LISTIN ER ÓLÆKNANDI SJÚKDÓMUR

Nýlega var ég minntur á eftirfarandi viðtal, sem nú er orðið 32 ára gamalt. Þetta samtal átti ég við Guðmundu Andrésdóttur í tilefni 40 ára starfsafmælis hennar og yfirlitssýningar sem Gunnar Kvaran stóð fyrir á Kjarvalsstöðum af því tilefni. Allt í einu fannst mér þetta eftirminnilega samtal eiga erindi hér á síðunni og endurbirti það hér með.

Myndlistin er ólæknandi sjúkdómur

Ólafur Gíslason ræðir við Guðmundu Andrésdóttur
um 40 ára starfsferil hennar sem listmálara

Viðtal skrifað fyrir sýningarskrá Listasafns Reykjavíkur í tilefni yfirlitssýningar á Kjarvalsstöðum 1990

  • Hvernig það atvikaðist að ég fór að fást við myndlist?

 Það er einn maður sem ber ábyrgð á því. Ég hafði gengið í Verslunarskólann og útskrifaðist þaðan 1941 eða 2. Þar var engin myndlistarkennsla. Ég fór að vinna á skrifstofu hjá Laugavegsapóteki eftir að ég útskrifaðist, en sótti gjarnan myndlistarsýningar af meðfæddum áhuga. Svo var það að ég sá fyrstu sýningu Svavars Guðnasonar eftir að hann kom frá Kaupmannahöfn. Það var veturinn 1945-1946. Þessi sýning var fyrir mér opinberun. Þetta var fyrsta abstrakt-listasýningin sem sett var upp hér á landi, og bæði litirnir og þessi mikli kraftur sem ég fann í myndunum hans urðu til þess að ég ákvað að verða málari. Ég hef ekki orðið meira uppnumin af nokkurri myndlistarsýningu fyrr né síðar…

Guðmunda Andrésdóttir: Málverk án titils, 1972.

  • Það er Guðmunda Andrésdóttir sem hér segir okkur tildrögin að því að hún lagði út í myndlistarnám í Stokkhólmi haustið 1947. Það var ekki sjálfgefinn hlutur hjá ungri stúlku á þeim árum.
  • Var þessi sýning Svavars ekki litin hornauga af almenningi á Íslandi á þessum tíma?
  • Jú, hún hlaut almennt dræmar undirtektir. En þetta var engu að síður eins og sprengja inn í okkar þrönga heim.
  • Og hvar hófst þú svo nám í myndlist?
  • Ég fór til Svíþjóðar og innritaðist í Konstfack í Stokkhólmi haustið 1947. Ég var þar í tvo vetur og tók bæði kennaradeildina og málaradeildina. Samhliða stundaði ég einnig nám í málaraskóla Otte Skjöld (f. 1884).
  • Þetta hefur verið stór ákvörðun á sínum tíma. Hvernig leit fjölskylda þín á þetta? 
  • Já, þetta hefur verið einhver sjúkdómur í mér, og ég held að fjölskyldan hafi skilið það þannig. 
  • Hvernig var kennslunni háttað? 
  • Þetta var fyrst og fremst fólgið í því að teikna og mála naktar fyrirsætur. Þetta var algjörlega hefðbundið nám. Ég á engar myndir frá þessum tíma, málaði yfir það sem ég gerði eða reif það. Að vísu var haldin sýning í skólalok, og sænskur læknir keypti þrjár módelteikningar eftir mig á sýningunni. Kannski eru þær varðveittar einhvers staðar í Svíþjóð ennþá. 
  • Hvað var það sem helst vakti áhuga þinn í myndlistinni í Stokkhólmi á þessum tíma? 
  • Það var margt að sjá í nýju umhverfi, en ég man ekki eftir neinu sem stendur upp úr. Abstraktlistin var ekki komin til Svíþjóðar að ráði á þessum tíma, en sá málari sem mest bar á í sænskri myndlist á þessum tíma var Karl Isaksson (1878-1922), sem byggði í list sinni einkum á fordæmi Cezanne. Fyrir mér var námið í Stokkhólmi fyrst og fremst akademísk vinna. Ég var ekki farin að mótast sjálfstætt sem málari á þessum tíma. 
  • Voru einhverjir Íslendingar við nám í myndlist í Stokkhólmi á þessum tíma? 
  • Nei, en það var fjöldinn allur af Íslendingum í öðru námi, og ég umgekkst þá mikið. 
  • Síðan kemur þú heim eftir tveggja ára nám. Hvað tekur við þá? 
  • Ég málaði og kenndi jafnframt myndlist í gagnfræðaskóla hér í bænum. Mínar hugmyndir um myndlist fóru hins vegar ekki að mótast fyrr en ég kom til Frakklands 1951. Þá hafði ég verið heima í tvö ár. Ég bjó mig undir Frakklandsferðinna með því að lesa mig svolítið til í frönsku veturinn áður, og var svo í París í tvo vetur. 
  • Það hafa verið mikil viðbrigði að koma til Parísar… 
  • Já, þetta var bæði erfitt og heillandi, svona álíka og að taka lyf við sjúkdómi. Ég fékk styrk til fararinnar frá íslenska ríkinu, og byrjaði fyrst í Académie de la Grande-Chaumière. Mér líkaði það hins vegar ekki, þar var allt fullt af Ameríkönum sem voru með hugann við flest annað en myndlistina. Ég flutti mig því yfir á Académie Ranson og hafði þar fyrir kennara Gustav A Signier (f. 1909). Hann var belgískur að uppruna, þekktur málari í París og sýndi mikið í Galerie France. Myndirnar hans voru óhlutbundnar, lýrískar en ekki mjög fastar í forminu. Ég fékk líka lítilsháttar franskan styrk frá skólanum, sem var mér að minnsta kosti siðferðilegur stuðningur. 
  • Þetta var líka á þeim tímna þegar Evrópa var að ná sér á strik eftir heimsstyrjöldina, og París var orðin hin óumdeilanlega menningarmiðstöð heimsins. Var ekki mikið um að vera og margt að sjá í heimsborginni á þessum árum? 
  • Jú, það má nú segja. Maður var alltaf að skoða söfn og sýningar. Þeir málarar sem bar hvað hæst í París á þessum tíma og verkuðu sterkast á mig voru Auguste Herbin (1882-1960) og Victor Vasarely (f. 1908). Þeir voru báðir frumkvöðlar geometrískrar abstraktlistar, hver á sinn hátt, og ég byrjaði einnig á því í París að mála geometrískar abstraktmyndir. 
  • Hvernig var kennslunni háttað hjá Gustave Signier í Académie Ranson? 
  • Hann var lítið formfastur í kennslunni, en hvatti okkur til að mála það sem okkur datt í hug. Það var engin módelteikning eða módelmálun, og flestir máluðu abstrakt. Hann hvatti mig áfram í geometríska abstraktmálverkinu þótt hann málaði ekki þannig sjálfur. 
  • Hvað var það sem gerði að verkum að geometríska abstraktlistin kemur svo sterkt fram á þessum tíma? 
  • Þetta voru uppgjörstímar eftir síðari heimsstyrjöldina og allar þær hörmungar sem gengið höfðu yfir Evrópu. Við vildum skapa nýjan heim, hreinan og kláran, sem jafnframt fól í sér eins konar uppgjör við fortíðina. Myndlistin átti að vera hrein og klár og laus við öll aukaatriði. Bauhaushreyfingin tengdist þessu líka, hugmynd Bauhaus-mannanna um að tengja myndlistina í ríkari mæli við byggingarlist, hönnun og umhverfismótun. Því var það að þótt abstraktmálverkið hafi ekki falið í sér neinn boðskap eða dulda merkingu, þá var þetta fyrir okkur þjóðfélagslegt fyrirbrigði sem tengdist því sem var að gerast i samtímanum með ótvíræðum hætti. 
  • Tengdist það rof við fortíðina sem sjá má í abstraktlistinni á einhvern hátt höfnun á hinni klassísku list? 
  • Nei, síður en svo. Ég skoðaði mikið gamla, klassíska myndlist á þessum árum, og hér heima hafði ég miklar mætur á Jóni Stefánssyni til dæmis, þótt hann málaði ekki abstrakt. 
  • Fórst þú víðar um Evrópu á Frakklandsárum þínum? 
  • Já, ég fór meðal annars til Ítalíu og var þar í mánuð. Ég fór víða á þessum stutta tíma og heimsótti Flórens, Siena, Genova, Arezzo, Assisi, Ravenna og Róm. Það var svo margt að skoða í þessari ferð að það er ekkert eitt sem stendur upp úr í minningunni, nema hvað ég man ennþá hvað Uffizi-safnið verkaði sterkt á mig. Og það kom mér á óvart hve mikill fjöldi fólks var þar inni. 
  • Það voru fleiri Íslendingar við listnám í París á þessum árum… 
  • Þá, það voru bæði Hörður Ágústsson og Valtýr Pétursson og Valgerður Hafstað og Gerður Helgadóttir. Valgerður stundaði nám á Academie de la Grande Chaumière, en mig minnir að Hörður og Valtýr hafi starfað sjálfstætt. Svo var Thor Vilhjálmsson þarna líka. Það voru mikil samskipti á milli Íslendinganna í París á þessum árum, eiginlega allt of mikil. 
  • Þú kemur svo heim eftir tveggja ára dvöl í París. Hvað tók þá við? 
  • Ég kom heim 1952, og tók þátt í síðustu Septembersýningunni, sem var haldin þá um haustið. Ég hélt svo áfram að sýna með FÍM á samsýningum og hélt mína fyrstu einkasýningu í Ásmundarsal 1956. 
  • Almenningsálitið var ykkur ekki sérlega hagstætt á þessum tíma… 
  • Nei, ekki aldeilis. Hér heima fannst mönnum að ekki væri um myndlist að ræða ef ekki væri í myndinni landslag. Það skapaðist því feykileg andúð á abstraktmálurum hér á landi, sem nálgaðist oft sjúklegt hatur. 
  • Hver telur þú að hafi verið ástæða þess? 
  • Ég veit það eiginlega ekki. Þetta hlýtur að hafa snert einhverjar djúpar tilfinningar hjá fólki. Þetta var eitthvað nýtt og áður óþekkt, og það var talið til skammar. Það kom til dæmis glögglega í ljós þegar Norræna listabandalaginu var boðið að halda yfirlitssýningu á norrænni list í Róm í upphafi sjötta áratugarins. Þetta var stór sýning, og félagið okkar, FÍM, valdi íslensku þátttakendurna. Meðal þeirra voru Hörður, Þorvaldur, Svavar, Ásgrímur, Kjarval, ég og fleiri. Það linnti ekki blaðaskrifum gegn þessum ósóma og þeirri skömm, sem þjóðinni væri gerð með þessari sýningu. Þetta var talið vera óþjóðlegur kommúnismi og ég man ekki hvað. Það var lyginni líkast, hvað þessi sýning kom miklu róti á hugi fólks, og það var ótrúlegasta fólk sem gaf sig út í þessa herferð gegn okkur, sérstaklega á síðum Morgunblaðsins. Að sama skapi voru þeir fáir sem tóku okkar málstað. 
  • Þú hefur ekki látið almenningsálitið buga þig, því þú hefur verið að mála abstraktmyndir alla tíð síðan, eða í yfir 40 ár. Eru það alltaf sömu vandamálin sem þú ert að glíma við í málverkinu? 
  • Það eru kannski ekki alveg sömu vandamálin, en þó hef ég í rauninni alltaf verið að glíma við hreyfinguna og formið. Margir hafa haldið því fram, að ég hafi alltaf verið að mála sömu myndina í gegnum þessi fjörutíu ár, en það á eftir að koma í ljós á þessari sýningu á Kjarvalsstöðum, að svo hefur ekki verið. Mínar myndir sýna ákveðið rannsóknarferli, þær eru í rauninni rannsókn á formi, hreyfingu og litum. 
  • Þið sem komuð frá París og Kaupmannahöfn eftir stríðið og innleidduð módernismann og abstraktmálverkið hér á landi, þið hélduð vel hópinn eftir að þið komuð heim, ekki satt? 
  • Jú, abstraktlistin varð að hálfgerðum trúarbrögðum í okkar hópi, þetta var svo sterkt og afgerandi. Baráttan gegn okkur þjappaði okkur líka saman. Við hittumst nokkuð reglulega og sýndum nokkru sinnum erlendis, en við höfðum engin formleg tengsl við útlönd sem hópur. Það kom líka lítið sem ekkert af erlendri abstraktlist hingað til lands á þessum árum. Ég minnist bara einnar sýningar sem var haldin í Bogasalnum á vegum British Council með breskri nútímalist. Það var ákaflega sterk sýning. Við fórum hins vegar stundum til útlanda til þess að sjá hvað þar var að gerast. Mér er minnisstætt þegar við fórum fjögur-fimm saman til London til þess að skoða yfirlitssýningu á abstraktlist í Tate-safninu. Gunnlaugur Scheving var með í þeirri ferð og hreifst mikið. Það var ekki eldri kynslóð málara sem snerist gegn abstraktmálverkinu, heldur allt annað fólk. 
  • Hefur þú unnið eingöngu við myndlist allan þennan tíma? 
  • Nei, ég hef ekki lifað af myndlistinni. Fyrstu árin kenndi ég, en hætti því fljótlega og fór að vinna hjá Orkustofnun, þar sem ég vinn enn hálfan daginn. Það hef ég gert allan minn starfsferil. 
  • Nú hefur þú glímt við abstraktmálverkið í yfir 40 ár. Hefur það aldrei hvarflað að þér að hætta þessu í eitt skiptið fyrir öll? Að nóg væri komið. Eða finnur þú enn fyrir sömu knýjandi þörfinni og þú fannst þegar þú sást sýninguna hans Svavars fyrir 45 árum? 
  • Ég neita því ekki að ég hef verið þunglynd og fundist allt vonlaust og ómögulegt. Þá hefur hvarflað að mér að hætta þessu. En þau tímabil hafa varað skammt. Þetta er eins og ólæknandi sjúkdómur, og ég finn ennþá sömu óþreyjuna til þess að mála, og þá… -en hún kemur þó með hléum, sem geta varað misjafnlega lengi. 
  • Hvernig dæmir þú sjálf þínar myndir, hvaða mælikvarða hefur þú á hvort þér hafi tekist það sem þú ætlaðir þér? 
  • Það er einfalt mál…mér hefur aldrei tekist að gera það sem ég ætlaði mér í málverkinu. Ég hef hins vegar komist misjafnlega nálægt því. Mælikvarðinn er ekki annar en sá, að ein mynd höfðar frekar til mín en önnur. En það er alveg á hreinu, að ég er aldrei ánægð með það sem ég er að gera.
  • Er ekki slítandi að vinna við þessar aðstæður? 
  • Jú, starfið er mér eiginlega mikið kvalræði. Það má segja að þetta nálgist það að verða sálarháski. Fólkið sér hins vegar ekki þennan sálarháska út úr myndunum mínum. Því finnst jafnvel að þetta séu hlutir sem hver og einn geti gert. 
  • Það er líklega ekki á hvers manns færi að skapa persónulegt myndmál? 
  • Nei, ég hugsa ekki. Ef maður málar eftir sinni bestu samvisku, þá hlýtur það að koma í gegn í myndinni. 
  • Málverkið er þá samviskuspurning fyrir þér? 
  • Já, það getur verið samviskuspurning fyrir málarann. Ég held að það megi segja um listamenn, að þeir séu með nokkrum hætti samviska síns tíma.

 

Forsíðumyndin er nafnlaust málverk Guðmundu frá 1980

Ljósmyndin af Guðmundu er tekin af Kristjáni Pétri Guðnasyni.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Að tákngera heiminn – Gunnlaugur Scheving

Þessi grein var skrifuð fyrir Listasafn Íslands í tilefni  yfirlitssýningar á verkum Gunnlaugs Scheving í janúar 2001

Ég var að hugsa um ummyndanir í málverkum Gunnlaugs Scheving. Hvernig hann ummyndar mjaltakonuna, sjómanninn eða eldsmiðinn og skapar úr þeim goðsagnir sem eru fullar af táknum. Gunnlaugur er ekki að lýsa fyrir okkur lífi þessa fólks, hvernig það er í hátt eða útliti. Hann notast hins vegar við fyrirmyndir úr íslensku þjóðlífi til þess að skapa fullkomlega nýjan heim, sem er um leið heimurinn sem við lifum í. Hann er það vegna þess að við þekkjum okkur í honum, þó að hann sé nýr.

Ef það vakti ekki fyrir Gunnlaugi að lýsa fyrir okkur sjómanninum, mjaltakonunni eða eldsmiðnum eins og þau eru, hvað vakti þá fyrir honum, hvað var hann að tjá, hvað vildi hann segja?

Því hefur verið haldið fram að tjáning í list sé dæmigerð myndlíking – Við sjáum sjómenn, rá og reiða, fiskinn og ólgandi hafflötinn, allt dæmi sem við þekkjum og eru tekin úr raunveruleikanum eins og hlutar fyrir heild; en með kraftmikilli formbyggingu og fyllingu litarins birtast þessi dæmi okkur síðan sem myndlíking um Manninn og Náttúruna þar sem hið einstaka öðlast almenna og altæka merkingu í samspili krafta er takast á á myndfletinum. Þessi yfirfærða og altæka merking kallar á stóra fleti og vítt rými. Í myndum Gunnlaugs fer saman rismikið form og rismikið inntak. Þær eru málaðar fyrir stóra sali þar sem hátt er til lofts og vítt til veggja.

Það er fróðlegt að fylgjast með því af skyssum og uppkastsblöðum á sýningunni í Listasafni Íslands hvernig Gunnlaugur hefur unnið verk sín. Hann teiknar þau upp, aftur og aftur í örsmáu formi, allt niður í frímerkjastærð, og virðist hafa verið haldinn friðlausri áráttu til að endurtaka sama viðfangsefnið í óteljandi tilbrigðum. Þessar teikningar og skyssur veita okkur ómetanlega innsýn í listrænt sköpunarferli.

Að búa til mynd af heiminum er að tákngera hann.

Allar myndir sem við gerum okkur af sjálfum okkur og umheiminum birtast í táknum. Þegar Gunnlaugur Scheving er að teikna upp aftur og aftur sama viðfangsefnið í ótal tilbrigðum eru táknin að mótast fyrir hugskotssjónum hans. Alveg eins og barnið endurtekur í sífellu sama hugtakið á meðan það er að ná valdi á því og fá það til að passa við veruleikann, þá endurtekur málarinn í sífellu táknið sem hann er að uppgötva á meðan hann er að læra að nota það, þannig að það dugi í nýja mynd af heiminum.

Að búa til ný tákn er eins og vísindalegt rannsóknarferli sem byggir á ótal tilraunum þar sem táknið og viðmið þess eru mæld saman. Endurtekningin skapar þekkingu og vald á táknmálinu, og allt í einu verður listaverkið til. Við endusköpum heiminn í sífellu í máli og myndum og málið og myndirnar verða efniviður í nýjar setningar og nýjar myndir. Jafnvel sjálf okkur getum við ekki skilið nema í yfirfærðri mynd, við tölum um að við höfum sjálfsímynd.

Í myndum Gunnlaugs Scheving er að finna drjúgan hluta af sjálfsímynd íslensku þjóðarinnar eins og hún birtist hans kynslóð, og eins og hún ummyndaðist hjá næstu kynslóðum. Það er hins vegar ráðgáta að myndum hans skyldi ekki haldið á lofti meira en raun ber vitni. Hvernig stendur á því að Gunnlaugi Scheving var ekki falið að skreyta aðrar opinberar byggingar hér á landi en Kennaraháskólann? Er það satt að Háskólaráð hafi á sínum tíma hafnað tillögum hans að skreytingum í hátíðarsal Háskóla Íslands vegna þess að prófessorunum hafi ekki þótt við hæfi að hafa á veggjum salarins myndir af sjómönnum og bændum, sem stóðu utan háskólasamfélagsins?

Þessi vanræksla er þeim mun tilfinnanlegri sem Gunnlaugur Scheving er eini raunverulegi mónumentalmálarinn sem við höfum eignast, eini málarinn sem málaði rismiklar myndir ekki bara í forminu, heldur fyrst og fremst í inntaki sínu. Tími slíkrar myndhugsunar virðist nú liðinn og veggir hátíðarsalarins standa auðir. En gjöf listamannsins setur ábyrgð á herðar Listasafni Íslands, og er vonum seinna að þessi sýning skuli nú opnuð.

Mynd: Gunnlaugur Scheving; Hákarlinn tekinn inn, 255×405 cm. 1965

 

%d bloggers like this: