Gianni Vattimo er látinn. Tilkynningin barst mér á netrásinni Dante-channel í gærkvöld. Hann var umdeildur og áhrifamikill í allri heimspekiumræðu á Ítalíu og þekktur um víða veröld fyrir bækur sínar og fyrirlestra. Hann var eftirsóttur kennari við háskólann í Torino, þar sem hann kenndi fræðilega heimspeki og fagurfræði frá 1982. Heimspekirit hans hafa verið þýdd á fjölmörg tungumál, en ég eignaðist fyrstu bækur hans á ítölsku 1995, og þær höfðu djúptæk áhrif og urðu mér að leiðarljósi inn í samtímann: „La fine della modernità“(1991) og „Oltre l‘interpretazione“ (1994) voru bækur sem kenndu mér að lesa og skilja samtímann og urðu mér hvatning til að lesa í því skyni bæði Nietzsche og Heidegger.
Kynni mín af Vattimo takmörkuðust þó ekki við bækurnar, því árið 1998 fengum við hann til að koma til Íslands og kenna á vikulöngu alþjóðlegu námskeiði sem kallað var „Seminar on Art“, og ég átti frumkvæði að ásamt með Halga Þorgils Friðjónssyni og Hannesi Lárussyni. Það var atburður sem lengi verður í minnum hafður, en ásamt með Vattimo voru kennarar á þessu námskeiði listamaðurinn Claudio Parmiggiani og Liborio Termine prófessor í kvikmyndafræðum við háskólann í Torino. Þessi atburður leiddi til þess að Claudi Parmiggiani lagði undir sig Listasafn Íslands með eftirminnilegri einkasýningu árið 1999 og reisti útilistaverkið „Viti“ á Sandskeiði undir Vífilfelli, sem vígt var í janúar aldamótaárið 2000.
Vattimo reyndist ekki bara snjall rithöfundur, heldur frábær og afburða skemmtilegur kennari, félagslyndur með afbrigðum og hrókur alls fagnaðar þar sem hann fann sig í vinahópi.
Vattimo var sérstaklega menntaður í þýskri heimspeki, þar sem hann hafði meðal annars stundað nám hjá Hans Georg Gadamer, og þýtt höfuðverk hans, „Wahrheit und Metode“ á ítölsku. Hann var því mótaður af túlkunarheimspeki Gadamers og fyrirbærafræði Heideggers, auk þess sem hann skrifaði tvær mikilvægar bækur um Nietzsche, sem áttu stóran þátt í endurvakinni athygli á þýðingu Nietzsche fyrir samtímann.
Ég hélt sambandi við Vattimo eftir námskeiðið eftirminnilega, fékk hann meðal annars til að skrifa merka grein í sýningarskrá Listasafns Íslands fyrir tímamótasýninguna „80/90 Speglar samtímans“ sem haldin var í nóvember 1998 með úrvali verka frá Samtímalistasafninu í Oslo. Íslenska þýðingu þessarar greinar má finna hér: https://wp.me/p7Ursx-1gR .
Greinin er dæmigerð fyrir hugsun Vattimo, skilning hans á hlutverki og stöðu listarinnar í samtímanum. Hún er um leið dæmigerð fyrir þann hóp lærisveina hans og félaga, sem kenndu sig við „hina vanmáttugu hugsun“ eða „pensiero debole“. En það var í raun eins konar lærdómur sem Vattimo vildi draga af arfinum frá túlkunarheimspeki Gadamers og verufræði / fyrirbærafræði Heideggers, sem voru meginviðfangsefni hans sem heimspekings. Segja má að Vattimo hafi leitt þessa lærifeður sína inn í samtímann með túlkunaraðferðum sínum og geiningu á takmörkum allrar frumspeki, verufræði og túlkunarheimspeki.
Í annað skipti hitti ég Vattimo óvænt í Havana á Kúbu nokkrum árum seinna í tilefni af einkasýningu Claudio Parmiggiani í Ríkislistasafninu í Havana, þar sem Parmiggiani sýndi sínar brenndu skuggamyndir horfinna bóka, hljóðfæra, listmuna og fiðrilda. Það voru sannkallaðir fagnaðarfundir.
Vattimo var einnig upptekinn af hinni kristnu arfleifð sem hann hafði mótast af í kaþólsku umhverfi frá bernsku. Uppgjör hans við kristindóminn urðu samhliða uppgötun hans á eigin kynhneigð, sem var samkynjuð og um leið fordæmd af kirkjunni sem syndsamleg frávik frá ætlunarverki skaparans. Vattimo gekkst snemma við þessu fráviki frá syndaskrá kirkjunnar, sem kannski varð einnig til að auka á dálæti hans og glímu við Friedrich Nietzsche.
„Hin vanmáttuga hugsun“ Vattimo tók þannig mið af Nietzsche þar sem hann sagði tæknisamfélag samtímans einkennast af „tómhyggju“ er lægi til grundvallar þeirri verufræði er byggði á hlutgervingu fyrirbæranna og trú á „staðreyndir“ í þeim tækniheimi sem einkennist umfram allt af þeim hraðfara umbreytingum, sem Heidegger sagði lýsa sér í „gleymsku verunnar“.
Vattimo fann skyldleika með þeirri „gleymsku verunnar“, sem Heidegger var hugleikin sem kjarni frumspekinnar, og þeim firringaráhrifum (Verfremdung) sem Karl Marx hafði skilgreint sem fylgifisk vinnunnar á forsendu fjármagnsins. Vattimo sneri þannig baki við Kristilega Demókrataflokknum sem hafði myndað hryggjarstykkið í ítölskum stjórnmálum frá stríðslokum og hann gerðist meðal annars þingmaður ítalskra vinstrimanna á Evrópuþinginu eitt kjörtímabil eftir að hann lauk störfum sem háskólakennari. Hann var þó aldrei sáttur við arftaka ítalska kommúnistaflokksins, PD, og snérist beinlínis gegn honum á síðari árum fyrir að hafa yfirgefið þau kommúnísku gildi sem hann fann hjá Marx og voru handan alls sovésks kommúnisma og allrar „alræðishyggju ríkisvaldsins“ sem honum fylgdu.
Þegar hinar „Svörtu Dagbækur“ Heideggers sáu dagsins ljós fyrir nokkrum árum, dagbækur sem vörpuðu nýju ljósi á stuðning Heideggers við nasismann í Þýskalandi, þá tók Vattimo virkan þátt í þeirri umræðu sem útgáfan vakti á þeim forsendum að hin örlagaríku mistök Heideggers hafi verið í hreinni mótsögn við þau meginatriði í heimspekihugsun hans sjálfs, er snerist um gagnrýni á þeim frumspekilega hugsunarhætti er gegnsýrði hið afhelgaða tæknisamfélag nútímans, hvort sem um væri að ræða sovéskan kommúnisma eða bandarískan kapítalisma. Bæði þessi samfélagsform byggðu á vissulega á tæknihugsun er ætti rætur sínar í frumspekilegri hlutgervingu, en nasisminn hefði í raun trompað bæði Bandaríkin og Sovétríkin með upphafningu á „fósturjörðinni“ og „kynstofninum“ og sögulegu hlutverki þessara hugtaka í framvindu sögunnar. Vattimo vildi þannig gagnrýna pólitíska hugsun Heideggers frá vinstri, út frá forsendum sem hann fann í heimspeki Heideggers sjálfs. Vattimo sagði þannig að heimspekihugsun Heideggers hefði átt meiri skyldleika við Marx en gagnrýnendur hans frá hægri og vinstri hefðu áttað sig á.
Það er mikill sjónarsviptir af persónu Gianna Vattimo úr ítölsku og evrópsku menningarlífi. Hér á þessari vefsíðu er að finna tvær þýðingar á textum hans: ritgerðin „Listreynslan á tímum fjölhyggjunnar“ er hér: https://wp.me/p7Ursx-1gR. Og ritgerð hans um Claudio Parmiggiani, sem birtist í bók Listasafn Íslands um list Parmiggiani frá árinu 2000: „Skáldskapur fjarverunnar“ er hér: https://wp.me/p7Ursx-jm