Sigurður Guðmundsson

Tungumálið, náttúran, líkaminn og undirheimarnir

 Um leiðarþræði og samhengi í myndlist Sigurðar Guðmundssonar

Þessi umfjöllun um myndlist Sigurðar Guðmundssonar birtist upphaflega í hausthefti tímaritsins Skírnis árið 2004 undir yfirskriftinni „Myndlistarmaður Skírnis“. Hún er barn síns tíma. Greinin er tilraun til að rekja samhengi og þræði i hinum fjölskrúðuga myndlistarferli Sigurðar fram til þess tíma er greinin er skrifuð. Um leið endurspeglar þessi texti þá hugmyndalegu leiðbeinendur sem höfundur greinarinnar hafði fundið sér á þessum tíma í forsvarsmönnum formgerðarstefnunnar (Ferdinand Saussure), fyrirbærafræðanna (Heidegger og Merleau-Ponty), djúpsálfræðinnar (Freud, Jung, Bachelard og Hillman), allt höfundar sem eftir á að hyggja verðskulda trúlega dýpri skilning, ekki síður en hinn margbrotni og fjölbreytilegi listferill Sigurðar Guðmundssonar, sem eftir á að hyggja kallar á dýpri útfærslu þeirra hugmynda sem hér eru viðraðar.

 

Í ÞESSARI ritgerð verður leitast við að greina nokkur meginþemu á ferli Sigurðar Guðmundssonar sem myndlistarmanns og tengja þau við heimspekilegar hugmyndir úr samtímanum um tungumálið, líkamann, náttúruna og dulvitund mannsins. Rétt er að taka fram að hér er aðeins fjallað um myndverk Sigurðar en ekki ritverk hans, gjörninga eða kvikmyndir. Þá er rétt að taka fram að sú tilraun sem hér er gerð til að tengja verk Sigurðar við hina heimspekilegu umræðu, er alfarið á ábyrgð höfundar og byggir á samræðu hans við myndverk Sigurðar en ekki við listamanninn sjálfan.

Drengur og Landslag með pönnuköku

Frá fyrstu sýningu Sigurðar Guðmundssonar í Galleríi Súm 1969 eru tvö verk mér minnisstæðust: Landslag með pönnukökum og Drengur. Bæði verkin vitna um þá óþreyju sem blundaði í tíðarandanum á þessum tíma og dró í efa allar þær viðteknu og sjálfgefnu forsendur myndlistarinnar sem þá voru ríkjandi hvað varðaði fagurfræðilegt gildismat og hugmyndir um eftirlíkingu og tjáningu náttúrunnar í myndlistinni. Án þessa sögulega og tímalega samhengis verða þessi verk trúlega illskiljanleg, en um leið og þau bera með sér ungæðishátt listamanns sem var með þessari fyrstu sýningu sinni að skapa sér svigrúm á vettvangi hins íslenska listheims,  þá hefur það sem á eftir kom einnig orðið til þess að skýra og dýpka merkingu þessara verka, þar sem það hefur sýnt sig að þau marka upphaf annars og meira sem fylgdi í kjölfarið.

sigurdur-gudmundsson-ponnukokulandslag

Sigurður Guðmundsson: Landslag með pönnuköku 1969

Söguleg viðmið

Því má halda fram að Landslag með pönnuköku feli í sér tilvísun í málverk Ásgríms Jónssonar af Heklu og af Tindafjallajökli frá upphafsárum endurfæðingarinnar í íslenskri málaralist um aldamótin 1900, og með sama hætti má  finna í verkinu Drengur tilvísun í málverkið Kynþroskinn eftir norska málarann Edvard Munch frá árinu 1895. Þeir Ásgrímur Jónsson og Þórarinn B. Þorláksson innleiddu hugmyndaheim rómantíkurinnar hér á landi í upphafningu fjallahringsins og fagurblámans og Edvard Munch innleiddi expressíónisma og táknsæi í norræna myndlist með því að nota myndlistina til að tjá og túlka með beinum og allt að því líkamlegum hætti þá náttúru sem bjó innra með manninum og var í augum Munchs tilvistarleg og harmsöguleg þversögn.

Það væri að mínu mati mikill misskilningur að líta svo á að í þessu verkum Sigurðar væri fólgin gagnrýni á þessa mikilhæfu forvera hans í myndlistinni, þvert á móti held ég að hann hafi viljað undirstrika sögulegt mikilvægi þeirra um leið og hann vildi ráðast gegn þeirri viðteknu reglu að líta á fordæmi þeirra sem sjálfgefinn mælikvarða á allt annan samtíma, samtíma sem kallaði á nýja og gjörbreytta myndhugsun, nýtt myndmál.

Ásgrímur og Tindafjöllin

asgrimur-jonsson-tindafjallajokull

Ásgrímur Jónsson: Tindafjallajökull

Verkið Landslag með pönnuköku sýnir okkur eftirlíkingu fjallahringsins sem eins konar steypuhrúgöld með þrem toppum og votti af hvítum lit jöklanna og hinum sanna Íslandsbláma þeirra Ásgríms og Þórarins, en hæsti keilutindurinn hefur uppþornaða pönnuköku í stað jökuls. Fjallgarður þessi er innrammaður í gamlan og veðraðan gluggapóst með gleri, sem aframmar þannig landslagið eins og við værum að horfa út í gegnum gamlan glugga. Merking verksins verður ekki skilin nema í gegnum hina sterku landslagshefð íslenskrar málaralistar, sem einkennist af því að afmarka það svið náttúrunnar sem þótti sjónrænt tilþrifamikið innan ramma málverksins og endursýna það með lýsandi hætti á tvívíðum fleti léreftsins í því skyni að vekja tilfinningaleg viðbrögð áhorfandans, og nota þannig náttúruna til að koma á framfæri ákveðnum tilfinningalegum, fagurfræðilegum og siðferðilegum boðskap. Þessi aðferð kallar jafnframt á  að horft sé til náttúrunnar úr ákveðinni fjarlægð sem utanaðkomandi og fyrirfram gefins veruleika, er listamaðurinn/áhorfandinn mælir sig við eða speglar sig í. Hugveran og hlutveran eru hér aðskildir heimar, og framsetning rýmisins byggir í raun á hnitakerfi sem stundum er kennt við Evklíð eða Descartes og gengur út frá fyrirfram gefnu óendanlegu rými. Þetta er undirstrikað í hinni íslensku landslagshefð með þeirri athyglisverðu staðreynd að maðurinn er nánast undantekningalaust fjarverandi eða staðsettur í ímynduðu rými utan ramma myndarinnar. Hugvera mannsins og líkamleg návist hans eru nær alltaf utan við eða handan ramma og yfirborðs hins íslenska landslagsmálverks.

Í Landslagi með pönnuköku Sigurðar eru allar forsendur þessa rómantíska landslagsmálverks dregnar í efa og allur sá skilningur á sambandi manns og náttúru, sem liggur því til grundvallar. Þó er ekki boðið upp á annan valkost, heldur er hinni viðteknu aðferð og hinu hefðbundna gildismati misboðið. Þau hroðvirknislegu vinnubrögð sem virðast ríkja í þessu verki gegna hér ákveðnu hlutverki. Aðrir valkostir eða möguleikar á annarri nálgun náttúrunnar áttu eftir að koma fram í síðari verkum Sigurðar, sem þannig hafa undirstrikað og aukið gildi og þýðingu þessa verks.

Munch og Kynþroskinn

s-gudmundsson-drengur-1969

Sigurður Guðmundsson: Drengur, 1969

Hliðstæðar forsendur getum við fundið í verkinu Drengur, sem er eins og Landslag með pönnuköku hroðvirknislega unnið við fyrstu sýn. Illa frágenginn kassi úr notuðu mótatimbri er fylltur með tuskum og steypu, og myndar búk drengsins þar sem hann liggur á gólfinu. Fjalir, sem klambrað hefur verið saman, mynda fótleggi, en í stað höfuðs er myndarammi á uppsperrtum hálsi með hvítmáluðu gleri og á það dregnar línur sem gefa til kynna lýsandi sól yfir fjallstoppi. Handleggir eru engir, en á milli fótleggjanna er lóðrétt spýta með áfastri logandi ljósaperu, sem glöggur áhorfandi getur ímyndað sér að vísi til rísandi getnaðarlims drengsins. Segja má að logandi ljósaperan á spýtunni kallist á við sólina í myndinni, og með hóflegu hugmyndaflugi má þannig láta sér til hugar koma að verkið vísi til þeirrar ögurstundar, þegar ungir sveinar uppgötva kynhvöt sýna; en það er sú sama ögurstund og dregin er upp í hinu snjalla málverki Edvards Munch, Kynþroskinn frá árinu 1895, sem sýnir unglingsstúlku er situr nakin og skelfingin uppmáluð á rúmstokki sínum og horfir spurulum augum út í tómið eða í augu áhorfandans. Hún krossleggur hendurnar yfir samanpressuð lærin, eins og til að fela sköp sín, og hálfþroskaður líkami hennar varpar stórum skugga á bakgrunn myndarinnar. Þótt myndin sé í mörgum atriðum raunsæislega máluð þá vísar skugginn í allt annað en hin raunverulegu birtuskilyrði þessarar sviðsmyndar, hann verður uppblásið tákn um ógnvekjandi framtíð sem felur í sér ást, losta, sektarkennd og dauða. Hjá Munch er náttúran ekki upphafin, fjarlæg og draumkennd sviðsmynd, heldur býr hún innra með manninum sjálfum, í sál hans og líkama, sem dulið og ógnvekjandi afl. Fyrirbæri náttúrunnar verða honum tákn um tilvistarlega þversögn og fyrirsjáanlegan harmleik mannlegrar tilvistar.

munch-kynthroskinn-1895

Edvard Munch: Kynþroskinn, 1895

Þessi magnaða táknhyggja verður Sigurði skotspónn í verkinu Drengur, ekki vegna þess að hin tilvistarlega þversögn sé endilega horfin úr samtímanum, heldur vegna þess að táknin megna ekki lengur að koma henni til skila með þeim meðulum sem Munch hafði úr að spila. Líkingamálið og táknin hafa orðið viðskila við merkingarmið sín í veruleika samtímans og megna ekki lengur að höndla þau myrku og óræðu öfl náttúrunnar sem Munch fann í líkama og sál mannsins. Táknhyggja Munchs er orðin sjálfvísandi í samtíma okkar, því táknin vísa aftur í sjálf sig og önnur tákn. Einungis viðmiðunarreglan getur staðfest innbyrðis gildi táknanna og gagnkvæmt skiptagildi þeirra. Tilvistarlegur eða harmsögulegur veruleiki mannsins er kominn út úr myndinni, hans verður að leita einhvers staðar annars staðar.

Tungumálið, náttúran og líkaminn

Þannig má segja að þessi verk Sigurðar fjalli bæði um möguleika eða öllu heldur vanmátt tungumáls myndlistarinnar til þess að vísa til og höndla frumspekileg grundvallargildi er varða samband manns og náttúru. Jafnframt vísa þau til tveggja um margt ólíkra sjónarhorna á þetta samband: annars vegar sjáum við náttúruna sem hlutlægt og opið svið sem er formlega aðskilið frá hinu huglæga sviði, og myndlistin reynir að lýsa utan frá séð, hins vegar höfum við náttúruna sem ógnvekjandi afl er býr innra með manninum sjálfum, jafnt í líkama hans og sál. Hjá Munch blasir það við að maðurinn er óhjákvæmilega sjálfur hluti náttúrunnar, og að sjálfsskynjun líkamans er forsenda fyrir allri skynjun náttúrunnar og hins ytra rýmis hennar. Unglingsstúlkan á rúmstokknum er lömuð af skelfingu andspænis þessari uppgötvun. Að náttúran búi í líkama hennar sjálfrar, en ekki í blámóðu fjallanna. Í verki Sigurðar birtist þessi skelfing varla nema sem skrumskældur og fjarlægur endurómur frá verki Munchs. Táknmál myndlistarinnar er orðið afstætt: á sama hátt og birtingarmynd náttúrunnar sem innrammað landslag er orðin klisja sem byggir á gömlum og vanabundnum viðmiðunarramma, þá verður sú birtingarmynd hennar sem felst í lýsingu og tákngervingu unglingsstúlkunnar á rúmstokknum að klisju í þeim samtíma þar sem táknmál myndlistarinnar hefur glatað hinu fortakslausa sambandi sínu við táknmið sitt og gildismunur táknanna hefur færst frá táknmiðinu eða veruleikanum til formgerðar tungumálsins.

Tungumálið og formgerðarstefnan

s-gudmundsson-ljod-lestur-hestur-1972

Sigurður Guðmundsson: Ljóð. Hestur og lestur, 1972

Sigurður fjallar um þennan vanda í öðrum verkum frá svipuðum tíma, þar sem spurningar um samband orða, táknmynda og veruleika eða táknmiðs koma við sögu. Rétt eins og tákn myndlistarinnar voru orðin sjálfstæður og sjálfvísandi veruleiki, þá gilti hið sama um orðin, sem þannig urðu eins og hin sjónrænu tákn myndlistarinnar gjaldgeng skiptimynt í eins konar innbyrðis formgerðarleik. Í þessum leik geta orðin orðið að skúlptúr ef því er að skipta (sbr. skúlptúrinn Þeir taka í nefið, þeir taka í nefið frá 1972) og hlutirnir myndað ljóð (sbr. verkið Átta ljóð frá 1971, en það birtist okkur sem innsetning á átta hlutum: inniskóm, lyklakippu, brauði, hamri, tóbakssdós, ryksugu, spilastokk og þríhjóli, sem stillt er upp í eina röð). Hér er hver hlutur skilgreindur sem sjálfstætt ljóð, og hefur þannig verið frelsaður úr fjötrum táknhyggjunnar. Merking hans felst í því að vera ljóð. Rím og formhefð ritlistarinnar fær einnig sína meðferð, til dæmis þar sem blesóttur hestur er látinn ríma við mann sem situr niðursokkinn í bóklestur í „ljóðinu“ Hestur og lestur frá 1972. Þetta ljóð er reyndar ljósmynd, en gæti eins verið heimild um gjörning, þar sem þessir formeiginleikar ljóðsins eru sviðsettir með lifandi blesóttum hesti, sem stendur fyrir orðið hestur og rímar þannig við lesandi mann sem stendur fyrir orðið lestur. Í stað þess að fella veruleikann undir formreglur tungumálsins (ljóðlistarinnar) er veruleikinn tekinn bókstaflega sem formgerð tungumálsins (ljóðlistarinnar). Niðurstaðan verður þversagnarkennd afhjúpun viðtekinna hugmynda um samband táknmálskerfa og þess veruleika sem þeim er ætlað að vísa til. Með þessum verkum var Sigurður í raun að enduróma og túlka hugmyndir sem voru áberandi í allri umræðu um merkingarfræði og formgerðarstefnu eða strúktúralisma á þessum tíma, og eru gjarnan raktar til svissneska málvísindamannsins Ferdinands de Saussure. Mikilvægt atriði í þeim hugmyndum var sambandið á milli táknmyndar og táknmiðs og hvernig táknmyndir virka innan tiltekins táknmálskerfis. Þessar hugmyndir gegndu mikilvægu hlutverki í þróun allrar hugmyndalistar á síðari hluta 20. aldarinnar, og má segja að Sigurðar hafi orðið virkur þátttakandi í þeirri hreyfingu á þessum tíma á sinn sérstæða og persónulega hátt.

Tungumálið og ljósmyndin

Margt bendir til þess að það hafi einmitt verið þessar vangaveltur sem leiddu Sigurð inn á svið ljósmyndarinnar, þar sem hann átti eftir að opna nýja sjóndeildarhringi og yfirstíga ýmis þau vandamál, sem hann var að glíma við á sviði hugmyndalistarinnar. Fyrstu ljósmyndir Sigurðar eru einmitt eins konar heimildir um sviðsetningu aðstæðna er byggja á formgerðarstefnunni. Ljósmyndin Horizontal thoughts frá árinu 1970-71 er dæmi um þetta, en hún sýnir bakmynd Sigurðar og bróður hans Kristjáns, þar sem þeir sitja í flæðarmálinu og horfa til hafs. Annar þeirra, Kristján, situr hærra á kassa, en hinn á berum sandinum. Báðir hafa þeir eins konar hugsanabólur festar á höfuðið, sem innihalda þverrákóttar öldulínur er merkja hafflötinn og tómarúm sem táknar himininn. Þær eru eins að öðru leyti en því að sjóndeildarhringurinn í hugsanabólunni fellur í báðum tilfellum að hinum raunverulega sjóndeildarhring hafsins, og þar sem Kristján situr hærra, þá hefur hann meira loft í sinni bólu, en Sigurður meira vatn. Kannski var þetta ómeðvitað á þessum tíma, en verkið fjallar ekki bara um samband tákns og táknmiðs í þessu tilviki, heldur má líka lesa úr því forspá um hvernig verk þessara snjöllu myndlistarmanna áttu eftir að þróast í ólíkar áttir frá þessum tímapunkti: annar byggði á heiðskírri rökhugsun dagsbirtunnar á meðan hinn laðaðist að vatninu og þeim dulmögnuðu og óræðu kenndum sem finna má í djúpi þess.

ARN

Sigurður Guðmundsson: Horizontal Thoughts, 1971

Líkaminn og ljósmyndin

Á árunum 1971-82 vann Sigurður fyrst og fremst að gerð ljósmyndaverka. Ekki þó þannig að hann hafi litið á ljósmyndina sem sjálfstæðan listmiðil í hefðbundnum skilningi, heldur þjónaði hún miklu fremur því hlutverki að skrásetja og túlka tilteknar aðstæður eða gjörninga, sem Sigurður skapaði með líkamlegri nærveru sinni. Svo virðist sem Sigurður hafi á þessum tíma fundið í ljósmyndagjörningnum leið til að yfirstíga þá þversögn sem hann hafði afhjúpað í verkunum Drengur og Landslag með pönnuköku frá 1969. Þau verk snerust um vanmátt táknmálskerfa myndlistarinnar gagnvart því viðfangsefni að túlka samband manns og náttúru á trúverðugan hátt. Í ljósmyndaverkunum tekst Sigurður á við þennan vanda með nýjum hætti, þar sem líkamleg nærvera hans sjálfs sem geranda í verkinu verður grundvallaratriði. Áherslan í þessum ljósmyndaverkum færist smám saman frá ofangreindum þversögnum tungumálsins, sem rekja má til formgerðarstefnunnar, að þeirri verufræðilegu eða tilvistarlegu ráðgátu sem opnast þegar við hættum að líta á tungumálið sem frumforsendu fyrir skilgreiningu rýmisins, en lítum þess í stað til líkamans og hinnar líkamlegu skynjunar. Spurningin snýst þá ekki lengur um það tungumál sem við notum til að skilgreina hið fyrirfram gefna eða hlutlæga rými annars vegar og hið huglæga rými ímyndunaraflsins hins vegar (þar sem í báðum tilfellum er gengið út frá tvíhyggju efnis og vitundar, sálar og líkama) heldur um þá ráðgátu sem opnast fyrir okkur þegar veran í líkamanum og hin líkamlega skynjun umhverfisins verða í sameiningu frumforsenda allra mynda okkar af rýminu og náttúrunni.

Fjöllin og myndir þeirra

s-gudmundsson-fjallatoppar-1967

Sigurður Guðmundsson: Fjallatoppar, 1967

Finna má dæmi um þessa þróun á ferli Sigurðar frá glímunni við merkingarfræði og táknmálskerfi tungumálsins yfir í verufræðilegar ráðgátur hinnar líkamlegu nærveru og skynjunar með því að bera saman tvö verk hans um fjöll: málverkið Fjallatoppar frá 1969 og ljósmyndaverkið Mountain frá 1980-82. Fyrra verkið er skematísk útfærsla á bláum fjallatoppum og regnboga, málað með þekjulit í hinum sígildu regnbogalitum. Öll fyrirbærin í myndinni eru síðan skýrð og merkt með orðunum sem þau vísa til, og eru þau rituð með barnslegri blýantsskrift inn í myndina eins og til að undirstrika að þessi myndræna útfærsla náttúrunnar vísi í raun í tungumálið en ekki náttúruna sjálfa. Tungumálið er hér frumforsendan en ekki náttúran eða líkaminn.

Ljósmyndaverkið Mountain sýnir okkur hins vegar fjallið sem upphlaðinn lagskiptan skúlptúr þar sem neðst eru tilhöggnir steinar úr grágrýti, síðan lag af tilsniðnu torfi, þá listamaðurinn sjálfur þar sem hann liggur láréttur eins og jarðlag og ofan á honum þrískiptur fjallstoppur: skópör yfir fótleggjunum, brauð yfir lærum og kviði og bækur yfir bringu og höfði. Þetta fjall er ekki bara tilbúningur tungumálsins með sama hætti og Fjallatoppar, það vísar dýpra. Það virðist um leið segja okkur að náttúran sé tilbúin hugmynd mannsins. Ef ekki væri maðurinn með lóðréttri líkamsstöðu sinni og sínum efnislegu og andlegu þörfum og væntingum, þá væri ekkert fjall. Jafnvel undirstöður þessa fjalls, berggrunnurinn og tilsniðið torfið eru tilbúin náttúra. Án veru mannsins í náttúrunni/heiminum er náttúran ekki til, og mynd okkar af náttúrunni er tilbúin á forsendum líkamlegrar skynjunar mannsins. Náttúran er í þessum skilningi afurð menningarinnar og allar hugmyndir okkar um ásetning og orsakalögmál í náttúrunni má rekja til líkamlegrar návistar og skynjunar mannsins.

tumblr_lrvxbbnx3j1qhqfw3o1_r1_1280

Sigurður Guðmundsson: Mountain, 1980 – 82

Tungumálið sem viðhengi náttúrunnar

Það margræða samband náttúrunnar, tungumálsins og líkamans sem hér hefur verið gert að umtalsefni er einnig viðfangsefni ljósmyndaverksins Attributes frá 1978 með athyglisverðum hætti (sjá forsíðumynd). Verkið sýnir Sigurð krjúpa á grasflöt og halda á jafnhyrndum þríhyrningi sem ber við gráan himin. Andlit hans og hluti af hári hans eru ötuð gulri málningu, en vinstri framhandleggur málaður rauður og blá óreglulega löguð klessa  er máluð á grasflötina, auk þess sem þar eru sár eftir torfristu sem mynda ferning og hring. Það sem við sjáum hér eru svokölluð geometrísk frumform og frumlitir litrófsins sem leitast hér við að tengja saman jörðina, líkama mannsins og himininn og gefa þeim merkingu. Það er fróðlegt að bera þetta verk saman við skýringarmyndina sem Leonardo gerði við hlutfallafræði Vitruviusar, þar sem hann teiknar manninn inn í hring og ferning. Mynd Leonardos á að sýna upphafna mynd hins fullkomna líkama, sem með hlutföllum sínum fyllir upp í fullkomnustu form geometríunnar og sköpunarverksins, ferning og hring sem eru merki himins og jarðar. Mynd Leonardos á þannig að skýra tengslin á milli míkrokosmos og makrokosmos, smáheimsins og alheimsins. Í anda húmanismans verður maðurinn þannig mælikvarði hinnar fullkomnu byggingar alheimsins innan ramma tungumáls flatarmálsfræðinnar.

Í verki Sigurðar hafa frumformin glatað sínum algildu táknmiðum, þau vísa í táknhefðina en ekki í hinar algildu forsendur sem eitt sinn lágu henni til grundvallar. Jörðin með sinni formlausu grasbreiðu, grár himininn og líkami Sigurðar eru áþreifanlega snortin af merkingu þessara grundvallargilda en hugmyndalega eru þessi tengsl rofin. Táknmálið sem eitt sinn lá til grundvallar miðlægri sýn mannsins á sjálfan sig í anda húmanismans sem kórónu og mælikvarða sköpunarverksins og herra jarðarinnar fellur nú inn í óreiðu heimsins sem hvert annað skynáreiti.

„Maðurinn hefur ekki líkama…“

Þrátt fyrir skilgreiningu hins kartesíska hnitakerfis á rýminu eigum við erfitt með að hugsa okkur rýmið og tímann án líkamans. Það er vegna skynreynslu okkar í gegnum líkamann sem við skiljum höfuðáttirnar og hugtökin upp og niður, hægri og vinstri, fram og aftur, svo dæmi séu tekin. Og gangverk sólkerfisins verður því aðeins mælikvarði á tímann að líkami okkar skynji taktinn í gangi himintunglanna í sjálfum sér og samhengið þar á milli. Spurningin snýst þá meðal annars um hvernig maðurinn fyllir tímann og rýmið með vitund sinni og líkama. Um þetta fjallar Martin Heidegger í athyglisverðum fyrirlestri, sem hann hélt í Kunstgalleri im Erker í St Gallen 1964 og kallaði Bemerkungen zu Kunst-Plastik-Raum. Heidegger reynir þar að yfirstíga tvíhyggju vitundar og líkama (eða efnis og anda) með því að skilgreina veruna í rýminu ekki sem hlutlæga staðreynd, heldur sem tímatengdan atburð. Heidegger telur það vera séreinkenni mannsins að hann fylli rýmið með öðrum hætti en til dæmis stóll í herbergi eða vatn í vatnsglasi. „Maðurinn takmarkast ekki við yfirborð líkama síns“ segir Heidegger. „Ef ég er hér, þá er ég hér sem manneskja einungis að því tilskyldu að ég sé samtímis þarna við gluggann, en það þýðir líka þarna úti á götunni og úti í þessari borg, í stuttu máli að ég sé til í tilteknum heimi. Og ef ég geng að dyrunum, þá flyt ég ekki líkama minn að dyrunum, heldur breyti ég dvöl minni, hinni viðvarandi nánd minni og fjarlægð frá hlutunum, víðáttunni og nándinni sem þeir birtast í.“

Hvað felur þessi athugasemd í sér? Heidegger vill hvorki líta á rýmið sem hlutlæga ytri staðreynd, né heldur sem huglæga sýn. Ekki frekar en líkama mannsins. „Maðurinn hefur ekki líkama og er ekki líkami, heldur lifir hann líkama sínum[2], segir hann, og sem slíkur fyllir hann rýmið og tímann með mótaðri afstöðu til hlutanna og náungans. Það er einungis vanahugsun tungumálsins sem hefur leitt okkur inn á þá braut að greina á milli líkama okkar, vitundar og þess rýmis sem líkaminn og vitundin fylla eins og um aðskild fyrirbæri væri að ræða. Rýmið þarfnast líkama mannsins til þess að raungerast í tímanum með sama hætti og líkaminn þarfnast vitundar okkar og viðveru til þess að vera í rýminu sem annað og meira en dauður hlutur eða lík.

Rendez-vous

s-gudmundsson-rendez-vous-1976

Sigurður Guðmundsson: Rendez-vous, 1976

Vart er hægt að finna hentugri og ljósari mynd til að skýra þessa torræðu hugmynd Heideggers um samband vitundar, líkama, tíma og rýmis en ljósmyndaverk Sigurðar, Rendez-vous frá 1976. Þar sjáum við Sigurð standa í holu, sem hann hefur grafið niður í grasi vaxna sléttu, sem teygir sig út að jafnsléttum sjóndeildarhring. Sigurður stendur með skóflu í hönd fulla af mold, hálfur ofan í holunni þannig að höfuð hans ber við himin rétt ofan sjóndeildarhringsins. Hann horfir á moldarhauginn sem hann hefur mokað upp, og á milli höfuðsins og hrúgunnar er lögð mælistika sem sýnir lárétta stöðu og jafna hæð höfuðsins og haugsins miðað við sjóndeildarhringinn.

Líkaminn staðfærir sig hér í rýminu með viljabundnum verknaði þar sem skóflan verður mynd tækninnar sem eins konar framlenging á líkama og ásetningi mannsins. Maðurinn skilgreinir hér rými sitt og umhverfi með líkamanum, tækninni og ásetningi sínum og hefur að þessu leyti sérstöðu miðað við dýrin (sem laga sig að náttúrunni en skilgreina hana ekki) eða miðað við dauða hluti, sem eru án ásetnings og því án viðmiðs. Í myndinni er mælistikan viðmiðið sem tengir líkamann, ásetninginn, verknaðinn og rýmið saman með táknrænum hætti. Ásetningurinn verður til í gagnvirku sambandi líkamans og umhverfisins. Hann kemur ekki frá einhverri sál sem á sér tímabundna viðdvöl í hylki líkamans og stýrir honum eins og vél, eins og okkur hefur verið kennt allt frá dögum Platons, heldur verður hann til í því gagnvirka og spennuþrungna sambandi líkamans og umhverfisins sem við getum kallað vitund og ásetning. Sú staðreynd að dýpt holunnar í myndinni og hæð haugsins mætast í beltisstað Sigurðar undirstrikar einungis hlutverk verunnar í líkamanum sem mælikvarða þess rýmis sem hann fyllir með verund sinni.

Sjóndeildarhringurinn

s-gudmundsson-study-for-horizont1977

Sigurður Guðmundsson: Study for Horizon, 1975

Sjóndeildarhringurinn er greinilega áleitið viðfangsefni í ljósmyndaverkum Sigurðar. Á þessum árum bjó hann í Hollandi þar sem landslag er flatt, enda láréttur sjóndeildarhringur sléttunnar og hafflatarins sígilt þema í hinni miklu hefð hollenskrar landslagslistar. Sú hefð byggir fyrst og fremst á eftirlíkingu í nafni lýsandi raunsæis er lítur á hið ytra rými sem fyrirfram gefna staðreynd óháða verunni.[3] Ekki er fráleitt að ímynda sér að þessi tengsl Sigurðar við hollenska náttúru og listhefð hafi sett mark sitt á verk hans, en hitt er jafn ljóst að sá sjóndeildarhringur sem hann styðst við gegnir ekki lýsandi hlutverki samkvæmt hinni lýsandi raunsæishefð, heldur gegnir hann því hlutverki að túlka þá gagnvirku spennu sem líkamleg vera mannsins og ásetningur framkalla í rýminu. Myndin Study for horizon frá 1975 er dæmigerð fyrir þetta, en þar hefur Sigurður stungið um 2 m löngum teinréttum bjálka niður í sandinn í flæðarmálinu þannig að hann myndar um 65° horn við fjöruborðið og sjóndeildarhring hafsins. Síðan tekur hann sér stöðu andspænis bjálkanum teinréttur með hendur að síðum og hallar sér að bjálkanum í nákvæmlega sama gráðuhalla, og storkar þar með þyngdaraflinu. Þótt myndin gefi til kynna kyrrstöðu vitum við að fallið er ekki bara óumflýjanlegt heldur í rauninni hafið. Myndin sýnir okkur hvernig hugtökin lárétt og lóðrétt verða afstæð gagnvart líkamanum og ásetningi hans sem mælikvarða rýmisins og þyngdaraflsins.

Að opna það sem er hulið og hylja það sem er opið

Í framhaldi fyrrnefndra orða Heideggers um tengsl líkamans, verunnar, tímans og rýmisins er fróðlegt að skoða ljósmyndaverk eins og Rendez-vous og Study for horizon út frá þeim hugmyndum sem Heidegger setur fram í ritgerð sinni um uppruna listaverksins. Í viðleitni sinni við að brjóta upp hina frumspekilegu tvíhyggju, sem gjarnan er rakin til Descartes, reynir hann að hugsa forsendur og tilurð listaverksins í nýjum hugtökum. Í stað þess að líta svo á að listaverkið leiði okkur inn í einhvern tiltekinn heim, eins og gjarnan er sagt, þá orðar hann það þannig að listaverkið opni nýjan heim og nýja möguleika er feli í sér nýja heildarsýn á veruna. Með sínu torskilda orðafari segir Heidegger að listaverkið geri sannleikann virkan, en hugtakið sannleikur er hjá honum tímatengt fyrirbæri er tengist verunni sem atburður, en ekki sem skýrt afmörkuð og áþreifanleg staðreynd. Sannleikurinn birtist í verkinu, segir hann, eins og togstreita á milli afhjúpunar og yfirbreiðslu, eða eins og barátta á milli Heims og Jarðar. Þessi barátta felur jafnframt í sér einingu þessara andstæðna, þar sem ljósið verður ekki til án myrkurs, opinberun ekki til án þess að eitthvað sé hulið.[5] Trúlega er öll heimspeki Heideggers um listina og uppruna hennar eins konar myndlíking og leikur að orðum, og hefur þannig til að bera ýmsa eiginleika skáldskaparins, en því er ekki að leyna að það er einhvern skyldleika að finna með þessari myndlíkingu og þeim sviðsettu atburðum sem finna má í ljósmyndum Sigurðar, þar sem kjarni málsins birtist í einingu þess sem við sjáum og þess sem er hulið: með gjörningum sínum opnar Sigurður heim sem birtist í spennu sem myndast á milli líkamans og þess rýmis sem hann skapar með veru sinni. Listamaðurinn birtist okkur jafnframt sem gerandi í verkinu í tvennum skilningi: sá sem er sýndur í myndinni og sá sem stendur ósýnilegur á bak við linsuna og sviðsetur myndverkið innan ramma myndarinnar. Myndavélin er á milli ljósmyndarans og viðfangsins og „tekur í báðar áttir“ eins og Wim Wenders orðaði það. Um leið og hún myndar viðfang sitt myndar hún sýn ljósmyndarans á það, og sú sýn stýrir jafnframt áhorfi okkar eða leiðir það. Um leið og við sjáum gjörning listamannsins á myndinni sjáum við sýn hans og túlkun á sama gjörningi í gegnum ljósmyndalinsuna. Þannig eru þessar myndir tvöfaldar í roðinu, ef svo mætti að orði komast. Hvar er það sem við sjáum í þessum ljósmyndum? Er það staðsett í yfirborði ljósmyndarinnar? Á það sér hlutbundinn stað í náttúrunni? Er það fólgið í hinum spennuþrungnu átökum listamannsins í myndinni við umhverfi sitt og sjóndeildarhring? Eða er það staðsett í hugsun þess ósýnilega auga sem stýrir linsunni? Samkvæmt skilningi Heideggers er það á engum þessara staða, myndin opnar nýjan heim sem felst í möguleika nýrrar skynjunar á rýminu. Við horfum ekki á myndina sem hlut, heldur verður myndin eins konar leiðarvísir fyrir sjónskyn okkar og áhorf í þeim tilgangi að opna fyrir okkur nýja sýn á heiminn.Við horfum með myndinni.

Að sjá, sýnast og sjást

Spurningin um staðsetningu þess sem við sjáum í myndinni vekur upp eina af ráðgátum sjónskynsins, sem Maurice Merleau-Ponty hefur bent á að felist í því að líkami okkar er hvort tveggja í senn sjáandi og sýnilegur líkami. Augað og líkaminn eru efnislegir hlutir, rétt eins og það sem við sjáum í umhverfinu, og verða því ekki aðgreind frá því með einföldum hætti. Líkaminn sér sjálfan sig um leið og hann sér umhverfið og hann sýnir sig líka um leið og hann sér. Líkaminn er því í gagnvirku sambandi við umhverfi sitt, hann sér sig horfandi, hann snertir sig snertandi og skynjar sjálfan sig um leið og hann skynjar umhverfið. Þetta kallar Merleau-Ponty hina ódeilanlegu samlögun (communion) skynjandans og hins skynjaða.[7] Fyrir Ponty er hin líkamlega skynjun frumforsendan, ekki tungumálið. Þess vegna segir hann meðal annars að deilan á milli þeirra sem aðhyllast lýsandi raunsæi og þeirra sem aðhyllast abstrakt tjáningu sé byggð á misskilningi. Ponty segir það sannleikanum samkvæmt og án mótsagnar að halda því fram að ekkert vínber hafi nokkurn tímann verið það sem það er í málverki, hversu raunsæislega sem málarinn hafi staðið að verki. Rétt eins og það sé réttmætt að halda því fram að hversu abstrakt sem myndverkið er, þá verði það aldrei undanskilið veru listamannsins, og því sé vínber Caravaggios sjálft vínberið. Þessar fullyrðingar eru án mótsagnar, segir Ponty, og rökstyður það mál sitt með þeirri staðhæfingu að forgangsröðun þess sem er fram yfir það sem er sýnt, eða forgangsröðun þess sem er sýnt fram yfir það sem er, „er sjónin sjálf“. Sjónin „er það meðal sem mér er gefið til þess að vera utan við sjálfan mig, til þess að geta aukið á staðfestu verunnar innan frá, svo að ég geti á endanum horfið inn í sjálfan mig.“ Um leið og við opnum augun gagnvart umhverfinu opnum við sjálf okkur. Augun eru ekki bara móttökutæki (eins og t.d. eyrun), þau eru gluggi sálarinnar eins og Leonardo orðaði það, og þegar við horfum erum við bæði utan og innan líkamans í sama augnablikinu.

Þessar heimspekilegu vangaveltur Maurice Merleau-Ponty um fyrirbærafræði sjónskynsins hljóma eins og endurómur þeirra tilrauna sem Sigurður Guðmundsson gerði með ljósmyndaverkum sínum, og svo virðist sem uppgötvun hans á þessum tvíræða leik ljósmyndagjörningsins hafi á endanum orðið honum að of augljósri niðurstöðu. Hann hætti að gera ljósmyndir og leitaði annað og dýpra, frá hinum tvíræðu og þversagnakenndu spurningum um líkamann og sjónskynið inn á þau mæri þar sem efnisheimurinn og draumheimarnir mætast í ímyndunaraflinu. Á því ferðalagi urðu til skúlptúrar, umhverfisverk og gjörningar sem bera vott um ríkt ímyndunarafl og óvenju næma innsýn í efnisheiminn og undirheimana sem fylla dulvitund mannsins og draumheima hans.

Lárétt sýn og lóðrétt

Ef við segjum um skúlptúra, umhverfisverk og málverk Sigurðar frá níunda og tíunda áratugnum, sem fylgdu í kjölfar ljósmyndaverkanna, að með þeim hafi hann horfið frá hinni heiðskíru rökræðu um tungumálið, líkamann og rýmið, þar sem hinn dagsbjarti sjóndeildarhringur er stöðugt nálægt viðmið, inn í hin myrku djúp næturinnar og hinna óræðu drauma, þá er ekki átt við þann skilning sem finna má hjá upphafsmönnum djúpsálarfræðinnar um aldamótin 1900, að draumarnir birti okkur táknmál bældra hvata er þurfi að draga fram í dagsljósið í nafni nýrrar og æðri rökhyggju og túlkunarfræða. Það draumkennda og órökvísa í þessum verkum stendur ekki fyrir bældar langanir og hvatir í þeim skilningi sem Sigmund Freud hélt fram í grundvallarriti sínu um túlkun drauma frá árinu 1899. Öllu heldur er hér um að ræða ferðalag inn í efnislausan veruleika draumaheims myndanna þar sem sýnirnar birtast okkur á sínum eigin forsendum sem sjálfstæður veruleiki af ætt draumsins.

sgudmundsson-het-grote-gedicht

Sigurður Guðmundsson: Het Grote Gedicht 1980-81

Þetta tímabil á ferli Sigurðar er venjulega talið hefjast með Het Grote Gedicht (eða Hinu Mikla Ljóði) frá árunum 1980-81. Þar sjáum við þrjá hvíta píramíða á gólfi með áfasta uppstoppaða svanahálsa, og er raðað upp eins og í oddaflugi, þótt hálsarnir séu frekar reistir en á láréttu flugi. Þetta er draumkennd mynd sem vekur sterk viðbrögð án þess að við getum í raun túlkað hana í orðum á forsendum hefðbundinnar rökvísi. Öll útskýring verður til þess að vængstýfa flug verksins, sem engu að síður kallar fram andstæður náttúru og menningar, reglu geometríunnar og uppreisnargjarna óreiðu náttúrunnar. Augljós tengsl þessa verks við ljósmyndaverkið Mathematics frá 1979, þar sem Sigurður situr á hvítri sandströnd með fangið fullt af flóknum ullarreifum andspænis píramíða hlöðnum úr hvítum sandi og sjóndeildarhringinn í bakgrunni, bendir þó frekar til þess að þetta verk marki brú á milli þess sem á undan fór og þess sem í vændum var. Fyrir utan þá hliðstæðu sem finna má þar sem píramíðanum er teflt andspænis óreiðu náttúrunnar, þá eiga þessi verk það líka sammerkt að þau eru í björtum lit og byggja á láréttri myndhugsun; en í Hinu Mikla Ljóði er Sigurður horfinn úr myndinni sem hluti verksins í eigin persónu, og í stað hins tvívíða flatar ljósmyndarinnar er okkur nú stillt upp andspænis raunverulegu þrívíðu rými. Þetta rými er í ætt við draumsýn, eins konar leikmynd sem setur saman þekkt efnisatriði úr vökuheiminum, en tengir þau saman með aðferð sem torvelt er að heimfæra upp á rökhugsun dagsbirtunnar. Ef við kjósum að líta á þetta verk sem brúna er tengir heim dags og nætur á ferli Sigurðar, þá getum við litið á blýantsteikninguna Mirror frá 1983 sem fyrsta áfangann í ferð Sigurðar til undirheima.

s-gudmundsson-mirror-1983

Sigurður Guðmundsson: Mirror, blýantsteikning, 1983

Þessi stóra blýantsteikning sýnir okkur baksvip á manni sem er að hverfa inn í björg, en það er algengt þema í íslenskum álfasögum og þjóðtrú. Teikningin markar upphaf þess að Sigurður hverfur frá efnislausri og staðlausri veru ljósmyndarinnar og snýr sér í æ ríkari mæli að hinum þungu, myrku og hörðu jarðefnum, sem hann virðist hafa séð sem sérstaka ögrun með sínu þétta viðnámi og efnismassa. Hún markar líka þau umskipti, sem eru kannski ekki eins augljós, en varða breytinguna frá hinni láréttu línu sjóndeildarhringsins til hinnar lóðréttu línu húsanna og mannsmyndanna sem eru unnar í bik, basalt, diabas eða önnur hörð, þung, biksvört og ógagnsæ efni. Umskiptin frá láréttri til lóðréttrar myndhugsunar eru vitnisburður um að myndlist Sigurðar var að beinast inn á nýjar brautir, inn á við, niður í djúpið og aftur til hulinnar fortíðar. Umskiptin marka einnig þá stefnubreytingu er vísar til meðvitaðrar táknhyggju, myndhugsunar sem ekki fylgdi meginstraumi myndlistarinnar á þessum tíma.

Glöggt dæmi um þetta er lykilverkið Domecile frá 1983-5, sem markar um margt þáttaskil. Við stöndum frammi fyrir húsi sem hefur sígilt form bustarinnar. Efni þess og form eru þó um margt óvenjuleg. Hliðarveggirnir eru hlaðnir úr tilsniðnu moldarbrúnu torfi, en stafnar og þak mynda lokaða heild úr torkennilegu efni sem líkist þykku og hrjúfu biki. Stafnarnir falla yfir hliðarveggina efst og fá þannig form örvar sem vísar upp á við. Húsið er án dyra eða glugga, en framan á því er silfurlitað, inngreipt og ógreinilegt málmkennt form sem minnir á kyndil eða sverð og á afturgaflinum er hliðstætt tákn sem hefur óljósa vísun í útbreidda vængi eða ský eða jafnvel hjöltu á sverði. Þetta hús er okkur lokað eins og grafhýsi eða undirheimar Hadesar og minnir okkur á dauðann. Með þessu verki og þeim sem fylgdu í kjölfarið hefur Sigurður skapað persónulegt táknmál sem vísar til goðsögulegra frummynda, sem eiga rætur sínar í draumheimum og dulvitund mannsins. Orðið frummynd er í þessu samhengi notað sem íslensk þýðing á hugtakinu Archetyp í skilningi Carls Gustavs Jungs.

s-gudmundsson-domecile-1983-5

Sigurður Guðmundsson: Domecile, 1983-85

Frá merkjamáli til táknmáls

Eitt megineinkenni tæknihyggju og vísindatrúar samtímans hefur verið vantrú á gildi alls táknmáls. Þetta hefur ekki bara einkennt vísindi samtímans, heldur líka listirnar. Öll rökræða formgerðarstefnunnar og merkingarfræðinnar og þar með einnig konseptlistarinnar og naumhyggjunnar á 20. öldinni, beindist að því að hreinsa tungumálið af öllum táknrænum vísunum, sem ekki höfðu áþreifanleg og ótvíræð hlutlæg viðmið. Rétt eins og vísindin höfðu smættað heiminn niður í frumparta sína og gefið upp á bátinn alla viðleitni til að draga upp heildstæða mynd af heiminum, þá hafði myndlistin á síðari hluta 20. aldarinnar leitast við að hreinsa myndmálið af allri tvíræðni táknhyggjunnar, hvort sem það birtist í minimalisma eða þeirri konseptlist, þar sem myndlistin var í raun orðin að sjálfvísandi skilgreiningu eða klifun: „Það eina sem sagt verður um list er að hún er einn hlutur. List er list-sem-list og allt annað er allt annað. List-sem-list er ekkert nema list. List er ekki það sem ekki er list.“[9] Þessi yfirlýsing Ads Reinhardt frá 1962 miðar að því að draga skýr mörk á milli listarinnar og lífsins, á milli listarinnar og alls annars veruleika. Það var ekki lengur hlutverk myndlistarinnar að sýna mynd af heiminum, heldur að sýna sjálfa sig. Ljóst er að Sigurður fylgdi þessari stefnu aldrei heilshugar, en í kringum 1980 verða þau umskipti í list hans að hann tók afgerandi aðra stefnu og hóf að gera verk sem hafa meðvitað táknrænar vísanir.

Gríska orðið symbolon, sem er notað í flestum tungumálum fyrir íslenska orðið tákn, er samsett úr forskeytinu syn og sögninni ballo (ég steypi) og merkir þá bókstaflega „það sem steypt er saman“. Í Grikklandi og Róm til forna var orðið symbol meðal annars notað um það sem Rómverjar nefndu tessera hospitalitatis eða einkennismerki (jarteikn) gestsins sem bar á sér brot úr hring eða keri sem merki þess að hann tilheyrði tiltekinni heild. Þannig er symbol hugsað sem vísun til stærri heildar. Í frumkristnum sið var talað um postulleg symbol er vísuðu til þess að sá sem bar það tiheyrði hinum kristna söfnuði. Þannig vísar táknið út fyrir sjálft sig til annars og stærri veruleika. Í þessum skilningi vísar táknið með öðrum hætti til veruleikans en til dæmis merkið. Kross sem merki í stærðfræði hefur nákvæmlega skilgreinda merkingu, en kross sem trúartákn hefur margræða merkingu sem ekki er hægt að skilgreina með vísun í skýrt afmarkaða heild. Um leið og táknið vísar út fyrir sjálft sig, þá getur ekkert komið í staðinn fyrir það, því það á sér margræða merkingu. Endanlega vísar táknið því aftur í sjálft sig sem einstakt fyrirbæri.

Þegar Sigmund Freud setti fram hina byltingarkenndu kenningu sína um dulvitundina í riti sínu Die Traumdeutung árið 1899 túlkaði hann myndir þær sem birtast í draumum manna sem táknmyndir er gætu skýrt bældar hvatir í sálarlífi mannsins. Freud skýrði þessi tákn út frá persónulegri sögu einstaklingsins og þeirri tilfinningaspennu sem hann átti í gagnvart foreldrum sínum og umhverfi. Í riti sínu Wandlungen und Symbole der Libido frá 1912 tekur Carl Gustav Jung afstöðu gegn lærimeistara sínum og segir táknmyndir draumanna ekki vísa til persónulegrar reynslusögu einstaklingsins, heldur séu þær fyrst og fremst eins konar opinberanir er vísi til frummynda er búi í hinni arfbornu og sammannlegu dulvitund allra einstaklinga. Í stað þess að varpa ljósi á persónubundna reynslusögu einstaklingsins vísi þær til þeirra þátta í tilveru mannsins sem ekki verði skilgreindir með vopnum hinnar dagsbjörtu rökhyggju. Táknmyndirnar verða þannig í hugsun Jungs eins konar miðill milli þess sem er hulið og þess sem er sýnilegt í tilveru mannsins, á milli dulvitundar og vökuvitundar hans. Það er í þessum skilningi sem við getum litið á verk Sigurðar frá síðustu tveim áratugum sem táknmyndir.

Ferðin á vit Hadesar

Bandaríski sálfræðingurinn James Hillman, sem er einn af lærisveinum Jungs, byrjar bók sína The Dream and the Underworld á þessari tilvitnun í Jung: „Sá ótti og viðnám sem sérhverjum manni eru eðlislæg, þegar hann kafar of djúpt inn í sjálfan sig, er þegar allt kemur til alls óttinn við ferðalagið til Hadesar„.[10]  Ferðalagið til Hadesar er í skilningi Jungs og Hillmans ferðin inn í ríki dauðans og dulvitundarinnar, þar sem veröldin birtist okkur í óræðum og líflausum táknmyndum. Þrátt fyrir ágreining Jungs og Freuds um hina sammannlegu og einstaklingsbundnu dulvitund, þá segir Hillman þessa guðfeður djúpsálarfræðinnar hafa átt það sameiginlegt að vilja skýra draummyndirnar í of ríkum mæli í ljósi hinnar dagsljósu rökhyggju, og nota þær í þeim skilningi til sállækninga. Hillman dregur í efa þá túlkunaráráttu sem þessir lærimeistarar hans ástunduðu, um leið og hann leggur áherslu á mikilvægi draumanna og ferðalagsins á vit Hadesar til sjálfskilnings og skilnings okkar á manninum. Hann heldur því fram að draummyndirnar eigi að tala sínu eigin máli án langsóttra útskýringa á máli vökuvitundarinnar. Það sem er heillandi við þessar hugmyndir Hillmans eru hinar djúpvitru vísanir hans í forna goðafræði sem hann sér líkt og Jung sem lykilinn að sálarlífi mannsins. Í raun var öll djúpsálarfræðin til staðar þegar í Grikklandi til forna, hún var eingöngu sett fram á máli goðafræðinnar. Það var ekki síst í goðafræðinni sem Jung fann frummyndir sínar og táknheima, og það er í goðafræðinni sem Hillman finnur lausnir sínar á ýmsum vandamálum sálgreiningar og sállækninga samtímans. Eitt þessara vandamála er ótti samtímans og útilokunarárátta gagnvart dauðanum. En Hillman túlkar goðsögnina um baráttu Herkúlesar við Hades og varðhund hans[11] sem lýsingu á varnarviðbúnaði vökuvitundarinnar gagnvart ríki Hadesar[13].

Goðsagan um ferð Herkúlesar til undirheima verður fyrir Hillman myndlíking um ferð vökuvitundarinnar á vit dulvitundarinnar, undirheimanna og dauðans. Hillmann lítur ekki á dauðann og ríki hans sem eitthvað er taki við að lífinu loknu, heldur eitthvað sem maðurinn ber með sér frá fæðingu til dauða. Lífið er þroskaleiðin til Hadesar, og Hades fylgir okkur alla leið sem vitur leiðsögumaður og vinur. Herkúles var óvinur Hadesar, ólíkt öðrum hetjum úr goðaheimi, og er í líkingunni sá sem ekki skilur dauðann vegna þess að hann kann ekki að lesa líkingamál draumsins og goðsögunnar. Hillman lítur á Herkúlesar-hetjuna og allar þær smáhetjur vökuvitundar okkar, sem taka sér hann til fyrirmyndar, sem alvarlegt geðheilbrigðisvandamál í samtímanum. Það rennur morðæði á Herkúles þegar hann stendur andspænis blóðlausum myndum hinna framliðnu í undirheimum. Myndirnar gera hann morðóðan, „því sá veruleiki sem geðheilsa hetjunnar hvílir á er brothættur gagnvart skoti örvarinnar og höggi kylfunnar. Fyrir honum er veruleikinn einungis líkamlegur. Þess vegna ræðst hetjan gegn myndunum og fælir Dauðann burt úr hásæti sínu, rétt eins og það að meðtaka myndina jafngilti fyrir honum líkamlegan dauða. Hin hetjulega vökuvitund tekur myndirnar bókstaflega. Þar sem hún hefur ekki til að bera þá skilningsgáfu myndlíkingarinnar sem menn ávinna sér með því að vinna með myndirnar, þá skjátlast henni og viðbrögð hennar verða ofbeldisfull…hin hetjufulla villa er að taka myndirnar bókstaflega, með sama raunsæi og sjálfið notar í vökuvitund sinni. Þetta eru mistök af stærðargráðu Herkúlesar, sem hafa hlotið gyðinglega-kristilega blessun í trúarherferðinni gegn djöflunum, draumunum, helgimyndunum og öllum ímyndunum sálarinnar.“[14]

Hillman minnir í þessu samhengi á annað boðorðið í Mósebók þar sem Drottinn segir: „Þú skalt engar líkneskjur gjöra þér né nokkrar myndir eftir því, sem er á himnum uppi, eður því sem er á jörðu niðri, eður því sem er í vötnunum undir jörðunni; þú skalt ekki tilbiðja þær og ekki dýrka þær; því að eg Drottinn, Guð þinn, er vandlátur Guð, sem vitjar misgjörða feðranna á börnunum, já í þriðja og fjórða lið, þeirra sem mig hata„.

Ef við lítum einungis á veröldina eins og hún „er“ og afsölum okkur allri margræðni og allri menningu myndlíkingarinnar, þá tökum við veruleikanum bókstaflega að hætti Herkúlesar og beitum kylfunni tafarlaust. Við þær aðstæður verður hið hetjufulla sjálf að sjálfsupphafningu og heimurinn að villta vestrinu, segir Hillman. Í samtímanum er ekkert sem skilur á milli hins hráa veruleika og hinnar hráu ímyndunar. Án þess að skynja muninn á mynd sjónvarpsins og veruleikans ræðst hið hetjufulla sjálf í gervi Herkúlesar inn á vígvöll ímyndananna með Biblíuna undir annarri hendinni og byssuna í hinni, og hefur þannig glatað þeirri mennsku sem fylgir þekkingunni á þeirri margræðni sem í myndunum er falin. Draumar okkar eru myndir, og þeir sem sköpuðu hina grísku goðafræði þekktu gildi myndanna og kunnu að gera greinarmun á mynd og veruleika. Það sem samtíminn þarfnast mest í dag er að endurheimta þekkingu fornmanna á gildi og helgidómi myndanna, segir Hillman. Þess vegna er leiðin til Hadesar þroskabraut mannsins og með sérhverjum draumi okkar erum við á hverri nóttu innvígð í heim myndanna og dauðans. Það er þangað sem Sigurður Guðmundsson vill leiða okkur með verkum á borð við Domecile, Abend in Berlin, Journey of the Days og Diabas frá 9. áratugnum.

s-gudmundsson-journey-of-the-days-1988

Sigurður Guðmundsson:  Journey of the Days, 1988

Vaggan og gröfin

Þegar kemur að því að lesa tákn eru margar leiðir sem koma til greina og engin þeirra endanleg eða endanlega rétt. Ef við leyfum okkur til dæmis að líkja verkinu Domecile við grafhýsi, þá er grafhýsið líka órjúfanlega tengt annarri vistarveru, sem er móðurlífið. „Af jörðu ertu kominn og að jörðu skaltu aftur verða“ er sagt yfir kistu látinna í kristnum sið, og dauðinn er í þeim skilningi afturhvarf til upprunans. Verkið Domicile fær þannig þá kvenlegu merkingu sem kennd er við skaut móðurinnar, sjálft móðurlífið, og í því ljósi getum við skilið kyndilinn á stafni þess sem karllegt reðurtákn og hina tvíræðu mynd vængja og lofts á bakstafninum sem upprisu eða endurfæðingu. Í þessu samhengi tekur þetta grafhýsi einnig á sig merkingu Anatorsins eða eldofnsins í hinu alkemíska táknmáli, en í þeim fræðum er eldofninum einmitt ýmist líkt við gröf og/eða móðurlíf efnisins. Í þessu samhengi verður kyndillinn á stafninum hliðstæða við töfrastaf Hermesar og skýið eða vængirnir á bakstafninum líking við fuglinn Fönix sem er líking viskusteinsins eða hins göfgaða og endurfædda efnis. Það var hin mikla uppgötvun Jungs að sjá í líkingamáli alkemíunnar fjársjóð hinna sammannlegu frummynda sálarlífsins, en slíkar myndir blasa við í verkum Sigurðar frá þessum tíma. Fjölmargar hliðstæður við Domecile Sigurðar má finna í hinu alkemíska myndmáli, og nægir hér að vísa til myndar Theophiliusar Schweighart úr Speculum sophicum Rhodostauroticum frá árinu 1604.

schweighardt-speculum-sophicum-stauroticum-1618

Teophilius Schweighart: Speculum sophicum Rhodostauroticum, 1604

Myndin sýnir okkur hinn alkemíska verknað sem gerist að hluta til í undirheimum vatns og jarðar, sem eru líkingamál dulvitundarinnar. Þar sameinast listin og náttúran og þaðan kemur þekkingin (hinc sapientia), og sameinast í kosmísku móðurlífi jarðarinnar en þar fyrir ofan sjáum við alkemistann fullkomna verk náttúrunnar í samvinnu við Guð (cum Deo). Alkemistarnir litu á verk sitt sem hliðstæðu við og eftirlíkingu á sköpunarverki Guðs.

Skipið, húsið, og höfuð forfeðranna

Í kjölfar verkins Domecile eru það einkum þrjár táknmyndir sem verða Sigurði áleitin viðfangsefni: húsið, skipið og hið steingerða höfuð nafnlausrar persónu sem við getum kallað forföðurinn. Þessar frummyndir tengjast allar innbyrðis. Það sjáum við meðal annars í verki Sigurðar, Nocturne, frá 1986, þar sem þessir þrír þættir eru sameinaðir í einni mynd úr svörtum diabas-steini og gleri. Þetta er skematísk mynd af skipi sem ber hús og mannshöfuð.

sigurdur-gudmundsson-nocturne

Sigurður Guðmundsson: Nocturne, 1986

Í sögu goðafræði og trúarbragða höfum við fjölmörg dæmi um bátinn eða skipið sem hvort tveggja í senn, farartæki og vistarveru. Siglingin er nátengd ferðinni á vit dauðans: að fara er að deyja svolítið, segir í frönsku máltæki, og ferðalagið á vit forfeðranna er oftar en ekki tengt siglingu, jafnt í goðsögum og trúarbrögðum sem í listum. Alþekkt er mynd Arnolds Böcklin sem sýnir siglinguna að eyju hinna dauðu. Í málverki Delacroix sjáum við skáldin Dante og Virgil á siglingu meðal fordæmdra í Víti. Í dómsdagsmynd Michelangelos í Sixtínsku kapellunni sjáum við ferjumanninn Karon ferja hina látnu yfir ána Styx niður til Heljar, og í verki Jóns Gunnars Árnasonar, Sólfar frá 1981-2, sem stendur við Sæbraut í Reykjavík, sjáum við skipið sem stefnir til upphafsins á vit sólarinnar. Verk á borð við Nocturne frá 1986 og málverkið Journey of the Days frá 1988 sverja sig í ætt við þessa hefð.

En hvað með húsið og hið steingerða höfuð, sem Sigurður tengir beint og óbeint við mynd sína af skipinu? Húsið sem frumlæg táknmynd er miðlægur lokaður heimur og skjól sálarinnar, segir Gaston Bachelard.[15] Húsið er fyrsta mynd okkar af heiminum, og í draumum okkar er það vagga sálarinnar og verustaður dulvitundarinnar og minninganna. Sem slíkt tengist það jörðinni og móðurgyðjunni. Í Búddatrú er líkama mannsins líkt við hús. Húsið í myndum Sigurðar er kolsvart, gluggalaust og úr hörðum massífum steini. Það er okkur lokaður heimur. Svarti liturinn vísar til næturinnar, undirheimanna og dauðans. En um leið og undirheimarnir eru ríki dauðans og jarðarinnar, þá eru þeir líka heimur endurfæðingar og frjósemi, því svarti liturinn tilheyrir líka jarðargyðjunni Demeter. Svarti liturinn tilheyrir líka frumefninu sem á máli alkemíunnar var upphaf alls vaxtar og frumforsenda Hins mikla verknaðar gullgerðarlistarinnar. Svarti steinninn var tákn hinnar miklu móðurgyðju Cibele, sem í grískum trúarbrögðum var kona Satúrnusar og móðir Seifs og Heru. Svarti steinninn í Mekka er eitt helsta átrúnaðarefni allra íslamskra pílagríma og mun bera þeim sem hafa snert hann vottorð á hinsta degi.

Svarti steinninn er líka það efni sem Sigurður hefur mest notað fyrir hinar dularfullu myndir sínar af mannshöfðum, þar sem formið er eins og kúpt súla, sem er stundum eingöngu dregið inn til að móta fyrir hökunni, en stundum mótar líka fyrir hnakkagrófinni. Að öðru leyti er þetta andlit án ásjónu. Á sama hátt og húsið er kvenlegt tákn, þá er höfuðið karllegt. Jafnvel jaðrar við að sum súluhöfuð Sigurðar séu reðurtákn. Höfuðið hefur forræðisvald og stjórnvald og er íverustaður viskunnar. Sem slíkt tákn minna þessar myndir Sigurðar um sumt á þær undurfurðulegu og tröllauknu höfðamyndir sem frumbyggjar Páskaeyju á Kyrrahafi reistu meðfram ströndum eyjar sinnar á 15. og 16. öld að talið er. Merking þeirra mynda er mönnum ráðgáta, en ein tilgátan er sú að þær sýni forfeðurna, séu liður í valdabaráttu fjölskyldna á eyjunum og að myndirnar hafi átt að bægja burt óæskilegum öflum. Það sem gerir höfuðmyndir Sigurðar dularfullar og áleitnar er einmitt sú staðreynd að þær eru ásjónulausar og við getum með engu móti nálgast þær. Þær koma djúpt úr undirheimum Hadesar og langt aftur úr myrkri fortíðarinnar og horfa til okkar blindum augum eins og horfin minning.

Grafíkmyndin Genetic Poem frá 1985 hefur hugmyndaleg tengsl við steinhöfuð Sigurðar, þótt útfærslan sé önnur. Hún sýnir okkur dökkbrúnan og hrjúfan móbergsstein. Á bak við steininn sér móta fyrir sköllóttu karlmannsandliti, sem mun vera afi Sigurðar. Þessi daufa andlitsmynd varpar rauðbrúnum skugga frá steininum fram í forgrunn myndarinnar. Nafn myndarinnar, Ættfræðiljóðið, vísar til forfeðranna í bókstaflegum skilningi. Jafnframt sýnir myndin tengsl forfeðranna við steininn og jörðina, og gefur þessum tengslum þá frumgerðarmerkingu, sem líka má finna í steinhöfðunum.

Pathos og Pönnukökulandslag

Í upphafi þessarar samantektar beindist athygli okkar að verkinu Landslag með pönnuköku frá fyrstu sýningu Sigurðar árið 1969, verki sem fjallar um náttúruna sem landslag í myndlistinni. Það er við hæfi að ljúka þessari samantekt með því að minnast aðeins á verk frá árinu 1987, sem segja má að fjalli um sama viðfangsefni en út frá allt öðrum forsendum. Verkið Pathos er gríðarstór útiskúlptúr, sem hægt er að líta á sem landslagsmynd í vissum skilningi. Við sjáum háan og mikinn dranga úr hörðu grábrúnu djúpbergi sem stendur á víðavangi. Upp úr dálítilli kverk sem hoggin er efst í steininn stendur skarpt mótað form sem minnir í senn á hús, ör og hvassa tönn. Þetta form er slípað í harðan steininn og vex út úr honum eins og viðhengi sem mótað er í anda og stíl módernismans. Utan úr hlið klettsins opnast síðan æð og þar fellur fram eins konar foss sem er steyptur í brons með grænni slikju. Ef tönnin er í anda módernismans, þá er þessi bronsfoss í anda rómantísku stefnunnar. Það má segja um þessa mynd að hún tilheyri flokki landslagsmynda, rétt eins og Landslag með pönnuköku. En í stað þess að gera mynd af klettinum notar Sigurður klettinn eins og hann kemur úr grjótnámunni. Fossinn og „tönnin“ eru hins vegar tilbúnir þættir í verkinu sem setja klettinn í nýtt samhengi við listasöguna. Nelson Goodman sagði á sínum tíma að útlitsleg líking myndar og náttúru fælist í flestum tilfellum fyrst og fremst í því að myndin líktist því hvernig menn væru vanir að sjá náttúruna málaða. Að menn líktu frekar eftir hefðinni en náttúrunni eins og hún er í raun og veru. Það má segja að Sigurður snúi nokkuð upp á hefðina í þessu verki, rétt eins og í Landslagi með pönnuköku, en forsendurnar eru þó allt aðrar. Hann er hér búinn að losa sig út úr þeim vandamálum sem hann var að berjast við 1969.

s-gudmundsson-pathos-1987s-gudmundsson-pathos2-1987

Sigurður Guðmundsson: Pathos, 1987

Myndmálið er ekki bundið við hefðina, en það er ekki heldur hrætt við hana. Sú eftirlíking sem fólgin er í bronsfossinum líkir eftir hinni rómantísku hefð frekar en náttúrunni sjálfri. Sama má segja um tönnina, sem vísar frekar í hina módernísku myndlistarhefð en náttúruna sjálfa. En hér hafa hefðirnar verið felldar að hrárri náttúrunni með nýjum hætti og þannig búið til nýtt samtal á milli listamannsins og náttúrunnar sem er án allrar tilgerðar. Í gegnum ferðalag sitt á vit Hadesar hefur Sigurði tekist að frelsa tungumál myndlistarinnar úr spennitreyju hinnar dagsbjörtu rökhyggju og gera það að eðlilegum hluta náttúrunnar. Sannkallaður náttúruóður.

Klappaðir steinar

Eitt best heppnaða útilistaverk Sigurðar hér á Íslandi eru granítsteinarnir við Sæbrautina í Reykjavík frá árinu 2000. Slípaðir granítsteinar sem hafa verið felldir inn í stórgrýtta grjótuppfyllingu úr íslensku grágrýti á um 10 metra parti, rétt eins og þeir væru eðlilegur hluti þessa tilbúna landslags. Granítsteinarnir eru útlenskrar ættar, bleikir og brúnir og komnir frá Svíþjóð. Þeir hafa haldið óreglulegri lögun sinni eins og þeir komu úr grjótnámunni. Það eina sem hefur verið gert við þá er að þeir hafa verið gljáfægðir þannig að það glampar á þá af birtunni frá sólinni og hafinu. Þeir eru harðir eins og gler en hafa mjúka áferð sem kallar á að þeim sé strokið. Það bregst varla að þeir sem eiga leið þarna framhjá staldri við og hoppi jafnvel yfir vegkantinn til þess að klappa steinunum og setjast á þá. Á bak við þetta verk er ofureinföld hugsun en djúp. Hún kemur úr undirheimum og iðrum jarðar eins og djúpbergið. Í stað þess að líta á ómennskan og blindan vilja náttúruaflanna sem ógnun og uppsprettu bölsýni, eins og Schopenhauer gerði, þá býður Sigurður okkur að sættast við náttúruna og umgangast hana af nærfærni á hennar eigin forsendum eins og um ástaratlot væri að ræða.

sigurdur-gudmundsson-fjorugrjot

 

Forsíðumyndin er ljósmyndaverkið „Attributes“ frá 1978

  

 

[2] „„Mensch hat keinen Körper und ist kein Körper, sondern er lebt seinem Leib““, sjá Corpo e spazio, bls. 5.

[3] Í þessu samhengi má vitna í þá niðurstöðu Nelsons Goodman að lýsandi raunsæi sé fyrst og fremst spurning um hefð og innrætingu: „Realism is a matter not of any constant or absolute relationship between a picture and its object but of a relationship between the system of representation employed in the picture and the standard system. Most of the time, of course, the traditional standard system is taken as standard; and the literal or realistic or naturalistic system of representation is simply a customary one …That a picture looks like nature often means only that it looks the way nature is usually painted.“  Sjá N. Goodman: Languages of Art, Cambridge 1984, bls. 38 og 39.

[5] Sbr. ritgerð Heideggers, Der Ursprung des Kunstwerkes frá 1935.

[7] Maurice Merleau-Ponty: L’occhio e lo spirito, Milano 1989, bls. 22-23.

[9] „The one thing to say about art is it is one thing. Art is art-as-art and everything else is everything else. Art-as-art is nothing but art. Art is not what is not art.“ Ad Reinhardt: Art as Art, birt í tímaritinu Art International í desember 1962.

[10] James Hillman: The Dream and the Underworld, 1979, tilvitnun í grundvallarrit Jungs, Psychologie und Alchemie frá 1944. Hér stuðst við ítalska útgáfu Il sogno e il mondo infero, Milano 2003.

[11] Sjá t.d. Evrípídes: Alkestis 846-54; Hómer: Ilíonskviða, V, 397-400 og Odysseifskviða, XI, 601-26.

[13] Sjá Il sogno e il mondo infero, bls. 138-150. Þar segir Hillman m.a.: „Við skulum ekki vanmeta ofbeldishneigð Herkúlesar. Þegar hann kemur til Hadesar vill hann gefa vofunum það blóð sem þær biðja um: hann vill færa þeim aftur lífsandann, thymos, losa þær undan valdi sálarinnar til að færa þeim virknina sem birtist í dáðum hans sjálfs (að rífa skepnur á hol).“

[14] Í þessu samhengi vitnar Hillman í Mattheusarguðspjall, V, 28: „Þér hafið heyrt að sagt var: Þú skalt ekki drýgja hór; en ég segi yður, að hver sem lítur á konu með girndarhug, hefur þegar drýgt hór með henni í hjarta sínu. Ef hægra auga þitt hneykslar þig, þá ríf það út og kasta því frá þér, því betra er þér að einn lima þinna tortímist, en að öllum líkama þínum verði kastað í helvíti.“ Fyrir Hillman er þetta skynvilla Herkúlesar sem kann ekki að greina á milli myndarinnar og hins líkamlega veruleika. Sjá Il sogno e il mondo infero, bls. 138-147.

[15] Sjá Gaston Bachelard: La poetica dello spazio, Bari 1975, bls. 31–63.

 

 

Agamben um fagurfræðilega dóma

Giorgio Agamben:

Maðurinn án innihalds

Fimmti kafli

Dómar um skáldskap vega þyngra en ljóðlistin

Les jugements sur la poésie ont plus de valeur que la poésie

 

Við höfum ekki enn velt fagurfræðilegum dómum fyrir okkur af nægilegri alvöru, eða hvernig eigum við að taka þessari setningu Lautréamont með fullri alvöru? Við myndum ekki hugsa þessa setningu til fulls ef við létum gott heita að lesa úr henni einfaldan leik með viðsnúning í nafni óskiljanlegs háðs, án þess að spyrja okkur þeirrar spurningar, hvort sannleikur hennar gæti hugsanlega verið samofinn tilfinningu sem tengist okkar samtíma.

Í raun nálgumst við hinn leynda sannleika þessarar fullyrðingar þá fyrst þegar við setjum hana í samhengi við það sem Hegel skrifaði í innganginum að Fyrirlestrum um fagurræði  þar sem hann er að velta fyrir sér örlögum listarinnar í hans samtíma. Þá uppgötvum við, okkur til nokkurrar furðu, að niðurstöður Hegels eru ekki aðeins furðu líkar fullyrðingu Lautréamonts, heldur leyfa þær okkur þvert á móti  að finna í þeim hljómbotn sem reynist ekki jafn fjarstæðukenndur og hefði mátt halda.

Hegel bendir á að listaverkið veki ekki lengur þá fullnægingu andlegra þarfa sálarinnar sem það hafði gert á fyrri tímaskeiðum, og ástæðuna segir hann vera að gagnrýninn andi og umhugsun hafi eflst svo í samtímanum, að við freistumst þess ekki lengur, þegar við stöndum andspænis listaverki, að kafa inn að dýpstu lífsrótum þess og samsama okkur með þeim, heldur látum við okkur nægja að sýna það í ljósi þeirrar gagnrýnu beinagrindar sem fagurfræðilegir dómar segja til um. „Það sem listaverkið vekur upp hjá okkur”, segir hann, „er auk hinnar beinu nautnar einnig dómurinn, því við leggjum mælikvarða dómgreindar okkar á inntakið, meðulin sem stuðst er við í framkvæmdinni og réttmæti hvors tveggja. Því eru listvísindin okkur enn nauðsynlegri í samtímanum en þau voru á þeim tímaskeiðum þar sem listin veitti fullkomna fullnægju með sjálfri sér. Listin boðar okkur til hugleiðslu, en ekki í þeim tilgangi að leita listarinnar, heldur í þeim tilgangi að vita frá vísindalegum sjónarhóli, hvað listin sé… Listin finnur hina sönnu staðfestingu sína einungis í vísindunum“[i]

Þeir tímar eru löngu liðnir, þegar Dionysos frá Certosa féll í leiðslu við að heyra tóna orgelsins í kirkju Heilags Jóhannesar í Bosco Ducale. Nútímamaðurinn er ekki lengur þeirrar gerðar að hann upplifi í listaverkinu hlutlæga birtingarmynd guðdómsins er framkalli upphafna leiðslu eða heilaga skelfingu í sálinni, heldur skapar verkið honum forgangsaðstöðu til að virkja hinn gagnrýna smekk hans, dómkvaðninguna um listina, og þó dómurinn snúist í raun ekki lengur um gildi listarinnar, þá svarar hann engu að síður þörf sem virðist ekki skipta minna máli.

Fagurfræðilegir gildisdómar um listina eru orðnir okkur svo kunnugleg og ósjálfráð viðbrögð, að við erum í raun hætt að spyrja okkur hvað í þeim felist. Í hvert skipti sem við stöndum andspænis listaverkinu spyrjum við okkur ósjálfrátt þeirrar spurningar, hvort um raunverulegt listaverk sé að ræða, en ekki falska list, ekki-list. Þannig snýst hugleiðing okkar – eins og Hegel sagði – um inntakið og meðulin og hvort þau séu við hæfi. Í raun virðast þessi  skilyrtu viðbrögð okkar um meinta veru eða ekki-veru listarinnar vera ein hliðin á mun almennari afstöðu sem Vesturlandabúar hafa sýnt af sér allt frá hinni grísku tilurð sinni, þar sem þeir hafa spurt sig hvað hluturinn sé (τι το  ὄν ; tí=hvað, to=það, on=vera),  til að skilja á milli verunnar og ekki-verunnar (ὄν og μη ὄν).

Ef við staðnæmumst aðeins við trúverðugustu hugleiðingarnar sem Vesturlönd hafa sett fram um fagurfræðilega dóma, það er að segja Kritik der Urteilskraft (Gagnrýni dómgreindarinnar) eftir Kant, þá felst hið óvænta ekki eingöngu í því að spurningin um fegurðina sé gagnrýnd í ljósi fagurfræðilegra dóma – nokkuð sem getur talist fullkomlega eðlilegt – heldur ekki síður að skilgreining fegurðarinnar sé eingöngu sett fram undir neikvæðu formerki. Sem kunnugt er skilgreinir Kant hið fagra í fjórum liðum, trúr sinni forskilvitlegu rökgreiningarreglu (Analitica transcendentale), þar sem hann setur fram í röð fjögur megin einkenni fagurfræðilegra dóma. Samkvæmt fyrstu skilgreiningunni er „smekkurinn getan til að dæma tiltekinn hlut eða framsetningu á forsendu óhlutlægs unaðar eða óyndis. Hlutur sem getur af sér slíka munúð er fagur“ (§ 5).[ii] Önnur skilgreiningin segir: „Það er fagurt sem án hugtaks er sýnt sem almennur unaðsgjafi“ (§ 6). Sú þriðja segir: „Fegurðin er form tilgangs tiltekins hlutar að því marki sem það er skynjað án yfirlýsts markmiðs“ (§ 17). Fjórða skilgreiningin bætir því við að „hið fagra er það sem nýtur viðurkenningar sem almennur unaðsgjafi án hugtaks“ (§ 22).

Þegar við stöndum andspænis þessum fjórum einkennum fegurðarinnar sem viðfangsefni fagurfræðilegra dóma (þ.e.a.s. hlutlaus munúð, algildi án hugtaks, tilgangur án markmiðs, almenn regla án reglu) komumst við ekki hjá því að hugleiða það sem Nietzsche skrifaði í Götterdämmerung, þar sem hann var að ráðast gegn kórvillum frumspekinnar: „þau afgerandi merki sem hafa verið sett fram sem hinn sanni kjarni hlutanna eru einkennismerki ekki-verunnar, tómsins“. Þannig virðist sem svo að í sérhvert skipti sem hinn fagurfræðilegi dómur leitast við að kveða á um hvað sé fegurð, þá hafi hann ekki fegurðina á milli handanna, heldur skugga hennar, rétt eins og hið raunverulega viðfang væri ekki það sem listin er, heldur það sem hún er ekki, ekki listin sjálf, heldur ekki-listin.

Ef við gaumgæfum aðeins það regluverk gagnrýnnar dómgreindar sem er að verki í okkur sjálfum þegar við stöndum andspænis listaverki, þá getum við vart annað en viðurkennt að það tilheyrir einmitt þessum skugga, og að með úrskurði okkar um list og ekki-list gerum við einmitt ekki-listina að inntaki listarinnar, það er eingöngu í þessari neikvæðu röksemdafærslu sem okkur tekst að höndla raunveruleika listarinnar.

Þegar við neitum því að tiltekið verk hafi eitthvað með list að gera, þá erum við um leið að segja að verkið hafi allt það til að bera sem tilheyrir listaverkinu nema einhvern kjarna, sem líf þess hangir á, rétt eins og þegar við tölum um að lík hafi til að bera alla eiginleika lifandi líkama nema þetta óhöndlanlega qid (skiptagildi, grunnþátt) sem gerir það að lifandi veru. Þegar við stöndum andspænis listaverkinu, þá berum við okkur ómeðvitað að eins og læknisfræðinemi sem hefur lært líffærafræðina af rannsókn á líkum: andspænis hinum lifandi líffærum sjúklingsins þarf hann að heimfæra sig í huganum upp á sínar dauðu fyrirmyndir úr líffærafræðinni.

Hver svo sem mælikvarðinn er, sem hin gagnrýni dómur styður sig við í greiningu á veruleika verksins, hvort sem það er byggingarmáti tungumálsins, hinn sögulegi þáttur verksins, trúverðugleiki upplifunarinnar (Erlebnis) sem það byggir á, og þannig mætti lengi telja, þá hefur dómurinn endanlega ekki gert annað en að fella inn í lifandi vef verksins óendanlegar beinagrindur dauðra fyrirbæra, þannig að listaverkið verður óhjákvæmilega fyrir okkur sá vandlega afskorni  ávöxtur, sem Hegel talaði um, ávöxtur sem velviljuð örlög hafa fært okkur í hendur, án þess að veita okkur aðgang að greininni sem bar ávöxtinn, jörðinni sem hann sótti næringu sína til, né árstíðaskiptunum sem gáfu holdi hans þroska.[iii]

Það sem verkið fær ekki að njóta er nú endurheimt í dómnum sem hið einasta raunverulega inntak þess, og það verk sem hefur fengið jákvæðan dóm er nú umvafið þessum skugga: listnautn okkar byrjar óhákvæmilega með gleymsku listarinnar.

Hinn fagurfræðilegi dómur birtir okkur þannig óþægilega þversögn: hann er tæki sem við getum engan veginn án verið ef við viljum kynnast listaverkinu, en hann lætur okkur ekki aðeins kryfja veruleika þess, heldur vísar okkur stöðugt þangað sem verkið er ekki, og sýnir okkur þennan veruleika sem hreint og klárt tóm (nulla). Gagnrýnin leitast hvarvetna við að höndla hið óhöndlanlega með því að leita í skugga þess, rétt eins og flókin og vel útfærð neikvæð guðfræði. Þetta er aðferð sem minnir okkur á röksemdafærslu Veda-bókanna, ekki þetta, ekki þetta og nescio, nescio (ég veit ekki, ég veit ekki) hjá Heilögum Bernando. Heltekin af þessari þrautafullu byggingu tómsins missum við sjónar af því að í millitíðinni er listin orðin að plánetu sem sýnir okkur aðeins hina myrkvuðu hlið sína, og að hinn fagurfræðilegi dómur er ekki annað en logosið (hið röklega hugtak), endurnýjaður samruni listarinnar og skugga hennar.

Ef við vildum tjá þessi einkenni í formúlu þá gætum við sagt að gagnrýnidómar um list hugsuðu listina sem list í þeim skilningi að ávalt og alls staðar felli hún listinna inn í skugga sinn og hugsi listina sem ekki-list. Það er þessi list, það er að segja hreinn skuggi, sem ríkir eins og hið æðsta gildi á sjóndeildarhring hinnar fagurfræðilegu heimskringlu (terra aesthetica) og að öllum líkindum komumst við ekki út fyrir þennan sjóndeildarhring fyrr en við höfum spurt sjálf okkur um grunnforsendu hins fagurfræðilega dóms.

***

Ráðgáta þessarar grunnforsendu liggur hulin í uppruna og örlögum hinnar nútímalegu hugsunar.  Allt frá því að Kant mistókst að finna fullnægjandi svar við einu spurningunni sem skiptir í raun og veru máli, þegar horft er til sögu fagurfræðinnar: „hvað gerir a priori (fyrirfram gefna) fagurfræðilega dóma mögulega hvað forsendur varðar?“ Þessi frumlægi smánarblettur hvílir á okkur í hvert skipti sem við fellum listræna dóma. Kant leit svo á að vandi fagurfræðilegra dóma fælist í leitinni að lausn á Mótsögninni (l‘Antinomia) varðandi smekkinn. Í síðari hluta Kritik der Urteilskraft (Gagnrýni dómgreindarinnar) setti hann þessa mótsetningu fram með eftirfarandi hætti:

1)      Yrðing: Dómar á forsendu smekks byggja ekki á hugtökum, því að öðrum kosti yrðu þeir umdeilanlegir.

2)      And-yrðing: Dómar á forsendu smekks bygga á hugtökum, því að öðrum kosti væri ógjörningur að deila um mun einstakra dóma (ekki væri hægt að reiða sig á nauðsynlegt samþykki annarra)[iv]

Kant taldi sig geta leyst þessa mótsögn með því að setja nokkuð sem hefði eðliseinkenni hugtaks sem frumforsendu fagurfræðilegra dóma, en þar sem ógerlegt væri að gefa því afmarkaða skilgreiningu gæti það ekki veitt sönnun fyrir sjálfum dómnum og væri þar af leiðandi „hugtak sem feli í sér þekkingu á engu“.

Hann skrifar:

Allar mótsagnir hverfa þegar ég segi: Smekkdóma skal byggja á hugtökum (frumforsendum sem tilheyra hinum frumlægu markmiðum náttúrunnar hvað varðar dómana), hugtökum sem vissulega gagnast ekki til sönnunar eða þekkingaröflunar um hlutina, því þeir eru í sjálfum sér óhöndlanlegir og gagnlausir fyrir þekkinguna. Engu að síður gefur hugtakið dómnum gildi fyrir hvern og einn (verandi engu að síður einungis einstakur dómur fyrir hvern og einn, sem fylgir hans innsæi), því grunnforsendan liggur kannski í því sem kalla mætti hinn ofurrnæma jarðvegsgrunn hins mannlega… Það er einungis í hinni frumlægu reglu, það er að segja í hinni óafmörkuðu hugmynd hins ofurnæma í okkur, sem hægt er að finna lykilinn að þessari getu okkar sem á sér óþekktar uppsprettur. Það er ekki hægt að gera slíkt skiljanlegt með öðru móti.[v]

Trúlega gerði Kant sér fullkomlega grein fyrir því að þessi grunnforsenda fagurfræðilegra dóma á forsendu óskilgreindrar hugmyndar var meira í ætt við dulspekilegt innsæi en styrkan rökfræðilegan grundvöll, og að „uppsprettur“ dómanna væru með þessum hætti umvafðar ógagnsæjum leyndarhjúp. En hann gerði sér líka grein fyrir því, að um leið og listin hafði einu sinni verið meðtekin á fagurfræðilegum forsendum var ekki til að dreifa neinni annarri útgönguleið er gæti gert rökhugsunina sátta við sjálfa sig.

Hann hafði í raun ómeðvitað varað við þeim holskurði sem var fólginn í öllum fegurðardómum um listina þegar hann tefldi þeim fram til samanburðar við fegurðardóma um náttúruna, þar sem hann var sannfærður um að í því tilfelli þyrftum við ekki að hafa nein fyrirfram gefin hugtök um hvert viðfangið væri. Við þörfnumst þess hins vegar fyrir dómana um fegurð í listinni, því grundvöllur listaverksins er eitthvað annað en við sjálf, það er að segja hin frjálsa regla sköpunar og forms sem tilheyrir listamanninum.

Þetta leiddi Kant til þess að tefla smekknum sem gildismælikvarða gegn snilligáfunni sem skapandi afli. Til þess að sætta hinn róttæka framandleika þessara tveggja meginreglna þurfti hann að leita til hinnar dulspekilegu hugmyndar um „ofurnæman jarðvegsgrunn“ er gæti staðið sem grundvöllur fyrir hvort tveggja.

Vandamál Rameaus[vi], sem fólst í klofningnum á milli smekksins og snilligáfunnar, heldur því áfram að drottna með leynd yfir öllum vandamálum er varða uppruna fagurfræðilegra dóma. Sú ófyrirgefanlega léttúð, sem Benedetto Croce sýndi við lausn þessa vandamáls, með því að slá fagurfræðilegum dómum og fagurfræðilegri sköpun saman í eitt og skrifa: „munurinn [á smekk og snilligáfu] er einungis fólginn í ólíkum aðstæðum, því í öðru tilfellinu er um fagurfræðilega framleiðslu að ræða, en í hinu tilfellinu fagurfræðilega eftirgerð“[vii], rétt eins og ráðgátan væri ekki einmitt fólginn í þessum „ólíku aðstæðum“. Þetta sýnir okkur hversu djúpum rótum þetta misræmi stendur í nútímanum og hvernig hinn fagurfræðilegi dómur hlaut óhjákvæmilega að byrja í gleymskunni á eigin uppruna og rótum.

Á sjóndeildarhring hins fagurfræðilega skilnings okkar verður listaverkið viðfang veiklaðs orkuflæðis, þannig að það verður eitthvað sem aldrei er hægt að nálgast strax þegar  sköpunarferlinu lýkur. Rétt eins og í einangruðu eðlisfræðilegu ferli, þá er hægt að fara frá ferli A til ferlis B, en þá er með öllu ógerlegt að endurvekja hið upprunalega ferli, þannig að þegar listaverk hefur einu sinni verið búið til, þá er engin leið til að komast aftur að því eftir öfugri slóð smekksins. Hversu mikið sem við leggjum á okkur við að fylla holskurðinn, þá mun hinn fagurfræðilegi gildisdómur aldrei geta skorist undan því sem kalla mætti veiklun hins listræna orkuflæðis. Og ef sá dagur myndi renna upp, að gagnrýnin yrði kölluð fyrir rétt, þá myndi sú ákæra sem hún ætti erfiðast með að verja sig gegn, snúast um þann daufa gagnrýnisanda sem hún hefur sýnt sjálfri sér, þar sem hún hefur látið hjá líða að spyrja sig um eigin ættarsögu og eigin merkingu.

En eins og áður hefur verið sagt, þá er sagan ekki strætisvagn sem hægt er að hoppa af þegar maður vill, og þrátt fyrir þennan erfðagalla og þrátt fyrir allar þversagnirnar sem hinn fagurfræðilegi dómur sýnir okkur, þá hefur hann með tímanum orðið að meginskynfæri okkar þegar kemur að næmi okkar gagnvart listaverkinu. Hinn fagurfræðilegi dómur hefur skotið það djúpum rótum, að úr öskustó Mælskulistarinnar (la Retorica) hefur hann getið af sér fræðigrein sem í núverandi byggingu sinni á sér enga hliðstæðu á öðrum tímaskeiðum, og hann hefur skapað manngerð sem er hinn nútímalegi listgagnrýnandi, sem hefur ekki annað fyrir stafni en að fella fagurfræðilega dóma.

Þessi manngerð ber með starfi sínu hina myrku þversögn uppruna síns: alls staðar þar sem gagnrýnandinn mætir listaverkinu smættir hann það niður í andstæðu sína, leysir það upp í ekki-list. Alls staðar þar sem hann iðkar hugleiðslu sína ber hann með sér ekki-veruna og skuggann, rétt eins og ekki sé annað tiltækt ráð til að lofsyngja listina en eins konar svört messa, helguð deus inversus, hinum ranghverfa guði ekki-listarinnar. Ef við lesum okkur í gegnum lesefni hins ógrynnilega fjölda mánudagspistlahöfunda (lundistes) nítjándu aldar, frá þeim ókunnu til hinna frægustu, þá kemur það á óvart að mesta plássinu og mestu púðrinu hefur ekki verið varið í skrif um bestu listamennina, heldur miðlungsverkin og hin slæmu. Proust gat ekki lesið það sem Saint-Beuve skrifaði um Baudelaire og Balsac án þess að skammast sín og benti á að ef öll ritlist 19. aldar væri sett á bálköst að frátöldum Mánudagspistlunum  (Lundis) og við ættum að gera okkur í huganum mynd af mikilvægi rithöfunda einungis út frá þessum heimildum, þá myndu Stendhal og Flaubert fá minna vægi en Charles de Bernard, Vinet, Molé, Ramond og aðrir þriðja flokks rithöfundar[viii]  Gjörvöll öldin sem kenndi sig við öld listgagnrýninnar (örugglega sem öfugmæli, skrifaði Jean Paulhan af kaldhæðni) virðist frá upphafi til enda einkennast af þeirri meginreglu að góðum gagnrýnenda beri að skjátlast á kostnað hins góða rithöfundar. Villemain á í ritdeilum við Chataubriand, Brunetière afneitar Stendhal og Flaubert; Lemaitre gerði hið sama við Verlaine og Mallarmé og Faguet gagnvart Nerval og Zola. Og svo við færum okkur nær í tímaröðinni þá nægir að minna á hvernig Croce afskrifaði Rimbaud og Mallarmé í fljótfærniskrifum sínum.

Þegar við horfum okkur enn nær, þá kemur í ljós að það sem virtust vera hrapalleg mistök sýnir sig hins vegar að vera einasta leiðin sem gagnrýnandinn hefur til þess að vera starfi sínu og erfðasök sinni trúr. Ef hann myndi ekki stöðugt flytja listina yfir í skugga sinn, ef hann í viðleitni sinni að greina list frá ekki-list drægi ekki upp þessa mynd af inntaki listarinnar og tæki þannig áhættuna á að rugla þessu saman, þá myndi hin fagurfræðilega hugmynd okkar um listirnar glata allri vigt. Listaverkið finnur ekki lengur grundvöll sinn eins og gerðist á því tímaskeiði þegar listamaðurinn var bundin beinni samsömun við trúna og heildarskilninginn á heiminum, þegar frumlægni listamannsins var í órjúfanlegri einingu við inntakið, þannig að áhorfandinn gat beint og milliliðalaust fundið í verkinu æðsta sannleika eigin vitundar, það er að segja hið guðdómlega.

Hinn æðsti sannleikur listarinnar er nú, eins og við höfum séð í bókarkaflanum hér á undan, hin hreina regla sköpunar-forms, og birtir getu sína einmitt í henni, án tillits til inntaksins. Þetta felur í sér að það sem skiptir meginmáli í listaverkinu er gagnvart áhorfandanum einmitt það sem honum er framandlegt og án nokkurs kjarna, og það sem hann finnur af sjálfum sér í verkinu, það er að segja inntakið sem hann getur grafið út úr því, birtist honum ekki sem sannleikur er finni sína nauðsynlegu tjáningu í verkinu sjálfu, heldur er það eitthvað sem hann er sér fullkomlega meðvitaður um frá sinni hendi sem hugsandi vera og hann finnur sig því sem slíkur vera bæði fullbæran og fullfæran um að tjá. Þannig eru aðstæður hins handalausa Rafaels í vissum skilningi hinar eðlilegu aðstæður áhorfandans á okkar tímum, þess áhorfanda sem er raunverulega annt um listaverkið, og listreynslan getur héðan í frá ekki orðið annað en reynslan af hinum algilda holskurði. „Hinn samkvæmi dómur, þar sem sama persónan er bæði frumlag og andlag“ er óhjákvæmilega einnig (eins og Hegel hafði skilið það með því að yfirfæra díalektík sína um holskurðinn yfir á Rameau) „hinn óendanlegi dómur, því þessi persóna er fullkomlega klofin, og frumlag og andlag eru í sameiningu óskyldir þættir sem eiga ekkert sameiginlegt.“[ix].

Í hinum fagurfræðilega dómi hefur veran-fyrir-sig sem viðfangsefni sína eigin veru-fyrir-sig, sem er samtímis í mynd hins algilda Annars og í eigin veru. Um er að ræða hreinan klofning , og þessi fjarvera allrar undirstöðu ber okkur í það óendanlega að úthafi formsins án þess að ná nokkurn tíman fastalandi.

Ef áhorfandinn gengst undir hina róttæku firringu þessarar reynslu og segir þannig skilið við allt inntak og allt stoðverk, ef hann játast því að gangast undir hinn algjöra öfuguggahátt, þá á hann ekki annan valkost til að endurheimta sjálfan sig – ef hann vill ekki að sjálf hugmyndin um listina fari sömu leið – en að taka eigin þversögn inn á sig í heild sinni. Hann verður þannig að fremja holskurð á eigin holskurði, neita eigin afneitun, bæla eigin bælingu, hann er hinn algildi vilji til að vera annar og hreyfingin sem klýfur í senn. Um leið sameinar hann fiðluna og tréið sem er orðið að fiðlu, trompettinn og blikkið sem eitt sinn vaknaði sem trompett.[x] Í þessari firringu mun hann höndla sjálfan sig og fjarlægjast sjálfan sig um leið.

Rýmið sem ber uppi Safnið felur í sér  linnulausa og algilda afneitun sjálfs sín og annars, þar sem holskurðurinn finnur sína augnabliksfró og áhorfandinn játast sjálfum sér til þess að hafna sér á næsta augnabliki í nýrri afneitun. Það er í þessu ógnvænlega hyldýpi sem hið fagurfræðilega mat okkar á listinni finnur undirstöðu sína. Hin jákvæðu gildi hennar í okkar samfélagi og hin frumspekilega samkvæmni hennar á hinum fagurfræðilega stjörnuhimni hvíla á þrautafullri afneitun þessa tóms sem með erfiðismunum sveimar umhverfis eigin tortímingu. Einungis þetta skref þar sem við náum að stíga til baka inn í skugga verksins endurfærir því í okkar augum þá þekkjanlegu vídd, sem verður okkur viðráðanleg af einhverri skynsemi.

Ef það reynist rétt, að gagnrýnandinn leiði listina til eigin afneitunar, þá verður það einungis í þessum skugga og í þessum dauða sem listin (okkar fagurfræðilega hugmynd um listina) stenst og finnur sinn sannleika. Gagnrýnandinn endar þá með því að líkjast þeim Yfirdómara Rannsóknarréttarins sem í vísu Ivans Karmazovs neyðist til að afneita Kristi þegar hann mætir honum augliti til auglitis, allt í því skyni að gera heim Kristindómsins mögulegan.

***

Þetta taugatrekkjandi en óhjákvæmilega meðal hins fagurfræðilegt mats okkar á listinni virðist hins vegar ganga í gegnum kreppu nú um stundir, sem gæti leitt til sólmyrkva þess og endaloka. Í ritinu Nachlass zu Lebzeiten (sem mætti þýða sem „Eftirlátin rit útgefin í lifanda lífi“) eftir Musil er að finna kaflann Óábyrgar athugasemdir þar sem höfundur spyr sig í hálfkæringi þessarar spurningar: „ef Kitschið væri magnað fyrst í einni og síðan í tveim víddum, yrði það þá ekki þolanlegra og um leið minna Kitsch?“. Musil reynir síðan með kostulegum stærðfræðilegum útreikningi að finna út samhengið á milli listarinnar og listlíkisins (Kitschins) þar til hann kemst að þeirri niðurstöðu að þessi fyrirbæri virðist einmitt vera einn og sami hluturinn. Eftir að hið fagurfræðilega mat hefur kennt okkur að skilja listina frá skugga sínum og það sem er ekta frá hinu óekta, þá fer reynslan nú að stilla okkur upp frammi fyrir þeim ísmeygilega sannleika að það sé einmitt í ekki-listinni sem við finnum frumlegustu fagurfræðilegu tilfinningaviðbrögðin. Hver kannast ekki við að hafa upplifað andspænis Kitsch-verki ánægjulega og frelsandi tilfinningu og játað – andstætt öllum reglum hins fagurfræðilega smekks: þetta verk er fagurfræðilega ljótt, en engu að síður líkar mér það og það hreyfir við mér? Segja má að allt hið óendanlega svið hins ytri heims og hins tilfinningalega næmis okkar, sem hin gagnrýna dómgæsla hafði vísað frá, beint í Limbo ekki-listarinnar, hafi byrjað að öðlast vitund um eigin nauðsyn og eigin díalektíska hlutverk og að hún hafi í uppreisninni gegn harðstjórn hins góða smekks krafist réttar síns.

En það er annað og enn furðulegra fyrirbæri sem nú kallar á umhugsun okkar. Á meðan listaverkið verður þá fyrst skiljanlegt fyrir okkur þegar það hverfur í skugga sinn, þá höfum við aldrei fundið hjá okkur hvöt til að mæla fegurð náttúrulegra hluta (eins og Kant hafði skynjað þá) í samhengi við hin neikvæðu hlið þeirra. Þannig hefur aldrei hvarflað að okkur að spyrja þeirrar spurningar, hvort tiltekið steypiregn væri vel út fært af náttúrunnar hendi, eða hvort tiltekið blóm hefði til að bera mikinn eða lítinn frumleika. Allt vegna þess að dómgreind okkar sá ekki framandleika hinnar formlegu reglu á þessum vettvangi, á meðan slíkar spurningar vakna sjálfkrafa andspænis sérhverju málverki, skáldsögu eða öðru snilldarverki.

Ef við hugleiðum nú hvað þessi reynsla hefur fært okkur, þá sjáum við að öll þessi regluverk virðast með einhverjum hætti vera að snúast á hvolf fyrir augum okkar. Samtímalistin býður okkur æ oftar upp á framleiðslu þar sem ekki er lengur hægt að grípa til hins hefðbundna regluverks fagurfræðilegs mats og þar sem andstæðurnar í tvennunni list og ekki-list virðast allsendis ófullnægjandi. Andspænis ready-made hlutnum, svo dæmi sé tekið, þar sem reglunni um sköpun-form hefur verið skipt út fyrir framandgervingu hins ólistræna hlutar og honum þvingað með ofbeldi inn á hið listræna svið. Þar með stendur hinn gagnrýni dómur berskjaldaður andspænis sjálfum sér, eða nánar tiltekið andspænis eigin mynd á hvolfi: það sem hann á að leiða inn á svið ekki-listar er í rauninni í sjálfu sér ekki-list. Dómsuppkvaðningin felur þá í sér einfalda viðurkenningu á samsemd. Með nýjustu uppátækjum sínum hefur samtímalistin leitt þessa tilhneigingu enn lengra og hefur endað með að framkvæma það reciprocal ready made sem Duchamp fann upp á þegar hann stakk upp á því að nota Rembrandt-málverk sem strauborð. Þróun í átt til beinnar hlutlægni hefur í gegnum göt, bletti, rifur og notkun framandi efna fyrir málverkið leitt til samsvörunar listaverksins við ólistræna framleiðslu. Þegar listin hefur öðlast skilning á eigin skugga tekur hún ósjálfrátt inn á sig eigin afneitun, og fyllir þar með bilið sem skildi hana frá gagnrýninni, þannig að hún verði sjálf logos (rökræn forsenda) listarinnar og skugga hennar, það er að segja gagnrýnin hugleiðing um listina, listina.

Í samtímalistinni er það hinn gagnrýni dómur sem afhjúpar sinn eigin holskurð og þar með afskrifar hann eigið svið og gerir það óþarft.

Samtímis sjáum við gagnstætt ferli eiga sér stað hvað varðar hugsun okkar um náttúruna. Nú þegar við erum ekki lengur fær um að kveða upp fagurfræðilega dóma andspænis listinni, þá hefur skilningur okkar á náttúrunni orðið þokukenndari. Þar sem nærvera mannsins hefur eflst í þeim mæli andspænis landslaginu förum við nú umsvifalaust að mæla náttúruna við skugga hennar. Við spyrjum okkur hvort hún sé fagurfræðilega fögur eða ljót, og það verður sífellt erfiðara fyrir okkur að greina á milli listaverks og steinvölu eða trjábúts sem hefur veðrast fyrir tilverknað efnahvarfa í náttúrunni.

Þannig þykir það nú eðlilegur talsmáti að tala um varðveislu landslagsins  eins og menn hafa talað um varðveislu listaverka, þó þessar tvær hugmyndir hefðu þótt fullkomlega ósamrýmanlegar á öðrum tímaskeiðum.  Og rétt eins og við höfum nú sérstakar stofnanir til forvörslu listaverka, þá mun ekki líða á löngu þar til við eignumst stofnanir til forvörslu náttúrlegrar fegurðar, án þess að við gerum okkur grein fyrir því að þetta feli í sér róttæka breytingu á afstöðu okkar til náttúrunnar, og að getuleysi okkar til að hreiðra um okkur í landslaginu án þess að spilla því og löngunin til að hreinsa það af þessu inngripi séu ekki annað en tvær hliðar á sama peningnum. Það sem áður birtist hinu fagurfræðilega dómsvaldi sem hreinn framandleiki er nú orðið hversdagslegur og náttúrlegur hlutur, á meðan náttúrufegurðin sem var að mati okkar hverdagslegur veruleiki, er orðið eitthvað framandlegt með róttækum hætti: listin er orðin að náttúru, og náttúran er orðin að list.

Fyrsta afleiðing þessara umskipta birtist í því að gagnrýnin hefur sagt sig frá hlutverki sínu, það er að segja því hlutverki að framfylgja þeim dómum sem við höfum skilgreint sem logos (röklega/hugtakslega forsendu) listarinnar og skugga hennar. Þess í stað hefur hún tekið upp á sína arma vísindalegar rannsóknir á listunum í samræmi við kenningar upplýsingafræðanna (sem líta einmitt á listina sem al di qua (=það sem kemur á undan) aðgreiningarinnar á list og ekki-list. Í besta falli höfum við svo rannsóknir á ómögulegri merkingu listarinnar frá ekki-fagurfræðilegum sjónarhóli, sem endar reyndar með því að falla undir merki fagurfræðinnar.

Hin gagnrýna dómgæsla virðist því nú um stundir ganga í gegnum sólmyrkva, þar sem afleiðingarnar og varanleikinn eru ófyrirsjáanleg og bundin hreinum tilgátum. Ein þeirra, og vissulega ekki sú svartsýnasta, er sú að ef við einhendum okkur ekki þegar í stað og af öllum mætti í það verkefni að spyrja okkur hverjar séu grunnforsendur gagnrýnna dóma, þá muni hugmyndin um listirnar sjálfkrafa gufa upp á milli fingra okkar án þess að nokkur önnur hugmynd komi hennar í stað. Nema það gerist að við reynum að draga fram úr þessari þokumóðu þá spurningu sem verður þess megn að brenna til ösku frá höfði til fótar Fönix-fugl hinna fagurfræðilegu dóma og láta fæðast af ösku hans frumlegri og þar með upprunalegri aðferð til þess að hugsa listina.

 

 

[i] Hegel, Estetica, ítölsk útgáfa í ritstjórn  N.Merker, bls 16-18

[ii] Imanuel Kant: Critica della ragion pura, ensk útg. Critique of Judgement (Hafner, 1951) §5, bls 45

[iii]  „Myndastytturnar eru núna liðin lík sem allur lífsandi er rokinn úr, og sálmasöngurinn er orðinn að innantómum orðum sem eru gjörsneydd allri trú. Mötuneyti guðanna hafa nú enga andlega næringu og drykkjarföng á sínum boðstólum, og hvorki leikirnir né hátíðahöldin endurvekja lengur í vitund okkar hina gleðiþrungnu samsemd með kjarnanum. Verk listagyðjanna (Músanna) hafa ekki lengur til að bera þann andlega styrk er vitni um það sjálfstraust er dugi til sjálfstortímingar manna og guða. Allt er þetta nú eins og það var fyrir okkur borið: fagrir afskornir ávextir, ávextir sem vinsamleg örlög hafa lagt á borð fyrir okkur sem fórnargjöf með sama hætti og stúlka nokkur [frá Pompei] bar þá fram. Þeir hafa ekki lengur í sér snefil af raunverulegu lífi, tréið sem þeir uxu eitt sinn á og döfnuðu í er ekki lengur til staðar, hvorki jarðvegurinn né andrúmsloftið né höfuðskepnurnar er mynduðu kjarna þeirra, ekki loftslagið sem ákvarðaði viljafestu þeirra, og ekki heldur þau árstíðaskipti sem stjórnuðu þroska þeirra og vexti. Þannig hafa örlögin ekki endurfært okkur heim þessara verka, örlögin hafa ekki fært okkur það vor og það sumar hins siðræna lífs er kom þeim til að blómstra og þroskast, það eina sem eftir situr er hulin minning þessa veruleika.– Viðleitni okkar til að njóta þessara verka er því ekki falin í þeim guðdómlega átrúnaði er færði vitund okkar hinn fulla og fullkomna sannleika um sig sjálfa. Nú um stundir er sannleikur okkar bundin við það yfirborð sem hrindir frá þessum ávöxtum tilfallandi rykkornum og regndropum. Í stað þeirra innri frumþátta hins siðræna veruleika sem umlukti þesa ávexti, tillífguðu þá og frjóvguðu með andlegum hætti, þá felst viðleitni okkar í að endurreisa endalaus burðarverk þeirra í ytri umbúðum sínum – tungumálið, sagnfræðina o.s.frv. Ekki í þeim tilgangi að taka okkur bólfestu í innsta kjarna þeirra, heldur einungis til að sýna þá í sjálfum sér.“ (Phänomenologie des Geistes,hg. Von J. Hoffmeister, bls. 523)

[iv] Imanuel Kant Kritik der Urteilskraft, § 56

[v] Sama verk, §§ 57 – 59.

[vi] Sjá þriðja kafla í þessu riti.

[vii] Benedetto Croce: Estetica, 9. Útg. Bls. 132

[viii] Þessar athugasemdir má finna í ófullgerðri rannsókn á Saint-Beuve sem Proust var upptekinn af síðustu árin áðuren hann gekk frá Recherche verki sínu (Contre Sainte-Beuve (1954), bls. 160.

[ix] Hegel, Phenomenology of Spirit, bls. 316.

[x] Arthur Rimbaud, bréf til Georges Izambard, 13. Maí 1871: Je est un autre. Tant pis pour le bois qui se trouve violon“ (Ég er annar. Þeim mun verra fyrir tréið sem fann sig orðið að fiðlu). Bréf til Paul Demeny, 15. Maí 1871: „Je est un autre. Si lecuivre s‘éveille clairon“. (Ég er annar, ef blikkið vaknar sem lúður). Bæði bréfin er að finna í Arthur Rimbaud, Oeuvres, ritstj. Suzanne Bernard, París 1964, bls. 344-45.

Í vökudraumi hinna kyrru vatna – Georg Guðni

Grein um málaralist Georgs Guðna í tilefni sýningar í Hallgrímskirkju 2011, skömmu eftir sviplegt fráfall hans

Þessi draumkennda sýn inn í einhvern óskilgreindan fjarska þar sem himinn og jörð mætast og renna saman í eitt í mannlausri auðn, hvert leiðir hún okkur?

Hún leiðir okkur á vit vökudraumanna, þeirra vökudrauma sem tengjast hinu frumlæga og upprunalega, vökudrauma bernskunnar áður en heimsmyndin splundraðist  og draumunum var úthýst úr tilveru okkar í nafni sundurgreinandi rökhyggju og fullvissu þess að jörðin væri bara jörð og himininn bara himinn og að vera mannsins ætti enga hlutdeild í hvoru tveggja, hvað þá að við gætum upplifað okkur sem eitt með alheiminum.

Þessi draumkennda sýn talar til okkar í þögn sinni, því orðin ná ekki að skilgreina hana. Að því leyti hafa myndir Georgs Guðna einkenni táknmyndar sem sameinar andstæður og hlaupast þannig undan sérhverri  tilraun orðanna til að skilgreina merkinguna. Þessar andstæður birtast okkur í yfirþyrmandi nærveru málarans í verkinu og óendanlegri fjarlægð sjóndeildarhringsins sem leysist upp og verður eitt með himninum handan alls snertanleika. Táknmyndin er ekki til staðar eins og hlutur sem hægt er að túlka út frá skilgreindu merkingarmiði,  hún er atburður sem býður sig fram til upplifunar um leið og hún kallar á þögn okkar. Táknmyndin gerist innra með okkur og er hvergi annars staðar. Georg Guðni lýsir þessu fyrir okkur í tilvitnun í dagbókarfærslu sinni frá 8. janúar 1989. Þar segir hann:

Ég er úti, stend eða sit á steini.

Ég horfi í kringum mig á sjóndeildarhringinn, víðáttuna, fjöllin.

Sum standa nálægt önnur fjær.

Ósjálfrátt fer hugurinn (sálin) að reika, kannski svífa um.

Ég fer út í fjarlægðina út í eilífðina þar sem fjöllin hafa órjúfandi kyrrð,

þar sem þau eru jafnvel hætt að vera fjöll, þau eru loftkennd.

Ég fer inn í þau í gegnum þau.

Það sem býr í fjallinu er líka fyrir utan það

í kyrrðinni líka ógn og drungi.

Í loftinu rúmast allar hugsanir heimsins.

 

Þessi trúverðuga lýsing á upplifun málarans, þegar hann var aðeins 27 ára gamall, fjallar ekki um hina tilbúnu landslagsmynd, sem ljósmyndirnar og landafræðin hafa kennt okkur að nota til að skilgreina náttúruna og það sem við sjáum hugsunarlaust. Hún fjallar ekki um lýsingu landslagsins, heldur þann sýnileika sem verður til í gegnum veru mannsins í náttúrunni og í gegnum það gagnvirka samband, sem þar á sér stað, hún fjallar um það hvernig náttúran og vera mannsins í henni verða óaðgreinanleg þegar maðurinn finnur sig eitt með því sem hann sér um leið og hann skynjar óravíddir þess.  Án veru mannsins, hreyfingar augnanna og hreyfingar líkama okkar verður ekkert rými, engin náttúra. Málarinn upplifir rýmið með hreyfanlegum líkama sínum en gerir sér um leið grein fyrir vídd þess og fjarveru. Veran í náttúrunni fær okkur til að upplifa nærveru og handanveru í senn, sterkari nærveru en nokkur ljósmynd getur gefið,  en  jafnframt meiri og áþreifanlegri fjarveru en nokkur ljósmynd eða landlýsing fær miðlað.  Þetta er þversögn sem franski heimspekingurinn Maurice Merleau-Ponty hefur  meðal annars orðað svona:  „Málarinn, hver sem hann er, framkvæmir töfrakenningu sjónskynsins á meðan hann er að mála. Og þar sem hann hættir aldrei að skipa hlutunum í samræmi við skyggnigáfu sína, þá verður hann að játast  því … að annað hvort streyma hlutirnir í gegnum hann, eða þá að andinn fer úr augum hans og spássérar meðal hlutanna.“ [1]

Landslagsmálverkið hefur ekki átt upp á pallborðið í myndlist þeirrar kynslóðar sem Georg Guðni tilheyrir, en hann áttaði sig fljótt á því að spurningin snérist ekki um landslag eða ekki landslag í hefðbundnum skilningi, heldur um sjálfan kjarna málaralistarinnar, þá spurningu hvernig nýr sýnileiki verður til og hvernig hann tengist ytra umhverfi okkar annars vegar og líkamlegri veru  okkar  í rýminu hins vegar. Rétt eins og Merleau-Ponty veltir fyrir sér hvaða spurningar það voru sem Cézanne lagði fyrir St. Victoire fjall, sem hann málaði mörg hundruð sinnum, þá getum við velt því fyrir okkur  hvaða spurningar það voru sem fjallið og sjóndeildarhringurinn vöktu hjá Georg Guðna, þessi viðfangsefni sem öll hans myndlist snýst um. Merleau-Ponty segir að spurningar Cézanne hafi snúist um eitt: hvaðan koma þessi meðöl sýnileikans sem þrengja sér inn í líkama okkar og vekja upp svo stranga og uppáþrengjandi nærveru um leið og við vitum að fjallið og sjóndeildarhringurinn er nokkuð sem við fáum aldrei höndlað bókstaflega í allri sinni ómælisvídd.  Það er styrkleiki Georgs Guðna sem málara að hann vék sér aldrei undan að spyrja þessarar spurningar, og því ágengari sem spurningar hans urðu, því víðfeðmari og dýpri urðu myndir hans og því stærri varð ráðgátan. Georg Guðni  skildi mæta vel að spurningin  snérist ekki um landslagið heldur um sjálfan kjarna málaralistarinnar og verunnar í senn.  Ofangreind dagbókarfærsla frá 1989 kallast á við orð Paul Klee, sem franski málarinn André Merchant hafði eftir honum: „Oft þegar ég hef verið staddur í skógi, hef ég fengið þá tilfinningu að það væri ekki ég sem horfði á  skóginn. Suma dagana hef ég fengið þá tilfinningu að það væru trén sem horfðu á mig, sem töluðu til mín… Ég var þar og hlustaði… Ég held að málarinn verði að láta alheiminn streyma í gegnum sig í stað þess að ætla sér að sökkva sér í gegnum hann… Ég bíð þess að verða vitsmunalega kaffærður innvortis, grafinn. Kannski mála ég til þess að fæðast.“

Sýnileikinn verður ekki til í augum okkar og hann verður heldur ekki til í fjallinu eða sjóndeildarhringnum, hann verður til í þeirri víxlverkun sem blossar upp þegar rýmið lifnar og tekur á sig mynd með hreyfingu augnanna og líkamans. Ráðgátan er ekki  falin í landslaginu og heldur ekki í þeirri hugsun okkar er kynni að draga upp  fyrir augliti okkar fyrirfram hugsaða mynd af landinu og himninum,  heldur í  þeim sýnileika sem kviknar á milli hins séða og þess sem sér, sýnileika sem er í senn eins og staðfesting á veru okkar í heiminum sem órofa hluti hans og staðfesting á hverfulleika hans um leið. Sýnileikinn verður til úti á meðal hlutanna, í fjallinu og sjóndeildarhringnum um leið og hann verður til í líkama okkar og tekur breytingu við sérhverja hreyfingu hans.  Þetta er það leyndardómsfulla ferli sem er endurtekið í því líkamlega vinnsluferli sem falið er í málverkinu og  Georg Guðni líkir við sögu jarðlaganna og sögu tímans, þar sem pensilstrokurnar leggja hvert lagið á fætur öðru af hálfgagnsæjum lit yfir  léreftið  eins og til að fella sögu tímans og sögu jarðlaganna inn í heildina og láta hana fanga allan heiminn í eina mynd. „Það þarf að ná himninum niður á jörðina, ofan í dalina og fylla hverja glufu með himni“ segir hann í einni dagbókarfærslu sinni. Þessi fylling er um leið tómið á milli hins séða og þess sem sér, þetta bil á milli verunnar og ekki verunnar sem öll tilvera mannsins snýst um og tekur á sig þessar draumkenndu myndir málarans.

Myndir Georgs Guðna eru draumkenndar vegna þess að þær þurrka út hefðbundin flokkunarmörk okkar á milli þeirra þátta sem í þeim búa.  Þær sýna það sem skilgreiningaráráttan segir ósýnilegt og ekki til staðar. Himininn fyllir hverja smugu,  tengir saman himinn og jörð þannig að við hættum að greina þar á milli. Um leið hverfa mörkin á milli sjáandans og þess sem er séð og við finnum jafnframt hvernig fjarskinn í myndinni hverfur djúpt inn í vitund okkar sjálfra um leið og hann leiðir okkur út í óendanleikann og þá eilífð sem er langt fyrir utan allar mælanlegar vegalengdir. Við sjáum yfirborð innrýmisins og innrými úthverfunnar í einni og sömu sýninni.

Sérstaða Georgs Guðna  í íslenskri myndlist er sú að honum tókst með trúverðugum hætti að kenna okkur að dreyma á ný, eða svo notuð séu orð franska heimspekingsins Gastons Bachelard , að kenna okkur að „yfirstíga mörkin og ganga til baka á móti straumnum,  að endurheimta það mikla lón hinna kyrru vatna þar sem tíminn tekur  á sig náðir og hættir að streyma. Og þetta stöðuvatn býr innra með okkur, eins og frumlægt uppistöðulón, eins og staðurinn þar sem kyrrstæð frumbernskan hefur framlengt dvöl sína.[2]

Georg Guðni Án titils 1995

Georg Guðni: Án titils, 1995

[1] Maurice Merleau-Ponty, LŒil et l‘Espirit, 1964, hér úr ítalskri þýðingu Önnu Sordini, Milano 1989, bls. 24

[2] Gaston Bachelard, La poétique de la rêverie, 1960,  hér úr ítalskri þýðingu Giovanna Silvestri Stevan 1993, bls. 121

Forsíðumynd: Georg Guðni; Án titils, 2003

Einar Garibaldi í Gallerí Ágúst 2012

Ósýnilegar borgir

Sýning Einars Garibalda í Gallerí Ágúst 2012

 

„Það dugar ekki að hafa augun opin il þess að sjá borg. Fyrst af öllu þarf að kasta frá sér öllu því sem hindrar okkur í að sjá hana, öllum hugmyndum sem við höfum meðtekið, öllum þeim fyrirfram tilbúnu myndum sem halda áfram að byrgja útsýnið og getu okkar til þess að skilja.“

Italo Calvino[1]

 

Í frásögn ítalska sagnameistarans Italo Calvino, sem hann kallar „Hinar ósýnilegu borgir“ hittum við fyrir mesta ferðalang allra tíma, feneyinginn Marco Polo, og yfirboðara hans, Kublai Khan keisara, sem réði yfir keisaradæmi tartara er náði vítt og breitt um Austurlönd, Mið-Asíu og langt inn í Evrópu. Það sem hrjáði þennan mesta valdsmann heimsbyggðarinnar á þessum tíma, svo að hann unni sér ekki  hvíldar, var sú staðreynd, að hann þekkti hvorki né skildi allar þær fjölmörgu og fjölbreytilegu borgir sem tilheyrðu keisaradæmi hans.

Því hafði hann gert landkönnuðinn Marco Polo að sérlegum sendifulltrúa sínum og þráði ekkert framar en að sitja undir endalausum frásögnum hans og lýsingum á hinum ósýnilegu borgum keisaradæmisins. Aðeins einn vandi skyggði á þessar samverustundir keisarans og sendifulltrúa hans, en hann var sú staðreynd að þeir töluðu ekki sama tungumál.

Til að leysa þennan vanda beitti Marco Polo öllu sínu hugviti sem birtist meðal annars í hinu fjölbreytilegasta látbragði og hljóðmerkjum sem hann gaf frá sér og tengdi síðan við ríkulegt safn framandi muna er hann hafði safnað að sér á ferðum sínum: hvort sem það voru hin ísmeygilegu kokhljóð sjakalans, holgóma væl náttuglunnar eða önnur framandleg dýrahljóð og taktsláttur, þá tengdi Marco Polo þessi hljóð sín listilegu látbragði og kollsteypum og því fjölbreytilega minjasafni sem hann dró jafnharðan úr pússi sínu og lagði fyrir keisarann, en það voru strútsfjaðrir, kristallar, örvamælar, stundaglös, hálsmen með villisvínatönnum, trumbur,  þurrkaðir fiskar, jurtir og dýr og ótalmargt fleira. Allt varð þetta honum að óviðjafnanlegum tækjum til að draga upp myndir af þeim ósýnilegu borgum sem líktust engu því sem keisarinn hafði áður séð né heyrt af.

Það sem Kublai Khan kunni best að meta við frásagnir ferðalangsins var hins vegar ekki sjálft látbragðið, hljóðmerkin og munirnir, heldur öllu fremur rýmið sem hann fann inn á milli hlutanna sem voru lagðir fyrir hann eins og taflmenn á skákborði og tómið sem hann fann á milli orðanna og hljóðanna, þetta tóm sem gaf honum tækifæri til að ferðast á milli hlutanna og orðanna með hugsanir sínar, láta sig villast, nema staðar til að anda að sér fersku lofti eða einfaldlega láta sig hverfa. Best af öllu kunni hann þó að meta þagnirnar sem þeir áttu saman.

Þegar Marco Polo hafði smám saman lært að tileinka sér hrafl í mállískum tartaranna gerði keisarinn sér hins vegar grein fyrir því að sérhvert skiljanlegt orð sem hraut af munni sögumannsins kallaði upp í minni hans fyrsta látbragðið eða fyrsta furðugripinn sem Marco Polo hafði tengt við staðinn. Upplýsingar orðanna gerðu lítið annað en að gefa upprunalegu vísununum skýrari merkingu. Því sótti sú spurning á keisarann, hvort það gæti verið að keisaradæmi hans væri ekki annað en „dýrahringur í draugagangi hans eigin hugsana“. Hann lagði því þessa spurningu fyrir Marco Polo: „Þegar sá dagur rennur upp er ég hef öðlast þekkingu á öllum merkjunum, mun ég þá ná valdi yfir öllu keisaradæmi mínu í raun og veru?“ Og Marco Polo svaraði: „Herra, þér skuluð ekki trúa því: þann daginn verðið þér sjálfir orðnir að merki á meðal merkjanna.“[2]

Nú er landkönnuðurinn og listmálarinn Einar Garibaldi kominn úr löngu ferðalagi sínu á meðal listaborga Ítalíu og mættur í Gallerí Ágúst, þar sem hann dregur upp úr pússi sínu „fundin málverk“ sem rekja fyrir okkur það ferðalag sem í eina tíð var kennt við „Grand Tour“: rétt eins og hinir menntuðu ferðalangar 18. og 19. aldar hefur hann á 12 ára ferðalagi sínu þrætt helstu listaborgir Ítalíu allt frá Torino í norðri til Palermo í suðri, og í hverri borg hefur hann fundið eitt málverk sem gefur okkur tækifæri til að endurupplifa ekki bara borgirnar, heldur líka allt þetta langa ferðalag. Svo undarlega vill til, að öll málverkin sýna okkur myndir sem fljótt á litið virðast eins. En við nánari skoðun kemur í ljós að svo er alls ekki. Ekki bara að málverkin séu í ólíkum stærðum, heldur eru líka smávægileg frávik í útfærslu myndefnisins, auk þess sem sú veðrun og hnjask sem hver mynd fyrir sig hefur mátt sæta á sínum upprunalega stað gefur myndunum ólíkt yfirbragð.

Engu að síður er myndefnið í öllum grundvallaratriðum það sama: pensill sem dregur línu á milli vegarhelminga. Málverkin hafa öll gegnt því hlutverki í sínu upprunalega umhverfi að draga mörkin á milli þess vegar sem er merktur og þess vegar sem er ómerktur og býður því upp á óvissu og hættur. Upprunalega voru þetta stöðluð vegaskilti sem Einar hefur tekið í leyfisleysi, rétt eins og ferðalangurinn Marco Polo, sem flutti með sér kristalla, strútsfjaðrir og þurrkaða fiska til að sýna keisara sínum og auka þannig þekkingu hans á keisaradæminu.

En ekki nóg með það. Myndefnið sem Einar hefur valið í hinum fundnu málverkum sínum verður í sínu nýja samhengi að margræðri táknmynd. Málverkin vísa ekki bara til viðkomandi borgar, heldur líka til málaralistarinnar sem slíkrar, þar sem þau sýna öll sama pensilinn og pensilfar hans. Og pensilstrokan sem slík gefur vegslóða okkar til viðkomandi borgar merkingu bæði í eiginlegri og óeiginlegri merkingu: við vitum að við þetta skilti endar hin merkta slóð, skiltið er merki sett upp til að vara okkur við hættum sem felast kunna í hinu ómerkta landslagi, því borgarlandslagi sem aldrei hefur hafnað undir stroku og pensilfari málaralistarinnar. Merking skiltanna er ótvíræð, en í kring um þessi fundnu málverk má einnig finna umtalsvert rými fyrir hugsanir okkar, ekki síður en í bilinu á milli furðuhluta Marco Polos og veruleika hinna ósýnilegu borga.

Sýning Einars er hylling til þess tímabils rómantísku stefnunnar þegar allir þeir sem vildu teljast alvöru listmálarar lögðu á sig Grand tour ferðalag eins og hér er boðið upp á. Þau ferðalög fæddu af sér hina miklu hefð landslagsmálverksins í evrópskri málaralist. Þessi tími fæddi líka af sér stórbrotna hugsuði um merkingu málaralistarinnar á þessum tíma, og vildi ég ljúka þessum pistli með tilvitnun í einn þeirra, þýska heimspekinginn Friedrich Schelling:

Afstöðu listamannsins til náttúrunnar væri oft hægt að skýra með því að benda á að listin verður – til þess að geta talist slík – fyrst að fjarlægjast náttúruna, til þess að hverfa til hennar á ný í eigin fyllingu. Hin raunverulega merking þessarar ábendingar virðist leiða af sér eftirfarandi:

Í öllum fyrirbærum náttúrunnar sýnir hið lifandi hugtak sig einungis í blindni. Ef það gerðist með sama hætti hjá listamanninum, þá myndu verk hans í raun ekki vera frábrugðin náttúrunni. Ef hann vildi gangast meðvitað undir raunveruleikann í einu og öllu, og endurskapa af fullkominni trúmennsku allt það sem hann sér, þá myndi hann vissulega geta skapað lirfur og orma, en ekki listaverk. Því verður hann að fjarlægjast viðfang sitt, en einungis í þeim tilgangi að hefja sjálfan sig upp í hæðir sköpunarkraftsins til þess að skilja viðfangið andlegum skilningi. Í þessum tilgangi færir listamaðurinn sig yfir á svið hreinna hugtaka. Hann yfirgefur viðfangið til þess að endurheimta það með miklum ávinningi, og í þessum skilningi þarf hann alltaf að hverfa aftur til náttúrunnar.[3]

Einar Garibaldi Grand Tour Rimini 1998

Einar Garibaldi: Rimini – Grand Tour, 1998

[1] Italo Calvino: Com’è bella la tua città, Nuova Società, Torino 1977. (http://www.larici.it/itinerari/calvino/index.htm)

[2] Italo Calvino: Le città invisibile, Mondadori editore, Milano 2002, bls. 22

[3] Friedrich Schelling: Über das Verhältnis der Bildenden Kunst zu der Natur. 1807, hér þýtt úr Le arti figurative e la natura, í ítalskri þýðingu Giampiero Moretti, útg. Palermo 1989, bls 50

Forsíðumynd: Einar Garibaldi; Roma, Grand Tour

Augu mín opnuðust og ég sá hin fögru löndin – Tómas Sæmundsson

Augu mín opnuðust og eg sá hin fögru löndin

Grand Tour Tómasar Sæmundssonar

Tómas_Sæmundsson úr Andvara 1888

Tómas Sæmundsson. Koparstunga merkt H.P. Hansen, birtist í tímaritinu Andvara 1888.

(Grein þessi var upphaflega rituð fyrir hátíðarrit Skandinaviska föreningen i Rom, sem gefið var út af Carlsson Bokförlag í Stokkhólmi 2010 í tilefni 150 ára afmælis félagsins. Þar birtist stytt útgáfa greinarinnar í danskri þýðingu Niels Vendelbjerg. Sjá:Till Rom – Nordiska konstnärer i Rom under 150 år, bls 61–85. Greinin birtist í eftirfarandi mynd í bókmennta-tímaritinu Skírni, haustútgáfa 2012. Ég vil þakka Kjartani Ólafssyni fyrrv. ritstjóra fyrir yfirlestur og góð ráð.)

 

Nú ert þú kominn burt úr hinum mjúku móðurhöndum fósturjarðarinnar, og jafn snart sagði hjarta mitt mér, að hvað sem lægi fyrir mér að sjá af fegurð landa og staða, þá yrði hún mér þó ætíð í allri sinni fátækt dýrlegasti bletturinn á jarðríki.

Tómas Sæmundsson í bréfi til föður síns, Kaupmannahöfn 30. ágúst 1827

 

Árið 1832 hélt íslenski guðfræðikandidatinn Tómas Sæmundsson í tveggja ára ferðalag frá Kaupmannahöfn suður um meginland Evrópu til Ítalíu og í Miðjarðarhafssiglingu frá Napoli með viðkomu í Grikklandi, Tyrklandi, Möltu og Sikiley og síðan landleiðina frá Napoli um Róm með viðkomu í París og London á heimleiðinni til Kaupmannahafnar og þaðan til Íslands. Tómas kom til Rómar um svipað leyti og H.C. Andersen. Hann var í reglulegu sambandi við Bertel Thorvaldsen veturinn 1833, þegar hann var að vinna að stofnun Danska bókasafnsins í Róm, sem var forveri Skandinavisk forening. Tómas var fyrsti Íslendingurinn með klassíska menntun sem tókst á hendur slíkt ferðalag. Hér er brugðið upp mynd af ferðalaginu, og hvernig Ítalía og Miðjarðarhafslöndin komu þessum unga Íslendingi fyrir sjónir.

 

Íslenskt veganesti

Þegar Tómas Sæmundsson steig á skipsfjöl í fyrsta skipti á ævinni og sigldi til framhaldsnáms í guðfræði og heimspeki við Kaupmannahafnarháskóla í ágústmánuði 1827 kvaddi hann land sem hvorki átti sér borg né akvegi, bændasamfélag sem ekki þekkti iðnbyltingu 18. og 19. aldar og átti fáan húsakost er þætti boðlegur á meginlandi Evrópu. Íbúafjöldi eyjarinnar losaði rúm 50 þúsund, þar af voru íbúar Reykjavíkur um 600 og bjuggu í húsaþyrpingu sem myndaði þrjár götur: Aðalstræti, Strandgötuna (Hafnarstræti) og Löngustétt (Austurstræti). Einungis 40 hús í bænum voru byggð úr öðru byggingarefni en tilfallandi torfi, ótilhöggnu grjóti og rekaviði. Sjálfur var Tómas tvítugur bóndasonur af Suðurlandi og átti að baki tveggja vetra skólagöngu hjá prestinum í Odda á Rangárvöllum og 4 vetra nám í Bessastaðaskóla á Álftanesi, þar sem hann hafði lært bæði latínu og grísku, málfræði, stærðfræði, eðlisfræði og guðfræði. Hann þekkti vart annað af Íslandi en Suðurlandsundirlendið, Álftanesið og Reykjavík og ekki önnur farartæki en hestinn. Það er nánast útilokað að ímynda sér á okkar tímum hvaða tilfinningar og væntingar bærðust í brjósti þessa unga sveins á siglingunni til Hafnar, en þangað kominn var hann ekki í nokkrum vafa um að þetta örsnauða og harðbýla land á hjara veraldar væri „dýrlegasti bletturinn á jarðríki“. Þetta var upphafið að sjö ára útivist (með stuttri sumardvöl á Íslandi 1829) sem átti eftir að verða einhver sú viðburðarríkasta sem sögur fara af meðal Íslendinga á 19. öldinni. Allan þann tíma átti Ísland hug hans og hjarta, og það fór aldrei á milli mála hjá Tómasi að tilgangurinn með menntun hans í Kaupmannahöfn og ferðalaginu um meginland Evrópu, Ítalíu Grikkland og Tyrkland, var fyrst og síðast að gera hann hæfari til að þjóna fósturjörðinni.

Vegarnesti hans var íslensk bændamenning eins og hún gerðist best á þessum tíma, vinnusemi, nægjusemi og lestur guðsorðabóka í bernsku, klassísk framhaldsmenntun í anda upplýsingarinnar á Bessastöðum. Hann tók með sér sagnaarf Íslendinga og þekkingu á söguljóðum Hómers sem Sveinbjörn Egilsson kennari hans hafði þýtt á íslensku. Og hann tók með sér kunnáttu í tungumálum og frjálslynda lúterska guðfræðikenningu, sem Jón Jónsson skólameistari á Bessastöðum hafði innrætt honum. Eftir ársdvöl í Kaupmannahöfn skrifar hann árið 1828 til vinar síns Jónasar Hallgrímssonar sem þá var enn í Bessastaðaskóla:

Eg sé að sönnu að alt er hér betra og þægilegra, þegar peninga ekki skortir, en ég hef samt svo mikla löngun til að finna kerlinguna hnarreistu heima, hana móður okkar; ég vil heldur lifa í sulti og seyru í kaföldunum þar, en í þessari paradís eða réttara sagt í þessum glaumi og skarkala – í þessu ólguhafi hvar óbilugustu klettarnir sem maður ætlar að grípa og halda sér fast við, þegar í ramman rekur, falla um koll og svíkja mann við minnsta iðukast; nei, hér vil ég ekki vera! (T. S. 1907: 46–47)

Þrátt fyrir yfirlýsingar á borð við þessa naut Tómas lífsins og þeirrar aðstöðu sem hann hafði við Kaupmannahafnarháskóla, þar sem hann lagði höfuðáherslu á guðfræði- og heimspekinám, en var auk þess vakandi og opinn fyrir öllum þeim fróðleik og allri þeirri menntun sem honum stóð til boða. Sá háskólakennari sem virðist hafa haft mest áhrif á Tómas var guðfræðikennarinn H.N. Clausen sem taldist frjálslyndur guðfræðingur af rómantíska skólanum og hafði andæft gegn altækri rökhyggju upplýsingarinnar eins og hún birtist til dæmis hjá Grundtvig. Clausen hafði verið nemandi Schleiermachers hins þýska sem Tómas átti eftir að hitta í Berlín og hrífast af. Tómas fór eina ferð til Íslands sumarið 1829 og fór þá ríðandi norður í land með viðkomu í Garði í Aðaldal, þar sem hann kynntist Sigríði Þórðardóttur, dóttur sýslumannsins í Norður-Þingeyjarsýslu. Munu þau hafa trúlofast á laun, og beið Sigríður eftir heitmanni sínum í fimm ár, en hann kom ekki aftur í Aðaldalinn fyrr en alkominn úr utanlandsferðum sínum í október 1834, þegar þau gengu í hjónaband. Tómas lauk guðfræðiprófi með „besta karakter“ í janúar 1832, 24 ára gamall, og var þá þegar farinn að huga að ferðalagi um meginland Evrópu. Ekki til þess að tefja fyrir heimferðinni, þar sem heitkonan beið hans, heldur þvert á móti til að auka við menntun sína og þekkingu á menningarmálum almennt og helstu tungumálum álfunnar, þýsku, ítölsku, frönsku og ensku „svo eg geti haft fullt gagn af bókverkum þeirra, en til þessa er hið einasta tilhrökkvandi meðalið að uppihalda sér 1–2 ár meðal þeirra. […] Utanlandsreisa upp á 1 eða 2 ár er fyrir öllum hér það sem rekur lestina, og heyrir nauðsynlega með til að stúdera heilt út,“ segir hann í bréfi til föður síns vorið 1832 (T. S. 1907: 99 og 101).

 

Hugmyndin um ferðina miklu

Þótt Tómas segi föður sínum að slíkt ferðalag tilheyri almennu námi átti hugmynd hans að ferðinni sér enga hliðstæðu meðal íslenskra námsmanna í Kaupmannahöfn á þessum tíma. Til ferðarinnar þurfti bæði fjárráð og áræði, og telja má víst að það hafi verið áræði Tómasar og kjarkur sem einnig gerði honum kleift að fjármagna ferðina, sem kostaði þegar upp var staðið um 1500 ríkisdali (sem samsvaraði kaupverði þriggja meðalstórra jarða á Íslandi samkvæmt Jóni Helgasyni). Það voru faðir hans, vinir og velgjörðarmenn sem lánuðu honum fé til fararinnar, og trúlega einnig væntanlegur tengdafaðir hans, sýslumaðurinn í Aðaldal. Tómas fékk engan opinberan styrk til ferðarinnar. Faðir hans taldist vel stæður bóndi á íslenskan mælikvarða og væntanlegur tengdafaðir hans var embættismaður konungs, og sjálfur var Tómas slíkum gáfum gæddur að hann gat ótrauður stefnt til metorða á Íslandi eftir heimkomuna. En það sem greiddi götu hans best var áræðið og óslökkvandi fróðleiksfýsn sem takmarkaðist ekki við höfuðáhugasvið hans, guðfræðina og heimspekina, heldur birtist einnig í vakandi áhuga á framgangi allra vísinda, svo og verklegra framkvæmda og á bókmenntum, siðum og háttum þeirra þjóða sem hann heimsótti. Eftir heimkomuna hafði Tómas vetrardvöl í Garði í Aðaldal og mun hafa notað tíma sinn þar til að skrifa það handrit sem hann skildi eftir sig ófullklárað þegar hann lést, langt fyrir aldur fram 1841, þá 34 ára gamall eftir sex ára starf sem sóknarprestur að Breiðabólstað í Fljótshlíð, nálægt bernskuslóðunum. Handritið rekur hluta af ferðasögu hans en var um leið hugsað sem alþýðlegt alfræðirit um evrópska samtímamenningu, og er því sem slíkt einstök heimild um sýn íslensks menntamanns á samtíma sinn. Handritið var ekki prentað fyrr en rúmum 100 árum síðar (T. S. 1947) og kom því aldrei fyrir sjónir samtímamanna Tómasar, en viðhorf sín til samtímans birti hann hins vegar í tímaritinu Fjölni sem hann gaf út ásamt þrem boðberum þjóðfrelsis og rómantíkur á Íslandi, skáldinu Jónasi Hallgrímssyni og fræðimönnunum Konráð Gíslasyni og Brynjólfi Péturssyni. En tímarit þetta kom út árlega 1835–39 og aftur 1843–47 og markar upphaf þeirrar þjóðernisvakningar á Íslandi sem lyktaði með sjálfstjórn 1918 og stofnun lýðveldis 1944. Þar var fjallað jöfnum höndum um bókmenntir, stjórnmál og samfélagsmál á alþýðlegan en hvatvísan hátt í anda rómantísku stefnunnar.

 

Hinn rómantíski bakgrunnur

Fyrsta útgefna ritverk Tómasar kom þó út á dönsku árið 1832, skömmu áður en hann hélt í suðurgöngu sína. Ritgerðin Island fra den intellectuelle Side betragtet virðist skrifuð um svipað leyti og hann lauk kandídatsprófi og fjallar einkum um mikilvægi og skipulagningu menntamála á Íslandi. Ritgerðin lýsir þeim nýja metnaði og stolti fyrir hönd þjóðarinnar, sem átti eftir að einkenna útgáfu Fjölnis, og á milli línanna má lesa þann eldmóð sem rómantíska stefnan hafði blásið þessum kornunga menntamanni í brjóst. Í lok ritgerðarinnar, sem augsýnilega er skrifuð fyrir dönskumælandi lesendur, er dregin upp eftirfarandi mynd af Íslandi, sem fróðlegt er að skoða í ljósi þeirrar myndar sem Tómas átti eftir að draga upp af helstu menningarborgum álfunnar, Berlín, Róm, Konstantínópel, París og London:

Farsæld er möguleg á Íslandi: það er ekki svo stjúpmóðurlega úr garði gert sem menn vilja oft vera láta. Aðeins sá, sem sér auðlegð náttúrunnar einungis í ávaxtatrjám og kornökrum, getur neitað Íslandi um gæði hennar. Þegar ég lít vítt og breitt um sviðið í kring um mig og sé grænar fjallshlíðarnar, sem eru hvítdoppóttar af litríku sauðfé; þar sem yfirsveimandi fuglagerið hefur umbreytt dökkum hömrunum í hvítt, eins og til að fela fyrir sjónum okkar hvar snjórinn byrjar; þar sem fuglarnir í mergð sinni myrkva sólina eins og staðgenglar skýjanna sem fjallatopparnir hafa rænt himninum. Eða hvernig laxa- og silungatorfur forða sér undir vatnsyfirborðið til að verjast loftárásum þeirra yfir fjallavatninu, læknum eða hægfljótandi ánni, þar sem þeir fela sig í malarbotninum. Eða hvernig æðurin kennir ungunum sínum sundtökin við fæðingarsker sín, til þess að geta sem fyrst skilað skerinu til eiganda síns; eða hvernig þorsktorfurnar leita skjóls og dauða í kjöltu hins skelfda fiskimanns undan gráðugum kjafti hvalanna, þar sem þorskurinn stekkur sjálfviljugur upp í bátinn eins og til að sýna hversu miklu fremur hann kjósi meðferð fiskimannsins og þann milda dauða sem hann getur fært honum. Sannlega segi ég ykkur, að þegar ég sé allt þetta, finn ég mig ekki í neinni dauðri eyðimörk, sem hugmyndaflugið geymir. Nei! Þá kemst ég fyrst í áþreifanlega snertingu við lífið í alheiminum, þetta líf sem gegnsýrir alla náttúruna. Þá heyrir mitt líkamlega eyra og þá sér mitt líkamlega auga það sem Sálin fær einungis hugboð um við áhorf  jurtanna; þá verð ég þess fullviss að hin íslenska náttúra mun ekki skilja börn sín eftir án þeirra efnislegu gæða er gera áhyggjulaust og hamingjuríkt líf mögulegt, og að þau munu geta höndlað það sem þeim hingað til hefur verið synjað um, þegar þau hafa með menningunni lært að nýta sér gæði hennar. Menningin er möguleg á Íslandi; því af sínu náttúrlega upplagi er Íslendingurinn ekki ver úr garði gerður en aðrir íbúar jarðarinnar, og í því sem hér á undan var ritað hef ég reynt að varða leiðina til framfara miðað við aðstæður. Hvað siðferðisvitundina snertir, þá mun engin efast um hana, þar sem hún byggir á manninum sjálfum, en það er einmitt hin íslenska náttúra og lyndiseinkunn landsmanna sem mun næra hana. Íslensk náttúra hvetur vart til þess að menn setji sér yfirborðskenndar lífsnautnir hins ríka sem æðstu siðferðismarkmið. Hún mun án efa vera til þess fallin að beina huganum hærra og viðhalda alvöru hans. Þannig hefur náttúran í reyndinni mótað þjóðarskapgerðina: sú innhverfa, djúphygli og trúarlega vitund, sem oft mætir okkur, eru mótaðar af henni, einkenni sem geta ekki annað en létt undir dyggðugu líferni, þegar menn hafa með fullum skilningi numið heilagleika skyldunnar. Þannig verða Upplýsing og Menning forsendur alls hins – forsendur sem ég gekk út frá í upphafi og liggja til grundvallar því sem á eftir fer, en réttmæti þess vildi ég sanna frá upphafi máls míns og stæri mig nú af að hafa sannað. (T.S. 1832)

Rétt er að vekja athygli á að sú ljóðræna mynd frá árinu 1832, sem hér er dregin upp, svipar mjög til tveggja höfuðverka Jónasar Hallgrímssonar, ljóðanna Ísland sem birtist fremst í fyrsta tölublaði Fjölnis 1835, og Gunnarshólma sem birtist fyrst í 4. árgangi Fjölnis 1838. Textinn sýnir hvílíkur áhrifavaldur Tómas hefur verið á Jónas, bæði hugmyndalega og fagurfræðilega. Páll Valsson hefur bent á annan áhrifavald Jónasar, sem var skáldið Adam Oehlenschläger. Ljóð hans Island  ber mörg einkenni Íslands eftir Jónas, en eins og Páll segir þá er „myndmál Jónasar miklu betra og hann gengur ekki nándar nærri jafn langt í fortíðarhyllingu og Adam Oehlenschläger. Jónas á erindi við samtíma sinn en Oehlenschläger er fastari í fortíðinni.“ (Páll Valsson 1999: 116-117.)

Þessi innblásna mynd af Íslandi er í raun sá bakgrunnur sem Tómas hefur þegar málað í þá mynd af heiminum sem hann dregur upp í handriti sínu að Ferðabókinni; það er frá þessum sjónarhóli sem hann leggur í ferðalag út í heiminn í þeim tilgangi að afla sér þekkingar og takast á við það verkefni að gera menninguna ekki bara „mögulega“, heldur líka raunverulega á Íslandi.

Þessi mynd segir okkur ekki mikið um hvernig hið raunverulega Ísland leit út, heldur er þetta upphafin mynd í anda rómantísku stefnunnar sem segir okkur jafnframt að Tómas sá Evrópu með hennar gleraugum á ferðalagi sínu. Sú sýn hafði þegar fest rætur í brjósti hans þegar hann yfirgaf Ísland, en hún skerptist og fágaðist á námsárunum í Kaupmannahöfn, og því er ferðalýsing hans mótuð af þeim anga rómantísku stefnunnar sem við getum kallað norrænan og þýskan og dregur enn dám af þeim lúterska píetisma sem mótað hafði upplýsingaöldina á Íslandi og á Norðurlöndum. Hann talar um siðferðilegt eðli íslenskrar náttúru og siðferðilega markhyggju hennar, sem hafi mótandi áhrif á þjóðarskapgerðina og þar með á eðlisbundin siðferðileg markmið hennar. Þessar hugmyndir eiga rætur sínar í þýskri hughyggju, sem við getum til dæmis fundið hjá Friedrich Schelling sem hélt því fram að í náttúrunni væri innbyggt afl er stefndi að fullkomnun: „Hvað er í raun og veru hin fullkomna mynd hlutarins? Ekkert annað en skapandi líf hans, tilvistarkraftur hans. Sá sem sýnir náttúruna sem dautt fyrirbæri getur aldrei höndlað það djúpstæða ferli, svipað hinu efnafræðilega, sem getur af sér í gegnum hreinsandi mátt eldsins hið hreina gull fegurðarinnar og sannleikans“ (Schelling 1807/1989).

Þessi trú á eðlislægan siðferðilegan og fagurfræðilegan kraft í náttúrunni, sem Tómas notar ekki bara til að réttlæta föðurlandsást sína, heldur líka trúarsannfæringu sína, er mikilvægur þáttur í því flókna fyrirbæri sem við köllum í daglegu tali rómantík, en þetta vandmeðfarna hugtak felur í sér margvíslegar innri andstæður sem sjást best í því að jafn ólíkir málarar og Caspar David Friedrich og Francesco Goya teljast til rómantísku stefnunnar, eða jafn ólíkir myndhöggvarar og Thorvaldsen og Jean-Baptiste Carpeaux. Það sem þessir listamenn áttu sameiginlegt var í raun andóf gegn þeim skilningi upplýsingarinnar, að náttúran væri hlutlægt og dautt fyrirbæri er byggi yfir vélrænu orsakalögmáli og að rétt eins og vísindin gætu birt okkur hina „réttu“ og endanlegu mynd náttúrunnar þá gerði myndlistin hið sama með sem nákvæmastri eftirlíkingu hennar. Það var þessi „raunsæislega“ eftirlíking hinnar dauðu náttúru sem Schelling andæfði gegn í stefnuriti sínu um náttúruna í myndlistinni, og þar átti hann bandamenn fyrst og fremst í því tilfinningaþrungna tilvistardrama sem við finnum í verkum skálda eins og Byrons eða Hoffmans og myndlistarmanna eins og Caspars Davids Friedrich, Gericault eða Goya.

 

Þegar þýska rómantíkin bjargaði heimspekinni

Tómas Sæmundsson leggur sig fram við það í handritinu að ferðabók sinni að skýra evrópska heimspekiumræðu úr samtímanum fyrir íslenskum lesendum sem voru alþýða manna til sveita, bændur og vinnuhjú. Það er forvitnileg lesning og hjálpar líka til við að skýra þá mynd sem hann bregður síðan upp af fjarlægari löndum eins og Ítalíu, Grikklandi og Tyrklandi. Í þeirri umræðu er það efnishyggja upplýsingarinnar sem veldur Tómasi áhyggjum:

Sú meining í heimspekinni hafði helzt tekið yfirhönd að hið líkamliga, það sem maður sæi og þreifaði á, væri það einasta sem menn gætu reitt sig upp á … Hér með upphafðist þá allur munur góðs og ills, og þegar sálin hætti að vera til, gat og ekkert annað líf til verið; var því einsætt að hvör mætti lifa og láta sem vildi. Gekk Frakkland á undan öðrum með slíkum lærdómum. Má hér af líta að heimspekin – svo fagra útvortis mynd sem hún í skálda, mælskumanna og annarra gáfumanna munnum hafði upp á sig tekið – þó mundi að innan vera svipt sínum grundvelli og vera allskammt frá gröf sinni ef svo færi fram. (T. S. 1947: 130)

Það er hér sem Tómas segir Kant veita óæskilegri þróun innan heimspekinnar viðnám með rannsókn sinni á rótum og mörkum mannlegrar skynsemi. Tómas bendir á að rannsókn hans hafi leitt til þess að það eitt gæti maður reitt sig á, sem reynsla manns næði til, en hún væri nú aðeins gegnum skilningsgáfur sálarinnar manns eignUm sameiningu hinnar sýnilegu veraldar og ósýnilegu gat hann því, sem og flaut af sjálfu sér, ekkert upp kveðið … Lengra gat hann nú ekki upp eftir hafið sig frá tíðar sinnar líkamliga hlutanna skoðunarmáta, en hið andliga hafði nú fengið nokkru meira vald en fyrri. Það vantaði að hefja það enn betur og útjafna, hlaða í – hnita saman hið líkamliga og andliga. (T. S.1947:  131)

Hér sér Tómas heimspekinginn Fichte sem nýjan bjargvætt þar eð hann hafi með hughyggju sinni haft endaskipti á hlutunum: Maðurinn sem „næst fyrir Kants daga var raunar [ekki] orðinn annað en moldarklumpur sem festur var við hina sýnilegu veröldu og enginn ódauðlegur andi gat haft til íbúðar, þar eð þvílík andanna veröld ekki var til, og sem þar af leiddi ekkert frjálsræði gat haft“ (Tómas Sæmundsson 1947: 131). Nei, samkvæmt Fichte varð veröldin nú að engu, hið líkamlega var ekkert, maðurinn, andinn og frjálsræðið var allt. Og allt hvað maðurinn skynjar með hinum líkamligu skilningarvitum er ekki annað en sjónhverfingar sem orsakast af því hvernig maðurinn hlýtur að verða meðvitandi um sjálfan sig. Maðurinn sjálfur og frjálsræðið er það einasta sem til er – það getur hver sagt sjálfum sér að hann er til – en maður getur ekki orðið um sjálfan sig áskynja, nema hann setji sig í nokkurs konar mótsetningu með öðru. Þannig skapast manni líkamlig veröld, er í sjálfu sér engan veruleik hefir, annað en þannig nokkurs konar skuggi af sjálfum manni er hún ekki. (T. S. 1947: 131)

Áhersla Fichte á frelsi mannsins, hinn einstaklingsbundna vilja og verknaðinn gerir hann að einum af brautryðjendum rómantíkurinnar með róttæku andsvari við nauðhyggju orsakalögmáls upplýsingarinnar. Með orðum Isaiah Berlin spyr Fichte okkur þessara spurninga:

Hver er húsbóndinn, náttúran eða ég? Ég er ekki skilyrtur af markmiðum, það er ég sem skilyrði markmiðin. Heimurinn … er ljóðið sem innra líf okkar dreymir. Þetta er dramatísk og skáldleg aðferð til að segja að reynsla sé eitthvað sem ég ákveð í krafti viðbragða minna. (Berlin 1999: 89)

Eftir innrás Napoleons í Þýskaland breyttist einstaklingshyggja Fichte í þýska þjóðernishyggju sem var knúin dulrænum krafti er kom frá náttúrunni.

 

Þýsk náttúruheimspeki og þjóðernishyggja

Tómas segir í Ferðabók sinni um Friedrich Schelling: „Hann fann í náttúrunni guð, ekki síður en í hinum ósýnilega parti mannsins … Vissan um hið ósýnilega átti nú að verða stærri en Kant hafði ætlað, þar eð hið sýnilega og ósýnilega varð að einu“ (T. S. 1947: 132). Tómas fjallar einnig um Hegel sem nemanda Schellings og getur þess að hann hafi ekki náð að hlusta á fyrirlestra hans í Berlín, því hann hafi látist veturinn áður en Tómas kom til borgarinnar. Tómas segir Hegel hafa talið hugsjón og sálfræði Schellings „óskiljanlega“ og viljað „víkja [henni] til síðu“. Hins vegar segir Tómas að hann hafi hlustað á tvo fyrirlestra eftirmanns Hegels í Berlín sumarið 1832, norsk-danska heimspekingsins Henriks Steffens. Hafi annar fjallað um jarðfræði en hinn um trúarbragðaheimspeki (T. S. 1947: 133). Segir Tómas Steffens hafa „líkst mest Schelling“ og skortir hann orð til að lýsa hrifningu sinni á orðfari hans og mælskulist, en hann segir að Steffens sé „hálf-Íslendingur ættaður frá Norvegi“. Segir hann Steffens hafa verið flæmdan frá Danmörku vegna „Norðmannsins frjálsræðisanda“. Steffens hafði mikil áhrif, ekki bara á Tómas, heldur líka á Jónas Hallgrímsson, og átti þannig sinn óbeina þátt í þeirri þjóðernisvakningu sem tímarit þeirra félaga, Fjölnir, stóð fyrir á Íslandi.

Annar þýskur heimspekingur sem hafði mikil áhrif á þjóðernishyggju Tómasar var Johann Gottfried Herder, sem Isaiah Berlin (1999: 65) kallar „forföður allra þeirra förumanna og leikmanna er flækjast um heiminn til að tileinka sér hvers kyns glötuð lífsform, dásamandi allt það sem er sérkennilegt og undarlegt, allt það sem er upprunalegt og ósnortið“. Herder var andófsmaður gegn yfirgangi Frakka og Breta í Evrópu og boðaði sameiningu þýskumælandi ríkja á meginlandinu í andófi gegn nýlendustefnu Napoleons og draumum hans um heimsyfirráð:

Hvers vegna getum við ekki skapað alheimsríki af þeim toga að allir geti fundið sig eiga heima í því eins og fullkomnir múrsteinar, og myndað þannig byggingu er muni standast um allar aldir, vegna þess að það byggir á bjargfastri reglu, sem er sannleikurinn, sem menn hafa höndlað með óskeikulum aðferðum? – allar slíkar hugmyndir eru merkingarlaust rugl og þversögn; og með því að draga þessa kenningu fram í dagsljósið stakk Herder hinum skelfilegasta ríting í skrokk evrópskrar rökhyggju, sem hún hefur aldrei náð sér af. Í þessum skilningi er Herder vissulega einn af feðrum rómantísku stefnunnar. Það er að segja, hann er einn af feðrum þeirrar stefnu sem einkennist meðal annars af afneitun einingarinnar, afneitun samræmisins, afneitun samræmanleika hugsjónanna, hvort sem er í hugsun eða verki. (Berlin 1999: 67)

Í umfjöllun sinni um Herder segir Tómas í Ferðabók sinni, að verk hans séu til þess fallin „að vekja föðurlandsást og elsku til alls þess sem fallegt er og gott. Hann hefur skilið og útlagt skáldskaparandann allra tíða, og Ideen zur Philosophie der Geschichte der Menscheit eru álitnir djúpsærustu og hæstu athugasemdir yfir veraldarsöguna sem til eru á þýsku“ (T. S. 1947: 112).

Tómas kemur frekar inn á þessa afstæðishyggju Herders í almennri umfjöllun sinni um evrópskar bókmenntir, þar sem hann gerir upp við hin altæku gildisviðmið upplýsingarinnar og segir meðal annars:

Rannsókn allra hluta leiddi menn til að ætla að þeir vissu allt, meðan þeir ekki vildu kannast við að þeir vissu ekkert. Mennirnir urðu því að guðum eins og skeð hafði hjá hinum gömlu heiðingjum; varð þar af loks í samstemmu við aldanna stefnu yfir höfuð trúleysi og fjarvera allrar sannfæringar. Gekk Frakkland hér sem í öðru á undan öðrum löndum. Þeirra fremstu rithöfundar strönduðu upp á ýmsan hátt á þessu skeri (Racine og Corneille i formen, Voltaire í gehalt), þar til mannligur andi ruddi sér upp á annan veg braut gegnum þrengslin. […] Hinn gamli útvalaandi sýndi sig … í hinu stærsta óhæfi hjá Voltaire, með hvörjum hann og deyði út eftir það hann í andaslitrunum rétt sem hafði af sér getið hina frönsku stjórnarbyltingu. Hann fór og um Norðurlönd, og hjá oss er enda hans afkvæmi messusöngbókin og aðrar bækur margar sem fæðst og getizt hafa um aldamótin … En jafnframt þessari stefnu, sem rekja má í bókum gegnum allar tíðir og sem sér í lagi tiltalar og framleiðist af þekkingar og skilningsafli mannligrar sálar, er þar og önnur sem hefir sín upptök frá hinnar sömu sálar tilfinningaafli, að svo miklu leyti sem þetta er sálarinnar eiginlega frumvera, hvaðan allar sálarinnar verkanir er í síðara lífinu koma í ljós hafa rétt sem rætur sínar. Hefur hún ekki síður af og til smíðað spegil sinn í margs konar bókum, og sér í lagi þeim, hvar tilfinnanin helst plagar að heima eiga, skáldskaparins verkum (T.S. 1947: 118–119).

Í stað hinnar stöðluðu hugsunar Upplýsingarinnar komu þær bókmenntir tilfinninganna er byggðu á eðlislægum þjóðlegum grunni:

Menn urðu þess varir að sérhvör þjóð á hjá sjálfri sér, fyrr en hún vissi þar af eður hafði með meðvitund til þess verkað, hvað hið bóklega snertir mál og margs konar ritgjörðir, sem fæðst hafa í þeirra eigin landi löngu áður en hún fór að hafa nokkur afskipti við aðrar þjóðir eður þekkti nokkurn útlendan lærdóm. Hér gat þá ei annað talað en sömu þjóðar ómengaða náttúra, hennar andliga eðli, og hér fengu menn nokkuð að styðjast við um það hvað í því bókliga ætti bezt við sérhvöra þjóð. Þessu tóku menn nú að safna saman, það varð þeim sem þjóðarhelgidómur og átrúnaðargoð. Menn tóku að útleggja þetta og byggðu þar á framvegis allar bókligar sýslanir og athugasemdum þeim um þjóðarinnar upprunaliga og eðliliga háttalag sem þær bentu til og menn tóku nú að grafast eftir. (T. S. 1947: 121)

Rétt er að hafa í huga þegar við lesum þennan sérkennilega texta Tómasar að hann er hér að fjalla um flókin heimspekileg vandamál úr evrópskum samtíma, orða þau á íslenskri tungu þar sem engin hefð var fyrir slíkri orðræðu, og hann beinir orðum sínum ekki til menntamanna, heldur fyrst og fremst til íslensks alþýðufólks, sem var nær eingöngu bændafólk og vinnuhjú. Enda tekur Tómas það fram í inngangsorðum Ferðabókar sinnar, að stærsti vandinn við ritun hennar hafi falist í að finna orðræðunni eðlilegan búning á íslensku máli, sem ekki ætti sér orð og hugtök um ótal marga hluti í evrópskum samtíma. En þessi erfiðleiki hefur virkað á Tómas frekar sem hvatning en hitt, eins og fram kemur í þessum kafla þar sem hann heldur fram rómantískri afstæðishyggju um sannleikann, sem er mjög í anda Herders:

Snilldarritin verða því næstum eins þjóðkunn nú á dögum sem hin lærðu ritin, sér í lagi síðan (…) hinir lærðu ekki gjörðu sér framar það að venju að rita á latínu er skyldi vera sameiginlegt mál allra hinna lærðu, heldur tóku upp á því, er þeir fundu að latínan var óeinhlít til nú á dögum að gefa klæðnað öllum þönkum vísindamannsins, að rita um alls slags lærð efni á móðurmáli sínu. Fengu þannig vísindin alþjóðligra snið og urðu kunnugri í föðurlandi sínu, en þau tóku jafnframt í gegnum málið á sig stærri þjóðernis kápu. Sannleikurinn tók að líta öðru vísi út í einu landi en öðru, og hinir lærðu um heiminn urðu ekki jafnkunnugir eftir það þeir töluðu ekkert sameiginlegt mál sem öllum væri jafn skiljanligt. (T. S. 1947: 124)

 

Guðfræðilegar rætur

Trúarskoðun Tómasar er fyrst og fremst studd tilfinningalegum rökum og byggð á eðlishyggju, sem hann lýsir meðal annars með eftirfarandi orðum:

Trúarbrögðin eru hið innst innrætta í mannligri náttúru, þau viðvíkja hinu ósýniliga, já því óskiljanligasta af öllu, því hæsta og mikilvægasta, því guðliga sem hið mannliga aldrei getur gripið. Þau hafa sitt sæti í tilfinnunum sem maðurinn veit af strax og lífið fer að vakna í hans brjósti, eru þar fyrir löngu áður en skilningurinn varð var þar við, og eru þar án þess maður skilji þar í, og hvört maður skilur þar í eður ekki, og þau yfirgrípa með vaxandi framförum alla hans veru, allar hans framkvæmdir. (T. S 1947: 137)

Þessi ríka áhersla á tilfinningalegar og eðlislægar rætur trúarinnar eru í anda þess lúterska rétttrúnaðar sem Tómas hafði numið hjá kennurum sínum við Kaupmannahafnarháskóla, þar sem lögð var áhersla á barnatrú og beint og milliliðalaust samband einstaklingsins við guð. Jafnframt er hér hafnað öllum tilraunum fulltrúa upplýsingarinnar til að sanna tilvist guðs með rökum vísindanna. Þessi afstaða virðist valda Tómasi nokkrum vanda þegar kemur að hinni guðfræðilegu rökræðu, sem eðli málsins samkvæmt á erfitt með að leggja mælistiku sína á tilfinningalífið. Enda segir Tómas þann löst algengan meðal fræðimanna „sem að sönnu hafa nóga upplýsta skynsemi og geta gefið ritum sínum alla þá útvortis fullkomnun sem vísindin heimta, en hjarta þeirra finnur aldrei þar til, það er kalt og setningar þeirra ná aldrei að stjórna þeirra breytni“ (T. S. 1947: 138).

Eins og að framan var sagt var Tómas undir áhrifum og handleiðslu danska guðfræðingsins H.N. Clausen í guðfræðinámi sínu í Kaupmannahöfn, en Clausen hafði verið nemandi hins þekkta þýska guðfræðings og heimspekings Fr. D.E. Schleiermacher. Stærstur hluti ferðabókarhandrits Tómasar segir frá um tveggja mánaða dvöl hans í Berlín sumarið 1832, en þar var Schleiermacher bæði háskólakennari og predikari, og sótti Tómas alla fyrirlestra hans og predikanir sem hann gat. Í þessum kennimanni fann Tómas þá guðfræði er gæti sætt rökhyggju vísindanna og tilfinningar trúarlífsins. Þessum sáttum lýsir Tómas með þeim orðum, að skynseminni „getur vel skilist að yfirnáttúrlegir hlutir geti að borið á jörðinni, og að náttúrunnar skapari og herra ekki sé undirgefinn þeim náttúrunnar lögum sem hann hefir sett.“ Segir hann nútíma guðfræðinga „útlista þann undarliga og einstaka atburð í veraldarsögunni, um Kristi komu til veraldar, eins og hvörn annan atburð, hvar að sönnu ekkert frábrugðið því alminnilega undir búi, heldur megi þeir sem alls staðar í veraldarsögunni sjá Guðs föðurligu stjórn sem er allt í öllu“ (T. S. 1947: 140). Kemur hér fram sú lúterska viðleitni Tómasar til að svipta kristindóminn þeirri dulhyggju og þeirri ytri umgjörð helgisiðanna sem hann átti eftir að kynnast betur í hinum kaþólska heimi Evrópu.

Þrem dögum eftir komu sína til Berlínar var Tómas kynntur fyrir Schleiermacher og brá honum í brún er hann sá að þessi risi innan hinnar lútersku guðfræði var „ekki hærri en svo sem mér í hönd, svo að í hvört sinn verður að hlaða undir hann er hann prédikar, og allur vanskapaður með hnút á bakinu, andlitið þó fallegt og viðfellilegt, höfuðið hvítt af hærum. Má eg játa að eg ekki hef nálgast neinum manni með stærri lotningu en hönum, er mér kom í hug hin stóra sál er bjó í þessum lítilfjörlega líkama“ (T. S. 1947: 144). Töluðust þeir við á latínu þar sem Tómas var ekki enn búinn að temja sér þýskt talmál.

 

Helgimyndir kaþólskunnar og fagurfræði píetismans

Leið Tómasar suður Evrópu lá frá Berlín meðal annars um Dresden, Prag, München, Salzburg og síðan suður yfir Alpana til Ítalíu. Í Dresden kynnist hann norska málaranum Johan Christian Dahl, sem þar kenndi við Listaakademíuna, og nefnir hann landslagsverk hans meðal þess merkasta er hann sá af myndlist þar, auk verka Rafaels og Correggios. Verkum Dahls átti hann síðan eftir að kynnast betur á vinnustofu Thorvaldsens í Róm.

Það er fyrst í Baiern og Suður-Þýskalandi sem Tómas kynnist kaþólsku umhverfi, og þar gera strax vart við sig fordómar hans gagnvart kaþólskum siðum: „Á tvennu verður maður nú sér í lagi var við að maður er kominn í kaþólskt land, fyrst að til beggja handa við veginn er alsett betlurum, körlum og konum, ungum og gömlum, sem með uppréttum höndum biðja í Maríu og allra heilagra nafni um ölmusu, og hefir maður fyrir slíkum skríl oft litla ró, annað það að á hvörri hæð næstum stendur krossmark eður myndarstytta einhvörs heilags manns, oftast úr tré málað margvíslega, stundum fúið og mosavaxið, eður þá dálítið bænahús úr múrsteini“ (T. S. 1947: 223). Þarna birtist strax andúð hans á helgimyndum, dýrlingadýrkun og það sem við gætum kallað lúterska fordóma gagnvart trúarlegri myndlist og formlegum helgisiðum kirkjunnar. Í þessum efnum er Tómas kannski ekki fullkomlega samkvæmur sjálfum sér, því um leið og hann hæðist að trúarlegri myndlist þá hefur hann meðtekið þá rómantísku fagurfræði að fegurðin helgist einvörðungu af sjálfri sér:

Hún [listin] er sjálfráður leikur ímyndunarkraftarins, hún er frjáls, fylgir þeim lögum sem hún sjálf gefur, þóknast alleina sjálfrar sín vegna, hún hefir verð í sjálfri sér … Þó að hugsjónarlig fegurð sé það er snilldin með flugi ímyndunarkraftarins leitist við að skapa og leiða fyrir sjónir, þá vanrækir hún aldrei sannleikann, en sannleiki hennar er með margvíslegu móti. Haldi maður snilldin ljúgi, kemur það til af því að menn ekki hafa rétt athugað hvað sannleiki er í hvörjum hlut. (T. S. 1947: 333)

Þegar kemur hins vegar að opinberun hins trúarlega sannleika eða hinnar trúarlegu reynslu í efnislegri mynd listaverksins virðist sem lútersk trúarsannfæring hans taki undir þá fullyrðingu Platons, að myndlistin sé villuleiðandi og óhæf til að miðla andlegum sannleika, því menn hætti að greina á milli myndarinnar og þess sem hún á að sýna:

Einhvör náttúrlig óafvitandi tilfinnan kenndi mönnum skyldugleik hins sýnilega og ósýnilega, maður sá að það sem var fagurt útlits mætti vera gott … Allar hinar hærri hugsjónir, en sér í lagi hinar hæstu, trúarbrögðin, þessi ósýnilega tilhneiging sem knýr manninn til að leita hins ósýnilega, hefir hjá öllum þjóðum hlotið að ífærast líkamligum sýniligum meðulum til þess manni gjörist þar um ímyndunin hægari, sem yfir höfuð veitir örðugt að vera lengi á flugi. Þannig er öll skurðgoðadýrkun skeð þegar menn hættu loks að að skilja myndina frá hlutnum. […] Djöfulinn létu menn sér nl. ekki nægjast með í þankanum að vita sem höfund alls hins illa, heldur urðu menn að festa þennan þanka við einhvörja sýnilega mynd; ímyndunin bjó því til hendur, dró upp hin ótrúligustu skrímsli er hvörgi var að finna í náttúrunni, til að gjöra hlutinn því afskræmiligri og til að geta enn betur speglað sig í hönum. Kirkjusagan hefur dæmi upp á meðal hálfsiðaðra þjóða að þær með engum fortölum létu fá sig til að taka við trúnni, en þegar fyrir þeim var uppmálað helvíti og hinn síðasti dagur féllst þeim allur ketill í eld og vildu gjarnan hafa siðaskipti. Þar af má sjá nauðsyn snilldarinnar fyrir mannliga skynsemi, hér af má líta hennar miklu verkanir í mannligu lífi. (T. S. 1947: 330–331)

Hér helgast listin og fegurðin semsagt ekki af sjálfri sér heldur þjónar hún því hlutverki að þröngva hálfsiðuðum þjóðum til réttrar trúar á fölskum forsendum. Hér virðist Tómas einkum hafa í huga miðaldalist og barokklist, þar sem myndlistin var meðvitað notuð til trúarlegrar innrætingar. Mótsögnin felst í því að Tómas virðist hér hafa tileinkað sér þann skilning J.C. Winckelmanns að miðaldalistin væri frumstæð og barokklistin úrkynjuð vegna þess að þær höfðuðu hvor á sinn hátt of mikið til tilfinninga og ástríðna mannsins. Það væri aðal göfugrar listar að höfða til „hinnar hlutlausu fullnægju“ og til skilnings áhorfandans, en ekki espa upp tilfinningar hans. Þessi afstaða Winckelmanns hafði haft mótandi áhrif á Goethe, sem sá hvorki miðaldalistina í Feneyjum né mósaíkina í Monreale fyrir utan Palermo í Ítalíuferð sinni þó hann ætti þar leið um. Og barokklistin í Róm, sem var í raun andsvar Jesúítareglunnar við uppreisn Lúters gegn kirkjuvaldinu, var eitur í beinum þessara lúterstrúarmanna og eimir jafnvel enn af því meðal lúterskra á okkar dögum. Rétt er þó að geta þess að Winckelmann tók kaþólska trú, trúlega fyrst og fremst til að auðvelda honum starfsframa hjá Páfastóli, þar sem hann gerðist helsti ráðgjafi páfans um fornleifafræði fornaldarinnar.

Sjávarsýn við Miðjarðarhafið

Eftir tveggja mánaða dvöl í Vínarborg hélt Tómas suður á bóginn yfir Alpana og segir svo frá ferðinni í bréfi til föður síns dagsettu í Róm 25. mars 1833:

Eftir 10 daga reisu yfir fagurt fjallaland hér um [bil] 75 mílur gegnum syðra Austurríki, Steiermark og Krain, kom ég til Triest, er liggur við adríatíska fjarðarbotninn austanverðan. – Þar sá ég eftir langa bið sjóinn aftur; hér er Þýskaland á enda og þýska málið úti eins og þýska náttúran; skógarnir og kornakrarnir eru að mestu horfnir, og naktir klettar komnir í staðinn, – víngarðar nógir og olíutré, – asnar og múlasnar í staðinn fyrir fé, kýr og hesta. Hér er mikil höndlun og fallegur staður; hér koma meðal annars skip frá Reykjavík að selja saltfisk og kaupa kræsingar. Eftir 3 daga fór ég héðan vesturyfir fjarðarbotninn til Venedig (Feneyja), sem er einhver undarligasti staður í heimi, byggður af mönnum mitt upp úr sjónum, meir en mílu frá landi. Hann hafði einu sinni næstum allt Miðjarðarhafið í sinni hendi og ber enn nú stór merki sinnar fyrri praktar við hliðina á nærverandi eymd. (T. S. 1907: 120)

Tómas staldraði við fimm daga í Feneyjum og segir hvergi frekar frá þeirri dvöl, en þegar hann í fyrrnefndu sendibréfi til föður síns lýsir framhaldi ferðarinnar og reynir að draga upp mynd af Ítalíu í fáum orðum, lítur hún svona út:

steig [ég] nú á Vallands fastaland, sem undir eins er það fegursta í Norðurálfunni og það merkilegasta í veraldarsögunni; þar er og allt það, er mennirnir hafa fallegt gert, sameinað. Málið: vallenskan eða ítalienskan er hið fegursta mál, sem talað er – og trauðlega eru nokkursstaðar mennirnir fallegri … Ill stjórn hefur … gert þetta lukkulega land í margar aldir ólukkulegt. (T. S. 1907: 121)

Tómas segist fyrst hafa komið til Páfaríkisins í Ferrara, „og vildi [ég] ekki eiga að kaupa af karlinum syndafyrirgefningu núna, því hann tekur hér um bil 60 sk fyrir að skoða passann minn“ (T. S. 1907: 121). Síðan liggur leið hans um Bologna og Flórens, þar sem hann dvaldi í viku, en síðan tók ferðalagið frá Flórens til Rómar fimm daga. Í bréfi til föður síns frá Róm, 25. mars 1833, dregur hann í fáum orðum upp eftirfarandi mynd af Ítalíuskaganum:

Valland er yfir höfuð mjótt land, eftir hvers miðju gengur hár fjallahryggur, Appennini, er myndar dali á báðar hliðar, þar til kemur niður til sjávar. Víðast er hér skóglaust og líkist því meira brekkunum á Þórsmörk (ef burt eru tekin öll flögin og sandarnir) en nokkru öðru landi, er ég hefi séð; hér vex einir og lyng og smáhríslur eins og þar, en fram yfir Þórsmörk hefir þetta land hinn bezta vínvið, lárvið, pálmavið og hinar fegurstu jurtir, sem skapaðar eru! Hér eru nógir fuglar og fiskar; stærri trén eru mest eikartré, kornið bankabygg, og mikið af sauðum uppi í fjöllunum. Í einum af þessum fögru dölum liggur Róm með sjónum fyrir sunnan, en fjöllum mátulega háum á allar hinar síðurnar; í miðjum dalnum rennur Tíberfljótið og í gegnum bæinn og tekur á móti ótöluligum lækjum frá báðum síðum. Hér kemur aldrei vetur, sjaldan ský á himinn eða vindur; kýrnar koma því árið um kring ekki í hús. (T. S. 1907: 121–122)

Þórsmörk, svæðið sem hér verður eins og bakgrunnur myndarinnar af Ítalíu, er landsvæði sem telja verður óbyggilegt, þótt þar hafi reyndar verið reist þrjú býli á landnámsöld samkvæmt Landnámu, sem fljótt lögðust í eyði vegna vetrarhörku og sambandsleysis við umheiminn. Þetta fjalllendi með sínum bröttu líparítskriðum og hrikalegu giljum, þar sem finna má lágvaxið birkikjarr og heitar laugar til að ylja sér við, er bakgrunnur myndarinnar sem Tómas dregur upp af Ítalíu. Það þarf talsvert ímyndunarafl til að sjá samhengið á milli „il bel paese“ og Þórsmerkur, en skýringin kann að liggja í því, að sem unglingur mun Tómas hafa heimt sauðfé föður síns úr sumarbithögum í Þórsmörk, og því hafa þeir feðgar báðir verið vel kunnugir á þessum slóðum.

 

Sæludagar í borginni eilífu

Engin skýring er til á því að í handrit Tómasar að Ferðabók hans vantar mikilvægasta kaflann sem segir frá fjögurra mánaða dvöl hans í Róm, „hvar ég hafði átt næstum 4ra hina ánægjulegustu mánuði og sælustu daga ævinnar“ eins og segir í upphafi frásagnar af ferð hans frá Róm til Napoli. En til Rómar kom hann 10. desember 1832, og hélt áfram suður til Napoli 28. mars 1833. Einasta varðveitta sendibréf hans frá Róm er til föður hans og kemur fátt þar fram. Áhrifin af Rómardvölinni koma hins vegar fram víðsvegar í texta hans þar sem hann fjallar um almenn málefni, fagurfræði, heimspeki, trúmál og almenn þjóðþrifamál. En áður en hann yfirgefur Róm í frásögn sinni, segir hann þó með eftirminnilegum hætti frá páskadagsmorgni við Péturskirkjuna. Lýsingin ber þess vott að trúarlegur ágreiningur hins lúterska rétttrúnaðarmanns og páfavaldsins hafi kannski hvergi truflað skynjun hans og skilning á allri þeirri listrænu umgjörð, sem Páfagarði var sett, eins og við þessa upplifun. Enda byrjar frásögn Tómasar með þessum orðum:

Það er einkenni eins og allra ófullkominna trúarbragða, er taka hið útvortis fram yfir það innvortis – bókstafinn fyrir andann, – að láta sér í öllu annt um að fá á mannanna líkamlega skilning orkað og ífæra trúna svo nokkurs konar líkamligri mynd, svo menn komist ekki hjá að verða varir við hana, – en aldrei gætir þess eins stórkostlega sem við þetta tækifæri. (T. S. 1947: 255)

Hér á Tómas við helgiathafnir dimbilvikunnar í kaþólskum sið og prósessíu páfans á páskadagsmorgni, sem hann lýsir með eftirfarandi hætti:

Að vísu þá er um alla föstuna kyrrt og hljótt hjá því sem endranær, en þó tekur yfir úr því síðasta vikan fyrir páskana byrjar; það er þá svo sem allur bærinn ífærist sorgarbúningi, allt er þegjandi, klukknahljómurinn hættir og hinar fögru vatnsæðar, borgarinnar einhvör hin mesta prýði, hætta að spýta, svo sem væri sjálfur dauðinn yfir hana kominn. Þetta stendur þar til ofarla páskanóttina. Undir páskamorguninn snýr við blaðinu; í þúsunda tali hljóma þá klukkurnar aftur frá turnunum; í einu vetfangi er kúfur Péturskirkjunnar frá efsta til neðsta skreyttur ótöluligri mergð olíuljósa, svo að ei einungis bærinn og landið umhverfis, heldur jafnvel skýin taka birtu af. Vestan frá sjó og austan úr fjöllum, af öllum þeim hæðum hvaðan fyrst grilla má Róm langar leiðir burtu, þegar bezt var skyggni um fagran dag, getur hana nú að líta svo sem í himnesku ljósi eður ljóma meðan alls staðar er nótt. Sjálfur upprisinn gengur hinn heilagi faðir fram á musterisburstina, og þó hann sé lítill í samanburði við steinmyndir postulanna kringum hann, hefir hann [ekki] lítið fyrir stafni, því meðal alls konar söngvara og hljóðfæraglaums boðar hann nú hátíðina og lýsir blessan yfir hinum mikla grúanum, er neðan frá hinum stóra forgarðinum sem fram af er kirkjunni veitir hönum á hnjánum sína tilbeiðslu og mænir upp til hans þar svo sem æðri veru beri við skýin. Með hönum eru í för uppi á þaki kirkjunnar, sem nærri má geta, allur skarinn hinna geistligu svo þúsundum skiptir, og er hvör ífærður þeim skrúðanum sem hans stétt hæfir og hann á fegurstan til. Þegar maður nú þar á ofan setur sér fyrir sjónir morgnana, eins og þeir eru á þessum ársins tíma í Ítalíu, og hvörsu allt er við höndina sem til fegurðar horfir, getur ei hjá því farið, að þvílík sjón fái á hvörn mann sem hefir tilfinning, jafnvel þó hann ekki láti sig í villu leiða af útborði hlutanna og ætli, eins og páfaátrúendur, hann hafi séð svo sem nokkurt heilagra samneyti. (T. S. 1947: 255–156)

Þótt tilfinnanlegt gat sé í heimildum okkar um dvöl Tómasar í Róm, ef frá er talin þessi litríka frásögn, þá má finna stöku heimildir um Rómardvöl hans. Ævisöguritari Tómasar, Jón Helgason biskup, hefur eftir ættingjum munnlegar frásagnir um að Tómas hafi notið gistivináttu Bertels Thorvaldsen sem var forvitinn um ættjörð föður síns, og Tómas kynntist norrænum listamönnum í Róm bæði á vinnustofu Thorvaldsens, heimili hans og á veitingahúsi sem norrænir listamenn sóttu. Einn þessara listamanna var danski myndhöggvarinn H.V. Bissen (1798–1868) sem sagður er höfundur vangamyndar af andliti Tómasar, sem prýðir legstein hans á Breiðabólstað. Þá eru frásagnir af kynnum Tómasar og Giuseppe Mezzofanti (1774–1849), bókavarðar Vatíkansafnsins,  sem var málvísindamaður og þekktur fyrir að hafa 70 tungumál á valdi sínu. Tómas segir frá því í Ferðabókinni, nýkominn til Napoli, að hann hafi fyrir tilviljun hitt þar á götu vin sinn Bindesböll. Það mun hafa verið arkitektinn Michael G.B. Bindesbøll (1800–1856), höfundur Thorvaldsen-safnsins í Kaupmannahöfn, og hafa þeir vafalaust kynnst á vinnustofu Thorvaldsens. Tómas segist hafa skoðað Napoli í fylgd þessa frumkvöðuls nýklassískrar byggingarlistar á Norðurlöndum fyrstu daga sína þar. Arthur Dillon lávarður, sem var samskipa Tómasi til Íslands 1834, segir frá því í ferðasögu sinni frá Íslandi að Tómas hafi talað góða ítölsku, og mun tíminn í Róm ekki síst hafa nýst honum til tungumálanáms (Dillon 1840).

 

Rangárþing og hinar pontísku forir

Eins og sjá má af lýsingu Tómasar er upplifun hans af Páfagarði, með meistaraverkum Michelangelos og Rafaels, lituð af trúarskoðunum hans og uppeldi, og má kannski draga af hugleiðingum hans þá ályktun, að fegurðin hafi gildi í sjálfri sér þegar hún tekur til veraldlegra hluta, en hins vegar beri að gjalda varhug við þeirri myndlist eða byggingarlist er reyni að miðla trúarlegum sannleika. Í þessum efnum virðist Tómas jafnvel standa nær Kalvin en Lúter, en hér er um greinilega mótsögn að ræða í túlkun hans á þeim veruleika sem hann upplifir á Ítalíu, og jafnvel enn frekar er hann kemur til Grikklands og Tyrklands.

En það eru ekki bara hugmyndir hans um tilfinningarök barnstrúarinnar og píetismans gegn kirkjuvaldinu sem móta sýn hans á ítalskan veruleika. Íslensk náttúra og bernskuslóðir hans koma líka þar við sögu, eins og sjá mátti af dæminu um Þórsmörk hér að framan. Þessar fyrirmyndir bernskustöðvanna verða þó með enn meiri ólíkindum þegar hann grípur til samanburðar við bernskuslóðir sínar í Rangárþingi á Íslandi í lýsingu sinni á landslagi umhverfis Róm og í Lazio-héraði, kannski í veikri tilraun til þess að lýsa ítalskri náttúru fyrir íslenskri bændaalþýðu með skiljanlegum hætti. Þannig rekumst við á eftirfarandi landslagsmynd hans, þar sem Róm verður hliðstæður miðpunktur og Oddi á Rangárvöllum:

Það er nokkuð svipuð fjallasjón og byggðarlag frá Róm að sjá eins og hjá oss í Rangárvallasýslunni, svo sem frá Odda, og væri þá Skarðsfjall Soracte, fjöllin fram af Heklu Sabínafjöll, en Fljótshlíðarfjöllin (þó þau séu heldur mikil fyrirferðar og ekki nógu laus að austan til) albaniska fjallið. Velletri bæri þá að standa utarliga í Fljótshlíðinni, en hérað Volskanna er áþekkt vikinu á milli hennar og Eyjafjalla, og þó breiðara, en fjallgarðurinn fyrir sunnan það Eyjafjöllum, og stendur þá líkt á með Terracina eins og austustu bæina undir Eyjafjöllum, nema hvað Terracina liggur á sjávarbakkanum og ekkert bil er orðið á milli lands og sjávar. Landeyjarnar eru sem Pontisku forirnar, og fjall er þar einmana út við sjóinn, nú áfast við landið, – áður kvað það hafa verið ey, en landinu þokað út á seinni öldum, og var hún kennd við Circe. Segir sagan að Odysseifur hafi komið þar við á flakki sínu eftir Trójumannabardaga, meira en 1100 árum fyrir Kristi fæðingu, og þar hafi hún gjört félaga hans að svínum, líklega gefið þeim vel í staupinu (en sjálfan töfraði hún hann til ásta við sig, svo að tafðist fyrir hönum heimförin). Eynni hagar að sínu leyti ekki ólíkt í samanburði við landið og Vestmannaeyjum hjá okkur. (T. S. 1947: 264)

Það þarf engan kunnugan til að átta sig á hversu langsótt þessi samlíking er, í raun er hún eins fjarri allri líkingu og hægt er að hugsa sér, og erfitt að ímynda sér hvað vakir fyrir Tómasi annað en að freista þess að vekja ímyndunarafl samlanda sinna út frá því sem þeir þekkja fyrir. Þó má segja að „Pontísku forirnar“, sem eru flatlendið suður og austur af bænum Latina, eigi það sammerkt með Landeyjum að hafa verið marflatt mýrlendi á þessum tíma. Fyrst og fremst er þó samlíkingin til þess fallin að minna okkur á, hvernig sú mynd og sú reynsla, sem við höfum fyrirfram mótaða í huga okkar, verður til að móta þá mynd sem við gerum okkur af því sem við sjáum í fyrsta skipti og reynum að lýsa með orðum. Auga mannsins kemur aldrei saklaust að sínu verki, eins og Ernst Gombrich sagði, maðurinn túlkar það sem hann sér út frá reynslunni og því sem hann þekkir fyrir (sbr. Gombrich 1989: 291–329). Rétt eins og landslagsmálverkið líkir meira eftir landslagshefðinni og öðrum myndum en eftir sjálfri náttúrunni, þá líkir hin skráða lýsing eftir því sem augað og tungan þekkja fyrir.

Napoli og Campania felix

Í rauninni verður ítölsk náttúra Tómasi stöðugt undrunarefni, en hún nær hámarki sínu þegar hann sér yfir Napoliflóann og Campania felix:

Allt hvað skáldin hafa sungið um goðalundanna fegurð og indæli eður ódáinsakur er hér orðið orð að sönnu, og yfir hálsa þessa og flatir horfði Virgilíus, þegar hann var að lýsa Elysíum-völlum og samastað hinna ófarsælu í 6tu bókinni af Æneasardrápu. Hér er sífellt vor, blómi jarðarinnar hverfur aldrei; ein jurtin lifnar eða blómgast þegar önnur fölnar; á öllum árstíðum eru hinir dýrmætustu ávextir í köstum til sölu um torgin, og margar þúsundir manna eiga ekkert húsaskjól, því kuldinn nær hingað ekki og sjógolan dregur svo úr hitanum að vel er viðunandi. (T. S. 1947: 276)

Fyrsta upplifun Tómasar af náttúrufegurð Campania-héraðs virðist eiga sér stað við Formia þar sem þokunni léttir skyndilega og þá blasir þetta við:

Við stigum af vagninum í einhvörjum fegursta aldingarði, – citrónu og guleplaskógar, myrtusviðar og lárviðar og ilmandi glæsiligustu jurtir, hvað innan um annað, bar fyrir hvört sem litið var; vertshúsið var líkara kóngshöll en gestaherbergi. Fyrir neðan fætur okkar var sjórinn eins og spegill til að líta, og var niður til hans hátt nokkuð og bratt, en allur flóinn blasti við rétt á móti, og hinum meginn við hann eður fyrir sunnan hann gaf að líta álengdar Vesúvíus-eldfjallið í allri hátign sinni, fjöllin umhverfis Neapels-flóann og eyjarnar er liggja vestur þaðan út með sjónum; vestanvert eður til hægri handar við okkur var nesið sem við höfðum yfir farið, og fer það lækkandi eftir sem vestar dregur , og niður við Gaeta, hvar kastali var byggður upp á kletti nokkrum. Til vinstri handar eður fyrir norðan okkur og austan er meginfjallið, en neðan til með indælustu hlíðum niður til sjávar, austan og inn með flóanum; eru hlíðar þessar þaktar víngörðum og aldintrjám. Sólin var farin að lækka svo skugga bar á hér og hvar um fjöllin og varð af því afbreytingin enn meiri. Hér er einhvör mesta veðurblíða og afdrep fyrir norðanvindunum; er því jörðin sífellt eins, á vetrum og á sumrum ífærð sínum fegursta skrúðbúningi. Við stóðum hér við tímakorn og skemmtum okkur með því að litast um í fegurð þessari. Er herbergi þetta og aldingarður, Villa di Cicerone, kennt við Cicero, hinn mikla speking og mælskumann Rómverja, sem mælt er að hafi átt hér lystigarð og verið hér myrtur… Aldingarðsvörðurinn, viðfelldinn unglingur, (sem) taldist vera rómverskur … gjörði sér ánægju af að leiða okkur um garð sinn og sýna okkur þær jurtirnar og trén, sem honum þókti mest til koma, og fyllti vasa okkar með guleplum, sem hann tók af trjánum og voru nú fyrst komin að því að verða fullþroskuð frá því sumrinu áður; svo langan tíma þarf þessi fagri ávöxtur til þess að spretta að honum veitir ekki af vetrinum með, og verður því ekki stundaður nema þar sem enginn vetur kemur. (T. S. 1947: 270–271)

Þegar nær kemur Napoli dregur Tómas upp lifandi mynd af umhverfi borgarinnar og þeirri töfraslungnu náttúru sem myndar umgjörð hennar, þar sem eldfjallið Vesúvíus trjónir yfir öllu. Vesúvíusi líkir hann eðlilega við eldfjallið Heklu, en segir það nokkuð lægra og í lögun áþekkt og öll eldfjöll, ávalt að ofan með eldvörpu í kollinum, bratt nokkuð niður til miðs, en þaðan af aflíðandi til allra hliða, hvar hraunleðjan og vikurinn hafa staðar numið. Kringum allt fjallið eru nú fagrar byggðir, og vaxa langt upp efir því hin ágætustu vín. Sunnanvert við það lá forðum Pompeji, en vestanvert og á sjávarbakkanum Herculanum; liggur þar nú hraun yfir, og er nú þar byggt ofan á hrauninu, hvar borgin var undir.; slitnar ei húsrunan með sjónum þaðan til Napoliborgar. (T. S. 1947: 278)

Um borgina og umhverfi hennar í heild sinni segir Tómas að hún „eigi ekki maka sinn í heimi“ hvað varðar náttúrufegurð og fornminjar, „en minna mun flestum þykja um borg þessa varið að því leyti sem til þeirra nær sem í henni búa, og fáir ætla eg mundi gjöra sér krók til Napoli eður hafa elju á að dvelja þar lengi …“ Almennir fordómar og neikvætt umtal um íbúa Napoli virðast hafa verið landlæg á þessum tíma ekki síður en á okkar dögum, enda tekur Tómas það fram um leiðsögumann sinn í Villa di Cicerone, að hann hafi verið stoltur af rómverskum uppruna sínum, „enda hafa napólskir sér í lagi illt orð á sér út í frá, og þykir því fáum mikið til koma að telja sig í ætt við þá“ (T.S. 1947: 271). Lýsing Tómasar á borginni er ítarleg og greinargóð og segir hann Napoli réttilega vera allra borga mest á Ítalíu og ríkasta af fé og íbúum. „Teljast í henni eitthvað 358.000 innbúar, þar á meðal alténd 60.000 lazarónar“ (T. S. 1947: 275–276), en svo virðist sem Tómas kalli stétt atvinnuleysingja og heimilislausra því nafni. Borgarlandslaginu lýsir hann meðal annars með þessum orðum:

Borgin liggur … austan og sunnan í fjallás eður holti og nær niður á sjávarbakkann; er undirlendið meira að austan til, og standa þar fremstu húsin á nokkurs konar malarkambi fram við sjóinn og sléttum flöt fyrir ofan hann, en að vestan eru húsin, að undanteknum þeim er næst eru sjónum, í brattri brekku, svo hvört tekur við upp af öðru, en fyrir ofan þau og efst uppi á holtinu er kastali. Fer grein úr holtinu aflíðandi suður í sjó í aflöngum hrygg nokkrum gegnum staðinn vestanvert og skagar þar nokkuð á sjó út, og stendur þar úti í sjónum annar meginkastalinn og sín vík hvörjum megin; á þeirri víkinni sem fyrir austan er, niður undan aðalhluta bæjarins, er herskipalegan og útbúnaðarhús þeirra, og upp þaðan kóngsgarðurinn hjá torgi miklu. Þar fyrir austan er höfnin, og halda að henni 2 steinveggir sem hlaðnir eru langt út í sjó til að taka við bárunum sem utan koma þá vindur stendur inn flóann. […] Vesturendi borgarinnar er langfegurstur, því með endilöngum sjávarbakka fyrir ofan flæðarmál er einhvör yndælasti lystigarður (Villa reale), en fyrir ofan hann vestur með holtinu 2 beinar húsaraðir sem mjög hefir verið til vandað. Þá tekur brekkan við alskrýdd aldingörðum og lysthúsum, hvaðan sjá má yfir öll nærliggjandi héröð, og skagar fjallás þessi þegar undirlendinu sleppir fyrir vestan víkina út í sjó. (T. S. 1947: 276–277)

Þótt Tómas hafi notið leiðsagnar arkitektsins Bindesbølls um götur Napoli virðist það ekki hafa dugað honum til að læra að meta þá mikilvægu byggingarlist sem þar er að finna: „Í Napoli eru fá hús sem mikið kveður að eður taki fram í því algenga, og trauðla er önnur borg á Ítalíu hvar kirkjurnar bera eins lítið af öðrum húsum að hæð og viðhöfn eins og hér, og eru þær þó að tölu ekki færri en 300 í borginni. Meðal annarra opinberra bygginga má helst geta ráðhússins og dýrgripabúrsins“ (T.S. 1947: 280). Lýsir hann fornminjasafninu vel og segir það „mikla höll … meðal fyrstu húsa til hægri handar þá komið er inn fyrir borgarhliðið eftir þjóðveginum frá Róm“. Tómas segir safnið hafa 90 stofur með fornminjum, fágætum gripum og snilldarverkum, mest rómverskar og forngrískar fornminjar, en einnig muni frá Egyptalandi og Hetrúríu og frá Suðurhafseyjum. Mest þykir honum koma til fornminjanna frá Pompei og Herculanum, en einnig verður honum tíðrætt um Farnese-safnið, sem flutt var til Napoli frá Róm 1788, einkum höggmyndirnar af Herkúlesi og Farnese-nautinu. Segir hann um Herkúles að hann sé „að mestu leyti þrefalt stærri en mennskur maður, tilbúinn úr hvítum marmara“ og að aðdáunarvert þyki „hvað vel og sannliga hefir tekizt að leiða aflið og karlmennskuna í ljós í vöðvafari og beinalögun líkneskisins“. Getur hann og réttilega til um höfunda verksins (Glykon eftir frummynd Lysippusar). Tómas getur einnig uppruna Farnese-nautsins frá Rhodos, höfunda þess Apolloniusar og Tauriscusar og heimilda Pliniusar um verkið og söguna á bak við það. „Fær það mestrar undrunar hvað feikilega stórt þetta listasmíði er og hvað boli er nautslegur“ (T. S. 1947: 284).

 

Fýsilegasta ferð sem stofnuð hefur verið

Þótt Tómas hafi upphaflega ekki ætlað sér sunnar en til Sikileyjar í ferð sinni, hafði sú hugmynd komið upp í huga hans skömmu áður en hann yfirgaf Róm, að freistandi væri að taka þátt í fyrirhugaðri skemmtisiglingu um Miðjarðarhafið sem auglýst hafði verið meðal ferðamanna í borginni. Sagði Tómas þetta „hina fýsilegustu ferð sem nokkurn tíma hefir stofnuð verið“, og gekk boðsbréf um hana um mestan hluta Evrópu, þar sem boðin voru 100 skipsrúm en auk farþega var „næstum annað eins af þjónustufólki að meðtöldum öllum hásetum skipsins“. Siglingin átti að taka fjóra mánuði með viðkomu á fjölda merkra sögustaða á Grikklandi, í Tyrklandi, á Möltu og Sikiley.

Í Napoli grennslaðist Tómas enn frekar fyrir um ferð þessa, en komst fljótt að þeirri niðurstöðu að hún yrði honum fjárhagslega ofviða. Í Napoli hafði hann leitað aðstoðar sendiráðsfulltrúa Dana í borginni, Frideriks Siegfried Vogt, og hafði Vogt verið honum hjálplegur í ýmsum efnum, leiðbeint honum um áhugaverða staði og aðstoðað hann við að fá heimild til að skoða fornleifauppgröftinn í Pompei, sem þá var ekki opinn almenningi. Vogt hafði hvatt Tómas til þessarar farar, en hann hafði gefið frá sér hugmyndina og var ferðbúinn til Messina að kvöldi 11. apríl þegar hann fékk heimsókn sendifulltrúans sem segir honum að hann hafi rætt við útgerðarmann skipsins og fengið slíkan afslátt á fargjaldi fyrir Tómas að honum snerist hugur. Skipið lét úr höfn fimm dögum síðar og stóð siglingin í fjóra mánuði eða til 9. ágúst, þegar akkerum var varpað í Napoli á ný. Segir Tómas á einum stað í Ferðabók sinni að engum manni hafi hann kynnst á öllu ferðalagi sínu er hann eigi „svo mikið gott upp að unna“ sem Vogt sendiráðsfulltrúa í Napoli (T. S. 1947: 189).

Því miður vantar sjálfa ferðasöguna af þessari siglingu í ferðabókarhandrit Tómasar, þar sem einungis er minnst á upphaf ferðarinnar. Af sendibréfum Tómasar má hins vegar ráða hvílíkt ævintýri hér var um að ræða:

Um borð voru fleiri kongar, prinsar og konunglegar persónur, lengri eða styttri part af reisunni. Hér mátti meðal hálfs annaðs hundraðs manna sjá fólk af öllum stöndum og heyra undir eins töluð ein 20 tungumál. Þvílík reisa hefir því víst aldrei verið gerð, og hér var svo mikið allareiðu á skipinu að sjá og læra að það borgaði ómakið að gera hana. Þar að auki eru löndin, sem við nú sáum, eins nafnfræg í veraldarsögunni (svo sem heila Grikkland, hvers inndælasti staður er Aþenuborg), eins og hin önnur fyrir sína fögru náttúru (svo sem höfuðstaður Tyrkjalanda: Konstantínópel, þar sem við vorum í 15 daga. Hann er miklu fegurri en Neapel og svoleiðis fegurst af öllum stöðum sem til eru).

Þannig segir Tómas frá í bréfi til föður síns 28. ágúst 1834, þá nýkominn til baka til Napoli. Af bréfum Tómasar má lesa eftirfarandi leiðarlýsingu frá Napoli: Messina, Catania, Siracusa, Corfu, Patras, Korintuflói, Delfi, Pyrgas, Olympia, Navarino, Naflion, Mykena, Argos, Hydra, Poros, Ægina, Istmos-eiðið, Kórinta, Aþena, Smyrna, Mytilene-eyja, Tenedos-eyja, Trója, Hellusund, Marmarahafið, Konstantínópel, Svartahafið, Zanthe-eyja, Siracusa, Agrigento, Palermo, Napoli.

Af þessum stöðum standa Aþena og Konstantínópel upp úr í minningu Tómasar, en viðdvölin var fimm dagar í Aþenu og 15 dagar í Konstantínópel. Aþena var meira og minna í rústum eftir undangengnar styrjaldir, og töldust íbúar hennar nú í hundruðum en ekki hundruðum þúsunda eins og á stórveldistíma hennar.

Allir vita, hve mikið þessi bær hefir gert fyrir heiminn, enda á enginn bær, hvað leguna snertir, við betri kjör að búa. […] Í Róm – á Foro Romano – verður að grafa 20 fet á jörð ofan til þess að geta þar staðið á „klassískri grund“, en í Aþenuborg stendur enn óhreyfður kletturinn, þar sem Sókrates talaði gegn Alkibiadesi, og Períkles ávarpaði lýðinn, og á Akropolis hefði mátt líta listaverk Phídiasar, eins og hefðu þau verið gjörð fyrir 10 árum, ef siðleysi manna hefði ekki á síðustu árum fengið að eyðileggja þau – þó, sem betur fer, ekki nema að hálfu leyti. Að Rómaborg einni undanskilinni hefir mér hvergi fundizt tíminn líða jafnfljótt og þá 5 daga, sem ég dvaldist í Aþenuborg. Það sem Aþenuborg hefur fram yfir Róm er sjálf náttúran og rústirnar, sem þar gefur að líta; en hvað snertir gripasafnið í Aþenuborg, bæinn sjálfan og íbúana, getur ekki verið um neinn samanburð að ræða. (Jón Helgason 1941: 91-93)

Rétt eins og borgarbragurinn í Aþenu bar sögunni sorglegt vitni, þá gerðist hið þveröfuga við komuna til Konstantínópel, þar sem Tómas verður dolfallinn þegar við fyrstu sýn borgarinnar:

Alt, sem Ølenschlæger eða hvaða skáld annað sem er eða málarar hafa nokkuru sinni sagt eða snortið með tilfinningar vorar, verður áhrifalaust í samanburði við það mál sem náttúran sjálf talar hér, og við þær tilfinningar sem hún vekur í sálu þess manns, er fer framhjá keisara-höllinni (serailinu) [á aðra hönd] og Skútarí [á hina], og í fyrsta sinn sér Galata blasa við sér með Sæviðarsund (Bosporus) hægra megin og höfnina [„Gullhornið“ svonefnt, sem norrænir menn til forna kölluðu Stólpasund] vinstra megin. (Jón Helgason 1941: 95)

Hrifning var svo almenn á skipinu að jafnvel Napolibúarnir um borð gátu ekki orða bundist: „Con questo la città di Napoli non puó compararsi.“ Tómas ber Tyrkjum vel söguna og ber blak af slæmu orðspori þeirra. Gerir hann stóran greinarmun á Grikkjum og Tyrkjum: „Í staðinn fyrir gríska glannaskapinn gefur hér að líta rólynt fólk, óframgjarnt, góðviljað og ábyggilegt, yfirleitt tilvalið fólk, sem taka mundi fram ýmsum af Norðurálfu-þjóðunum, ef hlotið hefði betri menntun.“ (Jón Helgason 1941: 95). Og í bréfinu til föður síns frá Napoli segir hann berum orðum: „Grikkir eru slæmir menn en Tyrkir góðir!“ (T. S. 1907: 125)

Tómasi virðist ekki eins uppsigað við íslamska helgisiði og þá kaþólsku, hann dáist að því hversu „hátíðlegt“ andrúmsloftið sé í moskunum, „enda séu Tyrkir yfirleitt trúhneigðir menn en þó umburðarlyndir í garð manna, sem eru annarar trúar, gagnstætt því sem almennt sé haldið“.

Þegar Tómas kemur til Smyrna á vesturströnd Tyrklands (nú Izmir), þar sem hann dvaldi í viku, fer sýn hans á umhverfið að litast af skáldskap Þúsund og einnar nætur og hann dregur upp eftirfarandi mynd í bréfi til vinar:

Mér fannst, sannast talað, ég vera kominn í annan heim, þegar ég kom til Tyrkja, eftir að hafa verið meðal Grikkja – þó allhægt sé að lynda við Grikkina sem hér búa …Hér gaf að líta miklar úlfalda- og múlasnalestir. Hér mátti sjá þræla, sem í stórhópum voru reknir til sölutorgsins, þar sem þá skyldi selja. Konur allar voru með gula skó á fótum og slæðu fyrir andliti og í fylgd með þeim var fjöldi ambátta og geldinga. (Jón Helgason 1941: 93)

 

Um samband kvenlegrar fegurðar og fagurrar náttúru

Flest bendir til að Tómas hafi verið trúr þeirri heitmey sem hann hafði bundist með leynd norður í Aðaldal í Þingeyjarsýslu örlagasumarið 1829, og sá ekki aftur fyrr en eftir 5 ára ferðalag sitt um heiminn. Það kom þó ekki í veg fyrir að hann gæfi hinni kvenlegu fegurð gaum, og kemur það nokkrum sinnum fram í ferðabókarhandriti hans og sendibréfum. Það er athyglisvert við þær athugasemdir að hann tengir jafnan saman ytra útlit og kynþokka kvenna annars vegar og það náttúrlega umhverfi sem þær eru sprottnar úr hins vegar. Ein fyrsta athugasemd hans um þessi efni kemur fram í kaflanum um veruna í Dresden í Þýskalandi, en þar segir Tómas:

Konur eru í Dresden aðdáanliga fríðar, og sá eg þar ekki ófrítt stúlkuandlit jafnt meðal allra stétta. Hefir fátt á ferð minni undarligar fyrir mig komið en hvað stór munur þess var í Berlín og hér. Sýnist það og víða, að kvenfólk sé svo bundið til náttúrunnar að fríðleikur þess fari mikið eftir fegurð hennar. Vinnukonur í Dresden búa sig snoturligar en víðast annars staðar og áþekkt kaupstaðarkonum á Íslandi … (T. S. 1947: 219)

Ekki eru finnanlegar beinar heimildir um mat Tómasar á kvenlegum yndisþokka á Ítalíu, en í bréfi til föður síns segir hann Ítalíu vera „fegursta land í Norðurálfunni og það merkilegasta í veraldarsögunni; þar er og allt það, er mennirnir hafa fallegt gert, sameinað. Málið: vallenskan eða ítalíenskan er hið fegursta mál, sem talað er – og trauðlega eru nokkursstaðar mennirnir fallegri“ (T. S. 1907: 120–121).

Þótt Tómas beri Grikkjum almennt illa söguna, þá segir hann eftir heimsókn sína til grísku eyjarinnar Mýtílene og til Smyrnu á vesturströnd Tyrklands, að landslag á Mýtilene sé engu líkt hvað fegurð snertir, og sama eigi við um kvenfólkið, „sem hljóti að vera jafn-andlitsfrítt nú og það var á dögum grísku skáldkonunnar Sappho“. Álítur hann að „alls yfir séu grískar konur öllum öðrum konum fríðari“; þetta hafi honum ekki orðið ljóst fyrr en hann kom til Smyrnu, því „á sjálfu Grikklandi fái konur varla leyfi til að koma undir bert loft“ (Jón Helgason 1941: 93–94)

Það sérstæða samhengi sem Tómas virðist finna á milli kvenlegrar fegurðar eða líkamsfegurðar og náttúrunnar er kannski ekki jafn langsótt og ætla mætti, því hliðstæðar hugmyndir koma fram í tímamótaverki þýska listfræðingsins Johanns J. Winkelmanns, Saga listar fornaldarinnar, sem var rituð 1764, og var ekki bara tímamótaverk í ritun listasögu, heldur líka hugmyndafræðilegur grunnur nýklassísku stefnunnar eins og hún birtist t.d. hjá Bertel Thorvaldsen. Tómas minnist á Winckelmann í Ferðabók sinni og segir engan fyrr né síðar hafa með svo miklu lífi og gáfum útlagt og lýst hinum gömlu snilldarverkum. En í upphafi umfjöllunar sinnar um gríska myndlist fornaldarinnar segir Winckelmann að eina skýringuna á yfirburðum grískrar myndlistar í gjörvallri listasögunni sé einmitt að finna í loftslaginu:

Áhrif loftslagsins hljóta að blása lífi í þau sáðkorn sem listin vex upp af, og Grikkland var hið útvalda land fyrir þetta sæði … Margt af því sem okkur er tamt að rekja til ímyndunaraflsins var ekki annað en náttúran sjálf meðal Grikkja. Eftir að náttúran hafði sveiflast frá hinu kalda til hins heita fann hún miðpunkt sinn, ef svo mætti segja, í Grikklandi, þar sem loftslag er í fullkomnu jafnvægi milli veturs og sumars … Þar sem nattúran er hvað minnst umvafin þokumóðu og mistri er hún skjótvirkari í viðleitni sinni að gefa líkömunum þroskaðra form, hún getur af sér tignarlegar verur, einkum kvenverur, og í Grikklandi hefur hún gefið mannfólki sínu hið fullkomnasta og háleitasta form … og engin önnur þjóð hafði líkamsfegurðina í jafn miklum metum. (Winkelmann 1764/1993)

Winckelmann gerði að vísu greinarmun á náttúrlegri fegurð og listrænni fegurð, en um leið og hann setur fram heilstæða kenningu um guðdómlegt eðli fegurðarinnar sem er „skynjuð með skilningarvitunum en skilin með hugsuninni“ út frá hinum fegurstu fordæmum náttúrunnar, þá setur hann jafnframt fram heilstæða og ítarlega kenningu um fagurfræði mannslíkamans er byggi á stærðfræðilegum hlutföllum út frá tölunni þrem. Nálgast þessi fagurfræði Winckelmanns mjög að vera kynþáttahyggja þar sem hann telur m.a. þykkar varir og inndrægt og kúlulaga nef blökkumanna, flatt andlit og skásett lítil augu Asíubúa vera afbrigðileg frávik frá hinni fullkomnu fyrirmynd sem hann sá meðal Grikkja, og stóð næst mynd hans af skaparanum sjálfum. Tómas virðist undir áhrifum Winckelmanns hvað þetta varðar, en athyglisvert er samt, að í hans huga virðist Ísland ekki falla undir þessa kenningu hvað loftslagið snertir, því kaupstaðarkonur á Íslandi jafnast til fulls á við vinnukonurnar fögru sem hann sá í Dresden.

 

Heimförin frá Napoli

Þegar Tómas kemur til Palermo fær hann að vita að styrkumsókn hans til fararinnar hefur verið hafnað af dönskum yfirvöldum, en hann setur þá stefnuna á París og segir í bréfi til föður síns sem hann ritar kominn til Napoli 28. ágúst 1833, að hann stefni á að „halda þar út [þangað] til í desember. Komi mér úr því engin hjálp, verð ég að setja mig þar niður?! Því alstaðar í Evrópu er ég matvinnungur, ef ég vil vera kyrr, en reist get eg ei af eigin kröftum“ (T. S. 1907: 125).

Tómas dvaldi um einn mánuð í Napoli áður en hann hélt af stað norður á bóginn í septemberbyrjun. Leiðin norður lág í gegnum Róm og Flórens, til Livorno, Pisa, Lucca, Genova, Milano og Torino. Þaðan hélt hann í gegnum Sviss og Austurríki með viðkomu m.a. í Sion, Chamonix, Genf, Lausanne, Bern, Luzern, Zürich, Schaffenhausen og Basel. Þaðan yfir frönsku landamærin um Strasbourg til Parísar, en þangað kemur hann um miðjan nóvember 1833. Í bréfi til vinar segir hann um þetta ferðalag að „í flestöllum af þessum stöðum hef ég staðið við í 2–3 daga og í öllum þeim stærri svo sem í viku, og ekki ætla ég margt merkilegt í neinum þeirra, sem ég ekki hefi séð“ (Jón Helgason 1941: 96–97).

Í París virðist ferðasjóður Tómasar hafa verið upp urinn, en hann segir í bréfi til föður síns, sem hann skrifaði í Kaupmannahöfn 4. júní 1834, að „einn af vinum mínum hefir þar brúkað yðar góðsemi, eftir hann sjálfur var búinn að reita sig inn að skyrtunni, svo ég ei skyldi deyja úr hungri og skuldheimtararnir ei framar létu honum svefnró. Dönsku stjórninni hefir nefnilega farist ver við hinn eina Íslending, sem vogaði sér út í veröldina, en trúlegt sýndist og ég gat ímyndað mér, svo ég hef ei af henni fengið einn skilding til ferðarinnar ...“ (T. S. 1907: 126–127).

Tómas kennir fjárskorti og illum aðbúnaði í París um veikindi sín sem urðu til þess að hann varð að leggjast inn á sjúkrahús í lok febrúar 1834 og dvaldi þar þjáður af lungnabólgu og/eða berklum með þrálátum blóðspýtingi fram til 3. maí. Tómas lét veikindi og fjárskort ekki aftra þeim staðfasta vilja að fara til Lundúna, áður en hann sneri til Kaupmannahafnar. Hann fer frá París í byrjun maí til Lundúna, á greinilega stutta viðdvöl, og siglir þaðan til Hamborgar og frá Hamborg kemur hann til Kaupmannahafnar þann 16. maí, og vantaði þá þrjár vikur á að ferðin sem hófst 7. júní 1832 hefði staðið í tvö ár. Í Kaupmannahöfn verða fagnaðarfundir Tómasar og vina hans, sem eru þá þegar farnir að undirbúa útgáfu Fjölnis. Um leið og hann vinnur að undirbúningi tímaritsútgáfunnar sækir hann um prestsembætti sem hafði losnað á Breiðabólstað, skammt frá æskuslóðum hans í Rangárþingi. Hann fær embættið og því var ferð hans ekki lokið: hann stefndi markvisst heim til Íslands og norður í Aðaldal til að hitta heitkonu sína, Sigríði Þórðardóttur. Tómas hafði misst af „vorskipunum“ sem sigldu til Íslands, en hann frétti að Fredrik Carl Christian krónprins (síðar Friðrik VII konungur) væri á Íslandi og að „corvettan“ Najaden ætti að sækja prinsinn í ágústmánuði. Fékk Tómas ókeypis far með skipinu, sem hreppti afar slæmt veður á leiðinni, og tók siglingin til Íslands réttar þrjár vikur, en til Íslands komst Tómas 31. ágúst 1834. Er þessari siglingu lýst með eftirminnilegum hætti í fyrsta tölublaði Fjölnis 1835.

Sú Reykjavík sem mætti heimsborgaranum Tómasi Sæmundssyni í sumarlok 1834 minnti í litlu eða engu á þá fjölmörgu staði sem hann hafði heimsótt í heimsreisu sinni. Af um 600 íbúum bæjarins voru fimm embættismenn konungs: einn stiftamtmaður, einn bæjarfógeti, einn dómari landsyfirréttar, einn landlæknir og einn lyfsali. Biskupinn bjó í Laugarnesi, sem þá var fyrir utan bæinn. Aðrir bæjarbúar voru tómthúsmenn, handverksmenn og bændur sem lifðu af stopulli erfiðisvinnu og bjuggu flestir í torfkofum. Helstu menntamenn landsins voru kennarar við Bessastaðaskóla og bjuggu þeir á Álftanesi og í Görðum. Tómas sat að kvöldi fyrsta dags í Reykjavík veislu Kriegers stiftamtmanns til heiðurs krónprinsinum, sem var að ljúka Íslandsferð sinni. Tómas dvaldi rúmar þrjár vikur í Reykjavík og nágrenni og þáði gistivináttu Steingríms Jónssonar biskups í Laugarnesi, en fljótt kom að því að honum héldu engin bönd: hann þurfti að komast í Aðaldalinn að hitta heitmey sína, sem hafði beðið hans í fimm ár.

Erfiðasti áfangi ferðarinnar

Á þessum tíma var Ísland vegalaust land með óbrúaðar ár. Ferðalagið frá Reykjavík norður í Aðaldal var trúlega erfiðasti áfanginn á allri heimsreisu Tómasar, en hann hélt ríðandi frá Reykjavík þann 25. september. Ferð hans lá um Reykholt, Gilsbakka, Kalmanstungu, Grímstunguheiði, Víðidal, Þingeyrar, Svínavatn, Blöndudal, yfir jökulána Blöndu og áfram um Svartárdal, Vatnsskarð, Víðivelli í Skagafirði, yfir Héraðsvötn í Steinsstaði í Öxnadal og til Akureyrar, en þaðan var síðasta dagleiðin í Garð í Aðaldal. Hafði Tómas þá setið á hestbaki og riðið vegleysur um fjöll og dali og farið yfir grýttar urðir, mela og úfin heiðalönd og yfir allmörg stórfljót á tíu dögum í misjafnri veðráttu og hreppt fyrsta hríðarveður haustsins á síðasta degi ferðarinnar.

Þoldi ég betur ferðalagið en ég nokkurn tíma hafði getað vænst, því ég hafði aldrei meira á mig reynt síðan ég lasnaðist, en fann mig þó oft ver á mig kominn en eftir þessa ferð,“ segir hann í bréfi til föður síns (T. S. 1907: 137–138). Tómas hafði fylgdarmann flestar dagleiðirnar, á leiðinni fékk hann gefinn reiðhest og hafði tvo til reiðar og svo er að sjá af frásögn hans í bréfinu til föðurins, að ekkert hafi þótt eðlilegra en að slá reiðskjótana af í lok ferðarinnar, þar sem ekki hefði verið hugsað til fóðuröflunar fyrir þá yfir bjargræðistímann. Tómas gat komið hestum sínum í fóður gegn því að skorin voru tíu lömb fyrir hvorn hest og til viðbótar greidd „ein spesía og ríksort“ á mánuði í fóðurkostnað. Segir þessi saga nokkuð um þær efnahagsaðstæður er ríktu á þessum „dýrðlegasta bletti á jarðríki“, sem Tómas hafði kvatt með söknuði sjö árum áður, þegar hann hélt til náms í Kaupmannahöfn. Í áðurnefndu bréfi til föður síns segir Tómas enn fremur um ferðina norður: „En ég sé engin líkindi til að ég muni nokkurn tíma iðrast ferðarinnar, og ég hefi sem stendur orsök til að vera ánægðari með hagi mína en nokkurn tíman áður … 8 dögum eftir að ég kom hingað var lýst yfir af prédikunarstól og brúðkaup stóð í Garði þann 24 október eða föstudaginn fyrstan í vetri“ (T. S. 1907: 139). Sæmundur faðir Tómasar, sem bjó á Eyvindarholti í Vestur-Eyjafjallahreppi, þar sem hann var hreppsstjóri, sá sér ekki fært að fara norður til að vera við brúðkaup sonar síns.

Þrem vikum eftir að Tómas kom í Garð var hann kvæntur maður. Þar hafði hann nú vetursetu, sinnti almennum bústörfum og vann trúlega í ferðabókarhandriti sínu, auk þess sem hann vann að greinaskrifum fyrir Fjölni. Biskup kallaði Tómas til Reykjavíkur til prestvígslu um vorið, og var hann vígður til Breiðabólstaðarprestakalls í Dómkirkju Reykjavíkur 24. maí 1835, en við jörðinni og prestakallinu tók hann formlega 5. og 6. júní (Eggert Ásgeirsson 2007: 41). Frá Breiðabólstað reið hann svo norður Sprengisand að sækja eiginkonu sína og búslóð í Garði. Var búslóðin flutt á klökkum í hestalest suður yfir Sprengisand. Á leiðinni hrepptu þau óveður og villtust af leið, og þá gerðist það að hestarnir ráfuðu á bithaga í þessari eyðimörk, sem trúlega varð þeim til bjargar, og heitir síðan Tómasarhagi. Haga þennan gerði Jónas Hallgrímsson ódauðlegan í ljóði um vin sinn og ferð hans: „Tindrar úr Tungnajökli/ Tómasarhagi þar / algrænn á eyðisöndum / er einn til fróunar. // Veit eg hér áður áði / einkavinurinn minn / aldrei ríður hann oftar / upp í fjallhagann sinn. // Spordrjúgur Sprengisandur / og spölur er út í haf / hálfa leið hugurinn ber mig, / það hallar norður af.“

Tómas sinnti preststörfum, ritstörfum og bústörfum bóndans á Breiðabólstað þau fáu ár sem hann átti ólifuð. Hann var farsæll í embætti, mikilvirkur í ritstörfum sínum og átti í góðu hjónabandi. Þeim hjónum varð fimm barna auðið, en hann lést 17. maí 1841 af völdum þess sjúkdóms er hann hafði fengið í París og losnaði aldrei við. Yngsta dóttir Tómasar lést sama dag og hann, 4 mánaða gömul. Tengdamóðir hans, sem dvaldi á heimili hjónanna, hafði látist 12. maí, og önnur dóttir Tómasar, Sigríður, lést nóttina fyrir jarðarförina sem fór fram 4. júní. Þann dag kvaddi Sigríður Þórðardóttir eiginmann sinn, móður sína og tvær dætur í kirkjugarðinum á Breiðabólstað.

 

Veröldin séð með augum gestsins og leiðsögumannsins

Segja má að ævistarf Tómasar Sæmundssonar hafi falist í því að tengja Ísland við umheiminn á ný. Félagarnir sem stóðu að útgáfu Fjölnis brúuðu á ný þá gjá sem hafði myndast á milli þessarar strjálbýlu eyju í norðurhöfum og umheimsins. Sjálfur var Tómas eins og leiðsögumaður ráðvilltrar þjóðar sem þekkti ekki annan heim en nokkrar veðurbarðar þúfur, úfnar öldur úthafsins og náttúruöfl sem lokuðu fyrir alla möguleika á yfirsýn yfir heiminn. Í ferðabókarhandriti hans er brot úr kafla, sem hann hefur hugsað sem inngang að þessum leiðarvísi Íslendinga um menningarheima Evrópu. Kaflinn hefst á lýsingu og útskýringu höfundar á því ótrúlega fyrirbæri sem borgarmenning er í augum Íslendinga. Þessi lýsing segir meira en mörg orð um það, hversu mjög íslenska þjóðin hafði fjarlægst menningu heimsins, þjóðin sem eitt sinn hafði sent syni sína og dætur yfir úthöfin til að finna meginlönd á borð við Grænland og Norður-Ameríku. Í stað torfkofanna sem Íslendingar þekktu sem hina náttúrlegu mannabyggð blasir þá þessi sjón við:

… þannig er nú einn samfastur húsaklasi sem stendur beint upp af fletinum er borgin er byggð á, þverhníptur á alla vegu, á að sjá sem sker eður eyja, og hefur því einn slíkur í sumum málum svo kallaður verið. Eru nú í hverri borg slíkir hólmar margir og hafa ýmsa lögun, og þá er staðurinn sem regluligast byggður er þeir eru rétthyrningar og ganga hvör öðrum fremst jafnsíðis. Sundin sem nú aðskilja hvörn þeirra frá öðrum og liggja aftur á bak og áfram í margar áttir er það sem götur eða stræti nefnist. Eru þau oftast svo breið að vagnar geti á þeim mætzt, og þeir fótgangandi hafi þó nægilegt rúm fram með húsum báðum megin; og aðskilur göngumannavegi frá hestvagni oftast rásir og ræsi sem flytja burtu vatn það er ofan streymir af húsþökum eður út úr húsum berst. Eru strætin oftast flórlögð. Má nærri geta að [mörgum] sem slíkum vegum eru óvanir finnist þröngt um sig er hann stundum sem mílum skiptir gengur milli rétt sem háfjalla er nærri lykjast saman yfir höfði hans og ei sér nema litla rönd himins yfir höfði sér; verður því og frá sér numinn er hann sér allt um kring sig sífelldan mannusla með alls kyns hætti, vagna og hesta arg og hávaða svo varla heyrir manns mál. Er varla til ófrýniligri sjón en frá háum turni að líta yfir stóra borg. Húsþökin fyrir neðan mann, sem oftast eru úr brenndum leir, með öllum sínum ójöfnum eru sem brunahraun sem reykháfarnir er fylla loftið með sífelldum reyk og svælu gjöra enn líkara eldgjósandi fjöllum, og á milli þessa grillir maður niður á göturnar sem í djúpa gjá og sér þaðan fólk og hesta á hreyfingu sem kvikindi og ber þaðan upp til manns argið og skarkalann. Gefur það nokkurn þanka um hvörnig við munum líta út frá hærri himnastöðum … (T. S. 1947: 290)

Lýsing þessi á það sammerkt með lýsingu Tómasar á landslagi í námunda við Róm og Napoli, að orðin ná ekki utan um veruleikann nema styðjast við það sem augað þekkti fyrir. Þannig verða fjalladalirnir og eldfjöllin og eyjar og sker Tómasi nærtækust samlíking þegar lýsa skal borgarlandslaginu. En þegar kemur síðan að menningunni blasir meðal annars þetta við:

…höfuðborgar landsins vitja allir sem bein hafa í hendi, eyða þar fé sínu; þar er höfðingjanna aðsetur helzt. Í borgunum finna menn minna til veðráttunnar hörku og óblíðu en á landinu; þar er allt unnið og framkvæmt í húsum inni, lítil stritvinna nauðsynlig, störfin eru á öllum tímum árs hin sömu og minni nauðsyn á að taka nær sér á einum tíma en á öðrum en á landinu, hvar allt hefir sína stund. Má af öllu þessu stærra punti við koma í borgum; safnast og þangað allt hvað skemmtunum og gleði unnir, vegna þess þar eru stærri glaðværðir og menn geta verið sér úti um stærri margvísligar nautnir; er þar og öll hin hærri menntun búandi. Til að flýta og koma til leiðar öllu þessu er þangað safnað öllu því sem fegurðarkeimur er að. Allt hvað upp á einhvern hátt þykir merkiligt, prýðiligt eður nytsamt fyrir staðarbúa eður fyrir almenniliga menntun er því þangað safnað svo það ekki megi kalla sett undir mæliask. Eru því í öllum stórum stöðum margvíslig söfn sem vanaliga eru haldin á opinberan kostnað og því á ákveðnum dögum opin til heimillrar inngöngu hvörjum er sjá vill til menntunar sér og ánægju … (T. S. 1947: 292)

Það var lesendum Tómasar framandleg hugsun að atvinna væri ekki árstíðabundin og að hana mætti stunda í húsaskjóli árið um kring. Þessari lýsingu á menningarumgjörð stórborganna fylgja síðan nákvæmar lýsingar á þeim margvíslegu og framandlegu stofnunum er fylgja stórborgarmenningunni: listasöfnum, fornminja- og náttúrugripasöfnum, bókasöfnum, leikhúsum og háskólum, sem og þeim margvíslegu starfsstéttum er tilheyra hinum ólíku geirum borgarmenningarinnar. Öll ber lýsingin merki þess að hún er rituð fyrir þjóð sem vart þekkti tvílyft hús, vegi, holræsi eða menningarstofnanir sem fylgja borgarmenningunni, hafði aldrei hlýtt á tónleika eða séð leiksýningu eða listasafn.

Sjálfur gerir Tómas þá játningu, að á ferðalagi sínu um heiminn hafi hann uppgötvað margt sem hann hafði ekki haft getu eða hugmyndaflug til að ímynda sér fyrr en hann sá það með eigin augum, einkum hvað varðar byggingarlist og myndlist:

Hef eg þar fyrir mér eigin reynslu, og hafði eg varla hugað að hinum smíðandi snilldum, öllu þeirra ágæti, þeirra mikilvægu verkunum í veraldarsögunni … og í mannligu lífi, hvað mikið þar um er talað í bókum, og oft ómögulegt án þess að bera skynbragð að skilja heil merkisrit eður að taka þátt í samræðum siðaðra manna, fyrr en augu mín opnuðust [og] eg sá hin fögru löndin hvar snilldin eiginliga á heima ásamt náttúrunnar indæli og himinsins blíðu. (T. S. 1947: 338)

Tómas Sæmundsson og félagar hans í kringum tímaritið Fjölni opnuðu Ísland fyrir nútímanum.

 

Heimildir

Berlin, Isaiha. 1999. The Roots of Romanticism: The A.W. Mellon Lectures in the Fine Arts. Princeton, NJ: Princeton University Press.

Dillon, A. 1840. A Winter in Iceland and Lappland. London: Henry Colburn.

Eggert Ásgeirsson. 2007. Tómas Sæmundsson og Sigríður Þórðardóttir. Reykjavík: Eggert Ásgeirsson.

Gombrich, Ernst. 1989. Art and Illusion: A Study in the Psychology of Pictorial Representation. Princeton, NJ: Princeton University Press.

Jón Helgason. 1941. Tómas Sæmundsson: Æfiferill hans og æfistarf. Reykjavík: Ísafold.

Jónas Hallgrímsson. 1989. Ritverk Jónasar Hallgrímssonar I. bindi.  Ljóð og lausamál. Ritstj. Haukur Hannesson, Páll Valsson og Sveinn Yngvi Egilsson. Reykjavík: Svart á hvítu.

Páll Valsson. 1999. Jónas Hallgrímsson Ævisaga. Reykjavík, Mál og menning.

Schelling, Friedrich. 1989. Le arti figurative e la Natura [Über das Verhältnis der bildenden Künste zur Natur, 1807]. Ítölsk þýðing og ritstj. G. Moretti og L. Rustichelli. Palermo: Aesthetica edizioni.

Tómas Sæmundsson. 1832. Island fra den intellectuelle Side betragtet. Kjøbenhavn: Græbe & Søn.

Tómas Sæmundsson. 1907. Bréf Tómasar Sæmundssonar; gefin út á hundrað ára afmæli hans 7. júní . Ritstj. Jón Helgason. Reykjavík: Sigurður Kristjánsson.

Tómas Sæmundsson. 1947. Ferðabók Tómasar Sæmundssonar. Ritstj. Jakob Benediktsson. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag.

Winkelmann J.J. 1993. Storia dell’arte nell’antichità [Gesichte der Kunst des Altertums, 1764]. M.L. Pampaloni þýddi. Milano: Arnoldo Mondadori Editore.

 

%d