, hljómkall trompetsins, allt svið táknanna, „heilkennanna“ o.s.frv.) Þessi almenni skilningur byrjar hins vegar að missa fótfestu sína þegar við áttum okkur á að merki er aldrei hin beina merking tiltekins hlutar (kannski væri réttara að segja meints hlutar) heldur vísun í annað merki.

— „Meintan“ hlut? Ert þú kannski að halda því fram að hlutir eða viðföng séu ekki til? Hvaða merkingarfræðilega öfgahughyggja er hér á ferðinni?

— Í vissum skilningi vildi ég einmitt segja þetta.

— En hvaða tilgangi þjónar það að skilgreina sem merki allt það sem almennt og ekki af ástæðulausu hefur verið kallað hlutir (náttúrlegt fyrirbæri eins og tré, eða tilbúið fyrirbæri eins og til dæmis járnbrautalest)?

— Ég ætla að reyna að svara. Þó ég viti að það er ekki auðvelt. Við getum byrjað með því að segja að þó járnbrautalestin sé vissulega  „hlutur“ (oggetto), en eins og Peirce segir, þá er hún það fyrir tiltekinn „Túlkanda“.  Við höfum ekki bara lest, og svo búið mál. Það er lest fyrir einhvern /einhverjum.

— Æ, já, það er gamla kenningin hans Berkeley: esse est percipi (vera er skynjuð). En allir vita að…

— Ég bið þig að grípa ekki of snemma fram í fyrir mér: við þurfum að sýna smá þolinmæði. En, sem sagt, ég sagði að það sé lest fyrir einhvern. En þegar ég segi „einhvern“, þá á ég ekki við „ég“, „þú“, „við“ o.s.frv. Túlkandinn er í raun og veru ekki „sjálfsvera“ („soggetto“) í hefðbundnum skilningi þess orðs. Túlkandinn tilnefnir menningarlega heild „merkinga“ sem eru í sjónmáli mögulegs þekkingarsviðs á skilgreindum hlutum.

— Hér má auðveldlega greina óskiljanlegan tjáningarmáta hughyggjumeistarans og orðfæri hans: það er kvalræði að reyna að fylgja honum eftir og skilja!

— Gott og vel: segjum sem svo að skýin séu hlutirnir, og andrúmsloftið sé það sem við kölluðum áður „menningarlega heild merkinga“. Nú eru skýin í andrúmsloftinu (atmosfera), við getum skynjað þau sem slík, en einungis í andrúmsloftinu. Ef ekkert er andrúmsloftið, þá eru engin ský, en þau eru formgerðir (formazioni) þess. Þannig sjáum við að til þess að geta aðgreint hlutina sem slíka, þurfum við skilgreinda menningu sem hægt er að dvelja í og birtast í (byggingu umræðuhæfra formgerða og sérstakra tilnefninga, myndi Foucault hafa sagt). Ef við notum dæmið af „lestinni“ sem áður var nefnd: ef túlkandinn er „Babilóníubúar“ eða „pygmýa-frumbyggjar“ (menning Babilóníumanna eða Pygmýa-frumbyggja), þá er ekki um neinn „hlut“ að ræða sem heitir „lest“. Hjá þeim er eitthvert hliðstætt fyrirbæri  ekki til staðar, hvorki í reynd (Babilóníumenn höfðu engar lestir), né sem aðgengi (pygmýa-frumbyggi sem kemur til Evrópu getur ekki séð „lest“ þegar við sýnum honum hana, jafnvel þótt auðvitað sjái hann „eitthvað“. Endanlega vildi ég skilgreina þetta „eitthvað“ sem „atburð“, en að svo komnu máli er víst best að sleppa þessu atriði og gera okkur að góðu fyrri nálganirnar með dæmum okkar). Ertu sammála?

— Sammála. Ég vildi bara benda á hvernig frumspekilegur hughyggjumaður, síðasti nemandi Sókratesar, myndi líta á dæmið um skýin sem huggulegan lapsus animae, en ég er ekki að gera mál úr því.

— Gott og vel, þá getum við haldið áfram. Reynum að taka saman það sem þegar hefur komið fram (mjög yfirborðslegt, og þess vegna óljóst): Rétt eins og hver annar hlutur, þá ætti „viðfangið“ lest að geta staðsett sig í samhengi hugtaka (menningarlegra merkinga) sem túlka hlutinn (túlka hann einmitt sem „lest“). Það er þetta samhengi sem við túlkum hér sem Túlkanda (Interpretante), og það er mikilvægt að hafa í huga.

— Ég hef aldrei heyrt „samhengi“ segja: „Lestin mín er að koma“…

— Einmitt, hárrétt athugað. Þetta er athugasemd sem Heidegger hefði talið “hárrétta“.

— Því trúi ég! Að minnsta kosti er ég sama sinnis: það eru takmörk fyrir sérviskuuppátækjum frumspekinganna! Einnig þeir taka lestina þegar þeir fara á ráðstefnur (undir titlinum: „Við erum alltaf alls staðar og hvergi“). Svo taka þeir lestina heim.

— Ég veit ekki hvort hægt sé að segja um Heidegger að hann sé frumspekingur, og þegar hann talar um nákvæmni (esattezza), þá á hann vissulega við það sem við erum vön að meina með þessu orði, en um leið á hann við annað og flóknara mál…

— Þó það nú væri! Var nokkur von á öðru?

–…reyndar er það ekki samhengið (contesto) sem segir: „Lestin mín er að koma“, það erum við sem segjum það, „ég“, „þú“, „við“ o.s.frv. Getum við sæst á þetta og haldið áfram?

–Að sjálfsögðu.

–Jæja, „ég“, „þú“ o.s.frv. könnumst við lestina, en það gerist í krafti þess að við tilheyrum tilteknu menningarlegu samhengi (contesto), það er að segja almennum túlkanda. Ef við viljum, þá getum við vel sagt að „ég“, „þú“ o.s.frv. séum „holdgerðir“ túlkendur. Við gerum athafnir okkar virkar með gjörðum okkar og forþekkingu, í gegnum merkin og merkingarnar, sem mynda saman okkar menningarlega samhengi og okkar almenna túlkanda. En með öllu þessu höfum við alls ekki sagt né sýnt fram á, að „lestin“ sé merki, og í hvaða skilningi það geti verið.

— Ég var einmitt að hugsa um það.

— Gott og vel,  til þess að geta sýnt hvernig lestin er merki (ekki orðið „lest“, eða skiltið „gætið ykkar á lestinni“, heldur hin raunverulega lest úr stáli og skrúfum) þurfum við að spyrja okkur þessarar spurningar: hvernig sýnir lestin sig gagnvart okkur? (un „treno, come si da?). Það á við um lestina eins og alla aðra hluti, að hún sýnir sig ekki í algjörri birtingu, með fullu innsæi. Ég hef aldrei fyrir mér „alla þessa lest“ né heldur „lestina“ eins og um væri að ræða kjarna hennar eða hina platónsku hugmynd hennar. Með öðrum orðum, þá er alltaf til staðar viss „fjarlægð“ á milli þess sem birtist og þess Túlkanda af holdi og blóði, sem gæti til dæmis verið ég. Við skulum jafnframt hafa í huga að sérhver fjarlægð hefur sinn hátt á að vera fjarlæg. Við gætum orðað þetta þannig að hin upphaflega eða frumlæga reynsla er reynsla fjarlægðarinnar. Hún gefur í sérhverju tilfelli til kynna „uppfyllingu“ sína (eins og Husserl hefði sagt), það er að segja, hvernig við eigum að umgangast hana til þess að eyða henni.

— Hin frumlæga reynsla er reynslan af fjarlægðinni. Hvernig gerist hún? Mér virðist þetta vera óljósasta fullyrðingin fram að þessu.

— þarf að skýra þetta betur. Það gerðist einnig með góðvin minn frá París, eftir að hafa hlustað með eftirtekt og þolinmæði á mínar tyrfnu útskýringar eins og hann var vanur, þá sagði hann að þessi skilningur á fjarlægðinni væri að þvælast fyrir honum og gerði honum torskilið þetta eðli merkisins, sem ég var að reyna að skýra. Ég ætla því að reyna að byrja upp á nýtt, og nálgast efnið frá öðru sjónarhorni. Sem sagt:

Annað hvort er ekkert eða eitthvað. Ef eitthvað er, þá er fjarlægð. Þetta er tilgátan. Reynum að skýra hana.

Við skulum byrja á að segja að eitthvað geti verið með margvíslegum hætti. Ég á við: við erum ekki bara að hugsa um skynreynsluna, eða dómgreindina (hvort sem um er að ræða greiningu í hugtakakvíar eða forsögulega greiningu (categoriale o precategoriale)). Eitthvað getur verið, til dæmis eins og kraftaskaut tiltekins átakavettvangs, eða þá gjörningur eða hegðun. Það getur verið póll einhverrar hneigðar eða löngunar, til dæmis að gleypa eða æla eða eitthvað því um líkt. Nú felur sérhvert „eitthvað“ í sér fjarlægðarmið (distanza vettoriale) sem við getum orðað með þessu móti: það gefur til kynna ákveðna stefnu eða markmið (að gera, að skynja, að taka inn, að langa í o.s.frv.). Eitthvað er með margvíslegum hætti að því marki sem það ber með sér þessa boðhætti (það er að segja hætti boðberans, (la sua vettorialità)).

Við höfum nú sagt að þetta „það er“ feli í sér fjarlægð, og þetta er grundvallaratriði, sem ekki er enn á hreinu. Höldum því áfram.

Ef eitthvað er, þá gefur Viðfangið sig fram (við skrifum hér Viðfangið (l‘oggetto) með stóru V til að gefa til kynna almennt eðli þess. Af sömu ástæðu skrifum við Túlkandann með stóru T). Viðfangið gefur sig fram; þetta þýðir að það er til staðar eða öðlast nálægð (presenza). Nú getur nándin annað hvort verið takmörkuð eða algjör. Með algjörri nánd (presenza. Ath. Þetta orð er á latínu prae-sensum sem merkið það sem er skynjað „á undan“, þ.e.: „forskynjun“) er Viðfangið sjálf nándin: það er allt í nálægð sinni, það er sjálf návistin (presenza). En þetta er einungis önnur aðferð við að segja að í algjörri nánd sé Viðfangið ekki. Það er ekki gerlegt að nálgast það, að hafa það í sjónmáli. Það er allt þarna (eða hérna, ef menn vilja það heldur) og það er eiginlega allt þetta þarna (eða hérna). Ekki er um neina fjarlægð að ræða á milli Viðfangsins og nándar þess. Hin algjöra návist er það sem ekkert verður sagt um eða reynt. Hún er hið beina og milliliðalausa (immediato) hjá Hegel og Peirce. Við getum tekið dæmi (sem ófullkomna tilgátu eins og öll önnur dæmi): reynsluna af algjörri návist sjáum við í reynslu barnsins í móðurkviði. Barnið hefur ekki móðir sína sem viðfang, það er með móðurinni, samtengt í algjörri návist viðfangs síns. Móðirin verður þá fyrst viðfang þegar nálægð hennar er orðin takmörkuð, það er að segja þegar viðfangið er ekki lengur algjörlega eitt með návistinni, heldur einmitt komið í fjarlægð hennar. Við höfum þannig staðsett okkur á sviði hinnar takmörkuðu nálægðar. Samkvæmt þessu er hér um að ræða eina tilfellið þar sem Viðfangið getur verið í návistinni (presenza) (að því gefnu að í algjörri návist  sé Viðfangið ekki til staðar og geti alls ekki verið það). Könnum þetta nánar.

Takmörkuð nálægð: eitthvað boðar sig í nálægð án þess að vera nándin (eða vera í henni). Hvers vegna segjum við „boðar sig“? Það er vegna þess að eina leiðin fyrir Viðfangið til að dvelja í nálægð án þess að vera nándin, það er að segja eina mögulega reynslan af takmarkaðri nærveru, felst í reynslunni af merkinu. Merki er boðberi (anghelos).

— Loksins komum við á sprengjusvæðið! Ég verð hins vegar að gera þá athugasemd, að ef allt er merki og merkin eru „englar“, þá opnast fyrir okkur heimsmynd sem er „englum lík“ (angelicata), nokkuð sem „stilnovistarnir“ gætu horft til með öfundaraugum („stilnovistar“ eru miðaldaskáld mansöngva af skóla Dante). Við höfum sem sagt flutt okkur um set frá því að lifa í skýjunum upp í að lifa meðal englanna.

— Að því marki sem hlutirnir eru „boðanir“ get ég ekki annað en samsinnt. En við skulum reyna að kanna dýpra. Við skulum spyrja okkur hvaða tengsl séu á milli hins algjöra Viðfangs og hins takmarkaða. Við gætum svarað (svolítið goðsögulega) að hið algjöra Viðfang (það sem ekki á sér stað í nærverunni) samsvari fjarverunni, algjörri fjarveru. Hið algjöra Viðfang er glatað viðfang. Þessi missir hins algjöra Viðfangs, þessi róttæka fjarvera, er hins vegar forsenda sérhverrar nærveru (sem við höfum nú skilið að er alltaf takmörkuð nærvera) . Við gætum þar með sagt: í sinni takmörkuðu nærveru hins altæka Viðfangs er með einhverjum hætti um endurfund að ræða, takmarkaðan endurfund. En hér vildi ég vera nákvæmari: Hið altæka Viðfang er „fundið“ (ekki „endurfundið“, þar sem frá þessari stundu hefur það aldrei áður verið fundið. Þetta er smáatriði sem skiptir að mínu mati höfuðmáli. Það er eins og að segja að Viðfangið sé glatað aðeins í takmarkaðri nærveru sinni, áður  væri það hvorki glatað né höndlað. Hin altæka nálægð og hið algjöra Viðfang eru þannig þættir og forsendur takmarkaðrar nærveru hins takmarkaða Viðfangs, ekki „goðsögulegt“ svið er komi til á undan tímanum og rýminu. Hið altæka Viðfang er þannig einn þáttur og einn verumáti merkisins).

— Mín tillaga væri sú að setja hömlur á hömlulausa óðamælgi fræðimannsins og þessa sífelldu flugeldasýningu, en taka þess í stað upp leiðarþráðinn sem ég var, þótt ótrúlegt sé, farinn að fylgja eftir.

— Sammála, það væri sanngjarnt. En framhald þessarar hugsunar (ég meina raunverulegt framhald) líkist reyndar meira flugeldasýningu en rökhendu, jafnvel þó það sé alltaf mögulegt, eins og Peirce sagði, að draga hana saman í rökhendu. En ég sný engu að síður aftur að virðingarstiganum. Sagt var: í nærveru hins algjöra Viðfangs á sér með einhverjum hætti stað endurfundur  (eða fundur); „með einhverjum hætti“ merkir hér: um er að ræða takmarkaðan endurfund. „Takmarkaður endurfundur“ merkir : endurfundurinn sem merki. Og þar sem merkið er boðberi, þá felur það í sér að hið takmarkaða Viðfang (það sem er til staðar) er boðberi hins altæka Viðfangs (við gætum einnig orðað það, út frá því sem áður var sagt, að um sé að ræða boðun fjarverunnar, því hún var eitt og hið sama og hin algjöra nærvera). Ef horft er á málið frá öðru sjónarhorni (sem er hinn dæmigerði hugsunarháttur heimspekinnar: ekki út frá afleiðslu (deduzione) og stærðfræðilegri sönnun, eins og Kant hafði þegar áttað sig á), þá gætum við sagt: birting hins takmarkaða Viðfangs felur samtímis í sér brotthvarf hins altæka Viðfangs. Þessi missir er á sama tíma og í sama skilningi kynning einhvers (atburðarins – en ég var þegar búinn að segja að ég vildi ekki snerta það viðfangsefni hér). Það sem kynnir sig til leiks er á sama tíma og í sama skilningi tiltekið merki, (að sýna sig, það er að segja boðunin, og það að vera merki, er eitt og hið sama).

Við gætum skilgreint allt sem hér hefur verið sagt til þessa sem ættfræði hins frumlæga Viðfangs eða frumgerðar þess. Samkvæmt því og þar sem við vildum byrja upp á nýtt, þá lítum við hér á þetta sem afgreitt mál, en um leið vildum við snúa aftur til „lestarinnar“ okkar til að sannreyna hvernig hún virkar.

— Látum gott heita að málinu sé lokið, þó mér sýnist alls ekki svo vera. Sem sagt, mér virðist alls ekki liggja hreint fyrir hvernig málinu sé lokið.

— Einnig hér verð ég að vera sammála. Umræður eins og þessar verða aldrei leiddar til lykta. Við getum alltaf breytt um sjónarhorn: heimspekingurinn tekur hinni óútkljáðu umræðu ávallt með jákvæðu viðhorfi frekar en vonbrigðum, öfugt við ekki-heimspekinginn. Og báðir hafa eitthvað til síns máls. Hins vegar vildi ég aðeins segja, að þótt þegar framlagðar röksemdir þyrftu á viðbótar leiðréttingum og dýpri greiningu að halda, þá gætu þær hugsanlega dugað í glímunni við viðfangsefnið: þessa frægu „lest“ okkar.

Sem sagt: hvernig náum við því marki að hafa það að hafa (svo vitnað sé enn einu sinni í orð Husserls), nokkuð sem felst í því að hafa lest sem viðfang? Eins og við höfum áður gert, þá vísum við hér aftur til dæmisins af barninu, en núna þar sem það er nýkomið úr móðurkviði. Við segjum að þar eigi sér í fyrsta skiptið stað myndun hlutareðlisins (oggettualità), það er að segja „kraftaskaut hagsmuna“: móðurbrjóstið fullt af mjólk, pelinn o.s.frv. Þannig verður til Umwelt (umheimur), heimur andrúmslofts og hluta (sem er ekki heimur í „verufræðilegum“ (ontoligico) skilningi eins og Heidegger myndi segja, heldur í skilningi milliliðalauss hlutareðlis (ontico)). Móðurbrjóstið er hér skaut sogsins og fullnægju því tengdu (brjóstið, sogið fullnægjan eru í upphafi nánast sami hluturinn). Sem slíkt, það er að segja sem hlutur/viðfang (oggetto) er brjóstið þá merki sogsins og fullnægjunnar. Eðlilega auðgast það smám saman af eðliseiginleikum (aukinn merkingarblær (connotazione) eins og sagt er, þar sem nýjar, oft dulvitaðar upplýsingar koma fram). Brjóstið eykst að „gæðum“ (hvað varðar snertingu, lykt, hlýju, bragðskyn, sjónskyn o.s.frv.) En það sem við þurfum að hafa í huga er að brjóstið er alltaf með takmarkaða nærveru, aldrei altæka. Fjarlægð þess er alltaf meiri eða minni, en þar er alltaf um fjarlægð að ræða.

Leonardo da Vinci: Madonna Litta, (hluti), 1490. Hermitage-safnið

— Þetta er tilgangslaust, ég skil ekki hvert þetta á að leiða. Hvað merkir: það er alltaf fjarlægð? Gerum ráð fyrir að nýburinn okkar sé blessunarlega sjúgandi geirvörtuna: hann hefur brjóstið í munni sér, munninn fullan af sætri og volgri mjólk, kollinn hvílandi í armi móðurinnar sem styður mjúklega við hann og hvetur hann kannski með kliðmjúkum orðum, hendur hans snerta brjóstið með nautnafullum strokum og við getum ekki lesið úr andlitinu annað en fullkomna sælu: hvað viltu meira? Öll þessi reynsla er brjóstið. Þetta er ekki þannig að fyrst komi brjóstið og svo, handan þess, hið sæta, mjúka, volga, bleika o.s.frv. Ég verð að játa að mér finnst við gætum smættað allt þetta stóra vandamál niður í lítilsháttar orðaleik (Wittgenstein sagði: heimspekin er einföld spurning  um tungumálið, öllu heldur er hún sjúkdómur tungumálsins). Sem sagt, komum okkur saman um þetta: með brjóstinu erum við að tala um hið bleika, mjúka, sæta o.s.frv…. það er að segja öll þau form reynslunnar sem það varða. Þegar við erum einu sinni orðnir sammála um þetta, þá held ég að þessi meinta „fjarlægð“ muni hverfa. Ég meina: þá er vandinn úr sögunni.

— Þetta var vel sagt. Ég á við: það sem nú hefur verið sagt skilgreinir mjög vel tvennar skoðanir okkar. En þrátt fyrir þær réttmætu athugasemdir sem hér hafa komið fram (og ég get ekki annað en verið sammála að hluta til), þá er ég enn þeirrar skoðunar að fjarlægðin sé til staðar. Þrátt fyrir snjöllustu tilgátuna (nýburinn hefur brjóstið á milli handanna, geirvörtuna í munninum, sýgur volga mjólkina o.s.frv.) þá er nærvera brjóstsins boðuð í gegnum merki þess (mýkt, ylur, sætleiki, bleikt), hún er fyrst og fremst í þessum merkjum nærverunnar, en í heild sinni (insieme) er hún ekki í þessum merkjum.

— Hvað merkir „í heild sinni“?

— Ég mun reyna að skýra mál mitt. Við munum öll eftir frægri kenningu Locke sem sagði að efnið (sostanza) væri summa einfaldra hugmynda þess. Til dæmis „eplið“; efnið „epli“, verður skilið af samfelldri samsetningu hins hála, rauða, sæta o.s.frv.  og ekki er um neitt annað að ræða en þessa samsetningu, þessa summu. Ég held að Locke hafi haft rétt fyrir sér, en aðeins að hálfu leyti. Eplið er vissulega þessi summa, en það er líka meira en þessi summa. Ekki í þeim skilningi að sérhvert epli hafi einnig að geyma eidos (hugmynd) eplisins, eins og Husserl hefði sagt, heldur af allt öðrum og að mínu áliti dýpri ástæðum. En snúum okkur að því sem sagt var rétt áðan: nærvera brjóstsins er í merkjum þess og í heild sinni er það (brjóstið) ekki í þeim (merkjunum). Könnum hvernig það er ekki.

Í fyrsta lagi getum við séð að ég þarf að „ná“ brjóstinu í gegnum athafnir eins og sog o.s.frv. Enn fremur þarf brjóstið að ná til mín. Ekki er um hlut að ræða sem slíkan, sem ekki þarf að ná til mín til að ég geti höndlað hann sem slíkan. (Þegar ég tala um hlut er ég ekki eingöngu að hugsa um efnislega hluti, heldur um hvaða hlut eða hvaða nærveru sem verða vill). Ég þarf einnig að nálgast eigin líkama, og hann mig. Reyndar er það rétt að fjarlægð hans er frábrugðin öðrum fjarlægðum, hann hefur sinn sérstaka máta sem gerir fjarlægð hans frábrugðna öðrum fjarlægðum. Nokkuð sem er trúlega frumorsök aðgreiningar hins „innra“ og hins „ytra“.

— Leiðarþráðinn!, leiðarþráðinn!

— Fyrirgefðu, en brjóstið þarf þannig að nálgast mig (móðirin er fjarverandi, en nú birtist hún fyrst agnarlítil, en svo stækkar hún o.s.frv.) og ég þarf að ná til þess. Nú skulum við spyrja okkur: hvenær hef ég náð brjóstinu? Á hvaða augnabliki nálgunarinnar og sogsins hef ég brjóstið? Einhver gæti sagt, þegar ég snerti það og sýg það, þá hef ég höndlað brjóstið. En í raun og veru er málið ekki svo einfalt. Vissulega hafa snertingin og bragðskynið afar mikilvæg nálgunaráhrif á hlutinn, þau tengja hann þeirri sérstöku fjarlægð sem fólgin er í „mínum eigin“ líkama (eins og við sjáum, þá var ég ekki að fara út fyrir efnið áðan, jafnvel þó ég geti játað að mér var það ekki ljóst þá). Það er engin tilviljun að skynnæmið, líkaminn og hinir efnislegu hlutir, séu stöðug viðfangsefni heimspekinnar. En það að öðlast meiri nánd felur ekki í sér afnám allrar fjarlægðar. Við getum í þessu skyni horft til hinnar kynferðislegu nálgunar í gegnum samfarir: hvenær hef ég „höndlað“ hina elskuðu konu? Án þess að móðga nokkurn, þá öðlast ég mesta nálgun með inntakinu (penetrazione). Engu að síður er það út frá óbrúanlegri fjarlægð. Hér getur nautnin fengið mig til að loka augunum: ég einbeiti mér að snertingunni. Þá finn ég sársaukann af því að „sjá ekki“. Þessi yfirtaka mín á viðfanginu er ófullkomin. Því opna ég augun og í fyrstu eykur það á skynnæmið og mér finnst ég hafa nálgast Viðfang mitt enn meir (sem sjálfsvera (soggetto), ég hef ekki gleymt því…). En ég sé í nærsýni og kannski ekki það sem ég einmitt vildi sjá. Staðreyndin er sú að jafnvel þó ég væri umkringdur speglum myndi ég aldrei sjá allt. Og ef ég einbeiti mér of mikið að áhorfinu glata ég snertingunni, lyktarskyninu og umfram allt þeim fortakslausa spuna (spontaneità) sem felst í hnattrænni og taumlausri leiðslu. Það sama myndi gerast í sérhverjum þeim erótíska leik sem mér kynni að hugkvæmast: alltaf gerir fjarlægðin vart við sig, sama hvað ég leitast við að tæma hana.

— Ég verð að játa að þessi samlíking kemur mér á óvart;  ég vissi ekki að heimspekingar gætu hugsað svona „jarðneska“ hluti; eða öllu heldur að þeir hefðu minnstu hugmynd um þá í því heimsveldi skýjanna sem er þeirra höfuðból.

— Rangt! Það er engin tilviljun að heimspekin varð til í Aþenu, en ekki í Jerúsalem eða Róm. Grikkirnir vissu mætavel að eros og heimspekin eru ekki fjarskyld, auk þess sem þeirra uppáhaldsfrásögn var sagan af Ixíoni sem hafði fengið þá flugu í höfuðið að serða Heru, eiginkonu Seifs og húsmóðurina á Olympstindi. Sjálfur var Seifur oftar en ekki með hugann bundinn við getnaðinn og þá ekki alltaf með Heru, en hann fann hins vegar aðferð til að fullnægja löngun vesalings Ixíons með þeirri einu aðferð sem hæfði dauðlegum manni: hann sendi honum ský sem var í mynd Heru, og fullur hamingju höndlaði hann hana og sarð og átti með henni, ef ég man rétt, einstök afkvæmi. Þetta mætti skýra með eftirfarandi hætti, sem nú kemur okkur vel: aðeins guðirnir eru þess megnugir að yfirtaka konuna (hlutina) í raun og veru. Mennirnir geta nálgast hana í seilingarfjarlægð í gegnum skýin, það er að segja í gegnum merkin.

En eins og Nietzsche skrifaði (og Hölderlin hafði uppgötvað á undan honum) þá eru „allir guðirnir dauðir“. Þess vegna verðum við að vekja okkur af draumi Ixions (kannski er ofsagt að segja „við verðum“, nægir að segja „við getum“): við getum vel verið án þess að telja okkur trú um að skýið sé Hera, það er að segja hið altæka Viðfang, sem við eigum að höndla. Þannig höfnum við því að merkin séu ský, það er að segja staðgenglar og tvífarar hinna algildu Viðfanga. Þessi í stað meðtökum við hið altæka Viðfang  og hina frumlægu grundvallar-fjarvist þess sem tiltekinn veruhátt og framboðsmáta merkjanna, eins og áður var sagt, og þar með nærveru hlutanna. En snúum okkur nú að okkur sjálfum.

Það sem hér hefur verið sagt um kynmökin og hinn kynferðislega maka á líka við um brjóstið, og reyndar um alla hluti, þar sem við getum byrjað á mér sjálfum. Einnig ég „yfirskyggi“ mig (eins og Husserl komst að orði, en þá var hann aðeins að hugsa um efnislega hluti, því hann trúði á innsæið og taldi þar af leiðandi að „das Erlebnis“ færi ekki í felur, heldur gæfi sig í holdi og blóði, nokkuð sem er ekki satt.): einnig ég „yfirskyggi“ sjálfan mig fyrir mér sjálfum.

Þessi þráður leiðir okkur fullkomlega eðlilega að „lestinni“: flóknu merki sem er fullt af bergmáli og „sögnum“. Hugsum okkur hvernig Carducci (ítalskt skáld 1837-1907) upplifði lestina sem merki framfaranna og síðar, skömmu fyrir dauða sinn, í stuttu ljóði (sem ber lítil höfundareinkenni hans og hefur þess vegna að mínu mati yfirburði yfir „miðlungs bókmenntaafrek“ hans) þar sem hann sér lestina sem tákn vélvæðingar og merkingarleysu nútíma mannlífs, tómar brottfarir og kveðjuköst og órjúfanlegar fjarlægðir frá viðföngum ástar okkar. Eðli þess að vera merki „lestar“ eða hvaða hlutar sem er, er fólgið í boðun þess, sem er um leið vísun út í óendanleikann. Sérhver nærvera gefur í skyn og er staðgengill annarra nærvera: hún geymir runu endalausra merkja, það er að segja óendanlega Túlkendur á undan sér og á eftir sér. Sérhver nærvera kallar á að við sundurgreinum hana („decodifichiamo“ eins og nútíma merkingarfræðingar myndu segja), en það felur í sér að við virkjum aðild okkar að henni á meðvitaðan hátt. En það merkir, eins og Peirce komst að orði, aðild okkar að alheimi merkjanna, þar sem sérhver hlutur er þar sem hann virkar (það er að segja hvernig hann virkar sem merki).

Fortunato Depero: Járnbrautalestin (málverk í anda fútúrismans) 1926

Þrátt fyrir þessa endalausu framvísun hefur sérhvert merki sína merkingu og á sama tíma þetta sama: það er að segja fjarveru hins altæka Viðfangs, fjarlægðina sem er innbyggð í sérhverja nálægð. Ef við viljum orða það þannig, þá er sérhver aðild okkar að örlögum þess Túlkanda sem í okkur býr (og í gegnum þetta aðildin að heild hinnar óendanlegu raðar Túlkendanna), og um leið aðildarleysi okkar að örlögum eignarhaldsins (ómennsk örlög eða ef við viljum heldur: örlög handan hins mannlega). Þegar við látum sem hlutirnir séu merki og skiljum þá í veru þeirra sem merki, þá felur það ekki í sér afneitun hlutanna, „raunveruleika“ þeirra (eins og sagt er gjarnan): raunveruleiki þeirra er einmitt fólginn í þessari virkni skilaboðanna. Þegar við segjum að lestin sé merki, þá erum við ekki að hafna „efnislegum gæðum“ hennar, að hún hafi til að bera hörku og þyngd og að hún geti keyrt á mig og að ég geti stigið um borð, að hún geti verið í seinkun (auðvitað ekki!) eða jafnvel að hún komi aldrei á áfangastað fyrir tilverknað einhvers atburðar sem er „utan“ hugsana minna, óska minna og túlkana. Þetta felur hins vegar í sér að mæta henni sem hluta af merkingunum sem hafa mótað mig og minn heim, og jafnframt að taka eftir því að birting hennar, eins og sérhver birting, er upprunalegur atburður (evento originario): alltaf þessi sama birtingarvirkni, að láta sig birtast í fjarveru sem ab origini (frá örófi alda); hún hefur birst okkur sem merki og „merkir okkur“ (ci assegna) tilsvarandi örlögum (en ég vil ekki ennþá tala um atburðinn).

Að gangast undir þessa reynslu (eins og hún er, og hvernig við erum merkt þeim örlögum að túlka hana í gegnum hlutdeild okkar í tilteknum Túlkanda) merkir ekki að hún sé „afskiptalaus“ (indifferente), þessi reynsla segir okkur að „lestin“ skipti máli, að ekki séu til hrein tól án tilgangs eða hreinir líkamar aðskildir frá sálinni. Við og lestin deilum sameiginlegum örlögum. Það kann að hljóma sem einfeldnisleg spurning, en hversu oft skyldum við í rauninni hafa lagt traust okkar á lestina og treyst henni fyrir lífi okkar? Ef lestin er tákn framfaranna, eins og okkar ágæti Carducci hélt fram, þá höfum við lagt traust okkar á þær, og þær lagt traust sitt á okkur. Lestin er ekki sinnulaus, enginn hlutur er sinnulaus að því marki sem hann er anghelos, boðberi skilaboða sem okkur varða, og hvetja okkur til túlkunar. Hins vegar má einnig segja, að sérhver hlutur sé „dif-ferente“ (eins og Derrida orðaði það), (hefur verið þýtt á íslensku sem „á skilafresti“). Sem sagt, enginn hlutur er hið altæka Viðfang. Að sinna viðfanginu, meðtaka boðskap þess, er ekki það sama og að „hafa skipti á því“ og hinu algilda Viðfangi, og gefa því þannig tilkall til altækrar yfirtöku (possesso totale). Listin að taka á móti hlutunum er líka um leið listin að innbyrða þá ekki (trattenerle). Það gerist mjög oft að við yfirstígum hluti, göngum yfir þá, til að ná öðrum hlut sem hefur í okkar augum ígildi eftirlíkingar hins algilda Viðfangs og hinnar algildu yfirtöku. Við meðhöndlum hlutina eins og meðöl eða tæki, við meðtökum þá ekki, heldur notum þá, jafnvel þó allir viti að hið endanlega viðfang verður aldrei höndlað. Eða þá að það breytist umsvifalaust eftir yfirtökuna í meðal til annars markmiðs. Mikilvægast er þó að með einfaldri notkun hlutanna (að notfæra sér þá), með því að nota þá sem meðul, meðtökum við aldrei boðskapinn sem þeir hafa að geyma, við gerum okkur ekki grein fyrir að þeir allir, hver fyrir sig, hafa sína tilvísun í hið altæka Viðfang sem við erum stöðugt en árangurslaust á höttunum eftir. Við sjáum ekki að hafandi hlutina við höndina höfum við líka við höndina þá fjarveru sem býr í hinum holdi klædda Túlkanda. Því er hið algilda Viðfang, eins og Heidegger myndi segja, bæði það sem stendur okkur næst og fjærst: það er hér, í sérhverri nærveru, og einmitt þess vegna sjáum við það ekki og leitum því langt yfir skammt. Reyndar er hér ekki við sérstaka sök okkar að sakast, þetta er hluti af merkiseðli okkar sem Túlkendur: því meiri nálgun sem merkið færir okkur við hlutinn, þeim mun skjótari verður hann á flótta sínum. Það merki sem færir okkur nærveru (áberandi) skapar líka (áberandi) fjarlægð. Ef lestin (eða flugvélin á okkar tímum) hefur dregið úr vegalengdum í rýminu, þá hefur hún einnig skapað fjarlægðir í öðrum skilningi, en Heidegger hefur skýrt þetta svo vel fyrir okkur að það er engin tilviljun að ég endurtaki það hér. Þannig óttast ég að áðurnefndur „frumspekingur“, sem talaði um að vera alls staðar og hvergi, yrði tekinn af meiri alvöru en þetta tiltekna dæmi gæfi tilefni til: kannski vildi hann tala um okkur, um okkar nútímalegu aðferð í hlutverki Túlkendanna. Ef hann hefði farið úr einni lest í aðra eða úr einni flugvél í aðra, til þess að breiða ráðstefnu sína út um heimsbyggðina að hætti margra meistara sem hafa af kaldhæðni hlotið viðurnefnið fullgildir áhafnarmeðlimir The Jet-Philosophy (þetta hef ég eftir amerískri vinkonu minni), þá hefði hann kannski viljað tala um einsemd sína og ógjörning virkrar háskólakennslu, án þess þó að losna undan þeim sameiginlegu örlögum okkar samtímamenningar sem kennd er við fjöldamenningu fjölmiðlanna, en þar er merkingarfræðin einmitt og ekki af tilviljun beinn þátttakandi.

— Hvað þá, ef engin er undankomuleiðin, til hvers er þessi umræða þá? Hvaða tilgangi þjónar það að velta fyrir sér eðli merkjanna í hlutunum og okkur sjálfum? Sem sagt, hverju þjónar umræðan þá?

— Nú skil ég, þú hefðir viljað færa þér umræðu mína í nyt, gera hana að meðali

— Ekki ég, í guðanna bænum! Ég hef hlýtt á „crescendo“ (vaxandi þunga) umræðu þinnar dágóða stund, þennan einleik, en um leið fannst mér að Carnap hefði haft rétt fyrir sér: þið heimspekingar eruð misheppnaðir tónlistarmenn; umræðunum breytið þið í sinfóníur með skellum málmgjallanna á hápunktinum og undiröldu strengjanna og viðarhljóðfæranna. Mér fannst líka áhugavert að sjá hvernig hin ídealísku fyrirheit enda hrapallega í dulspekilegum og þversagnafullum niðurstöðum (allt er alls staðar, eilífðartilvist mannsins er lokið o.s.frv.: auðvitað sagt með nútímalegra orðavali, en súpan er alltaf hin sama). Ég var einnig að hugsa um hversu snjallir þið eruð að vísa stöðugt í alþekkt dæmi, rétt eins og af tilviljun, og að nota þau síðan með leyndum hætti til að styðja orðræður ykkar og meintar sannanir (þetta skildi Kant líka mætavel þegar hann talaði um frumspekingana en ekki bara málefni heimspekinnar, sem er ekki stærðfræði o.s.frv.). Öll þessi orðræða sem ég hef mátt hlíða á, notaðist af rætinni illkvittni við dæmi barnsins í móðurkviði, rétt eins og það væri tilfallandi dæmi. Það er hins vegar mun meira en dæmi: ef við tækjum það út úr orðræðunni væru allir möguleikar á að vísa í hið algilda Viðfang og í glatað Viðfang og endurfundið úr sögunni. Ég spyr mig hvernig þessi samflétta ólíkra hluta, almennra reynslufyrirbæra, vísindakenninga sem beitt er með yfirborðskenndum og tilviljanakenndum hætti, grískra goðsagna, ólíkra heimspekikenninga frá ólíkum tímum  og svo framvegis, hvernig slík flétta geti gert tilkall til einhvers sannleiksgildis. Hvað getum við gert með orðræður á borð við þessar? Hvernig eigum við að setja þær undir gæðamat? Ég á ekki við að þær eigi að „þjóna“ einhverju í grófum og einfeldnislegum skilningi, en ég hef fullan rétt á að spyrja hvert sannleiksgildið sé… eða hvað?

— Við erum margir sem spyrjum okkur þessara spurninga í dag. Við spyrjum okkur hvaða orðræða sé heimspekileg (reyndar hefur heimspekin alltaf spurt sig þessarar spurningar). Ég held hins vegar að ekki sé hægt að heimfæra þessar orðræður (einmitt þessar fléttur ólíkra hluta) upp á einfaldan mælikvarða sannleikans. Sjáðu, ef við myndum spyrja okkur hvað við ættum við með „mælikvarða sannleikans“, þá efast ég ekki um að við værum tilneyddir að endurtaka einhverja af þessum orðræðum, fullum af óskyldum hlutum, og með engu móti gulltryggðar. Hvað það er sem heimspekingurinn er að leita að, og hvers vegna, er stórt vandamál, sem Nietzsche var fyrstur til að uppgötva. Hann grunaði að ekki væri allt með felldu, allar þessar rannsóknir og umræður; en þegar allt kemur til alls, þá er grunurinn líka orðræða. Vesturlönd virðast dæmd til orðræðna: þær eru aðferð þeirra til að nálgast hlutina og einnig til að gera þá fjarlæga, að finna þá og glata þeim. En ég ætlaði mér ekki að opna hér fyrir nýja orðræðu. Öllu heldur vildi ég stela nokkrum mínútum til að draga fram tvær niðurstöður af því sem sagt hefur verið, því þær kalla á mig og hvetja til útskýringa í formi niðurstöðu. Leyfist mér það?

— Við skulum líka hlusta á niðurstöðuna. Þannig verður þú ánægður.

­– Það var meira en ein niðurstaða, þær voru tvær eins og ég sagði. Semsagt: Við lögðum fram spurninguna hvenær við mætum hlutnum. Í raun og veru höfum við lagt megináhersluna á hvernig við mætum honum. Nú hefur spurningin um „hvenær“ sinn sérstaka áherslupunkt. Þar sem ég nálgast hlut sem boðar sig, og hann nálgast mig eða fjarlægist á móti, þá tímaset ég mig (mi temporalizzo). Betra væri að segja að merkið hafi tímasett mig, merkisafstaðan. Þar sem merkið hefur að geyma upprunalega fjarlægð í kjarna sínum sem merki, sem boðun, þar sem það er upprunaleg fjarlægð, þá vísar það einnig til tímasetningar, vegferðar, uppruna og tiltekinnar áttar. Það eru fortíð, nútíð og framtíð. Í boðun merkisins er til staðar annar staður (un altrove) sem er aldrei hér og nú í fullri merkingu, heldur nokkuð sem er háð hér og nú. Af þessu mætti draga margvíslegar mikilvægar ályktanir (til dæmis varðandi tímabundna leiðslu eða upphafningu (estasi), varðandi ekki-uppruna nándarinnar (presenza) eða núsins (presente)); en leikreglurnar þvinga okkur engu að síður til að leiða þessi atriði hjá okkur að svo stöddu, svo ekki upphefjist ný umræða um ólíka hluti og afskrifaða á forsendum hvaða sannleiksgildis sem vera kann.

Seinni niðurstaðan: Við höfðum greint á milli hugtaksins um heiminn í ontískum (hlutverulegum) skilningi og ontologískum (verufræðilegum) skilningi (eins og Heidegger gerði líka. (Aths.: hugtakið ontisch er nýyrði Heideggers sem vísar til beinnar og milliliðalausrar skynjunar, ólíkt ontologisch sem vísar til heimspekilegrar túlkunnar á verunni sem slíkri)). Ég ætla að víkja augnablik að dæminu sem þú dæmir sem rætið og illkvittnislegt og varðar barnið í móðurkviði (hin algjöra reynsla sem enginn getur sagst hafa upplifað, en enginn getur heldur neitað að hafa upplifað): sagt var að barnið væri með móðurinni, altekið af algjörri nærveru viðfangs síns. Við spyrjum (mig minnir að Fink hafi spurt sömu spurningar): hvernig er maðurinn með heiminum, ef heimurinn er hans upprunalega vera með? Hér merkir „heimur“ ekki þá ontísku heild „hluta“ sem við okkur blasa, heldur hina verufræðilegu (ontologica) vídd sem tekur til allrar veru heimsins (við gætum einnig sagt að þetta væri vandamál sköpunarsögu alheimsins (cosmologico). Er heimurinn altæk návist fyrir manninn (og þú manst hvað var sagt um það)? Er þá einnig um að ræða upprunalega fjarveru? Eiga orðræður okkar og mælikvarðar á sannleikann rætur sínar þarna? Í „atburði“ heimsins í túlkandanum? Hvernig er þá málunum háttað gagnvart dýrunum? Hvernig hafa þau heiminn? Og svo, með hvaða rétti tölum við um dýrin og heim þeirra? Að lokum: um hvaða rétt erum við að tala? Og hvers vegna viljum við tala út frá „rétti“? Sérhver orðræða er hringferli, sagði dvergurinn við Zaraþústra.

Sjáðu til, eitt hollráð að lokum: þú skalt fara núna, annars byrja ég á nýrri orðræðu.

___________________________________________

Forsíðumyndin er málverk Filippo Lippi: Kona og maður í glugga, 1435. Metropolitan Museum of Art.

LACAN UM SKÖPUN EX NIHILO

Jacques Lacan:

Um sköpun Ex Nihilo

Níundi kafli Sjöunda námskeiðsins um Siðfræði sálgreiningarinnar

 

Ráðgátur sálgreiningarinnar

Það í raunverunni sem þjáist af nefnaranum

Sagan um krúsina og vasann

Kynning á Katarisma

Verufræðilegar athugasemdir um Hvatir

 

Ég ætla hér að halda áfram umræðu minni um það hlutverk sem ég hef eignað Le Chose, (Das Ding, „þingið“, „þaðið“, „hluturinn“) í skilgreiningunni á göfgun (sublimation) með því að segja ykkur skemmtilega sögu.

Þegar ég kvaddi ykkur um daginn fékk ég skyndilegt samviskubit eins og oft gerist þegar ég fæ það á tilfinningunna að ég hafi ekki gefið tæmandi úttekt á viðfangsefni okkar, og um eftirmiðdaginn leit ég í tvær greinar eftir Melanie Klein, sem Glover vitnar í. Þær eru birtar í Contributions to Psychoanalysis.

Fyrri greinin, „Sálgreining ungbarna“ frá 1923 hefur að geyma afar áhugaverða umfjöllun um göfgunarferlið og bælingarfyrirbærið sem eftirköst þess. Um er að ræða þann skilning sem Klein leggur í það hvernig kenndir fullnægjandi lífshvatar í gegnum göfgun verða hjá barninu tilefni til bælingar.

Ég ætla ekki að eyða tíma í þetta sérstaklega, heldur vil ég fyrst og fremst beina athygli ykkar að göfgunarhugtakinu (sublimation) sem slíku, og öllum þeim misskilningi sem óljósar hugmyndir um þann vanda geta valdið.

Það var hins vegar seinni greinin frá 1929 sem ég sá eftir að hafa ekki kannað. Hún heitir „Infantile Anxiety Situations Reflected in a Work of Art and in the Creative Impulse“ (Barnakvíði sem birtist í listaverkum og sköpunarþörfinni). Þetta er stuttur texti, en eins og stundum gerist, þá gaf hann mér þá fullnægju að uppfylla áform mín eins og höndin fylgir hanskanum.

René Magritte: The Spirit of Geometry, 1937

1.

Fyrsti hlutinn er umræða um tónsmíð eftir Ravel sem byggir á sviðsmynd Colette, L‘Enfantet les Sortilèges. Ég las þennan texta með mikilli ánægju, sem var ekki sjálfgefið þar sem fjallað er um verkið í þýskum og enskum þýðingum.

Það sem vekur furðu Melaine Klein, er að listaverk geti fallið svo nákvæmlega að hugarburði barnsins um líkama móðurinnar, hugarburði varðandi frumstæða árásargirni og gagnárásir er barnið skynjar. Í stuttu máli er þarna um að ræða nokkuð langa og áhugaverða staðfestingu á þeim þáttum í ímyndunarafli skapara verksins, sérstaklega hjá tónskáldinu, sem falla merkilega vel saman við það frumlæga og miðlæga svið í byggingu sálarinnar, sem Klein hefur fundið í barnasálgreiningu sinni. Um leið er það stórmerkilegt að skynja hvernig þetta fellur saman við byggingu listaverksins, – jafnvel þótt þetta fullnægi eðlilega ekki öllum okkar kröfum.

En það er seinni hluti greinarinnar sem er áhugaverðari, þar verður textinn skemmtilegur. Hér er um að ræða vísun í greiningu sálgreinis sem heitir Karin Mikailis, sem segir undir titlinum „Tómt rými“ frá greiningartilfelli sem er á vissan hátt sláandi. Á þeim fjórum blaðsíðum sem greina frá þessari sögu er sagt frá vissu jaðartilfelli, sem þó felur ekki í sér að hægt sé að setja fram ákveðna greiningu, eða segja til um hvort um sé að ræða melankólska depurð eða ekki.

Málið varðar skjólstæðing sem er kölluð Ruth Kjar, og fylgir stutt lýsing á lífshlaupi hennar. Þessi kona var aldrei listmálari, en depurðarköstum hennar var þannig lýst að hún fengi sterka tilfinningu fyrir innra tómarými sem hún gæti aldrei fyllt.

Ég ætla ekki að trufla ykkur með lýsingu á lífshlaupi hennar, en með aðstoð sálgreinis síns gat hún gengið að eiga mann, og eftir hjónabandið gekk allt vel í fyrstu. En eftir tiltölulega stuttan tíma gerðu melankólíuköstin vart við sig á ný. Og þar komum við að hinu áhugaverða í sögunni. Við finnum okkur í raun og veru stödd í töfraheimi sálgreiningarinnar eins og hún getur virkað, þó fullnægja okkar kunni að vera nokkuð barnaleg.

Af óþekktum ástæðum eru veggirnir í húsi hjónakornanna þaktir málverkum eftir mág konunnar, sem er listmálari. Þetta átti sérstaklega við um eitt herbergið. Svo gerist það á tilteknum tíma að mágurinn, sem var hæfileikaríkur málari – án þess að við getum um það dæmt – selur eitt málverkanna, sem hann fjarlægir af veggnum. Eftir stendur tómt rými á veggnum.

Í ljós kemur að þetta tóma rými leikur afgerandi hlutverk í þunglyndisköstum konunnar, sem taka sig upp að nýju við þessa breytingu. Hún nær hins vegar að endurheimta bata með eftirfarandi hætti. Einn góðan veðurdag ákveður hún að „daub a little“ (setja smá klessuverk) á vegginn, í þeim tilgangi að fylla upp í þetta bölvaða tómarými, sem hafði heltekið hana með afgerandi hætti. Nokkuð sem við myndum vilja hafa frekari vitneskju um og nánari sjúkdómsgreiningu á en hér er í boði. Þannig reyndi hún að fylla upp í þetta tóma rými með eftirlíkingu verka mágsins, þar sem hún reyndi að fylgja aðferð og efnistökum hans eftir bestu getu. Hún sótti litaskala samkvæmt litanotkun mágsins í listmálarabúðina og hóf að mála af ástríðu sem mér virðist dæmigerð fyrir upphafsfasa geðlægðar. Úr þessu verður til listaverk.

Það skemmtilega við söguna er að þegar mágurinn fær að sjá verkið, og listakonan er komin í kvíðakast með hjartsláttareinkennum þar sem hún bíður eftir dómi meistarans, þá bregst hann við í hálfgerðu reiðikasti: „Þú munt aldrei geta talið mér trú um að þú hafir málað þetta“ segir hann. „Þetta er verk listamanns, ekki bara handverksmanns, heldur þroskaðs listamanns. Fjandinn hirði þessa sögu þína. Hver gæti þetta annars verið?“

Þau geta með engu móti sannfært manninn, og hann heldur áfram að sverja að ef mágkona hans hafi málað þetta verk, þá gæti hann eins vel stjórnað sinfóníu Beethovens í Royal Chapel, jafnvel þótt hann sé ólæs á nótnaskrift.

Það vantar gagnrýna fjarlægð á frásögnina af þessum orðaskiptum, sem óhjákvæmilega kalla á vissar spurningar. Slíkt tæknilegt kraftaverk hlýtur að vekja vissar spurningar. En það skiptir okkur ekki öllu máli í þessu tilfelli. Melanie Klein finnur í þessu atviki staðfestingu á ákveðnum strúktúr sem vekur aðdáun hennar. Og þið komist ekki hjá því að sjá, hvernig þessi strúktúr fellur saman við þann miðlæga uppdrátt sem ég notast við í skipuriti staðsetningar þar sem spurningin um La Chose (þingið, hlutinn, þaðið) er sett fram.

Eins og ég sagði, þá er þetta staður móðurlíkamans samkvæmt kenningu Klein. Hún staðsetur öll stig göfgunar (sublimation) þar, einnig þá göldrum líku göfgun sem felst í þessari sjálfsprottnu atlögu eða uppljómun sem birtist í þessum tökum byrjandans á tækni meistarans. Frú Klein finnur þarna staðfestingu kenningar sinnar, og það skýrir trúlega skort hennar á undrun yfir þessum fyrirbærum, sem skjólstæðingur hennar málaði í þeim tilgangi að fylla upp í tómarýmið. Fyrst kemur nakin negrastúlka, síðan mjög gömul kona sem ber öll líkamseinkenni öldrunar sinnar, vonbrigða og óhjákvæmilegrar uppgjafar gagnvart háum aldri sínum, en síðan endar þessi sería með endurfæðingu, endurkomu móður hennar í blóma eigin fegurðar í ljómandi birtu nýs dags. Samkvæmt Klein er kenningin hér með sönnuð (Q.E.D.), við þurfum einungis að skilja hvað kallaði á þessa atburðarás.

Það skemmtilega við þetta er augljóslega það sem okkur er sagt varðandi staðsetningu göfgunarfyrirbærisins. En þið hljótið að skynja að við erum skilin eftir í nokkru myrkri varðandi möguleika hennar.

Ég er að reyna að færa ykkur þær upplýsingar um göfgun, sem eru nauðsynlegar ef við eigum að skilja hvernig tengingu hennar við það sem við köllum La Chose / „Þingið“ er háttað – miðlæga stöðu þess hvað varðar raunveru einstaklingsins. Hvernig getum við skilgreint þetta „þing“ nánar í staðfræðilegu skipuriti okkar?

Litla dæmisagan úr síðasta tíma, sem við fengum að láni úr söfnunarsálfræðinni, var dæmi sem rangt væri að taka sem tæmingu vandamálsins, jafnvel þó það hjálpi okkur góðan spöl áleiðis. Það dæmi sýnir í stuttu máli umbreytingu hlutar yfir í „þing“ (La chose), skyndilega upphafningu eldspýtustokksins til þess virðingarstigs sem hann hafði ekki áður. En hann er hlutur sem er auðvitað ekki „Þingið“ (das Ding)

Ef „Þingið“ væri ekki í eðli sínu hulið, þá hefðum við ekki þá afstöðu til þess sem skyldar okkur – og alla sálina – til að umkringja það eða sneiða hjá því, ef við ætlum að skynja það. Hvar sem „Þingið“ staðfestir tilvist sína, þá gerist það á heimavelli (domesticated spheres). Það skýrir hvers vegna við skilgreinum sviðið með þessum hætti, því „þingið“ kynnir sig alltaf sem hulið fyrirbæri.

René Magritte: Le bagneuse de clair au sombre, 1932

Í dag skulum við segja að „Þingið“ fylli þann stað í byggingu mannssálarinnar, sem Freud skilgreindi á grundvelli nautnalögmálsins. Ég vil meina að þetta skýrist af því að „Þingið“ er það sem þjáist af völdum nefnarans (signifier) innan raunverunnar, hinnar frumlægu raunveru. Þið eigið að skilja að um er að ræða raunveru sem við þurfum ekki enn að afmarka, heldur raunveruna í heild sinni. Bæði raunveru einstaklingsins og þá utanaðkomandi raunveru sem hann þarf að glíma við.

Fyrstu tengslin sem myndast í sál sjálfsverunnar, sem sjálf er mótuð af jafnvægismyndun (homeostasis) á grundvelli nautnalögmálsins, fela í sér flækjustig (flocculation) og kristallamyndun nefnandi eininga. Sálarbúnaður einstaklingsins er undirorpinn nefnandi skipulagningu eins og hann birtist okkur við greiningu skjólstæðingsins. Út frá því getum við sagt með neikvæðum hætti, að ekkert standi á milli skipulagningar hins nefnandi sviðs ( Vorstellungsreprasentanzen) og myndunar raunveru rýmisins, eða þess miðlæga rýmis þar sem svið „Þingsin“ sem slíks kynnir sig fyrir okkur.

Það er einmitt á þessu sviði sem við ættum að staðsetja það sem Freud kennir okkur hins vegar að sé samsvörun við fundinn, sem hið endurfundna (Wiedergefundene) eða hinn endurfundna hlut. Þannig er grundvallar skilgreining hlutarins hjá Freud fólgin í leiðandi hlutverki hans, en ég hef þegar sýnt fram á þversögnina sem þetta felur í sér, því ekki er gengið út frá að þetta viðfang hafi þegar verið glatað. Eðli sínu samkvæmt er viðfangið (the object) endurfundinn hlutur. Glötun þess er afleiðingin. Þannig er um endurfund að ræða, án vitundar okkar, en í gegnum endurfundinn upplifum við glötun þess að eilífu.

Við stöndum hér enn á ný andspænis grundvallar byggingu sem leyfir okkur að orða þá staðreynd að „Þingið“ sem um ræðir er fyrir tilstilli innri byggingar sinnar opið fyrir því að vera kynnt til staðar með því sem ég hafði áður kallað Hinn hlutinn, í tengslum við leiðann og bænina.

En þar finnum við annað einkennismerki hins hulda „Þings“: með endurfundi þess er það eðli málsins samkvæmt kynnt til staðar (represented) með einhverju öðru.

Við komumst ekki hjá því að sjá þetta í frægum orðum Picasso þar sem hann sagði: „Ég leita ekki, ég finn“. Það er sá fundur (trouver, trobar) trúbadoranna frá Provence (trouvères = farandsöngvarar) og allra þeirra mælskulistarskóla er koma á undan allri leit.

Augljóslega er hið fundna árangur leitar. En leitin fer fram í sporum og slóð nefnarans. Nú er þessi leit á vissan hátt and-sálræn, þar sem hún er handan nautnalögmálsins í virkni sinni og staðsetningu. Því samkvæmt nautnalögmálinu vísar nefnarinn til þessarar yfirfærðu jöfnu (beyond equalisation) sem er homeostasis (jafnvægisregla) og til hinnar einsleitu kerfisviðleitni sjálfsins. Hún framkallar eigin villu. Hlutverk nautnalögmálsins felst í raun í því að leiða sjálfsveruna frá einum nefnara til annars og kalla fram eins marga nefnara og nauðsyn krefur, til að halda því spennustigi í lágmarki sem stýrir hinni sálrænu virkni.

Við erum þannig leidd að þeim venslum sem ríkja á milli mannsins og þessa nefnara – nokkuð sem mun leyfa okkur að stíga enn eitt skref fram á við.

Ef nautnin stýrir mannlegri umhugsun í gegnum lögmál freistingarinnar og þá ofboðslegu orðræðu sem er ekki bara gerð úr því sem hún skilgreinir, heldur úr gjörvallri virkni sinni – að því marki sem hún stýrist af leit sem leiðir til uppgötvun hluta í gegnum merki. Hvernig geta tengsl mannsins við nefnarann sett hann í samband við viðfang sem stendur fyrir „Þingið“? Þannig komum við að spurningunni um hvað það er sem maðurinn gerir þegar hann býr til nefnara.

Ren´3 Magritte: Hið fullkomna málverk, 1928

2.

Hvað nefnarann (signifier) varðar, þá er vandinn fólginn í að varast að stökkva á þá staðreynd að maðurinn sé smiður og hönnuður eigin stoðkerfis.

Ég hef nú í mörg ár vanið ykkur við þann skilning, þann ríkjandi forgangsskilning, að nefnarinn sem slíkur sé samsettur af gagnvirkum (oppositional) þáttum og að tilkoma þeirra hefur í för með sér grundvallar breytingu á veröld mannsins. Málið snýst einnig um að þessir nefnarar eru hver um sig tilsniðnir af manninum, og trúlega meira með handavinnunni en í gegnum andlegri vinnu.

Hér mætum við aftur þeirri málvenju, að minnsta kosti í tengslum við göfgun á sviði listanna, að aldrei er hikað við að tala um sköpun. Þess vegna þurfum við nú að hugleiða skilning okkar á sköpunarhugtakinu með öllu sem því fylgir, þekkingu á skaparanum (creator) og skepnunni (creature), því hún er miðlæg, ekki bara varðandi spurninguna um hvað kalli á göfgunina, heldur líka hvað kalli á siðfræðina í víðtækri merkingu.

Ég legg eftirfarandi fram: að því marki sem tiltekinn hlutur er tilbúinn hlutur getur hann gegnt því hlutverki sem gerir manninum kleift að forðast ekki „Þingið“ sem nefnara, heldur að framkalla (represent) það. Samkvæmt þjóðsögu sem keðja kynslóðanna hefur fært okkur og ekkert hindrar okkur í að nota, þá ætlum við nú að vísa í það sem er frumstæðast af allri listrænni virkni, sem er iðja leirkerasmiðsins.

Í síðasta tíma talaði ég við ykkur um eldspýtustokkinn; það var út frá persónulegri reynslu og við munum koma að því síðar. Hugsanlega getur það einnig gert okkur kleift að kanna nánar díalektík leirkersins. En leirkrúsin er einfaldari. Hún kom sannarlega til sögunnar á undan eldspýtustokknum. Krúsin hefur alltaf verið þarna, hún er kannski frumlægasta fyrirbærið í iðnsögu mannsins. Hún er vissulega tól eða nytjahlutur sem gerir okkur kleift að staðfesta mannlega nærveru, hvar sem við finnum hana. Þessi krús sem hefur alltaf verið til staðar og hefur lengi verið notuð til að kynna okkur leyndardóma sköpunarinnar í gegnum dæmisögur, hliðstæður og myndlíkingar, gæti enn reynst okkur gagnleg.

Staðfestingu á gagnsemi vasans í þessum tilgangi finnum við hjá Heidegger í því sem hann skrifar um das Ding (hlutinn eða „þingið“). Hann er sá síðasti í langri röð manna sem hafa hugleitt sköpunina sem slíka; og hann býr til díalektík sína út frá vasanum.

Ég ætla ekki að gera virkni das Ding að umræðuefni hér í skilgreiningu Heideggers á Dasein (tilvera) og tengist greiningu hans á frumspekinni. Þið getið öll flett upp í riti hans Essays and Lectures (Vorträge und Aufsätze) og lesið ritgerðina um das Ding. Þar sjáið þið hvernig hann tengir það við sameiningu jarðneskra og himneskra afla í kjarna mannlegrar tilveru.

Í dag vildi ég einfaldlega halda mig við þá grundvallar aðgreiningu sem hann gerir á notkun vasans sem nytjahlut og merkingarlegri virkni hans. Það er spurningin um hvort hann sé í raun nefnari (signifier) og þá sá fyrsti af slíkum nefnurum sem skapaðir voru af mennskri hönd. Ef svo er, þá er hann í nafngefandi kjarna sínum nefnari einskis annars en nafngiftarinnar sem slíkrar, eða með öðrum orðum nefnari einskis tiltekins viðfangs. Heidegger staðsetur vasann í miðju kjarna jarðar og himins. Fyrst og fremst í því sem við köllum „að skála“ í gegnum tvöfalda virkni þess gjörnings: upp til að taka á móti og niður til jarðarinnar þar sem hann sækir eitthvað. Það er virkni vasans.

Þetta tóm í sjálfu sér, sem einkennir vasann í nefnandi virkni sinni (signifying function), er það sem einkennir vasann sem slíkan í sinni efnislegu mynd. Hann skapar tómið og kallar þannig fram möguleika á fyllingu þess. Tóm og fylling eru þannig kynnt til sögunnar í heimi sem er sér ekki meðvitaður um tilvist þeirra. Það er á grundvelli þessa tilbúna nefnara, þessa vasa, sem tómið og fyllingin fæðast inn í heiminn sem slík, hvorki meira né minna og í sama skilningi.

Þetta er rétta augnablikið til að benda á þær fölsku andstæður sem hafa verið búnar til á milli þess sem kallað er hlutlægt (concrete) og fígúratíft (hlutbundin ímynd). Ef hægt er að fylla vasann, þá er það fyrst og fremst vegna þess að hann er tómur í kjarna sínum. Það gerist með nákvæmlega sama hætti og tal og orðræða geta verið full eða tóm.

Þetta er vandamál sem við tókum til umræðu á ráðstefnu sem haldin var í Royaumont, þar sem ég lagði áherslu á þá staðreynd að sinnepskrukka hafi að geyma þá staðreynd að hún kynnir sig í kjarna okkar hversdagslífs sem tóma sinnepskrukku. Þetta var athugasemd, sem örugglega hefur verið meðtekin sem hugarórar eða hroki. En þessi athugasemd fær sinn rökstuðning í þeirri röksemdafærslu sem ég legg nú hér fram. Gangið nú eins langt og ímyndunarafl ykkar leyfir í þessa átt. Ég set það í raun ekki fyrir mig ef þið sjáið fyrir ykkur guðdómlegt fyrirbæri í nafninu Bornibus (þekkt frönsk sinnepstegund), nokkuð sem er kunnuglegasta og algengasta formið sem sinnepskrúsir taka á sig, þar sem það er einmitt Bornibus sem fyllir þessar krúsir. Þetta setur okkur mörk – við erum ef svo mætti segja, skilyrt af Bornibus. (nafnið á Bornibus-sinnepinu er hér notað í orðaleik með líkinguna við afturbeygða sagnorðið „se borner“ sem merkir að setja sér mörk,)

Dæmið um sinnepskrúsina og leirvasann leyfir okkur að kynna til sögunnar það hringtorg sem höfuðvandi „Þingsins“ hefur snúist um, allt til þess að verða grundvallaratriði siðfræðinnar og felst einfaldlega í spurningunni hvort heimurinn hafi verið skapaður af skyni gæddri veru. Ef Guð skapaði heiminn, hvernig stendur þá á því að heimurinn sé í jafn slæmu ástandi og raun ber vitni, óháð því hvað við tökum okkur fyrir hendur?

Leirkerasmiðurinn hefur verk sitt með Því að hafa á milli handanna meira eða minna fíngerðan leirklump. Það er einmitt á þessum punkti sem trúboðar okkar setja okkur stólinn fyrir dyrnar, rétt til að láta okkur hlusta á kvalastunur leirklumpsins í höndum leirkerasmiðsins. Trúboðinn lætur hann tala með sem átakanlegustum hætti, allt að kvalastununum, og lætur hann spyrja skapara sinn hvers vegna hann fari um sig jafn hörðum höndum – eða þvert á móti, jafn mjúkum höndum. Það sem er hins vegar á huldu í þessari goðafræði sköpunarsinnanna, og merkilegt nokk, einnig hjá þeim sem styðjast við dæmið um vasann, sem er svo kunnuglegur í hugmyndasmíðum um sköpunarferlið (ég sagði ykkur að þeir væru alltaf rithöfundar sem starfa af gildum ástæðum á mörkum trúarbragða og goðafræði) – það er sú staðreynd að vasinn er búinn til úr áþreifanlegu efni. Ekkert er búið til úr engu.

Öll heimspeki fornaldarinnar snýst um þetta atriði. Ef okkur reynist erfitt að hugsa aristótelíska heimspeki, þá er það vegna þess að hana verður að hugsa út frá þeirri forsendu sem aldrei gleymir því að efnið er eilíft og að ekkert er gert úr engu. Sem felur aftur í sér að við erum djúpt sokkin í mynd af heiminum sem opnar aldrei fyrir þann möguleika, ekki einu sinni fyrir sjálfan Aristóteles – og það er erfitt að hugsa sér jafn voldugan hugsuð í gjörvallri sögu mannsandans – að stíga út fyrir það lokaða rými sem himinhvolfið myndar fyrir augum hans, og þar með að sneiða hjá því að hugsa heiminn, einnig heim mannlegra samskipta eða heim tungumálsins, eins og það sem er innifalið í þeirri eilífu náttúru sem er í grunni sínum takmörkuð.

Ef við lítum nú á vasann út frá því sjónarhorni sem ég gekk út frá í upphafi, að hann væri hlutur skapaður til að standa fyrir eða sýna (represent) tilvist tómsins sem miðju þeirrar raunveru sem við köllum „Þingið“, þá er þetta tóm eins og það sýnir sig í sýningunni sem nihil, sem ekkert. Það felur í sér að leirkerasmiðurinn, rétt eins og þú sem ég nú tala til, skapar vasann með eigin höndum utan um þetta tóm, skapar það rétt eins og hinn dularfulli skapari, ex nihilo, þar sem byrjað er á holinu.

Allir búa til brandara um makkarónurnar, því þær eru hol með eitthvað utan um sig, eins og fallbyssuhlaupin. Sú staðreynd að þetta kitlar hláturtaugarnar breytir ekki staðreynd málsins, því hér blasir við að það að búa til nefnara og að búa til holrými í raunverunni er eitt og hið sama.

René Magtritte: Representation („Endursýning“), 1937

 

Mér er minnisstæð kvöldstund sem ég átti með einum af afkomendum þeirra konunglegu bankamanna sem höfðu tekið á móti skáldinu Heinrich Heine, þegar hann kom Parísar fyrir um hundrað árum síðan. Ég kom honum á óvart með fullyrðingum mínum um nútíma vísindi – ég held að undrun hans sé enn vakandi og ekki undir það búin að jafna sig – en fullyrðingin varðaði tilkomu þeirra vísinda sem við kennum við Galileo Galilei, nánar tiltekið að þessi vísindi hefðu einungis getað fæðst og þróast út frá biblíulegri eða gyðinglegri hugmyndafræði, en ekki út frá fornri heimspekihefð eða hinni Aristótelísku hefð. Sívaxandi geta og máttur tákngervingarinnar hefur ekki linnt látum við útvíkkun athafnasviðs síns frá tímum Galileo, og hefur heldur ekki linnt látum við að gleypa í sig öll þau fyrirbæri er gætu hugsanlega takmarkað athafnasvæðið við tiltekin svið upplýsinga. Með því að veita leiknum með nefnarana óheft athafnasvæði hafa orðið til vísindi sem stefna að sívaxandi samsvarandi heild, án þess þó að nokkuð skipti minna máli en það sem er til staðar á hverjum tíma.

Með öðrum orðum, þá er himinhvolfið ekki lengur til, og allir himnakropparnir sem eru hér besta viðmiðunin, birtast okkur eins og þeir gætu allt eins ekki verið til staðar. Raunveruleiki þeirra, eins og tilvistarstefnan myndi segja, einkennist fyrst og fremst af staðreyndatali, þeir eru í grundvallaratriðum skilyrtir (contingent).

Rétt er líka að minna á að það sem okkur er tjáð með orku/efnis-jöfnunni er að einn góðan veðurdag gætum við séð alla samloðun birtingarmyndarinnar sundurtætta, allt út frá gjánni (gap) sem við höfum fest í hana, þannig að öll myndin gæti horfið okkur sjónum.

Með tilkomu þessa tilbúna nefnara, sem er vasinn, höfum við þegar til staðar skilning á sköpun sem er ex nihilo (úr engu). Og þessi skilningur á sköpun ex nihilo er fullkomlega samsvarandi stöðu „Þingsins“ sem slíks. Það er einmitt á þessu sviði sem framsetning og jafnvægisstilling siðferðilegra vandamála hefur verið staðsett í gegnum aldirnar, en einkum þó á þeim öldum sem standa okkur næst og hafa haft mótandi áhrif á okkur.

Til er staður í Biblíunni sem einkennist af glaðlegri bjartsýni, og segir okkur að Drottinn hafi lokið við hinn fræga sex daga sköpunargjörning sinn og hugleitt hann í lokinn og séð að hann var „harla góður“. Við getum sagt það sama um leirkerasmiðinn við verkalokin – verkið er gott, það er heilsteypt, það er umlykjandi. Með öðrum orðum þá er það ávallt gott frá sjónarhorni verksins.

Engu að síður vita allir hvað getur komið úr vasa eða hvað hægt er að láta í hann. Augljóslega er engin bjartsýni réttlætanleg út frá því hvernig málin ganga fyrir sig í heimi mannanna eða hvað þau kunna að leiða af sér. Þannig hefur kreppa samviskunnar kristallast út frá spurningunum um ávinning eða kostnað verksins, en að minnsta kosti á Vesturlöndum hafði þessi samviska verið í jafnvægisástandi sem lauk á tímanum sem ég vísaði í um daginn, þegar ég vitnaði í sígilda setningu Marteins Lúthers – manns sem lengi hefur nagað kristilega samviskusemi. (Hér notar Lacan orðaleik um tvíræða merkingu franska orðsins conscience, sem getur bæði merkt samvisku og (með-vitund. ) En Lúther hélt því fram að vinnan eða gjörningurinn væru ekki innistæður verðleika.

Hér er ekki um neina ómerka trúvillu að ræða. Það eru gild rök fyrir slíkri afstöðu. Til þess að skilja betur á trúflokkaflóðið, sem hefur meðvitað eða ómeðvitað orðið viðskila vegna spurningarinnar um hið illa, er upplagt að styðjast við þá einföldu þrískiptingu sem útlegging okkar á dæminu um vasann kennir okkur.

Í erfiðri leit mannsins að uppruna hins illa upplifir hann sig standa frammi fyrir þrem kostum, því um aðra er ekki að ræða.

Það er gjörningurinn, verkið, og þetta er afneitunarafstaða sem aðrir hópar hefðbundinnar visku en okkar hafa tileinkað sér. Sérhvert verk er í sjálfu sér skaðlegt, og það hefur í för með sér afleiðingar sem hafa að minnsta kosti jafn margar neikvæðar og jákvæðar hliðar. Þessi afstaða birtist með formlegum hætti í Taoisma, svo dæmi sé tekið, að því marki að það er varla liðið að menn noti til dæmis vasa sem skeið – með því að innleiða skeiðina í heiminn hefur heimurinn þegar öðlast flóðbylgju díalektískra mótsagna.

Svo er það efnið. Þar mætum við þeim kenningum sem ég geri ráð fyrir að þið hafið heyrt eitthvað um, en það eru kenningar trúarhóps sem kenndur er við Katara – nafn sem við vitum ekki hvaðan er komið. Þetta er mál sem kallar á smá umfjöllun.

3.

Ég ætla ekki að flytja ykkur fyrirlestur um Katara-trúna, en ég mun benda ykkur á hvar hægt er að finna góða heimild um efnið, í bók sem þið hafið örugglega heyrt minnst á, nefnilega Love and the Western World eftir Denis de Rougement. Það er hvorki besta bókin um efnið, né hin djúphugsaðasta, en hún er skemmtilestur.

Ég las mig í gegnum þetta í endurskoðaðri útgáfu, og við seinni lesturinn voru vonbrigði mín minni en ég átti von á. Mér líkaði lesturinn næstum því. Í bókinni má finna alls konar staðreyndir í tengslum við hina sérstöku kenningu höfundarins, og þessar staðreyndir hjálpa okkur að skilja þá djúpstæðu kreppu sem hugmyndafræði eða öllu heldur guðfræði Kataranna stendur fyrir, andspænis þróunarsögu vesturlenskrar hugsunar. Því hér snýst málið um hinn Vesturlenska mann, jafnvel þótt höfundurinn sýni okkur að vandamálið eigi frekar rætur sínar við jaðarmörk þess sem við erum vön að kalla Vestrið. En þetta er hugtak sem ég hef engar sérstakar mætur á, og enginn ætti að líta á sem miðlægt hugtak í minni hugsun.

Engu að síður gerist það á vissum tímapunkti í lífi Evrópubúa að þeirri spurningu er varpað fram, hvað sé í raun og veru rangt við sköpunina sem slíka. Þessi spurning var sett fram af fólki sem bjó við hugsanagang sem við getum illa gert okkur grein fyrir, né heldur hvaða djúpstæðari hugsanir sú trúarlega og dulspekilega hreyfing stóð fyrir sem við kennum við Katara-trúvilluna. Jafnvel má segja að um sé að ræða eina dæmið í sögunni þar sem tímabundið yfirvald reyndist svo afgerandi að því tókst að nánast þurrka út öll spor réttarhaldanna. Þannig voru hin hörðu viðbrögð (tour de force) hinnar heilögu Kaþólsku kirkju í Róm. Við erum háð heimildaleit í skúmaskotum og fáar þessara heimilda eru áreiðanlegar. Dómsskjöl Rannsóknarréttarins eru horfin, og allt sem við finnum eru örfá óbein vitni hér og þar. Til dæmis er munkur af reglu Dómenikana sem segir okkur að Katarar hafi verið gott fólk með djúpa kristna trú og það hafi lifað einstaklega hreinu og siðavöndu lífi.

Ég get vel keypt það að siðavendni þeirra hafi einkennst af óvenjulegum hreinleika, því þeim bar í grunninn að forðast sérhvern þann verknað er gæti með nokkrum hætti orðið til eilífðar-framlengingar heimsins, sem þeir töldu að væri óhreinn og illur í kjarna sínum. Þannig var hin fullkomna iðja fólgin í viðleitninni að öðlast dauða með eins kærulausum hætti og unnt var, því það fæli í sér endursameiningu við þann Edenlíka heim sem einkennist af hreinleika og ljósi, hinn sanna heim hins upprunalega og góða Skapara eða Frumglæðis. En sköpunarverk hans hafði verið saurgað með aðkomu hins illa Skapara. Sá síðarnefndi hafði innleitt þann skelfilega þátt í heiminn sem fólst í getnaði og spillingu, sem er það sama og umbreyting.

Hugmyndin um að varanleiki efnisins sé rót hins illa á rætur sínar í hugmyndum Aristótelesar um umbreytingu eins efnis yfir í annað efni sem síðan framlengist sjálfkrafa

Eins og þið sjáið, þá er lausnin einföld. Hún felur í sér vissa samkvæmni, þó hún feli ekki í sér allan þá rökfestu sem við teldum ákjósanlega.

Ein þeirra sjaldgæfu áreiðanlegu heimilda sem við höfum um þessi mál – því við vitum í raun og veru ekki hvað fólst í grundvallar kenningu Katara -, er seinni tíma verk, sem þess vegna býður upp á vissar efasemdir. Þessi heimild fannst 1939 og var gefin út undir titlinum Book of Two Principles. Það er auðvelt að nálgast hana í ágætri bók sem nefnist Cathar Writings og René Nelli ritstýrði.

Hið illa býr í efninu. En hið illa getur líka verið annars staðar. Spurningunni er ósvarað. Svarið er hins vegar óhjákvæmilegur lykill, ef við viljum skilja hvaða sögulegi atburður varð til þess að breyta siðferðishugsun mannsins gagnvart hinu illa. Hið illa getur ekki eingöngu verið bundið við verkin og gjörðirnar, ekki við hinn andstyggilega efnisheim – sem öll meinlætaviðleitni beinist þar af leiðandi gegn – án þess að rata inn í þann heim sem við kennum við dulhyggju, og gæti allt eins verið kallaður goðsagnalegur eða jafnvel ímyndaður heimur blekkinga – hið illa gæti leynst í „Þinginu“.

René Magritte: Ógnardagar, 1928

Hið illa gæti verið í „Þinginu“ að því tilskyldu að það sé ekki nefnarinn sem stýrir verkinu eða að því tilskyldu að hann sé ekki inntak verksins. sem það er heldur ekki efni verksins, heldur einungis að því marki sem það viðhaldi nærveru mannlega þáttarins í hjarta sköpunargoðsagnarinnar sem allt hitt hvílir á. Innan sviga mætti taka fram að hvað sem við tökum okkur fyrir hendur, jafnvel þó þú gefir skít í Skaparann – þá er það engu að síður satt, að þú hugsar um ímynd hins illa og nálgast það á forsendum sköpunarsinnans.

„Þingið“ skiptir hér máli að því marki sem það er hugsað út frá þeirri staðreynd að það skilgreini mannlega þáttinn, – jafnvel þó við vitum mætavel að mannlegi þátturinn gengur okkur úr greipum.

Við getum ekki skilgreint „mannlega þáttinn“ í þessu samhengi öðruvísi en þeim sem ég skilgreindi „Þingið“ rétt í þessu, það er að segja sem það í raunverunni sem þjáist fyrir tilverknað nefnarans.

Hafið nú eftirfarandi í huga: hugsun Freuds kennir okkur að spyrja spurningarinnar hvað það sé í raun og veru sem við finnum í kjarna nautnalögmálsins, en það er nokkuð sem er handan nautnalögmálsins og að öllum líkindum það sama og ég kallaði um daginn hinn grundvallandi góði eða illi vilji. Auðvitað er það rétt að hvers kyns gildrur og freistingar koma fram í hugsun manns, eins og til dæmis hvað það er sem við köllum mann – eins og það væri leikur einn að skilgreina mann – sé í grundvelli sínum gott eða illt. En spurningin snýst ekki um það, heldur öllu frekar um heildina. Staðreyndin er sú að maðurinn býr sjálfur til þennan nefnara og kynnir hann fyrir heiminum. Með öðrum orðum, þá verðum við að vita hvað hann býr til þegar hann býr það til í mynd „Þingsins“ þegar það er höfuðeinkenni „Þingsins“ að ekki er mögulegt að ímynda sér það. Það er hér sem við rekumst á vandamál göfgunarinnar.

Þetta er ástæða þess að ég hef valið sögu Minne (orð notað um mansöngva frá miðöldum) sem upphafspunkt. Ég byrja þar vegna einstaks gildis þessarar ljóðahefðar, og vegna þess að orðið er án allrar tvíræðni á þýsku. Minne er gjörólíkt Liebe, en í frönsku höfum við einungis eitt orð, „amour“ eða ást.

Vandamálið sem sett var fyrir áðurnefndan höfund varðar tengslin sem kunna að vera á milli hinnar mjög svo djúpu og leyndu trúvillu sem varð ríkjandi í Evrópu undir lok elleftu aldar – án þess að við vitum nákvæmlega hversu langt aftur í söguna þetta náði annars – og þeirrar birtingar, framsetningar og innleiðingar heils siðaramma sem var fullkomlega siðfræðilegur lífsmáti og kallaðist hofmannaástir (courtly love).

Það eru engar ýkjur að halda því fram að þegar menn hafa einu sinni rannsakað allar sögulegar, félagslegar, pólitískar og hagfræðilegar aðstæður og beitt öllum tiltækum túlkunaraðferðum hinnar samfélagslegu yfirbyggingar, þá hafa sagnfræðingar samtíma okkar sammælst um að vandinn sé óleysanlegur.

Ekkert getur gefið okkur sannfærandi skýringu á vinsældum þessarar einstöku tísku á tímum sem – trúið mér – voru alls ekki svo umburðalyndir eða siðmenntaðir. Þvert á móti var um að ræða samfélag sem var skríða út úr fyrsta tímaskeiði lénsveldisins, sem hægt er að lýsa í stuttu máli sem afmörkuðu landsvæði er stýrt var af glæpamönnum. Einmitt þar finnum við skyndilega siðareglur er stýra sambandi manna og kvenna er bera öll einkenni stórfurðulegrar þversagnar.

Með hliðsjón af tíma okkar þá ætla ég ekki að hefja umræðuna um þetta í dag. Þið ættuð hins vegar vera undirbúin undir það sem ég ætla að fjalla um næst. Það mun hafa með hin tvíræðu og leyndardómsfullu vandamál hins kvenlega viðfangs að gera.

Látið ykkur ekki til hugar koma að þetta sé eitthvað er varði mig sérstaklega. Ég mun ekki reyna að beita mínum veika rannsóknarmætti á þetta viðfangsefni. En sú staðreynd að þetta viðfangsefni lofgerðar, þjónslundar, hollustu og hvers kyns tilfinnigasemi staðlaðrar hegðunar sem einkennir dýrkendur hofmannaástanna gagnvart hefðardömunni, fær einn fræðimanninn til að segja að svo virðist sem þessir söngvarar hafi allir verið að lofsyngja sömu persónuna. Og það er staðreynd sem við getum reiknað með að skilji eftir spurningarmerki. Fræðimaðurinn sem hér um ræðir er Hr. André Morin, prófessor í bókmenntadeild Université de Lille, en við eigum honum einnig að þakka vandaða safnútgáfu Minnesang, sem Aubier gaf út.

Sköpunarverkið sem hér um ræðir er angi viðfangsefnis sem á eðlilega eftir að vekja furðu okkar: hvað var hið raunverulega hlutverk þeirra mannvera af holdi og blóði sem hér áttu hlut að máli? Okkur er ekkert að vanbúnaði að nefna þessar hefðarkonur og fólkið sem var í miðri útbreiðslu þessa nýja stíls og lífsmáta á því tímaskeiði sem hann varð til. Við þekkjum fyrstu stjörnurnar í þessari félagslegu farsótt jafn vel og við þekkjum Herra Sartre og Frú de Beauvoir. Eleanor frá Aquitaine er engin goðsagnavera, ekki frekar en dóttir hennar, greifynjan af Champagne.

Aðalatriðið verður að sjá hvernig vissar af þeim gátum, sem sagnfræðingarnir hafa sett fram um þessi mál, má leysa út frá þeirri kennisetningu sem ég er hér að halda fram, kennisetningu sálgreiningarinnar. Að hve miklu leyti leyfir hún okkur að skýra fyrirbærið sem göfgunargjörning (work of sublimation) í sinni hreinustu mynd?

Þið munið sjá í smáatriðum hvernig það var gerlegt að gefa viðfangi, sem í þessu tilfelli var kallað Hefðarfrúin (The Lady) gildi þess að standa fyrir „Þingið“. Til þess að gefa ykkur hugmynd um slóðina sem ég ætla að rekja til þess augnabliks er ég yfirgef ykkur í Febrúar, þá bið ég ykkur að taka eftir að þetta mun gefa mér færi á að fylgja málinu eftir og sýna fram á þau áframhaldandi þróunarferli er varða tilurð þess sem við köllum hið kvenlega viðfang, þar á meðal hvernig þetta vandamál snýr að okkur í dag. Við munum nálgast viðfangsefnið út frá hinum greinandi formgerðum.

Eftir febrúarhléið er markmiðið að leyfa ykkur að reikna út frumleikann í framlagi Freuds til þessara mála.

Hugmyndin um sköpun er samtvinnuð hugsun ykkar. Þið getið ekki hugsað, enginn getur hugsað, nema á forsendum sköpunar. Það sem ykkur er tamast í hugsanagangi ykkar, það er að segja þróunarhyggjan (evolutionism), er innbyggt í ykkur eins og samtímafólk ykkar, eins og varnarviðbúnaður og viðhald í trúarlega handfestu sem kemur í veg fyrir að þið sjáið það sem er að gerast í heiminum í kringum ykkur. Hvort sem þið vitið það eða ekki, þá er það er ekki vegna þess að þið (og allir aðrir) eruð fangin í hugsuninni um sköpunina sem Skaparinn er stöðugt í sjónmáli ykkar.

Það er augljóst að Guð er dauður. Það er nokkuð sem Freud tjáir frá upphafi til enda goðsagnar sinnar. Þar sem Guð stafar af þeirri staðreynd að Faðirinn er dáinn, þá merkir það augljóslega að við öll höfum skilið að Guð er dauður. Það er líka ástæða þess að Freud veitir efninu svo mikla athygli. Um leið er það svo að það er hinn upprunalega dauði Faðir sem Guð endurleysir, þá var hann einnig dauður frá byrjun. Spurningin um Skaparann hjá Freud tengist þess vegna í dag við það sem heldur áfram að virka á þessu sviði.

Þetta er markmið rannsóknar okkar í ár; form spurningarinnar um hvað „Þingið“ er í raun og veru kallar á andsvar okkar. Það er nokkuð sem Freud hugleiðir í sálfræði hvatanna, en það sem hann kallar Trieb getur með engu móti takmarkast við hinn sálfræðilega skilning. Um er að ræða fullkominn verufræðilegan (ontological) skilning, sem er andsvar við samviskukreppu sem okkur ber skylda til að bera kennsl á, því við erum að upplifa hana.

Hvernig svo sem við upplifum samviskukreppuna, þá er markmið þess sem ég er að reyna að opna augu ykkar fyrir jafnframt tilraun til að gera ykkur hana ljósa.

René Magritte: Að gera hið ómögulega, 1928. Höfundur málar málverlið, höfundur málar „fyrirmyndina“ og sjálft málverkið. Fyrirmyndin er Georgette Magritte, eiginkona málarans.

Forsíðumyndin er málverkið „Falskur spegill“ eftir René Magritte frá 1928

MARTIN HEIDEGGER: HLUTURINN OG ÞINGIÐ

 

KRÚSIN OG MYNDIN AF HEIMINUM

Þessi þýðing á tímamótaritgerð Martins Heideggers frá 1950 er tilraun til að gera hið ómögulega. Það er ávallt stærsta freisting þýðandans að takast á við mikilvægan texta sem er óþýðanlegur. Þetta á við um ljóðlistina og þann skáldskap sem nær að rífa tungumálið upp úr hjólförum sínum. Þessi tilraun Heideggers til að kynna fyrir okkur eðli hlutarins er um leið tilraun með tungumálið, þar sem það er sveigt og togað á ýmsa lund til að ná að segja þann sannleika sem hin hversdagslega og fátæka málnotkun samtímans er ekki til vitnis um. Það var Edmund Husserl kennari Heideggers, sem setti fram þá kröfu að heimspekin og tungumálið tækju á veruleikanum og hlutunum eins og þeir eru í raun og veru, en ekki í þeim myndum og forskriftum sem tungumálið og myndmálið hafa mótað í samtíma okkar. Þetta var krafa fyrirbærafræðinnar. Segja má að Heidegger hafi tekið lærimeistara sinn á orðinu með því að gera þessa fyrirbærafræðilegu atlögu að krúsinni, þessu einfalda drykkjaríláti sem allir telja sig þekkja, en opnast hér fyrir okkur í dýpkaðri veru sem mynd af heiminum og okkur sjálfum.


Rétt er að taka það fram að þessi íslenski texti er frekar tilraun til endursagnar en „þýðing“ í hefðbundnum skilningi, og margt við textann að athuga þó ég birti hann hér forvitnum lesendum hugruna til skemmtunar. Allar leiðréttingar á „þýðingunni“ væru vel þegnar.


Þessi ljósmynd af Martin Heidegger er eftir Francois Fediér

Martin Heidegger:

Das Ding;

Hluturinn og þingið

Ritgerð úr ritgerðasafninu Vorträge und Aufsätze frá 1950

Þýtt og endursagt úr útgáfu Vittorio Klostermann og Friedrich-Wilhelm von Herrman, Frankfurt am Main 2000.

Heidegger_Martin_1950_2000_Das_Ding.pdf (monoskop.org)

Hliðsjón höfð af útgáfu Ugo Murzia editore, Milano 1976, í umsjá Gianni Vattimo: Saggi e discorsi, bls. 109-124.

Allar fjarlægðir í tíma og rúmi skreppa saman. Staðir sem aðeins var hægt að nálgast eftir viku- eða mánaðarlöng ferðalög geta menn nú heimsótt eftir næturlangt flug. Fréttir sem áður bárust okkur fyrst ári seinna eða aldrei, berast okkur nú nánast í beinni útsendingu með útvarpinu. Brum og vöxtur jurtanna, sem voru okkur hulin innan tímamarka árstíðanna, getum við nú skoðað á einnar mínútu kvikmynd. Fornar og fjarlægar miðstöðvar siðmenningarinnar eru nú til sýnis á kvikmyndatjaldinu eins og þær væru hluti af umferðaræðum okkar. Kvikmyndin staðfestir samtímis það sem hún sýnir með því að sýna okkur um leið upptökutækið og myndatökufólkið að baki þess. Hátindi útilokunar fjarlægðanna er náð með sjónvarpinu, sem brátt mun fylla og drottna yfir öllu hinu flókna fjarskipta- og samskiptaneti okkar.

Maðurinn leggur æ lengri vegalengdir undir sig á æ skemmri tíma. Hann leggur langleiðirnar að baki sér og hefur þannig allt innan handar.

En þessi ákafa eyðing allra fjarlægða færir manninum enga nærveru. Nándin felst reyndar ekki í styttingu fjarlægðanna. Það sem stendur okkur næst hvað vegalengd snertir í gegnum myndirnar, kvikmyndirnar eða hljóðin í útvarpinu, getur verið okkur fjarlægt. Það sem er okkur í órafjarlægð landfræðilega séð getur verið okkur nákomið. Löng vegalengd felur ekki enn í sér fjarveru.

Hvað er nærveran ef hún næst ekki með styttingu hinna lengstu vegalengda? Hvað er nándin ef endalaus stytting hinna lengstu vegalengda hefur jafnvel þau áhrif að útiloka hana? Hvað er nærveran ef fjarvera hennar þurrkar líka út fjarlægðirnar?

Hvað á sér stað þegar afnám hinna löngu vegalengda gerir allt jafn nákomið eða fjarlægt? Hvað felst í þessari útjöfnun, þar sem hlutirnir eru okkur hvorki fjarlægir né nákomnir?

Allt flæðir saman í eina einsleita bendu án fjarlægðar. Hvernig? Er þessi samþjöppun alls með afnámi vegalengdanna ekki meira ógnvekjandi en allsherjar sundrung alls?

Maðurinn er heltekinn af tilhugsuninni um að til kjarnorkusprenginga komi. Maðurinn sér ekki það sem er löngu ljóst og hefur þegar gerst, þar sem síðasta afsprengið er framleiðsla og sprenging atómsprengjunnar, svo ekki sé minnst á vetnissprengjuna, en fyrsta notkun  hennar gæti í versta falli nægt til að eyða öllu lífi á jörðinni. Eftir hverju bíður þessi ráðalausa angist, ef þessir skelfingaratburðir hafa þegar átt sér stað?

Það ógnvænlega felst í því að allt sem er, verði svipt fyrri veru sinni. Hvað er þetta ógnvænlega? Það sýnir sig og felur sig með þeim hætti sem allt birtist,  þótt fjarlægðirnar hafi verið yfirunnar, þá er nálægð þess sem er enn ekki til staðar.

Hvað felur nálægðin í sér? Hvernig getum við upplifað eðli hennar? Svo virðist sem hún láti sig ekki sjálfkrafa í ljós. Við getum kannski höndlað hana ef við leitum eftir því sem er okkur næst. Í námunda okkar er að finna það sem við erum vön að kalla hlutina. En hvað er hlutur?

Fram til þessa hefur maðurinn ekki hugleitt hlutinn sem hlut frekar en nálægðina. Krúsin er hlutur. En hvað er krúsin? Við segjum: hún er ílát, eitthvað sem getur geymt annað í sér. Það sem myndar krúsina  er botninn og hliðarveggurinn. Þetta umfang má líka höndla með handfanginu. Sem ílát er krúsin eitthvað sem stendur sjálft (in sich steht). Þetta að standa í sjálfu sér einkennir krúsina sem eitthvað sjálfstætt (Selbständiges). Sem sjálfstæði sjálfstæðs hlutar er krúsin frábrugðin venjulegu viðfangi (Gegenstand). Það sem er sjálfstætt getur orðið viðfang ef við framköllum það (vorstellen), annað hvort í seilingarfjarlægð eða í minningu sem framkallar ímyndun (Vergegenwärtigung). Það sem myndar hlutareðli hlutarins (das Dinghafte des Dinges) er þó hvorki háð því að hann sé framkallað eða ímyndað viðfang (vorgestellter Gegenstand), né heldur að hægt sé að skilgreina hann á grundvelli við-móts við-fangsins (Gegenständlichkeit des Gegenstandes).

Krúsin er ílát, hvort sem við höfum fyrir fram gefna hugmynd (Vorstellung) um hana eða ekki (hugtakið „Vorstellung“ getur merkt bæði hugmynd og sýningu). Sem ílát stendur krúsin í sjálfri sér. Hvað merkir það annars, að ílát standi í sér sjálfu (stehe in sich)? Er það ákvarðandi um krúsina sem hlut að hún standi í sjálfri sér? Krúsin stendur aðeins sem ílát ef henni hefur verið stillt upp sem slíkri. Þetta hefur hins vegar átt sér stað og það gerist í gegn um uppstillingu (Stellen), nefnilega með fram-leiðslu (Herstellen).  Leirkerasmiðurinn fullgerir hina jarðbundnu krús úr sér völdu og meðhöndluðu jarðefni. Það er efni krúsarinnar. Í krafti efnis síns getur krúsin einnig staðið á jörðinni, hvort sem það er beint eða með milligöngu borðs eða bekks. Það sem felst í slíkri uppstillingu (Herstellen) krúsarinnar er  að standa í sjálfri sér (das Insichstehende). Þegar við tökum krúsinni sem tilbúnu íláti þá meðtökum við hana að því er virðist sem hlut (Ding), en alls ekki sem einfalt viðfang (Gegenstand).

Eða höldum við áfram að líta á krúsina sem viðfang? Vissulega. Reyndar er hún ekki lengur bara viðfang  hreinnar framsetningar /ímyndunar (Vorstellens), heldur er hún vegna framsetningarinnar viðfang framleiðslu sem stillir sér upp fyrir framan okkur og andspænis okkur. Að standa í sjálfri sér (Insichstehen) virðist vera einkenni krúsarinnar sem hlutur. Í rauninni hugsum við engu að síður það að standa í sjálfu sér út frá framleiðslunni. Að standa í sjálfu sér er það sem framleiðslan hefur séð fyrir sér. En það að standa í sjálfu sér er engu að síður líka hugsað út frá viðfangseðlinu, þar sem viðfang hins framleidda byggir ekki lengur á hreinni hugmynd (Vorstellen). En frá viðfangseðli viðfangsins og sjálfstæðisins (Gegenständlichkeit des Gegenstandes und Selbstandes) liggur engin bein leið til hlutareðlis hlutarins (Dinghaften des Dinges).

Hvað felst í hlutlægni hlutarins? Hvað er hluturinn í sjálfum sér? Við getum eingöngu nálgast hlutinn í sjálfum sér þegar hugsun okkar hefur loksins höndlað hlutinn sem hlut.

Krúsin er hlutur sem ílát. Þetta ílát kallar á framleiðslu. En það að vera framleidd af leirkerasmið segir engan veginn til um hvað tilheyri krúsinni sem krús. Krúsin er ekki ílát af því að hún hefur verið framleidd, þvert á móti hefur krúsin kallað á þessa framleiðslu af því að hún er þetta ílát.

Framleiðslan leiðir krúsina engu að síður inn í það sem er hennar eigin. En það sem er eiginleiki kjarna krúsarinnar er aldrei búið til í framleiðslunni. Þegar krúsin hefur losnað fullgerð úr framleiðslunni og er orðin sjálfstæð þarf hún að halda utan um sjálfa sig. Á framleiðsluferlinu verður krúsin allavega fyrst að sýna framleiðandanum útlit sitt. En þessi sjálfssýning (Sichzeigende), þetta útlit (das εϊδος (eidos), die ίδέα (idea)) einkennir krúsina einungis út frá því sjónarhorni sem hún -sem ílát á leið í framleiðslu – hefur gagnvart framleiðandanum.

Engu að síður er það svo að ásjóna íláts eins og þessarar krúsar, hvað og hvernig krúsin sem þessi krúsar-hlutur er, ásjónan lætur okkur aldrei upplifa hugmyndina (die ίδέα ) með tilliti til útlitsins, hvað þá frekar hugsa hana. Þetta hefur Platon hugsað þannig að nærvera þess sem er til staðar í útliti sínu varði kjarna hlutarins næsta lítið, og sama má segja um Aristóteles og aðra hugsuði sem á eftir komu. Platon hefur hins vegar skilið alla sýnilega hluti sem við-fang framleiðslunnar og markað þar með sjónarmið komandi kynslóða. Við notum ekki hugtakið við-fang (Gegen-stand) heldur frekar orðið Herstand (af-urð). Í fullum kjarna af-urðarinnar býr tvöfaldur uppruni (Her-stehen), fyrst og fremst upprunastaðurinn, hvort sem um er að ræða að hluturinn sé sjálfsprottinn eða tilbúinn. Í öðru lagi uppruni í þeim skilningi að koma frá og felast í (Hereinstehen) því sem er framleitt með afhjúpun þess sem er þegar til staðar.

Sérhver framsetning /ímyndun (Vorstellen) þess sem er til staðar (Anwesenden) í skilningi af-urðarinnar (Herständigen) og við-fangsins (Gegenständigen) nær þó aldrei að fanga hlutinn sem hlut. Hlutareðli krúsarinnar felst í því að hún er ílát. Við skynjum umfang ílátsins þegar við fyllum krúsina. Botn og hliðarveggir krúsarinnar mynda augljóslega ílátið. En gáum nú að! Þegar við hellum víninu í krúsina hellum við því þá í hliðarveggina og botninn? Við hellum víninu fyrst og fremst á milli barmanna sem standa á botninum. Hliðarveggirnir og botninn eru hið gegnheila í ílátinu. Það gegnheila er þó ekki ígildi ílátsins eitt og sér. Þegar við fyllum krúsina flæðir bunan í fyllingu hinnar tómu krúsar. Tómið er það sem tekur á móti í ílátinu. Tómið, þetta ekkert í krúsinni, er það sem gerir krúsina að íláti. Ein og sér er krúsin gerð úr botni og hliðarveggjum. Það er þetta sem krúsin er gerð úr og það er á þessu sem hún stendur. Hvað væri krús sem ekki gæti staðið? Í besta falli misheppnuð krús. Alltaf krús, en þó þannig að þó hún væri fyllt, þá myndi hún stöðugt velta um koll og tæmast. En tæming getur einungis gerst hjá íláti.

Hliðarveggir og botn sem krúsin er gerð úr og gera henni kleift að standa eru ekki hið eiginlega ílát. Þar sem ílátið byggir á tómi krúsarinnar þá er leirkerasmiðurinn í raun ekki að ljúka við gerð hennar Þegar hann mótar hliðarveggina og botninn á snúningsskífu sinni. Hann mótar bara leirinn.  Nei – hann byggir tómið. Það er fyrir tómið, með tóminu og úr tóminu sem hann mótar leirinn í myndinni. Leirkerasmiðurinn handfjatlar (fasst) fyrst og fremst óhöndlanleika tómsins og festir það sem ílátsgildið í byggingu ílátsins. Tóm krúsarinnar ákvarðar sérhvert handtak handverksmannsins. Hlutareðli ílátsins er alls ekki fólgið í efni þess, heldur í tóminu sem það hefur að geyma (fasst).

Ein og sér, er krúsin í raun og veru tóm?

Eðlisfræðin kennir okkur með fullri vissu að krúsin sé full af lofti og allri þeirri efnablöndu sem andrúmsloftinu fylgir. Þegar kom að því að skilja tóm krúsarinnar sem forsendu fyllingarinnar létum við blekkjast af skáldagrillum.

Um leið og við gefum okkur hins vegar að því að rannsaka hina raunverulegu krús á vísindalegan hátt blasir við annar veruleiki. Þegar við hellum víninu í krúsina gerist það einfaldlega að loftið sem fyllti krúsina  víkur fyrir vökvanum. Frá vísindalegu sjónarhorni felst fylling krúsarinnar í því að skipta frá einni fyllingu yfir í aðra.

Þessi ábending eðlisfræðinnar er hárrétt. Vísindin snúast um eitthvað raunverulegt og beita þannig hlutlægum aðferðum. En er þessi raunveruleiki krúsin? Nei. Vísindin takmarka athuganir sínar ávallt fyrir fram við það sem framsetningaraðferð þeirra gerir aðgengilegt sem mögulegt viðfang (Gegenstand).

Menn segja að þekking vísindanna sé þvingandi (zwingend). Vissulega er það svo. En í hverju er þessi afgerandi þvingun fólgin? Í okkar tilfelli felst hún í þeirri þvingun að taka hina fylltu vínkrús okkar út úr myndinni, og setja í hennar stað holrými þar sem vökvafylling á sér stað. Vísindin gera krúsar-hlutinn að einhverju engu, þar sem bannað er að skoða hlutina eins og þeir eru.

Þessi þvingandi þekking vísindanna, sem er skuldbindandi innan þessara marka viðfangsins, hafði þurrkað út hlutina sem slíka, löngu áður en atómsprengjan sprakk. Þessi sprenging þeirra er einungis það grófasta af öllum þeim grófu staðfestingum á þessari löngu tilkomnu eyðingu hlutarins; þeirri staðreynd að hluturinn sem hlutur sé og verði ekkert. Hlutareðli hlutarins er þannig falið og gleymt. Eðli hlutarins er hulið, kemur hvergi í ljós, það er hvergi til umræðu. Við segjum þetta þegar hér er talað um um eyðingu hlutarins sem hlutur. Þessi eyðing er ógnvekjandi vegna þess að hún er falin á bak við tvöfalda grímu. Í fyrsta lagi á bak við þá skoðun, að vísindin standi allri annarri reynslu framar hvað varðar að greina veruleikann í öllum sínum veruleika. Í öðru lagi vegna þeirrar blekkingar, að hlutirnir geti áfram verið hlutir, óháð fordómum hinnar vísindalegu rannsóknar á veruleikanum, en þar er gengið út frá því að hlutirnir hafi alltaf verið til staðar almennt og fyrir fram, sem hlutvera (wesende Dinge). Ef hlutirnir hefðu hins vegar þegar og fyrir fram sýnt sig sem hlutir í hlutareðli sínu, þá hefði hlutareðli hlutanna verið opinbert. Þá hefði þetta hlutareðli hlutanna orðið viðfangsefni hugsunarinnar. Raunin er hins vegar sú að hluturinn sem hlutur er útilokaður, sem tóm, og í þeim skilningi er honum útrýmt. Þetta hefur gerst og gerist enn með svo afgerandi hætti að hlutirnir fá ekki lengur að birtast sem hlutir, heldur gerist það líka að hlutirnir yfirleitt megna ekki lengur að birtast hugsuninni sem hlutir.

Hvað veldur ekki-birtingu hlutarins sem hlutur? Er orsökin eingöngu sú að maðurinn hefur vanrækt að láta hlutinn birtast sér sem hlutur? Maðurinn getur einungis vanrækt það sem honum hefur áður verið ráðlagt. Maðurinn getur einungis séð það fyrir með margvíslegum hætti, sem áður hafði látið sig í ljós, og sýnt sig í þannig tilkomnum ljóma sínum.

En hvað er hann eiginlega, þessi hlutur sem hlutur er hefur glatað birtingarmætti sínum?

Kom hluturinn aldrei nægilega nálægt manninum þannig að hann hefur enn ekki lært að huga fullnægjandi að hlutnum sem hlut? Hvað er nánd? Við vorum búin að spyrja þessarar spurningar. Við höfum spurt krúsina í nálægð hennar til þess að uppgötva þetta.

Hvað felst í krúsareðli krúsarinnar? Við misstum fyrirvaralaust sjónar á henni, einmitt á því augnabliki þegar sú birting kom í ljós, þar sem vísindin gátu upplýst okkur um raunveruleika hinnar raunverulegu krúsar. Við sáum fyrir okkur virkni ílátsins, fyllingu þess, tómið eins og það væri holrými fyllt með lofti. Þar er tómið hugsað í eðlisfræðilegum veruleika sínum. En það er ekki tóm krúsarinnar. Við létum tóm krúsarinnar ekki vera hennar tóm. Þess vegna áttuðum við okkur ekki á því hvað felst í inntaki (Fassende) ílátsins. Við huguðum ekki að því hvað felst í umfanginu (Fassen). Þess vegna hlaut það einnig að fara fram hjá okkur, hvað krúsin hafði að geyma. Hin vísindalega framsetning á víninu umbreytti því í einskært flæði einhvers sem gat verið staðgengill allra hugsanlegra efna. Við létum hjá líða að hugleiða hvað krúsin hafði að geyma og hvernig hún geymdi það.

Hvernig geymir (fasst) tóm krúsarinnar? Það geymir með því að taka við því sem er hellt. Tómið inniheldur með tvennum hætti: taka á móti og geyma. Orðið „fassen“ (halda utan um) er þannig tvírætt. Að taka á móti uppáhellingi og varðveita uppáhellinginn eru þannig samtengd.  Eining þeirra ákvarðast hins vegar af losuninni, sem aftur ákvarðar krúsina sem krús. Hið tvöfalda innihald hins tóma felst í losun. Sem slíkt er innihaldið einmitt það sem það er. Að hella úr krúsinni er að skenkja (schenken). Innihald ílátsins verður (west) boð um bunu (Guss). Innihaldið hefur þörf fyrir tómið eins og ílátið. Með því að skenkja sameinast eðli hins fyllta tóms. Að skenkja er hins vegar innihaldsríkara en einföld útlát. Skenkunin sem gerir krúsina að krús leiðir til tvöfeldni þess að  innihalda og úthella. Við köllum samsafn fjalla fjalllendi (Gebirge). Við köllum sambland hins tvöfalda innihalds í úthellingunni (Ausgiessen) sem í sameiningu myndar hið fulla eðli skenkunarinnar: das Geschenk (gjöf, fórnargjöf. Forskeytið Ge- myndar samlegð í þýsku).  Krúsareðli krúsarinnar felst í fórnargjöf bununnar. Hin tóma krús viðheldur eðli sínu með fórnargjöfinni, jafnvel þegar hún býður ekki fram neina úthellingu. En þessi útlátshöfnun tilheyrir krúsinni og einungis krúsinni. Sigð eða hamar megna ekki að banna þessa veitingu.

Fórnargjöf bununnar getur verið drykkur. Hún býður fram vatn, hún býður fram vín til drykkjar.

Í vatni fórnargjafarinnar dvelur (weilt) uppsprettan. Í uppsprettunni er kletturinn og í honum svefndrungi jarðarinnar sem meðtekur regn og dögg himinsins. Í vatni uppsprettunnar lúrir brúðkaup Himins og Jarðar. Þetta brúðkaup dvelur í víninu sem ávextir vínviðarins hafa fært okkur; þar sem næringarmáttur jarðar og sólar himinsins sameinast. Í framboði vatnsins og í framboði vínsins finnum við ávallt Himinn og Jörð. Dreypifórnin er hins vegar krús-vera krúsarinnar. Í kjarna krúsarinnar búa Himinn og Jörð.

Framboð dreypifórnarinnar færir hinum dauðlegu drykkinn. Það slekkur þorsta þeirra. Það lífgar hvíld þeirra. Það kætir samfundi þeirra. En dreypifórn krúsarinnar er einnig færð hinum ódauðlegu Guðum í helgiathöfninni. Gjöf dreypifórnarinnar sem drykkur er hin eiginlega gjöf (Geschenk). Með dreypifórn hins vígða drykkjar birtist vera hinnar gjöfulu krúsar sem skenkjandi Gjöf. Hinn vígði drykkur er það sem orðið „Guss“ (úrhelli, buna) nefnir í raun og veru. Fórnarskál og framlag. „Guss,“, „giessen“ eru orð sem samsvara gríska orðinu χέείγ (keein)og hinu indógermanska gbu. Merking þeirra er að færa fórn. Úthelling framkvæmd með sinni dýpstu merkingu og úthugsun og sinni réttu framsögn jafngildir því að færa helga dreypifórn, fórna og þar með gefa (schenken). Þannig getur merking veitingar úr krúsinni dofnað niður í einfalda tæmingu og fyllingu þar til hún breytist í einfalt úrhelli.  Að hella er ekki einskær tæming og áfylling.

Þegar drykkur er boðinn fram með bunuágjöf taka hinir dauðlegu á móti með sínum hætti. Þegar drykkur er boðinn fram með bunuágjöf taka hinir guðdómlegu við henni með sínum hætti, þar sem þeir taka á móti gjöf veitingarinnar sem endurgjöf. Hinir dauðlegu og hinir guðdómlegu bregðast með ólíkum hætti við gjöf  bununnar. Við gjöf bununnar mætast Himinn og Jörð, Dauðlegir og Guðdómlegir. Þessir fjórir heyra hér saman, sameinaðir í sjálfum sér. Tilkomnir á undan öllu öðru sameinast þeir í einni Fernu (Geviert).

Í gjöf bununnar felst einfeldni Fernunnar.

Gjöf bununnar er veiting að því tilskyldu að hún feli í sér (verweilt) Jörð og Himinn, hið Guðdómlega og hið Dauðlega. Að fela í sér er hér ekki það sama og ríghalda í það sem er til staðar. Að fela í sér er að tileinka sér (Verweilen ereignet). Það leiðir fjóra í þeirra eiginlega ljós. Úr þessum einfaldleika er gagnkvæm trúmennska þeirra ofin. Með þessari gagnkvæmu einingu eru þeir afhjúpaðir. Gjöf bununnar framkallar (verweilt) einfaldleika Fernu fjögurra. Með gjöfinni verður (west) krúsin hins vegar varanlega að krús. Gjöfin sameinar það sem tilheyrir veitingunni: hið tvöfalda innihald (Fassen), geymdina (das Fassende), tómið og úthellinguna (das Ausgiessen) sem veitingu. Það sem sameinast í gjöfinni tekur sig saman með því að virkja Fernuna. Þetta margfalt einfalda samkvæmi er eðli (Wesende) krúsarinnar. Okkar tunga á sér gamalt orð um samkomuna (Versammlung). Þetta orð er „þing“ (Ding, hlutur).  Eðli krúsarinnar er hin hreina örláta samkoma hinnar einföldu Fernu í einni viðveru (weile). Krúsin verður (west) eins og Þing (Ding, hlutur). Krúsin er krúsin eins og „þing“ (hlutur). Hvernig virkar (west) Þingið? Þingið þingar (Das Ding dingt). Þinghaldið (das Dingen) sameinar. Það sameinar með því að framkalla Fernuna og veru hennar í einni samfelldri samveru: í þessu, í sérhverju Þingi (Ding, hlut).

Þegar við höfum upplifað og hugleitt eðli krúsarinnar með þessum hætti gefum við henni nafnið Þing (Ding). Við hugsum þetta nafn nú út frá úthugsuðu eðli Þingsins, út frá þinghaldinu (das Dingen) sem samveru og sameign Fernunnar. Við höfum þá jafnframt í huga þetta forna orð háþýskunnar. „thing“. Þessi málsögulega tilvísun leiðir okkur auðveldlega til misskilnings á því, hvernig við hugsum veru kjarna hlutarins (das Ding). Það gæti gefið til kynna að sá skilningur sem við leggjum nú í eðli hlutarins hafi fyrir tilviljun verið dreginn af merkingu þessa orðs úr fornri háþýsku. Sá grunur fær vængi, að sú hugsun um reynsluna af eðli hlutarins sé tilkomin fyrir tilverknað málsögulegra fimleika. Sú skoðun festir rætur og verður brátt landlæg, að í stað þess að huga að eðlisþáttunum hafi verið gripið til orðabókarinnar.

Hið gagnstæða við slíkar áhyggjur er hins vegar tilfellið. Vissulega þýðir þetta forna orð úr háþýsku samkoma, meira að segja samkoma til umfjöllunar um málefni líðandi stundar, um deilumál. Þess vegna eru þessi fornu orð „thing“ og „dinc“ notuð um meðferð málefna; þau nefna jafnframt það sem mönnum liggur á hjarta, hvað snertir þá og hvað sé á dagskrá (in Rede steht). Það sem er á dagskrá kalla Rómverjar „res“; á grísku: εϊρω (eiro) (ρητς, ρητρα, ρήμα / retks, retra, rema). Að fjalla um eitthvað og semja um það.  Res publica merkir ekki ríkið, heldur það sem varðar sérhvern einstakling innan þjóðarinnar, hvað veldur honum áhyggjum (ihn „hat“) og kallar á opinbera umræðu.

Einungis þessi merking orðsins res sem hagsmunamál gefur tilefni til orðasambandanna „res adversae“ og „res secundae“, það fyrra sem ólán og það seinna sem hvað verður manni til happs. Orðabækurnar þýða res adversae réttilega sem ógæfu og res secundae sem gæfu. Hins vegar segja orðabækurnar okkur fátt um hvað orðin segja sem hugsað talmál. Raunin er sú, að bæði hér og í öðrum tilfellum er  því ekki þannig varið, að hugsun okkar lifi á orðsifjafræðinni, heldur beinist orðsifjafræðin fyrst og fremst að því að hugleiða þau grundvallar tengsl sem orðin hafa við það sem þau nefna beinlínis.

Rómverska orðið res vísar í það sem varðar manninn, málefnið, þrætuefnið, tilfellið. Í þeim tilgangi nota Rómverjar líka orðið „causa“. Það merkir eiginlega ekki, og alls ekki fyrst og fremst „orsök“ (Ursache). Causa merkir tilfellið og einnig það sem birtist í tilfellinu og felst í því. Þar sem causa merkir tilfellið (Fall), næstum það sama og res, þá getum við sagt að causa tengist orsökinni í tengslum við orsakasamhengi tiltekinnar virkni. Hið fornþýska orð thing og dinc eru með tengslum sínum við samkomu, og þar með málsmeðferð, betur en nokkuð annað til þess fallin að þýða rómverska orðið res, málefnið (das Angehende). En orðið sem fellur best að orðinu res í því sama rómverska tungumáli er orðið causa í merkingunni tilfelli og málefni, sem verður aftur í rómönskum málum la cosa og á frönsku la chose. Við segjum hins vegar á þýsku das Ding, og  enska myndin thing hefur ennþá varðveitt með fullum styrk merkingu rómverska orðsins res. Menn geta þannig sagt: he knows his things, hann kann skil á sínum „hlutum“, það er að segja á þeim málum sem hann varða, he knows how to handle things, hann kann að bregðast við hlutunum, það er að segja við því sem upp á kemur, that is a great thing: það er góður (fallegur, máttugur, stórbrotinn) hlutur, það er að segja hlutur sem kemur fólki við.

Þessi saga merkingar orðanna res, Ding, causa, cosa, chose og thing, sem hér hefur verið drepið á, skiptir þó ekki mestu máli í þessu sambandi,  heldur eitthvað allt annars eðlis, sem hingað til hefur ekki verið hugleitt. Rómverska orðið res nefnir það sem mannfólkið varðar með einum eða öðrum hætti. Það sem kemur manninum við (das Angehende) er raunveruleiki res.  Raunveruleiki res er samkvæmt reynslu Rómverja falinn í því sem mann varðar (Angang). En: Rómverjar hafa aldrei hugleitt slíka reynslu í eðli sínu. Þar við bætist að með innleiðingu síðgrískrar heimspeki verður raunveruleiki res meðtekinn í skilningi hins gríska όγ (on), sem á latínu er ens, og merkir það sem er til staðar (Anwesende) í merkingu upprunans (Herstand). Hugtakið res verður ens, sá hlutur sem er til staðarað að því marki sem hann er fram-leiddur og fram-settur (das Her- und  Vorgestellten). Hið undarlega realitas (raunveruleiki) hinnar upprunalegu rómversku reynslu af því sem mann varðar (Angang) verður grafið og gleymt sem eðli þess hlutar sem er til staðar (des Anwesenden). Á næstu öldum, einkum á miðöldum, fékk hugtakið res þá merkingu að vísa til sérhvers ens sem ens, það er að segja til alls þess sem með einhverjum hætti er til staðar, einnig þegar það á uppruna sinn í ímynduninni (Vorstellen) og er einungis til staðar sem ens rationis (hugsaður hlutur). (Ath.: latneska hugtakið ens eða res á sér ekki fullkomlega sambærilega mynd á íslensku: það getur merkt „hlut“ sem er hlutlægur, en einnig fyrirbæri sem er huglægt. Samkvæmt MH hafa þessi hugtök haft misvísandi merkingarmið í gegnum aldirnar. olg.) Það sama og gerðist með res hefur einnig gerst með orðið dinc (þing), þar sem dinc merkir allt sem er með einhverjum hætti. Þannig notar Meister Eckhardt orðið dinc jöfnum höndum fyrir Guð og sálina. Fyrir honum er Guð das „hoechste und oberste dinc“ (hiðnn hæsti og göfugasti hlutur). Og sálin er ein „groz dinc“ (stórbrotinn hlutur). Þessi meistari hugsunarinnar er þar með engan veginn að halda því fram að Guð og sálin séu sambærileg við grjóthnullung, það er að segja efnislegir hlutir. Dinc er hér notað með hófsömum og varfærnum hætti um eitthvað sem yfirleitt er. Þannig hefur Meister Eckhart á einum stað þessi orð eftir Dionigi di Areopagita: „diu minne ist der natur -, daz si den menschen wandelt in die dinc, die minnet. (ástin er þeirrar náttúru að hún umbreytir mannfólkinu í þá hluti sem það elskar. olg.).

Þar sem orðið Ding (hlutur/ Þing) stendur fyrir það sem almennt og með einhverjum hætti er eitthvað í málnotkun vesturlenskrar frumspeki, þá hefur merking orðsins „Ding“ tekið breytingum til samræmis við ólíkar túlkanir sem menn hafa haft á því sem er, það er að segja sem verundinni í heild sinni (das Seienden). Kant talar um hlutina með sama hætti og Meister Eckhart, og á þá við eitthvað sem er.  En hjá Kant verður það sem er að viðfangi (Gegenstand) framsetningarinnar / ímyndarinnar (Vorstellen) sem á sér stað í sjálfsvitund hins mannlega Égs. „Hluturinn í sjálfum sér“ merkir hjá Kant viðfangið í sér sjálfu. Þetta „í sjálfu sér“ merkir hjá Kant að viðfangið sé sitt eigið viðfang án aðkomu hinnar mannlegu ímyndar (Vorstellen), það er að segja án þess „Gegen-„ forskeytis (sbr. Gegen-stand; við-fang) sem þessi ímyndun (Vorstellung) stendur fyrst og fremst fyrir.  „Ding an sich“ merkir samkvæmt strangri kantískri hugsun viðfang sem er ekki neitt andspænis okkur, þar sem það stendur án þessa „Gegen“ („andspæni“) sem það hefur gagnvart ímynduninni (Vorstellen).

Hvorki hin almenna og löngu ofnotaða merking orðsins „Ding“ í heimspekinni, né merking hins háþýska thing (ísl. þing) koma okkur að minnstu notum í þeim erfiðleikum sem við mætum hér, ef við ætlum okkur að upplifa og hugsa beinlínis það sem við segjum nú um eðli krúsarinnar. Þó vill það til að eitt merkingartilvik hinnar gömlu málnotkunar á orðinu thing, nefnilega „samkoman“ hefur eitthvað að segja um það sem áður var sagt um eðli krúsarinnar.

Krúsin er hvorki hlutur í skilningi hins rómverska res, né í miðaldaskilningi orðsins ens, og allra síst í merkingu hins nútímalega viðfangs (Gegenstand). Krúsin er „þing“ (hlutur) að því marki sem hún „þingar“ (íhlutar /þingar). Með „íhlutun hlutarins“ (Dingen des Dinges) verður fyrst sú tilkoma þess sem er til staðar (Anwesen des Anwesenden) í veruhætti (Art) krúsarinnar.

Á okkar tímum eru allir tilfallandi (Anwesende) hlutir jafn nálægir og fjarlægir. Fjarvera fjarlægðarinnar er ríkjandi. Öll þessi smækkun og útilokun fjarlægðanna skapar þó enga nánd. Hvað er nándin? Til þess að finna nándina hugleiddum við krúsina í nánd sinni. Við leituðum að eðli nándarinnar og fundum eðli krúsarinnar sem hlutur.  En með þessum fundi skynjuðum við um leið eðli nándarinnar. Hluturinn íhlutar (Das Ding dingt). Íhlutunin felur í sér viðveru (verweilen) Jarðar og Himins, hinna Guðdómlegu og Dauðlegu. Með sköpun viðveru  (verweilend) færir hluturinn fjarlæga fjórðunga nær hvor öðrum úr fjarlægðinni. Þessi nálgun er nærvera. Nærveran lætur hið fjarlæga nálgast einmitt sem hið fjarlæga. Nándin varðveitir fjarskann (Nähe wahrt die Ferne). Með því að varðveita fjarlægðina dvelur nándin í nálgun sinni. Nándin felur sjálfa sig með slíkri nálgun og verður með sínum hætti innan handar.

Hluturinn er ekki „í“ nándinni eins og hún væri ílát. Nándin stýrir nálguninni eins og íhlutun hlutarins.

Íhlutunin færir hlutnum viðdvöl (verweilt) í einingu Fernunnar, Jarðar og Himins, hinna Guðdómlegu og Dauðlegu, í einfaldleika þeirra eigin Fernu.

Jörðin er undirstaða hins byggða (die bauend Tragende), næringargjafi hins frjósama, hirðir vatnsins og klettanna, jurtanna og dýranna.

Þegar við segjum Jörð, þá hugsum við um leið um hina þrjá í ljósi einfeldni Fernunnar.

Himininn er vegslóð sólarinnar, tunglhvarfanna, stjörnubliksins, árstíðanna, dagsljóssins og  ljósaskiptanna, dimmu og birtu næturinnar, góðærisins og ótíðarinnar, skýjafarsins og dýptar himinblámans.

Þegar við segjum Himinn, þá hugsum við líka um hina þrjá í ljósi einfeldni Fernunnar.

Hinir Guðdómlegu eru sendiboðar Guðdómsins sem vinka til okkar. Úr huldum valdastól þeirra birtist okkur Guð í kjarna sínum, sem er frábrugðinn allri annarri veru.

Þegar við segjum hinir Guðdómlegu, þá hugsum við líka um hina þrjá í ljósi einfeldni Fernunnar.

Hinir Dauðlegu eru mannfólkið. Það heitir hinir Dauðlegu vegna þess að það megnar að deyja. Að deyja merkir: að hafa vald á dauðanum sem dauða. Einungis maðurinn deyr. Dýrið fellur. Það á sér engan dauða fyrir höndum eða sér að baki. Dauðinn er vörsluskrín tómsins, eða þess sem frá öllum sjónarhólum felur ekki í sér neina verund (seiendes) þó það sé (west), rétt eins og leyndardómur sjálfrar verunnar. Sem vörsluskrín tómsins er dauðinn skjól (Gebirg) verunnar. Við köllum hina dauðlegu nú dauðlega – ekki vegna þess að jarðnesku lífi þeirra lýkur, heldur vegna þess að þeir hafa dauðann á valdi sínu sem dauða (Tod als Tod vermögen). Hinir dauðlegu eru það sem þeir eru, sem hinir dauðlegu er dvelja í birgi verunnar. Þeir eru hin eðlisbundnu tengsl við veruna sem veru ( Sie sind das wesende Verhältnis zum Sein als Sein.)

Frumspekin sýnir okkur hins vegar manninn sem dýr, eins og lífveru. Einnig þegar rökhugsunin (die ratio) yfirskyggir hið dýrslega  (animalitas) er maðurinn skilgreindur á grundvelli lífsins og á þeirri staðreynd að hann sé lifandi. Hinar skynsömu lífverur þurfa fyrst að verða dauðlegar.

Þegar við segjum: hinir Dauðlegu, þá hugsum við þegar um þá ásamt með hinum þrem í ljósi einfeldni Fernunnar.

Jörð og Himinn, hinir Guðdómlegu og hinir Dauðlegu tilheyra í einingu sinni einfaldleika Fernunnar . Sérhver þessara fjögurra endurspeglar með sínum hætti eðli allra hinna . Þannig speglar sérhver sig með eigin hætti í sinni eigind (Eigenes) innan einfeldni Fernunnar. Þessi speglun er engin framsetning á mynd. Þessi speglun gerir að verkum (ereignet) að eigin eðli sérhvers skýrist (lichtend) í hinni einföldu sameiningu þeirra.

Hin frjálsa bindandi speglun er leikurinn þar sem sérhver þessara fjögurra binst hinum í gagnkvæmum stuðningi sameiningarinnar. Enginn hinna fjóru festir sig í sinni sérstöðu. Sérhver hinna fjögurra er innan einingarinnar, miklu frekar en að tilheyra hverjum fyrir sig. Þessi áunna sameining er speglaleikur Fernunnar. Í honum verður einfaldleiki Fernunnar tryggður.

Við nefnum þennan virka speglaleik einfaldleikans með Jörð og Himni, hinu Guðdómlega og Dauðlega, sem Heiminn. Heimurinn varir að því marki sem hann er heimsvera (Welt west indem sie weltet). Þetta merkir: heimsvera heimsins (das Welten von Welt) verður hvorki skilgreind né til hennar stofnað með öðru. Þessi ómöguleiki stafar ekki af því að okkar mannlega hugsun sé ófær um slíka skilgreiningu eða stofnun. Miklu frekar stafar þessi óskigreinanleiki og óstofnanleiki heimsins af því, að hlutir eins og orsakir og forsendur heimsveru heimsins eru áfram ómælanlegar. Um leið og mannleg þekking kallar á skýringu á þessu sviði, þá hefur hún sig ekki upp yfir kjarna heimsins, heldur hrapar hún út af honum. Hinn mannlegi vilji til útskýringar nær hreint ekki til hins einfalda í einfeldni heimsverunnar (das Einfache der Einfalt des Weltens). Þessir Fjóru sameinuðu eru þegar fastmótaðir í kjarna sínum þegar þeir eru framsettir sem aðskildir veruleikar er kalli á tilstofnun og skilgreiningu hvers fyrir sig.

Eining Fernunnar er fjórskiptingin. En fjórskiptingin er engan veginn þannig gerð að hún innihaldi fjóra og að þetta innihald (Umfassende) sé tilkomið eftir á. Fjórbindingin gerir sig ennþá síður í því að þegar þessir fjórir komi í hús, þá standi þeir þar hlið við hlið.

Fjórskiptingin verður eins og þessi virki speglaleikur einfaldrar einingar þeirra trúföstu (zugetrauten). Fjórskiptingin varir (west) eins og heimsvera heimsins (das Welten von Welt). Speglaleikur heimsins er hringdans virkninnar (Reigen des Ereignens). Vegna þessa umlykur hringdansinn ekki þessa fjóra eins og armband. Dansinn er hringurinn sem umkringir og sameinar þar sem þar sem hann leikur speglaleikinn. Með vikni sinni upplýsir hann þessa fjóra í ljóma einfaldleika síns. Með uppljómuninni virkjar (vereignet) hringurinn Fernuna og opnar fyrir ráðgátuna um eðli hennar. Heildareðli hringferlis speglaleiks Heimsins er hringmyndunin (das Gering, sem  getur líka þýtt „lítilræði“ en MH virðist hér nota forskeytið ge- til að leggja áherslu á hringmyndun fleiri aðila). Með snúningi hringsins sem er leikur speglanna sameinast þessir fjórir í sitt eina og samt sérstæða eðli. Í speglaleik hringmyndunar hringsins gerist íhlutun hlutarins. (Aus dem Spiegel-Spiel des Gerings des Ringen ereignet sich das Dingen des Dinges.)

Hluturinn framkallar dvöl Fernunnar. Hluturinn íhlutar Heim (Das Ding dingt Welt). Sérhver hlutur framlengir dvöl Fernunnar út í endalausa dvöl úr einfeldni Heimsins. Þegar við látum hlutinn dvelja í  íhlutun sinni í heimsveru Heimsins hugsum við um hlutinn sem hlut. Þegar við hugsum þannig um hlutinn látum við okkur varða heimssækinn kjarna hlutarins (weltenden Wesen des Dinges). Þannig hugsandi erum við tilkölluð af hlutnum sem hlut. Við erum, í ströngustu merkingu orðsins, hin hlutgerðu (die Be-dingten, hin skilyrtu). Við höfum lagt hroka alls hins óskilyrta (óhlutbundna) að baki okkar.

Hugsandi um hlutinn sem hlut sýnum við eðli hlutarins umhirðu á því sviði sem hann dvelur í (west). Að íhlutast (Dingen) er að nálgast Heiminn. Nálgun er eðli nándarinnar. Að því marki sem við sýnum hlutnum umhirðu dveljum við í nándinni. Nálgun nándarinnar er hin eina og eiginlega vídd speglaleiks heimsins.

Fjarvera nándarinnar hefur þrátt fyrir afnám allra fjarlægða skapað yfirdrottnun þess sem er án fjarlægðar. Með fjarveru nándarinnar verður hlutnum í skilningi hins tilnefnda hlutar tortímt. En hvenær og hvernig eru hlutir eins og hlutir? Þannig spyrjum við undir ofríki þess sem á sér enga fjarlægð.

Hvenær og hvernig koma hlutirnir sem hlutir? Þeir koma ekki í krafti afkasta mannsins. Þeir koma heldur ekki án umhyggju hinna Dauðlegu. Fyrsta skrefið til slíkrar umhyggju er skrefið til baka; út úr þessari hugsun ímyndananna (vorstellen) og yfirlýsinganna yfir í hugsun umhyggjunnar.

Skrefið til baka frá einni hugsun yfir í aðra er sannarlega engin einföld umskipti á skoðunum. Þannig getur það aldrei orðið, þar sem allar skoðanir og eðli umskipta þeirra  eru innilokuð innan marka forskrifaðrar hugsunar (vorstellenden Denkens). Skrefið til baka felur óhjákvæmilega í sér að svið hinnar hreinu skoðanamyndunar verði yfirgefið. Skrefið til baka kallar á þátttöku í samtali sem á rætur sínar í veru Heimsins og það kallar á andsvör út frá verunni í Heiminum. Einskær umskipti á skoðunum duga engan veginn til að mæta komu hlutarins sem hlutar. Sama á einnig við um viðföngin (Gegenstände) sem hafa verið svipt fjarlægð sinni, við getum einfaldlega ekki umbreytt þeim í hluti. Hlutirnir geta heldur ekki mætt okkur sem hlutir með því einu að við sniðgöngum viðföngin og köllum fram minninguna um gömul fyrrverandi viðföng, sem huganlega hafa einhvern tíma orðið á vegi okkar. Þau verða ekki að hlutum og alls ekki sem nærverandi hlutir.

Þegar hluturinn kemur til, á það rætur sínar í hringrás speglaleiks Heimsins. Væntanlega fyrst þá, þegar Heimurinn í heimsverunni (Welt als Welt weltet) varpar óvænt ljóma sínum á hringinn þar sem hringdans Jarðar og Himins, hinna Guðdómlegu og hinna Dauðlegu hringsnýst í einfeldni sinni.

Í samræmi við þennan hringsnúning (Geringen) er sjálf íhlutunin (das Dingen) lítilvæg (gering) og þessi endalausi hlutur lítill, ósýnilegur og látlaus í eðli sínu. Hluturinn er lítillátur (Ring ist das Ding): Krúsin og bekkurinn, göngubrúin og plógurinn. Með sínum hætti eru einnig tréð og mýrin, lækurinn og fjallið hlutir. Þó þau íhlutist (dingen) hvort með sínum hætti, hegrinn og hjörturinn, hesturinn og nautið, þá eru þau einnig hlutir. Þar sem þeir íhlutast hver með sínum hætti þá eru spegillinn og spöngin, bókin og málverkið, kórónan og krossinn einnig hlutir.

Hlutirnir eru líka smáir og lítilvægir (Ring und gering) í fjölda sínum ef borið er saman við óteljanleika hinna einsleitu og hlutlausu viðfanga sem aftur eru ósambærileg við þungavigt mannsfólksins sem lifandi verur.

Einungis sem hinir Dauðlegu getur mannfólkið byggt Heiminn sem Heim. Einungis það sem er Heiminum lítilvægt getur orðið að hlut (Nur was aus Welt gering, wird einmal Ding).

 

EFTIRMÁLI

Sendibréf til ungs nemanda

Freiburg i. Br. 18. Júní 1950

 

Kæri herra Buchner!

Ég þakka yður fyrir bréfið. Spurningarnar eru mikilvægar og röksemdafærslan rétt. Hins vegar þurfum við að huga að því hvort þær ná að kjarna málsins.

Þér spyrjið (í stuttu máli): hvert sækir hugsun verunnar leiðarljós sitt?

Vissulega eigið þér hér ekki við að „veran“ sé einskært viðfang og hugsunin einföld iðja tiltekinnar sjálfsveru (Subjekt). Eins og fram kom í þessum fyrirlestri (Das Ding) þá er hugsunin engin einföld framsetning (Vorstellen) hins fyrirliggjandi (Vorhandenen). „Veran“ (Sein) er heldur ekki það sama og virkileikinn (Wirklichkeit) eða það sem fyrir fram er skilið sem hið virkilega (Wirklichen). Veran er heldur engan veginn eitthvað sem setur sig upp á móti ekki-lengur-veru og ekki ennþá-veru; þetta hvort tveggja tilheyrir eðli verunnar. Sjálf frumspekin hafði jafnvel áttað sig á þessu vandamáli í hinni lítt þekktu kennisetningu hennar um formsatriðin (Modalitäten) þar sem sagt er um veruna (sein) að „möguleikinn“ (Möglichkeit) heyri undir hana, ekki síður en virkileikinn (Wirklichkeit) og nauðsynin (Notwendigkeit).

Hugsun verunnar takmarkast aldrei við hinn fyrirfram gefna (vor-gestellt) virkileika sem hið sanna.  Að hugsa „veruna“ felur í sér að svara tilkalli kjarna hennar. Svarið stafar frá ákallinu og helgar sig því. Svarið felur í sér afturhvarf aftur fyrir ákallið og þar með inngöngu í tungmál þess. En ákalli verunnar tilheyrir einnig hið löngu afhjúpaða áður orðna (Gewesene) (Άλήθεια, Λόϓος, Φνσις / aletheia, logos, fysis), rétt eins og hin hulda tilkoma þess sem gæti falist í mögulegum umsnúningi (Kehre) gleymsku verunnar  (í umhirðu eðlis hennar). Svarið verður að huga náið að öllu þessu í heild sinni, um leið og það hugar að getu sinni til hlustunar, ef heyra á ákall verunnar. En einmitt þar getur því misheyrst (verhören). Möguleikar þess að lenda í villu eru á hástigi í þessari tegund hugsunar. Þessi hugsun getur aldrei réttlætt sig eða sannað í líkingu við hina stærðfræðilegu þekkingu. Það þýðir ekki að hún byggi á sjálfdæmi, heldur er hún bundin af grundvallar örlögum verunnar. Þessi hugsun er þó aldrei bundin sem yfirlýsing, heldur miklu frekar af mögulegri tilhneigingu þess að fylgja leið svarsins, það er að segja þessari slóð þeirrar uppsöfnuðu umhyggju sem þegar hefur ratað inn í tungumálið.

Missir Guðs og hinna Guðdómlegu er fjarvera. En fjarveran er ekki bara eitthvert tóm, heldur er hún sú nærvera þeirrar földu fyllingar þess sem hefur þegar verið, og þannig samantekin er hún í þeim Guðdómlegu í hinum gríska heimi, í hinum gyðinglegu spámönnum og í fagnaðarerindi Jesú.  Þetta ekki-lengur er í sjálfu sér eitthvað ekki-ennþá í hulinni framtíð. Vörsluerindi verunnar markast af því að þar sem veran er aldrei einungis hið virkilega, þá verður henni aldrei jafnað við hlutverk varðstövarinnar sem stendur vörð um falda fjársjóði gegn innbrotsþjófum í tiltekinni byggingu. Vörsluhlutverk verunnar er ekki bundið við það sem er einfaldlega til staðar. Ákall verunnar getur aldrei bundist því sem er einfaldlega til staðar. Vörslustaða er umhyggjan um þessa þegar orðnu tilkomu örlaga verunnar í langri sívakandi umhyggju sem gætir að stefnunni sem veran tekur í ákalli sínu. Í örlögum verunnar er aldrei um hreina framvindu að ræða: núna burðarverk (Gestell), síðan kemur Heimur og hlutur, heldur sífelld framvinda og samtími þess sem kemur á undan og eftir. Í Fyrirbærafræði andans hjá Hegel er kemur Άλήθεια (aleteia) fram í umbreyttri mynd.

Hugsun verunnar er eins og samsvörun mjög villuráfandi og fátæklegs hlutar. Hugsunin er ef til vill ófrávíkjanleg leið sem gefur sig ekki út fyrir að leiða til neinna heilla eða færa nýja visku. Þessi leið er í besta falli sveitavegur (Feldweg), stígur gegnum akrana, sem talar ekki bara um afsal, heldur hefur þegar afsalað sér kröfunni um tilkallið til bindandi kennisetningar og til sköpunar gildra menningarafurða eða til andlegra stórvirkja. Allt er komið undir þessu áhættusama skrefi aftur á bak í hugsuninni, sem hugar að umsnúningi (Kehre) þeirrar gleymsku verunnar sem er innrituð í örlög hennar. Skrefið aftur á bak sem skilur sig frá hinni forskrifuðu (vorstellenden) hugsun frumspekinnar  hafnar ekki þessari hugsun, en það opnar fjarlægðina á tilkallið til sann-leika (Wahr-heit) verunnar þar sem svarið er að finna á hreyfingu.

Oft hefur það hent mig, einkum hjá nákomnum persónum, að hlustað væri með athygli á framsetningu mína á kjarna krúsarinnar, en að þessar persónur hafi samstundis misst heyrnina þegar umræðan fór að snúast um hlutlægnina (Gegenständlichkeit), tilkomu (Herstand) og uppruna (Herkunft) fram-leiðslunnar (Hergestellheit), eða um burðarvirkið (Gestell). En allt tilheyrir þetta óhjákvæmilega hugsuninni um hlutinn, en sú hugsun fjallar um mögulega tilkomu (Ankunft) Heimsins, og gæti ef til vill, ef að er gáð, hjálpað til þess með smávægilegum og vart sjáanlegum hætti að slík tilkoma gæti orðið inn á hið opna svið kjarna hins mannlega.

Meðal þeirra undarlegu upplifana sem ég hef orðið fyrir í tengslum við þennan fyrirlestur minn er þessa að finna: sú spurning hefur verið lögð fyrir hugsun mína hvert hún sæki leiðsögn sína, rétt eins og þessi spurning væri hugsuninni nauðsynleg. Hins vegar hefur engum dottið í hug að spyrja: hvaðan sækir Platon leiðsögn sína til þess að hugsa veruna sem ιδέα (idea), hvaðan sækir Kant leiðsögn til þess að hugsa veruna sem handanveru hlutlægninnar (Tranzendentale der Gegenständlichkeit), sem framsetningu (Position, Gesetztheit)?

Kannski mun sá dagur koma að svarið við þessum spurningum komi einmitt frá hugsanatilraunum sem birtast sem eitthvað óreiðufullt og tilfallandi, rétt eins og mínar.

Ég get ekki fært yður – og reyndar er ekki um það beðið – neitt það vottorð er staðfesti að það sem ég segi megi hvenær sem er og auðveldlega sanna sem samkvæmi við „veruleikann“.

Allt hér er vegferð rannsakandi, hlustandi svörunar. Allar vegslóðir bjóða þeirri hættu heim að vera villuslóðir. Að troða slíka vegi kallar á gönguþjálfun. Æfingin kallar á handverk. Þér skuluð halda yður áfram í sannri þörf (Not) á slóðinni og læra án afvegaleiðingar, en samt í villunni, handverk hugsunarinnar.

 

Með vinsamlegri kveðju.

____________________________________________

ORÐSKÝRINGAR

Ding

Hugtakið  Ding merkir hlutur, og er hvorugkyns. Við lestur þessarar ritgerðar komumst við að því að þessi orðskýring er ekki einhlít. MH rekur sögu þessa hugtaks til fornrar háþýsku (dinc og thing) og hvernig það á sér hliðstæður bæði í grísku (on) og latínu (res, ens) og í germönskum/engilsaxneskum  málum (þing, thing). Í gegnum aldirnar hafa þessar skyldu orðmyndir haft mismunandi merkingarviðmið, en áhersla MH hér er ekki fyrst og fremst á orðsifjafræðina, heldur verufræðina, viðmót hlutarins og veru hans í tímanum. Fyrst má benda á að í þýsku eru tvö orð um hlut: Ding og Sache, þar sem hið síðarnefnda á nú frekar við um huglæg málefni en Ding um áþreifanlega hluti. En eins og ritgerðin segir okkur, þá getur Ding í raun verið hvort tveggja á okkar tímum, annars vegar áþreifanlegur hlutur (Gegenstand) og hins vegar  tímatengt og huglægt ástand (ens cogitans). Í þessari ritgerð fjallar MH meðal annars um greiningu Kants á „das Ding an sich“ og „das Ding an mich“, þar sem greint er á milli skynveru og hlutveru „viðfangsins“ (Gegenstand). Takmörk rökhugsunar tungumáls okkar eru bundin hlutnum sem skynjanlegt áþreifanlegt viðfang sem við getum hugsað, en samkvæmt „sjálfsveru“ hlutarins er hann sitt eigið viðfang sem er handan mannlegrar skynveru. Gagnrýni MH á Kant beinist að þessari tvíhyggju sem er angi þeirrar frumspekihefðar sem Heidegger reynir að yfirvinna í þessum texta með innlifun sinni í eðli krúsarinnar í gegnum tungumálið. Sem afleidd mynd af Ding notar MH meða annars sagnorðið dingen, sem hér hefur verið þýtt sem „íhlutun“. Sú þýðing er nánast skáldaleyfi, en hefur með þau tengsl að gera sem hluturinn hefur við heiminn með veru sinni, en „hlutlægni“ vísindanna hefur gleymt. Þá er atviksorðið „bedingt“ einnig notað og býður m.a. upp á þýðingarnar „hlutbundinn“ seða „skuldbundinn“, Sama á við um mörg hliðstæð dæmi (t.d. ring, Gering og Geringen sem hann notar í tvíræðri merkingu sem rímorð við Ding og Dingen), orðaleikir um hringi og lítillæti þar sem báðar merkingarnar kallast á. Í þessum átriðum og mörgum öðrum virðist „rétt“ þýðing á textanum ekki möguleg.

Gegenstand og Vorstellung

Orðið Gegenstand þýðir bókstaflega það sem „stendur fyrir framan“. Við þýðum það á íslensku sem viðfang, „object“ á engilsaxnesku. Það hefur merkingarleg tengsl við þýska orðið Vorstellen (beint: fyrir-stilla) sem merkir að ímynda sér eitthvað eða sjá eitthvað fyrir sér eða sýna. En orðið merkir líka „präsentieren“, sem á engilsaxnesku er „re-present“ (endur-kynna) sem er jú það að „sýna“ eitthvað sem ekki er til staðar og hefur verið notað sem „framsetning“ á íslensku. Orðið „stendur fyrir“ viðfang sitt, hið nefnda, en er það ekki. Orðið „Vorstellen“ er oft þýtt á íslensku sem framsetning. Þar er nokkur merkingarmunur engu að síður. Í allri heimspeki MH er greinarmunur á orði eða mynd og viðfangi þeirra eða táknmiði mikilvægur.

Vorstellen og Herstellen

Eins og „vorstellen“ merkir að sjá fyrir sér, þá merkir „herstellen“ að framleiða. Forskeytið her- hefur með uppruna að gera og finnst í fleiri orðmyndum: „herstehen“ (að vera frá tilteknum stað eða uppruna), „herstand“ (upprunastaður), „herständig“ (upprunninn frá…) o.s.frv. Stellen hefur með staðsetningu að gera og er dregið af nafnorðinu Stelle sem merkir staður. Með Ge- forskeyti kemur þetta orð fyrir í nokkrum mikilvægum hugtökum MH, til dæmis „Gestell“, sem merkir yfirleitt burðargrind eða grunnstoðir. MH notar orðið hins vegar við skilgreiningu sína á eðli tækninnar, þar sem forskeytið Ge- hefur þá merkingu á þýsku að vísa til hins sameiginlega. Þannig má skilja Gestell sem samheiti um ólíkar aðferðir við framleiðslu, en MH skilgreinir orðið sem lýsingu á „kjarna tækninnar“.

Geviert

Þetta orð er mikilvægt nýyrði í orðasafni Heideggers sem hann notar um sameiningu fjögurra grunnþátta er mynda Heiminn: Himinn og Jörð, Hina Guðdómlegu og hina Dauðlegu. Þetta hugtak skipti miklu máli á síðari hluta ferils Heideggers og hefur með samband hlutarins og umheimsins að gera. Hugtakið gegnir m.a. mikilvægu hlutverki í ritgerð hans „Um uppruna listaverksins“. Með „hlutlægri“ skilgreiningu viðfangsins er hluturinn slitinn úr tengslum við umhverfi sitt, manninn og alheiminn. Geviert felur í sér endurlífgaða og endursameinaða heimsmynd handan frumspekinnar og hefur hún nánast trúarlega merkingu.

Sein

Þetta mikilvæga orð í heimspeki MH merkir í sagnorðsmynd sinni sögnina að vera, en í nafnorðsmyndinni merkir Sein nafnorðin vera eða tilvera. Segja má að þetta hugtak sé meginviðfangsefnið í höfuðriti hans, „Sein und Zeit“ (Vera og Tími). Það tekur á sig margar afleiddar myndir í skrifum MH í skilgreiningum sem oft verða torskildar, t.d. þegar hann hefur orðið yfirstrikað til að leggja áherslu á þá „gleymsku verunnar“ sem hann segir megineinkenni frumspekinnar og tæknisamfélags samtímans; eða þá þegar hann breytir stafsetningunni í „seyn“. Þegar við segjum að eitthvað sé eða sé til staðar, þá er sagan ekki öll sögð, eins og fram kemur í greiningu Heideggers á eðli og kjarna krúsarinnar. Samkvæmt greiningu Heideggers verður krúsin í gegnum hringrás speglaleiksins óaðskiljanlegur hluti Heimsins, rétt eins og hin sanna vera mannsins. Hér er það meginverkefni Heideggers að sýna fram á þetta. Afleiddar myndir af „sein“ eru t.d. „Dasein“ þar sem da-forskeytið hefur með stað að gera. Íslenska þýðingin til-vera nær merkingunni vel, þar sem mannleg tilvera er skýrð sem vera til einhvers annars, og hefur þannig með handanveru að gera. Stundum notar MH sagnorðið „wesen“ um veruna og á þá við veru sem býr í varanleika. Þannig leitast hann við að greina á milli veru og hlutar með því að nota „wesen“ um veruna og „sein“ um hlutinn.

Ereignis

Þetta orð er yfirleitt þýtt sem atburður, viðburður eða tilfelli. En hjá MH fær orðið dýpri merkingu sem hann tengir upprunasögu orðsins í lýsingarorðinu „eigen“ sem merkir atviksorðið „eiginn“ á íslensku. Ereignis er þannig ekki bara einhver atburður, heldur „eignaður“ atburður sem einhver hefur tileinkað sér og upplifað. Forskeytið Er- er áhersluforskeyti og hefur með innlifun í atburðinn að gera. Á seinni hluta ferlis MH fær þetta hugtak aukna þýðingu, til dæmis í ritgerðinni um krúsina, þar sem atburðurinn er tengdur lifandi þátttöku og innlifun viðkomandi. Ég hef ekki fundið íslenskt orð er nær þessum áherslumun í málnotkun MH fyllilega.

___________________________________________

Forsíðumyndin er eftirlíking af „könnu Vermeers“ eftir óþekktan höfund „The New Craftsman verkstæðisins í Bretlandi.

Johannes Vermeer: Mjólkurstúlkan, um 1658.

CARLO SINI: FYRIRBÆRAFRÆÐI FJARLÆGÐARINNAR

Rubens: Ixíon nær ástum Heru í mynd skýsins. Samkvæmt grískri goðsögn lagði Ixíon girndarhug á Heru, eiginkonu Seifs. Seifur brást við með því að endurskapa Heru í formi skýs og fullnægja þannig girnd Ixíons. Af ástarfundi Ixíons og draugamyndar Heru uxu ófreskjur í mynd kentára. Seifur veitti Ixíon síðan refsingu, þar sem hann var bundinn við stegluhjól sem snerist um alla eilífð í Hadesarheimum. Goðsagan verður Carlo Sini að dæmisögu um eftirsókn mannsins eftir "altækri nærveru" sem ígildi hins altæka valds og er einungis á valdi guðanna. Óbrúanleg gjá er á milli mannsins og hlutanna segir Sini, og leggur þar með grundvöllinn að þeirri "fyrirbærafræði fjarlægðarinnar" sem hér er á dagskrá í tveim köflum ritgerðasafnsins  "Lo spazio del segno". Sjá síðari kaflann um "Merkið og fjarlægðina" hér á þessari færslu.
FYRIRBÆRAFRÆÐI FJARLÆGÐARINNAR
Eftirfarandi kaflar úr bókinni "Lo spazio del segno" (Rými merkisins), sem er fyrsta bindið af sex í heildarsafnritinu "Opere" (útg. Jaca Book 2017) eru lykilverk í hinni frumlegu útfærslu Carlo Sini á heimspekikenningu sinni um merkin, táknfræðina og túlkunina þar sem hann leiðir saman þá túlkunarheimspeki sem rekja má frá Gadamer og Heidegger aftur til Nietzsche og þann bandaríska pragmatisma sem á rætur sínar í Charles Sanders Peirce (1839-1914). Í þessum tveim köflum dvelur Sini fyrst við and-húmanisma franska mannfræðingsins Claude Levi-Strauss og deilu hans við tilvistarlegan húmanisma Jean-Paule Sartre á seinni hluta 20. aldar, þar sem hann sýnir fram á sameiginlegar rætur þeirra í frumspekihefðinni. Síðan fjallar Sini um muninn á and-húmanisma Martins Heideggers og Levi-Strauss, þar sem sá síðarnefndi hallast að tiltrú á vísindahyggju en sá fyrrnefndi leitar út fyrir hana og þar með út fyrir frumspekina. Endanlega tengir Sini mannfræði Levi-Strauss og málfræðikenningar Ferdinands de Saussure saman undir merki formgerðarstefnunnar og færir rök fyrir frumspekilegum rótum hennar. Þessi fyrri kafli er eins konar formáli að seinni kaflanum sem hér er birtur, en þar er að finna meistaralega útfærsla Sini á kenningu hans um túlkunarheimspeki og fyrirbærafræði fjarlægðarinnar, þar sem rökfræði Charles Sandre Peirce verður honum leiðarvísir út úr öngstræti Heideggers, Levi-Strauss og Sartre. Þessi kafli um "Merkið og fjarlægðina" er skrifaður í formi samtals (að hætti Platons) og leiðir okkur í skilning um brotakennt eðli sannleikans, þar sem sá sem telur sig hafa höndlað hann í "algildri nærveru" lendir í sporum Ixíons, sem átti í ástarsambandi við skýin og endaði í eilífum kvölum á stegluhjólinu í Hadesarheimum.
Carlo Sini:

Heimspeki og táknfræði

(Filosofia e semiotica)

 

  1. And-húmanismi hjá Levi-Strauss og Sartre

„Náttúra“, „formgerð“. „saga“: þessi þrjú hugtök kalla umsvifalaust fram bergmál vel kunnrar deilu sem stóð á milli tveggja leiðandi persóna í franskri menningu eftirstríðsáranna: þeirra  Claude Levi-Strauss og Jean-Paul Sartre. Við getum kallað það deiluna á milli formgerðarstefnunnar og hins sögulega húmanisma. Hvað var það sem setti Levi-Strauss upp á móti hinni díalektísku rökræðu Sartre? Það var fyrst og fremst andstaða við þá hugsun sem álítur hina sögulegu framvindu eða þann skilning sem Vesturlandamenn hafa á sjálfum sér samrýmast hugtakinu mannkyn.

Í ritinu Il pensiero selvaggio segir Levi-Strauss:

Við þurfum að andmæla þessari jafngildingu sem lögð er annars vegar í söguna og hins vegar í mannkynið, hugsun sem í óskilgreindum tilgangi gengur út á að gera sagnfræðihefðina að síðasta skjóli hins frumspekilega (transcendentale) húmanisma. Rétt eins og menn gætu fundið sjálfsblekkingu frelsisins með því að afskrifa hið einstaka og innistæðulausa „ég“ og setja „við“ í staðinn.

Levi-Strauss teflir „efnishyggju“ sinni gegn heildarhyggju Sartre (hinni „óhefluðu efnishyggju“ eins og hann komst einu sinni að orði í kaldhæðnislegum kappræðustíl). En það var sú sannfæring hans að vegferð rökhyggjunnar (bæði hinnar analítisku og hinnar dialektísku), fæli í sér að hafa hugrekki til að „leiða skilninginn á hinu mannlega til hins ekki-mannlega“. Þetta er orsök þess að Levi-Strauss kvartar ekki undan því að vera kallaður „fagurkeri“ (esteta) af Sartre (rétt eins og hann gekkst með velvilja við þeirri skilgreiningu Ricoeur að hann væri fulltrúi kantískrar hugsunar án frumspekilegs frumlags (soggetto).

Hann segir Sartre nota hugtakið „fagurkera“ um þann

sem leitast við að rannsaka mennina eins og þeir væru maurar. Sartre segir að um leið og rannsakandinn sýni þá gagnrýnu efahyggju er sæmi sérhverjum vísindamanni ætti þessi afstaða ekki að bjóða hættunni heim, þar sem maurarnir veiti býsna traust viðnám gagnvart hinni sundurgreinandi rökhugsunnn með sínum heimatilbúnu mauraþúfum, sínu samfélagsmynstri og sínum efnafræðilegu boðskiptum. […]. Við göngumst þess vegna auðveldlega við viðurnefninu „fagurkeri“ því við trúum því að hið endanlega markmið mannvísindanna felist ekki í því að byggja upp manninn, heldur að leysa hann upp.

Atferlisfræðin er að þessu leyti einungis fyrsti áfanginn á vegferð sem stefnir að því að „leiða menninguna inn í náttúruna og endanlega að líta á lífið í sinni heildstæðu lífeðlisfræðilegu og efnafræðilegu mynd“ (Il pensiero selvaggio).

Við skulum reyna til hins ítrasta að skýra kjarna þessara orða í sem stystu máli en leiða um leið hjá okkur allar þær flóknu og auðugu atferlisfræðilegu rannsóknir sem liggja að baki áliti Levi-Strauss, en sem kunnugt er þá er hann lítt fyrir það gefinn að dvelja við heimspekilegar vangaveltur, en er hins vegar frábær þegar hann dettur niður á þær, bæði vegna hugrekkis í málefnalegum deilum og skýrleika í málatilbúningi.

Í ritinu Elogio dell‘antropologia (Lofgjörð mannfræðinnar) getur hann þess í framhjáhlaupi á einum stað að formgerð (struttura) og saga (storia) feli í sér tvær andstæður í veruleika mannsins.

Hvað á Levi-Strauss við með formgerð? Þetta er eins og gefur að skilja flókin spurning.  Við getum til gleggri yfirsýnar gripið til hugtaksins kerfi: Levi-Strauss lítur svo á að kerfi séu formgerðarleg fyrirbæri, það er að segja „heildarfyrirbæri er stjórnist af samkvæmu  innra löggengi“. Kerfi er til dæmis tungumálið (og þar gengur hann reyndar út frá málfræðikenningum Saussure og hljóðfræðinni (fonologia) í mótun aðferðarfræði sinnar). Kerfi finnum við einnig í fjölskyldutengslum er stýrast af banni við blóðskömm, og kerfi finnum við einnig í goðsögunum. Almennt talið þá er menningin kerfisbundin. Þetta er einmitt ein ásýnd hins mannlega veruleika samkvæmt Levi-Strauss.

Hver er þá hin ásýndin, sagan? Sagan er vettvangur atburðanna, tilviljunarkenndra og ófyrirsjáanlegra atburða. Þessir atburðir eru utan kerfisins og lögmálsbundnum eiginleikum þess. Samfélagsleg mynd menningarinnar leitar jafnvægis og leitar því eftir samfelldri endurtekningu formgerðarinnar. Síðan gerast styrjaldir, hungursneyð, farsóttir, fólksflutningar o.s.frv. sem valda kreppuástandi og kalla á endurskipulagningu ex novo á ríkjandi ástandi. Þannig gegnir sagan tvöföldu hlutverki í andstöðu sinni við formgerðina: annars vegar skapar hún truflun á ríkjandi ástandi, það er að segja upplausn og eyðingu, hins vegar leggur hún til nýjan efnivið og þar með ný stefnuleg markmið. Sagan er vettvangur hins blinda efnis, en án þess væri formgerðin hins vegar innantóm. Sagan er vettvangur hins samfellda tíma (diacronia). Formgerðin vettvangur hins samfallandi tíma (sincronia).

Eins og sjá má, Þá er skilningur Levi-Strauss á sögunni annar en hefðin kennir okkur. Hann er ekki að tala um sögu sagnfræðinganna (sem hann lítur einungis á sem „aðferðarfræðilegan tilbúning“).  Hér er ekki bara átt við hina samfélagslegu sögu, heldur sögu alls sem er, ef svo mætti segja. Því getum við horft á andstæðuna saga og formbygging sem andstæðuna á milli sálfræðinnar og heimsmyndafræðanna (cosmologia). Þetta segir Levi-Strauss með eigin orðum: annars vegar höfum við „innra sögusvið (zona infra-storica) þar sem sálfræðin og lífeðlisfræðin ráða ríkjum“. Hins vegar er snúið aftur frá svokölluðum „sögulegum“ samfélögum til hinna forsögulegu og þaðan til almennrar þróunarsögu lífsins sem verður ekki skilin nema með hugtökum líffræðinnar, jarðfræðinnar og endanlega sköpunarsögu heimsins. Sagan felur þannig í sér samfellda sögu alls sem er.

Að þessu sögðu stöndum við frammi fyrir tveim ráðgátum:

Ef sagan felur í sér sköpunarsögu heimsins (að minnsta kosti sem grundvallar hugmynd), hvernig getur hún þá verið vettvangur tilfallandi, blindra og ófyrirsjáanlegra atburða? Ef hlutunum væri raunverulega þannig varið, hvernig væri þá sú heimsmyndafræði (cosmologia) möguleg er fæli einnig  í sér líffræðina, jarðfræðina o.s.frv.?

Í öðru lagi: í hvaða skilningi getur formgerðin sem vettvangur innra sögusviðs (campo infra-storico) verið ríki sálfræðinnar og lífeðlisfræðinnar?

Við skulum byrja á að skýra síðari ráðgátuna, það mun leiða okkur til skilnings á hinni fyrri.  Sagt er að formgerðin (la struttura) sé ekki sögulegs eðlis. Hún vísar til samfallandi tíma (il sincronico) en ekki hins samfellda og mælanlega tíma (diacronico). Með öðrum orðum þá eru form tungumálsins, hinar samfélagslegu formgerðir o.s.frv. ekki hluti af hinni sögulegu framvindu, heldur verka þær á framvinduna með því að setja henni formleg mörk. Með einfaldari orðalagi: það er ekki samfélagið sem kemur á undan, samfélagshefðirnar og síðan mannsandinn sem ávöxtur þeirra, heldur þvert á móti: það eru sálfræðilegar formgerðir hugsunarinnar sem gera samfélagsmyndunina mögulega og nauðsynlega (Sbr. F.Remotti, Levi-Strauss, Struttura e storia). Þessar formgerðir eru vel að merkja „ómeðvitaðar“. Tökum margnefnt og vel til fundið dæmi af tungumálinu. Tungumálið hefur til að bera strangar reglur og formgerðir sem enginn hefur fundið upp eða valið með meðvituðum hætti, reglur sem málfræðingarnir geta einungis greint og útskýrt eftir á, a posteriori. Levi-Strauss segir okkur að málvísindin sýni okkur tungumálið sem

algilda díalektíska veru samræðunnar sem er utan við (eða neðan við) vitundina og viljann. Það er altæk (totalizzante) ekki-endurspeglun, tungumálið er mannleg rökvísi sem hefur til að bera eigin rökvísi sem er manninum ókunn. (La pensée sauvage, 1964)

Sama gildir um goðsögurnar o.s.frv. Þannig höfum við svæði „mannlegs anda“ (eins og Levi-Strauss er vanur að orða það) þar sem innifaldar eru „aðstæður allra lifandi mannshuga allra tíma“. Þannig væri hægt að tala um sammannlega dulvitund, þó hafa beri í huga þá gagnrýni sem Levi-Strauss setti fram á Carl Gustav Jung. Hinn mannlegi andi er því fyrirfram gefin formgerð eða „sameiginlegt forðabúr huglægrar formbyggingar og stofnanalegra regluverka sem maðurinn býr yfir til að framkvæma félagsleg ætlunarverk sín.“ Formgerðirnar eru endanlega sálfræðilegar því þær eru „huglægar“, en á bak við hin sálfræðilegu fyrirbæri þarf síðan að horfa til „heilastarfseminnar, efnahvatanna og taugaboðanna sem endanlega eru af eðlis- og efnafræðilegum toga“. Allt þetta á síðan að verða smættanlegt niður í stærðfræðilega mælikvarða:

Hinar stærðfræðilegu niðurstöður endurspegla frjálsa virkni andans, það er að segja virkni frumanna í heilaberkinum sem eru aftengdar öllum ytri þvingunum en lúta einungis eigin lögmálum.  (Il pensiero selvaggio).

Á bak við andann þarf þannig ávallt að horfa til heilans (eins og Levi-Strauss kemst að orði) á bak við sálfræðina og lífeðlisfræðina.

Eftir þessa yfirferð nálgumst við einnig svarið við fyrri spurningunni, sem varðar smættun sögunnar niður í heimsmyndafræðin. Meginatriðin á þessari vegferð má þá draga saman í eftirfarandi niðurstöðu: formgerð mannsandans verður endanlega rakin til náttúrunnar. Andinn er hluti af náttúrunni því það er í sjálfri náttúrunni sem við sjáum grundvallar formgerðir menningarinnar. Samkvæmt Levi-Strauss þurfum við að koma orðum að tilgátunni um að andstæða náttúru og menningar sé

hvorki frumstæð staðreynd né hlutlæg mynd af reglu heimsins. Við mundum þurfa að sjá í þessari andstæðu tilbúna sköpun menningarinnar, varnarvígi sem menningin hafi grafið sig inn í, þar sem hún fann sig ófæra um að sanna tilveru sína og frumleika öðruvísi en með því að brjóta allar þær brýr er gætu vottað um upprunalegt sambýli hennar með öðrum birtingarmyndum lífsins. Til þess að ná utan um kjarna menningarinnar þyrfti þannig að hverfa til uppsprettu hennar og andæfa gegn oflæti hennar, endurhnýta alla slitna þræði og finna í þeim hinn frjálsa uppruna meðal annarra fjölskyldna í dýraríkinu og jurtaríkinu. Að endingu munu menn ef til vill komast að því að tjáningarmyndir náttúru og menningar birta okkur ekki þá hagsmunatengdu mynd stigveldisins sem er reist ofan á annarri, þar sem sú efri væri ósamræmanleg þeirri neðri, heldur væri um að ræða tilbúna endurreisn, tilkomna fyrir nauðsyn tiltekinna heilatengdra formgerða er tilheyri líka náttúrunni, tiltekinn fyrirliggjandi og uppsettan útbúnað, sem dýralífið sýnir eingöngu í afmörkuðu og stöku formi. (Il pensiero selvaggio – Le strutture elementale della parentela).

Af þessu leiðir að í þeirri mynd sem hugvísindin eru nú aðgreind frá náttúruvísindunum er eingöngu um tímabundna aðferðafræðilega ráðstöfun að ræða. Í framtíðinni þurfi hugvísindin að nálgast vísindalegan grundvöll náttúruvísindanna, endurtengjast eins og við höfum sagt „menningu náttúrunnar- og í kjarna sínum  lífinu í sinni eðlisfræðilegu og efnafræðilegu mynd.“ Af þessu leiðir einnig að mótsögnin saga-formgerð, eða atburður -formgerð, verður leyst upp. Þegar sögulegir atburðir virðast birtast sem tilviljanakenndir og blindir þá er það eingöngu frá sjónarhorni andans. Þegar náðst hefur eining náttúruvísinda og hugvísinda  og félagsvísinda munu sjónarhornin sameinast og þannig verður hægt að sýna fram á undir hvaða hlutlægu kringumstæðum menningin hefur sprottið úr brjósti náttúrunnar, þar sem í ljós mun koma að sú fyrrnefnda er „þrátt fyrir sérleika sinn ekki annað en birtingarmynd hinnar síðarnefndu“. Með öðrum orðum, þá verður allt að heimsmyndafræði (cosmologia) og framtíðin (hinn samfelldi tími / diacronia) mun falla saman við sitt formgerðarlögmál og sína tímalegu samfellu (sincronia).

Ef það reynist þannig rétt að mannfræðin þurfi að öðlast kjark til að „mæta smættun hins mannlega í hið ekki-mannlega“, það er að segja í náttúru, þá ættum við einnig að halda því fram að leyndarmál mannfræðinnar sé heimsmyndafræðin (la cosmologia). En heimsmyndafræðin er aftur leyndarmál sögunnar. Og heimsmyndafræðin merkir þau stærðfræðilegu formgerðarvísindi er taka til allrar veru alheimsins.

Að lokum:  þau þrjú hugtök sem við nefndum í upphafi (náttúra, formgerð og saga) leysast hjá Levi-Strauss upp í einu hugtaki: náttúra, náttúra og aftur náttúra.

Þannig höfum við yfirsjón yfir hvað felst í and-húmanisma Levi-Strauss. Hann birtist í róttæku ákalli til náttúrunnar þar sem náttúran er skilin sem viðfang þeirrar vísindalegu rannsóknar er hefði átt upptök sín á tíma Galilei. Að hún sé einnig viðfang sem hægt sé að fullmóta og auðga í það óendanlega í gegnum óhjákvæmileg flækjustig. Því Levi-Strauss er alls enginn „smættunarsinni“.

Upplausn hins mannlega í hið ekki-mannlega felur þannig í sér höfnun hins sögulega húmanisma sem síðasta blekking frumspekinnar (il trascendentale) og í raun síðasta ofbeldisbragð þeirrar menningarlegu heimsvaldastefnu sem Evrópa hefur getið af sér. Þessi upplausn hins mannlega hefur þar af leiðandi orðið megineinkenni formgerðarstefnunnar sem rakin er til Levi-Strauss og flestra þeirra sem kenna sig við hana.

Það væri til dæmis auðvelt að sýna fram á  hvernig vissar hugmyndir Foucaults, sem hafa orðið frægar og varða útþurrkun cogito og „dauða mannsins“ og yfirvofandi endalok hugvísindanna er muni ummyndast í and-húmaniska „mannfræðilega þekkingarfræði“ (episteme archeologico), tengjast hugmyndum Levi-Strauss, jafnvel þótt Foucault hafi þvertekið fyrir að kalla sig formgerðarsinna (strutturalista) og í raun beitt mun úthugsaðri og vandaðri  þekkingarfræði í rannsóknum sínum en Strauss. Tengslin eru augljós og varanleg. Sama mætti einnig segja um Althusser.

En það eru ekki þessi annars þekktu tengsl sem við viljum staldra við hér. Ástæða þess að við staðnæmdumst við Levi-Strauss og leyfðum okkur að draga saman kjarnann í and-húmanískum tilgátum hans er það tilefni sem þær gefa okkur til að hugleiða þennan and-húmanisma eins og hann birtist í sinni róttækustu og hreinustu mynd.

Nú vildum við leiða þessar hugleiðingar áfram í gegnum samanburð. Sá samanburður varðar viðmið sem telja verður hina upprunalegu stefnuyfirlýsingu and-húmanismans, stefnuyfirlýsingu sem ekki hefur enn verið afgreidd sem tjáning er tilheyri samtímahugsun okkar, en þar á ég við Brief über den Humanismus eftir Martin Heidegger. Vitað er að í þessu „bréfi“ hefur Heidegger ekki síst í huga Sartre og tilvistarstefnuna eins og hún birtist í Critique de la raison dialectique. Einnig er vitað að Heidegger vildi með ritgerð sinni andmæla allri túlkun á verki sínu Sein und Zeit í anda tilvistarstefnunnar. Einnig vildi hann sýna fram á hvernig hin frægi umsnúningur Sartre á kjarna og tilvist (essenza e esistenza) (að tilvistin komi á undan kjarnanum: maðurinn er vera hins mögulega og frelsisins, tilvera þar sem frumkjarninn er aldrei frumorsök). Heidegger vildi sýna fram á að hér væri einungis um að ræða yfirskin þess að „platonisminn“ væri yfirstiginn. Þar sem þessi kenning hefði einsett sér að snúa platonismanum við hefði kenningin engu að síður verið áfram föst í frumspekinni sem væri í raun kjarni platonismans.

Það var einmitt með því að greina á milli frumkjarna (essenza /Wesenheit) og virkileika (existenza/Wirklichkeit), án þess að kanna uppruna þeirra í gleymsku verunnar, sem Sartre hélt því fram ekki síður en Platon að sannleikurinn væri „undir oki hugmyndarinnar (idea)“, eins og Heidegger heldur fram í Vom Wesen der Warheit. Þar segir einnig að „upphaf frumspekinnar í hugsun Platons feli einnig í sér upphaf húmanismans“, þar sem maðurinn er hugsaður sem rökhugsandi dýr, (animale rationale). Og Heidegger bætir við að „með fullgildingu frumspekinnar sé „húmanisminn“ (eða antropologían upp á grísku) útfærður til hins ítrasta og þar með felldur í ófrávíkjanlegan farveg“.

Þannig eru Sartre og húmanismi hans algjörlega innlimuð í það sem Heidegger kallar „örlagavald sögu Vesturlanda og gjörvallrar sögunnar eins og hún hefur verið skilin á Vesturlöndum“ ( sjá Briefe über den Humanismus). Það sem er ráðandi í þessari sögu er einmitt frumspekin eða öllu heldur tæknin á okkar dögum, en hún er samkvæmt Heidegger hin endanlega birtingarmynd frumspekinnar, um leið og hún markar endalok hennar.

Sá samanburður sem við viljum gera hér felst hins vegar ekki í húmanisma Sartre fyrir og eftir útgáfu Critique de la raison dialectique (1960), heldur í and-húmanisma Levi-Strauss. Í því skyni er einmitt við hæfi að styðjast við hugtakið rökhugsandi dýr (animale rationale) með tilvísun í Bréf Heideggers. Forsendan er sú að húmanisminn (hvort sem er í mynd efnishyggjunnar, hughyggjunnar eða öðrum myndum) byggi í einu og öllu á frumspeki. Frumspekin er sú túlkun á mennsku (humanitas) mannsins sem byggir á „fyrirfram gefinni túlkun á náttúrunni, sögunni, heiminum og grundvelli hans, það er á fyrirfram gefinni mynd verunnar í heild sinni. Það er einmitt þessi fyrirfram gefna túlkun sem liggur til grundvallar skilgreiningarinnar á manninum sem rökhugsandi dýri.

Í þessari skilgreiningu felst að rökhugsunin (ratio) er andstæða dýrsins (animal) án þess að hugað sé að eigindum hvers fyrir sig. Hugtökin ratio og animal eru tekin sem fyrirfram gefin og þekkt. Þannig birtast þau í hinni frumspekilegu hugsun eins og hún hefur kynnt þau til sögunnar út frá „táknrænni“ mynd sinni af verunni (atteggiamento „rappresentativo“ rivolto all‘ente). Allt er „vera“ (ente) gagnvart táknmyndum rökhugsunarinnar (la ratio rappresentativa). En hvaðan kemur veran (l‘ente), birtingarmynd hennar og myndgervingin (la rappresentazione) sem sýnir hana og hver er uppruni og grundvöllur þessara tengsla? Þetta eru spurningar sem frumspekin hefur aldrei hugsað og mun ekki  spyrja sig í framtíðinni.

Frumspekin heldur göngu sinni áfram á grundvelli þessarar gleymsku, þessari vegferð sem er þegar merkt eða vörðuð í upphafi og getur því ekki endað í öðru en að smætta sjálfa rökhugsunina (ratio) niður í „veru“, niður í „hlut“. Á bak við la ratio er ekki annan grundvöll að finna en heilann, það er að segja útreiknanlega veru (ente), útreiknanlega á forsendum stærðfræðinnar. Rökhugsunin verður varla lengur „vera“ (ente), heldur kraftakerfi eða upplýsingakerfi. (Um ferlið frá „viðfanginu“  til „útreiknanlegra átaka“ (forze calcolabili) má lesa í ritgerð Heideggers Die Frage nach  der Technik.)

Ef við hverfum aftur til Bréfs Heideggers, þá segir hann þar að í hugtakinu animal

…sé þegar innifalin skilgreining á „lífinu“ [höfum í huga skilgreiningu Levi-Strauss: „lífið í sinni eðlisfræðilegu og efnarfræðilegu heildarmynd] sem byggir óhjákvæmilega á túlkun verundarinnar (essente) [… ] en innan hennar birtist hinn lifandi.

Það er einmitt hér sem Heidegger segir að við þurfum að spyrja okkur þeirrar spurningar, hvernig kjarni mannsins hvíli á hinni dýrafræðilegu vídd animalitas:

Erum við almennt á réttri leið í leitinni að kjarna mannsins ef og á meðan við skilgreinum hann sem eina lífveru meðal annarra er greini sig frá jurtunum, dýrunum og Guði? Getum við haldið áfram á þessari leið og staðsett manninn í hjarta verundarinar (l‘essente) sem eina veru meðal annarra? Á þennan hátt getum við sett fram nákvæmar umsagnir um manninn. En þá þarf það einnig að vera á hreinu að með þessum hætti sé maðurinn staðsettur í eitt skipti fyrir öll undir grundvallarmerki animalitas, einnig þegar hann líkir sér ekki við dýrin, heldur gefur sér önnur og ólík einkenni. Upphafsforsendan er ávallt hugsuð sem huomo animalis, einnig þegar orðið anima (sál) er skilið sem animus sive mens (geð eða hugur) eða síðar sem sjálfsvera (soggetto), persónuleiki, andi. Slík framsetning er einkenni frumspekinnar. En með þessum hætti er kjarni mannsins ávallt vanmetinn og ekki út frá sínum mikilvægasta uppruna, sem hið sögulega mannkyn mun ávallt sjá sem framtíð sína. Frumspekin hugsar manninn út frá uppruna hans meðal dýranna (animalitas) en ekki út frá stefnu hans að hinu mannlega (humanitas).

Og í framhaldi: getur maðurinn einfaldlega hugsað sjálfan sig sem viðfang náttúruvísindanna og sagnfræðinnar? Er líkami mannsins það sama og hinn lífræni vefur dýranna?

Sú staðreynd að lífeðlisfræðin og lífefnafræðin geta framkvæmt rannsóknir á manninum sem lífrænum vef út frá sjónarhóli náttúruvísindanna sýnir með engu móti fram á að kjarna mannsins sé að finna í hinni „líffræðilegu“ vídd hans, það er að segja í líkamanum, þar sem hann er skilinn sem viðfang vísindalegra útskýringa. Slíkar skýringar vega ekki þyngra en aðrar sem segja til dæmis að kjarni náttúrunnar sé fólginn í kjarnorkunni. Allt eins væri hugsanlegt að náttúran feli hinn raunverulega kjarna sinn einmitt á bak við þá mynd sem hún birtir okkur í gegnum tæknilega ávinninga mannsins.

Einnig mætti minna á athugasemd sem Heidegger setur fram í Identität und Differenz:

Hvar er því haldið fram og hvar hefur það verið ákveðið, að náttúran sem slík skuli um alla framtíð vera náttúra nútíma eðlisfræði og að söguna beri að skilja út frá skilmálum sagnfræðinnar?

Í ljósi þessara stuttu tilvísana mætti draga þá ályktun að sú viðleitni Levi-Strauss að „rannsaka mennina eins og þeir væru maurar“ sýni ekki bara – eins og Sartre hélt – að Levi-Strauss væri „fagurkeri“, þegar hann er einfaldlega frumspekingur. Levi-Strauss getur heldur ekki varið sig gegn slíkri ályktun með því að bera fram sinn vísindalega „agnostikisma“ (efahyggju), því það er einmitt þar sem við finnum þann „gnostikisma“ (villutrú) sem einkennir vesturlenska frumspeki. Levi-Strauss tekur með áberandi hætti upp megineinkenni hennar. Heidegger skrifar af þessu tilefni um heimspekina að hún sýni…

…viðvarandi nauðsyn réttlætingar á eigin tilveru gagnvart „vísindunum“. Réttlætingu sem hún telur sig geta öðlast með tryggustum hætti með því að hefja sjálfa sig á stall vísindanna […]. Heimspekin er heltekin óttanum við álitshnekkinn, verði hún ekki talin til vísinda.

Sambærilegur ótti bærist með Levi-Strauss innan vettvangs þeirra hugvísinda sem honum eru hugstæð og hann telur eins og við höfum séð að eigi að samlagast náttúruvísindunum svo fljótt sem auðið er. Allt til að  komast hjá þeirri smán að teljast óvísindaleg eða jafnvel andstæð allri rökhyggju. En eins og Heidegger bendir á, þá dettur engum í hug að einmitt þessi skelfilega and-rökhyggja er nú drottnandi „hugsunarlaust og án andmæla í vörninni fyrir „rökfræðina“ (logica), sem telur sig geta skotið sér undan umhugsun um logosið og þann kjarna ratio sem hún byggir á. (Sjá Brief über den Humanismus).

Það er einmitt spurningin um logos sem er efni síðustu athugasemda okkar um þessi mál. Viðurkennt var í upphafi að það er eitthvað of auðvelt og tilviljanakennt í viðteknum skilningi okkar á þekkingarfræðilegum tilgátum Levi-Strauss, þegar þær eru dregnar fram og einangraðar frá því flókna og einstaka stórvirki sem hann hefur unnið á sviði þjóðháttafræðanna. Vissulega leyfa þessar vísindalegu tilgátur okkur að draga þá ályktun að and-húmanismi Levi-Strauss, rétt eins og sá sögulegi and-platonismi Sartre sem hann beinir spjótum sínum gegn, hvíli á frumspekilegum grunni og sé því óhjákvæmilega blekking. Þetta veikir einnig bestu áform Levi-Strauss, til dæmis höfnun hans á mannfræðilegum og félagsfræðilegum þróunarkenningum og vörn hans fyrir „hlutlæga hugsun“ meðal svokallaðra frumstæðra þjóða.

Í lok bókar sinnar La pensée sauvage kallar Levi-Strauss eðlisfræðina og nýjustu kenningar upplýsingafræðanna til varnar hinni „yfirmáta hlutstæðu“ hugsun hinna frumstæðu (sauvage) þjóða og ber þannig fyrir sig þá „yfirmáta óhlutstæðu“ (asratto) hugsun sem liggur til grundvallar þeim formlegu afstæðum er einkenni evrópsk vísindi. Þessi réttlæting, sem átti að leiða til framtíðar stefnumóts hinnar hlutlægu og skynnæmu hugsunar annars vegar og tæknivísindanna hins vegar, er leiddi þau endanlega saman í „lokað kerfi“ sem myndi til frambúðar skilgreina „heildarferli mannlegrar þekkingar“ (La pensée sauvage). Er hér kannski að finna óviljandi viðurkennigu og gæðavottun á þeirri tortímingariðju gagnvart ekki-evrópskum siðmenningum sem Levi-Strauss hafði ákært og fordæmt í mörgum glöggum og göfugum rannsóknum sínum á þessum siðmenningum?

Vissulega má segja að þegar Levi-Strauss lýsi því yfir að kominn sé tími á að „þora“ að smækka hið mannlega niður í hið ekki-mannlega (allt í Þeim tilgangi að jarðsetja hið ómennska og það dulvitaða ofbeldi  sem hinn sögulegi húmanismi hafði skilið eftir), þá geri hann þá yfirlýsingu Heideggers að sinni,  þar sem hann skrifaði í Brief über den Humanismus að hugsunin verði að „hafa kjark til að þrýsta á að allur vafi sé tekinn af um humanitas (mennsku) homo humanus og forsendur hennar“.[i]

Hér mætti bæta því við að ef húmanismi Sartre (og Husserls) er, eins og Heidegger segir, ófær um að skapa jákvæða samræðu við marxismann, sem hvað þetta varðar hefur fundið gildari skýringar á firringu mannsins og hefur þar með náð að setja fram kenningu um „grundvallandi vídd sögunnar“. Hliðstæða viðleitni finnum við í þjóðháttarannsóknum Levi-Strauss þar sem oft er að finna áhrifamikla aftengingu gagnvart hefðbundnum dialektískum sagnfræðikenningum, áhrif sem rangt væri að vanmeta eða líta framhjá.

Hvar er það þá sem hin and-húmanísku áform Levi-Strauss lenda á villustigum, afmyndast eða ógilda sjálf sig með því að snúast gegn sjálfum sér, og falla þannig í þá firringu og „hlutgervingu“ sem hún virtist vilja afneita í krafti höfnunar á algildingu hins evrópska ratio?

Hér er það sem við mætum spurningunni um logos, sem verður að svo komnu síðasta spurningin. Í stuttu máli höldum við því fram að áform Levi-Strauss gjaldi hér fyrir sinn upprunalega löst (sem á öðrum sviðum reyndist gefandi) og fólst í að hafa tekið upp hina málfræðilegu formúlu Ferdinands Saussure. Svo við nýtum okkur enn ábendingu Heideggers getum við sagt að logos, það er að segja tungumálið, sé einmitt hugsað i málfræðikenningu Saussure sem eining hljóðfræðilegrar byggingar og hugtakslegrar merkingar. Um þetta segir Heidegger:

Við hugsum hina hljóðfræðilegu byggingu (struttura fonetica) og hið skrifaða merki (segno scritto) sem líkama orðsins, en tóninn og hrynjandina sem sálina (Seele) og merkingarbærnina sem anda (Geist) tungumálsins. Sú hugsun er okkur töm að tungumálið samsvari kjarna mannsins að því marki sem hann er skilinn sem animal rationale (dýr gætt rökhugsun), það er að segja sem eining líkama-sálar-anda (corpo-anima-spirito) […] Túlkun frumspekinnar á tungumálinu í tengslum við homo animalis felur kjarna tungumálsins innan sögu verunnar. (Brief).

Við skulum reyna að finna kjarna málsins í ljósi þessarar síðustu tilvísunar, sem verður um leið grundvallaratriði þegar kemur að því að bera saman afstöðu Levi-Strauss og Heideggers með tilliti til þess and-húmanisma sem þeir báðir standa fyrir. Hvaða gagnrýni er það sem Heidegger hefur fram að færa varðandi nútíma málvísindi? Hann ásakar þau fyrir að hafa mótast með dulvituðum hætti, en einnig að einu og öllu í ljósi þeirrar hefðbundnu skilgreiningar sem frumspekin hefur gefið manninum: dýr+rökhugsun (animale+ratio), líkami+sál (corpo+anima).

Ef við leitum til rits Ferdinands de Saussure Course in General Linguistics (1916) sjáum við að hin málfarslega eining er skilgreind sem „tvöfaldur hlutur“: „hið málfarslega merki  sameinar […] hugtak og hljóðræna mynd“. Sem kunnugt er hefur „hin hljóðræna mynd“ tungumálsins fengið nafnið „nefnari“ (significante) en hugtakið kallað „significato“ (hið nefnda eða merking). Óháð allri þeirri umræðu sem þessi greining hefur hrundið af stað meðal málvísindamanna, þá felast andmæli Heideggers í því að með því að skilja tungumálið á þessum forsendum er gengist undir þá grundvallar afstöðu frumspekinnar sem greinir heiminn í tvo efnisflokka: „líkamana“ annars vegar (i corpi, la natura, hlutina) og „sálirnar“ (hugveruna, le anime, i soggetti) hins vegar. Þegar slík aðgreining hefur verið meðtekin sem augljós og ótvíræð, þá getur frumspekin ekki gert annað en að sveiflast á milli þessara andstæðu póla: annað hvort eru það sálirnar sem búa yfir sannleika líkamanna eða þveröfugt: það eru líkamarnir sem búa yfir sannleika sálnanna. Við getum kallað fyrra sjónarhornið „söguhyggju“ (storicismo) og hið síðara „natúralisma“. Þau samsama hvoru öðru: tveir pólar sömu „hernaðarlistarinnar“ (eins og Foucault myndi orða það). Það er hernaðarlist hinnar frumspekilegu hugsunar.

Við skulum nú endurskoða deiluna á milli Levi-Strauss og Sartre sem við gengum út frá í upphafi: Fyrir Sartre, sem byggði á Husserl og Marx  (eða sérstakri túlkun á Marx), er allt saga. Einnig það sem við köllum „náttúra“ vísar til samfélagslegs raunveruleika, vettvangur efnislegra þarfa (mannlegar, samfélagslegar og sögulegar þarfir) og félagsleg samskipti til að fullnægja þeim. Maðurinn talar um náttúruna sem félagslega og sögulega skilyrt vera. Frá sjónarhóli Levi-Strauss er hins vegar allt náttúra samkvæmt þeim röksemdum sem við höfum þegar rakið. Þessi sjónarhorn ná þó ekki út fyrir efnisflokka hinnar frumspekilegu hugsunar.

Engu að síður sjáum við að á milli þessara tveggja hugtaka „saga“ og „náttúra“ birtist þriðja hugtakið, sem er „bygging“ (struttura). Hver eru þau nýju sjónarsvið sem opnast með stúktúr-hugtaki Levi-Strauss? Í stuttu máli getum við sagt að þetta hugtak útiloki í eitt skipti fyrir öll hið sögulega sjónarhorn. Sálin (l‘anima) getur ekki búið yfir sannleikanum (né heldur frelsinu). Af þeirri einföldu ástæðu að formgerðarstefnan (lo strutturalismo) sýnir að maðurinn, þetta „dýr gætt rökhugsun“ (l‘animal rationale) er sér ekki meðvitað um reglurnar sem stýra hugsunum þess, orðum og gerðum. Það er ekki sálin (l‘anima) og ekki rökhugsunin (la ratio) sem setja tungumálinu reglurnar, skipuleggja byggingu fjölskyldumyndunar, virkni langananna, hinar efnahagslegu samskiptareglur, skipuleggja kerfismyndanir í heild sinni eða menninguna í heild sinni. Með vísunum til Freuds og viss skilnings á Marx (ekki þess sama og ríkir innan hins „húmaníska“ söguskilnings) og jafnvel með vísun í Nietzsche hefur formgerðarstefnan haldið því fram að ratio, rökhugsunin, sé ekki annað en endurspeglun og yfirborðsvirkni sem láti stjórnast undir niðri af „róttæku Öðru“ („Altro radicale“), nafnlausri og knýjandi byggingu sem maðurinn er holdgerving fyrir, hvort sem hann vill eða vill ekki. Rökhugsunin (la ratio) réttlætir og tryggir eftir á (a posteriori), en með því þjónar hún „hagsmunum“ byggingarinnar (la struttura) (hér má velta fyrir sér fordæmingum siðaboðanna sem hugmyndafræði, sem hagræðing, fölsun eða lygi bæði hjá Marx, Freud eða Nietzsche.

Hvernig getum við þá hugsað þetta „róttæka Annað“? Það er hér sem svar Levi-Strauss verður einungis „róttækt“ á yfirborðinu. Hann hóf til vegs altækt útskýrandi regluverk (canone esplicativo universale) á grundvelli framtíðar heimsmyndafræða sem felast í rökvísi nútímavísinda. Hann spyr ekki: hvaðan koma vísindin, öll vísindaþekking okkar? Það vaknar engin grunsemd hjá honum á borð við þessa: getur verið að nútíma vísindahyggja sé hinsta afleiðing „húmanískrar“ hugsunar? Er hin róttæka tileinkun ekki frá manninum komin í nýtingu tækninnar og hlutanna? Og ef maðurinn hefur einnig  náð valdi á sjálfum sér í gegnum yfirtöku hlutanna og þannig smækkað sjálfan sig til hins útreiknanlega og meðfærilega „botns“, þá hefur hann ekki bara smættað sig niður í hið ekki-mannlega (non-umano) heldur í hið ómannlega. Er þetta ekki hin náttúrlega afleiðing , það er að segja  hin „natúralíska“ afleiðing „húmanískrar“ hugsunar er tilheyri ásamt með natúralismanum örlögum frumspekinnar og þar með örlagasögu Vesturlanda?

En slík afleiðing er reyndar óhjákvæmileg ef haft er í huga það sem við  vitum nú, að Levi-Strauss hafi tileinkað sér hugtakið bygging (struttura) undir áhrifum frá málvísindum Ferdinands de Saussure, það er að segja út frá þeirri aðferð sem er í grunni sínum frumspekileg, sem endurspeglar frumspeki allra nútíma hugvísinda. Þeirra vísinda sem líta á manninn sem „dýr gætt rökhugsun“ (animal rationale) sem viðtekna og samþykkta forsendu. Samkvæmt þessu er „hið róttæka Annað“ ekki hugsað í raun, og því ekki í augsýn í sinni róttækni. Hvernig má þá nálgast það? Heidegger segir: við þurfum að hugsa rökvísina (logos) ex novo (eða að minnsta kosti búa okkur undir að geta hugsað hana ex novo ef og þegar slíkt geti orðið mögulegt eða óhjákvæmilegt). Sama gildir um physis (efnisheiminn), bæði náttúruna og söguna; hvorutveggja þó með þeim hætti að þau séu undanskilin natúralismanum og söguhyggjunni (storicismo), það er að segja þeirri frumspeki sem stýrir okkur enn og ráðskast með okkur ómeðvitað.

Ekki er mögulegt að skýra hér og nú hvaða mynd þessi endurhugsun eigi að taka á sig hjá Heidegger eða hvernig hún geti leiðbeint okkur, enda er það ekki efnið sem við höfum sett okkur fyrir hér. Við verðum að takmarka okkur við greiningu á þeim tveim aðferðum við andmælin gegn húmanismanum sem Heidegger og Levi-Strauss standa fyrir og við þær ályktanir sem af þeim verða dregnar.

Örlög þess and-húmanisma sem Levi-Strauss stendur fyrir eru þegar fyrirsjáanleg eins og við höfum séð, út frá þeirri málvísandalegu forsendu sem hann hefur gefið sér með merkingarfræði Ferdinands de Saussure. Þetta val er sprottið af raunverulegum menningarlegum forsendum. Við getum hins vegar spurt okkur hvort við séum enn bundin af þessu vali, eða af því gagnstæða vali Heideggers, sem fólgið er í róttækri höfnun er byggir á síðbúinni og flókinni rannsókn hans, þar sem hann segist vera „á vegferðinni til tungumálsins“ og jafnframt andstæður sérhverri hugsun um „merkin“ og tungumálið sem „merki“? Er ekki til önnur leið til að nálgast þennan vanda?

Frá mínum sjónarhóli séð (og eins og ég hef reynt með margvíslegu móti að sýna fram á í þessari bók) þá er um aðra leið að velja, en það er leið sem opnuð var fyrir einni öld síðan með merkingarfræði bandaríska heimspekingsins Charles Sanders Peirce, en það er reyndar fyrst á allra síðustu árum sem menn eru farnir að átta sig á mikilvægi framlags hans.

Það er engin tilviljun að Peirce skuli hafa sett fram lögmálið um óendanlega táknvísun (semiosi infinita) sem felur í sér óendanlega vísun merkisins í viðfang sitt og túlkanda þess, lögmál sem hefur til að bera einstaka samsvörun við þá „nýju óendanlegu túlkun“ sem Nietzsche uppgötvaði um svipað leyti, uppgötvun sem lagði grunn að túlkunarheimspeki (ermeneutica) Heideggers og Gadamers (þó Gadamer hafi ekki sýnt merki þess að hafa áttað sig á þessu samhengi). Það var heldur engin tilviljun að Peirce viðurkenndi nauðsyn þess  að byggja rökfræði sína og táknfræði á „almennri heimspeki alheimsins“ (filosofia generale dell‘universo), það er að segja á heimsmyndafræði („cosmologia“) rétt eins og Levi-Strauss, en alls ekki á hlutgervingu á forsendum natúralismans. Umhugsun um og dýpkun á skilningi Peirce á merkinu (segno) felur í sér að hún gerir okkur kleift að nálgast ákveðna grundvallar þætti þess vanda sem hér hefur verið til umræðu.

Í fyrsta lagi er um að ræða þann skilning að náttúran sé ekki „hlutur“ eða „viðfang“ heldur kerfi túlkana sem engan enda taka.

Í öðru lagi að túlkanirnar eða „túlkendurnir“ eins og Peirce komst að orði, eru ekki tilfallandi hugsanir mannsins, því þær byggja á atburðarás, á „atburði“ merkisins og efnislegum gæðum (Firstness) hans.

Í þriðja lagi að sagan sé ekki endanlega sögð í sinni meðteknu húmanísku og sagnfræðilegu mynd, heldur feli hún í sé gjörvalla hreyfingu sannleikans í sinni opinberu tilurð, það er að segja þar sem hún gerir sig að óhjákvæmilegu tilsvari túlkenda framtíðarinnar.

Einnig maðurinn er merki, sagði Peirce, og náttúran er líka merki á sína vísu. Bæði maðurinn og náttúran eru merki í alheimi merkjanna. Eins og öll merki þá bera þau líka merki merkingar (Thirdness) og atburðar (Fisrstness). Á milli þessara tveggja póla, atburðarins og merkingarinnar, eða í byggingunni, er ekki að finna andstæður eða líkingar: hins vegar er til staðar grundvallar afstaða „tilfallandi fjarlægðar“  eða „nálægð-fjarlægð“, „vera-fjarvera“, og eðli þeirra er innifalin í eðli merkisins. Það er einmitt á þessum vettvangi sem slíkar afstæður og vísunarskilmálar verða hugsuð (maðurinn og náttúran, merkingin og byggingin, atburðurinn og sagan).

 

 

  1. Merki og fjarlægð

Þegar talað er um óendanlega táknvísun (semiosi infinita) rekast menn illilega á þessa almennu skoðun af ætt „natúralismans“: merkið, almennt meðtekið sem hlutur meðal annarra hluta; það eru tré, ár, hallir, bílar, hundar, börn, og svo eru merki (í almennum skilningi: til dæmis merki hins talaða og ritaða tungumáls, umferðarmerkin, táknmál blindra og heyrnarlausra, þrumumerkin, táknmerkin í heild sinni, merki heilkennanna o.s.frv.) Þessi almenni skilningur byrjar hins vegar að láta undan um leið og við áttum okkur á að merki er aldrei bein merking tiltekins viðfangs (eða kannski ættum við að segja meints viðfangs) heldur merking annars merkis.

-„Meint“ viðfang? Er verið að halda því fram að ekki séu til hlutir eða viðföng, heldur bara merki? Hvers konar merkingarfræðileg hughyggja er hér á ferðinni?

-Í vissum skilningi vildum við einmitt segja þetta.

-Með hvaða rökum er hægt að skilgreina sem merki það sem almenn skynsemi kallar hluti – og ekki að ástæðulausu? (Til dæmis náttúrlega hluti eins og tréð, eða þá tilbúna hluti eins og til dæmis járnbrautalestina?) Ef orðið „lest“ er merki, og ef sama á við um umferðarmerkið sem varar við lestinni, með hvaða rökum getur lest af holdi og blóði (stáli og skrúfboltum) verið merki?

-Ég mun reyna að svara þessu, jafnvel þó það sé ekki auðvelt. Við skulum byrja með að segja að lestin sé „viðfang“ (oggetto) en bætum við eins og Peirce að hún sé viðfang fyrir „Túlkanda“. Hún er ekki bara lest, hún er lest fyrir einhvern.

-Ó, já, þetta er hin gamla kenning Berkeleys: esse est percipi. En allir vita að…

-Vinsamlegast, ekki grípa fram í strax, smá þolinmæði. Ég var að tala um að það væri lest fyrir einhvern. En þegar við tölum um „einhvern“ þá á það ekki við „mig“, „þig“, „okkur“ o.s.frv. Túlkandinn er ekki „sjálfsvera“ (soggetto) í hefðbundnum skilningi orðsins. Túlkandinn stendur fyrir menningarlega heild „merkinga“ sem mynda sjóndeildarhring mögulegs skilnings á skilgreindum hlutum.

-Við þekkjum hughyggjumanninn (l‘idealista) strax á óskiljanlegu máli hans: það er hreinasta kvöl að reyna að fylgja honum eftir og skilja!

-Látum svo vera: segjum að hlutirnir séu skýin og að andrúmsloftið sé það sem við kölluðum áðan „hina menningarlegu heild merkinga“. Nú eru skýin í andrúmsloftinu og eru hvergi sjáanleg nema þar. Ef ekki er andrúmsloft, þá eru engin ský, sem eru formmyndir þeirra. Þannig er það skilyrði þess að hægt sé að greina hlutina (oggetti) að til staðar sé tiltekin menning (bygging eða kerfi (struttura) uppbyggilegrar orðræðu og tiltekinna orðatiltækja myndi Foucault segja), menning sem hægt er að staðsetja sig í og skapa sýnileika. Tökum nú dæmi af áðurnefndri „lest“: ef túlkandinn er „Babyloníumenn“ eða „pigmear“ (babylönsk menning eða pigmeamenning) þá er enginn hlutur eða viðfang sem samsvarar „lest“. Slíkt viðfang verður ógreinanlegt í sjón og reynd, (Babyloníumenn höfðu engar lestir og Pigmei sem kemur til Evrópu getur ekki séð „lest“ þegar við sýnum honum hana, þó hann viti að hann sjái „eitthvað“. Þetta „eitthvað“ er það sem ég myndi endanlega greina sem „atburð“, en í bili er betra að geyma þann hluta málsins og láta nægja fyrsta dæmið í nálgun okkar. Sammála?

-Sammála. Ég vildi bara vekja athygli á dæminu með skýin, það væri virkilega snotur lapsus animae fyrir frumspeking af hughyggjuskólanum, síðasta lærisvein Sókratesar. En ég þrákallast ekki við það.

-Gott og vel, þá höldum við áfram. Reynum að draga saman það sem sagt hefur verið hingað til (mjög yfirborðslega og því óskýrt): Rétt eins og hver annar hlutur þá verður viðfangið „lest“ að geta fallið að tilteknu merkja-samhengi (menningarlegum merkingum) til þess að hægt sé að staðsetja það og túlka; (samhengi merkja sem túlka viðfangið sem „lest“). Það er þetta samhengi sem við köllum hér Túlkanda, og það er mikilvægt að hafa það í huga.

-Ég hef aldrei heyrt „samhengi“ segja: „Lestin mín er að koma“…

-Einmitt, vel sagt; þetta er athugasemd sem Heidegger hefði skilgreint sem „hárrétta“.

-Þessu gæti ég trúað! Að minnsta kosti kann ég að meta það. Sérviska frumspekinganna á sér þá allavega einhver takmörk. Meira að segja þeir taka lestina þegar þeir fara að sækja ráðstefnur (undir yfirskriftinni: „Við erum alltaf alls staðar og hvergi!). Svo taka þeir lestina aftur í bakaleiðinni heim.

-Ég er ekki viss um að hægt sé að kalla Heidegger frumspeking, og þegar hann talar um hið „hárrétta“ þá á hann vissulega við það sem við erum vön að skilja með þessu orði, en hann hefur líka annað mun flóknara í huga…

-Ekki þarf að því að spyrja! Var einhver von á öðru?

-… reyndar er það ekki „samhengið“ sem segir: „Lestin mín er að koma“, heldur eru það „ég“, „þú“, „við“ o.s.frv., við erum öll túlkendur „holdi klæddir“. Ef það er skilið, má ég þá halda áfram?

-Gjörðu svo vel…

-Jæja, „ég“, „þú“ o.s.frv. berum kennsl á lestina; en það gerist innan ramma þess „menningarlega samhengis“ sem við tilheyrum, sem er hinn almenni túlkandi. Ef menn vilja það heldur, þá má segja að “ég“, „þú“ o.s.frv. séum öll túlkendur af holdi og blóði. Það erum við sem með virkni okkar og gerðum virkjum merkin og merkingarnar sem tilheyra okkar menningarlega samhengi eða okkar almenna túlkanda. Með þessu höfum við þó alls ekki sagt eða sýnt endanlega  fram á að „lestin“ sé merki og í hvaða skilningi hún sé það.

-Ég var einmitt að átta mig á því.

-Gott og vel. Til þess ná því að sýna fram á að lestin sé merki (ekki orðið „lest“ eða skiltið „gætið ykkar á lestinni“, heldur hin raunverulega lest úr stáli og skrúfboltum) þurfum við að spyrja okkur: hvernig gefur „lest“ sig til kynna? (un „treno“ come si dà?). Rétt eins og allir aðrir hlutir, þá gefur lestin sig ekki til kynna með altækri birtingu, „af innsæi“. Aldrei hef ég hér „gjörvalla þessa lest“ né heldur „lestina“ sem kjarna eða platonska hugmynd hennar. Með öðrum orðum sagt: ávallt er til staðar „fjarlægð“ á milli þess sem gefur sig fram og holdgervingar Túlkandans, sem gæti til dæmis verið ég sjálfur. Höfum það einnig í huga að sérhver fjarlægð hefur sinn fjarlægðarmáta. Við gætum sagt: frumlæga reynslan er fólgin í fjarlægðinni sem gefur til kynna „fyllingu sína“ (eins og Husserl hefði sagt) við sérhverja nálgun. Nálgunarferlið sýnir okkur hvað þarf til að eyða fjarlægðinni.

-Hin frumlæga reynsla er fólgin í fjarlægðinni: hvernig í ósköpunum? Þetta er það óskiljanlegasta af öllu saman.

-Ég verð að taka undir þetta. Góðvinur minn frá París sagði líka, eftir að hafa hlustað eins og hann var vanur af þolinmæði og eftirtekt á flóknar orðaflækjur mínar, einnig hann sagði að þessi skilningur á fjarlægðinni gerði hann ráðvilltan og vekti fleiri spurningar en svör um eðli merkisins sem ég reyndi að útskýra. Ég ætla því að freista þess að hefja framhaldið með nýrri byrjun og annarri nálgun.

Sem sagt: Annað hvort höfum við ekkert eða eitthvað. Ef það er eitthvað, þá er fjarlægð til staðar. Þetta er tilgátan. Reynum að lýsa henni betur.

Við skulum byrja á að segja að eitthvað geti verið með margvíslegum hætti. Með þessu á ég við að við erum ekki bara að hugsa um skynreynsluna eða reynsluna af því að dæma (hvort sem átt er við dóma hugsanakvía eða ekki-kvía (categoriale o precategoriale)). Eitthvað getur verið til staðar (esserci), til dæmis skaut (polo) tiltekinnar aðgerðar (manipolazione) eða almennt lending tiltekinnar athafnar eða hegðunar, eitthvað getur verið lending (polo) tiltekinnar tilhneigingar eða löngunar, það getur til dæmis falist í að gleypa e-ð eða kasta e-u upp o.s.frv.  Nú felur sérhvert „eitthvað“ í sér fjarlægð sem er áttbundin (vettoriale) í þeim skilningi að hún vísar í ákveðna stefnu (þess að gera, skynja, gleypa, þrá o.s.frv.). Þar sem þetta felur í sér þessa grundvallar stefnumótun (vettorialità) þá er það með mörgu móti (með móti áttsækni sinnar (sua vettorialita).

Eins og við höfum sagt þá felur þetta „sem er“ í sér eitthvað sem er fjarlægð. Það er á þessum punkti, og það skiptir meginmáli, sem við höfum ekki allt á hreinu. Könnum málið nánar.

Ef eitthvað er, þá er það Viðfangið (l‘Oggetto) sem gefur sig til kynna. (Við segjum Viðfang með stóru V til að gefa til kynna hið almenna eðli þess (sem Oggetto) rétt eins og við skrifum Túlkandi með stóru T af sömu ástæðu (sem Interpretante)). Viðfangið býður sig fram eða birtist (si dà) en það þýðir að vera til staðar (eða öðlist nálægð / presenza). Nú getur nálægðin verið bæði algjör eða afstæð. Þegar um algilda nálægð er að ræða, samsamar viðfangið sig við nærveru sína, það er íveran. En þetta er aðeins önnur leið til að segja að í algjörri nálægð sé Viðfangið ekki til staðar. Það er ekki lengur um neina nálgun að ræða, ekki um neina aðkomu eða neitt sjónmál. Það er allt þarna (eða hérna, að vild) og er fyrst og fremst hérveran eða þarveran. Það er ekki um neina fjarlægð að ræða á milli Viðfangsins og veru þess eða íveru. Hin altæka nærvera er það sem ekkert verður sagt um eða reynt. Það er hið milliliðalausa (immediato) í skilningi Hegels og Peirce.

Ef við viljum nefna dæmi (ófullkomna tilgátu eins og öll dæmi eru) þá er hin algilda nærvera það sama og barnið í móðurkviði. Það hefur ekki móður sína sem Viðfang, það er með móðurinni, samtengt móðurinni með algildri íveru viðfangs síns. Móðirin verður þá fyrst viðfang þegar nærvera hennar er orðin afstæð, það er að segja þegar hún er ekki lengur eitt með nærverunni, heldur hefur öðlast fjarlægð á hana. Þar með erum við komin inn á svið brotakenndrar nærveru (presenza parziale). Af þessu má sjá að þetta er nánast eini möguleikinn sem Viðfangið hefur til að dvelja í nærverunni (að því gefnu að hin algilda nærvera Viðfangsins sé ekki og geti ekki verið). Við skulum skoða þetta nánar.

Brotakennd nærvera: eitthvað boðar nærveru sína án þess að vera þar (í nærverunni). Af hverju segjum við „boðar sig“? Vegna þess að eini mátinn sem Viðfang getur dvalið í nærveru án þess að vera nærveran, það er að segja einasta mögulega reynslan á brotakenndri nærveru er í gegnum merkið. Merki er boðun (anghelos).(Anghelos er gríska orðmyndin af engli og merkir „sendiboði guðanna“. Innsk. Þýð.)

-Loksins komum við á sprengjusvæðið! Ég verð hins vegar að benda á að ef allt er merki og ef merkin eru „englar“ þá opnast fyrir okkur heimssýn með heimsmynd sem er með sérkennilegum hætti orðin „angelicata“ englalík, nokkuð sem miðaldaskáldin af skóla „stilnovistanna“ gætu öfundað okkur af. („Stilnovistar“ voru 14. aldar skáldin sem fylgdu fordæmi Dante og skrifuðu hástemmd ljóð á ítölsku talmáli. Innsk Þýð.) Við höfum þannig ratað frá því að búa meðal skýjanna til þess að lifa með englunum, ef svo mætti segja.

-Að því marki sem hlutirnir eru „boðanir“ verð ég að fylgja þeim. En reynum að kafa dýpra. Við skulum spyrja okkur þeirrar spurningar, hvaða tengsl séu á milli hins altæka Viðfangs og hins brotakennda Viðfangs?

Við gætum svarað svolítið í ætt við goðsöguna og sagt að hið altæka Viðfang (það sem ekki getur verið í nálægðinni) jafngildi fjarverunni, hinni algildu fjarveru. Hið altæka Viðfang er hið glataða Viðfang. Þessi glötun hins altæka Viðfangs, þessi róttæka fjarvera er hins vegar forsenda sérhverrar nærveru (sem við höfum nú skilið að er alltaf brotakennd nærvera). Við gætum orðað þetta svona: Í hinni brotakenndu nærveru höfum við í vissum skilningi endurheimt hið altæka Viðfang. En ég vildi vera nákvæmari: Hið altæka Viðfang er „fundið“ (ekki „endurfundið“) þar sem það hefur aldrei fundist áður. En þetta er smáatriði sem skiptir mig afar miklu máli. Það felur í sér að aðeins með hinni brotakenndu nærveru er Viðfangið glatað: áður var það hvorki glatað né meðtekið. Altæk nærvera hins altæka Viðfangs felur þannig í sér skilyrði hinnar brotakenndu nærveru og hins brotakennda Viðfangs. Hér er ekki um neina „goðsögulega“ vídd að ræða er komi á undan í tíma og rúmi. Hið algilda Viðfang er þannig hluti af merkinu og veruhætti þess.

-Hér myndi ég ráðleggja að setja handbremsuna á frekara óráðshjal í kennigasmíði og frekari flugeldasýningar og taka þess í stað upp þráðinn sem ég var ótrúlegt nokk farinn að skilja.

-Sammála, það væri sanngjarnt. Hins vegar líkist framhald hugsunarinnar (raunverulegt framhald) meira flugeldasýningu en röksemdafærslu, jafnvel þó það sé alltaf mögulegt að öllu afstöðnu (eins og Peirce segir) að færa sýninguna niður í form rökhendunnar. En ég held ótrauður áfram sem frá var horfið. Sagt var: hið altæka Viðfang er með einhverjum hætti endurfundið (eða fundið) í nærverunni. „Með einhverjum hætti“ merkir hér að það sé brotakenndur endurfundur. „Brotakenndur endurfundur“ merkir endurfund í formi merkis. Og þar sem merkið felur í sér skilaboð, þá merkir það að hið brotakennda Viðfang (sem er til staðar) er boðun hins algilda Viðfangs. (Við gætum einnig sagt hér, út frá því sem áður var sagt, að það sé boðun fjarverunnar, því hún fellur í einu og öllu saman við hið altæka Viðfang.)

Ef við lítum enn og aftur á hlutina frá öðru sjónarhorni (sem er einkenni heimspekilegrar hugsunar: ekki sem stærðfræðileg afleiðsla og sönnun eins og Kant hafði gert sér grein fyrir) þá gætum við sagt: hin brotakennda tilkoma Viðfangsins gerist samtímis brotthvarfi hins altæka Viðfangs. Þetta brotthvarf (venir meno) felur í sér samtímis og í sama skilningi birtingu einhvers (atburðarins – en ég var þegar búinn að segja að ég vildi helst sneiða hjá þeim þætti málsins). Það sem kynnir sig til sögunnar er samtímis og í sama skilningi merki (að kynna til sögunnar eða boða og vera merki er allt eitt og hið sama).

Allt það sem hér hefur hingað til verið sagt mætti skilgreina sem ættfræði hins frumlæga Viðfangs eða frumgerðarinnar (archetipo). Með því er orðræðan sem stefnt var að með nýju upphafi komin á sinn endastað, og því ráðlegt að snúa aftur til „lestarinnar“ okkar til að kanna með því dæmi hvort orðræðan virki.

-Það mætti kannski segja að orðræðunni ljúki hér, en mér sýnist hins vegar að henni sé alls ekki lokið. Sem sagt, þó henni sé lokið þá er langt í land að fyrir mér sé allt deginum ljósara.

-Einnig hér get ég tekið undir með þér. Orðræður eins og þessar eru aldrei endanlegar. Það er hægt að líta á hlutina með öðrum augum. Það eru aldrei vonbrigði fyrir heimspekinginn að sjá orðræðu sína ófullgerða, þvert á móti tekur hann því með velvilja. Hið þveröfuga gildir um ekki-heimspekinginn. Og báðir hafa auðvitað sinn málstað. Ég vildi hins vegar eingöngu segja að þær röksemdir sem hér eru lagðar fram, og augljóslega hafa þörf fyrir dýpri umræðu, leiðréttingar o.s.frv., ættu að geta dugað fyrir vandamál okkar: þessa frægu „lest“ okkar.

Sem sagt, hvernig náum við því að öðlast þetta aðgengi (avere quell‘avere, svo vitnað sé aftur í orðalag Husserls) sem felst í að hafa járnbrautalest sem viðfang? Við eigum hér við áðurnefnt dæmi af barninu sem í þessu tilfelli er komið úr móðurkviði. Við skulum segja að í fyrstu gerist það sem við gætum kallað myndun viðfangsins (oggettualità), það er að segja tilkoma „hagsmunapóla“: mjólkurríkt móðurbrjóstið, barnapelinn o.s.frv. Þannig myndast tiltekin Umwelt sem er vistheimur eða heimur hluta (sem ekki er heimur í „verufræðilegum“ skilningi (ontologiskum skilningi eins og Heidegger myndi orða það) heldur í „ontískum“ skilningi sen hlutstæð vera. Brjóstið er hér annar póll munnsogsins og tengdra nautna (brjóst, munnsog, fullnægja eru í byrjun eitt og sama viðfangið. Sem slíkt, það er að segja sem viðfang, þá er brjóstið merki munnsogsins og fullnægjunnar. Augljóslega auðgast það smám saman af kunnum einkennum (með vaxandi gæðastuðuli eins og sagt er, þar sem um er að ræða vaxandi upplýsingar, jafnvel dulvitaðar), það fær aukin snertigæði, bragðgæði, hitagæði bragðgæði, sjónræn gæði o.s.frv. En það sem skiptir máli fyrir okkur er að það er alltaf til staðar í brotakenndri mynd, aldrei í altækri nærveru. Það hefur alltaf meiri eða minni fjarlægð, en fjarlægð þess verður aldrei afnumin.

-Þetta leysir ekki vandann, ég skil ekki… Hvað merkir: fjarlægðin er alltaf til staðar? Göngum út frá því að nýburinn okkar sé blessunarlega sogbundinn geirvörtunni: munnur hans hefur fullan aðgang að brjóstinu og er fullur af sætri og volgri mjólk, höfuðið hvílir í olnbogabót móðurinnar sem styður mjúklega við hann og örvar hann með ástríkum orðum, litlu hendurnar snerta brjóstið með nautnafullum gælum og allir andlitsdrættirnir bera vott um fullkomna sælu. Hvað viljum við meira? Öll þessi reynsla er brjóstið. Það er ekki hægt að segja að við höfum brjóstið og svo, handan þess komi sætleikinn, mýktin, ylurinn, bleiki liturinn o.s.frv. Ég verð að játa að ég sé ekki betur en að hægt sé að draga þessa spurningu saman í einfalt orðalag. (Wittgenstein orðaði það svona: heimspekin er einföld spurning um tungumál, eða öllu heldur um sjúkdóm tungumálsins). Orðum þetta nú sameiginlega: með brjóstinu er átt við bleika litinn, mýktina, sætleikann o.s.frv. það er að segja allan þann reynsluheim sem því tilheyrir. Þegar við erum búin að koma okkur saman um þetta atriði fæ ég ekki betur séð en að „fjarlægðin“ sé horfin. Þar með vildi ég segja að vandamálið væri úr sögunni.

-Vel að orði komist. Hér á ég við að orð þín skilgreini mjög vel ólíka afstöðu okkar. En jafnvel þó ég viðurkenni þínar réttmætu athugasemdir (sem ég get ekki annað en tekið undir að vissu marki) þá held ég því ennþá fram að fjarlægðin sé til staðar. Einnig við hinar ákjósanlegustu aðstæður (þar sem nýburinn hefur brjóstið á milli handanna, geirvörtuna í munninum og sjúgi volga mjólkina o.s.frv.) þá boðar brjóstið nærveru sína í gegnum merki sín (mýkt, yl, sætleika, bleikan lit), brjóstið er fyrst og fremst í merkjum sínum, en um leið er það ekki í þeim.

-Hvað merkir „um leið“…?

-Hér skal ég reyna að skýra mál mitt. Við munum öll hina frægu kenningu Locke sem segir að efnið í kjarna sínum (la sostanza) sé summan af hinum einföldu hugmyndum þess. Tökum dæmi af eplinu. Efniskjarninn „epli“ verður samfellt samspil hins gljáandi, rauða, sæta o.s.frv. og er ekkert annað en þessi samsetning, þessi summa eiginleikanna. Ég held því fram að Locke hafi haft rétt fyrir sér einungis að hálfu leyti. Eplið er þessi summa, en það er líka meira en þessi heildarsumma. Ekki samkvæmt þeim skilningi að sérhvert epli hafi einnig að geyma l‘eidos eða frummyndina „epli“ eins og Husserl hefði sagt, heldur af gjörólíkum og dýpri ástæðum. En snúum okkur nú að því sem við vorum að segja: nærvera brjóstsins er í merkjum þess og er um leið ekki í þeim. Athugum nú hvernig hún geti ekki verið.

Fyrst og fremst þurfum við að horfa til þess að ég þarf að „ná til“ brjóstsins í gegnum að handleika það, í gegnum munnsogið o.s.frv. Auk þess þarf brjóstið að ná til mín. Það er enginn hlutur til sem telst vera hlutur og birtast mér sem slíkur sem ekki þarf að ná til mín (og þegar ég tala um „hlut“ á ég ekki bara við efnislega hluti heldur hvaða viðfang eða nærveru sem hugsast getur). Líkami minn verður einnig að ná til þessa hlutar og hann að ná til mín. Það er rétt að fjarlægð hans er ólík öðrum fjarlægðum, hefur annan stíl sem greinir hana frá öllum öðrum fjarlægðum. Þar er líklega að finna frumröksemd greinarmunarins sem við gerum á hinu „innra“ og „ytra“…

-Leiðarþráðurinn!, leiðarþráðurinn!

-Já, fyrirgefðu. Brjóstið verður að ná til mín (mamman er víðs fjarri, en núna birtist hún, lítil í fjarska en stækkar smám saman o.s.frv.) og ég þarf að ná brjóstinu. Nú spyrjum við okkur: hvenær er það sem ég hef höndlað brjóstið? Á hvaða augnabliki snertingarinnar og munnsogsins hef ég brjóstið? Einhver gæti sagt: þegar ég snerti það og sýg það, þá hef ég höndlað brjóstið. Í rauninni er málið ekki svo einfalt. Vissulega gera snertingin og bragðið viðfangið mun nákomnara, þau setja það í samband við þá sérstöku fjarlægð sem er fólgin í mínum „eigin líkama“ (eins og sjá má, þá var ég ekki á neinu villuráfi áður, þó ég verði að viðurkenna að ég vissi það ekki þá). Engin tilviljun er þess valdandi að skynnæmið, líkaminn, hluturinn, efnið o.s.frv. séu fastaliðir í hinni heimspekilegu umræðu. En að vera í nálægð einhvers felur alls ekki í sér að allri fjarlægð hafi verið útrýmt. Við getum í þessu sambandi litið til kynlífsins: hvenær hef ég „höndlað“ hina elskuðu konu? Með inntakinu (penetrazione) framkvæmi ég hámark nálægðarinnar (hrein tilgáta, ekki ætluð til að móðga neinn), en það gerist alltaf út frá fjarlægð sem ekki verður tæmd. Það er hér sem nautnin fær mig til að loka augunum: ég læt mér snertinguna nægja. Um leið skynja ég sársauka þess að hafa ekki „séð“; heimta mín er ófullkomin. Þá opna ég augun: í fyrstu eykur það á nautn mína og mér finnst ég nálgast viðfang mitt enn meir (sem ég hef ekki gleymt að er Sjálfsvera (soggetto)…). En ég sé bara með öðru auganu og kannski ekki einmitt það sem ég vildi sjá. Staðreyndin er sú að jafnvel þó ég væri umkringdur speglum gæti ég aldrei séð allt. Og ef ég legg mig of mikið eftir því að sjá, þá tapa ég snertiskyninu, lyktarskyninu en þó fyrst og fremst því sjálfsprottna sem felst í hinu algilda algleymi. Það sama myndi gerast í sérhverjum erótískum leik sem mér dytti í hug að framkvæma: alltaf kemur fjarlægðin til sögunnar, því augljósari sem ég reyni að eyða henni.

-Þetta dæmi setur mig út af laginu. Ég vissi ekki að heimspekingarnir ættu til svona „jarðneskar“ vísanir, og allra síst að þeir gripu til þeirra í skýjaborgum sínum…

-Þarna ert þú á villigötum! Það er engin tilviljun að heimspekin varð til í Aþenu, en ekki í Jerúsalem eða Róm. Eins og alkunna er þá vissu Grikkir mætavel að eros og heimspekin eru nágrannar, ein uppáhaldssaga þeirra var frásögnin af Ixíon sem hafði fengið þá flugu í höfuðið að hann þyrfti að hreppa Heru, eiginkonu Seifs og húsfreyjuna á Olympstindi. Seifur sem sjálfur ól oft með sér sambærilega drauma er sneru þó ekki að Heru, fann upp aðferð til að fullnægja löngun vesalings Ixíon með þeim eina hætti sem gerlegur var fyrir dauðlegan mann. Hann sendi honum ský sem var í mynd Heru til mikillar hamingju fyrir Ixíon (að svo miklu leyti sem hamingja er möguleg dauðlegum mönnum) og hann framkvæmdi innferð og yfirtöku hennar og átti ef mér skjátlast ekki með henni einstök afkvæmi. En það gæti aðeins átt sér eina skýringu, sem í þetta sinn kemur okkur vel: einungis guðirnir eru þess megnugir að ná raunverulegu yfirtaki konunnar (hlutanna); mennirnir geta náð til þeirra, eða öllu heldur nálgast þær (eða hlutina) í gegnum skýin, það er að segja merkin.

En þar sem Nietzsche hafði skrifað að „allir guðirnir væru dánir“ (og Hölderlin vissi það á undan honum) þá verðum við þess þá heldur að vakna af draumi Ixíons (það er kannski ofsagt að segja verðum; látum okkur nægja getum): Við getum verið án þess að trúa að Hera sé til, það er að segja sem altækt Viðfang sem hægt er að yfirtaka, en þannig höfnum við því að merkin séu ský, það er að segja staðgenglar og tvífarar altækra Viðfanga, en meðtökum hins vegar hið altæka Viðfang og grundvallar fjarveru þess sem veruhátt merkjanna, þar sem þau sýna sig eins og áður var sagt, og þar með nærveru hlutanna. En nú skulum við snúa okkur að okkur sjálfum.

Það sem hér hefur verið sagt um kynmökin, um kynlífsmakann, á með sama hætti við um brjóstið, reyndar um alla hluti, svo byrjað sé á mér sjálfum. Einnig ég „yfirskyggi“ (addombro) sjálfan mig (eins og Husserl hefði sagt, en hann hugsaði það einungis í tengslum við efnislega hluti, því hann trúði á innsæið og taldi þess vegna að l‘Erlebnis, (upplifunin) yrði ekki yfirskyggð, heldur að hún gæfi sig í holdi og blóði, nokkuð sem ekki er satt): einnig ég yfirskyggi sjálfan mig gagnvart sjálfum mér.

Út frá þessu komum við augljóslega aftur að „lestinni“: flóknu merki sem er stútfullt af bergmáli og „sögum“. Hugsum okkur hvernig Carducci upplifði hana á sínum tíma, eins og merki framfaranna, og síðar á gamals aldri í stuttu ljóði (ekki sérlega líkt stíl Carducci, og kannski einmitt þess vegna að mínu mati langt yfir miðlungskvæði hans hafið) eins og tákn vélvæðingarinnar og innihaldsleysi nútíma tilveru, eintómar brottfarir og kveðjur og óyfirstíganlegar vegalengdir til viðfanga ástar okkar. Þetta eðli lestarinnar og allra hluta að vera merki felur í boðun sinni óendanlega frestun. Sérhver nærvera vísar til og stendur fyrir aðrar nærverur: felur í sér óendanleg merki, það er að segja óendanlegan fjölda Túlkenda sem eru liðnir eða ókomnir. Sérhver nærvera kallar á að við greinum hana (lesum lykla hennar (decodificare) eins og táknfræðingum nútímans er tamt að segja). Það felur í sér að við virkjum með meðvituðum hætti hlutdeild okkar í þessari nærveru, sem þýðir einnig, eins og Peirce sagði, hlutdeild okkar í alheimi merkjanna, þar sem sérhver hlutur er þar sem hann virkar (þar sem hann virkar sem merki).

Það er engu að síður í þessum endalausu skírskotunum (og frestunum /rinvio) sem sérhvert merki sýnir ávallt sama hlutinn: en það er fjarvera hins algilda Viðfangs, sú fjarlægð sem liggur til grundvallar sérhverri nærveru (presenza). Við gætum orðað það þannig að hlutdeild okkar í örlögum Túlkandans sem við erum holdgervingar fyrir (og þar með hlutdeildin í algildi hinnar endalausu raðar Túlkendanna) er um leið ekki-hlutdeild okkar í örlögum yfirtökunnar (eignarhaldsins /possesso) (ómennsk örlög – eða yfirmannleg ef menn vilja það heldur). Þó við segjum að hlutirnir séu merki, þó við skiljum þá í hlutverki sínu sem merki, þá felur það ekki í sér afneitun þeirra, „raunveruleika“ þeirra eins og menn segja gjarnan. Raunveruleiki hlutanna er einmitt fólginn í virkni þeirra sem skilaboð eða tilkynningar. Þegar við segjum að lestin sé merki, þá felur það ekki í sér afneitun á efnisveruleika hennar, að hann feli í sér harða snertingu, að lestin sé þung og að hún geti valtað yfir mig eða ég stigið upp í hana, að hún geti lent í töf (þó það nú væri!) eða jafnvel aldrei komið á áfangastað sinn vegna ytri ástæðna er væru utan við hugsanir mínar, væntingar mínar, langanir og túlkanir. Það felur hins vegar í sér að meðtaka hana meðal þeirra merkinga sem mynda mig og minn heim, um leið og ég geri mér grein fyrir að birting hennar er eins og allar birtingar upprunalegur atburður: alltaf þessi sami atburður sem gerir vart við sig með fjarveru sem frá upphafi vega sýnir sig sem merki og „merkir sér“ (ci assegna) örlög í samræmi við það (það er ekki enn komið að umræðunni um „atburðinn“). Að meðtaka þessa reynslu (eins og hún er, eins og örlögin hafa boðið okkur að túlka hana út frá hlutdeild okkar í Túlkandanum) merkir að gera sér grein fyrir að þessi reynsla er ekki „hlutlaus“ (indifferente), að lestin sé ekki „hlutlaus“, að ekki séu til hrein tæki, aðskilin frá tilgangi sínum eða hreinir líkamar, aðskildir frá sálum sínum. Við og lestin erum sameinuð af sameiginlegum örlögum. Hversu oft er það annars ekki sem við setjum traust okkar á lestirnar og treystum þeim fyrir lífi okkar, jafnvel þó þessi spurning kunni að hljóma kjánalega? Ef lestin er tákn framfara eins og okkar góði Carducci sá hana, þá erum við bundin því og það okkur. Lestin er ekki hlutlaus, enginn hlutur er hlutlaus sem anghelos, sem sendiboði skilaboða er koma okkur við og kalla okkur til túlkunar. Hins vegar gildir það einnig að sérhver hlutur er „dif-ferente“ (eins og Derrida hefði sagt, „á skilafresti“), hann er ekki hið altæka Viðfang. Að sýna hlutnum aðgát (averne cura), að meðtaka skilaboð hans, felur ekki í sér að meðtaka hann sem hið altæka Viðfang og að sýna honum „eignatilkall“ er feli í sér alræðisvald. Listin að meðtaka hlutina er líka og um leið listin að halda þeim ekki í spennitreyju (trattenerle).

Algengt er að við göslumst fram hjá hlutunum, vöðum yfir þá í því skyni að ná til einhvers annars sem hefur í okkar augum ígildi hins altæka Viðfangs og hins algilda eignarhalds. Við handleikum hlutina eins og áhöld eða tæki, við umgöngumst þá ekki, heldur notum þá. Engu að síður er það svo að hið endanlega viðfang verður aldrei höndlað, það verður aldrei á okkar valdi (posseduto), og hafi tangarhaldinu verið með einhverju móti náð, þá breytist viðfangið umsvifalaust í meðal til að ná öðru markmiði. En það sem skiptir mestu máli er að með því að einskorða okkur við að nota hlutina (taka þá til gagns) og nýta þá sem meðul, förum við ávallt á mis við boðskapinn sem þeir eiga sameiginlegan. Við áttum okkur ekki á því að allir með tölu hafa þeir að geyma vísun í það algilda Viðfang sem við erum stöðugt að leita til án árangurs. Við sjáum ekki að þegar við erum með hlutunum þá erum við einnig með þeirri fjarveru sem gerir okkur að Túlkendum holdi klæddum. Þetta er ástæða þess að hið algilda Viðfang er, eins og Heidegger hefði sagt, það sem stendur okkur næst og er okkur um leið fjærst. Viðfangið er hér í allri sinni nærveru, og einmitt þess vegna sjáum við það ekki og leitum þess í fjarskanum. Þetta er reyndar ekki beinlínis okkur að kenna, þetta tilheyrir merkiseðli okkar sem Túlkendur. Því nær sem merkið færir okkur að hlutnum, þeim mun meira fjarlægist hann. Merkið sem færir okkur nær (með sérstökum hætti) fjarlægir einnig (með sérstökum hætti). Og ef lestin (á okkar tímum flugvélin o.s.frv.) hefur dregið úr landfræðilegum fjarlægðum, þá hefur hún einnig aukið fjarlægðir í öðrum skilningi, en þessu hefur Heidegger gert það góð skil að óþarfi er að ég endurtaki þau hér.

Þar sem ég óttast að „frumspekingurinn“ sem við minntumst áður á, og talaði um að vera alls staðar og hvergi, yrði tekinn af meiri alvöru en dæmi hans gaf tilefni til, vildi ég segja þetta: Kannski vildi hann tala um okkur, okkar daglegu aðferð við að vera Túlkendur. Og ef hann fór úr einni lest í þá næstu og úr einni flugvél í aðra til þess að færa heiminum fyrirlestra sína – eins og títt er um marga fræðimenn á okkar tímum – og iðka það sem á fagmálinu kallast Jet-Philosophy (ég hef þetta fagorð eftir amerískri vinkonu minni), þá vildi hann kannski tala um sína eigin tilvistarlegu einsemd, um hinn raunverulega ómöguleika háskólakennslunnar, án þess að þurfa þess vegna að forðast þessi sameiginlegu örlög massafjölmiðlunarinnar sem tilheyrir samtíma okkar rétt eins og táknfræðin gerir líka, og það af engri tilviljun.

-Hvað þá, ef þetta er allt óhjákvæmilegt, til hvers er þá þessi orðræða? Til hvers eigum við að velta fyrir okkur eðli merkjanna, merkja okkar og hlutanna? Hvað hefur þetta eiginlega upp á sig?

-Ég skil: þú vildir hafa not af orðræðu minni, gera þér hana að verkfæri eða meðali…

-Nei, í guðanna bænum ekki! Ég hef undir það síðasta fundið fyrir vaxandi þunga („crescendo“) í tali þínu, í þessum „einleik þínum“, og ég held reyndar að Carnap hafi haft rétt fyrir sér: þið heimspekingar eruð eins og fatlaðir tónlistarmenn: þið búið til sinfóníu úr orðræðunni með hvellháværum málmgjöllum og massífum sogþunga boganna og trjáblástursins. Mér finnst líka áhugavert hvernig hughyggjuforleikirnir enda jafnan óhjákvæmilega í órökrænum dulhyggjuniðurstöðum (allt er alls staðar, hin eilífu lífsskilyrði mannsins afskrifuð o.s.frv. Auðvitað er stuðst við nútímalegra orðaval, en á endanum er þetta sami grauturinn). Ég var einnig að hugsa um hversu snjallir þið eruð að grípa til almenns orðalags, rétt eins og fyrir tilviljun, og að byggja með leyndum hætti allan málatilbúnað ykkar og meintar staðhæfingar á slíkum forsendum. (þetta sagði Kant líka með snjöllum hætti þegar hann talaði um frumspekingana, en ekki bara viðfangsefni heimspekinnar sem ekki er stærðfræði og þar fram eftir götunum…) Allur þessi málatilbúningur sem ég hef mátt hlusta á byggði með illkvittnislegum hætti á dæmi barnsins í móðurkviði eins og það væri tilfallandi dæmi. Það er hins vegar miklu meira en dæmi. Ef við tækjum það út úr málatilbúningnum er ég hræddur um að botninn dytti úr öllum möguleika á að vísa í hið algilda Viðfang og í glatað og endurfundið Viðfang. Ég spyr því hvernig þetta samkrull óskyldra hluta, sameiginlegrar reynslu, vísindakenninga sem notaðar eru á yfirborðslegan og tilviljanakenndan hátt, grískra goðsagna og eldgamalla heimspekikenninga o.s.frv., geti talið sig leiða til einhvers sannleika. Hvað getum við gert með orðræðu af þessu tagi? Hvernig eigum við að leggja mat á hana? Ég er ekki að fara fram á að hún geti „gagnast“ í grófri og yfirborðslegri merkingu þess orðs. En ég er í fullum rétti að spyrja hvert sé í raun og veru sannleiksgildi orðræðu sem þessarar… ekki satt?

-Við erum margir sem spyrjum okkur þessara spurninga nú. Við förum fram á að orðræðan sé heimspekileg (reyndar hefur heimspekin alltaf haft þá kröfu). Ég held hins vegar að það sé ekki hægt að beita einföldum sönnunarmælikvarða á orðræðuna (einmitt þessa samtvinnu ólíkra hluta). Sjáðu til, ef við myndum spyrja hvað við ættum við með „sannleiksmælikvarða“ þá er ég í engum vafa um að við myndum umsvifalaust detta í þennan sama farveg og leiða fram orðræðu fulla af ólíkum hlutum og á engan hátt gulltryggum. Sannleikurinn sem heimspekingurinn leitar að, og hvers vegna hann leitar að honum, er stórt vandamál sem Nietzsche var fyrstur manna til að uppgötva. Hann grunaði að ekki væri allt með felldu í þessari rannsakandi orðræðu, en þegar allt kemur til alls þá eru grunsemdirnar líka orðræða. Vesturlönd virðast vera dæmd til orðræðunnar: hún er aðferð þeirra til að nálgast hlutina og fjarlægja þá um leið. Það er hins vegar ekki ætlun mín að opna hér fyrir nýja umræðu. Frekar vildi ég ræna nokkrum mínútum til að draga tvær ályktanir (corollari) af því sem þegar hefur verið sagt, því ég hef það sterklega á tilfinningunni að það kalli á frekari skýringar. Eins konar lokaniðurstöður, er það samþykkt?

-Látum okkur heyra lokaniðurstöðurnar, þá verður þú ánægður.

-Ekki beinlínis niðurstöður, heldur tvær ályktanir, sagði ég. Sem sagt: Við spurðum þessarar spurningar: hvenær mætum við hlutnum? Í rauninni höfum við miklu fremur sýnt fram á hvernig við mætum honum. Hins vegar hefur spurningin „hvenær“ ákveðna þungavigt. Þar sem ég nálgast viðfangið sem býður sig fram og það annað hvort nálgast eða fjarlægist, þá hef ég gengið inn í tiltekinn tíma. Nær væri þó að segja að merkið hefði sett mig inn í tiltekinn tíma í gegnum afstöðu merkjanna (relazione segnica). Þar sem merkið býr í kjarna sínum sem merki yfir tiltekinni boðun, tiltekinni upprunalegri fjarlægð, því það er upprunaleg fjarlægð (distanza originaria), þá gefur það líka til kynna tiltekna tímavídd, feril, uppruna og stefnu. Sem eru liðin tíð, núið og framtíðin. Í sjálfu merkinu felst tiltekið „annars staðar“ (altrove), sem er aldrei hér og nú í algildri merkingu, en skilyrðir hins vegar bæði hér og nú. Út frá þessu mætti draga margvíslegar mikilvægar ályktanir (til dæmis um tímabundin „leiðslutilfelli“ (estasi), um ekki-upprunaleika nærverunnar eða núsins.) en engu að síður verður nauðsynlegt að leiða þær hjá okkur til að lenda ekki í nýrri umræðu um aðra og jaðarsetta hluti í nafni hins algilda sannleika.

Önnur ályktun: Við höfðum gert greinarmun á heiminum í hlutstæðum skilningi (ontico) og í verufræðilegum skilningi (ontologico), eins og Heidegger gerði. Ég vildi minnast aðeins á það dæmi sem þér fannst illa til fundið, dæmið af barninu í móðurkviði. (Altæk reynsla sem ekkert okkar getur sagt frá sem eigin reynslu, en enginn getur heldur neitað að hafa gengið í gegnum). Við sögðum að barnið væri með móðurinni, samtengt henni í altækri nærveru viðfangsins. Við skulum spyrja okkur (mér skilst að Fink hafi einnig sett fram hliðstæða spurningu): hvernig er maðurinn með heiminum ef heimurinn er hinn upprunalega vera með mannsins? (come é l‘uomo con il mondo, se il mondo è il suo originario essere con?) Hér merkir orðið „heimur“ ekki hina hlutstæðu (ontico) heild „hlutanna“ sem við stöndum frammi fyrir, heldur hina allt umlykjandi verufræðilegu vídd (einnig mætti segja að þetta sé heimsmyndafræðilegur vandi (cosmologico)). Er heimurinn altæk nærvera fyrir manninn (og munið þið hvað um það var sagt?) Er hann þá einnig með sama hætti frumlæg fjarvera? Er mælikvarða sannleikans í orðræðu okkar þá hér að finna? Í „atburði“ heimsins hjá túlkandanum? Og hvernig er þessu þá háttað meðal dýranna? Hvernig hafa þau heiminn? Og áfram: með hvaða rétti tölum við um dýrin og heim þeirra? Og í lokin, um hvaða rétt erum við að tala? Og hvers vegna viljum við tala með „rétti“? Sérhver orðræða er hringur, sagði dvergurinn við Zaraþústra.

Sjáðu til, eitt heilræði: þú skalt fara núna; annars byrja ég á nýrri orðræðu.

Refsing Ixíons á stegluhjólinu í Hadesarheimum. Grískur vasi frá 4. öld f.Kr. Ixíon upplifði "altæka nálægð" í ástarleik sínum við skýin, sem hann trúði að væri Hera, húsmóðirin á Olympsfjalli. Seifur refsaði honum með eilífum kvölum í Myrkheimum Hadesar þar sem hann snérist um alla eilífð bundinn á stegluhjól.

[i] Trúlega vísar Sini hér í þessi orð Heideggers í Briefe: …Það gerist einkum þegar maðurinn hefur tapað sér í uppgöngunni til hinnar frumlægu sjálfsveru að niðurgangan verður erfiðari og hættulegri en klifið. Niðurgangan leiðir að fátækt tilverunnar, þeirrar tilveru sem tilheyrir homo humanus. Í til-verunni er sagt skilið við homo animalis frumspekinnar. Yfirdrottnun þessa sviðs er hinn óbeina og fjarlæga blinda þess sjálfdæmis sem heyrir undir líffræðina en einnig undir það sem kallað er pragmatismi (nytjastefna). Að hugsa sannleika verunnar merkir að hugsa um leið humanitas (mennsku) homo humanus.Við þurfum að setja humanitas í þjónustu sannleika verunnar, en án húmanismans í frumspekilegri merkingu orðsins. Þýð.  

MARTRÖÐ TÚLKUNARFRÆÐINGSINS OG JACQUES LACAN

Í dag var ég minntur á fjögurra ára gamla færslu sem ég setti inn á Facebook og lýsir martröð minni aðfaranótt 26. nóvembers 2016. Ég var búinn að gleyma þessum draumi eins og raunin er með flesta drauma okkar: þeir lenda allir í glatkistu óminnisins. En þar sem þessi martröð opnaði greinilega sýn mína inn í raunverulegan vanda og varð mér tilefni eftirfarandi greinargerðar, þá fannst mér hún forvitnileg áminning um raunverulegan vanda gleymskunnar og minnisins. Ég reyndi að túlka drauminn með aðstoð sálgreinisins Jacques Lacans, sem ég var upptekinn af á þessum tíma. Greinargerð þessarar gömlu fb-færslu veitir því örlitla innsýn í skilning Lacans á sambandi tungumálsins, dulvitundarinnar, draumanna og raunverunnar.

 

FLÆKTUR Í FLOKKUNARKERFI TUNGUMÁLSINS

Þegar við höfum eytt góðum hluta æfinnar í að greina flokka og túlka myndir, þá kemur að því að þessi flokkunarárátta opinberist okkur í draumum okkar, og þá óhjákvæmilega sem martröð.

Þannig vaknaði ég þrisvar í nótt upp frá sömu martröðinni:

Ég var staddur inni í tölvukerfi sem var sérhannað til flokkunar og bauð stöðugt upp á nýja flokkunarvalkosti þangað til ég komst í þrot og vaknaði í svitakófi og algjörri uppgjöf.

Ég vissi ekki nákvæmlega hvað það var sem ég var að reyna að greina, en það virtist með einhverjum hætti snerta forgang skynjunar fram yfir hugtökin, eða þá hugmynd að við skynjum fyrst gula litinn, formið, súrbragðið og ilminn af sítrónunni, hugtök skynjunarinnar heitin og lýsingarorðin komi á eftir. Vandi minn snérist að einhverju leyti um þessa spurningu: hvað felst í tenginu skynjana okkar og hugtaka?

Þessi spurning eru í raun ein af höfuðráðgátum fyrirbærafræðinnar, og það var ekki bara að tölvuforritið gæfi mér stöðugt nýja flokkunarvalkosti; það bauð mér líka upp á ólíka heimspekinga sem stóðu fyrir mismunandi flokkunarkerfi. Þessir heimspekingar áttu það allir sameiginlegt að flokkast undir fyrirbærafræðina í heimspekihefðinni, en suma þeirra þekkti ég aðeins að nafninu (í góðri vitund um að það stæði upp á mig að kynna mér flokkunarkerfi þeirra). Nöfn eins og Levinas, Kojev og Irigaray komu upp í tölvukerfinu ekki síður en Merleau-Ponty, Hegel, Nancy eða Sini, sem ég þóttist þekkja betur.

En þar sem ég var staddur inn í þessu tölvukerfi með flokkunarvanda minn komst ég síendurtekið í þrot og vaknaði með andköfum og í svitakasti. Það var eitthvað sem ekki gekk upp, þannig að ég stóð eftir einn og úrræðalaus eins og nakinn maður á berangri.

Oft eru mikilvægustu augnablik drauma okkar utan við sjálfan drauminn, þau gerast á þeirri ögurstund á milli svefns og vöku þar sem draumurinn er að ganga okkur úr greipum og hverfa á vit gleymskunnar. En Það eru örlög langflestra drauma okkar að hafna í glatkistu óminnisins.

Í morgun fannst mér ég ná í skottið á martröðinni í þessari andrá á milli svefns og vöku og allt í einu sá ég í nýju ljósi vanda sem hafði valdið mér heilabrotum allt frá því ég kynntist hinu mikla og frjóa hugmyndaflugi sálgreinisins Jacques Lacans. En sem kunnugt er kollvarpaði Lacan þeim viðteknu hugmyndum sem Sigmund Freud setti fram fyrir meira en 100 árum síðan um að draumar okkar væru birtingarmynd bældra hvata er ættu sér rætur í dulvitund okkar, sem væri mótuð af fortíðarsambandi okkar og togstreitu við foreldra, ástvini og samfélagið í heild sinni.

Lacan sagði að dulvitundin lyti ekki lögmáli hvatanna, heldur tungumálsins, og þessi staðhæfing hans breytti öllu. Ekki síst í skilningi okkar og túlkun á draumum.

Ef draumurinn er vettvangur dulvitundarinnar, þá er það tungumálið sem birtist okkur þar í sinni hreinu og tæru mynd, sagði Lacan, og blés á allar arfbornar frumgerðir (í anda Jungs) eða draumaráðningar út frá hinu bælda hvatalífi okkar (í anda Freuds) rétt eins og hvatalífið væri sjálfstæður gerandi í lífi okkar.

Hvað felst í þessum skilningi Lacans?

Á bak við hann hvílir skýring Lacans á þrískiptri byggingu vitundar mannsins, sem hann setti fram eins og þrjá hringi sem skerast saman: Ímyndunaraflið, Tákngervingin og Raunveran. Af þessu þrennu er Raunveran hið leyndardómsfyllsta, því í henni felst það sem er handan ímyndunarinnar og tákngervingarinnar. Fyrir Lacan er tákngervingin svið tungumálsins, þess tungumáls sem við erum fædd inn í og sem „talar okkur“ í vissum skilningi. Við erum óbeðin fædd inn í tiltekið málsamfélag og  komumst illa út fyrir svið þess. Það er fyrst og fremst tungumálið (og þar með málsamfélagið) sem birtist okkur nakið í draumum okkar,- og glíma þess við Raunveruna.

Raunvera Lacans er ekki hinn svokallaði áþreifanlegi veruleiki hlutanna, þessi veruleiki sem hefur þegar verið flokkaður af tungumálinu í gegnum tákngervinguna. Gulur er gulur, sítróna er súr og ilmur hennar er sætur. Það er hlutlægur raunveruleiki tungumálsins, en handan þess er hyldýpi raunverunnar sem er stöðugt að verki innra með okkur án þess að við náum að höndla hana í táknmálskerfi orðanna eða ímyndananna.

Við getum líkt þessari raunveru við vitundina um dauðann, þetta ógnvekjandi tómarými sem enginn lifandi maður er til frásagnar um, því enginn lifandi maður hefur reynt hann, en hann býr engu að síður með okkur frá fæðingu sem jafn fjallgrimm vissa og hún er óljós, allt þar til við hættum að geta dáið.

Í draumi mínum var ég flæktur í flokkunarkerfi tungumálsins á barmi þess hengiflugs sem dregur okkur stöðugt til sín og engin orð fá lýst.

Það er upplifun þessa tælandi lífsháska sem birtist okkur í draumum okkar og martröðum – og vekur okkur til lífsins.

Mynd Lacans af mannshuganum. 

Þessir 3 hringir sýna okkur mynd Jacques Lacans af þrískiptingu mannshugans, þar sem efsti hringurinn, Raunveran, tengir hina saman í heilsteypta mynd. Ef þessi hringur opnast eða leysist upp verður algjör aðskilnaður og þar með upplausn í sálarlífi okkar.

Raunveran (The Real) hefur aðra merkingu en það sem við köllum raunveruleika í daglegu tali. Raunveran er það sem við gætum kallað dulvitaða uppsprettu langana okkar, hvata og tilfinninga. Raunveruleikinn er hinn skilgreindi umheimur á forsendum táknmálsins en Raunveran er það forðabúr sálarlífsins sem býr handan orðanna. 

Hinir hringirnir eru Táknveran (The symbolic), sem er heimur þeirra táknmynda er við höfum til að skilgreina og flokka umhverfi okkar og veruleikann í heild sinni. Það er vettvangur tungumálsins, orðanna og táknmyndanna sem hafa áskylda merkingu. Táknveran er bundin Raunverunni órjúfandi böndum og leitar stöðugt til hennar til að skilja hana og koma skipulagi á langanir okkar, tilfinningar og væntingar. Sem uppspretta tilfinninga okkar, langana og væntinga er Raunveran hins vegar handan tungumálsins. Það skýrir stöðugt samband þessara yfirráðasviða. 

Táknveran er líka tengd Heimi Ímyndananna (The Imaginary), en það er heimur þeirra mynda sem við gerum okkur af umheiminum í gegnum skynjanir okkar áður en við höfum skilgreint þær í gegnum Táknveruna eða tungumálið. Táknveran leitar stöðugt í Heim Ímyndananna og þar er önnur uppspretta alls skilnings. Táknveran og Heimur Ímyndananna eru bæði tengd Raunverunni órjúfanlegum böndum, og slitni þau bönd skapar það upplausn í sálarlífinnu þar sem maðurinn fer að lifa bókstaflega í heimi orðanna eða ímyndananna. Slíkt ástand er kallað geðklofaástand eða skisofrenía á tungumáli geðlæknisfræðinnar.

Mynd: Gustav Doré: Don Quijote í viðjum orðanna og hlutanna

 

CARLO SINI: FRÁ LÍKAMANUM TIL VÉLMENNISINS

UM SIÐFERÐILEG VANDAMÁL TÆKNINNAR Á TÍMUM PESTARINNAR

Nýlega birti ég hér á vefnum hugleiðingar ítalska heimspekingsins Carlo Sini um tilkomu og gang tímans út frá túlkun Platons eins og hún er sett fram í ritinu Timeusi sem sköpunarsaga alheimsins. Í framhaldi af þeirri umfjöllun varð mér hugsað til sköpunarsögunnar sem meistaraverks frá tæknilegu sjónarhorni séð, og þess vegna hélt þessi lestur minn á Carlo Sini áfram með upprifjun á bókarkveri hans um „Líkamann, vélina og vélmennið“ (124 bls. frá árinu 2019), en þar setur Sini fram frumlegar kenningar um tilkomu tækninnar, sem verða um leið í frásögn hans sagan um tilkomu þekkingarinnar: saga sem að hans mati er svo samofin mannlegu eðli að hún verður ekki bara að sögu vinnunnar og þekkingarinnar, heldur líka sagan um það hvernig maðurinn vaknaði til vitundar um sjálfan sig, þar sem til dæmis hin tæknilega mæling tímans opnar fyrir skilningi mannsins á eilífðinni og leyndardómi dauðans í mannlegri tilveru.

Þar sem hugmyndir Carlo Sini um tæknina virðast lítt þekktar hér á landi (og reyndar í hinum enskumælandi heimi líka) datt mér í hug að þýða einn kafla úr bókinni um Vélmennið. Það er þriðji kaflinn, sem er um leið eins konar samantekt á því sem á undan er komið, og rekur í afar samþjöppuðu máli hvernig maðurinn breyttist sem lífvera frá því að vera dýr án sjálfsvitundar - eða vitundar um tímann og eilífðina - yfir í það að læra að nota sér dauða hluti sem framlengingu líkamans og hljóðin sem tæki til að búa til tónlist og orð um umhverfi sitt, sig sjálfan og náungann, allt yfir í það að smíða vélar og „sjálfvirk“ kerfi sem virka eins og sjálfvirk vélmenni. Þetta er þróunarsaga sem tekur til að minnsta kosti 200.000 ára, hér sögð í örfáum orðum.

Sini hefur auðvitað sett fram kenningar sínar um þessi efni í mun ítarlegri fræðiritum sem byggja á áratuga rannsóknarvinnu, en með fyrirvara um fyrri kafla í bókinni um vélmennið og stærri fræðirit um efnið (t.d. „L‘alfabeto e l‘occidente“, „Lo spazio del segno“, „Transito verità“) ætti eftirfarandi þýðingartilraun að veita athugulum lesanda örlitla innsýn í nýstárlega aðferð Sini við nálgun vandamálsins um tæknina og siðfræði hennar

Um svipað leyti og maðurinn lærði að ganga uppréttur og horfa til himinsins urðu fyrstu verkfærin til á vegferð mannsins: trjágreinin eða stafurinn sem framlenging handarinnar og taktur tónlistarinnar og orðanna sem framlenging raddbandanna í hálsi og munnholi. Þessi framlenging líkamans gerði manninum kleift að lifa af í harðri samkeppni og skilgreina sjálfan sig og yfirráðasvæði sitt í óblíðri náttúru. Ef við hugsum ekki til þessa uppruna tækninnar er vonlaust að við getum skilið hana, segir Sini.

Í þessu samhengi er skilningur Sini á tilkomu tungumálsins sem stærstu og örlagaríkustu tæknibyltingarinnar í sögu mannsins athyglisverðust. Þessi skilningur verður honum jafnframt tilefni til gagnrýni á þá tvíhyggju sálar og líkama sem Vesturlandabúar hafa alist upp við allt frá því að Platon fann upp sálina sem „fanga“ í „fangelsi“ líkamans. Nietzsche varð kannski fyrstur til að setja fram gagnrýni á þessa tvíhyggju sem einkennir vestræna menningu enn þann dag í dag, en heimspekileg og vísindaleg nálgun þessa vanda var síðan útfærð í heimspeki Husserls, Heideggers, Merleau-Ponty og þess stóra heimspekiskóla sem hefur fylkt sér undir merki þeirra sem heimspeki fyrirbærafræðinnar, þar sem grundvallar reglan er sú að áhorfandinn getur aldrei skilið sig frá rannsóknarefni sínu án þess að lenda í villu tvíhyggjunnar um sjálfstæða og óháða tilveru tveggja heima sem endurspegla hvorn annan: heima efnisins og andans.

Það merkilega við greiningu Sini felst meðal annars í því að hann gagnrýnir tortryggni Heideggers á hlutverk og virkni tækninnar í samtímanum einmitt á þessum forsendum: sú hætta sem Heidegger segir að náttúrunni (og einnig manninum) stafi af tækninni sé byggð á platónskri tvíhyggju: þegar Heidegger setur tæknina og náttúruna fram sem tvær andstæður gleymir hann því að „náttúran“ er fyrst og fremst tilbúið hugtak og sé því sem slík afurð „tækninnar“, þeirrar tækni sem ætti þannig að ógna sjálfri sér sem hugtak. „Náttúran“ er ekki skilgreindur eða mælanlegur hlutur og þegar við setjum „menninguna“ og „náttúruna“ fram sem andstæður erum við dottin í gildru hinnar platónsku tvíhyggju. Allir vita að þessi tvíhyggja er ráðandi í allri umræðu um „náttúruvernd“ í samtímanum, og kannski þurfum við einmitt nýjan skilning á tækninni til að fá einhvern botn í alla umræðuna um „friðun náttúrunnar“ gagnvart manninum og tæknimenningu hans.

Þetta þýðir ekki að dregin sé í efa sú umhverfisvá sem stafar af ofneyslu mannsins á auðlindum jarðar, það er mikilvæg umræða sem kallar einmitt á dýpri skilning á eðli tækninnar. Sá vandi er ekki á dagskrá í þessu stutta kveri Carlo Sini um tæknina og kallar á aðra umræðu, en á meðan við hugsum á trúarforsendum Platons um dauðlegan líkama og ódauðlega sál er hætt við að sú umræða skili okkur ekki langt.

Það mætti hins vegar gagnrýna þennan bækling Sini fyrir að taka ekki til umræðu þá gagnrýni á sjálfvirkni tækninnar í samtímanum sem sett hefur verið fram af kollegum hans í fyrirbærafræðinni, þeirra sem hafa lagt áherslu á að tæknin hafi tekið „eðlisbreytingum“ með tilkomu hinnar sjálfvirku tæknivélar í sinni rafrænu og stafrænu mynd. Gagnrýni sem hefur meðal annars verið rökstudd með vísunum í Karl Marx, þar sem hann talar um þá eðlisbreytingu sem fólst í magnaukningu peninga í umferð: þegar peningarnir hættu að verða meðal til að auðvelda vöruskipti og urðu markmið í sjálfum sér sem frumforsenda allrar mannlegrar virkni. Ef peningurinn var einu sinni eins og trjágreinin í hendi frummannsins sem notaði hana sem meðal eða áhald til að framkvæma „áverka“ á umhverfinu og skilgreina yfirráðasvæðið, þá verður hann sem „fjármagn“ að valdatæki minnihlutahóps sem frumforsenda og mælikvarði allrar mannlegrar framleiðslu og hefur þannig tekið eðlisbreytingu. Spurningin er hvort slíkar eðlisbreytingar tækninnar séu ekki að verki í samtímanum og hvernig við eigum að skilja þær.

Í hinum flókna heimi nútíma tækni kallar slík greining á þverfaglega samræðu er nái til allra greina vísinda: eðlisfræði, líffræði, hagfræði, samfélagsfræði o.s.frv. Carlo Sini kallar einmitt á slíka umræðu sem nauðsynlegan vettvang heimspekinnar, og hefur beitt sér með slíkum hætti á marga lund. Síðasta framlag hans á þeim vettvangi er samtalsbók hans og Carlo Alberto Redi, líffræðikennara við háskólann í Pavia. Þar rekja þeir einmitt nokkur þau svið samtímans þar sem tæknin og líkaminn mætast. Þar fræðir líffræðingurinn okkur á því að það sé ekki bara erfðamengi mannsins sem sé undirorpið breytingum af völdum tækninnar, heldur standi líffræðin frammi fyrir óteljandi óleystum siðferðilegum og heimspekilegum spurningum sem kalli á þverfaglegar lausnir. (Sjá „Quando un corpo puó dirsi umano?“ (Hvenær verður líkami mannlegur?) JacaBook 2019)

Ekki er tilefni til að rekja fróðlegt efni þessa samtals líffræðingsins og heimspekingsins hér, en hins vegar er hér kannski tilefni til að leiða áfram umræðuna sem felst í lokaorðum Sini í þessum bókarkafla. Þar talar hann um þann möguleika að líta á alheiminn sem eins konar frumlægt „vélmenni“ er virkaði án allrar rökgreiningar og hefði ekki annað markmið en áframhald eigin virkni, sívirkni án tíma eða rýmis þar sem virknin sé „alltaf hér“ og hvergi annars staðar. Alheimurinn hefur engar áhyggjur af framtíðinni því sál hans er þegar ódauðleg.

Vélmennið í tækniheimi mannsins er þá endurspeglun eða eftirlíking þessa „vélmennis“ alheimsins og maðurinn er þjónn þessarar eftirlíkingar sinnar eins og hvert annað tannhjól. Þá getum við væntanlega lagt á hilluna alla gamla drauma um frelsi einstaklingsins eða samfélagshópanna eða lýðræðið o.s.frv.

Vélmennið er knúið áfram af bakflæði skilaboða sem á tæknimáli kallast „feedback“. Í samtímanum er þetta „bakflæði“ nú á því stigi að það er hætt að snúast um peninga. Við sjáum fram á að handbær gjaldmiðill verði orðinn að fornminjum innan fárra ára. Það eru upplýsingarnar sem eru orðnar gjaldmiðillinn í vélmenni samtímans. Þessar upplýsingar taka ekki bara til hljóðanna og orðanna sem koma úr raddböndum okkar eða áhaldanna sem við höfum handbær, þær snúast kannski fyrst og fremst um líkama okkar. Covid-pestin kennir okkur þetta: biðraðirnar í sýnatökur, grímurnar og fjarlægðarreglurnar á milli einstaklinganna eru frumstæðar birtingarmyndir þess sem koma skal. Öll heimsbyggðin bíður nú eftir bólusetningu, og væntanlegu bólusetningarvottorði sem í framtíðinni verður mikilvægari en öll vegabréf. Sögur fara af því að í bólusetningarefninu verði efni er sendi frá sér upplýsingar um heilsu okkar og erfðamengi.  Líffræðin býður upp á „bætt“ erfðamengi fyrir útvalda einstaklinga. Nú eru þegar komin á markaðinn armbönd er mæla blóðhita, blóðþrýsting, súrefnismettun og aðrar gagnlegar upplýsingar um líkama okkar. Þessi tæki eins og önnur „áhöld“ okkar verða nettengd í gegnum tölvur okkar og „5G“-skynjara internetsins og þar með bókfærð á gagnabanka alheimsins. 

Sá sem les þennan texta á tölvu sinni er ekki bara að lesa. Hann er líka lesinn af tölvubanka alheimsins sem færir áhugamál hans inn í bókhaldskerfið. Hafi lesandi þessa texta nettengt armband eins og það sem komið er á markað og sjá má á meðfylgjandi auglýsingu (hér fyrir neðan) mun alheimsbankinn ekki bara marka áhugasvið lesandans, heldur líka taugaviðbrögð: breytingar á blóðþrýstingi, súrefnismettun o.s.frv. Alheimsbankinn færir allt til bókar og matar okkur síðan á því sem hann sér um að við viljum. Við stöndum í þeirri trú að við veljum sjálf það sem við horfum á og það sem við kaupum og það sem við kjósum. En alheimsbankinn þekkir okkur betur en við sjálf, sem kunnum ekki að samhæfa bakflæðisupplýsingar Vélmennisins. Við erum viðfang þessarar vélar sem hefur raungert eilífðina í sínu viðvarandi núi án fortíðar eða framtíðar.  Er ekki „núvitundin“ lausnarorð hjálparbókmenntanna sem nú eru efstar á vinsældalista Amazon?

Carlo Sini:

Frá líkamanum til vélmennisins

 

Þriðji kafli bókarinnar „L‘uomo, la macchina, l‘automa“

eftir Carlo Sini, bls. 79-90

 

Með „mennskum“ hætti  formar líkaminn byggingu sína í gegnum virknina: það er þannig sem við verðum að „sjálfsveru“ og „eiganda“ þess mjög svo sérstæða eignarhalds sem fólgið er í því að eiga sér „mannlegan líkama“. En þetta er eignarhald sem er samtímis algjör einkaeign (í sínum ófrávíkjanlega atburði) og algjör almenningseign (í þeirri merkingu sinni sem falin er þekkingunni) .

Eins og við höfum séð,  þá er höndin með samspili við augað, munninn og eyrað drifkrafturinn á bak við  framvindu þessarar myndunar og ummyndunar hinnar líkamlegu reynslu, en þessi ummyndun hefur jafnframt átt sér stað í þróunarferli uppréttrar stöðu líkamans.

Við höfum í mjög almennum orðum lýst tveim lykilatriðum þessa ferlis:

  • Upprunaleg virkjun hins lifandi líkama mætir óvirkri mótstöðu sem afmarkar líkamann og afmarkar ytri mörk hans. Í afturvirkni sinni (retroflessione) gerir þessi reynsla líkamanum mögulegt að upplifa eigin getu með virkum hætti, sem að öðrum kosti væri hvorki skynjuð né meðvituð. Þessi upplifun hins lifandi líkama af virkni og óvirkni er hin fyrsta (og enn óupplýsta) grundvallar forsenda hins tvískipta eðlis líkamans, það er að segja þess eðlismunar sem er innritaður í hann sem Leib og Körper[i].
  • Innan þess virka átakasviðs gerandans og umlykjandi umhverfis hans (það sem Husserl kallaði Umwelt) varð mótstöðuleysið (passività retroflessa) gagnvart hinum virka líkama að tæki og meðali til áformaðs verknaðar, til áforma sem holdgerast einmitt í líkamanum. Myndun og uppbygging líkamans og mótun meðalsins eða tækisins falla þannig saman í eitt. Þetta gerist í gegnum bakslagið sem upplifir hið frumlæga mótstöðuleysi sem virknin mætir í umhverfi sínu. Það er einmitt þannig sem aðstæður og möguleikar meðfærilegs líkama koma í ljós. Þessi líkami útvíkkar sig og breiðir úr sér með „verkkunnáttu“ sinni, þannig að útvíkkun hans getur af sér fyrstu aðfengnu framlengingarnar: trjágreinina sem verður framlenging (og stoðtæki) handleggsins. Mótstöðuleysi priksins sem afmarkar ytri mörk líkamans, ytri virknimörk hans. Þetta prik er nú innlimað í virknina og virkjað sem framlenging handleggsins. Það er þetta afturvirka mótstöðuleysi (passività retroflessa) priksins sem verður forsendan fyrir „virkjun“ þess.[ii]

Þannig opna Þessi aðfengnu stoðtæki fyrir reynsluna af muninum á hinu virka og óvirka í gegnum enn frekari gagnverkun (retroflessione) þess lifandi og hins líflausa, þau opna fyrir reynsluna af muninum á mótstöðuleysi og óvirkni „einskærra hluta“ miðað við þennan virka og lifandi líkama. Þar er muninn á handleggnum og prikinu að finna.

Allt þetta leiðir til enn frekari aðlögunar stoðtækisins, sem er eins og við vitum ekki bara einskær framlenging, heldur táknræn framlenging eigin sjálfs, sem gefur tilefni til frekari sjálfskoðunar. Þegar „þekkingin“ sýnir sjálfa sig  sjáum við um leið fyrstu merki sjálfsvitundar (avere del soggetto) og fyrstu merki þess að hafa líkama og hafa umlykjandi hluti á sínu valdi. Það er þessi líkami og þessir hlutir sem við getum ekki beinlínis heimfært upp á reynslu dýranna, að minnsta kosti ekki eins og við skynjum hana, auðvitað frá okkar sjónarhóli séð.

Í stuttu máli vorum við að segja þetta:

Það er eitthvað í líkamanum sem sýnir sig, aðskilur sig, veitir mótspyrnu og færir smám saman aukið líf í höndina (svo dæmi sé tekið) og „þekkingu“ hennar. Verkefnið er nú að greina í smáatriðum þennan aðskilnað (stacco) og þessa bakvirkni (retroflessione) út frá fjórum þróunarþrepum sem birtast með eftirfarandi hætti: 1) líkaminn í verki; 2) líkaminn sem verkfæri; 3) líkaminn sem stoðtæki; 4) líkaminn sem vélmenni (robot).

 

Líkaminn í verki

Við gengum út frá hinum virka líkama í upphafi. Í rauninni er enginn „líkami“ kominn til sögunnar við þessar aðstæður.  Nær væri að tala um „lifandi virkt líf“ (samanber t.d. die Tathandlung hjá Fichte). Um er að ræða lifandi líf sem tilheyrir engu „égi“, sem hvorki er huglægt (soggettivo) né hlutlægt (oggettivo).

(það var trúlega eitthvað í líkingu við þetta sem Husserl reyndi að tjá með sínu tvíræða orðalagi þegar hann talaði um „nafnlaust en virkt „ég“. Um er að ræða hlutleysi hinnar hreinu reynslu samkvæmt Avenariusi, líkt og hjá Mach og James: þessar tilvísanir þjóna þó einungis sem leiðarvísar en vísa ekki í neinar endanlegar  niðurstöður).

Líf sem tilheyrir engu égi, og tilheyrir varla neinum „líkama“ heldur, þó ekki væri óskynsamlegt að bæta við að lífið sé líf, einmitt vegna þess að það „líkamnast“ (somatizza).

Til dæmis brotnar það upp og dreifist í óendanlegri gagnkvæmni „líkamlegra staða“ þar sem sérstaðan felur um leið í sér tilkomu óbrúanlegrar fjarlægðar hvers og eins frá hinum: sérhver á sér stað fyrir vaxandi veru sína og staðfestingu sem er „utan allra staða“ eða „utan allra“ (nokkuð sem sýnir vel að merkja jafnframt og um leið grundvallandi, frumlæg og eðlislæg tengsl og nauðsynina fyrir „hina“).

Við getum líka sagt að gjörningurinn eða athöfnin eigi ekki uppruna sinn í sjálfsverunni (soggetto) og tilheyri heldur ekki viðfanginu (oggetto) þar sem hvorugt sé til staðar „í upphafi“.  Gjörningurinn er því verknaður heimsins eða atburður heimsins í ímynd sinni: hér er það heimurinn sem gleypir, hleypur, stekkur o.s.frv. Þannig stíga ímyndir heimsins yfir markalínu og hverfipunkt upprunans sem er óhjákvæmileg og ávallt til staðar, endurtekin í ímynd sinni.

Í lifandi gjörningi dýrsins eða kornabarnsins er það sem við köllum „líkama“ þeirra það sem sýnir tilkomu sína í heiminn með tilraunastarfsemi í gagnkvæmri fléttu móttækileika, virkni og óvirkni. Með því að sýna sig verða þessir líkamar undirseldir náð atburðanna[iii]: þar geta komið til hrindingar, högg, árekstrar, áverkar o.s.frv. Þannig verður fyrsta tvíhliða markalína þessa líkama til, og við gætum því sagt að þar sé hann  þegar orðinn tvöfaldur í sjálfum sér. Einmitt með því að upplifa sjálfan sig sem líflausan og mótstöðulausan hlut  vaknar lífið til sjálfs sín í gegnum bakslagið í eigin viðbragði. Líkaminn finnur sig virkan sem mótvægi, það er að segja hann á sér mótspyrnu, getur slegið, dregið sig í hlé o.s.frv. Dúfan finnur á sér að hún þarf að fljúga þegar hún finnur mótstöðu andrúmsloftsins.

 

Líkaminn sem verkfæri

Hin virka vera líkamans einkennist eins og við sjáum hér af getunni til verklegrar hagnýtingar sjálfs líkamans. Þegar hann hefur einu sinni lent inn á eins konar samfelldan átakavettvang gagnvart umhverfi sínu nýtir hann í raun og veru aðgerðarleysi eigin líkama í þeim tilgangi að breyta honum  í verkfæri, til dæmis til varnar eða árásar. Daniel Stern[iv] segir að nýburinn geti mjög snemma ákveðið að loka fyrir áhorf sitt eða loka augunum og sýna þannig viðnám gegn þeim fullorðna sem horfir á hann með föstu augnaráði. Það er einmitt mótstöðuleysi líkamans, til dæmis þyngd hans eða lengd, sem umbreytast í tæki, það er að segja meðul til viðbragða og virkni.

Þessi meðfærileiki (strumentalità) líkamans, sem kemur í ljós við líkamlega virkni hins lifandi, verður forleikurinn að frekari áformum um útvíkkun yfir á það svið sem er utan líkamans. Það er upphafið að þróun sem mannfræðingarnir kalla  esosomatíska[v] eða útverða (aðfengna) þróun. Eins og margoft hefur verið bent á, þá á hún sér mörg dæmi meðal dýranna.

Rétt eins og reynslan af óvirkninni sem hinn lifandi verknaður mætir í umhverfi sínu verður kveikjan að skynjun hins virka líkama, þá gerist það sama með afturvirkni hins aðfengna stoðtækis: Það vekur upp skynjun hins tæknilega meðfærilega líkama (corpo strumentale). Þannig verður til ný markalína afturvirks mismunar: líkaminn skynjar sig nú sem „innri“ vaka sinna útverðu athafna.

Það er í þessari vitundarvakningu sem við verðum að greina fyrsta mismuninn á hinum virka líkama og mótstöðuleysi þessa ytri líkama, þessara líflausu og óvirku aðkomutækja eða meðala. Það er hér sem við finnum ættfræðilegan uppruna „hlutarins“, hins „ytri hlutar“ eins og hann er kallaður í daglegu tali. [vi] Hér birtist okkur mismunurinn eins og menn upplifa hann og reyna. Það er mismunur sem er ekki enn orðinn meðvitaður eða skilgreindur sem slíkur, því einskær aðfengin framlenging verknaðarins framkallar ekki ennþá þau stoðtæki sem ekki bara framlengja sjálfan gerandann, heldur verða „tákngerving“ hans og staðgengill (rappresentazione).

 

Líkaminn sem stoðtæki

Með tilkomu stoðtækisins (protesi) á sér stað sjálfspeglandi (autorappresentativo) ytri tilfærsla. Það felur í sér að tiltekin ytri framlenging færist yfir á hjálpartækið (supporto). Eitthvað tilfallandi og einangrað í eigin efnisgerð verður suppoint pro, fær stöðu staðgengils, og skilur þannig eftir sig ummerki (fa segno). Hér erum við komin að upphafi og rótum afstæðis merkjanna (relazione segnica) og þar með að rótum allrar rökfræði (eins og Peirce sagði)[vii]. Hér upphefst  því vinna konungsríkis mannshugans með merkin og um merkin.

Tilkoma „framlags staðgengilsins“ („la rappresentazione“) felur bæði í sér upphaf heims vinnunnar og sér í lagi heims þekkingarinnar, eins og við höfum þegar minnst á. Efnislega erum við að segja að upprunalegur verknaður mannshugans eigi sér stað við gagnvirkni þess stoðtækis sem „skilur eftir sig ummerki“ (fa segno), en ekki hið þveröfuga, eins og almennt er haldið fram.

Þetta aðfengna áhald stendur fyrir geranda heimsins (l‘agente del mondo). Það gerist með tvennum hætti: bæði með því að framleiða áverka (effetti) á heiminum og með því að meðtaka áverka frá heiminum, eða öllu heldur með því að merkja heiminn gerandanum. Gerandinn þekkir þannig sjálfan sig, þökk sé virkni meðalsins, það er að segja gagnvirkni stoðtækisins. Í rauninni þekkir maðurinn sjálfan sig í gegnum vinnuna (eins og Hegel hafði skilið það með sínum hætti)[viii]. Við vitum að það er eiginleiki og einkenni vinnunnar að skilja eftir sig afgang eða umframleifar.

Það er við uppruna vinnunnar sem við mætum tungumálinu, það er að segja þessu fyrsta stoðtæki sem við getum þekkt með nafninu. Þegar við segjum „tungumál“, „nafn“ eða „sögn“ vitum við að ekki er um misskilning að ræða. Svo auðgreinanlegir og auðmetnir hlutir birtast auðvitað í mun síðkomnari myndum innan þekkingarsviðs málvísindanna. Þegar um upprunann er að ræða verðum við að leggja á okkur þau ímynduðu vinnuferli fráhvarfa og bakslags sem hafa með samhæfingu og hreyfigetu líkamans að gera, með látbragðið, svipbrigðin og einnig undanbrögðin, hafa með þau merki að gera sem röddin myndaði, hina tæknilegu samvinnu, og með samskiptamátann (la comunicazione intersoggettiva). Við þurfum að ímynda okkur eins konar „ritmál“ reynslunnar á vegferð sem gaf „áverkum“ (incisioni) merkjanna líf í gegnum sín tilteknu meðul (hendurnar, andlitin, líkamann í verki og hin aðfengnu stoðtæki hans).

Sjálft tungumálið er reyndar aðfengið stoðtæki, því sá tilkomustaður þess, eða öllu heldur sú rökræna merking sem gerir ummerkin að merki (segno) en ekki einskærum áverkum (segnale) eru hin almennu og samfélgslegu andsvör. Þegar allir aðilar samfélagsins taka inn á sig þessi raunverulegu og mögulegu andsvör verður til andleg samsemd (intersoggettività) eða það sem Hegel hefði kallað „hinn hlutlægi andi“, þetta sem verður til þegar við segjum „við“. Það er hinn „ytri efnisþáttur“ sem myndar og verður uppspretta sérhvers „persónulegs innri efniskjarna“[ix]

Röddin er í fyrstu einskært látbragð og sem slík einungis framlenging líkamans: tæki til að senda út skilaboð. Síðan verður hún umgjörð og boðberi merkinga, það er að segja hefðbundinna sameiginlegra svarmerkja. Í þessu skyni verður hún að aðlaga sig með skilmerkilegum hljóðmerkjum, þannig að „allir þarna úti“ megi skilja boðbera merkinganna. Þessir boðberar (veicoli), sem eru innbyrtir með endurkasti talandans, gera hann einmitt að talsmanni og þar með að andlegri sjálfsvitund.

Hin almennu tilsvör umrita þannig sjálf sig og mynda lagskipt setlög í hinni merkingarbæru rödd (vox significativa) hvers og eins, það er að segja í þessari skilmerktu  rödd (eins konar huglæg „hönd“). Þannig verður smám saman til sá hlutlægi og sameiginlegi arfur er myndar það sem De Saussure kallaði la langue: útlægt forðabúr merkingarbærra nefnara (significanti) eða „talsmáta“.[x]

Allar talandi verur innbyrða talsmátana allt frá fæðingu. Þessi inntaka verður kveikjan að orðunum, það er að segja að persónulegri tjáningu hins talandi. Tungumálið kemur þannig á undan hinum talandi (með „máltökunni“) eins og Heidegger hafði skilið það, þegar hann hélt því fram að talendurnir séu upprunalega í tungumálinu en ekki öfugt.[xi] Nokkuð sem sýnir glögglega hið aðfengna eðli tungumálsins: tungumálið kemur á undan hinum talandi einstaklingi sem heildarsafn þegar mótaðra „málfarshefða“. Þær verða þó einungis „virkar“ og „lifandi“ þegar þær samtvinnast virkri tjáningu einstaklingsins sem hefur holdgerst innan tiltekins samfélags. Þetta „tiltekna samfélag“ er hefðin, það er að segja hin aðfengna (esosomatica) óvirkni (inerzia) hins málfarslega stoðtækis.

Þessi flókni samskiptaumgangur sýnir okkur einmitt þá órafjarlægð sem tiltekin vél þyrfti að yfirstíga, ætti hún að geta „talað“. Enginn vélbúnaður virðist þess reyndar umkominn að ganga í gegnum það óendanlega „líffræðilega“ og „samfélafslega“ ferli sem liggur að baki orðsins. Tiltekin vél getur einungis „endurleikið“ skynjuð tilsvör á grundvelli tiltekins úrtaks af merkingum (sem óhjákvæmilega er mjög takmarkað) og hefur verið valið með sértækum hætti úr tungumáli sem hefur verið smækkað niður í einskært orðasafn.

Hið aðfengna (esosomatica) eðli tungumálsins verður engu að síður til þess að mynda nýjan „tilbúinn“ líkama, sem Husserl kallaði á þýsku Sprachleib, lifandi tungumálslíkama, og Merleau-Ponty tók upp eftir honum. Við getum reyndar bætt því við, að þessi líkami er samtímis Sprachkörper[xii], „hlutgerður“ tungumálslíkami. Hann er, eins og við höfum sagt, lager eða geymsla, dótakistillinn sem geymir tilfallandi tjáningarhefðir.

Iðkun tungumálsins sem bókstaflega aðfengins stoðtækis hefur í för með sér skírnarathöfn sjálfsins. Þetta stoðtæki verður jafnframt verkfærið sem við notum við úrvinnslu þeirra lýsandi greininga sem varða nafngiftir reynslunnar. Þannig verður  allur „heimurinn“ til með sínum þekktu „hlutum“, ekki bara þeim virku (eða „virkilegu“). Þegar hlutirnir hafa einu sinni fengið nafn undir merki þekkingar verða þeir áfram teknir með í útreikningana í nýju samhengi og þannig áfram í það óendanlega.

Við höfum lagt áherslu á þá staðreynd að ávallt sé til staðar tiltekin „ritun“, tiltekið ritsafn sem fylgir hinni lifandi iðkun orðanna. Samtímis gerist það í gegnum fastmótun setninganna og orðanna að orðin verða að foskriftum  tiltekins ritháttar með sérstökum hætti: rithættir málfarslegra merkinga og merkingarbærrar raddar. Hér opnast fyrir okkur óendanleg vídd fyrirbæra og reynsluheima, allt frá hellaristum steinaldarmenningarinnar til nútíma ritunarkerfa. Þessu fylgja ný og að mörgu leyti afgerandi þekkingarsvið, þar sem vinnan felst einmitt í því að „kunna skriftina“, að yfirfæra heildarreynsluna af heiminum á ritmálið. Heimurinn verður endurmótaður í skriftinni, við gætum sagt að hann væri „þýddur“ yfir á ný alheims-landakort („fogli mondo“) sem ekki bara skrásetja heldur líka forrita reynsluna „í ímynd“ („in figura“).

Eðli skriftarinnar sem stoðtækis tekur með sérstökum hætti til sambærilegs skilnings á hinni efnislegu umgjörð (supporto).[xiii] Rétt eins og við sögðum áður um stoðtækið, þá á það einnig við um skriftina að efnislegt stoðvirki hennar (eða umgjörð / „supporto“) getur bæði falist í framleiðslu og móttöku: að framleiða merki í heiminum (til dæmis tattú-flúr á líkama) eða taka við merkjum frá heiminum (spor eftir dýrin í sandinum). Merki ritmálsins eru áberandi framleiðandi þar sem þau standa fyrir tjáningarfulla iðkun tungumálsins.

Öll þau merki sem mynda umgjörð (fanno del supporto) með vali á innskriftarstað fyrir atburði heimsins eru hins vegar móttækileg: umgjörðin myndskreytir heiminn. Við getum í þessu samhengi hugsað til filmunnar í ljósmyndavélinni, sem tekur á móti ljósinu, eða til sjónaukanna eða smásjánna.

Þessi merking móttækilegrar virkni „umgjarðar“ ritunarinnar (eða „hjálpargagna“ hennar) færist hins vegar yfir á allan heiminn og alla „hluti“ hans. Frá þessu sjónarhorni geta allir hlutir heimsins, smáir sem stórir, talist „móttækileg stoðtæki“: staður þar sem merki atburða heimsins safnast saman og sýna sig. Það er með þessum hætti sem ritunin verður hodgerving allrar þekkingar og allra vísinda með sinni tvíþættu móttöku og framleiðslu er tengist hinum ólíkustu stoðvirkjum (supporti).

Allt verður þannig að sporum eða ummerkjum um eitthvað annað í hinni almennu reynslu, verkefni fyrir túlkunarvinnuna. Slík vinna, sem felst í samfléttun óteljandi starfsgreina, getur af sér skynjanir og hugmyndir heimsins. Segja mætti að sérhver hlutur sé tilefni mögulegs alheims-landabréfs (foglio mondo) og tiltekinnar túlkunarleiðar.[xiv]

Þetta túlkunarstarf, sem hefur gagnverkandi áhrif á gerandann, kallaði fram í honum hugmyndina um næman og skynugan (percettivo) líkama, sem annars væri óhugsandi. Það merkir skynnæman og túlkandi líkama (þar sem skynjunin túlkar og setur sjónarhorn á heiminn). Allt er þannig skrifað á reikning þessarar einstöku umgerðar (supporto) skriftarinnar, sem geymir hugmyndina um líkama sem skynjar og skilgreinir í senn, þennan líkama sem dýrið er sér ekki meðvitað um að hafa, og hefur í raun alls ekki í þessum skilningi.

Hugmyndin um skynugan líkama (corpo percettivo) er þannig afsprengi líkama stoðtækisins, eða þess að gera líkamann að stoðtæki, með sérstöku tilliti til almennrar hugmyndar um ritlistina (scrittura). Hér finnum við rætur margra heimspekilegra hugmyndaflokka er varða skynjun og skilning (sentire og percepire) sem voru álitnir raunverulegir í sjálfum sér. Allt var í síauknum mæli skrifað á reikning hugverunnar (soggetto): esso est percipi (að vera er að vera skynjaður)[xv]. Sá ættfræðilegi uppruni og tilbúningur þessarar niðurstöðu sem við höfum hér dregið gróflega fram í dagsljósið reynist hins vegar dulinn og falinn af gagnvirkum eigin áhrifum.

 

Líkaminn sem vélmenni

Hinn sjálfvirki líkami er í sjálfum sér virkt stoðtæki, það er að segja tæki sem er sjálfvirkt og utanborðs. Fyrsta mynd þess er einmitt ritunin, því hið ritaða er eins og vél sem framkallar fjarvirkni í tíma og rúmi miðað við verknað skriftarinnar.

Í hinum sjálfvirka líkama gerist verknaðurinn innan stoðtækisins. Hið beina samband gerandans og hins utanverða tækis rofnar. Ekki er lengur til staðar nein „aðferðarfræðileg“ samfella. Sú milliliðalausa leið er rofin. Vélmennið hreyfir sig í raun og veru sjálft í þeim skilningi að það hefur innbyrt eigin virknilögmál, eins og við töluðum um í upphafi.

Þetta felur í sér að í vélmenninu hefur „áforminu“ verið  útvistað og það framandgert. Þar sem meðalið er í fjarlægð er „áformið“ líka framandgert. Ef við þýðum áform verknaðarins yfir á sitt hugmyndalega ritmál þá er það orðið að forritun. Þannig er skrefið stigið frá hinu aðfengna (esosomatico) til hins sjálfvirka. Forritunin verður þannig holdgerving aðferðarinnar, meðalsins, „framkvæmdarinnar“. Þannig er stoðtækinu endanlega útvistað sem umgjörð og hjálpartæki (supporto) verknaðarins.

Í þessum skilningi er vélmennið ekki annað en stoðtæki ritunar er varðar sjálfvirk áform. Vél sem starfar og vinnur án beins og milliliðalauss sambands við mannlega athöfn, það er að segja óháð virkri nærveru mannsins, auðvitað að því marki sem forskriftin leyfir.

Horfum nú til gagnvirkra áhrifa þessarar vinnu vélmennisins. Við getum sýnt þau með tveim dæmum.

Fyrra tilfellið: þar sem virkni vélmennisins er „vélræn“.

Þessi virkni framkallar þá í gagnvirkni sinni hugmyndina um vélrænan líkama. Endalok þeirra heimsmyndafræða er líta á alheiminn sem stóra lifandi skepnu og upphaf hinnar vélrænu myndar af alheiminum. Alheimurinn sem hin mikla vél (Laplace) og maðurinn sem vél (Lamettrie)[xvi]. Vélbúnaðurinn er þannig afurð vélrænnar vinnu eins og segir í snilldarlegri útleggingu René Descartes.

Seinna tilfellið: Í því tilfelli þegar virkni vélmennisins er „rafræn“.

Í gagnvirkni sinni framkallar þessi virkni hugmynd um „taugafræðilegan“ líkama er lýtur stjórn „miðtaugakerfis“. Héðan fáum við allan hinn undurfurðulega orðaforða og myndlíkingar  sjálfstýrifræðanna (cybernetica) og taugalíffræðinnar.

Þetta er hið raunverulega vélmenni: hin tilbúna vél stýrifræðanna sem er gædd bakflæðisstýringu eða feedback. Hér eru „upplýsingarnar“ í fyrirrúmi á milli miðjunnar og jaðarsins. Beint út sagt merkjagjöf orkuflæðisins. Fyrir tilverknað gagnvirks flæðis verður upplýsingin hinsta ímynd vinnunnar (reyndar er orðið robot af slavneskum uppruna og merkir einmitt „vinna“). Hinsta ímynd vinnunnar verður þannig hinsta ímynd þekkingarinnar, en markmið hennar er tæmandi þýðing á skilningnum (intelligenza) yfir í „meðalið“ eða tækið.  Þessi gjörningur skilningsins (þ.e.a.s. virkjun tölvugreiningarinnar) er í sjálfu sér meðal eða miðill og því á engan hátt undarlegt, eða tilefni hneykslunar eða áhyggju að hann sé þýðanlegur í hið óendanlega.

Hinn einskæri verknaður (t.d. sá sem við sjáum í verki hjá dýrunum) er í fjarlægð en hefur ekki fjarlægð. Verknaðurinn er bein og milliliðalaus framkvæmd á sjálfri fjarlægðinni. Hún er samfella sem er stöðugt að verki. Ímyndið ykkur örninn sem steypir sér yfir lambið úr háflugi sínu. Gjörningur hans er samfella sem verður hvorki aðgreind né sundurgreind. Sjálft eðli þessa gjörnings umritar alla fjarlægðina sem verður virk brú, miðill sjálfs sín í verki. Áformin eru öll fólgin í þessari fellibrú og líkaminn eru eitt lifandi tæki, lifandi útfærsla án samfelluútreiknings, það er að segja án þeirrar útvistunar sem hið aðfengna stoðtæki gerði mögulega. Sama getur gerst með manninn þegar hann hleypur upp tröppurnar í stiganum heima hjá sér, án þess að telja þrepin og án þess nokkurn tímann að gera sér grein fyrir fótaburðinum: maðurinn flýgur upp stigann í samfelldum hringmynduðum takti. Hér eru áformin einfaldlega virkjuð, ekki meðvituð, og gerandinn fellur fullkomlega að þeim í eins konar frumlægu meðvitundarleysi og „sakleysi“.

Áformin opinbera sig gagnvart sjálfum sér um leið og við tökum aðfengin stoðtæki í gagnið. Það er einmitt gagnvirknin á gerandann sem leiðir í ljós muninn á lifandi líkama (Leib) og líflausum líkama (Körper) eða jafnvel á hlutnum (Ding), einskærri „hlutlægri“ nærveru.

Hér höfum við fyrir okkur tæki sem er hlutlaust (passivo) og hefur í sjálfu sér engin áform, einskæran hlut, það er að segja meðal en ekkert markmið. Þegar það virkar samkvæmt áformum þá „sundurgreinir“ það og „flokkar“ fjarlægðina sem verður þá milliliður (medio).

Annars vegar er fjarlægðin ávallt til staðar og myndar eitt með áformunum eða samsamast henni, hins vegar er fjarlægðin fólgin í mismuninum sem tækið hefur reiknað út. Hún er hér, en aðeins sem eigin helmingur, eða helmingur helmingsins, það er að segja helmingur helmings helmingsins og svo framvegis.

Þetta líflausa tæki er sundurgreinandi (analitico) og án heildarsýnar (sintetico) þar sem eðli þess er „hárnákvæmt“ (puntuale) sem merkir að hægt er að sundurgreina það í hið óendanlega. Þversögn Zenons er ekki lengur nein ráðgáta[xvii]: sem dýr mun Akilles örugglega ná skjaldbökunni: sjáið bara, hann hefur náð henni! Þessi árangur verður hins vegar ekki „borðlagður“ með viskunni (sapiens) því hún getur ekki skýrt hann öðru vísi en sem þversögn.

Sérhver tæknilegur hluti býr samkvæmt sundurgreinandi eðli sínu yfir óendanlega mörgum frumpörtum. Í raun og veru eru þessir frumpartar lögmálsregla eða eining til uppskiptingar en ekki „hlutur“. Það er dæmigerður og mjög útbreiddur misskilningur að líta á þessa „frumparta“ sem raunverulega „hluti í sjálfum sér“. Menn hugsa eins og horft væri á myndaramma í kvikmynd: línuleg hreyfing vélarinnar endurskapar skynjun samfellunnar í hinni lifandi framvindu. Þessi skynjun, sem veitir svo áhrifamikla og sannfærandi mynd atburðarins, styður þá við þann skilning að „í raunveruleikanum“ eigi hlutirnir sér stað í myndrömmum sem röð „frumparta“. Með þessum hætti væri sú sjálfsblekking möguleg, að hægt væri að leysa eftirhermuvandamál vélmennisins og framkalla nákvæma  skynjun samfelldrar og sjálfsprottinnar hreyfingar.

Að lokum þetta: Skilningurinn á áformuðu markmiði felur í sér að tekið sé mið af tæki, meðali, líffæri. Þar sem ekki er um markmið að ræða er heldur ekkert meðal. En það sem er tæknilegt (strumentale) er óhjákvæmilega sundurgreinanlegt (analitico) en ekki heildstætt (sintetico), deilanlegt (en ekki samfellt). Því er tækið líflaust, ekki sjálfvirkt. Við sjáum því að það er augljóslega tvíræð fullyrðing að tala um „sjálfvirk“ tæki. Tækið hreyfir sig alls ekki af sjálfsdáðum. Öllu heldur er átt við að tækið hafi ekki frelsi til að breyta virkni sinni, að virkni þess sé afurð „sjálfstýribúnaðar“.

Það eru því hin markmiðsmiðuðu áform lifandi athafnar sem kalla á og búa yfir sundurgreiningar- og deilingarmætti. Athöfnin er gædd þessum eðlisþætti því hún upplifir veru sína í fjarlægð og í formi þess að búa yfir óbrúuðu millibili. Málið er að áform og markmið eru hvorki hlutlæg né huglæg: þau eru lifandi. Það hlutlæga er hins vegar meðalið/tækið. Það er í raun afurð „hlutgervingar“ (oggettivazione) athafnarinnar, það er að segja afurð úthverfrar og afturbeygðrar virkni (rétt eins og beygingar í málfræðinni: hver – um hvern – frá hverjum – til hvers…)

Nú sjáum við greinilega hvers vegna vísindamaðurinn hefur rétt fyrir sér þegar hann staðhæfir „hlutlægni“ aðferðar sinnar. Það felur hins vegar ekki í sér að hin hlutlæga aðferð hafi sagt skilið við alla markmiðshugsun. Aðferðin styður einfaldlega við ímynd hins hlutlæga sannleika, en innan huglægra áforma. Með því að smækka sérhvern hlut kerfisbundið niður í meðal sem sundurgreinanlega og aðskiljanlega hluta (eins og önnur regla Descartes segir til um) hefur vísindamaðurinn þegar gengist undir markmið er ættu sín meðul í hinum náttúrlegu og tillbúnu líkamspörtum. Markmið sem felast í frægum orðum Nietzsche, hinum tæknilega „vilja til valds“.

Í þessum skilningi er réttmætt að halda því fram að vísindin séu frá upphafi nátengd trúarbrögðunum, það er að segja hugmyndinni um „frumglæðinn“ eða skapara alheimsins (idea Demiurgica). Ef Guð hefur skapað heiminn og veitt okkur skilningsgáfu sem er honum samkvæm,  þá erum við fullburða til að þekkja heiminn og líka til að endurskapa hann ef því er að skipta. Eins og við vitum, þá var þetta einmitt líking Galileo Galilei, sem kaþólska kirkjan hefur nú fullkomlega lagt blessun sína yfir, þó hún hafi áður hafnað henni.

Þannig eru vísindin tengd vélmenninu óleysanlegum böndum. En það er samkvæmt þeirri grundvallar reglu að smækka sérhvern líkama eða hlut í sundurgreinanlegt og endurgeranlegt meðal. Talandi dæmi um þessi tengsl finnum við nú til dags í hugsunarhætti og vinnuaðferðum atferlisfræðinganna. Reyndar vitum við að atferlisfræðin eru vísindi sem eiga Descartes fyrir lærifaðir.[xviii]

Ef við útilokum tilgátuna um „frumglæðinn“, hinn „vinnandi“ Guð, þá höfum við á hinum vængnum leiðir Giordano Bruno, Baruch Spinoza og Friedrich Nietzsche: hina „guðdómlegu náttúru“, og hina „hreinu náttúru“[xix]. Tilgáta Platons um Frumskaparann sem Guð skilningsgáfunnar (rökstudd sérstaklega í Sófistanum) leiðir okkur reyndar í fráleitar ógöngur. Guð sem gæddur er skilningsgáfu vinnur augljóslega á grundvelli markmiða (það er sá skilningur sem við leggjum í orðið „skilningsgáfa“). En ef hann starfar á grundvelli markmiða, það er að segja á grundvelli skilningsgáfu sinnar, þá er skilningsgáfa hans bundin tækinu og meðalinu eins og við höfum þegar bent á, nokkuð sem er í raun of mannlegt, en lítið guðdómlegt.

Ef upphafið er rakið til „náttúrulegs“ gjörnings, þá felur það í sér gjörning sem þarf hvorki að vera gæddur skilningsgáfu né vera skiljanlegur á grundvelli mannlegra markmiða eða raka. Þar væri um að ræða gjörning eða atburð er hefði markmiðið í sjálfum sér eða væri einfaldlega markmið í framkvæmd.  Slíkur verknaður væri hins vegar ótækur til nokkurrar sundurgreiningar þó hann snúist hvorki gegn henni né andmæli. Við getum þá sagt að greiningin, rétt eins og sérhver mismunur, sé honum óviðkomandi.

Slíkur verknaður heldur áfram í markmiði sínu, hann er holdgerving fjarlægðarinnar með fljótandi hætti, sjálfsprottinn og bráðvirkur. Holdgerving hans tilheyrir hvorki tímanum né rýminu, því hann er alltaf hér. Það sem vélmennið reynir að líkja eftir (hið „náttúrlega“) er einmitt þetta sjálfsprottna flæði, það er að segja lífið sem hrein og óspegluð vera í athöfn. Við gætum í þessu samhengi stuðst við hugtakið „eilíft líf“[xx], sem er líf orku-líkama (en-ergetico) án tíma eða rýmis, virkan líkama í fullri vinnu (ergon), þótt orðið „vinna“ eigi hér varla við, einnig það of mannlegt, allt of mannlegt.

Charles Chaplin: Modern Times, 1936

 

[i] Leib og Körper eru tvö hugtök úr þýsku sem vísa til þess tvíþætta eðlis líkamans sem hér er átt við: Leib er hinn lifandi líkami, Körper er hinn dauði líkami, einskær hlutur eða það sem við mundum kannski kalla „skrokkur“ á íslensku. Innsk. olg.

[ii] Hér vitnar Sini í  umfjöllun í fyrri köflum bókarinnar um „prikið“ sem dæmi um fyrsta verkfæri handarinnar og þannig sem fyrsta tækis mannsins til framlengingar og skilgreiningar á eigin líkama.Innsk. olg.

[iii] Sjá C.Sini: Distanza un segno. Filosofia e semiotica, Cuem, Milano 2006, cap.2.

[iv] Sjá: Daniel N, Stern: The interpersonal world of the infant – a view from psychoanalysis and development psychology, New York 1985.

[v] Hugtakið „esosomatískur“ er dregið af gríska forskeytinu eso- sem merkir „útverður“ eða „utan á liggjandi“ og nafnorðinu  „soma“ sem þýðir líkami. Hugtakið vísar þannig til þeirrar virkni sem á sér utanaðkomandi forsendu, til dæmis prikið sem aðfengna og útverða framlengingu handleggsins.

[vi] Sini vísar hér óbeint til þeirrar uppskiptingar sem René Descartes skilgreindi sem „res cogitans“ (hinn hugsaði hlutur) og „res extensa“ (hinn útverði hlutur), en þessi skipting var lögð til grundvallar vísindahyggju nútímans. Innsk.olg.

[vii] Það er ekki hugsunin sem býr í okkur, það eru við sem erum í hugsuninni, sagði Peirce

[viii] Hér er augljóslega átt við ímyndir herrans og þjónsins í Fyrirbærafræði Andans.

[ix] „sostanza personale interna“ – Um er að ræða „innri“ enduróm  hins „ytri“ enduróms sem verður til á undan tilkomu sjálfsvitundarinnar. Sbr. C.Sini: La mente e il corpo – Lezioni universitarie, Campus Cuem, 1998, bls. 95-124

[x] Sbr.: Ferdinand de Saussure: Course in general linguistics, NY, 2011. Innsk. olg.

[xi] M.Heidegger: „Maðurinn lætur eins og hann sé skapari og meistari tungumálsins þegar tungumálið er í raun og veru húsbóndi mannsins.“ Innsk. olg.

[xii] Sini vísar hér í þann greinarmun sem gerður er í þýsku tngumáli á Körper (=skrokkur, dauður eða hlutgerður líkami) og Leib (=lifandi líkami). Innsk. olg.

[xiii] Hugtakið „supporto“ hefur sérstaka merkingu í öllum skrifum Carlo Sini, þar sem það er notað í víðari en um leið sértækari skilningi en tíðkast. Venjulega merkir þetta hugtak „undirstöðu“, það sem hlutirnir hvíla á og það sem ber Þá uppi. Einnig getur það staðið fyrir hjálpargagn, hjálpartæki eða stoðtæki. Í víðari og sértækari skilningi Sini verður supporto að þeim búnaði sem við notum t.d. við vinnu okkar. Það er augljóslega blaðið sem við skrifum á (sem efnisleg undirstaða textans), en getur líka verið hellisveggurinn, pennastöngin eða lyklaborðið eða tölvuskjárinn svo dæmi séu tekin. Eftir því sem lengra er grafið aftur í tímann í ættfærslunni verður „supporto“ að undirstöðu hins uppsafnaða menningararfs og þar með að frumforsendu mannsins sem slíks. Erfitt er að yfirfæra þennan víðtæka skilning í eitt orð á íslensku nema með fyrirvara. Orðið „efnisleg umgjörð“ er því ekki rétt þýðing, en vísar til þessa víðari skilnings, sem varla næst fram með hefðbundnum skilningi á íslenska hugtakinu „undirstaða“ þó hún hljómi sem bókstaflega rétt. Texti Sini skýrir skilning hans í framhaldinu. Innsk. olg.

[xiv] Hugtakið „Foglio Mondo“ (alheims-kort) hefur sérstaka þýðingu í öllu höfundarverki Carlo Sini, og ber annað hefti þriðja bindis heildarútgáfunnar Opere þennan titil: „Il foglio-mondo, La scrittura e i saperi (Jaca Book, 2013, 432 bls.) Í þessu riti gerir Sini tilraun til að rekja ættfræði þekkingarinnar í gegnum tilkomu merkjamálsins og tungumálsins. Hugtakið „foglio mondo“ hefur með þá örk að gera sem heimurinn setur mörk sín á í gegnum manninn frá upphafi vega til okkar dags. „Hvað sýnir il foglio mondo? Fyrst og fremst atburð merkingarinnar. Það er að segja hvarfapunktinn á milli hrifningarinnar og sannleikans“. Innsk. olg.

[xv] Þetta er fræg tilvitnun sem höfð er eftir breska 18. aldar heimspekingnum George Berkley og myndi þýða bókstaflega: „að vera er að vera skynjaður“. Staðhæfing sem myndi teljast grundvöllur sérhverrar hughyggju þar sem tilvera hins skynjaða er fólgin í skynjuninni einni. Innsk. olg.

[xvi] Sbr. J.O.de Lamettrie, ‚L‘uomo macchina e altri scritti, ritstj. G.Preti, útg. Feltrinelli, Milano 1973

[xvii] Þversögn Zenons um Akilles og skjaldbökuna er lýst í Eðlisfræðinni eftir Aristóteles. Hún hefur verið skýrð þannig (af J.L.Borghes) að hinn fótfrái Akilles veiti skjaldbökunni 10 m forgjöf í kapphlaupi þeirra, þar sem hann sé 10 sinnum fljótari. Á meðan hann hleypur 10 m. hleypur skjaldbakan 1 m. Á meðan Akilles hleypur næsta metra hleypur skjaldbakan desímeter. Akilles hleypur þá  desímeterinn en á meðan er skjaldbakan búin að hlaupa 1 cm og þannig koll af kolli í það óendanlega. Innsk. olg.

[xviii] Sbr,: C.Sini: L‘origine del significato, kaflinn „La verità dell‘umano e l‘etologia

[xix] Um er að ræða að „náttúrugera manninn“ þannig að „hin hreina náttúra“ verði „enduruppgötvuð“ og „frelsuð“: sbr.: F. Nietzsche: La gaia scienza“, (Die Fröhliche Wissenschaften) orðskviður nr. 109.

[xx] Sbr t.d. C.Sini: Del viver bene, Milano 2011.

%d bloggers like this: