INTIFADA – UPPREISN Í LANDINU HELGA – III.

Dagur í Gaza

Við tókum leigubíl frá Jerúsalem til Gaza. Það var rúmlega tveggja klukkustunda akstur í gegnum blómlega akra Ísraels þar sem áveitur tryggðu hvarvetna hámarksuppskeru. Þegar við komum að mörkum hernámssvæðisins í Gaza, sem Ísraelsmenn lögðu undir sig 1967, vorum við stöðvaðir af ísraelskum hermönnum og leigubílstjórinn fékk ekki að fara lengra. Hann var arabi. Hervörðurinn hristi höfuðið þegar við sögðumst samt vilja fara inn. „Þið hafið ekkert hingað að gera“, sagði hann og skoðaði skilríki okkar. En hleypti okkur svo í gegn, þegar við höfðum fundið annan bíl sem hafði leyfi til að fara inn. Og óskaði okkur ánægjulegrar dvalar um leið og hann minnti okkur á að Gaza-svæðinu væri alltaf lokað frá kl. 22  til 03 að morgni.

Gaza-svæðið er eitt þéttbýlasta svæði jarðarinnar. Það er um 50 km á lengd og 5 km á breidd. Samkvæmt heimildum UNWRA bjuggu 445.397 palestínskir flóttamenn á þessu svæði í júní 1987. Um helmingur þessara flóttamanna býr í átta flóttamannabúðum, hinn helmingurinn býr utan búðanna. Palestínskir flóttamenn eru yfir 2/3 hlutar íbúa svæðisins sem eru yfir 600.000. Svæðið var undir egypskri lögsögu frá 1948, þar til Ísrael lagði svæðið undir sig í sex daga stríðinu 1967. Flóttamannabúðirnar eru hins vegar frá 1948, þegar Ísraelsríki var stofnað, en þá voru 200.000 Palestínumenn hraktir yfir á Gaza-svæðið. Í sex daga stríðinu gerðust um 38.000 flóttamenn á Gaza flóttamenn í annað sinn, og flúðu þá yfir til Jórdaníu undan hörmungum stríðsins. Nú býr um fimmtungur allra skráðra palestínskra flóttamanna á Gaza-svæðinu.

Úr öskunni í eldinn

Þegar komið er inn í borgina Gaza er það fyrsta sem maður tekur eftir að sorphirða virðist engin í borginni. Sorpið liggur og rotnar á víð og dreif á götunum í steikjandi sólarhitanum, sem fer upp í 40 gráður eða meira um þetta leyti. Og ég hafði ekki dvalið nema um 20 mínútur í borginni þegar ég sá herjeppana koma með sírenuvæli eftir aðalgötunni og táragasský leggjast yfir göturnar í fjarska. Ef hægt er að segja að það ríki umsátursástand á Vesturbakkanum, þá ríkir styrjaldarástand í Gaza. „Hér getur allt gerst hvenær sem er og ekkert kemur lengur á óvart“, sagði blaðamaður sem starfar við fréttastofu í borginni. Og okkur varð litið út um gluggann á skrifstofu hans og sáum herjeppa hverfa á brott með hvítklæddan fanga.

Ísraelskur herjeppi á götunni í Gaza. Myndin er tekin úr skrifstofuglugga blaðamannanna. Ekki er leyfilegt að ljósmynda ísraelska hermenn í Gaza. Ljósm. olg

Það voru tveir ungir menn sem unnu á þessari fréttastofu. Annar þeirra, sá eldri og reyndari, var nýsloppinn úr fangelsi. Hann bjó á skrifstofunni og eina atvinnutækið þeirra beggja var sími. Þeir söfnuðu upplýsingum um það sem var að gerast á svæðinu og komu þeim áleiðis. Og þeir báðu fram aðstoð sína við okkur eftir getu. Ég bar fram óskir um að sjá sjúkrahús, flóttamannabúðir, og hitta einhvern fulltrúa Palestínumanna á svæðinu að máli.

Í snarhasti var fundinn fyrir okkur bíll og bílstjóri. Meiri vandkvæðum var bundið að finna hvaða flóttamannabúðir voru opnar, því útgöngubann ríkti í flestum þeirra. Það þýðir í raun að fólkið innan búðanna er bjargarlaust og sambandslaust við umheiminn. Vænlegast þótti að fara að búðunum við ströndina, sem ganga undir nafninu Beach-camp (Strandbúðirnar). En þegar á hólminn var komið þorði bílstjórinn ekki að fara með okkur inn í búðirnar og sagði þær fullar af hermönnum og að þar mætti búast við átökum á hverri stundu.

Heimsókn á sjúkrahús

Við fórum því á Shéfra-sjúkrahúsið, sem er lítið sjúkrahús í Gaza. Enginn læknir var til viðtals, en hjúkrunarmenn leiddu mig að fjórum rúmum, þar sem lágu ungir menn um eða undir tvítugu sem höfðu verið lamdir af ísraelsku hermönnunum.

Sjúklingur nr. 1. Ljósm. olg

Sjúklingur nr 1:

„Það voru mótmæli í Jabalia-búðunum, þar sem ég bý, og þeir komu inn í hús mitt, drógu mig út og hófu að lemja mig. Þetta voru óbreyttir hermenn og þeir lömdu mig og fóru svo með mig í nálægar herbúðir. Þar sáu þeir að ég var orðinn illa á mig kominn, svo að þeir slepptu mér og ég fór á sjúkrahúsið. Þar gekkst ég undir uppskurð vegna alvarlegs brots á handlegg. Um það bil mánuði síðar, þegar ég var enn með gifsið á handleggnum, komu þeir aftur í búðirnar. Þar voru strákar sem köstuðu grjóti í hermennina og þeir fóru um allt að leita þeirra. Þeir komu líka í mitt hús, en fundu engan þeirra, aðeins mig þar sem ég lá í rúminu með gifsið á handleggnum. Þeir drógu mig út og hófu að lemja mig á gifsið og þeir brutu handlegg minn á ný. Þeir fóru aftur með mig í herbúðirnar, en þegar þeir sáu að ég hafði misst meðvitund og gat ekki farið í fangelsi var mér sleppt, og vinir mínir fóru svo með mig hingað á sjúkrahúsið. Ég er með tvö brot á handleggnum núna. Þetta gerðist með mig.“

Sjúklingur nr. 2. Ljósm. olg

Sjúklingur nr. 2: „Ég var á gangi úti á götu þegar hermenn komu til mín og sögðu mér að fjarlægja vegartálma sem einhver hafði lagt á götuna. Ég neitaði því og þá tóku þeir mig, reyrðu saman á mér hendurnar og festu reipið síðan aftan í herjeppann. Síðan var ég dreginn eftir götunni a.m.k. 30 metra eða þangað til ég hafði nær misst meðvitund. Þeir skildu mig þannig eftir á götunni alblóðugan og sáran um allan líkamann.“

Sjúklingur nr. 3. Ljósm. olg

Sjúklingur nr. 3: „Ég var úti á götu og sá hvar krakkar voru að kasta grjóti að hermönnum. Ég lagði á flótta þegar ég sá hvað var í vændum. Þeir eltu mig á stórum herbíl, drógu mig inn í bílinn og börðu mig þar og spörkuðu í mig. Ég hlaut nefbrot, augnskaða, áverka á hálsi þannig að ég get varla hreyft höfuðið og innvortis blæðingar og áverka, þannig að ég á mjög erfitt með að hreyfa mig. Þegar þeir höfðu misþyrmt mér skildu þeir mig eftir á götunni.“

Sjúklingur nr. 4 (ca. 16-17 ára): „Ég var einn á gangi þegar þeir stoppuðu mig og spurðu um skil[1]ríki. Fyrst héldu þeir mér í 15 mínútur eða svo. Þá komu 4 her[1]menn og börðu mig án tilefnis. Þeir lögðu mig á götuna og spörkuðu í andlitið á mér með hermannastígvélunum. Svo fluttu þeir mig á sjúkrahúsið. Ég er með brotið nef og marga áverka á höfði.“

Ég þurfti ekki fleiri vitni, en hjúkrunarmennirnir á þessu litla sjúkrahúsi sögðu mér að þeir hefðu fengið 400 tilfelli þessu lík  síðastliðna 6 mánuði. Og þetta var aðeins lítið sjúkrahús og eitt af mörgum í Gaza. Aðbúnaður þar líktist reyndar ekki sjúkrahúsi, og hreinlætisaðstaða var þar verri en engin, því salernin minntu meira á svínastíu en mannabústað.

Gaza Centre for Right and Law

Við fórum á stofnun sem heitir Gaza Centre for Right and Law og hittum þar fyrir dr. Abu Jaffar, lögfræðing, blaðamann og skáld og fyrrverandi starfsmann UNWRA. Þetta er menntamaður á sjötugsaldri sem gaf af sér mikinn þokka og talaði af fullkominni yfirvegun og yfirlætisleysi þess sem býr yfir mikilli reynslu og visku. Hann tjáir okkur að stofnun þessi hafi verið mynduð af nokkrum lögfræðingum frá Gaza-svæðinu árið 1985. Stofnunin hafi sett sér að vinna að því að lög og mannréttindi væru virt á svæðinu í samræmi við alþjóðleg mannréttindaákvæði. Stofnunin hefur samband og samvinnu við alþjóðasamtök eins og Amnesty International, Alþjóðasamtök lögmanna í Genf og Christian Aid. Meginstarfið hefur hingað til falist í því að safna upplýsingum, gera rannsóknir og gefa út skýrslur og miðla þekkingu og rannsóknum til útlanda. Auk þess veitir stofnunin einstaklingum lögfræðiaðstoð endurgjaldslaust. Annar mikilvægur þáttur í starfseminni er einnig að koma upp lögfræðibókasafni í Gaza, en slíkt er ekki fyrir hendi enn.

Intifadan, uppreisn unga fólksins í Palestínu 1987, var framkvæmd með heimatilbúnum vopnum. Hér sýnir ungur drengur ljósmyndara heimatilbúið vopn sitt. Ljósm. olg

Dr. Abu Jaffar:

„Intifadan eða uppreisnin hófst hér á Gaza-svæðinu þann 9. desember 1987. Hvað felst í henni? Jú, íbúar svæðisins eru að láta í ljós vilja sinn. Þeir sætta sig ekki lengur við ríkjandi ástand. Þeir vilja að almenn mannréttindi séu virt. Þeir vilja sinn sjálfsákvörðunarrétt, þeir krefjast réttar til ríkisfangs, til þess að mynda eigið ríki. Þessi uppreisn kom innan frá, henni er ekki stýrt að utan. Og hvernig er þessum kröfum svarað? Þeim er svarað með táragasi, gúmmíkúlum og föstum skotvopnum. Þeim er svarað með fjöldarefsingum eins og útgöngubanni á heilar flóttamannabúðir eða jafnvel allt svæðið. Þeim er svarað með húsrannsóknum. Hús og heimili eru lögð í rúst með jarðýtum. Og þeir sem eru uppvísir að því að tala við blaðamenn eru kallaðir fyrir og fangelsaðir.

Frá 9. des. 1987 til 11. júní sl. höfum við heimildir fyrir því að 520 einstaklingum hafi verið misþyrmt með barsmíðum hér á Gaza-svæðinu. Á sama tíma hafa 99 hlotið sár af gúmmíkúlum og 469 hafa hlotið sár af föstum skotum. 65 hafa látist af skotsárum, 20 hafa látist af völdum táragass. Síðastliðna 3 mánuði höfum við heimildir um 33 konur sem misstu fóstur af völdum táragass og 3 konur sem misstu fóstur vegna barsmíða. Á tímabilinu frá 9. des. sl. og út janúar voru 30 heimili lögð í rúst með jarðýtum í einum flóttamannabúðunum og þann 5. febrúar sl. kl. 17:00 var 22 einstaklingum á aldrinum 12 – 70 ára misþyrmt með barsmíðum í einum búðunum.

Þetta eru svörin sem þetta fólk hefur fengið við kröfum sínum um grundvallaratriði allra mannréttinda eins og eigið vegabréf og eigin þjóðfána. Palestínumenn hafa verið neyddir til að nota þær baráttuaðferðir sem þeir vildu síst nota. Því Palestínumenn eru friðelskandi þjóð og saga þeirra sannar það. Þegar Palestína var undir yfirráðum Tyrkja greiddu þeir sérstakan skatt til þess að komast hjá því að þurfa að senda syni sína í herinn. Þeir hafa alltaf tekið vel á móti gestum, og þeir tóku einnig vel á móti gyðingum á sínum tíma. En gyðingar hafa misnotað gestrisni þeirra með því að flæma þá burt af landi sínu og svipta þá eignum sínum og sjálfsvirðingu.“

-Hvaða framtíðarlausn sérð þú fyrir þér á þessari deilu? –

,,Ég er skáld, og framtíðarsýn mín mótast af því. Þótt framtíðin kunni að virðast svört, þá er ég bjartsýnismaður. Menn geta beitt ofurefli í skjóli vopna, en þegar til lengdar lætur geta menn aldrei réttlætt nærveru sína með vopnavaldi. Við sjáum það af sögunni: Frakkar héldu Alsír í skjóli vopna en urðu um síðir að hörfa. Indverjar lutu bresku yfirvaldi í 300 ár en jafnvel breska heimsveldið varð að lokum að leggja niður vopnin. Dæmin eru fjölmörg. Mér verður oft hugsað til þeirra orða Sókratesar, að það sé betra hlutskipti að líða misrétti en að beita því gagnvart öðrum. Og ef menn hafa liðið misrétti, eins og gyðingar hafa gert, hvernig geta þeir þá leyft sér að beita því gegn öðrum?

Ég er af menntafólki kominn. Faðir minn var kennari í heimspeki og sálarfræði. Mér er minnisstætt það sem hann sagði við mig þegar ég var ungur drengur. Ég hafði þá fengið mína fyrstu fræðslu í trúarbrögðum múslima, og var að myndast við að gera bæn mína samkvæmt kenningum kóransins í fyrsta skipti. Þegar ég hafði gert bæn mína kallaði faðir minn mig til sín og sagði: Ég ætla ekki að skipta mér af þínum trúariðkunum, því trú sína velur maður sjálfur. En eitt langar mig til að biðja þig um: áður en þú ferð með bænir þínar vil ég að þú segir við sjálfan þig: „ég óttast engan og ég elska alla“. Þetta gerði ég, og löngu síðar skildist mér að þarna hafði faðir minn kennt mér kjarna allra trúarbragða, sem er kærleikur. Og þessi afstaða föður míns hefur mótað líf mitt. Þess vegna óttast ég ekki um framtíðina. Hins vegar getum við spurt okkur hvað réttlæti það að skapa alla þessa óþörfu þjáningu? Því slæmur málstaður getur ekki sigrað.“

Meðal sjómanna

Við kvöddum þennan mæta mann og héldum á fréttastofuna, þar sem starfsbróðir minn var að senda fréttaskeyti í gegnum síma. Þegar hann frétti að við hefðum ekki komist í flóttamannabúðirnar á ströndinni fór hann nokkrum vel völdum orðum um hugleysi bílstjórans okkar, og sagðist fara með okkur sjálfur. Við fengum annan bíl og bílstjóra af götunni og ókum inn að búðunum. Fylgdarmaður okkar var þekktur í búðunum, og þegar börnin ætluðu að þyrpast í kringum okkur og gera hávaða eins og gerst hafði í Ramallah, þá gaf hann þeim fyrirskipanir og þau hlýddu. Í stað þess að elta okkur og heimta að vera ljósmynduð, þá fóru þau á varðberg, dreifðu sér um búðirnar og létu skilaboð ganga þegar hermannajepparnir sem voru á eftirlitsferðum um búðirnar nálguðust. Við máttum oft taka til fótanna eða forða okkur inn í næsta kofa, en með aðstoð barnanna komumst við ferða okkar óséðir. Við komumst í gegnum búðirnar niður að ströndinni, og þar sá ég í fyrsta skipti Miðjarðarhafið í þessari ferð. Fyrir neðan strandgötuna voru verbúðakofar í röðum sem mynduðu gott skjól. Bátar voru einnig í röðum á ströndinni, litlar skektur sem tóku ekki nema 1-2 menn, og þarna voru sjómenn að gera að netum sínum. Því fólkið í Beach-camp hefur lífsviðurværi sitt af fiski. Mér var tjáð að hernaðaryfirvöldin hefðu ákveðið að ryðja öllum verbúðunum í burt næstu daga í öryggisskini. Nokkrir sjómenn voru þarna að draga bát á land, aðrir að gera að netum.

Sjómenn í strandbúðunum á Gaza leita skjóls undan sólinni. Þeim hefur verið bannað að sækja sjóinn. Ljósm. olg

Ég gaf mig á tal við þá og spurði hvernig útgerðin gengi. Þeir sögðu að yfirvöldin væru að eyðileggja fyrir þeim lífsbjörgina. Ákveðið hefði verið að setja skatt sem næmi 1000 jórdönskum dínörum (hátt í árslaun verkamanns) á hvern bát fyrir að sækja sjóinn. Enginn fiskimaður þarna hefur möguleika á að reiða fram slíka fjárhæð. Þeir sem ekki borga eru fangelsaðir fyrir að fara út. Og þeir bentu mér á að allir bátarnir sem væru netalausir á ströndinni væru í eigu sjómanna sem þegar væru komnir í fangelsi. „Við höfum ákveðið að fara í verkfall í einn dag, og ef þessum ákvæðum verður ekki breytt, þá höfum við ekki önnur ráð en að hlaða stóran bálköst hér á ströndinni og brenna bátana okkar.“

Er mikill fiskur í sjónum?

„Nei, stóru bátarnir hirða allt. Við förum út klukkan 4 á morgnana og leggjum netin og sofum svo í bátnum og komum að landi um eftirmiðdaginn. Veiðin gerir lítið meira en að næra fjölskyld[1]una. En ef við missum hana höf[1]um við ekkert að borða.“

Með hungurvofuna að vopni

Við héldum upp í kampinn á ný, og heimsóttum eina fiskimannafjölskyldu. Húsakynnin voru eins og ég hafði séð áður: hlaðnir múrsteinskofar með bárujárnsþaki, afgirtur garður með steyptu og hvítskúruðu gólfi. Inni í kofanum var eldri kona á flatsæng og grét með ekkasogum. Maður hennar, sem reyndist 58 ára þótt hann virtist vera eldri, var hjá henni. Og tveir synir hans birtust fljótlega, nokkrar yngri konur og sægur af börnum. Það voru 35 munnar að mata í þessari fjölskyldu. Húsmóðirin var greinilega sjúk, elsti sonurinn var nýkominn úr fangelsi og annar sonurinn var veikur af brjósklosi í baki.

Hluti sjómannafjölskyldunnar á Gaza. Það voru 35 munnar að fæða í þessari fjölskyldu. Ljósm. olg

„Ég er fæddur í Jaffa 1930. Fjölskylda mín átti sitt hús og sitt land og sitt lífsviðurværi þar. Ég flúði hingað 1948. Ég hef stundað sjóinn og ég á 5 syni sem allir eru sjómenn. Nú heimta þeir að við borgum 1000 dínara hver og einn. Ég er hættur að sækja sjóinn. Ég hef engar tekjur og húsið er matarlaust. Við erum seld undir guðs náð. Sjómenn eru stolt fólk eins og þú, sem kemur frá Íslandi, veist. En það er búið að ræna okkur allri sjálfsvirðingu. Jafnvel aðstoðin sem okkur er send frá Evrópu lendir í vösum gyðinganna. Við þurfum að kaupa aðstoðina frá fiskifélaginu sem gyðingarnir stjórna. Aðstæðurnar hér eru verri en í Líbanon, því hér er verið að svelta okkur til hlýðni. Ég vil að þú komir þessum skilaboðum á framfæri við íslenska sjómenn, því að ég veit að sjómenn allra landa finna til samstöðu. Sjómenn eru stolt fólk.“

Þessi lífsreyndi sjómaður horfði til mín vonaraugum eins og ég gæti veitt honum einhverja björg. Dóttir hans færði okkur tebolla og börnin hópuðust í kringum okkur. Hann sýndi mér lúin persónuskilríki gefin út af bresku landsstjórninni fyrir 1948, eins og til að sanna mál sitt. Það var eina vegabréfið hans. Hann sýndi mér leyfisbréfið sem hernámsyfirvöldin höfðu gefið honum til þess að sækja lífsbjörgina í sjóinn. Nú gilti það ekki lengur. Ég kvaddi þessi sjómannshjón með kossi og fyrirvarð mig fyrir þá niðurlægingu sem ég hafði séð.

Reynsla af fangavist

Þegar við gengum í gegnum búðirnar til baka sáum við hermannajeppa í fjarska og fylgdarmaður minn tók á sprett. Við hlupum sem fætur toguðu á eftir honum á milli kofaraðanna og yfir opin skolpræsin þar sem dauðar rottur og annar óþrifnaður lá á víð og dreif. Þetta var leikvöllur berfættu barnanna í búðunum.

Þegar við töldum okkur hólpna spurði ég fylgdarmann okkar hvað myndi gerast ef þeir sæju okkur?

-„Þeir taka myndavélina þína og filmurnar. Og þeir setja mig í fangelsi aftur.“

-Hvernig var vist þín í fangelsinu?

-„Þeir handjárnuðu mig og bundu fyrir augun þannig að ég vissi ekki fyrr en eftir nokkra daga hvar ég var staddur. Þeir létu mig standa uppréttan með hendur bundnar fyrir aftan bak í nokkra daga og létu mig hoppa dag og nótt. Svo var ég settur í klefa sem var 1×0,5 m að flatarmáli. Það var ekki hægt að leggjast niður. Ég held að ég hafi verið í þeim klefa í 3 daga, annars man ég það ekki. En ég þekki menn sem hafa verið í þannig klefa í 18 daga. Þeir spörkuðu í mig með hermannaklossunum og köstuðu sandi í vit mín… Ég held ég hafi verið þarna í 2 vikur, ég man það ekki, sagði þessi starfsbróðir minn og vildi ekki ræða það meira.

Tveir heimar

Starfsbræður mínir í Gaza lögðu hart að okkur að gista yfir nóttina. Við gætum sofið á skrifstofunni. Það væri hvort sem er engan bíl að fá, og brátt yrði Gaza-svæðinu lokað. Á morgun yrði allsherjarverkfall, og þá myndum við geta séð raunveruleg átök. Ég þurfti að beita öllum mínum sannfæringarkrafti til að fá fylgdarmann okkar til að aðstoða okkur við að finna bíl. Þegar við komum í bæinn var allt krökkt af hermönnum. Fylgdarmaður okkar gekk 30 metrum á undan okkur og við létum sem við þekktum hann ekki. Hann setti sjálfan sig í hættu með því að leiðbeina okkur.

Að lokum fann hann bíl sem var reiðubúinn til að aka okkur til Tel Aviv. Við komumst klakklaust í gegnum vegabréfsskoðun til Tel Aviv, og þaðan með áætlunarvagni til Jerúsalem. Þar lentum við á stássgötu borgarinnar, þar sem ferðamenn sitja við útikaffihúsin yfir ölglasi. Þetta var eins og að sitja á Café de Paris við Via Veneto í Róm. Áhyggjur heimsins voru víðs fjarri. Á skemmtistaðnum „Underground disco“ var unga fólkið að skemmta sér og þar glumdi við ærandi disco-tónlist: „Tell me lies, tell me lies, tell me sweet little lies…“ rétt eins og maður væri kominn í Hollywood-skemmtistaðinn  í Ármúlanum. Þetta var eins og eiturvíma, og þegar ég breiddi yfir mig lakið uppi á hótelinu seint um kvöldið fór ég að gráta. Olg.

INTIFADA – UPPREISN Í LANDINU HELGA – II.

Á VESTURBAKKANUM

Ég hafði fengið sérstakt leyfi hjá innanríkisráðuneytinu í Amman til þess að fara yfir á Vesturbakkann um brúna við norðurenda Dauðahafsins. Á landamærunum var margfaldur vörður jórdanskra yfirvalda annars vegar og ísraelskra hernámsyfirvalda hins vegar. Svæðið utan vegar á milli landamærastöðvanna var lagt jarðsprengjum. Ferðaheimild jórdanska innanríkisráðuneytisins dugði mér til að fá ísraelska ferðaheimild inn á hernámssvæðið og þar með inn í Ísrael líka. Rútubíll ók okkur að landamærunum, og þegar öll toll- og vegabréfsskoðun var afstaðin var tekinn leigubíll til Jerúsalem. Ungur maður með arabískt nafn en suðuramerískt vegabréf var mér samferða til Jerúsalem. Þegar okkur gafst tækifæri til þess að tala saman opinskátt komumst við að því að við vorum nokkurn veginn í sömu erindagerðum, og ákváðum því að taka saman gistingu í hinum arabíska hluta Jerúsalem. Ég komst síðan að því að þessi félagi minn var af palestínskum uppruna og átti ættir að rekja til bæjarins Taybeh sem er eini kristni bærinn í Palestínu,  og leiðsögn hans og aðstoð áttu eftir að verða mér ómetanleg.

Á fréttastofunni

Við byrjuðum á því að leita uppi fréttastofu Palestínumanna í Jerúsalem, Palestinian Press Service. Þetta er sjálfstæð og óháð fréttastofa sem gegndi mikilvægu hlutverki við miðlun frétta frá hernumdu svæðunum fyrstu mánuði uppreisnarinnar. Fréttastofan miðlaði fréttum til stóru alþjóðlegu fréttastofanna og var meira til hennar vitnað þar en til ísraelskra heimilda þar til fyrir fáeinum vikum að henni var lokað af ísraelskum yfirvöldum. Við vissum af lokuninni, en fórum engu að síður á staðinn og hittum þar fyrir einn af þeim sem unnið höfðu við fréttastofuna frá upphafi.

„Því miður getum við litla aðstoð veitt,“ sagði maðurinn. „Þótt við vildum gjarnan veita ykkur Ieiðsögn og aðstoð, þá er það ekki hægt, því flestir fréttamennirnir okkar sitja nú í fangelsi. Eins og þið sjáið er hér búið að loka fyrir alla starfsemi og við sitjum hér nánast með bundið fyrir munninn.“

– Getur þú ekki ráðlagt okkur til hvaða staða við eigum að fara og við hverja við eigum að tala?

– Þið verðið að fara til Gaza, þar er ástandið alvarlegast. Annars get ég bara sagt þér að allir Palestínumenn eru jafngóðir til þess að tala við. Þeir munu allir segja þér sömu söguna. Hvar sem þú kemur á herteknu svæðin og í flóttamannabúðirnar finnur þú fólk sem tjáir sig daglega með því að hætta lífi sínu og limum. Heldur þú að þetta fólk sé ekki þess umkomið að segja þér hvað því býr í brjósti og hvað hér er að gerast?

Á fundi í Ramallah

Þegar við komum til Ramallah, borgar sem liggur í tæplega klukkustundar akstur norður frá Jerúsalem, var eins og bærinn væri líflaus. Klukkan var rúmlega 12, og allar götur voru mannlausar, verslanir og veitingahús lokuð, ekkert að sjá nema járnhlera fyrir gluggum verslana og stöku herjeppa á ferli um mannlausan bæinn undir steikjandi hádegissól. Við heimsóttum ungt fólk sem sat á fundi í húsagarði og ræddi ástandið. Þetta voru nemendur og kennarar við háskólann í Ramallah, Palestínuarabar sem búið höfðu í hersetnu landi bróðurpart ævi sinnar, en voru ekki flóttamenn. Það er stúlka um tvítugt sem verður fyrir svörum:

„Hér eins og annars staðar á Vesturbakkanum og Gaza-svæðinu hafa verið stöðug verkföll allt frá því að intifadan (uppreisnin) byrjaði fyrir hálfu ári. Verslanir og þjónusta er ekki opin nema þrjár klukkustundir á dag eða fram undir hádegið, þá er öllu lokað. Og í hverri viku eru einhverjir dagar sem lokað er allan daginn. í síðustu viku var bara opið tvo morgna, í þessari viku verður allsherjarverkfall í einn dag og annan í þeirri næstu. Þetta er liður í þeirri friðsamlegu andspyrnu sem við beitum gegn hernáminu. Auk verkfallsbaráttunnar þá neitar fólk hér á hersetnu svæðunum að borga skatta til yfirvalda. Hér borgar enginn skatt nema stærri iðnfyrirtæki, sem þurfa að sækja aðföng og fyrirgreiðslu til Ísraelsstjórnar. Þau neyðast til að borga skatta. Svo leitumst við eftir megni við að sniðganga ísraelskar vörur í verslunum. Það er liður í að gera okkur efnahagslega sjálfstæðari. Við höfum til dæmis komið upp hér í bænum palestínsku mjólkurbúi og framleiðum þar okkar eigin jógúrt. Yfirvöld gerðu allt sem þau gátu til þess að stöðva það, en þeim tókst það ekki. Nú kaupir enginn hér ísraelska jógúrt, og það hefur komið hart niður á mjólkuriðnaði þeirra, því jógúrt er mikilvægur þáttur í mataræði okkar. Við leitumst einnig við að verða sem mest sjálfbjarga um allar smærri lífsnauðsynjar, og höfum meðal annars lagt áherslu á að rækta grænmeti fyrir fólkið, hvar sem því verður við komið, svo  við þurfum ekki að vera upp á ísraelskt grænmeti komin. Þetta er liður í okkar þjóðfrelsisbaráttu, og Ísraelsmenn hafa þegar fundið fyrir þessu. Við höfum heimildir um 14 ísraelsk fyrirtæki sem hafa orðið að loka eftir að uppreisnin hófst, vegna þess að vörur þeirra seljast ekki lengur. Skattatapið er tilfinnanlegt fyrir hernámsyfirvöldin, og þeir eru nú farnir að stöðva bíla á leiðinni á milli Ramallah og Jerúsalem og kanna hvort viðkomandi hafi greitt skatt. Hafi hann ekki gert það er bíllinn tekinn í pant. En yfirvöldin hafa í svo mörgu að snúast að þau geta aldrei sinnt þessu.

-En kemur þetta ekki verst niður á Palestínumönnunum sjálfum? Kemur ekki að því að þeir neyðist af efnahagslegum ástæðum til þess að þýðast hernámsyfirvöldin?

„Auðvitað kostar þetta fórnir fyrir fólkið. Menn verða að skera niður neyslu sína og útgjöld. Margir, t.d. kennarar, hafa verið án launa mánuðum saman. Smærri atvinnufyrirtæki eiga í erfiðleikum með að greiða laun og öll efnahagsumsvif hafa dregist saman. En verkfallið hefur líka aukið á samstöðu fólksins. Nú gerist það iðulega að fólkið tekur sig saman um að verja hús sem hermenn ætla að ráðast inn í til þess að taka fanga. Það gerðist ekki áður. Við stefnum að því að stofna hér skipulagsnefndir á hverfagrundvelli sem eiga að skipuleggja einstaka þætti uppreisnarinnar. Til dæmis að skipuleggja varnir gegn hernum. Skipuleggja ræktun á sjálfsnægtargrundvelli o.s.frv. Í rauninni kemur uppreisnin verst niður á börnunum, og það voru líka börnin sem hrundu henni af stað. Og þá einkum í flóttamannabúðunum.

Börn í flóttamannabúðum við Ramallah. Ljósm. olg

Börnin gátu ekki lengur horft upp á foreldra sína niðurlægða. Lokun skólanna varð til þess að auka mjög á spennuna þeirra á meðal. Ofbeldishneigðin meðal barnanna veldur okkur áhyggjum og er á vissan hátt ógnvænleg. En um leið trúum við því að meðal þessara barna sé að vaxa upp nýtt forystuafl fyrir palestínsku byltinguna, og það teljum við jákvætt. Nei, þeir geta ekki svelt okkur til hlýðni. Við erum reiðubúin að halda áfram í verkfalli í ár í við[1]bót, og við vitum að það er samstaða um það meðal fólksins. Intifadan er ekki að fjara út. Hún er hins vegar að breyta um stefnu: Friðsamlegt andóf almennings verður almennara og um leið víðtækara. Við lítum það jákvæðum augum, og það kemur sér illa fyrir stjórnvöld.“

Skotið á börnin við Amari-flóttamannabúðirnar

Þegar við nálguðumst Amari flóttamannabúðirnar í útjaðri Ramallah sáum við hvar krakkar á aldrinum 8-10 ára voru að leggja steina á veginn eins og til þess að loka inngangshliðinu að búðunum, sem annars staðar eru lokaðar með steyptum blikktnnum. Skyndilega birtist herjeppi á fleygiferð. Einn hermannanna stóð upp og skaut táragasskotum að börnunum á meðan bíllinn var á ferð. Táragas fyllti húsagarðinn þar sem þau höfðu flúið í felur. Börnin hurfu samstundis, en hermennirnir stukku undir næsta vegg með hríðskotabyssur á lofti. Krakkarnir komust undan og jeppinn hélt áfram för sinni umhverfis búðirnar.

Ísraelskir hermenn með alvæpni skjóta táragasi að 8-10 ára gömlum skólabörnum í útjaðri flóttamannabúðanna í Ramallah. Ljósm. olg.

í kjölfarið komu örvæntingafullar mæður í leit að börnum sínum. Skotvopnin sem hermennirnir nota gegn börnunum í flóttamannabúðunum eru þrenns konar: í fyrsta lagi táragashylki, framleidd í Bandaríkjunum á þessu ári. Á hylkjunum stendur að þau geti verið banvæn, og megi aðeins notast af atvinnumönnum. Svo eru gúmmíkúlur með stálsívalning innan í. Kúlur þessar eru þumlungs-sverar og 1,5 sm. á lengd. Síðan nota þeir einnig föst skot og eru patrónurnar álíka stórar og notaðar eru til hreindýraveiða hér á landi. Táragashylkin hafa orðið mörgum Palestínumönnum að bana á undanförnum mánuðum og valdið fósturláti hjá þunguðum konum. Gúmmíkúlurnar eru hins vegar til þess fallnar að skapa mikla áverka, og sem dæmi má nefna að auga var skotið úr 9 mánaða stúlkubarni með gúmmíkúlu á Vesturbakkanum á meðan ég dvaldi þar. Föst skot eru líka notuð, þegar hin vopnin þykja ekki duga nægilega vel. Þau eru yfirleitt banvæn.

Þegar herjeppinn var horfinn komu mæðurnar skelfingu lostnar og kölluðu á börn sín, en fundu ekki. Þetta var dagleg reynsla flestra mæðra um öll hernumdu svæðin. Flóttamannabúðunum í Amari hafði verið lokað með því að steypa eða hlaða upp á milli húsasunda alls staðar nema á þrem stöðum. Tveir staðir voru minna áberandi, en þaðan gat herinn komist inn í búðirnar með herjeppa sína og brynvagna. Aðalinnganginum var hins vegar lokað með tvöföldum steyptum tunnuvegg og aðeins skilið eftir metersbreitt haft til þess að ekki kæmust fleiri en einn í einu út. Þannig voru allar flóttamannabúðir sem ég sá á Vesturbakkanum umgirtar, og þetta gerir yfirvöldum mögulegt að setja útgöngubann á búðirnar og loka fólkið þannig inni. Slíkum refsiaðgerðum er mikið beitt, einkum á Gaza-svæðinu.

Ekkja og limlest börn

Þegar við gengum inn um aðalinngang Amari-búðanna var hermaður með hríðskotabyssu uppi á næsta húsi og fylgdist með okkur. Við gengum að miðstöð UNWRA (Flóttamannahjálpar SÞ) í búðunum til þess að biðja um leiðsögn. Þeir sem þar voru sögðust allt vilja fyrir okkur gera annað en að leiða okkur um búðirnar, því herinn bannaði þeim það. Þessi UNWRA-miðstöð var sýnu fátæklegri en sú sem ég hafði séð í Jórdaníu. Þarna voru 2 menn en engar upplýsingar að fá annað en að þarna byggju um 6000 manns. Sjúkraskýlið virtist lokað. Við fórum á eigin ábyrgð inn í búðirnar og brátt safnaðist um okkur hópur óðamála barna.

Óðamála stúlkur í Amari-flóttamannabúðunum veitast að ljósmyndara með grjótkasti. Ljósm. olg

Ég hefði ekki komist óhultur úr þessari atlögu nema vegna þess að ég hafði þarna fylgd arabískumælandi Palestínumanns sem gat kynnt erindi okkar. Börnin í flóttamannabúðunum eru tortryggin gagnvart ókunnugum og grýta þá sem liggja undir grun um að vera á bandi hernámsliðsins. En þau vildu allt fyrir okkur gera þegar þau vissu um erindi okkar. Þau sögðu að hermennirnir myndu eyðileggja myndavélar okkar ef þeir sæju okkur taka myndir. Þau sýndu okkur táragashylkin og gúmmíkúlurnar og skothylkin. Og þau vísuðu okkur um göturnar. Þetta voru ýmist moldargötur eða steyptar götur með opnu skolpræsi eftir miðri götunni. Húsin voru eins og í Jórdaníu, kofar hlaðnir úr múrsteini með lausum bárujárnsplötum ofan á, sem voru festar niður með grjótfargi.

Í fyrsta kofanum sem við komum í var kona sem hafði orðið ekkja þann 27. janúar síðastliðinn.  Þessi kona missti mann sinn frá mörgum börnum þegar hann kafnaði af völdum táragass þann 27. Janúar síðastliðinn. Sonur hennar, um það bil 9 ára, var með skotsár á upphandlegg eftir fast skot. Hún hafði sent hann út fyrir búðirnar að kaupa jógúrt og hann kom til baka með sundur skotinn handlegg. Hús hennar var fullt af börnum, ég veit ekki hvað hún átti mörg þeirra. Hún sýndi okkur brotna spegla og brotinn skáp og brotinn vegg: hermennirnir höfðu ráðist inn í kofann hennar.

Ekkja með 10 ára gamlan son sem kom heim með sundurskotinn handlegg eftir að hafa farið út að kaupa jógúrt. Hún sýnir okkur soninn og táragashylki sem Ísraelsher notar gegn palestínskum börnum. Ljósm. olg,

Móðir í Amari-búðunum  sýnir okkur síðusár 10 ára sonar sem var sleginn af hermönnum þannig að nýrað sprakk. Ljósm. olg.

Við fórum í næsta kofa við hliðina. Þar sýndi móðir 10 ára gamals pilts okkur ör á síðu hans. Hann hafði verið sleginn svo á mjóhrygginn að annað nýrað sprakk. Fleiri börn sáum við sem höfðu fengið sár og krakka[1]skarinn sem safnaðist í kringum okkur var svo óðamála að erfitt var að athafna sig. Strákarnir vildu ólmir láta ljósmynda sig og tróðust hver fram fyrir annan upp að vélinni. Þeir gerðu sigurmark[1]ið og héldu steinum á lofti. Það var áberandi að andrúmsloftið í þessum búðum var allt annað en í Jórdaníu.

Ójafn leikur

Taugaspennan var gífurleg og ofbeldið lá í loftinu. Enda leið ekki á löngu þar til ungir menn um tvítugt komu til okkar og sögðu að innan skamms myndu hermennirnir gera innrás í búðirnar og það yrði barist. Þeir ráðlögðu okkur að fara út. Tíu ára piltur fylgdi mér út úr búðunum en félagi minn varð eftir fyrir innan. Ég fór í kringum búðirnar að aðal innganginum, þar sem ég komst inn í húsasund á bak við þvottasnúrur. Þaðan hafði ég yfirsýn yfir aðalgötuna í búðunum. Fjórir herjeppar og einn trukkur tóku þátt í árásinni á búðirnar. Einn eða tveir bílar biðu við aðalinnganginn á meðan hinir keyrðu inn í búðirnar og skutu táragasi og gúmmíkúlum að íbúunum. Táragasský lagðist yfir búðirnar. Ég sá börn og unglinga á hlaupum í táragassvækjunni kastandi grjóti að herjeppunum. Þessi börn kunna ekki að hræðast lengur.

Aðal-inngangurinn að Amari-búðunum, lokaður með steyptum blikktunnum. Utan inngangsins voru herjeppar með alvæpni. Unglingar þyrptust að og köstuðu grjóti yfir tunnurnar í átt að hermönnunum. Ljósm. olg.

Herjeppar koma aðvífandi inn í búðirnar og skjóta táragasi að unglingunum. Gatan og nánasta umhverfi fyllist af táragasi. Ljósm. olg.

Herjeppi með alvæpni á götunni, en sjúkrabíll frá UNWRA og ísraelskir herjeppar fyrir utan hliðið. Enginn slasaðist alvarlega í þetta skiptið. Ljósm. olg.

Áhlaupið stóð með stuttum hléum í tæpa klukkustund. Sjúkrabíll kom að aðal innganginum, en enginn var tekinn í hann. Þegar herbílarnir voru farnir gekk ég inn í búðirnar. Á fólkinu var að sjá að þetta væri eins og daglegur viðburður. Enginn hafði hlotið alvarleg sár í þetta skipti og mér var vísað til félaga míns sem var í góðum félagsskap inni í búðunum. Þegar við kvöddum Amari-búðirnar voru herjeppar á sveimi allt um kring.

Umsátur í Kafir Malik

Ofangreindir atburðir gerðust á öðrum degi mínum á Vesturbakkanum. Sama dagf ór ég einnig til bæjarins Kafir Malik. Þetta er um 2000 manna þorp sem liggur á milli Ramallah og Jeríkó. Inni á torginu í bænum voru allir veggir útmálaðir í slagorðum og ábúðarmiklir menn sátu hljóðir í skugganum undir þakskeggjum. Það ríkti hatursþrungið andrúmsloft þarna á torginu og grjótslöngur og tætlur af fána PLO héngu í símastrengjum. Þessir menn virtust reiðubúnir í stríð. Brátt fengum við að heyra sögu þeirra:

Í þrjá mánuði höfðu ísraelsku hermennirnir gert allmargar tilraunir til að komast inn í þetta þorp, bæði til að heimta skatt af fólkinu, og einnig til að leita eftirlýstra manna. Átta sinnum höfðu þeir orðið frá að hverfa vegna vegatálma og grjótkasts þorpsbúa. í þessum átökum höfðu yfir 30 herjeppar verið skemmdir. Þá greip herinn til þess ráðs að loka bænum. Í 30 daga var skrúfað fyrir vatn og rafmagn og engum hleypt inn í bæinn eða út úr honum. Þrjátíu  dagar án aðfanga, 30 dagar án sjúkraþjónustu. Síðan var bærinn umkringdur með yfir 2000 manna herliði og ráðist var inn í þorpið með brynvörðum bílum og þyrlum. Einn maður var skotinn á færi, trúlega úr þyrlu, í þessari innrás. Hermennirnir settust að í skólanum. sem umluktu skólalóðina. Þeir eyðilögðu bækur í skólanum og ég sá hvar þeir höfðu notað eitt hornið á skólalóðinni til þess að gera þarfir sínar. Víðar sáum við verkummerki eftir jarðýtur í bænum, sem höfðu meðal annars valdið skemmdum á fallegum mörghundruð ára gömlum olívulundi.

Vitni á torginu

Maður á torginu:

„Bróðursonur minn var á gangi með vini sínum hér fyrir utan bæinn. Þeir gengu samhliða, en skyndilega fær vinur hans skot í höfuðið og liggur dáinn í götunni. Hinn hljóp inn í næsta hús, en hermennirnir hlupu á eftir honum, drógu hann út, börðu með kylfu í höfuðið. Börðu hann síðan á skrokkinn með stórum plánka, handjárnuðu síðan og settu í fangelsi í tvo daga. Meðan á umsátrinu stóð vorum við í 30 daga ljóslausir alls lausir. Við fundum að við gátum vel haldið út eitt ár í viðbót ef því er að skipta. Við höfum engu að tapa.“

Annar maður:

„Hér í nágrenninu var 45 ára maður, 4 barna faðir, drepinn með skoti í höfuðið, þar sem hann stóð álengdar og var að horfa á óeirðir. Í fréttum var sagt að þetta hefði verið tvítugur maður og að hann hefði verið að kasta bensínsprengju.“

Læknir úr bænum Taibeh sem þarna var staddur:

„Þeir grófu tvo bræður í jörð hér skammt frá þannig að aðeins andlitin stóðu upp úr og spörkuðu í þá. Síðan drógu þeir þá upp og tvíbrutu á þeim handleggina. Ég hef líka fengið staðfest að hermennirnir hafi brennt ungan mann í ofni hér skammt frá og kastað síðan líkinu í kalt vatn. Ég veit ekki hvort sagan af barninu sem kastað var úr þyrlu er sönn, en hún er ekki ótrúlegri en margt annað sem ég hef séð… Eitt get ég líka sagt þér, að sjúklingar mínir hér, þeir hafa ekki efni á að borga læknisþjónustu ef eitthvað alvarlegt kemur fyrir færð þú enga þjónustu á sjúkrahúsunum hér nema þú greiðir fyrir fram….“

Bóndi á torginu:

„Og sért þú arabi er þér bannað samkvæmt lögum að bora eftir vatni. Vatnið skiptir öllu máli við landbúnaðinn hér. Sérðu þorpið þarna uppi á hæðinni? Þetta er nýlenda gyðingalandnema. Þeir taka landið okkar og þeir taka vatnið frá okkur. Gyðingur sem býr í New York hefur meiri rétt á vatninu okkar og landinu okkar heldur en við…“

Landslagið sem fæddi Krist

Biblíumynd sem á að lýsa þeim slóðum Krists sem umlykja landslagið sem hér er lýst.

Á leiðinni frá Kafir Malik mættum við mörgum herjeppum sem voru á eftirlitsferðum um sveitirnar. Landslagið þarna kom kunnuglega fyrir sjónir. Það var sama landslagið og ég hafði séð á biblíumyndunum sem mér voru gefnar þegar ég gekk til prests sem barn. Fjárhirðarnir litu meira að segja eins og hirðingjarnir á Betlehemsvöllum. Enda eru þetta heimahagar Krists og biblíulegir sögustaðir í hverju þorpi. En eitthvað hafði breyst. Það var uppreisnarástand í Landinu helga. Daginn eftir fórum við á Gaza-svæðið. Ég átti erfitt með að ímynda mér á þessari stundu, að næsti dagur yrði ennþá erfiðari. En sú varð raunin. Meira um það á miðvikudaginn kemur. -ólg

 

INTIFADA – UPPREISN Í LANDINU HELGA – I

Ferðalagið til Landsins helga

Ferðasaga í fjórum þáttum frá flóttamannabúðum Palestínumanna í Jórdaníu, um Vesturbakkann, Jerúsalem og Gaza-svæðið í júní 1988
Þessi ferðasaga birtist í fjórum hlutum í Þjóðviljanum í júlí 1988. Hún var uppskera erfiðustu ferðar lífs míns, sem ég tókst á hendur á eigin kostnað í júnímánuði 1988 frá Rómaborg til Amman í Jórdaníu, og þaðan áfram til Jerúsalem og um Vesturbakkann og Gaza-svæðið og aftur til baka. Ég hafði starfað við erlend fréttaskrif á Þjóðviljanum um árabil, og ritað margar greinar um Palestínuvandann. Á þessum tíma var ekkert internet og eina beina samband fréttamanns við umheiminn var símriti  Reuters-fréttastofunnar. Ég var alltaf vantrúaður á þessa upplýsingaeinokun og stóðst því ekki tækifærið að fljúga beint frá Róm, þar sem ég var staddur, til Amman. Í þessari ferð upplifði ég veruleika sem var í engu líkur heimsmynd Reuters-fréttastofunnar, og ferðin breytti heimsmynd minni fyrir lífstíð.  Greinarnar eru nú endurbirtar hér á hugrunir.com í tilefni atburða undanfarinna vikna á Gaza-svæðinu. Ferðasagan hefur að mínu mati enn sitt gildi til aukins skilnings á því sem nú er að gerast í Palestínu. Ferðasagan er með ljósmyndum sem ég tók sjálfur. Endurvinnsla greinanna úr Þjóðviljanum hefur vakið til nýs lífs endurminningar sem héldu mér andvaka vikum saman eftir að ég kom heim.

Intifadan, uppreisnin á hinum herteknu svæðum Ísraelsríkis á Vesturbakka Jórdanár og Gaza-svæðinu hafði staðið í hálft ár þegar ég lenti á flugvellinum í Amman í Jórdaníu. Erindið var að sjá með eigin augum þann veruleika sem sjónvarpið og aðrir fjölmiðlar hafa leitast við að miðla til okkar þessa mánuði með þeim árangri að flestir eru nú hættir að taka eftir því þótt barn sé limlest eða skotið til bana, heimili lögð undir jarðýtur eða hermenn grýttir af börnum. Í flugvélinni á leiðinni las ég í erlendum blöðum að uppreisnin væri að fjara út, að allt væri nú að færast í eðlilegt horf og skólarnir væru nú loksins opnaðir aftur eftir hálfs árs lokun.

Tíu dagar í Palestínu

Ég dvaldi 10 daga í Palestínu, þar af 5 daga á Vesturbakkanum og Gaza-svæðinu, og 5 daga í Jórdaníu. Þar skoðaði ég meðal annars stærstu flóttamannabúðir Palestínumanna í Miðaustur löndum, þar sem búa nærri 100.000 flóttamenn. Á herteknu svæðunum skoðaði ég flóttamannabúðir, heimsótti sjúkrahús, skóla og aðila sem láta sig mannréttindi varða, og ég hitti fólk, sem hvarvetna tók mér af stakri gestrisni og reyndist óðfúst að veita mér upplýsingar og leiðsögn, jafnvel þótt það tæki þar með mikla áhættu.

Ég sá börn og unglinga hlaða vegatálma og kasta grjóti að hernámsliðinu. Ég hitti limlest börn, ekkjur og sveltandi flóttamenn. Ég sá hermenn beita skotvopnum gegn börnum og unglingum og ég sá táragasskýin leggjast yfir flóttamannabúðirnar og göturnar í Gaza. Ég upplifði mannlausa bæi og þögn sem var hlaðin ofbeldi og spennu, sem er ekki rofin af öðru en vélarhljóði herjeppanna sem hringsóluðu um mannlausar göturnar undir brennheitri hádegissólinni meðan á allsherjarverkfallinu á herteknu svæðunum stóð. Ég sá heimili sem höfðu verið lögð undir jarðýtur, ég hitti menn sem höfðu sætt misþyrmingum í fangabúðum herstjórnarinnar og ég heyrði óteljandi sögur af óhæfuverkum ísraelska hersins. Ég talaði við kristna araba og múslima, óbreytt alþýðufólk og menntamenn, lækna, lögfræðing og prest. Ég kynntist palestínsku konunum sem hafa yfir sér sérstakan þokka og reisn, þar sem þær ganga teinréttar í sínum síðu kuflum með nauðþurftir heimilisins á höfðinu. Ég naut ótrúlegrar gestrisni þessa fólks og var boðinn besti viðgjörningur hvar sem ég kom. Ég sá dýpri niðurlægingu og örbirgð en ég gat ímyndað mér, örvæntingu, ótta og vonleysi, og ég upplifði einnig óbilandi kjark og baráttuvilja fólks sem virtist ekkert óttast og storkaði hernámsliðinu af fullkomnu æðruleysi. En fyrst og síðast sá ég börnin sem þekkja ekki annan veruleika en þennan: berfættu börnin sem léku sér í kringum opin skolpræsin í moldargötum flóttamannabúðanna eða æfðu sig í að hlaða vegatálma úr smásteinum, börnin sem sýndu mér stolt teygjubyssurnar og slöngurnar sem þau beita gegn ísraelska hernámsliðinu, börnin sem voru óðamála að tjá sig um það sem þau höfðu upplifað og börnin sem stóðu á verði til þess að vara mig við hermannajeppunum sem hringsóluðu um flóttamannabúðirnar. Börn sem höfðu misst föður sinn, börn með skotsár, limlest börn, skítug börn með glampa í augum sem gaf til kynna undarlegt sambland af heift og sakleysi. Börn sem eru öðruvísi en öll önnur börn sem ég hef áður séð, því þau hafa andlit sem eru rúnum rist af ábyrgð og reynslu af daglegu ofbeldi, en í gegnum þessa g reynslunnar glittir engu að síður í hyldýpissakleysi barnssálarinnar sem getur illa greint á milli leiks og alvöru.

Palestínskir drengir í afslöppun á Vesturbakkanum. Ljósm. olg.

Reynsla mín þessa daga á herteknu svæðunum var bæði erfið og yfirþyrmandi, en hún sann færði mig um tvennt:

Uppreisnin, eða intifadan eins og Palestínuarabarnir kalla hana, var ekki að fjara út. Hún hefur trúlega þvert á móti aldrei verið víðtækari en nú. En hún mun sennilega breyta um farveg.

Samstaðan um friðsamlega andspyrnu gegn yfirvöldum á hernámssvæðunum er víðtækari en áður, en jafnframt eru einnig teikn á lofti um stigmögnun ofbeldis. „Þegar barn á fjórða ári er farið að spyrja hina fullorðnu að því hvernig eigi að búa til mólótofkokteila, þá getum við reiknað með að það muni grípa til sinna ráða fyrr en varir að óbreyttum aðstæðum,“ sagði læknir á Vesturbakkanum við mig, og bætti því við að foreldrar hefðu ekki lengur neina stjórn á börnum sínum.

Sú mynd sem við höfum fengið í gegnum fjölmiðla af á standinu á herteknu svæðunum í Palestínu er blekkjandi. Fjölmiðlarnir ná einfaldlega ekki að bregða upp mynd af því viðvarandi ógnarástandi sem þarna ríkir, heldur færa þeir okkur veruleikann í brotakenndu formi sem bundið er við einstakar myndir eða atburði. Ástandið á herteknu svæðunum og í flóttamannabúðum Palestínumanna þar er ein faldlega mun alvarlegra en okkur hefur verið sagt. Ég hef fylgst með þessu máli í gegnum fjölmiðla um árabil og skrifað um það fjölmarga fréttapistla og greinar hér í blaðið okkar í gegnum árin. Veruleikinn kom hins vegar yfir mig eins og köld vatnsgusa: hvernig var þetta mögulegt?

Hér á eftir og í næstu blöðum munu birtast frásagnir af því sem ég reyndi og sá í Palestínu þessa 10 daga. Frásögnin verður í fjórum hlutum. í fyrsta hlutanum er sagt frá heimsókn í Baqaá-flótta mannabúðirnar skammt fyrir utan Amman í Jórdaníu. í næsta hluta verður sagt frá ferð minni yfir á Vesturbakkann, til Jerúsalem, Ramallah og fleiri bæja og þorpa. Þriðja frásögnin verður af ferð minni á Gazasvæðið og fjórði og síðasti þátturinn verður að mestu viðtal við kaþólskan prest frá kristna bænum Efraím á Vesturbakkanum.

Kyrr kjör í Baqaà

Þegar komið er að Baqaá-flóttamannabúðunum fyrir utan Amman í Jórdaníu líta þær fljótt á litið út eins og fátæklegur bær úr þriðja heiminum. Húsin með fram þjóðveginum eru lágreist og hrörleg, en sum þeirra hafa verið máluð og þarna má sjá hvers kyns starfsemi í gangi, bílaverkstæði og aðra þjónustu við vegfarendur, handverksmenn að störfum o.s.frv.
Þegar inn í búðirnar er komið eru húsin hrörlegri, göturnar þrengri og þrengslin augljósari. Fólkið býr í kofum sem eru flestir hlaðnir úr múrsteini. Bárujárnið á þakinu er fergt niður með grjóti, og sumir kofarnir eru ein faldlega gerðir úr blikki. Víðast eru moldargötur, en sum staðar eru göturnar steyptar eða malbikaðar með opinni skólprennu eftir miðri götunni.

Börnin í flóttamannabúðunum í Baqaà í Jórdaníu, þar sem búa um 100 þúsund flóttamenn. Gatan er steypt, en opið skolpræsi eftir miðri götunni. Húskofarnir hlaðnir úr steini með blikkþaki. Ljósm. olg.

Í Jórdaníu rignir ekki 6 mánuði ársins, en á regntímanum sem varir frá nóvember fram í apríl verða moldargöturnar í flóttamannabúðunum að forarvilpu sem nær að minnsta kosti í ökla. Markaður var í gangi þegar ég kom inn í búðirnar, og þar var fjölbreytt úrval varnings og mannlíf allt hið framandlegasta í norrænum augum. Mannmergðin var mikil og þarna mátti auk hvers konar lífsnauðsynja fá ýmiskonar þjónustu, svo sem eins og rakstur og klippingu og veitingar voru seldar á götum úti, einkum djúpsteikt brauð og mjölbollur. Þarna mátti einnig sjá flestan þann varning, sem finna má á venjulegum arabískum markaði, fatnað, skó, búsáhöld, fiðurfé á fæti, egg, ávexti, grænmeti, baunir og mjöl, en kjöt er af skornum skammti, enda munaðarvara fyrir alþýðu manna í Jórdaníu. Gjafafatnaður frá Evrópu var þarna á boðstólnum í stórum stíl gegn vægu verði, og er hann seldur til ágóða fyrir flóttamannahjálpina. Þá kom á óvart að sjá þarna verslað með gull og skartgripi, en gullið gegnir mikilvægu hlutverki í hefðbundnum samskiptum fólks í arabaheiminum. Einnig kom á óvart að sjá þarna starfræktan banka, en allt þetta fjölbreytilega líf og þjónusta jók á þá tilfinningu að hér væri mannlíf með tiltölulega eðli legum hætti miðað við það sem gerist í fátækrahverfum Amman og annarra borga í Jórdaníu.

Palestínskar konur á útimarkaðnum í Baqaà flóttamannabúðunum í Jórdaníu. Ljósm. olg.

Seinna átti ég eftir að kynnast því að aðstæðurnar þarna voru hátíð miðað við það sem finna má á Vesturbakkanum, og síðan er farið er úr öskunni í eldinn þegar komið er á Gaza-svæðið, sem liggur á mörkum Ísraels og Egyptalands, en þar ríkir nú styrjaldarástand.

Lykt af mannlífi

Gönguferð í gegnum markað inn í Baqaá er ekki síður upplifun fyrir lyktarskynið en sjónina. Þarna blandast saman ilmur af kryddjurtum eins og basil og myntu, fnykur af fiðurfé og óþefur úr opnum skólpræsum, kaffi- ilmur og kardimommu, þefur af rotnandi grænmeti og úrgangi, stækja af olíusteikarpottum sem eru úti á götunum, ilmur af smyrslum og steinkvötnum kvennanna og sæt lykt af appelsínum, fíkjum og öðrum ávöxtum, sem fylla hlaðna bekki og borð og blandast einnig góðum ilminum frá ofni bakarans.

Eftir tilvísun lá leið mín í gegn um endilangan markaðinn um hálftíma hægan gang að miðsvæði flóttamannabúðanna þar sem var að finna miðstöð UNWRA, (United Nations Relief and Works Agency), en það er sérstök flótta mannahjálp Sameinuðu þjóð anna fyrir Palestínuaraba, sem starfað hefur frá 1949 í Jórdaníu, Líbanon, Sýrlandi, á Vesturbakkanum og á Gaza-svæðinu. Hjá UNWRA fengum við flestar þær upplýsingar, sem hér koma fram, og var mér meðal annars sýnt sjúkraskýli og skóli sem stofnunin rekur auk þess sem mér var boðið að skoða venjulegt heimili í búðunum. Eldhús fjölskyldunnar var í sérstöku afdrepi inni á lóðinni. Þar er bæði ísskápur og gaseldavél.

25 sent á dag

Baqaá-búðirnar eru fjölmennustu flóttamannabúðir Palestínuaraba í Miðausturlöndum. Skráðir flóttamenn þar eru tæp 70.000, en mér var tjáð að raun verulegur fjöldi í búðunum nálgaðist 100.000. Af þessum fjölda eru tæplega 60.000 skráðir flótta menn frá 1948, þegar Ísraelsríki var stofnað, hinir komu eftir 6 daga stríðið 1967. Skráðir kofar í búðunum eru 7650, sem þýðir að í hverjum kofa búa að meðaltali yfir 10 manns. Palestínskir flóttamenn í Jórdaníu búa að því leyti við aðrar aðstæður en á herteknu svæðunum að þeir hafa allir rétt á fullgildu jórdönsku vegabréfi og þeir hafa fullan aðgang að jórdönskum vinnumarkaði. Alls eru tæplega 850.000 palestínskir flóttamenn skráðir í Jórdaníu, þar af voru um 210.000 skráðir búsettir í flóttamannabúðum fyrir ári. Jórdanía er jafnframt það land sem hýsir flesta palestínska flóttamenn, eða 38% allra skráðra flóttamanna sem eru taldir vera meira en 2,2 miljónir. Til aðstoðar þessu fólki hefur UNWRA haft um 200 miljónir dollara á ári, eða rúmlega 25 cent á mann á degi hverjum. Ef tekið er tillit til þessa þrönga fjárhags verður skiljanlegra hvað hjálpin virðist í mörgum tilfellum fátækleg og ófullnægjandi. Auk þess sem ytri aðstæður gera aðstoð oft á tíðum illframkvæmanlega, bæði á herteknu svæðunum og í Líbanon. Alls eru 10 palestínskar flóttamannabúðir í Jórdaníu. Fjórar þeirra hafa verið starfræktar frá 1948, hinar voru settar upp eftir 6 daga stríðið 1967.

Þéttbýli hættulegt heilsunni

Ég skoðaði heilsugæslustöð UNWRA í Baqaá undir leiðsögn forstöðumanns hennar. Þar eru starfandi 7 læknar, þar af einn tannlæknir. Hjúkrunarkonur og -menn eru 19 og ljósmæður eru 6. Þetta starfslið þjónar mannfjölda sem er álíka mikill og íbúar Reykjavíkur. Vinnuálagið á læknana er gífurlegt, eða 100 – 160 sjúklingar á dag, og sögðust þeir sinna að minnsta kosti fjórum sinnum fleiri sjúklingum á dag en læknar utan búðanna. Húsakynnin eru frumstæð skýli, byggð fyrir gjafafé frá ríkisstjórn Kanada, og voru skýli þessi tekin í notkun fyrir tæpu ári. Sérstakt sjúkraskýli fyrir börn er frá sama tíma, reist fyrir norskt gjafafé. Mér var tjáð að heilbrigðisvandamál þau sem við væri að etja væru mörg af félagslegum rótum og stöfuðu af of miklu þéttbýli, þekkingarskorti, óhollri fæðu og ófullnægjandi barnaumhirðu. Algengustu sjúkdómarnir eru öndunarfærasjúkdómar, meltingartruflanir svo sem niðurgangur, háls-, nef- og eyrnasjúkdómar, sníklafaraldrar, húðsjúkdómar, hjarta- og æðasjúkdómar og sykursýki. Mér var tjáð að bólusetningarherferð hefði skilað góðum árangri og að faraldssjúkdómum eins og malaríu, berklum og lömunarveiki hefði verið útrýmt. Barnadauði í búðunum er 47 börn af hverjum 1000, sem er lægri tala en fyrir Jórdaníu í heild. Helsta hættan fyrir börnin stafar af þrengslum (sem auka á smithættu), opnum skolpræsum (neðanjarðarræsi voru sögð í smíðum), og ófullnægjandi umhirðu vegna barnmergðar. Meðalfjölskyldustærðin er 7,2 börn, og í búðunum fæðast að meðaltali 2200 börn á ári eða 6 börn á dag.

Börn í ómegð

Í barnasjúkraskýlinu var okkur tjáð að komið væri með nýfædd börn í ungbarnaeftirlit einu sinni í mánuði á fyrsta aldursári. Haldin er sjúkraskrá yfir öll nýfædd börn, og ef það sýnir sig að þau þroskast ekki eðlilega, þá eru þau tekin í daglega meðhöndlun og sett á sérstakt fæði, auk þess sem foreldrum er kennd barnaumhirða. Áhersla er lögð á nýtingu móðurmjólkur, þar sem vatnsblandað mjólkurduft eykur mjög á smithættu. Barnalæknirinn tjáði okkur að vanhirða á börnum stafaði ekki bara af vankunnáttu, heldur líka af því að fjölskyldur væru svo stórar að foreldrar önnuðu ekki að sinna öllum börnum sínum nægilega vel. Okkur var tjáð að enginn liði fæðuskort í búðunum, en um 1700 manns þiggja daglegar matargjafir. Þetta þýðir að fólkið í búðunum er að stórum hluta efnahagslega sjálfbjarga og karlmenn sækja mikið vinnu utan búðanna. Það vakti furðu mína að sykursýki skyldi vera meðal algengari sjúkdóma, þar sem hún er yfirleitt rakin til ofneyslu. Sérfræðingurinn í meðhöndlun þessa sjúkdóms tjáði mér að í búðunum væru skráð 500 tilfelli, og væri orsökin annars vegar rakin til rangrar fæðusamsetningar (of mikil kolvetni), hins vegar til innbyrðis skyldleika íbúanna og til áhrifa af þeirri streitu sem þéttbýlið og aðrar aðstæður í búðunum hafa í för með sér. Aðspurðir um það hvernig læknarnir meðhöndluðu niðurgang, sem er einn skæðasti barnasjúkdómurinn í mörgum fátækum löndum, sögðu læknarnir að við honum væri gefin saltupplausn í því skyni að koma í veg fyrir vatnstap sem væri hættulegasta afleiðing niðurgangs. Auk þess að tala við lækna sjúkraskýlisins kom ég einnig á rannsóknastofuna, þar sem unnið var að greiningu sýna. Það er óhætt að segja að aðstaða þar hafi verið engin. Ein lítil smásjá og kannski eitt eða tvö lítil tæki í viðbót, og mér var tjáð að allar mikilvægari greiningar væru sendar á sjúkrahús í Amman.

Fimmtíu nemendur í skólabekk

Eftir heimsóknina á sjúkraskýlið kom ég í stúlknaskóla þar sem prófum var að Ijúka og síðustu nemendurnir rétt að fara heim. Skólastýran sagði mér að þarna væru um 1500 nemendur á gagnfræðaskólastigi. Stórt port myndaði skólalóðina og voru byggingar skólans allt í kringum portið. Þetta eru bárujárnsskúrar með kennslustofum þar sem ekkert er innandyra nema bekkir og svört tafla á vegg. Nemendur eru 50 í hverjum bekk og svo þétt setinn bekkurinn að ekki komast fleiri í hverja „stofu“. Skrifstofa skólastýrunnar var líka í bárujárnskofa, og þótt þar væri snyrtilegt innan dyra var engin kennslugögn eða bækur þar að sjá, eða afdrep fyrir kennara. Veggir er sneru inn að skólalóðinni voru skreyttir myndum eftir nemendur sem sýndu palestínskar konur að störfum innan sem utan heimilis.

Kennslukonan í skólastofu 50 nemenda í flóttamannabúðunum í Baqaà. Ljósm. olg.
Átta í flatsæng á 9 ferm.

Að Iokum var mér boðið að sjá dæmigert heimili í þessum flóttamannabúðum. Þetta var heimili 9 manna fjölskyldu, sem bjó í tveim kofum og hafði litla lóð innan veggja að auki. Þarna sem annars staðar þar sem ég kom inn á heimili palestínskra flóttamanna var gætt fyllsta þrifnaðar. Gólfin voru steypt og hvítskúruð. Fjölskyldan var ættuð frá Hebron, og varð landflótta þegar Ísraelsher lagði undir sig Vesturbakkann árið 1967. Eftir 21 ár í útlegð var ættmóðirin orðin ekkja, og naut hún þeirra forréttinda að búa ein í öðrum kofan um, sem var gerður úr ómáluðum blikkplötum negldum á grind. Þetta var öldruð kona, og kofinn hennar var kannski 3×3 m. að flatarmáli.

Ættmóðir níu manna fjölskyldu í kofa sínum í Baqaà. Ljósm. olg

Húsmóðirin var kornung að sjá, en átti þó 6 börn, og sváfu þau með foreldrum sínum í flatsæng á gólfinu í hinum kofanum. Var vandséð hvernig átta manns gátu komist þar fyrir. Eldhús var í sérstöku afdrepi, þar sem var bæði gashella og vaskur með rennandi vatni. Garðurinn á milli kofanna var kannski 3x4m, og þar voru snúrur fyrir þvotta. Húsgögn voru þarna nær engin, eða þægindi, að frátöldum dýnunum, og engar voru hirslurnar til að varðveita jarðneskar eigur þessara öreiga. Þegar ég ljósmyndaði móðurina með nokkrum barna sinna inni í svefnskála hennar mátti sjá að henni var brugðið og tár komu fram í óttaslegnu andliti hennar.

Sex barna móðir í flóttamannabúðum í Baqaà ásamt tveim sonum sínum. Svefndýnur fjölskyldunnar eru í stafla  undir laki í baksýn. Ljósm. olg

Það var eins og hún væri að spyrja sjálfa sig og umheiminn þeirrar áleitnu spurningar, hver yrði framtíð þeirra barna, sem hún hefði alið í þennan heim. Daginn eftir hélt ég yfir á Vesturbakkann og þar uppgötvaði ég nýja veröld, og um leið að flóttamannabúðirnar í Jórdaníu voru konunglegar miðað við ástandið sem þar ríkti. En meira um það í blaðinu næsta föstudag. -ólg

NIETZSCHE: FÖRUMAÐURINN OG SKUGGI HANS III.

 

NIETZSCHE UM GILDRU TUNGUMÁLSINS, FRELSI VILJANS OG SKEMMTIKRAFT GUÐS

Í þessum þriðja og síðasta kafla úr verki Nietzsche birti ég hér þrjú orðspjót, sem fela í sér þrjú sjónarhorn á villuráf mannsins um heim staðreyndanna, um vegleysur tungumálsins og samanburðinn á skopskyni mannsins og skapara hans. Þetta villuráf á sér sameiginlegan leiðarvísi í hlutverki tungumálsins sem er í senn blessun mannsins og bölvun.

Þessi þrjú orðspjót birta að hætti Nietzsche djúphugsaðar og raunverulegar athuganir á flóknum heimspekilegum vanda sem heimspekin hefur glímt við frá upphafi vega. Sérhvert þessara þriggja orðspjóta væri metnaðarfullum akademískum heimspekingum efni í þykka doðranta upp á hundruð blaðsíðna og óteljandi bindi, en Nietzsche fann aldrei hjá sér kvöð til akademískra málalenginga: hér segir hann flókin heimspekileg vandamál um tungumálið, frelsi viljans, jafngildingu og sundurgreiningu  staðreyndanna og hið mannlega sjónarhorn sagnfræðinnar í örfáum orðum og í meitluðum ritstíl sem á sér varla hliðstæðu. Í heild sinni er Nietzsche hér að benda okkur á takmörk þeirrar frumspeki sem ávallt er lögð til grundvallar, hvort sem við fjöllum um huglæg hugtök eins og frelsi, „hlutlægar“ skoðanir vísinda og þekkingar eða sagnfræði er tekur óhjákvæmilega mið af manninum andspænis alheimi sem á sér yfirskilvitleg endamörk handan allrar mennsku.

Ekki er tilefni til að orðlengja um þessa pistla umfram það sem liggur í augum uppi: til dæmis vandamál „staðreyndanna“ sem Nietzsche átti eftir að afgreiða síðar með fullyrðingu sinni um að „ekki séu til staðreyndir, heldur einungis túlkanir á staðreyndum“, með þeirri viðbót að einnig þessi yfirlýsing fæli í sér túlkun. Þessi fræga yfirlýsing Nietzsche hefur orðið mörgum hreintrúarmanninum hneykslunarefni, en Nietzsche bendir hér á þá grunnforsendu allrar fyrirbærafræði, að skynjun og skilningur veruleikans sé óhjákvæmilega bundinn gagnkvæmu sambandi, þar sem aðskilnaður áhorfandans frá viðfangi sínu felur óhjákvæmilega í sér sjónarhorn sem er jafn hverfult og tíminn sjálfur: hugmyndinn um „hlutinn í sjálfum sér“ sem „hlutlægt“ viðfang vísindalegrar rannsóknar felur alltaf í sér frumlægar forsendur sem eru hverfular eins og tíminn, og því er hugmyndin um eilífan sannleika vissulega falleg en óhjákvæmilega fallvölt eins og tíminn í ljósi eilífðarinnar.

Það er tungumálið sem hefur fært manninum þetta verkfæri til „hlutlægrar“ rannsóknar á veruleikanum, sem er dýrunum forboðið. Hér bendir Nietzsche einfaldlega á að um leið og hugtökin gefa okkur tilfinningu fyrir því að við höfum hlutina í hendi okkar þegar við höfum orðað þá, þá blasir hið þveröfuga við, því til dæmis orðið „hönd“ er ekki til í veröldinni sem hlutur í sjálfum sér, heldur einungis sem líffæri er eigi sér jafn margræða reynslu og þekkingu og rekja má til fjölda forfeðra okkar frá örófi alda. Engin hendi er „hlutur í sjálfum sér“ heldur tengd órjúfanlegum böndum tiltekins líkama með öllum þeim flókna tengslabúnaði og sögu sem því fylgir. Mynd líffærafræðanna af hönd okkar er sértekning sem á sér ekki sannanlega samsvörun, hvorki í hljóðmyndunum orðsins né á líkskurðarborðinu, þar sem höndin hefur verið aftengd allri reynslusögu sinni frá upphafi vega.

Það er þetta sem Husserl, Heidegger, Merleau-Ponty og aðrir frumkvöðlar fyrirbærafræðanna tóku upp frá Nietzsche og lögðu sig eftir að skilja í löngum og flóknum fræðiritum er sýna sögu þekkingarleitar mannsins í nýju ljósi.

Tilhneigingin að einangra „staðreyndirnar“ frá umhverfi sínu til að öðlast „rétta“ mynd af veruleikanum er stöðugt virk í samtíma okkar, einnig í þessum skrifum.

Til þess að sjá hversu villandi þessi einangrun „staðreyndanna“ getur verið nægir að kveikja á sjónvarpinu þessa stundina og sjá myndirnar af hryðjuverkaárásinni 6. október síðastliðinn, þar sem hrottafengnar aftökur og mannrán eiga sér stað. Sjónvarpið sýnir okkur þetta í nafni „staðreyndanna“ til að auka á augljósan hrylling atburðarins, þar sem hann er sýndur „sem slíkur“, aftakan „í sjálfri sér“ sem „staðreynd“.

Óhugnaðurinn sem slíkar myndir vekja er ekki til þess fallinn að vekja skilning á vandamálinu. Ef við stöndum frammi fyrir vanda sem þessum, þá er fyrsta skilyrði þess að lausn verði fundin, að við hættum að líta á „staðreyndina sem slíka“ en reynum að spyrja okkur hvernig slík voðaverk geta átt sér stað. Það kallar á að athyglinni sé beint að því sem Nietzsche kallar hið samfellda „flæði“ verðandinnar: hver var saga þessara fórnarlamba voðaverkanna, og hver var saga gjörningsmannanna?

Getur verið að hægt hefði verið að koma í veg fyrir voðaverkið? Var um að kenna lélegri gæslu við víggirðinguna sem hefur haldið 2,3 miljónum Palestínumanna innilokuðum áratugum saman án allra þeirra gæða sem við teljum forsendur „frelsis“? Voru gjörningsmennirnir að sleppa í fyrsta skiptið úr búrum sem hafði hindrað frelsi þeirra frá fæðingu? Voru fórnarlömbin búsett á landsvæði sem hafði tilheyrt fjölskyldum gjörningsmannanna, landi sem þeir töldu sig eiga erfðarétt á?

Þessar spurningar eru ekki settar fram til að réttlæta voðaverkin, og heldur ekki til að fordæma þau. Slíkir dómar leysa ekki vandann. Þeir frelsa ekki fólk í gíslingu og þeir vekja ekki fórnarlömb voðaverka upp frá dauða. Slíkar spurningar eru hins vegar nauðsynlegar ef raunverulegur vilji er fyrir hendi til að leysa vandann.

Slíkur vilji var ekki sjáanlegur í fréttaskýringu ítalska sjónvarpsins, sem ég var að horfa á. Slíkur vilji hefur ekki verið merkjanlegur hjá stjórnvöldum þeirra Evrópuríkja sem stofnuðu til þessa vandamáls með gyðingaofsóknum, heimsstyrjöldinni síðari og sviknum loforðum og mannréttindabrotum á íbúum Palestínu í lok heimsstyrjaldarinnar. Leitin að skilningi á voðaverkunum í ísraelsku samyrkjubúunum handan fangelsisgirðinga Gaza-svæðisins leiðir okkur að sögu Evrópu og þátt Evrópuríkja í að skapa þennan vanda.

„Staðreyndasýningar“ sjónvarpsfréttanna eru til þess fallnar að breiða yfir þessi tengsl og fela orsakasamhengið. Á meðan slík „fréttamennska“ er ástunduð er tilgangslaust að tala um „fordæmingu“ voðaverka og „fortakslausan rétt til sjálfsvarnar“. Það eru hin innantómu orð sem ekki breyta öðru en að kynda undir þá tilfinningaþrungnu hatursorðræðu sem blæs súrefni á stríðseldana. Það er í þessum skilningi sem við eigum að taka orð Nietzsche um „staðreyndirnar“ alvarlega.

Í örfáum orðum bendir Nietzsche okkur á að samsemd orðanna og hlutanna sé blekking, og að þessi blekking hafi jafnvel leitt manninn í aðra villu um hinn frjálsa vilja: Var vilji gjörningsmanna Hamas-samtakanna „frjáls“, gildir það sama um vilja þeirra hermanna sem látið hafa sprengjuregn rigna yfir varnarlaust og innilokað fólk í heila viku og skilið eftir sig á fimmta þúsund fórnarlömb og enn fleiri limlesta?

Nietzsche segir okkur að þar sem „staðreyndirnar“ og „hlutirnir“ séu bundnir samfelldu og órjúfanlegu flæði orsakar og afleiðingar sé tómt mál að tala um frjálsan vilja. En það þarf ekki að þýða að skilningur sé ómögulegur. Þvert á móti er hann eina leiðin til að hafa stjórn á viljanum.

Síðasta orðskeytið í þessari samantekt varðar þann trúarlega skilning á manninum sem kennir okkur að hann sé kóróna sköpunarverksins og í raun arftaki Guðs og yfirvald hans á jörðinni. Hér fer Nietzsche á kostum og snýr endanlega upp á mannhyggju húmanismans með bví að sýna manninn sem skemmtikraft og „apakött“ þess Guðs sem óhjákvæmlega búi við ógnir leiðans í allt of langri eilífð sinni og hafi því skapað manninn sem skemmtikraft. Þó maðurinn hafi skopskyn umfram dýrin, þá verður allur samanburður við skopskyn Guðs að hjómi, þar sem hégómagirnd mannsins beitir hinum „frjálsa vilja“ til eigin niðurlægingar og sjálfstortímingar er lýkur með mannlausri jarðarför hins síðasta manns og umbreytir plánetunni jörð í fljúgandi ljómandi grafardyngju mannkynsins.

Það er heilsubót af því að lesa Nietzsche


Friedrich Nietzsche:

Förumaðurinn og skuggi hans III.

Þrjú orðspjót um frjálsan vilja, gildrur tungumálsins og manninn sem skemmtikraft Guðs

 

11. Frelsi viljans og einangrun staðreyndanna

Hin hefðbundna og ónákvæma athugun okkar á hlutunum sér fyrir sér tiltekin hóp fyrirbæra sem mynda eina heild og athugun okkar kallar þessa einingu staðreynd. Á milli þessarar einingar og annarra ímyndum við okkur tómarými, og einangrum þannig sérhverja staðreynd. Sannleikurinn er hins vegar sá, að virkni okkar og þekking er ekki mótuð af röð staðreynda sem eru aðskildar með tómarými, heldur er um samfellt flæði að ræða. Við sjáum þannig að trúin á sjálfstæðan vilja mannsins er ósamræmanleg hugmyndinni um samfleytt og óstöðvandi flæði, sem ekki verður sundurslitið og einangrað.

Trúin á frjálsan vilja gengur út frá því að sérhver athöfn sé einstök og ódeilanleg. Að hún feli í sér stak-hugsun afmarkaðra eininga (Atomatismus) á sviði viljans og þekkingarinnar. – Við meðtökum staðreyndirnar með sama hætti og við leggjum óljósan skilning í bókstafina: við tölum um eins bókstafi: þeir eru hvorki þessir né hinir. Nú fellum við hins vegar jákvæða eða neikvæða dóma á þessum fölsku forsendum sem segja að til séu eins staðreyndir, að til sé stigveldisregla staðreyndakvía er eigi sér hliðstæðu í stigveldisafstæðu gildanna. Þetta felur í sér að við einangrum ekki bara tiltekna staðreynd, heldur einnig staðreyndaflokka er gefa sig út fyrir að vera eins (góðverk, illvirki, öfund eða umhyggja o.s.frv.), en hvort tveggja byggir á misskilningi. Orðið og hugtakið eru augljósustu vitnisburðirnir um trú okkar á einangrun tiltekinna hópa atvika. Við notum þau ekki bara til að merkja hlutina, heldur teljum við okkur þegar hafa í hendi okkar kjarna þeirra. Enn í dag erum við sífellt leidd af orðunum og hugtökunum til þess að ímynda okkur hlutina í einangrun sinni, einfaldari en þeir eru í raun og veru, við sjáum ódeilanleika þeirra þar sem þeir eru hver um sig í sjálfum sér og fyrir sjálfan sig. Tungumálið felur í sér heimspekilega goðafræði sem stingur endurtekið upp höfðinu, hversu vandir sem menn vilja vera að virðingu sinni. Átrúnaðurinn á hinn frjálsa vilja, það er að segja átrúðnaðurinn á eins staðreyndir og einangraðar staðreyndir, þessi átrúnaður á sinn guðspjallamann og sinn lögfræðilega verjanda í tungumálinu.

12. Grundvallarvillurnar

Til þess að maðurinn finni til einhverrar andlegrar velþóknunar eða andúðar þarf hann að vera á valdi annarrar af þessum tveim blekkingum: að hann trúi á jafngildi tiltekinna staðreynda eða tilfinninga og geti þannig brugðist stundlega við með vísun í fyrri reynslu, og fundið þar fullvissa samsvörun eða mismun (eins og gerist um sérhverja endurminningu), og finni þannig til velþóknunar eða andúðar, – eða þá að hann trúir á hinn frjálsa vilja, til dæmis þegar hann hugsar „ég hefði ekki átt að gera þetta“, „þetta hefði getað farið öðruvísi“. Þannig upplifir hann með sama hætti andúð eða velþóknun. Án þessara yfirsjóna, sem eru að verki í sérhverri velþóknun eða andúð, hefði aldrei neitt mannkyn komið til sögunnar – en grundvallartilfinning sérhvers manns er og verður sú, að maðurinn sé frjáls vera í heimi nauðsynjarinnar. Hann er hinn eilífi Taumaturg eða galdralæknir, hvort sem hann vinnur til góðs eða ills, hann er hin undraverða undantekning, ofurskepnan og næstum-Guðinn, sem felur í sér merkingu sköpunarverksins, hið óhugsandi jafnt og hið ósegjanlega, hið endanlega hugtak hinnar kosmísku ráðgátu alheimsins, hinn mikla yfirdrottnara og smánara náttúrunnar, hann er veran sem kallar sína sögu sögu alheimsins. – Vanitas vanitatum homo.

 

14. Manneskjan sem skemmtikraftur alheimsins

Ætla mætti að til væru í heiminum verur gæddar dýpra skopskyni en mannfólkið, þó ekki væri nema til að skynja til fulls þá fyndni sem fólgin er í því að maðurinn skuli líta á sjálfan sig sem æðsta markmið alheimsins, og að mannkynið er þá fyrst sátt með sjálft sig þegar það hefur sett sér trúboðsmarkmið er taki til veraldarinnar allrar. Ef einhver Guð hefur skapað heiminn, þá hefur hann skapað manninn sem apakött Guðs, sem óendanlegt tilefni til skemmtunar í allt of langri eilífðartilveru hans.

Hljómkviða himinhvolfanna sem umlykja jörðina væri þá aðhláturssöngur allra annarra skepna sem umlykja manninn. Það er ekki án sársauka sem þessi depurðarþjáða eilífðarvera etur uppáhalds dýrinu sínu á vaðið til þess að geta notið hinna harmsögulegu og metnaðarfullu tilþrifa þess, notið túlkananna á þjáningu þess og umfram allt á hinni andlegu uppátekt hégómafyllstu skepnunnar – í mynd uppfinningamanns þessa uppfinningameistara. Því sá sem fann upp manninn sér til skemmtunar var gæddur meira skopskyni en maðurinn, og var meira fyrir fyndnina gefinn.

Einnig hér, þar sem okkar mannkyn niðurlægir sjálft sig af frjálsum vilja, einnig hér hittir hégómagirnd okkar í mark, því að minnsta kosti í því efni er varðar hégómagirndina vildum við mennirnir vera framúrskarandi og stórbrotnir umfram aðrar skepnur.

Hin einstaka staða okkar í alheiminum! Guð minn góður, hún á sér engan líka!

Stjörnufræðingarnir okkar, sem stundum þurfa raunverulega að líta til sjóndeildarhrings sem er aðskilinn frá jörðinni, veita okkur skilning á því að þeir örsmáu agnardropar lífs, sem finna má í alheiminum, hafa nær enga þýðingu ef litið er til heildareðlis þess óhemjuúthafs framtíðar og fortíðar sem finna má í óendanlegum fjölda þeirra himnakroppa er bjóða upp á lífsskilyrði sambærileg jörðinni hvað varðar framleiðslu lífs; þeir eru reyndar fjölmargir, en engu að síður í afar takmörkuðu magni, ef borið er saman við óendanlegan fjölda allra hinna, er aldrei hafa reynt uppsprettu lífs eða hafa fyrir margt löngu læknast af slíkri uppákomu. Einnig hafa stjörnufræðingarnir  sagt okkur að miðað við tímanlega tilveru þessara himnakroppa þá hefur tilverutími lífsins varað stundarkorn, eins og augnabliksgos, er markast af óralöngum aðdraganda, og það getur því hvorki talist áfangastaður né endanlegt markmið tilveru þeirra.

Hugsanlegt er að maurinn í skóginum hafi jafn sterkt ímyndunarafl þess að sjá sjálfan sig sem endanlegt markmið og tilgang skógarins og við, þegar við ímyndum okkur nánast óviljandi að  endalok mannkynsins feli í sér endalok jarðarinnar.

Reyndar erum við full hæversku þegar við staðnæmumst við þann atburð sem við skipuleggjum ekki sjálf, það er að fylgja síðasta manninum til grafar í alheimsrökkri guðanna. Jafnvel hinn harðsvíraðasti meðal stjarnfræðinganna á erfitt með að hugsa sér jörðina án lífs öðruvísi en sem ljómandi og svífandi grafardyngju mannkynsins.

 

Forsíðumyndin er ljósmynd eftir Claudio Parmiggiani frá 1972: Afritun eða "Deiscrizione"

NIETZSCHE: FÖRUMAÐURINN OG SKUGGI HANS II. – EIGNARÉTTURINN OG RÉTTLÆTIÐ

NIETSCHE UM EIGNARRÉTTINN OG SIÐFERÐI GÓÐS OG ILLS

Næsta orðspjót Nietzsche sem hér er birt á eftir textabrotinu um stríðið, fjallar um réttlætið og náttúrleg talmörk jafnréttis í mannlegu samfélagi.

Nietzsche er þekktur fyrir andúð sína á lýðræði og sósíalisma, og þá jafnframt fyrir áherslu sína á frelsi einstaklingsins. En þessi skilningur á Nietzsche er ekki einhlítur, eins og sjá má af eftirfarandi textabroti. Rétt er að hafa í huga að þessi samtöl förumannsins Nietzsche við skugga sinn eru skráð á ferðalagi hans um svissnesku Alpana síðsumars 1879, þegar hann var 35 ára.

Seinni hluti 19. aldarinnar í Evrópu einkenndist meðal annars af eftirstöðvum Napoleonsstyrjaldanna í upphafi aldarinnar, og síðan af iðnvæðingu og vaxandi nýlenduveldi Erópuríkja með tilkomu eimreiða, rafmagns og annarra tækninýjunga. Á þessu tímabili verður til ný stéttaskipting, sem Marx og Engels skilgreindu manna best í Kommúnistaávarpinu frá 1845. Þeir Marx og Engels stóðu einnig á bak við Fyrsta alþjóðasamband verkalýðsins, sem var stofnað 1864, og fyrsta bindi Kapítalsins eftir Karl Marx kom út 1873, og var því tiltölulega nýtt þegar Nietzsche skrifar orðspjót sín um „Förumanninn“.

Það sem hér skiptir þó kannski mestu máli með tilliti til tíðaranda „Förumannsins“ er „Prússneska stríðið“ sem Napoleon III. hóf gegn tilraunum Bismarks til að sameina Þýskaland 1870. Því lauk með kyrfilegum ósigri Frakka, er aftur leiddi af sér stofnun „Parísarkommúnunar“ 1871, en það var í raun sósíalísk bylting er fól í sér stórfelldar umbætur í jafnræðisátt og aðskilnað ríkis og kirkju, allt framkvæmt í heiftarbræði og með ofbeldi byltingarinnar. Parísarkommúnan stóð einungis í 3 mánuði og henni lauk með blóðbaði þar sem 10 þúsund Parísarbúar voru felldir á einni viku og franska lýðveldið, sem kennt var við Versali var stofnað.

Ágreiningur og vinslit Nietzsche og Wagners verða vart skilin án þessa sögulega bakgrunns þar sem þjóðernissinnuð og rómantísk andúð Wagners á alþjóðahyggju og nýlendustefnu Napoleonstímans birtist í endurvakningu hins „frumgermanska menningararfs“ eins og hann birtist til dæmis í Niflungahringnum, og var í takt við hið nýja Prússland Bismarks.

Nietzsche hafði uppgötvað að hin þjóðernissinnaða herkvöð Wagners gegn frönsku nýlendustefnunni var ekki sú dionýsiska endurvakning sem hann hafði haldið, heldur afsprengi nýrrar þjóðernissinnaðrar borgarastéttar, og að sigurinn yfir Frökkum hafði ekki bara kallað fram sósíalíska byltingu í París, sem síðan varð kæfð í blóði eftir þriggja mánaða  ógnarstjórn. Athugasemdir Nietzsche um náttúruleg takmörk jafnaðarstefnunnar sem hér birtast, og hina tvíræðu merkingu réttlætisumræðunnar, verður að skoða í þessu ljósi.

Nietzsche beinir gagnrýni sinni ekki að höfundum Kommúnistaávarpsins, sem hann hefur vafalaust þekkt, heldur rekur hann gagnrýni sína á tvíbenta jafnréttishugsjón sósíalista til hugmynda Platons um sameignarsamfélagið í „Ríkinu“, þar sem útópían byggði í raun á miðstjórnarvaldi heimspekinganna, sem einir hefðu „sannleikann“ á sínu valdi. Í stuttu máli heimfærir Nietzsche sósíalískar hugmyndir jafnaðarstefnu og kommúnisma á 19. öldinni undir hinn frumspekilega hugmyndaheim Platons, og það er kannski fyrst og fremst á þessum forsendum sem hann rökstyður andúð sína á sósíalisma og lýðræði víða í seinni ritum sínum, andúð sem virðist fara frekar vaxandi með árunum. Nietzsche var jafn andvígur þýskum þjóðernishroka og blóðugri ógnarstjórn Parísarkommúnunnar, því hann vildi huga lengra og byggja rök sín á djúpri þekkingu á mannlegu eðli. Nietzsche sá í gegnum falsið í notkun jafnaðarhugtaksins, en eins og kemur fram í lokasetningunni merkir það ekki að hann hafi í raun verið á móti þeim jöfnuði er væri siðmenntuðum mönnum eðlislægur.

Friedrich Nietzsche

Förumaðurinn og skuggi hans II.

 

285. Ef réttlætið getur komið í stað eignarhaldsins

Ef tilfinningin fyrir óréttlæti eignarréttarins gerir sterklega vart við sig – en vísar stóra klukkuverksins eru enn á ný á þessum punkti, – þá eru tvö atriði sem geta endurstillt verkið: annars vegar jöfn eignadreifing, hins vegar afnám séreignarinnar og endurheimt hinnar samfélagslegu sameignar. Þetta síðasta úrræði er í sérstöku uppáhaldi hjá sósíalistunum okkar, sem hafa horn í síðu þess forna gyðings er boðaði: þú skalt ekki stela. Samkvæmt þeim ætti sjöunda boðorðið frekar að segja: þú skalt ekki eiga.

Tilraunir í átt til staðfestingar fyrri reglunnar hafa oft verið reyndar í fornöld, en þó aðeins í takmörkuðum mæli og án raunverulegs árangurs, sem ætti einnig að vera okkur lærdómur. Það er auðvelt að segja: „jafnstór landskiki fyrir hvern og einn“, en hvílík depurð fylgir ekki þeirri nauðsyn sem í yfirlýsingunni felst: að skipta upp landi og deila. Glötun ævagamals erfðagóss sem er kastað á glæ! Þegar vörðurnar á jarðarmörkunum eru rifnar niður fara undirstöður siðferðisins sömu leið. En ekki nóg með það: hvílík endurvakin vonbrigði nýrra landeigenda, hvílík öfund og hvílík reiði, því aldrei geta tveir jarðarskikar verið eins, og jafnvel þó svo væri, þá myndi öfundin gagnvart nágrannanum aldrei viðurkenna slíka jafngildingu. Og hversu lengi myndi slík jafngilding duga er fæli í sér svo eitraðar rætur? Innan fárra ættliða hefur einum og sama skikanum verið skipt í fimm hluta, en hjá öðrum er hann óskiptur. Og þar sem þessi regla kom til framkvæmda með svo ströngum og ósveigjanlegum erfðaskiptareglum, þar sem skikarnir voru vissulega jafnir, en leiddu um leið af sér vansæla einstaklinga með ólíkar þarfir, þá skildi hún ekkert eftir nema öfundina gagnvart foreldrum og nágrönnum og löngunina til að umbylta öllu.

Ef seinni reglunni hefði hins vegar verið fylgt, og landinu skilað til samfélagsins, þar sem aðkoma einstaklingsins væri til bráðabirgða og í formi verktakans, þá myndi það leiða til landeyðingar. Maðurinn ber aldrei umhyggju fyrir því sem hann hefur einungis tímabundin afnot af, og gerist því jarðvöðull og landaspillir.

Þegar Platon segir að sérhyglina skuli uppræta í krafti eignarréttarins, þá mætti svara því til, að þegar maðurinn hafi verið sviptur sérhygli sinni þá hafi höfuðdyggðirnar fjórar fokið með, -eða eins og segja mætti: engin farsótt yrði mannkyninu skaðvænlegri en ef það væri einn daginn svipt hégóma sínum. Hvað væru hinar mannlegu dyggðir annars án hégóma og sérhygli? Það er langt í frá að hér sé því haldið fram að dyggðirnar séu einungis nafnið eitt og gríman.

Grundvallar útópía Platons, sem sósíalistarnir lofsyngja enn í dag, byggir á meingölluðum skilningi á manninum sjálfum: Platon horfði framhjá sögu tilfinningalegrar siðferðiskenndar mannsins, hann skildi ekki uppruna þeirra grundvallargæða sem búa í mannssálinni. Skilningur hans á hinu góða og illa var, rétt eins og í fornöldinni,  bundinn við svart og hvítt, sem fól í sér að um væri að ræða róttækan eðlismun á hinum góðu og hinum illu mönnum, á hinum góðu og illu gæðum.

Til þess að eignarrétturinn blási mönnum í brjóst trúartraust og bjartsýni á framtíðina og efli þannig siðferðisvitundina þarf að halda opnum öllum leiðum í smærri atvinnurekstri og koma í veg fyrir fyrirhafnarlausa og skyndilega auðsöfnun. Taka þarf allar greinar samgangna og viðskipta úr höndum einstaklinga og einkafyrirtækja. Þetta á við um allar þær atvinnugreinar er bjóða upp á mikla og skjóta auðsöfnun, en það á ekki síst við um öll viðskipti með peninga.  Hér gildir hið sama um stóreignamennina og hina eignalausu:  báðir hóparnir fela í sér hættu fyrir samfélagið.

…………………………..

Forsíðumyndin er sögulegt málverk um Parísarkommúnuna eftir óþekktan höfund

BYUNG-CHUL HAN: ALRÆÐI UPPLÝSINGANNA


ÓVÆNT RÖDD Í EVRÓPSKRI HEIMSPEKIUMRÆÐU SAMTÍMANS
Fyrir tæpu ári síðan, þegar ég var síðast hér á Ítalíu kom ég að venju í bókabúð og greip fyrir tilviljun bók eftir Suður-Kóreiskan rithöfund sem ég þekkti ekkert - en mér þótti titillinn forvitnilegur: "Hvers vegna er byltingin ómöguleg?". Mér þótti bókin skemmtileg og vel skrifuð og þegar ég komst svo aftur í ítalska bókaverslun fyrir mánuði síðan keypti ég fleiri bækur, sem hafa stytt mér stundirnar undanfarið.
Byung-Chul Han kom til Þýskalands fyrir um 40 árum og settist á skólabekk, fyrst í tæknivísindum en leiddist fljótt út í þýskunám, heimspekinám og nám í kaþólskum fræðum. Hann varð kennari við Listaháskólann í Berlín og hóf rithöfundaferil sinn á þýsku fyrir rúmum áratug og hefur á þessum tíma orðið metsöluhöfundur, ekki bara á þýskum bókamarkaði, heldur í fleiri heimsálfum, ekki síst í fæðingarlandi sínu og í löndum Latnesku Ameríku. Og eins og sjá má á bókatitlum hér að neðan hefur hann fengið mikla útbreiðslu einnig hér á Ítalíu.
Bækur hans eru flestar stuttar og skrifaðar á hnitmiðuðu tungumáli og án málalenginga, sem gerir hann afar óvenjulegan innan síns fags, heimspekinnar, þar sem samtímaheimspekin hefur lokast æ meir inn í tæknilegum orðalengingum og rökflækjum um leið og hún hefur fjarlægst almenning.
Bækur hans hafa allar sterkan pólitískan undirtón og má oft kenna þær við heimspekilega heimsádeilu, þar sem nýfrjálshyggjan og tækniþróun samtímans eru í skotmarkinu. Han sækir margt til Michel Foucault og Agambens í ritum sínum, en deilir á báða og má segja að hann hafi klætt samtíma okkar í nýjan hugtakabúning sem veitir oft nýstárleg sjónarhorn á samtímann. Í þessu samhengi minnir hann ekki síst á Jean Baudrillard, en ég hef hins vegar ekki rekist á beinar tilvitnanir í Baudrillard enn. 
Greining hans á kapítalisma nýfrjálshyggjunnar er utan hinnar klassísku greiningar marxismans á stéttabaráttunni, þar sem hann segir valdið nú ekki snúast lengur um eignarhalæd á framleiðslutækjunum, heldur sé Það fólgið í földum reiknilíkönum og talnavélum gagnabankanna. Í því umhverfi eru hefðbundnir atvinnurekendur og launþegar á sama báti, segur Hun, hver að skapa sína eigin tilveru í gegnum þá neysluvél sem er um leið arðránsvél kapítalismans. Ekki er tilefni til að rekja hugmyndaheim Hun frekar hér, en ein af síðustu bókum hans "Infokratie" frá 2021 hefur að geyma nokkrar magnaðar greinar sem greina og gagnrýna meðferð og notkun upplýsinga í samtímanum. Ég snéri fyrstu greininni á íslensku þar sem hún er afar kjarnyrt og skýr og bregður óvæntu ljósi á samtímann, um leið og hún varpar vissu ljósi á hugmyndaheim þessa þýska Kóreumanns sem kemur með óvæntan tón inn í evrópska heimspekiumræðu.
Byung-Chul Han:

Alræði upplýsinganna

 

Við köllum það valdstjórn upplýsinganna þar sem upplýsingarnar og dreifing þeirra eru afgerandi þáttur í félagslegri, efnahagslegri og pólitískri stjórnsýslu í gegnum reiknilíkön og Gervigreind. Öfugt við agasamfélagið þá er ekki um að ræða arðrán á líkömum og orku, heldur upplýsingum og skráðum gögnum. Það sem er afgerandi fyrir valdið er ekki eignarhald á framleiðslutækjunum, heldur aðgangur að upplýsingum er nýtast til sálfræðilegs-pólitísks eftirlits, til forsagna og eftirlits með hegðunarmynstri. Upplýsingavaldstjórnin helst í hendur við upplýsinga-kapítalismann sem þróast yfir í eftirlitskapítalismann og gjaldfellir mannfólkið niður í dýr til skrásetningar og neyslu.

Agasamfélag iðnaðarkapítalismans

Valdstjórn agasamfélagsins felur í sér valdakerfi iðnaðarkapítalismans, og hefur sjálf innbyggða vélvæðingu. Sérhver einstaklingur er eins og tannhjól í valdamaskínu agavaldsins. Það grefur sig inn í taugar og vöðvavefi er mynda vel smurða vél samsetta úr „ómótuðu deigi, úr vanhæfum líkama“[i]. Það er „auðsveipur og meðfærilegur líkami sem má ummynda og fullmóta“[ii]. Þessir líkamar, sem eru meðfærilegir rétt eins og framleiðsluvélarnar, eru ekki uppspretta skráningargagna og upplýsinga, heldur uppspretta orku. Undir valdstjórn agasamfélagsins er mannfólkið tamið til að verða að vinnudýrum.

Upplýsingakapítalisminn, sem byggir á tengslum og fjölmiðlun, gerir tækni agavaldsins úrelta, rétt eins og einangrunarsvæðin, hinn stranga aga vinnunnar og líkamsþjálfunina. Auðsveipnin (docilité) sem felur líka í sér eftirgjöf og þjónslund, getur ekki talist kjörsvið upplýsingasamfélagsins. Þegninn sem lýtur valdstjórn upplýsinganna er hvorki meðfærilegur né hlýðinn. Þvert á móti telur hann sig vera frjálsan, heilsteyptan og skapandi: hann framleiðir og raungerir sjálfan sig.

Panopticon

 Koepelgevangenis eða Hvelfingarfangelsið í Arnheim, teiknað af  J.F. Metzelaar, 1882–1886. Hugmyndin endurspeglar "Panopticon" fangabúðir Foucaults í bók hans Eftirlit og Refsing.

Sú agavaldsstjórn sem Foucault hefur lýst, nýtir sér einangrunina sem stjórntæki. „Einsemdin er fyrsta forsenda algjörrar undirgefni“[iii]. Alsæiseftirlitið (Panopticon)[iv] með sínum einangruðu raðklefum er táknmynd og fyrirmynd agavaldsins. Einangrunin hæfir hins vegar ekki valdstjórn upplýsingasamfélagsins, sem byggir einmitt á samskiptum. Í þessu samfélagi fer eftirlitið fram í gegnum gagnasöfnin. Fangarnir sem búa undir eftirliti Panopticon búa í innbyrðis einangrun, þeir framleiða engin gögn, skilja ekki eftir sig stafrænar upplýsingar og eru því sambandslausir.

Fórnarlamb og skotmark hins agabundna lífvalds er líkaminn: „Í hinu kapítalíska samfélagi er það lífpólitíkin sem skiptir mestu máli, hið líffræðilega og það sem snertir líkamann.“[v] Undir valdstjórn lífvaldsins er líkaminn undirseldur framleiðsluvélinni og því eftirliti sem hámarkar afköst hennar í gegnum hið líkamlega agavald. Þveröfugu máli gegnir um valdstjórn upplýsingasamfélagsins, nokkuð sem Foucault hafði af eðlilegum ástæðum ekki séð fyrir – þar er ekki um neina stjórnskipan lífvaldsins að ræða. Valdstjórn upplýsingasamfélagsins gerir sér ekki annt um líkamann, heldur situr hún um mannssálina í gegnum hið sálræna yfirvald. Nú á tímum er líkaminn fyrst og fremst viðfang fegrunarfræða og „fitness“. Að minnsta kosti á það við um hinn vestræna kapítalisma upplýsinganna. Hann hefur að stærstum hluta losað líkamann úr viðjum agavaldsins sem þjálfaði hann til að verða að vinnuvél. Hann er þannig orðinn fangi fegrunariðnaðarins.

Sérhverju valdakerfi fylgir tiltekin stjórnlist sýnileikans. Í konungsríkinu var mikilvægast að sviðsetja valdstjórnina með áberandi hætti: leiksýningin (lo spettacolo) er miðill þess. Yfirvaldið sýnir sig í tilkomumikilli leiksýningu. Dýrðarljóminn verður réttlæting þess. Skrautsýningar og valdatákn festa valdið í sessi. Viðhafnartilburðir og sviðsmunir ofbeldisins er hrífa mannfjöldann, stórhátíðir og myrkir refsi- og aftökusiðir tilheyra valdinu í formi leiksýninga. Líkamlegar kvalir eru sviðsettar til áhorfs og til að hrífa fjöldann. Böðullinn og hinir dæmdu koma fram sem leikendur. Svið hins opinbera er leiksvið. Konungsvaldið virkar í gegnum leikræna framsetningu: það er vald sem sýnir sig, auglýsir sig, stærir sig af eigin ljóma. Undirsátarnir sem það sviðsetur sig fyrir, eru hins vegar ósýnilegir.

Aftakan sem sviðsetning konunglegs valds: aftaka John Turrell í Hertford, Englandi 1824

Ólíkt hinu konunglega valdi er ríkti fyrir tíma módernismans, þá felur agavald nútímans ekki í sér samfélag sjónarspilsins, heldur samfélag eftirlitsins. Hin tilkomumiklu hátíðahöld konungsvaldsins og allar skrautsýningar þess víkja nú fyrir hverstagslegu skrifræði eftirlitssamfélagsins. Mannfólkið er hvorki til staðar „á áhorfendapöllunum né á sjálfu leiksviðinu“ heldur „í hinni alsjáandi (panoptica) eftirlitsvél.“[vi]

Undir agavaldinu verða algjör endaskipti á sýnileikanum. Þar eru það ekki valdhafarnir sem láta ljós sitt skína, heldur hinir undirokuðu. Agavaldið gerir sig ósýnilegt um leið og það þvingar þegnana undir samfellt ljós eftirlitsvélanna. Þegnarnir eru undir eftirlitsljósi ljóskastaranna til að tryggja stöðu yfirvaldsins. Vitundin um að búa „samfleytt undir eftirlitsljósinu“ viðheldur agavaldi þegnskyldunnar.[vii]

Skilvirkni hins panoptíska agavalds byggist á því að  undirsátar þess finni stöðugt til eftirlitsvélarinnar. Þeir innbyrða eftirlitið. Það skiptir mestu máli fyrir agavaldið að „innræta […] viðvarandi meðvitund um sýnileikann“[viii]. Í eftirlitssamfélagi George Orwells framkallar „Stóri bróðir“ (The Big Brother) samfelldan sýnileika. Big Brother is watching you. Undir valdstjórn agavaldsins er umfang rýmisins, í mynd einangrunarsvæða og fangabúða, trygging fyrir sýnileika þegnanna, sem þannig hafa fengið úthlutað afmörkuðu rými sem þeir hafa enga heimild til að yfirgefa. Hreyfigeta þeirra er vandlega takmörkuð þannig að þeir geti ekki smogið undan eftirlitsljósi Panopticon.

Í upplýsingasamfélaginu eru hin eiginlegu einangrunarrými agavaldsins leyst upp í opin net. Í upplýsingasamfélaginu mynda eftirtalin atriði hina staðfræðilegu reglu: Stífluverkin víkja fyrir flæðinu. Í stað læsinganna sjáum við opnanirnar. Einangrunarklefarnir víkja fyrir samskiptanetunum. Sýnileikinn fær nú á sig þveröfuga mynd, ekki lengur í gegnum einangrunina, heldur í gegnum samtenginguna. Hin stafræna upplýsingatækni umbreytir samskiptunum í eftirlit: því fleiri sem netskilaboð okkar eru, því ákafari sem netsamskipti okkar verða, þeim mun árangursríkari verður eftirlitsvélin. Farsíminn nýtir sér frelsið og samskiptin sem eftirlits- og valdatæki. Í upplýsingasamfélaginu finnur fólk ekki fyrir eftirliti, heldur fyrir frelsistilfinningu. Þversögnin er sú að það er einmitt frelsistilfinningin sem tryggir yfirráðin. Að þessu leyti finnum við reginmun á agavaldinu og upplýsingavaldinu. Yfirdrottnunin fullkomnast á þeirri stundu þegar frelsið og eftirlitið falla í sama farveg.

Valdstjórn upplýsinganna blómstrar í fjarveru agavaldsins. Einstaklingarnir eru ekki lengur þvingaðir undir neitt „panoptískt“ eftirlitsljós. Þvert á móti beina þeir athyglinni að sjálfum sér af innri þörf, án nokkurrar ytri þvingunar. Þeir fram-leiða sjálfa sig, það er að segja setja sjálfa sig í sviðsljósið. Franska orðatiltækið se produire merkir að „sýna sig“. Undir valdstjórn upplýsinganna eiga þegnarnir sjálfir frumkvæði að því að skapa sér þann sýnileika sem agavaldið hafði áður þvingað þá í. Þeir setja sig í sviðsljósið af frjálsum vilja, eða öllu heldur þá sækjast þeir eftir því, á meðan undirsátar eftirlitsljósa Panopticon reyna að forðast það.

Gagnsæið

Eignarhald valdstjórnar upplýsingasamfélagsins á sýnileikanum gengur undir nafninu gagnsæi. Þegar gagnsæið er einskorðað við opinbera stjórnsýslu upplýsingasamfélagsins, undir yfirstjórn tiltekinna stofnana eða einstaklinga, eru höfð endaskipti á hlutunum: Gagnsæið verður kerfisbundin þvingun upplýsingasamfélagsins. Boðorðið verður: allt á tilvist sína undir upplýsingunni. Gagnsæi og upplýsingar verða eitt og hið sama. Upplýsingasamfélagið er samfélag gagnsæisins. Tilskipun gagnsæisins verður sú, að upplýsingarnar fái frjálst flæði. Hið sanna frelsi tilheyrir ekki þegnunum, heldur upplýsingunum. Þversögn upplýsingasamfélagsins staðhæfir að mannfólkið sé fangar upplýsinganna. Þeir smíða sér sjálfir eigin hlekki að því marki sem þeir miðla og framleiða upplýsingar. Hið stafræðna fangelsi er gagnsætt.

Hof gagnsæis og myrkurs

Helsta viðskiptamiðstöð (flagship store) Apple í New York er teningur úr gleri, hof gagnsæisins. Út frá pólitískum sjónarhóli gagnsæisins myndar hann andstæðu Ka‘ba (Svarta teningsins) í Mekka. Ka‘ba merkir bókstaflega „teningur“ (cubo): þykkt svart yfirborð hans sviptir hann öllu gagnsæi. Aðeins hofprestarnir hafa aðgang að innra rými hans. Hið ævaforna (arcano / arcanus á latínu, samstofna forskeytinu „erki-“ á ísl. = það sem tilheyrir hinum myrka uppruna hlutanna, forneskjan, „örkin“.), sem er svipt öllum sýnileika, er um leið grundvöllur sérhverrar trúarlegrar-pólitískrar yfirdrottnunar. Innrýmið (la cella) í gríska hofinu er hulið sjónum allra, og kallast adyton á grísku, sem þýðir bókstaflega „þar sem inngangur er bannaður“. Einungis hofprestarnir hafa aðgang að þessu helga rými. Yfirdrottnunin hvílir hér á hinni ævafornu forneskju (arcano). Hin gagnsæja verslunarmiðstöð Apple er hins vegar opin öllum dag og nótt. Undir teningnum er verslunarkjallarinn. Hver sem er hefur aðgang byggingunni sem viðskiptavinur. Svarti Ka‘ba teningurinn í Mekka og glerteningur Apple-verslunarinnar eru tvö ólík form yfirvaldsins: forneskjan og gagnsæið.

Ka'ab teningurinn í Mekka. Helgasta trúarhof múslima

Apple-verslunin í New York: glerteningurinn

Glerteningur Apple vísar til hömlulauss frelsis og samskipta, en í raun og veru er hann mynd hinnar  vægðarlausu yfirdrottnunar upplýsinganna. Valdstjórn upplýsinganna gerir mannfólkið fullkomlega gagnsætt. Sjálft yfirvaldið er hins vegar aldrei gagnsætt: gagnsætt yfirvald er hvergi til staðar. Gagnsæið er forhliðin á starfsemi sem er handan alls sýnileika. Sjálft gagnsæið er ekki gagnsætt: það á sína bakhlið. Skurðstofa gagnsæisins er myrkraklefi. Við felum okkur honum á vald, þessum myrkraklefa reiknilíkananna.

Snjallsíminn, snjallheimilið og snjallvaldið

Valdsvið upplýsinganna er í felum um leið og það er alvirkt í allri hversdagsreynslu okkar. Það felur sig á bak við greiðvikni samfélagsmiðlanna, á bak við þægindi leitarvélanna, á bak við kliðmjúkar aðstoðarraddir upplýsingaveitnanna og allan þann hægðarauka sem hin snjöllu forrita-öpp bjóða upp á. Snjallsíminn sýnir sig að vera hraðvirk upplýsingaveita sem setur okkur undir stöðugt og samfellt eftirlit. Snjall-heimilið (smart-home) umbreytir gjörvallri íbúðinni í stafrænt fangelsi, sem hefur nákvæmt eftirlit með öllum daglegum gerðum okkar. Snjall-ryksugan, sem losar okkur undan erfiði gólfþrifanna, kortleggur gjörvalla íbúðina. Snjall-rúmið með sínum nettengingum framlengir eftirlitið inn í svefninn. Eftirlitið smeygir sér inn í hversdagstilveru okkar undir merki vellíðunar. Engin andstaða gegn ríkjandi yfirvaldi gerir vart við sig í hinu stafræna fangelsi hins snjalla hægindarýmis. „Lækið“ útilokar sérhverja byltingu.

Smart-Home, auglýsing fyrir snjall-heimilið

Kapítalismi upplýsinganna hagnýtir sér hina nýfrjálsu tækni valdsins. Gjörólíkt eiginlegri valdatækni agasamfélagsins þá beitir hann hvorki skyldum né bönnum, heldur ber fyrir sig jákvæða hvata. Hann nýtir sér frelsið í stað þess að bæla það. Hann leiðir ómeðvitaðan vilja okkar í stað þess að brjóta hann niður með ofbeldi. Hið kæfandi agavald víkur fyrir snjall-valdinu, sem beitir ekki tilskipunum heldur pískri, ekki fyrirskipunum heldur ábendingum, með duldum boðmerkjum hvetur það okkur að fylgja hegðunareftirlitinu. Eftirlit og refsing  voru aðalsmerki agasamfélagsins samkvæmt Foucault, en þau víkja nú fyrir hvatningum  og betrun. Valdstjórn upplýsingasamfélags nýfrjálshyggjunnar kynnir sig til leiks undir merkjum frelsis, samskipta og samfélags.

Áhrifavaldarnir og fylgjendurnir

Áhrifavaldarnir sem starfa á You Tube og Instagram hafa einnig innbyrt valdatækni nýfrjálshyggjunnar. Hvort sem um er að ræða ferðalög, fegrunarmeðul eða líkamsrækt, þá starfa áhrifavaldarnir markvisst undir merkjum frelsisins, nýsköpunarinnar og hinnar heilsteyptu sjálfsmyndar. Auglýsingatækni þeirra miðar að lævísu framboði varnings, þar sem þeir sviðsetja sjálfa sig án þess að ganga fram með oflæti sölumannsins. Þannig skapa þeir eigin eftirspurn og leitarmarkmið á meðan hefðbundnar auglýsingar eru fjarlægðar með adblocker. Áhrifavaldarnir njóta vinsælda sem eftirsóknarverðar fyrirmyndir. Þannig fær allt á sig trúarlegt yfirbragð. Í gervi hugsjónaleiðtoga ganga þeir inn í hlutverk hins frelsandi afls. Fylgjendurnir (followers) taka þátt í lífi þeirra eins og lærisveinar með því að kaupa varninginn sem áhrifavaldarnir hampa í sviðsetningu síns daglega lífs. Þannig öðlast fylgjendurnir hlutdeild í hinni stafrænu altarisgöngu. Samfélagsmiðlarnir taka þannig á sig mynd safnaðarstarfs kirkjunnar: „Lækið“ er þeirra Amen. „Sharing“ samsvarar altarisgöngunni og neyslan verður sáluhjálpin. Sú endurtekning sem fólgin er í leikrænni framsetningu áhrifavaldanna framkallar hvorki leiða né tilbreytingarleysi, öllu heldur felur hún í sér trúföst einkenni helgisiðarins. Um leið kynna áhrifavaldarnir neysluvarning sinn sem meðul til að raungera sjálfan sig. Þannig verðum við neytendur til dauðs. Neysla og sjálfsímynd verða eitt og hið sama: sjálfsímyndin verður sjálf að söluvöru.

Snertiskjárinn og frelsið í fingurgómunum

Við teljum okkur vera frjáls jafnvel þótt líf okkar sé undirsett algjörri skrásetningu er miði að fullkomnu sálrænu eftirliti með hegðun okkar. Virkni valds nýfrjálshyggjunnar undir valdstjórn upplýsinganna ræðst ekki af vitundinni um samfellt eftirlit, heldur af hinu skynjaða frelsi. Ólíkt hinum ósnertanlega sjónvarpsskjá Big Brother-sjónvarpsþáttanna, þá er það hinn snjalli snertiskjár sem færir okkur alla hluti innan seilingar og neyslufæris. Þannig færir snertiskjárinn okkur „frelsið í fingurgómana“[ix]. Að vera frjáls undir valdstjórn upplýsinganna merkir ekki að bregðast við, heldur að klikka, sýna „Like“ og ýta á „senda- takkann“. Þannig sleppum við undan allri mótstöðu, og engin bylting verður yfirvofandi. Fingurgómarnir eru ekki færir um raunverulega handvirkni (Handlung). Þeir eru einungis líffæri hinnar valkvæmu neysluhyggju. Neysla og bylting fela í sér gagnkvæma útilokun og eiga því ekki samleið.

Eitt af einkennum hins klassíska alræðis sem pólitísk og veraldleg trúarbrögð er hugmyndafræðin, sem heldur fram „meintri algildri útskýringu“. Sem heildarfrásögn býður hugmyndafræðin upp á „að bregða ljósi á alla sögulega atburði, ráða yfir algildri skýringu á fortíðinni, fullgildu mati á samtímanum og áreiðanlegri forspá um framtíðina“[x]. Sem algild útskýring útilokar hugmyndafræðin sérhver skilyrt eða tilfallandi frávik, sérhverja óvissu.

Frásagnarvaldið og reiknivaldið

Með aðferðarfræði heimildafræðanna (Dataismus) að vopni sýnir valdstjórn upplýsinganna einkenni alræðisins. Hún boðar altæka þekkingu. Þessi algilda þekking, sem byggir á heimildum, er þó ekki sett fram sem hugmyndafræðileg frásögn, heldur með framkvæmd tölfræðilegs (algoritmísks) verknaðs reiknilíkananna. Heimildafræðin (Dataismus) vilja reikna út allt sem er, og allt sem koma skal. Frásögnin víkur nú fyrir virkjun reiknilíkananna. Valdstjórn upplýsinganna leysir frásagnarháttinn endanlega af hólmi í formi tölfræðinnar. Hversu snjöll sem reiknilíkönin kunna að vera, þá ná þau aldrei að útiloka reynslu hinna skilyrtu og tilfallandi frávika fyrir fullt og allt, í líkingu við hinar hugmyndafræðilegu frásagnir.

Alræðisríkið segir skilið við veruleikann eins og hann birtist okkur í gegnum skynfærin fimm. Það býr til annan og sannari veruleika er býr handan þess sem við blasir og höfðar þannig til sjötta skilningarvitsins. Heimildafræðin hafa hins vegar enga þörf fyrir sjötta skilningarvitið. Þau yfirfæra ekki áþreifanlega íveru hins gefna, það er að segja heimildanna. Latneska orðið datum, sem er dregið af sögninni dare (= að gefa) merkir bókstaflega „það sem er gefið“. Heimildafræðin (Dataismus) ímyndar sér engan annan veruleika handan þess sem er gefið, handan heimildanna, því hann felst í alræðishyggju án hugmyndafræði.

Alræðishyggjan vinnur úr meðfærilegum efniviði sem gefur sig á vald foringja. Hugmyndafræðin kveikir í sálum fjöldans, gefur honum sál.  Þannig talar Gustave Le Bon um sál fjöldans í bók sinni um fjöldasálfræðina. Sál sem sameinar fjöldann í virkni hans. Valdstjórn upplýsinganna vinnur hins vegar að einangrun  einstaklinganna.  Jafnvel þegar þeir koma saman mynda þeir ekki heilsteyptan fjölda, heldur stafrænan sveim sem fylgir engum foringja, heldur sínum áhrifavaldi.

Múgmennið og handhafar „prófílsins“

Hinir rafrænu fjölmiðlar eru múgmiðlar þar sem þeir framkalla múgmanninn. „Múgmaðurinn er rafrænn íbúi jarðarkringlunnar, en um leið samtengdur öllum öðrum mönnum og konum, rétt eins og hann væri áhorfandi á hnattrænum íþróttaleikvangi. Múgmennið á sér enga sjálfsmynd, hann er „enginn“. Hinir stafrænu netmiðlar binda enda á tímaskeið múgmennisins. Íbúi hinnar stafrænu jarðarkringlu er ekki „enginn“: hann er öllu heldur einhver með prófíl – á meðan það hlutskipti að „hafa prófíl“ tilheyrði einungis refsiföngunum á tímaskeiði múgmennisins. Valdstjórn upplýsinganna er umhugað um einstaklingana, einmitt vegna þess að hún gerir úr þeim „prófíl“ hegðunarmynstursins.

Sjónræn og stafræn dulvitund

Samkvæmt Walter Benjamin veitir kvikmyndatökuvélin aðgang að vissum hluta dulvitundarinnar sem hann kallar „hin sjónræna dulvitund“. Nærmyndirnar eða hægagangurinn leiddu í ljós örsmáar hreyfingar og örviðbrögð, sem hið beina sjónskyn meðtekur ekki, og opna þannig fyrir dulvitað rými. „Það er einungis fyrir tilverknað kvikmyndatökuvélarinnar sem við upplifum hið dulvitaða sjónskyn, rétt eins og við öðlumst þekkingu á dulvitund hvatalífsins í gegnum sálgreininguna“.[xi] Hægt er að heimfæra hugleiðingar Benjamins um hina sjónrænu dulvitund upp á valdstjórn upplýsinganna. Gagnabankar (Big Data) Gervigreindarinnar fela í sér stafrænt sjóngler sem opnar handhafa þess aðgang að þeirri földu dulvitund er liggur á bak við meðvitaðan athafnavettvang okkar. Rétt eins og við tölum um sjónræna dulvitund þá getum við kallað þetta svið hina stafrænu dulvitund. Gagnabankarnir (Big Data) og Gervigreind (AI) gera valdstjórn upplýsingasamfélagsins kleift að skilyrða þá hegðun okkar sem rekja má til hins ómeðvitaða. Valdstjórn upplýsinganna nýtir sér þau forskilvitlegu svið hvatalífsins og tilfinninganna er virka á undan hinni meðvituðu hegðun. Sú sálræna stjórnlist er byggir á gagnasöfnunum smeygir sér inn í hegðunarmynstur okkar án þess að við gerum okkur grein fyrir þessari íhlutun.

Fullveldi gagnabankanna

Sérhver afgerandi umbreyting á miðlun verður lífgjafi nýs valdakerfis. Miðlunin er yfirdrottnun. Þegar Carl Schmitt stóð andspænis hinni rafrænu byltingu sá hann sig tilneyddan að endurskilgreina hið fræga lögmál sitt um fullveldið. „Eftir fyrri heimsstyrjöldina sagði ég: „sá er fullvalda sem innleiðir undantekningarástandið.“ Eftir seinni heimsstyrjöldina segi ég, nú þegar ég stend frammi fyrir dauða mínum: „fullvalda er sá sem ræður yfir öldum ljósvakans“.[xii] Stafrænu miðlarnir gera yfirdrottnun upplýsinganna mögulega. Bylgjur ljósvakans og hinir rafrænu miðlar múgmenningarinnar glata mikilvægi sínu. Á okkar tímum er eignarhald upplýsinganna frumforsenda allra yfirráða. Valdið verður ekki lengur tryggt með massaáróðri risafjölmiðlanna, heldur með upplýsingastjórnun. Andspænis stafrænu byltingunni hefði Schmitt þurft að endurskoða lögmál sitt um fullveldið enn einu sinni: fullvalda er sá sem ræður yfir upplýsingaveitum netsins.

 

(Millifyrirsagnir eru þýðandans)

………………………………………………………………………………………………

[i] M.Foucault, Sorvegliare e punire. Nascita della prigione, Einaudi ed. Torino 2014, bls 147

[ii] Sama rit, bls. 148

[iii] Sama rit, bls 248

[iv] Panopticon er hugtak sem Foucault tók að láni frá J. Bentham (1791) um hringlaga fangelsi umgirt „alsjáandi“ eftirlitsklefum og notaði um „agasamfélagið“.

[v] M.Foucault: La nascita della medicina sociale, birt í Il filosofo militante, Archivo Foucault 2. Interventi, colloqui, interviste. 1971-1977, Feltrinelli, Milano 2017, bls. 222.

[vi] M.Foucault: Sorvegliare e punire, bls 236.

[vii] Sama rit, bls. 205.

[viii] Sama rit, bls. 219.

 

[ix] V.Flusser: Dinge und Undinge. Phänomenologische Skizzen, Carl Hans Verlag, München 1993, bls. 964.

[x] H.Arendt: Le origini del totalitarismo, Bompiani, Milano 1978, bls. 642.

[xi] W.Benjamin: Listaverkið á tímaskeiði endurgerðar þess. L‘opera dell‘arte nell‘epoca della sua reproducibilità tecnica, Einaudi, Torino 2000, bls. 42

[xii] C.Linder: Der Banhof von Finnentrop. Eine Reis eins Carl Schmitt Land, Matthes & Seitz, Berlín 2008, bls. 422 (neðanmáls).

 

 

OVERDOSE AF SILVIO

Overdose af Silvio

Hugleiðing í tilefni af fráfalli leiðtogans

Þar sem ég er nú staddur á Ítalíu komst ég ekki hjá að upplifa þá holskeflu persónudýrkunar og sjálfsskoðunar sem fylgdi í kjölfar andláts Silvio Berlusconi 12. Júní s.l. Það voru fjölmiðlarnir sem fundu í þessu andláti uppgjör við þjóðarsálina og fortíðina með linnulausum fréttaflutningi, lofgjörðum og vitnaleiðslum sem stóðu yfir nánast samfleytt síðastliðna þrjá sólarhringa og sér vart fyrir endann á enn. Hámarkið var bein útsending frá útför á vegum ríkisins í dómkirkju Milano að viðstöddum nokkrum tugum þúsunda gesta á dómkirkjutorginu og fyrirmönnum og hefðarfólki sem sýndi sig í kirkjunni sjálfri.  Hvaða skoðun sem menn hafa á persónu Silvio Berlusconi, þá fór ekki fram hjá neinum aðkomugesti að hér var um atburð að ræða sem snerti ítalska þjóðarsál með afar sérstæðum hætti.

Þar sem ég hef dvalið árlega hér á Ítalíu lengri eða skemmri tíma síðustu 4 áratugina, og þar með átt samleið með valdatíma SB allan tímann, þótti mér viðeigandi að leggja örfá orð í allan orðaflauminn í tilefni þessa andláts, þó ekki væri nema til að gera upp eigin hug gagnvart þessum stjórnmálamanni sem sett hefur svo afgerandi mark ekki bara á ævintýralega stjórnmálasögu þessa tímabils, heldur líka á þjóðarsálina sjálfa.

Stór þáttur í persónuleika Silvio var bráð þörf hans fyrir að vera elskaður, einkum af konum.

Þegar ég hóf sumarstörf hér á Ítalíu sumarið 1980 var SB ekki byrjaður á virku stjórnmálastarfi, en hann var hins vegar þegar orðin sögupersónan sem umbylti fjölmiðlaheiminum og innleiddi einkareknar sjónvarpsstöðvar á landsvísu sem mörkuðu ekki bara nýja tæknibyltingu í fjölmiðlun, heldur líka byltingu í efnistökum og tungumáli sjónvarpsins. Þetta var á lokaspretti „Fyrsta Lýðveldisins“ eins og það var kallað, lýðveldisins sem stofnað var til af andspyrnuhreyfingunni gegn fasismanum í kjölfar heimsstyrjaldarinnar síðari og leið undir lok með upplausn flokkakerfisins á Ítalíu í kjölfar herferðarinnar „Hreinar hendur“ 1992, í kjölfar réttarfara sem setti þorra ítölsku stjórnmálastéttarinnar á sakabekk og undirbjó þann popúlíska jarðveg sem SB kunni að nýta sér umfram aðra með stofnun stjórnmálaflokksins „Forza Italia“ rétt fyrir kosningar árið 1994. Aðdragandi þessara atburða og niðurstaða er of flókin saga til að hægt sé að rekja hana hér, en hún fól í sér að allir stjórnmálaflokkarnir nema einn (popúlistaflokkurinn Lega nord) voru lagðir niður, þar á meðal burðarstoðirnar sem mynduðu kjarna „Fyrsta lýðveldisins“, Kristilegir demókratar og Ítalski kommúnistaflokkurinn (sem var sá langstærsti í V-Evrópu) sem áttu í raun höfundarréttinn að hinni andfasísku og framsæknu stjórnarskrá Ítalíu umfram aðra. Segja má að dauðateygjur „fimm-flokka-kerfisins“ hafi staðið yfir allan 9. áratuginn og það var í þessu andrúmslofti sem SB stóð fyrir fjölmiðlabyltingu sinni sem undirbjó um leið jarðveginn fyrir stjórnmálaferil hans.

Kannski var stærsta "afrek" SB á hinu pólitíska sviði að sameina 3 flokka á hægri vængnum í eina "hægri blokk" er  var mótvægi við "mið-vinstriflokkana". Hér er SB með Giorgiu Meloni forsætisráðherra og Salvini vara-forsætisráðherra Ítalíu í dag.

Eftir á að hyggja þá tengist þessi atburðarás dýpri samfélagsbreytingum sem áttu sér stað með tilkomu Evrópubandalagsin og síðan ESB og djúpstæðum efnahagslegum og lýðræðislegum breytingum sem því fylgdu. Það var undiraldan sem SB kunni að nýta sér. Hann hafði hafið feril sinn fyrst sem uppistandari á skemmtiferðaskipum og síðan sem iðnrekandi, þar sem hann stóð fyrir uppbyggingu heils íbúðahverfis í útjaðri Milano, meðal annars með pólitískum stuðningi hins atkvæðamikla leiðtoga Sósíalistaflokksins, Bettino Craxi. Þó ferillinn hafi þannig hafist í hlutverki iðnrekandans var SB aldrei eiginlegur hluti þeirrar stéttar iðnrekenda sem hafði lagt grundvöllinn að „ítalska efnahagsundrinu“ á seinni hluta 20. aldarinnar (Fiat, Olivetti, Pirelli osfrv.) samfara umtalsverðum ríkisrekstri sem tengdist ekki síst orku- og efnaiðnaði. SB féll ekki inn í þennan hóp, hann boðaði minni skatta, minni ríkisumsvif og breytt samskipti launavinnu og auðmagns, umbreytingar sem á Vesturlöndum voru gjarnan kenndar við Reagan og Thatcher, en höfðu í stefnumótun SB ákveðinn popúlískan undirtón sem hann ræktaði í raun í gegnum hið nýja tungumál einkarekinna sjónvarpsstöðva sem töluðu til almennings með beinum hraðskeyttum og linnulausum hætti, þar sem skemmtiefni og auglýsingar runnu saman í eitt. Sjónvarpið varð leiksvið hins nýja hagkerfis sem byggði á auglýsingum og neyslustýringu frekar en beinum átakavettvangi launavinnu og auðmagns. Mér er það minnistætt þegar ég áttaði mig á þessu eftir að hafa séð það haft eftir SB að hann stefndi með fjárfestingum sínum í fjölmiðlum að því að ná 80% af auglýsingamarkaðnum á Ítalíu, ekki bara með einkareknum sjónvarpsstöðvum á landsvísu, heldur líka með kaupum á Mondadori útgáfufélaginu (því stærsta á Ítalíu) og dagblöðum og tímaritum sem því fylgdu. Kjörorð fjölmiðlaveldis SB var frelsi og fögnuður með endalausum skemmtiþáttum, sem meðal annars urðu frægir fyrir ríkt hlutverk léttklæddra kvenna í nánast öllu sjónvarpsefni, nokkuð sem ekki þekktist fyrir þessa byltingu. Ríkisstöðvarnar þrjár urðu tilneyddar að taka upp frásagnarhátt einkastöðva SB í samkeppninni um auglýsingamarkaðinn. Almenn má segja að þessi fjölmiðlaheimur hafi falið í sér minni og yfirborðskenndari umræðu um alvörumál, hvort sem um var að ræða stjórnmál, menningu eða íþróttir, en SB hafði keypt knattspyrnufélagið Milan og rak það eins og hluta af veldi sínu allt til ársins 2017 sem mikilvægan þátt í samtali hans við þjóðina. SB náði sambandi við fjöldann, m.a. í gegnum þáttastjórnendur eins og mann að nafni Mike Bongiorno, sem leitaðist við að flytja bandaríska sjónvarpsmenningu til Ítalíu. Fjölmiðlareksturinn smitaði síðan út frá sér í skemmtanaiðnaði, kvikmyndagerð og dægurtónlist og blaðaútgáfu, allt þættir sem SB kunni að nýta sér í samskiptum og nýjum talsmáta við almenning á tungumáli sem gömlu iðnjöfrarnir úr framleiðsluiðnaðinum fulltrúar gamla flokkakerfisins kunnu ekki að tala.

Þetta varð grundvöllurinn að stjórnmálaferlinum sem SB hóf með dramatískum hætti með stofnun flokksins Forza Italia 1994, rétt fyrir kosningar til þings, og byggði í raun á neti aðdáendaklúbba Milan-knattspyrnufélagsins sem var þá á hátindi frægðar sinnar eftir fjármagnsinnspýtingu og auglýsingaherferð SB. Þessi flokkur SB hafði einföld skilaboð um minni skatta, minni ríkisumsvif og aukið einstaklingsfrelsi í atvinnurekstri og neyslu. SB naut aðstoðar ráðagóðra manna við stofnun flokksins, einkum Sikileyingsins Marcello dell‘Urti, sem var helsti skipulagsráðunautur FI-flokksins frá upphafi. Hann var seinna dæmdur fyrir fjármálamisferli með sikileysku mafíunni þar sem hann var milligöngumaður SB og mafíuforingja í Palermo. Það samband tengdist leyndu samkomulagi sem átti að tryggja SB og flokki hans frið eftir blóðugt stríð mafíunnar og ríkisvaldsins er náði hámarki með morðum á tveim dómurum sumarið 1992. Flokkur SB sigraði í fyrstu kosningum sínum 1994 og SB myndaði fyrstu stjórn sína undir kjörorðunum meira frelsi, minni skattar og minni ríkisumsvif. Um leið hófst útsala á sölu ríkiseigna, einkum í orku og stóriðjufyrirtækjum, sem tengdust Maastricht samkomulaginu og boðaðri stefnu ESB. SB taldi sig geta bætt hag allra með auknu frelsi, en sannleikurinn er sá að kaupmáttur launa hefur staðið í stað síðustu þrjá áratugina (eftir samfellt hagvaxtarskeið eftirstríðsáranna), og í stað þess að minnka ríkisskuldirnar þá uxu þær stöðugt þar til að því kom árið 2011, eftir að SB hafði stýrt 4 ríkisstjórnum í 10 ár (með millistjórn sósíalistans Romano Prodi 2006-2008) að vaxtamunur á ítölsku ríkisskuldunum og þeim Þýsku varð svo mikill að stefndi í ríkisgjaldþrot. Þá var hagfræðingurinn Mario Monti fenginn frá Goldman Sachs bankanum í New York til að mynda „tæknilega“ ríkisstjórn (án kosninga) sem skar niður ríkisútgjöld (m.a. lífeyrisframlög) til að bjarga þjóðarskútunni. Eftir á hafa margir sagt þetta hafa verið skipulega aðför að ítalska hagkerfinu sem stýrt var utanfrá af fjármálakerfi Evrópubankans og bandaríska fjármálastofnana.

Þetta leiðir í ljós atburðarás sem hefur leitt til endurmats margra andstæðinga SB á pólitískum áhrifum hans og þýðingu. Í þeim leik er ekki alt sem sýnist. Stærsta pólitíska „afrek“ SB var trúlega að mynda samsteypustjórnir á hægri vængnum, er náðu að sameina tvo flokka sem töldust til hægri en á öfugum forsendum þó: annars vegar MSI-flokkinn, sem var í raun arftaki gamla fasistaflokksins og kenndi sig við þjóðernissinnaða hægristefnu með sterku miðstýringarvaldi ríkisins. Hins vegar Lega-nord- flokkurinn sem höfðaði til millistéttar í auðugustu iðnhéruðum Norður-Ítalíu og höfðu sjálfstæði norður-héraðanna á stefnuskrá sinni. MSI-flokkurinn (sem síðar fékk nafnið Fratelli d‘Italia, ítalska bræðralagið sem þjóðsöngurinn lofsyngur) hafði í raun verið talin óstjórntækur af þeim flokkum sem kenndu sig við lýðræði og arfleifð andspyrnuhreyfingarinnar gegn fasismanum. SB dró MSI-flokkinn inn í stjórnarsamstarf, þvoði hann af fortíðinni og síðan hafa þessir þrír flokkar myndað grunnin að hægri-samsteypustjórnum á Ítalíu. Nú er forsætisráðherra Ítalíu, Giorgia Meloni, formaður Fratelli-d‘Italia flokksins, staða sem hefði verið óhugsandi á tímum „Fyrsta lýðveldisins“. Flokkur hennar er í raun eins konar bræðra- eða systraflokkur þýska AFD-flokksins og Þjóðfylkingar Mariu Le Pen í Frakklandi, báðir taldir óhæfir flokkar til stjórnarsamstarfs af svokölluðum lýðræðisflokkum í þessum löndum. Þessi staða segir okkur að SB sé í raun höfundurinn að samstarfi miðhægriflokka er mynda pól gegn mið-vinstri öflum inna ítalska flokkakerfisins. Á hinu pólitíska sviði mun þetta trúlega teljast helsta „afrek“ SB.

SB átti marga valdamikla vini og elskaði að sýna þeim stórbýli sitt á Costa Smeralda á eyjunni Sardiníu. Hér með vini sínum Vladimir Pútin.

SB fékk Pútín og Georg Bush til að takast í hendur með táknrænum hætti á NATO fundi í Róm 2002

Þetta segir þó ekki alla söguna. Báðir samstarfsflokkar SB á hægri-vængnum hafa verið kenndir við „popúlisma“ (sem í raun er hugtak sem notað er til mótvægis við „glóbalisma“ hins yfirþjóðlega fjármálavalds í heiminum). Sjálfur er SB í raun ekki heldur laus við þennan stimpil. Hann hefur birst í svokölluðum „pragmatisma“ hans, sem horfir framhjá hugmyndafræðunum og til meints þjóðarhags, nokkuð sem hefur gefið mönnum tilefni til að benda á vissan skyldleika SB við vestræna leiðtoga á borð við Donald Trump, Vladimir Pútin og jafnvel Brexit-sinnann Boris Johnson. Meintur  „pragmatismi“ SB á að hafa falið í sér fráhvarf frá hugmyndafræðilegum kreddum með hag þjóðarinnar í fyrirrúmi, en í reynd beindist hann fyrst og fremst að því að vernda hagsmuni fjölmiðlarisans Fininvest og styrkja stöðu hans á auglýsingamarkaðnum. En „pragnatisminn“ birtist líka í fordómalausu samneyti SB við valdsmenn af ólíkum toga. Hann átti vingott ekki bara við Georg Bush yngri, heldur líka við valdamenn eins og Vladimir Pútin og Muhammed Gaddafi í Libýu, Mubarak í Egyptalandi, Ben Ali í Túnis og Tony Blair í Bretlandi. Hann naut þess að bjóða fyrirmönnum á sveitasetur sitt á Sikiley og halda þar veislur, og árið 2002 stóð hann fyrir því að Pútin Rússlandsforseta væri boðið á leiðtogafund NATO í Róm, þar sem forsetar Rússlands og Bandaríkjanna tókust í hendur undir yfirskyni endaloka Kalda stríðsins. Þau vináttubönd sem SB skapaði með gestrisni sinni og vinarhjali entust þó misvel: nokkrum mánuðum eftir að SB hafði gert sérstakan vináttusamning á milli Ítalíu og Líbýu í kjölfar opinberrar heimsóknar Gaddafis til Rómar 2011 var SB tilneyddur að styðja innrás NATO-ríkja í Libýu er leiddi til morðs á leiðtoganum og gjöreyðleggingar allra innviða samfélagsins í Libýu. Vináttusamningur SB og Gaddafi fól í sér tryggingu á olíuviðskiptum og ítölskum fjárfestingum í Libýu til hagsbóta fyrir bæði ríkin. Afleiðing innrásarinnar var ekki bara morðið á Gaddafi, heldur lömun líbýska stjórnkerfisins sem leiddi til flóðgáttar afrískra flóttamanna til Ítalíu, sem staðið hefur alla tíð síðan. Það voru Sarkosy Frakklandsforseti, Tony Blair og Georg Bush,  „vinir“ Berlusconi, sem settu honum stólinn fyrir dyrnar og neyddu hann undir agavald NATO til þessarar glæpsamlegu innrásar í Líbýu, sem enginn hefur þó tekið ábyrgð á. Vinátta Berlusconi og Vladimirs Pútíns reyndist þó traustari. Þeir áttu sameiginlega vinafundi í gegnum árin, skiptust á gjöfum, og þegar kom að deilunni um Úkraínu 2021 – eftir að SB hafði látið af öðrum embættum en forseta FI-flokksins – þá lýsti SB yfir vantrausti sínu á Zelensky vegna framkomu hans gagnvart rússneskumælandi Úkraínumönnum og lýsti skilningi á viðbrögðum Pútíns, er hefðu ekki verið „tilefnislaus“. Þessi síðasta yfirlýsing SB var vandlega falin í öllum líkræðunum, enda er Georgia Meloni meðal herskáustu stuðningsmanna Zelensky í herferðinni gegn Rússneskri innrás.

Meðal vina SB var Muammar Gaddafi forseti Libýu sem heimsótti Róm og undirritaði samstarfssamning Ítalíu og Libýu 2011. Fáeinum mánuðum síðan neyddist SB til að lýsa stuðningi við innrás NATO í Libýu.

Þegar litið er yfir pólitískan valdatíma SB í heild sinni, þá blasir í raun við að hann gaf Ítalíu fátt annað en falska drauma, drauma sem vissulega reyndust engu að síður góð söluvara. Hann átti í samfelldu stríði við dómarastétt landsins og réttarkerfið í heild sinni og mætti á starfsferli sínum yfir 30 dómsmálum er snerust flest um fjármálamisferli og mútugreiðslur. Þessir fölsku draumar sem SB seldi ítölsku þjóðinni snerust flestir um hann sjálfan, uppistandarann á skemmtiferðaskipinu sem varð „af sjálfsdáðum“ að auðugasta manni Ítalíu. Frægðarsól hans reis hæst eftir að síðari hjónabandi hans lauk með miklum skelli, þar sem eiginkona hans og móðir þriggja barna sagðist ekki lengur geta búið með manni sem væri haldinn ólæknandi girnd til stúlkna undir lögaldri. Þá og í kjölfarið flugu fréttir um veislur SB í lúxusvillum sínum á Sardiníu og í Lombardíu, þar sem léttklæddar ungar konur veittu miðaldra karlmönnum ómælda gleði með nærveru sinni um leið og þær nutu ómælds örlætis gestgjafans á lífeyri. Sjálfur kenndi SB veislur sínar við „Bunga-Bunga“ og sagði þær byggja á hefðbundnum og menningarlegum skemmtanaiðnaði. Mörg sakamál sköpuðust þó af þessari gleðifíkn „forsetans“, en ekkert leiddi til sakfellingar. Aðeins í einu af dómsmálunum 30 var SB sakfelldur, þar sem sakarefnið var víðtæk skattsvik í kringum fjölmiðlafyrirtækið Fininvest. Dómurinn frá 2013 fól í sér að SB missti kjörgengi til þings í 5 ár og drógu umtalsvert úr pólitísku vægi hans.

Nú við dauða hans er eins og ítalska þjóðin hafi loks vaknað af þessum stóra draumi um frelsarann SB sem skilur eftir sig  heljarstórt tómarúm. Líkamsleifar foringjans voru brenndar í gær, og framtíðarstaður öskunnar verður í hinu mystíska grafhýsi sem hann hafði reyst sér á sveitasetrinu á Sardiníu: grafhýsi sem hann hafði lofað ekki bara fjölskyldu sinni til afnota í framtíðinni, heldur líka öllum nánustu vinum sínum og fylgdarmönnum í gegnum langan feril. FI-flokkurinn, sem nú á aðild að Mið-hægri-stjórn Meloni stendur eftir sem skip án skipstjóra. Flokkurinn var byggður í kring um nafn SB og vörumerki. Ítalskir stjórnmálamenn á hægri væng og langt yfir miðjuna til vinstri safnast nú saman í harmasöngnum um mikilmennið SB, mesta áhrifavaldinn í ítölskum stjórnmálum síðustu áratuga. Draumurinn hvarf með hundruðum blárra gúmmíblaðra sem sleppt var í loftið á dómkirkjutorginu við lok útfararinnar.

Kannski er arfleifð SB einmitt þessi: hann skilur eftir sig stjórnmálasvið án innihalds. Stjórnmálaþátttaka almennings hefur farið hraðminnkanndi, og samkvæmt ítölsku hagstofunni fór kosningaþátttaka úr 87% árið 1992 í 64% árið 2022. Þetta þýðir að almenningur lítur ekki til stjórnmálaflokkana sem breytiafls í samfélaginu með sama hætti og fyrir 30 árum. Hrun ítalska flokkakerfisins 1992 hafði vissulega sín áhrif, en kosningaþáttaka fer nú stigminnkandi með hverju árinu. Það er ekki bara FI flokkurinn sem tæmist af innihaldi með fráfalli foringjans. Hinir flokkarnir fylgja í kjölfarið. SB uppgötvaði tómarúmið 1994 og kunni að fylla það, en tómarúmið sem nú myndast er annars eðlis. Sjónvarpið er að vísu áhrifamikill miðill, en fjölmiðlun flyst nú æ meir yfir á netmiðla. Sá auglýsingamarkaður sem SB lagði undir sig undir lok 9. áratugarins flyst nú í vaxandi mæli yfir á netið og verður alþjóðlegur. Það eru Google, Youtube, Facebook, Instagram og TikTok sem leggja undir sig þennan markað, sem í æ ríkari mæli stjórnast af reiknilíkönum gervigreindarinnar þar sem valdið er falið í upplýsingabönkum internetsins. Skemmtanaefnið sem SB höndlaði með í samtali sínu við þjóðina er nú horfið til Netflix og annarra netmiðla og hinir hefðbundnu stóru fjölmiðlarisar draga saman seglin rúnir öllu trúnaðartrausti. Brotthvarf SB markar líka brotthvarf þeirrar undiröldu sem hann náði að beisla sér til hagsbóta í tækniþróun samtímans. Nú er sá tími að líða undir lok. Kannski er ítalski harmagráturinn um brotthvarf SB líka merki um eftirsjá okkar kynslóðar eftir því sem hún veit að kemur aldrei aftur. Grafhýsið á sveitasetri fjölskylduföðursins í Arcore verður nú að kalkaðri gröf kynslóðarinnar sem trúði á einstaklingsfrelsið við hlaðborð neyslusamfélagsins. Unga kynslóðin horfir annað í örvæntingarfullri leit að vegvísi til framtíðar sem aldrei hefur verið óvissari.

Forsíðumyndin er fengin af fréttasíðu Reuters

FRELSI JAFNRÉTTI OG BRÆÐRALAG Í BORGARLEIKHÚSINU

Hugleiðing í kjölfar leikhúsupplifunar

 

Það var leikhúsupplifun að sjá leikrit Peters Weiss, Marat Sade, í uppfærslu Labloka-leikflokksins á sviði Borgarleikhússins í gær. Úrval öldungadeildar íslenskrar leikarastéttar undir leikstjórn Rúnars Guðbrandssonar sviðsetur sýningu í sýningunni: sviðsuppfærslu Marquis de Sade á morðinu á Jean-Paul Marat með vistmönnum á Charenton geðveikrahælinu í París í kjölfar frönsku stjórnarbyltingarinnar. Hugmynd sem gefur höfundi og flytjendum möguleika til að sviðsetja heiminn sem það geðveikrahæli sem hann var árið 1807 undir ógnarstjórn Napoleons í kjölfar frönsku stjórnarbyltingarinnar, rétt eins og hann var þegar  Peter Weiss skrifaði verkið 1963, árið sem John F Kennedy var myrtur og Bandaríkjamenn létu til skarar skríða í stríðinu í Vietnam, rétt eins og hann er á okkar tímum í vitfirringu yfirgengilegs blóðbaðs í hjarta Evrópu, rúmum 200 árum eftir þá ógnarstjórn sem franska stjórnarbyltingin leiddi af sér í lok 18. aldar. Hugmyndin að þessu leikhúsverki er snilldarleg og tímasetning þessarar uppfærslu er sannarlega við hæfi: geðveikrahælið hefur á okkar tímum öðlast hnattræna vídd sem aldrei fyrr með nútíma samskiptatækni þar sem veruleikinn hefur hefur tekið á sig nýja stafræna vídd er útvarpar ógnarstjórninni með hnattrænum hætti og í rauntíma sem yfirstígur allan áður þekktan veruleika og tímaskyn.

Í þessari sýningu er Marquis de Sade fulltrúi hinnar hreinu og ómenguðu einstaklingshyggju sem í raun endurspeglar fyrsta kjörorð byltingarinnar: frelsishugstakið, sem í miskunnarlausu raunsæi de Sade afhjúpar ofbeldið sem það felur í sér. De Sade hefur komist að þeirri rökréttu niðurstöðu að frelsið feli í sér réttinn til að vera öðruvísi en hinir. Sá réttur kallar á ofbeldi, eða hvað væri frelsið án þessarar fullnægingar ofbeldisins? Endanleg niðurstaða hans er ofbeldi óheftrar einstaklingshyggju.

Jean-Pierre Marat er byltingarforinginn sem segir frelsið óskiljanlegt án jafnréttisins, því hvað er frelsi eins án frelsis allra hinna? Jafnréttið er hins vegar jafn hált hugtak og frelsishugtakið, því engir tveir einstaklingar eru fæddir eins, og auk meðfædds kynbundins mismunar þá hefur náttúran ekki gengið út frá jafnaðarstefnu í sköpunarverki sínu: Sumir eru sterkari en aðrir, og þar verður jafnræði ekki komið á nema með valdi. Til þess höfum við ríkisvaldið.

Bræðralagið er gildishlaðið hugtak sem á sér trúarlegar rætur og hefur í sögunnar rás reynt að leysa úr andstæðum gildum frelsis og jafnréttis. Í þeim guðlausa heimi sem franska stjórnarbyltingin innleiddi virðist þetta hugtak falla á milli stafs og hurðar í þeirri afskræmdu mynd kynlífsins sem de Sade setur á svið í lok leiks síns undir kjörorðinu „bylting og samfarir“: kynlífið verður hin afskræmda mynd bræðralagsins í þessum sturlaða átakavettvangi vistmannanna á Charenton-hælinu sem með sturluðum ærslum sínum fá okkur áhorfendur til að horfa í eigin barm.

Það mun hafa verið franska stjórnarbyltingin sem innleiddi hugtökin hægri og vinstri sem lykilinn að stjórnmálaátökum samtímans. Einstaklingshyggja de Sade tilheyrir hinni gömlu yfirstétt konungsveldisins sem keisaraveldi Napoleons var framlenging á. Þessari hefð hefur verið viðhaldið til samtímans: rétturinn til að vera öðruvísi en hinir er viðtekin hægri-stefna í samtímanum, sem hefur yfirlýstan forgang einstaklingsins á sinni stefnuskrá. Einstaklingshyggjan er eðlilega skilin sem ofbeldi af hálfu undirsátanna.

Jafnréttishugsjónin er talin tilheyra vinstri-öflunum, þeim sem vilja yfirstíga hinn náttúrlega mismun einstaklinganna varðandi kynferði, líkamsbyggingu, litarhátt, holdafar, ætterni, þjóðerni o.s.frv. Það gerist með  lögregluvaldi ríkisins. Jafnréttið er hér eðlilega skilið sem ofbeldi af hálfu þeirra einstaklinga sem finna til sinna arfbornu yfirburða sem náttúrurétt.

Í þessari tvískiptingu hefur bræðralagshugmyndin óljósari skírskotun með afhelgun réttarríkisins. Og sannleikurinn er sá að þessar gömlu hólfaskiptingar virðast á okkar tímum hafa orðið þokunni að bráð: með hnattrænni yfirdrottnun á forsendum tækni- og vélvæðingar er virðist lúta eigin lögmálum verður æ erfiðara að finna mörkin á hægri og vinstri, einkum og sér í lagi ef við ætlum okkur að beita mælistikum tækninnar og vísindanna: stjórnmálin lúta ekki lengur hugmyndum um einstaklingshyggju eða jafnrétti nema í orði kveðnu. Frelsið til að greiða atkvæði hefur æ minna vægi í átökum hægri og vinstri, því þessir tvískiptu flokkar lúta nú sama yfirþjóðlega valdinu sem gengur fyrir vélvæddu stýriafli eigin eflingar án annarra markmiða.

Við þessar aðstæður er ekki óeðlilegt að líta til Karls Marx, sem telja má forsprakka hinnar veraldlegu jafnræðishyggju í hugmyndasögu okkar Vesturlandabúa. Þó er ekki hægt að segja um hann að hann hafi trúað á jafnræði allra manna sem náttúrlegan rétt. Hann talaði um jafnræði á þeim forsendum að hver legði fram eftir eigin getu og bæri úr býtum eftir eigin þörfum. Þessi regla gengur ekki út frá náttúrubundnum rétti til jafnræðis. En úrlausn hennar verður okkur engu að síður vandasöm, því hver á að dæma um þarfir náungans?

Það eru spurningar af þessu tagi sem vakna við að sjá sýninguna Marat Sade í Borgarleikhúsinu þessa dagana.

ÞEGAR RAUÐI HANINN GALAÐI Í MADRID

Endurminning frá Madrid

Cuando canta el gallo negro es que ya se acaba el día.

Si cantara el gallo rojo otro gallo cantaría.

Ay, si es que yo miento, que el cantar que yo canto lo borre el viento.

Ay, qué desencanto si me borrara el viento lo que yo canto.

Se encontraron en la arena los dos gallos frente a frente.

El gallo negro era grande pero el rojo era valiente.

Se miraron cara a cara  y atacó el negro primero.

El gallo rojo es valiente pero el negro es traicionero.

Gallo negro, gallo negro, gallo negro, te lo advierto:

no se rinde un gallo rojo mas que cuando está ya muerto.

Söngurinn um "Rauða hanann" sem Silvia Pérez Cruz syngur hér listilega í upptöku Spánska sjónvarpsins á tónleikum í San Sebastian 2015

Skyndilega er ég vakinn upp við gamla endurminningu hér á netmiðlum, þar sem Silvia Perez Cruz hefur upp raust sína og syngur af ástríðu um átakavettvang svarta og rauða hanans. Ég man það ekki nákvæmlega, en kannski var það árið 1976 eða 1977 sem ég kom til Madrid. Það var allavega skömmu eftir lát Francesco Franco, fasistaleiðtogans sem hafði drottnað yfir Spánverjum frá lokum borgarastríðsins 1939 þar til hann dó 1975. Ég hafði fengið ódýrt flug með vinkonu minni til Alicante og tekið lestina til Madrid. Við vorum nýkomin til borgarinnar án allrar leiðsagnar og með takmarkaða tungumálakunnáttu og enduðum hungruð á látlausu veitingahúsi einhvers staðar í miðborginni undir miðnættið. Það var nánast tómt nema hvað maður og kona sátu við nálægt borði og áttu í innilegum samræðum sem enduðu með að þau fóru að syngja saman alþýðlega söngva. Þetta vakti mér mikla ánægju og forvitni, og svo fór að ég gekk að borði þeirra og spurði hvort þau gætu sungið fyrir mig sönginn um rauða hanann, söng sem ég hafði kynnst sem einni af menningararfleifð borgarastríðsins og andspyrnunnar gegn fasismanum á Spáni. Áður en ég segi svör þeirra verð ég að segja að þetta voru karl og kona á miðjum aldri, þar sem konan hafði vakið sérstaka athygli mína vegna útlits og líflegrar framkomu. Hún var lágvaxin og tágrönn með nánast krúnurakað höfuð og afar svipsterkt andlit rist rúnum mikillar lífsreynslu. Augun skutu neistum og hún var flugmælsk. En þegar ég ávarpaði þau kurteislega og spurði hvort þau gætu sungið fyrir mig þennan þekkta söng sem ég hafði átt á hljómplötu heima í Reykjavík varð hún hvumsa, og sagði svo: þennan söng er bannað að syngja hér, hann má ekki syngja opinberlega… en hver ert þú að biðja um þetta hér og nú…? Ég gerði klaufalega grein fyrir uppruna mínum nýkomnum frá Íslandi til Madrid, og hún spurði áfram: hvað ertu að gera hér? Þessi samræða okkar varð mér svolítið vandræðaleg, ég skildi að ég hefði sett hana í óþægilega stöðu, en eftir nokkur orðasamskipti sagðist hún vilja eiga við okkur orð utan dyra. Og þar sem máltíð var lokið fórum við út síðust gesta og þessi merkilega kona sagði við okkur að kannski gæti hún sagt okkur svolítið um Spán, og bauð okkur heim til sín um leið og hún kvaddi borðfélaga sinn. Við slógum til og fórum með leigubíl í náttmyrkrinu um óþekkt hverfi Madridborgar þar til  við komum að stóru fjölbýlishúsi í skuggalegu umhverfi þar sem við vorum leidd í gegnum ranghala inn í kjallaraíbúð sem virtist að mestu vera neðanjarðar og gluggalaus. Þegar inn var komið tókum við fyrst eftir að allir veggir voru þaktir bókaskápum og bókastaflar víða á gólfi og borðum, og hún afsakaði með að hún væri nýflutt í þessi húsakynni eftir erfiða reynslu. Hún talaði við okkur á spænsku og ég svaraði henni á bjagaðri ítölsku og fann strax að henni lá mikið á hjarta: hún var nýkomin úr fangelsi stjórnvalda eftir dóm sem hún hafði fengið fyrir skrif sín í spánskt dagblað um spillingarmál í Madrid. Það var ekki auðvelt mál, því hún sagðist vera dóttir þekkts bókmenntagagnrýnanda sem var látinn og hafði tilheyrt menntaelítu fasistaflokksins. Hún hafði tekið í arf eftir föður sinn glæsilega villu og bókasafn og gnægð peninga, en starf hennar sem blaðakonu hefði kostað hana aleiguna. Af öllu því sem hún hefði misst saknaði hún þó mest hundsins sem hún hefði átt, því hún væri afar sjónskert og gæti vart ferðast um án hans. En skrif hennar kostuðu hana eignasviptingu og hundurinn hennar var drepinn og nú var hún komin í þessa kjallarakompu sem hýsti allt bókasafn fjölskyldunnar þannig að fátt annað komst lengur inn. Hún hafði setið einhver ár í fangelsi, verið ásökuð um „kommúnisma“ og mátt sæta pyntingum. Hún sýndi okkur svarta rönd á hálsi sér sem voru ummerki um vír sem hafði verið strekktur um háls hennar og negldur við vegg þannig að henni lá við köfnun. Hér var hún semsagt nýkomin úr þessari fangavist og sagðist hafa innritað sig í kommúnistaflokk Spánar eftir fangavistina eins og til að staðfesta þær ásakanir sem á hana höfðu vetrið bornar. Nokkuð sem hún hafði aldrei hugleitt fyrir þessa reynslu. Þessi samræða okkar stóð í að minnsta kosti 2-3 klukkustundir og hún söng líka fyrir okkur sönginn um Rauða hanann áður en við kvöddum hana og tókum leigubíl á okkar gististað. En áður en við kvöddum spurði hún okkur hvað við hefðum hugsað okkur að gera daginn eftir, og ég sagði henni að við hefðum hugsað okkur að heimsækja Prado-safnið í Madrid. Hún sagðist vilja veita okkur leiðsögn og spurði um heimilisfang okkar, og viti menn, strax næsta morgun var hún komin tilbúin að fara með okkur í þetta stórkostlega listasafn, þar sem hún leiddi okkur um helstu listafjársjóði Spánar, Velazques, Goya, Zubaran og einnig Tizian og fleiri fjársjóði sem hafa lifað með manni síðan. Stundum skilur maður ekki tilviljarnirnar í lífinu, en ég missti samband við þessa konu og man ekki nafn hennar eftir meira en 40 ár. En söngurinn um Rauða og svarta hanann vekur með mér lifandi minningu um þetta stefnumót örlaganna í Madrid.

 

 

LÖGMÁL HAGFRÆÐINNAR OG STJÓRNMÁLANNA

 

Kosningabaráttan á Ítalíu og stjórnmálaumræðan í Evrópu

Úrklippa úr dagblaðinu La Repubblica í dag: Georgia Meloni, leiðtogi Ítalska bræðralagsins (Fratelli di Italia), sem skoðanakannanir segja að verði leiðtogi og forsætisráðherraefni hægri-blokkarinnar í ítölskum stjórnmálum í kjölfar væntanlegra kosninga. Hún er fulltrúi „þjóðernissinnaðrar íhaldsstefnu“ og blaðið hefur eftir henni: „Svona verður landið að þjóð og borgararnir að föðurlandssinnum…“

Fyrsta lögmálið sem við lærum í hagfræði er að framboð og eftirspurn stjórni markaðsverði: þegar framboð eykst lækkar verðið, þegar eftirsókn eykst hækkar það.

Nú er komið að tímamótum í sögu hagfræðinnar: minnkandi framboð hækkar verð á orkugjöfum upp úr öllu valdi. Þegar ekki er hægt að auka á framboðið er gefin út tilskipun frá ESB og stjórnvöldum sjö af stærstu orkuneytendum í heiminum (kallast G7): setja skal lögbundið þak á orkuverð frá Rússlandi um víða veröld. Ekki er enn ljóst hvort þetta eigi að ná til annarra framleiðenda á orku, né hver verðmiðinn verði.

Þessi örvæningarfulla umræða um orkukreppuna tekur reyndar á sig hinar ótrúlegustu myndir, en það sem einkennir hana fyrst og fremst virðist vera hlaup kattarins í kringum þann sjóðheita graut sem ekki má snerta: Siðmenning Vesturlanda, sem hafa búið til þetta órjúfanlega lögmál hagfræðinnar sem áður var nefnt og enginn vill afneita, horfist nú í augu við að örlög hennar byggja á fyrirfram gefnu og óheftu framboði þeirrar orku sem er undirstaða iðnvæðingarinnar og þar með allra tækniframfaranna: og nú eru það einmitt Vesturlönd sem vilja taka þessi lögmál úr sambandi: yfirlýsingar forseta ESB um þetta baráttumál sambandsins sem lausn á orkukreppunni voru fyrsta málið í sjónvarpsfréttum á Íslandi í dag, og voru sögð svar við stríðsárás Rússlands á þessi grundvallarlögmál allrar hagfræði. Vopnið í höndum ESB og NATO í stríðinu gegn Rússlandi er að rjúfa þetta lögmál um samband framboðs og eftirspurnar. Þak skal sett á uppsprengt verð á rússnesku gasi.

Fyrsta Evrópulandið til að setja þetta stríðsvopn í dóm almennings í Evrópu er Ítalía, þar sem kosningar til þings eiga að fara fram innan þriggja vikna. Þessar kosningar eru reyndar óvenjulegar, því til þeirra er boðað í kjölfar afsagnar forsætisráðherrans, Mario Draghi, sem sagði af sér embætti án þess að hafa fengið á sig vantraust í þinginu. Stjórn sem hafði yfirgnæfandi meirihluta á þingi, og glímdi í raun aðeins við einn stjórnarandstöðuflokk sem máli skipti -með innan við 10% þingmanna- þó skoðanakannanir sýni hann reyndar nú með mest kjörfylgi allra flokka (hægri flokkurinn Ítalska bræðralagið, FI, um 23% fylgi samkvæmt nýlegum skoðanakönnunum).

Allir hinir þingflokkarnir sem máli skipta áttu aðild að þessari stjórn utanflokksmannsins og hagfræðisnillingsins  Mario Draghi, en keppast þó um að sýna sérstöðu sína í yfirstandandi kosningabaráttu, sem er einhver sú furðulegasta sem um getur.

Endalaus sjónvarpsviðtöl við leiðtoga stjórnarinnar sem ekki feldi sjálfa sig -en féll þó, einkennast af gagnkvæmum ásökunum um stjórnarslitin og meira og minna hástemmdu lofi um fráfarandi forsætisráðherra, sem auk þess að hafa stýrt bólusetningarherferð gegn kóvidveirunni með hervæðingu og stjórnskipunum, átti í ljósi hagfræðisnilldar sinnar stóran þátt í smíði þeirra flóknu ákvæða Vesturlanda um eignaupptöku, viðskiptabann og útilokun Rússlands úr hinu fjölþjóðlega viðskiptakerfi banka og fjármálaviðskipta sem svar við ummdeildri innrás Rússlands í Úkraínu í kjölfar 8 ára hernaðar þarlendra stjórnvalda gegn rússneskumælandi íbúum landsins.

Þrátt fyrir átakanlegar tilraunir leiðtoga um 5 fullgildra flokka og álíka margra smáflokka til að leggja áherslu á einstaka stefnu sína og óbrigðult erindi síns flokks á þingi, þá hljómar alls staðar sami söngurinn, þar sem fyrsta boðorðið er að rjúfa grundvallarlögmál hagfræðinnar: þak á orkuverðið.

Allir flokkar virðast styðja þetta illframkvæmanlega brot á lögmáli framboðs og eftirspurnar. En í kjölfarið koma fleiri kröfur og loforð:

Ríkisstuðningur við heimilin og fyrirtækin. Enginn flokkur hefur skilgreint þessi loforð í smáatriðum, en þau miða að því að auka kaupgetu heimila og fyrirtækja á orku. Sem aftur felur í sér aukna eftirspurn (og hækkandi orkuverð).

Í kjölfarið koma loforð sumra flokka um „hreina orku“, sem fela í sér fleir vindmyllugarða og sólarspegla, sem allir vita þó að vega engan veginn upp á móti orkuskortinum, þar sem Ítalía er snauð af olíulindum, fátæk af dýru jarðgasi og án kjarnorkuvera, og því það land í Evrópu sem er háðast gasinnflutningi frá Rússlandi ásamt Þýskalandi.

Í kjölfarið koma svo kröfur flestra flokka um lækkun skatta, sem eru reyndar með hæsta móti á Ítalíu í evrópskum samanburði. Skattalækkanir eiga eins og orkustyrkirnir að koma í veg fyrir fyrirsjáanlega lokun fyrirtækja og gjaldþrot heimilanna, þar sem hlutfall þeirra er lifa undir fátæktarmörkum er þegar mjög hátt (2 miljónir fjölskyldna eða 5,6 miljónir einstaklinga, 9,4% þjóðarinnar).

Ekki verður séð hvernig ríkissjóður á að mæta þessum útgjöldum öðruvísi en með lántökum, en skuldir ítalska ríkisins eru um þessar mundir um 150% af vergri þjóðarframleiðslu, sem er næst á eftir Grikklandi á Evrusvæðinu (209%) á meðan Poryúgal og Spánn skulda um 130%. Þessi lönd hafa öll farið langt yfir „leyfileg“ mörk ESB um skuldasöfnun. Þó þessar opinberu skuldir séu ærið áhyggjuefni fyrir ESB, þá siglir landið ennþá í skjóli ákvörðunar Mario Draghi, þáverandi bankastjóra Evrópubankans, frá árinu 2012, um að kaupa öll föl ítölsk ríkisskuldabréf, „whatever it takes“ til að koma í veg fyrir yfirvofandi gjaldþrot ítalska ríkisins á skuldabréfamarkaði. Þessi ákvörðun var talin hafa bjargað ekki bara ítalíu, heldur evrunni sjálfri frá gjaldþroti, og varð til að sveipa Draghi þeim hetjuljóma, sem enn umlykur þennan lykilmann í evrópskum stjórnmálum. En Adam verður ekki lengi í Paradís, því samkvæmt yfirlýstri stefnu BCE mun bankinn hætta að prenta evrur til að kaupa ríkisskuldabréf 1. Desember næstkomandi, og enginn veit hvað gerast mun þá á skuldabréfamarkaðnum. En búast má við stórhækkuðum vaxtakröfum á ítölsk ríkisskuldabréf, og þar með stórhækkaðri skuldabyrði og þrengri lánakjörum ríkisins.

Það sem vekur athygli í kosningabaráttunni á Ítalíu er ekki síst þetta: ekki verður fundinn áþreifanlegur munur á stefnuskrám þeirra meginflokka sem keppa um völdin, og verður þar nánast ógerningur að greina á milli hægri og vinstri, enda allir flokkar meira og minna undir vörumerkinu „Draghi“. Skiptir þá litlu hvort flokkar teljast til hægri eða vinstri samkvæmt hefðbundinni skiptingu. Þannig eru þeir tveir flokkar sem hafa haft hæst um stuðning við NATO og ESB í deilunum um Úkraínustríðið annars vegar „vinstri-flokkurinn“ PD (Partito democratico, arftaki gamla kommúnistaflokksins) og Fratelli di Italia, sá flokkur sem er talinn lengst til hægri og kenndur við „þjóðlega íhaldsstefnu“. Ef hægt er að greina stefnumun varðandi Úkraínustríðið, þá hafa tveir flokkar, Lega-Salvini (hægri) og Movimento 5 stelle (óskilgreind leif af gömlu grasrótarhreyfingunni) haft uppi afar varkárar efasemdir um vopnasendingar til Ukraínu, án þess þó að gera það að stórmáli.

Ástæðan fyrir þessari þoku í þessu andrúmslofti ítalskra stjórnmála liggur þó annars staðar. Hana má finna í ESB og ákvörðunum bandalagsins um „bjargráð“ gegn veirufaraldrinum frá síðasta ári: stofnun „Recovery Fund“ og „Europe next Generation“, en þetta eru sjóðir sem ESB kom sér saman um að mynda með seðlaútgáfu Evrópubankans til að endurreisa Evrópu eftir veirupláguna. Ítalía er það land sem fær lang stærsta bitann af þessari lánaköku, sem mun að stærstum hluta leggjast á skuldabagga þjóðarinnar, en til þess að úr því geti orðið þarf landið að fylgja skilyrðum ESB um fjárlagagerð, skattastefnu, reglugerðir varðandi opinberar framkvæmdir o.s.frv. Það verður því verkefni komandi ríkisstjórnar á Ítalíu að framkvæma þessa stefnu ESB, hvað sem öllum kosningaloforðum líður. En síðustu tölur herma að verðbólga á ítalíu sé nú um 8% og ekkert bendi til lækkunar hennar á næstunni, nema síður sé.

Þar sem fáir lesendur þessarar blog-síðu kunna ítölsku er erfitt að finna beina tilvitnun í stjórnmálaumræðuna á Ítalíu þessa dagana sem lesendur skilja. En þar sem ástandið á Ítalíu virðist í litlu frábrugðið því sem gerist á evrusvæðinu almennt, þá birti ég hér brot úr nýlegu sjónvarpsamtali við Robert Habeck, fjármálaráðherra og varakanslara Þýskalands, sem jafnframt er leiðtogi Græningja í Þýskalandi og yfirlýstur stuðningsmaður Zelensky í stríði hans við Rússa í Úkraínu. Habeck er hér að ræða orkukreppuna sem afleiðingu þessa stríðs og áhrif hennar á verðbólgu, atvinnulíf og afkomu fjölskyldnanna í Þýskalandi. Evrópsk stjórnmálaumræða á hæsta stigi um þessar mundir.

%d