HEIDEGGER UM SAMSEMD MANNS OG VERU Á TÍMUM TÆKNINNAR

UMSNÚNINGUR VERUNNAR Á TÍMA TÆKNINNAR SAMKVÆMT HEIDEGGER

Þessi tilraun mín til að þýða texta Martins Heideggers um „Reglu Samsemdarinnar“ er trúlega glæpsamlegt glapræði. Hún er tilkomin af ólíkum ástæðum. Fyrst þegar ég keypti kverið um "Samsemd og mismun" á Ítalíu fyrir tveim eða þrem árum síðan, var það ekki síst vegna þess að ég hafði verið að velta fyrir mér hugtakinu „identitet“ í merkingunni sjálfsmynd, og það vakti forvitni mína að kynnast skilningi Heideggers á því. Ég hafði þá mótað með mér þann skilning sálgreiningarinnar (ekki síst hjá Lacan) að sjálfsmyndin sé fengin frá „hinum“: í gegnum foreldrana, tungumálið, skólann og aðrar samfélagsstofnanir o.s.frv. Skilningur sem enn er í fullu gildi í sjálfu sér, en á sér eðlileg mörk. Sérstaklega þar sem hann segir okkur að sjálfsmyndin sé enginn fasti, heldur eitthvað síbreytilegt sem okkar eigið "sjálf“ hefur tiltölulega lítið um að segja. Hvernig breytist sjálfsmyndin, og hvað ræður henni? Hvar eru mörkin á milli þess að vera og „tilheyra“ í þessu sambandi? Hvers vegna skiptast menn í flokka og ekki síst: hvað ræður flokkun okkar og niðurröðun náunga okkar í skilgreind hólf er hafa með „sjálfsímynd“ að gera? Ekki bara út frá þjóðerni, þjóðfélagsstétt eða trúarbrögðum, heldur jafnvel út frá fylgispekt  við tiltekin íþróttafélög eða poppstjörnur? Kannski segir skilningur sálgreiningarinnar á sjálfsímyndinni ekki alla söguna, kannski hefur verufræði Heideggers eitthvað um þetta að segja, sem sálgreiningin eða félagsfræðin ná ekki að skýra?

Það er óhætt að segja að ég varð furðu lostinn, þegar ég las þennan texta fyrst. Hér var enga sálgreiningu eða félagsfræði að finna, heldur vaðið beint í þá rökfræðilegu, verufræðilegu og merkingarfræðilegu ráðgátu sem felst í sögninni að vera. Eftir að Heidegger hafð gefist upp á hinni miklu áætlun sinni um útgáfu  seinna bindis stórvirkisins „Vera og tími“ frá 1927, og gengið í gegnum þann harmleik og örlagsögu Evrópu, sem fólst í síðari heimsstyrjöldinni, aðild hans að þýska  nasistaflokknum 1933-45 og kjarnorkusprengjunum í Hiroshima og Nagasaki, þá urðu óhjákvæmileg umskipti í heimspekiskrifum hans, umskipti sem kennd voru við „die Kehre“ eða umsnúninginn, sem erfitt er þó að skilgreina, en birtist kannski ekki hvað síst í þessari stórmerku ritgerð, sem kom út þremur örlagaríkum áratugum eftir „Veru og tíma“. Eftir stendur engu að síður, að þrátt fyrir „aðildina“ að nasistaflokknum, sem var ófyrirgefanleg vanvirðing við heimspekina, þá hafa skrif þessa stórfurðulega heimspekings haft víðtækari áhrif á heimspekiumræðu á Vesturlöndum á síðari hluta tuttugustu aldar en flestra annarra.

Óvænt tengist þessi fyrirlestur um samsemdina ritgerð Heideggers um tæknina frá 1953, og felur í sér nánari útfærslu þeirra hugmynda, en um leið má lesa út úr þessari ritgerð eins konar „andsvar“ við þeirri gagnrýni sem Carlo Sini hefur sett fram á Heidegger, og birtist m.a. í tveim ritsmíðum sem ég hef nýlega birt hér á "hugrunir.com" um merkingarfræði og um „tækni og ofbeldi“. Segja má að það ríki visst „ástarhatur“ á milli þessara heimspekinga, sem á sér bara samsvörun í sambandi og glímu Heideggers við Nietzsche. Það liggur rauðglóandi strengur á milli þessara þriggja höfunda, þar sem merkingarfræðilegt framlag Sini skiptir miklu máli, og skapar sérstöðu hans. En glíman við „verufræði“ Heideggers er um leið alls staðar nálæg.

Heidegger gengur beint til verks með rökfræðilegri greiningu á þversögninni sem hann sér í viðteknum skilningi á verunni, á sagnorðinu að „vera“ eitthvað. Hvað merkir A=A spyr Heidegger, og leiðir okkur umsvifalaust í að því er virðist óleysanlega flækju. Hér er jafnaðarmerkið merki þeirrar samsemdar er segir okkur að eitt sé sama og það sjálft: ég er ég. Ég er það sama og ég. Þetta er augljóst samkvæmt viðteknum skilningi, en ef við lítum nánar á málið lendum  við í flækju, sem endanlega leiðir í ljós ákveðna bresti í umgengni okkar gagnvart tungumálinu. Hver er ég, og að hvaða leyti er ég það sama og sjálfsmynd mín? Með hvaða hætti verða maður og vera eitt og hið sama? Með hvaða hætti verða hugur og vera eitt og hið sama, eins og Parmenídes sagði „á vordögum vestrænnar hugsunar“ fyrir nær 2500 árum síðan?

Hér kemur tæknin í raun til sögunnar, sá skilningur á tækninni sem Heidegger hefur sett fram með hugtakinu Gestell, sem er nýyrði, erfitt í þýðingu, en merkir í raun sam-stillingu, það að stilla einhverju upp til samfélagslegrar notkunar eða meðferðar. Við þekkjum enduróm þessa orðs til dæmis í „matarstellinu“ eða „settinu“, því sem lagt er á borð fyrir okkur. Við tökum því sem sjálfgefnu viðfangi til daglegs brúks. Í þessari þýðingu hef ég yfirleitt stuðst við orðið „innsetningu“ í vafasamri viðleitni til þess að klæða orðasmíð Heideggers í íslenskan búning. Heidegger segir að hin frumspekilega umgengni okkar við tungumálið hafi leitt okkur til að taka veruna sem gefinn hlut, rétt eins og „máfastellið“ á kaffiborði ömmu okkar. Þessi málfarsnotkun sé í raun tæknilegs eðlis og hafi með „Gestell“ að gera. Hér er í raun um tiltekið afsal að ræða eða valdbeitingu.

Ekki batnar flækjan þegar kemur að því að „tilheyra“: , gehören eða zusammengehören. Ég „er“ ekki Íslendingur, heldur „tilheyri“ ég íslenskri þjóð eða þjóðerni. Ef þessi vera felst í því að tilheyra, þá felur það í sér eignarafsal á sjálfinu, segir Heidegger, og leiðir okkur þannig yfir í eitt uppáhalds orð hans: „Ereignis“.

Heidegger segir þetta þýska orð óþýðanlegt á aðrar tungur, og líkir mikilvægi þess við hið gríska „logos“ og hið kínverska „tao“. Þessi nokkuð hrokafulla fullyrðing virðist mér vera endurómur undirliggjandi þjóðernishyggju og hugmynda höfundar um sögulegt hlutverk Þýskalands í heiminum, sem sjaldan kemst á yfirborðið í heimspekiritum Heideggers, en vottar þó fyrir í  umsögn hans um mikilfengleik „þjóðernissósíalismans“ í „Einführung in der Metaphysik“ frá árinu 1935.

Í hinni vönduðu Þýsk-íslensku orðabók bókaútgáfunnar Opnu frá 2008 er Ereignis þýtt sem atburður, viðburður eða tilfelli. Í þessari þýðingu hef ég látið Ereignis að mestu óþýtt eða gert vafasama tilraun með að nota „atviks-reynslu“.

Heidegger leggur þann skilning í hugtakið að það feli í sér eignarhald, viðburð sem eignar sér manninn eða maðurinn eignar sér. Í raun og veru virðist „umsnúningurinn“ (die Kehre), sem gjarnan er sögð hafa átt sér stað hjá Heidegger á eftirstríðsárunum, felast í þeim umsnúningi er umbreyti þeim atburði tækninnar sem eignar sér manninn sem viðfang, hlut eða kennitölu, í þann gjörning sem er manninum „eiginlegur“. Þetta er sá umsnúningur innsetningarinnar (tækninnar) sem felur í sér „stökkið“ yfir í þá nýju „samsemd“ sem Heidegger sér fyrir sér, og felur um leið í sér umsnúning á þeirri „reglu samsemdarinnar“ sem titill fyrirlestursins felur í sér. Eða svo vitnað sé í textann:

„Vegferðin frá reglunni sem fullyrðing um Samsemdina  til reglunnar sem stökk til eðlisuppruna Samsemdarinnar hefur umbreytt hugsuninni. Þegar horft er til samtímans, þá finnum við hér ástæðu þess að við sjáum, handan aðstæðna mannsins, samstillingu veru og manns á grundvelli þess sem umfram allt tengir þau saman í gagnkvæmu eignarhaldi, það er að segja der Ereignis (atviks-reynslan).“

Þessi „umsnúningur“ Heideggers felur í sér gagnrýni á þann „hlutlæga sannleika“ sem á vissan hátt virðist samhljóða gagnrýni Carlo Sini á vísindin sem trúarbrögð hins endanlega sannleika. Heidegger og Sini virðast sammála um að „hlutlægni“ vísindanna eigi rétt á sér og færi manninum margvíslegan ávinning, en hins vegar feli átrúnaðurinn á vísindalegar tilgátur -og aðferðafræðina við að setja þær fram - í sé yfirvofandi hættu, sem Sini kallar reyndar „ógnarstjórn“ eða „terrorisma“. Í þessu skyni setur Heidegger fram þessa spurningu:

…hvar var sú ákvörðun tekin, að náttúran sem slík skuli um alla framtíð vera náttúra nútíma eðlisfræði, og að sagan skuli einungis birtast sem viðfang sagnaritunarinnar? Það er rétt, að  við getum ekki hafnað núverandi tækniheimi, og okkur leyfist heldur ekki að eyðileggja hann, að því tilskyldu að hann geri það ekki af sjálfsdáðum.“

Síðasta fullyrðingin í þessari setningu Heideggers gengur hins vegar þvert á hugsun Sini, sem lítur á það sem frumspekilega þversögn að líta á manninn og tæknina sem andstæða gerendur í sögunni.

Það er hins vegar enginn skortur á sjálfsöryggi í lok fyrirlesturs Heideggers, þar sem hann segir það hafi tekið mannkynið tvö þúsund ár að leysa ráðgátu Parmenidesar um samsemd hugsunar og veru (sem ekki eru eitt og það sama). Heidegger telur sig hér hafa leyst þessa gátu, og segir í lokin þau spámannlegu orð að "með því að hugsa það sem áður var hugsað munum við umsnúa því sem enn er óhugsað".

 Martin Heidegger:

 Regla Samsemdarinnar

Fyrirlestur fluttur í tilefni 500 ára afmælis háskólans í Freiburg 1957, hér þýddur úr bólkinni „Identität und Differenz“, Pfullingen Verlag 1957, með hliðsjón af ítalskri þýðingu Giovanni Gurisatti, „Identità e differenza“, Adelphi edizioni 2013.

Ríkjandi skilningur á reglu Samsemdarinnar er samkvæmt jöfnunni A=A. Þessi regla gildir sem æðsta regla hugsunarinnar. Við skulum freista þess að hugleiða þessa reglu stundarkorn. Því reglan ætti að kenna okkur hvað felst í hugtakinu Identität (ísl.:  samsemd, sjálfsmynd, jafngildi, kennimark…).

Þegar hugsun okkar mætir tilteknu viðfangsefni og fylgir því eftir, getur átt sér stað að hún taki breytingum á leiðinni. Vegna þessa er ráðlegt héðan í frá að hafa gátur á slóðinni, frekar en inntakinu. Framvinda þessarar samkomu hefur þegar hindrað okkur í að veita leiðinni verðskuldaða athygli.

Hvað er það sem formúlan A=A segir okkur, eins og samsemdarreglan er venjulega túlkuð? Formúlan nefnir jafngildi A og A. Jafna byggir á tveim þáttum. Eitt A er eins og annað. Er þetta það sem samsemdarreglan vill segja okkur? Augljóslega ekki. Hið sama heitir á latínu idem, og á grísku τό αυτό (to auto). Í þýskri þýðingu merkir τό αυτό: das Selbe , „hið sama“. Þegar einhver takmarkar sig við að endurtaka hið sama, t.d.: jurt er jurt – þá talar hann í klifun (Tautologie). Til þess að eitthvað sé hið Sama dugar alltaf eitt. Ekki er þörf á tveim hugtökum eins og í jafngildingunni.

Jafnan A=A fjallar um jafngildi. Hún kallar A ekki það sama. Þannig felur ríkjandi jafngildisformúla einmitt það sem reglan vildi segja: að A sé A, það er að segja að sérhvert A sé sjálft það sama (jedes A ist selber dasselbe).

Þegar við umritum Samsemdina (das Identische) með þessum hætti má heyra fornt orð hljóma, sem Platon notaði til að skýra samsemdina, orð sem vísar í enn fornara orðalag. Í Sófistanum (254d) talar Platon um στασιϛ (stasis) og κίνησιϛ (kinesis), um kyrrstöðu og umskipti. Í þessu tilfelli lætur hann útlendinginn segja: ονκον αύτών έκαστον τοϊνν μεν δυοϊν ετερόν εστιν, αυτό δ‘εαυτώ αυτόν. (Oukoun auton hekaston toin men duoin heteron estin, auto d‘heauto tauton.):

„Nú er ljóst, sagði hann, að sérhver þessara tveggja er annar, en sjálfur er hann sá sami“.

Platon lætur sér ekki nægja að segja „έκαστον αυτό ταυτό“ (hekaston auto tauton) eða „sérhver sjálfur hinn sami)“,  heldur „έκαστον έαυτό ταυτό“ (hekaston heauto tauton) eða sérhver í sjálfum sér hinn sami). Þágufallsmyndin „heauto“ merkir: sérhvert eitthvað sjálft stendur fyrir sjálft sig – er nákvæmlega fyrir sjálft sig og með sér sjálfu. Rétt eins og grískan hefur þýsk tunga þann kost að skýra Samsemdina (das Identische) með sama orðinu en í ólíklum beygingarmyndum.

Hæfasta jafnan fyrir samsemdarregluna, A er A, segir því ekki aðeins: sérhvert A er sjálft það sjálft, hún segir einnig: með sjálfu sér er sérhvert A sjálft það sama. Í samsemdinni eru innifalin þessi „með“-tengsl, það er að segja samtenging, eins konar samband eða niðurstaða (Synthesis): Eining í sameiningu. (Die Einung in eine Einheit).

Af þessu leiðir sú staðreynd að í sögu vestrænnar hugsunar hefur Samsemdin (das Identität) einkenni sameiningar. En þessi eining er engan veginn það litlausa tóm þess sem dvelur sambandslaust í sínum eiginleika (einem Einerlei). En vesturlensk hugsun þurfti meira en tvö þúsund ár til að koma auga á að þetta samband, sem endurómar snemma sem ríkjandi samband hins sama með sjálfu sér innan Samsemdarinnar (Identität), þar sem það hefur hlotið varanlegt skjól í fastmótuðu formi slíkrar tengingar (Vermittlung).

Það var fyrst með heimspeki hughyggjunnar (des spekulatven Idealismus) sem Leibniz og Kant lögðu grunninn – og síðan í gegnum Fichte, Schelling og Hegel – þar sem fundin var undirstaða (Unterkunft) fyrir hið samþætta (synthetischen) eðli Samsemdarinnar. Þessai undirstöðu verður ekki lýst hér. Aðeins eitt verður hins vegar að hafa í huga: frá og með hughyggjunni (spekulativen Idealismus) verður þeirri hugsun andmælt, að hægt sé að sýna  einingu Samsemdarinnar sem einskæran eiginleika (blosse Einerlei) og að hægt sé að horfa út frá einingu ríkjandi tengsla (Vermittelung). Þar sem slíkt gerist er Samsemdin einingus sýnd með sértækum (abstrakt) hætti.

Einnig í betrumbættu formúlunni „A er A“ sjáum við eingöngu mynd hinnar sértæku (abstrakte) Samsemdar. Er það í raun og veru þannig? Segir Samsemdarreglan eitthvað um Samsemdina? Nei, alla vega ekki beint út. Öllu heldur gengur Samsemdarreglan út frá fyrir fram gefinni merkingu Samsemdarinnar, og hverju hún tilheyri. Hvernig getum við skilið betur þessa gefnu forsendu?

Við náum utan um reglu Samsemdarinnar ef við hlustum af athygli á grunntón hennar, og hugleiðum hann, í stað þess að endurtaka kæruleysislega formúluna „A=A“. Í raun og veru hljóðar hún svona: A er A. Hvað heyrum við? Með þessu „er“ segir reglan okkur hvernig sérhver vera (Seiende) er, nefnilega: hún sjálf, með sjálfri sér hið sama.

Samsemdarreglan talar um veru verunnar (Sein des Seienden). Sem lögmál (Gesetz) hugsunar er reglan (der Satz) einungis gild að því tilskyldu að hún sé lögmál verunnar (Gesetz des Seins), en hún segir okkur að sérhverri veru sem slíkri tilheyri Samsemd, eining með  sjálfri sér.

Það sem Samsemdarreglan segir okkur á grundvelli grunnhljómsins, eins og hann er sagður, er nákvæmlega það sem hin samanlagða hugsun hinna evrópsku  landa sólsetursins hugsar, nefnilega þetta: Eining Samsemdarinnar myndar grundvallarþátt í veru verundarinnar. Hvar sem er og hvernig sem við mætum verunni, hver svo sem hún kann að vera, þá stöndum við frammi fyrir ávarpi Samsemdarinnar. Ef slíkt ávarp er þögult gæti veran ekki birst i verund sinni. Þar af leiðandi væri heldur ekki um nein vísindi að ræða. Þá væri þeim ekki fyrirfram tryggð samsemd viðfangs þeirra, og vísindin gætu því ekki verið það sem þau eru. Með þessari baktryggingu gera vísindin vinnu sína mögulega. Engu að síður er höfuð-framsetning Samsemdar viðfangs vísindanna aldrei áþreifanleg nytsemd fyrir vísindin. Þess vegna byggir árangur og frjósemi vísindalegrar þekkingar fyrst og fremst á einhverju gagnslausu. Ákall samsemdar viðfangsins talar, hvort sem vísindin leggja við hlustir eða ekki, láta hið heyrða sem vind um eyru þjóta, eða láta það trufla sig.

Ákall Samsemdarinnar talar úr verund verunnar. En þegar það gerist í fyrsta skipti að vera verundarinnar (Sein des Seienden) nái með tjáningarfullum hætti inn í tungumál vestrænnar hugsunar, það er að segja hjá Parmenídesi, þá talar τό αυτό (to auto), eða „hið sama“, með næstum yfirdrifinni áherslu. Ein setning Parmenídesar hljóðar svona:

Τό γάρ αύτό νοεϊν έστϊν τε καί εϊναι – (to gar auto noein estin te kai einai)

„Hið sama er reyndar bæði skynjun (hugsun) og vera“.

Hér er tvennt ólíkt – „hugsun og vera“ – hugsað sem hið sama. Hvað merkir þetta? Eitthvað allt annað í samanburði við þá kenningu frumspekinnar sem við þekkjum, nefnilega að Samsemdin tilheyri verunni.

Parmenídes segir: veran tilheyrir samsemd. En hvað merkir samsemd í þessu samhengi? Hvað merkir orðið „to auto“ – hið sama hjá aparmenídesi? Hann gefur okkur ekkert svar við þessari spurningu. Hann leggur fyrir okkur ráðgátu sem við getum ekki hlaupist undan. Við verðum að viðurkenna að í frumbernsku hugsunarinnar, löngu áður en Samsemdarreglan kom til sögunnar, er það samsemdin sjálf sem talar, og einmitt í setningu sem staðfestir:  hugsun og vera eru eitt í hinu sama og á grundvelli hins sama.

Allt í einu höfum við nú túlkað to auto /hið sama. Við túlkum  einsleikann (die Selbigkeit) sem það sem heyrir saman (Zusammenhörigkeit). Nærtækt er að hugsa þessa samstæðu (Zusammenhörigkeit) sem það er síðar var almennt þekkt sem Samsemd (Identität).

Hvað skyldi koma í veg fyrir þá ályktun? Ekkert minna en sjálf reglan (Satz) sem við lesum í Parmenídesi. Hann segir einmitt nokkuð annað, það er að segja að veran tilheyri -ásamt með hugsuninni – hinu sama. Á grundvelli tiltekinnar Samsemdar er veran skilgreind sem einkenni (Zug) þessarar Samsemdar. Sú Samsemd sem síðar var hugsuð af frumspekinni, er þvert á móti skilin sem einkenni verunnar (Zug im Sein vorgestellt). Því getum við ekki skilgreint þá Samsemd sem Parmenídes talar um á grundvelli þessarar framsetningar frumspekinnar á Samsemdinni.

Sú samkvæmni (Selbigkeit) hugsunar og veru sem kenning Parmenídesar fjallar um á sér eldri rætur en sú Samsemd sem frumspekin skilgreinir sem einkenni (Zug) verunnar (Sein).

Leiðandi hugtak í kenningu Parmenídesar, „to auto“ eða „hið sama“, er okkur óljóst. Við skiljum við það í myrkrinu. En um leið játum við að sú kenning þar sem þetta orð er upphaflega nefnt, feli í sér skilaboð.

Í millitíðinni höfum við hins vegar fyrir fram gengið út frá því að samkvæmni (Selbigkeit) hugsunar og veru sé staðfest í samstæðu (Zusammengehörigkeit) beggja. Við höfum þar með sýnt fljótfærni, ef til vill af nauðsyn. Við verðum því að endurskoða þessa fljótfærni. Það getum við líka gert, ef við höldum ekki fast við að þessi tiltekna samstæða feli í sér endanlega túlkun, eða einnig að hún sé hin eina og endanlega túlkun á sameðli (Selbigkeit) hugsunar og veru.

Ef við hugsum samstæðuna (Zusammengehören =að heyra saman) með hefðbundnum hætti, þá sjáum við, rétt eins og áherslan í hugtakinu „að heyra saman“ (gehören) gefur til kynna, að merking þess að tilheyra (Sinn des Gehörens vom Zusammen) gengur út frá einingu. Í þessu tilfelli merkir „gehören“ (að tilheyra) það að vera innritaður og fastskipaður (zugeordnet und eingeordnet) innan reglu tiltekinnar samstæðu, innsettur í einingu tiltekins margfeldis, innritaður (zusammengestellt) í einingu kerfisins, sem miðlað er í gegnum sameinandi miðju tiltekins reglubindandi samruna (Synthesis). Heimspekin skilgreinir þessa aðild sem nexus og connexio (tengipunkt og samtengingu), eða sem hin nauðsynlegu sambandstengsl eins við annað.

Hins vegar er einnig hægt að hugsa þetta „Zusammengehören“ sem „Zusammen-gehören“. Það merkir: samveran (das Zusammen) ákvarðast hér af „Gehören“ (tilheyra). Hér mætir okkur sú spurning hvaða merkingu beri að leggja í það að „tilheyra“. Og hvernig hægt sé einungis á þeim grundvelli að ákveða þá sameiningu sem í því felst. Svarið við þessari spurningu er nærtækara en vænta mætti, en þó ekki handfast.

þökk sé þessari ábendingu, þá nægir okkur hér, ef við hugleiðum þann möguleika að hugsa það að tilheyra ekki lengur út frá einingu samstæðunnar (Einheit des Zusammen), að hugsa þessa samstæðu út frá reynslu þess að tilheyra. En er það ekki svo, að þessi möguleiki sýni sig að vera hreinn innantómur orðaleikur, sem uppdiktar eitthvað er eigi sér enga stoð í veruleikanum?

Þannig lítur það út, þar til við höfum beitt nánari athugun og látið vandann tala sínu máli.

Tilhugsunin um að tilheyra í skilningi „Zusammengehören“ (bókstaflega: sam-tilheyra) er sprottin af tilteknum aðstæðum, sem þegar hafa verið nefndar og auðvelt er að missa sjónar af, vegna þess hve augljósar þær eru. En þessar aðstæður verða okkur strax nærtækar ef við skoðum eftirfarandi: Með því að skilgreina Zusammengehören sem Zusammengehören eftir skilaboðin frá Parmenídasi, höfðum við þegar bæði hugsunina og veruna í huga, það er að segja það sem á sér í sjálfu sér gagnkvæma samstæðu (zueinandergehört).

Ef við leggjum þann skilning í hugsunina, að hún sé það sem einkennir manninn, þá öðlumst við samvitund um Zusammengehören (sameiginlega aðild) sem varðar manninn og veruna. Umsvifalaust mætum við spurningunni: Hvað merkir veran (Sein)? Hver, eða hvað, er manneskjan? Öllum má vera ljóst að án viðunandi svara við þessum spurningum missum við fótfestuna, grunninn sem sérhver trúverðug hugsun um Zusammengehören (sam-band) manns og veru hlýtur að byggja á. En á meðan við spyrjum spurninga af þessu tagi erum við fangar þeirrar tilraunar að líta á einingu manns og veru sem samstillingu er kalli á skilgreiningu, annað hvort út frá manninum eða verunni. Þar með verða hin eftirlátnu og hefðbundnu hugtök um Manninn og Veruna (Sein) forsenda flokkunar og  aðgreiningar hvorutveggja.

Hvað myndi gerast ef við hættum að einblína á samstillingu  (Zusammenordnung) manns og veru í því skyni að finna einingu þeirra, en hugleiddum þess í stað hvort og hvernig þessi samtvinna gæti falist fyrst og fremst í  gagnkvæmri aðild (ein Zu-einander-Gehören)?

Það er einmitt nú sem við sjáum þann möguleika að skynja, þó ekki nema úr fjarlægð,  samhengi (Zusammengehören) manns og veru út frá hefðbundnum skilningi á eðli þeirra en þó einungis úr fjarlægð. Úr hvaða fjarlægð?

Maðurinn er augljóslega tiltekin verund (etwas Seiendes). Sem slík deilir hann heild verunnar með steininum, tréinu og erninum. Hér merkir það að tilheyra að vera innstilltur (eingeordnet) í veruna. En það sem einkennir manninn felst í þeirri staðreynd að sem hugsandi vera, sem er opinn gagnvart verunni, er hann innsettur (gestellt) í veruna, leiddur (bezogen) af henni og samsvarar (entspricht) henni. Maðurinn er í raun og veru  þessi samsvörun (Bezug der Entsprechung), og hann er aðeins þetta. „Aðeins“ er hér engin lítillækkun, heldur ofgnótt. Í manninum  ríkir aðild (Gehören) að verunni, aðild sem tilheyrir verunni, því honum hefur verið trúað fyrir henni.

Og veran? Hugsum við veruna samkvæmt upphaflegri merkingu hennar sem nærveru (Anwesen)? Veran er hvorki tilfallandi í manninum né í undantekningunni. Veran dvelur og varir í manninum aðeins að því marki sem hún með tilkalli sínu kemur manninum við (angeht). Hún er þá fyrst til staðar sem nærvera (Anwesen) í manninum, þegar hann er opinn gagnvart verunni. Slík vera, sem er greinilega til staðar, hefur þörf fyrir opnun upplýsingar, og það er í gegnum þessa þörf sem hún er mannverunni gefin. Þetta merkir hins vegar engan veginn að veran eigi sér eingöngu stað fyrir tilstilli mannsins. Þvert á móti blasir við:

Maðurinn og veran eru hvort öðru falin,  þau tilheyra hvort öðru. Frá upphafi hafa Maðurinn og veran án frekari umhugsunar um þetta gagnkvæma samhengi  tekist á við  (empfangen) þessar sömu eðlislægu reglur (Wesenbestimmungen) sem þau hafa öðlast frumspekilegan skilning á í gegnum heimspekina.

Þessu ríkjandi sambýli manns og veru er ákaft hafnað (verkennen) af okkur, svo lengi sem við takmörkum okkur við að skilja alla hluti innan regluverka og miðlunar, hvort sem er með eða án díalektíkur. Við finnum þá einungis tengingar  sem eru annað hvort fastbundnar verunni eða manninum og túlka samhengi manns og veru ávallt sem samfléttu.

Við erum því alls ekki á leiðinni í þessa sambúð (Zusammengehören). Hvernig finna menn leiðina inn í  slíka einhendingu (Einkehr)? Það gerum við með því að hafna hugsun framsetningarinnar (des vorstellenden Denkens)[i].

Þessi höfnun er setning sem felur í sér stökk. Hún felur í sér stökk frá þeirri viðteknu reglu, að líta á manninn sem rökhugsandi dýr, sem í samtímanum er orðið að frumlagi (Subjekt) gagnvart viðföngum (Objekte) sínum. Stökkið felur líka í sér brotthvarf frá verunni (Sein). Allt frá frumbernsku vestrænnar hugsunar hefur veran hins vegar verið hugsuð sem sá grundvöllur sem er forsenda sérhverrar veru  sem  verund (jeded Seiendes als Seiendes)[ii].

Hvert stefnir stökkið sem stekkur frá grundvellinum? Er það kannski stökk ofan í hyldýpið?

Já, jafn lengi og við sjáum einungis fyrir okkur stökkið innan jafngildisreglu hinnar frumspekilegu hugsunar. Hins vegar er svarið nei, ef við stökkvum og gefum okkur lausan tauminn. Hvert? Þangað sem við erum þegar komin, það er að segja tilheyrandi verunni (Sein). Veran tilheyrir okkur reyndar, því einungis hjá okkur getur hún verið, það er að segja sem nærvera (Anwesen)[iii].

Þannig reynist óhjákvæmilegt að taka stökk, vilji maður reyna sambýli (Zusammengehören) manns og veru á eigin skinni. Þetta stökk er hin fyrirvaralausa (das Jähe) og óafturkræfa einstefna inn í þessa sam-veru (Gehören) sem veitir manninnum loks möguleika þeirrar einingar (Zueinander) manns og veru, og þar með möguleika á samstillingu beggja þátta. Stökkið er þessi skyndilega (Jähe) innganga inn á sviðið, þar sem maður og vera hafa þegar í eðli sínu fundið hvort annað í krafti gagnkvæmrar nálgunar. Inngangan inn á svið þessarar ofureiningar (Übereinigung) samstillir og ákvarðar þá fyrst reynslu hugsunarinnar.

Þetta er undarlegt stökk, sem væntanlega mun færa okkur þann skilning, að við stöldrum ekki nægilega við þar sem við erum í raun og veru stödd. Hvar erum við stödd? Í hvaða samstillingu (Konstellation) veru og manns?

Svo virðist sem ekki sé lengur til staðar sú þörf, sem við höfðum  á árum áður, fyrir nákvæmar leiðbeiningar til þess að koma auga á samstillinguna sem varðar manninn og veruna. Ætla mætti að núna myndi það nægja að nefna orðið Atómöld til að upplifa hvernig veran birtist okkur í kjarna sínum á okkar tímum, í heimi tækninnar. En eigum við þá einfaldlega að setja sama-sem-merki á milli tækninnar og verunnar? Nei, augljóslega ekki. Ekki nema við lítum þannig á (Vorstellen) þennan heim í heild sinni, að kjarnorkan, hin útreiknaða skipulagning manneskjunnar og sjálfvirknin, séu kjarni þessa heims. Hvers vegna leyfir slík sýn á hinn tæknivædda heim, hversu ítarlega sem hún er útfærð, hvers vegna leyfir hún okkur engan veginn að sjá samstillingu veru og manns?

Það er vegna þess að sérhver greining aðstæðna er of skammsýn, þar sem sú heildarsýn á tækniheiminn sem nú er fyrir fram gengið út frá, hvílir á grundvelli mannsins, og er séð sem sköpunarverk hans. Tækniheimurinn, séður í sínum víðasta skilningi og í sínum margbreytilegu birtingarmyndum, er meðtekinn sem sú áætlun mannsins er þvingi hann til að ákveða, hvort hann vilji verða þræll eða herra eigin áætlunar.

Með þessari sýn (Vorstellung) á heildarmynd tækniheimsins er allt smættað niður í manninn, nokkuð sem,  þegar til kastanna kemur, kallar á að siðfræði tækniheimsins verði meðtekin. Þar sem maðurinn er heltekinn af þessari sýn, styrkir hann sjálfan sig í þeirri trú, að tæknin sé einungis vandamál er snúi að manninum. Ekki er hlustað á kall verunnar sem talar inn í eðli tækniheimsins.

Einsetum okkur nú, í eitt skipti fyrir öll, að hætta að horfa á (vorzustellen) tæknina einungis sem tæknilegt fyrirbæri, það er að segja það sem tilheyri manninum og vélum hans. Virðum það ákall sem í okkar samtíma tilheyrir ekki eingöngu manninum, heldur kemur frá allri veru (Seiende), náttúru og sögu. Hvaða ákall (Anspruch) er hér um að ræða? Gjörvallri tilveru okkar er nú ögrað úr öllum áttum – stundum í leikaraskap, stundum með ofríki, stundum með æsingi (gehetzt), stundum með nauðung – okkur er tilskipað að gangast undir útreikninga og áætlunargerð allra hluta. Hvað er það sem talar í þessari ögrun? Er hún kannski sprottin af persónulegum duttlungum mannsins? Eða er hún hugsanlega tilkomin af sjálfri verunni, með þeim hætti að hún kalli okkur til síns útreiknanleika og sinnar skipulagsbærni? Er jafnvel sjálf veran þá undirsett ögruninni, að verundinni (das Seiende) sé skipað í sæti innan sjóndeildarhrings reiknanleikans? Þannig er það í raun og veru. Ekki bara það. Í sama mæli og verunni er ögrað, gerist það sama með manninn, það er að segja að hann er innstilltur[iv] (gestellt), í þeim tilgangi að tryggja verund (Seiende) hans og sem auðlind og forðabúr (Bestand) áætlanagerða hans og útreikninga og tryggja nýtingu (Bestellen) hennar um ófyrirsjáanlega framtíð.

Nafnið á þessari samsetningu (Versammlung) ögrunarinnar, sem samstillir veru og mann með þessum hætti, hljómar sem „Ge-Stell“ (möguleg bókstafleg íslensk þýðing: „inn-stilling“ eða „sam-stilling“). Menn hafa brugðist hart við þessari orðanotkun.  En í stað þess að segja „stellen“ (stilla) hafa menn notað „setzen“ (setja), án nokkurra athugasemda, þegar fjallað er um „Gesetz“ (lögfræðilega tilskipun eða lagasetningu). Hvers vegna má þá ekki nota orðið „Gestell“ ef horfa þarf á ríkjandi aðstæður?

Sama á við þegar fjallað er um hvernig maðurinn og veran varða hvort annað innan heims tækninnar. Þá erum við að fjalla um virkni inn-stillingarinnar (Ge-stell). Með því að höfða með gagnkvæmum hætti til mannsins og verunnar, heyrum við ákallið sem ákvarðar heildarsamstillingu (die Konstellation) okkar samtíma. Inn-stillingin snertir okkur umsvifalaust. Að því gefnu að slík umfjöllun sé leyfileg nú á tímum, þá getum við sagt að innstillingin sé okkur nákomnari (seiender) en öll kjarnorkan og öll vélvæðingin, nákomnari en öll skipulagningaráráttan, upplýsingaáráttan og sjálfvirkniáráttan. Þar sem merking þess sem við köllum Gestell (innstilling) er ekki sjáanleg innan sjóndeildarhrings hinnar fyrirstillandi hugsunar (des Vorstellens) þegar við íhugum veru verundarinnar (das Sein des Seiendes) sem nærveru (Anwesen)  – þá kemur „inn-stillingin“ okkur ekki lengur við sem eitthvað nákomið (Anwesendes) og þess vegna er það (das Getstell) okkur framandlegt. Innstillingin verður okkur framandleg vegna þess að hún er ekki það nýjasta, heldur færir hún okkur í fang það sem hefur fyrst náð algjöru valdi yfir samstillingu veru og manns.

Samvera (Zusammengehören) manns og veru í gegnum gagnvirkan ögrunarmáta færir okkur óþægilega nær því, hvernig maðurinn er ofurseldur (vereignet) verunni, en veran hins vegar tileinkuð (zugeeignet) manninum. Í ísetningunni ríkir einkennilegt afsal og tileinkun. Það gildir um þetta eignarhald, þar sem maður og vera eru eignuð hvort öðru, að það feli í sér reynslu, það er að segja að ganga inn í það sem við köllum „Ereignis“ (atburður-reynsla). Orðið Ereignis er myndað úr þróaðri þýsku. Orðið „Ereignen“ var upprunalega „er-äugen, það er að segja „að koma auga á“, síðan „aneignen“, það er að segja „eigna sér“ eða til-einka sér.

Samkvæmt því sem hér hefur verið sagt á orðið „Ereignis“ (atburður) héðan í frá að verða leiðandi orð í þjónustu hugsunarinnar. Þar sem orðið er þannig hugsað sem leiðandi hugtak, er ekki hægt að þýða það. Ekki frekar en gríska leiðsagnarorðið λόϒος (logos) og hið kínverska „Tao“.

Orðið Ereignis merkir hér ekki lengur það sem við skiljum í daglegu tali sem hvers kyns atvik, tiltekinn hlut sem gerist. Héðan í frá er orðið notað sem singulare tantum (einstak). Merking þess á sér stað (ereignet sich) einungis í eintölu (Einzahl), nei, ekki einu sinni lengur sem Zahl (tala), heldur sem (ein)stak (einzig).

Það sem við upplifum í gegnum hina nútímalegu tækniveröld sem samstillingu veru og manns er forleikur þess sem Ereignis merkir.[v] Þetta þýðir þó ekki að við þurfum nauðsynlega að festast í forleiknum. Í Ereignis talar sá möguleiki að hann umbreyti hinni hreinu yfirdrottnun innstillingarinnar (Gestell) í upprunalegt „Ereignen“ (atviksreynslu-uppákomu).

Slíkur umsnúningur á ísetningunni (Ge-stell) út frá Ereignis, fæli í sér brot á hinu atvikstengda,(ereignishafte) -nokkuð sem manðurinn einn gæti aldrei gert – en það fæli í sér afnám ofríkis tækniheimsins og umbreytingu þess í þjónustuhlutverk innan þess sviðs sem veitir manninum eiginlegan aðgang að atviks-reynslunni (Ereignis).

[ þessi setning er mikilvæg en erfið í þýðingu: Eine solche Verwindung des Ge-Stells aus dem Ereignis in dieses brachte die eireignishafte , also niemals von Menschen allein machbare, Zurucknahme der technischen Welt aus ihrer Herrschaft zur Dienstschaft innerhalb des Bereiches, durch den der Mensch eigentlicher in das Ereignis reicht.]

Hvert hefur þessi vegferð leitt okkur?

Hún hefur leitt okkur að inngöngu hugsunar okkar í þetta einfalda, sem við köllum Ereignis í ströngustu merkingu þessa orðs. Svo virðist sem við höfum ratað í þá hættu að hafa, af fullkomnu kæruleysi, leitt hugsun okkar í eitthvað almennt og fjarrænt, á meðan það sem orðið Ereignis (atburðs-reynsla/uppákoma) vildi segja, er aðeins hin mesta nálægð þessarar bráðu nándar sem við erum þegar stödd í. Því hvað gæti staðið okkur nær en það sem lætur okkur nálgast það sem okkur tilheyrir, þar sem við verðum hlutaðeigandi (Gehörende),  das Ereignis (uppákoman)?

Atviks-reynslan (Ereignis) er í sjálfri sér sveiflukennt svið, þar sem maður og vera ná hvoru öðru í eðli sínu, ná tökum á eðlislægri veru (Wesendes) sinni, þar sem þau létta af sér öllum þeim skilgreiningum sem frumspekin hefur lagt á þau.

Að hugsa atviks-reynsluna sem Ereignis felur í sér uppbyggilegt framlag til byggingar á þessu sveiflukennda sviði. Efniviðinn í þessa svífandi byggingu sækir hugsunin í tungumálið, endurómur þess er það mýksta en einnig það viðkvæmasta og jafnframt burðugasta í svífandi byggingu atviks-reynslunnar (Ereignis). Að því marki sem eðli okkar er yfirfært á (vereignet) á tungumálið búum við í Ereignis (atviks-reynslunni).

Við höfum nú hafnað á þeim stað á vegferð okkar þar sem hin grófa en óhjákvæmilega spurning vaknar: hvað hefur atviks-reynslan (Ereignis) með Samsemd (Identität) að gera?

Svar: ekkert.

Hins vegar deilir Samsemdin mörgu, ef ekki öllu, með atviks-reynslunni. Hvernig má það vera? Svar okkar felst að snúa nokkur skref til baka til þess sem áður var sagt.

Atviks-reynslan (der Ereignis) felur í sér gagnkvæma sameignun (vereignen) manns og veru í eðlislægri  samveru þeirra. Fyrsta og áhrifamesta ljósblossa atviks-reynslunnar sjáum við í inn-stillingunni (Ge-stell). Hann felur í sér kjarna tækniheims nútímans. Í inn-stillingunni sjáum við hvernig vera og maður tilheyra hvort öðru, þar sem virkni þess að tilheyra ákvarðar gerð „samverunnar“ og einingu hennar. Samfylgdin inn í spurninguna um að tilheyra sameiginlega (Zusammengehören), þar sem það að tilheyra hefur forgang fram yfir hið sameiginlega (zusammen), leiddi okkur að setningu Parmenídesar: „Hið sama er einmitt að hugsa jafnt og að vera“.

Spurningin um merkingu þessa sama er spurningin um eðli Samsemdarinnar (Identität). Kennisetning frumspekinnar segir okkur að Samsemdin sé megineinkenni verunnar. Nú kemur hins vegar í ljós að veran og hugsunin tilheyra bæði tiltekinni samsemd, sem á rætur að rekja í þessari tegund sameiginlegrar tilheyrnar (Zusammengehörenlassen) sem við köllum atviks-reynslu (Ereignis). Eðli Samsemdar er eiginleiki atviks-reynslunnar (Ereignis).

Ef svo færi að við fyndum eitthvað handfast í tilraun okkar til að vísa hugsuninni á stað eðlisuppruna Samsemdarinnar, hvað væri þá orðið af yfirskrift fyrirlestrar okkar? Merking yfirskriftarinnar Regla Samsemdarinnar (Der Satz der Identität) hefði tekið breytingu.

Orðið Satz (regla) gefur sig nánast fram í formi grundvallarreglu, þar sem gengið er út frá því að Samsemdin sé eitt af einkennum verunnar (Sein), það er að segja grundvalkareinkenni verundarinnar (Seienden). Þessi regla í skilningi fullyrðingar, hefur á vegferð okkar umbreyst í reglu í formi stökks, sem verður viðskila við veruna  (Sein) sem grundvöllur verundarinnar (Seienden), og hafnar þannig í hyldýpinu. Þetta hyldýpi reynist þó hvorki hið innihaldslausa tóm, né hið formyrkvaða villuráf, heldur: das Ereignis (atviks-reynslan). Í das Ereignis sveiflast eðli þess sem eitt sinn var kallað heimili verunnar, en það er tal tungumálsins. Satz verunnar segir nú: Stökk sem eðli Samsemdarinnar kallar eftir, fyrir brýna þörf, ef sameiginleg aðild (Zusammengehören) manns og veru á að takast í eðlslægu ljósi des Ereignis (atviks-reynslunnar).

Vegferðin frá reglunni sem fullyrðing um Samsemdina  til reglunnar sem stökk til eðlisuppruna Samsemdarinnar hefur umbreytt hugsuninni. Þegar horft er til samtímans, þá finnum við hér ástæðu þess að við sjáum, handan aðstæðna mannsins, samstillingu veru og manns á grundvelli þess sem umfram allt tengir þau saman í gagnkvæmu eignarhaldi, það er að segja der Ereignis (atviks-reynslan).

Að því gefnu að okkar bíði sú framtíð, að innstillingin (das Gestell) tali til okkar sem Ereignis – í gagnvirkri ögrun (Herausforderung) manns og veru innan útreiknings hins reiknanlega – að manneskjan og veran í eiginleika sínum fremji sitt eignarafsal (enteignet), þá væri leiðin opin og frjáls, þar sem manneskjan fengi í fyrsta skipti að reyna verundina, heild nútíma tækniheims, náttúruna og söguna, og þá fyrst og fremst veru þessa í heild sinni.

Svo lengi sem umhugsunin um heiminn á tímum kjarnorkunnar, og öll ábyrgðin sem henni fylgir, takmarkar sig einungis við það friðþægjandi markmið sem felst í friðsamlegri notkun kjarnorkunnar, þá er hugsunin hér komin hálfa leið. Á forsendu þessarar hálfnuðu vegferðar hefur tækniheimurinn  tryggt enn frekar sína frumspekilegu yfirdrottnun.

En hvar hefur sú ákvörðun verið tekin, að náttúran sem slík skuli um alla framtíð vera náttúra nútíma eðlisfræði, og að sagan skuli birtast einungis sem viðfang sagnaritunarinnar? Það er rétt, að við getum ekki hafnað núverandi tækniheimi eins og hann væri djöfullegur tilbúningur, og okkur leyfist heldur ekki að eyðileggja hann, að því gefnu að hann geri það ekki af sjálfsdáðum.

Enn síður skyldum við hins vegar aðhyllast þá skoðun að tækniheimurinn sé þess eðlis að í honum felist fullkomin vörn. Þessi skoðun lítur á það allra nýjasta (das Aktuelle), sem hún er heltekin af, sem hinn eina sanna raunveruleika. Þessi skoðun felur í sér  hreina draumóra, og því alls enga framtíðarsýn (Vordenken) þeirra er sjá fyrir sér hvatningu (Zuspruch) í eðli komandi Samsemdar manns og veru.

Hugsunin þurfti meira en tvö þúsund ár til að skilja eiginlega (eigens) jafn einfalt samband og þá miðlun sem á sér stað innan Samsemdarinnar. Eigum  við þá að halda því fram, að hið hugsandi inngrip í eðlisuppruna Samsemdarinnar geti raungerst á einum degi? Þessi innkoma kallar á stökk, og einmitt af þeirri ástæðu kallar hún á sinn tíma. Það er tími umhugsunarinnar, sem er annar en tími útreikningsins, sem á okkar tímum hvílir eins og lamandi ok á hugsuninni. Í dag höfum við „hugsunarvélar“ er reikna á einni sekúndu þúsundir af jöfnum, sem þrátt fyrir tæknilega nytsemd sína eru þýðingarlausar.

Hvað eina sem við reynum að hugsa og hvernig sem við gerum það, þá hugsum við á leikvangi arfleifðarinnar. Það er hún sem ræður, þegar hún frelsar okkur í gegnum hugleiðsluna frá eftirþanka (Nachdenken) til forsjálni (Vordenken) sem felur ekki lengur í sér neina áætlanagerð.

Einungis þegar við beinum hugsun okkar að því sem áður var hugsað verður hugsun beint að því sem enn er óhugsað.

(Erst wenn wir uns denkend dem schon Gedachten zuwenden, werden wir verwendet fur das noch zu Denkende.)

(Forsíðumyndin er samklippa eftir Erro frá 1958 ásamt kápumynd ítölsku útgáfunnar á þessari ritgerð. Þýska textann fann ég á netinu.)

:::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::

[i] „Vorstellenden Denken“ er vandþýtt hugtak sem erfitt er að finna samsvarandi orð fyrir á íslensku. Í ítalskri þýðingu Giovanni Gurisatti er þetta þýtt sem „Pensiero rappresentativo“ og væri vafalaust þýtt sem „representative thinking“ á ensku. Það leysir ekki íslenska þýðingarvandann, en orðið „Vorstellung“ er meðal annars „sýning“ á íslensku, en bókstaflega merkingin er „fram-setning“ eða jafnvel „fyrir-stilling“, sem hefur hins vegar aðra og neikvæðari merkingu á íslensku: „hvað á þetta að fyrirstilla?“ Þessi íslenska orðmynd rímar reyndar skemmtilega við gagnrýni Heideggers á „fyrirstillandi hugsun“, en gengur þó trúlega of langt í hlutdrægni sinni. Endanlega merkir Vorstellende Denken hjá Heidegger þá hugsun frumspekinnar sem hefur fyrir fram gefna forsendu í niðurstöðu sinni.

[ii] Seiende er lýsingarháttur nútíðar af sögninni sein, sem merkir að vera. Á íslensku væri bein þýðing „verandi“. Seiende getur hins vegar haft margræða merkingu á þýsku, bæði sem háttur sagnar og nafnorð, ekki síst í meðförum Heideggers, sem hefur gert „veruna“ að sínu mikilvægasta heimspekilega viðfangsefni. Sú þýðing sem hér er notuð er ekki nákvæm, og sjálfsagt umdeilanleg.

[iii] Anwesen merkir hjá Heidegger að vera til staðar, andstætt við Abwesen, sem merkir að vera fjarverandi. Hugtakið hefur þannig með beina virkni að gera. Þriðja afleidda myndin af Wesen getur verið Vorwesen, sem merkir að vera rotnaður eða „fordjarfaður“. Sem nafnorð getur Anwesen einnig þýtt landareign eða staðareign. Í daglegu sveitamáli stundum kallað „eignin“.

[iv] Heidegger notar hér sögnina gestellen, sem við getum þýtt sem „að innstilla“ eða „setja í“, en þetta orð er hér notað með vísun í nafnorðið „Gestell“, sem er lykilorð (og nýyrði) Heideggers í allri umfjöllun hans um tæknina. Orðið felur í sér að tæknin, sem í hefðbundinni þýsku er „Technik“, sé ekki bara hlutlaust fyrirbæri, heldur feli það í sér „inn-stillingu“ er varði veru mannsins og allrar annarrar veru í heiminum, þeim heimi sem maðurinn hefur gert að „viðfangi“ sínu. Sögnina notar Heidegger hér til að skýra í framhaldinu merkingu lykilhugtaks hans: Gestell. Þýðing þess á íslensku verður aldrei nákvæm án skýringar: innsetning, ísetning, innstilling, samstilling o.s.frv. Heidegger hefur rétt fyrir sér að þetta erorð sem ekki er hægt að þýða, ekki frekar en „Ereignis“.

[v] Ef svíkja ætti Heidegger með því að reyna að þýða „Ereignis“ þá er um að ræða atburð sem er eiginleg upplifun eða einstaklingsbundin reynsla („atviks-reynsla“) sem hefur með hugtökin „eign“ og „eiginlegur“ að gera. Atburður þar sem maður og vera eru eitt. „Uppákoma“. Hugtaksleg og merkingarfræðileg tengsl má finna við orðið Erfahrung=upplifun, reynsla.

 

CARLO SINI UM MERKINGARFRÆÐI HEIDEGGERS

TUNGUMÁLIÐ OG TÆKNIN HJÁ HEIDEGGER OG CARLO SINI

Tilefni þess að ég réðst í það að þýða valda kafla úr stórvirki Carlo Sini um Merkingarfræðina og tæknina  síðastliðið sumar er nokkuð flókin saga. Eftir að hafa fylgst með fréttum af stríðsrekstri í Evrópu í nokkra mánuði fór ekki hjá því að sú spurning vaknaði, að hvaða marki þessi styrjaldarátök ættu rætur sínar í tækninni: endalausar fréttir af ólíkum tegundum vopna og samanburði á tæknilegum mætti ólíkra tegunda vakti óhjákvæmilega spurningar um skyldleika tækni og ofbeldis: að hvaða merki ráðast styrjaldir af tæknilegum forsendum og hver eru hin raunverulegu tengsl á milli tækni og ofbeldis?

Þessar vangaveltur leiddu mig til þess að lesa ritgerð Martins Heideggers „Spurningin um tæknina“ sem upphaflega var erindi sem hann flutti í Tækniháskólanum í Munchen 1953 og var síðan gefið út í ritgerðasafninu Vorträge und Aufsätze ári seinna.

Þessi ritgerð bauð vissulega upp á athyglisverða rannsókn á eðli tækninnar, ekki síst sú niðurstaða að spurningin um eðli tækninnar væri ekki tæknilegs eðlis, heldur hefði meira með tungumálið og veruna að gera og eðli hvorutveggja. En tungumálið er kannski stórbrotnasta og skilvirkasta tækniundrið sem maðurinn hefur smíðað, en uppruni þess og virkni er okkur sífelld ráðgáta.

Það sem vakti furðu mína við lestur ritgerðar Heideggers var hvernig tungutak hans breyttist eftir því sem á textann leið, og orðin og hugtökin virtust sífellt verða langsóttari og reyna meira á þanþol orðanna hvað varðaði merkingarbærni og rætur þeirra. Ég fékk sterka tilfinningu fyrir því að Heidegger væri í þessum texta að gera tilraun til að yfirstíga hið frumspekilega eðli tungumálsins í leit að upprunalegri og trúverðugri orðræðu en við þekkjum úr daglegu tali. Í raun án þess að takast það. Til dæmis notar hann orðið „Gestell“ fyrir tækni, en það er þýskt nýyrði sem helst mætti líkja við „ísetningu“ á íslensku, það stendur fyrir ísetningu viðfangsins til úrvinnslu, ávinnings og bjargræðis fyrir manninn.

Fyrst las ég ritgerðina á ítölsku í þýðingu Gianni Vattimo. Sú þýðing verður að teljast nokkuð þrekvirki. Svo réðst ég á frumtextann og sá þann augljósa vanda sem Vattimo hafði staðið frammi fyrir við þýðingu sína, sem virðist í raun óvinnandi vegur er krefjist ekki minni átaka við tungumálið en ljóðræn endursögn hins dýpsta skáldskapar. Ég prófaði að máta íslenskuna við þessa tilraun og sá að það var mér í raun ofraun. En ef við ættum að „túlka“ einhverja niðurstöðu úr þessum merka texta Heideggers, þá væri hún sú, að tækni hefði tvíþætt eðli þar sem saman fara „afhjúpun“ (Entbergung) og „yfirbreiðsla“ (Verbergung). Þetta eru tveir eðlisþættir sannleikans í hugtakaheimi Heideggers. Sannleika sem endanlega verður að hættulegum leyndardómi þar sem hann leiðir hugann að skyldleika tækninnar og listarinnar. Þeirra tíma í Grikklandi til forna, þegar listirnar voru kallaðar „techne“. En rétt eins og rætur tækninnar eru ekki tæknilegs eðlis að mati Heideggers, þá er rætur listarinnar ekki að finna í hinu „listræna“. Ásókn mannsins í bjargræði, hvort sem þau eru af andlegum eða efnislegum toga, veldur því „neyðarástandi“ (Notstand) „að við upplifum eðli tækninnar ekki á hreinum tæknilegum forsendum, og að við njótum listarinnar ekki lengur á grundvelli hreinnar fagurfræði.“

Lokaorð ritgerðar Heideggers um spurningu tækninnar eru á þessa leið í vanburða endursögn:

Við upphaf örlagasögu Vesturlanda risu listirnar í Grikklandi í þær hæstu hæðir afhjúpunar sem þeim voru gefnar.

Þær framkölluðu nærveru guðanna, leiddu samtal hinna guðdómlegu og mannlegu örlaga í ljós.

Og listin var einungis kölluð „techne“.

Hún var einstök og margföld afhjúpun.

Hún var fróm (fromm, πρόμοϛ, promos), það er að segja staðföst í umhirðu og vernd sannleikans.

Rætur listarinnar er ekki að finna í hinu listræna (das Artistische).

Listaverkin  voru ekki einn framleiðslugeiri menningarinnar.

Hvað var listin?

Var hún kannski helguð skammvinnum hátíðarstundum?

Hvers vegna hafði hún þetta auvirðilega nafn „techne“?

Það var egna þess að  hún fól í sér framsetningu og tilkomu afhjúpunar og tilheyrði því „poietis“ (ποίησιϛ).

Þetta orð varð síðar nafnið á þeirri afhjúpun sem gegnsýrir sérhverja list hins fagra, það er að segja póesíunni, hinu skáldlega.

Skáldið sjálft færði okkur þessi orð:

„Wo aber Gefahr ist, wächst

Das Rettende auch“

(Þar sem hættan er til staðar, þar / blómstra bjargráðin líka)

Skáldið sagði okkur einnig:

„…dichterisch wohnet der Mensch auf dieser Erde.“

(„… skáldlega byggir maðurinn þessa jörð“.)

Hið skáldlega leiðir sannleikann í þann ljóma sem Platon kallaði  τò έκϕανέστατον (to ekvanestaton), það sem skín allra skærast.

Hið skáldlega gegnsýrir (durchwest) sérhverja list, sérhverja afhjúpun verðandinnar (des Wesenden) til hins fagra.

Skyldu hinar fögru listir vera kallaðar til hinnar skáldlegu afhjúpunar?

Gæti verið að sú afhjúpun, sem listirnar gera upprunalegt tilkall til, svo að þær öðlist sinn hlut í vexti og umhirðu (hegen) bjargræðisins, efni til nýs og endurvakins trúnaðartrausts?

Enginn getur sagt fyrir um hvort listin geti staðið undir þessum æðstu eðlis-möguleikum sínum, mitt í háspennu hættunnar.

Við getum hins vegar orðið bergnumin (erstaunen).

Gagnvart hverju?

Gagnvart hinum gagnstæða möguleika, að það gerist hvarvetna þar sem tæknin gerir innreið sína með ógnarhraða; að einn góðan veðurdag muni allt sem hefur með tækni að gera, sjálfur kjarni tækninnar, sýni veru sína í atburði sannleikans.

Þar sem eðli tækninnar hefur ekkert með hið tæknilega að gera skiptir meginmáli að kryfjandi hugleiðing okkar, og afgerandi viðbrögð okkar við henni, eigi sér stað á svæði sem er annars vegar hagvant á sviði tækninnar, og hins vegar á svæði sem í grunni sínum er henni gjörólíkt.

Slíkt svæði er svæði listarinnar.

Einungis þó að því tilskyldu, að hin listræna afstaða útiloki sig ekki frá því stjörnumerki sannleikans sem eftirspurn okkar beinist að.

Með slíkri eftirspurn staðfestum við það neyðarástand (Notstand) að við upplifum eðli tækninnar ekki á hreinum tæknilegum forsendum, og að við njótum listarinnar ekki lengur á grundvelli hreinnar fagurfræði.

Því áleitnari sem spurningar okkar um eðli tækninnar verða, þeim mun leyndardómsfyllra verður eðli listarinnar.

Því meir sem við nálgumst hættusvæðið, því skærara verður ljósið sem lýsir vegslóða bjargræðisins, því ákafari verða spurningar okkar.

Því hið fróma (die Frömmigkeit) felst í því að spyrja.

…………………………………………………………………………………………………………………..

Niðurstaða Heideggers er ekki einhlít, hann vantar enn hin réttu orð. En hann sér fyrir sér hættu tækninar og spyr hvort listsköpuninn geti orðið manninum til bjargræðis í fjarveru hinnar hreinu fagurfræði.

Þó þessi niðurstaða Heideggers hafi ekki fullnægt væntingum mínum, þá endar hún á hvatningu til frekari spurninga. Sú hvatning leiddi mig á slóð Carlo Sini í bindi hans um merkingarfræðina og tæknina, þar sem segja má að hann taki Heidegger á orðinu um leið og hann setur fram markverða gagnrýni á röksemdafærslu hans. Sá greinarmunur sem Sini gerir á hugtakinu „merki“ annars vegar og „tákni“ hins vegar, skiptir hér máli, og má trúlega rekja til merkingarfræði bandaríska heimspekingsins Charles S. Peirce. Sömuleiðis skiptir hér máli sú áhersla sem Sini leggur á „vítahring túlkunarfræðanna“ sem Heidegger virðist vera læstur inní. Skilningur Sini á erindi Peirce inn í hina mið-evrópsku heimspekihefð um veruna og fyrirbærin er afar athyglisverð og kallar á frekari spurningar. Ég réðist í að endursegja tvö kaflabrot í verki hans sem snerta þennan vanda. Hér kemur hið fyrra:

 

Carlo Sini:

 Túlkun og merkingarfræði hjá Heidegger

 

Kaflar úr ritinu „Dalla semiotica alla tecnica,– il cammino verso l‘evento“

Ritstj. Florinda Cambria. Birt í  2. Bindi, 1.hefti ritsafnsins Opere, útg. JacaBook, Milano 2021

Bls, 34-41

 

I.10

Hin misskilda grundvallarþýðing vandamálsins um merkið

(La misconosciuta essenzialità del problema del segno)

Í greiningu sinni á vísun merkisins í ritinu Sein und Zeit framkvæmir Martin Heidegger afgerandi stefnubreytingu sem leiðir til þeirrar niðurstöðu (að mörgu leyti til bráðabirgða) er nær hámarki í greiningu hins túlkunarfræðilega hringferlis tungumálins. Þessi stefnubreyting hefur hins vegar ekki verið skilin til fulls, hvorki af höfundinum né mörgum túlkendum Heideggers í samtímanum. Þetta hefur gerst vegna þess að vandamál merkisins og kjarni „vísunarinnar“ hafa verið fullkomlega vanrækt í hinni merkingarfræðilegu hugsun. Þetta sést best af efnislegri fátækt greiningarinnar á merkinu í Sein und Zeit, sem engu að síður er sögð hafa verið meginforsenda niðurstöðunnar um heimseðli (mondità) og upplausn spurningarinnar um Dasein  (til-veru). Það efnislega klúður í þeirri greiningu á vandamálum tungumálsins sem fylgir í kjölfarið er skýrasti vitnisburðurinn um þetta. Heidegger virðist ekki hafa á hreinu hvað hann er að segja þegar hann talar um merkið. Reyndar hefur hann þar tekið gagnrýnislaust í arf skilningin sem fram kemur í Logische Untersuchungen eftir Edmund Husserl.

Heidegger áttar sig til dæmis ekki á því að öll greining tilvistarstefnunnar er í ljósi merkisins.  Sjálfur lýsir hann því yfir að sérhver hlutur hafi í sér eðli vísunarinnar (er „eitthvað fyrir…“), en honum láist að draga af þessu þá náttúrlegu afleiðingu að sérhver hlutur feli í sér eðliseinkenni merkisins. Samsvarandi ályktun ætti hann að draga af verundinni (esserci – Dasein) en túlkunareðli þessara hugtaka verður ekki skilið öðruvísi en innan merkjasabands (relazione segnica). Þvert á móti hugsar Heidegger merkið einfeldnislega: eins og vísir, heilkenni, einkenni, forspá o.s.frv., það er að segja á grundvelli flokkunar sem er ekki bara mjög tilviljanakennd og ófullkomin, heldur fyrst og fremst mótuð af hinni raunvísindalegu fyrirbærafræði (fenomenologia empirica). Hann telur sig geta auðveldlega afgreitt merkið eins og við afgreiðum til dæmis verkfæri trésmiðsins: hamarinn, hefilinn, sögina, naglbítana o.s.frv.: þetta eru tæki sem þjóna vinnunni… Þess vegna getur hann skrifað: „vísunin (il rimando) sem hinn verufræðilegi grunnur merkisins, getur af þessum sökum ekki verið skilinn sjálfur sem merki.“

Þessi setning felur í sér tvíræðni og misskilning. Augljóst er að ef „merki“ lýsir „einkennum“, „heilkennum“, „áverkum“ og öðru þvílíku, þá getur vísunin ekki verið annað heilkenni eða annað einkenni. En grundvallarvandinn er: hvernig og hver setur fram heilkenni sem „merki“? Á hvaða grundvelli gerist það, ef ekki er vísað til reynslunnar af vísuninni? Það að vísa er merkjasamband (relazione segnica), hvað annað getur það verið?

Heidegger ruglar saman almennum merkjum, sem hafa þegar gengið í gegnum áþreifanlega flokkun sem afmarkaðir hlutir, og sjálfu merkjasambandinu.  Auk þess ruglar hann saman hinni verufræðilegu tilvist merkisins (að vera flokkað í merkjasambönd sem…) en það á við um hlutina sem vísa, og þau merki sem eru til fyrir hefðarsakir (á grundvelli þegar tilfallandi tungumáls). Þessi síðasti samruglingur er engu að síður meginreglan í hinni raunvísindalegu merkingafræði (semiotica empirica) okkar samtíma. Einnig hún horfir framhjá nauðsyn þess að greina setlög merkisins: merkjasamböndin (la relazione segnica) (eða þann verufræðilega eiginleika vísunarinnar, þar sem tengjast saman maðurinn, heimurinn og allir hlutir heimsins (i pragmata): tungumálið og hin hefðbundnu merki.

Eðli þessa misskilnings, sem við munum skýra frekar þegar á líður, ákvarðar ekki bara tilfallandi upplausn hinnar túlkunarfræðilegu rannsóknar Heideggers. Þvert á móti leiðir hann til túlkunarfræðilegrar landeyðingar. Endanlega útkoman verður „þögn“ hugsunarinnar, því ekki er um neina undankomuleið að ræða undan því sem við köllum í dag „tómhyggju“ (nichilismo) sem endimörk hinnar frumspekilegu hugsunar. Af þessu leiðir einnig ómöguleiki þess að hugsa uppbyggilega „kjarna tækninnar“ sem hið örlagaþrungna vandamál mannsins og samtímans. Út frá þessum misskilningi höfum við mætt þeim tveim valkostum (báðir óásættanlegir), sem felast í uppgjöf gagnvart tómhyggju tækninnar annars vegar (kannski með glaðværri yfirbreiðslu), og hins vegar í dulspekilegum flótta á vit hinnar þöglu og ennþá mjög svo „húmanísku“ biðstöðvar þess sem enginn þekkir.

Þessar vangaveltur sem hér verða á vegi okkar nú, munu ekki ná áhrifamætti sínum og þungavigt, því þær eru hér komnar með löngum fyrirvara miðað við það langa ferðalag sem við eigum fyrir höndum. Þær eru engu að síður settar hér fram sem leiðbeinandi viðvörun, sem bíður þolinmóð sinna komandi sönnunargagna og sinnar útlistuðu merkingar.

Fyrst um sinn er hins vegar betra að halda áfram að fylgja slóð Heideggers.

 

I.11

Merkingarbærnin og túlkunin

(La significatività e l‘interpretazione – eða „að hafa túlkað til að geta túlkað“)

Vegferð Heideggers á sér mikilvæga áfanga í hugmyndinni um  „merkingarbærni heimsins“. Verundin (l‘esserci, Dasein) er stöðugt í túlkunarsambandi við eigin veru, það er að segja heim sinn, og „veru-sína-í-heiminum“. Þegar verundin túlkar sjálfa sig í veru sinni er hún ávallt í nákomnu sambandi við „nærveruna“, sem er forsenda sjónarhorns hennar og dvalar (í heiminum). Nú er heimurinn í sjálfu sér hinn túlkunarfræðilegi sjóndeildarhringur (orizzonte ermeneutico). Samvitundin (la compresione)[i] um heiminn sem er verundinni eiginleg, er sjálf heimsveran (mondità). Þessi samvitund er grundvöllur heildarsambanda er gera merkingarbærni heimsins mögulega. „Hún tjáir byggingu heimsins, eða það sem er hinn varanlegi íverustaður hennar“.

Sem kunnugt er þá vísar verundin sem slík til ákveðins heims. Heidegger segir að henni fylgi í meginatriðum það að vera vísaður. Af þessu leiðir að

„Merkingarbærnin sem verundin (l‘esserci) er ávallt hlutbundin, felur í sér verufrtæðilegan möguleika þess að verundin geti með samvitund sinni (comprensione) og túlkun opnað eitthvað sem „merkingar“ (significati), er síðan skapapa möguleika fyrir orðið og tungumálið.“

„Samvitundin“ og hinar „tilfinningalegu aðstæður“ eru hér grundvallarþrep sem stíga þarf til þess að ná til orðsins og tungumálsins. Þessi þrep, sem við látum okkur nægja að nefna hér með nafni, og ættu að vera vel kunn öllum lesendum Sein und Zeit, varða leið okkar að lokum til „túlkunarinnar“ (Auslesung).

Túlkunin er úrvinnsla þeirra möguleika sem samvitundin leggur fram. Það er ekki samvitundin sem sem sprettur af túlkuninni, heldur þvert á móti: þegar við höfum fyrirfram gefna samvitund (pre-compresione) getum við túlkað, það er að segja unnið merkingarbærni heimsins út frá for-skilningi okkar. Hér verður til það sem við köllum hið túlkunarfræðilega hringferli („circolo ermeneutico“). Með öðrum orðum, þá sýnir hin samvitaða sýn (visione compredente) þegar og mætir hinu nothæfa (hamarinn sem hamar til að…, borðið sem borð til að… o.s.frv.)

Við þurfum því ekki að gera grein fyrir hinni túlkandi samvitund í „skilgreindri fullyrðingu“ (það er að segja með fullyrðingu og dómsúrskurði tungumálsins): „Hin einfaldasta for-umsögn (visione pre-predicativa) hins nýtanlega er þegar í sjálfri sér meðvituð samnýting („comprendente-utilizzante“).

Engu að síður kallar túlkunin á tvær frumforsendur. Sú fyrri varðar fyrir fram gefinn vilja til túlkunar, ásetning sem stafar af því að vera frá upphafi hluti af heildarbyggingu tiltekinnar merkingarbærni. Seinni forsendan er sú að afhjúpun og nálgun hins „samvitaða“ verði til undir leiðsögn tiltekins sjónarhorns (prospettiva) er festi í sessi sjónarhornið er stjórni túlkuninni. Þessar tvær forsendur segja okkur að mati Heideggers, að aldrei sé um hlutlaust mat á tiltekinni heimild að ræða. Slíkt ímyndað hlutleysi er einungis einfeldningslegur draumur sagnahefðarinnar og nútíma vísindahyggju.  Sérhver „fyrirliggjandi heimild“ sem svo er kölluð „er ekkert annað en augljós og óumdeilanleg skoðun túlkandans, ályktun sem er óhjákvæmilega innifalin í allri túlkunarviðleitni eins og það sem telst „fyrirliggjandi“ grundvöllur sérhverrar túlkunar“.

Hvað er lagt til grundvallar sérhverrar túlkunar? Það sem lagt er til grundvallar er tilgangurinn (il senso, merkingin og markmiðið)[ii], merking og markmið verunnar (verundarinnar). Spurningin um merkingu og markmið verunnar og for-samvitundina um hana finnur hér sitt fyrsta svar. For-samvitund (pre-compresione) og markmið og merking verunnar felast í verundinni sem verunni-í-heiminum í hlutverki túlkandans.

Hvernig er verundin í heiminum? Hún er þar eins og  „útkastið“ (essere gettato): hugtakið esserci[iii] hefur alltaf sitt afturbeygða viðskeyti „ci“ því veran fylgir ávallt eigin verund. Með hvaða hætti virkar „ci“? Á bak við það liggur tilfinningaskalinn (tonalità emotiva) og samvitundin (comprensione). Sjóndeildarhringur heimsins -eða heimsvera heimsins – opnast í gegnum „útkast“ tilfinningaskalans og túlkun samvitundarinnar. Þessi heimsvera (mondità) er merkingarbærnin (þar sem sjóndeildarhringur heimsins fellur, eins og sagt er, saman við hinn túlkandi (hermeneutiska) sjóndeildarhring; eða með öðrum orðum sagt, þá er hann sú for-samvitund sem við gengum út frá í upphafi). Opnun hins túlkunarfræðilega (hermeneutiska) sjóndeildarhrings gerir það að verkum að hin heimslæga vera (ente intramondano) sýnir sig, og við getum tileinkað okkur hana með frumlægum rétti sem nýtanleika. Þannig verður hið nýtanlega (i pragmata) meðtekið af okkar forsjálu umhverfisumhyggju í gegnum tilfinningaskala samvitundarinnar. Nánar tiltekið: hið nýtanlega er meðtekið sem tæki til…, eins og tilvísun. Þessi tilvísun afhjúpar í gegnum merkið heildarmynd vísananna, það er að segja merkingarbærni heimsins.  Þannig öðlast heimurinn „tilgang“ sem er innifalinn í samvitundinni og gerir sig greinanlegan í túlkuninni. Sérerhver túlkun þarf því að hafa meðtekið innifalda túlkunarvirkni, hún þarf því með einhverju móti að hafa túlkað til þess að geta túlkað. Þannig blasir við augum okkar vandamál hins „hermeneutiska hringferlis“.

I.12

Hringferli túlkunarfræðinnar

(Il circolo ermeneutico)

„Circulus vitiosus Deus“

(Friedrich Nietzsche)

Sérhver túlkun sviðsetur ákveðið sjónarmið, tiltekið sjónarhorn, tiltekna afstöðu. Sjónarhornið felur í sér for-samvitundina um það sem á að túlka. For-samvitund merkir: að búa þegar yfir grófri túlkun, að hafa þegar fundið sér sjónarhorn þar sem hin útlagða túlkun á sér greinanlegt ættarból. Það er einmitt túlkunin sem segir okkur að sérhver verði það sem hann er, hvernig  hann fram-kallar (pro-getta) sitt eigið tilkomna útkast með túlkun eigin veru. Allt þetta birtist okkur til umhugsunar í hugtakinu „esserci“ (sem má skilja sem „að vera til-kallaður“ – innsk. olg.)

Það sem hér hefur verið sagt um túlkunina afhjúpar hins vegar tiltekinn vítahring (circulus vitiosus), þar sem gengið er út frá því sem menn vildu gegnum-lýsa (di-mostrare) eða sanna.

Hinn vísindalegi hugsunarháttur samtímans hefur hins vegar sett sig upp á móti þessum vítahring, eins og Heidegger segir: „ekki síst þar sem hin viðtekna samvitund (comprensione) byggir á hinni almennu sannfæringu fólks og heimsins sem það lifir í“. Þetta er ástæða þess að sagnaritunin er skilin frá hinum „ströngu“ og „nákvæmu“  vísindum: Sagnfræðin er ekki fullkomlega vísindaleg (eins og sjá má af því að sagnaritunin og önnur húmanísk hugvísindi hafa sína eigin vísindalegu aðferðafræði, vegna þess að hið sérstaka túlkunarverksvið þeirra getur aldrei losað sig fullkomlega úr viðjum hins hermeneutíska hringferlis túlkunarfræðanna. Þegar sagnfræðingurinn gefur fortíðinni merkingu getur hann aldrei losað sig að fullu undan eigin sjónarhorni, vali á sínu persónulega (eða huglæga) sjónarmiði eða undan fordómum síns samtíma.  Um þetta skrifar Heidegger:

„Þar sem ekki verður hjá því komist að skapa sér sjónarhorn enda vísindi sagnfræðnnar á að sætta sig við ónákvæmari aðferðarfræði. Menn telja sig með einhverjum hætti geta yfirstigið þennan skort á nákvæmni með því að gera tilkall til „andlegrar merkingar“ „viðfangsefnisins“. Sagnfræðingurinn hefði vissulega þá óskastöðu að hægt væri að losna undan þessu hringferli og geta haldið í vonina um að sagnfræðiritunin gæti einn góðan veðurdag fundið fastan grunn til að standa á, er væri óháður höfundi sínum, eins og menn telja að gildi um náttúruvísindin. En ef menn sjá vítahring í þessu hringferli, og ef menn stefna að því að losna undan honum eða „hafa á tilfinningunni“ að um óbætanlega ónákvæmni sé að ræða, þá hafa menn misskilið samvitundina (la comprensione) í einu og öllu.“

Hvað á Heidegger hér við? Að með því að hafna „hringferlinu“ geti hin nútímalega hugsun íklæðst þekkingarlegum búningi náttúruvísindanna (en einnig þau fela í sér túlkun)? Þessi búningur, sem er afleiddur en ekki upprunalegur, (hann endurspeglar ekki hina upprunalegu samvitund og túlkun verunnar-í-heiminum hvað varðar sjálfa „afstöðuna“ (rispetto) og „sjónhendingu“ (colpo d‘occhio) vísindanna.

Málið snýst ekki um að hafna hringferlinu. Heidegger segir að hið mikilvæga „snúist ekki um að komast út úr hringferlinu, heldur að starfa innan þess með viðeigandi hætti“. Hringferlið „tilheyrir byggingu merkingarinnar (senso), sem er fyrirbæri er stendur föstum rótum í grundvallarmerkingu verundarinnar (esserci) og hinnar túlkandi samvitundar (comprensione). Sú vera sem er veran-í-heiminum fylgir sinni eigin veru og hefur hringferlisbyggingu sem er af verufræðilegu tagi.“

En hvernig er hægt að starfa innan þessa hringferlis „með viðeigandi hætti“? Almennt gildir að láta það ekki festast í sessi á grundvelli persónulegra fordóma okkar, á grundvelli „almenningsálitsins“ eða þess sem „sagt er…“ Þess í stað ætti túlkunin að stuðla að því að sjónarhornið spretti af sjálfu sér, einmitt eins og „hlutskiptið“ sem skapast af útkasti okkar, að vera „varpað inn á völlinn af örlögunum“. Þessi örlagaskilningur Heideggers samsvarar að stórum hluta greiningu Peirce á mismuni á „einstaklingsbundnum“ og „opinberum“ sannleika.

(Samanber kafla Heideggers um „almenningsálitið“ í Vera og Tími, í íslenskri þýðingu hér á hugrunir.com: https://wp.me/p7Ursx-1af)

I.13

Merki, tungumál og heimur

(segno, linguaggio e mondo -vandinn að tala án mótsagna)

Hvernig getum við komið orðum að merkingu túlkunarinnar? Fyrst og fremst þurfum við að átta okkur á að þessi greining er undirstaða framsetningar merkinganna, sem að sínu leyti verða mögulegar vegna almennrar merkingarbærni verunnar-í-heiminum. Engu að síður kemur túlkunin orðum að án þess að leita beinlínis að dómskvaðningum (að logos). Heidegger segir að „skorturinn á orðum þýði ekki skort á túlkun“. Öllu heldur sé um það að ræða, hvort túlkunin meðtaki eða hafni hinu nýtanlega við ríkjandi og fyrirfram gefnar (preveggente) umhverfisaðstæður. Hins vegar byggja möguleikar tungumálsins og orðsins – það er að segja hin málfarslega framsetning – á túlkuninni.

Hér vegum við og metum muninn á spurningunum sem settar voru fram í upphafi á grundvelli málvísinda Saussure. Tungumálið ræðst ekki í greiningu á fyrirliggjandi óreiðukenndum og formlausum aðstæðum, sem væru í þessu tilfelli hugsunin og hið raddbundna hljóð. Ennþá síður greinir það heiminn (sem fyrirfram var óreiðukenndur) í þær merkingar og þá hluti sem mynda heiminn. Spurningarnar um „stað“ hins málfarslega merkis og hinn eðlisbundna raunveruleika /ekki raunveruleika finna engu að síður sitt svar. Vegna þess að tungumálið er í heiminum og það er þessi í-vera sem veitir því með einhverjum hætti raunveruleika.

Engu að síður er heimurinn ekki lengur hugsanlegur hér sem einföld nærvera tiltekinnar heildar „hluta“, og tungumálið er ekki raunveruleiki sem dvelur í heiminum eins og fiskurinn í vatninu eða lykillinn í skráargatinu. „Heimur“ myndar hið túlkandi hringferli verundarinnar (esserci), það er að segja tiltekna afstöðu, sem tengir saman (colloca) og veitir innsæi í sjálfa verundina og heiminn í höfuðskautum hennar í gegnum samstillinguna. „Heimurinn“ er þannig sú „vera-í-heiminum“ sem tilheyrir hinu fyrirfram gefna (prveggiante), hagræðandi (manipulante) og nýtingarvæna (usante – i pragmata). Veran-í-heiminum opnar fyrir möguleika nytsemdarinnar þar sem hún felur í sér óendanlega vísun í hringferli „heimsverunnar“ (mondità) (í það að hafa alltaf túlkað til þess að geta túlkað). Hringferlið „heimur-túlkun“ felst einmitt í þessu, sem er staður tungumálsins. Hann færir orðinu efnisþáttinn sem felst í sambandinu „merkingar-hlutir“ eins og eitthvað sem einfaldlega er til staðar og því nefnanlegt.

Hið málfarslega merki á þannig sinn stað í túlkuninni og samvitundinni, sem eru bundin tilfinningaböndum. En túlkun, samvitund, tilfinningaskali, framsett áform, pragmata, nýtanleiki og að lokum verund og heimur, eru að sínu leyti merkjalegar afleiður (funzioni) er koma á undan tungumálinu  (hinu málfarslega merki) enda þótt Heidegger hafi ekki séð það fyrir.

Verundin (l‘esserci) eins og sá „túlkandi“ sem stendur stöðugt frammi fyrir því verkefni að túlka eigin veru (veru-sína-í-heiminum) og hefur túlkað hana frá upphafi vega, og heimurinn, sem staður heimsverunnar (mondità) (staður merkingarbærninnar) sem hefur alltaf verið til staðar, eru ennþá tvíræð og óáþreifanleg fyrirbæri að því leyti að Heidegger nær ekki þeirri verufræðilegu vísun merkisins sem liggur þeim til grundvallar og tengir þau saman.

Einnig tungumálið reynist þannig leyndardómsfullt í kjarna sínum. Við sjáum ekki enn hvernig við getum talað án mótsagna.

I.14

Vandamál málvísindanna

(Problemi della linguistica)

Hver er hin sérstaka aðferð hinnar málfarslegu framsetningar? Í fyrstu nágast Heidegger vandamálið undir merki fullyrðingarinnar: „Fullyrðingin er athöfn sem ákvarðar og miðlar“.

Fullyrðing er hins vegar tvírætt hugtak. Heidegger greinir þrenna þætti þess. Í sinni upprunalegustu merkingu felur fullyrðingin í sér „yfirlýsingu“ (logos sem apofansis). Um er að ræða sýningu nýtanleikans í nýtileika sínum. Í öðru lagi merkir fullyrðing „ákvörðun“ í gegnum forsögn (til dæmis  þegar sagt er „þungt“ um „hamarinn“). Þannig höfum við náð úrskurðinum (il giudizio). Þessi tenging er hins vegar ekki upprunaleg. Sem dómsúrskurður fullyrðingarinnar leysir hann umsögnina (l predicato) sem felst í verunni/hlutnum undan ógreinanleika sínum. En til þess að slíkt sé hægt þarf fyrst að styðjast við forskoðun (pre-visione), sjónarhorn á hlutinn. Á bak við dómsúrskurðinn liggur alltaf túlkun og sjónarhorn hennar (það er að segja hinn hermetíski túlkunarhringur). Þannig sjáum við greinilega að öll rökfræðin (og frumspekin sem byggir á henni) er í villu, eða réttara sagt ber hún fram staðlausar fullyrðingar, þegar hún meðtekur úrskurðinn sem réttan og upprunalegan stað sannleikans: dómsúrskurðurinn er einungis afleiddur staður (luogo derivato). Þessi villa hefur einnig ratað inn í nútíma rökfræði, þar sem úrskurðurinn byggir á kerfi samsvarana er verða viðfangsefni útreikninga. Þessi nútíma röksemdafærsla (logistica) telur sér trú um að hafa sett vandamáli sannleikans fram með ströngum hætti. Í raun og veru gerir hún það ennþá með aðferð sem er hvorki heil né upprunaleg (genuino né originario). Hin nútímalega röksemdafærsla virkar á yfirborðinu vegna þess að hún horfir fram hjá hinum túlkunarfræðilega (hermeneutíska) sjónarhóli. Hún á það sammerkt með hinni frumspekilegu hefð, að gleyma vandamálinu um merkingu verunnar. Hin nútímalega röksemdafærsla (la logistica) byggir því heiminn með einfeldningslegum hætti, rétt eins og fiskurinn í vatninu og lykillinn í skráargatinu. Þessi röksemdafærsla, sem telur sig hafa sett fram svo róttæka gagnrýni á frumspekina, er ekki annað en ýtrasti afleggjari hennar, með sama hætti og tæknin.

Að lokum merkir fullyrðingin (þriðja grein fullyrðingarinnar hjá Heidegger) „(fjöl)miðlun“ og „tjáningu“ (comunicazione og espressione). Sem slík tekur hún í arf báðar fyrri merkingarnar. Fjölmiðlunin á það sameiginlegt með hinum (í gegnum fullyrðinguna) „að vera fyrir hið yfirlýsta“. Frekar en að afhjúpa viðfangsefnið gerist það oftar að (fjöl)miðlunin breiði yfir það og gerist staðgengill þess með orðræðu sem er nær því vera „heyrst hefur…“ Bæði Heidegger og Husserl telja að tungumálið glati upprunalegum áhrifamætti sínum í gegnum (fjöl)miðlunina. Það gerist með því að við meðtökum orðið (logos) fullkomlega „útflett“ (dispiegata) í fjölmiðluninni, en ekki í sinni upprunalegu mynd.  Hvernig getum við fundið hið upprunalega form tungumálsins? Hér höfum við spurninguna sem er hið raunverulega vandamál í Sein und Zeit, bæði hvað varðar framsetningu spurningarinnar og svarið við henni.

Leiðarþráðurinn í tilraunum Heideggers til að veita svar við þessari spurningu er einmitt hugtakið (fjöl)miðlun (comunicazione), sem hann skilur í upprunalegri merkingu en við erum vön. Að þessu leyti fjarlægist Heidegger sjónarmið Husserls með afgerandi hætti, hefur reyndar endaskipti á röksemdafærslu hans.

„Í fjölmiðluninni (comunicazione) verður til framsetning samvitaðrar sam-veru (essere-assieme comprendente). Hún raungerir sameiginlega þátttöku (compartecipazione) á hinum sameiginlega tilfinningaskala og í sam-vitund sam-verunnar. Fjölmiðlunin felur ekki í sér yfirfærslu upplifaðrar reynslu, skoðana eða væntinga, frá innrými tiltekinnar hugveru til innrýmis annarrar. Sam-verundin (con-esserci) hefur þegar verið afhjúpað í hinum sameiginlegu tilfinningalegu viðbrögðum og í meðtekinni sam-vitund. Sam-veran er raungerð í orðræðunni með tjáningarfullum hætti. Hún er því þegar til staðar, en ekki með sameiginlegri þátttöku, því hún hefur ekki enn verið staðfest og aðlöguð […] Með talinu tjáir verundin sig, ekki vegna þess að hún hafi áður verið innilokuð í innrými er væri andstæða hins ytra, heldur vegna þess að sem vera-í-heiminum er hún þegar „fyrir utan“ með samvitundinni (comprendendo). Það sem tjáð er, er einmitt úti-veran, hin sérstaki háttur tilfinningaskalans.“

En hvernig verður tjáningin möguleg, talandinn? Almennt er tungumálið tjáning orðræðunnar (Grikkir kölluðu hana logos, en þeir hugsuðu á upprunalegri hátt, en ekki í hinum vitsmunalega tillærðu afleiðum vísindalegra og faglegra greininga, þeir áttu sér ekki hugtak á borð við „tungumál“). Hvað er orðræðan? Orðræðan er tilvistarlegur bróðir (coorginario) aðstæðna tilfinningaskalans og samvitundarinnar; hún mótar hina mögulegu samvitund „-st“-viðskeytisins í að talast-við; í þeirri skynjun eða samvitund sem einkennir einmitt „ci“-viðskeytið í esserci eða verundinni. Verundin með sinn tilfinningaskala skilur í gegnum túlkunina; þannig nær „heildarmynd merkinga samvitundarinnar til orðsins. Merkingarnar brjóta sér leið inn í orðin.“

Hvernig „brjóta þau sér leið“? Hvernig „komast“ þau? Heidegger segir okkur það ekki. Hann undirstrikar bara, að við höfum annars vegar merkingarnar og hins vegar „orðin-hlutina“. Saussure ályktaði með sambærilegum hætti að nefnarinn (il significante) og hið merkta (significato) ættu sér ekki tilvist á undan merki tungumálsins.

Til þess að orðræðan verði „orð“, það er að segja tungumál og miðlun (comunicazione) þarf hún hins vegar að verða „heimslæg“ (mondano), það er að segja verða aðgengileg „sem veraldlegur hlutur (ente intramondano), sem áhald eða nytjahlutur (utilizzabile)“. Hér nær Heideggar að mæta Husserl í skilningnum á fyrirbærafræðinni almennt. „Hægt er að brjóta tungumálið upp í orð-hluti sem eru einfaldlega til staðar“. Þannig öðlast orðræðan vídd, sem er ekki eins sönn og upprunaleg (og getur þannig orðið viðfangsefni vísindalegra athugana). En hið djúpa eðli orðræðunnar er ennþá óljóst. Til hægðarauka býður Heidegger okkur upp á aðeins tvo tilvistarlega möguleika er byggja á orðræðunni: „hlustunina“ (l‘ascoltare) (að hlusta á og skilja hina) og „þögnina“ (tacere) (eins og það að hafa eitthvað dýpra og merkingarþrungnara að segja sem þaggar niður í „blaðri“ hins vanburða tungumáls). Á grundvelli þessara athugana dregur Heidegger þá ályktun að

fram þurfi að fara endurskoðun á málvísindunum út frá upprunalegri verufræðilegum grunni […] Efna þarf til rannsóknar á þeim grundvallarformum er gera sérhverja framsetningu mögulega og skiljanlega í merkingum, án þess að takmarka sig við hinn sam-veraldlega (intramondano) hlut er leiði til fræðilegra hugleiðinga og eru tjáðar í tilgátum (propositioni) […] Hin heimspekilega rannsókn þarf engu að síður að einsetja sér í eitt skipti fyrir öll að spyrja þeirrar spurningar, hver sé veruháttur tungumálsins almennt, rannsóknin þarf líka að segja til um hvort tungumálið hafi veruhátt (modo d‘essere) hins veraldlega nytjahlutar eða hvort það hafi veruhátt verundarinnar, eða kannski hvorugt. Hvernig þarf vera tungumálsins að vera til þess að hægt sé að tala um „dautt tungumál“? Hvað merkir það verufræðilega, þegar sagt er að tiltekið tungumál þróist eða hrörni? Við höfum málvísindi, en engu að síður er vera hlutarins sem þau fjalla um áfram falin í myrkrinu, ekki bara það, heldur er sjóndeildarhringur þessara vísinda hulinn myrkri. Er það kannski tilviljun að merkingarnar séu fyrst og fremst og helst af öllu „veraldlegar“ (mondani), forritaðar af merkingarbærni heimsins og fyrst og fremst „innan rýmisvíddar“ (spaziali)? Eða að um sé að ræða „staðreynd“ framborna af tilvistarlegri og verufræðilegri  nauðsyn? Hvers vegna?

Málvísindi samtímans hafa ekki veitt nein svör við slíkum spurningum. Þau eru varla í stakk búin til að mæta þeim, veita þeim „áheyrn“, og „skilja“ þær (comprenderli) þar sem þau skortir nauðsynlega verufræðilega-hermetíska samvitund (consapevolezza). Þetta á líka við um Heidegger sjálfan, sem engu að síður á skilið viðurkenningu og mikið lof fyrir að hafa haft kunnáttu til að setja spurninguna fram með djúpvitrum hætti: einnig hann horfir fram hjá því hvaða leið sé í boði til að nálgast vandann. Það er í þessu samhengi sem merkingarfræði Peirce hefur sitt að segja. Nokkuð sem merkingarfræði og málvísindi samtímans ráða ekki við. Þótt þau geri sér oft dælt við Peirce reynast þau enn einu sinni ófær um að hlusta og skilja.

[i] Comprensione er venjulega þýtt sem skilningur á íslensku, en forskeytið com- vísar til þess að um sameiginlegan skilning er að ræða. Þar sem þessi þáttur er mikilvægur í hugsun Heideggers (og Sini) er orðið hér þýtt sem „samvitund“, sem er ekki nákvæmlega það sama, en undirstrikar hins vegar að hér sé ekki átt við einstaklingsbundinn skilning, heldur sameiginlegan tilteknu samfélagi eða heimi.

[ii] Ítalska orðið „senso“ hefur margræða merkingu, t.d. vit, skyn, skynfæri, skynjun, tilfinning, þýðing, merking o.s.frv. Beinast liggur kannski við að þýða það hér sem merkingu, en það býður upp á misskilning, því hér er átt við merkingu er á sér stefnu eða markmið fram í tímann, til dæmis þá að „lífið hafi merkingu“. Slík merking á sér ekki einhlítt svar, og því getum við ekki fundið einhlíta eða „rétta“ þýðingu í þessu samhengi.

[iii] Ítalska hugtakið esserci, sem hér hefur verið þýtt sem „verund“ er myndað af sögninni essere (=að vera) og afturbeygða viðskeytinu „ci“ sem samsvarar að vissu leyti íslenska afturbeygða viðskeytinu „-st“ (til dæmis að fara og að farast, gera og gerast o.s.frv. Afturbeygt viðskeyti við sögnina að vera er ekki til á islensku, en á bak við þetta viðskeyti felst alltaf virk þátttaka eins eða fleiri. Þannig myndi sagnmyndin „gettarci“ á ítölsku merkja að kasta sér, þar sem frumlagið er innifalið í sögninni að kastast. „Essere gettato“ merkir hins vegar að einhverjum er kastað í eða á e-ð. Heidegger skilur það þannig að manninum hafi verið kastað í heiminn af ókunnum aðila og ókunnum ástæðum, í raun og veru sér að ósekju.

Albrecht Durer: Melancolia I. Koparstunga  1514. Listin og tæknin andspænis óleysanlegri ráðgátu hins algilda sannleika.

CARLO SINI: SAMRÆÐA UM HLUTINN, MERKIÐ OG FJARLÆGÐINA

Hluturinn sem merki samkvæmt Carlo Sini

 

Kaflinn um „Heimspekina og merkingarfræðina“ í heildarútgáfu verka Carlo Sini: Opere, Volume I, Tomo I.

Fyrra bindið (af tveim) í fyrstu bók þessarar heildarútgáfu hefur titilinn „Lo spazio del segno – Semiotica ed ermeneutica“ (Rými merkisins – Merkingarfræði og túlkunarfræði)
Fyrsta bindið í ritsafni Carlo Sini, sem kom út hjá Jaca Book 2017 (470 bls.) í ritstjórn Florindu Cambria, fjallar að stórum hluta um uppgjör Sini við Nietzsche og Heidegger og frumspekina í heild sinni og framlag hans til merkingarfræðinnar, þar sem Sini leiðir hugmyndir bandaríska heimspekingsins Charles S. Peirce um "merkin" inn í þá heimspekilegu deilu sem hefur einkennt  samtímann og verið lýst sem gjá eða klofningi milli  heimspekiskóla sem kenndir hafa verið við „meginlands-heimspeki“ annars vegar og heimspekiskóla hins engilsaxneska pragmatisma hins vegar. Í þessari deilu gegnir tungumálið mikilvægu hlutverki og hið frumlega í nálgun Sini felst ekki síst í því að tengja merkingarfræði Peirce inn i þessa deilu og hugmyndir hans um virkini „merkisins“, sem er í raun samheiti yfir orðin, myndirnar og táknin sem við notum til að nálgast hlutina og okkur sjálf. Í þessu samhengi eru „hlutirnir“ (þar með taldir mennirnir) kynntir til sögunnar sem „merki“. Greining Carlo Sini á virkni merkisins er hér sett fram í samtalsformi á snilldarlegan hátt og skýrir fyrir okkur á tiltölulega auðskildu talmáli þær heimspekilegu ráðgátur sem felast í venslum mannsins, merkisins og hlutarins, ráðgátur sem hafa verið til umræðu hér á vefnum í textum Kants, Nietzsche, Heideggers, Lacans og Agambens. Þessi kafli er framhald undangenginnar umræðu Sini um heimspekina og merkingarfræðina, um  formgerðarstefnu  Claude-Levi Strauss og Saussure, um fyrirbærafræði og and-húmanisma Heideggers og Strauss, húmanisma og tilvistarstefnu Sartre og fornleifafræði hugmyndanna hjá Foucault. Þessi kafli veitir okkur í stuttu máli nýja og skýra innsýn í þá umræðu sem ég hef dregið fram hér á vefnum í endursögn á textabrotum þessara höfunda. Auk þess má lesa þennan kafla sem stutta kynningu á frumlegasta framlagi Sini í þessari umræðu, en það er tenging fyrirbærafræðinnar, túlkunarheimspekinnar og hins bandaríska pragmatisma í nokkuð heilsteypta heimspekilega hugsun. Vonandi tekst mér að skrifa samantekt með samanburði á hugmyndum þessara höfunda á næstunni og birta hér á vefnum.

Merkið og fjarlægðin

Þegar talað er um endalausa merkingarfræði (semiosi infinita) rekumst við oft á -með hrapallegum afleiðingum – þá almennu og venjubundnu hefð að líta á merkið sem „natúralískt“ fyrirbæri: merkið er þannig skilið sem hver annar hlutur meðal hluta: við höfum tréin, fljótin, hallirnar, bílana, hundana, börnin og svo merkin (í almennum skilningi: til dæmis merki hins talaða og ritaða tungumáls, umferðarskiltin, stafróf heyrnarlausra-mállausra, hljómkall trompetsins, allt svið táknanna, „heilkennanna“ o.s.frv.) Þessi almenni skilningur byrjar hins vegar að missa fótfestu sína þegar við áttum okkur á að merki er aldrei hin beina merking tiltekins hlutar (kannski væri réttara að segja meints hlutar) heldur vísun í annað merki.

— „Meintan“ hlut? Ert þú kannski að halda því fram að hlutir eða viðföng séu ekki til? Hvaða merkingarfræðilega öfgahughyggja er hér á ferðinni?

— Í vissum skilningi vildi ég einmitt segja þetta.

— En hvaða tilgangi þjónar það að skilgreina sem merki allt það sem almennt og ekki af ástæðulausu hefur verið kallað hlutir (náttúrlegt fyrirbæri eins og tré, eða tilbúið fyrirbæri eins og til dæmis járnbrautalest)?

— Ég ætla að reyna að svara. Þó ég viti að það er ekki auðvelt. Við getum byrjað með því að segja að þó járnbrautalestin sé vissulega  „hlutur“ (oggetto), en eins og Peirce segir, þá er hún það fyrir tiltekinn „Túlkanda“.  Við höfum ekki bara lest, og svo búið mál. Það er lest fyrir einhvern /einhverjum.

— Æ, já, það er gamla kenningin hans Berkeley: esse est percipi (vera er skynjuð). En allir vita að…

— Ég bið þig að grípa ekki of snemma fram í fyrir mér: við þurfum að sýna smá þolinmæði. En, sem sagt, ég sagði að það sé lest fyrir einhvern. En þegar ég segi „einhvern“, þá á ég ekki við „ég“, „þú“, „við“ o.s.frv. Túlkandinn er í raun og veru ekki „sjálfsvera“ („soggetto“) í hefðbundnum skilningi þess orðs. Túlkandinn tilnefnir menningarlega heild „merkinga“ sem eru í sjónmáli mögulegs þekkingarsviðs á skilgreindum hlutum.

— Hér má auðveldlega greina óskiljanlegan tjáningarmáta hughyggjumeistarans og orðfæri hans: það er kvalræði að reyna að fylgja honum eftir og skilja!

— Gott og vel: segjum sem svo að skýin séu hlutirnir, og andrúmsloftið sé það sem við kölluðum áður „menningarlega heild merkinga“. Nú eru skýin í andrúmsloftinu (atmosfera), við getum skynjað þau sem slík, en einungis í andrúmsloftinu. Ef ekkert er andrúmsloftið, þá eru engin ský, en þau eru formgerðir (formazioni) þess. Þannig sjáum við að til þess að geta aðgreint hlutina sem slíka, þurfum við skilgreinda menningu sem hægt er að dvelja í og birtast í (byggingu umræðuhæfra formgerða og sérstakra tilnefninga, myndi Foucault hafa sagt). Ef við notum dæmið af „lestinni“ sem áður var nefnd: ef túlkandinn er „Babilóníubúar“ eða „pygmýa-frumbyggjar“ (menning Babilóníumanna eða Pygmýa-frumbyggja), þá er ekki um neinn „hlut“ að ræða sem heitir „lest“. Hjá þeim er eitthvert hliðstætt fyrirbæri  ekki til staðar, hvorki í reynd (Babilóníumenn höfðu engar lestir), né sem aðgengi (pygmýa-frumbyggi sem kemur til Evrópu getur ekki séð „lest“ þegar við sýnum honum hana, jafnvel þótt auðvitað sjái hann „eitthvað“. Endanlega vildi ég skilgreina þetta „eitthvað“ sem „atburð“, en að svo komnu máli er víst best að sleppa þessu atriði og gera okkur að góðu fyrri nálganirnar með dæmum okkar). Ertu sammála?

— Sammála. Ég vildi bara benda á hvernig frumspekilegur hughyggjumaður, síðasti nemandi Sókratesar, myndi líta á dæmið um skýin sem huggulegan lapsus animae, en ég er ekki að gera mál úr því.

— Gott og vel, þá getum við haldið áfram. Reynum að taka saman það sem þegar hefur komið fram (mjög yfirborðslegt, og þess vegna óljóst): Rétt eins og hver annar hlutur, þá ætti „viðfangið“ lest að geta staðsett sig í samhengi hugtaka (menningarlegra merkinga) sem túlka hlutinn (túlka hann einmitt sem „lest“). Það er þetta samhengi sem við túlkum hér sem Túlkanda (Interpretante), og það er mikilvægt að hafa í huga.

— Ég hef aldrei heyrt „samhengi“ segja: „Lestin mín er að koma“…

— Einmitt, hárrétt athugað. Þetta er athugasemd sem Heidegger hefði talið “hárrétta“.

— Því trúi ég! Að minnsta kosti er ég sama sinnis: það eru takmörk fyrir sérviskuuppátækjum frumspekinganna! Einnig þeir taka lestina þegar þeir fara á ráðstefnur (undir titlinum: „Við erum alltaf alls staðar og hvergi“). Svo taka þeir lestina heim.

— Ég veit ekki hvort hægt sé að segja um Heidegger að hann sé frumspekingur, og þegar hann talar um nákvæmni (esattezza), þá á hann vissulega við það sem við erum vön að meina með þessu orði, en um leið á hann við annað og flóknara mál…

— Þó það nú væri! Var nokkur von á öðru?

–…reyndar er það ekki samhengið (contesto) sem segir: „Lestin mín er að koma“, það erum við sem segjum það, „ég“, „þú“, „við“ o.s.frv. Getum við sæst á þetta og haldið áfram?

–Að sjálfsögðu.

–Jæja, „ég“, „þú“ o.s.frv. könnumst við lestina, en það gerist í krafti þess að við tilheyrum tilteknu menningarlegu samhengi (contesto), það er að segja almennum túlkanda. Ef við viljum, þá getum við vel sagt að „ég“, „þú“ o.s.frv. séum „holdgerðir“ túlkendur. Við gerum athafnir okkar virkar með gjörðum okkar og forþekkingu, í gegnum merkin og merkingarnar, sem mynda saman okkar menningarlega samhengi og okkar almenna túlkanda. En með öllu þessu höfum við alls ekki sagt né sýnt fram á, að „lestin“ sé merki, og í hvaða skilningi það geti verið.

— Ég var einmitt að hugsa um það.

— Gott og vel,  til þess að geta sýnt hvernig lestin er merki (ekki orðið „lest“, eða skiltið „gætið ykkar á lestinni“, heldur hin raunverulega lest úr stáli og skrúfum) þurfum við að spyrja okkur þessarar spurningar: hvernig sýnir lestin sig gagnvart okkur? (un „treno, come si da?). Það á við um lestina eins og alla aðra hluti, að hún sýnir sig ekki í algjörri birtingu, með fullu innsæi. Ég hef aldrei fyrir mér „alla þessa lest“ né heldur „lestina“ eins og um væri að ræða kjarna hennar eða hina platónsku hugmynd hennar. Með öðrum orðum, þá er alltaf til staðar viss „fjarlægð“ á milli þess sem birtist og þess Túlkanda af holdi og blóði, sem gæti til dæmis verið ég. Við skulum jafnframt hafa í huga að sérhver fjarlægð hefur sinn hátt á að vera fjarlæg. Við gætum orðað þetta þannig að hin upphaflega eða frumlæga reynsla er reynsla fjarlægðarinnar. Hún gefur í sérhverju tilfelli til kynna „uppfyllingu“ sína (eins og Husserl hefði sagt), það er að segja, hvernig við eigum að umgangast hana til þess að eyða henni.

— Hin frumlæga reynsla er reynslan af fjarlægðinni. Hvernig gerist hún? Mér virðist þetta vera óljósasta fullyrðingin fram að þessu.

— þarf að skýra þetta betur. Það gerðist einnig með góðvin minn frá París, eftir að hafa hlustað með eftirtekt og þolinmæði á mínar tyrfnu útskýringar eins og hann var vanur, þá sagði hann að þessi skilningur á fjarlægðinni væri að þvælast fyrir honum og gerði honum torskilið þetta eðli merkisins, sem ég var að reyna að skýra. Ég ætla því að reyna að byrja upp á nýtt, og nálgast efnið frá öðru sjónarhorni. Sem sagt:

Annað hvort er ekkert eða eitthvað. Ef eitthvað er, þá er fjarlægð. Þetta er tilgátan. Reynum að skýra hana.

Við skulum byrja á að segja að eitthvað geti verið með margvíslegum hætti. Ég á við: við erum ekki bara að hugsa um skynreynsluna, eða dómgreindina (hvort sem um er að ræða greiningu í hugtakakvíar eða forsögulega greiningu (categoriale o precategoriale)). Eitthvað getur verið, til dæmis eins og kraftaskaut tiltekins átakavettvangs, eða þá gjörningur eða hegðun. Það getur verið póll einhverrar hneigðar eða löngunar, til dæmis að gleypa eða æla eða eitthvað því um líkt. Nú felur sérhvert „eitthvað“ í sér fjarlægðarmið (distanza vettoriale) sem við getum orðað með þessu móti: það gefur til kynna ákveðna stefnu eða markmið (að gera, að skynja, að taka inn, að langa í o.s.frv.). Eitthvað er með margvíslegum hætti að því marki sem það ber með sér þessa boðhætti (það er að segja hætti boðberans, (la sua vettorialità)).

Við höfum nú sagt að þetta „það er“ feli í sér fjarlægð, og þetta er grundvallaratriði, sem ekki er enn á hreinu. Höldum því áfram.

Ef eitthvað er, þá gefur Viðfangið sig fram (við skrifum hér Viðfangið (l‘oggetto) með stóru V til að gefa til kynna almennt eðli þess. Af sömu ástæðu skrifum við Túlkandann með stóru T). Viðfangið gefur sig fram; þetta þýðir að það er til staðar eða öðlast nálægð (presenza). Nú getur nándin annað hvort verið takmörkuð eða algjör. Með algjörri nánd (presenza. Ath. Þetta orð er á latínu prae-sensum sem merkið það sem er skynjað „á undan“, þ.e.: „forskynjun“) er Viðfangið sjálf nándin: það er allt í nálægð sinni, það er sjálf návistin (presenza). En þetta er einungis önnur aðferð við að segja að í algjörri nánd sé Viðfangið ekki. Það er ekki gerlegt að nálgast það, að hafa það í sjónmáli. Það er allt þarna (eða hérna, ef menn vilja það heldur) og það er eiginlega allt þetta þarna (eða hérna). Ekki er um neina fjarlægð að ræða á milli Viðfangsins og nándar þess. Hin algjöra návist er það sem ekkert verður sagt um eða reynt. Hún er hið beina og milliliðalausa (immediato) hjá Hegel og Peirce. Við getum tekið dæmi (sem ófullkomna tilgátu eins og öll önnur dæmi): reynsluna af algjörri návist sjáum við í reynslu barnsins í móðurkviði. Barnið hefur ekki móðir sína sem viðfang, það er með móðurinni, samtengt í algjörri návist viðfangs síns. Móðirin verður þá fyrst viðfang þegar nálægð hennar er orðin takmörkuð, það er að segja þegar viðfangið er ekki lengur algjörlega eitt með návistinni, heldur einmitt komið í fjarlægð hennar. Við höfum þannig staðsett okkur á sviði hinnar takmörkuðu nálægðar. Samkvæmt þessu er hér um að ræða eina tilfellið þar sem Viðfangið getur verið í návistinni (presenza) (að því gefnu að í algjörri návist  sé Viðfangið ekki til staðar og geti alls ekki verið það). Könnum þetta nánar.

Takmörkuð nálægð: eitthvað boðar sig í nálægð án þess að vera nándin (eða vera í henni). Hvers vegna segjum við „boðar sig“? Það er vegna þess að eina leiðin fyrir Viðfangið til að dvelja í nálægð án þess að vera nándin, það er að segja eina mögulega reynslan af takmarkaðri nærveru, felst í reynslunni af merkinu. Merki er boðberi (anghelos).

— Loksins komum við á sprengjusvæðið! Ég verð hins vegar að gera þá athugasemd, að ef allt er merki og merkin eru „englar“, þá opnast fyrir okkur heimsmynd sem er „englum lík“ (angelicata), nokkuð sem „stilnovistarnir“ gætu horft til með öfundaraugum („stilnovistar“ eru miðaldaskáld mansöngva af skóla Dante). Við höfum sem sagt flutt okkur um set frá því að lifa í skýjunum upp í að lifa meðal englanna.

— Að því marki sem hlutirnir eru „boðanir“ get ég ekki annað en samsinnt. En við skulum reyna að kanna dýpra. Við skulum spyrja okkur hvaða tengsl séu á milli hins algjöra Viðfangs og hins takmarkaða. Við gætum svarað (svolítið goðsögulega) að hið algjöra Viðfang (það sem ekki á sér stað í nærverunni) samsvari fjarverunni, algjörri fjarveru. Hið algjöra Viðfang er glatað viðfang. Þessi missir hins algjöra Viðfangs, þessi róttæka fjarvera, er hins vegar forsenda sérhverrar nærveru (sem við höfum nú skilið að er alltaf takmörkuð nærvera) . Við gætum þar með sagt: í sinni takmörkuðu nærveru hins altæka Viðfangs er með einhverjum hætti um endurfund að ræða, takmarkaðan endurfund. En hér vildi ég vera nákvæmari: Hið altæka Viðfang er „fundið“ (ekki „endurfundið“, þar sem frá þessari stundu hefur það aldrei áður verið fundið. Þetta er smáatriði sem skiptir að mínu mati höfuðmáli. Það er eins og að segja að Viðfangið sé glatað aðeins í takmarkaðri nærveru sinni, áður  væri það hvorki glatað né höndlað. Hin altæka nálægð og hið algjöra Viðfang eru þannig þættir og forsendur takmarkaðrar nærveru hins takmarkaða Viðfangs, ekki „goðsögulegt“ svið er komi til á undan tímanum og rýminu. Hið altæka Viðfang er þannig einn þáttur og einn verumáti merkisins).

— Mín tillaga væri sú að setja hömlur á hömlulausa óðamælgi fræðimannsins og þessa sífelldu flugeldasýningu, en taka þess í stað upp leiðarþráðinn sem ég var, þótt ótrúlegt sé, farinn að fylgja eftir.

— Sammála, það væri sanngjarnt. En framhald þessarar hugsunar (ég meina raunverulegt framhald) líkist reyndar meira flugeldasýningu en rökhendu, jafnvel þó það sé alltaf mögulegt, eins og Peirce sagði, að draga hana saman í rökhendu. En ég sný engu að síður aftur að virðingarstiganum. Sagt var: í nærveru hins algjöra Viðfangs á sér með einhverjum hætti stað endurfundur  (eða fundur); „með einhverjum hætti“ merkir hér: um er að ræða takmarkaðan endurfund. „Takmarkaður endurfundur“ merkir : endurfundurinn sem merki. Og þar sem merkið er boðberi, þá felur það í sér að hið takmarkaða Viðfang (það sem er til staðar) er boðberi hins altæka Viðfangs (við gætum einnig orðað það, út frá því sem áður var sagt, að um sé að ræða boðun fjarverunnar, því hún var eitt og hið sama og hin algjöra nærvera). Ef horft er á málið frá öðru sjónarhorni (sem er hinn dæmigerði hugsunarháttur heimspekinnar: ekki út frá afleiðslu (deduzione) og stærðfræðilegri sönnun, eins og Kant hafði þegar áttað sig á), þá gætum við sagt: birting hins takmarkaða Viðfangs felur samtímis í sér brotthvarf hins altæka Viðfangs. Þessi missir er á sama tíma og í sama skilningi kynning einhvers (atburðarins – en ég var þegar búinn að segja að ég vildi ekki snerta það viðfangsefni hér). Það sem kynnir sig til leiks er á sama tíma og í sama skilningi tiltekið merki, (að sýna sig, það er að segja boðunin, og það að vera merki, er eitt og hið sama).

Við gætum skilgreint allt sem hér hefur verið sagt til þessa sem ættfræði hins frumlæga Viðfangs eða frumgerðar þess. Samkvæmt því og þar sem við vildum byrja upp á nýtt, þá lítum við hér á þetta sem afgreitt mál, en um leið vildum við snúa aftur til „lestarinnar“ okkar til að sannreyna hvernig hún virkar.

— Látum gott heita að málinu sé lokið, þó mér sýnist alls ekki svo vera. Sem sagt, mér virðist alls ekki liggja hreint fyrir hvernig málinu sé lokið.

— Einnig hér verð ég að vera sammála. Umræður eins og þessar verða aldrei leiddar til lykta. Við getum alltaf breytt um sjónarhorn: heimspekingurinn tekur hinni óútkljáðu umræðu ávallt með jákvæðu viðhorfi frekar en vonbrigðum, öfugt við ekki-heimspekinginn. Og báðir hafa eitthvað til síns máls. Hins vegar vildi ég aðeins segja, að þótt þegar framlagðar röksemdir þyrftu á viðbótar leiðréttingum og dýpri greiningu að halda, þá gætu þær hugsanlega dugað í glímunni við viðfangsefnið: þessa frægu „lest“ okkar.

Sem sagt: hvernig náum við því marki að hafa það að hafa (svo vitnað sé enn einu sinni í orð Husserls), nokkuð sem felst í því að hafa lest sem viðfang? Eins og við höfum áður gert, þá vísum við hér aftur til dæmisins af barninu, en núna þar sem það er nýkomið úr móðurkviði. Við segjum að þar eigi sér í fyrsta skiptið stað myndun hlutareðlisins (oggettualità), það er að segja „kraftaskaut hagsmuna“: móðurbrjóstið fullt af mjólk, pelinn o.s.frv. Þannig verður til Umwelt (umheimur), heimur andrúmslofts og hluta (sem er ekki heimur í „verufræðilegum“ (ontoligico) skilningi eins og Heidegger myndi segja, heldur í skilningi milliliðalauss hlutareðlis (ontico)). Móðurbrjóstið er hér skaut sogsins og fullnægju því tengdu (brjóstið, sogið fullnægjan eru í upphafi nánast sami hluturinn). Sem slíkt, það er að segja sem hlutur/viðfang (oggetto) er brjóstið þá merki sogsins og fullnægjunnar. Eðlilega auðgast það smám saman af eðliseiginleikum (aukinn merkingarblær (connotazione) eins og sagt er, þar sem nýjar, oft dulvitaðar upplýsingar koma fram). Brjóstið eykst að „gæðum“ (hvað varðar snertingu, lykt, hlýju, bragðskyn, sjónskyn o.s.frv.) En það sem við þurfum að hafa í huga er að brjóstið er alltaf með takmarkaða nærveru, aldrei altæka. Fjarlægð þess er alltaf meiri eða minni, en þar er alltaf um fjarlægð að ræða.

Leonardo da Vinci: Madonna Litta, (hluti), 1490. Hermitage-safnið

— Þetta er tilgangslaust, ég skil ekki hvert þetta á að leiða. Hvað merkir: það er alltaf fjarlægð? Gerum ráð fyrir að nýburinn okkar sé blessunarlega sjúgandi geirvörtuna: hann hefur brjóstið í munni sér, munninn fullan af sætri og volgri mjólk, kollinn hvílandi í armi móðurinnar sem styður mjúklega við hann og hvetur hann kannski með kliðmjúkum orðum, hendur hans snerta brjóstið með nautnafullum strokum og við getum ekki lesið úr andlitinu annað en fullkomna sælu: hvað viltu meira? Öll þessi reynsla er brjóstið. Þetta er ekki þannig að fyrst komi brjóstið og svo, handan þess, hið sæta, mjúka, volga, bleika o.s.frv. Ég verð að játa að mér finnst við gætum smættað allt þetta stóra vandamál niður í lítilsháttar orðaleik (Wittgenstein sagði: heimspekin er einföld spurning  um tungumálið, öllu heldur er hún sjúkdómur tungumálsins). Sem sagt, komum okkur saman um þetta: með brjóstinu erum við að tala um hið bleika, mjúka, sæta o.s.frv…. það er að segja öll þau form reynslunnar sem það varða. Þegar við erum einu sinni orðnir sammála um þetta, þá held ég að þessi meinta „fjarlægð“ muni hverfa. Ég meina: þá er vandinn úr sögunni.

— Þetta var vel sagt. Ég á við: það sem nú hefur verið sagt skilgreinir mjög vel tvennar skoðanir okkar. En þrátt fyrir þær réttmætu athugasemdir sem hér hafa komið fram (og ég get ekki annað en verið sammála að hluta til), þá er ég enn þeirrar skoðunar að fjarlægðin sé til staðar. Þrátt fyrir snjöllustu tilgátuna (nýburinn hefur brjóstið á milli handanna, geirvörtuna í munninum, sýgur volga mjólkina o.s.frv.) þá er nærvera brjóstsins boðuð í gegnum merki þess (mýkt, ylur, sætleiki, bleikt), hún er fyrst og fremst í þessum merkjum nærverunnar, en í heild sinni (insieme) er hún ekki í þessum merkjum.

— Hvað merkir „í heild sinni“?

— Ég mun reyna að skýra mál mitt. Við munum öll eftir frægri kenningu Locke sem sagði að efnið (sostanza) væri summa einfaldra hugmynda þess. Til dæmis „eplið“; efnið „epli“, verður skilið af samfelldri samsetningu hins hála, rauða, sæta o.s.frv.  og ekki er um neitt annað að ræða en þessa samsetningu, þessa summu. Ég held að Locke hafi haft rétt fyrir sér, en aðeins að hálfu leyti. Eplið er vissulega þessi summa, en það er líka meira en þessi summa. Ekki í þeim skilningi að sérhvert epli hafi einnig að geyma eidos (hugmynd) eplisins, eins og Husserl hefði sagt, heldur af allt öðrum og að mínu áliti dýpri ástæðum. En snúum okkur að því sem sagt var rétt áðan: nærvera brjóstsins er í merkjum þess og í heild sinni er það (brjóstið) ekki í þeim (merkjunum). Könnum hvernig það er ekki.

Í fyrsta lagi getum við séð að ég þarf að „ná“ brjóstinu í gegnum athafnir eins og sog o.s.frv. Enn fremur þarf brjóstið að ná til mín. Ekki er um hlut að ræða sem slíkan, sem ekki þarf að ná til mín til að ég geti höndlað hann sem slíkan. (Þegar ég tala um hlut er ég ekki eingöngu að hugsa um efnislega hluti, heldur um hvaða hlut eða hvaða nærveru sem verða vill). Ég þarf einnig að nálgast eigin líkama, og hann mig. Reyndar er það rétt að fjarlægð hans er frábrugðin öðrum fjarlægðum, hann hefur sinn sérstaka máta sem gerir fjarlægð hans frábrugðna öðrum fjarlægðum. Nokkuð sem er trúlega frumorsök aðgreiningar hins „innra“ og hins „ytra“.

— Leiðarþráðinn!, leiðarþráðinn!

— Fyrirgefðu, en brjóstið þarf þannig að nálgast mig (móðirin er fjarverandi, en nú birtist hún fyrst agnarlítil, en svo stækkar hún o.s.frv.) og ég þarf að ná til þess. Nú skulum við spyrja okkur: hvenær hef ég náð brjóstinu? Á hvaða augnabliki nálgunarinnar og sogsins hef ég brjóstið? Einhver gæti sagt, þegar ég snerti það og sýg það, þá hef ég höndlað brjóstið. En í raun og veru er málið ekki svo einfalt. Vissulega hafa snertingin og bragðskynið afar mikilvæg nálgunaráhrif á hlutinn, þau tengja hann þeirri sérstöku fjarlægð sem fólgin er í „mínum eigin“ líkama (eins og við sjáum, þá var ég ekki að fara út fyrir efnið áðan, jafnvel þó ég geti játað að mér var það ekki ljóst þá). Það er engin tilviljun að skynnæmið, líkaminn og hinir efnislegu hlutir, séu stöðug viðfangsefni heimspekinnar. En það að öðlast meiri nánd felur ekki í sér afnám allrar fjarlægðar. Við getum í þessu skyni horft til hinnar kynferðislegu nálgunar í gegnum samfarir: hvenær hef ég „höndlað“ hina elskuðu konu? Án þess að móðga nokkurn, þá öðlast ég mesta nálgun með inntakinu (penetrazione). Engu að síður er það út frá óbrúanlegri fjarlægð. Hér getur nautnin fengið mig til að loka augunum: ég einbeiti mér að snertingunni. Þá finn ég sársaukann af því að „sjá ekki“. Þessi yfirtaka mín á viðfanginu er ófullkomin. Því opna ég augun og í fyrstu eykur það á skynnæmið og mér finnst ég hafa nálgast Viðfang mitt enn meir (sem sjálfsvera (soggetto), ég hef ekki gleymt því…). En ég sé í nærsýni og kannski ekki það sem ég einmitt vildi sjá. Staðreyndin er sú að jafnvel þó ég væri umkringdur speglum myndi ég aldrei sjá allt. Og ef ég einbeiti mér of mikið að áhorfinu glata ég snertingunni, lyktarskyninu og umfram allt þeim fortakslausa spuna (spontaneità) sem felst í hnattrænni og taumlausri leiðslu. Það sama myndi gerast í sérhverjum þeim erótíska leik sem mér kynni að hugkvæmast: alltaf gerir fjarlægðin vart við sig, sama hvað ég leitast við að tæma hana.

— Ég verð að játa að þessi samlíking kemur mér á óvart;  ég vissi ekki að heimspekingar gætu hugsað svona „jarðneska“ hluti; eða öllu heldur að þeir hefðu minnstu hugmynd um þá í því heimsveldi skýjanna sem er þeirra höfuðból.

— Rangt! Það er engin tilviljun að heimspekin varð til í Aþenu, en ekki í Jerúsalem eða Róm. Grikkirnir vissu mætavel að eros og heimspekin eru ekki fjarskyld, auk þess sem þeirra uppáhaldsfrásögn var sagan af Ixíoni sem hafði fengið þá flugu í höfuðið að serða Heru, eiginkonu Seifs og húsmóðurina á Olympstindi. Sjálfur var Seifur oftar en ekki með hugann bundinn við getnaðinn og þá ekki alltaf með Heru, en hann fann hins vegar aðferð til að fullnægja löngun vesalings Ixíons með þeirri einu aðferð sem hæfði dauðlegum manni: hann sendi honum ský sem var í mynd Heru, og fullur hamingju höndlaði hann hana og sarð og átti með henni, ef ég man rétt, einstök afkvæmi. Þetta mætti skýra með eftirfarandi hætti, sem nú kemur okkur vel: aðeins guðirnir eru þess megnugir að yfirtaka konuna (hlutina) í raun og veru. Mennirnir geta nálgast hana í seilingarfjarlægð í gegnum skýin, það er að segja í gegnum merkin.

En eins og Nietzsche skrifaði (og Hölderlin hafði uppgötvað á undan honum) þá eru „allir guðirnir dauðir“. Þess vegna verðum við að vekja okkur af draumi Ixions (kannski er ofsagt að segja „við verðum“, nægir að segja „við getum“): við getum vel verið án þess að telja okkur trú um að skýið sé Hera, það er að segja hið altæka Viðfang, sem við eigum að höndla. Þannig höfnum við því að merkin séu ský, það er að segja staðgenglar og tvífarar hinna algildu Viðfanga. Þessi í stað meðtökum við hið altæka Viðfang  og hina frumlægu grundvallar-fjarvist þess sem tiltekinn veruhátt og framboðsmáta merkjanna, eins og áður var sagt, og þar með nærveru hlutanna. En snúum okkur nú að okkur sjálfum.

Það sem hér hefur verið sagt um kynmökin og hinn kynferðislega maka á líka við um brjóstið, og reyndar um alla hluti, þar sem við getum byrjað á mér sjálfum. Einnig ég „yfirskyggi“ mig (eins og Husserl komst að orði, en þá var hann aðeins að hugsa um efnislega hluti, því hann trúði á innsæið og taldi þar af leiðandi að „das Erlebnis“ færi ekki í felur, heldur gæfi sig í holdi og blóði, nokkuð sem er ekki satt.): einnig ég „yfirskyggi“ sjálfan mig fyrir mér sjálfum.

Þessi þráður leiðir okkur fullkomlega eðlilega að „lestinni“: flóknu merki sem er fullt af bergmáli og „sögnum“. Hugsum okkur hvernig Carducci (ítalskt skáld 1837-1907) upplifði lestina sem merki framfaranna og síðar, skömmu fyrir dauða sinn, í stuttu ljóði (sem ber lítil höfundareinkenni hans og hefur þess vegna að mínu mati yfirburði yfir „miðlungs bókmenntaafrek“ hans) þar sem hann sér lestina sem tákn vélvæðingar og merkingarleysu nútíma mannlífs, tómar brottfarir og kveðjuköst og órjúfanlegar fjarlægðir frá viðföngum ástar okkar. Eðli þess að vera merki „lestar“ eða hvaða hlutar sem er, er fólgið í boðun þess, sem er um leið vísun út í óendanleikann. Sérhver nærvera gefur í skyn og er staðgengill annarra nærvera: hún geymir runu endalausra merkja, það er að segja óendanlega Túlkendur á undan sér og á eftir sér. Sérhver nærvera kallar á að við sundurgreinum hana („decodifichiamo“ eins og nútíma merkingarfræðingar myndu segja), en það felur í sér að við virkjum aðild okkar að henni á meðvitaðan hátt. En það merkir, eins og Peirce komst að orði, aðild okkar að alheimi merkjanna, þar sem sérhver hlutur er þar sem hann virkar (það er að segja hvernig hann virkar sem merki).

Fortunato Depero: Járnbrautalestin (málverk í anda fútúrismans) 1926

Þrátt fyrir þessa endalausu framvísun hefur sérhvert merki sína merkingu og á sama tíma þetta sama: það er að segja fjarveru hins altæka Viðfangs, fjarlægðina sem er innbyggð í sérhverja nálægð. Ef við viljum orða það þannig, þá er sérhver aðild okkar að örlögum þess Túlkanda sem í okkur býr (og í gegnum þetta aðildin að heild hinnar óendanlegu raðar Túlkendanna), og um leið aðildarleysi okkar að örlögum eignarhaldsins (ómennsk örlög eða ef við viljum heldur: örlög handan hins mannlega). Þegar við látum sem hlutirnir séu merki og skiljum þá í veru þeirra sem merki, þá felur það ekki í sér afneitun hlutanna, „raunveruleika“ þeirra (eins og sagt er gjarnan): raunveruleiki þeirra er einmitt fólginn í þessari virkni skilaboðanna. Þegar við segjum að lestin sé merki, þá erum við ekki að hafna „efnislegum gæðum“ hennar, að hún hafi til að bera hörku og þyngd og að hún geti keyrt á mig og að ég geti stigið um borð, að hún geti verið í seinkun (auðvitað ekki!) eða jafnvel að hún komi aldrei á áfangastað fyrir tilverknað einhvers atburðar sem er „utan“ hugsana minna, óska minna og túlkana. Þetta felur hins vegar í sér að mæta henni sem hluta af merkingunum sem hafa mótað mig og minn heim, og jafnframt að taka eftir því að birting hennar, eins og sérhver birting, er upprunalegur atburður (evento originario): alltaf þessi sama birtingarvirkni, að láta sig birtast í fjarveru sem ab origini (frá örófi alda); hún hefur birst okkur sem merki og „merkir okkur“ (ci assegna) tilsvarandi örlögum (en ég vil ekki ennþá tala um atburðinn).

Að gangast undir þessa reynslu (eins og hún er, og hvernig við erum merkt þeim örlögum að túlka hana í gegnum hlutdeild okkar í tilteknum Túlkanda) merkir ekki að hún sé „afskiptalaus“ (indifferente), þessi reynsla segir okkur að „lestin“ skipti máli, að ekki séu til hrein tól án tilgangs eða hreinir líkamar aðskildir frá sálinni. Við og lestin deilum sameiginlegum örlögum. Það kann að hljóma sem einfeldnisleg spurning, en hversu oft skyldum við í rauninni hafa lagt traust okkar á lestina og treyst henni fyrir lífi okkar? Ef lestin er tákn framfaranna, eins og okkar ágæti Carducci hélt fram, þá höfum við lagt traust okkar á þær, og þær lagt traust sitt á okkur. Lestin er ekki sinnulaus, enginn hlutur er sinnulaus að því marki sem hann er anghelos, boðberi skilaboða sem okkur varða, og hvetja okkur til túlkunar. Hins vegar má einnig segja, að sérhver hlutur sé „dif-ferente“ (eins og Derrida orðaði það), (hefur verið þýtt á íslensku sem „á skilafresti“). Sem sagt, enginn hlutur er hið altæka Viðfang. Að sinna viðfanginu, meðtaka boðskap þess, er ekki það sama og að „hafa skipti á því“ og hinu algilda Viðfangi, og gefa því þannig tilkall til altækrar yfirtöku (possesso totale). Listin að taka á móti hlutunum er líka um leið listin að innbyrða þá ekki (trattenerle). Það gerist mjög oft að við yfirstígum hluti, göngum yfir þá, til að ná öðrum hlut sem hefur í okkar augum ígildi eftirlíkingar hins algilda Viðfangs og hinnar algildu yfirtöku. Við meðhöndlum hlutina eins og meðöl eða tæki, við meðtökum þá ekki, heldur notum þá, jafnvel þó allir viti að hið endanlega viðfang verður aldrei höndlað. Eða þá að það breytist umsvifalaust eftir yfirtökuna í meðal til annars markmiðs. Mikilvægast er þó að með einfaldri notkun hlutanna (að notfæra sér þá), með því að nota þá sem meðul, meðtökum við aldrei boðskapinn sem þeir hafa að geyma, við gerum okkur ekki grein fyrir að þeir allir, hver fyrir sig, hafa sína tilvísun í hið altæka Viðfang sem við erum stöðugt en árangurslaust á höttunum eftir. Við sjáum ekki að hafandi hlutina við höndina höfum við líka við höndina þá fjarveru sem býr í hinum holdi klædda Túlkanda. Því er hið algilda Viðfang, eins og Heidegger myndi segja, bæði það sem stendur okkur næst og fjærst: það er hér, í sérhverri nærveru, og einmitt þess vegna sjáum við það ekki og leitum því langt yfir skammt. Reyndar er hér ekki við sérstaka sök okkar að sakast, þetta er hluti af merkiseðli okkar sem Túlkendur: því meiri nálgun sem merkið færir okkur við hlutinn, þeim mun skjótari verður hann á flótta sínum. Það merki sem færir okkur nærveru (áberandi) skapar líka (áberandi) fjarlægð. Ef lestin (eða flugvélin á okkar tímum) hefur dregið úr vegalengdum í rýminu, þá hefur hún einnig skapað fjarlægðir í öðrum skilningi, en Heidegger hefur skýrt þetta svo vel fyrir okkur að það er engin tilviljun að ég endurtaki það hér. Þannig óttast ég að áðurnefndur „frumspekingur“, sem talaði um að vera alls staðar og hvergi, yrði tekinn af meiri alvöru en þetta tiltekna dæmi gæfi tilefni til: kannski vildi hann tala um okkur, um okkar nútímalegu aðferð í hlutverki Túlkendanna. Ef hann hefði farið úr einni lest í aðra eða úr einni flugvél í aðra, til þess að breiða ráðstefnu sína út um heimsbyggðina að hætti margra meistara sem hafa af kaldhæðni hlotið viðurnefnið fullgildir áhafnarmeðlimir The Jet-Philosophy (þetta hef ég eftir amerískri vinkonu minni), þá hefði hann kannski viljað tala um einsemd sína og ógjörning virkrar háskólakennslu, án þess þó að losna undan þeim sameiginlegu örlögum okkar samtímamenningar sem kennd er við fjöldamenningu fjölmiðlanna, en þar er merkingarfræðin einmitt og ekki af tilviljun beinn þátttakandi.

— Hvað þá, ef engin er undankomuleiðin, til hvers er þessi umræða þá? Hvaða tilgangi þjónar það að velta fyrir sér eðli merkjanna í hlutunum og okkur sjálfum? Sem sagt, hverju þjónar umræðan þá?

— Nú skil ég, þú hefðir viljað færa þér umræðu mína í nyt, gera hana að meðali

— Ekki ég, í guðanna bænum! Ég hef hlýtt á „crescendo“ (vaxandi þunga) umræðu þinnar dágóða stund, þennan einleik, en um leið fannst mér að Carnap hefði haft rétt fyrir sér: þið heimspekingar eruð misheppnaðir tónlistarmenn; umræðunum breytið þið í sinfóníur með skellum málmgjallanna á hápunktinum og undiröldu strengjanna og viðarhljóðfæranna. Mér fannst líka áhugavert að sjá hvernig hin ídealísku fyrirheit enda hrapallega í dulspekilegum og þversagnafullum niðurstöðum (allt er alls staðar, eilífðartilvist mannsins er lokið o.s.frv.: auðvitað sagt með nútímalegra orðavali, en súpan er alltaf hin sama). Ég var einnig að hugsa um hversu snjallir þið eruð að vísa stöðugt í alþekkt dæmi, rétt eins og af tilviljun, og að nota þau síðan með leyndum hætti til að styðja orðræður ykkar og meintar sannanir (þetta skildi Kant líka mætavel þegar hann talaði um frumspekingana en ekki bara málefni heimspekinnar, sem er ekki stærðfræði o.s.frv.). Öll þessi orðræða sem ég hef mátt hlíða á, notaðist af rætinni illkvittni við dæmi barnsins í móðurkviði, rétt eins og það væri tilfallandi dæmi. Það er hins vegar mun meira en dæmi: ef við tækjum það út úr orðræðunni væru allir möguleikar á að vísa í hið algilda Viðfang og í glatað Viðfang og endurfundið úr sögunni. Ég spyr mig hvernig þessi samflétta ólíkra hluta, almennra reynslufyrirbæra, vísindakenninga sem beitt er með yfirborðskenndum og tilviljanakenndum hætti, grískra goðsagna, ólíkra heimspekikenninga frá ólíkum tímum  og svo framvegis, hvernig slík flétta geti gert tilkall til einhvers sannleiksgildis. Hvað getum við gert með orðræður á borð við þessar? Hvernig eigum við að setja þær undir gæðamat? Ég á ekki við að þær eigi að „þjóna“ einhverju í grófum og einfeldnislegum skilningi, en ég hef fullan rétt á að spyrja hvert sannleiksgildið sé… eða hvað?

— Við erum margir sem spyrjum okkur þessara spurninga í dag. Við spyrjum okkur hvaða orðræða sé heimspekileg (reyndar hefur heimspekin alltaf spurt sig þessarar spurningar). Ég held hins vegar að ekki sé hægt að heimfæra þessar orðræður (einmitt þessar fléttur ólíkra hluta) upp á einfaldan mælikvarða sannleikans. Sjáðu, ef við myndum spyrja okkur hvað við ættum við með „mælikvarða sannleikans“, þá efast ég ekki um að við værum tilneyddir að endurtaka einhverja af þessum orðræðum, fullum af óskyldum hlutum, og með engu móti gulltryggðar. Hvað það er sem heimspekingurinn er að leita að, og hvers vegna, er stórt vandamál, sem Nietzsche var fyrstur til að uppgötva. Hann grunaði að ekki væri allt með felldu, allar þessar rannsóknir og umræður; en þegar allt kemur til alls, þá er grunurinn líka orðræða. Vesturlönd virðast dæmd til orðræðna: þær eru aðferð þeirra til að nálgast hlutina og einnig til að gera þá fjarlæga, að finna þá og glata þeim. En ég ætlaði mér ekki að opna hér fyrir nýja orðræðu. Öllu heldur vildi ég stela nokkrum mínútum til að draga fram tvær niðurstöður af því sem sagt hefur verið, því þær kalla á mig og hvetja til útskýringa í formi niðurstöðu. Leyfist mér það?

— Við skulum líka hlusta á niðurstöðuna. Þannig verður þú ánægður.

­– Það var meira en ein niðurstaða, þær voru tvær eins og ég sagði. Semsagt: Við lögðum fram spurninguna hvenær við mætum hlutnum. Í raun og veru höfum við lagt megináhersluna á hvernig við mætum honum. Nú hefur spurningin um „hvenær“ sinn sérstaka áherslupunkt. Þar sem ég nálgast hlut sem boðar sig, og hann nálgast mig eða fjarlægist á móti, þá tímaset ég mig (mi temporalizzo). Betra væri að segja að merkið hafi tímasett mig, merkisafstaðan. Þar sem merkið hefur að geyma upprunalega fjarlægð í kjarna sínum sem merki, sem boðun, þar sem það er upprunaleg fjarlægð, þá vísar það einnig til tímasetningar, vegferðar, uppruna og tiltekinnar áttar. Það eru fortíð, nútíð og framtíð. Í boðun merkisins er til staðar annar staður (un altrove) sem er aldrei hér og nú í fullri merkingu, heldur nokkuð sem er háð hér og nú. Af þessu mætti draga margvíslegar mikilvægar ályktanir (til dæmis varðandi tímabundna leiðslu eða upphafningu (estasi), varðandi ekki-uppruna nándarinnar (presenza) eða núsins (presente)); en leikreglurnar þvinga okkur engu að síður til að leiða þessi atriði hjá okkur að svo stöddu, svo ekki upphefjist ný umræða um ólíka hluti og afskrifaða á forsendum hvaða sannleiksgildis sem vera kann.

Seinni niðurstaðan: Við höfðum greint á milli hugtaksins um heiminn í ontískum (hlutverulegum) skilningi og ontologískum (verufræðilegum) skilningi (eins og Heidegger gerði líka. (Aths.: hugtakið ontisch er nýyrði Heideggers sem vísar til beinnar og milliliðalausrar skynjunar, ólíkt ontologisch sem vísar til heimspekilegrar túlkunnar á verunni sem slíkri)). Ég ætla að víkja augnablik að dæminu sem þú dæmir sem rætið og illkvittnislegt og varðar barnið í móðurkviði (hin algjöra reynsla sem enginn getur sagst hafa upplifað, en enginn getur heldur neitað að hafa upplifað): sagt var að barnið væri með móðurinni, altekið af algjörri nærveru viðfangs síns. Við spyrjum (mig minnir að Fink hafi spurt sömu spurningar): hvernig er maðurinn með heiminum, ef heimurinn er hans upprunalega vera með? Hér merkir „heimur“ ekki þá ontísku heild „hluta“ sem við okkur blasa, heldur hina verufræðilegu (ontologica) vídd sem tekur til allrar veru heimsins (við gætum einnig sagt að þetta væri vandamál sköpunarsögu alheimsins (cosmologico). Er heimurinn altæk návist fyrir manninn (og þú manst hvað var sagt um það)? Er þá einnig um að ræða upprunalega fjarveru? Eiga orðræður okkar og mælikvarðar á sannleikann rætur sínar þarna? Í „atburði“ heimsins í túlkandanum? Hvernig er þá málunum háttað gagnvart dýrunum? Hvernig hafa þau heiminn? Og svo, með hvaða rétti tölum við um dýrin og heim þeirra? Að lokum: um hvaða rétt erum við að tala? Og hvers vegna viljum við tala út frá „rétti“? Sérhver orðræða er hringferli, sagði dvergurinn við Zaraþústra.

Sjáðu til, eitt hollráð að lokum: þú skalt fara núna, annars byrja ég á nýrri orðræðu.

___________________________________________

Forsíðumyndin er málverk Filippo Lippi: Kona og maður í glugga, 1435. Metropolitan Museum of Art.

%d bloggers like this: