ÆTTFRÆÐI SKULDARINNAR, SEKTARINNAR OG SYNDARINNAR SAMKVÆMT NIETZSCHE

Dimbilvikan í félagsskap Nietzsche
Eftirfarand kaflar úr Ættfræði siðferðisins voru hluti af lesefni mínu um skuldina og sektina í Dimbilvikunni fyrir páska. Uppggjör Nietzsche frá árinu 1887 við þá siðfræði erfðasyndarinnar sem fylgir kristindómnum og kristallast í Dimbilvikunni, sem er vika iðrunar og sektarkenndar, vika beiðninnar um fyrirgefningu þeirrar sektar sem manninum er ásköpuð en Kristur vildi frelsa hann undan. Þessi bók er ekki bara uppgjör við kristindóminn, heldur líka við alla frumspekilega siðfræði og tengingu hennar við algilda sekt og sektardóma. Þegar Nietzsche gaf út sína alræmdu yfirlýsingu um "dauða Guðs" í bókinni "Hin kátu vísindi" frá 1881 (gr. 125) þá gerði hann það með óbeinum hætti í formi dæmisögu, þar sem geðsjúki maðurinn kom hlaupandi inn á markaðstorgið í fullri morgunbirtu með ljósker í hendi og hrópaði hástöfum: "Ég er að leita að Guði!, ég leita að Guði!". Og eftir nákvæma eftirgrennslan hrópaði hann: "Hvert hefur Guð farið?...Ég skal segja ykkur það! Við höfum drepið hann - þið og ég! Við erum öll morðingjar hans!...Á hvaða róli er hann núna? Á havða róli erum við? Ein og yfirgefin... Er þetta ekki okkar eilífa glötun... er einhverju uppi og niðri lengur til að dreifa? Sveimum við ekki um í einhverju endalausu tómi? Er ekki tómarýmið að hellast yfir okkur?..." Þetta voru orð sem eðlilega ollu hneykslun á sínum tíma, en þau áttu sína skýringu í dæmisögunni um markaðstorgið sem Guð hafði yfirgefið rétt eins og Kristur hafði á sínum tíma rekið sölumennina úr hofinu með harðri hendi. Peningurinn tilheyrði ekki húsi Guðs. Nietzsche gerði ekki annað en að færa þessa dæmisögu úr Biblíunni upp á sinn samtíma. Í bókinni um Ættfræði siðferðisins gengur hann hins vegar mun lengra og ræðst beinlínis gegn Kristindómnum sem slíkum, en um leið gegn allri frumspekilegri siðfræði um eðlisbundna sekt og fyrirgefningu. Ættfræði siðferðisins verður honum leið til ættfærslu frumspekinnar sem birtist í einni mynd sinni í meðfæddri skuld mannsins við forfeðurna og síðan við þær guðamyndir sem forfeðurnir tóku á sig í aldanna rás. Þar gerir hann hins vegar greinarmun á fjölgyðistrúnni eins og hún birtist hjá Grikkjum og eingyðistrúarbrögðunum sem verða fyrir honum eins konar forsenda hinnar frumspekilegu sektar mannsins. Grikkir skildu hið guðdómlega í dýrseðli mannsins segir Nietzsche og vitnar þar óbeint til byltingarkenndrar greiningar sinnar á hinu dionýsiska í fyrstu bók sinni, Fæðing harmleiksins frá 1876. Á bak við hið sérstaka ákall Nietzsche um frelsun mannsins undan "tómhyggju kristindómsins", sem lesa má úr þessum textabrotum, má merkja tengslin við þann frelsandi máltt listanna og þá sérstaklega hinnar díonýsisku tónlistar sem hann hafði lofsungið í Fæðingu harmleiksins ellefu árum áður.
Friedrich Nietzsche:

 Ættfræði siðferðisins

20.

Eins og sagan kennir okkur þá leið vitundin um skuldsetningu gagnvart guðdómnum ekki undir lok með endalokum þess ættarsamfélags sem byggir á blóðböndum. Rétt eins og mannkynið hafði tekið hugtökin “gott” og “vont” í arf frá forfeðrum ættaraðalsins (ásamt með sálfræðilegri hneigð til félagslegrar aðgreiningar) þá fylgdi arfleifð hinna kynbundnu ættbálkaguða ánauð skuldsetningarinnar og löngunin til endurgreiðslu þeirra. Umskiptin fólust í yfirfærslu á hina fjölmennu stétt þræla og ánauðugra bænda sem hafa ýmist með þrýstingi eða kúgun og “eftirlíkingu” aðlagað sig að trúarbrögðum yfirsáta sinna. Þannig náðu þessar hneigðir að breiðast út um heiminn. Tilfinningin fyrir skuldsetningu gagnvart guðinum hefur bara vaxið í gegnum aldirnar samhliða því að hugmyndin um Guð hefur eflst og dafnað meðal þjóðanna. (Öll sagan um ættbálkaátök, sigra, sáttagjörðir og samlögun, sem eru undanfari stéttskiptingar á grundvelli kynblöndunar, öll þessi saga endurspeglar ættarsögu Guðanna sem birtist í átökum þeirra, styrjöldum og sáttagjörðum. Framsóknin til heimsveldisins samsvarar framsókninni til hinna alvöldu Guða, harðstjórnar þeirra og tilheyrandi undirokunar frá hendi sjálfstæðrar yfirstéttar eða aðals, nokkuð sem varðar leiðina til eingyðistrúar af einum eða öðrum meiði.) Tilkoma hins kristna Guðs sem hins æðsta Guðs síns tíma fól þannig í sér samsvarandi hámörkun sektarkenndarinnar. Að því gefnu að nú séum við á hnignunartímum er ekki ólíklegt að sektarkenndin dofni samfara því að stöðugt flæðir undan hinum kristna átrúnaði, þannig að við finnum nú þegar áþreifanlega veiklun tilfinningarinnar fyrir skuldsetningu. Reyndar getum við ekki lokað augum okkar fyrir möguleika endanlegs sigurs guðleysisins er muni jafnframt leysa mannkynið undan allri sektarkennd gagnvart uppruna sínum og gagnvart frumforsendu þess (causa prima). Guðleysið og eins konar “seinna sakleysi” eiga hér samleið.

Látum þetta nægja í bili sem bráðabirgða uppdrátt af myndinni af sambandi hugmyndanna um skuld og skuldbindingar og hinna trúarlegu róta þessa sambands. Af ásettu ráði hef ég heimfært þessa þróun upp á samtímann og þá siðferðilegu mynd sem hún hefur tekið á sig (þar sem skuldin og skyldan hafa verið endurvaktar í vitund okkar með því að flétta hinni slæmu samvisku saman við hugmyndina um Guð). Í síðustu setningunni hér á undan beitti ég tungumálinu til að gefa í skyn að þessi siðaboð væru ekki lengur gild og því myndi tilgátan um trúna á Guð sem “lánardrottinn” okkar óhjákvæmilega fjara út.

Raunverulegar aðstæður ganga hins vegar þvert gegn þessari kenningu. Með siðvæðingu hugmyndanna um “skuld” og “skyldu” og með þvingun þeirra inn í hina slæmu samvisku sjáum við fyrstu atlöguna að umsnúningi þeirrar þróunar sem við höfum nýlega lýst, eða í það minnsta stöðvun hennar. Það er einmitt á þessum vegamótum sem öll von um hugsanlega frelsun er nauðbeygð til að loka sig inni í fangaklefa bölsýninnar. Hér er augað þvingað til að horfa í örvæntingu fram hjá öllum ómögulegum  sælulausnum. Það er á þessum tímamótum sem hugtökin “skuld” og “skylda” þurfa að skipta um stefnu, en að hverjum beinast þessi hugtök nú?

Svarið liggur í augum uppi, þessi hugtök beinast nú að “skuldaranum” þar sem hin slæma samviska tekur sér bólfestu í huga hans, nærist, dafnar og breiðist út eins og kolkrabbi í breidd og lengd og með slíkum krafti að loks gerist það andspænis ómöguleikanum á endurgreiðslu skuldanna og í krafti hins óafturkræfa (og hugmyndarinnar um “eilífa refsingu”) þá snýst skuldarinn nú gegn  „lánadrottninum” -hvort sem hann er skilinn sem „frumorsök” mannsins (causa prima), frumglæðir mannkynsins, herra eða drottinn, hann verður héðan í frá sökudólgurinn sem merktur er bölvuninni (sem „Adam”, „erfðasyndin”, „viljaásetningurinn”) eða þá að Náttúran verður sökudólgurinn, þessi Náttúra sem maðurinn er fæddur af og sem telst nú vera ábyrg fyrir hinu illa (Djöflavæðing náttúrunnar), eða þá að óvinurinn verður tilveran sjálf í krafti rökvísi þess mjallhvíta fíls sem mannkynið er nú lent í faðmlögum við (lífsflótti tómhyggjunnar, krafan um tómið eða aðra tilveru, Búddismi og því um líkt). Að lokum stöndum við andspænis þessu þverstæðufulla og skelfilega fyrirbæri þar sem mannkynið hefur fundið sér stundarskjól, þessu snilldarbragði sem kallast Kristindómur: – Guð sem í eigin persónu tortímir sjálfum sér til þess að greiða fyrir skuldir mannanna, Guð sem staðgreiðir skuldir mannsins með pundi af eigin holdi. Guð sem sú eina vera er losar manninn undan því sem hann hafði reynst ófær um að greiða fyrir úr eigin vasa – lánardrottinn sem leikur fórnarlamb fyrir eigin skuldunaut í krafti ástar (-trúir þú því?), í krafti ástarinnar á hinum skulduga!…

22.

Lesandin mun þegar geta gert sér í hugarlund hvernig hin náttúrlega útrás átti sér stað í þessari leiksýningu, bæði á sviðinu og að tjaldabaki. Þessi vilji til sjálfspyntingar og þessi umsnúna grimmd mannskepnunnar sem hvarf hrædd og innhverf á vit innri sjálfsskoðunar. (Innilokuð eins og hún var í „Ríkinu“ sem hluta af tamningarferlinu). Maðurinn fann upp hina slæmu samvisku til að skaða sjálfan sig, innilokaður og knúinn af þessari náttúrlegu skaðahvöt sinni. Þessi maður hinnar slæmu samvisku notaði  trúarlega tilgátu til að fullnusta píslarvætti sitt og hefja það í æðsta veldi. Að standa í þakkarskuld við Guð. Þessi hugsun varð eftirlætis píslartól hans.  Í Guði skilur hann sterkustu andhverfuna sem hann getur fundið við eigin náttúru og sínar meðfæddu dýrslegu hvatir. Hann umtúlkar þessar dýrslegu hvatir eins og þær væru andstæða þess sem hann „skuldar“ Guði (eins og andspyrna, uppreisn gegn „Drottinvaldinu“, „Föðurnum“, „Herranum“, „Frumglæði heimsins“). Hann staðsetur sjálfan sig á milli tveggja andstæðna, á milli „Guðs“ og „Djöfulsins“. Sérhverju nei-i sem hann beinir gegn sjálfum sér, gegn eðlishneigð sinni, gegn raunveruleika eigin veru, umbreytir hann í „já“ sem hann stynur upp eins og einhverjum raunverulegum, lifandi og virkum veruleika, eins og það væri Guð, heilagleiki Guðs, eins og það væri dómsvald Drottins og böðulsverk, eins og handanveran, eins og eilífðin, eins og endalaus kvöl, eins og víti, eins og óendanleg refsing og sekt.

Þetta er eins konar geðveiki þess vilja sem í grimmd sinni á sér enga hliðstæðu í gjörvallri sálfræðinni: vilji mannsinns til að finna til sektar sinnar og smánar allt að mörkum hins ófyrirgefanlega, vilji hans til að hugsa sig sem hinn húðstríkta, jafnvel þótt refsingin geti aldrei jafnað skuldareikninginn. Það er viljinn til að eitra og sýkja undirstöður allra hluta með vandamálum refsingar og sektar, viljinn til að girða í eitt skipti fyrir öll fyrir allar útgönguleiðir þessa völundarhúss hinna „óhagganlegu  hugmynda“, viljinn til að hefja til vegs hugsjón – hugsjónina um „almáttugan Guð“ sem hann getur mælt smæð sína og vansæmd við.

Vei sé þessari vesælu og döpru mannskepnu! Hvaða órar hafa sest að í huga hennar, hvaða öfuguggaháttur, hvaða taugaveiklaða tilfinningaleysi og hvaða huglægi skepnuskapur hefur brotist út við minnstu prófraun hins virka skepnuskapar! Allt er þetta yfir máta áhugavert, en um leið litað svartri og myrkri melankólíu þannig að óhjákvæmilegt verður að setja  blátt bann við framlengt áhorf inn í þessa rökkurheima. Hér erum við að horfast í augu við ótvíræðan sjúkdóm, þann hræðilegasta sjúkdóm sem gert hefur vart við sig í mannheimum. Sá sem heyrn hefur  ætti að heyra hvernig angistaróp ástarinnar hafa hljómað í þessu vitskerta svartnætti, en menn snúa nú sínu daufa eyra gegn slíku ákalli um ást, maðurinn snýr sér undan, heltekinn óstöðvandi hryllingi, – maðurinn býr yfir svo mikilli illsku því heimurinn hefur of lengi líkst geðveikrahæli.

23.

Látum þetta duga í eitt skipti fyrir öll um uppruna hins „Heilaga Guðs“. Það er í sjálfu sér staðreynd málsins að hugmyndin um Guðina þarf ekki óhjákvæmanlega að leiða til þessarar örkumlunar ímyndunaraflsins (sem við fundum okkur knúin til að draga upp tímabundna mynd af). Það er staðreynd að til eru göfugri aðferðir við iðkun og nýtingu hugmyndarinnar um guðina en þessi sjálfs-krossfesting og sjálfs-niðurlæging mannsins sem Evrópubúar hafa iðkað svo meistaralega síðustu tvö árþúsundin; þessi staðreynd blasir við í hvert skipti sem við lítum til hinna grísku Guða, þessara spegilmynda mikilla og göfugra manna þar sem dýrið í manninum átti sér sína guðdómlegu mynd og tortímdi ekki sjálfu sér í niðurlægjandi æði sektarkenndarinnar. Þetta gríska fólk notaði Guði sína lengst af sem  stuðpúða gegn hinni „slæmu samvisku“ svo það mætti halda áfram að njóta áunnins frelsis sálarinnar. Þetta var auðvitað fullkomin andstæða hinnar kristnu hugmyndar um Guð. Þeir gengu mjög langt í að framfylgja þessari reglu með myndinni af börnunum með ljónshjartað, og það er enginn annar en hinn hómerski Seifur sem gerir þetta fólk stundum meðvituð um að það sé að taka lífinu of kæruleysislega. „Furðulegt“ segir hann á einum stað, – og á þar við söguna um örlög Ægistusar, sem vissulega er afar slæmt fordæmi – „Furðulegt hvað hinir dauðlegu eru kvartsárir gagnvart okkur hinum ódauðlegu. Þeir telja að allt hið illa sé frá okkur komið þegar um er að ræða þeirra eigin örlagabundnu sjálfskaparvíti, tilkomin af vanþekkingu.“

Engu að síður mun lesandinn taka eftir að þessi olympíski áhorfandi og dómari er alls ekki reiður eða illa hugsandi í þeirra garð af þessum sökum. „Hvílík er ekki heimska þeirra!“ hugsar hann þegar misgjörðir mannanna ber á góma. Jafnvel á sínum hetjufyllstu og stórbrotnustu tímum eru orðin sem Grikkir notuðu um nokkrar afdrifaríkustu og skelfilegustu misgjörðir mannanna orð eins og „brjálæði“, „afglapaháttur“ og „geðtruflanir“ – vitskerðing en ekki synd, er það skilið?…

En jafnvel þessar „geðtruflanir“ voru vandamál: „já, hvernig gátu þær átt sér stað? Hvaðan gátu þær eiginlega hafa ratað inn í okkar hausa, okkar sem eigum okkur göfugan uppruna úr ríki hamingju og velsældar, samfélagi göfuglyndis og dyggða?“

Þetta voru setningarnar sem hin gríska yfirstétt (aristokratía) spurði sjálfa sig öldum saman þegar hún stóð frammi fyrir hverju því ódæðisverki og villimennsku sem einhver meðbræðra þeirra hafði saurgað sig á – og voru í þeirra augum óskiljanleg. „það hlýtur að vera að einhver Guðinn hafi villt þeim sýn“ yrði lokasvar Grikkjans, um leið og hann lyti höfði.  -Skýring eins og þessi er dæmigerð fyrir Grikki… og samkvæmt því þá voru það Guðir þessara tíma sem gegndu því hlutverki að réttlæta gjörðir mannanna að vissu marki, jafnvel í hinu illa.  Á þessum tímum tóku Guðirnir ekki  á sig refsinguna, heldur það sem var enn göfugmannlegra, það er að segja sökina.

24.

Ég lýk þessu með þrem spurningum sem þið munið sjá. „Er það göfugt fordæmi sem hér hefur verið hafið til vegs, eða er um niðurrif að ræða?“ -þannig mætti ef til vill spyrja mig… En hafið þið sjálf spurt ykkur þeirrar spurningar nægilega vel, hversu dýru verði sérhver upphafning hinnar göfugu hugsjónar hafi verið keypt í sögunnar rás? Hversu miklum sannleika hefur verið sópað undir teppið í slíkum tilgangi, hversu margar lygar gerðar heilagar, hversu margar sálir afvegaleiddar, hversu mörgum „Guðum“ hafi verið fórnað við sérhverja upphafningu?

Að stofnsetja nýjan helgidóm kallar ávallt á eyðingu annars, það er einfalt lögmál. Nefnið dæmi þar sem slíkt hefur ekki gerst!… Við nútímafólk, við erum arftakar árþúsunda hefðar í limlestingum vitundarinnar og þess hluta okkar sem tilheyrir dýraríkinu. Ekkert jafnast á við þjálfun okkar og hæfileika á þessu sviði, nokkuð sem kannski hefur mótað listrænan smekk okkar umfram annað, að minnsta kosti þann fágaðasta og háþróaðasta. Maðurinn hefur allt of lengi litið náttúrlegar hneigðir sínar  „illu auga“, þannig að þær hafa blandast hinni „slæmu samvisku“.

Umsnúningur hvað þetta varðar væri í sjálfu sér mögulegur, en hver hefur þrek og styrk til slíks?  Umsnúningur á samþættingu hinnar slæmu samvisku og þessara ónáttúrlegu hneigða, á samþættingu allra þessara væntinga um handanveru, allra þessara afneitana hins skynjanlega, hins hvatvísa, hins náttúrlega,  hins dýrslega, umsnúningur á samþættingu allra þessara höfuðdyggða sem hingað til hafa verið í hávegum hafðar, allra þessara lífsfjandsamlegu höfuðdyggða og allrar þessara höfnunar hins veraldlega sem bundið er hinni slæmu samvisku.

Til hvers getum við leitað á okkar dögum með slíkar væntingar? Í þeirri leit myndum við fyrst mæta hinum góðu manneskjum. Þar við bættust ef að líkum lætur hinir auðsveipu, hinir sáttfúsu, elítan, hinir smjaðurfúsu, hinir þreyttu…. Hvað er aumkunarverðara og um leið útsmognara en að gefa í skyn minnstu vísbendingu um strangleika og upphafningu gagnvart sjálfum sér? Og hvílíka sáttfýsi og hvílíkt ástríki sýnir heimurinn okkur ekki þegar við „látum til leiðast“ og gerum það sama og allur heimurinn?…

Til að ná þessu marki (þessum umsnúningi) þurfum við sálir af annarri gerð en þær sem líklegar eru til að verða á vegi okkar á þessum síðustu tímum: sálir sem eru hertar í gegnum styrjaldir og sigra, sálir sem lifa fyrir þörfina á ævintýrum, hættum, ávinningi og sársauka, sálir sem hafa vanist fjallaloftinu, vetrarveðrunum, ísnum og hálendinu í öllum sínum myndum – að viðbættri vissri tegund af háleitri illkvittni, og því sjálfsmeðvitaða hugrekki sem tilheyrir góðri heilsu, í stuttu máli einmitt þessi góða heilsa!… Er hún möguleg á þessari stundu, nú á okkar tímum?

En dag nokkurn á tímum sem eru kraftmeiri en þessi rotni og vílsami samtími okkar býður upp á, þá mun hin frelsandi maður hinnar miklu ástar og hinnar miklu fyrirlitningar birtast, þessi skapandi andi: innblásinn af eigin sálarkrafti mun hann koma aftur, laus úr viðjum allrar handanveru og laus úr allri þeirri einsemd sem fólkið hafði misskilið sem flótta frá veruleikanum – þar sem einungis er um að ræða djúpköfun í veruleikann, það að vera grafinn í veruleikanum til þess að rísa upp frá honum til ljóssins til að frelsa hann: frelsa veruleikann undan fordæmingunni sem hugsjónir hins liðna höfðu lagt yfir hann.  Þessi mannvera komandi tíma mun leysa okkur undan oki gamals hugmyndaheims eins og hún mun losa okkur við þessa ógleði, við þennan vilja til tómsins, losa okkur við sjálfa tómhyggjuna. Hann mun birtast við klukknahljóm hádegisstundarinnar og þeirrar miklu ákvörðunar sem endurleysir hinn frjálsa vilja, sem endurfærir jörðinni markmið sín og mannfólkinu vonir sínar, þessi And-Kristur og þessi And-tómhyggjusinni, þessi sigurvegari Guðsins og tómsins – einn góðan veðurdag mun hann birtast.

Forsíðumyndin er ljósmynd frá iðrunargöngu hinna syndugu þar sem þeir fylgja Kristi til grafar á föstudaginn langa í borginni Enna á Sikiley. Myndina tók ég við þetta minnisstæða tækifæri fyrir nokkrum árum.

NÝPLATONISMINN Í FLÓRENS

Sandro Botticelli: Fæðing Venusar, Flórens  1485-86

 

Námsefni fyrir Listaháskólann

Marsilio Ficino og platónsk guðfræði hans

 

Endursögn á kafla úr bók Erwins Panofsky: „Renaissance and Renascences in Western Art“ frá 1965, bls 182 – 188
Erwin Panofsky var meðal áhrifamestu listfræðinga um miðbik síðustu aldar í Evrópu. Sérsvið hans var endurreisnartíminn. Eftirfarandi brot úr frægri bók hans um endurreisnartímann fjallar um enduruppgötvun Marsilio Ficino og annarra fræðimanna í Flórens á 15. öld á heimspeki Platons og tilraun þeirra til að samræma hana heimsmynd kirkjunnar og hinnar kristnu guðfræði. Nýplatónistarnir í Flórens skildu Eros sem guðdómlega orku er kæmi frá guði og göfgaði efnisheiminn. Það var verkefni listamanna og heimspekinga að endursenda hina guðdómlegu orku til baka til Guðs og magna þannig og göfga efnisheiminn. Panofsky skrifar út frá vísindalegri reynsluhyggju 20. aldarinnar, og túlkar nýplatonismann út frá þeim skilningi. Greining hans er áhugaverð til skilnings á myndlist 15. og 16. aldar.

Greinin er þýdd úr útgáfu Paladin á bók Erwins Panofsky: Renaissance and Renascences in Western Art, London 1965, bls. 182-185.

Á meðan endurvakinn áhugi Endurreisnarinnar á þróunarhugmyndum Vitruvíusar (rómv. arkitekt frá 1. öld f.Kr) og Lúkretíusar (rómv. skáld frá 1. öld f. kr., höf. ljóðabálks um náttúrufræði: De Natura Rerum) beindist að því að færa heim hugmyndanna (þ.á.m. hugmyndina um fornöldina) niður á jörðina, varð til önnur heimspeki er byggði á allt öðrum grunni, sem stefndi að því að tengja hinn jarðneska heim (þar með talda fornöldina) við himnaríki. Hér er um að ræða nýplatónska kerfið (sem réttara væri að kalla ný-nýplatónskt til aðgreiningar frá hugmyndum Plótínusar hins gríska), sem sett var fram af Marsilio Ficino (1433-1499), sem kallaði sig „platónskan heimspeking, guðfræðing og lækni“, en hugmyndir hans náðu gífurlegri útbreiðslu síðustu tvo áratugina sem hann lifði, þannig að við andlát hans höfðu hugmyndir hans lagt gjörvalla Evrópu að fótum sér (með mismunandi staðbundnum breytingum og aðlögun), þannig að þær áttu eftir að hafa mótandi áhrif á alla evrópska menningu öldum saman.

Það sem gerði nýplatónsku hreyfinguna svo ómótstæðilega fyrir andans menn endurreisnarinnar, hvort sem þeir fengust við guðfræði, húmanisma, náttúruheimspeki eða ástunduðu einfaldlega hirðlíf og samkvæmislíf menntamanna og heldra fólks, er einmitt það sama og veldur ógleði meðal nútímafræðimanna á sviði vísindasögu og heimspekisögu.

Á meðan sagnfræðingar heimspekinnar vilja takmarka hana við það að greina þekkinguna á hinu þekkjanlega og sagnfræðingar vísindanna vilja takmarka sig við stærðfræðilega greiningu á tilraunaniðurstöðum, þá leitaðist nýplatónisminn við að afnema öll þau skilrúm sem héldu fyrirbærunum aðskildum -en jafnframt í reglu- á miðöldum, en þeir Galileo, Descartes og Newton áttu síðan eftir að endurreisa þessi skilrúm.

Með nýplatónismanum voru allir skilveggir rifnir niður í þeim tilgangi að ekki bara sætta, heldur bræða saman, kenningar Platóns (og kenningar honum eignaðar) og kristnar kennisetningar. (Meginverk Ficinos hét einmitt „Theologia Platonica“, og slíkur titill hefði verið óhugsandi á miðöldum).

Markmið Ficinos var jafnframt að sýna fram á að öll opinberun væri í eðli sínu af einum og sama toga, og að líf mannsins og alheimsins lyti einni og sömu „andlegu hringrásinni“ (circulus spiritualis) er leiði frá Guði til heimsins og frá heiminum til Guðs.

Fyrir Ficino var Platón ekki bara grískumælandi Attíkumaður, heldur líka arftaki visku Orfeusar, Hermesar Trismegistusar, Zoroasters og vitringa forn-Egyptalands.

Fyrir nýplatónistunum var alheimurinn „heilög skepna“ sem þáði líf sitt og einingu frá utanaðkomandi krafti er „stafaði frá Guði, leiddi í gegnum himnana og birtist síðan í efnisheiminum“. Smáheimurinn (míkrókosmos), þar með talinn maðurinn, lýtur sömu lögmálum og Alheimurinn (makrókosmos). Míkrókosmos (manninum) má lýsa sem kerfi þriggja stigbundinna eiginda, sem eru hugur (mens), sál (anima), náttúra (natura), og líkami (corpus), það er að segja „efni sem er upphafið af forminu“.

Bæði þessi fyrirbæri, maðurinn og alheimurinn, eru þannig uppbyggð að ófullkomnari stig þeirra standa mitt á milli hins æðsta og lægsta. Hin „ósegjanlega eining“ (eða Guð) er ódeilanleg, traust og óflekkanleg. Næsta stig undir honum, mens, (hugurinn) er traustur, óflekkanlegur en margbrotinn, þar sem hann felur í sér þau stig sem undir hann eru sett. Næsta stigið, anima, (sálin) er óflekkanleg en ekki lengur traust. Þar sem hún starfar af sjálfsprottnum hvötum þá er hún heimur hreinna orsaka fremur en hreinna forma. Sálin felur í sér tvo helminga: æðri eða efri hlutann, sem er skynsemin, og óæðri eða neðri hlutann, sem er innri og ytri skynjun ásamt með getu til næringar, vaxtar og æxlunar.

Maðurinn á því mens (huga sinn) sameiginlega með hinum guðdómlega huga, en óæðri hluta sálar sinnar deilir hann hins vegar með dýrunum. Æðri hluta sálarinnar, skynsemina, á hann hins vegar einn allra fyrirbæra í alheimi. Hugurinn (mens) er vettvangur hreinnar ómeðvitaðrar hugsunar eða hugleiðslu, sem veitir fullkomna innsýn og hugljómun, en er ófær um að starfa. „Skynsemin“ felur hins vegar í sér það sem kallað er „lögmál virkninnar“: hún er ófær um að öðlast fullkomna innsýn, en  fær um að miðla „gæðum vitundarinnar“ bæði til „virkni hinnar hreinu hugsunar“ og „reynsluheimsins“.

Í þessum undarlega heimi nýplatónisma endurreisnarinnar eru öll skilrúm sem heimspeki miðalda hafði stuðst við, þurrkuð út, og þetta á ekki síst við um skilrúmið á milli hugtakanna ást og fegurð, meginpólanna sem hugmyndakerfi Ficinos snýst um.

Sá skilningur á ástinni, að hún sé frumspekileg (metafysísk) reynsla, sem beinist að „hæstu hæðum“ himnanna, hafði varðveist í gegnum miðaldir í tveim ólíkum myndum:

Með hugmyndinni um kristilegan kærleika (caritas) hafði kærleikurinn verið greindur frá huglægri ásthneigð. Og með hugmyndinni um „ástleitni út yfir skil þessa heims“ (trancendent eroticism), sem var algjörlega framandi grískum hugmyndaheimi, en hafði borist með íslam frá austurlöndum um Spán og Provence (og náði hæst í s.k. „dolce stil nuovo“ hjá Dante) hafði ástin verið fullkomlega aðgreind frá þeim hlutlægu öflum sem eru að verki í efnisheiminum.

Á sama hátt hafði sú hugmynd Platóns, að hið góða og fagra væru af einum og sama toganum og sú hugmynd Plótíníusar að fegurð væri „útgeislun guðdómlegrar birtu“ og „orsök samræmis og útgeislunar allra hluta“, verið mönnum kunnar í gegnum allar miðaldir. En heilagur Tómas frá Aquinas (1225-1274) hafði ekki bara afneitað þessum skilgreiningum, heldur dregið skörp skil á milli hins fagra og góða, og þannig aðskilið fagurfræðilega reynslu frá frumspekilegum (metafysískum) uppruna sínum, ástinni.

Samkvæmt heilögum Tómasi voru meginforsendur fegurðar þrjár:

Í fyrsta lagi eining eða heild (integritas), því það sem er ekki heilt er óhjákvæmilega ljótt.

Í öðru lagi krefst fegurðin samræmdra hlutfalla eða samhljóms (proportio sive consonantia).

Og í þriðja lagi krefst fegurðin skýrleika (claritas), því það sem beri ljómandi lit sé fagurt.

Síðan segir heilagur Tómas að „hið góða höfði til löngunarinnar, því allir menn leita eftir gæsku,…fegurðin höfðar hins vegar til þekkingarinnar, því við köllum það fagurt sem vekur ánægju þegar við lítum það augum.“ (Tilv. úr Summa Theologiae).

Þegar Ficino skilgreindi fegurðina sem „útgeislun ásjónu Guðs“, þá endurheimti hún þann frumspekilega dýrðarljóma, sem heilagur Tómas hafði svipt hana (en fyrir honum var claritas ekki annað en „ljómandi litur“). En Ficino þótti ekki nóg að gert að sameina það sem heilagur Tómas hafði aðskilið (hið fagra og hið góða), hann lagði  fegurðina ekki bara að jöfnu við ástina, heldur líka við hina æðstu sælu eða blessun (beatitude):

„Einn og sami hringurin  getur kallast fegurð að svo miklu leyti sem hann á upptök sín í Guði og stefnir á hann, hann getur kallast ást að, svo miklu leyti sem hann liggur í gegnum heiminn og gagntekur hann, og æðsta sæla eða blessun að svo miklu leyti sem hann snýr aftur til skaparans“. (Tilvitnun úr Circuitus spiritualis).

Á leið sinni til jarðarinnar brotnar þessi „dýrð hinnar guðdómlegu gæsku“ upp í jafn marga geisla og himinhvolfin og höfuðskepnurnar (elementin) eru mörg. Þetta er skýringin á margbreytileik og ófullkomnun heimsins, því andstætt „hreinum formum“ þá eru líkamlegir hlutir og fyrirbæri „mengaðir“ af efnisheiminum og þar með „bæklaðir, vanhæfir og bundnir ótal ástríðum og hneigðir til innbyrðis átaka“.

En þessi „dýrð hinnar guðdómlegu gæsku“ liggur einnig til grundvallar einingu heimsins og göfgi, því þessi kraftbirting að ofan, sem afmarkar alla veraldlega hluti, heldur þeim í stöðugu sambandi við Guð í gegnum „alheimsandann“ (spiritus mundanus). Hlutirnir eiga sér þannig sína hlutdeild í yfirnáttúrulegu afli sem virkar jafnt að neðan og upp á við sem að ofan og niður á við, allt eftir þeim leiðum sem hinir guðdómlegu straumar (influxus) liggja.

Þar sem sérhver mannvera, dýr eða jurt, virkar þannig sem móttakandi umbreyttrar guðdómlegrar orku, þá getum við auðveldlega séð það að ástin er ávalt ávöxtur fegurðarinnar (nema þegar um hreina líkamlega ástríðu er að ræða, amor ferinus (dýrslega ást), sem talin var sjúklegs eðlis), en fegurðin samkvæm eðli sínu og skilgreiningu kallar aftur „sálina til Guðs“. Síðan er um stigsmun frekar en eðlismun að ræða, hvort þessi ást tekur á sig þá mynd sem kölluð var amor humanus, sem var uppspretta fegurðar og nautnar fyrir skilningarvitin, eða amor divinus, sem hefur sig upp yfir sjónræna og hljómræna skynjun upp í hugljómun sem ýfirstigur ekki bara skynjunina heldur líka rökhugsunina.

Í hugmyndakerfi nýplatónismans sjáum við líka að engin grundvallarmunur er gerður á læknisfræði, göldrum og stjörnuspeki (ef frá eru taldir svartigaldur og djöflatrú). Við sérhvert athæfi mannsins, hvort sem hann er á gönguferð á tiltekinni dagsstund, er að hlusta á tiltekinn lagstúf, snæða tiltekinn mat, anda að sér ilmi frá tilteknu ilmefni eða taka inn tiltekið lyf, þá gerir hann í eðli sínu það sama og þegar hann ber á sér tiltekinn verndargrip sem þykir viðeigandi við sérstaka athöfn og hefur að geyma ákveðna efniseiginleika og ígreipt tilheyrandi stjörnumerki: í öllum tilfellum er hann að gera sig móttækilegan fyrir „kosmískum anda“ sem hefur aðlagast/umbreyst á ferð sinni í gegnum himinhvolfin og höfuðskepnurnar (jörð, vatn, loft og eld).

Ef lyfskammtur frá lækninum inniheldur til dæmis piparmyntu, þá hefur þessi algenga jurt öðlast lækningarmátt sinn með því að drekka í sig „anda sólarinnar í blöndu við anda Júpiters“. Á sama hátt geta aðrar jurtir eða steinar verið eitruð vegna þess að þau hafa að geyma uppsafnaða illverkandi orku frá Satúrnusi eða Mars.

Á sama hátt sjáum við líka að kennisetning Ficinos gerir engan grundvallarmun á sannleiksgildi kristinna og heiðinna heimilda. Þar sem öll opinberun er í grundvallar atriðum af sama toga eins og efnisheimurinn, þá verður heiðin goðsögn frekar uppspretta trúarlegs sannleika en dæmisaga. Það sem hinn „réttsýni Júpíter“ kenndi Pýþagórasi eða Platón er ekki minna um vert en það sem Jehóva opinberaði gyðinglegum spámönnum.

Ein ástæða þess að Móses ákvað að fyrirskipa hvíldardaginn er sú staðreynd, sem honum var vel kunn, að laugardagurinn (dagur Satúrnusar, Saturday), er „óhæfur til hvers konar verknaðar, borgaralegs eða hernaðarlegs, en vel fallinn til hugleiðslu.“ (Tilv. í Ficino: De vita triplici)….

Á öðrum stað segir Ficino að „allir himnarnir séu innra með okkur“ og að „í okkur tákni Máninn stöðuga hreyfingu hugar og líkama, Mars tákni hraða, Satúrnus hægagang, Merkúr rökvísi og Venus „humanitas“ eða hið mannlega. Og í goðsögulegu/stjörnuspekilegu ljóði eftir einn af fylgjendum Ficinos segir skáldið frá því þegar hann kemur í „þriðja himinhvolfið“ þar sem hann ákallar þann sem ríkir á þessu hveli, Venus, um leið og Jómfrú Maríu, og heilsar þessari heilögu móður guðanna (sancta Dei genetrix) sem „gyðju gyðjanna“ (diva deorum), sem hann hefði oft dirfst að ávarpa í fyrri verkum sínum undir dulnefni sjálfrar Venusar.

Það er engin furða að kenningasmíð á borð við þessa, sem gerði húmanistanum kleift að sættast við guðfræðina, vísindamanninum við frumspekina, siðapostulanum við breiskleika mannkyns og sem gerði veraldlega sinnuðum körlum og konum kleift að sættast við „huglæga hluti“, næði vinsældum sem einungis eru sambærilegar við vinsældir sálgreiningarinnar á okkar dögum.

Nýplatónisminn hafði mótandi áhrif á Erasmus frá Rotterdam (Lofræða um heimskuna endar á nýplatónskri athugasemd), Kepler, Giordano Bruno og marga fleiri og hafði mikil áhrif á alla umræðu um bókmenntir og fagurfræði og hún hafði ekki síst áhrif á samræðulist um ástina sem komst í tísku ekki síst á N-Ítalíu, þar sem konur var að finna í áhrifastöðum.

Dýpstu áhrif nýplatónskrar lífsskoðunar er hins vegar að finna í ljóðlist (Girolamo Benivieni, Tasso, Joachim du Bellay, Spenser, Donne, Shaftesbury, Goethe og Keats) -og í myndlist.

Aldrei fyrr hafði kenning Platóns um „guðdómlegt æði“ verið brædd saman við þá skoðun Aristótelesar að allir framúrskarandi menn væru melankólskir og þástjörnuspeki að sérstakt samband væri á milli þunglyndis eða humor melancholicus og Satúrnusar, þeirrar af reikistjörnunum sjö sem var bæði göfugust og hæst en jafnframt skaðvænlegust. Af þessu sambandi bjuggu menn til hugtakið satúrnískur snillingur, sem gekk sinn einmana og háskafulla stíg hátt yfir fjöldann hafinn í krafti sköpunargáfu sinnar undir guðdómlegri hugljómun.

Það hafði ekki gerst í manna minnum, að málurum og myndhöggvurum væri fært það prestlega verkefni að búa til „handleiðslu“ (manuductio) er gerði mannshuganum kleift að rísa upp „í gegnum alla hluti til þeirrar orsakar allra hluta sem skapar þeim stað og reglu, tölu, tegund og gerð, sem veitir þeim gæsku, fegurð og kjarna og alla aðra eiginleika og dyggðir“ (tilvitnun í Johannes Eriugena: De caelesti hierarchia). Og jafnvel Suger frá St-Denis, sem vildi yfirfæra frumspekilegar trúarlegar hugmyndir yfir í manngerða hluti gat aldrei látið sér til hugar koma heimspeki sem þurrkaði út öll mörk á milli hins heilaga og veraldlega eins og Ficino gerði, eða svo gripið sé til snjallrar framsetningar Ernst Gombrich, sem orðaði það þannig að nýplatónismanum hafi tekist „að opna tilfinningasvið fyrir veraldlega list, sem hingað til höfðu einungis tilheyrt trúarlegri tilbeiðslu“.

Athanasius Kircher: Ars Magna Luces, 1646. Orkustreymi guðdómlegrar orku frá Guði til efnisheimsins og til baka til Guðs samkvæmt nýlatónskum hugmyndum

Forsíðumyndin sýnir „Anima Mundi“ eða Alheimssálina samkvæmt heimsmynd nýplatónista, myndin gerð af Matthaus Merian og Robert Fludd 1617

NÆTURLJÓÐ

NÆTURSÖNGUR HIRÐINGJANS EFTIR LEOPARDI
Eg birti hér þýðingu mína á ljóði eftir ítalska ljóðskáldið og heimspekinginn Giacomo Leopardi (1798-1837). Ljóðið skrifaði Leopardi árið 1830. 
Atlaga að þessari þýðingu var upphaflega gerð fyrir allmörgum árum af einhverri innri nauðsyn sem stundum hellist yfir okkur þegar við lesum erlendan texta sem hrópar á íslenskan skilning, þó slíkt sé að sjálfsögðu aldrei hægt, þegar um ljóðlist er að ræða. En einhvern veginn fannst mér ég hafa þörf fyrir að heyra ljóðið á íslensku til þess að staðfesta með einhverjum hætti að ég hefði skilið það.
 
Þetta er heimspekilegt ljóð sem endurspeglar bölsýni þess sem upplifir framandleika mannsins gagnvart náttúrunni og miskunnarlausri framvindu tímans. Ljóð sem á ýmislegt sameiginlegt með frægri ritsmíð Leopardis um "Samtal Íslendingsins og Náttúrunnar", sem ég þýddi einhvern tíman í kringum 1970 og birtist í öðru hefti Tímarits Máls og menningar 1971 (sjá:https://timarit.is/page/6285978?iabr=on#page/n99/mode/2up/search/T%C3%ADmarit%20M%C3%A1ls%20og%20menningar%201971).
 
Þetta ljóð er eins og samtalið, harmsögulegt ákall um örlög mannlegrar tilveru, þar sem skáldið talar fyrir munn hirðingjans frá Asíu sem verður eins og táknmynd fyrir manninn og mannleg örlög almennt. 
Það mætti hafa mörg orð um þetta ljóð, merkingu þess,táknmál og tónlist, en hljómfall ljóðlistar er eitt af því sem aldrei verður flutt á milli tungumála.
 
Ljóðið er lausrímað og í tiltölulega frjálsu formi, en sérhvert erindi endar á endingunni -ale (eins og í mortale (dauðlegur) og natale (jól)). Ekki kunni ég slíkan galdur og lít ekki á þessa þýðingu sem annað en tilraun til endursagnar.
 
Tilgangurinn með birtingunni er hins vegar annar, og tengist vangaveltum um tímann og söguna, sem ég ætla að birta hér á vefnum, meðal annars með þýðingu á kaflabroti úr bók Friedrich Nietzsche "Um nytsemd og skaðsemi sögunnar fyrir lífið", en ýmislegt bendir til að Nietzshe hafi verið undir áhrifum frá Leopardi og þessu ljóði hans, þegar hann skrifaði þennan texta. Meira um það þegar ég birti kaflabrot Nietzsche. 
En þar sem þetta ljóð er ekki bara harmasöngur hiðingjans frá Asíu, heldur líka áhrifamikið tónverk tungumálsins sem íslenskan nær aldrei að endursegja, þá vísa ég hér í upplestur ítalska leikarans Carmelo Bene á þessu ljóði á frummálinu, þar sem tónlistin og takturinn fá að njóta sín. Upplesturinn má finna á þessari vefslóð: https://youtu.be/y7PaXzp2Zh8?list=RDy7PaXzp2Zh8
Frumtextinn er birtur í lok íslenska textans.
Forsíðumynmdin er málverk af Leopardi eftir A. Ferrazzi
Erfið þýðing lokaorða kvæðisins var endurskoðuð í nóvember 2020.
Giacomo Leopardi:

Næturljóð villuráfandi hirðisins í Asíu

 

Hvað hefur þú fyrir stafni, tungl á himni, segðu mér

hvert er erindi þitt,  þögla tungl?

Þú kemur upp að kveldi, og ferð

hugleiðandi auðnirnar, og sest til hvílu.

Finnur þú engin þreytumerki

á þessu endalausa hringsóli?

Finnurðu ekki til leiðans, ertu enn óðfúst

að upplifa þessa dali?

Tilvera þín líkist

lífi fjárhirðisins.

Hann fer á fætur við sólarupprás

rekur hjörð sína yfir engið, og sér

hjarðir, uppsprettulindir og grös;

þreyttur hallar hann sér inn í kvöldhúmið

og óskar sér einskis meir.

Segðu mér tungl: hvers virði

er hirðingjans líf honum sjálfum?

Eða lífið fyrir þig? Segðu mér: hvar

samtvinnast þetta stutta lífshlaup mitt

þinni ódauðlegu hringrás?

 

Nábleikur og sjúkur gamlingi

hálfklæddur og skólaus,

með þungan bagga á herðum

æðandi yfir fjöll, yfir dali,

yfir urðir, eyðisanda og klungur,

gegn veðri og  vindum

og þegar stundin brennur

og þegar hún frýs,

blásandi æðir hann áfram

yfir straumþungar ár og forir,

sest og rís óðfluga aftur

án minnstu hvíldar né næðis.

Blóðrisa og sár nær hann loksins

endastöðinni þangað

sem öllu erfiðinu var stefnt:

ómæld hyldýpisskelfing

þar sem hann hverfur í algleymi tímans,

þannig, ó,  hreinlífa tungl,

er ævi dauðlegra manna.

 

Maðurinn fæðist með herkjum

og sérhver fæðing er lífshættan sjálf.

Fyrsta reynslan  er sársaukinn

og fyrsta verk föður og móður

eru huggunaratlotin blíðu

fyrir að fæðast í heiminn.

Eftir sem árin líða

hvetja þau hann og styðja

í orði og verki, veita hugrekki.

Hughreysting og styrkur

andspænis örlögum mannsins

er þakklátasta foreldragjöfin.

En hvers vegna að bera út í ljósið,

hvers vegna viðhalda  lífi

þess sem slíkrar huggunar þarfnast?

Ef lífið er ógæfa og böl

hví ber okkur að una þessari dvöl?

Ó, fölskvalausa tungl,

þannig er dauðlegra kvöl.

En þú ert ekki dauðlegt,

og kannski varða kvartanir mínar þig engu.

 

En þú sem ert eilífur pílagrímur

einmana og hugsandi, kannski þú skiljir

þetta jarðneska líf,

þjáningu okkar og andvörp,

þennan nábleika vanga

andspænis dauðanum,

að hverfa af yfirborði jarðar,

að slíta tengslin við sérhvern sið og vinabönd.

Þú hlýtur að skilja

forsendur hlutanna og sjá

ávexti morgunsins og kvöldsins

og linnulausa hrynjandi tímans.

Þú hlýtur að vita

að hvaða ástvini beinist

hið glaðværa bros vorsins,

hver skuli njóta ástríðuhitans

og hverjum gagnist vetrarkuldinn.

Þú veist og afhjúpar þúsund hluti

sem eru einföldum hirðingja á huldu.

Oft þegar ég virði þig fyrir mér

svo þögult á eyðimerkurför þinni,

í órafjarlægð við sjóndeildarhringinn

eða þar sem þú fylgir mér

hönd í hönd og hjörðinni á róli;

og þegar ég horfi til lýsandi stjarnanna

á himninum, segi ég hugsandi við sjálfan mig:

Hvers vegna öll þessi ljósadýrð?

Hvað gerir óendanlegt himinhvolfið

og þessi óendanlega heiðríkja?

Hvað vill þessi ómælanlega einsemd segja okkur?  og hvað er ég?

Þannig hugsa ég með sjálfum mér:

um þessa stórbrotnu vistarveru ómælanleikans

og allar stjörnuþokurnar,

um allan manngrúann og  alla vinnuna og allar tilfærslurnar

á sérhverjum himnakroppi og sérhverri jarðarveru

sem hringsnúast linnulaust og án hvíldar

til að hverfa alltaf til upphafsins.

Sumir gagnast mér, sumra nýt ég,

en ráðgátan er mér hulin.

En þú, ódauðlega ungmey,

þú þekkir allt.

það eitt veit ég og finn

að þó þetta eilífa hringsól

og mín veikburða tilvera

kunni að vera uppspretta unaðar

eða til góðs fyrir aðra; þá er lífið mér böl.

 

Ó, sauðahjörðin mín sem hvílist, ó þú sæla,

óvitandi um eymd þína, að ég held!

Hversu ég öfunda þig!

Ekki bara vegna þess að þú virðist

nánast laus við allt strit;

að þú skulir umsvifalaust gleyma sérhverjum áverka

öllum skaða og allri skelfingu;

en mesta öfundin er

að þú skulir ekki þekkja  leiðann.

Þegar þú leggst í skuggann á grasið

ertu sæl og hljóð;

og stóran hluta ársins

liggur þú þannig á jórtri.

Þegar ég sit hins vegar í skugganum og grasinu

hellist tregi yfir huga minn

og angrið stingur mig næstum

já, sitjandi er ég langt því frá

að finna mér hvídarstað.

Þó finn ég enga löngun

og hef til þessa ekki fundið ástæðu til að gráta.

Nautnir þínar kann ég ekki að nefna

en lukkan er með þér

á meðan ég hef lítils að njóta,

ó, hjörðin mín, en þetta er ekki eina kvörtunarefnið.

Ef þú hefðir mál, þá myndi ég spyrja:

Segðu mér: hvers vegna sérhverri skepnu er lagið

liggjandi í leti að njóta

á meðan leiðinn heltekur mig hvílandi í skjóli mínu?

 

Kannski, ef hefði ég vængi

til að fljúga yfir skýin

og telja stjörnurnar, eina í senn,

eða æða með storminum tind af tindi,

kannski yrði ég sælli, kæra hjörðin mín,

þá yrði ég sælli, bjarta tungl.

Eða kannski er hugsun mín

horfandi á annarra örlög

vaðandi í villu:

Kannski skiptir ekki máli

hver svo sem umgjörðin er

í skútanum eða jötunni,

hún boðar feigð  þess sem fæðist á jólum.

 

 

 

CANTO NOTTURNO DI UN PASTORE ERRANTE DELL’ASIA

Di Giacomo Leopardi

 

Che fai tu, luna, in ciel? dimmi, che fai,

Silenziosa luna?

Sorgi la sera, e vai,

Contemplando i deserti; indi ti posi.

Ancor non sei tu paga

Di riandare i sempiterni calli?

Ancor non prendi a schivo, ancor sei vaga

Di mirar queste valli?

Somiglia alla tua vita

La vita del pastore.

Sorge in sul primo albore

Move la greggia oltre pel campo, e vede

Greggi, fontane ed erbe;

Poi stanco si riposa in su la sera:

Altro mai non ispera.

Dimmi, o luna: a che vale

Al pastor la sua vita,

La vostra vita a voi? dimmi: ove tende

Questo vagar mio breve,

Il tuo corso immortale?

 

Vecchierel bianco, infermo,

Mezzo vestito e scalzo,

Con gravissimo fascio in su le spalle,

Per montagna e per valle,

Per sassi acuti, ed alta rena, e fratte,

Al vento, alla tempesta, e quando avvampa

L’ora, e quando poi gela,

Corre via, corre, anela,

Varca torrenti e stagni,

Cade, risorge, e più e più s’affretta,

Senza posa o ristoro,

Lacero, sanguinoso; infin ch’arriva

Colà dove la via

E dove il tanto affaticar fu volto:

Abisso orrido, immenso,

Ov’ei precipitando, il tutto obblia.

Vergine luna, tale

E’ la vita mortale.

 

Nasce l’uomo a fatica,

Ed è rischio di morte il nascimento.

Prova pena e tormento

Per prima cosa; e in sul principio stesso

La madre e il genitore

Il prende a consolar dell’esser nato.

Poi che crescendo viene,

L’uno e l’altro il sostiene, e via pur sempre

Con atti e con parole

Studiasi fargli core,

E consolarlo dell’umano stato:

Altro ufficio più grato

Non si fa da parenti alla lor prole.

Ma perchè dare al sole,

Perchè reggere in vita

Chi poi di quella consolar convenga?

Se la vita è sventura,

Perchè da noi si dura?

Intatta luna, tale

E’ lo stato mortale.

Ma tu mortal non sei,

E forse del mio dir poco ti cale.

 

Pur tu, solinga, eterna peregrina,

Che sì pensosa sei, tu forse intendi,

Questo viver terreno,

Il patir nostro, il sospirar, che sia;

Che sia questo morir, questo supremo

Scolorar del sembiante,

E perir dalla terra, e venir meno

Ad ogni usata, amante compagnia.

E tu certo comprendi

Il perchè delle cose, e vedi il frutto

Del mattin, della sera,

Del tacito, infinito andar del tempo.

Tu sai, tu certo, a qual suo dolce amore

Rida la primavera,

A chi giovi l’ardore, e che procacci

Il verno co’ suoi ghiacci.

Mille cose sai tu, mille discopri,

Che son celate al semplice pastore.

Spesso quand’io ti miro

Star così muta in sul deserto piano,

Che, in suo giro lontano, al ciel confina;

Ovver con la mia greggia

Seguirmi viaggiando a mano, a mano;

E quando miro in cielo arder le stelle;

Dico fra me pensando:

A che tante facelle?

Che fa l’aria infinita, e quel profondo

Infinito Seren? che vuol dir questa

Solitudine immensa? ed io che sono?

Così meco ragiono: e della stanza

Smisurata e superba,

E dell’innumerabile famiglia;

Poi di tanto adoprar, di tanti moti

D’ogni celeste, ogni terrena cosa,

Girando senza posa,

Per tornar sempre là donde son mosse;

Uso alcuno, alcun frutto

Indovinar non so. Ma tu per certo,

Giovinetta immortal, conosci il tutto.

Questo io conosco e sento,

Che degli eterni giri,

Che dell’esser mio frale,

Qualche bene o contento

Avrà fors’altri; a me la vita è male.

 

O greggia mia che posi, oh te beata,

Che la miseria tua, credo, non sai!

Quanta invidia ti porto!

Non sol perchè d’affanno

Quasi libera vai;

Ch’ogni stento, ogni danno,

Ogni estremo timor subito scordi;

Ma più perchè giammai tedio non provi.

Quando tu siedi all’ombra, sovra l’erbe,

Tu se’ queta e contenta;

E gran parte dell’anno

Senza noia consumi in quello stato.

Ed io pur seggo sovra l’erbe, all’ombra,

E un fastidio m’ingombra

La mente, ed uno spron quasi mi punge

Sì che, sedendo, più che mai son lunge

Da trovar pace o loco.

E pur nulla non bramo,

E non ho fino a qui cagion di pianto.

Quel che tu goda o quanto,

Non so già dir; ma fortunata sei.

Ed io godo ancor poco,

O greggia mia, nè di ciò sol mi lagno.

Se tu parlar sapessi, io chiederei:

Dimmi: perchè giacendo

A bell’agio, ozioso,

S’appaga ogni animale;

Me, s’io giaccio in riposo, il tedio assale?

 

Forse s’avess’io l’ale

Da volar su le nubi,

E noverar le stelle ad una ad una,

O come il tuono errar di giogo in giogo,

Più felice sarei, dolce mia greggia,

Più felice sarei, candida luna.

O forse erra dal vero,

Mirando all’altrui sorte, il mio pensiero:

Forse in qual forma, in quale

Stato che sia, dentro covile o cuna,

E’ funesto a chi nasce il dì natale.

 

 

ARISTÓTELES – FORNGRÍSK SÁLARFRÆÐI – Samantekt um svarta gallið

 

Samantekt um svarta gallið

eignuð Aristótelesi

 

 

Fyrsta tilraun mín til kennslu í listasögu var 10 kvöldstunda námskeið á vegum Endurmenntunar Háskóla Íslands um eina grafíkmynd eftir Albrecht Durer. Það var myndin "Melancolia I" frá árinu 1514. Á þessum tíma var ég upptekinn af hinum íkonologiska skóla Warburg-stofnunarinnar í London, og má segja að hið sígilda rit R. Klibansky, E. Panofsky og F. Saxl "Saturn and Melancholy. Studies in the History of Natural Philosophy, Religion and Art" frá árinu 1983 hafi verið kveikjan að þessu námskeiði. Ég hafði aflað mér margvíslegra heimilda um efnið, en í þessari bók, sem ég hafði fundið á ferðalagi um Ítalíu í ítalskri þýðingu,  var svolítið kaflabrot sem skipti sköpum og varð hluti af námsefninu í íslenskri þýðingu minni úr ítölsku. Síðan hef ég margoft notast við þetta kaflabrot í kennslu minni, texta sem er eignaður Aristótelesi og er frá 4. öld fyrir Krist. Ég birti þetta textabrot hér lesendum þessarar síðu til skemmtunar og væntanlegum nemendum mínum til fróðleiks.
Aristóteles var einn af nemendum Platons og var í upphafi mótaður af hugmyndum hans, einnig um leyndardóma mannssálarinnar og alheimsins. Í Samdrykkju Platons sjáum við skýra framsetningu á „frummyndakenningu“ hans þar sem Sókrates hefur það eftir Diotemu að leit mannsins að hinu fagra, sanna og góða hefjist með ást á tilteknum fögrum líkama en hefjist síðan upp á við frá einum fögrum líkama til allra fagurra líkama og síðan til allra fagurra sálna og að lokum til hins fagra í sjálfu sér sem er handan hins skynjanlega fyrir alla nema kannski útvalda heimspekinga. Þetta er hin platonska stigveldiskenning í einfaldri mynd. Efnisheimurinn eða hinn skynjanlegi heimur samkvæmt hefðbundnum skilningi er þannig skuggamynd eða endurspeglun huglægrar frummyndar, og listaverk sem á að sýna tiltekinn hlut eða fyrirbæri er þá „skuggamynd af skuggamynd“ og því til þess fallið að leiða áhorfandann enn frekar frá sannleikanum. Þetta var ástæða þess að Platon vildi banna listirnar úr fyrirmyndarríki sínu, sem hann lýsir í „Ríkinu“, en fyrirmyndarríki hans átti að lúta yfirstjórn útvalinna heimspekinga er hefðu kynnst opinberun „hins sanna í sjálfu sér“, handan hinna efnislegu (og hverfulu) birtingarmynda þess.
Þessi stigveldishugsun Platons, á rætur sínar í því þekkingarfræðilega vandamáli að engir tveir líkamar hafa nákvæmlega sömu skynjun á fyrirbærunum (t.d. skynjun líkamans og tommustokksins á vegalengd fara ekki endilega saman) og efnisheimurinn er undirorpinn stöðugum breytingum frá einum tíma til annars (ólíkt hugtakinu meter, sem er óbreytanlegt). Frummyndakenningin var þannig hugsuð sem forsenda þess að setja fram skilgreiningu á veruleikanum er væri án mótsagna. Hún er jafnframt meginatriði „hughyggjunnar“ eða idealismans í sögu hugmyndanna og grundvöllur „frumspekilegrar“ hugsunar.
Þó Aristóteles hafi í upphafi verið mótaður af hugmyndum Platons og Sókratesar kom þó fljótlega í ljós annar skilningur hans á nokkrum frumforsendum þekkingarinnar. Athygli Aristótelesar beindist kannski meira að efnisheiminum og skynjun hans en að efnislausum hugmyndum, og afneitun Platons á líkamanum sem „fangelsi“ eða „gröf“ sálarinnar“ er ekki að finna hjá Aristótelesi að sama skapi. Þetta sést vel á eftirfarandi kafla úr ritgerðasafninu „Problemata“ sem myndar VI. bindið í heildarútgáfu E.S. Forsters og  Oxford Clarendon Press á verkum Aristótelesar frá 1926. Hér er ekki leitað til himnanna eftir skilgreiningu á Erosi sem mannlegri ástríðu „til getnaðar í hinu fagra“ eins og Diotema orðar það í munni Sókratesar. Þess í stað leitar Aristóteles til líkamsvessanna út frá læknisfræði síns samtíma og út frá vessakenningu Hippokratesar.
Þessi nálgun er skyldari þeim aðferðum sem við þekkjum úr heimi læknisfræði og lífeðlisfræði samtímans, þar sem líkami mannsins er gjarnan smættaður niður í líkamsparta sína, líffæri, frumur, efnahvata og erfðavísa.
Ritgerðasafnið Problemata, sem eignað er Aristótelesi, hefur að geyma 38 kafla um læknisfræði og skynfæri líkamans. Í gegnum aldirnar hafa þessir textar verið endurritaðir, þýddir og endursagðir af óteljandi fræðimönnum og einhver ágreiningur mun vera uppi um hvort rétt sé að eigna Aristótelesi alla textana, þó andi þeirra sé talinn endurspegla „skóla“ hans og meginhugsun. En þó að hugmyndir Aristótelesar um áhrifamátt „vessablöndunnar“ á sálarlíf og líkamlega líðan mannsins kunni að koma okkur á óvart, þá er aðferðarfræðin skyldari smættunarhugsun nútíma læknisfræði og lyfjafræðilegum lausnum hennar á mannlegum vandamálum en virðast kann í fyrstu. Læknisfræði Aristótelesar er forboði nútíma efnishyggju með sama hætti og afneitun Platons á líkamanum er forboði hughyggjunnar eins og hún þróaðist síðan innan eingyðistrúarbragðanna. Báðar þessar forsendur höfðu mótandi áhrif á þróun lista á Vesturlöndum, ekki síst myndlistarinnar.
Vessakenningin um virkni vessanna á líkama og sál mannsins var ríkjandi í allri læknisfræði á Vesturlöndum fram á 18. öld. Með "nýplatónisma" Ágústínusar kirkjuföður um 400 e.Kr og nýplatónisma Marsilio Ficino og akademíu Medici-ættarinnar í Flórens á 15. öld voru vessarnir tengdir guðdómlegu orkuflæði er stafaði frá Guði og leiddi í gegnum pláneturnar til minnstu agna efnisheimsins, lifandi sem dauðra, þar með talið líkamsvessanna sem þannig voru samhæfðir kristnum kennisetningum. Nýplatónisminn í Flórens var fyrst og fremst tilraun til að samræma kristna kennisetningu og forngríska heimspekihefð. Læknisfræði byggð á vessafræðum og tengd kristnum kennisetningum um synd og fyrirgefningu var einnig þekkt og notuð í lækningaskyni á Íslandi á miðöldum, eins og fram kemur í þýðingu á texta Elucidariusar sem varðveittur er í handriti Hauksbókar frá því um 1200.
Það var ekki síst Friedrich Nietzsche sem átti frumkvæði að gagnrýni á platonskri hughyggju á seinni hluta 19. aldar. Nietzsche vakti athygli á því að afneitur Platons á líkamanum og þeim ástríðum er honum tengdust hefði verið leið hans til að losa heimspekina úr viðjum goðafræðinnar, og þá einkum þeim hluta hennar er tengdist hinu jarðneska, heimum Díonýsusar og Demeter. Með endurvöktum skilningi á hinum jarðnesku (díonýsísku) ástríðum mannsins var lagður grundvöllur að sálgreiningu Freuds, og má jafnframt segja að bæði Nietzsche og Freud hafi verið afsprengi rómantísku stefnunnar í listum. Lesendum þessa texta Aristótelesar hér er því bent á að lesa kaflabrotin úr "Fæðingu harmleiksins" eftir Nietzsche hér á hugrunir.com, og síðan gagnmerka túlkun ítölsku heimspekinganna Carlo Sini og Giorgio Colli á goðsögulegri merkingu hins díonýsíska og apolonska í goðafræðinni og aftengingu þessarar merkingar með tilkomu heimspekihefðarinnar á 4. öld f.Kr.
Með tengingu depurðar við svarta gallið höfum við fyrstu tilraunina til fræðilegrar sálgreiningar. Með tilkomu kristindómsins (og eingyðistrúarbragðanna) var þessi sálræni sjúkdómur tengdur syndinni, hugmyndum um meinlæti holdsins og endurlausn á dómsdegi. Með sálgreiningu Freud var gerð tilraun til að aftengja trúarbrögðin og syndina með tilkomu hugmyndarinnar um dulvitundina og hinar duldu hvatir líkamans og sálarinnar. Freud skilgreindi togstreitu í sálarlífi mannsins sem togstreitu á milli ómeðvitaðra hvata (einkum kynhvatarinnar) og yfirsjálfsins, sem þyrfti að ná "valdi" á ríki dulvitundarinnar, sem hann kallaði líka ríki "þaðsins". Þetta vald væri merki siðmenningarinnar,:  "þar sem þaðið er, þar á égið að vera". Þetta valdboð var gjaldið sem maðurinn greiddi fyrir siðmenninguna.
Á okkar tímum hefur þetta mynstur breyst. Í stað iðrunar eldri kynslóðarinnar fyrir hömluleysi og drýgðar "syndir" holdsins lystisemda á yngri árum er það nú unga kynslóðin sem líður fyrir að fá ekki fullnægt lystisemdum sínum, eða öllu líður fyrir skort á ástríðum. Kvíðinn í okkar samfélagi birtist fyrst og fremst í óttanum við að geta ekki uppfyllt neyslukröfur hans. Sá sem bugast undan kröfum samtímans um samvirka neyslu leitar á náðir deyfilyfjanna. Depurðarorsök samtímans er frekar ástríðuleysi ungu kynslóðarinnar en hömlulausar ástríður. Með tilkomu stóraukinnar deyfilyfjanotkunar í samtímanum sjáum við þennan 2400 ára gamla texta Aristótelesar um hinar döpru ástríður vakinn til lífsins á ný.

 

E Munch Melankoli 1891

Edvard Munch: Melankoli, 1891

Problema XXX,I

Endursögn úr ítalskri útgáfu á „Saturno e la melacolia“ eftir E. Panofsky, R. Klibansky og F. Saxl

Einaudi editore 1983, bls 22-27

Hvernig getur á því staðið að allir þeir sem hafa skarað framúr á sviði heimspeki eða stjórnmála eða í skáldskap eða listum, eru áberandi depurðarsjúkir (melankólskir) og sumir í svo ríkum mæli að þeir þjást af truflunum af völdum svarta gallsins?

Í goðafræðinni finnum við dæmi þessa meðal hetjanna í Herkúlesi. Hann virðist greinilega hafa þetta upplag, og því hafa flogaköstin sem ásóttu hann verið kölluð „heilagur sjúkdómur“ af mönnum fornaldar. Æðiskastið sem hann fékk andspænis sonunum gefur þetta til kynna, rétt eins og útbrotasárin sem duttu á hann áður en hann hvarf á Eta-fjall. Slík sár eru hjá mörgum einkenni svarta gallsins. Lisandro Lacedemone þjáðist einnig af slíkum útbrotum áður en hann dó. Þá eru sögurnar af Aiace og Bellerofonte til vitnis um þetta: annar gekk fullkomlega af göflunum, hinn leitaði eftir mannlausum stöðum til dvalar í auðninni. En um það sagði Hómer: „en þegar hann hafði áunnið sér hatur allra guða / þá villtist hann um einn saman á Alea-sléttu, / úttaugaður á flótta undan sporum manna“.

Depurðarsjúkir snillingar: Sókrates, Aristóteles og Platon.

Margar fleiri af hetjum fornaldar þjáðust á sama hátt, og meðal manna frá síðustu tímum mætti nefna þá Empedókles, Platon og Sókrates og marga aðra fræga menn, auk þorra allra skálda. Margir þessara manna þjást af líkamlegum kvillum af völdum þessarar skapgerðar. Sumir þeirra hafa aðeins eitt skýrt eðlisupplag til þessarar skapgerðar, en í stuttu máli þá eru þeir allir depurðarsjúkir að upplagi, eins og áður var sagt.

 

Hliðstæða vínneyslunnar

Við þurfum að notast við hliðstæðu til að átta okkur á þessu: mikil vínneysla sömu einkennum hjá mönnum, eða mjög svipuðum, og þeim sem við sjáum hjá depurðarsjúklingum.

Áfengisvíma orsakar ýmis hegðunarmynstur, til dæmis hvefsni, blíðulæti, samúðarkennd og ­bráðlæti. Hunang, mjólk, vatn eða sambærilegir neysludrykkir hafa hins vegar engin slík áhrif. Við getum sannreynt áhrifamátt vínsins á því að fylgjast með hegðunarmynstri þeirra sem drekka það. Til dæmis verða þeir sem að eðlisfari eru kaldir og þöglir mælskari þegar þeir hafa fengið sér einum of mikið. Ef þeir drekka enn meira verða þeir háværir og hraðmælskir, og þegar þeir láta til skarar skríða verða þeir ógnvekjandi. Ef þeir drekka síðan enn meira verða þeir ósvífnir og síðan bálreiðir. Ef þeir drekka sig hins vegar fullkomlega ofurölvi missa þeir bæði vit og mátt rétt eins og þeir sem hafa verið flogaveikir frá frumbernsku eða þeir sem eru haldnir bráðri depurð.

Nú, eins og einstaklingur sem drekkur breytir skaphöfn sinni í samræmi við magn vínsins, þannig er flokkur einstaklinga á bak við sérhverja skapgerð. Á sama hátt og maður hefur vissa skapgerð þegar hann er drukkinn, þá eru aðrir þannig skapi farnir ódrukknir: einn er mælskur, annar er tilfinningasamur, annar tárast auðveldlega, en vínið hefur einnig þau áhrif á vissa einstaklinga. En um þá sagði Hómer í kvæðinu: „Hann segir að ég syndi í tárunum eins og maður uppþembdur af víni“.

Stundum verða þeir einnig samúðarfullir, eða villtir eða þöglir. Sumir missa reyndar alveg málið, einkum þeir depurðarsjúklingar sem eru ekki með sjálfum sér. Vínið gerir mennina einnig ástleitna. Þetta getur gengið svo langt að ölvaður maður fari að kyssa persónur sem engum ódrukknum kæmi til hugar að kyssa vegna útlits eða aldurs. Vínið breytir manninum ekki til langframa, heldur aðeins til skemmri tíma. Eðlisupplag mannsins gerir hann hins vegar eins og hann er til frambúðar allt lífið. Sumir eru þannig árásargjarnir, aðrir þöglir, aðrir samúðarfullir og aðrir huglausir að eðlisfari. Það er því ljóst að það er sami vakinn sem ákvarðar skaphöfnina, hvort sem um áfengisvímu eða eðlisupplag er að ræða, þar sem bæði ferlin stjórnast af hita.

Nú framleiðir depurðin (melankólían) loft, hvort sem um vessann eða skaphöfnina er að ræða. Þess vegna segja læknarnir að bæði mæði og iðraólga stafi af svarta gallinu. Nú hefur vínið einnig þann eiginleika að leysa loft úr læðingi. Því eru vínið og depurðin af svipuðum toga. Við sjáum reyndar að olían myndar enga froðu, ekki heldur þegar hún er heit. Froðan sem myndast á víninu sýnir að það framleiðir loft. Við sjáum líka að olían framleiðir ekki loft, ekki heldur þegar hún er heit, á meðan vínið framleiðir það í stórum stíl og svarta vínið í ríkari mæli en það hvíta, vegna þess að það er heitara og efnismeira.

Depurðin, kynhvötin og loftþrýstingurinn

Það er af þessari ástæðu sem vínið örvar kynhvötina, og því er réttilega haldið fram að Díonýsos og Afródíta eigi samleið, og að þeir döprustu séu nautnasjúkir. Samfarirnar tengjast loftmyndun, sem sést á því að limur karlmannsins breytist skjótt frá því að vera lítill í að verða stór vegna þess að hann blæs út. Unglingsstrákar sem nálgast kynþroskann geta einnig fengið vissa fróun út úr því að nudda kynfæri sín upp á grín, jafnvel áður en þeir geta fengið sáðlát, af þeirri augljósu ástæðu að það er loft sem fer út um göngin þar sem vökvinn kemur síðar. Útferðin og krafturinn á sæðinu í samförunum eru augljóslega til komin af loftþrýstingi. Af þessu leiðir að sá matur og drykkur sem fyllir svæði kynfæranna með lofti er kynörvandi. Þetta er ástæða þess að svart vín framar öllu öðru gerir menn líka depurðarsjúklingum. Oft liggur það í augum uppi að þeir eru fullir af lofti. Reyndar sjáum við að flestir þeir sem eru haldnir depurð eru stinnholda og æðaberir. Ástæðan er ekki of mikið blóð, heldur loft. Það er hins vegar annað mál, að ekki eru allir depurðarsjúkir stinnholda og ekki allir dökkir á hörund, heldur aðeins þeir sem eru fullir af óheilbrigðum vessum.

Vessablandan og áhrif hitastigsins

En svo við snúum aftur að upp­haflega efninu, þá er svarti vessinn í manninum þegar gerður úr ákveðinni blöndu frá náttúrunnar hendi þar sem hann er blanda af heitu og köldu, þessum tveim þáttum sem náttúran er gerð úr. Svarta gallið getur því orðið annað hvort mjög heitt eða mjög kalt, að því gefnu að eitt og sama efnið geti þolað hvort tveggja: til dæmis vatnið, sem getur orðið heitara en loginn sjálfur, sé það hitað nægilega mikið (til dæmis þegar það sýður), þótt það sé kalt að eðlisfari. Sama á við um steininn og járnið, séu þau hituð mjög mikið verða þau heitari en kolin, þótt þau séu í eðli sínu köld. Um þetta er fjallað ítarlegar í bókinni um eldinn­.[1]

Ef svarta gallið, sem er kalt í eðli sínu en ekki bara yfirborðslega, fyrirfinnst í líkamanum í sínu eðlilega formi, getur það valdið lömun eða sléni eða þunglyndi og kvíða þegar það er yfirgnæfandi. En sé það hitað veldur það gleði, löngun til söngs, hástemmdri hrifningu og roða eða útbrotum á húð. Hjá mjög mörgum veldur það gall, sem verður til úr daglegri næringu, engum sérstökum skapgerðareinkennum, en takmarkast eingöngu við smávægilegar svartagallstruflanir. En hjá þeim sem búa við þennan skapgerðareiginleika að upplagi koma strax fram fjölbreytileg skapgerðareinkenni, hjá hverjum og einum í samræmi við hina einstaklingsbundnu blöndu. Þannig verða þeir sem hafa mikið af köldu svartagalli sljóir og þungir á sér, á meðan þeir sem hafa mikið af heitu galli eru glaðlyndir og gáfaðir eða ástleitnir eða uppstökkir eða bráðlátir, á meðan aðrir aukast að mælskulist.

Svarta gallið og snilligáfan

Margir verða einnig fyrir hrifningarköstum og ofur hrifnæmi, því þessi hiti myndast nálægt aðsetri skilningsins. Þetta er skýringin á hegðun Síbillanna og hinna forspáu og allra þeirra sem öðlast guðdómlega hugljómun, þegar slíkt verður ekki af völdum veikinda heldur vegna náttúrulegrar skapgerðar. Maraco di Siracusa var í raun og veru betra skáld þegar hann var viti sínu fjær. Engu að síður er það svo að þeir sem hafa fengið fullgóðan hita í svarta gallið og nálgast þannig meðalhófið, verða vissulega daprir, en engu að síður skynsamari og minna duttlungafullir og á margan hátt framúrskarandi á sviði menningar eða lista eða við stjórn ríkisins. Slíkt eðlisupplag veldur einnig fjölbreytilegum viðbrögðum í hættuástandi þar sem margar þessar skapgerðir bregðast óskynsamlega við á augnabliki hræðslunnar. Það fer allt eftir líkamsástandi þeirra á slíkri stund og stöðu skaphafnarinnar hvort þessar persónur bregðast við með einum eða öðrum hætti. Á nákvæmlega sama hátt og hin dapra (melankólska) skapgerð veldur krankleika með afar fjölbreytilegum sjúkdómseinkennum, rétt eins og vatnið er stundum kalt og stundum heitt. Ef hins vegar berast ógnvekjandi skilaboð á því augnabliki þegar kuldinn er ríkjandi í blöndunni, þá mun viðkomandi missa móðinn. Og þar sem hann hefur opnað hræðslunni leið, og hræðslan kælir, þá sjáum við að hinn hræddi fer að skjálfa. Ef hitinn er hins vegar ríkjandi í blöndunni, þá dregur hræðslan úr hitanum þannig að viðkomandi verður sjálfs sín herra og tapar sér ekki.

Lífeðlisfræði depurðarinnar

Sama gerist einnig í hversdagslegum áföllum sem við verðum fyrir frá degi til dags. Þannig finnum við oft til depurðar án þess að kunna á því skýringu, á sama hátt og við finnum oft til gleði án sýnilegrar ástæðu. Þessar breytingar, ásamt þeim sem áður voru nefndar, koma yfir okkur öll í einhverjum mæli, því einhvern snefil af þeim efnum sem valda þeim er að finna í okkur öllum. En hjá þeim einstaklingum, þar sem þessi einkenni eru eðlisbundin, verða þau ákvarðandi um skapgerðina. Rétt eins og mennirnir eru ólíkir, ekki vegna þess að þeir hafa andlit, heldur vegna þess að þeir hafa sérstök andlit, sumir falleg, aðrir ljót og enn aðrir með engum sérkennum (þeir sem hafa venjulegt yfirbragð). Þannig eru þeir sem hafa aðeins lítinn skammt af þessari skapgerð venjulegir, á meðan þeir sem hafa hana í ríkum mæli eru ólíkir þorra fólks. Það er reyndar svo, að ef þunglyndisástandi þeirra (Habitus melancolicus) er ekki haldið í skefjum, þá verða þeir of daprir. Ef öllu er hins vegar haldið í skefjum, þá standa þeir sig. Ef þeir eru ekki á varðbergi, þá hættir þeim til að fá depurðarsjúkdóma sem leggjast á ólíka líkamsparta, allt eftir gerð einstakligsins. Sumir fá flogaveikieinkenni, aðrir lömunareinkenni, aðrir bráða örvæntingu eða fyllast skelfingu, aðrir fyllast oftrausti eins og gerðist með Archelaos Makedóníukonung.

Þessar tilhneigingar framkallast af skapgerðinni eftir því hvort hún er heit eða köld. Ef um of mikinn kulda er að ræða miðað við aðstæður, framkallar það óraunhæfa örvæntingu. Þetta er ástæða þess að algengt er að ungir menn eða jafnvel menn á besta aldri fremji sjálfsmorð með hengingu. Margir svipta sig einnig lífi í kjölfar áfengisvímu og sumir melankólikerar finna til depurðar í kjölfar áfengisvímu, þar sem hiti vínsins hefur drepið niður eðlislægan hita þeirra (hitinn á því svæði, þar sem aðsetur hugsunar og vona er til staðar og gerir okkur glaða. Þess vegna finnst öllum gott að drekka sig hreifa í hófi, þar sem vínið gerir alla vongóða á sama hátt og æskan gerir ungdóminn vongóðan. Ellin er hins vegar svartsýn, á meðan æskan er full vonar). Sumir verða gripnir örvæntingu á meðan þeir drekka af sömu ástæðu og örvæntingin grípur aðra eftirá. Nú hneigjast þeir sem fá þunglyndiskast, þegar dregur úr hita þeirra, til þess að ganga út og hengja sig. Þess vegna er algengara að ungir menn og aldnir hengi sig. Í öðru tilfellinu er það jafnvel sjálf ellin sem kælir niður hitann, í hinu tilfellinu er það ástríðan sem einnig á sér efnislega skýringu. Margir þeirra sem verða fyrir skyndilegri kælingu binda óvænt enda á líf sitt, öðrum til mikillar undrunar, þar sem þeir höfðu ekki sýnt nein slík merki áður.

Þegar blanda sú, þar sem svarta gallið er ríkjandi, er kaldari en upprunalega, veldur hún depurð af ýmsu tagi, eins og þegar hefur verið bent á. En þegar hún er heitari, framkallar hún gleði. Þetta er ástæða þess að börn eru glaðlyndari og gamlingjarnir þyngri, þar sem æskan er heit og ellin köld. Það að eldast er í raun og veru kælingarferli. Stundum getur það komið fyrir að snögglega dragi úr hitanum af utanaðkomandi ástæðum, eins og gerist með glóandi hluti sem eru snöggkældir þvert ofan í náttúrulega hneigð þeirra (það er að segja af utanaðkomandi afli). Þetta gerist til dæmis með glóandi kol þegar vatni er hellt yfir þau.  Þess vegna fremja menn stundum sjálfsmorð í kjölfar vímu. Þar sem hiti vínsins er utanaðkomandi, og þegar hann slokknar skyndilega koma fram þessar aðstæður.

Það gerist einnig í kjölfar samfara að meirihluti karlmanna fyllist depurð. En þeir sem gefa frá sér stóra skammta af sæði verða kátari vegna þess að þeir hafa létt af sér umframvökva, lofti og of miklum hita. Hinir verða daprir að sama skapi, því samfarirnar hafa kælt þá niður, þannig að þeir hafa tapað nauðsynlegum þáttum, eins og sést af þeirri staðreynd að magn vökvans sem þeir gáfu frá sér var lítið.

Í fáum orðum sagt: þar sem áhrif gallsins eru breytileg, þá eru depurðarsjúklingarnir einnig breytilegir, því svarta gallið getur orðið mjög heitt eða mjög kalt. Og þar sem það ákvarðar skapgerðina (hitinn og kuldinn eru í reynd mikilvægustu þættirnir í líkama okkar til ákvörðunar skapgerðinni). Á sama hátt veldur vín, sem líkaminn lætur í sig í meira eða minna magni, ákveðinni skapgerðarbreytingu. Bæði vínið og gallið innihalda loft. Þar sem mögulegt er að þessari breytilegu stærð sé haldið í skefjum og hún aðlöguð í vissum skilningi (þannig að skammturinn sé ýmist heitari eða kaldari, eftir því sem æskilegt þykir vegna tilhneigingarinnar til öfganna) verða afleiðingarnar þær að allir depurðarfullir einstaklingar verða frábrugðnir fjöldanum, ekki vegna þess að þeir séu veikir, heldur af náttúrlegu eðlisupplagi sínu.

 

[1] Hér er vitnað í rit eftir Teofrastos, Peri pursz, þar sem fjallað er um efni eins og járn og stein og hvernig þau geta snarhitnað þrátt fyrir „eðlislægan kulda“ þeirra. Vitað er af bókalista að Teofrastos skrifaði rit sem hét „Um melankólíuna“, og er því rétt að álykta sem svo að tengsl séu á milli „Problema“ og þessarar glötuðu bókar.

Forsíðumyndin er af grískum diski frá 5. öld f. Kr. sem sýnir nætursiglingu Herkúlesar til Hadesarheima. Það er sigling inn í myrkheima depurðarinnar.

 

%d bloggers like this: