HEIDEGGER, SINI OG ROVELLI UM EREIGNIS, TÍMANN OG VERUNA

Um atburðinn, tímann og veruna sem eru ekki, því þeir gerast

Inngangur
Um fallið ofan í orðagryfju Martins Heideggers og alvarlega tilraun til víðsýnni upprisu

 

Fyrir nokkrum vikum rakst ég á ritgerð á netinu, sem Ragnheiður Eiríksdóttir skrifaði til meistaraprófs í heimspeki við Háskóla Íslands 2011 og hefur titilinn „Viður-eign Verunnar – fyrirbærafræði Heideggers til bjargar mannkyninu“. Ritgerðin vakti athygli mína þar sem nánast enga umfjöllun er að finna á vefsíðum Háskóla Íslands um þennan heimspeking sem telja verður einn áhrifamesta heimspeking Vesturlanda á 20. öldinni, þannig að erfitt er að átta sig á evrópskri heimspekiumræðu í samtímanum án einhverrar þekkingar á kenningarsmiðnum sem boðaði „endalok heimspekinnar“ (sbr. Ritgerðina „Endalok heimspekinnar og viðfangsefni hugsunarinnar“ frá 1964). Þá var ritgerðin ekki síður forvitnileg vegna þess að meginefni hennar er túlkun á hugtakinu „Ereignis“, sem Heidegger taldi eitt mikilvægasta hugtakið í kenningasmíð sinni eftir „umsnúninginn“, þar sem hann hafði gefist upp á því upphaflega ætlunarverki sínu að skrifa seinna bindi höfuðverksins Sein und Zeit frá 1926. Þessi ritgerð vakti athygli mína vegna þess að það kallar á virðingarverða dirfsku og áræði  að skrifa meistaraprófsritgerð inn í það fálæti sem íslenskir heimspekingar hafa sýnt Heidegger, en leiðbeinendur Ragnheiðar voru þeir Páll Skúlason og Björn Þorsteinsson. Þá var sú tilraun Ragnheiðar líka forvitnileg að skýra hugmyndir Heideggers um atburðinn (Ereignis) með íslensku þýðingunni „viður-eign“.

Ég las því ritgerðina fullur áhuga og eftirvæntingar, en þó mér finnist framtakið enn vera lofsamlegt, þá verð ég að viðurkenna að hvorki þýðingartilraunin viður-eign né endanleg túlkunartilraun Ragnheiðar á hugtakinu Ereignis í kenningarsmíð Heideggers eftir stríð urðu til þess að lyfta þokunni, sem gjarnan hefur grúft yfir þessu orði, sem í öllum orðabókum er þýtt sem atburður á íslensku. Lesturinn varð hins vegar einnig til þess að ég fann til vanmáttar að setja fram beina gagnrýni á þessa annars skemmtilegu tilraun Ragnheiðar, sem aftur varð  til þess að ég steypti mér eina ferðina enn ofan í orðagryfju Heideggers, og fór að lesa þá ritgerð sem kannski var hin endanlega tilraun hans til að skýra mál sitt -eða skýra hvers vegna vandinn væri ósegjanlegur í formi yfirlýsinga. En þannig hljóða lokaorðin í fyrirlestrinum sem Heidegger flutti við háskólann í Freiburg árið 1962 og hann kallaði Zeit und Sein, en það er titill sem felur í sér endaskipti á titli höfuðritsins Sein und Zeit frá 1926.

Þessi ritgerð var fyrst gefin út í sérprenti í París 1962, en kom síðar út í heildarritsafni Heideggers undir bókartitlinum  Zur Sache des Denkens, 2007, en þetta ritgerðasafn átti ég í mínum fórum í ítalskri útgáfu frá sama ári undir titlinum Tempo e Essere.

Ítalska þýðingartilraunin er allrar virðingar verð, og mér fannst eins og búast mátti við að lestur hennar hjálpaði mér til að greiða úr þokunni sem lengi hefur umleikið Ereignis Heideggers. Ég saknaði þess sárlega að Ragnheiður skyldi ekki hafa lesið þessa mikilvægu ritgerð, og taldi að það hefði hjálpað henni til að létta á þokunni, en hún byggir túlkunarviðleitni sína einkum á bókinni Beiträge zur Philosophie (Vom Ereignis), sem Heidegger skrifaði á árunum 1936-38.

Ég var þó ekki allsendis viss um að ég hefði komist til botns í þessari ráðgátu (sem snertir verufræðina sérstaklega en einnig fyrirbærafræðina í evrópskri samtímaheimspeki) og fór því að leita þýska frumtextans á netinu. Það var gervigreind netsins sem vísaði mér á frönsku frumútgáfuna á þýsku í bókasafni Hönnu Arendt frá 1962, kver með eiginhandaráskrift höfundar til þessarar fyrrum ástkonu sinnar. Ég komst að þeirri niðurstöðu að ég yrði að geta þýtt texta Heideggers á íslensku til þess að skilja hann til fulls, og þá þurfti ég frumtextann, þótt ég sé alls ekki jafn læs á þýsku og ítölsku.

Til þess að gera langa sögu stutta, þá komst ég að því að frumtextinn var mér eins og orðagryfja og ég gæti aldrei ráðið við allt verkið innan skynsamlegs tímaramma. Að betur hugsuðu máli réðist ég til atlögu við síðasta þriðjung ritgerðarinnar og birti hana hér. Ekki til þess að skapa viðurkennda faglega þýðingu, heldur frekar til að prófa málgetu minnar íslenskukunnáttu í viðleitninni að hefja mig upp úr þeirrar orðagryfju sem ég hafði hafnað í.

Þessi glíma kostaði bæði tíma og vangaveltur sem ekki þarf að orðlengja hér, en vitandi það að  þessi tilraun mín til íslenskrar endursagnar gefur engan vegin „rétta“ mynd af frumtextanum, þá má á vissan hátt segja það sama um ítölsku þýðinguna og vafalaust aðrar, sem gefnar hafa verið út af viðurkenndum forlögum.

Sú spurning sem vaknaði hjá mér við lestur frumtextans var ekki síst sú, hvort hugsanleg væri að  orðaleikir höfundarins og tilraunir til að yfirstíga gildrur frumspekilegra yfirlýsinga ættu sér ekki mun auðveldari og beinni útgönguleiðir en frumtextinn býður upp á – eins og Heidegger gefur sjálfur í skyn: „Við hefðum kannski losnað með einu höggi úr öllum þessum erfiðleikum, úr öllum þessum flóknu útskýringum og öllum þessum ófrjóu vangaveltum, aðeins ef við hefðum fundið svarið við þeirri einföldu spurningu sem lengi hefur beðið eftir sínu svari:

„Hvað er atburðurinn (das Ereignis)?“

Atburðurinn verður að leyndardómi hjá Heidegger vegna þess að hann felur í sér og sameinar með sérstökum hætti tvo þætti: tíma og veru. Það sem þessir þættir eiga sameiginlegt er að þeir eru ekki, heldur gerast þeir og eiga sér stað. Tíminn er ekki án veru og veran er ekki án tíma. Skilningur „verufræðinnar“ á „verunni í sjálfri sér“ og „tímanum í sjálfum sér“ er hinn stóri misskilningur frumspekinnar í heild sinni, og undir lokin gerir Heidegger þá játningu að það form fyrirlesturs sem texti hans byggir á hljóti nánast óhjákvæmilega að fela í sér þessa villu að einhverju leyti.

Himnasending Carlo Sini á Youtube

 
Carlo Sini flytur innlegg sitt um Ereignis á Dante Chanel nýverið

Þessi niðurstaða mín var að einhverju leyti í mótun þegar upp sprettur á tölvuskjá mínum atvik sem varð eins og hugljómun: ítalska vefgáttin „Dante Channel – il futuro della filosofia“ sendi mér splunkunýtt innlegg ítalska heimspekingsins Carlo Sini í einhverja málstofu um erindi heimspekinnar í samtímanum undir yfirskriftinni „Ereignis – L‘evento e il suo rimbalso“. Ég sá það strax að ekki einu sinni vefgáttin sem kennir sig við skáldið Dante gat treyst fullkomlega á ítalska þýðingu sína á Ereignis.

En þetta innlegg Sini var mér eins og himnasending sem veitti mér ómetanlegan stuðning við upprisuna úr orðagryfju Heideggers. Það var eins og innleggið talaði beint inn í þau vandamál sem ég var að velta fyrir mér. Vandinn var hins vegar sá að þetta innlegg Sini var flutt blaðalaust fyrir framan tölvuskjá og því ekki um fyrir fram skrifaðan texta að ræða. Andagift þessa manns er með ólíkindum, ekki síst í ljósi þess að hann er fæddur 1933 og er því níræður á þessu ári. Þó Sini hafi ekki flutt lesinn fyrirlestur, heldur talað beint frá hjartanu, þá hafði YouTube fréttaveitan „hljóðritað“ orð hans og sett í tímaröð á þetta innlegg sem tekur um 30 mínútur auk svara við fyrirspurnum.

Að vel athuguðu máli ákvað ég að freista þess að endursegja þetta innlegg Sini sem eftirmála við þýðingarvanda minn á texta Heideggers. Sini gerir í raun það sem Heidegger var að biðja um, að losa okkur úr orðagryfjunni með einu höggi, með því að tala beint ú frá hjartanu.

Sini segir í upphafi að viðureign hans við Ereignis eigi sér langa sögu, og sú viðureign hafi ekki hafist við lestur á Heidegger, heldur við lestur á verkum bandaríska heimspekingsins Charles S. Peirce (1839-1914), sem oft hefur verið kallaður „faðir bandarísks pragmatisma“ en orðið „pragmatismi“ stendur í raun fyrir þá heimspekihugsun er byggir á „raunsæi“ og „gagnsemi“ (og er þar með laus við hugmyndafræðilega yfirbyggingu). Það eru einmitt áhrifin frá Peirce og hvernig hann hefur tengt þau evrópskri umræðu um fyrirbærafræði, verufræði, heimspeki tungumálsins og túlkunarheimspeki almennt, sem gera Sini að einum frumlegasta og áhrifamesta heimspekingi samtímans á Ítalíu á okkar tímum. Sjálfur hef ég notið þess að sitja tvö námskeið hans og lesa mörg verka hans, en hvergi hafði ég fundið jafn ótvíræða og samþjappaða samtengingu hans á Peirce og Heidegger eins og við sáum í þessu stutta og samþjappaða innleggi.

Þess vegna ákvað ég, uppljómaður af þessu innleggi, að freista þess að leggja við hlustirnar og endursegja orð meistarans, einnig með hliðsjón af „hljóðritun“ frá YouTube. Upptakan er á þessari vefsíðu YouTube: https://youtu.be/O8rUf8-GVuo?si=RSI_DnYdlRf6eAo5.

Sini byrjar að fjalla um þá augljósu hugmynd Peirce að sérhver túlkun byggi á annarri túlkun og leiði okkur í óendanlega keðju túlkana. Túlkunin í anda Peirce verður því skýringin á vandanum við að „túlka“ Ereignis. En Sini kynnir okkur fyrir nýju hugtaki sem hann setur í samhengi Ereignis og er „stacco“ á ítölsku. Þetta orð getur merkt „rof“, „fráhvarf“, „viðskilnað“ eða „slit“ á íslensku, allt eftir samhengi þess. Og Sini notfærir sér barnsfæðinguna til að skýra þetta hugtak og tengsl þess við sérhvern atburð. Atburð sem tengist óhjákvæmilega tíma og rými. Þegar nýburinn kemur úr móðurlífi á sér stað „stacco“ með róttækum hætti, og Sini lýsir fyrir okkur hvernig við getum búið til óendanlegar túlkunarkeðjur í báðar áttir hins línulega tímamynsturs til að „túlka“ orsök og afleiðingu atburðarins og bendir okkur á hvernig túlkunin endurkasti ávallt túlkunarmynd túlkandans sjálfs.

Þar er mikilvægt hugtak hjá Sini, sem er „il rimbalso“ og sýnir okkur hvernig endurkastið er ávallt „endurkast og afleiðing eigin uppruna“. Það sem við segjum á uppruna sinn í okkur sjálfum og endurómar þannig uppruna sinn í óendanlegri upprunakeðju sem skýrist best út frá túlkun Sini sjálfs á barnsfæðingunni. Lausnina á þessari þversögn, sem er um leið þversögn Heideggers í glímunni við Ereignis er að sögn Sini ekki að finna í þekkingarfræðilegri greiningu, heldur tengist hún því sem hann kallar „pratiche affettive“ og ég hef reynt að þýða sem „ virka tilfinningalega reynslu“, en kallar þó á dýpri skýringu. En út frá þessu vill Sini taka undir Heidegger um að það sé löngu tími til kominn að skilja við hlutgervingu verufræðinnar og frumspekinnar og skýringum þessara fræða á „hlutnum í sjálfum sér“. Þessi villa frumspekinnar er að mati Sini „uppfinning tungumálsins“ á Vesturlöndum, mikilvæg uppfinning að sínu marki er liggi til grundvallar allrar tækni og „vísindalegri hugsun“, en leiði okkur framhjá þeim fallvaltleika hlutanna sem gerir það að allir hlutir breytast með tímanum og jafnvel píramídarnir í Egyptalandi eru ekki þeir sömu í dag og þeir voru í gær, hvað þá fyrir 3000 árum.

Mikilvægasta niðurstaða Sini felst í þeim skilyrðum sem öll mannleg viðleitni til skilnings á heiminum er háð og tengist jarðarmöndlinum eða snúningi og halla öxuls jarðarinnar, sem við erum háð þó hann virki hvorki á Mars né Venusi.

Annað skilyrðið er fallvaltleiki mannsins og að sérhver mannvera talar út frá eigin aldursskeiði og reynslu.

Þriðja ófrávíkjanlega skilyrði allra túlkana mannsins á atburðum og sannleika tilverunnar er sú staðreynd að við tilheyrum málsamfélagi sem við höfum ekki smíðað sjálf, tungumálið talar okkur, og það gera líka fjölskyldutengslin og þjóðmenningin sem við búum við og eru ekki í okkar höndum.

Ég læt þetta nægja um þetta munnlega innlegg Sini, sem „talar frá hjartanu“ sem hans „virka tilfinningalega reynsla“ er hefur ekkert með frumspeki og verufræði að gera.

Skammtafræði tímans og Carlo Rovelli

En þetta ferðalag mitt um tímann og veruna er ekki búið, því þegar ég var búinn að fá þessa skýringu Carlo Sini á því hvernig „atvikið atvikast“ (das Ereignis ereignet) þá kemur upp í huga mér bók sem ég las í sumar um tímann eftir ítalska eðlisfræðinginn Carlo Rovelli. Og allt í einu sá ég fyrir mér hvernig hugmyndir Heideggers og Sini um tímann og verunnar geta fallið saman við nýjustu hugmyndir eðlisfræðinnar um „skammtafræðin“, sem segja okkur eins og Heidegger að tíminn sé ekki heldur gerist á mörgum ólíkum sviðum og sé því einungis til út frá tilteknum afstæðum. Carlo Rovelli er að ég held meðal kunnustu eðlisfræðinga samtímans, nú á besta aldri og gegnir prófessorsstöðum í Frakklandi og Bandaríkjunum í skammtafræðunum um tímann, alheiminn (cosmos) og smáheiminn (microcosmos). Lestur bókarinnar um tímann var mér hugljómun í sumar, en nú er ég búinn að tína bókinni í bókasafni mínu. En þegar ég leitaði að myndbandi Rovelli um tímann, þá fann ég þennan snilldarlega TED-fyrirlestur á YouTube, sem skýrir fyrir okkur hvers vegna tíminn sé ekki til: það er engin tími til í sjálfum sér, hins vegar eru til margir tímar sem allir byggja á afstæðum eða „skilyrðum“ eins og þeim sem Carlo Sini fjallar um. Þessi einstaki fyrirlestur er fluttur á ítölsku en er talsettur á ensku. Ég treysti mér ekki til að þýða hann, enda styðst Rovelli við sviðsmyndir og látbragðslist, en fyrirlesturinn tekur saman stórar hugmyndir með afar skýrum hætti á einungis 15 mínútum. Fyrirlesturinn má finna á þessari vefsíðu: https://www.youtube.com/watch?v=xeHHjGKwZWM

 

VIÐUREIGN HEIDEGGERS VIÐ EREIGNIS
-atburðinn sem samtengir tíma og veru
Seinni hluti ritgerðarinnar ZEIT UND SEIN frá 1962

(Tilraun til að endursegja hið ósegjanlega í texta Martins Heideggers um „Ereignis“ frá árinu 1962 : Martin Heidegger: Zeit und Sein, En hommage à Jean Beaufret, útg. PLON, Vortrag gehalten am 31. Januar 1962 im Studium Generale der Universität Freiburg i. Br. Frumtextinn var fenginn af vefsíðu bókasafns Hönnu Arendt, og má nálgast hann í gegnum þessa Qr-mynd :

Endursögnin er unnin með hliðsjón af ítalskri útgáfu Corrado Badocco: Tempo e Essere, útg. Longanesi, Milano 2007.)

………………………..

… Tíminn er ekki. Hann er gefinn (Es gibt die Zeit). Gjöfin sem gefur tímann markast af nándinni sem hafnar og varðveitir (der verweigernd-vorenthaltenden Nähe). Hún býður fram opnunina í rýmis-tíma, en varðveitir einnig það sem þegar hefur verið afskrifað sem hið liðna, en er varðveitt í hinu ókomnar.

Gjöfin sem færir hinn sanna tíma ákvarðast af nánd sem felur samtímis í sér hafnandi-forvörslu.[i]  Hún býður fram hið opna sem felst í tíma-rýminu og varðveitir það sem hið þegar orðna hefur afskrifað og það sem verður varðveitt í hinu ókomna. Við köllum Gjöfina sem hinn eiginlegi Tími býður fram grisjandi og varðveitandi framlag (Reichen)[ii]. Þar sem framlagið er sjálft gjöf, þá er felst í hinum eiginlega Tíma. Að því marki sem framboðið sjálft er gjöf gjafar falin í hinum eiginlega tíma.

En hvar er tíminn gefinn og tíma-rýmið? [iii]

Jafn aðkallandi og slík spurning kann að virðast við fyrstu sýn, þá leyfist okkur ekki að spyrja þessarar spurningar á þessum forsendum, forsendum tiltekins „hvar“, eða tiltekins staðar tímans. Því sjálfur hinn eiginlegi tími – eða hinn auðgaði og opnaði heimavöllur (Bereich) þess þrefalda framboðs er takmarkast af aðvífandi nálægð – , þessi eiginlegi tími er sú frumlæga staðsetning (die vorräumliche Ortschaft ) sem ein  gæti boðið upp á möguleika staðsetningarinnar“..

Vissulega má segja að allt frá árdögum heimspekinnar, og í hvert skipti sem hún hefur hugleitt tímann, þá hafi einnig verði spurt  hvar honum sé ætlaður staður. Í því samhengi hefur fyrst og fremst verið vísað í hinn útreiknaða tíma, skilinn eins og ferlið sem myndar samfellu í framhaldi einnar stundar til annarrar.

Því var lýst yfir, að hinn tölusetti tími, sem við beitum við útreikninga okkar, gæti ekki verið án ψϑχή (psyke), án animus, án sálar, án vitundar og anda. Tíminn er ekki gefinn án mannsins. En hvað þýðir þetta „ekki án“? Er maðurinn sá sem gefur tímann, eða er hann sá sem tekur á móti honum? Og ef maðurinn er sá sem tekur á móti tímanum, hvernig gerir hann það þá?

Er maðurinn fyrst og fremst maður sem tekur á móti og leitar til tímans við hvaða tækifæri sem gefst og á hvaða augnabliki sem er?

Hinn sanni Tími felur í sér nánd þess þrefalda framboðs opnunar (lichtenden Reichen)  er sameinast hinu liðna og því sem koma skal í návist verunnar.

Hinn sanni tími hefur þegar náð manninum sem slíkum í þeim skilningi að hann getur verið maður að því tilskyldu að hann sé innan þessarar þrískiptu opnunar og útsettur fyrir nándina sem ríkir með höfnun sinni og geymd. Hér er ekki um neina athöfn eða framleiðslu að ræða. Hér er gjöfin einungis gefin í þeim skilningi sem við höfum lagt í hana, það er að segja í því örlæti sem opnar tímarýmið.

Að því gefnu að það framlag gjafarinnar, sem felst í gjöf tímans, sé skilið með þeim hætti sem hér var bent á, þá stöndum við engu að síður andspænis ráðgátunni sem fólgin er í þessu „það“ sem við nefnum svo, þegar við segjum „það er (gefinn) Tími“ (es gibt Zeit) og „það er (gefin) Vera“ (es gibt Sein).

Þegar við tölum um ópersónulegt „það“ eykst hættan á því að kalla af handahófi til leiks óskilgreint afl, sem er ætlað að virkja sérhverja „gjöf“ Verunnar og Tímans. En það sem er tilfallandi og handahófskennt verður ekki jafn áberandi, ef við leggjum áherslu á þann skilning á „gjöfinni“ sem við höfum hér reynt að sýna fram á. Það gerist einmitt ef við gætum þess gagnvart Verunni að skilja hana sem návist Tímans, sem opið svið auðgað af „rjóðrinu“ er opnar fyrir margfalda nærveru.

Orðið „að gefa“ í orðasambandinu „es gibt Sein, („það gefur Veru“, á íslensku: það er Vera) sýnir sig að vera eins konar örlög (Geschick), eins og um væri að ræða nándarörlög Verunnar í sínum margbreytilegu sögulegu myndum.

Orðatiltækið „að gefa“ í sambandinu „það er gefinn tími“ sýnir sig að vera eins og framboð sem opnar fjórvíddarrými.

Að því marki sem Veran í skilningi nærveru sýnir sig í líkingu Tímans, þá styrkir það áðurnefnda tilgátu, sem segir að hinn sanni Tími , eða hið fjórfalda grundvallarframboð hins opna, sé að finna í „þaðinu“ sem gefur Veru,  því sem gefur núverandi veru. Þessi tilgáta virðist fullkomlega staðfest ef við göngum út frá þeirri staðreynd, að einnig sú vera sem er fjarverandi gefi sig til kynna af og til sem verumáti nærverunnar. En þegar það sem „hefur verið“ og lætur þannig ekki lengur nærveru vera til staðar, – einnig þegar hún nálgast okkur sem erum í núverunni – þegar það lætur þannig í ljós nærveru ekki-verunnar, þá sjáum við verumátann þar sem framboð opnunarinnar veitir sérhverri veru nærveru í hinu opna.

Hinn sanni Tími birtist þannig eins og „það“ sem við nefnum þegar við segjum „það er Vera“ (Es gibt Sein). Örlögin sem gefa veruna dvelja í framboði „Tímans“.  Felur þessi síðasta vísbending í sér að Tíminn sé það „það“ sem veitir „veruna“?

Því fer víðs fjarri. Staðreyndin er sú að Tíminn reynist sjálfur vera gjöf tiltekins „þaðs“ („Es gibt“) og að gjöf þess hafi að geyma vettvanginn þar sem nærvera er í boði.

Þannig er „þaðið“ ennþá óskilgreint og dularfullt, og við sjálf stöndum agndofa andspænis þessari ráðgátu, sem við höfum engin svör við.

Til þess að leysa ráðgátuna er ráðlegt að skilgreina Þaðið  sem gefur út frá „gjöfinni“ sem áður var nefnd. Þessi gjöf hefur sýnt sig að vera örlagagjafi Verunnar, það er að segja eins og Tími í merkingu opnandi framboðs.

(Getur það verið að við séum enn rugluð og komum ekki auga á lausn þessarar ráðgátu, vegna þess að við látum leiða okkur í þá villu tungumálsins – eða nánar tiltekið í hina málfræðilegu túlkun tungumálsins, – í þeim skilningi að fyrir tilverknað þessarar villu séum við föst í þessu „þaði“, sem verður að „gefa“ án þess að gefa sjálft sig?

Þegar við segjum „Es gibt Sein“ (bókstaflega: það gefur Veru) eða „Es gibt Zeit“ (það gefur Tíma, sbr. „það rignir, það gefur á bátinn…), þá segjum við setningu. Samkvæmt málfræðireglunum á setning að fela í sér frumlag og umsagnarlið. Setningarfrumlagið þarf ekki nauðsynlega að vera „Subjekt“ í merkingunni „ég“ eða tiltekin „persóna“. Málfræðin og rökfræðin skilja setninguna með „þaðinu“ hins vegar sem ópersónulegan umsagnarlið án frumlags, það er að segja umsögn án geranda/frumlags (Subjekt). Í öðrum indógermönskum tungumálum – eins og í grísku og latínu – er þessu „þaði“ ekki til að dreifa, að minnsta kosti ekki sem stakt orð með tilsvarandi hljóðmynd (Fonema). Það ber þó ekki að skilja þannig að í þessum tungumálum sé ekki að finna þá hugsun er liggur til grundvallar „þaðinu“: í latínu „pluit“ (það rignir), á grísku „χρη“ (það er nauðsynlegt).

En hvað merkir þetta „það“?

Málvísindin og heimspeki tungumálsins hafa ýtarlega fjallað um málið, án þess þó að finna marktæka skýringu. Merkingin sem hefur verið lögð í þetta „það“ nær allt frá því að vera hið léttvægasta yfir í að vera demónískt.

Þaðið sem við leggjum okkur í munn þegar við segjum „Es gibt Sein“ (það er vera), „Es gibt Zeit“ (það er tími), vísar með háleitum hætti til einhvers sérstaks, en á þessum stað getum við ekki farið út í dýpri skýringar á því. Því látum við okkur nægja hugleiðingu um grundvallaratriðin.

Samkvæmt rökfræðilegri-málfræðilegri túlkun er það sem hér er haldið fram eitthvað sem sýnir sig sem frumlag (Subjekt): eins og ύποχείμγογ, -„það sem er fyrir hendi“, það sem er með einhverjum hætti til staðar. Það sem er eignað „subjektinu“ sem umsagnarliður þess og sýnir sig vera þegar til staðar sem samnánd (mit-Anwesende) með viðeigandi hlut, eins og hið gríska συβεβηχός, accidens (tilfallandi): „fundarsalurinn er upplýstur“. Í „þaðinu“ sem við finnum í setningunni „Es gibt Sein“ er tiltekin vera til staðar sem talar um eitthvað sem er í grundvallaratriðum nærverandi (anwest). Því er hér tiltekin „vera“ sem talar með tilteknum hætti.

Ef við setjum þá síðastnefndu í stað „þaðsins“, þá verður setningin „Es gibt Sein“ (það gefur veru) að „Sein gibt Sein“, eða „Vera gefur veru“. Þannig lendum við í gildruna sem minnst var á í upphafi fyrirlesturs okkar: „Veran er“.

En Veran „er“ ekki frekar en tíminn.

Því segjum við skilið við þessa tilraun til að ákveða, nánast á eigin spýtum, hvað þaðið er í sjálfu sér.

Við horfumst hins vegar í augu við eftirfarandi: Þaðið tilnefnir – að minnsta kosti í nærtækustu túlkun, nærveru einhverrar veru sem er fjarverandi.

Andspænis þeirri staðreynd að málvenjan „Es gibt Sein“ og „Es gibt Zeit“ feli ekki í sér fullyrðingu um hlutinn, jafnvel þótt bygging setningarinnar hafi einvörðungu falið það í sér samkvæmt málfræðingunum allt frá tímum Grikkja og Rómverja, þá teljum við engu að síður þann möguleika fyrir hendi, að með því að segja „Es gibt Sein“ og „Es gibt Zeit“ sé þrátt fyrir allt  ekki um að ræða talsmáta er feli í sér setningar byggðar á sambandi frumlags (Subjekt) og umsagnarliðs (Prädikat).

Hvernig eigum við þá að skilja þetta Es (það) sem við berum fram þegar við segjum einmitt „Es gibt Sein“ og „Es gibt Zeit“?

Eingöngu þannig að hugsa þetta „það“ út frá virkni sagnarinnar „að gefa“ (Es gibt), það er að segja að ganga út frá „gjöfinni“ sem örlög, sem rýmisskapandi framboð. Bæði gjöfin og örlögin hanga saman, þar sem hið fyrra, það er að segja örlögin, hvíla í hinu seinna, í því að bjóða upp á opnun rýmis (lichtenden Reichen). )

Með örlagasendingu Verunnar og fyrir tilverknað Tímans birtist yfirtaka eða eignarhald er stafar frá Verunni sem nærveru og frá Tímanum sem yfirráðasvæði hins opna í sjálfu sér.

Im schicken des Geschickes von Sein, im Reichen der Zeit zeigt sich ein Zueignen, ein Übereignen, nämlich von Sein als Anwesenheit und von Zeit als Bereich des Offenen in ihr Eigenes.

Það sem bæði tímann og veran eiga sameiginlegt samkvæmt þeirra eigin eðli og ákvarðar samveru þeirra eða sambúð köllum við das Ereignis, „atburðinn“..

Við getum þá fyrst, og aðeins núna, hugsað okkur hvað þetta orð (Ereignis) merkir, hafandi í huga hvað felst í og tilheyrir bæði Verunni og Tímanum sem örlög og yfirtaka. Bæði Veruna og Tímann köllum við hluti .

Was dieses Wort nennt, konnen wir jetzt nur aus dem her denken, was sich in der Vor-Sicht auf Sein und auf Zeit als Geschick und als Reichen bekundet, dahin Zeit und Sein gehören. Beide, Sein sowohl wie Zeit nannten wir Sachen.

Tengiliðurinn „og“ sem lagður er á milli Tímans og Verunnar varð hins vegar útundan í skilgreiningu á gagnkvæmu sambandi þeirra.

Að svo komnu máli getum við strax séð hvað lætur þessa tvo hluti tilheyra hvor öðrum, það er að segja það sem felur ekki bara í sér báða hluti með eðlislægum hætti, heldur varðveitir þá líka í samþættingu sinni og viðheldur þeim sem slíkum, það er að segja afstaða beggja hluta, er atburðurinn (das Ereignis).

Afstæði hluta er ekki eitthvað sem hægt er að bæta við eftir á, eins og um væri að ræða viðbótar- samband (aufgestocktes Verhältnis) er kæmi til eftir á, á milli Veru og Tíma. Einungis þessi staða hluta getur látið veruna og tímann gerast (Ereignen) á grundvelli þess sambands sem þeim er eiginlegt, einmitt með því að láta það gerast (Ereignen) sem er hulið í örlögunum og á yfirráðasvæði hins opna rjóðurs (im lichtenden Reichen).

Með setningunum „Es gibt Sein“ og „Es gibt Zeit“  er það þetta „Es“ (það) sem gefur og staðfestir sig þannig sem atburðinn (das Ereignis).

Þótt þessi síðasta fullyrðing sé rétt, þá er hún ekki sönn, og það orsakast af því að staða hlutanna sem um ræðir hefur verið hulin. Án þess að átta okkur á því, þá höfum við sett fram ástand hluta rétt eins og eitthvað er væri til staðar á meðan við reynum að hugsa návistina sem slíka.

 

Við hefðum kannski losnað með einu höggi úr öllum þessum erfiðleikum, úr öllum þessum flóknu útskýringum og öllum þessum ófrjóu vangaveltum, aðeins ef við hefðum fundið svarið við þeirri einföldu spurningu sem lengi hefur beðið eftir sínu svari:

Hvað er atburðurinn (das Ereignis)?“

Í þessu viðfangi myndi kannski leyfast að bæta óvart við annarri spurningu: Hvað merkir hér „að svara“ og „svar“?

Að svara felur í sér þá segð er samsvarar því ástandi „hluta“ sem um er að ræða, það er að segja ástandi atburðarins. En ef ekki er hægt að segja til um ástand umræddra hluta í formi fullyrðinga, þá getum við ekki vænst þess að svar okkar geti falið í sér fullyrðingu. Þetta felur hins vegar í sér játningu á getuleysi gagnvart því að hugsa  það sem hér kallar á fullnægjandi um-hugsun. Kannski væri heppilegra að hafna ekki bara svarinu, heldur fyrst og fremst spurningunni?

Hvernig er annars ástatt með þessa fullkomlega réttmætu spurningu, sem er nánast sjálfgefin: „Hvað er atburðurinn (das Ereignis)? Með því að spyrja okkur þessarar spurningar erum við að spyrja okkur um hvað er (Was-sein), um eðli (Wesen), um raunverulegan veruhátt atburðarins og návist (west und d.h. anwest).

Með þessari að því er virðist saklausu spurningu, „Hvað er atburðurinn?“ leitum við eftir svari um eðli atburðarins.

En þegar sjálf Veran sýnir sig nú að vera eitthvað sem hefur með atburðinn að gera, og að hún sæki návist sína til hans, þá leiðir spurningin okkar aftur að því sem fyrst kallaði á skilgreiningu okkar: „Veran“ skilgreind út frá Tímanum.

Eins og forsjál yfirferð okkar hefur leitt í ljós um „þaðið“, þá á það í gagnkvæmu flækjusambandi við vísun (Weisen)  gjafarinnar, útsendinguna (das Schicken) og  yfirráðasviðið, (das Reichen). Útsending verunnar felst þá í  upplýsandi-skýlandi (lichten-verbergenden) framlagi (Reichen) hinnar margþættu návistar á sviði hins opna tímarýmis.[iv]

En framlag gjafarinnar er jafnt komið undir útsendingu og virkjun atburðarins (Ereignen). Það síðastnefnda, það er að segja hinn sérstaki eiginleiki atburðarins, ákvarðar einnig merkingu þess sem hér er kallað „Beruhen“ eða „hvíld“ eða „hvíla“.

Það sem hér hefur verið sagt leyfir okkur, eða jafnvel skyldar okkur til að segja hvernig ekki eigi að hugsa atburðinn (Ereignis). Það sem við köllum í daglegu tali Ereignis getur ekki lengur staðið fyrir viðtekna merkingu orðsins, það er að segja í merkingu „uppákomu“ eða tilfallandi „atviks“ eða tilfellis – en ekki  út frá orðstofninum Eignen, það er að segja að tileinka eða eigna sér, eins framlagið sem  skýlir og verndar („Eignen als dem lichtend verwahrenden Reichen und Schicken.“).[v]

Þannig höfum við nýverið heyrt þá yfirlýsingu að innan Evrópska Viðskiptabandalagsins hafi myndast eining, er kalla megi evrópskan atburð (Ereignis) er hafi heimssögulega þýðingu. Þegar við sjáum hér yrðingu orðsins „Sein“ (vera) setta í samhengi við orðið „Ereignis“ (atburður) þá heyrum við orðið eingöngu í hefðbundnum skilningi þess, og þá finnum við jafnframt formlega vöntun þess að fjallað sé um „atburð verunnar“ (Ereignis des Seins). Því án verunnar (Sein) getur engin verund verið sem slík. Samkvæmt þessu má halda því fram að Veran (das Sein) sé mikilvægasti og æðsti atburður (Ereignis) sem um getur.

Er það ekki svo, að eini tilgangur þessa fyrirlesturs sé að beina sjónum okkar að Verunni sjálfri sem Ereignis?

Satt og rétt. Vandinn er einungis sá, að við leggjum aðra merkingu í orðið (Ereignis) en þá viðteknu. Samkvæmt því verður það knýjandi nauðsyn, að hugleiða hið lítt áberandi en engu að síður vandmeðfarna og margræða orð „als“ (eins og, sama og).

Ef við göngum út frá því að við höfnum  hefðbundinni merkingu orðsins „Ereignis“ í umræðu okkar um veru og tíma og tökum í hennar stað þá merkingu gilda sem skilja má sem sendingu viðveru  skýlandi rjóðurs tíma-rýmisins (im Schicken von Anwesenheit und lichtendem Reichen des Zeit-Raumes)[vi], þá er umræðunni um „veruna sem atburð“ ennþá ólokið.

„Vera sem Ereignis“ –á bernskudögum heimspekinnar hugsaði hún verund (Seienden) verunnar sem ίδέα (hugmynd), eins og actualitas, sem vilja og – það sem nú mætti hugsa sér – sem Ereignis. Í þeim skilningi fæli „atburðurinn“ í sér nýja túlkun á „Verunni“ (Sein) , sem ef rétt væri skilið, fæli í sér framlengingu á frumspekinni. Í því tilfelli fæli „als“ (eins og , sama og)  í sér Ereignis sem einn hátt verunnar, (Art des Seins), þar sem atburðurinn er undirsettur verunni (Sein), er myndaði undirstöðuhugtakið í sinni föstu merkingu.

Ef við hugsum Veruna hins vegar – eins og hér hefur verið leitast við að gera, sem núveru og viðveru (Anwesen und Anwesenlassen) er örlögin hafa gefið, og að veran hvíli að sínu leyti og samkvæmt sjálfri sér í rjóður-skjóli tímarýmisins, þá er veran  tengd orðinu “Ereignen” (að láta gerast).  Þar liggja upptök gjafarinnar og þar liggur skilgreining þess að gefa. Í því tilfelli væri  Veran einn veruháttur atburðarins og atburðurinn ekki einn verumáti Verunnar.

Slíkur umsnúningur er hins vegar of ódýr hjáleið. Hún kannar ekki efnislega afstöðu hlutanna. „Atburðurinn“ er ekki formerkið sem umvefur og samstillir veru og tíma. Rökfræðilegar afstæður hafa hér ekkert að segja, því ef við íhugum sjálfa veruna og fylgjum því sem henni er eðlislægt, þá sýnir hún sig sem gjöfin – gjöf þess tíma sem er í boði, gjöf nærverunnar frá hendi örlaganna. Gjöf viðverunnar er eign/eiginleiki Ereignis (atburðarins).

Veran hverfur í atburðinum. Í samhenginu : Vera sem Ereignis“. Með orðatiltækinu  „Vera sem Ereignis“ (Sein als das Ereignis) fær orðið „sem“ (als) nú þessa merkingu: Vera (Sein), láta vera til staðar í atburðinum (Anwesenlassen geschickt im Ereignen), Tíma vísað í atburðinn (Zeit gereicht im Ereignen.) Tími og Vera eiga sér stað í atburðinum. (Zeit und Sein ereignet im Ereignis) En hvað með atburðinn? Er nú hægt að segja eitthvað meira um hann?

Á vegferð okkar var þegar búið að hugsa ýmislegt, en eiginlega var eitt ósagt, nefnilega það sem varðar orðið „að gefa“ í merkingunni að færa til eignarhald. Einmitt þetta, sem á svæði hins orðna  og tilkomna felur í sér afneitun (Verweigerung) núverunnar og yfirbreiðslu (Vorenthalt) núverunnar. Það sem hér var nefnt eignarhald (Ansichhalten), afneitun (Verweigerung), yfirbreiðsla (Vorenthalt) sýna það sambærilega við sjálfsafsal (Sichentziehen), í stuttu máli: fráhvarf (Entzug). En ef litið er til eðlisháttar gjafarinnar sem felst í þessu afsali, (það er að segja að bjóða fram og tileinka) og að hann hvíli í atburðinum, þá hlýtur afsalið að fela í sér sérkennileg einkenni atburðarins. Umræðan um þetta atriði fellur ekki undir efni þessa fyrirlesturs.

(Þar sem hér er einungis um fyrirlestur að ræða verður hér dregið saman með ófullkomnum hætti það sem telst hið sérstæða við atburðinn (das Ereignis).

Framlegð (Schicken) til örlaga Verunnar er skilið sem Gjöf, þar sem gjafarinn sjálfur heldur sjálfum sér til hlés dregur sig þannig út úr afhjúpuninni. (wobei das Schickende selbst an sich Das Schicken im Geschick des Seins wurde gekennzeichnet als ein Geben, wobei das Schickende selbst an sich hält und im Ansichhalten sich der Entbergung entzieht.

Í hinum eiginlega Tíma og tímarými hans birtist framboð hins liðna, það er að segja framboð þess sem ekki lengur er til staðar og þar með afneitun þess. Með því að bjóða fram hið ókomna birtist afneitun hins liðna í ríki framtíðarinnar, það er að segja í ekki orðinni nútíð, for-inntaki hennar.

In der eigentlichen Zeit und ihrem Zeit-Raum zeigte sich das Reichen des Gewesen, also von nicht mehr Gegenwart, die Verweigerung dieser; es zeigte sich im Reichen von Zukunft, also von noch-nicht Gegenwart, der Vorenthalt dieser.

Afneitun og for-inntak bera sömu einkenni og sjást í sjálfshlédrægni framboðsins.

Verweigerung und Vorenthalt bekunden denselben Zug wie das Ansichhalten im Schickcn: nämlich das Sichentziehen.

Að því marki sem örlög Verunnar hvíla í framboði tímans og hann hvílir sjálfur í Atburðinum þá boðar verðandin sem sitt helsta einkenni þá staðreynd að undanskilja það sem henni er eiginlegast undan ótakmarkaðri afhjúpun.

Sofern nun Geschick des Seins im Reichen der Zeit und diese mit jenem im Ereignis beruhen, bekundet sich im Ereignen das Eigentümliche dass es sein Eigenstes der schrankenloseo Entbergung entzieht.

Að hugsa út frá „Ereignen“ (að eiga sér stað) felur þetta í sér: Það afsalar sjálfu sér í sama skilningi. Eignarafsalið fylgir  því að eiga sér stað. Þar með er ekki sagt að það að eiga sér stað afsali sjálfu sér, heldur verndar það sinn eiginleika.

Vom Ereignen her gedacht heisst dies : Es enteignet sich in dem genannten Sinne seiner selbst. Zum Ereignis als solchem gehört die Enteignung. Durch sie gibt das Ereignis sich nicht auf, sondern bewahrt sein Eigentum.

Aðra furðu atburðarins (að eiga sér stað) getum við séð betur um leið og við hugleiðum það sem hér var nýsagt.

Das andere Eigentümliche im Ereignis erblicken wir, sobald wir deutlich genug schon Gesagtes bedenken.

Í Verunni sem nærveru birtist sú nálgun er við mannfólkið mætum að því leyti að við nemum og ofskynjum þessa nálgun sem megineinkenni manneskjunnar.

Im Sein als Anwesen bekundet sich der Angang, der uns Menschen so angeht, dass wir im Vernehmen und Übernehmen dieses Angangs das Auszeichnende des Menschsens erlangt haben.

Þessi ofurnæmni gagnvart ágengni nærverunnar á sér hins vegar sinn samastað í þeirri inniveru framboðsins  sem fjórvíddareigind Tímans hefur fært okkur.

Dieses Übernehmen des Angangs von Anwesen beruht aber im Innestehen im Bereich des Reichens, als welches uns die vierdimensionale eigentliche Zeit erreicht hat.

Að því marki sem Vera og Tími eru einungis finnanleg í atburðinum, þá fylgja honum þau undarlegu einkenni að þegar maðurinn skynjar Veruna í innrými hins eiginlega Tíma leiða þau mannfólkið að innsta eðli sínu. Í þeirri stöðu tilheyrir manneskjan atburðinum.

Sofern es Sein und Zeit nur gibt im Ereignen, gehört zu diesem das Eigentümliche, dass es den Menschen als den, der Sein vernimmt, indem er innesteht in der eigentlichen Zeit, in sein Eigenes bringt. So geeignet gehört der Mensch in das Ereignis.

Þessi aðild hvílir í þeirri áberandi sameiningu sem atburðurinn veitir. Það er í gegnum hana sem manninum öðlast aðild að atburðinum. Það er þess vegna sem við getum aldrei séð atburðinn fyrir okkur, hvorki sem andstæðu né sem hið allt umfaðmandi. Það er orsök þess að hin fyrirsjáanlega og grundvallandi hugsun hefur svo lítið að segja um Atburðinn / Ereignis  eða þann talsmáta sem felst í segðinni.

Dieses Gehören berüht in der das Ereignis auszeichnenden Vereignung. Durch sie ist der Mensch in das Ereignis eingelassen. Daran liegt es dass wir das Ereignis nie vor uns stellen können, weder als ein Gegenüber, noch als das alles Umfassende. Darum entspricht das  vorstellend-begründende Denken so wenig dem Ereignis wie das nur aussagende Sagen.

Hvorki getur það gerst í gegnum sjálfa Veruna né gegnum sjálfan Tímann að við öðlumst innsýn í framboð Verunnar eða framlag tíma-rýmisins til skilnings á því hvað „Atburðurinn“ segir. En skyldi mögulegt að finna á þessari leið eitthvað annað en einfalda Hugsunarmynd?  Á bak við þennan grun finnum við þá skoðun að Atburðurinn hljóti þó að búa yfir verund einhverrar „Veru“. Engu að síður: Atburðurinn er hvorki né heldur er um gefinn Atburð að ræða. Það sem þessar fullyrðingar segja er einungis umsnúningur hluta-afstæðna, rétt eins og við vildum finna uppsprettuna í sjálfu fljótinu.

Hvað er þá til ráða? Einungis þetta: „das Ereignis ereignet“ (Atvikið atvikast). Þar með segjum við frá hinu sama um það sama til hins sama. Þetta virðist ekki segja okkur neinn skapaðan hlut.  Það segir heldur ekki neitt, svo lengi sem við heyrum hið sagða einungis sem setningu (Satz) og afgreiðum hlustunina út frá rökfræðinni. Rétt eins og þegar við meðtökum linnulaust það sem er sagt með þessum hætti  eins og aðvörun til eftirþanka (Anhalt für das Nachdenken) og hugsa þannig að þetta sama feli ekki í sér neitt nýtt, heldur hið elsta af öllu gömlu í hugsun landa sólsetursins[vii]: hið ævaforna, það sem liggur falið í nafninu A- λήθεα (a-leþeia)[viii]. En í þessu nafni, sem er upprunalegasti leiðarvísir hugsunarinnar, talar nokkuð sem er skuldbindandi fyrir sérhverja hugsun, að því tilskyldu að hún standi undir nafni sem hugsun.

Þegar sjónum var beint að Verunni í gegnum hinn eiginlega Tíma, þá var óhjákvæmilegt að hugleiða eiginleika hennar – út frá Atburðinum (Ereignis), án þess að horfa til tengsla hans við Verundina (dem Seiendem)

Að hugsa Veruna án Verundarinnar merkir: Vera án baksýnis til hinnar frumspekilegu hugsunar.  Slíkt baksýnisáhorf er engu að síður enn ráðandi í viðleitninni að yfirvinna frumspekina. Af þessari ástæðu er nauðsynlegt að segja skilið við þessa „yfirstig“ og segja skilið við sjálfa frumspekina.

Ef slíkt yfirstig reynist nauðsyn, þá varðar það þá hugsun sem snertir Atburðinn sérstaklega í því skyni að segja hann – segja hann út frá honum sjálfum og í ljósi hans (um Es aus ihm her auf Es zu  – zu sagen).

Það verður alltaf forgangsverkefni að yfirstíga þær hindranir sem eiga auðvelt með að gera slíka segð marklausa.

Hindrun af þessari tegund er einnig fólgin í því að segja Atburðinn í fyrirlestrarformi. Fyrirlesturinn hefur sett okkur takmarkanir yfirlýsinganna.

 

[i] Das Geben, das Zeit ergibt, bestimmt sich aus der verweigernd-vorenthaltenden Nahe. Orðrétt: Gjöfin sem gefur tíma ákvarðast af nálægð sem felur í sér höfnun og varðveislu í senn.

[ii] Orðið „Reichen“ merkir sem nafnorð „yfirráð“ en er líka til sem sagnorðið að ná yfir, að rétta fram eða jafnvel bjóða fram eða að nægja. Heidegger notar þetta orð mikið í tilraun sinni til að yfirvinna það sem honum finnst vera aðskiljandi viðleitni frumspekinnar: að skilja hlutinn frá veru hans. Veran og tímin taka til hvors annars og geta hvorugt án hins verið í atburðinum.

[iii] Þegar Heidegger segir að tími sé „gefinn“ gengur hann líka út frá þýskri málhefð: „Es gibt Zeit“: „það er tími“.

[iv] Þessi kafli er hér settur á skáletri -sem ekki er í frumriti- vegna þess að hér er Heideggger mikið í mun að segja kjarna málsins í stuttu máli með sínum sérstaka orðaforða og þeirri umbreyttu merkingu þekktra orða sem hann nýtir sér til að yfirstíga hið hefðbundna tungumál frumspekinnar. Þessi kafli er því illþýðanlegur á önnur tungumál án þess að merkingin misfarist að meira eða minna leyti, eins og um ljóðaþýðingu væri að ræða. Á þýsku hljómar þetta kaflabrot svona:

Wenn nun aber das Sein selbst sich als solches erweist, was in das Ereignis gehört, und aus ihm die Bestimmung von Anwesenheit empfängt, dann fallen wir mit der vorgebrachten Frage zu dem zurück, was allererst seine Bestimmung verlangt : das Sein aus der Zeit. Diese Bestimmung zeigte sich aus der Vor-Sicht auf das “ Es „, das gibt, im Durchblick durch die ineinander verfugten Weisen des Gebens, das Schicken und Reichen. Schicken von Sein beruht im lichtend verbergenden Reichen des mehrfältigen Anwesens in den offenen Bereich des Zeit-Raumes.

Das Reichen aber beruht in eins mit dem Schicken im Ereignen. Dieses, d.h. das Eigentümliche des Ereignisses, bestimmt auch den Sinn dessen, was hier das Beruhen genannt wird.“

 

[v] Hér skýrir Heidegger enn frekar hvernig hann gefur hugtakinu „Ereignis“ (atburður) nýja merkingu. Hann rekur hugtakið til orðstofnsins „Eignen“ sem hefur með „eigin..“ að gera og „eign“: „Eignen als dem lichtend verwahrenden Reichen und Schicken.“ Hér þýðir „lichten“ það að skapa rjóður í skógarþykkni, að grisja og mynda skjól og „verwahren“ að skýla og varðveita..

[vi] Þessi orðskýring Heideggers á „Ereignis“ er ekki auðþýdd á íslensku eða önnur tungumál, enda á hún að fela í

sér alla merkingu þessa fyrirlesturs í fimm orðum!

 

[vii] Land sólsetursins (das Abendland) er þýsk orðmynd enska orðsins „occident“ sem er aftur dregið af latnesku sögninni occidere, sem þýðir að falla eða ganga til viðar (sólsetur) og er viðurkennt samheiti um Evrópulönd.

[viii] Gríska orðið „aleþeia“ merkir nánast „af-hjúpun“, að svipta hulu af einhverju. Heidegger leggur mikla áherslu á þann skilning Forngrikkja, að sannleikurinn hafi þessa merkingu – sem atburður.

 

CARLO SINI UM EREIGNIS

Innlegg í umræðuþátt Dante Chanel um erindi heimspekinnar í samtímanum þar sem Carlo Sini fjallar um hugtakið Ereignis í heimspeki Martins Heideggers. Íslensk endursögn á munnlegri frásögn á sjónvarpsrás Dante Chanel: https://youtu.be/O8rUf8-GVuo

Í þessu spjalli mun ég nálgast þetta umfangsmikla efni í samþjöppuðu máli innan gefins tímaramma.

Ég vonast til að geta gefið hugmynd um hvernig ég kýs að setja fram spurningu Heideggers um Ereignis, en það er efni sem ég hef vissulega velt fyrir mér um langan tíma og varðar merkingu atburðarins. Þar hef ég fylgt tvennum hugvekjum:

Í fyrsta lagi er það sú fyrirmynd og það fordæmi sem við finnum í merkingarfræði bandaríska heimspekingsins Charles S. Peirce, og í öðru lagi umfjöllun Martins Heideggers, sem í mínu tilfelli kom seinna til sögunnar, því fyrst glímdi ég við vandann við lestur Peirce.

Þegar Heidegger talar um að „atburður sé gefinn“ (Es gibt Ereignis) þá felur Þetta framboð samtímis í sér undanskot eða yfirbreiðslu, og hér vil ég undirstrika orðið samtímis, en samtímis merkir hér bæði á sama tíma og í sama skilningi. Sú hugsun er handan hefðbundins forms í rökfræði frumspekinnar og verufræðinnar, þar sem veran (l‘ente) er eins konar undirbygging (sustruzione) eins og bæði Heidegger og Husserl orðuðu það, hver með sínum hætti. Samkvæmt þessum skilningi á það að bjóða sig fram og hylma yfir að hafa sömu merkingu og sama tíma.

Eigum við einhver orð til að skýra þetta? Augljóslega ekki. Því er það svo að menn hafa almennt umgengist atburðinn eins og sjálfgefinn, eins og atburður merkingarinnar hafi gróflega sagt nánast enga merkingu.

Þessa spurningu mætti nálgast með einföldum hætti með því að segja að atburður jákvæðrar þekkingar[1] feli ekki í sér merkingu (significato) og geti því ekki verið viðfang tiltekinnar þekkingar.

Kjarni málsins er þá þessi: atburður tiltekinnar þekkingar er ekki nein þekking.

Í þessum skilningi verður atburðurinn sem hlutlæg reynsla að tveim hlutum: Til dæmis getum við sagt „nú er dagur“ eða „nú er nótt“; um er að ræða tvo hluti eða þætti sem ekki eru á sambærilegum sviðum eða tveir hlutir sem ekki eru á sama vettvangi (t.d. „nótt“ og “nú“).

Við getum auðveldlega sagt þetta, atburður tiltekinnar hlutlægrar reynslu eða jákvæðrar þekkingar og þessi sama þekking tilheyra ekki sama sviði eða vettvangi, en hvernig eigum við að hugsa það?

Þar verða málin erfiðari. Sérhver jákvæð þekking (sapere positivo), sérhver „staðreynd“, hefur ávallt með tiltekna reynslu að gera og felur þannig í sért tiltekna túlkun, eins og Peirce hefði sagt. Slík túlkun byggir aftur á öðrum áður tilkomnum túlkunum. Þessi staðhæfing leiðir okkur inn í keðjuverkun, þar sem hvorki sést til upphafs né enda. Keðjuverkun sem leysist upp í tóminu, eða hinu óskilgreinanlega, þar sem sérhver túlkun kallar á aðra.

Enginn vafi leikur á því að þegar jákvæð þekking er að verki og segir okkur „nú er dagur“ eða „nú er nótt“, þá fela þessar fullyrðingar í sér túlkun á röð merkja og atvika er kalla á fyrir fram gefna þekkingu og túlkanir.

Við höfum dæmi um þetta hjá Peirce, til dæmis þar sem hann talar um tvær persónur á sjávarströnd er horfa á skip í fjarska: Önnur spyr hina: hvort er þetta farþegaskip eða flutningaskip? Peirce segir að til þess að geta sagt eitthvað um þetta þurfi viðkomandi að búa yfir margvíslegri þekkingu, sem myndar óendanlega keðju, til dæmis þekkingu á því hvað sé skip, hvað sé farþegi og farangur og hvað sé sjór o.s.frv. Í þessu liggja forsendur þess að túlka atburð eða atvik með jákvæðum hætti. Um er að ræða óendanlega keðju túlkana, sem segja má að sé stöðugt á dagskrá jákvæðrar þekkingar, en feli engu að síður í sér tiltekinn mismun. Einnig sú þekking sem býr við hvað mesta staðfestu og föstustu hefðir kallar á túlkanir. Samfélög sem virðast fastmótuð í hefðum sínum eru einnig breytingum háð. Þekkingin tekur breytingum, byrjar á fyrirliggjandi túlkun, en túlkar stöðugt upp á nýtt, þar sem ekki verður um fullkomlega samsvarandi túlkun að ræða ef tvær persónur spyrja sömu spurningar næsta dag o.s.frv.

Því vaknar sú spurning, sem fyrir mig er hin stóra spurning, og ég vona að þið hlustið á og getið tekið undir: Hvað er það sem skapar mismun og tekur breytingum á ferli mannlegrar þekkingar og á vegferð sannleikans, og hvers vegna tekur það breytingum?

Að mínu mati er þetta óhjákvæmileg spurning, ef við viljum skilja hvað sé á seyði umhverfis orðið „atburður“, orðið „Ereignis“, (hjá Heidegger) eða orðið „Firstness“ og „icon“ (hjá Peirce).

Ég ætla að reyna að svara þessari spurningu með einföldum hætti, sem þið kunnið kannski að kalla einfeldnislegan, með því að ganga út frá orðinu „stacco“ (=hlé, millibil, fráhvarf, rof, viðskilnaður).

Um er að ræða „stacco“ eða rof á milli túlkana sem voru framkvæmdar í gær og í dag.

Þetta „stacco“ á sér stað frá einni mínútu til annarrar, frá einum degi til annars, frá því sem ég segi núna  og verður óhjákvæmilega annar hlutur þar sem hann er settur í nýtt samhengi og tekur á sig ólíka tíma ef svo mætti segja.

Þegar ég tala um „stacco“ (rof) og býð fram þessa ímynd sem er þröskuldur fráhvarfsins, þá finn ég þörf fyrir skjótan skilning. Ég notfæri mér tvær ímyndir eða tvær orðmyndir ef svo mætti segja, er birtast í barnsfæðingunni á milli hins ófædda og nýburans. Ég orða þetta svona: „il stacco“ eða rofið sem á sér stað á milli fóstursins og nýburans. Ég ætla að skýra hvað ég á við:

Eins og þið sjáið þá tek ég hér sáraeinfalt dæmi: Líkami nýburans segir skilið við líkama móðurinnar. Þessi líkami kemur úr líkama móðurinnar, úr frumlægum efnisheimi sem er líkami hennar, úr „heimi“ móðurlíkamans -og meðtekur þannig mismun síns eigin líkama, sem öðlast þar með eigin aðstæður við eigin fæðingu í þann heim sem umlykur hann.

Aðstæðurnar sem umlykja þennan líkama fela í sér afar tvíræðan atburð, atburð sem við erum vön að heimfæra upp á þekkingu fæðingarlækninganna; – en einnig upp á þekkingu okkar, sem búum þegar yfir fyrir fram gefinni þekkingu er byggir á þegar tilbúnum túlkunum o.s.frv., og gera þennan atburð að hlut, að viðfangi tiltekinna vísinda og Þekkingar.

Sú þekking nær ekki til hans sem hefur lent í þessu rofi og fráhvarfi, sem við öll höfum engu að síður gengið í gegnum. Fæðing okkar getur aldrei orðið viðfang jákvæðrar þekkingar, eða öllu heldur þá getur hún orðið viðfang jákvæðrar þekkingar, en aldrei sem atburður fráhvarfsins, því um fráhvarfið er ekki hægt að hafa orð, því allt sem sagt verður kemur eftirá, þegar rofið er afstaðið. Einnig það sem ég kann að hafa vitað Þegar ég sagði skilið við líkama móður minnar, ég get sagt það núna vegna þess að með öðrum orðum þá komum við úr heiminum til þess að vera í heiminum.

Og þegar kemur að „verunni í heiminum“ þá er orðasafn Heideggers okkur mikilvægt. Hvað felist í því að „vera sjálfum sér“ (esserci, afturbeygt form sagnarinnar að vera) með frumlægum hætti? Nokkuð sem í skilningi Heideggers merkir að vera eigin örlög og eigin áfangastaður, og að takast á við eigin tilfallandi tilkomu, þetta fall í viðskilnaðinn er verður við upprunann sem er líkami móðurinnar og við tilkomu líkama heimsins.

Ekki er um að ræða mismun mismunar viðskilnaðarins, því ljóst er að það sem er fyrir hendi kemur allt frá móðurinni, allt frá móðurlífinu. Það er að segja allt frá upprunanum, þessum fyrir fram túlkaða uppruna er kom á undan, þar sem allt vísar á það sem áður kom, og getur aldrei falið í sér merkingu jákvæðrar þekkingar, því sérhver jákvæð þekking ætti sér alltaf forföður, þið skiljið, þar sem forfaðirinn hefur að geyma óendanlega röð fráhvarfa og viðskilnaða og á sér vissulega ekki stað í goðsögulegum uppruna.

Þetta er leið okkar til að tjá óvirkni (inattualità) forföðurins, en þessi óvirkni er alltaf virk, ég veit ekki hvernig á að segja það, forfaðirinn er alltaf hér en ekki í einhverjum goðsögulegum uppruna, hann er alltaf hér, einnig í þeim vesæla manni sem hér talar, hann er til staðar í ímynd upprunans, fráhvarfsins og þröskuldarins sem hefur framkallað þann síðasta sem hér talar um forföðurinn, talandi um sig sjálfan, talandi um verund sína (esserci) þar sem hann hefur til að bera sitt „ci“ (afturbeygða viðskeytið -st á íslensku við sögnina að „vera“). Um er að ræða það sem felst í lönguninni eftir upprunanum við viðskilnaðinn.

Í þessum skilningi getum við haft í huga ímynd föður og móður, sem verða augljóslega til sem slík með tilkomu sonarins, og það er í ljósi sonarins sem einhver verður faðir eða móðir.

Um er að ræða frákast sem felst í fráskildum líkama er býr við þessi sérkenni vegna sinna sérstæðu aðstæðna  og síns umlykjandi heims, eða Umwelt eins og sagt er, í sinni tilvist (esserci) er byggir á aðskildum heimi.

Um er að ræða tilveru sem á sér stað í sambandi löngunar, þarfa og fullnægju. Það er þá hér sem við komum ef til vill auga á þversögnina sem mig langar til að leggja áherslu á:

Við erum samtímis innan þeirra aðstæðna sem við endursköpum og endursegjum. Við erum afurð og afleiðing föðurins og móðurinnar og við erum afleiðing óendanlegra raða aðskilnaða (stacchi), við erum afleiðing forföðurins og við erum innan þessa alls, en á sama tíma erum við, þessi afurð, þessi afleiðing og þessi forsenda, þeir sömu sem í ljósi lifandi virkni og leit að orðum, fjölyrða um þennan uppruna.

Þetta þýðir efnislega að forsendan sem við göngum út frá er um leið uppruni þess sem við segjum. Við erum um leið afurð annar sögu, (sem heimspekingurinn Vico hefur réttilega bent á). Við erum samtímis afkvæmi risaskepnanna sem Vico fjallar um og um leið þeir sömu sem búa til skepnuskapinn frá Vico,  því það eru við sem tölum um skepnuskapinn hjá Vico, við, okkar menning , okkar samtíð, okkar köllun, aðstæður okkar og saga.

Eins og þið sjáið þá er ekki hægt að hlaupast undan þessu, það er ekki hægt að láta sem ekkert sé og nota orðaforða heimspekinnar án þess að spyrja hvaðan þessi skilningur heimspekinnar kemur, og með hvaða rétti ég geti stuðst við hann í hugsunarleysi, eins og hann væri gagnsætt gler sem hægt væri að horfa í gegnum til að segja sannleikann.

Það er ekki hægt að iðka heimspekina án þess að spyrja spurningarinnar um orðaforðabúr hennar. Því segjum við um þessa síðustu birtingarmynd mismunarins að hún tali máli allrar keðjunnar, og þar með að ég gæti ekki verið til öðruvísi en sem afleiðing forföðurins – en forfaðirinn er ekki  hlutur, hann er ekki jákvæður atburður, ekki staðreynd sem getur orðið viðfang jákvæðrar þekkingar, þekkingarinnar um fæðinguna, heldur afturbeygð merking tilveru minnar. Tilveru sem upphefst með hinu upphaflega rofi (stacco originario) sem hefur fætt af sér afleiðingu mína og vaxandi þekkingaröflun.

Það þarf að hugsa báða hlutana, og þessir hlutir, sem eru hér, geta ekki verið samtímis, á sama tíma og í sama skilningi, þeir geta ekki fallið undir neina þá rökfræði hlutlægninnar er tilheyri jákvæðri þekkingaröflun. Það eru þessar afleiðingarnar sem tala, gætið að því!

Þær eru vera afleiðingarinnar sem talar einnig um rof (stacco) atburðar upprunans, um forföðurinn og allar ímyndir frákastsins.

Og þetta varðar augljóslega ekki bara  forföðurinn og nýburann, þeir eru ímyndir augnabliksins sem er að gerast á hverju augnabliki, og á hverju augnabliki deyr þekkingin í andaslitrum sínum.

Þekkingin ber með sér firringu frá lífinu sjálfu, sagði hinn mikli Hegel í riti sínu Fyrirbærafræði andans, og hið sama gerist í öllum hinum jákvæðu vísindum: þau rannsaka uppruna alheimsins eða uppruna mannsins, en gera það út frá eigin lífsreynslu og eigin þekkingariðkun. Þessu má aldrei gleyma, við erum að tala um endurspegluð viðföng.

Uppruni mannsins og uppruni alheimsins eru tvírætt endurkast, sem með vafasömum hætti endurspeglar hinstu ímyndir veru sinnar, og eiga að skiljast sem afleiðingar eigin uppruna.

Ég vil nú minna ykkur á atburð sem gerðist nýverið í Eþýópíu, um 50 km. suður af AddisAbeba. Þar fundust leifar af steinhöggsverkstæði þar sem stunduð var vinnsla á hrafntinnugrjóti. Getið þið ímyndað ykkur tímasetninguna, þessi steinsmiðja var virk fyrir einni milljón og tvö hundruð þúsund árum síðan, sem felur í sér afturfærslu uppruna áhalda í sögu mannsins um 500 þúsund ár.

Þessi uppruni verkfærisins, þessarar framlengingar handarinnar, er því tilkomin löngu fyrir tilurð homo sapiens.

Hvað segir þessi þekking okkur í raun og sannleika? Segir hún okkur eitthvað óumdeilanlega satt? Nei.

Hún er endurvarpsáhrif þess sem við erum sjálf, því þessir menn kunnu einmitt að höggva til hrafntinnu. Við komumst aldrei út úr þessum endurspeglunarhring. Við þurfum að horfast í augu við þennan samtíma – og ég mun brátt segja hvers vegna það er mikilvægt.

Hin jákvæðu vísindi, og hin jákvæða almenna skynsemi vísindamanna yfirleitt, eru alls ekki fær um að skilja þennan hnút og leysa hann. Þvert á móti leitast þau full fordóma við að horfa fram hjá honum.

Það breytir hins vegar ekki mikilvægi þeirri vinnu mannfræðinganna að túlka ummerki og segja sannleikann á grundvelli þessara túlkana á þessari hrafntinnuvinnslu o.s.frv…, um þennan ævaforna safnhaug  o.s.frv., segja frá þessu tímaskeiði, allt er þetta jákvæð og stórmerkileg þekking, en þar er algjörlega horft framhjá forsendu hennar. Þversögn þessarar tvöföldu hreyfingar og þessa enduróms .

Lausnin er reyndar ekki þekkingarfræðilegs eðlis og Það er hingað sem ég vildi ná.

Mig minnir að ég hafi minnst á hugtakið praxis, það var hluti af hinu stórbrotna innsæi hins unga Heideggers, sem náði langt út fyrir kennara hans Husserl, einmitt vegna þess að hann gerði sér með djúpstæðum hætti grein fyrir hvernig það sem ég hef kallað virka tilfinningalega reynslu (pratiche affettive), verður afgerandi um atburð hlutarins, atburð fyrirbærisins.

Þannig verður lausnin ekki fræðilegs eðlis, lausn spurninga af þessari tegund verður ekki fundin með neinni verufræði… hér verðum við að segja basta!, nóg komið af verufræði, við höfum fengið okkur fullsödd af henni… veran (l‘ente) í sjálfri sér, þessi hugsun er uppfinning tungumáls tiltekinnar menningar og tiltekinnar þjóðar og tiltekinnar hefðar sem er vissulega fögur og alls ekki ómerkileg eða tekin sem eitthvað léttvægt, rétt eins og hægt væri að tala um veruna eins og ekkert væri.

En ímyndið ykkur einhvern seiðkarl eða einhvern samtímamann Hómers, sem talaði um „veruna sem slíka“…

Við skulum ekki vaða reyk: verufræðin er liðin undir lok og frumspekin líka. Þökk sé hinu háa virðingarstigi heimspekinnar, sem hefur haft hugrekki til að segja þetta á okkar tímum, allt frá Heidegger, allt frá Husserl og Wittgenstein o.s.frv.

Lausnin er hvorki fólgin í  þekkingarfræði né kenninngasmíð né hagnýtri siðfræði. Hún mælir ekki afleiðingar eða svaravenjur á borð við þekkingu á frumstæðum mönnum eða þekkingu á Miklahvelli eða frumstæðri heimsmyndasmíð, er hefur í för með sér hinar eða þessar afleiðingar.

Ég ætla að reyna að skýra mál mitt betur á nokkrum mínútum með einni ímynd: í stað þess að tala um fóstrið og nýburann, þá ætla ég að tala um jarðarmöndulinn, um þennan öxul jarðar sem setur manninum eftirtalin þrjú skilyrði sem ekkert okkar fær umflúið, og tengjast hreyfingu jarðarinnar eða öllu heldur samhæfingu sérhvers mannlegs atburðar og tiltekins tíma, dagsetningar og stundar.

Núna er dagur, ekki nótt, klukkan er ellefu að morgni þennan dag á þessari árstíð og á þessum tíma æviskeiðs axis terrae,(jarðarmöndulsins). þetta er fyrsta skilyrðið sem við megum ekki gleyma.

Annað skilyrðið er að ég tala til ykkar út frá mínu aldursskeiði. Það er ekki bara að maðurinn sé staðsettur á sérstöku tímaskeiði jarðarinnar, hann er staðsettur á sínu tímalega æviskeiði, hann er ungbarn, krakki, maður, fullvaxta og gamalmenni.

Þriðja skilyrðið er að sérhver manneskja tilheyrir tilteknum upprunalegum hóp, tiltekinni menningu, samfélagi og tungumáli, og þetta segir okkur að skilyrðin eru aldrei í þínum höndum, þetta sagði Husserl einu sinni í snjallri ritgerð.

Hin tolemaísku[2] skilyrði eru óyfirstíganleg , við getum ekki frelsað okkur undan Því tolemaíska skilyrði að vera afkvæmi tímans, aldursskeiðsins og menningarinnar. Hver og einn, alltaf. Við tökum þessi tolemaísku skilyrði með okkur, einnig til tunglsins eða hvert sem við viljum fara. Hinir tolemaisku skilmálar eru, ef svo mætti segja, skilyrði okkar kópernísku þekkingar[3]. Þannig þurfum við að tengja Husserl við Giordano Bruno.

Þessir þrír skilmálar jarðarinnar eiga rætur sínar í „móður jörð“, og stafa þannig af heildarmynd heimsins, þar sem hin kóperniska hugmynd er ekki þekkingarfræðilegs eðlis, eða öllu heldur er kópernínsk í þeim skilningi að hún verður að siðfræði. Að þeim mörkum sem Giordano Bruno verður túlkaður í gjörningi sem verður kópernískur,  þar sem hann er að stofni til tolemaískur.

Þegar við sjáum þessi tvöföldu samtímalegu tengsl, þá sjáum við ráðgátuna sem felst í sambandi nýburans og forföðurins, á milli atburðar og áforma sem einungis þannig öðlast siðferðilega merkingu er kennir okkur að anda að okkur einhverri lausn. Ég þakka kærlega fyrir áheyrnina, ég er sæll að vera hér meðal ykkar og ef um spurningar að ræða…. (rödd Sini drukknar í lófaklappi viðstaddra).

…………………

[1] Hugtakið „jákvæður“ í þessu samhengi er þýðing á „positivo“ og merkir hér þekking sem byggir á sannri reynslu

[2] Skilyrði sett af gríska stjarnfræðingnum Claudius Ptolomaeus (gríska Ptolemaikos) er setti fram skipulega heimsmynd jarðarmiðjunnar í borginni Alexandríu í Egyptalandi á 2. öld e.Kr.

[3] Þekking heimsmyndar Kóperníkusar um sólarmiðjuna frá 16. öld.

 

TÍMINN ER EKKI TIL

Ítalski eðlisfræðingurinn Carlo Rovelli færir  sönnun fyrir því að tíminn sé ekki til á TED Como-fyrirlestri nýverið. Fyrirlesturinn tekur 15 mínútur og er með enskum texta á þessari vefslóð:

 

JEAN-LUC NANCY OG VEGSUMMERKI LISTARINNAR

Jean-Luc Nancy (1940 - 2021) er meðal kunnustu heimspekinga Frakklands á síðari hluta 20. aldar. Hann hefur skilið eftir sig fjölmörg rit um tilvistarvandamál í samtíma okkar, um verufræði, stjórnmál, trúmál og listir, en hann starfaði lengst af sem prófessor í heimspeki við háskólann í Strasburg. Skrif hans um listir hafa vakið sérstaka athygli, ekki síst um samtímalist. Hann hefur meðal annars skrifað fyrir Listasafn Reykjavíkur inngang að bókinni "Sjónarmið - Á mótum myndlistar og heimspeki". Í þessari frumlegu ritgerð leggur Nancy út frá hugleiðingum Hegels um endalok listarinnar og skýrir þær þversagnir hughyggjunnar sem liggja til grundvallar þeim endalokaspám sem einkennt hafa listumræðuna á Vesturlöndum í langan tíma og byggja á þeirri tvíhyggju sem felst í Hugmyndinni annars vegar og hinni efnislegu og skynjanlegu eftirgerð hennar hins vegar. Þessi þýðing er unnin upp úr ítalskri útgáfu Diabasis á ritgerðasafninu Le Muse í þýðingu Chiara Tartarini frá 2006.Þýðingin er frá 2013.
Jean-Luc Nancy
Vegsummerki listarinnar

eða „Le vestige de l‘art“

Hvað er það sem lifir eftir af listinni? Kannski bara slóð hennar, vegsummerkin. Það er í það minnsta umhugsunarefni okkar nú, enn einu sinni. Með því að leggja til að yfirskrift þessarar ráðstefnu verði „Vegsummerki listarinnar“ (Le vestige de l’art) hef ég aðeins eitt í huga: með þeirri fullyrðingu að það eina sem eftir lifi af listinni sé farvegurinn – hverful slóð og nær ómerkjanleg brot – vonast ég til að geta leitt okkur á slóðir sjálfrar listarinnar, eða í það minnsta á slóðir einhvers sem nálgaðist kjarna hennar, ef við gefum okkur þá tilgátu að það sem eftir standi sé jafnframt það sem veitir mesta viðnámið. Síðan þurfum við að spyrja okkur þeirrar spurningar, hvort þessi kjarni falli ekki undir skilgreiningu slóðarinnar, og hvort listin sýni ekki best eigin inntak og átakasvæði þegar hún gerir sig að eigin ummerkjum. Þetta merkir að þegar listin hefur  yfirgefið mikilfengleik þeirra verka sem skapa heima, þá virðist sem hún sé liðin hjá, þar sem hún sýni ekki annað en eigin farveg. Þetta verður viðfangsefni okkar hér í dag, við munum kanna til þrautar hvað felist í vegsummerkjunum (le vestige).

Við erum stödd hér í Jeu de Paume safninu, þar sem þið hafið hvatt mig til að ræða málefni samtímalistarinnar – á þessum undarlega stað þar sem listin gerir ekki annað en að fara hjá. Það sem eftir situr er hið liðna, umgangurinn á milli vettvangs nærveru og lífs sem listin á í flestum tilfellum ekki afturkvæmt til. (En kannski er safnið ekki „staður, heldur saga“ eins og Jean-Louis Déotte hefur sagt[i], samheiti sem er vettvangur umferðarinnar sem slíkrar, gegnumstreymisins frekar en fortíðarinnar; vettvangur ummerkjanna (vestige)).

Hvarvetna spyrja menn sig, á milli vonar og ótta, hvort list okkar tíma sé ennþá list. Þetta eru aðstæður fullar af fyrirheitum, andstætt því sem bölsýnisfólkið heldur fram, því þær sýna að fólk er enn að velta fyrir sér hvað listin sé.  Eða með öðrum og veigameiri orðum, hver sé kjarni hennar. Orðið kjarni er þungavigtarorð, sem kann hugsanlega að vekja þá grunsemd hjá einhverjum að með því sé heimspekin að taka sér vissan skilgreiningar- eða eignarrétt . En við ætlum okkur hins vegar að losa um þetta orð og gera það að sínum eigin ummerkjum. Eins og er lítum við til þeirra fyrirheita sem í því kunna að felast.  Mun þessi umræða kenna okkur eitthvað nýtt um „kjarna“ listarinnar?

Fyrst og fremst þurfum við að skýra málin, því í gangi eru margs konar umræður sem blandast saman.  Þær hafa kannski upphaflega sameiginlega forsendu eða sameiginlegt sjónmál í því sem við köllum tilveru listarinnar, en hér  verður nauðsynlegt að greina á milli ólíkra sviða. Ég mun leiða umræðuna áfram stig af stigi með tölusetningu, nánar tiltekið í 10 tölusettum liðum.

1.

Fyrst höfum við umræðuna um listmarkaðinn, eða listina sem markaðsvöru, og hvernig markaðurinn hafi grafið undan henni og tæmt hana af inntaki sínu og veru. Þetta er eins og við vitum umræða um staði og vettvang þessa markaðs, um virkni hans og þau einkafyrirtæki og þær opinberu stofnanir er koma að honum, hvaða hlutverki markaðurinn gegni  í „menningunni“, allt umræða sem er full af ágreiningi.

Ég ætla hins vegar ekki að fjalla um þessi ágreiningsefni. Ég er ekki dómbær um þau. Enn einu sinni býð ég einungis upp á umræðu um kjarna listarinnar eða ummerki hans – og þar með umræðu um söguna sem leiðir til slíkra vegsummerkja.  Slík umræða leiðir okkur ekki umsvifalaust  að tilteknum verklagsreglum.  Samningaleiðin á milli ólíkra forsendna er af öðrum toga. Ég mun því ekki bjóða fram „kenningu“ er boði nýtt verklag,  eða nýja framkvæmd markaðsins, og enn síður nýjar verklagsreglur listarinnar sjálfrar.

En um leið og ég kem inn á umfjöllun um samspil listarinnar og umræðunnar um hana, og það á okkar tímum, þar sem slík umræða hefur verið túlkuð sem merki um ofvöxt heimspekinnar  og meira og minna tvíræða meðábyrgð hennar á gífurlegri verðbólgu og virðisauka í listheiminum eða á kostnað hans, þá vil ég hér nota tækifærið og halda fram hinu þveröfuga, að vinnan við það að hugsa og segja frá listinni eða ummerkjum hennar sé í sjálfu sér með einstökum hætti samofin og innifalin í  sjálfri listsköpuninni. Þannig hefur það verið frá því „listin“ kom til sögunnar,  (hvenær svo sem við viljum tímasetja fæðingu hennar, í Lascaux hellamálverkunum, meðal Forn-Grikkja eða með þessum vatnaskilum, þessum umskiptum sem við köllum „endalok listarinnar“). Í öllum þessum tilvikum setur listin fram spurninguna um „tilveru“ sína: leitar að slóð sinni og uppruna.  Kannski hefur hún alltaf falið í sér tiltekið samband við slóð sína (vestige) og  upprunarannsókn (investigation).

(Hins vegar virðast mörgu listaverk samtímans –kannski of mörg – setja sér það meginmarkmið að grafa undan fræðilegum forsendum sínum, að minnsta kosti verður vart annað séð, – en  það er annað form vegsummerkja.  En einmitt þessi staðreynd er til marks umþá leyndu þrá sem þjáir listamennina, og er á engan hátt „fræðileg“: þörfina á að sýna „listina“ sjálfa, þörfina á eigin έχϕϱασιϛ  (ekphrasis= skýringartexti, neðanmálsgrein).)

Hvað varðar markaðinn, þá vildi ég bæta því við, að ekki nægir að fordæma hvernig listaverkin eru háð fjármálavaldi kapítalismans þegar sýnt er fram á hvernig verðlagning listaverka fer úr böndunum – eða hvað valdi því að sjálft gildi verkanna fari út af sporbrautinni , ef svo mætti að orði komast, (út frá notagildi, siðferðisgildi og einnig merkingarlegu gildi).

Málið snýst hvorki um að afsaka né heldur réttlæta hvað sem er, né heldur að leiða hjá sér að markaðurinn hafi ekki bara áhrif á viðskipti með listaverkin, heldur líka á þau sjálf. Við þurfum eingöngu að segja: siðferðisleg fordæming fullnægir okkur engan veginn. Þetta er heldur engin nýlunda ef litið er til sögu listarinnar – hún þurfti ekki að bíða eftir okkur til að verða saga listmangaranna.  (Það sem er nýtt er eingöngu aðstæður efnahagslífsins og fjármagnsins. Með öðrum orðum,  þá er hér um pólitískan vanda að ræða í dýpstu, erfiðustu og  vandmeðförnustu merkingu þess orðs). Listin hefur kannski alltaf staðið utan markaðslögmálanna, ótæk vegna ofgnóttar eða skorts. Við þurfum að hugleiða þennan útafakstur af sporbrautinni  (í gegnum marvíslega miðlun, afvegaleiðslu og blekkingar) í samhengi við hin erfiðustu veðmál og viðkvæmustu vandamál er fylgja starfinu að hugsa listina: að hugsa og leggja mat á það sem er ómetanlegt eða utan allra verðlagsskala. Samkvæmt mælikvarða og á forsendum ummerkjanna (vestige).

2.

Í þeirri umræðu sem kenna má við „hreina fagurfræði“ getum við greint tvö svið.

Fyrsta sviðið: Það skilningsleysi og sú andúð sem samtímalistin vekur, er spurning um smekk. Í þessu tilfelli er öll umræða til góðs. Ekki í krafti þessa huglæga frjálslyndis varðandi smekk og liti (sem ekki eru umræðuefni), heldur vegna þess að í umræðunni um smekkinn og smekkleysuna (ef ekki er um að ræða almenna félagslega þvingun eða ofstæki) er hann ekki annað en bæling þess forms sem leitað er að, þess stíls sem er ósýnilegur meðan hann er í mótun og menn skynja áður en menn geta greint merkingu hans.  Smekkurinn og umræðan um hann er það sem listin færir okkur, samfara eigin ummerkjum.  Hann er tillaga um form, tillaga um skissu að tímabili eða heimi. Í þessum skilningi myndi ég óska mun meiri umræðu um smekkinn en raunin ber vitni… Að þau átök kæmu aftur upp í nýrri mynd sem við þekkjum frá Hernani (skáldsögu Victors Hugo um átök rómantíkur og klassíkur) eða Dada… Ég ætla ekki að leiða þessa umræðu lengra, en hún hefur eins og menn vita verið mörkuð af Kant. (Nema til að benda á, að á okkar tímum er ekki hægt að tefla fram „heimi“ sem viðmiði. Ekki er  við listamennina eða listina að sakast um þessa vöntun, eins og sumir gera, heldur við „heiminn“ eða fjarveru hans…).

Annað svið (sem útilokar ekki hið fyrra, en þar sem smekkurinn á ekki við). Án þess að vera sér þess meðvituð eða vilja vita það taka skilningsleysið og andúðin sjálf mið af því, rétt eins og hömlulaus lofsöngurinn, að listin getur ekki lengur skilið sjálfa sig né fallið undir þær reglur sem henni voru áður eiginlegar.  Trúlega felur sérhvert verkefni sem helgast af hugtakinu „list“ í sér einhverjar leifar slíkra reglna: þegar við segjum „list“ höfum við að minnsta kosti alltaf í huga „hina miklu list“, það er að segja eitthvað í líkingu við þau stóru form sem eru „meðvituð endurspeglun heimsmyndar síns tíma“ (þetta er setning höfð eftir Lawrence Durell úr Alexandríukvartettinum). Þegar við segjum „list“  köllum við fram yfirbragð (cosmetica) sem hefur til að bera kosmíska vídd, vídd er varðar byggingu og jafnvel sköpun alheimsins. En ef engum alheimi (cosmos/ χοσμοϛ) er til að dreifa, hvernig getum við þá gert tilkall til slíkrar listar? Skorturinn á χοσμοϛ er kannski grundvallar stærðin í okkar heimi: orðið heimur hefur á okkar tímum ekki sömu merkingu og χοσμοϛ. Þetta felur í sér að „list“ getur ekki merkt „list“ í þessum skilningi. (Þetta var röksemdin fyrir upphaflegri tillögu minni að yfirskrift þessa fundar: „Listin án listar“).

Með því að innrita borgríkið πόλιϛ (polis) inn í χοσμοϛ (kosmos/alheiminn) getum við skilið undirliggjandi merkingu í þessari setningu Georges Salles: „Listin greinir sig frá því sem á undan kom og gerir sig einmitt vegna þess að hún tjáir annars konar raunveruleika miðað við einfalda formlega umbreytingu: hún endurspeglar annan mann. […] Það sem við þurfum að festa hönd á er hvenær tiltekin formleg fylling gerir sig gildandi sem trygging fyrir fæðingu nýrrar samfélagsgerðar.“[ii] En þar sem heimur okkar er ekki lengur kosmískur, þá er okkar πόλιϛ (polis/borgríki) ópólitískt í þeim skilningi sem þessi orð gefa til kynna.

Auk afmörkunar þessa kosmoslausa heims og þessarar „ópólitísku“ borgar er því við að bæta sem ekki ber að vanmeta, og kemur fram í hinni frægu yfirlýsingu Adornos:  „Eftir Auschwitz verður öll menning, líka sú sem beitir fyrir sig áríðandi gagnrýni, að sorphaugamat.“[iii]  Auk þess gildis sem orðið „Auschwitz“ felur í sér, verður það hér að samheiti yfir mörg önnur óbærileg fyrirbæri. Þessi ummæli réttlæta hins vegar ekki að listaverkinu sé breytt í „sorphaugamat“.  Það verður þvert á móti skelfilegur endurómur þeirrar athugasemdar sem Leiris lét frá sér fara löngu fyrir stríðið, eða árið 1929: „Eins og málum er háttað er ekki lengur hægt að sýna eitthvað sem ljótt eða viðbjóðslegt. Jafnvel saurinn verður fallegur.“[iv] Við getum hvorki losað okkur undan ruslahaugum heimsins og heimsósómans né breitt yfir þá. Það er þannig sem engum χοσμοϛ (kosmos) er til að dreifa. Við höfum hins vegar engin hugtök um list án χοσμοϛ og án πόλιϛ, rétt eins og slík list eigi að vera til staðar, eða að enn sé um „list“ að ræða.

Þannig eru allar þær ásakanir, tilvísanir og öll þau hvatningarorð sem beint er til listarinnar á forsendum  hins ímyndaða χοσμοϛ eða tiltekinnar πόλιϛ, sem listin ætti að standa ábyrg fyrir eða ganga sjálfkrafa út frá, staðlausir stafir, því slík tilgáta á sér að okkar mati enga haldbæra forsendu. Þannig er ekki hægt að hugsa sér þann vettvang „listarinnar“ þar sem hægt væri að beina til hennar slíkum spurningum, tilmælum eða bónum.

Í þessum mæli – sem er í raun ómælanlega víður – beitir listin sjálfa sig óvægilegum gjörningi og áreynslumiklu ferli er tekur mið af eiginlegum kjarna hennar sem er orðinn að ráðgátu, ráðgátu sem birtist í hennar eigin ummerkjum (vestige). Ekki í fyrsta skiptið: kannski er öll saga listarinnar mörkuð spennu og þvingunum gagnvart hennar eigin ráðgátu. Spennu og þrengingum sem virðast á okkar tímum vera í hámarki. Kannski virðist það bara vera þannig. Kannski sjáum við hér blossa upp átök sem eiga sér að minnsta kosti 10 alda sögu – eða allt frá tilurð Vesturlanda. Eitt er að minnsta kosti ljóst, að „listin“ stendur völtum fótum á merkingu sinni, rétt eins og „heimurinn“ á reglu sinni og áfangastað. Í þessum skilningi er enginn ágreiningur um hvert skuli stefna:  við verðum að fylgja þessum gangi mála, og við verðum að kunna að gera það. Það tilheyrir reglu og skyldu hinnar ströngustu þekkingar, en ekki ásökununum, formælingunum eða hinum blindu lofgjörðum.

3.

Rétt er að hafa í huga að allar ásakanirnar eða einföldu fullyrðingarnar um tæmingu listarinnar eru komnar til ára sinna. Kant skrifaði að kannski hefði listin „náð óyfirstíganlegum mörkum sínum, sem ekki yrði lengur hliðrað til.“[v] Í málflutningi Kants rekast slík mörk á við ómælanlega aukningu þekkingarinnar. Hér er ekki um staðfestingu á endanlegri tæmingu að ræða, heldur er þetta fyrsta yfirlýsingin um „endamörk“ undir hinu tvíræða formerki óstöðvandi fullnustu listarinnar. Við þekkjum einum of vel yfirlýsingar Hegels um að listin tilheyri fortíðinni sem birtingarmynd hins sanna. Renan, sem kannski hafði í heimildarleysi eftir Hegel, skrifaði í lok 19. aldarinnar: „Hin mikla list […] mun hverfa. Sú tíð mun renna upp, að listin tilheyri fortíðinni.“[vi] Duchamp gaf frá sér þessa yfirlýsingu: „Listin hefur þegar verið hugsuð til grunna“.[vii]

Einungis athugasemdir við þessar fjórar fullyrðingar og afdrif þeirra myndu kalla á gríðarlega vinnu. Ég læt mér hér nægja að draga fram eina niðurstöðu. Listin á sér sögu, kannski er hún hrein saga í sjálfri sér, það er að segja ekki framþróun heldur umgangur, atburðarás, birting, brotthvarf, atburður. [viii] En hún býður alltaf upp á fullkomnunina, upp á framkvæmdina. Ekki fullkomnun sem endanleg markmið og endamörk sem stefnt er að, heldur þá fullkomnun sem felst í komu og kynningu eins staks hlutar, eins og það sem er mótað fullkomlega í samræmi við veru sína, í sinni entelechia, svo stuðst sé við orð frá Aristótelesi sem merkir „veru mótaða fullkomlega samkvæmt markmiði sínu“. Um er að ræða fullkomnun sem er stöðugt í gangi, en leyfir ekki framþróun frá einni entelechia til annarrar.

Þannig er saga listarinnar saga sem dregur sig sífellt til hlés og fyrirvaralaust, frá sögunni og sagneðli sínu í skilningi framvindu og „framfara“. Við gætum orðað þetta þannig: listin er ávalt í einu og öllu önnur list (ekki bara annað form, annar stíll, heldur annar „kjarni“ „listarinnar“) –allt eftir því hvernig hún „svarar“ öðrum heimi, annari πόλιϛ, – en hún er um leið allt sem er, það er að segja öll listin í sjálfri sér…

Þessi framkvæmd án enda, eða öllu heldur þessi endanlega fullvinnsla, ef við höfum í huga framkvæmd sem takmarkast við það sem hún er, og opnar einmitt þess vegna  fyrir tilkomu annarrar framkvæmdar, og er því einnig óendanleg fullvinnsla – þessi þversagnafulli háttur fullkomnunarinnar er kannski það sem öll listhefð okkar kallar á og forðast um leið að hugsa. Þessi tvíræði gjörningur á sér djúpstæðar forsendur, sem við komum að síðar. En með þessum tvíræða  hætti vísar hefðin á endamörkin, á endalokin í sinni einföldustu mynd, og brátt á sjálfan dauðann sem í raun gæti verið afskrift tiltekins forms, skyndimynd tiltekins gjörnings, brottfall tiltekinnar birtingar – og því ávallt tiltekið brotthvarf.  Erum við þess megnug að hugsa þetta? Þið verðið að skilja að þetta felur í sér að hugsa ummerkin (vestige).

Um er að ræða knýjandi nauðsyn.  Því ef atburður listarinnar fullkonar sig til þess að hverfa, ef hann endurtekur sig í sögu sinni, ef hann jafnvel spinnur þessa sögu sína sem hrynjandi  endurtekninga sinna (og ég legg áherslu á að þetta hafi jafnvel gerst hljóðlega allt frá Lascaux), þá merkir það að atburðurinn hafi einkenni nauðsynjarinnar fyrir listina. Við getum ekki komist í gegnum þetta með útskúfunar- og blessunarorðum. Þar sem ég ætla mér ekki hér og nú að fara inn í umræðu um smekkinn ætla ég þar af leiðandi ekki heldur að leggja endanlegan dóm á samtímalistina, dóm sem til góðs eða ills myndi meta hana á mælikvarða hinnar endanlegu fullkomnunar (sem væri um leið óhjákvæmilega guðfræðilegur dómur og þar með kosmólógiskur og mannfræðilegur). Þvert á móti legg ég til rannsókn á hvers eðlis „full-komnunin“ eða hin endanlega/óendanlega fullkomnun sé í því sem eftir lifir þegar verk sýnir sig og þráast við að sýna sig.  Hugsun mín snýst um þetta: endanlega full-komnun, eða fullkomnun slóðarinnar.

4.

Ef við viljum vera nákvæm og gaumgæfa vel orðin og sögu þeirra, þá verðum við að viðurkenna að til er skilgreining listarinnar sem felur allar aðrar skilgreiningar í sér (að minnsta kosti á Vesturlöndum – en „listin“ er vesturlenskt hugtak.) Við getum með nokkurri vissu sagt það um skilgreiningu Hegels:  listin er hin skynjanlega birtingarmynd Hugmyndarinnar. Engin önnur skilgreining er það frábrugðin, að hún feli í sér beina andstöðu við þessa. Hún felur í sér veru og kjarna listarinnar fram að okkar tímum. Ólík blæbrigði sem við getum fundið allt frá Platóni til Heideggers (a.m.k. fram að hinum kunna texta Um uppruna listaverksins; – öðru máli gegnir um fyrstu útgáfu textans eins og Emmanuel Martineau gekk frá honum 1987. Hér er ekki tilefni til frekari könnunar þessa máls, sem væri þörf.) Eftir það er komið að okkur: við ræðum  og skeggræðum um hið ytra og innra í þessari skilgreiningu. Við þurfum að takast á við hana, hún varðar grundvallaratriði, sem mig langar til að sýna fram á að við höfum náð að yfirvinna.

Þessi skilgreining veldur heimspekinni ekki bara hugarangri, heldur kallar hún á skilgreiningar er virðast standa utan hinnar heimspekilegu orðræðu. Tökum dæmi af orðum Durells, sem ég vitnaði til hér að framan; þau segja ekki annað en þetta. Eða orð Josephs Conrad: „listina […] má skilgreina sem tilraun einstaklings til að gera hinum sýnilega heimi skil með því að leiða sannleikann í ljós, margbreytilegan sannleika en samt einn, eins og hann hvílir á bak við allar myndir heimsins.“ [ix] Eða þessi skilgreining sem Norman Mailer hefur eftir Martin Johnson: „Listin er miðlun tilfinninganna“[x], eða Dubuffet: „Það er engin list án ölvunar. Hvað þá, geggjaða ölvun! Láttu rökhugsunina veltast! Hvílík geggjun! […] Listin er ástríðufyllsta æðið sem maðurinn getur fundið…“[xi]

Til þess að höndla ekki bara einfalda samsemd, heldur djúpa sameiginlega merkingu þessara sjónarhorna, nægir að hafa í huga að hin hegelska Hugmynd er alls ekki það sama og hin vitsmunalega Hugmynd. Hún er hvorki hinn hugsaði skilningur né hugmynd framsetningar.  Hugmyndin felur í sér samsöfnun ákvarðana Verunnar í sig og fyrir sig (við getum líka gróft tiltekið kallað hana sannleika, merkingu, frumlag, sjálfsveru). Hugmyndin er kynning verunnar eða hlutarins fyrir sér sjálfri. Hún er þannig sinn innri sýnileiki og mótun, eða hluturinn sjálfur sem hið séða , bæði í mynd nafnorðsins (ít.: „vista“ )(hluturinn séður og höndlaður í sýnilegu formi)  og sem lýsingarorðið (hinn séði hlutur, höndlaður í formi sínu út frá sjálfum sér eða kjarna sínum).

Það er í þessum  skilningi sem listin er hinn skynjanlegi sýnileiki þessa skiljanlega (og þar af leiðandi ósýnilega) sýnileika. Hið ósýnilega form (sem Platon kallaði eidos) hverfur inn í sjálft sig og gerir sig sýnilegt. Þannig leiðir hún í ljós og sýnir Veru sína sem form og form Veru sinnar.  Allar stórar hugsanir um „eftirlíkinguna“ hafa aldrei snúist um  annað en eftirlíkingu Hugmyndarinnar  eða myndarinnar, þessarar Hugmyndar –(sem þið skiljið vel að er ekki annað en sjálfspeglun tilverunnar, hermilist hennar í handanverunni). Þar af leiðandi eru allar hugsanir Hugmyndarinnar hugsanir myndarinnar eða eftirlíkingarinnar. Einnig og umfram allt, þegar horfið er frá eftirlíkingu ytri forma eða í þessum skilningi, frá „náttúrunni“. Allar slíkar hugsanir eru þannig guðfræðilegar,  því þær þrjóskast við að snúast í kring um hið mikla viðfangsefni „hinnar sýnilegu myndar hins ósýnilega Guðs“, sem var skilgreining Krists hjá Origen.

Allur módernisminn sem talar um hið ósýnilega, eða hið ósýnanlega, er þannig stilltur inn á braut þessa viðfangsefnis.  Það er alltaf þetta sem skýrir setninguna sem grafin er á legstein Pauls Klee og Merleau-Ponty vitnar til: „Ég er óhöndlanlegur (ósýnilegur) í nánd minni og íveru (immanenza). [xii]

Það sem gildir hér er sýnileiki hins ósýnilega sem slíks, eða framsetning hugmyndarinnar, einnig í þversagnarkenndri nærveru eigin hyldýpis, eigin formyrkvunar eða eigin fjarveru.  Það er einmitt þetta sem myndar fegurðina, allt frá Platóni til okkar daga, og enn frekar frá Plotínusi, en samkvæmt honum felst nálgun fegurðarinnar í því að verða ég sjálfur, í minni innstu veru, hreint ljós og hrein sýn, „einasta augað sem greint getur hina æðstu fegurð.“ Hina æðstu fegurð eða dýrð sannleikans eða merkingar verunnar. Listin, eða hin skynjanlega merking hins algilda skilnings. Enn í dag er það þetta sem lætur hið fagra yfirbjóða sjálft sig í hinu „háleita“ og síðan í hinu „hryllilega“ eins og í hinu „gróteska“ og í „íróníunni“, í almennu brottfalli (entropia) formanna eða í hreinum og klárum ready made hlut.

5.

Sumir hrapa kannski í flýtinum að eftirfarandi niðurstöðu: listin er komin á endastöð sína og hefur lagt upp laupana vegna þess að ekki er lengur til staðar nein Hugmynd sem hægt er að kynna eða vegna þess að listamaðurinn vill ekki lengur vera í því hlutverki (eða hefur misst sjónar á merkingu hugmyndarinnar). Ekki sé lengur um neina merkingu að ræða, eða menn vilji ekki lengur vita af henni. Við erum flækt í afneitun merkingarinnar og í „viljanum til endalokanna“ sem Nietzsche notar til að lýsa tómhyggjunni. Þannig er listamaðurinn leynt eða ljóst beðinn um að endurheimta Hugmyndina, hið Góða, hið Sanna og hið Fagra…

Þetta er veikburða orðræða þeirra sem telja að það nægi að veifa fánum „gildanna“ og halda á lofti siðferðilegu ákalli. Jafnvel þótt viðurkennt sé að tiltekinn listamaður haldi fram vissri tómhyggju (þeir listamenn sem Nietzsche sagði að „kysu heldur sögu og náttúru kaldhæðninnar“ [xiii]) þá þurfum við engu að síður að beita allt öðrum aðferðum við að rannsaka rætur og afleiðingar slíkrar tómhyggju og draga af henni aðrar niðurstöður. Að svo miklu leyti sem listin nær tilteknum endamörkum í raun, þar sem hún nær því marki að raungera og draga um leið eigin endamörk, þó hún sé ennþá skilgreind og skilin sem „skynjanleg birtingarmynd Hugmyndarinnar“, þá nemur hún staðar og afvopnar sjálfa sig undir síðasta ljósgeisla Hugmyndarinnar, í hinum hreina og myrka afkima hennar.  Á þessum mörkum er ekkert eftir lengur nema sjálf hugmyndin um listina, eins og hreinn og klár kynningargjörningur sem hverfist um sjálfan sig.  Slíkar leifar virka hins vegar ennþá sem Hugmynd, meira að segja sem hin hreina Hugmynd hinnar hreinu merkingar, eða eins og fullkominn sýnileiki án annars inntaks en ljóssins sjálfs: eins og hinn hreini og myrkvaði kjarni algildrar sjálfshermilistar.

Ekkert hljómar jafn platónskt eða hegelskt eins og þau form þar sem hreinleikinn einn ríkir, efnisleg eða hugmyndaleg hreinsun sem birtist í formi naumhyggju, gjörnings eða atburðar. Segja má um slíka list að hún sé list botnfalls hugmyndarinnar. Slík Hugmynd kveikir engu að síður – ef hún hefur virkni botnfallsins – óendanlega þrá eftir merkingu og sýningu merkingar. En þetta botnfall er ekki það slóðareinkenni sem hér verður til umfjöllunar, heldur ranghverfa þess.

Satt að segja er mikilvægustu þætti í samtímalist okkar ekki að finna í formleysu eða afmyndun, í smekkleysu eða hinu auvirðilega, heldur í leitinni, viljanum og lönguninni eftir merkingu. Það er löngun til að gefa merkingu og sýna – heiminn og heimsósómann, tæknina og þögnina, sjálfsveruna og fjarveru hennar, líkamann, sýndarveruna, merkingarleysuna, eða hreinan og kláran vilja til að merkja.  „Leitin að merkingu“ er meira og minna meðvitað leiðarstef þeirra sem gleyma, eins og Wagner í Parsifal, að formgerð rannsóknarinnar er formgerð flóttans og glötunarinnar, þar sem hin eftirsótta merking tapar smátt og smátt öllu blóði sínu.

Þannig láta þeir kröfu eða áköll hugmyndarinnar taka sig kviknakta í bólinu. Ekki síst fyrir þá sök að þeir eru gjörsnauðir af viðmiðum og lyklum að slíkum viðmiðum (sem eitt sinn heyrðu undir trúarbrögðin, goðsögurnar, sögrnar, hetjudáðirnar, náttúruna, tilfinningarnar, áður en þau urðu lyklar sjónarinnar sjálfrar eða skynjunarinnar, atburðarins eða efnisins og þannig áfram allt til hins sjálfsvísandi forms).  Þar sem þessi eftirspurn eftir Hugmyndinni birtist okkur í listinni í sinni einföldustu og áköfustu mynd, sjáum við listina tæma sig og ganga sér til húðar: eftir stendur ekki annað en hin frumspekilega löngun hennar. Hún er ekki annað en endurvarp, útkall í átt að endamörkum/endamarkmiði, er beinist að innantómu τελος/θεός  (telos/þeos) sem hún getur enn myndgert. Semsagt tómhyggja, en eins og einföld ranghverfa hughyggjunnar/Idealismans.  Ef Hegel leit svo á að listin hefði lokið hlutverki sínu vegna þess að Hugmyndin hefði náð að sýna sig í sinni eigin mynd, í hinu heimspekilega hugtaki, þá var sjónarmið tómhyggjusinnans hið gagnstæða: listin endar á því að sýna sjálfa sig í sínu eigin inntakslausa hugtaki.

6.

Með þessu höfum við hins vegar ekki tæmt alla möguleika á skilgreiningu listarinnar – og  möguleika listarinnar sjálfrar. Við höfum ekki lokið reikningsskilunum á endalokum og endamarkmiðum hennar, en þau fela í sér flókna afkima sem eru rótin að öllum ögrunum listarinnar á okkar dögum.  Til þess að ná utan um þennan afkima þurfum við að ganga skrefinu lengra í greiningunni á „sýningu Hugmyndarinnar“.

Þetta eru skref sem ná yfir tvenna tíma, þar sem sá fyrri nær ennþá til Hegels, (og til allrar hefðarinnar í gegnum hann) en seinni tíminn varðar tímann frá endamörkum Hegels til okkar daga (í gegnum Heidegger, Benjamin, Bataille, Adorno).

Fyrra tímabilið segir okkur að „hin skynjanlega birtingarmynd Hugmyndarinnar“ sé algild frumforsenda Hugmyndarinnar. Með öðrum orðum gæti Hugmyndin ekki verið það sem hún er – kynning hlutarins í sannleika sínum – nema fyrir tilverknað og gegnum þessa reglu skynjunarinnar. Hún er hvort tveggja í senn, eigin úthverfa og úthverfan sjálf sem hið brottnumda í afturhvarfinu til sjálfrar sín sem Hugmynd. Hugmyndin verður að stíga út úr sjálfri sér til að verða hún sjálf. Þetta er það sem við köllum díalektíska nauðsyn. Eins og allir sjá, þá felur þetta í sér vissa tvíræðni:  annars vegar er listin ávalt nauðsyn – og hvernig gæti hún þá hætt að vera til? – en hins vegar eru endalok Hugmyndarinnar boðuð. Ég ætla ekki að dvelja frekar við þessa tvíræðni, þó vissulega sé margt hægt að læra af því hvernig hún hefur haft mótandi áhrif á Fagurfræði Hegels, og flækt hana með duldum hætti, eða jafnvel grafið undan áætluninni um „endalok listarinnar“.

Ég vil huga að síðara tímabilinu, því sem Hegel náði ekki að lifa, og getur ekki náð utan um, en situr eftir til frambúðar sem dreggjar tvíræðninnar (og er sá tími sem þessi tvíræðni opnar með sínum hætti). Í stuttu máli má skilgreina þetta síðara tímabil með eftirfarandi hætti: þegar Hugmyndin kynnir sig dregur hún sig í hlé sem Hugmynd. Þetta er sú skilgreining sem við þurfum að kanna nánar.

Kynning Hugmyndarinnar felur ekki í sér útisýningu þess sem er fyrir innan, ef hið innra er það sem það er – „innrýmið“- hún felst einungis í útikynningu þess sem er útistandandi.  (Þegar upp er staðið er hér um að ræða stranga rökfræði sjálfspeglunarinnar.)  Í stað þess að finna sjálfa sig og hverfa aftur til sjálfrar sín sem hinn fullkomni ósýnileiki hins sýnilega það þurrkar Hugmyndin út fullkomleika sinn til þess að verða það sem hún er – en það felur í sér að hún getur ekki verið það sem hún er og getur aldrei orðið.

Með öðrum orðum: að merkingin felist í brotthvarfi Hugmyndarinnar, þar finnum við kannski það sem eftir situr af heimspeki Hugmyndarinnar, þar liggur kannski grafið það sem við eigum eftir að hugsa.

Þetta felur í sér að fráhvarf merkingarinnar verði ekki á nýjan leik ósýnanleg Hugmynd er þurfi að sýna, þar liggur það sem gerir þetta botnfall og hugleiðingu þess að sérstöku verkefni listarinnar. Því ef þetta fráhvarf felur ekki í sér ósýnilega hugmynd sem þarf að gera sýnilega, þá stafar það einvörðungu af því , að allt á sér stað á hinu sýnilega sviði eins og hið sýnilega sjálft (eða hið skynjanlega í heild sinni). Hér er því um að ræða verkefni fyrir listina sem fæli ekki í sér kynningu Hugmyndarinnar, heldur kallaði á öðruvísi skilgreiningu.

7.

Það er hér sem dreggjarnar verða að slóð eða ummerkjum (vestigio). Ef ekki er um neitt ósýnilegt að ræða, verður heldur engin sýnileg mynd hins ósýnilega. Með fráhvarfi hugmyndarinnar, eða með þeim atburði sem skekið hefur sögu okkar í tvær aldir (eða í 25 aldir…), þá dregur myndin sig líka í hlé. Og eins og við munum sjá, þá er slóðin hin hliðin á myndinni.

Myndin dregur sig í hlé sem eftirlíking eða vofa Hugmyndarinnar, hennar bíður ekki annað en að hverfa inn í þessa sömu huglægu nærveru. Hún dregur sig til hlés sem mynd af,  sem mynd af einhverju eða einhverjum sem væri ekki, hvorki það né hann, mynd. Hún eyðir sér sem eftirmynd eða ásjóna verunnar, sem ásjóna guðs á Veronikuklæðinu, sem  þrykkimynd tiltekins stimpils eða tjáning einhvers óhugsanleika.  (Takið eftir þessari setningu, því við komum síðar að þessu atriði, að kannski er það sem eyðir sér, tiltekin mynd: maðurinn sem ímynd Guðs.)

Í þessum skilningi erum við frekar myndlaus siðmenning en sú „siðmenning myndanna“ sem situr nú undir ásökunum um glæpi gegn listinni, því við erum siðmenning án Hugmyndar.  Á okkar tímum bíður listarinnar það verkefni að svara þessum heimi og að svara með honum.  Það snýst ekki um að gera myndir af þessari fjarveru Hugmyndarinnar, því í slíku tilfelli væri listin áfram bundin hinni veru- og trúfræðilegu reglu um mynd hins ósýnilega, reglu þessa Guðs sem menn áttu að „ímynda sér óhugsandi“  eins og Montaigne komst að orði. Hér er því um annars konar verkefni að ræða, og rök þess þurfum við að greina til hlýtar.

Ef listin er skilgreind sem samband myndarinnar og Hugmyndarinnar, eða samband myndarinnar og hins óhugsandi (tvöfalt samband sem í stórum dráttum ákveður skilin á milli hins fagra og hins háleita í hefðbundnum skilgreiningum heimspekinnar á listinni) þá mun gjörvöll listin augljóslega draga sig í hlé með myndinni. Það var einmitt þetta sem Hegel sá fyrir sér. Ef röksemdafærsla hans hlaut svo góðar undirtektir að hún var þróuð áfram og rangfærð, þá var það vegna þess að hún var sönn, vegna þess að listin hætti að gegna hlutverki sínu sem mynd. En það var hið verufræðilega og trúarlega hlutverk hennar: það er einmitt í trúarlegu samhengi sínu eða hlutverki sem hin hegelska list verður „erfðagóss fortíðarinnar“. En kannski byrjaði listin eða endurlifnaði með öðrum hætti, kannski byrjaði hún öðruvísi að verða sýnileg, kannski opinberaði hún ekki sýnileika sinn sem mynd, heldur lét hún skynja sig með öðrum hætti.

Út frá þessum skilningi sjáum við fyrir okkur hvernig heimur án mynda leggur fram í ríkum mæli, heilt fjall af myndum þar sem menn geta ekki fundið sig lengur, þar sem listin finnur sjálfa sig ekki lengur. Heilt flóð af sviðsmyndum (vedute) þar sem hið sjáanlega og skiljanlega er sjálft í molum og vísar ekki til neins. Sviðsmyndir sem veita ekki innsýn í neitt og sjá ekki neitt: sviðsmyndir án sýnar. (Sjáið fyrir ykkur útþurrkun þeirrar rómantísku veru þar sem listamaðurinn var sjáandinn). Eða hins vegar hið gagnstæða, heiminn yfirfullan af róttæku andófi myndanna, eins og Adorno segir[xiv],  og liggur þannig sjálfur undir grun um að vera hjátrúarfullur, ef það sem sérhver mynd hvílir á er einungis angistin andspænis „tóminu“.  Þessi „vísun í tómið“ opnar þannig sviðsmynd enn stærri tvíræðni:  annað hvort „tómið“ framsett af þráhyggju eða sjúklegri áráttu og skilið sem neikvæði Hugmyndarinnar, eins og neikvæð Hugmynd eða  hyldýpi Hugmyndarinnar (eins og tómarýmið í sjálfshermilist hennar) – eða þá að það er skilið með öðrum hætti. Það er einmitt það sem ég vildi gera að tillögu minni undir nafni þess næstum tóms sem felst í ummerkjunum (vestigium).

8.

Það sem eftir situr við fráhvarf myndarinnar , eða það sem situr eftir í brotthvarfi hennar, eins og sjálft brotthvarfið, er í raun og veru slóðin (vestigium). Þetta hugtak hefur borist okkur frá guðfræðinni og dulspekinni, og kannski ekki af ástæðulausu. Við höfum fengið það að láni til þess að aðlaga það markmiðum okkar.  Guðfræðingarnir hafa virkjað mismuninn á myndinni og slóðinni, til þess að geta greint á milli þess spors sem Guð hefur skilið eftir sig í hinni viti bornu skepnu annars vegar, í manninum sköpuðum í mynd Guðs, og hins vegar í öðrum formum þessa spors, í öðrum skepnum og verum sköpunarverksins. Þessi önnur form, eða slóðarformið, hafa eftirtalin einkenni (hér samkvæmt greiningu heilags Tómasar frá Aquino): slóðin (il vestigio) er fyrirbæri sem „stendur einungis fyrir orsakasamhengi orsakarinnar, en ekki form hennar“.[xv] Tómas tekur dæmi af reyknum, þar sem orsökin liggur í eldinum.  Þegar hann fjallar um merkingu orðsins vestigium, sem vísar einkum til iljarinnar eða skósólans, fótsporsins, bætir  hann við: „Vestigium samsvarar ekki orsök sinni eða fyrirmynd, ólíkt því sem við sjáum í „styttu Merkúrs sem stendur fyrir guðinn Merkúr“ og er mynd (immagine).  (Við þurfum að hafa í huga að samkvæmt aristótelískum skilningi er fyrirmyndin einnig orsök, hin „formlega orsök“.)

Í styttunni höfum við Hugmyndina, eidos, og líkneskju guðsins. Í reyk slóðarinnar (fumo vestigale) er eidos eldsins ekki til staðar. Hægt væri líka að segja að styttan byggi yfir sínu „innra“, eins konar „sál“, sem reykurinn hefði ekki. Eldurinn varðveitir ekki annað en brennslu sína. Við segjum gjarnan „þar sem er reykur, þar er eldur“, en hér hefur reykurinn fyrst og fremst gildi sem fjarvera eldsins, sem fjarvera forms eldsins. (Ólíkt þeim eldi, segir Heilagur Tómas, sem er tendraður fyrir tilverknað elds sem kveikir í.) Engu að síður hugum við ekki að þessari fjarveru sem slíkri, við tökum ekki tillit til ómögulegrar myndgervingar eldsins, heldur beinum við athygli okkar að nærveru slóðarinnar (vestigio), að leifum hennar og að opnun nærveru hennar.  (Vestigium er dregið af vestigare eða rekja slóð einhvers, hugtak af ókunnum uppruna sem ekki verður rakinn. Það felur ekki í sér rannsókn, heldur einungis verknaðinn að leggja spor sín í slóð annarra.)

Eldurinn er vissulega til samkvæmt guðfræðinni: hann er eldur Guðs – og það er einungis þessi eldur sem er til í raun og veru, í einu og öllu. Hitt eru aska og reykur (alla vegar eru þetta sjónarmið annars póls hinnar guðfræðilegu greiningar –á meðan hinn stendur fast við staðfestingu og játningu sköpunarverksins í heild sinni.)  Ég leita því ekki að beinum uppruna „slóðarinnar“ út frá guðfræðinni. Ef svo væri, væri ég enn með leifar guðfræðinnar innanborðs. Við höfum dæmi um þá staðreynd að slóðin hafi fullkomlega trúarlegt innihald í jaðar-helgisögnum íslams: farið eftir fótspor Múhameðs á því augnabliki er hann steig til himna. Á bak við hina kristnu guðfræði er líka að finna andlega og biblíulega hefð um sporin og slóðina. En spor Guðs verða áfram hans spor, og Guð eyðir sjálfum sér ekki í þeim. Við leitum annars; listin vísar til annars. Of mikil starsýni á orðið „slóð“ (vestigium), eins og á hvaða orð sem er, gæti orðið til þess að við gæfum því heilaga merkingu í einhverjum skilningi sem eins konar helgar líkamsleifar (annað form „leifa“). Hér þurfum við hins vegar að tileinka okkur merkingarfræði sem felur sjálf í sér slóðina: ekki láta merkinguna nema staðar frekar en fót förumannsins.

Það sem ég legg til hér og nú við þessar aðstæður –og þar er að mínu viti lagt beint út frá Hegel, – er að listin sé reykur án elds, slóð án guðs, en ekki framsetning Hugmyndarinnar. Endalok listarinnar sem myndgerving (immagine), fæðing listarinnar sem „vestigium“ eða slóð. Nema við áttum okkur á þeirri staðreynd að listin hafi alltaf verið „vestigium“ (og hafi alltaf verið undanskilin hinni trúfræðilegu-verufræðilegu hefð). En hvernig getum við skilið þetta?

9.

Í listinni þurfum við því að greina á milli myndar og slóðar – jafnt í hverju einstöku listaverki  og kannski í þeim öllum. Við þyrftum að greina á milli þess sem virkar eða þess sem kallar á skilgreiningu forskriftarinnar eða frumorsakarinnar, líka þeirrar neikvæðu, og þess sem setur fram eða sýnir  – einungis hlutinn, eitthvað,  og þannig séð hvað sem er, en ekki með hvaða hætti sem er, ekki sem (í)mynd Tómsins, og heldur ekki sem hreint niðurrifsstarf (iconoclastia). Eitthvað í formi eða mynd slóðar og ummerkja.

Þegar við reynum að greina ætluð markmið þessa einstaka hugtaks (vestigium) sem birtist eins og  framandi aðskotahlutur sem erfitt er að henda reiður á, mitt á milli nærveru og fjarveru, á milli alls og einskis, á milli myndar og Hugmyndar, þá þurfum við að sneiða hjá þessari díalektísku tvennu til þess að ná til  vestigium. Við þurfum fyrst og fremst að hafa í huga að fyrir guðfræðingunum er vestigium Dei hið skynjanlega, sjálfur skynjanleiki þess að vera skapaður. Maðurinn er mynd (imago) sem viti borinn en slóðin (vestigium) er skynjanleg. Þetta felur í sér að hið skynjanlega er sá þáttur eða sá háttur sem myndin notar til að eyða sér og láta sig hverfa. Þannig glatast Hugmyndin – en skilur eftir för sín, kannski, en ekki eins og spor forms síns: eins og hið troðna, spor hennar eigin fráhvarfs.  Ekki form sjálfshermu hennar, og heldur ekki hið almenna form sem eigin-eftirmynd, heldur það sem eftir situr þegar Hugmyndin hefur ekki átt sér stað.

Þar sem við höldum okkur á mörkum hins veru- og trúfræðilega þegar við göngum út frá Hegel til þess að fara fram úr honum, á slóð sem er honum framandi, þá förum við að ytri mörkum endanleika listarinnar, í þeim tilgangi að binda enda á þessi endalok með öðrum atburði. Þá megum við ekki skoða hlutina með gleraugum tvennunnar skynjandi sýning og tjáð hugmynd. Við þurfum að horfast í augu við vandann með eftirfarandi hætti:  formið-hugmyndin draga sig í hlé og slóðarform  þessa brotthvarfs  er það sem hinn platónski orðaforði okkar kallar „skynjanlegt“.  „Fagurfræðin“ sem rannsóknarvettvangur  og hugsun um hið skynjanlega fjallar ekki um annað. Farið er ekki hið skynjanlega far hins óskynjanlega: það er merki eða far hins skynjanlega sem sín eigin skynjun/merking (sens). Guðleysið sjálft (og kannski hafði Hegel þegar áttað sig á því).

Hvað getur þetta merkt? Reynum að ganga lengra í leit okkar að vestigium. Þetta hugtak merkir il fótarins og far hennar eða spor. Við getum dregið fram tvö einkenni þess sem eru ekki beinlínis tengd myndinni.  Í fyrsta lagi er fóturinn andstæða andlitsins, ilin er faldasta ásjóna eða yfirborð líkamans. Við gætum leitt hugann að framsetningunni í summa atheologica (Guðleysingja-grallaranum), í Kristi látnum í málverki Mantegna, og í iljunum sem þar vísa beint að augum okkar.[xvi] Við gætum líka haft í huga að orðið ásjóna  (face) á rætur sínar í orði sem felur í sér merkinguna að setja eða leggja fram án þess að vísa til einhvers. Í okkar tilfelli er vísunin í ekkert nema jörðina, jarðveginn sem ber, en er ekki lengur undirstaða eða skiljanlegt frumlag, heldur eingöngu rými, svið og umferðarstaður. Með ilinni erum við komin á hið lárétta svið, hið slétta à plat, víðáttu sléttunnar án tengsla við hina lóðréttu spennu.

Umferðin felur í sér annan þáttinn:  Slóðin vitnar um umgang, um för, um dans eða stökk, um framvindu, hliðarspor, kollvörp, komu og för, umferð. Þetta eru ekki rústir, sem eru leifar hjólfara einhverrar návistar,  heldur er um beina snertingu við jörðina að ræða.

Vestigio eru leifarnar eftir umgang.[xvii] Ekki er um mynd hans að ræða, því þessi sami umgangur er ekki annað en slóð hans.  Um leið og hann gerist er hann liðinn hjá. Eða öllu heldur þá hefur hann  aldrei „gerst“ sem umgangur til þess síðan að vera lagður til hliðar. Slóðin er, ef svo mætti segja, sín eigin snerting og virkni, án þess að vera verk sitt. Eða svo við notumst við ofangreind hugtök, þá er slóðin óendanleg fullvinnsla (eða ófullvinnsla) en ekki hin endanlega fullkomnun. Það er engin nærvera í umganginum: umgangurinn er einungis kominn í ljós. Það er ekki hægt að halda því fram að umgangurinn eigi sér beinlínis stað.  Hins vegar getum við sagt í sárabót að staður í sterkustu merkingu þess orðs, sé alltaf slóð (vestigium) umferðar (pas).  Umgangurinn, sem er sín eigin slóð, er ekki eitthvað ósýnilegt – hann er hvorki Guð né umgangur Guðs – og heldur ekki  hið hreyfingarlausa yfirborð hins sýnilega. Umgangurinn ljær sýnileika ósýnileikans hrynjandi, eða hefur endaskipti á honum ef svo mætti segja.  Þessi hrynjandi felur í sér framvindu og rof, línu og línubil, setningarbrot og stam.  Hann felur því í sér fígúru, en þessi fígúra[xviii] er ekki mynd eins og við höfum skilið það orð hér.  Umgangur fígúrunnar, eða slóðin, er farvegur hennar, rúmfang hennar.

Við þurfum þess vegna að neita okkur um að nefna eða skilgreina veru slóðarinnar. Vegsummerkin eru ekki kjarni – og kannski  er það einmitt þetta sem gæti leitt okkur á slóð „kjarna listarinnar“.  Það sem opnast okkur er sú staðreynd, að listin sé í raun og veru sín eigin slóð (vestigio).  Hún er ekki útþynnt framsetning Hugmyndarinnar, og heldur ekki framsetning útvatnaðrar Hugmyndar.  Hún sýnir nokkuð sem er ekki „Hugmynd“, hún sýnir hreyfingu, komu, umgang, brottfall sérhverrar birtingar nærverunnar. Þannig gerist það í Inferno Dantes, að enn einn skipsskaðinn eða enn ein grjótskriðan eru hinum fordæmdu merki –sem þeir fá ekki að sjá – um ósýnilegan umgang lifandi sálar. [xix]

10.

Með því að hliðra til spurningunni um veruna stöndum við frammi fyrir spurningu gerandans. Þar bíður okkar spurningin: hver gengur um garð? Hvers slóð er það, sem hér er á dagskrá?

Þetta er ekki slóð guðanna, miklu frekar væri þetta merki brotthvarfs þeirra. En slíkt brotthvarf á sér jafn langa sögu og listin í Lascaux. Ef Lascaux merkir „list“,  ef listin hefur ekki smám saman skriðið úr móðurlífi galdursins og síðan trúarbragðanna, heldur vísað óforvarandis til annarrar líkamsstellingar – ef hún hefur ekki verið förin eftir hnjábeygjurnar heldur skóförin – þá hefur spurningin um myndina aldrei átt við listina. Myndadýrkunin og heift helgimyndbrjótanna snérust einungis um Hugmyndina.  Þetta kemur alls ekki í veg fyrir lífrænt samband listarinnar við trúarbrögðin (hér þyrfti að leggja gaumgæfilegt mat á ólíka innbyrðis þætti þess sambands). En innan trúarbragðanna er listin alls ekki átrúnaðarefni. (Hegel hefði skilið þetta).

Hér væri tilefni til umfjöllunar um umferð dýranna, hrynjandina í göngulagi þeirra og limaburði, um hin flóknu vegsummerki þeirra, slóðir hóffara , klaufa og lyktar, um allt það sem fyrir manninum eru dýraslóðir. Einnig hér væri þörf á að skoða það sem Bataille kallaði „skepnan frá Lascaux“. (Gerum ráð fyrir að við getum leitt hjá okkur alla aðra umferð –að frátöldum dýrunum – allan þrýsting, allar strokur og snertingar, útleggingar, öldugælur og klór…)

En ég gæti dottið í þá gildru að segja að slóðin sé einkenni mannsins. Ekki sem manns-myndin, ekki maðurinn lögmálsbundinn í mynd sinnar eigin Hugmyndar, eða Hugmyndarinnar um hvað honum tilheyri. Það á við um manninn, að við getum með erfiðismunum gefið honum nafnið „maður“ ef við eigum í mesta basli við að losa hann undan Hugmyndinni, undan hinni húmanísku guðfræði. En köllum hann í tilraunaskyni förumanninn (el passant ). Alltaf förumaður og alltaf hver sem er, enginn –ekki þannig að hann sé í nafnleysi, heldur er slóðin ekki vottorð hans. [xx] Semsagt alltaf samur við sig (comune).

Hann fer hjá, hann er umrenningurinn: hann er það sem einnig er kallað tilvera (esistere). Að vera til: hinn verandi  gangur sjálfrar verunnar. Koma, brottför, fylgd, yfirferð mæranna, hlé, hrynjandi og brottfall verunnar. Þannig verður engin spurning um merkingu, heldur einungis umgangur,  eins og allir atburðir merkingarinnar, eins og öll nærvera hennar.  Það væru tvær leiðir að því að vera til staðar, eða að til-verunni (prae-esse): veran andspænis Hugmyndinni, kynnt fyrir Hugmyndinni, og sú til-vera (essere davanti) sem kemur á undan, líður hjá og er alltaf þegar farin. (Á latínu getur vestigium temporis merkt augnablikið sem er líðandi andartak. Ex vestigio= umsvifalaust, hér og nú.)

Engu að síður er nafn mannsins áfram nafn,  Hugmynd og mynd – og yfirlýst útmáun þess hefur ekki verið til einskis. Trúlega gerist það, þegar við þurfum að nefna það á ný með algjörlega nýju tónfalli, að það merki líka höfnun hins angistarfulla andófs myndanna, án þess að þurfa að kalla á ný til leiks mann húmanismans, það er að segja sjálfspeglun Hugmyndar hans. En til að ljúka þessu gætum við líka prófað að máta annað orð, talandi um gens. „Fólkið“, slóðar-orð, nafnlaust heiti  hins nafnlausa og hins ruglaða, almennt nafn í sinni bestu merkingu, þar sem fleirtölumyndin[xxi] kæmi í veg fyrir hið altæka (la generalità), vísaði frekar til hins einstaka sem þess sem ávallt er í fleirtölu, hins einstaka meðal tegundanna (genres), kynjanna, þjóðflokkanna (gents) þjóðanna, lífgjafanna (generateurs de vie), tegundanna  (hvað eru margar tegundir (genres)[xxii] innan listanna? Hvað margar undirtegundir? Hins vegar er engin list sem á sér engan geranda…) og hið einstaka/margfalda meðal kynslóðanna og afkomendanna, í straumiðu umgangsins, komunum og brottförunum, stökkunum og hrynjandinni. – Listin og fólkið (gens): ég læt ykkur eftir þessa fyrirsögn fyrir aðra umræðu.

[i] J.-L. Déotte, Le Musée, l‘origine de l‘esthétique, L‘Hartmattan, París 1993.

[ii]  Sama rit, bls. 17.

[iii] T.W.Adorno Dialettica negativa, trad. it. C.A.Donolo, Einaudi, Torino 1970, bls. 331.

[iv] M.Leiris, Journal 1922-1989, Gallimard, París 1992, bls.154.

[v] I.Kant, Kritik der Reiner Vernuft, §47

[vi] E.Renan, Dialoghi filosofici, Giovene, Milano, 1946, bls. 63.

[vii] M.Duchamp, tilvitnun úr N.Arambasin, La conception du sacré dans la critiqued‘art en Europe entre 1880 et 1914, doktorsritgerð í trúarlegri mannfræði, Université Paris IV-Sorbonne, nóvember 1992, bls. 204. Þetta verk hefur að geyma verðmæta námu upplýsinga varðandi umræðuna um „endalok listarinnar“ og hvaða áhrif hún hefur haft á listina og umræðuna um hana á umræddu tímabili.

[viii] Jan Patocka hefur sett fram ýmsar hugmyndir í þessa átt; sbr. J.Patocka L‘art et le temps, POL, París 1990.

[ix] J.Conrad, Formáli að Il negro di „Narciso“, Milano 1955, bls. 19

[x] N.Mailer, Pieces and Pontifications, New English Library, 1983.

[xi] J.Dubuffet, Noti per i fini letterari, Milano 1971, bls. 62-63.

[xii] M.Merleau-Ponty L‘œil et l‘espirit,

[xiii] F.Nietzsche, La volontà di potenza, III, 850, Milano 2001, bls. 461.

[xiv] T.W.Adorno, Dialettica negativa, Torino 1970, bls. 289.

[xv] Tommaso d‘Aquino, Summa theologiae, I, q.5, a.7, Róm 1962, bls. 226-227.  Um myndina og vestigium hjá Heil Tómasi, sjá G.Didi-Huberman Fra Angelico. Dissemblance et figuration, París 1990. Ég hef annan skilning en hann og bíð upp á ekki-díalektíska túlkun á vestigium: en innan guðfræðinnar á hin dialektíska túlkun Didi-Hubermans vel heima.

[xvi] Við getum reyndar líka borið þetta saman við Kennslustund dr. J. Deyman í líffærafræði eftir Rembrandt.

[xvii] Þegar minnst er á skref felur það í sér virðingarvott við Blanchot og Derrida.

[xviii] Um vandamál fígúrunnar, sjá Ph.Lacoue-Labarthe og J.-L.Nancy, Scène, „Nouvelle Revue de Psychanalyse“ haustútg. 1992.

[xix] Dante, Inferno, XII, 28 og XIII, 27.

[xx] Hér er kveðja til Thierry de Duve (Fais n‘importe quoi… í Au nome de l‘art, Minuit, París 1981

[xxi] Á frönsku er fleirtölumyndin af gent=gens.

[xxii] Nancy notar hér orðaleik með afleiddar myndir latneska orðstofnsins genus/gens, sem felur í sér merkinguna „fólk“ en einnig „getnað“ og það að geta, bæði í merkingunni geta af sér og skapa og kunna.

Forsíðumyndin er „Án titils“ eftir Claudio Parmiggiani frá 1995.

HEIDEGGER UM SAMSEMD MANNS OG VERU Á TÍMUM TÆKNINNAR

UMSNÚNINGUR VERUNNAR Á TÍMA TÆKNINNAR SAMKVÆMT HEIDEGGER

Þessi tilraun mín til að þýða texta Martins Heideggers um „Reglu Samsemdarinnar“ er trúlega glæpsamlegt glapræði. Hún er tilkomin af ólíkum ástæðum. Fyrst þegar ég keypti kverið um "Samsemd og mismun" á Ítalíu fyrir tveim eða þrem árum síðan, var það ekki síst vegna þess að ég hafði verið að velta fyrir mér hugtakinu „identitet“ í merkingunni sjálfsmynd, og það vakti forvitni mína að kynnast skilningi Heideggers á því. Ég hafði þá mótað með mér þann skilning sálgreiningarinnar (ekki síst hjá Lacan) að sjálfsmyndin sé fengin frá „hinum“: í gegnum foreldrana, tungumálið, skólann og aðrar samfélagsstofnanir o.s.frv. Skilningur sem enn er í fullu gildi í sjálfu sér, en á sér eðlileg mörk. Sérstaklega þar sem hann segir okkur að sjálfsmyndin sé enginn fasti, heldur eitthvað síbreytilegt sem okkar eigið "sjálf“ hefur tiltölulega lítið um að segja. Hvernig breytist sjálfsmyndin, og hvað ræður henni? Hvar eru mörkin á milli þess að vera og „tilheyra“ í þessu sambandi? Hvers vegna skiptast menn í flokka og ekki síst: hvað ræður flokkun okkar og niðurröðun náunga okkar í skilgreind hólf er hafa með „sjálfsímynd“ að gera? Ekki bara út frá þjóðerni, þjóðfélagsstétt eða trúarbrögðum, heldur jafnvel út frá fylgispekt  við tiltekin íþróttafélög eða poppstjörnur? Kannski segir skilningur sálgreiningarinnar á sjálfsímyndinni ekki alla söguna, kannski hefur verufræði Heideggers eitthvað um þetta að segja, sem sálgreiningin eða félagsfræðin ná ekki að skýra?

Það er óhætt að segja að ég varð furðu lostinn, þegar ég las þennan texta fyrst. Hér var enga sálgreiningu eða félagsfræði að finna, heldur vaðið beint í þá rökfræðilegu, verufræðilegu og merkingarfræðilegu ráðgátu sem felst í sögninni að vera. Eftir að Heidegger hafð gefist upp á hinni miklu áætlun sinni um útgáfu  seinna bindis stórvirkisins „Vera og tími“ frá 1927, og gengið í gegnum þann harmleik og örlagsögu Evrópu, sem fólst í síðari heimsstyrjöldinni, aðild hans að þýska  nasistaflokknum 1933-45 og kjarnorkusprengjunum í Hiroshima og Nagasaki, þá urðu óhjákvæmileg umskipti í heimspekiskrifum hans, umskipti sem kennd voru við „die Kehre“ eða umsnúninginn, sem erfitt er þó að skilgreina, en birtist kannski ekki hvað síst í þessari stórmerku ritgerð, sem kom út þremur örlagaríkum áratugum eftir „Veru og tíma“. Eftir stendur engu að síður, að þrátt fyrir „aðildina“ að nasistaflokknum, sem var ófyrirgefanleg vanvirðing við heimspekina, þá hafa skrif þessa stórfurðulega heimspekings haft víðtækari áhrif á heimspekiumræðu á Vesturlöndum á síðari hluta tuttugustu aldar en flestra annarra.

Óvænt tengist þessi fyrirlestur um samsemdina ritgerð Heideggers um tæknina frá 1953, og felur í sér nánari útfærslu þeirra hugmynda, en um leið má lesa út úr þessari ritgerð eins konar „andsvar“ við þeirri gagnrýni sem Carlo Sini hefur sett fram á Heidegger, og birtist m.a. í tveim ritsmíðum sem ég hef nýlega birt hér á "hugrunir.com" um merkingarfræði og um „tækni og ofbeldi“. Segja má að það ríki visst „ástarhatur“ á milli þessara heimspekinga, sem á sér bara samsvörun í sambandi og glímu Heideggers við Nietzsche. Það liggur rauðglóandi strengur á milli þessara þriggja höfunda, þar sem merkingarfræðilegt framlag Sini skiptir miklu máli, og skapar sérstöðu hans. En glíman við „verufræði“ Heideggers er um leið alls staðar nálæg.

Heidegger gengur beint til verks með rökfræðilegri greiningu á þversögninni sem hann sér í viðteknum skilningi á verunni, á sagnorðinu að „vera“ eitthvað. Hvað merkir A=A spyr Heidegger, og leiðir okkur umsvifalaust í að því er virðist óleysanlega flækju. Hér er jafnaðarmerkið merki þeirrar samsemdar er segir okkur að eitt sé sama og það sjálft: ég er ég. Ég er það sama og ég. Þetta er augljóst samkvæmt viðteknum skilningi, en ef við lítum nánar á málið lendum  við í flækju, sem endanlega leiðir í ljós ákveðna bresti í umgengni okkar gagnvart tungumálinu. Hver er ég, og að hvaða leyti er ég það sama og sjálfsmynd mín? Með hvaða hætti verða maður og vera eitt og hið sama? Með hvaða hætti verða hugur og vera eitt og hið sama, eins og Parmenídes sagði „á vordögum vestrænnar hugsunar“ fyrir nær 2500 árum síðan?

Hér kemur tæknin í raun til sögunnar, sá skilningur á tækninni sem Heidegger hefur sett fram með hugtakinu Gestell, sem er nýyrði, erfitt í þýðingu, en merkir í raun sam-stillingu, það að stilla einhverju upp til samfélagslegrar notkunar eða meðferðar. Við þekkjum enduróm þessa orðs til dæmis í „matarstellinu“ eða „settinu“, því sem lagt er á borð fyrir okkur. Við tökum því sem sjálfgefnu viðfangi til daglegs brúks. Í þessari þýðingu hef ég yfirleitt stuðst við orðið „innsetningu“ í vafasamri viðleitni til þess að klæða orðasmíð Heideggers í íslenskan búning. Heidegger segir að hin frumspekilega umgengni okkar við tungumálið hafi leitt okkur til að taka veruna sem gefinn hlut, rétt eins og „máfastellið“ á kaffiborði ömmu okkar. Þessi málfarsnotkun sé í raun tæknilegs eðlis og hafi með „Gestell“ að gera. Hér er í raun um tiltekið afsal að ræða eða valdbeitingu.

Ekki batnar flækjan þegar kemur að því að „tilheyra“: , gehören eða zusammengehören. Ég „er“ ekki Íslendingur, heldur „tilheyri“ ég íslenskri þjóð eða þjóðerni. Ef þessi vera felst í því að tilheyra, þá felur það í sér eignarafsal á sjálfinu, segir Heidegger, og leiðir okkur þannig yfir í eitt uppáhalds orð hans: „Ereignis“.

Heidegger segir þetta þýska orð óþýðanlegt á aðrar tungur, og líkir mikilvægi þess við hið gríska „logos“ og hið kínverska „tao“. Þessi nokkuð hrokafulla fullyrðing virðist mér vera endurómur undirliggjandi þjóðernishyggju og hugmynda höfundar um sögulegt hlutverk Þýskalands í heiminum, sem sjaldan kemst á yfirborðið í heimspekiritum Heideggers, en vottar þó fyrir í  umsögn hans um mikilfengleik „þjóðernissósíalismans“ í „Einführung in der Metaphysik“ frá árinu 1935.

Í hinni vönduðu Þýsk-íslensku orðabók bókaútgáfunnar Opnu frá 2008 er Ereignis þýtt sem atburður, viðburður eða tilfelli. Í þessari þýðingu hef ég látið Ereignis að mestu óþýtt eða gert vafasama tilraun með að nota „atviks-reynslu“.

Heidegger leggur þann skilning í hugtakið að það feli í sér eignarhald, viðburð sem eignar sér manninn eða maðurinn eignar sér. Í raun og veru virðist „umsnúningurinn“ (die Kehre), sem gjarnan er sögð hafa átt sér stað hjá Heidegger á eftirstríðsárunum, felast í þeim umsnúningi er umbreyti þeim atburði tækninnar sem eignar sér manninn sem viðfang, hlut eða kennitölu, í þann gjörning sem er manninum „eiginlegur“. Þetta er sá umsnúningur innsetningarinnar (tækninnar) sem felur í sér „stökkið“ yfir í þá nýju „samsemd“ sem Heidegger sér fyrir sér, og felur um leið í sér umsnúning á þeirri „reglu samsemdarinnar“ sem titill fyrirlestursins felur í sér. Eða svo vitnað sé í textann:

„Vegferðin frá reglunni sem fullyrðing um Samsemdina  til reglunnar sem stökk til eðlisuppruna Samsemdarinnar hefur umbreytt hugsuninni. Þegar horft er til samtímans, þá finnum við hér ástæðu þess að við sjáum, handan aðstæðna mannsins, samstillingu veru og manns á grundvelli þess sem umfram allt tengir þau saman í gagnkvæmu eignarhaldi, það er að segja der Ereignis (atviks-reynslan).“

Þessi „umsnúningur“ Heideggers felur í sér gagnrýni á þann „hlutlæga sannleika“ sem á vissan hátt virðist samhljóða gagnrýni Carlo Sini á vísindin sem trúarbrögð hins endanlega sannleika. Heidegger og Sini virðast sammála um að „hlutlægni“ vísindanna eigi rétt á sér og færi manninum margvíslegan ávinning, en hins vegar feli átrúnaðurinn á vísindalegar tilgátur -og aðferðafræðina við að setja þær fram - í sé yfirvofandi hættu, sem Sini kallar reyndar „ógnarstjórn“ eða „terrorisma“. Í þessu skyni setur Heidegger fram þessa spurningu:

…hvar var sú ákvörðun tekin, að náttúran sem slík skuli um alla framtíð vera náttúra nútíma eðlisfræði, og að sagan skuli einungis birtast sem viðfang sagnaritunarinnar? Það er rétt, að  við getum ekki hafnað núverandi tækniheimi, og okkur leyfist heldur ekki að eyðileggja hann, að því tilskyldu að hann geri það ekki af sjálfsdáðum.“

Síðasta fullyrðingin í þessari setningu Heideggers gengur hins vegar þvert á hugsun Sini, sem lítur á það sem frumspekilega þversögn að líta á manninn og tæknina sem andstæða gerendur í sögunni.

Það er hins vegar enginn skortur á sjálfsöryggi í lok fyrirlesturs Heideggers, þar sem hann segir það hafi tekið mannkynið tvö þúsund ár að leysa ráðgátu Parmenidesar um samsemd hugsunar og veru (sem ekki eru eitt og það sama). Heidegger telur sig hér hafa leyst þessa gátu, og segir í lokin þau spámannlegu orð að "með því að hugsa það sem áður var hugsað munum við umsnúa því sem enn er óhugsað".

 Martin Heidegger:

 Regla Samsemdarinnar

Fyrirlestur fluttur í tilefni 500 ára afmælis háskólans í Freiburg 1957, hér þýddur úr bólkinni „Identität und Differenz“, Pfullingen Verlag 1957, með hliðsjón af ítalskri þýðingu Giovanni Gurisatti, „Identità e differenza“, Adelphi edizioni 2013.

Ríkjandi skilningur á reglu Samsemdarinnar er samkvæmt jöfnunni A=A. Þessi regla gildir sem æðsta regla hugsunarinnar. Við skulum freista þess að hugleiða þessa reglu stundarkorn. Því reglan ætti að kenna okkur hvað felst í hugtakinu Identität (ísl.:  samsemd, sjálfsmynd, jafngildi, kennimark…).

Þegar hugsun okkar mætir tilteknu viðfangsefni og fylgir því eftir, getur átt sér stað að hún taki breytingum á leiðinni. Vegna þessa er ráðlegt héðan í frá að hafa gátur á slóðinni, frekar en inntakinu. Framvinda þessarar samkomu hefur þegar hindrað okkur í að veita leiðinni verðskuldaða athygli.

Hvað er það sem formúlan A=A segir okkur, eins og samsemdarreglan er venjulega túlkuð? Formúlan nefnir jafngildi A og A. Jafna byggir á tveim þáttum. Eitt A er eins og annað. Er þetta það sem samsemdarreglan vill segja okkur? Augljóslega ekki. Hið sama heitir á latínu idem, og á grísku τό αυτό (to auto). Í þýskri þýðingu merkir τό αυτό: das Selbe , „hið sama“. Þegar einhver takmarkar sig við að endurtaka hið sama, t.d.: jurt er jurt – þá talar hann í klifun (Tautologie). Til þess að eitthvað sé hið Sama dugar alltaf eitt. Ekki er þörf á tveim hugtökum eins og í jafngildingunni.

Jafnan A=A fjallar um jafngildi. Hún kallar A ekki það sama. Þannig felur ríkjandi jafngildisformúla einmitt það sem reglan vildi segja: að A sé A, það er að segja að sérhvert A sé sjálft það sama (jedes A ist selber dasselbe).

Þegar við umritum Samsemdina (das Identische) með þessum hætti má heyra fornt orð hljóma, sem Platon notaði til að skýra samsemdina, orð sem vísar í enn fornara orðalag. Í Sófistanum (254d) talar Platon um στασιϛ (stasis) og κίνησιϛ (kinesis), um kyrrstöðu og umskipti. Í þessu tilfelli lætur hann útlendinginn segja: ονκον αύτών έκαστον τοϊνν μεν δυοϊν ετερόν εστιν, αυτό δ‘εαυτώ αυτόν. (Oukoun auton hekaston toin men duoin heteron estin, auto d‘heauto tauton.):

„Nú er ljóst, sagði hann, að sérhver þessara tveggja er annar, en sjálfur er hann sá sami“.

Platon lætur sér ekki nægja að segja „έκαστον αυτό ταυτό“ (hekaston auto tauton) eða „sérhver sjálfur hinn sami)“,  heldur „έκαστον έαυτό ταυτό“ (hekaston heauto tauton) eða sérhver í sjálfum sér hinn sami). Þágufallsmyndin „heauto“ merkir: sérhvert eitthvað sjálft stendur fyrir sjálft sig – er nákvæmlega fyrir sjálft sig og með sér sjálfu. Rétt eins og grískan hefur þýsk tunga þann kost að skýra Samsemdina (das Identische) með sama orðinu en í ólíklum beygingarmyndum.

Hæfasta jafnan fyrir samsemdarregluna, A er A, segir því ekki aðeins: sérhvert A er sjálft það sjálft, hún segir einnig: með sjálfu sér er sérhvert A sjálft það sama. Í samsemdinni eru innifalin þessi „með“-tengsl, það er að segja samtenging, eins konar samband eða niðurstaða (Synthesis): Eining í sameiningu. (Die Einung in eine Einheit).

Af þessu leiðir sú staðreynd að í sögu vestrænnar hugsunar hefur Samsemdin (das Identität) einkenni sameiningar. En þessi eining er engan veginn það litlausa tóm þess sem dvelur sambandslaust í sínum eiginleika (einem Einerlei). En vesturlensk hugsun þurfti meira en tvö þúsund ár til að koma auga á að þetta samband, sem endurómar snemma sem ríkjandi samband hins sama með sjálfu sér innan Samsemdarinnar (Identität), þar sem það hefur hlotið varanlegt skjól í fastmótuðu formi slíkrar tengingar (Vermittlung).

Það var fyrst með heimspeki hughyggjunnar (des spekulatven Idealismus) sem Leibniz og Kant lögðu grunninn – og síðan í gegnum Fichte, Schelling og Hegel – þar sem fundin var undirstaða (Unterkunft) fyrir hið samþætta (synthetischen) eðli Samsemdarinnar. Þessai undirstöðu verður ekki lýst hér. Aðeins eitt verður hins vegar að hafa í huga: frá og með hughyggjunni (spekulativen Idealismus) verður þeirri hugsun andmælt, að hægt sé að sýna  einingu Samsemdarinnar sem einskæran eiginleika (blosse Einerlei) og að hægt sé að horfa út frá einingu ríkjandi tengsla (Vermittelung). Þar sem slíkt gerist er Samsemdin einingus sýnd með sértækum (abstrakt) hætti.

Einnig í betrumbættu formúlunni „A er A“ sjáum við eingöngu mynd hinnar sértæku (abstrakte) Samsemdar. Er það í raun og veru þannig? Segir Samsemdarreglan eitthvað um Samsemdina? Nei, alla vega ekki beint út. Öllu heldur gengur Samsemdarreglan út frá fyrir fram gefinni merkingu Samsemdarinnar, og hverju hún tilheyri. Hvernig getum við skilið betur þessa gefnu forsendu?

Við náum utan um reglu Samsemdarinnar ef við hlustum af athygli á grunntón hennar, og hugleiðum hann, í stað þess að endurtaka kæruleysislega formúluna „A=A“. Í raun og veru hljóðar hún svona: A er A. Hvað heyrum við? Með þessu „er“ segir reglan okkur hvernig sérhver vera (Seiende) er, nefnilega: hún sjálf, með sjálfri sér hið sama.

Samsemdarreglan talar um veru verunnar (Sein des Seienden). Sem lögmál (Gesetz) hugsunar er reglan (der Satz) einungis gild að því tilskyldu að hún sé lögmál verunnar (Gesetz des Seins), en hún segir okkur að sérhverri veru sem slíkri tilheyri Samsemd, eining með  sjálfri sér.

Það sem Samsemdarreglan segir okkur á grundvelli grunnhljómsins, eins og hann er sagður, er nákvæmlega það sem hin samanlagða hugsun hinna evrópsku  landa sólsetursins hugsar, nefnilega þetta: Eining Samsemdarinnar myndar grundvallarþátt í veru verundarinnar. Hvar sem er og hvernig sem við mætum verunni, hver svo sem hún kann að vera, þá stöndum við frammi fyrir ávarpi Samsemdarinnar. Ef slíkt ávarp er þögult gæti veran ekki birst i verund sinni. Þar af leiðandi væri heldur ekki um nein vísindi að ræða. Þá væri þeim ekki fyrirfram tryggð samsemd viðfangs þeirra, og vísindin gætu því ekki verið það sem þau eru. Með þessari baktryggingu gera vísindin vinnu sína mögulega. Engu að síður er höfuð-framsetning Samsemdar viðfangs vísindanna aldrei áþreifanleg nytsemd fyrir vísindin. Þess vegna byggir árangur og frjósemi vísindalegrar þekkingar fyrst og fremst á einhverju gagnslausu. Ákall samsemdar viðfangsins talar, hvort sem vísindin leggja við hlustir eða ekki, láta hið heyrða sem vind um eyru þjóta, eða láta það trufla sig.

Ákall Samsemdarinnar talar úr verund verunnar. En þegar það gerist í fyrsta skipti að vera verundarinnar (Sein des Seienden) nái með tjáningarfullum hætti inn í tungumál vestrænnar hugsunar, það er að segja hjá Parmenídesi, þá talar τό αυτό (to auto), eða „hið sama“, með næstum yfirdrifinni áherslu. Ein setning Parmenídesar hljóðar svona:

Τό γάρ αύτό νοεϊν έστϊν τε καί εϊναι – (to gar auto noein estin te kai einai)

„Hið sama er reyndar bæði skynjun (hugsun) og vera“.

Hér er tvennt ólíkt – „hugsun og vera“ – hugsað sem hið sama. Hvað merkir þetta? Eitthvað allt annað í samanburði við þá kenningu frumspekinnar sem við þekkjum, nefnilega að Samsemdin tilheyri verunni.

Parmenídes segir: veran tilheyrir samsemd. En hvað merkir samsemd í þessu samhengi? Hvað merkir orðið „to auto“ – hið sama hjá aparmenídesi? Hann gefur okkur ekkert svar við þessari spurningu. Hann leggur fyrir okkur ráðgátu sem við getum ekki hlaupist undan. Við verðum að viðurkenna að í frumbernsku hugsunarinnar, löngu áður en Samsemdarreglan kom til sögunnar, er það samsemdin sjálf sem talar, og einmitt í setningu sem staðfestir:  hugsun og vera eru eitt í hinu sama og á grundvelli hins sama.

Allt í einu höfum við nú túlkað to auto /hið sama. Við túlkum  einsleikann (die Selbigkeit) sem það sem heyrir saman (Zusammenhörigkeit). Nærtækt er að hugsa þessa samstæðu (Zusammenhörigkeit) sem það er síðar var almennt þekkt sem Samsemd (Identität).

Hvað skyldi koma í veg fyrir þá ályktun? Ekkert minna en sjálf reglan (Satz) sem við lesum í Parmenídesi. Hann segir einmitt nokkuð annað, það er að segja að veran tilheyri -ásamt með hugsuninni – hinu sama. Á grundvelli tiltekinnar Samsemdar er veran skilgreind sem einkenni (Zug) þessarar Samsemdar. Sú Samsemd sem síðar var hugsuð af frumspekinni, er þvert á móti skilin sem einkenni verunnar (Zug im Sein vorgestellt). Því getum við ekki skilgreint þá Samsemd sem Parmenídes talar um á grundvelli þessarar framsetningar frumspekinnar á Samsemdinni.

Sú samkvæmni (Selbigkeit) hugsunar og veru sem kenning Parmenídesar fjallar um á sér eldri rætur en sú Samsemd sem frumspekin skilgreinir sem einkenni (Zug) verunnar (Sein).

Leiðandi hugtak í kenningu Parmenídesar, „to auto“ eða „hið sama“, er okkur óljóst. Við skiljum við það í myrkrinu. En um leið játum við að sú kenning þar sem þetta orð er upphaflega nefnt, feli í sér skilaboð.

Í millitíðinni höfum við hins vegar fyrir fram gengið út frá því að samkvæmni (Selbigkeit) hugsunar og veru sé staðfest í samstæðu (Zusammengehörigkeit) beggja. Við höfum þar með sýnt fljótfærni, ef til vill af nauðsyn. Við verðum því að endurskoða þessa fljótfærni. Það getum við líka gert, ef við höldum ekki fast við að þessi tiltekna samstæða feli í sér endanlega túlkun, eða einnig að hún sé hin eina og endanlega túlkun á sameðli (Selbigkeit) hugsunar og veru.

Ef við hugsum samstæðuna (Zusammengehören =að heyra saman) með hefðbundnum hætti, þá sjáum við, rétt eins og áherslan í hugtakinu „að heyra saman“ (gehören) gefur til kynna, að merking þess að tilheyra (Sinn des Gehörens vom Zusammen) gengur út frá einingu. Í þessu tilfelli merkir „gehören“ (að tilheyra) það að vera innritaður og fastskipaður (zugeordnet und eingeordnet) innan reglu tiltekinnar samstæðu, innsettur í einingu tiltekins margfeldis, innritaður (zusammengestellt) í einingu kerfisins, sem miðlað er í gegnum sameinandi miðju tiltekins reglubindandi samruna (Synthesis). Heimspekin skilgreinir þessa aðild sem nexus og connexio (tengipunkt og samtengingu), eða sem hin nauðsynlegu sambandstengsl eins við annað.

Hins vegar er einnig hægt að hugsa þetta „Zusammengehören“ sem „Zusammen-gehören“. Það merkir: samveran (das Zusammen) ákvarðast hér af „Gehören“ (tilheyra). Hér mætir okkur sú spurning hvaða merkingu beri að leggja í það að „tilheyra“. Og hvernig hægt sé einungis á þeim grundvelli að ákveða þá sameiningu sem í því felst. Svarið við þessari spurningu er nærtækara en vænta mætti, en þó ekki handfast.

þökk sé þessari ábendingu, þá nægir okkur hér, ef við hugleiðum þann möguleika að hugsa það að tilheyra ekki lengur út frá einingu samstæðunnar (Einheit des Zusammen), að hugsa þessa samstæðu út frá reynslu þess að tilheyra. En er það ekki svo, að þessi möguleiki sýni sig að vera hreinn innantómur orðaleikur, sem uppdiktar eitthvað er eigi sér enga stoð í veruleikanum?

Þannig lítur það út, þar til við höfum beitt nánari athugun og látið vandann tala sínu máli.

Tilhugsunin um að tilheyra í skilningi „Zusammengehören“ (bókstaflega: sam-tilheyra) er sprottin af tilteknum aðstæðum, sem þegar hafa verið nefndar og auðvelt er að missa sjónar af, vegna þess hve augljósar þær eru. En þessar aðstæður verða okkur strax nærtækar ef við skoðum eftirfarandi: Með því að skilgreina Zusammengehören sem Zusammengehören eftir skilaboðin frá Parmenídasi, höfðum við þegar bæði hugsunina og veruna í huga, það er að segja það sem á sér í sjálfu sér gagnkvæma samstæðu (zueinandergehört).

Ef við leggjum þann skilning í hugsunina, að hún sé það sem einkennir manninn, þá öðlumst við samvitund um Zusammengehören (sameiginlega aðild) sem varðar manninn og veruna. Umsvifalaust mætum við spurningunni: Hvað merkir veran (Sein)? Hver, eða hvað, er manneskjan? Öllum má vera ljóst að án viðunandi svara við þessum spurningum missum við fótfestuna, grunninn sem sérhver trúverðug hugsun um Zusammengehören (sam-band) manns og veru hlýtur að byggja á. En á meðan við spyrjum spurninga af þessu tagi erum við fangar þeirrar tilraunar að líta á einingu manns og veru sem samstillingu er kalli á skilgreiningu, annað hvort út frá manninum eða verunni. Þar með verða hin eftirlátnu og hefðbundnu hugtök um Manninn og Veruna (Sein) forsenda flokkunar og  aðgreiningar hvorutveggja.

Hvað myndi gerast ef við hættum að einblína á samstillingu  (Zusammenordnung) manns og veru í því skyni að finna einingu þeirra, en hugleiddum þess í stað hvort og hvernig þessi samtvinna gæti falist fyrst og fremst í  gagnkvæmri aðild (ein Zu-einander-Gehören)?

Það er einmitt nú sem við sjáum þann möguleika að skynja, þó ekki nema úr fjarlægð,  samhengi (Zusammengehören) manns og veru út frá hefðbundnum skilningi á eðli þeirra en þó einungis úr fjarlægð. Úr hvaða fjarlægð?

Maðurinn er augljóslega tiltekin verund (etwas Seiendes). Sem slík deilir hann heild verunnar með steininum, tréinu og erninum. Hér merkir það að tilheyra að vera innstilltur (eingeordnet) í veruna. En það sem einkennir manninn felst í þeirri staðreynd að sem hugsandi vera, sem er opinn gagnvart verunni, er hann innsettur (gestellt) í veruna, leiddur (bezogen) af henni og samsvarar (entspricht) henni. Maðurinn er í raun og veru  þessi samsvörun (Bezug der Entsprechung), og hann er aðeins þetta. „Aðeins“ er hér engin lítillækkun, heldur ofgnótt. Í manninum  ríkir aðild (Gehören) að verunni, aðild sem tilheyrir verunni, því honum hefur verið trúað fyrir henni.

Og veran? Hugsum við veruna samkvæmt upphaflegri merkingu hennar sem nærveru (Anwesen)? Veran er hvorki tilfallandi í manninum né í undantekningunni. Veran dvelur og varir í manninum aðeins að því marki sem hún með tilkalli sínu kemur manninum við (angeht). Hún er þá fyrst til staðar sem nærvera (Anwesen) í manninum, þegar hann er opinn gagnvart verunni. Slík vera, sem er greinilega til staðar, hefur þörf fyrir opnun upplýsingar, og það er í gegnum þessa þörf sem hún er mannverunni gefin. Þetta merkir hins vegar engan veginn að veran eigi sér eingöngu stað fyrir tilstilli mannsins. Þvert á móti blasir við:

Maðurinn og veran eru hvort öðru falin,  þau tilheyra hvort öðru. Frá upphafi hafa Maðurinn og veran án frekari umhugsunar um þetta gagnkvæma samhengi  tekist á við  (empfangen) þessar sömu eðlislægu reglur (Wesenbestimmungen) sem þau hafa öðlast frumspekilegan skilning á í gegnum heimspekina.

Þessu ríkjandi sambýli manns og veru er ákaft hafnað (verkennen) af okkur, svo lengi sem við takmörkum okkur við að skilja alla hluti innan regluverka og miðlunar, hvort sem er með eða án díalektíkur. Við finnum þá einungis tengingar  sem eru annað hvort fastbundnar verunni eða manninum og túlka samhengi manns og veru ávallt sem samfléttu.

Við erum því alls ekki á leiðinni í þessa sambúð (Zusammengehören). Hvernig finna menn leiðina inn í  slíka einhendingu (Einkehr)? Það gerum við með því að hafna hugsun framsetningarinnar (des vorstellenden Denkens)[i].

Þessi höfnun er setning sem felur í sér stökk. Hún felur í sér stökk frá þeirri viðteknu reglu, að líta á manninn sem rökhugsandi dýr, sem í samtímanum er orðið að frumlagi (Subjekt) gagnvart viðföngum (Objekte) sínum. Stökkið felur líka í sér brotthvarf frá verunni (Sein). Allt frá frumbernsku vestrænnar hugsunar hefur veran hins vegar verið hugsuð sem sá grundvöllur sem er forsenda sérhverrar veru  sem  verund (jeded Seiendes als Seiendes)[ii].

Hvert stefnir stökkið sem stekkur frá grundvellinum? Er það kannski stökk ofan í hyldýpið?

Já, jafn lengi og við sjáum einungis fyrir okkur stökkið innan jafngildisreglu hinnar frumspekilegu hugsunar. Hins vegar er svarið nei, ef við stökkvum og gefum okkur lausan tauminn. Hvert? Þangað sem við erum þegar komin, það er að segja tilheyrandi verunni (Sein). Veran tilheyrir okkur reyndar, því einungis hjá okkur getur hún verið, það er að segja sem nærvera (Anwesen)[iii].

Þannig reynist óhjákvæmilegt að taka stökk, vilji maður reyna sambýli (Zusammengehören) manns og veru á eigin skinni. Þetta stökk er hin fyrirvaralausa (das Jähe) og óafturkræfa einstefna inn í þessa sam-veru (Gehören) sem veitir manninnum loks möguleika þeirrar einingar (Zueinander) manns og veru, og þar með möguleika á samstillingu beggja þátta. Stökkið er þessi skyndilega (Jähe) innganga inn á sviðið, þar sem maður og vera hafa þegar í eðli sínu fundið hvort annað í krafti gagnkvæmrar nálgunar. Inngangan inn á svið þessarar ofureiningar (Übereinigung) samstillir og ákvarðar þá fyrst reynslu hugsunarinnar.

Þetta er undarlegt stökk, sem væntanlega mun færa okkur þann skilning, að við stöldrum ekki nægilega við þar sem við erum í raun og veru stödd. Hvar erum við stödd? Í hvaða samstillingu (Konstellation) veru og manns?

Svo virðist sem ekki sé lengur til staðar sú þörf, sem við höfðum  á árum áður, fyrir nákvæmar leiðbeiningar til þess að koma auga á samstillinguna sem varðar manninn og veruna. Ætla mætti að núna myndi það nægja að nefna orðið Atómöld til að upplifa hvernig veran birtist okkur í kjarna sínum á okkar tímum, í heimi tækninnar. En eigum við þá einfaldlega að setja sama-sem-merki á milli tækninnar og verunnar? Nei, augljóslega ekki. Ekki nema við lítum þannig á (Vorstellen) þennan heim í heild sinni, að kjarnorkan, hin útreiknaða skipulagning manneskjunnar og sjálfvirknin, séu kjarni þessa heims. Hvers vegna leyfir slík sýn á hinn tæknivædda heim, hversu ítarlega sem hún er útfærð, hvers vegna leyfir hún okkur engan veginn að sjá samstillingu veru og manns?

Það er vegna þess að sérhver greining aðstæðna er of skammsýn, þar sem sú heildarsýn á tækniheiminn sem nú er fyrir fram gengið út frá, hvílir á grundvelli mannsins, og er séð sem sköpunarverk hans. Tækniheimurinn, séður í sínum víðasta skilningi og í sínum margbreytilegu birtingarmyndum, er meðtekinn sem sú áætlun mannsins er þvingi hann til að ákveða, hvort hann vilji verða þræll eða herra eigin áætlunar.

Með þessari sýn (Vorstellung) á heildarmynd tækniheimsins er allt smættað niður í manninn, nokkuð sem,  þegar til kastanna kemur, kallar á að siðfræði tækniheimsins verði meðtekin. Þar sem maðurinn er heltekinn af þessari sýn, styrkir hann sjálfan sig í þeirri trú, að tæknin sé einungis vandamál er snúi að manninum. Ekki er hlustað á kall verunnar sem talar inn í eðli tækniheimsins.

Einsetum okkur nú, í eitt skipti fyrir öll, að hætta að horfa á (vorzustellen) tæknina einungis sem tæknilegt fyrirbæri, það er að segja það sem tilheyri manninum og vélum hans. Virðum það ákall sem í okkar samtíma tilheyrir ekki eingöngu manninum, heldur kemur frá allri veru (Seiende), náttúru og sögu. Hvaða ákall (Anspruch) er hér um að ræða? Gjörvallri tilveru okkar er nú ögrað úr öllum áttum – stundum í leikaraskap, stundum með ofríki, stundum með æsingi (gehetzt), stundum með nauðung – okkur er tilskipað að gangast undir útreikninga og áætlunargerð allra hluta. Hvað er það sem talar í þessari ögrun? Er hún kannski sprottin af persónulegum duttlungum mannsins? Eða er hún hugsanlega tilkomin af sjálfri verunni, með þeim hætti að hún kalli okkur til síns útreiknanleika og sinnar skipulagsbærni? Er jafnvel sjálf veran þá undirsett ögruninni, að verundinni (das Seiende) sé skipað í sæti innan sjóndeildarhrings reiknanleikans? Þannig er það í raun og veru. Ekki bara það. Í sama mæli og verunni er ögrað, gerist það sama með manninn, það er að segja að hann er innstilltur[iv] (gestellt), í þeim tilgangi að tryggja verund (Seiende) hans og sem auðlind og forðabúr (Bestand) áætlanagerða hans og útreikninga og tryggja nýtingu (Bestellen) hennar um ófyrirsjáanlega framtíð.

Nafnið á þessari samsetningu (Versammlung) ögrunarinnar, sem samstillir veru og mann með þessum hætti, hljómar sem „Ge-Stell“ (möguleg bókstafleg íslensk þýðing: „inn-stilling“ eða „sam-stilling“). Menn hafa brugðist hart við þessari orðanotkun.  En í stað þess að segja „stellen“ (stilla) hafa menn notað „setzen“ (setja), án nokkurra athugasemda, þegar fjallað er um „Gesetz“ (lögfræðilega tilskipun eða lagasetningu). Hvers vegna má þá ekki nota orðið „Gestell“ ef horfa þarf á ríkjandi aðstæður?

Sama á við þegar fjallað er um hvernig maðurinn og veran varða hvort annað innan heims tækninnar. Þá erum við að fjalla um virkni inn-stillingarinnar (Ge-stell). Með því að höfða með gagnkvæmum hætti til mannsins og verunnar, heyrum við ákallið sem ákvarðar heildarsamstillingu (die Konstellation) okkar samtíma. Inn-stillingin snertir okkur umsvifalaust. Að því gefnu að slík umfjöllun sé leyfileg nú á tímum, þá getum við sagt að innstillingin sé okkur nákomnari (seiender) en öll kjarnorkan og öll vélvæðingin, nákomnari en öll skipulagningaráráttan, upplýsingaáráttan og sjálfvirkniáráttan. Þar sem merking þess sem við köllum Gestell (innstilling) er ekki sjáanleg innan sjóndeildarhrings hinnar fyrirstillandi hugsunar (des Vorstellens) þegar við íhugum veru verundarinnar (das Sein des Seiendes) sem nærveru (Anwesen)  – þá kemur „inn-stillingin“ okkur ekki lengur við sem eitthvað nákomið (Anwesendes) og þess vegna er það (das Getstell) okkur framandlegt. Innstillingin verður okkur framandleg vegna þess að hún er ekki það nýjasta, heldur færir hún okkur í fang það sem hefur fyrst náð algjöru valdi yfir samstillingu veru og manns.

Samvera (Zusammengehören) manns og veru í gegnum gagnvirkan ögrunarmáta færir okkur óþægilega nær því, hvernig maðurinn er ofurseldur (vereignet) verunni, en veran hins vegar tileinkuð (zugeeignet) manninum. Í ísetningunni ríkir einkennilegt afsal og tileinkun. Það gildir um þetta eignarhald, þar sem maður og vera eru eignuð hvort öðru, að það feli í sér reynslu, það er að segja að ganga inn í það sem við köllum „Ereignis“ (atburður-reynsla). Orðið Ereignis er myndað úr þróaðri þýsku. Orðið „Ereignen“ var upprunalega „er-äugen, það er að segja „að koma auga á“, síðan „aneignen“, það er að segja „eigna sér“ eða til-einka sér.

Samkvæmt því sem hér hefur verið sagt á orðið „Ereignis“ (atburður) héðan í frá að verða leiðandi orð í þjónustu hugsunarinnar. Þar sem orðið er þannig hugsað sem leiðandi hugtak, er ekki hægt að þýða það. Ekki frekar en gríska leiðsagnarorðið λόϒος (logos) og hið kínverska „Tao“.

Orðið Ereignis merkir hér ekki lengur það sem við skiljum í daglegu tali sem hvers kyns atvik, tiltekinn hlut sem gerist. Héðan í frá er orðið notað sem singulare tantum (einstak). Merking þess á sér stað (ereignet sich) einungis í eintölu (Einzahl), nei, ekki einu sinni lengur sem Zahl (tala), heldur sem (ein)stak (einzig).

Það sem við upplifum í gegnum hina nútímalegu tækniveröld sem samstillingu veru og manns er forleikur þess sem Ereignis merkir.[v] Þetta þýðir þó ekki að við þurfum nauðsynlega að festast í forleiknum. Í Ereignis talar sá möguleiki að hann umbreyti hinni hreinu yfirdrottnun innstillingarinnar (Gestell) í upprunalegt „Ereignen“ (atviksreynslu-uppákomu).

Slíkur umsnúningur á ísetningunni (Ge-stell) út frá Ereignis, fæli í sér brot á hinu atvikstengda,(ereignishafte) -nokkuð sem manðurinn einn gæti aldrei gert – en það fæli í sér afnám ofríkis tækniheimsins og umbreytingu þess í þjónustuhlutverk innan þess sviðs sem veitir manninum eiginlegan aðgang að atviks-reynslunni (Ereignis).

[ þessi setning er mikilvæg en erfið í þýðingu: Eine solche Verwindung des Ge-Stells aus dem Ereignis in dieses brachte die eireignishafte , also niemals von Menschen allein machbare, Zurucknahme der technischen Welt aus ihrer Herrschaft zur Dienstschaft innerhalb des Bereiches, durch den der Mensch eigentlicher in das Ereignis reicht.]

Hvert hefur þessi vegferð leitt okkur?

Hún hefur leitt okkur að inngöngu hugsunar okkar í þetta einfalda, sem við köllum Ereignis í ströngustu merkingu þessa orðs. Svo virðist sem við höfum ratað í þá hættu að hafa, af fullkomnu kæruleysi, leitt hugsun okkar í eitthvað almennt og fjarrænt, á meðan það sem orðið Ereignis (atburðs-reynsla/uppákoma) vildi segja, er aðeins hin mesta nálægð þessarar bráðu nándar sem við erum þegar stödd í. Því hvað gæti staðið okkur nær en það sem lætur okkur nálgast það sem okkur tilheyrir, þar sem við verðum hlutaðeigandi (Gehörende),  das Ereignis (uppákoman)?

Atviks-reynslan (Ereignis) er í sjálfri sér sveiflukennt svið, þar sem maður og vera ná hvoru öðru í eðli sínu, ná tökum á eðlislægri veru (Wesendes) sinni, þar sem þau létta af sér öllum þeim skilgreiningum sem frumspekin hefur lagt á þau.

Að hugsa atviks-reynsluna sem Ereignis felur í sér uppbyggilegt framlag til byggingar á þessu sveiflukennda sviði. Efniviðinn í þessa svífandi byggingu sækir hugsunin í tungumálið, endurómur þess er það mýksta en einnig það viðkvæmasta og jafnframt burðugasta í svífandi byggingu atviks-reynslunnar (Ereignis). Að því marki sem eðli okkar er yfirfært á (vereignet) á tungumálið búum við í Ereignis (atviks-reynslunni).

Við höfum nú hafnað á þeim stað á vegferð okkar þar sem hin grófa en óhjákvæmilega spurning vaknar: hvað hefur atviks-reynslan (Ereignis) með Samsemd (Identität) að gera?

Svar: ekkert.

Hins vegar deilir Samsemdin mörgu, ef ekki öllu, með atviks-reynslunni. Hvernig má það vera? Svar okkar felst að snúa nokkur skref til baka til þess sem áður var sagt.

Atviks-reynslan (der Ereignis) felur í sér gagnkvæma sameignun (vereignen) manns og veru í eðlislægri  samveru þeirra. Fyrsta og áhrifamesta ljósblossa atviks-reynslunnar sjáum við í inn-stillingunni (Ge-stell). Hann felur í sér kjarna tækniheims nútímans. Í inn-stillingunni sjáum við hvernig vera og maður tilheyra hvort öðru, þar sem virkni þess að tilheyra ákvarðar gerð „samverunnar“ og einingu hennar. Samfylgdin inn í spurninguna um að tilheyra sameiginlega (Zusammengehören), þar sem það að tilheyra hefur forgang fram yfir hið sameiginlega (zusammen), leiddi okkur að setningu Parmenídesar: „Hið sama er einmitt að hugsa jafnt og að vera“.

Spurningin um merkingu þessa sama er spurningin um eðli Samsemdarinnar (Identität). Kennisetning frumspekinnar segir okkur að Samsemdin sé megineinkenni verunnar. Nú kemur hins vegar í ljós að veran og hugsunin tilheyra bæði tiltekinni samsemd, sem á rætur að rekja í þessari tegund sameiginlegrar tilheyrnar (Zusammengehörenlassen) sem við köllum atviks-reynslu (Ereignis). Eðli Samsemdar er eiginleiki atviks-reynslunnar (Ereignis).

Ef svo færi að við fyndum eitthvað handfast í tilraun okkar til að vísa hugsuninni á stað eðlisuppruna Samsemdarinnar, hvað væri þá orðið af yfirskrift fyrirlestrar okkar? Merking yfirskriftarinnar Regla Samsemdarinnar (Der Satz der Identität) hefði tekið breytingu.

Orðið Satz (regla) gefur sig nánast fram í formi grundvallarreglu, þar sem gengið er út frá því að Samsemdin sé eitt af einkennum verunnar (Sein), það er að segja grundvalkareinkenni verundarinnar (Seienden). Þessi regla í skilningi fullyrðingar, hefur á vegferð okkar umbreyst í reglu í formi stökks, sem verður viðskila við veruna  (Sein) sem grundvöllur verundarinnar (Seienden), og hafnar þannig í hyldýpinu. Þetta hyldýpi reynist þó hvorki hið innihaldslausa tóm, né hið formyrkvaða villuráf, heldur: das Ereignis (atviks-reynslan). Í das Ereignis sveiflast eðli þess sem eitt sinn var kallað heimili verunnar, en það er tal tungumálsins. Satz verunnar segir nú: Stökk sem eðli Samsemdarinnar kallar eftir, fyrir brýna þörf, ef sameiginleg aðild (Zusammengehören) manns og veru á að takast í eðlslægu ljósi des Ereignis (atviks-reynslunnar).

Vegferðin frá reglunni sem fullyrðing um Samsemdina  til reglunnar sem stökk til eðlisuppruna Samsemdarinnar hefur umbreytt hugsuninni. Þegar horft er til samtímans, þá finnum við hér ástæðu þess að við sjáum, handan aðstæðna mannsins, samstillingu veru og manns á grundvelli þess sem umfram allt tengir þau saman í gagnkvæmu eignarhaldi, það er að segja der Ereignis (atviks-reynslan).

Að því gefnu að okkar bíði sú framtíð, að innstillingin (das Gestell) tali til okkar sem Ereignis – í gagnvirkri ögrun (Herausforderung) manns og veru innan útreiknings hins reiknanlega – að manneskjan og veran í eiginleika sínum fremji sitt eignarafsal (enteignet), þá væri leiðin opin og frjáls, þar sem manneskjan fengi í fyrsta skipti að reyna verundina, heild nútíma tækniheims, náttúruna og söguna, og þá fyrst og fremst veru þessa í heild sinni.

Svo lengi sem umhugsunin um heiminn á tímum kjarnorkunnar, og öll ábyrgðin sem henni fylgir, takmarkar sig einungis við það friðþægjandi markmið sem felst í friðsamlegri notkun kjarnorkunnar, þá er hugsunin hér komin hálfa leið. Á forsendu þessarar hálfnuðu vegferðar hefur tækniheimurinn  tryggt enn frekar sína frumspekilegu yfirdrottnun.

En hvar hefur sú ákvörðun verið tekin, að náttúran sem slík skuli um alla framtíð vera náttúra nútíma eðlisfræði, og að sagan skuli birtast einungis sem viðfang sagnaritunarinnar? Það er rétt, að við getum ekki hafnað núverandi tækniheimi eins og hann væri djöfullegur tilbúningur, og okkur leyfist heldur ekki að eyðileggja hann, að því gefnu að hann geri það ekki af sjálfsdáðum.

Enn síður skyldum við hins vegar aðhyllast þá skoðun að tækniheimurinn sé þess eðlis að í honum felist fullkomin vörn. Þessi skoðun lítur á það allra nýjasta (das Aktuelle), sem hún er heltekin af, sem hinn eina sanna raunveruleika. Þessi skoðun felur í sér  hreina draumóra, og því alls enga framtíðarsýn (Vordenken) þeirra er sjá fyrir sér hvatningu (Zuspruch) í eðli komandi Samsemdar manns og veru.

Hugsunin þurfti meira en tvö þúsund ár til að skilja eiginlega (eigens) jafn einfalt samband og þá miðlun sem á sér stað innan Samsemdarinnar. Eigum  við þá að halda því fram, að hið hugsandi inngrip í eðlisuppruna Samsemdarinnar geti raungerst á einum degi? Þessi innkoma kallar á stökk, og einmitt af þeirri ástæðu kallar hún á sinn tíma. Það er tími umhugsunarinnar, sem er annar en tími útreikningsins, sem á okkar tímum hvílir eins og lamandi ok á hugsuninni. Í dag höfum við „hugsunarvélar“ er reikna á einni sekúndu þúsundir af jöfnum, sem þrátt fyrir tæknilega nytsemd sína eru þýðingarlausar.

Hvað eina sem við reynum að hugsa og hvernig sem við gerum það, þá hugsum við á leikvangi arfleifðarinnar. Það er hún sem ræður, þegar hún frelsar okkur í gegnum hugleiðsluna frá eftirþanka (Nachdenken) til forsjálni (Vordenken) sem felur ekki lengur í sér neina áætlanagerð.

Einungis þegar við beinum hugsun okkar að því sem áður var hugsað verður hugsun beint að því sem enn er óhugsað.

(Erst wenn wir uns denkend dem schon Gedachten zuwenden, werden wir verwendet fur das noch zu Denkende.)

(Forsíðumyndin er samklippa eftir Erro frá 1958 ásamt kápumynd ítölsku útgáfunnar á þessari ritgerð. Þýska textann fann ég á netinu.)

:::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::

[i] „Vorstellenden Denken“ er vandþýtt hugtak sem erfitt er að finna samsvarandi orð fyrir á íslensku. Í ítalskri þýðingu Giovanni Gurisatti er þetta þýtt sem „Pensiero rappresentativo“ og væri vafalaust þýtt sem „representative thinking“ á ensku. Það leysir ekki íslenska þýðingarvandann, en orðið „Vorstellung“ er meðal annars „sýning“ á íslensku, en bókstaflega merkingin er „fram-setning“ eða jafnvel „fyrir-stilling“, sem hefur hins vegar aðra og neikvæðari merkingu á íslensku: „hvað á þetta að fyrirstilla?“ Þessi íslenska orðmynd rímar reyndar skemmtilega við gagnrýni Heideggers á „fyrirstillandi hugsun“, en gengur þó trúlega of langt í hlutdrægni sinni. Endanlega merkir Vorstellende Denken hjá Heidegger þá hugsun frumspekinnar sem hefur fyrir fram gefna forsendu í niðurstöðu sinni.

[ii] Seiende er lýsingarháttur nútíðar af sögninni sein, sem merkir að vera. Á íslensku væri bein þýðing „verandi“. Seiende getur hins vegar haft margræða merkingu á þýsku, bæði sem háttur sagnar og nafnorð, ekki síst í meðförum Heideggers, sem hefur gert „veruna“ að sínu mikilvægasta heimspekilega viðfangsefni. Sú þýðing sem hér er notuð er ekki nákvæm, og sjálfsagt umdeilanleg.

[iii] Anwesen merkir hjá Heidegger að vera til staðar, andstætt við Abwesen, sem merkir að vera fjarverandi. Hugtakið hefur þannig með beina virkni að gera. Þriðja afleidda myndin af Wesen getur verið Vorwesen, sem merkir að vera rotnaður eða „fordjarfaður“. Sem nafnorð getur Anwesen einnig þýtt landareign eða staðareign. Í daglegu sveitamáli stundum kallað „eignin“.

[iv] Heidegger notar hér sögnina gestellen, sem við getum þýtt sem „að innstilla“ eða „setja í“, en þetta orð er hér notað með vísun í nafnorðið „Gestell“, sem er lykilorð (og nýyrði) Heideggers í allri umfjöllun hans um tæknina. Orðið felur í sér að tæknin, sem í hefðbundinni þýsku er „Technik“, sé ekki bara hlutlaust fyrirbæri, heldur feli það í sér „inn-stillingu“ er varði veru mannsins og allrar annarrar veru í heiminum, þeim heimi sem maðurinn hefur gert að „viðfangi“ sínu. Sögnina notar Heidegger hér til að skýra í framhaldinu merkingu lykilhugtaks hans: Gestell. Þýðing þess á íslensku verður aldrei nákvæm án skýringar: innsetning, ísetning, innstilling, samstilling o.s.frv. Heidegger hefur rétt fyrir sér að þetta erorð sem ekki er hægt að þýða, ekki frekar en „Ereignis“.

[v] Ef svíkja ætti Heidegger með því að reyna að þýða „Ereignis“ þá er um að ræða atburð sem er eiginleg upplifun eða einstaklingsbundin reynsla („atviks-reynsla“) sem hefur með hugtökin „eign“ og „eiginlegur“ að gera. Atburður þar sem maður og vera eru eitt. „Uppákoma“. Hugtaksleg og merkingarfræðileg tengsl má finna við orðið Erfahrung=upplifun, reynsla.

 

%d bloggers like this: