LESSKILNINGUR OG TILFINNINGALEGT ÓLÆSI – Umberto Galimberti

 

Boðflenna tómhyggjunnar og hið tilfinningalega ólæsi

… unga fólkinu líður illa, jafnvel þótt það geri sér ekki grein fyrir því. Ekki vegna þeirrar hefðbundnu tilvistarkreppu sem einkennir uppvaxtarárin, heldur vegna þess að boðflenna hefur gert sig heimakomna í húsi þess, gegnsýrt hugsanirnar  og smeygt sér inn í tilfinningalífið, máð út framtíðardraumana, deyft  ástríðurnar og sogið úr þeim allt blóð.

Fjölskyldurnar eru felmtri slegnar, skólinn er ráðþrota, einungis markaðurinn sýnir unga fólkinu áhuga með því að leiða það á vit skemmtanalífsins og neyslunnar, þar sem neyslan beinist ekki að þeim hlutum sem úreldast jafnóðum, heldur að sjálfu lífi unga fólksins, þessu lífi sem megnar ekki lengur að setja sér framtíðarmarkmið fagurra fyrirheita. Þannig snýst lífið um að upplifa núið af sem mestri ákefð, ekki vegna þess að það sé uppspretta gleði, heldur vegna þess að það getur jarðað angistina sem alltaf gerir vart við sig þegar landslagið tekur á sig mynd  merkingarlausrar eyðimerkur.

Þessi dökka mynd af líðan unga fólksins í samtímanum eru upphafsorðin í bók ítalska heimspekingsins Umberto Galimberti "L'ospite inquietante - il nichilismo e i giovani" frá árinu 2007, sem ég þýddi á íslensku á útgáfuárinu og kallaði "Boðflennan, -unga fólkið og tómhyggjan". Þýðingin náði aldrei athygli útgefandans og lenti því í gagnabanka á skýinu, en þetta var metsölubók á Ítalíu er varðaði tilvistarvanda unga fólksins og stöðu þess andspænis óvirku skólakerfi, ráðalausum foreldrum og samfélagi er bauð ekki lengur upp á þá björtu framtíðarsýn og vonir sem foreldrakynslóð eftirstríðsáranna hafði fundið í sívaxandi tækniframförum, hagvexti og neyslu. Það sem blasti við Galimberti var mynd hinnar "merkingarlausu eyðimerkur" samtímans.

Það er einkenni ritstíls Galimberti að tala tæpitungulaust og ráðast beint að umfjöllunarefni sínu án málalenginga, og rétt að taka þessi orð hans með þeim fyrirvara. En þó þessi bók sé orðin 16 ára gömul er eins og gildi hennar sanni sig enn og aftur í þeirri umræðu sem nú hefur enn einu sinni vaknað til lífsins hér á landi í tilefni mælinganiðurstaðna hins evrópska skólaverkefnis sem kennt er við borgina Pisa, og varðar lesskilning unga fólksins okkar og vanmátt skólans, heimilanna og samfélagsins, andspænis vanda sem enn einu sinni er gjarnan túlkaður sem tæknilegur og kennslufræðilegur vandi, en Galimberti vill kenna við "tilfinningalegt ólæsi" er eigi sé djúpstæðari forsendur en nokkur lestækni eða kennslufæði nær að höndla, og varðar skilning okkar á hinum ómælanlegu gildum mennskunar sem endanlega liggja til grundvallar sérhverri menningu, hvort sem hún býr við auðlegð eða fátækt, hátækni eða handverkssamfélag. Það eru þau gildi sem Galimberti sér nú á hverfanda hveli með vísun í kenningar Nietzsche um tómhyggjuna sem hann kallaði kjarna og "boðflennu" tæknisamfélags iðnbyltingarinnar.

Inngangsorð Galimberti halda áfram í þessari lýsingu hans á tilfinningalegri vanlíðan unga fólksins í samtímanum:

"Ef ungt fólk er beðið um að lýsa vanlíðan sinni, þá skortir það orðin til þess, því það hefur þegar náð því stigi tilfinningalegs ólæsis sem aftrar því að bera kennsl á eigin tilfinningar og þá sérstaklega að gefa þeim nafn. Og hvaða nafn á svo sem að gefa því tómi sem hefur sest um unga fólkið og heltekið það? Á þessari eyðimerkurgöngu mannlegra samskipta, þar sem ekki er lengur að finna neinn hljómgrunn innan fjölskyldunnar og skólinn er líka hættur að vekja áhuga, kafna öll orð í fæðingu sem geta hvatt til dáða eða boðað örvandi framtíðarsýn. Þetta orðleysi á sér ekki betri samsvörun en ópið, sem stundum nær að rjúfa þykka brynju þagnarinnar er umlykur einsemd þeirrar leyndu depurðar sem einkennir tímalaust sálarástand þess er býr undir ofríki boðflennunnar, sem Nietzsche kallar „tómhyggju”.Því er það að orðin sem vísa til vonarinnar,  einlægu orðin og hvatningarorðin, orð fyrirheitanna og orðin sem vilja lina hina leyndu þjáningu, eru á sveimi í kringum unga fólkið eins og ærandi hávaði sem enginn nemur."

Galimberti leggur í bók sinni megináherslu á að sérhver menntun er staðið geti undir því orði, sé sé ávöxtur tilfinningalegrar ástríðu, og að ekkert "læsi" eða "lesskilningur" hafi menntunargildi ef hinn tilfinningalegi hvati köllunarinnar er ekki til staðar. Árangursríkt skólastarf byggist ekki bara á lestækni, heldur á sjálfsmynd og sjálfsmati einstaklingsins og þar með á tilfinningalegri köllun er beinist að vonum um bjartari framtíð og heilsteyptara samfélag.

Ég man enn eftir því þegar við gengum undir lestrarpróf skeiðklukkunnar í Austurbæjarskólanum á 5. áratug síðustu aldar. Þá var skeiðklukkan mælikvarði á lestrarkunnáttu, og ekki spurt um skilning. Hinn nýi mælikvarði evrópsku Pisa-verkefnisins hefur vissulega sagt skilið við skeiðklukkuna og reynt að mæla getu unga fólksins til að nýta sér lestur við notagildið: hvernig nýtist lestrarkunnáttan við að skilja þann flókna heim sem samtími okkar býður uppá, og þar virðast mællikvarðarnir alls staðar sýna minnkandi árangur, og þar eru íslensk ungmenni sögð reka lestina samkvæmt könnunarstuðli Pisa.

Ekki kann ég skil á þeirri mælitækni sem stuðst er við í þessum samanburði, en hitt virðist nokkuð ljóst, ef marka má skilning Galimberti, að mælikvarðarnir á tilfinningalíf unga fólksins koma þar lítt við sögu, enda vandséð hvernig bregða eigi mælistiku á tilfinningalífið: hjartað kallar á aðra hugsun en rökvísin og verður ekki greint í prósentum. Engu að síður stöndum við frammi fyrir þeirri staðreynd, að ekki er hægt að tala um árangur í menntastarfi ef hann er ekki borinn fram af ástríðu tilfinninga og jákvæðri sjálfsímynd. Það sem Galimberti vill segja okkur í bók sinni er að skólinn, fjölskyldan og samfélagið hafi vanmetið gildi hins tilfinningalega læsis og eina leiðin til að leiðrétta þá afturför sem Pisa-mælingarnar sýna, ekki bara á Íslandi, heldur í allri Evrópu, felist í að beina sjónum að þessum tilfinningalega vanda.

Í bók sinni fer Galimberti um víðan völl í greiningu sinni á því menningarlega umhverfi sem samtími okkar býður unga fólkinu, auðvitað með sérstakri greiningu á ítölskum veruleika, og lætur enga hellulögn ósnerta, hvort sem hún felur lokaðan heim fjölskyldulífsins, skólans, skemmtanalífsins eða markaðslögmálanna. Í tilefni yfirstandandi umræðu um Pisa-samanburðinn datt mér í hug að birta örfáa kafla úr texta Galimberti, áhugafólki til umhugsunar, og staðæmdist í því vali við umfjöllun hans um það "tilfinningalega ólæsi" sem hann skilur sem eina af rótum vandans, en vafasamt er að slíkt ólæsi falli undir mælikvarða Pisa-rannsóknarinnar. Þetta er 4. kafli bókarinnar:

BOÐFLENNAN, IV. kafli

Hið tilfinningalega ólæsi

 

Það sem mestu máli skiptir er ósýnilegt augunum. Það sést bara með hjartanu.

De Saint-Exupèry, Litli prinsinn, 1941

1. Stafróf tilfinninganna

Við þekkjum ofsabræðina á því hvernig blóðið rennur til handanna og auðveldar þeim að grípa til vopnsins eða kreppa hnefann á meðan tíðni hjartsláttarins eykur hormónaframleiðslu, meðal annars á adrenalíni, sem framkallar nægjanlega orku til að framkvæma þróttmikinn gjörning.

Við þekkjum hræðsluna þegar blóðstreymið liggur til hinna stóru vöðva stoðkerfisins, til dæmis fótleggjanna, sem gera flóttann auðveldari, á meðan andlitið fölnar af blóðleysi.

Við þekkjum ástina með vakningu ósjálfráða taugakerfisins sem vekur viðbrögð andstæð þeim er verða í bardaganum eða á flóttanum, sem einkenna reiðina og hræðsluna.

Við þekkjum depurðina sem hægir á efnaskiptunum og gerir okkur kleift að takast á við umtalsverðan missi, ástarsorg eða dauðsfall. Hvernig maðurinn lokast inni í sjálfum sér, hvernig dofnar á öllum viðbrögðum við ytra áreiti og hvernig menn og dýr leita skjóls í felustöðum sínum til að finna öryggi þegar depurð og varnarleysi sækja á.

Nú á tímum getur taugalífeðlisfræðin sagt okkur næstum allt um tilfinningar okkar, en hún hefur ekki ennþá sagt okkur það sem Aristóteles fjallar um í riti sínu Um mælskulistina ( Retorica, Bók II, 1378 a). þar sem segir: „Tilfinningarnar tengjast vitsmunalegu starfi þar sem þær láta segjast af sannfæringunni.” Þetta merkir að hægt sé að mennta tilfinningalíf okkar, og ef við viljum betra samfélag, þá þarf að mennta það.

Við lesum daglega fréttir af brjálæðiskenndum voðaverkum sem spretta af stjórnlausum hvötum. Þannig lesum við um skrifstofukonur sem voru drepnar fyrir framan tölvur sínar, um nágranna sem reyna að nauðga konunni í næsta húsi, um stúlkur sem boðið er í vinaheimsókn óvitandi um að þar eigi þær að lifa sitt síðasta ævikvöld, um nýfædd börn skilin eftir í ruslagámum, um börn sem drepa foreldra sína með sleggjum; vaxandi tíðni slíkra frétta hefur nú skipað Ítalíu í annað sætið á eftir Bandaríkjunum hvað slíka atburði varðar.

Við þetta bætist hraðvaxandi aukning þunglyndistilfella, eða þreföldun meðal þeirra sem eru fæddir eftir 1945,  miðað við afa þeirra og ömmur. Og hlutfall sjálfsvíga hefur stóraukist, einkum meðal unga fólksins, sem þjáist vegna misheppnaðrar skólagöngu, vonbrigða í ástalífinu eða jafnvel vegna efnahagsvandamála, sem er dæmigert fyrir  háþróuð þjóðfélög þar sem peningar eru mælikvarði allra hluta.

Hvernig tengist allt þetta menntun tilfinninganna?

Þetta tengist vegna þess að sá sem ekki hefur lært stafróf tilfinninganna, sá sem hefur látið rætur hjartans visna, hann berst um heiminn haldinn óljósum ótta, og er þess vegna stöðugt í ofbeldisfullri viðbragðsstöðu sem oft tengist vænisýki, og hneigist til að líta á náungann sem mögulegan óvin, sem vert sé að óttast eða ráðast gegn. Harmleikir eins og þeir sem hér voru raktir eru þess eðlis að ekki er hægt að afgreiða þá  með yfirborðskenndum hætti sem „sálfræðileg tilfelli” sem þannig er stungið undir stól. Tíðni slíkra tilfella skyldar okkur öll til alvarlegri umhugsunar.

2. Grundvallartraustið

Hefur unga fólkið okkar enn til að bera sál sem er þess megnug að vinna úr árekstrum og halda að sér höndum samfara slíkri úrvinnslu?

Getum við fundið í menningu þess og lífsstíl þá tilfinningalegu menntun, sem gerir því kleift að tengjast, og þar með þekkja tilfinningar sínar, ástríður sínar, gæði kynlífsins og birtingarmyndir árásarhneigðar sinnar? Eða er því kannski þannig varið, að tilfinningaheimurinn lifi innra með því, án þess að það viti af því, rétt eins og ókunnur gestur sem það kann ekki einu sinni að nefna á nafn? Ef sú væri raunin, þá getum við  búist við að tíðni atburða  á borð við þá sem áður voru taldir aukist til muna, því erfitt er að ímynda sér hvernig hægt er að hafa stjórn á eigin lífi án fullnægjandi sjálfsþekkingar.

Hér er ég ekki að tala um eftirá-þekkingu sem kann að draga einhvern sem er kominn á unglings- eða fullorðinsárin til geðlæknis í leit að sál sinni, eða jafnvel í lyfjabúðina í tilraun til þess að deyfa hana. Hér er ég að fjalla um þá aðhlynningu tilfinningalífsins sem hefst með fæðingunni, þegar nýburinn grípur um brjóst móðurinnar og finnur með móðurmjólkinni umönnunina, skeytingarleysið eða höfnunina. Þetta eru hreyfingar sem hinn utanaðkomandi skynjar ekki, en ráða samt úrslitum um menntun nýburans í þeim heita kjarna sem Michail Balint kallar svo, eða það „grundvallartraust”, sem er frumforsenda þess að vera í heiminum án þess að vera þjakaður af angist (Sjá: M. Balint, Primary Love and Psycho-analytic Technique (1952)).

Síðan kemur þroskinn, og í uppeldisaðferðum frumbernskunnar sé ég marga feður og mæður sem örva líkamlega og vitsmunalega menntun barna sinna, en ekki þá tilfinningalegu menntun, sem er menntun til þess að finna til, að hrífast og að hræðast. Allt þetta lærir barnið af sjálfu sér eftir mætti, en þó fyrst og fremst með þeim tækjum sem því standa ekki til boða.

Það er farið úr íþróttasalnum í sundlaugina, því börnin þurfa að fá fallegan líkama; það er farið úr einni útskýringunni í aðra, stundum yfirborðslega, stundum svolítið betur, og stundum með útúrsnúningi, því það þarf að þroska skilningsgáfuna, en hver eru þau óbeinu samskipti sem eiga sér stað meðan á öllu þessu stendur, og menn finna meira fyrir með maganum en höfðinu, þessi óbeinu samskipti sem segja til um hvort móðurinni eða föðurnum sé treystandi, því við finnum fyrir nálægð þeirra á fyrstu óvissusporum lífsins? Aðhlynning líkamans, aðhlynning skilningsins, en hversu mikil aðhlynning sálarinnar?

Hér þreifa hinir fullorðnu fyrir sér í nokkurri óvissu. Þeir miðla ástinni í gegnum hlutina sem þeir kaupa í stórum stíl til að fullnægja þeim löngunum og þrám ungabarnsins sem tóm samskiptanna vekur, þetta tóm sem gerir strax vart við sig með viljaleysinu, sleninu, í andófinu og í alvarlegustu en jafnframt duldustu tilfellunum, í uppgjöf þunglyndisins.

Á þessu tímaskeiði, sem einkennist af mjög miklu ytra áreiti og örvun samfara  samskiptaleysi, verðum við vör við fyrstu merkin um það tilfinningalega afskiptaleysi sem verður æ algengara á okkar tímum og veldur því að barnið finnur engan tilfinningalegan hljómgrunn  andspænis þeim atvikum og því viðmóti sem mætir því.

Hvernig skyldi standa á þessu?

Það er skortur á tilfinningalegri menntun. Fyrst í fjölskyldunni, þar sem börnin eyða tíma sínum í kyrrlátri einsemd með húslyklana í vasanum og sjónvarpið sem barnapíu. Svo í skólanum undir oft og tíðum grámyglulegu augnaráði kennaranna, þar sem þau hlusta á gagnslausa orðræðu, sem vísar í menningu sem er í órafjarlægð frá því sem sjónvarpið hefur boðið þeim upp á sem grundvöll tilfinningalegra viðbragða.

Þannig er þetta brothætta, daufa og innhverfa tilfinningalíf, sem skólinn forðast að mennta, það veltist um í þessu lífleysi sem óvirkt nám tölvuleikjanna og  internetsins hefur vanið unga fólkið á, með tilheyrandi flóttaleiðum inn í draumana eða goðsögurnar, í fálmkenndri leit að sjálfsmynd. Því miður gerir vanmátturinn við að greina rætur eigin tilfinninga það að verkum að efasemdirnar um að útlínur sjálfsmyndarinnar verði greindar vakna allt of snemma.

Allt er þetta litað gagnrýnislausri neyslu sem ofgnóttarsamfélagið gerir mögulega, þar sem hlutirnir eru þegar í boði áður en löngunin til þeirra vaknar, þannig að það er ekki löngunin sem kallar á þá – og þeirra er neytt af áhugaleysi og yfirdrepsskap einstaklingshyggjunnar, þar sem fylling hlutanna mætir tómi hinna töpuðu  tilfinningasambanda.

3. Menntun tilfinninganna

Til þess að fylgja þessari röksemdafærslu eftir þurfum við að átta okkur á því að tilfinningin felst fyrst og fremst í tengslum. Við getum lesið tilfinningalegar gáfur okkar út úr gæðum tilfinningatengsla okkar. Skólinn gæti eflt þessar gáfur með því að innleiða lestrarkennslu tilfinninganna, sem Daniel Goleman nefndi réttilega svo, þannig að auk stærðfræðinnar og tungumálanna verði einnig þjálfuð hæfni í grundvallaratriðum persónulegra tengslamyndana, en þær eiga rætur sínar í elstu tilfinningamiðstöðvum heilans  og hafa gert manninum kleift að hefja sögu sína og vegferð.(Sbr: D. Goleman, Intelligenza emotiva (1995)).

Hér kemur í hugann sú kenning Eugenio Scalfari að siðferðið sé eðlishvöt, sú eðlisávísun samstöðunnar sem tryggir varðveislu tegundarinnar til þess að lifa af, oft í andstöðu við hina einstaklingsbundnu eðlishvöt. Þeir voru ófáir sem hristu hausinn yfir þessari smættun siðferðisins niður á svið eðlishvatarinnar, eftir að hafa íklætt siðferðið hefðarfullum skartklæðum. En Goleman staðfestir þessa tilgátu:

Þar sem menntun tilfinninganna leiðir okkur til hluttekningarinnar sem fólgin er í að lesa tilfinningar annarra og þar sem umhyggja fyrir öðrum getur ekki orðið án skynjunar á þörfum og vanlíðan annarra, þá liggja rætur óeigingirninnar í hluttekningunni sem menn öðlast með menntun tilfinninganna, sem leyfir hverjum og einum að sýna það siðferðisþrek sem tímar okkar þarfnast svo mikið: sjálfsstjórn og samkennd.[5]

Nú á tímum, þegar allar tölfræðimælingar benda til þess að okkar kynslóð búi við fleiri tilfinningavandamál en fyrri kynslóðir, er menntun tilfinninganna látin sitja á hakanum. Þetta veldur því að yngsta fólkið býr við meiri einsemd, er þunglyndara, ofstopafyllra, uppreisnargjarnara, taugaveiklaðra, hvatvísara, árásargjarnara og ver undir lífið búið, vegna þess að það býr ekki yfir þeim tilfinningalegu meðulum  sem eru nauðsynleg til að öðlast eiginleika eins og sjálfsskilning, sjálfstjórn, hluttekningu. Vissulega geta menn talað án þessara eiginleika, en ekki hlustað, ekki leyst deilur eða unnið saman.

Það er vert að ráðleggja þeim kennurum sem  standa í því á hverjum degi að fella dóma um vitsmunalega getu nemenda sinna, að hugleiða fyrst hversu mikla tilfinningamenntun þeir hafa veitt nemendunum, því þeir geta í það minnsta ekki falið það fyrir sjálfum sér að vitsmunirnir og lærdómurinn nýtast ekki ef þeir fá ekki næringu frá hjartanu.

Ef skólinn er ekki alltaf fær um að veita þá sálfræðilegu menntun sem gerir ekki bara kröfur um vitsmunalegan, heldur líka tilfinningalegan þroska, þá gæti samfélagið kannski veitt síðasta tækifærið, ef gildi þess væru ekki einskorðuð við neyslu, frama, peninga, ímynd og varðveislu einkalífsins, heldur fælu einnig í sér svolítinn vott af samstöðu, tengslamyndunum, samskiptum og samhjálp, sem geta demprað þau andfélagslegu einkenni er auðkenna æ meir kjarnafjölskylduna í menningu okkar.

4. Hið sviðna hjarta

Á okkar tímum er það sem gerist innan veggja heimilisins innibirgt og ekki til umræðu, og það sem gerist utan veggja þess er meðhöndlað með þeim huliðsblæjum sem við berum á degi hverjum til þess að gæta þess að ekkert verði upplýst um þau tilfinningaátök, gleðina og sorgina, sem menn upplifa innan vel verndaðra veggja heimilisins.

Í eyðimörk þeirra tilfinningalegu samskipta sem við fengum aldrei að læra sem ungabörn, sem við kynntumst aldrei sem unglingar og sem okkur hefur verið kennt að halda í skefjum á fullorðinsaldri, kemur verknaðurinn upp á yfirborðið, sérstaklega hinn ofbeldisfulli verknaður, sem kemur í stað allra orðanna sem við höfum látið ósögð, bæði við náungann -vegna sjálfsprottinnar tortryggni- og við sjálf okkur – vegna tilfinningalegs málstols.

Þess vegna þarf það að gerast áður en við leggjumst á sálfræðibekkinn, þar sem skipst er á orðum gegn greiðslu sem og kunnugt er, og áður en við látum lyfin kæfa endanlega öll orðin sem gætu gert okkur kleift að fjalla um og kynnast sálarástandi okkar; fyrst þurfum við að átta okkur á nauðsyn fyrirbyggjandi tilfinningalegrar menntunar sem svo lítil færi gefast á í fjölskyldunni, skólanum eða samfélaginu,.

Þetta á sérstaklega við um okkar samfélag, sem hefur þróað með sér einstaklingshyggju, valmöguleika og frelsi sem voru óþekkt í fyrri samfélögum er sátu föst í viðjum fátæktar og  trúarhefða sem virkuðu eins og varnarmúrar. Sem betur fer eru þessar viðjar nú rofnar, en spurningin er hvort sú nýja einstaklingshyggja, sem er að festast í sessi, sé þess umkomin að fylla upp í það rými frelsis og einsemdar sem henni standa til boða. Ég tel að svo sé ekki.

Vegna þessa er mikið verk að vinna í forvarnarstarfi sálrænnar menntunar (en ekki bara menntunar líkamans og rökvísinnar) til þess að menn séu í stakk búnir að takast á við þennan samtíma okkar sem hefur lokað öllum umhugsunarleiðum, gert samskiptaleiðirnar marklausar en umfram allt sviðið hjartað, sem er líffærið sem við notum til að finna, áður en við gerum okkur grein fyrir, hvað er hið góða og hvað er hið illa.

En hver tekur að sér að hlúa að hjartanu á okkar dögum? Hjartanu í dýpstu merkingu þess orðs, eins og Pascal lýsir því þegar hann talar um esprit de finesse er eigi að ríma við esprit de géometrie (Sbr: B. Pascal, Pensées § 21)   það er að segja við rökhugsun okkar, sem án hjartans verður ekki bara björt og köld, heldur frumorsök hins illa, þess algilda illa sem lýst er í Mósebók, þegar dregin er upp mynd af Lúsífer og hann sagður „hinn gáfaðasti meðal englanna” (Sbr: 1.Mósebók, 3, 1.)

5. Eyðimörk tilfinninganna

Við höfum kynnst geðveikinni sem ofvirkni ástríðunnar. Við sjáum sjúkdómseinkennin, við vitum til hvers þau geta leitt, við sjáum fyrir okkur  mögulegar afleiðingar. Á okkar tímum verður þess hins vegar æ meira vart meðal unga fólksins að geðveikin taki á sig mynd kulda og rökhyggju, sé fullkomlega dulin og brjótist út við ófyrirsjáanlegustu aðstæður sem enginn getur séð fyrir eða grunað að séu í aðsigi.

Það átti til dæmis við um stúlkurnar þrjár af millistétt í bænum Sondrio sem fyrir fáum árum drápu nunnu. Þannig var það einnig í Sesto San Giovanni þar sem drengur, sem einnig var af vel stæðu heimili, lenti í fangelsi fyrir að hafa stungið vinkonu sína með hnífi á skólalóðinni. Sama má segja um atburð í borginni Padovu, þar sem piltur drap föður sinn, sem var háskólaprófessor, og lagði síðan eld að líkinu í húsgarðinum.

Það eru ekki mörg ár liðin frá því  að stúlka ein í bænum Novi Ligure, sem dagblöðin sögðu fallega og gáfaða, alda upp í góðri fjölskyldu og menntaða í einkaskóla á vegum kirkjunnar, stakk móður sína 40 hnífsstungum og bróður sinn 56, í samvinnu við kærasta sinn og jafnaldra. Dögum saman stóðst hún yfirheyrslur lögreglunnar án þess að sýna minnstu tilfinningaleg viðbrögð.

Það sem öll þessi tilvik eiga sameiginlegt er skelfilegt tilefnisleysið. Það er andspænis því ófyrirsjáanlega, því sem enginn getur látið sig gruna, sem sú frumlæga angist brýst fram sem fyrstu mennirnir upplifðu þegar þeir stóðu frammi fyrir heimi sem þeir kunnu hvorki að lesa út úr né greina.

Þegar ekkert tilefni er sjáanlegt, þegar æðið sem venjulega fylgir geðveikum gjörningum er ekki til staðar, þá þarf að grafa enn dýpra til að skilja hvaða einstaklingar það séu og hvernig þeir séu gerðir, sem framkvæma svo hryllilega verknaði án þess að sýna nokkur tilfinningaleg viðbrögð.

Þessi einkenni eru þekkt í geðlæknisfræðinni þar sem þau eru flokkuð undir „geðröskun“ [psicopatia] eða „félagsfötlun“ [sociopatia]. Sá sem er haldinn geðröskun er fær um að fremja hryllilegustu gjörninga án þess að þeir virðist snerta hann hið minnsta tilfinningalega. Hjartað er ekki í tengslum við hugsunina og hugsunin ekki í tengslum við verknaðinn. En er enginn sem gerir sér grein fyrir því hversu útbreitt þetta fyrirbæri er meðal ungs fólks?

Tilhneigingin virðist vera sú að horfa framhjá vandanum. Góð menntun, sérstaklega það borgaralega uppeldi sem kennir að menn eigi að halda öllum tilfinningalegum öfgum í skefjum, hefur sniðið fyrir þessa krakka klæði góðrar hegðunar, staðlaðs tungutaks og stjórnar á tilfinningalífinu, þannig að þau eru eins og brynjuð, og nákomnir ættingjar eiga enga möguleika á að skilja hvað þeir eru að hugsa. Að baki liggur skortur á eðlilegum tilfinningaþroska sem hefur tæmt tilfinningalífið og gert það bæði óvirkt og tjáningalaust, þannig að atburðir lífsins fara framhjá þessu fólki án nokkurrar þátttöku, án eðlilegra tilfinningalegra viðbragða gagnvart því sem gerist.

Betur settar fjölskyldur búa yfirleitt yfir góðum menningarlegum jarðvegi, þar sem jafnan er brugðist við vandamálunum með yfirveguðum hætti ef við þeim er brugðist á annað borð, þar sem fólk hækkar aldrei róminn, þar sem ekki er grátið og ekki hlegið, og þó fyrst og fremst þar sem samskipti eru óvirk, því þegar börnin hafa veitt sínar upplýsingar um hvað sé að gerast í skólanum og hvenær þau komi heim eftir skemmtanir laugardagskvöldsins, þá fá þau að njóta sjálfstæðis síns. Undir yfirborðinu er hins vegar falinn grímuklæddur ótti foreldranna við að opna þá ráðgátu sem börn þeirra eru orðin þeim.

Það á við um börnin eins og dýrin, að þau finna á sér þegar foreldrarnir eru óttaslegnir, og þegar slíkar áhyggjur eru ekki til staðar finna þau í staðinn fyrir tilfinningalegu afskiptaleysi foreldranna. Þessi börn velferðarinnar og rökhyggjunnar sem hafa verið ein frá því þau voru agnarlítil, geymd í umsjá sjónvarpsins eða í vörslu leiguliða barnapíanna, þau vaxa upp með ærslafullu hjarta í byrjun, hjarta sem kallar á tilfinningalega umhyggju, en þegar þessi umhyggja gerir ekki vart við sig, þá taka þau vonbrigðin út fyrirfram með kaldhæðni til þess að verja sig gegn því svari ástarinnar sem þau óttast að muni aldrei koma.

Á þessu þroskastigi verður það hjarta, sem eitt sinn var ærslafullt og ákallandi, flatt og innilokað, reiðubúið að gefa sig ýmist á vald depurðarinnar eða leiðindanna.  Og þegar tilfinningalegir stormar skella á hjarta sem er skrælnað vegna þess að það hefur ekki verið vökvað, þá dregur það sig inn í skel sína með óvinnandi varnarmúrum sem styrktir eru með góðu uppeldisreglunum, kurteisinni og líkamsræktinni sem þau hafa fengið í vel búnum líkamsræktarstöðvum rökhyggjunnar.

Er þá ekki allt í sómanum? Á yfirborðinu verður ekki annað séð en svo sé. Það gengur ekki svo illa í skólanum, þau kunna sig og klæða sig líka vel, og gríman sem þau bera að því er virðist áreynslulaust, ber vott um fullkomna þjálfun.

Kynlífið, þegar því er til að dreifa, er tæknilegt og líkamlegt, því þessir krakkar hegða sér „frjálslega”, þau dansa með krampakenndum hætti á diskótekunum, saman með öllum hinum í einsemd sinni. Smáskammtur af alsælu [ecstasy] gefur það létta tilfinningastuð sem á vantar, en það er ekki til umtals, það er gert til að tolla í tískunni, til þess að vera eins og hinir sem tilheyra „hópnum”, líka vel menntuðum hópi, í þeirri von að vinirnir veiti þær leifar tilfinningalegrar huggunar, sem hjarta þeirra þyrstir réttilega í, rétt eins og það væri sjálfstætt líffæri.

En svo kemur að því að allt springur í loft upp. Spenna rökhyggjunnar sem aldrei hefur blandast tilfinningunum, varðstaðan um kurteisisreglurnar sem eru löngu orðnar eitt með skortinum á einlægninni og getur verið ómeðvituð, leiðinn sem hvílir eins og mara á tilfinningalífinu og kemur í veg fyrir að það verði í takt við umheiminn, búa til þessa eitruðu blöndu sem jarðar égið hjá þessum ólánssömu ungmennum, þannig að þau bregðast við í þriðju persónu með gjörðum sem saga mannsins á erfitt með að heimfæra upp á sjálfa sig.

Þetta eru gjörðir sem réttarfarið á erfitt með að meðhöndla, og þar með líka samfélagið, sem stöðugt leitar að tilefni verknaðarins til að friða sjálft sig. En tilefnið er í raun og veru ekki til staðar, eða ef það er til staðar, þá er það í svo miklu ósamræmi við harmleikinn vegna þess að gerendurnir gera sér ekki grein fyrir því. Leitin að tilefninu ber okkur langt í burt, eins langt og líf gerendanna leiðir okkur til uppruna síns, eftir lífsbraut sem hefur veitt kennslu í öllu  nema því að skapa tengsl á milli tilfinninganna og hugans, milli hugans og hegðunarinnar, og á milli hegðunarinnar og þess tilfinningalega enduróms sem atburðir heimsins hafa stimplað í hjarta þeirra.

Þessar tengingar, sem gera manninn að manni, hafa aldrei myndast og því verða til ævisögur er geta leitt til gjörninga sem eru sögunum svo ótengdir að þeir verða ekki einu sinni skynjaðir sem eigin gjörningar. Einmitt vegna þess að hjartað er ekki í tengslum við hugsunina, og hugsunin ekki í tengslum við hegðunina, vegna þess að hin tilfinningalegu samskipti hafa brugðist, og um leið menntun hjartans sem er það líffæri er lætur okkur finna  áður en við hugsum, finna hvað sé rétt og hvað sé ranglátt, hver ég er og hvað ég geri í þessum heimi.

6. Sálarstyrkurinn

Nú á tímum er það kallað „álagsþol” [resilienza], einu sinni var það kallað „sálarstyrkur“ [forza d’animo], en Platon kallaði það thymoeidés og staðsetti það í hjartanu (Sbr: Ríkið, Bók IV, 440b-440e). Hjartað er myndlíking fyrir tilfinninguna, orð sem ennþá endurómar hið platónska thymoneidés.

Tilfinningin er ekki tilfinningasemi, ekki illa dulin depurð, hún er ekki tæring sálarinnar, ekki óhuggandi einsemd. Tilfinningin er kraftur. Sá kraftur sem við finnum á bak við hverja ákvörðun. Þegar við höfum greint alla kosti og galla tiltekinnar röksemdafærslu þá tökum við ákvörðun vegna þess að við finnum sjálf okkur betur í einu vali en öðru. Sá er ekki sæll sem vegna hagræðis eða veikleika velur leið sem ekki er hans, sá er ekki sæll sem verður sem ókunnugur í eigin lífi.

Sálarstyrkurinn, sem er ekkert annað en kraftur tilfinninganna, ver okkur gegn þessari firringu, lætur okkur finna að við erum heima hjá okkur, með sjálfum okkur. Þar er heilsuna að finna. Eins konar samsvörun við okkur sjálf, sem forðar okkur frá öllum þeim „útisetum”  [altrove] lífsins sem við leiðumst oft inn á vegna þess að aðrir, sem við teljum okkur háð, fara einfaldlega fram á það, og við kunnum ekki að segja nei.

Þörfin fyrir viðurkenningu og löngunin til þess að vera elskaður leiða okkur inn á brautir sem tilfinningarnar segja okkur að séu ekki okkar eigin, og þannig veiklast sálarstyrkurinn og lætur undan sjálfum sér í gagnslausri eftirsókn eftir því að þóknast öðrum. Á endanum veikist sálin, því eins og við öll vitum þá er veikin myndlíking, myndlíking fyrir útafaksturinn [devianza] á vegslóð lífsins.

Það þarf að mennta unga fólkið til að verða það sjálft, algjörlega það sjálft.  Í því er sálarstyrkurinn fólginn.  En til þess að vera við sjálf þurfum við að taka okkar eigin skugga opnum örmum.  Hann er það í okkur sjálfum sem við höfum afneitað. Myrkur hluti sem fær okkur til að finnast við „hæfð í hjartastað” þegar einhver snertir við honum. Því skugginn er lifandi og vill vera meðtekinn. Myndverk sem er án skugga lætur ekki í ljós innihald sitt. Þegar skugginn hefur verið meðtekinn veitir hann okkur af krafti sínum. Þá hættir stríð okkar við okkur sjálf og því getum við sagt: „Já einmitt, ég er líka þetta.” Og sá friður sem þannig vinnst veitir okkur þann sálarstyrk og kjark sem þarf til að horfast í augu við sársaukann, án þess að flýja á náðir sjálfsblekkingarinnar.(Sbr. C.G. Jung, Aion. Beiträge zur Symbolik der Selbst (1951), kafli 2: “Der Schatte”)

„Allt það sem ekki gerir út af við mig gerir mig sterkari.”, skrifar Nietzsche (Sjá Nachgelassene Fragmente (1888-89)). Þess vegna er okkur nauðsynlegt að ganga í gegnum þau landsvæði sem eru sáð sársaukanum, en reyna ekki að flýja þau. Þau svæði sem tilheyra okkur sjálfum og þau sem tilheyra öðrum.  Því sársaukinn tilheyrir lífinu með sama rétti og hamingjan. Ekki sá sársauki sem er ávísun á eilíft líf, heldur sársaukinn sem óhjákvæmilegur kontrapúnktur lífsins, sem hin daglega mæða, eins og myrkur þeirrar sýnar sem ekki greinir undankomuleið. Engu að síður leitar hún hennar, því hún veit að næturmyrkrið er ekki eini litur himinsins.

Það er ekki síst unga fólkið sem þarf á sálarstyrk að halda á okkar tímum. Það nýtur ekki lengur baklands hefðarinnar, því lögmálstöflurnar sem geymdu siðalögmálin eru brotnar, tilgangur tilverunnar er horfinn og stefna hennar í algjörri óvissu. Sagan segir ekki lengur frá lífi forfeðranna, og þau orð sem feðurnir beina til sona sinna og dætra eru í senn mörkuð öryggisleysi og óvissu. Augnaráð þeirra mætast, en oft til þess eins að forðast hvort annað.

Engu að síður er það svo að þó unga fólkið játi það aldrei, þá bíður það eftir einhverju eða einhverjum er ferji það áfram, því úthafið sem það siglir á er ógnvekjandi, einnig þegar útlit þess er draumkennt. Áhættan sem það tekur þegar því tekst að sneiða hjá ýtrustu lausnum er sú að eyða ævistundunum án tilfinninga, án göfgi, villuráfandi meðal þess smáfólks sem lætur sér nægja, samkvæmt Nietzsche, að lifa á „einum duttlungi fyrir daginn og öðrum fyrir nóttina, bara að heilsan sé í lagi.” („Man hat sein Lüstchen für den Tag und seinen Lüstchen für die Nacht: aber  man ehrt die Gesundheit“).  Þannig tapar smáfólkið sambandinu við sjálft sig í hávaða heimsins.

Almennar smáástríður eru á sveimi í útbrunnum sálum þessara ungmenna, en ná ekki að vekja þær. Þær skortir þróttinn. Það er búið að róa þær niður með þeim lífsfyrirmyndum sem blásnar eru út sem jafnvægi og góð menntun, en eru í raun svefn, meðalmennska og gleymska eigin sjálfs. Það vantar hugrekki sæfarans sem hefur með myndlíkingu Nietzsche „yfirgefið landið sem var einungis verndarsvæði, látið alla fortíðarþrá lönd og leið, en talið kjark í hjarta sitt.“ (Sbr: F. Nietzsche, Svo mælti Zaraþústra; Bók III: “Innsiglin sjö” bls. 230). Hjarta sem er ekki tilfinningasamt mótvægi  rökhugsunarinnar heldur kraftur hennar, lífgjafi hennar allt þar til hugmyndirnar sem eru uppblásnar af ástríðum verða virkar og marka söguna. Sögu sem eykur fullnægjuna.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

INTIFADA – UPPREISN Í LANDINU HELGA – IV.

Heimsókn til Taybeh, sem áður hét Efraim

 

Bærinn Taybeh, sem í Biblíunni heitir Efraim, er skammt frá Jerúsalem. Hann var einn síðasti áfangastaður Krists á leið hans til Jerúsalem og Golata. Bærinn hefur verið kristinn allt frá þeim tíma og sumir segja að það hafi verið Kristur sjálfur sem kristnaði íbúana. Eftir að Kristur hafði vakið Lasarus frá dauðum staðnæmdist hann í Efraim með lærisveinum sínum (Jóh. 11.54). Leiðsögumaður minn um Palestínu var Kólumbíumaður, en átti ættir að rekja til bæjarins. Við vorum í sömu erindagjörðum og nutum gistivináttu frændfólks hans í þessum kristna bæ.Í þessum pistli segir frá löngu samtali sem ég átti við kaþólska sóknarprestinn í bænum, föður Johnny Sansoor, áður en ég kvaddi Palestínu og hélt aftur til Amman í Jórdaníu.

„Eitt máttu vita: þegar þú kemur heim þá verður þú spurð um ástandið hérna. í þeim efnum get ég aðeins ráðlagt þér eitt: forðastu allar umræður um slíkt. Þær verða engum til gagns. Hefur þú annars orðið vör við nokkuð alvarlegt?“

„Nei.“

„Ekki ég heldur.“ „Ég get bara talað um hvað Ísrael sé yndislega fallegt land, hvað loftslagið sé gott og hvað mannlífið sé fagurt…“

„Já, einmitt…“

Þetta er brot úr samtali sem ég varð vitni að eitt kvöldið í Jerúsalem. Ég hafði verið í Ramallah um daginn og horft á hermennina skjóta á börnin. Ég varkominn til Jerúsalem eftir erfiðan dag, og hafði sest niður við útiveitingahús handan Zíon-hliðsins í hinum hebreska hluta borgarinnar. Því engar veitingar er að fá í hinum arabíska hluta hennar vegna verkfalla. Við næsta borð sátu maður og kona. Konan var breskur gyðingur í pílagrímsferð, maðurinn trúlega búsettur í Jerúsalem. Ég hafði heyrt með öðru eyranu að þau voru að ræða trúarleg málefni gyðingdómsins. Vandamál dagsins í dag afgreiddu þau með ofangreindum setningum.

Þótt ég hafi ekki haft tíma eða aðstöðu til að ferðast mikið um Ísrael á þessu ferðalagi mínu, eða  kynna mér afstöðu gyðinga þar til þeirra gífurlegu vandamála sem ég varð vitni að á herteknu svæðunum, þá ímynda ég mér að afstaða margra íbúa Ísraels mótist á þessa leið: Vandamálinu er markvisst og kerfisbundið skotið undan, eins og það sé ekki til. Þessi afstaða kemur einnig fram í ísraelskum fjölmiðlum. Þannig sagði dagblaðið Jerúsalem Post nýverið frá því að stjórnvöld hefðu tekið upp þá „mannúðlegu“ stefnu gagnvart íbúum Gaza-svæðisins að nú yrði á ný opnað fyrir þann möguleika að íbúar þess gætu sótt vinnu í Ísrael. Þess var hins vegar að engu getið að fiskimennirnir í Gaza liðu hungur af því að stjórnvöld höfðu bannað þeim að sækja sjóinn. Að jafnvel hungrið var liðtækt meðal fyrir stjórnvöld til  að kúga þetta fólk til hlýðni og undirgefni. Og að með því að kippa grundvellinum undan sjálfstæðum efnahag arabanna mátti ná sér í ódýrt vinnuafl.

Hjá kaþólskum presti í Taybeh

„Hingað til mín hefur komið fjöldi fólks, bæði kristnir menn, gyðingar og múslimar, til þess að ræða ástandið á herteknu svæðunum. Ég hef alltaf byrjað á því að spyrja viðkomandi hvort þeir hafi komið til Gaza. Hafi þeir ekki komið þangað, þá byrja ég á því að fara með fólkið þangað. Palestínuvandinn verður ekki skilinn nema menn komi þangað, og séu menn ánægðir með það sem þar fer fram, þá er kominn grundvöllur til að ræða málin. Ég frétti að þú hafir þegar verið í Gaza, og þess vegna var ég fús að ræða við þig.“

Faðir John Sansoor, sóknarprestur í Taybeh. Hann var enginn venjulegur prestur, heldur starfaði sem raunverulegur "hirðir" safnaðarins og stóð fyrir skólastarfi, sálgæslu, félagsmálum, heilugæslu og virtist með hugann við allt er varðaði bæjarfélagið. Hámenntaður maður í fornmálum, grísku, hebresku og latínu auk þess sem hann talaði bæði ensku og frönsku reiprennandi. Hann var svo bráðlifandi og fordómalaus að hann hefði kannski verið greindur með ADH-ofvirkni ef ef ekki hefðu verið tilvistarlegar aðstæður sem knúðu hann áfram. Ógleymanlegur maður. Því miður eyðilagðist myndin sem ég tók af honum, en þessa fann ég á vef kaþólsku kirkjunnar í Landinu helga.

Þetta sagði faðir John J. Sansoor, sóknarprestur í bænum Taybeh, sem hét áður Efraím, en ég átti langt samtal við hann í safnaðarheimili bæjarins kvöldið áður en ég hélt til baka frá Vesturbakkanum yfir til Amman í Jórdaníu. Bærinn Taybeh / Efraím er kristinn bær, eini hreinkristni bærinn á Vesturbakkanum að sögn, og hefur trúlega verið það allt frá dögum Krists. Bæjarbúar segja jafnvel að það hafi verið Kristur sjálfur sem kristnaði Efraím, en frá því er sagt í Jóhannesarguðspjalli (11,54) að Kristur hafi dvalið ásamt lærisveinum sínum í Efraím nokkrum dögum fyrir krossfestinguna. Í bænum eru rústir frá þessum tíma. Bærinn er um 20 km austan Jerúsalem, en þar fyrir austan tekur við eyðimörkin, Jórdandalur og norðurendi Dauðahafsins. Í bænum búa nú um 1200 kristnir arabar og um 100 múslimar. Fyrir 6 daga stríðið voru íbúarnir 3000, yfir helmingur þeirra hefur flúið vegna hernámsins.

Mikilvægi upplýsinganna

„Við höfum mikla trú á blaðamönnum. Þeir eru eins konar trúboðar okkar tíma. Þeir eiga að geta hjálpað heiminum að finna lausn á vanda okkar. Blaðamenn eiga ekki að taka afstöðu með eða á móti deiluaðilum, heldur eiga þeir að hjálpa báðum aðilum til að finna lausn vandans. Og þeir eiga að hjálpa til með að leiðrétta þá brengluðu mynd, sem heimurinn hefur fengið af vandamálum okkar,“ segir faðir Sansoor.

– Að hvaða leyti hefur heimurinn fengið brenglaða mynd?

„Jú, allir halda að arabar vilji reka alla gyðinga burt úr Palestínu. En það er ekki rétt. Palestínumenn eru gestrisin þjóð. Þeir buðu gyðinga velkomna á sínum tíma, og frá upphafi lifðu gyðingar og arabar í sátt og samlyndi. Það voru zíonistar sem notfærðu sér gestrisni Palestínumanna og ráku þá úr landi sínu. Í öðru lagi þá hafa þeir sem leita lausnar á Palestínuvandanum alltaf rætt við þá Palestínumenn sem aldrei misstu neitt. En það dugar ekki til. Gyðingarnir verða að byrja á því að ræða við flóttamennina. Þá sem búa í flóttamannabúðunum. Því það er á þeim sem vandinn brennur heitast. Eins og þú veist, þá er það slík reynsla að koma til Gaza, að maður fyrirverður sig. Mér líður jafnan illa í marga daga eftir að hafa farið þangað. Palestínumennirnir í flóttamannabúðunum þar hafa verið sviptir allri sjálfsvirðingu, öllum eignum sínum, öllu. Heimurinn þarf að færa þeim sjálfsvirðingu sína aftur“.

Uppreisn barnanna

Götumynd úr flóttamannabúðum á Vesturbakkanum. Ljósm. olg

– Hvaða þýðingu hefur Intifadan, – uppreisnin -, í þessu samhengi? Markar hún ekki leið þessa fólks til endurheimtrar sjálfsvirðingar?

„Það er athyglisvert með þessa uppreisn, að allir reyna að eigna sér hana eftir á. En þetta er sjálfsprottin uppreisn, sjálfsprottin uppreisn barnanna. Börnin hafa í 20 ár horft á foreldra sína niðurlægða. Ég hef spurt börnin hér hvers vegna þau kasti grjóti. Svörin sem ég hef fengið hafa verið á sömu lund. Börnin eru í fyrsta lagi að segja gyðingunum að þeim falli ekki við þá, að þau vilji ekki þola návist þeirra.

Í öðru lagi markar grjótkastið andstöðu barnanna við foreldra sína. Foreldrana sem hafa í 20 ár lifað í hræðslu við gyðinga. Þau eru að segja við foreldra sína að þeir séu huglausir og fullir af uppgjöf, þau eru að segja þeim að það sé betra að deyja en að lifa undir hernámi.

í þriðja lagi þá er grjótkastinu beint til útlendinganna. Við þá vilja börnin nú segja: Þið hjálpuðuð gyðingum til þess að verða hamingjusamir í okkar landi- og gerðuð okkur þar með að óhamingjusamri þjóð. Nú ætlum við að leggja þetta land í rúst til þess að allir megi vera óhamingjusamir.“

Börnin stjórna okkur

-Átt þú við að foreldrarnir standi ekki að baki þessari uppreisn með sama hætti og börnin?

„Nei, foreldrarnir eru ekki á sama máli og börnin. En við höfum ekki lengur neina stjórn á börnunum. Það eru þau sem stjórna okkur – og það er hættulegt. Börn eru alltaf börn og hafa ekki þroska hinna fullorðnu. Við sjáum að þau grípa til heimskulegra örþrifaráða. Við sjáum þau brenna akra og plantekrur fyrir gyðingum. Slík örþrifaráð eru í augum barnanna eðlileg, því þau eru í samræmi við þá ætlun þeirra að leggja landið í rúst. Gyðingar, sem dags daglega eru viti bornir menn, hafa hagað sér eins og fávitar frammi fyrir þessum vanda. Hugsaðu þér bara: ef barn grýtir fullorðinn mann, þá er eðlilegt að hinn fullorðni brosi og reyni að skilja, hvers vegna barnið framdi þennan verknað. Hann drepur ekki barnið eða limlestir. Slík viðbrögð eru bæði fávísleg og koma heldur ekki að haldi. Ég get sagt þér að ég rek skóla hér í sókninni, og það hefur komið fyrir nokkrum sinnum undanfarna mánuði að börnin hafa grýtt skólahúsið og brotið rúður. Ég hef þá reynt að komast að því hvaða börn hafa verið að verki, og ég hef spurt þau, hvers vegna þau hafa gert þetta. Svörin eru jafnan á þá lund að þau hafi verið beitt einhverju misrétti í skólanum eða ekki fengið réttláta einkunn eða umsögn. Ég hef ekki refsað þessum börnum, heldur rætt við þau og reynt að skilja þau, og ég get sagt þér að í 70% tilfella hafa þau síðan komið sjálfviljug og bætt skaðann sem þau hafa valdið.

Það hjálpar hins vegar ekki að loka skólanum, berja börnin eða brenna. Það mun ekki stoppa þau af. Börnin eru viss í sínum rétti, og þau munu halda áfram á sinni braut þar til hinir fullorðnu viðurkenna rétt þeirra. Ég get sagt þér að börn hafa ekki hatur í hjarta sínu. Ég þekki börn sem kasta grjóti í hermenn á morgnana en selja þeim síðan kökur um eftirmiðdaginn. En nú, þegar stjórnvöld í Ísrael eru farin að berja börnin, limlesta og fangelsa, þá eru þau að sá hatri í hjarta þeirra. Og það gerir ástandið þúsund sinnum hættulegra en það hefur verið.“

Persónubundið hatur

– Átt þú við að uppreisnin sé ekki knúin fram af hatri?

„Sjáðu til, fram að þessu hefur hatrið verið óhlutbundið og ópersónulegt hatur á milli þjóða. Eins og á milli þjóða sem eiga í stríði. Hættan er sú að hatrið verði persónubundið. Ég get nefnt þér dæmi: Í síðustu viku umkringdu ísraelskir hermenn hús einnar fjölskyldu í sókn minni. Þeir fóru inn í húsið og tóku yngri soninn. Áður höfðu þeir tekið eldri soninn úr fjölskyldunni með sama hætti, og þá hafði móðir hans misst fóstur af geðshræringu og hræðslu. Þegar hermennirnir komu í annað sinn sagði faðirinn við forsvarsmann þeirra:

„Ef kona mín missir fóstur í annað sinn mun ég drepa þig…“

Í stríði þekkja menn ekki andstæðing sinn, hann er óhlutbundinn, ef svo mætti segja. En hér er þetta að þróast yfir á annað og hættulegra stig. Og þið blaðamenn verðið að koma gyðingum í skilning um að ekki megi breyta þessari deilu á milli þjóða yfir í persónubundið hatur.“

Tvískinnungur arabaríkjanna

– En standa ekki aðrar arabaþjóðir að baki uppreisninni?

„Arabaheimurinn er nú stöðugt að biðja Palestínumenn um að halda uppreisninni áfram, en þeir veita henni ekki raunverulegan stuðning, eða gera það að minnsta kosti illa. Staðreyndin er sú að við vorum ekki búnir undir uppreisnina. Hún hefur komið illa við okkur á margan hátt, sérstaklega alla félagslega þjónustu og uppbyggingu. Þar ríkir nú upplausn. Sjúkrahús, skólar, gistihús og fyrirtæki, sem rekin eru af einkaaðilum hér á herteknu svæðunum, geta ekki lengur greitt laun. Ef uppreisnin heldur áfram munu mörg þessi fyrirtæki þurfa að loka.

Tökum sem dæmi skólann, sem ég stjórna hér í bænum. Í þessum skóla eru 374 börn og þar vinna 20 kennarar. Þetta er kristinn skóli, rekinn fyrir skólagjöld barnanna. Ég greiði kennurunum laun fyrir skólagjöldin. Foreldrar hafa ekki lengur efni á að greiða skólagjöldin og eru líka ófús að gera það, þar sem skólinn hefur lengi verið lokaður vegna skipunar hernámsyfirvaldanna. Ég hef greitt kennurunum laun þótt skólinn hafi verið lokaður frá því í desember fram í maí. Ég hef ekki efni á að greiða kennurunum laun mikið lengur við óbreyttar aðstæður, og ég mun því neyðast til að loka skólanum okkar. Hér er líka rekið lítið hótel fyrir kristna pílagríma. En frá því uppreisnin hófst hafa margir pílagrímahópar afpantað gistingu. Ég get því ekki lengur greitt starfsfólki hótelsins laun. Þetta eru bara dæmi sem sýna okkur hvað er að gerast. Ástandið er í rauninni mjög alvarlegt. Við getum líkt ástandinu við særðan mann í bardaga sem finnur ekki fyrir sárum sínum af því að hann er upptekinn af orrustunni. En þegar hann slakar á, finnur hann fyrir sárum sínum. Við munum finna illa fyrir sárum uppreisnarinnar í nóvember og desember næstkomandi.“

– Fyrirgefðu að ég spyr, en hvernig stendur á því að þú hefur 374 nemendur í barnaskóla í 1100 manna söfnuði? Eru fjölskyldur svona barnmargar?

„Nei, í skóla mínum eru líka börn úr öðrum bæjum. Börn sem eru uppvís að því að hafa kastað grjóti að ísraelskum hermönnum eru svipt öllum rétti til skólagöngu í skólum sem reknir eru af Ísraelsríki það sem eftir er ævinnar. Við höfum allmörg þessara barna í okkar skóla, og það eru líka börn múslíma.“

Uppreisnin þarf stuðning

– Hvernig bregðist þið við þessum vanda?

„Það er mikilvægt að allir stuðningsmenn Palestínumanna geri sér grein fyrir því, að hér blasir við hrein upplausn. Og hún getur leitt til annarrar bylgju atgervisflótta. Til dæmis er læknirinn okkar hér nú að íhuga að flytjast til Ástralíu. Hættan eykst stöðugt á því að fólk fyllist örvæntingu og yfirgefi landið. Frá því uppreisnin byrjaði hafa 50 ungir menn yfirgefið Efraím og farið til annarra landa. Ef þessu heldur áfram án utanaðkomandi stuðnings erum við glötuð. Og það sorglega er, að mikið af því fé, sem sent er til herteknu svæðanna til stuðnings Palestínumönnum, lendir í höndum stjórnvalda í Ísrael eða Jórdaníu. Vegna þessa hef ég gripið til nokkuð sérstaks ráðs meðal vina minna í Frakklandi. Þeir koma hingað mikið í pílagrímsferðir, og með þeim hef ég gert samning um kílógramm pílagrímsins. Þeir sem hingað koma taka með sér kílógramm af einhverju, sem kemur okkur til góða, í einu eða öðru formi. Þá er það staðreynd að það hjálparfé sem berst í gegn[1]um kirkjuna kemst til skila. Ég hef líka stofnað bankareikning í Frakklandi fyrir starf okkar hér við skólann, heilsugæslustöðina og fleira. En enn sem komið er dugar þetta ekki.“

– Hvað er stór hluti Palestínuaraba kristinnar trúar?

„Þeir kristnu eru um 4,5 – 5% af Palestínumönnum, en áhrif þeirra eru meiri en fjöldinn segir til um, því þeir áttu yfirleitt landeignir og höfðu betri afkomu og menntun.“

Á milli vonar og ótta

– Hvað telur þú að muni gerast í náinni framtíð?

„Hér lifa allir á milli vonar og ótta. Við vitum að gyðingar (ekki Ísraelsmenn) vilja byggja gyðingaríki sem er bara fyrir gyðinga, og þeir eru reiðubúnir að leggja á sig allar hugsanlegar þjáningar til að ná þessu marki. Uppreisnin veldur því að margir Palestínumenn yfirgefa landið. Það þjónar hagsmunum gyðinganna. Uppreisnin gerir arabana stöðugt fátækari. Endanlega munu þeir neyðast til að hverfa aftur að því að vinna fyrir gyðingana. Það þjónar hagsmunum gyðinganna. Því ef gyðingar leyfa aröbum að vera í ríki sínu, þá eiga þeir aðeins að fá að vera þar sem þrælar. Og fjórar miljónir gyðinga þurfa eina miljón arabaþræla til þess að vinna skítverkin fyrir sig.

Í upphafi vakti uppreisnin athygli umheimsins. Nú virðist heimurinn hins vegar vera búinn að fá nóg af þessari uppreisn, sem engum árangri skilar. Fréttirnar verða hluti hversdagsins, eins og gerðist í Víetnamstríðinu og hungursneyðinni í Eþíópíu. En þrátt fyrir þetta er eitt atriði mikilvægt: uppreisnin kann að valda því að samviska sumra réttsýnna Ísraelsmanna vakni, og það væri jákvætt fyrir Palestínumenn. Því að mínu mati getur lausn Palestínuvandans einungis komið frá Ísraelsmönnum sjálfum. Allt fram á þennan dag hafa þeir verið blindir á það óréttlæti sem þeir hafa framið gagnvart Palestínumönnum. Þegar sá dagur rennur upp að Ísraelsmenn gera sér ljóst hvað þeir hafa gert Palestínumönnum, þá munu þeir leita lausnar á vandanum. Uppreisnin er nú að opna augu réttlátra manna í Ísrael. Þetta fólk mun bregðast við á sinn hátt, og kannski semja frið. Og fyrir mér er þetta hið eina jákvæða við uppreisnina.“

Að gera illt verra

-En uppreisnin kemur sér líka illa fyrir stjórnvöld. Ísrael virðist þegar vera orðið lögregluríki og ekki sjáanlegt að því linni…

„Já, það er mikilvægt að allir þeir, sem telja sig vera raunverulega vini gyðinga, segi þeim sannleikann um það óréttlæti sem þeir fremja nú. Því annars munu þeir einungis halda áfram að gera illt verra. Hvað ætla Ísraelsmenn að gera við tvær miljónir Palestínumanna? Ætla þeir að drepa þá, reka þá úr landi, eða gerast nýir nasistar? Eða ætla þeir að láta fólksfjölgun araba kæfa sig?

Nú hafa þeir gert Vesturbakkann að stóru fangelsi. Ef þeir sjá ekki að sér nú, á meðan þeir eru sterkir, þá munu þeir sökkva út í fenið. Þeir munu haga sér eins og krossfararnir á miðöldum. Þeir munu leggja Transjórdaníu undir sig, og svo Sýrland og Egyptaland og seilast eftir norðurströnd Afríku, og á endanum munu þeir glata öllu saman. Rétt eins og krossfararnir.“

Ríkjabandalag í Landinu helga?

– Hvaða ráð vilt þú gefa Ísraelsmönnum? Eiga þeir að samþykkja sjálfstætt ríki Palestínumanna?

„Þeir eiga fyrst og fremst að leita sátta. Þeir verða að viðurkenna sjálfa sig sem semíta, og Ísrael og Ísmael verða að bindast bræðraböndum á ný.

Ég ann Landinu helga, og ég vildi ekki sjá því skipt í tvo hluta. Ég vil sjá það sem eitt land byggt tveim þjóðum. Kannski tvö ríki í ríkjabandalagi. Ég held að þegar Palestínumenn eru að krefjast sjálfstæðs ríkis, þá séu þeir að krefjast hins meira til þess að fá það minna: grundvallaratriði eins og réttinn til vegabréfs. Hugsaðu þér hvernig þessum málum er háttað núna: ég var eitt sinn spurður af landamæraverði, hverrar þjóðar ég væri. Mér vafðist tunga um tönn. Og eftir að hafa skoðað skilríki mín kvað vörðurinn upp dóm sinn: „Þér eruð Palestínumaður af jórdönsku þjóðerni með ísraelska ferðaheimild… “ Hvernig er þetta hægt?“

Hænan og gulleggin

– Þú sagðir áðan að hjálpin sem send væri til Palestínumanna á herteknu svæðunum kæmist ekki til skila. Hvernig má það vera?

„Þú verður að skilja, að gyðingar utan Ísraels fundu til sektarkenndar gagnvart Palestínumönnum þegar Ísraelsríki var stofnað. Það voru ekki síst þeir sem áttu frumkvæði að stofnun flóttamannahjálparinnar, UNWRA, sem hefur fætt Palestínumenn síðastliðin fjörutíu ár. Þetta ástand minnir á hænuna sem verpir gullegginu. Ekki síst fyrir arabaríkin. Arabaríkin taka við fjárstuðningi víðsvegar að vegna vanda Palestínumanna. Þeir veita litlum hluta þessa fjár til Palestínumanna, en stinga bróðurpartinum í eigin vasa. Fyrir þeim er það mikilvægt að halda hænunni lifandi – í flóttamannabúðunum. Í fyrsta lagi til þess að fá meira fé, og í öðru lagi til þess að viðhalda styrjaldarástandi við Ísrael. Í reynd vilja þeir ekki sjá lausn á vandanum, heldur óbreytt ástand. Nákvæmlega sama gildir um gyðinga. Þeir vilja viðhalda styrjaldarástandi við arabaríkin, því fyrir þá sök hafa þeir uppskorið samúð og ómældan fjárstuðning víðs vegar að. Friður í Palestínu mun ganga af hænunni sem verpir gulleggjunum dauðri.“

Arafat er sonur okkar fólks

– Þetta er harður dómur um arabaríkin. En hvernig lítur þú á PLO? Eru þau samtök seld undir sömu sök?

„Nei, Arafat og hans menn eru synir fólksins hérna. Þeir skilja vandann vegna þess að hann brennur líka á þeim. Ég veit að það er betra að semja við hann og hans menn en við Jórdani eða Sýrlendinga. Annars eru stjórnmál ekki minn vettvangur. En sem kristinn maður get ég ekki annað en látið mig mannréttindi varða, og það eru mannréttindi sem málið snýst um.“

– Er eitthvað sem þú vildir segja að lokum?“

„Ég höfða til réttsýni, mannúðar og örlætis lesenda þinna. Að þeir megi skilja þennan vanda, að þeir megi segja gyðingum sannleikann um það sem þeir eru að gera og að þeir veiti okkur þá aðstoð sem okkur er nauðsynleg til þess að lifa af þær þrengingar sem þjóð okkar má nú líða.“

 

 

 

 

INTIFADA – UPPREISN Í LANDINU HELGA – III.

Dagur í Gaza

Við tókum leigubíl frá Jerúsalem til Gaza. Það var rúmlega tveggja klukkustunda akstur í gegnum blómlega akra Ísraels þar sem áveitur tryggðu hvarvetna hámarksuppskeru. Þegar við komum að mörkum hernámssvæðisins í Gaza, sem Ísraelsmenn lögðu undir sig 1967, vorum við stöðvaðir af ísraelskum hermönnum og leigubílstjórinn fékk ekki að fara lengra. Hann var arabi. Hervörðurinn hristi höfuðið þegar við sögðumst samt vilja fara inn. „Þið hafið ekkert hingað að gera“, sagði hann og skoðaði skilríki okkar. En hleypti okkur svo í gegn, þegar við höfðum fundið annan bíl sem hafði leyfi til að fara inn. Og óskaði okkur ánægjulegrar dvalar um leið og hann minnti okkur á að Gaza-svæðinu væri alltaf lokað frá kl. 22  til 03 að morgni.

Gaza-svæðið er eitt þéttbýlasta svæði jarðarinnar. Það er um 50 km á lengd og 5 km á breidd. Samkvæmt heimildum UNWRA bjuggu 445.397 palestínskir flóttamenn á þessu svæði í júní 1987. Um helmingur þessara flóttamanna býr í átta flóttamannabúðum, hinn helmingurinn býr utan búðanna. Palestínskir flóttamenn eru yfir 2/3 hlutar íbúa svæðisins sem eru yfir 600.000. Svæðið var undir egypskri lögsögu frá 1948, þar til Ísrael lagði svæðið undir sig í sex daga stríðinu 1967. Flóttamannabúðirnar eru hins vegar frá 1948, þegar Ísraelsríki var stofnað, en þá voru 200.000 Palestínumenn hraktir yfir á Gaza-svæðið. Í sex daga stríðinu gerðust um 38.000 flóttamenn á Gaza flóttamenn í annað sinn, og flúðu þá yfir til Jórdaníu undan hörmungum stríðsins. Nú býr um fimmtungur allra skráðra palestínskra flóttamanna á Gaza-svæðinu.

Úr öskunni í eldinn

Þegar komið er inn í borgina Gaza er það fyrsta sem maður tekur eftir að sorphirða virðist engin í borginni. Sorpið liggur og rotnar á víð og dreif á götunum í steikjandi sólarhitanum, sem fer upp í 40 gráður eða meira um þetta leyti. Og ég hafði ekki dvalið nema um 20 mínútur í borginni þegar ég sá herjeppana koma með sírenuvæli eftir aðalgötunni og táragasský leggjast yfir göturnar í fjarska. Ef hægt er að segja að það ríki umsátursástand á Vesturbakkanum, þá ríkir styrjaldarástand í Gaza. „Hér getur allt gerst hvenær sem er og ekkert kemur lengur á óvart“, sagði blaðamaður sem starfar við fréttastofu í borginni. Og okkur varð litið út um gluggann á skrifstofu hans og sáum herjeppa hverfa á brott með hvítklæddan fanga.

Ísraelskur herjeppi á götunni í Gaza. Myndin er tekin úr skrifstofuglugga blaðamannanna. Ekki er leyfilegt að ljósmynda ísraelska hermenn í Gaza. Ljósm. olg

Það voru tveir ungir menn sem unnu á þessari fréttastofu. Annar þeirra, sá eldri og reyndari, var nýsloppinn úr fangelsi. Hann bjó á skrifstofunni og eina atvinnutækið þeirra beggja var sími. Þeir söfnuðu upplýsingum um það sem var að gerast á svæðinu og komu þeim áleiðis. Og þeir báðu fram aðstoð sína við okkur eftir getu. Ég bar fram óskir um að sjá sjúkrahús, flóttamannabúðir, og hitta einhvern fulltrúa Palestínumanna á svæðinu að máli.

Í snarhasti var fundinn fyrir okkur bíll og bílstjóri. Meiri vandkvæðum var bundið að finna hvaða flóttamannabúðir voru opnar, því útgöngubann ríkti í flestum þeirra. Það þýðir í raun að fólkið innan búðanna er bjargarlaust og sambandslaust við umheiminn. Vænlegast þótti að fara að búðunum við ströndina, sem ganga undir nafninu Beach-camp (Strandbúðirnar). En þegar á hólminn var komið þorði bílstjórinn ekki að fara með okkur inn í búðirnar og sagði þær fullar af hermönnum og að þar mætti búast við átökum á hverri stundu.

Heimsókn á sjúkrahús

Við fórum því á Shéfra-sjúkrahúsið, sem er lítið sjúkrahús í Gaza. Enginn læknir var til viðtals, en hjúkrunarmenn leiddu mig að fjórum rúmum, þar sem lágu ungir menn um eða undir tvítugu sem höfðu verið lamdir af ísraelsku hermönnunum.

Sjúklingur nr. 1. Ljósm. olg

Sjúklingur nr 1:

„Það voru mótmæli í Jabalia-búðunum, þar sem ég bý, og þeir komu inn í hús mitt, drógu mig út og hófu að lemja mig. Þetta voru óbreyttir hermenn og þeir lömdu mig og fóru svo með mig í nálægar herbúðir. Þar sáu þeir að ég var orðinn illa á mig kominn, svo að þeir slepptu mér og ég fór á sjúkrahúsið. Þar gekkst ég undir uppskurð vegna alvarlegs brots á handlegg. Um það bil mánuði síðar, þegar ég var enn með gifsið á handleggnum, komu þeir aftur í búðirnar. Þar voru strákar sem köstuðu grjóti í hermennina og þeir fóru um allt að leita þeirra. Þeir komu líka í mitt hús, en fundu engan þeirra, aðeins mig þar sem ég lá í rúminu með gifsið á handleggnum. Þeir drógu mig út og hófu að lemja mig á gifsið og þeir brutu handlegg minn á ný. Þeir fóru aftur með mig í herbúðirnar, en þegar þeir sáu að ég hafði misst meðvitund og gat ekki farið í fangelsi var mér sleppt, og vinir mínir fóru svo með mig hingað á sjúkrahúsið. Ég er með tvö brot á handleggnum núna. Þetta gerðist með mig.“

Sjúklingur nr. 2. Ljósm. olg

Sjúklingur nr. 2: „Ég var á gangi úti á götu þegar hermenn komu til mín og sögðu mér að fjarlægja vegartálma sem einhver hafði lagt á götuna. Ég neitaði því og þá tóku þeir mig, reyrðu saman á mér hendurnar og festu reipið síðan aftan í herjeppann. Síðan var ég dreginn eftir götunni a.m.k. 30 metra eða þangað til ég hafði nær misst meðvitund. Þeir skildu mig þannig eftir á götunni alblóðugan og sáran um allan líkamann.“

Sjúklingur nr. 3. Ljósm. olg

Sjúklingur nr. 3: „Ég var úti á götu og sá hvar krakkar voru að kasta grjóti að hermönnum. Ég lagði á flótta þegar ég sá hvað var í vændum. Þeir eltu mig á stórum herbíl, drógu mig inn í bílinn og börðu mig þar og spörkuðu í mig. Ég hlaut nefbrot, augnskaða, áverka á hálsi þannig að ég get varla hreyft höfuðið og innvortis blæðingar og áverka, þannig að ég á mjög erfitt með að hreyfa mig. Þegar þeir höfðu misþyrmt mér skildu þeir mig eftir á götunni.“

Sjúklingur nr. 4 (ca. 16-17 ára): „Ég var einn á gangi þegar þeir stoppuðu mig og spurðu um skil[1]ríki. Fyrst héldu þeir mér í 15 mínútur eða svo. Þá komu 4 her[1]menn og börðu mig án tilefnis. Þeir lögðu mig á götuna og spörkuðu í andlitið á mér með hermannastígvélunum. Svo fluttu þeir mig á sjúkrahúsið. Ég er með brotið nef og marga áverka á höfði.“

Ég þurfti ekki fleiri vitni, en hjúkrunarmennirnir á þessu litla sjúkrahúsi sögðu mér að þeir hefðu fengið 400 tilfelli þessu lík  síðastliðna 6 mánuði. Og þetta var aðeins lítið sjúkrahús og eitt af mörgum í Gaza. Aðbúnaður þar líktist reyndar ekki sjúkrahúsi, og hreinlætisaðstaða var þar verri en engin, því salernin minntu meira á svínastíu en mannabústað.

Gaza Centre for Right and Law

Við fórum á stofnun sem heitir Gaza Centre for Right and Law og hittum þar fyrir dr. Abu Jaffar, lögfræðing, blaðamann og skáld og fyrrverandi starfsmann UNWRA. Þetta er menntamaður á sjötugsaldri sem gaf af sér mikinn þokka og talaði af fullkominni yfirvegun og yfirlætisleysi þess sem býr yfir mikilli reynslu og visku. Hann tjáir okkur að stofnun þessi hafi verið mynduð af nokkrum lögfræðingum frá Gaza-svæðinu árið 1985. Stofnunin hafi sett sér að vinna að því að lög og mannréttindi væru virt á svæðinu í samræmi við alþjóðleg mannréttindaákvæði. Stofnunin hefur samband og samvinnu við alþjóðasamtök eins og Amnesty International, Alþjóðasamtök lögmanna í Genf og Christian Aid. Meginstarfið hefur hingað til falist í því að safna upplýsingum, gera rannsóknir og gefa út skýrslur og miðla þekkingu og rannsóknum til útlanda. Auk þess veitir stofnunin einstaklingum lögfræðiaðstoð endurgjaldslaust. Annar mikilvægur þáttur í starfseminni er einnig að koma upp lögfræðibókasafni í Gaza, en slíkt er ekki fyrir hendi enn.

Intifadan, uppreisn unga fólksins í Palestínu 1987, var framkvæmd með heimatilbúnum vopnum. Hér sýnir ungur drengur ljósmyndara heimatilbúið vopn sitt. Ljósm. olg

Dr. Abu Jaffar:

„Intifadan eða uppreisnin hófst hér á Gaza-svæðinu þann 9. desember 1987. Hvað felst í henni? Jú, íbúar svæðisins eru að láta í ljós vilja sinn. Þeir sætta sig ekki lengur við ríkjandi ástand. Þeir vilja að almenn mannréttindi séu virt. Þeir vilja sinn sjálfsákvörðunarrétt, þeir krefjast réttar til ríkisfangs, til þess að mynda eigið ríki. Þessi uppreisn kom innan frá, henni er ekki stýrt að utan. Og hvernig er þessum kröfum svarað? Þeim er svarað með táragasi, gúmmíkúlum og föstum skotvopnum. Þeim er svarað með fjöldarefsingum eins og útgöngubanni á heilar flóttamannabúðir eða jafnvel allt svæðið. Þeim er svarað með húsrannsóknum. Hús og heimili eru lögð í rúst með jarðýtum. Og þeir sem eru uppvísir að því að tala við blaðamenn eru kallaðir fyrir og fangelsaðir.

Frá 9. des. 1987 til 11. júní sl. höfum við heimildir fyrir því að 520 einstaklingum hafi verið misþyrmt með barsmíðum hér á Gaza-svæðinu. Á sama tíma hafa 99 hlotið sár af gúmmíkúlum og 469 hafa hlotið sár af föstum skotum. 65 hafa látist af skotsárum, 20 hafa látist af völdum táragass. Síðastliðna 3 mánuði höfum við heimildir um 33 konur sem misstu fóstur af völdum táragass og 3 konur sem misstu fóstur vegna barsmíða. Á tímabilinu frá 9. des. sl. og út janúar voru 30 heimili lögð í rúst með jarðýtum í einum flóttamannabúðunum og þann 5. febrúar sl. kl. 17:00 var 22 einstaklingum á aldrinum 12 – 70 ára misþyrmt með barsmíðum í einum búðunum.

Þetta eru svörin sem þetta fólk hefur fengið við kröfum sínum um grundvallaratriði allra mannréttinda eins og eigið vegabréf og eigin þjóðfána. Palestínumenn hafa verið neyddir til að nota þær baráttuaðferðir sem þeir vildu síst nota. Því Palestínumenn eru friðelskandi þjóð og saga þeirra sannar það. Þegar Palestína var undir yfirráðum Tyrkja greiddu þeir sérstakan skatt til þess að komast hjá því að þurfa að senda syni sína í herinn. Þeir hafa alltaf tekið vel á móti gestum, og þeir tóku einnig vel á móti gyðingum á sínum tíma. En gyðingar hafa misnotað gestrisni þeirra með því að flæma þá burt af landi sínu og svipta þá eignum sínum og sjálfsvirðingu.“

-Hvaða framtíðarlausn sérð þú fyrir þér á þessari deilu? –

,,Ég er skáld, og framtíðarsýn mín mótast af því. Þótt framtíðin kunni að virðast svört, þá er ég bjartsýnismaður. Menn geta beitt ofurefli í skjóli vopna, en þegar til lengdar lætur geta menn aldrei réttlætt nærveru sína með vopnavaldi. Við sjáum það af sögunni: Frakkar héldu Alsír í skjóli vopna en urðu um síðir að hörfa. Indverjar lutu bresku yfirvaldi í 300 ár en jafnvel breska heimsveldið varð að lokum að leggja niður vopnin. Dæmin eru fjölmörg. Mér verður oft hugsað til þeirra orða Sókratesar, að það sé betra hlutskipti að líða misrétti en að beita því gagnvart öðrum. Og ef menn hafa liðið misrétti, eins og gyðingar hafa gert, hvernig geta þeir þá leyft sér að beita því gegn öðrum?

Ég er af menntafólki kominn. Faðir minn var kennari í heimspeki og sálarfræði. Mér er minnisstætt það sem hann sagði við mig þegar ég var ungur drengur. Ég hafði þá fengið mína fyrstu fræðslu í trúarbrögðum múslima, og var að myndast við að gera bæn mína samkvæmt kenningum kóransins í fyrsta skipti. Þegar ég hafði gert bæn mína kallaði faðir minn mig til sín og sagði: Ég ætla ekki að skipta mér af þínum trúariðkunum, því trú sína velur maður sjálfur. En eitt langar mig til að biðja þig um: áður en þú ferð með bænir þínar vil ég að þú segir við sjálfan þig: „ég óttast engan og ég elska alla“. Þetta gerði ég, og löngu síðar skildist mér að þarna hafði faðir minn kennt mér kjarna allra trúarbragða, sem er kærleikur. Og þessi afstaða föður míns hefur mótað líf mitt. Þess vegna óttast ég ekki um framtíðina. Hins vegar getum við spurt okkur hvað réttlæti það að skapa alla þessa óþörfu þjáningu? Því slæmur málstaður getur ekki sigrað.“

Meðal sjómanna

Við kvöddum þennan mæta mann og héldum á fréttastofuna, þar sem starfsbróðir minn var að senda fréttaskeyti í gegnum síma. Þegar hann frétti að við hefðum ekki komist í flóttamannabúðirnar á ströndinni fór hann nokkrum vel völdum orðum um hugleysi bílstjórans okkar, og sagðist fara með okkur sjálfur. Við fengum annan bíl og bílstjóra af götunni og ókum inn að búðunum. Fylgdarmaður okkar var þekktur í búðunum, og þegar börnin ætluðu að þyrpast í kringum okkur og gera hávaða eins og gerst hafði í Ramallah, þá gaf hann þeim fyrirskipanir og þau hlýddu. Í stað þess að elta okkur og heimta að vera ljósmynduð, þá fóru þau á varðberg, dreifðu sér um búðirnar og létu skilaboð ganga þegar hermannajepparnir sem voru á eftirlitsferðum um búðirnar nálguðust. Við máttum oft taka til fótanna eða forða okkur inn í næsta kofa, en með aðstoð barnanna komumst við ferða okkar óséðir. Við komumst í gegnum búðirnar niður að ströndinni, og þar sá ég í fyrsta skipti Miðjarðarhafið í þessari ferð. Fyrir neðan strandgötuna voru verbúðakofar í röðum sem mynduðu gott skjól. Bátar voru einnig í röðum á ströndinni, litlar skektur sem tóku ekki nema 1-2 menn, og þarna voru sjómenn að gera að netum sínum. Því fólkið í Beach-camp hefur lífsviðurværi sitt af fiski. Mér var tjáð að hernaðaryfirvöldin hefðu ákveðið að ryðja öllum verbúðunum í burt næstu daga í öryggisskini. Nokkrir sjómenn voru þarna að draga bát á land, aðrir að gera að netum.

Sjómenn í strandbúðunum á Gaza leita skjóls undan sólinni. Þeim hefur verið bannað að sækja sjóinn. Ljósm. olg

Ég gaf mig á tal við þá og spurði hvernig útgerðin gengi. Þeir sögðu að yfirvöldin væru að eyðileggja fyrir þeim lífsbjörgina. Ákveðið hefði verið að setja skatt sem næmi 1000 jórdönskum dínörum (hátt í árslaun verkamanns) á hvern bát fyrir að sækja sjóinn. Enginn fiskimaður þarna hefur möguleika á að reiða fram slíka fjárhæð. Þeir sem ekki borga eru fangelsaðir fyrir að fara út. Og þeir bentu mér á að allir bátarnir sem væru netalausir á ströndinni væru í eigu sjómanna sem þegar væru komnir í fangelsi. „Við höfum ákveðið að fara í verkfall í einn dag, og ef þessum ákvæðum verður ekki breytt, þá höfum við ekki önnur ráð en að hlaða stóran bálköst hér á ströndinni og brenna bátana okkar.“

Er mikill fiskur í sjónum?

„Nei, stóru bátarnir hirða allt. Við förum út klukkan 4 á morgnana og leggjum netin og sofum svo í bátnum og komum að landi um eftirmiðdaginn. Veiðin gerir lítið meira en að næra fjölskyld[1]una. En ef við missum hana höf[1]um við ekkert að borða.“

Með hungurvofuna að vopni

Við héldum upp í kampinn á ný, og heimsóttum eina fiskimannafjölskyldu. Húsakynnin voru eins og ég hafði séð áður: hlaðnir múrsteinskofar með bárujárnsþaki, afgirtur garður með steyptu og hvítskúruðu gólfi. Inni í kofanum var eldri kona á flatsæng og grét með ekkasogum. Maður hennar, sem reyndist 58 ára þótt hann virtist vera eldri, var hjá henni. Og tveir synir hans birtust fljótlega, nokkrar yngri konur og sægur af börnum. Það voru 35 munnar að mata í þessari fjölskyldu. Húsmóðirin var greinilega sjúk, elsti sonurinn var nýkominn úr fangelsi og annar sonurinn var veikur af brjósklosi í baki.

Hluti sjómannafjölskyldunnar á Gaza. Það voru 35 munnar að fæða í þessari fjölskyldu. Ljósm. olg

„Ég er fæddur í Jaffa 1930. Fjölskylda mín átti sitt hús og sitt land og sitt lífsviðurværi þar. Ég flúði hingað 1948. Ég hef stundað sjóinn og ég á 5 syni sem allir eru sjómenn. Nú heimta þeir að við borgum 1000 dínara hver og einn. Ég er hættur að sækja sjóinn. Ég hef engar tekjur og húsið er matarlaust. Við erum seld undir guðs náð. Sjómenn eru stolt fólk eins og þú, sem kemur frá Íslandi, veist. En það er búið að ræna okkur allri sjálfsvirðingu. Jafnvel aðstoðin sem okkur er send frá Evrópu lendir í vösum gyðinganna. Við þurfum að kaupa aðstoðina frá fiskifélaginu sem gyðingarnir stjórna. Aðstæðurnar hér eru verri en í Líbanon, því hér er verið að svelta okkur til hlýðni. Ég vil að þú komir þessum skilaboðum á framfæri við íslenska sjómenn, því að ég veit að sjómenn allra landa finna til samstöðu. Sjómenn eru stolt fólk.“

Þessi lífsreyndi sjómaður horfði til mín vonaraugum eins og ég gæti veitt honum einhverja björg. Dóttir hans færði okkur tebolla og börnin hópuðust í kringum okkur. Hann sýndi mér lúin persónuskilríki gefin út af bresku landsstjórninni fyrir 1948, eins og til að sanna mál sitt. Það var eina vegabréfið hans. Hann sýndi mér leyfisbréfið sem hernámsyfirvöldin höfðu gefið honum til þess að sækja lífsbjörgina í sjóinn. Nú gilti það ekki lengur. Ég kvaddi þessi sjómannshjón með kossi og fyrirvarð mig fyrir þá niðurlægingu sem ég hafði séð.

Reynsla af fangavist

Þegar við gengum í gegnum búðirnar til baka sáum við hermannajeppa í fjarska og fylgdarmaður minn tók á sprett. Við hlupum sem fætur toguðu á eftir honum á milli kofaraðanna og yfir opin skolpræsin þar sem dauðar rottur og annar óþrifnaður lá á víð og dreif. Þetta var leikvöllur berfættu barnanna í búðunum.

Þegar við töldum okkur hólpna spurði ég fylgdarmann okkar hvað myndi gerast ef þeir sæju okkur?

-„Þeir taka myndavélina þína og filmurnar. Og þeir setja mig í fangelsi aftur.“

-Hvernig var vist þín í fangelsinu?

-„Þeir handjárnuðu mig og bundu fyrir augun þannig að ég vissi ekki fyrr en eftir nokkra daga hvar ég var staddur. Þeir létu mig standa uppréttan með hendur bundnar fyrir aftan bak í nokkra daga og létu mig hoppa dag og nótt. Svo var ég settur í klefa sem var 1×0,5 m að flatarmáli. Það var ekki hægt að leggjast niður. Ég held að ég hafi verið í þeim klefa í 3 daga, annars man ég það ekki. En ég þekki menn sem hafa verið í þannig klefa í 18 daga. Þeir spörkuðu í mig með hermannaklossunum og köstuðu sandi í vit mín… Ég held ég hafi verið þarna í 2 vikur, ég man það ekki, sagði þessi starfsbróðir minn og vildi ekki ræða það meira.

Tveir heimar

Starfsbræður mínir í Gaza lögðu hart að okkur að gista yfir nóttina. Við gætum sofið á skrifstofunni. Það væri hvort sem er engan bíl að fá, og brátt yrði Gaza-svæðinu lokað. Á morgun yrði allsherjarverkfall, og þá myndum við geta séð raunveruleg átök. Ég þurfti að beita öllum mínum sannfæringarkrafti til að fá fylgdarmann okkar til að aðstoða okkur við að finna bíl. Þegar við komum í bæinn var allt krökkt af hermönnum. Fylgdarmaður okkar gekk 30 metrum á undan okkur og við létum sem við þekktum hann ekki. Hann setti sjálfan sig í hættu með því að leiðbeina okkur.

Að lokum fann hann bíl sem var reiðubúinn til að aka okkur til Tel Aviv. Við komumst klakklaust í gegnum vegabréfsskoðun til Tel Aviv, og þaðan með áætlunarvagni til Jerúsalem. Þar lentum við á stássgötu borgarinnar, þar sem ferðamenn sitja við útikaffihúsin yfir ölglasi. Þetta var eins og að sitja á Café de Paris við Via Veneto í Róm. Áhyggjur heimsins voru víðs fjarri. Á skemmtistaðnum „Underground disco“ var unga fólkið að skemmta sér og þar glumdi við ærandi disco-tónlist: „Tell me lies, tell me lies, tell me sweet little lies…“ rétt eins og maður væri kominn í Hollywood-skemmtistaðinn  í Ármúlanum. Þetta var eins og eiturvíma, og þegar ég breiddi yfir mig lakið uppi á hótelinu seint um kvöldið fór ég að gráta. Olg.

NIETZSCHE: FÖRUMAÐURINN OG SKUGGI HANS III.

 

NIETZSCHE UM GILDRU TUNGUMÁLSINS, FRELSI VILJANS OG SKEMMTIKRAFT GUÐS

Í þessum þriðja og síðasta kafla úr verki Nietzsche birti ég hér þrjú orðspjót, sem fela í sér þrjú sjónarhorn á villuráf mannsins um heim staðreyndanna, um vegleysur tungumálsins og samanburðinn á skopskyni mannsins og skapara hans. Þetta villuráf á sér sameiginlegan leiðarvísi í hlutverki tungumálsins sem er í senn blessun mannsins og bölvun.

Þessi þrjú orðspjót birta að hætti Nietzsche djúphugsaðar og raunverulegar athuganir á flóknum heimspekilegum vanda sem heimspekin hefur glímt við frá upphafi vega. Sérhvert þessara þriggja orðspjóta væri metnaðarfullum akademískum heimspekingum efni í þykka doðranta upp á hundruð blaðsíðna og óteljandi bindi, en Nietzsche fann aldrei hjá sér kvöð til akademískra málalenginga: hér segir hann flókin heimspekileg vandamál um tungumálið, frelsi viljans, jafngildingu og sundurgreiningu  staðreyndanna og hið mannlega sjónarhorn sagnfræðinnar í örfáum orðum og í meitluðum ritstíl sem á sér varla hliðstæðu. Í heild sinni er Nietzsche hér að benda okkur á takmörk þeirrar frumspeki sem ávallt er lögð til grundvallar, hvort sem við fjöllum um huglæg hugtök eins og frelsi, „hlutlægar“ skoðanir vísinda og þekkingar eða sagnfræði er tekur óhjákvæmilega mið af manninum andspænis alheimi sem á sér yfirskilvitleg endamörk handan allrar mennsku.

Ekki er tilefni til að orðlengja um þessa pistla umfram það sem liggur í augum uppi: til dæmis vandamál „staðreyndanna“ sem Nietzsche átti eftir að afgreiða síðar með fullyrðingu sinni um að „ekki séu til staðreyndir, heldur einungis túlkanir á staðreyndum“, með þeirri viðbót að einnig þessi yfirlýsing fæli í sér túlkun. Þessi fræga yfirlýsing Nietzsche hefur orðið mörgum hreintrúarmanninum hneykslunarefni, en Nietzsche bendir hér á þá grunnforsendu allrar fyrirbærafræði, að skynjun og skilningur veruleikans sé óhjákvæmilega bundinn gagnkvæmu sambandi, þar sem aðskilnaður áhorfandans frá viðfangi sínu felur óhjákvæmilega í sér sjónarhorn sem er jafn hverfult og tíminn sjálfur: hugmyndinn um „hlutinn í sjálfum sér“ sem „hlutlægt“ viðfang vísindalegrar rannsóknar felur alltaf í sér frumlægar forsendur sem eru hverfular eins og tíminn, og því er hugmyndin um eilífan sannleika vissulega falleg en óhjákvæmilega fallvölt eins og tíminn í ljósi eilífðarinnar.

Það er tungumálið sem hefur fært manninum þetta verkfæri til „hlutlægrar“ rannsóknar á veruleikanum, sem er dýrunum forboðið. Hér bendir Nietzsche einfaldlega á að um leið og hugtökin gefa okkur tilfinningu fyrir því að við höfum hlutina í hendi okkar þegar við höfum orðað þá, þá blasir hið þveröfuga við, því til dæmis orðið „hönd“ er ekki til í veröldinni sem hlutur í sjálfum sér, heldur einungis sem líffæri er eigi sér jafn margræða reynslu og þekkingu og rekja má til fjölda forfeðra okkar frá örófi alda. Engin hendi er „hlutur í sjálfum sér“ heldur tengd órjúfanlegum böndum tiltekins líkama með öllum þeim flókna tengslabúnaði og sögu sem því fylgir. Mynd líffærafræðanna af hönd okkar er sértekning sem á sér ekki sannanlega samsvörun, hvorki í hljóðmyndunum orðsins né á líkskurðarborðinu, þar sem höndin hefur verið aftengd allri reynslusögu sinni frá upphafi vega.

Það er þetta sem Husserl, Heidegger, Merleau-Ponty og aðrir frumkvöðlar fyrirbærafræðanna tóku upp frá Nietzsche og lögðu sig eftir að skilja í löngum og flóknum fræðiritum er sýna sögu þekkingarleitar mannsins í nýju ljósi.

Tilhneigingin að einangra „staðreyndirnar“ frá umhverfi sínu til að öðlast „rétta“ mynd af veruleikanum er stöðugt virk í samtíma okkar, einnig í þessum skrifum.

Til þess að sjá hversu villandi þessi einangrun „staðreyndanna“ getur verið nægir að kveikja á sjónvarpinu þessa stundina og sjá myndirnar af hryðjuverkaárásinni 6. október síðastliðinn, þar sem hrottafengnar aftökur og mannrán eiga sér stað. Sjónvarpið sýnir okkur þetta í nafni „staðreyndanna“ til að auka á augljósan hrylling atburðarins, þar sem hann er sýndur „sem slíkur“, aftakan „í sjálfri sér“ sem „staðreynd“.

Óhugnaðurinn sem slíkar myndir vekja er ekki til þess fallinn að vekja skilning á vandamálinu. Ef við stöndum frammi fyrir vanda sem þessum, þá er fyrsta skilyrði þess að lausn verði fundin, að við hættum að líta á „staðreyndina sem slíka“ en reynum að spyrja okkur hvernig slík voðaverk geta átt sér stað. Það kallar á að athyglinni sé beint að því sem Nietzsche kallar hið samfellda „flæði“ verðandinnar: hver var saga þessara fórnarlamba voðaverkanna, og hver var saga gjörningsmannanna?

Getur verið að hægt hefði verið að koma í veg fyrir voðaverkið? Var um að kenna lélegri gæslu við víggirðinguna sem hefur haldið 2,3 miljónum Palestínumanna innilokuðum áratugum saman án allra þeirra gæða sem við teljum forsendur „frelsis“? Voru gjörningsmennirnir að sleppa í fyrsta skiptið úr búrum sem hafði hindrað frelsi þeirra frá fæðingu? Voru fórnarlömbin búsett á landsvæði sem hafði tilheyrt fjölskyldum gjörningsmannanna, landi sem þeir töldu sig eiga erfðarétt á?

Þessar spurningar eru ekki settar fram til að réttlæta voðaverkin, og heldur ekki til að fordæma þau. Slíkir dómar leysa ekki vandann. Þeir frelsa ekki fólk í gíslingu og þeir vekja ekki fórnarlömb voðaverka upp frá dauða. Slíkar spurningar eru hins vegar nauðsynlegar ef raunverulegur vilji er fyrir hendi til að leysa vandann.

Slíkur vilji var ekki sjáanlegur í fréttaskýringu ítalska sjónvarpsins, sem ég var að horfa á. Slíkur vilji hefur ekki verið merkjanlegur hjá stjórnvöldum þeirra Evrópuríkja sem stofnuðu til þessa vandamáls með gyðingaofsóknum, heimsstyrjöldinni síðari og sviknum loforðum og mannréttindabrotum á íbúum Palestínu í lok heimsstyrjaldarinnar. Leitin að skilningi á voðaverkunum í ísraelsku samyrkjubúunum handan fangelsisgirðinga Gaza-svæðisins leiðir okkur að sögu Evrópu og þátt Evrópuríkja í að skapa þennan vanda.

„Staðreyndasýningar“ sjónvarpsfréttanna eru til þess fallnar að breiða yfir þessi tengsl og fela orsakasamhengið. Á meðan slík „fréttamennska“ er ástunduð er tilgangslaust að tala um „fordæmingu“ voðaverka og „fortakslausan rétt til sjálfsvarnar“. Það eru hin innantómu orð sem ekki breyta öðru en að kynda undir þá tilfinningaþrungnu hatursorðræðu sem blæs súrefni á stríðseldana. Það er í þessum skilningi sem við eigum að taka orð Nietzsche um „staðreyndirnar“ alvarlega.

Í örfáum orðum bendir Nietzsche okkur á að samsemd orðanna og hlutanna sé blekking, og að þessi blekking hafi jafnvel leitt manninn í aðra villu um hinn frjálsa vilja: Var vilji gjörningsmanna Hamas-samtakanna „frjáls“, gildir það sama um vilja þeirra hermanna sem látið hafa sprengjuregn rigna yfir varnarlaust og innilokað fólk í heila viku og skilið eftir sig á fimmta þúsund fórnarlömb og enn fleiri limlesta?

Nietzsche segir okkur að þar sem „staðreyndirnar“ og „hlutirnir“ séu bundnir samfelldu og órjúfanlegu flæði orsakar og afleiðingar sé tómt mál að tala um frjálsan vilja. En það þarf ekki að þýða að skilningur sé ómögulegur. Þvert á móti er hann eina leiðin til að hafa stjórn á viljanum.

Síðasta orðskeytið í þessari samantekt varðar þann trúarlega skilning á manninum sem kennir okkur að hann sé kóróna sköpunarverksins og í raun arftaki Guðs og yfirvald hans á jörðinni. Hér fer Nietzsche á kostum og snýr endanlega upp á mannhyggju húmanismans með bví að sýna manninn sem skemmtikraft og „apakött“ þess Guðs sem óhjákvæmlega búi við ógnir leiðans í allt of langri eilífð sinni og hafi því skapað manninn sem skemmtikraft. Þó maðurinn hafi skopskyn umfram dýrin, þá verður allur samanburður við skopskyn Guðs að hjómi, þar sem hégómagirnd mannsins beitir hinum „frjálsa vilja“ til eigin niðurlægingar og sjálfstortímingar er lýkur með mannlausri jarðarför hins síðasta manns og umbreytir plánetunni jörð í fljúgandi ljómandi grafardyngju mannkynsins.

Það er heilsubót af því að lesa Nietzsche


Friedrich Nietzsche:

Förumaðurinn og skuggi hans III.

Þrjú orðspjót um frjálsan vilja, gildrur tungumálsins og manninn sem skemmtikraft Guðs

 

11. Frelsi viljans og einangrun staðreyndanna

Hin hefðbundna og ónákvæma athugun okkar á hlutunum sér fyrir sér tiltekin hóp fyrirbæra sem mynda eina heild og athugun okkar kallar þessa einingu staðreynd. Á milli þessarar einingar og annarra ímyndum við okkur tómarými, og einangrum þannig sérhverja staðreynd. Sannleikurinn er hins vegar sá, að virkni okkar og þekking er ekki mótuð af röð staðreynda sem eru aðskildar með tómarými, heldur er um samfellt flæði að ræða. Við sjáum þannig að trúin á sjálfstæðan vilja mannsins er ósamræmanleg hugmyndinni um samfleytt og óstöðvandi flæði, sem ekki verður sundurslitið og einangrað.

Trúin á frjálsan vilja gengur út frá því að sérhver athöfn sé einstök og ódeilanleg. Að hún feli í sér stak-hugsun afmarkaðra eininga (Atomatismus) á sviði viljans og þekkingarinnar. – Við meðtökum staðreyndirnar með sama hætti og við leggjum óljósan skilning í bókstafina: við tölum um eins bókstafi: þeir eru hvorki þessir né hinir. Nú fellum við hins vegar jákvæða eða neikvæða dóma á þessum fölsku forsendum sem segja að til séu eins staðreyndir, að til sé stigveldisregla staðreyndakvía er eigi sér hliðstæðu í stigveldisafstæðu gildanna. Þetta felur í sér að við einangrum ekki bara tiltekna staðreynd, heldur einnig staðreyndaflokka er gefa sig út fyrir að vera eins (góðverk, illvirki, öfund eða umhyggja o.s.frv.), en hvort tveggja byggir á misskilningi. Orðið og hugtakið eru augljósustu vitnisburðirnir um trú okkar á einangrun tiltekinna hópa atvika. Við notum þau ekki bara til að merkja hlutina, heldur teljum við okkur þegar hafa í hendi okkar kjarna þeirra. Enn í dag erum við sífellt leidd af orðunum og hugtökunum til þess að ímynda okkur hlutina í einangrun sinni, einfaldari en þeir eru í raun og veru, við sjáum ódeilanleika þeirra þar sem þeir eru hver um sig í sjálfum sér og fyrir sjálfan sig. Tungumálið felur í sér heimspekilega goðafræði sem stingur endurtekið upp höfðinu, hversu vandir sem menn vilja vera að virðingu sinni. Átrúnaðurinn á hinn frjálsa vilja, það er að segja átrúðnaðurinn á eins staðreyndir og einangraðar staðreyndir, þessi átrúnaður á sinn guðspjallamann og sinn lögfræðilega verjanda í tungumálinu.

12. Grundvallarvillurnar

Til þess að maðurinn finni til einhverrar andlegrar velþóknunar eða andúðar þarf hann að vera á valdi annarrar af þessum tveim blekkingum: að hann trúi á jafngildi tiltekinna staðreynda eða tilfinninga og geti þannig brugðist stundlega við með vísun í fyrri reynslu, og fundið þar fullvissa samsvörun eða mismun (eins og gerist um sérhverja endurminningu), og finni þannig til velþóknunar eða andúðar, – eða þá að hann trúir á hinn frjálsa vilja, til dæmis þegar hann hugsar „ég hefði ekki átt að gera þetta“, „þetta hefði getað farið öðruvísi“. Þannig upplifir hann með sama hætti andúð eða velþóknun. Án þessara yfirsjóna, sem eru að verki í sérhverri velþóknun eða andúð, hefði aldrei neitt mannkyn komið til sögunnar – en grundvallartilfinning sérhvers manns er og verður sú, að maðurinn sé frjáls vera í heimi nauðsynjarinnar. Hann er hinn eilífi Taumaturg eða galdralæknir, hvort sem hann vinnur til góðs eða ills, hann er hin undraverða undantekning, ofurskepnan og næstum-Guðinn, sem felur í sér merkingu sköpunarverksins, hið óhugsandi jafnt og hið ósegjanlega, hið endanlega hugtak hinnar kosmísku ráðgátu alheimsins, hinn mikla yfirdrottnara og smánara náttúrunnar, hann er veran sem kallar sína sögu sögu alheimsins. – Vanitas vanitatum homo.

 

14. Manneskjan sem skemmtikraftur alheimsins

Ætla mætti að til væru í heiminum verur gæddar dýpra skopskyni en mannfólkið, þó ekki væri nema til að skynja til fulls þá fyndni sem fólgin er í því að maðurinn skuli líta á sjálfan sig sem æðsta markmið alheimsins, og að mannkynið er þá fyrst sátt með sjálft sig þegar það hefur sett sér trúboðsmarkmið er taki til veraldarinnar allrar. Ef einhver Guð hefur skapað heiminn, þá hefur hann skapað manninn sem apakött Guðs, sem óendanlegt tilefni til skemmtunar í allt of langri eilífðartilveru hans.

Hljómkviða himinhvolfanna sem umlykja jörðina væri þá aðhláturssöngur allra annarra skepna sem umlykja manninn. Það er ekki án sársauka sem þessi depurðarþjáða eilífðarvera etur uppáhalds dýrinu sínu á vaðið til þess að geta notið hinna harmsögulegu og metnaðarfullu tilþrifa þess, notið túlkananna á þjáningu þess og umfram allt á hinni andlegu uppátekt hégómafyllstu skepnunnar – í mynd uppfinningamanns þessa uppfinningameistara. Því sá sem fann upp manninn sér til skemmtunar var gæddur meira skopskyni en maðurinn, og var meira fyrir fyndnina gefinn.

Einnig hér, þar sem okkar mannkyn niðurlægir sjálft sig af frjálsum vilja, einnig hér hittir hégómagirnd okkar í mark, því að minnsta kosti í því efni er varðar hégómagirndina vildum við mennirnir vera framúrskarandi og stórbrotnir umfram aðrar skepnur.

Hin einstaka staða okkar í alheiminum! Guð minn góður, hún á sér engan líka!

Stjörnufræðingarnir okkar, sem stundum þurfa raunverulega að líta til sjóndeildarhrings sem er aðskilinn frá jörðinni, veita okkur skilning á því að þeir örsmáu agnardropar lífs, sem finna má í alheiminum, hafa nær enga þýðingu ef litið er til heildareðlis þess óhemjuúthafs framtíðar og fortíðar sem finna má í óendanlegum fjölda þeirra himnakroppa er bjóða upp á lífsskilyrði sambærileg jörðinni hvað varðar framleiðslu lífs; þeir eru reyndar fjölmargir, en engu að síður í afar takmörkuðu magni, ef borið er saman við óendanlegan fjölda allra hinna, er aldrei hafa reynt uppsprettu lífs eða hafa fyrir margt löngu læknast af slíkri uppákomu. Einnig hafa stjörnufræðingarnir  sagt okkur að miðað við tímanlega tilveru þessara himnakroppa þá hefur tilverutími lífsins varað stundarkorn, eins og augnabliksgos, er markast af óralöngum aðdraganda, og það getur því hvorki talist áfangastaður né endanlegt markmið tilveru þeirra.

Hugsanlegt er að maurinn í skóginum hafi jafn sterkt ímyndunarafl þess að sjá sjálfan sig sem endanlegt markmið og tilgang skógarins og við, þegar við ímyndum okkur nánast óviljandi að  endalok mannkynsins feli í sér endalok jarðarinnar.

Reyndar erum við full hæversku þegar við staðnæmumst við þann atburð sem við skipuleggjum ekki sjálf, það er að fylgja síðasta manninum til grafar í alheimsrökkri guðanna. Jafnvel hinn harðsvíraðasti meðal stjarnfræðinganna á erfitt með að hugsa sér jörðina án lífs öðruvísi en sem ljómandi og svífandi grafardyngju mannkynsins.

 

Forsíðumyndin er ljósmynd eftir Claudio Parmiggiani frá 1972: Afritun eða "Deiscrizione"

NIETZSCHE – FÖRUMAÐURINN OG SKUGGI HANS I. – STRÍÐIÐ

RAUNIR FÖRUMANNSINS - STRÍÐ OG FRIÐUR
Hvaða ferðafélaga er hægt að velja sér þegar langt er í enn eitt langferðalagið með 10 kílóa hámark í ferðatöskuna? Auðvitað nýt ég blessunarlega félagsskapar Unu í enn einni langferð okkar til Ítalíu á 42 ára farsælu sambúðarferli, en bókarlaus á ég erfitt með að ferðast. Ég valdi seinna bindið af stórvirki Friedrich Nietzsche, „Mannlegt allt of mannlegt“, með þeim ásetningi að njóta samskipta við ferðalanginn sem skrifaði „Förumaðurinn og skuggi hans“ á ferðalagi um Engidadalinn og St. Moritz í Sviss síðsumars árið 1879. Nietzsche var einn á ferð, hrjáður af sjúkdómi sem hann átti eftir að glíma við ævilangt, en hafði félagsskap af skugga sínum, sem varð honum efni í 350 „orðspjót“ eða hugdettur, skrifaðar á þrem mánuðum, og mynda þennan einstaka lokakafla ritsins sem markar viðskilnað Nietzsche við áhrifavaldinn Richard Wagner og á vissan hátt einnig við þau áhrif frá Schopenhauer, sem mátti finna í fyrsta verki hans, „Fæðing harmleiksins“ frá 1872, byltingarverkinu sem markaði endurmat á goðsagnaheimi Forn-Grikkja með upphafningu hins dionysíska sem Nietzsche hafði fundið enduróminn af í tónlist Wagners.

Þótt Nietzsche nefni Wagner hvergi með nafni í „Mannlegt allt of mannlegt“, þá mátti sjá það þegar í tileinkunn bókarinnar til Voltairs, að Nietzsche var með þessu verki sínu að hafna þýskri þjóðernisrómantík Wagners og þeirri dulspeki sem hún endurspeglaði, um leið og hann var að takast á við rökhyggju upplýsingarinnar og þeirrar nýklassíkur sem fylgdi frönsku stjórnarbyltingunni og Nietzsche var greinilega ekki ósnortinn af. Í raun og veru er hann kannski að reyna með þessu verki að skrifa sig frá hvorutveggja og leitast við að skapa nýjan hugmyndagrundvöll handan þjóðernislegrar afturhaldsstefnu Wagners og alþjóðahyggju frönsku byltingarinnar á grundvelli vísindalegrar frumspeki.

„Förumaðurinn og skuggi hans“ er í raun og veru sjálfstætt verk, ekki skrifað með beinum og fyrir fram gefnum ásetningi hvað varðar form og byggingu, heldur er um að ræða hugleiðingar sem ganga í allar áttir án mikillar formhyggju, þar sem umræðan snýst um trúmál, listir, siðferði í samtímanum, stjórnmál, fornfræði, heimspeki og evrópskan veruleika á seinni hluta 19. aldar. Skrifin endurspegla hugsanir sem urðu að sjálfstæðri bók, bók sem ekki átti sér fyrir fram gefinn ásetning, heldur er öllu frekar um að ræða sjálfsprottinn samtalsvettvang við skuggann sem endurspeglar efahyggju förumannsins gagnvart öllum fyrir fram gefnum sannleika og siðalögmálum.

Það er undarleg staða að eiga í samtali við förumanninn og skugga hans fyrir um 140 árum síðan, á tímum sem einkennast ekki bara af ógnvekjandi harmleik stríðsins í Úkraínu með daglegum stríðsfréttum um skotgrafarhernað og mannfall sem talið er í hundruðum þúsunda, þegar síðan bætist við stríðið um Palestínu, sem nú yfirskyggir Úkraínustríðið með stríðsglæpum sem eiga sér ekki hliðstæðu frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar. Við lestur samtalsbókar förumannsins og skugga hans undir aðdraganda fyrri heimsstyrjaldarinnar (sem Nietzsche virtist sjá fyrir) öðlast hryllingsfréttirnar frá Úkraínu og Palestínu nýja vídd, sem meðal annars má lesa úr eftirfarandi „orðspjóti“ um stríðið, sem Nietzsche gat hvorki séð með hetjuljóma þjóðernishyggju Wagners né þeim hetjuljóma alþjóðahyggjunnar sem Napóleonstyrjaldirnar höfðu leitt yfir Evrópu. Í þessum skrifum er Nietzsche raunsæismaður sem horfir beint á samfélagsveruleikann og sér í honum bæði ógn og von.

Ég hef ákveðið að birta hér á vefnum valin orðspjót úr samtali förumannsins við skugga sinn, sem væntanlega munu birtast hér á vefnum eftir því sem tími og aðstæður leyfa. En fyrsta orðspjótið er einmitt helgað stríðinu – og friðnum – og bregður um leið óvæntu ljósi á samtíma okkar nú um stundir.

Friedrich Nietzsche:

Förumaðurinn og skuggi hans

 

284. Meðal hins sanna friðar.

Á okkar tímum viðurkennir engin ríkisstjórn að hún viðhaldi herafla sínum til að fullnægja þörfinni fyrir hugsanlega landvinninga. Heraflinn er allur í þjóustu varnarmálanna. Við heyrum lofsönginn um göfgi siðalögmálsins um réttinn til sjálfsvarnar. Þetta felur hins vegar í sér eftirfarandi: að eigna sjálfum sér siðsemina og nágrannanum siðleysið, því réttmætt telst að líta svo á, að hann sé haldinn óbilandi löngun til landvinninga og yfirgangs, og því sé Ríki okkar nauðugur sá kostur að huga vel að meðulum hinnar lögmætur sjálfsvarnar. Þar að auki er nágrannaríkið þögult sem gröfin, og neitar því nákvæmlega eins og okkar ríki að það hafi nokkur yfirgangsáform á sínum prjónum, þvert á móti gefur það í skyn að það viðhaldi hernaðarstyrk sínum einungis í þeim tilgangi að tryggja lögmæta vörn. Þannig útskýrum við að hætti hræsnarans og hins útsmogna afbrotamanns hvað liggi til grundvallar vígbúnaðarþörfum ríkisins, þess ríkisvalds sem er þess fullbúið að beita fátækt og varnarlaust fórnarlamb miskunnarlausum yfirgangi. Á okkar tímum standa öll ríki þannig andspænis náunga sínum: þau herma ill áform upp á nágrannann og góðmennsku á eigin geðþótta.

En þessi hugsunarháttur er hrein ómennska, illgjörn eins og stríðið. Eða öllu heldur felur hann í sér ögrun og hvatningu til stríðsreksturs, því eins og við sögðum, þá ber hann siðleysið upp á náungann og leitast þannig við að vekja upp árásargjarnar kenndir og gjörðir.

Við þurfum að afskrifa kenninguna um heraflann sem meðal til lögmætrar sjálfsvarnar með sama hætti og við afneitum ofsóknaræðinu. Hver veit nema upp renni sá dagur að þjóð nokkur, kunn af hernaðarsigrum sínum og háþróuðum samfélagsreglum og hernaðartækni, sem hún hefur áunnið sér með dýrum fórnarkostnaði, gefi allt í einu út yfirlýsingu af frjálsum vilja: „Við slíðrum sverðin…“ Og hún eyðir þar með öllum vígbúnaði sínum frá hinu minnsta til hins stærsta. Að gera sig varnarlausan á hátindi hernaðarmáttar síns á forsendum göfuglyndis – þetta er verkfæri hins sanna friðar, sem ávallt þarf að hvíla á friðsemd tilfinninganna, á meðan hinn svokallaði „vopnaði friður“ sem við mætum nú í öllum löndum, hvílir á tilfinningum ofstopans sem reiðir sig hvorki á sjálfan sig né nágrannann og megnar ekki að leggja niður vopn sín af ástæðum sem stafa annars vegar af ótta og hins vegar af hatri. Það er betra að farast en að lifa í ótta og hatri, og helmingi skárra að farast en að lifa við ótta og hatur náungans. Slík yfirlýsing ætti að marka stærsta hátíðisdag sérhvers siðmenntaðs ríkis!

Sem kunnugt er skortir ráðamenn hinna frjálslyndu þjóða stundarfrið til að hugleiða mannlega náttúru, annars væri þeim ljóst að starf þeirra væri til einskis þegar þeir vinna að „miklum niðurskurði til vígbúnaðar“. Einmitt þegar hörmungar stríðsins ná hámæli gerir einnig vart við sig sú eina tegund Guðs er þar getur hjálpað. Hið hávaxna tignartré stríðshetjanna verður einungis einu sinni fellt, og þá fyrir tilverknað eldingarinnar. En eins og þið vitið vel, þá kemur eldingin úr skýjunum – af himni ofan.

…………..

Forsíðumyndin er koparstunga Antonio Pollaiolo: "Stríð hinna nöktu" frá 15. öld

BYUNG-CHUL HAN: ALRÆÐI UPPLÝSINGANNA


ÓVÆNT RÖDD Í EVRÓPSKRI HEIMSPEKIUMRÆÐU SAMTÍMANS
Fyrir tæpu ári síðan, þegar ég var síðast hér á Ítalíu kom ég að venju í bókabúð og greip fyrir tilviljun bók eftir Suður-Kóreiskan rithöfund sem ég þekkti ekkert - en mér þótti titillinn forvitnilegur: "Hvers vegna er byltingin ómöguleg?". Mér þótti bókin skemmtileg og vel skrifuð og þegar ég komst svo aftur í ítalska bókaverslun fyrir mánuði síðan keypti ég fleiri bækur, sem hafa stytt mér stundirnar undanfarið.
Byung-Chul Han kom til Þýskalands fyrir um 40 árum og settist á skólabekk, fyrst í tæknivísindum en leiddist fljótt út í þýskunám, heimspekinám og nám í kaþólskum fræðum. Hann varð kennari við Listaháskólann í Berlín og hóf rithöfundaferil sinn á þýsku fyrir rúmum áratug og hefur á þessum tíma orðið metsöluhöfundur, ekki bara á þýskum bókamarkaði, heldur í fleiri heimsálfum, ekki síst í fæðingarlandi sínu og í löndum Latnesku Ameríku. Og eins og sjá má á bókatitlum hér að neðan hefur hann fengið mikla útbreiðslu einnig hér á Ítalíu.
Bækur hans eru flestar stuttar og skrifaðar á hnitmiðuðu tungumáli og án málalenginga, sem gerir hann afar óvenjulegan innan síns fags, heimspekinnar, þar sem samtímaheimspekin hefur lokast æ meir inn í tæknilegum orðalengingum og rökflækjum um leið og hún hefur fjarlægst almenning.
Bækur hans hafa allar sterkan pólitískan undirtón og má oft kenna þær við heimspekilega heimsádeilu, þar sem nýfrjálshyggjan og tækniþróun samtímans eru í skotmarkinu. Han sækir margt til Michel Foucault og Agambens í ritum sínum, en deilir á báða og má segja að hann hafi klætt samtíma okkar í nýjan hugtakabúning sem veitir oft nýstárleg sjónarhorn á samtímann. Í þessu samhengi minnir hann ekki síst á Jean Baudrillard, en ég hef hins vegar ekki rekist á beinar tilvitnanir í Baudrillard enn. 
Greining hans á kapítalisma nýfrjálshyggjunnar er utan hinnar klassísku greiningar marxismans á stéttabaráttunni, þar sem hann segir valdið nú ekki snúast lengur um eignarhalæd á framleiðslutækjunum, heldur sé Það fólgið í földum reiknilíkönum og talnavélum gagnabankanna. Í því umhverfi eru hefðbundnir atvinnurekendur og launþegar á sama báti, segur Hun, hver að skapa sína eigin tilveru í gegnum þá neysluvél sem er um leið arðránsvél kapítalismans. Ekki er tilefni til að rekja hugmyndaheim Hun frekar hér, en ein af síðustu bókum hans "Infokratie" frá 2021 hefur að geyma nokkrar magnaðar greinar sem greina og gagnrýna meðferð og notkun upplýsinga í samtímanum. Ég snéri fyrstu greininni á íslensku þar sem hún er afar kjarnyrt og skýr og bregður óvæntu ljósi á samtímann, um leið og hún varpar vissu ljósi á hugmyndaheim þessa þýska Kóreumanns sem kemur með óvæntan tón inn í evrópska heimspekiumræðu.
Byung-Chul Han:

Alræði upplýsinganna

 

Við köllum það valdstjórn upplýsinganna þar sem upplýsingarnar og dreifing þeirra eru afgerandi þáttur í félagslegri, efnahagslegri og pólitískri stjórnsýslu í gegnum reiknilíkön og Gervigreind. Öfugt við agasamfélagið þá er ekki um að ræða arðrán á líkömum og orku, heldur upplýsingum og skráðum gögnum. Það sem er afgerandi fyrir valdið er ekki eignarhald á framleiðslutækjunum, heldur aðgangur að upplýsingum er nýtast til sálfræðilegs-pólitísks eftirlits, til forsagna og eftirlits með hegðunarmynstri. Upplýsingavaldstjórnin helst í hendur við upplýsinga-kapítalismann sem þróast yfir í eftirlitskapítalismann og gjaldfellir mannfólkið niður í dýr til skrásetningar og neyslu.

Agasamfélag iðnaðarkapítalismans

Valdstjórn agasamfélagsins felur í sér valdakerfi iðnaðarkapítalismans, og hefur sjálf innbyggða vélvæðingu. Sérhver einstaklingur er eins og tannhjól í valdamaskínu agavaldsins. Það grefur sig inn í taugar og vöðvavefi er mynda vel smurða vél samsetta úr „ómótuðu deigi, úr vanhæfum líkama“[i]. Það er „auðsveipur og meðfærilegur líkami sem má ummynda og fullmóta“[ii]. Þessir líkamar, sem eru meðfærilegir rétt eins og framleiðsluvélarnar, eru ekki uppspretta skráningargagna og upplýsinga, heldur uppspretta orku. Undir valdstjórn agasamfélagsins er mannfólkið tamið til að verða að vinnudýrum.

Upplýsingakapítalisminn, sem byggir á tengslum og fjölmiðlun, gerir tækni agavaldsins úrelta, rétt eins og einangrunarsvæðin, hinn stranga aga vinnunnar og líkamsþjálfunina. Auðsveipnin (docilité) sem felur líka í sér eftirgjöf og þjónslund, getur ekki talist kjörsvið upplýsingasamfélagsins. Þegninn sem lýtur valdstjórn upplýsinganna er hvorki meðfærilegur né hlýðinn. Þvert á móti telur hann sig vera frjálsan, heilsteyptan og skapandi: hann framleiðir og raungerir sjálfan sig.

Panopticon

 Koepelgevangenis eða Hvelfingarfangelsið í Arnheim, teiknað af  J.F. Metzelaar, 1882–1886. Hugmyndin endurspeglar "Panopticon" fangabúðir Foucaults í bók hans Eftirlit og Refsing.

Sú agavaldsstjórn sem Foucault hefur lýst, nýtir sér einangrunina sem stjórntæki. „Einsemdin er fyrsta forsenda algjörrar undirgefni“[iii]. Alsæiseftirlitið (Panopticon)[iv] með sínum einangruðu raðklefum er táknmynd og fyrirmynd agavaldsins. Einangrunin hæfir hins vegar ekki valdstjórn upplýsingasamfélagsins, sem byggir einmitt á samskiptum. Í þessu samfélagi fer eftirlitið fram í gegnum gagnasöfnin. Fangarnir sem búa undir eftirliti Panopticon búa í innbyrðis einangrun, þeir framleiða engin gögn, skilja ekki eftir sig stafrænar upplýsingar og eru því sambandslausir.

Fórnarlamb og skotmark hins agabundna lífvalds er líkaminn: „Í hinu kapítalíska samfélagi er það lífpólitíkin sem skiptir mestu máli, hið líffræðilega og það sem snertir líkamann.“[v] Undir valdstjórn lífvaldsins er líkaminn undirseldur framleiðsluvélinni og því eftirliti sem hámarkar afköst hennar í gegnum hið líkamlega agavald. Þveröfugu máli gegnir um valdstjórn upplýsingasamfélagsins, nokkuð sem Foucault hafði af eðlilegum ástæðum ekki séð fyrir – þar er ekki um neina stjórnskipan lífvaldsins að ræða. Valdstjórn upplýsingasamfélagsins gerir sér ekki annt um líkamann, heldur situr hún um mannssálina í gegnum hið sálræna yfirvald. Nú á tímum er líkaminn fyrst og fremst viðfang fegrunarfræða og „fitness“. Að minnsta kosti á það við um hinn vestræna kapítalisma upplýsinganna. Hann hefur að stærstum hluta losað líkamann úr viðjum agavaldsins sem þjálfaði hann til að verða að vinnuvél. Hann er þannig orðinn fangi fegrunariðnaðarins.

Sérhverju valdakerfi fylgir tiltekin stjórnlist sýnileikans. Í konungsríkinu var mikilvægast að sviðsetja valdstjórnina með áberandi hætti: leiksýningin (lo spettacolo) er miðill þess. Yfirvaldið sýnir sig í tilkomumikilli leiksýningu. Dýrðarljóminn verður réttlæting þess. Skrautsýningar og valdatákn festa valdið í sessi. Viðhafnartilburðir og sviðsmunir ofbeldisins er hrífa mannfjöldann, stórhátíðir og myrkir refsi- og aftökusiðir tilheyra valdinu í formi leiksýninga. Líkamlegar kvalir eru sviðsettar til áhorfs og til að hrífa fjöldann. Böðullinn og hinir dæmdu koma fram sem leikendur. Svið hins opinbera er leiksvið. Konungsvaldið virkar í gegnum leikræna framsetningu: það er vald sem sýnir sig, auglýsir sig, stærir sig af eigin ljóma. Undirsátarnir sem það sviðsetur sig fyrir, eru hins vegar ósýnilegir.

Aftakan sem sviðsetning konunglegs valds: aftaka John Turrell í Hertford, Englandi 1824

Ólíkt hinu konunglega valdi er ríkti fyrir tíma módernismans, þá felur agavald nútímans ekki í sér samfélag sjónarspilsins, heldur samfélag eftirlitsins. Hin tilkomumiklu hátíðahöld konungsvaldsins og allar skrautsýningar þess víkja nú fyrir hverstagslegu skrifræði eftirlitssamfélagsins. Mannfólkið er hvorki til staðar „á áhorfendapöllunum né á sjálfu leiksviðinu“ heldur „í hinni alsjáandi (panoptica) eftirlitsvél.“[vi]

Undir agavaldinu verða algjör endaskipti á sýnileikanum. Þar eru það ekki valdhafarnir sem láta ljós sitt skína, heldur hinir undirokuðu. Agavaldið gerir sig ósýnilegt um leið og það þvingar þegnana undir samfellt ljós eftirlitsvélanna. Þegnarnir eru undir eftirlitsljósi ljóskastaranna til að tryggja stöðu yfirvaldsins. Vitundin um að búa „samfleytt undir eftirlitsljósinu“ viðheldur agavaldi þegnskyldunnar.[vii]

Skilvirkni hins panoptíska agavalds byggist á því að  undirsátar þess finni stöðugt til eftirlitsvélarinnar. Þeir innbyrða eftirlitið. Það skiptir mestu máli fyrir agavaldið að „innræta […] viðvarandi meðvitund um sýnileikann“[viii]. Í eftirlitssamfélagi George Orwells framkallar „Stóri bróðir“ (The Big Brother) samfelldan sýnileika. Big Brother is watching you. Undir valdstjórn agavaldsins er umfang rýmisins, í mynd einangrunarsvæða og fangabúða, trygging fyrir sýnileika þegnanna, sem þannig hafa fengið úthlutað afmörkuðu rými sem þeir hafa enga heimild til að yfirgefa. Hreyfigeta þeirra er vandlega takmörkuð þannig að þeir geti ekki smogið undan eftirlitsljósi Panopticon.

Í upplýsingasamfélaginu eru hin eiginlegu einangrunarrými agavaldsins leyst upp í opin net. Í upplýsingasamfélaginu mynda eftirtalin atriði hina staðfræðilegu reglu: Stífluverkin víkja fyrir flæðinu. Í stað læsinganna sjáum við opnanirnar. Einangrunarklefarnir víkja fyrir samskiptanetunum. Sýnileikinn fær nú á sig þveröfuga mynd, ekki lengur í gegnum einangrunina, heldur í gegnum samtenginguna. Hin stafræna upplýsingatækni umbreytir samskiptunum í eftirlit: því fleiri sem netskilaboð okkar eru, því ákafari sem netsamskipti okkar verða, þeim mun árangursríkari verður eftirlitsvélin. Farsíminn nýtir sér frelsið og samskiptin sem eftirlits- og valdatæki. Í upplýsingasamfélaginu finnur fólk ekki fyrir eftirliti, heldur fyrir frelsistilfinningu. Þversögnin er sú að það er einmitt frelsistilfinningin sem tryggir yfirráðin. Að þessu leyti finnum við reginmun á agavaldinu og upplýsingavaldinu. Yfirdrottnunin fullkomnast á þeirri stundu þegar frelsið og eftirlitið falla í sama farveg.

Valdstjórn upplýsinganna blómstrar í fjarveru agavaldsins. Einstaklingarnir eru ekki lengur þvingaðir undir neitt „panoptískt“ eftirlitsljós. Þvert á móti beina þeir athyglinni að sjálfum sér af innri þörf, án nokkurrar ytri þvingunar. Þeir fram-leiða sjálfa sig, það er að segja setja sjálfa sig í sviðsljósið. Franska orðatiltækið se produire merkir að „sýna sig“. Undir valdstjórn upplýsinganna eiga þegnarnir sjálfir frumkvæði að því að skapa sér þann sýnileika sem agavaldið hafði áður þvingað þá í. Þeir setja sig í sviðsljósið af frjálsum vilja, eða öllu heldur þá sækjast þeir eftir því, á meðan undirsátar eftirlitsljósa Panopticon reyna að forðast það.

Gagnsæið

Eignarhald valdstjórnar upplýsingasamfélagsins á sýnileikanum gengur undir nafninu gagnsæi. Þegar gagnsæið er einskorðað við opinbera stjórnsýslu upplýsingasamfélagsins, undir yfirstjórn tiltekinna stofnana eða einstaklinga, eru höfð endaskipti á hlutunum: Gagnsæið verður kerfisbundin þvingun upplýsingasamfélagsins. Boðorðið verður: allt á tilvist sína undir upplýsingunni. Gagnsæi og upplýsingar verða eitt og hið sama. Upplýsingasamfélagið er samfélag gagnsæisins. Tilskipun gagnsæisins verður sú, að upplýsingarnar fái frjálst flæði. Hið sanna frelsi tilheyrir ekki þegnunum, heldur upplýsingunum. Þversögn upplýsingasamfélagsins staðhæfir að mannfólkið sé fangar upplýsinganna. Þeir smíða sér sjálfir eigin hlekki að því marki sem þeir miðla og framleiða upplýsingar. Hið stafræðna fangelsi er gagnsætt.

Hof gagnsæis og myrkurs

Helsta viðskiptamiðstöð (flagship store) Apple í New York er teningur úr gleri, hof gagnsæisins. Út frá pólitískum sjónarhóli gagnsæisins myndar hann andstæðu Ka‘ba (Svarta teningsins) í Mekka. Ka‘ba merkir bókstaflega „teningur“ (cubo): þykkt svart yfirborð hans sviptir hann öllu gagnsæi. Aðeins hofprestarnir hafa aðgang að innra rými hans. Hið ævaforna (arcano / arcanus á latínu, samstofna forskeytinu „erki-“ á ísl. = það sem tilheyrir hinum myrka uppruna hlutanna, forneskjan, „örkin“.), sem er svipt öllum sýnileika, er um leið grundvöllur sérhverrar trúarlegrar-pólitískrar yfirdrottnunar. Innrýmið (la cella) í gríska hofinu er hulið sjónum allra, og kallast adyton á grísku, sem þýðir bókstaflega „þar sem inngangur er bannaður“. Einungis hofprestarnir hafa aðgang að þessu helga rými. Yfirdrottnunin hvílir hér á hinni ævafornu forneskju (arcano). Hin gagnsæja verslunarmiðstöð Apple er hins vegar opin öllum dag og nótt. Undir teningnum er verslunarkjallarinn. Hver sem er hefur aðgang byggingunni sem viðskiptavinur. Svarti Ka‘ba teningurinn í Mekka og glerteningur Apple-verslunarinnar eru tvö ólík form yfirvaldsins: forneskjan og gagnsæið.

Ka'ab teningurinn í Mekka. Helgasta trúarhof múslima

Apple-verslunin í New York: glerteningurinn

Glerteningur Apple vísar til hömlulauss frelsis og samskipta, en í raun og veru er hann mynd hinnar  vægðarlausu yfirdrottnunar upplýsinganna. Valdstjórn upplýsinganna gerir mannfólkið fullkomlega gagnsætt. Sjálft yfirvaldið er hins vegar aldrei gagnsætt: gagnsætt yfirvald er hvergi til staðar. Gagnsæið er forhliðin á starfsemi sem er handan alls sýnileika. Sjálft gagnsæið er ekki gagnsætt: það á sína bakhlið. Skurðstofa gagnsæisins er myrkraklefi. Við felum okkur honum á vald, þessum myrkraklefa reiknilíkananna.

Snjallsíminn, snjallheimilið og snjallvaldið

Valdsvið upplýsinganna er í felum um leið og það er alvirkt í allri hversdagsreynslu okkar. Það felur sig á bak við greiðvikni samfélagsmiðlanna, á bak við þægindi leitarvélanna, á bak við kliðmjúkar aðstoðarraddir upplýsingaveitnanna og allan þann hægðarauka sem hin snjöllu forrita-öpp bjóða upp á. Snjallsíminn sýnir sig að vera hraðvirk upplýsingaveita sem setur okkur undir stöðugt og samfellt eftirlit. Snjall-heimilið (smart-home) umbreytir gjörvallri íbúðinni í stafrænt fangelsi, sem hefur nákvæmt eftirlit með öllum daglegum gerðum okkar. Snjall-ryksugan, sem losar okkur undan erfiði gólfþrifanna, kortleggur gjörvalla íbúðina. Snjall-rúmið með sínum nettengingum framlengir eftirlitið inn í svefninn. Eftirlitið smeygir sér inn í hversdagstilveru okkar undir merki vellíðunar. Engin andstaða gegn ríkjandi yfirvaldi gerir vart við sig í hinu stafræna fangelsi hins snjalla hægindarýmis. „Lækið“ útilokar sérhverja byltingu.

Smart-Home, auglýsing fyrir snjall-heimilið

Kapítalismi upplýsinganna hagnýtir sér hina nýfrjálsu tækni valdsins. Gjörólíkt eiginlegri valdatækni agasamfélagsins þá beitir hann hvorki skyldum né bönnum, heldur ber fyrir sig jákvæða hvata. Hann nýtir sér frelsið í stað þess að bæla það. Hann leiðir ómeðvitaðan vilja okkar í stað þess að brjóta hann niður með ofbeldi. Hið kæfandi agavald víkur fyrir snjall-valdinu, sem beitir ekki tilskipunum heldur pískri, ekki fyrirskipunum heldur ábendingum, með duldum boðmerkjum hvetur það okkur að fylgja hegðunareftirlitinu. Eftirlit og refsing  voru aðalsmerki agasamfélagsins samkvæmt Foucault, en þau víkja nú fyrir hvatningum  og betrun. Valdstjórn upplýsingasamfélags nýfrjálshyggjunnar kynnir sig til leiks undir merkjum frelsis, samskipta og samfélags.

Áhrifavaldarnir og fylgjendurnir

Áhrifavaldarnir sem starfa á You Tube og Instagram hafa einnig innbyrt valdatækni nýfrjálshyggjunnar. Hvort sem um er að ræða ferðalög, fegrunarmeðul eða líkamsrækt, þá starfa áhrifavaldarnir markvisst undir merkjum frelsisins, nýsköpunarinnar og hinnar heilsteyptu sjálfsmyndar. Auglýsingatækni þeirra miðar að lævísu framboði varnings, þar sem þeir sviðsetja sjálfa sig án þess að ganga fram með oflæti sölumannsins. Þannig skapa þeir eigin eftirspurn og leitarmarkmið á meðan hefðbundnar auglýsingar eru fjarlægðar með adblocker. Áhrifavaldarnir njóta vinsælda sem eftirsóknarverðar fyrirmyndir. Þannig fær allt á sig trúarlegt yfirbragð. Í gervi hugsjónaleiðtoga ganga þeir inn í hlutverk hins frelsandi afls. Fylgjendurnir (followers) taka þátt í lífi þeirra eins og lærisveinar með því að kaupa varninginn sem áhrifavaldarnir hampa í sviðsetningu síns daglega lífs. Þannig öðlast fylgjendurnir hlutdeild í hinni stafrænu altarisgöngu. Samfélagsmiðlarnir taka þannig á sig mynd safnaðarstarfs kirkjunnar: „Lækið“ er þeirra Amen. „Sharing“ samsvarar altarisgöngunni og neyslan verður sáluhjálpin. Sú endurtekning sem fólgin er í leikrænni framsetningu áhrifavaldanna framkallar hvorki leiða né tilbreytingarleysi, öllu heldur felur hún í sér trúföst einkenni helgisiðarins. Um leið kynna áhrifavaldarnir neysluvarning sinn sem meðul til að raungera sjálfan sig. Þannig verðum við neytendur til dauðs. Neysla og sjálfsímynd verða eitt og hið sama: sjálfsímyndin verður sjálf að söluvöru.

Snertiskjárinn og frelsið í fingurgómunum

Við teljum okkur vera frjáls jafnvel þótt líf okkar sé undirsett algjörri skrásetningu er miði að fullkomnu sálrænu eftirliti með hegðun okkar. Virkni valds nýfrjálshyggjunnar undir valdstjórn upplýsinganna ræðst ekki af vitundinni um samfellt eftirlit, heldur af hinu skynjaða frelsi. Ólíkt hinum ósnertanlega sjónvarpsskjá Big Brother-sjónvarpsþáttanna, þá er það hinn snjalli snertiskjár sem færir okkur alla hluti innan seilingar og neyslufæris. Þannig færir snertiskjárinn okkur „frelsið í fingurgómana“[ix]. Að vera frjáls undir valdstjórn upplýsinganna merkir ekki að bregðast við, heldur að klikka, sýna „Like“ og ýta á „senda- takkann“. Þannig sleppum við undan allri mótstöðu, og engin bylting verður yfirvofandi. Fingurgómarnir eru ekki færir um raunverulega handvirkni (Handlung). Þeir eru einungis líffæri hinnar valkvæmu neysluhyggju. Neysla og bylting fela í sér gagnkvæma útilokun og eiga því ekki samleið.

Eitt af einkennum hins klassíska alræðis sem pólitísk og veraldleg trúarbrögð er hugmyndafræðin, sem heldur fram „meintri algildri útskýringu“. Sem heildarfrásögn býður hugmyndafræðin upp á „að bregða ljósi á alla sögulega atburði, ráða yfir algildri skýringu á fortíðinni, fullgildu mati á samtímanum og áreiðanlegri forspá um framtíðina“[x]. Sem algild útskýring útilokar hugmyndafræðin sérhver skilyrt eða tilfallandi frávik, sérhverja óvissu.

Frásagnarvaldið og reiknivaldið

Með aðferðarfræði heimildafræðanna (Dataismus) að vopni sýnir valdstjórn upplýsinganna einkenni alræðisins. Hún boðar altæka þekkingu. Þessi algilda þekking, sem byggir á heimildum, er þó ekki sett fram sem hugmyndafræðileg frásögn, heldur með framkvæmd tölfræðilegs (algoritmísks) verknaðs reiknilíkananna. Heimildafræðin (Dataismus) vilja reikna út allt sem er, og allt sem koma skal. Frásögnin víkur nú fyrir virkjun reiknilíkananna. Valdstjórn upplýsinganna leysir frásagnarháttinn endanlega af hólmi í formi tölfræðinnar. Hversu snjöll sem reiknilíkönin kunna að vera, þá ná þau aldrei að útiloka reynslu hinna skilyrtu og tilfallandi frávika fyrir fullt og allt, í líkingu við hinar hugmyndafræðilegu frásagnir.

Alræðisríkið segir skilið við veruleikann eins og hann birtist okkur í gegnum skynfærin fimm. Það býr til annan og sannari veruleika er býr handan þess sem við blasir og höfðar þannig til sjötta skilningarvitsins. Heimildafræðin hafa hins vegar enga þörf fyrir sjötta skilningarvitið. Þau yfirfæra ekki áþreifanlega íveru hins gefna, það er að segja heimildanna. Latneska orðið datum, sem er dregið af sögninni dare (= að gefa) merkir bókstaflega „það sem er gefið“. Heimildafræðin (Dataismus) ímyndar sér engan annan veruleika handan þess sem er gefið, handan heimildanna, því hann felst í alræðishyggju án hugmyndafræði.

Alræðishyggjan vinnur úr meðfærilegum efniviði sem gefur sig á vald foringja. Hugmyndafræðin kveikir í sálum fjöldans, gefur honum sál.  Þannig talar Gustave Le Bon um sál fjöldans í bók sinni um fjöldasálfræðina. Sál sem sameinar fjöldann í virkni hans. Valdstjórn upplýsinganna vinnur hins vegar að einangrun  einstaklinganna.  Jafnvel þegar þeir koma saman mynda þeir ekki heilsteyptan fjölda, heldur stafrænan sveim sem fylgir engum foringja, heldur sínum áhrifavaldi.

Múgmennið og handhafar „prófílsins“

Hinir rafrænu fjölmiðlar eru múgmiðlar þar sem þeir framkalla múgmanninn. „Múgmaðurinn er rafrænn íbúi jarðarkringlunnar, en um leið samtengdur öllum öðrum mönnum og konum, rétt eins og hann væri áhorfandi á hnattrænum íþróttaleikvangi. Múgmennið á sér enga sjálfsmynd, hann er „enginn“. Hinir stafrænu netmiðlar binda enda á tímaskeið múgmennisins. Íbúi hinnar stafrænu jarðarkringlu er ekki „enginn“: hann er öllu heldur einhver með prófíl – á meðan það hlutskipti að „hafa prófíl“ tilheyrði einungis refsiföngunum á tímaskeiði múgmennisins. Valdstjórn upplýsinganna er umhugað um einstaklingana, einmitt vegna þess að hún gerir úr þeim „prófíl“ hegðunarmynstursins.

Sjónræn og stafræn dulvitund

Samkvæmt Walter Benjamin veitir kvikmyndatökuvélin aðgang að vissum hluta dulvitundarinnar sem hann kallar „hin sjónræna dulvitund“. Nærmyndirnar eða hægagangurinn leiddu í ljós örsmáar hreyfingar og örviðbrögð, sem hið beina sjónskyn meðtekur ekki, og opna þannig fyrir dulvitað rými. „Það er einungis fyrir tilverknað kvikmyndatökuvélarinnar sem við upplifum hið dulvitaða sjónskyn, rétt eins og við öðlumst þekkingu á dulvitund hvatalífsins í gegnum sálgreininguna“.[xi] Hægt er að heimfæra hugleiðingar Benjamins um hina sjónrænu dulvitund upp á valdstjórn upplýsinganna. Gagnabankar (Big Data) Gervigreindarinnar fela í sér stafrænt sjóngler sem opnar handhafa þess aðgang að þeirri földu dulvitund er liggur á bak við meðvitaðan athafnavettvang okkar. Rétt eins og við tölum um sjónræna dulvitund þá getum við kallað þetta svið hina stafrænu dulvitund. Gagnabankarnir (Big Data) og Gervigreind (AI) gera valdstjórn upplýsingasamfélagsins kleift að skilyrða þá hegðun okkar sem rekja má til hins ómeðvitaða. Valdstjórn upplýsinganna nýtir sér þau forskilvitlegu svið hvatalífsins og tilfinninganna er virka á undan hinni meðvituðu hegðun. Sú sálræna stjórnlist er byggir á gagnasöfnunum smeygir sér inn í hegðunarmynstur okkar án þess að við gerum okkur grein fyrir þessari íhlutun.

Fullveldi gagnabankanna

Sérhver afgerandi umbreyting á miðlun verður lífgjafi nýs valdakerfis. Miðlunin er yfirdrottnun. Þegar Carl Schmitt stóð andspænis hinni rafrænu byltingu sá hann sig tilneyddan að endurskilgreina hið fræga lögmál sitt um fullveldið. „Eftir fyrri heimsstyrjöldina sagði ég: „sá er fullvalda sem innleiðir undantekningarástandið.“ Eftir seinni heimsstyrjöldina segi ég, nú þegar ég stend frammi fyrir dauða mínum: „fullvalda er sá sem ræður yfir öldum ljósvakans“.[xii] Stafrænu miðlarnir gera yfirdrottnun upplýsinganna mögulega. Bylgjur ljósvakans og hinir rafrænu miðlar múgmenningarinnar glata mikilvægi sínu. Á okkar tímum er eignarhald upplýsinganna frumforsenda allra yfirráða. Valdið verður ekki lengur tryggt með massaáróðri risafjölmiðlanna, heldur með upplýsingastjórnun. Andspænis stafrænu byltingunni hefði Schmitt þurft að endurskoða lögmál sitt um fullveldið enn einu sinni: fullvalda er sá sem ræður yfir upplýsingaveitum netsins.

 

(Millifyrirsagnir eru þýðandans)

………………………………………………………………………………………………

[i] M.Foucault, Sorvegliare e punire. Nascita della prigione, Einaudi ed. Torino 2014, bls 147

[ii] Sama rit, bls. 148

[iii] Sama rit, bls 248

[iv] Panopticon er hugtak sem Foucault tók að láni frá J. Bentham (1791) um hringlaga fangelsi umgirt „alsjáandi“ eftirlitsklefum og notaði um „agasamfélagið“.

[v] M.Foucault: La nascita della medicina sociale, birt í Il filosofo militante, Archivo Foucault 2. Interventi, colloqui, interviste. 1971-1977, Feltrinelli, Milano 2017, bls. 222.

[vi] M.Foucault: Sorvegliare e punire, bls 236.

[vii] Sama rit, bls. 205.

[viii] Sama rit, bls. 219.

 

[ix] V.Flusser: Dinge und Undinge. Phänomenologische Skizzen, Carl Hans Verlag, München 1993, bls. 964.

[x] H.Arendt: Le origini del totalitarismo, Bompiani, Milano 1978, bls. 642.

[xi] W.Benjamin: Listaverkið á tímaskeiði endurgerðar þess. L‘opera dell‘arte nell‘epoca della sua reproducibilità tecnica, Einaudi, Torino 2000, bls. 42

[xii] C.Linder: Der Banhof von Finnentrop. Eine Reis eins Carl Schmitt Land, Matthes & Seitz, Berlín 2008, bls. 422 (neðanmáls).

 

 

HVERNIG VERÐ ÉG ÞAÐ SEM ÉG ER?

Hvernig verðum við það sem við erum?

Spurningar um hina heilsteyptu og brotnu sjálfsmynd mannsins

Með tilvísunum í rit Nietzsche, Freuds, Heideggers og endursögn á merkum fyrirlestri eftir Carlo Sini

 

Nauðsyn krefur að í upprunastað sínum

munu mennirnir einnig mæta tortímingu sinni

því þeir greiða hvor öðrum sekt og lausnargjald óréttlætisins

samkvæmt reglu tímans.

Anaximander

 

 

  1. NIETZSCHE

Þessi spurning er undirtitill bókarinnar „Ecce Homo. Wie man wird was man ist“ („Sjáið manninn – Hvernig verður maður það sem maður er“) eftir Friedrich Nietzsche frá árinu 1888. Þetta er eins konar sjálfsvarnarrit, þar sem Nietzsche rekur líf sitt í gegnum höfundarverkið með túlkun á ritverkum sínum fram að þeim tímamótum sem hann fann kannski nálgast og urðu rúmu ári síðar, er hann varð heltekinn af geðveiki.

Í formála segist hann finna til skyldunnar að segja hver hann sé, ekki síst vegna þess misskilnings sem hann hafi mætt í lífinu. Í innganginum segir hann meðal annars það hafa verið köllun hans og hlutverk í lífinu að steypa skurðgoðum af stalli á þeim tímum þegar sannleikurinn hafð glatað gildi sínu, merkingu sinni og trúverðugleika, með uppgötvun hins upplogna heims hugsjónanna, …með uppgötvun hins „sanna heims“ og „heims ásýndarinnar“,  það er að segja uppgötvun hins upplogna heims og raunveruleikans. […] Lygi hugsjónanna (des Ideals) hafði til þessa falist í flótta frá veruleikanum, þar sem mannkynið hafi logið sjálft sig allt að rótum sinnar dýpstu eðlisávísunar, inn í falska tilbeiðslu gilda er skyldu vera þau einu er gætu leitt það til velsældar og hins æðsta réttar og framtíðar“.

Hér er Nietzsche augljóslega að vísa til platónismans, til hughyggju Platons, þar sem hann sagði hinn varanlega og óbreytanlega sannleika felast í frummyndunum sem eru af andlegum toga, á meðan hin skynjanlegi efnisveruleiki væri blekking eða skuggamynd sannleikans, rétt eins og líkaminn var fangelsi sálarinnar. Barátta Nietzsche gegn þessari tvíhyggju var nánast upp á líf og dauða.

Nietzsche var augljóslega hinn stóri helgimyndabrjótur er réðst með heift á allar helgimyndir síns samtíma um siðferði og trúarbrögð, um leið og hann kynnir sig til leiks sem „lærisvein heimspekingsins Díonysusar“ er kjósi frekar hlutverk satírsins en dýrlingsins. Í þessum  formála frábiður Nietzsche sér hlutverk siðapostulans, og frábiður sér í raun og veru fylgispekt lærlinganna. Formálanum að þessari játningabók lýkur hann með þessum orðum:

„Hér talar enginn öfgamaður, hér er ekki „predíkað“, hér er ekki krafist trúar: með hæglæti sínu og sínum mjúka takti hafa Þessar orðræður til að bera ótæmandi ljósfyllingu og hina dýpstu hamingju sem  drýpur af textanum í dropatali, frá orði til orðs. Þau ná einungis til hinna útvöldu. Hér telst hlustunin til einstakra forréttinda. Engum er gefinn frjáls hlustun á orð Zaraþústra. … Er Zaraþústra þá ekki sá sem dregur á tálar?… En hvað segir hann þá sjálfur, þegar hann hverfur fyrst inn í einsemd sína? Einmitt hið gagnstæða við það sem sérhver „vitringur“, „dýrlingur“, „frelsari“ eða aðrir „decadens-menni“ myndu sagt hafa. Ekki bara orð hans eru öðruvísi, hann sjálfur er öðruvísi:

Einn kveð ég nú, kæru lærisveinar! Þið skuluð líka fara, einir! Þannig vil ég hafa það.

Farið burt frá mér og gætið ykkar á Zaraþústra! Eða öllu frekar: blygðist ykkar hans vegna! Kannski sveik hann ykkur.

Hinn vitri á ekki bara að elska óvini sína, hann verður líka að kunna að hata vini sína.

Lærimeistaranum er illa launað ef við verðum alltaf lærlingar hans. Hvers vegna viljið þið ekki slíta í sundur lárviðarsveig minn?

Segist þið trúa á Zaraþústra? En hvaða máli skiptir Zaraþústra? Þið tilheyrið aðdáendasöfnuði mínum, en hvaða máli skipta trúarsöfnuðirnir?

Þið hafið ekki enn leitað ykkar sjálfra: þið funduð mig. Þannig gera hinir trúræknu, þess vegna er vægi hins trúrækna lítið.

Nú heiti ég á ykkur að tína mér og finna sjálfa ykkur. Og ég mun ekki snúa aftur fyrr en þið hafið allir afneitað mér!

Friedrich Nietzsche.

Leikhúsgrímur. Rómversk mósaík, 2. öld e.Kr.

Ráðgáta sjálfsins

Nietzsche talar alltaf til okkar í þversögnum. Ekki bara til að blekkja okkur eða villa okkur sýn, heldur til að vekja okkur til vitundar um að veruleikinn sjálfur sé þversagnafullur. Þegar betur er að gáð felur spurning hans um „hvernig við verðum það sem við erum“ líka í sér þversögn. Þannig segir hann í 9. grein kaflans um  „Hvers vegna ég er svona snjall“, að engin hætta jafnist á við þá að horfast í augu við það sem felst í spurningunni um að „verða það sem maður er“. Hún leiðir í ljós að maður hefur ekki hugmynd um hvað hann er.“

Ekki þarf að fjölyrða um margræðni þessarar spurningar, og vandi hennar endurspeglast í sögu hugmyndanna, allt frá samræðunni í Gorgíasi Platons, þar sem Sókrates afhjúpar vandann með því að ráðleggja Kaírefóni að spyrja Gorgías að því er virðist þessarar einföldu spurningar: hvað ert þú?

Við erum vön að svara svona spurningum með einföldum hætti: ég er Jón eða Gunna. Ég er maður eða kona, ég er sjómaður eða sjúkraliði o.s.frv. Sókrates notar spurninguna til að mæla mælskulistina við sannleikann í endalausum spurningum sem stilla Gorgíasi upp við vegg andspænis þeirri grímu sem við öll notum þegar við gerum grein fyrir okkur sjálfum: hvort sem það er skírnarnafn, starfsheiti, trúfélag, þjóðerni eða pólitísk sannfæring. Við komumst ekki undan grímunni.

Gríman var Nietzsche hugleikin, og inntak hennar á rætur sínar í leikhúsinu, ekki síst í gríska harmleiknum. Hún opnar fyrir okkur tengslin á milli sýndar og veruleika. Þegar Nietzsche segist vera lærisveinn „heimspekingsins Díonysusar“ og kjósa það heldur að vera satír en spámaður, þá er satírinn sú grímuklædda vera með asnaeyru og tagl sem syngur ditirambi staðsettur mitt á milli áhorfrenda og persóna harmleiksins á sviðinu, satírinn er sú vera sem vekur áhorfandann til vitundar um átök hins dýrslega og mannlega í harmleiknum, en leikararnir á sviðinu bera líka grímur sem „dramatis personae“, þar sem latneska orðið „persona“ hefur einfaldlega merkinguna „gríma“.

Ef gríman fær okkur til að hugleiða mun ásýndar og veruleika, snýst spurningin um „hvað við erum“ þá um  að svipta okkur grímunni, til þess að finna veruleikann, okkar „innri mann“ á bak við grímuna?

Fyrir Nietzsche er málið ekki svo einfalt. Hann áttaði sig á að spurningin fól í sér flókið frumspekilegt vandamál, sem snerti meðal annars grundvallaratriði í kenningum Descartes um frumforsendur hinnar vísindalegu aðferðar. Í orðspjótum sínum í „Handan góðs og ills“ kemst hann meðal annars svona að orði:

„Á fyrri tíð trúðu menn nefnilega á sálina líkt og menn trúðu á málfræðina og hið málfræðilega frumlag. Þá var viðkvæðið: „ég“ er skilyrði, „hugsa“ er umsögn og skilyrt. Hugsun er athöfn sem krefst þess að við hugsum okkur að hún hafi frumlag sem orsök. Því næst reyndu menn með aðdáunarverðri seiglu og klókindum að losa sig úr þessu neti með því að spyrja, hvort ekki gæti hugsast að þessu væri þveröfugt farið: „hugsa“ væri skilyrðið og „ég“ hið skilyrta. „Ég“ væri sem sagt niðurstaða sem hugsunin sjálf kemst að“.

Í þessum örfáu orðum  bendir Nietzsche á rökvilluna í þeim orðum Descartes, að setningin „ég hugsa“ geti verið hin frumlæga forsenda sannleikans, þar sem ekki er hugað að „ég“-hugtakinu og hvað það feli í sér: að það væri hugsanlega tilbúningur hugsunar sem réttlætir sjálfa sig. Og Nietzsche bætir reyndar við:

„Þegar öllu er á botninn hvolft vakti fyrir Kant að færa sönnur á að ekki væri hægt að sanna sjálfsveruna með henni sjálfri, né heldur hlutveruna. Honum hefur sjálfsagt ekki þótt það fráleitur möguleiki að sjálfsveran, með öðrum orðum „sálin“, ætti sér sýndartilvist.[i]

Sú ráðgáta sem Nietzsche afhjúpar hér í örfáum orðum  hefur kostað margan heimspekinginn heilu doðrantana af vangaveltum um það hála svell sem hin mikla yfirbygging frumspekinnar hvílir á í hugmyndasögu Vesturlanda og sögu vísindanna.

2. SIGMUND FREUD

Sá klofningur sjálfsins, sem Nietzsche greindi með mynd sinni af grímunni og þeim undirliggjandi eðlishvötum sem hún felur, verður honum jafnframt fyrirmyndin að andstæðu hins appoloníska ytra forms og hins díonysiska (og tilfinningalega) inntaks mannssálarinnar, skilgreining sem varð í sálgreiningu Sigmundar Freud að skilgreiningu á klofningi „égsins“ og dulvitundarinnar. Hann segir í ritgerð sinni „Undir oki siðmenningar“ frá árinu 1929:

„Að öllum jafnaði er tilfinning okkar fyrir eigin sjálfi, „égi“ okkar, einhver sú traustasta fullvissa sem við höfum. Okkur virðist þetta „ég“ vera algjörlega sjálfstætt, ein heild og vel greind frá öllu öðru. Hins vegar er sú tilfinning blekking ein. Sjálfið heldur áfram inn á við, rennur inn í hið dulvitaða sálarlíf, án nokkurra skýrra landamerkja. Það fellur saman við það sem við köllum „það“, og er raunar forhlið þess. Þetta var fyrst leitt í ljós með rannsóknum sálkönnunar, en þær rannsóknir fræða okkur um margt fleira varðandi tengsl sjálfs og þaðs. En mörkin á milli sjálfs og hins ytra heims virðast þó vera skýr og greinileg.“[ii]

3. MARTIN HEIDEGGER

Innkastið og hjarðmennskan

Í stuttu máli komst Freud að þeirri byltingarkenndu niðurstöðu, að „égið væri ekki húsbóndi á eigin heimili“. Þessi niðurstaða var „kópernísk bylting“ í hugmyndasögunni og breytir miklu um hvernig við svörum spurningu Nietzsche. Ekki verður farið frekar út í þá flóknu hlið málsins hér, en bent á aðra mikilvæga athugasemd við þessa spurningu, sem við getum fundið hjá Martin Heidegger í greiningu hans á verunni sem „veru-í-heiminum“ í höfuðriti hans „Vera og Tími“ frá árinu 1927.

Þar vildi Heidegger meðal annars opna fyrir skilgreiningu okkar á sjálfinu og veru þess sem „sam-veru“ er væri ekki bundin við einstaklinginn sem slíkan, heldur samfélagið og „umhyggju“ hans gagnvart því umhverfi sem hann er staddur í hverju sinni, og hann hefur í raun ekki valið sér sjálfur.

Maðurinn velur sér ekki foreldra, móðurmál eða það trúarlega, menningarlega, sögulega  og pólitíska umhverfi sem hann fæðist í, og hann speglar sjálfsmynd sína í. Okkur er „kastað inn“ á leiksvið tilveru okkar án eigin vitundar eða vals, þar er hið blinda afl náttúrunnar að verki og það hefur óhjákvæmilega mótandi áhrif á sjálfsmynd okkar og skilning okkar á „sjálfsverunni“ segir Heidegger:

„Innkastið (Die Geworfenheit) er veruháttur tiltekinnar veru, sem skilyrðir ávallt möguleika hennar. Þetta gerist að því marki sem sjálfsveran skilur sjálfa sig út frá þessu innkasti (og endurvarpar (entwirft) sjálfri sér um leið á út frá þeim aðstæðum). Veran-í-heiminum, sem er verunni jafn upprunaleg og áþreifanleg og sam-veran með öðrum, er því þegar í eigin ónáð (ist je umwillen seiner selbst). Þetta sjálf er því fyrst og fremst óekta sjálf, þetta „maður-gerir-sjálf“ (das Man-selbst). Veran í heiminum er alltaf þegar útrunnin (immer schon verfallen). Hina dagsdaglegu meðaltals-veru má því skilgreina sem hina útrunnu-afskrifuðu (verfallend-erschlossene) veru í heiminum, sem innkast-frákast (geworfen-entwerfende) verunnar í heiminum.  þar sem vera þess í heiminum, ásamt sam-veru hinna, felur í sér sönnustu mögulegu getu þess til sjálfsveru“.[iii]

Þetta „maður-gerir-sjálf“ orðalag er klaufaleg íslensk endursögn á þýska „Man“-hugtakinu sem felur í sér „afturbeygða“ mynd sagnorða í „samtölu“: Man geht, liegt, schlaft o.s.frv,: Maður gengur, liggur, sefur o.s.frv. eins og menn ganga, liggja og sofa almennt. Þetta þýska orðalag (das Man í hvorugkyni, ekki der Mann í kk.) er sérsktaklega til umræðu í 27. Kafla Veru og Tíma Heideggers, sem ég hef þýtt og birt hér á vefsíðunni (sjá: https://wp.me/p7Ursx-1af). Þar vekur Heidegger meistaralega athygli á virkni múgsefjunar og „hjarðmennsku“, sem Nietzsche var svo tíðrætt um, og hvernig hún hefur mótandi áhrif á sjálfsveru okkar og þá sjálfsímynd sem Nietzsche er að spyrjast fyrir um: hvernig verðum við það sem við erum?

Hér verður spurning Nietzsche því enn flóknari, það er ekki bara að égið sé „ ekki húsbóndi á eigin heimili“, heldur er okkur kastað inn í til-veru sem mótar sjálf okkur umfram allt annað: foreldrarnir, móðurmálið, samfélagið, stofnanir þess, fjölmiðlun, samfélagsmiðlar o.s.frv. Ekkert að okkar eigin vali. Ef við tökum þessar glöggu greiningar alvarlega verður spurning Nietzsche enn ágengari: hvernig verðum við það sem við erum?

Undanfarið hafa þessar spurningar verið mér hugleiknar og þess vegna réðst ég einnig í að þýða ekki bara ritgerð Heideggers um múgsefjunina, heldur líka ritgerðina um „Reglu Samsemdarinnar“ (Satz der Identität, sjá https://wp.me/p7Ursx-1eC). Þar tekur Heidegger enn upp þráðinn um þetta efni, og leiðir okkur inn í flókinn merkingarvef sagnorðsins að vera. „Ég er Jón eða Gunna“. Það er ekki bara spurningin um hver sé ég, heldur líka hvað felist í sagnorðinu að vera. Í þessari ritgerð Heideggers sjáum við „afbyggingu“ hinnar einföldustu setningar frumlags, umsagnar og andlags, sem við erum vön að taka sem sjálfgefna.

Það mætti dvelja lengi við þessa „afbyggingu“ Heideggers á sálfræðinni, en látum hér staðar numið í bili, og snúnum okkur að enn öðru sjónarhorni á þennan vanda, sem virtist svo augljós í fyrstu: hvernig verðum við það sem við erum?

4. CARLO SINI

Heilsteypt líf og brotið

Nýlega rakst ég á hljóðritun á fyrirlestri sem ítalski heimspekingurinn Carlo Sini hélt í hertogahöllinni í Ferrara fyrir 13 árum síðan og hafði sem yfirskrift þessa spurningu Nietzsche: Hvernig verður maður það sem hann er? Sini er reyndur fyrirlesari sem á að baki áratuga kennslu við háskólann í Milano og hann er vanur að tala blaðalaust, einnig í þessum meistaralega fyrirlestri. Ég hef ekki séð útskrift þessarar orðræðu og ekki fundið skrifaðan texta hans um efnið (þó meistaraleg túlkun hans á sögu og virkni spegilmyndarinnar í menningarsögu Vesturlanda tengist efninu, sjá V. Bindi í Opere, Transito Verita, út. 2012, bls. 792-840). Í þessum fyrirlestri er Sini að leggja út frá þessari spurningu Nietzsche, og nálgun hans kemur vissulega á óvart og varpar enn nýju ljósi á vandann. Þó greinilega megi merkja tengsl við hugmyndir Heideggers um „veruna-til-dauðs“ sem hann setur m.a. fram í 51. Kafla Veru og Tíma (Das Sein zum Tode und die Alltäglichkeit des Daseins). Þetta er áhrifamikill og sögulegur fyrirlestur og ég tek mér hér það bessaleyfi að endursegja hann á íslensku í meginatriðum. Fyrirlesturinn tók rúma klukkustund að viðbættum spurningartíma. Ólíkt Heidegger talar Sini til okkar á vönduðu talmáli sem er hverjum auðskiljanlegt sem vill hlusta.

Sini hóf mál sitt á að varpa fram þeirri spurningu hvaða merkingu það hafi, þegar við tölum um það „falska líf“ sem Nietzsche kennir við sýndarveru og felst í þeirri grímu sem við berum þegar við kynnum okkur fyrir umheiminum eða horfum í eigin barm. Því hið „sanna“ eða „ósanna“ í þessu tilfelli eigi sér tvær hliðar, hina opinberu og samfélagslegu annars vegar og hina einstaklingsbundnu innhverfu tilveru hins vegar. En þetta tvennt tengist þó óhjákvæmilega.

Sjálfsmyndin sem valkostur eða örlög

Sini gengur beint til  verks, og segir ögrandi og að allri mælskulist slepptri, þá sé „hið falska líf“ (vita inautentica) það líf sem við ástundum hvert og eitt frá degi til dags. Þetta er hin ögrandi forsenda fyrirlestursins, sem Sini segir að feli í sér hinar almennu tilvistaraðstæður hvers og eins. Hann gefur sér frá byrjun að við lifum öll lífi sem ekki sé í rauninni heilsteypt og upprunalegt. Og hann spyr:

„Er mælikvarði okkar á hið heilsteypta og sanna líf fólginn í lífsfyllingunni og ánægjunni, eða er hann annars staðar að finna? Hvað er það sem ég á við, þegar ég held því fram að við lifum öll  „ósönnu“ lífi (inautentico)? Hér þurfum við að stíga einu skrefi lengra og átta okkur á að ekkert okkar er hann sjálfur að eigin vali. Þetta er grundvallaratriði: við vorum ekki með í ráðum þegar okkur var valinn fæðingartími, foreldrar, móðurmál, samfélag o.s.frv. Við höfum eingöngu fundið okkur í þessari aðstöðu, og slík aðstaða er í sjálfri sér ekki upprunalega sönn (autentico) eða heilsteypt hvað okkur varðar, þessar aðstæður eru ekki þær sem ég innst inni óskaði mér eða mótaði. Innst inni er ég þannig ekki neitt. Eða eins og Sartre komst að orði: „ég hef gert það úr mér sem hinir hafa gert mér“. Það gildir um alla að þeir eru það sem foreldrar, vinir og samferðamenn haf gert úr þeim, með góðu eða illu. Lífsmáti okkar er þannig sögulega skilyrtur, og einungis þetta felur í sér að hinn upprunalegi trúverðugleiki sjálfsins er víðs fjarri.

Ef við viðurkennum að efnið sem við erum gerð úr er ekki upprunalegt og frá okkur komið, heldur afleitt af þeim kringumstæðum sem okkur hafa verið skapaðar, þá breytir það mælikvarða okkar á gildi hins sanna og ósanna í þessu samhengi.

Frumleikinn og hugsanir annarra

Fátt hefur vakið mér meiri furðu en þá, að mæta fólki sem segist í mikilli einfeldni hugsa með eigin höfði. Sannleikurinn er hins vegar sá, að enginn hugsar með eigin höfði, og þetta held ég að sé fyrsti lærdómurinn sem góður kennari færir nemendum sínum. Að gera þá meðvitaða um að það sem þú hugsar er ekki þitt. Í okkar samfélagi er í gangi mikil mælskulist um frumleika í hugsun og sköpun, en tungumál okkar og hugsun eru fengin að utan, -til góðs eða ills. Sannur frumleiki er afar sjaldgæft fyrirbæri, og þar sem það er að finna, þá byggir það á ofurmannlegri fyrirhöfn sem fáum er gefin. Ég geri mér grein fyrir að þessi lærdómur fellur ekki í kramið hjá unga fólkinu – og hefði  heldur ekki þóknast mér ungum, en hann segir okkur meðal annars að spurning Nietzsche segi okkur fyrst og fremst að við eigum að gera okkur grein fyrir okkar eigin ótrúverðleika þegar kemur að hinu upprunalega og sanna lífi. Að við fæðumst ekki frumleg, og til þess að öðlast þann hæfileika þurfum við að ganga óraveg í gegnum þá tilbúnu veru sem aðrir hafa gert úr okkur til góðs eða ills.

Einnig þar sem við höldum á lofti harðri gagnrýni á umhverfi okkar eða samfélag, þá er það ekki vegna þess að það sé okkar uppfinning, því sú leið hefur oft og lengi verið farin í rás kynslóðanna. Rétt eins og val okkar á sjónvarpsrásum á sér lítil takmörk, þá er enginn skortur á fordæmum uppreisnarmannanna gegn sínum samtíma.

Ég vil ekki að þið skiljið mig þannig að ég sé sjálfur að bera fram gagnrýni á samtímann, ég er hér fyrst og fremst að setja fram fyrirbærafræðilega lýsingu á aðstæðum okkar. Hér áður fyrr skiptust menn í flokka eftir takmörkuðu framboði: menn gátu verið „raunsæismenn“, „Girondínar“, „Jakobínar“, „Montaigneistar“ og svo framvegis, en nú á tímum blasir við okkur framboð valkosta á magnskala vöruhúsanna.

Ef við lítum aftur til spurningar Nietzsche, þá skulum við átta okkur á að hún kennir okkur að vita hver við erum út frá þessu forsendum. Þegar þú gerir þér grein fyrir skorti þínum á frumleika, að þú sért afurð tiltekins samfélags, tiltekins staðar og stundar, tiltekinnar menningar, þá felur það ekki í sér neitt  neikvætt, þar sem það á við um alla. Allir eru þannig gerðir, að þeim meðtöldum sem hér talar.

Að horfast í augu við brotakennda sjálfsmynd

Vitundin um þessar aðstæður gætu opnað fyrir nýjan skilning á hinu ófrumlæga í eigin garði, og að hið „sanna“ fælist þá í að vera sér meðvitaður um eigin skort á upprunalegum frumleika. Við það bætist svo, að ég og allir aðrir hafa tileinkað sér tiltekinn smekk, fundið valkosti o.s.frv., en vel að merkja, ég er ekki einn um þá, það hafa margir aðrir gert. Þar skiptir aldur í raun ekki máli, heldur meðvitundin um skort okkar á upprunalegum heilsteyptum frumleika. Það er ekki frumlægur eiginleiki að vera Evrópubúi eða kristinnar trúar eða fara í kirkju á sunnudögum. Kierkegaard, sem var haldinn djúpri trúhneigð, hafði skömm á þeim sem ástunduðu kirkjusókn í nafni trúar sinnar, því trúarvitund þeirra væri fölsk. Að nálgast hið upprunalega og altæka í kristindómnum reyndist honum dýrkeypt reynsla.

Skortur okkar á upprunalegum og sönnum frumleika er ekki bara spurning um félagslegt eða menningarlegt val – val á sjónvarpsrás eins og ég sagði í gríni, heldur er um að ræða grundvallar spurningu sem snýst endanlega um val á því hver eigi að vera í heiminum og hver ekki.

Þetta krefst sérstakrar umhugsunar: að gera sér grein fyrir þessu afgerandi vali og þeim mismun og aðgreiningu sem í vali okkar felst. Sú staðreynd að við erum stödd hér í kvöld, í þessari borg, í þessu menningarumhverfi, í þessari menningarhefð, felur óhjákvæmilega í sér að ekki er pláss fyrir aðra, og að þeir eru ekki viðstaddir. Því sérhver ákvörðun, sérhver samsömun, sérhver hefð, velur sína dauðu. Þetta val snýst endanlega um þá sem geta lifað og þá sem geta það ekki. Hér er ekki einvörðungu um að ræða sök okkar siðmenningar eða menningarheims, því allir eru þeir þeirrar gerðar. Þessir menningarheimar eru í þessum skilningi allir óekta eða vanheilir, því þeir hafa að geyma sitt innritaða ofbeldi. Þeir búa allir yfir frumlægu ofbeldi, því þeir telja sig sjálfa vera holdgervingu þess sem er réttlátt, fagurt og gott.

Anaxímander:  aðgreining og endurgjald lífs og dauða

þessu samhengi minnir Sini okkur á gríska heimspekinginn Anaximander (610-546 f.Kr.) sem sagði að öll afmörkun eða aðgreining fæli í sér andstæður er væru upp á líf og dauða. Allt sem fæðist er skapað af hinu óaðgreinda og verður við sköpun sína aðskilið og er þannig dæmt fyrir óréttlætis sakir til að deyja og hverfa aftur til hins óaðgreinda og rýma fyrir nýrri aðgreiningu í hringrás sköpunar og dauða. Þessi skilningur Anaximanders, segir Sini, felur í sér að lífið séi í innsta eðli sínu markað af ofbeldi og óréttlæti. Þetta sé augljóst í dýraríkinu: við vitum að á þessu augnabliki eru risavaxnar skepnur í undirdjúpunum sem gleypa í sig miljónir smádýra.  Í dýraríkinu er valið augljóst: þar sem einn er þar er ekki annar. Sama sjáum við reyndar í heimi mannanna,  en þar hafa háþróuð menningar- og trúarsamfélög sett sér efnahagslegar reglur sem segja skýrt til um hverjir séu inni og hverjir úti. Hvaða afkomendur lifi af og hverjir ekki, hvernig þeim er skammtað lífsviðurværi. Þetta er ekki ónáttúrlegt. Þó svo að ég sé ekki að aðhafast neitt í þessum efnum er ég þátttakandi í þessari baráttu andstæðanna, þessu óréttlæti, og þetta telst ekki til hins ófrumlæga eða til sýndarinnar sem situr um líf mitt, en það getur gert mig mjög vansælan, án þess að ég geri mér fulla grein fyrir ástæðunni.

Þessi fyrstu skref sem við þurfum að stíga til að átta okkur á hvað gæti falist í sviknu eða óekta lífi eru umdeilanleg og vel fallin til umræðu, en þá komum við jafnframt að spurningunni um hvað felist í því lífi sem er heilsteypt (autentico). Við getum haft ólíkar skoðanir á því sem hér hefur verið sagt, en ég vildi meina að í  því felist að minnsta kosti vottur af einlægni. Ef við lifum ekki sönnu lífi, hvað felst þá í þessu sanna lífi? Við sögðum að jafnvel þó við aðhefðumst ekki neitt værum við samsek í þessu óréttlæti lífsins: til dæmis er ég sjálfur hlutaðeigandi, og þar með samsekur um ástand háskólamenntunar hér á landi eftir hálfrar aldar starfsreynslu sem nemandi og kennari. Aðgerðir mínar eða aðgerðarleysi hafa leitt til ástands sem gerir mig vansælan. Þar er ég ekki einn um sökina, en ég er hlutaðeigandi.

Eðlislægt ofbeldi lífsins?

Fyrsta skrefið til þess að átta sig á hvað við erum, er að skilja að við erum hlutaðeigendur að óhjákvæmilegu ofbeldi, og það er kannski ekki sérlega uppörvandi. En það er rétt að átta sig á að lögmál lífsins fela óhjákvæmilega í sér ofbeldi; eitthvað sem útilokar og eitthvað sem verndar og skýlir. Þetta er að mínu mati það harmsögulegasta í mannlegu samfélagi. Þessi mafíu-hugsunarháttur: við erum hér, þeir eru þarna, komdu með mér, berjumst gegn þeim… Við höfum á réttu að standa því þeir vaða í villu, og jafnvel þó við vöðum í villu þá er rétturinn okkar megin því við erum við.

Þetta er eitthvað það aumasta sem við getum horft upp á, og það skildi Nietzsche vel. Hann skildi að einnig burðarkarlarnir í hinu stéttskipta samfélagi hefðu sinn átakavettvang, hann væri ekki bundinn við yfirstéttina þar sem hinar stóru ákvarðanir í lífinu eru teknar. Þetta gerist líka meðal þeirra lægst settu í kjöllurum og fátæktarhverfum samfélagsins. Hver er vinur og hver er óvinur, alls staðar blasir þessi spurning við. Vináttan er mikilvæg í lífi manna, en þegar hún snýst um hagsmunagæslu og skjól verður hún jafnframt óekta og lyktar af falsi.

Þegar ég horfi yfir farinn veg lífs míns finn ég til djúprar skammar. Skammar vegna smámuna sem gældu við sjálfhverfa hagsmunagæslu eða þar sem kom til átakavettvangs af ýmsu tagi. Hvernig get ég komið fram á opinberum fyrirlestri um heilsteypt og falskt líf án þess að horfa í eigin barm? Þess vegna stefnir fyrsta skrefið að því að skilja hvað felist í heilsteyptu lífi, að átta sig á eigin veikleika. Ekki til að iðka sjálfsafneitun eða meinlæti, heldur til að horfast heiðarlega í augu við eigið líf og hætta að ganga um eins og hinn frumlegi handhafi sannleikans í einu og öllu. Fátt er aumara, en það þýðir heldur ekki að við eigum að vanmeta okkur sjálf, því við erum öll af þessum sama toga. Þar er engin undantekning. Við þekkjum öll sögur af einstöku fólki sem hefur lagt allt í sölurnar fyrir hugsjónir sínar, jafnvel lífið. Ég er ekki að kalla eftir slíku, en við þurfum engu að síður fyrirmyndir og viðmið til þess að geta greint á milli hins heilsteypta og vanheila lífs.

Hér vildi ég leiða umræðuna inn á nýjar slóðir. Skoða málið frá öðrum sjónarhóli. Við vorum búin að átta okkur á þeim skilningi Nietzsche, að fyrsta skrefið til að öðlast skilning á hinu heilsteypta lífi fælist í því að átta sig á eigin brotalömum. Að við séum öll óhjákvæmilega undirseld hinu vanheila, að við tilheyrum öll hjörðinni, eins og Nietzsche sagði, því félagsþáttakan felur alltaf í sér hjarðmennsku. Undan því verður ekki skotist, og það getur líka átt sína kosti. Ef allir væru hreinir af hjarðmennskuhugsun yrði trúlega erfitt með allt félagslíf.

Hin kosmíska skuld Anaxímanders

Þetta var fyrsta forsendan, en nú vildi ég víkja að annarri, sem ristir enn dýpra. Í því sambandi vildi ég aftur víkja að orðum Anaximanders, sem lét eftir sig örfáar hnitmiðaðar setningar, því ekki lá dagblaðapappírinn á lausu á hans tíma, hvað þá bækurnar og stafrænu gagnabankarnir. En orð hans og nokkurra samtímamanna hans hafa orðið tilefni skrifa sem fylla óteljandi bindi og alfræðiorðabækur á okkar tímum. Hann kenndi okkur að meðal hinna villtu dýra í lofti, láði og legi gilti aðeins eitt lögmál valdsins. Þar ríkir enginn vafi: mitt líf er þinn dauði. Þetta á við um dýrin, en ekki manninn, því manninum hefur hlotnast lagasetning Guðsins, segir Anaximander. Lagasetning réttlætisins. Það er rétt – að hluta til – því þetta samtal okkar vitnar um að okkur skortir ekki skynjun á réttlætiskenndinni og getunni til að ákæra óréttlætið og þau óheilindi sem við mætum, en það er ekki satt að því leyti, að á þeim sviðum þar sem maðurinn hefur þróað getu sína til hins ýtrasta valds, þá hefur hann sýnt sig að vera skelfileg vera, eða eins og Hesíódos, eitt af skáldum forngrikkjanna sagði: af öllum lifandi verum er maðurinn hinn skelfilegasta, því hann á það til að drepa fórnarlömb sín í því magni sem er óhugsandi meðal dýranna, þar sem jafnan er leitað eftir valdajafnvægi.

Við erum ekki bara dugleg að drepa okkur til matar eða annars, heldur til útrýmingar eins og nú er gert í áður óþekktum mæli, þar sem um 40 dýrategundir verða útdauðar á degi hverjum vegna breytinga á loftslagi og vistkerfi af manna völdum. En ekki bara það, maðurinn hefur notað lagasetningar sínar fyrir réttlætið til gagnkvæmra útrýmingarherferða, herferða sem verða æ umfangsmeiri eftir því sem nær dregur okkur í tímanum. Með síauknum eyðingarmætti vopnanna eykst jöfnum höndum afkastageta þeirra. Eitt sinn gat maðurinn drepið náungann með steini eða trjálurki, nú upplifum við umfangið í stjarnfræðilegum tölum. Andspænis þessum staðreyndum verða orðskviðir Anaximanders augljósir: Þetta eru örlög mannanna. Ekki bara að þeir greiði sína kosmísku skuld heldur greiðir sérhver skuld sína til hins með dauða sínum.

Lífið til dauðans og lífið gegn dauðanum

Ég vildi nú nota síðustu 10 mínúturnar til að vekja athygli á þessu. Hið vanheila líf er fyrst og fremst fólgið í gleymskunni á eigin brotalöm. Ég þarf ekki að taka það fram, að þetta eru hugsanir sem margir heimspekingar hafa fjallað um, ekki síst Martin Heidegger: Samkvæmt honum leggjum við mikið á okkur til að gleyma einu grundvallaratriði, sem er dauðleiki okkar. Stór hluti þess menningarlífs sem við lifum virðist fyrst og fremst beinast að yfirbreiðslu í formi dægrastyttingar. Heidegger talar um skvaldrið í samtímanum, að við búum við endalausa eymd yfirbreiðslunnar sem stýrir hversdagslífi okkar í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að hugsun okkar haldi áfram og nái þeim punkti sem við öll vitum af, sem er okkar eigin dauðleiki. Einmitt þetta sem greinir okkur frá öðrum lífverum: dýrin eru sér vissulega ekki meðvituð um eigin dauðleika, því þau eiga ekki orðin, og eins og Hegel sagði, þá lýkur lífi dýranna, en þau deyja ekki. Það er maðurinn sem deyr, og tekur þannig út refsingu fyrir ofbeldi sitt. En einnig hér þurfum við að hugsa málið, því þetta er kjarni málsins: Maðurinn tekur ekki út refsingu sína vegna þess að hann er ofbeldisfullur. Hann er ofbeldisfullur vegna þess að hann vill ekki deyja. Þetta er skilningur sem Freud setti fram, en ekki bara hann, því Anaximander virðist hafa sagt það sama. Þetta er skilvirkasti skilningurinn (á spurningum Nietzsche og Anaxímanders) að mínu mati, óttinn við dauðann og sú þráhyggja að fela sig á bak við þessa veraldlegu brjóstvörn og  þennan samfélagslega skjöld eða grímu, þessa ósönnu persónugervingu sem við lítum ómeðvitað á sem tryggingu gegn dauðleikanum, þessa leit eftir tryggingu, því þarna eru börn mín og afkomendur og þetta eru vinirnir og þeir sem kunna að meta mig og elska mig, Þessi þráhyggja að búa sér til þessa brjóstvörn, þennan skjöld sem lítum  ómeðvitað til sem tryggingu gegn  dauðleikanum, eða sem fráhvarf eða yfirbreiðsla, eða eins og Tolstoy komst svo vel að orði: „Auðvitað mun ég líka deyja, það er vitað mál, … en sá sem segir þetta trúir því ekki að þetta sé satt“. Þetta er orðatiltæki og talsmáti, ein leiðin til afþreyingar.

Þannig snýst líf samfélagsins um afþreyingu, yfirbreiðslu, frestun, um hið daglega og samfellda skvaldur og þessi skelfilega tónlist sem fylgir okkur hvert fótmál, allt þetta vanheila sem sýnir okkur endanlega hvað er heilsteypt í okkur sjálfum. Kannski er þetta það sem Nietzsche vildi sagt hafa og hugsaði einnig, þegar hann spurði: hvernig verður þú það sem þú ert?

Hvað erum við, þegar allt kemur til alls, nema einmitt hin dauðlegu. Í því felst reisn okkar, mikilfengleiki okkar og háski, -harmleikur okkar ef þið viljið orða það þannig. Þá felst það að „verða það sem maður er“ í því að verða dauðlegur, verða meðvituð um dauðleika okkar, ekki til þess að setja öskuna (sorgarmerkið) á kollinn, draga sig út úr heiminum, lausnir sem ekki eru sérlega sannfærandi, heldur að gera sér grein fyrir þeirri miklu framleiðslugetu og örvun, sem í dauðanum er fólgin.

Málið snýst ekki um að berjast gegn dauðanum, að lifa lífi gegn dauðanum, afneita honum með öllum mögulegum hætti í gegnum trúarbrögðin, sem lofa lífi í handanverunni – sem menn mega blessunarlega hafa, eftir því hvaða skilning menn leggja í slíkt – eða með því að hafna slíkum hugsunum vegna þess að ég vil ekki hugsa um það, heldur hvernig leikurinn fór hjá Milan í gærkvöld. Ég hef þannig þúsund möguleika til afþreyingar, sem í sjálfu sér er ástæðulaust að andmæla. Það er ekki aðalatriðið, heldur að uppgötva hvaða dýrgrip maðurinn hefur á milli handanna þar sem hann einn allra lífvera býr yfir vitundinni um dauðann. Sem er jafnframt vitundin um að dauðinn og einungis dauðinn er sá sem framkvæmir hið raunverulega val. Það er hann og einungis hann sem kveður á um hvort sáðkorn mannkynsins fái að blómstra.

Dauðinn sem bjargræði lífsins

Hver var það sem bjargaði orðskviðum Anaximanders eða Hesíódosar annar en dauðinn? Aðeins dauðinn sem ekkert okkar hefur vald yfir. Dauðinn sem fylgir í engu rökhugsun okkar eða óskhyggju, hann sem í augum okkar er eins og slysaskot. Kannski hafði Anaximander skilið það rétt, kannski ekki,  að dauðinn væri ekki afneitun einhvers, það er hann sem hefur framkvæmt sitt val, blessunarlega ekki við með okkar þrönga og trega sjónarhorn, með okkar smáu og vanheilu sýn á hlutina sem takmarkast við okkar litla og afmarkaða heim, heim okkar, hinna dauðlegu. Hversu dauðleg sem við erum, loksins verðum við dauðleg, loksins vöknum við til vitundar um dauðleika okkar í stað þess að hugsa gegn honum. Ég held að þessi vitund breyti öllu um skilningi okkar á gildi lífsins, þannig öðlast það óviðjafnanlegt gildi, því engu verður viðhaldið en öllu miðlað. Þar sem ég get ekki viðhaldið því, þá verður allt gefið. Allt verður gefið til þess að því sé miðlað í gegnum dauðleika minn og yfirfært á það sem við gætum með almennum hætti kallað „hið eilífa líf“. Dauðinn, dauðleikinn og vitundin um það sem við verðum, það er að segja dauðleg, fær okkur til að skilja ódauðleika lífsins. Slík yfirlýsing er í formi sínu myndlíking eða allegóría, það merkir ekki ódauðlegt líf í hefðbundnum skilningi samkvæmt málfræðireglunum. Við höfum hið dauðlega líf og vitundina um að við munum deyja, en við höfum líka vitund um líf sem heldur áfram handan við mitt eigið líf, innan míns eigin lífs. Þannig tekur allt á sig nýja mynd, börnin eru börn, foreldrarnir eru foreldrar innan sinna takmarka, en þeir eiga sér ekki afkvæmi til að kasta þeim í stríð við önnur afkvæmi til þess að tryggja þeim framtíð. Þau eru afkvæmi eins og öll önnur, þau eru dauðleg. Þannig öðlumst við sýn sem útilokar ekki ástríðu ástarinnar, en gerir ástina ekki að brjóstvörn gegn dauðanum. Ég dey af því ég er faðir og dauðlegur en dauðleiki minn var innritaður í getu mína til að geta afkvæmi. En það er mikilvægt að vita að einnig það sem ég hef getið í heiminn er dauðlegt. Það gerir ekki annað en að miðla þessu lífi, sem við köllum eilíft. Sú eilífð er reyndar ekki undir okkur komin, heldur undir viðkomu lífsins og staðfestu, en framvinda þess gengur í gegnum okkur og hefur gengið í mannkynið sem homo sapiens í sjötíu þúsund ár og sem manntegund í hundruð þúsundir ára. Lífið á jörðinni á sér nokkra milljarða ára sögu…

Ef við skoðum okkur sjálf í þessu ljósi, án þess að yfirgefa okkar þrönga sjónarhorn, því enginn getur yfirgefið sitt sjónarhorn, heldur til þess að veita þessu sjónarhorni þá reisn sem það verðskuldar í gegnum dauðleika sinn, þá verður þetta litla sjónarhorn kannski að einhverju sem við gætum kallað heilsteypt, miðað við þær brotalamir sem við finnum í hinu einstaklingsbundna lífi, hinum einstaklingsbundnu vandamálum af félagslegum, efnahagslegum, siðferðilegum eða andlegum toga. Þetta er tilraun: að hugsa í raun og veru að líf okkar sé undirorpið dauðanum, reynum að hugsa það eins og Heidegger benti á: ekki sem atburð er á sér endapunkt með dauðanum, því þessi dauði varðar hina. Því enginn lifir eigin dauða. Enginn lifir sig dauðan, eins og hinn mikli Epíkúrus sagði: „þegar dauðinn er, þá er ég ekki, þegar ég er, þá er ekki dauði“. Dauðinn er ekki síðasti atburður lífsins, heldur deyjum við hinum. Ekki er um að ræða að taka inn í okkar dauðlega líf dauða okkar eigin takmarkana. Að verða meðvitaður um eigin dauðleika útilokar ekki þá hugsun að dauðinn snerti mig ekki, þar sem ég dey öðrum. Þetta felur líka í sér að líf okkar er án landamæra því landamæri fela í sér það sem er innan og utan þeirra. Landamærin snú því ekki að okkur, og líf okkar á sér ekki mörk. Heidegger talaði „fyrirfram gefna ákvörðun“. Nú dey ég. Nú er dauðastundin komin. Í dag er ég dáinn. Og dauðinn heldur viðstöðulaust áfram vali sínu. Hann velur úr minningum mínum, ummerkjum mínum og þeim verkum sem ég hef skilið eftir mig. Hann velur úr minningum ykkar hvað mig varðar. Rökin fyrir því hvað ég er koma fyrst og fremst frá hinum, sagði Pierce, vissulega ekki frá mér. Þetta er ávöxtur hins daglega dauða. Hið lífgefandi og goðsögulega val. Valið sem segir: þetta hafði merkingu. Hvað höfum við gert undanfarna daga? Það eru þúsund hlutir, en það sem hefur merkingu er undir vali dauðans komið. Með því að láta hina hlutina falla hefur ljósinu verið beint að þessum. En hann sagði líka þessi orð sem ekki gleymast: vonum að við eignumst marga slíka. Takk fyrir.

 

Þessi fyrirlestur er hér endursagður eftir hljóðritun frá þessari vefsíðu: (32) Carlo Sini – Come si diventa ciò che si è – 21-10-2010 – Ferrara – YouTube

Forsíðumyndin er málverkið Narkissus eftir Caravaggio.

——————————————————-

[i] F. Nietzsche: Handan góðs og ills, í þýðingu Þrastar Ásmundssonar og Artúrs Björgvins Bollasonar, útg. Hið ísl. Bókmenntafélag 2021 bls. 168-169.

[ii] S. Freud: Undir oki siðmenningar í þýðingu Sigurjóns Björnssonar, Hið ísl. Bókmenntafélag 1997, bls. 14.

[iii] M. Heidegger Sein und Zeit, 6. Kafli, 39. grein. Þessar setningar eru jafn mikilvægar og þær eru ill-þýðanlegar. Í heild hljómar þessi skilgreining Heideggers á sjálfsverunni og samverunni í heiminum svona á frummálinu: „Die Geworfenheit aber ist die Seinsart eines Seienden, das je seine Möglichkeiten selbst ist, so zwar, dass es sich in und aus ihnen versteht (auf sie sich erwirft). Das In-der-Welt-sein, zum den ebenso ursprünglich das Sein bei zuhandenem gehört wie das Mitsein mit Anderen, ist je umwillen seiner selbst. Das Selbst aber ist zunächst und zumeist uneigentlich, das Man-selbst, Das In-der-Welt-sein ist immer schon verfallen. Die durchschnittliche Alltäglichkeit des Daseins kann demnach bestimmt werden als das verfallend-erschlossene, geworfen-entwerfende In-der-Welt-sein, dem es in seinem Sein bei der „Welt“ und in dem Mitsein mit Anderen um das eigenste Seinkönnen selbst geht.

HEIDEGGER UM SAMSEMD MANNS OG VERU Á TÍMUM TÆKNINNAR

UMSNÚNINGUR VERUNNAR Á TÍMA TÆKNINNAR SAMKVÆMT HEIDEGGER

Þessi tilraun mín til að þýða texta Martins Heideggers um „Reglu Samsemdarinnar“ er trúlega glæpsamlegt glapræði. Hún er tilkomin af ólíkum ástæðum. Fyrst þegar ég keypti kverið um "Samsemd og mismun" á Ítalíu fyrir tveim eða þrem árum síðan, var það ekki síst vegna þess að ég hafði verið að velta fyrir mér hugtakinu „identitet“ í merkingunni sjálfsmynd, og það vakti forvitni mína að kynnast skilningi Heideggers á því. Ég hafði þá mótað með mér þann skilning sálgreiningarinnar (ekki síst hjá Lacan) að sjálfsmyndin sé fengin frá „hinum“: í gegnum foreldrana, tungumálið, skólann og aðrar samfélagsstofnanir o.s.frv. Skilningur sem enn er í fullu gildi í sjálfu sér, en á sér eðlileg mörk. Sérstaklega þar sem hann segir okkur að sjálfsmyndin sé enginn fasti, heldur eitthvað síbreytilegt sem okkar eigið "sjálf“ hefur tiltölulega lítið um að segja. Hvernig breytist sjálfsmyndin, og hvað ræður henni? Hvar eru mörkin á milli þess að vera og „tilheyra“ í þessu sambandi? Hvers vegna skiptast menn í flokka og ekki síst: hvað ræður flokkun okkar og niðurröðun náunga okkar í skilgreind hólf er hafa með „sjálfsímynd“ að gera? Ekki bara út frá þjóðerni, þjóðfélagsstétt eða trúarbrögðum, heldur jafnvel út frá fylgispekt  við tiltekin íþróttafélög eða poppstjörnur? Kannski segir skilningur sálgreiningarinnar á sjálfsímyndinni ekki alla söguna, kannski hefur verufræði Heideggers eitthvað um þetta að segja, sem sálgreiningin eða félagsfræðin ná ekki að skýra?

Það er óhætt að segja að ég varð furðu lostinn, þegar ég las þennan texta fyrst. Hér var enga sálgreiningu eða félagsfræði að finna, heldur vaðið beint í þá rökfræðilegu, verufræðilegu og merkingarfræðilegu ráðgátu sem felst í sögninni að vera. Eftir að Heidegger hafð gefist upp á hinni miklu áætlun sinni um útgáfu  seinna bindis stórvirkisins „Vera og tími“ frá 1927, og gengið í gegnum þann harmleik og örlagsögu Evrópu, sem fólst í síðari heimsstyrjöldinni, aðild hans að þýska  nasistaflokknum 1933-45 og kjarnorkusprengjunum í Hiroshima og Nagasaki, þá urðu óhjákvæmileg umskipti í heimspekiskrifum hans, umskipti sem kennd voru við „die Kehre“ eða umsnúninginn, sem erfitt er þó að skilgreina, en birtist kannski ekki hvað síst í þessari stórmerku ritgerð, sem kom út þremur örlagaríkum áratugum eftir „Veru og tíma“. Eftir stendur engu að síður, að þrátt fyrir „aðildina“ að nasistaflokknum, sem var ófyrirgefanleg vanvirðing við heimspekina, þá hafa skrif þessa stórfurðulega heimspekings haft víðtækari áhrif á heimspekiumræðu á Vesturlöndum á síðari hluta tuttugustu aldar en flestra annarra.

Óvænt tengist þessi fyrirlestur um samsemdina ritgerð Heideggers um tæknina frá 1953, og felur í sér nánari útfærslu þeirra hugmynda, en um leið má lesa út úr þessari ritgerð eins konar „andsvar“ við þeirri gagnrýni sem Carlo Sini hefur sett fram á Heidegger, og birtist m.a. í tveim ritsmíðum sem ég hef nýlega birt hér á "hugrunir.com" um merkingarfræði og um „tækni og ofbeldi“. Segja má að það ríki visst „ástarhatur“ á milli þessara heimspekinga, sem á sér bara samsvörun í sambandi og glímu Heideggers við Nietzsche. Það liggur rauðglóandi strengur á milli þessara þriggja höfunda, þar sem merkingarfræðilegt framlag Sini skiptir miklu máli, og skapar sérstöðu hans. En glíman við „verufræði“ Heideggers er um leið alls staðar nálæg.

Heidegger gengur beint til verks með rökfræðilegri greiningu á þversögninni sem hann sér í viðteknum skilningi á verunni, á sagnorðinu að „vera“ eitthvað. Hvað merkir A=A spyr Heidegger, og leiðir okkur umsvifalaust í að því er virðist óleysanlega flækju. Hér er jafnaðarmerkið merki þeirrar samsemdar er segir okkur að eitt sé sama og það sjálft: ég er ég. Ég er það sama og ég. Þetta er augljóst samkvæmt viðteknum skilningi, en ef við lítum nánar á málið lendum  við í flækju, sem endanlega leiðir í ljós ákveðna bresti í umgengni okkar gagnvart tungumálinu. Hver er ég, og að hvaða leyti er ég það sama og sjálfsmynd mín? Með hvaða hætti verða maður og vera eitt og hið sama? Með hvaða hætti verða hugur og vera eitt og hið sama, eins og Parmenídes sagði „á vordögum vestrænnar hugsunar“ fyrir nær 2500 árum síðan?

Hér kemur tæknin í raun til sögunnar, sá skilningur á tækninni sem Heidegger hefur sett fram með hugtakinu Gestell, sem er nýyrði, erfitt í þýðingu, en merkir í raun sam-stillingu, það að stilla einhverju upp til samfélagslegrar notkunar eða meðferðar. Við þekkjum enduróm þessa orðs til dæmis í „matarstellinu“ eða „settinu“, því sem lagt er á borð fyrir okkur. Við tökum því sem sjálfgefnu viðfangi til daglegs brúks. Í þessari þýðingu hef ég yfirleitt stuðst við orðið „innsetningu“ í vafasamri viðleitni til þess að klæða orðasmíð Heideggers í íslenskan búning. Heidegger segir að hin frumspekilega umgengni okkar við tungumálið hafi leitt okkur til að taka veruna sem gefinn hlut, rétt eins og „máfastellið“ á kaffiborði ömmu okkar. Þessi málfarsnotkun sé í raun tæknilegs eðlis og hafi með „Gestell“ að gera. Hér er í raun um tiltekið afsal að ræða eða valdbeitingu.

Ekki batnar flækjan þegar kemur að því að „tilheyra“: , gehören eða zusammengehören. Ég „er“ ekki Íslendingur, heldur „tilheyri“ ég íslenskri þjóð eða þjóðerni. Ef þessi vera felst í því að tilheyra, þá felur það í sér eignarafsal á sjálfinu, segir Heidegger, og leiðir okkur þannig yfir í eitt uppáhalds orð hans: „Ereignis“.

Heidegger segir þetta þýska orð óþýðanlegt á aðrar tungur, og líkir mikilvægi þess við hið gríska „logos“ og hið kínverska „tao“. Þessi nokkuð hrokafulla fullyrðing virðist mér vera endurómur undirliggjandi þjóðernishyggju og hugmynda höfundar um sögulegt hlutverk Þýskalands í heiminum, sem sjaldan kemst á yfirborðið í heimspekiritum Heideggers, en vottar þó fyrir í  umsögn hans um mikilfengleik „þjóðernissósíalismans“ í „Einführung in der Metaphysik“ frá árinu 1935.

Í hinni vönduðu Þýsk-íslensku orðabók bókaútgáfunnar Opnu frá 2008 er Ereignis þýtt sem atburður, viðburður eða tilfelli. Í þessari þýðingu hef ég látið Ereignis að mestu óþýtt eða gert vafasama tilraun með að nota „atviks-reynslu“.

Heidegger leggur þann skilning í hugtakið að það feli í sér eignarhald, viðburð sem eignar sér manninn eða maðurinn eignar sér. Í raun og veru virðist „umsnúningurinn“ (die Kehre), sem gjarnan er sögð hafa átt sér stað hjá Heidegger á eftirstríðsárunum, felast í þeim umsnúningi er umbreyti þeim atburði tækninnar sem eignar sér manninn sem viðfang, hlut eða kennitölu, í þann gjörning sem er manninum „eiginlegur“. Þetta er sá umsnúningur innsetningarinnar (tækninnar) sem felur í sér „stökkið“ yfir í þá nýju „samsemd“ sem Heidegger sér fyrir sér, og felur um leið í sér umsnúning á þeirri „reglu samsemdarinnar“ sem titill fyrirlestursins felur í sér. Eða svo vitnað sé í textann:

„Vegferðin frá reglunni sem fullyrðing um Samsemdina  til reglunnar sem stökk til eðlisuppruna Samsemdarinnar hefur umbreytt hugsuninni. Þegar horft er til samtímans, þá finnum við hér ástæðu þess að við sjáum, handan aðstæðna mannsins, samstillingu veru og manns á grundvelli þess sem umfram allt tengir þau saman í gagnkvæmu eignarhaldi, það er að segja der Ereignis (atviks-reynslan).“

Þessi „umsnúningur“ Heideggers felur í sér gagnrýni á þann „hlutlæga sannleika“ sem á vissan hátt virðist samhljóða gagnrýni Carlo Sini á vísindin sem trúarbrögð hins endanlega sannleika. Heidegger og Sini virðast sammála um að „hlutlægni“ vísindanna eigi rétt á sér og færi manninum margvíslegan ávinning, en hins vegar feli átrúnaðurinn á vísindalegar tilgátur -og aðferðafræðina við að setja þær fram - í sé yfirvofandi hættu, sem Sini kallar reyndar „ógnarstjórn“ eða „terrorisma“. Í þessu skyni setur Heidegger fram þessa spurningu:

…hvar var sú ákvörðun tekin, að náttúran sem slík skuli um alla framtíð vera náttúra nútíma eðlisfræði, og að sagan skuli einungis birtast sem viðfang sagnaritunarinnar? Það er rétt, að  við getum ekki hafnað núverandi tækniheimi, og okkur leyfist heldur ekki að eyðileggja hann, að því tilskyldu að hann geri það ekki af sjálfsdáðum.“

Síðasta fullyrðingin í þessari setningu Heideggers gengur hins vegar þvert á hugsun Sini, sem lítur á það sem frumspekilega þversögn að líta á manninn og tæknina sem andstæða gerendur í sögunni.

Það er hins vegar enginn skortur á sjálfsöryggi í lok fyrirlesturs Heideggers, þar sem hann segir það hafi tekið mannkynið tvö þúsund ár að leysa ráðgátu Parmenidesar um samsemd hugsunar og veru (sem ekki eru eitt og það sama). Heidegger telur sig hér hafa leyst þessa gátu, og segir í lokin þau spámannlegu orð að "með því að hugsa það sem áður var hugsað munum við umsnúa því sem enn er óhugsað".

 Martin Heidegger:

 Regla Samsemdarinnar

Fyrirlestur fluttur í tilefni 500 ára afmælis háskólans í Freiburg 1957, hér þýddur úr bólkinni „Identität und Differenz“, Pfullingen Verlag 1957, með hliðsjón af ítalskri þýðingu Giovanni Gurisatti, „Identità e differenza“, Adelphi edizioni 2013.

Ríkjandi skilningur á reglu Samsemdarinnar er samkvæmt jöfnunni A=A. Þessi regla gildir sem æðsta regla hugsunarinnar. Við skulum freista þess að hugleiða þessa reglu stundarkorn. Því reglan ætti að kenna okkur hvað felst í hugtakinu Identität (ísl.:  samsemd, sjálfsmynd, jafngildi, kennimark…).

Þegar hugsun okkar mætir tilteknu viðfangsefni og fylgir því eftir, getur átt sér stað að hún taki breytingum á leiðinni. Vegna þessa er ráðlegt héðan í frá að hafa gátur á slóðinni, frekar en inntakinu. Framvinda þessarar samkomu hefur þegar hindrað okkur í að veita leiðinni verðskuldaða athygli.

Hvað er það sem formúlan A=A segir okkur, eins og samsemdarreglan er venjulega túlkuð? Formúlan nefnir jafngildi A og A. Jafna byggir á tveim þáttum. Eitt A er eins og annað. Er þetta það sem samsemdarreglan vill segja okkur? Augljóslega ekki. Hið sama heitir á latínu idem, og á grísku τό αυτό (to auto). Í þýskri þýðingu merkir τό αυτό: das Selbe , „hið sama“. Þegar einhver takmarkar sig við að endurtaka hið sama, t.d.: jurt er jurt – þá talar hann í klifun (Tautologie). Til þess að eitthvað sé hið Sama dugar alltaf eitt. Ekki er þörf á tveim hugtökum eins og í jafngildingunni.

Jafnan A=A fjallar um jafngildi. Hún kallar A ekki það sama. Þannig felur ríkjandi jafngildisformúla einmitt það sem reglan vildi segja: að A sé A, það er að segja að sérhvert A sé sjálft það sama (jedes A ist selber dasselbe).

Þegar við umritum Samsemdina (das Identische) með þessum hætti má heyra fornt orð hljóma, sem Platon notaði til að skýra samsemdina, orð sem vísar í enn fornara orðalag. Í Sófistanum (254d) talar Platon um στασιϛ (stasis) og κίνησιϛ (kinesis), um kyrrstöðu og umskipti. Í þessu tilfelli lætur hann útlendinginn segja: ονκον αύτών έκαστον τοϊνν μεν δυοϊν ετερόν εστιν, αυτό δ‘εαυτώ αυτόν. (Oukoun auton hekaston toin men duoin heteron estin, auto d‘heauto tauton.):

„Nú er ljóst, sagði hann, að sérhver þessara tveggja er annar, en sjálfur er hann sá sami“.

Platon lætur sér ekki nægja að segja „έκαστον αυτό ταυτό“ (hekaston auto tauton) eða „sérhver sjálfur hinn sami)“,  heldur „έκαστον έαυτό ταυτό“ (hekaston heauto tauton) eða sérhver í sjálfum sér hinn sami). Þágufallsmyndin „heauto“ merkir: sérhvert eitthvað sjálft stendur fyrir sjálft sig – er nákvæmlega fyrir sjálft sig og með sér sjálfu. Rétt eins og grískan hefur þýsk tunga þann kost að skýra Samsemdina (das Identische) með sama orðinu en í ólíklum beygingarmyndum.

Hæfasta jafnan fyrir samsemdarregluna, A er A, segir því ekki aðeins: sérhvert A er sjálft það sjálft, hún segir einnig: með sjálfu sér er sérhvert A sjálft það sama. Í samsemdinni eru innifalin þessi „með“-tengsl, það er að segja samtenging, eins konar samband eða niðurstaða (Synthesis): Eining í sameiningu. (Die Einung in eine Einheit).

Af þessu leiðir sú staðreynd að í sögu vestrænnar hugsunar hefur Samsemdin (das Identität) einkenni sameiningar. En þessi eining er engan veginn það litlausa tóm þess sem dvelur sambandslaust í sínum eiginleika (einem Einerlei). En vesturlensk hugsun þurfti meira en tvö þúsund ár til að koma auga á að þetta samband, sem endurómar snemma sem ríkjandi samband hins sama með sjálfu sér innan Samsemdarinnar (Identität), þar sem það hefur hlotið varanlegt skjól í fastmótuðu formi slíkrar tengingar (Vermittlung).

Það var fyrst með heimspeki hughyggjunnar (des spekulatven Idealismus) sem Leibniz og Kant lögðu grunninn – og síðan í gegnum Fichte, Schelling og Hegel – þar sem fundin var undirstaða (Unterkunft) fyrir hið samþætta (synthetischen) eðli Samsemdarinnar. Þessai undirstöðu verður ekki lýst hér. Aðeins eitt verður hins vegar að hafa í huga: frá og með hughyggjunni (spekulativen Idealismus) verður þeirri hugsun andmælt, að hægt sé að sýna  einingu Samsemdarinnar sem einskæran eiginleika (blosse Einerlei) og að hægt sé að horfa út frá einingu ríkjandi tengsla (Vermittelung). Þar sem slíkt gerist er Samsemdin einingus sýnd með sértækum (abstrakt) hætti.

Einnig í betrumbættu formúlunni „A er A“ sjáum við eingöngu mynd hinnar sértæku (abstrakte) Samsemdar. Er það í raun og veru þannig? Segir Samsemdarreglan eitthvað um Samsemdina? Nei, alla vega ekki beint út. Öllu heldur gengur Samsemdarreglan út frá fyrir fram gefinni merkingu Samsemdarinnar, og hverju hún tilheyri. Hvernig getum við skilið betur þessa gefnu forsendu?

Við náum utan um reglu Samsemdarinnar ef við hlustum af athygli á grunntón hennar, og hugleiðum hann, í stað þess að endurtaka kæruleysislega formúluna „A=A“. Í raun og veru hljóðar hún svona: A er A. Hvað heyrum við? Með þessu „er“ segir reglan okkur hvernig sérhver vera (Seiende) er, nefnilega: hún sjálf, með sjálfri sér hið sama.

Samsemdarreglan talar um veru verunnar (Sein des Seienden). Sem lögmál (Gesetz) hugsunar er reglan (der Satz) einungis gild að því tilskyldu að hún sé lögmál verunnar (Gesetz des Seins), en hún segir okkur að sérhverri veru sem slíkri tilheyri Samsemd, eining með  sjálfri sér.

Það sem Samsemdarreglan segir okkur á grundvelli grunnhljómsins, eins og hann er sagður, er nákvæmlega það sem hin samanlagða hugsun hinna evrópsku  landa sólsetursins hugsar, nefnilega þetta: Eining Samsemdarinnar myndar grundvallarþátt í veru verundarinnar. Hvar sem er og hvernig sem við mætum verunni, hver svo sem hún kann að vera, þá stöndum við frammi fyrir ávarpi Samsemdarinnar. Ef slíkt ávarp er þögult gæti veran ekki birst i verund sinni. Þar af leiðandi væri heldur ekki um nein vísindi að ræða. Þá væri þeim ekki fyrirfram tryggð samsemd viðfangs þeirra, og vísindin gætu því ekki verið það sem þau eru. Með þessari baktryggingu gera vísindin vinnu sína mögulega. Engu að síður er höfuð-framsetning Samsemdar viðfangs vísindanna aldrei áþreifanleg nytsemd fyrir vísindin. Þess vegna byggir árangur og frjósemi vísindalegrar þekkingar fyrst og fremst á einhverju gagnslausu. Ákall samsemdar viðfangsins talar, hvort sem vísindin leggja við hlustir eða ekki, láta hið heyrða sem vind um eyru þjóta, eða láta það trufla sig.

Ákall Samsemdarinnar talar úr verund verunnar. En þegar það gerist í fyrsta skipti að vera verundarinnar (Sein des Seienden) nái með tjáningarfullum hætti inn í tungumál vestrænnar hugsunar, það er að segja hjá Parmenídesi, þá talar τό αυτό (to auto), eða „hið sama“, með næstum yfirdrifinni áherslu. Ein setning Parmenídesar hljóðar svona:

Τό γάρ αύτό νοεϊν έστϊν τε καί εϊναι – (to gar auto noein estin te kai einai)

„Hið sama er reyndar bæði skynjun (hugsun) og vera“.

Hér er tvennt ólíkt – „hugsun og vera“ – hugsað sem hið sama. Hvað merkir þetta? Eitthvað allt annað í samanburði við þá kenningu frumspekinnar sem við þekkjum, nefnilega að Samsemdin tilheyri verunni.

Parmenídes segir: veran tilheyrir samsemd. En hvað merkir samsemd í þessu samhengi? Hvað merkir orðið „to auto“ – hið sama hjá aparmenídesi? Hann gefur okkur ekkert svar við þessari spurningu. Hann leggur fyrir okkur ráðgátu sem við getum ekki hlaupist undan. Við verðum að viðurkenna að í frumbernsku hugsunarinnar, löngu áður en Samsemdarreglan kom til sögunnar, er það samsemdin sjálf sem talar, og einmitt í setningu sem staðfestir:  hugsun og vera eru eitt í hinu sama og á grundvelli hins sama.

Allt í einu höfum við nú túlkað to auto /hið sama. Við túlkum  einsleikann (die Selbigkeit) sem það sem heyrir saman (Zusammenhörigkeit). Nærtækt er að hugsa þessa samstæðu (Zusammenhörigkeit) sem það er síðar var almennt þekkt sem Samsemd (Identität).

Hvað skyldi koma í veg fyrir þá ályktun? Ekkert minna en sjálf reglan (Satz) sem við lesum í Parmenídesi. Hann segir einmitt nokkuð annað, það er að segja að veran tilheyri -ásamt með hugsuninni – hinu sama. Á grundvelli tiltekinnar Samsemdar er veran skilgreind sem einkenni (Zug) þessarar Samsemdar. Sú Samsemd sem síðar var hugsuð af frumspekinni, er þvert á móti skilin sem einkenni verunnar (Zug im Sein vorgestellt). Því getum við ekki skilgreint þá Samsemd sem Parmenídes talar um á grundvelli þessarar framsetningar frumspekinnar á Samsemdinni.

Sú samkvæmni (Selbigkeit) hugsunar og veru sem kenning Parmenídesar fjallar um á sér eldri rætur en sú Samsemd sem frumspekin skilgreinir sem einkenni (Zug) verunnar (Sein).

Leiðandi hugtak í kenningu Parmenídesar, „to auto“ eða „hið sama“, er okkur óljóst. Við skiljum við það í myrkrinu. En um leið játum við að sú kenning þar sem þetta orð er upphaflega nefnt, feli í sér skilaboð.

Í millitíðinni höfum við hins vegar fyrir fram gengið út frá því að samkvæmni (Selbigkeit) hugsunar og veru sé staðfest í samstæðu (Zusammengehörigkeit) beggja. Við höfum þar með sýnt fljótfærni, ef til vill af nauðsyn. Við verðum því að endurskoða þessa fljótfærni. Það getum við líka gert, ef við höldum ekki fast við að þessi tiltekna samstæða feli í sér endanlega túlkun, eða einnig að hún sé hin eina og endanlega túlkun á sameðli (Selbigkeit) hugsunar og veru.

Ef við hugsum samstæðuna (Zusammengehören =að heyra saman) með hefðbundnum hætti, þá sjáum við, rétt eins og áherslan í hugtakinu „að heyra saman“ (gehören) gefur til kynna, að merking þess að tilheyra (Sinn des Gehörens vom Zusammen) gengur út frá einingu. Í þessu tilfelli merkir „gehören“ (að tilheyra) það að vera innritaður og fastskipaður (zugeordnet und eingeordnet) innan reglu tiltekinnar samstæðu, innsettur í einingu tiltekins margfeldis, innritaður (zusammengestellt) í einingu kerfisins, sem miðlað er í gegnum sameinandi miðju tiltekins reglubindandi samruna (Synthesis). Heimspekin skilgreinir þessa aðild sem nexus og connexio (tengipunkt og samtengingu), eða sem hin nauðsynlegu sambandstengsl eins við annað.

Hins vegar er einnig hægt að hugsa þetta „Zusammengehören“ sem „Zusammen-gehören“. Það merkir: samveran (das Zusammen) ákvarðast hér af „Gehören“ (tilheyra). Hér mætir okkur sú spurning hvaða merkingu beri að leggja í það að „tilheyra“. Og hvernig hægt sé einungis á þeim grundvelli að ákveða þá sameiningu sem í því felst. Svarið við þessari spurningu er nærtækara en vænta mætti, en þó ekki handfast.

þökk sé þessari ábendingu, þá nægir okkur hér, ef við hugleiðum þann möguleika að hugsa það að tilheyra ekki lengur út frá einingu samstæðunnar (Einheit des Zusammen), að hugsa þessa samstæðu út frá reynslu þess að tilheyra. En er það ekki svo, að þessi möguleiki sýni sig að vera hreinn innantómur orðaleikur, sem uppdiktar eitthvað er eigi sér enga stoð í veruleikanum?

Þannig lítur það út, þar til við höfum beitt nánari athugun og látið vandann tala sínu máli.

Tilhugsunin um að tilheyra í skilningi „Zusammengehören“ (bókstaflega: sam-tilheyra) er sprottin af tilteknum aðstæðum, sem þegar hafa verið nefndar og auðvelt er að missa sjónar af, vegna þess hve augljósar þær eru. En þessar aðstæður verða okkur strax nærtækar ef við skoðum eftirfarandi: Með því að skilgreina Zusammengehören sem Zusammengehören eftir skilaboðin frá Parmenídasi, höfðum við þegar bæði hugsunina og veruna í huga, það er að segja það sem á sér í sjálfu sér gagnkvæma samstæðu (zueinandergehört).

Ef við leggjum þann skilning í hugsunina, að hún sé það sem einkennir manninn, þá öðlumst við samvitund um Zusammengehören (sameiginlega aðild) sem varðar manninn og veruna. Umsvifalaust mætum við spurningunni: Hvað merkir veran (Sein)? Hver, eða hvað, er manneskjan? Öllum má vera ljóst að án viðunandi svara við þessum spurningum missum við fótfestuna, grunninn sem sérhver trúverðug hugsun um Zusammengehören (sam-band) manns og veru hlýtur að byggja á. En á meðan við spyrjum spurninga af þessu tagi erum við fangar þeirrar tilraunar að líta á einingu manns og veru sem samstillingu er kalli á skilgreiningu, annað hvort út frá manninum eða verunni. Þar með verða hin eftirlátnu og hefðbundnu hugtök um Manninn og Veruna (Sein) forsenda flokkunar og  aðgreiningar hvorutveggja.

Hvað myndi gerast ef við hættum að einblína á samstillingu  (Zusammenordnung) manns og veru í því skyni að finna einingu þeirra, en hugleiddum þess í stað hvort og hvernig þessi samtvinna gæti falist fyrst og fremst í  gagnkvæmri aðild (ein Zu-einander-Gehören)?

Það er einmitt nú sem við sjáum þann möguleika að skynja, þó ekki nema úr fjarlægð,  samhengi (Zusammengehören) manns og veru út frá hefðbundnum skilningi á eðli þeirra en þó einungis úr fjarlægð. Úr hvaða fjarlægð?

Maðurinn er augljóslega tiltekin verund (etwas Seiendes). Sem slík deilir hann heild verunnar með steininum, tréinu og erninum. Hér merkir það að tilheyra að vera innstilltur (eingeordnet) í veruna. En það sem einkennir manninn felst í þeirri staðreynd að sem hugsandi vera, sem er opinn gagnvart verunni, er hann innsettur (gestellt) í veruna, leiddur (bezogen) af henni og samsvarar (entspricht) henni. Maðurinn er í raun og veru  þessi samsvörun (Bezug der Entsprechung), og hann er aðeins þetta. „Aðeins“ er hér engin lítillækkun, heldur ofgnótt. Í manninum  ríkir aðild (Gehören) að verunni, aðild sem tilheyrir verunni, því honum hefur verið trúað fyrir henni.

Og veran? Hugsum við veruna samkvæmt upphaflegri merkingu hennar sem nærveru (Anwesen)? Veran er hvorki tilfallandi í manninum né í undantekningunni. Veran dvelur og varir í manninum aðeins að því marki sem hún með tilkalli sínu kemur manninum við (angeht). Hún er þá fyrst til staðar sem nærvera (Anwesen) í manninum, þegar hann er opinn gagnvart verunni. Slík vera, sem er greinilega til staðar, hefur þörf fyrir opnun upplýsingar, og það er í gegnum þessa þörf sem hún er mannverunni gefin. Þetta merkir hins vegar engan veginn að veran eigi sér eingöngu stað fyrir tilstilli mannsins. Þvert á móti blasir við:

Maðurinn og veran eru hvort öðru falin,  þau tilheyra hvort öðru. Frá upphafi hafa Maðurinn og veran án frekari umhugsunar um þetta gagnkvæma samhengi  tekist á við  (empfangen) þessar sömu eðlislægu reglur (Wesenbestimmungen) sem þau hafa öðlast frumspekilegan skilning á í gegnum heimspekina.

Þessu ríkjandi sambýli manns og veru er ákaft hafnað (verkennen) af okkur, svo lengi sem við takmörkum okkur við að skilja alla hluti innan regluverka og miðlunar, hvort sem er með eða án díalektíkur. Við finnum þá einungis tengingar  sem eru annað hvort fastbundnar verunni eða manninum og túlka samhengi manns og veru ávallt sem samfléttu.

Við erum því alls ekki á leiðinni í þessa sambúð (Zusammengehören). Hvernig finna menn leiðina inn í  slíka einhendingu (Einkehr)? Það gerum við með því að hafna hugsun framsetningarinnar (des vorstellenden Denkens)[i].

Þessi höfnun er setning sem felur í sér stökk. Hún felur í sér stökk frá þeirri viðteknu reglu, að líta á manninn sem rökhugsandi dýr, sem í samtímanum er orðið að frumlagi (Subjekt) gagnvart viðföngum (Objekte) sínum. Stökkið felur líka í sér brotthvarf frá verunni (Sein). Allt frá frumbernsku vestrænnar hugsunar hefur veran hins vegar verið hugsuð sem sá grundvöllur sem er forsenda sérhverrar veru  sem  verund (jeded Seiendes als Seiendes)[ii].

Hvert stefnir stökkið sem stekkur frá grundvellinum? Er það kannski stökk ofan í hyldýpið?

Já, jafn lengi og við sjáum einungis fyrir okkur stökkið innan jafngildisreglu hinnar frumspekilegu hugsunar. Hins vegar er svarið nei, ef við stökkvum og gefum okkur lausan tauminn. Hvert? Þangað sem við erum þegar komin, það er að segja tilheyrandi verunni (Sein). Veran tilheyrir okkur reyndar, því einungis hjá okkur getur hún verið, það er að segja sem nærvera (Anwesen)[iii].

Þannig reynist óhjákvæmilegt að taka stökk, vilji maður reyna sambýli (Zusammengehören) manns og veru á eigin skinni. Þetta stökk er hin fyrirvaralausa (das Jähe) og óafturkræfa einstefna inn í þessa sam-veru (Gehören) sem veitir manninnum loks möguleika þeirrar einingar (Zueinander) manns og veru, og þar með möguleika á samstillingu beggja þátta. Stökkið er þessi skyndilega (Jähe) innganga inn á sviðið, þar sem maður og vera hafa þegar í eðli sínu fundið hvort annað í krafti gagnkvæmrar nálgunar. Inngangan inn á svið þessarar ofureiningar (Übereinigung) samstillir og ákvarðar þá fyrst reynslu hugsunarinnar.

Þetta er undarlegt stökk, sem væntanlega mun færa okkur þann skilning, að við stöldrum ekki nægilega við þar sem við erum í raun og veru stödd. Hvar erum við stödd? Í hvaða samstillingu (Konstellation) veru og manns?

Svo virðist sem ekki sé lengur til staðar sú þörf, sem við höfðum  á árum áður, fyrir nákvæmar leiðbeiningar til þess að koma auga á samstillinguna sem varðar manninn og veruna. Ætla mætti að núna myndi það nægja að nefna orðið Atómöld til að upplifa hvernig veran birtist okkur í kjarna sínum á okkar tímum, í heimi tækninnar. En eigum við þá einfaldlega að setja sama-sem-merki á milli tækninnar og verunnar? Nei, augljóslega ekki. Ekki nema við lítum þannig á (Vorstellen) þennan heim í heild sinni, að kjarnorkan, hin útreiknaða skipulagning manneskjunnar og sjálfvirknin, séu kjarni þessa heims. Hvers vegna leyfir slík sýn á hinn tæknivædda heim, hversu ítarlega sem hún er útfærð, hvers vegna leyfir hún okkur engan veginn að sjá samstillingu veru og manns?

Það er vegna þess að sérhver greining aðstæðna er of skammsýn, þar sem sú heildarsýn á tækniheiminn sem nú er fyrir fram gengið út frá, hvílir á grundvelli mannsins, og er séð sem sköpunarverk hans. Tækniheimurinn, séður í sínum víðasta skilningi og í sínum margbreytilegu birtingarmyndum, er meðtekinn sem sú áætlun mannsins er þvingi hann til að ákveða, hvort hann vilji verða þræll eða herra eigin áætlunar.

Með þessari sýn (Vorstellung) á heildarmynd tækniheimsins er allt smættað niður í manninn, nokkuð sem,  þegar til kastanna kemur, kallar á að siðfræði tækniheimsins verði meðtekin. Þar sem maðurinn er heltekinn af þessari sýn, styrkir hann sjálfan sig í þeirri trú, að tæknin sé einungis vandamál er snúi að manninum. Ekki er hlustað á kall verunnar sem talar inn í eðli tækniheimsins.

Einsetum okkur nú, í eitt skipti fyrir öll, að hætta að horfa á (vorzustellen) tæknina einungis sem tæknilegt fyrirbæri, það er að segja það sem tilheyri manninum og vélum hans. Virðum það ákall sem í okkar samtíma tilheyrir ekki eingöngu manninum, heldur kemur frá allri veru (Seiende), náttúru og sögu. Hvaða ákall (Anspruch) er hér um að ræða? Gjörvallri tilveru okkar er nú ögrað úr öllum áttum – stundum í leikaraskap, stundum með ofríki, stundum með æsingi (gehetzt), stundum með nauðung – okkur er tilskipað að gangast undir útreikninga og áætlunargerð allra hluta. Hvað er það sem talar í þessari ögrun? Er hún kannski sprottin af persónulegum duttlungum mannsins? Eða er hún hugsanlega tilkomin af sjálfri verunni, með þeim hætti að hún kalli okkur til síns útreiknanleika og sinnar skipulagsbærni? Er jafnvel sjálf veran þá undirsett ögruninni, að verundinni (das Seiende) sé skipað í sæti innan sjóndeildarhrings reiknanleikans? Þannig er það í raun og veru. Ekki bara það. Í sama mæli og verunni er ögrað, gerist það sama með manninn, það er að segja að hann er innstilltur[iv] (gestellt), í þeim tilgangi að tryggja verund (Seiende) hans og sem auðlind og forðabúr (Bestand) áætlanagerða hans og útreikninga og tryggja nýtingu (Bestellen) hennar um ófyrirsjáanlega framtíð.

Nafnið á þessari samsetningu (Versammlung) ögrunarinnar, sem samstillir veru og mann með þessum hætti, hljómar sem „Ge-Stell“ (möguleg bókstafleg íslensk þýðing: „inn-stilling“ eða „sam-stilling“). Menn hafa brugðist hart við þessari orðanotkun.  En í stað þess að segja „stellen“ (stilla) hafa menn notað „setzen“ (setja), án nokkurra athugasemda, þegar fjallað er um „Gesetz“ (lögfræðilega tilskipun eða lagasetningu). Hvers vegna má þá ekki nota orðið „Gestell“ ef horfa þarf á ríkjandi aðstæður?

Sama á við þegar fjallað er um hvernig maðurinn og veran varða hvort annað innan heims tækninnar. Þá erum við að fjalla um virkni inn-stillingarinnar (Ge-stell). Með því að höfða með gagnkvæmum hætti til mannsins og verunnar, heyrum við ákallið sem ákvarðar heildarsamstillingu (die Konstellation) okkar samtíma. Inn-stillingin snertir okkur umsvifalaust. Að því gefnu að slík umfjöllun sé leyfileg nú á tímum, þá getum við sagt að innstillingin sé okkur nákomnari (seiender) en öll kjarnorkan og öll vélvæðingin, nákomnari en öll skipulagningaráráttan, upplýsingaáráttan og sjálfvirkniáráttan. Þar sem merking þess sem við köllum Gestell (innstilling) er ekki sjáanleg innan sjóndeildarhrings hinnar fyrirstillandi hugsunar (des Vorstellens) þegar við íhugum veru verundarinnar (das Sein des Seiendes) sem nærveru (Anwesen)  – þá kemur „inn-stillingin“ okkur ekki lengur við sem eitthvað nákomið (Anwesendes) og þess vegna er það (das Getstell) okkur framandlegt. Innstillingin verður okkur framandleg vegna þess að hún er ekki það nýjasta, heldur færir hún okkur í fang það sem hefur fyrst náð algjöru valdi yfir samstillingu veru og manns.

Samvera (Zusammengehören) manns og veru í gegnum gagnvirkan ögrunarmáta færir okkur óþægilega nær því, hvernig maðurinn er ofurseldur (vereignet) verunni, en veran hins vegar tileinkuð (zugeeignet) manninum. Í ísetningunni ríkir einkennilegt afsal og tileinkun. Það gildir um þetta eignarhald, þar sem maður og vera eru eignuð hvort öðru, að það feli í sér reynslu, það er að segja að ganga inn í það sem við köllum „Ereignis“ (atburður-reynsla). Orðið Ereignis er myndað úr þróaðri þýsku. Orðið „Ereignen“ var upprunalega „er-äugen, það er að segja „að koma auga á“, síðan „aneignen“, það er að segja „eigna sér“ eða til-einka sér.

Samkvæmt því sem hér hefur verið sagt á orðið „Ereignis“ (atburður) héðan í frá að verða leiðandi orð í þjónustu hugsunarinnar. Þar sem orðið er þannig hugsað sem leiðandi hugtak, er ekki hægt að þýða það. Ekki frekar en gríska leiðsagnarorðið λόϒος (logos) og hið kínverska „Tao“.

Orðið Ereignis merkir hér ekki lengur það sem við skiljum í daglegu tali sem hvers kyns atvik, tiltekinn hlut sem gerist. Héðan í frá er orðið notað sem singulare tantum (einstak). Merking þess á sér stað (ereignet sich) einungis í eintölu (Einzahl), nei, ekki einu sinni lengur sem Zahl (tala), heldur sem (ein)stak (einzig).

Það sem við upplifum í gegnum hina nútímalegu tækniveröld sem samstillingu veru og manns er forleikur þess sem Ereignis merkir.[v] Þetta þýðir þó ekki að við þurfum nauðsynlega að festast í forleiknum. Í Ereignis talar sá möguleiki að hann umbreyti hinni hreinu yfirdrottnun innstillingarinnar (Gestell) í upprunalegt „Ereignen“ (atviksreynslu-uppákomu).

Slíkur umsnúningur á ísetningunni (Ge-stell) út frá Ereignis, fæli í sér brot á hinu atvikstengda,(ereignishafte) -nokkuð sem manðurinn einn gæti aldrei gert – en það fæli í sér afnám ofríkis tækniheimsins og umbreytingu þess í þjónustuhlutverk innan þess sviðs sem veitir manninum eiginlegan aðgang að atviks-reynslunni (Ereignis).

[ þessi setning er mikilvæg en erfið í þýðingu: Eine solche Verwindung des Ge-Stells aus dem Ereignis in dieses brachte die eireignishafte , also niemals von Menschen allein machbare, Zurucknahme der technischen Welt aus ihrer Herrschaft zur Dienstschaft innerhalb des Bereiches, durch den der Mensch eigentlicher in das Ereignis reicht.]

Hvert hefur þessi vegferð leitt okkur?

Hún hefur leitt okkur að inngöngu hugsunar okkar í þetta einfalda, sem við köllum Ereignis í ströngustu merkingu þessa orðs. Svo virðist sem við höfum ratað í þá hættu að hafa, af fullkomnu kæruleysi, leitt hugsun okkar í eitthvað almennt og fjarrænt, á meðan það sem orðið Ereignis (atburðs-reynsla/uppákoma) vildi segja, er aðeins hin mesta nálægð þessarar bráðu nándar sem við erum þegar stödd í. Því hvað gæti staðið okkur nær en það sem lætur okkur nálgast það sem okkur tilheyrir, þar sem við verðum hlutaðeigandi (Gehörende),  das Ereignis (uppákoman)?

Atviks-reynslan (Ereignis) er í sjálfri sér sveiflukennt svið, þar sem maður og vera ná hvoru öðru í eðli sínu, ná tökum á eðlislægri veru (Wesendes) sinni, þar sem þau létta af sér öllum þeim skilgreiningum sem frumspekin hefur lagt á þau.

Að hugsa atviks-reynsluna sem Ereignis felur í sér uppbyggilegt framlag til byggingar á þessu sveiflukennda sviði. Efniviðinn í þessa svífandi byggingu sækir hugsunin í tungumálið, endurómur þess er það mýksta en einnig það viðkvæmasta og jafnframt burðugasta í svífandi byggingu atviks-reynslunnar (Ereignis). Að því marki sem eðli okkar er yfirfært á (vereignet) á tungumálið búum við í Ereignis (atviks-reynslunni).

Við höfum nú hafnað á þeim stað á vegferð okkar þar sem hin grófa en óhjákvæmilega spurning vaknar: hvað hefur atviks-reynslan (Ereignis) með Samsemd (Identität) að gera?

Svar: ekkert.

Hins vegar deilir Samsemdin mörgu, ef ekki öllu, með atviks-reynslunni. Hvernig má það vera? Svar okkar felst að snúa nokkur skref til baka til þess sem áður var sagt.

Atviks-reynslan (der Ereignis) felur í sér gagnkvæma sameignun (vereignen) manns og veru í eðlislægri  samveru þeirra. Fyrsta og áhrifamesta ljósblossa atviks-reynslunnar sjáum við í inn-stillingunni (Ge-stell). Hann felur í sér kjarna tækniheims nútímans. Í inn-stillingunni sjáum við hvernig vera og maður tilheyra hvort öðru, þar sem virkni þess að tilheyra ákvarðar gerð „samverunnar“ og einingu hennar. Samfylgdin inn í spurninguna um að tilheyra sameiginlega (Zusammengehören), þar sem það að tilheyra hefur forgang fram yfir hið sameiginlega (zusammen), leiddi okkur að setningu Parmenídesar: „Hið sama er einmitt að hugsa jafnt og að vera“.

Spurningin um merkingu þessa sama er spurningin um eðli Samsemdarinnar (Identität). Kennisetning frumspekinnar segir okkur að Samsemdin sé megineinkenni verunnar. Nú kemur hins vegar í ljós að veran og hugsunin tilheyra bæði tiltekinni samsemd, sem á rætur að rekja í þessari tegund sameiginlegrar tilheyrnar (Zusammengehörenlassen) sem við köllum atviks-reynslu (Ereignis). Eðli Samsemdar er eiginleiki atviks-reynslunnar (Ereignis).

Ef svo færi að við fyndum eitthvað handfast í tilraun okkar til að vísa hugsuninni á stað eðlisuppruna Samsemdarinnar, hvað væri þá orðið af yfirskrift fyrirlestrar okkar? Merking yfirskriftarinnar Regla Samsemdarinnar (Der Satz der Identität) hefði tekið breytingu.

Orðið Satz (regla) gefur sig nánast fram í formi grundvallarreglu, þar sem gengið er út frá því að Samsemdin sé eitt af einkennum verunnar (Sein), það er að segja grundvalkareinkenni verundarinnar (Seienden). Þessi regla í skilningi fullyrðingar, hefur á vegferð okkar umbreyst í reglu í formi stökks, sem verður viðskila við veruna  (Sein) sem grundvöllur verundarinnar (Seienden), og hafnar þannig í hyldýpinu. Þetta hyldýpi reynist þó hvorki hið innihaldslausa tóm, né hið formyrkvaða villuráf, heldur: das Ereignis (atviks-reynslan). Í das Ereignis sveiflast eðli þess sem eitt sinn var kallað heimili verunnar, en það er tal tungumálsins. Satz verunnar segir nú: Stökk sem eðli Samsemdarinnar kallar eftir, fyrir brýna þörf, ef sameiginleg aðild (Zusammengehören) manns og veru á að takast í eðlslægu ljósi des Ereignis (atviks-reynslunnar).

Vegferðin frá reglunni sem fullyrðing um Samsemdina  til reglunnar sem stökk til eðlisuppruna Samsemdarinnar hefur umbreytt hugsuninni. Þegar horft er til samtímans, þá finnum við hér ástæðu þess að við sjáum, handan aðstæðna mannsins, samstillingu veru og manns á grundvelli þess sem umfram allt tengir þau saman í gagnkvæmu eignarhaldi, það er að segja der Ereignis (atviks-reynslan).

Að því gefnu að okkar bíði sú framtíð, að innstillingin (das Gestell) tali til okkar sem Ereignis – í gagnvirkri ögrun (Herausforderung) manns og veru innan útreiknings hins reiknanlega – að manneskjan og veran í eiginleika sínum fremji sitt eignarafsal (enteignet), þá væri leiðin opin og frjáls, þar sem manneskjan fengi í fyrsta skipti að reyna verundina, heild nútíma tækniheims, náttúruna og söguna, og þá fyrst og fremst veru þessa í heild sinni.

Svo lengi sem umhugsunin um heiminn á tímum kjarnorkunnar, og öll ábyrgðin sem henni fylgir, takmarkar sig einungis við það friðþægjandi markmið sem felst í friðsamlegri notkun kjarnorkunnar, þá er hugsunin hér komin hálfa leið. Á forsendu þessarar hálfnuðu vegferðar hefur tækniheimurinn  tryggt enn frekar sína frumspekilegu yfirdrottnun.

En hvar hefur sú ákvörðun verið tekin, að náttúran sem slík skuli um alla framtíð vera náttúra nútíma eðlisfræði, og að sagan skuli birtast einungis sem viðfang sagnaritunarinnar? Það er rétt, að við getum ekki hafnað núverandi tækniheimi eins og hann væri djöfullegur tilbúningur, og okkur leyfist heldur ekki að eyðileggja hann, að því gefnu að hann geri það ekki af sjálfsdáðum.

Enn síður skyldum við hins vegar aðhyllast þá skoðun að tækniheimurinn sé þess eðlis að í honum felist fullkomin vörn. Þessi skoðun lítur á það allra nýjasta (das Aktuelle), sem hún er heltekin af, sem hinn eina sanna raunveruleika. Þessi skoðun felur í sér  hreina draumóra, og því alls enga framtíðarsýn (Vordenken) þeirra er sjá fyrir sér hvatningu (Zuspruch) í eðli komandi Samsemdar manns og veru.

Hugsunin þurfti meira en tvö þúsund ár til að skilja eiginlega (eigens) jafn einfalt samband og þá miðlun sem á sér stað innan Samsemdarinnar. Eigum  við þá að halda því fram, að hið hugsandi inngrip í eðlisuppruna Samsemdarinnar geti raungerst á einum degi? Þessi innkoma kallar á stökk, og einmitt af þeirri ástæðu kallar hún á sinn tíma. Það er tími umhugsunarinnar, sem er annar en tími útreikningsins, sem á okkar tímum hvílir eins og lamandi ok á hugsuninni. Í dag höfum við „hugsunarvélar“ er reikna á einni sekúndu þúsundir af jöfnum, sem þrátt fyrir tæknilega nytsemd sína eru þýðingarlausar.

Hvað eina sem við reynum að hugsa og hvernig sem við gerum það, þá hugsum við á leikvangi arfleifðarinnar. Það er hún sem ræður, þegar hún frelsar okkur í gegnum hugleiðsluna frá eftirþanka (Nachdenken) til forsjálni (Vordenken) sem felur ekki lengur í sér neina áætlanagerð.

Einungis þegar við beinum hugsun okkar að því sem áður var hugsað verður hugsun beint að því sem enn er óhugsað.

(Erst wenn wir uns denkend dem schon Gedachten zuwenden, werden wir verwendet fur das noch zu Denkende.)

(Forsíðumyndin er samklippa eftir Erro frá 1958 ásamt kápumynd ítölsku útgáfunnar á þessari ritgerð. Þýska textann fann ég á netinu.)

:::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::

[i] „Vorstellenden Denken“ er vandþýtt hugtak sem erfitt er að finna samsvarandi orð fyrir á íslensku. Í ítalskri þýðingu Giovanni Gurisatti er þetta þýtt sem „Pensiero rappresentativo“ og væri vafalaust þýtt sem „representative thinking“ á ensku. Það leysir ekki íslenska þýðingarvandann, en orðið „Vorstellung“ er meðal annars „sýning“ á íslensku, en bókstaflega merkingin er „fram-setning“ eða jafnvel „fyrir-stilling“, sem hefur hins vegar aðra og neikvæðari merkingu á íslensku: „hvað á þetta að fyrirstilla?“ Þessi íslenska orðmynd rímar reyndar skemmtilega við gagnrýni Heideggers á „fyrirstillandi hugsun“, en gengur þó trúlega of langt í hlutdrægni sinni. Endanlega merkir Vorstellende Denken hjá Heidegger þá hugsun frumspekinnar sem hefur fyrir fram gefna forsendu í niðurstöðu sinni.

[ii] Seiende er lýsingarháttur nútíðar af sögninni sein, sem merkir að vera. Á íslensku væri bein þýðing „verandi“. Seiende getur hins vegar haft margræða merkingu á þýsku, bæði sem háttur sagnar og nafnorð, ekki síst í meðförum Heideggers, sem hefur gert „veruna“ að sínu mikilvægasta heimspekilega viðfangsefni. Sú þýðing sem hér er notuð er ekki nákvæm, og sjálfsagt umdeilanleg.

[iii] Anwesen merkir hjá Heidegger að vera til staðar, andstætt við Abwesen, sem merkir að vera fjarverandi. Hugtakið hefur þannig með beina virkni að gera. Þriðja afleidda myndin af Wesen getur verið Vorwesen, sem merkir að vera rotnaður eða „fordjarfaður“. Sem nafnorð getur Anwesen einnig þýtt landareign eða staðareign. Í daglegu sveitamáli stundum kallað „eignin“.

[iv] Heidegger notar hér sögnina gestellen, sem við getum þýtt sem „að innstilla“ eða „setja í“, en þetta orð er hér notað með vísun í nafnorðið „Gestell“, sem er lykilorð (og nýyrði) Heideggers í allri umfjöllun hans um tæknina. Orðið felur í sér að tæknin, sem í hefðbundinni þýsku er „Technik“, sé ekki bara hlutlaust fyrirbæri, heldur feli það í sér „inn-stillingu“ er varði veru mannsins og allrar annarrar veru í heiminum, þeim heimi sem maðurinn hefur gert að „viðfangi“ sínu. Sögnina notar Heidegger hér til að skýra í framhaldinu merkingu lykilhugtaks hans: Gestell. Þýðing þess á íslensku verður aldrei nákvæm án skýringar: innsetning, ísetning, innstilling, samstilling o.s.frv. Heidegger hefur rétt fyrir sér að þetta erorð sem ekki er hægt að þýða, ekki frekar en „Ereignis“.

[v] Ef svíkja ætti Heidegger með því að reyna að þýða „Ereignis“ þá er um að ræða atburð sem er eiginleg upplifun eða einstaklingsbundin reynsla („atviks-reynsla“) sem hefur með hugtökin „eign“ og „eiginlegur“ að gera. Atburður þar sem maður og vera eru eitt. „Uppákoma“. Hugtaksleg og merkingarfræðileg tengsl má finna við orðið Erfahrung=upplifun, reynsla.

 

CARLO SINI UM TÆKNI OG OFBELDI

TÆKNIN SEM MEÐAL,TRÚARBRÖGÐ EÐA ÓGN
Sú þýðing á grein Carlo Sini um tækni og ofbeldi sem hér er birt, er eins konar framhald nýlegrar færslu um Sini og merkingarfræði Heideggers, þar sem vitnað var til greinar Heideggers um tæknina frá 1953. Þessi grein Sini birtist fyrst 1982, á þeim tíma á Ítalíu sem kenndur var við „ár blýsins“, þar sem hryðjuverkahópar öfgamanna til hægri og vinstri fóru með báli og brandi um samfélagið. Ritgerðin var endurútgefin í safnritaflokknum Opere 2021. Þótt það ástand sem ríkti 1982 hafi í sjálfu sér verið ærið tilefni skrifa sem þessara, þá er það ekki meginefnið, heldur má segja að Sini hafi hér tekið Heidegger á orðinu um að eðli tækninnar væri ekki tæknilegs eðlis, heldur kallaði það á nýja hugsun. Hugsun sem endurspeglaðist í máltilraunum Heideggers í þeirri viðleitni hans að yfirstíga tungutak frumspekinnar. Það voru tilraunir sem skiluðu vart tilætluðum árangri og kölluðu á nýja nálgun.

Sú nýja hugsun sem Sini beitir hér til greiningar á vandanum um tæknina og ofbeldið snýst ekki um tíðindi dagsins, heldur beinist hún ekki síst að eðlislægum uppruna ofbeldis og tækni í sögu mannkynsins, þar sem hann hefur rannsókn sína með goðsögninni um Prómeþeif og greiningu hennar. Að þessu leyti fer hann aðrar leiðir en Heidegger, og þessi rannsókn sem hann gerir með aðstoð fornfræðingsins Karls Kerényi, bregður vissulega óvæntu ljósi á vandann. Eftir stórfróðlega endursögn þessarar goðsögu, þar sem lesa má þá visku að maðurinn sé í raun ekki kominn til sögunnar fyrr en hann höndlaði tæknina. Það var atburður sem  goðsagan eignar Promeþeifi, þessum náttúruguði af títönskum uppruna sem færði manninum eldinn með svikum, og opnaði þannig fyrir þá vegferð sem maðurinn hefur ratað alla tíð síðan, og greint sig þannig frá dýrunum. Eldurinn og tæknin voru fórnargjafir Prómeþeifs, sem hann galt um leið fyrir með ævarandi kvalafullum refsingum Seifs. Þessar gjafir gerðu manninum kleift að afla sér lífsviðurværis, sem fengið var með svikum. Promeþeifur kenndi manninum líka hvernig bæta átti fyrir svikráðin með fórnargjöfum: Eldurinn og vopnin gerðu honum kleift að ná tökum á náttúrunni og drepa dýrin sér til matar, en hann átti að endurgjalda guðunum með blóðfórnum til að ná sátt við guðina og umheiminn. Að kveikja eld og drepa dýr sér til matar var upphaf sögu og siðmenningar mannsins, og hvort tveggja skuldsetti hann gagnvart guðunum og náttúrunni.  Blóðfórnin var forsenda sáttagjörðar á milli guða og manna, mannsins og alheimsins.

Sini rekur síðan í stuttu og meitluðu máli hvernig dauði guðanna og afhelgun náttúrunnar leiddu smám saman til þess hugarástands sem við kennum við nútímatækni. Í stuttu máli segir Sini að samtími okkar einkennist af „vísindatrú“ er byggi á þeirri frumspekilegu forsendu sem aðskilur frumlag og andlag, hugveru og hlutveru, en framkvæmir síðan þann galdur sem eignaður hefur verið heimspekningnum Descartes og felst í jafngildingu þessara andstæðna: res cogitans og res extensa. Þessi galdur, sem er undirstaða nútímavísinda, færði himininn niður á jörðina og var forsenda þeirrar afhelgunar náttúrunnar, sem síðan hefur leitt mannkynið áfram allt til rányrkju okkar tíma. 
Þessi frumspekilegi galdur er að mati Sini orðinn að „hugmyndafræði“, sem er rót „ógnarstjórnar þess frjáls vilja“, sem Hegel las út úr frönsku stjórnarbyltingunni á sínum tíma fyrir tæpum 200 árum síðan. Þannig rekur Sini ofbeldið til frumspekinnar og stofnanavæðingar hennar í gegnum ríkisvaldið og stofnanir þess. 

Hryðjuverkaógn kerfisandstæðinga samtímans er í þessari grein Sini túlkuð sem hin hliðin á ógnarstjórn tækninnar. Ekki er ástæða til að endursegja þessa athyglisverðu greiningu frekar hér. Hins vegar er rétt að benda á nokkuð sem ekki kemur skýrt fram í þessum texta, en hefur einkum á síðari árum orðið áberandi í málflutningi Sini um tæknina. En það er deilan um hvort tæknimenningin sé að leiða mannkynið í glötun og hafi umbreyst frá hjálpartæki til gjöreyðingarvopns. Þessi ótti kemur þegar fram hjá Heidegger í greininni frá 1953, sem er skrifuð meðal annars í skugga kjarnorkuvopnanna og vígbúnaðarkapphlaups eftirstríðsáranna. Síðar lýsti Heidegger yfir þeim áhyggjum sínum að tæknin væri að vaxa manninum til höfuðs, og að hann væri að eðlisfari ófær um að stjórna henni. „Aðeins Guð getur hjálpað okkur“ sagði þessi guðleysingi í frægu viðtali við tímaritið Der Spiegel árið 1966, 10 árum fyrir andlát sitt. Heimsstyrjöldin og atburðirnir í Hiroshima og Nagasaki höfðu áhrif á þessa umræðu, og þau má meðal annars sjá hjá einum af nemendum Heideggers frá því fyrir stríð, gyðingnum Günther Anders, sem hafði flúið til Bandaríkjanna og giftist þar fyrrverandi ástkonu Heideggers, Hönnu Arendt, sem einnig var gyðingur. Anders gerðist einhver atkvæðamesti baráttumaður gegn kjarnorkuvánni (og síðar gegn styrjöldinni í Vietnam) með skrifum sem birtust m.a. í tveggja binda verki hans Die Antiquiertheit des Menschen: Über die Zerstörung des Lebens im Zeitalter der dritten industriellen Revolution.Skrif Anders hafa haft víðtæk áhrif, meðal annars á Ítalíu, þar sem heimspekingurinn Umberto Galimberti vitnar til dæmis gjarnan í Anders og segir tæknina hafa vaxið manninum yfir höfuð og muni leiða siðmenninguna í glötun. Galimberti hefur nýverið gefið út bók um Heidegger.

Carlo Sini hefur gagnrýnt þessa umræðu á einni meginforsendu: það er ekki hægt að greina á milli mannsins og tækninnar og setja þessa þætti fram sem tvo andstæða "vilja". Maðurinn og tæknin eru eitt, því án tækninnar er maðurinn ekki til, og tæknin ekki án mannsins. Í þessu samhengi hefur Sini lagt áherslu á verkfærin sem framlengingu líkamans og að tungumálið sé merkasta tækniundur sem maðurinn hefur fundið upp. Fyrir Sini eru notkun tungumálsins og tækninnar óaðskiljanleg vandamál, og ákall hans um „nýja hugsun“ í lok greinar sinnar er til vitnis um það. Ástæða þess að þetta er hér tekið fram er meðal annars sú, að hugsanlega má lesa þann skilning út úr þessum texta Sini, að tæknin sé óvinur mannsins. En það sem Sini er hér að andæfa gegn er ekki tæknin sem slík, heldur hvernig við hugsum hana í gegnum „vísindatrúna“ og átrúnaðinn á hinn „hlutlæga sannleika" tæknivísindanna, í stuttu máli  sjálfa „framfaratrúna“ í nafni tæknimenningar samtímans. Þessi ritgerð er hvöss ádeila á samtíma okkar sem byggir á djúpri sögulegri þekkingu og óvæntu sjónarhorni á eitt mikilvægasta vandamál samtímans.

PS.: Vegna þess hve sagan af Prómeþeifi gegnir mikilvægu hlutverki í þessari grein er rétt að benda á frábæra endursögn franska trúarbragðafræðingsins Jean-Pierre Vernant á sköpunarsögu hinnar grísku goðafræði og hlutverk Prómeþeifs í henni, en hana má finna hér á vefnum á íslensku: https://wp.me/p7Ursx-qC

T. Beisson: Prómeþeifur hlekkjaður,  koparstunga um 1800- eftir málverki Salvatore Rosa
Calo Sini:

TÆKNI OG OFBELDI

 

Kafli úr verki Carlo Sini: Dalla semiotica alla tecnica – OPERE, Volume II, Tomo I – In cammino verso l‘evento. Útg:. Jaca Book, Milano 2021. Bls. 393-408. Upphaflega birt í bókinni Kinesis – Saggio di interpretazione, útg. Milano  1982

Tæknin sem vandamál hugsunarinnar

Á síðari tímum höfum við horft upp á að ofbeldi í sínum nútímalega búningi, þá ekki síst sem hryðjuverkastarfsemi, hefur náð útbreiðslu sem hnattrænt fyrirbæri. Við sjáum líka að vöxtur tækninnar hefur á tiltölulega stuttum tíma orðið að hnattrænu fyrirbæri í formi tæknilegrar skipulagningar hinnar tilvistarlegu og samfélagslegu veru mannsins. Eru einhver tengsl á milli þessara fyrirbæra? Ef svo væri, hvers eðlis eru þau tengsl þá? Þessar spurningar eru til umræðu í eftirfarandi texta.

Ef það reynist rétt að tæknin, kjarni hennar og örlög, séu á okkar tímum orðin að vaxandi og vandleystri ráðgátu, og að vandamál ofbeldisins tengist tækninni djúpum og órjúfanlegum böndum,  þá skiptir hér meginmáli að þessi vandi verður ekki skilinn með viðunandi hætti á forsendum pólitískra greininga eða félagsfræðilegra, sálfræðilegra, lögfræðilegra og sagnfræðilegra rannsókna. Þrátt fyrir alla verðleika þessara fræða gætu þau aldrei nálgast rætur fyrirbærisins sem þau rannsaka, því þessar rætur ná djúpt ofan í jarðveg sem þessi fræði hafa engan aðgang að.

Ástæðan er sú, að þessi fræði og greiningaraðferðir þeirra byggja með sínum hætti á vísindalegri tækni og ganga því út frá tæknilegri aðferðarfræði (la ratio tecnologica) og eru því ófær um að setja spurningu við eigin aðferð. Ef rétt reynist að ofbeldi okkar samtíma eigi rætur sínar í eða sé nátengt tækniveröld samtímans, og þar með starfsháttum stjórnmálafræðinnar, félagsfræðinnar, sálfræðinnar o.s.frv. , sem eru hver með sínum hætti tjáningarmáti nútímatækninnar, þá verður þráðurinn sem tengir tæknina við ofbeldið og orsakasambandið þar á milli óhjákvæmilega utan verksviðs þessara fræða.

Hið sama gildir um vel meinandi „siðferðisáköll“ og hvatningar til „siðferðilegrar“ endurvakningar í félagslegu andófi gegn hryðjuverkastarfseminni og um hina göfugu en skammsýnu hvatningu til „vandaðri nýtingar tækninnar“, til þess að gera hana að hliðhollu „verkfæri“ í meðhöndlun mannsins. Ekki er hægt að útiloka að einmitt þessi „siðferðilegu“ sjónarhorn séu afurð hinnar vísindalegu tæknibyltingar samtímans, en þar að auki blasir við öllum að slík áköll og tillögur leiða ekki til viðunandi lausna, jafnvel þótt þau séu síendurtekin í daglegum hvatningum hinna ábyrgustu aðila í öllum meginfjölmiðlum heimsins. Þau falla vanbúin í sinn grýtta jarðveg.

Vandamál tækninnar er fyrst og fremst vandamál „hugsunarinnar“, og það á ekki síst við um hugsanleg tengsl hennar við ofbeldið. Í þessu tilfelli getum við einungis gert okkur vonir um að nálgast kjarna vandans með iðkun tiltekinnar hugsunaraðferðar (via di pensiero). Það munum við reyna að gera hér, þó innan þeirra hlutlægu og huglægu marka þessarar umræðu sem geta okkar mætir.

Prómeþeifur og goðsögulegur uppruni tækninnar

Fyrst þurfum við að hafa í huga að tæknin er manninum eðlislæg frá upphafi. Það merkir að maðurinn er vera techne (hið gríska orð fyrir tækni). Elstu merkin sem hafa fundist um „mannlega tilvist“ eru „tæknilegar“ leifar er tengjast notkun „verkfæra“ er gera samband mannsins og umheimsins „mannleg“ (vitna um „mannlegt“ vistkerfi frábrugðið hinu „dýrslega“). Maðurinn hefur gert sér grein fyrir þessum sannleika frá ómunatíð eins og margar goðsagnir eru til vitnis um. En þessar goðsögur vitna einnig um  annað,   að maðurinn hafði djúpa tilfinningu fyrir tengslum tækninnar við ofbeldið. Hin upphaflega tilgáta okkar finnur þarna staðfestingu sína.

Við erum hins vegar upptekin af því sem einkennir tækni samtímans (ólíkt hinni fornu og forsögulegu tækni) hvað varðar meint samband hennar við ofbeldið, það er að segja hvað einkenni okkur sem mannverur, menn tækniheims samtímans. Þetta er spurning sem er á vissan hátt „ómöguleg“, því hún felur í sér (svo stuðst sé við orð Hegels) að ætla sér að beina sjónum vitundar okkar að því sem gerir vart við sig á bak við þessa sömu vitund. Við skulum engu að síður reyna að svara, reyna að því marki sem mögulegt er að beina „utanaðkomandi“ sjónarhorni að því „tæknilega“ atferli sem einkennir okkur. Við getum til dæmis spurt okkur hvernig frummaðurinn upplifði tæknina á forsendum þess sem ákveðnar goðsögulegar hefðir segja til um. Hvað merkir það út frá sjónarhóli hins frumlæga, eða að hluta til frumlæga goðsagnaheims, þegar við segjum að maðurinn sé vera tækninnar (techne)!

Þetta er augljóslega flókin spurning og að gefnum forsendum getum við ekki annað en takmarkað okkur við einstakt tilfelli tiltekinnar hefðar. Við snúum okkur þannig að persónu Promeþeifs úr hinum forngríska goðsagnaheimi, eins og hún hefur verið endursögð af Karoly Kerényi[i].

Hver er Prómeþeifur? Ímynd hans er flókin og þversagnakennd; náttúra þessa guðs breiðir úr sér oft að landamærum og út yfir landamæri þess sem við erum vön að skilja sem það er einkenni hinn gríska anda. Almennt má segja að Prómeþeifur sé guð af ætt Títana og tilheyri þeim heimi sem ríkti á undan hinni kosmísku reglu Seifs og hinna Olympísku guða. En Prómeþeifur er einstakt tilfelli meðal hinna grísku guða að því leyti að hann deilir með manninum því eðli að búa við viðvarandi líkamlega og andlega þjáningu. Það er einmitt í krafti þessa einkennis sem Prómeþeifur er Guð málamiðlunar á milli hins guðdómlega og mannlega. En fyrst og fremst er hann Guð þess aðskilnaðar, sem á sér stað á milli ódauðleika Guðanna og dauðleika mannsins. Um þetta segir Pindar: „Eitt er kyn mannanna og Guðanna, frá einni sameiginlegri móður drögum við anda okkar“, en síðan eru þeir aðskildir af „æðri máttarvöldum“: bróðurparturinn  tilheyrir Guðunum, næstum ekkert mönnunum. Um þetta segir Kerényi: „Mannkynið á uppruna sinn, rétt eins og Guðirnir, í Jarðargyðjunni Gaiu  […] maðurinn er annar póllinn. Hinn er myndaður af hinum himnesku verum“.

Hér er um róttækan mismun að ræða: mennirnir, „skapnaður til eins dags“, sem hafa mátt þola úthýsingu á jörðinni og fjötra hinna dauðlegu, á meðan það sem umlykur þá er hinn póllinn: hinn himneski póll og ríki ódauðleikans. Þetta er orsök þess að maðurinn er sem slíkur þjáður af ólæknandi banvænu sári.  En eins og við vitum, þá var Prómeþeifur líka særður lifrarsári sem örn Seifs, sólarguðsins, hélt opnu og endurnýjaði á hverjum morgni.

Þannig verður mynd okkar af Prómeþeifi smám saman skýrari sem guðdómlegur forfaðir, fyrirmynd og alter ego mannkynsins. Ásamt með Atlas bróður sínum markaði hann endimörk þeirrar jarðar sem mönnunum var úthlutuð. Atlas afmarkaði vesturlandamæri hins gríska alheims, það var hann sem framkvæmdi aðskilnað himins og jarðar og gerði möguleg umskipti dags og nætur og tilkomu tímans.

Prómeþeifur afmarkar hins vegar austurlandamærin, þar sem hann dvelur hlekkjaður við tinda Kákasusfjalla. Kerényi segir að þeir „umlyki kringlu tímans og mannkynsins innan ramma erfiðis og þjáningar“.

En ef Atlas framkallar aðskilnað hins mannlega og guðdómsins með aðskilnaði himins og jarðar, á milli tímans og eilífðarinnar, hvernig virkar þá þáttur Prómeþeifs í þessum aðskilnaði?

Kerényi segir þetta[ii] hafa gerst með tveim frumlægum gjörningum, sem áttu að leiða til „hins endanlega viðskilnaðar þess mannlega og Guðdómsins, aðskilnaðar er lagði grunninn að hinu mannlega formi tilverunnar“: uppfinning fórnarveislunnar og þjófnaður eldsins.

Í raun er hér um tvo frumlæga „tæknilega“ gjörninga að ræða, er marka grundvallareðli mannsins og örlaga hans. Um leið eru þetta tveir „ofbeldisfullir og saknæmir“ gjörningar sem ráðast inn í hina lífrænu jafnvægishrynjandi náttúrunnar, hinnar „guðdómlegu náttúru“, og valda þannig ólæknandi áverka og sári.

Nautsfórn í Grikklandi til forna.

Kerényi segir: Báðir þessir gjörningar fela í sér glæpsamlega röskun en um leið bjargræði fyrir þann sem leitaði sér næringar. Annar þeirra fólst í drápi dýrsins […] hinn frumlægi gjörningurinn fól í sér heimtu eldsins í gegnum þjófnað og rán. Engu að síður vann Prómeþeifur til sátta með því að stofna til fórnarathafnarinnar og sætta þannig Guði og menn. Hin gríska fórnarathöfn skilgreinir samtímis mismuninn og samfélagið á milli manna og Guða. Um þetta skrifar Kerényi í kaflanum Helgidómur máltíðarinnar:

[Hugmyndin um máltíðina hjá Grikkjum, Etrúum og einnig hjá Rómverjum, byggðist] á títanskri uppfinningu: það var einmitt dýrafórnin sem varð forsenda fullkominnar hátíðarveislu og uppspretta helgidóms hennar. Orðið heilagur („sacro“) tengist þessum blóðuga gjörningi, bæði á grísku og latínu. Bæði tungumálin tjá hugtakið „sacrificare“ (fórna) í skilningnum að „gera heilagt“ eða „framkvæma hið heilaga“. Þetta var hinn mikli og skelfilegi gjörningur mannsins í leit hans að næringu; gjörningur sem reyndist honum jafnframt heillavænlegur, uppfundinn af títönskum huga þar sem drápið fer fram í eins konar sakramenti með hinu drepna dýri, og opnar uppsprettu fyrir varðveislu mannlegs lífs. […] Mannkynið getur ekki skapað sér líf úr lífi dýranna án þjófnaðar og blóðsúthellinga. Og dýrin tilheyra hinu ekki-mannlega, það er að segja, þau tilheyra öllu umhverfi mannsins, öllu því sem umvefur okkur, allri jörðinni og stjörnunum sjálfum: allt þetta tilheyrir ríki Guðanna […] Þessir frumlægu gjörningar, sem engin máltíð getur án verið,  það að kveikja eldinn og drepa dýrið [hinir frumlægu „tæknilegu“ gjörningar] eru hryllilegir og óguðlegir í augum fornmannsins, þeir eru innrás í guðdómlegan félagsskap og fela í sér holskurð, sundurlimun og afskorning á líkama þess sem á sér lífrænan uppruna – einnig eldurinn, sem er „náttúrlegur“ og lífrænn – þessir gjörningar fela þannig í grundvallaratriðum í sér helgispjöll. Það sem þeir eiga engu að síður sameiginlegt (það er að segja tendrun eldsins og dráp dýrsins sameinuð í samhæfðri athöfn) er ennþá heilagra en sjálf hátíðarveislan: það er fórnin sem einnig veitir máltíðinni sinn heilagleika.

Með þessum hætti er hið helgaða eðli techne skilgreint í heimi hins goðsögulega manns. En jafnframt hið kosmíska eðli hennar: hin mannlega techne öðlast kosmískt samhengi innan byggingar alheimsins (diakosmesis), þar sem hún finnur sér stað og merkingu.

Þessi eðliseinkenni birtast okkur greinilega í mynd Prómeþeifs, þar sem hann er sýndur með oddmjóa derhúfu handverksmannsins í líkingu við Hefaistos, Guð eldsins, og Hermes (Guð logos (orðsins), -en hann myndi verðskulda aðra og lengri umfjöllun).

Prómeþeifur skapar manninn. Grísk lágmynd, Prado-safnið

Með hjálp Prómeþeifs öðlast mennirnir vilja til að umbylta aumum tilvistaraðstæðum sínum með slægð (sem einnig var einkenni Hermesar) og uppgötva tæknina. Þannig er Prómeþeifur sá sem bjargar mannkyninu með tæknigjöfum sínum. „Mennirnir þiggja frá Prómeþeifi það sem tilheyrði Guðunum einum: eldinn“, segir Kerényi. En gjöfinni fylgja óhjákvæmilega „svikráðin“, tilfinningin fyrir ranglætinu, sektarkenndin og refsingin sem fylgja mannlegri tilvist.

Hins vegar er Prómeþeifur ekki einfalt alter ego (staðgengill) mannsins. Hann er kosmískur og himneskur Guð. Kerényi hefur beint sjónum sínum að hinum náttmyrku hliðum hans. Hinn himneski bakgrunnur Prómeþeifs leiðir hins vegar í ljós tungl-eðli hans sem Guð (þar sem hann er oft sýndur með sigð mánans í hendi sér).

Prómeþeifur þjáist af sári sem stöðugt grær og opnast á ný , rétt eins og Hera, hin sígilda tungl-gyðja, en í sári hennar eru ummynduð tíðahvörf tunglsins. Prómeþeifur er, rétt eins og Hera, upphafinn í bilinu á milli Guða og manna, sáttaberi og boðberi í senn (hann er í raun boðberi Títananna eins og Hermes er boðberi hinna Olympísku Guða)

Svo er það lifrin: staður sársins, sem örn Seifs rífur stöðugt upp á ný. Hún er merki náttmyrkursins. „Lifrin sem vex á ný yfir nóttina var boðberi kosmískrar myndar næturhiminsins […] og var talin hinn myrkvaði íverustaður ástríðanna.[iii]

Niðurstaða Kerényi er þessi: „Í þeirri guðdómlegu þjáningu nátthrafnsins (ástríðufullur, vansæll og særður banasári) og í náðargjöf eldsins, er að finna kjarna hins títanska og hins ofurmannlega[…] Í þeirri formyrkvun  sem við höfum fundið hjá Prómeþeifi má auðveldlega finna vanbúnað og skort þeirrar veru sem sér í eldinum (la techne) ómissandi hjálpartæki til að öðlast fullkomnara líf.

Ekki má gleyma því, að sá eldur sem hinn títaníski maður nýtir sér til að mæta hinum guðdómlegu dýrum, er af himneskum uppruna. Með því að höndla hann á jörðu niðri, og gera hann að eigin „verkfæri“, sýnir maðurinn tengsl sín við guðdóminn. Þessi tengsl eru hins vegar tilkomin í gegnum svikráð, og eru því ekki minni helgispjöll en aftaka dýrsins. Sáttin við hið heilaga og Guðina er einungis tilkomin vegna þess að eldurinn er einnig áhald fórnarathafnarinnar. En þetta merkir á sama tíma nýja diakosmesis, nýja skipan í byggingu alheimsins. Í kjölfar hins títanska heims kemur heimur hinna olympísku Guða. Prómeþeifur greiðir úr eigin vasa kostnað þessarar umbreytingar í nafni mannkynsins.

Þessi endurvakta mynd Prómeþeifs upplýsir okkur þannig um hvernig hið goðsögulega mannkyn upplifði, skynjaði og hugleiddi tæknina. Þegar við höfum nú náð þessum sjónarhóli, sem er okkur svo fjarlægur, líka sálfræðilega, en engu að síður ekki með öllu óskiljanlegur; því enn getum við meðtekið mynd hans og skilið nokkur ummerki hennar (ummerki sem enn má túlka sem fjarlægan mannlegan lífsmáta). Því getum við nú, þegar við höfum endurlífgað sambandið við ævaforna merkingu hinnar sérstöku tæknivæðingar mannsins og tengsl hennar við ofbeldið, þá getum við spurt:

„Brottvísun dýrsins“ og afhelgun heimsins

Hver eru megineinkenni nútímatækninnar og nútímamannsins?

Enn á ný stöndum við frammi fyrir spurningu sem virðist endanlega óleysanleg. Hér þurfum við að finna nálgun sem er jafn myndræn og hún er djúp. Ef við leitum til dæmis til Galileo Galilei, þá gætum við sagt að ólíkt hinni fornu tækni, þá hafi nútímatæknin „fjarlægt dýrið“. Hvað merkir þessi afar sérstæða fullyrðing? Við skulum sjá hvað Galilei segir í alþekktu textabroti:

Ég segi að ég finni vel fyrir þeirri nauðsyn, um leið og ég skynja tiltekið efni eða líkama, að ég þurfi að skilja í sömu mund mörk hlutarins og mynd í þessari eða hinni myndlíkingu, og að hún sé lítil eða stór  miðað við aðrar, að hún sé staðsett á þessum eða hinum staðnum og á þessum eða öðrum tíma, að hún hreyfist eða er kyrrstæð, að hún snertir eða snertir ekki annan líkama, að hún er ein, fáeinar eða margar, ekkert ímyndunarafl getur leyft mér að losa myndina þá frá þessum skilyrðum. En að þessi líkami skuli vera hvítur eða rauður, beiskur eða sætur, hávaðasamur eða þögull, ilmsætur eða með óþef, að þessu leyti finn ég enga kvöð hjá mér til að meðtaka hann á þessum óhjákvæmilegu forsendum. Þvert á móti, ef skynfærin hefðu ekki skynjað, þá hefði kannski orðræðan og ímyndunaraflið fyrir sjálfu sér aldrei verið. Hvað varðar hugsun mína um þessi brögð, lyktir, liti o.s.frv. ]frá sjónarhóli skynjandans eins og hann skynjar, þá séu þau ekki annað en innantóm nöfn, en eigi sér eingöngu stað í hinum skynjandi líkama, ef ég hins vegar fjarlægi dýrið, þá væru þessi gæði jafnframt fjarlægð og eyðilögð […][iv]

Sú „brottvísun“  sem Galileo talar hér um á sér augljósa „gnoseologíska“ (þekkingarfræðilega) skýringu; hún setur fram aðferðarfræðilega reglu nútíma vísinda og sjálfan grundvöll „tæknivæðingar“ (tecnicità) þeirra. En þessi yfirlýsing Galileo fær annað yfirbragð ef við tengjum hana -vissulega í algjöru sjálfdæmi – við þá slóð, sem við höfum hingað til fylgt, á slóðir tækninnar.

Ef við notfærum okkur myndlíkingu Galileo, þá gætum við dregið þá ályktun, að það að „fjarlægja dýrið“ tákni aftengingu heims goðsögunnar og hins heilaga, dýranna og Guðanna sem tilheyra honum, svo ekki sé minnst á þau grundvallar tengsl sem maðurinn hafði við hvorutveggja í skiptum fyrir eigin „staðsetningu“. Með því að fjarlægja hinn goðsögulega heim hverfa einnig þær tæknilegu „ímyndir“ sem maðurinn var holdgerving fyrir í þessum goðsagnaheimi.

Hjá hinum forsögulega eldsmið, svo dæmi sé tekið, voru eldurinn, áhöldin, málmurinn, klæðnaðurinn, verklagsreglurnar og trúarreglurnar jafnt sem efnahagsleg og þjóðfélagsleg staða smiðsins, ekki aðskilin eða aðgreinanleg frá hinni goðsögulegu-kosmísku stöðu listar hans eða techne. Sama á við um veiðimanninn og bogann, örvarnar, dýrin og tilheyrandi guðaverur sem sýndu íveru sína í þessum hlutum sem lifandi vitnisburð hinnar almennu reglu. Það er einmitt hin „merkingarfræðilega“ staða mannsins sem leiðir í ljós þessa einkennandi íveru þeirra þátta sem greina hinn goðsögulega mann frá nútímamanninum. Eins og Jean-Joseph Goux hefur bent á, þá er hið forna merki margvísandi og hefur að geyma (eins og við myndum segja) myndrænar ummyndanir (metaforico e metonimico). Hið forna merki á sér líkamlega aðild að heiminum, það er efnislegur hluti hans eins og það er hluti mannsins, sem sjálfur er ekki annað en sambræðsla kosmískra merkja.

Hið nútímalega merki verður hins vegar í æ ríkari mæli hreint meðal eða tæki, sértækt og gagnsætt. Staða þess verður formleg og hefðbundin og umfram allt magnræð (miðað við gæðalega efniseigind hins forna merkis). Hægt væri að fylgja slíkri þróun eftir frá hinu gríska logos fram til málvísinda Saussure og þeirrar formfestu sem finna má í tungumáli hins stafræna og stýrifræðanna. Ef við göngum í anda Galileo út frá forskrift hins stærðfræðilega merkjamáls, þá leysist merkið upp fyrir okkur í hreint flæði „upplýsingamengja“ (quanti di informazione)[v]. Við verðum að hugsa alla þessa vegferð sem innifalda nærveru þess sem við höfum skilgreint sem „brottvikningu dýrsins“ samkvæmt Galileo: brottkast hinna goðsögulegu gæða (sem hjá Galileo urðu einungis „ruglaðar“ og „ónákvæmar“ upplýsingar hinna „dýrslegu“ skynfæra.) Þar er meðtalin afhelgun náttúrunnar. Við það bætist eðlilega sú enn lengri vegferð, sem hefur valdið dauða Guðanna („Hinn mikli Pan er dáinn!“[vi]) og í kjölfarið fæðingu hinnar grísku rökhugsunar (ratio) sem fékk sína endurnýtingu í gegnum hinn kristna skilning á heiminum, manninum og guðdómnum.

Allt þetta var löngu orðið á tíma Galilei, þegar hann boðaði þessi mjög svo nútímalegu tímahvörf, sem fólust í vísindalegri og tæknilegri fræðikenningu um algilda mótsetningu á milli mannsins og heimsins. Heimurinn varð að hreinu efnislegu viðfangi, realitas objectiva (hlutlægur veruleiki) og maðurinn varð hið hreina andlega frumlag (mens sive anima sive spiritus). Á sviði heimsins finnum við nú „líkamana“ (i corpi), þar með taldar þær vélar eða „vélmenni“ (automi), sem eru dýrin og sjálfur líkami mannsins. Andspænis heiminum finnum við hins vegar cogitationes (hugrenningar) með sínum meðvitaða ásetningi.

Klofningur veruleikans og ógnarstjórn Hegels

Þessar aðstæður, sem leggja grunninn að fæðingu nútíma tækni, fá sína dýpstu hugtakslegu framsetningu í riti Hegels, Fyrirbærafræði andans. Í krafti rökhugsunar Galileo, það er að segja hinnar nútímalegu rökhugsunar, klofnar raunveruleikinn í tvöfaldan kjarna og þessa gagnstæðu „massa“ hinnar „hreinu hugsunar“ og hins „hreina efnis“. Hegel segir okkur að með sértekningu frá þessum „afmörkuðu veruháttum“ sem eru „verðandi hins séða, hins smakkaða o.s.frv., sitji eftir hið hreina efni eins og hinn heyrnarlausi vefnaður og hreyfing í sjálfri sér“: „hið hreina efni er það sem eftir stendur þegar við framkvæmum sértekningu  frá sjóninni, heyrninni, bragðskyninu o.s.frv.“ Hið „algilda efni“ gerir sig þannig sem „hið hreina í sjálfu sér, sem er hvorki hlustað né lagt undir bragðskynið.“ En það gerir sig þannig fyrir hina hreinu hugsun sértekningarinnar (pensiero astraente) (við gætum sagt fyrir hina vísindalegu-tæknilegu hugsun): með þessum hætti mætast kjarnarnir tveir „í hugsun hinnar cartesísku frumspeki, þar sem veran og hugsunin eru í sjálfum sér sami hluturinn […] hugsunin er hlutareðli eða hlutareðlið er hugsun“  (il pensare é cosalità, o cosalità é il pensare).

En hvernig mætast þessi tvennu „hlutareðli“ hinna sértæku andstæðna? Eins og við munum, þá segir Hegel: í hugtaki hins „nýtanlega“. Nýtanleikinn er kjarni þess heims sem hefur verið smættaður niður í hlut handa hugsun, sem sjálf hefur verið smættuð niður í hlut (res extensa – res cogitans). Hið nýtanlega hefur að sínu leyti þann kost að „vera fyrir annan“, og felur þannig nákvæmlega í sér eðli áhaldsins eða meðalsins. Með nytsemdinni ná „báðir heimarnir [hins hreina efnis og hinnar hreinu hugsunar] fullum sáttum, himininn hefur stigið niður á jörðina og fest þar rætur“. Atlas hefur fengið brottvísunina.

Með þessum frægu útskýringum Hegels höfum við þegar fengið í hendurnar lýsingu á hinum sérstæða kjarna nútíma tækni. En við munum að næsta skrefið sem Hegel tók, strax á eftir, er það sem leiðir okkur beint inn í fæðingu heims „ógnarstjórnarinnar“ (terrore). Hann ákvarðast af því þegar hið „altæka frelsi“ er leyst úr hlekkjum sínum – í nafni nytsemdarinnar og sem „frelsi viljans“: „hið altæka frelsi upphefst til hásætis heimsins án þess að nokkurt vald geti veitt því mótspyrnu.[vii] (Heimur „ógnarstjórnarinnar“ birtist sem kunnugt er í endursögn Hegels á frönsku stjórnarbyltingunni í Fyrirbærafræði andans).

Ógnarstjórn í kjölfar frönsku stjórnarbyltingarinnar 1793.

Út frá því sem þegar hefur verið sagt getum við lagt fram niðurstöður með eftirfarandi hætti. Forsendur nútíma tækni eru: 1) viljinn til þekkingar stofnsettur af frumspekilegri rökhugsun (ratio).(viljinn til sannleika, sagði Nietzsche, sem er dulargríma viljans til valds).  2) Sá kristni skilningur sem gerir heiminn að „táradal“ og náttúruna að handverki Guðs: saman færa þessar forsendur manninum sögulegt-guðfræðilegt markmið: „konungsríki himnanna“, sem síðan hefur verið dregið niður á jörðina undir hugtakið „framfarir“.

Fyrir nútímamanninn eru heimurinn og náttúran eins og hreinn staður (luogo) og hreint meðal (mezzo). Staður samkvæmt skilningi Newtons, „einföld staðsetning efnishluta í tómu rými“ (eins og Whitehead komst að orði). „Meðal“ sem þýðing í anda tæknilegrar nytjastefnu á áðurnefndri hreinni efnislegri „staðsetningu“.

Á þessum stað og með þessu meðali öðlast viljinn altækt frelsi. Það er að segja frelsi undan „dýrinu“. Með öðrum orðum, þá gerist það í tækniheimi nútímans og fyrir tilstilli hinnar frumspekilegu-vísindalegu-trúarlegu undirstöðu hans, að maðurinn leitar ekki lengur að merkingu holskurðarins, ofbeldisins, villunnar (vulnus) og sektarinnar gagnvart náttúrunni. Þar sem Guðirnir eru dánir og hin heilaga merking náttúrunnar er horfin, verður heimurinn að hlutlausu átakasvæði boðbera viljans til átaka. Þessir árekstrar fá einnig nafngiftir á borð við „að raungera viljann“, eða díalektíska þróun „Égsins“.

Þegar jörðin hefur fengið stöðulækkun niður í „hlut“ og „stað“ (meðal), stendur viljinn ekki frammi fyrir öðru en sjálfum sér, og þar sem hann horfist í augu við sjálfan sig, skapar hann vettvang fyrir átök hinna ólíku vilja. Þessi átök líta á jörðina sem efirsóknarvert viðfang. Rökrétt nýting heimsins felur í sér baráttu um yfirráð yfir „náttúrlegum orkulindum“ (Heidegger myndi segja að náttúran væri smækkuð niður í „orkuforðabúr“). Hin rökrétta nýting (sfruttamento razionale) felur jafnframt í sér stofnsetningu og aðferðarfræði skipulegrar yfirdrottnunar, eins og bæði Bacon og Descartes höfðu séð fyrir (hið nútímalega ríkisvald).

Að lokum þetta: í stað hins forna ofbeldis, sem skilur manninn frá náttúrunni og leiðir hann á ný til hennar í gegnum fórnarathöfnina og hið helga sakramenti (comunione) með dýrinu[viii], stöndum við nú frammi fyrir ógnarstjórninni (il terrore), það er að segja þeim heimi sem er knúinn áfram af viljanum til átaka.

Þessi sama barátta (lotta) felur í sér uppbyggingu víðtæks stofnanasambands, sem einkennist af sérstæðri pólitískri og menningarlegri ógnarstjórn. Markmið þessara stofnana (sem virðist taka á sig æ skýrari mynd) er einokun á náttúrlegum orkulindum og drottnun yfir allri plánetunni. En þar sem þetta stofnanasamband er í sjálfu sér afurð tæknivélar samtímans, þá verður hinsta og djúptækasta hlutverk þessara afla að framleiða „viljana“ („sálirnar“) í gegnum kerfisbundna virkjun upplýsingatækni og almenningsvitundar (nokkuð sem kalla mætti, allt frá frönsku stjórnarbyltingunni, „mótun almenningálitsins“.) Mótun almenningsviljans (le voluntà í flt.) og stýring hans er þannig hinsta markmið og merking (senso) tæknivélar samtímans  (framleiðsla mannsins), en í því birtist um leið síðasta umbreyting merkingarfræðilegrar stöðu hins mannlega.[ix]

Hryðjuverkið sem óskilgetin afurð stofanavaldsins

Andspænis hinu samþætta stofnanavaldi finnum við þann vilja sem snýst gegn stofnanavaldinu („byltingarsinnana“), en virkjar með sínum hætti iðkun tæknilegrar og opinberrar ógnarstjórnar (terrore). Þessi „vilji“ [„viljar“ í flt. Hjá Sini] er einnig með sínum hætti afurð tæknivélar samtímans og þeirrar nytjahyggju dreifðra brota hins frjálsa vilja á ólíkum vígstöðum. Það kemur heldur ekki á óvart, að þegar það gerist að þessir  viljahópar komast til valda, þá skuli þeir endurgera þá stofnanavæddu ógnarstjórn sem er frumorsök núverandi vansældar okkar eða vanmáttartilfinningar andspænis þessu sögulega tímaskeiði, sem við erum nú að upplifa. Það sýnir sig að vera merkt sameiginlegum örlögum, sem nálgast það æ meir að verða hnattræn. Það er engin tilviljun, að þessi þróun skuli eiga sér stað samfara útbreiðslu tækninnar, upplýsingaiðnaðarins og stóriðjusamfélagsins.

Við skulum nú reyna að skýra það sem hér hefur verið sagt í samþjöppuðu máli með nánari greiningu á hugtakinu nútímatækni og tengslum þess við það sérstaka ofbeldi sem við köllum ógnarstjórn eða terrorisma.

Nútímatæknin hefur fyrst og fremst til að bera þrenn einkenni, sem mætti skilgreina á eftirfarandi hátt: það er skilvirkni hennar, hlutlægni hennar og hið opinbera einkenni hennar.  Við skulum líta á hvert einkenni fyrir sig.

Skilvirkni nútímatækninnar.

Hin praktíska skilvirkni er ekki augljóst séreinkenni nútímatækninnar, hún nær einnig til hinnar fornu tækni, hún er öllu heldur einkenni allrar tækni. En það sérstaka við nútímatæknina er umfang og aðferð hinnar praktísku skilvirkni. Það á sér fyrst og fremst eina skýringu: nútímatæknin er „hlutlaus“ í þeim skilningi að hún er „sitt eigið markmið“ (fine a se stessa).

Hin forna tækni er ekki bundin hinu vélræna gangverki (meccanico-strumentale), hún starfar innan sjóndeildarhrings og viðmiðs sem eru af kosmískum og heilögum toga, þar sem ekki er um neina „hlutlausa“ þætti að ræða, er hafi enga merkingu í sjálfri sér. Heimurinn, merki hans og hinir ólíku þættir hans, hafa öll til að bera ákveðna merkingu. Sérhver mannleg athöfn hefur mótaða merkingu af þessum heildræna sjóndeildarhring, nokkuð sem gerir að verkum að hrein „huglæg“ (soggettivo) afstaða gagnvart heiminum og hlutunum verður bæði óhugsandi og óskiljanleg. Þannig verður sérhver hrein „kenning“ (pura „teoria“) er þjóni eigin markmiði óhugsandi, og sama gildir um hreint „áhorf“ (stare a vedere) í anda Aristótelesar eða Husserls , eða hina hreinu tæknilegu-þekkingarlegu „reynslu“ (puro prassi) í anda Galilei.

Með brottvísun dýrsins, það er að segja brottvísun heilagleika náttúrunnar og mannsins, sýnir nútímatæknin hins vegar að hún beinist að vel skilgreindum praxís, sem á sér einungis eitt markmið er felst í sjálfri útkomunni (en þetta merkir að tæknin setur sjálfa sig sem sitt æðsta markmið, sinn eigin skilning á heiminum). Með því að ryðja öllum öðrum markmiðum úr vegi hefur nútímatæknin einbeitt sér að náttúru sem er smættuð í hluti  (oggetti) (með virkjun hinnar smættandi hlutlægni), en sú einbeiting beinist síðan að brotum þessara hluta og aftur að brotabrotum þeirra. Hún kallar á „nytsamar“ upplýsingar til skilnings á hinni hreinu vélrænu virkni fyrirbæranna, það sem kallast schematismus latens (eða undirliggjandi bygging). Í þessum tilgangi leggur tæknin „grundvallar spurningar“ fyrir náttúruna, þar sem hún stillir henni upp með rannsóknartækjum sínum í þeim tilgangi, eins og Galileo kemst að orði, að þvinga hana til að gefa „nákvæm“ svör.

Skilvirkni nútímatækninnar byggir þannig á eftirtöldum atriðum:

  • Stigvaxandi smættun heimsins, allt frá dýrunum til sjálfs mannslíkamans og hluta sem eru í sjálfum sér án merkingar, allt til samsettra og sundurgreinanlegra véla með tilliti til magns og hreyfanleika. Þetta merkir: allur heimurinn er eitt yfirgengilegt tæki, rétt eins og mannslíkaminn er tæki hugans.
  • Merkingarfræðileg aftenging (neutralizzazione) merkisins, sem þannig er smættað niður í hreinan miðil, hreint verkfæri sem setur heiminn í samband við sálina með viljafastri virkni sinni.
  • Brottvísun, gerð möguleg í krafti ofantalins og í krafti viljans andspænis heiminum og „merkingarlausum“ hlutum hans. Um er að ræða brottvísun alls tilgangs er ekki samræmist hinni hreinu virkni tækjanna og áhrifum þeirra. Með því að einbeita sér að þessum áhrifum gerir maðurinn innrás í náttúruna, sem hefur verið afhelguð í forvarnarskyni. Gagnvart slíkum holskurði finnur maðurinn ekki til minnstu sektarkenndar. Gjörvallur alheimurinn er „mold og grjót“. Dýrin eru vélmenni. Tæknibúnaðurinn, sem hefur verið einangraður sem hreint meðal í hlutleysi sínu, er frjáls til að vinna á forsendum virkni sem er sitt eigið markmið.

Hið „opinbera“ eðli nútímatækninnar.

 Afhelgun merkisins – og smættun þess niður í hreint meðal til hefðbundinna afnota og  til upplýsinga- og fjölmiðlunar – stjórnar nú nútímalegu eðli menningarinnar og þekkingarinnar sem menning og þekking á tímaskeiði tækninnar. Þekkingin verður „opinber“, „mælanleg“, „miðlunarhæf“, eins og Descartes komst að orði: móttækileg sérhverri meðalgreind. Það eina sem til þarf er að hinni „almennu skynsemi“ sé stýrt samkvæmt ströngustu aðferðarfræði. Þannig fæðist tækni aðferðafræðinnar. Hin tæknilega-vísindalega þekking er „opinber“, bæði vegna þess að hún getur hentað öllum, en einnig vegna þess að fræðilega séð getur hver og einn leitað staðfestingar á niðurstöðum hennar. Þær má einnig skera niður í úrklippur, túlka þær og kenna. „Kenna öllum allt“ sagði Comenius, og opnaði þannig leið kennslufræðanna inn á tímaskeiði tækninnar.

Hin opinbera þekking er sögulega samþjöppuð í menningu upplýsingatækninnar. Hið æðsta yfirvald upplýsinga tekur jafnt yfir náttúru (smækkuð í upplýsingamengi, það er að segja megindleg skilaboð (mælanleg) – og menningu á vettvangi stofnana, sem hafa með miðlun þekkingar og pólitískt uppeldi „almenningsálitsins“ að gera.

Auglýsingamiðlun rökvísinnar (ragione) felur þannig í sér hinstu ummyndun hins frumspekilega hugtaks sannleikans. Sannleikurinn er ekki lengur adaequatio intellectus et rei, (samsemd skilnings og hlutar) heldur notitiae et rei. Þar sem nototia jafngildir rumor (hávaði): serpit hic rumor, „þessi frétt nær útbreiðslu“, sagði Cicero.

Einkenni hlutlægninnar í nútímatækninni.

Hin tæknilegu (strumentale) hlutlægniseinkenni samtímatækninnar fela í sér að niðurstöður hennar öðlast yfirbragð hlutlægni. „Brottvísun dýrsins“ opnar fyrir leiðina að hlutlægum skilningi á heiminum. Hin tæknifræðilega iðja felst fyrst og fremst í  aðferðarfræði smækkunar veruleikans í „hlut“. Nútímatæknin fyrirskipar þannig verklag sem afneitar og fjarlægir alla aðra merkingu mannlegrar tæknivirkni. Þessi verklagsregla er síðan yfirfærð á hugmyndafræði hinnar vísindalegu hlutlægni. Hin hagnýta smættun náttúrunnar niður í hluti verður að „hlutlægni“ vísindalegrar þekkingar. Það sem er kallað realitas objectiva (hlutlægur veruleiki) verður veritas objectiva et unica (hinn eini hlutlægi sannleikur).

Túlkun tækni-vísindanna á alheiminum gefur sig þannig út fyrir að vera opinberun á hinum algildu og hlutlægu eiginleikum veruleikans „í sjálfum sér“. Það sem vísindin „gera“ með heiminn verður það sem heimurinn „er“ í sjálfum sér. Sú forgangsbrottvísun á öllum þeim eðliseinkennum, er sýna sig að vera hvorki mælanleg né meðfærileg sem meðal eða viðfang, fær þannig á sig hugmyndafræðilegt dulargervi, sem birtist í þeirri sannfærandi fullyrðingu, að hinn „eini og sanni“ veruleiki sé sá heimur sem markast af þeim hreina stærðfræðilega-efnislega mælanleika sem vísindin búa til.

Nútímavísindin gefa út yfirlýsingu: það er enginn annar sannleikur til nema minn. Þessi sannleikur byggir ekki á inntaki sínu (sem er sögulega breytilegt), heldur á aðferðinni. Þar höfum við enn og aftur óhjákvæmilega hlutlægni hinnar „opinberu“ upplýsingaveitu:  þú munt ekki hafa aðra aðferð en mína.

Með því að sýna þessi þrjú megineinkenni hinnar tæknilegu vísindabyltingar samtímans höfum við komist að niðurstöðu þessarar vegferðar okkar.

Þetta fóstbræðralag tækni og ofbeldis (tækni-ógnarstjórn) blasir við augum okkar í sínum grundvallaratriðum. Fyrsta atriðið varðar einmitt þema hlutlægninnar sem við ræddum síðast. Þegar hin vísindalegi-tæknilegi skilningur á heiminum kynnir sig sem veritas objectiva afskrifar hann allan annan skilning sem fals, blekkingu, frumstæða fordóma og rökleysu. Þessi kreddufesta í anda ógnarstjórnarinnar, sem einkennir menningu nútíma tæknivísinda, er auðvitað einungis teoretískur. Í samræmi við þá aðferðarfræðilegu hugljómun (ispirazione „strtturale“) sem liggur henni til grundvallar hefur tæknimenningin innleitt þá heildarumbreytingu á plánetunni jörð sem nú blasir við allra augum. Um þessi framkvæmdaáform ríkir reyndar „opinbert“ samkomulag. En það er einmitt þetta meinta „samkomulag“ sem afhjúpar eðli ógnarstjórnarinnar

Feyerabend um aðskilnað kirkju og trúfélaga

Feyerabend hefur sagt að „aðskilnaður Ríkis og Kirkju“ skuli fela í sér aðskilnað ríkis og vísinda, sem eru nýjasta, kreddufastasta og ofstopafyllsta trúarstofnunin. Slíkur aðskilnaður gæti orðið eini möguleiki okkar til að framfylgja þeirri mennsku sem við eigum til, en við höfum ekki enn náð að fullnusta.[x]

Með öðrum orðum, þá hefur hin vísindalega hugmyndafræði einkennt svokallaða ógnarstjórn stofnananna. Hið „opinbera“ samkomulag varðandi tæknilega skipulagningu lífsins, er ávöxtur tæknilegrar tilskipunar (imposizione) sem staðfestir og breiðir út altækt eðli hins vísindalega sannleika.

En Feyerabend segir um þetta, að vísindin séu „eitt af mörgum formum hugsunar sem maðurinn hafi þróað með sér, og ekki endilega það besta. Þau eru fyrirferðarmikil (vistosa), hávaðasöm, ófyrirleitin, en í eðli sínu framúrskarandi aðeins að mati þeirra sem hafa þegar tileinkað sér tiltekna hugmyndafræði eða veitt henni samþykki sitt, án þess að hafa nokkurn tímann rannsakað kosti hennar og takmarkanir“.

Við skulum fylgja Feyerabend í nokkrum dæmigerðum röksemdafærslum hans:

„Framganga vísindanna gerist með valdbeitingu (forza), en ekki með röksemdafærslu (þetta á einkum við um fyrrverandi nýlendur þar sem vísindin og trúarbrögð bræðra-ástarinnar (amore fraterno) voru borin fram sem augljósir kostir, án nokkurs samráðs við íbúana, hvað þá með umræðu). Nú er okkur orðið ljóst að skynsemishyggjan (razionalismo), sem tengist vísindunum, veitir okkur enga hjálp við úrlausn vandamála er varða samband vísinda og goðsagna. Við vitum einnig út frá könnunum af öðrum toga, að goðsögurnar eru mun farsælli en boðberar skynsemishyggjunnar hafa viljað viðurkenna. […].

Tilkoma nútíma vísinda gerist samfara innrásum og undirokun Vesturlandabúa á kynþáttum sem ekki tilheyra Vesturlöndum. Kynþættirnir sæta ekki bara líkamlegri undirokun, heldur glata þeir líka vitsmunalegu sjálfstæði sínu og eru þvingaðir til að tileinka sér trúarbrögð sem eru  dauðþyrst í blóð bræðraástarinnar: kristindóminn. („la religione assetata di sangue dell‘amor fraterno: il cristianesimo“). Gáfuðustu íbúarnir hljóta umframviðurkenningu: þeir fá innvígslu í launhelgar hinnar vesturlensku skynsemishyggju og hátind hennar: vísindi Vesturlanda. […]

Á okkar tímum hefur smám saman verið undið ofan af þessari þróun. Reyndar með miklum semingi, en engu að síður með viðsnúningi. […] En vísindin halda enn yfirdrottnun sinni. Þau viðhalda drottnunarvaldi sínu vegna þess að þeir sem iðka þau eru ófærir um að skilja , og ekki reiðubúnir að játast, annars konar hugmyndafræði. Ástæðan er sú að þeir hafa valdið til að framfylgja eigin löngunum, og vegna þess að þeir nota þetta vald nákvæmlega eins og forverar þeirra notuðu sitt vald til að þvinga kristindóminn upp á þær þjóðir sem urðu á vegi þeirra í landvinningastríðunum. […]

Þrátt fyrir þetta hafa vísindin engan stærri forræðisrétt (autorità) en önnur lífsform, af hvaða tagi sem þau kunna að vera. Markmið vísindanna eru vissulega ekki mikilsverðari en þau markmið sem leiða lífsmátann í tilteknu trúarsamfélagi eða hjá þjóðflokki sem er sameinaður á forsendum tiltekinnar goðsögu. […] [Einungis] aðskilnaðurinn á milli vísinda og ríkis getur skapað okkur möguleika á að yfirstíga þá æðisgengnu villimennsku sem einkennir hinn vísindalega-tæknilega samtíma okkar.“[xi]

Algildingin á hlutlægni hins vísindalega sannleika (þessi tegund séstakrar hjátrúar, eins og Feyerabend kemst að orði) framkallar eðliseinkenni hreinnar blindu andspænis staðsetningu okkar innan sjóndeildarhrings heimsvaldastefnu tækninnar. Atburður tækninnar afvegaleiðir okkur og villir okkur sýn. Stefna og tilgangur (il senso) þessarar vegferðar eru okkur hulin, og sjálf er hún okkur að mestu hulin, því við erum heltekin af hreyfingu þessa atburðar. Þessar aðstæður má skýra í stuttu máli með tveim dæmum.

Fyrra dæmið varðar mannfræðilega-tæknilega (antropologico-strutturale) túlkun okkar á tækninni, sem er fyrir okkur nánast sjálfgefin, eða vandalaus (a-problematica). Það er í okkar augum friðsamlegt að tækniheimurinn feli í sér tækjabúnað (strumenti) sem er í sjálfu sér hlutlaus, tækjabúnað smíðaðan af manninum og falinn honum til afnota samkvæmt hans góða eða illa vilja. Okkur nægir að staðfesta notkun hugtaka á borð við „tækjabúnaður“, „hlutleysi“, „vilji“ til að átta okkur á takmörk slíks hugsunarháttar, það er að segja hvernig hann er sprottinn úr þeirri nútímalegu  tæknihyggju sem hann vill leggja mat á. En frá árinu 1953 hefur Martin Heidegger sýnt glögglega fram á í ritgerð sinni um tæknina, hversu einfeldnislegur slíkur hugsunarmáti er, yfirborðslegur og í grunninn villuleiðandi. Án þess að rekja hér röksemdafærslu Heideggers nægir að benda á tvö atriði.

Í fyrsta lagi er það sú blekking, að tæknin sé einungis einfalt verkfæri sem mannlegur vilji hafi til ráðstöfunar. Sameiginleg reynsla okkar horfist daglega í augu við þessa þversögn, sem er ekki síst í mótsögn við anda hinna tæknilegu áforma, sem í kjölfar árásar sinnar á náttúruna snýr sér nú á síðustu tímum með samsvarandi hætti að „sálunum“, bæði í gegnum hina úthugsuðu ógnarstjórn upplýsingaflæðisins og í gegnum svokölluð húmanísk vísindi. Hið tæknilega verklag drottnar yfir vitund okkar og breiðir nú hina algildu markleysu (það sem Nietzsche kallaði tómhyggju) út yfir heim náttúrunnar jafnt og heim svokallaðra „andlegra gilda“.

Í öðru lagi felur hin mannfræðilega / tæknilega túlkun á tækninni í sér bæði hrokafulla og kreddufulla afneitun alls annars skilnings á techne. Hún horfir algjörlega fram hjá því að möguleg tilvist hennar byggir á þeirri aðgreiningu sem hin frumspekilega rökhyggja (ratio) gerir á frumlagi og andlagi, sjálfinu og heiminum.  Eins og við höfum bent á, þá er slík túlkun tæknileg útskýring á tækninni, nokkuð sem er afleiða virkni nútímatækninnar, fædd af henni og einmitt þess vegna ófær um að skilja hana. Það er því engin furða að verkfærið, sem telst viljalaust í sjálfu sér, geri uppreisn ef svo mætti segja, eða losi sig frá manninum, og eftir að hafa gælt við „viljann til valds“ færi það honum álíka  sértækar (astratte) fordæmingar og formælingar, sem fela bæði í sér barnalega hugaróra og fordæmingu tækninnar sem djöfullegrar uppfinningar og tortímandi vítisvélar.

Að slökkva á töfraljóma heimsins samkvæmt Max Weber

Seinna dæmið varðar þá túlkun sem skiptir tilveru mannsins í tvenn tímaskeið: hið fyrra er tímaskeið goðsagnanna og trúarbragðanna, tímaskeið sem einkennist af samkomulagi á milli hins huglæga og hins hlutlæga heims, á milli mannlegra langana og vilja annars vegar, og kosmískra viðburða hins vegar. Seinna tímaskeiðið einkennist hins vegar af því sem Max Weber kallaði Die Entzauberung der Welt – þar sem slökkt er á töfraljóma heimsins. Ekki er lengur um goðsögulegar blekkingar að ræða, aðskilnaður verður á milli verunnar og gildanna, veruleikinn sem nú er skilgreindur af vísindunum út frá hlutlægum skilmálum virðist sinnulaus um langanir og markmið mannsins. Með staðfestingu á „dauða Guðs“ opnast fyrir manninum kosmískt merkingarleysi alheimsins sem umlykur hann, þannig að hans bíður ekki annað en að tengjast hinni tæknilegu virkni æ fastari böndum, iðkandi vísindalegat „raunsæi“ og stóískt hugrekki í því skyni að halda áfram áformunum yfirdrottnun hinnar blindu náttúru, þar sem stýring hennar að framtíðarmarkmiði virðist æ ótryggari, því að lifa af.

Einkenni þessa skilnings, rétt eins og hin mannfræðilega/tæknilega túlkun á tækninni, er sú staðreynd að hann er fullkomlega afkróaður í heimi tæknivísindanna og goðsögum hans um hlutlægnina. Þannig er þessi skilningur áfram haldinn blindu gagnvart þeim jarðvegi sem hann er sprottinn af. Hann felur í raun í sér smækkun heimsins og mannsins niður í algjöra markleysu undir merki örlagabundinnar tómhyggju reynslunnar af nútímatækninni sem veritas obiectiva et unica (einn og hlutlægur sannleikur). Sannfæringin að hafa komist til botns í skilningnum á hlutunum í eitt skipti fyrir öll stærir sig nú af réttinum til að mæla sig við fortíð sem hann ekki skilur, og geta dæmt hana án áfrýjunarréttar eins og upphafin á hátind píramíða veraldarsögunnar (eins og Nietzsche komst að orði um söguhyggjuna). Með hroka valdsins, en án nokkurra gildra röksemda, veður þessi skilningur áfram í fordæmingu á blekkingum annarra, án þess að gera sér grein fyrir sínum eigin, í blygðunarlausri vissu um að sannleikur heimsins muni verða sagður komandi árþúsundum sem „álfasögur“ eins og Whitehead komst að orði um nútíma eðlisfræði og hinar „hlutlægu“ endursagnir söguhyggjunnar.

Þessi skilningur sýnir sama hrokann í þeim barnalega misskilningi að líta á heim goðsagnanna sem „huglægan“ andstætt meintri „hlutlægni“ hins vísindasinnaða manns, hafandi þannig horft framhjá því að frumlag og andlag (soggetto e oggetto) eru einmitt hugtökin sem liggja til grundvallar rökvísi (ratio) frumspekinnar og hinnar fræðilegu-praktísku heildaráætlunar nútíma tækni og vísinda. Slíkur skilningur gerir sér heldur ekki grein fyrir að hlutlægnihugsun vísindanna er einmitt hliðstæða hinnar öfgafyllstu hughyggju (soggettivismo) samkvæmt aðkallandi greinargerð sem sett var fram með óyggjandi táknrænum, virkum og lýsandi hætti hjá Descartes. Það er einmitt smækkun heimsins niður í hlut / viðfang sem felur í sér fullkomna „mannlægni“ (umanizzazione) tilvistarinnar, það er að segja smækkun sérhvers veruleika niður í vilja hins tæknivædda manns, tilgang hans og markmið. Einmitt þannig hefur hin öfgafyllsta mannhyggja (antropomorfismo) fest rætur í hjarta nútímatækninnar um leið og hún sækir nú á náttúruna frá öllum hliðum til þess að afskrifa hana niður í orku sem er nýtanleg, meðfærileg, stýrileg eins og útreiknanlegur sjóður og höfuðstóll.

Þessar síðustu ábendingar ættu að hafa skýrt með fullnægjandi hætti þau tengsl sem djúpt undir niðri tengja tæknina við svonefnda ógnarstjórn stofnananna (terrorismo istituzionale). Nútímatæknin er í kjarna sínum ógnarstjórn vegna þess að hún dulbýr hlutlægniáráttu sína sem hinn eina sanna og „hlutlæga“ skilning á heiminum. Þannig er nútímaútgáfan á hinum einu sönnu trúarbrögðum sem vanvirða og fyrirlíta bæði fræðilega og í verki sérhverja aðra mannlega starfshætti og lífshætti sem finna má í heiminum. Hin árangursdrifna iðkun nútímatækninnar er að ófyrirsynju túlkuð sem altækt gildisviðmið. Hins vegar er hagkvæmni hennar stórlega ýkt og að stórum hluta fyrirskipuð í gegnum yfirdrottnandi ógnarstjórn upplýsingatækninnar og skipulagða mótun „almenningsálitsins“. Það sem er í rauninni vélbúnaður til útbreiðslu og vaxtar hinnar tæknilegu áætlunargerðar er dulbúið sem óhjákvæmileg nauðsyn sem er bæði hlutlæg og óafturkræf. Við höfum enga gilda röksemd eða sönnun er geti tryggt okkur fyrir því að sá heimur, sem vísindin hafa lýst og hefur verið virkjaður af tækninni, sé hinn eini „sanni“, né heldur höfum við sönnun fyrir því að hann sé fullkomlega og ófrávíkjanlega „sannari“ en aðrir heimar mannlegrar reynslu. En þessi staðreynd er falin undir dulargervi hugmyndafræðilegrar ógnarstjórnar formyrkvaðrar andrökhyggju, sem ver sig einmitt með því að setja and-rökhyggjustimpilinn og formyrkvunina á mögulega andstæðinga sína, og umfram allt með því að útiloka þá frá framvindu hins „opinbera“ sannleika.

Um nýja hugsun handan frumspekinnar

En hvað getum við þá sagt um þá ógnarstjórn okkar samtíma sem kannski er mest dæmigerð og við getum skilgreint sem and-stofnanalega hryðjuverkastarfsemi? Þetta fyrirbæri er ekki síður en hið áðurnefnda nátengt kjarna og örlögum nútímatækninnar hvað varðar almenna og dæmigerða starfshætti, sem einkennast einmitt af þeim tveim þáttum sem  einkenna tæknibyltingu samtímans: það eru verklagseinkennin (carattere strumentale) og hvernig þau eru háð opinberu upplýsingaflæði. Hryðjuverkagjörningurinn sýnir sig fyrst og fremst sem hreint „meðal“ (mezzo), sem í sjálfu sér er „saklaust“, handan góðs og ills. Hann er meðal sem hinn huglægi vilji nýtir sér til að framkalla „góð“ markmið. Viljinn til hryðjuverksins telur sig í raun frjálsan af því að nota „verkfærið“ til þess svo að kasta því frá sér þegar hinu endanlega heimslokamarkmiði (fine escatologico) er náð. Þessi vilji er sér ómeðvitaður um að vera í raun afurð hins „borgaralega“ og tæknimótaða hugsunarháttar og vera þræll hans.

Í öðru lagi er hryðjuverkagjörningurinn fyrst og fremst hávaði (rumor), það er að segja fréttaefni (notitia). Hann er hávaðaverk til að skapa fréttaflutning, í þeim tilgangi að stimpla sig inn sem „opinber“ atburður er hræri við hjörtunum og leiði þau að markmiðum sínum. Þetta eru þættirnir sem gefa hryðjuverkagjörningnum merkingu. Merkingu sem í innsta kjarna sínum er tæknilegs eðlis.

Hryðjuverkagjörningurinn er svo langt frá því að vera valkostur við kerfið því hann er annað andlit þess. Hann stýrist af djúpri nauðsyn, sem verður ekki smættuð niður í sálfræðilegar eða félagsfræðilegar forsendur tilkomnar af huglægri örvæntingu eða hreinni fjárhagslegri eða efnislegri vansæld. Þessar sjúkdómsgreiningar eru hins vegar ráðandi  í skilningi hinnar vísindalegu tæknihyggju á tilverunni og ná ekki utan um rætur fyrirbærisins.

Til að skilja rætur, merkingu og örlög samtímatækninnar, þær djúpu umbreytingar sem hún hefur leitt af sér og verða sífellt ágengari gagnvart manninum,  þurfum við að leita út fyrir hina frumspekilegu og vísindalegu rökhugsun (ratio) Vesturlanda. Við þurfum, eins og sagt var í upphafi, að leita nýrra leiða fyrir hugsunina.

:::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::

[i] K. Kerényi: Prometeo: il mitologema greco dell‘esistenza umana, birt í bókinni Miti e misteri, Boringhieri, Torino 1979.

[ii] Sama rit, bls. 186-187

[iii] Sama rit, bls. 227

[iv] G. Galilei: Il Saggiatore. Útg. Nazionale.

[v] Sbr. J.J.Goux, Gli iconoclasti. Marx, Freud e il monoteismo, útg. Marsilio, Venezia 1979.

[vi] Sbr. frásögn Plutarcosar af bátsferð undan ströndum Corfú þar sem heyrðist kallað yfir hafið: „Hinn mikli Pan er dáinn!“. Úr De defectu oraculorum, 17, 1. öld e.Kr.

[vii] Heimur „ógnarstjórnarinnar“ birtist eins og við vitum í endursögn Hegels á frönsku stjórnarbyltingunni (Fyrirbærafræði andans, kafli VI, B). Tilvitnanir Sini eru teknar úr ítalskri þýðingu E.De Negri, La Nuova Italia, Flórens 1936.

[viii] „al posto della antica violenza, che separa gli uomini dalla natura e insieme li riconduce a essa tramite il sacrificio e la comunione sacrale con l‘animale…“ Hér er mikilvægt að skilja hugtakið „comunione sacrale“, en comunione þýðir bókstaflega „samfundur“ og er notað enn í dag um altarisgöngu í kaþólskum sið, þar sem söfnuðurinn „samsamast“ guðdómnum með því að dreypa á víni og borða oblátu sem hið umbreytta hold og blóð Krists. Þetta latneska tungutak varðveitir enn tengslin við horfna blótsiði sem okkar lútherska samfélag er hætt að skilja. Þýðandi.

[ix] Nánari útfærslu þessa máls er að finna í þriðja þættinum í fyrsta hluta þessarar bókar:  Passare il segno – semiotica, cosmologia, tecnica, bls. 229-340.

[x] P.K. Feyerabend: Contro il metodo, ítölsk þýðing í útg. Feltrinelli, Milano 1979, bls. 244. Um höfundinn er fjallað í tímaritinu „L‘uomo, un segno“, IV, 2-3, 1980 í ritgerðum G. Giorello, M. Mondadori, V. Vitiello, P. D‘Alessandro og M. Santambrogio.

[xi] Sama rit 243-244 passim.

MYNDLISTIN SEM TÁKNBROT MANNS

Kennslustund úr sóttkvínni árið 2020

Fyrirlestur úr Listaháskólanum um myndlistina í ljósi goðsögunnar og sálgreiningarinnar

Nýlega fann ég þessa upptöku af fyrirlestri sem ég talaði inn í tölvu mína í upphafi veirupestarinnar veturinn 2020.  Þetta var níundi og síðasti fyrirlesturinn í námskeiði sem við kölluðum „Eros og listreynslan“, þar sem skautað var yfir listasöguna frá Grikklandi til forna til samtímans. Í þessum lokaþætti var gerð tilraun til að tengja ferðalagið við sálgreininguna.

 

 

 

 

%d