LEIKUR SANNLEIKANS III.

Carlo Sini:

 

HANDANVERA TUNGUMÁLSINS

 

 

Þessi snjalla ritgerð um handanveruna og sannleikann er birt í "Viðaukum" í bókinni „Il gioco della veritá“, (OPERE Volume I, Tomo II, Semiotica ed ermeneutica, bls 403-409; Jaca Book, 2019). Hún fjallar á snjallan hátt um landamæri og endimörk í raunveruleikanum og hugmyndasögunni, þar sem höfundur greinir á frumlegan hátt tengslin á milli orðanna (tungumálsins) og hlutanna og í hverju þessi tengsl eru fólgin. Ritgerðin er í samhengi við ritgerðirnar um Ástríðu sannleikans og Tímann og þögnina, sem eru birtar hér á vefsíðunni á íslensku og fjalla í raun allar um þessi tengsl frá ólíkum sjónarhornum. Hér er ekki efni til að endursegja textann eða hugsun hans, heldur benda á hugmyndatengsl sem eiga sterkt erindi inn í alla heimspekiumræðu í samtímanum.

 

Í 57. grein Prolegomeni a ogni metafisica futura che vorra presentarsi come scienza (Inngangur að sérhverri frumspeki sem vill kynna sig sem vísindi) þar sem fjallað er um takmörk hreinnar skynsemi, setur Immanuel Kant fram skilgreiningu á mikilvægum greinarmun: muninum á landamærum og endimörkum (limite e confine). Almennt eiga landamæri einungis við um það sem er að finna innan þeirra, endimörkin gefa hins vegar vísbendingu um handanveru þeirra. Kant segir að Stærðfræðin og eðlisfræðin, svo dæmi sé tekið, eigi sér sín landamæri er hafi með verksvið þessara vísinda að gera. Í raun og veru eru viðfangsefni þeirra fyrirbæri, en ekki hlutir í sjálfum sér. Frumspekin á sér hins vegar raunveruleg endimörk, því viðfangsefni hennar eru hugmyndir rökhugsunarinnar (sál, heimur, Guð). Sem kunnugt er fjalla hugmyndirnar um hið skilyrðislausa, hlutina í sjálfum sér, og hið skilyrðislausa er grunnurinn að allri frumspeki þar sem það er ófrávíkjanleg krafa mannlegrar rökhugsunar. Hins vegar getur einungis hið skilyrðislausa réttlætt þá tilfallandi og endanlegu náttúru (þ.e.a.s. hið óskilyrðisbundna) sem einkennir alla okkar reynslu, það er að segja það fyrirbærafræðilega eðli heimsins sem við búum í. Þess vegna verðum með einhverjum hætti að ganga fyrir fram út frá hinu skilyrðislausa til að skilja fallvalta og endanlega tilveru okkar, jafnvel þótt hið skilyrðislausa geti aldrei fært okkur vísindin. Hið skilyrðislausa er ekki einhver „hlutur“, heldur hugmyndaleg þörf innan sjálfs reynsluheimsins sem heims mannlegrar reynslu. Svo langt fylgjum við Kant, en framhaldið kallar á umhugsun.

Við skulum spyrja sjálf okkur: Getur eitthvað verið til sem er handan endimarkanna? Getum við með einhverjum hætti gert okkur mynd af því sem „að handan“? Ef það er eitthvað fyrir handan verður samkvæmt orðanna hljóðan að vera eitthvað hérna megin, en í endimörkunum er ekki um neitt hérna megin eða þarna megin að ræða: ef slíkt væri, þá væri ekki um nein endimörk að ræða heldur einmitt landamæri, það er að segja greinarmunur á fyrirbærum og áþreifanlegum hlutum. Hérna megin Ítalía, hinum megin Frakkland. Á milli eru landamærin. Ef þú einungis ímyndar þér endimörkin, ef þú einungis dregur upp mynd þeirra, þá eru komin landamæri með hérveru og handanveru. Hvar myndir þú þá leita endimarkanna? Ekki meðal fyrirbæranna, ekki meðal „hlutanna“. Hvað felst í raun og veru í því að draga upp merki „handanverunnar“? Og hvar staðsetjum við endimörkin? Hvaða merki er það sem ekki er hægt að festa á blað? Vandamálið virðist þversagnarkennt og óleysanlegt, en viðfangsefnið opnast, og slóð kemur í ljós, ef við gefum til dæmis þetta svar: merkið er á vettvangi tungumálsins: það er þar, og einungis þar, sem þessi mæri og „handanvera“ þeirra eiga sér stað.

Til að skilja merkingu þessa svars verður nauðsynlegt að efna til þrætu við almenningsálitið, því merking svarsins gengur gegn því. Hér höfum við tungumálið, töluð orð og skrifuð; handan orðanna höfum við hins vegar hlutina. Almenningsálitið gengur út frá því að það hafi á hreinu muninn á orðunum og hlutunum. Það telur sig geta neglt niður landamærin þar á milli: hér eru hlutirnir, þarna eru orðin. Orðið „rigning“ er ekki blautt og framkallar ekki rigningu. (Husserl sagði að orðið Feuer brenndi ekki). Sá sem hugsar hið gagnstæða er annað hvort geggjaður eða sófisti. En þessi einfaldi hugsanagangur ruglar saman atburðarásinni í heiminum, fyrirbærum reynsluheims okkar og merkingu þessara sömu atburða og fyrirbæra. Merki talmálsins eru vissulega ekki völd að atburðum hlutanna, og í þeim skilningi eru það ekki hlutirnir sem þau segja. Þó byrji að rigna þá orsakast það ekki af orðinu „rigning“, þeirri staðreynd að við segjum það eða hugsum. En við þurfum að geta sagt það, að það sé einmitt þetta sem gerist, að „núna rignir“, við þurfum að geta fest það í tungumálinu og þannig merkt það eða gefið því merkingu. Þetta liggur í rauninni strax í augum uppi, eins og margoft hefur verið bent á,:það sem hefur verið höndlað í tungumálinu erum við, talendur þess. Einu sinni gengnir inn í heim tungumálsins virðist sem við eigum engrar undankomu auðið. Oft hafa menn bent á mynd Wittgensteins af „búri“ tungumálsins í þessu sambandi.

Það gerist af sjálfu sér ef svo mætti segja að eitthvað eigi sér stað, hvort sem við höfum orð á því eða ekki. En ef við spyrjum: hvað hefur gerst, ef við viljum vita um hvað málið snýst, þá er það tungumálið sem grípur inn í. En almenningsálitið andmælir: handan við tungumálið eru hlutirnir. Hvaða hlutir? spyrjum við. Auðvitað hlutirnir! Til dæmis rigningin, sólin og svo framvegis. Augljóslega getum við aldrei vísað til þessara hluta án þess að kalla tungumálið til leiks. Það er eitt að upplifa reynsluna af því sem hendir, hvort sem okkur líkar betur eða ver. Annað er að hafa þekkingu á því sem við höfum upplifað. Aðeins þá eru „hlutirnir“ sem vísað er til kallaðir til leiks, ekki á undan og ekki utan tungumálsins. Hlutirnir eru þannig ávallt á mörkum tungumálsins, ekki handan við það. Við vorum áður búin að minnast á að hérna megin og handan við vísi ávallt til landamæra sem hægt er að vísa til með ábendingu: Sjáðu? Hér er Ítalía, hér er Frakkland. Hér er Ventimiglia, þarna er Mentone. Og þú getur bent með vísifingrinum á þá staðreynd að þú sért að tala: þú hreyfir varirnar, mótar röddina og beinir hendinni til að vekja athygli á öllu saman: sjáið?, ég er að tala. En hvað ert þú að segja, þú getur ekki bent á það því það er einmitt tungumálið, eða öllu heldur merking þess, sem hefur með endimörkin að gera, en ekki landamærin. Það er tungumálið sem leiðir í ljós, en það sem er sýnt er til staðar á endimörkum tungumálsins, og ef það er ígrundað í sjálfu sér, þá er það ekki raunverulega tungumál.

Almenningsálitið kallar á nánari skýringu. Það hefur rétt fyrir sér og ákallinu verður svarað. Við skulum spyrja okkur þessarar spurningar: get ég sýnt tungumálið og bent á það með sama hætti og ég bendi á rigninguna, sólina, eplið o.s.frv.? Við höfum sagt að við getum bent á að við erum að tala. Ef við hljóðritum síðan rödd okkar, þá getum við sýnt að við höfum talað. Eða þá að við getum sýnt að við erum að skrifa og höfum skrifað. Við getum sýnt að atburður hefur átt sér stað, rétt eins og það atvikast að það rignir o.s.frv. Með sama hætti gerist það að við tölum eða skrifum. En við getum hins vegar ekki sýnt að það sem gerðist hafi verið atburður tungumálsins, það er ekki mögulegt að sýna. Hvað getið þið raunverulega sýnt? Röð af sérhljóðum? Blekmerki á blaðinu? Hvernig getið þið vitað að það eru orð sem þið sýnið eða ykkur eru sýnd? Það þarf að vera ykkar tungumál og auðvitað þurfið þið að þekkja stafrófið.

En gerum nú ráð fyrir að þið séuð að hlusta á Kínverja og skiljið ekkert í máli hans. Hvernig getið þið vitað hvort hann sé í raun og veru að segja orð eða hvort hann sé einfaldlega að blekkja ykkur með tilviljanakenndum hljóðum sem líkjast kínverskum orðum? Sama gerist ef hann sýnir ykkur myndletur sem gæti að ykkar mati verið hvaða tilviljanakennda riss sem hugsast getur. Allt leiðir okkur að þeirri niðurstöðu að tungumálið sé ekki til staðar í hinum sýnilega „líkama“ sínum, í merkingargjöfum sínum („significanti“ eins og merkingarfræðingarnir kalla það), það hvílir í merkingunum sem það ber með sér og miðlar. En hvar eru merkingarnar? Á mörkunum segir almenningsálitið nú, þar sem það er farið að læra lexíuna og sýna slægð, þó enn hafi það að öllum líkindum ekki skilið kjarna málsins.

Hlutirnir sem við tölum um eru merkingar að því marki sem við tölum um þá. En merkingarnar eru ekki hlutir: þú getur ekki stungið þeim í vasann til að geyma þær þangað til eftir kvöldmatinn. Þessi staðreynd, þessi ómöguleiki hefur skapað mikinn rugling einnig innan heimspekinnar. Til dæmis eins konar vonbrigði og óánægju: við erum fangar tungumálsins og getuleysis þess til að segja „hlutina sjálfa“. Menn segja að „raunveruleikinn“ sé annað en tungumálið (án þess að hugleiða að „raunveruleiki“ er líka orð og að það sé einmitt tungumálinu að þakka að menn velti fyrir sér þessum mismun og láti þessa frumspekilegu óánægju í ljós.)

Hinum megin höfum við hina ánægðu: vissulega er ekki hægt að segja hinn „sanna“ veruleika hlutanna. Þó það nú væri! Þannig laumast úr fylgsnum sínum hópar andatrúarmanna, and-rökhyggjusinna, áhangendur hins yfirnáttúrulega og dulhyggjukenninga af ólíkum toga (raunverulegir iðkendur dulhyggjnnar hafa skynsamlega hljótt um sig og helga sig ávöxtum virðingarverðrar íhugunar).

Milli þessara öfga höfum við okkar ríkjandi almenningsálit sem venjulega lætur sér fátt um finnast en stendur engu að síður fast á því að orðin séu samsvarandi hlutir „án frekari spurninga“. „Færðu mér saltið“. Þú réttir mér það og þetta sýnir svart á hvítu að á bak við orðið „salt“ sé saltstaukur sem inniheldur salt. Eins og vera bar. En hlutirnir eru hreint ekki svo einfaldir eins og þegar hefur verið sýnt fram á. Það er kominn tími til að reyna að sýna hvernig þessum málum er í raun háttað. Almenningsálit lesandans andar nú léttar án þess að yfirgefa varðbergið, því ef satt skal segja þá er trúartraustið takmarkað: hvaða óskapnaði eigum við nú von á?

Við segjum fyrst og fremst að hrein andstæða orða og hluta gengur ekki upp. Og þá ekki heldur hin meinta einfalda samkvæmni: hvernig getum við komið henni heim og saman? Sá sem talar er ekki fær um utanstæða afstöðu sem gerir honum fært að segja: hér sjáið þið það, hérna eru orðin (salt, rigning o.s.frv.) og hérna hafið þið samsvarandi hluti. Þetta er ekki gerlegt, ekki er hægt að hafa í annarri hendi orðin, og hlutina í hinni og bera þau saman sem jafngildi. Þú getur ekki gert það vegna þess að sem sá sem hefur orðið ert þú augljóslega staddur innan sjónarhorns og iðkunarhefða tungumálsins. En þó svo væri ekki gæti það heldur ekki komið til greina að spyrja sig hvað séu orðin og hvað séu hlutirnir í mismun sínum og samsvörun. En það er staðreynd að orðin vísa með árangri til hlutanna; ef ég bið um „saltið“ (orð) og ég fæ saltið (hlutinn); hvernig getur þetta kraftaverk átt sér stað?

Til að skilja þetta þurfum við að skilgreina með hvaða hætti við segjum að hlutirnir standi á mörkum tungumálsins (eða hvernig tungumálið er í almennara samhengi endimörk sem viðurnefni (antonomasia) jafnvel þótt vera hlutanna virki ekki sem atburður tungumálsins. Við höfum þegar áttað okkur á að endimörk eru ekki það sama og landamæri (hlutirnir hérna megin og orðin fyrir handan, hérna Ítalía og hinum megin Frakkland), en hvernig eigum við þá að hugsa endimörkin? Skilningurinn á endimörkunum varðar augljóslega margvíslegar merkingar. Hér takmörkum við okkur við hvernig þessi skilningur snertir okkar tilfelli og hvernig ég telji hann samsvara merkingu endimarkanna í heimspekinni (það var engin tilviljun að við byrjuðum á Kant). Við segjum þá að umfram annað merki endimörkin takmörk og skilyrði þess að „vera í tiltekinni sögu“. Tökum dæmi:

Sérhvert dauðlegt líf, til dæmis líf mannlegrar veru, takmarkast af tímalengd sinni. Það er í þeim tíma sem er þess tími, ekki á undan og ekki á eftir. Fæddur 1632, dáinn 1677 (þetta eru ártöl hins mikla Spinoza); en vel að merkja, þau eru til staðar fyrir frásögn annars, ekki hans sjálfs. Annar skoðar utanfrá, með tímatal almanaksins að vopni, til að skilgreina landamæri dauðlegs manns. En hinn lifandi getur ekki gert það á meðan hann er á lífi. Bæði vegna þess að lífið er ekki liðið, jafnvel þó hann viti að það er endanlegt, það er að segja dauðlegt. En einnig vegna þess að hann veit ekkert um fæðingu sína (nema auðvitað að hún hafi átt sér stað). Hann þarf því að leita til vitneskju og frásagna annarra sem voru vitni. Það er með þessum hætti sem líf hinna lifandi er innan endimarka, ekki landamæra. Þetta felur í sér að vera hins lifandi í tiltekinni sögu, sem hann er í raun og veru staddur í, getur aldrei takmarkast af einhverjum áþreifanlegum mörkum; það eru örlög hins lifandi að færa sig stöðugt um set, að fara stöðugt „yfir mörkin“, fram og aftur, það er að segja túlka upp á nýtt samband sitt við hið liðna og endurmóta afstöðu sína til framtíðarinnar.

Sá sem lifir endursegir stöðugt á ný upprunasögu sína, frásögnin breytist jafn óðum á meðan hann lifir. Upphafið, sú staðreynd að vera fæddur, er undir vitneskju annarra komin og heimildum manntalsbókanna. Hvað varðar merkingu þess sem hann hefur upplifað, þá er hún háð óljósum endurminningum hans sjálfs og breytilegum túlkunum á þeim. Þegar hann var tíu ára hafði frásögnin tiltekinn tón, um tvítugt allt annan og þannig áfram. Merking lífs hans birtist honum undir formerki færanlegra marka sem aldrei verða fest endanlega í sessi sem áþreifanlegar staðreyndir. Með öðrum orðum þá mætir líf hans stöðugt endimörkum merkingar sinnar, allt fram að hinum endanlega atburði dauðans. Þá kemur í hlut annarra (eins og Charles Sanders Peirce benti á) að gera upp við sig merkingu þessa lífs, fella það inn í eigin endimörk. Við deyjum eftirlifendunum, sagði Gentile, og öðrum er falið að gera upp merkingu lífs míns, sagði Peirce. Frásögnin er því falin síbreytilegri dómgreind hinna, og brothættu minni þeirra, sem er í stöðugri endurmótun innan endimarka sérhverrar lifandi sögu.

Ef þetta dæmi hefur komist til skila, þá getum við notað það til þess að varpa ljósi á vandamál okkar. Við sögðum að hlutirnir væru við endimörk orðanna. Sem áþreifanlegar staðreyndir eru orðin (hljóðin, blekmerkin, merkingarnar) á endimörkum merkinga sinna. En að vera á endimörkunum felur í sér að dvelja í lifandi sögu, sögu sem enn hefur ekki hlotið skilgreind áþreifanleg landamæri, heldur sögu sem er að gerast í verðandi sinni og lýtur stöðugri endurtúlkun í báðar áttir, hvað varðar upphaf sitt og endalok. Þetta felur í sér að á bak við sérhvert orð eru ekki bara meintir einfaldir hlutir, heldur öll athafnasaga lífsins, saga tjáninga, ástríðna og þekkingar. Það er þessi saga sem við þurfum að vekja til lífsins andspænis okkar eigin innri sýn, ef við viljum skilja vandamál okkar til botns. Þú segir: „Sjáðu, það rignir“. Auðvitað gerir þú þér grein fyrir að einfalt orð eins og „rigning“ (ít.: pioggia) er stefnumót við óralanga sögu: hún hefur mótast með tímanum samkvæmt ítölskum málfarsreglum sem Vico hefði sagt að ættu rætur sínar í ómælanlegri forneskju, það er að segja löngu áður en ítalska þjóðin og tungumál hennar urðu til.

En orðin fæddust ekki af sjálfum sér og þau hafa heldur ekki ferðast sjálfkrafa með tímanum. Líf og störf mannkynsins hafa fléttast inn í orðin og sögu þeirra, einnig sú iðja sem fólst í því að talast við, skiptast á tilfinningum og upplýsingum. Einn góðan veðurdag komu steypiregn og þrumuveður yfir frumskóginn í Nemeu, sem fram að þeim tíma hafði verndað og falið hina sterkbyggðu villimenn sem Vico kenndi við „æðisfulla grimmd“. Þetta fólk hafði til þess tíma byggt samskipti sín á látbragði, frumstæðum andlitsgrettum og ýlfrandi raddbeitingum: það skiptist á hótunum, löngunum, viðvörunum og tilfinningum. En dag nokkurn var eins og rödd þeirra springi út, rétt eins og þrumurödd eldingarinnar á himnum og hún barst um nágrennið: „þarna fyrir utan“ þar sem allir heyrðu, því allir brugðust við með samstilltum hætti. Til dæmis brást þetta fólk með samsvarandi hætti við atburði eins og steypiregninu og röddinni sem gaf það til kynna. Það var þannig sem heimurinn og orð mannanna urðu endanlega samtvinnuð með varanlegum hætti. Þannig gerðist það að andsvarið við röddina, það er að segja andsvarið við merkingu hennar, endurómaði hjá öllum hópnum, endurómaði í þeim og skapaði þannig „hið innra“ meðal þeirra. Þannig varð þetta fólk að talandi hugverum (soggetti) í heiminum, hugverum sem túlkuðu sig og sögðu frá sjálfum sér í gagnkvæmi sameiginlegrar sögu þeirra.

Þessi saga hefur haldið áfram sleitulaust allt frá upphafi sínu. Virknin varð samhliða segðinni og segðin sjálf festi sig í sessi sem ný virkni er endurnýjaði virknina almennt, umbreytti henni í þekkingu (að þekkja það sem er gert, það er að segja merkingu verknaðarins) svo ekki sé minnst á stöðuga endurmótun talmálsins sem slíks. Nú getur þú vel séð að þegar þú segir orðið „pioggia“ (rigning) ert þú ekki bara að vísa til tiltekinna hluta (eins og til dæmis „baðandi súldin sem fellur af himni“ sem aftur eru ný orð), að vísa til hluta sem væru í einhverju ótilteknu „úti“ miðað við eitthvað óþekkt „inni“. Það sem vísað er til er þekking, fyrst og fremst málfarsleg þekking, þar sem merkingin hvílir hvorki í tungumálinu, skilið sem áþreifanleg staðreynd (til dæmis tungumálið sem rannsóknarviðfang málfræðinganna eða sem safn uppsláttaratriða í orðabók), né heldur í ímynduðum heimi „hlutanna í sjálfum sér“. Merkingin (þess sem þú segir, og þess sem þú gerir með því að tala) hvílir í hinu sameiginlega og samfélagslega andsvari, í þeim samfélagslegu hefðum sem tengjast talmálinu, eða í því sem við erum reiðubúin að gera sameiginlega (til dæmis leita skjóls undir þakskeggi eða skjóta upp regnhlífinni), allt á grundvelli óendanlegrar atferlissögu sem hefur mótast í margvíslegri og flókinni iðju mannsins sem átti upprunalega tilefni sitt og tilgang í því sem við nú köllum rigningu. Þetta er arfleifð sem hefur aldrei takmarkast við eitt skipti fyrir öll, heldur á sér stað á endimörkum hins óstöðvandi breytileika iðju okkar og talsmáta, því eins og við vitum vel, þá breytist merking orðanna með tímanum, breytist án þess við tökum eftir því í hvert skipti sem við tölum. Með sama hætti breytast hlutirnir sem við gerum, þar sem þeir eru háðir iðju okkar og talsmáta. Þessi talandi og gerandi iðja á sér stað í sögu sem á sér engin hugmyndaleg takmörk, sem er skorðuð í staðfastri þekkingu og á endimörkum örlaga er leiða inn í rigningar framtíðarinnar, færandi blessun, bölvun, skaða, harmleiki, hreinsanir o.s.frv. Þessi vegferð túlkar sjálfa sig stöðugt með nýjum hætti, og endurmótar þannig það sem við köllum „hið innra“ (sjálfsþekkingu okkar, það er að segja þá þöglu rödd sem talar í hverju okkar úr þeirri rödd sem kallar okkur að samfélagi hinna talandi) og endurmótar það sem við köllum „hið ytra“, það er að segja hluti heimsins, þessa atburði sem við mætum sífellt á ný og aðlaga okkur að nauðsyn örlaganna.

Heimurinn gerist á endimörkum orðanna. Atburður orðanna sýnir okkur atburð heimsins með því að umbreyta honum í merkingu, það er að segja í tilgreinda en aldrei altæka þekkingu verksins, þekkingu talandans, þekkingu skriftarinnar: að yfirfæra heiminn í sögu, í okkar sögu, í hin myrku upprunasvið hans og hin óvissu endalok hans. Á mærum orðsins, á endimörkum þess, kallar heimurinn fram þekkingu, „rökvísi hlutanna“ sem eins og Alfred North Whitehead komst að orði „vegur salt og er óljós, en er samt“. Handanvera orðsins, handanvera tungumálsins, er hin lifandi saga þessarar rökvísi sem hver og einn iðkar og fremur með talanda sínum eftir þekkingu og getu.

Þessi frásögn er auðvitað líka saga, ein aðferð til að endurmóta sjálfan sig í heiminum og endurmóta heiminn um leið. Í hvaða tilgangi? Í þeim tilgangi sem er, svo enn sé vitnað í Whitehead, tilgangur allra athafna okkar og allra sagna okkar: til þess að lifa, umfram allt. Svo til þess að lifa vel; þess vegna lifa betur. Það er allt og sumt.

Birgir Andrésson og íslenska goðsagan

Nýlega barst mér í hendur þessi pistill um Birgi Andrésson, sem ég mun hafa skrifað í tilefni sýningar hans í Gallerí i8 í kringum aldamótin 2000. Ég hafði ekki séð textann síðan hann var skrifaður. Á sýningunni voru "skápar" Birgis með með lokuðum hólfum málaðir í "íslenskum litum" og litografíur hans af íslenskum frímerkjum frá þjóðhátíðarafmælinu 1930. Sýningin varð mér tilefni til að vitna í hina snjöllu ritgerð Ronald Barthes "Goðsagan á okkar tímum" sem hann birti í ritgerðasafninu "Mythologies" frá 1957. 

 

Skápar íslensku goðsögunnar

 

Besta vopnið gegn goðsögunni er trúlega að goðgera hana og skapa gervigoðsögn: þessi enurgerða goðsögn mun taka á sig mynd raunverulegrar goðafræði. Þar sem goðsögnin lifir og nærist á tungumálinu, því þá ekki að mergsjúga goðsögnina sjálfa?

Roland Barthes

 

Eitt mikilvægasta viðfangsefni myndlistar nýliðinnar aldar var markviss rannsókn á eiginleikum og virkni sjálfs myndmálsins: í stað þess að sýna okkur mynd af heiminum eins og hann lítur út hafa myndlistarmennirnir hneigst til þess að sýna okkur mynd af því myndmáli sem við notum í samskiptum okkar við heiminn. Þeir hafa krufið áleitnar spurningar um hvernig þetta mál getur öðlast merkingu og jafnframt hvernig það glatar merkingu sinni eða öðlast nýja.

Birgir Andrésson hefur frá upphafi unnið í þessum anda. Rannsóknir hans hafa beinst að sambandi myndmáls og talmáls og tengslum sjónskyns og hugsunar. Jafnframt hafa rannsóknir hans beinst að hinni félagslegu og samfélagslegu hlið myndmálsins; hvernig til verður myndmál og form, sem af einhverjum ástæðum verða einkennandi fyrir tiltekið samfélag eða tiltekinn samfélagshóp. Viðfangsefni sín hefur Birgir fundið í sínu nánasta umhverfi og unnið úr þeim út frá þeirri persónulegu reynslu að vera þátttakandi í íslensku samfélagi á ofanverðri 20. öldinni og vera alinn upp af foreldrum sem bæði voru blind. Birgir þurfti því frá barnæsku að glíma við hin flóknu tengsl sjónskyns, hugsunar og talaðs máls. Hann skynjaði fljótt að sjónskyn okkar er ekki bundið við augun ein, heldur umbreytum við öllu því sem við sjáum, – hvort sem það er með augunum eða fyrir hugskotssjónum okkar – í tákn og merkingar sem túlkaðar eru af hugsuninni og fá á endanum form í hinu talaða máli. Skilgreining okkar á merkingu myndmálsins er að stórum hluta samkomulagsatriði er ræðst af ytra samhengi á hverjum tíma, sem er ekki síst samfélagslegt.

Þau verk sem Birgir sýnir nú í Gallerí I8 eru byggð á frímerkjum sem gefin voru út af íslensku póstþjónustunni á 5. áratugnum og sýna styttu Einars Jónssonar af Þorfinni Karlsefni, Heklugosið, Geysi og Eiríksjökul. Það er þó ekki myndefnið sjálft sem við sjáum í verkum Birgis, heldur formið eða rammann, sem myndirnar eru felldar inn í. Úr þessu formi hefur Birgir smíðað skápa með lokuðum hólfum sem síðan eru málaðir í þeim litum, sem Birgir kallar „íslenska liti“, væntanlega til aðgreiningar frá „erlendum“ litum. Skápar þessir eiga sér hliðstæðu í annarri skáparöð, sem Birgir vann út frá formgerð frímerkja sem voru gefin út í tilefni Alþingishátíðarinnar 1930.

Það sem þessi frímerki eiga sameiginlegt er goðsöguleg upphafning þeirra fyrirbæra, sem myndirnar sýna, í anda þeirrar þjóðernishyggju sem ríkti á Íslandi áratugina fyrir lýðveldisstofnunina. Stytta Einars Jónssonar af Þorfinni Karlsefni mun hafa verið á heimssýningunni í New York 1939, og mun enn standa í Philadelphiu í Bandaríkjunum sem minnisvarði um landafundi norrænna víkinga í Vesturheimi. Stytta þessi stendur keik á frímerkinu, rétt eins og gosstrókurinn úr Geysi, og Heklugosið lýsir upp næturmyrkrið eins og kraftbirting með sama hætti og birtan af heiðum skalla Eiríksjökuls. Þessar myndir sýna ekki bara þau fyrirbæri, sem hér um ræðir, heldur túlka þær fyrirbærin með upphöfnum hætti til þess að gefa Íslandi og íslensku þjóðinni yfirbragð hetjulundar og töfraljóma. Þau eru liður í þeirri goðsögn sem Íslendingar gerðu um land sitt og sögu á síðustu áratugunum fyrir lýðveldisstofnunina.

Sú goðsaga um Ísland, sem mótuð var af þeirri kappsmiklu kynslóð, sem stundum er kennd við aldamótin 1900, var kannski ekki í miklum tengslum við raunveruleikann, en hún þjónaði mikilvægum pólitískum tilgangi. Hún fékk þjóðina til að trúa á tilbúna ímynd, og í krafti þeirrar trúar voru ýmis kraftaverk unnin á hinum pólitíska vettvangi um leið og aðrar draumsýnir þessarar kynslóðar reyndust andvana fæddar. Meðal annars draumurinn um ævarandi meydóm fjallkonunnar.

Birgir Andrésson beitir þeirri aðferð við gerð mynda sinna að afhjúpa þessa goðsögn síðustu aldamótakynslóðar með því að tæma hana að innihaldi sínu, en notfæra sér formbyggingu hennar. Myndin á frímerkinu af goshvernum Geysi sýnir okkur að vísu raunverulegt form goshversins í öllu hans veldi, en tilgangur hennar er ekki fyrst og fremst að sýna þetta náttúrufyrirbæri, heldur að yfirfæra þessa orkusprengju yfir á ímynd Íslands og íslensku þjóðarinnar. Myndin segir okkur að á Íslandi búi orka, sem finnist ekki bara í náttúrunni, heldur líka í þjóðinni, og sé af yfirnáttúrulegum toga.

Eins og Roland Barthes hefur bent á, þá er það eðli goðsögunnar að tæma tungumálið að merkingu sinni en notfæra sér form þess sem ílát fyrir nýja og yfirfærða merkingu, sem síðan er boðuð sem óumbreytanlegt náttúrulögmál.

Birgir Andrésson nýtir sér form þessarar goðsagnar með því að taka form frímerkisins bókstaflega eins og arkitektúr gamallar goðsögu, og tæma það af merkingu sinni í bókstaflegum skilningi með því að gera formin að lokuðum hólfum í skáp. Þannig skapar hann nýja goðsögn í öðru veldi, eins konar gervigoðsögn um hin leyndu hólf í íslenskri þjóðarsál og íslenskri myndhugsun.

Liturinn á verkunum undirstrikar merkingu þessarar nýju goðsagnar. „Íslensku“ litirnir eru fyrst og fremst skilgreiningaratriði, en hafa lítið með raunveruleikann að gera frekar en goðsagan. Þeir eru að vísu byggðir á því sem Birgir telur hafa verið litasmekk aldamótakynslóðarinnar, en sá smekkur er jafn óáþreifanlegur og eterinn og merkimiðinn „íslenskur“ jafn óviss og óáreiðanlegur og sá sem jafnt blindir og sjáandi gefa því sem fyrir augu þeirra ber. Skápar Birgis Andréssonar sýna okkur íslensku goðsöguna í öðru veldi um leið og þeir afvopna hana fyrir augunum á okkur.

 

Ólafur Gíslason

 

Jacques Lacan um tungumálið og dulvitundina

 

Jacques Lacan er rithöfundur sem erfitt er að nálgast og hann sjálfur gerir ekkert til að einfalda málin, nema síður sé. Það eru mörg ár síðan ég gerði fyrstu tilraunina til að lesa ritgerðir hans og seminör, og varð frá að hverfa. Hvergi fann ég glufu til að komast inn í þennan lokaða heim.

Þetta fór í taugarnar á mér því ég hafði alltaf á tilfinningunni að ég væri að fara á mis við einhver mikilvæg skilaboð, án þess að vita í hverju þau voru fólgin. Það var fyrst fyrir 4-5 árum síðan að ég gat gefið mér tíma til annarrar alvarlegrar atlögu að Lacan. Ég las sjöunda og ellefta seminarið af tilskilinni einbeitingu og án þess að hafa tímamörk, og þá varð ekki aftur snúið. Alla tíð síðan hefur Lacan setið í baksæti mínu og kallað til mín annað slagið, þannig að nú fylla verk hans og verk um hann heila hillu í bókaskápnum mínum. Með hléum leita ég aftur og aftur í þennan hugmyndafjársjóð þar sem ekkert er fyrirfram gefið og hvergi endanlegan sannleika að finna, en þeim mun frjórri leiðbeiningar um leiðirnar til að leita hans.

Lacan er einn af furðulegustu rithöfundum 20. aldarinna. Meginhluti verka hans eru alls ekki rituð af honum sjálfum, heldur eru þau skráð eftir munnlegum fyrirlestrum sem hann hélt fyrir nemendur sína í hinum sögufræga skóla hans, École freudienne de Paris, þar sem hann talaði blaðalaust. Nemendur hans voru ekki almenningur, heldur þeir sem voru að búa sig undir starf sem sálgreinar í anda þess freudíska skóla, sem Lacan hafði stofnað eftir að hafa verið rekinn úr samtökum Freudista fyrir trúvillu.

Námskeið Lacans voru haldin á árunum 1953-73 og urðu alls 20 talsins. Sum þeirra eru óumdeild meistaraverk í bókmenntasögu 20. aldarinnar, þó þau séu ekki skrifuð af höfundi sínum. Þessi „umtúlkun“ frá munnlegri orðræðu til ritmáls er hluti af gildi þessara verka, en hún skýrist líka af þeirri tortryggni sem Lacan vildi kenna okkur að beita gagnvart orðinu sem gjaldmiðli sannleikans.

Þá tortryggni hafði Lacan tekið í arf frá lærimeistara sínum, Sigmundi Freud, með því að taka alvarlega þá fullyrðingu þessa upphafsmanns sálgreiningarinnar að „Égið væri ekki húsbóndi í eigin húsi“.

Lacan tók Freud á orðinu og samhæfði og útvíkkaði kenningar hans með því að tengja þær strúktúralisma mannfræðinga á borð við Claud Levi Strauss og málvísindamanna eins og Ferdinand Saussure. Sú skýring hans á dulvitundinni að hún lyti lögmálum tungumálsins skipti þar sköpum og má segja að Lacan hafi með þessum tengingum lagt stóran skerf til dýpri skilnings ekki bara á sálgreiningunni, heldur líka á málvísindum og heimspeki tungumálsins, sem og á heimspekiskóla fyrirbærafræðinnar allt frá Husserl og Heidegger til Maurice Merleau-Ponty.

Hugmyndaauðgi Lacans eru fá takmörk sett, og það kemur glöggt fram í orðræðu hans sem Seminörin eru til vitnis um. En einnig í þeim fræðigreinum og fyrirlestrum sem hann skrifaði fyrir fræðaheiminn rekumst við stöðugt á útúrdúra og hömlulaust hugarflug og vísanir í ólíkar áttir, sem gera lesandunum oft erfitt fyrir að halda þræðinum.

Eins og rit Lacans hafa verið mér gagnleg í starfi mínu sem háskólakennari og listgagnrýnandi þá hef ég átt í erfiðleikum með að leggja ritverk hans fyrir nemendur mína sem fræðilegan grunn. Þau kalla einfaldlega á mikla yfirlegu. Ég hef stundum reynt að finna kafla eða textabrot úr sjöunda, ellefta og tuttugasta seminarinu þar sem Lacan fjallar á afar frumlegan hátt um málefni sem varða allan skilning á listum. Ég hef alltaf gefist upp, bæði vegna þess hversu brotakenndur og ósamfelldur textinn er, en einnig vegna þess að hugtakanotkunin kallar á annan lestur og vísanir og gerir ráð fyrir ákveðnum skilningi sem ekki verður fundinn í stuttum textabrotum.

Þegar mér varð nýverið litið í fyrirlesturinn um „Tilkall bókstafsins til dulvitundarinnar“ sem ég hafði fyrst lesið fyrir fjórum árum, þá sá ég að í þessum langa fyrirlestri væru kannski textabrot sem mögulegt væri að endursegja á íslensku sem eins konar inngang að heimspekilegum hugmyndum hans um tungumálið og dulvitundina. Ég valdi nokkur textabrot úr og hóf tilraunir til að gefa hugarflugi Lacans íslenskan búning. Þetta var erfið glíma og sársaukafull, þar sem ritstíll Lacans er eins óíslenskur og hugsast getur. Auk þess er ég ekki frönskumaður, og hef lesið mest af verkum Lacans á ítölsku, en nokkur á ensku í þýðingu Bruce Fink, sem er að ég held helsti sérfræðingurinn í fræðum Lacans sem hefur ensku að móðurmáli. Hann þýddi ritgerðarsafn Lacans, Écrits, á ensku 2002, og hef ég stuðst við þýðingu hans og ítalska þýðingu Giacomo Contri frá 1974 í þessari tilraun.  Vonandi hafa einhverjir lesendur vefsíðu minnar gaman af að lesa þessa tilraun.

Áhugasömum lesendum skal bent á skyldleika þessarar greinar við hina stórmerku grein ítalska heimspekingsins Giorgio Agambens um merkingarfræði orða og mynda, sem finna má í íslenskri þýðingu hér á þessari vefsíðu: "Hin öfugsnúna mynd - merkingarfræðin frá sjónarmiði Sfinxins". Jacques Lacan er ekki bara mikilvægur sálgreinir, heldur líka áhrifamaður á sviði samtímaheimspeki, túlkunarfræða og málvísinda.

 

Jacques Lacan:

Tungumálið og dulvitundin: Saussure og Freud

TILKALL BÓKSTAFSINS TIL DULVITUNDARINNAR

eða rökhugsunin á eftir Freud

(Brot úr fyrirlestri Lacans við Sorbonne-háskólann 9. Maí 1957. Þýdd og endursögð úr enskri þýðingu Bruce Fink frá 2006  (The Instance of the Letter in the Unconscious; Écrits, bls. 412-441) og ítalskri þýðingu Giacomo Contri frá 1974 (L‘istanza della lettera dell‘inconscio; Lacan Scritti Volume I, bls. 488-523)). Um er að ræða valin brot úr þessari merku ritgerð.

 

Nefnarinn og hið nefnda

(497-501 í Écrits í þýðingu Bruce Finks)

Til þess að undirstrika mikilvægi málvísindanna getum við sagt að þau byggi eins og sérhver nútíma vísindi á grundvallandi reiknilíkani sem er eftirfarandi:

N/n

Þessi formúla er lesin sem Nefnarinn ofan á hinu nefnda, þar sem „ofan á“ stendur fyrir brotastrikið sem aðskilur þessa tvo þætti. Þennan rithátt formúlunnar getum við rakið til Ferdinands Saussure, jafnvel þó hún sé hvergi sett fram nákvæmlega á þessu formi í þeim fjölmörgu útgáfum sem við höfum af námskeiðunum þrem, sem hann hélt 1906-7, 1908-9 og 1910-11 og við höfum fyrir náð nokkra nemenda hans fengið að sjá undir titlinum Cours de linguistique générale: útgáfa sem hefur grundvallar þýðingu fyrir miðlun á kennslu sem stendur undir nafni, það er að segja cours sem við getum einungis stöðvað í eigin hreyfingu. (Cours getur bæði þýtt námskeið og vatnsfall eða straumur á frönsku olg.)

Þetta réttlætir að við getum eignað Saussure formúluna N/n, sem einkenni nútímalegra málvísinda óháð ólíkum skólum á þessu sviði.

Höfuðviðfangsefni þessara vísinda er þannig í raun byggt á forgangsstöðu Nefnarans (signifier) annars vegar og hins nefnda (signified) hins vegar, tveggja ólíkra stærða sem upprunalega eru aðskildar með brotastriki er andæfir gegn sjálfri merkingargjöfinni (signification).

Þessi framsetning gerir nákvæma rannsókn mögulega á þeim tengslum sem einkenna Nefnarann og margbreytileika þeirrar virkni sem framkallar hið nefnda (the signified).

Því þessi frumlæga aðgreining nær langt út yfir umræðuna um tilviljanakennda virkni merkisins eins og hún hefur verið krufin allt frá því á fornöld. Hún nær jafnvel út yfir blindgötuna sem menn höfðu þegar áttað sig á, á þeim tíma, með andófi gegn einn-á-móti-einum  samkvæmninni á milli orðsins og hlutarins, jafnvel í gjörningi nafngiftarinnar. Allt þetta þrátt fyrir það sem virðist í augum uppi þegar horft er til vísifingursins sem bendir á hlutinn þegar barnið lærir móðurmál sitt, og þrátt fyrir þær svokölluðu hlutlægu akademísku aðferðir sem viðhafðar eru í kennslu framandi tungumála [langues].

Við komumst ekki lengra eftir þessari slóð án þess að sýna fram á að engin merkingargjöf (signification) fær staðist nema með vísun í aðra merkingargjöf.[i]

Þetta leiðir okkur endanlega að þeirri niðurstöðu að ekki er til að dreifa neinu því tungumáli [langue]  er standist að fullu kröfu merkingargjafarinnar, þar sem ein af kröfunum sem við setjum tungumálunum er að þau komi til móts við allar þarfir. Ef við rannsökum tilvist hlutarins í tungumálinu, þá komumst við ekki hjá því að viðurkenna að hann sé hvergi til staðar nema í mynd hugtaksins. Þetta hugtak er eðlisólíkt sérhverju nefnifalli, og þegar hluturinn (chose)  hefur verið smættaður niður í nafn þá klofnar hann augljóslega í tvennar misvísandi greinar sem hafa tekið sér bólfestu í okkar franska móðurmáli sem það rien (tóm) sem hefur yfirgefið sitt latneska föðurhús (rem (þgf-mynd af res=hlutur)).

Eins áhugaverðar og þessar vangaveltur geta verið fyrir heimspekingana þá leiða þær okkur frá þeim stað þar sem tungumálið spyr okkur um raunverulegt eðli sitt. Og okkur mun mistakast að finna svar við þeirri spurningu svo lengi sem við höfum ekki losað okkur við þá blekkingu að nefnarinn gegni því hlutverki [répond à] að standa fyrir (represent) hið nefnda, eða öllu heldur, að nefnarinn eigi að réttlæta [répond de] tilveru sína gagnvart hvaða merkingu sem verða vill.

Því jafnvel þótt hann sé smættaður niður í síðara hlutverkið þá verður trúvillan hin sama – trúvillan sem leiðir til rökrænnar raunhyggju (logical positivism) í leitinni að „merkingu merkingarinnar“ eins og aðdáendur nefnarans orða tilgang hans á sínu hrognamáli. Við getum sýnt fram á það hér hvernig greining af þessu tagi getur smættað texta hlaðinn háleitustu merkingu niður í hreina markleysu. Það eru einungis stærðfræðilegar formúlur sem standast slík próf. Þær eru taldar vera merkingarlausar eins og vera ber.

Eftir stendur, að ef við gætum takmarkað okkur við að draga einungis fram hliðstæðuna af efri og neðri stærðinni í jöfnunni N/n, þar sem hvor stærð fyrir sig væri tekin sem algild, þá stæðum við frammi fyrir ráðgátu fullkomins leyndardóms. En sú er raunin auðvitað ekki.

Til að skýra virkni jöfnunnar ætla ég að byrja á því að draga upp mynd af þessari villuleiðandi blekkingu eins og hún er venjulega kynnt:

Við sjáum hér í hverju villan er fólgin.

Í kennslustund minni skipti ég á þessari mynd og annarri, sem getur talist réttari, því hún ýkir ósamkvæmnina  sem sálgreinarnir hafa ekki enn gefið frá sér, vegna þess réttmæta skilnings að meðalmennska þeirra sæki gildi sitt einungis í sig sjálfa. Hér kemur hin myndin:

Hér sjáum við að með smávægilegri útvíkkun á markmiði nefnarans sem við höfum valið  – með því að tvöfalda nafngiftina með hliðsetningu tveggja hugtaka sem virðast eiga að styrkja hvert annað – hröpum við að óvæntri merkingu: myndin af tveim dyrum af sömu gerð sem -í ljósi þeirra tveggja bása sem Vesturlandabúum er boðið upp á þegar þeir þurfa að fullnægja sínum náttúrlegu þörfum utan heimilisins – tákna þá reglu sem Vesturlandabúinn virðist deila með flestum frumstæðum þjóðum og boðar aðskilnaðarstefnu í þvagláti.

Hér var ekki meiningin að þagga niður í rökræðu nominalistanna (aðdáenda nefnarans) með undirbeltis-höggi, heldur vildi ég sýna hvernig nefnarinn tekur sér raunverulegt vald yfir hinu nefnda. Þar sem hér er ekki um huglægt inngrip að ræða þá vekur form þess spurningu um stöðu formsins í raunveruleikanum.

Hugsum okkur nærsýna persónu sem þyrfti að horfa skjálgum augum úr návígi á litlu smeltisskiltin  sem sýna þessi form. Ekki væri óeðlilegt að hún myndi spyrja sig þeirrar spurningar, hvort það væri hér sem við eigum að sjá nefnarann, og að markmið hans (hið nefnda) drægi merkingu sína í þessu tilfelli af hinni tvöföldu og virðulegu hliðstæðu efri hæðarinnar.

En ekkert tilbúið dæmi gæti jafnast á við það sem við mætum í reynslunni af sannleikanum. Ég hef því enga ástæðu til að vera óánægður með að hafa fundið upp á áðurnefndu. Líka vegna þeirrar staðreyndar að hún hefur vakið upp gamla bernskuminningu hjá persónu sem verðskuldar minn dýpsta trúnað, en hún hefur veitt mér aðgang að þessari minningu sinni, sem fellur vel að efni okkar:

Járnbrautarlest kemur á stöðina. Tvö systkin, strákur og stelpa, sitja í einum lestarklefanum hvert á móti öðru. Þau sitja við gluggann sem veitir þeim útsýni að brautarpallinum þar sem lestin stöðvast. Sjáðu, segir bróðirinn, við erum stoppuð við Ladies! – Fífl!, segir systirin: sérðu ekki að við erum á Gentlemen!

Burtséð frá þeirri staðreynd að brautarteinarnir í þessari sögu efnisgera brotastrikið í jöfnu Saussure í þeirri mynd sem bendir til að viðnám þess gagnvart merkingargjöfinni sé ekki bara díalektískt (gagnvirkt), þá þyrfti hálf-blindan mann til að ruglast á hinum ólíku stöðum nefnarans og hins nefnda í þessu tilfelli og taka ekki eftir þeirri útgeislandi miðstöð þar sem nefnarinn endurvarpar ljósi sínu inn í myrkur ófullkominna merkinga.

Því hér mun nefnarinn vekja upp andmæli sem eru fyrst og fremst af dýrslegum toga og dæmd til að hverfa í þoku gleymskunnar, inn í hið óumræðanlega vald hugmyndafræðiles stríðsreksturs sem sýnir fjölskyldum enga miskunn og felur í sér ánauð fyrir guðina. Héðan í frá munu Gentlemen og Ladies verða tvö ólík fósturlönd þessara systkina. Fósturlönd sem sálir þeirra munu leita til, hvor í sínu lagi á ólíkum vængjum. Þau munu ekki eiga neinn möguleika á að ná sáttum um þennan aðskilnað, þar sem hér er í raun um sama fósturlandið að ræða og hvorugt mun geta sannað sína yfirburði í glæsileik nema á kostnað hins.

Við skulum láta hér staðar numið í bili…..

…..

Merkingarkeðjan

(502-505 í Écrits í þýðingu Bruce Finks)

Annar eiginleiki nefnarans, sem felst í tengingu innan lokaðs lagaramma staðfestir nauðsyn staðbundins undirlags sem ég hef venjulega kallað „merkingarkeðjuna“. Þetta hugtak gefur ónákvæma hugmynd um það sem hér um ræðir: hlekkir í keðju þar sem hálskeðja festir sig kyrfilega við hlekk annarrar hálskeðju sem sjálf er samsett af hlekkjum.

Þannig er grundvallarreglan sem skilgreinir annars vegar tengingu nefnarans við næstu setningu á undan sem málfræðieiningu og hins vegar grundvallaraðild nefnarans að orðalaginu/framburðinum (vocal locution) samkvæmt orðabókinni.

Innan þess ramma sem þessar tvær nálganir á skilningi á virkni og notkun tungumálsins marka verður auðvelt að sjá að eina mögulega reglan til skilnings á merkingunni getur falist í tengslum nefnarans við annan nefnara. Þetta er gefið í skyn með „notkun“ áhersluatkvæða (taxeme)  eða merkingarrótar (semanteme) sem vísa til samhengis einu stigi ofar í keðjunni.

Það væru hins vegar mistök að álykta að nauðsynlegt væri að hugsa merkingarreglurnar handan við hinar málfræðilegu og orðabókarlegu nálganir vegna þess að þær hafi verið tæmdar.

Það er eðli nefnarans að ganga alltaf fyrir fram út frá merkingu sinni með því að leggja hana fram sem fyrir fram gefna.

Eins og sjá má af setningum sem eru rofnar áður en merkingargjöfinni hefur verið lokið: „Aldrei mun ég…“, „Staðreyndin er sú…“, „Engu að síður kannski…“. Slíkar setningar fela engu að síður í sér merkingu sem verður einungis meira þrúgandi þar sem þær láta okkur bíða eftir henni.

Ekki verður þetta fyrirbæri betra þegar aðstæður eru fegraðar með einu aukateknu „en“ og ambáttin eða negrakonan eru sagðar jafn þekkilegar og Shulamite, jafn heiðvirðar og heiðarlega þjónustustúlkan þar sem þær eru búnar undir brúðkaupið eða hamarshögg uppboðshaldarans á markaðstorgi ambáttanna.

Þannig getum við sagt að merkingin þrýsti á (insists /beiti áherslu) í merkingarkeðju nefnaranna, en að enginn þáttur í merkingarkeðjunni feli í sér (consists) þá merkingu sem hann getur veitt á tilteknu augnabliki.

Tilhugsunin um óstöðvandi tilfærslu eða skrið hins nefnda undir nefnaranum kemur nú upp á yfirborðið . Ferdinand Saussure lýsir þessu með mynd sem líkir eftir öldugangi efri og neðri laga í vatni í mineatur-myndlýsingu við sköpunarsöguna í Mósebókarhandriti. Um er að ræða tvöfalt flóð (öldu og undiröldu) þar sem mótvægið virðist of veikburða sem felst í veikum lóðréttum brotalínum er eiga að tákna regnið.

Öll reynsla okkar gengur þvert á þetta, og það fékk mig til að tala um bólsturhnappana í sófasettinu (points de capiton) í námskeiði mínu um geðveiki (psychosis) þar sem þessir hnappar væru nauðsynlegir til að sýna okkur yfirdrottnun bókstafsins í þeirri dramatísku umbreytingu sem samræðan getur orsakað hjá skjólstæðingnum.

Sú línulega vídd sem Saussure álítur undirstöðu orðræðukeðjunnar (chain of discourse) í samræmi við útrás hennar frá einni rödd eftir þeim lárétta öxli sem við þekkjum úr ritmáli okkar, er vissulega nauðsynleg, en ekki fullnægjandi. Hún á einungis við um orðræðukeðjuna samkvæmt einátta tímavídd hennar, þar sem hún er jafnvel meðtekin sem merkingarþáttur í öllum tungumálum, þar sem merkingin „Pétur slær Pál“ felur í sér að viðsnúningur hins eiginlega tíma á sér stað þegar hugtökunum er umsnúið.

En okkur nægir að hlusta á ljóðalesturinn (eins og Saussure gerði vissulega) til að heyra marghljóma polifóníu og uppgötva þannig að sérhver orðræða renni fram á ólíkum strengjum nótnablaðsins.

Í reyndinni er það svo að allar merkingarkeðjur fela í sér lóðrétt samhengi, tilgreind með greinarmerkjasetningunni, sem hefur ef svo mætti segja komið sér fyrir lóðrétt á þeim punkti.

Til dæmis ef við leitum aftur til orðsins arbre (tré), í þetta skiptið ekki í merkingarlegri einangrun sinni, heldur á endastöð einnar af þessum greinamerkjasetningum, þá sjáum við að það er ekki bara vegna þess að orðið barre (=slá, brotastrik) fer yfir strikið í formúlu Saussure, heldur er það stafavíxl ((anagramma)á arbre = tré). Því ef við brjótum orðið upp í hin tvöföldu svið samhljóða þess og sérhljóða, þá vekur það upp (ásamt með orðunum robre (=eik) og platane (platanviður, hlynur)) merkingu styrks þess og þeirrar tignar sem því hæfir í flóru okkar. Ef við leitum upp öll þau táknrænu tengsl sem heimfærð eru á þetta orð í hinni hebresku Biblíu, þá stendur það á naktri hæð í skugga krossins. Næst er það smættað niður í bókstafinn stórt Y, merki tvískiptingar sem myndi ekki eiga neitt skylt við tréð ef ekki væri fyrir tilstilli sögulegra skjaldarmerkjafræða, hvað svo sem ættfærsluáráttu þess liði. Tré hringferlisins, tré lífs litla heilans, blýtréð (tré Satúrnusar) eða silfurblandan (tré Díönu), kristallaregn í tréi sem safnar í sig eldingum, þarna sáum við ásýnd þína úr brenndri skjaldbökuskelinni sem les örlög okkar, eða eldinguna sem leysir úr læðingi óendanlegrar nætur hinnar hægu breytingar verunnar í  Έν Пάντα tungumálsins:

Nei! Segir tréð, það segir nei! Í neistafluginu

Úr mikilfenglegu höfði þess

(Non! Dit l‘Arbre, il dit: Non! dans l‘etincellement / Da sa tête superbe)

Ljóðlínur sem ég tel eins mögulegt að heyra í samhljómi trjákrónunnar og hið gagnstæða:

Sem stormurinn lemur almennt

Eins og hann lemur stráið

(Que la tempête traite universellement / Comme elle fait une herbe)

Þetta verður sýnilegt í þeim sameiginlega veruhætti sem tréinu og grasinu hafa verið valin, í þeim tilgangi að í þeim geti orðið til merki mótsagnarinnar – að segja Nei! – og merki þess að vera „laminn eins og“ – og í þeim tilgangi að hér verði til þær andstæður sem felast í hinu einstaka „superbe“ og í smættun þess sem  „universellement“. Hið ógreinanlega neistaflug hins eilífa augnabliks verður hér höndlað í þéttingu „tête“ (höfuð) og „tempête“ (stormur).

Sú mótbára væri eðlileg að nefnarinn gæti einungis náð öllu þessu fram að því tilskyldu að hann væri til staðar í þeim sem talar og hlustar. Ég svara þessum andmælum með því að segja að nefnarinn hafi flutt sig á svið hins nefnda.

Það skiptir ekki meginmáli hversu mikið gerandinn veit um nefnarann. (Ef Gentlemen og Ladies væru skrifuð á tungumáli [langue] sem systkinin tvö hefðu ekki kunnað nein skil á, þá hefði rifrildi þeirra einskorðast við orðin, en þetta tungumál hefði engu að síður verið þess albúið að taka á sig merkingu.)

Bygging merkingarkeðjunnar sýnir okkur að ég get notað hana til að merkja eitthvað gjörólíkt því sem hún segir, einmitt vegna þess að ég deili tungumáli [langue] hennar með öðrum, að því tilskyldu að þetta tungumál [langue] sé til. Það er verðugra verkefni að beina athyglinni að þessari virkni talmálsins en að afhjúpa hugsanir talandans (sem eru venjulega óskilgreinanlegar) en það er sú virkni er vísar á staðsetningu talandans í leitinni að sannleikanum.

Nafnhvörfin og myndlíkingin

(505-506 í Écrits í þýðingu Bruce Finks)

Ég þarf að gróðursetja tré mitt í talsmátanum (locution), grimper á l‘arbre (klifra í limum trésins), eða jafnvel að beina að því hinu skoplega ljósi sem þetta lýsandi samhengi gefur orðinu, arborer, (fr.=að skreyta), til þess að komast hjá því að lokast inni í einhvers konar tilkynningu (communiqué) um staðreyndirnar, hversu opinber sem sú tilkynning kann að vera. Ef svo vildi til að ég þekkti sannleikann, þá vildi ég koma honum á framfæri – í trássi við alla ritskoðara – á milli línanna án þess að nota neitt annað en nefnarann sem loftfimleikar mínir um greinar trésins gætu búið til. Slíkir loftfimleikar geta orðið ögrandi allt að  punkti hins afkáranlega (burlesque) eða að þeim punkti sem einungis hið þjálfaða auga fengi greint, allt eftir því hvort ég sæktist eftir skilningi margra eða fárra.

Sú rétta merkingarvirkni sem þannig er sýnd í tungumálinu á sér nafn. Við lærðum þetta orð í kennslubókum okkar í málfræði á barnaskólatímabilinu. Það var á síðustu blaðsíðunni þar sem skuggi Quintilians virtist skyndilega skjóta rödd sinni inn í einhvern draugakafla sem átti að fræða okkur um stílfræði, rétt eins og hann óttaðist að þaggað yrði niður í honum.  

Það er í myndunum af stíltegundunum, eða klisjunum [tropes] – sem sögnin að finna [trouver] er dregin af – sem við finnum þetta nafn. Þetta nafn er metonymie eða nafnhvörf.

Ég get látið nægja að nefna dæmið sem tekið var í þessari kennslubók: „þrjátíu segl“. Vegna þess að ég hafði áhyggjur af þeirri staðreynd að orðið „skip“ [bάteau] væri þarna innifalið, fannst mér inntakið klofna í tvennt með því að taka myndgervingarmerkingu sína að láni í eins konar endurvinnslu sem faldi [fr.:voilait] ekki svo alvarlega þessi glæsilegu segl [fr.:voiles], heldur miklu fremur þá skilgreiningu sem þeim var ætlað að sýna.

Hluturinn er látinn sýna heildina – sagði ég við sjálfan mig. Ef hluturinn á að byggjast á raunveruleikanum [reel] þá erum við engu nær þegar kemur að því að álykta um stærð skipaflotans sem þessi þrjátíu segl ættu þá að standa fyrir. Það er afar sjaldgæft að skip hafi aðeins eitt segl.

Þetta sýnir okkur að sambandið á milli skipsins og seglsins liggur hvergi nema í nefnaranum og að nafnhvörfin [metonomie] byggja á orð-á-móti-orði eðli þessara tengsla.

Fyrsta atriðið á því sviði sem nefnarinn myndar svo að merking geti átt sér stað ætla ég að kalla metonymie (nafnhvörf).

Annað atriðið er myndlíking [métaphore]….

….

(506 í Écrits í þýðingu Bruce Finks)

Við getum sagt að nútíma ljóðlist og skóli súrrealistanna hafi leitt okkur stórt skref fram á við með því að sýna að samsetning hvaða tveggja nefnara sem væri gæti allt eins falið í sér myndlíkingu (metaphor) ef ekki væri eitt nauðsynlegt innifalið skilyrði – til að framkalla hinn skáldlega neista og skapandi myndlíkingu – það skilyrði að fyllsta ósamræmis væri gætt á milli hinna merktu mynda .

Þessi róttæka afstaða byggist auðvitað á tilraunum með svokallaða „ósjálfráða skrift“ sem hefði adrei verið framkvæmanleg án þess stuðnings sem aðstandendur hennar sóttu til uppgötvana Freuds. En tilraunin er ruglingsleg vegna þess að kenningin á bak við hana var fölsk.

Hinn skapandi neisti myndlíkingarinnar sprettur ekki fram með samstillingu tveggja mynda, það er að segja með tveim jafngildum nefnurum. Neistinn brestur á milli tveggja nefnara þar sem annar hefur komið í stað hins með því að taka sæti hins í merkingarkeðjunni um leið og hinn faldi nefnari er til staðar í krafti tengsla sinna við það sem eftir stendur af keðjunni (í gegnum nafnhvörf).

Eitt orð staðgengill annars: þetta er formúlan fyrir myndlíkinguna , og ef þú ert skáld þá munt þú breyta þessu í leik og skapa samfelldan straum, nei, ljómandi vef af myndlíkingum. Þú munt auk þess öðlast þau vímukenndu áhrif sem við finnum í samtali Jeans Tardieu sem ber þann titil, einungis vegna þess að það framkallar þann róttæka óþarfa allrar merkingar sem dugir til sannfærandi framsetningar borgaralegrar kómedíu. …

……

(508 – 509 í Écrits í þýðingu Bruce Finks)

Hinn skáldlegi neisti verður til þar sem eiginnafn mannsins sem nefnari og nefnarinn sem afnemur það (eiginnafnið) með myndlíkingu mætast. Þetta stefnumót gegnir jafnframt áhrifamiklu hlutverki í að framkalla merkingu faðernisins þar sem það endurskapar þann goðsögulega atburð sem Freud studdist við þegar hann endurgerði þá slóð sem fylgir leyndardómi faðernisins í dulvitund sérhvers manns.

Bygging nútíma myndlíkingar er að engu leyti öðruvísi. Því getum við sagt um útferðina (jaculation) „L‘amour est un caillou riant dans le soleil“ (Ástin er völusteinn sem hlær í sólskininu) að hún endurgeri ástina með því sem ég hef kallað með viðunandi hætti. Öfugt við stöðugt yfirvofandi bakfall niður í hillingar eins konar narsissískrar náungagæsku.

Við sjáum að myndlíkingin er nákvæmlega staðsett á þeim punkti þar sem merking er framleidd með merkingarleysu. Eins og Freud hafði uppgötvað, þá er það í því skrefi þar sem snúið er í gagnstæða átt, og þetta skref kallar fram orðið sem er „le mot“ (hið sanna orð) á franskri tungu par excellance, orðið sem á sér engan annan verndara en nefnarann espirit (andinn) – orðið sem gerir það áþreifanlega skynjanlegt að sá sem hæðist að nefnaranum storkar eigin örlögum.

Ef við snúum nú aftur til nafnhvarfanna (metonymie) þá vaknar sú spurning hvað menn finna í þeim ef þau eiga að hafa til að bera eitthvað annað og meira en að sneiða hjá samfélagslegri ritskoðun. Sýnir þetta form, sem er vettvangur bælds sannleika, ekki vissa þrælslund sem er innbyggð í framsetningunni?

Það er vel þess virði að lesa bók Leo Strauss frá landinu sem hefur hefð fyrir því að skjóta skjólshúsi yfir þá sem kjósa frelsið, en þar veltir hann fyrir sér sambandinu á milli ritlistar og ofsókna (Sjá Persecution and the Art of Writing). Með því að skerpa þau eðlislægu tengsl sem tengja þessa list við þessar aðstæður veitir hann okkur innsýn í eitthvað sem hér þvingar sínu formi fram í áhrifum sannleikans á löngunina.

En höfum við ekki fengið það á tilfinninguna undanfarið, að með því að fylgja slóð bókstafsins til að höndla hinn freudíska sannleika fari að hitna undir okkur, að logarnir umlyki okkur nú þegar úr öllum áttum?

Auðvitað er því þannig varið, eins og sagt er, að bókstafurinn drepur á meðan andinn er lífgjafinn. Ég andmæli því ekki, hafandi borið fram hillingu til göfugs fórnarlambs villunnar að leita til bókstafsins einhvers staðar á þessum spjöldum, en ég spyr líka, hvernig ætti andinn að lifa án bókstafsins?  Tilkall andans myndi engu að síður vera óumdeilt ef bókstafurinn hefði ekki sannað að hann framleiðir öll sín sannleiksáhrif í manninum án nokkurrar íhlutunar andans.

Þessi opinberun kom yfir Freud, og hann kallaði uppgötvun sína dulvitundina.

………………………….

Descartes og hugsunin um hugsunina

-eða staður sjálfsverunnar

(516-518 í Écrits í þýðingu Bruce Finks)

Ég hugsa, þess vegna er ég (Je pense, donc je suis / cogito ergo sum) er ekki eingöngu fullyrðingin þar sem tengslin á milli gagnsæis hinnar handanlægu sjálfsvitundar og sjálfrar tilvistarinnar eru staðfest á sögulegum hátindi hugsunarinnar um forsendur vísindanna.

Kannski er ég ekki annað en viðfang og vélbúnaður (og þar með ekki annað en fyrirbæri), en á því leikur enginn vafi, að um leið og ég hugsa þannig, þá er ég algjörlega. Vissulega hafa heimspekingarnir sett fram ýmsar leiðréttingar hvað þetta varðar, – einkum  varðandi það sem felst í hugsuninni (cogitans), þar geri ég ekki annað en að sýna sjálfan mig sem viðfang (cogitatum). Eftir stendur að eftir þessa gagngerðu hreinsun á hinni hanndanlægu sjálfsveru virðast tilvistarleg tengsl mín við áform þessarar hreinsunar vera óumdeilanleg, að minnsta kosti í framkvæmdinni, og að setningin

„cogito ergo sum“ ubi cogito, ibi sum

(ég hugsa, því er ég, – þar sem ég hugsa, þar er ég)

geri öll andmæli ómerk.

Augljóslega takmarkast þessi vera mín þarna eingöngu af því að ég hugsi að ég sé í hugsun minni; að hvaða marki ég hugsa það í raun og veru kemur mér einum við, og ef ég læt það í ljós þá lætur enginn það sig varða.[ii]

Engu að síður væri það merki um innri bælingu að hunsa þessa athugasemd eingöngu vegna þess að hún ætti sér heimspekilegar hliðstæður. Því vitundin um sjálfsveruna er óhjákvæmileg, einnig á vettvangi vísindanna  sem hluti af hernaðarlist þeirra í nútímalegum skilningi, þar sem útreikningarnir útiloka alla „huglægni“.

Það fæli jafnframt í sér að útiloka sjálfan sig frá öllu því sem kalla mætti hina freudísku heimsmynd – í sama skilningi og við tölum um hina kópernísku heimsmynd. Freud líkti reyndar sjálfur uppgötvun sinni við hina svokölluðu kópernísku byltingu, þar sem hann lagði áherslu á að í húfi væri enn og aftur sú staða sem maðurinn hefur úthlutað sjálfum sér sem miðpunktur alheimsins.

Er sá staður sem ég uppfylli sem frumlag (subject) nefnarans (signifier) miðlægur eða útlægur gagnvart þeim stað sem ég fylli sem inntak (subject) hins nefnda (the signified)? Í þessari spurningu  liggur hundurinn grafinn.

Málið snýst ekki um að vita hvort ég tali um sjálfan mig samkvæmt því sem ég er, heldur snýst það um að vita hvort ég sé sá sami og hann sem ég tala um. Og það er engin ástæða til að útiloka hugtakið „hugsun“ í þessu samhengi. Freud notar hugtakið til að lýsa þeim þáttum sem eru að verki í dulvitundinni, það er að segja í þeirri nafngiftarvirkni (signifying mechanism) sem ég benti á að væri þar að verki.

Það liggur engu að síður í augum uppi að hið heimspekilega cogito er miðlægt í þeim hillingum sem gera nútímamanninn svo öruggan um að hann sé hann sjálfur í allri óvissunni um sjálfan sig, og jafnvel í þeim efasemdum sem hann hefur löngu uppgötvað að felast í gildrum sjálfselskunnar og hrokans.

Rétt eins og ég hafna því að nota vopn nafnhvarfanna (metonomy) gegn þeirri fortíðarþrá sem þau þjóna, hafna ég því að leita merkingar handan klifunarinnar (tautology) og ef ég álykta því að ég sé ekki annað en það sem ég er með sama hætti og við fullyrðum að „stríð er stríð“ og „króna er króna“, þá vaknar spurningin  hvernig ég geti þá komist undan þeirri augljósu staðreynd að ég sé einmitt í þessum gjörningi?

Ef ég myndi síðan snúa mér að hinum enda myndlíkingarinnar í spurningunni um nafngiftina (signifying quest) og helga mig því að verða það sem ég er, öðlast eiginlega verund, – gæti ég þá með nokkru móti dregið í efa að ég væri til staðar, jafnvel þó ég hefði tínt sjálfum mér?

Hin freudiska umsnúningsbrella gerir einmitt vart við sig á þessum punkti þar sem hin áþreifanlega reynsla (the empirical) grefur undan hinu augljósa.

Þessi merkingarleikur myndhvarfa og myndlíkinga er leikinn til leiksloka af miskunnarlausri slægð alla leið að sínum virka endapunkti, sem festir í sessi löngun mína til höfnunar á nefnaranum eða löngun mína til skorts á eiginlegri veru, og þrælbindur þannig forlögin við eigin örlög; þessi leikur leiðir mig þangað sem ég er ekki vegna þess að ég get ekki fundið sjálfan mig þar.

Það þurfti ekki annað en þessi örfáu orð til að gera áheyrendur mína málstola um stund: ég er að hugsa þar sem ég er ekki, þess vegna er ég þar sem ég er ekki að hugsa. Vel hlustandi eyru skynja áþreifanlega hversu útsmogin tvíræðni er hér að verki þar sem merkingarhringurinn gengur okkur úr greipum á rennireipi orðanna.

Það sem við verðum að segja hljóðar svo: ég er ekki þar sem ég er leikfang hugsana minna; ég hugsa um það sem ég er þar sem ég hugsa ekki að ég sé að hugsa.

Þessi tvíhliða leyndardómur tengist þeirri staðreynd að sannleikurinn verður einvörðungu kallaður fram á því sviði bellibragða myndlíkingarinnar sem sérhvert skapandi „raunsæi“ sækir dyggð sína til. Hann tengist líka þeirri staðreynd að aðgangur að merkingu verður einungis gefinn með tvöföldu olnbogaskoti myndlíkingarinnar þar sem við höfum fest hendi á eina tiltæka lykli hans: þeirri staðreynd að N og n (nefnarinn og hið nefnda) í jöfnu Saussure eru ekki á sama sviði, og maðurinn hafði lifað í þeirri sjálfsblekkingu að hann væri staðsettur á sameiginlegum öxli þeirra, sem er ekki til.

Að minnsta kosti ekki fyrr en Freud gerði uppgötvun sína. Því ef það var ekki einmitt þetta sem Freud uppgötvaði, þá var það ekki neitt.

……..

Bókstafurinn, veran og hinn.

(523 – 526 í Écrits í þýðingu Bruce Finks)

Er það sem hugsar í minn stað þá annað ég (Ego)? Felur uppgötvun Freuds í sér staðfestingu Manikeisma[iii] á hinu sálræna sviði?

Hér fer ekkert á milli mála: það sem rannsóknir Freuds kenndu okkur voru ekki einhverjar sérvitringslegar kreddur um tvöfaldan persónuleika. Jafnvel á þeim hetjufullu tímum sem ég hef fjallað um, þar sem kynferðið talaði sínu máli rétt eins og hjá dýrunum í ævintýrunum, á þessum tímum skapaðist aldrei sá djöfullegi skepnuskapur sem vænta mætti við slíkar aðstæður.

Freud skilgreindi markmið uppgötvana sinna þegar hann var á hátindi hugmyndavinnu sinnar með þessum hjartnæmu orðum: Wo Es war, soll Ich werden. (fr.: Là où fut ça, il me faut advenir) Þar sem Það var á Ég að verða. [Þaðið er annað hugtak sem Freud notaði um dulvitundina. innsk. þýð.]

Þetta markmið felur í sér samhljóm og endursameiningu, mér liggur við að segja sáttagerð (Verschönung).

En ef við hunsum þá róttæku sérvisku sjálfsins gagnvart sjálfu sér sem maðurinn horfist í augu við – með öðrum orðum hunsum þann sannleika sem Freud uppgötvaði –  þá munum við um leið afneita öllum reglum og öllum mögulegum sáttaleiðum sálgreiningarinnar. Við myndum þá breyta henni í þá málamiðlun sem hún er í raun þegar orðin, breyta henni einmitt í það sem Freud fyrirleit hvað mest í orði og verki. Hann var stöðugt að benda okkur á að áráttan til málamiðlunar væri einmitt rót allrar þeirrar eymdar sem sálgreining hans reyndi að ráða bót á. Því má með réttu segja að allt meðvitað eða ómeðvitað afturhvarf til málamiðlunar rugli alla vinnu sálgreiningarinnar og endi í formyrkvun.

Það dugar heldur ekki að yppta öxlum með mórölsku yfirbótarpússi  okkar samtíma og tala sig fullan af „heildar persónuleika“ í því skyni að reyna að segja eitthvað marktækt um möguleika til sáttagjörðar. Því róttæka og galopna ósamræmi í mannssálinni sem uppgötvun Freuds opinberaði fyrir okkur, verður ekki lokað án þess að aðgerðin afhjúpi eigin óheiðarleika.

Hver er hann þá þessi Hinn, sem ég er nátengdari en sjálfum mér, ef það er rétt að það sé hann sem slái strengina í leyndustu hólfum sjálfsmyndar minnar og sjálfsvitundar?

Við getum einungis skilið nærveru hans í annars stigs annarleika, stigi sem veitir honum stöðu miðilsins andspænis sjálfsklofningi mínum rétt eins og gagnvart líka mínum eða tvífara.

Ef ég hef sagt að dulvitundin sé orðræða Hins (með stóru H) þá er það gert til að benda á þá handanveru þar sem viðurkenning löngunarinnar er tengd lönguninni eftir viðurkenningu (Hins).

Með öðrum orðum þá er þessi hinn sá Hinn sem jafnvel ósannsögli mín ákallar sem tryggingu fyrir þeim sannleika sem fólginn er í lygi minni.

Hér sjáum við að vídd sannleikans verður til með tilurð tungumálsins.

Áður en lengra er haldið þurfum við að viðurkenna tilvist gagnkvæmrar sjálfsvitundar (intersubjectivity) í sálrænum samskiptum (nokkuð sem hefur verið skilgreint og staðfest í atferlisrannsóknum dýra og er draugur sem sálfræðingarnir reyna jafnóðum að kveða niður).

Hjá dýrinu sem liggur falið í varðstöðu sinni í úthugsaðri gildru, í bellibrögðum eftirlegukindarinnar þar sem flóttaleið sem er aðskilin frá leið hópsins ruglar eftirför rándýrsins, þar sjáum við eitthvað tilkomumeira birtast en rismikla víggirðingu eða sviðsettan orrustuvöll. Engu að síður er hér ekkert á seyði sem er umfram blekkingu í brýnustu neyð, né neitt það sem kynni að staðfesta í þessum blekkingarleik eitthvað er gæti vakið spurningar um heildaráform Náttúrunnar.

Til að slík spurning geti vaknað (og við vitum að hún vaknaði hjá Freud í Handan nautnalögmálsins)  verður tungumálið að vera til staðar.

Ég get blekkt andstæðing minn með hreyfingu sem er andstæð orrustuáformum mínum, en þá hefur bragðið einungis áhrif ef ég beiti því gegn andstæðingi mínum.

En opni ég fyrir friðarviðræður þá verður sáttatillaga mín staðsett á þriðja svæðinu sem tilheyrir hvorki orðræðu minni né viðmælandans.

Þetta svæði er ekkert annað en svæði nafngiftarhefðarinnar (signifying convention) sem við höfum dæmi um í spaugilegri umkvörtun gyðingsins við félaga sinn: „Hvers vegna segir þú mér að þú sért að fara til Krakow til þess að telja mér trú um að þú sért að fara til Lemberg, þegar þú ert í raun og veru að fara til Krakow?“

Auðvitað getum við skilið áðurnefndan hópflótta villibráðarinnar innan ramma hefðbundinnar dýrahegðunar, þar sem hann byggir á reglunni að blekkja óvin minn. En hér byggir ávinningur minn á innbyggðri blekkingu sem gengið er út frá sem forsendu í samskiptunum við Hinn, sem er tryggingin fyrir Góðri Trú.

Hér snýst vandinn um reglu þar sem ósamkvæmnin er einfaldlega hunsuð ef hún er smættuð niður í eins konar „meðvitund um Hinn“ eða hvað menn vilja kalla það. Það er ekki ýkja langt síðan skilaboðin um „tilvist Hins“ náði eyrum Midasar, sálgreinisins, í gegnum skilvegginn sem skilur hann frá leynimakki fyrirbærafræðingsins og er nú hvíslað í gegnum hljóðpípurnar: „Midas, Midas konungur, hann er „Hinn“ í augum skjóltæðingsins. Hann sagði það sjálfur“.

Hvers konar opinberun var þetta? Hinn, hvaða hinn?

….

(526-528 í Écrits í þýðingu Bruce Finks)

Það væri kannski þess virði að staldra aðeins við þennan rugling – sem er einfaldlega leiksvið hinnar mannlegu opera buffa (gamanóperu) í heild sinni – til þess að skilja þær krókaleiðir sem sálgreiningin þræðir, ekki bara til þess að skapa henni reglu, heldur líka til að skapa skilyrði fyrir mögulega endurreisn hennar.

Kern unseres Wesen, „kjarni veru okkar“ – þetta var ekki það sem Freud vildi beina athygli okkar að fyrst og fremst, eins og svo margir höfðu gert á undan honum í fylgd með þessum innantómu slagorðum „þekktu sjálfan þig“ – hann vildi leiða okkur á slóðirnar sem liggja að slíkri þekkingu.

Eða öllu heldur mætti segja að hann hafi ráðlagt okkur að nálgast ekki það sem hægt væri að skilgreina sem þekkingu, heldur það sem -eins og hann kemst að orði – myndar veru mína og sem ég er til vitnis um, ekki síður í duttlungum mínum, misskilningi mínum og villuráfi, í fóbíum mínum og blætisáráttu, frekar en í mínum meira og minna siðmenntaða persónuleika.

Sturlun, þú ert ekki lengur eftirlæti þess tvíbenta lofs sem hinn vísi innréttaði sitt skothelda greni ótta síns með. Og ef hann (hinn vísi) hefur eftir allt saman komið sér bærilega fyrir, þá er það vegna þess að háyfirvaldið sem hefur frá ómunatíð unnið að greftri grenisganganna og völundarhússins er sjálf rökhugsunin, sami Logosinn og hann þjónar.

…..

Með uppgötvun sinni færði Freud mörkin milli hlutarins og verunnar, sem virtust vera ytri mörk vísindanna, inn fyrir athafnasvæði þeirra.

…..

Ef ég tala um bókstafinn og veruna, ef ég geri greinarmun á hinum og Hinum, þá er það vegna þess að Freud leggur þessi orð fyrir mig sem þau hugtök sem afleiðingar viðnámsins og yfirfærslunnar (innan sálgreiningarinnar) vísa til – en það eru áhrif sem ég hef háð ójafna glímu við á þeim tveim áratugum sem ég hef verið virkur í því starfi sem við öll köllum hið ómögulega samkvæmt orðum Freuds. Starf sálgreinisins. Einnig þess vegna þarf ég þarf að hjálpa öðrum að villast ekki á þeirri vegferð.

Þetta starf (sálgreinisins) felst meðal annars í að koma í veg fyrir að akurinn sem þeir hafa tekið í arf fari í órækt, það felst einnig í því að koma þeim skilaboðum á framfæri að ef heilkennið er myndlíking, þá sé engin myndlíking fólgin í að halda því fram, ekki frekar en að staðhæfa að löngun mannsins sé nafnhvörf (metonymy). Því heilkennin eru myndlíking hvort sem okkur líkar betur eða ver, rétt eins og löngunin er nafnhvörf, jafnvel þó hugmyndin veki mönnum hlátur.

Þannig býð ég ykkur að lýsa vanþóknun ykkar á þeirri staðreynd að eftir margra alda trúarlega hræsni og heimspekileg látalæti hefur enginn skilgreint með gildum hætti hvað tengi myndlíkinguna við spurninguna um veruna og hvað tengi nafnhvörfin við skort verunnar, þá hlýtur eitthvað af tilefni þessarar vanþóknunar að vera enn til staðar til andsvara, bæði sem gerandi og fórnarlamb: það er maður húmanismans og sú óbætanlega skuldakrafa sem hann hefur lagt á áform sín.

[Áherslubendingar með breiðletrun eru verk þýðandans.]

 

[i] Sbr. Heil. Águstínus: De Magistro. Aflinn „De significatione locutionis“ var til umfjöllunar á námskeiði mínu 23. Júní 1954.

[ii] Öðru máli gegndi ef ég myndi til dæmis spyrja spurningar eins og þessarar: „Til hvers eru heimspekingarnir?“, þá vekti ég meiri athygli en ég er vanur, því ég væri ekki bara að spyrja spurningarinnar sem heimspekingarnir hafa spurt sig frá upphafi vega, heldur líka þeirrar spurningar sem þeir halda mest upp á.

[iii] Trúarbrögð kennd við persneska trúarleiðtogann Mani, sem lifði í Mesapotamíu á annari öld e.Kr. Samkvæmt þessum trúarbrögðum sem urðu útbreidd í Austurlöndum á fyrri hluta miðalda byggir heimurinn á baráttu góðs og ills, ljóss og myrkurs, þar sem ljósið muni smám saman yfirgefa efnisheiminn til að hverfa aftur til eigin uppruna.

Barokk – hermilistin, sýndarveruleikinn og máttur ímyndunaraflsins III -Jean Baudrillard

Framrás líkneskjanna

La precession des simulacres

eftir Jean Baudrillard

 

Ritgerð þessi er ein merkasta ritgerð franska táknfræðingsins Jean Baudrillards og hefur haft mótandi áhrif á þá fræðigrein og alla umfjöllun um táknmál myndlistar frá því hún kom út árið 1981. Ritgerðin hefur mikla þýðingu fyrir skilning okkar og túlkun á táknmáli barokklistarinnar á 17. öld og þýðingu hennar fyrir hið postmoderna myndmál samtímans. Þýðing þessi birtist áður  í ritgerðarsafni Baudrillards, "Frá eftirlíkingu til eyðimerkur", sem kom út á vegum Reykjavíkurakademíunnar og Bjarts árið 2000. Hún er hér í endurskoðaðri mynd. Þrem köflum úr ritgerðinni hefur verið sleppt.

Líkneskið er aldrei það sem hylur sannleikann, – það er sannleikurinn sem breiðir yfir það að hann er ekki til staðar.

Líkneskið er ekta.

                                                                                    Ecclesiastes

 

Ef við gætum tekið sögu Borgesar um kortagerð landmælingamanna keisaradæmisins sem snjalla allegóríu um eftirlíkingar, (en þeir höfðu gert svo nákvæmt landakort að það þakti nákvæmlega allt landsvæðið sem það myndaði), þá hefði sagan myndað lokaðan hring fyrir okkur og ekki miðlað öðru en ísmeygilegum þokka annarar gráðu líkans (simulacre). En með hnignun keisaradæmisins hafði kortið trosnað og eyðilagst, þannig að eftir stóðu aðeins stöku leifar úti í eyðimörkinni – eins og frumspekileg fegurð gamalla rústa sem vitna um keisaralegt stolt og hrörnun, rétt eins og um rotnandi hræ væri að ræða sem leitaði aftur til uppruna síns í jarðveginum, eða eins og aldraður tvífari sem endar með því að verða ruglað saman við fyrirmynd sína.

Nú á tímum er sértekningin ekki lengur fólgin í kortinu, eftirmyndinni, speglinum eða hugtakinu. Eftirlíkingin er ekki lengur bundin við landsvæðið, hlutstæða veru eða efni. Hún felst í framleiðslu raunveruleikalíkana sem byggja ekki á frumgerð eða veruleika, heldur á ofurraunsæi. Landssvæðið er ekki lengur forsenda kortsins, og það stendur heldur ekki eftir þegar myndin er horfin.  Framvegis er kortið forsenda landsvæðisins – framsókn líkneskjanna (précession des simulacres) – það getur af sér landssvæðið, og ef við ættum að endurupplifa sögu Borgesar nú á dögum, þá væru það leifar landsvæðisins sem lægju rotnandi eins og hráviði ofan á kortinu. Það eru leifar raunveruleikans sem hér liggja eins og hráviði fyrir fótum okkar á eyðimörk sem ekki heyrir lengur undir keisaraveldið, heldur okkur sjálf. Eyðimörk sjálfs raunveruleikans.

Í raun er þessi dæmisaga gagnslaus, jafnvel þótt við snúum henni við. Það eina sem eftir stendur er kannski dæmisagan um keisaradæmið. Því það er á grundvelli sams konar heimsvaldastefnu sem hermivélar samtímans reyna að láta veruleikann, allan veruleikann, falla nákvæmlega að líkönum sínum. En það er ekki lengur um tvo valkosti að ræða, kortið eða landssvæðið. Eitthvað hefur horfið: hinn afgerandi mismunur á þessu tvennu, sem gerði sértekninguna svo heillandi. Því það er mismunurinn sem skapar skáldskap landakortsins og gerir landssvæðið heillandi, galdur hugtaksins og seiðmagnað viðmót raunveruleikans. Þessi myndgerving veruleikans, sem nær hámarki sínu og er skrumskæld í brjálæðislegri áætlun landmælingamannsins um fullkomið samræmi á milli kortsins og landsvæðisins, hverfur með eftirlíkingunni þegar hún er orðin frumlægur gerandi og framleiðandi sem hefur slitið á alla hugtakslega rökræðu við veruleikann. Með myndlíkinu hverfur öll frumspeki. Ekki er lengur um neina speglun verunnar að ræða, enga hliðstæðu verunnar og birtingarmyndar hennar, ekkert samband hugtaks og veruleika. Miklu frekar verður vídd líkansins erfðafræðileg smættun veruleikans. Raunveruleikinn er framleiddur úr mótum, örgjörvum, minniskubbum og stýrilíkönum. Með þessu er hægt að fjöldaframleiða raunveruleikann út í það óendanlega. Hann þarf ekki lengur að lúta lögmálum rökhyggjunnar, því hann tekur ekki lengur mið af einhverri fyrirmynd eða frumforsendu. Hann byggist í einu og öllu á virkninni. Þar sem raunveruleikinn er ekki lengur settur fram í umbúðum myndlíkingarinnar er hann alls ekki raunverulegur lengur. Hann er ofurraunverulegur: afurð ljómandi samruna samvirkra líkana í sýndarrými án andrúmslofts.

Öld eftirlíkinganna hefst þannig með útþurrkun allra viðmiða um leið og horfið er yfir í rými sem lýtur ekki lengur forsendum raunveruleikans eða sannleikans – eða það sem er öllu verra: með tilbúinni endurreisn viðmiða í táknkerfum sem í rauninni eru meðfærilegra efni en sjálf merkingin, vegna þess að þau verða auðveldlega aðlöguð hvers konar jafngildingarkerfum, öllum tvenndarandstæðum og allri venslafræði algebrunnar. Það er ekki lengur um eftirhermu að ræða, eða endurgerð, ekki einu sinni skopstælingu.  Málið snýst miklu frekar um það að tákn veruleikans komi í stað veruleikans sjálfs. Það felur í sér frávísun sérhvers raunverulegs ferlis með kerfisbundnum tvífara þess. Um er að ræða ofurtrausta, forskrifaða og óskeikula vél hinnar fullkomnu lýsingar sem framleiðir öll merki raunveruleikans og sneiðir markvisst framhjá öllum hverfulleika hans. Raunveruleikinn fær aldrei framar tækifæri til að sýna sig: þetta er meginhlutverk líkansins í kerfi sem er merkt dauðanum eða öllu heldur ótímabærri upprisu sem ekki býður lengur upp á neina valkosti, ekki heldur á dauðastundinni. Um er að ræða ofurveruleika sem er brynjaður gegn ímyndunaraflinu og allri aðgreiningu raunveruleika og ímyndunar, þar sem eingöngu er rúm fyrir sporbraut með reglubundinni endurkomu líkana og tilbúinna eftirlíkinga á mismun.

Hin guðdómlega frávísun myndanna

Að gera sér upp eitthvað (dissimuler) er það sama og að þykjast ekki hafa það sem maður hefur. Að líkja eftir einhverju (simuler) er það sama og að látast hafa það sem maður hefur ekki. Annað gefur til kynna nærveru, hitt fjarveru. En málið er flóknara en svo, því hermilistin er ekki bara fólgin í því að þykjast. “Sá sem gerir sér upp veikindi getur einfaldlega lagst í rúmið og látið sem hann sé veikur. Sá sem líkir eftir veikindum framkallar einhver af sjúkdómseinkennunum á sjálfum sér” (Littré). Þannig láta uppgerðin og látalætin raunveruleikalögmálið ósnert: mismunurinn liggur alltaf í augum uppi, hann er bara falinn á bak við grímu. Hins vegar grefur hermilistin (simulation) undan mismuninum á því sem er “ekta” og því sem er “falsað”, því sem er “raunverulegt” og því sem er “ímyndað”. Ef það er tilfellið að eftirherman (eða hermikrákan) framkalli “sönn” sjúkdómseinkenni á sjálfum sér, er hún þá sjúk eða heilbrigð? Það er ekki hægt að meðhöndla eftirhermuna á hlutlægan hátt annað hvort sem sjúkling eða heilbrigða manneskju. Bæði sálfræðin og læknisfræðin nema óhjákvæmilega staðar á þessum punkti, en handan hans mæta þau þeim sannleika um sjúkdóminn, sem aldrei verður upplýstur. Því ef hægt er að “framleiða” hvaða sjúkdómseinkenni sem er, og ekki er lengur hægt að líta á þau sem hverja aðra staðreynd úr ríki náttúrunnar,  þá verður að líta svo á að hægt sé að líkja eftir hvaða sjúkdómi sem er eða að hann sé látalæti, og þar með er grundvellinum kippt undan læknisfræðinni sem slíkri, þar sem hún kann aðeins að meðhöndla “sanna” sjúkdóma út frá hlutlægum orsökum þeirra. Geðlæknisfræðin hefur þróast með tvíræðum hætti á mörkum sjúkdómslögmálsins. Sálgreiningin hefur hins vegar yfirfært sjúkdómseinkennin frá hinu líkamlega sviði yfir á svið dulvitundarinnar. Þar trúa menn því að hið síðarnefnda sé raunverulegt, raunverulegra en hinar líkamlegu orsakir, en hvers vegna skyldi hermilistin nema staðar við þröskuld undirmeðvitundarinnar? Hvers vegna skyldi ekki vera hægt að “framkalla” “úrvinnslu” dulvitundarinnar á sama hátt og önnur sjúkdómseinkenni hinnar klassísku læknisfræði? Draumarnir eru löngu orðnir að framleiðsluvöru.

Geðlæknastéttin (fylgjendur firringarkenningarinnar) heldur því auðvitað fram, að “sérhverri geðrænni firringu fylgi röð tiltekinna sjúkdómseinkenna, sem hermirinn (simulator) er sér ómeðvitaður um, en væru þau ekki til staðar er ólíklegt að geðlæknirinn léti blekkjast”. Þessi fullyrðing (frá árinu 1865) er sett fram í nauðvörn tiltekins sannleikslögmáls og til þess að losna undan áleitnum spurningum sem eftirlíkingin vekur upp: þeirri staðreynd að sannleikur, viðmið og hlutlægt orsakasamband hafa gufað upp.

Hvernig eiga læknavísindin að bregðast við einhverju sem liggur beggja vegna sjúkdómsgreiningarinnar og  beggja vegna heilbrigðisins, hvernig eiga þau að bregðast við endurgerð súkdóms í röksemdafærslu sem getur ekki lengur talist sönn eða fölsk? Hvað getur sálgreiningin gert við endurgerð orðræðu dulvitundarinnar í rökræðu eftirlíkingar (simulation) sem aldrei verður afhjúpuð, þar sem hún er heldur ekki ósönn?

Hvernig getur herinn brugðist við þeim sem gera sér upp sjúkdóma?

Venjan hefur verið sú að afhjúpa þá og refsa síðan á forsendum eyrnamerkingarlögmálsins. Í dag geta þeir endurhæft mjög snjallan uppgerðarsjúkling rétt eins og hann væri jafngildi “raunverulegs” homma, hjarta- eða geðsjúklings. Jafnvel hernaðarsálfræðin víkur sér undan hlutlægnireglu Descartes og hikar við að draga mörkin á milli hins sanna og upplogna, á milli tilbúinna sjúkdómseinkenna og raunverulegra sjúkdómseinkenna. “Ef hann er svona snjall að leika brjálæðing, þá hlýtur hann að vera brjálaður”. Þetta er líka rökrétt ályktun í þeim skilningi að allir geðsjúklingar eru eftirhermur (simulators), og þessi skortur á skilum milli eftirlíkingar og raunveruleika er versta tegund undirróðurs.

Gegn þessari óvissu þurfti hin hefðbundna skynsemiregla að vígbúa sig með öllum tiltækum hugtökum sínum. Á okkar dögum hefur þessi vígvæðing hins vegar slegið vopnin úr höndum rökhyggjunnar á nýjan leik og þar með drekkt sannleikslögmálinu.

Utan læknisfræðinnar og hermennskunnar, sem eru óskasvið hermilistarinnar, þá snertir þessi vandi trúarbrögðin og eftirlíkingu guðdómsins. “Ég bannaði allar líkneskjur (simulacre) í hofinu, því sá guðdómur sem blæs lífsanda í náttúruna verður ekki sýndur.”

Engu að síður er það hægt. En hvað verður um guðdóminn þegar hann opinberar sjálfan sig í helgimyndum, þegar hann er fjölfaldaður í eftirlíkingum? Heldur hann áfram að vera hið æðsta drottinvald, sem einfaldlega er efnisgert í myndum sem sjónræn guðfræði? Eða er hann leystur upp í eftirlíkingar sem einar hafa til að bera þann glæsibrag og vald sem skapar hrifningarmáttinn – verður hin sjónræna framleiðsluvél helgimyndanna látin koma í stað hinnar hreinu og skýru Hugmyndar um Guð?

Það var einmitt þetta sem helgimyndbrjótarnir óttuðust, en þúsund ára deila þeirra er enn á meðal okkar í dag. Áfergja þeirra í að eyðileggja myndirnar stafaði einmitt af því að þeir skynjuðu þetta altæka vald líkneskjanna, hversu auðveldlega þau geta þurrkað Guð út úr vitund fólks, og þann yfirþyrmandi og tortímandi sannleika sem þau gefa í skyn: að þegar öllu sé á botninn hvolft, þá hafi aldrei neinn Guð verið til, að einungis eftirlíkingin sé til, og að endanlega hafi Guð aldrei verið til öðruvísi en sem líki sjálfs sín.

Ef þeir hefðu látið sér nægja að trúa því að myndirnar yfirskyggðu hina platónsku hugmynd um Guð, þá hefði ekki verið nein ástæða til að eyðileggja þær. Það er hægt að afbera hugmyndina um afmyndaðan sannleika. En hin frumspekilega örvænting þeirra stafaði af vitundinni um að á bak við myndirnar væri ekkert, og að þær væru í rauninni ekki myndir eins og frummyndin gæfi tilefni til, heldur fullkomin myndlíki sem lýsa til eilífðar í sinni eigin dýrð og aðdráttarafli. En þessum dauða hins guðdómlega viðmiðs þarf að bægja frá með öllum tiltækum ráðum.

Við getum þannig séð að helgimyndbrjótarnir, sem oft voru ásakaðir fyrir að fyrirlíta og afneita myndum, voru í raun þeir sem skildu hið sanna gildi þeirra, andstætt þeim sem dýrkuðu myndirnar og sáu einungis í þeim endurspeglanir og létu sér þær nægja til að dýrka Guð sinn í hillingum.

Einnig mætti halda hinu gagnstæða fram: að þeir sem dýrkuðu helgimyndir hafi verið nútímalegastir og ævintýralegastir í hugsun, þar sem þeir hafi séð á bak við hugmyndina um birtingu Guðs í spegli myndanna það brotthvarf og þann dauða Guðs, sem guðdómsbirting myndanna sýnir (og sem þeir vissu trúlega að stóðu ekki fyrir neitt, að þær voru einfaldlega leikur, og einmitt stórbrotnasti leikur allra leikja – að þeir hafi þekkt þá hættu sem fólgin er í því að afhjúpa myndir, þar sem þær gefa í skyn þá staðreynd að það er ekkert á bak við þær).

Þetta var afstaða Jesúítanna á barokktímanum, sem byggðu pólitíska stefnu sína á raunverulegu brotthvarfi Guðs og á veraldlegri og sjónrænni stýringu á vitundarlífi safnaðarins – uppgufun Guðs í guðdómsbirtingu valdsins.

Um var að ræða endalok handanverunnar, sem ekki var lengur annað en fjarvistarsönnun þeirrar stjórnlistar er hafði losað sig undan öllum utanaðkomandi áhrifum og táknum . Á bak við barokkyfirbragðið sjáum við hina gráu hátign hins pólitíska valds.

Þannig hefur málið alltaf snúist um hinn banvæna eyðingarmátt myndanna. Þær myrða raunveruleikann, þær myrða fyrirmynd sína rétt eins og hinar býsönsku helgimyndir gátu drepið sjálfsímynd guðdómsins.

Gegn þessari banvænu getu myndanna hafa menn teflt röklegum viðmiðunarmætti mynda sem sjónræns og skiljanlegs miðils raunveruleikans. Öll trú og allt trúartraust  Vesturlanda var byggt á þessum skilningi á myndgervingunni: að táknið gæti haft dýpt merkingarinnar að viðmiði, að táknið gæti orðið staðgengill merkingar, að eitthvað gæti tryggt þessi skipti – og þessi gulltrygging merkingarinnar var auðvitað Guð. En hvað gerist ef hægt er að líkja eftir mynd Guðs, ef hægt er að smætta hann niður í þau tákn sem staðfesta tilvist hans? Þá verður allt kerfið holt að innan, það verður ekki annað en tröllvaxið líki eða líkneski: ekki óraunverulegt, heldur myndlíki sem getur aldrei komið í stað þess sem er raunverulegt, heldur einungis í staðinn fyrir sjálft sig í endalausri hringrás án viðmiðs né umgerðar.

Þetta á við um hermilistina í þeim skilningi að hún sé andstæða myndgervingar (représentation). Slík myndræn framsetning byggir á þeirri forsendu að jafngildi sé á milli táknsins og veruleikans sem það vísar til (jafnvel þótt slíkt jafngildi sé útópískt, þá er þetta grundvallaratriði). Hermilistin byggist hins vegar á andhverfu þessarar útópíu jafngildingarinnar, hún byggir á hinni róttæku afneitun merkisins sem gildis, hún byggir á tákninu sem fráhvarfi og dauðadómi yfir öllum viðmiðum og vísunum. Á meðan myndgervingin reynir að innbyrða eftirlíkinguna með því að túlka hana eins og falska framsetningu, þá gleypir hermilistin allt myndgervingarkerfið eins og það leggur sig sem líki eða líkneski (simulacrum).

Myndin hefði þá eftirfarandi þróunarstig:

1          hún speglar djúpstæðan veruleika

2          hún dylur og umbreytir eðli hins djúpstæða veruleika

3          hún felur fjarvist hins djúpstæða veruleika

4          hún hefur alls engin veruleikatengsl: hún er sitt eigið líkneski og ekkert annað.

Í fyrsta tilfellinu er myndin góð birting.: framsetningin er sambærileg við altarissakramentið.

Í öðru tilfellinu er myndin ill birting: hún er hliðstæða bölbænarinnar.

Í þriðja tilfellinu lætur myndin eins og hún sé birting einhvers. Hún samsvarar fjölkyngi.

Í fjórða tilfellinu hefur hún alls ekkert með birtingu að gera lengur, heldur einvörðungu eftirlíkinguna.

Umskiptin frá táknum sem láta sem eitthvað sé, til tákna sem gefa í skyn að ekkert sé, marka vendipunktinn. Fyrrnefndu táknin hafa með guðfræði sannleikans og leyndarinnar að gera (en hugmyndafræðin byggir einmitt á þessu). Seinna tilfellið markar upphaf tímaskeiðs líkneskjanna og hermilistarinnar, þar sem ekki er lengur til staðar neinn Guð til að staðfesta eigin eftirlíkingu, né heldur nokkur dómsdagur er megnar að greina satt frá lognu, raunveruleikann frá tilbúinni upprisu hans, því allt er þegar og fyrirfram dáið og upp risið.

Þegar raunveruleikinn er ekki lengur eins og hann var vanur að vera, öðlast fortíðarþráin sína raunverulegu merkingu. Við sjáum hvarvetna haldið á lofti merkjum raunveruleikans og goðsögnum um upprunann. Við sjáum hvarvetna haldið á lofti fjölnota sannleika, hlutlægni og upprunavottun. Hið sanna breiðir úr sér og lífsreynslan; við sjáum upprisu hins fígúratíva í myndinni þar sem viðfangið og inntakið eru horfin. Það er í gangi örvæntingarfull framleiðsla á raunveruleika og tilvísunum, framleiðsla sem á sér einungis hliðstæðu í hinni örvæntingarfullu framleiðslu á efnislegum hlutum.

Þannig birtist hermilistin á því þróunarstigi sem að okkur snýr: hertækni raunveruleikans, nýraunsæisins og ofurveruleikans, en hinn algildi tvífari hennar er herstjórnarlist fælingarinnar.

…………… (Hér vantar millikafla: Ramses eða hin bleiklitaða upprisa….

Ofurraunvera og ímyndun

Disneyland er hin fullkomna fyrirmynd allra flókinna eftirlíkingakerfa. Í fyrsta lagi er um að ræða leik með blekkingar og drauga: Sjóræningjarnir, Villta vestrið, Future World  o.s.frv. Vinsældir fyrirbærisins eru sagðar vera þessum ímynduðu heimum að þakka. En það sem dregur fjöldann að þessum stað er vafalaust miklu frekar hinn samfélagslegi smáheimur, þessi gleðiríka og trúarlega upplifun hinnar raunverulegu Ameríku í hnotskurn með öllum sínum dásemdum og ágöllum.

Menn leggja bílum sínum fyrir utan, fara í biðraðir innan garðsins og eru fullkomlega einir og yfirgefnir við útganginn. Í þessum ímyndaða heimi er eini draumleikurinn fólginn í þeirri eðlislægu hlýju og nálægð, sem falin er í manngrúanum og þeirri fullnægjandi ofgnótt glingurs sem þarna gegnir því markvissa hlutverki að viðhalda margbreytileikaáferðinni. Andstæðan við hina fullkomnu einsemd bílastæðisins – raunverulegar einangrunarbúðir – er algjör.

Eða öllu heldur: þegar inn er komið verður aragrúi smátækja og glingurs til að segulmagna manngrúann í ákveðinn straum, fyrir utan beinist einsemdin aðeins að einu tæki: bílnum. Fyrir einskæra tilviljun (sem áreiðanlega á sinn þátt í töfraljóma þessa heims) var þessi djúpfrysti smábarnaheimur fundinn upp og búinn til af manni sem nú er sjálfur djúpfrystur: Walt Disney, sem nú bíður upprisu sinnar í mínus 180 °C.

Við getum rakið hina hlutlægu mynd Bandaríkjanna í gegnum Disneyland, jafnvel niður í formgerðir einstaklinganna og manngrúans. Öll hin bandarísku gildi eru hér sýnd í hnotskurn og á teiknimyndaformi. Smurð og niðursoðin. Þannig opnast möguleikinn á hugmyndafræðilegri greiningu á Disneylandi (L. Marin gerir það vel í Utopies, jeux d’espaces / Draumalönd, leikið með rýmið): þverskurður af hinum ameríska lífsmáta, lofgjörð um hin amerísku gildi, upphafin ummyndun þversagnarkennds veruleika.

Vissulega. En bak við allt saman hvílir eitthvað annað, og þessi “hugmyndafræðilega” ábreiða gegnir einmitt því hlutverki að breiða yfir þriðja stigs eftirlíkingu: Við höfum Disneyland til þess að fela þá staðreynd að það er hið raunverulega land, öll hin “raunverulega” Ameríka, sem er Disneyland (á sama hátt og fangelsi eru til þess að fela þá staðreynd að það er samfélagið í heild sinni, í hinni augljósu alnánd sinni, sem er fangabúðir). Disneyland er kynnt sem ímyndaður heimur til þess að fá okkur til að trúa því að allt hitt sé raunverulegt, þegar staðreyndin er sú að öll Los Angelesborg, og öll sú Ameríka sem umlykur hana, tilheyra ekki lengur raunveruleikanum, heldur sviði hins ofurraunverulega og eftirlíkingarinnar.

Málið snýst ekki lengur um falska birtingarmynd raunveruleikans (hugmyndafræði) heldur um að fela þá staðreynd að hið raunverulega er ekki lengur raunverulegt, og þar með að bjarga raunveruleikalögmálinu.

Myndaheimur Disneylands er hvorki sannur né falskur. Hann er fælingarvél, sem hefur verið sett á svið í varnarskyni til að endurgera uppspuna raunveruleikans. Af þessu stafar veikleiki og barnaleg úrkynjun þessa myndheims. Þetta er kynnt sem heimur barnanna til þess láta okkur trúa því að hinir fullorðnu séu annars staðar, í hinum “raunverulega” heimi, og til að fela þá staðreynd að hinn raunverulegi barnaskapur er alls staðar, og einkum þó meðal þeirra fullorðnu, sem sækja í þennan stað til að leika börn og til þess að ala með sér sjálfsblekkingar um eigin barnaskap.

Þar við bætist að Disneyland er ekki eini staðurinn. Enchanted Village, Magic Mountain, Marine World: Los Angeles er umlukt slíkum “orkuveitum ímyndunarinnar” sem mata þessa borg á raunveruleika og raunveruleikaorku, þessa borg sem einkennist umfram allt af því að hún er ekkert annað en samskiptanet endalausrar, óraunverulegrar hringrásar: borg í ævintýralegri stærðargráðu, en án rýmis eða víddar. Þessi borg, sem er ekkert annað en tröllaukið kvikmyndahandrit og endalaus skoðunarferð, er jafn háð þessum gamla ímyndunarheimi fyrir hið ósjálfráða taugakerfi sitt, heimi sem búinn er til úr merkjum æskunnar og upplognum draugum, eins og hún er háð raforkuverunum, kjarnorkuverunum og kvikmyndaverunum. 

Pólitískur seiður

Watergate. Sama sviðsmynd og Disneyland (ímynduð áhrif sem fela þá staðreynd að raunveruleikinn er ekki frekar til innan en utan hinnar tilbúnu markalínu): hér eru það hins vegar hneykslunaráhrifin sem fela það að ekki er um neinn mun að ræða á staðreyndum málsins og ákærunni (Washington Post blaðamennirnir beita sömu aðferðum og CIA-leyniþjónustan). Sama aðgerð, þótt hér sé leitað til hneykslisins sem meðals til að endurlífga siðferðilegar og pólitískar reglur, leitað til ímyndunarinnar sem meðals til að endurlífga raunveruleikalögmál sem stendur höllum fæti.

Afhjúpun hneykslis felur ávallt í sér hyllingu til laganna.

Það var einmitt þannig sem Watergate-málinu tókst að festa þá vissu í hugum manna að Watergatemálið væri hneyksli. Í þessum skilningi var hér um einstakan vímugjafa að ræða: stórskammtur af pólitísku siðgæði á heimsvísu. Það mætti taka undir með Bourdieu að “hið sérstaka eðli allra valdasamskipta er að látast í einu og öllu og að sækja ekki styrk sinn í annað enn látalætin sem slík.” Á bak við þetta liggur sá skilningur að fjármagnið, sem er bæði siðlaust og samviskulaust, geti aðeins virkað í skjóli siðferðilegrar yfirbyggingar, og að hver sá sem endurlífgi þessa opinberu siðvakningu (með vanþóknun, ákæru o.s.frv.) styrki ósjálfrátt reglu fjármagnsins, rétt eins og blaðamennirnir á Washington Post gerðu.

Þetta er hins vegar bara hugmyndafræðileg formúla, og þegar Bourdieu setur hana fram, þá gengur hann út frá því að “valdasamskipti” feli í sér sannleika kapitalískrar yfirdrottnunar, og hann ákærir  sjálfur þetta valdasamband sem hneykslunarefni.  Hann er því í sömu nauðhyggju- og siðapredikunarstöðu og blaðamennirnir á Washigton Post. Hann er í sömu hreinsunarherferðinni, til styrkingar hinnar siðferðislegu reglu, þeirrar sannleiksreglu sem elur af sér hið raunverulega táknræna ofbeldi samfélagsreglunnar, langt handan allra valdasamskipta, sem eru ekki annað en síbreytileg og sinnulaus samstilling siðferðislegrar og pólitískrar vitundar fólksins.

Það eina sem fjármagnið biður okkur um, er að við tökum því sem rökrænu fyrirbæri eða berjumst gegn því í nafni rökhyggjunnar, að við tökum því sem siðferðilega réttmætu fyrirbæri  eða berjumst gegn því í nafni siðferðisins. Því á þessu tvennu er enginn munur í þeim skilningi að hvorutveggja má lesa á gagnvirkan hátt. Áður fyrr þurfti að láta sem hið raunverulega hneyksli væri ekki til; nú er dagsskipunin að fela fyrir alla muni þá staðreynd að það sé ekki til staðar í raun og veru.

Watergate er ekki hneyksli: þetta er það sem þarf umfram allt að koma fram, því þetta er það sem öllum er umhugað um að fela, þessi þykjustuleikur sem ber grímu hinnar efldu siðferðisvitundar, siðferðilegra skelfingarkasta sem magnast þegar við nálgumst grundvallar sjónarspil fjármagnsins: hið tafarlausa miskunnarleysi þess, yfirgengilega grimmd þess og grundvallarsiðleysi þess. Það er þarna sem hneykslunarefnið liggur, hneykslunarefni sem ekki á heima í því kerfi siðferðilegrar og efnahagslegrar jafngildingar sem hefur verið grundvöllur vinstrisinnaðrar hugsunar, allt frá Upplýsingunni til kenningasmíða kommúnismans.

Fjármagnið gefur ekki fimmeyring fyrir hugmyndina um þann samfélagssáttmála sem þröngvað er upp á það. Það er í eðli sínu refjalaus og siðblind ófreskja, ekkert annað. Það er hin “upplýsta” hugsun sem reynir að stjórna fjármagninu með því að setja því reglur. Og öll sú ákæra sem rúmast innan hinnar byltingarsinnuðu hugsunar stefnir að því að ásaka fjármagnið fyrir að fylgja ekki leikreglunum. “Valdið er óréttlátt. Réttlæti þess er stéttarréttlæti. Fjármagnið arðrænir okkur…o.s.frv.” – rétt eins og fjármagnið væri tengt samfélaginu sem það stjórnar í gegnum sáttmála. Það eru vinstri öflin sem halda uppi þessum spegli jafngildingarinnar andspænis fjármagninu í þeirri von að það muni sjá að sér og falla fyrir þessari hillingamynd hins samfélagslega sáttmála, og uppfylla skyldur sínar gagnvart samfélaginu í heild sinni (um leið verður engin þörf á byltingunni, það nægir að fjármagnið gangist undir hina skynsamlegu skiptaformúlu).

Staðreyndin er sú að fjármagnið hefur aldrei verið samningsbundið því samfélagi sem það drottnar yfir. Það er nornaseiður hinna félagslegu samskipta, það er ögrun við samfélagið og það ætti einungis að mæta því á þeim forsendum. Það er ekki hneyksli að vera ákærður á grundvelli siðferðislegrar eða efnahagslegrar skynsemishyggju, það er áskorun sem bregðast þarf við á grundvelli táknmálsreglnanna.

Moebius: skrúfugangur neikvæðisins

Því var Watergate einungis gildra sem kerfið bjó til í því skyni að góma andstæðinga sína –eftirlíking hneykslis sem hafði endurlífgandi markmið. Þessi markmið líkamnast í kvikmyndahandritinu í persónu, sem kallast “Deep Throat” og var sagður vera dularfullur mikilsmetinn Repúblikani sem vafði hinum vinstrisinnuðu blaðamönnum um fingur sér í því skyni að losa sig við Nixon – hvers vegna ekki?

Allar tigátur eru mögulegar, þótt þeirra sé reyndar ekki þörf. Vinstri öflin taka sjálfviljug að sér að gera það sem hægri öflin ætla sér, og vinna verkið af mikilli prýði. Það væri auk þess mikill barnaskapur að sjá þar hinn hreina skjöld. Því hægri-öflin taka líka sjálfviljug að sér að framkvæma áform vinstri-aflanna. Allar tilgátur um leikbrúður og leikbrúðustjóra virka gagnkvæmt í endalausum skrúfgangi. Því strengjabrúðuleikurinn er fljótandi orsakasamhengi þar sem neikvæði og jákvæði tímgast og skarast í gagnkvæmri víxlverkun, þar sem ekki er lengur um virkni eða óvirkni að ræða hjá öðrum hvorum aðilanum. Lögmáli hins pólitíska veruleika verður ekki bjargað nema með því að setja geðþóttastopp á þetta hringrásandi orsakaferli. Pólitískum trúverðugleika er viðhaldið með eftirlíkingu hefðbundins, þröngs sjónarhorns (þar sem auðvitað er gengið út frá “hlutlægri”  greiningu, baráttu o.s.frv.). En ef allt hringferli sérhvers verknaðar eða atburðar er hugsað í kerfi þar sem línuleg framvinda og gagnvirkar andstæður eru ekki lengur til, í sviði sem hefur verið tekið úr sambandi með hermilist, þá flæðir undan allri sannfæringu, sérhverjum verknaði lýkur við enda hringferlisins eftir að hafa komið öllum til góða og dreifst um víðan völl.

Er eitthvert tiltekið sprengjutilræði á Ítalíu verknaður öfgafullra vinstrisinna, eða er um ögrun hægri-öfgasinna að ræða? Eða er tilræðið sviðsetning miðjuaflanna gerð í því skyni að koma óorði á alla öfgasinna til hægri og vinstri og styrkja þar með eigin stöðu sem var orðin ískyggilega veik? Eða var hér kannski á ferðinni atburðarás, sem sett var á svið af lögreglunni til þess að kynda undir kröfur um öryggisgæslu, lög og reglu í samfélaginu? Allar þessar tilgátur eru jafn sannar, og leitin að sönnunargagni – hinni hlutlægu staðreynd málsins – mun ekki geta afstýrt þessum svimandi túlkunarmöguleikum. Við erum stödd í röksemdafærslu eftirlíkinga sem hefur ekkert með staðreyndarökfræði eða aðrar rökfræðireglur að gera. Eftirlíkingin einkennist af forgangsstöðu líkansins, allra líkana sem gerð eru utan um hinar lítilvægustu staðreyndir. Líkönin koma fyrst, og fylgihnettir þeirra (eins og sprengjutilræðin) svífa í kring í raunverulegu segulsviði atburðanna. Staðreyndirnar hafa ekkert að segja lengur í sjálfum sér, þær verða til við skörun líkananna. Einstakur atburður getur jafnvel orsakast af öllum líkönunum samtímis. Það er þessi flýting, þessi forgangsröðun, þetta skammhlaup, þessi samruni staðreynarinnar og líkans hennar (enginn skoðanaágreiningur, engin gagnverkandi pólamyndun, engin neikvæð rafmögnun eða skautasamsláttur) sem opna alltaf fyrir allar hugsanlegar túlkanir málanna, jafnvel hinar þverstæðufyllstu túlkanir – allar eru þær sannar í þeim skilningi að þær eru jafngildar innan ramma þess líkans sem þær koma frá í sjálfsprottnu hringferli.

Kommúnistar ráðast á Sósíalistaflokkinn eins og það vaki fyrir þeim að riðla einingu vinstri aflanna. Þeir segja staðfestu sína stafa af nauðsyn þess að taka enn róttækari afstöðu. Í rauninni er hún til komin vegna þess að þeir vilja ekki pólitísk völd. En er ástæðan fyrir því að kommúnistar vilja ekki pólitísk völd í þessari stöðu sú, að það kæmi vinstriöflunum í heild illa, eða er það vegna þess að það myndi veikja stöðu þeirra sjálfra innan vinstri samfylkingarinnar – eða vilja þeir ekki völd af prinsippástæðum? Þegar Berlinguer gefur yfirlýsinguna “Menn mega ekki hræðast þá tilhugsun að sjá kommúnista komast til valda á Ítalíu”, þá merkir yfirlýsingin allt í senn:

Að það er ekkert að óttast, því þótt kommúnistar komist til valda þá muni þeir ekki breyta grundvallarforsendum kapítalismans í neinum efnum.

Að ekki sé nein hætta á að þeir muni nokkurn tímann komast til valda (af þeirri ástæðu að þeir vilja það ekki); og jafnvel þótt svo færi, þá myndu þeir einungis gera það í umboði annarra.

Að í raun og sannleika sé ekkert raunverulegt vald lengur til, og því sé engin hætta á því lengur að einhver muni hrifsa það til sín eða endurheimta það.

En ennfremur: Ég, Berlinguer, er ekki hræddur við að sjá kommúnista hrifsa völdin á Ítalíu – sem ætti að liggja í augum uppi, en þó ekki vegna þess að…

Það getur einnig þýtt hið gagnstæða (hér þarf enga sálgreiningu): Ég er hræddur við að sjá kommúnista hrifsa völdin (ekki að ástæðulausu, jafnvel fyrir kommúnista).

Allar þessar röksemdir eru samtímis sannar. Þetta er leyndardómur orðræðu sem er ekki lengur bara tvíræð, eins og stjórnmálaumræðan verður gjarnan, heldur afhjúpar hún og miðlar ómöguleika þess að taka ákveðna valdaafstöðu, ómöguleika afdráttarlausrar afstöðu innan orðræðunnar. Þessi röksemdafærsla er ekki einkenni neins flokks sérstaklega. Hún gengur í gegnum alla orðræðu, án þess að hún ætlist til þess.

Hver getur leyst úr þessari flækju? Það er að minnsta kosti hægt að höggva á Gordíonshnútinn. Þá gerist það sama og í Möbíusar-rununni, ef hún er klofin í tvennt myndast viðbótarspírall án þess að gagnvirkni yfirborðanna sé leyst (sbr. gagnverkandi hringrás tilgátanna). Hadesarheimar hermilistarinnar eru ekki lengur kvalastaðir, heldur staðir ísmeygilegs, illskeytts og óhöndlanlegs umsnúnings á merkingu – þar sem jafnvel þeir sem hlutu dóma sína í Burgos (í spánsku borgarastyrjöldinni – innsk. Þýð.) verða um leið gjöf Francos til vestræns lýðræðis, sem sér í dómunum tilefni til að endurvekja hinn útvatnaða húmanisma sinn. Með hneykslanlegum andmælum sínum varð það aftur til þess að styrkja Franco í viðleitni hans að sameina spánskan almenning gegn erlendri íhlutun.

Hvar er sannleikurinn í öllu þessu, þegar slíkir árekstrar hnýta saman hagsmuni án vitundar þátttakendanna í leiknum?

Hér er um að ræða samstillingu tiltekins kerfis og ýtrustu andhverfu þess, eins og um tvo enda í holum bjúgspegli væri að ræða, hina “illræmdu” sveigju hins pólitíska rýmis sem er segulmagnað í hringferli með gagnverkandi umskiptum á milli hægri og vinstri, íbjúg sveigja sem er eins og hinn illi skratti umskiptinganna; allt kerfið, óendanleiki fjármagnsins útbreiddur yfir eigin yfirborð, án nokkurra endimarka?

Gildir svo ekki hið sama um svið nautnar og kynhvatar? Um samstillingu nautnar og verðs, girndar og fjármagns? Samstilling nautnarinnar og lögmálsins, hinn endanlegi unaður og ummyndun lögmálsins (sem skýrir hversu hátt þeim er hampað í tilskipun dagsins). Einungis fjármagnið fær að njóta, sagði Lyotard áður en það hvarflaði að honum að við fyndum nautn í fjármagninu. Nautnin tekur á sig margar myndir hjá Deleuze: dularfullur umsnúningur sem breytir nautn -sem er “byltingarsinnuð í sjálfri sér og vill eins og óviljandi það sem hún vill” – í það að þrá eigin bælingu og að skapa sér sjúklega tortryggt fasistískt kerfi?

Illkynjaður umsnúningur sem veitir þessari byltingu nautnanna sömu grundvallar tvíræðnina og við sjáum í hinni byltingunni, þeirri sögulegu.

Öll viðmiðin flækja orðræðu sína inn í þvingandi Moebískt hringferli. Það er ekki langt síðan kynlíf og vinna voru taldar tvær ósættanlegar andstæður. Nú á dögum hafa báðar sameinast í sams konar eftirspurn. Áður fyrr sótti orðræða sagnfræðinnar mátt sinn í andstæðuna við náttúruna, orðræða nautnarinnar mátt sinn í andstöðu við valdið: á okkar dögum skiptast þessi svið á merkjum og leiksviðum.

Það tæki of langan tíma að fara í gegnum allan listann yfir gagnvirka neikvæðni, öll þessi fælingarsvið sem leitast við, eins og við sáum í dæminu af Watergate, að kveikja líf í dauðvona lögmál með sviðsettu uppgerðarhneyksli, draugi eða morði. Eins konar hormónalækning gegn  neikvæðni og kreppu. Málið snýst ætíð um að sanna raunveruleikann með ímyndunum. Að sanna sannleikann með hneyksli. Að sanna lögmálið með lögbroti. Að sanna vinnuna með verkfalli. Að sanna kerfið með kreppu og fjármagnið með byltingu. Og ef því er að skipta, að sanna þjóðfræðina með útrýmingu á viðfangi hennar (sbr. Tasaday-þjóðflokkinn). Og eins og fara gerir:

að sanna leikhúsið með and-leikhúsi,

að sanna listina með and-list,

að sanna uppeldisfræðina með and-uppeldisfræði,

að sanna geðlæknisfræðina með and-geðlæknisfræði o.s.frv. o.s.frv.

Allt umbreytist í andhverfu sína í því skyni að framlengjast í hreinni mynd. Sérhvert form valds, allar stofnanir þess, tala um sjálf sig í formi afneitunar. Með því að gera sér upp eigið andlát reyna þessar stofnanir að komast undan sínu raunverulega dauðastríði.

Valdið getur sviðsett eigið morð í því skyni að enduruppgötva ljómann af eigin tilvist og réttlætingu. Þannig var það með amerísku forsetana: Kennedyarnir voru myrtir vegna þess að þeir höfðu enn til að bera pólitíska vídd. Aðrir eftirkomendur þeirra – Johnson, Nixon, Ford – verðskulduðu ekki annað en sviðsett látaleikstilræði, eftirlíkingar á morðum. Þeir þurftu engu að síður á þessum ljóma tilbúinnar ógnar að halda, til þess að breiða yfir þá staðreynd að þeir voru ekki annað en leikbrúður valdsins.

Fyrr á tímum þurfti konungurinn (og líka guðinn) að deyja. Í því fólst styrkur hans. Nú á tímum gerir hann sitt smánarlega besta í því að látast deyja í því skyni að halda í blessun valdsins. En jafnvel það er horfið.

Eina lausn og fjarvistarsönnun alls valds er að sækja sér nýtt blóð í sinn eigin dauða, að endurnýja hringferlið með spegilmynd kreppunnar, neikvæðinnar og and-valdsins. Sama gildir  um sérhverja valdastofnun sem reynir að rjúfa vítahring síns fullkomna ábyrgðarleysis og ekki-tilvistar, vítahring eilífrar endurkomu sinnar og eilífs og síendurtekins dauða.

Herstjórnarlist raunveruleikans

Ómöguleiki þess að uppgötva aftur hið algilda svið raunveruleikans er nátengdur ómöguleika þess að sviðsetja blekkingu. Blekkingin er ekki lengur möguleg, vegna þess að raunveruleikinn er ekki lengur mögulegur. Hér stöndum við andspænis hinu pólitíska vandamáli skopstælingarinnar, ofurhermilistarinnar eða hinnar særandi eftirlíkingar.

Til dæmis:  það væri fróðlegt að vita, hvort tiltekið kúgunarkerfi myndi ekki bregðast harðara við uppgerðarandófi en raunverulegu andófi? Því raunverulegt andóf gerir ekki annað en að koma róti á hlutina, á meðan uppgerðarandóf raskar sjálfum forsendum raunveruleikalögmálsins. Að ganga á svig við lög og reglur eða fremja ofbeldi eru ekki jafn alvarleg brot, því þau varða eingöngu uppskiptingu raunveruleikans. Eftirlíkingin er langtum hættulegri, því hún gefur ávallt í skyn, á skjön við viðfang sitt, að sjálf lögin og reglan séu ef til vill ekki annað en eftirlíking.

Erfiðleikinn sem við stöndum frammi fyrir er í réttu hlutfalli við áhættuna sem við tökum.

Hvernig á að líkja eftir ofbeldisverki og sannreyna áhrif þess?

Setjið á svið þjófnað í stórmarkaði: hvernig á að sannfæra öryggisverðina um að um þykjustu-þjófnað hafi verið að ræða?

Hér getur ekki verið um neinn “hlutlægan” mun að ræða: það er sami verknaðurinn og sömu merkin að verki í báðum tilfellum. Í rauninni hallast verksummerkin í engu frekar að öðrum þættinum en hinum. En hvað lög og reglu varðar, þá eru þau alltaf á bandi raunveruleikans.

Farið og setjið á svið tilbúið mannrán. Gætið þess vandlega að vopn ykkar séu ekki skaðvænleg (annars gætuð þið átt á hættu að fremja ofbeldisverk). Krefjist lausnargjalds og komið því þannig fyrir að aðgerðin veki sem víðtækust viðbrögð. Reynið að fara eins nálægt “sannleikanum” og mögulegt er í þeim tilgangi að láta reyna á viðbrögð kerfisins við fullkominni eftirlíkingu. Þetta er dæmt til að mistakast: þessi vefur tilbúinna merkja mun óhjákvæmilega flækjast saman við raunveruleikann (lögreglumaður mun hleypa af skoti við fyrstu sýn; viðskiptavinur í bankanum fellur í öngvit eða deyr af hjartaáfalli; einhver greiðir ykkur lausnargjald í reiðufé.) Í stuttu máli munuð þið fyrirvaralaust vera stödd í raunveruleikanum miðjum, en eitt hlutverk hans er einmitt að innlima sérhverja tilraun til eftirlíkingar, að smætta allt niður í eins konar veruleika: þannig virkar einmitt hið ríkjandi kerfi, löngu áður en stofnanir þess og réttlæti komu til sögunnar.

Allur þungi þessa kerfis, sem einungis getur séð og skilið á forsendum einhvers konar raunveruleika –vegna þess að það virkar hvergi annars staðar –  allur þessi þungi verður ekki skilinn nema í ljósi ómöguleika þess að einangra þetta eftirlíkingarferli. Augljósri eftirlíkingu lögbrots verður annað hvort mætt með vægari refsingu (vegna þess að það hafði engar “afleiðingar” í för með sér) eða þá að fyrir hana verður refsað sem brot gegn opinberum starfsmönnum (t.d. ef verknaðurinn hefur leitt til þess að kalla varð út lögreglulið “að þarflausu”). Slíkum verknaði verður hins vegar aldrei mætt sem eftirlíkingu, því það er einmitt í því tilfelli sem ekki verður hægt að finna neina jafngildingu í raunveruleikanum og því enga refsingu. Valdið getur með engu móti mætt áskorun eftirlíkingarinnar.

Hvernig er hægt að refsa fyrir tilbúna eftirlíkingu á góðverki eða dyggð? Þó er hún ekki síður alvarleg en eftirlíking glæpsins.

Skopstælingin leggur að jöfnu löghlýðni og lögbrot, og það er alvarlegasti glæpurinn, því hann kippir stoðunum undan forsendum laganna. Ríkjandi kerfi stendur ráðþrota andspænis henni, því lagasetningin er annarrar gráðu líking á meðan eftirlíkingin er þriðju gráðu líkan, handan sannleika eða lygi, handan jafngildingar, handan þeirrar rökrænu aðgreiningar sem allt samfélagslegt vald og öll lagskipting samfélagsins hvíla á. Það er því hérna í trássi við allan raunveruleika, sem við eigum að leita hinnar samfélagslegu reglu.

Þarna liggur ástæða þess að samfélagsreglan veðjar alltaf á raunveruleikann. Þegar um óvissu er að ræða tekur hún alltaf þessa afstöðu (þess vegna vildu þeir frekar skilgreina eftirhermuna sem brjálæðing). Þetta verður hins vegar æ erfiðara, því það er nær ógjörningur að einangra eftirlíkingaferlið. Í krafti getuleysis þess raunveruleika sem umlykur okkur verður hið gagnstæða jafn satt (og þessi gagnkvæmni verður hluti af eftirlíkingakerfinu og valdi getuleysisins): það er ekki lengur hægt að einangra raunveruleikaferlið eða að sanna raunveruleikann.

Þannig verða allar gíslatökur, flugvélarrán og viðlíka atburðir um leið eins og eftirlíkingar eða uppgerðaraðgerðir, í þeim skilningi að þessir atburðir eru fyrirfram forritaðir í merkjakerfi og sviðsetningarritúöl fjölmiðlanna, forskrifaðir í myndgervingu sinni, framsetningu og mögulegum afleiðingum.

Í stuttu máli þá birtast þessir atburðir eins og merkjakerfi sem sniðið er sérstaklega að endurbirtingu þeirra sem merki, og alls ekki í ljósi “raunverulegra” markmiða þeirra. Þetta verður þó alls ekki til þess að draga broddinn úr þeim. Þvert á móti verða atburðirnir eins og yfirraunverulegir atburðir án inntaks eða markmiðs, fullkomlega óleysanlegt vandamál fyrir þá samfélagsreglu sem einungis kann að virka innan ramma raunveruleikans, innan ramma skilgreindra meðala og markmiða.

Sem yfirraunverulegir atburðir eru þeir smættaðir óendanlega hver gagnvart öðrum (sama mætti reyndar segja um svokallaða sögulega atburði: verkföll, mótmælaaðgerðir, efnahagskreppur o.s.frv.) Skilgreiningarreglan getur aðeins haft vald yfir skilgreiningaratriðum. Vald sem byggir á viðmiðum getur einungis ráðið við viðmið, en stendur ráðþrota andspænis endalausri endurkomu eftirlíkinga, sem eru eins og gjörningaþoka sem ekki lýtur lengur þyngdarlögmáli raunveruleikans – þannig leysist valdið upp í frumeiningar sínar í þessu rými, og verður eftirlíking valds (úr tengslum við markmið sín og tilgang og fullkomlega helgað virkni valdsins og fjölföldun þess).

Einu vopn valdsins og eina herstjórnarlist þess andspænis þessari upplausn, er að endurskapa raunveruleika og raunveruleikaviðmið í sífellu og alls staðar. Þannig getur það sannfært okkur um raunveruleika samfélagsreglunnar, um þyngdarlögmál efnahagslífsins og skýr markmið framleiðslunnar. Í þessum tilgangi grípur það helst til orðræðu kreppunnar, en líka – hvers vegna ekki? – orðræðu væntinganna og óskhyggjunnar. Slagorðið “Gerið drauma ykkar að veruleika!” má skilja sem hið endanlega slagorð valdsins, því í heimi án viðmiða verður ruglingur á raunveruleikalögmálinu og nautnalögmálinu skaðlausari en bráðsmitandi yfirraunveruleiki. Reglurnar umlykja okkur áfram og valdið hefur alltaf rétt fyrir sér.

Yfirraunveruleiki og eftirlíking eru banabiti sérhvers ásetnings og sérhverrar viðmiðunarreglu. Þau endursenda valdinu þetta fælingartæki, sem það hefur sjálft stuðst við svo lengi.

FÆLINGARMÁTTUR FJÁRMAGNSINS

Þegar öllu er á botninn hvolft, þá var það fjármagnið sem varð fyrst til þess í sögunni að þurrka út öll viðmið, öll mannleg markmið, það var fjármagnið sem gróf undan sérhverri hugsjónalegri aðgreiningu milli hins sanna og falska, hins góða og illa, í þeim tilgangi að koma á þessu róttæka skiptalögmáli jafngildingarinnar, járnlögum fjármagnsvaldsins. Það var fjármagnið sem fyrst nýtti sér fælinguna, sértekninguna og það að slíta hlutina úr samhengi sínu og uppruna. Og ef það var fjármagnið sem ól á raunveruleikanum og raunveruleikalögmálinu, þá var það einnig fyrst til að afnema það með því að afskrifa sérhvert notagildi, sérhverja raunverulega jafngildingu, sérhverja framleiðslu og verðmæti með sömu óraunveruleikatilfinningu og við þekkjum úr fjárhættuspilunum og alvaldi stjórnsýslunnar.

Nú hefur þessi sama röksemdafærsla snúist tvíefld gegn fjármagninu. Og þegar það langar til að snúast gegn þessum glötunarspíral með því að senda frá sér síðasta blikið af raunveruleika til þess að treysta síðasta geislablik valdsins, þá getur það ekki gert annað en að margfalda merkin og hraða eftirlíkingaleiknum.

Svo lengi sem valdið fann sér ógnað af raunveruleikanum brá það fyrir sig fælingu og eftirlíkingu og leysti þannig upp sérhverja mótsögn með því að framleiða jafngildandi merki.

Nú á dögum, þegar það finnur sér ógnað af  eftirlíkingum og hermilíkönum (hættan á því að gufa upp í leik merkjanna) bregður það fyrir sig raunveruleika og kreppu, það spilar út endurframleiddum félagslegum, efnahagslegum  og pólitískum trompspilum. Hér er um líf eða dauða að tefla fyrir valdið. En það er þegar orðið of seint.

Þetta skýrir helstu taugaveiklunareinkennin í okkar samtíma: stöðuga og margeflda framleiðslu og endurframleiðslu á raunveruleika.

Hin framleiðslan, sem snýst öll um að framleiða vörur og nytjahluti, sú framleiðsla sem tilheyrir gullöld hinnar pólitísku hagfræði, skiptir ekki lengur máli og hefur ekki gert það alllengi. Samfélagið reynir nú með öllum ráðum að framleiða og offramleiða endurreisn þess raunveruleika sem stöðugt smýgur því úr greipum. Það er ástæða þess að efnisleg framleiðsla okkar samtíma tilheyrir hinu ofurraunsæja. Það viðheldur öllum einkennum, og allri röksemdafærslu hefðbundinnar framleiðslu en er þó ekki nema veikur endurómur hennar (ofurraunsæissinnarnir eru þannig helteknir af sem sannverðugastri líkingu við raunveruleika sem er gjörsneyddur allri merkingu og öllum þokka, allri dýpt og allri orku sviðsetningarinnar).

Þannig sjáum við ofurraunsæi eftirlíkingarinnar birtast hvarvetna í líkingu veruleikans við sig sjálfan.

Á síðustu árum hefur valdið með sama hætti  ekki framleitt annað en merki síns eigin líkans. Um leið sjáum við aðra birtingarmynd valdsins: eftirspurn samfélagsins eftir merkjum valdsins, heilagt bandalag sem sækir líf í eigin tortímingu. Allur heimurinn tilheyrir þessu bandalagi meira og minna sameinaður í skelfingunni vegna yfirvofandi tortímingu stjórnmálanna. En valdaleikurinn verður að lokum ekki annað en gagnrýnin þráhyggja um valdið, – þráhyggja um dauða þess, þráhyggja um lífsnauðsynlega varðveislu þess, sem magnast eftir því sem það gufar meira upp.

Þegar valdið hefur algjörlega horfið verðum við rökrétt séð fullkomlega á valdi þess – vofa sem hangir þegar yfir okkur alls staðar og birtist bæði í léttinum yfir að hafa losnað við það (enginn vill það lengur, allir vísa því til annarra) og í eftirsjá og söknuði. Geðdepurð valdalausra samfélaga: það er hún sem hefur einmitt fætt af sér fasismann, þennan overdose af sterkum viðmiðum í samfélagi sem getur ekki hætt að syrgja liðna tíð…..

Við erum öll á sama báti: ekkert samfélag samtímans getur lært að vinna úr söknuði sínum eftir raunveruleika, eftir valdi, eftir hinu félagslega í sjálfu sér, sem er falið í þessu hruni. Því reynum við að komast undan með tilbúinni endurgerð veruleikans. Það liggur beint við að þetta mun enda í sósíalisma. Fyrir tilverknað óvæntrar atburðarásar og vegna kaldhæðni, sem tilheyrir ekki lengur sögunni, mun sósíalisminn rísa upp úr dauða hins félagslega – rétt eins og dauði Guðs fæðir af sér trúarbrögðin.

Öfugsnúin atburðarás, sem ekki verður skilin með neinum skynsemisrökum.

Rétt eins og sú staðreynd að valdið sé ekki lengur til staðar, nema til þess eins að fela þá staðreynd að það sé ekki lengur til. Þetta er hermilíkan sem getur haldið áfram út í það óendanlega, því ólíkt hinu “sanna” valdi sem er, eða öllu heldur var, byggt á herkænsku og styrkleikahlutföllum, þá stendur ekkert á bak við þetta vald annað en opinber eftirspurn, og það helgast því af lögmálum framboðs og eftirspurnar, en ekki af ofbeldi og dauða. Fullkomlega sótthreinsað af hinu pólitíska eðli sínu byggir það rétt eins og hver önnur markaðsvara á framleiðslu og neyslu fjöldans. Neisti þess er horfinn, það eina sem eftir stendur er skáldsagan um pólitíska veröld sem var.

Hið sama gildir um vinnuna. Neisti framleiðslunnar, ofbeldið sem liggur að baki hennar, er horfið. Allir framleiða og framleiðslan vex og vex, en vinnan hefur breyst yfir í eitthvað annað: þörf (eins og Karl Marx hafði séð fyrir, en þó ekki fullkomlega í sömu veru), eitthvað sem lýtur samfélagslegri eftirspurn, rétt eins og frítíminn, sem er jafngilding vinnunnar í lífshlaupi okkar. Eftirspurn sem er í réttu hlutfalli við glötun þeirrar fórnar sem í vinnunni var fólgin.

Sömu umskiptin hafa orðið á gæfunni og valdinu: leiksvið  vinnunnar er tilkomið til þess að fela þá staðreynd að hin raunverulega vinna og hin raunverulega framleiðsla eru ekki lengur til staðar. Sama gildir reyndar um veruleika verkfallsins ef því er að skipta: það felur ekki lengur í sér að lögð sé niður vinna, heldur er það hinn póllinn í ritúali vinnuársins. Það er rétt eins og að með því að lýsa yfir verkfalli hefðu allir tekið vinnustað og stöðu sína með valdi og hafið framleiðslu, rétt eins og í sjálfskipaðri hersetu samkvæmt sömu reglum og áður giltu, um leið og þeir lýsa yfir ótímabundinni vinnustöðvun.

Þetta er enginn draumsýn úr vísindaskáldsögu: hvarvetna sjáum við tvöföldun vinnuferlisins og tvöföldun verkfallsferlisins. Verkföllin eru innifalin í hlutunum eins og minnistap og í framleiðsluferlinu eins og kreppan. Það er því ekki lengur um að ræða vinnu eða verkföll, heldur eru hvort tveggja að verki í senn, það er að segja eitthvað alveg nýtt: galdur vinnunnar, skynvilla, sviðsleikur, svo ekki sé sagt æsileikur (melodrama), samfélagsleg sviðsetning á hinu auða samfélagsleiksviði.

Hér er ekki lengur um hugmyndafræði vinnunnar að ræða – hina hefðbundnu siðfræði sem bregður hulu yfir hið “raunverulega” vinnuferli og hið “hlutlæga” arðránsferli – heldur er hér um leikmynd vinnunnar að ræða. Á sama hátt er ekki um að ræða hugmyndafræði valdsins, heldur leiksvið valdsins. Hugmyndafræðin vísar eingöngu til útúrsnúnings úr veruleikanum í gegnum merkin, hermilistin samsvarar skammhlaupi veruleikans og tvöföldun hans í gegnum merkin.

Það hefur alltaf verið markmið hugmyndafræðilegrar greiningar að endurreisa hið hlutlæga ferli; það er alltaf falskt vandamál að vilja endurbæta hinn undirliggjandi veruleika hermilíkansins.

Þetta skýrir endanlega hvers vegna valdið er að öllu samanlögðu svo samstíga allri hugmyndafræðilegri orðræðu og allri rökræðu um hugmyndafræði, því það eru allt saman orðræður um sannleika – alltaf af hinu góða og því til þess fallnar að verjast hinu banvæna höggi eftirlíkingarinna, einnig og ekki síst ef þær eru byltingarkenndar.

…………….. (Hér vantar lokakaflana: Endalok Panopticons og  Sporbrautirnar og kjarnorkan…..

%d bloggers like this: