Boðflenna tómhyggjunnar og hið tilfinningalega ólæsi
… unga fólkinu líður illa, jafnvel þótt það geri sér ekki grein fyrir því. Ekki vegna þeirrar hefðbundnu tilvistarkreppu sem einkennir uppvaxtarárin, heldur vegna þess að boðflenna hefur gert sig heimakomna í húsi þess, gegnsýrt hugsanirnar og smeygt sér inn í tilfinningalífið, máð út framtíðardraumana, deyft ástríðurnar og sogið úr þeim allt blóð.
Fjölskyldurnar eru felmtri slegnar, skólinn er ráðþrota, einungis markaðurinn sýnir unga fólkinu áhuga með því að leiða það á vit skemmtanalífsins og neyslunnar, þar sem neyslan beinist ekki að þeim hlutum sem úreldast jafnóðum, heldur að sjálfu lífi unga fólksins, þessu lífi sem megnar ekki lengur að setja sér framtíðarmarkmið fagurra fyrirheita. Þannig snýst lífið um að upplifa núið af sem mestri ákefð, ekki vegna þess að það sé uppspretta gleði, heldur vegna þess að það getur jarðað angistina sem alltaf gerir vart við sig þegar landslagið tekur á sig mynd merkingarlausrar eyðimerkur.
Þessi dökka mynd af líðan unga fólksins í samtímanum eru upphafsorðin í bók ítalska heimspekingsins Umberto Galimberti "L'ospite inquietante - il nichilismo e i giovani" frá árinu 2007, sem ég þýddi á íslensku á útgáfuárinu og kallaði "Boðflennan, -unga fólkið og tómhyggjan". Þýðingin náði aldrei athygli útgefandans og lenti því í gagnabanka á skýinu, en þetta var metsölubók á Ítalíu er varðaði tilvistarvanda unga fólksins og stöðu þess andspænis óvirku skólakerfi, ráðalausum foreldrum og samfélagi er bauð ekki lengur upp á þá björtu framtíðarsýn og vonir sem foreldrakynslóð eftirstríðsáranna hafði fundið í sívaxandi tækniframförum, hagvexti og neyslu. Það sem blasti við Galimberti var mynd hinnar "merkingarlausu eyðimerkur" samtímans. Það er einkenni ritstíls Galimberti að tala tæpitungulaust og ráðast beint að umfjöllunarefni sínu án málalenginga, og rétt að taka þessi orð hans með þeim fyrirvara. En þó þessi bók sé orðin 16 ára gömul er eins og gildi hennar sanni sig enn og aftur í þeirri umræðu sem nú hefur enn einu sinni vaknað til lífsins hér á landi í tilefni mælinganiðurstaðna hins evrópska skólaverkefnis sem kennt er við borgina Pisa, og varðar lesskilning unga fólksins okkar og vanmátt skólans, heimilanna og samfélagsins, andspænis vanda sem enn einu sinni er gjarnan túlkaður sem tæknilegur og kennslufræðilegur vandi, en Galimberti vill kenna við "tilfinningalegt ólæsi" er eigi sé djúpstæðari forsendur en nokkur lestækni eða kennslufæði nær að höndla, og varðar skilning okkar á hinum ómælanlegu gildum mennskunar sem endanlega liggja til grundvallar sérhverri menningu, hvort sem hún býr við auðlegð eða fátækt, hátækni eða handverkssamfélag. Það eru þau gildi sem Galimberti sér nú á hverfanda hveli með vísun í kenningar Nietzsche um tómhyggjuna sem hann kallaði kjarna og "boðflennu" tæknisamfélags iðnbyltingarinnar. Inngangsorð Galimberti halda áfram í þessari lýsingu hans á tilfinningalegri vanlíðan unga fólksins í samtímanum: "Ef ungt fólk er beðið um að lýsa vanlíðan sinni, þá skortir það orðin til þess, því það hefur þegar náð því stigi tilfinningalegs ólæsis sem aftrar því að bera kennsl á eigin tilfinningar og þá sérstaklega að gefa þeim nafn. Og hvaða nafn á svo sem að gefa því tómi sem hefur sest um unga fólkið og heltekið það? Á þessari eyðimerkurgöngu mannlegra samskipta, þar sem ekki er lengur að finna neinn hljómgrunn innan fjölskyldunnar og skólinn er líka hættur að vekja áhuga, kafna öll orð í fæðingu sem geta hvatt til dáða eða boðað örvandi framtíðarsýn. Þetta orðleysi á sér ekki betri samsvörun en ópið, sem stundum nær að rjúfa þykka brynju þagnarinnar er umlykur einsemd þeirrar leyndu depurðar sem einkennir tímalaust sálarástand þess er býr undir ofríki boðflennunnar, sem Nietzsche kallar „tómhyggju”.Því er það að orðin sem vísa til vonarinnar, einlægu orðin og hvatningarorðin, orð fyrirheitanna og orðin sem vilja lina hina leyndu þjáningu, eru á sveimi í kringum unga fólkið eins og ærandi hávaði sem enginn nemur." Galimberti leggur í bók sinni megináherslu á að sérhver menntun er staðið geti undir því orði, sé sé ávöxtur tilfinningalegrar ástríðu, og að ekkert "læsi" eða "lesskilningur" hafi menntunargildi ef hinn tilfinningalegi hvati köllunarinnar er ekki til staðar. Árangursríkt skólastarf byggist ekki bara á lestækni, heldur á sjálfsmynd og sjálfsmati einstaklingsins og þar með á tilfinningalegri köllun er beinist að vonum um bjartari framtíð og heilsteyptara samfélag. Ég man enn eftir því þegar við gengum undir lestrarpróf skeiðklukkunnar í Austurbæjarskólanum á 5. áratug síðustu aldar. Þá var skeiðklukkan mælikvarði á lestrarkunnáttu, og ekki spurt um skilning. Hinn nýi mælikvarði evrópsku Pisa-verkefnisins hefur vissulega sagt skilið við skeiðklukkuna og reynt að mæla getu unga fólksins til að nýta sér lestur við notagildið: hvernig nýtist lestrarkunnáttan við að skilja þann flókna heim sem samtími okkar býður uppá, og þar virðast mællikvarðarnir alls staðar sýna minnkandi árangur, og þar eru íslensk ungmenni sögð reka lestina samkvæmt könnunarstuðli Pisa. Ekki kann ég skil á þeirri mælitækni sem stuðst er við í þessum samanburði, en hitt virðist nokkuð ljóst, ef marka má skilning Galimberti, að mælikvarðarnir á tilfinningalíf unga fólksins koma þar lítt við sögu, enda vandséð hvernig bregða eigi mælistiku á tilfinningalífið: hjartað kallar á aðra hugsun en rökvísin og verður ekki greint í prósentum. Engu að síður stöndum við frammi fyrir þeirri staðreynd, að ekki er hægt að tala um árangur í menntastarfi ef hann er ekki borinn fram af ástríðu tilfinninga og jákvæðri sjálfsímynd. Það sem Galimberti vill segja okkur í bók sinni er að skólinn, fjölskyldan og samfélagið hafi vanmetið gildi hins tilfinningalega læsis og eina leiðin til að leiðrétta þá afturför sem Pisa-mælingarnar sýna, ekki bara á Íslandi, heldur í allri Evrópu, felist í að beina sjónum að þessum tilfinningalega vanda. Í bók sinni fer Galimberti um víðan völl í greiningu sinni á því menningarlega umhverfi sem samtími okkar býður unga fólkinu, auðvitað með sérstakri greiningu á ítölskum veruleika, og lætur enga hellulögn ósnerta, hvort sem hún felur lokaðan heim fjölskyldulífsins, skólans, skemmtanalífsins eða markaðslögmálanna. Í tilefni yfirstandandi umræðu um Pisa-samanburðinn datt mér í hug að birta örfáa kafla úr texta Galimberti, áhugafólki til umhugsunar, og staðæmdist í því vali við umfjöllun hans um það "tilfinningalega ólæsi" sem hann skilur sem eina af rótum vandans, en vafasamt er að slíkt ólæsi falli undir mælikvarða Pisa-rannsóknarinnar. Þetta er 4. kafli bókarinnar:
BOÐFLENNAN, IV. kafli
Hið tilfinningalega ólæsi
Það sem mestu máli skiptir er ósýnilegt augunum. Það sést bara með hjartanu.
De Saint-Exupèry, Litli prinsinn, 1941
1. Stafróf tilfinninganna
Við þekkjum ofsabræðina á því hvernig blóðið rennur til handanna og auðveldar þeim að grípa til vopnsins eða kreppa hnefann á meðan tíðni hjartsláttarins eykur hormónaframleiðslu, meðal annars á adrenalíni, sem framkallar nægjanlega orku til að framkvæma þróttmikinn gjörning.
Við þekkjum hræðsluna þegar blóðstreymið liggur til hinna stóru vöðva stoðkerfisins, til dæmis fótleggjanna, sem gera flóttann auðveldari, á meðan andlitið fölnar af blóðleysi.
Við þekkjum ástina með vakningu ósjálfráða taugakerfisins sem vekur viðbrögð andstæð þeim er verða í bardaganum eða á flóttanum, sem einkenna reiðina og hræðsluna.
Við þekkjum depurðina sem hægir á efnaskiptunum og gerir okkur kleift að takast á við umtalsverðan missi, ástarsorg eða dauðsfall. Hvernig maðurinn lokast inni í sjálfum sér, hvernig dofnar á öllum viðbrögðum við ytra áreiti og hvernig menn og dýr leita skjóls í felustöðum sínum til að finna öryggi þegar depurð og varnarleysi sækja á.
Nú á tímum getur taugalífeðlisfræðin sagt okkur næstum allt um tilfinningar okkar, en hún hefur ekki ennþá sagt okkur það sem Aristóteles fjallar um í riti sínu Um mælskulistina ( Retorica, Bók II, 1378 a). þar sem segir: „Tilfinningarnar tengjast vitsmunalegu starfi þar sem þær láta segjast af sannfæringunni.” Þetta merkir að hægt sé að mennta tilfinningalíf okkar, og ef við viljum betra samfélag, þá þarf að mennta það.
Við lesum daglega fréttir af brjálæðiskenndum voðaverkum sem spretta af stjórnlausum hvötum. Þannig lesum við um skrifstofukonur sem voru drepnar fyrir framan tölvur sínar, um nágranna sem reyna að nauðga konunni í næsta húsi, um stúlkur sem boðið er í vinaheimsókn óvitandi um að þar eigi þær að lifa sitt síðasta ævikvöld, um nýfædd börn skilin eftir í ruslagámum, um börn sem drepa foreldra sína með sleggjum; vaxandi tíðni slíkra frétta hefur nú skipað Ítalíu í annað sætið á eftir Bandaríkjunum hvað slíka atburði varðar.
Við þetta bætist hraðvaxandi aukning þunglyndistilfella, eða þreföldun meðal þeirra sem eru fæddir eftir 1945, miðað við afa þeirra og ömmur. Og hlutfall sjálfsvíga hefur stóraukist, einkum meðal unga fólksins, sem þjáist vegna misheppnaðrar skólagöngu, vonbrigða í ástalífinu eða jafnvel vegna efnahagsvandamála, sem er dæmigert fyrir háþróuð þjóðfélög þar sem peningar eru mælikvarði allra hluta.
Hvernig tengist allt þetta menntun tilfinninganna?
Þetta tengist vegna þess að sá sem ekki hefur lært stafróf tilfinninganna, sá sem hefur látið rætur hjartans visna, hann berst um heiminn haldinn óljósum ótta, og er þess vegna stöðugt í ofbeldisfullri viðbragðsstöðu sem oft tengist vænisýki, og hneigist til að líta á náungann sem mögulegan óvin, sem vert sé að óttast eða ráðast gegn. Harmleikir eins og þeir sem hér voru raktir eru þess eðlis að ekki er hægt að afgreiða þá með yfirborðskenndum hætti sem „sálfræðileg tilfelli” sem þannig er stungið undir stól. Tíðni slíkra tilfella skyldar okkur öll til alvarlegri umhugsunar.
2. Grundvallartraustið
Hefur unga fólkið okkar enn til að bera sál sem er þess megnug að vinna úr árekstrum og halda að sér höndum samfara slíkri úrvinnslu?
Getum við fundið í menningu þess og lífsstíl þá tilfinningalegu menntun, sem gerir því kleift að tengjast, og þar með þekkja tilfinningar sínar, ástríður sínar, gæði kynlífsins og birtingarmyndir árásarhneigðar sinnar? Eða er því kannski þannig varið, að tilfinningaheimurinn lifi innra með því, án þess að það viti af því, rétt eins og ókunnur gestur sem það kann ekki einu sinni að nefna á nafn? Ef sú væri raunin, þá getum við búist við að tíðni atburða á borð við þá sem áður voru taldir aukist til muna, því erfitt er að ímynda sér hvernig hægt er að hafa stjórn á eigin lífi án fullnægjandi sjálfsþekkingar.
Hér er ég ekki að tala um eftirá-þekkingu sem kann að draga einhvern sem er kominn á unglings- eða fullorðinsárin til geðlæknis í leit að sál sinni, eða jafnvel í lyfjabúðina í tilraun til þess að deyfa hana. Hér er ég að fjalla um þá aðhlynningu tilfinningalífsins sem hefst með fæðingunni, þegar nýburinn grípur um brjóst móðurinnar og finnur með móðurmjólkinni umönnunina, skeytingarleysið eða höfnunina. Þetta eru hreyfingar sem hinn utanaðkomandi skynjar ekki, en ráða samt úrslitum um menntun nýburans í þeim heita kjarna sem Michail Balint kallar svo, eða það „grundvallartraust”, sem er frumforsenda þess að vera í heiminum án þess að vera þjakaður af angist (Sjá: M. Balint, Primary Love and Psycho-analytic Technique (1952)).
Síðan kemur þroskinn, og í uppeldisaðferðum frumbernskunnar sé ég marga feður og mæður sem örva líkamlega og vitsmunalega menntun barna sinna, en ekki þá tilfinningalegu menntun, sem er menntun til þess að finna til, að hrífast og að hræðast. Allt þetta lærir barnið af sjálfu sér eftir mætti, en þó fyrst og fremst með þeim tækjum sem því standa ekki til boða.
Það er farið úr íþróttasalnum í sundlaugina, því börnin þurfa að fá fallegan líkama; það er farið úr einni útskýringunni í aðra, stundum yfirborðslega, stundum svolítið betur, og stundum með útúrsnúningi, því það þarf að þroska skilningsgáfuna, en hver eru þau óbeinu samskipti sem eiga sér stað meðan á öllu þessu stendur, og menn finna meira fyrir með maganum en höfðinu, þessi óbeinu samskipti sem segja til um hvort móðurinni eða föðurnum sé treystandi, því við finnum fyrir nálægð þeirra á fyrstu óvissusporum lífsins? Aðhlynning líkamans, aðhlynning skilningsins, en hversu mikil aðhlynning sálarinnar?
Hér þreifa hinir fullorðnu fyrir sér í nokkurri óvissu. Þeir miðla ástinni í gegnum hlutina sem þeir kaupa í stórum stíl til að fullnægja þeim löngunum og þrám ungabarnsins sem tóm samskiptanna vekur, þetta tóm sem gerir strax vart við sig með viljaleysinu, sleninu, í andófinu og í alvarlegustu en jafnframt duldustu tilfellunum, í uppgjöf þunglyndisins.
Á þessu tímaskeiði, sem einkennist af mjög miklu ytra áreiti og örvun samfara samskiptaleysi, verðum við vör við fyrstu merkin um það tilfinningalega afskiptaleysi sem verður æ algengara á okkar tímum og veldur því að barnið finnur engan tilfinningalegan hljómgrunn andspænis þeim atvikum og því viðmóti sem mætir því.
Hvernig skyldi standa á þessu?
Það er skortur á tilfinningalegri menntun. Fyrst í fjölskyldunni, þar sem börnin eyða tíma sínum í kyrrlátri einsemd með húslyklana í vasanum og sjónvarpið sem barnapíu. Svo í skólanum undir oft og tíðum grámyglulegu augnaráði kennaranna, þar sem þau hlusta á gagnslausa orðræðu, sem vísar í menningu sem er í órafjarlægð frá því sem sjónvarpið hefur boðið þeim upp á sem grundvöll tilfinningalegra viðbragða.
Þannig er þetta brothætta, daufa og innhverfa tilfinningalíf, sem skólinn forðast að mennta, það veltist um í þessu lífleysi sem óvirkt nám tölvuleikjanna og internetsins hefur vanið unga fólkið á, með tilheyrandi flóttaleiðum inn í draumana eða goðsögurnar, í fálmkenndri leit að sjálfsmynd. Því miður gerir vanmátturinn við að greina rætur eigin tilfinninga það að verkum að efasemdirnar um að útlínur sjálfsmyndarinnar verði greindar vakna allt of snemma.
Allt er þetta litað gagnrýnislausri neyslu sem ofgnóttarsamfélagið gerir mögulega, þar sem hlutirnir eru þegar í boði áður en löngunin til þeirra vaknar, þannig að það er ekki löngunin sem kallar á þá – og þeirra er neytt af áhugaleysi og yfirdrepsskap einstaklingshyggjunnar, þar sem fylling hlutanna mætir tómi hinna töpuðu tilfinningasambanda.
3. Menntun tilfinninganna
Til þess að fylgja þessari röksemdafærslu eftir þurfum við að átta okkur á því að tilfinningin felst fyrst og fremst í tengslum. Við getum lesið tilfinningalegar gáfur okkar út úr gæðum tilfinningatengsla okkar. Skólinn gæti eflt þessar gáfur með því að innleiða lestrarkennslu tilfinninganna, sem Daniel Goleman nefndi réttilega svo, þannig að auk stærðfræðinnar og tungumálanna verði einnig þjálfuð hæfni í grundvallaratriðum persónulegra tengslamyndana, en þær eiga rætur sínar í elstu tilfinningamiðstöðvum heilans og hafa gert manninum kleift að hefja sögu sína og vegferð.(Sbr: D. Goleman, Intelligenza emotiva (1995)).
Hér kemur í hugann sú kenning Eugenio Scalfari að siðferðið sé eðlishvöt, sú eðlisávísun samstöðunnar sem tryggir varðveislu tegundarinnar til þess að lifa af, oft í andstöðu við hina einstaklingsbundnu eðlishvöt. Þeir voru ófáir sem hristu hausinn yfir þessari smættun siðferðisins niður á svið eðlishvatarinnar, eftir að hafa íklætt siðferðið hefðarfullum skartklæðum. En Goleman staðfestir þessa tilgátu:
Þar sem menntun tilfinninganna leiðir okkur til hluttekningarinnar sem fólgin er í að lesa tilfinningar annarra og þar sem umhyggja fyrir öðrum getur ekki orðið án skynjunar á þörfum og vanlíðan annarra, þá liggja rætur óeigingirninnar í hluttekningunni sem menn öðlast með menntun tilfinninganna, sem leyfir hverjum og einum að sýna það siðferðisþrek sem tímar okkar þarfnast svo mikið: sjálfsstjórn og samkennd.[5]
Nú á tímum, þegar allar tölfræðimælingar benda til þess að okkar kynslóð búi við fleiri tilfinningavandamál en fyrri kynslóðir, er menntun tilfinninganna látin sitja á hakanum. Þetta veldur því að yngsta fólkið býr við meiri einsemd, er þunglyndara, ofstopafyllra, uppreisnargjarnara, taugaveiklaðra, hvatvísara, árásargjarnara og ver undir lífið búið, vegna þess að það býr ekki yfir þeim tilfinningalegu meðulum sem eru nauðsynleg til að öðlast eiginleika eins og sjálfsskilning, sjálfstjórn, hluttekningu. Vissulega geta menn talað án þessara eiginleika, en ekki hlustað, ekki leyst deilur eða unnið saman.
Það er vert að ráðleggja þeim kennurum sem standa í því á hverjum degi að fella dóma um vitsmunalega getu nemenda sinna, að hugleiða fyrst hversu mikla tilfinningamenntun þeir hafa veitt nemendunum, því þeir geta í það minnsta ekki falið það fyrir sjálfum sér að vitsmunirnir og lærdómurinn nýtast ekki ef þeir fá ekki næringu frá hjartanu.
Ef skólinn er ekki alltaf fær um að veita þá sálfræðilegu menntun sem gerir ekki bara kröfur um vitsmunalegan, heldur líka tilfinningalegan þroska, þá gæti samfélagið kannski veitt síðasta tækifærið, ef gildi þess væru ekki einskorðuð við neyslu, frama, peninga, ímynd og varðveislu einkalífsins, heldur fælu einnig í sér svolítinn vott af samstöðu, tengslamyndunum, samskiptum og samhjálp, sem geta demprað þau andfélagslegu einkenni er auðkenna æ meir kjarnafjölskylduna í menningu okkar.
4. Hið sviðna hjarta
Á okkar tímum er það sem gerist innan veggja heimilisins innibirgt og ekki til umræðu, og það sem gerist utan veggja þess er meðhöndlað með þeim huliðsblæjum sem við berum á degi hverjum til þess að gæta þess að ekkert verði upplýst um þau tilfinningaátök, gleðina og sorgina, sem menn upplifa innan vel verndaðra veggja heimilisins.
Í eyðimörk þeirra tilfinningalegu samskipta sem við fengum aldrei að læra sem ungabörn, sem við kynntumst aldrei sem unglingar og sem okkur hefur verið kennt að halda í skefjum á fullorðinsaldri, kemur verknaðurinn upp á yfirborðið, sérstaklega hinn ofbeldisfulli verknaður, sem kemur í stað allra orðanna sem við höfum látið ósögð, bæði við náungann -vegna sjálfsprottinnar tortryggni- og við sjálf okkur – vegna tilfinningalegs málstols.
Þess vegna þarf það að gerast áður en við leggjumst á sálfræðibekkinn, þar sem skipst er á orðum gegn greiðslu sem og kunnugt er, og áður en við látum lyfin kæfa endanlega öll orðin sem gætu gert okkur kleift að fjalla um og kynnast sálarástandi okkar; fyrst þurfum við að átta okkur á nauðsyn fyrirbyggjandi tilfinningalegrar menntunar sem svo lítil færi gefast á í fjölskyldunni, skólanum eða samfélaginu,.
Þetta á sérstaklega við um okkar samfélag, sem hefur þróað með sér einstaklingshyggju, valmöguleika og frelsi sem voru óþekkt í fyrri samfélögum er sátu föst í viðjum fátæktar og trúarhefða sem virkuðu eins og varnarmúrar. Sem betur fer eru þessar viðjar nú rofnar, en spurningin er hvort sú nýja einstaklingshyggja, sem er að festast í sessi, sé þess umkomin að fylla upp í það rými frelsis og einsemdar sem henni standa til boða. Ég tel að svo sé ekki.
Vegna þessa er mikið verk að vinna í forvarnarstarfi sálrænnar menntunar (en ekki bara menntunar líkamans og rökvísinnar) til þess að menn séu í stakk búnir að takast á við þennan samtíma okkar sem hefur lokað öllum umhugsunarleiðum, gert samskiptaleiðirnar marklausar en umfram allt sviðið hjartað, sem er líffærið sem við notum til að finna, áður en við gerum okkur grein fyrir, hvað er hið góða og hvað er hið illa.
En hver tekur að sér að hlúa að hjartanu á okkar dögum? Hjartanu í dýpstu merkingu þess orðs, eins og Pascal lýsir því þegar hann talar um esprit de finesse er eigi að ríma við esprit de géometrie (Sbr: B. Pascal, Pensées § 21) það er að segja við rökhugsun okkar, sem án hjartans verður ekki bara björt og köld, heldur frumorsök hins illa, þess algilda illa sem lýst er í Mósebók, þegar dregin er upp mynd af Lúsífer og hann sagður „hinn gáfaðasti meðal englanna” (Sbr: 1.Mósebók, 3, 1.)
5. Eyðimörk tilfinninganna
Við höfum kynnst geðveikinni sem ofvirkni ástríðunnar. Við sjáum sjúkdómseinkennin, við vitum til hvers þau geta leitt, við sjáum fyrir okkur mögulegar afleiðingar. Á okkar tímum verður þess hins vegar æ meira vart meðal unga fólksins að geðveikin taki á sig mynd kulda og rökhyggju, sé fullkomlega dulin og brjótist út við ófyrirsjáanlegustu aðstæður sem enginn getur séð fyrir eða grunað að séu í aðsigi.
Það átti til dæmis við um stúlkurnar þrjár af millistétt í bænum Sondrio sem fyrir fáum árum drápu nunnu. Þannig var það einnig í Sesto San Giovanni þar sem drengur, sem einnig var af vel stæðu heimili, lenti í fangelsi fyrir að hafa stungið vinkonu sína með hnífi á skólalóðinni. Sama má segja um atburð í borginni Padovu, þar sem piltur drap föður sinn, sem var háskólaprófessor, og lagði síðan eld að líkinu í húsgarðinum.
Það eru ekki mörg ár liðin frá því að stúlka ein í bænum Novi Ligure, sem dagblöðin sögðu fallega og gáfaða, alda upp í góðri fjölskyldu og menntaða í einkaskóla á vegum kirkjunnar, stakk móður sína 40 hnífsstungum og bróður sinn 56, í samvinnu við kærasta sinn og jafnaldra. Dögum saman stóðst hún yfirheyrslur lögreglunnar án þess að sýna minnstu tilfinningaleg viðbrögð.
Það sem öll þessi tilvik eiga sameiginlegt er skelfilegt tilefnisleysið. Það er andspænis því ófyrirsjáanlega, því sem enginn getur látið sig gruna, sem sú frumlæga angist brýst fram sem fyrstu mennirnir upplifðu þegar þeir stóðu frammi fyrir heimi sem þeir kunnu hvorki að lesa út úr né greina.
Þegar ekkert tilefni er sjáanlegt, þegar æðið sem venjulega fylgir geðveikum gjörningum er ekki til staðar, þá þarf að grafa enn dýpra til að skilja hvaða einstaklingar það séu og hvernig þeir séu gerðir, sem framkvæma svo hryllilega verknaði án þess að sýna nokkur tilfinningaleg viðbrögð.
Þessi einkenni eru þekkt í geðlæknisfræðinni þar sem þau eru flokkuð undir „geðröskun“ [psicopatia] eða „félagsfötlun“ [sociopatia]. Sá sem er haldinn geðröskun er fær um að fremja hryllilegustu gjörninga án þess að þeir virðist snerta hann hið minnsta tilfinningalega. Hjartað er ekki í tengslum við hugsunina og hugsunin ekki í tengslum við verknaðinn. En er enginn sem gerir sér grein fyrir því hversu útbreitt þetta fyrirbæri er meðal ungs fólks?
Tilhneigingin virðist vera sú að horfa framhjá vandanum. Góð menntun, sérstaklega það borgaralega uppeldi sem kennir að menn eigi að halda öllum tilfinningalegum öfgum í skefjum, hefur sniðið fyrir þessa krakka klæði góðrar hegðunar, staðlaðs tungutaks og stjórnar á tilfinningalífinu, þannig að þau eru eins og brynjuð, og nákomnir ættingjar eiga enga möguleika á að skilja hvað þeir eru að hugsa. Að baki liggur skortur á eðlilegum tilfinningaþroska sem hefur tæmt tilfinningalífið og gert það bæði óvirkt og tjáningalaust, þannig að atburðir lífsins fara framhjá þessu fólki án nokkurrar þátttöku, án eðlilegra tilfinningalegra viðbragða gagnvart því sem gerist.
Betur settar fjölskyldur búa yfirleitt yfir góðum menningarlegum jarðvegi, þar sem jafnan er brugðist við vandamálunum með yfirveguðum hætti ef við þeim er brugðist á annað borð, þar sem fólk hækkar aldrei róminn, þar sem ekki er grátið og ekki hlegið, og þó fyrst og fremst þar sem samskipti eru óvirk, því þegar börnin hafa veitt sínar upplýsingar um hvað sé að gerast í skólanum og hvenær þau komi heim eftir skemmtanir laugardagskvöldsins, þá fá þau að njóta sjálfstæðis síns. Undir yfirborðinu er hins vegar falinn grímuklæddur ótti foreldranna við að opna þá ráðgátu sem börn þeirra eru orðin þeim.
Það á við um börnin eins og dýrin, að þau finna á sér þegar foreldrarnir eru óttaslegnir, og þegar slíkar áhyggjur eru ekki til staðar finna þau í staðinn fyrir tilfinningalegu afskiptaleysi foreldranna. Þessi börn velferðarinnar og rökhyggjunnar sem hafa verið ein frá því þau voru agnarlítil, geymd í umsjá sjónvarpsins eða í vörslu leiguliða barnapíanna, þau vaxa upp með ærslafullu hjarta í byrjun, hjarta sem kallar á tilfinningalega umhyggju, en þegar þessi umhyggja gerir ekki vart við sig, þá taka þau vonbrigðin út fyrirfram með kaldhæðni til þess að verja sig gegn því svari ástarinnar sem þau óttast að muni aldrei koma.
Á þessu þroskastigi verður það hjarta, sem eitt sinn var ærslafullt og ákallandi, flatt og innilokað, reiðubúið að gefa sig ýmist á vald depurðarinnar eða leiðindanna. Og þegar tilfinningalegir stormar skella á hjarta sem er skrælnað vegna þess að það hefur ekki verið vökvað, þá dregur það sig inn í skel sína með óvinnandi varnarmúrum sem styrktir eru með góðu uppeldisreglunum, kurteisinni og líkamsræktinni sem þau hafa fengið í vel búnum líkamsræktarstöðvum rökhyggjunnar.
Er þá ekki allt í sómanum? Á yfirborðinu verður ekki annað séð en svo sé. Það gengur ekki svo illa í skólanum, þau kunna sig og klæða sig líka vel, og gríman sem þau bera að því er virðist áreynslulaust, ber vott um fullkomna þjálfun.
Kynlífið, þegar því er til að dreifa, er tæknilegt og líkamlegt, því þessir krakkar hegða sér „frjálslega”, þau dansa með krampakenndum hætti á diskótekunum, saman með öllum hinum í einsemd sinni. Smáskammtur af alsælu [ecstasy] gefur það létta tilfinningastuð sem á vantar, en það er ekki til umtals, það er gert til að tolla í tískunni, til þess að vera eins og hinir sem tilheyra „hópnum”, líka vel menntuðum hópi, í þeirri von að vinirnir veiti þær leifar tilfinningalegrar huggunar, sem hjarta þeirra þyrstir réttilega í, rétt eins og það væri sjálfstætt líffæri.
En svo kemur að því að allt springur í loft upp. Spenna rökhyggjunnar sem aldrei hefur blandast tilfinningunum, varðstaðan um kurteisisreglurnar sem eru löngu orðnar eitt með skortinum á einlægninni og getur verið ómeðvituð, leiðinn sem hvílir eins og mara á tilfinningalífinu og kemur í veg fyrir að það verði í takt við umheiminn, búa til þessa eitruðu blöndu sem jarðar égið hjá þessum ólánssömu ungmennum, þannig að þau bregðast við í þriðju persónu með gjörðum sem saga mannsins á erfitt með að heimfæra upp á sjálfa sig.
Þetta eru gjörðir sem réttarfarið á erfitt með að meðhöndla, og þar með líka samfélagið, sem stöðugt leitar að tilefni verknaðarins til að friða sjálft sig. En tilefnið er í raun og veru ekki til staðar, eða ef það er til staðar, þá er það í svo miklu ósamræmi við harmleikinn vegna þess að gerendurnir gera sér ekki grein fyrir því. Leitin að tilefninu ber okkur langt í burt, eins langt og líf gerendanna leiðir okkur til uppruna síns, eftir lífsbraut sem hefur veitt kennslu í öllu nema því að skapa tengsl á milli tilfinninganna og hugans, milli hugans og hegðunarinnar, og á milli hegðunarinnar og þess tilfinningalega enduróms sem atburðir heimsins hafa stimplað í hjarta þeirra.
Þessar tengingar, sem gera manninn að manni, hafa aldrei myndast og því verða til ævisögur er geta leitt til gjörninga sem eru sögunum svo ótengdir að þeir verða ekki einu sinni skynjaðir sem eigin gjörningar. Einmitt vegna þess að hjartað er ekki í tengslum við hugsunina, og hugsunin ekki í tengslum við hegðunina, vegna þess að hin tilfinningalegu samskipti hafa brugðist, og um leið menntun hjartans sem er það líffæri er lætur okkur finna áður en við hugsum, finna hvað sé rétt og hvað sé ranglátt, hver ég er og hvað ég geri í þessum heimi.
6. Sálarstyrkurinn
Nú á tímum er það kallað „álagsþol” [resilienza], einu sinni var það kallað „sálarstyrkur“ [forza d’animo], en Platon kallaði það thymoeidés og staðsetti það í hjartanu (Sbr: Ríkið, Bók IV, 440b-440e). Hjartað er myndlíking fyrir tilfinninguna, orð sem ennþá endurómar hið platónska thymoneidés.
Tilfinningin er ekki tilfinningasemi, ekki illa dulin depurð, hún er ekki tæring sálarinnar, ekki óhuggandi einsemd. Tilfinningin er kraftur. Sá kraftur sem við finnum á bak við hverja ákvörðun. Þegar við höfum greint alla kosti og galla tiltekinnar röksemdafærslu þá tökum við ákvörðun vegna þess að við finnum sjálf okkur betur í einu vali en öðru. Sá er ekki sæll sem vegna hagræðis eða veikleika velur leið sem ekki er hans, sá er ekki sæll sem verður sem ókunnugur í eigin lífi.
Sálarstyrkurinn, sem er ekkert annað en kraftur tilfinninganna, ver okkur gegn þessari firringu, lætur okkur finna að við erum heima hjá okkur, með sjálfum okkur. Þar er heilsuna að finna. Eins konar samsvörun við okkur sjálf, sem forðar okkur frá öllum þeim „útisetum” [altrove] lífsins sem við leiðumst oft inn á vegna þess að aðrir, sem við teljum okkur háð, fara einfaldlega fram á það, og við kunnum ekki að segja nei.
Þörfin fyrir viðurkenningu og löngunin til þess að vera elskaður leiða okkur inn á brautir sem tilfinningarnar segja okkur að séu ekki okkar eigin, og þannig veiklast sálarstyrkurinn og lætur undan sjálfum sér í gagnslausri eftirsókn eftir því að þóknast öðrum. Á endanum veikist sálin, því eins og við öll vitum þá er veikin myndlíking, myndlíking fyrir útafaksturinn [devianza] á vegslóð lífsins.
Það þarf að mennta unga fólkið til að verða það sjálft, algjörlega það sjálft. Í því er sálarstyrkurinn fólginn. En til þess að vera við sjálf þurfum við að taka okkar eigin skugga opnum örmum. Hann er það í okkur sjálfum sem við höfum afneitað. Myrkur hluti sem fær okkur til að finnast við „hæfð í hjartastað” þegar einhver snertir við honum. Því skugginn er lifandi og vill vera meðtekinn. Myndverk sem er án skugga lætur ekki í ljós innihald sitt. Þegar skugginn hefur verið meðtekinn veitir hann okkur af krafti sínum. Þá hættir stríð okkar við okkur sjálf og því getum við sagt: „Já einmitt, ég er líka þetta.” Og sá friður sem þannig vinnst veitir okkur þann sálarstyrk og kjark sem þarf til að horfast í augu við sársaukann, án þess að flýja á náðir sjálfsblekkingarinnar.(Sbr. C.G. Jung, Aion. Beiträge zur Symbolik der Selbst (1951), kafli 2: “Der Schatte”)
„Allt það sem ekki gerir út af við mig gerir mig sterkari.”, skrifar Nietzsche (Sjá Nachgelassene Fragmente (1888-89)). Þess vegna er okkur nauðsynlegt að ganga í gegnum þau landsvæði sem eru sáð sársaukanum, en reyna ekki að flýja þau. Þau svæði sem tilheyra okkur sjálfum og þau sem tilheyra öðrum. Því sársaukinn tilheyrir lífinu með sama rétti og hamingjan. Ekki sá sársauki sem er ávísun á eilíft líf, heldur sársaukinn sem óhjákvæmilegur kontrapúnktur lífsins, sem hin daglega mæða, eins og myrkur þeirrar sýnar sem ekki greinir undankomuleið. Engu að síður leitar hún hennar, því hún veit að næturmyrkrið er ekki eini litur himinsins.
Það er ekki síst unga fólkið sem þarf á sálarstyrk að halda á okkar tímum. Það nýtur ekki lengur baklands hefðarinnar, því lögmálstöflurnar sem geymdu siðalögmálin eru brotnar, tilgangur tilverunnar er horfinn og stefna hennar í algjörri óvissu. Sagan segir ekki lengur frá lífi forfeðranna, og þau orð sem feðurnir beina til sona sinna og dætra eru í senn mörkuð öryggisleysi og óvissu. Augnaráð þeirra mætast, en oft til þess eins að forðast hvort annað.
Engu að síður er það svo að þó unga fólkið játi það aldrei, þá bíður það eftir einhverju eða einhverjum er ferji það áfram, því úthafið sem það siglir á er ógnvekjandi, einnig þegar útlit þess er draumkennt. Áhættan sem það tekur þegar því tekst að sneiða hjá ýtrustu lausnum er sú að eyða ævistundunum án tilfinninga, án göfgi, villuráfandi meðal þess smáfólks sem lætur sér nægja, samkvæmt Nietzsche, að lifa á „einum duttlungi fyrir daginn og öðrum fyrir nóttina, bara að heilsan sé í lagi.” („Man hat sein Lüstchen für den Tag und seinen Lüstchen für die Nacht: aber man ehrt die Gesundheit“). Þannig tapar smáfólkið sambandinu við sjálft sig í hávaða heimsins.
Almennar smáástríður eru á sveimi í útbrunnum sálum þessara ungmenna, en ná ekki að vekja þær. Þær skortir þróttinn. Það er búið að róa þær niður með þeim lífsfyrirmyndum sem blásnar eru út sem jafnvægi og góð menntun, en eru í raun svefn, meðalmennska og gleymska eigin sjálfs. Það vantar hugrekki sæfarans sem hefur með myndlíkingu Nietzsche „yfirgefið landið sem var einungis verndarsvæði, látið alla fortíðarþrá lönd og leið, en talið kjark í hjarta sitt.“ (Sbr: F. Nietzsche, Svo mælti Zaraþústra; Bók III: “Innsiglin sjö” bls. 230). Hjarta sem er ekki tilfinningasamt mótvægi rökhugsunarinnar heldur kraftur hennar, lífgjafi hennar allt þar til hugmyndirnar sem eru uppblásnar af ástríðum verða virkar og marka söguna. Sögu sem eykur fullnægjuna.