AÐSKILNAÐARSTEFNA GRÆNA PASSANS

Fréttapistill frá Ítalíu

„Hvatning til að láta ekki bólusetja sig er hvatning til dauða, efnislega er það svo að ef þú lætur ekki bólusetja þig þá veikist þú og deyrð, þú lætur ekki bólusetja þig og smitar þannig aðra og deyðir“.

Þessi orð lét Mario Draghi, forsætisráðherra Ítalíu, falla á mikilvægum blaðamannafundi 22. Júlí síðastliðinn þegar hann kynnti áform ríkisstjórnar sinnar um útgáfu „Græna passans“ til þeirra sem eru bólusettir og um leið takmörkun á frelsi þeirra sem ekki hefðu slíkan passa. Þeir sem ekki vilja gangast undir bólusetningu geta fengið sambærileg réttindi með því að sýna vottorð um smitlausa nefpinna-sýnatöku 48 klst fyrir aðgang. Tilskipunin var réttlætt fyrst og fremst með því að án hennar yrði nauðsynlegt að loka vinnustöðum og opinberum þjónustufyrirtækjum í stórum stíl vegna nýja Delta-afbrigðisins af Sars-veirunni.  Þegar þessi orð voru töluð hafði um helmingur þjóðarinnar fengið 2 skammta af tilraunabóluefni gegn Covid19. Viðurkennd bóluefni eru háð samþykki Evrópska heilbrigðiseftirlitsins, en það hefur ekki viðurkennt undanþágu fyrir Sputnik-bóluefnin frá Rússlandi, né heldur kínversk bóluefni. Græni passinn mun gilda í 9 mánuði fyrir bólusetta en 6 mánuði fyrir þá sem sýna vottorð um að hafa læknast af Covid19.

Áformin um Græna passann voru samþykkt á ítalska þinginu án mikillar umræðu og komu til framkvæmda 6. ágúst. Mario Draghi forsætisráðherra er sem kunnugt er fyrrverandi bankastjóri Evrópska seðlabankans og myndaði samsteypustjórn 4 flokka í fyrra eftir tilnefningu Mattarella forseta. Samsteypustjórnin er í kjarna sínum stjórn 4 flokka sem spanna sviðið frá hægri til vinstri, og lýstu allir stuðningi við Græna passann en Ítalski bræðralagsflokkurinn, sem er nú einn í stjórnarandstöðu sem þjóðernissinnaður hægri-flokkur, var á móti.

Þótt málið hafi fengið skjóta afgreiðslu í þinginu  gengu umræður um málið fjöllum hærra á samfélagsmiðlum og hefur komið til fjöldamótmæla í flestum borgum Ítalíu þá viku sem tilskipunin hefur verið í gildi. Tilskipunin fékk lagalegt gildi 6. ágúst síðastliðinn og hefur víðtæk áhrif á fjölmörgum sviðum og eru ýmis vafaatriði enn óleyst .

Tilskipunin um Græna passann felur í sér að bólusettir eru skyldaðir til að sýna QR merki um bólusetningu á snjallsíma sínum (eða útprentað vottorð á pappír) og persónuskilríki ef krafist er. Framsal þessa vottorðs er krafist í flestum þeim lokuðu rýmum sem veita opinbera þjónustu eins og veitingastaðir, barir, gististaðir, söfn, leikhús og aðrir lokaðir samkomustaðir. Þeir sem ekki hafa fengið passann geta framvísað neikvæðri nefsýnatöku sem gildir í 48 klst. Hver sýnataka kostar 15 evrur.

Reglan gildir einnig um samgöngur með skipum og flugvélum milli landa og hraðlestum milli héraða, en samgöngur innan héraða eru undanskildar í bili. Græni passinn er fyrirhugaður í öllum lestum og rútubílum innanlands með haustinu.

Kirkjur eru undnþegnar passaskyldu, en þar er grímuskylda og tilskilin fjarlægðarmörk.

Starfsfólk skóla á öllum stigum og starfsfólk sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva  er skyldað að bera passann og fær starfsfólk þessara stofnana 5 daga frest, en verður annars af launum sínum.

Nemendur á háskólastigi þurfa að sýna Græna passann eða neikvæða nefpinnagreiningu til að fá aðgang að skólum. Passaskylda á að ná allt niður að 12 ára aldri, en börn undir þeim aldri eru ekki krafin um passa. Ljóst er að afar fá börn á aldrinum 12-18 ára hafa fengið bólusetningu, og eru heilbrigðisyfirvöld nú með sérstaka bólusetningarherferð í  gangi fyrir þessi börn, og hafa þau aðgang að ókeypis bólusetningu í lyfjaverslunum og heilsugæslustöðvum næstu mánuði án pöntunar. Ljóst er að þessi tilraunabólusetning á börnum á eftir að vekja margar spurningar, bæði lagalegar og heilsufarslegar.

Stéttarfélög kennara hafa mótmælt passaskyldunni, en hún er ekki síður viðkvæm í heilbrigðisgeiranum þar sem þeir sem ekki hafa tekið bólusetningu í þessum starfsgreinum byggja þá ákvörðun yfirleitt á sínu faglega mati, þar sem bóluefnin eru á undanþágu sem tilraunaverkefni og hafa ekki gengist undir almennt tilskildar prófanir á bóluefnum. Um 2,3% stafsfólks við heilsugæslu mun vera óbólusett að sögn fjölmiðla, en þessi tala er mismunandi á milli héraða og til dæmis eru um 11% starfsmanna við heilsugæslu óbólusettir í héruðunum Friuli-Venezia Giulia og Trento, svo dæmi séu tekin. Ástæðan er augljóslega sú að enginn veit um langvarandi virkni bóluefnanna og notkun þeirra er byggð á undanþágu sem veitt hefur verið vegna ríkjandi aðstæðna. Þannig hafa lyfjaframleiðendur tryggt sig gegn sakhæfri ábyrgð vegna hugsanlegs skaða eða aukaverkana. Samkvæmt ítölsku stjórnarskránni og Evrópurétti er einnig bannað að þvinga fólk til bólusetningar eða mismuna einstaklingum eftir því hvort þeir láta bólusetja sig í tilraunaskyni eða ekki. Ljóst er að þessi ákvæði stjórnarskrár og Evrópuréttar koma í veg fyrir lögskipaða bólusetningu, en Græni passinn kemur í raun í stað hennar og býður upp á afar þröngan valkost síendurtekinnar sýnatöku með nefpinnum. Augljóst er að hér eiga eftir að koma upp mörg lagaleg og heilsufarsleg ágreiningsmál og má reikna með að þau muni fara fyrir dómstóla. Athygli vekur til dæmis að innan Evrópu eru fjölmargir sem hafa fengið Sputnik-bóluefnið sem ekki er viðurkennt af ESB, m.a. flestir íbúar Ungverjalands og San Marino.

Eftirlisskylda með framvísun á „passanum“ hvílir á starfsmönnum og rekstraraðilum viðkomandi  þjónustumiðstöðva og varðar sönnuð vanræksla 400-1000 evra sekt og lokun staðarins ef brot eru endurtekin þrisvar.

Auk hinnar samþykktu tilskipunar hefur verið gefin út sérstök „fréttatilkynning“ í blöðum þar sem  tekið er fram að starfsmenn stofnana er hafa eftirlitsskyldu séu „skyldaðir“ til bólusetningar. Þetta form fréttatilkynningar á sér þá skýringu að samkvæmt stjórnarskrá er ekki hægt að skylda neinn til tilraunabólusetningar með lagasetningu, og er þá gripið til fréttatilkynningar í staðinn, sem í raun hefur ekki lagalegt gildi.

Græni passinn er því leiðin sem Mario Draghi og allir flokkarnir sem að stjórn hans standa hafa valið til að koma á þessari bólusetningarskyldu í raun, þó formlega sé hægt að víkja sér undan henni með ærnum tilkostnaði og fyrirhöfn eða með sjálfseinangrun.

Ekki hef ég séð undantekningarákvæði gegn þessari nýju tilskipun varðandi þungaðar konur, en óvissa um áhrif bóluefna á frjósemi og fósturþroska hefur verið nokkuð áberandi í umræðu fagfólks um bóluefnin. Sömuleiðis vantar nánari ákvæði um þá sem teljast löglega undanþegnir tilraunabólusetningu, til dæmis vegna ofnæmis eða af öðrum heilsufarsákvæðum.

Mario Draghi forsætisráðherra lýsti því yfir á fréttafundinum um Græna passann að þessi skylda væri til þess að veita aukið frelsi. Frelsi til vinnu, vegna þess að aðgerðin kemur í veg fyrir lokun vinnustaða, en einkum þó frelsi fólks til að sækja opinbera staði í vernduðu öryggi gegn smitun. Samkvæmt hinni opinberu stefnu snúist Græni passinn um frjálst val, og hann veiti því hinum sem ekki vilja bólusetningu frelsi til þeirrar ákvörðunar með sjálfvalinni einangrun eða stöðugri sýnatöku.

Athygli vekur að um svipað leyti og Mario Draghi hélt blaðamannafundinn um Græna passann kom Antony Fauci, yfirmaður veiruvarna Bandaríkjastjórnar, fram í fjölmiðlum og lýsti því yfir að bólusetning gegn Sars veirunni veitti enga vörn gegn smitun af Delta afbrigði veirunnar, og að í ljós hefði komið að bólusettir einstaklingar með einkennalausa smitun hefðu ekki minna magn veiru í líkama sínum og væru því ekki minni smitberar en óblóusettir. Því ættu bólusettir alltaf að bera grímur í lokuðu almannarými, rétt eins og óbólusettir. Þar sem Antony Fauci hefur verið valdamesti og áhrifamesti einstaklingurinn í baráttunni gegn þessum heimsfaraldri, þá vekja þessi ummæli hans þá spurningu hvort Græni passinn veki ekki falskt öryggi eða hafi kannski annan tilgang en Mario Draghi boðaði á fundi sínum.

LÍF-VALDIÐ Í KÓFINU SAMKVÆMT FOUCAULT

Sú skelfilega smitsótt sem nú gengur yfir heiminn hefur komið veröldinni í opna skjöldu og við stöndum ráðþrota andspænis óþekktum vágesti. Við Vesturlandabúar, og þá sérstaklega þeir sem fæddir eru eftir miðja síðustu öld,  virðast hafa það sterklega á tilfinningunni að þeir séu ekki fæddir í þennan heim til að kljást við alheimsplágur af þessu tagi. Voru vísindin og tæknin ekki búin að tryggja okkur gegn óværu í líkingu við þessa?

Í allri umræðu um smitpestina er eitt hugtak sem skiptir máli. Það er hugtakið „líf-vald“ sem franski heimspekingurinn Michel Foucault setti á oddinn í sögulegri greiningu sinni á ættfærslu valdsins í menningarsögu Vesturlanda, sem hann setti m.a. fram í bókum sínum um „Sögu kynferðisins“, bókinni um „Eftirlit og refsingu – sögu fangelsanna“ frá 1975, og „Sögu geðveikinnar á klassískum tíma“ frá 1972. Hugtakið verður í raun til í greiningu Foucaults á formgerðum valdsins í sögunnar rás á því tímaskeiði sem hann kallar „klassík“ en í hans skilningi nær þetta hugtak í raun yfir tímabilið frá tilkomu Upplýsingarinnar á 17. öld fram  til tilkomu nútímans. Út frá greiningu sinni á formgerðum valdsins kemst Foucault að því að „líf-vald“ sé það pólitíska vald sem verður til með tilkomu nútíma vísinda- og tæknihyggju, þar sem „lífið mætir sögunni“ eins og hann segir í eftirfarandi kaflabroti sem hér er birt úr fyrsta bindi „Sögu kynferðisins“ frá 1976.

Hugtakið „líf-vald“ snýst í raun um það þegar valdið hætti að beita sér gegn hugsun okkar í formi óttans, en gerði í staðinn líkama okkar að viðfangi sínu með því að tileinka sér reiknihugsunina og gera líkamann að viðfangi útreikninga er hafa hagstjórnina meðal annars að markmiði sínu.

Þetta hugtak Foucaults hefur haft víðtæk áhrif á heimspekiumræðu í samtímanum, meðal annars á ítalska heimspekinginn Giorgio Agamben, sem hefur haft mikil áhrif á alla umræðu um heimspeki stjórnmálanna í samtímanum með ritsafninu sem hefur nú verið gefið út undir heildarheitinu „Homo Sacer“. Agamben hefur að mörgu leyti beitt aðferðarfræði Foucaults, en niðurstöður hans hafa verið afar umdeildar, ekki síst vegna viðbragða hans við aðgerðum stjórnvalda gegn Covid19 pestinni (sbr. Blogfærslu hans frá 23. Nóvember s.l. birt hérá síðunni: https://wp.me/p7Ursx-152). Gagnrýni Agambens er umdeild, og ekki af ástæðulausu.

Segja má að heimurinn hafi ekki enn gert sér grein fyrir eðli þessarar plágu eða afleiðingum hennar. En ástæða þess að ég birti færslu Agambens er ekki síst sú að ef eitthvað er verra en vafasöm gagnrýni á yfirvöld, þá er það þöggun á gagnrýniröddum. Við höfum mikla þörf fyrir gagnrýna umræðu um það sem gengur yfir heiminn þessi misserin, og því birti ég blogfærslu Agambens hér á síðunni. Hún er tilefni til umræðu. Sú umræða snýst ekki síst um hugtakið „líf-vald“, eðli þess og virkni. Líf-vald er það sem nú er til umræðu á Alþingi Íslendinga um að veita heilbrigðisráðherra heimild til „útgöngubanns“ á alla Íslendinga við tilteknar aðstæður. Að setja eina þjóð í stofufangelsi. Lífvald eru líka allar tilskipanirnar um samkomubönn og nálgunarbönn sem stjórnvöld hafa gefið út og lífvald er einnig hugsanleg þegnskylda til bólusetningar, svo dæmi séu tekin. En hugtakið nær til margra annarra þátta í lífi okkar. Þessi umræða varð til þess að ég fór að rifja upp skrif Michel Foucaults um þessi mál fyrir 40 árum síðan, þegar hann var sjálfur að glíma við veirusjúkdóm sem dró hann til dauða 1984. Ég datt niður á kaflabrot í fyrsta bindi bókarinnar um Sögu kynferðisins frá 1976. Mér fannst þessi kafli eiga erindi inn í umræðuna um Covid19 og sneri broti úr honum því á íslensku í dag. Þetta er fljótfærnisleg þýðing úr enskri þýðingu Roberts Hurley frá 1978, og því viðbúið að eitthvað hafi misfarist. Kaflinn heitir á ensku „Right of Death and Power of Life“, bókin „The History of Sexuality, Volume I“, bls 139-143.

 

Líf-valdið og réttur dauðans

Kaflabrot úr bókinni „The History of Sexuality, Volume I Introduction“, Penguin books 1990 eftir enskri þýðingu Roberts Hurley.

 

… Á sautjándu öldinni tók  líf-valdið á sig tvö meginform. Þessi form voru reyndar ekki gagnstæð, þau fólu öllu heldur í sér tvo póla í þróun sem tengdi þá saman með flóknum tengslamyndunum. Annar þessara póla, sá sem virðist hafa myndast fyrst, einblíndi á líkamann sem vél: hvernig hann skyldi agaður, hvernig geta hans væri hámörkuð, hvernig nýta mætti krafta hans samhliða aukningu á nýtingarmöguleikum hans og tamningu, aðlögun hans að árangursríkum og ábatasömum eftirlitskerfum. Allt þetta var tryggt með því framkvæmdavaldi sem einkenndi agastýringuna: Líffærastýring mannslíkamans.

Hinn póllinn, sem myndaðist nokkuð seinna, einblíndi á tegundar-líkamann, þann líkama sem var knúinn af vélgengu lífi og gegndi grundvallarhlutverki í líffræðilegu þróunarferli þess: æxlun, fæðingu og dauða, heilsu, lífslíkum og langlífi og öllum þeim breytum er geta haft áhrif á þessa þætti. Eftirlit og umsjón Þessara þátta fór fram með margvíslegum inngripum og eftirlitsaðgerðum sem kalla má lýðheilsustýringu  eða líf-stýringu (bio-politics) þegnanna. Agastýring líkamans og stýring þegnanna mynduðu þessa tvo póla sem skipulagning valdsins yfir lífinu snerist um.

Á þróunarskeiði hins klassíska tíma  [17-19. öldin samkvæmt tímatali Foucaults. innsk. olg] verður þessi mikla tveggja póla tæknivél til: hún er bæði líffræðileg og lífærafræðileg , einstaklingsmiðuð og skilgreinandi, og hún beinist að afkastagetu líkamans með tilliti til hins líffræðilega þróunarferlis. Hún einkenndi það vald sem hafði kannski ekki lengur sitt fremsta markmið að drepa, heldur að gegnsýra lífið í einu og öllu.

Hið gamla vald dauðans sem einkenndi hið konunglega alræðisvald var nú látið víkja fyrir stýringu líkamanna og útreiknaðri hagstýringu lífsins. Margvíslegar stofnanir spruttu upp á klassíska tímanum – háskólar, framhaldsskólar, skýli, vinnustaðir – einnig neyðarviðbúnaður á sviði stjórnsýslunnar og hagsýslunnar, atriði sem vörðuðu fæðingartíðni, langlífi, lýðheilsu, húsakost og fólksflutninga. Þannig varð sprenging í þróun aðskiljanlegra tæknimeðala er miðuðu að undirokun líkamanna og eftirliti með þegnunum er mörkuðu upphaf tímaskeið „líf-valdsins“.

Þær tvær höfuðáttir sem mörkuðu þessa þróun í upphafi  virtust á 17. öldinni vera greinilega aðskildar. Hvað varðaði agavaldið, þá birtist þessi þróun í tilkomu stofnana eins og hersins og skólanna, í birtingarmyndum stjórnlistar, verkþjálfunar, menntunar og í samfélagsgerðum er náðu allt frá hinni hreinu hernaðarlegu greiningu Marshal de Saxe til pólitískra draumsýna Guiberts eða Servans. Hvað varðar eftirlit með þegnunum, þá sjáum við tilkomu íbúaskráningar, matsgerða á tengslum auðlinda og íbúa og töflugerð er greinir auðlegð og dreifingu hennar. Þetta sjáum við í verkum Quesnay, Moheau og Süssmilch. „Hugmyndafræðin“ varð kennisetning fagmennskunnar, heimspeki „hugmyndafræðinganna“ í mynd kenninganna um hugmyndir, merki og tilkomu skyngetunnar, en einnig í kenningu um gerð hagsmunatengsla, um samfélagssáttmála og stýrða mótun samfélagslíkamans. Þessi „hugmyndafræði“ fól augljóslega í sér sértæka (abstrakt) orðræðu, þar sem reynt var að samræma þessar tvær tæknilegu nálgunaraðferðir valdsins til þess að móta hina almennu kennisetningu um samfélagsgerðina. Í reyndinni var þeim hins vegar ekki ætlað að samtengjast í fræðilegri orðræðu, heldur í formi raunverulegra aðgerða sem áttu að leiða til hinnar miklu tæknivæðingar valdsins á nítjándu öldinni. Hlutskipti kynjanna og skipulagning kynlífsins gegndu þar mikilvægu hlutverki.

Þetta líf-vald var án alls vafa ómissandi þáttur í þróun kapítalisma. Sú þróun hefði aldrei orðið gerleg án eftirlitsbundinnar innsetningar líkamanna í framleiðsluvélina og lýðfræðilegrar aðlögunar þegnanna að hagstjórn framleiðslunnar.

En þetta dugði þó ekki eitt og sér, efling beggja þáttanna þurfti að koma til sögunnar, styrking þeirra, aðgengi og stýrileiki. Nýjar aðferðir við stýringu valdsins voru nauðsynlegar til að hámarka afköstin, verkkunnáttuna og lífið almennt án þess að skapa stjórnunarvanda.

tækniþróun valdsins sem átti sér stað á átjándu öldinni tók til allra þátta samfélagslíkamans. Þróun hinna miklu verkfæra ríkisins í stjórnsýslunni sem valdastofnana tryggði viðvarandi samband framleiðsluaflanna og undirstöðu stýrivalds lífsins og líffæranna. Framkvæmd þessa stýrivalds var í höndum aðskildra samfélagsstofnana (fjölskyldunnar og hersins, skólans og lögreglunnar, einstaklingsmiðaðrar heilsugæslu og umsýslu samfélagslegra hluta). Þetta samhæfða vald var virkt á hinu efnahagslega sviði, tryggði framvindu þess og framleiðsluöflin er stóðu að baki þess. Þetta samhæfða vald virkaði einnig sem aðskilnaðarvald með samfélagslegri valdaskiptingu þar sem valdið beindist að félagslegum öflum beggja póla og tryggði þannig yfirdrottnun og valdamismun. Með framkvæmd líf-valdsins í sínum fjölbreytilegu myndum varð gerlegt að aðlaga uppsöfnun mannaflans að uppsöfnun auðmagnsins, að tengja vöxt tiltekinna hópa við útþenslu framleiðsluaflanna og aðskilja dreifingu arðsins frá framleiðslunni. Á þessum tíma varð verðskráning líkamans, fjárfesting í honum og skipulögð dreifing á getu hans forsenda alls hins.

Við vitum öll mætavel hversu oft spurt hefur verið um hlutverk siðferðilegs meinlætis í upprunalegri mótun kapítalismans. En það sem gerðist á átjándu öld í sumum ríkjum Vesturlanda, og var bundið tilkomu kapítalismans, var annað fyrirbæri sem hafði kannski víðtækari áhrif en þessi nýja siðvendni. Þetta var ekkert minna en innganga lífsins í söguna, það er að segja innganga fyrirbæra sem tengjast lífi mannsins sem tegundar í ríki þekkingar og valds, inn á tæknisvið stjórnmálanna.

Þetta þýðir ekki að hér sé um að ræða fyrsta skiptið sem lífið og sagan tengjast. Þvert á móti þá hefur sá þrýstingur sem hið líffræðilega hefur beitt hina sögulegu framvindu verið afar mikill um þúsundir ára. Farsóttir og hungur voru hin áhrifamiklu form þessa sambands, sem ávallt lifði undir ógn dauðans. En með tiltekinni hringrás, einkum þeirri efnahagslegu sem varð á átjándu öldinni -sérstaklega á sviði landbúnaðarframleiðslunnar – hringrásar sem leiddi til aukningar á framleiðslugetu umfram þann vöxt í fólksfjölda sem hún olli, skapaðist möguleikinn til að aflétta þessari ógn dauðans. Þrátt fyrir einstaka endurtekningu ógnarinnar þá höfðu tímaskeið stórfelldrar hungursneyðar og drepsótta verið yfirstigin fyrir tíma Frönsku Stjórnarbyltingarinnar. Dauðinn var ekki sama stöðuga ógnin og áður hafði verið. Á sama tíma urðu þróun á ýmsum sviðum þekkingar um lífið almennt, tækniumbætur í landbúnaði og athuganir og mælingar varðandi líf mannsins almennt og möguleika hans til þess að draga úr örvæntingunni: takmörkuð stjórn á lífsskilyrðum afstýrði oft yfirvofandi lífshættu. Það athafnasvið sem þannig skapaðist, og sú útvíkkun þess sem varð möguleg, gerði það að verkum að aðferðir í stýringu á valdi og þekkingu gengu í ábyrgð fyrir lífsferlunum og yfirtóku eftirlit og stýringu þeirra. Vesturlandabúinn var smám saman farinn að læra hvað fólst í því að vera lifandi tegund í lifandi heimi, að búa yfir líkama, tilvistaraðstæðum, lífsmöguleikum, samfélagslegri og einstaklingsbundinni velferð, öflum sem hægt var að breyta og rými sem hægt var að deila með hagkvæmustum hætti.

Það leikur enginn vafi á því að hér gerðist það í fyrsta skipti í sögunni að líffræðileg tilvera endurspeglaðist í hinni pólitísku tilveru. Staðreynd lífsins var ekki lengur óaðgengilegt undirlag sem einungis lét sjá sig í hléum milli tilfallandi dauða og hamfara. Staðreynd lífsins fór nú að hluta til undir eftirlitssvið þekkingarinnar og athafnasvið valdsins.

Valdið snerist ekki lengur einungis um þá löggildu þegna sem áttu ekki annað yfir sér en dauðadóminn, heldur snerist það um lifandi verur og sú valdsmeðferð sem því stóð til boða þurfti að mæta skilmálum lífsins sjálfs. Það var þetta sem veitti valdinu jafnvel aðgang að líkamanum, því það átti að annast lífið frekar en ógn dauðans.

Ef hægt væri að kalla þann þrýsting sem skapast hefur þar sem hreyfingar lífsins og framvinda sögunnar mætast líf-sögu (bio-history) þá þyrftum við að nota hugtakið líf-vald til að merkja það sem færði lífið og virkni þess undir yfirráðasvæði hreinna útreikninga og gerði þekkingarvaldið að virkum geranda í lífi mannsins.

Þetta felur ekki í sér að lífið hafi verið algjörlega innlimað í þá tæknivél sem stjórnar og ráðskast með það. Lífið er stöðugt að ganga þessari tæknivél úr greipum. Utan hins vestræna heims ríkir hungursneyðin í ríkari mæli en nokkru sinni. Sú líffræðilega hætta sem ógnar tegundunum er kannski meiri og örugglega alvarlegri en hún var fyrir tíma öreindalíffræðinnar. En þau mörk sem við gætum kallað hinn samfélagslega „þröskuld nútímans“ eru yfirstigin þegar líf tegundanna hefur verið lagt í veðlófa eigin herstjórnarlistar. Árþúsundum saman var maðurinn það sem Aristóteles kallaði lifandi dýr með umframgetu til pólitískrar veru. Nútímamaðurinn er dýr sem hefur sett spurningu við eigin tilveru sem lífvera í gegnum pólitíska virkni sína.

HINN FAGRI DAUÐI III – Galimberti um Krist og Sókrates

Þessi bókarkafli sem túlkar samanburð á dauða tveggja örlagavalda í sögu vestrænnar menningar tengist efni í grein Carlo Sini um „Rökleysu dauðans“, þar sem báðir textarnir leitast við að greina rætur frumspekilegrar hugsunar í vestrænni heimspekiumræðu.

Námsefni fyrir Listaháskólann

Umberto Galimberti:

Dauði Sókratesar og dauði Jesú

Kafli úr bókinni Psichiatria e fenomenologia, endurútgáfa frá 2006. Fyrsta útg. 1979.

Á þessum degi þurftu vinirnir að bíða þess að Ellefumenningarnir[i] leystu Sókrates úr hlekkjum sínum og bæru honum hina opinberu yfirlýsingu um að stund dauðans væri upp runnin. Þegar þeir komu inn í klefann sáu þeir Santippu með yngri soninn í fanginu þar sem hún brast í grát við komu þeirra og gaf frá sér sársaukavein. „Heyrðu, Kríton, láttu einhvern fylgja henni heim“[ii] voru viðbrögð Sókratesar, sem eftir að hafa þannig losað sig við hlekki líkamans, gat nú óáreittur tekið sér sæti á rúmstokknum til þess að ræða við lærisveina sína um þá „fýsilegu áhættu“ sem að hans mati fólst í ódauðleika sálarinnar.

Hann sýnir engin angistarmerki , enga örvæntingu eða depurð vegna þess lífs sem nú var komið á sína endastöð, einungis samkvæmni milli lífsins og ævistarfs kennarans. Einnig þessi örlagastund var fullnýtt til þjónustu við ævistarf kennarans til þess að auka áhrifamátt þess, og ef stundin er andvökunótt dauðans þá er rætt um ódauðleika sálarinnar til þess að sanna hana, ekki endilega með krafti röksemdanna heldur í krafti þeirrar heiðríkju hugans sem sér einungis nýtt upphaf í endalokunum.

„En heyrðu, Sókrates, segðu okkur þó hvernig við eigum að haga jarðarför þinni.“ „Eins og ykkur þóknast“ var svarið. Og hann hélt áfram með bros á vör: „Kæru vinir, mér tekst ekki að sannfæra Kríton um að hinn raunverulegi Sókrates er sá sem ræðir við ykkur hér og nú, en ekki sá sem hann mun innan skamms sjá sem liðið lík.“[iii]. Að svo mæltu hvarf hann inn í næsta herbergi til að þvo sér. Á eftir honum komu Kríton, synirnir og vinnukonur heimilisins, sem Sókrates dvaldi með fram undir sólsetur, allt þar til sendiboðinn kom til þess að færa honum grátandi skilaboðin um að dauðastundin væri upp runnin.

Lærisveinarnir grátbiðja hann um að bíða, eins og aðrir höfðu gert, þar til sólin væri sest. En Sókrates vildi komast hjá því að verða til athlægis með því að halda dauðahaldi í lífið þegar það hefur verið tæmt. Hann drekkur eitrið í einum teig, án nokkurs óttamerkis, án litbrigða eða nokkurra svipbrigða horfði hann til lærisveinanna með sínu nautslega augnaráði og sagði: „Hvað segið þið? Leyfist mann að skála við nokkurn með þessum drykk?“[iv]. Svo tók hann að ganga um gólf þangað til hann hætti að finna fyrir þyngd fótanna, þá lagði hann sig, og þegar líkaminn tók að kólna sagi hann: „Kríton, við skuldum Aeskliposi hana; færðu honum hanann og gleymdu því ekki.“. „Skal gert“ svaraði Kríton, „en er ekki eitthvað annað sem þú vilt segja okkur?“ Við þessari spurningu kom ekkert svar.“[v]

Forngrikkir höfðu þann sið að fórna hana til Aeskliposar, þessa guðs læknislistarinnar, þegar þeir höfðu læknast af einhverju meini. Með því að frelsa sálina frá líkamanum hafði dauðinn „læknað“ þennan kvilla eða sjúkdóm sem kemur í veg fyrir að sálin „samsamist og sé ein með sjálfri sér“ og þess vegna gleymdu lærisveinarnir ekki að færa Aeskliposi þessa fórn.

Andlátsorð Sókratesar hafa lengi vakið sterk viðbrögð og aðdáun og gera það enn, en á bak við þessar tilfinningar hvílir engu að síður ótvíræð merking: við sjáum hér afneitun líkamans í sinni róttækustu mynd. Ef svo væri ekki væri óhugsandi að „bindast dauðanum vinarböndum“ og horfa til hans með því augnaráði sem dauðvona sjúklingur getur einungis beint til þess sem handan allrar huggunar er enn fær um að fullvissa hann um framtíð á þessari jörð. Það er engin þörf á því að atyrðast út í Nietzsche til að skilja að það er ekki vonin um ódauðleika sálarinnar heldur hin róttæka afneitun líkamans sem hér hefur skipti á dauðanum og „hinni miklu heilsu“, hinum harmsögulega eftirleik þjáningarinnar og hamingju lækningarinnar [vi]

Síðasta stunan og dauðinn herðir óafturkræft tök sín á líkama Sókratesar. Þegar „lækningin“ var afstaðin lokaði Kríton augum og munni þessa líkama, sem enn voru opin.[vii]

Rembrandt_Hví hefur þú yfirgefið mig

Rembrandt: Drottin, hví hefur þú yfirgefið mig?

Ef við snúum okkur nú frá textanum í Faedon að sambærilegum frásögnum í guðspjöllunum sem lýsa dauða Jesú, þá lesum við að þeir sem fylgdu honum í Getsemane-garðinn höfðu sofnað á meðan Jesú fór að „skjálfa og fyllast angist“, þannig að hann sagði við þá: „Sál mín er sárhrygg allt til dauða; bíðið hér og vakið.“ (Matt. 14, 34)

Ólíkt Sókratesi, þá var Jesú óttasleginn, hann óttaðist ekki mennina sem ætluðu að drepa hann, ekki sársaukann sem var undanfari dauðans, Jesú óttaðist dauðann í sjálfum sér, þennan óvin Guðs, þessa algjöru einangrun og hina róttæku einsemd.

Það er algjörlega gagnslaust að vilja þurrka burt þessa frásögn guðspjallanna af skelfingu Jesú með tilbúnum gerviskýringum. Þeir andstæðingar kristindómsins sem á frumkristnum tíma undirstrikuðu andstæðurnar sem hægt er að lesa út úr dauða Jesú og Sókratesar, höfðu þá þegar gleggri sýn en hinir kristnu álitsgjafar. Jesú er raunverulega skelfingu lostinn andspænis „hinum mikla óvini Guðs“ og skortir alla þá sálarró Sókratesar sem gengur sallarólegur í faðm hinnar „miklu vinkonu“. „Abba, faðir! allt er þér mögulegt; tak þennan bikar frá mér“( Matt. 14, 36).

Þetta er bikar dauðans, sem ekki er hægt að skála með. Ef dauðinn er í raun og veru óvinur Guðs, þá felur drykkur af þessum bikar í sér viðskilnað við Guð. Að vera ekki lengur í örmum hans, heldur í örmum hins mikla óvinar. Þess vegna heyrum við ópið af krossinum: „Guð minn, Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig?“ (Matt. 15,34).

Jesú er ófær um að afbera þessa einsemd. Hann kallar ekki bara á nærveru Guðs í Getsemane-garðinum, heldur líka á nærveru lærisveinanna. Hann gerir hvað eftir annað hlé á bænalestri sínum til þess að nálgast þá þar sem þeir liggja sofandi. Hann vill finna sig umkringdan lífinu, ef hann getur ekki lengur stólað á eigið líf, þá í það minnsta á líf lærisveinanna. „Getið þið ekki vakað með mér eina stund?“ Og að lokum úrkula vonar: „Sofið bara og hvílist. Stundin er runnin upp. Sjá, mannssonurinn er framseldur í hendur syndaranna. Standið upp, förum; sjá, sá er í nánd er mig svíkur.“( Matt. 14,42).

Síðan tekur aftökusenan við. Sókrates drekkur óðjurtarsafann með yfirvegaðri ró. Jesú gefur hins vegar frá sér ógreinanleg hljóð (Matt. 15,37), örvæntingaróp. Hér er ekki lengur um að ræða þann dauða sem er vinur sálarinnar, heldur dauðann í öllum sínum hryllingi. Hér opnast hyldýpisgjáin á milli grískrar hugsunar annars vegar og hinnar gyðinglegu-kristnu hefðar hins vegar. Hyldýpisgjáin á milli kennisetningarinnar um ódauðleika sálarinnar og trúarinnar á upprisu líkamanna. Þessi trú er aðeins hugsanleg þar sem dauðinn, en ekki líkaminn, er skilinn sem óvinur Guðs. Þess vegna verður ekki um neina frelsun að ræða nema með sigrinum á dauðanum.

Slíkan sigur getur Jesú ekki boðið upp á með því að halda einfaldlega áfram að lifa eins og ódauðleg sál, það er að segja án þess í raun og veru að deyja. Hann getur ekki sigrast á dauðanum nema með því að deyja í raun og veru, það er að segja með því að ganga inn á það svið dauðans sem er tómið, viðskilnaðurinn við Guð. Þar verður hann að segja skilið við lífið í raun og veru og hætta að lifa eins og ódauðleg sál, hann verður að glata dýrmætasta gildi sínu sem er gildi lífsins. Það er einungis á þessum forsendum sem frelsunin öðlast merkingu, frelsun sem skiptir tímanum í tvennt: fyrir og eftir sigurinn á dauðanum.

Í huga Grikkjans var þetta allt óskiljanlegt. Fyrir honum er líkaminn hið illa, og sem slíkur á hann ekki að lifa áfram. Sá hluti mannsins sem þarf að lifa áfram, það er að segja sálin, deyr alls ekki.

Hinn kristni segir að Grikkinn geti ekki skilið dauðann, vegna þess að hann þekkir ekki hugtakið sköpun, hann þekkir ekki það jákvæða sem býr í öllum skepnum sköpunarverksins, hvort sem þær eru sýnilegar eða ósýnilegar (Mós. 1, 31) og heldur ekki harmleik dauðans, sem felur í sér tortímingu og eyðingu sköpunarinnar. Grikkinn er fullkomlega ófær um að skilja upprisuna sem felur í sér sigurinn yfir dauðanum, en ekki yfir líkamanum, sem eins og allir aðrir hlutir er sköpunarverk Guðs. Þess vegna hæðist hann að boðskap Páls um upprisu líkamanna[viii]. Í augum Grikkjans var dauðinn óhjákvæmileg nauðsyn fyrir áframhaldandi og eilíft líf sálarinnar.

Með því að þurrka út allan greinarmun og öll forréttindi eins hluta mannsins fram yfir annan var ekki annað hægt fyrir hina kristnu trú en að maðurinn myndi rísa upp í heild sinni, því það er allur maðurinn sem deyr, sálin og líkaminn. Orð Páls postula verða ekki skilin með öðrum hætti, enda samræmast þau fullkomlega hefð Gamla testamentisins. „Dauðinn er uppsvegldur í sigur. Dauði, hvar er sigur þinn? Dauði hvar er broddur þinn?“ (Fyrra Kórintubréf 15, 54-55)

Þrátt fyrir þetta þá hefur kenning Sókratesar um ódauðleik sálarinnar borið sigur á Vesturlöndum yfir boðun kristninnar um upprisu líkamanna. Faedon bar sigurorð af Guðspjöllunum. Hinir kristnu, sem höfðu hugann einungis við líkamann, vænta sér nú ódauðleika sálarinnar eftir dauðann. Tvö þúsund ára gengisfelling líkamans hefur dregið verulega máttinn úr fyrirheiti Krists, og þar með úr merkingu verka hans á jörðinni.

Ef merking hinnar gyðinglegu-kristnu hefðar gerir að engu það samspil (dialettica) á milli þess lífs sem er skapað af Guði og dauðans sem er afleiðng syndarinnar, þá verður það skiljanlegt hvers vegna Jesú segir, þar sem hann læknar hina sjúku: „Syndir þínar eru fyrirgefnar“ (Matt. 2,5). Það er í raun ekki hægt að bregðast gegn neikvæði syndarinnar nema með því að draga úr verkan dauðans með innspýtingu lífs, það er að segja með því að lækna hina sjúku og reisa hina látnu upp frá dauðum. Sérhvert kraftaverk er brot úr upprisu, það er brot af sigri lífsins yfir hungrinu, yfir sjúkdómunum, yfir dauðanum. Grikkinn skilur það þannig, að líkaminn þurfi nauðsynlega að deyja, vegna þess að hann er af hinu illa. Fyrir hinni gyðinglegu-kristnu hefð deyr líkaminn vegna þess að í upphafi var framin synd. Fyrirgefning syndarinnar felst því í upprisu líkamans.

Hlutirnir æxluðust hins vegar ekki þannig. Það gerðist líka eftir upprisu Krists að nokkrir kristnir menn urðu veikir og einhverjir dóu. Útskýring Páls á þessu reynist ekki sannfærandi: „Hver maður prófi því sjálfan sig, og síðan eti hann af brauðinu og drekki af bikarnum. Því að sá sem etur og drekkur, hann etur sjálfum sér til dóms, ef hann gjörir ekki greinarmun á Líkamanum. Fyrir því eru svo margir sjúkir og vanheilir á meðal yðar, og allmargir deyja (Fyrra Kórintubréf 11, 28-30). Til þess að gera greinarmun á þessum Líkama þurfti augu „andans“, hin holdlegu augu hefðu aldrei dugað til þess.

[i] Dómararáðið sem dæmt hafði Sókrates til dauða fyrir að spilla æskunni í Aþenu með orðum sínum.

[ii] Platon: Faedon, 60a.

[iii] Sama rit, 115 e

[iv] Sama rit 117 b.

[v] Sama rit 118 a

[vi] F. Nietzshe: Socrates und die Tragödie (1870)

[vii] Platon: Faedon, 118 a

[viii] Sjá Postulasöguna, 17, 31-32: „…með því að hann hefur ákveðið dag, á hverjum hann muni láta mann sem hann hefur fyrirhugað, dæma heimsbyggðina með réttvísi, og hefur hann veittöllum fullvissu um það, með því að hann reisti hann við frá dauðum. Er þeirheyrðu reynda upprisu dauðra gjörðu sumir gys að, en aðrir sögðu: Vér munum hlusta á þetta hjá þér í annað sinn.“

Eftirmáli:

Þessi túlkun Umberto Galimberti á dauðastund tveggja helstu örlagavalda í sögu vestrænnar hugsunar er góð viðbót við texta Carlo Sini um „Rökleysu dauðans“. Báðar þessar ritsmíðar segja okkur að hluta til sömu söguna: söguna um upphaf frumspekilegrar hugsunar í sögu Vesturlanda. Hugsunar sem felur í sér aðskilnað efnis og ands, sálar og líkama. Eins og fram kemur í texta Galimberti er þessi hugmynd um tilvist sálarinnar sem aðskilins veruleika er geti orðið viðskila við líkamann ekki gyðingleg eða kristin í uppruna sínum. Sköpunarverk Guðs var eitt, heilt, gott og ódeilanlegt. Eyðing þess í heild sinni var uppgjöf ganvart dauðanum, sem var óvinur Guðs.

Sókrates og Platon litu öðruvísi á málin. Þeir voru óbundnir af hinni gyðinglegu sköpunarsögu. Þeir fundu upp sálina sem sjálfstætt og aðgreinanlegt fyrirbæri, líffæri sem væri ekki bara hugtakslega ólíkt líkamanum, heldur gæti það orðið viðskila við hann og lifað áfram um eilífð, að því tilskyldu að líkaminn dæi. Dauðinn var því nauðsynleg forsenda fyrir frelsun sálarinnar.

Þegar boðskapurinn um upprisu líkamanna reyndist óframbærileg, þegar á frumkristnum tíma, þá uppgötvaði Páll postuli að hægt væri að leysa þennan vanda með því að skilja sálina frá líkamanum og endurvekja upprisuboðskapinn í grískri mynd:

Sáð er jarðneskum líkama, en upp rís andlegur líkami. Ef jarðneskur líkami er til, þá er og til andlegur líkami.“ (Fyrra Kórintubréf 1,44).

Sú tenging líkamans við syndina og hið óhreina sem Sókrates og Platon halda fram í Faedoni er sameiginleg hugsun Páls postula. En hvernig kemur hún saman við gyðinglega hefð Gamla testamentisins? Um þetta segir Galimberti í framhaldi kaflans um Sókrates og Krist:

Framhald grískrar mannfræði hjá Páli og Jóhannesi

(brot úr bókarkafla)

„Gyðingar Gamla testamentisins þekktu holdið (basar) sem hinn upplifaða íverustað syndarinnar og syndina sem tjáningu dauðans þar sem hún fæli í sér rof á bandalaginu við „Hinn Lifandi“, sem með Lögmálinu hafði sannað vald anda síns (ruah).

Páll viðheldur sambandinu hold-synd-dauði, en með ímyndum holdsins og syndarinnar og dauðans tekur hann einnig Lögmálið, Lögmálið sem fyrir mann Gamla testamentisins var tjáning bandalagsins við Hinn Lifandi, merki anda hans (ruah). Þetta kemur ljóslega fram í Rómverjabréfinu:

Því þegar við vorum í holdinu, störfuðu ástríður syndanna, þær sem lögmálið hafði vakið, í limum vorum, svo að vér bærum dauðanum ávöxt. En nú erum vér leystir undan Lögmálinu, þar sem vér erum dánir því sem áður hélt oss bundnum, svo að vér þjónum í nýjum anda (pneuma) en ekki í fyrnsku bókstafs. „(Rómv. 7, 5-7)

Með þessu er andi (ruah) Gamla testamentisins orðinn að holdi (sarx) Nýja testamentisins . Sigur Krists á dauðanum er svo afgerandi að bandalaginu við Hinn Lifandi verður ekki lengur viðhaldið í gegnum Lögmálið eins og Páll segir: „Hvað var þá lögmálið? Vegna afbrotanna var því bætt við og þangað til afkvæmið kæmi, sem fyrirheitið hljóðaði um.“ (Galata 3, 19)

„Afkvæmið“ var Hinn Upprisni.
Ef við hugleiðum þá róttæku hugtakalegu umbreytingu sem falin er á bak við þá málfarslegu samfellu sem hér virðist vera á yfirborðinu, þá getum við fylgt örlögum sálarinnar og líkamans í hinni kristilegu hefð sem trú Páls lagði grunninn að með predikun sinni á Agórunni (torginu) í Aþenu, það er að segja í því hugmyndafræðilega samhengi sem samkvæmt hinu platonska uppeldi Aþeninga hikar ekki við að yfirfæra kosmíska tvíhyggju Holdsins og Andans yfir í þa mannfræðilegu tvíhyggju sem felst í sál og líkama. Þar með var lagður grunnurinn að þeirri uppgjöf kristindómsins gagnvart platónismanum sem átti eftir að móta skilninginn á manninum á Vesturlöndum.“

Þemað um líkamann tekur breytingum í takt við mannfræðilegan skilning Páls allt til ársins 50 e.Kr., ársins sem hann skrifar í Kórintu Fyrsta bréfið til Þessalóníkumanna, þar sem hann taldi dýrlega endurkomu (parusia gloriosa) Herrans yfirvofandi. Þar sem biðtíminn var svo skammur taldi Páll, eins og reyndar allir félagar hins fyrsta kristna safnaðar, að ekki stafaði lengur nein hætta frá dauðanum sem Kristur hafði sigrað í eitt skipti fyrir öll. Hann beið því beinnar upphafningar til himna í góðri trú. Andspænis „óvæntum“ dauða nokkurra kristinna manna reyndist postulinn nauðbeygður að skipta um skoðun og að gera ráð fyrir upprisu hinna dauðu, og meðal eftirlifendanna (að honum sjálfum meðtöldum) beinni flugferð til himna. Hann skrifar þannig í Fyrsta bréfinu til Þessalonikíumanna (4, 15-17):

Því að það segjum við yður og höfum fyrir oss orð Drottins, að […] þeir sem dánir eru í trú á Krist munu fyrst upp rísa; síðan munum vér sem lifum, sem eftir erum, verða ásamt þeim hrifnir burt í skýjum til fundar við Drottinn í loftinu

Í krafti fullvissunnar um að lifa af talar Páll í upphafi ekki um ódauðleika sálarinnar, heldur um upprisu hinna dauðu, sem felur þar með í sér afneitun hinnar grísku mannfræðileu tvíhyggju. Hann tengir þessa upprisu jafnframt beint við upprisu Krists og takmarkar upprisuna eingöngu við hina trúuðu, því ef dauðinn er „gjald syndarinnar“ (Rómverjabréfið 6,23) þá eru engin rök fyrir upprisu syndaranna.“

Galimberti greinir síðan frá því hvernig Páll snýst smám saman til hinnar grísku tvíhyggju sálar og líkama í kjölfar þess að hann hafði sjálfur mátt horfast í augun við dauðann í lífsháska sem hann lenti í í Efesos. Af því leiddi sú sannfæring hans að „meðan við eigum heima í líkamanum erum við að heiman frá Drottni“ (Síðara Kórintubréf 5,6).

Seinna segir Galimberti:

„Í síðari guðfræði Páls og í guðfræði Jóhannesar verðum við að lesa hugtök eins og líkami, dauði, líf og upprisa með táknrænum skilningi. Þau vísa ekki til þess raunveruleika sem nefndur er, heldur til þess sambands mannsins við Guð sem í Gamla testamentinu var miðlað í gegnum Lögmálið en í Nýja testamentinu í gegnum Krist“. […]

„Af þessari stuttu lesningu á Biblíutextum kemur skýrt fram að í hinni gyðinglegu hefð er enginn mannfræðilegur klofningur á milli sálar og líkama, heldur er um kosmískan klofning að ræða á milli lífs og dauða, á milli Hins Lifandi og hins mikla óvinar hans, sem tekur á sig ólíkar og mismunandi myndir er verða æ táknrænni og tengjast mismunandi menningarlegum upplifunum gyðingdómsins…“

og enn fremur þetta:

„Regla trúarinnar er skilyrðislaus, og sem slík ekki til umræðu. Hin táknrænu einkenni orðræðunnar, sem vísa allt frá hinu yfirskilvitlega til hinnar hversdagslegu reynslu, þolir ekki að vera þvinguð inn í merkingarvísanir sem haldið er innan rökhugsunar mannshugans. Ef við fylgjum þessari vegslóð, þessari slóð sem saga okkar hefur þegar gengið eftir, þá á það ekki að koma á óvart að sjálfstæði sálarinnar gagnvart líkamanum, sem skólaspeki miðalda boðaði, hafi verið yfirfærð á þann klofning sem heimspekingurrinn Descartes kallaði res cogitans (hinn hugsaði hlutur) og res extensa (hinn ytri veruleiki) og að „guð Abrahams, Ísaks og Jakobs“ hafi verið yfirfærður sem ábyrgðarmaður „hins rökfræðilega lögmáls“ er tryggi samkvæmni þessara tveggja raunveruleika sem hafa að ósekju verið aðskildir.“

(Psichiatria e fenomenologia, bls. 81.)

Forsíðumyndin er málverk Jacques-Louis David af dauðastund Sókratesar

 

 

 

%d bloggers like this: