LESSKILNINGUR OG TILFINNINGALEGT ÓLÆSI – Umberto Galimberti

 

Boðflenna tómhyggjunnar og hið tilfinningalega ólæsi

… unga fólkinu líður illa, jafnvel þótt það geri sér ekki grein fyrir því. Ekki vegna þeirrar hefðbundnu tilvistarkreppu sem einkennir uppvaxtarárin, heldur vegna þess að boðflenna hefur gert sig heimakomna í húsi þess, gegnsýrt hugsanirnar  og smeygt sér inn í tilfinningalífið, máð út framtíðardraumana, deyft  ástríðurnar og sogið úr þeim allt blóð.

Fjölskyldurnar eru felmtri slegnar, skólinn er ráðþrota, einungis markaðurinn sýnir unga fólkinu áhuga með því að leiða það á vit skemmtanalífsins og neyslunnar, þar sem neyslan beinist ekki að þeim hlutum sem úreldast jafnóðum, heldur að sjálfu lífi unga fólksins, þessu lífi sem megnar ekki lengur að setja sér framtíðarmarkmið fagurra fyrirheita. Þannig snýst lífið um að upplifa núið af sem mestri ákefð, ekki vegna þess að það sé uppspretta gleði, heldur vegna þess að það getur jarðað angistina sem alltaf gerir vart við sig þegar landslagið tekur á sig mynd  merkingarlausrar eyðimerkur.

Þessi dökka mynd af líðan unga fólksins í samtímanum eru upphafsorðin í bók ítalska heimspekingsins Umberto Galimberti "L'ospite inquietante - il nichilismo e i giovani" frá árinu 2007, sem ég þýddi á íslensku á útgáfuárinu og kallaði "Boðflennan, -unga fólkið og tómhyggjan". Þýðingin náði aldrei athygli útgefandans og lenti því í gagnabanka á skýinu, en þetta var metsölubók á Ítalíu er varðaði tilvistarvanda unga fólksins og stöðu þess andspænis óvirku skólakerfi, ráðalausum foreldrum og samfélagi er bauð ekki lengur upp á þá björtu framtíðarsýn og vonir sem foreldrakynslóð eftirstríðsáranna hafði fundið í sívaxandi tækniframförum, hagvexti og neyslu. Það sem blasti við Galimberti var mynd hinnar "merkingarlausu eyðimerkur" samtímans.

Það er einkenni ritstíls Galimberti að tala tæpitungulaust og ráðast beint að umfjöllunarefni sínu án málalenginga, og rétt að taka þessi orð hans með þeim fyrirvara. En þó þessi bók sé orðin 16 ára gömul er eins og gildi hennar sanni sig enn og aftur í þeirri umræðu sem nú hefur enn einu sinni vaknað til lífsins hér á landi í tilefni mælinganiðurstaðna hins evrópska skólaverkefnis sem kennt er við borgina Pisa, og varðar lesskilning unga fólksins okkar og vanmátt skólans, heimilanna og samfélagsins, andspænis vanda sem enn einu sinni er gjarnan túlkaður sem tæknilegur og kennslufræðilegur vandi, en Galimberti vill kenna við "tilfinningalegt ólæsi" er eigi sé djúpstæðari forsendur en nokkur lestækni eða kennslufæði nær að höndla, og varðar skilning okkar á hinum ómælanlegu gildum mennskunar sem endanlega liggja til grundvallar sérhverri menningu, hvort sem hún býr við auðlegð eða fátækt, hátækni eða handverkssamfélag. Það eru þau gildi sem Galimberti sér nú á hverfanda hveli með vísun í kenningar Nietzsche um tómhyggjuna sem hann kallaði kjarna og "boðflennu" tæknisamfélags iðnbyltingarinnar.

Inngangsorð Galimberti halda áfram í þessari lýsingu hans á tilfinningalegri vanlíðan unga fólksins í samtímanum:

"Ef ungt fólk er beðið um að lýsa vanlíðan sinni, þá skortir það orðin til þess, því það hefur þegar náð því stigi tilfinningalegs ólæsis sem aftrar því að bera kennsl á eigin tilfinningar og þá sérstaklega að gefa þeim nafn. Og hvaða nafn á svo sem að gefa því tómi sem hefur sest um unga fólkið og heltekið það? Á þessari eyðimerkurgöngu mannlegra samskipta, þar sem ekki er lengur að finna neinn hljómgrunn innan fjölskyldunnar og skólinn er líka hættur að vekja áhuga, kafna öll orð í fæðingu sem geta hvatt til dáða eða boðað örvandi framtíðarsýn. Þetta orðleysi á sér ekki betri samsvörun en ópið, sem stundum nær að rjúfa þykka brynju þagnarinnar er umlykur einsemd þeirrar leyndu depurðar sem einkennir tímalaust sálarástand þess er býr undir ofríki boðflennunnar, sem Nietzsche kallar „tómhyggju”.Því er það að orðin sem vísa til vonarinnar,  einlægu orðin og hvatningarorðin, orð fyrirheitanna og orðin sem vilja lina hina leyndu þjáningu, eru á sveimi í kringum unga fólkið eins og ærandi hávaði sem enginn nemur."

Galimberti leggur í bók sinni megináherslu á að sérhver menntun er staðið geti undir því orði, sé sé ávöxtur tilfinningalegrar ástríðu, og að ekkert "læsi" eða "lesskilningur" hafi menntunargildi ef hinn tilfinningalegi hvati köllunarinnar er ekki til staðar. Árangursríkt skólastarf byggist ekki bara á lestækni, heldur á sjálfsmynd og sjálfsmati einstaklingsins og þar með á tilfinningalegri köllun er beinist að vonum um bjartari framtíð og heilsteyptara samfélag.

Ég man enn eftir því þegar við gengum undir lestrarpróf skeiðklukkunnar í Austurbæjarskólanum á 5. áratug síðustu aldar. Þá var skeiðklukkan mælikvarði á lestrarkunnáttu, og ekki spurt um skilning. Hinn nýi mælikvarði evrópsku Pisa-verkefnisins hefur vissulega sagt skilið við skeiðklukkuna og reynt að mæla getu unga fólksins til að nýta sér lestur við notagildið: hvernig nýtist lestrarkunnáttan við að skilja þann flókna heim sem samtími okkar býður uppá, og þar virðast mællikvarðarnir alls staðar sýna minnkandi árangur, og þar eru íslensk ungmenni sögð reka lestina samkvæmt könnunarstuðli Pisa.

Ekki kann ég skil á þeirri mælitækni sem stuðst er við í þessum samanburði, en hitt virðist nokkuð ljóst, ef marka má skilning Galimberti, að mælikvarðarnir á tilfinningalíf unga fólksins koma þar lítt við sögu, enda vandséð hvernig bregða eigi mælistiku á tilfinningalífið: hjartað kallar á aðra hugsun en rökvísin og verður ekki greint í prósentum. Engu að síður stöndum við frammi fyrir þeirri staðreynd, að ekki er hægt að tala um árangur í menntastarfi ef hann er ekki borinn fram af ástríðu tilfinninga og jákvæðri sjálfsímynd. Það sem Galimberti vill segja okkur í bók sinni er að skólinn, fjölskyldan og samfélagið hafi vanmetið gildi hins tilfinningalega læsis og eina leiðin til að leiðrétta þá afturför sem Pisa-mælingarnar sýna, ekki bara á Íslandi, heldur í allri Evrópu, felist í að beina sjónum að þessum tilfinningalega vanda.

Í bók sinni fer Galimberti um víðan völl í greiningu sinni á því menningarlega umhverfi sem samtími okkar býður unga fólkinu, auðvitað með sérstakri greiningu á ítölskum veruleika, og lætur enga hellulögn ósnerta, hvort sem hún felur lokaðan heim fjölskyldulífsins, skólans, skemmtanalífsins eða markaðslögmálanna. Í tilefni yfirstandandi umræðu um Pisa-samanburðinn datt mér í hug að birta örfáa kafla úr texta Galimberti, áhugafólki til umhugsunar, og staðæmdist í því vali við umfjöllun hans um það "tilfinningalega ólæsi" sem hann skilur sem eina af rótum vandans, en vafasamt er að slíkt ólæsi falli undir mælikvarða Pisa-rannsóknarinnar. Þetta er 4. kafli bókarinnar:

BOÐFLENNAN, IV. kafli

Hið tilfinningalega ólæsi

 

Það sem mestu máli skiptir er ósýnilegt augunum. Það sést bara með hjartanu.

De Saint-Exupèry, Litli prinsinn, 1941

1. Stafróf tilfinninganna

Við þekkjum ofsabræðina á því hvernig blóðið rennur til handanna og auðveldar þeim að grípa til vopnsins eða kreppa hnefann á meðan tíðni hjartsláttarins eykur hormónaframleiðslu, meðal annars á adrenalíni, sem framkallar nægjanlega orku til að framkvæma þróttmikinn gjörning.

Við þekkjum hræðsluna þegar blóðstreymið liggur til hinna stóru vöðva stoðkerfisins, til dæmis fótleggjanna, sem gera flóttann auðveldari, á meðan andlitið fölnar af blóðleysi.

Við þekkjum ástina með vakningu ósjálfráða taugakerfisins sem vekur viðbrögð andstæð þeim er verða í bardaganum eða á flóttanum, sem einkenna reiðina og hræðsluna.

Við þekkjum depurðina sem hægir á efnaskiptunum og gerir okkur kleift að takast á við umtalsverðan missi, ástarsorg eða dauðsfall. Hvernig maðurinn lokast inni í sjálfum sér, hvernig dofnar á öllum viðbrögðum við ytra áreiti og hvernig menn og dýr leita skjóls í felustöðum sínum til að finna öryggi þegar depurð og varnarleysi sækja á.

Nú á tímum getur taugalífeðlisfræðin sagt okkur næstum allt um tilfinningar okkar, en hún hefur ekki ennþá sagt okkur það sem Aristóteles fjallar um í riti sínu Um mælskulistina ( Retorica, Bók II, 1378 a). þar sem segir: „Tilfinningarnar tengjast vitsmunalegu starfi þar sem þær láta segjast af sannfæringunni.” Þetta merkir að hægt sé að mennta tilfinningalíf okkar, og ef við viljum betra samfélag, þá þarf að mennta það.

Við lesum daglega fréttir af brjálæðiskenndum voðaverkum sem spretta af stjórnlausum hvötum. Þannig lesum við um skrifstofukonur sem voru drepnar fyrir framan tölvur sínar, um nágranna sem reyna að nauðga konunni í næsta húsi, um stúlkur sem boðið er í vinaheimsókn óvitandi um að þar eigi þær að lifa sitt síðasta ævikvöld, um nýfædd börn skilin eftir í ruslagámum, um börn sem drepa foreldra sína með sleggjum; vaxandi tíðni slíkra frétta hefur nú skipað Ítalíu í annað sætið á eftir Bandaríkjunum hvað slíka atburði varðar.

Við þetta bætist hraðvaxandi aukning þunglyndistilfella, eða þreföldun meðal þeirra sem eru fæddir eftir 1945,  miðað við afa þeirra og ömmur. Og hlutfall sjálfsvíga hefur stóraukist, einkum meðal unga fólksins, sem þjáist vegna misheppnaðrar skólagöngu, vonbrigða í ástalífinu eða jafnvel vegna efnahagsvandamála, sem er dæmigert fyrir  háþróuð þjóðfélög þar sem peningar eru mælikvarði allra hluta.

Hvernig tengist allt þetta menntun tilfinninganna?

Þetta tengist vegna þess að sá sem ekki hefur lært stafróf tilfinninganna, sá sem hefur látið rætur hjartans visna, hann berst um heiminn haldinn óljósum ótta, og er þess vegna stöðugt í ofbeldisfullri viðbragðsstöðu sem oft tengist vænisýki, og hneigist til að líta á náungann sem mögulegan óvin, sem vert sé að óttast eða ráðast gegn. Harmleikir eins og þeir sem hér voru raktir eru þess eðlis að ekki er hægt að afgreiða þá  með yfirborðskenndum hætti sem „sálfræðileg tilfelli” sem þannig er stungið undir stól. Tíðni slíkra tilfella skyldar okkur öll til alvarlegri umhugsunar.

2. Grundvallartraustið

Hefur unga fólkið okkar enn til að bera sál sem er þess megnug að vinna úr árekstrum og halda að sér höndum samfara slíkri úrvinnslu?

Getum við fundið í menningu þess og lífsstíl þá tilfinningalegu menntun, sem gerir því kleift að tengjast, og þar með þekkja tilfinningar sínar, ástríður sínar, gæði kynlífsins og birtingarmyndir árásarhneigðar sinnar? Eða er því kannski þannig varið, að tilfinningaheimurinn lifi innra með því, án þess að það viti af því, rétt eins og ókunnur gestur sem það kann ekki einu sinni að nefna á nafn? Ef sú væri raunin, þá getum við  búist við að tíðni atburða  á borð við þá sem áður voru taldir aukist til muna, því erfitt er að ímynda sér hvernig hægt er að hafa stjórn á eigin lífi án fullnægjandi sjálfsþekkingar.

Hér er ég ekki að tala um eftirá-þekkingu sem kann að draga einhvern sem er kominn á unglings- eða fullorðinsárin til geðlæknis í leit að sál sinni, eða jafnvel í lyfjabúðina í tilraun til þess að deyfa hana. Hér er ég að fjalla um þá aðhlynningu tilfinningalífsins sem hefst með fæðingunni, þegar nýburinn grípur um brjóst móðurinnar og finnur með móðurmjólkinni umönnunina, skeytingarleysið eða höfnunina. Þetta eru hreyfingar sem hinn utanaðkomandi skynjar ekki, en ráða samt úrslitum um menntun nýburans í þeim heita kjarna sem Michail Balint kallar svo, eða það „grundvallartraust”, sem er frumforsenda þess að vera í heiminum án þess að vera þjakaður af angist (Sjá: M. Balint, Primary Love and Psycho-analytic Technique (1952)).

Síðan kemur þroskinn, og í uppeldisaðferðum frumbernskunnar sé ég marga feður og mæður sem örva líkamlega og vitsmunalega menntun barna sinna, en ekki þá tilfinningalegu menntun, sem er menntun til þess að finna til, að hrífast og að hræðast. Allt þetta lærir barnið af sjálfu sér eftir mætti, en þó fyrst og fremst með þeim tækjum sem því standa ekki til boða.

Það er farið úr íþróttasalnum í sundlaugina, því börnin þurfa að fá fallegan líkama; það er farið úr einni útskýringunni í aðra, stundum yfirborðslega, stundum svolítið betur, og stundum með útúrsnúningi, því það þarf að þroska skilningsgáfuna, en hver eru þau óbeinu samskipti sem eiga sér stað meðan á öllu þessu stendur, og menn finna meira fyrir með maganum en höfðinu, þessi óbeinu samskipti sem segja til um hvort móðurinni eða föðurnum sé treystandi, því við finnum fyrir nálægð þeirra á fyrstu óvissusporum lífsins? Aðhlynning líkamans, aðhlynning skilningsins, en hversu mikil aðhlynning sálarinnar?

Hér þreifa hinir fullorðnu fyrir sér í nokkurri óvissu. Þeir miðla ástinni í gegnum hlutina sem þeir kaupa í stórum stíl til að fullnægja þeim löngunum og þrám ungabarnsins sem tóm samskiptanna vekur, þetta tóm sem gerir strax vart við sig með viljaleysinu, sleninu, í andófinu og í alvarlegustu en jafnframt duldustu tilfellunum, í uppgjöf þunglyndisins.

Á þessu tímaskeiði, sem einkennist af mjög miklu ytra áreiti og örvun samfara  samskiptaleysi, verðum við vör við fyrstu merkin um það tilfinningalega afskiptaleysi sem verður æ algengara á okkar tímum og veldur því að barnið finnur engan tilfinningalegan hljómgrunn  andspænis þeim atvikum og því viðmóti sem mætir því.

Hvernig skyldi standa á þessu?

Það er skortur á tilfinningalegri menntun. Fyrst í fjölskyldunni, þar sem börnin eyða tíma sínum í kyrrlátri einsemd með húslyklana í vasanum og sjónvarpið sem barnapíu. Svo í skólanum undir oft og tíðum grámyglulegu augnaráði kennaranna, þar sem þau hlusta á gagnslausa orðræðu, sem vísar í menningu sem er í órafjarlægð frá því sem sjónvarpið hefur boðið þeim upp á sem grundvöll tilfinningalegra viðbragða.

Þannig er þetta brothætta, daufa og innhverfa tilfinningalíf, sem skólinn forðast að mennta, það veltist um í þessu lífleysi sem óvirkt nám tölvuleikjanna og  internetsins hefur vanið unga fólkið á, með tilheyrandi flóttaleiðum inn í draumana eða goðsögurnar, í fálmkenndri leit að sjálfsmynd. Því miður gerir vanmátturinn við að greina rætur eigin tilfinninga það að verkum að efasemdirnar um að útlínur sjálfsmyndarinnar verði greindar vakna allt of snemma.

Allt er þetta litað gagnrýnislausri neyslu sem ofgnóttarsamfélagið gerir mögulega, þar sem hlutirnir eru þegar í boði áður en löngunin til þeirra vaknar, þannig að það er ekki löngunin sem kallar á þá – og þeirra er neytt af áhugaleysi og yfirdrepsskap einstaklingshyggjunnar, þar sem fylling hlutanna mætir tómi hinna töpuðu  tilfinningasambanda.

3. Menntun tilfinninganna

Til þess að fylgja þessari röksemdafærslu eftir þurfum við að átta okkur á því að tilfinningin felst fyrst og fremst í tengslum. Við getum lesið tilfinningalegar gáfur okkar út úr gæðum tilfinningatengsla okkar. Skólinn gæti eflt þessar gáfur með því að innleiða lestrarkennslu tilfinninganna, sem Daniel Goleman nefndi réttilega svo, þannig að auk stærðfræðinnar og tungumálanna verði einnig þjálfuð hæfni í grundvallaratriðum persónulegra tengslamyndana, en þær eiga rætur sínar í elstu tilfinningamiðstöðvum heilans  og hafa gert manninum kleift að hefja sögu sína og vegferð.(Sbr: D. Goleman, Intelligenza emotiva (1995)).

Hér kemur í hugann sú kenning Eugenio Scalfari að siðferðið sé eðlishvöt, sú eðlisávísun samstöðunnar sem tryggir varðveislu tegundarinnar til þess að lifa af, oft í andstöðu við hina einstaklingsbundnu eðlishvöt. Þeir voru ófáir sem hristu hausinn yfir þessari smættun siðferðisins niður á svið eðlishvatarinnar, eftir að hafa íklætt siðferðið hefðarfullum skartklæðum. En Goleman staðfestir þessa tilgátu:

Þar sem menntun tilfinninganna leiðir okkur til hluttekningarinnar sem fólgin er í að lesa tilfinningar annarra og þar sem umhyggja fyrir öðrum getur ekki orðið án skynjunar á þörfum og vanlíðan annarra, þá liggja rætur óeigingirninnar í hluttekningunni sem menn öðlast með menntun tilfinninganna, sem leyfir hverjum og einum að sýna það siðferðisþrek sem tímar okkar þarfnast svo mikið: sjálfsstjórn og samkennd.[5]

Nú á tímum, þegar allar tölfræðimælingar benda til þess að okkar kynslóð búi við fleiri tilfinningavandamál en fyrri kynslóðir, er menntun tilfinninganna látin sitja á hakanum. Þetta veldur því að yngsta fólkið býr við meiri einsemd, er þunglyndara, ofstopafyllra, uppreisnargjarnara, taugaveiklaðra, hvatvísara, árásargjarnara og ver undir lífið búið, vegna þess að það býr ekki yfir þeim tilfinningalegu meðulum  sem eru nauðsynleg til að öðlast eiginleika eins og sjálfsskilning, sjálfstjórn, hluttekningu. Vissulega geta menn talað án þessara eiginleika, en ekki hlustað, ekki leyst deilur eða unnið saman.

Það er vert að ráðleggja þeim kennurum sem  standa í því á hverjum degi að fella dóma um vitsmunalega getu nemenda sinna, að hugleiða fyrst hversu mikla tilfinningamenntun þeir hafa veitt nemendunum, því þeir geta í það minnsta ekki falið það fyrir sjálfum sér að vitsmunirnir og lærdómurinn nýtast ekki ef þeir fá ekki næringu frá hjartanu.

Ef skólinn er ekki alltaf fær um að veita þá sálfræðilegu menntun sem gerir ekki bara kröfur um vitsmunalegan, heldur líka tilfinningalegan þroska, þá gæti samfélagið kannski veitt síðasta tækifærið, ef gildi þess væru ekki einskorðuð við neyslu, frama, peninga, ímynd og varðveislu einkalífsins, heldur fælu einnig í sér svolítinn vott af samstöðu, tengslamyndunum, samskiptum og samhjálp, sem geta demprað þau andfélagslegu einkenni er auðkenna æ meir kjarnafjölskylduna í menningu okkar.

4. Hið sviðna hjarta

Á okkar tímum er það sem gerist innan veggja heimilisins innibirgt og ekki til umræðu, og það sem gerist utan veggja þess er meðhöndlað með þeim huliðsblæjum sem við berum á degi hverjum til þess að gæta þess að ekkert verði upplýst um þau tilfinningaátök, gleðina og sorgina, sem menn upplifa innan vel verndaðra veggja heimilisins.

Í eyðimörk þeirra tilfinningalegu samskipta sem við fengum aldrei að læra sem ungabörn, sem við kynntumst aldrei sem unglingar og sem okkur hefur verið kennt að halda í skefjum á fullorðinsaldri, kemur verknaðurinn upp á yfirborðið, sérstaklega hinn ofbeldisfulli verknaður, sem kemur í stað allra orðanna sem við höfum látið ósögð, bæði við náungann -vegna sjálfsprottinnar tortryggni- og við sjálf okkur – vegna tilfinningalegs málstols.

Þess vegna þarf það að gerast áður en við leggjumst á sálfræðibekkinn, þar sem skipst er á orðum gegn greiðslu sem og kunnugt er, og áður en við látum lyfin kæfa endanlega öll orðin sem gætu gert okkur kleift að fjalla um og kynnast sálarástandi okkar; fyrst þurfum við að átta okkur á nauðsyn fyrirbyggjandi tilfinningalegrar menntunar sem svo lítil færi gefast á í fjölskyldunni, skólanum eða samfélaginu,.

Þetta á sérstaklega við um okkar samfélag, sem hefur þróað með sér einstaklingshyggju, valmöguleika og frelsi sem voru óþekkt í fyrri samfélögum er sátu föst í viðjum fátæktar og  trúarhefða sem virkuðu eins og varnarmúrar. Sem betur fer eru þessar viðjar nú rofnar, en spurningin er hvort sú nýja einstaklingshyggja, sem er að festast í sessi, sé þess umkomin að fylla upp í það rými frelsis og einsemdar sem henni standa til boða. Ég tel að svo sé ekki.

Vegna þessa er mikið verk að vinna í forvarnarstarfi sálrænnar menntunar (en ekki bara menntunar líkamans og rökvísinnar) til þess að menn séu í stakk búnir að takast á við þennan samtíma okkar sem hefur lokað öllum umhugsunarleiðum, gert samskiptaleiðirnar marklausar en umfram allt sviðið hjartað, sem er líffærið sem við notum til að finna, áður en við gerum okkur grein fyrir, hvað er hið góða og hvað er hið illa.

En hver tekur að sér að hlúa að hjartanu á okkar dögum? Hjartanu í dýpstu merkingu þess orðs, eins og Pascal lýsir því þegar hann talar um esprit de finesse er eigi að ríma við esprit de géometrie (Sbr: B. Pascal, Pensées § 21)   það er að segja við rökhugsun okkar, sem án hjartans verður ekki bara björt og köld, heldur frumorsök hins illa, þess algilda illa sem lýst er í Mósebók, þegar dregin er upp mynd af Lúsífer og hann sagður „hinn gáfaðasti meðal englanna” (Sbr: 1.Mósebók, 3, 1.)

5. Eyðimörk tilfinninganna

Við höfum kynnst geðveikinni sem ofvirkni ástríðunnar. Við sjáum sjúkdómseinkennin, við vitum til hvers þau geta leitt, við sjáum fyrir okkur  mögulegar afleiðingar. Á okkar tímum verður þess hins vegar æ meira vart meðal unga fólksins að geðveikin taki á sig mynd kulda og rökhyggju, sé fullkomlega dulin og brjótist út við ófyrirsjáanlegustu aðstæður sem enginn getur séð fyrir eða grunað að séu í aðsigi.

Það átti til dæmis við um stúlkurnar þrjár af millistétt í bænum Sondrio sem fyrir fáum árum drápu nunnu. Þannig var það einnig í Sesto San Giovanni þar sem drengur, sem einnig var af vel stæðu heimili, lenti í fangelsi fyrir að hafa stungið vinkonu sína með hnífi á skólalóðinni. Sama má segja um atburð í borginni Padovu, þar sem piltur drap föður sinn, sem var háskólaprófessor, og lagði síðan eld að líkinu í húsgarðinum.

Það eru ekki mörg ár liðin frá því  að stúlka ein í bænum Novi Ligure, sem dagblöðin sögðu fallega og gáfaða, alda upp í góðri fjölskyldu og menntaða í einkaskóla á vegum kirkjunnar, stakk móður sína 40 hnífsstungum og bróður sinn 56, í samvinnu við kærasta sinn og jafnaldra. Dögum saman stóðst hún yfirheyrslur lögreglunnar án þess að sýna minnstu tilfinningaleg viðbrögð.

Það sem öll þessi tilvik eiga sameiginlegt er skelfilegt tilefnisleysið. Það er andspænis því ófyrirsjáanlega, því sem enginn getur látið sig gruna, sem sú frumlæga angist brýst fram sem fyrstu mennirnir upplifðu þegar þeir stóðu frammi fyrir heimi sem þeir kunnu hvorki að lesa út úr né greina.

Þegar ekkert tilefni er sjáanlegt, þegar æðið sem venjulega fylgir geðveikum gjörningum er ekki til staðar, þá þarf að grafa enn dýpra til að skilja hvaða einstaklingar það séu og hvernig þeir séu gerðir, sem framkvæma svo hryllilega verknaði án þess að sýna nokkur tilfinningaleg viðbrögð.

Þessi einkenni eru þekkt í geðlæknisfræðinni þar sem þau eru flokkuð undir „geðröskun“ [psicopatia] eða „félagsfötlun“ [sociopatia]. Sá sem er haldinn geðröskun er fær um að fremja hryllilegustu gjörninga án þess að þeir virðist snerta hann hið minnsta tilfinningalega. Hjartað er ekki í tengslum við hugsunina og hugsunin ekki í tengslum við verknaðinn. En er enginn sem gerir sér grein fyrir því hversu útbreitt þetta fyrirbæri er meðal ungs fólks?

Tilhneigingin virðist vera sú að horfa framhjá vandanum. Góð menntun, sérstaklega það borgaralega uppeldi sem kennir að menn eigi að halda öllum tilfinningalegum öfgum í skefjum, hefur sniðið fyrir þessa krakka klæði góðrar hegðunar, staðlaðs tungutaks og stjórnar á tilfinningalífinu, þannig að þau eru eins og brynjuð, og nákomnir ættingjar eiga enga möguleika á að skilja hvað þeir eru að hugsa. Að baki liggur skortur á eðlilegum tilfinningaþroska sem hefur tæmt tilfinningalífið og gert það bæði óvirkt og tjáningalaust, þannig að atburðir lífsins fara framhjá þessu fólki án nokkurrar þátttöku, án eðlilegra tilfinningalegra viðbragða gagnvart því sem gerist.

Betur settar fjölskyldur búa yfirleitt yfir góðum menningarlegum jarðvegi, þar sem jafnan er brugðist við vandamálunum með yfirveguðum hætti ef við þeim er brugðist á annað borð, þar sem fólk hækkar aldrei róminn, þar sem ekki er grátið og ekki hlegið, og þó fyrst og fremst þar sem samskipti eru óvirk, því þegar börnin hafa veitt sínar upplýsingar um hvað sé að gerast í skólanum og hvenær þau komi heim eftir skemmtanir laugardagskvöldsins, þá fá þau að njóta sjálfstæðis síns. Undir yfirborðinu er hins vegar falinn grímuklæddur ótti foreldranna við að opna þá ráðgátu sem börn þeirra eru orðin þeim.

Það á við um börnin eins og dýrin, að þau finna á sér þegar foreldrarnir eru óttaslegnir, og þegar slíkar áhyggjur eru ekki til staðar finna þau í staðinn fyrir tilfinningalegu afskiptaleysi foreldranna. Þessi börn velferðarinnar og rökhyggjunnar sem hafa verið ein frá því þau voru agnarlítil, geymd í umsjá sjónvarpsins eða í vörslu leiguliða barnapíanna, þau vaxa upp með ærslafullu hjarta í byrjun, hjarta sem kallar á tilfinningalega umhyggju, en þegar þessi umhyggja gerir ekki vart við sig, þá taka þau vonbrigðin út fyrirfram með kaldhæðni til þess að verja sig gegn því svari ástarinnar sem þau óttast að muni aldrei koma.

Á þessu þroskastigi verður það hjarta, sem eitt sinn var ærslafullt og ákallandi, flatt og innilokað, reiðubúið að gefa sig ýmist á vald depurðarinnar eða leiðindanna.  Og þegar tilfinningalegir stormar skella á hjarta sem er skrælnað vegna þess að það hefur ekki verið vökvað, þá dregur það sig inn í skel sína með óvinnandi varnarmúrum sem styrktir eru með góðu uppeldisreglunum, kurteisinni og líkamsræktinni sem þau hafa fengið í vel búnum líkamsræktarstöðvum rökhyggjunnar.

Er þá ekki allt í sómanum? Á yfirborðinu verður ekki annað séð en svo sé. Það gengur ekki svo illa í skólanum, þau kunna sig og klæða sig líka vel, og gríman sem þau bera að því er virðist áreynslulaust, ber vott um fullkomna þjálfun.

Kynlífið, þegar því er til að dreifa, er tæknilegt og líkamlegt, því þessir krakkar hegða sér „frjálslega”, þau dansa með krampakenndum hætti á diskótekunum, saman með öllum hinum í einsemd sinni. Smáskammtur af alsælu [ecstasy] gefur það létta tilfinningastuð sem á vantar, en það er ekki til umtals, það er gert til að tolla í tískunni, til þess að vera eins og hinir sem tilheyra „hópnum”, líka vel menntuðum hópi, í þeirri von að vinirnir veiti þær leifar tilfinningalegrar huggunar, sem hjarta þeirra þyrstir réttilega í, rétt eins og það væri sjálfstætt líffæri.

En svo kemur að því að allt springur í loft upp. Spenna rökhyggjunnar sem aldrei hefur blandast tilfinningunum, varðstaðan um kurteisisreglurnar sem eru löngu orðnar eitt með skortinum á einlægninni og getur verið ómeðvituð, leiðinn sem hvílir eins og mara á tilfinningalífinu og kemur í veg fyrir að það verði í takt við umheiminn, búa til þessa eitruðu blöndu sem jarðar égið hjá þessum ólánssömu ungmennum, þannig að þau bregðast við í þriðju persónu með gjörðum sem saga mannsins á erfitt með að heimfæra upp á sjálfa sig.

Þetta eru gjörðir sem réttarfarið á erfitt með að meðhöndla, og þar með líka samfélagið, sem stöðugt leitar að tilefni verknaðarins til að friða sjálft sig. En tilefnið er í raun og veru ekki til staðar, eða ef það er til staðar, þá er það í svo miklu ósamræmi við harmleikinn vegna þess að gerendurnir gera sér ekki grein fyrir því. Leitin að tilefninu ber okkur langt í burt, eins langt og líf gerendanna leiðir okkur til uppruna síns, eftir lífsbraut sem hefur veitt kennslu í öllu  nema því að skapa tengsl á milli tilfinninganna og hugans, milli hugans og hegðunarinnar, og á milli hegðunarinnar og þess tilfinningalega enduróms sem atburðir heimsins hafa stimplað í hjarta þeirra.

Þessar tengingar, sem gera manninn að manni, hafa aldrei myndast og því verða til ævisögur er geta leitt til gjörninga sem eru sögunum svo ótengdir að þeir verða ekki einu sinni skynjaðir sem eigin gjörningar. Einmitt vegna þess að hjartað er ekki í tengslum við hugsunina, og hugsunin ekki í tengslum við hegðunina, vegna þess að hin tilfinningalegu samskipti hafa brugðist, og um leið menntun hjartans sem er það líffæri er lætur okkur finna  áður en við hugsum, finna hvað sé rétt og hvað sé ranglátt, hver ég er og hvað ég geri í þessum heimi.

6. Sálarstyrkurinn

Nú á tímum er það kallað „álagsþol” [resilienza], einu sinni var það kallað „sálarstyrkur“ [forza d’animo], en Platon kallaði það thymoeidés og staðsetti það í hjartanu (Sbr: Ríkið, Bók IV, 440b-440e). Hjartað er myndlíking fyrir tilfinninguna, orð sem ennþá endurómar hið platónska thymoneidés.

Tilfinningin er ekki tilfinningasemi, ekki illa dulin depurð, hún er ekki tæring sálarinnar, ekki óhuggandi einsemd. Tilfinningin er kraftur. Sá kraftur sem við finnum á bak við hverja ákvörðun. Þegar við höfum greint alla kosti og galla tiltekinnar röksemdafærslu þá tökum við ákvörðun vegna þess að við finnum sjálf okkur betur í einu vali en öðru. Sá er ekki sæll sem vegna hagræðis eða veikleika velur leið sem ekki er hans, sá er ekki sæll sem verður sem ókunnugur í eigin lífi.

Sálarstyrkurinn, sem er ekkert annað en kraftur tilfinninganna, ver okkur gegn þessari firringu, lætur okkur finna að við erum heima hjá okkur, með sjálfum okkur. Þar er heilsuna að finna. Eins konar samsvörun við okkur sjálf, sem forðar okkur frá öllum þeim „útisetum”  [altrove] lífsins sem við leiðumst oft inn á vegna þess að aðrir, sem við teljum okkur háð, fara einfaldlega fram á það, og við kunnum ekki að segja nei.

Þörfin fyrir viðurkenningu og löngunin til þess að vera elskaður leiða okkur inn á brautir sem tilfinningarnar segja okkur að séu ekki okkar eigin, og þannig veiklast sálarstyrkurinn og lætur undan sjálfum sér í gagnslausri eftirsókn eftir því að þóknast öðrum. Á endanum veikist sálin, því eins og við öll vitum þá er veikin myndlíking, myndlíking fyrir útafaksturinn [devianza] á vegslóð lífsins.

Það þarf að mennta unga fólkið til að verða það sjálft, algjörlega það sjálft.  Í því er sálarstyrkurinn fólginn.  En til þess að vera við sjálf þurfum við að taka okkar eigin skugga opnum örmum.  Hann er það í okkur sjálfum sem við höfum afneitað. Myrkur hluti sem fær okkur til að finnast við „hæfð í hjartastað” þegar einhver snertir við honum. Því skugginn er lifandi og vill vera meðtekinn. Myndverk sem er án skugga lætur ekki í ljós innihald sitt. Þegar skugginn hefur verið meðtekinn veitir hann okkur af krafti sínum. Þá hættir stríð okkar við okkur sjálf og því getum við sagt: „Já einmitt, ég er líka þetta.” Og sá friður sem þannig vinnst veitir okkur þann sálarstyrk og kjark sem þarf til að horfast í augu við sársaukann, án þess að flýja á náðir sjálfsblekkingarinnar.(Sbr. C.G. Jung, Aion. Beiträge zur Symbolik der Selbst (1951), kafli 2: “Der Schatte”)

„Allt það sem ekki gerir út af við mig gerir mig sterkari.”, skrifar Nietzsche (Sjá Nachgelassene Fragmente (1888-89)). Þess vegna er okkur nauðsynlegt að ganga í gegnum þau landsvæði sem eru sáð sársaukanum, en reyna ekki að flýja þau. Þau svæði sem tilheyra okkur sjálfum og þau sem tilheyra öðrum.  Því sársaukinn tilheyrir lífinu með sama rétti og hamingjan. Ekki sá sársauki sem er ávísun á eilíft líf, heldur sársaukinn sem óhjákvæmilegur kontrapúnktur lífsins, sem hin daglega mæða, eins og myrkur þeirrar sýnar sem ekki greinir undankomuleið. Engu að síður leitar hún hennar, því hún veit að næturmyrkrið er ekki eini litur himinsins.

Það er ekki síst unga fólkið sem þarf á sálarstyrk að halda á okkar tímum. Það nýtur ekki lengur baklands hefðarinnar, því lögmálstöflurnar sem geymdu siðalögmálin eru brotnar, tilgangur tilverunnar er horfinn og stefna hennar í algjörri óvissu. Sagan segir ekki lengur frá lífi forfeðranna, og þau orð sem feðurnir beina til sona sinna og dætra eru í senn mörkuð öryggisleysi og óvissu. Augnaráð þeirra mætast, en oft til þess eins að forðast hvort annað.

Engu að síður er það svo að þó unga fólkið játi það aldrei, þá bíður það eftir einhverju eða einhverjum er ferji það áfram, því úthafið sem það siglir á er ógnvekjandi, einnig þegar útlit þess er draumkennt. Áhættan sem það tekur þegar því tekst að sneiða hjá ýtrustu lausnum er sú að eyða ævistundunum án tilfinninga, án göfgi, villuráfandi meðal þess smáfólks sem lætur sér nægja, samkvæmt Nietzsche, að lifa á „einum duttlungi fyrir daginn og öðrum fyrir nóttina, bara að heilsan sé í lagi.” („Man hat sein Lüstchen für den Tag und seinen Lüstchen für die Nacht: aber  man ehrt die Gesundheit“).  Þannig tapar smáfólkið sambandinu við sjálft sig í hávaða heimsins.

Almennar smáástríður eru á sveimi í útbrunnum sálum þessara ungmenna, en ná ekki að vekja þær. Þær skortir þróttinn. Það er búið að róa þær niður með þeim lífsfyrirmyndum sem blásnar eru út sem jafnvægi og góð menntun, en eru í raun svefn, meðalmennska og gleymska eigin sjálfs. Það vantar hugrekki sæfarans sem hefur með myndlíkingu Nietzsche „yfirgefið landið sem var einungis verndarsvæði, látið alla fortíðarþrá lönd og leið, en talið kjark í hjarta sitt.“ (Sbr: F. Nietzsche, Svo mælti Zaraþústra; Bók III: “Innsiglin sjö” bls. 230). Hjarta sem er ekki tilfinningasamt mótvægi  rökhugsunarinnar heldur kraftur hennar, lífgjafi hennar allt þar til hugmyndirnar sem eru uppblásnar af ástríðum verða virkar og marka söguna. Sögu sem eykur fullnægjuna.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

INTIFADA – UPPREISN Í LANDINU HELGA – IV.

Heimsókn til Taybeh, sem áður hét Efraim

 

Bærinn Taybeh, sem í Biblíunni heitir Efraim, er skammt frá Jerúsalem. Hann var einn síðasti áfangastaður Krists á leið hans til Jerúsalem og Golata. Bærinn hefur verið kristinn allt frá þeim tíma og sumir segja að það hafi verið Kristur sjálfur sem kristnaði íbúana. Eftir að Kristur hafði vakið Lasarus frá dauðum staðnæmdist hann í Efraim með lærisveinum sínum (Jóh. 11.54). Leiðsögumaður minn um Palestínu var Kólumbíumaður, en átti ættir að rekja til bæjarins. Við vorum í sömu erindagjörðum og nutum gistivináttu frændfólks hans í þessum kristna bæ.Í þessum pistli segir frá löngu samtali sem ég átti við kaþólska sóknarprestinn í bænum, föður Johnny Sansoor, áður en ég kvaddi Palestínu og hélt aftur til Amman í Jórdaníu.

„Eitt máttu vita: þegar þú kemur heim þá verður þú spurð um ástandið hérna. í þeim efnum get ég aðeins ráðlagt þér eitt: forðastu allar umræður um slíkt. Þær verða engum til gagns. Hefur þú annars orðið vör við nokkuð alvarlegt?“

„Nei.“

„Ekki ég heldur.“ „Ég get bara talað um hvað Ísrael sé yndislega fallegt land, hvað loftslagið sé gott og hvað mannlífið sé fagurt…“

„Já, einmitt…“

Þetta er brot úr samtali sem ég varð vitni að eitt kvöldið í Jerúsalem. Ég hafði verið í Ramallah um daginn og horft á hermennina skjóta á börnin. Ég varkominn til Jerúsalem eftir erfiðan dag, og hafði sest niður við útiveitingahús handan Zíon-hliðsins í hinum hebreska hluta borgarinnar. Því engar veitingar er að fá í hinum arabíska hluta hennar vegna verkfalla. Við næsta borð sátu maður og kona. Konan var breskur gyðingur í pílagrímsferð, maðurinn trúlega búsettur í Jerúsalem. Ég hafði heyrt með öðru eyranu að þau voru að ræða trúarleg málefni gyðingdómsins. Vandamál dagsins í dag afgreiddu þau með ofangreindum setningum.

Þótt ég hafi ekki haft tíma eða aðstöðu til að ferðast mikið um Ísrael á þessu ferðalagi mínu, eða  kynna mér afstöðu gyðinga þar til þeirra gífurlegu vandamála sem ég varð vitni að á herteknu svæðunum, þá ímynda ég mér að afstaða margra íbúa Ísraels mótist á þessa leið: Vandamálinu er markvisst og kerfisbundið skotið undan, eins og það sé ekki til. Þessi afstaða kemur einnig fram í ísraelskum fjölmiðlum. Þannig sagði dagblaðið Jerúsalem Post nýverið frá því að stjórnvöld hefðu tekið upp þá „mannúðlegu“ stefnu gagnvart íbúum Gaza-svæðisins að nú yrði á ný opnað fyrir þann möguleika að íbúar þess gætu sótt vinnu í Ísrael. Þess var hins vegar að engu getið að fiskimennirnir í Gaza liðu hungur af því að stjórnvöld höfðu bannað þeim að sækja sjóinn. Að jafnvel hungrið var liðtækt meðal fyrir stjórnvöld til  að kúga þetta fólk til hlýðni og undirgefni. Og að með því að kippa grundvellinum undan sjálfstæðum efnahag arabanna mátti ná sér í ódýrt vinnuafl.

Hjá kaþólskum presti í Taybeh

„Hingað til mín hefur komið fjöldi fólks, bæði kristnir menn, gyðingar og múslimar, til þess að ræða ástandið á herteknu svæðunum. Ég hef alltaf byrjað á því að spyrja viðkomandi hvort þeir hafi komið til Gaza. Hafi þeir ekki komið þangað, þá byrja ég á því að fara með fólkið þangað. Palestínuvandinn verður ekki skilinn nema menn komi þangað, og séu menn ánægðir með það sem þar fer fram, þá er kominn grundvöllur til að ræða málin. Ég frétti að þú hafir þegar verið í Gaza, og þess vegna var ég fús að ræða við þig.“

Faðir John Sansoor, sóknarprestur í Taybeh. Hann var enginn venjulegur prestur, heldur starfaði sem raunverulegur "hirðir" safnaðarins og stóð fyrir skólastarfi, sálgæslu, félagsmálum, heilugæslu og virtist með hugann við allt er varðaði bæjarfélagið. Hámenntaður maður í fornmálum, grísku, hebresku og latínu auk þess sem hann talaði bæði ensku og frönsku reiprennandi. Hann var svo bráðlifandi og fordómalaus að hann hefði kannski verið greindur með ADH-ofvirkni ef ef ekki hefðu verið tilvistarlegar aðstæður sem knúðu hann áfram. Ógleymanlegur maður. Því miður eyðilagðist myndin sem ég tók af honum, en þessa fann ég á vef kaþólsku kirkjunnar í Landinu helga.

Þetta sagði faðir John J. Sansoor, sóknarprestur í bænum Taybeh, sem hét áður Efraím, en ég átti langt samtal við hann í safnaðarheimili bæjarins kvöldið áður en ég hélt til baka frá Vesturbakkanum yfir til Amman í Jórdaníu. Bærinn Taybeh / Efraím er kristinn bær, eini hreinkristni bærinn á Vesturbakkanum að sögn, og hefur trúlega verið það allt frá dögum Krists. Bæjarbúar segja jafnvel að það hafi verið Kristur sjálfur sem kristnaði Efraím, en frá því er sagt í Jóhannesarguðspjalli (11,54) að Kristur hafi dvalið ásamt lærisveinum sínum í Efraím nokkrum dögum fyrir krossfestinguna. Í bænum eru rústir frá þessum tíma. Bærinn er um 20 km austan Jerúsalem, en þar fyrir austan tekur við eyðimörkin, Jórdandalur og norðurendi Dauðahafsins. Í bænum búa nú um 1200 kristnir arabar og um 100 múslimar. Fyrir 6 daga stríðið voru íbúarnir 3000, yfir helmingur þeirra hefur flúið vegna hernámsins.

Mikilvægi upplýsinganna

„Við höfum mikla trú á blaðamönnum. Þeir eru eins konar trúboðar okkar tíma. Þeir eiga að geta hjálpað heiminum að finna lausn á vanda okkar. Blaðamenn eiga ekki að taka afstöðu með eða á móti deiluaðilum, heldur eiga þeir að hjálpa báðum aðilum til að finna lausn vandans. Og þeir eiga að hjálpa til með að leiðrétta þá brengluðu mynd, sem heimurinn hefur fengið af vandamálum okkar,“ segir faðir Sansoor.

– Að hvaða leyti hefur heimurinn fengið brenglaða mynd?

„Jú, allir halda að arabar vilji reka alla gyðinga burt úr Palestínu. En það er ekki rétt. Palestínumenn eru gestrisin þjóð. Þeir buðu gyðinga velkomna á sínum tíma, og frá upphafi lifðu gyðingar og arabar í sátt og samlyndi. Það voru zíonistar sem notfærðu sér gestrisni Palestínumanna og ráku þá úr landi sínu. Í öðru lagi þá hafa þeir sem leita lausnar á Palestínuvandanum alltaf rætt við þá Palestínumenn sem aldrei misstu neitt. En það dugar ekki til. Gyðingarnir verða að byrja á því að ræða við flóttamennina. Þá sem búa í flóttamannabúðunum. Því það er á þeim sem vandinn brennur heitast. Eins og þú veist, þá er það slík reynsla að koma til Gaza, að maður fyrirverður sig. Mér líður jafnan illa í marga daga eftir að hafa farið þangað. Palestínumennirnir í flóttamannabúðunum þar hafa verið sviptir allri sjálfsvirðingu, öllum eignum sínum, öllu. Heimurinn þarf að færa þeim sjálfsvirðingu sína aftur“.

Uppreisn barnanna

Götumynd úr flóttamannabúðum á Vesturbakkanum. Ljósm. olg

– Hvaða þýðingu hefur Intifadan, – uppreisnin -, í þessu samhengi? Markar hún ekki leið þessa fólks til endurheimtrar sjálfsvirðingar?

„Það er athyglisvert með þessa uppreisn, að allir reyna að eigna sér hana eftir á. En þetta er sjálfsprottin uppreisn, sjálfsprottin uppreisn barnanna. Börnin hafa í 20 ár horft á foreldra sína niðurlægða. Ég hef spurt börnin hér hvers vegna þau kasti grjóti. Svörin sem ég hef fengið hafa verið á sömu lund. Börnin eru í fyrsta lagi að segja gyðingunum að þeim falli ekki við þá, að þau vilji ekki þola návist þeirra.

Í öðru lagi markar grjótkastið andstöðu barnanna við foreldra sína. Foreldrana sem hafa í 20 ár lifað í hræðslu við gyðinga. Þau eru að segja við foreldra sína að þeir séu huglausir og fullir af uppgjöf, þau eru að segja þeim að það sé betra að deyja en að lifa undir hernámi.

í þriðja lagi þá er grjótkastinu beint til útlendinganna. Við þá vilja börnin nú segja: Þið hjálpuðuð gyðingum til þess að verða hamingjusamir í okkar landi- og gerðuð okkur þar með að óhamingjusamri þjóð. Nú ætlum við að leggja þetta land í rúst til þess að allir megi vera óhamingjusamir.“

Börnin stjórna okkur

-Átt þú við að foreldrarnir standi ekki að baki þessari uppreisn með sama hætti og börnin?

„Nei, foreldrarnir eru ekki á sama máli og börnin. En við höfum ekki lengur neina stjórn á börnunum. Það eru þau sem stjórna okkur – og það er hættulegt. Börn eru alltaf börn og hafa ekki þroska hinna fullorðnu. Við sjáum að þau grípa til heimskulegra örþrifaráða. Við sjáum þau brenna akra og plantekrur fyrir gyðingum. Slík örþrifaráð eru í augum barnanna eðlileg, því þau eru í samræmi við þá ætlun þeirra að leggja landið í rúst. Gyðingar, sem dags daglega eru viti bornir menn, hafa hagað sér eins og fávitar frammi fyrir þessum vanda. Hugsaðu þér bara: ef barn grýtir fullorðinn mann, þá er eðlilegt að hinn fullorðni brosi og reyni að skilja, hvers vegna barnið framdi þennan verknað. Hann drepur ekki barnið eða limlestir. Slík viðbrögð eru bæði fávísleg og koma heldur ekki að haldi. Ég get sagt þér að ég rek skóla hér í sókninni, og það hefur komið fyrir nokkrum sinnum undanfarna mánuði að börnin hafa grýtt skólahúsið og brotið rúður. Ég hef þá reynt að komast að því hvaða börn hafa verið að verki, og ég hef spurt þau, hvers vegna þau hafa gert þetta. Svörin eru jafnan á þá lund að þau hafi verið beitt einhverju misrétti í skólanum eða ekki fengið réttláta einkunn eða umsögn. Ég hef ekki refsað þessum börnum, heldur rætt við þau og reynt að skilja þau, og ég get sagt þér að í 70% tilfella hafa þau síðan komið sjálfviljug og bætt skaðann sem þau hafa valdið.

Það hjálpar hins vegar ekki að loka skólanum, berja börnin eða brenna. Það mun ekki stoppa þau af. Börnin eru viss í sínum rétti, og þau munu halda áfram á sinni braut þar til hinir fullorðnu viðurkenna rétt þeirra. Ég get sagt þér að börn hafa ekki hatur í hjarta sínu. Ég þekki börn sem kasta grjóti í hermenn á morgnana en selja þeim síðan kökur um eftirmiðdaginn. En nú, þegar stjórnvöld í Ísrael eru farin að berja börnin, limlesta og fangelsa, þá eru þau að sá hatri í hjarta þeirra. Og það gerir ástandið þúsund sinnum hættulegra en það hefur verið.“

Persónubundið hatur

– Átt þú við að uppreisnin sé ekki knúin fram af hatri?

„Sjáðu til, fram að þessu hefur hatrið verið óhlutbundið og ópersónulegt hatur á milli þjóða. Eins og á milli þjóða sem eiga í stríði. Hættan er sú að hatrið verði persónubundið. Ég get nefnt þér dæmi: Í síðustu viku umkringdu ísraelskir hermenn hús einnar fjölskyldu í sókn minni. Þeir fóru inn í húsið og tóku yngri soninn. Áður höfðu þeir tekið eldri soninn úr fjölskyldunni með sama hætti, og þá hafði móðir hans misst fóstur af geðshræringu og hræðslu. Þegar hermennirnir komu í annað sinn sagði faðirinn við forsvarsmann þeirra:

„Ef kona mín missir fóstur í annað sinn mun ég drepa þig…“

Í stríði þekkja menn ekki andstæðing sinn, hann er óhlutbundinn, ef svo mætti segja. En hér er þetta að þróast yfir á annað og hættulegra stig. Og þið blaðamenn verðið að koma gyðingum í skilning um að ekki megi breyta þessari deilu á milli þjóða yfir í persónubundið hatur.“

Tvískinnungur arabaríkjanna

– En standa ekki aðrar arabaþjóðir að baki uppreisninni?

„Arabaheimurinn er nú stöðugt að biðja Palestínumenn um að halda uppreisninni áfram, en þeir veita henni ekki raunverulegan stuðning, eða gera það að minnsta kosti illa. Staðreyndin er sú að við vorum ekki búnir undir uppreisnina. Hún hefur komið illa við okkur á margan hátt, sérstaklega alla félagslega þjónustu og uppbyggingu. Þar ríkir nú upplausn. Sjúkrahús, skólar, gistihús og fyrirtæki, sem rekin eru af einkaaðilum hér á herteknu svæðunum, geta ekki lengur greitt laun. Ef uppreisnin heldur áfram munu mörg þessi fyrirtæki þurfa að loka.

Tökum sem dæmi skólann, sem ég stjórna hér í bænum. Í þessum skóla eru 374 börn og þar vinna 20 kennarar. Þetta er kristinn skóli, rekinn fyrir skólagjöld barnanna. Ég greiði kennurunum laun fyrir skólagjöldin. Foreldrar hafa ekki lengur efni á að greiða skólagjöldin og eru líka ófús að gera það, þar sem skólinn hefur lengi verið lokaður vegna skipunar hernámsyfirvaldanna. Ég hef greitt kennurunum laun þótt skólinn hafi verið lokaður frá því í desember fram í maí. Ég hef ekki efni á að greiða kennurunum laun mikið lengur við óbreyttar aðstæður, og ég mun því neyðast til að loka skólanum okkar. Hér er líka rekið lítið hótel fyrir kristna pílagríma. En frá því uppreisnin hófst hafa margir pílagrímahópar afpantað gistingu. Ég get því ekki lengur greitt starfsfólki hótelsins laun. Þetta eru bara dæmi sem sýna okkur hvað er að gerast. Ástandið er í rauninni mjög alvarlegt. Við getum líkt ástandinu við særðan mann í bardaga sem finnur ekki fyrir sárum sínum af því að hann er upptekinn af orrustunni. En þegar hann slakar á, finnur hann fyrir sárum sínum. Við munum finna illa fyrir sárum uppreisnarinnar í nóvember og desember næstkomandi.“

– Fyrirgefðu að ég spyr, en hvernig stendur á því að þú hefur 374 nemendur í barnaskóla í 1100 manna söfnuði? Eru fjölskyldur svona barnmargar?

„Nei, í skóla mínum eru líka börn úr öðrum bæjum. Börn sem eru uppvís að því að hafa kastað grjóti að ísraelskum hermönnum eru svipt öllum rétti til skólagöngu í skólum sem reknir eru af Ísraelsríki það sem eftir er ævinnar. Við höfum allmörg þessara barna í okkar skóla, og það eru líka börn múslíma.“

Uppreisnin þarf stuðning

– Hvernig bregðist þið við þessum vanda?

„Það er mikilvægt að allir stuðningsmenn Palestínumanna geri sér grein fyrir því, að hér blasir við hrein upplausn. Og hún getur leitt til annarrar bylgju atgervisflótta. Til dæmis er læknirinn okkar hér nú að íhuga að flytjast til Ástralíu. Hættan eykst stöðugt á því að fólk fyllist örvæntingu og yfirgefi landið. Frá því uppreisnin byrjaði hafa 50 ungir menn yfirgefið Efraím og farið til annarra landa. Ef þessu heldur áfram án utanaðkomandi stuðnings erum við glötuð. Og það sorglega er, að mikið af því fé, sem sent er til herteknu svæðanna til stuðnings Palestínumönnum, lendir í höndum stjórnvalda í Ísrael eða Jórdaníu. Vegna þessa hef ég gripið til nokkuð sérstaks ráðs meðal vina minna í Frakklandi. Þeir koma hingað mikið í pílagrímsferðir, og með þeim hef ég gert samning um kílógramm pílagrímsins. Þeir sem hingað koma taka með sér kílógramm af einhverju, sem kemur okkur til góða, í einu eða öðru formi. Þá er það staðreynd að það hjálparfé sem berst í gegn[1]um kirkjuna kemst til skila. Ég hef líka stofnað bankareikning í Frakklandi fyrir starf okkar hér við skólann, heilsugæslustöðina og fleira. En enn sem komið er dugar þetta ekki.“

– Hvað er stór hluti Palestínuaraba kristinnar trúar?

„Þeir kristnu eru um 4,5 – 5% af Palestínumönnum, en áhrif þeirra eru meiri en fjöldinn segir til um, því þeir áttu yfirleitt landeignir og höfðu betri afkomu og menntun.“

Á milli vonar og ótta

– Hvað telur þú að muni gerast í náinni framtíð?

„Hér lifa allir á milli vonar og ótta. Við vitum að gyðingar (ekki Ísraelsmenn) vilja byggja gyðingaríki sem er bara fyrir gyðinga, og þeir eru reiðubúnir að leggja á sig allar hugsanlegar þjáningar til að ná þessu marki. Uppreisnin veldur því að margir Palestínumenn yfirgefa landið. Það þjónar hagsmunum gyðinganna. Uppreisnin gerir arabana stöðugt fátækari. Endanlega munu þeir neyðast til að hverfa aftur að því að vinna fyrir gyðingana. Það þjónar hagsmunum gyðinganna. Því ef gyðingar leyfa aröbum að vera í ríki sínu, þá eiga þeir aðeins að fá að vera þar sem þrælar. Og fjórar miljónir gyðinga þurfa eina miljón arabaþræla til þess að vinna skítverkin fyrir sig.

Í upphafi vakti uppreisnin athygli umheimsins. Nú virðist heimurinn hins vegar vera búinn að fá nóg af þessari uppreisn, sem engum árangri skilar. Fréttirnar verða hluti hversdagsins, eins og gerðist í Víetnamstríðinu og hungursneyðinni í Eþíópíu. En þrátt fyrir þetta er eitt atriði mikilvægt: uppreisnin kann að valda því að samviska sumra réttsýnna Ísraelsmanna vakni, og það væri jákvætt fyrir Palestínumenn. Því að mínu mati getur lausn Palestínuvandans einungis komið frá Ísraelsmönnum sjálfum. Allt fram á þennan dag hafa þeir verið blindir á það óréttlæti sem þeir hafa framið gagnvart Palestínumönnum. Þegar sá dagur rennur upp að Ísraelsmenn gera sér ljóst hvað þeir hafa gert Palestínumönnum, þá munu þeir leita lausnar á vandanum. Uppreisnin er nú að opna augu réttlátra manna í Ísrael. Þetta fólk mun bregðast við á sinn hátt, og kannski semja frið. Og fyrir mér er þetta hið eina jákvæða við uppreisnina.“

Að gera illt verra

-En uppreisnin kemur sér líka illa fyrir stjórnvöld. Ísrael virðist þegar vera orðið lögregluríki og ekki sjáanlegt að því linni…

„Já, það er mikilvægt að allir þeir, sem telja sig vera raunverulega vini gyðinga, segi þeim sannleikann um það óréttlæti sem þeir fremja nú. Því annars munu þeir einungis halda áfram að gera illt verra. Hvað ætla Ísraelsmenn að gera við tvær miljónir Palestínumanna? Ætla þeir að drepa þá, reka þá úr landi, eða gerast nýir nasistar? Eða ætla þeir að láta fólksfjölgun araba kæfa sig?

Nú hafa þeir gert Vesturbakkann að stóru fangelsi. Ef þeir sjá ekki að sér nú, á meðan þeir eru sterkir, þá munu þeir sökkva út í fenið. Þeir munu haga sér eins og krossfararnir á miðöldum. Þeir munu leggja Transjórdaníu undir sig, og svo Sýrland og Egyptaland og seilast eftir norðurströnd Afríku, og á endanum munu þeir glata öllu saman. Rétt eins og krossfararnir.“

Ríkjabandalag í Landinu helga?

– Hvaða ráð vilt þú gefa Ísraelsmönnum? Eiga þeir að samþykkja sjálfstætt ríki Palestínumanna?

„Þeir eiga fyrst og fremst að leita sátta. Þeir verða að viðurkenna sjálfa sig sem semíta, og Ísrael og Ísmael verða að bindast bræðraböndum á ný.

Ég ann Landinu helga, og ég vildi ekki sjá því skipt í tvo hluta. Ég vil sjá það sem eitt land byggt tveim þjóðum. Kannski tvö ríki í ríkjabandalagi. Ég held að þegar Palestínumenn eru að krefjast sjálfstæðs ríkis, þá séu þeir að krefjast hins meira til þess að fá það minna: grundvallaratriði eins og réttinn til vegabréfs. Hugsaðu þér hvernig þessum málum er háttað núna: ég var eitt sinn spurður af landamæraverði, hverrar þjóðar ég væri. Mér vafðist tunga um tönn. Og eftir að hafa skoðað skilríki mín kvað vörðurinn upp dóm sinn: „Þér eruð Palestínumaður af jórdönsku þjóðerni með ísraelska ferðaheimild… “ Hvernig er þetta hægt?“

Hænan og gulleggin

– Þú sagðir áðan að hjálpin sem send væri til Palestínumanna á herteknu svæðunum kæmist ekki til skila. Hvernig má það vera?

„Þú verður að skilja, að gyðingar utan Ísraels fundu til sektarkenndar gagnvart Palestínumönnum þegar Ísraelsríki var stofnað. Það voru ekki síst þeir sem áttu frumkvæði að stofnun flóttamannahjálparinnar, UNWRA, sem hefur fætt Palestínumenn síðastliðin fjörutíu ár. Þetta ástand minnir á hænuna sem verpir gullegginu. Ekki síst fyrir arabaríkin. Arabaríkin taka við fjárstuðningi víðsvegar að vegna vanda Palestínumanna. Þeir veita litlum hluta þessa fjár til Palestínumanna, en stinga bróðurpartinum í eigin vasa. Fyrir þeim er það mikilvægt að halda hænunni lifandi – í flóttamannabúðunum. Í fyrsta lagi til þess að fá meira fé, og í öðru lagi til þess að viðhalda styrjaldarástandi við Ísrael. Í reynd vilja þeir ekki sjá lausn á vandanum, heldur óbreytt ástand. Nákvæmlega sama gildir um gyðinga. Þeir vilja viðhalda styrjaldarástandi við arabaríkin, því fyrir þá sök hafa þeir uppskorið samúð og ómældan fjárstuðning víðs vegar að. Friður í Palestínu mun ganga af hænunni sem verpir gulleggjunum dauðri.“

Arafat er sonur okkar fólks

– Þetta er harður dómur um arabaríkin. En hvernig lítur þú á PLO? Eru þau samtök seld undir sömu sök?

„Nei, Arafat og hans menn eru synir fólksins hérna. Þeir skilja vandann vegna þess að hann brennur líka á þeim. Ég veit að það er betra að semja við hann og hans menn en við Jórdani eða Sýrlendinga. Annars eru stjórnmál ekki minn vettvangur. En sem kristinn maður get ég ekki annað en látið mig mannréttindi varða, og það eru mannréttindi sem málið snýst um.“

– Er eitthvað sem þú vildir segja að lokum?“

„Ég höfða til réttsýni, mannúðar og örlætis lesenda þinna. Að þeir megi skilja þennan vanda, að þeir megi segja gyðingum sannleikann um það sem þeir eru að gera og að þeir veiti okkur þá aðstoð sem okkur er nauðsynleg til þess að lifa af þær þrengingar sem þjóð okkar má nú líða.“

 

 

 

 

INTIFADA – UPPREISN Í LANDINU HELGA – I

Ferðalagið til Landsins helga

Ferðasaga í fjórum þáttum frá flóttamannabúðum Palestínumanna í Jórdaníu, um Vesturbakkann, Jerúsalem og Gaza-svæðið í júní 1988
Þessi ferðasaga birtist í fjórum hlutum í Þjóðviljanum í júlí 1988. Hún var uppskera erfiðustu ferðar lífs míns, sem ég tókst á hendur á eigin kostnað í júnímánuði 1988 frá Rómaborg til Amman í Jórdaníu, og þaðan áfram til Jerúsalem og um Vesturbakkann og Gaza-svæðið og aftur til baka. Ég hafði starfað við erlend fréttaskrif á Þjóðviljanum um árabil, og ritað margar greinar um Palestínuvandann. Á þessum tíma var ekkert internet og eina beina samband fréttamanns við umheiminn var símriti  Reuters-fréttastofunnar. Ég var alltaf vantrúaður á þessa upplýsingaeinokun og stóðst því ekki tækifærið að fljúga beint frá Róm, þar sem ég var staddur, til Amman. Í þessari ferð upplifði ég veruleika sem var í engu líkur heimsmynd Reuters-fréttastofunnar, og ferðin breytti heimsmynd minni fyrir lífstíð.  Greinarnar eru nú endurbirtar hér á hugrunir.com í tilefni atburða undanfarinna vikna á Gaza-svæðinu. Ferðasagan hefur að mínu mati enn sitt gildi til aukins skilnings á því sem nú er að gerast í Palestínu. Ferðasagan er með ljósmyndum sem ég tók sjálfur. Endurvinnsla greinanna úr Þjóðviljanum hefur vakið til nýs lífs endurminningar sem héldu mér andvaka vikum saman eftir að ég kom heim.

Intifadan, uppreisnin á hinum herteknu svæðum Ísraelsríkis á Vesturbakka Jórdanár og Gaza-svæðinu hafði staðið í hálft ár þegar ég lenti á flugvellinum í Amman í Jórdaníu. Erindið var að sjá með eigin augum þann veruleika sem sjónvarpið og aðrir fjölmiðlar hafa leitast við að miðla til okkar þessa mánuði með þeim árangri að flestir eru nú hættir að taka eftir því þótt barn sé limlest eða skotið til bana, heimili lögð undir jarðýtur eða hermenn grýttir af börnum. Í flugvélinni á leiðinni las ég í erlendum blöðum að uppreisnin væri að fjara út, að allt væri nú að færast í eðlilegt horf og skólarnir væru nú loksins opnaðir aftur eftir hálfs árs lokun.

Tíu dagar í Palestínu

Ég dvaldi 10 daga í Palestínu, þar af 5 daga á Vesturbakkanum og Gaza-svæðinu, og 5 daga í Jórdaníu. Þar skoðaði ég meðal annars stærstu flóttamannabúðir Palestínumanna í Miðaustur löndum, þar sem búa nærri 100.000 flóttamenn. Á herteknu svæðunum skoðaði ég flóttamannabúðir, heimsótti sjúkrahús, skóla og aðila sem láta sig mannréttindi varða, og ég hitti fólk, sem hvarvetna tók mér af stakri gestrisni og reyndist óðfúst að veita mér upplýsingar og leiðsögn, jafnvel þótt það tæki þar með mikla áhættu.

Ég sá börn og unglinga hlaða vegatálma og kasta grjóti að hernámsliðinu. Ég hitti limlest börn, ekkjur og sveltandi flóttamenn. Ég sá hermenn beita skotvopnum gegn börnum og unglingum og ég sá táragasskýin leggjast yfir flóttamannabúðirnar og göturnar í Gaza. Ég upplifði mannlausa bæi og þögn sem var hlaðin ofbeldi og spennu, sem er ekki rofin af öðru en vélarhljóði herjeppanna sem hringsóluðu um mannlausar göturnar undir brennheitri hádegissólinni meðan á allsherjarverkfallinu á herteknu svæðunum stóð. Ég sá heimili sem höfðu verið lögð undir jarðýtur, ég hitti menn sem höfðu sætt misþyrmingum í fangabúðum herstjórnarinnar og ég heyrði óteljandi sögur af óhæfuverkum ísraelska hersins. Ég talaði við kristna araba og múslima, óbreytt alþýðufólk og menntamenn, lækna, lögfræðing og prest. Ég kynntist palestínsku konunum sem hafa yfir sér sérstakan þokka og reisn, þar sem þær ganga teinréttar í sínum síðu kuflum með nauðþurftir heimilisins á höfðinu. Ég naut ótrúlegrar gestrisni þessa fólks og var boðinn besti viðgjörningur hvar sem ég kom. Ég sá dýpri niðurlægingu og örbirgð en ég gat ímyndað mér, örvæntingu, ótta og vonleysi, og ég upplifði einnig óbilandi kjark og baráttuvilja fólks sem virtist ekkert óttast og storkaði hernámsliðinu af fullkomnu æðruleysi. En fyrst og síðast sá ég börnin sem þekkja ekki annan veruleika en þennan: berfættu börnin sem léku sér í kringum opin skolpræsin í moldargötum flóttamannabúðanna eða æfðu sig í að hlaða vegatálma úr smásteinum, börnin sem sýndu mér stolt teygjubyssurnar og slöngurnar sem þau beita gegn ísraelska hernámsliðinu, börnin sem voru óðamála að tjá sig um það sem þau höfðu upplifað og börnin sem stóðu á verði til þess að vara mig við hermannajeppunum sem hringsóluðu um flóttamannabúðirnar. Börn sem höfðu misst föður sinn, börn með skotsár, limlest börn, skítug börn með glampa í augum sem gaf til kynna undarlegt sambland af heift og sakleysi. Börn sem eru öðruvísi en öll önnur börn sem ég hef áður séð, því þau hafa andlit sem eru rúnum rist af ábyrgð og reynslu af daglegu ofbeldi, en í gegnum þessa g reynslunnar glittir engu að síður í hyldýpissakleysi barnssálarinnar sem getur illa greint á milli leiks og alvöru.

Palestínskir drengir í afslöppun á Vesturbakkanum. Ljósm. olg.

Reynsla mín þessa daga á herteknu svæðunum var bæði erfið og yfirþyrmandi, en hún sann færði mig um tvennt:

Uppreisnin, eða intifadan eins og Palestínuarabarnir kalla hana, var ekki að fjara út. Hún hefur trúlega þvert á móti aldrei verið víðtækari en nú. En hún mun sennilega breyta um farveg.

Samstaðan um friðsamlega andspyrnu gegn yfirvöldum á hernámssvæðunum er víðtækari en áður, en jafnframt eru einnig teikn á lofti um stigmögnun ofbeldis. „Þegar barn á fjórða ári er farið að spyrja hina fullorðnu að því hvernig eigi að búa til mólótofkokteila, þá getum við reiknað með að það muni grípa til sinna ráða fyrr en varir að óbreyttum aðstæðum,“ sagði læknir á Vesturbakkanum við mig, og bætti því við að foreldrar hefðu ekki lengur neina stjórn á börnum sínum.

Sú mynd sem við höfum fengið í gegnum fjölmiðla af á standinu á herteknu svæðunum í Palestínu er blekkjandi. Fjölmiðlarnir ná einfaldlega ekki að bregða upp mynd af því viðvarandi ógnarástandi sem þarna ríkir, heldur færa þeir okkur veruleikann í brotakenndu formi sem bundið er við einstakar myndir eða atburði. Ástandið á herteknu svæðunum og í flóttamannabúðum Palestínumanna þar er ein faldlega mun alvarlegra en okkur hefur verið sagt. Ég hef fylgst með þessu máli í gegnum fjölmiðla um árabil og skrifað um það fjölmarga fréttapistla og greinar hér í blaðið okkar í gegnum árin. Veruleikinn kom hins vegar yfir mig eins og köld vatnsgusa: hvernig var þetta mögulegt?

Hér á eftir og í næstu blöðum munu birtast frásagnir af því sem ég reyndi og sá í Palestínu þessa 10 daga. Frásögnin verður í fjórum hlutum. í fyrsta hlutanum er sagt frá heimsókn í Baqaá-flótta mannabúðirnar skammt fyrir utan Amman í Jórdaníu. í næsta hluta verður sagt frá ferð minni yfir á Vesturbakkann, til Jerúsalem, Ramallah og fleiri bæja og þorpa. Þriðja frásögnin verður af ferð minni á Gazasvæðið og fjórði og síðasti þátturinn verður að mestu viðtal við kaþólskan prest frá kristna bænum Efraím á Vesturbakkanum.

Kyrr kjör í Baqaà

Þegar komið er að Baqaá-flóttamannabúðunum fyrir utan Amman í Jórdaníu líta þær fljótt á litið út eins og fátæklegur bær úr þriðja heiminum. Húsin með fram þjóðveginum eru lágreist og hrörleg, en sum þeirra hafa verið máluð og þarna má sjá hvers kyns starfsemi í gangi, bílaverkstæði og aðra þjónustu við vegfarendur, handverksmenn að störfum o.s.frv.
Þegar inn í búðirnar er komið eru húsin hrörlegri, göturnar þrengri og þrengslin augljósari. Fólkið býr í kofum sem eru flestir hlaðnir úr múrsteini. Bárujárnið á þakinu er fergt niður með grjóti, og sumir kofarnir eru ein faldlega gerðir úr blikki. Víðast eru moldargötur, en sum staðar eru göturnar steyptar eða malbikaðar með opinni skólprennu eftir miðri götunni.

Börnin í flóttamannabúðunum í Baqaà í Jórdaníu, þar sem búa um 100 þúsund flóttamenn. Gatan er steypt, en opið skolpræsi eftir miðri götunni. Húskofarnir hlaðnir úr steini með blikkþaki. Ljósm. olg.

Í Jórdaníu rignir ekki 6 mánuði ársins, en á regntímanum sem varir frá nóvember fram í apríl verða moldargöturnar í flóttamannabúðunum að forarvilpu sem nær að minnsta kosti í ökla. Markaður var í gangi þegar ég kom inn í búðirnar, og þar var fjölbreytt úrval varnings og mannlíf allt hið framandlegasta í norrænum augum. Mannmergðin var mikil og þarna mátti auk hvers konar lífsnauðsynja fá ýmiskonar þjónustu, svo sem eins og rakstur og klippingu og veitingar voru seldar á götum úti, einkum djúpsteikt brauð og mjölbollur. Þarna mátti einnig sjá flestan þann varning, sem finna má á venjulegum arabískum markaði, fatnað, skó, búsáhöld, fiðurfé á fæti, egg, ávexti, grænmeti, baunir og mjöl, en kjöt er af skornum skammti, enda munaðarvara fyrir alþýðu manna í Jórdaníu. Gjafafatnaður frá Evrópu var þarna á boðstólnum í stórum stíl gegn vægu verði, og er hann seldur til ágóða fyrir flóttamannahjálpina. Þá kom á óvart að sjá þarna verslað með gull og skartgripi, en gullið gegnir mikilvægu hlutverki í hefðbundnum samskiptum fólks í arabaheiminum. Einnig kom á óvart að sjá þarna starfræktan banka, en allt þetta fjölbreytilega líf og þjónusta jók á þá tilfinningu að hér væri mannlíf með tiltölulega eðli legum hætti miðað við það sem gerist í fátækrahverfum Amman og annarra borga í Jórdaníu.

Palestínskar konur á útimarkaðnum í Baqaà flóttamannabúðunum í Jórdaníu. Ljósm. olg.

Seinna átti ég eftir að kynnast því að aðstæðurnar þarna voru hátíð miðað við það sem finna má á Vesturbakkanum, og síðan er farið er úr öskunni í eldinn þegar komið er á Gaza-svæðið, sem liggur á mörkum Ísraels og Egyptalands, en þar ríkir nú styrjaldarástand.

Lykt af mannlífi

Gönguferð í gegnum markað inn í Baqaá er ekki síður upplifun fyrir lyktarskynið en sjónina. Þarna blandast saman ilmur af kryddjurtum eins og basil og myntu, fnykur af fiðurfé og óþefur úr opnum skólpræsum, kaffi- ilmur og kardimommu, þefur af rotnandi grænmeti og úrgangi, stækja af olíusteikarpottum sem eru úti á götunum, ilmur af smyrslum og steinkvötnum kvennanna og sæt lykt af appelsínum, fíkjum og öðrum ávöxtum, sem fylla hlaðna bekki og borð og blandast einnig góðum ilminum frá ofni bakarans.

Eftir tilvísun lá leið mín í gegn um endilangan markaðinn um hálftíma hægan gang að miðsvæði flóttamannabúðanna þar sem var að finna miðstöð UNWRA, (United Nations Relief and Works Agency), en það er sérstök flótta mannahjálp Sameinuðu þjóð anna fyrir Palestínuaraba, sem starfað hefur frá 1949 í Jórdaníu, Líbanon, Sýrlandi, á Vesturbakkanum og á Gaza-svæðinu. Hjá UNWRA fengum við flestar þær upplýsingar, sem hér koma fram, og var mér meðal annars sýnt sjúkraskýli og skóli sem stofnunin rekur auk þess sem mér var boðið að skoða venjulegt heimili í búðunum. Eldhús fjölskyldunnar var í sérstöku afdrepi inni á lóðinni. Þar er bæði ísskápur og gaseldavél.

25 sent á dag

Baqaá-búðirnar eru fjölmennustu flóttamannabúðir Palestínuaraba í Miðausturlöndum. Skráðir flóttamenn þar eru tæp 70.000, en mér var tjáð að raun verulegur fjöldi í búðunum nálgaðist 100.000. Af þessum fjölda eru tæplega 60.000 skráðir flótta menn frá 1948, þegar Ísraelsríki var stofnað, hinir komu eftir 6 daga stríðið 1967. Skráðir kofar í búðunum eru 7650, sem þýðir að í hverjum kofa búa að meðaltali yfir 10 manns. Palestínskir flóttamenn í Jórdaníu búa að því leyti við aðrar aðstæður en á herteknu svæðunum að þeir hafa allir rétt á fullgildu jórdönsku vegabréfi og þeir hafa fullan aðgang að jórdönskum vinnumarkaði. Alls eru tæplega 850.000 palestínskir flóttamenn skráðir í Jórdaníu, þar af voru um 210.000 skráðir búsettir í flóttamannabúðum fyrir ári. Jórdanía er jafnframt það land sem hýsir flesta palestínska flóttamenn, eða 38% allra skráðra flóttamanna sem eru taldir vera meira en 2,2 miljónir. Til aðstoðar þessu fólki hefur UNWRA haft um 200 miljónir dollara á ári, eða rúmlega 25 cent á mann á degi hverjum. Ef tekið er tillit til þessa þrönga fjárhags verður skiljanlegra hvað hjálpin virðist í mörgum tilfellum fátækleg og ófullnægjandi. Auk þess sem ytri aðstæður gera aðstoð oft á tíðum illframkvæmanlega, bæði á herteknu svæðunum og í Líbanon. Alls eru 10 palestínskar flóttamannabúðir í Jórdaníu. Fjórar þeirra hafa verið starfræktar frá 1948, hinar voru settar upp eftir 6 daga stríðið 1967.

Þéttbýli hættulegt heilsunni

Ég skoðaði heilsugæslustöð UNWRA í Baqaá undir leiðsögn forstöðumanns hennar. Þar eru starfandi 7 læknar, þar af einn tannlæknir. Hjúkrunarkonur og -menn eru 19 og ljósmæður eru 6. Þetta starfslið þjónar mannfjölda sem er álíka mikill og íbúar Reykjavíkur. Vinnuálagið á læknana er gífurlegt, eða 100 – 160 sjúklingar á dag, og sögðust þeir sinna að minnsta kosti fjórum sinnum fleiri sjúklingum á dag en læknar utan búðanna. Húsakynnin eru frumstæð skýli, byggð fyrir gjafafé frá ríkisstjórn Kanada, og voru skýli þessi tekin í notkun fyrir tæpu ári. Sérstakt sjúkraskýli fyrir börn er frá sama tíma, reist fyrir norskt gjafafé. Mér var tjáð að heilbrigðisvandamál þau sem við væri að etja væru mörg af félagslegum rótum og stöfuðu af of miklu þéttbýli, þekkingarskorti, óhollri fæðu og ófullnægjandi barnaumhirðu. Algengustu sjúkdómarnir eru öndunarfærasjúkdómar, meltingartruflanir svo sem niðurgangur, háls-, nef- og eyrnasjúkdómar, sníklafaraldrar, húðsjúkdómar, hjarta- og æðasjúkdómar og sykursýki. Mér var tjáð að bólusetningarherferð hefði skilað góðum árangri og að faraldssjúkdómum eins og malaríu, berklum og lömunarveiki hefði verið útrýmt. Barnadauði í búðunum er 47 börn af hverjum 1000, sem er lægri tala en fyrir Jórdaníu í heild. Helsta hættan fyrir börnin stafar af þrengslum (sem auka á smithættu), opnum skolpræsum (neðanjarðarræsi voru sögð í smíðum), og ófullnægjandi umhirðu vegna barnmergðar. Meðalfjölskyldustærðin er 7,2 börn, og í búðunum fæðast að meðaltali 2200 börn á ári eða 6 börn á dag.

Börn í ómegð

Í barnasjúkraskýlinu var okkur tjáð að komið væri með nýfædd börn í ungbarnaeftirlit einu sinni í mánuði á fyrsta aldursári. Haldin er sjúkraskrá yfir öll nýfædd börn, og ef það sýnir sig að þau þroskast ekki eðlilega, þá eru þau tekin í daglega meðhöndlun og sett á sérstakt fæði, auk þess sem foreldrum er kennd barnaumhirða. Áhersla er lögð á nýtingu móðurmjólkur, þar sem vatnsblandað mjólkurduft eykur mjög á smithættu. Barnalæknirinn tjáði okkur að vanhirða á börnum stafaði ekki bara af vankunnáttu, heldur líka af því að fjölskyldur væru svo stórar að foreldrar önnuðu ekki að sinna öllum börnum sínum nægilega vel. Okkur var tjáð að enginn liði fæðuskort í búðunum, en um 1700 manns þiggja daglegar matargjafir. Þetta þýðir að fólkið í búðunum er að stórum hluta efnahagslega sjálfbjarga og karlmenn sækja mikið vinnu utan búðanna. Það vakti furðu mína að sykursýki skyldi vera meðal algengari sjúkdóma, þar sem hún er yfirleitt rakin til ofneyslu. Sérfræðingurinn í meðhöndlun þessa sjúkdóms tjáði mér að í búðunum væru skráð 500 tilfelli, og væri orsökin annars vegar rakin til rangrar fæðusamsetningar (of mikil kolvetni), hins vegar til innbyrðis skyldleika íbúanna og til áhrifa af þeirri streitu sem þéttbýlið og aðrar aðstæður í búðunum hafa í för með sér. Aðspurðir um það hvernig læknarnir meðhöndluðu niðurgang, sem er einn skæðasti barnasjúkdómurinn í mörgum fátækum löndum, sögðu læknarnir að við honum væri gefin saltupplausn í því skyni að koma í veg fyrir vatnstap sem væri hættulegasta afleiðing niðurgangs. Auk þess að tala við lækna sjúkraskýlisins kom ég einnig á rannsóknastofuna, þar sem unnið var að greiningu sýna. Það er óhætt að segja að aðstaða þar hafi verið engin. Ein lítil smásjá og kannski eitt eða tvö lítil tæki í viðbót, og mér var tjáð að allar mikilvægari greiningar væru sendar á sjúkrahús í Amman.

Fimmtíu nemendur í skólabekk

Eftir heimsóknina á sjúkraskýlið kom ég í stúlknaskóla þar sem prófum var að Ijúka og síðustu nemendurnir rétt að fara heim. Skólastýran sagði mér að þarna væru um 1500 nemendur á gagnfræðaskólastigi. Stórt port myndaði skólalóðina og voru byggingar skólans allt í kringum portið. Þetta eru bárujárnsskúrar með kennslustofum þar sem ekkert er innandyra nema bekkir og svört tafla á vegg. Nemendur eru 50 í hverjum bekk og svo þétt setinn bekkurinn að ekki komast fleiri í hverja „stofu“. Skrifstofa skólastýrunnar var líka í bárujárnskofa, og þótt þar væri snyrtilegt innan dyra var engin kennslugögn eða bækur þar að sjá, eða afdrep fyrir kennara. Veggir er sneru inn að skólalóðinni voru skreyttir myndum eftir nemendur sem sýndu palestínskar konur að störfum innan sem utan heimilis.

Kennslukonan í skólastofu 50 nemenda í flóttamannabúðunum í Baqaà. Ljósm. olg.
Átta í flatsæng á 9 ferm.

Að Iokum var mér boðið að sjá dæmigert heimili í þessum flóttamannabúðum. Þetta var heimili 9 manna fjölskyldu, sem bjó í tveim kofum og hafði litla lóð innan veggja að auki. Þarna sem annars staðar þar sem ég kom inn á heimili palestínskra flóttamanna var gætt fyllsta þrifnaðar. Gólfin voru steypt og hvítskúruð. Fjölskyldan var ættuð frá Hebron, og varð landflótta þegar Ísraelsher lagði undir sig Vesturbakkann árið 1967. Eftir 21 ár í útlegð var ættmóðirin orðin ekkja, og naut hún þeirra forréttinda að búa ein í öðrum kofan um, sem var gerður úr ómáluðum blikkplötum negldum á grind. Þetta var öldruð kona, og kofinn hennar var kannski 3×3 m. að flatarmáli.

Ættmóðir níu manna fjölskyldu í kofa sínum í Baqaà. Ljósm. olg

Húsmóðirin var kornung að sjá, en átti þó 6 börn, og sváfu þau með foreldrum sínum í flatsæng á gólfinu í hinum kofanum. Var vandséð hvernig átta manns gátu komist þar fyrir. Eldhús var í sérstöku afdrepi, þar sem var bæði gashella og vaskur með rennandi vatni. Garðurinn á milli kofanna var kannski 3x4m, og þar voru snúrur fyrir þvotta. Húsgögn voru þarna nær engin, eða þægindi, að frátöldum dýnunum, og engar voru hirslurnar til að varðveita jarðneskar eigur þessara öreiga. Þegar ég ljósmyndaði móðurina með nokkrum barna sinna inni í svefnskála hennar mátti sjá að henni var brugðið og tár komu fram í óttaslegnu andliti hennar.

Sex barna móðir í flóttamannabúðum í Baqaà ásamt tveim sonum sínum. Svefndýnur fjölskyldunnar eru í stafla  undir laki í baksýn. Ljósm. olg

Það var eins og hún væri að spyrja sjálfa sig og umheiminn þeirrar áleitnu spurningar, hver yrði framtíð þeirra barna, sem hún hefði alið í þennan heim. Daginn eftir hélt ég yfir á Vesturbakkann og þar uppgötvaði ég nýja veröld, og um leið að flóttamannabúðirnar í Jórdaníu voru konunglegar miðað við ástandið sem þar ríkti. En meira um það í blaðinu næsta föstudag. -ólg

NÝ COVID19 KYNSLÓÐ Í MÓTUN Í EVRÓPU

Ný COVID19-KYNSLÓÐ Í MÓTUN Í EVRÓPU

„NEXT GENERATION EU“

Myndbandið sýnir skólasetningu í ítölskum framhaldsskóla í fyrradag

Þessa dagana upplifa börn og ungmenni um alla Evrópu upphaf nýs skólaárs, víða í kjölfar a.m.k. hálfs árs skólahlés vegna Covid19 veirufársins. Evrópuþjóðir hafa brugðist ólíkt við, en eitt eiga evrópsk ungmenni þó sameiginlegt: alls staðar ríkir öngþveiti og óvissa, ekki bara um framtíðina til langs tíma litið, heldur ekki síst um næstu daga við upphaf nýs skólaárs. Ég hef fylgst með þessum undirbúningi á Ítalíu gegnum fjölmiðla undanfarið og sé ekki annað en að ef eitthvað einkenni þessa tíma, þá sé það öngþveiti sem eigi eftir að hafa ófyrirsjáanlegar afleiðingar. Erfitt er að skilja þær reglur sem settar hafa verið með reglugerðum stjórnvalda sem oft virðast jafnvel illa samræmast ríkjandi stjórnarskrá um réttindi barna til menntunar.

Meðal reglugerða sem settar hafa verið á Ítalíu eru þær er skylda nemendur frá 6 ára aldri til að bera andlitsgrímu skólanum alls staðar nema í matsal meðan borðað er og í skólastofu meðan setið er við skólaborð. Skólaborð eiga að vera fyrir einn nemanda og raðað upp þannig að 1 m í það minnsta skilji nemendur að. Þetta fækkar plássum í hverri skólastofu. Öllum gömlum tvískiptum skólaborðum hefur verið kastað á haugana (eða þau söguð í tvennt) og miljónum af nýju skólaborðum og stólum dreift til skóla um alla Ítalíu. Foreldrar eiga að mæla líkamshita nemenda áður en þau fara í skólann og ekki hleypa þeim í skólann ef hiti er hærri en 37,5 gráður. Ef nemendur sýna merki um veikleika í skólanum – hita, nefrennsli eða hósta – skulu þau umsvifalaust færð í sérstakan Covid19 sal og látin gangast undir veiruprufu um leið og foreldrar eru kallaðir til að sækja börn sín og fara í einangrun meðan beðið er eftir niðurstöðu. Sé niðurstaða jákvæð verður öll fjölskyldan sett í tveggja vikna sóttkví og jafnvel bekkurinn líka. Kennari á að vera í 2 m fjarlægð frá nemendum í sæti sínu og setja upp grímu ef hann fer um kennslustofuna eða í nánd við nemendur. Kennari má ekki snerta skólabækur eða verkefni nemenda. Meðal áhættuatriða sem hafa verið bönnuð í skólastarfi er söngur og hreyfingar eins og dans sem kalla á snertingu og nálægð. Börn mega ekki skiptast á eða lána hvort öðru ritföng eða önnur skólagögn. Þau fá ókeypis grímur í skólanum en eiga að skipta um grímur verði þær rakar og hafa með sér sérstaka poka til að geyma notaðar grímur og taka með sér heim. Rakar grímur má helst ekki snerta, og sótthreinsa á hendur eftir hverja snertingu. Vegna plássleysis í skólum og þrengsla við inngöngu eru settar reglur um breytilegan skólatíma eftir aðstæðum, þannig að allir nemendur hafi ekki sama komu- og brottfarartíma úr skólanum. Þessar reglur eiga sérstaklega við um barnaskóla og gagnfræða- eða menntaskóla, en hliðstæðar reglur eiga væntanlega einnig að gilda á háskólastigi.

Það kemur ekki á óvart að háværar gagnrýnisraddir hafi heyrst um þessar ráðstafanir. Ekki bara vegna þess að þær reynast víða óframkvæmanlegar í reynd (það vantar enn hátt í 100.000 kennara til að mæta nýjum aðstæðum og víða vantar enn skólaborð og stóla o.s.frv. (Þannig birtast í dag myndir af börnum sem vinna á hnjánum í skólastofunni og hafa stólinn fyrir skrifborð.)) Það er þó kannski ekki erfiðasti vandinn, heldur áhyggjur foreldra, kennara, sálfræðinga og menntafrömuða vegna heilsufarslegra og uppeldisfræðilegra afleiðinga þessa skóla sem virðist hugsaður út frá tæknilegum forsendum en ekki uppeldisfræðilegum. Læknar hafa stigið fram og haldið því fram að grímur takmarki eðlilegan andardrátt barna og feli í sér að þau andi að sér óeðlilegu magni koltvísýrings með vota grímu fyrir vitunum. Þegar eru komin fram dæmi um börn sem hafa fallið í yfirlið af súrefnisskorti vegna grímunnar. Sálfræðilega hefur fjarlægðarkrafan og grímukrafan það í för með sér að hún takmarkar eðlileg samskipti skólabarna og að þau líti á skólafélaga sína sem mögulega smitbera og óvini.  Þá fela þessar reglur í sér augljósa takmörkun  margra námsgreina, þar sem greinar eins og tónlist og dans og leikfimi verða til dæmis skyndilega hættulegar og snertinálgun torveldar alla verklega kennslu. Þess eru dæmi að kennarar hafa andmælt þessum nýju skólareglum, og kennaraskorturinn mun stafa af því að margir kennarar hika við að nálgast þetta nýja hættusvæði sem skólinn er orðinn. Þá eru dæmi þess að foreldrar neiti að láta börn sín í svona skóla.

Þessi aðstaða vekur óhug og ótta um fyrirsjáanlegar – og ófyrirsjáanlegar – afleiðingar skólastarfs þar sem einangrun einstaklingsins er sett í fyrirrúm og innræting tortryggni, ótta og hræðslu við náungann, þar sem möguleikum kennara til að sinna tilfinningalegri umönnun nemenda eru settar alvarlegar skorður og andlegri og líkamlegri heilsu þeirra er stefnt í voða. Það furðulegasta af öllu er þó sú staðreynd að í þeirri miklu umræðu sem mál þessi hafa vakið hefur nánast ekkert borið á umræðu um uppeldisfræðileg markmið þessa skóla eða mennigarlegan tilgang hans.

Þann 27. maí síðastliðinn flutti Ursula von der Leyen forseti Evrópusambandsins sögulega ræðu um nýja framtíðaráætlun fyrir Evrópu, sem hún kallaði upp á enska tungu „Next Generation EU“. Þar lofaði hún að hrista fram úr erminni 2,4 biljónir Evra til að endurreisa ESB og búa í haginn fyrir komandi kynslóð, þá kynslóð sem býr nú víðast við 20-30% atvinnuleysi og fyrir afkomendur hennar. Myndirnar sem fylgja þessum pistli segja hluta af sögunni um framkvæmd þessarar stórbrotnu áætlunar.

Reglugerð Menntamálaráðherrans:

  1. Gríma á að hylja nef og munn
  2. Nemendur frá 6 ára aldri noti grímur
  3. Fatlaðir eru undanskyldir grímunotkun
  4. Skólinn skaffar andlitsgrímur
  5. Grímur skal bera við alla hreyfingu innan skólasvæðis
  6. Grímur skal bera þegar komið er inn og farið úr skóla, farið á salerni eða í matsal
  7. Einungis er leyfilegt að taka niður grímu í stofu þegar 1 m fjarlægð er tryggð milli nemenda og 2 m. frá kennara.
  8. Þvo skal hendur áður en gríma er sett upp. Gæta þess að gríman falli þétt að og hylji munn og nef. Skipta skal um grímu verði hún rök. Ekki snerta grímuna heldur böndin þegar hún er tekin af, setja hana í þar til gerðan grímu-poka og þvo hendur.

Forsíðumyndin sýnir barnaskólanemendur á fyrsta skóladegi á Ítalíu

%d