Grein um málaralist Georgs Guðna í tilefni sýningar í Hallgrímskirkju 2011, skömmu eftir sviplegt fráfall hans
Þessi draumkennda sýn inn í einhvern óskilgreindan fjarska þar sem himinn og jörð mætast og renna saman í eitt í mannlausri auðn, hvert leiðir hún okkur?
Hún leiðir okkur á vit vökudraumanna, þeirra vökudrauma sem tengjast hinu frumlæga og upprunalega, vökudrauma bernskunnar áður en heimsmyndin splundraðist og draumunum var úthýst úr tilveru okkar í nafni sundurgreinandi rökhyggju og fullvissu þess að jörðin væri bara jörð og himininn bara himinn og að vera mannsins ætti enga hlutdeild í hvoru tveggja, hvað þá að við gætum upplifað okkur sem eitt með alheiminum.
Þessi draumkennda sýn talar til okkar í þögn sinni, því orðin ná ekki að skilgreina hana. Að því leyti hafa myndir Georgs Guðna einkenni táknmyndar sem sameinar andstæður og hlaupast þannig undan sérhverri tilraun orðanna til að skilgreina merkinguna. Þessar andstæður birtast okkur í yfirþyrmandi nærveru málarans í verkinu og óendanlegri fjarlægð sjóndeildarhringsins sem leysist upp og verður eitt með himninum handan alls snertanleika. Táknmyndin er ekki til staðar eins og hlutur sem hægt er að túlka út frá skilgreindu merkingarmiði, hún er atburður sem býður sig fram til upplifunar um leið og hún kallar á þögn okkar. Táknmyndin gerist innra með okkur og er hvergi annars staðar. Georg Guðni lýsir þessu fyrir okkur í tilvitnun í dagbókarfærslu sinni frá 8. janúar 1989. Þar segir hann:
Ég er úti, stend eða sit á steini.
Ég horfi í kringum mig á sjóndeildarhringinn, víðáttuna, fjöllin.
Sum standa nálægt önnur fjær.
Ósjálfrátt fer hugurinn (sálin) að reika, kannski svífa um.
Ég fer út í fjarlægðina út í eilífðina þar sem fjöllin hafa órjúfandi kyrrð,
þar sem þau eru jafnvel hætt að vera fjöll, þau eru loftkennd.
Ég fer inn í þau í gegnum þau.
Það sem býr í fjallinu er líka fyrir utan það
í kyrrðinni líka ógn og drungi.
Í loftinu rúmast allar hugsanir heimsins.
Þessi trúverðuga lýsing á upplifun málarans, þegar hann var aðeins 27 ára gamall, fjallar ekki um hina tilbúnu landslagsmynd, sem ljósmyndirnar og landafræðin hafa kennt okkur að nota til að skilgreina náttúruna og það sem við sjáum hugsunarlaust. Hún fjallar ekki um lýsingu landslagsins, heldur þann sýnileika sem verður til í gegnum veru mannsins í náttúrunni og í gegnum það gagnvirka samband, sem þar á sér stað, hún fjallar um það hvernig náttúran og vera mannsins í henni verða óaðgreinanleg þegar maðurinn finnur sig eitt með því sem hann sér um leið og hann skynjar óravíddir þess. Án veru mannsins, hreyfingar augnanna og hreyfingar líkama okkar verður ekkert rými, engin náttúra. Málarinn upplifir rýmið með hreyfanlegum líkama sínum en gerir sér um leið grein fyrir vídd þess og fjarveru. Veran í náttúrunni fær okkur til að upplifa nærveru og handanveru í senn, sterkari nærveru en nokkur ljósmynd getur gefið, en jafnframt meiri og áþreifanlegri fjarveru en nokkur ljósmynd eða landlýsing fær miðlað. Þetta er þversögn sem franski heimspekingurinn Maurice Merleau-Ponty hefur meðal annars orðað svona: „Málarinn, hver sem hann er, framkvæmir töfrakenningu sjónskynsins á meðan hann er að mála. Og þar sem hann hættir aldrei að skipa hlutunum í samræmi við skyggnigáfu sína, þá verður hann að játast því … að annað hvort streyma hlutirnir í gegnum hann, eða þá að andinn fer úr augum hans og spássérar meðal hlutanna.“ [1]
Landslagsmálverkið hefur ekki átt upp á pallborðið í myndlist þeirrar kynslóðar sem Georg Guðni tilheyrir, en hann áttaði sig fljótt á því að spurningin snérist ekki um landslag eða ekki landslag í hefðbundnum skilningi, heldur um sjálfan kjarna málaralistarinnar, þá spurningu hvernig nýr sýnileiki verður til og hvernig hann tengist ytra umhverfi okkar annars vegar og líkamlegri veru okkar í rýminu hins vegar. Rétt eins og Merleau-Ponty veltir fyrir sér hvaða spurningar það voru sem Cézanne lagði fyrir St. Victoire fjall, sem hann málaði mörg hundruð sinnum, þá getum við velt því fyrir okkur hvaða spurningar það voru sem fjallið og sjóndeildarhringurinn vöktu hjá Georg Guðna, þessi viðfangsefni sem öll hans myndlist snýst um. Merleau-Ponty segir að spurningar Cézanne hafi snúist um eitt: hvaðan koma þessi meðöl sýnileikans sem þrengja sér inn í líkama okkar og vekja upp svo stranga og uppáþrengjandi nærveru um leið og við vitum að fjallið og sjóndeildarhringurinn er nokkuð sem við fáum aldrei höndlað bókstaflega í allri sinni ómælisvídd. Það er styrkleiki Georgs Guðna sem málara að hann vék sér aldrei undan að spyrja þessarar spurningar, og því ágengari sem spurningar hans urðu, því víðfeðmari og dýpri urðu myndir hans og því stærri varð ráðgátan. Georg Guðni skildi mæta vel að spurningin snérist ekki um landslagið heldur um sjálfan kjarna málaralistarinnar og verunnar í senn. Ofangreind dagbókarfærsla frá 1989 kallast á við orð Paul Klee, sem franski málarinn André Merchant hafði eftir honum: „Oft þegar ég hef verið staddur í skógi, hef ég fengið þá tilfinningu að það væri ekki ég sem horfði á skóginn. Suma dagana hef ég fengið þá tilfinningu að það væru trén sem horfðu á mig, sem töluðu til mín… Ég var þar og hlustaði… Ég held að málarinn verði að láta alheiminn streyma í gegnum sig í stað þess að ætla sér að sökkva sér í gegnum hann… Ég bíð þess að verða vitsmunalega kaffærður innvortis, grafinn. Kannski mála ég til þess að fæðast.“
Sýnileikinn verður ekki til í augum okkar og hann verður heldur ekki til í fjallinu eða sjóndeildarhringnum, hann verður til í þeirri víxlverkun sem blossar upp þegar rýmið lifnar og tekur á sig mynd með hreyfingu augnanna og líkamans. Ráðgátan er ekki falin í landslaginu og heldur ekki í þeirri hugsun okkar er kynni að draga upp fyrir augliti okkar fyrirfram hugsaða mynd af landinu og himninum, heldur í þeim sýnileika sem kviknar á milli hins séða og þess sem sér, sýnileika sem er í senn eins og staðfesting á veru okkar í heiminum sem órofa hluti hans og staðfesting á hverfulleika hans um leið. Sýnileikinn verður til úti á meðal hlutanna, í fjallinu og sjóndeildarhringnum um leið og hann verður til í líkama okkar og tekur breytingu við sérhverja hreyfingu hans. Þetta er það leyndardómsfulla ferli sem er endurtekið í því líkamlega vinnsluferli sem falið er í málverkinu og Georg Guðni líkir við sögu jarðlaganna og sögu tímans, þar sem pensilstrokurnar leggja hvert lagið á fætur öðru af hálfgagnsæjum lit yfir léreftið eins og til að fella sögu tímans og sögu jarðlaganna inn í heildina og láta hana fanga allan heiminn í eina mynd. „Það þarf að ná himninum niður á jörðina, ofan í dalina og fylla hverja glufu með himni“ segir hann í einni dagbókarfærslu sinni. Þessi fylling er um leið tómið á milli hins séða og þess sem sér, þetta bil á milli verunnar og ekki verunnar sem öll tilvera mannsins snýst um og tekur á sig þessar draumkenndu myndir málarans.
Myndir Georgs Guðna eru draumkenndar vegna þess að þær þurrka út hefðbundin flokkunarmörk okkar á milli þeirra þátta sem í þeim búa. Þær sýna það sem skilgreiningaráráttan segir ósýnilegt og ekki til staðar. Himininn fyllir hverja smugu, tengir saman himinn og jörð þannig að við hættum að greina þar á milli. Um leið hverfa mörkin á milli sjáandans og þess sem er séð og við finnum jafnframt hvernig fjarskinn í myndinni hverfur djúpt inn í vitund okkar sjálfra um leið og hann leiðir okkur út í óendanleikann og þá eilífð sem er langt fyrir utan allar mælanlegar vegalengdir. Við sjáum yfirborð innrýmisins og innrými úthverfunnar í einni og sömu sýninni.
Sérstaða Georgs Guðna í íslenskri myndlist er sú að honum tókst með trúverðugum hætti að kenna okkur að dreyma á ný, eða svo notuð séu orð franska heimspekingsins Gastons Bachelard , að kenna okkur að „yfirstíga mörkin og ganga til baka á móti straumnum, að endurheimta það mikla lón hinna kyrru vatna þar sem tíminn tekur á sig náðir og hættir að streyma. Og þetta stöðuvatn býr innra með okkur, eins og frumlægt uppistöðulón, eins og staðurinn þar sem kyrrstæð frumbernskan hefur framlengt dvöl sína.“[2]
Georg Guðni: Án titils, 1995
[1] Maurice Merleau-Ponty, LŒil et l‘Espirit, 1964, hér úr ítalskri þýðingu Önnu Sordini, Milano 1989, bls. 24
[2] Gaston Bachelard, La poétique de la rêverie, 1960, hér úr ítalskri þýðingu Giovanna Silvestri Stevan 1993, bls. 121
Forsíðumynd: Georg Guðni; Án titils, 2003