MYNDLISTIN SEM TÁKNBROT MANNS

Kennslustund úr sóttkvínni árið 2020

Fyrirlestur úr Listaháskólanum um myndlistina í ljósi goðsögunnar og sálgreiningarinnar

Nýlega fann ég þessa upptöku af fyrirlestri sem ég talaði inn í tölvu mína í upphafi veirupestarinnar veturinn 2020.  Þetta var níundi og síðasti fyrirlesturinn í námskeiði sem við kölluðum „Eros og listreynslan“, þar sem skautað var yfir listasöguna frá Grikklandi til forna til samtímans. Í þessum lokaþætti var gerð tilraun til að tengja ferðalagið við sálgreininguna.

 

 

 

 

LACAN UM SKÖPUN EX NIHILO

Jacques Lacan:

Um sköpun Ex Nihilo

Níundi kafli Sjöunda námskeiðsins um Siðfræði sálgreiningarinnar

 

Ráðgátur sálgreiningarinnar

Það í raunverunni sem þjáist af nefnaranum

Sagan um krúsina og vasann

Kynning á Katarisma

Verufræðilegar athugasemdir um Hvatir

 

Ég ætla hér að halda áfram umræðu minni um það hlutverk sem ég hef eignað Le Chose, (Das Ding, „þingið“, „þaðið“, „hluturinn“) í skilgreiningunni á göfgun (sublimation) með því að segja ykkur skemmtilega sögu.

Þegar ég kvaddi ykkur um daginn fékk ég skyndilegt samviskubit eins og oft gerist þegar ég fæ það á tilfinningunna að ég hafi ekki gefið tæmandi úttekt á viðfangsefni okkar, og um eftirmiðdaginn leit ég í tvær greinar eftir Melanie Klein, sem Glover vitnar í. Þær eru birtar í Contributions to Psychoanalysis.

Fyrri greinin, „Sálgreining ungbarna“ frá 1923 hefur að geyma afar áhugaverða umfjöllun um göfgunarferlið og bælingarfyrirbærið sem eftirköst þess. Um er að ræða þann skilning sem Klein leggur í það hvernig kenndir fullnægjandi lífshvatar í gegnum göfgun verða hjá barninu tilefni til bælingar.

Ég ætla ekki að eyða tíma í þetta sérstaklega, heldur vil ég fyrst og fremst beina athygli ykkar að göfgunarhugtakinu (sublimation) sem slíku, og öllum þeim misskilningi sem óljósar hugmyndir um þann vanda geta valdið.

Það var hins vegar seinni greinin frá 1929 sem ég sá eftir að hafa ekki kannað. Hún heitir „Infantile Anxiety Situations Reflected in a Work of Art and in the Creative Impulse“ (Barnakvíði sem birtist í listaverkum og sköpunarþörfinni). Þetta er stuttur texti, en eins og stundum gerist, þá gaf hann mér þá fullnægju að uppfylla áform mín eins og höndin fylgir hanskanum.

René Magritte: The Spirit of Geometry, 1937

1.

Fyrsti hlutinn er umræða um tónsmíð eftir Ravel sem byggir á sviðsmynd Colette, L‘Enfantet les Sortilèges. Ég las þennan texta með mikilli ánægju, sem var ekki sjálfgefið þar sem fjallað er um verkið í þýskum og enskum þýðingum.

Það sem vekur furðu Melaine Klein, er að listaverk geti fallið svo nákvæmlega að hugarburði barnsins um líkama móðurinnar, hugarburði varðandi frumstæða árásargirni og gagnárásir er barnið skynjar. Í stuttu máli er þarna um að ræða nokkuð langa og áhugaverða staðfestingu á þeim þáttum í ímyndunarafli skapara verksins, sérstaklega hjá tónskáldinu, sem falla merkilega vel saman við það frumlæga og miðlæga svið í byggingu sálarinnar, sem Klein hefur fundið í barnasálgreiningu sinni. Um leið er það stórmerkilegt að skynja hvernig þetta fellur saman við byggingu listaverksins, – jafnvel þótt þetta fullnægi eðlilega ekki öllum okkar kröfum.

En það er seinni hluti greinarinnar sem er áhugaverðari, þar verður textinn skemmtilegur. Hér er um að ræða vísun í greiningu sálgreinis sem heitir Karin Mikailis, sem segir undir titlinum „Tómt rými“ frá greiningartilfelli sem er á vissan hátt sláandi. Á þeim fjórum blaðsíðum sem greina frá þessari sögu er sagt frá vissu jaðartilfelli, sem þó felur ekki í sér að hægt sé að setja fram ákveðna greiningu, eða segja til um hvort um sé að ræða melankólska depurð eða ekki.

Málið varðar skjólstæðing sem er kölluð Ruth Kjar, og fylgir stutt lýsing á lífshlaupi hennar. Þessi kona var aldrei listmálari, en depurðarköstum hennar var þannig lýst að hún fengi sterka tilfinningu fyrir innra tómarými sem hún gæti aldrei fyllt.

Ég ætla ekki að trufla ykkur með lýsingu á lífshlaupi hennar, en með aðstoð sálgreinis síns gat hún gengið að eiga mann, og eftir hjónabandið gekk allt vel í fyrstu. En eftir tiltölulega stuttan tíma gerðu melankólíuköstin vart við sig á ný. Og þar komum við að hinu áhugaverða í sögunni. Við finnum okkur í raun og veru stödd í töfraheimi sálgreiningarinnar eins og hún getur virkað, þó fullnægja okkar kunni að vera nokkuð barnaleg.

Af óþekktum ástæðum eru veggirnir í húsi hjónakornanna þaktir málverkum eftir mág konunnar, sem er listmálari. Þetta átti sérstaklega við um eitt herbergið. Svo gerist það á tilteknum tíma að mágurinn, sem var hæfileikaríkur málari – án þess að við getum um það dæmt – selur eitt málverkanna, sem hann fjarlægir af veggnum. Eftir stendur tómt rými á veggnum.

Í ljós kemur að þetta tóma rými leikur afgerandi hlutverk í þunglyndisköstum konunnar, sem taka sig upp að nýju við þessa breytingu. Hún nær hins vegar að endurheimta bata með eftirfarandi hætti. Einn góðan veðurdag ákveður hún að „daub a little“ (setja smá klessuverk) á vegginn, í þeim tilgangi að fylla upp í þetta bölvaða tómarými, sem hafði heltekið hana með afgerandi hætti. Nokkuð sem við myndum vilja hafa frekari vitneskju um og nánari sjúkdómsgreiningu á en hér er í boði. Þannig reyndi hún að fylla upp í þetta tóma rými með eftirlíkingu verka mágsins, þar sem hún reyndi að fylgja aðferð og efnistökum hans eftir bestu getu. Hún sótti litaskala samkvæmt litanotkun mágsins í listmálarabúðina og hóf að mála af ástríðu sem mér virðist dæmigerð fyrir upphafsfasa geðlægðar. Úr þessu verður til listaverk.

Það skemmtilega við söguna er að þegar mágurinn fær að sjá verkið, og listakonan er komin í kvíðakast með hjartsláttareinkennum þar sem hún bíður eftir dómi meistarans, þá bregst hann við í hálfgerðu reiðikasti: „Þú munt aldrei geta talið mér trú um að þú hafir málað þetta“ segir hann. „Þetta er verk listamanns, ekki bara handverksmanns, heldur þroskaðs listamanns. Fjandinn hirði þessa sögu þína. Hver gæti þetta annars verið?“

Þau geta með engu móti sannfært manninn, og hann heldur áfram að sverja að ef mágkona hans hafi málað þetta verk, þá gæti hann eins vel stjórnað sinfóníu Beethovens í Royal Chapel, jafnvel þótt hann sé ólæs á nótnaskrift.

Það vantar gagnrýna fjarlægð á frásögnina af þessum orðaskiptum, sem óhjákvæmilega kalla á vissar spurningar. Slíkt tæknilegt kraftaverk hlýtur að vekja vissar spurningar. En það skiptir okkur ekki öllu máli í þessu tilfelli. Melanie Klein finnur í þessu atviki staðfestingu á ákveðnum strúktúr sem vekur aðdáun hennar. Og þið komist ekki hjá því að sjá, hvernig þessi strúktúr fellur saman við þann miðlæga uppdrátt sem ég notast við í skipuriti staðsetningar þar sem spurningin um La Chose (þingið, hlutinn, þaðið) er sett fram.

Eins og ég sagði, þá er þetta staður móðurlíkamans samkvæmt kenningu Klein. Hún staðsetur öll stig göfgunar (sublimation) þar, einnig þá göldrum líku göfgun sem felst í þessari sjálfsprottnu atlögu eða uppljómun sem birtist í þessum tökum byrjandans á tækni meistarans. Frú Klein finnur þarna staðfestingu kenningar sinnar, og það skýrir trúlega skort hennar á undrun yfir þessum fyrirbærum, sem skjólstæðingur hennar málaði í þeim tilgangi að fylla upp í tómarýmið. Fyrst kemur nakin negrastúlka, síðan mjög gömul kona sem ber öll líkamseinkenni öldrunar sinnar, vonbrigða og óhjákvæmilegrar uppgjafar gagnvart háum aldri sínum, en síðan endar þessi sería með endurfæðingu, endurkomu móður hennar í blóma eigin fegurðar í ljómandi birtu nýs dags. Samkvæmt Klein er kenningin hér með sönnuð (Q.E.D.), við þurfum einungis að skilja hvað kallaði á þessa atburðarás.

Það skemmtilega við þetta er augljóslega það sem okkur er sagt varðandi staðsetningu göfgunarfyrirbærisins. En þið hljótið að skynja að við erum skilin eftir í nokkru myrkri varðandi möguleika hennar.

Ég er að reyna að færa ykkur þær upplýsingar um göfgun, sem eru nauðsynlegar ef við eigum að skilja hvernig tengingu hennar við það sem við köllum La Chose / „Þingið“ er háttað – miðlæga stöðu þess hvað varðar raunveru einstaklingsins. Hvernig getum við skilgreint þetta „þing“ nánar í staðfræðilegu skipuriti okkar?

Litla dæmisagan úr síðasta tíma, sem við fengum að láni úr söfnunarsálfræðinni, var dæmi sem rangt væri að taka sem tæmingu vandamálsins, jafnvel þó það hjálpi okkur góðan spöl áleiðis. Það dæmi sýnir í stuttu máli umbreytingu hlutar yfir í „þing“ (La chose), skyndilega upphafningu eldspýtustokksins til þess virðingarstigs sem hann hafði ekki áður. En hann er hlutur sem er auðvitað ekki „Þingið“ (das Ding)

Ef „Þingið“ væri ekki í eðli sínu hulið, þá hefðum við ekki þá afstöðu til þess sem skyldar okkur – og alla sálina – til að umkringja það eða sneiða hjá því, ef við ætlum að skynja það. Hvar sem „Þingið“ staðfestir tilvist sína, þá gerist það á heimavelli (domesticated spheres). Það skýrir hvers vegna við skilgreinum sviðið með þessum hætti, því „þingið“ kynnir sig alltaf sem hulið fyrirbæri.

René Magritte: Le bagneuse de clair au sombre, 1932

Í dag skulum við segja að „Þingið“ fylli þann stað í byggingu mannssálarinnar, sem Freud skilgreindi á grundvelli nautnalögmálsins. Ég vil meina að þetta skýrist af því að „Þingið“ er það sem þjáist af völdum nefnarans (signifier) innan raunverunnar, hinnar frumlægu raunveru. Þið eigið að skilja að um er að ræða raunveru sem við þurfum ekki enn að afmarka, heldur raunveruna í heild sinni. Bæði raunveru einstaklingsins og þá utanaðkomandi raunveru sem hann þarf að glíma við.

Fyrstu tengslin sem myndast í sál sjálfsverunnar, sem sjálf er mótuð af jafnvægismyndun (homeostasis) á grundvelli nautnalögmálsins, fela í sér flækjustig (flocculation) og kristallamyndun nefnandi eininga. Sálarbúnaður einstaklingsins er undirorpinn nefnandi skipulagningu eins og hann birtist okkur við greiningu skjólstæðingsins. Út frá því getum við sagt með neikvæðum hætti, að ekkert standi á milli skipulagningar hins nefnandi sviðs ( Vorstellungsreprasentanzen) og myndunar raunveru rýmisins, eða þess miðlæga rýmis þar sem svið „Þingsin“ sem slíks kynnir sig fyrir okkur.

Það er einmitt á þessu sviði sem við ættum að staðsetja það sem Freud kennir okkur hins vegar að sé samsvörun við fundinn, sem hið endurfundna (Wiedergefundene) eða hinn endurfundna hlut. Þannig er grundvallar skilgreining hlutarins hjá Freud fólgin í leiðandi hlutverki hans, en ég hef þegar sýnt fram á þversögnina sem þetta felur í sér, því ekki er gengið út frá að þetta viðfang hafi þegar verið glatað. Eðli sínu samkvæmt er viðfangið (the object) endurfundinn hlutur. Glötun þess er afleiðingin. Þannig er um endurfund að ræða, án vitundar okkar, en í gegnum endurfundinn upplifum við glötun þess að eilífu.

Við stöndum hér enn á ný andspænis grundvallar byggingu sem leyfir okkur að orða þá staðreynd að „Þingið“ sem um ræðir er fyrir tilstilli innri byggingar sinnar opið fyrir því að vera kynnt til staðar með því sem ég hafði áður kallað Hinn hlutinn, í tengslum við leiðann og bænina.

En þar finnum við annað einkennismerki hins hulda „Þings“: með endurfundi þess er það eðli málsins samkvæmt kynnt til staðar (represented) með einhverju öðru.

Við komumst ekki hjá því að sjá þetta í frægum orðum Picasso þar sem hann sagði: „Ég leita ekki, ég finn“. Það er sá fundur (trouver, trobar) trúbadoranna frá Provence (trouvères = farandsöngvarar) og allra þeirra mælskulistarskóla er koma á undan allri leit.

Augljóslega er hið fundna árangur leitar. En leitin fer fram í sporum og slóð nefnarans. Nú er þessi leit á vissan hátt and-sálræn, þar sem hún er handan nautnalögmálsins í virkni sinni og staðsetningu. Því samkvæmt nautnalögmálinu vísar nefnarinn til þessarar yfirfærðu jöfnu (beyond equalisation) sem er homeostasis (jafnvægisregla) og til hinnar einsleitu kerfisviðleitni sjálfsins. Hún framkallar eigin villu. Hlutverk nautnalögmálsins felst í raun í því að leiða sjálfsveruna frá einum nefnara til annars og kalla fram eins marga nefnara og nauðsyn krefur, til að halda því spennustigi í lágmarki sem stýrir hinni sálrænu virkni.

Við erum þannig leidd að þeim venslum sem ríkja á milli mannsins og þessa nefnara – nokkuð sem mun leyfa okkur að stíga enn eitt skref fram á við.

Ef nautnin stýrir mannlegri umhugsun í gegnum lögmál freistingarinnar og þá ofboðslegu orðræðu sem er ekki bara gerð úr því sem hún skilgreinir, heldur úr gjörvallri virkni sinni – að því marki sem hún stýrist af leit sem leiðir til uppgötvun hluta í gegnum merki. Hvernig geta tengsl mannsins við nefnarann sett hann í samband við viðfang sem stendur fyrir „Þingið“? Þannig komum við að spurningunni um hvað það er sem maðurinn gerir þegar hann býr til nefnara.

Ren´3 Magritte: Hið fullkomna málverk, 1928

2.

Hvað nefnarann (signifier) varðar, þá er vandinn fólginn í að varast að stökkva á þá staðreynd að maðurinn sé smiður og hönnuður eigin stoðkerfis.

Ég hef nú í mörg ár vanið ykkur við þann skilning, þann ríkjandi forgangsskilning, að nefnarinn sem slíkur sé samsettur af gagnvirkum (oppositional) þáttum og að tilkoma þeirra hefur í för með sér grundvallar breytingu á veröld mannsins. Málið snýst einnig um að þessir nefnarar eru hver um sig tilsniðnir af manninum, og trúlega meira með handavinnunni en í gegnum andlegri vinnu.

Hér mætum við aftur þeirri málvenju, að minnsta kosti í tengslum við göfgun á sviði listanna, að aldrei er hikað við að tala um sköpun. Þess vegna þurfum við nú að hugleiða skilning okkar á sköpunarhugtakinu með öllu sem því fylgir, þekkingu á skaparanum (creator) og skepnunni (creature), því hún er miðlæg, ekki bara varðandi spurninguna um hvað kalli á göfgunina, heldur líka hvað kalli á siðfræðina í víðtækri merkingu.

Ég legg eftirfarandi fram: að því marki sem tiltekinn hlutur er tilbúinn hlutur getur hann gegnt því hlutverki sem gerir manninum kleift að forðast ekki „Þingið“ sem nefnara, heldur að framkalla (represent) það. Samkvæmt þjóðsögu sem keðja kynslóðanna hefur fært okkur og ekkert hindrar okkur í að nota, þá ætlum við nú að vísa í það sem er frumstæðast af allri listrænni virkni, sem er iðja leirkerasmiðsins.

Í síðasta tíma talaði ég við ykkur um eldspýtustokkinn; það var út frá persónulegri reynslu og við munum koma að því síðar. Hugsanlega getur það einnig gert okkur kleift að kanna nánar díalektík leirkersins. En leirkrúsin er einfaldari. Hún kom sannarlega til sögunnar á undan eldspýtustokknum. Krúsin hefur alltaf verið þarna, hún er kannski frumlægasta fyrirbærið í iðnsögu mannsins. Hún er vissulega tól eða nytjahlutur sem gerir okkur kleift að staðfesta mannlega nærveru, hvar sem við finnum hana. Þessi krús sem hefur alltaf verið til staðar og hefur lengi verið notuð til að kynna okkur leyndardóma sköpunarinnar í gegnum dæmisögur, hliðstæður og myndlíkingar, gæti enn reynst okkur gagnleg.

Staðfestingu á gagnsemi vasans í þessum tilgangi finnum við hjá Heidegger í því sem hann skrifar um das Ding (hlutinn eða „þingið“). Hann er sá síðasti í langri röð manna sem hafa hugleitt sköpunina sem slíka; og hann býr til díalektík sína út frá vasanum.

Ég ætla ekki að gera virkni das Ding að umræðuefni hér í skilgreiningu Heideggers á Dasein (tilvera) og tengist greiningu hans á frumspekinni. Þið getið öll flett upp í riti hans Essays and Lectures (Vorträge und Aufsätze) og lesið ritgerðina um das Ding. Þar sjáið þið hvernig hann tengir það við sameiningu jarðneskra og himneskra afla í kjarna mannlegrar tilveru.

Í dag vildi ég einfaldlega halda mig við þá grundvallar aðgreiningu sem hann gerir á notkun vasans sem nytjahlut og merkingarlegri virkni hans. Það er spurningin um hvort hann sé í raun nefnari (signifier) og þá sá fyrsti af slíkum nefnurum sem skapaðir voru af mennskri hönd. Ef svo er, þá er hann í nafngefandi kjarna sínum nefnari einskis annars en nafngiftarinnar sem slíkrar, eða með öðrum orðum nefnari einskis tiltekins viðfangs. Heidegger staðsetur vasann í miðju kjarna jarðar og himins. Fyrst og fremst í því sem við köllum „að skála“ í gegnum tvöfalda virkni þess gjörnings: upp til að taka á móti og niður til jarðarinnar þar sem hann sækir eitthvað. Það er virkni vasans.

Þetta tóm í sjálfu sér, sem einkennir vasann í nefnandi virkni sinni (signifying function), er það sem einkennir vasann sem slíkan í sinni efnislegu mynd. Hann skapar tómið og kallar þannig fram möguleika á fyllingu þess. Tóm og fylling eru þannig kynnt til sögunnar í heimi sem er sér ekki meðvitaður um tilvist þeirra. Það er á grundvelli þessa tilbúna nefnara, þessa vasa, sem tómið og fyllingin fæðast inn í heiminn sem slík, hvorki meira né minna og í sama skilningi.

Þetta er rétta augnablikið til að benda á þær fölsku andstæður sem hafa verið búnar til á milli þess sem kallað er hlutlægt (concrete) og fígúratíft (hlutbundin ímynd). Ef hægt er að fylla vasann, þá er það fyrst og fremst vegna þess að hann er tómur í kjarna sínum. Það gerist með nákvæmlega sama hætti og tal og orðræða geta verið full eða tóm.

Þetta er vandamál sem við tókum til umræðu á ráðstefnu sem haldin var í Royaumont, þar sem ég lagði áherslu á þá staðreynd að sinnepskrukka hafi að geyma þá staðreynd að hún kynnir sig í kjarna okkar hversdagslífs sem tóma sinnepskrukku. Þetta var athugasemd, sem örugglega hefur verið meðtekin sem hugarórar eða hroki. En þessi athugasemd fær sinn rökstuðning í þeirri röksemdafærslu sem ég legg nú hér fram. Gangið nú eins langt og ímyndunarafl ykkar leyfir í þessa átt. Ég set það í raun ekki fyrir mig ef þið sjáið fyrir ykkur guðdómlegt fyrirbæri í nafninu Bornibus (þekkt frönsk sinnepstegund), nokkuð sem er kunnuglegasta og algengasta formið sem sinnepskrúsir taka á sig, þar sem það er einmitt Bornibus sem fyllir þessar krúsir. Þetta setur okkur mörk – við erum ef svo mætti segja, skilyrt af Bornibus. (nafnið á Bornibus-sinnepinu er hér notað í orðaleik með líkinguna við afturbeygða sagnorðið „se borner“ sem merkir að setja sér mörk,)

Dæmið um sinnepskrúsina og leirvasann leyfir okkur að kynna til sögunnar það hringtorg sem höfuðvandi „Þingsins“ hefur snúist um, allt til þess að verða grundvallaratriði siðfræðinnar og felst einfaldlega í spurningunni hvort heimurinn hafi verið skapaður af skyni gæddri veru. Ef Guð skapaði heiminn, hvernig stendur þá á því að heimurinn sé í jafn slæmu ástandi og raun ber vitni, óháð því hvað við tökum okkur fyrir hendur?

Leirkerasmiðurinn hefur verk sitt með Því að hafa á milli handanna meira eða minna fíngerðan leirklump. Það er einmitt á þessum punkti sem trúboðar okkar setja okkur stólinn fyrir dyrnar, rétt til að láta okkur hlusta á kvalastunur leirklumpsins í höndum leirkerasmiðsins. Trúboðinn lætur hann tala með sem átakanlegustum hætti, allt að kvalastununum, og lætur hann spyrja skapara sinn hvers vegna hann fari um sig jafn hörðum höndum – eða þvert á móti, jafn mjúkum höndum. Það sem er hins vegar á huldu í þessari goðafræði sköpunarsinnanna, og merkilegt nokk, einnig hjá þeim sem styðjast við dæmið um vasann, sem er svo kunnuglegur í hugmyndasmíðum um sköpunarferlið (ég sagði ykkur að þeir væru alltaf rithöfundar sem starfa af gildum ástæðum á mörkum trúarbragða og goðafræði) – það er sú staðreynd að vasinn er búinn til úr áþreifanlegu efni. Ekkert er búið til úr engu.

Öll heimspeki fornaldarinnar snýst um þetta atriði. Ef okkur reynist erfitt að hugsa aristótelíska heimspeki, þá er það vegna þess að hana verður að hugsa út frá þeirri forsendu sem aldrei gleymir því að efnið er eilíft og að ekkert er gert úr engu. Sem felur aftur í sér að við erum djúpt sokkin í mynd af heiminum sem opnar aldrei fyrir þann möguleika, ekki einu sinni fyrir sjálfan Aristóteles – og það er erfitt að hugsa sér jafn voldugan hugsuð í gjörvallri sögu mannsandans – að stíga út fyrir það lokaða rými sem himinhvolfið myndar fyrir augum hans, og þar með að sneiða hjá því að hugsa heiminn, einnig heim mannlegra samskipta eða heim tungumálsins, eins og það sem er innifalið í þeirri eilífu náttúru sem er í grunni sínum takmörkuð.

Ef við lítum nú á vasann út frá því sjónarhorni sem ég gekk út frá í upphafi, að hann væri hlutur skapaður til að standa fyrir eða sýna (represent) tilvist tómsins sem miðju þeirrar raunveru sem við köllum „Þingið“, þá er þetta tóm eins og það sýnir sig í sýningunni sem nihil, sem ekkert. Það felur í sér að leirkerasmiðurinn, rétt eins og þú sem ég nú tala til, skapar vasann með eigin höndum utan um þetta tóm, skapar það rétt eins og hinn dularfulli skapari, ex nihilo, þar sem byrjað er á holinu.

Allir búa til brandara um makkarónurnar, því þær eru hol með eitthvað utan um sig, eins og fallbyssuhlaupin. Sú staðreynd að þetta kitlar hláturtaugarnar breytir ekki staðreynd málsins, því hér blasir við að það að búa til nefnara og að búa til holrými í raunverunni er eitt og hið sama.

René Magtritte: Representation („Endursýning“), 1937

 

Mér er minnisstæð kvöldstund sem ég átti með einum af afkomendum þeirra konunglegu bankamanna sem höfðu tekið á móti skáldinu Heinrich Heine, þegar hann kom Parísar fyrir um hundrað árum síðan. Ég kom honum á óvart með fullyrðingum mínum um nútíma vísindi – ég held að undrun hans sé enn vakandi og ekki undir það búin að jafna sig – en fullyrðingin varðaði tilkomu þeirra vísinda sem við kennum við Galileo Galilei, nánar tiltekið að þessi vísindi hefðu einungis getað fæðst og þróast út frá biblíulegri eða gyðinglegri hugmyndafræði, en ekki út frá fornri heimspekihefð eða hinni Aristótelísku hefð. Sívaxandi geta og máttur tákngervingarinnar hefur ekki linnt látum við útvíkkun athafnasviðs síns frá tímum Galileo, og hefur heldur ekki linnt látum við að gleypa í sig öll þau fyrirbæri er gætu hugsanlega takmarkað athafnasvæðið við tiltekin svið upplýsinga. Með því að veita leiknum með nefnarana óheft athafnasvæði hafa orðið til vísindi sem stefna að sívaxandi samsvarandi heild, án þess þó að nokkuð skipti minna máli en það sem er til staðar á hverjum tíma.

Með öðrum orðum, þá er himinhvolfið ekki lengur til, og allir himnakropparnir sem eru hér besta viðmiðunin, birtast okkur eins og þeir gætu allt eins ekki verið til staðar. Raunveruleiki þeirra, eins og tilvistarstefnan myndi segja, einkennist fyrst og fremst af staðreyndatali, þeir eru í grundvallaratriðum skilyrtir (contingent).

Rétt er líka að minna á að það sem okkur er tjáð með orku/efnis-jöfnunni er að einn góðan veðurdag gætum við séð alla samloðun birtingarmyndarinnar sundurtætta, allt út frá gjánni (gap) sem við höfum fest í hana, þannig að öll myndin gæti horfið okkur sjónum.

Með tilkomu þessa tilbúna nefnara, sem er vasinn, höfum við þegar til staðar skilning á sköpun sem er ex nihilo (úr engu). Og þessi skilningur á sköpun ex nihilo er fullkomlega samsvarandi stöðu „Þingsins“ sem slíks. Það er einmitt á þessu sviði sem framsetning og jafnvægisstilling siðferðilegra vandamála hefur verið staðsett í gegnum aldirnar, en einkum þó á þeim öldum sem standa okkur næst og hafa haft mótandi áhrif á okkur.

Til er staður í Biblíunni sem einkennist af glaðlegri bjartsýni, og segir okkur að Drottinn hafi lokið við hinn fræga sex daga sköpunargjörning sinn og hugleitt hann í lokinn og séð að hann var „harla góður“. Við getum sagt það sama um leirkerasmiðinn við verkalokin – verkið er gott, það er heilsteypt, það er umlykjandi. Með öðrum orðum þá er það ávallt gott frá sjónarhorni verksins.

Engu að síður vita allir hvað getur komið úr vasa eða hvað hægt er að láta í hann. Augljóslega er engin bjartsýni réttlætanleg út frá því hvernig málin ganga fyrir sig í heimi mannanna eða hvað þau kunna að leiða af sér. Þannig hefur kreppa samviskunnar kristallast út frá spurningunum um ávinning eða kostnað verksins, en að minnsta kosti á Vesturlöndum hafði þessi samviska verið í jafnvægisástandi sem lauk á tímanum sem ég vísaði í um daginn, þegar ég vitnaði í sígilda setningu Marteins Lúthers – manns sem lengi hefur nagað kristilega samviskusemi. (Hér notar Lacan orðaleik um tvíræða merkingu franska orðsins conscience, sem getur bæði merkt samvisku og (með-vitund. ) En Lúther hélt því fram að vinnan eða gjörningurinn væru ekki innistæður verðleika.

Hér er ekki um neina ómerka trúvillu að ræða. Það eru gild rök fyrir slíkri afstöðu. Til þess að skilja betur á trúflokkaflóðið, sem hefur meðvitað eða ómeðvitað orðið viðskila vegna spurningarinnar um hið illa, er upplagt að styðjast við þá einföldu þrískiptingu sem útlegging okkar á dæminu um vasann kennir okkur.

Í erfiðri leit mannsins að uppruna hins illa upplifir hann sig standa frammi fyrir þrem kostum, því um aðra er ekki að ræða.

Það er gjörningurinn, verkið, og þetta er afneitunarafstaða sem aðrir hópar hefðbundinnar visku en okkar hafa tileinkað sér. Sérhvert verk er í sjálfu sér skaðlegt, og það hefur í för með sér afleiðingar sem hafa að minnsta kosti jafn margar neikvæðar og jákvæðar hliðar. Þessi afstaða birtist með formlegum hætti í Taoisma, svo dæmi sé tekið, að því marki að það er varla liðið að menn noti til dæmis vasa sem skeið – með því að innleiða skeiðina í heiminn hefur heimurinn þegar öðlast flóðbylgju díalektískra mótsagna.

Svo er það efnið. Þar mætum við þeim kenningum sem ég geri ráð fyrir að þið hafið heyrt eitthvað um, en það eru kenningar trúarhóps sem kenndur er við Katara – nafn sem við vitum ekki hvaðan er komið. Þetta er mál sem kallar á smá umfjöllun.

3.

Ég ætla ekki að flytja ykkur fyrirlestur um Katara-trúna, en ég mun benda ykkur á hvar hægt er að finna góða heimild um efnið, í bók sem þið hafið örugglega heyrt minnst á, nefnilega Love and the Western World eftir Denis de Rougement. Það er hvorki besta bókin um efnið, né hin djúphugsaðasta, en hún er skemmtilestur.

Ég las mig í gegnum þetta í endurskoðaðri útgáfu, og við seinni lesturinn voru vonbrigði mín minni en ég átti von á. Mér líkaði lesturinn næstum því. Í bókinni má finna alls konar staðreyndir í tengslum við hina sérstöku kenningu höfundarins, og þessar staðreyndir hjálpa okkur að skilja þá djúpstæðu kreppu sem hugmyndafræði eða öllu heldur guðfræði Kataranna stendur fyrir, andspænis þróunarsögu vesturlenskrar hugsunar. Því hér snýst málið um hinn Vesturlenska mann, jafnvel þótt höfundurinn sýni okkur að vandamálið eigi frekar rætur sínar við jaðarmörk þess sem við erum vön að kalla Vestrið. En þetta er hugtak sem ég hef engar sérstakar mætur á, og enginn ætti að líta á sem miðlægt hugtak í minni hugsun.

Engu að síður gerist það á vissum tímapunkti í lífi Evrópubúa að þeirri spurningu er varpað fram, hvað sé í raun og veru rangt við sköpunina sem slíka. Þessi spurning var sett fram af fólki sem bjó við hugsanagang sem við getum illa gert okkur grein fyrir, né heldur hvaða djúpstæðari hugsanir sú trúarlega og dulspekilega hreyfing stóð fyrir sem við kennum við Katara-trúvilluna. Jafnvel má segja að um sé að ræða eina dæmið í sögunni þar sem tímabundið yfirvald reyndist svo afgerandi að því tókst að nánast þurrka út öll spor réttarhaldanna. Þannig voru hin hörðu viðbrögð (tour de force) hinnar heilögu Kaþólsku kirkju í Róm. Við erum háð heimildaleit í skúmaskotum og fáar þessara heimilda eru áreiðanlegar. Dómsskjöl Rannsóknarréttarins eru horfin, og allt sem við finnum eru örfá óbein vitni hér og þar. Til dæmis er munkur af reglu Dómenikana sem segir okkur að Katarar hafi verið gott fólk með djúpa kristna trú og það hafi lifað einstaklega hreinu og siðavöndu lífi.

Ég get vel keypt það að siðavendni þeirra hafi einkennst af óvenjulegum hreinleika, því þeim bar í grunninn að forðast sérhvern þann verknað er gæti með nokkrum hætti orðið til eilífðar-framlengingar heimsins, sem þeir töldu að væri óhreinn og illur í kjarna sínum. Þannig var hin fullkomna iðja fólgin í viðleitninni að öðlast dauða með eins kærulausum hætti og unnt var, því það fæli í sér endursameiningu við þann Edenlíka heim sem einkennist af hreinleika og ljósi, hinn sanna heim hins upprunalega og góða Skapara eða Frumglæðis. En sköpunarverk hans hafði verið saurgað með aðkomu hins illa Skapara. Sá síðarnefndi hafði innleitt þann skelfilega þátt í heiminn sem fólst í getnaði og spillingu, sem er það sama og umbreyting.

Hugmyndin um að varanleiki efnisins sé rót hins illa á rætur sínar í hugmyndum Aristótelesar um umbreytingu eins efnis yfir í annað efni sem síðan framlengist sjálfkrafa

Eins og þið sjáið, þá er lausnin einföld. Hún felur í sér vissa samkvæmni, þó hún feli ekki í sér allan þá rökfestu sem við teldum ákjósanlega.

Ein þeirra sjaldgæfu áreiðanlegu heimilda sem við höfum um þessi mál – því við vitum í raun og veru ekki hvað fólst í grundvallar kenningu Katara -, er seinni tíma verk, sem þess vegna býður upp á vissar efasemdir. Þessi heimild fannst 1939 og var gefin út undir titlinum Book of Two Principles. Það er auðvelt að nálgast hana í ágætri bók sem nefnist Cathar Writings og René Nelli ritstýrði.

Hið illa býr í efninu. En hið illa getur líka verið annars staðar. Spurningunni er ósvarað. Svarið er hins vegar óhjákvæmilegur lykill, ef við viljum skilja hvaða sögulegi atburður varð til þess að breyta siðferðishugsun mannsins gagnvart hinu illa. Hið illa getur ekki eingöngu verið bundið við verkin og gjörðirnar, ekki við hinn andstyggilega efnisheim – sem öll meinlætaviðleitni beinist þar af leiðandi gegn – án þess að rata inn í þann heim sem við kennum við dulhyggju, og gæti allt eins verið kallaður goðsagnalegur eða jafnvel ímyndaður heimur blekkinga – hið illa gæti leynst í „Þinginu“.

René Magritte: Ógnardagar, 1928

Hið illa gæti verið í „Þinginu“ að því tilskyldu að það sé ekki nefnarinn sem stýrir verkinu eða að því tilskyldu að hann sé ekki inntak verksins. sem það er heldur ekki efni verksins, heldur einungis að því marki sem það viðhaldi nærveru mannlega þáttarins í hjarta sköpunargoðsagnarinnar sem allt hitt hvílir á. Innan sviga mætti taka fram að hvað sem við tökum okkur fyrir hendur, jafnvel þó þú gefir skít í Skaparann – þá er það engu að síður satt, að þú hugsar um ímynd hins illa og nálgast það á forsendum sköpunarsinnans.

„Þingið“ skiptir hér máli að því marki sem það er hugsað út frá þeirri staðreynd að það skilgreini mannlega þáttinn, – jafnvel þó við vitum mætavel að mannlegi þátturinn gengur okkur úr greipum.

Við getum ekki skilgreint „mannlega þáttinn“ í þessu samhengi öðruvísi en þeim sem ég skilgreindi „Þingið“ rétt í þessu, það er að segja sem það í raunverunni sem þjáist fyrir tilverknað nefnarans.

Hafið nú eftirfarandi í huga: hugsun Freuds kennir okkur að spyrja spurningarinnar hvað það sé í raun og veru sem við finnum í kjarna nautnalögmálsins, en það er nokkuð sem er handan nautnalögmálsins og að öllum líkindum það sama og ég kallaði um daginn hinn grundvallandi góði eða illi vilji. Auðvitað er það rétt að hvers kyns gildrur og freistingar koma fram í hugsun manns, eins og til dæmis hvað það er sem við köllum mann – eins og það væri leikur einn að skilgreina mann – sé í grundvelli sínum gott eða illt. En spurningin snýst ekki um það, heldur öllu frekar um heildina. Staðreyndin er sú að maðurinn býr sjálfur til þennan nefnara og kynnir hann fyrir heiminum. Með öðrum orðum, þá verðum við að vita hvað hann býr til þegar hann býr það til í mynd „Þingsins“ þegar það er höfuðeinkenni „Þingsins“ að ekki er mögulegt að ímynda sér það. Það er hér sem við rekumst á vandamál göfgunarinnar.

Þetta er ástæða þess að ég hef valið sögu Minne (orð notað um mansöngva frá miðöldum) sem upphafspunkt. Ég byrja þar vegna einstaks gildis þessarar ljóðahefðar, og vegna þess að orðið er án allrar tvíræðni á þýsku. Minne er gjörólíkt Liebe, en í frönsku höfum við einungis eitt orð, „amour“ eða ást.

Vandamálið sem sett var fyrir áðurnefndan höfund varðar tengslin sem kunna að vera á milli hinnar mjög svo djúpu og leyndu trúvillu sem varð ríkjandi í Evrópu undir lok elleftu aldar – án þess að við vitum nákvæmlega hversu langt aftur í söguna þetta náði annars – og þeirrar birtingar, framsetningar og innleiðingar heils siðaramma sem var fullkomlega siðfræðilegur lífsmáti og kallaðist hofmannaástir (courtly love).

Það eru engar ýkjur að halda því fram að þegar menn hafa einu sinni rannsakað allar sögulegar, félagslegar, pólitískar og hagfræðilegar aðstæður og beitt öllum tiltækum túlkunaraðferðum hinnar samfélagslegu yfirbyggingar, þá hafa sagnfræðingar samtíma okkar sammælst um að vandinn sé óleysanlegur.

Ekkert getur gefið okkur sannfærandi skýringu á vinsældum þessarar einstöku tísku á tímum sem – trúið mér – voru alls ekki svo umburðalyndir eða siðmenntaðir. Þvert á móti var um að ræða samfélag sem var skríða út úr fyrsta tímaskeiði lénsveldisins, sem hægt er að lýsa í stuttu máli sem afmörkuðu landsvæði er stýrt var af glæpamönnum. Einmitt þar finnum við skyndilega siðareglur er stýra sambandi manna og kvenna er bera öll einkenni stórfurðulegrar þversagnar.

Með hliðsjón af tíma okkar þá ætla ég ekki að hefja umræðuna um þetta í dag. Þið ættuð hins vegar vera undirbúin undir það sem ég ætla að fjalla um næst. Það mun hafa með hin tvíræðu og leyndardómsfullu vandamál hins kvenlega viðfangs að gera.

Látið ykkur ekki til hugar koma að þetta sé eitthvað er varði mig sérstaklega. Ég mun ekki reyna að beita mínum veika rannsóknarmætti á þetta viðfangsefni. En sú staðreynd að þetta viðfangsefni lofgerðar, þjónslundar, hollustu og hvers kyns tilfinnigasemi staðlaðrar hegðunar sem einkennir dýrkendur hofmannaástanna gagnvart hefðardömunni, fær einn fræðimanninn til að segja að svo virðist sem þessir söngvarar hafi allir verið að lofsyngja sömu persónuna. Og það er staðreynd sem við getum reiknað með að skilji eftir spurningarmerki. Fræðimaðurinn sem hér um ræðir er Hr. André Morin, prófessor í bókmenntadeild Université de Lille, en við eigum honum einnig að þakka vandaða safnútgáfu Minnesang, sem Aubier gaf út.

Sköpunarverkið sem hér um ræðir er angi viðfangsefnis sem á eðlilega eftir að vekja furðu okkar: hvað var hið raunverulega hlutverk þeirra mannvera af holdi og blóði sem hér áttu hlut að máli? Okkur er ekkert að vanbúnaði að nefna þessar hefðarkonur og fólkið sem var í miðri útbreiðslu þessa nýja stíls og lífsmáta á því tímaskeiði sem hann varð til. Við þekkjum fyrstu stjörnurnar í þessari félagslegu farsótt jafn vel og við þekkjum Herra Sartre og Frú de Beauvoir. Eleanor frá Aquitaine er engin goðsagnavera, ekki frekar en dóttir hennar, greifynjan af Champagne.

Aðalatriðið verður að sjá hvernig vissar af þeim gátum, sem sagnfræðingarnir hafa sett fram um þessi mál, má leysa út frá þeirri kennisetningu sem ég er hér að halda fram, kennisetningu sálgreiningarinnar. Að hve miklu leyti leyfir hún okkur að skýra fyrirbærið sem göfgunargjörning (work of sublimation) í sinni hreinustu mynd?

Þið munið sjá í smáatriðum hvernig það var gerlegt að gefa viðfangi, sem í þessu tilfelli var kallað Hefðarfrúin (The Lady) gildi þess að standa fyrir „Þingið“. Til þess að gefa ykkur hugmynd um slóðina sem ég ætla að rekja til þess augnabliks er ég yfirgef ykkur í Febrúar, þá bið ég ykkur að taka eftir að þetta mun gefa mér færi á að fylgja málinu eftir og sýna fram á þau áframhaldandi þróunarferli er varða tilurð þess sem við köllum hið kvenlega viðfang, þar á meðal hvernig þetta vandamál snýr að okkur í dag. Við munum nálgast viðfangsefnið út frá hinum greinandi formgerðum.

Eftir febrúarhléið er markmiðið að leyfa ykkur að reikna út frumleikann í framlagi Freuds til þessara mála.

Hugmyndin um sköpun er samtvinnuð hugsun ykkar. Þið getið ekki hugsað, enginn getur hugsað, nema á forsendum sköpunar. Það sem ykkur er tamast í hugsanagangi ykkar, það er að segja þróunarhyggjan (evolutionism), er innbyggt í ykkur eins og samtímafólk ykkar, eins og varnarviðbúnaður og viðhald í trúarlega handfestu sem kemur í veg fyrir að þið sjáið það sem er að gerast í heiminum í kringum ykkur. Hvort sem þið vitið það eða ekki, þá er það er ekki vegna þess að þið (og allir aðrir) eruð fangin í hugsuninni um sköpunina sem Skaparinn er stöðugt í sjónmáli ykkar.

Það er augljóst að Guð er dauður. Það er nokkuð sem Freud tjáir frá upphafi til enda goðsagnar sinnar. Þar sem Guð stafar af þeirri staðreynd að Faðirinn er dáinn, þá merkir það augljóslega að við öll höfum skilið að Guð er dauður. Það er líka ástæða þess að Freud veitir efninu svo mikla athygli. Um leið er það svo að það er hinn upprunalega dauði Faðir sem Guð endurleysir, þá var hann einnig dauður frá byrjun. Spurningin um Skaparann hjá Freud tengist þess vegna í dag við það sem heldur áfram að virka á þessu sviði.

Þetta er markmið rannsóknar okkar í ár; form spurningarinnar um hvað „Þingið“ er í raun og veru kallar á andsvar okkar. Það er nokkuð sem Freud hugleiðir í sálfræði hvatanna, en það sem hann kallar Trieb getur með engu móti takmarkast við hinn sálfræðilega skilning. Um er að ræða fullkominn verufræðilegan (ontological) skilning, sem er andsvar við samviskukreppu sem okkur ber skylda til að bera kennsl á, því við erum að upplifa hana.

Hvernig svo sem við upplifum samviskukreppuna, þá er markmið þess sem ég er að reyna að opna augu ykkar fyrir jafnframt tilraun til að gera ykkur hana ljósa.

René Magritte: Að gera hið ómögulega, 1928. Höfundur málar málverlið, höfundur málar „fyrirmyndina“ og sjálft málverkið. Fyrirmyndin er Georgette Magritte, eiginkona málarans.

Forsíðumyndin er málverkið „Falskur spegill“ eftir René Magritte frá 1928

LACAN: HLUTURINN OG GÖFGUN HANS

LACAN SKYNJAR "HLUTINN Í SJÁLFUM SÉR" Í GEGNUM ELDSPÝTUSTOKKINN

Í framhaldi af færslunni með ritgerð Heideggers um "das Ding - leirkrúsina" og fyrirlestri Agambens um Kant og Heidegger er við hæfi að birta kaflabrot úr Sjöunda Seminari Jacques Lacans um Siðfræði sálgreiningarinnar, þar sem sömu mál eru á dagskrá, en skoðuð frá gjörólíku sjónarhorni. Það eru fyrirlestrarnir um "das Ding" eða "þingið" sem hefur sérstaka merkingu í sálgreiningu Freuds sem Lacan tengir jafnframt við göfgunarhugtakið, sem hann tók upp frá Kant en túlkaði á sinn hátt. Freud tengir "þingið" við löngunina, en Lacan þróar þær hugmyndir lengra og dregur í því skyni fram gamla endurminningu sem hann hafði frá stríðsárunum um veggskreytingu sem hann hafði séð á heimili vinar síns, ljóðskáldsins Jacques Prévert, og var gerð úr tómum eldspýtustokkum. Þessi veggskreyting verður Lacan tilefni til skýringar á eldspýtustokknum sem "das Ding", sem verður hjá honum mynd er nær langt út yfir hinn einfalda nytjahlut, rétt eins og lýsing Heideggers á leirkrúsinni. Lacan sér í veggskreytingu Préverts dæmi um göfgun hlutarins þar sem hann hefur verið gæddur nýju gildi sem er í senn listrænt og siðferðilegt. Þó nálgunaraðferð Lacans sé allt önnur en Heideggers, þá eru hugmyndir þeirra skyldar, þar sem þeir ganga gegn hefðbundinni frumspekilegri skilgreiningu til þess að nálgast kjarna hlutarins sem veru. Lýsing Lacans á eldspýtnaverkinu er tvíræð og hefur í senn erótíska vísun, þar sem "skúffa" eins eldspýtustokks er hálfopin og stunginn inn í þann næsta og þannig koll af kolli í eins konar æxlunarleik, sem jafnframt hefur óbeina vísun í skilning Lacans á tungumálinu, sem hann segir, ólíkt Freud, að stýri dulvitund mannsins. Út frá Saussure leggur Lacan áherslu á vensl hugtakanna /orðanna og hlutanna sem þau vísa til. Þar eru orðin "signifier" (hér þýtrt sem nefnari) og hluturinn "signified" (hér þýtt sem "hið nefnda"). Samkvæmt skilningi Lacans á tungumálinu geta "nefnarar" endanlega ekki vísað í annað en annan "nefnara" sem gerir það að verkum að tungumálið byggir á keðju nefnara. Keðja eldspýtustokkanna í stofu Préverts verður þannig eins og mynd af tungumálinu, þótt Lacan komistr ekki þannig að orði í þessum fyrirlestri. En umfjöllunin um eldspýtustokkana og "göfgun" þeirra verður að mikilvægu forspjalli um hofmannaástirnar sem Lacan fjallar um í næstu fyrirlestrum. Það er framhaldssaga þessa fyrirlesturs, sem er eins og öll seminör Lacans, munnleg blaðalaus framsetning, skráð af nemendum hans og síðan yfirfærð í einar 20 bækur sem tengdasonur Lacans, sálgreinirinn Jacques-Allain Miller hefur séð um útgáfu á. Þessi seminör eru einstök í evrópskri bókmenntasögu, því bindin 20 eru ekki skrifuð af höfundi sínum, heldur nemendum hans, sem voru tilvonandi fagfólk í sálgreiningu. Hugmyndir Lacans um listræna sköpun og tengsl hennar við göfgunina, löngunina og lífshvötina hafa grundvallar þýðingu í allri listgagnrýni okkar tíma, og þar skiptir greining Lacans á ástarsöngum miðalda í Þýskalandi og Frakklandi ekki síst máli, það sem við köllum ljóðlist hofmannaástarinnar. Fyrir nokkrum árum snéri ég kaflanum um hofmannaástirnar á íslensku og er hann hér á vefsíðunni sem 10. fyrirlestur námskeiðsins. Níundi fyrirlesturinn um "sköpun úr tóminu" er væntanleg hér á síðuna sem framhald þessarar umræðu.
Jacques Lacan:

Siðfræði sálgreiningarinnar

Hluturinn og hin listræna göfgun
Eldspýtustokkurinn og das Ding

Seminar VII; Seinni hluti 8. fyrirlesturs: „Hluturinn og þingið“

(Endursögn úr enskri þýðingu Dennis Porter The Ethics of Psychoanalysis 1959-1960, Routledge útgáfan 2008, ritstj. Jacques-Allain Miller)

Hafið í huga að ekkert rétt gildismat á göfgun í listum er mögulegt ef við horfum framhjá þeirri staðreynd að öll listræn framleiðsla, en einkum þó myndlistin, er sögulega skilyrt. Við málum ekki málverk á tíma Picasso með sama hætti og málað var á tímum Velazquez, við skrifum ekki skáldsögu á fjórða tug 20. aldar eins og gert var á tíma Stendhal. Þetta er grundvallar atriði sem  við þurfum ekki að setja undir mælistiku hins félagslega eða einstaklingsbundna, allavega ekki í bili. Við getum þá sett það á menningarbásinn. Hvað er það sem samfélagið sér jákvætt í þessu mati? Það er spurningin sem við leitum svars við.

Vandamál göfgunar (sublimation) er til staðar, þeirrar göfgunar er getur af sér tiltekinn fjölda forma, sem heyra ekki bara undir listirnar, en við munum hins vegar einbeita okkur sérstaklega að einni listgrein, bókmenntunum, sem standa svo nærri sviði hins siðferðilega. Þegar allt kemur til alls, þá er það virkni siðferðisins sem setur okkur mælikvarða gildisdóma á göfgunina: það skapar gildi sem eru viðurkennd af samfélaginu.

Hversu þversagnarkennt sem það kann að virðast, þá held ég að við verðum að taka mið af þeim hugsunum sem ollu straumskiptum í þessu gildismati, en það eru sjónarmið Kants á þessu sviði.

Ásamt með hugmyndinni um das Ding (Hlutinn, þingið), sem við vonum sannarlega að leggist á jákvæðu vogarskálina, þá mætum við á hinn bóginn hugmyndum Kants um skylduna. Það er önnur leið til að leggja á vogarskálarnar. Kant boðar setningu algildra siðareglna sem eru með öðrum orðum  þyngdarafl rökhugsunarinnar. Auðvitað situr þá eftir að meta hvernig þetta þyngdarafl leggst á mannfólkið.

Það hefur alltaf augljósan kost í för með sér að lesa höfunda á frummálinu. Um daginn vakti ég athygli ykkar á hugtakinu Schmerz, sársauka, sem fylginaut siðferðilegrar breytni. Ég tók eftir því að jafnvel sum ykkar sem þekktu þessa texta fyrir, náðu ekki að skilja ábendingu mína. En ef við opnum núna Kritik der reine Vernuft (Gagnrýni hreinnar skynsemi), þá getum við séð að Kant hefur dregið fram kennslufræðileg dæmi sem eiga að auka skilning okkar á þungavigt skynseminnar. Og þessi dæmi eru stórbrotin í  skýrleika sínum. Um er að ræða tvöfalda dæmisögu sem á að fá okkur til að finna þungann af siðferðislögmálinu með hreinum og einföldum hætti, hina voldugu yfirdrottnun skyldunnar gagnvart öllu því sem menn kunna að upplifa sem lífsnauðsynlega löngun.

Lykilinn að sönnuninni liggur í samanburði tveggja aðstæðna. Hugsum okkur, segir Kant, að til þess að öðlast stjórn á öfgum skynfíkilsins (sensualist) séu settar upp tvær sviðsmyndir: Við höfum svefnherbergi þar sem konan sem hann girnist dvelur. Honum er veitt leyfi til að fara í þetta herbergi og fullnægja löngun sinni eða þörf, en handan við útgöngudyrnar sem hann þarf að fara í gegnum að athöfninni lokinni, býður hans gálgi sem hann verður hengdur í. Þetta er þó smáatriði, og ekki kjarninn í siðaboðskap Kants. Við erum rétt ókomin að lyklinum að sönnuninni. Hvað Kant varðar, þá fer ekki á milli mála að gálginn sé fullnægjandi hemill á lönguninni: engum dettur í hug að fara að ríða konu þegar hann veit að hans býður henging að afloknu verki.

Næst kemur hins vegar sviðsmynd þar sem útkoman er sambærileg í hryllingi sínum, en þar varðar málið harðstjóra sem býður einhverjum að velja á milli gálgans og þess greiða að bera fram falsvitni gegn vini sínum. Kant leggur hér réttilega áherslu á að vel megi skilja þann sem kýs eigið líf fram yfir það að bera falsvitni, sérstaklega ef fyrirfram er vitað að hinn falsi vitnisburður muni ekki hafa hörmulegar afleiðingar fyrir vininn.

Það sem hér skiptir meginmáli er að vald sönnunargagnsins er hér sett í hendur veruleikans – til raunverulegrar hegðunar einstaklingsins. Kant biður okkur að hugleiða hér áhrifamátt þunga raunveruleikans, en sá þungi er að mati Kants jafngildur þunga skyldunnar.

Með því að fylgja þessari frásögn uppgötvum við að eitthvað hefur farið úrskeiðis. Þegar öllu er á botninn hvolft, þá er ekki hægt að útiloka þær aðstæður að viðkomandi persóna í fyrra dæminu myndi kannski ekki bjóða sig fram til að verða hengdur, en að minnsta kosti hugleiða þann valkost.

Heimspekingurinn okkar frá Köningsberg var sómamaður, og ég myndi ekki gefa í skyn að hann væri að einhverju leyti lítilmótlegur eða ástríðulaus, en hann virðist ekki hafa hugleitt vissar aðstæður sem Freud hefði kallað Űberschätzung eða ofmat viðfangsins – og ég myndi hér eftir kalla göfgun hlutarins. En það eru aðstæður þar sem ástarástríðan öðlast sérstaka þýðingu (og eins og þið munið sjá, þá stefnir sú díalektík sem ég ætla nú að leggja fyrir ykkur í þessa átt, þar sem ég hugsa mér að kenna ykkur hvernig hægt er að samsama sig við það sem göfgunin felur í raun í sér). Þetta á sérstaklega við um göfgun (sublimation) hins kvenlega viðfangs, upphafningu þess sem við köllum ást – ein tegund upphafningar sem á sér sögulegar rætur.

Í stuttu innslagi sem ég átti með ykkur um daginn gaf Freud okkur innsýn í þetta mál, þar sem hann segir að í nútímanum beinist libido (lífshvötin) að viðfanginu eða hlutnum, frekar en að eðliávísuninni (nokkuð sem vekur mikilvæga spurningu sem ég mun með ykkar leyfi kynna ykkur fyrir. En það er viðfangsefni sem kallar á nokkrar kennslustundir um fyrirbæri í þýskri sögu sem ég tengdi um daginn við söguna af Hamlet, nefnilega Minne (ást eða mansöngvar á miðaldaþýsku), með öðrum orðum kenningasmíð og iðkun hofmannaásta (courtly love) – og hvers vegna skyldum við ekki eyða völdum tíma í það miðað við allan þann tíma sem við eyðum í þjóðháttarannsóknir almennt? Sérstaklega ef mér tekst að sannfæra ykkur um að þetta varði sérstaklega viss tengsl okkar við hlutina, sem eru óhugsandi án þessara sögulegu forsendna). Þannig er það hugsanlegt við sérstakar aðstæður göfgunar (sublimation) að slík skref séu stigin, eitt af öðru. Hér er að öllu sögðu um heilan flokk sagna að ræða er byggja á hugarórum, ef ekki á sérstökum sögulegum aðstæðum. Einnig höfum við margar hliðstæðar og gildar sögusagnir í dagblöðunum. Allt leiðir þetta að þeirri niðurstöðu að það sé ekki óhugsandi fyrir karlmann að sofa hjá konu vitandi að hann verði sleginn af á útleiðinni, í gálganum eða hvernig sem er (augljóslega flokkast þetta allt undir ástríðuöfgar, fyrirsögn sem vekur margar spurningar). Það er ekki óhugsandi að þessi maður gangist undir slíkan möguleika með köldu blóði – allt fyrir ánægjuna af því að brytja viðkomandi hefðarmey í marga parta, svo dæmi sé tekið.

Hitt dæmið sem við getum séð fyrir okkur á sér ótal fyrirmyndir í annálum afbrotafræðanna. Það er auðvitað dæmi sem breytir aðstæðunum og ekki síst gildi fordæmis Kants.

Ég hef þá dregið fram tvö atriði sem Kant hafði ekki séð fyrir, tvö form yfirgangs (transgression) sem er handan þeirra marka sem venjulega eru eignuð nautnalögmálinu, og eru andstæð því raunveruleikalögmáli sem við höfum til viðmiðs. Um er að ræða yfirgengilega göfgun viðfangsins, sem yfirleitt gengur undir nafninu afvegaleidd siðspilling eða öfuguggaháttur (perversion). Göfgun og perversion eru bæði spunnin úr löngun sem beinir athygli okkar að mögulegri skilgreiningu (hugsanlega í formi spurningar) á öðrum mælikvarða annars eða sama siðferðis, andstætt raunveruleikalögmálinu. Því til er önnur siðferðisregla sem gengur út frá því sem tilheyrir sviði das Ding (hluturinn, þingið). Það er siðferðið sem fær einstaklinginn til að hika þegar hann er kominn á fremsta hlunn með að bera fram falskan vitnisburð gegn das Ding, það er að segja kominn á stað löngunarinnar, hvort sem um er að ræða göfgun eða spillingu.

 

Við erum hér á hálfgerðu ráfi, fylgjandi slóðum greinandi skynsemi, sem er í raun ekki það sama og  annars konar almenn skynsemi hversdagsins. Þegar við komumst á svið das Ding opnast fyrir okkur svið Triebe, hvatanna.  En með hvötunum á ég við, rétt eins og Freud kenndi okkur, nokkuð sem ekki er hægt að fullnægja með málamiðlun og hófstillingu (moderation); með þessari hófstillingu sem samstillir af yfirvegun samskipti manneskjunnar við meðbræður sína á hinum ýmsu þrepum stigveldisins í samræmdri reglu, allt frá hjónabandinu til Ríkisins með stóru R.

Við þurfum nú að hverfa aftur til göfgunarinnar eins og Freud skilgreinir hana fyrir okkur.

Hann tengir göfgunina við Triebe, (hvatirnar) sem slíkar, og það er einmitt þessi tenging sem gerir kenningarsmíðina erfiða fyrir sálgreininguna.

Þið verðið að fyrirgefa að ég skuli ekki lesa fyrir ykkur í dag vissa kafla úr Freud, sem ykkur myndi hugsanlega leiðast, og ég mun taka fyrir við rétt tækifæri, þegar þið hafið skilið gildi þess að taka eina stefnu frekar en aðra varðandi afstöðuna til hinnar freudísku kenningar.

Ég held hins vegar að ég geti ekki viðhaldið áhuga ykkar hér án þess að skýra hvert markmið mitt er, eða hvert ég  vildi leiða ykkur.

Freud segir okkur að göfgun (sublimation) feli í sér sérstakt form fullnægju hvatanna (Triebe), orð sem hefur ranglega verið þýtt sem instinct (eðlisávísun) en ætti að þýðast nákvæmlega sem pulsions (franska) eða „drifts“ (enska) til að leggja áherslu á þá staðreynd að Trieb er í óbeinum tengslum við það sem Freud kallar Ziel þess, það er að segja markmið.

Við skilgreinum göfgun sem nokkuð sem er aðgreint frá hagfræði hinna gagnkvæmu skipta sem hinar bældu hvatir eru venjulega friðaðar með. Markmið hvatarinnar í hinni merkingarlegu staðgegnd (substitution) er symptom (sjúkdómseinkenni). Það er hérna sem virkni nefnarans segir endanlega til sín, því án vísunar í þessa virkni hans getum við ekki greint á milli staðgöngu hins bælda og göfgunarinnar sem hugsanlegra forma á fullnægju hvatarinnar.

Það er þverstæðukennd staðreynd, að hvatirnar geta fundið markmið sín annars staðar en þar sem þau eru, án þess að um sé að ræða þennan nefnda staðgengil sem felur í sér þá ofmetnu byggingu og þá tvíræðni og það tvöfalda orsakasamhengi sem felst í sjúkdómseinkenninu (symptom) sem málamiðlun.

Seinni skilningurinn hefur valdið jafnt kenningasmiðum og sálgreinum endalausum vandræðum. Hvað getur falist í þessum umskiptum á markmiðum? Það snýst um markmið, en ekki bara um einfalt viðfang, og eins og ég lagði áherslu á síðast, enda þótt hið síðarnefnda (viðfangið) komi fljótt í hugann. Við megum ekki gleyma því sem Freud sagði áður, að ekki má rugla skilningi markmiðsins saman við viðfangið eða hlutinn. Hjá Freud finnum við sérstakan kafla um þetta, sem ég mun lesa fyrir ykkur við rétt tækifæri, en ég bendi ykkur á hann hér og nú. Ef ég man rétt, þá er það í Einfűhrung des Narzissmus sem Freud leggur áherslu á muninn sem er til staðar á milli göfgunar (sublimation) og hugsjónar (idealization) hvað varðar viðfangið. Staðreyndin er sú að hugsjónin felur í sér samsemd sjálfsins (subject) og viðfangsins (object), á meðan allt annað á sér stað með göfguninni.

Ég ráðlegg þeim sem lesa þýsku að lesa stutta grein eftir Richard Serba sem birtist í Internazionale Zeitschrift árið 1930 „Zur Problematik der Sublimierungslehre“: hún dregur saman erfiðleikana sem sálgreiningin fann í þessu hugtaki á sínum tíma, – það er að segja eftir afgerandi grein Bernfelds um efnið, og aðra eftir Glover í International Journal of Psychoanalysis, frá 1931: „Sublimation, Substitution and Social Anxiety“. Þessi enska grein mun setja ykkur í enn meiri vanda. Hún er mjög löng og erfið, því hún skautar bókstaflega yfir allar þekktar skilgreiningar sálgreiningarinnar á þessum tíma til þess að sjá hvernig hægt væri að heimfæra þær upp á ólík stig hinnar fræðilegu kenningar. Niðurstaða þessa yfirlits er undravert, það býður upp á endurskoðun allra kenninga sálgreiningarinnar frá upphafi til enda, en þetta sýnir um leið þá miklu erfiðleika sem felast í því að nota göfgunarhugtakið í reynd, án þess að bjóða upp á mótsagnir, sem þessi texti er einnig fullur af.

Ég vildi nú reyna að sýna ykkur, hvernig við ætlum að setja göfgunarhugtakið fyrir okkur, þó ekki væri nema til að gera ykkur kleift að meta virkni þess og gildi.

Fullnæging hvatanna er þannig þversagnakennd, því hún virðist eiga sér stað annars staðar en í áfangastað sínum. Eigum við til dæmis að sættast á það sem Serba sagði, að markmiðið hafi í raun og veru breyst, að það hafi verið kynferðislegt áður, en sé það ekki lengur? Þannig er það reyndar sem Freud lýsir því. Þess vegna ættum við að draga þá ályktun að hið kynferðislega libido hafi afkynjast (desexualised). Þess vegna er dóttir þín mállaus.

Eigum við kannski að sættast á reglu Klein , sem mér virðist reyndar hafa að geyma visst brot af sannleikanum, nefnilega að tala um ímyndaða lausn á staðgengisþörf, á viðgerð er hafi með líkama móðurinnar að gera?

Þessar formúlur munu virka sem ögrun á alla þá sem ekki sætta sig við orðaskýringar, – það er að segja lausnir án eiginlegrar merkingar – í stað þess  að spyrja nánar, hvað felist eiginlega í göfguninni.

Þið ættuð strax að finna á ykkur hvert ég stefni. Göfgunin sem færir hvötunum (Trieb) fullnægju sem er ólík markmiði þeirra – markmiði sem enn er skilgreint sem hið náttúrlega markmið – er einmitt það sem einkennir hið sanna eðli hvatanna, að því marki að það er ekki bara eðlisávísun (instinct), heldur er það í venslum við das Ding sem slíkt, (við hlutinn / þingið) að því marki sem það er ólíkt hlutnum /viðfanginu (object).

Við þurfum að horfa til hinnar freudísku kenningar um narsissískan grundvöll viðfangsins og heimfærslu þess í reglu ímyndunarinnar (imaginary register). Hlutur eða viðfang sem hefur póla eða áttir aðdráttarafls gagnvart manninum í hans opna heimi, hlutur sem vekur áhuga hans vegna þess að hann sér í honum meira eða minna af eigin spegilmynd, – einmitt slíkur hlutur er ekki das Ding, að því marki sem þetta síðastnefnda býr í hjarta hagkerfis lífshvatarinnar (libidinal economy). Því hljóðar almennasta skilgreiningin sem ég get gefið ykkur á sublimation svona: hún reisir viðfang – og ég set mig ekki upp á móti tilgátu um orðaleik í orðanotkun minni – upp í virðingarsæti das Ding.

Þetta skiptir meginmáli, til dæmis, varðandi nokkuð sem ég ympraði á í lok samtals okkar, nokkuð sem ég mun fjalla um í næsta tíma, sem er göfgun hins kvenlega viðfangs. Öll kenningasmíðin um Minne (þýsku mansöngvana frá miðöldum) eða um hofmannaástirnar (courtly love), hafa í raun skipt sköpum. Þó þessi fyrirbæri séu nú algerlega horfin af hinu félagsfræðilega sviði, þá hafa hofmannaástirnar engu að síður skilið eftir sig spor í dulvitund sem við þurfum ekki einu sinni að kalla „sammannlega“, í hefðbundinni dulvitund sem byggir á bókmenntahefð og myndasmíð sem heldur áfram að búa í okkur þegar kemur að samskiptum við kvenkynið.

Þetta viðmót var skapað á meðvitaðan hátt. Það var engan veginn sköpun vinsællar sálar, þessarar frægu og miklu sálar hinna blessuðu Miðalda, eins og Gustave Cohen var vanur að segja. Reglur kurteisrar hegðunar voru mótaðar á meðvitaðan hátt í fámennum bókmenntahópum, og árangurinn varð sá að dýrkun viðfangsins var gerð möguleg, – en fáránleika hennar mun ég sýna ykkur í smáatriðum. Þýskur rithöfundur, sem er sérmenntaður í þessum þýsku miðaldabókmenntum, hefur talað um „absurd Minne“ (fáránlegar ástir) í þessu sambandi. Þessi siðaregla stofnsetti tiltekið viðfang í hjarta tiltekins samfélags, viðfang sem er engu að síður fullkomlega náttúrlegt. Þið skulið ekki ímynda ykkur að fólk hafi elskast minna á þessum tímum en við gerum.

Viðfangið er hafið upp í virðingarsæti das Ding eins og við skilgreinum það í okkar freudisku staðfræði – að því marki að það sé ekki innritað eða flækt í vef markmiðanna (Ziele). Forsenda þess að við höfum getað útskýrt fyrirbæri sem frá félagsfræðilegu sjónarhorni hafa alltaf birst okkur sem hrein þverstæða, byggist á því hvort þetta nýja viðfang hafi á vissu tímabili hlotið virðingarstöðu das Ding í virkni sinni.

Við munum vissulega ekki geta tæmt það forðabúr ummerkja, helgisiða, þjóðhátta og siðaskipta, ekki síst á bókmenntasviðinu, sem hafa falið í sér efnislegan kjarna þessa áhrifavalds í mannlegri breytni, sem við köllum hofmannaástir eða Minne, en hafa reyndar átt sér ólíkar nafngiftir í tímans rás eftir stað og stund. Munið bara að þeir karla- og kvennaklúbbar í upphafi sautjándu aldar sem kenndir voru við La littérature precieuse  (gersemdabókmenntir) eru aðeins síðasta birtingarmynd þessa fyrirbæris á okkar sviði.

Þar með hefur síðasta orðið alls ekki verið sagt um efnið, því ekki dugar að afgreiða málið með því að segja bara „þetta aðhöfðust þeir“ eða „svona var þetta“, þar sem þessi háttsemi blómstraði og gegndi sínu hlutverki. Mér er ekki bara umhugað um að færa ykkur lykil að þessu sögulega skeiði; það sem endanlega vakir fyrir mér er bæði að ná betri tökum á vissu atriði sem varðar das Ding, nokkuð sem við höfum orðið fyrir í gegnum samfélagslegt uppeldi okkar allra og kallar á frekari skilgreiningu, en gengur nú undir hugtakinu list. Um er að ræða skilning á atferli okkar á sviði göfgunarinnar.

Skilgreiningin sem ég gaf ykkur lokar ekki umræðunni, í fyrsta lagi vegna þess að ég verð að staðfesta málavextina og lýsa þeim fyrir ykkur, og í öðru lagi vegna þess að ég þarf að sýna ykkur að ef tiltekið viðfang af þessu tagi rekst á fjörur okkar, þá hlýtur eitthvað að hafa gerst er varðar samband viðfangs og löngunar. Þetta verður ekki réttilega skýrt án vísunar í það sem ég sagði í fyrra um langanirnar og atferli þeirra.

 

Ég ætla að ljúka þessu í dag með lítilli dæmisögu sem ég vildi að opnaði ykkur sýn á það sem gerist við göfgunina, en það er dæmi sem er reyndar bæði krefjandi og þversagnakennt. Þar sem við höfum haldið okkur í dag á sviði viðfangsins og das Ding, þá langar mig til að sýna ykkur hvað felst í því að uppgötva hlut hugsaðan fyrir sérstakan tilgang sem samfélagið gæti metið að verðleikum og látið sér vel lynda.

Ég leitaði í minningabanka minn í þessum tilgangi, í nokkuð sem þið getið, ef ykkur þóknast, sett undir hina sálfræðilegu kví söfnunaráráttunnar. Maður nokkur sem nýverið gaf út bók um safnara og það uppboðshald sem sagt er að geti gert safnara ríka, hefur oft farið þess á leit við mig að fræða hann um hver væri merkingin á bak við söfnunaráráttuna. Nokkuð sem ég gerði ekki, því ég hefði þurft að segja honum að sækja námskeið mín í fimm eða sex ár.

Sálfræði söfnunaráráttunnar er gríðarstórt sálfræðilegt verkefni. Í mér sjálfum býr líka brot af safnara. Og látum það vera ef sum ykkar fáið þá hugmynd að hér sé verið að herma eftir Freud. Ég held hins vegar að mínar ástæður séu gjörólíkar hans. Ég hef séð það sem varðveist hefur af safni Freud í hillunum hjá Önnu dóttur hans. Mér sýndist það benda til þeirrar hrifningar á sambýli […] og egypskrar siðmenningar sem verkaði á hann á sviði nefnarans (signifier), mun frekar en að um væri að ræða upplýstan smekk á því sem er kallað viðfang (object, hlutur, safngripur).

Það sem við köllum object (safngrip) á sviði söfnunarinnar ætti að vera kyrfilega aðgreint frá því sem við köllum object í sálgreiningu. Í sálgreiningunni er object dæmi um áráttubundna festingu (fixation) imyndunaraflsins við tiltekinn hlut, sem veitir ánægju eða fróun tiltekinnar hvatar á hvaða sviði sem verða vill. Safngripurinn er hins vegar eitthvað gjörólíkt, eins og ég mun sýna ykkur með eftirfarandi dæmisögu, þar sem söfnunin er sýnd í sinni frumstæðustu mynd. Yfirleitt hugsa menn sem svo að safn feli í sér fjölbreytileika hlutanna, en svo þarf alls ekki að vera.

Á þeim mikla tíma yfirbótar og iðrunar sem þjóð okkar gekk í gegnum á dögum Pétains, á tímum „Vinnunnar, Fjölskyldunnar og Föðurlandsins“ og hinnar aðhertu beltisólar fór ég eitt sinn í heimsókn til vinar míns Jacques Prévert í Saint-Paul-de-Vence. Þar sá ég safn af eldspýtustokkum. Ég kann enga skýringu á því hvers vegna þessi endurminning hefur skyndilega skotið upp kollinum í huga mínum.

Þetta var sú tegund söfnunar sem kallaði ekki á fjárútlát á þessum tímum, kannski var þetta eina mögulega söfnunin þá. En eldspýtustokkarnir voru sýndir með eftirfarandi hætti: þeir voru allir sömu tegundar, og var raðað upp á einstaklega þokkafullan hátt, sem fól í sér að sérhver stokkur var svo nálægur þeim næsta að litla skúffan var örlítið útstæð. Þetta gerði það að verkum að allir stokkarnir féllu saman og mynduðu samfellda röð sem lá eftir arinhyllunni og skreið upp eftir veggnum, upp að vegglistanum og síðan niður aftur, niður að hurðinni. Ég er ekki að halda því fram að þetta hafi verið endalaus runa, en hún tók sig afar vel út sem heimilisprýði (ornament).

Ég held engu að síður að þetta hafi ekki verið allt og sumt sem gerði þessa „söfnunaráráttu“ undraverða, né heldur sú uppspretta af hugarfró sem safnarinn fann í henni. Ég held að það nýbreytni-áfall sem stafaði frá þessu safni tómra eldspýtustokka – og þarna komum við að kjarna málsins – hafi leitt í ljós nokkuð sem við veitum kannski ekki nægilega athygli, nefnilega að eldspýtustokkur er ekki bara einfaldur eldspýtustokkur, heldur hafi hann í formi Erscheinung (birtingar) opinberað sinn áhrifamikla margbreytileika sem gæti falist í das Ding.

Með öðrum orðum þá sýndi þessi uppsetning að eldspýtustokkur er ekki bara eitthvað sem gegnir tilteknu þjónustuhlutverki sem áhald, að hann er ekki einu sinni tegund í platonskum skilningi, abstrakt eldspýtustokkur, að eldspýtustokkurinn er að öllu leyti í sjálfum sér hlutur sem hefur að geyma allt sem tilheyrir verunni. Fullkomlega óumbeðinn æxlast hann í ofgnótt sinni í nánast fáránlegri gerð þessa safns sem vísar til hlutareðlis síns sem eldspýtustokkur. Safnarinn fann þannig markmið sitt í þessu formi skilnings er varðar ekki eldspýtustokkinn sem slíkan, heldur öllu frekar das Ding (hlutinn) sem býr í eldspýtustokknum.

Það skiptir ekki máli hvað við tökum okkur fyrir hendur, við finnum það aldrei af handahófi í einhverjum hlut. Ef grannt er hugsað, þá virðist eldspýtustokkurinn vera stökkbreytt form einhvers sem skiptir okkur svo miklu máli að það getur jafnvel tekið á sig siðferðilega merkingu; það sem við köllum skúffu. Í þessu tilfelli var skúffan frelsuð og ekki lengur fest í allt umlykjandi umbúðum kistu sinnar, þannig kynnir hún sig til sögunnar sem sá samfarakraftur sem þessi mynd Préverts átti að koma til skila.

Nú hefur þessi litla dæmisaga um opinberun das Ding handan hlutarins sýnt ykkur eitthvert einfaldasta form göfgunar sem völ er á. Ef til vill getið þið jafnvel fundið eitthvað birtast í henni sem samfélagið megnar að finna sér fróun í.

Ef um fróun er að ræða, þá er hún í þessu tilfelli nokkuð sem krefst einskis af engum.

 

______________

Forsíðumyndin er fengin að láni frá Byggðasafni Skagfirðinga.

AÐ LESA ANTIGÓNU Á TÍMUM STRÍÐSINS

Að lesa Antigónu á tímum stríðsins

„Það sem skilur á milli [skáldskapar og sagnfræði] er að annar segir frá því sem hefur gerzt, hinn frá því sem gæti gerzt. Af þeim sökum er skáldskapurinn heimspekilegri og æðri en öll sagnfræði, en skáldskapurinn tjáir fremur hið almenna, sagnfræðin hið einstaka.“

Aristóteles: Um skáldskaparlistina í þýðingu Kristjáns Árnasonar 1976, 1451b.


Þegar Jean Baudrillard skrifaði grein sína um styrjöldina í Írak árið 1991 fyrir dagblaðið Liberation gaf hann henni titilinn „Persaflóastríðið átti sér ekki stað“ (La Guerre du Golfe n’a pas eu lieu). Þetta var ögrandi titill á grein sem skrifuð var þegar fjölmiðlar voru fullir af fréttum af þessu stríði. Ögrunin fólst í þeirri fullyrðingu Baudrillards að sú mynd sem fjölmiðlar gæfu af atburðunum í Írak væri svo fjarri öllum veruleika að hún væru tilbúningur. Þetta stríð á sjónvarpsskjánum hefði aldrei átt sér stað, ef það ætti sér stað væri það annars staðar. Það sem gerðist í raunveruleikanum væri handan allrar frásagnarlistar fjölmiðlanna. Auðvitað átti Persaflóastríðið sér stað, en veruleiki þess var annars staðar en í þeirri mynd sem beinar útsendingar CNN fréttastofunnar fluttu okkur.

Það má taka undir þessa ögrandi fullyrðingu Baudrillards að því leyti, að sérhver frásögn af veruleikanum er óhjákvæmilega tengd sjónarhorni áhorfandans, og sjónarhornin eru eins mörg og áhorfendurnir. Hvert sjónarhorn segir sína sögu. Það þýðir hins vegar ekki að öll sjónarhorn séu jafn ómerk, einungis að ekkert þeirra segir allan sannleikann. Að því marki sem frásögnin er bundin tilfinningalegri upplifun áhorfandans er hún á mörkum „hlutlægni“ og „huglægni“, eða veruleika og skáldskapar eins og Aristóteles sagði, þegar hann var að greina á milli sannleiksgildis sagnfræðinnar og skáldskaparins. Skáldið felur sig ekki á bak við „hlutlægnina“, heldur gefur frásögninni meðvitað tilfinningalegt inntak, einmitt til þess að segja það sem alltaf getur gerst og er líklegt að muni gerast.

Undanfarnar vikur hefur heimsbyggðin setið nánast límd við sjónvarpsskjáinn og upplifað  harmleikinn í Úkraínu þar sem fjarskiptatækni og fjölbreyni í frásögnum er orðin svo háþróuð að frásaganrtæknin sem Baudrillard hafði fyrir augunum fyrir 30 árum með beinni útsendingu CNN frá loftárásunum á Bagdad var eins og barnaleikur miðað við það sem nú blasir við. Þá hafði CNN einkaleyfi á þessari „beinu útsendingu“, nú eru allir snjallsímar á vettvangi til vitnis um brjálæði og grimmd þessa stríðs í Úkraínu, sem er ekki lengur bundið við sjálfan vígvöllinn, heldur háð ekki síður á hinum stafræna vettvangi fjölmiðla af öllu tagi og frá ólíkum og oft andstæðum sjónarhornum (svo ekki sé minnst á kauphallir heimsins og viðskiptastríðið). Hér skiptir máli að greina ekki bara hvað er sýnt, heldur líka hver sýnir og hvers vegna. Ekki vegna þess að sjónarhornin séu aðeins tvö, rangt og rétt, heldur vegna þess að þau eru öll sjónarhorn á veruleika sem er annars staðar.

Tilfinningaleg viðbrögð við skelfingu stríðsins í þessum ólíku myndum eru bæði eðlileg og óhjákvæmileg, og það á við um undirritaðan eins og aðra, að hann brást við atburðarásinni með skelfingu og óhug sem truflaði ekki bara hugsunina heldur líka svefninn og meltinguna, líkamann jafnt og andann. Viðleitnin og löngunin  til að skilja veruleikann er okkur meðfædd, en það tilfinningalega uppnám sem upplýsingaveiturnar vekja er oftar en ekki verstu aðstæðurnar til skilnings og viðbragða, ekki síst þegar kemur að stríðsfréttum – aðstæðum þar sem rökin og orðin hafa vikið fyrir taumlausu ofbeldi sem ekki á sér greinanlegar rökrænar forsendur. Þegar orðin hætta að virka tekur ofbeldið við. Ofbeldi sem er andstætt þeirri siðmenningu sem telur sig hafna yfir samskipti þeirra lífvera í náttúrunni sem ekki þekkja list orðsins. Ekki bara á vígvelli stríðsátakanna, heldur líka í upplýsingastríðinu þar sem tilfinningarnar kæfa alla marktæka orðræðu.

Sú sagnfræði sem myndasýningar sjónvarpsins færir okkur eru vissulega vitnisburður um eitthvað sem gerðist fyrir framan myndavélina, en hún segir okkur ekkert um forsöguna eða eftirmálann og ekkert um vitnið eða sjónarhorn þess. Kannski var það út frá því spakmæli Aristótelesar sem hér er vitnað til í upphafi sem ég fór að fælast vígvöll fréttamiðlanna og leita til skáldskaparins: hverfa frá því sjónarhorni sagnfræðinnar sem segir okkur eitthvað sem einu sinni hefur gerst til þess tilefnis skáldskaparins sem sýnir okkur það sem alltaf getur gerst og opnar þannig fyrir okkur hyldjúpa kviku hins mannlega í sínu harmsögulega myrkri.

Þessi flótti minn í skjól skáldskaparins var kannski ekki fullkomlega í samræmi við þá skoðun sem Aristótelesi hefur gjarnan verið eignuð, að hinn gríski harmleikur færði okkur þá „geðhreinsun“ eða kaþarsis er virkaði sem hreinasta heilsubót og læknislyf gegn andlegri og líkamlegri vanlíðan, eitthvað sem umbreytti stríðinu í fagurfræðilegar unaðssemdir hinnar listrænu reynslu.

Í merkum Inngangi að þýðingu sinni á ritgerð Aristótelesar Um skáldskaparlistina fjallar Kristján Árnason um þann ágreining Aristótelesar og Platons, þar sem sá síðarnefndi hélt því fram að öll hermilist væri ávallt fölsun á veruleikanum (skuggamynd af skuggamynd hinnar upprunalegu frummyndar) og því væri ekkert pláss fyrir hermilistina í fyrirmyndarríkinu. Kristján segir Aristóteles líta svo á, að sagan (mýþos) sem mynd af veruleikanum, sé mikilvægasti þáttur harmleiksins „en bygging hennar ákvarðast af mörgu öðru, svo sem flækju og lausn, hvörfum, kennslum, raunum, en umfram allt þarf hún að mynda heild og vera í tengslum við eitthvert misferli eða misgjörð manns, sem er „mitt á milli“ þess að vera góður eða slæmur…Hann heldur því fram að harmleikur sé ekki eftirlíking einstakra staðreynda eða þess „sem hefur gerzt“, heldur „þess sem gæti gerzt“ og ákveðin manngerð sé líkleg til eða hljóti að segja eða gera, þannig að hann [harmleikurinn] hafi að geyma almenn sannindi og sé „heimspekilegri og æðri en öll sagnfræði“.[i]

Kannski var það einmitt þessi skoðun Aristótelesar sem fékk mig til að horfast í augu við hinn gríkska harmleik þar sem hann lýsir stríðinu með hvað vægðarlausastum hætti í harmleiknum um Antigónu. Um leið vildi ég kannski leita eftir forsendum listarinnar á tímum stríðsins, hvort sú siðferðislega kreppa sem nú hefur heltekið allt mannkynið í áhorfi á stríðsfréttirnar, kippi ef til vill fótunum undan allri viðleitni til listsköpunar, rétt eins og Theodor W. Adorno sagði á sínum tíma: að helför síðari heimsstyrjaldar hefði svipt ljóðlistina tilverurétti sínum. Getur skáldskapurinn hugsanlega hjálpað okkur til að skilja stríðið?

Í þessari hugarangist var það ekki samtímalistin sem freistaði mín sem athvarf til skilnings, heldur gríski harmleikurinn, nánar tiltekið Antigóna eftir Sófókles, einhver vægðarlausasta greining bókmenntasögunnar á þversögnum stríðsins, frumsýnd á Dionýsusarhátíð Aþeninga í leikhúsi guðsins undir Akropolishæð árið 442 f.Kr. Bókmennta- og leikhúsverk sem nánast allir merkustu hugsuðir vestrænnar heimspekihefðar hafa lagt sig eftir að skilja og greina. Margir helstu frömuðir vestrænnar leikhúshefðar hafa líka glímt við að túlka þetta verk á leiksviði og það hefur orðið ótal kvikmyndagerðarmönnum efniviður í mögnuð listaverk á hvíta tjaldinu. Þetta verk stendur enn fyrir augum okkar sem miskunnarlaust op inn í innstu myrkur mannshugans við aðstæður sem virðast honum óleysanleg ráðgáta.

Antigóna er skrifuð fyrir Aþeninga á 5. öld f.Kr. í kjölfar margra styrjalda sem Grikkir höfðu háð við Persa; en Sófókles horfir ekki til þeirrar sögu til að skilja stríðið, heldur í goðsagnaheiminn, til þess að setja fram þær ágengu þversagnir sem brjótast fram, þegar samtalið slitnar og ofbeldið tekur völdin af orðinu í mannlegum samskiptum.

Allir Aþeningar þekktu hina goðsögulegu frásögn af ættarböli Lajosar konungs Þebu og Jóköstu konu hans, sem fengu þau skilaboð frá véfréttinni  í Delfi að óborinn sonur þeirra  yrði ógæfuvaldur: Ödipus var borinn út nýfæddur að frumkvæði móður sinnar, til þess að deyja, til að forða ættinni frá illri forspá véfréttarinnar. Þegar sendiboðinn sem fékk það hlutverk að bera nýfætt barnið út á heiðina, hitti hann fyrir hjarðsvein konungsins í Kórintu  og fékk honum útburðinn án leyfis og vitundar foreldranna. Ödipus varð fóstursonur barnlausra konungshjóna í Kórintu og óx upp við allsnægtir sem krónprins, allt þar til honum barst sú válega fregn frá Véfréttinni í Delfi, að hans biðu þau örlög að drepa föður sinn og giftast móður sinni. Hann stóð í þeirri bjargvissu trú að foreldrar hans væru konungshjón Kórintu. Því kvaddi hann hirðina og ríki sitt og hélt út í óvissuna til að losa sig undan þessu böli örlaganna. Á þeirri ferð mætti hann óþekktum valdsmanni á þröngum vegamótum sem vildi ekki víkja, með þeim afleiðingum að til átaka kom og Ödipus felldi þennan ráðríka vegfaranda, sem hann vissi ekki að væri hinn raunverulegi faðir hans, Lajos konungur af þebu. Ödipus hélt ótrauður áfram ferð sinni til Þebu og gengur þar fram á Sfinxinn sem gætti borgarhliðsins og hafði haldið borginni í heljargreipum árum saman. Sfinxinn var ófreskja sem lagði torleystar ráðgátur fyrir fórnarlömb sín og át þau sem ekki kunnu svörin, en lifði þess utan á barnafórnum borgarbúa. Ödipus varð fyrstur manna til að ráða gátu Sfinxins, og frelsa Þebu úr heljarklóm þessarar ófreskju, sem að svo mæltu lét sig hverfa ofan í myrkheima Tartarusar eftir að hafa mætt ofjarli sínum. Ödipusi var því fagnað sem þjóðhetju í Þebu, þar sem hann mætti Jóköstu drottningu, raunverulegri móður sinni, sem þá syrgði nýlátinn eiginmann sinn, Lajos konung. Þjóðhetjunni var boðið kvonfang drottningar, hann giftist henni, tók konungssæti Lajosar föður síns og átti með móður sinni 4 börn sem öll gegna aðalhlutverkum í leikriti Sófoklesar um Antigónu: bræðurnir Etókles og Polineikes og systurnar Ismena og Antigóna. Þetta voru erfingjar Ödipusar sem deildu með honum því ættarböli sem Grikkir kölluðu até eða refsidóm örlaganna.

 Þessi forsaga leikritsins um Antigónu, sem Sófókles hafði rakið í harmleikjum sínum um Ödipus konung og Ödipur í Kólónos, var alþekkt öllum Aþeningum, og leikurinn hefst eftir að örlög Ödipusar voru ráðin, hann hafði uppgötvað ómeðvitaða sekt sína, stungið úr sér augun eftir að hafa horfst í augu við sannleikann og mætt örlögum sínum sem blindur betlari á flækingi í fylgd sinnar umhyggjusömu dóttur, Antigónu.

Eftir lát Ödipusar hafði mágur hans, Kreon, tekið konungstign í Þebu, en  Polineikes bróðir Antigónu sætti sig ekki við þau erfðamál og leiddi innrás í borgina (sem lýst er í leikriti Æskýlesar, Sjö gegn Þebu). Í því stríði stóð bróðir hans Etókles  með frænda sínum Kreon konungi og varði borgina. Þeir bræður lentu í einvígi og urðu hvor öðrum að bana og valdaráni Polineikesar var þar með hrundið og borgin frelsuð. Þar hefst harmleikurinn um Antigónu:

Kreon konungur fagnar sigri borgríkisins og lýsir Etóklesi, bróður Antigónu, sem þjóðhetju er verðskuldi viðhafnargreftrun, á meðan Polineikes skuli hljóta þá vægðarlausu refsingu að lík hans verð borið út, úlfum og hræfuglum að bráð, án nokkurrar viðhafnar. Slíkur dómur gekk gegn öllum reglum Forngrikkja, þar sem hefðbundin sorgarathöfn, útför og greftrun, jafngilti aðgangi hinna látnu í heima Hadesar, þar sem þeirra beið eilíf tilvist sem vofur. Höfnun útfarar jafngilti í raun höfnun þeirrar siðmenningar sem greindi á milli manna og dýra, á milli siðmenningar og náttúru.

Þessum dómi unir Antigóna ekki, og storkar þeim líflátsdómi sem Kreon konungur segir liggja við sérhverri sorgarathöfn vegna láts svikarans. í áhrifamiklu uppgjöri þeirra systra, Ísmenu og Antígónu, í upphafi leiksins, koma fram hugmyndir Antigónu annars vegar um „heilög bönd“, þar sem blóðið rennur til skyldunnar, og hins vegar lögboð hins veraldlega valds, er varðar öryggi borgarinnar (polis) og mátt og mikilvægi hins veraldlega yfirvalds, heildinni til farsældar. Eða eins og Ísmena segir í þýðingu Helga Hálfdánarsonar:

Ísmena: Við systur stöndum einar eftir, hygg að því; / þú sérð, það yrði beggja glötun grimmileg / að storka konungs banni, brjóta landsins lög! /Og minnstu þess, við erum konur, eðli vort, / er ekki slíkt að takast á við karlmanns þrek; / og sem vér lútum þótta þess er betur má, / skal skipast við hans orð, og eins þótt gegni verr. / Þá dauðu, sem í djúpum jarðar eiga vist, / bið ég að virða vel minn nauðar-kost / að hlíta valdsins ofurefli. Flón er sá / sem færist meira‘ í fang en kraftar endast til.[ii]  

Með þessum orðum verða vinskil þeirra systra, þar sem Antigóna tekur hin „heilögu bönd“ blóðskyldunnar, samband sitt og trúnað við „eilífa tilveru“ hinna framliðnu fram yfir hið veraldlega og stundlega yfirvald borgarinnar og ríkisins. Antígóna kýs að ganga óhikað og stolt í dauðann fyrir málstað sinn og hafnar allri samvinnu eða samúð systur sinnar eða annarra „löghlýðinna borgara“ er játast undir sinn „nauðarkost“. Um leið og hér eru strax dregnar fram andstæður veraldlegra mannasetninga löggjafarvaldsins og hins heilaga lögmáls guðanna er um leið dregin fram andstæða karlmennskunnar og þess „neyðarkosts“ sem kvenþjóðinni er boðinn (af náttúrunnar hendi?) andspænis hinu veraldlega valdi sem styðst við „þrek karlmennskunnar“. Þeirri hugmynd hefur líka verið veifað að í systrunum tveim búi andstæður hins Apollóníska (Ísmena) og hins Díonýsiska (Antigóna) samkvæmt grískum átrúnaði.

Segja má að kjarni harmleiksins sé settur fram með skýrum hætti þegar í þessar upphafssamræðu systranna, en það á eftir að koma í ljós að meira hangir á spýtunni.

Í harmleiknum er Kreon konungur fulltrúi hins veraldlega valds, yfirvald og um leið verndari hins borgaralega samfélags og þeirrar reglu sem tryggir farsæld þess til frambúðar.  Hann er í raun ekki kynntur til sögunnar sem harðstjóri í hefðbundnum skilningi, heldur sem umhyggjusamur verndari laga og reglu og þar með farsældar ríkisins. Vandi hans birtist fyrst þegar hann kemst að því að Antígóna frænka hans og systir hinnar látnu þjóðhetju Etóklesar, hefur gengið gegn löggjöf konungsins og framið helgiathöfn yfir ógreftruðu líki hins bróðurins, Polineikesar, svilkarans sem liggur ógrafinn í haganum.

Þegar kórinn, sem talar í raun rödd áhorfenda leiksins í grískri leikhúshefð, ber fram þessa athugasemd í samtali um lögbrot Antígónu: „Sá grunur, herra, kom á kreik í brjósti mér, / að hefðu hér að verki verið goðin sjálf.“, Þá svarar Kreon konungur með þessum orðum:

Kreon: Hvort skyldu réttvís goð með gælum leiða hug / að hræi þessu! Meta mikils vafalaust / og verpa mold, sem bjargvætt lýðs og lands, þann dólg / sem til þess kom að brenna byggðir, ræna hof / og brjóta hvert það vé sem verndar lög og sið? / Skal telja goðin einkum elsk að níðingum? / Nei ónei! Her í borg var löngum flokkur sá, / sem fótum tróð af kergju hvert mitt boð og bann; / á laun þeir hrista höfuð, reigja þrjóskan háls / við oki sínu og mögla fast gegn minni stjórn.

Einn frægast kafli þessa harmleiks er „lofsöngurinn til mannsins“ sem kórinn flytur eins og millispil áður en hin seka Antigóna er leidd fyrir dómara sinn og konung, sem einnig reynist reyndar líka faðir heitmanns hennar eða ástmögurs, Hemons prins. Þessi lofsöngur um dyggðir mannsins og það vald sem honum er gefið til að stjórna náttúrunni minnir að sumu leyti á sköpunarsögu Mósebókar, þar sem manninum er gefið vald yfir dýrum náttúrunnar:

Kórinn:Margt er undrið, og mun þó víst / maðurinn sjálfur undur stærst. / Þar sem ólgandi hrímgrátt haf / hrannast úfið í vetrar byl, / ristir hann kembdan ólgu skafl / kili traustum á viðsjálsleið. / Móðir guðanna, gömul jörð, /gróskuríka svo aldrei þverr, / markar hann sér til sáðs hvert vor, / svörðinn skárar með plógi og klár. / Fugl, sem líður á léttum væng / langveg háan, og skógardýr / fjötrar í vað hans fima hönd, / fiska læsir í brugðið net, / handsamar kið í hamraskor, / hemur á fjalli villtan tarf, / bugar geysandi frjálsan fák, / fextan makka til oksins knýr, / hugumsterkur í hverri raun, / höfðingi jarðar, kviks og dauðs. / Hyggjunnar flug og tungutak / tamdist honum og stjórnar list; / félagshagur og húsaskjól / hentaði betur en frost og regn / ótrygga nótt um víðan vang; / veit hann hvarvetna úrráð góð; / ekkert á vizku og völdum hans / vinnur bug nema dauðinn einn; / megnar hann samt í sóttar kröm / sárum þrautum að víkja á brott. / Hugvit mannsins og máttug snilld / margan dregur á tæpan stig / einn til heilla og annan til falls. / Sá sem er tryggur landi og lýð, lögin virðir og heilög goð, / sæmdar nýtur við hollan hag. / Hinn sem veður í hroka og lygð, / hatur magnar og glepur þjóð, / finnur seint með sín afbrot ill / athvarf í mínum griðarstað. / Hvað er á seyði, er sjón mín blekkt? / sé ég þó glöggt, ó, því er verr! / að einmitt sú hin unga mær / er Antigóna! / Æ, veslings barn, þig brennir sárt / allt böl þíns föður. Ó, ertu þá, / í óráðs-vímu að broti ber / gegn banni konungs og hingað leidd?

Þessi kafli Sófóklesar er talinn meðal merkari textabrota í forngrískum bókmenntum og er sígilt umtalsefni heimspekinga fyrr og síðar. Víkjum að því síðar, en áður en við rekjum áfram framhald leiksins er rétt að benda á að „ekkert á völdum og visku hans / vinnur bug nema dauðinn einn“  –eina óviðráðanlega hindrunin sem maðurinn mætir í lífinu er dauðinn sjálfur.

Þegar Antigóna stígur teinrétt og hiklaus fram fyrir sinn veraldlega dómara og játar sekt sína fullum hálsi afneitar hún um leið réttarreglum hans:

Antigóna:Já. Lög sem þessi hafði hvorki Seifur birt / né hefur gyðja réttvísinnar, sú sem fer / með vald í dauðra ríki, lagt oss reglur þær; / og ekki hugði ég, að nægðu nein þín boð, – / þú aðeins mennskur maður, – til að leggja bann / á lög sjálfs Himnaguðs, sem haggast ei / og hvorki voru sett í gær né felld í dag / en eilíf ríkja: / hvar þau eiga upphaf sitt, / veit enginn maður. Aldrei verð ég sek við goð / um brot á þeim, af ótta við neinn mennskan mann.“

Ekki er hér fyllilega ljóst hvaða réttlætisgyðju Antigóna vísar hér til: Dike sem réði lögum og réttlæti í mannheimum eða Persefóna sem réð lögum í heimi Hadesar, en hér er enn lögð áhersla á að átök Antigónu og Kreons snúast um  eilíf lögmál guðanna annars vegar og hið veraldlega réttlæti mannanna hins vegar. Kórinn er sér meðvitaður um þessa staðfestu Antigónu þegar hann segir: „Ljóst er að hún hefur skapgerð föður síns / og svignar ekki, svo sem allt í móti blæs.“ Og andsvar Kreons tekur af allan vafa: „Dramb hennar, löngu gróðursett, kom glöggt í ljós / er fótum tróð hún frökk mín skýlaus lagaboð. / Nú keyrir þó um þverbak er hún hælist um, / og hampar, mér til svívirðingar sínum glæp. / En ef hún óhegnt fær að traðka landsins lög, / hef ég að geyma telpu-kveif, en karlmann hún.“

Hér er enn vikið að hinum kynskiptu örlögum í heimi mannanna, þar sem Kreon segir hugleysið tilheyra kvenþjóðinni en hugrekkið vera aðalsmerki karla. Þessi hugsun er síðan leidd enn lengra í þessum orðaskiptum þeirra, þar sem Antígóna segir:

Antigóna: „ … Dauðinn heimtar öllum sömu lög“ og Kreon svarar: „Þó ekki sömu sæmdir fyrir gott og illt.“  Antigóna: „Hver veit? Í ríki dauðra gætu gilt þau lög.“ Kreon:Nei, fjandmann reisir dauðinn aldrei upp sem vin. Antigóna:Mín leið er ekki að miðla hatri, heldur ást.“ Kreon:Ást þinni mátt þú miðla ríki Hadesar. En seint mun kona setja mínum þegnum lög.“

Hér sverfur til stáls svo um munar, átökin snúast um gott og illt, ást og hatur, líf og dauða og hin kynskiptu örlög karls og konu. Við þessar aðstæður lendur öll orðræða í blindgötu, orðin missa mátt sinn og ofbeldið eitt fær ráðið. Kreon dæmir Antigónu til kviksetningar í dimmum helli, þessa frænku sína af ætt Lafðosar og Ödipusar sem jafnframt var heitmey Hemons, sem var sonur Kreons, og þar með krónprins Þebu.

Viðbrögð Hemons einkennast fyrst af djúpri virðingu fyrir föðurhlutverkinu, visku þess og valdi. En sársaukann fær hann ekki bælt og segir að lokum:

Hemon: „…“Hvað gæti föður betur glatt en sonar sæmd? / Og hvað skal sonur meta meir en föður heill? / Því mátt þú, faðir, aldrei stæra þér í hug / þinn eigin vísdóm, eins og þú sért einn svo snjall / að sjá, hvað hentar, allir vaði reyk; / það eitt er víst, að hver sem hyggur sjálfan sig / allt vita bezt og kunna jafnan réttust rök, / mun innantómur talinn, þegar vits er þörf. / Hinn spaki minnkar ekki, þótt hann verði var / við sína villu, sjái hvenær hopa skal, / Þú veizt, er fljótið vex um bakka, hvernig fer; / þau tré, sem svigna fyrir straumnum, standast hann / með lim sitt allt, þó hrökkvi hin, sem streitast gegn.“

Hér ásakar Hemon föður sinn um þá stærstu og einu synd sem Grikkir kunnu nafn á: hrokanum sem þeir kölluðu „hybris“ og fól í sér brot gegn þeim lögmálum og reglum náttúrunnar og alheimsins, sem þeir kölluðu „kosmos“. Brot á þeim óyfirstíganlegu lögmálum voru í heimi Forngrikkja hin harmsögulega synd. Hemon reynir að koma vitinu fyrir föður sinn, koma á sáttum og mæta Antigónu með málamiðlun á milli hins guðdómlega og veraldlega réttlætis. En hér hafa forlögin (até) tekið völdin og ekkert fær stöðvað framgang hins veraldlega réttlætis, konungsvaldið og feðraveldið í þessu óleysanlega stríði. Kreon svarar syni sínum í eftirfarandi samræðu þeirra:

Kreon:Er ranglátt verk að vernda sjálfs mín konungstign?“  Hemon:Er tign að fótum troða guða lög?“ Kreon: Nú ert þú vesöl gunga genginn konu á hönd.“  Hemon:Ég gerðist ekki sekur þar um svívirðing.“  Kreon:Um hennar málstað hafa snúist öll þín orð.“  Hemon: „Og málstað þinn og minn og Undirheimaguðs.“  Kreon:Á lífi skal hún aldrei ganga‘ að eiga þig.“  Hemon:Þá deyr hún og í dauðann skal hún hljóta fylgd.“  Kreon:Er slíkur orðinn hroki þinn að hóta mér?“  Hemon: „Er hótun að ég sýni fram á fávíst verk?“  Kreon: Þér sjálfum skal þín fávís frekja verða dýr.“  Hemon:Að faðir minn sé vitstola, því neita ég.“ Kreon:Þitt smjaður væri vert að þagga, konu-þræll.“ Hemon:Þú vilt einn tala! hirðir ekki hót um svör!“  Kreon:Að sönnu þó, og sver við heilög Ólimps-goð, / að þig skal iðra þess að draga dár að mér.“ (við varðmenn:) „þið sækið þessa norn! Því nú er hennar stund / að deyja, fyrir opnum augum brúðgumans.“

Deilurnar magnast og átökin skerpast þar sem Antigóna er leidd til kviksetningar í myrkum helli í eyðimörkinni þar sem enginn hafði stigið fæti sínum fyrr. Hún hafði meðferðis fæðuskammt til nokkurra daga til að „þvo hendur konungs og sæmd borgríkisins af morðsökinni“. Dómi sínum lýkur Kreon með þessum orðum: „Þar skal hún heita‘ á Hades, þann eina guð, / sem hún vill tigna…

Hér eru mörkin skýr: Antigóna dýrkar Hades, konunginn í ríki hinna dauðu. Hún er haldin þeirri forfeðradýrkun hinna dauðu sem er hindrun í framgangi hins veraldlega réttlætis, þess réttarríkis sem Kreon finnur sig skuldbundinn. Framhaldið virðist fyrirsjáanlegt, en á endanum ríða ósköpin yfir.

Áður en það gerist kemur inngrip kórsins, sem nú ákallar sendiboða ástarinnar, sjálfan Eros:

Kórinn: „Ó, Eros, þú ástanna guð /á eilífri sigurför, / sem brosandi blundar um nótt / á blómmjúkri meyjar-kinn, / þú svífur um hauður og höf, / í hallir og lágreist kot, / og hvorki fá heilög goð / né hrösul daganna börn / flúið þitt viðsjála vald / sem villir þeim sjónir og hug. / Þá sál sem er trygg og traust, þú tælir í synd og löst; / nú flekar þú föður og son / til fjandskapar. Ástvakið blik / í ungmeyjar augum hlaut / sinn eggjandi sigur. Það vald / í alheimi ræður, sem enn / fær Afródíta í hönd.

Og þar sem kórinn horfir á eftir Antigónu inn í gröf sína heldur hann áfram söng sínum:

Kórinn:Nú brýt ég sjálfur mín siðalög / því söltum tárum fær hvarmur minn / ei aftrað, þegar með ógn ég lít, / að Antigóna þá brúðarsæng / skal gista sem reidd er öllum oss.“

Kórinn segir dauðann vera „brúðarsæng“ hinnar hreinu meyjar, en Antigóna svarar kórnum í áfellingu sem hún beinir til ættborgar sinnar og samborgara. Kórinn er þannig fulltrúi áhorfenda á þessari sýningu og harmagrátur Antigónu beinist nú að þeim:

Antigóna: „Þú hæðir mig! Ó, himinbjörtu guðir! / spottar mig sáran, sem ég er á förum / til myrkursins! Æ, fagra föður-borg! / Þér verðir ríkis vors! Ó, Dirku lindir! [iii]/ helg skógarvé vors fákum fræga staðar, / með sigur-vanga glitrandi við grund! / Þér séuð vitni þess er örlög köld, / sem engin vinur harmar, hrinda mér / í fjallsins hungur-gin, sem skal mín gröf / að grimmum dómi. Vei, vei! Ó, mig auma! / mér líkna hvorki lifendur né dauðir; / jafnt menn og skuggar skulu fjarri mér.

Í framhaldinu rekur Antigóna harmsögu ættar sinnar og það upphafsböl sem hún rekur til ógæfu Ödipusar föður síns sem giftist móður sinni sem síðan varð móðir Antigónu og amma í senn. En framhald ógæfunnar er óstöðvandi, og nú er dreginn til sögunnar spámaðurinn Teiresías, sem á sínum tíma hafði spáð fyrir um örlög Ödipusar, frumburðar Lajosar og Jóköstu. Þessi blindi öldungur er talsmaður forsjálninnar og viskunnar í allri ættarsögu Ödipusar og óhræddur segir hann Kreon konungi að það hafi verið meginvilla hans að neita uppreisnarseggnum Políneikesi, bróður Antigónu um greftrun, „því lítil er sú dáð að vega veginn mann“. Til að gera langt mál stutt þá segir Teiresías Kreon konungi að dómurinn yfir Antígónu muni einnig kosta líf Hemons sonar hans og lýkur spádómslestri sínum með þessum orðum:

Teiresías:  „Þú skalt vita, víst fær eigi sólar-hvel /að ljúka mörgum hring á himins brautu fyrr / en þér skal gert að gjalda fyrir andað lík / í sömu mynt þinn eigin ávöxt holds og blóðs, / þú sem bjóst lífi dauða, dauða líf! Þú fékkst / í dimmu grafar kvikum anda smánar-vist, / en heldur ofan moldar leifum látins manns / án helgunar, án harms, þótt goðum heyri til. / Þar átt þú engan rétt, né gætu goðin sjálf /sem þú villt sýna myndugleika , rönd við reist. / Því bera reiðar refsinornir Hadesar / og Olimps-guða til þín bitran hefndarhug, / og þeirra dómur geldur gjarnan líku líkt…“

Teirisías kveður sviðið eftir reiðilestur sinn yfir Kreon konungi, sem loks fyllist efasemdum og fer að horfast í augu við eigin ógæfu. Hann er einnig hvattur til þess af kórnum, sem hefur meðtekið boðskap spámannsins. Kreon tekur stakkaskipum, kallar menn sína til að veita Políneikesi viðeigandi greftrun og flýtir nú för sinni í eyðimörkina til að opna gröf Antigónu. Á meðan á þessum umskiptum stendur kemur millisöngur kórsins, sem er Óðurinn til Bakkusar, verndara þebu. Annar hápunktur harmleiks Sófoklesar

Kór:Heill þér Bakkos! Við sjálfum Seifi / Semela gat þig, ljúflig fríðan. / Óðal þitt geymir Eleifs-dalur / aldin teinungi grönnum vafinn / þar sem þú dvelur í dýrð og sæld; / Demetru varð hann griðarstaður. / Þó er djásnið á þínu ríki / Þeba, blótkvenna heilagt vé, / þar sem Ísmenos logntær laugar /landið sem hlúir drekans sáði. / Parnassos-hnjúkar hylla þig, / hefjast reykir frá gullnum logum; / dansinn stígur á bjargsins brún /bakkynju sveit með funandi kyndla. / Kastalíahjá köldum lækjum /kennir þín spor af Nísufjalli, / þar sem vínsprotar þekja hlíð / þrúgna klösum að sævar bergi. / För þín, Ó, Bakkos, langþráð laðar / ljóð og söngva í Þebu rjóður. / Þeba, já hún á þína frægð, þar sem Kaðmosar stolta dóttir / fæddi þig, lostin leiftur þrumu. / Lausnari sért þú vorri borg! / Vitjaðu hennar nú í nauðum, / niður stíg þú frá björtu heiði, / fetaðu straumsins blikandi bárur, / ber þinni móður líknarorð! / Eldkvikar stjörnur dansa dátt, / Díonísos, ó, þér til sæmda. / Hlæjandi söngva á húmri nótt / helgar þér öll þín vina fjöld. / Sýndu þitt auglit, sæli vættur, / sonur himnanna! Reifar dísir / dansinn vekja, svo dunar grund. Dýrð sé þér Bakkos!“

Þessi lofsöngur til vínguðsins kemur inn í harmleik Sófóklesar þar sem hughvörf verða hjá Kreon konungi, og augu hans opnast fyrir eigin misgjörð. Lofsöngurinn hefur orðið mörgum bókmenntafræðingum og heimspekingum umhugsunarefni, en það er vissulega engin tilviljun að hann komi hér óvænt inn í hvörf leiksins. Í vangaveltum um merkingu Díonísusar og hlutverk hans í hugmyndaheimi Forngrikkja hafa menn stöðvast við merkingu og þýðingu nokkurra lykilhugtaka sem ekki eiga sér einhlíta samsvörun í nútímamáli, hvorki íslensku né erlendu. Ekki skal farið út í þá sálma hér, en augljóst er að frábær þýðing Helga Hálfdánarsonar á þessu sígilda verki hefur sín óyfirstíganlegu takmörk er varða ekki bara tungumálið sjálft, heldur líka þann tíðaranda sem það endurspeglar. En óneitanlega vekur þetta óvænta trúarlega innskot athygli sem innlegg í þá styrjöld sem hér er háð, ekki bara á vígvellinum, heldur í tungutaki og sálarlífi einstaklinga sem ekki kunna lengur að tala saman.

En á meðan kórinn lofsyngur Bakkos fær Polineikes sína verðskulduðu greftrun sem sáttagjörð, og Kreon heldur út í eyðimörkina til að opna hina myrku gröf Antigónu og veita henni frelsi. Fyrir tilskipan Kreons kemur sendiboðinn fyrstur á vettvang grafarinnar eftir að heyrst höfðu neyðaróp Hemons. Sjóninni sem þar blasti við lýsir sendiboði með þessum orðum:

Sendiboði: „…Vér gerðum svo sem herra vor í angist bauð, / lutum inn, og sáum, bak við bjarg, hvar hún / í snöru lá, sem hún úr líni hafði knýtt /  af sínum eigin serk, og brugðið sér um háls; / og hann, sem kraup og örmum vafði liðið lík, / grét brúði sína sárt, sem dauðinn nam á brott, / grimm afglöp föður síns, og sinnar ástar böl…“

Þannig hefst lokaþáttur leiksins þar sem Kreon konungur horfist í augun við harmleikinn sem hann mætir í heiftaraugum sonar síns. Hemon ræðst að föður sínum og ætlar að vega hann en mistekst og kastar sér þá fram á sverð sitt og lætur fallast yfir lík Antigónu eins og lýst er með þessum orðum:

Sendiboði: „…Af feigum kröftum fal hann sína brúði enn / í faðmi, greip þá andann djúpt, og heitt blóð rann / af munni hans, svo hennar föla kinn varð rauð.“

Við þessa sviðsmynd bætist nú innkoma Evridíku drottningar, móður Hemons og eiginkonu Kreons, sem horfir orðlaus á afleiðingar þessa stríðs.

En eiginmaður hennar skilur nú fyrst örlög sín í þessum harmakveinum:

Kreon: Ó! Kvöl! / Já þvermóðska vor, sú vitfirring, / er vegur dauðans! / Hér! Sjáið hinn vegna! Og vegandann!, / sem var hans faðir! / Minn vitstola hugur með heift mig rak / í hyldjúpa glötun! / Ó, sonur, á vori þíns verðandi lífs / þín vitjaði feigðin. / Þar á ekki sök þitt óráð, nei einungis mitt! /…/ Vei mér! / Ó bitra sanna raun! Sá reiði guð, sem hóf / sinn ramma knefa hátt, og þungu höggi laust / mitt gneypa höfuð, ginnti mig á villubraut / og niðrí duftið farsæld mína fótum tróð! / Já, feig er auðna dauðlegs manns á vorri jörð!

Kreon horfist í augu við eigin vitfirringu þar sem hann ber lík sonar síns í fanginu til hallarinnar. Þar mætir hann sendiboðanum sem færir honum fréttina um sjálfsmorð Evridíku drottningar, þar sem hann varð vitni að dánarorðum hennar sem voru bölbænir til eiginmannsins fyrir gjörðir hans. Angist Kreons á sér engin orð önnur en að fá að deyja:

Kreon: Leið mig burtu, blindan fausk, / böðul sonar og eigin vífs / glapinn á vilja. Hvar get ég nú / gengið með sæmd og hugarró? /Höfuð mitt beygir harmsins farg, Hvað sem ég snerti, fölnar, deyr.

 

…………………………………………………………………….

 

Þetta var tilraun til endursagnar á harmleik Sófoklesar um Antigónu, sem frumsýndur var í leikhúsi Díonísusar undir Akropólishæð í Aþenu árið 442 f.Kr. Þetta er texti sem á erindi við alla tíma og er því sígildur. En hvernig hefur hann verið túlkaður í tímans rás, og hvernig rímar hann við okkar samtíma?

Til að svara síðari spurningunni er rétt að kanna þá fyrri fyrst. Hvernig hafa menn túlkað þessa sígildu frásögn í gegnum aldirnar?

Almennt má segja að menn hafa horft til þeirra augljósu andstæðna sem þarna koma fram: á milli fjölskyldu og ríkisvalds, á milli hins mannlega og hins guðdómlega, á milli óskráðra laga og lagabókstafs, hins opinbera og einstaklingsbundna, á milli kynjanna og á milli lífs og dauða. Allt eru þetta mótsagnir sem blasa við, en þær hafa verið túlkaðar með ólíkum hætti og með ólíkri áherslu í tímans rás og út frá túlkunaraðstæðum á hverjum tíma.

Lítum á nokkur dæmi.

Hegel

Fyrsta umfjöllunin sem gjarnan er vitnað til er túlkun Hegels. Hann leggur áherslu á að átökin snúist um hagsmunaárekstra fjölskyldunnar og ríkisvaldsins, þar sem fjölskyldan er kjarni hins síðarnefnda þótt þarfir þeirra fari ekki alltaf saman. Antigóna og Kreon eru fulltrúar þessara afla og kunna hvorugt að verja sína hagsmuni, heldur eiga það sammerkt á særa sig sjálf þar sem þau særa hvort annað. Báðir aðilar hafi rangan málstað þar sem þau skilja ekki þá einingu andstæðnanna sem Hegel hafði skýrt í sínu díalektíska hugmyndakerfi. Hann segir að lausnina sé að finna í siðferðilegu mati er feli í sér gagnkvæma viðurkenningu. Hegel orðar þetta þannig að leifarnar af líki Polineikesar hafi saurgað eða smitað heilagt fjölskyldualtari Antigónu og hún hafi mætt því sem hún skynjaði réttilega sem ofbeldi  gegn blóðböndum fjölskyldunnar á meðvitaðan hátt, um leið og hún segir í þýskri þýðingu Hölderlins: „Weil wir leiden, anerkennen wir, dass wir gefehlt“  (í þjáningunni viðurkennum við mistök okkar). Þetta er annað orðalag en í þýðingu Helga Hálfdánarssonar, en tilvitnunin er úr ljóðlínu 926 í Antígónu Sófoklesar. Antigóna tók þjáningunni hins vegar án iðrunar, á meðan Kreon tók út sína þjáningu sem iðrandi syndari þar sem hann horfist í augu við afleiðingar misgjörða sinna. Í stuttu máli þá skildu hvorugt þá einingu andstæðanna sem eru kjarninn í díalektík Hegels.(sbr Hegel: Lezioni di estetica, útg. Laterza 2018, bls. 279; og Die Phänomenologie des Geistes, frá 1807, útg. Bompiani, Milano 2014. Frumtexti með ítalskri þýðingu Vincenzo Cicero. Bls. 683).

Sören Kierkegaard

Á meðan Hegel var upptekinn af hinum almennu og algildu lögmálum andans, sögunnar og réttarríkisins, var Kierkegaard upptekinn af undantekningunni, hinu einstaka og einstaklingsbundna sem lagði grundvöllinn að tilvistarheimspeki hans. Á milli hans og Hegels ríkti ástarhatur sem átti sér djúpar persónulegar rætur. Kierkegaard horfir á harmleik Antigónu út frá eigin reynslu og setur sig nánast í hennar spor. Þetta sjáum við í hinu sígilda tveggja binda stórvirki hans, Enten-Eller – Et Livs-Fragment udgivet af Victor Eremita frá árinu 1843. Þessi dæmalausu bindi eru skrifuð undir dulnefni einsetumannsins (Eremita) sem fann hanndritið að fyrra bindi verksins fyrir tilviljun, merkt höfundarbókstafnum A, sem hugsanlega getur vísað til Antigónu og þá um leið verið dulnefni Kierkegaards sjálfs. Bindið fjallar um þversagnir hins „erótíska lífsmáta“ (De umiddelbare erotiske Stadier eller Det Musikalsk-erotiske), þar sem fjölskyldu- og ástarmál Kierkegaards sjálfs liggja ávallt í bakgrunninum. Seinna bindið er sömuleiðis fundið handrit, eignað höfundarbókstafnum B, og er eins konar andsvar við óhjákvæmilegum raunum hins „erótíska“ lífsmáta, þar sem haldið er fram „fagurfræðilegum gildum“ hjónabandsins og borgaralegs siðferðis.  Eftir ítarlega umfjöllun um sigra og óhjákvæmilegar hrakfarir Don Juans í hömlulausu kvennafari hans í upphafi fyrra bindisins rekur Kierkegaard harmleik Antigónu, þar sem ógæfusöm örlög hins „erótíska“ öðlast fyrst þá harmsögulegu dýpt sem framkallar svima. Í þessari frásögn leggur Kierkegaard megináherslu á tilfinningalegt samband Antigónu við föður sinn, Ödipus, og það ættarböl sem honum fylgdi sem banamaður föður síns og eiginmaður og barnsfaðir móður sinnar. Kierkegaard segir Antígónu hafa verið eina afkomandai Ödipusar sem vissi af þessu skelfilega leyndarmáli ættarinnar, og eftir dauða föðurins hafi þetta leyndarmál verið það sem í raun gaf lífi hennar merkingu. Kerkegaard gerir hér greinarmun á hugtökunum angist og sorg, þar sem hann líkir angistinni við „það líffæri er meðtaki sorgina þannig að einstaklingurinn samsamast henni og verður eitt með henni“. Kierkegaard segir að dauði Polineikesar, bróður hennar hafi vakið upp hin sorglegu örlög föðurins, sem „síðan dreifðust út í einstaka afleggjara ættarinnar… Það er ekki einstaklingur sem hér lætur lífið, heldur er það heill heimur sem hrynur, það er hin hlutlæga sorg sem hér brýst fram með sínum skelfilegu afleiðingum sem óstöðvandi náttúrukraftur og margefld sorg.“ Lögbrot Antigónu er ekki fyrst og fremst frjáls verknaður heldur sú örlagaþrungna nauðsyn sem syndir feðranna leggja á niðjana. Rétt eins og Sófókles líkir kviksetningu Antigónu í hellinum við brúðarsæng hennar, þar sem Hemon, heitmaður hennar stingur sjálfan sig banasári: „Af feigum kröftum fal hann sína brúði enn / í faðmi, greip þá andann djúpt, og heitt blóð rann / af munni hans, svo hennar kinn varð rauð.“ (Antigóna lína 1237-1239).

Sem kunnugt er liggur persónuleg harmsaga Kierkegaards á bak við ævistarf hans í heild, en einkum þó Enten-Eller bindin um hið erótíska og fagurfræðilega í þroskasögu mannsins. Það var ástarsamband hann við Reginu Olsen, stúlkuna sem hann elskaði en gat ekki heitbundist af ástæðum sem voru flóknar en tengdust bældu sambandi hans við föðurinn. Þetta er trúlega meginástæða þess að Antigóna gegnir mikilvægu hlutverki í þessu meistaraverki Kierkegaards. Örlög beggja áttu sér samsvörun í ættarbölinu. Ekki er tilefni frekari umfjöllunar um þessi tengsl hér, nægir að benda á að ólíkt Hegel leggur Kierkegaard sinn persónulegan skilning í harmleik Sófóklesar á tilvistarlegum forsendum.

 

Sigmund Freud

Kennig Sigmundar Freud um Ödipusarduldina er trúlega þekktasta tilgáta hans á sviði sálgreiningar. Hún á rætur sínar í sögu Ödippusar og afkomenda hans. Hann var prinsinn sem drap föður sinn, tók við konungstign hans, giftist móður sinni og átti með henni 4 börn. Út frá þessari goðsögu spann Sófókles leikrit sín og út frá þeim spann Freud kenningu sína um Ödipusarduldinna sem rót allrar taugaveiklunar. Það merkilega er að þessi kenning virðist að mörgu leyti koma heim og saman við túlkun Kierkegaards. Tenging Antigónu við föðurinn aftraði henni frá að geta átt í ástarsambandi við Hemon og leiddi hana í „brúðarsæng“ Hadesar, konungsins í myrkvuðu ríki hinna dauðu.

Freud setur kenningu sína fram með skýrum hætti í fyrirlestrum sem hann hélt í Vínarborg 1915-17 og voru síðan gefnir út í endurskoðaðri mynd 1933 undir titlinum Inngangur að Sálgreiningu. Í fyrirlestri nr. 21 (Þróun libido og mótun kynhvatar) rekur hann hvernig hin „erótíska“ skynjun nýburans vakni strax við munnmök þess við móðurbrjóstið og hvernig þessi erótíska skynjun verði vakinn að kynferðislegu sambandi móður og barns, er hafi í för með sér samkeppni við föðurinn. Krafa barnsins um fullan aðgang að móðurinni veldur samkeppni og duldri andúð á föðurnum af hálfu sveinbarnsins. Hjá stúlkubarni getur þessi mótun kynhvatar umhverfst í ást á föður og fæð í garð móður. Samkvæmt Freud búa þessi hvatahvörf í öllum börnum og birtast í draumum fólks fram eftir aldri, en eðlileg mótun kynhvatarinnar felst að mati Freud í því þroskaferli sem á sér stað á unglingsaldri, þegar börnin læra að slíta sig frá foreldrunum og yfirfæra sínar duldu erótísku tilfinningar út fyrir ramma fjölskyldunnar. Þegar slíkt þroskaferli mistekst verður til taugaveiklun sem lýsir sér meðal annars í Antigónu. Sem dóttir lagði hún ástarhug á föður sinn en fæð á móður sína, Jóköstu. Það er hin kvenlega útgáfa Ödipusarduldarinnar. Jókasta móðir hennar, sem einnig var amma hennar, hafði reynt það sem hún gat til að koma í veg fyrir að Ödipus kæmist að sannleika þessarar blóðskammar. Eftir lát hennar fylgdi Antigóna föður sínum blindum á sorgarferð hans í dauðann og sat síðan ein uppi með sannleikann um ættarskömmina. Antigóna lifði fyrir þessa skömm sem var hennar sársauki og hennar heilaga leyndarmál. Hún yfirfærði sjúklega ást sína á föðurnum yfir á Polineikes bróður sinn og braut lög samfélagsins með því að hylja lík hans mold eftir að hann hafði fallið í tilræði við ættborg sína, Þebu, og samfélagsreglu hennar. Samkvæmt skilningi Freuds er Antigóna því haldin sjúklegri taugaveiklun, sem birtist í vanvirðu við reglu og lög samfélagsins. Því segir Freud að í vissum skilningi megi líta á leikrit Sófoklesar sem „siðlausan“ gjörning er gangi gegn samfélagsreglunni. Hins vegar sé það ekki ætlun skáldsins: Sófókles líti á undirgefni mannsins undir vilja guðanna sem hina æðstu dyggð, jafnvel þegar hún leiði af sér lagabrot. Sófokles sé ekki í hlutverki siðapostulans og harmsögulegar afleiðingar undirgefni Antigónu undir boðorð guðanna skipti þar ekki máli.

Jacques Lacan

Þegar Jacques Lacan setti fram hina áhrifamiklu kenningu sína um eðli og hlutverk langana mannsins í Sjöunda námskeiðinu frá 1959-60, voru fyrirlestrar hans hljóðritaðir eða skráðir og síðan gefnir út í París 1986 undir titlinum L‘éthique de la psycanalyse (Siðfræði sálgreiningarinnar). Þetta námskeið og skráning þess er trúlega áhrifamesta verk Lacans og einstakt í evrópskri bókmenntasögu, og þar gegnir greining hans á Antigónu Sófóklesar stóru hlutverki í þrem mikilvægum fyrirlestrum. Lacan sagðist vera lærisveinn Freuds, en skilningur hans á lönguninni var annar. Freud hafði undir lokin einfaldað og smættað kenningu sína um dulvitaðar langanir og hvatir mannsins niður í libido og Þanatos: lífshvöt og dauðahvöt, þar sem þær voru ekki gagnvirkar, heldur samvirkar (sjá Handan vellíðunarlögmálsins í íslenskri þýðingu Sigurjóns Björnssonar á Ritgeðum Freuds frá 2002). Lacan sagði (ólíkt Freud) að dulvitundin lyti lögmáli tungumálsins, en löngunin væri sprottin úr raunverunni, sem væri handan orðanna og myndanna, hið myrka djúp mannssálarinnar sem orðin og myndirnar ná ekki að skilgreina og sýna nema að litlum hluta. Löngun okkar beinist að og kallar eftir  löngun annarra, sagði Lacan, en markmið hennar er alltaf handan hins höndlanlega og skilgreinanlega: endanlegt viðfang löngunarinnar er alltaf það sem Lacan kallaði „lítið a“ eða „hluturinn“, (La Chose). Bylting Lacans fólst í því, að þar sem Freud sagði siðmenninguna byggja á hóflegri bælingu hvatanna, þá taldi Lacan það mestu synd mannsins að brjóta gegn innstu löngun sinni. Löngun, sem var ekki hin hömlulausa löngun Antigónu, sem virti engin lög, heldur sú löngun sem við kennum stundum við „köllun“ og byggir á sjálfsþekkingu. Lacan fann sterka ögrun í Antigónu Sófoklesar og stóð frammi fyrir þeirri spurningu, hvað stæði á bak við þá fegurð sem við skynjum í mynd hennar og uppreisn gegn lögum og agavaldi samfélagsins. Antigóna var í sjálfu sér ekkert annað en hin hreina og óskipta löngun sem storkaði öllum lögum og öllu samtali. Hin stóra spurning Lacans um Antigónu snérist um þetta: Hvers vegna finnst okkur hún vera fögur?

Uppreisn hennar og ögrun virtist byggja á náttúrukrafti er búi handan allrar reglu og lögmála  siðmenningarinnar. Ekki bara það, heldur vísaði þessi löngun beint í dauðann. Ákvörðun hennar og löngun beinist ekki að „Hinum“, samtalinu við „Hinn“, og ólíkt sjálfum Ödipusi þá birtist hún okkur gjörsneydd allri sektarkennd.

Ef við eigum að fylgja reglu sálgreiningarinnar um mikilvægi orðanna og samtalsins þá erum við hér komin inn á formyrkvað svæði hreinnar sturlunar. Hverju svörum við ákalli Antigónu? Það fyrsta sem kemur í hugann er dauðahvötin, hún talar fyrir hinn myrka heim Hadesar og grafhýsisins sem hún gengur inn í án nokkurs hiks eða iðrunar.

Um þessa spurningu Lacans segir sálgreinirinn Massimo Recalcati:

„Antigóna sýnir okkur það dramatíska augnablik þegar trúnaðurinn við eigin löngun getur umbreyst í tortímingu og bölvun, einmitt vegna þess að löngunin hvilir ekki á þeirri sjálfsveru sem stýrir henni, heldur er það þvert á móti löngunin sem stýrir sjálfsverunni. Antigóna sýnir okkur beint inn í leyndardóm undirokunar löngunarinnar… á endasprettinum birtist okkur andlit Antigónu í ógnvekjandi fegurð. Það er hinsta augntillit hennar til borgarinnar (polis) sem birtist okkur sem elding áður en hún hverfur inn í niðdimma grafhvelfingu sína … fegurð Antigónu hefur endaskipti á skilningi okkar á fegurð, því eldingin sem umlykur hana veitir okkur innsýn í raunveruna… hún flytur okkur að mörkum hinnar fagurfræðilegu skynjunar,… bendir okkur á þessa raunvetu sem útilokar ekki sérhverja fagurfræðilega tilfinningu, heldur er á mörkunum, og fær okkur til að horfa inn í hana án þess að glata okkur í brennandi eldhafi hennar.“ (M. Recalcati: Jacques Lacan, Desiderio, godimento e soggettivazione, Raffaello Cortina Editore, Varese, 2012, bls. 267).

 

Lucy Irigaray

Franski heimspekingurinn Lucy Irigaray er hér fulltrúi fjölmargra kvenna sem hafa túlkað harmleik Sófoklesar út frá forsendum feminisma. Í stórmerkri rigerð sem hún birti í ritgerðasafninu Interrogating Antigone in Postmodern Philosophy and Chriticism (Oxford University press 2010) undir titlinum Between Myth and History: The Tragedy of Antigone, gerir hún þá mjög svo persónulegu játningu að örlög Antigónu hafi verið henni umhugsunarefni árum saman vegna þess að hún hafi sjálf gengið í gegnum sömu reynslu: „útilokun frá félagslegum menningarlegum stöðum vegna þess að hún hafi tekið opinbera afstöðu til niðurbælds sannleika, eða sannleika sem ekki var viðurkenndur sem slíkur, og því valdið truflunum í hinni opinberu umræðu. En þó ég hafi verið beitt samfélagslegri útilokun – frá háskólunm, sálgreiningarstofnunum, vísindafélögum og jafnvel vinahópum, þá hef ég sem betur fer ekki verið svipt tengslum mínum við náttúruna… Ég hef verið útilokuð frá polis, borginni, því mannlega samfélagi sem ég tilheyrði, og send aftur til þess heims náttúrunnar sem samtímamenn mínir kunna ekki lengur að meta eða hafa í hávegum, og sem þess vegna reyndist nauðsynlegt að útiloka mig frá…“ Þessi óvenjulega persónulega játning verður um leið einn lykillinn að skilningi Irigary á Antigónu Sófóklesar, sem verður um leið hennar persónulega játning og hennar femíniska stefnuskrá.

Greining Irigaray er engu að síður málefnaleg og skýr, þar sem hún setur harmleikinn í sitt goðsögulega samhengi: „harmleikur Sófóklesar segir okkur frá umskiptum frá samræmdri kosmískri reglu yfir í þá tilbúnu manngerðu reglu sem sem virðir ekki lengur áunnið samræmi á milli lifandi náttúru, guða og manna. Sú skylda sem Antigóna reynir að uppfylla felst í því að viðhalda þeirri kosmísku reglu er hafði með erfiðismunum áunnist í samskiptum Seifs og Hadesar, guðs Ljóssins og guðs Myrkursins eða Skugganna, þeirra sem upp frá því voru kallaðir guðir himnanna og undirheimanna. Greftrun Políneikesar fól í sér tilraun til að viðhalda viðkvæmu jafnvægi á milli þessara tveggja guða. Ekki til þess að hygla undirheimaguðinum, eins og svo oft hefur verið haldið fram í persónulýsingum Antigónu, -fyrst af Kreon sjálfum – heldur í þeim tilgangi að halda opinni mögulegri samgönguleið á milli þessara tveggja heima, samgönguleið sem varðaði ekki bara bróður hennar, heldur þann alheim sem Grikkir kölluðu Kosmos. Antigóna vildi halda Seif og Hades í jöfnum heiðri og viðhalda brothættu jafnvægi þeirra á milli.

Irigraray minnir okkur á að Hades hafi rænt Kore, dóttur Seifs og Demeter og fært hana í Undirheima undir nafni Persefónu drottningar. Seifur sætti sig við þetta rán Hadesar bróður síns – og þessa meyjarfórn – í þeim tilgangi að endurreisa mögulega kosmíska reglu. Irigrary sér líkingu með dauðadómi Kreons yfir Antigónu og meyjarráni Hadesar, þar sem hún er hrifin frá eilífri sælu í skauti móður sinnar til þeirra óvissu sem henni var búin: til hálfs með hinum dauðu á vetrum og til hálfs með hinum lifandi ofan jarðar á sumrin. Dómur Kreons er um leið ákall til Seifs um að þessu jafnvægi í alheimi milli ríkis lifenda og dauðra sé raskað.

Í þessu samhengi vísar Irigaray í hinn fræga kórkafla Sófóklesar sem kemur í kjölfar dauðadóms Kreons, kórsöngurinn sem kallaður hefur verið „lofsöngur um manninn“ og hefst á þessum orðum í þýðingu HH: „Margt er undrið, og mun þó víst / maðurinn sjálfur undur stærst…“ Þessi þýðing hefur verið umdeild, ekki síst af Heidegger, sem fylgdi þýðingu Hölderlins og vildi þýða gríska orðið deinos sem „unheimlich“ á þýsku, sem gæti þýtt ískyggilegur eða jafnvel ógnvænlegur í lýsingunni á mikilfengleik mannsins. Sá skilningur breytir inntaki „lofsöngsins“ þar sem sú húmaníska sýn á snilli mannsins í að temja náttúruöflin sér í hag  umbreytist í „ískyggilega“ áráttu, en sú efahyggja liggur í raun nær hinum forna gríska skilningi á manninum en sá „húmanismi“ sem þýðing HH gefur til kynna. Hinn „ískyggilegi maður“ væri þá óbein vísun í valdsmanninn Kreon.

Irigaray segir kórsönginn sýna hvernig maðurinn missti tök á tilvist sinni með tæknikunnáttu sem veitti honum vald til að stýra náttúrinni en svipti hann um leið þekkingu til að lifa með henni. Lofsöngurinn vísi til áráttu Kreons á meðan Antigóna berjist fyrir hinu „kosmíska jafnvægi“ samfélags og náttúru.

Irigaray segir að Vesturlandabúar hafi gleymt því að umhyggjan um hina „kosmísku reglu“ eigi sér trúarlegar forsendur. „Við getum hiklaust skaðað heiminn með sprengjum, jafnvel með kjarnorkusprengjum: ef það er gert í nafni og þjónustu okkar Guðs öðlast slíkur gjörningur trúarlega merkingu. Frá sjónarhóli Antigónu er hann andstæður öllum trúarbrögðum, en ekki frá sjónarhóli margra sem aðhyllast eingyðistrú, sem telja það gott og gilt að eyða lífheimi, einnig mannslífum, í því skyni að verja trú sína á eilífan veruleika.

Í kjölfar þessa skilgreinir Irigaray sína femínisku sýn á harmleikinn út frá hinni kynjuðu sjálfsmynd Antigónu og virðingu hennar fyrir kynskiptum heimi. Þar setur hún fram sérstaka túlkun á „kynjafræði“ er gengur gegn hefðbundnum sjónarhóli feðraveldisins. Hún segir meginorsök harmleiks Antigónu liggja í því að „feðraveldi hafi verið komið á með bælandi hentistefnu er varði ekki bara skilgreiningu fjölskyldunnar, heldur hafi forræði feðraveldisins verið notað til að bæla eðlilegt samband kynjanna, sem væru ólík en hefðu hvort um sig sitt fram að færa til siðmenningarinnar. Og framlag hins kvenlæga leggur áherslu á gildi lífsins, getnaðinn og gróskuna. „Það byggir á óskráðum lögum, sem gerir ekki skýr mörk á milli borgaralegra og trúarlegra reglna. Fjölskyldan hefur ekki algildan forgang með sama hætti og í feðraveldinu. Það gefur dætrunum forgang og sér yngsta soninn sem erfingja. Þessi gildi byggja á viðgöngu kynslóðanna og hafa ekkert með erfðagóss, stéttarstöðu eða nafngiftir og titla að gera.“

Í augum Irigaray eru bæði Kreon og Ödipus faðir Antigónu kvenhatarar, annar sem dómari hennar, hinn sá sem gat ekki horfst í augu við sannleikann, en kaus heldur að stinga úr sér augun og njóta síðan umhyggju og stuðnings Antígónu dóttur sinnar fram í dauðann. Vitundin um hina kynjuðu sjálfsmynd mannsins felur óhjákvæmilega í sér harmleik, segir Irigaray.

Ritgerð sína um Antigónu endar Irigaray með þessum orðum: „Umskiptin frá hinu einstaklingsbundna til hins samfélagslega fá okkur oft til að horfa framhjá eða gleyma þeim kynbundna mismun sem er okkar á milli. Það er mismunur sem á sér stað í upphafi og alltaf milli tveggja aðila sem búa við sín takmörk.  Takmörk sem leiða til eins konar dauða þegar þau breytast frá stundlegri reynslu til menningarlegrar handanveru í samskiptum okkar hér og nú.  Þessi handanvera er algild og er sameiginleg öllu mannfólki í heiminum. Okkur nægir að hlusta til óskrifaðra laga sem eru innrituð í náttúruna sjálfa: virðingin fyrir lífinu, fyrir framgangi þess, vexti og blómgun, og virðingin fyrir hinni kynjuðu handanveru okkar á milli: fyrst af öllu milli barna mannkynsins, barna móður náttúru sem við öll erum, einnig hérna megin eða handan allra hugsanlegra félagsfræðilegra skilveggja sem skilja okkur að.“

 

Giorgio Agamben

Þó ég hafi ekki fundið sérstaka umfjöllun um Antigónu í skrifum ítalska heimspekingsins Giorgio Agambens, þá gefa skrif has um „homo sacer“ tilefni til að spyrja þeirrar spurningar hvort Antigóna falli ekki undir þessa skilgreiningu sem einstaklingur. Þetta mikilvæga hugtak sem Agamben sækir úr fornri sögu trúarbragða og réttar lýsir í raun því sem í íslensku samhengi myndi vera „útilegumaðurinn“: sá sem hefur fengið útlegðardóm og er réttdræpur (refsilaust) en ekki tekinn af lífi. Agamben rekur þessar hugmyndir sínar meðal annars til Michel Foucault (og Hönnu Ardent og Walters Benjamin) um  hið „nakta líf“ og hið pólitíska „lífvald“ og einnig til réttarheimspekinghsins Carls Schmitt um „undantekningarástandið“ sem hið pólitíska vald tekur sér með „lögmætu afnámi laganna“ er hafi tilhneigingu til að framlengja sjálft sig. Antigóna var dæmd til dauða en ekki tekin af lífi, heldur send inn í lokaðan helli með nesti til að hreinsa valdið af blóði hennar. Er hún ekki „homo sacer“ samkvæmt Agamben, stödd á svæði „milli tveggja dauða“ eins og Lacan orðaði það?

Hugmyndina um „hið nakta líf“ rekur Agamben til tveggja hugtaka sem Forngrikkir notuðu um lífið: bios og zoé. Bios er það líf sem tilheyrir manninum einum, vitund hans um fortíð sína og framtíðarvæntingar. Zoé er hið nakta líf sem tilheyrir öllum lífverum, manninum líka. Segja má að það sem skilji á milli sé tungumálið og þar með rökhugsunin, sú reglufesta sem grikkir kenndu við polis, hið mannlega borgarsamfélag. Maðurinn sem „politískt dýr“ eins og Aristóteles orðaði það. Agamben segir tilkoma mannsins sem „pólitískt dýr“ verði samfara tilkomu hins „altæka valds“ (potere sovrano). Í bók sinni Homo sacer (Torino 1995) skilgreinir Agamben þetta hugtak og segir aðalpersónu bókar sinnar vera „hið nakta líf, það er að segja homo sacer, … þar sem hugtakið sacer merki þá dularfullu mynd hins heilaga er sé staðsett handan hins trúarlega og byggi það pólitíska svæði er sé orðið einkennissvæði hins pólitíska sviðs í samtímanum.“ Agamben á þarna ekki bara við fyrirbæri eins og fangabúðirnar í Guantanamo á Kúbu, þrælabúðir pólitískra útlaga í Síberíu á Stalíntímanum í Sovét, útrýmingabúðir nasista í síðari heimsstyrjöldinni, einangrunarbúðir smitaðra, geðsjúkra og fatlaðra (eins og Foucault hefur rakið í bókum sínum um sögu fangabúða og sögu kynlífsins), heldur eigi þetta við um lögskipaðar aðstæður flóttamanna undan styrjöldum og hungri í okkar samtíma samkvæmt „útlendingaeftirlitinu“, eftirlit mögulegra smitbera í farsóttinni (sbr. Covid) og það yfirþjóðlega stafræna eftirliti sem komið var á með lögfestingu „Patriotic Act“ í BNA í kjölfar 11. September 2001. Það tæknilega stafræna og yfirþjóðlega eftirlitskerfi sem einkennir okkar samtíma (ásamt hinu yfirþjóðlega einokunarkerfi markaðsins) á sína fyrirmynd í einangrunarbúðunum, segir Agamben, og við erum öll orðin „homo sacer“ í þessum skilningi. „Á bak við það langa átakaferli sem hefur falið í sér viðurkenningu hins formlega frelsis, finnum við ennþá líkama hins helga manns (uomo sacro) með sitt líf sem hægt er að deyða en ekki fórna. Vitundin um þessa ráðgátu felur ekki í sér vanmat þeirra ávinninga sem lýðræðið hefur fært okkur, en hún á að sanna okkur í eitt skipti fyrir öll, að einmitt á þeim tímapunkti þegar lýðræðisöflin virtust hafa sigrað andstæðinga sína og náð hátindinum, þá sýna þau sig óvænt ófær um að bjarga hinu nakta lífi (zoé) frá fordæmislausri eyðingu sem þau höfðu þó helgað allri sinni orku. Úrkynjun nútíma lýðræðis og sambræðsla þess við kerfi alræðisríkjanna í sinni eftir-lýðræðislegu mynd – samfélags neyslu og sýndarveruleika… á kannski rætur sínar í þessari ráðgátu er markar upphafið og þvingar það til dulinnar sambræðslu við sinn svarna erkióvin.“ (Homo sacer, 2005, bls 13).

Þessar hugmyndir Agambens eru eðlilega umdeildar og kalla á margvíslega gagnrýni, en hann hefur rökstutt hugmyndir sínar í fjölda bóka er fjalla um „lífvaldið“ í sínum ólíku myndum gegnum söguna, um sögu réttarfars og trúarbragða þar sem þessi fyrirbæri koma ítrekað upp, og þannig skapað safnritið Homo sacer, (útg. Quodlibet, 2021, 1392 bls.) sem óhætt er að segja að sé umdeildasta fræðiritið um stjórnmálaheimspeki í okkar samtíma.

Í ritgerð um leikrit Antigónu segir Audrome Zukauskaite (Biopolitics: Antigone‘s claims) að finna megi undarlega samsvörun á milli hins ógrafna líks Políneikesar og innilokunar Antigónu í hellisgröfinni, þar sem bæði eru staðsett á svæði sem lýtur lögsögu valdsmannsins í krafti undantekningarinnar. Samkvæmt hugtakanotkun Agambens sé hér um „útilokandi innilokun“ (exclusive inclusion) að ræða, þar sem þau eru innlimuð í hið opinbera svið laganna með útilokun. „Ef við hugsum þau út frá hugsun fórnarinnar eða fórnarlambsins þá er um útilokandi innilokun að ræða því þau eru drepin eða dæmd til dauða án þess að þau innritist í reglu hins heilaga: þessir líkamar eru sviptir allri virðingu eða heilagleika sem merkir að dauði þeirra hafi enga táknræna merkingu“. Hér sér höfundur sláandi líkingu á milli homo sacer og Antigónu, þar sem hún er „einfaldlega sett út fyrir mannlega lögsögu (ius humanum) án þess að fá inngöngu í svið hinnar guðdómlegu lögsögu (ius divinum) ,,, Þessi tvöfalda samræming alræðisvalds og undantekningar er eitt af einkennum alræðisríkja 20. aldarinnar sem lögleiðir útrýmingu lífs en ekki fórn þess.“

Staða gyðinga í ríki nasismans er hið sígilda dæmi Agambens um homo sacer, og einangrunarbúðirnar verða táknmynd þeirrar „útilokuðu innilokunar“ sem hér um ræðir. Hér er um afar flókna hugmyndalega þversögn að ræða, sem snertir jafnframt mörk hins trúarlega og veraldlega valds. Ekki er hér rúm til að rekja þá flóknu rökræðu eins og vert væri, en viðeigandi að vitna í lokaorð annars hluta bókarinnar Homo sacer:

„Ef það er rétt, að sú ímynd sem samtíminn býður okkur upp á sýni það líf sem ekki verður fórnað, en er engu að síður útrýmanlegt í áður óhugsanlegum mæli, þá er það víst að hið nakta líf homo sacer snertir okkur með sérstökum hætti. Heilagleikinn og útilokunin (la sacertà) er leiðarþráður sem enn er til staðar í stjórnmálum samtímans, og sem slíkur leggur hann undir sig æ viðfemari og skuggalegri svæði, allt til hins líffræðilega lífs borgaranna. Ef við getum, ekki lengur séð fyrir okkur ímynd hins heilaga manns í samtímanum, þá er það ef til vill vegna þess að við erum í raun og veru öll homines sacri.“

Lokaorð

Þó lesturinn á Antigónu Sófóklesar hafi hvílt mig frá sjónvarpsfréttunum af stríðinu þá var það ekki í því afþreyingarskyni sem sumir hafa kennt við þá geðhreinsun eða Kaþarsis Aristótelesar, sem hamleikurinn átti að veita streitufullum íbúum Aþenu fyrir 2400 árum síðan. Lestur þessa sígilda harmleiks leiðir hins vegar í ljós, að veruleikinn er flóknari en fréttamyndirnar segja, og öll þau tilfinningaþrungnu slagorð og stóryrði sem þeim hafa fylgt á samfélagsmiðlum og í samræðum manna á milli. Harmleikur Antigónu er ekki Ukraínustríðið, og Ukraína er ekki Antigóna (nafnið Antigóna mun merkja and-fæðing eða sú sem átti aldrei að fæðast). En harmleikurinn segir okkur margt um það sem getur alltaf gerst. Stríðið er hið algilda illa, þær aðstæður þar sem orðin glata merkingu sinni og ofbeldið eitt ræður. Tungumál Antigónu og Kreons voru báðum óskiljanleg, og það var ekki bara Antigóna sem var fórnarlamb þess sambandsleysis, heldur einnig Kreon. Ríki hans hrundi og ógæfan var gagnkvæm. Það ætti að geta orðið þeirri einlitu og tilfinningaþrungnu orðræðu sem fer æpandi um samfélagið á þessum háskatímum til umhugsunar. Kannski voru bæði Antigóna og Kreon HOMO SACER.

 

Heimildir:

Aristóteles: Um skáldskaparlistina. Þýðing og Inngangur Kristjáns Árnasonar, útg. Hið íslenska bókmenntafélag 1976

Sófókles: Antigóna í þýðingu Helga Hálfdánarsonar, birt í safnritinu Grískir harmleikir, útg. Mál og menning 1990.

Georg Wilhelm Friedrich Hegel: Fenomenologia dello Spirito, þýsk-ítölsk útgáfa Vincenzo Cicero, útg.  Bompiani, Milano 2014

Georg Wilhelm Friedrich Hegel: Lezioni di estetica, Ítölsk þýðing Paolo d‘Angelo, Útg. Laterza, 2018

Sören Kierkegaard: Enten-Eller, Bind – Et livs-fragment , Útg. Gyldendal, Kaupmannahöfn 1965

Sigmund Freud: Introduzione alla psicoanalisi, Útg. Newton Compton, Róm 2014.

Sigmund Freud: Ritgerðir í þýðingu Sigurjóns Björnssonar. Hið íslenska Bókmenntafélag 2002.

Jacques Lacan: The Ethics of Psychoanalysis – Seminar VII 1959-60. Útg. Routledge, NYC, 1992.

Massimo Recalcati: Jacques Lacan -Desiderio, godimento e soggettivazione, útg. RaffaelloCortina, 2012.

Michele Foucault: The History of Sexuality, Voume I. An Introduction. Útg. Penguin books, 1990

Giorgio Agamben: Homo sacer. Il potere sovrano e la nuda vita. Útg. Einaudi, Torino 2005

Giorgio Agamben: L‘uso dei corpi – Homo sacer IV, 2; Útg. Neri Pozza, Vicenza 2014

Lucy Irigaray: Between Myth and History: The Tragedy of Antigone,  birt í safnritinu Interrogating Antigone in Postmodern Philosophy and Criticism, útg Oxford University press 2010

Audronê Zukauskaitè: Biopolitics: Antigone‘s Claim, birt í safnritinu Interrogating Antigone in Postmodern Philosophy and Criticism, útg Oxford University press 2010

Interrogating Antigone in Postmodern Philosophy and Criticism, Oxford University Press 2010, ritgerðasafn í ritstjórn S.E. Wilmer og Audrone Zukauskaité.

 

Forsíðumyndin er vatnslitamynd eftir Jules-Eugène Lenepveu frá seinni hluta 19. aldar og sýnir Antigónu færa bróður sínum dreypifórn

 

 

[i] Kristján Árnason: Inngangur að þýðingu hans á ritgerð Aristótelesar Um skáldskaparlistina , útg. Hið Íslenska Bókmenntafélag 19786, bls 35-36.

[ii] Grískir harmleikir – Æskílos, Sófókles, Evripídes. Helgi Hálfdánarson þýddi. Mál og menning 1990; Sófókles: Antígóna 58-68.

[iii] Dirka var hin ógæfusama seinni eiginkona Likosar konungs í Þebu sem hlaut grimma dauðarefsingu stjúpsona sinna fyrir að hafa svikið móður sína, fyrri eiginkonu konungsins. Hún var dregin til bana bundin við nautshorn, en guðirnir miskunnuðu sig yfir hana og breyttu henni í uppsprettulind í Boetíu, sem við hana er kennd. Fræg höggmynd af aftöku Dirku er geymd í Fornminjasafninu í Napoli

MARTRÖÐ TÚLKUNARFRÆÐINGSINS OG JACQUES LACAN

Í dag var ég minntur á fjögurra ára gamla færslu sem ég setti inn á Facebook og lýsir martröð minni aðfaranótt 26. nóvembers 2016. Ég var búinn að gleyma þessum draumi eins og raunin er með flesta drauma okkar: þeir lenda allir í glatkistu óminnisins. En þar sem þessi martröð opnaði greinilega sýn mína inn í raunverulegan vanda og varð mér tilefni eftirfarandi greinargerðar, þá fannst mér hún forvitnileg áminning um raunverulegan vanda gleymskunnar og minnisins. Ég reyndi að túlka drauminn með aðstoð sálgreinisins Jacques Lacans, sem ég var upptekinn af á þessum tíma. Greinargerð þessarar gömlu fb-færslu veitir því örlitla innsýn í skilning Lacans á sambandi tungumálsins, dulvitundarinnar, draumanna og raunverunnar.

 

FLÆKTUR Í FLOKKUNARKERFI TUNGUMÁLSINS

Þegar við höfum eytt góðum hluta æfinnar í að greina flokka og túlka myndir, þá kemur að því að þessi flokkunarárátta opinberist okkur í draumum okkar, og þá óhjákvæmilega sem martröð.

Þannig vaknaði ég þrisvar í nótt upp frá sömu martröðinni:

Ég var staddur inni í tölvukerfi sem var sérhannað til flokkunar og bauð stöðugt upp á nýja flokkunarvalkosti þangað til ég komst í þrot og vaknaði í svitakófi og algjörri uppgjöf.

Ég vissi ekki nákvæmlega hvað það var sem ég var að reyna að greina, en það virtist með einhverjum hætti snerta forgang skynjunar fram yfir hugtökin, eða þá hugmynd að við skynjum fyrst gula litinn, formið, súrbragðið og ilminn af sítrónunni, hugtök skynjunarinnar heitin og lýsingarorðin komi á eftir. Vandi minn snérist að einhverju leyti um þessa spurningu: hvað felst í tenginu skynjana okkar og hugtaka?

Þessi spurning eru í raun ein af höfuðráðgátum fyrirbærafræðinnar, og það var ekki bara að tölvuforritið gæfi mér stöðugt nýja flokkunarvalkosti; það bauð mér líka upp á ólíka heimspekinga sem stóðu fyrir mismunandi flokkunarkerfi. Þessir heimspekingar áttu það allir sameiginlegt að flokkast undir fyrirbærafræðina í heimspekihefðinni, en suma þeirra þekkti ég aðeins að nafninu (í góðri vitund um að það stæði upp á mig að kynna mér flokkunarkerfi þeirra). Nöfn eins og Levinas, Kojev og Irigaray komu upp í tölvukerfinu ekki síður en Merleau-Ponty, Hegel, Nancy eða Sini, sem ég þóttist þekkja betur.

En þar sem ég var staddur inn í þessu tölvukerfi með flokkunarvanda minn komst ég síendurtekið í þrot og vaknaði með andköfum og í svitakasti. Það var eitthvað sem ekki gekk upp, þannig að ég stóð eftir einn og úrræðalaus eins og nakinn maður á berangri.

Oft eru mikilvægustu augnablik drauma okkar utan við sjálfan drauminn, þau gerast á þeirri ögurstund á milli svefns og vöku þar sem draumurinn er að ganga okkur úr greipum og hverfa á vit gleymskunnar. En Það eru örlög langflestra drauma okkar að hafna í glatkistu óminnisins.

Í morgun fannst mér ég ná í skottið á martröðinni í þessari andrá á milli svefns og vöku og allt í einu sá ég í nýju ljósi vanda sem hafði valdið mér heilabrotum allt frá því ég kynntist hinu mikla og frjóa hugmyndaflugi sálgreinisins Jacques Lacans. En sem kunnugt er kollvarpaði Lacan þeim viðteknu hugmyndum sem Sigmund Freud setti fram fyrir meira en 100 árum síðan um að draumar okkar væru birtingarmynd bældra hvata er ættu sér rætur í dulvitund okkar, sem væri mótuð af fortíðarsambandi okkar og togstreitu við foreldra, ástvini og samfélagið í heild sinni.

Lacan sagði að dulvitundin lyti ekki lögmáli hvatanna, heldur tungumálsins, og þessi staðhæfing hans breytti öllu. Ekki síst í skilningi okkar og túlkun á draumum.

Ef draumurinn er vettvangur dulvitundarinnar, þá er það tungumálið sem birtist okkur þar í sinni hreinu og tæru mynd, sagði Lacan, og blés á allar arfbornar frumgerðir (í anda Jungs) eða draumaráðningar út frá hinu bælda hvatalífi okkar (í anda Freuds) rétt eins og hvatalífið væri sjálfstæður gerandi í lífi okkar.

Hvað felst í þessum skilningi Lacans?

Á bak við hann hvílir skýring Lacans á þrískiptri byggingu vitundar mannsins, sem hann setti fram eins og þrjá hringi sem skerast saman: Ímyndunaraflið, Tákngervingin og Raunveran. Af þessu þrennu er Raunveran hið leyndardómsfyllsta, því í henni felst það sem er handan ímyndunarinnar og tákngervingarinnar. Fyrir Lacan er tákngervingin svið tungumálsins, þess tungumáls sem við erum fædd inn í og sem „talar okkur“ í vissum skilningi. Við erum óbeðin fædd inn í tiltekið málsamfélag og  komumst illa út fyrir svið þess. Það er fyrst og fremst tungumálið (og þar með málsamfélagið) sem birtist okkur nakið í draumum okkar,- og glíma þess við Raunveruna.

Raunvera Lacans er ekki hinn svokallaði áþreifanlegi veruleiki hlutanna, þessi veruleiki sem hefur þegar verið flokkaður af tungumálinu í gegnum tákngervinguna. Gulur er gulur, sítróna er súr og ilmur hennar er sætur. Það er hlutlægur raunveruleiki tungumálsins, en handan þess er hyldýpi raunverunnar sem er stöðugt að verki innra með okkur án þess að við náum að höndla hana í táknmálskerfi orðanna eða ímyndananna.

Við getum líkt þessari raunveru við vitundina um dauðann, þetta ógnvekjandi tómarými sem enginn lifandi maður er til frásagnar um, því enginn lifandi maður hefur reynt hann, en hann býr engu að síður með okkur frá fæðingu sem jafn fjallgrimm vissa og hún er óljós, allt þar til við hættum að geta dáið.

Í draumi mínum var ég flæktur í flokkunarkerfi tungumálsins á barmi þess hengiflugs sem dregur okkur stöðugt til sín og engin orð fá lýst.

Það er upplifun þessa tælandi lífsháska sem birtist okkur í draumum okkar og martröðum – og vekur okkur til lífsins.

Mynd Lacans af mannshuganum. 

Þessir 3 hringir sýna okkur mynd Jacques Lacans af þrískiptingu mannshugans, þar sem efsti hringurinn, Raunveran, tengir hina saman í heilsteypta mynd. Ef þessi hringur opnast eða leysist upp verður algjör aðskilnaður og þar með upplausn í sálarlífi okkar.

Raunveran (The Real) hefur aðra merkingu en það sem við köllum raunveruleika í daglegu tali. Raunveran er það sem við gætum kallað dulvitaða uppsprettu langana okkar, hvata og tilfinninga. Raunveruleikinn er hinn skilgreindi umheimur á forsendum táknmálsins en Raunveran er það forðabúr sálarlífsins sem býr handan orðanna. 

Hinir hringirnir eru Táknveran (The symbolic), sem er heimur þeirra táknmynda er við höfum til að skilgreina og flokka umhverfi okkar og veruleikann í heild sinni. Það er vettvangur tungumálsins, orðanna og táknmyndanna sem hafa áskylda merkingu. Táknveran er bundin Raunverunni órjúfandi böndum og leitar stöðugt til hennar til að skilja hana og koma skipulagi á langanir okkar, tilfinningar og væntingar. Sem uppspretta tilfinninga okkar, langana og væntinga er Raunveran hins vegar handan tungumálsins. Það skýrir stöðugt samband þessara yfirráðasviða. 

Táknveran er líka tengd Heimi Ímyndananna (The Imaginary), en það er heimur þeirra mynda sem við gerum okkur af umheiminum í gegnum skynjanir okkar áður en við höfum skilgreint þær í gegnum Táknveruna eða tungumálið. Táknveran leitar stöðugt í Heim Ímyndananna og þar er önnur uppspretta alls skilnings. Táknveran og Heimur Ímyndananna eru bæði tengd Raunverunni órjúfanlegum böndum, og slitni þau bönd skapar það upplausn í sálarlífinnu þar sem maðurinn fer að lifa bókstaflega í heimi orðanna eða ímyndananna. Slíkt ástand er kallað geðklofaástand eða skisofrenía á tungumáli geðlæknisfræðinnar.

Mynd: Gustav Doré: Don Quijote í viðjum orðanna og hlutanna

 

GUÐJÓN KETILSSON og myndin sem andæfir sjálfri sér

Net til að veiða vindinn

Þegar ég sá frábæra seríu blýantsteikninga Guðjóns Ketilssonar á sýningunni "Allt sem sýnist" á Kjarvalsstöðum fyrr í sumar, þá varð mér hugsað til greinar sem ég hafði skrifað um verk Guðjóns fyrir 10 árum og birtist í fallegri listaverkabók  um verk hans sem Crymogea gaf út 2010. Ég fór að rifja upp þessa grein, sem ég hafði í raun ekki lesið síðan bókin kom út, kannski vegna þess að einhvers staðar í dulvituindinni taldi ég hana hafa verið eins og vindhögg, eins og fangbragð sem ekki hefði náð utan um það sem til var ætlast. Í raun var þetta minnisstætt verkefni og mikil ögrun, en fátt er skemmtilegra en að láta ögra sér á ritvellinum. Þess vegna tók ég að mér að skrifa um verk Guðjóns án þess að vita fyrirfram hvað ég ætlaði mér að segja. Þetta var líka minnisstæður tími, því á sama tíma var ég á kafi í að reyna að setja mig inn í hugsun Martins Heideggers, og var á þessum tíma að glíma við þá erfiðu þraut að klæða hina sígildu ritgerð hans "Der Ursprung des Kunstwerkes" (Uppruni listaverksins) frá 1936 í íslenskan búning. Það verkefni reyndist mér reyndar ofraun, eins og að ætla sér að sauma vatns- og vindheldan sjóstakk með bútasaumi úr netadræsum frá Hampiðjunni. En þegar ég les yfir þennan texta um verk Guðjóns nú, þá sé ég vel að þar vakir andi Heideggers yfir vötnunum með hugsun hans um veruna og tímann og listaverkið sem tímatengdan atburð sannleikans, en ekki sem áþreifanlegan "listmun". Þessar hugmyndir Heideggers voru mér á þessum tíma eins og fjall sem ég þyrfti nauðsynlega að klífa, og ég upplifði nú aftur glímuna við leik hans með orð og setningaskipan sem ég hafði aldrei áður kynnst, þar sem ég hafði á þessum tíma texta hans á frummálinu,  ensku og ítölsku. Hugsanir sem voru mér ögrandi ráðgáta og ég átti reyndar auðveldast með að skilja á síðastnefnda tungumálinu. 

Ég get ekki sagt að mér hafi tekist að yfirstíga þetta fjall með árunum, hins vegar hefur mér kannski að einhverju leyti tekist að lifa með þeim þunga málfarslega vef sem Heidegger vafði utan um tímann og veruna og sannleikann sem tímatengdan atburð, því ég hef fengið það á tilfinninguna að hægt væri að orða þessar hugsanir með einfaldari hætti: tíminn og veran eru eins og vindurinn: um leið og þú hefur smíðað þér orð eða mynd til að handsama hann er hann annars staðar. Netið sem þú vefur er ekki annað en minnisvarði um það sem einu sinni var, er að eilífu horfið þér úr greipum og kemur aldrei aftur. Og þessi atburður sannleikans sem listaverkið geymir er fyrst og fremst minnisvarði um sjálfan sig. Að stíga fram á ritvöllinn eða inn í sýningarsalinn með orðin og myndirnar að vopni og þann ásetning að hremma tímann og veruna er eins og sjóferðin í Smuguna: það er sama hversu djúptæka botnvörpu við höfum, fiskarnir ganga okkur úr greipum, en fiskisagan á sér alltaf mögulegt framhaldslíf. Það á að minnsta kosti við um myndverk Guðjóns Ketilssonar.



 

Guðjón Ketilsson: Sjálfsmynd, 1990. Málað tré.

Myndin sem andæfir sjálfri sér

Grein sem birtist í listaverkabók Crymogeu um myndlist Guðjóns Ketilssonar 2010

 

I.

„Ego Sum“ gæti verið yfirskriftin á sjálfsmyndinni sem Guðjón Ketilsson gerði í kringum 1990 og markaði ásamt allmörgum sambærilegum verkum þáttaskil á ferli hans: hausar skornir í trjáboli með meira og minna afmáða andlitsdrætti, sumir með bundið fyrir vitin, aðrir augnalausir og yfirleitt án skýrt markaðra skilningarvita. Sjálfsmyndin sem hér talar til okkar er blind og neflaus en með opinn munn, myndarlegan makka eins og tíðkaðist á þessum tíma, og digran og reistan háls. Myndin vekur óneitanlega með okkur þessa spurningu: hver er það sem talar til okkar í þessu verki, hvert er þetta ego, þessi sjálfsvera sem rís í formi trjábolsins eins og miðlæg reðurmynd, en talar þó til okkar í blindni og án annars sýnilegs sambands við umheiminn en í gegnum þennan opna munn, munninn sem er málpípa þeirrar frumlægu og upprunalegu sjálfsveru sem fyrst tjáir sig með öskri nýburans og fær ekki sefast fyrr en hann hefur lokast um um stinna og gjafmilda geirvörtu hins mjúka móðurbrjósts? Hvaða hljóð kemur úr þessum munni, hvaða rödd er það sem þarna talar til okkar?

Í einu af snjallari leikverkum írska leikritahöfundarins Samuels Beckett frá árinu 1972 er munnur leikarans það eina sem sést tjá sig á leiksviðinu, auk svartklædds „Hlustandans“ sem djarfar fyrir í myrkrinu og hefur það hlutverk eitt að baða út höndum þegar munnurinn gerir stutt hlé á máli sínu. Leikverkið heitir Not I, „Ekki ég“, og undirstrikar nafnið þann skilning Becketts að sjálfsveran sé með einhverjum hætti gufuð upp eða falin á bak við þann meira og minna samhengislausa orðaflaum sem streymir frá þessum talandi munni, þessum talfærum sem virðast tilheyra miðaldra konu er þarna rekur einhverjar meira og minna óljósar raunir sínar í linnulausum orðaflaumi sem stöðvast þrisvar á meðan „Hlustandinn“ baðar út örmum sínum í örvæntingarfullri þögn, en í fjórða hléinu fallast honum hendur rétt áður en röddin hverfur inn í eigið skvaldur á bak við tjaldið sem fellur. Við stöndum frammi fyrir þessari sígildu spurningu um sjálfsvitundina sem franski heimspekingurinn René Descartes setti með ótvíræðum hætti á dagskrá í víðfrægri yfirlýsingu sinni: „Cogito, ergo sum“, ég hugsa, þess vegna er ég. Setning sem birtist í riti hans Orðræða um aðferð (1637) og hefur verið talin frumspekileg forsenda nútíma vísindahyggju, en hefur um leið verið bitbein endalausra skrumskælinga vegna þeirra innri þversagna sem í henni felast. Þversögnin um sjálfsveruna sem hugsar sjálfa sig var kannski afhjúpuð með áhrifamestum hætti þegar Sigmund Freud fullyrti að sjálfsvitund okkar væri ekki húsbóndi á sínu heimili, heldur réðist hún af bældum og ósjálfráðum hvötum dulvitundarinnar. Hugmynd sem reyndar var ekki að öllu leyti ný, því Arthur Schopenhauer hafði þegar í byrjun 19. aldar haldið því fram að vilji og vitund mannsins væru borin fram af einum grundvallar-vilja er væri frumforsenda allrar framvindu náttúrunnar og sögunnar. Og Nietzsche talar í flimtingum um þessa hugsandi sjálfsveru Descartes þegar hann segir:

„Á fyrri tíð trúðu menn nefnilega á sálina líkt og menn trúðu á málfræðina og hið málfræðilega frumlag. Þá var viðkvæðið: „ég“ er skilyrði, „hugsa“ er umsögn og skilyrt. Hugsunin er athöfn sem krefst þess að við hugsum okkur að hún hafi frumlag sem orsök. Því næst reyndu menn með aðdáunarverðri seiglu og klókindum að losa sig úr þessu neti með því að spyrja hvort ekki gæti hugsast að þessu væri þveröfugt farið: „hugsa“ væri skilyrðið og „ég“ hið skilyrta. „Ég“ væri semsagt niðurstaða sem hugsunin sjálf kemst að. Þegar öllu er á botninn hvolft vakti fyrir Kant að færa sönnur á að ekki væri hægt að sanna sjálfsveruna með henni sjálfri, né heldur hlutveruna. Honum hefur hugsanlega ekki alltaf þótt það fráleitur möguleiki að sjálfsveran, með öðrum orðum „sálin“, ætti sér sýndartilvist…“[i]

Sú hugmynd Nietzsche að sjálfsveran væri „sýndartilvist“, skilyrt af tungumálinu og óhjákvæmilega falin á bak við grímu, fékk nýja útfærslu hjá franska sálfræðingnum Jacques Lacan (1901-1981) sem í raun færði kenningar Freuds nær okkar samtíma, þegar hann vék frá hugmyndunum um hvatirnar með því að segja að dulvitund okkar byggði ekki á arfbornum eðlishvötum, heldur hefði hún eðli og formbyggingu tungumálsins, formbyggingu sem er til á undan og óháð reynslu okkar og sjálfsvitund. Því er sjálfsvitundin í raun í órofa samtal sjálfsins við „Hinn“, sem býr í öllum mönnum sem hið óþekkta X eða hin talandi dulvitund táknanna.

Stað sjálfsverunnar er því, samkvæmt Lacan, að finna í þessari virkni tungumálsins, sem er endalaus orðaleikur á milli marks (M=signifiant) og markmiðs (m=signifié)[ii]. Við erum þannig í senn túlkendur og talendur tungumálsins, og sjálfsmynd okkar ræðst af þessari túlkun sem er meira og minna háð óskhyggju okkar, löngunum og trú.

Því er þessi saga rakin hér, að hún getur kannski hjálpað okkur að svara þeirri spurningu, hver tali til okkar í þessari sjálfsmynd Guðjóns Ketilssonar, og hvernig tungumálið/myndmálið tekur síðan nýja stefnu í síðari verkum hans. Samkvæmt Lacan er það ekki síst tungumálið/myndmálið sem talar til okkar í þessu verki, en um leið sjáum við í því sterka táknræna vísun í táknmynd sem hefur grundvallarþýðingu í allri sálgreiningu Lacans, en það er Föðurímyndin, eða það sem hann kallar Lögmál-Nafns-Föðurins.

Sú föðurímynd sem við getum lesið út úr þessari sjálfsmynd Guðjóns birtist okkur sem hin laskaða föðurímynd og reðurtákn, mynd sem virðist í reisn sinni og uppréttri stöðu hafa glatað löggjafarvaldi sínu sem hið alvalda Mark eða signifiant er setur fjölskyldunni og samfélaginu reglu. Sú sjálfsvera sem talar til okkar í þessu verki er að vísu upprétt eins og reistur limur, en hún hefur með einhverjum hætti lotið í lægra haldi fyrir tungumálinu, hún birtist okkur sem sjúkdómseinkenni (symptom) sem vísar aftur til þeirrar frumlægu þarfar barnsins sem tjáir sjálft sig og samskipti sín við umheiminn einungis í gegnum þann munn sem opnar sig gagnvart geirvörtu móðurbrjóstsins. Við sjáum það síðan hvernig hið miðlæga Mark sjálfsverunnar veiklast og hverfur með róttækum hætti í myndlist Guðjóns, um leið og spurningarnar sem myndir hans vekja þróast frá hinni miðlægu sjálfsveru til spurningarinnar um tungumálið í sjálfu sér, rými þess og veru.

II.

Guðjón Ketilsson: Þorp, 1994-6 (hluti). Tré. Í eigu Sjúkrastofnunar Siglufjarðar.

„Tungumálið er hof (templum) og hús verunnar“[iii] segir Martin Heidegger í hinni merku ritgerð sinni um skáldið Rainer Maria Rilke frá 1926. Sýning Guðjóns Ketilssonar í Norræna húsinu 1996, sem markar nokkur þáttaskil á listferli hans, er eins og myndræn útfærsla á þessari hugsun Heideggers, um leið og hún vekur til umhugsunar um tengslin á milli þessara tveggja hugsuða, Lacans og Heideggers. Hér virðist sú persónulega sýning sjálfsverunnar, sem hægt var að ímynda sér í hausamyndunum, vera horfin, en í staðinn kominn leikur með form. Hér er það tungumálið sjálft sem tjáir sig milliliðalaust. Eftirminnilegasta verkið á sýningunni í Norræna húsinu er verkið „Þorp“, sem samanstóð af 43 einingum, sem allar voru tilbrigði við sama formið: einfaldasta mynd húss sem hægt er að hugsa sér, lágmynd úr ómáluðu tré sem sýnir gaflinn, aðra hliðina og aðra þaksúðina. Öll „húsin“ voru í sömu stærðarhlutföllum, en ekkert þeirra var eins, því þar sem súðin skaraði á einni myndinni fram yfir gaflinn, þá stóð gaflinn út á annarri, hliðin var ýmist útstæð eða innstæð bæði gagnvart þaki og gafli, o.s.frv. Hægt er að kalla þetta „tilbrigði við form“, en í greinarkorni sem ég skrifaði um sýninguna í dagblaðið DV[iv] kallaði ég verkið „atlögu að hugtakinu hús“ til að leggja áherslu á að verkið snérist um tungumálið út frá hugsun formgerðarstefnunnar um samband og sambandsleysi orðsins og hlutarins sem það vísar til. Í þessu tilfelli auðvitað yfirfært á myndmálið. Verkið sýnir í raun tilbrigði og ólík samspil þriggja geometrískra forma, sem við skiljum fyrirfram sem „hús“ af því að þetta er nánast eins og fyrsta myndin sem barnið gerir sér af húsi og allir skilja, án tilliti til þjóðernis, tungumáls eða sögu. Húsið er staður til að fæðast í, til að lifa í og til að deyja í. En ef mannkynið hefði frá upphafi tamið sér að gera kringlótt, hnöttótt eða sexhyrnd hýbýli eins og t.d. geitungarnir gera sér, þá væri hér einungis um flatarmálsfræðileg tilbrigði að ræða. Það sem ruglar flatarmálsfræðina í þessu tilfelli er sú grundvallarmerking sem húsið hefur fyrir alla menn. Skynjun mín á þessu verki er sú, að Guðjón hafi með þessari sýningu og þessu verki yfirgefið hið laskaða hús hinnar einráðu föðurímyndar og Marksins (signifiant) til þess að halda út á þau óvissu mið sem Heidegger kallar „hið Opna“ og Lacan kallar „tómið“, það er að segja að rannsaka tungumálið sem er orðið viðskila við markmið sitt (signifie) eða vísar til hins ósýnilega, óskilgreinda og þess sem við getum einungis skilið táknrænum skilningi. Þessar húsamyndir segja okkur ekkert um tiltekið hús. Þær eru ekki til þess gerðar að „sýna“ okkur endurgerða eftirmynd einhvers húss, endurtekningin og tilbrigðin undirstrika það. Þetta verk sýnir okkur að Guðjón var búinn að yfirgefa þá höfn sjálfsverunnar sem vildi sýna okkur myndina af heiminum, hann vill þess í stað sýna okkur tungumálið sem talar og syngur, það er söngurinn fyrir veruna, fyrir sig sjálfan eins og segir í sonnettunni til Orfeusar eftir Rilke, sem Heidegger vitnar til:

„Ungi maður, röddin sem kemur úr munni þínum /er ekki það sem þú elskar, – lærðu / að gleyma rauli þínu. Það líður hjá. /Að syngja í sannleika, það er annað andvarp./ Andvarp til einskis. Stuna í Guði. Vindhviða“.[v]

Heidegger vitnar í þetta ljóð til að segja okkur að kjarni verunnar sé fólginn í tungumálinu sjálfu og vandinn við að höndla sannleika þess felist í því að það er ekki bundið neinum tilgangi eða markmiði, heldur verunni sjálfri, sem eru hin náttúrlegu heimkynni Orfeusar (og guðanna) en ekki mannsins. Maðurinn þarf að ávinna sér sönginn með því að yfirvinna og ögra því hengiflugi tómsins sem hann er kominn úr og sem bíður hans. Eina leiðin til þess að losna undan yfirdrottnun hlutanna og myndgervinga hinnar reiknandi hugsunar er í gegnum þetta hættusvæði tungumálsins sem sýnir ekki, heldur er. Tungumálsins vegna, ef svo mætti segja. Það er tungumál sem krefst annarrar rökfræði en hin reiknandi hugsun, þeirrar rökfræði hjartans, sem ein nær að opna fyrir okkur þá innheima sem mælanleikinn nær aldrei að höndla.

III

Guðjón Ketilsson: Skór, 2001, málað tré.

Næsta sýning Guðjóns kom ekki síður á óvart en húsamyndir hans, en það voru skórnir sem hann sýndi í Nýlistasafninu í nóvember 1997. Skór útskornir í massíft tré, paraðir saman, fínpússaðir, formfastir og fagurlega svartmálaðir, allir eins. Í röð meðfram veggnum, í hringformi á gólfinu og á veggnum og í veggfastri „rós“ með svörtum skópörum sem mynda hring utan um svartan punkt á gylltum grunni. Guðjón kallar skópör sín „Staðgengla“, en þeir voru gerðir á árunum 1994-95. Þótt skórnir séu í vissum skilningi rökrétt framhald af húsamyndunum í Norræna húsinu og eigi það sammerkt með þeim að vísa til hins almenna en ekki hins einstaka, þá er hér gengið enn lengra, verkið sett á gólf og veggi og skópörum raðað í beinni röð við gólflista meðfram veggnum, eins og til að undirstrika að hér sé hvorki um hefðbundna standmynd né veggmynd að ræða. Þá er sá munur mikilvægur, að hér eru allir skórnir eins. Hvað var hér á seyði? Rétt eins og húsið er staður til að fæðast, lifa í og deyja í, þá eru skórnir tæki til að standa í og ganga í og heitið „Staðgenglar“ kann í þessu samhengi að vísa frekar til fjarveru líkamans en þeirrar fyrirmyndar sem finna má í einstökum raunverulegum skópörum.

Þótt það hafi væntanlega ekki verið af ásettu ráði, þá var þessi sýning eins og neðanmálsgrein eða athugasemd við einhverja merkilegustu samræðu um listasögu 20. aldar, sem sjá má í skrifum Martins Heideggers um Uppruna listaverksins og „Bóndaskóna“ eftir Van Gogh (1936)[vi], í andsvari bandaríska listfræðingsins Mayers Schapiro við þeirri ritsmíð: The Still Life as a Personal Object, (1968)[vii] og í hinni löngu og margslungnu úttekt Jacques Derrida á þessari samræðu í ritgerðinni La vérité en pointure (1978)[viii], en hún er sett fram sem fjölradda samræða (n +1) fjölda kvenradda, þar sem málverk Van Goghs og skrif Heideggers og Shapiro verða höfundi tilefni til flókinnar sviðsetningar heimspekilegrar samræðu er nær langt út yfir hinn þrönga ramma málverksins og skónna og varðar merkingu og samhengi hinnar heimspekilegu orðræðu í mun víðari skilningi.

Kveikjan að gagnrýni Meyers Schapiro á grein Heideggers var sú forsenda sem hann gefur sér, nánast án nokkurs rökstuðnings, að skór Van Gogh tilheyri bændastéttinni, nánar tiltekið bóndakonu, og opni þannig heim hennar fyrir okkur. Schapiro telur þessa forsendu ranga, því þetta séu augljóslega „borgarskór“ sem hafi tilheyrt málaranum sjálfum. Tengir MS þessa röksemdafærslu MH við gagnrýni hans á tæknimenningu samtímans og rómantískar hugmyndir hans um sveitamenningu, er hafi síðan leitt hann til stuðnings við nasismann í Þýskalandi.

Öll er þessi deila hin furðulegasta, þar sem það er ekki málverkið í heild sinni sem er umræðuefnið, heldur kynferði og stétt þeirra fóta, sem notuðu skóna sem það sýnir á meðan þeir voru í notkun. Úr þessu gerir Jacques Derrida skemmtilegan útúrsnúning, sem hann leiðir jafnframt inn á umræðu um kynferði og hugsanlegt kynferðislegt blætiseðli skóa. Skór Van Goghs eru opnir og lausreimaðir þannig að þeir verða tilefni Derrida til að vitna í fræðigrein Sigmundar Freud um blætiseðli skóa (Fetishism, 1927) og lærisveins hans Ferenczi (Sinnreiche Variante des Schusymbols der Vagina, 1916), Þar sem þessir fræðimenn benda á að skór geti bæði tekið á sig hlutverk staðgengils getnaðarslims (Freud) er geti komið til móts við meðfædda vöntun kvenna á slíku líffæri, og einnig að þeir geti verið táknmynd kvenskapa (Ferenczi) sem umlykja fótinn, er þá gegnir hlutverki limsins. Þennan samanburð má síðan leiða áfram út í frekari samanburð á kynferðislegu blætiseðli skófatnaðar í myndlist allt frá Brúðkaupi Arnolfini-hjónanna í málverki Van Eyck til verka á borð við Le modèle Rouge eftir René Magritte frá árinu 1937 (sem sýnir okkur skó er umbreytast í mannsfætur) og mætti þar við bæta „Diamond Dust Shoes“ Andy Warhol, er myndu sýna okkur blætiseðli skónna sem vara í marxískum skilningi.[ix]

Van Gogh: Skór, 1885

Ef við ættum að heimfæra skó Guðjóns upp á þessa umræðu, þá myndu þeir trúlega gegna hlutverki reðursins sem kynferðislegt blætistákn, en í raun gengur þessi umræða JD frekar út á að benda okkur á í hvílíkar ógöngur þessi oftúlkun á myndlist getur leitt okkur. En alveg eins og JD bendir á að skór VG hafi ekki einhlítt kynferði eins og Schaphiro heldur fram, þá má segja það sama um skó Guðjóns: þeir eru nákvæmlega sniðnir að skóformi sem gæti eins verið karl- eða kvenkyns, og er í sjálfu sér tímalaust um leið. Þar með gætum við kannski afgreitt þá umræðu. En JD bendir á að öll þessi deila, sem MS hóf um kynferði skónna, hitti í raun hann sjálfan í höfuðið, því heimildir hans um að hér sé um persónulega skó málarans að ræða, standist ekki sagnfræðilegar kröfur frekar en túlkun Heideggers, auk þess sem deilan leiði okkur á villigötur: á meðan MS gengur út frá fætinum (ímynduðum) og ætlar að skýra listaverkið út frá honum samkvæmt þeirri hefð sem kalla má fagurfræði eftirlíkingarinnar, þá gengur öll röksemdafærsla MH út á hið þveröfuga: það er málverkið sem talar en ekki fóturinn í þessu verki, og því þurfum við að rekja „sannleika“ verksins afturábak, ekki frá fyrirmyndinni eða hugsanlegum eiganda skónna til verksins, heldur frá verkinu til inntaks þess og uppruna og endanlega til veru þess. Þannig má segja að MH sé ekki sjálfum sér samkvæmur að öllu leyti þegar hann í upphafi gefur sér þá forsendu að verkið sýni skó bóndakonu.

Samanburður á mynd Van Goghs af „bændaskónum“ og skógerð Guðjóns Ketilssonar leiðir í ljós svo róttækan mun, að það þarf kannski svolítið hugmyndaflug til að láta sér yfirleitt detta hann í hug. En þegar betur er að gáð er það kannski einmitt þessi munur og samanburður sem gerir verkið forvitnilegt og getur dýpkað skilning okkar á því.

Annars vegar höfum við expressiónískt olíumálverk í frekar dökkum jarðarlitum sem veitir tengingu við jörðina, moldina og erfiðisvinnuna, eins konar upphafning á heimi erfiðis- og lágstéttarmannsins, hins vegar útskornir skór í tré sem eru fullkomnir í tímalausu og kynlausu formi sínu, fágaðir og vandlega pússaðir og veita litla jarðtengingu ólíkt skóm Van Goghs, þar sem þeir fara með veggjum og eru sýndir jafnt á gólfi sem á vegg. Annars vegar höfum við mynd sem ber með sér mjög persónulega tjáningu og innlifun, hins vegar verk sem við fyrstu sýn virðist markvisst vinna að því að þurrka út alla persónulega tjáningu, öll höfundarmerki og öll tengsl við tíma, tísku eða kyn.

Mynd VG vísar til tiltekins afmarkaðs heims og tiltekins pars af skóm, verk Guðjóns vísar til hins almenna: skór hans eru eins og hugtakið, eins konar mark til að merkja alla skó án tillits til kynferðis eða tíma. Ef við viljum kanna þennan mun frekar út frá skilningi MH þurfum við að tileinka okkur hugsun hans og reyna að hugsa okkur veru skónna, hins einstaka skópars og skópara almennt.

En hvað er það þá sem MH sér í málverki VG af „bændaskónum“?

Í stuttu máli segir hann að málverkið geri það sem er einkenni allra sannra listaverka: það virki sannleikann og láti hann gerast. Málverkið hefur talað og sagt okkur sannleikann um veru hlutarins. Það eru hvorki fæturnir né eigendur þeirra sem það gera. Hér þurfum við að átta okkur á að MH boðar í ritgerð sinni annan skilning á hugtakinu sannleikur en við erum vön að mæta. Hefðin er sú að segja það sannleik þegar orðið eða setningin eru samkvæm hlutunum sem vísað er til. Þannig væri málverkið „satt“ ef það væri í einu og öllu samkvæmt fyrirmynd sinni. Við vitum að svo er ekki. Sannleiksgildi listaverks hefur ekkert með eftirlíkingu að gera í þessum skilningi, segir MH. Þess vegna var deilan um eiganda og kynferði skónna villuleiðandi frá upphafi.

Hinn hefðbundni skilningur á samkvæmni yrðingarinnar og hlutarins gengur út frá því að sannleikurinn sé tímalaus og að hlutirnir lúti sama lögmáli og rökfræði tungumáls samkvæmninnar. Það er hin frumspekilega hefð.

Fyrir MH er sannleikurinn tímatengdur og sögulegur atburður. Verkið opnar fyrir okkur nýjan sjóndeildarhring, sýnir okkur í þessu tilfelli veru skónna og afhjúpar fyrir okkur Heiminn sem skórnir og öll önnur meðul og tækni mannsins eru hluti af. Í tilfelli málverks VG er það heimur bóndakonunnar að mati MH. Þegar verkið er fullbúið hvílir það í sjálfu sér óháð listamanninum (og fótleggjum hans!). Verkið dregur sig inn í sjálft sig um leið og það sýnir okkur mynd af Heiminum. Þetta hvarf verksins inn í sjálft sig og einsemd sína er það sem MH kallar tengsl verksins við Jörðina. Þau fela jafnframt í sér að höfundurinn dregur sig í hlé og lætur verkið tala fyrir sjálft sig. Atburður verksins, afhjúpun og virkjun sannleikans, felst í gagnkvæmum átökum milli Heims og Jarðar, milli sýningar og yfirbreiðslu. Að sýna mynd af heiminum felur í sér afhjúpun verunnar í heiminum:

Heimurinn er ekki mögulegur hlutur sem við stöndum andspænis og getum haft hugboð um. Heimurinn er hið stöðugt óhlutgerða sem við erum ofurseld á meðan leiðir fæðingar og dauða, blessunar og bölvunar, halda okkur helteknum af verunni.“[x]

Hvort tveggja, Jörðin og Heimurinn, mynda ramma þeirra örlaga mannsins að vera í heiminum, og veran er tímanleg og endanleg fyrir manninn. Veran birtist okkur í ljósi þess tóms sem hún fyllir. Þannig verður nýr skilningur á verunni sem atburði grundvöllur allrar hugsunar MH og um leið grundvöllur þess skilnings að listaverkið virki sannleikann og láti hann gerast.

Til þess að við getum skilið túlkun MH á málverki VG þurfum við að hafa í huga þessar grundvallar-hugmyndir hans um veruna, sannleikann, meðalið, verkið, Heiminn og Jörðina. Öll hans hugsun gengur út frá þessum hugtökum. Hún segir okkur jafnframt að öll fagurfræði eftirlíkingarinnar sé markleysa, og að hið fagra í listinni sé ekki efniseiginleiki heldur eitthvað sem listin lætur gerast með virkni sinni. Jafnvel þó við getum ekki meðtekið allar þessar forsendur MH, þá hafa hugmyndir hans um listina sem uppsprettu nýrrar sannleiksreynslu haft víðtæk áhrif á alla umræðu um gildi listanna í samtíma okkar.

Guðjón Ketilsson: Staðgenglar, 1994-95. Málað tré.

Með hvaða hætti snerta þessar hugmyndir verk Guðjóns, „Staðgenglar“?

Hliðstæðan er nærtæk, þar sem viðfangsefnið er í báðum tilfellum skópör. Hjá Guðjóni eru þau reyndar mörg, öll sömul eins, og raða sér upp með að því er virðist nokkuð frjálslegum hætti á gólfi og veggjum sýningarrýmisins. Ef beita ætti sömu aðferð og MH myndum við spyrja okkur hvaða sannleika „Staðgenglar“ Guðjóns segðu okkur um skóna. Eitt er víst: verkið opnar ekki fyrir okkur einstaklingsbundinn heim bóndakonunnar eins og MH sér í verki VG. Skór Guðjóns virðast vísa í alla skó og hafa því einkenni tungumálsins sem mark (signifiant) er markar alla skó. Hins vegar verður sú spurning ákallandi, ef verkið fjallar um tungumálið/myndmálið, hver sé frummælandi í verkinu. Þar komum við að þessu margræða orði „subject“[xi] sem við eigum ekki orð yfir á íslensku, en getur tekið á sig ólíkar merkingar eins og undirstaða, frumforsenda, frumlag, inntak og sjálfsvera, þjóðfélagsþegn og undirsáti. Skórnir eru vissulega „undirstaða“ jafnvel í bókstaflegum skilningi, þar sem þeir eru það sem við stöndum á dags daglega og tengir okkur við jörðina. Sem „meðal“ (Zeug) eru þeir jafnframt það sem gerir okkur kleift að lyfta okkur frá jörðinni, hreyfa okkur og ganga. Í framsetningu Guðjóns eru skórnir hins vegar laustengdir við jörðina og fara léttilega upp með veggjum eins og Mark sem er orðið laustengt við Markmið sitt en lifir sínu sjálfstæða lífi. Eins og staðgengill í leit að frummynd sinni, sem er horfin. Frummyndin er í þessu tilfelli ekki tiltekið skópar, heldur maðurinn og líkami hans sem lifir tengsl sín við jörðina í gegnum skóna.

Guðjón Ketilsson: „Blóm“, málað tré með blaðgulli, 1995

Víkjum aftur að myndskýringarleik MH , MS og JD um Van Gogh. Það var kenning MS að þar sem skór VG væru hans eigin hversdagsskór, þá væri málverkið í raun sjálfsmynd, þar sem skóparið væri „staðgengill“ listamannsins, eins konar mynd af líkama hans og ásjónu. Ekki væri hægt að aðgreina listamanninn frá mynd hans. Síðan bendir JD á að MS geri engu að síður þá eftirgjöf að leyfa sér að ímynda sér skóna tilheyra bóndakonu. En jafnvel þó svo væri gert, segir MS, þá hefði MH engu að síður misst kjarna málsins, sem væri nærvera listamannsins í verki sínu, nú kominn í líkama bóndakonu, eða öllu frekar: „bóndakonan Van Gogh í skóm sínum“. Þannig vantar okkur bara andlitið og áletrunina Vincent Van Gogh fuit hic. Aðferð JD við að leiða þessa rökræðu eftirlíkjandi fagurfræði til sinna hinstu raka ad absurdum er ekki bara skemmtun: hún kennir okkur hvernig MS sér skóna sem andlit eða ásjónu VG: Aðferð hans

upphefur ásjónuna/myndina, ummyndar hana. Hinir ummynduðu skór fá á sig andrúm upphafningar og verða geislabaugar sjálfra sín. Ekki horfa lengur niður fyrir þig, niður til hins allra neðsta og lægsta (til fótanna, skónna, moldarinnar og þess sem er neðanjarðar) heldur skaltu enn og aftur (fylgja bóndakonunni) og horfa upp, upp í hæstu hæðir, í andlitið andspænis þér, já í Ásjónuna.“

Og JD bendir á að hér virðist sem andstæð sjónarmið MS og MH komi skýrt fram: „horfði MH ekki niður, niður í jörðina og tómið?[xii]

Bæði MS og MH skálda sína eigin hugsun inn í myndina, hugsun sem er þar ekki fyrir. Munurinn er hins vegar sá að MH notar í raun alla ritgerð sína til að andmæla slíkri nálgun, þar sem hann talar um einsemd og „hvíld verksins í sjálfu sér“ og „yfirhylmandi vernd Jarðarinnar“ sem verndar það fyrir allri oftúlkun og beinum tengslum þess við höfund sinn og sjálfsmynd hans.

Hvað sér MH þá í mynd VG?

Kannski er því best komið til skila í stuttri athugasemd í ritgerðinni Inngangur að frumspeki frá svipuðum tíma:

Hér höfum við mynd eftir Van Gogh: ekkert annað en tveir skóklossar bóndans. Myndin sýnir í raun ekki neitt. [Das Bild stellt eigentlich nichts dar]. Engu að síður er eitthvað við hana sem grípur okkur ósjálfrátt og umsvifalaust, við finnum okkur eins og við værum sjálf komin inn í síðbúið haustkvöld þegar síðustu logarnir brenna út á eldstæðinu þar sem kartöflurnar eru bakaðar, eins og við værum að koma heim þreytt með hakann á öxlinni. Hvað er hér af verundinni? [Was ist da seiend?] Léreftið? Pensilförin? Litablettirnir?[xiii]

Hér vísar MH í hugsun sína um verundina og tómið, sem fyrir honum eru óhjákvæmilega samtvinnuð.

Vegna þess að veran er ekki eitthvað fyrirfram gefið, eitthvað umfram það sem hún birtist okkur í tungumálinu og sögunni, heldur er hún þessi birting.“[xiv]

Þess vegna hljómar grundvallarspurning hans um frumspekina svona:

Hvers vegna er verundin yfirleitt, en ekki tómið? [Warum ist überhaupt Seiendes und nicht vielmehr Nichts?][xv]

Við skynjum ekki verundina nema í ljósi tómsins, ekki frekar en við skynjum lífið öðruvísi en í ljósi dauðans. Veran er atburður sem gerist andspænis ekki-verunni (tóminu), og það er mælieining sem tungumál mælingavísindanna nær ekki yfir. Tómið sem verundin rýfur er utan yfirráðasvæðis reiknivísindanna og þess vegna er það skáldskapurinn sem einn getur fyllt þetta hengiflug og látið sannleikann gerast.

Þó við göngumst ekki undir allan þann hugtakaramma sem MH felur hugsun sýna í, þá kemur hún okkur óneitanlega að gagni við að skilja muninn á þeirri fagurfræði eftirlíkingarinnar, sem JD segir MS lokaðan inn í, og þeirri hugsun sem MH glímir við í viðleitni sinni að brjóta þann hugsunarramma með því að ganga út frá verkinu sem slíku, tungumálinu, virkni þess og veru án tillits til kynferðis fótleggjanna sem hvergi eru sýndir og án tillits til þess hvort myndin líkist fyrirmynd sinni eða sé henni yfirleitt samkvæm. Fagurfræði eftirlíkingarinnar og sýningarinnar byggir á aðskilnaði hlutarins og hugverunnar, þar sem hugsunin gefur sér fyrirfram þá mynd sem hún vill sýna okkur af hlutnum. Hugveran verður hið alvitra sjónarhorn sögumannsins í hinni epísku skáldsögu, þar sem öllum hlutum er fyrirfram markaður staður og hlutverk í rýminu samkvæmt alvitru sjónarhorni og skilningi sögumannsins á framvindu sögunnar. Í myndlistinni fékk þessi fagurfræði sinn fræðilega grundvöll á endurreisnartímanum, þar sem einstaklingsbundið auga listamannsins leiðir okkur inn í hlutfallaviðmið og flatarmálsfræði fjarvíddarrammans, sem þannig átti að yfirfæra mynd hins þrívíða rýmis yfir á tvívíðan myndflötinn með sannferðugum hætti, sannleikanum samkvæmt. Listamenn mannerismans á 16. öldinni uppgötvuðu þegar að þessi lögmál báru dauðann í sér og reyndu þannig að leysa upp og yfirstíga mörkin á milli hlutveru og hugveru með því að líkja eftir listinni en nota hina ytri náttúru einungis sem óbein viðmið við túlkun þess rýmis sem verður til á milli skynjandans og þess sem hann skynjar, rýmisþátta sem ekki var hægt að greina í sundur án þess að vera skynjandans og þar með einnig vera hins skynjaða væru útilokuð úr myndinni.

Alla tíð síðan hefur myndlistarumræðan að einhverju leyti snúist um þessa fagurfræði sýningar og eftirlíkingar annars vegar og fagurfræði verunnar hins vegar. Ef við heimfærum þessa umræðu upp á „Staðgenglana“ í skómyndum Guðjóns, þá sjáum við að það vakir engan veginn fyrir honum að sýna okkur tiltekna skó, heldur fjallar verkið um formið, form myndmálsins sem slíks, rétt eins og í húsamyndunum. Það sýnir okkur jafnframt fjarveru hins frumlæga frummælanda verksins, fjarveru þess líkama sem form þess standa fyrir, en í stað þess að gera tilbrigði við form eins og í húsamyndunum eru öll form skónna nákvæmlega eins unnin út í ystu smáatriði. Tungumálið er hér hinn sjálfstæði talandi verksins og það vísar eins og öll tákn endanlega ekki í annað en sig sjálft, samkvæmt því grundvallareinkenni táknmynda að við getum ekki skilgreint vísanir þeirra betur en þær gera sjálfar, eins og C.G. Jung hefur sagt, því

lifandi tákn tjáir hið ósegjanlega með þeim hætti að ekki verður betur gert – betur en nokkur önnur skilgreining nær að gera. Sérhver dulspekileg [esoterisch] útskýring á tákninu gengur af því dauðu, því það er einkenni sértrúarhópanna að búa til betri skýringar – oft í formi getgátunnar – þannig að táknið verður að hefðbundnu merki sem stendur fyrir hluti sem eru betur þekktir í öðru samhengi.[xvi]

Við þessar aðstæður getur listgagnrýnin einungis raðað orðum sínum í kring um táknmyndina til að varpa ljósi á hana sem lifandi tákn, sem lifandi veru í sjálfri sér, sem með orðum MH nýtur yfirskyggðrar verndarhendi Jarðarinnar um leið og hún sýnir okkur veru sína sem afhjúpun sannleikans. Táknmynd sem gefur sárlega til kynna fjarveru frumforsendu sinnar.

IV.

Ef við eigum að finna eitthvað sameiginlegt í þeim verkum sem hér hefur verið fjallað um, þá er það fjarvera: fjarvera hinnar frumlægu sjálfsveru í sjálfsmyndinni sem er ekki annað en opinn munnur, fjarvera hugmyndarinnar um húsið sem bústað í formtilbrigðum húsamyndanna og fjarvera fótarins/líkamans í skómyndunum, sem uppfylla ekki hlutareðli sitt sem skór frekar en húsin uppfylla eða sýna hlutareðli sitt sem bústaður. Myndmálið vísar í sjálft sig og kallar jafnframt fram fjarveru síns upprunalega tilefnis eða frumlags. Hvað getum við þá sagt um málverkið Acne sem málað er á MDF-viðarplötu í óteljandi örþunnum lakklögum húðlitar sem dökknar þegar hann er pússaður niður þannig að fram koma um 2000 „bólur“ á fleti sem er 100×45 cm að flatarmáli? Myndin var sýnd á aldamótasýningu í Galleríi Sævars Karls árið 2000.

Guðjón Ketilsson: Acne, lakk á MDF plötu, 1995-6

Verk þetta vekur ónotatilfinningu við fyrstu sýn, rétt eins og um ljósmynd úr læknatímariti væri að ræða sem sýndi einkenni tiltekins húðsjúkdóms, til dæmis bólusóttar. Það væri þó fráleitt að ætla að mynd þessi væri til þess gerð að fræða okkur nánar um eðli húðsjúkdóma. Kannski stafar ónotakenndin einmitt af þeirri alúð og hárnákvæmu tækni sem Guðjón hefur lagt í að mála þetta verk, sem við fyrstu sýn sýnir okkur húðmein, en þegar betur er að gáð fjallar kannski einmitt um vanmátt jafnvel hinnar hárnákvæmustu listrænu tækni við að segja okkur einhvern sannleika um slíka sjúkdóma og þar með hlutveruna yfirleitt. Okkur er ómögulegt að átta okkur á því, þrátt fyrir alla vandvirknina og nákvæmnina, hvers konar líkama eða líkamshluta þetta flata yfirborð tilheyrir. Við sjáum reyndar að „útbrotin“ verða örlítið gisnari og skarpari í miðjunni og örlítið loðnari, þéttari og smærri til hliðanna, eins og um örlítið kúpt yfirborð væri að ræða, þar sem sjónskerpan beindist að miðjunni (eins og horft væri í gegnum linsu eða stækkunargler), en við erum skilin eftir í fullkominni óvissu um hvað kunni að leynast undir þessari útsteyptu húð annað en sjálf MDF-platan, sem verkið er málað á. Enn og aftur skynjum við óljósa fjarveru fyrirmyndarinnar, myndmál sem vísar ekki síst í sjálft sig og sjálfan verknaðinn að gera slíka mynd. Verknað sem er ferðalag inn að einhverjum kjarna, sem þó er annars staðar en í líkamanum. Það er kannski ferðalag inn í kjarna tungumálsins sem slíks. Bilið sem Guðjón skapar á milli yfirborðs myndarinnar og þess veruleika sem þetta yfirborð minnir okkur á, er um leið sú hyldýpisgjá sem hefur skapast við glataða tiltrú okkar á getu myndlistarinnar yfirleitt að gera sannferðuga mynd af heiminum út frá yfirborði hans.

Á einum stað[xvii] fjallar franski heimspekingurinn Jean-Luc Nancy um skilning Hegels á því hvernig grískar guðamyndir og hin trúarlega myndlist glötuðu lífsneista sínum um leið og trúin á launhelgarnar og helgidómana gufuðu upp á tímum Rómverja: skilningur okkar á grískum guðamyndum er einungis bundinn við yfirborð þeirra því við getum ekki lengur meðtekið þá innri siðferðilegu og trúarlegu merkingu, sem í þeim bjó, munurinn er eins og að skynja annars vegar lifandi ávexti sem hanga á trjánum með fullu jarðsambandi við náttúruna og umheiminn og hins vegar afskorna ávexti sem við þurfum að dusta rykið af, til að fá hugboð um hugsanlegan boðskap þeirra eða merkingu. Hegel líkir þessu við rómverska mynd frá Pompei af stúlku sem ber fram ávaxtakörfu eins og fórnargjöf, þessi stúlka frá Pompei er, segir hann, eins og arftaki listagyðjanna, og hún ber fram dauða og afskorna ávexti þeirra Guða sem eru horfnir.

Nancy segir að stúlkan frá Pompei sé eins konar engill er leiði allar guðamyndir fornaldar að jötunni í Nasaret og þeirri guðdómlegu fæðingu sem þar átti sér stað. Þessi gjörningur er ekki einungis til þess fallinn að svipta guðamyndirnar innra lífi sínu, stúlkan „býður fram“ og „sýnir“ verk sín og er þannig í hlutverki stofnanda og verndara listasafnsins, sem við köllum „museum“, hús listagyðjanna (músanna). Þegar búið er að koma verkunum fyrir í safn sitt verða þau endanlega „verk listagyðjanna“ . Þegar búið er að taka þessa tíndu ávexti út úr upprunalegu vistkerfi sínu og loftslagi, lifa þeir einungis í krafti fegurðar sinnar. „Ávextirnir eru dauðir, því það er búið að slíta þá af trjánum, en það er einmitt þessi dauði sem færir þeim óumbreytanlega fegurð og næmi“, segir Nancy.

Hver er hún þá þessi rómverska stúlka Hegels frá Pompei sem býður fram hina afskornu ávexti fortíðarinnar? Hún er stúlkan sem sýnir okkur örlög trúarbragðanna (líka hinnar kristnu trúar Hegels) sem í þessu samhengi verða ekki annað en mörkin á milli listarinnar og þeirrar hegelsku heimspeki sem hafði öðlast fulla og algilda vitneskju um sjálfa sig. Listin og heimspekin eru hvor um sig form fullkomnunar, annars vegar á hinu hlutlæga, hins vegar á hinu sértæka formi hugsunar og tungumáls. Trúarbrögðin njóta ekki sambærilegs frelsis gagnvart fullkomnunaráráttunni og bera með sér dauða sinn. Það sem eftir stendur eru hinir tíndu ávextir sem glata óhjákvæmilega gildi sínu sem birtingarmynd þess Guðdóms sem sýnir sig og verður að listaverki sem mannshöndin smíðar og hefur ígildi tækninnar og skáldskaparins í senn. Myndin af Guði getur ekki risið upp eins og Kristur.

Hin úthverfa og líflausa mynd listaverksins, sem fegurðin byggir á, er þannig það sem eftir situr, þegar Guðirnir hverfa í þessari mynd, og þessi vegsummerki sem slík eru jafnframt það varðveitta augnablik sem hvílir í sjálfu sér en á sér ekki aðra birtingarmynd en sitt ytra útlit“,

segir Nancy og sér þannig í kenningu Hegels um endalok listarinnar sem trúarbrögð fegurðarinnar ekki endalok, heldur í vissum skilningi upphaf þeirrar listar sem þjónar engum guði og engum trúarbrögðum og vísar því ekki í annað en það „sem eftir situr“ af hefðinni, ekki bara í forminu, heldur fyrst og fremst í þeim verknaði að setja fram og sýna sjálfa sig sem sinn eigin sannleika.

Þannig getum við séð í málverki Guðjóns, Acne, mynd þess sjúka yfirborðs sem hefur ekkert að fela nema MDF-plötuna sem það er málað á, en opinberar og sýnir okkur þau gildi sem felast í verknaðinum að vinna slíkt verk, sjálfu sér til dýrðar og engu öðru. Það er sú birtingarmynd verunnar sem eftir stendur þegar Guðirnir og trúin á fagurfræði eftirlíkingarinnar hafa vikið fyrir verunni sjálfri eins og hún birtist, meðal annars og kannski fyrst og fremst í því sem hefur um aldir verið aðall góðrar listar: spor handarinnar sem mótar hinn ytri efnisveruleika heimsins af alúð og virðingu.

V.

Guðjón nálgast þessa spurningu um „það sem eftir situr“ af myndlistinni á okkar dögum með nýjum hætti í tveim eftirminnilegum ´verkum, sýningunni „Brot“ í Listasafni ASÍ árið 2000 og „Bændabrúðkaup“ frá árinu 2002.

Í báðum tilellum er um að ræða útskornar og málaðar lágmyndir í tré, sem eru brot úr þekktum listaverkum fyrri alda. Í sýningunni „Brot“ sjáum við klæði sem Guðjón hefur sniðið út úr kunnum verkum hollenskrar og ítalskrar málaralistar frá 15. og 16. öld, fært yfir í tré og gefið þrívítt form um leið og brotin eru vandlega mótuð, fáguð og máluð í sínum „upprunalegu“ litum og út frá upprunalegu sjónarhorni málarans. Hér er ekkert gefið eftir í handverkskröfunni, frekar en á þessu blómaskeiði evrópskrar málaralistar, en klæðin hafa hins vegar verið tekin úr sínu upprunalega samhengi þannig að þau birtast okkur bara í eigin mynd, án sýnilegrar táknrænnar eða merkingarlegrar vísunar. Um er að ræða brot úr klæðum af ýmsum gerðum og sérstaka myndaröð með mittisskýlum hins krossfesta Krists. Sem dæmi má nefna skærrauðan möttul Maríu úr málverki Jans van Eyck af Guðsmóðurinni og Nicolas Rolin kanslara frá árinu 1431, eitt af brautryðjendaverkum hollensku endurreisnarinnar. Verkið er „án titils“ og vísar ekki frekar til uppruna síns, sem hefur dregið sig í hlé, líkt og sjálf Guðsmóðirin, sem ekki sækist lengur eftir myndgervingu sinni í myndlist samtímans.

Guðjón Ketilsson : Brot, 2000. Úr málverki Van Eyck af Guðsmóðurinni og Rolin kanslara frá 1435. Málað tré.

Þetta verk, og sýningin öll, hefur sterka vísun í aðra ritgerð Jean-Luc Nancy frá 1994, sem einnig er birt í ritgerðarsafninu Le Muse[xviii]. Á frönsku heitir ritgerðin Le vestige de l‘art og fjallar eins og nafnið gefur til kynna um hvað standi eftir af myndlistinni, þegar hún hefur verið „hugsuð til botns“ eins og Marcel Duchamp komst að orði. Spurningin sem hann veltir fyrir sér snýst í raun um það, hvað eftir standi, þegar Myndin sem „hin skynjanlega birtingarmynd Hugmyndarinnar“ (samkvæmt Hegel), hefur dregið sig í hlé, eða öllu heldur þegar ekkert er eftir nema þessi hlédrægni, þetta fráhvarf myndarinnar frá því að sýna okkur mynd af Guðdómnum, sem Hegel talaði um. Nancy bregður fyrir sig samlíkingu við miðaldaguðfræði heilags Tómasar frá Aquino, þar sem hann fjallar um þau spor sem Guð skilur eftir sig á jörðinni og kemst þannig að orði að sporin sýni „vegsummerki förumanns án þess að kenna okkur hver hann sé“. Það er í þessum skilningi sem Hegel sá fyrir sér að myndlistin mundi yfirgefa hlutverk sitt sem Mynd, mynd sem geri hið ósýnilega sýnilegt. Þegar ekkert ósýnilegt er eftir, eins og samtími okkar vitnar um, þá hefur listin ekki annað að sýna lengur en sjálfa sig, hún er eins og reykurinn þar sem engan eld er að finna. Þannig verður listin að reyk án elds, sporum án Guðs, og afsalar sér um leið því hlutverki að sýna Hugmyndina. Þannig sá Hegel fyrir sér endalok þess hlutverks myndlistarinnar að vera Mynd um leið og til verður ný list leifanna, reyksins, þessarar fjarveru Hugmyndarinnar, Guðs eða þess algilda sannleika og þeirrar algildu fegurðar, sem listin hafði litið á sem viðfangsefni sitt öldum saman. Hvað merkir þetta?

Guðjón Ketilsson: Brot, 2000. Úr málverki Caravaggio af dauða Guðsmóðurinnar frá 1606. Málað tré.

Nancy segir að við verðum að reyna að hugsa út fyrir hugtakið vestigium, (=leifar, vegsummerki, spor), þetta hugtak sem vísar til ilja okkar og spora þeirra í sandinum. Ilin er andstæða andlitsins, huldasti hluti líkamans og vekur upp hina and-guðfræðilegu mynd af iljum Krists í málverki Mantegna, Hinn látni Kristur, þar sem við horfum í iljar Mannssonarins. Þegar kemur að ilinni erum við á láréttu plani, segir Nancy, án lóðréttra tengsla við höfuðið, andann eða Guð. Leifarnar (vestigium) eru leifar af spori, ekki mynd þess, því sporið er sjálft sín eigin mynd. Sem slíkar eru leifarnar gjörningurinn án þess að vera verkið. Sporið er einungis atvik, eins konar tilkoma sem á sér ekki tiltekinn stað, heldur er miklu fremur leifar af spori. Þetta leiðir Nancy að þeirri niðurstöðu að listin í samtímanum sé eigin spor, leifar eða vegsummerki, vestigium.

Spurningin er hvort við getum ekki litið á þessi útskornu klæði Guðjóns sem slík spor, vitnisburð um þann Guð sem er farinn en hefur skilið eftir sig eitthvað mikilvægt sem fólgið er í sporinu sjálfu og verknaðinum að stíga það. Sá verknaður er eins konar fórnarathöfn, líkt og fórnarathöfn stúlkunnar frá Pompei sem bar fram afskorna ávexti hinna dauðu Guða. Þannig er sýningin á klæðamyndunum vitnisburður um vitund Guðjóns um viðskilnað listarinnar við tiltekna hefð, vitund sem einmitt er forsenda nýrrar fragurfræðilegrar reynslu sem hér reynist meðal annars fólgin í handverki hefðarinnar.

Guðjón Ketilsson og Hattarnir úr Bændabrúðkaupi Peters Breughel frá 1567, málað tré uppsett samkvæmt staðsetningu höfuðfatanna í málverkinu. 2000.

Sama mætti þá segja um Bændabrúðkaup (2002), sem er annað ótrúlegt verk, sem hefur að geyma útskornar lágmyndir af höfuðfötum gesta í málverki Pieters Breughel af Bændabrúðkaupinu frá 1568. Sagt er að höfuðfötin í málverki Breughels gefi til kynna stétt eða starfsgrein viðkomandi brúðkaupsgests, enda er málverkið merkileg þjóðlífslýsing Niðurlanda á 16. öld. Fagurlega útskorin höfuðfötin í lágmyndum Guðjóns eru síðan fest á vegg í samræmi við stöðu þeirra í tvívíðu málverkinu og vekja þannig upp minningu þess, eins og spor eða leifar. En þessi höfuðföt eru hætt að kenna okkur eitthvað um samfélagið eða stéttaskiptinguna, þau lifa bara í krafti eigin forms og handverksins sem í þau hefur verið lagt. Eins konar kórverk sem hljómar og syngur söngsins vegna en ekki fyrir einhverja guðfræðilegan eða félagsfræðilegan málstað eða sýn á heiminn. „Að syngja í sannleika, það er annað andvarp“, sagði Rilke, „andvarp til einskis, stuna í Guði. Vindhviða“

VI

Verkfæra- og tækjaverk Guðjóns marka sérstakan kafla í verkum hans. Um er að ræða annars vegar sýningu frá 2004 á hinum ólíkustu „verkfærum“ sem eru skorin í tré, stundum með áföstum málm eða hamp-hlutum, og gefa með áberandi hætti til kynna tengsl sín við líkamann og mannshendina, án þess að við getum í raun séð, hvaða verklega hlutverki þau geta gegnt. Þetta eru verkfæri sem í raun andæfa gegn eigin formi vegna þess að þau eru greinilega gagnslaus í allri sinni verklegu fullkomnun. Tengt þessum verkfæramyndum eru síðan verk sem Guðjón hefur gert eftir teikningum Leonardo da Vinci, og sýna einnig verkfæri sem eiga sér frekar óljósan verklegan tilgang, að minnsta kosti í sinni útskornu mynd sem tréverk. Hvaða tengsl skyldu vera á milli þessara verka og fyrri verka hans?

Listaverkið sem andæfir gegn sjálfu sér er í raun og veru gegnumgangandi þema á öllum ferli Guðjóns. Við sjáum það í öllum þeim verkum sem hér hafa verið til umræðu. Þetta andóf er andófið gegn fagurfræði þeirrar eftirlíkingar sem byggir á hinum aristótelísku sannleiksforsendum um samkvæmni og nauðsyn, á þeim aðskilnaði frumlags og andlags, hugsunar og skynjunar sem hin klassíska listhefð felur í sér. Andóf sem er um leið eins og hástemmd krafa um nauðsyn og tilverurétt listarinnar, þrátt fyrir þennan viðskilnað, tilvörurétt sem byggist á því sem eftir stendur, sem er söngurinn söngsins vegna, handverkið handverksins vegna og myndmálið sem gildi í sjálfu sér, sem hið ítrasta gildi verunnar, án þess að það standi fyrir eða boði tiltekna trú, stjórnmálaskoðun eða boðskap.

VII.

Ekki verður svo skilið við þetta ágripskennda ferðalag um listferil Guðjóns Ketilssonar, að ekki verði minnst á safnverkið Skel frá 2008, sem samanstendur af tveim hillusamstæðum er geyma verk og muni unnin í tré, gifs, trjákvoðuplötur, sykurmola og á pappír. Allt munir sem vísa beint og óbeint í fyrri verk Guðjóns. Hillurnar eru eins og lítið listasafn, Museum, þar sem leifum fortíðarinnar er skipulega fyrir komið út frá innri rökfræði skipulagsins sjálfs. Samhengi hlutanna og ytri tilgangur er hins vegar með öllu óljós við fyrstu sýn.

Guiðjón Ketilsson: Verkfæri, 2004.

Hér er, eins og áður sagði, vísað í ýmis þemu sem komið hafa upp á ferli Guðjóns, skópörin eru hér endurkomn, steypt í gips en skipulega upp raðað. Útskorin tréverk sem sýna samanbrotin hvítmáluð handklæði í stöplum minna á fyrra verk Guðjóns sem sýnir stafla samanbrotinna handklæða, skip og ílát úr MDF-trjákvoðuplötum, húsalíkön úr hvítum sykurmolum, útskornir beinleggir o.fl. er þarna einnig skipulega upp raðað. Þá má ekki gleyma upphengdum skipulagsuppdráttum á pappír af stórborgum víðs vegar um heiminn. Þótt hér sé um raunverulegt safn að ræða, Museum eða hús listagyðjanna, þá minna þessar hillur kannski frekar á geymsluskápa, listmuni sem komnir eru í gjörgæslu fornminjasafnsins eða sjúkrahússins. Ekki síst vegna þeirra innbyrðis tengsla sem öll verkin hafa í gegnum líkamann, yfirborð hans og innviði. Munirnir eru eins og Hegel sagði um hinar grísku guðamyndir fornaldar, liðin lík sem lifa eingöngu fyrir eigin fegurð eins og hinir afskornu ávextir stúlkunnar frá Pompei. En um hana sagði Hegel í riti sínu, Fyrirbærafræði andans:

Engu að síður er það svo að stúlkan sem ber fram hina afskornu ávexti er yfir eðli þeirra hafin, sjálft ávaxtatréið, andrúmsloftið, ljósið, höfuðskepnurnar og hinar ytri forsendur þeirra almennt, þar sem hún ber þá umsvifalaust fram, þar sem hún tengir þetta allt saman með upphöfnum hætti í sjónhendingu hins sjálfsmeðvitaða auga og með tilheyrandi viðmóti: þannig er andi þeirra örlaga sem leggja fram fyrir okkur þessi listaverk, hann er meira en siðferðilegt líf og veruleiki þessarar[grísku] þjóðar, því hann er áminning þess anda sem hún hafði úthýst – hann er andi hinna harmsögulegu örlaga sem hafa safnað saman öllum hinum einstöku guðum og helgidómum þeirra í eitt allsherjar Panþeon, í þann anda sem verður meðvitaður um sig sjálfan. [xix]

Rétt eins og Marcel Duchamp sá fyrir sér endalok þeirrar listar er hafði hugsað sjálfa sig til botns, þá sá Hegel dauða listarinnar fyrir sér með dauða hinna grísku guða. En um leið sá hann fyrir sér þessa stúlku frá Pompei, stúlkuna sem var arftaki músanna eða listagyðjanna. Það var þessi stúlka sem gerði guðamyndirnar að þeirri listsköpun sem við þekkjum í dag. Þessi stúlka var, eins og Nancy bendir á, jafnframt stofnandi safnsins sem kennt er við músurnar og kallast Museum á erlendum tungum. Þangað voru hinir afskornu ávextir fram bornir, sjálfum sér til dýrðar. Þannig getum við skilið safninnsetningu Guðjóns, sem hann kallar „Skel“ frá árinu 2008: Stórbrotin framsetning á örlögum listarinnar og mannsins á tímum þeirrar tæknialdar sem ekki kann lengur að greina á milli hinnar tæknilegu myndar af heiminum og þess innri veruleika verunnar sem finna má í vegsummerkjum hinna horfnu guða.

Guðjón Ketilsson: yfirlitsmynd frá sýningunni „Skel“, 2008, þar sem listaverkið er orðið að safnmynd um sig sjálft

[i]       Friedrich Nietzsche: Handan góðs og ills – forleikur að heimspeki framtíðar, (1886), Hið íslenska bókmenntafélag 1994, þýð. Artúr Björgvin Bollason, bls. 168-169.

[ii] Hér er brugðið út frá þeirri hefð um hugtakanotkun merkingarfræði á íslensku, sem mörkuð var með hinu ágæta riti Jakobs Benediktssonar, Hugtök og heiti í bókmenntafræði (Mál og menning 1983) þar sem grundvallarhugtök formgerðarstefnunnar og málfræðingsins Saussure signe, signifiant og signifié voru þýdd sem tákn, táknmynd og táknmið. Í engu öðru tungumáli eru hugtökin signe (=merki) og symbol (=tákn) látin merkja sama fyrirbærið, og býður þessi fræðiorðanotkun upp á augljósan rugling. Hér er vandinn leystur með því að vísa í markahefð íslenskra sauðfjárbænda og kalla signifiant „mark“ eins og markaskrár bera vitni um og kalla það sem markað er (signifié) „markmið“.

[iii]      Martin Heidegger: Wozu Dichter?, (1926), birt í Holzwege (1950) hér úr ítalskri þýðingu Pietro Chiodi Sentieri interrotti, 1997, bls. 289: „Kjarni tungumálsins takmarkast ekki við það að merkja, og er heldur ekki eitthvað sem er eingöngu bundið við merki og tölur. Þar sem tungumálið er hús verunnar, þá getum við einungis nálgast verundina (þý.:das Seiende, ít.: l‘ente =veran í heild sinni) með því að ganga stöðugt í gegnum þetta hús. Ef við göngum að gosbrunninum, ef við göngum eftir skógarstígnum, þá göngum við alltaf í gegnum orðin „gosbrunnur“ og „skógarstígur“, jafnvel þó við segjum þau ekki upphátt og höfum ekkert tungumálaviðmið í huga.“

[iv]      Ó. Gíslason: Atlaga að hugtakinu hús, DV. 23.09.1996

[v]       Rainer Marie Rilke Sonnette am Orpheus, I,3:

D ies ists nicht, Jüngling, daß du liebst,/ wenn auch die Stimme dann den Mund dir aufstößt,—lerne/ vergessen, daß du aufsangst. Das verrint. / In Wahrheit singen, ist ein andrer Hauch./ Ein Hauch um nichts. Ein Wehn im Gott. Ein wind.

[vi]      Martin Heidegger: Der Ursprung des Kunstwerks, fyrirlestur frá 1935, birt í ritgerðasafninu Holzwege, 1950, hér stuðst við ítalska þýðingu Pietro Chiodi, Sentieri interrotti, Milano, 1977.

[vii]     Meyer Shapiro: The Still Life as a Personal Object, birt í The Reach of Mind: Essays in Memory of Kurt Goldstein, NYC, 1968

[viii]    Jacques Derrida: Restitutions de la vérité en pointure, birt í rigerðasafninu La vérité en peinture (1978), hér stuðst við enska þýðingu Geoff Bennington og Ian McLeod, The Truth in Painting, Chicago 1987.

[ix] Sjá einnig umfjöllun Frederic Jameson um þessa ritdeilu: Postmodernism, The cultural logic of late Capitalism, NY, 1991, bls. 6-16.

[x] Martin Heidegger: Ursprung des Kunstwerkes

[xi] Latneska orðið sub-jectum er samsett af forskeytinu sub=undir og sögninni iacere=kasta, varpa.

[xii] JD The Truth in Painting, bls. 370-371

[xiii] M.Heidegger: Einfüring in die Metaphysik, 1935, hér stuðst við Introduzione alla metafisica, ít. þýðing: Giuseppe Masi, Milano 1997, bls 46

[xiv] Gianni Vattimo: Presentazione a Introduzione alla metafisica, Milano 1997

[xv] Martin Heidegger: Einfürhrung der Metaphysik, 1935. (upphafssetning ritgerðarinnar)

[xvi] Carl Gustav Jung: Psychologische Typen, 1921, Gesammelte Werke bls 516

[xvii] Jean-Luc Nancy: Le Muse –La fanciulla che succede alle Muse (la nascita hegeliana delle arte)í ítalskri þýðingu Chiara Tartarini, Diabasis editore Reggio Emilia 2006, bls. 63-80 (upprunalega útg. 1996)

[xviii] Jean-Luc Nancy: Il vestigio dell‘arte, Le Muse, bls. 113-137.

[xix]  Aber wie das Mädchen, das die gepflückten Früchte darreicht, mehr ist als die in ihre Bedingungen und Elemente, den Baum, Luft, Licht u. s. f. ausgebreitete Natur derselben, welche sie unmittelbar darbot, indem es auf eine höhen Weise dieß Alles in den Strahl des selbstbewußten Auges und der darreichenden Geberde zusammenfaßt: so ist der Geist des Schicksals, der uns jene Kunstwerke darbietet, mehr als das sittliche Leben und Wirklichkeit jenes Volkes, denn er ist die Er-Innerung des in ihnen noch veräußerten Geistes, — er ist der Geist des tragischen Schicksals, das alle jene individuellen Götter und Attribute der Substanz in das Eine Pantheon versammelt, in den seiner als Geist selbstbewußten Geist.

G.W.F.Hegel: Encyklopädie der philosophischen Wissenschaften im Grundrisse: Die Philosophie des Geistes, Berlin 1845.

 

Forsíðumyndin er „Ský“, málað tré frá 2003, úr marmarabrjóstmynd Lúðvíks XIV frá 1665 eftir Gianlorenzo Bernini

ÁTAKAVETTVANGUR FORMS OG FORMLEYSU Í MYNDLISTINNI

Jannis Kounellis: Hestar, innsetning,  1969.

 

Síðasti tíminn okkar í námskeiðinu um EROS í Listaháskólanum fjallaði um átakavettvang forms og formleysu í listinni í ljósi myndarinnar af alheiminum hjá Forngrikkjum og ljósi myndarinnar af mannssálinni hjá sálgreininum Jacques Lacan og skilnings ítalska sálgreinisins Massimo Recalcati á túlkunaráráttu hinnar hefðbundnu sálgreiningar. Við gengum m.a. út frá grein Recalcati sem hann birti sem eftirmála við bók sína „Melankólía og sköpun hjá Vincent Van Gogh" frá 2009.  Greinin heitir „Helgimyndin skilin frá undirliggjandi merkingu sinni“ og er hægt að finna hana í íslenskri þýðingu hér á hugrunir.com: https://wp.me/p7Ursx-10I. 
Hér á eftir fylgir myndaprógrammið sem við fórum í gegnum í þessum síðasta tíma námskeiðsins. Það fjallar í raun um aðkallandi spurningar um samtímann og samtímalistina er varða form og formleysu, en þær varða jafnframt árekstra menningar og náttúru og tengjast óhjákvæmilega umfjöllun okkar um heimsmynd og guðaheim Forngrikkja, hugmyndunum um Díonýsus og Apollon sem Friedrich Nietzsche endurlífgaði, hugmyndum Heideggers um „Heim og Jörð“ sem frumeigindir listarinnar og hugmyndum Sigmundar Freuds um „göfgun“ formsins sem „göfgun“ tilfinninganna í sálarlífi mannsins. Endanlega styðjumst við hins vegar við leiðsögn Jacques Lacans og Recalcati í þessum efnum, og þá kristallast áríðandi spurningar um samtímalistina í víðu samhengi. Þetta er birt hér fyrir nemendur mína í Listaháskólanum og annað áhugafólk .

Skoðið myndasýningu á textum og myndum um átakavettvang forms og formlysu í myndlistinni með því að slá á hlekk hér fyrir neðan:

Eros VIII 2020 Lacan Recalcati

Forsíðumyndin er talin síðasta málverk Vincet Van Gogh frá 1890 og sýnir trjárætur í skógarbotni.

HOFMANNAÁSTIR II. Jacques Lacan um formgerð merkingar í ljóðlist og myndlist

Jacques Lacan:

 

VII. Seminarið

(1959-1960)

Um siðfræði sálgreiningarinnar

 

Hofmannaástir II.

(L‘amour courtois) II.

 

  1. kafli

 

Hofmannaástir sem Anamorphosis

 

Um sögu og markmið listarinnar

Göfgun föðurins

Um sjálfsveru Bernfelds

Tómið (La Vacuole) og hinn ómannlegi mótleikari

Sáttagerð viðsnúningsins

 

Hvers vegna höfum við þetta sýnishorn af Anamorfosis hér á borðinu? Það er hér til þess að útskýra hugmyndir mínar. [Skilgreiningin á þessu fyrirbæri (Anamorfosis) er í kaflanum hér á undan].  

Anamorpphosis: Afmynduð teikning Leonardos af Manni Vitruviusar felld á spegil sívalnings

Í síðasta tíma dró ég upp skissumynd er átti að sýna markmið listarinnar í þeirri merkingu sem við leggjum í hugtakið. Til dæmis sem „hinar fögru listir“. Ég er ekki eini sálgreinirinn sem hef sýnt þessu máli áhuga. Ég hef þegar minnst á grein Elle Sharp um hugtakið göfgun í þessu sambandi, grein sem byrjar á umfjöllun um hellamálverkin í Altamira, sem er elsti myndskreytti hellirinn sem enn hefur fundist. Ef til vill mun það sem við lýstum sem hinu miðlæga sviði, sem hinu nákomna yfirborði innrýmisins („extimacy“) – það er að segja Þingið (La Chose) – hjálpa okkur til að bregða ljósi á þennan leyndardóm áhugafólks um forsögulega list, beina augum okkar að staðsetningunni sem slíkri.

1.

Það er í sjálfu sér ráðgáta hvers vegna myrkraðir hellar voru valdir til þessa verks. Slíkt staðarval skapar eingöngu vandkvæði við áhorfið sem væntanlega var tilgangurinn með gerð þessara áhrifamiklu myndverka sem prýða hellisveggina.  Gerð myndanna og áhorf þeirra gátu ekki verið auðveld með tilliti til þeirrar lýsingar sem frumstæðir hellisbúar áttu völ á. Engu að síður eru þessar myndir sem við teljum elsta vitnisburðinn um frumstæða list einmitt málaðar á hellisveggi.

Hellamálverk frá Altamira á Spáni.

Hægt er að líta á þær sem prófraun jafnt í huglægum sem hlutlægum skilningi. Þær hafa ekki síst verið prófraun fyrir listamanninn, en eins og þið vitið þá má oft sjá að myndirnar eru málaðar hver ofan á aðra. Álykta mætti að um væri að ræða helgaða bletti þar sem sérhver sá listamaður sem valinn var til verksins fengi nýtt tækifæri til síns vitnisburðar, er væri um leið málaður yfir það sem fyrir væri. Þetta gæti bent til þess að um væri að ræða endurnýjun á tiltekinni skapandi getu eða mætti.

Þetta hefur líka verið prófraun í hlutlægri merkingu orðsins, því ekki verður hjá því komist að upplifun myndanna veki með okkur sterka tilfinningu fyrir því að þessar myndir hafi nákomin tengsl við hinn ytri heim – og þar á ég við tilvistarlegar aðstæður samfélags sem byggir afkomu sína á dýraveiðum – og jafnframt til einhvers sem í kjarna sínum virðist hafa til að bera það sem er handan hins heilaga, eitthvað sem við með almennum orðum höfum einmitt verið að gefa hið almenna nafn Þingið [la Chose]. [Sjá skilgreiningu á þessu hugtaki í fyrri kafla] Ég myndi orða það þannig að um væri að ræða frumstæða frumþörf séða út frá sjónarhorni Þingsins.

Til er lína sem liggur frá þessum sjónarhóli yfir í hinn endann sem er óendanlega nærtækari fyrir okkur og felst í framkvæmd anamorfosis [afmyndun] eins og hún átti sér stað trúlega í kring um aldamótin 1600. Ég hef bent á hvernig slík iðkun vakti uppbyggilegan áhuga listamanna á þeim tíma. Ég reyndi jafnframt að skýra stuttlega fyrir ykkur hver forsaga þessa fyrirbæris hefði getað verið innan listanna. Ég reyndi að skýra út fyrir ykkur í stuttu máli hvernig þessi hefð hefði hugsanlega orðið til.

Með sama hætti og vinnan á hellisveggnum felur í sér að festa í mynd hinn ósýnilega hellisbúa getum við séð þann þráð sem tengist hofinu sem byggingu utan um það tómarúm sem afmarkar stað Þingsins (Das Ding, la Chose), hvernig myndgerving tómsins á veggjum þessa raunverulega tóms – að því marki að málaralistin sem slík lærir smám saman að ná valdi á þessu tómi og ná þannig því markmiði sínu að helga sig rýmisblekkingunni.

Ég fer hratt yfir sögu og kasta bara fram þessum brauðmolum til þess að þið getið mælt þá við hvaðeina sem þið kynnuð að lesa um málið.

Áður en kerfisbundin framsetning lögmála fjarvíddarinnar voru settar fram í lok 15. og byrjun 16. aldar gekk málverkið í gegnum þróunarskeið þar sem ólíkum hjálpartækjum var beitt til að byggja upp rýmið. ,,,

[hér er sleppt stuttri og torskiljanlegri setningu um „stereognoses í S.Maria Maggiore kirkjunni í Róm á 6. öld]

Það mikilvæga í þessu sambandi er að á vissum tímamótum ná menn valdi á beitingu sjónhverfingar eða blekkingar (illusion). Í kringum þessi tímamót finnum við viðkvæman blett, áverka, sársaukablett þar sem heildarviðsnúningur á sögunni á sér stað, að því marki sem um listasögu er að ræða og að því marki sem við erum beintengd honum. Þessi punktur varðar skilninginn á því að blekking rýmisins er frábrugðin sköpun tómarúms. Þetta er það sem við getum lesið út úr tilkomu anamorfosis í lok sextándu og byrjun sautjándu aldar.

Í síðasta tíma minntist ég á anamorfosis í klaustursal Jesúítanna (sjá 10. Kafla). Þar var rangt með farið. Ég fletti upp í hinni frábæru bók Baltrusaitis um anamorfosis, og hana er að finna í klaustri Fransiskusar munka í Róm og öðru slíku í París. Ég veit ekki heldur hvers vegna ég sagði að málverk Holbeins væri í Louvre safninu, þar sem málverkið er í National Gallery í London. Í bók Baltrusaitis er að finna djúphugsaða greiningu á þessu málverki og hauskúpunni sem kemur í ljós þegar gengið er frá verkinu  út úr salnum, um leið og litið er til baka áður en gengið er út.

Anamorfosis í klaustursal Fransiskusarmunka í Trinita dei Monti í Róm

Þannig held ég því fram að áhuginn á anamorfósu hafi markað vendipunkt þar sem listamaðurinn hefur endaskipti á rýmisblekkingunni þegar hann þvingar hana til að leita í upprunalegt markmið sitt, það er að segja að breyta því í formforsendu falins veruleika. Þar með verður til skilningur á því að listaverkið snýst alltaf um það að umlykja Þingið (la Chose).

Hans Holbein, Sendiherrarnir, olíumálverk 1533

Þetta leyfir okkur að nálgast betur ósvaraða spurningu um markmið listarinnar: er markmið listarinnar eftirlíking eða ekki-eftirlíking? Líkir myndin eftir því sem hún sýnir? Ef við byrjum á því að setja spurninguna fram með þessum hætti erum við þegar dottin í gildru, og það verður engin fær útgönguleið úr þeirri blindgötu sem við upplifum á milli fígúratífrar listar og svokallaðrar abstrakt listar.

Við skynjum aðeins hina undirliggjandi villu heimspekingsins; Platon setur myndlistina á lægsta þrep mannlegrar starfsemi, því fyrir honum er allt sem er einungis til á forsendum hugmyndarinnar, sem er raunveruleikinn sjálfur.  Allt sem til er er um leið ekki annað en eftirlíking þess sem er meira-en-raunverulegt, yfir-raunverulegt (surreal). Ef listin líkir eftir, þá er hún skuggi af skuggamynd, eftirlíking eftirlíkingar. Þannig sjáum við hégóma listaverksins og málarapensilsins.

Þetta er gildran sem við verðum að forðast að lenda í. Auðvitað líkja listaverk eftir þeim hlutum sem þau sýna, en markmið þeirra felst ekki í að sýna (represent) hlutina. Með því að bjóða uppá eftirlíkingu hlutar búa þau til eitthvað nýtt úr honum. Þannig látast þau einungis ástunda eftirhermu. Hluturinn er settur í sérstakt afstæði til Þingsins (la Chose) og því er ætlað að umlykja og sýna fjarveru þess og nærveru í senn.

Allir vita þetta. Á þeim tímapunkti þegar málverkið snýr sér að sjálfu sér, á augnablikinu þegar Cezanne málar eplin sín, þá verður augljóst að með því að mála þessi epli er hann að gera eitthvað allt annað en að líkja eftir eplum – jafnvel þótt hin endanlega aðferð hans við eftirlíkinguna -sem kemur mest á óvart – snúist fyrst og fremst um tæknina við að sýna hlutinn. En því meira sem sýning hlutarins er falin í eftirlíkingunni, þeim mun augljósari verður sú vídd verksins þar sem blekkingunni er eytt og markmiðið verður allt annað.

Cezanne, Epli, um 1880

Augljóslega þurfum við að umgangast söguhugtakið hér með mikilli varúð. Hugtakið „listasaga“ er afar villuleiðandi. Sérhver birtingarmynd þessarar nálgunar felst í því hafa endaskipti á  blekkingarleiknum til þess að ná hinu endanlega markmiði sem felst í framsetningu raunveruleika sem er ekki falinn í hinu sýnda viðfangi.

Hins vegar höfum við listasöguna sem í krafti þeirrar nauðsynjar sem hún byggir á býður einungis upp á undirliggjandi formgerð sína (substructure). Afstaða listamannsins til síns samtíma er alltaf þversagnarkennd. Hún gengur gegn straumnum og ríkjandi reglum  – einnig viðteknum pólitískum sjónarmiðum eða jafnvel hugsanamynstrum – það er þannig sem listin reynir að endurtaka kraftaverk sitt einu sinni enn.

Með þeirri anamorfósu sem ég hef hér meðferðis stöndum við andspænis leik sem ykkur kann að þykja fánýtur, þegar tekið er tillit til allrar þeirrar flóknu nákvæmnisvinnu sem svona hlutur kallar engu að síður á, eigi hann að virka. Samt er erfitt að horfa ósnortnum augum eða verjast hrifningu þegar við sjáum form myndarinnar rísa hér og hníga. Þegar við horfumst í augu við svona sívalning, sem ef ég sleppi sjálfum mér lausum, birtist mér sem eins konar blóðtökusprauta, sprauta til að sjúga blóðsýni úr Graal-bikarnum. En þá má ekki gleyma því að blóð Graalsins er einmitt það sem ekki er til staðar.

Það mál sem ég hef fram að þessu lagt drögin að í þessum fyrirlestri mínum ætti einungis að taka sem myndlíkingu. Ég hef einungis fylgt þessari aðferð vegna þess að í dag langar mig til að fjalla um það form göfgunar er varð til á tilteknu tímabili í sögu ljóðlistarinnar, nokkuð sem verður okkur sérlega áhugavert í ljósi þess að það tengist nokkru sem hugsun  Freuds lagði megináherslu á í hagfræði sálarlífsins, en það er Eros og erotíkin.

Ég vildi bara benda ykkur á þetta í byrjun: þær hugmyndir sem ég er að leggja fyrir ykkur um siðfræði sálgreiningarinnar gætu allt eins snúist í kring um þetta anamorfosis sem við höfum hér fyrir framan okkur. Það er nokkuð sem er í einu og öllu byggt á þeirri bannfærðu tilvísun sem Freud stóð endanlega frammi fyrir: því sem við gætum kallað hina Ödipusísku goðsögn.

2.

Það er athyglisvert að reynslan af því sem gerist í taugaveikluninni fékk Freud til að taka stökkið yfir í það sem gerist í skáldlegu sköpunarferli listaverksins, yfir í harmleik Ödipusar, að því marki sem hægt er að tímasetja hann í menningarsögunni. Við sjáum þetta gerast í verkinu Moses und Monotheismus, sem ég bað ykkur um að lesa í hléinu á námskeiði okkar. Samkvæmt skilningi Freuds er ekkert rof á milli reynslu okkar menningar í hversdagslífi samtímans og  atburða hinnar Gyðinglegu- kristnu reynslu.

Það er enn fremur athyglisvert að Freud komst ekki hjá því að leiða hugrenningar sínar um uppruna siðferðisins til athafna Mósesar. Þegar við lesum þetta stórmerka rit um Móses og eingyðistrúna sjáum við að Freud kemst ekki hjá því að opinbera tvíræðnina í tilvísun sinni, þessari tilvísun sem ég hef sífellt verið að minna á í gegnum árin sem grundvallaratriði, en það er Nafn-Föðurins í sinni afgerandi virkni.

Formlega séð grípur Freud til feðraveldisins sem formgerðar þess sem síðan virðist taka á sig mynd göfgunar. Í sama textanum leggur hann áherslu á það frumlæga áfall sem felst í föðurmorðinu sem hann skilgreinir sem göfgun -án þess að hirða um mótsetninguna sem felst í að þessi göfgun á sér stað á tilteknum sögulegum tíma á forsendu gefins og augljóss ótta þess efnis að orsökin liggi hjá móðurinni. Hann heldur því fram að um sanna andlega framför sé að ræða í staðfestingu á föðurhlutverkinu, nokkru sem algjör óvissa ríkir þó um. Þessi viðurkenning felur í sér umfangsmikla andlega úrvinnslu. Þessi kynning á hlutverki föðurins sem frumlæg virkni  felur í sér göfgun. En Freud spyr sjálfan sig jafnframt þeirrar spurningar hvernig hægt sé að skilja þetta stökk, þetta framfaraspor, ef nauðsynlegt reynist að kalla á utanaðkomandi aðila til að staðfesta og ákveða vald hans og veruleika?

Sjálfur undirstrikar Freud þversögnina að göfgun sé til staðar, en að hún verði ekki réttlætt sögulega séð heldur einungis út frá tilfallandi goðsögn. Þar með verður hlutverk goðsögunnar augljóst. Í raun og veru er þessi goðsögn ekkert annað en það sem er innritað með kristaltærum hætti í viðkvæman andlegan raunveruleika okkar tíma, það er að segja með dauða Guðs. Það er á forsendum dauða Guðs sem Freud kynnir föðurmorðið til sögunnar sem hina nútímalegu goðsögn.

Þessi goðsögn hefur öll einkenni raunverulegrar goðsögu. Það felur í sér að hún útskýrir ekkert, ekki frekar en hver önnur goðsögn. Þegar við vorum að fara yfir Lévi-Strauss þá benti ég sérstaklega á hvað styður þá fullyrðingu hans að goðsagan sé alltaf merkingar-rammi eða uppkast ef þið kjósið það fremur,  nokkuð sem felur í sér andstæð sálræn tilfinningasambönd. Hún gerist ekki bara á sviði hinnar einstaklingsbundnu angistar og er heldur ekki tæmandi ef gengið er út frá hinu samfélagslega tilfinningasviði, heldur nær hún til hinna ýtrustu marka.

Við göngum út frá því að goðsagan rúmi hið einstaklingsbundna og hið samfélagslega í senn, en innan hennar er engar slíkar andstæður að finna. Hér snýst málið um þolandann og hvernig hann þjáist undan oki nefnarans. Undan þessari ánauð nefnarans kemur sársaukapunkturinn í ljós, og angist hans er ekki annað en tilfallandi viðbrögð við hlutverki tilfallandi merkja.

Með bókartitlinum Das Unbehagen in der Kultur [„Undir oki siðmenningar“ í þýðingu Sigurjóns Björnssonar], lagði Sigmund Freud ómetanlegan skerf til umræðunnar um uppruna siðferðisins.  Þar er með öðrum orðum átt við tiltekna sálræna truflun þar sem það sem hann kallar yfirsjálf (surmoi) virðist uppgötva í sjálfu sér sína eigin veiklun er virðist stafa af  löskuðum bremsubúnaði er hamli eðlilegri virkni þess. Eftir stendur að sjá hvernig þessir vegartálmar í djúpi sálarinnar geti höndlað sína eigin göfgun.

En svo við byrjum á byrjuninni, hvað felst í þessum möguleika sem við köllum göfgun? Með tilliti til þess tíma sem við höfum til ráðstöfunar er ég ekki í aðstöðu til að leiða ykkur í gegnum þá raunverulega fáránlegu erfiðleika sem þeir fjölmörgu höfundar hafa ratað í, sem hafa glímt við merkingu hugtaksins „göfgun“. Ég myndi engu að síður vilja biðja eitthvert ykkar að fara í Biblioteque Nationale (Þjóðarbókhlöðuna) og grafa upp grein Bernfelds í VIII. bindi af Imago, sem ber titilinn Bemerkungen über Sublimierung (Hugleiðingar um göfgun), og segja okkur frá inntaki þess í stuttu máli hér.

Bernfeld var sérlega merkilegur menntamaður af annarri kynslóð, og á endanum verður veikleiki röksemdafærslu hans um göfgunina þess eðlis að hann virkar upplýsandi. Í fyrsta lagi veldur það honum áhyggjum að Freud skuli ávallt leggja jákvætt gildismátt á verkan göfgunar, jafnt siðferðilega, menningarlega sem félagslega. Þetta gildismat skapar augljóslega vandamál, óháð sálgreiningunni, og vegna þess að það er eðlisóskylt sálgreiningunni er vissulega ástæða til að vekja gagnrýna athygli á því. En eins og við eigum eftir að sjá, þá á þetta eftir að reynast minna vandamál en virtist í fyrstu. Hins vegar eru mótsagnirnar á milli bælingar (Zielablenkung) langana (Strebung) og hvata (Trieb) og þeirrar staðreyndar að þær eiga sér stað á því sviði sem tilheyrir lífshvötinni (Libido) valda Bernfeld einnig vandkvæðum. Það eru vandkvæði sem hann leysir með þeim dæmalausa klunnaskap sem einkennir allt það sem hingað til hefur verið sagt um göfgun.

Samkvæmt því sem hann sagði á þessum tímapunkti, það er að segja á árunum 1923-1924, þá ber okkur að ganga út frá þeirri hvöt er þjóni markmiðum sjálfsins (die Ichziele) þegar rætt er um göfgunina. Og hann heldur áfram að gefa svo barnaleg dæmi að undrun sætir. Hann vísar til lítils drengs að nafni Robert Walter, sem eins og mörg önnur börn reynir sig í ljóðagerð áður en hann kemst á gelgjuskeið. Og hvað segir hann okkur svo um efnið? Að fyrir drengnum sé það Ichziel (markmið égsins) að verða skáld. Það er í ljósi þessa mjög svo snemmbæra markmiðs sem allt verður metið sem á eftir kemur. Það á einnig við um hvernig gelgjuskeiðið með sinni umbyltingu á hagfræði libido (kynhvatarinnar) -ummerki sem eru læknisfræðilega sýnileg þó ruglingsleg séu í þessu tilfelli – Bernfeld sýnir okkur hvernig þetta umbreytingaskeið verður fellt inn í das Ichziel, sjálfsmarkmiðið. Sérstaklega sjáum við hvernig viðleitni drengsins sem barnungt skáld og hugarórar hans sem voru aðskilin í upphafi, renna smátt og smátt saman í eitt.

Bernfeld gengur þannig út frá því að hið upprunalega og frumlæga markmið barnsins hafi verið að verða skáld. Sambærilega röksemdafærslu finnum við í öðrum dæmum sem hann rekur, en sum þeirra fjalla um virkni afneitunarinnar (Verneinungen), afneitunar sem oft verður til sjálfsprottin hjá hópi barna. Þetta mál var honum sérstaklega hugleikið í riti sem hann samdi um vandamál unga fólksins, sem hann var ábyrgur fyrir á þeim tíma.

Það mikilvæga sem hér þarf að hafa í huga er eftirfarandi, og varðar skilgreiningu vandans, einnig hjá Freud. Freud bendir á að þegar listamaðurinn hefur einu sinni framkvæmt tiltekinn verknað í formi göfgunar, þá fái hann í kjölfarið þá tilfinningu að hann hafi verið velgjörðarmaður verksins með tilliti til þess heiðurs og aðdáunar sem það vekur og þess fjárhagslega ávinnings sem það uppsker. Þessir hégómafullu draumórar voru þannig uppspretta hvatanna með þeim árangri að þær finna fullnægju sína í göfguninni.

Þetta er allt gott og gilt að því marki sem við göngum út frá því sem fyrir fram gefnu að til staðar sé skáldskapargáfa. Að lítið barn geti á forsendu eigin sjálfsvilja (Ichziel) fundið hjá sér ásetninginn að verða skáld, að þetta gerist nánast sjálfkrafa sérstaklega meðal þeirra sem Bernfeld kallar afburðamenn.

Reyndar er rétt að geta þess að hann tekur það strax fram innan sviga að með því að nota hugtakið „afburðafólk“ (hervorragender Mensch) í þessu samhengi hafi hann nánast tæmt það af öllu siðferðilegu inntaki sínu, en það virðist næsta furðulegt þegar verið er að tala um afburðafólk. Satt að segja er ekki hægt að ganga fram hjá hinum framúrskarandi persónuleika. Við sjáum líka að hugtakið er ekki afskrifað hjá Freud  í Móses og eingyðistrúin, heldur sett í forgrunn. Það sem hér kallar á réttlætingu er ekki bara sú aukaþóknun sem viðkomandi kann að uppskera fyrir verk sitt, heldur þeir upprunalegu möguleikar sem ljóðlistinni standa til boða sem burðarverk innan tiltekins samfélagssáttmála eða ríkjandi almenns sammælis.

Nú vill svo til að það eru einmitt slík sammæli eða slíkur samfélagssáttmáli sem við sjáum verða til á þeim sérstaka tímapunkti í sögunni er varðar hið upphafna fordæmi hofmannaástarinnar (l‘amour courtois). Innan tiltekins þröngs samfélagshóps var þetta siðferðilega fordæmi talið grundvallandi siðferðisviðmið er fól í sér tiltekin hegðunarmynstur, tiltekna trúmennsku, gildisviðmið, þjónslund og öfgafulla hefðarsiði. Ef þetta er það sem fyrst og fremst vekur áhuga okkar, hver er þá upphaflegi hvatinn? Kynlífsfíkillinin (une erotique).

3.

Það sem hér um ræðir kom trúlega til sögunnar um miðbik 11. aldar og stóð út alla 12. öldina og hvað Þýskaland varðar jafnvel fram á fyrri hluta 13. aldar. Um er að ræða hofmannaástirnar (l‘amour courtois) og skáld þeirra og söngvara, sem kölluðu sig trúbadúra í suðrinu, trouveres í norðanverðu Frakklandi og Minnesänger á þýska menningarsvæðinu, en á Englandi og sums staðar á Spáni komu þeir til seinna. Þessir leikir gengu út á mjög afmarkaða skáldskaparhefð frá þessum tíma sem síðan dó út, þannig að á næstu öldum voru þær einungis hafðar í óljósu minni. Hápunktur þessarar hefðar stóð yfir frá upphafi 11. aldar fram á fyrsta þriðjung þeirrar þrettándu Á okkar tímum er erfitt að gera sér grein fyrir hlutverki þessara leikja, en innan sumra samfélagshópa sem tengdust konungshirðum og aðalsættum samkvæmt siðaboðskap hofmannaástanna voru þessi skáld í miklum metum og höfðu umtalsverð áhrif.

Spurt hefur verið hvort raunveruleg fræðsla í ástarmálum hafi verið ástunduð. Ekki fer hjá því að stórfurðulegar lýsingar Michel de Notre-Dame – öðru nafni Nostradamusar – frá upphafi 15. aldar  á því hvernig tilfallandi dómsvaldi í ástarmálum var beitt af aðalskonum, veki hjá okkur hrollvekjandi spennu, en hann nafngreinir þessar konur með undarlegum nöfnum. Stendahl gerir síðan skilmerkilega grein fyrir þessu í verki sínu Um ástina, sem er lofsvert rit um þessi mál og sýnir skyldan áhuga á málefninu og finna má hjá rómantísku skáldunum við endurvakningu hofmannaástar í ljóðagerð, sem var kennd við Provence-hérað á þeim tíma, en var öllu heldur ættuð frá Tolouse eða nánar tiltekið Limousin-héraði.

Tilvist þessa dómsvalds í ágreiningsefnum ástarlífsins sem Michel de Notre-Dame gerir að umtalsefni hefur oft verið umdeild. Engu að síður höfum við textaheimildir sem vitna um þetta, og þá ber sérstaklega að nefna verk eftir Andreas Capellanus sem ber titilinn De Arte Amandi (Um listina að elska) handrit sem Rénouart fann og gaf út árið 1917. Rit sem ber sama titil og ritgerð Ovíðs og klerkastéttin hafði miðlað öldum saman á milli kynslóðanna.

Þetta handrit frá 14. öld sem Rénouart fann í Biblioteque Nationale birtir okkur dómsorð er sögð voru upp af aðalskonum sem voru þekktar sögupersónur, þar á meðal Eleanor frá Aquitaine. Í kjölfar þess máls blandaðist hún í persónulegt og afdrifaríkt sögulegt drama þar sem hún gerðist eiginkona Lúðvíks VII yngri og síðan einnig Henry Plantagenet, en hún giftist honum þegar hann var Hertoginn af Normandie áður en hann varð Englandskonungur með öllum þeim afleiðingum sem það hafði í för með sér varðandi landakröfur í Frakklandi. Svo voru þar líka dóttir hennar sem giftist Hinrik I. Hertoga í Champagne héraði og enn fleiri sögufrægar konur. Í þessu riti Capellanusar eru þær allar sagðar hafa setið í dómstólum er fjölluðu um forboðnar ástir. Þessir dómstólar fóru eftir fastmótuðum viðmiðunarreglum sem voru strangar og fólu í sér fordæmisgefandi viðmið sem ég ætla nú að sýna ykkur dæmi um.

Það breytir engu hvort við leitum dæma frá Suður-Frakklandi eða Þýskumælandi svæðum, nema hvað varðar nefnarann, en í fyrra tilfellinu er hann „langue d‘oc“ og í því seinna þýsk tunga. Í báðum tilfellum er um skáldskap að ræða sem skrifaður er á alþýðlegu talmáli. Hugtakanotkunin á báðum svæðum er sambærileg og síendurtekin, nema hvað varðar nefnarann – í báðum tilfellum er um sama mynstrið að ræða. Tilefnin geta verið ólík en þau algengustu eru sorgin, jafnvel hin banvæna sorg.

Eins og einn þýskur fræðimaður um efnið benti á í upphafi nítjándu aldar, þá er frumforsenda og megineinkenni hofmannaástarinnar skólabókardæmið um óhamingjusamar ástir. Ákveðin hugtök skilgreina dyggðalista hefðarkvennanna – lista sem gefa til kynna samskiptareglur elskendanna í þessu undarlega ritúali og hafa með endurgjald, miskunn, yndisþokka, Gnade (náð) og hamingju að gera.

Rudolf von Rotenbourg, troubadour, Þýskaland 13. öld

Til þess að gera okkur í hugarlund þann hárfína og flókna vef sem hér um ræðir, þá liggur beint við að huga að „Vegabréfi blíðulátanna“ (la Carte du Tendre), jafnvel þótt þar sé um mildari útgáfu að ræða. En les precieuses (kærusturnar) komu einnig við sögu við aðrar sögulegar aðstæður þar sem áherslan var lögð á sérstaka samræðulist.

Það sem kemur sérstaklega á óvart með hofmannaástirnar er að þær koma til sögunnar á tímabili þar sem sögulegar aðstæður eru þess eðlis að ekkert gæti bent til aukins frama eða frelsunar kvenna í jafnréttisbaráttunni. Við getum fengið hugmynd um aðstæðurnar út frá sögu Hertogaynjunnar af Comminges, sem var dóttir Williams nokkurs af Montpellier, en saga hennar átti sér stað á blómaskeiði hofmannaástanna.

Sagan segir frá tilteknum Pétri af Aragóníu þar sem hann ríkti sem konungur. Hann hafði hins vegar hug á landvinningum til norðurs yfir Pyrenneafjöllin þrátt fyrir þær hindranir sem stöfuðu af fyrstu sögulegu átökum norðursins gegn suðrinu, en það voru krossför Albigensíska safnaðarins og sigrar Simon de Monfort gegn Hertogum Toulouse. Vegna þeirrar augljósu staðreyndar að umrædd aðalskona var náttúrlegur erfingi Montpellier-hertogadæmisins eftir föður sinn vildi Pétur af Aragóníu eignast hana. Hún var hins vegar þegar í hjónabandi og virtist ekki líkleg til að vilja blanda sér í sauruga valdabaráttu. Hún var afar hlédræg að eðlisfari og ekki fjarri því að vera heilög meyja í trúarlegum skilningi orðsins, þar sem hún lauk lífi sínu í Róm orðlögð fyrir heilagleika sinn. Stjórnmálaerjur og þrýstingur frá þjóðhöfðingjanum, Pétri frá Aragóníu, neyddu hana til að yfirgefa eiginmann sinn. Íhlutun páfans olli því að hann fann sig knúinn til að veita henni skjól, en eftir lát föður hennar þróuðust öll mál samkvæmt vilja hins volduga konungs. Hún var útskúfuð af eiginmanni sínum, sem var alvanur slíkri hegðun, og hún giftist Pétri af Aragóníu sem misþyrmdi henni svo alvarlega að hún flúði. Þannig endaði hún daga sína í Róm undir verndarvæng páfans sem reyndist í þessu tilfelli vera hinn eini sanni verndari ofsóttra sakleysingja.

Þessi frásögn segir okkur einfaldlega raunverulega stöðu kvenna innan lénsveldisins. Þær eru mótaðar af grundvallar formgerð ættarveldisins, það er að segja af engu nema fylgni tiltekinna félagslegra viðskiptareglna er byggja á tilteknu magni af vörum og táknmyndum valds. Konan er einfaldlega skilgreind í gegnum samfélagslegt hlutverk sem útilokar persónu hennar eða frelsi, að undanskildu því er varðar trúarleg réttindi hennar.

Hið furðulega hlutverk skálda hofmannaástarinnar er virkjað undir þessum kringumstæðum. Það er mikilvægt að hafa þessa þjóðfélagsstöðu kvenna í huga. Það er við þessar aðstæður sem hinar furðulegu efnistök hofmannaskáldanna eru virkjuð. Það er líka mikilvægt að sýna ykkur hver þjóðfélagsstaða þeirra var, nokkuð sem ætti að varpa svolitlu ljósi á þá grundvallar hugmynd, þá grafísku mynd sem hin freudíska hugmyndafræði gefur okkur af vissri tísku þar sem skáldið finnur sig í úreltu hlutverki.

 

Úr Roman de Mélusine, Frakkland, 15. öld.

Freud segir okkur að þarna sé fullnæging valdsins að verki. Því furðulegra er að sjá til dæmis í Minnessänga-ljóðasafninu mörg skáld sem njóta samfélagslegrar virðingar sem jafnast á við þá sem keisaranum, konungnum eða jafnvel prinsunum er sýnd. Í Manes-handritinu af Minnessänge eru 126 ljóð. Þetta handrit var varðveitt í Þjóðarbókhlöðunni í París frá upphafi nítjándu aldar þegar Heinrich Heine sá það og lofsöng þessi skáld eins og þau hefðu markað upphaf þýskrar ljóðlistar.

Fyrstur trúbadoranna var skáld að nafni Guillaume de Poitiers, sem var sjöundi Hertoginn af Poitiers og níundi Hertoginn af Aquitaine. Áður en hann sneri sér að skáldskap í anda hofmannaástarinnar virðist hann hafa verið fyrirmyndar stigamaður af þeirri tegund sem þótti -guð veit hvers vegna – vel sæmandi sérhverjum rétt-hugsandi aðalsmanni lénsveldisins á þessum tíma. Fleiri söguleg atvik, sem ég get ekki farið nánar út í hér, eru til vitnis um að hann hafi sýnt af sér hegðun í samræmi við villimannlegustu ránsherferðir. Sú þjónusta sem vænta mátti af þessum manni var öll á þann veg. Síðan gerist það á tilteknu augnabliki að hann gerist ljóðasmiður þessarar tilteknu og einstöku ásthneigðar.

Ég hvet ykkur eindregið til að lesa þessi sérhæfðu verk sem hafa að geyma þemabundna greiningu á því sanna ástarritúali sem í þeim var fólgið. Spurningin er bara hvernig við ættum að nálgast þau sem sálgreinendur.

Í millitíðinni get ég skotið að ykkur bók sem er svolítið dapurleg að því leyti að hún leysir vandamálin með þeirri aðferð að sniðganga þau, jafnvel þó hún sé full af tilvitnunum og vísunum, en það er Ástargleðin, (La Joie d‘Amour) eignuð nafninu Pierre Perdu. Útgefin af Plon. Annað verk og gjörólíkt er einnig vert að lesa, en það fjallar síður um hofmannaástirnar en frekar um sögulegar rætur þeirra. Um er að ræða lítið safnverk Bejamins Perrets sem heitir Antologie de l‘amour sublime (Ljóðasafnið um göfgaðar ástir). Svo má nefna bók René Nelli L‘Amour et les Mythes de cœur (Ástin og goðsagnir hjartans) þar sem ég hef fundið vissa þróunarkenningu siðferðisins í blandi við mikið magn staðreynda. Að lokum má minna á L‘Imagination créatrice (Skapandi ímyndunarafl) eftir Henry Corbin frá Flammarion-forlaginu. Sú bók hefur að vísu mun víðfemara umfjöllunarefni en það sem að okkur snýr hér og nú.

Ég mun ekki dvelja við auðlesin þemu þessa skáldskapar, bæði vegna tímaskorts og einnig vegna þess að þið munið finna þau í þeim dæmum sem ég mun sýna ykkur til að benda á það sem kalla mætti hinn hefðbundna uppruna þeirra. Allir sagnfræðingar eru yfirleitt sammála um þetta atriði: hofmannaástir voru í stuttu máli skáldlegar æfingar, leikur með tiltekin hefðbundin og upphafin þemu sem gátu ekki átt sér neina efnislega eða raunverulega samsvörun. Engu að síður hafa þessar upphöfnu fyrirmyndir, þar sem Hefðarkonan (la Dame) er í forgrunni, lifað af öldum saman allt til okkar samtíma. Áhrif þessara upphöfnu fyrirmynda er greinilega áþreifanleg í skipulagningu tilfinningatengsla samtímamanna okkar og sér ekki fyrir endann á þeirri framrás.

Þar við bætist að framrás er rétta orðið vegna þess að merking þess stafar frá vissri kerfisbundinni og meðvitaðri notkun nefnarans (signifiant) sem slíks.

Margir hafa glímt við að sýna tengslin á milli þessa verkfæra, á milli þessara skipulagsforma hofmannaástarinnar og innsæis af trúarlegum toga, dulhyggju svo dæmi sé tekið, er væri staðsett einhvers staðar í þeirri miðstöð sem menn sjá í þessu Þingi (la Chose) sem er hafið til vegs í stíl hofmannaástarinnar. Reynslan sýnir að öll þessi viðleitni er dæmd til að mistakast.

Þegar horft er til hinnar hagfræðilegu hliðar á samskiptum elskandans og viðfangs ástar hans virðist sem finna megi ákveðinn skyldleika á milli hofmannaástarinnar og dulspekilegrar erlendrar reynslu, frá Tíbet eða frá hindúisma. Allir vita að Denis de Rougemont gerir mikið úr þessu, og það er ástæða þess að ég ráðlegg ykkur að lesa Henry Corbin. Hins vegar eru margir þröskuldar á veginum og jafnvel afgerandi ófærur, þó ekki væri nema vegna tímasetningarinnar. Þau þemu sem um ræðir birtast til dæmis hjá nokkrum múslimaskáldum frá Íberíuskaganum eftir að þau höfðu komið fram í skáldskap Guillaume de Poitier. Það sem skiptir máli fyrir okkur frá formlegu sjónarhorni er sú staðreynd að viss skáldskapariðkun skyldi geta haft afgerandi áhrif á hugsunarhátt manna á tímum þegar upprunalegt tilefni og lykilhugtök alls tilbúningsins voru löngu gleymd, áhrif sem áttu eftir að vera sögulega varanleg.  En við getum einungis dæmt virkni þessa göfgaða sköpunarstarfs á forsendum formgerðarinnar.

Viðfangið sem hér um ræðir, hið kvenlega viðfang, er af undarlegum ástæðum kynnt til sögunnar í gegnum glugga missisins og ósnertanleikans. Nálgunarbannið á viðfangið er frumforsendan þegar frá byrjun, fullkomlega óháð þjóðfélagsstöðu viðkomandi karlmanns. Sumir eru stundum þjónar (sirvens) á bernskuslóðum sínum, til dæmis var Bernard de Ventadour sonur þjóns í Ventadour-kastala, sem einnig var trúbador.

Það er fullkomlega óhugsandi að syngja kvöldlokku til Draumaprinsessunnar í sínu skáldlega hlutverki, án þeirrar frumforsendu að hún sé umlukin og einangruð af óyfirstíganlegum hindrunum. Þar við bætist að þetta viðfang, la Domnei eins og það var oft kallað, er oft og tíðum ákallað í karlkyni, til dæmis Mi Dom, það er að segja herra minn.  Þessi Dame [hefðarfkona] kynnir sig þannig til leiks með persónulausum einkennum, í svo ríkum mæli að höfundar hafa gefið í skyn að svo virðist sem allir séu að ávarpa sömu persónuna. Sú staðreynd að líkama viðkomandi er lýst sem g‘ra delgat e gen, það er að segja bústnum og feitlögnum, segir okkur að það hafi tilheyrt kynþokka þessa tíma, en e gen merkir eðalfríð – þetta atriði ætti ekki að koma á óvart því viðkomandi er ávallt lýst með þeim hætti. Hið kvenlega viðfang er svipt öllu raunverulegu inntaki í þessum heimi skáldskaparins. Það var þetta sem gerði frumspekilegu skáldi eins og Dante auðvelt fyrir að velja persónu sem við vitum að var til í raunveruleikanum, nefnilega Beatrice litlu, sem hann féll fyrir þegar hún var níu ára gömul. Hún var miðpunktur allrar ljóðagerðar hans allt frá Vita nuova til Hins guðdómlega gleðileiks. Hún varð í skáldskap hans ígildi heimspekinnar og í lokin ígildi vísinda hins heilaga. Það sem auðveldaði honum að ákalla hana með tilfinningaþrungnum hætti var sú staðreynd að hún var ígildi launsagnar eða allegoriu. Það er aldrei hægt að nota jafn groddaleg ástarorð eins og þegar viðkomandi er orðinn  að tákngervingu.

Lénsaðallinn tilbiður Gæfudísina, Frakkland um 1470

Hér sjáum við í sinni tæru mynd lögsagnarumdæmi og viðleitni göfgunarhvatarinnar. Það er að segja þetta sem karlmaðurinn sækist eftir, það eina sem hann getur beðið um, en það er að verða sviptur einhverju sem er raunveran. Þessi staður sem einn ykkar kallaði hnyttilega la vacuole [lítið blöðruholrými á máli líffræðinnar] þegar hann var að reyna að skýra fyrir mér hvað ég átti við með das Ding (Þinginu).

Ég andmæli ekki þessu orði jafnvel þó sjarma þess megi rekja til vísunar í lífræna vefjafræði. Eitthvað þess háttar er reyndar að verki ef við vogum okkur inn á það hættusvæði sem tengist samtímapælingum um gagnvirka miðlun í sambandi við gagnflæði hjá einfrumungum. Auðvitað er hér ekki um neina miðlun að ræða. En ef slík miðlun ætti sér stað með skipulögðum hætti á milli einfrumunga umhverfis la vacuole (blöðruna) og snerist um virkni þessa blöðrutóms sem slíks, þá gætum við í raun og veru haft fyrir okkur skematíska mynd þess sem hér er til umræðu.

En hvar er þetta vacuole í raun og veru búið til fyrir okkur? Það er í miðju nefnaranna – að því marki sem lokakrafan um að vera sviptur einhverri raunveru tengist fyrst og fremst hinni frumlægu tákngervingu sem er í einu og öllu fólgin í merkingu gjafar ástarinnar.

Í þessu samhengi sló það mig að í hugtakaheimi hofmannaástarinnar hafa menn hugtakið domnei á hraðbergi, það að gefa innan ramma hofmannaástarinnar. Samsvarandi sagnorð er domnoyer, sem merkir eitthvað í líkingu við að „kjassa“ eitthvað eða leika við það. Þó að orðið „domnei“ hafi í fyrsta atkvæði sínu bergmál af orðinu „don“ eða gjöf, þá eru þessi orð ekki skyld. Hins vegar er það skylt orðinu Domna, sem er hefðarkonan eða með öðrum orðum sú sem í vissum aðstæðum er ráðandi (domine).

Þetta á sér spaugilega hlið, og kannski ættum við að gera sagnfræðilega rannsókn á því hversu margar myndlíkingar hafi verið smíðaðar í kringum hugtakið „donner“, að gefa, í hofmannaástunum. Getur „donner“ verið staðsett í samskiptum parsins sem eitthvað er tilheyrir öðrum aðilanum umfram hinn? Kannski á það sér ekki aðrar rætur en þá merkingarlegu smitun er átt hefur sér stað við hugtakið „domnei“ og notkun orðsins „domnoyer“ (að kjassa e-ð, leika sér að e-u).

Skáldskapur hirðmannaástarinnar hneigist að því að staðsetja vissa ófullnægju í menningunni í svæði Þingsins (la Chose). Hún gerir það á tímum þar sem sögulegar aðstæður eru til vitnis um gróft misvægi á milli afar erfiðra aðstæðna annars vegar og sérstakra grundvallarþarfa hins vegar. Skáldskaparlistin felst þá í því að sýna okkur – á forsendu þeirrar göfgunaraðferðar sem tilheyrir listunum  – viðfang sem ég myndi kalla bæði geðsjúkan og ómannlegan ástvin.

Hefðarkonan (la Dame) er aldrei metin á forsendum sinna raunverulegu dyggða, á forsendum visku sinnar og forsjálni né heldur á forsendum færni sinnar. Þvert á móti er hún jafn geðþóttafull og hugsast getur í prófraununum sem hún leggur á þjóna sína. Hefðarkonan er í kjarna sínum það sem menn kölluðu síðar, með barnslegan enduróm  þessarar hugmyndafræði í huga, meira eins og  grimmdarskass sem líkt var við tígurynjuna frá Ircaníu [landsvæði í Persíu til forna]. En tjáningu þessarar öfgafullu  geðþóttaáráttu finnum við hvergi eins vel lýst og í verkum höfunda frá þessu tímabili, til dæmis hjá Chrétien de Troyes.

4.

Eftir að hafa bent á grunnþætti í hofmannaástarinnar og áður en við sýnum fram á lífsseiglu þessara grunnþátta og hvernig þeir hafa flækt samband karla við þjónslund konunnar, þá vildi ég enn einu sinni segja ykkur að það sem hér blasir við okkur, þessi anamorfósa [=afmyndun/fjarvíddarskekkja] mun einnig hjálpa okkur til að skilja betur fyrirbæri sem er frekar óljóst í nálgun okkar, en það er virkni narkissismans.

Þið munið eftir virkni spegilmyndarinnar sem mér fannst nauðsynlegt að sýna sem dæmi um byggingu hins ímyndaða, en þar gegnir hin narkissíska virkni meginhlutverki. Við höfum líka sýnt eftirminnilega fram á að sú ýkta upphafning, sem er megineinkenni hofmannaástarinnar, er á endanum fullkomlega narkissísk.

Narkissus horfir í spegilmynd sína. Teppi frá Niðurlöndum, 15. öld.

Þessi litli anamorfosu-hlutur sem við höfum hér fyrir framan okkur hjálpar mér nú til að sýna virkni spegilmyndarinnar.

Það er fullkomlega tilviljunum háð hvort hin upphafna mynd áhorfandans birtist á bak við þennan spegil. Við sérstakar aðstæður gæti spegillinn framkallað narkissísk viðbrögð og ekki síður dregið úr tortímandi árásargirni sem við upplifum í kjölfarið. En spegilmyndin gegnir líka öðru hlutverki, sem er hlutverk takmarkanna. Það er hið óyfirstíganlega. Það eina sem hann á beina aðild að er hin óyfirstíganlega hindrun. En hann er ekki einn um þetta hlutverk. Þar er líka að verki röð fordæma sem eru grundvallandi og lífrænir innviðir hofmannaástarinnar. Þar á ég ekki bara við þá staðreynd að viðfangið sé ósnertanlegt, heldur er það líka óaðgengilegt þeim sem langar til að beita sér gegn því af illum hvötum,  þeim sem hin sætlega mállýska Provence-héraðs hefur meðal annars gefið nafnið lauzengiers. Nafnið er haft um afbrýðisama keppinauta, en einnig um rógberana.

Annað meginatriði  varðar leyndarmálið. Það felur í sér röð misskilinna atriða, þar á meðal að viðfangið verði aldrei höndlað án miðils, sem kallaður er Senhal. Hann má finna í arabískri ljóðlist í sambærilegum kringumstæðum, þar sem sömu forvitnilegu ritúölin vekja jafnan undrun þeirra sem um málið fjalla, þar sem formsatriðin geta verið stórbrotin.

Þetta sjáum við til dæmis í hinni einstöku ljóðasmíð Guillaume de Poitiers, þar sem hann kallar viðfang langana sinna  Bon vezi, sem merkir „hinn góði nágranni“. Þetta varð til þess að ljóðaskýrendur hans fóru að velta sér upp úr alls konar samsæriskenningum en uppskáru ekkert betra en að finna nafn Hefðarkonu sem vitað er að gegndi mikilvægu hlutverki í persónulegu lífi skáldsins og bjó á sveitasetri nálægt sveitasetri Guillaumes.

Það sem skiptir okkur meira máli en sambandið við nágrannann, sem menn telja að Guilliaume de Potiers hafi haft að leiksoppi, er sambandið sem við getum fundið á milli þessa hugtaks og þess orðs sem Freud notaði í fyrstu skilgreiningu sinni á la Chose [das Ding, Þingið] og sálfræðilega tilurð þess í Nebenmensch [Náunginn]. Út frá þessu uppgötvaði hann staðinn sem í þróunarsögu Kristindómsins varð vettvangur Apotheosis [upphafningar] náungans.

Í stuttu máli vildi ég í dag koma ykkur í skilning um að það er tilbúin og slóttafengin skipulagning nefnarans sem á tilteknu augnablikin leggur grunninn að vissri tegund meinlætis. Í öðru lagi vildi ég koma ykkur í skilning um merkinguna sem við verðum að leggja í þá sálfræðilegu hagfræði sem felst í samningunum um viðsnúninginn.

Viðsnúningur í sálarlífinu er ekki alltaf fólginn í reikningsskilum á milli þess sem kann að vera skipulagt á forsendum nautnalögmálsins og þess sem kynnir sig sem forsendur raunveruleikans. Við höfum líka viðsnúninga og hindranir sem eru skipulagðar með því markmiði að láta svið vacuole standa fyrir sínu. Það sem þarf að sýna í slíku tilfelli er tiltekin lausbeislun (transgression) löngunarinnar.

Hér sjáum við hvar hin siðferðilega virkni erótíkurinnar kemur til sögunnar. Sálgreining Freuds er í stuttu máli ekki annað en samfelld vísun í frjósamt inngrip erótíkurinnar í siðferðið, en hann orðar það ekki beinlínis þannig. Þau tæknibrögð  sem beitt er í hofmannaástinni duga okkur einmitt til að skynja það sem gæti við tilteknar aðstæður orðið staðreynd, hver sé hin réttmæta skýring á hlutverki kynhvatarinnar í erótískri hugljómun hofmannaástarinnar. Þar er um að ræða tækni afturhaldsins, um aftengingu, um amor interruptus [fullnægjuöftrun ástarinnar].

Þau stig ástarleiksins sem hofmannaástin setur fram á undan því sem með dulspekilegu orðalagi er kallað le don de merci [þakkargjöf / náðargjöf] – án þess að við vitum nákvæmlega hvað það merkir – eru tjáð meira og minna í hugtökum sem Freud leggur fram í greinasafninu „Þrjár ritgerðir“ og kallar forleiki.

Út frá sjónarhorni nautnalögmálsins rekumst við á þversögn sem við gætum flokkað undir áhrifin frá Vorlust [fornautn] forleiksins, en sú nautn gengur beinlínis gegn markmiðum nautnalögmálsins.

Við getum einungis talað um kynferðislegt gildi forleikjanna í ástarleiknum með því að segja að nautn löngunarinnar, eða öllu heldur nautnin af því að upplifa nautnahaftið sé virk.

Nautnin af upplifun nautnahaftsins er virk hjá þessum veiðimönnum sem tilbiðja Venus í skóginum. Maestro di S. Martino 1360

Engu að síður getum við aldrei fullyrt hvort þessi samrunaverknaður felist í dulspekilegri einingu, fjarlægri játun Hins eða einhverju öðru. Í mörgum tilfellum virðist eins og látbragð á borð við blessun eða kveðjukast teljist til hina æðstu gjafa frá sjónarmiði iðkanda hofmannaástarinnar, rétt eins og merki Hins sem slíks og ekkert annað. Þetta fyrirbæri hefur verið í umræðunni og hefur hún jafnvel gengið það langt að samsama þessa blessun við það sem innan trúarsafnaðar Kathara-í S-Frakklandi telst til æðstra stigs innvígslu undir heitinu consolamentum. Hvað sem því líður, og áður en að þessu kemur, þá sjáum við stig hinnar erótísku tækni kyrfilega skilgreind og útlistuð, þau eru rakin frá drykkju, samtali, snertingu, sem er að hluta til skilgreind með því sem við erum vön að kalla þjónustu, til kossanna og osculum [osculum er latína og merkir lítið líkamsop eða munnur] sem er lokastigið á undan sameiningu í merci [fr.: náð eða þakkargjörð].

Við höfum meðtekið þetta allt með svo dulspekilegum hætti að menn hafa gripið til tungumála Hindúa eða jafnvel erótiskra siðvenja Tíbeta til að útskýra það, en siðir þeirra síðastnefndu virðast hafa verið greindir með kerfisbundnum hætti er sýni agabundið meinlæti nautnanna er geti veitt þátttakandanum eins konar lifandi efnivið. Það er einungis á grundvelli tölfræðilegs framreiknings sem við gerum okkur í hugarlund að eitthvað hliðstætt hafi verið iðkað hjá trúbadorunum. Sjálfur hef ég enga trú á því. Án þess að gera ráð fyrir samsemd siða sem iðkaðir eru á ólíkum menningarsvæðum þá trúi ég því engu að síður að áhrif skáldskapar hofmannanna hafi verið afgerandi fyrir okkar tíma.

Í ljósi áberandi getuleysis er einkennir þær fjölmörgu atlögur sem gerðar hafa verið að því að skýra áhrifavaldana sem kölluðu fram þessa sérstöku tegund upphafningar hins kvenlega viðfangs í okkar menningu kemur það mér mest á óvart að það sem einkennir meinlætisfyllstu og þverstæðufyllstu textana hjá trúbadoraskáldunum skuli í flestum tilfellum mega rekja til bókar Ovíðs Ars Amatoria [Listin að elska, skrifuð 1-2 e.Kr].

Ovíð yrkir í skáldmæltum móði upp úr leiðbeiningum fyrir fríhyggjumenn þar sem læra má til dæmis í hvaða hverfum Rómaborgar sætustu smáhórurnar sé að finna. Hann þróar þetta viðfangsefni sitt upp í ljóðabálk í þrem hlutum sem lýkur með beinni uppvakningu þess sem einungis væri hægt að kalla leik hinnar tvíbökuðu skepnu. Í miðri þessari lýsingu rekumst við á orðatiltæki eins og þessi: Arte regendus Amor, eða ástin verður að lúta stjórn listarinnar. Síðan gerist það þúsund árum síðar, með atbeina þessara töfraorða, að hópur skálda fer að færa þetta, orð fyrir orð, inn í sanna listræna holdgervingu.

Við getum einnig lesið orðin Militiae species amor est – ástin er eins konar herþjónusta – sem hjá Ovíð merkir að kvennafansi Rómaborgar sé ekkert lamb til að leika sér við. Og svo er það orðræðan um riddaramennskuna sem er snyrtilega útfærð í Don Quixote, slíkir orðaleikir fara að bergmála eins og frá alvopna herskara er helgi sig vernd kvenna og barna.

Þið hljótið að skilja þá áherslu sem ég legg á mikilvægi slíkra staðfestra hliðstæðna, því innan sjálfrar prestastéttarinnar hafði Ars amandi eftir Ovíð ekki legið í gleymsku. Chrétien de Troyes lagði jafnvel á sig að þýða hana. Það er í gegnum slíkar endurkomur sem við náum að skilja hvað virkni nefnarans felur í sér. Og mig langar til að setja fram mína frökkustu fullyrðingu á þessum tímapunkti með því að segja að hofmannaástir hafi verið skapaðar með hliðstæðum hætti og draugurinn birtist hér á sprautuhólknum (syringe) rétt í þessu (Anamorfosis).

Það þýðir ekki að hér sé um fánýta hluti að ræða. Öðruvísi hefði verið óskiljanlegt að André Breton væri þessa dagana að fagna Amour fou, eða sturlun ástarinnar eins og hann kemst að orði með sinni aðferð, eða út frá áhuga hans á því sambandi sem hann kallar „hlutlæg tilviljun“. Það er undarleg merkingarleg samsetning, því sá sem mun lesa þessa hluti utan samhengis eftir eina öld eða tvær mun skilja að „hlutlæg tilviljun“ merkir hluti sem gerast og hafa þeim mun auðugri merkingu ef þeir eiga sér stað einhvers staðar þar sem við getum með engu móti fundið nokkra rökræna eða orsakabundna forsendu né heldur nokkra þá reglu er gæti réttlætt tilkomu þeirra í veruleikanum. Með öðrum orðum þá staðsetur Breton „sturlun ástarinnar“ þar sem la Chose (Þingið) er til staðar.

Um leið og ég kveð ykkur í dag vil ég minna ykkur á að við munum hittast aftur eftir þrjár vikur, og ég vildi ljúka máli mínu með fjórum línum úr ljóði sem komu upp í huga minn í morgun. Þær eru eftir annað skáld súrrealismans, Paul Eluard. Í sínu ljóðræna samhengi eru þær einmitt á þeirri markalínu eða þeim landamærum sem ég er að leitast við að láta okkur finna til með mínum eigin orðum:

Á þessum dumbungshimni, þessum rúðum rennandi vatns

Mun andlitið birtast, suðandi kuðungur,

Boða að nótt ástarinnar hafi umhverfst í dag

Opinn munnur samlagast lokuðum munni.

 

  1. Febrúar 1960

 

[i] Orðið „hofmann“ eða „hofmaður“ er íslenska orðið yfir konunglegan hirðmann sem kann til reiðlistar. „Hof“ er í þessu samhengi sama og „Hof“ á þýsku, það er að segja þi merkingunni konungshirð. Dæmi um þessa notkun orðsins í íslensku er ljóðið Dans eftir HKL: „Ríður ríður hofmann / í rauðan skóg /þar sem laufin vaxa á viðum… Kvæðakver, bls. 89. Einnig mannsnafnið Hoffmann, lyfjaheitið „hofmannsdropar“ sem voru dropar við kvefpest fyrir heldri menn og orðið „hofróða“ sem merkir heldri dama..(Aths. Þýð).

Forsíðumyndin er úr handriti af Roman de la Rose, Frakkland 14. öld.

HOFMANNAÁSTIR I. -Jacques Lacan um formgerð merkingar í skáldskap og myndlist

Jacques Lacan:

 

VII. Seminarið

(1959-1960)

Um siðfræði sálgreiningarinnar

Hofmannaástir I.

(L‘amour courtois)

 

  1. kafli

Spássíunótur um spádómsorð,

list, trúarbrögð, vísindi,

anamorfosis og byggingarlist

forgangsstaða Þaðsins

 

Þessa stundina er ég ekki  í því ástandi að það fullnægi kröfunni um framhald námskeiðs okkar með sama hætti og frá var horfið. En þar vorum við einmitt komin á þann stað þar sem mig langaði til að geta sett fram skýrar reglur. Þið verðið því að bíða með slíkt þangað til í næsta tíma.

Tveggja vikna forföll mín komu á óheppilegum tíma því ég hefði kosið að ganga lengra nú en ég hafði boðað síðast, auðvitað eftir að hafa afgreitt kjarna málsins.

1.

Hofmannaástir eru í raun og veru öfgafullt og fordæmisgefandi form göfgunar (sublimation). Við höfum vitnisburði þar um einungis úr listum, en við getum engu að síður rakið anga þeirra allt til okkar samtíma.

[Hugtakið hofmannaástir er trúlega nýyrði í íslensku, en sjálfur orðstofninn „hof“ er samstofna þýska orðinu Hof sem merkir konungleg hirð. Orðið „hofróða“ er þannig notað um konu sem tilheyrir konungshirðinni. Hofmaður er til í afleiddum myndum, t.d. „hofmannsdropar“ sem voru áfengir kvefdropar heldri manna notaðir gegn flensu. Staðarheitið „Hofstaðir“ er trúlega einnig samstofna þýsku „Hofstadt“ og merkir þannig höfðingjaból. Orðið hofmann kemur fyrir í ljóði HKL, Dans: „Ríður ríður hofmann í rauðan skóg…, og vísar til þeirrar hefðar riddaraástar sem hér er til umfjöllunar hjá Lacan. Aths. Þýð.]

Þrátt fyrir þann líflega áhuga sem finna má í fornaldarfræðunum um þetta málefni og þó frumheimildirnar sem okkur eru aðgengilegar um málið séu nánast dauður bókstafur, þá blasir við að hinn siðferðilegi þáttur málsins gerir ennþá vart við sig í samskiptum kynjanna.

Þessi langvinnu áhrif hofmannaástarinnar, fyrirbæris sem fljótt á litið virðist einungis fagurfræðilegt, eru þess eðlis að þau vekja okkur til skilnings um mikilvægi göfgunar – málefnis sem sálgreiningin hefur sett í forgrunn.

Ég hefði kosið að vera í toppformi til að geta sýnt ykkur hvernig þetta mál hefur verið skilið sögulega séð, og hvaða aðferðarfræði menn hafa beitt við nálgun þess, því ég held að þar séum við einmitt í stakk búin til að benda á vissa erfiðleika sem sagnfræðingarnir og bókmenntafræðingar miðalda-rómansins, fornmálafræðingarnir og sérfræðingar af ýmsum gerðum hafa rekist á. Svo virðist sem þeim sé orðið ljóst að þeim hafi engan vegin tekist að afmarka fyrirbæri hofmannaástarinnar sem tiltekið fordæmisgefandi form í sögulegu samhengi.

Við sjáum þetta gerast víða og nánast alltaf með sama hætti. Við rekumst á þversagnarfullt fyrirbæri sem er nánast tekið sem sjálfsagt eða fyrir fram gefið. Nánast alls staðar leiðast fræðimennirnir út í að kanna áhrifavaldana, – sem oftar en ekki verður einungis til þess að víkja vandanum til hliðar. Þeir telja að uppruna málsins megi rekja til yfirfærslu á einhverju sem gerðist annars staðar. Já, við þurfum að kanna hvernig þetta gerðist einhvers staðar annars staðar. En þar með villumst við af leið og tínum kjarna málsins.

Í þessu tilfelli er það fjarri sanni að leitin að áhrifavöldunum hafi brugðið ljósi á vandann. Við munum leitast við að nálgast rætur vandans og við munum komast að því að fræðikenning Freuds getur gagnast okkur til að varpa ljósi á hann. Ég mun því nálgast hofmannaástina ekki bara sem dæmigert fyrirbæri heldur einnig út frá gildi þess fyrir aðferðarfræðina.

Þetta tiltekna sjónarhorn felur ekki í sér að allt sem varðar göfgun (sublimation) verði túlkað út frá því sjónarhorni sem hér verður til, nánar tiltekið út frá kynferðissambandi karls og konu sem pars. Ég er ekki að halda því fram að hægt sé að skilgreina göfgunina með þeim hætti eða skýra hana á þeim forsendum. Þvert á móti held ég því fram að það sé grundvallaratriði að byrja rannsóknina út frá þessum forsendum til þess að ná fram til hinnar almennu reglu göfgunarinnar, en upphaf hennar getum við sótt til Freuds – ef við vitum hvar á að leita – en þar á ég ekki við að leita að einhverjum tilteknum smáatriðum.

Ef mál mitt fer stundum út í það að leggja áherslu á tiltekin orð Freuds, tiltekna einangraða reglu eða einhverjar spámannlegar tilgátur, þá er það vegna þeirrar sannfæringar að þau spámannlegu orð muni nýtast mér.

Þegar ég legg fyrir ykkur meginregluna „Langanir mannsins felast í löngunum Hins“, þá eru það spámannleg orð, jafnvel þó Freud hafi ekki sett þau fram sem slík. En hann gerir það engu að síður  endurtekið án þess að það sé í fullkomlega meðvituðum tilgangi. Þannig vitnaði ég einu sinni í stutta reglu þar sem hann tengdi saman þau virknilögmál sem liggja annars vegar til grundvallar móðursýki/taugaveiklunar (hystérie), sjúklegrar þráhyggju (nevrose obsessionelle) og ofsóknaræðis (paranoia)  – og hins vegar til grundvallar listum, trúarbrögðum og vísindum.

Annars staðar tengir hann [Freud] ofsóknaræði og vísindalega orðræðuhefð. Þessi lykilatriði munu á endanum hjálpa okkur til að setja fram grundvallarregluna um göfgun og tengsl hennar við Þingið[ii].

[Þingið = Das Ding  er hugtak sem Freud notar til aðgreiningar frá Die Sache=hluturinn eða hinn áþreifanlegi kjarni máls. Das Ding er í þessum freudiska skilningi óáþreifanlegur hlutur, og samstofna íslenska orðinu þing, sem er til í hliðstæðri merkingu sem t.d. „þarfaþing“ eða „þarflaust þing“ Aths. þýðandi].

Þetta „Þing“ getum við nálgast í grundvallaratriðum sem eru nánast eins augljós og sú klassíska heimspekilega rökræða sem við sjáum í svörtu veggtöflunni og hvíta krítarmolanum. Ég vísaði í síðasta tíma í hið formlega fordæmi vasans til þess að skýra fyrir ykkur staðsetningu Þingsins í því samhengi sem setur manninn í miðilssamband á milli raunverunnar (the real) og nefnarans (signifiant).

[Tilvísunin í vasann er dæmi sem Lacan tekur um form sem er mótað utan um tómarými, en vasinn markar um leið upphaf formmótunar í siðmenningunni. .Aths. þýð.]

Þetta Þing mun alltaf verða sýnt í formi tómsins, en öll form þess sem sköpuð eru af mannavöldum tilheyra sviði göfgunarinnar. Þingið verður ávallt sýnt með tóminu af þeirri einföldu ástæðu að það er ekki sýnanlegt öðruvísi – eða með öðrum orðum, það er einungis hægt að sýna það sem eitthvað annað. En tómið er grundvallar forsenda sérhverrar göfgunar.

Ég mun beinlínis sýna fram á hvernig listir, trúarbrögð og hin vísindalega orðræða tengjast þessum frumforsendum  með þrennum hætti. Ég mun gera grein fyrir þessu með því að kynna þrjár reglur sem ég mun setja fram í lokin, þegar þessu ferðalagi okkar lýkur.

Öll form listar einkennast af sérstakri aðferð skipulagningar í kringum þetta tóm. Ég tel ekki að þetta sé tilgangslaus formúla fyrir þá sem vilja hugleiða vandamál listarinnar, þó hún sé almenns eðlis. Ég tel að ég hafi tæki til að sýna ykkur fram á þetta með sláandi hætti.

Öll form trúarbragða felast í því að forðast þetta tóm. Við getum sýnt fram á það með því að notfæra okkur sálgreiningu Freuds, þar sem hann leggur megináherslu á þráhyggju sem helsta einkenni trúarlegrar hegðunar. En jafnvel þó hinir trúarlegu hættir helgisiðanna falli allir undir þennan ramma getum við varla gert okkur þessa skýringu að góðu. Orðasamband eins og „að virða þetta tóm“ nær því kannski betur. Engu að síður hefur tómið miðlæga stöðu, og það er einmitt átæða þess að göfgunin blandast í málið.

Hvað varðar þriðja atriðið, sem er hin vísindalega orðræða, þá á hún að vissu marki uppruna sinn í vísdómsorðræðunni eða heimspekinni, og þar skiptir okkur máli hugtakið Unglauben [=vantrú] sem Freud notar í tengslum við ofsóknaræðið og tengsl þess við efnisveruleikann.

Ég kom örlítið inn á þetta á nýliðnu Seminari: Unglauben er ekki afneitun þeirrar fyrirbærafræði sem við kennum við Glauben eða tiltrú. Freud tók málið aldrei aftur upp með heildstæðum og afgerandi hætti þó það skíni engu að síður í gegnum verk hans, og hann leggur ofuráherslu á þessa virkni í sambandi við hugtakið Entwurf [=uppkast, skissa]. Fyrirbærafræði átrúnaðarins var alla tíð ástríðuárátta hjá Freud. Þannig er bókin Moses und Monotheismus eingöngu rituð til að skýra fyrirbæri átrúnaðarins.

Það sem skiptir meira máli fyrir okkur og hefur dýpri merkingu er fyrirbærafræði vantrúarinnar. Þar er ekki um bælingu átrúnaðar að ræða, heldur afstöðu mannsins til umheimsins og þess sannleika sem tilheyrir manninum einum, afstaða sem hann dvelur í.

Í þessu samhengi væri rangt að reiða sig á fljóthugsaðar andstæður, eða að halda því fram að sagan hafi gengið í gegnum afgerandi umbreytingarskeið eins og til dæmis umskiptin frá tíma klerkastjórnar (theocratic age) til svokallaðra húmaniskra samfélagsforma er fælu í sér frelsun einstaklingsins og raunveruleikans. Hér er skilningurinn á heiminum ekki það sem skiptir máli. Hér erum við ekki að fjalla um neitt sem hefur með einhvers konar Weltanschauung [heimsmynd, lífsskoðun] að gera – og allra síst mína eigin. Hér er ég einungis að benda á leiðina, hér er ég einungis að reyna að hjálpa ykkur að ná áttum í bókasafni marktækra verka sem um málið hafa fjallað, í verkum eftir sérfræðinga sem hafa sýnt greiningarhæfileika á ólíkum sviðum. Ég ráðlegg ykkur að líta í verk sagnfræðingsins Lucien Febvre, sem er höfundur bókarinnar Problème de l’incroyance au XVI siécle (Vandamál vantrúar á 17. öld). Þetta er rit sem gerir ykkur kleift að skilja hvernig ígrunduð notkun sagnfræðilegra aðferða hjálpar okkur við að forma með nákvæmari hætti spurningarnar um þróunarform hugsunarinnar hvað varðar vandamál trúarinnar.

Ef þið hafið nægan tíma og ykkur langar til að lesa eitthvað skemmtilegt ættuð þið að lesa lítið kver eftir sama höfund sem er viðauki við bókina en engin aukageta í eftirmála. Bæklingurinn heitir  Autour de l’Heptaméron (Umfjöllun í kringum Heptameron). Höfundur Heptameron er Marguerite de Navarre, sem ég vona að þið ruglið ekki saman við Queen Margot, eiginkonu Hinriks VI. Hún er ekki bara fríhyggjuhöfundur, heldur reynist hún vera höfundur af dulspekilegum toga. En það er nokkuð sem kveikir hrifningu eða forvitni hjá sagnfræðingnum.

Forsíða Penguin-útgáfunnar af Heptameron

Hann reynir að sýna okkur hvaða merkingu mætti finna í þessu sögusafni sem gengur undir nafninu Heptameron ef það er skoðað í ljósi samtíma síns og út frá lundarfari höfundarins. Hann gerir þetta með þeim hætti að leyfa okkur að lesa textann ekki endilega með upplýstara auga, heldur með auga þess sem lætur hjá líða að ritskoða textann eða einstakar vangaveltur persónanna, sem eiga að vera trúverðugar og eru það vissulega að miklu leyti. Um er að ræða hugsanir viðmælenda sem eiga að endurspegla siðferðisviðmið og jafnvel formlegar trúarlegar reglur viðkomandi, sem venjan er að ritskoða þegar gengið er út frá Því í upphafi að slík atriði séu ekki annað en sósukryddið í aðalréttinum. En það er einmitt mikilvægt að misskilja ekki sósuna sem er meginatriðið í sérhverjum málsverði. Lucien Febvre kennir okkur hvernig við eigum að lesa Heptameron. Ef við kynnum hins vegar að lesa, þá hefðum við ekki þörf fyrir leiðbeiningar hans.

Hvað varðar vantrúna, þá er hún frá okkar sjónarhóli sá staður í orðræðunni sem okkur ber að meðtaka einmitt með tilliti til Þingsins (das Ding) – en Þingið er falið eða útilokað samkvæmt hinni réttu merkingu Verwerfung. [orð sem Lacan hefur eftir Freud og við gætum þýtt á íslensku sem „sniðganga“].

Það er með sama hætti sem við finnum Verdrängung [bælingu] í listum, en það er yfirbreiðsla Þingsins. Þá höfum við trúlega Verscheibung [hliðrun] eða tilfærslu í trúarbrögðunum, en í hreinskilni sagt er þar um Verwerfung [undanskot] að ræða, sem fólgin eru í orðræðu vísindanna.

Orðræða vísindanna hafnar tilveru Þingsins þar sem frá hennar sjónarhorni er hápunktur algildrar þekkingar leiftursýn, það er að segja eitthvað sem heldur Þinginu til hliðar á meðan hún beinir allri athygli frá því. Sem kunnugt er þá hefur það verið sögulega sannað að þessi afstaða er röng.

[Trúlega vísar Lacan hér til rökfræðilegrar gagnrýni fyrirbærafræðinnar á vísindahyggju, til dæmis í verkum Maurice Merleau-Ponty. Sjá t.d. upphafsorðin í „Augað og andinn“ hér á vefsíðunni. Aths. Þýð.]

Orðræða vísindanna er mótuð af þessari Verwerfung [sniðgöngu], og í ljósi þeirrar reglu minnar að það sem er útilokað í hinu táknræna komi í ljós í raunverunni, skýrast þær aðstæður sem endanlega koma upp sem niðurstaða eðlisfræðinnar og verða alltaf jafn mikil ráðgáta og leiftursýn sjálfs Þingsins.

Ég fresta til næsta tíma frekari umræðum um fordæmisreglu hofmannaástarinnar [l’amour courtois], sem dæmi um göfgun í listum og við rekumst á enn þann dag í dag. Við munum taka þetta efni fyrir eftir að ég kem til baka úr ferðalagi mínu, við munum rekja dæmi þessa fyrirbæris og þau óumdeilanlegu ummerki þeirra merkingarfræðilegu kastalabygginga sem eru megineinkenni hofmannaástarinnar.  Við munum einnig leitast við að sjá í fyrirbærum úr samtímanum nokkuð sem ekki verður skýrt nema út frá slíkum uppruna.

Þar sem við erum einungis á vettvangi spássiunótanna í dag, þá vildi ég benda á að það væri rangt af ykkur að hugsa sem svo að hugtakið Þing, sem ég hef sett í nýtt samhengi á þessu ári, hafi ekki verið til staðar í umfjöllun okkar á umliðnum árum.

Þar sem þeir eru til sem hafa efasemdir um stíl minn í fræðilegri framsetningu, þá vil ég minna ykkur á hugtakið „Freudiska þingið“ [La Chose Freudienne], sem var titillinn á einhverjum texta sem ég skrifaði, og það væri ekki svo vitlaust að ráðleggja ykkur að rifja hann upp. Sá texti og titill hans vöktu nokkra undrun, því ef menn fara að greina áform mín frá heimspekilegum sjónarhóli, þá enda þeir með að tengja hann fyrirbæri sem eitt sinn naut vinsælda, en það var andófið gegn hlutgervingunni. Auðvitað sagði ég aldrei neitt um hlutgervinguna. En það er alltaf hægt að finna ásetning út úr sérhverri orðræðu. Það ætti að vera ljóst, að þar sem ég valdi slíkan titil á texta minn, þá gerði ég það af ásettu ráði. Ef þið lesið textann aftur sjáið þið að ég er fyrst og fremst að fjalla um Þingið [la Chose]. Og ég fjalla um það með þeim hætti sem augljóslega kom illa við menn á þeim tíma. Staðreyndin er sú að ég læt Þingið stundum tala sjálft.

2.

Nú myndi ég vilja að fundur okkar í dag kæmi þeim að notum sem hafa lagt á sig ferðalag til að komast hingað.

Með tilliti til þess hvert við erum komin í þessu Seminari er ekki ólíklegt að einhver ykkar hafi spurningar fram að færa eða búi yfir svörum er gætu brugðið ljósi á skilning þeirra á tilteknum atriðum í röksemdafærslu minni.

Ég veit að það er aldrei auðvelt að rjúfa þögnina innan hópsins, að hringja litlu bjöllunni ef svo mætti segja. Ég ætla þess vegna að gefa ykkur tækifæri til að leggja fyrir mig skrifaðar spurningar. Eini gallinn á slíku fyrirkomulagi væri sá að ég gæti lesið úr spurningunn það sem mér hentaði.

Á sama tíma ætlum við að gera nokkuð óvænt sem ég held að væri góð hugmynd. Sum ykkar tóku þátt í vísindaráðstefnu Félagsins okkar í gær. Ég veit ekki hvernig því lauk, því ég varð að yfirgefa svæðið eftir að hafa gefið andsvör við nokkrum fyrirlestrum frá fólki sem ég met afar mikils, eftir að ég hafði látið í ljós mikinn áhuga minn á starfi þeirra. Þeir eru mættir hér í dag og ég vildi spyrja Smirnov spurningar varðandi „No and Yes“ í máli Spitz….

[hér koma orðaskipti Lacans og viðstadda um efni ráðstefnu sem snerta ekki leiðarþráð þessa fyrirlesturs beint og er því sleppt, þar til kemur að spurningu Audouards:.]

Audouard:

„Hvers vegna talar þú við okkur um „Þingið“ í stað þess að tala einfaldlega um miðlun [mediation]?

Til þess að gefa beint svar þá vildi ég segja að ég hef tekið eftir áhuga þínum á því sem við gætum kallað hegelska framsetningu á analítískri (rökgreinandi)  reynslu. Við erum hér að fjalla um freudíska reynslu sem siðfræði, hvort sem okkur líkar það betur eða ver – þar sem hún leiðir okkur alltaf að lækningarmeðferð sem óhjákvæmilega fellur innan ramma siðfræðinnar. Því meir sem við reynum að andmæla þessu, því augljósara verður það. Reynslan kennir okkur þetta: það form sálgreiningar sem státar af sínum háleitu vísindalegu eiginleikum leiðir okkur til þess skilnings sem lesa má úr fordæmingu Matthíasar guðspjallamanns gagnvart þeim sem  þyngja byrðarnar með því að leggja þær á aðra. Með því að þrengja og festa í sessi flokka tilfinningalegra regluverka endum við í skelfilegum niðurstöðum.

Það er augljóst að við leggjum áherslu á óhjákvæmilegt mikilvægi innsæisins, á það sem virðist vera mörk miðlunarinnar (mediation) sem verður hlutgervingunni óviðráðanleg. En með því að rannsaka mörk einhvers í gegnum að nálgast það utan frá erum við að umkringja hina tómu mynd.

Þau meðvituðu áform að leggja áherslu á þessa nálgun hafa aldrei fallið utan þess sem ég hef sagt hingað til. Ef þú flettir upp í þeim textum sem ég vitnaði til um þetta efni sérðu að hér er engin tvíræðni. Sú Hegelska róttækni sem ég var kenndur við í fljótfærnislegum athugasemdum einhvers í Les Temps Modernes á alls ekki við mig. Öll sú díalektík [=gagnvirkni] löngunar sem ég setti fram hér og sem ég var að byrja að móta þegar þessi fljótfærnislega samlíking var sett fram, öll þessi díalektík er í grundvallaratriðum frábrugðin Hegelisma. Það verður enn ljósara nú í ár. Hinn óhjákvæmilegi karakter virðist einkum og sér í lagi mótaður af göfguninni.

Herra X:

Sú göfgunarregla sem þú hefur lagt fyrir okkur felst í því að veita hlutnum virðingarstig Þingsins.  Í byrjun virðist þetta „Þing“ ekki vera til, því göfgunin á að leiða okkur að því. Spurning mín verður því hvort þetta Þing sé alls ekki raunverulegt Þing, heldur þvert á móti Ekki-Þing, og að göfgunin fái okkur til þess að sjá það sem Þingið (…)?

Það sem þú ert að segja slær mig þannig að mér virðist þú vera á réttri leið. Það er augljóst að þú hefur fylgst vel og áreynslulaust  með framsetningu minni á þessum vandamálum. Við mætum einhverju sem sálgreinar ef við fylgjum heildarsummu reynslu okkar og ef við erum dómbærir á hana. Þú segir að atlagan að göfguninni beinist að því að raungera Þingið eða bjarga því. Það er rétt og ekki rétt. Það er blekking fólgin í þessu.

3.

Hvorki vísindin né trúarbrögðin eru þess eðlis að þau bjargi Þinginu eða færi okkur það í fangið, því sá töfrahringur sem aðskilur okkur frá því markast af sambandi okkar við nefnarann (the signifiant)[iii].

[Lacan vitnar hér í strúktúralisma eða formgerðarstefnu í málvísindum eins og hún var sett fram af svissneska málfræðingnum Ferdinand Saussure í upphafi 20. aldar: Merkingargjöfin felur í sér að stofnað er til sambands á milli nefnarans (orðsins, hugtaksins, fr.: signifiant) og hins nefnda (fr.: signifié, e,:the signified), en slík tengsl byggja á tilviljun eða almennu samþykki, en ekki áþreifanlegri efnislegri líkingu eða samsvörun.(Aths. Þýð.]

Eins og ég hef sagt ykkur þá er Þingið það í raunverunni sem þjáist af þessu grundvallandi og frumlæga sambandi sem dæmir manninn inn á leiðir nefnarans í gegnum þá röklegu staðreynd að hann er undirseldur því sem Freud kallar nautnalögmálið, sem ég vona að þið skiljið að er ekkert annað en yfirdrottnun nefnarans  – hér á ég auðvitað við nautnalögmálið eins og það virkar hjá Freud.

Í stuttu máli þá snýst þetta um áhrifavald nefnarans á þá sálrænu raunveru[iv] sem um er að ræða, og þess vegna er virkni göfgunarinnar ekki einfaldlega merkingarlaus í öllum skilningi – menn svara með því sem er tiltækt.

[Hugtakið „raunvera“ er eitt af lykilhugtökunum í sálgreiningu Lacans, og hefur ekkert með raunveruleika að gera í hefðbundnum skilningi sem hinn ytri heimur. Lacan skiptir mannssálinni í þrenn svið, sem eru svið ímyndunar, tákngervingar og raunveru. Raunveran er það „tómarúm“ innan mannsins sem ímyndanir okkar ná ekki utan um og tákngervingarnar (tungumálið /nefnararnir) ekki heldur. Raunveran er uppspretta langananna og það er viðfangsefni ímyndana og tákngervinga að „ná utan um“ raunveruna, gefa okkur mynd af henni. Það er í raun einnig verkefni sálgreiningarinnar og listarinnar. Aths. Þýðanda.]

Í dag ætlaði ég að hafa meðferðis hlut sem ég ætlaði að sýna ykkur í lok námskeiðsins. Það er hlutur sem kallar á langa athugasemd um listasöguna ef hann á að verða skiljanlegur. Sú staðreynd að mönnum tókst að smíða slíkan grip og finna í honum ánægjuefni kallar á umtalsverðan útúrdúr.

Ég ætla að lýsa fyrir ykkur hlutnum. Þetta er hlutur sem felur í sér anamorfosis eða afmyndun. Ég geri ráð fyrir að mörg ykkar viti hvað í því felst. Það er hvers kyns hlutur sem lætur það gerast með ljósfræðilegri yfirfærslu að hlutur sem ekki var sýnilegur í fyrsta áhorfi gerir sig sýnilegan sem læsileg mynd. Ánægjan felst í að sjá myndina verða til út úr ógreinanlegri formleysu.

Anamorphosis, formleysa myndarinnar á borðdúknum verður heilsteypt málverk í spegilmynd sívalningsins. 16. öld.

Slíkir hlutir eru mjög algengir í sögu listarinnar. Farið bara á Louvre-safnið og skoðið málverk Holbeins Sendiherrarnir. Þið munið sjá að undir fæti annars sendiherrans sem er eins vel skapaður og þið eða ég, undir fæti hans er dularfullt form sem teygist niður til vinstri á gólfinu.  Það líkist einna helst spældu eggi. Ef þið takið ykkur hins vegar stöðu til hliðar þar sem sjálf myndin hverfur inn í eigið yfirborð vegna stefnu fjarvíddarlínanna, þá sjáið þið hauskúpuna birtast, sígilt þema svokallaðra vanitas mynda (um forgengileikann). Þetta finnum við í raunverulegu málverki sem greinilega hefur verið pantað af sendiherrunum á Englandi, sem hljóta að hafa verið ánægðir með verkið. Og það sem var fyrir neðan þá á myndinni hlýtur líka að hafa skemmt þeim.

Hans Holbein: Sendiherrarnir, olíumálverk, 1533. National Gallery London

Við getum tímasett þetta fyrirbæri. Það var á sextándu og sautjándu öldinni sem hlutir á borð við þessa náðu hámarki vinsælda og hrifningar. Í kapellu einni sem reist var af Jesúítum á tímum Descartes mátti finna langan vegg sem nálgaðist 18 metra og sýndi atriði úr lífi dýrlinganna eða fæðingarsenu frelsarans, en myndin var hins vegar algjörlega óskiljanleg innan veggja salarins. Ef farið var inn í aðliggjandi gang mátti hins vegar á tilteknu augabragði sjá hvernig hinar tvístruðu línur málverksins féllu saman og mynduðu sviðsmyndina í heild sinni.

Anamorfosis-gripurinn sem ég ætlaði að hafa með mér hér í dag er mun smærri í sniðum. Hann er í eigu safnara sem ég hef þegar minnst á. Gripurinn samanstendur af spegilfáguðum sívalning, en undir hann er lagður dúkur með ósamstæðum og óskiljanlegum línum. Ef menn taka sér hins vegar stöðu út frá tilteknu sjónarhorni má sjá hvernig myndin verður til á sívalningnum, í þessu tilfelli bráðfalleg anamorfosis-mynd af krossfestingunni, sem er kópía af málverki eftir Rubens.

Á bak við verk af þessu tagi liggur óhjákvæmilega löng þróunarsaga. Á bak við hlutinn liggur löng saga byggingarlistar og málaralistar, hvernig þessar listgreinar tengjast saman og með hvaða hætti það gerðist.

Í stuttu máli má segja að skilgreina megi frumstæða byggingarlist eins og eitthvað sem hefur verið skipulagt í kringum tómarúm. Þau sönnu áhrif sem við verðum fyrir af dómkirkjum á borð við Markúsarkirkjuna eru af sama toga og segja okkur hina sönnu merkingu allrar byggingarlistar. Í kjölfarið gerist það af efnahagslegum ástæðum að menn gera sig ánægða með myndir af þessum sömu byggingum, menn læra að mála byggingarlist á veggi bygginganna. Einnig málaralistin er fyrst og fremst eitthvað sem er skipulagt í kringum tóm. Þar sem málið snýst um að finna aftur hið heilaga tómarými byggingarlistarinnar í einfaldari mynd málverksins þá verður markmiðið að gera æ nákvæmari eftirlíkingu byggingarinnar og þar með er fjarvíddarteikningin uppgötvuð.

Það sem við tók var þversagnarkennt og skemmtilegt í senn: það sýnir hvernig maður kyrkir sjálfan sig með eigin hengingarhnút.

Allt frá þeim tíma þegar menn uppgötvuðu fjarvídd í málverkinu verður til byggingarlist sem tileinkar sér fjarvíddarreglur málverksins. Þetta verður til dæmis augljóst í byggingarlist Palladios. Farið og skoðið leikhúsið hans í Vicenza, sérstakt lítið snilldarverk sem læra má af. Nýklassíska listin [Lacan virðist hér eiga við endurreisnartímann sem „nýklassík“] gengst undir lögmál fjarvíddarinnar, leikur sér með þau og gerir þau að sínum. Sem felur aftur í sér að hún fellir þau inn í eitthvað sem gert var í málverkinu í því skyni að enduruppgötva tómarýmið í frumstæðri byggingarlist.


Palladio: Olympíska leikhúsið í Vicenza, 1580. Leikhúsið er innandyra eftirlíking af útileikhúsi með tilbúinni fjarvíddarblekkingu í sviðsmynd.

Þaðan í frá eru menn fastir í snöru sem felst að því er virðist í eilífum flótta frá þessu tómi.

Ég held að afturhvarf barokklistarinnar til leiksins með formin og til allra hugsanlegra meðala þar sem anamorfosis er ekki undanskilið, öll þessi viðleitni beindist að marki að endurreisa hina sönnu merkingu listrænnar rannsóknar. Listamenn nýta sér uppgötvanir á eiginleikum línunnar til þess að láta eitthvað í ljós sem við finnum nákvæmlega þar sem menn hafa misst áttir, eða nánar tiltekið, hvergi.

Málverkið eftir Rubens sem birtist skyndilega í stað hins óskiljanlega myndverks afhjúpar það sem hér er á seyði. Málið snýst um að í hinu analogíska (hliðstæða) eða anamorfíska (afmyndaða) formi er enn einu sinni vísað í þá staðreynd að það sem við sækjumst eftir í blekkingunni eða sjónhverfingunni verður þar sem sjálf blekkingin yfirstígur sjálfa sig með því sýna sig einungis sem nefnara (signifier).

Einmitt þetta setur tungumálið í algjöran forgrunn þar sem innan þess þurfum við í öllum tilfellum ekki að takast á við annað en nefnarann sjálfan. Þetta er ástæða þess að þegar ég vil nú vekja athygli á vandamáli sambandsins á milli listar og göfgunar, þá kýs ég að byrja á hofmannaástinni (l’amour courtois). Í þeim heimi finnum við texta sem sýna með einstökum hætti sína hefðbundnu hlið í þeim skilningi að tungumálið leitar alltaf í tilbúning þegar það vill vísa til alls þess sem viðkemur innsæi, efniskennd eða lifaðri reynslu.

Þetta fyrirbæri verður þeim mun eftirtektarverðara þegar til þess er tekið að þetta á sér stað á tímaskeiði óhefts kynlífs. Ég á við að þarna var talað tæpitungulaust.

Það athyglisverða er að þarna þrífast tvenns konar stílar eða talsmátar samtímis.

Þið stunguð upp á hugmyndinni um Þingið og Ekki-Þingið. Ef þið viljið hafa það þannig þá er það líka satt að Þingið er líka Ekki-Þing. Í raunveruleikanum er það vissulega þannig að Ekkið sem slíkt er ekki til með merkingarbærum hætti. Nákvæmlega það sama á við þegar við fjöllum um hinn freudíska skilning á Todestrieb (dauðahvötinni), þar sem Freud segir okkur að ekki sé nein neitun til staðar í dulvitundinni.

Við viljum ekki gera þetta að heimspekilegu vandamáli. Ég vildi minna ykkur á athugasemdina sem ég breytti um daginn til þess að girða fyrir þann misskilning að ég afsali mér ábyrgðartilfinningu. Þegar ég tala um Þingið er ég vissulega að tala um tiltekið efni. En ég er auðvitað að tala með virkum hætti, með vísun til þess staðar sem það fyllir á sérstöku rökfræðilegu stigi hugsunar okkar og hugtakasmíða, með vísun í virknina sem snertir okkur.

Í gærkvöldi vísaði ég í og gagnrýndi tilkomu staðgengils fyrir hugtakið „ego“ í klassískri heildarmynd Freuds af mannssálinni. Nokkuð sem verður átakanlegt að sjá hjá manni sem er jafn djúpt sokkinn í sálgreininguna og Spiz.

Það er vissulega erfitt að sjá í þessu hugtaki þá grundvallarvirkni sem upphaf sálgreiningarinnar byggði á, hugtak sem fól í sér sjokkáhrif hennar, bergmál og eftirskjálfta. Við megum hins vegar ekki gleyma að Freud tengdi það strax við uppgötvun annars hugtaks sem var Das ES (Þaðið). Það forgangsatriði sem fólst í Þaðinu er nú gleymt og grafið.

Að sumu leyti er Þaðið (das Es) ekki sett nægilega í forgang eins og það er kynnt til sögunnar í textum um seinna efnið. Þetta árið ætla ég að styðjast við sérstakt kaflasvið undir nafninu „Þingið“ í því skyni að leggja áherslu á frumlæga grundvallarþýðingu þessa innsæis í reynslu okkar á siðfræðilegu sviði.

[Hér er sleppt stuttri spurningu frá Laplanche um samband nautnalögmálsins og nefnarans og munnlegu svari Lacans við þeirri spurningu.]

___________________________________________

 

 

 

[i] Orðið „hofmann“ eða „hofmaður“ er íslenska orðið yfir konunglegan hirðmann sem kann til reiðlistar. „Hof“ er í þessu samhengi sama og „Hof“ á þýsku, það er að segja konungshirð. Dæmi um þessa notkun orðsins í íslensku er ljóðið Dans eftir HKL: „Ríður ríður hofmann / í rauðan skóg /þar sem laufin vaxa á viðum… Kvæðakver, bls. 89. (Aths. Þýð).

[ii] Sú merking sem Lacan leggur í hugtakið das Ding, sem hann fær að láni hjá Freud, verður ekki skilin með hefðbundinni þýðingu sem „hluturinn“ á íslensku. Þar sem hugtakið er mikilvægt fagorð í hugsun og texta Lacans er hér gripið til íslenska hugtaksins „þing“ sem er af sama uppruna og sprottið af sömu upprunalegu merkingunni og das Ding á þýsku: eins konar „hlutur“ sem er óáþreifanlegur í sinni efnislegu mynd, öfugt við Die Sache, sem hinn efnislegi kjarni málsins.  Hugtakið das Ding (Þingið)  tengist öðru lykilhugtaki sálgreiningarinnar sem er „þaðið“, persónufornafnið „það“ umbreytt í mynd nafnorðsins.(Aths. Þýð.)

[iii] Lacan vitnar hér í strúktúralismann eða formgerðarstefnu í málvísindum eins og hún var sett fram af svissneska málfræðingnum Ferdinand Saussure í upphafi 20. aldar: Merkingargjöfin felur í sér að stofnað er til sambands á milli nefnarans (orðsins, fr.: signifiant) og hins nefnda (fr.: signifié), en slík tengsl byggja á tilviljun eða almennu samþykki, en ekki áþreifanlegri líkingu.(Aths. Þýð.)

[iv] Hugtakið „raunvera“ er eitt af lykilhugtökunum í sálgreining Lacans, og hefur ekkert með raunveruleika að gera í hefðbundnum skilningi sem hinn ytri heimur. Lacan skiptir mannssálinni í þrenn svið, sem eru svið ímyndunar, tákngervingar og raunveru. Raunveran er það „tómarúm“ innan mannsins sem ímyndanir okkar ná ekki utan um og tákngervingarnar (tungumálið /nefnararnir) ekki heldur. Raunveran er uppspretta langananna og það er viðfangsefni ímyndana og tákngervinga að „ná utan um“ raunveruna, gefa okkur mynd af henni. Það er í raun verkefni sálgreiningarinnar. Aths. Þýðanda.

Forsíðumyndin er úr Roman de la Rose handriti frá 14. öld

HVAÐ ER MÁLVERKIÐ? (fyrri hluti) – Jacques Lacan

Í XI. Námskeiði sínu um sálgreiningu (frá 1964) fjallar Jacques Lacan meðal annars um málaralistina og virkni sjónskynsins með afar frumlegum og áhrifaríkum hætti. Þetta er þó einungis einn þáttur þessa námskeiðs, sem hefur yfirskriftina „Fjögur grundvallarhugtök sálgreiningarinnar“. Það má segja að þessi texti sé ekki auðlesinn, en það á sínar skýringar. Námskeið Lacans voru haldin fyrir nemendur sem voru að búa sig undir að starfa sem sálgreinar, innan þeirrar greinar læknisfræðinnar sem byggir á lækningarmætti hins talaða orðs. Lacan skrifaði ekki texta sinn sjálfur, heldur var hann færður á ritað mál af Jacques-Allain Miller, sem var einnig sálgreinir og tengdasonur Lacans. Hér er því um munnlega frásögn að ræða, og það sést á textanum. Hann er vissulega óvenjulegur, og kallar á vandaðan lestur. Þá er þýðing þessa texta yfir á íslensku ekki síður vandasöm. Það er nánast ógerningur að koma frönsku talmáli til skila á íslensku, og þegar við bætist að kunnátta mín í frönsku er afar takmörkuð, þannig að ég þurfti að reiða mig á ítalska þýðingu Sciana Loaldi og Irène Molina (frá 1979). Það skapar nýtt flækjustig. Ég hef hins vegar lagt mig eftir að reyna að skilja orðræðu Lacans efnislega, og þannig trúlega fært mál hans nær íslensku ritmáli en frönsku talmáli.

Þeir tveir kaflar sem ég birti nú hér á vefsíðu minni eru tveir af fjórum sem bera yfirskriftina Áhorfið sem viðfangið a í Seminari XI. Þetta er óskiljanleg yfirskrift fyrir þá sem ekki hafa fyrir fram þekkingu á hvað „viðfangið a“ merkir í sálgreiningu Lacans. Það kostar langa yfirlegu í umfjöllun hans um langanir mannsins og ímyndanir, þar sem þetta viðfang verður eins konar staðgengill óuppfylltra langana mannsins. Það verður ekki skýrt frekar hér, en þessi tiltekni vandi er einkennandi fyrir alla nálgun nýrra lesenda að höfundarverki Lacans: hugmyndheimur hans er í senn ótrúlega ríkur og ótrúleg flækja í allri framsetningu, og af minni reynslu kostar það margra mánaða vinnu að setja sig inn í hugsunargang Lacans og hugtakasmíð hans, hugmyndaheim sem var í stöðugri þróun á þeim aldarfjórðungi sem hann vann að Námskeiðunum. Mín reynsla er allavega sú að það kemur enginn samur út úr glímunni við Lacan. En hann leit ekki á sjálfan sig sem læriföður í þeim skilningi að hugmyndir hans væru fastmótaður „skóli“, miklu frekar eru þær fóður fyrir hugann til frekari rannsóknar á furðum mannlegrar tilveru.
Jacques Lacan:
SEMINAR XI
(Fjögur grundvallarhugtök sálgreiningarinnar)

 

Hvað er málverkið?

 

VIII. Kafli

Línan og ljósið

 

Löngunin og myndin. – Saga af sardínudós. – Skermurinn. – Hermilistin. – Líffærið. – Þú horfir aldrei á mig frá mínum sjónarhóli.

 

Virkni augans getur leitt þann sem reynir að upplýsa ykkur í langa rannsóknarleiðangra. Til dæmis með spurningunni hvenær kemur þetta líffæri til sögunnar í sögu tegundanna?

Kjarnann í reynslu okkar er að finna í sambandi hugverunnar við líffærið. Meðal allra þeirra líkamsparta sem málið snýst um, allt frá brjóstunum og hægðunum  o.s.frv., höfum við augað, og það er sláandi þegar við hugsum til þess hversu löng tilvera þess er í sögu tegundanna, allt frá tilkomu lífsins á jörðinni. Trúlega borðið þið öll ostrur með bestu samvisku án þess að vita að þegar á þessu þróunarskeiði dýraríkisins var augað til staðar. Það á vel við að minna á, að djúpar vangaveltur af þessu tagi bjóða upp á óvæntustu þekkingarsvið. Engu að síður er það einmitt í þessari þekkingaróreiðu sem okkur ber að velja og hafna og draga fram einmitt það sem vekur áhuga okkar.

Ég held að umfjöllun mín í síðasta fyrirlestri hafi dugað til að vekja áhuga ykkar á þessari litlu skýringarmynd þríhyrninganna sem er sára einföld og ég hef dregið hér upp á töfluna:

[Oggetto = hlutur, viðfang. / Immagine = mynd. / Punto geometrale = rúmfræðilegur útgangspunktur. / Punto luminoso = ljósfræðilegur útgangspunktur. / Schermo = skermur. / Quadro = málverk.]

Hún þjónar eingöngu þeim tilgangi að minna ykkur á þrjú hugtök sem ljósfræðin notar í þessu dæmi sjónskynsins, og vitna um öfuga virkni fjarvíddarinnar, þessa hugtaks sem hefur ráðið ríkjum í tækni málaralistarinnar sem mælikvarði á nákvæmni hennar allt frá 15. öld og alla 16. og 17. öldina. Myndbrenglunin (anamorfosi) sýnir okkur að í málverkinu snýst málið ekki um að framkalla raunsæislega eftirlíkingu hlutarins í rýminu, – orðalag sem reyndar er umdeilanlegt.

Þessi litla skýringarmynd gerir okkur líka kleift koma auga á að viss ljósfræði (optik) felur fyrir okkur atriði sem tilheyra eðli sjónskynsins.

Þessi ljósfræði er hinum blindu auðskilin.  Ég hef bent ykkur á Bréf Diderots, þar sem skýrt er hvernig hinn blindi sé fullfær um að gera sér grein fyrir öllu því sem sjónin segir okkur um rýmið. Hann getur endurmótað það, ímyndað sér það og komið orðum að því. Augljóst er að Diderot býr til viðvarandi misskilning með frumspekilegum meginforsendum sínum, en slík tvíræðni lífgar bara upp á texta hans og gerir hann beittari.

Fyrir okkur leyfir vídd rýmisins (geometríunnar) okkur að sjá í gegnum það hvernig sú hugvera sem gerist þátttakandi  er hrifin, hvernig henni er stýrt og plantað niður á vettvang sjónsviðsins.

Hans Holbein: Sendiherrarnir, 1533

Ég benti ykkur  strax á það í málverki Holbeins -án þess að fela meira en það sem bakgrunnurinn gerir venjulega – hvernig þessi sérstæði hlutur svífur í forgrunninum, að þar sé áhorfið sem ef svo mætti segja veiði áhorfandann í gildru sína, og við erum áhorfandinn.

Hér er um úthugsaða yfirlýsingu að ræða, sem á sér vafalaust enga hliðstæðu og á sér óþekkta bakþanka frá hendi málarans.

En myndin sýnir svo ekki verður um villst hvernig við sem áhorfendur erum nánast bókstaflega hrifin inn í myndina og því sýnd um leið sem hinn handsamaði.

Leyndardómur þessa hrífandi málverks sem ég benti ykkur á að ætti skyldleika við vanitates-myndhefðina (myndefni forgengileikans -nature mort) og sýnir okkur allt það sem á tíma myndarinnar gat talist til forgengileika vísindanna og listanna, sett fram á milli tveggja prúðbúinna og uppstilltra manna. Leyndardómurinn felst í því að þegar við fjarlægjumst myndina hægt og rólega til vinstri  og snúum okkur síðan að henni, þá  áttum við okkur skyndilega á hvað þetta svífandi furðufyrirbæri fyrirstillir.  Það endurspeglar okkar eigið tóm í mynd hauskúpunnar. Hér er þannig gripið til hins rýmislega (geometríska) útgangspunkts sjónarinnar til þess að hrífa áhorfandann, augljós tengsl við löngunina sem engu að síður er áfram ráðgáta.

„Anamorfosa“ eða Myndskekking í málverki Holbeins séð með ljósmyndavél frá ólíkum sjónarhornum .

En hvaða löngun er það sem hér er hrifin inn í myndina og fest þar, en verður listamanninum um leið tilefni til að setja eitthvað inn í verkið, og hvað er það eiginlega? Þetta er slóðin sem við ætlum nú að reyna að rekja.

I

Þegar við hugleiðum sýnileikann verður allt að gildru með einstökum hætti -eins og Maurice Merleau-Ponty benti réttilega á með einu kaflaheitinu í bókinni Hið sýnilega og ósýnilega, sem hann nefndi entrelacs eða samfléttur. Ekkert á sviði sýnileikans, engin þeirra tvöföldu hliða sem virkni sjónskynsins býður okkur upp á, er ósnortið af flækjustigi völundarhússins. Þegar við höfum smám saman greint í sundur hin ólíku svið sýnileikans uppgötvum við jafnóðum hvernig þau samfléttast aftur.

Á því sviði sem ég hef kallað hið geometríska eða rúmfræðilega svið virðist í upphafi sem það sé ljósið sem veitir okkur þráðinn, ef svo mætti segja. Þið sáuð í síðasta fyrirlestri hvernig þessi þráður tengist sérhverjum punkti viðfangsins og hvernig þráðurinn sker netskerminn sem við notum til að höndla myndina, þetta virkar allt eins og beinn þráður. Þarna framlengir ljósið sig eftir beinni línu eins og um línuás væri að ræða. Það er engu líkara en að ljósið færi okkur þráðinn.

Hugleiðið hins vegar að þessi þráður hefur enga þörf fyrir ljósið til þess að vera þráðbein lína. Þar liggur ástæða þess að hinn blindi getur fylgst með öllum sýnitilburðum okkar, að því tilskyldu að við leggjum okkur fram. Við getum látið hann snerta tiltekinn hlut í ákveðinni hæð, síðan fylgja hinum strengda þræði, við getum kennt honum hvernig hann getur með fingursnertingunni þreifað á tilteknu yfirborði, skilgreint tiltekna formgerð sem endurgerir staðsetningu myndanna alveg á sama hátt og gerist í hreinni sjónfræði þar sem hlutir, sem eru eins en í ólíkum hlutfallsstærðum, samsvari ólíkum stöðum í rýminu, sem þýðir alltaf að við festum tvo punkta á sama þráðinn. Slík myndbygging gefur okkur því engin færi á að miðla sérstaklega því sem ljósið opinberar okkur.

Albrecht Durer: Að teikna mandólín. Skýringarmynd um fjarvíddartækni, 1525

Hvernig eigum við þá að höndla það sem virðist ganga okkur úr greipum við þessa ljósfræðilegu byggingu rýmisins? Það er þetta sem hefðbundin röksemdafærsla byggir á. Heimspekingarnir hafa -allt fram að Allain,  nýjasta meistaranum í snilldarlegum æfingum sínum – horft til Kants og alla leið til Platons til að skella skuldinni á meinta blekkingu sjónskynsins. Og allir sýna þeir vald sitt á æfingunni þar sem þeir benda á að skynjunin finni hlutinn þar sem hann er, og að birtingarmynd teningsins sem samsíðungs sé nákvæmlega  samkvæmt rýminu sem liggur til grundvallar skynjunar okkar og geri að verkum að við skynjum hann sem tening. Allur leikurinn, snilldarlausn klassískrar þrætubókar (dialettica) á skynjuninni, felst í því að hún snýst um hina rúmfræðilegu sjón flatarmálsfræðinnar, það er að segja um þá sjón sem er staðsett í rými sem í kjarna sínum er ekki rými sjónskynsins.

Kjarnann í sambandinu á milli birtingarinnar og verunnar, sem sá heimspekingur er sérhæfir sig í   sjónskyninu þykist hafa svo kyrfilega á valdi sínu, þennan kjarna er hins vegar annars staðar að finna. Hann felst ekki í þessari beinu línu, hann er að finna í ljóspunktinum, punkti útgeislunarinnar, eldsins, blikandi glampa endurspeglunarinnar. Það er alveg ljóst að ljósið fer eftir beinni línu, en það brotnar, breiðist út, fyllir – við skulum ekki gleyma skálinni sem auga okkar er – fer líka út fyrir barmana, og þegar kemur að skál augnanna þarf það á alls kyns líffærum að halda, tækjum og varnartólum. Lithimnan meðtekur ekki bara fjarlægðirnar, heldur líka birtuna og þarf að verja það sem er í skálarbotninum og gæti við sérstakar aðstæður skaðast af ljósinu. Andspænis of sterku ljósi eru augnlok okkar líka kölluð til að blikka og skreppa saman í þekktum andlitsdráttum.

Svo er það ekki bara augað sem býr yfir ljósnæmi. Allt yfirborð húðarinnar og ýmislegt sem kann að leynast undir yfirborði hennar getur búið yfir ljósnæmi og þetta ljósnæmi getur ekki einskorðast við sjónina. Til er sérstök risskennd mynd af ljósnæmum líffærum sem við getum séð í húðblettum og freknum. Í auganu eru litarefnin í fullri virkni sem er óendanlega flókin, þau virka innan augans til dæmis í formi rodopsina (ljósnæmt eggjahvítuefni) og virka einnig í hinum ólíku lögum nethimnunnar.

Þetta litarefni kemur og fer samkvæmt virkni sem er ekki alltaf skynjanleg eða ljós, en bendir öll á dýptina, flækjustigið og jafnframt á heildstæða samvirkni móttökutækjanna fyrir ljósið.

Samband hugverunnar og þess sem snertir ljósið virðist þannig vera margrætt. Þið sjáið það annars á uppdrætti þríhyrninganna tveggja sem umsnúast um leið og þeir eru felldir saman. Þeir gefa þannig fyrstu myndina af samfléttunni, og krosstengslunum (chiasma) sem ég minntist á áðan og liggur til grundvallar umfjöllunarefnis okkar.

Ég ætla að segja ykkur svolitla dæmisögu til að bregða ljósi á þessi tengsl sjálfsverunnar og ljóssins, til að sýna að staður þeirra er víðs fjarri þeim geometríska punkti sem sjónfræðin kenna okkur.

Þetta er sönn saga. Hún átti sér stað þegar ég var um tvítugt, og sem ungur menntamaður á þeim tíma hafði ég ekki önnur áhyggjuefni en að fara eitthvað burt, að einhenda mér í einhver áþreifanleg verkefni, sveitastörf, dýraveiðar eða fiskirí.

Dag einn var ég staddur á bátkænu með nokkrum einstaklingum sem voru úr fiskimannafjölskyldu í litlu sjávarplássi. Á þeim tíma var okkar Bretagne-hérað ekki enn orðið að háþróuðu iðnaðarsamfélagi, ekki heldur í útgerðinni. Fiskimaðurinn tók sjálfur áhættuna af veiðunum á bátkænu sinni. Það heillaði mig að deila þeirri áhættu með þessu fólki, en það var ekki alltaf vá fyrir dyrum, það voru einnig blíðviðrisdagar. Það var sem sagt dag einn á meðan við biðum þess að draga upp netin að þessi Jói litli, við getum kallað hann því nafni – hann dó skömmu síðar eins og öll fjölskyldan af völdum berklanna, á þessum árum voru berklarnir útbreiddir og náðu til allra þjóðfélagshópa – Jói litli benti mér á svolítið sem flaut í öldufaldinum. Það var lítil dós, nánar tiltekið sardínudós. Þarna flaut hún í sólskininu, vitnisburður um niðursuðuiðnaðinn sem við vorum reyndar að vinna fyrir. Það glampaði á hana í sólinni. Og Jói sagði við mig: Sérðu þessa dós? Sérð‘ana? Gott og vel, en hún sér þig ekki!

Honum fannst þetta atvik afar fyndið, mér síður. Ég hef reynt að skilja hvers vegna ég kunni ekki að meta þessa fyndni. Það er afar lærdómsríkt.

Í fyrsta lagi þá er skilyrði þess að vit sé í því sem Jói sagði mér, fólgið í því að dósin horfir á mig (me regard hefur tvíþætta merkingu: horfir á mig / kemur mér við). Hún horfir (regard) á þeim upplýsta punkti þar sem allt er að finna sem horfir á mig (me regard). Þetta er engin myndlíking.

Þungaviktin í þessari dæmisögu eins og hún varð til í uppátæki félaga míns –  og sú staðreynd að honum fannst hún fyndin en ekki mér, átti sínar ástæður.  Úr því að hann var að segja mér svona sögu, þá var það vegna þess að á þessum tímapunkti hafði ég sett mig inn í mynd þessa fólks sem dró fram lífið með erfiðismunum í stöðugum átökum við það sem í þeirra augum var hin óblíða náttúra, eins og ég væri lítillar frásagnar verður. En ég var þó engu að síður blettur í myndinni. Þarna lá ástæðan fyrir því að mér var alls ekki skemmt við að fá framan í mig fyndna og kaldhæðnislega spurningu af þessu tagi.

Ég lít hér á myndbygginguna frá sjónarhóli frumlagsins / sjálfsverunnar, en hún endurspeglar eitthvað sem er þegar fyrir hendi í því náttúrlega sambandi sem augað meðtekur gagnvart ljósinu. Ég er ekki bara sú vera sem hefur hlutverk punktsins í hinu geometríska fjarvíddarskyni. Myndin málar sig augljóslega í botni auga míns. En ég, ég er í myndinni.

Það sem er ljós horfir á mig (me regard) , og þökk sé þessu ljósi í botni auga míns er eitthvað sem málar sig. Þetta eitthvað er ekki bara tilsniðið samband, hluturinn sem heimspekingurinn tefst við, – heldur er það hughrif og tilfinning, glampi frá yfirborði sem er ekki fyrir fram til staðar fyrir mig, staðsett í tiltekinni fjarlægð. Hér er eitthvað í gangi sem virkjar það sem hefur verið þurrkað út úr hinni geometrísku frásögn – dýpt sjónsviðsins með allri þeirri tvíræðni sem það hefur til að bera, með breytileika sem er með öllu utan míns yfirráðasvæðis. Það er öllu heldur dýpt sjónsviðsins sem hefur heltekið mig og ýtt stöðugt við mér og gert úr landslaginu eitthvað allt annað en fjarvíddarmynd, eitthvað allt annað en það sem ég hef kallað málverkið.

Samsvörun myndarinnar sem við staðsetjum á sama stað og hún fyllir,  það er að segja fyrir utan, er áhorfspunkturinn. Það sem tengir þetta tvennt saman, það sem er á milli þeirra, er eitthvað sem er annars eðlis en hið sjónfræðilega rými flatarmálsfræðinnar, eitthvað sem gegnir þveröfugu hlutverki, eitthvað sem virkar ekki til þess að vera gegnsætt, heldur þvert á móti,  virkar vegna ógagnsæis síns,  og er skermurinn.

Það sem birtist mér sem rými ljóssins, það sem er áhorf, felur alltaf í sér vissan leik ljóss og ógagnsæis. Það er alltaf þessi ljósglampi sem áðan var miðpunktur dæmisögu minnar, hann er alltaf það sem í sérhverjum punkti bindur mig við að vera skermur, skermur sem lætur ljósið birtast mér sem ljósblik er flæðir út yfir mörkin og vex mér í augum. Svo ekkert sé dregið undan: áhorfspunkturinn á alltaf hlutdeild í tvíræðni skartgripsins.

Og ég, ef ég er eitthvað í málverkinu, þá er ég einnig í formi skermsins sem ég kallaði áður blett.

 

2.

Þannig eru tengsl sjálfsverunnar (soggetto, sujet) við verksvið sjónarinnar. Hugtakið sujet ber ekki að skilja hér í hinum hefðbundna skilningi sem hið huglæga – hér er ekki um ídealískt samband að ræða. Sú heildarsýn (það yfirflug) sem ég kalla sujet og ég tel að gefi málverkinu inntak, er ekki einföld yfirsýn sem byggir á einfaldri framsetningu.

Það eru ýmsar leiðir til þess að misskilja þetta hlutverk sjálfsverunnar (sujet) þegar kemur að sýningarþættinum (ambito dello spettacolo).

Vissulega höfum við skilgreind dæmi um hvað gerist á bak við sjónhimnuna í Fyrirbærafræði skynjunarinnar[i]. Út frá ríkulegri heimildaöflun dregur Merleau-Ponty  fram mjög athyglisverðar staðreyndir út frá djúpri greiningu, staðreyndir sem sýna meðal annars að einungis með því að hylja með skermi hluta af sviði sem virkar sem uppspretta tiltekinnar litasamsetningar er hægt að gjörbreyta litasvæðinu, með yfirbreiðslu sem byggir til dæmis á tveim skífum er snúast hver á eftir annarri og eiga þannig að miðla sérstökum litatón – þegar skermur hylur hluta af fyrirbærinu gjörbreytir það litasvæðinu sem um ræðir. Hér sjáum við hreina huglæga virkni í hefðbundnum skilningi hins subjektífa / huglæga, þar sem sá leikur með ljós sem stuðst er við í tilrauninni breytir hinni huglægu skynjun (subjektsins).

Annað dæmi sem vert væri að staldra við  – og einnig hefur með huglæg (subjektíf) viðbrögð að gera, en þó með ólíkum hætti, varðar endurskin frá ólíkum litaflötum. Setjum til dæmis gulan flöt við hlið flatar sem er blár. Þegar blái flöturinn fær á sig endurskin frá gula fletinum breytist hann. En auðvitað er allt sem varðar liti huglægt (subjektift) – engin hlutlægur samanburður leyfir okkur að binda litinn við lengd ljósbylgjanna, eða ljóstíðnina sem verður við þessar aðstæður. Hér er um eitthvað huglægt að ræða, af allt öðrum toga.

Er þetta allt og sumt? Er það þetta sem ég á við þegar ég tala um afstöðu sjáandans (soggetto / sujet) til þess sem ég hef kallað málverk? Auðvitað ekki.

Afstaða áhorfandans (soggetto) til málverksins (eða myndarinnar) hefur verið til rannsóknar hjá vissum heimspekingum, en sem hliðarverkefni ef svo mætti segja. Þið skuluð lesa bók Raymond Ruyer sem ber heitið Neo-finalisme (frá 1952) og þið munið sjá hvernig hann finnur sig knúinn til að staðsetja áhorfandann (soggetto / sujet) í algildu yfirflugi (yfirsýn) þegar hann reynir að staðsetja skynjunina innan ramma tiltekinnar markhyggju eða ásetnings. Engin nauðsyn kallar á staðsetningu áhorfandans (soggetto) í algildu yfirflugi ef einungis á að skilja  hvað felist til dæmis í skynjun á einföldu skákborðsmynstri sem í kjarna sínum byggir á  þeirri geometrísku sjónfræði sem við höfum fjallað um. Hér erum við í rými aðskildra hluta (partes extra partes), sem koma í veg fyrir inntöku hlutarins. Við slíkar aðstæður er hluturinn óbifanlegur.

Hins vegar er til svið fyrirbæranna sem er óendanlega miklu víðfemara en þeir sýnilegu punktar sem virðast í forgrunni. Slíkt svið hrífur okkur fyrir tilverknað eigin eðlis til hins algilda yfirflugs hugverunnar. Það er ekki vegna þess að við getum ekki fundið því stað sem það verður óhöndlanlegt. Til eru staðreyndir sem geta einungis raungert sig í sviði fyrirbæranna í gegnum þetta yfirflug (þessa yfirsýn) þar sem ég staðset sjálfan mig í málverkinu eins og blettur – það eru staðreyndir felubúnaðarins og hermilistarinnar (mimetismo).

Leonardo da Vinci: Lotning vitringanna frá 1481. Skissa að bakgrunni og ófullgert málverk. Uffizi-safnið í Flórens. Skissan sýnir rýmið sem „skákborðsmynstur“.……

[Hér er tveim síðum úr textanum sleppt sem fjalla um hermilist í heimi dýranna annars vegar og myndlistinni hins vegar, hvernig sum dýr skríðast dulbúningi til að líkjast umhverfinu, og hvernig málverkið dulbýr sig til að líkjast fyrirmynd sinni. Þessi kafli er að nokkru leyti útúrdúr þar sem vitnað er í rit eftir fræðimanninn René Caillois , Auga Medúsu. Samhengið í textanum heldur sér að mestu án þessa innskots sem reyndist ofraun þýðandans. Innsk þýð.]

……….

Sjálfur René Caillois  hefur fullvissað okkur um að tilfelli felubúningsins (mimetismo)  meðal dýranna séu hliðstæð því sem hjá manninum birtist sem myndlist. Einu andmælin sem hægt er að bera fram gegn þessu felast í því að þetta virðist gefa til kynna að myndlistin sé nægilega skýr til þess að geta notað hana til að skýra eitthvað annað.

Hvað er málaralistin? Engin tilviljun ræður því að við höfum kallað málverkið þá virkni þar sem hugveran verður að finna sjálfa sig sem slíka. En þegar mannleg hugvera einsetur sér að gera sér málverk, að virkja það sem byggir miðlægt á áhorfinu, hvað er þá að gerast?

Sumir segja að listamaðurinn vilji vera inntakið (soggetto) í málverkinu, og að málaralistin greini sig frá öðrum listgreinum í því að listamaðurinn vilji ná til okkar í verkinu sem hugvera (soggetto) og sem áhorf.

Aðrir hafa svarað þessu með því að leggja áherslu á gildi hlutarins sem afurð listarinnar.  Þessi tvö sjónarmið hafa meira og minna eitthvað til síns máls, en þau gefa örugglega ekki tæmandi svör.

Ég mun setja fram eftirfarandi tilgátu: það er öruggt mál að í málverkinu birtist alltaf eitthvað er varðar áhorfið.  Málarinn veit það mætavel. Hvort sem um er að ræða staðfestu eða umskipti í siðferðislegum efnum, rannsóknir eða útfærslu, þá felur val hans alltaf í sér tiltekið áhorf.

Þegar horft er á málverk, jafnvel af þeim sem eru gjörsneyddir því sem við almennt köllum áhorfsgáfu og byggir á tveim augum, þá höfum við það alltaf á tilfinningunni að til staðar séu, rétt eins og í fínasta víravirki, einhver þau sérkenni sérhvers málara sem gefi til kynna nærveru áhorfsins, jafnvel í málverkum sem sýna ekki vott mannlegrar nærveru eins og sjá má til dæmis í hollenskum eða flæmskum landslagsmyndum.

Ef við horfum á virkni málverksins  – með tilliti til þess áhorfanda sem málarinn leggur mynd sína fyrir, nánast sem gjöf – þá tengist hún virkni áhorfsins. Þetta samband felur samt ekki í sér áhorfsgildru eins og virðast kann í fyrstu.

Menn gætu ályktað sem svo, að málarinn hafi sömu löngun og leikarinn til þess að á hann sé horft. Ég hef ekki trú á því. Ég held að um sé að ræða samband við áhorf þess sem hefur til að bera skilning, en að sambandið sé flóknara. Málarinn gefur þeim sem stendur andspænis verki hans eitthvað, sem að minnsta kosti í stórum hluta myndlistarinnar mætti orða sem svo: Viltu sjá? Jæja, þá skaltu horfa á þetta!

 Hann gefur augunum eitthvert fóður, en býður jafnframt áhorfandanum að fela í verkinu eigið áhorf, rétt eins og menn leggja frá sér vopn. Þetta er hinn friðþægjandi og appollóníska virkni málverksins. Eitthvað er borið fram sem gjöf, ekki fyrst og fremst til áhorfsins, heldur til augnanna, til einhvers sem felur í sér að við leggjum frá okkur áhorfið, rétt eins og til geymslu (eins og að leggja frá sér vopnin. -innsk. Þýð.).

Vandinn er hins vegar sá að einn geiri myndlistarinnar greinir sig frá þessari virkni. Það er málaralist expressíónistanna. Það sem greinir þessa tegund málaralistar frá öðrum gerðum hennar leiðir til einhvers konar fullnægju í þeim skilningi sem Freud leggur í orðið, þar sem um fullnægju hvatanna er að ræða, en það er tiltekin fullnægja sem áhorfið kallar eftir.

Með öðrum orðum þá þurfum við hér að velta fyrir okkur virkni augans sem líffæris. Okkur er sagt að það sé virknin sem skapi líffærið. Það er hrein fjarstæða, hún skýrir það ekki einu sinni. Allt sem virkar í líkamanum sem líffæri birtist ávallt sem blanda óteljandi virknisviða. Við vitum að í auganu mætast mörg virknisvið. Helsta greiningarsvæðið er miðgróin í augnbotninum, hinn útvaldi punktur sundurgreinandi sjónar. Allt hitt gerist á yfirborði nethimnunnar, sem sérfræðingarnir hafa ranglega skýrt sem skynfæri rökkurskynjunarinnar (scotopica). Þar á krossvirknin (chiasma) sér hins vegar stað, því þetta er sagður sá hluti nethimnunnar er gefi möguleika á skynjun daufari birtuskilyrða, og feli í sér næmustu möguleika til ljósskynsins. Ef þið viljið sjá stjörnu af fimmtu eða sjöttu stærðargráðu, ef þið viljið sjá hana, þá eigið þið ekki að beina sjóninni beint að henni, heldur örlítið til hliðar. Það er þá sem hún getur birst ykkur. Þetta er Arago-fyrirbærið (sem felst í skarpara sjónskyni á jaðrinum miðað við miðsvæðið við dauf birtuskilyrði -innsk. Þýð.).

Þessi virknisvið augans eru ekki tæmandi um eðli líffærisins eins og kemur í ljós á beddanum og ákvarðar það sem sérhvert líffæri ákvarðar. (Beddinn = Legustaður skjólstæðings sálgreinisins? Lacan talar hér til nema í geðlækningum orðsins. Innsk. Þýð.)

Hin útbreidda villa um eðlisávísunina felst í að menn hafa ekki áttað sig á að það er eðlishvötin sem gerir okkur kleift að vinna eftir bestu getu úr boðflækju líffærisins. Við höfum mörg dæmi þess úr heimi dýranna að líkaminn láti undan ofvirkni og umframvirkni líffæranna. Hin meinta virkni eðlisávísunarinnar í sambandi líffærisins og líkamans virðist kalla á siðferðilegan skilning. Aðlögunarhæfni eðlisávísunarinnar vekur oft furðu og aðdáun. Það furðulega er að líkaminn geti gert eitthvað með líffæri sín.

Við sem höfum vitneskju um dulvitundina gerum okkur grein fyrir að hér er um sambandið við líffærið að ræða. Hér er ekki um að ræða sambandið við kynferðið, og varla um sambandið við kynfærin, að því gefnu að við getum lagt sérstaka merkingu í það hugtak – heldur sambandið við fallusinn[ii], að því leyti sem hann nær skemmra en hann ætti að geta gert í raunveruleikanum hvað varðar kynlífið. [Fallusinn eða reðurmyndin, sem er lykilatriði í Ödipusarkomplex Freuds, fær nýja vídd í sálgreiningu Lacans, þar sem hann er tákn nautnarinnar (φ=pí) sem er í raun óháð kynferði (sem tómur „nefnari“), um leið og „vönunarduldin“ (castration complex) er merki ófullnægðar löngunar og tákngerð hjá Lacan með merkinu (-φ) eða mínus pi. Innsk. þýð]

Það er einmitt vegna þess að þetta líffæri (fallusinn/augað) er miðlægt í reynslu dulvitundarinnar  – sem einkennist í sjálfsverunni af ófullnægju er stafar frá vönunarduldinni  (castration complex) – sem við þurfum að kanna að hvaða marki augað skuli vera í hliðstæðri aðstöðu.

Frá upphafi sjáum við i þeirri díalektík (því gagnvirka samtali) sem á sér stað á milli augans og áhorfsins, að ekki er neinni samkvæmni til að dreifa, heldur fyrst og fremst blekkingu. Þegar ég kalla eftir áhorfi í ástarsambandi er orsök ófullnægjunnar undantekningalaust falin í því  að þú horfir aldrei á mig frá þeim sjónarhóli sem ég sé þig.

Frá hinum sjónarhólnum segir þetta okkur hins vegar að það sem ég horfi á er aldrei það sem ég vildi sjá.

Filippo Lippi: Maður og kona horfast í augu, 1440

Þetta er það sambandið sem ég hef  áður fjallað um sem sambandið á  milli málarans og hins glögga áhorfanda.  Hér er um hreinan leik að ræða, trompe-l‘œil-leik (sjónblekkingarleik), hvað sem hver vill segja. Hér ekki um að ræða neina vísun í það sem við með óréttu köllum hið fígúratíva, ef menn vildu benda á einhverja undirliggjandi vísun í það sem við með óréttu köllum fígúratíft í málverkinu.

Í hinni fornu dæmisögu um  Zeux og Parrasíus var það merki um snilld Zeuxar að hafa málað vínber sem fuglarnir sóttu í. Hér var ekki lögð áhersla á að þessi vínber væru í einhverjum skilningi fullkomin, áherslan var öll á þá staðreynd að jafnvel augu fuglanna hefðu látið blekkjast. Það sjáum við af því að keppinautur hans, Parrasius, sigrar hann fyrir að hafa með snilli sinni getað málað tjald á vegginn, tjald sem var svo líkt tjaldi að þegar Zeux snéri sér að honum þá sagði hann: Jæja, láttu okkur nú sjá hvað þú hefur málað á bak við tjaldið.  Með þessum hætti var það sannað að hér snerist málið raunverulega um blekkingu augans, um trompe-l‘œil. Sigur áhorfsins yfir auganu.

Við munum halda áfram að fjalla um þessa virkni augans á næsta fundi okkar

Zeux og Parrasíus, koparstunga eftir j. Sanredam, 17. öld. Yfirbreiðsla málverksins  reyndist inntak þess.

Fyrirspurnir  frá  áheyrendum, sem voru nemendur Lacans í sálgreiningu:

  1. SAFOUAN: Ef rétt er skilið, þá hvílir augað sig á áhorfinu meðan það hugleiðir málverkið?

Ég vitna hér aftur í það gagnvirka samtal (díalektík) sem á sér stað á milli birtingarmyndarinnar og handanveru hennar með því að segja að handan birtingarmyndarinnar finnum við ekki hlutinn í sjálfum sér, heldur áhorfið. Það er í þessu (gagnvirka) sambandi sem augað er staðsett sem líffæri.

  1. SAFOUAN: Handan birtingarinnar, er þar að finna skort áhorfsins?

Að því marki sem hvatirnar virka á hinu sjónræna sviði þá er um að ræða þá sömu virkni viðfangsins (lítið) a, sem við getum fundið á öllum öðrum sviðum.

Viðfangið a er nokkuð sem hugveran (soggetto) hefur skilið sig frá sem líffæri til að  staðfesta sjálfa sig. Það samsvarar tákni skortsins, það er að segja tákn fallusarins (reðursins), reyndar ekki tákn fallusarins sem slíks, heldur tákn þess skorts sem hann veldur (-φ; innsk . þýð.). Því er nauðsynlegt að til staðar sé hlutur sem er í fyrsta lagi aðskiljanlegur og tengist í öðru lagi skortinum. Ég mun brátt leiða í ljós það sem ég vildi sagt hafa.

Að því marki sem hugveran (soggetto) hefur skilið sig frá viðfanginu þá skiptir það engu máli í mæltu máli. Í huglægri anorexíu er það sem barnið borðar tómið. Reynið að skilja út frá þessari samlíkingu hvernig viðfang aðskilnaðarins kann að virka á sviði vönunarinnar sem sviptir.

Á hinu anala sviði (endaþarmssviðinu)er þetta staður myndlíkingarinnar – einn hlutur fyrir annan, að gefa saur í stað fallusar. Skiljið þið hér hvers vegna endaþarmshvötin er svið oblátuháttarins, svið gjafmildinnar. Þar sem við lendum í ófyrirsjáanlegum aðstæðum, þar sem menn geta ekki vegna skortsins gefið það sem ber að gefa, er ávallt til staðar varasjóður einhvers annars. Það er af þessari ástæðu sem maðurinn innritar sig á svið hins anala (endaþarmssviðið) í siðferðilegu tilliti. Þetta á sérstaklega við um efnishyggjumenn.

Þegar við erum á hinu sjónræna sviði erum við ekki á sviði spurningarinnar, heldur á sviði löngunarinnar, löngunarinnar eftir Hinum. Sama gildir um hið ákallandi hvatasvið, sem stendur næst reynslu dulvitundarinnar.

Almennt getum við sagt að samband áhorfsins og þess sem við viljum sjá sé blekkingarleikur. Hugveran kynnir sig sem annað en hún er, og það sem henni er boðið að sjá er ekki það sem hún vill sjá. Í þessum skilningi getur augað virkað sem viðfangið a, það er að segja á sviði skortsins (-ϕ).

  1. mars 1964.

 

[i] M. Merleau-Ponty: Phénomenologie de la perception, Gallimard, Paris, 1945.

[ii] Fallusinn eða reðurmyndin, sem er lykilatriði í Ödipusarkomplex Freuds, fær nýja vídd í sálgreiningu Lacans, þar sem hann er tákn nautnarinnar (φ=pí) sem er í raun óháð kynferði (sem tómur „nefnari“), um leið og „vönunarduldin“ (castration complex) er merki ófullnægðar löngunar og tákngerð hjá Lacan með merkinu (-φ) eða mínus pi. Innsk. þýð)

%d bloggers like this: