AÐ LESA ANTIGÓNU Á TÍMUM STRÍÐSINS

Að lesa Antigónu á tímum stríðsins

„Það sem skilur á milli [skáldskapar og sagnfræði] er að annar segir frá því sem hefur gerzt, hinn frá því sem gæti gerzt. Af þeim sökum er skáldskapurinn heimspekilegri og æðri en öll sagnfræði, en skáldskapurinn tjáir fremur hið almenna, sagnfræðin hið einstaka.“

Aristóteles: Um skáldskaparlistina í þýðingu Kristjáns Árnasonar 1976, 1451b.


Þegar Jean Baudrillard skrifaði grein sína um styrjöldina í Írak árið 1991 fyrir dagblaðið Liberation gaf hann henni titilinn „Persaflóastríðið átti sér ekki stað“ (La Guerre du Golfe n’a pas eu lieu). Þetta var ögrandi titill á grein sem skrifuð var þegar fjölmiðlar voru fullir af fréttum af þessu stríði. Ögrunin fólst í þeirri fullyrðingu Baudrillards að sú mynd sem fjölmiðlar gæfu af atburðunum í Írak væri svo fjarri öllum veruleika að hún væru tilbúningur. Þetta stríð á sjónvarpsskjánum hefði aldrei átt sér stað, ef það ætti sér stað væri það annars staðar. Það sem gerðist í raunveruleikanum væri handan allrar frásagnarlistar fjölmiðlanna. Auðvitað átti Persaflóastríðið sér stað, en veruleiki þess var annars staðar en í þeirri mynd sem beinar útsendingar CNN fréttastofunnar fluttu okkur.

Það má taka undir þessa ögrandi fullyrðingu Baudrillards að því leyti, að sérhver frásögn af veruleikanum er óhjákvæmilega tengd sjónarhorni áhorfandans, og sjónarhornin eru eins mörg og áhorfendurnir. Hvert sjónarhorn segir sína sögu. Það þýðir hins vegar ekki að öll sjónarhorn séu jafn ómerk, einungis að ekkert þeirra segir allan sannleikann. Að því marki sem frásögnin er bundin tilfinningalegri upplifun áhorfandans er hún á mörkum „hlutlægni“ og „huglægni“, eða veruleika og skáldskapar eins og Aristóteles sagði, þegar hann var að greina á milli sannleiksgildis sagnfræðinnar og skáldskaparins. Skáldið felur sig ekki á bak við „hlutlægnina“, heldur gefur frásögninni meðvitað tilfinningalegt inntak, einmitt til þess að segja það sem alltaf getur gerst og er líklegt að muni gerast.

Undanfarnar vikur hefur heimsbyggðin setið nánast límd við sjónvarpsskjáinn og upplifað  harmleikinn í Úkraínu þar sem fjarskiptatækni og fjölbreyni í frásögnum er orðin svo háþróuð að frásaganrtæknin sem Baudrillard hafði fyrir augunum fyrir 30 árum með beinni útsendingu CNN frá loftárásunum á Bagdad var eins og barnaleikur miðað við það sem nú blasir við. Þá hafði CNN einkaleyfi á þessari „beinu útsendingu“, nú eru allir snjallsímar á vettvangi til vitnis um brjálæði og grimmd þessa stríðs í Úkraínu, sem er ekki lengur bundið við sjálfan vígvöllinn, heldur háð ekki síður á hinum stafræna vettvangi fjölmiðla af öllu tagi og frá ólíkum og oft andstæðum sjónarhornum (svo ekki sé minnst á kauphallir heimsins og viðskiptastríðið). Hér skiptir máli að greina ekki bara hvað er sýnt, heldur líka hver sýnir og hvers vegna. Ekki vegna þess að sjónarhornin séu aðeins tvö, rangt og rétt, heldur vegna þess að þau eru öll sjónarhorn á veruleika sem er annars staðar.

Tilfinningaleg viðbrögð við skelfingu stríðsins í þessum ólíku myndum eru bæði eðlileg og óhjákvæmileg, og það á við um undirritaðan eins og aðra, að hann brást við atburðarásinni með skelfingu og óhug sem truflaði ekki bara hugsunina heldur líka svefninn og meltinguna, líkamann jafnt og andann. Viðleitnin og löngunin  til að skilja veruleikann er okkur meðfædd, en það tilfinningalega uppnám sem upplýsingaveiturnar vekja er oftar en ekki verstu aðstæðurnar til skilnings og viðbragða, ekki síst þegar kemur að stríðsfréttum – aðstæðum þar sem rökin og orðin hafa vikið fyrir taumlausu ofbeldi sem ekki á sér greinanlegar rökrænar forsendur. Þegar orðin hætta að virka tekur ofbeldið við. Ofbeldi sem er andstætt þeirri siðmenningu sem telur sig hafna yfir samskipti þeirra lífvera í náttúrunni sem ekki þekkja list orðsins. Ekki bara á vígvelli stríðsátakanna, heldur líka í upplýsingastríðinu þar sem tilfinningarnar kæfa alla marktæka orðræðu.

Sú sagnfræði sem myndasýningar sjónvarpsins færir okkur eru vissulega vitnisburður um eitthvað sem gerðist fyrir framan myndavélina, en hún segir okkur ekkert um forsöguna eða eftirmálann og ekkert um vitnið eða sjónarhorn þess. Kannski var það út frá því spakmæli Aristótelesar sem hér er vitnað til í upphafi sem ég fór að fælast vígvöll fréttamiðlanna og leita til skáldskaparins: hverfa frá því sjónarhorni sagnfræðinnar sem segir okkur eitthvað sem einu sinni hefur gerst til þess tilefnis skáldskaparins sem sýnir okkur það sem alltaf getur gerst og opnar þannig fyrir okkur hyldjúpa kviku hins mannlega í sínu harmsögulega myrkri.

Þessi flótti minn í skjól skáldskaparins var kannski ekki fullkomlega í samræmi við þá skoðun sem Aristótelesi hefur gjarnan verið eignuð, að hinn gríski harmleikur færði okkur þá „geðhreinsun“ eða kaþarsis er virkaði sem hreinasta heilsubót og læknislyf gegn andlegri og líkamlegri vanlíðan, eitthvað sem umbreytti stríðinu í fagurfræðilegar unaðssemdir hinnar listrænu reynslu.

Í merkum Inngangi að þýðingu sinni á ritgerð Aristótelesar Um skáldskaparlistina fjallar Kristján Árnason um þann ágreining Aristótelesar og Platons, þar sem sá síðarnefndi hélt því fram að öll hermilist væri ávallt fölsun á veruleikanum (skuggamynd af skuggamynd hinnar upprunalegu frummyndar) og því væri ekkert pláss fyrir hermilistina í fyrirmyndarríkinu. Kristján segir Aristóteles líta svo á, að sagan (mýþos) sem mynd af veruleikanum, sé mikilvægasti þáttur harmleiksins „en bygging hennar ákvarðast af mörgu öðru, svo sem flækju og lausn, hvörfum, kennslum, raunum, en umfram allt þarf hún að mynda heild og vera í tengslum við eitthvert misferli eða misgjörð manns, sem er „mitt á milli“ þess að vera góður eða slæmur…Hann heldur því fram að harmleikur sé ekki eftirlíking einstakra staðreynda eða þess „sem hefur gerzt“, heldur „þess sem gæti gerzt“ og ákveðin manngerð sé líkleg til eða hljóti að segja eða gera, þannig að hann [harmleikurinn] hafi að geyma almenn sannindi og sé „heimspekilegri og æðri en öll sagnfræði“.[i]

Kannski var það einmitt þessi skoðun Aristótelesar sem fékk mig til að horfast í augu við hinn gríkska harmleik þar sem hann lýsir stríðinu með hvað vægðarlausastum hætti í harmleiknum um Antigónu. Um leið vildi ég kannski leita eftir forsendum listarinnar á tímum stríðsins, hvort sú siðferðislega kreppa sem nú hefur heltekið allt mannkynið í áhorfi á stríðsfréttirnar, kippi ef til vill fótunum undan allri viðleitni til listsköpunar, rétt eins og Theodor W. Adorno sagði á sínum tíma: að helför síðari heimsstyrjaldar hefði svipt ljóðlistina tilverurétti sínum. Getur skáldskapurinn hugsanlega hjálpað okkur til að skilja stríðið?

Í þessari hugarangist var það ekki samtímalistin sem freistaði mín sem athvarf til skilnings, heldur gríski harmleikurinn, nánar tiltekið Antigóna eftir Sófókles, einhver vægðarlausasta greining bókmenntasögunnar á þversögnum stríðsins, frumsýnd á Dionýsusarhátíð Aþeninga í leikhúsi guðsins undir Akropolishæð árið 442 f.Kr. Bókmennta- og leikhúsverk sem nánast allir merkustu hugsuðir vestrænnar heimspekihefðar hafa lagt sig eftir að skilja og greina. Margir helstu frömuðir vestrænnar leikhúshefðar hafa líka glímt við að túlka þetta verk á leiksviði og það hefur orðið ótal kvikmyndagerðarmönnum efniviður í mögnuð listaverk á hvíta tjaldinu. Þetta verk stendur enn fyrir augum okkar sem miskunnarlaust op inn í innstu myrkur mannshugans við aðstæður sem virðast honum óleysanleg ráðgáta.

Antigóna er skrifuð fyrir Aþeninga á 5. öld f.Kr. í kjölfar margra styrjalda sem Grikkir höfðu háð við Persa; en Sófókles horfir ekki til þeirrar sögu til að skilja stríðið, heldur í goðsagnaheiminn, til þess að setja fram þær ágengu þversagnir sem brjótast fram, þegar samtalið slitnar og ofbeldið tekur völdin af orðinu í mannlegum samskiptum.

Allir Aþeningar þekktu hina goðsögulegu frásögn af ættarböli Lajosar konungs Þebu og Jóköstu konu hans, sem fengu þau skilaboð frá véfréttinni  í Delfi að óborinn sonur þeirra  yrði ógæfuvaldur: Ödipus var borinn út nýfæddur að frumkvæði móður sinnar, til þess að deyja, til að forða ættinni frá illri forspá véfréttarinnar. Þegar sendiboðinn sem fékk það hlutverk að bera nýfætt barnið út á heiðina, hitti hann fyrir hjarðsvein konungsins í Kórintu  og fékk honum útburðinn án leyfis og vitundar foreldranna. Ödipus varð fóstursonur barnlausra konungshjóna í Kórintu og óx upp við allsnægtir sem krónprins, allt þar til honum barst sú válega fregn frá Véfréttinni í Delfi, að hans biðu þau örlög að drepa föður sinn og giftast móður sinni. Hann stóð í þeirri bjargvissu trú að foreldrar hans væru konungshjón Kórintu. Því kvaddi hann hirðina og ríki sitt og hélt út í óvissuna til að losa sig undan þessu böli örlaganna. Á þeirri ferð mætti hann óþekktum valdsmanni á þröngum vegamótum sem vildi ekki víkja, með þeim afleiðingum að til átaka kom og Ödipus felldi þennan ráðríka vegfaranda, sem hann vissi ekki að væri hinn raunverulegi faðir hans, Lajos konungur af þebu. Ödipus hélt ótrauður áfram ferð sinni til Þebu og gengur þar fram á Sfinxinn sem gætti borgarhliðsins og hafði haldið borginni í heljargreipum árum saman. Sfinxinn var ófreskja sem lagði torleystar ráðgátur fyrir fórnarlömb sín og át þau sem ekki kunnu svörin, en lifði þess utan á barnafórnum borgarbúa. Ödipus varð fyrstur manna til að ráða gátu Sfinxins, og frelsa Þebu úr heljarklóm þessarar ófreskju, sem að svo mæltu lét sig hverfa ofan í myrkheima Tartarusar eftir að hafa mætt ofjarli sínum. Ödipusi var því fagnað sem þjóðhetju í Þebu, þar sem hann mætti Jóköstu drottningu, raunverulegri móður sinni, sem þá syrgði nýlátinn eiginmann sinn, Lajos konung. Þjóðhetjunni var boðið kvonfang drottningar, hann giftist henni, tók konungssæti Lajosar föður síns og átti með móður sinni 4 börn sem öll gegna aðalhlutverkum í leikriti Sófoklesar um Antigónu: bræðurnir Etókles og Polineikes og systurnar Ismena og Antigóna. Þetta voru erfingjar Ödipusar sem deildu með honum því ættarböli sem Grikkir kölluðu até eða refsidóm örlaganna.

 Þessi forsaga leikritsins um Antigónu, sem Sófókles hafði rakið í harmleikjum sínum um Ödipus konung og Ödipur í Kólónos, var alþekkt öllum Aþeningum, og leikurinn hefst eftir að örlög Ödipusar voru ráðin, hann hafði uppgötvað ómeðvitaða sekt sína, stungið úr sér augun eftir að hafa horfst í augu við sannleikann og mætt örlögum sínum sem blindur betlari á flækingi í fylgd sinnar umhyggjusömu dóttur, Antigónu.

Eftir lát Ödipusar hafði mágur hans, Kreon, tekið konungstign í Þebu, en  Polineikes bróðir Antigónu sætti sig ekki við þau erfðamál og leiddi innrás í borgina (sem lýst er í leikriti Æskýlesar, Sjö gegn Þebu). Í því stríði stóð bróðir hans Etókles  með frænda sínum Kreon konungi og varði borgina. Þeir bræður lentu í einvígi og urðu hvor öðrum að bana og valdaráni Polineikesar var þar með hrundið og borgin frelsuð. Þar hefst harmleikurinn um Antigónu:

Kreon konungur fagnar sigri borgríkisins og lýsir Etóklesi, bróður Antigónu, sem þjóðhetju er verðskuldi viðhafnargreftrun, á meðan Polineikes skuli hljóta þá vægðarlausu refsingu að lík hans verð borið út, úlfum og hræfuglum að bráð, án nokkurrar viðhafnar. Slíkur dómur gekk gegn öllum reglum Forngrikkja, þar sem hefðbundin sorgarathöfn, útför og greftrun, jafngilti aðgangi hinna látnu í heima Hadesar, þar sem þeirra beið eilíf tilvist sem vofur. Höfnun útfarar jafngilti í raun höfnun þeirrar siðmenningar sem greindi á milli manna og dýra, á milli siðmenningar og náttúru.

Þessum dómi unir Antigóna ekki, og storkar þeim líflátsdómi sem Kreon konungur segir liggja við sérhverri sorgarathöfn vegna láts svikarans. í áhrifamiklu uppgjöri þeirra systra, Ísmenu og Antígónu, í upphafi leiksins, koma fram hugmyndir Antigónu annars vegar um „heilög bönd“, þar sem blóðið rennur til skyldunnar, og hins vegar lögboð hins veraldlega valds, er varðar öryggi borgarinnar (polis) og mátt og mikilvægi hins veraldlega yfirvalds, heildinni til farsældar. Eða eins og Ísmena segir í þýðingu Helga Hálfdánarsonar:

Ísmena: Við systur stöndum einar eftir, hygg að því; / þú sérð, það yrði beggja glötun grimmileg / að storka konungs banni, brjóta landsins lög! /Og minnstu þess, við erum konur, eðli vort, / er ekki slíkt að takast á við karlmanns þrek; / og sem vér lútum þótta þess er betur má, / skal skipast við hans orð, og eins þótt gegni verr. / Þá dauðu, sem í djúpum jarðar eiga vist, / bið ég að virða vel minn nauðar-kost / að hlíta valdsins ofurefli. Flón er sá / sem færist meira‘ í fang en kraftar endast til.[ii]  

Með þessum orðum verða vinskil þeirra systra, þar sem Antigóna tekur hin „heilögu bönd“ blóðskyldunnar, samband sitt og trúnað við „eilífa tilveru“ hinna framliðnu fram yfir hið veraldlega og stundlega yfirvald borgarinnar og ríkisins. Antígóna kýs að ganga óhikað og stolt í dauðann fyrir málstað sinn og hafnar allri samvinnu eða samúð systur sinnar eða annarra „löghlýðinna borgara“ er játast undir sinn „nauðarkost“. Um leið og hér eru strax dregnar fram andstæður veraldlegra mannasetninga löggjafarvaldsins og hins heilaga lögmáls guðanna er um leið dregin fram andstæða karlmennskunnar og þess „neyðarkosts“ sem kvenþjóðinni er boðinn (af náttúrunnar hendi?) andspænis hinu veraldlega valdi sem styðst við „þrek karlmennskunnar“. Þeirri hugmynd hefur líka verið veifað að í systrunum tveim búi andstæður hins Apollóníska (Ísmena) og hins Díonýsiska (Antigóna) samkvæmt grískum átrúnaði.

Segja má að kjarni harmleiksins sé settur fram með skýrum hætti þegar í þessar upphafssamræðu systranna, en það á eftir að koma í ljós að meira hangir á spýtunni.

Í harmleiknum er Kreon konungur fulltrúi hins veraldlega valds, yfirvald og um leið verndari hins borgaralega samfélags og þeirrar reglu sem tryggir farsæld þess til frambúðar.  Hann er í raun ekki kynntur til sögunnar sem harðstjóri í hefðbundnum skilningi, heldur sem umhyggjusamur verndari laga og reglu og þar með farsældar ríkisins. Vandi hans birtist fyrst þegar hann kemst að því að Antígóna frænka hans og systir hinnar látnu þjóðhetju Etóklesar, hefur gengið gegn löggjöf konungsins og framið helgiathöfn yfir ógreftruðu líki hins bróðurins, Polineikesar, svilkarans sem liggur ógrafinn í haganum.

Þegar kórinn, sem talar í raun rödd áhorfenda leiksins í grískri leikhúshefð, ber fram þessa athugasemd í samtali um lögbrot Antígónu: „Sá grunur, herra, kom á kreik í brjósti mér, / að hefðu hér að verki verið goðin sjálf.“, Þá svarar Kreon konungur með þessum orðum:

Kreon: Hvort skyldu réttvís goð með gælum leiða hug / að hræi þessu! Meta mikils vafalaust / og verpa mold, sem bjargvætt lýðs og lands, þann dólg / sem til þess kom að brenna byggðir, ræna hof / og brjóta hvert það vé sem verndar lög og sið? / Skal telja goðin einkum elsk að níðingum? / Nei ónei! Her í borg var löngum flokkur sá, / sem fótum tróð af kergju hvert mitt boð og bann; / á laun þeir hrista höfuð, reigja þrjóskan háls / við oki sínu og mögla fast gegn minni stjórn.

Einn frægast kafli þessa harmleiks er „lofsöngurinn til mannsins“ sem kórinn flytur eins og millispil áður en hin seka Antigóna er leidd fyrir dómara sinn og konung, sem einnig reynist reyndar líka faðir heitmanns hennar eða ástmögurs, Hemons prins. Þessi lofsöngur um dyggðir mannsins og það vald sem honum er gefið til að stjórna náttúrunni minnir að sumu leyti á sköpunarsögu Mósebókar, þar sem manninum er gefið vald yfir dýrum náttúrunnar:

Kórinn:Margt er undrið, og mun þó víst / maðurinn sjálfur undur stærst. / Þar sem ólgandi hrímgrátt haf / hrannast úfið í vetrar byl, / ristir hann kembdan ólgu skafl / kili traustum á viðsjálsleið. / Móðir guðanna, gömul jörð, /gróskuríka svo aldrei þverr, / markar hann sér til sáðs hvert vor, / svörðinn skárar með plógi og klár. / Fugl, sem líður á léttum væng / langveg háan, og skógardýr / fjötrar í vað hans fima hönd, / fiska læsir í brugðið net, / handsamar kið í hamraskor, / hemur á fjalli villtan tarf, / bugar geysandi frjálsan fák, / fextan makka til oksins knýr, / hugumsterkur í hverri raun, / höfðingi jarðar, kviks og dauðs. / Hyggjunnar flug og tungutak / tamdist honum og stjórnar list; / félagshagur og húsaskjól / hentaði betur en frost og regn / ótrygga nótt um víðan vang; / veit hann hvarvetna úrráð góð; / ekkert á vizku og völdum hans / vinnur bug nema dauðinn einn; / megnar hann samt í sóttar kröm / sárum þrautum að víkja á brott. / Hugvit mannsins og máttug snilld / margan dregur á tæpan stig / einn til heilla og annan til falls. / Sá sem er tryggur landi og lýð, lögin virðir og heilög goð, / sæmdar nýtur við hollan hag. / Hinn sem veður í hroka og lygð, / hatur magnar og glepur þjóð, / finnur seint með sín afbrot ill / athvarf í mínum griðarstað. / Hvað er á seyði, er sjón mín blekkt? / sé ég þó glöggt, ó, því er verr! / að einmitt sú hin unga mær / er Antigóna! / Æ, veslings barn, þig brennir sárt / allt böl þíns föður. Ó, ertu þá, / í óráðs-vímu að broti ber / gegn banni konungs og hingað leidd?

Þessi kafli Sófóklesar er talinn meðal merkari textabrota í forngrískum bókmenntum og er sígilt umtalsefni heimspekinga fyrr og síðar. Víkjum að því síðar, en áður en við rekjum áfram framhald leiksins er rétt að benda á að „ekkert á völdum og visku hans / vinnur bug nema dauðinn einn“  –eina óviðráðanlega hindrunin sem maðurinn mætir í lífinu er dauðinn sjálfur.

Þegar Antigóna stígur teinrétt og hiklaus fram fyrir sinn veraldlega dómara og játar sekt sína fullum hálsi afneitar hún um leið réttarreglum hans:

Antigóna:Já. Lög sem þessi hafði hvorki Seifur birt / né hefur gyðja réttvísinnar, sú sem fer / með vald í dauðra ríki, lagt oss reglur þær; / og ekki hugði ég, að nægðu nein þín boð, – / þú aðeins mennskur maður, – til að leggja bann / á lög sjálfs Himnaguðs, sem haggast ei / og hvorki voru sett í gær né felld í dag / en eilíf ríkja: / hvar þau eiga upphaf sitt, / veit enginn maður. Aldrei verð ég sek við goð / um brot á þeim, af ótta við neinn mennskan mann.“

Ekki er hér fyllilega ljóst hvaða réttlætisgyðju Antigóna vísar hér til: Dike sem réði lögum og réttlæti í mannheimum eða Persefóna sem réð lögum í heimi Hadesar, en hér er enn lögð áhersla á að átök Antigónu og Kreons snúast um  eilíf lögmál guðanna annars vegar og hið veraldlega réttlæti mannanna hins vegar. Kórinn er sér meðvitaður um þessa staðfestu Antigónu þegar hann segir: „Ljóst er að hún hefur skapgerð föður síns / og svignar ekki, svo sem allt í móti blæs.“ Og andsvar Kreons tekur af allan vafa: „Dramb hennar, löngu gróðursett, kom glöggt í ljós / er fótum tróð hún frökk mín skýlaus lagaboð. / Nú keyrir þó um þverbak er hún hælist um, / og hampar, mér til svívirðingar sínum glæp. / En ef hún óhegnt fær að traðka landsins lög, / hef ég að geyma telpu-kveif, en karlmann hún.“

Hér er enn vikið að hinum kynskiptu örlögum í heimi mannanna, þar sem Kreon segir hugleysið tilheyra kvenþjóðinni en hugrekkið vera aðalsmerki karla. Þessi hugsun er síðan leidd enn lengra í þessum orðaskiptum þeirra, þar sem Antígóna segir:

Antigóna: „ … Dauðinn heimtar öllum sömu lög“ og Kreon svarar: „Þó ekki sömu sæmdir fyrir gott og illt.“  Antigóna: „Hver veit? Í ríki dauðra gætu gilt þau lög.“ Kreon:Nei, fjandmann reisir dauðinn aldrei upp sem vin. Antigóna:Mín leið er ekki að miðla hatri, heldur ást.“ Kreon:Ást þinni mátt þú miðla ríki Hadesar. En seint mun kona setja mínum þegnum lög.“

Hér sverfur til stáls svo um munar, átökin snúast um gott og illt, ást og hatur, líf og dauða og hin kynskiptu örlög karls og konu. Við þessar aðstæður lendur öll orðræða í blindgötu, orðin missa mátt sinn og ofbeldið eitt fær ráðið. Kreon dæmir Antigónu til kviksetningar í dimmum helli, þessa frænku sína af ætt Lafðosar og Ödipusar sem jafnframt var heitmey Hemons, sem var sonur Kreons, og þar með krónprins Þebu.

Viðbrögð Hemons einkennast fyrst af djúpri virðingu fyrir föðurhlutverkinu, visku þess og valdi. En sársaukann fær hann ekki bælt og segir að lokum:

Hemon: „…“Hvað gæti föður betur glatt en sonar sæmd? / Og hvað skal sonur meta meir en föður heill? / Því mátt þú, faðir, aldrei stæra þér í hug / þinn eigin vísdóm, eins og þú sért einn svo snjall / að sjá, hvað hentar, allir vaði reyk; / það eitt er víst, að hver sem hyggur sjálfan sig / allt vita bezt og kunna jafnan réttust rök, / mun innantómur talinn, þegar vits er þörf. / Hinn spaki minnkar ekki, þótt hann verði var / við sína villu, sjái hvenær hopa skal, / Þú veizt, er fljótið vex um bakka, hvernig fer; / þau tré, sem svigna fyrir straumnum, standast hann / með lim sitt allt, þó hrökkvi hin, sem streitast gegn.“

Hér ásakar Hemon föður sinn um þá stærstu og einu synd sem Grikkir kunnu nafn á: hrokanum sem þeir kölluðu „hybris“ og fól í sér brot gegn þeim lögmálum og reglum náttúrunnar og alheimsins, sem þeir kölluðu „kosmos“. Brot á þeim óyfirstíganlegu lögmálum voru í heimi Forngrikkja hin harmsögulega synd. Hemon reynir að koma vitinu fyrir föður sinn, koma á sáttum og mæta Antigónu með málamiðlun á milli hins guðdómlega og veraldlega réttlætis. En hér hafa forlögin (até) tekið völdin og ekkert fær stöðvað framgang hins veraldlega réttlætis, konungsvaldið og feðraveldið í þessu óleysanlega stríði. Kreon svarar syni sínum í eftirfarandi samræðu þeirra:

Kreon:Er ranglátt verk að vernda sjálfs mín konungstign?“  Hemon:Er tign að fótum troða guða lög?“ Kreon: Nú ert þú vesöl gunga genginn konu á hönd.“  Hemon:Ég gerðist ekki sekur þar um svívirðing.“  Kreon:Um hennar málstað hafa snúist öll þín orð.“  Hemon: „Og málstað þinn og minn og Undirheimaguðs.“  Kreon:Á lífi skal hún aldrei ganga‘ að eiga þig.“  Hemon:Þá deyr hún og í dauðann skal hún hljóta fylgd.“  Kreon:Er slíkur orðinn hroki þinn að hóta mér?“  Hemon: „Er hótun að ég sýni fram á fávíst verk?“  Kreon: Þér sjálfum skal þín fávís frekja verða dýr.“  Hemon:Að faðir minn sé vitstola, því neita ég.“ Kreon:Þitt smjaður væri vert að þagga, konu-þræll.“ Hemon:Þú vilt einn tala! hirðir ekki hót um svör!“  Kreon:Að sönnu þó, og sver við heilög Ólimps-goð, / að þig skal iðra þess að draga dár að mér.“ (við varðmenn:) „þið sækið þessa norn! Því nú er hennar stund / að deyja, fyrir opnum augum brúðgumans.“

Deilurnar magnast og átökin skerpast þar sem Antigóna er leidd til kviksetningar í myrkum helli í eyðimörkinni þar sem enginn hafði stigið fæti sínum fyrr. Hún hafði meðferðis fæðuskammt til nokkurra daga til að „þvo hendur konungs og sæmd borgríkisins af morðsökinni“. Dómi sínum lýkur Kreon með þessum orðum: „Þar skal hún heita‘ á Hades, þann eina guð, / sem hún vill tigna…

Hér eru mörkin skýr: Antigóna dýrkar Hades, konunginn í ríki hinna dauðu. Hún er haldin þeirri forfeðradýrkun hinna dauðu sem er hindrun í framgangi hins veraldlega réttlætis, þess réttarríkis sem Kreon finnur sig skuldbundinn. Framhaldið virðist fyrirsjáanlegt, en á endanum ríða ósköpin yfir.

Áður en það gerist kemur inngrip kórsins, sem nú ákallar sendiboða ástarinnar, sjálfan Eros:

Kórinn: „Ó, Eros, þú ástanna guð /á eilífri sigurför, / sem brosandi blundar um nótt / á blómmjúkri meyjar-kinn, / þú svífur um hauður og höf, / í hallir og lágreist kot, / og hvorki fá heilög goð / né hrösul daganna börn / flúið þitt viðsjála vald / sem villir þeim sjónir og hug. / Þá sál sem er trygg og traust, þú tælir í synd og löst; / nú flekar þú föður og son / til fjandskapar. Ástvakið blik / í ungmeyjar augum hlaut / sinn eggjandi sigur. Það vald / í alheimi ræður, sem enn / fær Afródíta í hönd.

Og þar sem kórinn horfir á eftir Antigónu inn í gröf sína heldur hann áfram söng sínum:

Kórinn:Nú brýt ég sjálfur mín siðalög / því söltum tárum fær hvarmur minn / ei aftrað, þegar með ógn ég lít, / að Antigóna þá brúðarsæng / skal gista sem reidd er öllum oss.“

Kórinn segir dauðann vera „brúðarsæng“ hinnar hreinu meyjar, en Antigóna svarar kórnum í áfellingu sem hún beinir til ættborgar sinnar og samborgara. Kórinn er þannig fulltrúi áhorfenda á þessari sýningu og harmagrátur Antigónu beinist nú að þeim:

Antigóna: „Þú hæðir mig! Ó, himinbjörtu guðir! / spottar mig sáran, sem ég er á förum / til myrkursins! Æ, fagra föður-borg! / Þér verðir ríkis vors! Ó, Dirku lindir! [iii]/ helg skógarvé vors fákum fræga staðar, / með sigur-vanga glitrandi við grund! / Þér séuð vitni þess er örlög köld, / sem engin vinur harmar, hrinda mér / í fjallsins hungur-gin, sem skal mín gröf / að grimmum dómi. Vei, vei! Ó, mig auma! / mér líkna hvorki lifendur né dauðir; / jafnt menn og skuggar skulu fjarri mér.

Í framhaldinu rekur Antigóna harmsögu ættar sinnar og það upphafsböl sem hún rekur til ógæfu Ödipusar föður síns sem giftist móður sinni sem síðan varð móðir Antigónu og amma í senn. En framhald ógæfunnar er óstöðvandi, og nú er dreginn til sögunnar spámaðurinn Teiresías, sem á sínum tíma hafði spáð fyrir um örlög Ödipusar, frumburðar Lajosar og Jóköstu. Þessi blindi öldungur er talsmaður forsjálninnar og viskunnar í allri ættarsögu Ödipusar og óhræddur segir hann Kreon konungi að það hafi verið meginvilla hans að neita uppreisnarseggnum Políneikesi, bróður Antigónu um greftrun, „því lítil er sú dáð að vega veginn mann“. Til að gera langt mál stutt þá segir Teiresías Kreon konungi að dómurinn yfir Antígónu muni einnig kosta líf Hemons sonar hans og lýkur spádómslestri sínum með þessum orðum:

Teiresías:  „Þú skalt vita, víst fær eigi sólar-hvel /að ljúka mörgum hring á himins brautu fyrr / en þér skal gert að gjalda fyrir andað lík / í sömu mynt þinn eigin ávöxt holds og blóðs, / þú sem bjóst lífi dauða, dauða líf! Þú fékkst / í dimmu grafar kvikum anda smánar-vist, / en heldur ofan moldar leifum látins manns / án helgunar, án harms, þótt goðum heyri til. / Þar átt þú engan rétt, né gætu goðin sjálf /sem þú villt sýna myndugleika , rönd við reist. / Því bera reiðar refsinornir Hadesar / og Olimps-guða til þín bitran hefndarhug, / og þeirra dómur geldur gjarnan líku líkt…“

Teirisías kveður sviðið eftir reiðilestur sinn yfir Kreon konungi, sem loks fyllist efasemdum og fer að horfast í augu við eigin ógæfu. Hann er einnig hvattur til þess af kórnum, sem hefur meðtekið boðskap spámannsins. Kreon tekur stakkaskipum, kallar menn sína til að veita Políneikesi viðeigandi greftrun og flýtir nú för sinni í eyðimörkina til að opna gröf Antigónu. Á meðan á þessum umskiptum stendur kemur millisöngur kórsins, sem er Óðurinn til Bakkusar, verndara þebu. Annar hápunktur harmleiks Sófoklesar

Kór:Heill þér Bakkos! Við sjálfum Seifi / Semela gat þig, ljúflig fríðan. / Óðal þitt geymir Eleifs-dalur / aldin teinungi grönnum vafinn / þar sem þú dvelur í dýrð og sæld; / Demetru varð hann griðarstaður. / Þó er djásnið á þínu ríki / Þeba, blótkvenna heilagt vé, / þar sem Ísmenos logntær laugar /landið sem hlúir drekans sáði. / Parnassos-hnjúkar hylla þig, / hefjast reykir frá gullnum logum; / dansinn stígur á bjargsins brún /bakkynju sveit með funandi kyndla. / Kastalíahjá köldum lækjum /kennir þín spor af Nísufjalli, / þar sem vínsprotar þekja hlíð / þrúgna klösum að sævar bergi. / För þín, Ó, Bakkos, langþráð laðar / ljóð og söngva í Þebu rjóður. / Þeba, já hún á þína frægð, þar sem Kaðmosar stolta dóttir / fæddi þig, lostin leiftur þrumu. / Lausnari sért þú vorri borg! / Vitjaðu hennar nú í nauðum, / niður stíg þú frá björtu heiði, / fetaðu straumsins blikandi bárur, / ber þinni móður líknarorð! / Eldkvikar stjörnur dansa dátt, / Díonísos, ó, þér til sæmda. / Hlæjandi söngva á húmri nótt / helgar þér öll þín vina fjöld. / Sýndu þitt auglit, sæli vættur, / sonur himnanna! Reifar dísir / dansinn vekja, svo dunar grund. Dýrð sé þér Bakkos!“

Þessi lofsöngur til vínguðsins kemur inn í harmleik Sófóklesar þar sem hughvörf verða hjá Kreon konungi, og augu hans opnast fyrir eigin misgjörð. Lofsöngurinn hefur orðið mörgum bókmenntafræðingum og heimspekingum umhugsunarefni, en það er vissulega engin tilviljun að hann komi hér óvænt inn í hvörf leiksins. Í vangaveltum um merkingu Díonísusar og hlutverk hans í hugmyndaheimi Forngrikkja hafa menn stöðvast við merkingu og þýðingu nokkurra lykilhugtaka sem ekki eiga sér einhlíta samsvörun í nútímamáli, hvorki íslensku né erlendu. Ekki skal farið út í þá sálma hér, en augljóst er að frábær þýðing Helga Hálfdánarsonar á þessu sígilda verki hefur sín óyfirstíganlegu takmörk er varða ekki bara tungumálið sjálft, heldur líka þann tíðaranda sem það endurspeglar. En óneitanlega vekur þetta óvænta trúarlega innskot athygli sem innlegg í þá styrjöld sem hér er háð, ekki bara á vígvellinum, heldur í tungutaki og sálarlífi einstaklinga sem ekki kunna lengur að tala saman.

En á meðan kórinn lofsyngur Bakkos fær Polineikes sína verðskulduðu greftrun sem sáttagjörð, og Kreon heldur út í eyðimörkina til að opna hina myrku gröf Antigónu og veita henni frelsi. Fyrir tilskipan Kreons kemur sendiboðinn fyrstur á vettvang grafarinnar eftir að heyrst höfðu neyðaróp Hemons. Sjóninni sem þar blasti við lýsir sendiboði með þessum orðum:

Sendiboði: „…Vér gerðum svo sem herra vor í angist bauð, / lutum inn, og sáum, bak við bjarg, hvar hún / í snöru lá, sem hún úr líni hafði knýtt /  af sínum eigin serk, og brugðið sér um háls; / og hann, sem kraup og örmum vafði liðið lík, / grét brúði sína sárt, sem dauðinn nam á brott, / grimm afglöp föður síns, og sinnar ástar böl…“

Þannig hefst lokaþáttur leiksins þar sem Kreon konungur horfist í augun við harmleikinn sem hann mætir í heiftaraugum sonar síns. Hemon ræðst að föður sínum og ætlar að vega hann en mistekst og kastar sér þá fram á sverð sitt og lætur fallast yfir lík Antigónu eins og lýst er með þessum orðum:

Sendiboði: „…Af feigum kröftum fal hann sína brúði enn / í faðmi, greip þá andann djúpt, og heitt blóð rann / af munni hans, svo hennar föla kinn varð rauð.“

Við þessa sviðsmynd bætist nú innkoma Evridíku drottningar, móður Hemons og eiginkonu Kreons, sem horfir orðlaus á afleiðingar þessa stríðs.

En eiginmaður hennar skilur nú fyrst örlög sín í þessum harmakveinum:

Kreon: Ó! Kvöl! / Já þvermóðska vor, sú vitfirring, / er vegur dauðans! / Hér! Sjáið hinn vegna! Og vegandann!, / sem var hans faðir! / Minn vitstola hugur með heift mig rak / í hyldjúpa glötun! / Ó, sonur, á vori þíns verðandi lífs / þín vitjaði feigðin. / Þar á ekki sök þitt óráð, nei einungis mitt! /…/ Vei mér! / Ó bitra sanna raun! Sá reiði guð, sem hóf / sinn ramma knefa hátt, og þungu höggi laust / mitt gneypa höfuð, ginnti mig á villubraut / og niðrí duftið farsæld mína fótum tróð! / Já, feig er auðna dauðlegs manns á vorri jörð!

Kreon horfist í augu við eigin vitfirringu þar sem hann ber lík sonar síns í fanginu til hallarinnar. Þar mætir hann sendiboðanum sem færir honum fréttina um sjálfsmorð Evridíku drottningar, þar sem hann varð vitni að dánarorðum hennar sem voru bölbænir til eiginmannsins fyrir gjörðir hans. Angist Kreons á sér engin orð önnur en að fá að deyja:

Kreon: Leið mig burtu, blindan fausk, / böðul sonar og eigin vífs / glapinn á vilja. Hvar get ég nú / gengið með sæmd og hugarró? /Höfuð mitt beygir harmsins farg, Hvað sem ég snerti, fölnar, deyr.

 

…………………………………………………………………….

 

Þetta var tilraun til endursagnar á harmleik Sófoklesar um Antigónu, sem frumsýndur var í leikhúsi Díonísusar undir Akropólishæð í Aþenu árið 442 f.Kr. Þetta er texti sem á erindi við alla tíma og er því sígildur. En hvernig hefur hann verið túlkaður í tímans rás, og hvernig rímar hann við okkar samtíma?

Til að svara síðari spurningunni er rétt að kanna þá fyrri fyrst. Hvernig hafa menn túlkað þessa sígildu frásögn í gegnum aldirnar?

Almennt má segja að menn hafa horft til þeirra augljósu andstæðna sem þarna koma fram: á milli fjölskyldu og ríkisvalds, á milli hins mannlega og hins guðdómlega, á milli óskráðra laga og lagabókstafs, hins opinbera og einstaklingsbundna, á milli kynjanna og á milli lífs og dauða. Allt eru þetta mótsagnir sem blasa við, en þær hafa verið túlkaðar með ólíkum hætti og með ólíkri áherslu í tímans rás og út frá túlkunaraðstæðum á hverjum tíma.

Lítum á nokkur dæmi.

Hegel

Fyrsta umfjöllunin sem gjarnan er vitnað til er túlkun Hegels. Hann leggur áherslu á að átökin snúist um hagsmunaárekstra fjölskyldunnar og ríkisvaldsins, þar sem fjölskyldan er kjarni hins síðarnefnda þótt þarfir þeirra fari ekki alltaf saman. Antigóna og Kreon eru fulltrúar þessara afla og kunna hvorugt að verja sína hagsmuni, heldur eiga það sammerkt á særa sig sjálf þar sem þau særa hvort annað. Báðir aðilar hafi rangan málstað þar sem þau skilja ekki þá einingu andstæðnanna sem Hegel hafði skýrt í sínu díalektíska hugmyndakerfi. Hann segir að lausnina sé að finna í siðferðilegu mati er feli í sér gagnkvæma viðurkenningu. Hegel orðar þetta þannig að leifarnar af líki Polineikesar hafi saurgað eða smitað heilagt fjölskyldualtari Antigónu og hún hafi mætt því sem hún skynjaði réttilega sem ofbeldi  gegn blóðböndum fjölskyldunnar á meðvitaðan hátt, um leið og hún segir í þýskri þýðingu Hölderlins: „Weil wir leiden, anerkennen wir, dass wir gefehlt“  (í þjáningunni viðurkennum við mistök okkar). Þetta er annað orðalag en í þýðingu Helga Hálfdánarssonar, en tilvitnunin er úr ljóðlínu 926 í Antígónu Sófoklesar. Antigóna tók þjáningunni hins vegar án iðrunar, á meðan Kreon tók út sína þjáningu sem iðrandi syndari þar sem hann horfist í augu við afleiðingar misgjörða sinna. Í stuttu máli þá skildu hvorugt þá einingu andstæðanna sem eru kjarninn í díalektík Hegels.(sbr Hegel: Lezioni di estetica, útg. Laterza 2018, bls. 279; og Die Phänomenologie des Geistes, frá 1807, útg. Bompiani, Milano 2014. Frumtexti með ítalskri þýðingu Vincenzo Cicero. Bls. 683).

Sören Kierkegaard

Á meðan Hegel var upptekinn af hinum almennu og algildu lögmálum andans, sögunnar og réttarríkisins, var Kierkegaard upptekinn af undantekningunni, hinu einstaka og einstaklingsbundna sem lagði grundvöllinn að tilvistarheimspeki hans. Á milli hans og Hegels ríkti ástarhatur sem átti sér djúpar persónulegar rætur. Kierkegaard horfir á harmleik Antigónu út frá eigin reynslu og setur sig nánast í hennar spor. Þetta sjáum við í hinu sígilda tveggja binda stórvirki hans, Enten-Eller – Et Livs-Fragment udgivet af Victor Eremita frá árinu 1843. Þessi dæmalausu bindi eru skrifuð undir dulnefni einsetumannsins (Eremita) sem fann hanndritið að fyrra bindi verksins fyrir tilviljun, merkt höfundarbókstafnum A, sem hugsanlega getur vísað til Antigónu og þá um leið verið dulnefni Kierkegaards sjálfs. Bindið fjallar um þversagnir hins „erótíska lífsmáta“ (De umiddelbare erotiske Stadier eller Det Musikalsk-erotiske), þar sem fjölskyldu- og ástarmál Kierkegaards sjálfs liggja ávallt í bakgrunninum. Seinna bindið er sömuleiðis fundið handrit, eignað höfundarbókstafnum B, og er eins konar andsvar við óhjákvæmilegum raunum hins „erótíska“ lífsmáta, þar sem haldið er fram „fagurfræðilegum gildum“ hjónabandsins og borgaralegs siðferðis.  Eftir ítarlega umfjöllun um sigra og óhjákvæmilegar hrakfarir Don Juans í hömlulausu kvennafari hans í upphafi fyrra bindisins rekur Kierkegaard harmleik Antigónu, þar sem ógæfusöm örlög hins „erótíska“ öðlast fyrst þá harmsögulegu dýpt sem framkallar svima. Í þessari frásögn leggur Kierkegaard megináherslu á tilfinningalegt samband Antigónu við föður sinn, Ödipus, og það ættarböl sem honum fylgdi sem banamaður föður síns og eiginmaður og barnsfaðir móður sinnar. Kierkegaard segir Antígónu hafa verið eina afkomandai Ödipusar sem vissi af þessu skelfilega leyndarmáli ættarinnar, og eftir dauða föðurins hafi þetta leyndarmál verið það sem í raun gaf lífi hennar merkingu. Kerkegaard gerir hér greinarmun á hugtökunum angist og sorg, þar sem hann líkir angistinni við „það líffæri er meðtaki sorgina þannig að einstaklingurinn samsamast henni og verður eitt með henni“. Kierkegaard segir að dauði Polineikesar, bróður hennar hafi vakið upp hin sorglegu örlög föðurins, sem „síðan dreifðust út í einstaka afleggjara ættarinnar… Það er ekki einstaklingur sem hér lætur lífið, heldur er það heill heimur sem hrynur, það er hin hlutlæga sorg sem hér brýst fram með sínum skelfilegu afleiðingum sem óstöðvandi náttúrukraftur og margefld sorg.“ Lögbrot Antigónu er ekki fyrst og fremst frjáls verknaður heldur sú örlagaþrungna nauðsyn sem syndir feðranna leggja á niðjana. Rétt eins og Sófókles líkir kviksetningu Antigónu í hellinum við brúðarsæng hennar, þar sem Hemon, heitmaður hennar stingur sjálfan sig banasári: „Af feigum kröftum fal hann sína brúði enn / í faðmi, greip þá andann djúpt, og heitt blóð rann / af munni hans, svo hennar kinn varð rauð.“ (Antigóna lína 1237-1239).

Sem kunnugt er liggur persónuleg harmsaga Kierkegaards á bak við ævistarf hans í heild, en einkum þó Enten-Eller bindin um hið erótíska og fagurfræðilega í þroskasögu mannsins. Það var ástarsamband hann við Reginu Olsen, stúlkuna sem hann elskaði en gat ekki heitbundist af ástæðum sem voru flóknar en tengdust bældu sambandi hans við föðurinn. Þetta er trúlega meginástæða þess að Antigóna gegnir mikilvægu hlutverki í þessu meistaraverki Kierkegaards. Örlög beggja áttu sér samsvörun í ættarbölinu. Ekki er tilefni frekari umfjöllunar um þessi tengsl hér, nægir að benda á að ólíkt Hegel leggur Kierkegaard sinn persónulegan skilning í harmleik Sófóklesar á tilvistarlegum forsendum.

 

Sigmund Freud

Kennig Sigmundar Freud um Ödipusarduldina er trúlega þekktasta tilgáta hans á sviði sálgreiningar. Hún á rætur sínar í sögu Ödippusar og afkomenda hans. Hann var prinsinn sem drap föður sinn, tók við konungstign hans, giftist móður sinni og átti með henni 4 börn. Út frá þessari goðsögu spann Sófókles leikrit sín og út frá þeim spann Freud kenningu sína um Ödipusarduldinna sem rót allrar taugaveiklunar. Það merkilega er að þessi kenning virðist að mörgu leyti koma heim og saman við túlkun Kierkegaards. Tenging Antigónu við föðurinn aftraði henni frá að geta átt í ástarsambandi við Hemon og leiddi hana í „brúðarsæng“ Hadesar, konungsins í myrkvuðu ríki hinna dauðu.

Freud setur kenningu sína fram með skýrum hætti í fyrirlestrum sem hann hélt í Vínarborg 1915-17 og voru síðan gefnir út í endurskoðaðri mynd 1933 undir titlinum Inngangur að Sálgreiningu. Í fyrirlestri nr. 21 (Þróun libido og mótun kynhvatar) rekur hann hvernig hin „erótíska“ skynjun nýburans vakni strax við munnmök þess við móðurbrjóstið og hvernig þessi erótíska skynjun verði vakinn að kynferðislegu sambandi móður og barns, er hafi í för með sér samkeppni við föðurinn. Krafa barnsins um fullan aðgang að móðurinni veldur samkeppni og duldri andúð á föðurnum af hálfu sveinbarnsins. Hjá stúlkubarni getur þessi mótun kynhvatar umhverfst í ást á föður og fæð í garð móður. Samkvæmt Freud búa þessi hvatahvörf í öllum börnum og birtast í draumum fólks fram eftir aldri, en eðlileg mótun kynhvatarinnar felst að mati Freud í því þroskaferli sem á sér stað á unglingsaldri, þegar börnin læra að slíta sig frá foreldrunum og yfirfæra sínar duldu erótísku tilfinningar út fyrir ramma fjölskyldunnar. Þegar slíkt þroskaferli mistekst verður til taugaveiklun sem lýsir sér meðal annars í Antigónu. Sem dóttir lagði hún ástarhug á föður sinn en fæð á móður sína, Jóköstu. Það er hin kvenlega útgáfa Ödipusarduldarinnar. Jókasta móðir hennar, sem einnig var amma hennar, hafði reynt það sem hún gat til að koma í veg fyrir að Ödipus kæmist að sannleika þessarar blóðskammar. Eftir lát hennar fylgdi Antigóna föður sínum blindum á sorgarferð hans í dauðann og sat síðan ein uppi með sannleikann um ættarskömmina. Antigóna lifði fyrir þessa skömm sem var hennar sársauki og hennar heilaga leyndarmál. Hún yfirfærði sjúklega ást sína á föðurnum yfir á Polineikes bróður sinn og braut lög samfélagsins með því að hylja lík hans mold eftir að hann hafði fallið í tilræði við ættborg sína, Þebu, og samfélagsreglu hennar. Samkvæmt skilningi Freuds er Antigóna því haldin sjúklegri taugaveiklun, sem birtist í vanvirðu við reglu og lög samfélagsins. Því segir Freud að í vissum skilningi megi líta á leikrit Sófoklesar sem „siðlausan“ gjörning er gangi gegn samfélagsreglunni. Hins vegar sé það ekki ætlun skáldsins: Sófókles líti á undirgefni mannsins undir vilja guðanna sem hina æðstu dyggð, jafnvel þegar hún leiði af sér lagabrot. Sófokles sé ekki í hlutverki siðapostulans og harmsögulegar afleiðingar undirgefni Antigónu undir boðorð guðanna skipti þar ekki máli.

Jacques Lacan

Þegar Jacques Lacan setti fram hina áhrifamiklu kenningu sína um eðli og hlutverk langana mannsins í Sjöunda námskeiðinu frá 1959-60, voru fyrirlestrar hans hljóðritaðir eða skráðir og síðan gefnir út í París 1986 undir titlinum L‘éthique de la psycanalyse (Siðfræði sálgreiningarinnar). Þetta námskeið og skráning þess er trúlega áhrifamesta verk Lacans og einstakt í evrópskri bókmenntasögu, og þar gegnir greining hans á Antigónu Sófóklesar stóru hlutverki í þrem mikilvægum fyrirlestrum. Lacan sagðist vera lærisveinn Freuds, en skilningur hans á lönguninni var annar. Freud hafði undir lokin einfaldað og smættað kenningu sína um dulvitaðar langanir og hvatir mannsins niður í libido og Þanatos: lífshvöt og dauðahvöt, þar sem þær voru ekki gagnvirkar, heldur samvirkar (sjá Handan vellíðunarlögmálsins í íslenskri þýðingu Sigurjóns Björnssonar á Ritgeðum Freuds frá 2002). Lacan sagði (ólíkt Freud) að dulvitundin lyti lögmáli tungumálsins, en löngunin væri sprottin úr raunverunni, sem væri handan orðanna og myndanna, hið myrka djúp mannssálarinnar sem orðin og myndirnar ná ekki að skilgreina og sýna nema að litlum hluta. Löngun okkar beinist að og kallar eftir  löngun annarra, sagði Lacan, en markmið hennar er alltaf handan hins höndlanlega og skilgreinanlega: endanlegt viðfang löngunarinnar er alltaf það sem Lacan kallaði „lítið a“ eða „hluturinn“, (La Chose). Bylting Lacans fólst í því, að þar sem Freud sagði siðmenninguna byggja á hóflegri bælingu hvatanna, þá taldi Lacan það mestu synd mannsins að brjóta gegn innstu löngun sinni. Löngun, sem var ekki hin hömlulausa löngun Antigónu, sem virti engin lög, heldur sú löngun sem við kennum stundum við „köllun“ og byggir á sjálfsþekkingu. Lacan fann sterka ögrun í Antigónu Sófoklesar og stóð frammi fyrir þeirri spurningu, hvað stæði á bak við þá fegurð sem við skynjum í mynd hennar og uppreisn gegn lögum og agavaldi samfélagsins. Antigóna var í sjálfu sér ekkert annað en hin hreina og óskipta löngun sem storkaði öllum lögum og öllu samtali. Hin stóra spurning Lacans um Antigónu snérist um þetta: Hvers vegna finnst okkur hún vera fögur?

Uppreisn hennar og ögrun virtist byggja á náttúrukrafti er búi handan allrar reglu og lögmála  siðmenningarinnar. Ekki bara það, heldur vísaði þessi löngun beint í dauðann. Ákvörðun hennar og löngun beinist ekki að „Hinum“, samtalinu við „Hinn“, og ólíkt sjálfum Ödipusi þá birtist hún okkur gjörsneydd allri sektarkennd.

Ef við eigum að fylgja reglu sálgreiningarinnar um mikilvægi orðanna og samtalsins þá erum við hér komin inn á formyrkvað svæði hreinnar sturlunar. Hverju svörum við ákalli Antigónu? Það fyrsta sem kemur í hugann er dauðahvötin, hún talar fyrir hinn myrka heim Hadesar og grafhýsisins sem hún gengur inn í án nokkurs hiks eða iðrunar.

Um þessa spurningu Lacans segir sálgreinirinn Massimo Recalcati:

„Antigóna sýnir okkur það dramatíska augnablik þegar trúnaðurinn við eigin löngun getur umbreyst í tortímingu og bölvun, einmitt vegna þess að löngunin hvilir ekki á þeirri sjálfsveru sem stýrir henni, heldur er það þvert á móti löngunin sem stýrir sjálfsverunni. Antigóna sýnir okkur beint inn í leyndardóm undirokunar löngunarinnar… á endasprettinum birtist okkur andlit Antigónu í ógnvekjandi fegurð. Það er hinsta augntillit hennar til borgarinnar (polis) sem birtist okkur sem elding áður en hún hverfur inn í niðdimma grafhvelfingu sína … fegurð Antigónu hefur endaskipti á skilningi okkar á fegurð, því eldingin sem umlykur hana veitir okkur innsýn í raunveruna… hún flytur okkur að mörkum hinnar fagurfræðilegu skynjunar,… bendir okkur á þessa raunvetu sem útilokar ekki sérhverja fagurfræðilega tilfinningu, heldur er á mörkunum, og fær okkur til að horfa inn í hana án þess að glata okkur í brennandi eldhafi hennar.“ (M. Recalcati: Jacques Lacan, Desiderio, godimento e soggettivazione, Raffaello Cortina Editore, Varese, 2012, bls. 267).

 

Lucy Irigaray

Franski heimspekingurinn Lucy Irigaray er hér fulltrúi fjölmargra kvenna sem hafa túlkað harmleik Sófoklesar út frá forsendum feminisma. Í stórmerkri rigerð sem hún birti í ritgerðasafninu Interrogating Antigone in Postmodern Philosophy and Chriticism (Oxford University press 2010) undir titlinum Between Myth and History: The Tragedy of Antigone, gerir hún þá mjög svo persónulegu játningu að örlög Antigónu hafi verið henni umhugsunarefni árum saman vegna þess að hún hafi sjálf gengið í gegnum sömu reynslu: „útilokun frá félagslegum menningarlegum stöðum vegna þess að hún hafi tekið opinbera afstöðu til niðurbælds sannleika, eða sannleika sem ekki var viðurkenndur sem slíkur, og því valdið truflunum í hinni opinberu umræðu. En þó ég hafi verið beitt samfélagslegri útilokun – frá háskólunm, sálgreiningarstofnunum, vísindafélögum og jafnvel vinahópum, þá hef ég sem betur fer ekki verið svipt tengslum mínum við náttúruna… Ég hef verið útilokuð frá polis, borginni, því mannlega samfélagi sem ég tilheyrði, og send aftur til þess heims náttúrunnar sem samtímamenn mínir kunna ekki lengur að meta eða hafa í hávegum, og sem þess vegna reyndist nauðsynlegt að útiloka mig frá…“ Þessi óvenjulega persónulega játning verður um leið einn lykillinn að skilningi Irigary á Antigónu Sófóklesar, sem verður um leið hennar persónulega játning og hennar femíniska stefnuskrá.

Greining Irigaray er engu að síður málefnaleg og skýr, þar sem hún setur harmleikinn í sitt goðsögulega samhengi: „harmleikur Sófóklesar segir okkur frá umskiptum frá samræmdri kosmískri reglu yfir í þá tilbúnu manngerðu reglu sem sem virðir ekki lengur áunnið samræmi á milli lifandi náttúru, guða og manna. Sú skylda sem Antigóna reynir að uppfylla felst í því að viðhalda þeirri kosmísku reglu er hafði með erfiðismunum áunnist í samskiptum Seifs og Hadesar, guðs Ljóssins og guðs Myrkursins eða Skugganna, þeirra sem upp frá því voru kallaðir guðir himnanna og undirheimanna. Greftrun Políneikesar fól í sér tilraun til að viðhalda viðkvæmu jafnvægi á milli þessara tveggja guða. Ekki til þess að hygla undirheimaguðinum, eins og svo oft hefur verið haldið fram í persónulýsingum Antigónu, -fyrst af Kreon sjálfum – heldur í þeim tilgangi að halda opinni mögulegri samgönguleið á milli þessara tveggja heima, samgönguleið sem varðaði ekki bara bróður hennar, heldur þann alheim sem Grikkir kölluðu Kosmos. Antigóna vildi halda Seif og Hades í jöfnum heiðri og viðhalda brothættu jafnvægi þeirra á milli.

Irigraray minnir okkur á að Hades hafi rænt Kore, dóttur Seifs og Demeter og fært hana í Undirheima undir nafni Persefónu drottningar. Seifur sætti sig við þetta rán Hadesar bróður síns – og þessa meyjarfórn – í þeim tilgangi að endurreisa mögulega kosmíska reglu. Irigrary sér líkingu með dauðadómi Kreons yfir Antigónu og meyjarráni Hadesar, þar sem hún er hrifin frá eilífri sælu í skauti móður sinnar til þeirra óvissu sem henni var búin: til hálfs með hinum dauðu á vetrum og til hálfs með hinum lifandi ofan jarðar á sumrin. Dómur Kreons er um leið ákall til Seifs um að þessu jafnvægi í alheimi milli ríkis lifenda og dauðra sé raskað.

Í þessu samhengi vísar Irigaray í hinn fræga kórkafla Sófóklesar sem kemur í kjölfar dauðadóms Kreons, kórsöngurinn sem kallaður hefur verið „lofsöngur um manninn“ og hefst á þessum orðum í þýðingu HH: „Margt er undrið, og mun þó víst / maðurinn sjálfur undur stærst…“ Þessi þýðing hefur verið umdeild, ekki síst af Heidegger, sem fylgdi þýðingu Hölderlins og vildi þýða gríska orðið deinos sem „unheimlich“ á þýsku, sem gæti þýtt ískyggilegur eða jafnvel ógnvænlegur í lýsingunni á mikilfengleik mannsins. Sá skilningur breytir inntaki „lofsöngsins“ þar sem sú húmaníska sýn á snilli mannsins í að temja náttúruöflin sér í hag  umbreytist í „ískyggilega“ áráttu, en sú efahyggja liggur í raun nær hinum forna gríska skilningi á manninum en sá „húmanismi“ sem þýðing HH gefur til kynna. Hinn „ískyggilegi maður“ væri þá óbein vísun í valdsmanninn Kreon.

Irigaray segir kórsönginn sýna hvernig maðurinn missti tök á tilvist sinni með tæknikunnáttu sem veitti honum vald til að stýra náttúrinni en svipti hann um leið þekkingu til að lifa með henni. Lofsöngurinn vísi til áráttu Kreons á meðan Antigóna berjist fyrir hinu „kosmíska jafnvægi“ samfélags og náttúru.

Irigaray segir að Vesturlandabúar hafi gleymt því að umhyggjan um hina „kosmísku reglu“ eigi sér trúarlegar forsendur. „Við getum hiklaust skaðað heiminn með sprengjum, jafnvel með kjarnorkusprengjum: ef það er gert í nafni og þjónustu okkar Guðs öðlast slíkur gjörningur trúarlega merkingu. Frá sjónarhóli Antigónu er hann andstæður öllum trúarbrögðum, en ekki frá sjónarhóli margra sem aðhyllast eingyðistrú, sem telja það gott og gilt að eyða lífheimi, einnig mannslífum, í því skyni að verja trú sína á eilífan veruleika.

Í kjölfar þessa skilgreinir Irigaray sína femínisku sýn á harmleikinn út frá hinni kynjuðu sjálfsmynd Antigónu og virðingu hennar fyrir kynskiptum heimi. Þar setur hún fram sérstaka túlkun á „kynjafræði“ er gengur gegn hefðbundnum sjónarhóli feðraveldisins. Hún segir meginorsök harmleiks Antigónu liggja í því að „feðraveldi hafi verið komið á með bælandi hentistefnu er varði ekki bara skilgreiningu fjölskyldunnar, heldur hafi forræði feðraveldisins verið notað til að bæla eðlilegt samband kynjanna, sem væru ólík en hefðu hvort um sig sitt fram að færa til siðmenningarinnar. Og framlag hins kvenlæga leggur áherslu á gildi lífsins, getnaðinn og gróskuna. „Það byggir á óskráðum lögum, sem gerir ekki skýr mörk á milli borgaralegra og trúarlegra reglna. Fjölskyldan hefur ekki algildan forgang með sama hætti og í feðraveldinu. Það gefur dætrunum forgang og sér yngsta soninn sem erfingja. Þessi gildi byggja á viðgöngu kynslóðanna og hafa ekkert með erfðagóss, stéttarstöðu eða nafngiftir og titla að gera.“

Í augum Irigaray eru bæði Kreon og Ödipus faðir Antigónu kvenhatarar, annar sem dómari hennar, hinn sá sem gat ekki horfst í augu við sannleikann, en kaus heldur að stinga úr sér augun og njóta síðan umhyggju og stuðnings Antígónu dóttur sinnar fram í dauðann. Vitundin um hina kynjuðu sjálfsmynd mannsins felur óhjákvæmilega í sér harmleik, segir Irigaray.

Ritgerð sína um Antigónu endar Irigaray með þessum orðum: „Umskiptin frá hinu einstaklingsbundna til hins samfélagslega fá okkur oft til að horfa framhjá eða gleyma þeim kynbundna mismun sem er okkar á milli. Það er mismunur sem á sér stað í upphafi og alltaf milli tveggja aðila sem búa við sín takmörk.  Takmörk sem leiða til eins konar dauða þegar þau breytast frá stundlegri reynslu til menningarlegrar handanveru í samskiptum okkar hér og nú.  Þessi handanvera er algild og er sameiginleg öllu mannfólki í heiminum. Okkur nægir að hlusta til óskrifaðra laga sem eru innrituð í náttúruna sjálfa: virðingin fyrir lífinu, fyrir framgangi þess, vexti og blómgun, og virðingin fyrir hinni kynjuðu handanveru okkar á milli: fyrst af öllu milli barna mannkynsins, barna móður náttúru sem við öll erum, einnig hérna megin eða handan allra hugsanlegra félagsfræðilegra skilveggja sem skilja okkur að.“

 

Giorgio Agamben

Þó ég hafi ekki fundið sérstaka umfjöllun um Antigónu í skrifum ítalska heimspekingsins Giorgio Agambens, þá gefa skrif has um „homo sacer“ tilefni til að spyrja þeirrar spurningar hvort Antigóna falli ekki undir þessa skilgreiningu sem einstaklingur. Þetta mikilvæga hugtak sem Agamben sækir úr fornri sögu trúarbragða og réttar lýsir í raun því sem í íslensku samhengi myndi vera „útilegumaðurinn“: sá sem hefur fengið útlegðardóm og er réttdræpur (refsilaust) en ekki tekinn af lífi. Agamben rekur þessar hugmyndir sínar meðal annars til Michel Foucault (og Hönnu Ardent og Walters Benjamin) um  hið „nakta líf“ og hið pólitíska „lífvald“ og einnig til réttarheimspekinghsins Carls Schmitt um „undantekningarástandið“ sem hið pólitíska vald tekur sér með „lögmætu afnámi laganna“ er hafi tilhneigingu til að framlengja sjálft sig. Antigóna var dæmd til dauða en ekki tekin af lífi, heldur send inn í lokaðan helli með nesti til að hreinsa valdið af blóði hennar. Er hún ekki „homo sacer“ samkvæmt Agamben, stödd á svæði „milli tveggja dauða“ eins og Lacan orðaði það?

Hugmyndina um „hið nakta líf“ rekur Agamben til tveggja hugtaka sem Forngrikkir notuðu um lífið: bios og zoé. Bios er það líf sem tilheyrir manninum einum, vitund hans um fortíð sína og framtíðarvæntingar. Zoé er hið nakta líf sem tilheyrir öllum lífverum, manninum líka. Segja má að það sem skilji á milli sé tungumálið og þar með rökhugsunin, sú reglufesta sem grikkir kenndu við polis, hið mannlega borgarsamfélag. Maðurinn sem „politískt dýr“ eins og Aristóteles orðaði það. Agamben segir tilkoma mannsins sem „pólitískt dýr“ verði samfara tilkomu hins „altæka valds“ (potere sovrano). Í bók sinni Homo sacer (Torino 1995) skilgreinir Agamben þetta hugtak og segir aðalpersónu bókar sinnar vera „hið nakta líf, það er að segja homo sacer, … þar sem hugtakið sacer merki þá dularfullu mynd hins heilaga er sé staðsett handan hins trúarlega og byggi það pólitíska svæði er sé orðið einkennissvæði hins pólitíska sviðs í samtímanum.“ Agamben á þarna ekki bara við fyrirbæri eins og fangabúðirnar í Guantanamo á Kúbu, þrælabúðir pólitískra útlaga í Síberíu á Stalíntímanum í Sovét, útrýmingabúðir nasista í síðari heimsstyrjöldinni, einangrunarbúðir smitaðra, geðsjúkra og fatlaðra (eins og Foucault hefur rakið í bókum sínum um sögu fangabúða og sögu kynlífsins), heldur eigi þetta við um lögskipaðar aðstæður flóttamanna undan styrjöldum og hungri í okkar samtíma samkvæmt „útlendingaeftirlitinu“, eftirlit mögulegra smitbera í farsóttinni (sbr. Covid) og það yfirþjóðlega stafræna eftirliti sem komið var á með lögfestingu „Patriotic Act“ í BNA í kjölfar 11. September 2001. Það tæknilega stafræna og yfirþjóðlega eftirlitskerfi sem einkennir okkar samtíma (ásamt hinu yfirþjóðlega einokunarkerfi markaðsins) á sína fyrirmynd í einangrunarbúðunum, segir Agamben, og við erum öll orðin „homo sacer“ í þessum skilningi. „Á bak við það langa átakaferli sem hefur falið í sér viðurkenningu hins formlega frelsis, finnum við ennþá líkama hins helga manns (uomo sacro) með sitt líf sem hægt er að deyða en ekki fórna. Vitundin um þessa ráðgátu felur ekki í sér vanmat þeirra ávinninga sem lýðræðið hefur fært okkur, en hún á að sanna okkur í eitt skipti fyrir öll, að einmitt á þeim tímapunkti þegar lýðræðisöflin virtust hafa sigrað andstæðinga sína og náð hátindinum, þá sýna þau sig óvænt ófær um að bjarga hinu nakta lífi (zoé) frá fordæmislausri eyðingu sem þau höfðu þó helgað allri sinni orku. Úrkynjun nútíma lýðræðis og sambræðsla þess við kerfi alræðisríkjanna í sinni eftir-lýðræðislegu mynd – samfélags neyslu og sýndarveruleika… á kannski rætur sínar í þessari ráðgátu er markar upphafið og þvingar það til dulinnar sambræðslu við sinn svarna erkióvin.“ (Homo sacer, 2005, bls 13).

Þessar hugmyndir Agambens eru eðlilega umdeildar og kalla á margvíslega gagnrýni, en hann hefur rökstutt hugmyndir sínar í fjölda bóka er fjalla um „lífvaldið“ í sínum ólíku myndum gegnum söguna, um sögu réttarfars og trúarbragða þar sem þessi fyrirbæri koma ítrekað upp, og þannig skapað safnritið Homo sacer, (útg. Quodlibet, 2021, 1392 bls.) sem óhætt er að segja að sé umdeildasta fræðiritið um stjórnmálaheimspeki í okkar samtíma.

Í ritgerð um leikrit Antigónu segir Audrome Zukauskaite (Biopolitics: Antigone‘s claims) að finna megi undarlega samsvörun á milli hins ógrafna líks Políneikesar og innilokunar Antigónu í hellisgröfinni, þar sem bæði eru staðsett á svæði sem lýtur lögsögu valdsmannsins í krafti undantekningarinnar. Samkvæmt hugtakanotkun Agambens sé hér um „útilokandi innilokun“ (exclusive inclusion) að ræða, þar sem þau eru innlimuð í hið opinbera svið laganna með útilokun. „Ef við hugsum þau út frá hugsun fórnarinnar eða fórnarlambsins þá er um útilokandi innilokun að ræða því þau eru drepin eða dæmd til dauða án þess að þau innritist í reglu hins heilaga: þessir líkamar eru sviptir allri virðingu eða heilagleika sem merkir að dauði þeirra hafi enga táknræna merkingu“. Hér sér höfundur sláandi líkingu á milli homo sacer og Antigónu, þar sem hún er „einfaldlega sett út fyrir mannlega lögsögu (ius humanum) án þess að fá inngöngu í svið hinnar guðdómlegu lögsögu (ius divinum) ,,, Þessi tvöfalda samræming alræðisvalds og undantekningar er eitt af einkennum alræðisríkja 20. aldarinnar sem lögleiðir útrýmingu lífs en ekki fórn þess.“

Staða gyðinga í ríki nasismans er hið sígilda dæmi Agambens um homo sacer, og einangrunarbúðirnar verða táknmynd þeirrar „útilokuðu innilokunar“ sem hér um ræðir. Hér er um afar flókna hugmyndalega þversögn að ræða, sem snertir jafnframt mörk hins trúarlega og veraldlega valds. Ekki er hér rúm til að rekja þá flóknu rökræðu eins og vert væri, en viðeigandi að vitna í lokaorð annars hluta bókarinnar Homo sacer:

„Ef það er rétt, að sú ímynd sem samtíminn býður okkur upp á sýni það líf sem ekki verður fórnað, en er engu að síður útrýmanlegt í áður óhugsanlegum mæli, þá er það víst að hið nakta líf homo sacer snertir okkur með sérstökum hætti. Heilagleikinn og útilokunin (la sacertà) er leiðarþráður sem enn er til staðar í stjórnmálum samtímans, og sem slíkur leggur hann undir sig æ viðfemari og skuggalegri svæði, allt til hins líffræðilega lífs borgaranna. Ef við getum, ekki lengur séð fyrir okkur ímynd hins heilaga manns í samtímanum, þá er það ef til vill vegna þess að við erum í raun og veru öll homines sacri.“

Lokaorð

Þó lesturinn á Antigónu Sófóklesar hafi hvílt mig frá sjónvarpsfréttunum af stríðinu þá var það ekki í því afþreyingarskyni sem sumir hafa kennt við þá geðhreinsun eða Kaþarsis Aristótelesar, sem hamleikurinn átti að veita streitufullum íbúum Aþenu fyrir 2400 árum síðan. Lestur þessa sígilda harmleiks leiðir hins vegar í ljós, að veruleikinn er flóknari en fréttamyndirnar segja, og öll þau tilfinningaþrungnu slagorð og stóryrði sem þeim hafa fylgt á samfélagsmiðlum og í samræðum manna á milli. Harmleikur Antigónu er ekki Ukraínustríðið, og Ukraína er ekki Antigóna (nafnið Antigóna mun merkja and-fæðing eða sú sem átti aldrei að fæðast). En harmleikurinn segir okkur margt um það sem getur alltaf gerst. Stríðið er hið algilda illa, þær aðstæður þar sem orðin glata merkingu sinni og ofbeldið eitt ræður. Tungumál Antigónu og Kreons voru báðum óskiljanleg, og það var ekki bara Antigóna sem var fórnarlamb þess sambandsleysis, heldur einnig Kreon. Ríki hans hrundi og ógæfan var gagnkvæm. Það ætti að geta orðið þeirri einlitu og tilfinningaþrungnu orðræðu sem fer æpandi um samfélagið á þessum háskatímum til umhugsunar. Kannski voru bæði Antigóna og Kreon HOMO SACER.

 

Heimildir:

Aristóteles: Um skáldskaparlistina. Þýðing og Inngangur Kristjáns Árnasonar, útg. Hið íslenska bókmenntafélag 1976

Sófókles: Antigóna í þýðingu Helga Hálfdánarsonar, birt í safnritinu Grískir harmleikir, útg. Mál og menning 1990.

Georg Wilhelm Friedrich Hegel: Fenomenologia dello Spirito, þýsk-ítölsk útgáfa Vincenzo Cicero, útg.  Bompiani, Milano 2014

Georg Wilhelm Friedrich Hegel: Lezioni di estetica, Ítölsk þýðing Paolo d‘Angelo, Útg. Laterza, 2018

Sören Kierkegaard: Enten-Eller, Bind – Et livs-fragment , Útg. Gyldendal, Kaupmannahöfn 1965

Sigmund Freud: Introduzione alla psicoanalisi, Útg. Newton Compton, Róm 2014.

Sigmund Freud: Ritgerðir í þýðingu Sigurjóns Björnssonar. Hið íslenska Bókmenntafélag 2002.

Jacques Lacan: The Ethics of Psychoanalysis – Seminar VII 1959-60. Útg. Routledge, NYC, 1992.

Massimo Recalcati: Jacques Lacan -Desiderio, godimento e soggettivazione, útg. RaffaelloCortina, 2012.

Michele Foucault: The History of Sexuality, Voume I. An Introduction. Útg. Penguin books, 1990

Giorgio Agamben: Homo sacer. Il potere sovrano e la nuda vita. Útg. Einaudi, Torino 2005

Giorgio Agamben: L‘uso dei corpi – Homo sacer IV, 2; Útg. Neri Pozza, Vicenza 2014

Lucy Irigaray: Between Myth and History: The Tragedy of Antigone,  birt í safnritinu Interrogating Antigone in Postmodern Philosophy and Criticism, útg Oxford University press 2010

Audronê Zukauskaitè: Biopolitics: Antigone‘s Claim, birt í safnritinu Interrogating Antigone in Postmodern Philosophy and Criticism, útg Oxford University press 2010

Interrogating Antigone in Postmodern Philosophy and Criticism, Oxford University Press 2010, ritgerðasafn í ritstjórn S.E. Wilmer og Audrone Zukauskaité.

 

Forsíðumyndin er vatnslitamynd eftir Jules-Eugène Lenepveu frá seinni hluta 19. aldar og sýnir Antigónu færa bróður sínum dreypifórn

 

 

[i] Kristján Árnason: Inngangur að þýðingu hans á ritgerð Aristótelesar Um skáldskaparlistina , útg. Hið Íslenska Bókmenntafélag 19786, bls 35-36.

[ii] Grískir harmleikir – Æskílos, Sófókles, Evripídes. Helgi Hálfdánarson þýddi. Mál og menning 1990; Sófókles: Antígóna 58-68.

[iii] Dirka var hin ógæfusama seinni eiginkona Likosar konungs í Þebu sem hlaut grimma dauðarefsingu stjúpsona sinna fyrir að hafa svikið móður sína, fyrri eiginkonu konungsins. Hún var dregin til bana bundin við nautshorn, en guðirnir miskunnuðu sig yfir hana og breyttu henni í uppsprettulind í Boetíu, sem við hana er kennd. Fræg höggmynd af aftöku Dirku er geymd í Fornminjasafninu í Napoli

CARLO SINI UM VISKU ORÐSINS OG HINS ÓSEGJANLEGA

Carlo Sini:

Viska Elevsis

Kafli úr bókinni Il metodo e la via (Mimesis transiti, 2013) bls. 95-109
Eftirfarandi kafli úr bók Carlo Sini, "Il metodo e la via", er þriðji kaflinn úr þessari merku bók frá árinu 2013 (bls. 95-109), sem ég birti hér á vefnum í íslenskri þýðingu. Bókin í heild sinni er niðurstaða margra ára rannsókna Carlo Sini á uppruna evrópskrar heimspekihefðar þar sem Parmenides gegnir lykilhlutverki sem sá heimspekingur Forn-Grikkja (um 475 f.Kr.) er leysti heimspekihefðina úr viðjum goðsagnanna í þeim tilgangi að skapa rökræna orðræðu án mótsagna. Samkvæmt Sini er Parmenides þannig upphafsmaður vesturlenskrar heimspekihefðar og fjallar fyrri hluti bókarinnar um arfleifð hans. Seinni hlutinn, og um leið meginhluti bókarinnar, fjallar hins vegar um hinar goðsögulegur rætur heimspekinnar og hvaða lærdóm megi af þeim draga. Þar setur Sini fram frumlega greiningu á „Visku Díonýsusar“, „Visku Apollons“, „Visku Elevsis“ og „Visku orfismans“. Það eru þrír fyrstu kaflar þessa hluta sem ég hef þýtt og birt hér á vefnum. Þeir varpa nýju ljósi á tengsl heimspekinnar og goðafræðinnar, en hin hefðbundna söguskýring er sú að heimspekin hafi frelsað vestræna hugsun úr viðjum goðafræðinnar og þar með losað mannkynið við forneskju og fordóma. Fyrir Sini er málið ekki svo einfalt, og þar fetar hann í raun slóð heimspekinga á borð við Friedrich Nietzsche sem kannski varð fyrstur til að átta sig á að Parmenides og „platonisminn“ sem fylgdi í kjölfarið hefði ekki bara verið frelsandi afl sem banabiti goðsagnanna, heldur hefði hann með afneitun hins díonýsiska orsakað klofning og tvíhyggju sálar og líkama, afneitun líkamans og ástríðna mannsins og í krafti hughyggju sinnar endanlega afneitað bæði lífinu og jörðinni og þar með verið upphafið að tómhyggju samtímans. Hin nýja goðsögn samtímans er samkvæmt Sini „vísindatrúin“. Í rannsókn sinni á goðsögulegum rótum heimspekihefðarinnar styðst Sini ekki síst við rannsóknir samlanda síns, heimspekingsins Giorgio Colli (1917-1979), sem átti stóran þátt í að endurvekja áhuga á heimspeki Friedrichs Nietzsche á 20. öldinni, en hann   stóð að fyrstu fræðilegu heildarútgáfunni á verkum hans á mörgum tungumálum ásamt með Mazzino Montinari. Sini vitnar víða í bók sinni í rannsóknir Colli, einnig í þessari grein. Eftirfarandi kafli bókarinnar fjallar um Launhelgarnar í Elevsis í Grikklandi, en það var einn fjölsóttasti helgistaður Forn-Grikkja í um þúsund ár. Í þessum kafla gerir Sini grein fyrir þýðingu Launhelganna í Elevsis og færir óvænt rök fyrir því að þó Platon hafi afskrifað goðsagnirnar og reynt að útrýma Díonýsusi þá hafi hann engu að síður verið mótaður af þeirri merku goðsagnahefð Elevsis, sem var sveipuð leyndarhjúp hins ósegjanlega. Kjarni þessa bókarkafla snýst í raun um mikilvægi hins ósegjanlega í goðsagnaheiminum fyrir samtímann, og þar með endurheimt þeirrar visku sem þar lá að baki, ekki til þess að taka upp gömul trúarbrögð, heldur til þess að skilja betur hinn fjölþætta grunn vestrænnar menningar, því skilningur á upprunanum sé forsenda skilnings á því sem er.

Launhelgarnar í Elevsis, hugmynd byggð á fornleifarannsóknum

Elevsis og orfisminn eru tveir síðustu þættirnir sem bíða okkar á þessari stuttu vegferð um leiðarþræði grískrar fornaldarvisku. Við skulum byrja á þeim fyrri sem varðar Launhelgar Elevsis.

Elevsis-hátíðirnar fólu í sér meginatburð í lífi Forn-Grikkja, ef ekki þann mikilvægasta af öllum. Þær skiptust í Hinar Meiri og Hinar Minni Launhelgar. Þær fyrri áttu sér stað í sumarlok, þær síðari að vori, og var litið á þær sem undirbúning Hinna Meiri Launhelga. Venjan var sú að sá sem átti að hljóta vígslu í þessar launhelgar byrjaði með þátttöku í vorhátíðinni til þess að verða hlutgengur í þeirri síðari. Á nýju ári varð hann hæfur til að taka á móti hámarki innvígslunnar. Heimildir um þetta eru þó ekki traustar, því sem kunnugt er hvíldi mikil leynd yfir allri framkvæmd Launhelganna. Við vitum heilmikið um hin ytri formsatriði, en við höfum litlar eða engar heimildir um hvað fólst í  hápunkti helgihaldsins. Þar um höfum við einungis getgátur og tilgátur.

Launhelgarnar í Elevsis áttu uppruna sinn í Aþenu, en breiddust brátt út um allt Grikkland. Barbarar, eða þeir sem ekki tilheyrðu hinu gríska samfélagi málfarslega og menningarlega, voru útilokaðir. Hátíðarnar voru hins vegar opnar öllum, konum jafnt sem körlum, óháð þjóðfélagsstétt. Frá IV. öld var þrælum einnig heimilaður aðgangur, ef þeir voru grískir. Hér var því um að ræða vígsluhátíðir sem voru ætlaðar allri grísku þjóðinni, nokkuð sem telja verður einstakt og mikilvægt. Þá er ekki síður athyglisverð sú staðreynd að leyndarhjúpurinn sem huldi þessi hátíðahöld skyldi varðveittur í þau þúsund ár í það minnsta, sem þau voru iðkuð. Ströng viðurlög munu hafa gilt gagnvart þeim sem rauf þagnareiðinn.

Það er tilgáta Giorgio Colli að Launhelgar Elevsis hafi í kjarna sínum verið hátíð viskunnar, auðvitað í skilningi fornaldarinnar, og að hún hafi því byggt á innsæi og sjónskyni. Sígildir forngrískir rithöfundar notuðu orðið epoptéia um þessi hátíðahöld, en orðið merkir í raun „sýn“ eða „sýning“. Allir forngrískir höfundar leggja áherslu á mikilvægi slíkrar „sýnar“. Þar er enga undantekningu að finna, ekki heldur hjá Pindar, Platoni eða Aristótelesi. Cíceró talar einnig um þetta, og endurómar þannig þessa helgunarhefð. Við sjáum síendurtekna sömu formúluna, nánast af þráhyggju: sæll er sá, sælir eru þeir sem hafa séð þessa hluti… Pindar kveður til dæmis svona:

Sæll er sá er fer neðanjarðar eftir að hafa séð þessa hluti

Hann þekkir lífslokin

Hann þekkir líka lögmálið sem Seifur hefur sett

Eins og sjá má, þá leggur Pindar áherslu á sögnina að „þekkja“: vitnisburður sem Colli getur vissulega vitnað í til stuðnings kenningu sinni um „hátíð þekkingarinnar“. Colli bendir á að virkni hinnar æðstu þekkingar felist í því „að sjá“.

Við getum síðan séð það hjá Platoni hvernig hann hættir sér út í að lýsa hinni þekkingarlegu reynslu af „hugmyndinni“ með því að styðjast við elevsískt tungutak , þannig að við getum sett fram þá tilgátu að kenningin um hugmyndirnar eigi rætur sínar í tilraun til bókmenntalegrar lýsingar hinna elevsku leyndardóma þar sem sneitt var hjá illgjörnum ásökunum með því að forðast allar vísanir í goðsögulegt inntak innvígslunnar.

Þetta jafngildir því að segja að gríska heimspekin sé ófær um raunverulegan skilning nema með því að leiða hana að náttúrlegum uppruna sínum, sem er hin goðsögulega viska eða hin forna innvígsla. Colli heldur áfram og segir að „jafnvel hjá Aristótelesi,  sem vissulega getur ekki talist dulspekilegur heimspekingur, komi þetta fram með ótvíræðum hætti: í einu textabroti hans segir að vitsmunaleg þekking (conoscienza noetica) verði rakin til hinnar elevsísku sýnar“. Einnig hið marglofaða nous (það er að segja nôos hjá Parmenidesi) sem er hið svokallaða vitsmunalega innsæi eða skynjun, rekur tilurð sína til hinnar þekkingarlegu reynslu frá Elevsis. Og hann bætir við: „ef málum er þannig háttað, þá ber okkur að taka tillit til þess á grundvelli ótvíræðra frumheimilda, að allt frá VII. til IV. aldar f. Kr. (hér mætti segja til III. aldar f.Kr. ef Plótínus er tekinn með í reikninginn)  hafi hin æðsta þekkingarreynsla í Grikklandi verið talin óbreytanleg í eðli sínu og án nokkurrar þróunar. En vissulega var þessi samfélagslega reynsla frá Elevsis af öðrum toga en hin einstaklingsbundna reynsla hjá Parmenidesi.

Þannig minnist Colli á umbreytingaskeiðið sem við erum að rannsaka, án þess að gefa því nánari gætur, en þessi breyting er kjarni málsins í okkar rannsókn. Þekkingin felst í sjóninni og viðfang hinnar æðstu þekkingar er viðfang sjónskynsins (epoptéia). Þrátt fyrir þessa samfellu, þrátt fyrir þessa samstíga vegferð allrar grískrar þekkingar er engu að síður til staðar kreppa (krisis), tími rofsins og umbyltingarinnar. Við gætum sagt sem svo að í þessum umbrotum hafi falist umskiptin frá veg-ferðinni (odòs) til að-ferðarinnar (méthodos), umbrot sem eiga sér vissulega stað með Parmenidesi.

Þegar kemur að jafn afgerandi umbreytingu duga ályktanir Colli okkur engan veginn, þó þær séu réttmætar: sú ályktun að hin forna viska, og þá sérstaklega sú sem kennd var við Elevsis, hafi verið samfélagsleg viska er snerti alla þjóðina jafnt, spekinga hennar, hofpresta, spámenn og helga vitringa jafnt sem þrælana, konurnar og alþýðu manna. Hins vegar er viska Parmenidesar eitthvað einstaklingsbundið: ákvörðun eins manns sem kýs sjálfan sig og tilnefnir sem eitthvað meira en speking, meistara, og meira en meistara: heimspeking. Frá og með honum getum við rakið hefð og skóla sem vissulega á rætur sínar í hinum frumlæga jarðvegi (humus) grískrar visku, en myndar um leið umbyltingu sem hefur mótað bróðurpartinn af fortíð okkar og núverandi aðstæðum. Það er þessi umbreyting sem við viljum skilja með því að endurheimta getu og túlkunarfrelsi sem til þessa hefur að stærstum hluta legið í þagnargildi, og þar með skilið okkur eftir sem ómeðvitaða og viðnámslausa bráð tiltekinnar staðreyndar, og skilið okkur þar með eftir sem „mótuð“ og „skilgreind“ og án nokkurrar mótstöðu eða hugsunarleiðar. Þetta er ástæðan fyrir áhuga okkar á því inntaki sem felst í „epoptéia“ hinnar elevsísku „sýnar“.

Colli heldur því fram að hinn elevsíski atburður byggi á trúarlegum grunni er var forsenda hans. Þessi grunnur er hið díonysíska. Hann heldur því fram að Díonýsus hafi staðið á bak við Elevsis, að hann hafi verið dýrkaður í Elevsis og að þar hafi hann sýnt sinn raunverulega mátt. Málið tengist þeirri samfléttu sem sögulegar heimildir segja frá og tengja launhelgarnar í Elvesis við Orfismann, sem við eigum eftir að fræðast betur um. Kjarni málsins er sá, samkvæmt Colli, að það hafi verið viska Díonýsusar sem opnaði fyrir Grikkjum leiðina að reynslu launhelganna, reynslu sem smám saman breiddist út um allt Grikkland.

Lágmynd með Díonýsosi, satírum og Bakkynjum, Fornminjasafnið í Napoli

Tengsl Orfismans við Díonýsus er eins og við munum sjá staðreynd. (Kafli í þessari bók Carlo Sini fjallar um „Visku Orfeifs“). Eins og koma mun í ljós þá getum við sagt það sama um tengslin á milli Orfeifstrúarinnar og launhelganna í Elevsis. Þannig mætti með vissum hætti halda því fram að Launhelgar Elevsis og orfisminn hafi hvor með sínum hætti og með innbyrðis samþættingu þeirra skapað í heild sinni birtingarmynd hins apollónska og díonýsíska. Þessi birtingarmynd er svo mikilvæg að hún felur í sér hátind viskunnar, þeirrar visku sem er þess megnug að greina upphaf og endalok lífsins.  Heimspekin setur sér engin minni markmið, til dæmis með hinni platonsku sýn hugmyndanna, sem aftur markar undirbúning að og grundvöll hins díalektíska logos þekkingarinnar og vísindanna (epistéme).

Hin elevsíska epoptéia (sýn eða opinberun) vekur hins vegar tvær spurningar sem menn hafa alltaf spurt sig: hvað var það sem hinir innvígðu sáu? Og í öðru lagi: hver var það sem sá?

Eins og margoft hefur verið bent á, þá hefur viðfang sýnarinnar hvergi verið opinberað (í samræmi við bannið sem áður var á minnst), en það hefur ávallt verið tilgreint með almennum vísunum, einkum með óákveðnum fornöfnum eins og „þetta“ eða „þessir hlutir“. Slíkur talsmáti er ekki bundinn við Elevsis, hann á rætur sínar í Upanishad (helgiritum hindúa) og hinni indversku speki. En við finnum líka samsvarandi orðanotkun í ljóðatexta Parmenidesar. Hin almenna eón (vera eða verund) Parmenidesar á sér fordæmi í visku sem hverfur okkur sjónum í myrkri hins forsögulega tíma fornaldarinnar, löngu fyrir tilkomu Grikkja.  Þessi „vera“ Parmenidesar er ekki fyrsta sértekning hefðarinnar, jafnvel þótt hún birtist okkur með nýjum og frumlegum hætti. Hins vegar höfum við nokkra vitnisburði og heimildir um þá raunverulegu hluti sem hinir innvígðu í Elevsis sáu. Við vitum að við athöfnina fengu þeir að sjá þroskað hveitikorn tilbúið til þreskingar. Sumir hafa haldið því fram að einmitt þetta hafi verið hápunktur og endanlegt markmið þessarar epoptéia. Það er hins vegar erfitt að ímynda sér hvernig þjóð jarðyrkjubænda og sveitakvenna eins og gríska þjóðin var, hafi getað fallið í leiðslu við það eitt að sjá hveitikorn og heilsað að svo búnu hver öðrum með orðunum „Blessaður sért þú, blessaður þú sem hefur séð hveitikornið á uppskerutíma þess!“

Og ekki síður, hvernig stendur á þessari miklu aðgát og virðingu gagnvart þessari epoptéia ef allt snerist um sýningu á einu hveitikorni? Hvað var það sem menn vildu fela undir slíkum leyndardómi?

Aðrir fræðimenn hafa minnst á þá hluti sem voru faldir í þeirri körfu leyndardómanna sem sjá má víða meðal annars í veggmálverkum í Pompei. Þar var greinilega um að ræða hluti sem þjónuðu helgiathöfnum og undirbúningi þeirra: snákurinn, reðurmyndin, endurgerð kvenskapa o.s.frv. Þannig gengur þetta „viðfang“ okkur úr greipum (við eigum eftir að sjá djúphugsaða og mikilvæga tilgátu Colli hér á eftir). Okkur skortir fyrst og fremst tengingu þeirra fáu hluta sem við vitum um við mikilfengleik inntaksins í þessu epoptéia:  að opinbera upptök og endalok allra hluta, hinn æðsta tilgang lífsins.

Um  leið er allt á huldu um hver það var sem sá. Ef fara ætti eftir þeim almennu vitnisburðum sem við höfum, virðist sem álykta mætti að allir hafi séð, því allir gengust í raun undir innvígsluna. Gegn þessari ályktun ganga tvö atriði: ef allir hefðu séð „þessa hluti“, hvað kallaði þá á leyndina? Var það einungis til að leyna fyrir barbörunum? Og hvaða áhuga ættu barbararnir, það er að segja þeir sem ekki voru grískir,  að hafa á átrúnaði og helgisiðum sem voru þeim fullkomlega framandi?

Í öðru lagi mætti spyrja, ef allir þekktu lendarmálið, hvort sú málgefna þjóð sem Grikkir voru, hefði getað þagað svo kyrfilega um þetta leyndarmál í meira en eitt þúsund ár?

Skynsamlegasta ályktunin virðist þannig vera að það hafi ekki verið öllum gefið, heldur aðeins fáum útvöldum, að nálgast hápunkt þessarar epoptéia. Þess vegna skiptust þeir á heillaóskum: „blessaður sért þú, blessaður þú, sem hefur séð þessa hluti!“

Því var það ekki öllum gefið að deila með sér hinni æðstu hamingju þessarar sýnar. Visku Elevsis rigndi vissulega jafnt yfir alla þátttakendur, allir gengust undir tiltekna vígsluathöfn, en það var einungis fáum gefið að ganga í gegnum hana til enda. Nokkuð sem reyndar kemur ekki á óvart: einnig í kristindómnum eru einungis örfáir útvaldir sem njóta náðar hinnar dulspekilegu opinberunar. En almennt inntak kristindómsins og iðkun hans er almenn sameign þjóðanna. Hér skiptir máli að sú píramíðabygging sem hér er til umræðu fellur fullkomlega að tilgátum um samþættingu hins apollónska og díonýsíska sem áður var um fjallað. (Sjá greinar Sini um „Visku Díonýsusar“ og „Visku Apollons“ hér á vefsíðunni .)

Grunnurinn að píramíða Launhelganna í Elevsis hefur einkenni hins díonýsíska: allir voru þátttakendur án tillits til stéttar eða þjóðfélagsstöðu. Samfélagsleg eða kynferðisleg aðgreining eða jafnvel aðgreining einstaklinga þurrkast út í hinum díoýsíska helgisið, allt samkvæmt þeim grundvelli hans sem á rætur sínar í hinu frumlæga dýrslega eðli Guðsins. En á þessum grunni er síðan reistur þessi appollónski píramíði. Fáum auðnast að höndla þessa epoptéia, örfáum einstaklingum, og þeim ber skylda til að varðveita leyndardóminn.

Það er engum vafa undirorpið að Díonýsus var til staðar í Elevsis. Tenging goðsögu hans við goðsögnina um Demeter og Kore (sem gegna lykilhlutverki í Elevsis) er staðfest í hliðstæðu þessara tveggja sagna: rétt eins og Kore hverfur til undirheima og móðirin þarf að endurheimta hana og vekja til lífs á ný, þá er Díonýsus sundurlimaður af Títönunum þannig að Apollon þarf að endursameina líkamsparta hans og blása í þá lífi á ný. Tengsl þessara atburða við hina árstíðabundnu endurvakningu lífsins (hveitikorn Demeter) er augljós. Margir hafa bent á hliðstæðu þessara atburða við egypsku goðsögnina um Ísis og Osíris, en það gerir þó ekki annað en að setja spurningu okkar á upphafspunkt.

Hér verður tilgáta Colli áhugaverðari, en hann heldur því fram að viðfang þessarar epoptéia sé að finna í eins konar dulrænu díonýsísku drama. Hinn innvígði (mystes) var leiddur inn í klefa þar sem fram fór dramatísk eftirlíking er tengdist sögu Díonýsusar sem hliðstæðu við drama Demeter og Kore.

En hvers vegna þurfti leyndin að ríkja um þessa hermilist? Vegna þeirra óskapa sem sviðsmyndin leiddi í ljós. Á hátindi þessarar epoptéiu var hinn innvígði leiddur inn í sýn tveggja óskapnaða: blóðskömmina og kynferðisleg mök manns og dýrs. Augljóslega voru þetta ekki atburðir sem áttu erindi til allra. Í kjarna sínum á þessi hermileikur að hafa sýnt fæðingu Díonýsusar, sem felur í sér hvort tveggja í senn: skepnuskapinn og blóðskömmina.

Um er að ræða frumlæga goðsögn sem rakin var í fyrri kafla þessarar bókar, og rekur vitnisburð sinn til hinnar fornu Krítar:  sagan af hefðarkonunni (potnia) Pasífeu, nautinu, Minotárnum, listasmiðnum Dedalusi og fleirum‚ var forn og frumlæg goðsögn, sem að öllum líkindum endurómar aðra og enn fornari goðsögn, enn hrárri, þótt báðar séu nú gleymdar.

Eftir stendur sú staðreynd að goðsögnin í þeirri mynd sem við þekkjum hana setur í öndvegi þá grundvallar spurningu er varðar sambandið á milli náttúru og menningar (natura e cultura). Þar sjáum við fæðingu menningarinnar (iðkun helgisiðarins /il culto del rito) sem frumlægt rof frá náttúrunni (sem sjálf tilheyrir hinu guðdómlega). Hér er um rof  eða sár að ræða sem aldrei verður aftur gróið, heldur þvert á móti stöðugt endurupplifað og rifið upp í einstaklingsbundinni tilveru hvers og eins. Þannig verður sérhver einstaklingur á öllum tímum (einnig okkar tímum) eilíflega tengdur uppruna sínum í Díonýsosi. Þannig verður hin eilífa saga menningarinnar jafnframt saga eilífrar bælingar, birtingar og átaka við óslítanlegan uppruna.

Allt þetta kallar á enn dýpri rannsókn. Til að byrja með skulum við nema staðar við nokkra dæmigerðra vitnisburði hinnar elevsku visku, hafandi í huga ofan nefndan viðmiðunarramma. Við skulum byrja með vers úr lofsöngnum til Demeter sem er eignaður Hómer:

Og Demeter sýndi öllum hina dulmögnuðu helgisiði,

hún sýndi þá Triptolemusi, Pólítesi og Díoklesi,

helgisiðina sem enginn má opinbera: hina miklu óttafullu og skelfilegu

virðingu fyrir Guðunum

sem lamar röddina.

Sæll er sá – meðal lifandi manna á jörðinni –

sem hefur séð þessa hluti:

sá sem hins vegar hefur ekki hlotið vígslu hinna helgu siða

sá sem ekki hefur öðlast slíka reynslu

mun aldrei eiga sömu örlögin, sem dauður , í hinni röku

dimmu rotnun þar í neðra

(Haft eftir Colli).

Demeter, lágmynd.

Rétt eins og hjá Pindar er því hér haldið fram að hinir helgu siðir geti ekki verið viðfangsefni skilningsins: það er engin aðferð (méthodos) sem vísar leiðina til þeirra. Ekki er hægt að öðlast þekkingu á þeim í gegnum lærdóm, og það er heldur ekki hægt að miðla þeim, því röddin er bæld af hinum yfirþyrmandi helgidómi og lotningu sem inntak þeirra vekur. Einungis er hægt að hugleiða „þessa hluti“ (tad‘òpopen). Síðan setur Hómer fram aðgreiningu, sem eins og við eigum eftir að sjá, er lykilatriði í orfismanum: aðgreining þeirra sem hafa gengið vegferð (odòs) vígslunnar og þeirra sem ekki búa yfir slíkri reynslu. Örlög þeirra verða ólík þegar kemur að handanverunni, (handan lífs og dauða). Þeir fyrrnefndu höndla eilífðina og kunna að yfirstíga dauðann ólíkt hinum síðarnefndu.

Fyrir okkur hefur þessi aðgreining einstakt gildi ef haft er í huga að þegar Parmenides var búinn að rekja lista orðmynda verunnar (sémata dell‘essere) (ógetinn, eilífur o.s.frv.) skrifar hann eftirfarandi: „Þannig hefur verið gert úti um óskiljanlegan getnað og tortímingu.“  Þannig yfirvinnur hin „að-ferðarlega“ viska Parmenidesar dauðann með sínum hætti: dauðinn er einskær birting, skoðun hinna dauðlegu með tvískipt höfuð. Þar er hins vegar ekki um „opinberun“ að ræða, árangur innvígslu í leyndardóminn, heldur árangur hinnar rökfræðilegu aðferðar réttrar hugsunar.

Orðræða Parmenidesar er þannig einnig orðræða gegn dauðanum, eilífðinni til heilla. Eilífð sem er helguð orðinu sem segir veruna, það sem er. Ógerlegt er að segja eða hugsa ekki-veruna, það sem ekki er, brotthvarf verundarinnar og eyðingu hennar í tóminu. Hin ósigrandi Dike (réttlætisgyðjan) hlekkjar verundina ófrávíkjanlega við nauðsyn hins sanna logos (rökræðunnar). Eilífðin í Lofsöngnum til Demeter er ávöxtur reynslu og sýnar sem ekki er hægt að tjá með orðum. Þar segir orðið ekkert og getur ekki talað. Hér, hjá Parmenidesi, er eilífðin hins vegar bundin logos: hér er það orðið sem talar, og þegar það segir veruna segir það um leið eilífð alls.

Þar sem Colli gerir Lofsönginn, sem eignaður er Hómer, að umtalsefni segir hann meðal annars:

Þetta er elsti textinn sem til er um Launhelgar Elevsis (líklegasta tímasetning Lofsöngsins til Demeter er lok VII. aldar – sbr. Nilsson og Frankel). Það er stórmerkilegt að strax í þessu textabroti skuli áherslan vera lögð á hina leiðslukenndu sjónrænu upplifun í dulmögnun helgisiðanna. Athygli vekur annars vegar beint innsæi sýnarinnar (òpopen) og hins vegar sértækt/abstrakt  eðli smámunanna (tad‘) samkvæmt hefðbundinni lýsingu hins dulmagnaða helgigrips (rétt eins og í Upanishad eða hjá Parmenidesi, Platon og Plótínusi í gegnum önnur sértæk hugtök). Blessunin er fólgin í þekkingunni, í sýninni (og að öðlast hana jafngildir að yfirvinna dauðann). Annað mikilvægt atriði er hinn strangi leyndarhjúpur sem lagður er yfir alla framkvæmd helgisiðarins. Hvorki er mögulegt að læra eða skilja þessa hluti, það er að segja öðlast óbeina þekkingu á þeim, né heldur að miðla þeim. Raunveruleiki þeirra er handan sviðs orðanna. Einnig þetta er algengt þegar kemur að hinum dulrænu sviðum þekkingarinnar. Við sjáum það í Upanishad, hjá skóla Pýþagórasar og einnig hjá Platon“.

Þegar kemur að Platoni, þá vísar Colli í Sjöunda Sendibréfið, trúlega í þann stað þar sem segir: „Slíkri þekkingu (dulrænni/esoterískri) þekking) verður ekki miðlað með orðum“. Þessi setning ætti þá að sýna elevsísk áhrif hjá Platoni. Engu að síður er samband hins segjanlega og ósegjanlega ennþá flóknara innan dulspekinnar og mun flóknara en hér verður rakið. Í framhaldinu munum við rekja þá þræði þessa sambands sem við teljum nauðsynlega.

Við skulum nú leiða hugann að textabroti Pindars þar sem hann segir:

Ó Þeba, kannski þegar þú sýndir okkur hinn dýrlega Díonýsus með bylgjuðu hárlokkana þar sem hann situr hjá Demeter með sín hávaðasömu málmgjöll?

Hér skynjum við strax mikilvægi þessa vitnisburðar um tengsl Dionýsusar og Demeter. Um þetta segir Colli:

„Þetta er elsta heimildin um nærveru Dionýsusar í Launhelgum Elevsis. Reyndar finnum við hvergi annars staðar talað um samband Díonýsusar og Demeter. Án þess að farið sé út í smáatriði í þessa sambands, bæði hvað varðar samsömun Dionýsusar og Iakkusar (sem Colli hafði, eins og við vitum,  fært sönnur á annars staðar), samsemd tengd hinni fyrri þar sem staðfest er að Iakkos er elevsískur Guð, þá vildi ég aðeins minna á að þvert ofan í ríkjandi efasemdir fræðimanna um upprunalega og frumlæga aðkomu Díonýsusar að Launhelgunum, þá eru engu að síður til þeir fræðimenn sem hafa haldið fram slíkri aðkomu. Meðal þeirra merkustu má nefna Foucart (…). Mér virðist sú staðhæfing Foucarts sérstaklega markverð þar sem hann segir að Díonýsus hafi verið sá er standi fyrir epoptéia („sýninni“), það er að segja við æðsta og áhrifamesta stig helgihaldsins, á meðan Demeter sé sú er haldi utan um inngang og upphafsatriði helgiathafnarinnar. Þetta gæti meðal annars skýrt -vegna þeirrar algjöru leyndar sem hvíldi á „sýninni“ (epoptéia) – þá litlu athygli sem beinist að Díonýsosi í heimildum um Launhelgarnar“.

Óbein sönnun mætti segja. Víða er minnst á Demeter og hveitikorn hennar, vegna þess að þessi gyðja heldur utan um undirbúningsatriði helgiathafnarinnar. Díonýsus er varla nefndur á nafn, einmitt vegna þess að hann er holdgervingur æðsta stigs athafnarinnar, þess sem er hulið leyndinni og er hin ósegjanlegi kjarni vígslunnar og opinberunarinnar.

Víkjum í lokin að atriði úr Ödipusi í Kólónos eftir Sófókles:

Ó, á hrjóstrugum ströndum upplýstum með blysum

Þar sem konurnar (pòtnia) sækja næringu í launhelgum

hinna dauðlegu, sem sjálfir hafa gulllykilinn

heftan á tunguna

sem er tunga Eumolpidi hofprestanna.

Eumolpidi er nafn hofprestaættar frá Aþenu sem gegndi því hlutverki að hafa yfirumsjón hátíðahalda í Elevsis. Colli leggur sérstaka áherslu á orðið sem notað er um (hefðar-)konurnar: pòtnia, og leggur út af því í mikilvægum samanburði goðsagna og helgisiða:

„Þessi átrúnaður Demetru-Despòínu, á hinar „miklu gyðjur“, ber vott um náið trúarlegt samband á milli hins guðdómlega sviðs og þess dýrslega. Hann virðist eiga uppruna sinn í dýrkun gyðju dýranna á Krít. Þaðan barst átrúnaðurinn til Arkadíu (á meginlandi Grikklands) þar sem hann virðist hafa tekið á sig frumstæða og vægðarlausa mynd, sem síðan mildaðist með dýrkun Artemisu sem „pòtnia théron“. Dýrkun Demetru-Despòínu í Arkadíu tengist hins vegar dýrkun Demetru-Kore í Elevsis, ekki bara vegna hliðstæðunnar móðir-dóttir, og notkun orðanna Despòína-pòtnia: hér liggur annað á bak við sem varðar sambandið Krít-Arkadía-Elevsis. (Colli vitnar hér í Pausaníus sem talar um hvernig hugtakið Despòína-pòtnia hafi verið notað vegna þess að ekki mátti nefna gyðjuna með nafni, nokkuð sem þessi talsmáti vísar til).

Það sama gerist í þessu versi Sófóklesar með svolitlum umsnúningi, þegar gert er að því að gulllykillin hafi verið heftur á tungu Eumolpidi-hofprestanna. Hægt er að smíða þá tilgátu sem varðar leyndarhjúp Launhelganna og ónefnanleika Kore (sem er það sama og ónefnanleiki Díonýsusar: það er hingað sem Colli vildi ná: Kore og Díonýsus eru neðanjarðar, Demeter og Apollon draga þau upp á yfirborðið. Þess vegna er hægt að tala um Demeter og Apollon, og þau tala sjálf, en ekki Kore og Dionýsus. Þau eru ónefnanleg . Með einföldun mætti orða þetta svona: það má tala um tengsl guðdóms og manns, en ekki um tengsl guðdóms og dýrs.)

Orsök ósegjanleikans (àrreton) getur átt rætur sínar í sérstöku eðli goðsögunnar sem liggur að baki. Við finnum viss sameiginleg einkenni goðsagnanna sem hér koma við sögu og varða tengslin Krít-Arkadía-Elevsis: kynferðislegt samband guðanna og dýranna í ýmsum myndum. Þar eru Nautið og Pasifea á Krít, Poseidon og Demeter í Arkadíu, Seifur og Kore í Elevsis. Seifur tekur reyndar á sig mynd snáksins (Colli gleymir því hér að Poseidon tók á sig mynd hestsins til þess að eiga mök við Demeter.)

 En tengslin liggja enn dýpra, á grundvelli annarrar tilgátu. Ef við getum hugsað okkur samsemd Díonýsusar og Minotársins þá væri rökrétt að segja að afsprengi kynmakanna í Arkadíu (hesturinn/Poseidon og Demeter) hafi verið Despòina-Kore, og að hún hafi sameinast Seifi-snáknum í Elevsis til að geta af sér þann sama son sem þegar hafði fæðst af hinu frumlæga krítverska samræði (Pasifea+Nautið) með tilheyrandi dýrslegum getnaði guðsins-dýrsins, það er að segja Díonýsosi, sem þýðir „guð hinna mörgu nafna“. Þetta var ástæða þess að ekki mátti tala um nærveru Dionýsusar í Elevsis.“

Það mætti segja margt um þennan dýrahring (naut, hestur, snákur), sérstaklega ef við gerðum það sem Colli gerir ekki, að kanna táknrænar merkingar þessara dýra í Indlandi til forna. Nægir að minna sérstaklega á það sem áður var sagt hér í bókinni um spádómlegt eðli hestsins, sem tekur á sig táknræna mynd í heimspekiljóði Parmenidesar. Þá þarf einnig að kanna betur mynd gull-lykilsins. Auk þess sem Colli segir má geta sér til að þessi mynd vísi til umskiptanna frá arreton, hinu ósegjanlega, til hins túlkandi hæfileika hofprestsins, sem af þessum ástæðum hefur á tungu sinni gull-lykilinn að leyndardómi helgiathafnarinnar. Hofpresturinn er þannig bókstaflegur „episkópus“ eða eftirlitsmaður hljóðheims næturinnar, eins og lesa má um í mikilvægum texta um Díonýsus. Helgiathöfnin felst ekki bara í sýn, á undan sýninni kemur orðið, hefð merkjanna, sémata, þekkingarlegra merkja sem við þurfum að leiða hugann betur að.

Í framhaldi þessa safnar Colli saman tilvísunum úr hinum platonska Fædrosi til að styrkja tilgátu sína um að inntak og hugtakanotkun frummyndakenningar Platons (til dæmis hin fræga „slétta sannleikans“: (to alethèias pedion) eigi uppruna sinn og rætur í Elevsis. Við finnum hjá Platoni apollónska visku orðsins sem á sínar djúpu rætur í epoptèia. Það sem Colli segir hins vegar ekki eða afhjúpar, er að samkvæmt tilgátu hans sjálfs þá er þessi epoptéia í kjarna sínum díonýsísk. Nú um stundir er það einmitt hinn díonýsíski þáttur í Platoni sem er falinn í glatkistunni,  gleymdur og grafinn.

Málið varðar reyndar ekki Platon einan, persónlega ævisögu hans sem hugsuðar, heldur varðar það alla sögu heimspekinnar, sem með Platoni, en einnig með Parmenidesi setur Díonýsus í felur, og kynnir sig til sögunnar sem ný sophia (filosofia) einmitt á þeirri forsendu. Viska sem gerir þekkingarfræðilega (epistemíska) þekkingu mögulega, það er að segja vísindalega þekkingu. Þannig virðist öll okkar menning eiga uppruna sinn og forsendur í þessari frumlægu bælingu.

Einmitt þetta var grunnurinn að hinu stórbrotna innsæi Nietzsche: að platonisminn sé í kjarna sínum and-díonýsískur, og að með platonismanum hafi hið díonýsíska verið kaffært. Aðgerð sem platonisminn yfirfærði á kristindóminn (og þar með á ríkjandi túlkun heimspekinnar) og mótaði þannig öll örlög Vesturlanda innan ramma tómhyggju og dauða, það er að segja með afneitun lífsins og jarðarinnar í díonýsískum skilningi. Í þessum rannsóknarleiðangri okkar skiptir þetta mál sköpum, og því er við hæfi að við staðnæmumst og reynum að greina það betur.

Colli bendir á að Platon hafi að öllum líkindum litið á yfirburða heimspekilega þekkingu sína sem endurreisn hinnar elevsísku sýnar. Það er óumdeilt að Platon ver eindrægur andstæðingur afhelgunarmenningar sófstanna með endurvakningu hinnar fornu visku, sem hins vegar var sett fram í nýrri túlkun. Þaðan vaxa áform hans um siðferðilega, pólitíska og uppeldisfræðilega endurvakningu. Það er í þessum skilningi sem hann kallar Parmenides til vitnis um „rökfræðilega“ þekkingu á veruleikanum og þar með um vitsmunalega „að-ferð“ (metodo)  þekkingarinnar, allt í samhengi hins upprunalega heilagleika þekkingar sem vissulega á sér elevsískan uppruna.

Þessir þræðir fléttast saman í afgerandi mynd Sókratesar, meistara orðræðunnar og úthugsaðra röksemda (jafnvel þannig að með yfirborðslegum skilningi gat hann virst tilheyra sófistunum), en um leið tryggur fylgjandi Apollons og endurreisnar orða hans í hinni vantrúuðu Aþenu. Ásakanir á hendur Sókratesi um helgispjöll, asébeia, reynast þannig sjálfar vera helgispjöll, eins og sjá má í Fedon, það er að segja í samræðunni þar sem röksemdum („sönnuninni“) er beitt á efnisatriði sem eru dæmigeð orfísk og varða sálnaflakk og ódauðleika andans.

Þess vegna hefur Colli fullkomlega rétt fyrir sér þegar hann sér í Platoni endurreisnarmann hinnar fornu elevsísku og orfísku sýnar, sýnar sem hann yfirfærir á tungumál heimspekinnar. En kjarna þessarar andlegu vakningar má sjá í þeirri staðreynd að til þess að hrinda henni í framkvæmd útilokar hann fyrir fullt og allt hinn díonýsíska eðlisþátt dýrsins-Guðsins.

Platon fjarlægir dýrið bókstaflega  (eins og Galileo gerði í allt öðru samhengi í því skyni að grundvalla vísindi nútímans. Um þessa útþurrkun get ég ekki annað en vísað til bókar minnar Passare il segno. Semiotica, cosmologia, tecnica, Il Saggiatore, Milano 1981). Platon er hins vegar ekki sá fyrsti sem gengur til þessarar atlögu, því hún er augljóslega boðuð hjá Parmenidesi í þýðingu sinni á odòs (veg-ferð) innvígslunnar yfir í méthodos (að-ferð) þekkingar án mótsagna. Platon gefur okkur einstaka túlkun á þessari fyrstu parmenídesku atlögu (í Parmenídes og í Sófistanum o.s.frv.) þar sem kjarninn felst í því sem ég hef fyrir löngu kallað „herstjórnarlist sálarinnar“ (strategia dell‘anima).

Með Platoni verður til þessi þekking um sálina, þetta logos undir merki Apollons og eingöngu hans (því Apollon og Díonýsus skiljast að), þetta logos sem Platon skilgreinir sem díalektískt og felur í sér hina miklu aðferðarfræðilegu byltingu þekkingarinnar, hina nýju vegferð viskunnar (odòs tes sophias) eða öllu heldur og án alls efa hina nýju odòs tes philosophìas (vegferð heimspekinnar). Það er einmitt með brottnámi hins díonýsíska sem mögulegt reynist að útskýra með nýjum hætti hið apollonska logos sem herstjórnarlist og aðferð er miðar að því að móta sálir skynseminnar, það er að segja hinn „rökhugsandi mann“ (eins og Platon kemst sjálfur að orði) í hinni altæku heimspekilegu polis.

Ef Platon snýr aftur til hinnar fornu visku, þá er það vissulega ekki til þess að endurvekja hana sem slíka, ef hann snýst gegn „nýbreytni“ sófistanna, þá er það vissulega ekki í því skyni að hugsa aristókratískt og forneskjulegt afturhvarf til fortíðarinnar, heldur er það í nafni stórbrotinnar framtíðar sem hann hafði úthugsað í megindráttum. Það var einmitt Platon, miklu frekar en sófistarnir, sem framkvæmdi svo djúpa umbreytingu á þekkingu hefðarinnar að goðsagan leið undir lok. Það er einmitt í Fædrosi sem Sókrates getur lýst því yfir að hann hafi engan áhuga lengur á ævintýrum goðsagnanna og ófreskjum þeirra. Hann var upptekinn af allt öðrum ófreskjum, þeim sem dvelja í sálinni, í undirheimum hennar. Þar verður sú sannfæring til sem okkur er svo kunnugleg og meðfædd, að goðsögnin sé ávöxtur frjáls og sjálfsprottins hugmyndaflugs, einskær „fagurfræðileg“ skemmtun er boði engan sannleika og hafi ekkert að kenna okkur, heldur sé einbert sýningaratriði ólíkindanna, hins skrítna og skrautlega.

Þessi sannfæring var föst í vitund Evrópubúa allt þar til Creuzer fyrst og síðan Nietzsche byrjuðu að afhjúpa tilhæfuleysi hennar og yfirborðsmennsku. Það er út frá þessum gagnrýna þræði sem Colli spinnur sína aðdáunarverðu tilgátu og gerir goðsögnina að viskubæru formi þekkingar; nokkuð sem við gerum hér með okkar hætti tilraun til að dýpka enn frekar hvað varðar merkingu og innihald.

Hér skiptir mestu að skilja einstakt mikilvægi framlags Platons, sem felur í sér að minnsta kosti tvö grundvallaratriði.

Það fyrsta snýst um sálina (psyche), en  í meðferð hans verður hún eitthvað sem við köllum „sálfræðilegt“ (psychologico) (hún hafði ekki verið til sem slík, ekki einu sinni í viskuhefð orfismans, þó hún hafi vissulega nálgast það einmitt þar). Herstjórnarlist sálarinnar felst einmitt í því að byggja sannleikann á hinu þögla orði sálarinnar „sem á samræðu einungis við sjálfa sig“ (eins og Platon segir), að byggja sannleikann á sínum innbyggðu og andlegu merkjum (laus við líkamann og líkama „ritlistarinnar“), það er að segja á þeim ímyndum sem upp frá þessu voru kallaðar „sálrænar“: dæmigerð platonsk uppfinning sem við höldum áfram að álíta augljósan og óumdeilanlegan sannleika er móti undirstöðu þeirrar þekkingarlegu yfirbyggingar okkar sem á upphafspunkt sinn í „hugvísindunum“ (scienze humane).

Annað atriðið (sem er afleiðing hins fyrra eða a.m.k. uppbót þess, atriðið sem Nietzsche varð fyrstur til að uppgötva) varðar þá platonsku samsemd sem fundin er á milli hins líkamlega, dýrslega og „náttúrunnar“ annars vegar og „ástríðanna“ hins vegar. Aftenging líkamans hjá Platon felur einmitt í sér það að aftengja „ástríðurnar“ (aftenging líkamans og einnig sálarinnar að því marki sem hún er undir áhrifum hans). Líkaminn verður þannig neyðarskýli ástríðanna og hömluleysis þeirra, sem sálin þarf að hemja að því marki sem sálin beitir „skynseminni“, reiknar út og hefur rökhugsun á reiðum höndum (epistéme hystoriké).  Með þessari samsömun framkvæmir Platon afgerandi umbreytingu: í raun hefur Díonýsus ekkert með „ástríðurnar“ að gera (í hans heimi eru þær bókstaflega ekki til, því þær eru sköpunarverk og afleiðing aðferðar heimspekinnar sem upphefst með þáttaskilum Parmenidesar) og Minotárinn hefur heldur ekkert með ástríður að gera. Með því að túlka díonýsismann sem ástríðu, sem „syndsamlega hvöt“ hins svarta hests líkamans, sem hinn hvíti hestur sálarinnar átti að snúast gegn, náði Platon í raun og veru að útiloka hið díonysíska og vísa því inn í algjört náttmyrkur skilningsleysisins í evrópskri vitund, hinni grísku og allt til nútímans. Allur goðsagnaheimurinn og öll vitsmunaleg gildi hans hurfu inn í gleymsku og myrkur sem var framkallað af þessari nýju goðsögn rökhugsunar og vitrænna vísinda.

Nietzsche hafði gildar ástæður til að líkja þessum platonska gjörningi við þá umbyltingu sem varð á hinni fornu grísku harmleikjahefð (í hæsta máta díonýsísk  framsetning) með verkum Evripídesar, sem var vinur sófistanna og í vissum skilningi tvífari Platons. Evripídes var í raun fyrstur til að leiða fram á leiksviðið ástríðufullar og sálfræðilega flóknar persónur: ekki lengur Guðina, ekki lengur goðsöguna sem hið ósegjanlega (àrreton) sem birtist í sálarlausri framsetningunni sem „sjónarspil“ (fyrst og fremst með sjónarspili satíra kórsins, sem voru hálfir menn og hálfir geitur), ekki lengur hin frumlæga viska þar sem maðurinn mætir og mælir sig við Guðina sem „eros“ í þeim tilgangi að uppgötva leyndardóm eigin fæðingar. Í stað þessa kemur hversdagsmaðurinn, tilfallandi áhorfandi sem var dreginn upp á sviðið með sínar áhyggjur og  væntingar, sínar einstaklingsbundnu óskir og kvíða. Persónur meðalmennskunnar (eins og Heidegger myndi kalla þær) sem eru í sálrænu ójafnvægi og truflaðar af ástríðum: fyrstu myndir „hins borgaralega“ í sögu Vesturlanda.

Í lokin skulum við íhuga nokkra vitnisburði sem eru raktir til hins unga Aristótelesar varðandi tengsl heimspekinnar og Launhelga Elevsis. Fyrsta tilvitnunin er úr Eudemo.

Það er innsæi (nòesis) hins skynjanlega og þess sem er ómengað og heilagt, þess sem snertir sálina eins og leiftur, sem gerir mögulegt á ákveðnum tíma að snerta (thighéin) og hugleiða aðeins í eitt skipti. Vegna þessa kalla bæði Platon og Aristóteles þennan hluta heimspekinnar hina æðstu innvígslu, þar sem þeir sem hafa komist í beina snertingu við hinn hreina sannleika um þann hlut sem þeir telja sig hafa sem hinsta hugtak (termine ultimo) heimspekinnar, eins og í innvígslu. (eftir Colli, bls. 107)

Hinn ungi Aristóteles (sem er ennþá staðfastur platonisti) undirstrikar með þessum orðum innvígslueinkenni heimspekinnar, þar sem hann leggur áherslu á sögnina að „snerta“ sem við finnum brátt réttlætingu fyrir. Sjáum nú í framhaldinu þrjú brot úr Perì philosophias:

Þeim sem ber að eiga ánægjufullt og gleðiríkt líf, ef þátttakan í launhelgunum er fullkomin innvígsla (…) Svo erum við sitjandi þarna niðri í trúarlegri þögn og full sæmdar: reyndin er sú að enginn kvartar þegar hann hefur hlotið innvígslu.

Hinir innvígðu þurfa ekki að læra eitthvað, heldur að ganga í gegnum tilfinningu og tiltekið ástand, augljóslega eftir að þeir hafa orðið þess megnugir.

 … það sem tilheyrir lærdómnum og það sem tilheyrir innvígslunni. Það fyrra berst til mannanna í gegnum heyrnina, hið seinna hins vegar þegar innsæisgetan sjálf (bókstaflega: getan til tilfinninganæmis, pathos) sem upplifir leiftur eldingarinnar: sá sem reyndar var líka kallaður dulspekingurinn af Aristótelesi, líkt eins og við innvígsluna í Elevsis. Við hana reyndist hinn innvígði reyndar mótaður samkvæmt sýninni (theorias), en hlaut enga kennslu. (úr Colli, bls. 107-109)

Það sem hér skiptir máli er augljóslega sá skýri greinarmunur sem Aristóteles gerir á kennslu (sem snertir heyrnina) og innvígslu (sem er fyrst og fremst „tilfinningaleg“ sýn (patetico) . Hvað varðar „snertinguna“ þá vísar Aristóteles trúlega til sérstaks atriðis í hinum elevsísku helgisiðum: við undirbúninginn fyrir epoptéia eða jafnvel meðan á sjálfri athöfninni stóð þurftu þátttakendurnir (mystes) að handleika ákveðna táknræna gripi, en einn þeirra var eftirlíking á sköpum konunnar (táknrænt gildi þeirra tengist augljóslega frjósemi Demeter, sem sat fyrir endurfæðingu og endurnýjun gæðanna o.s.frv.).

Annað sem vert er að hugleiða varðandi Peri philosophìas í  kenningu Aristótelesar, að því marki sem hægt er að ná samhengi í þessi varðveittu brot: hann heiðrar lærimeistara sinn Platon í þessu verki og alla Akademíuna. Hin platonska heimspeki var túlkuð sem tilkoma hámarks mannlegrar visku, þar sem upp úr öðru stóð kennisetningin um hið góða (hugmyndin um hið góða-fagra). Slíkir hátindar hafa komið fram með reglulegu millibili í mannlegri viðleitni í kjölfar sífelldrar endurtekningar hins sama er náði til ótaldra kynslóða öldum saman. Þannig var Platon í þessum skilningi endurholdgun (eins og áður hafði gerst með Zoroastos eða Zaraþústra, sem einmitt Nietzsche sá sjálfan sig í sem gagnrýninn and-Platonista og and-siðapostula: nánast eins konar bragarbót á þessum forna skilningi lögð í munn sjálfs Zaraþústra), endurkoma altækra kosmískra lögmála er stjórna mannlegri siðmenningu, sem fyrir tilverknað opinberanna var aftrað frá að falla aftur á stig villimennskunnar, fyrir tilverknað opinberanna sem voru hluti af sömu dulrænu helgisiðunum. Endurómun alls þessa má finna hjá Cíceró  í De legibus:

„Hins vegar er ekkert sem tekur fram þeim dulmögnum sem hafa fágað okkur og mýkt á leiðinni burt frá ruddafenginni og grimmri tilveru til mannlegrar siðmenningar – það eru svokallaðar innvígslur. Þannig höfum við í raun og veru öðlast þekkingu á lögmálum lífsins, ekki bara hvað varðar gleðiríkt líferni, heldur einnig með betri von andspænis dauðanum.“

Launhelgarnar hafa leitt manninn út úr lífsháttum villimennsku og stríðsátaka: einnig á tímum Cíceró var methodos (að-ferð) heimspekinnar tengd odòs (veg-ferð) vígsluathafnarinnar sem hefur markað breytingarferlið náttúra-menning. Síðasta setningin í þessari tilvísun vísar eins og sjá má til hinna orfísku kennisetninga ekki síður en til platonismans.

Við leiðum hjá okkur frekari tilvísanir sem myndu ekki bæta neinu við það sem við þegar vitum, nema kannski þeirri ítrekuðu áherslu sem finna má í notkun myndarinnar af vegferðinni frá myrkrinu til ljóssins þegar vikið er að fullnægjustund epoptéia (sýnarinnar). Slík mynd vísar okkur eðlilega á mynd heimspekiljóðs Parmenidesar af stígunum tveim sem tilheyra nóttinni og deginum. Þar er hins vegar um almennari myndræna vísun sem takmarkast ekki eingöngu við helgisiði Elevsis. Parmenides kann að hafa fengið hugmyndina þaðan, en einnig frá öðrum menningarhefðum.

 

Samtal við Ævar Kjartansson í Ruv frá 2010

Hin goðsögulega heimsmynd Forngrikkja í ljósi kristindómsins

Hljóðupptaka úr Ríkisútvarpinu á samtali við Ævar Kjartansson um heimsmynd goðsögunnar og kristindómsins í ljósi samtímans. Smellið á setninguna hér að ofan. Samtalið varir í um 45 mínútur.

Tómas Sæmundsson

Eftirfarandi grein um Tómas Sæmundsson Fjölnismann var rituð fyrir Skandinavisk Förening, dvalarsetur norrænna listamanna í Róm í tilefni 150 ára afmælis stofnunarinnar 2013. Ritgerðin birtist í hátíðarritinu "Till Rom", sem var útgefið af Carlsson Bokförlag í Stkkhólmi. Greinin var þýdd á dönsku af Niels Vandelbjerg.
Keisaratorgin í Róm um 1850

Mine øje åbnedes, og jeg så de fagre riger…

Tomas Sæmundssons Grand Tour

 

Nu er du draget bort fra de hjemlandets beskærmende hænder, og lige så snart fortalte mit hjerte mig, at hvad jeg end ville få at se af skønhed i andre lande og byer, så ville hjemlandet i al sin fattigdom dog altid stå for mig som den skønneste plet på jorden.

Tomas Sæmundsson: citat fra brev som han sendte faderen, dateret i København 30.08.1827

 

I 1832 tog den islandske teologikandidat Tomas Sæmundsson på en toårs rejse fra København gennem de europæiske fastland til Italien, med skib fra Neapel via Grækenland til Tyrkiet, Malta og Sicilien og Neapel igen, hvorfra han rejste over land til Rom og Paris og senere London og København på vejen tilbage til Island.  Sæmundsson kom til Rom omtrent samme tid som H. C. Andersen. Han var jævnligt i kontakt med Bertel Thorvaldsen vinteren 1833-34, da denne arbejdede med oprettelsen af De Danskes Bogsamling i Rom, der var forgængeren til Skandinavisk Forening. Sæmundsson var den første islænding med klassisk uddannelse, der foretog en sådan rejse. Fortællingen viser, hvordan Sæmundsson oplevede rejsen, og hvilket indtryk Italien og middelhavslandene gjorde på denne unge islænding.

 Gaimard: Lækjargata í Reykjavík 1835

Islandsk baggrund

Da Tomas Sæmundsson i august måned i 1827 for første gang i sit liv steg om bord på et skib og sejlede til København for at studere teologi og filosofi ved Københavns universitet, forlod han et land, der hverken havde egentlige veje eller nogen egentlig by, et bondesamfund, der ikke havde oplevet industrialiseringen i 1700- og 1800-tallet og som næppe havde bygninger, der kunne anses som præsentable på det europæiske fastland.  Øens indbyggertal var på kun godt 50 tusinde, hvoraf Reykjaviks beboere var ca. 600 og boede i en samling huse, der samledes om tre gader: Adalstræti, Strandgata (Hafnarstræti) og Löngustétt (Austurstræti). Disse tre små gader udgør endnu i dag byens centrum. Kun 40 hus i byen var bygget af andet byggemateriale end forhåndenværende tørv, kampesten og drivtømmer. Tomas Sæmundsson var en tyveårig gårdejersøn fra Sydisland, der havde to års skolegang bag sig hos sin sognepræst og derudover fire års skolegang ved Islands dengang højeste læreanstalt, latinskolen på Bessastadir, hvor han både havde lært latin og græsk, grammatik, matematik, fysik og teologi. Han kendte næppe andre dele af Island end de sydislandske sletter, den lille halvø Alftanes omkring latinskolen, og Reykjavik. Det eneste befordringsmiddel han kendte var hesteryggen. Det er nærmest udelukket for os i dag at forestille os, hvilke følelser og forventninger der rørte sig i den unge mands bryst under sejladsen til København, men da han var nået frem, var han ikke i mindste tvivl om, at dette arme og forblæste land ved verdens udkant var „den skønneste plet på jorden”. Dette var begyndelsen til syv års udlændighed (med et kort sommerophold i Island i 1829), der skulle vise sig at være en af de mest begivenhedsrige blandt 1800-tallets islændinge. Gennem hele denne periode bankede hans hjerte kun for Island, og målet, som Sæmundsson havde med uddannelsen i København og rejsen gennem det europæiske fastland, Italien, Grækenland og Tyrkiet, var ene og alene at gøre ham mere egnet til at tjene hjemlandet.

Hans åndelige ballast var islandsk landbokultur på sit bedste i datidens Island, arbejdsomhed, nøjsomhed og læsning af religiøse bøger i barndommen, og en klassisk skolegang på Bessastadir i oplysningstidens ånd.  Han medbragte også islændingenes kulturelle sagaarv og kendskabet til Homers epos, som hans lærer, Sveinbjörn Egilsson, havde oversat til islandsk. Yderligere havde han fået kendskab til sprog og til de liberale lutherske læresætninger, som rektor Jon Jonsson på Bessastadir havde indprentet ham. Efter et års ophold i København skriver han til sin ven Jonas Hallgrimsson, der endnu gik på latinskolen på Bessastadir:

„Jeg ser tydeligt nok, at alt her er bedre og behageligere, hvis man har penge nok, men jeg har alligevel meget mere lyst til at finde den ranke kvinde derhjemme, at finde vor Moder; jeg vil hellere leve i sult og armod under snestormene end i dette paradis, eller rettere sagt i denne glansverden af larm og støj – i dette bølgende hav, hvor selv de fasteste klipper, som man forsøger at gribe og holde sig i når det gælder, falder om kuld og svigter én ved mindste bølgegang. Nej, her vil jeg ikke være !”[1]

Trods denne og lignende erklæringer nød Sæmundsson livet og de faciliteter, han havde ved Københavns universitet, hvor han lagde mest vægt på teologi- og filosofistudierne men også var vågen og åben over for al den lærdom og de oplysninger, som han havde adgang til. Den universitetslærer, der synes at have haft mest indflydelse på Sæmundsson, var teologiprofessoren H. N. Clausen, der ansås for at være en liberal teolog af den romantiske skole og havde argumenteret mod oplysningstidens generelle rationalisme, sådan som denne for eksempel fremkommer hos Grundtvig. Clausen havde været elev hos den tyske Schleiermacher, som Sæmundsson senere skulle møde  Berlin og begejstres af. Sæmundsson kom på et kort besøg i Island sommeren 1829 og red da tværs over landet til Nordisland og overnattede bl.a. på gården Gardur i Adaldalur, hvor han mødte Sigridur Thordardottir, sysselmanden i Nord-thingeyjarsyssels datter. De to synes at være blevet hemmeligt forlovet, og Sigridur ventede efter sin fæstemand i fem år. Han kom ikke til Adaldalur igen før i oktober 1835, hvor han havde afsluttet alle sine udenlandsophold, og hvor de to blev gift. Sæmundsson tog i 1824 den afsluttende teologieksamen  med bedste karakter. Han var da 24 år gammel og var allerede begyndt at planlægge rejsen over det europæiske kontinent. Rejsen var ikke tænkt som et påskud for at udsætte rejsen hjem til Island, hvor hans forlovede ventede ham, men derimod for at udvide sin uddannelse og øge kendskabet til kulturen og til de vigtigste sprog i verdensdelen, tysk, italiensk, fransk og engelsk, „således at jeg kan have fuld gavn af deres bogværker, og for at kunne dette, er det eneste tilstrækkelige middel at opholde sig iblandt dem i et til to år… En udenlandsrejse på et eller to år er for alle her det afsluttende punkt i uddannelsen og hører nødvendigvis med til et fuldendt studie.”[2]

Ideen om den store rejse

Selv om Sæmundsson fortæller faderen, at en sådan rejse hører med som en del af uddannelsen, var den uden fortilfælde eller sidestykke blandt islandske studerende i datidens København. En sådan rejse krævede både pengemidler og vovemod, og det må anses for givet at det har været Sæmundssons mod og energiske personlighed, der gjorde det muligt for ham at finansiere rejsen. Den kom i alt til at koste omkring 1500 rigsdaler.[3]  Det var hans far, der sammen med andre venner og velgørere lånte ham pengene til rejsen, og formodentlig også hans tilkommende svigerfar, sysselmanden i Adaldalur. Sæmundsson modtog ikke nogen offentlig støtte til rejsen.  Hans far ansås på islandsk skala for at være en velstående gårdejer, og hans tilkommende svigerfar var kongens embedsmand. Sæmundsson selv var både intelligent og veltalende og kunne derfor ufortrødent stile mod Islands højeste embeder efter sin hjemkomst. Det, der imidlertid var den største drivkraft, var hans entusiasme og hans videlyst, der ikke kun rettedes mod hans største interessefelter, teologien og filosofien, men også viste sig som en vågen interesse for alle videnskabelige fremskridt, tekniske projekter og litteratur, skikke og traditioner i de lande, han besøgte. Efter sin hjemkomst opholdt Sæmundsson sig en vinter på gården Gardur i Adaldalur og synes at have brugt tiden der til at skrive det manuskript, som han efterlod ufuldendt ved sin alt for tidlige død i 1841, kun 34 år gammel. Han havde da i seks år været sognepræst på Breidabolsstaður i Sydisland, i nærheden af sin fødeegn. Manuskriptet beskriver en del af hans rejse men er samtidigt tænkt som et folkeligt leksikon om samtidens europæiske kultur og er som sådant en enestående kilde om en islandsk akademikers syn på sin samtid. Manuskriptet blev ikke trykt før godt 100 år senere[4], og Sæmundssons samtidige fik derfor aldrig værket at se. Hans syn på samtiden kunne de imidlertid se i tidsskriftet Fjölnir, som han udgav sammen med tre andre islandske budbringere af folkefrihed og romantik, nemlig digteren Jonas Hallgrimsson og videnskabsmændene Konrad Gislason og Brynjolfur Thordarson.  Dette tidsskrift udkom en gang om året i perioden 1835-40 og markerer begyndelsen af den folkevækkelse i Island, der kulminerede med suverænitet i 1918 og den efterfølgende oprettelse af republikken Island i 1944. Tidsskriftet behandlede såvel litteratur som politik og samfundsmæssige anliggender på en folkelig men samtidig impulsiv måde i romantikkens ånd.

Regensen í Kaupmannahöfn á 19. öld.

Den romantiske baggrund

Sæmundssons første udgivne værk udkom dog på dansk kort tid før han tog på sin store rejse gennem Europa, „Island fra den intellektuelle side betragtet”[5], en afhandling der synes at være skrevet omkring det tidspunkt, hvor han tager sin kandidateksamen, og især behandler betydningen og strukturen af uddannelsessystemet i Island.  Afhandlingen beskriver de nye ambitioner og stoltheden på Islands vegne, der fremover skulle være kendetegnende for tidsskriftet Fjölnir. Mellem linjerne læser man den ildhu, som romantikken havde indgydt i denne unge akademiker. I slutningen af afhandlingen, der tydeligvis er skrevet for danske læsere, ridses følgende billede op af Island, hvilket er interessant at betragte i lyset af de billeder, som Sæmundsson senere ville tegne af de vigtigste europæiske kulturbyer, Berlin, Rom, Konstantinopel, Paris og London:

„Velstand er i Island mulig.: det er af naturen ikke så stedmoderligen udstyret som man ofte er tilbøjelig til at tænke sig; kun den, der ved naturens rigdom forstår alene frugttræer og kornagre, kan nægte Island en sådan; thi når jeg ser omkring mig vidt og bredt de grønne bjergskråningerne,  hvidplettede af de brægende får; hvorledes fuglene have foroven forvandlet den mørke klippe til hvid ligesom for at skjule for øjet , hvor sneen begynder; hvorledes deres utallige sværme formørke solen, ligesom for at erstatte de skyer, fjeldtoppen har berøvet himmelen; hvorledes ved deres nedstyrten på vandet forneden hin vrimmel af laks og foreller skynde sig fra overfladen af den lille indsø, den klare bæk, og den sagte rindende elv i garnet på bunden; hvorledes edderfuglen lærer sine små at svømme omkring deres fødeskær, for jo før jo hellere at kunne overlade sin rede til skærets ejer; hvorledes torskens skarer, forfulgte af den grådige hvalfisk, søge ly og død ved den bange fiskers knæ, og ved af sig selv at løbe op til ham i båden ligesom for at erindre ham om hvor meget de foretrække hans behandling for det grusomme uhyres, ligesom udtrykke sin hengivenhed for ham for den milde død, han er i stand til at skaffe dem; når jeg – siger jeg – ser alt dette, befinder jeg mig rigtignok ikke i nogen død ørken, som fantasien forherliger ;  nej! Da bliver jeg først  håndgribelig  var det universelle liv, der går igennem hele naturen; da hører det legemlige øre – og det legemlige øje ser, hvad sjælen ved plantens betragtning blot kan begribe; da overbevises jeg til fulde om at den islandske natur ikke lader sine børn  savne materialier til et ubekymret og lykkeligt liv, og at de ved disse materialier må kunne anskaffe sig, hvad den har nægtet når de først ved kulturen har lært at bearbejde samme. Kulturen er i Island mulig: thi med hensyn til de naturlige anlæg hertil er Islænderen slet ikke tilsidesat for de øvrige klodens beboere, og vejen til efter omstændighederne hensigtsmæssigt at udvikle disse har jeg i foregående bestræbt mig for at vise. At moraliteten som beroende på mennesket selv her er mulig  vil nok ingen tvivle om, men just den islandske natur og Islænderens  gemytsbeskaffenhed synes at måtte befordre  den: den islandske natur tilstræber  vanskelig at gøre  den riges overfladiske nydelser til livets fornemste mål; den er skikket til at hæve sindet til noget højere og til at vedligeholde dets alvor; og virkelig har den i lighed hermed stemplet national-karacteren: en indesluttethed i sig selv, en dybere gehalt, en religiøs stemning er her det, man hyppigt træffer på, og som ej kan andet end lette den dydige vandel, når pligtens hellighed med fuld klarhed er bleven indset. Således bliver oplysning og kultur her til betingelser for alt det øvrige – en betragtning  fra hvilken jeg gik ud og som ligger til grund for alt det følgende, hvis rigtighed jeg fra først af vilde bevise og smigrer mig med at have bevist.[6]

Dette inspirerede billede af Island er egentlig baggrunden til det billede, som Sæmundsson i manuskriptet til sin rejsebeskrivelse tegner af omverdenen, det er fra dette synspunkt han tager på sin rejse ud i verden med det mål at høste viden og kæmpe med den opgave ikke alene at gøre kulturen „mulig” men også realistisk i Island.

Dette billede fortæller os ikke meget om, hvordan det egentlige Island så ud men er et forherliget billede ifølge romantikkens ideologi, hvilket yderligere fortæller os at Sæmundsson på sin rejse har set Europa gennem romantikkens briller. Dette syn havde allerede slået rødder i ham da han rejste fra Island men styrkedes og forfinedes under studieårene i København. Hans rejsebeskrivelse er derfor under indflydelse af den gren af romantikken, som vi kan kalde nordisk og tysk og stadig præges af den lutherske pietisme, der havde formet oplysningstiden i de nordiske lande. Sæmundsson taler om den islandske naturs etiske karakter og dens etiske teleologi, som efter hans mening præger den nationale mentalitet og derigennem også dennes iboende etiske mål.  Disse ideer har deres oprindelse i den tyske idealisme, som vi f. eks. finder hos Friedrich Schelling, der påstod at der fandtes en i naturen indbygget kraft, der sigtede mod fuldkommenhed: „Hvad er i virkeligheden tingens mest fuldkomne billede ?  Intet andet end dens skabende liv, dens eksistenskraft. Den, der viser naturen som et dødt fænomen, kan aldrig behandle den dybtliggende proces, og ejheller den kemiske, der gennem ildens rensende kraft tilvirker skønhedens og sandhedens reneste guld.“[7]

Denne tro på en iboende, etisk og æstetisk kraft i naturen, som Sæmundsson anvender til at berettige ikke alene sin fædrelandskærlighed men også sin trosoverbevisning, er en vigtig faktor i det komplekse fænomen, som vi i daglig tale kalder romantik. Dette noget uhåndterlige begreb rummer indenbords mange modsætninger, hvilket vi bedst ser deri, at så forskellige malere som Casper David Friedrich og Francesco Goya regnes med i den romantiske stil, ligesom også så forskellige billedhuggere som Thorvaldsen og Jean-Baptiste Carpeaux. Hvad der rent faktisk var fælles for disse kunstnere var deres modstand mod den anskuelse fra oplysningstiden, at naturen var et objektivt og dødt fænomen, der baseredes på en mekanisk årsagslov. Ligesom videnskaben kunne give os det „korrekte” og endelige billede af naturen, kunne billedkunsten ifølge denne anskuelse give det rette billede af naturen ved at udføre præcise efterligninger af den. Det var denne „realistiske” imitation af den døde natur, som Schelling protesterede imod i sit manifest om naturen i den bildende kunst, og hans ideer vandt genklang såvel i nyklassicismens kolde og neutrale idealisering som i det følelsesladede eksistentielle drama, som vi finder hos Goya og Delacroix, eller Byron og Hoffmann

 

Da den tyske romantik reddede filosofien

Tomas Sæmundsson gjorde sig i sit manuskript stor umage for at forklare samtidens europæiske filosofidebat for sine islandske læsere, den brede befolkning bestående af gårdejerfolk og deres tyende. Det er en for os interessant synsvinkel og hjælper os med at forstå de billeder, han giver af fjerne lande som Italien, Grækenland og Tyrkiet. I denne sammenhæng er det oplysningstidens materialisme, der volder Sæmundsson bekymringer:

Den mening har nu vundet indpas i filosofien, at det legemlige, det vil sige det som man kan se og røre ved, er det eneste, man kan regne med og stole på…  Hermed ville da al forskel på godt og ondt ophæves, og når sjælen ophører med at være til, kan der heller ikke findes noget andet liv. Det ville da stå klart, at enhver ville kunne leve og opføre sig som han havde lyst. Frankrig var foregangsland med indførelse af denne lærdom. Vi kunne her sige, at filosofien – til trods for sin fagre ydre form, som den får i mundene på digtere, talere og andre veltalende personer – ville fratages sit indre grundlag og have kort tid igen til sin grav, hvis dette ville fortsætte.[8]

Det er her, hvor Kant gennem sine undersøgelser af den menneskelige fornufts rødder og grænser efter Sæmundssons mening yder modstand mod en uheldige udvikling inden for filosofien. Sæmundsson peger på, at Kants undersøgelser har medført:

„at det eneste, man kunne stole på, er det der omfattes af ens erfaringer, idet erfaringerne var opfanget gennem ens egne sanser… Om forbindelsen mellem den synlige og den usynlige verden kunne han derfor, i sagens natur, ikke sige noget… Højere kunne han ikke hæve sig over sin tids meget legemlige anskuelsesmetoder, men det åndelige havde nu fået en del mere vægt end tidligere. Det skulle blot hæves endnu bedre, udjævnes mere og bygges op – sammenknytte det legemlige og det åndelige.”[9]

Her ser Sæmundsson filosoffen Fichte som en ny redningsmand, idet denne med sin idealisme har vendt op og ned på tingene: Mennesket var „indtil Kants dage [ikke] andet end en jordklump, der var fæstet ved den synlige verden og som ingen udødelig ånd kunne have som bolig i, idet ingen åndernes verden eksisterede. Følgelig kunne dette menneske ikke have nogen frihed.”[10]  Nej, ifølge Fichte blev verden nu til intet,

det fysiske var intet, mennesket, ånden og friheden var alt. Og alt hvad mennesket opfatter med sine fysiske sanser, er kun illusioner, der har sine årsager i, hvordan mennesket er sig selv bevidst. Mennesket selv og friheden er det eneste, der eksisterer – enhver kan sige sig selv at han eksisterer – men han kan ikke opfatte sig selv, medmindre han på en eller anden måde sætter sig i modsætning til noget andet. På den måde opstår der for mennesket en fysisk verden, der i og for sig ikke har nogen virkelighed; den er således ikke andet end en slags skygge af selve mennesket.[11]

Fichte lægger vægt på menneskets frihed, den individuelle vilje og gerningen, hvilket gør ham til en af romantikkens største banebrydere, da han her fremsætter et radikalt svar på determinismen i oplysningstidens årsagslov. Fichte stiller os med Isaiah Berlins ord følgende spørgsmål:

Who is the master, nature og I ?  I am not determined by ends, ends are determined by me. This is a very dramatic and poetic way of saying that experience is something which I determine because I act.“[12]

Efter Napoleons invasion i Tyskland ændredes Fichtes individualisme til tysk nationalisme, drevet frem af en kryptisk kraft, der havde sin oprindelse i naturen.


Norræn rómantík: Johan Christian Dahl: Landslag um 1850

Tysk naturfilosofi og nationalisme

Sæmundsson skriver i sin rejsebog om Schelling: „Han fandt Gud såvel i naturen som i den usynlige del fra mennesket…  Bevidstheden om det usynlige skulle nu være større end den var ifølge Kant, hvor det synlige og det usynlige blev til ét.”[13]  Sæmundsson fortæller videre om Hegel som Schellings elev og nævner, at han ikke selv nåede at høre hans forelæsninger, da Hegel døde nogle måneder før hans ankomst i Berlin. Ifølge Sæmundsson fandt Hegel Schellings vision og psykologi „uforståelig” og ville „skubbe [den] til side”. Imidlertid fortæller Sæmundsson at han i Berlin i 1832 har hørt to forelæsninger af Hegels efterfølger, den norsk-danske filosof Henrik Steffens.[14]  Den ene omhandlede geologi og den anden religionsfilosofi.[15]  Sæmundsson fandt, at Steffens „lignede Schelling mest” og indrømmede, at han „fattedes ord” til at beskrive sin begejstring over Steffens formuleringsevne og retorik. Han beskriver Steffens som „en halvislænding der stammer fra Norge” og er blevet fordrevet fra Danmark på grund af „Nordmandens frihedsånd”. Steffens havde stor indflydelse på Sæmundsson men også på dennes samarbejdskollega og åndsfælle, digteren Jonas Hallgrimsson, der var romantikkens største foregangsmand i islandsk poesi, og spillede således indirekte en rolle i den nationale vækkelse, som Fjölnir-gruppen afstedkom med sit tidsskrift i Island.

En anden tysk filosof, der havde stor indflydelse på Sæmundssons nationalisme var Johann Gottfried Herder[16], som Isaiah Berlin kalder „the father, the ancestor of all those travellers, all those amateurs, who go round the world ferreting out all kinds of forgotten forms of life, delighting in everything that is peculiar, everything that is odd, everything that is native, everything that is untouched.”[17]  Herder var modstander af Frankrigs og Storbritanniens anmasselse i Europa og var en fortaler for en forening af de tysksprogede stater på kontinentet for at skabe en modvægt mod Napoleons kolonialisme og drømme om verdensherredømme:

„Why cannot we create a world State of such a kind that everybody in it will fit smoothly like ideal bricks, will form a structure which will go on forever and ever, because it is constructed upon an undestructible formula, which is the truth, obtained by infallible methods?“ – all this must become nonsense, meaningless, selfcontradictory, and by enabling this doctrine to emerge Herder did plunge a most terrible dagger into the body of European rationalism, from which it never recovered. In this sense Herder is certainly one of the fathers of the romantic movement. That is to say, he is one of the fathers of the movement whose characteristic attributes include the denial of unity, the denial of harmony, the denial of compatibility of ideals, whether in the sphere of action or the sphere of thought.“[18]

I sin rejsebog fortæller Sæmundsson om Herder at hans værker at de er „ypperlige til at vække fædrelandskærlighed og i øvrigt kærlighed til alt som er smukt og godt. Han har forstået og udlagt alle tidsperioders poetiske ånd, og bogen Ideen zur Philosopie der Geschichte der Menchheit anses for at indeholde de mest dybtgående og storslåede konklusioner om verdenshistorien, som er blevet formuleret på tysk.”[19]

Sæmundsson berører igen Herders relativisme i sin generelle behandling af europæisk litteratur, hvor han gør op med oplysningstidens universelle værdistandarder og blandt andet skriver:

Undersøgelser af alle genstande og forekomster gav folk den ide, at de vidste alt, imens de ikke ville indrømme, at de faktisk ikke vidste noget. Mennesker blev således til guder, således som det også skete hos de gamle hedninger. Dette førte til sidst, samstemmende med århundredernes udvikling, til mangel på tro og fravær af enhver overbevisning. Her som i andre anliggender var det Frankrig, der gik i spidsen. Landets største forfattere strandede på forskellig vis på dette skær (Racine og Corneille i formen, Voltaire i gehalt), indtil en mere human ånd brød sig vej op gennem trængslen. … Den gamle eliteånd viste sig… i sin største umådeholdenhed hos Voltaire, med hvem den da også uddøde efter i dødskampen at have avlet sit sidste afkom, den franske revolution.  Den hjemsøgte også Norden, og hos os ses dens resultater som messesangbogen og mange andre bøger der blev født eller undfanget omkring århundredeskiftet…  Men udover denne tankeretning, der kan spores i bøger op gennem århundrederne, og som især tiltaler og tilvirkes af den menneskelige sjæls viden og forståelsesevne, er der også en anden, der har sin oprindelse i den samme sjæls følelsesevne, for så vidt som dette er sjælens egentlige grundvæsen, hvori alle sjælens gerninger, der vil komme til udfoldelse i det senere liv, har sine rødder. Har dette grundvæsen ikke senere til tider tilvirket sit spejl i form af mange forskellige bøger og da især de bøger, hvori følelserne mest attrår at have hjemme, poesiens værker… Man opdagede, at ethvert folk, enhver nation, hos sig selv – og før den selv vidste deraf eller havde gjort sig umage derfor – i litteraturen besidder sprog og de forskelligste værker, der var opstået i deres eget land længe før landet begyndte at have nogen egentlig kontakt med andre nationer eller kendte nogen udenlandsk lærdom. Her kunne det derfor kun være landets egen uforfalskede natur der talte, dets åndelige indre væsen, og her fik landets børn en kerne, der sagde hvad der i litteraturen var det mest kendetegnende ved hvert land og hver nation.  Man begyndte at samle dette og betragte som nationens helligdom og åndelige samlingspunkt. Man begyndte at udlægge det og bruge det som fundament for alt fremtidigt litterært virke og ideer om nationens oprindelige og naturlige væsen, som det angav og som man nu begyndte at søge yderligere efter.[20]

Vi må huske på, når vi læser denne mærkværdige tekst fra Sæmundsson, at han her forsøger at behandle komplekse filosofiske problemer fra samtidens Europa, at formulere dem på islandsk, et sprog der ikke havde nogen tradition inden for dette felt og derfor heller ikke nogen terminologi; han retter ikke sine ord til den intellektuelle elite men først og fremmest til den islandske almue, der næsten udelukkende udgjordes af gårdejerfolk og deres tyende. Man forstår derfor hans indledende ord i rejsebeskrivelsen, hvor han understreger, at det største problem ved bogen havde været at finde naturlige, islandske ord, der dækkede hans indtryk og de begreber, han forsøgte at beskrive, idet islandsk ikke endnu havde nogen terminologi til at beskrive et utal af fænomener i samtidens Europa. Men disse strabadser har nærmere ansporet Sæmundsson end taget modet fra ham, hvilket ses i følgende afsnit, hvor han taler for den romantiske relativisme i forbindelse med sandheden, hvilket er meget i Herders ånd:

De geniale litterære værker bliver derfor næsten lige så kendte blandt befolkningen nu til dags som de lærde skrifter, især efter det blev almindeligt ikke længere at skrive på latin, et sprog der skulle være fælles for alle lærde, men – fordi de fandt at latin i dag er uegnet til at beskrive alle videnskabsmandens tanker – i stedet at skrive om alle slags belærende emner på sit modersmål. Videnskaben fik således et almuens skær og blev følgelig bedre kendt i sit fædreland men klædte sig til gengæld, gennem denne nye brug af sproget, i en mere nationalt farvet kåbe. Sandheden begyndte at tage sig forskellig form i de forskellige lande, og de lærde i verden var efterhånden ikke lige bekendte med hverandre, eftersom de ikke talte et fælles sprog, der var lige forståeligt for alle.[21]

 

Teologiske rødder

Sæmundssons religiøse holdning er først og fremmest baseret på følelsesmæssige argumenter, og han har bl.a. beskrevet den med følgende ord:

Religionen er det, der er indprentet inderst inde i den menneskelige natur, den vedkommer det usynlige, ja det mest uforståelige af alt, det højeste og det vigtigste, det gudelige som det menneskelige aldrig kan begribe. Den har sit sæde i følelserne, som mennesket fornemmer i det øjeblik livet begynder at vågne i dets bryst; den er der længe før forståelsen opstår og er der uden at man egentlig forstår det, og den overtager med voksende fremskridt hele menneskets væsen og hele dets virke.[22]

Denne store vægt på religionens rødder i menneskets følelser og væsen er i den lutherske rettroenheds ånd, sådan som Sæmundsson havde lært hos sine professorer ved universitetet i København, hvor der lagdes vægt på barnetro og den individuelles direkte kontakt med Gud. Ligeledes afvises her alle forsøg fra oplysningstidens talsmænd på at bevise Guds eksistens med videnskabelige argumenter. Denne holdning synes at volde Sæmundsson en del vanskeligheder hvad angår den teologiske debat, der i sagens natur har svært ved at lægge sin målestok på følelseslivet. Sæmundsson mener da også, at denne brist findes hos mange lærde, „som sandelig har en tilstrækkelig oplyst fornuft og kan give sine afhandlinger hele den udvortes fuldkommenhed, som videnskaben forlanger, men deres hjerter er aldrig med deri. Det er koldt og deres sætninger når aldrig at styre deres levned.”[23]

Som tidligere nævnt var Sæmundsson under sin teologiuddannelse i København under indflydelse og vejledning af den danske teolog H. N.  Clausen. Clausen havde været elev hos den kendte tyske teolog og filosof Friedrich D. E. Schleiermacher[24]. Størstedelen af Sæmundssons rejsebog behandler hans to måneder lange ophold i Berlin sommeren 1832, hvor Schleiermacher både var universitetsprofessor og prædikant, og Sæmundsson lyttede til alle de forelæsninger og prædikener han havde mulighed for. Han fandt i denne prædiker teologi, der kunne forlige videnskabens rationalisme og troens følelser. Dette forlig beskriver Sæmundsson med ordene, at fornuften „meget vel kan begribe at overnaturlige ting kan forekomme på jorden, og at naturens skaber ikke er underkastet de naturlove, som han selv har fastsat.” Han skriver, at nutidens teologer „forklarer den underfulde og enestående begivenhed i verdenshistorien om Kristi komme til verden som enhver anden begivenhed, da den sandelig ikke er ulig det, der sker i al almindelighed, thi overalt i verdenshistorien kan de se Guds faderlige virke som er alt og i alt.”[25]  Her ser vi Sæmundssons lutherske bestræbelser på at fjerne kristendommens mystik og ligeledes ritualernes ydre rammer, som han senere ville stifte bekendtskab med i det katolske Europa.

Tre dage efter ankomsten til Berlin blev Sæmundsson introduceret for Schleiermacher og blev meget overrasket da han så at denne kæmpe inden for den lutherske teologi „ikke var højere end til min overarm, og så lille af vækst, at man hver gang han holder prædiken må bygge en stabel for ham at stå på. Han er vanskabt og har pukkel på ryggen, skønt ansigtet dog er smukt og tiltalende og hans hår er stort og hvidt. Jeg må erkende, at jeg ikke har nærmet mig noget menneske med mere ærefrygt end ham, ihukommende den store sjæl, der boede i dette sølle legeme.”[26] De to talte sammen på latin, da Sæmundsson ikke endnu var i stand til at føre en samtale på tysk.

Katolicismens helgenbilleder og pietismens æstetik

Sæmundssons rute ned gennem Europa lå gennem Dresden, Prag, München og Salzburg og derfra over Alperne til Italien. I Dresden stiftede han bekendtskab med den norske maler Johan Christian Dahl, der underviste ved Dresdens kunstakademi, og skriver, at Dahls landskabsmalerier er blandt de ypperligste i den bildende kunst, udover Rafaels og Correggios værker. Sæmundsson skulle senere stifte et nærmere bekendtskab med Dahls værker på Thorvaldsens atelier i Rom.

Det er ikke før i Bayern og Sydtyskland at Sæmundsson kommer i kontakt med et katolsk miljø, og man bemærker allerede her hans fordomme mod katolicismen: „Man vil især bemærke to ting, når man kommer til et katolsk land, for det første at vejen på begge sider er dækket med tiggere, mænd som kvinder, unge som gamle, der med oprakte hænder beder om almisser i Marias og alle helgeners navn. Man får som regel ingen fred for denne hob. Det andet er, at der næsten på enhver høj eller bakke står et kors eller en billedstøtte af en eller anden hellig mand, som regel af træ og malet i mange forskellige farver, nogle gange råddent og mosbegroet, eller måske et lille bønnehus af mursten.”[27]  Her ser vi hans uvilje mod ikoner, helgendyrkelse og det, vi kan kalde lutherske fordomme mod religiøs billedkunst og mod kirkens formelle ritualer. Sæmundsson er her måske ikke fuldstændig konsekvent, da han samtidigt med at håne den religiøse kunst har accepteret den romantiske æstetik, hvorved skønheden kun er til for skønhedens egen skyld:

„Den [kunsten] er forestillingskraftens ubundne leg; den er fri og følger de love, den selv sætter, den opfylder kun sine egne ønsker, den har en værdi i sig selv… Skønt idealistisk kunst er det, som geniet med forestillingskraften forsøger at skabe og lade forstå, da forsømmer den aldrig sandheden, skønt dens sandhed kan være vidt forskellig. Tror man at geniet lyver, skyldes dette at man ikke ret har undersøgt, hvad sandheden er i hver ting.”[28]

Når det derimod drejer sig om åbenbaringen af den trosmæssige sandhed eller den trosmæssige erfaring i kunstværkets materielle billede, synes hans lutherske trosoverbevisning at stemme overens med Platons erklæring at billedkunsten er vildledende og ikke i stand til at formidle den åndelige sandhed, fordi beskueren ikke længere kan skelne mellem billedet og det, billedet skal vise:

En naturlig og ubevidst følelse lærte os slægtskabet mellem det synlige og det usynlige; vi så, at det, der var smukt af udseende også måtte være godt… Denne usynlige tilbøjelighed der driver mennesket til at søge efter det usynlige har hos alle nationer måttet iklædes legemlige og synlige midler for at gøre det lettere for den enkelte at nå denne forestilling, hvilken det overhovedet er svært at begribe. Således er al afgudsdyrkelse begyndt når man til sidst holdt op med at skelne mellem billedet og det, billedet skulle gengive… Man nøjedes således ikke med i tankerne at vide, at djævelen var ophavsmanden til alt ondt men følte sig drevet til at fæste denne tanke ved et synligt billede; forestillingen tilvirkede derfor hænder og tegnede de utroligste uhyrer, som intetsteds fandtes i naturen, for at gøre tingene endnu mere forskrækkelige og for endnu bedre at kunne spejle sig i dem. Kirkehistorien har eksempler fra simple folkeslag, hvor disse på ingen måde lod sig overtale til at tage mod troen, men da man for dem opmalede helvede og den yderste dag, da mistede de ganske modet og ville gerne gå over til kristendommen. Heraf kan vi se nødvendigheden af geniet for den menneskelige fornuft og se dets vigtige virke i menneskenes liv.[29]

Her finder kunsten altså ikke sin retfærdiggørelse i sig selv men har som formål at tvinge simple folkeslag til den rette tro på falske forudsætninger. Sæmundsson synes her især at have middelalderens og barokkens kunst i tankerne, i hvilke billedkunsten bevidst blev brugt til religiøs indoktrinering.  Modsigelsen ligger deri, at Sæmundsson havde tilegnet sig J. C.  Winckelmanns forståelse, nemlig at middelalderkunsten var primitiv og barokkunsten dekadent, fordi de på hver sin måde i for høj grad appellerede til menneskets følelser og passion. Hvad der ifølge Winckelmann kendetegnede den ædle kunst var dens evne til at appellere til „den neutrale tilfredsstillelse” og til beskuerens forståelse men samtidigt undgik at hidse dennes følelser op. Denne holdning havde også haft indflydelse på Goethe, der på sin Italiensrejse hverken så middelalderkunsten i Venedig eller mosaikken i Monreale uden for Palermo, selv om hans rute lå gennem disse byer.  Også barokkunsten i Rom fik disse lutherske ideologer[30] til at se rødt, selv om den reelt var jesuiterordenens pendant til Luthers oprør mod kirkemagten. Denne holdning spores endnu i dag hos en del lutherske.

 

Udsigt over Middelhavet

Efter to måneders ophold i Wien fortsatte Sæmundsson sydpå over Alperne og fortæller om rejsen i et brev til faderen, dateret i Rom 25. Marts 1833:

„Efter 10 dages rejse over et smukt landskab omtrent 75 mil gennem det sydlige Østrig, Steiermark og Krain ankom jeg til Triest, som ligger mod øst ved bunden af den adriatiske fjord.  – Dér så jeg langt om længe havet igen. Her slutter Tyskland ligesom også det tyske sprog og den tyske natur; skovene og kornmarkerne er her stort set forsvundne, og i stedet ses nøgne klipper. Der er vingårde og oliventræer i overflod, æsler og muldyr i stedet for får, køer og heste. Triest er en vigtig handelssted og en smuk by; hertil kommer blandt andet skibe fra Reykjavik for at sælge saltfisk og købe lækkerier. Efter 3 dage drog jeg herfra vestover langs bunden af fjorden til Venedig, der er et af de underfuldeste steder i verden, bygget af mennesker men midt ude i havet, mere end en mil fra land. Byen rådede engang over næsten hele Middelhavet og bærer endnu tydelige præg af sin tidligere pragt til trods for byens nuværende nød og elendighed.”[31]

Sæmundsson blev fem dage i Venedig og fortæller intet yderligere om opholdet, men da han i ovennævnte brev til faderen beskriver rejsens videre forløb og forsøger at skitsere Italien i store træk, skriver han følgende:

……steg [jeg] nu i land på det vallandske fastland, der endda fra begyndelsen er det fagreste på Det nordlige Fastland og det vigtigste i verdenshistorien. Dér findes også alt det smukkeste, som mennesker har skabt, samlet i ét land. Sproget, vallandsk, eller italiensk, er det smukkeste sprog, mennesket kan tale – og næppe nogetsteds er menneskene smukkere… Dårligt styre har i mange århundreder.. gjort dette lykkelige land ulykkeligt.[32]

Sæmundsson fortæller at han først er ankommet i pavestaten i Ferrara, „og [jeg] ville ikke vederkende at måtte købe syndsforladelse af tolderen nu, thi han tager omtrent 60 sk. for at se mit pas.”[33] Han fortsætter derfra til Bologna og Firenze, hvor han opholdt sig en uge. Rejsen derfra til Rom varede fem dage, og han skriver senere denne kortfattede beskrivelse af den italienske halvø:

Valland er overhovedet et smalt land, efter hvis midje går en høj fjeldryg, Appennini, der former dale til begge sider helt ned til havet. De fleste steder er intet skovdække, og landskabet ligner derfor mere bakkerne inde i vores sydislandske dal Thorsmörk (bortset fra alle grus- fygesandsområderne) end noget andet land, jeg har set. Her vokser enebær og lyng og småbuske lige som dér, men frem for Thorsmörk har dette land de ypperligste vinranker, laurbærtræer, palmer og de smukkeste urter, som Skaberen har gjort ! Her er en overflod af fugle og fisk; de større træer er for det meste egetræer, kornet er groft byg, og der er store hjorde af får oppe i fjeldene. I en af disse smukke dale ligger Rom med havet mod syd og med passende høje fjelde i alle andre retninger; midt i dalen og gennem byen løber Tiberfloden og tager imod et utal vandløb fra begge sider. Her bliver det aldrig vinter, sjældent en sky på himlen eller vind, så køerne bliver ikke på nogen årstid sat på stald.[34]

Thorsmörk, der her bliver som en slags baggrund for billedet af Italien, er et storslået og dramatisk fjeldområde nord for den sydislandske gletscher Eyjafjallajökull. Det anses for at være ubeboeligt, selv om der under landnamstiden opbyggedes tre gårde, der dog snart blev forladt på grund af hårde vintre og isolation fra omverdenen. Det er et område med stejle liparit-grusskråninger og dramatiske slugter, hvor dalbundene er dækkede af birkekrat og hvor man kan finde varme kilder at bade i. Det kræver dog en livlig fantasi at se Thorsmörks lighed med „il bel paese”, men forklaringen kan være, at Sæmundsson som ung sammen med sin far har deltaget i fåresammendrivningen i de vidstrakte fjeldområder i Thorsmörk, og de to har derfor begge haft et godt kendskab til området.

 

Lykkelige dage i den evige by

Róm 1840-50

Der er ingen forklaring på, hvorfor Sæmundssons manuskript til rejsebogen mangler det vigtigste afsnit, der fortæller om hans fire måneders ophold i Rom, „hvor jeg havde 4 af de vel fornøjeligste måneder og de lykkeligste dage af mit liv”, som han skriver i begyndelsen af beretningen om hans rejse fra Rom til Neapel. Sæmundsson ankom til Rom den 10. December 1832 og fortsatte til Neapel den 28. marts. Han sender kun ét brev fra Rom, til faderen, og fortæller der kun meget lidt om byen. Indtrykkene fra opholdet i Rom kommer dog frem på mange steder i teksten, hvor han beskriver generelle emner, æstetik, filosofi, religion og generelle nationale anliggender. Før han forlader Rom i sin beretning fortæller han dog på uforglemmelig vis om påskemorgen ved Peterskirken. Hans beskrivelse bærer præg af at endda – eller måske især – på dette sted har de religiøse uoverensstemmelser mellem denne lutherske teolog og pavemagten forstyrret hans opfattelse og forståelse af Peterskirken og alle dens kunstneriske omgivelser. Sæmundssons beretning begynder da også med disse ord:

Det er kendetegnende for alle ufuldkomne religioner, som tager det udvortes frem for det indvortes – bogstavet frem for ånden, – at lægge overdreven stor vægt på at påvirke menneskets fysiske forståelse og iklæde troen et eller andet legemligt billede, således at man ikke kan undgå at blive opmærksom på den, – men intetsteds er dette så overordentligt tydeligt som ved denne højtid.[35]

Her hentyder Sæmundsson til de katolske ritualer i Den stille uge og pavens procession påskemorgen, hvilken han beskriver på følgende måde:

Ganske vist er det som på andre tider stille og tyst hos dem under fasten, men alligevel øges denne stilhed når den sidste uge før påske begynder; det er da som hele byen iklædes sorgeklæder, alt er stille, klangen fra klokkerne ophører og de fagre fontæner, vel byens største pryd, ophører med at springe, som om selve døden havde indtaget byen. Dette står på til sent på påskenatten, men på påskemorgenen ændres alt; i tusindtal lyder da klokkerne igen fra deres tårne; i løbet af et øjeblik tindrer hele Peterskirkens kuppel fra øverst til nederst med utallige olielys, så at ikke alene byen og den omliggende egn men endda også skyerne får skær deraf.  Ved havet  mod vest og i fjeldene mod øst, og fra alle de bakketoppe, hvorfra man i klart vejr først kan få øje på Rom i det fjerne, derfra kan man nu se byen som i et himmelsk lys eller skær mens det endnu alle steder er nat.  Den hellige fader er selv opstanden og kommer frem oppe på templets gavl, og selv om han er lille i sammenligning med stenstøtterne af apostlene omkring ham, så har han [ikke] nogen lille opgave for sig, for blandt de mange forskellige sange og musiceren åbner han nu påskehøjtiden og giver sin velsignelse til det menneskehav, der nede på den store forgård foran kirken tilbeder ham på sine knæ og stirrer op mod ham, som var han et højere væsen blandt skyerne.  Sammen med ham deroppe på kirkens tag er naturligvis en hel skare gejstlige, endda i tusindvis, der hver især er iklædt det skrud, som passer til den enkeltes kirkerang og er hans højtidsdragt. Når man nu des foruden ser morgenen for sig, således som disse kan være på denne årstid i Italien, og hvorledes alt, hvad man ser, er af den ypperste skønhed, kan det ikke undgås at hele dette syn påvirker ethvert menneske, der har følelser, endskønt han ikke lader sig vildlede af de udvortes ting og tro, som de pavetroende, at han havde set nogen hellig sammenkaldelse.[36]

Selv om der mangler en meget mærkbar del af teksten i vore kilder om Sæmundssons ophold i Rom, kan vi udover denne farverige beretning finde enkelte kilder om opholdet.  Forfatteren af Sæmundssons biografi, biskop Jon Helgason[37], har fra Sæmundssons efterkommere fået oplyst, at han under sit ophold i Rom bl.a. havde nydt Bertel Thorvaldsens gæstfrihed, der havde været interesseret i at høre om Island, sin fars hjemland. Sæmundssons stiftede bekendtskab med nordiske kunstnere i Rom, såvel på Thorvaldsens atelier, i dennes hjem og på et værtshus, hvor de nordiske kunstnere ofte mødtes. En af disse kunstnere var den danske billedhugger H. V. Bissen (1798-1868), der menes at have udført reliefbilledet på Sæmundssons gravsten ved kirken Breidabolsstadur i Sydisland.  Der findes beretninger om bekendtskabet mellem Sæmundsson og Vatikanets bibliotekar, Giuseppe Mezzofanti (1774-1849), der var lingvist og kendt for at mestre 70 sprog. Sæmundsson fortæller i sin rejsebog, at da han netop er ankommet til Neapel, møder han der rent tilfældigt sin ven Bindisbøll. Arkitekten Michael G. B. Bindisbøll (1800-1856) tegnede Thorvaldsens Museum i København, og de to har uden tvivl stiftet bekendtskab  på Thorvaldsens atelier. Sæmundsson fortæller, at han i de første dage af opholdet i Neapel har besøgt byens seværdigheder sammen med denne foregangsmand inden for nyklassicistisk byggekunst i Norden. Lord Arthur Dillon, der rejste til Island på samme skib som Sæmundsson i 1835, fortæller i sin rejsebeskrivelse fra Island[38] at Sæmundsson havde talt flydende italiensk, og uden tvivl har han ikke mindst haft gavn af opholdet i Rom som sprogstudie.

Constantin Hansen: Norrænir listamenn í Róm 1840. Sá sem liggur er arkitektinn Bindesböll, vinur Tómasar

 

Hjemegnen Rangarthing og De pontiske Sumpe

Som det ses af Sæmundssons beskrivelse er hans oplevelse af Vatikanet med Michelangelos og Rafaels mesterværker farvet af hans religiøse holdning og opdragelse, og man kan måske af hans overvejelser ræsonnere, at kunsten ifølge Sæmundsson har værdi i sig selv, når den beskæftiger sig med verdslige fænomener. Derimod må beskueren være på vagt hvor billedkunst eller byggekunst forsøger at formidle en religiøs sandhed. Sæmundsson synes i denne sammenhæng stå nærmere Kalvin end Luther, men vi ser her en tydelig selvmodsigelse i hans tolkning af den virkelighed, han oplever i Italien. Modsigelsen skal blive endnu tydeligere når han kommer til Grækenland og Tyrkiet.

Men det er ikke bare Sæmundssons ideer om barnetroens og pietismens følelsesmæssige argumenter mod kirkemagten, der former hans syn på den italienske virkelighed. Islands natur og hjemegnen spiller også ind, således som vi tidligere så i eksemplet om Thorsmörk. Disse sammenligninger med hjemegnen får dog næsten eventyrlige overtoner hvor han i sin beskrivelse af landskabet omkring Rom og Lazioregionen sammenligner dette med sin hjemegn i Sydisland, måske i et svagt håb om at beskrive italiensk natur på en forståelig måde for den islandske almue. Således støder vi på følgende billede, hvor han for at anskueliggøre omgivelserne sammenligner Roms beliggenhed med kirkestedet Oddi, der ligger på den sydislandske landbrugsslette med vulkanske fjelde og gletschere som baggrund:

Egnen omkring og udsigten til fjeldene fra Rom er noget lignende som hos os i Rangarvallasyssel hvis man der står ved Oddi[39]. Skarðsfjeldet ville da være Soracte, fjeldene foran Hekla ville være Sabinafjeldene, og fjeldene oven for Fljotshlid ville være de albanske bjerge (skønt de fylder lidt rigeligt og ikke er spredte nok mod øst).  Velletri ville da ligge ud mod slutningen af Fljotshliden, da volskernes område egentlig ligner vigen, der ligger mellem den og Eyjafjeldene, ud over at være bredere. Fjeldryggen der sønden ved ligner da også Eyjafjeldene, hvor Terracina da ville ligge der, hvor de østligste gårde ligger under fjeldlien, med den forskel at Terracina ligger ved kysten og at der ikke nogen slette mellem fjeldet og havet. De pontiske Sumpe er som vort engområde ved Landeyjar, og helt ude ved havet står et ensomt fjeld, nu landfast med hovedlandet. Det har efter sigende tidligere været en ø, opkaldt efter Circe, men landet er krøbet ud mod fjeldet gennem de seneste århundreder. Sagnet fortæller os, at Odysseus kom til øen på sin lange rejse efter den trojanske krig, mere end 1100 år før Kristi fødsel, og dér skulle Circe have forvandlet hans mandskab til svin, vel efter at have givet dem rigeligt at drikke (men ham selv fortryllede hun til kærlighedslege, så hans hjemrejse blev forsinket). Øen ligger ud for landet, omtrent lige som vore Vestmannaøer.

Man behøver ikke noget lokalt kendskab for at se, hvor langt ude denne sammenligning er. Faktisk er den så langt fra enhver lighed som man kan tænke sig, og det er svært at forstå, hvad Sæmundsson har villet opnå bortset fra at forsøge at vække sine landsmænds forestillingsevne ud fra et punkt, som de kendte i forvejen. Dog må det indrømmes, at „De pontiske Sumpe”, der er en flad slette syd og øst for byen Latina, har det tilfælles med Landeyjar at have været et fuldstændigt fladt sumpområde i den første halvdel af 1800-tallet, da Sæmundsson besøgte Italien. Sammenligningen har dog først og fremmest det formål at minde os på, hvordan det billede og den erfaring, som vi i forvejen har fastformet i tankerne, også vil forme det billede, som vi gør os af det, vi ser for første gang og forsøger at beskrive med ord. Menneskeøjet går aldrig fordomsfrit til værks, som Ernst Gombrich sagde. Mennesket tolker det, det ser, ud fra erfaringen og hvad det i forvejen kender.[40] Lige som landskabsmaleriet i højere grad efterligner landskabstraditioner og andre billeder end selve naturen, efterligner også den nedfældede beskrivelse det, som øjet og øret i forvejen kender.

Neapel og Campania Felix

Napoli og Vesúvíus á 19. öld

Faktisk ophører den italienske natur aldrig med at forundre vor forfatter, men forundringen når dog sit højdepunkt da han skuer over Neapelbugten og Campania Felix:

Alt hvad digterne har besunget af guddommelige lundes skønhed eller paradisiske marker er her blevet til sandhed, og over disse højdedrag og dalstrøg skuede Virgilius da han beskrev Elyseumsletterne og de ulykkeliges hjemsted i Æneidens 6te bog. Her er evig vår, jordens blomster forsvinder aldrig, den ene urt blomstrer når en anden visner hen; på alle årstider finder man de dyrebareste frugter til salg på torvene, og mange tusinde mennesker har ikke bygget sig noget sted at bo, for kulden når aldrig hertil, og havbrisen afkøler solens hede, således at varmen bliver udholdelig.

Sæmundssons synes først at have stiftet bekendtskab med Campanias naturskønhed ved Formia, hvor tågen pludselig letter og det følgende åbner sig for ham:

Vi stiger ud af vognen i den allerdejligste abildgård, – citron- og guldæbleskove, myrtetræer og laurbærtræer og duftende, vidunderlige urter, alle mellem hverandre, hvorhen man vendte øjet. overnatningshuset lignede mere et kongepalads end et gæsteherberg. For vore fødder lå havet som et spejl, og der var dybt og stejlt derned; over for os så vi hele bugten, og på den anden side af den eller syd for den så vi noget længere borte Vesuvius-vulkanen i al sin prægtige højhed, som også fjeldene der ligger rundt langs Neapel-bugten og øerne som ligger ude vest for dem. Mod vest eller til højre for os lå næsset, som vi havde rejst over, hvor landskabet sænker sig mod vest og ned mod Gaeta, hvor et slot lå øverst på en klippe. På venstre hånd eller nord for os og mod øst ligger hovedfjeldet, hvorfra de smukkeste fjeldsider ligger ned mod havet, mod øst og ind langs bugten. Disse fjeldsider er dækkede med vingårde og alskens frugttræer. Det var sidst på dagen, og her og der var skyggespil på fjeldene, hvilket gjorde oplevelsen endnu stærkere. Her har man det dejligst tænkelige vejr og læ for nordenvinden, og derfor er jorden altid ens, om vinteren så vel som om sommeren iklædt sit fagreste skrud.

Vi blev her stående en stund og nød til fulde at beskue denne naturens skønhed. Dette gæsteherberg og abildgård, Villa di Cicerone, er opkaldt efter Cicero, romernes store tænker og talekunstner, som man mener har haft sit sommerhus her og også er blevet myrdet på samme sted. Gårdpasseren, [der] sagde at han var romersk… ledte os stolt rundt i haven og viste os de urter og træer, som han fandt de flotteste, og fyldte vore lommer med guldæbler, som han tog af træerne og først nu var blevet modne fra sommeren før; så lang en modningstid har denne smukke frugt, at den behøver vinteren med. Den avles derfor kun der, hvor der ikke er nogen vinter.

Da Sæmundsson nærmer sig Neapel, tegner han et levende billede af byens omgivelser og den fortryllende natur, der omkranser byen, og hvor Vesuv troner over alt. Meget naturligt sammenligner han Vesuv med vulkanen Hekla men skriver, at Vesuv er en del lavere,

og formet som alle vulkaner, rundt mod toppen og med et krater øverst oppe, ret stejlt ned til midt på fjeldet og derefter mere fladt til alle sider, hvor lavastrømmene og pimpstensregnen ikke er nået længere. Omkring hele fjeldet ligger nu de smukkeste byer, og langt op ad fjeldets sider vokser overalt vinranker. Syd for fjeldet lå i oldtiden Pompeji og mod vest og ved kysten Herculanum. Lavaen dækker nu disse steder, og der er i dag bebyggelse oven på lavaen, hvor byen lå under. Herfra og til Neapel ligger langs havet en ubrudt husrække.[41]

Om byen og dens omgivelser i helhed siger Sæmundsson at den „ikke har sin mage i hele verden” hvad angår naturskønhed og fortidsminder, „men de fleste ville have en lavere mening om denne by angående den befolkning, som bor i den, og jeg tænker at få da utvungent ville rejse gennem Neapel eller have udholdenhed til at opholde sig længe der…” Generelle fordomme og negativ omtale om Neapels beboere synes ikke at have været mindre almindelig på Sæmundssons tid end i vore dage, idet Sæmundsson understreger at hans rejsefører ved Villa de Cicerone havde været stolt af sin romerske oprindelse, „idet neapolitanere har et særligt slemt rygte, og få er derfor stolte af at være i slægt med dem.”[42]  Sæmundssons beskrivelse af byen er grundig og detaljeret, og han fortæller at byen med rette anses for at være Italiens største og rigeste by, både hvad angår indbyggerantal og penge. „Der bor i byen efter sigende 358.000 indbyggere, hvoraf de 60.000 er lazaroner[43].  Bylandskabet beskriver Sæmundsson blandt andet med følgende ord:

Byen ligger… på syd- og østsiden af en fjeldås eller bakkedrag og når helt ned til havets kyst. Mod øst er der desuden et fladt område mellem åsen og havet, og de forreste huse står der på en slags grusbanke ude ved havet med det flade område foroven; men mod vest står husene, med undtagelse af den forreste række ved havet, på en stejl skråning, hvor det ene fortsætter oven for det andet. Oven over husene og øverst på åsen står et slot. Fra åsens ryg forgrener sig en mindre, der ligger som en aflang ryg mod syd gennem den vestlige del af byen ned til havet, hvor den går et stykke ud, og derude i havet står et andet hovedslot med en vig på hver side. I den østre vig, nede ved byens midte, er skibslejet for krigsskibe og også bygninger for deres udrustning, og kort derfra ligger kongegården foran et stort torv. Øst herfor er havnen, der omfavnes af to store stenmure, der går langt ud i havet for at beskytte mod bølgerne udefra, når vinden står lige på bugten… Den vestre del af byen er langt smukkest, for langs hele kysten, helt ude ved havet, ligger den dejligste lysthave (Villa reale), og oven for den ligger der mod vest 2 lige husrækker med prægtige og gedigne huse. Bag disse fortsætter skråningen, igen tæt besat med frugthaver og lystgårde, hvorfra man har udsigt over hele egnen. Vest for vigen, hvor fladlandet ophører, ligger denne fjeldås ned mod kysten og ud i havet.[44]

Helgiganga í Napoli á 19. öld

Selv om Sæmundsson er blevet ledsaget rundt i Neapels gader af arkitekten Bindisbøll, synes dette ikke at have bevæget ham til at sætte pris på den fremragende byggekunst, der findes i byen: „I Neapel findes kun få bemærkelsesværdige bygninger og huse udover de almindelige, og næppe finder man i Italien en by, hvor kirkerne i samme grad som her ligner andre huse, såvel hvad angår højde som udsmykning, til trods for at byen har ikke færre end 300 kirker.  Blandt andre offentlige bygninger må man først nævne rådhuset og klenodiesamlingen.”[45]  Sæmundsson beskriver udførligt det arkæologiske museum og betegner det som „et stort palads… blandt de første huse på højre hånd, når man kommer ad landevejen fra Rom ind gennem byporten.” Han fortæller, at museet har 90 sale med arkæologiske fund, sjældne genstande og prægtige værker, for det meste romerske og oldgræske fund men også genstande fra Ægypten og Etrurien og fra Sydhavsøerne i Stillehavet. Sæmundsson er mest begejstret over genstandene fra Pompeji og Herculanum, men han nævner derudover ofte Farnesemuseet, der blev flyttet fra Rom til Neapel i 1788, og da især statuerne af Herkules og Farnesetyren. Han fortæller om Herkules at han er „så godt som tre gange større end menneskets størrelse, udhugget i hvid marmor…” og at det er beundringsværdigt, „hvor godt og overbevisende det er lykkedes at trække kraften og manddommen frem i statuens muskelspil og knoglebygning.”  Han nævner udførligt statuens ophavsmænd (Glykon efter Lysipus’ oprindelige statue). Sæmundsson fortæller også om Farnesetyrens oprindelse på Rhodos, dets ophavsmænd Apollonius og Tauriscus og om Plinius’ kilder om værket og historien bag det. ”Det er til stadig forundring hvilken kolossal størrelse, statuen har, og hvor utroligt den ligner en levende tyr.”[46]

Den herligste rejse, man nogensinde har planlagt

Selv om Sæmundsson ikke oprindeligt havde tænkt sig at rejse længere sydpå end til Sicilien, havde den ide strejfet ham kort tid før han forlod Rom, at det ville være utroligt fristende at deltage i en planlagt krydstogt i Middelhavet, som havde været annonceret blandt de rejsende i byen. Sæmundsson beskrev dette som „den herligste rejse, man nogensinde har planlagt”, og der blev sendt oplysningsbreve om rejsen rundt til det meste af Europa, hvori 100 personer blev tilbudt en plads om bord. Udover passagererne var der „næsten lige så mange tjenestefolk, hvis man talte alle skibets matroser med.” Krydstogtet skulle vare fire måneder og gå til et stort antal kendte, historiske steder i Grækenland og Tyrkiet, på Malta og Sicilien.

I Neapel undersøgte Sæmundsson rejsemulighederne yderligere men kom hurtigt til den konklusion at rejsen ville være ham økonomisk uoverstigelig. Under opholdet i byen havde han søgt hjælp hos Frederik Siegfried Vogt, der var chargé d’affaires i det danske konsulat i Neapel. Vogt havde været ham behjælpelig på forskellig vis, vist ham rundt på interessante steder og hjulpet ham med at opnå tilladelse til at besøge de arkæologiske udgravninger i Pompeji, der ikke var åbne for offentligheden. Vogt havde også opfordret Sæmundsson til at tage på det nævnte krydstogt, men denne havde til sidst opgivet planerne og var rejseklar til Messina om aftenen 11. april, da han uventet fik besøg af den danske chargé d’affaires, der fortæller ham, at han har talt med skibets reder og fået et klækkeligt nedslag i prisen for Sæmundssons billet. Sæmundsson ændrede øjeblikkelig sin rejseplan, og skibet lagde fra land fem dage senere. Krydstogtet varede i fire måneder eller til 9. august, da der igen blev kastet anker i Neapel.  Sæmundsson skriver senere i sit manuskript til rejsebogen, at han ikke har lært nogen person at kende under hele sin rejse, som han har „så meget godt at takke for” som Frederik Siegfried Vogt i Neapel.[47]

Desværre mangler selve rejsebeskrivelsen fra dette krydstogt  i Sæmundssons manuskript, hvori vi kun finder en beskrivelse af rejsens begyndelse. Imidlertid kan vi af hans breve forstå, hvilket eventyr, rejsen har været:

Om bord var flere konger, prinser og kongelige personer i en længere eller kortere del af rejsen. Her kunne man blandt halvandet hundrede mennesker se folk af alle stænder og på samme tid høre omkring 20 tungemål. Så en sådan rejse er vist aldrig blevet foretaget, og her var allerede på skibet så meget at se og lære at det alene var umagen værd. Der foruden er landene, som vi nu så, lige så berømte i verdenshistorien (så som hele Grækenland, hvis yndigste sted er byen Athen), som andre er kendte for deres smukke natur (så som Tyrkiets hovedstad, Konstantinopel, hvor vi var i 15 dage. Byen er meget smukkere end Neapel og således det smukkeste sted af alle, der findes).

Dette fortæller Sæmundsson i et brev til faderen 28. August 1834, hvor han for nylig er kommet tilbage til Neapel.  Af brevet kan vi læse følgende rute fra Neapel: Messina, Catania, Syrakus, Korfu, Patras, Korinthbugten, Delfi, Pyrgas, Olympia, Navarino, Naflion, Mykena, Argos, Hydra, Poros, Ægina, Isthmus-landtangen, Korinth, Athen, Smyrna, Mytilini, Tenedos, Troja, Bosporusstrædet, Marmorhavet, Konstantinopel, Zanthe, Syrakus, Agrigento, Palermo og Napoli.

Af disse steder har især Athen og Konstantinopel gjort indtryk på Sæmundsson. Han opholdt sig fem dage i Athen og 15 i Konstantinopel. Athen bestod i større eller mindre grad af ruiner efter de forudgående krige, og dens indbyggere taltes nærmere i hundreder end i hundrede tusinder, som de gjorde i byens storhedstid.

Alle ved, hvad denne by har gjort for verden, men heller ingen by er bedre stillet hvad beliggenhed angår. ..I Rom – på Forum Romanum – må man grave 20 fod ned i jorden for at kunne stå på „klassisk grund”, men i Athen ser vi den dag i dag klippen, hvorfra Sokrates talte mod Alkibiades og hvor Perikles talte til skarerne. På Akropolis ville man have kunnet se Phidiases kunstværker som havde de været kun 10 år gamle, hvis ikke menneskets vildskab under de sidste år havde ødelagt dem – dog heldigvis kun halvt.  Med Rom som eneste undtagelse har jeg aldrig følt tiden gå så hurtigt som i de 5 dage, jeg opholdt mig i Athen. Det, som Athen har frem for Rom er selve naturen og ruinerne, som man der kan betragte. Men hvad angår klenodiesamlingen i Athen, selve byen og beboerne, kan der slet ikke være tale om nogen sammenligning.[48]

Men hvor Athens forfatning syntes et sørgeligt minde om dens storhedstid, oplevede Sæmundsson præcis det modsatte da han ankom til Konstantinopel, hvor han gribes af forundring ved første syn:

Alt, som Oehlenschläger eller enhver anden digter eller maler nogen sinde har sagt eller skabt for at røre vore følelser, bliver virkningsløst i sammenligning med det sprog, som naturen her selv taler, og med de følelser, som den vækker i det menneskes sjæl, som passerer kejserpaladset (Serailet) [på højre hånd] og Skutari [på venstre] og for første gang foran sig ser Galata med Bosporusstrædet til højre og havnen [det såkaldte „Guldhorn”, som norrøne mænd i hedenold kaldte Stolpesund] til venstre.[49]

Konstantinopel um 1880: Galatabrúin, Bosporussundið

Begejstringen på skibet var så overvældende at endda ikke neapolitanerne kunne holde sig tilbage: „Con questo la città di Napoli non puó compararsi.“ Sæmundsson omtaler tyrkere i høje toner og tager til genmæle mod deres dårlige rygte. Han skelner kraftigt mellem grækere og tyrkere: „I stedet for den græske letsindighed møder man her rolige og overvejede mennesker, der er tilbageholdende og viser velvilje og troværdighed, i det hele taget et fortræffeligt folk, der ville stå højere end en hel del af Det nordlige Fastlands folkeslag, havde de kun modtaget bedre dannelse.”[50] Og i brevet til faderen, som han skriver i Neapel skriver han direkte: „Grækere er dårlige mennesker men tyrkere gode!”[51]

Sæmundsson synes ikke at have de samme aversioner mod islamiske ritualer som mod de katolske; han beundrer hvor „højtidelig” atmosfæren er i moskéerne, „hvilket har sin grund deri at tyrkere generelt er troende folk men dog fordomsfrie over for mennesker, der har en andet tro, tvært imod hvad der alment siges om dem.

Da Sæmundsson kommer til Smyrna på Tyrkiets vestkyst, hvor han opholdt sig en uge, begynder hans syn på omgivelserne at farves af fablerne i Tusind og en nats Eventyr, og i et brev til en god ven giver han følgende billede:

Sandt at sige syntes jeg at være kommet i en anden verden, da jeg kom til tyrkerne, efter at have været blandt grækere – skønt det går meget godt at blande sig med grækerne, der bor herovre… Her i Smyrna er man kommet til en østerlandsk by – alt er østerlandsk undtagen skibene i havnen… der er fra forskellige handelsbyer på Det nordlige Fastland. Her så vi mange kamel- og muldyrkaravaner, her kunne man se slaver, der i hobevis blev drevet til torvet, hvor de skulle sælges. Kvinder var i gule sko og med slør for ansigtet, og i deres følge var et stort antal tjenerinder og gildinger.[52]

Om sammenhængen mellem kvindelig skønhed og smuk natur

Alt tyder på, at Sæmundsson har været tro mod sin forlovede, som han i hemmelighed havde givet sit ægteskabsløfte i Adaldalur i Nordisland skæbnesommeren 1829 og ikke så igen før i 1834, efter sin verdensrejse. Det betød dog ikke, at han ikke var opmærksom på kvindelig skønhed, hvilket vi ser nogle eksempler på, såvel i manuskriptet til hans rejsebog som i hans breve. Hvad der er interessant ved disse bemærkninger er, at han som regel forbinder kvinders ydre udseende og erotiske udstråling med de naturlige omgivelser, hvor han har truffet disse kvinder.  En af hans første bemærkninger af denne type er i afsnittet om hans ophold i Dresden, hvor han skriver:

Kvinder i Dresden er bedårende smukke, og jeg så lutter smukke pigeansigter, uanset fra hvilken stand. Få ting på min rejse har undret mig mere end hvor stor forskel der her var mellem Dresden og Berlin. Det ses i øvrigt mange steder, at kvindfolket er så bundet til naturen, at dets skønhed i høj grad er afhængig af naturens. Kvindetyendet i Dresden klæder sig finere end de fleste andre steder og omtrent som købstadsmadammer på Island…[53]

Vi finder ikke direkte kilder om Sæmundssons mening om kvindelig ynde i Italien, men i et brev til faderen skriver han, at Italien er „det smukkeste land på Det nordlige Fastland og det vigtigste i verdenshistorien; dér findes yderligere alt det smukkeste, som mennesket har skabt, på ét sted: Sproget, vallandsk, eller italiensk, er det smukkeste sprog, mennesket kan tale – og næppe nogetsteds er menneskene smukkere.”[54]

Selv om Sæmundsson generelt ikke omtaler grækere i høje vendinger, skriver han dog efter sit besøg til den græske ø Mytilini og til Smyrna på Tyrkiets vestkyst, at Mytilinis landskab ikke har sit lige hvad angår skønhed, og det samme gælder øens kvinder, „der må have lige så smukke ansigtstræk i dag som de havde på den græske digterinde Sapphos dage.” Efter hans mening er græske kvinder „smukkere end alle andre kvinder”. Dette blev han dog ikke klar over, før han kom til Smyrna, for „i selve Grækenland får kvinderne sjældent lov til at komme ud under åben himmel.”[55]

Denne ejendommelige sammenhæng, som Sæmundsson synes at finde mellem kvindelig skønhed eller ydre skønhed og naturens er måske ikke så søgt som man umiddelbart kunne tro, idet vi kan læse om meget lignende ideer i den tyske kunsthistoriker Johann J. Winckelmanns epokegørende værk Antikkens Kunsthistorie, som blev skrevet i 1764 og ikke alene var skelsættende inden for kunsthistorieskrivning men også det ideologiske grundlag for nyklassicismen, således som denne f. eks. viser sig hos Bertel Thorvaldsen. Sæmundsson nævner Winckelmann i sin rejsebog og skriver, at ingen hverken før eller siden med så meget liv og snilde har forklaret og beskrevet de antikke mesterværker.  I begyndelsen af sin beskrivelse af antikkens græske kunst siger Winckelmann, at den eneste forklaring på den græske kunsts overlegenhed i hele den globale kunsthistorie netop findes i klimaet:

Klimaets indvirkning må indblæse liv i det sædekorn, hvorfra kunsten vokser, og Grækenland var det udvalgte land for denne sæd… Meget af det, som vi sædvanligvis tillægger forestillingsevnen, var blandt grækerne intet andet end naturen selv. Efter naturens svingning fra det kolde til det varme, fandt den så at sige sit midtpunkt i Grækenland, hvor klimaet er i fuldkommen ligevægt mellem vinter og sommer… Der hvor naturen er mindst indhyllet i tåge og dis opnår den tidligere resultat i sine bestræbelser for at give legemerne en mere udviklet form, den tilvirker prægtige skikkelser, og da især kvindeskikkelser, og i Grækenland har den givet sine mennesker den mest fuldkomne og sublime form… og intet andet folk satte større pris på den legemlige skønhed end grækerne.[56]

Winckelmann skelnede ganske vist mellem naturlig og kunstnerisk skønhed, men samtidigt med at han ud fra „Naturens smukkeste eksempler” fremsætter en helhedsteori om skønhedens natur, der „sanses med sanseorganerne men forstås med fornuften”, fremsætter han også en grundig helhedsteori om menneskelegemets æstetik, som baseres på matematiske forholdstal ud fra tallet 3.  Winckelmanns æstetik nærmer sig her faretruende det racistiske, idet han bl.a. mener, at afrikanske racers tykke læber og brede og kugleformede næse og asiaters flade ansigtstræk og smalle øjne var en abnormitet fra det fuldkomne forbillede, som han så blandt grækerne og som ifølge Winckelmann stod nærmest Skaberens eget billede. Sæmundsson synes i denne henseende at være under indflydelse af Winckelmann, mens det dog er interessant at han ikke finder at Island falder under denne teori hvad angår klimaet, idet købstadsmadammerne i Island ikke lader noget tilbage at ønske i sammenligning med de smukke køkken- og stuepiger i Dresden.

Hjemrejsen fra Neapel

Da Sæmundsson ankommer i Palermo, erfarer han at hans støtteansøgning i forbindelse med rejsen var blevet afvist af de danske myndigheder, og han sætter da kursen mod Paris og skriver i et brev til faderen, dateret 28. august 1833 i Neapel, at han ville „forsøge at friste livet dér indtil december. Får jeg ingen hjælp til den tid, må jeg nedsætte mig der ?! For allesteds i Europa kan jeg tjene til livets ophold, hvis jeg må blive boende, men rejse videre kan jeg ikke på egen bekostning.”[57]

Sæmundsson blev ca. en måned i Neapel før han i begyndelsen af september påbegyndte sin rejse mod nord. Hans rejserute lå gennem Rom, Firenze, Livorni, Pisa, Lucca, Genova, Milano og Torino. Derfra fortsatte han gennem Schweiz og Østrig og stoppede bl.a. i Sion, Chamonix, Genève, Lausanne, Bern, Luzern, Zürich, Schaffenhausen og Basel. Herfra over grænsen til Frankrig og via Strassbourg til Paris, hvor han ankommer midt i november 1833. I et brev til en bekendt skriver han om denne rejse, at „på langt de fleste af disse steder stoppede jeg i 2-3 dage og i alle de større omtrent en uge, og der var såmænd ikke meget bemærkelsesværdigt at se i disse byer, som jeg ikke allerede havde set. ”[58]

I Paris synes Sæmundssons rejsebeholdning at være sluppet op, og vi læser i et brev til faderen, som han skrev i København 4. juni 1834, at „efter at en af mine venner dér havde plukket sig til skindet for at jeg ikke skulle dø af sult også nød godt af eders godhed, så han kunne få nattero for sine kreditorer.  De danske myndigheder har nemlig ydet mindre til den ene islænding, der vovede sig ud i verden, end udsigterne var til og jeg havde kunnet forestille mig, og jeg fik fra dem endda ikke en eneste skilling til rejsen…”[59]

Sæmundsson gav pengemangel og hans kummerlige forhold i Paris skylden for den sygdom, der resulterede i, at han måtte indlægges på hospital i februar i 1834. Her lå han plaget af lungebetændelse og/eller tuberkulose med vedvarende blodhoste indtil 3. maj. Han lod dog ikke pengemangel eller sygdom bringe sig fra sit faste forsæt om at rejse til London før han vendte tilbage til København.  Han rejser fra Paris i begyndelsen af maj, stopper tydeligvis kun kort i London og sejler derfra til Hamborg, hvorfra han ankommer til København 16. maj. Fraregnet tre uger var der da gået to år siden han 7. juni 1932 havde påbegyndt sin verdensrejse. I København havde Sæmundsson et glædeligt gensyn med sine venner, der da allerede er begyndt at forberede udgivelsen af det litterære tidsskrift Fjölnir. Samtidigt med at han arbejder med forberedelserne for udgivelsen søger han en præstestilling, der var blevet ledig på Breidabolsstadur, i nærheden af hans hjemegn i Sydisland. Han får embedet, og hans rejse var således ikke overstået endnu: Han satte målbevidst kursen hjem til Island og til Adaldalur i Nordisland for at træffe sin forlovede, Sigridur Thordardottir, der havde ventet efter ham i fem år. Sæmundsson var gået glip af „forårsskibene”, der sejlede til Island men fik nys om at kronprins Carl Christian (senere kong Frederik VII) opholdt sig i Island og at korvetten Najaden skulle hente prinsen i august. Han fik gratis rejse med skibet, der desværre fik meget dårligt vejr på vejen over Nordatlanten, og sejladsen varede hele tre uger. Sæmundsson ankom i Island 31. august 1834. Denne sejlads er meget levende beskrevet i første nummer af Fjölnir i 1835.

Reykjavík um 1865

Det Reykjavik, som mødte kosmopolitten Tomas Sæmundsson i sensommeren 1834 mindede næppe på nogen måde på de utallige steder, som han havde besøgt på sin rejse. Af byens 600 beboere var de fem kongens embedsmænd: en var landshøvding, en byfoged, en dommer for landsoverretten, en var landfysikus og en apoteker. Islands biskop boede da på gården Laugarnes, der lå 5-6 km uden for byen. Byens øvrige beboere var jordløse husmænd, håndværkere og bønder, der tjente til livets ophold ved usikkert, slidsomt arbejde og for de flestes vedkommende boede i tørvehytter. De højstuddannede af øens beboere var lærerne ved latinskolen på Bessastadir, en halv snes kilometer syd for Reykjavik, og boede på gårde i nærheden af skolen. Sæmundsson deltog på sin første dag i Reykjavik i landshøvdingens festmiddag til ære for kronprinsen, hvis Islandsrejse var ved sin afslutning. Sæmundsson blev godt tre uger i Reykjavik og omegn og nød biskop Steingrimur Jonssons gæstfrihed på gården Laugarnes, men inden længe blev han dog for rastløs: han måtte af sted til Adaldalur for at møde sin forlovede, der havde ventet på ham i fem år.

Rejsens største strabadser

Island havde i første halvdel af 1800-tallet hverken veje eller broer. Rejsen fra Reykjavik til Adaldalur i Nordisland udgjorde formodentlig de største strabadser i hele Sæmundssons verdensrejse. Han red fra Reykjavik 25. september og fulgte først vestkysten i to dagsrejser før han tog kursen mød øst ind gennem Borgarfjördur-dalen og over den ubeboede højslette til Vididalur i Nordisland, hvorfra han kunne rejse videre i beboede egne men dog måtte krydse mere eller mindre kraftige, brede og dybe gletscherelve på vej fra den ene fjord til den næste. Han måtte over endnu et fjeldpas før han ankom til Akureyri, en af de meget få købstæder, der da fandtes i Island. Herfra var der kun én dagsrejse til gården Gardur i Adaldalur. Sæmundsson havde da redet på hesteryg over Islands uvejsomme klippeterræn i ti dage, over fjelde og dale og sumpede højsletter i skiftende vejr og måtte endda ride gennem efterårets første snestorm på rejsens sidste etape.

„Jeg udholdt bedre denne rejse end jeg på nogen måde kunne have forventet, for jeg havde ikke været  udsat for større anstrengelser end dette siden jeg blev ramt af sygdommen men fandt mig dog ofte i en værre forfatning end efter denne rejse”, skriver Sæmundsson i et brev til faderen[60]. På de fleste af etaperne havde han ledsagere; han havde fået en ridehest til rejsen og havde også to transportheste, og så vidt vi kan forstå af hans beretning i brevet til faderen, blev det betragtet som en naturlig ting at aflive hestene efter rejsen, da man havde forsømt at avle tilstrækkeligt foder under høslætten i sensommeren. Sæmundsson kunne få sine heste sat på foder mod at lade slagte ti lam for hver af hestene og derudover betale „en specie og en kvart rigsdaler” pr. måned i foderomkostninger.  Denne beretning fortæller os lidt om de økonomiske forhold, der herskede på denne „skønneste plet på jorden”, som Sæmundsson med vemod havde forladt syv år tidligere, da han rejste til København for at studere.  I brevet til faderen skriver Sæmundsson yderligere om rejsen til Nordisland: „Men jeg ser ingen sandsynlighed for, at jeg nogensinde vil fortryde rejsen, og jeg har for øjeblikket grund til at være mere tilfreds med min situation end nogensinde før… 8 dage efter min ankomst her blev der fra prædikestolen lyst til bryllup, som stod her på Gardur den 24. oktober eller på vinterens første fredag.”[61] Faderen, Sæmundur Ögmundsson, der var sognefoged i Vestur-eyjafjallahreppur i Sydisland, havde på grund af årstiden ingen mulighed for at rejse til Nordisland for at overvære brylluppet.

Således var Sæmundsson en gift mand kun tre uger efter ankomsten til Gardur. Han blev på gården vinteren over, hvor han hjalp til ved det daglige arbejde og formodentligt påbegyndte manuskriptet til sin rejsebog men ikke mindst skrev artikler for tidsskriftet Fjölnir. Islands biskop kaldte om foråret Sæmundsson til Reykjavik til ordination, og han blev 24. maj 1835 beskikket sognepræst i præstekaldet Breidabolsstadur i Sydisland. Han overtog formelt præstegården og -kaldet 5. og 6. juni.[62]  Fra Breidabolsstadur red han derefter tværs over Islands ubeboede højland for at hente sin hustru og sit indbo. Indboet blev transporteret på et antal heste med kløvsadler den samme vej tilbage over højlandet. På vejen blev de ramt af kraftigt uvejr og for vild i højlandet, men til alt held fandt hestene selv vej til et bevokset område i ørkenen, hvilket formodentlig reddede deres liv. Dette sted fik derefter navnet Tomasarhagi, (Tomas’ græsgang).  Sæmundssons ven, digteren Jonas Hallgrimsson udødeliggjorde denne græsgang i et digt om vennen og dennes rejse[63].  Sæmundsson var på Breidabolsstadur optaget af sine forpligtelser som præst og gårdejer men skrev derudover en stor mængde artikler og andet stof i løbet af de få år, han endnu levede.  Han var vellidt som præst, en meget aktiv skribent og havde et lykkeligt ægteskab. Sigridur Thordardottir og Tomas Sæmundsson fik sammen fem børn, men 17. maj 1841 døde han på grund af den sygdom, som han havde pådraget sig i Paris og aldrig blev kureret for. Ægteparrets yngste datter døde samme dag som han, kun fire måneder gammel. Sæmundssons svigermoder, der havde opholdt sig hos dem i nogen tid, døde 12. maj, og en anden af ægteparrets døtre, Sigridur, døde natten før begravelsen, der fandt sted 4. juni.  Denne dag tog Sigridur Thordardottir således afsked med sin mand, sin moder og to døtre på kirkegården ved Breidabolsstadur.

August Maier: Tómas Sæmundsson ved begravelse paa Breiðabólsstað. Úr ferðabók Gaimards.

Verden set gennem gæstens og ledsagerens øjne

Man kan sige at Tomas Sæmundssons livsgerning har ligget i at forbinde Island til omverdenen på ny. Han byggede sammen med sine kolleger i tidsskriftet Fjölnir en bro over den kløft, der var opstået mellem denne tyndtbefolkede ø i Nordatlanten og omverdenen. Sæmundsson var som en ledsager for en rådvild nation, der i mange tilfælde ikke kendte nogen anden verden end nogle omkringliggende, vejrbidte græstuer, Atlanterhavets forblæste bølger og naturkræfter, der udelukkede alle muligheder for noget overblik over omverdenen.  I manuskriptet til hans rejsebog finder vi et brudstykke af et afsnit, som han har tænkt som indledning til denne islændingenes opslagsbog til Europas kulturverdener. Afsnittet begynder på forfatterens beskrivelse og forklaring på det utrolige fænomen, som storbykultur er i islændingenes øjne. Denne beskrivelse viser os med bedrøvelig klarhed, hvor fjern omverdenens kultur var blevet Islands befolkning, den nation, der engang havde sendt sine sønner og døtre over udhavet for at finde landområder som Grønland og Nordamerika. I stedet for tørvehytterne som islændingene kendte som menneskers naturlige bolig præsenteredes læserne for dette:

… således er der nu én sammenhængende bygningsmasse, der står lige op fra den jævne overflade, som byen er bygget på, lodret på alle sider og ser faktisk ud som et skær eller en ø, som man også nogle gange netop har kaldt dem. Og i hver storby er der mange således ‘hus-øer’, der kan have forskellig form. Der hvor byerne er mest regelmæssigt byggede, er øerne firkantede og ligger ved siden af hverandre på hver led. Sundene, der så adskiller husøerne fra hverandre og ligger såvel på langs som på tværs, er det, der kaldes gader elle stræder. De er som regel så brede, at en hestevogn med lethed kører forbi modkørende hestevogne, og endda har de fodgående rigeligt med plads inde langs bygningerne på begge sider af kørebanen. Oftest adskilles gangstien fra hestevognene med render og afløb, der borttager det vand, der strømmer af hustagene eller kommer ud af bygningerne. Stræderne er som regel stenlagte. Det er klart, at mange der måske er uvante at færdes på sådanne veje, finder trængslen ubehagelig når han måske må færdes mange mil på disse gader, som om han var indelukket mellem høje fjeldvægge, som næsten lukker sig sammen over ens hoved så man kun ser en smal stribe af himmel foroven. Han kan også miste sin åndelige ligevægt når han overalt omkring sig ser trængsel og travlhed på alle forskellige måder, vogne og heste, råb og larm så man næppe hører sin egen stemme. Der findes næppe et hæsligere syn end hvor man ser ud over storbyen fra et højt tårn. Hustagene under én, der oftest er belagt med brændte teglsten, ser med alle sine ujævnheder ud som en nyløbet lavastrøm, og skorstenene, der evindeligt fylder luften med røg og os får det hele til endnu mere at ligne lavaspyende fjelde. Og ned gennem røgen skimter man gaderne, der mellem hustagene ligger som dybe kløfter, hvor folk og heste bevæger sig af sted i rækker som myrer, hvorfra man hører op til tårnet råb og støj. Dette giver nogen tanke om, hvordan vi kan se ud fra højere himmelsteder…

Denne beskrivelse har til fælles med Sæmundssons fremstilling af landskabet omkring Rom og Neapel at han for at gøre billedet begribeligt støtter sig til noget, som læserens øje kender i forvejen. Således er  de islandske dale og fjelde, vulkaner og skær for ham den mest nærliggende sammenligning i forsøget på at beskrive storbylandskabet. Når det derimod drejer sig om kultur, ser vi blandt andet følgende:

… landets hovedstad opsøger alle, der har nogen betydning, og bruger der sine penge; der har også rigets øverste som regel deres bopæl. I storbyerne føler man mindre vejrligets barskhed og styrke end på landet; alt arbejde og sysler bliver udført indendørs, slidsomt arbejde er kun i ringe grad nødvendigt, gøremålene er de samme hele året rundt, og der er mindre grund til at udføre et bestemt værk på en fastsat årstid end på landet, hvor alt må udføres i takt med årets gang. På grund af dette kan man i byerne overalt have mere prydelse. Dér samles også alle, der sætter sin hu til munterhed, for der finder man store underholdninger, og man finder der alskens nydelser. Der har også al landets højere uddannelse til huse. For at fremskynde og gøre alt dette muligt er alt, hvad har nogen skønhed, samlet i byerne. Alt, som på den ene eller anden måde er iøjnefaldende, prydende eller nyttigt for byens indbyggere eller for den almene dannelse, findes også i byerne … Derfor er i alle de større byer mange forskellige samlinger og museer, der vanligvis opretholdes på byens eller rigets bekostning og er derfor, på bestemte dage, åbne for adgang for hver den, der for sin dannelses skyld eller til alment gavn vil se samlingen…

Det var en fremmed tanke for Sæmundssons læsere at arbejdet ikke var betinget af årstiderne og kunne udføres indendørs hele året. Efter denne beskrivelse af storbyernes kulturelle rammer følger en detaljeret redegørelse for de forskellige og fremmedartede institutioner, der var en del af storbyernes kultur: kunstmuseer, arkæologiske og naturhistoriske museer, biblioteker, teatre og universiteter, og derudover de mange forskellige professioner, der tilhører bykulturens forskellige områder. Beskrivelsen bærer naturligvis præg af at være skrevet for en læsergruppe, der næppe kendte til to-etagers huse, veje, kloaksystemer eller storbyens kulturinstitutioner, ikke havde overværet koncerter eller teaterforestillinger eller havde haft mulighed for at besøge kunstmuseer.

Sæmundsson gør selv den tilståelse at han på sin verdensrejse har opdaget og set mange ting, som han hverken havde haft formåen eller fantasi til at kunne forestille sig før han faktisk så dem. Dette var først og fremmest i forbindelse med kunstværker og byggekunst.

Jeg har der kun min egen erfaring og havde næppe skænket kunstnernes snilde en tanke; al denne skønhed, og værkernes store betydning i verdenshistorien… og i det daglige borgerliv, hvor meget den omtales i bøger. Uden at have indsigt i den er det ofte udelukket at forstå de store bogværker eller at deltage i samtaler med dannede folk, før end mine øje åbnedes [og] jeg så de fagre riger, hvor den kunstneriske begavelse virkelig har hjemme, og sammen med den naturens pragt og himlens forunderlige skønhed.

Tomas Sæmundsson og hans kolleger omkring tidsskriftet Fjölnir åbnede reelt Island for den moderne tidsalder.

 

 

[1] Tomas Sæmundsson: Brev (til Jonas Hallgrimsson 1828)

[2] samme værk, Brev til faderen, Sæmundur Ögmundsson, 23. april 1832

[3] Jon Helgason:  Tomas Sæmundsson: Æfiferill hans og æfistarf (T.S.: Hans levnedsløb og arbejde). Isafoldarprentsmidja, Reykjavik 1941.  s. 112. Dette beløb svarede til værdien af tre-fire gode landbrugsejendomme i Island.

[4] Ferdabok  Tomasar Sæmundssonar (Tomas Sæmundssons rejsebog). Jakob Benediktsson forberedte værket til udgivelse. Hid islenska bokmenntafelag, Reykjavik 1947. 386 s.

[5] Island fra den intellektuelle Side betragtet  ved Tomas Sæmundsen, Kjöbenhavn. Trykt hos T Græbe & Søn 1832, 39 s.

[6] Samme værk,  s. 38-9

[7] Friedrich Schelling: Űber das Verhältnis der bildenden Künste zu der Natur, 1807, her citeret fra en italiensk oversættelse: Le arti figurative e la Natura, Aestetica edizioni, Palermo 1989, side 46.

[8] T.S. Ferdabok,  s. 130

[9] T.S. Ferdabok,  s. 131

[10] T.S. Ferdabok,  s. 131

[11] T.S. Ferdabok,  s. 131

[12] Isaiah Berlin: The Roots of Romanticism,  s. 89

[13] T.S. Ferdabok,  s. 132

[14] Henrik Steffens (1773-1845) var af norsk slægt men var mest aktiv i Danmark som filosof og digter og var der romantismens største budbringer.

[15]  T.S. Ferdabok,  s. 133

[16] Johan Gottfried Herder (1744-1803), tysk filosof, digter og litteraturhistoriker, budbringer for nationalisme og sammenlægning af de tysksprogede småstater til ét Tyskland.

[17] Isaiah Berlin: The Roots of Romanticism. Princeton University Press, 1999,  s. 65

[18] Isaiah Berlin; the Roots of romanticism,  s. 67

[19] T.S. Ferdabok,  s. 112

[20] T.S. Ferdabok,  s. 118-119

[21] T.S. Ferdabok,  s. 124

[22] T.S. Ferdabok,  s. 137

[23] T.S. Ferdabok,  s. 138

[24] Friedrich D. E. Schleiermacher (1768-1834) var betydningsfuld inden for luthersk teologi og religionsfilosofi og forsøgte at forlige samtidens videnskabs synspunkter med en fordomsfri tro.

[25] T.S. Ferdabok,  s. 140

[26] T.S. Ferdabok,  s. 144

[27] T.S. Ferdabok,  s. 223

[28] T.S. Ferdabok,  s. 333

[29] T.S. Ferdabok,  s. 330-31

[30] Winckelmann konverterede faktisk til katolicisme men formodentligt ikke mindst for at lette karrieremæssigt avancement i Vatikanet, hvor han blev den højststående rådgiver m.h.t. antikkens kunst arkæologi.

[31] Bréf Tomasar Sæmundssonar (T.S.’s breve), udgivet på 100-års dagen for T.S.’s fødsel, 7. juni 1907, red.  Jon Helgason, udg. Sigurdur Kristjansson,  s. 120

[32] Bréf T.S.,  s. 121

[33] Bréf T.S.  s. 121

[34] Bréf T.S.  s. 121-122 (til Sæmundur Ögmundsson , dags. Í Rom 25.03.1833)

[35] T.S. Ferdabok,  s. 255

[36] T.S. Ferdabok,  s. 255-56

[37]  Jon Helgason:  Tomas Sæmundsson, Æfiferill hans og æfistarf (T.S. Hans levnedsløb og arbejde). Reykjavik, 1941

[38] DILLON, A., A Winter in Iceland and Lappland. London. Colburn, l840.

[39] Oddi er et historisk kirkested og middelalderligt høvdinge- og lærdomssæde i Sydisland. Sæmundsson gik som barn to år i skole hos præsten på Oddi.

[40] jfr. Ernst Gombrich: Art and Illusion. Princeton University Press 1989, kapitel IX. s. 291-329

[41] T.S. Ferdabok,  s. 278.

[42] T.S. Ferdabok,  s. 271

[43] T.S. Ferdabok,  s. 275-76

[44] T.S. Ferdabok,  s. 276-277

[45] T.S. Ferdabok,  s. 280

[46] T.S. Ferdabok,  s. 284.

[47] T.S. Ferdabok,  s. 189.

[48] Jon Helgason:  Tomas Sæmundsson, Æfiferill hans og æfistarf, Isafoldarprentsmidja 1941,  s. 92-93. Citat fra ikke nærmere angivet brev.

[49] Samme værk, citat fra ikke nærmere angivet brev,  s. 94-95

[50] Samme værk, citat fra ikke offentliggjort brev,  s. 93

[51] Bréf Tomasar Sæmundssonar (T.S.’s breve), udgivet på 100-års dagen for T.S.’s fødsel, 7. juni 1907, red.  Jon Helgason, udg. Sigurdur Kristjansson, s. 125

[52] Jon Helgason:  Tomas Sæmundsson, Æfiferill hans og æfistarf,  s. 93

[53] T.S. Ferdabok,  s. 219

[54] Bréf  Tomasar Sæmundssonar, red.  Jon Helgason, udg. Sigurdur Kristjansson 1907,  s. 120-21.

[55]  Jon Helgason:  Tomas Sæmundsson, Æfiferill hans og æfistarf. Isafoldarprentsmidja 1941.  s. 93-94

[56] Johann J. Winckelmann: Geschichte der Kunst des Altertums, (1764) her citeret fra italiensk udgave

[57] Bréf  Tomasar Sæmundssonar,  s. 125.

[58]  Jon Helgason:  Tomas Sæmundsson. Æfiferill hans og æfistarf,  s. 96-97

[59] Bréf TS.  s. 126-27

[60] Bréf T.S   s. 137-138

[61] Samme værk  s. 139

[62] Eggert Asgeirsson:  Tomas Sæmundsson og Sigridur Thordardottir , Reykjavik 2007,  s. 41

[63] Jonas Hallgrimssons digt Tomasarhagi:

Tindrar úr Tungnajökli,
Tómasarhagi þar
algrænn á eyðisöndum
er einn til fróunar.

Veit eg áður hér áði
einkavinurinn minn,
aldrei ríður hann oftar
upp í fjallhagann sinn.

Spordrjúgur Sprengisandur
og spölur er út í haf;
hálfa leið hugurinn ber mig,
það hallar norður af.

 

ALHEIMURINN, GUÐIRNIR OG MENNIRNIR – Jean-Pierre Vernant

INNGANGUR

JEAN-PIERRE VERNANT: ALHEIMURINN, GUÐIRNIR OG MENNIRNIR

Í grein sinni "Sannindi tónlistarinnar" sem birt er hér á vefsvæði mínu, segir Carlo Sini að upphaf mannlegrar þekkingar sé að finna í tónlistinni, nánar tiltekið í taktinum, hljóminum og laglínunni, þessum takti sem kemur á undan tungumálinu, sem í upphafi byggði á eins konar hljóðmyndum. Talmálið kom á undan myndmálinu og ritmálinu, og sem miðill þekkingar fékk talmálið mynd goðsögunnar. Goðsagan byggir á munnlegum flutningi og mytos merkir upphaflega að segja fram sannleikann. Rannsókn á goðsögum, uppruna þeirra og merkingu er því mikilvægur þáttur í allri rannsókn á uppruna þekkingarinnar. Goðafræðirannsóknir urðu mikilvægur þáttur allra mannfræðirannsókna frá upphafi, vegna þess að þær skýra fyrir okkur hugmyndir manna um sköpun og byggingu alheimsins og stöðu mannsins innan þeirrar byggingar. Jafnframt voru rannsóknir á goðsögum mikilvægar fyrir sálgreiningu 20. aldarinnar, þar sem goðsögurnar miðla til okkar djúpstæðri þekkingu fornaldarinnar á frumgerðum sálarinnar og hvatalífsins. Goðsögurnar segja okkur ekki bara frá byggingu alheimsins, heldur líka frá skilningnum á byggingu mannssálarinnar og samspili hins ytri og innri veruleika.
Þegar ég lærði norræna goðafræði í menntaskóla í upphafi 7. áratug síðustu aldar þá voru þær sögur kynntar sem merkingarlausar furðusagnir af furðuverum sem voru ómennskar og hefðu ekkert að kenna okkur um veruleikann. Það var ekki fyrr en ég kynntist fyrst Sören Kierkegaard og síðan Nietzsche að mig fór að gruna að þekking á goðafræði væri ein af undirstöum góðrar menntunar. Svo kynntist ég trúarbragðafræðingum á borð við Mircea Eliade, Karol Kerényi, René Girard og Ioan P. Couliano, nemanda Eliade, svo ekki sé minnst á Carl Gustav Jung og Sigmund Freud. Allir þessir höfundar hafa opnað mér gáttir inn í töfraheima goðsagnanna, þessa munnlegu sagnahefð sem einmitt vegna hinnar munnlegu geymdar á sér enga haldfasta heildarmynd, en opnar ótal sjónarhorn á skilning mannsins á alheiminum og stöðu hans í honum. Einn þeirra fræðimanna sem hafa opnað fyrir mig hinn heillandi og mikilvæga töfraheim grískrar goðafræði er franski trúarbragðafræðingurinn Jean-Pierre Vernant (1914-2007). Hann er þeim sjaldgæfa hæfileika gæddur að lesa goðsögurnar ekki bara með sundurgreinandi skarpskyggni vísindamannsins, heldur líka með næmu auga og innsæi listamannsins.

Vernant segir frá því í inngangi bókarinnar "L'Univers, les Dieux, les Hommes" (útg. 1999) að hann hafi notið þess þegar hann dvaldi með fjölskyldu sinni í sumarleyfum á Grikklandi að setjast með barnabarni sínu við rúmstokkinn og segja grískar goðsögur fyrir svefninn. Ekki út frá þeim flóknu og sundurgreinandi rannsóknaraðferðum sem hann hafði ástundað sem fræðimaður, heldur eins og þær runnu upp úr honum út frá óskilgreindu vali minnisins sem átt sér ekki aðrar forsendur en hið skáldlega innsæi, sem er eitt einkenni allra goðsagna. Allar goðsögur eru nafnlausar og eiga sér ekki aðrar frumheimildir en hefðina. Því eru þær til í mörgum útgáfum. Þar af leiðandi getur reynst erfitt fyrir þann sem er vanur ótvíræðum heimildum lesmálsins að fóta sig í hinni flóknu og fjölbreytilegu veröld goðsagnanna. Jean-Pierre Vernant var beðinn um að festa hina munnlegu frásögn sína af grískum goðsagnaheimi í ritað mál, og úr því varð þessi magnaða bók um Alheiminn, Guðina og Mennina.

Frásögn Vernants er ekki vísindaleg útlegging, en hún er engu að síður ómetanleg tilraun til að bókfesta þessa munnlegu frásögn sem byggir á hinni aldagömlu sagnahefð forfeðranna.

Þegar ég tókst á við það verkefni að reyna að kenna nemendum mínum í Listaháskólanum að lesa myndlistararf okkar allt frá fornöld fram á 17 öldina út frá túlkunn hennar á goðsagnaheiminum, þá fann ég ekki betra kennsluefni en þessa bók Vernants, sem ég hafði lesið á ítölsku. Því þýddi ég tvo kafla bókarinnar um uppruna heimsins og uppruna mannsins á íslensku, um leið og ég ímyndaði mér að ég væri kominn á rúmstokkinn hjá sagnaþulnum til að hlusta á visku hans og lifa mig inn í það skáldlega ímyndunarafl sem sérhver goðsaga kallar á. Ég birti hér þessa kafla lesendum þessa vefsvæðis til skemmtunar og fróðleiks.

 

Jean-Pierre Vernant:

UPPRUNI ALHEIMSINS

Fyrsti kafli bókarinnar „L’Univers, les Dieux, les Hommes. – Recits grecs des origines

Aion(tími)-Hermes-Gaia-Prómeþeifur skapar manninn rómv mós

Heimurinn í árdaga: Aion (tíminn), Hermes, Gaja og fleiri guðir. Til hægri sést Prómeþeifur vera að skapa manninn. Rómversk mósaíkmynd frá keisaratímanum.

Hvað var til staðar þegar ekkert var til staðar, alls ekki neitt? Þessari spurningu svöruðu Grikkir með goðsögnum og sögum.

Í upphafi var Ómælisdjúpið. Grikkir kölluðu það Kaos. Hvað er ómælisdýpið? Það er holrými sem er svo myrkvað að ekkert verður greint. Það er staður fallsins, svimans og óreiðunnar, fall án enda, án botns. Menn verða helteknir af ómælisdýpinu eins og af tröllauknu gini sem getur gleypt allt og ruglað öllu í eitt óendanlegt svartnætti. Í upphafi vega er semsagt ekkert nema Ómælisdjúpið, hið blinda og myrkvaða gap án endimarka.

Síðan birtist jörðin. Grikkir kölluðu hana Gaíu. Jörðin reis úr hjarta ómælisdjúpsins. Þarna var hún, fædd strax á eftir Kaos og bar á margan hátt með sér andstæðu þess. Jörðin var ekki lengur myrkvað fall án enda, án allra endimarka. Jörðin hefur tiltekið og afmarkað form. Andspænis óreiðunni, andspænis hinu myrkvaða Ómælisdjúpi óreiðunnar ber Gaía með sér formfestu og stöðugleika. Á jörðinni eru allir hlutir skýrt afmarkaðir, sýnilegir og áþreifanlegir. Það má skilgreina Gaíu sem þá undirstöðu sem veitir guðum, mönnum og dýrum fótfestu. Gaía er gangstétt heimsins.

 Í iðrum jarðarinnar: Ómælisdjúpið

 Þegar heimurinn hafði fæðst úr svelg ómælisdýpisins hafði hann eignast yfirborð. Annars vegar rís hann upp í formi fjallsins, hins vegar hnígur hann niður eins og neðanjarðarhvelfing.

Neðanjarðarhvelfing sem teygir sig svo langt niður í djúpin að í vissum skilningi má finna undir hinu stöðuga og trausta yfirborði Gaíu þau Ómælisdjúp sem engan enda þekkja, það er að segja Kaos. Jörðin sem reis úr kviði Ómælisdjúpsins hittir það fyrir á ný í iðrum sínum. Kaos var í augum Grikkja eins konar ógagnsæ þoka þar sem öll mörk leysast upp. Dýpst í iðrum jarðar finnum við mynd hins upprunalega Ómælisdjúps.

Jafnvel þótt jörðin sé vel sjáanleg, þó hún eigi sér skýrt afmarkað form og allt sem vaxi frá henni hafi skýrt aðgreind mörk, þá ber jörðin engu að síður í kjarna sínum  mynd Ómælisdjúpisins. Hin svarta jörð teygir sig upp frá djúpunum upp í hæðirnar; annars vegar höfum við djúp hennar – myrkrið og rætur Ómælisdjúpsins, hins vegar snævi krýnd fjöllin sem hún lyftir til himins, hina björtu og lýsandi tinda sem teygja sig upp í hina sílýsandi himna.

Í þessari vistarveru sem við köllum alheiminn myndar Jörðin grundvöllinn, en það er ekki eina hlutverk hennar. Jörðin fæðir af sér og nærir alla skapaða hluti að undanskildum fyrirbærum sem eiga upptök sín í Kaos og við komum að seinna. Gaía er alsherjarmóðirin; skógarnir, fjöllin, neðanjarðarhvelfingarnar, úthöfin og hin víða himinhvelfing eiga öll uppruna sinn í henni, Móður Jörð.

Upphafið var semsagt Ómælisdjúpið, ógnvænlegt myrkvað gap án endimarka sem síðan opnar sig í föstu og stöðugu yfirborði: Jörð sem teygir sig upp í hæðir og sekkur niður í djúpin.

Á eftir Kaos og Jörðinni kemur það sem Grikkir kölluðu Eros, sem síðar fékk nafnið “Gamli Amor” þegar hann var orðinn gráhærður: Það er hin frumlæga Ást. Hvers vegna höfum við frumlægan eða forsögulegan Eros? Vegna þess að í þessari gráu forneskju var hvorki til það sem við köllum karlkyn né kvenkyn, það voru engar kynverur til staðar. Þessi frumlægi Eros er í raun ekki sá sami og síðar kom fram á sjónarsviðið, þegar menn og konur, karlkyn og kvenkyn, höfðu litið dagsins ljós. Upp frá þeim tíma snérist vandinn um það að koma á samræði gagnstæðra kynja, stefnumót sem krafðist gagnkvæmrar löngunar og eins konar sammælis.

Kaos er því hvorugkynsorð, en ekki karlkyn. Gaía, Móðir Jörð, er hins vegar ótvírætt kvenkynsvera. En hvern í ósköpunum á hún að elska utan sjálfa sig þar sem hún er ein í heiminum með Kaos. Sá Eros, sem birtist sem þriðji aðilinn á eftir Ómælisdjúpinu og Jörðinni, er í upphafi ekki sá sem stjórnar hinum kynbundna ástarbríma. Fyrsti Erosinn tjáir orkuna í alheiminum. Rétt eins og jörðin spratt einu sinni úr Ómælisdjúpinu, þá getur jörðin af sér það sem býr í iðrum hennar.  Það sem var í henni og samblandað henni birtist á yfirborðinu: Jörðin fæddi það af sér án þess að þurfa samræði við einn eða neinn. Það sem hún getur af sér og frelsar er einmitt sú ósjálfráða hvöt sem bjó innra með henni.

Það fyrsta sem Jörðin gat af sér var afar mikilvæg persóna, Ouranos (Úranus), sem er himininn, einnig hinn stjörnumprýddi himinn. Síða gat hún af sér Pontos, það er að segja vatnið, öll heimsins vötn, eða öllu heldur hafstrauminn, því hið gríska nafn hans er karlkyns. Jörðin getur þá af sér án minnsta samræðis. Fyrir kraft þeirrar orku sem bjó innra með henni skapaði hún það sem í henni var og sem breyttist í eftirmynd hennar og andstæðu um leið og það varð til.

Hvers vegna?

Jú hún skapaði stjörnuprýdda himinhvelfingu í sinni eigin mynd, eins og hún væri afsteypa hennar sjálfrar, jafn þétt í efni sínu, stöðug og samhverf. Þannig lagðist Ouranos (Úranus) yfir hana. Himinn og Jörð mynduðu þannig tvö lög Alheimsins, einn gangveg og annað þak, eitt undir og annað yfir, sem huldu hvort annað í einu og öllu.

Þegar Jörðin gat af sér Pontos, Hafstrauminn, þá fullgerði hann móðurmynd sína með því að fylla innri holrými hennar og marka ytri mörk hennar með votum ómælisvíddum úthafsins. Rétt eins og Ouranos þá stendur Hafstraumurinn fyrir andstæðu Jarðarinnar. Ef  jörðin er þétt og formföst, þannig að fyrirbærin geta ekki blandast í henni, þá er Hafstraumurinn hins vegar fljótandi, formlaus og óstöðvandi. Vötn hans blandast án afláts, óljós og óaðgreinanleg. Yfirborð Ponto er lýsandi bjart, en djúp hans er almyrkvað, myrkur flötur sem tengir hann eins og jörðina við hinn óreiðufulla hluta sinn.

Þannig verður heimurinn til úr þrem frumeiningum: Kaos, Gaía og Eros, en í kjölfarið fæðast aðrar tvær sem eru Ouranos og Pontos. Um er að ræða öfl sem eru hvort tveggja í senn, náttúrleg og guðdómleg. Gaía er Jörðin sem við göngum á, en hún er jafnframt gyðja. Pontos stendur jafnt fyrir Hafstraumana og guðdómlegt afl sem hægt er að dýrka. Upp frá þessu hefjast nýjar sögur og frábrugðnar, fullar af ofbeldi og ógnum.

Vönun Úranusar

Fyrsta sagan varðar Himininn. Þar höfum við Úranus, getinn af Gaíu og eftirmynd hennar í smáu sem stóru. Úranus liggur kylliflatur í allri sinni þyngd ofan á henni sem fæddi hann. Himininn þekur alla Jörðina. Sérhver kriki jarðarinnar er hulinn samsvarandi himni, sem er eins og límdur við hana. Frá og með því augnabliki þegar Gaía, þessi mikla og volduga móðir,  getur af sér fullkomna eftirmynd sína í einu og öllu, stöndum við frami fyrir andstæðu pari; karlkyni og kvenkyni. Úranus er Himininn og Gaía er Jörðin. Þegar Úranus er kominn til sögunnar breytist hlutverk Amors. Nú er ekki bara um það að ræða að Gaía fæði af sér það sem í henni býr, eða að Úranus búi til það sem í honum býr, heldur verða til við samræði þeirra beggja verur sem líkjast í raun hvorugu foreldrinu.

Úranus linnir ekki látum við að serða Gaíu. Hinn frumlægi Úranus á sér ekki annað athafnalíf en kynlífið. Hann liggur án afláts yfir Gaíu eins og honum er frekast unnt. Ekkert annað kemst að í huga hans eða athöfnum. Vesalings Jörðin má því líða linnulausar þunganir,  svo tíðar að afkvæmin komast ekki einu sinni úr iðrum hennar, heldur verða að hafast við þar sem þau eru getin. Þar sem ljóst er að Himininn mun aldrei lyfta sér frá jörðinni, þá má einnig ljóst vera að afkvæmi þeirra, sem eru Títanirnir, muni aldrei fá að sjá dagsins ljós og eignast sjálfstæða tilvist. Títanirnir geta ekki tekið á sig sína eigin mynd og orðið að einstaklingum, því þeir eru jafnóðum gerðir afturreka inn í móðurkvið Gaíu, rétt eins og Úranus sjálfur hafði dvalið í kviði Gaíu fyrir fæðingu sína.

Hverjir eru afkomendur Gaíu og Úranusar? Í fyrstu má telja sex Títani og sex systur þeirra, Títanínurnar. Fyrstur Títananna er Okeanos. Okeanos er það vatnabelti sem umlykur alheiminn og streymir án afláts umhverfis heiminn þannig að í honum falla saman upphaf og endir. Hinn kosmíski hafstraumur snýst um sjálfan sig í lokuðu hringferli.

Yngstur Títananna er Kronos, einnig kallaður “Kronos hinna lævísu hugsana”. Auk Títananna og Títanínanna verða einnig til tveir þríburar sem líkjast ófreskjum. Fyrri þríburarnir eru Kíklóparnir (risarnir) Bronti, Sterópi og Argur – afar voldugar verur með eitt auga á miðju enni. Nöfn þeirra segja heilmikið um þær málmsmíðar sem þeir leggja fyrir sig, þrumugnýinn og eldingarglampann. Það voru einmitt Kíklóparnir sem hönnuðu eldinguna og færðu Seifi að gjöf. Hinr þríburarnir eru svonefndir Ekatonkírar, sem eru hundraðarma: Kottó, Bríarus og Gíi. Þetta eru tröllauknar ófreskjur með fimmtíu höfuð og hundrað arma og einstakan kraft í hverjum lim.

Kíklóparnir, sem samhliða Títönunum voru fyrstir guðanna að koma í heiminn, bera ekki nöfn náttúruaflanna eins og Gaía, Úranus og Pontus, heldur standa þeir fyrir eldingarmátt sjónskynsins. Þeir hafa eitt auga á miðju enni, en þetta auga ber í sér kraft eldingarinnar eins og vopnið sem þeir færa Seifi að gjöf. Það er galdramáttur augans. Hundraðörmungarnir bera hins vegar með sér í formi hins óhefta vöðvaafls máttinn til sigurs, hæfileikann til að vinna sigur í krafti óvinnandi afls útlimanna. Annars vegar eldingarmáttur augans, hins vegar máttur handaraflsins sem getur bundið, kramið, slitið og yfirbugað sérhverja skepnu heimsins hinum til varnar. En höfum í huga að Títanirnir, Hundraðörmungarnir og Kíklóparnir eru innilokaðir í kviði Gaíu; Úranus liggur á henni eins og mara.

Í rauninni er ljósið ekki enn komið til sögunnar, því þar sem Úranus hvílir alfarið ofan á jörðinni viðheldur hann samfelldri nótt. Jörðin getur ekki annað en látið gremju sína og bræði brjótast út. Hún vill ekki lengur hafa börn sín í móðurkviðnum sem stöðugt vex og gildnar svo að henni liggur við köfnun. Þess vegna snýr hún sér til þeirra, einkum Títananna, með þessum orðum: -Hlustið nú á mig, faðir ykkar hefur lagt á okkur helsi, við höfum mátt líða fáheyrt ofbeldi af hans völdum, þessu ástandi verður að linna. Þið verðið að gera uppreisn gegn Himninum, föður ykkar. – Það fer hryllingsskjáfti um Títanana í kviði Gaíu við þessi orð. Úranus, sem situr sem fastast ofan á móður þeirra, jafnstór og hún, virðist ekki árennilegur óvinur. Það er einungis Krónos, hinn yngsti, sem tekur þessu ákalli móður þeirra og býðst til að koma henni til hjálpar og takast á við sinn eiginn föður.

Gaía undirbýr útsmogna áætlun. Til þess að gera framkvæmd hennar mögulega býr hún til í iðrum sínum svolítið verkfæri, ljá sem er hamraður í hvítum málmi stálsins. Hún felur hinum unga Krónosi þetta verkfæri í hendur þar sem hann liggur innilokaður í iðrum Gaíu, einmitt á þeim stað sem Úranus á í samræði við hana. Þessi yngsti afkomandi Úranusar leggst í launsátur fyrir föður sinn, og á því augnabliki sem hann stingur sér inn í Gaíu grípur hann með vinstri hendi um tól föður síns, togar fast og bregður ljánum á liminn og sníðir af með einu höggi hægri handar. Síðan kastar hann getnaðarlimi Úranusar aftur fyrir sig án þess að snúa sér við, eins og til að forðast þær ákúrur, sem þessi vönun gæti valdið. Nokkrir blóðdropar falla til jarðar úr hinum afskorna getnaðarlim Úranusar en hann hafnar langt úti í hafsauga. Úranus rekur upp mikið sársaukaöskur um leið og limurinn er skorinn af honum og lyftir sér ofan af Gaíu og nemur staðar í þessari upphöfnu stellingu, án þess að hreyfa sig meir, þarna uppi, hátt yfir heiminum. Því er það að þar sem Úranus er jafn stór Gaíu að yfirborði, þá fyrirfinnst enginn sá blettur á jörðinni þar sem ekki má sjá samsvarandi blett af himninum fyrir ofan.

Jörðin, rýmið, himininn

Með vönun Úranusar, sem framkvæmd var að ráði og samkvæmt útsjónarsemi móðurinnar, eignaðist Krónos veigamikinn hlut í fæðingu alheimsins. Hann aðskildi himinn og jörð. Hann  skapar frjálst rými á milli himins og jarðar. Frá og með þessari stundu eignast allt það sem jörðin getur af sér og allar lifandi verur eigið andrými til að lifa í. Annars vegar hefur rýmið opnast, hins vegar hefur tíminn líka tekið á sig nýja mynd.

Á meðan Úranus hvíldi á Gaíu með öllum sínum þunga var ekki um kynslóðir að ræða er tóku við hver af annarri, allt var falið í iðrum hinnar þunguðu móður. Um leið og Úranus hörfaði undan opnaðist hins vegar leið fyrir Títanina til þess að koma úr móðurkviði og fara sjálfir að fjölga sér. Kynslóðir koma, hver á fætur annarri. Rýmið er orðið frjálst og “hinn stjörnumprýddi himinn” er nú eins og þak eða hvelfing, eins konar myrkrahvelfing sem hefur sig upp yfir jörðina. Smám saman birtir yfir himninum, því dagur og nótt skiptast á. Stundum  sést himininn einungis upplýstur af stjörnunum, stundum verður hann hins vegar bjartur með daufum skuggamyndum skýjanna.

Frá Kaos til ljóssins

Víkjum nú um stund frá uppruna jarðarinnar og hverfum að ríki óreiðunnar, Kaos.

Ómælisdýpið gat af sér tvö afkvæmi, annað þeirra nefndist Erebos (hel), hitt Nyx (Nótt). Erebos eða hel er hið algjöra og algilda myrkur sem ekki smitast af neinu og ekki blandast neinu, og er þannig eins og bein framlenging af Kaos.

Öðru máli gildir um nóttina, Nyx. Hún hefur rétt eins og Gaía mátt til þess að geta af sér afkvæmi án samræðis við utanaðkomandi aðila. Rétt eins og afkvæmi hennar væru slitin beint út úr hennar eigin myrkvaða holdi. Afkvæmi hennar voru Aiter (sem við köllum eterinn og ljósið) og hins vegar Hemera (sem er dagsbirtan).

Erebos sonur Ómælisdjúpsins stendur fyrir það myrkur sem stendur Kaos næst. Nóttin þarfnast hins vegar samvista við daginn. Það er engin nótt án dags. Hvað var Nóttin að aðhafast, þegar hún gat af sér Aiter og Hemera?  Rétt eins og Erebos var myrkrið í sinni hreinustu mynd, þá er Aiter eða Eterinn birtan í sinni tærustu mynd. Eterinn er afkomandi Erebosar. Hinn ljómandi Eter er sá staður á himnum , sem myrkrið nær aldrei til, og hann  tilheyrir hinum Olympisku guðum. Eterinn er einstaklega lifandi birta sem aldrei fellur nokkur skuggi á.

Nóttin og Dagurinn standa hins vegar andspænis hvoru öðru. Eftir að rýmið opnaðist tóku Nóttin og Dagurinn við hvert af öðru. Við inngang Tartarusarheima finnum við hlið Næturinnar sem opnast inn í ríki hennar. Það er þar sem Nóttin og Dagurinn mætast hvort í kjölfar hins, á þröskuldinum kastast þau á kveðjum og mætast án þess þó að komast nokkurn tíma í snertingu hvort við annað. Þegar nóttin er til staðar er enginn dagur sjáanlegur, á daginn er engin nótt sjáanleg; samt er engin nótt án dags.

Ef Erebos stendur fyrir hið altæka og eilífa myrkur, þá stendur Eterinn fyrir óslitna og ævarandi birtu. Allar þær verur sem lifa á jörðinni eru börn dags og nætur, þau leiða öll fullkomlega hjá sér – nema á dauðastundinni – það altæka myrkur, sem enginn sólargeisli mun nokkurn tíma ná að brjótast inn í, og er nótt Erebosar. Mannverur, jurtir og dýr upplifa daginn og nóttina í þessum samruna andstæðanna, guðirnir lifa hins vegar þarna uppi í upphæðunum, á toppi himinsins, og þekkja ekki umskiptin frá nóttu til dags. Guðirnir lifa í eilífri lifandi birtu.

Þetta er hin nýja skipan alheimsins: uppi eru hinir himmnesku guðir sem byggja hinn lýsandi Eter, niðri eru guðir undirheimanna sem lifa eilífa nótt. Hinir dauðlegu byggja hins vegar þann heim þar sem nótt og dagur hverfa til skiptis inn í hvort annað.

Snúum okkur aftur að Úranusi. Hvað tekur nú við þegar hann er búinn að slíta sig frá jörðinni í eitt skipti fyrir öll? Guðinn hættir öllu samræði við Gaíu, ef frá eru talin tímabil hinna miklu og frjósömu rigninga, þegar himininn hellir úr sér og Jörðin ber alla ávexti sína. Það er hagkvæm úrkoma, sem kemur af himnum ofan, og gerir jörðinni kleift að fæða af sér ný afkvæmi, nýjar plöntur og nýtt korn. Að frátöldum þessum tímabilum er búið að skera á öll samskipti himins og jarðar.

Þegar Úranus lyfti sér frá jörðinni lýsti hann mikilli bölvun yfir afkomendur sína: þið verðið kallaðir Títanir, sagði hann, og vísaði þá með orðaleik til sagnorðsins titaino,  því þið hafið seilst of hátt með höndum ykkar, brátt mun sök ykkar hellast yfir ykkur fyrir að hafa vogað að reisa hnefa gegn föður ykkar.

Í millitíðinni höfðu þeir blóðdropar úr afskornum lim hans, sem vökvuðu jörðina, getið af sér Erinnana. Erinnar eru þær frumlægu verur sem gegna því hlutverki fyrst og fremst að varðveita minninguna um glæpinn sem framinn var gegn fjölskyldunni, og refsa hinum seku, hvenær sem nauðsyn krefur. Þetta eru guðir blóðhefndarinnar sem refsa sérstaklega fyrir þá glæpi sem framdir eru meðal þeirra sem tengjast blóðböndum. Erinnarnir standa fyrir hatrið, minninguna um sektina og langræknina og þeir standa fyrir nauðsyn þess að glæpur sé endurgoldinn með refsingu.

Af  blóði því er draup úr afskornum lim Úranusar uxu einnig Risarnir  og þær verur sem á grísku kallast Meliai eða Melíöður, sem eru dísir þær er búa í askinum. Risarnir eru fyrst og fremst vígamenn sem standa fyrir hernaðarlegt ofbeldi og þekkja hvorki æsku né elli. Líf þeirra er blómaskeið lífsins, þeir eru helgaðir stríðsrekstrinum, hafa unun af  bardögum og fjöldamorðum.

Melíöðurnar, sem eru dísir askviðarins, eru einnig hneigðar til hernaðar og knúnar af löngun til fjöldamorða, en hin banvænu spjót vígamannanna eru einmitt tálguð úr askviðinum sem þær búa í. Þannig urðu þrjár mismunandi persónugerðir til úr blóðdropunum sem hrundu úr getnaðarlim Úranusar, og þær eru allar holdgervingar ofbeldis, refsinga, bardaga, stríðs og fjöldamorða. Nafnið sem Grikkir gáfu slíku ofbeldi er Eris, og það stendur fyrir illdeilur af öllum toga, og hvað varðar Erinnana einkum fyrir illdeilur innan fjölskyldubandanna.

Ást og ósamlyndi

En meðal annarra orða, hvað skyldi hafa orðið um hinn afskorna getnaðarlim Úranusar, sem Krónos kastaði langt út í hafsjó Pontusar?

Hann sekkur ekki niður í hafdjúpin, heldur er hann borinn uppi af öldum hafsins, og froða sæðisins blandast froðu hafsins.

Þessi froðublanda, sem myndast umhverfis lim Úranusar, þar sem hann berst með ölduföllunum, umbreytist í einstaka veru: Afródítu, gyðjuna sem fædd er af hafinu og froðunni. Afródíta berst um stund með öldum hafsins, en tekur svo land á eynni Kýpur, sem varð hennar heitt elskaða eyja.

Á Kýpur gengur hún í sandinum, og eftir því sem hún gengur lengur spretta upp úr fótsporum hennar hinn fegurstu og ilmsætustu blóm. Í humátt á eftir henni koma Eros og Himeros, Ástin og Löngunin.  

Ástin er ekki lengur sá frumlægi Eros sem við höfum áður minnst á, hér er hins vegar um að ræða Eros sem ekki bara hugleiðir, heldur líka kallar á tilvist hins karllæga og hins kvenlega. Héðan í frá kallast hann sonur Afródítu.

Þessi seinni Eros hefur líka skipt um hlutverk; hlutverk hans er ekki lengur eins og var við tilurð heimsins, að bera fram í dagsljósið það sem falið var í myrkri frumkraftanna. Hlutverk hans er nú öllu fremur það að sameina þessi tvö skýrt aðgreindu kyn – tvo einstaklinga af gagnstæðu kyni – í erótískum leik sem felur í sér ástleitna hernaðarlist er byggir í sérhverju tilfelli á vopnum tálsins, á samkomulagi, og á vopnum afbrýðiseminnar.

Eros sameinar tvær ólíkar verur til þess að úr samruna þeirra megi vaxa hin þriðja er verði hvorugu foreldri lík, en feli engu að síður í sér framlengingu þeirra beggja. Við stöndu því frammi fyrir veru sem er frábrugðin hinni upprunalegu.

Með öðrum orðum sagt, með því að svipta föður sinn kynfærunum hafði Krónos skapað tvö öfl sem fyrir Grikkjum voru gagnkvæm: annað var Eris eða Sundurlyndið, hitt var Eros eða Ástin (Amor).

Eris felur í sér átök í skauti fjölskyldunnar eða í hjarta tiltekins samfélags.  Eros felur hins vegar í sér samkomulag og sameiningu þess sem er eins ólíkt og framast er unnt, karlkynið og kvenkynið.

Eris og Eros eru bæði fædd af sama sköpunargjörningnum, þeim sem opnaði rýmið, leysti tímann úr læðingi og opnaði sviðið fyrir komandi  kynslóðum þannig að þær mættu blómstra.

Við þessar aðstæður höfðu allar þær goðaverur, sem við höfum fjallað um til þessa, tekið sér stöðu í flokki Erisar annars vegar og Erosar hins vegar, þess albúnar að fara í stríð.  Hvers vegna eru þær á stríðsbuxunum? Ekki til þess að skapa alheiminn, sem þegar hafði tekið á sig sína fullsköpuðu mynd, heldur til þess að mynda Yfirvaldið.  Hver átti að vera Konungur Alheimsins?

Í stað sögunnar um sköpun heimsins sem setur fram spurninguna: „Hvert er upphaf veraldarinnar? Hvers vegna var upphafið í Ómælisdjúpinu? Hvernig myndaðist allt það sem myndar inntak Alheimsins?“ koma ósjálfrátt fram nýjar spurningar og nýjar sögur, mun átakanlegri, sem reyna að gefa svör við þeim.

Hvað verður um guðina sem þegar eru fullskapaðir og hafa sjálfir getið af sér afkomendur,  hvernig munu þeir takast á, í sigrum og ósigrum? Hvernig mun þeim takast að vinna saman? Hvernig munu Títanirnir upplifa sektina gagnvart Úranusi föður sínum, hvernig verður þeim refsað? Hver mun geta komið á stöðugleika í þessum heimi, sem hefur skapast úr tómi sem var allt, úr nótt sem fæddi líka af sér ljósið, úr tómi sem gat einnig af sér fyllingu og festu? Hvernig getur heimurinn öðlast stöðugleika og skipulag, byggður af verum sem hver hefur sitt einstaklingseðli?

Úranus fjarlægist jörðina og opnar þannig sviðið fyrir endalausum straumi kynslóðanna. En ef sérhver kynslóð guðanna á í innbyrðis átökum, þá mun heimurinn aldrei öðlast stöðugleika. Stríð guðanna verður að leiða til lykta, svo hægt verði að koma reglu á heiminn í eitt skipti fyrir öll.

Þar með eru tjöldin dregin frá leiksýningunni um átökin um konungdæmi guðanna.

ÆTTARTRÉ GUÐANNAttartré guðanna

 

(Hér er sleppt kaflanum um innbyrðis átök guðanna og horfið til goðsagnanna um upprunasögu mannsins.)

Pergamon-altarið Sigur Seifs 170fKr

Sigur Seifs yfir Títönunum. Lágmynd úr Seifs-altarinu frá Pergamon, um 170 f.Kr.

HEIMUR MANNANNA

Gullöldin: mennirnir og goðin.

Sagan af Prómeþeifi og Pandóru

 

Seifur situr í hásæti sínu og þaðan drottnar hann yfir alheimi. Alheimurinn býr við innri reglu. Guðirnir höfðu háð sitt stríð og sumir þeirra sigrað. Allt það illa sem þrifist hafði á hinum heiðskíra himni hefur verið hrakið burt eða lokað í undirheimum Tartarusar eða það tekið sér bólfestu á jörðinni meðal hinna dauðlegu. Og hvernig var þá ástatt fyrir mönnunum? Hvað var á seyði hjá þeim?

Sagan hefst ekki beinlínis með upphafi veraldarinnar. Öllu heldur hefst hún á þeirri stundu þegar Seifur öðlast konungstign, það er að segja þegar ríki guðanna hefur eignast sína reglu og sinn stöðugleika. Guðirnir hafast ekki eingöngu við á Olympsfjalli, heldur deila þeir vissum landskikum með mönnunum. Sérstaklega er þar um að ræða einn stað á Grikklandi, nálægt Kórintuborg, sléttlendi sem nefnist Mekon þar sem guðir og menn deila með sér landi. Þeir sitja saman til borðs, halda sameiginlegar veislur. Þetta felur í sér að bæði guðir og menn sem deila hlutskiptum sínum, lifa í eilífum veisluhöldum og eilífri hamingju, dag frá degi. Það er etið og drukkið og unað við gleðskap, hlustað á listagyðjurnar syngja lofsöngva til Seifs og hinna guðdómlegu ævintýra. Í stuttu máli var allt í hinum ákjósanlegasta sóma.

Mekon-sléttan er búsældarland þar sem allt sprettur af sjálfu sér. Sagan segir að það nægi að eiga örsmáan skika á þessari sléttu til að eiga hagsæld vísa, á Mekon-sléttu er aldrei ótíð og aldrei illviðra von. Þar ríkir gullöldin, öldin þar sem enginn aðskilnaður var enn til staðar á milli guða og manna, þessi gullöld sem stundum var kölluð „öld Krónosar“. Það var áður en ófriðurinn braust út á milli Krónosar og Títananna annars vegar og Seifs og hinna olympísku guða hins vegar. Það var fyrir þann tíma er veröldin varð leiksoppur hins hreina og beina ofbeldis. Það er friðartíminn, tíminn sem er fullur af tíma. Þar eiga mennirnir líka sinn samastað, en hvernig lifa þeir? Það er ekki bara að þeir sitji til borðs með guðunum í eilífum veislum þeirra, heldur eru þeir alls óvitandi um allt það böl sem nú hrjáir hið dauðlega mannkyn, það böl sem hrjáir hina útskúfuðu, þá sem lifa frá degi til dags án þess að vita hvað næsti dagur kann að fela í skauti sínu, án þess að geta merkt nokkuð samhengi á milli þess sem gerðist í dag og í gær, alls óvitandi um þá sem breytast í sífellu, fæðast, vaxa, styrkjast, veiklast og deyja.

Í þessum tíma lifði mannfólkið eilífa æsku, handleggirnir og fótleggirnir voru jafn styrkir allt frá fæðingu, í þeirra tilfelli var varla hægt að tala um eiginlega fæðingu, öllu heldur var eins og þeir hefðu sprottið upp úr Jörðinni, kannski upp úr Gaíu, Móðurjörðinni. Hún hafði getið þá eins og guðina. Eða einfaldlega þannig að mannfólkið fann enga ástæðu til að spyrja sig slíkra spurninga um uppruna sinn, því það hafði alltaf verið þarna, innan um guðina, það var til staðar rétt eins og guðirnir. Í þessum tíma þekkti mannfólkið hvorki fæðingu né dauða, heldur einungis hina eilífu æsku. Það var ekki ofurselt umbreytingum tímans sem innleiðir tæringu í lífskraftinn og lætur manninn eldast. Þetta mannfólk sem hafði lifað aldir eða árþúsundir sífellt eins og í blóma lífsins, þetta fyrsta mannkyn, það sofnaði út af og hvarf eins og það hafði birst. Það var horfið, en samt var varla hægt að tala um dauða þess í eiginlegri merkingu. Þá var hvorki til vinna, veikindi né þjáning. Mennirnir þurftu ekki að yrkja jörðina. Á Mekon-sléttunni voru öll fæða og öll lífsins gæði innan seilingar. Lífið líktist einna helst þeim sögusögnum sem eitt sinn gengu um líf Eþýópanna: á hverjum morgni stóðu menn frammi fyrir dúkuðu borði þar sem fram voru bornar allsnægtir í mat og drykk. Það var ekki bara að krásirnar og kjötið væru sífellt til staðar og að ávextirnir yxu af sjálfum sér, heldur voru allar krásirnar þegar soðnar og steiktar. Náttúran skaffaði sjálfkrafa og áreynslulaust hinar flóknustu og ljúfustu krásir. Þannig lifði mannfólkið í þessum fjarlæga tíma undir merki hinnar fullkomnu hamingju.

Sigurreið Dionysosar Sarcophagos

Sigurreið Dionysosar til Arkadíu. Rómversk steinkista frá 3. öld e.Kr. Sigurreið Dionísosar var túlkuð sem innreið inn í hina jarðnesku Paradís Arkadíu, hina tímalausu veröld guðanna. Hún var vinsælt myndefni á kistum látinna.

Konurnar voru ekki ennþá komnar til sögunnar, kvenleikinn var að vísu til, því gyðjurnar voru til staðar, en engar dauðlegar konur. Mannkynið var einungis karlkyns: rétt eins og það var alls ókunnugt sjúkdómunum, ellinni, dauðanum og vinnukvöðinni, þá var samlifnaður með kvenkyninu því ókunnur. Það þurfti hins vegar ekki annað en að maður fyndi hjá sér kennd til að sameinast konu og geta með henni barn, sameinast mannveru sem var honum bæði lík og ólík, og þar með voru fæðingin og dauðinn orðin að baráttumáli mannkynsins. Fæðing og dauði mynda tvo áfanga tilverunnar: til að útiloka dauðann var nauðsynlegt að útiloka fæðinguna.

Á Mekon-sléttunni lifðu menn og guðir í sátt og samlyndi, en skilnaðarstundin var að renna upp.

Aðskilnaðurinn átti sér stað eftir að guðirnir höfðu gert upp sakirnar sín á milli. Spurningin um vegsemd og virðingu hvors um sig var í upphafi útkljáð af guðunum með ofbeldi. Aðskilnaður Títana og hinna olympísku guða var ráðinn í baráttu þar sem hið blinda ofbeldi og hið hreina og skilyrðislausa ofríki urðu ofan á, án minnstu málamiðlunar. Þegar fyrsti aðskilnaðurinn var afstaðinn ráku hinir olympísku guðir Títanina beinustu leið niður í undirheima Tartarusar og læstu kirfilega heljardyrum þessara myrkheima um leið og þeir tóku sér sæti sjálfir í himinhæðum. Þá þurfti að gera upp innbyrðis sakir þeirra þar sem Seifur fékk það hlutverk að útdeila völdum, nokkuð sem hann framkvæmdi án ofbeldis í viðleitni sinni að koma á samlyndi meðal hinna olympísku guða. Hlutaskipti guðanna urðu til út frá opinni þrætu og samkomulagi sem ekki var endilega á jafningjagrundvelli, heldur á grundvelli frændsemi og bræðralags þeirra sem höfðu sameiginlegra hagsmuna að gæta og áttu sameiginlega hlutdeild í þrætunni.

 

Hinn slóttugi Prómeþeifur

 

Promotheus skapar manninn

Prómeþeifur skapar manninn. Lágmynd á rómverskri steinkistu frá 3. öld e.Kr.

Hvernig á að skipta gæðum og sæmd á milli manna og guða? Hér er ekki lengur hægt að reiða sig á ofbeldið eitt og sér. Mannfólkið er svo veikbyggt að einfaldur snoppungur nægir til að gera út af við það, auk þess sem hinir ódauðlegu geta ekki komið fram við hina dauðlegu eins og jafningja. Því þarf hér að grípa til lausnar sem felur hvorki í sér valdbeitingu né heiðursmannasamkomulag milli jafningja. Til þess að hrinda slíkri lausn í framkvæmd með lævísum og blönduðum meðulum kallaði Seifur sér til aðstoðar persónu nokkra sem kallast Promeþeifur, náunga sem er jafn einstakur og slóttugur og sú lausn sem hann hugsar út til að leysa vandann. Hvers vegna er Promeþeifur valinn til verksins? Ástæðan er sú að meðal guðanna fer af honum tvírætt orðspor, sem hefur verið illa skilgreint sem þversögn. Hann hefur verið kallaður Títani, en er í raun og veru sonur Giapetusar og bróðir Krónosar. Það er því faðir hans sem er Títani, en alls ekki Promeþeifur, sem þó fyllir ekki flokk hinna olympísku, því hann er ekki af sama kynstofni. Eðli hans er títanískt eins og bróður hans Atlasar, sem einnig má meðtaka refsingu Seifs.

Prómeþeifur hefur til að bera uppreisnaranda, hann er illskeyttur, óagaður og ávalt með gagnrýni á reiðum höndum. Hvers vegna fær Seifur honum þá það verkefni að leysa þennan vanda? Vegna þess að Prómeþeifur er Títani þó hann sé það ekki að fullu og öllu, hann barðist ekki með Títönunum gegn Seifi, hélt sig hlutlausan í deilunni og tók engan þátt í bardaganum. Margar sögusagnir fara líka af því að Prómeþeifur hafi verið Seifi innan handar, jafnvel svo að án ráða hans – því Prómeþeifur er slóttugur – hefði hann aldrei unnið sigur sinn á Títönunum. Í þeim skilningi var Prómeþeifur bandamaður Seifs. Bandamaður en ekki félagi, hann hafði aldrei gengið í flokk hans heldur verið sjálfstæður og unnið á eigin forsendum.

Seifur og Prómeþeifur bera mörg keimlík einkenni þegar kemur að lundarfari og gáfum. Báðir teljast þeir greindir og slóttugir og hafa til að bera þau einkenni sem Aþena stendur fyrir meðal guðanna, en Odysseifur meðal mannanna: klókindi. Klókum manni tekst alltaf að losa sig úr sérhverju klandri, hann finnur alltaf útgönguleið þar sem engin slík er í sjónmáli, og hann vílar ekki fyrir sér að beita lygum til að koma áformum sínum í kring, búa til gildrur til að fanga andstæðinginn og beita öllum hugsanlegum bellibrögðum. Þannig er Seifur, og Prómeþeifur ekki síður. Þeir hafa átt þetta sameiginlegt en þó er mikil gjá staðfest á milli þeirra. Seifur er konungur, valdsmaður sem hefur alla stjórnartauma í sínum höndum. Að þessu leyti er því þverólíkt farið með Prómeþeif. Títanarnir voru keppinautar hinna olympísku, og Krónos keppinautur Seifs, því Krónos vildi vera konungur áfram á meðan Seifur vildi taka sæti hans. Það hvarflaði hins vegar aldrei að Prómeþeifi að vilja verða kóngur og einmitt þess vegna átti hann aldrei í neinni samkeppni við Seif. Sá heimur sem Seifur skapaði var heimur uppskiptanna sem byggði á stigveldistign og tröppugangi þar sem ólík sæmd og ólíkar aðstæður skiptu máli. Prómeþeifur tilheyrði þessum heimi, en það er afar erfitt að skilgreina hlutverk hans og hlutskipti. Hlutskipti hans verða enn flóknari eftir að Seifur hefur dæmt hann og látið færa í hlekki, til þess seinna að frelsa hann og taka hann í sátt. Ólík tímaskeið í sögu hans bera vott um sveiflukennt ástand með sífelldum hæðum og lægðum sem lýsa misklíð og sættum milli hans og konungsins.

Í stuttu máli mætti segja að Prómeþeifur sé tjáningarmynd innri uppreisnar í þessum sléttfellda og reglubundna heimi. Hann frábiður sér að taka sæti Seifs, en í þeim virðingastiga sem Seifur hefur skpað skipar hann sæti hinnar mjóróma uppreisnar á Olympstindi, rétt eins og maí 68 í heimi guðanna.

Prómeþeifur á hagsmuna að gæta meðal mannanna. Aðstæður hans svipa um margt til aðstæðna þeirra, því einnig mennirnir eru tvöfaldir í roðinu og hafa til að bera bæði guðdómlega hlið og dýrslega hlið. Í mönnunum rétt eins og í Prómeþeifi má því finna í einni og sömu persónunni mótsagnakennda þætti, þætti sem hafa að geyma guðdómlega hlið – í upphafi lifðu þeir meðal guðanna – og jafnframt dýrslega hlið. Í mönnunum og í Prómeþeifi búa því saman tveir andstæðir þættir.

Refskák Prómeþeifs og Seifs

Þá höfum við þessa leikfléttu fyrir augunum. Menn og guðir voru mættir saman til leiks eins og þeir voru vanir. Þar er Seifur í fremstu röð og felur Prómeþeifi að deila hlutskiptum meðal guða og manna. Hvernig ber Prómeþeifur sig að við lausn þessa verkefnis? Í fyrsta lagi leiðir hann fram fyrir guðina gríðarstórt naut, sem hann slátrar og skiptir síðan í tvo hluta. Eins og Prómeþeifur hlutaði nautið sýndu hlutarnir hin ólíku hlutskipti manna og guða. Skurðurinn í holdi nautsins markaði landamærin sem skilja guði frá mönnum.

Hvernig stóð Prómeþeifur að verki? Nákvæmlega eins og farið var að við grískar fórnarathafnir. Fórnardýrið er fellt og gert að því, síðan hefst kjötskurðurinn. Fyrsta verkefnið felst einmitt í því að hreinsa fullkomlega stærstu beinin, lærleggi og fótleggi að framan og aftan, svokölluð ostea leuka. Þau eru hreinsuð þangað til engin kjöttægja er eftir. Þegar þessu verkefni er lokið safnar Prómeþeifur saman öllum þessum hvítu beinum skepnunnar. Hann gerir úr þeim hrúgu og vefur þeim inn í þunna himnu af hvítri og lystugri fitu. Þar með var fyrsti pakkinn tilbúinn. Síðan safnar Prómeþeifur saman öllum krea, sem er kjötið og innmaturinn, kjötkássa sem er matarkyns, og vefur hana inn í húð nautsins. Þessi pakki hefur að geyma allt neysluhæft kjöt skepnunnar vafið inn í húð þess og síðan komið fyrir í vömbinni sem er illa hreinsuð og hefur ólystugt yfirbragð.

Þannig voru hlutskiptin sýnd: annars vegar hin hvíta og lystuga fita sem hefur einungis að geyma dauðhreinsuð beinin, hins vegar ólystug vömbin, sem hafði að geyma allt sem var lystugt að borða. Prómeþeifur tekur báða pakkana og leggur þá fyrir Seif: val hans átti að skera úr um mörkin á milli guða og manna. Seifur virðir fyrir sér báða pakkana og segir: -Ó, Prómeþeifur, þú sem ert slóttugur og lævís hefur framið ójöfn skipti! – Prómiþeifur lítur til hans brosandi.

Seifur veit auðvitað að á bak við þetta eru einhver brögð í tafli, en gengst engu að síður inn á leikreglurnar. Honum er boðið að velja fyrsta pakkann, sem hann gerir. Með miklum ánægjusvip festir hann hönd á fegurri pakkanum, þeim með hvítu og lystugu fituna. Allir horfa til hans, en þegar búið er að opna pakkann kemur í ljós að þar er ekkert nema hvítþvegin beinin. Seifur verður þá ævareiður í garð þess sem vildi blekkja hann.

Hér lýkur fyrsta þætti sögunnar, en þættirnir eru í það minnsta þrír. Í lok fyrsta kaflans er orðið ljóst með hvaða hætti mennirnir komast í samband við guðina, það er að segja í gegnum fórnarathöfn eins og þá sem Prómeþeifur hafði framkvæmt með frágangi skepnunnar. Á altarinu fyrir utan hofið eru brenndar kryddjurtir sem gefa frá sér ísætan ilm, síðan er hvítþvegnum beinunum komið þar fyrir. Það sem guðunum ber eru hvítþvegnu beinin, vafin inn í gljáandi fituvef, sem rísa til himna í formi reyks.

Hlutskipti mannanna er hins vegar allt það sem eftir stendur af skepnunni og þeir neyta þess bæði glóðarsteikt og soðið. Mennirnir stinga kjötinu upp á löng spjót úr járni eða bronsi og þá sérstaklega lifrinni og öðrum völdum bitum, sem síðan eru steiktir yfir eldinum. Aðrir hlutar skepnunnar eru hins vegar settir í stóra soðpotta. Þannig var sumt glóðarsteikt og annað soðið, mennirnir áttu með þessum hætti að snæða kjöt fórnardýranna og færa guðunum sinn part sem var ilmsterkur reykur.

Um ásýnd og kjarna

Ekki er óeðlilegt að sú saga sem hér hefur verið sögð veki spurningar, því svo virðist sem Prómeþeifi hafi tekist að blekkja Seif með því að færa mönnunum betri hluta fórnarinnar. Prómeþeifur færir mönnum það sem hægt er að snæða af fórnardýrinu, dulbúið í viðbjóðslegar og óætar umbúðir vambarinnar; guðunum færir hann hins vegar það óæta dulbúið í gljáandi hvítum fituvef. Prómeþeifur beitir fyrir sig blekkingum og lygum því ásýnd pakkanna er blekking. Hið góða er falið undir umbúðum hins ljóta og hið ólystuga er fegrað.

En er það í raun og veru rétt að Prómeþeifur hafi valið mönnunum betri hlutann? Einnig hér er tvíræðni á ferð. Vissulega kom hinn æti hluti fórnarinnar í hlut mannanna, en staðreyndin er líka sú að hinir dauðlegu þurfa nauðsynlega að borða. Aðstæður þeirra eru í fullri andstöðu við aðstæður guðanna, því þeir geta ekki lifað án stöðugrar næringar. Mennirnir eru ekki sjálfum sér nógir, þeir þurfa að afla sér orkuforða úr heiminum í kringum þá, og án hans myndu þeir hverfa. Það sem skilgreinir manninn er einmitt þörf hans til að borða brauð og kjöt fórnardýranna og drekka vín vínviðarins. Guðirnir þurfa ekki að borða, þeir þekkja hvorki brauðið né vínið og heldur ekki kjöt fórnardýranna. Þeir lifa áfram án þess að þurfa að nærast, eða öllu heldur þá nærast þeir á gervifæði eins og ambrósíudrykknum, guðdómlegu fæði sem veitir ódauðleika.

Lífsfjör guðanna er því af öðrum toga en lífskraftur mannanna. Mannkynið býr yfir óæðri lífskrafti, það lifir óæðri tilvist og er óhjákvæmilega undirmálstegund. Það þarf á næringu að halda um aldur og ævi. Maðurinn er ekki fyrr búinn að reyna svolítið á sig en hann finnur fyrir þreytu og hungri. Með öðrum orðum þá eru hlutaskipti Prómeþeifs með þeim hætti að betri hluturinn er í raun og veru sá fegurri um leið -og hefur að geyma hvítþvegin beinin. Hin hvítu bein eru einmitt það dýrmæta sem í dýrinu og manninum býr, það sem ekki er dauðlegt. Það er engin hætta á að beinin rotni, þau mynda byggingu líkamans. Holdið leysist upp og rotnar en beinagrindin stendur fyrir framlengingu. Allt það sem er óætt í dýrinu er einnig það sem er ekki dauðlegt, óbreytanlegt, það sem þannig stendur hinu guðdómlega næst. Í augum þess sem hefur búið til þessa sögu virðast beinin ennþá mikilvægari fyrir þá sök að þau geyma merginn, þetta mjúka efni sem samkvæmt Grikkjum var í beinu sambandi við heilann og sæði karlmannsins. Mergurinn stendur fyrir lífskraft dýrsins í samfellu sinni frá einni kynslóð til annarrar og hann tryggir frjósemi og afkomendur. Mergurinn er merki þess að um ættkvíslir sé að ræða en ekki einangraða einstaklinga.

Yfirbragð hins dauðlega og ódauðleikinn

Þessi leikflétta Prómeþeifs færir guðunum lífskraft dýrsins á meðan hlutur mannanna, sem er holdið, er ekki annað en lík þess. Mönnunum er nauðugur einn kostur að næra sig á bitum af dauðum dýrum; hið sterka yfirbragð hins dauðlega sem þeir bera með sér verður augljóst í ljósi þessarar skiptingar. Héðan í frá tilheyra mennirnir hinum dauðlegu og útskúfuðu, ólíkt guðunum sem eru hinir ódauðlegu. Eftir þessi hlutaskipti næringarinnar eru mennirnir merktir dauðleika sínum og guðirnir ódauðleika sínum. Endalok sem Seifur hafði væntanlega séð fyrir.

Ef Prómeþeifur hefði einfaldlega hlutað nautið niður í tvo helminga, hold og bein, þá hefði Seifur getað valið sér beinin og lífskraft dýrsins. En þar sem allt var í dulargervi hins falsaða yfirborðs og kjötið falið í gaster vambarinnar og beinin undir gljáandi fituhimnu, þá skildi Seifur að Prómeþeifur vildi leika á hann. Hann ákvað því að refsa honum. Auðvitað er það svo, að í slíkri refskák til hins hinsta bellibragðs sem tefld er á milli Títanans og Seifs, þá reyna báðir að koma höggi á hinn, og báðir leika sína leiki í því skyni að leiða gagnaðilann í gildru til þess að lokum að geta mátað hann. Á endanum er það Seifur sem stendur með pálmann í höndunum í þessari deilu, en stendur engu að síður agndofa andspænis lævísi Títanans.

Banvænn eldur

 Það er í öðrum þætti sem Prómeþeifur fær að gjalda fyrir blekkingarleik sinn. Frá og með þessum degi ákveður Seifur að fela eldinn fyrir mönnunum – og líka kornið. Eins og í refskákinni tekur einn mótleikurinn við af öðrum. Prómeþeifur hafði falið kjötmetið í umbúðum sem virtust viðbjóðslegar en hvítþvegin beinin inn í því sem við fyrstu sýn virtist hið lystugasta. Nú er komið að hefnd Seifs. Innan ramma hlutaskiptanna á milli guða og manna ætlar Seifur nú að taka frá mönnunum það sem þeir höfðu haft fullt og ótakmarkað aðgengi að til þessa. Fram að þessu höfðu þeir haft óheftan aðgang að eldinum því hann var að finna í toppi vissra trjáa, í askinum, þar sem mennirnir gátu nálgast hann að vild. Það var sami eldurinn sem gekk á milli manna og guða, þökk sé þessum hávöxnu trjám þar sem Seifur sáði eldi sínum. Með sama hætti og mennirnir höfðu eldinn innan handar höfðu þeir líka frjálsan og óheftan aðgang að kornmetinu, því kornið var sjálfsprottið og kjötmetið fengu þeir í hendurnar steikt eða vel soðið.

Promeþeifur stelur eldi Vulcans Rómv grafþró svhv

Prómeþeifur stelur eldi Seifs úr smiðju Hefaistosar. Lágmynd á rómverskri grafþró frá 3. öld e.Kr.

Seifur felur nú eldinn og það er þeim mun bagalegra þar sem mennirnir hafa nú aðgang að kjöti fórnardýranna en þurfa nauðsynlega að steikja það eða sjóða. Hinir dauðlegu eru engar mannætur eða villidýr sem nærast á hráu kjöti: mennirnir neyta einungis kjöts sem hefur verið matreitt, hvort sem það er glóðarristað eða soðið.

Það skapar mönnunum verulega erfiðleika að vera án eldsins, og það gleður Seif í hjarta hans. Því er það að Prómeþeifur finnur upp mótleik. Eins og ekkert sé fær hann sér göngutúr til himna, rétt eins og maður á skemmtigöngu með grein í hendi, grein af burknategund sem er vel græn á ytra borði. Burkni þessi hefur þá sérstöku eiginleika að vera í byggingu sinni hið gagnstæða við tréin. Þar sem tréin eru þurr og hörð í berki sínum og yfirborði og rök að innan, þar sem safinn streymir um æðar þeirra, þá er burkninn þvert á móti rakur og grænn að utan en algjörlega þurr í kjarna sínum. Prómeþeifur verður sér nú úti um sæði úr eldi Seifs, sperma pyros, og felur það inni í kjarna burknagreinarinnar. Greinin tekur að brenna að innan upp eftir öllum stofni sínum. Prómeþeifur snýr hins vegar til baka til jarðarinnar og læst vera á skemmtigöngu með blaðstóran burknann sem sólhlíf. Á meðan heldur eldurinn áfram að loga inn í burknagreininni. Prómeþeifur gefur mönnunum þennan eld, sem er fenginn úr sæði hins himneska elds, og þeir fara strax að kveikja upp í eldstæðum sínum til að matreiða kjötið. Seifur liggur í makindum þarna uppi, alsæll yfir mótleik sínum sem hafði hitt í mark með því að fela eldinn, en allt í einu sér hann ljóma af eldi koma úr hverju húsi. Hann verður fokillur.

Rétt er að benda á að Prómeþeifur beitir hér sama bragði og hann notaði þegar hann hlutaði fórnardýrið, hann leikur enn á andstæðu yfirborðs og innri kjarna, muninn á sýnd og innri veruleika.

Ásamt með eldinum hafði Seifur einnig falið bios, lífið, fyrir mönnunum – eða öllu heldur það sem nærir lífið, kornmetið, hveitið og hafrana. Hann sviptir mennina eldinum og veitir þeim ekki lengur aðgang að kornmetinu.

Á tímum Krónosar í heimi Mekons var eldurinn mönnunum innan handar fyrir utan glugga þeirra og kornið óx sjálfsprottið, það þurfti ekki að plægja jörðina. Vinnan var ekki til, ekki erfiðið. Maðurinn þurfti ekki sjálfur að stunda uppskerustörf, hann þurfti ekki að leggja á sig nein erfiðisstörf, hvað þá að örmagnast í viðleitninni að verða sér úti um lífsbjörgina. Héðan í frá var það hins vegar ákvörðun Seifs, að það sem áður var sjálfgefið skyldi nú kosta manninn erfiði. Það var búið að fela kornið.

Upphaf akuryrkjunnar

Rétt eins og Prómeþeifur gat falið sæði eldsins í burknagrein sinni og fært hann mönnunum þurftu mennirnir nú að fela sæði kornsins í kviði jarðar. Það varð nauðsynlegt að draga plógfar í jarðveginn og fela sæðið til þess að það spíraði og yxi. Í stuttu máli var akuryrkjan orðin óhjákvæmileg. Menn þurftu að vinna fyrir brauði sínu í sveita síns andlits, bograndi yfir akrinum að stinga niður sæði. En það þurfti líka að gæta sæðisins vel frá ári til árs og varast að neyta allrar uppskerunnar jafn óðum. Bóndinn þurfti að koma sér upp keröldum á heimilinu þar sem hann geymdi þann hluta uppskerunnar sem ekki var til neyslu. Það varð nauðsynlegt að eiga matarforða því einkum á vorin, á þessu erfiða umskiptatíma frá vetri til nýs uppskerutíma, gat oft orðið þröngt í búi.

Hér gildir það sama um sæði eldsins og sæði kornsins. Mönnunum er héðan í frá nauðugur einn kostur að lifa lífinu vinnandi. Þeir hafa á nýjan leik náð valdi á eldinum, en þessi eldur, líkt og kornið, er ekki sá sami og áður var. Eldurinn sem Seifur faldi er himneskur eldur, sá sem lýsir stöðugt af úr hendi hans, eldur sem aldrei bliknar eða slokknar og aldrei skortir. Ódauðlegur eldur.

Sá eldur sem mennirnir fá úr þessu sæði er í raun og veru eldur sem hefur “fæðst”, því hann er sprottinn af sæði, og þar af leiðandi getur hann líka dáið. Það kostar í raun og veru talsverða fyrirhöfn að halda honum lifandi, það þarf að vaka yfir honum. Satt að segja býr þessi eldur yfir ámóta matarlyst og hinir dauðlegu. Þetta er banhungraður eldur; ef honum er ekki færð stöðug næring deyr hann. Mennirnir þurfa á honum að halda, ekki bara til að halda á sér hita, heldur líka til að nærast, því ólíkt dýrunum, þá nærast þeir ekki á hráu kjöti. Næring mannanna lýtur nákvæmum reglum, helgisiðum sem fela meðal annars í sér soðningu matvælanna.

Grikkir líta á kornið sem jurt er hefur verið soðin af sólinni, en einnig með inngripi mannsins. Bakarinn sýður kornið í ofni sínum. Eldurinn er því í raun tákn fyrir siðmenningu mannsins. Eldur Prómeþeifs, sem stolið var með bellibrögðum, er í raun og veru “tæknilegur” eldur, vitsmunaleg afurð sem greinir mennina frá dýrunum og helgar siðmenningu mannanna. En þar sem eldurinn er mannlegur eldur, ólíkur hinum guðdómlega, þá þarf hann á næringu að halda til að lifa. Hann minnir í raun á ófreskju sem ekkert fær stöðvað ef henni er sleppt lausri. Hann eirir engu, hann brennir ekki bara þá næringu sem honum er færð, heldur læsir hann sig í húsin, borgirnar og skógana. Hann er eins og voldug óseðjandi skepna sem ekkert fær stöðvað. Eldurinn undirstrikar sérkenni mannsins með þessari einstöku tvíræðni, minnir stöðugt á hinn guðdómlega uppruna sinn, en um leið einnig á það villidýrseðli sem í honum blundar. Rétt eins og maðurinn á eldurinn hlutdeild í hvorutveggja.

Pandóra eða uppfinning konunnar

Pandora og Hefaistos

 Epimeþeifur og Pandóra, 5. öld f.Kr.

Nú mætti halda að sögunni væri lokið, en því er ekki að heilsa. Nú hefst þriðji þáttur. Mennirnir eru vissulega búnir að höndla siðmenninguna, Prómeþeifur hefur opinberað fyrir þeim alla leyndardóma tækninnar. Áður en hann tók til sinna ráða lifðu mennirnir eins og maurar í holum sínum, horfðu án þess að sjá, hlustuðu án þess að skilja, þeir voru ekkert, en svo gerðist það, þökk sé Prómeþeifi, að þeir urðu siðmenntaðir, frábrugðnir dýrunum og frábrugðnir guðunum.

En síðasti leikurinn í endatafli Seifs og Prómeþeifs hefur ekki enn verið leikinn. Seifur hefur falið eldinn, Prómeþeifur hefur stolið honum. Seifur hafði falið kornið, mennirnir unnu nú fyrir brauði sínu. En Seifur er alls ekki ánægður, honum finnst síðasti mótleikur sinn ekki hafa skilað tilætluðum árangri. Hann er hláturmildur og hláturinn sýður í honum þegar hann hugsar upp nýjan mótleik, nýja gildru.

Þriðji þáttur.

Seifur kallar á sinn fund Hefaistos, Aþenu, Afródítu og aðra minni háttar guði eins og Árstíðagyðjurnar (Horai). Seifur fyrirskipar Hefaistosi að bleyta upp í svolitlu af kalki með vatni og búa til eins konar brúðu er ætti að hafa form parthenos, konumynd eða öllu heldur mynd stúlku er komin væri á giftingaraldur, en hefði alls ekki alið börn. Hefaistos hefst handa við verkið og mynd hans sýnir forkunnarfagra jómfrú. Síðan var það hlutskipti Hermesar að veita henni lífsanda og leggja henni til mannsrödd og aðra eiginleika sem síðar koma í ljós. Seifur biður síðan Aþenu og Afródítu um að fegra hana, auka á fegurð hennar og yndisþokka með skrauti sem fellur vel að kvenlíkamanum, dýrmæt viðhengi, lýsandi skartgripi, ljómandi lín og höfuðskart.

Aþena færir henni forkunnarfagran kjól, ljómandi í glæsileik sínum eins og fituvefurinn utan um hvítþvegnu beinin í fyrsta þætti þessarar sögu. Það leikur ljómi um þessa jómfrú eins og stjörnurnar á himnum.

Hefaistos krýnir hana höfuðdjásni sem bindur brúðarslörið. Höfuðskartið er skreytt myndum af öllum heimsins skepnum, fuglunum, fiskunum, tígrunum og ljónunum. Enni stúlkunnar ljómar af lífskrafti allra dýranna. Þetta er dýrðarljómi sem vert er að sjá, thauma idesthai, dásemd sem lamar menn af hrifningu og gerir þá ástfangna.

Pandora eða Gaia um 450 fKr

Pandóra vekur girndarhug meðal mannanna. Pandóra og Satírar, um 450 f.Kr.

Þarna er fyrsta konan komin í heiminn, augliti til auglitis við guði og menn. Þetta er tilbúin brúða, en hún er ekki gerð í mynd konunnar, því konur voru ekki komnar til sögunnar þegar þetta gerðist. Hún er sú fyrsta, frummynd konunnar. Hið kvenlega var vissulega til, því gyðjurnar voru til staðar, og þessi kvenlega vera er mótuð í mynd parthenos, eins og ódauðleg gyðja. Guðirnir skapa veru sem er mótuð úr jarðefni og vatni og innblásin lífskrafti manns, sthenos, og mannlegri rödd, phone.

En Hermes leggur líka lygar í munn hennar, gefur henni tíkareðli og þjófslund. Brúðan sem er hin fyrsta kona og allur kvennaskari sögunnar á rætur sínar að rekja til, kemur þannig til sögunnar með sama hætti og hlutaskiptin í fórninni og sagan af burknanum, með ytra borð sem blekkir. Það er ekki hægt að hugleiða hana án þess að verða hugfanginn, blindaður, nánast steinrunninn. Fegurð hennar er einungis að finna meðal ódauðlegra gyðja, útlit hennar er guðdómlegt. Hesiodus lýsir þessu vel þegar hann segir menn blindast af ljóma hennar. Fegurð hennar er svo undirstrikuð af öllu skartinu, höfuðdjásninu, kjólnum og slörinu, hún er sannkölluð sæluvíma sem gerir menn frávita. Af henni ljómar óendanlegt charis, geislandi persónutöfrar sem engan enda taka í öllum sínum fjölbreytileika, polle charis. Menn og guðir falla flatir fyrir fegurð hennar. En undir yfirborðinu býr eitthvað allt annað. Valdið á tungumálinu gerir henni kleift að komast í félagsskap manna, að verða tvífari mannsins. Menn og konur geta rætt saman, en konan hefur ekki yfir að ráða orðum er segja sannleikann eða lýsa innri tilfinningum. Þvert á móti þjóna þau lyginni, fela sannleikann í orðaflaumi lyganna og dulbúa hinar raunverulegu tilfinningar.

Það voru afkomendur Næturinnar sem fæddu af sér allt böl heimsins, dauðann, fjöldamorðin og vissulega Erinnana, en einnig það sem við eigum við þegar við tölum um “lygamælgi og daðurmál” eða “samlyndi og ástleitna blíðu”. Nú er það einkenni Afródítu frá fæðingu, að henni fylgja í sama mæli lygamælgi og aðdráttarafl ástarinnar. Það sem stendur nóttinni næst er hið skærasta ljós, það sem ljómar af hamingju og svartnætti átakanna sameinast í formi þessara lygamála, þessarar ástleitnu tálbeitu. Þannig höfum við Pandóru, ljómandi eins og Afródíta um leið og hún líkist dóttur Næturinnar, tómar lygar og tál. Seifur skapar ekki slíka parthenos handa guðunum, heldur einungis fyrir hina dauðlegu. Rétt eins og hann vildi losa sig við ósamlyndi og ofbeldi með því að senda það hinum dauðlegu, þannig sendir hann þeim líka konuna.

Prómeþeifur finnur sig aftur sigraðan og skilur vel hvílíkar hörmungar bíði því vesæla mannkyni sem hann hefur reynt að standa vörð um. Eins og nafn hans segir til um, Pro-meteos, þá er hann sá sem skilur áður en skellur í tönnum, sá sem sér fyrir um óorðna hluti. Rétt eins og bróðir hans, Epi-meteos, er sá sem skilur eftirá, epi, of seint, sá sem er alltaf blekktur og vonsvikinn og veit aldrei hvaðan á hann stendur veðrið. Við vesælir dauðlegir menn erum þannig gerðir, svolítið pro-meteos og svolítið epi-meteos. Við setjum okkur stefnumörk, gerum áætlanir og forspár, en oft fara hlutirnir á annan veg og við erum teknir varnarlausir í bólinu af orðnum hlut. En Prómeþeifur skilur hvað er í vændum og kallar á bróður sinn og segir:

-Hlustaðu nú, Epimeþeifur, ef svo kynni að fara að guðirnir sendi þér gjöf, þá mátt þú alls ekki taka á móti henni og verður að endursenda hana umsvifalaust.

Epimeþeifur sver og sárt við leggur að hann muni aldrei þiggja gjöf, en guðirnir sem eru saman komnir á ríkisráðsfundi senda honum tælandi gjöf, þokkafyllstu stúlku sem um getur. Hér sjáum við Pandóru birtast fyrir sjónum hans, gjöf guðanna til mannanna. Pandóra bankar á hurðina. Epimeþeifur fyllist hrifningu og blindast af fegurð hennar, opnar og hleypir henni inn í hús sitt. Daginn eftir er hann þegar harðgiftur og Pandóra búin að taka stöðu eiginkonunnar meðal mannanna. Þannig upphefst böl þeirra.

Upp frá þessu er mannkynið tvíþætt, það er ekki bara karlkynið sem myndar mannkyn heldur kynin tvö, ólík en bæði ómissandi fyrir mannlega æxlun. Frá þeirri stundu er guðirnir sköpuðu konuna eru karlarnir ekki lengur “í beinan karllegg”, nú eru þeir fæddir af konum. Þeir þurfa að parast til að fjölga sér. Þannig verður nýr þáttur til að ánetjast tímanum.

Hvernig stendur á því að fyrsta konan, Pandóra, hefur tíkareðli og þjófslund samkvæmt hinum grísku frásögnum? Svarið er nátengt fyrstu tveim þáttum þessarar sögu. Eins og við höfum sagt, þá höfðu menn hvorki náttúrlegt né sjálfsprottið aðgengi að korni né eldi eins og áður hafði verið, án nokkurra erfiðismuna eða frumkvæðis. Hér verður erfiðisvinnan hluti af tilvist mannsins. Mennirnir lifa með erfiðismunum og í eymd og skorti og verða að horfa fram á stöðugar takmarkanir. Bóndinn bograr sífellt yfir akri sínum en uppskeran er rýr. Mennirnir uppskera aldrei nægju sína af neinu tagi, þeir þurfa því að tileinka sér hagsýni og forsjálni til þess að neyta ekki umfram það sem nauðsyn krefur. Því er það að þessi Pandóra, eins og allt genos eða allur “skari” hinna dauðlegu kvenna, hefur einmitt þau höfuðeinkenni að vera ávalt ófullnægður, nöldursamur og uppfullur af hefndarhug og gjörsneyddur allri ráðdeild.

Pandóra lætur sér ekki lynda það litla sem er, hún vill fylli sína og fullnægju og engar refjar. Það er einmitt þetta sem sagan á við þegar hún segir að Hermes hafi gætt Pandóru tíkareðli. Tíkareðli hennar er af tvennum toga. Fyrst og fremst er það matarlystin. Pandóra er alltaf banhungruð, hún hættir aldrei að borða og hún myndi aldrei standa upp frá hálfkláruðu veisluborði. Kannski býr í henni óljós minning um þá hamingjudaga gullaldarinnar, í Mekon, þar sem hinir dauðlegu voru í eilífri matarveislu án þess að hafa annað fyrir stafni. Í sérhverju eldhúsi þar sem konu er að finna hittum við líka fyrir óseðjandi hungur úlfsins. Það er ekki ósvipað því sem gerist í býflugnabúunum, þar sem við höfum annars vegar hinar vinnusömu býflugur er fljúga út á engin við sólarupprás og færa sig frá blómi til blóms safnandi hunangi sem þær færa svo í bú sitt. Hins vegar höfum drottningarnar sem aldrei yfirgefa bústað sinn, þekkja ekki til saðningarinnar og háma í sig allt hunangið sem þernurnar hafa aflað í búið. Sama er uppi á teningnum í bústöðum mannanna, annars vegar höfum við karlana sem erfiða baki brotnu á ökrunum, bograndi yfir sérhverju plógfari, til þess að fela og safna saman korninu, hins vegar höfum við konuna sem eins og drottningarbýflugan heldur sig heima við og nærist af afrakstri vinnunnar.

Meginástæða þess að kona leggur það á sig að draga karlmann á tálar er þörfin að innbyrða og botnsleikja allar forðakistur í matarbúri heimilisins. Það sem konan vill er heilt kornforðabúr til eigin ráðstöfunar. Þökk sé tælingarfærninni, fagurgalanum lygamælginni og „aðdráttarafli afturendans“ eins og Hesiodus kemst að orði, þá vefur hún hinn unga piparsvein um fingur sér með tælingarmættinum, um leið og hugur hennar stendur í raun allur til kornforðabúrsins. Og sérhver karlmaður, með Epimeþeif fremstan í flokki, fellur kylliflatur fyrir útvortis dásemdum hennar.

Konur búa ekki bara yfir þessari ótæmandi matarlyst sem er skaðvænleg fyrir heilsu eiginmannanna, sem aldrei geta fullnægt henni, heldur eru þær líka haldnar óseðjandi og tærandi kynlífsfíkn. Bæði Klítennestra og aðrar eiginkonur, sem hlotið hafa frægð fyrir að beita eiginmenn sína blekkingum, hafa jafnframt játað að hafa verið tæfan sem gætir hússins. Vel að merkja, þá er orðið tæfa hér notað með vísun í brókarsóttina.

Grikkir segja okkur um konurnar, einnig þær sómakærustu og hógværustu, að þær búi allar yfir þessum eiginleikum, þær eru gerðar úr leir og vatni þannig að skapgerð þeirra tilheyrir hinum röku höfuðskepnum á meðan skapgerð karlanna stendur nær hinu þurra og heita, nær eldinum.

Á vissum árstíðum, einkum þeim sem kennd eru við hundadaga, þeim tímum þegar hundurinn Síríus er sjáanlegur á himnum og nálægur jörðinni og jörðin og sólin í sama stjörnumerki, á þessum tíma þegar hitinn verður sterkari, þá fallast mönnunum hendur og limir, í þessum hita þar sem þeir eru heitir að eðlisfari á meðan konurnar blómstra fyrir tilverknað eigin raka og kulda. Við slíkar aðstæður leggja eiginkonurnar linnulausar kvaðir á eiginmenn sína um að uppfylla hjónabandsskyldu sína.

PandoraCreation2

Seifur, Hermes og Epimeþeifur skapa Pandóru sem hermdargjöf til mannanna. Af grískum vasa frá 5. öld f.Kr.

Þótt Prómeþeifur hafi fundið upp slungið klókindabragð þegar hann rændi Seif eldi sínum, þá svaraði hann fyrir sig með því að senda manninum konuna sem var eins og skógareldurinn sem eirir engu og var sérstaklega sköpuð til að skaða mennina. Í raun og veru er konan, það er að segja eiginkonan, eldur sem brennir upp eiginmanninn án afláts, dag eftir dag og hún brennir hann upp og lætur hann eldast fyrir aldur fram. Pandóra er eldur sem Seifur hefur kveikt á sérhverju heimili, eldur sem nærist stöðugt á mönnunum án þess að þurfi að kveikja hann. Þetta er ránseldur til skiptanna fyrir þann eld sem var stolið frá Seifi.

Hvað er til ráða við slíkar aðstæður?

Ef rétt reynist að konan sé ekki annað en tíkareðlið holdi klætt, vonlaus lygalaupur og skass sem gengur beint að efninu með sinn „seiðandi afturenda“ og leiðir eiginmanninn í ótímabær elliglöp, þá hefðu mennirnir án efa varist því að ganga í hjónabönd. En hér eru málin blandin, því við stöndum frammi fyrir hinu ytra og innra, ásýndinni og kjarnanum. Vegna dýrslegrar matarlystar sinnar og hömlulausrar kynhvatar er konan gaster, kviður og vömb sem felur að vissu leyti í sér hið dýrslega eðli mannskepnunnar. Sem gaster gleypir hún í sig allar eigur eiginmannsins. Á þeirri stundu þegar Prómeþeifur hafði vafið þann hluta nautsfórnarinnar sem mönnunum var ætluð inn í vömbina (gaster) hitti hann beint í mark. En einnig þar varð hann fórnarlamb eigin slægðar. Vandinn er fólginn í þessu: ef maður giftir sig mun líf hans verða ein heljarganga – nema svo ólíklega vilji til að hann rekist á fyrirmyndar eiginkonu, nokkuð sem er afar sjaldgæft. Hjónabandið er þannig ein píslarsaga þar sem eitt bölið hleðst ofan á annað.

Ef maðurinn léti hins vegar hjá líða að gifta sig gæti hann átt hamingjuríkt líf, hann mundi búa við saðsemd og ekki líða neinn skort. En hver myndi taka við efnislegum sparnaði hans á dauðastundinni? Aleiga hans myndi dreifast á milli manna sem hann hefði ekkert sérstakt dálæti á. Ef maðurinn giftir sig gengur hann í gildru. Ef hann gerir það ekki gengur hann í annars konar gildru.

Vömbin sem gleypir og gefur

Konan hefur tvíþætt eðli. Hún er vömbin sem gleypir allt sem eiginmaðurinn hefur aflað með þjáningu og erfiðismunum, en kviður hennar er líka það eina sem megnar að geta af sér það sem framlengir líf mannsins: afkomandann. Kviður konunnar felur í sér tvær hliðar mannlegrar tilveru, hina myrkvuðu hlið næturinnar og harðindanna, en einnig þá hlið sem er helguð Afródítu, þá hlið sem framkallar nýja fæðingu.

Eiginkonan felur í sér græðgina sem gleypir og jafnframt frjósemina sem getur af sér. Hún felur í sér allar þverstæður tilverunnar. Hjónabandið er rétt eins og eldurinn eitt af einkennismerkjum mannsins: einungis mennirnir ganga í hjónaband. Það greinir þá frá dýrunum sem eiga samræði með sama hætti og þau nærast, í fullkomnu frelsi þar sem kylfa ræður kasti. Konan verður þannig táknmynd hins siðvædda lífs, um leið og hún er sköpuð í mynd hinna ódauðlegu gyðja. Þegar við horfum á konu sjáum við Afródítu í mynd hennar, eða Heru eða Aþenu. Konan er þannig í vissum skilningi vitnisburður um nærveru guðdómsins á jörðinni – í krafti fegurðar sinnar, útgeislunar og seiðmagns. Konan tengir hið dýrslega í mannlegri tilveru við hina guðdómlegu hlið hennar, hún sveiflast á milli hins dýrslega og guðdómlega sem holdi klædd tvíræðni gjörvalls mannkyns.

Flóðgáttir tímans

Reynum nú að horfast í augu við söguna eins og hún væri skopsaga. Pandóra kemur í hús Epimeþeifs og gerist fyrsta eiginkonan í mannheimum. Seifur hvíslar í eyru hennar hvernig hún skuli bera sig að. Í húsi Epimeþeifs eru mörg keröld eins og gengur og gerist meðal grískra bænda. Meðal þessara keralda er eitt sem er stærst, og bannað var að snerta. Hvaðan kemur þetta dularfulla ílát? Sagan segir að nokkrir Satírar hafi borið það í húsið, en fyrir því er engin staðfest heimild. Dag nokkurn þegar eiginmaður Pandóru er nýfarinn úr húsi hvíslar Seifur því í eyra Pandóru að hún skuli opna þetta forláta kerald, en loka því umsvifalaust aftur. Pandóra fer að fyrirmælum Seifs. Hún nálgast keröldin sem eru fjölmörg, sum full af víni, önnur innihalda korn eða olíu. Í einu orði, matarforðabúr heimilisins. Þegar Pandóra lyftir lokinu af hinu falda keraldi flæða umsvifalaust öll mein heimsins út um víðan völl. Á því augnabliki sem Pandóra lokar keraldinu er einungis eitt eftir, það er vonin, elpis, biðin eftir því sem er í vændum. Elpis náði ekki að smeygja sér undan lokinu og losna úr vömb þessa keralds.

Pandora opnar skrínið2

Pandóra opnar forboðna ílátið í húsi Epimeþeifs. Grískur vasi frá 5. öld f.Kr.

Það er fyrir tilverknað Pandóru sem allt böl mannkynsins breiðist nú um víða veröld. Frá upphafi fól nærvera hennar í sér sérhvert böl, en með því að opna keraldið var bölið margfaldað. Hvaða böl var hér um að ræða? Meinsemdirnar skiptu þúsundum, en meðal þeirra voru þreytan og sjúkdómarnir, dauðinn og slysfarirnar. Ógæfurnar eru ótrúlega kvikar í hreyfingu og fara linnulaust á milli staða, hvarvetna gera þær vart við sig og nema þó aldrei staðar. Öfugt við Pandóru, sem var svo sætlega fögur ásýndum og full af ljúfmælgi, þá eru ógæfurnar ósýnilegar, þær eru formlausar og hljóðlátar með afbrigðum. Það var samkvæmt vilja Seifs að þeim var hvorki gefinn líkami né rödd, þannig að ógerningur væri fyrir mennina að sjá þær fyrir eða koma í veg fyrir þær. Þannig dvelja ógæfurnar sem mennirnir reyna að forðast í hinu ósýnilega og óaðgreinanlega eins og í vökvakenndu formi. Einasta ógæfan sem hægt er að sjá og snerta er konan, dulbúin í krafti seiðmagnsins sem sprettur af fegurð hennar, blíðulátum hennar og ljúfmælgi. Hún blekkir og hrífur í stað þess að vekja skelfingu. Eitt megineinkenni mannlegs eðlis er einmitt fólgið í muninum sem er til staðar á milli veruleikans og birtingarmyndar þess sem er sýnilegt og heyranlegt. Þannig eru tilvistaraðstæður mannsins smám saman til komnar samkvæmt vilja Seifs og sem andsvar við vélráðum Prómeþeifs.

PROMEÞ~1

Prómeþeifur bundinn á fjallstindi í Kákasus tekur á móti erni Seifs.

Prómeþeifur átti heldur ekki sjö dagana sæla, Seifur fjötraði hann og strekkti á milli himins og jarðar þar sem hann var kirfilega hlekkjaður við súlu er stóð á fjallstindi. Þannig fór fyrir þeim sem hafði fært mönnunum hinn dauðlega málsverð þeirra, kjötið. Nú er hann sjálfur orðinn að næringu arnar Seifs, fuglsins sem flýgur með eldingar guðsins og er boðberi ósigrandi máttar hans. Það er hann, Prómeþeifur, sem verður fórnarlambið þar sem kjötið er rifið úr lifandi holdi hans. Á hverjum degi kemur örninn til að næra sig á lifur hans án þess að skilja minnsta snifsi eftir, en lifrin endurnýjar sig jafn óðum yfir nóttina.

Alla daga nærist örninn á holdi Prómeþeifs og á sérhverri nóttu endurnýjar lifrin sig svo að ránfuglinn finni saðningu sína ósnortna næsta morgun. Þannig gengur þetta fyrir sig þar til Herkúles mun koma til að frelsa Prómeþeif, sem síðar öðlast eins konar ódauðleika í skiptum fyrir dauða Kentársins Kírons. En sá var vitur og góðhjörtuð hetja sem hafði kennt Akillesi og mörgum öðrum hetjum listina að verða ósigrandi. Kíron hafði semsagt særst illa og var sárþjáður því sár hans greru ekki, en þar sem hann var ódauðlegur þá gat hann ekki dáið þó hann vildi það helst af öllu. Þannig urðu til nokkur viðskipti. Prómeþeifur, sem var fæddur dauðlegur, bauð Krítoni rétt sinn til að deyja í skiptum fyrir ódauðleika Krítons. Þannig urðu báðir frjálsir.

Prómeþeifi er refsað með sömu meðulum og hann hafði syndgað með. Allt frá þeirri stundu er hann vildi færa mönnunum kjötið, og þá sérstaklega lifrina sem var útvalinn hluti fórnardýrsins – því úr henni mátti lesa hvort guðinn væri sáttur við fórnina – allt frá þeirri stundu verður hans eigin lifur uppáhaldsfæða arnar Seifs. Örninn er merki hinnar guðdómlegu eldingar, hann er burðardýr eldsins sem Seifur ræður yfir, eldibrandurinn. Þannig sjáum við í vissum skilningi endurkomu eldsins sem Prómeþeifur rændi, allt í gegnum hinn guðdómlega örn sem þannig verður sér úti um lifrarbita úr líkama hans í veislu sem engan enda tekur.

Baburen_Rijksmuseum_Prometheus_being_chained_by_Vulcan_1623

Dirk van Barburen: Hefaistos hlekkjar Prómeþeif, Hermes horfir á. 1623

Við þetta má bæta atriði sem einnig skiptir máli. Prómeþeifur er tvíræð mannvera, og hlutverk hans í heimi guðanna er alls ekki á hreinu. Sagan af lifrinni sem er etin á degi hverjum og sem endurnýjar sig á sérhverri nóttu sýnir okkur að til eru að minnsta kosti þrjár gerðir tíma og lífskrafts. Það er tími guðanna, eilífðin, þar sem ekkert gerist, allt er þegar til staðar og ekkert hverfur. Síðan höfum við tíma mannanna sem er línulagað ferli er stefnir stöðugt í eina átt, menn fæðast, vaxa, verða fullvaxta, eldast og deyja. Allar lifandi verur eru undirlagðar þessum tíma. Eins og Platon segir þá er þetta tími sem flæðir eftir beinni línu. Síðan höfum við þriðja tímann sem lifur Prómeþeifs er til vitnis um. Það er tími sem fer í hringi eða fram og aftur. Hann felur í sér tilvist ekki ólíka þeirri sem við sjáum á tunglinu sem vex og minnkar þar til það hverfur og birtist svo á ný, allt til eilífðarnóns. Tími Prómeþeifs er hliðstæður tíma plánetanna, þessum hringferlum sem innrita sig í tímann og gera hann þannig mælanlegan. Þetta er ekki eilífð guðanna og heldur ekki hinn jarðneski tími, þessi dauðlegi tími sem flæðir stöðugt í eina átt. Það er sá tími sem heimspekingarnir geta kallað hina hreyfanlegu mynd hinnar hreyfingarlausu eilífðar.

Sjálfur stendur Prómeþeifur og lifur hans mitt á milli hins línulega tíma mannanna og eilífðar guðanna. Hlutverk hans sem sáttasemjara í þessari sögu virðist augljóst. Við sjáum Prómeþeif hlekkjaðan á milli himins og jarðar á miðri súlu í eins konar millibili á milli þess órafjarlæga tíma þar sem mennirnir lifðu innan um guðina í ríki ekki-dauðans eða ódauðleikans og þess tíma hinna dauðlegu sem nú eru aðskildir frá guðunum og ofurseldir dauðanum og flaumi tímans. Rétt eins og stjörnurnar á himnum þá er lifur Prómeþeifs það sem skapar takt og mælikvarða á hina guðdómlegu eilífð og gegnir þannig sáttahlutverki á milli heims guða og manna.

 

%d bloggers like this: