Ferðin til Rómar
“Í Róm fann ég sjálfan mig í fyrsta skiptið.”
Johann Wolfgang Goethe: Ítalíuferðin, 17. mars 1788
Antonio Joli: Colosseum og sigurbogi Konstantíns 1744
Hvers vegna segist Goethe fyrst hafa fundið sjálfan sig í Róm?
Við þessari spurningu er sjálfsagt ekkert einfalt svar, en hitt er ljóst að ef líf mannsins er ferðalag og ef ferðalagið sem slíkt á sér markmið og áfangastað, þá hlýtur sjálfsþekkingin að vera einn helsti tilgangur og markmið ferðalagsins.
Ferðalög beinast yfirleitt að tveim ólíkum stöðum: annars vegar förum við burt úr borginni út í sveitina til þess að höndla hina óbeisluðu náttúru og finna samhljóm hennar í sjálfum okkur.
Hins vegar förum við á vit borgarinnar og menningarinnar sem hefur mótað umhverfið og náttúruna eftir þörfum mannsins og skilgreint rýmið út frá þörfum hans.
Bæði ferðalögin eru í einhverjum skilningi á vit fortíðarinnar og sögunnar: í náttúrunni skynjum við hinar líffræðilegu rætur okkar í djúpi vatnsins, forgengileika efnisins og lífríkisins og í óendanleika himinblámans; í borginni skynjum við hvernig maðurinn hefur ummyndað náttúruna í sinni mynd á grundvelli þeirrar staðreyndar að hann er einn dýranna ófær um að lifa í og með náttúrunni án þess að beygja hana að þörfum sínum og þar með að gefa henni merkingu.
“Það er tilgangslaust að velta því fyrir sér hvort flokka beri Zenobiu í hóp hamingjusamra eða óhamingjusamra borga. Það hefur engan tilgang að flokka borgir í þessa tvo hópa. Þær tilheyra hins vegar tveim öðrum flokkum: það eru þær borgir sem halda áfram í gegnum árin og umbreytingarnar að gefa óskum og draumum mannanna form og svo þær borgir sem hafa eyðlagt draumana og þrárnar eða verið eyðilagðar af þeim” segir skáldið Italo Calvino í bók sinni “Ósýnilegar borgir”.
Calvino er þarna að halda því fram að mynd borgarinnar sé skyldari draumi en áþreifanlegum veruleika, og að við eigum að nálgast hana sem slíka.
Við erum alin upp í því á okkar dögum að eini marktæki veruleikinn sé sá sem við getum mælt á mælistiku vísindanna. Merking rýmisins og hlutanna sé fólgin í mælanleika þeirra og hvernig þessi fyrirbæri virka á mælikvarða tækninnar og vísindanna, hvort sem það er vistfræðin og geometrían eða hin allsráðandi lögmál markaðarins.
En borgin er í eðli sínu uppsöfnuð blanda af skipulagi og óreiðu, reglu og tilviljunum, hún er ummynduð saga sem birtist okkur áþreifanlega á afar tilviljunarkenndan hátt, hún er ekki bara efnislegt rými til að mæla og skilgreina eða fornminjagarður til að grafa upp eins og mynd af Sögunni, hún er líka sálfræðilegt rými, tilfinnigalegt og trúarlegt rými sem á endanum reynist eins og Calvino sagði, meira af ætt draumsins en hins áþreifanlega veruleika.
Fyrsta reynsla mín af Róm var einmitt af þessum toga: mér fannst ég staddur á leiksviði sem var fyrst og fremst af ætt draumsins. Á þessu leiksviði voru margir leikmunir sem ég hafði kynnst af óbeinni frásögn eða myndum úr bókum, annað sem mér fannst ég þekkja þótt ég hefði aldrei séð það áður, en heildaráhrifin voru líkust því að vera staddur í miðjum draumi, á ferðalagi einhvers staðar djúpt inni í dulvitund míns sjálfs. Ég áttaði mig fljótt á því að ferðalagið til Rómar var var ekki bara útrás, heldur ekki síst ferðalag inn á við, inn í heima sem höfðu verið lokaðir einhvers staðar í dulvitund minni eða líkama, en opnuðust nú hver á fætur öðrum. Þetta var eins og ferðalag inn í myrkvaðan miðaldakastala með óteljandi vistarverum sem voru sífelt að koma manni á óvart, ekki síst vegna þess hversu kunnuglega þær komu mér fyrir sjónir í öllum sínum framandleika.
Róm er eins og forskrift að hugmyndinni um borgina. Hún geymir minni okkar og drauma um þetta rými sem gefur náttúrunni merkingu og manninum kleift að lifa af. Hún er eins og safnhaugur minninga og drauma mannkynsins um hið fullkomna rými, ekki bara í þau 2760 ár sem hún hefur staðið, heldur frá upphafi vega. Form hennar, neðanjarðarhvelfingar, breiðstræti og háreistar hallir geyma í sér drauma um aðra heima, annað líf og annan veruleika um leið og þau birtast okkur í áþreifanlegri upplifun sem bein og milliliðalaus reynsla sem hefur ekkert með mælistikur sagnfræðinnar og vistfræðinnar að gera en snertir okkur beint og án túlkunar eins og eitthvað sem kemur djúpt úr eigin vitund, úr hinu dulda minni líkama okkar.
Goðsögulegur uppruni Rómar er líka eins og af ætt draumsins. Hún byggir á bróðurmorði líkt og upphaf siðmenningarinnar, eins og því er lýst í 1. Mósebók: Rómúlus drap Remus eins og Kaín drap Abel. Hugmyndin um borgina sem heilagt rými og stofnun hennar sem heilaga athöfn er viðfangsefni bandaríska arkitektsins Joseph Rykwerts í frábæru riti hans The Idea of a Town: The Anthropology of Urban Form in Rome, Italy, and The Ancient World (1988). Rykwert segir söguna af þessu bróðurmorði enduróm af gleymdu ritúali er tengist hugmyndinni um stofnun borgar og um borgarmúrana sem þann helga stað sem skilur á milli borgar og náttúru. Eða eins og Plútarkos segir: “Stofnandi borgarinnar festir bronsplóg við pál sinn og bindur við naut og kvígu, beitir þeim síðan til að draga mörkin með djúpu plógfari. Á eftir fylgir hópur manna sem sér til þess að torfristurnar lendi innan markanna. Á þessum mörkum á að reisa pomoerium , orð sem merkir “meðfram eða handan múrsins”. Þar sem borgarhlið eiga að vera taka þeir upp plóginn… því Rómverjar telja allan múrinn heilagann nema hliðin…”.

Plógfarið var heilagur hringur sem skiptist í 4 parta með krossgötum sem kallast Cardo og Decumanum og eru dregnar í samræmi við gang sólar. Hringurinn var mynd af heiminum með himinhvelfingunni yfir eins og hvolfþak og krossgöturnar voru höfuðáttirnar. Hugmyndin um borgina átt sér frá upphafi fyrirmynd annars staðar, í myndinni af kosmos, í öðrum heimi. Hún var mynd af hinum skipulagða heimi, heimi sem var byggilegur af því að hann hafði merkingu, ólíkt hinni ómerktu náttúru utan múranna. Rómúlus drap bróður sinn af því hann rauf hin helgu vé plógfarsins, hann truflaði þá heilögu athöfn að gefa rými mannsins merkingu. Á krossgötunum var nafli þessa heims og þar reis hofið og þar var fórnargröfin og þar reis altarið sem átti að tryggja velferð þessa staðar. Enginn veit með vissu hvar “umbilicus” eða nafli Rómaborgar var staðsettur við stofnun hennar hinn 21. apríl árið 753 fKr., en Rykwert færir líkur að því að það hafi verið þar sem nú er hof gyðjunnar Vestu á torgunum miðjum. Þar logaði eldur á altari Vestu samfleitt í yfir 1000 ár og sjálfur var Rómúlus getinn í synd af samræði Vestumeyjar og hernaðarguðsins Mars. En sem kunnugt er var það úlfynjan sem bjargaði þeim bræðrum frá drukknun í ánni Tíber eftir að reynt var að hylma yfir þessa synd.
Uppdráttur af Róm í upphafi, byggð á 7 hæðum: Palatinus, Aventinus, Velia, Oppius, Viminalis, Quirinales og Caelius. Breiða línan markar elstu borgarmúrana, en nafli borgarinnar, Umbelicus, er á Forum.
Ekki sjáum við nafla Rómar á ferð okkar um borgina í dag, en vitundinn um að heimurinn eigi sér nafla er örugglega greipt jafn djúpt í vitund okkar og vitundin um eigin nafla og þá tengingu sem hann eitt sinn veitti okkur við annan heim í móðurkviði. Og þegar við stöndum við hof Vestu og ímyndum okkur þessa frumhelgun rýmisins sem frumforsendu siðmenningarinnar þá stöndum við jafnframt óhjákvæmilega nærri þeim stað þar sem við fyrirhittum okkur sjálf, rétt eins og skáldið Goethe forðum daga.
Í dag getum við reikað um rústirnar á Fori imperiali og séð það sem eftir stendur af Vestuhofinu eins og það var endurgert á keisaratímanum. Allt hefur þetta verið grafið úr jörð og öll vegsummerki úr lagi færð, en með ímyndunaraflinu getum við séð fyrir okkur að þarna hafi áttirnar verið settar fyrir Rómarborg árið 753 f.Kr, og þar með markað rými, ekki bara fyrir borgina, heldur fyrir gjörvalla hina evrópsku og vestrænu menningu. Hugmyndir Rómverja um borgina sem “città quadrata” á þessum tíma voru fengnar frá Etrúum frekar en Grikkjum, en sambærilegir siðir tíðkuðust í grískum borgum og þeim nýlendum Grikkja sem reistar voru á Ítalíu á 7. og 6. öld f.Kr og mynduðu hið forna Stóra Grikkland. Mörkun og helgun rýmisins út frá höfuðáttum og gangi himintungla gerði borgina að þeirri mynd af heiminum sem var manninum nauðsynleg til þess að hann gæti staðsett sig í veröldinni og séð samhengi hins stóra og hins smáa. Byggðir Miðjarðarhafsins hafa síðan lagst ofan á þessar undirstöður siðmenningar eins og jarðlög og grafið frumhugmyndina í gleymsku tímans, en þó sá malarían til þess að borg eins og Paestum er fullkomlega varðveitt með sínum Cardo og Decumanus og sínum “mundus”, grafhýsi við nafla borgarinnar sem hýsti fórnir til guðanna og til stofnanda borgarinnar. Og jafnvel Vesúvíus hefur varðveitt fyrir okkur grunnmynd rómverskrar borgar, en árið 79 eKr var rétt rúmur áratugur liðinn frá því að Pompei eyðilagðist í jarðskjálfta þannig að jafnvel hún hefur ekki varðveist okkur í fullkomlega upprunalegri mynd frá stofnun hennar.
Eina borgin við Miðjarðarhaf sem hefur varðveitt grískt götumynstur með með sínu upprunalega skákborðsmynstri og Cardo og Decumanus frá stofnun allt fram á okkar daga er Napoli, en elsti hluti borgarinnar byggir í dag á því götumynstri sem Grikkir mörkuðu við stofnun hennar á 5. öld f.Kr. Það er eðli borga sem eiga sér margra alda eða árþúsunda byggðasögu að uppruni þeirra hverfur undir marglaga feld sögunnar, en kjarni málsins – samkvæmt Rykwert- er sá, að hugmyndin um borgina sem slíka er til fyrir stofnun hennar, hún er byggð og stofnuð með helgiathöfn og hún á sér stofnanda sem hefur stöðu hetjunnar í grísk-rómverskum menningarheimi, þannig að minningu hans er haldið á lofti með árlegri helgiathöfn og fórn á þeim helgistað sem hýsir “mundus”, sem er eins konar móðurlíf borgarinnar, helgur staður við nafla hennar þar sem stofnunar borgarinnar og stofnanda er minnst.
Þegar því er haldið fram að Róm sé eins og frummynd og fyrirmynd annarra borga, þá er það vegna þess að engin borg hefur varðveitt jafn mörg lög siðmenningar í grunni sínum, engin borg hefur haldið jafn lengi áfram “að gefa óskum og draumum mannanna form” eins og Calvino kemst að orði um hina ósýnilegu borg Zanobiu. Í upphafi var borgin lítið “borgríki”, en á fáum öldum nær hún þeirri stöðu að verða fyrstra stórborgin í nútíma skilningi þess orð. Það gerist um leið og hún verður valdamiðstöð heimsins, upphaf og ljósmóðir þess miðstýrða valds sem setti heiminum lög, en eins og stendur í Jólaguðspjallinu þá lét Ágústus “skrásetja alla heimsbyggðina” á fæðingarári Krists, og heimsbyggðin var þá Rómverska heimsveldið, það sem var þar fyrir utan taldist ekki til þessa heims.
Upphaflega byggðist borgin af Etrúum, Latverjum og Sabínum, en hinar hugmyndalegu rætur borgarinnar verða engu að síður fyrst og fremst raktar til þess helleníska jarðvegs sem Grikkir höfðu sáð til um allt Miðjarðarhafið og var Rómverjum fyrirmynd bæði í trúarlegum, lögfræðilegum og heimspekilegum efnum. Á dögum Ágústusar gerist það hins vegar að hin gyðinglegu áhrif fara að gera vart við sig. Ef við leggjum leið okkar upp á Aventinohæð og förum inn í basilíku heilagrar Sabínu sjáum við þetta svart á hvítu: á innra gafli kirkjunnar yfir innganginum eru tvær táknmyndir um uppruna hinnar rómversk kaþólsku kirkju frá 5. öld e. Kr.: Ex gentibus og ex circumcisione.
Ex Circumcisione og Ex gentibus, mósaíkmyndir úr S. Sabina í Róm, 5. öld e. Kr.
Ex gentibus voru þeir sem snúist höfðu frá rómverskri fjölgyðistrú til kristni, ex circumcisione voru hinir umskornu, þeir sem höfðu snúist frá gyðingdómi til kristni. Þeir sem áttu stærstan heiðurinn af sameiningu þessara menningarheima í hinn kristna söfnuð voru helgustu píslarvættir kirkjunnar í Róm, þeir Pétur og Páll, annar gyðingur og hinn af grísk-rómverskum uppruna. Rétt eins og hin forna Rómaborg var reist á gröf þeirra Rómulusar og Remusar, þá er hin kristna Róm reist á gröfum þessara píslarvotta og gröf Péturs postula er enn undir höfuðaltari Péturskirkjunnar í Róm, höfuðkirkju hins kristna heims frá því hún var reist af Konstantín keisara á fyrri hluta 4. aldar; eins konar fórnaraltari sem vitnar um stofnanda hins kristna safnaðar og hinnar kristnu Rómar.
Hvergi í hinum kristna heimi getum við fundið áþreifanlegri ummerki um þessi tímamót í sögu Vesturlanda en einmitt í Róm. Tímamót sem skipta svo miklu máli að þau eru látin marka upphaf tímatals, ekki bara í kristni, heldur um víða veröld.
Grikkir höfðu miðað tímatal sitt við upphaf hinna olympisku leika, en þeir höfðu annan skilning á tímanum en gyðingar og hinir kristnu. Fyrir þeim hafði heimurinn alltaf verið og átti sér engan enda eða markmið. Hann var tími sífelldrar endurkomu hins sama eins og hann birtist í gangi sólar og endurkomu árstíðanna. Samkvæmt sköpunarsögu Gamla testamentisins skapaði Guð heiminn úr engu og tilvera gyðinga markaðist af biðinni eftir komu hins smurða. Þannig fékk tíminn línulegt ferli í átt að því markmiði, sem fyrst var uppfyllt með komu Krists samkvæmt Nýja testamentinu, og síðan staðfest með spádómnum um endalok heimsins og endurkomu Krists og endurreisn hins kristna heims í hinni Himnesku Jerúsalem sem átti sér hliðstæðu í hinni upprunalegu Paradís.
Í Róm sjáum við hvernig þessi ólíki skilningur á tímanum og rýminu birtist fyrst í undirheimum katakombanna og fátæklegum ummerkjum þeirrar undirstéttar sem fylgt hafði þeim Pétri og Páli og mátt sækja ofsóknum. Síðan sjáum við hvernig þessi hugmynd um holdtekju Guðs í líkama Krists færist smám saman yfir á hinn guðdómlega veraldlega höfðingja sem var keisarinn sjálfur. Sigurbogi Konstantíns keisara við Colosseum í Róm er ekki bara minnisvarði um þennan örlagavald í sögu Vesturlanda, hann er líka minnisvarði um það hvernig hinir veraldlegu valdhafar notfærðu sér hugmyndina um Krist sem konung og yfirfærðu hana í vissum skilningi yfir á hinn veraldlega höfðingja. Konstantín lét ekki bara lögleiða kristni í rómverska ríkinu, hann gerði líka hinu fornu Bísantíum að höfuðborg rómverskla ríkisins, sem þannig var nefnd eftir honum sem Konstantinopel, og hann átti jafnframt frumkvæði að því að samþætta með vissum hætti hið keisaralega myndmál og formhugsun keisaraveldisins hinni kristnu hugmyndafræði og heimsmynd.
Hluti af Sigurboga Konstantíns í Róm frá því um 330 e.Kr. Sigurboginn er samsettur úr eldri verkum og nýjum: Skyldirnir tveir eru aðfengnir og í klassískum hellenískum anda og sýna hetjudáðir eldri keisara. Lárétti borðinn sýnir Konstantín sjálfan umkringdan af hirð sinni. Lágmyndin markar þau rof sem verða á þessum tíma á milli hins klassíska helleníska stíls og hins býsanska stíls miðalda. Þarna situr Konstantín (höfuðlaus) fyrir miðju umkringdur hirð sinni. Myndin byggir á samhverfu stílföstu mynstri en ekki þeirri eftirlíkingu (mimesis) sem var aðalsmerki hins klassíska hellenska myndlistararfs. Myndin minnir um margt á býsanskar myndir af Kristi meðal kennimannanna og Kristi meðal kirkjufeðranna á dómsdegi og markar þannig upphaf þess að kristin hugmyndafræði er samsömuð hugmyndinni um hið keisaralega vald eins og tíðkaðist um aldir í býsanska eða Aust-rómverska ríkinu.
Á fyrstu öldum kristni var myndlistin fátækleg og að vissu marki mótuð af hinum gyðinglegu hugmyndum um bannið á helgimyndum. Myndgerving guðanna var talin tilheyra fjölgyðistrúnni og við finnum nánast engin merki kristinnar myndlistar fyrr en á 3. öld e.Kr. Fram að tíma Konstantíns er öll helgimyndagerð í lágmarki og leifar hennar vart finnanlegar nema í elstu katakombum Rómar. Með lögleiðingu kristni er hin keisaralega rómverska byggingararfleifð hins vegar endurvakin í basilíkum Péturs, Páls, Jóhannesar og Maríu í Róm, sem allar tóku mið af formi hinna veraldlegu dómshúsa sem vottuðu um ægivald keisaranna yfir heimsbyggðinni. Basilíkur Rómar voru eins og aðrar opinberar byggingar í borginni tröllvaxnar og báru í formum sínum og yfirstærð þessa einstöku hugsun um hið altæka veraldlega vald er náði yfir alla heimsbyggðina. Colosseum var ekki bara blóðvöllur þar sem skylmingaþrælar börðust upp á líf og dauða við hungruð villidýr og hver við annan, það var líka eins konar líkan eða frummynd af heimsveldinu sem samanstóð af “urbis et orbis”, borginni og hringferlinum sem umlukti hina lokuðu grísk-rómversku heimsmynd og gjörvalt rómverska heimsveldið í senn. Rétt eins og Pantheon var ekki bara hof allra guða, heldur um leið mynd af þessari sömu heimsmynd, þar sem hvolfþak Hadríans er eins og himinfestingin, gatið í toppi hennar eins og gatið yfir í eilífðina eða ríki dauðans og ljósgeislinn sem það kastar inn í rýmið möndullinn sem heimurinn snýst um. Þessi mynd af heiminum sem hús allra guða var umbreytt í kirkju um aldamótin 600, og við getum þakkað það kirkjunni að við getum enn gengið inn í þessa heimsmynd eftir 2000 ár, minnug þess að þegar Sturla Sighvatsson lét húðstríkja sig fyrir framan bronshurðirnar sem enn standa var þessi bygging meira en 1000 ára gömul.
Pantheon, hof allra guða, reist á dögum Ágústusar keisaraog endurreist af Hadrían á fyrrihluta 2. aldar e.Kr.
Þegar við ráfum um rústir og undirheima Rómaborgar á okkar dögum komumst við í beina snertingu við þessa undirheima sem eru um leið undirheimar þess dulda minnis sem býr í líkama okkar og undirvitund. Það er engin tilviljun að við þekkjum sjálf okkur í þeirri mynd af heiminum sem Panþeonhofið birtir okkur. Þessi mynd er okkur í blóð borin, við höfum fengið hana í arf sem er ekki bara hugmyndalegur heldur líka með einhverjum hætti af líkamlegum toga. Hugmyndinn um naflann sem tengir okkur við umheiminn í móðurlífi og sú hugmynd um nafla alheimsins sem þarna stendur eru óaðskiljanlegar, það sem skiptir hins vegar máli er að þarna skynjum við hvernig þessari hugmynd hefur verið gefin efnisleg mynd um leið og rýminu er gefin hugmyndaleg merking og manninum markaður staður í alheiminum. Maðurinn fann sig ekki lengur varnarlausan á berangri náttúrunnar í þessari mynd, hann var kominn í öruggt skjól óhagganlegrar myndar af óbreytanlegum heimi sem var hlaðinn merkingu.
Rétt eins og við getum rakið hugmyndina um hina fullkomnu borg sem mynd af hinni fullkomnu byggingu alheimsins aftur til Platons, þá getum við rakið þá hugmynd að hin fullkomna borg eigi sér fyrirmynd í hinni Himnesku Jerúsalem aftur til hinna kristnu miðalda. Ágústínus kirkjufaðir segir í bók sinni Borg Guðs að þótt hin veraldlega borg muni alltaf hafa hina Himnesku Jerúsalem að fyrirmynd þá sé hún óhjákvæmilega mörkuð erfðasyndinni og þar með áhrifum djöfulsins.
Myndskreyting Leonardos við útgáfu endurreisnartímans á fræðiriti Vitruviusar um hlutföll í alheimi og smáheimi, makrokosmos og mikrokosmos, ritað á 1. öld f. Kr. tengir form þessara heima í eina mynd
Hins vegar á sú hugmynd rætur sínar að rekja til húmanismans að hin fullkomna borg sé um leið mynd af líkama mannsins. Ekki þannig að hún sé eftirlíking af formi hans, heldur að hún sé eftirlíking af virkni hans. Að maðurinn finni sig í hinni fullkomnu borg eins og hann finni sig í sínum eigin líkama. Heilagur Tómas af Aquinas sagði reyndar að listin líkti ekki eftir náttúrunni í formum hennar, heldur í virkni hennar. Þannig virkar hin fullkomna borg eins og hinn fullkomni líkami mannsins. Við vitum reyndar að rómverski arkitektinn Vitruvius setti fram hugmyndina um samræmi í byggingu mannslíkamans og alheimsins þegar á 1. öld f. Kr. Hin fræga teikning Leonardo af manninum inni í ferningi og hring er einmitt skýringarmynd við þessa hugsun. Alla þessa sögu borgarrýmisins og alla þessa drauma mannkynsins um hið fullkomna rými getum við lesið úr undirheimum, rústum og höllum Rómaborgar.
Hvar er höfuð þeirrar Rómaborgar sem er mynd hins mannlega líkama?
Við finnum það á Campidoglio, hæðinni þar sem ráðhús Rómar hefur staðið í meira en 2500 ár, hæðinni sem eitt sinn hýsti hof Júpiters og hýsir nú torg Michelangelos frá 16. öld, meistaraverk í nýrri rýmishugsun endurreisnartímans og húmanismans. Þarna hefur höfuð þessa líkama verið staðsett frá öndverðu.
Hvar finnum við hjarta Rómaborgar?
Hugur okkar hvarflar strax að gröf Péturs postula sem er falin undir háaltari Péturskirkjunnar. Þetta er ekki bara hjarta Rómar, þetta er hjarta hins gjörvalla kristna heims.
Hvar finnum við nafla Rómar? Miðjuna sem allar vegalengdir í rómverska heimsveldinu voru mældar út frá og markaðar mílusteinum eftir vegakerfi keisaranna og rómverska hersins?
Við finnum hann óhjákvæmilega á Forum, trúlega undir sjálfu Vestuhofinu sem nú hefur verið grafið úr rústum og er aðeins varðveitt að hluta. Þar undir er “mundus”, gröfin og fórnaraltarið þar sem ekki bara Rómaborg var markaður staður, heldur gjörvallri heimsbyggðinni.
Hvar finnum við augu Rómaborgar?
Hvergi nema í gatinu á hvolfþaki Panþeons þar sem okkur opnast sýn ekki bara upp í himininn, heldur út fyrir himinfestinguna yfir í ríki dauðans og óminnisins.
Hvar finnum við þyrstan munn borgarinnar?
Hvergi nema við Trevi-brunninn sem notar enn 2000 ára gamlar vatnsleiðslur til að flytja ferskt drykkjarvatn um langan veg ofan úr fjöllunum inn í þéttbýlið.
Hvar finnum við maga Rómaborgar?
Við finnum hann á matvörumarkaðnum á Campo dei Fiori, þessu einstaka torgi sem var vettvangur aftöku þegar Giordano Bruno var brenndur þar á báli fyrir að halda í hugmyndir gnostíkeranna um að náttúran og Guð væri eitt og hið sama.
Hvar finnum við þvagfæri og endaþarm Rómaborgar?
Við finnum þau í Cloaca maxima, holræsinu mikla sem enn stendur og færir afrennsli frá Forum út í Tíber. Op þess er enn sjáanlegt við árbakkann eins og endaþarmur borgarinnar.
Hvar finnum við fætur Rómaborgar?
Við finnum þær út með Via Appia, veginum þar sem Rómverjar treistu grafhýsi sín og minnisvarða til þess að þeir mættu öðlast framlengt líf í minni eftirkomendanna. Á veginum þar sem Pétur mætti Kristi á göngu og spurði hann: Dominum quo vadis?. Á veginum þar sem þrælar Spartakusar tóku út kvalir sínar negldir upp á krossa í steikjandi sólarhitanum kílómetrum saman.
Hvar finnum við blóðrás Rómaborgar?
Í Tíber sem rennur í hlykkjum gegnum borgina eins og óstöðvandi framrás tímans. Þannig getum við endalaust haldið áfram að leika okkur að þessari samlíkingu, sem verður með undarlegum hætti raunveruleg þegar við förum að kynnast þessari undraveröld sem er um leið veröld okkar eigin líkama og undirvitundar, hið leynda minni mannsins og siðmenningarinnar.
Italo Calvino segir að sumar borgir haldi áfram að varðveita drauma og þrár mannsins á meðan aðrar borgir hafi orðið draumunum að bráð. Róm er ein þeirra borga sem hefur hvað best tekist að varðveita þessa drauma. Við finnum þá í formum borgarinnar, draumum mannana um hið fullkomna rými hinnar grísk-rómversku heimsmyndar, í drauminum um hina Himnesku Jerúsalem eins og hann birtist í basilíkum og klaustrum borgarinnar, í draumi Tómasar frá Aquinas um eftirlíkingu náttúrunnar í virkni hennar eins og þeir birtast í krókóttum strætum miðaldanna, í draumunum um hina rökréttu borg húmanismans með höllum torgum og samgönguæðum milli höfuðkirkna borgarinnar, við finnum þá í draumum gagnsiðbótarinnar um annan heim í hvelfingum barokk-kirknanna og leiksviði barokk-torganna við Trevi-brunninn, Spænsku tröppurnar og Piazza Navona, við finnum stórveldisdrauma Mussolinis í hinni undarlegu blöndu modernisma og klassíkur á Olympiuleikvanginum gamla og í fjölmörgum opinberum byggingum fasíska tímans, við finnum drauma mannkynssögunnar í þessum flókna vef sem bílamenningin er nú á góðri leið með að drekkja í eimyrju, hraða og hávaða með hraðbrautum sínum og umferðarmannvirkjum. En við erum blessunarlega laus við gler- og stálhallir postmódernismans í þessu völundarhúsi minninganna sem fékk skáldið Goethe til að finna sjálfan sig í fyrsta sinn árið 1788 og fékk Tómas Sæmundsson til að skrifa þessi orð í Ferðasögu sína árið 1832:
“Hef eg þar fyrir mér eigin reynslu, og hafði eg varla hugað að hinum smiðandi snilldum (áður en hann kom til Rómar, innsk.), öllu þeirra ágæti, þeirra mikilvægu verkunum í veraldarsögunni … og í mannligu lífi, hvað mikið þar um er talað í bókum, og oft ómöguligt án þess að bera þar á skynbragð að skilja heilt merkisrit eða taka þátt í samræðum siðaðra manna, fyrr en augu mín opnuðust og eg sá hin fögru löndin hvar snilldin eiginlega á heima ásamt náttúrunnar indæli og himinsins blíðu…Verður því dómur minn annar, og eg sanna héðan af að þeir hafa rétt að mæla sem álíta þennan hlut meðal þeirra verðugustu og veita eftirtekt hvörjum menntuðum manni sem víða fer.” (Tómas Sæmundsson: Ferðabók, bls. 338).