HOFMANNAÁSTIR I. -Jacques Lacan um formgerð merkingar í skáldskap og myndlist

Jacques Lacan:

 

VII. Seminarið

(1959-1960)

Um siðfræði sálgreiningarinnar

Hofmannaástir I.

(L‘amour courtois)

 

  1. kafli

Spássíunótur um spádómsorð,

list, trúarbrögð, vísindi,

anamorfosis og byggingarlist

forgangsstaða Þaðsins

 

Þessa stundina er ég ekki  í því ástandi að það fullnægi kröfunni um framhald námskeiðs okkar með sama hætti og frá var horfið. En þar vorum við einmitt komin á þann stað þar sem mig langaði til að geta sett fram skýrar reglur. Þið verðið því að bíða með slíkt þangað til í næsta tíma.

Tveggja vikna forföll mín komu á óheppilegum tíma því ég hefði kosið að ganga lengra nú en ég hafði boðað síðast, auðvitað eftir að hafa afgreitt kjarna málsins.

1.

Hofmannaástir eru í raun og veru öfgafullt og fordæmisgefandi form göfgunar (sublimation). Við höfum vitnisburði þar um einungis úr listum, en við getum engu að síður rakið anga þeirra allt til okkar samtíma.

[Hugtakið hofmannaástir er trúlega nýyrði í íslensku, en sjálfur orðstofninn „hof“ er samstofna þýska orðinu Hof sem merkir konungleg hirð. Orðið „hofróða“ er þannig notað um konu sem tilheyrir konungshirðinni. Hofmaður er til í afleiddum myndum, t.d. „hofmannsdropar“ sem voru áfengir kvefdropar heldri manna notaðir gegn flensu. Staðarheitið „Hofstaðir“ er trúlega einnig samstofna þýsku „Hofstadt“ og merkir þannig höfðingjaból. Orðið hofmann kemur fyrir í ljóði HKL, Dans: „Ríður ríður hofmann í rauðan skóg…, og vísar til þeirrar hefðar riddaraástar sem hér er til umfjöllunar hjá Lacan. Aths. Þýð.]

Þrátt fyrir þann líflega áhuga sem finna má í fornaldarfræðunum um þetta málefni og þó frumheimildirnar sem okkur eru aðgengilegar um málið séu nánast dauður bókstafur, þá blasir við að hinn siðferðilegi þáttur málsins gerir ennþá vart við sig í samskiptum kynjanna.

Þessi langvinnu áhrif hofmannaástarinnar, fyrirbæris sem fljótt á litið virðist einungis fagurfræðilegt, eru þess eðlis að þau vekja okkur til skilnings um mikilvægi göfgunar – málefnis sem sálgreiningin hefur sett í forgrunn.

Ég hefði kosið að vera í toppformi til að geta sýnt ykkur hvernig þetta mál hefur verið skilið sögulega séð, og hvaða aðferðarfræði menn hafa beitt við nálgun þess, því ég held að þar séum við einmitt í stakk búin til að benda á vissa erfiðleika sem sagnfræðingarnir og bókmenntafræðingar miðalda-rómansins, fornmálafræðingarnir og sérfræðingar af ýmsum gerðum hafa rekist á. Svo virðist sem þeim sé orðið ljóst að þeim hafi engan vegin tekist að afmarka fyrirbæri hofmannaástarinnar sem tiltekið fordæmisgefandi form í sögulegu samhengi.

Við sjáum þetta gerast víða og nánast alltaf með sama hætti. Við rekumst á þversagnarfullt fyrirbæri sem er nánast tekið sem sjálfsagt eða fyrir fram gefið. Nánast alls staðar leiðast fræðimennirnir út í að kanna áhrifavaldana, – sem oftar en ekki verður einungis til þess að víkja vandanum til hliðar. Þeir telja að uppruna málsins megi rekja til yfirfærslu á einhverju sem gerðist annars staðar. Já, við þurfum að kanna hvernig þetta gerðist einhvers staðar annars staðar. En þar með villumst við af leið og tínum kjarna málsins.

Í þessu tilfelli er það fjarri sanni að leitin að áhrifavöldunum hafi brugðið ljósi á vandann. Við munum leitast við að nálgast rætur vandans og við munum komast að því að fræðikenning Freuds getur gagnast okkur til að varpa ljósi á hann. Ég mun því nálgast hofmannaástina ekki bara sem dæmigert fyrirbæri heldur einnig út frá gildi þess fyrir aðferðarfræðina.

Þetta tiltekna sjónarhorn felur ekki í sér að allt sem varðar göfgun (sublimation) verði túlkað út frá því sjónarhorni sem hér verður til, nánar tiltekið út frá kynferðissambandi karls og konu sem pars. Ég er ekki að halda því fram að hægt sé að skilgreina göfgunina með þeim hætti eða skýra hana á þeim forsendum. Þvert á móti held ég því fram að það sé grundvallaratriði að byrja rannsóknina út frá þessum forsendum til þess að ná fram til hinnar almennu reglu göfgunarinnar, en upphaf hennar getum við sótt til Freuds – ef við vitum hvar á að leita – en þar á ég ekki við að leita að einhverjum tilteknum smáatriðum.

Ef mál mitt fer stundum út í það að leggja áherslu á tiltekin orð Freuds, tiltekna einangraða reglu eða einhverjar spámannlegar tilgátur, þá er það vegna þeirrar sannfæringar að þau spámannlegu orð muni nýtast mér.

Þegar ég legg fyrir ykkur meginregluna „Langanir mannsins felast í löngunum Hins“, þá eru það spámannleg orð, jafnvel þó Freud hafi ekki sett þau fram sem slík. En hann gerir það engu að síður  endurtekið án þess að það sé í fullkomlega meðvituðum tilgangi. Þannig vitnaði ég einu sinni í stutta reglu þar sem hann tengdi saman þau virknilögmál sem liggja annars vegar til grundvallar móðursýki/taugaveiklunar (hystérie), sjúklegrar þráhyggju (nevrose obsessionelle) og ofsóknaræðis (paranoia)  – og hins vegar til grundvallar listum, trúarbrögðum og vísindum.

Annars staðar tengir hann [Freud] ofsóknaræði og vísindalega orðræðuhefð. Þessi lykilatriði munu á endanum hjálpa okkur til að setja fram grundvallarregluna um göfgun og tengsl hennar við Þingið[ii].

[Þingið = Das Ding  er hugtak sem Freud notar til aðgreiningar frá Die Sache=hluturinn eða hinn áþreifanlegi kjarni máls. Das Ding er í þessum freudiska skilningi óáþreifanlegur hlutur, og samstofna íslenska orðinu þing, sem er til í hliðstæðri merkingu sem t.d. „þarfaþing“ eða „þarflaust þing“ Aths. þýðandi].

Þetta „Þing“ getum við nálgast í grundvallaratriðum sem eru nánast eins augljós og sú klassíska heimspekilega rökræða sem við sjáum í svörtu veggtöflunni og hvíta krítarmolanum. Ég vísaði í síðasta tíma í hið formlega fordæmi vasans til þess að skýra fyrir ykkur staðsetningu Þingsins í því samhengi sem setur manninn í miðilssamband á milli raunverunnar (the real) og nefnarans (signifiant).

[Tilvísunin í vasann er dæmi sem Lacan tekur um form sem er mótað utan um tómarými, en vasinn markar um leið upphaf formmótunar í siðmenningunni. .Aths. þýð.]

Þetta Þing mun alltaf verða sýnt í formi tómsins, en öll form þess sem sköpuð eru af mannavöldum tilheyra sviði göfgunarinnar. Þingið verður ávallt sýnt með tóminu af þeirri einföldu ástæðu að það er ekki sýnanlegt öðruvísi – eða með öðrum orðum, það er einungis hægt að sýna það sem eitthvað annað. En tómið er grundvallar forsenda sérhverrar göfgunar.

Ég mun beinlínis sýna fram á hvernig listir, trúarbrögð og hin vísindalega orðræða tengjast þessum frumforsendum  með þrennum hætti. Ég mun gera grein fyrir þessu með því að kynna þrjár reglur sem ég mun setja fram í lokin, þegar þessu ferðalagi okkar lýkur.

Öll form listar einkennast af sérstakri aðferð skipulagningar í kringum þetta tóm. Ég tel ekki að þetta sé tilgangslaus formúla fyrir þá sem vilja hugleiða vandamál listarinnar, þó hún sé almenns eðlis. Ég tel að ég hafi tæki til að sýna ykkur fram á þetta með sláandi hætti.

Öll form trúarbragða felast í því að forðast þetta tóm. Við getum sýnt fram á það með því að notfæra okkur sálgreiningu Freuds, þar sem hann leggur megináherslu á þráhyggju sem helsta einkenni trúarlegrar hegðunar. En jafnvel þó hinir trúarlegu hættir helgisiðanna falli allir undir þennan ramma getum við varla gert okkur þessa skýringu að góðu. Orðasamband eins og „að virða þetta tóm“ nær því kannski betur. Engu að síður hefur tómið miðlæga stöðu, og það er einmitt átæða þess að göfgunin blandast í málið.

Hvað varðar þriðja atriðið, sem er hin vísindalega orðræða, þá á hún að vissu marki uppruna sinn í vísdómsorðræðunni eða heimspekinni, og þar skiptir okkur máli hugtakið Unglauben [=vantrú] sem Freud notar í tengslum við ofsóknaræðið og tengsl þess við efnisveruleikann.

Ég kom örlítið inn á þetta á nýliðnu Seminari: Unglauben er ekki afneitun þeirrar fyrirbærafræði sem við kennum við Glauben eða tiltrú. Freud tók málið aldrei aftur upp með heildstæðum og afgerandi hætti þó það skíni engu að síður í gegnum verk hans, og hann leggur ofuráherslu á þessa virkni í sambandi við hugtakið Entwurf [=uppkast, skissa]. Fyrirbærafræði átrúnaðarins var alla tíð ástríðuárátta hjá Freud. Þannig er bókin Moses und Monotheismus eingöngu rituð til að skýra fyrirbæri átrúnaðarins.

Það sem skiptir meira máli fyrir okkur og hefur dýpri merkingu er fyrirbærafræði vantrúarinnar. Þar er ekki um bælingu átrúnaðar að ræða, heldur afstöðu mannsins til umheimsins og þess sannleika sem tilheyrir manninum einum, afstaða sem hann dvelur í.

Í þessu samhengi væri rangt að reiða sig á fljóthugsaðar andstæður, eða að halda því fram að sagan hafi gengið í gegnum afgerandi umbreytingarskeið eins og til dæmis umskiptin frá tíma klerkastjórnar (theocratic age) til svokallaðra húmaniskra samfélagsforma er fælu í sér frelsun einstaklingsins og raunveruleikans. Hér er skilningurinn á heiminum ekki það sem skiptir máli. Hér erum við ekki að fjalla um neitt sem hefur með einhvers konar Weltanschauung [heimsmynd, lífsskoðun] að gera – og allra síst mína eigin. Hér er ég einungis að benda á leiðina, hér er ég einungis að reyna að hjálpa ykkur að ná áttum í bókasafni marktækra verka sem um málið hafa fjallað, í verkum eftir sérfræðinga sem hafa sýnt greiningarhæfileika á ólíkum sviðum. Ég ráðlegg ykkur að líta í verk sagnfræðingsins Lucien Febvre, sem er höfundur bókarinnar Problème de l’incroyance au XVI siécle (Vandamál vantrúar á 17. öld). Þetta er rit sem gerir ykkur kleift að skilja hvernig ígrunduð notkun sagnfræðilegra aðferða hjálpar okkur við að forma með nákvæmari hætti spurningarnar um þróunarform hugsunarinnar hvað varðar vandamál trúarinnar.

Ef þið hafið nægan tíma og ykkur langar til að lesa eitthvað skemmtilegt ættuð þið að lesa lítið kver eftir sama höfund sem er viðauki við bókina en engin aukageta í eftirmála. Bæklingurinn heitir  Autour de l’Heptaméron (Umfjöllun í kringum Heptameron). Höfundur Heptameron er Marguerite de Navarre, sem ég vona að þið ruglið ekki saman við Queen Margot, eiginkonu Hinriks VI. Hún er ekki bara fríhyggjuhöfundur, heldur reynist hún vera höfundur af dulspekilegum toga. En það er nokkuð sem kveikir hrifningu eða forvitni hjá sagnfræðingnum.

Forsíða Penguin-útgáfunnar af Heptameron

Hann reynir að sýna okkur hvaða merkingu mætti finna í þessu sögusafni sem gengur undir nafninu Heptameron ef það er skoðað í ljósi samtíma síns og út frá lundarfari höfundarins. Hann gerir þetta með þeim hætti að leyfa okkur að lesa textann ekki endilega með upplýstara auga, heldur með auga þess sem lætur hjá líða að ritskoða textann eða einstakar vangaveltur persónanna, sem eiga að vera trúverðugar og eru það vissulega að miklu leyti. Um er að ræða hugsanir viðmælenda sem eiga að endurspegla siðferðisviðmið og jafnvel formlegar trúarlegar reglur viðkomandi, sem venjan er að ritskoða þegar gengið er út frá Því í upphafi að slík atriði séu ekki annað en sósukryddið í aðalréttinum. En það er einmitt mikilvægt að misskilja ekki sósuna sem er meginatriðið í sérhverjum málsverði. Lucien Febvre kennir okkur hvernig við eigum að lesa Heptameron. Ef við kynnum hins vegar að lesa, þá hefðum við ekki þörf fyrir leiðbeiningar hans.

Hvað varðar vantrúna, þá er hún frá okkar sjónarhóli sá staður í orðræðunni sem okkur ber að meðtaka einmitt með tilliti til Þingsins (das Ding) – en Þingið er falið eða útilokað samkvæmt hinni réttu merkingu Verwerfung. [orð sem Lacan hefur eftir Freud og við gætum þýtt á íslensku sem „sniðganga“].

Það er með sama hætti sem við finnum Verdrängung [bælingu] í listum, en það er yfirbreiðsla Þingsins. Þá höfum við trúlega Verscheibung [hliðrun] eða tilfærslu í trúarbrögðunum, en í hreinskilni sagt er þar um Verwerfung [undanskot] að ræða, sem fólgin eru í orðræðu vísindanna.

Orðræða vísindanna hafnar tilveru Þingsins þar sem frá hennar sjónarhorni er hápunktur algildrar þekkingar leiftursýn, það er að segja eitthvað sem heldur Þinginu til hliðar á meðan hún beinir allri athygli frá því. Sem kunnugt er þá hefur það verið sögulega sannað að þessi afstaða er röng.

[Trúlega vísar Lacan hér til rökfræðilegrar gagnrýni fyrirbærafræðinnar á vísindahyggju, til dæmis í verkum Maurice Merleau-Ponty. Sjá t.d. upphafsorðin í „Augað og andinn“ hér á vefsíðunni. Aths. Þýð.]

Orðræða vísindanna er mótuð af þessari Verwerfung [sniðgöngu], og í ljósi þeirrar reglu minnar að það sem er útilokað í hinu táknræna komi í ljós í raunverunni, skýrast þær aðstæður sem endanlega koma upp sem niðurstaða eðlisfræðinnar og verða alltaf jafn mikil ráðgáta og leiftursýn sjálfs Þingsins.

Ég fresta til næsta tíma frekari umræðum um fordæmisreglu hofmannaástarinnar [l’amour courtois], sem dæmi um göfgun í listum og við rekumst á enn þann dag í dag. Við munum taka þetta efni fyrir eftir að ég kem til baka úr ferðalagi mínu, við munum rekja dæmi þessa fyrirbæris og þau óumdeilanlegu ummerki þeirra merkingarfræðilegu kastalabygginga sem eru megineinkenni hofmannaástarinnar.  Við munum einnig leitast við að sjá í fyrirbærum úr samtímanum nokkuð sem ekki verður skýrt nema út frá slíkum uppruna.

Þar sem við erum einungis á vettvangi spássiunótanna í dag, þá vildi ég benda á að það væri rangt af ykkur að hugsa sem svo að hugtakið Þing, sem ég hef sett í nýtt samhengi á þessu ári, hafi ekki verið til staðar í umfjöllun okkar á umliðnum árum.

Þar sem þeir eru til sem hafa efasemdir um stíl minn í fræðilegri framsetningu, þá vil ég minna ykkur á hugtakið „Freudiska þingið“ [La Chose Freudienne], sem var titillinn á einhverjum texta sem ég skrifaði, og það væri ekki svo vitlaust að ráðleggja ykkur að rifja hann upp. Sá texti og titill hans vöktu nokkra undrun, því ef menn fara að greina áform mín frá heimspekilegum sjónarhóli, þá enda þeir með að tengja hann fyrirbæri sem eitt sinn naut vinsælda, en það var andófið gegn hlutgervingunni. Auðvitað sagði ég aldrei neitt um hlutgervinguna. En það er alltaf hægt að finna ásetning út úr sérhverri orðræðu. Það ætti að vera ljóst, að þar sem ég valdi slíkan titil á texta minn, þá gerði ég það af ásettu ráði. Ef þið lesið textann aftur sjáið þið að ég er fyrst og fremst að fjalla um Þingið [la Chose]. Og ég fjalla um það með þeim hætti sem augljóslega kom illa við menn á þeim tíma. Staðreyndin er sú að ég læt Þingið stundum tala sjálft.

2.

Nú myndi ég vilja að fundur okkar í dag kæmi þeim að notum sem hafa lagt á sig ferðalag til að komast hingað.

Með tilliti til þess hvert við erum komin í þessu Seminari er ekki ólíklegt að einhver ykkar hafi spurningar fram að færa eða búi yfir svörum er gætu brugðið ljósi á skilning þeirra á tilteknum atriðum í röksemdafærslu minni.

Ég veit að það er aldrei auðvelt að rjúfa þögnina innan hópsins, að hringja litlu bjöllunni ef svo mætti segja. Ég ætla þess vegna að gefa ykkur tækifæri til að leggja fyrir mig skrifaðar spurningar. Eini gallinn á slíku fyrirkomulagi væri sá að ég gæti lesið úr spurningunn það sem mér hentaði.

Á sama tíma ætlum við að gera nokkuð óvænt sem ég held að væri góð hugmynd. Sum ykkar tóku þátt í vísindaráðstefnu Félagsins okkar í gær. Ég veit ekki hvernig því lauk, því ég varð að yfirgefa svæðið eftir að hafa gefið andsvör við nokkrum fyrirlestrum frá fólki sem ég met afar mikils, eftir að ég hafði látið í ljós mikinn áhuga minn á starfi þeirra. Þeir eru mættir hér í dag og ég vildi spyrja Smirnov spurningar varðandi „No and Yes“ í máli Spitz….

[hér koma orðaskipti Lacans og viðstadda um efni ráðstefnu sem snerta ekki leiðarþráð þessa fyrirlesturs beint og er því sleppt, þar til kemur að spurningu Audouards:.]

Audouard:

„Hvers vegna talar þú við okkur um „Þingið“ í stað þess að tala einfaldlega um miðlun [mediation]?

Til þess að gefa beint svar þá vildi ég segja að ég hef tekið eftir áhuga þínum á því sem við gætum kallað hegelska framsetningu á analítískri (rökgreinandi)  reynslu. Við erum hér að fjalla um freudíska reynslu sem siðfræði, hvort sem okkur líkar það betur eða ver – þar sem hún leiðir okkur alltaf að lækningarmeðferð sem óhjákvæmilega fellur innan ramma siðfræðinnar. Því meir sem við reynum að andmæla þessu, því augljósara verður það. Reynslan kennir okkur þetta: það form sálgreiningar sem státar af sínum háleitu vísindalegu eiginleikum leiðir okkur til þess skilnings sem lesa má úr fordæmingu Matthíasar guðspjallamanns gagnvart þeim sem  þyngja byrðarnar með því að leggja þær á aðra. Með því að þrengja og festa í sessi flokka tilfinningalegra regluverka endum við í skelfilegum niðurstöðum.

Það er augljóst að við leggjum áherslu á óhjákvæmilegt mikilvægi innsæisins, á það sem virðist vera mörk miðlunarinnar (mediation) sem verður hlutgervingunni óviðráðanleg. En með því að rannsaka mörk einhvers í gegnum að nálgast það utan frá erum við að umkringja hina tómu mynd.

Þau meðvituðu áform að leggja áherslu á þessa nálgun hafa aldrei fallið utan þess sem ég hef sagt hingað til. Ef þú flettir upp í þeim textum sem ég vitnaði til um þetta efni sérðu að hér er engin tvíræðni. Sú Hegelska róttækni sem ég var kenndur við í fljótfærnislegum athugasemdum einhvers í Les Temps Modernes á alls ekki við mig. Öll sú díalektík [=gagnvirkni] löngunar sem ég setti fram hér og sem ég var að byrja að móta þegar þessi fljótfærnislega samlíking var sett fram, öll þessi díalektík er í grundvallaratriðum frábrugðin Hegelisma. Það verður enn ljósara nú í ár. Hinn óhjákvæmilegi karakter virðist einkum og sér í lagi mótaður af göfguninni.

Herra X:

Sú göfgunarregla sem þú hefur lagt fyrir okkur felst í því að veita hlutnum virðingarstig Þingsins.  Í byrjun virðist þetta „Þing“ ekki vera til, því göfgunin á að leiða okkur að því. Spurning mín verður því hvort þetta Þing sé alls ekki raunverulegt Þing, heldur þvert á móti Ekki-Þing, og að göfgunin fái okkur til þess að sjá það sem Þingið (…)?

Það sem þú ert að segja slær mig þannig að mér virðist þú vera á réttri leið. Það er augljóst að þú hefur fylgst vel og áreynslulaust  með framsetningu minni á þessum vandamálum. Við mætum einhverju sem sálgreinar ef við fylgjum heildarsummu reynslu okkar og ef við erum dómbærir á hana. Þú segir að atlagan að göfguninni beinist að því að raungera Þingið eða bjarga því. Það er rétt og ekki rétt. Það er blekking fólgin í þessu.

3.

Hvorki vísindin né trúarbrögðin eru þess eðlis að þau bjargi Þinginu eða færi okkur það í fangið, því sá töfrahringur sem aðskilur okkur frá því markast af sambandi okkar við nefnarann (the signifiant)[iii].

[Lacan vitnar hér í strúktúralisma eða formgerðarstefnu í málvísindum eins og hún var sett fram af svissneska málfræðingnum Ferdinand Saussure í upphafi 20. aldar: Merkingargjöfin felur í sér að stofnað er til sambands á milli nefnarans (orðsins, hugtaksins, fr.: signifiant) og hins nefnda (fr.: signifié, e,:the signified), en slík tengsl byggja á tilviljun eða almennu samþykki, en ekki áþreifanlegri efnislegri líkingu eða samsvörun.(Aths. Þýð.]

Eins og ég hef sagt ykkur þá er Þingið það í raunverunni sem þjáist af þessu grundvallandi og frumlæga sambandi sem dæmir manninn inn á leiðir nefnarans í gegnum þá röklegu staðreynd að hann er undirseldur því sem Freud kallar nautnalögmálið, sem ég vona að þið skiljið að er ekkert annað en yfirdrottnun nefnarans  – hér á ég auðvitað við nautnalögmálið eins og það virkar hjá Freud.

Í stuttu máli þá snýst þetta um áhrifavald nefnarans á þá sálrænu raunveru[iv] sem um er að ræða, og þess vegna er virkni göfgunarinnar ekki einfaldlega merkingarlaus í öllum skilningi – menn svara með því sem er tiltækt.

[Hugtakið „raunvera“ er eitt af lykilhugtökunum í sálgreiningu Lacans, og hefur ekkert með raunveruleika að gera í hefðbundnum skilningi sem hinn ytri heimur. Lacan skiptir mannssálinni í þrenn svið, sem eru svið ímyndunar, tákngervingar og raunveru. Raunveran er það „tómarúm“ innan mannsins sem ímyndanir okkar ná ekki utan um og tákngervingarnar (tungumálið /nefnararnir) ekki heldur. Raunveran er uppspretta langananna og það er viðfangsefni ímyndana og tákngervinga að „ná utan um“ raunveruna, gefa okkur mynd af henni. Það er í raun einnig verkefni sálgreiningarinnar og listarinnar. Aths. Þýðanda.]

Í dag ætlaði ég að hafa meðferðis hlut sem ég ætlaði að sýna ykkur í lok námskeiðsins. Það er hlutur sem kallar á langa athugasemd um listasöguna ef hann á að verða skiljanlegur. Sú staðreynd að mönnum tókst að smíða slíkan grip og finna í honum ánægjuefni kallar á umtalsverðan útúrdúr.

Ég ætla að lýsa fyrir ykkur hlutnum. Þetta er hlutur sem felur í sér anamorfosis eða afmyndun. Ég geri ráð fyrir að mörg ykkar viti hvað í því felst. Það er hvers kyns hlutur sem lætur það gerast með ljósfræðilegri yfirfærslu að hlutur sem ekki var sýnilegur í fyrsta áhorfi gerir sig sýnilegan sem læsileg mynd. Ánægjan felst í að sjá myndina verða til út úr ógreinanlegri formleysu.

Anamorphosis, formleysa myndarinnar á borðdúknum verður heilsteypt málverk í spegilmynd sívalningsins. 16. öld.

Slíkir hlutir eru mjög algengir í sögu listarinnar. Farið bara á Louvre-safnið og skoðið málverk Holbeins Sendiherrarnir. Þið munið sjá að undir fæti annars sendiherrans sem er eins vel skapaður og þið eða ég, undir fæti hans er dularfullt form sem teygist niður til vinstri á gólfinu.  Það líkist einna helst spældu eggi. Ef þið takið ykkur hins vegar stöðu til hliðar þar sem sjálf myndin hverfur inn í eigið yfirborð vegna stefnu fjarvíddarlínanna, þá sjáið þið hauskúpuna birtast, sígilt þema svokallaðra vanitas mynda (um forgengileikann). Þetta finnum við í raunverulegu málverki sem greinilega hefur verið pantað af sendiherrunum á Englandi, sem hljóta að hafa verið ánægðir með verkið. Og það sem var fyrir neðan þá á myndinni hlýtur líka að hafa skemmt þeim.

Hans Holbein: Sendiherrarnir, olíumálverk, 1533. National Gallery London

Við getum tímasett þetta fyrirbæri. Það var á sextándu og sautjándu öldinni sem hlutir á borð við þessa náðu hámarki vinsælda og hrifningar. Í kapellu einni sem reist var af Jesúítum á tímum Descartes mátti finna langan vegg sem nálgaðist 18 metra og sýndi atriði úr lífi dýrlinganna eða fæðingarsenu frelsarans, en myndin var hins vegar algjörlega óskiljanleg innan veggja salarins. Ef farið var inn í aðliggjandi gang mátti hins vegar á tilteknu augabragði sjá hvernig hinar tvístruðu línur málverksins féllu saman og mynduðu sviðsmyndina í heild sinni.

Anamorfosis-gripurinn sem ég ætlaði að hafa með mér hér í dag er mun smærri í sniðum. Hann er í eigu safnara sem ég hef þegar minnst á. Gripurinn samanstendur af spegilfáguðum sívalning, en undir hann er lagður dúkur með ósamstæðum og óskiljanlegum línum. Ef menn taka sér hins vegar stöðu út frá tilteknu sjónarhorni má sjá hvernig myndin verður til á sívalningnum, í þessu tilfelli bráðfalleg anamorfosis-mynd af krossfestingunni, sem er kópía af málverki eftir Rubens.

Á bak við verk af þessu tagi liggur óhjákvæmilega löng þróunarsaga. Á bak við hlutinn liggur löng saga byggingarlistar og málaralistar, hvernig þessar listgreinar tengjast saman og með hvaða hætti það gerðist.

Í stuttu máli má segja að skilgreina megi frumstæða byggingarlist eins og eitthvað sem hefur verið skipulagt í kringum tómarúm. Þau sönnu áhrif sem við verðum fyrir af dómkirkjum á borð við Markúsarkirkjuna eru af sama toga og segja okkur hina sönnu merkingu allrar byggingarlistar. Í kjölfarið gerist það af efnahagslegum ástæðum að menn gera sig ánægða með myndir af þessum sömu byggingum, menn læra að mála byggingarlist á veggi bygginganna. Einnig málaralistin er fyrst og fremst eitthvað sem er skipulagt í kringum tóm. Þar sem málið snýst um að finna aftur hið heilaga tómarými byggingarlistarinnar í einfaldari mynd málverksins þá verður markmiðið að gera æ nákvæmari eftirlíkingu byggingarinnar og þar með er fjarvíddarteikningin uppgötvuð.

Það sem við tók var þversagnarkennt og skemmtilegt í senn: það sýnir hvernig maður kyrkir sjálfan sig með eigin hengingarhnút.

Allt frá þeim tíma þegar menn uppgötvuðu fjarvídd í málverkinu verður til byggingarlist sem tileinkar sér fjarvíddarreglur málverksins. Þetta verður til dæmis augljóst í byggingarlist Palladios. Farið og skoðið leikhúsið hans í Vicenza, sérstakt lítið snilldarverk sem læra má af. Nýklassíska listin [Lacan virðist hér eiga við endurreisnartímann sem „nýklassík“] gengst undir lögmál fjarvíddarinnar, leikur sér með þau og gerir þau að sínum. Sem felur aftur í sér að hún fellir þau inn í eitthvað sem gert var í málverkinu í því skyni að enduruppgötva tómarýmið í frumstæðri byggingarlist.


Palladio: Olympíska leikhúsið í Vicenza, 1580. Leikhúsið er innandyra eftirlíking af útileikhúsi með tilbúinni fjarvíddarblekkingu í sviðsmynd.

Þaðan í frá eru menn fastir í snöru sem felst að því er virðist í eilífum flótta frá þessu tómi.

Ég held að afturhvarf barokklistarinnar til leiksins með formin og til allra hugsanlegra meðala þar sem anamorfosis er ekki undanskilið, öll þessi viðleitni beindist að marki að endurreisa hina sönnu merkingu listrænnar rannsóknar. Listamenn nýta sér uppgötvanir á eiginleikum línunnar til þess að láta eitthvað í ljós sem við finnum nákvæmlega þar sem menn hafa misst áttir, eða nánar tiltekið, hvergi.

Málverkið eftir Rubens sem birtist skyndilega í stað hins óskiljanlega myndverks afhjúpar það sem hér er á seyði. Málið snýst um að í hinu analogíska (hliðstæða) eða anamorfíska (afmyndaða) formi er enn einu sinni vísað í þá staðreynd að það sem við sækjumst eftir í blekkingunni eða sjónhverfingunni verður þar sem sjálf blekkingin yfirstígur sjálfa sig með því sýna sig einungis sem nefnara (signifier).

Einmitt þetta setur tungumálið í algjöran forgrunn þar sem innan þess þurfum við í öllum tilfellum ekki að takast á við annað en nefnarann sjálfan. Þetta er ástæða þess að þegar ég vil nú vekja athygli á vandamáli sambandsins á milli listar og göfgunar, þá kýs ég að byrja á hofmannaástinni (l’amour courtois). Í þeim heimi finnum við texta sem sýna með einstökum hætti sína hefðbundnu hlið í þeim skilningi að tungumálið leitar alltaf í tilbúning þegar það vill vísa til alls þess sem viðkemur innsæi, efniskennd eða lifaðri reynslu.

Þetta fyrirbæri verður þeim mun eftirtektarverðara þegar til þess er tekið að þetta á sér stað á tímaskeiði óhefts kynlífs. Ég á við að þarna var talað tæpitungulaust.

Það athyglisverða er að þarna þrífast tvenns konar stílar eða talsmátar samtímis.

Þið stunguð upp á hugmyndinni um Þingið og Ekki-Þingið. Ef þið viljið hafa það þannig þá er það líka satt að Þingið er líka Ekki-Þing. Í raunveruleikanum er það vissulega þannig að Ekkið sem slíkt er ekki til með merkingarbærum hætti. Nákvæmlega það sama á við þegar við fjöllum um hinn freudíska skilning á Todestrieb (dauðahvötinni), þar sem Freud segir okkur að ekki sé nein neitun til staðar í dulvitundinni.

Við viljum ekki gera þetta að heimspekilegu vandamáli. Ég vildi minna ykkur á athugasemdina sem ég breytti um daginn til þess að girða fyrir þann misskilning að ég afsali mér ábyrgðartilfinningu. Þegar ég tala um Þingið er ég vissulega að tala um tiltekið efni. En ég er auðvitað að tala með virkum hætti, með vísun til þess staðar sem það fyllir á sérstöku rökfræðilegu stigi hugsunar okkar og hugtakasmíða, með vísun í virknina sem snertir okkur.

Í gærkvöldi vísaði ég í og gagnrýndi tilkomu staðgengils fyrir hugtakið „ego“ í klassískri heildarmynd Freuds af mannssálinni. Nokkuð sem verður átakanlegt að sjá hjá manni sem er jafn djúpt sokkinn í sálgreininguna og Spiz.

Það er vissulega erfitt að sjá í þessu hugtaki þá grundvallarvirkni sem upphaf sálgreiningarinnar byggði á, hugtak sem fól í sér sjokkáhrif hennar, bergmál og eftirskjálfta. Við megum hins vegar ekki gleyma að Freud tengdi það strax við uppgötvun annars hugtaks sem var Das ES (Þaðið). Það forgangsatriði sem fólst í Þaðinu er nú gleymt og grafið.

Að sumu leyti er Þaðið (das Es) ekki sett nægilega í forgang eins og það er kynnt til sögunnar í textum um seinna efnið. Þetta árið ætla ég að styðjast við sérstakt kaflasvið undir nafninu „Þingið“ í því skyni að leggja áherslu á frumlæga grundvallarþýðingu þessa innsæis í reynslu okkar á siðfræðilegu sviði.

[Hér er sleppt stuttri spurningu frá Laplanche um samband nautnalögmálsins og nefnarans og munnlegu svari Lacans við þeirri spurningu.]

___________________________________________

 

 

 

[i] Orðið „hofmann“ eða „hofmaður“ er íslenska orðið yfir konunglegan hirðmann sem kann til reiðlistar. „Hof“ er í þessu samhengi sama og „Hof“ á þýsku, það er að segja konungshirð. Dæmi um þessa notkun orðsins í íslensku er ljóðið Dans eftir HKL: „Ríður ríður hofmann / í rauðan skóg /þar sem laufin vaxa á viðum… Kvæðakver, bls. 89. (Aths. Þýð).

[ii] Sú merking sem Lacan leggur í hugtakið das Ding, sem hann fær að láni hjá Freud, verður ekki skilin með hefðbundinni þýðingu sem „hluturinn“ á íslensku. Þar sem hugtakið er mikilvægt fagorð í hugsun og texta Lacans er hér gripið til íslenska hugtaksins „þing“ sem er af sama uppruna og sprottið af sömu upprunalegu merkingunni og das Ding á þýsku: eins konar „hlutur“ sem er óáþreifanlegur í sinni efnislegu mynd, öfugt við Die Sache, sem hinn efnislegi kjarni málsins.  Hugtakið das Ding (Þingið)  tengist öðru lykilhugtaki sálgreiningarinnar sem er „þaðið“, persónufornafnið „það“ umbreytt í mynd nafnorðsins.(Aths. Þýð.)

[iii] Lacan vitnar hér í strúktúralismann eða formgerðarstefnu í málvísindum eins og hún var sett fram af svissneska málfræðingnum Ferdinand Saussure í upphafi 20. aldar: Merkingargjöfin felur í sér að stofnað er til sambands á milli nefnarans (orðsins, fr.: signifiant) og hins nefnda (fr.: signifié), en slík tengsl byggja á tilviljun eða almennu samþykki, en ekki áþreifanlegri líkingu.(Aths. Þýð.)

[iv] Hugtakið „raunvera“ er eitt af lykilhugtökunum í sálgreining Lacans, og hefur ekkert með raunveruleika að gera í hefðbundnum skilningi sem hinn ytri heimur. Lacan skiptir mannssálinni í þrenn svið, sem eru svið ímyndunar, tákngervingar og raunveru. Raunveran er það „tómarúm“ innan mannsins sem ímyndanir okkar ná ekki utan um og tákngervingarnar (tungumálið /nefnararnir) ekki heldur. Raunveran er uppspretta langananna og það er viðfangsefni ímyndana og tákngervinga að „ná utan um“ raunveruna, gefa okkur mynd af henni. Það er í raun verkefni sálgreiningarinnar. Aths. Þýðanda.

Forsíðumyndin er úr Roman de la Rose handriti frá 14. öld

Jung um merkið, táknið og frumgerðina

Við kennslu mína og skrif um myndlist varð ég snemma var við hugtakarugling er varðaði meðal annars muninn á hugtökunum tákn og merki, einkum þegar einn hlutur er sagður „tákna“ annan. Snemma áttaði ég mig á því að Carl Gustav Jung hafði skilið þennan hugtakarugling betur en margir aðrir, en skilningur hans felst meðal annars í því að tákn hefur með virkni að gera og hefur aldrei merkingu sem við getum skilgreint endanlega með orðum. Það getum við hins vegar gert þegar við sjáum merkin, til dæmis vegvísinn. Merkið hefur því skilgreint viðfang en táknið ekki.

Þegar ég hef lagt fyrir mig kennslu í listasögu hef ég nánast undantekningalaust rekið mig á þennan vegg, og því var það að ég þýddi þessa tvo bókarkafla úr bókinni Psychologische Typen. Jung hafði kennt mér að skilgreina þennan mun, og texti hans gagnaðist mér í kennslunni.

Það eru a.m.k. 15 ár síðan ég þýddi þessa bókarkafla og síðan hefur skilningur minn á þessu máli tekið breytingum. Ekki síst eftir að ég kynntist formgerðarstefnunni og síðan sálgreiningu Jacques Lacan. Lacan setti fram kenningu sem var gjörólík skilningi Jungs, og byggði ekki síst á þeim skilningi að dulvitundin lyti lögmáli tungumálsins og hefði með virkni þess mikla „Hins“ (le grand autre) að gera, þess sem býr einmitt í tungumálinu og talar með því í gegnum okkur. Það væri efni í langa fræðigrein að fjalla um ólíkan skilning Jungs og Lacans á tákninu, en í stuttu máli og með mikilli einföldun má segja að þessi munur byggi á ólíkri hugtakasmíði. Í stað þess að ganga út frá upphaflegri skilgreiningu Freuds og Jungs á byggingu manssálarinnar sem dulvitund sjálf og yfirsjálf, þá notaðist Lacan fyrst og fremst við hugtökin hið ímyndaða, táknræna og raunveruna, þar sem raunveran kemur að vissu leyti í staðinn fyrir dulvitundina: samkvæmt Lacan er hið táknræna í byggingu vitundarinnar heimur tungumálsins: orðin og hugtökin eru öll orð og tákn sem vísa í önnur orð og tákn. Og ímyndir eru myndir sem við getum séð eða skilgreint, á meðan raunveran er skilgreint sem það svið sem hvorki tungumálið né ímyndin ná að skilgreina. Raunveran (le réel) kemur að vissu leyti í staðinn fyrir hið freudíska „það“ ef ég hef skilið málið rétt. Orðin og ímyndirnar fljóta ofan á raunverunni (le réel), eru tengd henni en ná ekki að skilgreina hana. Raunveran er þannig hugtak sem er ólíkt raunveruleikanum, hugtaki sem hið táknræna skilgreinir.

Lacan taldi Jung vera haldinn dulhyggju og gagnrýndi hann á þeim forsendum. Lacan hefur margt til síns máls, en það breytir því ekki að Jung kenndi mér margt um heima táknanna og hugsanir hans og skilgreiningar á virkni táknanna eru að mínu mati að stórum hluta gildar enn í dag, þó auðvitað megi sjá í þeim bæði oftúlkun og oftrú. Ég birti hér þessar gömlu þýðingar nemendum mínum til uppfræðslu og vona að þær geti enn komið einhverjum að gagni eins og þær gögnuðust mér þegar ég kynntist þeim fyrst á sínum tíma.

Carl Gustav Jung:

Táknið og frelsandi máttur þess

 

1.) Skilgreining á hugtakinu „tákn“ úr ritinu Psychologische Typen, 1921[1]

2.) Skilgreining á hugtakinu „frumlæg mynd“ úr ritinu Psychologische Typen frá 1921

 

  1. Symbol – Tákn

 Ég geri skýran greinarmun á hugtakinu Symbol/tákn og hugtakinu Zeichen/merki. Merking sem er táknræn er gjörólík þeirri merkingu sem merkingarfræðin fjallar um. Í riti sínu Les lois psychologiques du symbolisme (1895) fjallar Ferrero strangt tekið um merki, en ekki tákn. Þegar við lítum til dæmis til þess forna siðar sem tíðkaðist við sölu á landi að afhenda torfu af sama landi, þá er það alþýðleg hefð að líta á torfuna sem „tákn“ fyrir landareignina, en samkvæmt merkingarfræðinni [Semiotik] er hér strangt til tekið aðeins um merki að ræða. Torfan er merki [Zeichen] sem stendur fyrir og vísar til alls landskikans. Vængjaða hjólið í derhúfu járnbrautarstarfsmannsins er alls ekki tákn járnbrautanna, heldur merki sem gefur til kynna að hann sé í hópi starfsmanna járbrautanna. Táknið miðast hins vegar alltaf  við að það tjáningarform [Ausdruck] sem notað er, feli í sér besta fánlega tjáningu [Bezeichnung oder Formel] tiltekinnar staðreyndar eða ástands [Tatbestands] sem er tiltölulega óþekkt, þó tilvist þess sé viðurkennd eða jafnvel eftirsótt. Þegar því er lýst yfir að vængjaða hjólið í húfu járnbrautarstarfsmannsins sé tákn, þá felur það í sér að umræddur starfsmaður tengist einhverju óþekktu fyrirbæri, sem ekki væri hægt að tákna betur eða öðruvísi en einmitt með vængjuðu hjóli.

  1. merki hestsins
  2. Albrecht Durer: Riddarinn, dauðinn og djöfullinn. Hesturinn sem tákn, 1513

Sérhver sá skilningur sem skýrir táknræna tjáningu sem hliðstæðu eða stutta skilgreiningu á þekktu fyrirbæri er merkingarfræðilegs eðlis. Sá skilningur er hins vegar táknrænn, sem túlkar táknræna tjáningu sem hina bestu mögulegu (og þar með ekki sérstaklega skýra eða ótvíræða) fremsetningu fyrirbæris sem er tiltölulega óþekkt. Sá skilningur sem lítur á táknræna tjáningu sem endursögn eða meðvitaða ummyndun á þekktum hlut í annari mynd er allegórískur (að hætti launsagnarinnar). Þegar því er lýst yfir að krossinn sé tákn fyrir „guðdómlega ást“ er um merkingarfræðingarlega framsetningu að ræða, því orðin „guðdómleg ást“ lýsa betur og skýrar því ástandi sem við er átt en sjálfur krossinn, sem getur haft margræða merkingu. Hins vegar er sú túlkun krossins táknræns eðlis sem lítur á hann sem tjáningu dularfullra óræðra fyrirbæra handan allra mögulegra útskýringa, að krossinn sé fyrst og fremst eitthvað sálræns eðlis, óþekkt og yfirskilvitlegt, eitthvað sem einungis verði sýnt á sem sannferðugastan hátt einmitt með krossinum og engu öðru.

Á meðan táknið er lifandi þá er það tjáning hlutar eða fyrirbæris sem ekki verða betur skýrð. Táknið er lifandi á meðan það er þrungið merkingu. Þegar merking þess verður hins vegar augljós, þegar menn hafa fundið þá tjáningu sem tjáir með skilvirkari og ótvíræðari hætti það sem leitað var að eða sóst var eftir, þá deyr táknið, frá því augnabliki hefur það einungis sögulega þýðingu. Það er áfram hægt að kalla það tákn, en þá með þeim skýra fyrirvara að verið sé að fjalla um það sem það var, áður en það vék fyrir skilmerkilegri skilgreiningu.

Sá háttur sem Páll postuli og dulhyggjumennirnir hafa á, þegar þeir fjalla um tákn krossins, sýnir að fyrir þeim var hann lifandi tákn sem tjáði hið ósegjanlega með þeim hætti að ekki varð betur gert – betur en nokkur önnur skilgreining náði að gera. Sérhver dulspekileg [esoterisch] útskýring á tákninu gengur af því dauðu, því það er einkenni sértrúarhópanna að búa til betri skýringar – oft í formi getgátunnar – þannig að táknið verður að hefðbundnu merki sem stendur fyrir hluti sem eru betur þekktir í öðru samhengi. Táknið er lifandi aðeins og eingöngu út frá hversdagslegum [exoterisch] sjónarhóli.

Tjáning sem skilgreinir þekkt fyrirbæri verður ávalt einfalt merki, en aldrei tákn. Þess vegna er fullkomlega ógerlegt að búa til lifandi tákn, tákn sem er þrungið merkingu, þegar gengið er út frá þekktu samhengi. Tjáning sem er þannig tilkomin inniheldur aldrei meira en það sem í hana var látið. Að því marki sem tiltekin afurð sálarlífsins er hin besta mögulega tjáning tiltekins fyrirbæris á tiltekinni stundu telst hún vera tákn ef menn fá það á tilfinninguna að hún tjái það sem menn hafa hugboð um, án þess að þekkja það til fulls. Sérhver vísindakenning er tákn að því leyti sem hún byggir á tilgátu, þar sem hún felur í sér tiltekið ástand sem er í kjarna sínum óþekkt. Þar að auki er sérhver sálræn birtingarmynd tákn að því tilskyldu að á bak við hana hvíli eitthvað annað og meira, er búi handan við beina þekkingu okkar í augnablikinu. Þessi tilgáta stenst ávalt á meðan til staðar er vitund sem er opin fyrir frekari merkingarmöguleikum hlutanna. Hún stenst hins vegar ekki gagnvart þessari tilteknu vitund þegar hún hefur fullmótað tiltekna tjáningu eða tjáningarform sem segir nákvæmlega það sem sá vilji hafði í huga er mótaði hana, til dæmis tiltekin stærðfræðiyrðing. Þessar útilokandi forsendur þurfa hins vegar alls ekki að eiga við í augum annarra, sem geta líka skynjað tiltekna stærðfræðiyrðingu sem tákn fyrir tiltekið sálarástand sem falið er í vilja þess er skóp hana, ef sannað þykir að sá sem skapaði hina merkingarfræðilegu tjáningu þekkti ekki til aðstæðna og hefði því ekki getað notað hana meðvitað.

Spurningin um það hvort tiltekið fyrirbæri sé tákn eða ekki er fyrst og fremst háð sjónarhorni þeirrar vitundar sem skoðar fyrirbærið, til dæmis hvort hún líti á fyrirbærið ekki bara sem tiltekna staðreynd, heldur sem tjáningu hins óþekkta. Það er því vel hugsandi að einhver skapi eitthvað sem samkvæmt hans eigin vitund er alls ekki táknrænt, þó svo að það sé það í augum annars manns. Rétt eins og hið gagnstæða er mögulegt.

Engu að síður eru líka til fyrirbæri er hafa táknrænt gildi óháð sjónarhorni þess sem skoðar það, heldur birtast þau í eigin fullmekt og eru tákn vegna þeirra áhrifa sem þau kalla fram. Það á við um þá hluti sem eru þess eðlis að þeir væru í raun algjörlega merkingarlausir ef þeir byggju ekki yfir táknrænni merkingu. Þannig er til dæmis þríhyrningur með innrituðu auga merkingarlaust fyrirbæri í sjálfu sér, þannig að sá sem sér hann getur varla annað en álitið hann tilefnislausa markleysu. Engu að síður kallar slík teikning okkur strax til táknræns skilnings. Slík áhrif eru ennfremur studd þeirri staðreynd að slíkar teikningar eru nokkuð algengar og oft dregnar upp með mikilli nákvæmni er bendir til mikilvægis þeirrar merkingar er á bak við þær liggur.

Tákn sem ekki hafa sambærileg áhrif og hér var lýst eru annað hvort dauð – vegna þess að þau hafa vikið fyrir betri og skýrari framsetningu – eða þá að þau eru þess eðlis að hið táknræna eðli þeirra er einvörðungu háð afstöðu  þeirrar vitundar sem hugleiðir. Þessa afstöðu sem skynjar hið gefna fyrirbæri sem tákn getum við kallað táknsæja afstöðu  [Symbolische Einstellung] eða táknhyggju.  Hún réttlætist aðeins að hluta til af  því hvernig fyrirbærin koma fyrir, að hinu leytinu er hún tjáning ákveðins skilnings á lífinu og heiminum [Weltanschauung], skilnings sem veitir stórum sem smáum atburðum í lífinu umframmerkingu og færir þeim þar með tiltekið gildi sem er  umfram það sem venja er að veita tilfallandi staðreyndum.  Þetta er lífssýn sem er andstæð þeirri afstöðu er leggur stöðugt áherslu á að hina áþreifanlegu hluti og staðreyndir og bindur merkingu einvörðungu við staðreyndir. Samkvæmt þeirri afstöðu eru tákn allmennt ekki til, þar sem hinn táknræni skilningur sé eingöngu háður því hverjum augum hlutirnir eru skoðaðir. En táknið er engu að síður líka til staðar hjá slíkri persónu þegar myndin knýr áhorfandann til að álykta sem svo að á bak við hana sé hulin merking. Mynd af guði með nautshaus er hægt að túlka sem mannsmynd með nautshaus, en slík túlkun ætti þó ekki að koma í veg fyrir dýpri skilning því táknmyndin verður ágengari en svo að við getum sniðgengið hana.

Tákn sem afhjúpar eðli sitt með ágengum hætti þarf ekki endilega að vera ennþá lifandi tákn. Það getur til dæmis virkað eingöngu á sögulegan eða heimspekilegan skilning okkar. Það getur vakið vitsmunalegan eða fagurfræðilegan áhuga. En við segjum um tákn að það sé lifandi aðeins þegar það er bæði besta og göfugasta mögulega tjáning  þess sem menn skynja af innsæi og er enn ekki fullkomlega þekkt. Í slíkum tilfellum vekur táknið dulvitaðan áhuga. Það hefur lífsörvandi áhrif. Eins og Faust segir: „Hvaða önnur áhrif eru það sem þetta merki [Zeichen] færir mér…“

Hið lifandi tákn mótar „brotabrot“ dulvitundarinnar sem þó er í kjarna hennar. Og því útbreiddara sem þetta „brotabrot“ er meðal manna, því almennari eru áhrif táknsins, því það snertir við streng í sérhverjum manni. Þar sem táknið er annars vegar besta mögulega tjáningin á því sem er ekki ennþá orðið alþekkt (verður ekki betri við tilteknar sögulegar aðstæður), og getur því ekki vaknað nema af  hinum fjölskrúðugasta og flóknasta kjarna þess andrúmslofts sem tíðarandinn býður upp á. En þar sem táknið verður líka óhjákvæmilega að fela í sér það sem stendur stórum hópi manna nærri til þess að geta orkað á hann, þá hlýtur það jafnframt að fela í sér atriði sem eru sameiginleg stórum hópi manna. Þetta fyrirbæri getur aldrei orðið það margbotnasta og langsóttasta af öllum, því þá munu aðeins fáir ná að höndla það og skilja. Það verður því að hafa í sér eitthvað svo frumstætt að það geri ótvírætt alls staðar vart við sig. Aðeins ef þetta er til staðar og sett fram með hinum tjáningafyllsta hætti hefur táknið almenna virkni. Í þessu felst hin volduga og frelsandi  virkni lifandi samfélagslegs tákns.

Það sem ég segi hér um hin félagslegu tákn gildir einnig um einstaklingsbundin tákn. Til eru einstaklingsbundnar sálrænar afurðir sem augljóslega hafa til að bera táknræn gildi, gildi sem hafa hliðstæða merkingu fyrir einstaklinginn eins og félagslegt tákn hefur fyrir hóp einstaklinga. En þessar afurðir eiga aldrei rætur sínar einvörðungu í vökuvitundinni eða einvörðungu í dulvitundinni. Þær verða til úr samræmdu samspili þessara tveggja þátta.  Hvort sem um er að ræða það sem á rætur sínar einvörðungu í dulvitundinni eða einvörðungu í vökuvitundinni, þá verður það ekki sjálfkrafa [eo ipso] að sannfærandi tákni.

Það er í verkahring hinnar hugsandi vökuvitundar að viðurkenna eða afskrifa hið táknræna gildi fyrirbærisins. En það er líka hægt að túlka  þessi fyrirbæri sem skilyrtar staðreyndir, rétt eins og hægt er að túlka útbrotin sem fylgja skarlatsótt sem „tákn“ veikinnar. Í þessu tilfelli er hins vegar réttara að tala um „vísbendingu“ eða sjúkdómseinkenni en ekki tákn. Því tel ég að Freud hafi haft rétt fyrir sér þegar hann talar um vísbendingarathafnir[2] [Symptomhandlungen] en ekki táknrænar athafnir, þar sem hann taldi þessar athafnir ekki hafa táknræna merkingu í þeim skilningi sem hér hefur verið haldið fram, heldur einkenni [Symptom] tiltekins grundvallarferlis sem væri alþekkt. Auðvitað er til taugaveiklað fólk sem sér djúpa táknræna merkingu í dulvituðum fyrirbærum er birtast því, þegar fyrst og fremst er um sjúkdómseinkenni að ræða. Slíkt er hins vegar ekki algengt. Þvert á móti er hinum taugaveiklaða fremur hætt við því nú til dags að líta á hin mikilvægustu fyrirbæri einungis sem einföld „sjúkdómseinkenni“.

Sú staðreynd að til staðar eru tvö andstæð sjónarhorn, sem viðhaldið er af mikilli staðfestu af báðum aðilum, um merkingu og merkingarleysu hlutanna, kennir okkur að augljóslega eru til atburðir sem tjá ekki sérstaka merkingu, sem eru einungis einfaldar afleiðingar tiltekinna orsaka, ekkert annað en vísbendingar. Aðrir atburðir hafa dulda merkingu og nema ekki staðar við það að eiga sér tiltekna orsök, heldur vilja verða eitthvað annað og meira og eru þess vegna tákn. Það er undir okkur komið, tilfinninganæmi okkar og dómgreind að greina á milli vísbendingar og tákns.

Táknið er ávalt afar flókið fyrirbæri, þar sem það er gert úr öllum þáttum sálarlífsins. Þess vegna er eðli þess hvorki rökrétt [rational] né órökrétt [irrational]. Ein hlið þess er aðgengileg fyrir rökhugsunina en önnur hlið þess er henni lokuð, því það byggir ekki bara á röklegum staðreyndum, heldur líka á órökrænum staðreyndum beinnar skynjunar, innri jafnt sem ytri.  Tákn sem er þrungið merkingu og hugboðum talar jafnt til hugsunar og tilfinninga, hið sérstaka myndræna eðli þess þegar það tekur á sig skynjanlegt form örvar bæði skynjunina og innsæið. Lifandi tákn getur aldrei orðið til hjá sljóum og vanþróuðum anda. Hugur sem er lítt þróaður lætur sér nægja að lifa með þeim táknum sem fyrir eru og honum eru miðluð í gegnum hefðina. Einungis sá háþróaði mannshugur er getur ekki lengur fundið æðstu einingu einnar tjáningar í þeim táknum sem í boði eru, getur skapað ný tákn. En einmitt vegna þess að táknið felur í sér hina æðstu og endanlegu andlegu tjáningu um leið og það felur í sér dýpstu forsendur eigin veru, þá getur það ekki fæðst einhliða af hinni margbrotnu andlegu virkni, heldur verður það um leið og ekki síður að vaxa upp úr frumstæðustu forsendum. Til þess að samvirkni þessara andstæðu hliða verði möguleg þurfa þær að vera til staðar með meðvituðum hætti í fullkominni andstæðu. Þessar aðstæður geta ekki skapast nema fyrir tilvirkni afgerandi klofnings, þar sem fullyrðing stendur gegn fullyrðingu um leið og sjálfið [das Ich] verður að viðurkenna skilyrðislausa hlutdeild sína í báðum aðilum. En þegar það gerist að annar aðilinn víkur fyrir hinum, þá verður táknið sköpunarverk hins ríkjandi aðila og verður sem slíkt frekar vísbending [Symptom] en tákn, það er að segja vísbending um niðurbæld andmæli. En þegar tákn er orðið að einföldum einkennum eða vísbendingu glatar það einnig frelsandi áhrifum sínum, því það tjáir ekki tilvistarrétt allra þátta sálarlífsins, heldur minnir það á bælingu andmælanna jafnvel þótt vitundin geri sér ekki grein fyrir því.

Þegar hins vegar fullkomið jafnræði og jafngilding ríkir á milli hinna andstæðu afla, sem staðfest er með algjörri þátttöku sjálfsins í yrðingu og andmælum [These und Anti-These], þá róast löngunin. Í raun verður viljinn ekki lengur mögulegur því sérhvert tilefni hefur sér til hliðar andhverfu sína eða mót-tilefni, sem er hlaðið sömu orku.  Þar sem lífið leyfir enga kyrrstöðu og þar sem lífsorkan teppist í þessum tilfellum og hleðst upp og skapar þannig ástand sem gæti orðið óþolandi, þá skapar sú spenna er myndast á milli þessara andstæðna nýja virkni sem yfirstígur andstæðurnar og sameinar þær. Þessi nýja virkni fæðist augljóslega með því að löngunin og lostinn hörfa vegna kyrrstöðunnar. Þar sem klofningur löngunarinnar sem beinist í tvær áttir kemur í veg fyrir alla framþróun, þá hverfur lostinn til uppruna síns. Fljótið leitar til uppsprettu sinnar, ef svo mætti að orði komast. Þetta hefur jafnframt í för með sér að þegar vitundin er lömuð og óvirk þá verður dulvitundin virk, þar sem hin sameiginlega arfbundna og ævaforna rót allrar sundurvirkrar starfsemi hugans er til staðar, og þar sem við finnum þessa blöndu sem hið frumstæða  forma mentis (form mannshugans) geymir ennþá margvíslegar leifar sínar.

Nú dregur starfsemi dulvitundarinnar fram í dagsljósið innihald sem hefur í jafn ríkum mæli að geyma yrðingu og and-yrðingu og leysir hin andstæðu öfl af hólmi. Þar sem þetta innihald er í beinu sambandi við yrðinguna jafnt og and-yrðinguna verður það að „miðlægum“ vettvangi, vettvangi þar sem hin andstæðu öfl geta sameinast. Ef við hugleiðum til dæmis þá spennu sem ríkir á milli efnis og anda (eða efnisheimsins og andlegrar starfsemi) þá býður það miðlæga innihald sem sprettur fram úr dulvitundinni (þökk sé andlegri auðlegð hennar) upp á tjáningu fyrir hina andlegu yrðingu (These) sem veitir henni fullnægju sem í krafti efnisgerðar sinnar fullnægir jafnframt hinni efnislegu and-yrðingu (Anti-These). En sjálfið, sem er klofið á milli yrðingar og and-yrðingar finnur nú annan pól sinn, sína einu og eiginlegu tjáningu í þessu miðlæga innihaldi, og það tekur sér fasta bólfestu í því til þess að frelsa sig undan þeim klofningi sem það þjáist af.  Þannig beinist spenna hinna andstæðu afla að hinni miðlægu tjáningu, samlagast henni og stendur vörð um hana gagnvart átökum andstæðnanna sem hún felur í sér  og sem reyna hver um sig að leysa upp hið nýja tjáningarform á eigin forsendum.

Hin andlega starfsemi vill gefa tjáningu dulvitundarinnar andlegt form en efnislíkaminn vill efnisgera hana. Sú fyrrnefnda vill gera úr henni vísindi eða listir, hin síðarnefnda vill gera hana að áþreifanlegri skynreynslu. Upplausn [Auflösung] hinnar dulvituðu afurðar í vísindi eða list eða í skynreynslu á sér stað þegar sjálfið er ekki fullkomlega klofið á milli þessara afla, heldur hallast frekar að annari yrðingunni en hinni. Ef annar helmingurinn nær hins vegar ekki að leysa þessa afurð dulvitundarinnar, þá fellur ekki bara sjálf afurð þessa helmings, heldur líka sjálfið [das Ich], því sjálfið samsamar sig þeim skilningi eða þeirri yrðingu sem það hefur stuðst við. Því endurtekur klofningsferlið sig á ný í æðra veldi.

Þegar sjálfið er hins vegar staðfast í árásum yrðingarinnar og and-yrðingarinnar, þá tekst hvorugri að leysa upp þetta framlag dulvitundarinnar, og hin dulvitaða tjáning verður hinum báðum yfirsterkari. Styrkleiki sjálfsins og yfirburðir hinnar miðlægu tjáningar andspænis  yrðingunni og and-yrðingunni eru að mínu viti nátengd og innbyrðis skilyrt. Stundum virðist styrkur hins meðfædda einstaklingsbundna sjálfs ráðandi, stundum hin dulvitaða tjáning í þeim skilningi að hún virðist veita sjálfinu styrk þess. Í raun er það þannig að hinn einstaklingsbundni styrkur og ákveðni annars vegar og yfirburðastyrkur hinnar dulvituðu tjáningar hins vegar eru trúlega ekki annað en merki um sama hugarástandið.

Ef hin dulvitaða tjáning helst óbreytt verður hún að hráefni sem kallar ekki á upplausn, heldur mótun, þannig að hún verði sameiginlegt viðfang yrðingarinnar og and-yrðingarinnar, að hún verði þannig að nýju innihaldi sem verður mótandi fyrir heildarafstöðuna og leysir upp klofninginn og þvingar hin andstæðu öfl til að hverfa aftur í sama árfraveginn. Þannig hverfur kyrrstaðan og lífið getur haldið áfram að streyma með endurnýjuðu afli í átt til nýrra áfangastaða.

Það ferli sem hér var lýst í heild sinni hef ég kallað yfirskilvitlega virkni [transzendente Funktion], þar sem með orðinu „virkni“ er ekki átt við grundvallarvirkni heldur margþætta virkni sem samanstendur af ólíkum öflum. Með orðinu „yfirskilvitlegur“ er jafnframt  ekki átt við frumspekileg fyrirbæri heldur þá staðreynd að í krafti þessarar virkni skapast samgangur frá einni afstöðu yfir til annarrar sem veitir nýja sýn.

Það hráefni sem yrðing og and-yrðing hafa unnið úr og sem sameinar andstæðurnar í mótunarferlinu, er hið lifandi tákn. Í hráefni þess sem lengi hafði legið óuppleysanlegt í dvala sínum býr getan til þess að sjá fyrir með innsæinu, – og í forminu, sem hráefnið tekur á sig fyrir tilverknað hinna andstæðu afla býr geta þess til að hafa áhrif á alla virkni sálarlífsins. Við getum fundið ábendingar um undirstöðuatriði í mótun táknsins í hinum sjaldgæfu og meitluðu lýsingu á innvígslureynslutímum stofnenda trúarbragðanna: Jesú og Satan, Buddha og Mara, Lúther og Djöflarnir, Zwingli og saga hans af forsögu heimsins, endurfæðing Fausts í gegnum samninginn við djöfulinn hjá Goethe. Í endalokum Zarathustra finnum við lýsandi dæmi um eftirgjöf and-yrðingarinnar í mynd „mannsins sem var verri en allir“.

[1] Þessi skilgreining Jungs á hugtakinu Symbol birtist í lokakaflanum í ritverki hans Psychologische Typen frá árinu 1921, þar sem hann setur í fyrsta skiptið fram heildarkenningu sína um mannssálina og greiningu andstæðra afla í mannssálinni. Í ritinu gerir hann grein fyrir grundvallarþáttum sálarlífsins, hugsun, tilfinningu, skynjun og innsæi og byggir á þeim greiningu tveggja meginflokka manngerða: hinna úthverfu og innhverfu. Lokakafli verksins heitir Skilgreiningar, og þar skilgreinir Jung nokkur lykilhugtök í fræðum sínum. Eitt þeirra er hugtakið Symbol eða tákn. Skilgreining þessi er um leið einn lykillinn að allri sálfræðihugsun Jungs.

[2] Freud:m Zur Psychopatologie des Alltagsleben

Caspar David Friedrich: Krákurtréð, 1822

 

Mynd og frummynd samkvæmt Jung

Kafli um hugtakið „Bild“ í hugtakaskýringum C.G. Jung úr bók hans „Psychologische Typen“.

Í þessari ritgerð vísar hugtakið mynd ekki til sálrænnar eftirlíkingar ytri hluta eða fyrirbæra heldur er hér miklu frekar vísað til viðhorfs sem á rætur að rekja til skáldamáls og vísar til hugmyndar sem er afurð ímyndunaraflsins og er í því aðeins í óbeinu sambandi við ytri eða áþreifanlega hluti. Slík mynd byggist þvert á móti á dulvitaðri virkni ímyndunaraflsins og birtist vitundinni nánast fyrirvaralaust eins og sköpunarverk ímyndunaraflsins, óvænt eins og sýn eða ofsjónir, þó hún hafi aldrei hin sjúklegu einkenni hins síðarnefnda.

Hieronymus Bosch: Handanveran, um 1500

Myndin hefur sálfræðileg einkenni hugmyndar sem sprettur af ímyndunaraflinu en hefur aldrei einkenni hlutar sem virðist nánast raunverulegur eins og gerist gjarnan þegar um ofsjónir er að ræða, hún tekur því aldrei sæti raunveruleikans. Hún greinir sig alltaf frá hinum skynjaða veruleika sem „innri“ sýn.

Yfirleitt er hún líka sneidd öllum tengslum við hið ytra rými þó hún geti í undantekningartilfellum virst vera utanaðkomandi. Slíkt fyrirbæri er hér kallað arkaískt (frumlægt) ef það er ekki af sjúklegum toga, en sjúklegar myndir þurfa heldur ekki að útiloka arkaískan uppruna. Í hinum frumstæða huga hefur hin innri mynd tilhneigingu til að færast yfir á ytra rýmið eins og sýn eða ofheyrn án þess að hún teljist sjúklegs eðlis.

Venjulega er myndinni ekki gefið sambærilegt vægi og raunverulegir hlutir, en engu að síður getur hún við tilteknar aðstæður haft grundvallar þýðingu fyrir sálarlífið, og öðlast þannig mikið sálrænt gildi, er stendur fyrir „innri“ veruleika sem í sumum tilfellum getur haft meira vægi en hinn „ytri“ veruleiki. Í slíkum tilfellum beinist hugur einstaklingsins ekki að veruleikanum, heldur að því áreiti sem kemur að innan.

Jannis Kounnellis: Án titils, 1999

Hin innri mynd er flókið fyrirbæri samsett úr aðskiljanlegum þáttum. Þó er hún ekki óskipulagður hrærigrautur ólíkra þátta,  heldur heildstætt fyrirbæri sem hefur sína sérstæðu merkingu.  Myndin er samþjöppuð tjáning sálrænna heildaraðstæðna sem eru ekki bara einhver tilviljunarkennd og fyrirvaralaus viðbrögð dulvitundarinnar. Myndin er vissulega tjáning dulvitaðra fyrirbæra, en hún tjáir ekki hvað sem verða vill úr dulvitundinni, heldur þá þætti hennar sem eru samstilltir á því augnabliki sem myndin birtist. Þessi samstilling myndast annars vegar fyrir tilverknað virkrar starfsemi dulvitundarinnar, hins vegar fyrir tímabundnar aðstæður vitundarinnar, sem stöðugt hafa örvandi áhrif á þá dulvituðu þætti sem málið snertir en útiloka þá sem eru því óviðkomandi. Þess vegna er myndin tjáning tímabundinna aðstæðna vökuvitundar jafnt sem dulvitundar mannsins. Þess vegna getur túlkun merkingar myndarinnar hvorki byggst á vitundinni einni né á dulvitundinni einni, heldur á gagnkvæmu samspili þessara þátta.

Þegar mynd hefur arkaísk einkenni segi ég að hún sé frumlæg (urtümlich)[2]. Ég kalla það arkaískt eðli þegar myndin á sér víðtæka samsvörun í þekktum goðsögulegum viðfangsefnum. Í slíkum tilfellum tjáir myndin annars vegar þætti sem eiga rætur sínar í sameiginlegri dulvitund allra manna, hins vegar gefur hún til kynna að tímabundnar aðstæður vitundarinnar séu undir sterkari áhrifum sammannlegra (kollekive) afla frekar en einstaklingsbundinna.

Persónuleg mynd hefur hvorki arkaísk einkenni né samfélagslega (kollektiv) merkingu, heldur tjáir hún persónulega dulvitaða hluti og persónulegar/einstaklingsbundnar aðstæður vitundarinnar.

Claudio Parmiggiani: Naufragio con spettatore (Skipsstrand með áhorfanda) 2011

Frumlæg mynd sem ég hef einnig kallað  frumgerð („Archetypus“) er alltaf sammannleg (kollektiv), það er að segja hún er sameiginleg heilum þjóðum eða tímabilum. Mikilvægustu goðsögulegu þræðirnir eru trúlega sameiginlegir öllum þjóðflokkum og öllum tímum. Ég hef orðið vitni að því að hreinræktaðir blökkumenn sem eru haldnir geðveiki hafi tjáð sig í myndum sem rekja má til grískrar goðafræði.[3]

Ef málið er skoðað frá vísindalegu orsakasamhengi getum við skilgreint hina frumlægu mynd sem minnisáfall (mnemischen Niedersclag) eins og þrykkimynd minnisins (Engramm) (Semon) sem hefur orðið til og greipt sig í hugann eftir óendanlegar hliðstæðar endurtekningar.

Samkvæmt þessum skilningi er hin frumlæga mynd eins konar áfall (Niederschlag) og því grundvallarform sem einkennir tiltekna margendurtekna sálræna reynslu. Slíkt goðsögulegt myndefni er tjáning sem er sívirk og endurvekur sálræna reynslu eða setur hana í viðeigandi samhengi. Frá þessum sjónarhóli er hér um að ræða sálræna tjáningu  á tilteknum lífeðlis- og líffærafræðilegum aðstæðum. Ef við gefum okkur að tiltekin líffærafræðileg bygging hafi orðið til vegna virkni ytri umhverfisþátta á efnisheiminn, þá getum við litið á stöðuga alnánd og endurtekningu hinnar frumlægu myndar sem hliðstæðu við sívirkt ytra áreiti  með sambærilegum hætti og hafi því einkenni náttúrulögmáls.

Þannig gæti goðsagan tengst náttúrunni, til dæmis sólargoðsagnir sem tengjast daglegri sólaruppkomu og sólsetri eða árstíðaskiptunum, sem hafa bein áhrif á skynjunina eins og margir goðsagnafræðingar hafa haldið fram. Það er hins vegar óskýrt mál hvernig á því stendur að til dæmis sólin sjálf og daglegar breytingar hennar koma aldrei beint og ótvírætt fram í þessum goðsögum. Sú staðreynd að sólin eða tunglið eða önnur veðurfræðileg fyrirbæri birtast okkur almennt í formi launsagna (allegorisiert) bendir til sjálfstæðrar virkni sálarlífsins sem þannig getur ekki talist vera einföld eða bein afleiðing ytra umhverfisáreitis. Hvaðan ætti sálarlífið að sækja kraftinn til að bjóða upp á eitthvað sem er ólíkt og æðra en bein staðfesting á áreiti skynfæranna?  Hvert sækir það hæfileika sinn til að yfirfæra reynsluna á eitthvað annað og meira en beina staðfestingu áreitisins?

Max Ernst: úr „Sæluvika – Blóð“, 1934

Hin vísindalega skilgreining Semons á orsakasamhengi þrykkimynda minnisins (die Engrammtheorie) á ekkert svar við þessu. Við erum því tilneydd að gera ráð fyrir því að byggingu mannsheilans sé ekki hægt að rekja eingöngu til umhverfisaðstæðna heldur séu þar ekki síður að verki hinir sérstöku og sjálfstæðu eiginleikar hins lifandi efnis, það er að segja lögmál sem lífið færir því. Þannig ræðst hin lífræna bygging annars vegar af ytri aðstæðum, hins vegar af arfbornum forsendum sem eru innbyggðar í hinu lifandi efni. Þannig er hin frumlæga mynd annars vegar ótvírætt tengd skynjanlegum og sívirkum náttúrlegum ferlum (sem skynfærin hafa aðgang að). Hins vegar er hún jafn ótvírætt tengd innbygðum forsendum hins andlega lífs og lífinu almennt. Þannig hefur lífkerfið brugðist við ljósinu með því að skapa nýtt líffæri sem er augað. Andinn (eða hugurinn) bregst hins vegar við þessu afli með þeirri táknrænu mynd sem meðtekur þetta náttúrufyrirbæri með sambærilegum hætti  og augað er svar við ljósinu.

Rétt eins og augað er vitnisburður um sjálfstæða skapandi virkni hins lifandi efnis þá er hin frumlæga mynd tjáning á sjálfstæðum, skilyrðislausum sköpunarmætti andans.

Hin frumlæga mynd er þannig samþjöppuð tjáning hins lifandi ferlis. Hún gefur ósamstæðum og óræðum skynjunum merkingu, bæði hvað varðar ytri og innri (huglæga) skynjun. Hún tengir þær saman og samræmir þær og frelsar þannig sálræna orku mannsins undan oki hinnar beinu og óskiljanlegu skynjunar.  Um leið tengir hún þá orkustrauma sem verða til við skynjun ytra áreitis við merkingu sem vísar veginn til þess verknaðar sem er í samræmi við hugann. Hún losar okkur við ónýtanlega innilokaða orku og beinir andanum  að náttúrunni um leið og hún umbreytir ósjálfráðum viðbrögðum eðlisávísunarinnar í andleg form.

Hin frumlæga mynd er sá þáttur sem kemur á undan hugmyndinni (der Idee) og er móðurlíf hennar. Rökhugsunin vinnur hugtakið úr frummyndinni með því að útiloka hlutlægnina sem er einkennandi og ómissandi fyrir hana, en þau hugtök sem þannig verða til eru ólík öllum öðrum hugtökum í þeim skilningi að þau birtast ekki reynslunni heldur eru sá grundvöllur sem öll reynsla okkar hvílir á.

Þessa sérstöðu á hugmyndin hinni frumlægu mynd að þakka, þar sem hún gefur allri reynslu okkar ákveðið form sem er tjáning hinnar sérstöku byggingar heilans.

Styrkleiki og sálræn virkni hinnar frumlægu myndar ákvarðast af afstöðu einstaklingsins. Þegar um innhverfa afstöðu er að ræða, þar sem lífshvötin (Libido) beinist ekki að hinu ytra viðfangi verður áherslan meiri á hið innra viðfang, það er að segja á hugsunina. Þannig skapast ör vitsmunaleg þróun eftir ferli sem ómeðvitað er varðað og dregið af hinni frumlægu mynd. Þannig kemur hin frumlæga mynd óbeint í ljós. Þegar huglæg virkni mannsins þroskast nálgast hún hugmyndina sem er ekki annað en þessi frumlæga mynd umorðuð með vitsmunalegum hætti. Það er einungis hægt að ná lengra en hugmyndin (eða yfirstíga hana) með því að þróa hina gagnstæðu virkni. Það merkir að þegar vitsmunirnir hafa náð að höndla hugmyndina vill hún hafa áhrif á lífið. Hún notfærir sér tilfinninguna (das Fühlen) í þessum tilgangi, en hún er í þessu tilfelli mun óljósari og því hlutlægari en hugsunin og samtvinnuð dulvitundinni. Þess vegna getur einstaklingurinn ekki tengt tilfinninguna við hugmyndina.

Við þessar aðstæður birtist hin frumlæga mynd á innra sjónarsviði mannsins í formi táknsins (Symbol). Táknið getur annars vegar höndlað tilfinninguna vegna hlutlægni sinnar og vegna síns óskilgreinanlega ástands, hins vegar  getur það líka skilið hugmyndina sem það sjálf hefur fætt af sér. Þannig tengir táknið saman hugmynd og tilfinningu.[4] Þannig gegnir hin frumlæga mynd hlutverki miðilsins (Mittler) og sannar þar með enn einu sinni frelsandi mátt sinn, þennan mátt sem trúarbrögðin hafa alltaf haft í heiðri. Því vildi ég eigna hinni frumlægu mynd þá eiginleika sem Schopenhauer eignar hugmyndinni, þar sem hann heldur því fram að hugmyndin eigi ekki að vera skilin sem eitthvað fyrirfram gefið (etwas Aprioristisches) í öllu og alls staðar, heldur einnig sem afleidd afurð og tilsniðin. Því vil ég leggja það til að lesandinn setji hugtakið „frumlæg mynd“ þar sem Schopenhauer notar orðið „hugmynd“ í eftirtöldum tilvitnunum úr verki hans Die Welt als Wille und Vorstellung, vilji hann skilja hvaða merkingu ég legg í „frumlæga mynd“.

769 „Einstaklingurinn sem slíkur mun aldrei þekkja hugmyndina, heldur einungis sá sem hefur náð að hefja sig upp yfir viljann og einstaklingshyggjuna og er orðinn hrein forsenda (Subjekt) þekkingarinnar: þess vegna er hún einungis á valdi snillingsins eða þess sem fyrst og fremst fyrir tilverknað snilldarverksins hefur hafið viskukraft sinn upp í hæðir snillinnar. Því verður hugmyndinni  aldrei miðlað beint, heldur einungis óbeint, því þegar hugmyndin hefur verið skilin og endursögð (til dæmis) í listaverki þá talar hún til hvers og eins í samræmi við vitsmunalega getu hans.“ o.s.frv.

„Hugmyndin er sú eining sem vegna tíma- og rýmisskynjunar okkar verður margræð.“[5]

„Hugtakið er sambærilegt við dautt ílát þar sem hlutirnir sem komið hefur verið fyrir í því standa hlið við hlið; úr því íláti verða aldrei dregnir fleiri hlutir en í það voru settir. Hugmyndin þróar hins vegar innra með þeim sem hefur höndlað hana myndir sem eru nýjar ganvart hugtökunum sem samsvara þeim. Hugmyndin er sambærileg við lifandi vef sem vex og getur fjölgað sér, getur getið af sér hluti sem ekki voru til staðar í upphafi.“[6]

Schopenhauer hefur viðurkennt að ekki er hægt að nálgast hugmyndina, það er að segja það sem ég kalla „hina frumlægu mynd“ eftir þeirri leið sem menn eru vanir að fara þegar þeir búa sér til hugtak eða hugmynd (samkvæmt Kant er „hugmyndin“ „hugtak dregið af skilningnum“[7]) heldur verði hún höndluð með hæfileika sem yfirstígur hina formlegu vitsmuni, eða eins og Schopenhauer orðar það, í gegnum „andrúmsloft snilligáfunnar“, en það er hugtak sem tjáir einungis tilfinningaástand.  Staðreyndin er sú að frá hugmyndinni komast menn einungis að hinni frumlægu mynd eftir sömu leið og menn rata til hugmyndarinnar, með því að yfirstíga hugmyndina  og sökkva sér ofan í gagnstæða virkni.[8]

Hin frumlæga mynd hefur það fram yfir skýrleika hugmyndarinnar að hún er lifandi. Hún  er lifandi vefur „sem hefur sköpunarmátt til að endurnýja sjálfa sig“ vegna þess að hún er arfborin bygging hinnar sálrænu orku, stöðugt kerfi sem felur ekki bara í sér tjáningu heldur líka mögulega framþróun hinnar sálrænu orku.  Hún er mótandi afl í því sálræna orkuferli sem á sér stöðugt stað og hefur alltaf verið frá upphafi vega. Hún sér til þess að það þróist nákvæmlega eins og það á að þróast þar sem hún gerir skilning ríkjandi aðstæðna mögulegan í þeim tilgangi að lífið geti haldið áfram. Hin frumlæga mynd er þannig nauðsynlegt mótvægi við eðlisávísunina sem felur í sér tilgangsmiðuð viðbrögð, en hún felur bæði í sér merkingarbæran og tilgangsmiðaðan skilning sem getur brugðist við hvaða aðstæðum sem er.  Viðbrögðin við þessari skynjun tiltekinna aðstæðna grundvallast á þeirri mynd sem er til staðar frá upphafi. Án þeirrar forvitneskju sem hún veitir okkur værum við ófær um að bregðast við tilteknum skynjunum.[9]

 

[1] Kafli um hugtakið „Bild“ í hugtakaskýringum C.G. Jung aftast í bók hans „Psychologische Typen“.

[2] Sjá J. Burckhardt og einnig Jung: Wandlungen und Symbole der Libido, bls 35; ný útgáfa: Symbole der Wandlung (Ges. Werke V).

[3] Athyglisvert dæmi um arkaíska mynd er að finna í verki Jungs: Wandlungen und Symbole der Libido, bls. 94

[4] Þetta er strembið í þýðingu og væri gott að fá einhvern til að yfirfara þýðingu mína á þessari mikilvægu setningu. Frumtextinn er svona: „Das Individuum ist dann unfähig, dieses so beschaffene Fühlen mit der Idee zu vereinigen. In diesem Falle tritt nun das urtümliche Bild als Symbol in das innere Blickfeld, erfaβt vermöge seiner konkreten Natur einerseits das in undifferenziertem konkretem Zustand befindliche Fühlen, ergreift aber auch vermöge seiner Bedeutung die Idee, deren Mutter es ja ist, und vereinigt so die Idee mit dem Fühlen“

[5] Erfiður texti: „Die Idee ist die, vermöge der Zeit- und Raumform unserer intuitiven Apprehension, in die Vielheit zerfallene Einheit.“

[6] A. Schopenhauer, Die Welt als Wille und Vorstellung, vol I, 49. Síðasta tilvitnunin er svona hjá Schopenhauer: „Der Begriff gleicht einem toten Behältnis, in welchem, was man hineingelagt hat, wirklich nebeneinander liegt, aus welchem sich aber auch nicht mehr herausnehmen läβt, als man hineingelagt hat: die Idee hingegen entwickelt in dem, welcher sie gefaβt hat, Vorstellungen, die in Hinsicht auf den ihr gleichnahmigen Begriff neu sind: sie gleicht einem lebendigen, sich entwickelnden, mit Zeugungskraft begabten Organismus, welcher hervorbringt, was nicht in ihm eingeschachtelt lag.“

[7] „Begriff aus Notionen“; I. Kant, Kritik der reinen Vernuft, Útg. Kehrbach, bls 279.

[8] „Denn von der Idee gelangt man zum urtümlichen Bild nur dadurch, daβ der Weg, der zur Idee führte, über den Höhepunkt der Idee hinaus in die Gegenfunktion fortgesetzt wird.“

[9] Þessi síðasta setning er nokkuð erfið: Es ist somit das notwendige Gegenstück zum Instinkt, der ein zweckmäβiges Handeln ist, aber auch ein ebenso sinnentsprechendes wie zweckmäβiges Erfassen der jeweiligen Situation voraussetzt. Diese Apprehension der gegebenen Situation wird durch das a priori vorhandene Bild gewährleistet. Es stellt die anwendbare Formel dar, ohne welche die Apprehension eines neuen Tatbestandes unmöglich wäre.

Galimberti -KYNJAFRÆÐIN OG LÖGFRÆÐIN

Undanfarið hafa þau Ævar Kjartansson og Soffía Auður Birgisdóttir staðið fyrir fróðlegum sunnudagssamtölum í morgunútvarpi RUV um feminisma, kvennafræði og kynjafræði í Háskóla Íslands. Þessi umræða vakti forvitni mína og varð m.a. til þess að ég rifjaði upp grein sem ég hafði lesið á netinu eftir ítalska heimspekinginn Carlo Sini um kynjafræðin í ljósi sögu mannsins, sögu sem nær ekki bara til síðustu alda eða árþúsunda, heldur hundrað árþúsundir aftur fyrir steinöld. Greinin ber titilinn „Að girnast konu annarra“ með tilvísun í boðorð Mósebókar.

Ég snéri þessari grein á íslensku og birti hér á vefnum til að bregða öðru ljósi á kynjafræðin, ekki á forsendum feminismans, heldur einkum á forsendum fornleifafræðinnar, mannfræðirnnar og fyrirbærafræðanna.

Feminisminn er þörf hreyfing sem hefur valdið gagnlegu umróti í samfélaginu á ýmsum sviðum um leið og oft verður erfitt að skilgreina hugtakið af einni ástæðu: hann gengur yfirleitt út frá tvíhyggju hins karllæga og kvenlæga, og markar sér þannig skotgrafir sem erfitt getur verið að komast upp úr.

Í nýlegu samtali gerði Dagný Kristjánsdóttir tilraun til að lyfta umræðunni upp úr þessum skotgröfum með því að leggja út frá sálgreiningu Sigmundar Freud og þýðingu hennar fyrir kynjafræðin. Það var þörf atlaga sem hleypti svolitlu blóði í þessi samtöl, sem annars hafa farið fram á frekar innilokuðu og afmörkuðu svæði tiltekinnar skotgrafar innan háskólasamfélagsins.

Túlkun Dagnýjar á kynjafræði Freuds og Ödipusarduldinni sem hann er einna kunnastur fyrir var þó eitthvað máli blandin þegar hún sagði Freud hafa kennt okkur að börnin færu að elska föðurinn þegar þau aftengdust móðurinni og að dæturnar litu yfirleitt niður til móður sinnar vegna samfélagsstöðu hennar. Tímaskortur réði áreiðanlega þessari yfirborðskenndu lýsingu, sem annars var - eins og sálgreiningin yfirleitt – tilraun til þess að yfirgefa skotgrafir hinnar kynferðislegu tvíhyggju og líta á kynjafræðin og kyngervin frá almennt mannlegu sjónarmiði. Kynjafræðin eru hluti af mannfræðinni og sálfræðinni og þau eru nátengd þeirri grein heimspekinnar sem leitast við að skoða umheiminn út frá beinni skynjun mannsins eða konunnar, ekki út frá fyrirfram gefnum skilgreiningum líffræðinnar, læknisfræðinnar eða málfræðinnar á eðli kynjanna, heldur út frá nánast líkamlegum forsendum skynjunarinnar, sambandi líkama og sálar og sambandi líkamans og umhverfis hans. Þessi grein heimspekinnar er kölluð fyrirbærafræði á íslensku en fenomenologia á erlendum málum, og einn áhrifamesti fræðimaður 20. aldar um skilning okkar á henni er trúlega franski heimspekingurinn Maurice Merleau-Ponty (sjá greinina „Augað og andinn“ hér á síðunni).  

Sem leikmaður datt ég inn í þessa sýn fyrirbærafræðinnar í kringum aldamótin 2000 þegar ég rakst á bókina um líkamann eftir ítalska heimspekinginn og sálgreininn Umberto Galimberti. Galimberti er einn af mörgum lærisveinum Merleau-Ponty og Þessi bók um líkamann var uppljómun fyrir mig á þessum tíma og opnaði sýn á umheiminn sem mér fannst ný. Ekki síst opnaði hún fyrir mig nýja sýn á listasöguna, sem ég var að reyna að kenna, og hún varð til þess að ég stóð fyrir námskeiði í Listaháskólanum 2003, sem bar heitið „Líkaminn í listasögunni“.  

Ég hef stuðst við Galimberti í mörgum námskeiðum mínum í Listaháskólanum síðan, og má finna nokkrar þýðingar á textum hans hér á vefsíðunni.

Bók Galimberti um líkamann kom fyrst út 1983, og á þessum tíma höfðu fáir heimspekingar einbeitt sér að þessu viðfangsefni. Eins og Galimberti bendir á, þá lætur líkaminn illa að stjórn undir skilgreiningaráráttu og hólfaskiptingu heimspekinnar. En ef nefna á samferðarmenn Galimberti í þessari rannsókn hans er helst að nefna frönsku heimspekingana Maurice Merleau-Ponty og Michel Foucault. Ég las bókina um líkamann í frumútgáfu á sínum tíma, en síðan hefur bókin komið út í a.m.k. 12 útgáfum endurbættum, og sú sem ég á núna er um 600 bls. 
Í kjölfar samtalsins við Dagnýju Kristjánsdóttur fór ég að glugga í þessa bók enn einu sinni, og rakst þá á kaflann um líkamann og lögin. Frábærlega skrifaður texti sem mér virðist tilheyra endurbótum á verkinu, texti sem opnar fyrir okkur nýjan umræðugrundvöll að kynjafræðunum, þó hann sé ekki nema fáar blaðsíður. En í heild sinni segir bók Galimberti okkur sögu líkamans í gegnum hugmyndasögu Vesturlanda.
Í þessum kafla um lögin er gengið út frá sálgreiningu Freuds og Jacques Lacans með viðkomu í táknfræði sem minnir bæði á Jean Baudrillard (sjá ritgerð hér á vefsíðunni um „Framrás líkneskjanna“) og strúktúralisma Michel Foucault (sjá grein hér á vefsíðunni um „Hirðmeyjarnar“ eftir Velazquez.). Þessi texti Galimberti er ekki sprottinn úr skotgröfum feminismans, en bregður engu að síður skæru ljósi á sögu þess misréttis sem líkaminn hefur mátt sæta í hinum ólíku kyngervum sínum. Hann ætti því að vera snjall inngangur að umræðunni um kynjafræðin og sögu þeirra, og hann gefur ótal tilefni til umhugsunar og gagnrýni. 
Ekki síst vantar kannski í þessa greiningu frekari umfjöllun um stöðu karlmanna í þeim hjeimi sem hefur upplifað „dauða föðurins“ og breytt hlutverkaskipan á heimili og vinnustöðum með róttækum hætti. En umfram allt er þetta hreinn skemmtilestur, gjörið svo vel!

Líkaminn og löggjöfin

Eftir Umberto Galimberti

Kafli úr bókinni „Il corpo“ í endurbættri útgáfu frá 2005, bls 424-437

Ofgreining, þar liggur kjarni löggjafarinnar

og þar eru rætur hins nýja sársauka líkamans.

G.Deleuse, F. Guattari: L‘anti-edipo (1972)

Líkaminn ofbýður lögunum um leið og þau reyna að setja fram hið eina tungumál, í þeim tilgangi að setja í eitt mót hin margbrotnu tungumál líkamans. Undir umsjón laganna er það líkaminn sjálfur sem verður líkami lögbrotanna, því hann er staður tvíræðninnar sem andæfir gegn innritun í þetta Nafn sem skapar merkingu með því að nefna alla skapaða hluti, nafn er skapar þessa einu merkingu sem útilokar hið frábrugðna og mögulega.

Guð dæmir Adam og Evu til brottvísunar úr Paradís. Bronsmynd úr dómkirkjuhurðinni í Hildesheim frá 11. öld.

Við getum rakið uppruna laganna til þeirrar bælingar líkamanna sem Freud vildi rekja allt aftur til þess uppruna mannsins þar sem harðstjórn föðurins bannaði afkvæmum hans aðgang að konunum og leiddi lífsorku líkama þeirra inn í heim vinnunnar um leið og þau voru svipt líkamlegri nautn.

Ef þessi tilgáta Freuds var að einu leyti ögrun við viðteknar kenningar mannfræðinnar, þá hafði þessi ögrun að öðru leyti til að bera sannleika sem okkur hefur nú verið kennt að fela í varðveislu gleymskunnar. Um er að ræða þann djúpstæða árekstur sem er til staðar á milli líkamans og löggjafarinnar, þeirrar löggjafar sem grípur í taumana til þess að slá fullnægju líkamanna á frest, takmarka nautn þeirra og umtúlka leikræna (og glaðværa) virkni þeirra yfir í heim vinnunnar (og erfiðisins) til þess að skapa öryggi sem greitt er fyrir með bælingu.

Í frásögn Freuds nær hatrið sem afkvæmin ala með sér gagnvart föðurnum hámarki í þeirri uppreisn sem knýr þau til að taka hann af lífi og rífa sameiginlega í sig líkama hans. Freud segir jafnframt að með föðurmorðinu ali afkvæmin með sér sektarkennd sem leiðir þau til þess að taka hinn myrta föður í guðatölu og meðtaka þannig sem innri þvingun þá byrði sem faðirinn hafði lagt á þau. Um þetta segir Freud:

„Fyrsta skipulagsform mannlegs samfélags myndaðist með afneitun eðlishvatanna um leið og gagnkvæmar skyldur voru viðurkenndar með myndun tiltekinna stofnana sem voru lýstar órjúfanlegar (heilagar). Þannig varð til samfélag siðferðis og löggjafar“.[i]

Ljóst er að löggjöf án líkama verður ekki til; ekki í þeim skilningi að líkamarnir séu augljós efniviður löggjafarinnar, heldur í þeim skilningi að án líkama hefði löggjöfin engar eðlishvatir til að ráðskast með, engar nautnir sem hún gæti slegið á frest, engin tilþrif sem hún gæti stöðvað. Allt þetta gerist í nafni hins dauða föðurs. Óhagganleiki löggjafarinnar og stofnana hennar er um leið óhagganleiki þess dauða sem löggjöfin helgar með endurteknum tilskipunum sínum og útleggingum. En þessar stofnanir hafa þann tilgang að viðhalda sektartilfinningunni sem upphaflega kallaði á sjálfa löggjöfina og hefur síðan viðhaldið henni. Þannig gerist það, eins og Jacques Lacan sagði, að í stað föðurins höfum við fengið Nafn Föðurins[ii] sem er óhagganlegt og eilíft og sem slíkt algilt, Nafn sem með nafngift sinni stofnar til þeirrar skuldar sem sérhver líkami ber gagnvart Hinum Æðsta Nefnara sem hefur tilnefnt (denotare) hann og þannig efnt til sammælis (connotare).

Það er reyndar ekki rétt að sérhver tilnefning (de-notazione) sé hlutlæg, á meðan sammælin (con-notazione) séu af hugmyndafræðilegum toga. Hlutlægnin felst í innritun lögmálsins, innritun sem kemur frá merktum líkömum hinna frumstæðu samfélaga og nær alla leið til hinna merktu líkama okkar samtíma, sérhver tilnefning (denotazione) er ekki annað en úthugsað form sammælanna (connotazione). Við sjáum dæmi þessa í kynferðislegri tilnefningu þar sem texti löggjafarinnar tilnefnir karlkyn og kvenkyn og lætur sem hann endurspegli náttúru tungumálsins eins og tungumálið tilheyri náttúrunni, þegar við vitum mæta vel að náttúran er hér tilnefnd einungis í því skyni að fela margbreytileik raunveruleikans undir grímu tungumálsins með lagabókstaf (codice) undir yfirskini hins augljósa, þannig að hér, líkt og annars staðar, verður hið hvíta ljós tilnefningar laganna ekki annað en leikur sammæladraugsins um líkamann og hin afmörkuðu skilgreiningarhólf hans.

Tilnefningar laganna þjóna þeim tilgangi að gefa sérhverjum hlut nafn. En þessar nafngiftir nafnhyggjunnar (nominalismans) sem hin lögfræðilega umræða hefur aldrei reynt að fela, leiða af sér heilan heim keðjuverkandi staðreynda þar sem tilnefningin (denotazione) verður að sakargift (imputazione). Þannig gerist það til dæmis, þegar sérhver líkami verður að „persónu“ sem þarf að falla inn í regluverk stofnananna, að sá líkami sem ekki lætur innrita sig verður ákærður í nafni laganna. „Persónan“, þessi fylgifiskur líkamans, þessi tvífari hans, er sú tilnefning löggjafarinnar sem líkaminn er tilneyddur að upplifa sem sakargift sína. Sama gerist með stofnanirnar þar sem löggjöfin einbeitir sér að hinni löggiltu eða borgaralegu persónu, en ekki að líkamanum, einbeitir sér að skilgreiningu sektar eða sakleysis innan ramma orðaleiks sem er hennar eigin tilbúningur. Sakleysið er staðfest þegar líkaminn viðurkennir innritun lagabókstafsins sem hluta af sjálfum sér, rétt eins og líffærin sem hann hefur til að halda lífi.

Þegar löggjöfin grípur til nafnanna í því skyni að losa sig við líkamana gerir hún sér ekki grein fyrir að líkamar eru henni nauðsynlegir til að hafa hömlur á ofbeldinu, takmarka langanirnar, smætta þær niður í lögmæti eða ólögmæti, mennsku eða skepnuskap. En jafnvel þó löggjöfin haldi sig við áform sín með því að færa samskipti líkamanna yfir á réttarstöðu persónanna, jafnvel þó hún kanni langanir líkamans sem hljóti að hafa sín áform, þ.e.a.s. vera innan ramma laganna, innritaður í rökhugsun nafnanna, þá reka lögin sig alltaf á eitthvað sem rústar flokkunarkerfinu og ruglar lagasafninu og skipulagsreglum þess. Það dugar ekki að „afskrifa“ málið til að segja að líkaminn sé ekki lengur á lífi. Líkaminn verður áfram ómeðfærilegur fyrir sérhverja kerfishugsun, sérhverja stöð eða stofnun sem ætlað er að „meðhöndla“ hann eða „þjóna“ honum.

Ef hið fullkomna markmið laganna er að skapa raunveru þar sem sérhver merking er á sínum stað, endanlega mörkuð af afstöðu sinni til þess tómarýmis sem dauði föðurins skildi eftir sig og nafn hans yfirtók, þá skiljum við vel hversu nauðsynleg varðstaðan um nafnið er í þeim tilgangi að breiða yfir tómið sem það felur. Að sama skapi verður bannið við því að leggja nafnið við hégóma skiljanlegt, að hafa það í flimtingum, að endurgera það í myndum sem gætu sýnt það sem tóm er gæti virkað sem hinn æðsti Nefnari, aðeins ef enginn kæmi of nærri því. Hér rennur lögfræðilega orðræðan saman við þá guðfræðilegu og getur ekki frekar en hún horfst í augu við þá vanvirðu („o-sceno“) sem alltaf gerir vart við sig að að tjaldabaki sviðsins (scena) þar sem textinn er lesinn.

Tjaldabakið, þetta jaðarsvið tungumálsins sem fór framhjá þeim „Nafnasmið“ sem Platon sá í „löggjafanum“[iii], átti eftir að verða vettvangur Freuds, sem í nafni skopskynsins, gleymskunnar, lapsusins, og mismælanna, fylgdi eftir þeirri innrás hins bælda, sem færir okkur á ný í fang spurninguna um líkamann, þessa líkama sem laumar sér inn á milli hins sagða og ósagða, á milli línanna sem hann skannar og víxlar þvers og kruss. Þessi líkami sem undanskilur sig tilnefningu laganna hefur í frammi undirróður gagnvart skipunarreglu merkinganna, sleppir heilkenninu lausu og opnar fyrir okkur vegarslóð gleymsku og villu í heimi laganna.

„Heilkenni“ (sintomo) er grískt orð sem birtir okkuyr ófyrirsjáanlega fylgni (sým-ptoma) tilfallandi áreksturs, hrösunar eða falls (pípto) . Heilkennin eru í samtalinu ágeng skilaboð líkamans sem rústa rökfræði Nafnsins með óteljandi frárennslisgötum og samsvarandi flóðgáttum og undankomuleiðum er færa samræðuna á annað svið sem er hvorki fastmótað né fyrirsjáanlegt. Auk þess að bera líkamanum og útilokun hans vitni í hinni lögfræðilegu orðræðu, þá felur heilkennið í sér endurkomu hins bælda og birtir okkur þá frumlægu útilokun og bælingu sem eru eins og við höfum sagt, grundvöllur laganna. Það er í gegnum heilkennið, sem vel að merkja er ekki sama og mismæli, sem líkaminn grípur inn í það kerfi nafnanna sem er skapað til að útiloka hann, og þó hann vanhelgi ekki Nafnið með blótsyrðum, þá skipuleggur hann vissulega andspyrnu gegn merkingunum sem hann hefur fengið úthlutað.

Andspænis þeim lögfræðilega skilningi sem leysir tungumálavandann á auðrötuðum vegarslóða áformanna marka inngrip líkamans gagn-skilning sem ákærir þá grímu sem lög nafnsins hafa lagt yfir undanbrögð líkamans. Og nú sjáum við hvert samtalið getur leitt okkur í skilgreiningu líkamanna þegar við mætum líkama konunnar sem löggjafinn hefur staðsett á milli heimilisins og götuhornsins, eða líkama hins samkynhneigða sem er innilokaður í sjúkdómsgreiningunni, vegna þess að lögin viðurkenna aðeins karlkyn og kvenkyn í tilnefningum sínum, þekkja ekki annað á meðan hinn samkynhneigði leggur eitthvað á borðið sem liggur utan „samtalsins“.

Samkynhneigð sem „heilkenni“? Ekki í Grikklandi til forna. Sveinaástir á leirdiski frá 5. öld f.Kr.

Ef börnin voru útilokuð frá líkama móðurinnar áður en löggjöfin kom til sögunnar, vegna þess að afnotaréttur hans var bundinn við föðurinn einan, þá gerist það með dauða föðurins og tilkomu laganna að konurnar öðlast skiptagildi milli afkomendanna og líkami þeirra hættir að tilheyra náttúrunni en verður að samfélagslegu viðfangi. Þessi umbreyting líkama konunnar frá „notagildi“ til „skiptagildis“ verður grunnurinn að samfélagsreglu sem líkami konunnar nærir og styrkir með þeirri einu forsendu að útiloka frumlæga og virka þátttöku sína í samfélaginu (sem soggetto/frumlag) því annars myndi hún ógna þeirri samfélagslegu samskiptareglu er ríkir á milli karlmannanna og byggir einmitt á þeim grundvelli að afneita virkri þátttöku (soggettivita) konunnar, en meðhöndla hana sem viðfang (skiptagildi).

Samkynhneigð sem „heilkenni“? Ekki í Grikklandi til forna. Kvennaástir á leirdiski frá 5. öld f.Kr.

En þegar þessi umbreyting hefur átt sér stað að kröfu laganna hefur líkami konunnar ekki lengur annað gildi en það sem karlmaðurinn veitir honum í gegnum vöruskiptin, þannig að sama gildir um vörurnar og líkama konunnar, en hann á gildi sitt ekki lengur undir líkamanum, heldur undir karlmanninum sem speglar sig í líkama hennar og gerir hann að mælikvarða samfélagsstöðu sinnar og síns félagslega gildis. Líkami konunnar er metinn af karlmanninum fyrir karlmanninn og öðlast gildi sem er handan náttúrunnar, yfirnáttúrlegt gildi sem er jafnframt það samfélagslega gildi sem karlmaðurinn hefur innleitt. Konurnar hafa þannig afsalað sér líkamanum sem efnislega forsendu vöruskipta og viðskipta.

Rétt eins og vörurnar glata náttúrlegum efnisgæðum sínum þegar þær hafa verið settar á markað sem lýtur lögmálum skiptagildisins – þar sem þær verða hrein hlutgerving þess skiptagildis sem þær endurspegla -, þá verða konurnar með sambærilegum hætti klofnar í tvo ósættanlega líkama: þann náttúrlega og þann sem er „gæddur samfélagslegu skiptagildi“ sem er hin beina og einfalda tjáning hinna karlmannlegu gilda. Þessi seinni líkami er ekki lengur efniskenndur heldur handanlægur og frumspekilegur („meta-fisico“), og sem slíkur það eina sem gildir gagnvart þeirri samfélagslöggjöf sem stýrir hringrás vöruskiptanna. En ekki bara þetta, því rétt eins og vörurnar eru efnisleg hlutgerving löngunar eftir samfélagslegri stöðu meðal karlanna, þá öðlast líkami konunnar gildi sem mögulegur fjárfestingarkostur karlmannsins, sem þannig endurspeglar þarfir og langanir karlmanna í félagslegum viðskiptum þeirra. Í viðskiptaheiminum verða konurnar birtingarmynd og skiptimynt valdsins, valds reðursins (fallo) sem er hinn almenni jafngildingarmælir er liggur til grundvallar félagslegra samskipta karlanna, rétt eins og gullið er grundvöllur jafngildinga innan vöruskiptanna.

En vöruskiptalöggjöfin tekur aðeins til hins óspillta meydóms konulíkamans. Eftir meydómsrofið glatar líkami konunnar skiptagildi sínu, og hefur eftir það einungis notagildi. Þegar líkaminn er horfinn af vöruskiptamarkaði karlanna skilgreinir löggjöfin konulíkamann sem einkaeign með tilnefninguna móðir, tæki til mannfjölgunar sem er merkt nafni föðurins. Bannið á blóðskömminni, sem er grunnforsenda allrar löggjafar, merkir fyrir líkama konunnar/móðurinnar bann við að halda sig á vettvangi vöruskiptanna, því nærvera hennar þar gæti ógnað allri samfélagsreglunni, sem byggir að öllu leyti á líkama konunnar.

Sem óspillt mey hefur konan félagslegan líkama sem er settur í umferð til að gera samskipti karlanna möguleg. Sem móðir hefur konan náttúrlegan líkama sem tekinn er úr umferð til einkaafnota fyrir föðurinn. Við þessar aðstæður er hlutverk vændiskonunnar það eina sem eftir stendur, en það hlutverk er í senn umborið og forboðið af (samfélagslegu) löggjöfinni þar sem munurinn á skiptagildi og notagildi verður um leið óljós. Í slíkri stöðu eru gæði líkamans „til gagns“ um leið og þau verða viðfang viðskipta. Vændið er í raun notkun sem þjónar viðskiptunum. En þetta er tilfelli sem sniðgengur hinar sammæltu tilnefningar löggjafarinnar þannig að svið vændiskvennanna lendir á jaðarsvæðinu.

Óspillt jómfrú, móðir og vændiskona, þetta eru nöfnin sem löggjöfin hefur sett á konurnar. Þar sem þær hafa verið slitnar frá náttúrlegu eðli sínu standa þær nú fyrir og merkja langanir karlanna. Sundraðar innbyrðis vegna „spekúlasjóna“ karlanna hafa konurnar ekki rétt til nautnar, því kynferði þeirra og kynvitund á einungis að þjóna þeim gildum sem hjá jómfrúnni felast í blygðun og fávisku (einnig kallað „sakleysi“), hjá móðurinni í gildi barneignanna, uppeldisins og tryggðarinnar, og hjá vændiskonunni í áhugaleysi á nautninni og viljalausu afskiptaleysi hennar gagnvart atferli karlanna. Svo furða menn sig á kynkulda margra kvenna sem samkvæmt mörgum kynlífsráðgjöfum eiga sér frekar skýringar í getuleysi kveneðlisins en í þeim örlögum að vera undirseld löggjafarvaldi af þessari tegund. Sannleikurinn er sá, að löggjöfin með merkimiðum sínum og tilnefningar-regluverki hefur klofið líkama konunnar í náttúrlegan líkama, sem hún kann ekki að tjá, og samfélagslegan líkama sem er og verður henni framandlegur, því frá félagslegum sjónarhóli eru konurnar viðföng mannanna og meðal karlanna eru þær knúðar til að tala tungumál sem hefur verið þröngvað upp á þær.

Orðræða löggjafarinnar hefur fundið að sér vegið vegna tilnefningaraðferða sinna, þar sem hún hefur skipulagt hið félagslega rými sem rými karlkynsins og kvenkynsins. Þar mætir hún þeim líkömum sem iðka kynlíf sitt án þess að virða þessa uppskiptingu. Þegar við spyrjum okkur um merkingu gríska orðsins ómoíos og þar með merkingu orðsins homo-sexualitá, þá erum við ekki að spyrja um tiltekinn hlut, heldur um orð sem löggjöfin hefur smíðað til að afskrifa og útiloka tiltekin „heilkenni“ og „tilfelli“ er gætu grafið undan málfræðigrunninum sem hún byggir á og afhjúpað hugmyndafræði hennar. Trúverðugleiki löggjafarinnar stendur reyndar í réttu hlutfalli við getu hennar til að leggja orðin og hlutina að jöfnu. Virkni tilnefninga hennar felst í getunni til að innlima hlutina í einu og öllu með þeim hætti að regla laganna og regla nafnanna geti birst okkur sem hin náttúrlega regla, náttúrulögmál sem er jafnframt regla hlutanna.

Þegar sérhver merking kynlífsins hefur verið smættuð niður í hreina viðkomu mannkynsins með tilheyrandi útilokun sérhverrar nautnar er ekki þjóni getnaðinum, uppgötvar orðræða löggjafarinnar að henni er andmælt af „heilkenni“ samkynhneigðarinnar sem tjáir kynlífsnautn án getnaðar. Þessu fylgir afneitun þeirrar jafngildingar nafnanna sem hafa bundið kynhvötina við barneignir í lagabókstafnum. Viðbrögð löggjafarinnar verða þá að útiloka hinn samkynhneigða einstakling frá orðræðu sinni og skilgreina hann sem lögleysu, því hann tilheyri óeðli sem er utan laga náttúrunnar. Þannig verða þau skilaboð samkynhneigðarinnar, sem annars gætu víkkað merkingu kynhneigðarinnar og tengt hana nautninni, notuð af löggjafarvaldinu til að styrkja hugmyndafræðilega stöðu sína, er felist í samsömun hennar við náttúruna – og starfi þar af leiðandi sem náttúrulögmálb. Metnaðarfullur leikur sem byggir á útilokun ómoios (grískt orð yfir hið „sama“ í samkynhneigð), sem að svo komnu máli er ekki til sem virkur gerandi (soggetto), heldur einungis afleiðing orðræðu laganna.

En þessi metnaðarfulli leikur löggjafarinnar verður hættulegur gagnvart hinum samkynhneigða, því ef löggjöfin byggir á mismun kynjanna þá er hann umsvifalaust í þeirri aðstöðu að geta ekki játast löggjöfinni, og stendur því andspænis þeim valkosti að vera annars vegar lögformlega útilokaður – eða hins vegar að afneita útilokuninni og gerast þar með brotlegur. En með því að spila með lögunum gerir hann ekki annað en að styrkja þau, og þar með að standa með þeim gagnvart öðrum. Með þessum hætti er hinn samkynhneigði líkami umbreyttur frá hendi löggjafans úr því að vera lögbrot, „heilkenni“ eða „tilfelli“ á máli löggjafans, í að til að verða sá fulltrúi hans sem hefur leyfilegan aðgang að nautninni einungis sem endurtekin birting „heilkenna“. Þessi takmörk tryggja hinum samkynhneigða að með endurtekningunni geti hann sýnt bæði sjálfum sér og hinum að lagabókstafurinn (um mismun kynjanna) sé ekki gildur. Um leið sér hann til þess að lögin sem setja hann á útjaðarinn verði bjarghringur þessa jaðarsvæðis laganna.

Í bókstaf laganna þarf sérhvert tilfelli að ávinna sér sína formlegu virðingu, vera innritað í tiltekinn lista og eiga sér sína mörkuðu leið í kerfinu, er markast af þvingaðri samsemd (coazione all‘identiá). Öll málfræði sagnarinnar að „vera“ sem tungumál okkar byggir á, stjórnast af þessari röksemdafærslu samsemdarinnar (þetta er þetta) sem stuðlar að aftengingu hins frábrugðna og tvíræða. Líkaminn sem tjáir engin sérstök áform með tilkomu sinni, því hann innritar sig ekki í neitt télos (gríska orðið fyrir markmið) er helgi tiltekna reglu út frá fyrirfram gefinni óreglu, þessi líkami aðlagast tungumálinu illa því hann finnur sig búa yfir böli efnisins, sambræðslu áhrifa er eiga sínar í sögulegu rætur er hafa þróast með þverstæðufullri margræðni. Þegar líkaminn hafnar reglunni um ekki-mótsagnir þar sem auðvelt er að greina endurkomu hins sama, þá hafnar hann um leið æðsta lögmáli tungumálsins, rökhyggju þess á forsendum sem Nietzsche orðaði með þessum hætti:

„Hvað varðar rætur tungumálsins, þá tilheyra þær tímabili hinnar frumstæðustu sálarfræði: ef við öðlumst skilning á grundvallar forsendum frumspeki (metafisica) tungumálsins – Við göngum inn í heim frumstæðustu hlutadýrkinar (feticismo) ef við öðlumst vitund um meintar forsendur frumspeki tungumálsins – eða til að skýra mál mitt betur inn í frumspeki rökhyggjunar – (…) Í heimi sem birtist í þúsund myndum urðu heimspekingarnir undarlega meðvitaðir um öryggið og hina frumlægu fullvissu þess að hafa vald á flokkunarhólfum rökhugsunarinnar: þeir drógu þá ályktun að þessi hólf gætu ekki átt sér áþreifanlegan (empirískan) uppruna – þvert á móti væri öll skynreynslan í mótsögn við þau. Hvar er þá þennan uppruna að finna? – Og jafnt á Indlandi sem í Grikklandi lentu menn í sömu villunni: „Við hljótum að hafa dvalið einhvern tímann áður í æðri heimi (í stað þess að segja: í heimi er væri langtum óæðri, sem hefði verið sannleikanum samkvæmt), við hljótum að hafa verið guðum líkir, þess vegna er okkur gefin rökhugsunin!“ Staðreyndin er sú að enginn hefur búið yfir sambærilegum sannfæringarkrafti um villu verunnar og kom fram í máli heimspekinganna frá Eleu : þessi villa hefur á sínu bandi sérhvert orð og sérhvern þann frasa sem við látum út úr okkur! Einnig andstæðingar heimspekinganna frá Eleu létu undan tálinu sem fólst í hugtaki þeirra um veruna. Einn þeirra var Demokrítos, þegar hann uppgötvaði atóm sitt. „Rökhugsunin“ í tungumálinu: hvílík galdrakerling! Ég óttast að við munum ekki geta losað okkur við Guð því við trúum enn á málfræðina.“[iv]

Málfræðin gegnir því hlutverki að afmarka hið ótakmarkaða, þar sem engin innritun er möguleg, þar sem hvorki er um frumlag (soggetto) né andlag (oggetto) að ræða, og þar sem ekki getur því orðið um neina sviðsetningu að ræða. Óljós kynhvöt er kynhvöt sem við getum ekki naglfest þar sem „óeðlið“ brýst út vegna þess að það víkur frá þeirri stefnu sem löggjöfin hefur fest í mynd sinni af tegundinni, þar sem innifalin er myndgerving hins sama, mynd sonarins sem er „skapaður í mynd og líkingu“[v]. Af þessu stafar sú nauðsyn laganna að gefa líkömunum þessa samsemd (identitá) sem verður síðan veruleiki þeirra. Hegel sýndi þetta með ótvíræðum hætti: „þegar til staðar eru í heild sinni (compiutamente) allar aðstæður tiltekins hlutar, þá gengur hann inn í veruleikann“.[vi] Þetta gerir dóminum mögulegt að breiða fullkomlega úr valdi sínu, því eins og Hegel skrifar:

„Dómurinn felst í afstöðu samsemdar á milli frumlags (soggetto) og umsagnarliðs (predicato). Í dóminum er gengið út frá þeirri staðreynd að frumlagið eigi sér önnur mörk umfram umsagnarliðinn, rétt eins gengið er út frá því að umsagnarliðurinn sé víðfeðmari en frumlagið. Ef því er nú þannig háttað að inntakið er huglægt (speculativo), einnig í mynd ekki-samsemdar frumlags og umsagnarliðs, þá er það grundvallar atriði, en það kemur ekki fram í dóminum.“[vii]

Að svo komnu máli segir Hegel: „Spurningin getur eingöngu snúist um að vita hvað komi fyrst innan vitneskjunnar, og hvað komi síðan á eftir“.

Ályktunin sem fylgir er þessi: „Ekki er lengur þörf á að fylgja eftir samkvæmt náttúrunni, hér nægir að fara samkvæmt þekkingunni“.

Þetta er framgangsmáti löggjafans, svo vel tjáður í sinni hegelsku hlutadýrkun (feticismo) hugsunarinnar, sem telur raunveruleikann höndlaðan að fullu og öllu í þeim skilningi sem hún hefur öðlast. Með sama hætti ganga lögin út frá skilningi sínum á raunveruleikanum til þess að segja hvað hann er, umvafin þessu sjálfhverfa (narsistíska) óráðsæði sem greinir ekki lengur ógagnsæi efnisins né þær margræðu línur sögunnar sem falla engan veginn saman. En mismunur líkamanna fellur engan veginn saman við skilninginn sem löggjafinn hefur öðlast á þessum mismun. Líkaminn er aldrei í einu og öllu kvenlegur eða karlkyns. Að halda fram mismuninum og afneita tvíræðninni þjónar eingöngu þeim tilgangi að vilja umfram allt halda í reglu Nefnarans í útlistun hins margræða í líkömunum, reglu semhb aldrei verður ótvíræð, því líkamarnir lifa stöðugt í þversögninni sem gerir þá ónæma ef ekki ódrepandi gagnvart allri einsýnni merkingu.

Engu að síður tekst löggjafanum að leggja ok sitt á líkamana, að leiða þá inn í einsýni merkingar með því að leggjast yfir þann vef nautnarinnar sem líkamanum tilheyrir frá náttúrunnar hendi. Það sem lögin leyfa er einmitt nautnin sem laun fyrir hlýðnina. En sú nautn sem lögin heimila er sett á frest, hún er meiri en líkaminn getur öðlast í augnablikinu, hún er enn lengra í burtu, lengra í burtu en „himininn“ er frá „jörðinni“. Með þessum hætti ná lögin fram samþykki fyrir fórnfýsinni í þessu ástandi eilífrar skuldsetningar sem felur í sér og endar í líkamanum samkvæmt röksemdafærslu skuldsetningarinnar.

Þegar líkaminn hefur einu sinni tekið inn á sig skuld sína gagnvart lögunum er það framtíð fórna og afneitunar sem við honum blasir, þar sem hann mun aldrei geta greitt skuld sína sem orðin er óendanleg og kallar á íhlutun Guðs, sem er Nafn nafnanna, sá eini sem getur „fyrirgefið skuldirnar“. Hér sá Nietzsche réttilega snilldarbragð kristindómsins sem flutti nautnina yfir í Handanheiminn og tókst þannig að gróðursetja í hjörtum mannanna tilfinninguna fyrir eilífri skuldsetningu:

„Hér stöndum við óvænt frammi fyrir þverstæðufullum og ógnvænlegum vélabrögðum þar sem hið þjáða mannkyn upplifði andartaks létti, andspænis þessu snilldarbragði kristindómsins: Guð sjálfur fórnar sér fyrir sakir mannanna. Guð sjálfur sem skuldgreiðir sjálfum sér. Guð sem hinn eini er getur losað manninn undan því sem fyrir honum sjálfum er orðið ólosanlegt. – Lánveitandinn sem fórnar sér fyrir skuldunaut sinn af einskærri ást (eigum við að taka þetta trúanlegt) – af ást á skuldunaut sínum!“[viii]

Þannig gerist það að ofan á skuldina bætist viðurkenningin, sem aldrei verður endurgoldin en dregur mennina niður í þá stöðu þrældómsins sem hin fornu samfélög höfðu lagt allt í sölurnar til að komast hjá, með því að endurgjalda samstundis sérhverja gjöf með viðeigandi endurgjaldi innan þess táknræna samskiptavefs sem síðan var eyðilagður með skiptagildinu, er studdist við þá almennu jafngildingu sem lögin verða endanleg tjáning fyrir.

En eins og við sáum í upphafi kaflans, þá fylla löginn sæti hins dauða, sætið sem stóð autt eftir dauða föðurins og var síðan fullsetið á ný með Nafni hans. Þetta sæti felur því á bak við sig tiltekið tómarými. Þetta tómarými er tóm loforðsins og fyrirheitsins, það er tómið sem býður líkamanna sem hafa fórnað sér fyrir nautn er stöðugt var slegið á frest og aldrei raungerð. Það er einmitt í krafti þessa tómarúms sem lögin geta virkað og virka sem regluverk allra viðskipta á viðskiptareikningi allrar kaupsýslu, stjórnmála, félagsmála, tungumála og lífsnautna.

Með því að banna bráðanotkun eigin kynhvatar (sjálfsfróun) og bráðasamskipti náskyldra (blóðskömm) tryggja lög Föðurins í hinni frumstæðu hjörð löglega framvindu kynlífsins, þar sem reðurinn (fallo) umbreytist frá notagildinu til skiptagildisins (með banni sjálfsfróunarinnar) og þar sem bann blóðskammarinnar tryggir umskiptin frá bráðasamræði til þeirrar almennu jafngildingar í hringrás viðskiptanna sem við þekkjum.

Þessi setningaskipan sem stýrir hagfræði kynlífsins er sú sama og við getum rakið í hinni pólitísku hagfræði. Með því að banna umsvifalausa bráðanotkun gæðanna skapast möguleiki á uppsöfnun þeirra með möguleg viðskipti í huga, og síðan skapast með banni bráðra vöruskipta möguleiki á framleiðslu gullsins eða gjaldmiðilsins sem skilgreinir gildi alls varnings og setur vöruskiptunum reglur. Um er að ræða ólík samfélagssvið sem lúta engu að síður sömu lögmálum er öll ganga út frá banni á allri bráðanautn (godimento immediato), hvort sem er í formi notkunar eða skipta, ásamt ótiltekinni frestun laganna sem setja reglurnar og tryggja þau samskipti sem lúta ekki lengur lögmálum náttúrunnar, því þau heyra undir lögin. Þetta sá Aristóteles fyrir þegar hann skrifaði:

„Myntin er tilkomin til hagræðis sem skiptimiðill fyrir nauðsynjarnar. Af þessari ástæðu er myntin kölluð á grísku hinn löglegi hlutur (nomisma), því hún er ekki tilkomin af náttúrunnar völdum heldur fyrir tilstilli laganna (nómos) og er því í okkar völdum að breyta henni eða afnema.“

Að svo komnu verða lögin grundvöllur gildanna sem myndu annars hverfa á svipstundu ef snúið væri aftur til bráðanotkunar gæðanna eða til beinna vöruskipta, til viðskipta „in natura“ og til blóðskammarinnar. En Heidegger varar okkur við: „gildin eru ekki til staðar, þau bara gilda, og gilda að því marki sem þau eru í boði sem það sem telur.“[ix] Og Nietzsche segir: „þar sem þið sjáið ídeala (upphafna) hluti, þar sé ég mannlega hluti, ó! Allt of mannlega!“[x]. Það sem lögin fela undir grímunni með gildakerfi sínu er einmitt þessi ofauki hins „mannlega“, þessi líkamlega náttúra sem myndi tjá sig í frjálsu ósætti og í leik mismunanna ef hún væri látin afskiptalaus og á eigin vegum.

Andspænis þessu mögulega stjórnleysi (an-archia) tefla lögin fram sínu einveldi (mon-archia): safna saman hinum dreifðu ósjálfráðu og brotakenndu hvötum (pulsioni) hins bernska margbreytileika og tengja þær þeim eina miðpunkti (mónos) sem er reðurinn (il fallo), til þess síðan að geta tilnefnt allar aðrar kynferðislegar hneigðir sem öfuguggahátt (perversione). Lögin safna öllu tiltæku vinnuafli saman undir merki hinnar einu sértæku tjáningar sem er gull-myntin, en gildi hennar, líkt og gildi reðursins, felst í að vera aðskilin og útilokuð frá heildinni sem hún stýrir, einmitt í krafti þessarar útilokunar sinnar. Þannig getur gullið tjáð gildi varanna, en ekki sem gull-vara sem menn skiptast á, heldur eins og sú gullmynt sem einmitt með útilokun sinni frá vöruskiptunum er þess megnug að stýra hringrás viðskiptanna. Rétt eins og hinn dauði faðir, sem einmitt í krafti dauða síns verður stjórnandi þeirra félagslegu samskiptareglna sem afkomendurnir setja sér í nafni föðurins.

Staður laganna er þannig staður hins dauða. Til þess að verða hinn almenni jafngildismælikvarði þarf Alvaldið að standa utan alls jafngildis, það verður að standa utan hins almenna, það er að segja utan þess samfélags sem það drottnar yfir. Og það er einmitt í krafti útlegðarinnar sem það setur lögin. Löggjöfin getur þannig einungis stýrt hérverunni í gegnum handanveruna, hún getur einungis ráðið yfir líkömunum með því að upphefja sig í það andlega veldi sem er um leið grundvöllur þess hugtaks sem við köllum anima eða anda.

Allt verður þetta auðveldlega sannreynt með þeirri föðurlegu erfðaskrá þar sem miðlun föðursins verður einungis virk í heimi afkomendanna eftir að hann hefur verið drepinn, það er að segja fjarlægður úr þeim hópi sem hann stýrir og varpað yfir í handanheiminn. Það er því úr handanheiminum sem faðirinn verður að löggjöf. Sama fyrirbæri sjáum við í efnahagsreikningi varanna sem njóta alþjóðlegrar skráningar í gullmyntinni, því gullmyntin er ekki vara í hefðbundnum skilningi. Útilokun hennar úr hringrás vöruskiptanna, handanvera hennar, er einmitt það sem gerir henni kleift að safna undir sinn hatt öllum hugsanlegum gildum. Eða með orðum Marx:

„Vara getur því aðeins tekið á sig mynd almennrar jafngildingar að hún sé útilokuð úr heimi allra annarra vara. (…) Hið formlega gildi varanna í mynd gullsins er aðskilið frá líkamlegu formi þeirra, þessu áþreifanlega og raunverulega, gullið er þannig einungis hið ídeala form vörunnar“.[xi]

Þetta mynstur sem stýrir hringrás varningsins í hinu kapítalíska kerfi samkvæmt Marx, er ekki annað en endurtekning á aðskilnaði sálarinnar (anima) frá líkamanum samkvæmt þeim skilningi sem hefur verið viðtekinn í sögu Vesturlanda frá og með Platoni. Rétt eins og gullið er hafið yfir stöðu varningsins í efnahagsreikningi vöruviðskiptanna, þannig er reðurinn hafinn yfir stöðu hins takmarkaða erótíska viðfangs (endaþarms, munns eða brjósts) og þessi handanvera hans er það sem gerir honum kleift að taka sér stöðu sem almennur jafngildismælikvarði viðfanga eðlishvatanna. En samkvæmt rökfræði hinnar almennu jafngildingarreglu verður hið löglega konungsríki reðursins00 sem drottnar yfir náttúrlegu stjórnleysi hvatalífsins til þess að framkalla með útilokun sinni það leikhús vönunarinnar sem segir okkur að löggjöfin staðfesti sjálfa sig ekki bara með dauða föðurins heldur einnig sem vettvangur vönunar afkomendanna.

Með því að upphefja reðurinn í stöðu hinnar almennu jafngildingar hefur löggjöfin reyndar fundið tækið til að koma í veg fyrir bráðanotkun hans, og jafnframt tækið til að dæma sem „öfugugga“ (perversi) alla þá sem eru „fastir“ í þeim fasa sem telst pre-genitale eða forstig æxlunarfæranna. Þeir neita að viðurkenna reðurinn sem þann algilda jafngildingarmiðil er stýri hringrás hvatanna í líkamanum. Það gildir um reðurinn eins og um gullið að eignarhald hans er einungis staðfest þar sem hann er til hlés, utan hinnar almennu hringrásar, það er að segja þegar hann glatar gildiseðli sínu í hinni almennu hringrás samskiptanna. Löggjöfin virkjar leik sinn með því að halda reðrinum í skefjum, en það jafngildir því að tengja nautnina við vönunina, sem eins og Lacan segir. „felur í sér að nautnin sé dregin til baka svo að hún verði höndluð á öfugum mælikvarða nautalögmálsins.“[xii] Löggjöfin nær markmiði sínu með samfelldri framköllun vonbrigða gagnvart löngunum líkamans, en það felur í sér samfellt taumhald þeirra innan vegvillu löngunar laganna. Slík er hin löglega regla, og í þessum skilningi segjum við að líkaminn sé ekki skuldbundinn neinni löggjöf.


Forsíðumyndin er hluti af borðplötunni sem málarinn Hieronymus Bosch málaði árið 1480 og sýnir "Dauðasyndirnar sjö". Myndin sínir Krist sem dómarann á dómsdegi umkringdan heilögum dýrlingum og englum. Líkamarnir sem rísa úr gröfum sínum svara hér fyrir syndir sínar. Til fróðleiks eru hér sýnd heildarmynd borðplötunnar og einstakir hlutar þessa merka verks, sem er varðveitt í Prado-safninu í Madrid..

Bosch: Borðplatan „Dauðasyndirnar sjö og fjórir hinstu hlutirnir“ frá 1480. Dauðasyndirnar eru myndgerðar í hring utan um mynd Krists sem sýnir banasár sín sem endurgjald fyrir syndir mannsins. Hringmyndirnar fjórar eru „síðustu áminningarefnin fjögur“ í þessari áminningu um lögmálið og losta hins syndsamlega líkama mannsins.

Bosch: Dauðastundin þar sem deyjandi karlmaður er losaður við losta holdsins.

Bosch: Dauðasyndirnar sjö: 1) „gula“ eða hóflaus matarlyst, 2)“accidia“ eða leti og sinnuleysi, 3) „luxuria“ eða holdlegur losti, 4) „superbia“ eða hroki, 5) „ira“ eða reiði og illska, 6) „invidia“ eða öfund, 7) „avaricia“ eða níska.

Bosch: Frelsuð undan viðjum hins holdlega losta öðlast maðurinn og konan aðgang að Himnaríki .

[i] S.Freud: Der Mann Moses und die monotheistische Religion

[ii] J.Lacan: D‘une question préliminaire à tout traitement possible de la psychose (1957-58).

[iii] Platon: Kratilos 388e – 389 a: Sókrates: Verður þá góður smiður til að gefa nöfnin og góður smiður fyrir tómið?

[iv] F.Nietzsche: Götterdammerung, oder: Wie man mit dem Hammer philosophiert, (1889)

[v] Mósebók, 1,6.

[vi] G.W.F.Hegel: Wissenschaft der Logik (1812-16)

[vii] Sama rit.

[viii] F,Nietzsche: Zur Geneologie der Moral. Eine Streitschrift (1887).

[ix] M.Heidegger: Nietzshes Wort: „Gott ist tot“ (1953).

[x] F.Nietzsche: Ecce homo. Wie man wird was man ist (1888)

[xi] K.Marx: Das Kapital. Kritik der politischen Oekonomie (1867-83)

[xii] J.Lacan: Propos directifs pour un Congres sur la sexualité féminine (1958)

ALLAR HEIMSINS MYNDIR

Ólafur Gíslason

Allar heimsins myndir

Grein þessi birtist í Helgarblaðinu 5. júní 1992 í tilefni sýningar á listaverkagjöf Errós til Reykjavíkurborgar, sem haldin var á Kjarvalsstöðum veturinn 1992. Greinin gerir ekki tilkall til að vera einhvers konar heildaryfirlit eða úttekt á verkum Errós, heldur varpar hún upp spurningum sem lesa má úr verkum hans um hefðbundin hugtök í listumræðunni eins og höfundarverk, dtulvitund, tjáning innri veru og tilfinninga o.s.frv. og bendir á hvernig verk Errós grafa undan slíkri listumræðu í heimi þar sem tungumálið sjálft, hér myndmálið, er ekki frumlegt framlagt einstaklingsins, heldur gerandinn í mótun sjálfsmyndar hans og skynjunar á umheiminum: hér er það tungumálið (í víðari skilningi) sem talar okkur.

Erro: Captain America, 1992

Hvaða skoðun sem menn annars kunna að hafa á myndlist Errós verður því ekki neitað, að myndir hans vekja margar áleitnar spurningar. Þessar spurningar eru áleitnar vegna þess að þær varða afstöðu okkar ekki bara til sjálfra myndanna og einstakra efnisatriða þeirra, heldur einnig afstöðu okkar til sjálfs myndmálsins og skilnings okkar á hlutverki þess og tengslum við þann þjóðfélagsveruleika, sem við búum við.

Ein fyrsta og nærtækasta spurningin, sem myndir Errós vekja, varðar sjálfan höfundinn: hver talar í þessum myndum? Það mun hafa verið heimspekingurinn Nietzsche, sem setti fram hliðstæða spurningu andspænis tilteknum texta, og komst að þeirri niðurstöðu, að það væri tungumálið sem hefði orðið. Andspænis hinu yfirþyrmandi og ópersónulega myndflæði Errós þurfum við ekki að velkjast í vafa um það, hver hefur orðið í málverkum hans: það er myndmálið. Þessi staðreynd raskar hefðbundinni hugmynd okkar um höfundinn, höfundarverkið og hina frumlegu sköpun. Hvert er hlutverk höfundarins, ef það er sjálft tungumálið sem hefur orðið, og hvar er hann að finna í myndverkinu, sem þrátt fyrir ópersónulega eða vélræna útfærslu er þó engu að síður kirfilega auglýst og merkt sem höfundarverk og persónuleg gjöf listamannsins Errós til Reykjavíkurborgar?

Erró: Picasso manía, 1992

Við erum svo vön þeirri hugsun, að það sé hlutverk listamanna að „tjá“ tilfinningar sínar eða sinn „innri mann“ eða það sem þeim „býr í brjósti“, að við áttum okkur ekki alltaf á því, að þetta er hugsun sem á sér tiltölulega stutta hefð í sögu mannsins og er nátengd þeirri einstaklingshyggju, sem fylgt hefur uppgangi borgarastéttarinnar í sögunni. Ef horft er til listasögunnar í heild sinni er tímabil einstaklingshyggjunnar og hinnar sjálfhverfu tjáningar stutt, eða um það bil 5 aldir. Myndlistin hefur lengst af í sögunni gegnt því hlutverki að sýna eða opinbera guðdómlegan sannleika, sem byggði í engu á persónulegu eða frumlegu framlagi listamannsins. Þvert á móti var beinlínis litið á það sem listræna synd ef listamaðurinn reyndi að blanda eigin persónu inn í viðfangsefni, sem átti sér trúarlegar eða guðdómlegar forsendur.

Á miðöldum eða meðal svokallaðra hefðbundinna þjóðfélaga voru hugmyndir einfaldlega ekki taldar eiga sér persónulegan heldur guðdómlegan uppruna, og persónuleg eign á þeim var því í raun fjarstæðukennd trúvilla. Því merktu listamenn miðalda eða hinna hefðbundnu samfélaga ekki verk sín eða héldu á lofti höfundarrétti sínum. Þegar myndlistin hætti að gegna því trúarlega hlutverki að opinbera okkur guðdómlegan sannleika, varð það ekki síst hlutverk hennar að birta okkur hlutlæga mynd af hinum ytri veruleika, náttúrunni eða manninum sjálfum, ýmist með lýsandi eða túlkandi aðferðum. Þessar breytingar urðu annars vegar með tilkomu húmanismans, landafundanna og endurreisnarinnar á 15. og 16. öldinni, og hins vegar með tilkomu iðnvæðingar, vísindahyggju, markaðskapítalisma, heimsvaldastefnu og þjóðernisstefnu á 17. en þó einkum 18. og 19. öldinni. Hugmyndin um hin skörpu skil á milli ytri og innri veruleika mannsins verður þó fyrst til með tilkomu nútíma sálarfræði í upphafi þessarar aldar. Það var ekki síst á kenningum Freuds, sem súrrealistarnir og síðan expressíónistarnir byggðu þær hugmyndir sínar að varpa því sem býr í „dulvitundinni“ og hinum dýpstu hugarfylgsnum listamannsins yfir á léreftið með nánast ósjálfráðri skrift. Samkvæmt þessum hugmyndum, sem við kennum gjarnan við „frjálsa og óhefta tjáningu“, er persóna listamannsins eins konar gámur, sem er fullur af mismunandi göfugum og heillandi hlutum og dóti. Hlutverk listamannsins er þá að „koma þessu frá sér“ eins og gjarnan er sagt á listamannamáli, að tæma úr gámnum yfir á léreftið, eða hella því í tölvuna eða hljóðfærið eða það ílát, sem notast er við hverju sinni. Ílátið er þá formið, hvort sem það er bundið við ritmál, myndlist, tónlist eða annan „tjáningarmáta“. Þessi aðferð við „frjálsa tjáningu“ hefur reynst skammvinnari lausn á vandamáli frumlegrar frásagnar en efni stóðu til. Menn hafa einfaldlega komist að því, að það sem gámurinn hefur að geyma er ekki eins upprunalegt og talið var, heldur oftast fengið að láni. Með tímanum varð ljóst að gámur persónuleikans var uppfullur af klisjum og goðsögnum og hinn persónulegi frumleiki gufaði upp í höndunum á súrrealistunum og expressíónistunum. Eftir stóð „tjáning“ án dulvitundar, án persónulegra höfundareinkenna. Það er tjáning tungumálsins sjálfs.

Erró: Á sálfræðibekknum

Það er freistandi að tengja þessa uppgötvun samfélagsþróuninni í heild. Meðal þeirra fræðimanna, sem reynt hafa að setja fram slíka heildstæða kenningu er Bandaríkjamaðurinn Fredric Jameson. í bók sinni Postmodernism or the Cultural Logic of Late Capitalism (Duke University Press 1991) bendir hann á þrjú stig hagþróunar er eigi sér þrjár hliðstæðar aðferðir við tjáningu, túlkun eða lýsingu veruleikans, hvort sem um er að ræða myndlist eða aðrar listgreinar. Þessar hliðstæður eru að hans mati markaðskapítalismi/raunsæi (18. og 19. öld), einokunarkapítalismi og heimsvaldastefna/módernismi (síðari hluti 19. aldar og fyrri hluti 20. aldar) og yfirþjóðlegur kapítalismi/postmódernismi (síðari hluti 20. aldar). Samkvæmt þessum hugmyndum á það sem kallað er postmódernismi, ekkert skylt við hugtakið stíl í hefðbundinni notkun þess orðs, heldur er það bundið við ástand, sem tengist því stigi kapítalískra framleiðsluhátta sem við búum nú við í hinum tækniþróaða heimi. Þessir framleiðsluhættir hafa ekki aðeins beina efnahagslega þýðingu, heldur hafa þeir haft mótandi áhrif á menningarlegt umhverfi okkar og máð út viðmið sem áður þóttu sjálfsagðir hornsteinar í daglegri tilveru. Eitt þessara viðmiða er sjálft þjóðríkið. Annað varðar fjarlægðir í tíma og rúmi, sem hafa breyst með breyttum samgöngum og breyttri samskipta- og upplýsingatækni. Þriðja viðmiðið varðar hugmyndir okkar um notagildi og skiptagildi, þar sem gildismatið hefur færst frá hlutnum sjálfum yfir á ímynd hans eins og hún birtist okkur í sjónvarpinu og fjölmiðlaheiminum. Heimurinn hefur þannig orðið að eins konar allsherjar markaðstorgi ímynda sem byggja á líkingu við veruleikann (sýndarveruleika), án þess að veita okkur aðgang að beinni snertingu og áþreifanlegu notagildi í hefðbundnari skilningi. Samhliða færist þungamiðja efnahagslífsins frá beinni frumframleiðslu yfir í þjónustu, upplýsinga- og áróðursmiðlun og umfram allt síaukna neyslu varnings og ímynda.

Þetta eru allt staðreyndir, sem hafa sínar slæmu og sínar góðu hliðar. Þær eru hluti af altæku framleiðslu- og samskiptaneti, sem á sér engin landamæri og nær einnig til innstu vitundar okkar sjálfra og þess tungumáls sem við tölum. Það er ekki bara vinna mannsins sem hefur verið hlutgerð (eins og Marx sagði), heldur líka náttúran og vitund okkar og tungumálið sem við tölum og tjáum okkur með í myndum.

Það er þetta tungumál, sem talar til okkar í myndverkum málarans Errós. Þess vegna málar hann tungumálið eins og það sé hvert annað landslag í huga okkar eða vitund. ímyndir Errós hafa slitið öll tengsl bæði við höfund sinn og fyrirmyndir. Þær hafa öðlast sjálfstæða tilvist og talast við innbyrðis í heimi sem stendur utan alls annars veruleika en veruleika tungumálsins sjálfs. Þannig eru myndir hans hvort tveggja í senn innihaldslausar og sjálfum sér samkvæmar.

Ekki er óeðlilegt að spurt sé, hvort framsetning þessa firrta veruleika tungumálsins, þar sem tengslin við höfundinn og fyrirmyndina hafa verið rofin, hafi eitthvert frelsandi eða uppbyggilegt gildi. Í hverju er gildi þessara verka fólgið úr því þau hafa hvorki beina skírskotun til hinnar persónulegu tjáningar höfundarins né til hins ytri hlutveruleika? Þetta er auðvitað kjarnaspurning, og við slíkum spurningum fæst sjaldnast einhlítt svar. Við getum þó byrjað á að nefna, að hið ópersónulega myndmál Errós er eins konar staðfesting á fyrirbæri, sem ekki bara einkennir samtíma okkar, heldur varðar líka skilning okkar sjálfra á þeim samfélagsveruleika, sem við erum þátttakendur í upp á gott og illt. Þetta fyrirbæri er upplausn og sundrung þess tungumáls sem við notum til að gera okkur mynd af sjálfum okkur og stöðu okkar í heiminum. Með því að endurvarpa þessu sundraða myndflæði á léreftið og endurgera það í sífellu í sinni fjölbreytilegu einhæfni og sinni merkingarlausu merkingu er Erró að endurspegla heimsmynd, þar sem hinn frumlegi og heilsteypti maður er smám saman að hverfa inn í það nafnleysi og tímaleysi sem ríkir á bak við hina kyrrstæðu og þöglu ímynd eða helgimynd goðsögunnar um tungumálið.

Freistandi verður að sjá í þessu nafnleysi líkingu eða hliðstæðu við það nafnleysi og tímaleysi sem lesa má úr helgimyndum miðalda. Við getum þannig séð í myndum Errós vissa samlíkingu við framtíðarsýn franska heimspekingsins Michel Foucaults, eins og hann setur hana fram í lok bókarinnar Les mots et les choses. Þar er sett fram sú tilgáta að maðurinn í þeirri mynd sem við þekkjum hann, og þær fræðigreinar sem maðurinn hefur jafnframt gert um sjálfan sig, hafi verið uppfinning er átt hafi sitt tilvistarskeið á tímabili milli tveggja tungumálahátta (eða tveggja aðferða við það að tjá veruleikann í myndmáli). Maðurinn í þessum skilningi varð ekki til, segir Foucault, fyrr en tungumálið fékk það hlutverk að búa til mynd af heiminum og manninum sjálfum á hlutlægan hátt. Þetta leiddi til upplausnar tungumálsins: „maðurinn gerði sér mynd sína í glufum þessa brotakennda tungumáls… Úr því að maðurinn varð til á tíma, þegar tungumálið var dæmt til upplausnar, mun hann þá ekki hverfa þegar tungumálið endurheimtir einingu sína?“* Það má lesa út úr þessari spurningu Foucaults vissa heimsendaspá eða spá um endurkomu Guðs í líki þeirrar persónulausu og tímalausu grímu, sem við sjáum til dæmis á býsanskri helgimynd: „andlit mannsins brestur í hlátur og gríman hefur innreið sína. Við sjáum upplausn þess tímastraums sem maðurinn fann sig berast með, og sem hann trúði að ætti uppruna sinn í veru hlutanna. Endurkoma Hins Sama jafngildir fullkominni upplausn mannsins.“* Spurning Foucaults varðar framtíðina, þar sem hann sér fyrir sér í hillingum „nýja guði, sem jafnframt eru hinir gömlu guðir“, og „eru þegar teknir að taka á sig mynd á Úthafi framtíðarinnar“.* Myndheimur Errós sýnir okkur ekki framtíðina. Myndmál hans hefur ekki „endurheimt einingu sína“* í ímynd hinnar nafnlausu og tímalausu grímu. En samkvæmt skilningi Foucaults er „Endurkoma Hins Sama“ og „endurheimt einingar tungumálsins“ fólgin í því að tungumálið öðlist á ný algilda merkingu í trúarlegum skilningi. Þá verður kórónan ekki lengur bara merki, sem hægt er að setja á hvað sem er, heldur verður hún bókstaflegt ígildi Konungdómsins, sem Manninum ber að lúta. Á bak við þá upplausn tungumáls samtímans, sem við sjáum í endalausu myndflæði Errós, sjáum við kannski djarfa fyrir þessari óumbreytanlegu grímu, þar sem hin húmaníska hugmynd um Manninn sem viðmið og forsendu allra hluta mun hverfa með útsoginu fyrir fullt og allt. Spurningin er því sú, hvort það verði niðurstaðan í framtíðinni, að allar heimsins myndir muni þannig steypast í eitt og sama mótið?

Tilvitnanir úr Michel Foucault: The Order of Things, an Archeology ofthe Human Sciences, Vintage Books 1994, bls. 385-386. 

Forsíðumyndin er Myndasafn þjóðanna í UNESCO-byggingunni í París frá 2003

LEIKUR SANNLEIKANS I.

Carlo Sini:

 

TÍMINN OG ÞÖGNIN

"Tíminn og þögnin" er stutt kaflabrot úr hinu viðamikla riti ítalska heimspekingsins Carlo Sini, Il gioco della verità, sem kom út snemma á þessu ári. Ritið myndar seinna hefti í tveggja binda verki sem aftur myndar fyrsta bindið í yfirlitsútgáfu á heildarverki Sini upp á 6 bindi sem samtals telja 13 veigamiklar bækur. Af þessum 13 bókum eru 7 þegar út komnar, og sú síðasta sem kom út snemma á þessu ári er einmitt "Leikur sannleikans -Merkingarfræði og túlkunarheimspeki." Heildarútgáfan hefur sameiginlega titilinn "Opere" eða "verk" og spannar fræðaferil Sini allt frá því hann hóf heimspekikennslu við háskólann í Milano 1976 til síðustu ára. Carlo Sini á afar fjölbreyttan feril sem heimspekingur og hefur í starfi sínu lagt fram frumlegan skerf til hinnar alþjóðlegu heimspekiumræðu á ólíkum sviðum eins og fyrirbærafræði, túlkunarheimspeki, merkingarfræði tungumálsins, mannfræðilegrar heimspeki og þróun þekkingarfræði þar sem hann hefur lagt áherslu á að rekja söguna eins nálægt uppruna sínum og hægt er, bæði á svið málvísinda, þekkingarfræði, goðafræði og heimspekilegrar mannfræði. Lestur þessa nýjasta bindis Sini, "Il gioco della verità" hefur verið eitt meginviðfangsefni mitt það sem af er þessu sumri, og jafnast á við besta kúrs í fræðilegri heimspeki. Þessi bók er ekki sett upp í tímaröð, heldur spannar hún úrvinnslu texta frá háskólakennslu Sini á árunum 1982-89 fyrri hlutinn (Immagini di veritá-dal segno al simbolo) og seinni hlutinn frá árunum 1989-2011 (Il gioco del silenzio). Viðbætir eða "Appendix" er svo ritaður á allra síðustu árum. Heildarútgáfan á Opere er unnin í samvinnu Sini og nemanda hans, Florindu Cambria. Kaflinn um tímann og þögnina er gott dæmi um fræðilega nálgun Sini, þar sem hann byggir annars vegar á samræðu við samtímann á sviði fyrirbærafræði, túlkunarheimspeki, merkingarfræði og málvísinda og hins vegar á vísindalegum rannsóknum á sviði sálfræði og taugalífeðlisfræði bandaríska geðlæknisins Daniels Stern. Líta má á slíka samtengingu vísindarannsókna og heimspekilegrar fyrirbærafræði sem framhald og viðbót við fræðilegan arf helstu frumkvöðla fyrirbærafræðinnar á 20. öldinni, Husserls og Maurice Merleau-Ponty. Um leið sýnir hún frumlega tengingu hinnar evrópsku heimspekihefðar við bandarískan pragmatisma frá fyrrihluta 20. aldar. 

Þessi kafli er einn af þrem sem ég hef valið úr bókinni til þýðingar á íslensku, nemendum mínum í Listaháskólanum og öðru áhugafólki til fróðleiks og skemmtunar.

 

 

„Hvað er eiginlega tíminn? Ef enginn spyr mig veit ég það, en ef ég á að skýra það út fyrir þeim sem spyr, veit ég ekki svarið“. Hér hafið þið hitt fyrir hinn mikla Ágústínus og fræga „atlögu“ hans sem er að finna í djúphugsuðum vangaveltum um hina leyndardómsfullu ráðgátu tímans.

Ef ég segi það ekki, þá veit ég það, ef ég á að segja það, þá veit ég það ekki lengur: þögnin leggst yfir tímann. Reynslan af honum og augljós viðveran eru ekki „þekking“; að minnsta kosti ekki þekking sem tilheyrir orðunum. Þýðir þetta að tíminn sé af öðrum toga, sé annars konar „hlutur“ en orðið? Ég held að slík hugsun leiði ykkur á villigötur. Hvernig gætum við haft þekkingu á tímanum án orðanna? Það er einmitt orðið sem gerir okkur að börnum tímans og þar með „dauðleg“.

Ég vil halda því fram að það hafi verið getan til að gefa hlutunum nafn sem lét þá birtast fyrir augum okkar í sínum viðvarandi og leyndardómsfulla hverfulleika. Þegar „ég segi þig“, „nefni þig“, þá mæli ég þá staðreynd að áður varst þú, en ekki lengur. Ég sé sveifluna á milli nærveru þinnar og fjarveru og færi þér þar með fjarverandi viðdvöl sem varðar það sem þú varst (hið liðna) og hvenær þú komst aftur (framtíðin). Allt út frá núverunni í þessari samfelldu verðandi þar sem þú og ég og sérhver hlutur eru stöðugt og stöðugt ekki til staðar, á mörkum þess tóms sem aðskilur það sem er ekki lengur og það óorðna. Það er þannig sem við vitum og uppgötvum að eitthvað sem var, eitthvað sem hefur verið til staðar, kemur ekki aftur.

Trúlega var það með þessum hætti sem hið talandi dýr uppgötvaði muninn á líkinu og nafninu, þennan mun sem dýrið þekkir ekki, rétt eins og því er aldeilis framandi þörfin á að jarðsetja líkin og að varðveita minningu þeirra með gröfinni. Hið talandi dýr sá mismuninn og öðlaðist þannig skilning á dauðanum, varð „dauðlegt“ og lagði þannig grunninn að frumforsendu mennskunnar og hinnar mannlegu „þekkingar“, sem er þekkingin á tímanum og dauðanum. Alla tíð síðan er þetta það sem allir vita, nokkuð sem sérhver veit og verður með þessari vitneskju „mannlegur“.

Þessi þekking er hins vegar hinn stærsti leyndardómur og dimmasta ráðgáta. Tíminn sjálfur er vitnisburðurinn eins og hann sýnir sig í sínum náttúrlega ósnertanleika. Það sem ekki er hægt að þekkja ekki er um leið óhöndlanlegt, ósegjanlegt og óhugsandi. Það sem er viðvarandi efni lífsreynslu okkar gengur okkur úr greipum um leið og við ætlum að lýsa því, rétt eins og sandurinn sem rennur á milli fingra okkar eða eins og ilmurinn sem berst með vindinum. Það er einmitt tíminn sem afhjúpar algjört tóm sitt og innihaldsleysi sem er með óskiljanlegum hætti samvaxið hjarta lífs okkar. Eða eins og Ágústínus sagði: hið liðna er ekki lengur, framtíðin er ókomin, núveran er aldrei, því um leið og ég segi að hún „sé“, þá er hún þegar afstaðin, horfin og endanlega glötuð. Tímans bíður ekki annað en að vera ráðgáta sem inniheldur alla veru lífs okkar og örlög þess.

Hvað er tíminn? Hver þekkir hann ekki? En reyndu að handfesta þessa þekkingu og koma orðum að henni og þá uppgötvar þú að þú þekkir hann ekki lengur.

Hlutirnir virðast ganga betur upp ef við spyrjum okkur hvað felst í hinum tónlistarlega tíma. Við vitum hvernig á að koma orðum að því, vegna þess að tíminn í tónlistinni er taktur (ritmo) og mæling og felst í endurkomu hins sama: einn-tveir, einn-tveir. Forskrift hans er skrefið eða andadrátturinn, það er að segja áhersla (accentus): ásláttur og upplyfting, frumforsenda samhljómsins (concentus). Þetta þekkjum við og kunnum jafnvel að skrá niður með nákvæmni. Ástæðan er auðvitað sú að tónlistartíminn tilheyrir „listinni“ en ekki lífinu. Hann líkir vissulega eftir lífinu, en smættir það samkvæmt reglu sinni. Með eftirlíkingunni verður listin að hermilist tilbúningsins (finzione) eins og við höfum alltaf sagt: sverð hermannanna eru gerð úr tré, kóróna konungsins úr álpappír og skartgripir drottningarinnar eru eintómt gler, ástin ekki annað en rímorð, skapofsinn einskær látalæti og tímarof (contrattempo). En ekki lífið, þetta er ekki lífið. Þetta gerist ekki í lífinu sjálfu. Þar eru engar endurtekningar, stef eða viðlög, marsar, fandango eða menúettar. Listin er upphafin í hermikleikjum sínum, í raunveruleika sínum er lífið hins vegar dregið illræmdum dráttum, en engum kæmi til hugar að hafa eignaskipti á hinu seinna og hinu fyrra.

Menn segja einmitt að listin sé eilíf…

Þegar Daniel N. Stern, heimsþekktur bandarískur sálfræðingur, geðlæknir og sálgreinir, hóf tilraunir sínar með nýbura í því skyni að skýra og skrá tilkomu sjálfsvitundar, það er að segja „sjálfsskynjunarinnar“, eða eins og sagt er á enskri tungu Selfconscience, þá hafði hann ekki ímyndað sér að hann þyrfti einmitt að gera upp reikninginn við tónlistina.

Börn hafa augljóslega enga sjálfsskynjun við fæðingu. Þau gera varla skýran greinarmun á eigin líkama og líkama móðurinnar eða hlutunum í nánasta umhverfi. Hvernig gerist það að þau öðlast smám saman aðskilda sjálfsmynd, verða meðvituð um eigin áform og atæfi og um atlot og áform hinna? Þetta var spurningin sem Stern leitaði svara við, ekki bara almennra svara eða svara heimspekilegs eðlis, heldur hreinna vísindalegra svara. Þar er ekki annað í boði en að leita í gagnasöfn sem hafa verið unnin með ströngum hlutlægum tilraunum og heimildaöflun. Auðvitað var ekki hægt að leggja spurningar um eðli málsins fyrir ómálga börnin, en hins vegar mátti mæla viðbrögð þeirra kerfisbundið. Þetta gerði Stern með ástríðufullri rannsókn sem stóð yfir árum saman.

Þetta var þaulhugsað verkefni sem unnið var með háþróuðum mælitækjum, sérsmíðuðum fyrir verkefnið, mælitækni sem gerði mögulegt að fylgjast með blæbrigðum í hjartslætti eða öndun, styrkleika, takti og tímalengd sogs á snuði og svo framvegis. Öll tilfinningaviðbrögð brjóstmylkinganna voru skráð og einnig hegðunarmynstur þeirra til níu mánaða aldurs. Þau fengu örvun, þeim var lýst og þau ljósmynduð og greind og heimfærð upp á sérstakan mælikvarða og niðurstöðurnar reyndust erfiðisins virði.

Meðal þess fyrsta sem kom ótvírætt í ljós var mikið og afgerandi hlutverk hljóðskynsins sem reyndist forgangsleið fyrir tengslamyndun barnsins við umhverfi sitt. Reyndar ekki bara fyrir nýburann, heldur líka fyrir fóstrið, sem sýnir augljós viðbrögð við hljóðum. Það er auðvelt að ímynda sér hversu einstakur og hjartnæmur atburður það hefur verið fyrir sérhvert okkar að hlusta á hjartslátt móðurinnar. Upphaf slíkrar skynjunar hefur trúlega verið það áhrifamikla augnablik þegar hinn ytri umheimur hreyfði við okkur og gerði innrás sína í gegnum farvegi móðurlífsins, þegar hann braut sér leið inn og hreyfði við okkur með því að rjúfa hina frumlægu þögn og færa okkur aðra grundvallandi þögn: þá sem skiptist á við hávaðann og hljóðin. Heyrnin er þannig fyrsti naflastrengur samskiptanna á lífsferli okkar. Þökk sé heyrninni þá greinum við á milli okkar og þeirra óaðgreinanlegu tengsla, sem við höfðum við hold heimsins. Um leið viðheldur heyrnin þessu órofa sambandi. Nýrri rannsóknir sýna engu að síður að fóstrið er búið sérstakri hlustavernd gegn ærandi hjartslætti móðurinnar, vernd sem lokar fyrir mesta hávaðann en hleypir hins vegar í gegn bráðustu hljóðmerkjunum.

Önnur niðurstaða rannsóknarinnar sem skipti ekki síður meginmáli voru hin sterku viðbrögð sem nýburinn sýndi gagnvart mannsröddinni, og þá sérstaklega þeirri rödd sem hann þekkti best, rödd móðurinnar. Fyrstu samskipti okkar við hinn ytri heim eru þannig í gegnum „skáldskap tónlistarinnar“ frekar en þá nafnlausu og hlutlægu þekkingu sem við – með tilvitnun í orð Hegels – getum kallað „prósa heimsins“. Nýburinn er engin frumstæð skynjunarmaskína, öllu heldur er hann athugull og greinargóður móttakandi skilaboða sem eru ýmist uppörvandi eða truflandi.

Rannsóknarniðurstöðurnar kölluðu á enn frekari gagnaöflun: hvernig voru aðstæður fóstursins? Þannig var sami textinn lesin fyrir ófædd börn, aftur og aftur. Eftir fæðinguna gátu þau samstundis borið kennsl á textann, en ekki bara það: þau báru kennsl á hann og sýndu honum meiri athygli ef hann var lesinn af sömu rödd og fyrir fæðinguna. Annað atriði: við tiltekinn keisaraskurð var nýburinn látinn heyra hrein hljóð. Einnig þessi hljóð voru vel þegin og móttekin eftir fæðingu og tekin fram yfir annað áreiti. Eins og Giulia Cremaschi hefur sagt, þá er móðurkviðurinn fyrsta hljómsveit ungbarnsins. Þetta mætti orða þannig að maðurinn fæðist á öldu tónlistarinnar.

Stern helgaði sig síðan rannsóknum á því hvernig ungbörnin tóku á móti og flokkuðu fyrirbæri skynáreitanna, til dæmis sjónræn áreiti, hljóðáreiti og snertiáreiti. Allt rannsakað með þaulhugsuðum tilraunum. Hann komst þannig að óvæntum niðurstöðum sem vísindin eiga erfitt með að skýra röklega: Ungbörn og einnig kornabörn eiga í engum vandræðum með að skapa samsemd eða sýna sláandi samsvarandi viðbrögð við áreiti sem snerta ólík skynfæri. Reyndar virðist eins og þau upplifðu þessi skynfæri ekki sem aðskilin eftir þeim mismun sem við álítum hins vegar grundvallaratriði. Ungbörnin tengja umsvifalaust saman það sem þau sjá og heyra, endurtekinn takt tiltekinna gæluhreyfinga og samsvarandi samdrátt og aukningu á birtu eða breytilegum hljóðum og raddbeitingu. Þau bregðast fyrirvaralaust við öllum þessum áreitum í heild sinni eða hverju fyrir sig en tengja um leið samsvarandi takta. Hin sundurgreinandi rökhugsun vísindamannsins reynist hér þurrkuð út, og ekki síður rökgreiningarhefð hinna fullvöxnu: fyrir okkur er óumdeilanlegt að það að sjá sé ólíkt því að heyra. En heimspekingurinn sem man eftir umfjöllun Aristótelesar um „sjötta skilningarvitið“ ætti ekki að verða jafn undrandi, og enn síður ætti listamaðurinn að verða undrandi, alvanur því að skanna aðföngin og tengslin á milli ólíkra skynfæra. Sú forna viska kemur alls ekki á óvart, sem byggir eins og við vitum á „heildstæðri“ eða „hnattrænni“ vídd mannlegrar reynslu, öllu frekar ætti þessi forna viska að furða sig á okkar undrun.

Niðurstöður rannsóknanna á þessum „samræmdu regluverkum“ („somiglianze strutturali“) sem ungbarnið nemur er sú að reynsluheimur þess er mótaður heildstætt af þrem samofnum meginþáttum: styrkleika, tímalengd og ljósi. Þegar við þriggja vikna aldur skynjar brjóstmylkingurinn fullkomlega þessa grundvallar samþættingu, sem myndar í raun kjarna skynjunar barnsins og grunn staðsetningar þess í heiminum. Brjóstmylkingurinn upplifir þetta sem eitt og hið sama, eða sem eina og sömu merkinguna, tímabundnar skynjanir augna, eyrna og snertingar, svo einungis sé minnst á þá meginþætti sem við getum auðveldlega lýst. Niðurstaðan er sú að skynjun ungbarnsins á umheiminum (og þar með frumvöxtur skynjunarinnar sem slíkrar og innri tilfinningaheims hennar) er frá upphafi innrituð í þrjá megindrætti tímalengdarinnar, ásláttarins og taktsins. Þetta er hið altæka form fyrstu hornsteinanna sem mynda vef mannlegrar reynslu, en framvinda hennar og flæði í gegnum samþættandi og á sinn hátt áhrifaríka og „dramatíska“ atburðarás verður heimfærð eins og við sjáum upp á „músikölsk“ fyrirbæri og tónlistarlegt tempó, sem síðar á eftir að mynda forsendu fyrir „tempó“ eða taktfestu orðanna og hinnar vitsmunalegu þekkingar.

Höldum áfram. Við vorum að tala um áhrifaríka og dramatíska atburðarás. Stern einbeitti sér að því að fylgjast á kerfisbundinn hátt með þeirri samræðu nýbura og móður (eða þess sem hefur meginumsjón barnsins með höndum) á því stigi sem byggir á tilfinningalegu innsæi og kemur á undan orðræðunni. Þar gerir Stern sína merkustu og frumlegustu uppgötvun sem varðar samhæfinguna („sintonizzazione“).

Eins og við vitum, þá mynda móðirin og nýburinn órofa og djúpt samband sín á milli. Móðirin „les“ grát barnsins, og finnur smám saman á sér hvað hann „vill segja“. Barnið „skynjar“ hitann, lyktina, þéttleikann, handtök og rödd móðurinnar. Að mörgu leyti eru þessar skynjanir samþættar og blandast hver annarri. Á milli þeirra myndast þannig það sem George Herbert Mead myndi kalla „samtal látbragðsins“. Þar er röddin eða látbragð raddarinnar með sínum sjálfsprottna hljómi (autofonico) grunnurinn að tilurð sjálfsvitundarinnar, og gegnir eins og áður var sagt lykilhlutverki. Hér upphefst raunveruleg samræða sem byggir á endurtekningu: móðirin endurtekur í sífellu tjáningar nýburans og endurgeldur þær. Með sambærilegum hætti reynir nýburinn að endurgjalda eftir mætti látbragð og örvanir móðurinnar. Það er engin spurning að eftirherman er fyrsti vaxtarbroddur komandi þekkingar, en ein og sér væri hún alls ófullnægjandi. Virkni hennar er fyrst og fremst „út á við“ eða „utanaðkomandi“ og myndi aldrei ná að framkalla það sem Stern var að leita að: rætur eða uppruna Sjálfsins (Self), sjálfsmyndarinnar sem er aðskilin og sjálfstæð, eða þann innheim er myndaði samband við hið ytra. Þá innri veru er myndaði samband við aðra innri veru.

Til að framkalla þetta þarf samþættinguna eða þau samþættingarferli sem eru (eins og Stern bendir á) fyrirbæri sem eru fullkomlega sambærileg við tónlistarflutning er byggist á „stefi og tilbrigðum“. Öll rökleg bygging tónverks byggir reyndar á tilbrigðum. Svokölluð laghenda (frase musicale) er til dæmis ekki annað en samfella taktbundinna innskota og laglína: fyrsta innskotið leggur til tiltekna „ímynd“ (figura) sem leiðir til næsta innskots sem myndar andsvar með smávægilegri tilbreytingu og þannig áfram koll af kolli. Til dæmis getur innskotið lækkað tóninn eins og í hinu fræga upphafi fimmtu sinfóníu Beethovens: ta ta ta taaa… ta ta ta taaa… og svo hins vegar með sighækkandi tóni: ta ta ta ta, ta ta ta ta, ta ta ta taaa… o.s.frv.

Nú á ekki að koma á óvart að mömmurnar eða hinir fullorðnu almennt gera einmitt það sama þegar þeir eiga samskipti við börnin, alltaf með fjölbreytilegum og ólíkum aðferðum þó. Þeir átta sig oftast ekki á því, en þannig er því einmitt varið.

Þarna sjáum við barnið sem horfir með ánægju á mömmuna og lyftir litlum brjóstkassanum og öxlunum með örum andardrætti. Móðirin setur sig inn í takt þessa látbragðs en bætir rödd sinni við einingu taktsins: u-upp, niður, u-upp, niður o.s.frv. Barnið leggur sig fram við að herma eftir rödd móðurinnar, allt eftir sinni ófullkomnu getu. Þá grípur mamman þessi ómeðvituðu tilbrigði á lofti og endurtekur þau fyrir barninu með nýrri og ákveðnari eftirhermu. Barnið gerir sér grein fyrir að það er hermt eftir því og þar sem það hefur, ef svo mætti segja, verið afhjúpað í villu sinni, reynir það að endurtaka rulluna án þess að það takist og brestur þá í hlátur og móðir og barn fallast í faðma. En einnig hér á sér stað gæluáhersla ef svo mætti segja, frá hendi mömmunnar sem framkallar á ný frumstæða taktinn upp og niður. Á meðan barnið losar sig hlæjandi reynir það að endurtaka taktinn upp og niður o.s.frv. Þetta getur gengið áfram enn um stund. Í raun gera þau ekki annað en að þróa áfram það frumatriði sem mannveran reyndi með sér frá upphafi: hinn vaggandi taktur líkamans og hinn taktfasti samstillti og raddfærði undirleikur raddarinnar: sjálf vögguvísan („la ninna nanna“). Sofðu vært, þú ert ekki einn, heimurinn umhverfis þig er í kyrrð og ró.

Ávinningur samhæfingarinnar er augljós. Ólíkt eftirhermunni sem er sjálfvirkt athæfi er byggir að stórum hluta á innsæi (einnig vel þekkt úr heimi dýranna) þá gerir samhæfingin það að verkum með sínum grundvallandi tilbrigðum að eitthvað utanaðkomandi (andsvar með tilbrigðum) verður meðtekið hið innra og að hið innra sem þannig verður til fyrir mismun, öðlast tjáningu út á við. Hér er ekki um að ræða eitthvað sem var „áður“: þessi „inni/úti“ verða til í samræðu og fyrir samræðuna og eru helsta hreyfiafl taktsins. Það er þannig sem mannveran tekur smám saman til sín (í smærri skömmtum) aðskilda sjálfsímynd og innritar sig í upphaflegan tíma samskiptanna. Stern orðar þetta þannig að samhæfingin (la sintonizzazione) færi athyglina yfir á það sem liggur á bak við hegðunarmynstrið. Þannig myndar hún fyrir tilkomu tungumálsins samvitund um tiltekið bak við, það er að segja áformuð tilfinningaleg gæði sem framkalla hið ytra látbragð. Mamman er sú sem stendur á bak við hreyfingar sínar, hlátur sinn, söng sinn, gælur sínar, vöggusöng og fleira. Allt þetta „segir“ að hún sé „þarna“ og að með andsvörum sínum kalli hún til sín, rétt eins og hún er reiðubúin að svara og láta í ljós áhuga sinn og bros. Reynsla á borð við þessa skiptir í grundvallar atriðum mun meira máli en nokkur þekking sem aflað er með sértækum hætti upp úr einhverri barnamenningarritgerð eða ritgerð um taugalíffræði ungbarna. Það er þessi reynsla frumbernskunnar sem byggir á ástríðufullum þunga, tíma og takti sem „mynda tjáningu“ og halda „sjálfinu“ til skírnar.

Niðurstaða okkar er að grunnþættir tónlistarinnar séu undirstaða reynslunnar, tilfinninganna og tjáninganna sem einkenna manninn frá upphafi. Við erum svo afgerandi taktbundin og tímatengd, við erum svo nátengd sérhverri reynslu hvað dýpt hennar og varanleika varðar, að við verðum að greina bæði rætur þess tíma sem við höfum meðvitað upplifað og tíma lífsins. Einungis þannig verður hinn einstaki tjáningarhæfileiki til sem ávallt fylgir tónlistinni, jafnvel þótt hin tónlistarlega frásögn sé gjörsneydd orðræðumerkingum, það er að segja orðum. En staðreyndin er sú að tónlistin segir ekkert, nákvæmlega með sama hætti og sagt er að hún segi allt.

Hér þurfum við að bæta við einni athugasemd. Dýpt tímans, merking hans og leyndarmál forðast tungumálið, rétt eins og Ágústínus gerði sér grein fyrir, ekki vegna þess að hann sé eitthvað algjörlega óskylt orðinu, heldur vegna þess að það sem hann snýst um er ekki segðin (da dire) heldur framkvæmdin (da esiguire). Þekking tímans er ekki fólgin í orðræðu, heldur hæfni til andsvara, það er að segja að holdgera í tímanum eigin kairos, að ganga á réttum tíma í inn í margradda kór hinna. Einnig samræðurnar eiga rætur sínar í hinum tónlistarlega tíma, í taktinum, áherslunni, hinni sérstæðu tjáningu, bragfræði hennar og áhersluatriðum mælskulistarinnar, en án þessara hluta gætu hinar röklegu merkingar aldrei leitt til samskipta og margmiðlunar.

Í þessu samhengi mætti minna á það sem Charles Sanders Peirce, einn mesti rökfræðingur allra tíma, sagði eitt sinn um vísindi rökfræðinnar. Ef ég væri spurður, sagði hann, hver væri grunnforsenda rökfræðinnar, þá myndi ég svara „trú, von og kærleikur“. Vissulega eru þetta ekki rökfræðileg lögmál, en þetta eru engu að síður þau grundvallartæki sem sérhver maður þarf að tileinka sér til þess að gjörðir hans séu eins samkvæmar og rökréttar og mögulegt er. Þegar Peirce sagði þetta var hann að vísa til tengslanna á milli rökfræðilegrar merkingar orðanna og hins raunverulega „lífs“ orðræðunnar, sem fer fram í því eiginlega samtali sem á sér stað manna á meðal og í talmálshefð andsvaranna. Til að koma á slíkri samræðu, sem er hið upprunalega mótandi afl mannlegra samtaka og samvinnu, er fyrst og fremst nauðsynlegt ákveðið trúartraust: að einhver sé til staðar er geti svarað okkur. Síðan kemur vonin eftir andsvarinu og að lokum kærleikurinn sem er nauðsynlegur til að umvefja okkur og leiða okkur inn á vegslóð hins góða andsvars. Án þessa værum við glötuð og engin rökfræði gæti komið í stað þess missis.

Í grunni orðanna sem við notum í samskiptum okkar við heiminn og hvert annað er til staðar eins konar „undirstöðutónlist“. Það er sú þekking sem er andsvarið við tímanum. Þekking sem kemur á undan talmálinu og rökhugsuninni, en án hennar væru ekkert orð og engin rökfræði möguleg. Einnig orðræðurnar eiga rætur sínar í hinum tónlistarlega tíma, í taktinum og hljómsetningunni, hinum sérstaka tjáningarmætti þeirra, orðræðusnilld þeirra sem hin „rökfræðilegu“ merkingar myndu aldrei duga til fulls til að mynda samræðu og skilning. Um er að ræða hagnýta þekkingu sem er um leið listin að lifa lífinu: vísindi þagnarinnar, sú forsjálni að þegja á réttum tíma, hugrekki og vilji til að segja það sem ávallt ætti að segja en ekki fela í þögninni, kærleikur þátttökunnar, ákvörðunin að þora jafnt og að halda aftur af sér; þannig að ekki hellist yfir okkur biturð og iðrun þess að hafa talað af lítilsvirðingu, eins og Wittgenstein sagði, eða hafa meðvitað þagað yfir því sem rétt var að segja.

 

 

 

 

 

AUGAÐ OG ANDINN I. – Maurice Merleau-Ponty

Maurice Merleau-Ponty (1908 - 1961) var einn af frumkvöðlum svokallaðrar fyrirbærafræði í evrópskri heimspekisögu á 20. öldinni. Hann var þannig kyndilberi hugmynda Edmunds Husserls og Martins Heideggers og um leið náinn samstarfsmaður Jean Paul Sartre á tímabili eftir seinni heimsstyrjöldina. Hann leitaðist með heimspeki sinni við að yfirstíga tvíhyggju sálar og líkama, einkum með víðtækum rannsóknum á sambandi skynjunar og hugsunar, hlutveru og hugveru. Ritgerðin "Augað og andinn" var síðasta verk hans og er löngu orðin sígilt verk um málaralistina og virkni hennar. Ritgerðina skrifaði Ponty á 2-3 mánuðum í sumarleyfi frá störfum sínum í París, staddur í sveitasælu Provence-héraðs, ekki langt frá Aix og því umhverfi sem við getum fundið ilminn af í verkum málarans Cézanne. Ritgerðin opnar ekki bara fyrir okkur marga leyndardóma málaralistarinnar, hún er líka eins og vegvísir að og samantekt á lífsverki Ponty og þjónar því vel sem inngangur að heimspekihugsun fyrirbærafræðinnar og skilningi hennar á leyndardómum skynjunarinnar og mannslíkamans. Ég hef lengi stuðst við þessa ritgerð í kennslu minni og byrjaði að þýða úr henni kaflabrot fyrir löngu. Endanlega lauk ég við þessa þýðingu staddur í París fyrir tveim árum siðan. Hún er ekki fullkomin frekar enn aðrar þýðingar mínar hér á þessari vefsíðu, en það hefur verið mitt mottó að kenna aldrei neitt sem ég hefði ekki fyrst hugsað á íslensku. 
Ritgerðin er í fimm köflum, og eru kaflarnir birtir hér á vefsíðunni í fimm sérstökum færslum til hægðarauka. 
Einkennismynd allra færslanna er fengin úr "Emblematum libellus", táknmyndabók Andrea Alciatus frá árinu 1531.

Maurice Merleau-Ponty:

L’Œil et l’Espirit – Augað og andinn  

FYRSTI KAFLI

 

Íslensk Þýðing unnin eftir ítalskri þýðingu Önnu Sordini, (útg. SE SRL Milano 1989), með hliðsjón af frumtexta (Gallimard 1964) og enskri þýðingu Michael B. Smith (útg. Illinois 1993).

 

 

Það sem ég reyni að endursegja ykkur er ennþá dularfyllra,

 það hvílir í sjálfum rótum verunnar,

 í ósnertanlegri uppsprettulind allrar skynjunar.

Gasquet, Cézanne.

 I.

 Vísindin sýsla með hlutina en neita að taka sér búsetu í þeim. Þau smíða innri líkön þeirra, og þegar þau meðhöndla einingar sínar eða  breytur gerist það ekki nema endrum og eins að breytingarnar sem stafa af þessum vísindalegu skilgreiningum mæli sig við hinn raunverulega heim. Vísindin eru – og hafa ávalt verið – sú aðdáunarverða virka hugsun sem er í senn snjöll og áreynslulaus, þessi afstaða, að meðhöndla sérhverja veru eins og „almennan hlut“, það er að segja eins og hann snerti okkur ekki skapaðan hlut en væri engu að síður eins og skapaður sem sjálfgefið viðfang okkar.

En hin klassísku vísindi varðveittu með sér skilninginn á ógagnsæi heimsins, og það var heimurinn sem þau vildu nálgast með byggingum sínum. Þess vegna töldu þau sig skuldbundin að leggja til handanlægan grundvöll eða handanveru-forsendur undir athuganir sínar. Á okkar tímum verðum við hins vegar vör við algjörlega nýtt fyrirbæri -ekki í vísindunum, heldur í útbreiddri heimspeki vísindanna: hinn uppbyggjandi verknaður vísindanna telur sig nú búa við fullkomið sjálfdæmi og skilgreinir sig sem slíkan, og hugsunin smættir sjálfa sig af ásettu ráði niður í heildarvirkni tækninnar eða þær uppfinningar sem hún tileinkar sér. Að hugsa merkir þá að gera tilraunir, meðhöndla eða umbreyta, með þeim eina eftirlitsfyrirvara tilraunarinnar sem eingöngu leyfir „háþróðustu“ tæki sem oftar eru afurð tækninnar en   mælikvarði hennar. Út frá þessu sjáum við flóttaleiðir af öllum tegundum og gerðum. Aldrei fyrr hafa vísindin verið jafn næm á hvers kyns vitsmunaleg tískufyrirbæri. Þegar eitthvert líkan hefur gefið góða raun innan tiltekinna raunaðstæðna er reynt að taka það upp alhliða.

Fósturþróunarfræði okkar og líffræði eru nú yfirfullar af staðalmælikvörðum (gradients) sem torvelda okkur að greina þá frá því sem klassíkerarnir kölluðu lögmál eða heildarmynd. Sú spurning er heldur ekki á dagskrá, og alls ekki til þess ætlast. Staðalmælikvarðinn er net sem kastað er í hafið án vitneskju um hvað það muni bera á land. Eða þá að hann er sprotinn sem getur af sér ófyrirsjáanlega klasa af kristalmyndunum. Þetta athafnafrelsi vísindanna er vissulega langt komið með að yfirstíga mörg innantóm álitamál, þótt einstaka sinnum reki menn sig á, andspænis þeirri spurningu hvers vegna tækið virki hér en ekki annars staðar, í stuttu máli, hvers vegna þessi fleygu vísindi, sem skilja sjálf sig og virðast sjá sig eins og byggingu er standi á grófheflaðri en tilfallandi heimsmynd, eru treg til að ljá sínum blindu aðgerðum þau grundvallargildi sem „hugtök náttúrunnar“ gátu haft til að bera í heimspeki hughyggjunnar.

Með því að segja að heimurinn samkvæmt orðanna skilgreiningu viðfangið X í rannsóknum okkar er verið að algilda þekkingarfræðilegar aðstæður vísindamannsins, rétt eins og allt það sem var eða er hafi aldrei verið til í öðrum tilgangi en þeim að vera leitt inn í rannsóknarstofuna. Þessi hugsun virkninnar verður þannig að algildum tilbúningi, eins og sjá má í hugmyndafræði stýrikerfanna (cybernetics), þar sem mannleg sköpunarverk eru rakin til náttúrulegra upplýsingaferla en jafnframt skilin á forsendum manngerðrar vélvirkni. Ef hugsun af þessari tegund gerir manninn og söguna að viðfangsefni sínu og ef hún lætur sem hún viti ekki af því sem við þekkjum af eigin raun í gegnum snertingu og afstæður, heldur byrjar að gera sér mynd af hvoru tveggja á grundvelli sértekinna (abstrakt) mælikvarða eins og gerst hefur í afdánkaðri bandarískri sálgreiningu og menningarfræðum, þá verður maðurinn í raun og veru sá leiksoppur sem hann hugsar sig vera,   þá munum við endanlega stíga inn í menningarheim þar sem   hvorki hið sanna né hið logna hafa lengur gildi gagnvart manninum og sögunni, inn í dásvefn eða martröð sem enga vakningu boða.

Það er nauðsynlegt að hin vísindalega hugsun – hugsun yfirsýnarinnar, hugsunin um hlutina almennt, finni sér nýjan stað í bráðabirgða „hér-veru“, á stað og heimavelli hins skynjanlega heims og hins manngerða heims, eins og þeir eru í okkar daglega lífi, í líkama okkar, ekki í þeim hugsanlega líkama sem vel má skilgreina sem upplýsingavél, heldur í þessum raunverulega líkama sem ég kalla minn eigin, í þessum vaktmanni sem er á hljóðu varðbergi á bak við öll mín orð og allar mínar gjörðir. Einnig er nauðsynlegt að hinir tengdu líkamar vakni til lífsis ásamt með mínum eigin, „hinir“ sem eru ekki bara kynbræður mínir og systur, eins og dýrafræðin kennir okkur, heldur einnig þeir líkamar sem dvelja í mér og sem ég dvel í, en samanlagt byggir þá ein stök Vera sem er raunverulega til staðar með öðrum hætti en þar sem dýrin hafa dvalið í dýrum sömu tegundar, í sínu landi og sínu vistkerfi. Hin glaða og hvatvísa hugsun vísindanna mun læra að tengja sig hlutunum með nýjum hætti, þannig að hún verði á ný að heimspeki…

Listirnar, og þá sérstaklega málaralistin, hafa hins vegar haldið fast í þetta hráa undirlag sem ofvirknin kýs að horfa framhjá, og þær eru einar um að gera það af fullkomnu sakleysi. Við köllum eftir ráðleggingum eða skoðunum hjá rithöfundinum eða heimspekingnum, við líðum ekki að þeir haldi fólki í óvissu, við krefjumst þess að þeir taki afstöðu, þeir geta ekki svikist undan ábyrgð hins talandi manns. Tónlistin er hins vegar of nákomin heiminum og því afmarkanlega til að geta gefið aðra mynd en af blindramma Verunnar, flæði hennar og gagnflæði, vexti hennar, útþenslu og hátindum. Málarinn er sá eini sem hefur rétt til að virða fyrir sér alla hluti án hinnar minnstu skuldbindingar um gildisdóma. Segja má um málarann að andspænis honum glati herkvaðningarnar „þekking“ og „taktu afstöðu“ öllu vægi sínu.   Þær pólitísku valdstjórnir sem hæst láta gegn hinni „úrkynjuðu“ málaralist eyðileggja sjaldnast myndverkin. Þær fela þau gjarnan, og á bak við þennan feluleik felst „það er aldrei að vita“-hugsunin sem nálgast að vera viðurkenning. Afar sjaldgæft er að ráðist sé að listmálara fyrir flótta frá raunveruleikanum. Menn bera enga biturð í garð Cézanne fyrir að hafa lifað í felum í Estaque meðan á stríðinu stóð 1870, allir vitna með virðingu til orða hans „lífið er skelfilegt“, á meðan jafnvel hinn hæverskasti nemandi eftir daga Nietzsche myndi afdráttarlaust afneita   þeirri heimspeki sem ekki kenndi honum að lifa lífinu með reisn.   Engu er líkara en að baki starfs listmálarans liggi þörf er yfirskyggi allar hinar. Hann er þarna til staðar, sterkur og veikur í lífinu, en óumdeilt yfirvald í þessari meltu heimsins án nokkurrar annarar tækni en þeirrar sem augu hans og hendur hafa áunnið sér í krafti sjónarinnar, í krafti dráttlistarinnar, þar sem hann þrjóskast við að draga léreft sín fram úr þessum heimi þar sem hneyksli og dáðir sögunnar eiga sér stað, léreft sem bæta litlu eða engu við bræðiköst og vonir mannanna, og enginn finnur aðhlátursefni í.

Hver eru þá hin leyndu vísindi sem listmálarinn hefur á valdi sínu eða leitar uppi? Þessi vídd sem Van Gogh taldi að leitaði „ennþá lengra“? Þessi grunnur málaralistarinnar, er hann kannski grunnur menningarinnar í heild sinni?

Umberto Galimberti um Freud og Jung

Alræðisvald nefnarans og máttur táknsins

Þegar ég átti í svolitlum bréfaskiptum við ítalska heimspeknginn Umberto Galimberti fyrir nokkrum árum vegna þýðigar á bók hans „Boðflennan“( rit um tómhyggju í samtíma okkar og virkni hennar meðal unga fólksins) og þýðingar minnar á ritgerðinni „Um hið heilaga“ sem er birt hér á vefsíðunni, bað ég hann m.a. að benda mér á einhverja aðrar ritgerð sem hann hefði skrifað og hann teldi að ætti erindi í íslenskri þýðingu. Hann sendi mér þennan texta, sem á sínum tíma var gefinn út af háskólanum í Feneyjum, en er um leið eins konar samantekt á umfjöllun um sálfræði Freuds og Jung, sem hann hefur krufið mun ýtarlegar í tveim grundvallarritum um sálgreiningu og geðlæknisfræði: „Psichiatria e fenomenologia“ frá 1987 og „La casa di psiche“ frá 2006. Nú þegar ég er af veikum mætti að leitast við að kynna nokkur grundvallarhugtök hjá Sigmund Freud og þýðingu þeirra fyrir þróun myndlistar á 20. öldinni í Listaháskólanum datt ég ofan á þessa óbirtu þýðingu mína hér í tölvu minni frá árinu 2013, og datt því í hug að setja hana hér inn á þennan vettvang. Þetta er afar skýr og jafnframt gagnrýnin framsetning á nokkrum grundvallarhugtökum sálgreiningarinnar á 20. öldinni um leið og Galimberti bendir á hvernig þau tengjast beint pólitískum veruleika okkar samtíma. 

 

Umberto Galimberti

 

Siðfræðin frá sjónarhóli Freuds og Jungs

 

Fólk hefur ævinlega metið siðfræði mjög mikils. Er líkt og búist hafi verið við því að hún geti skilað sérstaklega þýðingarmiklum árangri. Og raunar fjallar hún um fyrirbæri sem auðþekkt er sem aumasti blettur sérhverrar siðmenningar. Þannig má líta á siðfræðina sem eins konar lækningatilraunir, – sem viðleitni til að fá því framgegnt með fyrirskipunum yfirsjálfsins, sem ekki hefur verið hægt að ná með neinni annarri menningarstarfsemi.

S. Freud: Undir oki siðmenningar (1929) HÍB 1997, þýð. Sigurjón Björnsson, bls. 81.

 

Reglunum verður sífellt meira ofaukið í hinni samfélagslegu skipulagningu lífsins, og með þeim er grafið undan hinu raunverulega siðferði. Því meir sem maðurinn er bundinn af samfélagslegu regluverki, þeim mun meira verður einstaklingsbundið siðleysi hans.

C.G. Jung: Psychologische Typen (1921), § 828

 

Ekkert nema hið goðsögulega orð getur brugðið ljósi á það myrka og ómeðvitaða svæði sem skilur á milli vanmáttar fræðilegs skilnings á viðurkenndum takmörkum rökhugsunarinnar annars vegar og síaukins þrýstings frá heimi reynslunnar hins vegar. Goðsögulegt orð, sem er eins og fjarlægt bergmál þess lagskipta minnis sem staðfestir með óbeinum hætti spakmæli Platons: „að þekkja er að muna“[1].  Um er að ræða minni þess tíma sem samkvæmt myndlíkingu Kants[2] leiddi frá Brahma til Siva eftir slóð sem ekki fylgdi beinni línu heldur krókaleið, vegna þess að Vishnú hafði séð til þess, í viðleitni sinni að halda veröldinni saman, að ekki væri greint á milli verka Brahma og Siva, hins skapandi og hins tortímandi gjörnings. Það er þessi krókaleið sem vegferð mannkynsins hefur legið eftir undir þeirri ánauð sem Freud  dregur saman í þessi beinskeyttu orð:

„Í rauninni var frummaðurinn, sem engar hömlur þekkti eðlishvata sinna, betur settur. Á móti því kom að litlar horfur voru á, að hann gæti fengið notið hamingjunnar nema skamma hríð. Siðmenntaður maður hefur afhent eina sneið af hamingjuvon sinni fyrir aðra sneið af öryggi.“[3]

En um hvað er Freud að hugsa þegar hann talar um hamingju?  Hvað felst raunverulega í þeirri þvingu sem siðmenningin setur á okkur „fyrir aðra sneið af öryggi“? Sú hamingja sem hér er vikið að felst í fjarveru „allra þvingana gagnvart eðlishvötunum“, og ef sú væri raunin mætti halda því fram að Marcuse hafi haft nokkuð til síns máls þegar hann boðaði lausn „ánauðarinnar“ með myndun siðmenningar án þvingunar, þar sem sættir nautnalögmálsins og raunveruleikalögmálsins yrðu mögulegar með óheftum framgangi Erosar, sem myndi fella tilveru mannsins aftur að reglu eðlishvatanna þar sem þær fengju óhefta útrás. Í Pólitískum formála bókarinnar Eros og siðmenning (1955) segir Marcuse:

Eros og siðmenning: með þessum bókartitli vildi ég koma á framfæri bjartsýnni hugmynd, hugmynd sem er bæði uppörfandi og umfram allt áþreifanleg. En það er sú sannfæring að sá árangur sem hin þróuðu iðnríki hafa náð, sé þess megnugur að snúa þróunarsögu mannsins við, að hann megni að höggva á þá nauðungarfjötra sem tengt hafa framleiðslu og eyðingu, frelsi og kúgun. Að þessi ríki gætu með öðrum orðum gert manninum kleift að tileinka sér vísindin  (gaya ciencia), listina að nota hinn samfélagslega auð til að móta heim mannsins í samræmi við lífshvatir hans, samfara raunverulegri baráttu gegn boðberum dauðans.[4]

Hér sameinast sjúkdómsgreining Freuds, sem hélt því fram að siðmenningin byggði og nærðist á bælingu og göfgun hvatanna og kæmi þannig í veg fyrir að maðurinn gæti framfylgt þeim í einu og öllu, og læknisráð Marcuse, sem taldi að ofgnóttaraðstæður siðmenningar samtímans byðu upp á möguleika þess að skapa samfélag er þyrfti ekki á bælingu að halda til að viðhalda afköstum á kostnað eðlishvatanna: hvorugur þeirra dró í efa að hamingja mannsins væri fólgin í fullkominni útrás hvatanna.

Þessi sameiginlega forsenda sjúkdómsgreiningarinnar og lækningarinnar hefur í för með sér aðra forsendu sem segir okkur að frelsið sé meira eftir því sem minna fer fyrir bælingu hvatanna. Þannig gerist það að frelsið, sem er án þvingunar, verður neikvætt á þeim mælikvarða hamingjunnar sem sér óhefta útrás hvatanna jákvæðum augum. Bæði hugtökin (hamingja og frelsi) falla þannig saman og sú mótsögn sem Freud sá fyrir sér milli siðmenningar og hamingju, færist yfir á frelsið:

„Einstaklingsfrelsið er engin gjöf siðmenningarinnar. Frelsið var mest,  áður en nokkur siðmenning kom til sögunnar. Það var þó satt að segja gagnslítið, úr því einstaklingurinn var naumast í nokkurri stöðu til að verja það. Menningarþróunin setur frelsinu skorður og réttlætið útheimtir að enginn rjúfi þær skorður“.[5]

Sú samsvörun frelsis og hamingju sem hér er skilin sem ósættanleg við framgang og þarfir siðmenningarinnar, byggir á þeirri forsendu sem Freud hefur gefið sér, að hvatareglan sé eini mælikvarðinn á skilgreiningu hins mannlega: „Vissulega, andinn er allt“, sagði Freud í samtali við Biswanger árið 1927, „mannkynið var sér vissulega meðvitað um að það bjó yfir anda; ég þurfti hins vegar að benda því á að það væru líka eðlishvatir.“[6]

Þetta var mikilvæg ábending, þó hlutirnir hafi hins vegar smám saman æxlast þannig að þetta „líka“ gufaði upp með þeim afleiðingum að kenning Freuds læstist á endanum  inni í þessari smættun á kjarna mannsins niður í eðlishvatir hans, sem þannig fengu fullkomið löggjafarvald yfir manneskjunni svo að allar birtingarmyndir hennar voru ekki annað en dulbúið yfirvarp sem sálgreiningaraðferðin átti að afhjúpa til að færa sönnur á frumforsenduna sem segir að maðurinn tjái sig í þeim eðlishvötum sem Freud hafði einsett sér að benda mannkyninu á.

Freud vann frábært starf í þjónustu þvingunaráforma vestrænnar siðmenningar með því að smætta ánauð siðmenningarinnar niður í bælingu hvatanna, en nú orðið er þessi siðmenning líka í stakk búin að til frelsa eðlishvatirnar án þess að draga úr bælingarmætti sínum bæði hvað gæði og magn snertir. Bæling okkar vestrænu siðmenningar beinist nefnilega ekki fyrst og fremst að reglu eðlishvatanna, heldur að reglu merkingarinnar, en inntak hennar er skilgreint með svo afdráttarlausum og ótvíræðum hætti í okkar samfélagi, að einstaklingnum stendur ekki lengur til boða að tjá sig í annarri merkingu, sem gæti verið annað hvort gagnstæð eða hliðstæð.

„Baráttan á milli einstaklingsins og samfélagsins“ sem Freud sá svo klárlega sem „átök tveggja þróunarferla er óhjákvæmilega hlutu að mætast á sviðinu“ felur ekki í sér „að því er virðist ósættanleg átök tveggja frumlægra eðlishvata“[7] heldur átök tveggja ólíkra aðferða við að gefa hlutunum merkingu. Önnur aðferðin þarf  að vera einhlít til þess að geta talist gild fyrir alla, hin  þarf að losa sig undan þessari einhlítu reglu til þess að geta mætt einstaklingsbundnum þörfum.

Maðurinn er ekki fyrst og fremst átakavettvangur ópersónulegra eðlishvata, hann er fyrst og fremst opnun gagnvart merkingu, og frelsi hans raungerist í þessari opnun áður en til útrásar eðlishvatanna kemur. Ef þetta reynist rétt, þá verður sú bæling sem beinist gegn eðlishvötunum ekki árangursrík, heldur sú bæling sem beitt er gegn þessari opnun merkinganna. Í fáum orðum sagt þá er það bæling hinnar merkingarlegu reglu (codice) sem afnemur tvíræðni sérhverrar merkingar – sem táknið stendur hins vegar dyggan vörð um – og þvingar þannig sérhvern einstakling til að meðtaka sama merkið. Það þarf ekkert ofbeldi til að beita þessari tegund bælingar, því það verður hlutskipti þess einstaklings sem hefur mátt þola þrengingu opnunarinnar gagnvart merkingunni að velja á milli þeirra merkinga sem alræðisvald reglunnar (codice) býður upp á, þannig að sérhver einstaklingsþróun verði samkvæmt fyrirfram gefnu mynstri. Það er út frá þessum skilningi sem Jung getur sagt:

„Reglunum verður sífellt meira ofaukið í hinni samfélagslegu skipulagningu lífsins, og með þeim er grafið undan hinu raunverulega siðferði. Því meir sem maðurinn er bundinn af samfélagslegu regluverki, þeim mun meira verður einstaklingsbundið siðleysi hans.“[8]

Hér er um siðleysi að ræða sem hefur ekkert með eðlishvatirnar að gera, heldur snýst það um hugrekkið að halda fast við eigin opnun merkingar sem er handan eða utan við hina viðurkenndu merkingu regluverksins (ordine codificato). Það er í þessum skilningi sem „einstaklingsvitundin felur í sér eflingu vitundarsvæðisins (Die Individuazion bedeutet daher eine Erweiterung des Sphäre des Bewusstsein)“  eflingu sem nær út fyrir og hefur því með „handanveru“ að gera (transzendente Funktion)[9]

Samfélag regluverksins óttast mun meira ofgnótt merkingar sem liggur utan yfirráðasvæðis þess heldur en „óhefta útrás eðlishvatanna“ og því leggur það megináherslu á að bæla hana niður. Það sem er raunverulega bælt í okkar samfélagsgerð er því ekki fyrst og fremst hvatalífið, heldur handanveran (la trascendenza), skilin sem umframmerking miðað við hið viðtekna regluverk merkinganna (senso codificato).

Það er táknið sem af eðlislægri tvíræðni sinni losar sig undan harðstjórn merkisins. Þetta er hinn raunverulegi munur á Freud og Jung: ólík greining og skilgreining hins bælda og þar með ólík lækning sem nýtir sér annars vegar göfgun hvatanna og hins vegar leik táknanna sem umframmerkingu miðað við hina viðteknu merkingu.

Þessi samtenging þróunar einstaklingsvitundar og handanvirkni (funzione trascendente) og þessi tenging handanvirkninnar við táknið, er hið síendurtekna þema í allri sálfræðihugsun Jungs. Þetta sést vel í því ótvíræða sambandi sem Jung hefur sýnt fram á að ríki milli skilgreiningarinnar á  þróun einstaklingsvitundar og skilgreiningainnar á tákinu. Þannig segir hann:

„Þróun einstaklingsvitundar er nátengd svokallaðri handanvirkni (transzendente Funktion) því það er í gegnum þessa virkni sem þær línur eru lagðar í þroskaferli einstaklingsvitundarinnar sem aldrei gætu orðið að veruleika samkvæmt fyrirframgefnum samfélagsreglum (sjá atriðisorðið Symbol).“[10]

Undir þessu atriðisorði (Symbol) í texta Jungs er umframmerkingin sem til verður með handanvirkninni innan þroskaferlis einstaklingsvitundarinnar skilgreind sem táknrænt atferli með eftirfarandi hætti:

Útgeislun tiltekins skilnings á heiminum sem gefur stórum sem smáum atvikum í lífinu merkingu og færir þeim þar með tiltekið gildi sem er umfram það sem venja er að veita tilfallandi staðreyndum eins og þær koma fyrir.“[11]

Með því að halda fram þessari umframmerkingu í krafti táknsæisins, þessari merkingu  „umfram það sem venjan er að veita tilfallandi staðreyndum“ nær Jung ekki bara að afhjúpa það stranga eftirlit og drottnunarvald sem rökfræði (logica) vestrænnar rökhyggju (ragione) er gefið og leiða um leið í ljós hvernig tungumál hennar takmarkast við virknina og hvernig siðfræði hennar takmarkast af virkni og hagkvæmni, heldur býður hann einstaklingnum jafnframt upp á möguleikann til að af-flytja sig (de-situarsi) og yfirstíga þær þröngu aðstæður sem honum eru skapaðar, ekki með valdboði, heldur með því að fjarlægja alla valkosti umframmerkingar. Sjálfan Freud bauð reyndar í grun að einmitt hér væri að finna hina sönnu ánauð siðmenningarinnar þegar hann skrifaði:

„Fyrir utan og ofan þá skerðingu á eðlishneigðum, sem við vitum þegar um, beinist athyglin að hættunni á því að ástand kunni að skapast sem nefna mætti „sálræna örbirgð hópa“. Mest er hættan á þessu ástandi þegar tengsl einstaklinga í samfélagi eru einkum byggð á gagnkvæmri samsömun þeirra […] Núverandi menningarástand Ameríku ætti að geta veitt gott tækifæri til að athuga það tjón sem óttast má að siðmenningu af þessu tagi sé búið. En ég ætla samt að standast freistinguna að hefja gagnrýni á ameríska menningu. Ég vil ekki að svo líti út sem mér leiki sjálfum hugur á að nota amerískar aðferðir.“[12]

Með þessari stuttu vísun í  „tengsl einstaklinga í samfélagi … er byggi á gagnkvæmri samsömun þeirra“ gengur Freud lengra en lesa má úr þeirri  „náttúrufræðilegu“ túlkun sem finna má í  skilningi hans á taugaveikluninni sem bælingu eðlishvatanna og opnar þar með fyrir „tilvistarlegri túlkun“ sem þar af leiðandi verður um leið mannlegri.[13] Tilvera mannsins er upprunalega opin gagnvart sam-veru. Þessi opnun býður upp á tvíræðan möguleika, þar sem einstaklingurinn getur tekið út sinn sérstaka þroska, en einnig mátt þola sitt algjöra skipbrot.

Martin Heidegger benti skilmerkilega á þessa hættu á þeim bókarsíðum sem hann helgar upplausn tilvistar mannsins í hinni samfélagslegu tilveru þar sem:

„sérhver verður eins og allir hinir í gegnum notkun upplýsinga- samgöngu- og fjölmiðlatækninnar. Slík samvera veldur upplausn hinnar einstaklingsbundnu tilvistar í heimi hinna, þannig að margbreytileiki og áþreifanleiki hinna hverfur. Hugtakið Maður öðlast við þessar aðstæður stöðu harðstjórans. Við eyðum dögunum og skemmtum okkur eins og maður eyðir dögunum eða skemmtir sér. Maður les og skoðar og dæmir bókmenntir og listir eins og menn lesa, skoða og dæma. Við drögum okkur líka í hlé frá fjöldanum eins og maður dregur sig til hlés og við höfum ógeð á því sem manni finnst ógeðslegt. Þessi „Maður“ sem er engin tiltekin persóna, heldur allir (þó ekki sem heildarsumma) setur hversdagslífinu fastar reglur og skorður.“[14]

Hin ópersónulegi „Maður“ felur í sér útjöfnun allra möguleika verunnar, hugsunarinnar og viljans og auðveldar þannig rökhyggju kerfisins eftirlitshlutverk sitt. Það sem er fyrirsjáanlegt verður um leið auðveldara í meðförum eftirlitsstofnananna. Með því að jafna út reynsluna og væntingarnar er hinu samfélagslega apparati gert auðveldara um vik að beita þvingunarmeðulum sínum án þess að þurfa að grípa til grófra ofbeldisaðgerða er gætu orsakað hrun þess. En ekki bara það, því þegar búið er að gera sérhverja ákvörðun fyrirsjáanlega er einstaklingurinn losaður undan sinni persónulegu ábyrgð um leið og honum er launað með þeim meðulum sem gera framkvæmd áformanna mögulega. Þannig styrkir kerfið valdastöðu sína í sessi.

Það er ekki hægt að losa sig undan drottinvaldi „maður…“-hefðarinnar og því valdakerfi sem þannig stýrir okkur og kúgar, nema með úr-skurði (la de-cisione, Ent-scheidung)[15], sem eins og orðsifjafræðin segir, merkir aðskilnað frá „maður“-hugsuninni þar sem allt er fyrirfram ákveðið og engum er frjálst að gera eða hugsa öðruvísi en allir hinir. En til þess að „úr-skuðurinn“ eigi sér stað er óhjákvæmilegt að innra með manninum hljómi rödd sem er ekki bara skvaldur daganna, sú tvíræðni sem einkennir daglegt mál manna eða „hávaða heimsins“[16]  eins og það kallast á máli gnostikeranna. Í samræmi við þetta segir Heidegger:

„Köllunin segir engin tíðindi, hún er köllun án minnsta snefils mannlegrar raddar. Hún er köllun hins óþekkta heims þagnarinnar; vegna þess að rödd köllunarinnar berst ekki til viðtakandans í bland við annan „maður gerir/hugsar“ talsmáta, heldur kallar hún hann  inn í þögn ríkjandi verumöguleika.

Í þögninni skapast möguleiki á skynjun eigin sektar sem felst í því „að ráða ekki eigin tilvist“[17] Vitundin um þessa sekt, sem er ekki siðferðileg, heldur tilvistarleg, þar sem hún felur í sér höfnun eigin til-veru (e-sistenza)[18]  felur í sér möguleika á endurheimtum eins og möguleikanum á að færa sig um set (de-situarsi) út fyrir þær aðstæður sem harðstjórn „Maður-hugsunarinnar“ hefur skapað. Ef það að á-kveða sig (de-cidersi)[19] merkir að „falla frá“ eða segja skilið við þann „vettvang“ sem er undir ægivaldi „Maður-hugsunarinnar“ þá merkir það að ákveða sig (framkvæma úr-skurð) að segja skilið við nafnleysi „maður-hugsunarinnar“ eins og um útlaga eða útlending væri að ræða. Það er í þessari útlegð sem maðurinn stendur vörð um kjarna sinn og raunverulega möguleika til frelsis.

Látum þetta nægja um Heidegger og það köllunarhlutverk sem hann vildi sjá í tungumálinu en rödd hans var eins og „kveinstafir“ Hinna Síðustu Manna í leit að „nýjum orðum“ er gætu fært okkur um set út frá vettvangi vanahyggjunnar, þar sem frelsi mannsins og merking tilveru hans fara fyrir lítið. Á þessum vettvangi, sem er einnig vettvangur hinnar almennu skynsemi, eru orðin ekki upplýsandi heldur byggja þau á virkni sinni, þau leiða ekki í ljós nýja merkingu heldur endurtaka í það óendanlega sömu merkin og innbyrðis tengsl þeirra.

Þegar búið er að loka orðið inni á afgirtu svæði rökhugsunarinnar, þar sem það er kallað til að staðfesta tilgátuna, eru örlög þess ráðin sem síendurtekin klifun og skilgreining, dáleiðsluhugtak sem finnur eigin réttlætingu og eigin merkingu í „eins og sagt er“. Þegar orðin koma til okkar eins og fyrirfram boðaðar staðfestingar á sjálfum sér fylla þau tómið sem skapast af skortinum á umframmerkingu.

Það er rökhyggja kerfisins sem bregst til varnar gegn þessari umframmerkingu og hún beinist því ekki gegn eðlishvötunum  (Freud) með sambærilegum hætti og hún beinist gegn táknunum (Jung) í þeirri viðleitni sinni að gera sérhvert það orð ómerkt í fæðingu sinni sem beinist að þeim merkingum og þeim tilgangi sem standa utan kerfisins og geta því falið í sér hættu. Þegar þeim hlutum og fyrirbærum sem eru ekki til staðar innan kerfisins er gefið nafn er galdramáttur þeirra orða, sem fyrir eru, rofinn, og þannig er opnuð leið fyrir nýja reglu innan þeirrar sem var ríkjandi. „Vinnan sem lætur það lifa í okkur sem ekki er til“[20] má þola öll ritskoðunarráð kerfisins, allt frá grófustu boðum og bönnum til hinna úthugsuðustu bellibragða fjölmiðlanna, sem samræma tjáningarmáta sinn og tjáningartól og þannig mögulegan skilning, og gera þau tjáskipti sem snúast um handanmerkingu þannig tæknilega ómögulega.[21]

Þess vegna verður tungumál táknanna óhæft til tjáskipta. Útilokunin sem það má sæta að ofan og sinnuleysið sem það mætir neðan frá leggjast þannig á eitt með  yfirlætisfullri bælingarviðleitni rökhyggjunnar, sem segir okkur að ekki séu til vandamál sem ekki sé hægt að ræða á hreinan og kláran hátt og setja undir mælistiku almenningsálitsins, að ekki séu til orð er séu hlaðin sjálfstæðri eigin merkingu sem ekki verði þýdd yfir á ríkjandi tungumál hinna virku tjáskipta, að ekki sé til sú einsemd einstaklingsins er geti tekið sér stöðu handan við eða andspænis samfélaginu vopnuð tungumáli sem er hlaðið einstaklingsbundinni merkingu. Það er í þessu samhengi sem Rilke hefur skrifað:

„Fyrir forfeður okkar voru hlutir sem þeir þekktu vel eins og „hús“, „brunnur“, „turn“ eða tiltekin „föt“ sem þeir klæddust,  óendanlega tilkomumeiri og nákomnari en þeir eru okkur. Nánast sérhver hlutur var eins og stórt ílát sem þeir fundu og geymdu mennsku sína í. Nú berast til okkar í stríðum straumum hlutir frá Ameríku, nýir og óviðkomandi hlutir, gervihlutir, græjur til að lifa með. Hús í amerískri merkingu, amerískt epli eða amerísk vínber eiga ekkert sameiginlegt með húsinu, ávextinum, vínþrúgunum sem höfðu varðveitt vonir og hugsanir forfeðra okkar.[22]

Tungumál táknanna tengist hinu daglega lífi í gegnum þátíð og framtíð, það hefur tón köllunar og líkingamáls sem heimur rökhyggjunnar hefur þaggað niður í og svipt þannig getunni til að tjá hið mannlega. Rökhyggjan hefur gert sig ónæma fyrir ásókn táknmálsins með því að sameina andstæðurnar og hika ekki við að sýna eigin mótsagnir sem vitnisburð um einlægni sína. Þannig hefur hún útilokað alla orðræðu sem ekki er háð á hennar forsendum.  Með slíkri einokun á allri mögulegri merkingu hefur rökhyggjunni tekist að innlima einnig sína eigin andstæðinga, því hún veit að þeir munu ekki geta lagt neitt til málanna nema fyrir hennar náð og miskunn og þeir geta ekki leyft sér annað tungutak en það sem að þeim er rétt. Með jafngildingu allra hugtaka allra mögulegra orðræðna hefur henni tekist að sameina umburðarlyndið og hina fyllstu einingu.

Einingin næst fram með því að sameina tungumálasvæðin eftir að búið er að tæma þau af þeirri táknrænu fyllingu sem myndar kjarnann.  Þetta er mögulegt með því að skapa tungumál með föstum hugtökum sem koma í veg fyrir þróun táknrænnar tjáningar og viðurkennir eingöngu merki sem geta útilokað allt það sem gæti snúist gegn slíkum ásetningi. Með þessum hætti nær rökhyggja kerfisins því markmiði sínu að leysa upp sérhvern þann raunveruleika sem ekki byggir á hennar forsendum, og þar með gera sig ónæma fyrir öllu andófi er gæti talist fela í sér eyðingarmátt vegna þess að það fer út fyrir kerfið.

Smækkun táknsins niður í fastar myndir, stöðvun merkingar samkvæmt sjálfsréttlætandi formúlum, ónæmið fyrir mótsögnunum, smækkun tvíræðninnar niður í jafngildingu eru hvort tveggja í senn, einkenni hins hrokafulla tungumáls sem rökhyggjan færir okkur í hendur og tækið sem hún beitir fyrirfram til að verja vald sitt.[23]  Séhver ágreiningur sem upp getur komið er þannig þegar fyrirfram leystur í tungumálinu, sem hefur fyrirfram lagt upp í hendur okkar forsendur sínar og hefur því fyrirfram á reiðum höndum lausnir samkvæmt hugtökum rökhyggjunnar. Með fjarveru táknanna er ekki lengur til að dreifa lausnum er ná út yfir vídd vandamálsins, því merkingunni er þegar markaður bás innan marka tungumálsins sem tjáir hana.

En þar sem engin „ný orð“ er að finna, heldur einungis sjálfgildingartungumál sem er þess megnugt að hafa eftirlit með öllu sem sagt er, verður það skiljanlegt hvers vegna maðurinn „þrái fasismann“[24], harðstjórn og einræðistilburði nefnarans (Significante)[25]. Það gerist ekki í gegnum svikamyllu dulvitundarinnar eins og tilgáta Reichs gekk út frá, og heldur ekki fyrir tilverknað þeirra sjúklegu tjáskipta sem eiga sér stað á milli hagsmuna og löngunar eins og Deleuze og Guattari héldu fram[26] heldur vegna þess að þegar reglan (il codice) hefur tekið sér alræðisvöld er ekki eftir öðru að sækjast en merkjum reglunnar – vilji menn forðast allsherjar upplausn (l‘anomia[27]) sem hinir merktu og tilvísuðu hlutir eru einungis vitnisburðir um. Um er að ræða stranga framkvæmd á hellisgoðsögninni þar sem Platon segir okkur að Sólin (harðstjóri Nefnaranna –il Significante dispotico ) :

„varpi skuggum sem fangarnir sjá í botni hellisins: skugga eftirlíkinga sem nokkrir menn halda uppi fyrir utan hellismunnann, ekki öðruvísi en leikbrúðuleikarar sem reisa upp þil á milli sín og áhorfendanna og halda á lofti hvers kyns augnayndi.“[28]

Þegar búið er að festa reglu framsetningarinnar í sessi í eitt skipti fyrir öll, glatar löngunin smám saman mögulegum mætti sínum til að afflytja, en sækist þess í stað eftir því „augnayndi“ sem  henni er sýnt. Það er ekki lengur þörf fyrir að bæla hana eða halda henni í skefjum til þess að fella hana inn í lögmálið, því þar sem lögmálið hefur tekið sér einokunarrétt á sérhverri framsetningarreglu, og þar sem ekki er til að dreifa neinu því rými sem ekki hefur verið fyllt með merkjamáli reglunnar, verður það löngunin sjálf sem hættir að geta tjáð sig nema sem löngunin eftir reglunni og löngunin eftir lögmálinu.

Við þessar aðstæður nægir ekki að „fjarlægja“ löngunina til þess að byggja upp siðmenninguna eins og Ödipus Freuds heldur fram, og það dugar heldur ekki að „frelsa“ hana til þess að koma henni í endurnýjaða lífdaga eins og Deleuze og Guattari halda fram í sínum Anti-Ödipusi. Þegar reglan er orðin alræðisleg og merki hennar hafa lagst yfir alla jörðina dugar löngunin ekki lengur til þess að afflytja, því hún er ófær um að ná út fyrir það „augnayndi“ sem henni er boðið upp á.

Ef dulvitundin hýsti einungis bældar langanir eins og tilgátur Freuds annars vegar og Deleuze og Guattari hins vegar ganga út frá, þá væri örlagasaga mannkyns ráðin á því augnabliki –eins og nú er stefnt að – þegar algjör  stjórnun allra framsetninga (rappresentazioni) er orðin að veruleika.  En ef raunin væri hins vegar sú að dulvitund mannsins ætti sér ekki einungis tungumál löngunarinnar, heldur líka tungumáli táknanna, þá væru hernaðaráform fyrirframgefinna framsetninga og myndgervinga – sem alræðishyggja reglunnar stendur fyrir ásamt með forskriftum sínum – ekki sjálfgefið með sigurinn vísann, því ólíkt löngununum þá „vísar táknið ekki til þekktra hluta“.[29] Vegna þessarar getu sinnar til að sjá út yfir hinar reglubundnu merkingar er framtíðin fólgin í tákninu.

Forsíðumynd: Valerio Adami: Voyants, 2004

 

[1] Platon: Menon, 81 c.

[2] I. Kant: Die Religion innerhalb der Grenzen der blossen Vernuft (1793).

[3] S. Freud: Undir oki siðmenningar, þýð. Sigurjón Björnsson, HÍB 1997, bls 55.

[4]  H. Marcuse, Eros and Civilisation (1955, 1966), í ít. Þýð. Eros e Civiltà, Torino 1968, bls. 33.

[5] S. Freud: Undir oki siðmenningar, HÍB  1977, bls. 39

[6] L. Binswanger, Erinnerungen an Sigmund Freud (1955); ít. Þýðing Ricordi di Sigmund freud, Astrolabio, Róm, 1971, bls. 82-83.

[7] S. Freud: Undir oki siðmenningar

[8] C.G. Jung, Psychologische Typen (1921); ít. Þýð. Tipi psicologici í Opere, Torino 1969-93, VI. Bindi § 828, bls. 464

[9] Sama rit, § 826, 828, bls. 464-465

[10] Sama rit § 826, bls. 463-464. Í Psychologische Typen gerir Jung grein fyrir merkingu grungdvallarhugtaka í fræðikenningu sinni eftir atriðisorðaskrá. Hugtakið Symbol (tákn) gegnir þar mikilvægu hlutverki.

[11] Sama rit, § 899, bls. 486

[12] S. Freud: Undir oki siðmenningar; þýð. Sigurjón Björnsson, HÍB 1997, bls. 56

[13] Frekari umfjöllun um þetta mál er að finna í U. Galimberti, Psichiatria e fenomenologia, Feltrinelli, Milano 1979, 6. Kafli: „Il naturalismo fisico-biologico della psicoanalitica di Freud“ og 7. Kafli: „La contraddizione tra impianto teorico e prassi terapeutica in Freud. Il cosidetto ‘inconscio‘“.

[14]“In der Benuzung öffentlicher Verkehrsmittel, in Verwendung des Nachrichtenwesens (Zeitung) ist jeder Andere wie der Andere. Dieses Miteinandersein löst das eigene Dasein völlig in die Seinsart “der Anderen” auf, so zwar, dass die Anderen in ihrer Unterschiedlichkeit und Ausdrűcklichkeit noch mehr verschwinden. In dieser Unauffälligkeit und Nichtfeststellbarkeit entfaltet das man seine eigentliche diktatur. Wir geniessen und vergnűgen uns, wie man geniesst; wir lessen, sehen und urteilen űber Litteratur und Kunst, wie man sieht und urteilt; wir ziehen uns aber auch vom “grossen Haufen” zurűck, wie man sich zurűckzieht; wir finden “empörend” was man empörend findet. Das Man, das kein bestimmtes ist und das Alle, obzwar nicht als Summe, sind, schreibt die Seinsart der Alltäglichkeit vor.” M. Heidegger,: Sein und Zeit (1927) §27, bls 366-68, þýsk-ítölsk útgáfa Max Niemeyer Verlag og Mondadori, Milano 2001.

[15] Ítalska orðið decisióne (=ákvörðun) er dregið af latnesku sögninni de- caedere sem merkir bókstaflega að falla frá einhverju. Þýska orðið Ent-scheidung (=ákvörðun) þýðir bókstaflega úr-skurður. Því hæfir hér að þýða de-cisione sem úrskurð.

 

[16] M. Lidzbarski (ritstjórn) Das Johannesbuch der Mandäer (þýsk þýðing á textum mandea), Giessen 1915, bls. 62.

[17] M. Heidegger, Sein und Zeit, §58, „non padroneggiare la propria esistenza“Ég finn ekki þetta setningarbrot í minni útgáfu á Sein und Zeit, en kaflinn fjallar um „köllun og sekt“

[18] E-sistenza (=til-vist) er dregið af latnesku sögninni existere (ex-sistere) sem merkir að rísa upp frá einhverju. Martin Heidegger lagði þann skilning í hugtakið að það merkti að vera fyrir utan eða handan við sjálfan sig innan ramma möguleikanna. Þannig skilið merkir existere að yfirstíga veruleikann innan gefinna möguleika., Sbr. Dizionario Etimologico Rusconi Libri, Santarchangelo 2003.

[19] Ítalska sögnin decidere (=ákveða) er dregin af og samsett úr latnesku forsetningunni de og sögninni caedere og merkir því upprunalega að falla frá einhverju. Íslenskar hliðstæður gætu verið að af-ráða og nafnorðið úr-skurður og sögnin að skera úr um e-ð. Sbr. Dizionario Etimologico

[20] P. Valéry, Poésie et pensée abstraite í Œuvres Bibliotheque de la Pléia de, Gallimard, Paris 1947, bls. 1333. „il lavoro che fa vivere in noi ciò che non esiste.“

[21] Sjá í þessu samhengi U. Galimberti, Psiche e techne. L‘uomo nell‘età della technica, Feltrinelli, Milano 1999, kafli 52: „Mass media e monologo collettivo“.

[22] R.M. Rilke, Briefe aus Muzot í Gesammelte Werke, Frankfurt a.M. 1961, vol. VI, bls. 335.

[23] Um valdhroka (pre-potenza) rökhyggjunnar er fjallað í U. Galimberti, Il tramonto dell‘Occidente nella lettura di Heidegger e Jaspers, Feltrinelli, Milano 2005, Bók II, Kafli XI: „La prepotenza della ragione e l‘alienazione.

[24] W. Reich, Die Massenpsychologie des Faschismus (1933), ít. Þýð. Psichologia di massa del fascismo, SugarCo, Milano 1976, bls. 19.

[25] Ítalska orðið „significante“ (e.: signifier, fr.: signifiant) er merkingarfræðilegt tækniorð sem á sér ekki ótvíræða hliðstæðu í íslensku. Það var málfræðingurinn Saussure sem upprunalega greindi merki (fr.: signé/e.: sign/ít.: segno) í táknmynd/nefnara (fr.: signifiant/e.: signifier/ít.: significante) og táknmið/ nefni (signifié/signified/significato). Saman fela þessir þættir í sér verknað sem kallast á ensku signification (nafngift, merking, tákngerving). Merkið sem slíkt tengist táknmiði/nefni sínu í gegnum samkomulag og/eða nafngift og þarf ekki að líkjast því. Dæmi: Þegar búið er að ákveða að gefa laut í landslagi heitið „bolli“, þá er orðið „bolli“ ekki bara samnefnari fyrir drykkjarílát heldur líka fyrir form í landslagi en líkist þó hvorugu. (Íslensku orðin samnefnari og örnefni gætu hugsanlega réttlætt þá tilraun sem hér er gerð að kalla signifier/significante nefnara og búa til afleidd íðorð út frá nafn-stofninum.) Samkvæmt hugtakaskilgreiningu Jungs (og Galimberti)er grundvallarmunur á merki og tákni sem gerir hugtökin táknmynd og táknmið ónothæf sem signifier og signified.  Hjá Jung og Galimberti vísar merki til vel skilgreinds viðfangs, en tákn til tiltölulegra óþekktra fyrirbæra sem ekki verða skilgreind betur en einmitt með tákninu sjálfu. Táknið vísar því endanlega í sjálft sig samkvæmt Jung, á meðan merkið vísar í skilgreint og vel afmarkað ytra viðfang.

[26] G. Deleuze og F. Guattari, L‘anti-Œdipe; ít. Þýð. L‘anti Edipo, Einaudi, Torino, bls. 418-23.

[27] Upprunalega grískt orð, anomia, dregið af lýsingarorðinu ánomos (=án reglu), þar sem gríska orðið nomos merkir regla. Orð þetta var fyrst notað í félagsfræðilegu samhengi af E. Durkheim (1858-1917) til að lýsa eins konar stjórnleysi er komi upp þegar samfélagslegar reglur eru upprættar. Sbr. Dizionario Etimologico, Rusconi libri 2003.

[28] Ítalski textinn kemur ekki fullkomlega heim og saman við orðalag íslenskrar þýðingar Eyjólfs Kjalar Emilssonar á Ríkinu eftir Platon (7. Bók, 514-515, bls 157-158, Lærdómsrit Bókmenntafélagsins 1991,) þótt efnislega sé enginn munur, en þar fær hin sígilda hellislíking Platons þennan íslenska búning: „Mennirnir hafa verið þarna frá því í bernsku, hlekkjaðir á fótum og hálsi svo að þeir eru kyrrir og sjá ekki nema beint fram fyrir sig, þar sem hlekkirnir meina þeim að hreyfa höfuðið. Þeir fá birtu frá eldi sem logar langt fyrir ofan þá og aftan þá, en milli eldsins og fanganna liggur upphækkaður vegur. Meðfram honum skalt þú ímynda þér lágan vegg gerðan líkt og tjald sem leikbrúðufólk setur upp fyrir framan áhorfendur og sýnir þeim svo brúðurnar yfir það…Ímyndaðu þér nú ennfremur að menn fari meðfram veggnum með alls kyns tól sem skaga upp fyrir brúnina, og einnig alls kyns líkneskjur af mönnum og öðrum dýrum úr steini og tré af öllum gerðum…“

[29] C.G. Jung; Tipi psichologici, § 817, bls. 485.

 

ARISTÓTELES – FORNGRÍSK SÁLARFRÆÐI – Samantekt um svarta gallið

 

Samantekt um svarta gallið

eignuð Aristótelesi

 

 

Fyrsta tilraun mín til kennslu í listasögu var 10 kvöldstunda námskeið á vegum Endurmenntunar Háskóla Íslands um eina grafíkmynd eftir Albrecht Durer. Það var myndin "Melancolia I" frá árinu 1514. Á þessum tíma var ég upptekinn af hinum íkonologiska skóla Warburg-stofnunarinnar í London, og má segja að hið sígilda rit R. Klibansky, E. Panofsky og F. Saxl "Saturn and Melancholy. Studies in the History of Natural Philosophy, Religion and Art" frá árinu 1983 hafi verið kveikjan að þessu námskeiði. Ég hafði aflað mér margvíslegra heimilda um efnið, en í þessari bók, sem ég hafði fundið á ferðalagi um Ítalíu í ítalskri þýðingu,  var svolítið kaflabrot sem skipti sköpum og varð hluti af námsefninu í íslenskri þýðingu minni úr ítölsku. Síðan hef ég margoft notast við þetta kaflabrot í kennslu minni, texta sem er eignaður Aristótelesi og er frá 4. öld fyrir Krist. Ég birti þetta textabrot hér lesendum þessarar síðu til skemmtunar og væntanlegum nemendum mínum til fróðleiks.
Aristóteles var einn af nemendum Platons og var í upphafi mótaður af hugmyndum hans, einnig um leyndardóma mannssálarinnar og alheimsins. Í Samdrykkju Platons sjáum við skýra framsetningu á „frummyndakenningu“ hans þar sem Sókrates hefur það eftir Diotemu að leit mannsins að hinu fagra, sanna og góða hefjist með ást á tilteknum fögrum líkama en hefjist síðan upp á við frá einum fögrum líkama til allra fagurra líkama og síðan til allra fagurra sálna og að lokum til hins fagra í sjálfu sér sem er handan hins skynjanlega fyrir alla nema kannski útvalda heimspekinga. Þetta er hin platonska stigveldiskenning í einfaldri mynd. Efnisheimurinn eða hinn skynjanlegi heimur samkvæmt hefðbundnum skilningi er þannig skuggamynd eða endurspeglun huglægrar frummyndar, og listaverk sem á að sýna tiltekinn hlut eða fyrirbæri er þá „skuggamynd af skuggamynd“ og því til þess fallið að leiða áhorfandann enn frekar frá sannleikanum. Þetta var ástæða þess að Platon vildi banna listirnar úr fyrirmyndarríki sínu, sem hann lýsir í „Ríkinu“, en fyrirmyndarríki hans átti að lúta yfirstjórn útvalinna heimspekinga er hefðu kynnst opinberun „hins sanna í sjálfu sér“, handan hinna efnislegu (og hverfulu) birtingarmynda þess.
Þessi stigveldishugsun Platons, á rætur sínar í því þekkingarfræðilega vandamáli að engir tveir líkamar hafa nákvæmlega sömu skynjun á fyrirbærunum (t.d. skynjun líkamans og tommustokksins á vegalengd fara ekki endilega saman) og efnisheimurinn er undirorpinn stöðugum breytingum frá einum tíma til annars (ólíkt hugtakinu meter, sem er óbreytanlegt). Frummyndakenningin var þannig hugsuð sem forsenda þess að setja fram skilgreiningu á veruleikanum er væri án mótsagna. Hún er jafnframt meginatriði „hughyggjunnar“ eða idealismans í sögu hugmyndanna og grundvöllur „frumspekilegrar“ hugsunar.
Þó Aristóteles hafi í upphafi verið mótaður af hugmyndum Platons og Sókratesar kom þó fljótlega í ljós annar skilningur hans á nokkrum frumforsendum þekkingarinnar. Athygli Aristótelesar beindist kannski meira að efnisheiminum og skynjun hans en að efnislausum hugmyndum, og afneitun Platons á líkamanum sem „fangelsi“ eða „gröf“ sálarinnar“ er ekki að finna hjá Aristótelesi að sama skapi. Þetta sést vel á eftirfarandi kafla úr ritgerðasafninu „Problemata“ sem myndar VI. bindið í heildarútgáfu E.S. Forsters og  Oxford Clarendon Press á verkum Aristótelesar frá 1926. Hér er ekki leitað til himnanna eftir skilgreiningu á Erosi sem mannlegri ástríðu „til getnaðar í hinu fagra“ eins og Diotema orðar það í munni Sókratesar. Þess í stað leitar Aristóteles til líkamsvessanna út frá læknisfræði síns samtíma og út frá vessakenningu Hippokratesar.
Þessi nálgun er skyldari þeim aðferðum sem við þekkjum úr heimi læknisfræði og lífeðlisfræði samtímans, þar sem líkami mannsins er gjarnan smættaður niður í líkamsparta sína, líffæri, frumur, efnahvata og erfðavísa.
Ritgerðasafnið Problemata, sem eignað er Aristótelesi, hefur að geyma 38 kafla um læknisfræði og skynfæri líkamans. Í gegnum aldirnar hafa þessir textar verið endurritaðir, þýddir og endursagðir af óteljandi fræðimönnum og einhver ágreiningur mun vera uppi um hvort rétt sé að eigna Aristótelesi alla textana, þó andi þeirra sé talinn endurspegla „skóla“ hans og meginhugsun. En þó að hugmyndir Aristótelesar um áhrifamátt „vessablöndunnar“ á sálarlíf og líkamlega líðan mannsins kunni að koma okkur á óvart, þá er aðferðarfræðin skyldari smættunarhugsun nútíma læknisfræði og lyfjafræðilegum lausnum hennar á mannlegum vandamálum en virðast kann í fyrstu. Læknisfræði Aristótelesar er forboði nútíma efnishyggju með sama hætti og afneitun Platons á líkamanum er forboði hughyggjunnar eins og hún þróaðist síðan innan eingyðistrúarbragðanna. Báðar þessar forsendur höfðu mótandi áhrif á þróun lista á Vesturlöndum, ekki síst myndlistarinnar.
Vessakenningin um virkni vessanna á líkama og sál mannsins var ríkjandi í allri læknisfræði á Vesturlöndum fram á 18. öld. Með "nýplatónisma" Ágústínusar kirkjuföður um 400 e.Kr og nýplatónisma Marsilio Ficino og akademíu Medici-ættarinnar í Flórens á 15. öld voru vessarnir tengdir guðdómlegu orkuflæði er stafaði frá Guði og leiddi í gegnum pláneturnar til minnstu agna efnisheimsins, lifandi sem dauðra, þar með talið líkamsvessanna sem þannig voru samhæfðir kristnum kennisetningum. Nýplatónisminn í Flórens var fyrst og fremst tilraun til að samræma kristna kennisetningu og forngríska heimspekihefð. Læknisfræði byggð á vessafræðum og tengd kristnum kennisetningum um synd og fyrirgefningu var einnig þekkt og notuð í lækningaskyni á Íslandi á miðöldum, eins og fram kemur í þýðingu á texta Elucidariusar sem varðveittur er í handriti Hauksbókar frá því um 1200.
Það var ekki síst Friedrich Nietzsche sem átti frumkvæði að gagnrýni á platonskri hughyggju á seinni hluta 19. aldar. Nietzsche vakti athygli á því að afneitur Platons á líkamanum og þeim ástríðum er honum tengdust hefði verið leið hans til að losa heimspekina úr viðjum goðafræðinnar, og þá einkum þeim hluta hennar er tengdist hinu jarðneska, heimum Díonýsusar og Demeter. Með endurvöktum skilningi á hinum jarðnesku (díonýsísku) ástríðum mannsins var lagður grundvöllur að sálgreiningu Freuds, og má jafnframt segja að bæði Nietzsche og Freud hafi verið afsprengi rómantísku stefnunnar í listum. Lesendum þessa texta Aristótelesar hér er því bent á að lesa kaflabrotin úr "Fæðingu harmleiksins" eftir Nietzsche hér á hugrunir.com, og síðan gagnmerka túlkun ítölsku heimspekinganna Carlo Sini og Giorgio Colli á goðsögulegri merkingu hins díonýsíska og apolonska í goðafræðinni og aftengingu þessarar merkingar með tilkomu heimspekihefðarinnar á 4. öld f.Kr.
Með tengingu depurðar við svarta gallið höfum við fyrstu tilraunina til fræðilegrar sálgreiningar. Með tilkomu kristindómsins (og eingyðistrúarbragðanna) var þessi sálræni sjúkdómur tengdur syndinni, hugmyndum um meinlæti holdsins og endurlausn á dómsdegi. Með sálgreiningu Freud var gerð tilraun til að aftengja trúarbrögðin og syndina með tilkomu hugmyndarinnar um dulvitundina og hinar duldu hvatir líkamans og sálarinnar. Freud skilgreindi togstreitu í sálarlífi mannsins sem togstreitu á milli ómeðvitaðra hvata (einkum kynhvatarinnar) og yfirsjálfsins, sem þyrfti að ná "valdi" á ríki dulvitundarinnar, sem hann kallaði líka ríki "þaðsins". Þetta vald væri merki siðmenningarinnar,:  "þar sem þaðið er, þar á égið að vera". Þetta valdboð var gjaldið sem maðurinn greiddi fyrir siðmenninguna.
Á okkar tímum hefur þetta mynstur breyst. Í stað iðrunar eldri kynslóðarinnar fyrir hömluleysi og drýgðar "syndir" holdsins lystisemda á yngri árum er það nú unga kynslóðin sem líður fyrir að fá ekki fullnægt lystisemdum sínum, eða öllu líður fyrir skort á ástríðum. Kvíðinn í okkar samfélagi birtist fyrst og fremst í óttanum við að geta ekki uppfyllt neyslukröfur hans. Sá sem bugast undan kröfum samtímans um samvirka neyslu leitar á náðir deyfilyfjanna. Depurðarorsök samtímans er frekar ástríðuleysi ungu kynslóðarinnar en hömlulausar ástríður. Með tilkomu stóraukinnar deyfilyfjanotkunar í samtímanum sjáum við þennan 2400 ára gamla texta Aristótelesar um hinar döpru ástríður vakinn til lífsins á ný.

 

E Munch Melankoli 1891

Edvard Munch: Melankoli, 1891

Problema XXX,I

Endursögn úr ítalskri útgáfu á „Saturno e la melacolia“ eftir E. Panofsky, R. Klibansky og F. Saxl

Einaudi editore 1983, bls 22-27

Hvernig getur á því staðið að allir þeir sem hafa skarað framúr á sviði heimspeki eða stjórnmála eða í skáldskap eða listum, eru áberandi depurðarsjúkir (melankólskir) og sumir í svo ríkum mæli að þeir þjást af truflunum af völdum svarta gallsins?

Í goðafræðinni finnum við dæmi þessa meðal hetjanna í Herkúlesi. Hann virðist greinilega hafa þetta upplag, og því hafa flogaköstin sem ásóttu hann verið kölluð „heilagur sjúkdómur“ af mönnum fornaldar. Æðiskastið sem hann fékk andspænis sonunum gefur þetta til kynna, rétt eins og útbrotasárin sem duttu á hann áður en hann hvarf á Eta-fjall. Slík sár eru hjá mörgum einkenni svarta gallsins. Lisandro Lacedemone þjáðist einnig af slíkum útbrotum áður en hann dó. Þá eru sögurnar af Aiace og Bellerofonte til vitnis um þetta: annar gekk fullkomlega af göflunum, hinn leitaði eftir mannlausum stöðum til dvalar í auðninni. En um það sagði Hómer: „en þegar hann hafði áunnið sér hatur allra guða / þá villtist hann um einn saman á Alea-sléttu, / úttaugaður á flótta undan sporum manna“.

Depurðarsjúkir snillingar: Sókrates, Aristóteles og Platon.

Margar fleiri af hetjum fornaldar þjáðust á sama hátt, og meðal manna frá síðustu tímum mætti nefna þá Empedókles, Platon og Sókrates og marga aðra fræga menn, auk þorra allra skálda. Margir þessara manna þjást af líkamlegum kvillum af völdum þessarar skapgerðar. Sumir þeirra hafa aðeins eitt skýrt eðlisupplag til þessarar skapgerðar, en í stuttu máli þá eru þeir allir depurðarsjúkir að upplagi, eins og áður var sagt.

 

Hliðstæða vínneyslunnar

Við þurfum að notast við hliðstæðu til að átta okkur á þessu: mikil vínneysla sömu einkennum hjá mönnum, eða mjög svipuðum, og þeim sem við sjáum hjá depurðarsjúklingum.

Áfengisvíma orsakar ýmis hegðunarmynstur, til dæmis hvefsni, blíðulæti, samúðarkennd og ­bráðlæti. Hunang, mjólk, vatn eða sambærilegir neysludrykkir hafa hins vegar engin slík áhrif. Við getum sannreynt áhrifamátt vínsins á því að fylgjast með hegðunarmynstri þeirra sem drekka það. Til dæmis verða þeir sem að eðlisfari eru kaldir og þöglir mælskari þegar þeir hafa fengið sér einum of mikið. Ef þeir drekka enn meira verða þeir háværir og hraðmælskir, og þegar þeir láta til skarar skríða verða þeir ógnvekjandi. Ef þeir drekka síðan enn meira verða þeir ósvífnir og síðan bálreiðir. Ef þeir drekka sig hins vegar fullkomlega ofurölvi missa þeir bæði vit og mátt rétt eins og þeir sem hafa verið flogaveikir frá frumbernsku eða þeir sem eru haldnir bráðri depurð.

Nú, eins og einstaklingur sem drekkur breytir skaphöfn sinni í samræmi við magn vínsins, þannig er flokkur einstaklinga á bak við sérhverja skapgerð. Á sama hátt og maður hefur vissa skapgerð þegar hann er drukkinn, þá eru aðrir þannig skapi farnir ódrukknir: einn er mælskur, annar er tilfinningasamur, annar tárast auðveldlega, en vínið hefur einnig þau áhrif á vissa einstaklinga. En um þá sagði Hómer í kvæðinu: „Hann segir að ég syndi í tárunum eins og maður uppþembdur af víni“.

Stundum verða þeir einnig samúðarfullir, eða villtir eða þöglir. Sumir missa reyndar alveg málið, einkum þeir depurðarsjúklingar sem eru ekki með sjálfum sér. Vínið gerir mennina einnig ástleitna. Þetta getur gengið svo langt að ölvaður maður fari að kyssa persónur sem engum ódrukknum kæmi til hugar að kyssa vegna útlits eða aldurs. Vínið breytir manninum ekki til langframa, heldur aðeins til skemmri tíma. Eðlisupplag mannsins gerir hann hins vegar eins og hann er til frambúðar allt lífið. Sumir eru þannig árásargjarnir, aðrir þöglir, aðrir samúðarfullir og aðrir huglausir að eðlisfari. Það er því ljóst að það er sami vakinn sem ákvarðar skaphöfnina, hvort sem um áfengisvímu eða eðlisupplag er að ræða, þar sem bæði ferlin stjórnast af hita.

Nú framleiðir depurðin (melankólían) loft, hvort sem um vessann eða skaphöfnina er að ræða. Þess vegna segja læknarnir að bæði mæði og iðraólga stafi af svarta gallinu. Nú hefur vínið einnig þann eiginleika að leysa loft úr læðingi. Því eru vínið og depurðin af svipuðum toga. Við sjáum reyndar að olían myndar enga froðu, ekki heldur þegar hún er heit. Froðan sem myndast á víninu sýnir að það framleiðir loft. Við sjáum líka að olían framleiðir ekki loft, ekki heldur þegar hún er heit, á meðan vínið framleiðir það í stórum stíl og svarta vínið í ríkari mæli en það hvíta, vegna þess að það er heitara og efnismeira.

Depurðin, kynhvötin og loftþrýstingurinn

Það er af þessari ástæðu sem vínið örvar kynhvötina, og því er réttilega haldið fram að Díonýsos og Afródíta eigi samleið, og að þeir döprustu séu nautnasjúkir. Samfarirnar tengjast loftmyndun, sem sést á því að limur karlmannsins breytist skjótt frá því að vera lítill í að verða stór vegna þess að hann blæs út. Unglingsstrákar sem nálgast kynþroskann geta einnig fengið vissa fróun út úr því að nudda kynfæri sín upp á grín, jafnvel áður en þeir geta fengið sáðlát, af þeirri augljósu ástæðu að það er loft sem fer út um göngin þar sem vökvinn kemur síðar. Útferðin og krafturinn á sæðinu í samförunum eru augljóslega til komin af loftþrýstingi. Af þessu leiðir að sá matur og drykkur sem fyllir svæði kynfæranna með lofti er kynörvandi. Þetta er ástæða þess að svart vín framar öllu öðru gerir menn líka depurðarsjúklingum. Oft liggur það í augum uppi að þeir eru fullir af lofti. Reyndar sjáum við að flestir þeir sem eru haldnir depurð eru stinnholda og æðaberir. Ástæðan er ekki of mikið blóð, heldur loft. Það er hins vegar annað mál, að ekki eru allir depurðarsjúkir stinnholda og ekki allir dökkir á hörund, heldur aðeins þeir sem eru fullir af óheilbrigðum vessum.

Vessablandan og áhrif hitastigsins

En svo við snúum aftur að upp­haflega efninu, þá er svarti vessinn í manninum þegar gerður úr ákveðinni blöndu frá náttúrunnar hendi þar sem hann er blanda af heitu og köldu, þessum tveim þáttum sem náttúran er gerð úr. Svarta gallið getur því orðið annað hvort mjög heitt eða mjög kalt, að því gefnu að eitt og sama efnið geti þolað hvort tveggja: til dæmis vatnið, sem getur orðið heitara en loginn sjálfur, sé það hitað nægilega mikið (til dæmis þegar það sýður), þótt það sé kalt að eðlisfari. Sama á við um steininn og járnið, séu þau hituð mjög mikið verða þau heitari en kolin, þótt þau séu í eðli sínu köld. Um þetta er fjallað ítarlegar í bókinni um eldinn­.[1]

Ef svarta gallið, sem er kalt í eðli sínu en ekki bara yfirborðslega, fyrirfinnst í líkamanum í sínu eðlilega formi, getur það valdið lömun eða sléni eða þunglyndi og kvíða þegar það er yfirgnæfandi. En sé það hitað veldur það gleði, löngun til söngs, hástemmdri hrifningu og roða eða útbrotum á húð. Hjá mjög mörgum veldur það gall, sem verður til úr daglegri næringu, engum sérstökum skapgerðareinkennum, en takmarkast eingöngu við smávægilegar svartagallstruflanir. En hjá þeim sem búa við þennan skapgerðareiginleika að upplagi koma strax fram fjölbreytileg skapgerðareinkenni, hjá hverjum og einum í samræmi við hina einstaklingsbundnu blöndu. Þannig verða þeir sem hafa mikið af köldu svartagalli sljóir og þungir á sér, á meðan þeir sem hafa mikið af heitu galli eru glaðlyndir og gáfaðir eða ástleitnir eða uppstökkir eða bráðlátir, á meðan aðrir aukast að mælskulist.

Svarta gallið og snilligáfan

Margir verða einnig fyrir hrifningarköstum og ofur hrifnæmi, því þessi hiti myndast nálægt aðsetri skilningsins. Þetta er skýringin á hegðun Síbillanna og hinna forspáu og allra þeirra sem öðlast guðdómlega hugljómun, þegar slíkt verður ekki af völdum veikinda heldur vegna náttúrulegrar skapgerðar. Maraco di Siracusa var í raun og veru betra skáld þegar hann var viti sínu fjær. Engu að síður er það svo að þeir sem hafa fengið fullgóðan hita í svarta gallið og nálgast þannig meðalhófið, verða vissulega daprir, en engu að síður skynsamari og minna duttlungafullir og á margan hátt framúrskarandi á sviði menningar eða lista eða við stjórn ríkisins. Slíkt eðlisupplag veldur einnig fjölbreytilegum viðbrögðum í hættuástandi þar sem margar þessar skapgerðir bregðast óskynsamlega við á augnabliki hræðslunnar. Það fer allt eftir líkamsástandi þeirra á slíkri stund og stöðu skaphafnarinnar hvort þessar persónur bregðast við með einum eða öðrum hætti. Á nákvæmlega sama hátt og hin dapra (melankólska) skapgerð veldur krankleika með afar fjölbreytilegum sjúkdómseinkennum, rétt eins og vatnið er stundum kalt og stundum heitt. Ef hins vegar berast ógnvekjandi skilaboð á því augnabliki þegar kuldinn er ríkjandi í blöndunni, þá mun viðkomandi missa móðinn. Og þar sem hann hefur opnað hræðslunni leið, og hræðslan kælir, þá sjáum við að hinn hræddi fer að skjálfa. Ef hitinn er hins vegar ríkjandi í blöndunni, þá dregur hræðslan úr hitanum þannig að viðkomandi verður sjálfs sín herra og tapar sér ekki.

Lífeðlisfræði depurðarinnar

Sama gerist einnig í hversdagslegum áföllum sem við verðum fyrir frá degi til dags. Þannig finnum við oft til depurðar án þess að kunna á því skýringu, á sama hátt og við finnum oft til gleði án sýnilegrar ástæðu. Þessar breytingar, ásamt þeim sem áður voru nefndar, koma yfir okkur öll í einhverjum mæli, því einhvern snefil af þeim efnum sem valda þeim er að finna í okkur öllum. En hjá þeim einstaklingum, þar sem þessi einkenni eru eðlisbundin, verða þau ákvarðandi um skapgerðina. Rétt eins og mennirnir eru ólíkir, ekki vegna þess að þeir hafa andlit, heldur vegna þess að þeir hafa sérstök andlit, sumir falleg, aðrir ljót og enn aðrir með engum sérkennum (þeir sem hafa venjulegt yfirbragð). Þannig eru þeir sem hafa aðeins lítinn skammt af þessari skapgerð venjulegir, á meðan þeir sem hafa hana í ríkum mæli eru ólíkir þorra fólks. Það er reyndar svo, að ef þunglyndisástandi þeirra (Habitus melancolicus) er ekki haldið í skefjum, þá verða þeir of daprir. Ef öllu er hins vegar haldið í skefjum, þá standa þeir sig. Ef þeir eru ekki á varðbergi, þá hættir þeim til að fá depurðarsjúkdóma sem leggjast á ólíka líkamsparta, allt eftir gerð einstakligsins. Sumir fá flogaveikieinkenni, aðrir lömunareinkenni, aðrir bráða örvæntingu eða fyllast skelfingu, aðrir fyllast oftrausti eins og gerðist með Archelaos Makedóníukonung.

Þessar tilhneigingar framkallast af skapgerðinni eftir því hvort hún er heit eða köld. Ef um of mikinn kulda er að ræða miðað við aðstæður, framkallar það óraunhæfa örvæntingu. Þetta er ástæða þess að algengt er að ungir menn eða jafnvel menn á besta aldri fremji sjálfsmorð með hengingu. Margir svipta sig einnig lífi í kjölfar áfengisvímu og sumir melankólikerar finna til depurðar í kjölfar áfengisvímu, þar sem hiti vínsins hefur drepið niður eðlislægan hita þeirra (hitinn á því svæði, þar sem aðsetur hugsunar og vona er til staðar og gerir okkur glaða. Þess vegna finnst öllum gott að drekka sig hreifa í hófi, þar sem vínið gerir alla vongóða á sama hátt og æskan gerir ungdóminn vongóðan. Ellin er hins vegar svartsýn, á meðan æskan er full vonar). Sumir verða gripnir örvæntingu á meðan þeir drekka af sömu ástæðu og örvæntingin grípur aðra eftirá. Nú hneigjast þeir sem fá þunglyndiskast, þegar dregur úr hita þeirra, til þess að ganga út og hengja sig. Þess vegna er algengara að ungir menn og aldnir hengi sig. Í öðru tilfellinu er það jafnvel sjálf ellin sem kælir niður hitann, í hinu tilfellinu er það ástríðan sem einnig á sér efnislega skýringu. Margir þeirra sem verða fyrir skyndilegri kælingu binda óvænt enda á líf sitt, öðrum til mikillar undrunar, þar sem þeir höfðu ekki sýnt nein slík merki áður.

Þegar blanda sú, þar sem svarta gallið er ríkjandi, er kaldari en upprunalega, veldur hún depurð af ýmsu tagi, eins og þegar hefur verið bent á. En þegar hún er heitari, framkallar hún gleði. Þetta er ástæða þess að börn eru glaðlyndari og gamlingjarnir þyngri, þar sem æskan er heit og ellin köld. Það að eldast er í raun og veru kælingarferli. Stundum getur það komið fyrir að snögglega dragi úr hitanum af utanaðkomandi ástæðum, eins og gerist með glóandi hluti sem eru snöggkældir þvert ofan í náttúrulega hneigð þeirra (það er að segja af utanaðkomandi afli). Þetta gerist til dæmis með glóandi kol þegar vatni er hellt yfir þau.  Þess vegna fremja menn stundum sjálfsmorð í kjölfar vímu. Þar sem hiti vínsins er utanaðkomandi, og þegar hann slokknar skyndilega koma fram þessar aðstæður.

Það gerist einnig í kjölfar samfara að meirihluti karlmanna fyllist depurð. En þeir sem gefa frá sér stóra skammta af sæði verða kátari vegna þess að þeir hafa létt af sér umframvökva, lofti og of miklum hita. Hinir verða daprir að sama skapi, því samfarirnar hafa kælt þá niður, þannig að þeir hafa tapað nauðsynlegum þáttum, eins og sést af þeirri staðreynd að magn vökvans sem þeir gáfu frá sér var lítið.

Í fáum orðum sagt: þar sem áhrif gallsins eru breytileg, þá eru depurðarsjúklingarnir einnig breytilegir, því svarta gallið getur orðið mjög heitt eða mjög kalt. Og þar sem það ákvarðar skapgerðina (hitinn og kuldinn eru í reynd mikilvægustu þættirnir í líkama okkar til ákvörðunar skapgerðinni). Á sama hátt veldur vín, sem líkaminn lætur í sig í meira eða minna magni, ákveðinni skapgerðarbreytingu. Bæði vínið og gallið innihalda loft. Þar sem mögulegt er að þessari breytilegu stærð sé haldið í skefjum og hún aðlöguð í vissum skilningi (þannig að skammturinn sé ýmist heitari eða kaldari, eftir því sem æskilegt þykir vegna tilhneigingarinnar til öfganna) verða afleiðingarnar þær að allir depurðarfullir einstaklingar verða frábrugðnir fjöldanum, ekki vegna þess að þeir séu veikir, heldur af náttúrlegu eðlisupplagi sínu.

 

[1] Hér er vitnað í rit eftir Teofrastos, Peri pursz, þar sem fjallað er um efni eins og járn og stein og hvernig þau geta snarhitnað þrátt fyrir „eðlislægan kulda“ þeirra. Vitað er af bókalista að Teofrastos skrifaði rit sem hét „Um melankólíuna“, og er því rétt að álykta sem svo að tengsl séu á milli „Problema“ og þessarar glötuðu bókar.

Forsíðumyndin er af grískum diski frá 5. öld f. Kr. sem sýnir nætursiglingu Herkúlesar til Hadesarheima. Það er sigling inn í myrkheima depurðarinnar.

 

FRÁ SÁLGREININGU TIL HAGNÝTRAR IÐKUNAR HEIMSPEKINNAR – Galimberti

Kynning Umberto Galimberti á bókarkápu:
Uggvænleg boðflenna hefur gert sig heimakomna á heimili Sálarinnar (Psyke) og sett fram með áður óþekktri ögrun spurninguna um merkingu tilverunnar. Aðrir gestir sem fyrir voru, heimilisvanir í húsi Sálarinnar, andmæltu spurningunni á þeirri forsendu að hún væri jafn gömul heiminum, því allt frá fæðingu mannkyns hafi maðurinn þekkt sársaukann, eymdina veikindin, viðbjóðinn, óhamingjuna og jafnvel „ok siðmenningarinnar“ sem menn hafa leitað sér lækninga við, fyrst með iðkun trúarbragðanna, síðan í gegnum læknislistirnar þar sem sálgreiningin hefur verið í fararbroddi. Hinn óboðni vágestur þrjóskast hins vegar við að halda því fram að með tilkomu tæknialdarinnar hafi spurningin um merkingu og tilgang (senso) tilverunnar tekið róttækum breytingum. Ástæðan er sú að ef heimurinn og lífið hafa virst án merkingar og tilgangs vegna almennrar eymdar fyrir tíma tæknibyltingarinnar, þá hafi tækniöldin gert lífið og heiminn eymdarleg þar sem hvort tveggja skorti nú tilgang og markmið. Sálgreiningin hefur opinberað vanmátt sinn andspænis þessari greiningu vegna þess að þau tæki sem hún ræður yfir þekkja tilgangsleysi þess lífs sem er undirokað af þjáningu, en ekki þá þjáningu sem ræðst af djúpstæðu brotthvarfi merkingar og tilgangs. Hér þarf að grípa til hagnýtrar heimspekiiðkunar. Heimspekin hefur frá upphafi sínu haft leitina að merkingu að meginviðfangsefni, og ólíkt sálgreiningunni þá hefur hún aldrei hikað við að setja spurningarmerki við þann heim sem á okkar dögum kennir sig við tæknibyltinguna og lítur nú á manninn sem „viðfang (mezzo) í alheimi viðfanganna“ [„mezzo“ getur í þessu samhengi merkt bæði meðal, tæki, viðfang eða efnivið í eitthvað annað, sbr. orðatiltækið „tilgangurinn helgar meðalið“] og varpar honum þannig inn á eyðiland merkingarleysunnar. Það er ekki hægt að leita sér lækninga við merkingarleysunni, því vanlíðanin á ekki rætur sínar í einstaklingnum, heldur í þeirri staðreynd að honum hefur verið varpað inn í sviðsmynd (heim tækninnar) sem er ofvaxinn skilningi hans. Ef vandinn á rætur sínar í skorti á skilningi, þá eru verkfæri heimspekinnar þau einu tiltæku til að átta sig í heimi þar sem merkingin verður stöðugt torsóttari, dularfyllri og fjarlægari fyrir manninn.

Heimurinn í ljósi sálgreiningar og hagnýtrar heimspeki

eftir Umberto Galimberti

Inngangur að bókinni La Casa di Psiche -Dalla psicoanalisi alla pratica filosofica eftir Umberto Galimberti.

Bókin kom út hjá Feltrinelli forlaginu í Róm 2005 (466 bls.).

Í bók þessari fjallar Galimberti um aðferðir trúarbragðanna, læknavísindanna, sálgreiningarinnar og heimspekinnar til að bregðast við mannlegum sársauka og fallvaltleika lífsins. Galimberti er einn af þeim rithöfundum sem hafa haft hvað dýpst áhrif á skilning minn á samtímanum og hann hefur umfram aðra leitt mig af villigötum fagurfræðinnar inn á slóðir heimspekinnar, eins og hann gerir eftirminnilega í þessari bók.  Oft hafa verk hans leitt til þess að að ég hef fundið mig knúinn til að koma hugsunum hans yfir á íslenskt mál. Ég á eina bók eftir hann tilbúna til útgáfu á íslensku, sem bíður útgefanda. Nú þegar ég er að taka til í tölvu minni og greina kjarnann frá hisminu rekst ég á þessa gömlu þýðingu. Hún var ekki unnin að tilefnislausu, hún var unnin af persónulegri þörf.

Bókin Casa di Psiche er eitt af höfuðritum Galimberti á svið sálarfræði, þar sem hann færir um leið rök fyrir þeirri skoðun að fátt sé vænlegra til að bjarga Vesturlandabúum frá þeirri tómhyggju sem hefur gert sig heimakomna í sálartetri þeirra, en að snúa aftur til árdaga vesturlenskrar heimspekiiðkunar eins og hún tíðkaðist í Grikklandi til forna. Það felur jafnfram í sér viðskilnað við þá frelsunarguðfræði og framfaratrú sem hefur einkennt sögu Vesturlanda, að minnsta kosti frá tilkomu kristindómsins. Galimbeti er einhver snjallasti greinir tómhyggjunnar í samtímanum, og það er lærdómsríkt að sjá hvernig hann kennir okkur að bregðast við henni án þess að grípa til annarra læknismeðala en þess sem Grikkir kölluðu mathésis og areté: þekking og dyggð.

 

Ég heiti á ykkur bræður, verið jörðinni trúir

og treystið ekki þeim sem tala um vonir annars heims!

Friedrich Nietzsche: Svo mælti Zaraþústra,

bók fyrir alla og engan.

Háskólaútgáfan 1996, bls. 42.

1.     Spurningin um sársaukann og merkinguna.

Dauði Guðs varð ekki til einskis þegar litið er til mannlegra örlaga, og ekki hvað síst ef litið er til þeirra örlaga sem eru ofar öllum öðrum og varða mannlega þjáningu, en gagnvart henni hafa menn hugsað endalausar lausnir og lækningar.

Sú síðasta í röðinni tímalega séð er hagnýt heimspekiiðkun, sem öfugt við það sem almennt er álitið, deilir ekki rými sínu með öðrum læknislistum, því hún er ekki lækningameðal. Hún hefur satt að segja enga trú á því að hægt sé að læknast af sársaukanum, því hún telur að sársaukinn sé ekki óhagræði sem hellist yfir tilveru okkar eins og afleiðing tiltekinnar þekktrar eða ómeðvitaðrar orsakar, sem hægt sé að bregðast við með tilteknum læknisráðum, heldur telur hún að sársaukinn sé óaðskiljanlegur þáttur tilverunnar, og sem einn af grundvallarþáttum hennar sé hann ekki tækur til lækningar, heldur sé hægt að hafa stjórn á honum með sjálfsstjórn [cura di sé].

Eins og ég hef sýnt fram á í bókinni Psiche e techne með því að rekja þá löngu slóð hefðarinnar sem rekja má frá Platon til Gehlens í gegnum Tómas frá Aquino, Kant, Herder, Schopenhauer, Nietzsche og Bergson, þá er maðurinn eina lífveran sem ekki er búin eðlisávísun, og er því ein um að búa við tilvist sem er ekki fyrirfram forskrifuð, heldur sett fram sem úrlausnarverkefni.

Ef menn vilja leiða hjá sér slíkt úrlausnarverkefni eru menn um leið að segja sig frá mannlegum tilvistaraðstæðum og segja sig frá eigin lífi áður en það er slokknað, sem við slíkar aðstæður merkir þá ekki endalok tiltekinnar tilvistar, heldur einföld líffræðileg endalok.

Með því að beina sjónum okkar að dauðanum, hinu raunverulega huldufyrirbæri vestrænnar menningar, beinum við sjónum okkar að grundvallarmörkum mannlegrar tilveru, endanleik hennar, þar sem þjáningin sem fylgir lífinu, lífi hvers og eins, er bæði forleikur og óhjákvæmilegur fylgifiskur.

Við tölum hér um sérhverja manneskju, einnig um þann sem ekki þjáist á þessari stundu, því hann kemst heldur ekki hjá því að horfast í augu við þann ógnvænlega möguleika að eiga eftir að þjást. Þessi möguleiki gerir þjáninguna að altæku fyrirbæri sem birtist okkur í öllum sínum óhjákvæmileika sem óhjákvæmilegur grundvallarþáttur tilverunnar.

Hér vaknar spurningin um merkingu þjáningarinnar, sem síðan leiðir af sér spurninguna um merkingu lífsins, ef það reynist rétt að þjáningin sé einn af grundvallarþáttum þess. Merkingin er í raun eins og hungrið sem gerir ekki vart við sig á meðan við erum mett, heldur þegar okkur skortir fæðu. Það er reynslan af hinu neikvæða sem kallar fram spurninguna, það er sjúkdómurinn, sársaukinn, angistin, ekki hamingjan, en engum dettur í hug að spyrja sig um merkingu hennar.

Ákall um skort á merkingu jafngildir þá því að kvarta undan sársaukanum, sjúkdómnum og dauðanum. Þess vegna er „spurningin um merkingu“ göfug tjáning sem felur í sér afneitun mannsins á hinni neikvæðu reynslu og afneitun hans á eigin endanleika, eigin takmörkum. Við skulum því rannsaka þessi takmörk og reynum umfram allt að skilja hvað verður um sársaukann, þegar okkur hefur tekist að játast undir og sættast við okkar eigin takmörk.

Spurningin um merkingu verður enn meira aðkallandi á tímaskeiði tækninnar, því tæknin hefur tilhneigingu til að þurrka út einstaklinginn með öllum sínum sérkennum, til þess að gera hann að tæki til að þjóna tiltekinni vél, sem byggir umfram allt á staðgengilshlutverki einstaklingsins en ekki sérkennum hans. Þessi einsleitniárátta sem leitast við að þurrka út öll einstaklingsbundin sérkenni, valtar yfir hina einstöku sjálfsveru sem ekki fær lengur að bregðast við andspænis tilteknu markmiði, heldur ber henni að virka samkvæmt fyrirfram gefnum reglum, án sýnilegs tilgangs er gæti réttlætt og treyst viðkomandi sjálfsveru.

Þetta ferli aftengingar einstaklingseðlisins, sem ég gerði víðtæka grein fyrir í Psiche e tecne, steytir á reynslunni af sársaukanum, sem eins og S. Natoli hefur minnt okkur á „er hin sígilda leið okkar til að reyna einstaklingseðli okkar […] af þeirri einföldu ástæðu að enginn getur orðið staðgengill okkar eigin sársauka, rétt eins og enginn getur orðið staðgengill okkar eigin dauða.“[i]

Með því að aftengja þegnana frá einstaklingseðli sínu hefur tímaskeið tækninnar jarðað sérstöðu einstaklingsins, og þar með svipt hann öllum meðulum til að finna einhverja merkingu út úr þeim sársauka sem hann finnur áþreifanlega með eigin hendi, um leið og hann skynjar þá einstaklingsbundnu vídd eigin tilvistar, sem á sér engan mögulegan staðgengil.

Í sársaukanum getur enginn komið í staðinn fyrir okkur sjálf, því það getur enginn komið í stað okkar sjálfra í dauða okkar, en sársaukinn er forleikur hans að því leyti að hann veiklar lífið, útgeislun þess og útþenslu, felur í sér afturhvarf og samdrátt. Þannig er sársaukinn ekki bara líkamlegt fyrirbæri sem læknisfræðin og sálgreiningin með sín læknismeðöl líta á sem takmörk sín, heldur markar hann óhjákvæmilegar tilvistaraðstæður mannsins: tilvistaraðstæður hins dauðlega manns. Andspænis þessari staðreynd eru bæði læknisfræðin og sálgreiningin ráðalaus, á meðan hin hagnýta heimspeki sem á rætur sínar í vitundinni um mannlegar tilvistaraðstæður, byrjar að tala með sama hætti og viska hinna fornu Grikkja talaði, sem reyndar átti sér tvö orð yfir „manninn“: anér og ánthropos, en notaðist hins vegar nær alltaf við orðin brotós eða thnetós, sem merkir „hinn dauðlegi“.

Það er ekki sjálfur atburður dauðans sem framkallar sársauka okkar, heldur er það vitundin um óhjákvæmileik hans og þess vegna er biðin eftir þessum atburði einnig afgerandi fyrir þennan sársauka. Við þjáumst í raun ekki af þeim líkamlega eða sálræna sársauka sem við mætum, heldur fyrst og fremst af þeim ummerkjum sem eru ávísanir hans. Að þjást /umbera [patire] merkir í raun að verða fyrir [subire] því sem við getum ekki umflúið. Líkamleg og andleg þjáning [patimento] okkar fela ekki bara í sér sársaukann, heldur sársauka biðarinnar eftir dauðanum, en sá sársauki sem þrengir að lífsmöguleikum okkar er ótvírætt merki hans. Því er þolgæðin [la pazienza] sem felur í sér listina að kunna að þjást [patire] hin viðurkennda dyggð sjúklinganna [i pazienti], ekki vegna þess að viðkomandi sjái batann eða lækninguna handan við næsta horn, heldur vegna þess að hann hefur gert sér grein fyrir að hann getur ekki komið í veg fyrir sín dauðlegu örlög.

Með því að umbera [patire] það sem við getum ekki komist undan, hvort sem um er að ræða sálræna eða líkamlega þjáningu, komumst við í snertingu við takmörk okkar, eða öllu heldur felum við okkur sjálf á vald þessara takmarka sem kenna okkur að við höngum í tóminu. Úr tóminu erum við komin og í tómið munum við hverfa. Stakir atburðir sem eru helgaðir fallvaltleik tilverunnar og kalla á spurninguna um merkingu þessa fallvaltleika. Þessi róttæki skortur á merkingu birtist okkur í félagsskap angistarinnar sem bæði Freud og Heidegger hafa kennt okkur að sé að því leyti óskyld hræðslunni að hún eigi sér ekkert viðfang er geti talist uppspretta hennar. Um þetta sagði Freud:

Angistin [Angst] er óaðskiljanlega tengd biðinni: hún er angistin andspænis og áður en eitthvað á sér stað. Hún hefur yfirbragð hins óskilgetna og skorts á viðfangi. Í daglegu tali segjum við að þegar angistin hafi fundið viðfang sitt breyti hún um nafn og kallist hræðsla [Frucht][ii].

Og Heidegger orðar þetta svona:

Með hugtakinu angist [Angst] eigum við ekki við þann kvíða [Ängstlichkeit] sem algengur er, og er í raun hluti þess ótta [Frucht] sem svo auðveldlega nær tökum á okkur. Angistin er í grundvallaratriðum frábrugðin hræðslunni. Við erum alltaf gripin skelfingu gagnvart einhverjum tilteknum hlut eða fyrirbæri, sem við tilteknar aðstæður getur ógnað okkur: hræðslan við … er alltaf hræðslan við tiltekið fyrirbæri. Þar sem einkenni hræðslunnar felast einmitt í afmörkun viðfangsins og markmiði þess, þá er hinn óttaslegni fangi þess sem hann óttast og finnur sig í. Í sjálfsbjargarviðleitninni gagnvart þessu tiltekna viðfangi verður hann óöruggur gagnvart öllu öðru, og verður þannig á endanum „viti sínu fjær“.

Angistin kallar ekki fram sambærileg viðbrögð. Þvert á móti er hún umlukin einstakri kyrrð. Vissulega er angistin alltaf angist fyrir… eða angist gagnvart… en ekki gagnvart þessu eða hinu. Óvissan um það hvað veldur angist okkar stafar samt sem áður ekki bara af skorti okkar á ákveðni, heldur fyrst og fremst af ómöguleika þess að ákveða.[iii]

Við fyllumst ekki angist af hinu eða þessu, heldur af tóminu sem við komum úr og tóminu sem bíður okkar: „Angistin leiðir tómið í ljós“[iv], segir Heidegger.

Það eru hin einstöku tilvik, „hitt og þetta“, sem iðkun sálgreiningarinnar beinist að. Það tóm, sem „hitt og þetta“ eru einungis forboði fyrir er hins vegar viðfangsefni hinnar hagnýtu heimspeki, sem einbeinir sér ekki að fyrirfram skilgreindri þjáningu sem slíkri, þessum tilteknu hömlum sem settar eru á líf okkar, nema í þeim tilgangi að fella þær undir mun víðtækari reynslu er sýnir óhjákvæmilegan forgengileik tilveru okkar, en yfirbreiðsla þessa forgengileika er vísasti vegurinn til örvæntingarinnar.

Sá einn verður örvæntingunni að bráð sem hefur gert sér væntingar um að geta yfirstigið grundvallartakmörk tilverunnar. Í þessu sáu Forn-grikkir þá stærstu synd sem menn gátu drýgt. Þeir kölluðu hana hýbris, oflæti, oflæti þess sem telur sig geta yfirstigið mörkin, og þar með vanvirt allt það sem skapast og tortímist í tilverunni. Þannig hljóðar að minnsta kosti fyrsta yrðing heimspekinnar sem hjá Anassimandrosi er orðuð svona:

Þar sem allar verur eiga uppruna sinn, þar eiga þær einnig tortímingu sína samkvæmt nauðsyn. Þannig greiða þær hver annarri skuld sína og endurgjald óréttlætisins samkvæmt reglu tímans.[v]

Sálgreiningin einbeinir sér að hinni taugaveikluðu angist sem á sína orsök-sök (í grísku –eins og íslensku- eiga bæði orðin sömu rót, aitía) í æviferli hins þjáða, í fortíð hans, í ævisögu hans. Hin hagnýta heimspeki einbeinir sér hins vegar að hinni tilvistarlegu angist, sem hvílir ekki á neinni orsök né heldur sök, vegna þess að hún kviknar af forboða ókomins dauða sem þjáningin í formi takmarkaðrar lífsgetu er vísbending um.

Finna má takmarkaða lækningu á sjúkdómseinkennum taugaveiklunarangistarinnar eins og þau birtast okkur, en enga lækningu á þeim grunni sem slík sjúkdómseinkenni eiga rætur sínar í, en það er grunnur tilvistarinnar skilinn sem vettvangur allgers fallvaltleika. Andspænis þessu er sálgreiningin ráðalaus, á meðan hin hagnýta heimspeki á enn nokkur orð um málið í sínum handraða. Og hún gerir það með því að innrita fallvaltleika tilverunnar inn í hinn algilda fallvaltleika heimsins, sem er ekki sjúkdómur sem hægt er að lækna, því það eru forsendur sérhverrar tilveru sem vill horfast í augu við sjálfa sig en ekki gefa sjálfri sér gylliboð blindra vona. Um þetta segir Æskílos:

Kórinn: En hefur þú auk þess framið eitthvert brot?

                Prómeþeifur: Ég létti af mönnum vitund um sín ævilok.

                Kór: Hver var sá læknisdómur er þar dugði best?

                Prómiþeifur: Ég gróðursetti blinda von í brjósti þeim.

                Kór: Þar hefur þú veitt hinum feigu sanna líkn.[vi]

Þennan vitnisburð um algildan fallvaltleika er líka að finna hjá Freud þar sem hann segir:

Fyrir ekki all-löngu síðan var ég á gönguferð eftir gangstíg í fullum sumarskrúða  í félagsskap þöguls vinar og ungs skálds, sem þegar naut frægðar þrátt fyrir ungan aldur. Skáldið dáðist að fegurð náttúrunnar í kringum okkur án þess að gleðjast. Það sem truflaði gleði hans var tilhugsunin um að öll þessi fegurð væri dæmd til að hverfa, að hún myndi tortímast strax með komu vetrarins. Rétt eins og öll mannleg fegurð, rétt eins og allt hið fagra og göfuga sem mennirnir hafa skapað eða munu geta skapað. Allt það sem hann hefði að öðrum kosti elskað og dáð birtist honum nú sem þegar gengisfelld bráð þess fallvaltleika sem beið handan hornsins. […] Tilhugsunin um að öll þessi fegurð væri forgengileg fyllti báðar þessar tilfinninganæmu sálir sorg yfir forgengileikanum. Og þar sem það er eðli mannssálarinnar að forðast ósjálfrátt allt það sem vekur sársauka fundu þeir í nautn sinni á fegurðinni truflandi íhlutun hugsunarinnar um fallvaltleikann.[vii]

Freud er fljótur að grípa til þess ráðs – í þeim tilgangi að verja sálgreiningaraðferð sína gegn fallvaltleikanum – að segja það „eðli mannssálarinnar að forðast ósjálfrátt allt það sem vekur sársauka“ . Engu að síður var það einmitt Freud sem kenndi okkur að það væri ekki rétta lausnin á vandamálunum að fela þau (með yfirfærslu eða yfirbreiðslu). Því er vettvanginn þar sem hin hagnýta heimspeki vill hasla sér völl einmitt að finna í hinu sársaukafulla, það er vettvangur spurningarinnar um merkingu tilverunnar þar sem fallvaltleikinn er frumforsendan.

Hér sjáum við skilin á milli austurlenskrar og vesturlenskrar hugsunar. Austurlensk hugsun kennir okkur að sá sársauki sem fallvaltleiki tilverunnar birtist í, sé ekki sannur, heldur sé hann einungis tálsýn [apparenza]. Hann verður til vegna þess að menn hafi frá upphafi ranga afstöðu til tilverunnar og því nægi að breyta afstöðunni til heimsins, afneita til dæmis hinni viljabundnu vídd er vilji ráða yfir öllum hlutum, og þá muni heimur sársaukans birtast okkur í sinni réttu mynd sem hrein tálsýn [apparenza].

Vesturlensk hugsun er hins vegar fullviss um að fallvaltleiki tilverunnar, eins og fallvaltleiki allra hluta, sé ekki sýndarvera heldur veruleiki, sem síðan framkallar sársaukann. Það er einmitt hér sem vatnaskil verða á milli þeirra tveggja stóru heimssýna sem mótuðu vesturlenska menningu, hinnar grísku og hinnar gyðinglegu-kristnu.

Hin gyðinglega-kristna hefð lítur á sársaukann sem afleiðingu falls, er á rætur sínar í sök er þurfi á endurlausn að halda og að sársaukinn sé því undir frelsuninni kominn. Samkvæmt þessum skilningi er sársaukinn refsing en um leið hreinsandi atburður. Sem slíkur leitar hann eftir endurlausn og frelsun. Í þeim skilningi er sársaukinn ekki grundvallarþáttur tilverunnar, heldur sektar hennar, um leið og hann verður meðal endurlausnarinnar.

Afhelgun þessarar trúarlegu sýnar á heiminn leiðir síðan til þeirrar túlkunar á sársaukanum, að hann tilheyri þeim ákomum tilverunnar, sem hægt sé að leita sér lækningar við. Ástundun sálgreiningarinnar tilheyrir að öllu leyti þessari trúarlegu sýn á heiminn.

Samkvæmt grískum skilningi  orsakast sársaukinn ekki af sekt, heldur myndar hann grundvallarþátt tilverunnar, og því þurfi menn að taka fallvaltleikann inn á sig í einu og öllu, án þess að gera sér vonir um handanheima eða tilgátur um frelsun frá upprunalegri sök. Þegar fallvaltleiki tilverunnar hefur verið meðtekinn þurfa menn að læra að lifa alla þá útvíkkun sem lífið býður upp á og allan samdrátt þess, því þannig eru aðstæður hinna dauðlegu sem engin frásögn fær umbreytt.  Hin hagnýta heimspekiiðkun er innrituð í slíka sýn á heiminn, hún þekkir því engar frelsandi vonir með tilheyrandi örvæntingum, heldur einungis hina yfirveguðu vissu þess að hægt sé að standast sársaukann og að hægt sé að ná stjórn á honum að vissum mörkum.

2.     Andsvar hinnar gyðinglegu kristnu hefðar og iðkun sálgreiningarinnar

Ef þjáningin er afleiðing sektar sem getur orðið viðfangsefni endurlausnar, þá verða þessi jörð og sú tilvera sem á henni er lifuð skynjaðar sem biðstöð [transito]. Sú framtíð sem er í vændum mildar þá grimmd sársaukans, því sá sem þjáist í dag verður frelsaður á morgun. Í þessum skilningi er sársaukinn ekki lengur skilinn sem eitthvað óaðskiljanlegt frá lífinu, heldur eitthvað sem hefur komið fyrir hið jarðneska líf í kjölfar sektar, og er þannig eitthvað sem í grundvallareðli sínu er aðskilið frá lífinu. Þetta þýðir að hið sanna líf þekkir ekki sársaukann, og ef lífið á jörðinni er ekki án sársauka, þá er það einungis vegna þess að lífið á jörðinni er ekki hið sanna líf, þetta líf sem við erum fædd og borin til að lifa.

Þetta felur í sér gengisfellingu hins jarðneska lífs, „táradalsins“ sem eins og Jesaja segir, finnur réttlætingu sína í biðinni eftir nýjum himnum og nýjum jörðum:

Því sjá, eg skapa nýjan himin og nýja jörð, hins fyrra skal ekki minnst verða og það skal engum í hug koma. Nei, gleðjist og fagnið æfinlega yfir því sem eg skapa, því sjá, ég gjöri Jerúsalem að fögnuði og fólkið í henni að gleði.“[viii]

Ólíkt hinum gríska skilningi, sem sér lífið sem grimmd og fegurð í senn, þá hefur hinni gyðinglegu-kristnu hefð tekist, með loforðinu um endurlausn og frelsun í framtíðinni, að taka á eigin herðar og samsama sig með allri þjáningu mannanna – og vanvirða þannig fegurð hins jarðneska lífs eins og það sé líf í biðstöðu og vanvirða þannig þennan heim sem heim sársaukans.

En ef sársaukinn er að einu leyti það sem leiðir til gengisfellingar þessa heims, þá er hann jafnframt áhrifamesta hvatningin til vonarinnar og trúfestunnar. Þegar einu sinni er búið að sýna fram á að þessi jörð og þessi jarðneska tilvist séu lifuð sem jörð og tilvist sársaukans, þá verður veðmálið á Guð ekki raunverulegt veðmál, eins og Pascal hélt fram[ix], því hann verður hinsta vonin.

Ef sársaukinn er endurgjald frelsunarinnar, þá ber okkur ekki bara að umbera hann, heldur líka að elska hann. Sama á við um siðfræði valdbeitingarinnar og meðalhófsins, siðfræði sjálfsvirðingar mannsins sem á að kunna að standast sársaukann allt þar til hann verður sæmandi upplifun hins fagra dauðdaga, þessari siðfræði sem heimspekiskóli stóikeranna hafði lofsungið sem hina æðstu þolgæði og hófsemd (substine et abstine / að umbera og neita sér um ). Eftir að kristnin hafði eyrnamerkt sársaukanum ábyrgðartryggingu frelsunarinnar þá kallar hún á ástina á sársaukanum vegna þess að þjáning líðandi stundar er innborgun inn á framtíðarreikninginn.

Francesco di Sales, höfundur þessarar uppeldisfræði sársaukans samkvæmt tilvistarskilningi kristindómsins, er sér vel meðvitaður um þá gjá sem skilur á milli grískrar hugsunar og kristindómsins, og í rökræðu sinni gegn boðorði stóikeranna substine et abstine segir hann bein út:

Hin kristna kenning, hin eina sanna heimspeki, byggir öll á þessum reglum: sjálfsafneituninni sem er til mikilla muna æðri afneitun nautnanna; burð krossins, sem er mun göfugra en að umbera hann; fylgja Herranum, ekki bara í sjálfsafneituninni eða því að bera eigin kross, heldur einnig í iðkun allra góðra verka. Þegar á allt er litið þá birtist hin hreina ást ekki fyrst og fremst í sjálfsafneituninni og verknaðinum, heldur sýnir hún sig í þjáningunni.[x]

Sú gyðinglega-kristna hugsun, sem réttlætir þjáninguna í þessari jarðnesku biðstöðutilvist með hina eilífu tilvist án sársauka að leiðarljósi, setur í gang hugsun sem lítur á lífið sem sjúkdóm, sjúkdóm sem menn munu dag nokkurn fá lækningu á. Þessi sýn lifir dauða Guðs af og myndar í sjálfu sér þann mannfræðilega skilning sem er innifalinn í sálgreiningunni, þar sem litið er á manninn sem sjúkdómstilfelli [pato-logico] eins og þann sem umber og þolir [subisce e patisce] hin myrku öfl dulvitundarinnar þar sem orsakir þjáninga hans og vanlíðunar hvíla, og sem hann þarf að frelsa sig undan. Það er í þessum skilningi sem Freud skrifar: „Þar sem þaðið var þarf Égið að taka sér stöðu. Það er verknaður siðmenningarinnar, sambærilegur við uppþurrkun Zuiderzee.“[xi] Og enn fremur:

„Komandi tímar munu bera í skauti sínu nýjar og líklega ótrúlega miklar framfarir á þessu sviði menningar, og maðurinn mun líkjast Guði enn meir. En í samræmi við þá athugun sem við höfum hér tekist á hendur, skulum við ekki gleyma því, að nútímamaðurinn er ekki sæll í hinu goðumlíka ástandi sínu“.[xii]

Ógæfa líðandi stundar leiðir til vonarinnar um framtíðina. Í handanheiminum samkvæmt hinni gyðinglegu-kristnu heimssýn, í framförum þekkingarinnar samkvæmt hinni afhelguðu útgáfu þessarar heimssýnar. Rétt eins og tilvistarsársaukinn er ekki endanlegur samkvæmt hinni gyðinglegu-kristnu sýn, því handan við hornið bíður tilvera án sársauka, þá gildir hið sama um hina einstaklingsbundnu þjáningu og „ok siðmenningarinnar“, hvorugt er endanlegt, því læknismeðferðin mun, rétt eins og trúariðkunin á tímum átrúnaðarins á Guð, tryggja endurlausnina, sem á hinu hæverska tungumáli sálgreiningarinnar kallast heilbrigði. Um þetta segir Natoli:

„Dauði Guðs skilur ekki bara eftir sig munaðarleysingja, heldur líka erfingja. Þessi Guð var þegar í andaslitrunum er staðgenglar hans fóru að birtast á sviðinu: heimspekingar framfaranna og hugmyndafræðingar byltinganna. Drepið sem gróf um sig í Guði skapaði pláss fyrir mýgrút af mannlegum endurlausnurum sem eykst bara að umfangi í réttu hlutfalli við fjölda gjaldþrotanna. Þetta fyrirbæri er nú orðið þekkt sem ferli veraldarvæðingarinnar [secularizzazione]. Veraldarvæðingin veitir þörfinni fyrir frelsun veraldlegan farveg og þannig verða menn sjálfir frumkvöðlar eigin frelsunar. Engu að síður er því ekki þannig farið að veraldarvæðingin feli manninn jörðinni, eins og halda mætti við fyrstu sýn, heldur færir hún jörðina í hendur mannsins svo að hann sjálfur geti orðið frelsari hennar.“[xiii]

Frelsunin kemur með þekkingunni, með hinni vísindalegu þekkingu, sem þegar í upphafi skilur sjálfa sig sem vald. Staðfestingu slíks skilnings getum við fundið hjá Francis Bacon, ekki bara þar sem hann segir beint út „vísindin eru vald“[xiv], heldur líka í því skilyrðislausa trausti sem hann setur á möguleika vísindanna og tækninnar í viðleitni þeirra að bæta tilvistaraðstæður mannsins.

Þó Bacon leggi fram fordæmisgefandi reglur er byggi ekki á neinum hlutlægum vísindalegum niðurstöðum, þá er hann innblásinn af þeirri sannfæringu að vísindaleg umbylting heimsins í þjónustu mannsins sé ekki bara eitthvað sem sé í þann veginn að gerast, heldur eitthvað sem beri að láta gerast, eitthvað sem verði að siðferðilegri skyldu er beri að fylgja eftir af trúarsannfæringu, rétt eins og mönnum beri að hlýða boðorðum Guðs. Þetta er í það minnsta merkingin sem hægt er að lesa út úr lokaorðunum í riti hans Novum Organum:

Í kjölfar erfðasyndarinnar glataði maðurinn sakleysi sínu og yfirráðum sínum yfir sköpunarverkinu. En hvorttveggja má endurheimta, að minnsta kosti að hluta til, í þessu lífi. Hið fyrra í gegnum trúræknina, hið seinna í gegnum tæknina og vísindin. Sköpunarverkið var ekki allt og um alla eilífð í uppreisn í kjölfar hinnar guðdómlegu útskúfunar. Samkvæmt reglunni  „í sveita andlits þíns skalt þú neyta brauðs þíns“ (1. Mós. 3,19) og eftir mikla erfiðismuni (þó ekki fánýtar orðræður og tilgangslausa galdraseyði) er maðurinn loks skuldbundinn því að gefa mönnum brauð og uppfylla þarfir mannlegs lífs.“[xv]

Þannig upphefst hin mikla vísinda- og tækniáætlun nútímans sem trúarleg áætlun, innrituð í hinn trúarlega ramma. Áætlun sem hugsar sjálfa sig annars vegar sem framkvæmdaarm guðdómlegra áforma og hins vegar sem árangursríka virkjun siðferðislegrar skyldu. Í þessu samhengi birtist það þekkingarlega vald, sem fólgið er í hinum „nýju vísindum“, sem auðmjúkur gjörningur, rétt eins og eitt form endurgjalds fyrir þá synd sem framin var í öndverðu með þeim vitsmunalega hroka sem fólst í erfðasyndinni, en Bacon taldi að hin forn-gríska hugsun væri alls ekki ósnortin af honum. En ef forngrísk hugsun setti „athöfnina“ þrepi neðar en það „íhugula innsæi“ sem tók mið af óbreytanleika náttúrunnar, þá settu hin nýju vísindi „innsæið“ skör neðar hinni „íhlutandi aðgerð“ sem uppgötvar í náttúrulögmálunum fótspor Guðs, og sér í þeirri uppgötvun forsendur hinnar mannlegu endurlausnar. [xvi]

Ef þekkingin veitir endurlausn og frelsun með sama hætti og trúin á orð Guðs gerði í eina tíð, þá er sú handleiðsla sálarinnar, sem eitt sinn var falin trúariðkuninni, á okkar dögum falin í hendur sálgreiningarinnar. Við eigum að vera þakklát sálgreiningunni fyrir það sem hún hefur kennt okkur um kraftaflæði hvatanna og öll tákngervingarferlin, en það breytir því ekki að þessi þekking, eins og öll önnur þekking, á sér markmið valdsins, valdsins til að lækna sársauka mannsins.

Með þessum hætti er sálgreiningin fullkomlega innrituð í trúarlega sýn hinnar gyðinglegu-kristnu hefðar sem lítur svo á að sársaukinn sé ekki einn af grundvallarþáttum mannlegrar tilvistar, heldur eitthvað sem þurfi að skilja frá, úthýsa, særa burt eða lækna samkvæmt formúlum sem greina sig frá hinni hefðbundnu trúariðkun einungis hvað inntakið varðar, því formlega séð eru báðir þættirnir innritaðir í þá heimsmynd sem lítur ekki á sársaukann sem óhjákvæmilegan þátt tilverunnar, heldur sem sjúkdóm sem við getum og okkur ber skylda til að lækna.

Með þessum hætti kynnir sálgreiningin sig til sögunnar sem eins konar sjúkdómavæðing [medicalizzazione] hins mannlega, sem er hin veraldarvædda [secolarizzata] útgáfa trúarlegrar endurlausnar. Í báðum tilfellum þarf að frelsa manninn undan sársaukanum, því sársaukinn er ekki óhjákvæmilegt skilyrði tilverunnar, eins og Forn-grikkir hugsuðu, heldur á hann sína vel skilgreindu orsök/sök (aitía) sem við getum hlotið endurlausn frá á máli trúarinnar – en læknað á hinu veraldarvædda tungumáli vísindanna.

Vald þeirrar þekkingar sem læknar er þannig veraldarvædd útgáfa á valdi trúarbragðanna sem veita endurlausn, og því ber okkur að leggja traust okkar á þekkinguna, rétt eins og við lögðum einu sinni traust okkar á trúarbrögðin, þegar við stöndum andspænis sársaukanum. Niðurstaðan í báðum tilfellum er úthýsing [rimozione] sársaukans sem grundvallarþætti tilverunnar. Þess vegna er sársaukinn ekki á dagskrá í daglegu lífi manna, heldur hefur honum verið úthýst eins og Foucault kenndi okkur í Naissance de la cinique[xvii] (Fæðing sjúkrastofnunarinnar) á staði þar sem sérhæfing þekkingarinnar beitir valdi sínu. Móttökustofa sálgreinisins er einn af þessum stöðum þar sem „meint þekking“, eins og Lacan hefði orðað það,[xviii] bendir á braut heilsunnar rétt eins og kennisetning kirkjunnar bendir á hina beinu braut frelsunarinnar. Fullkomin samsömun áformanna þó leiðirnar sem fylgja ber virðist vísa í ólíkar áttir.

Úthýsing sársaukans, sem hinn þjáði sækist líka eftir í skelfingu þess að verða skilinn eftir, gerir það að verkum að maðurinn glatar því sem Forn-grikkir kölluðu „hinn rétta mælikvarða“ (katà métron)[xix], sem er mælikvarði endanleikans sem maðurinn á ekki að yfirstíga (hyper tò anthrópinon métyron)[xx]. Hvað þá ef tæknin, tilkomin sem áætlun um frelsun og endurlausn, myndi stíga yfir þessi mörk? Ef hún yrði, eins og raun er á orðin, albúin að þurrka út tilkomu mannsins? Ef, eins og Gunther Anders hefur skrifað, „Tæknin getur markað þann algjörlega nýja punkt í sögunni, kannski óafturkræfa, þar sem spurningunni verður ekki lengur til að dreifa: hvað getum við gert með tæknina, eða öllu heldur, hvað getur tæknin gert með okkur?“[xxi] Ef allt þetta er satt, hver á þá að verja okkur gegn þessari angist? Sálgreiningin sem þekkir hina taugaveikluðu angist eða hin hagnýta heimspekiiðkun sem þekkir hinn rétta mælikvarða?

3.     Andsvar hinnar grísku menningar og iðkun heimspekinnar

Nietzsche segir að hið stórbrotna við Grikkina felist í þeirri staðreynd að þeir hafi haft hugrekki til „að horfast í augu við sársaukann og þekkja og finna hrylling og grimmd tilverunnar“[xxii], án þess að sefa hann með vonum um handanveru. Þetta var mögulegt á grundvelli þess skilnings sem þeir höfðu á náttúrunni. Ekki sköpunarverk Guðs, skipulagt samkvæmt forsjálni hans, heldur óbreytanlegur grunnur „sem enginn Guð og enginn maður hafði skapað“[xxiii], þar sem hringferlið stýrir flæðinu og upplausn sérhvers lífs samkvæmt nauðsyn. Náttúra sem er samtímis skapandi og tortímandi, yfirfull af lífi jafnt sem dauða.

Með þessu hafa Grikkir náð að skilja kjarna hins harmsögulega sem er ekki fólginn í einfaldri þjáningu og dauða einstakra lífvera, heldur í nauðsyninni á dauða þeirra, svo lífið geti blómstrað. Lífsgleðin er gerð möguleg með grimmd dauðans, og því eru sársaukinn og dauðinn ekki eitthvað sem hefur hellst yfir lífið í kjölfar falls eða einhverrar sektar, heldur er hann samfléttaður sjálfu lífinu sem forsenda tilverunnar. Það er hér sem við finnum kjarna hins harmsögulega. Atburður sem er einvörðungu grískur, skrifar Karl Jaspers, því einungis Grikkir meðtóku hringferli lífsins og dauðans, hamingju og gleði lífsins sem óaðskiljanleg frá sársaukanum og dauðanum er tortímir því. Um þetta segir Jaspers:

Hin harmsögulega vitund fullgerir sársauka mannsins, ógæfu hans og dauða. Systkini hennar eru hin dýpsta depurð og hinn dýpsti fagnaðaróður. Depurðin sprettur af vitundinni um eilíf umskipti lífsins, dauðans og endurfæðingarinnar í myndhvörfum sem engan enda taka. Guðinn sem deyr en snýr síðan aftur, hin árstíðabundna hátíð eins og tákn þessa dauða og upprisu, þetta er grundvallarveruleiki þessa heims. Hinn goðsögulegi skilningur á móðurgyðjunni, uppsprettu lífsins og gyðju dauðans, henni sem fæðir af sér, nærir og hlúir að, elskar og kemur öllum hlutum til þroska, hún er sú sama og tekur til sín alla hluti, einnig í sitt eigið brjóst, og lætur það miskunnarlaust deyja. […]

Í hinum opinberuðu gyðinglegu-kristnu trúarbrögðum eru allar misfellur tilverunnar og allt það sem birtist okkur sem harmleikur rakið til sjálfs uppruna mannsins: erfðasyndin sem á uppruna sinn í falli Adams. Endurlausnin kemur til sögunnar með dauða Jesú Krists á krossinum. Hlutir þessa heims eru sem slíkir laskaðir. Maðurinn er fléttaður inn í óafturkræfa sök, jafnvel áður en hann á þess kost að syndga sem einstaklingur. Hann er samfléttaður í þau sömu réttarhöld sektar og endurlausnar er allt byggir á, þátttakandi í hvorutveggja fyrir eigin hönd og annarra. Fyrirfram sekur vegna erfðasyndarinnar fær hann endurlausn fyrir náð. Hann getur axlað sinn kross, ekki bara til að sýna stundarþolgæði, heldur til að taka á sig sársauka tilverunnar, þverstæður og kárínur lífsins. Það er ekki lengur neinn harmsögulegur atburður í gangi, því í gegnum hinar hryllilegustu þolraunir brýst fram blessaður ljómi náðarinnar.

Í þessum skilningi er hin kristna endurlausn andstæð harmsögulegri vitund. Sá möguleiki sem einstaklingnum býðst að verða hólpinn jarðar hinn harmsögulega skilning á tortímingu án undankomuleiðar. Þess vegna er ekki til að dreifa neinum raunverulegum kristnum harmleik, því leyndardómur endurlausnarinnar myndar grunninn og andrúmsloftið fyrir sérhvert kristið drama. Hin harmsögulega vitund hefur þegar verið leyst upp í fyrirfram gefinni fullvissu um að hægt sé að öðlast fullkomnun og frelsun í gegnum náðina.[…].

Öll grundvallarreynsla mannsins, sem einu sinni var kristin, er ekki lengur harmsöguleg. Syndin umbreytist í felix culpa (lánssama sök) sem gerir endurlausnina mögulega. Svik Júdasar leiða til frelsandi dauða Krists, sem er orsök eilífrar hamingju allra trúaðra manna. Ef Kristur er dýpsta táknið fyrir fall heimsins, þá er hann það alls ekki í harmsögulegum skilningi, því fall hans er ljós, sigur, athöfn.“[xxiv]

Sú hringrás lífs og dauða sem fólgin er í harmsögulegri vitund skilur náttúruna annars vegar eftir í sakleysi sínu með sína ofgnótt lífs og grimmdar, hins vegar tekst hún á við það einstaklingsbundna líf, sem vill vara áfram. Fyrir einstaklinginn fellur náttúrlegt eðli dauðdagans ekki saman við óvirka meðtöku dauðans, því þó svo að það sé rétt að sérhvert líf verði að taka enda til þess að lífið lifi, þá er það jafnframt svo að sérhvert líf er ekki tilbúið að gangast undir dauðann, ekki vegna þess sem kann að henda eftirá, heldur vegna þess að það er líf, og sem slíkt hafnar það dauðanum.

Hér birtist okkur hið harmsögulega í öllu sínu veldi, sem byggist ekki á andstæðum lífs og dauða eins og í hinni kristnu vitund (samanber orð Páls frá Tarsos eftir upprisu Krists:  „Dauði, hvar er sigur þinn? Dauði, hvar er broddur þinn?“[xxv]), heldur felst það í andstæðum á milli lífsins og lífsins: lífi náttúrunnar, sem til þess að lifa kallar á dauða einstakra lífvera, og hinnar einstöku lífveru, sem til þess að lifa þarf að bægja frá sér dauðanum.

Hið harmsögulega skilur átökin ekki sem andstöðu náttúrunnar og annarra þátta, sem gætu verið maðurinn eða Guð, heldur gerast þau innan sjálfrar náttúrunnar, á milli hinnar almennu hagfræði náttúrunnar, þar sem dauðinn er forsenda lífsins, og hagfræði hinna einstöku lífvera, þar sem dauðinn felur í sér mörk og endalok lífsins. Þegar Heraklítos túlkar fyrir okkur þennan árekstur segir hann:

Maðurinn verður að gera sér grein fyrir að stríð eru tíð, og barátta er réttlæti, og að allir hlutir verða fyrir tilverknað baráttu og nauðsynjar.[xxvi]

Í átökunum veit maðurinn að hann verður að deyja vegna þess að það tilheyrir hringrás lífsins sem eru umskiptin á milli lífs og dauða, en engu að síður veitir hann dauðanum mótspyrnu, því þannig sýnir hann viljann til þess lífs sem í honum býr. Að veita andspyrnu felur ekki í sér uppgjöf og mótþróalausa undirgefni undir hringrás lífsins, en það er heldur ekki sá hræðslublandni verknaður sem þykist ætla að yfirstíga mörk náttúrunnar. Andspyrnan felst í samþættingu vitundarinnar um dauðann og tileinkun þeirrar þekkingar sem gerir manninum kleift að slá honum á frest eða komast hjá honum þegar um það er að ræða.

Með því að lifa hina harmsögulegu vídd stígur Grikkinn fram sem sá sem ímyndar sér ekki aðra veröld handan þessarar, heldur sá sem þræðir þolgóður slóð þekkingarinnar . Hippokrates staðfestir þetta þegar hann fjallar um „hið heilaga illa“ og segir:

Hvað varðar það sem kallað hefur verið hið heilaga illa, þá er þetta raunveruleikinn. Það er með engu móti – virðist mér – guðdómlegra eða heilagra en aðrir sjúkdómar, heldur hefur það náttúrlega byggingu (phýsin) og rökrænar orsakir (próphasin): mennirnir telja það engu að síður vera með einhverjum hætti guðdómlegan gjörning vegna reynsluleysis (apeiríes) og furðu (thaumasiótetos), þar sem það líkist með engum hætti hinum plágunum. Slíkt guðdómlegt eðli er staðfest vegna þeirra erfiðleika sem menn hafa við að skilja það.[xxvii]

Sem fræðigreinin um sársaukann kennir læknisfræði Hippokratesar manninum – auk hinnar raunverulegu virkni sinnar –, að menn eigi ekki að setja traust sitt á „blindar vonir (typhlàs elpídas)“[xxviii], heldur að þræða slóðir þekkingarinnar (loghismòs), því þó þekkingin geti ekki losað okkur við sársaukann, þá geti hún að minnsta kosti linað hann og slegið endalokunum á frest.

Í hinni náttúrlegu hringrás lífs og dauða hefur Grikkinn sett fram virk andsvör gegn óhjákvæmileika dauðans. Það þýðir að styrkja sjálfan sig í gegnum sársaukann, umbreyta fallvaltleikanum í verkefni fyrir þekkinguna. Ekki gefast upp, ekki gefa sér falskar vonir, heldur þekkja. Fyrst og fremst að þekkja eigin aðstæður og þær tæknilegu aðferðir er varðveita lífið til þess að forðast þann dauða sem getur mætt manni fyrir tilviljun eða vegna vanþekkingar.

Að vera forsjáll er það sama og að vera ekki einfaldlega allur á valdi náttúrunnar, en óendanlegir duttlungar hennar eru að einhverju leyti meðhöndlanlegir og frestanlegir fyrir tilstilli þekkingarinnar.

Þessi afstaða, sem er einkennandi fyrir gríska hugsun og á rætur sínar í harmsögulegum skilningi, átti eftir að setja mark sitt á vesturlenska hugsun, sem að þessu leyti greinir sig frá óvirkri afstöðu [passività] Austurlanda, og lætur heldur ekki undan þeirri kristnu freistingu að elska sársaukann sem innistæðu fyrir frelsuninni. Grikkinn elskar ekki sársaukann, hann elskar lífið og allt sem getur látið það vaxa og dafna og eflast að mætti, – en ólíkt okkur nútímamönnum innan sinna marka [con misura, katà metron], því án eðlilegra takmarka verða allar dyggðir ómerkar.

Hjá Grikkjum felst dyggðin (areté) ekki í meinlæti og fórnarlund, heldur er hún eins og hin latneska virtus (dyggð) getan til að skara fram úr, að verða betri, þannig að engin dyggð verður áunnin án baráttu. Baráttan snýr ekki bara að óvininum, heldur að þeim þörfum og nauðsynjum sem menn standa frammi fyrir, að þeim örlögum sem geta verið ógnvekjandi í grimmd sinni. Því snýst dyggðin um getuna til að hafa stjórn á aðstæðum, að þvinga ógnvænlega þróun til betri vegar, eða eins og Natoli skrifar:

Hin gríska areté felur í sér snilli, því hún snýst fyrst og fremst um virkni. Virkni merkir að sigra óvininn, ráða yfir náttúrunni, losa sig úr vandræðum. Í þessu sambandi telst það til dyggðar að láta ekki bugast af sársaukanum, bregðast við honum með virkum hætti. Hin gríska areté þróast þannig í takt við skortinn og þarfirnar og tekst stöðugt á við sársaukann. Þetta er hin sanngríska hugsun, þar sem lífið gat ekki verið annað en samofið sársaukanum fyrir Grikkjum. Lífsfylling mannsins er áunnin í umgengni við þjáninguna, hún tilheyrir honum ekki eins og frumlægt eðlisástand[xxix].

Grikkir skilja sársaukann því ekki sem hið kristilega endurgjald mannsins fyrir áunna sök, heldur innan hins harmsögulega ramma hins óhjákvæmilega náttúrulögmáls. Út frá þessum forsendum verða til tveir þættir sem fela ekki í sér uppgjöf heldur viðnám gagnvart sársaukanum: annars vegar er það þekking (máthesis), sem gerir mönnum kleift að komast hjá yfirstíganlegri þjáningu, hins vegar dyggðin (areté) sem gerir mönnum kleift innan vissra marka að hafa stjórn á sársaukanum.

Til þess að dyggðin dafni, sú dyggð sem hér er skilin sem lífskraftur og hugrekki til að yfirstíga mótlæti, er nauðsynlegt að búa við mælikvarða hófsemdar (métron), en án hans eru lífsþrótturinn og hugrekkið dæmd til ósigurs, því sá maður sem vill yfirstíga eigin takmörk gengur beint í glötun. Þegar hann verður hrokafullurumbreytist lífsþróttur hans í veikleika og gæfa hans í ógæfu. Því kallar dyggðin á að maðurinn skynji takmörk sín, og þessa aðgát kölluðu Grikkir phrónesis, forsjálni eða visku.

Menn eiga ekki að storka guðunum. Grikkir trúðu ekki á guði sína, en þeir bjuggu þá til sem verur er væru undanskildar dauðanum (athánatoi),einungis til þess að skilgreina það sem maðurinn er ekki og getur aldrei orðið, og þar með til þess að búa til mælikvarða í tvöfaldri merkingu: maðurinn getur ekki orðið ódauðlegur eins og guðinn, en hann á jafnframt að lifa í stöðugu spennuþrungnu sambandi við hina ódauðlegu fyrirmynd guðsins til þess að geta af sér forsjálni og visku, eins og Dante kemst að orði þar sem hann vitnar í goðsöguna um Ódysseif.[xxx]

Hér hittir Dante á kjarna hinnar grísku hugsunar sem gerir sér ekki upp gyllivonir um ódauðleika til þess að losa sig úr sínum harmsögulegu aðstæðum. Slík úrlausn fæli í sér hroka og oflæti (hýbris) í stað dyggðar og þekkingar til að sefa sársaukann og setja dauðann á frest. Þetta er gert sem virðingarvottur við lífið, sem innan sinna takmarka er enginn táradalur, heldur fegurð.

Heimspekiiðkunin felur í sér endurheimt á þessari grísku visku. Hún lítur ekki á manninn sem sakborning (kristindómurinn) eða sjúkling (sálgreiningin) heldur hefur hún harmsöglega sýn á manninn með róttækum hætti. Þess vegna kallar hún ekki á frelsunina eða lækninguna heldur á umhirðu hins harmsögulega eftir þeim leiðum sem þekkingin og dyggðin vísa á. Hér er dyggðin skilin sem hugrekkið til að lifa, þrátt fyrir allt mótlæti, með sjálfsstjórn og innan gefinna marka (kata métron).

_____________________________________________________________

Forsíðumyndin er af hluta svokallaðs Boston-sætis, brot úr grískum legsteini frá 5. öld f.Kr. sem sýnir engil dauðans á milli syrgjandans og hins látna

_________________________________________________________________

 [i] S. Natoli: L‘esperienza del dolore. Le forme del patire nella cultura occidentale, Feltrinelli, Milano 1986, bls. 15.

[ii] S. Freud: Hemmung, Symptom und Angst (1926)

[iii] M.Heidegger: Was ist Metaphysik? (1929)

[iv] Sama rit

[v] Anassimandro, B 1.

[vi] Æskílos: Prómeþeifur, 248-253, Grískir harmleikir í þýðingu Helga Hálfdanarsonar, Mál og menning 1990, bls. 206

[vii] S. Freud: Vergänglichkeit (1916)

[viii] Jesaja, 65, 17-19.

[ix] B.Pascal: Pensées (1657-1662): „Við hugsum í gróða og tapi: ef krossinn vinnur, þá er Guð til. Lítum á þessi tvö dæmi: ef þið vinnið, þá vinnið þið allt; ef þið tapið, þá tapið þið engu. Þið skuluð því veðja á að Guð sé til, án þess að hika.“

[x] Francesco di Sales: Teotimo, Traitéde l‘amour de Dieu (1616)

[xi] S.Freud: Neue Folge der Vorlesungen zur Einfürung in die Psychoanalyse. Freud hafði áður tekið þetta mál upp í Das Ich und Es, (1923) þar sem stendur „Sálgreiningin er tæki sem hugsað er til þess að gera Éginu fært að yfirvinna Þaðið.“ Samlíkingin við Zuiderzee á við þá framkvæmd þegar Hollendingar þurrkuðu upp þetta mikla sjávarlón með varnargörðum.

[xii] S. Freud: Undir oki siðmenningar, (1930), þýð. Sigurjón Björnsson, útg Hið íslenska bókmenntafélag, 1997, bls. 36.

[xiii] S.Natoli, L‘esperienza del dolore. Le forme del patire nella cultura occidentale, Milano 1986, bls. 265.

[xiv] F.Bacon, Instauratio Magna. Pars secunda. Novum organum. Bók I, §3, bls 552 (1620): „Vísindin og mannlegt vald fara saman, því vanþekking á orsökinni kemur í veg fyrir afleiðinguna. Náttúran verður í raun ekki sigruð nema menn hlýði henni, og það sem samkvæmt fræðikenningunni hefur ígildi orsakar hefur ígildi reglu í hinni verklegu framkvæmd.“

[xv] Sama verk, Bók II, §52, bls. 795.

[xvi] Sjá í þessu samhengi U.Galimberti, Psiche e tecne. L‘uomo nell‘età della tecnica, kafli 33: „L‘epoca moderna e il primato della scienza e della tecnica come deriva teologica“.

[xvii] M.Foucault, Naissance de la clinique. Une archeologie du regard médical (1963)

[xviii] J.Lacan, La science et la vérité (1966)

[xix] Esiódus, Verk og dagar, ít. útg. Opere e giorni, birt í Opere, Torino 1977, bls. 291.

[xx] Luciano Sofista, sjá M.Untersteiner, Sofisti. Testimonianze e frammenti, Nuova Italia, Firenze 1949-62, vol.II, bls 124.

[xxi] G.Anders, Die Antiquiertheit des Menschen, vol II: Über die Zerstörung des Lebens im Zeitalter der dritten industrieller Revolution (1980)

[xxii] F.Nietzsche, Die Geburt der Tragödie aus dem Geiste der Musik (1972)

[xxiii] Heraklítos: Þessi alheimur sem við höfum andspænis okkurog er sá sami fyrir alla, var ekki skapaður af neinum guðanna og engum manni, heldur hefur alltaf verið og er og mun verða eilífur eldur sem glæðist samkvæmt málinu og slokknar samkvæmt málinu.“

[xxiv] K.Jaspers, Über das Tragische, birt í Von der Wahrheit (1947).

[xxv] Páll frá Tarsos, Fyrra bref Páls postula til Kórintumanna, 15, 55.

[xxvi] Heraklítos, B 80

[xxvii] Hippocrates, Male sacro, í Opere, Torino 1976, bls. 297. Niðurfallssýki var talinn til „heilagra sjúkdóma“ í fornöld.

[xxviii] Æskílos: Prómeþeifur, 250.

[xxix] S.Natoli: L‘esperienza del dolore. Le forme del patire nella cultura occidentale,Milano 1986, bls. 90

[xxx] Dante Alighieri: Inferno, XXVI, 118-120: „Considerate la vostra semenza / fatti non foste a viver come bruti, / ma per seguir virtute e conoscenza.“

Átakavettvangur forms og formleysu í myndlistinni – Massimo Recalcati

Massimo Recalcati:

Helgimyndin klofin frá undirliggjandi merkingu[i]

(L’icona scissa dal coinema)

Eftirmáli bókarinnar Depurð og sköpun hjá Van Gogh

(Melancolia e creazione in Vincent Van Gogh)

Massimo Recalcati (f. 1959) er einn áhrifamesti sálgreinir á Ítalíu af skóla franska sálgreinisins Jaques Lacans. Hann er afkastamikill rithöfundur og hefur gefið út fjölda rita, m.a. grundvallarrit um sálgreiningu Lacans í tveim bindum auk fjölda bóka sem tengja sálgreininguna við pólitísk og siðferðileg vandamál samtímans með nýstárlegum hætti. Recalcati er höfundur tveggja mikilvægra bóka um myndlist, Il miracolo della forma frá 2007 og Melancolia e creazione in Vincent Van Gogh frá 2009. Eftirfarandi ritgerð er eftirmál bókarinnar um Van Gogh og má líta á hana sem samantekt á ágreiningi Recalcati og hins hefðbundna skóla freudískrar sálgreiningar, sem hefur litið á fagið sem tæki til að greina undirliggjandi og dulda merkingu listaverka. Jafnframt er greinin eins og samantekt á ítarlegri gagnrýni Recalcati á áberandi tilhneigingu í samtímalistinni, sem Recalcati rekur til bókarinnar Formless – A Users Guide frá 1997 eftir Rosalind Krauss og Y. De Bois. Deila sem snýst um tvær öfgar í list samtímans: hreina formhyggju minimalismans og hreina formleysu þeirrar listar sem leitast við að sneiða hjá allri ummótun veruleikans en sýna hann þess í stað í sinni óþvegnu og hráu mynd. Recalcati hefur leitast við að tengja skilning sinn á samtímalistinni við sálfræðikenningar Jacques Lacans og þess sem eftir honum er haft, einkum í Sjöunda Námskeiðinu (The Ethics of Psychoanalysis, 1959-60)) og Ellefta Námskeiðinu (Four Fundamental Concepts of Psycoanalysis,1973).

Form, formleysa og ástríða

(Forma, informe e forza)[ii]

Hugmyndafræði póstmódernismans lítur á hugmyndina um formið sem úrelta og ófrávíkjanlega tengda hugsjón hughyggjunnar um listaverkið. Samkvæmt þessari hugmyndafræði viðheldur formið blætiseðli listaverksins eins og það væri frumspekilegar leifar módernismans, um leið og það breiðir yfir hina formlausu og óhefluðu mynd veruleikans. Hin huglæga hugsjón um formið kemur samkvæmt þessari hugmyndafræði í veg fyrir beina snertingu við raunveruleikann um leið og hún og viðheldur lóðréttri yfirdrottnun hinnar fögru ímyndar.

Fagurfræði módernismans er samkvæmt þessu innilokuð í gildishlöðnu mati sem einskorðast við þau verk er hafna öllu því er feli í sér minnsta smit við það sem víkur frá hinni lóðréttu yfirdrottnun formsins: hinni lágstemmdu efniskennd líkamans og þeim látbrögðum hans er bregða út af sjálfhverfri einingu myndarinnar, hinum tímabundnu sveiflum hvatalífsins, hinu lárétta, eða í einu orði: sjálfri formleysunni.[iii]. Í samræmi við þennan skilning verður blætiseðli formsins til við upphafningu hinnar fagurfræðilegu myndar.

Samkvæmt þessu sjónarhorni verður hugtakið „göfgun“, sem Sigmund Freud sagði að lægi til grundvallar allri listrænni sköpun („Sublimierung“ á þýsku) það sem upphefur listaverkið til handanveru sinnar. Af sömu ástæðu hefur hugmyndafræði formleysunnar ráðist gegn þessari kennisetningu módernismans um formið og kallað á róttæka „afgöfgun“ hinnar fagurfræðilegu myndar.

Þessi skilningur á forminu sem sjúkdómseinkenni módernismans og þessi skilningur á „göfguninni“ (þý: Sublimierung) sem upphafningu er viðhaldi úreltri og sjúklegri hugmynd um fegurðina, eru að mínu mati eitt af sjúkdómseinkennum samtímalistarinnar og kenningasmíðanna í kring um hana. Sálgreiningin er að mínu mati það tæki sem gæti hjálpað okkur til að leiðrétta með gagnrýnum hætti þessa villigötu tómhyggjunnar og stutt viðleitnina til að endurreisa listaverkið sem (táknrænan og myndrænan) vettvang stefnumótsins við raunveruleikann.

Tilvísunin í verk Van Goghs (þessi ritgerð var upphaflega birt sem eftirmáli bókar Recalcati „Melancolia e creazione in Vincent Van Gogh“, Torino 2009, olg) og kenningar hans um litina getur hér orðið fordæmisgefandi, því hún býður okkur upp á gerð listaverka sem afskrifa með engu móti óhjákvæmileg tengsl sín við hið formlausa eðli raunveruleikans, en teflir hins vegar með róttækum hætti (sálar)kraftinum (la forza) gegn forminu og opnar þanni fyrir okkur þann vanda, hvernig viðhalda megi því formlega jafnvægi þar sem inntak listarinnar getur opnað sig gagnvart raunveruleikanum.

Með hvaða hætti gæti sálgreiningin komið að gagni við mótun nýrrar fagurfræði formsins án þess að afneita afdráttarlaust aðkomu raunveruleikans?

Við skulum reyna að leita svars við þessari spurningu með því að taka á okkur svolítinn krók.

Reynsla sálgreiningarinnar byggir á gegndreypum skilveggjum. Samkvæmt henni lýsa veikindi sér frekar í of sterkri sjálfsímynd, eitraðri stífni hennar og einþykkni, heldur en í ófullnægjandi festu hennar. Þegar ofvöxtur hleypur í skilveggina, þegar sveigjanleikinn hverfur milli einstaklinga og þar með möguleikinn á táknrænum samskiptum, þegar möguleikinn á aðlögun og samkennd (integrazione) víkur fyrir efldri aðskilnaðaráráttu, yfirfærslu og tilfærslu, þá og aðeins þá, er samkvæmt sálgreiningunni um sjúklegar aðstæður að ræða.

Á sviði fagurfræðinnar felur hinn þykki skilveggur á milli forms og formleysu í sér upptök sérstaks sjúkdóms sem við getum kennt við smættun (riduzionismo) sem skilur þessa þætti, formið og formleysuna, í sundur með róttækum hætti. Þessi aðskilnaður endar með því að geta af sér annars vegar blætiskennda hugmynd um formið, og hins vegar tortímandi upphafningu hinnar fullkomnu formleysu.

Þessi smættandi aðgreining, þessi fullkomni aðskilnaður forms og formleysu, endurspeglar ef svo mætti segja, hina frumspekilegu ofuráherslu þess listaverks sem í nafni formsins afneitaði formleysunni sem ósættanlegum andstæðingi.

Þetta er hreyfingin sem byggir á hugmyndinni um hið fagra sem úthýsingu og afneitun hins hrjúfa, hráa og óheflaða veruleika. Hreyfingin sem lítur á sig sem útvörðinn gegn hinum sársaukafullu árekstrum okkar við raunveruleikann.

Þessi sami aðskilnaður getur hins vegar leitt til gjöreyðandi tilskipana formleysunnar er gera hana í reynd óframkvæmanlega. Þetta felur í sér að röksemdir aðgreiningarinnar eru heimfærðar upp á listina, þannig að óyfirstíganleg gjá er mynduð á milli formsins og formleysunnar þar til endanlega hefur verið slitið á öll tengsl þar á milli, þar sem annað verður algjör andhverfa hins.

Listaverkið getur í reynd ekki nærst á þessum algjöra aðskilnaði forms og formleysu.

Þau fagurfræðilegu fordæmi sem sett voru fram af Nietzsche og Heidegger og þau sem við getum rakið til Freuds og Lacans, eiga að mínu mati sammerkt að vettvangur listaverksins sé átakavettvangur er byggist á samfelldri streitu er aldrei verði til lykta leidd, átakavettvangi er feli í sér tilhneigingu til formlegs samhljóms annars vegar og óbugandi ómstríðni formleysunnar hins vegar.

Það eru átök hins apollónska og díonýsiska (Nietzsche), átök heims og jarðar (Heidegger) átök agafestu og ástríðusveiflna (Freud) og átök raunveru og merkingarreglu (Lacan), átök sem skilgreina tilurð listaverksins sem atburðar handan allra hugsanlegra birtingamynda hins stranga aðskilnaðar.

Þetta felur í sér að um leið og frumspekiárátta hinnar fögru myndar geldir formið með því að skilja það frá átökum ástríðanna, þá birtist spegilmynd þessarar áráttu í þeirri hugmyndafræði formleysunnar sem afneitar öllum regluverkum formsins í nafni beinnar og milliliðalausrar miðlunar tiltekins raunveruleika sem gerir með einfeldningslegum hætti tilkall til að vera upprunalegur og tilkominn á undan tungumáli listarinnar.

Sú iðkun listar sem tekur mið af þeim fagurfræðilegu forskriftum er hér voru nefndar (Nietzsche, Heidegger, Freud og Lacan) beinist hins vegar að því að tengja saman atburð ástríðuþungans (forza) og atburð formsins. Við þyrftum því að fara að hugsa með enn róttækari hætti hvernig tvennan „form-ástríðuþungi“ (forma-forza) geti með enn róttækari hætti slitið á öll tengsl sín við þá frumspekihefð sem rekja má til hughyggju Benedetto Croce og birtist í tvennunni „form-innihald“.

Lykilatriðið er að yfirstíga þessa tvenndarhyggju forms og formleysu og síðan almennt að skipta út tvenndarformúlunni „form-innihald“ fyrir tvennuna form-ástríðuþungi (forza-forma), en þessi hugsun er samkvæmt mínum skilningi þegar til staðar í göfgunarhugtakinu hjá Freud („Sublimierung“) sem hann setur fram sem lykilhugtak til skilnings á listreynslunni.

Hvað felst í göfgunarhugtaki Freuds? Að hvaða leyti endurspeglar þetta hugtak þann skilning á listaverkinu að það snúist um ástríðuátök er tvinni saman form og formleysu í stað þessa smættandi aðskilnaðar?

Fyrst ber að skilja að göfgunin (Sublimierung) í skilningi Freuds felur ekki í sér eitt af varnartólum mannsins (gegn ástríðunum) eins og ýmsir fylgjendur hans hafa síðar haldið fram. Hún felur í sér áður óþekkta möguleika ástríðunnar. Hvaða möguleika? Möguleika á umbreytingu raunverunnar á sviði ástríðanna. Um er að ræða umbreytingu á óreiðu ástríðanna, á erótískum og þar með formlausum krafti þeirra, en það felur í sér að gefa kraftinum form.

Hér höfum við tillögu að góðri skilgreiningu á göfguninni: að gefa ástríðukraftinum nýtt form. En þetta áður óþekkta form ástríðunnar mun aldrei ná að tæma setlög formleysunnar, það mun aldrei ná að leysa upp í algjört gagnsæi hin þykku og ógagnsæju undirlög hennar. Með öðrum orðum þá felst mikilvægi þessarar skilgreiningar Freuds í því að sýna að ástríðukrafturinn (la forza pulzionale) og formið (í sinni göfguðu mynd) birtast okkur ekki í aðskildum myndum án milligöngu. Eins og ég hef áður bent á, þá höfum við annars vegar hinar sótthreinsuðu myndir formsins (þær ástríðulausu) og hins vegar hömlulausar útgáfur ástríðunnar (án forms). Atburður listarinnar felst hins vegar í göfgunarferli eða í samfelldri baráttu á milli formleysunnar og formsins og byggir ekki á stífum aðskilnaði þar á milli.

Framsetning á hömlulausum (og formlausum) ástríðum og framsetning á ástríðulausum formum eru hins vegar megineinkenni samtímalistarinnar. Þetta stafar af tvenns konar stefnumörkun.

Önnur helgar sig ástríðuhitanum og afneitar forminu með framsetningu villtra ástríðna án nokkurrar táknrænnar miðlunar – þar sem verkið glatar hinni formlegu sjálfsímynd sinni og hrapar niður í algera geðræna óreiðu og skipulagsleysi.[iv] Hins vegar höfum við formið sem með meinlætafullum hætti afneitar raunveru hinna brennandi ástríðna í gegnum eins konar sótthreinsandi sundurgreiningu raunveruleikans. Í þessu tilfelli væri um offar í tákngervingaráráttunni að ræða, er ýtti undir ofurskipulagðan rökfræðilegan sannfæringarmátt verksins á kostnað mögulegrar ástríðuverkunar[v]

  1. Ástríðuorkan verður ekki endursögð

(La intraducibilità della forza)

Sálgreiningin hefur til þessa yfirleitt ekki kannað eða fylgt eftir þrautaslóð hinnar stríðandi göfgunar, heldur haldið sig við táknfræðilegar túlkanir. Þetta hefur fyrst og fremst falist í því að tvöfalda textaskilaboð listarinnar, þar sem annars vegar er horft til meðvitaðra áforma og hinna merkingarlegu vísana yfirborðsins, hins vegar til undirliggjandi og dulinnar merkingar. Annars vegar er það hið sýnilega inntak, hin merkingarlega flétta textans, hins vegar undirliggjandi skilaboð, hin dýpri merking þeirra er tengist sálrænum duldum höfundarins.

Slík tvöföldun textaskilaboða listaverksins felur í sér skilgreiningu á hinum gagnrýna lestri listaverkanna eins og um sundurgreinandi verknað væri að ræða er stefndi að því að heimfæra fyrri frásögnina upp á þá síðari samkvæmt reglu sem hefur afdrifaríka smættandi virkni í för með sér.

Frá þessu sjónarhorni getum við séð lýsandi fordæmi í verki Franco Fornari, sem lýsti inntaki listaverks samkvæmt þeirri hugtakalegu tvenndarreglu sem hann kallaði „coinema-icona“[vi]. Helgimyndin (íkonan) eða hin rétta mynd inntaks listarinnar er þannig smækkuð niður og útskýrð út frá afar takmarkandi og smættandi upprunalegum grundvallar-merkingum er er eiga að hafa komið til á undan sjálfu tákninu/nefnaranum[vii] og feli í sér hið raunverulega „coinema“ verksins. Aðferð þessarar sálgreinandi túlkunarfræði felst samkvæmt þessu í því að fella íkonuna að „coinema“ hennar, eða með öðrum orðum að skýra hina myrku merkingu helgimyndarinnar út frá þeim undirliggjandi grundvelli sem kallast „coinema“  Við erum áður búin að benda á nokkur ömurleg dæmi um niðurstöður slíkra greininga.[viii]

Aðferðarfræði mín beinist gegn þessari táknfræðilegu túlkunarhefð sálfræðinnar og felst öllu frekar í því að leggja spurningar fyrir verkið með aðferð sálgreiningarinnar, án þess að láta leiðast af þeim skilningi á sálgreiningunni að hún sé eins konar merkingarfræðileg túlkunarvél er búi yfir ráðum til að þýða merkingarþræði listaverksins yfir í tiltekna merkingu, og allra síst yfir í merkingar sem veiða megi úr djúpi dulvitundar listamannsins.

Þvert á móti byggir hugmynd mín um hvernig við getum nálgast listaverkið á þeirri fullvissu, að dulvitundin vinni alls ekki innan einhvers upprunalegs merkingarramma – eða, eins og í tilfelli Fornari, á forsendum grundvallarmerkinga sem þeir merkingarvísar[ix] styðjast við er leggja til frásögn listaverksins. Þessi aðferð beitir merkingarjöfnu Saussure[x] á allt of vélrænan hátt, þar sem frásögn listaverksins er skilgreind sem afmörkuð kví merkingargjafa er einungis þurfi að endurlesa með því að smækka þá niður í frumlægar merkingar.

Við höldum því þvert á móti fram að hin dulvitaða vídd listaverksins felist ekki í því sambandi nefnarans og hins nefnda sem hér er fjallað um, heldur í sjálfu brotastrikinu sem skilur á milli þeirra. Listaverkið felur með öðrum orðum í sér skurð, brot eða andspyrnu, sem gerir það ómögulegt að draga merkingarfléttu þess, lið fyrir lið, að svokallaðri undirliggjandi eða frumlægri merkingu þeirra. Öllu heldur felst hið dulvitaða í listaverkinu í ómöguleika þess að þýða það yfir í aðra merkingu, það felst í andófi þess gegn sérhverri tilraun til túlkunarfræðilegrar yfirfærslu á merkingarsviðum þess. Listaverkið felur þannig í sér aðskilnað en ekki samtengingu á því sem Fornari kallaði „coinema og icona“ (helgimynd og undirliggjandi merking hennar-innsk. olg), og sýna myndina þannig sem klofna frá coinema sínu.

Listaverkið hefur sem slíkt til að bera sitt ómælanlega umframgildi er nær út yfir þá sundurgreinandi virkni þessarar „undirliggjandi merkingar“sem kallast „coinema“. Mynd listaverksins hefur til að bera sinn eigin merkingarlega þéttleika sem ekki reynist mögulegt að þýða á forsendum táknfræðinnar. Þetta viðnám gegn þýðingaráráttunni er birtingarmynd þess afls, sem að mínu mati vísar til raunverunnar, eða gefur hugboð um hana.[xi]

Í þessum skilningi felur upphafning hlutarins í stöðu helgimyndar í sér samþjöppun þeirrar virkni sem við köllum listræna göfgun (sublimazione). Reyndar að því tilskyldu að við leggjum ekki þann skilning í þessa upphafningu, sem Lacan sér sem hina eiginlegu göfgun,[xii], að um sé að ræða huglæga og ídealíska upphafningu (hrapalleg kórvilla sem kemur m.a. fram hjá Yve-Alland Bois og Rosalind Krauss[xiii]), heldur sé hún aðferð til að sammæla myndina og raunveruna, eða ef menn vilja heldur orða það þannig, að sammæla óreiðuafl formleysunnar og kraftajafnvægi formsins.

Upphafning hinnar freudísku göfgunar felur í raun ekki í sér andlega auðgun listmunarins því ekki er um að ræða tamningu ástríðanna í gegnum göfgunina. Hin freudíska göfgun felur alls ekki í sér varnarviðbúnað gegn ástríðuþunganum, heldur áður óþekktan möguleika til annarrar fullnægju. Möguleika þess að formleysa ástríðanna geti fundið sér formlegan farveg og geti sýnt sig sem frjór vettvangur formsköpunar.

Samkvæmt skilningi sálgreiningarinnar felur formið ekki í sér umbúðir innihaldsins, það er ekki sá marklausi en dýrlegi umbúðapappír sem umvefur hinn ósýnilega aðalrétt, heldur er það afleiðing umbreytingar, afurð skapandi máttar ástríðuþungans. Það er í þessum skilningi sem við höfum fordæmið frá Van Gogh. Ekki vegna þess hvernig geðveiki hans skilyrðir málverkið, heldur vegna þess að krafturinn sem flæðir inn í málverkið og skapar ágenga og viðvarandi nærveru þess birtir okkur ævarandi jafnvægistruflun þar sem krafturinn miðar að upplausn á öllum ytri mörkum formsins án þess nokkurn tímann að framkalla sálræna upplausn verksins.

Sá ofurkraftur litanna sem Van Gogh samtvinnar sýn sinni á Náttúruna tortímir ekki myndinni, heldur nærir hana, framkallar í henni lifandi æðaslátt sem verður ekki birtingarmynd tiltekinnar merkingar heldur birtingarmynd veruleika sem ekki verður þýddur yfir í annan veruleika. Það á sérstaklega við um tímabilið í Arles, allt fram að sjálfsmorðinu. Þetta tímabil er vettvangur stöðugra skjálftahryna sem ná þó aldrei að eyðileggja verkin. Öllu heldur er það höfundur þeirra sem verður óstöðvandi tortímingu að bráð, það verður Van Gogh sem missir stjórn á því sem málverkið hefur hins vegar enn á sínu valdi.

  1. Að mála ásjónu dýrlingsins

Sá myndræni skáldskapur sem Van Gogh býður okkur upp á er í raun einstakur vitnisburður um hvernig máttur helgimyndarinnar (icona) er óhjákvæmilega aðskilin frá sínu „coinema“. Liljur, olívutré, kornakrar blómstrandi kirsuberja- og möndlutré, kirkjur, sólblóm, stólar, pípur, bækur, stjörnubjartur himinn, úfinn sjór, skór, bændur, götur, andlit kvenna og karla fylla myndir hans, ekki fyrst og fremst sem hlutir í náttúrunni, heldur sem helgimyndir (íkonur). Fyrirbæri sem hjálpa Van Gogh að nálgast kjarna raunverunnar, kjarna náttúrunnar, þessa „Hlutar“ (das Ding, la Chose, la Cosa) sem enginn getur myndgert: að nálgast „hinn sanna sársauka“ tilverunnar sem dregur til sín og gleypir allar mögulegar lýsingar á Náttúrunni.[xiv]

Upphafning hlutarins á stall helgimyndarinnar (icona) gerist hér handan allrar táknhyggju. Helgimyndin er alls ekki birtingarmynd „coinema“ (dulvitaðrar, undirliggjandi og tilfinningalegrar merkingar -innsk. olg). Að mínu viti verður sérhver táknfræðilegur lestur á málverki Van Goghs óhjákvæmilega máttvana andspænis þeim ástríðuþunga sem það birtir okkur. Verkið verður óþýðanlegt, það hristir af sér sérhvera tilraun til þýðingar í nafni merkinga, jafnvel í nafni hinnar manngerðu náttúru sem ekki er til. Sá mikli kraftur verka hans sem er andhverfa allrar lýsingar, felst hins vegar í þeirri vídd hins heilaga sem umlykur hann. Hann sýnir okkur ómöguleika þess að yfirstíga brotastrikið sem skilur nefnarann/merkingarvísinn (il significante) frá hinu tilvísaða (significato). Van Gogh orðar þetta með heiðskýrum hætti í einu af síðustu bréfum sínum til Theos: „Ég hefði viljað mála ekkert annað en andlit dýrlinganna. Ekkert annað“[xv]

Málverkið stendur ekki fyrir hið sýnilega en það þarf að nálgast raunveruna. Fyrir Van Gogh snérist hún um að myndgera hið algilda. „Hlutinn“ sem ekkert fær myndgert, „ásjóna dýrlinganna“. Göfgun Freuds fléttast hér inn í hugmynd Kants um hið háleita (sublime). Kant leit reyndar svo á að hið háleita væri „náttúrlegur hlutur“ er kallaði mannshugann til þess að hugleiða ómöguleika þess að höndla náttúruna með sýningu hugmyndanna“[xvi].

Hin listræna göfgun Van Goghs hittir hér fyrir sönnustu mynd sína: að mála felur í sér að mála stöðugt ásjónu dýrlingsins, það er að segja að upphefja hlutinn, hvaða hlut sem er, upp í þá stöðu virðingar og máttar sem helgimyndin ein hefur til að bera og verður ekki umtúlkuð. Með orðum Kants þá felur það í sér að skilja málverkið sem framsetningu þess sem ómögulegt er að bera fram á forsendum hugmyndanna, ómögulegt að endursýna. Það er ekki hægt að höndla Náttúruna með „sýningu á hugmyndum“, einungis er hægt að sýna mátt hennar (forza), hin myrku tjáningaröfl hennar. Eingöngu með því að stíga út í heljardýpi hennar – einungis þannig getum við rakið slóð Van Goghs.

Forsíðumynd: Trjárætur, eitt síðasta málverk Van Goghs frá 1890.

————————————-

[i] Ritgerð þessi birtist upphaflega sem eftirmáli við hina snjöllu bók ítalska sálgreinisins Massimo Recalcati: Melancolia e creazione in Vincent Van Gogh sem kom út há Boringhieri-útgáfunni í Torino 2009. Titillinn: „L´icona scissa dal coinema“ er ekki auðþýdd á íslensku, ekki síst þar sem hugtakið „coinema“ er varla til í ítölskum orðabókum, hvað þá í almennu talmáli. Þetta hugtak tengist hins vegar mikilvægri deilu innan ítalskrar sálgreiningar, sem hægt er að rekja til fulltrúa ákveðinna arftaka skóla Sigmundar Freuds annars vegar og Jacques Lacans hins vegar. Það var sálgreinirinn Francesco Fornari sem tók upp þetta hugtak sem eins konar samheiti yfir undirliggjandi dulvitaðar tilfinningalegar merkingar er liggi á bak við táknmál í listum, og hvernig sálgreiningin gæti greint þetta táknmál (sbr. F.Fornari: Coinema e icona. Nuova proposta per la psicoanalisi dell‘arte Milano 1995). Þessi eftirmáli við bókina um Van Gogh er í raun eins konar stytt samantekt á langri deilu, þar sem Recalcati gerir m.a. grein fyrir ágreiningi sínum við Fornari og tiltekna arftaka freudískrar sálgreiningar annars vegar og listfræðngana Rosalind Krauss og Y.A. Bois hins vegar, um leið og hann setur fram sína frumlegu túlkun á hugmyndum Jacques Lacans um vettvang, virkni og átakasvæði listarinnar í samtímanum.Ítalska lýsingarorðið „scisso“ merkir „klofinn“ eða „sundraður“, dregið af sögninni „scindere“ = kljúfa, sundra.

[ii] Hugtakið forza merkir í raun afl eða kraftur en er hér notað í víðari merkingu en þessi íslensku orð bjóða upp á, þar sem forza hér merkir hér öllu heldur „sálarkraftur“ eða tilfinningalegt afl. Íslenska hugtakið „ástríða“ nær ekki upprunalegri merkingu, en stendur henni kannski nær en bein þýðing sem „kraftur“ eða „afl“.

[iii] Hugmyndafræði formleysunnar er sett fram með skýrustum hætti í bók Rosalind Krauss og Y.A. Bois: Formless, A user-s guide, New York 1997

[iv] Þennan skilning má finna í skrifum Mario Perniola um „realismo psicotico“ (sem kalla mætti á íslensku „sálsjúkt raunsæi “) í samtímalistinni, sbr. Perniola: L‘arte e sua ombra, Torino 2001

[v] Sjá F. Fornari: Coinema e icona. Nuova proposta per la psicoanalise dell‘arte, Milano 1979.

[vi] Hugtakið coinema virðist hafa þá merkingu hjá Fornari að vísa til hinna innri og tilfinningatengdu þátta listaverks, en í víðari skilningi mun hugtakið (sem er sjaldséð) vísa til þess tilfinningalega stafrófs sem mannleg tilvist er upprunalega spunnin úr. Hugtakið „icona“ merkir helgimynd eða mynd sem endurspeglar ljóma eða heilagleika einhvers sem stendur utan við eða handan sjálfrar myndarinnar.

[vii] Í anda strúktúralisma Lacans gerir Recalcati afgerandi greinarmun á „significante“ sem við köllum nefnara þess sem vísað er til, nefnara þess sem hann kallar „significato“ (hið nefnda eða merkta, merking). Hér er „significante“ þýtt með tvennunni „tákn/nefnari“ til að nálgast þennan skilning og forðast misskilning.

[viii] Sjá: Recalcati, Il miracolo della forma, Milano/Torino 2011, bls 72-75

[ix] Hugtakið „significante“ sem hefur grundvallarþýðingu í sálgreiningu Lacans, hefur ekki hlotið viðurkennda mynd á íslensku. Hugtakið felur í raun í ser það sem við gætum kallað „merkingarvísi“ eða „nefnara“, sem ávalt er annars staðar en það sem hann nefnir eða vísar til. Þetta er grundvallarhugtak í strúktúralisma og á rætur sínar að rekja til málvísindamannsins Ferdinand Saussure.

[x] Merking= nefnarinn/hið nefnda, þar sem nefnarinn er aðgreindur frá viðfangi sínu með brotastriki.

[xi] Þetta er atriði sem franski listfræðingurinn Georges Didi Huberman hefur lagt megináherslu á: myndverkið er ekki einungis það sem hylur raunveruna („ímynd yfirbreiðslunnar“) heldur einnig það sem afhjúpar hana, sem opnar

[xii] Ég minni á skilgreiningu Lacans á göfgunarhugtakinu: „að upphefja tiltekið viðfang í virðingarstöðu Hlutarins“, sbr Lacan: Il seminario, Libro VII. L‘etica della psicoanalisi 1959-60, bls. 141. („Hluturinn“ (la chose, das Ding) er merkingarhlaðið hugtak sem Lacan skýrir m.a. í kaflanum“On creation ex nihilo“ í Seminar nr. VII sem í enskri útgáfu heitir The Ethics of Psychoanalysis, bls. 142-157, útg Routledge 2008.innsk. olg)

[xiii] Sbr R. Krauss og Y. A. Bois: Formless: A Users Guide, New York 1997.

[xiv] Van Gogh: Lettere a Theo, Napoli 2003, bls. 152

[xv] Sama rit, bls 344.

[xvi] I. Kant: Critica del giudizio, Laterza 1997, bls. 209.

 

%d bloggers like this: