ÁSMUNDUR ÁSMUNDSSON RÆKTAR EYÐIMÖRKINA

Blómin í garði tómhyggjunnar

Í tilefni sýningar Ásmundar Ásmundssonar                                               á teikningum í Café Pysju, Grafarvogi.

 

„Nietzsche kallar tómhyggjuna “ískyggilegastan allra gesta”, því það sem vaki fyrir honum sé heimilisleysið sem slíkt. Það stoðar ekkert að vísa þessum óboðna gesti á dyr, því hann hefur fyrir löngu gert sig heimakominn í húsi okkar. Það sem skiptir máli er að átta sig á boðflennunni og horfast í augu við hana.“

Þetta segir Martin Heidegger í ritgerð sinni „Um vandamál verunnar“ (Über die Seinsfrage, 1955), þar sem hann á í  samræðu við vin sinn Ernst Jünger, um hvort og hvernig hægt sé að yfirstíga þá „tómhyggju“ sem þeir báðir skynjuðu sem ríkjandi ástand í Evrópu um miðbik 20. aldar.

Jünger hafði skrifað bókina „Über die Linie“ 1950, þar sem hann líkir tómhyggjunni við svart strik sem þyrfti að yfirstíga til að bjarga vestrænni menningu undan vágestinum, en Heidegger taldi málið flóknara og segir í svari sínu að þýska atviksorðið „über“ snúist í þessu tilfelli ekki um að „fara yfir“ tiltekinn farartálma sem verða kunni á vegi okkar fyrir tilviljun, heldur feli það í sér aðra nálgun eða „umfjöllun“, því þessi farartálmi sé tilvistarlegt vandamál en ekki landfræðilegt og snúist um „kjarna verunnar“ sem sé óaðskiljanlegur frá innbyggðum örlögum vestrænnar tæknimenningar, þar sem gildin hafi glatað trúarlegri forsendu sinni og verið sett á mælistiku tölfræðinnar.

Samræða þessara gömlu vina er forvitnileg vegna þess að hún hefur endurómað í evrópskri menningarumræðu í flestum myndum hennar, ekki síst í heimi myndlistarinnar, allt frá því að dadaistarnir lýstu yfir dauða listarinnar á öðrum áratug síðustu aldar, og kannski enn lengur. Saga myndlistarinnar á 20. öldinni hefur einkennst af smættunaráráttu þar sem hvert „gildið“ á fætur  öðru hefur mátt víkja fyrir eyðingarmætti vágestsins sem Nietzsche boðaði undir lok 19. aldarinnar. Með orðum Nietzsche og Heideggers hefur myndlistin orðið heimilisleysinu að bráð og skilið eftir sig eyðimörk gildanna í rósagarði fagurfræðinnar. Hið „fagra, sanna og góða“ má sjá sinn fífil fegurri og á sér ekki lengur aðra gilda mælikvarða en þá sem markaðslögmál kauphallanna boða okkur.

Ásmundur Ásmundsson er einn þeirra ötulu jarðræktarmanna myndlistarinnar sem hafa einbeitt sér eftir mætti að hreinsunarherferðinni í rósagarði fagurfræðinnar og leitast við að opna augu okkar fyrir því klæðaleysi keisarans í skrúðgöngunni sem H.C. Andersen sviðsetti með eftirminnilegum hætti snemma á 19. öldinni. Það er ekki tilefni þessa pistils að rekja og greina þá fjölmörgu gjörninga og uppákomur sem Ásmundur hefur staðið fyrir á 25 ára ferli sínum sem myndlistarmaður, og hafa kannski ekki hlotið verðskuldaðar viðtökur. Segja má að sá rósagarður fagurfræðinnar sem myndlistarmenntunin staðsetti Ásmund í, hafi breyst í eyðimörk, og hann hafi áttað sig á að eyðimörkin sé ekki bara ákjósanlegasti, heldur eini mögulegi vaxtarreiturinn fyrir veikburða vaxtarbrodda myndlistarinnar á okkar óvissutímum. Þess vegna sýnir hann okkur nú nýja vaxtarsprota  sem hann hefur gróðursett í eyðimörkinni, teikningar sem hafa ekki bara margvíslegar samfélagslegar skírskotanir, heldur sýna okkur fyrst og fremst veikburða og harðneskjuleg vaxtarskilyrði listarinnar á okkar viðsjárverðu tímum.

Ásmundur er ekki fyrstur til að rækta sína fagurfræðilegu eyðimörk er endurspegli sjálfseyðingarhvöt samtímans. Hann á sér eins og við vitum marga forvera, ekki bara á sviði myndlistar, heldur í öllum listgreinum. Ekki bara á þessari öld og þeirri síðustu, heldur líka á 19 öldinni, bjartsýnisöld tækniframfaranna og landvinninga hinna tæknivæddu iðnríkja, sem þá lögðu undir sig lönd og álfur. Oft er sagt að módernismi í ljóðlist eigi uppruna sinn í verki franska skáldsins Charles Baudelaire, sem gaf út ljóðabálk sinn „Les fleurs du mal“ um miðbik 19. aldar. Baudelaire var afkastamikill illgresiseyðir í rósagarði fagurfræðinnar á sínum tíma, tíma sem enn varðveitti enduróminn af hetjulegum tilburðum Napoleons til heimsyfirráða. Í vel hreinsaðri eyðimörk sinni gróðursetti Baudelaire blóm hins illa, sem hafa alla tíð síðan verið vesturlenskum ljóðskáldum eins og varða á þyrnum stráðum öngstrætum ljóðlistarinnar. Um leið og ég óska Ásmundi alls hins besta í garðyrkju eyðimerkurinnar langar mig til að senda honum þessa splunkunýju þýðingu mína á inngangsljóði Baudelaires að kvæðabálkinum um „Hin illskeyttu blóm“ í rósagarði fagurfræðinnar: „Les fleurs du mal“:

 

TIL LESANDANS

 

Heimskupörin, villan, syndin, nískan,

búa í hugarheimi okkar og marka líkamann

við nærum yndislegar iðranir okkar

eins og betlararnir fæða sníkjudýr sín.

 

Þrálátar eru syndir okkar, og iðranirnar huglausar.

Við seljum játningar okkar dýrum dómum

og snúum glaðbeittir aftur á foruga slóð okkar

í vissu þess að hafa hvítþvegið skítablettina með aumkunarverðum tárum.

 

Á kodda hins illa hvílir Satan Trismegisto,

hér vaggar sér hugfanginn andi okkar.

Góðmálmurinn hefur gufað upp samkvæmt vilja okkar

og hins vitra gullgerðarmanns.

 

Djöfullinn heldur um strengina sem stjórna hreyfingum okkar!

Viðurstyggilegir hlutir heilla okkur;

hver dagur færir okkur skrefi nær Víti

óttalaust yfir illa lyktandi forir.

 

Eins og gjálífur aumingi sem kyssir og sýgur

blóðrisa brjóst gamallar vændiskonu

grípum við á lofti falda nautn

og kreistum af afli eins og sprungna appelsínu.

 

Eins og í iðandi ormagryfju

ærslast andskotalýður um heilabú okkar,

og þegar við drögum andann sogast dauðinn í lungun

eins og ósýnilegt fljót fullt af kvalastunum.

 

Ef saurgunin, eitrið, hnífsstungan og íkveikjan hafa ekki enn

útfyllt ljúf form sín í léreftssnifsi okkar aumu örlaga

þá er það því miður vegna þess

að sál okkar skortir eldmóðinn.

 

En mitt á meðal sjakalanna, hlébarðanna, tæfanna,

sjimpansanna, sporðdrekanna, hrægammanna, snákanna,

kvikindanna sem ýlfra, öskra og rýta

innilokuð í vanhelgu búri lasta okkar,

 

má finna einn sem er sóðalegri, illskeyttari, saurugri.

Jafnvel þó hann sé ekki stórtækur eða illskældinn;

hann myndi glaður leggja jörðina í rúst

og gleypa heiminn í einum geispa.

 

Þetta er Leiðinn! Auganu íþyngt af ósjálfráðu tári

dreymir aftökustað þar sem það reykir pípu sína.

Þú, lesandi góður, þekkir þessa viðkvæmu ófreskju

-þú, hræsnisfulli lesandi – jafningi minn og bróðir!

 

 

Þessi pistill er skrifaður 16. Febrúar 2022, en á þessum degi höfðu flestir virtustu fjölmiðlar heimsins sagt að þriðja heimsstyrjöldin myndi hefjast samdægurs kl. 15:00 samkvæmt úkraínskum staðartíma.

Ólafur Gíslason

Ásmundur Ásmundsson: Dómsdagsklukkur, 2002

Forsíðumyndin er „Himnar“, teikningar eftir Ásmund Ásmundsson

Sýning Ásmundar á teikningum verður opnuð í Café Pysju við Foldartorg í Grafarvogi  laugardaginn 19. febrúar kl. 13:00

HEIDEGGER -STAÐURINN ÞAR SEM TUNGUMÁLIÐ SEGIR SIG SJÁLFT

 

Staðurinn þar sem tungumálið segir sig sjálft

STAÐURINN ÞAR SEM TUNGUMÁLIÐ SEGIR SIG SJÁLFT

Erótísk allegóría Marteins Heideggers um trúarlegt samband Heims og hlutar.


Það var fyrst eftir að ég réðst í þýðingu þessa leyndardómsfulla texta Martins Heideggers frá árinu 1950, og fór að lifa mig inn í allar þær málfræðilegu og merkingarfræðilegu flækjur sem þar er að finna, sem ég áttaði mig á að þar mætti auk margs annars finna háerótíska launsögn eða allegóríu sem kenndi okkur ekki bara margt um leyndardóma tungumálsins og málvísindanna, heldur líka um lífeðlisfræði ástarinnar. En Heidegger er þekktur fyrir flest annað en að fjalla um ástarmál sín, sem engu að síður hafa orðið hluti af heimspekisögu Vesturlanda eins og flestum er kunnugt. Þau eru ekki á dagskrá hér.

Ástæðan fyrir því að ég fór að lesa aftur ritgerðarsafn hans um „Vegferðina til tungumálsins“ (sem ég hafði lesið yfirborðslega fyrir átta árum síðan) var sú að ég hafði síðastliðið sumar og haust lent í því að lesa um hugmyndaleg tengsl hans og Nietzsche (eins og komið hefur fram hér á vefsíðu minni) og fann greinilega fyrir því rafmagnaða sambandi þeirra á milli, sem hafði magnað upp spennuna í viðureign Heideggers við hinn frumspekilega menningararf Vesturlanda. Það voru þessi tengsl sem fengu mig til að hugleiða hvort ástæðan fyrir því að þau vandamál um verundina og tímann sem Heidegger setti svo skilmerkilega fram í höfuðriti sínu Sein und Zeit frá árinu 1927 hefðu beðið skipbrot þannig að ekkert varð úr framhaldinu, einmitt vegna þess að hann skorti orðin. Hugsanir Heideggers um tungumálið eru djúpar og margbrotnar og hafa haft víðtæk áhrif ekki bara í heimspekilegri umræðu, heldur ekki síður í sálgreiningu og félagsvísindum, til dæmis hjá Jacques Lacan. En hin róttæka fullyrðing Heideggers var sú að frumlagið í tungumálinu lægi ekki í manninum sem talar, heldur í tungumálinu sjálfu. Það er tungumálið sem talar, og okkur er kastað inn í þennan dvalarstað hugsana okkar án þess að hafa nokkuð um það að segja sjálf. Þessi skilningur Heideggers á tungumálinu hefur haft víðtæk áhrif sem tengjast meðal annars hugmyndum okkar um frelsi og sjálfsveru. Orðræða samtímans á rætur sínar allar götur aftur til Platons og þeirrar hugmyndar að sannleikurinn væri handan hins sýnilega heims. Það er frumspekin sem Heidegger glímdi við, þar sem hann tók við kyndlinum af Nietzsche. Þegar hin yfirskilvitlega trygging sannleikans var gufuð upp var rökfræðin og tæknihyggjan ein eftir, og hún hafði gleymt verunni, þeirri verund sem upplifir sannleikann sem atburð en ekki sem niðustöðu útreiknings.  Þegar ég las ritgerð Heideggers um Uppruna listaverksins fyrir mörgum árum var það mér mikil opinberun að lesa þau orð að listaverkið „léti sannleikann gerast“. Orðræða á borð við þessa stangaðist á við viðtekinn skilning, sem mátti kannski með ósanngjörnum hætti rekja til lokaorða Ludwigs Wittgenstein í Tractatus Philosophicus frá 1921: „Það sem ekki er hægt að segja skýrt á að þegja um“. Með gagnrýni sinni á frumspekina í menningararfleifð Vesturlanda vildi Heidegger opna umræðuna um það sem „ekki er hægt að segja skýrt“. Og hann ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur í þessum makalausa texta sem ég hef eytt nokkrum dögum í að reyna að klæða í íslenskan búning. Ekki ómerkari heimspekingur en Gianni Vattimo hefur sagt að allar tilraunir til að þýða Heidegger séu dæmdar til að mistakast. Og ég er fyrstur manna til að viðurkenna að þessi tilraun er full af mistökum. En textinn leitaði á mig þegar ég var búinn að lesa hann yfir og ég velti fyrir mér hversu djúpt ég hefði komist í að skilja hann og hvort það væri yfir höfuð hægt. Þýðingarstarfið er lærdómsríkt, því það er ein leiðinn að því að sjúga safann úr safaríkum orðum. Og í þessu tilfelli er um að ræða lærdómsríka kennslustund í túlkunarfræðum, þar sem eitt lítið ljóð verður að risastórri kastalaborg, sem þegar inn fyrir múrana var komið reyndist hafa að geyma ekki bara lærdóma um leyndardóma tungumálsins, heldur líka trúarinnar, ástarinnar og kynlífsins. Það síðastnefnda er þó fullkomlega undir rós og hvergi sagt berum orðum, heldur falið í allegóríu túlkunarfræðanna. Ég læt lesendum eftir að lesa úr þessari myndagátu orðanna sem hér er borin fram í raunverulegri tilraun mikils heimspekings til að yfirstíga tungumál frumspekinnar og finna ástarfund hlutarins og Heimsins ekki bara sem erótískt ævintýri, heldur líka sem þá guðlausu guðfræði sem Heidegger leiddist út í á síðari hluta ævi sinnar. Allir vita að ævi hans var ekki flekklaus og heimspeki hans varð honum sjálfum að villuljósi í pólitískum skilningi, en þau illskiljanlegu örlög eru ekki til umræðu hér, heldur tungumálið og leyndardómar þess. Góða skemmtun!

 

Martin Heidegger:

Tungumálið[i]

Maðurinn talar. Við tölum í draumi og vöku. Við tölum viðstöðulaust, einnig þegar við segjum ekki orð, heldur einungis hlustum eða lesum, eða þegar við erum upptekin við störf eða lögst til hvílu. Við tölum stöðugt með einum eða öðrum hætti. Við tölum vegna þess að það er okkur eðlilegt. Það stafar ekki af einhverjum tilteknum vilja eða ásetningi. Sagt er að manninum sé tungumálið eðlislægt. Sagan segir að ólíkt jurta og dýraríkinu þá sé maðurinn lífvera gædd hæfileika til talmáls. Þessi setning felur ekki í sér að auk annarra eiginleika sé maðurinn einnig gæddur hæfileikanum til að tala. Setningin vill meina að þá fyrst þegar maðurinn hafi náð tungumálinu á sitt vald hafi hann orðið að manneskju. Sem talandi vera er maðurinn manneskja. Þetta sagði Wilhelm von Humboldt. En okkar bíður hins vegar sá vandi að hugsa hvað það merki að vera manneskja.

Hvað sem öðru líður, þá tilheyrir tungumálið öllu nærumhverfi mannverunnar. Við mætum tungumálinu alls staðar. Því kemur ekki á óvart að um leið og maðurinn hugleiðir sýnilegt umhverfi sitt er hann umsvifalaust dottinn í tungumálið í leit að skilgreiningu er samsvari því sem við blasir. Umhugsunin reynir að gera sér hugmynd um hvað felist í raun og veru í tungumálinu almennt. Hið almenna, sem gildir um alla hluti, köllum við eðli (das Wesen) þeirra. Það sem er algilt í almennum skilningi er samkvæmt viðteknum hugmyndum grundvallarforsenda (Grundzug) hugsunarinnar. Samkvæmt því felst hugsun um tungumálið í að gera sér hugmynd um kjarna tungumálsins og draga fram það sem greinir þessa hugmynd frá öðrum hugmyndum.

Svo kann að virðast að tilgangur þessarar ráðstefnu felist ekki í öðru. En titill ráðstefnunnar er ekki svohljóðandi: Um eðli (Wesen) tungumálsins. Hann segir einungis: Tungumálið. Við segjum hér ”einungis”, en göngum þá augljóslega út frá mun metnaðarfyllri yfirskrift en þeirri að láta okkur nægja að grafa upp eitthvað sem varðar tungumálið. Þrátt fyrir það er kannski enn erfiðara að tala um tungumálið en að skrifa um þögnina. Við ætlum okkur ekki að ráðast á tungumálið í því skyni að þvinga það undir fyrirfram gefnar hugmyndir. Við viljum ekki festa eðli tungumálsins við sérstakt hugtak svo hægt verði að gera sér altæka nothæfa hugmynd um tungumálið sem allir gætu friðmælst um.

Að grafast fyrir um rætur (erörtern) tungumálsins felst ekki fyrst og fremst í því sjálfu, heldur að leiða okkur að jarðvegi (Ort) þess: leiðsögn inn í atburðinn (Ereignis)[ii]. Við þurfum að hugsa tungumálið sjálft upp á nýtt og ekkert annað. Tungumálið sjálft er tungumálið og ekkert annað. Tungumálið sjálft er tungumálið.

Sá sem hefur gengið í skóla rökfræðinnar og lært að reikna alla hluti út og leiða til æðsta skilnings kallar setningu á borð við þessa merkingarlausa klifun eða tvítekningu. Að tvítaka sama hlutinn: Tungumál er tungumál; hvert leiðir þetta okkur fram á við? Við viljum hins vegar ekki halda áfram. Við vildum eiginlega aðeins ná til þess staðar sem við erum þegar stödd á. Því er spurning okkar þessi: hvað höfum við að segja um tungumálið? Þess vegna spyrjum við: hvernig virkar (west) tungumálið sem tungumál? Við svörum: Tungumálið talar. Er þetta svar meint í alvöru? Væntanlega von bráðar, nefnilega þegar í ljós kemur hvað það merkir að tala.

Þannig kallar hugleiðing um tungumálið á að við hverfum inn í tal tungumálsins, það er að segja að við staðnæmumst ekki í tali okkar sjálfra, heldur tali sjálfs tungumálsins. Einungis þannig mun okkur takast eða mistakast að ná inn í þetta ríki tungumálsins og nema hvernig tal þess segir okkur eðli (Wesen) sitt. Við verðum að gefa tungumálinu orðið. Við myndum ekki vilja rökræða tungumálið á forsendum sem eru ekki þess eigin, heldur komnar utan frá. Við vildum heldur ekki lýsa tungumálinu á forsendum einhvers annars.

Þann 10. Ágúst 1784 skrifaði Hamann til Herders[iii]:

”Ef ég væri jafn mælskur og Demosthenes þá myndi ég ekki þarfnast annars en að endurtaka eitt orð þrisvar: tungumálið er rökhugsun, λσγοϛ (logos). Ég naga þetta hnútubein og held því þráfaldlega áfram allt til dauðs. En fyrir mér ríkir ennþá myrkur yfir þessu hyldýpi. Ég er ennþá að bíða eftir apokalyptískum heimsendaengli er hafi lykil að þessu heljardýpi.”

Fyrir Hamann felst þetta hyldýpi í því að rökhugsunin (Vernuft) sé tungumál. Það er út frá tungumálinu sem hann kemur aftur að tungumálinu í viðleitni sinni að segja hvað rökhugsun sé. Áhorfið á rökhugsunina leiðir hann inn í myrkur hyldýpisins. Stafar þetta einungis af því að rökhugsunin sé falin í tungumálinu, eða er tungumálið sjálft hyldýpið? Við tölum um hyldýpið (Abgrund) þar sem botninn / forsendan (Grund) hverfur og við höfum enga fótfestu (Grund), einmitt þar sem við leitum eftir fótfestu (Grund) til þess að ganga út frá og komast að niður-stöðu (Grund).

Í bili spyrjum við ekki spurningarinnar um hvað felist í rökhugsuninni, heldur snúum okkur strax að tungumálinu og setjum fram sem leiðarljós þessa undarlegu staðhæfingu: tungumál er tungumál. Þessi staðhæfing leiðir okkur ekki að öðrum staðhæfingum sem tungumálið byggir á. Hún segir okkur ekki heldur neitt um það hvort tungumálið sjálft sé grundvöllur einhvers annars. Staðhæfingin: ”tungumál er tungumál” setur okkur á svifflug yfir hyldýpi jafn lengi og við höldum út að hlusta á hana.

Tungumálið er: tungumál.  Tungumálið talar. Þegar við látum okkur falla niður í það hyldýpi sem þessi staðhæfing segir, föllum við ekki niður í tómið.  Við föllum upp á við. Þessar upphæðir opna tiltekið dýpi. Í báðum tilfellum er um útmælda staðsetningu (Ortschaft) að ræða sem við verðum að gera okkur heimakomin í, ef við viljum finna eðli mannsins heimastað.

Hugleiðing tungumálsins merkir þetta: að komast inn í (gelangen) talsmáta tungumálsins (Weise in das Sprechen der Sprache) með sama hætti og gerist þegar hinir dauðlegu finna sér þar samastað.

Hvað merkir þá að tala? Viðtekin skoðun svarar þessu svona: að tala felur í sér virkjun þeirra tækja sem framkalla hið heyranlega hljóð. Að tala er hin hljóðbæra tjáning og deiling mannlegra tilfinninga (Gemütsbewegungen). Þær eru bornar uppi af hugsunum. Með slíkri skilgreiningu talmálsins er þrennt innifalið:

Í fyrsta lagi – og því mikilvægasta – er tungumálið skilið sem tjáning. Hugmyndin um tungumálið sem tjáningu er sú algengasta. Hún gengur út frá hugmyndinni um  innri veruleika sem brýst út. Ef litið er á tungumálið sem tjáningu, þá er um útvortis fyrirbæri að ræða, einnig þegar því er lýst yfir að tjáningin vísi til hins innri heims.

Í öðru lagi er litið á tungumálið sem mannlega virkni. Samkvæmt því verðum við að segja: Maðurinn talar og hann talar alltaf tiltekið tungumál. Því getum við ekki sagt: Tungumálið talar, því það fæli í sér að við segðum að tungumálið virki og móti manninn að fyrra bragði. Það fæli í sér að maðurinn væri fyrirheit tungumálsins (ein Versprechen der Sprache).

Að lokum er tjáningarvirkni mannsins alltaf fólgin í ímyndun og framsetningu hins raunverulega og óraunverulega.

Það hefur lengi verið vitað að ofangreindar skilgreiningar eru ófullnægjandi í viðleitninni að ná utan um eðli tungumálsins. En þar sem menn ganga engu að síður út frá tjáningunni, þá er henni gefin víðari skilgreining, þar sem hún er talin meðal margra annarra athafna í þeirri heildarhagfræði mannlegrar virkni sem maðurinn  aðhefst í viðleitninni að skapa sjálfan sig.

Andstætt þeim skilningi á tungumálinu að það tilheyri manninum einum, hafa aðrir haldið því fram að tungumálið eigi sér guðdómlegan uppruna. Samkvæmt upphafsorðum Jóhannesar-guðspjalls var orðið í upphafi hjá Guði. Með þessu vildu menn ekki bara frelsa upprunavandann úr viðjum hinnar vitsmunalegu rökhyggju, heldur hafa menn líka viljað smeygja sér undan þeim skorðum sem felast í einskærri rökfræðilegri lýsingu tungumálsins. Gegn þeirri útilokandi áráttu að skýra merkingar orðanna í hugtökum hafa menn sett hið myndræna og táknræna eðli tungumálsins í forgrunn. Þannig hafa menn leitað til líffræðinnar, til hinnar heimspekilegu mannfræði, til félagsfræðinnar og geðlæknisfræðanna og guðfræðinnar og skáldskaparins í eftirsókn eftir útvíkkuðum lýsingum og skilningi á málfarslegum fyrirbærum.

Engu að síður hafa menn í öllum tilfellum gengið út frá þeim hugmyndum um tungumálið sem  hafa verið viðteknar og ríkjandi frá  ómunatíð. Þetta hefur orðið til þess að styrkja viðtekna skoðun á eðli tungumálsins. Þannig búum við enn við þennan málfræðilega og rökræna skilning á tungumálinu, skilning tungumálaheimspekinnar og málvísindanna, hann hefur haldist óbreyttur í tvö og hálft árþúsund, þrátt fyrir að þekkingin á tungumálinu hafi bæði vaxið, aukist og breyst.

Hægt væri að líta á þessar staðreyndir sem eins konar sönnun fyrir ótvíræðu réttmæti ríkjandi hugmynda um tungumálið. Réttmæti þess skilnings á tungumálinu að það sé heyranleg tjáning innra tilfinningaróts, að það sé mannleg virkni og að það sé myndræn framsetning, þessi skilningur verður varla dreginn í efa af neinum, hvað þá heldur að hann sé gagnslaus og ekki á vetur setjandi.

Sá skilningur á tungumálinu sem hér hefur verið rakinn er réttur, því hann beinist að þeim sem hafa getu til rannsóknar á málfarslegum birtingarmyndum síns tíma. Innan ramma þessa réttmætis eru einnig á sveimi allar þær ósvöruðu spurningar sem lýsingar og útskýringar málfarslegra birtingarmynda vekja.

Í raun og veru höfum við ekki veitt þessu undarlega hlutverki hinna réttmætu hugsana um tungumálið nægilega athygli. Þar sem þessi skilningur er óumdeildur, þá telur hann sig ná yfir öll svið ólíkra vísindalegra rannsóknaraðferða á tungumálinu. Þær byggja allar á fornri hefð. Engu að síður horfa þær algjörlega framhjá elstu eðliseiginleikum tungumálsins. Þannig gerist það að þrátt fyrir aldur sinn og skýrleika hafa þessar aðferðir aldrei nálgast tungumálið sem tungumál.

Tungumálið talar. En hvernig gerist þetta tal? Hvar er slíkt tal að finna? Fyrst og fremst í hinu talaða máli. Það er einmitt þar sem talið fullgerir sig. Tungumálið nemur ekki staðar við hið talaða orð. Talið varðveitist í því sem sagt er. Talið sameinar varðveisluhátt sinn og það sem eðli málsins samkvæmt hefur varðveislugildi í gegnum það sem sagt er. Hins vegar gerist það oftast og er of algengt að hið talaða berist til okkar eins og þátíð hins talaða.

Ef við ætlum okkur hins vegar að leita uppi tal tungumálsins í hinu talaða væri tilvalið að að leita uppi hið hreina talmál, í stað þess að grípa á lofti tilfallandi orð. Hreint tal finnum við í þeirri fyllingu talsins sem er einkenni hins talaða og geymir upphaf þess. Hreint tal finnum við í ljóðinu.

Fyrst um sinn verðum við að láta þessa staðhæfingu standa órökstudda.  Við þurfum ef mögulegt reynist að heyra hið hreina tal úr ljóði. En hvaða ljóð á að tala þannig til okkar? Hér stendur okkur einungis til boða val sem er geðþóttanum háð. Hvernig? Í gegnum það sem við höfum skynjað sem grunneðli (das Wesende) tungumálsins þegar við hugleiðum tal tungumálsins.

Út frá þessum skilmálum veljum við tiltekið ljóð sem hreint tal, ljóð sem umfram önnur ljóð auðveldar okkur fyrstu skrefin í því að upplifa þessa skilmála. Við hlustum á hið talaða. Ljóðið hefur yfirskriftina:

 

EIN WINTERABEND

Wenn der Schnee ans Fenster fällt,
lang die Abendglocke läutet,
vielen ist der Tisch bereitet
und das Haus ist wohlbestellt.

Mancher auf der Wanderschaft
kommt ans Tor auf dunklen Pfaden.
Golden blüht der Baum der Gnaden
aus der Erde kühlem Saft.

Wanderer tritt still herein;
Schmerz versteinerte die Schwelle.
Da erglänzt in reiner Helle
auf dem Tische Brot und Wein.

 

VETRARKVÖLD

Þegar fennir á gluggann

Heyrist klukknahljómur aftansöngsins lengi

Fjölmörgum er boðið til borðs

Og allt húsið er tandurhreint

Margur farandmaðurinn

kemur að dyrum þess eftir dimmum slóðum

Gylltur er blómi Náðartrésins

Nært af köldum safa jarðar

Förumaðurinn gengur hljóðlátur inn

Sársaukinn steingerði þröskuldinn

Þar blasa við í hreinni birtu

Á borðunum brauð og vín.[iv]

Ljóðið orti Georg Takl. Höfundurinn skiptir ekki máli í þessu tilfelli, ekki hér frekar en í öðrum tilfellum vel heppnaðra ljóða. Það velheppnaða í ljóðinu felst einmitt í að hægt er að horfa framhjá nafni og persónu höfundarins.

Ljóðið er byggt á þrem erindum. Gerð erindanna og rímsins má auðveldlega lesa út frá lögmálum ljóðlistarinnar. Innihald ljóðsins er auðskilið. Ekkert orð er þarna að finna sem virkar framandlegt eða óljóst í sjálfu sér. Engu að síður eru sumar ljóðlínurnar undarlegar, til dæmis þriðja og fjórða lína annars erindis:

Golden blüht der Baum der Gnaden
aus der Erde kühlem Saft.

(Gyllt er blómgun Náðartrésins / Nært af köldum safa jarðar)

Einnig kemur önnur lína annars erindis okkur á óvart:

Scmerz versteinerte die Schwelle

(Sársauki steingerði þröskuldinn)

Engu að síður búa þessar tilteknu línur yfir sérstakri fegurð gamalla mynda. Þessi fegurð eykur á áhrifamátt ljóðsins og styrkir fagurfræðilega byggingu þess.

Ljóðið lýsir vetrarkvöldi. Fyrsta erindið lýsir því sem gerist utan dyra: snjókoma og klukknahljómur aftansöngsins. Það sem gerist úti fyrir snertir innri dvalarstað mannsins. Snjórinn fellur á gluggann. Klukknahljómurinn heyrist í hverju húsi. Inni er allt til reiðu, og búið að leggja á borð.

Annað erindið kallar fram mótsetningu. Andspænis fjöldanum sem gerir sig heimakominn við matarborðið sjáum við ”margan” ráfa vegvilltan á dimmum slóðum. Engu að síður leiða þessar hugsanlega illu slóðir smám saman að dyrum hins búsældarlega húss. Þessu er þó ekki lýst í smáatriðum. Þess í stað nefnir ljóðið tré náðarinnar.

Þriðja erindið býður förumanninum að ganga úr myrkrinu inn í upplýstan bæinn. Hús fjöldans og stofuborð daglegra máltíða hafa umbreyst í Guðshús með altari.

Hægt væri að greina inntak ljóðsins og afmarka form þess enn frekar, en með slíkri nálgun værum við enn lokuð inni í þeirri hugmynd um tungumálið sem hefur verið viðtekin í árþúsundir. En samkvæmt henni er tungumálið tjáning mannsins á innri hræringum tilfinninganna og þeirri heimsmynd sem stýrir þeim. Væri hægt að afskrifa þessa hugmynd um tungumálið? Hvað kallar á slíka afskrift? Í eðli sínu er tungumálið hvorki tjáning né verknaður mannsins. Tungumálið talar.

Við leitum nú að tali tungumálsins í ljóðinu. Því næst beinist leitin að ljóðrænunni í hinu talaða.

Yfirskrift ljóðsins er ”Ein Winterabend” (Vetrarkvöld). Við væntum þess að finna í ljóðinu lýsingu á vetrarkvöldi, hvernig það er í raun og veru. Ljóðið eitt og sér lýsir hvorki stað né stund slíks vetrarkvölds. Það lýsir hvorki yfirstandandi vetrarkvöldi né heldur vill það gefa fjarverandi vetrarkvöldi yfirskin nærveru og miðla áhrifum slíks tilbúnings.

Auðvitað ekki, munu menn segja. Allur heimurinn veit að ljóð er skáldskapur. Ljóðið skáldar einnig þar sem það virðist vera að lýsa. Með skáldskapnum (dichtend) ímyndar skáldið sér mögulega nærveru (Anwesesendes) í eigin hugarheimi (Anwesen). Þegar ljóðið (Gedicht) hefur verið skáldað (gedichtet) birtir það slíka ímynd (das so Vorgebildete) fyrir hugskotssjónum okkar … Í tali ljóðsins talar hið skáldlega ímyndunarafl. Tal ljóðsins er það sem skáldið segir fram úr sjálfu sér. Þessi framsegð (Ausgesprochene) ljóðsins talar þar sem hún leggur fram inntak sitt. Tungumál ljóðsins er þannig framsegð (Aussprechen) í margvíslegum skilningi. Tungumálið sýnir sig óumdeilanlega sem tjáning. Þessi setning gengur hins vegar gegn staðhæfingunni: Tungumálið talar, að því gefnu að talið sé ekki í eðli sínu tjáning.

Jafnvel þegar við reynum að skilja tal ljóðsins út frá skáldskapnum birtist okkur hið talaða eins og af nauðsyn  óhjákvæmilega og alltaf síendurtekið sem úttöluð tjáning (ausgesprochenes Aussprechen). Tungumál er tjáning. Hvers vegna göngumst við ekki inn á þessa staðreynd? Vegna þess að hið réttmæta og augljósa í þessum skilningi á tungumálinu dugar ekki – ef við ætlum að nota hann til að grafast fyrir um eðli þess.

Hvða mælikvarða leggjum við á þetta dugleysi? Þurfum við ekki að binda okkur við annan mælikvarða ef við ætlum okkur að meta þessa vangetu? Vissulega. Slíkur mælikvarði birtist í þessari staðhæfingu: tungumálið talar. Fram að þessu hafði þetta leiðarljós (tungumálið talar) einungis haft það hlutverk að losa okkur undan þeim blýfasta vana að skilja tungumálið sem tjáningu í stað þess að horfa á það sjálft.

Ástæða þess að við völdum þetta ljóð er sú, að af óskilgreindum ástæðum bauð það upp á eiginleika og frjósamt sjónarhorn sem hentuðu tilraun okkar til að rannsaka tungumálið.

Tungumálið talar. Það þýðir jafnframt og einkum: Tungumálið talar.

Tungumálið? Og ekki maðurinn?

Kallar þessi leiðarregla ekki á eitthvað ennþá fjarstæðukenndara? Viljum við ennþá afneita því að maðurinn hafi það í eðli sínu að hann talar? Engan veginn. Við erum jafn langt frá því að neita þessu eins og að neita þeim möguleika að hægt sé að flokka birtingarmyndir tungumálsins undir hugtakið ”tjáning”.

Engu að síður spyrjum við: Í hvaða skilningi talar maðurinn? Við spyrjum: hvað er talið?

Wenn der Schnee ans Fenster fällt,
lang die Abendglocke läutet,

(Þegar fennir á gluggann / Heyrist klukknahljómur aftansöngsins lengi)

Þetta tal nefnir snjóinn þar sem hann fellur linnulaust á rúðuna að nýliðnum degi, á meðan klukkur aftansöngsins hljóma. Allt sem líður er lengur að líða þegar snjórinn fellur. Þess vegna hljóma kvöldklukkurnar lengi, sem annars hafa sinn strangt afmarkaða tíma. Talið nefnir stund vetrarkvöldsins.

Hvað er þetta að nefna? Felst það einungis í því að festa orð tiltekins tungumáls á þekkta hluti og atvik: snjó, klukku, glugga, að falla, – að hljóðmerkja með orðunum og tungumálinu? Nei. Að nefna felur ekki í sér útdeilingu á titlum, álagningu orða, heldur að ákalla með orðinu (ruft ins Wort). Að nefna er ákall (Das Nennen ruft). Ákallið færir hið ákallaða nær okkur. Engu að síður flytur þessi köllun hið ákallaða ekki hingað, til þess að staðsetja það og vista í næstu nánd viðstaddara og yfirbuga þá þannig. Vissulega kallar ákallið hér. Um leið og ákallið gerir tilkall hefur það ákallað hið áður ónefnda til tiltekinnar nærveru. Þannig flytur það vist (Anwesen) hins áður ókallaða í vissa nálægð. Einungis með því að kalla hefur ákallið kallað hið tilkallaða. Hvert? Út í buskann, fjarvistin (Abwesendes) býr enn í hinu tilkallaða.

Ákallið kallar á nálægð. En ákallið hrifsar engu að síður ekki hið ákallaða úr fjarska sínum. Ákallið kallar í sig sjálft, og þar með um leið hingað og þangað út í fjarskann. Snjókoman og klukknahljómurinn kalla til okkar hér og nú í ljóðinu. Þau eru til staðar hér, í hérvistinni (Anwesen), í fjarvistinni (Abwesen). Snjókoman og hljómur kvöldklukknanna eru töluð til okkar hér og nú í kvæðinu. Þau dvelja í ákallinu.  Engu að síður falla þau engan veginn undir hér og nú í veru þessa fundarsalar. Hvor veran er æðri, sú sem er áþreifanlega andspænis okkur eða sú sem er ákölluð?

vielen ist der Tisch bereitet
und das Haus ist wohlbestellt.

(Fjölmörgum er boðið til borðs / Og allt húsið er tandurhreint)

Þessar tvær ljóðlínur tala eins og boðberar (Aussagesätse), rétt eins og þær festi í sessi hlutlægan veruleika. Hið endurtekna og áhersluríka ”ist” felur í sér þennan hljóm. Engu að síður er þetta tal ákall. Ljóðlínurnar færa hið dúkaða borð og hið hvítþvegna hús í þá nálægð sem inniheldur fjarlægð.

Hvað kallar fyrsta erindið á? Það kallar til hlutanna, segir þeim að koma. Ekki í návist (Anwesende) þess sem er til staðar (Anwesende), ekki til þess að færa borðið sem nefnt er í ljóðinu hingað inn í upptekna sætaröðina. Sá áfangastaður sem falinn er í ákallinu er í fjarveru (Abwesen) öruggrar nærveru. Slík koma felur í sér að hið nefnda ákall komi. Að það fái heimboð. Það býður hlutunum inn, það segir að þeir komi mannfólkinu við. Snjókoman leiðir fólkið inn í nótt hins myrkvaða himins. Hljómur kvöldklukkunnar leiðir fólkið sem þá dauðlegu til móts við hið Guðdómlega. Húsið og borðið binda hina dauðlegu við Jörðina. Þessir nefndu hlutir tengja saman, og ákalla um leið, Himinn og Jörð, hina Dauðlegu og hina Guðdómlegu.

Þessi Ferna felur í sér upprunalega sameiningu. Hlutirnir láta Fernu (das Geviert[v]) þessara fjögurra mætast. Þetta stefnumót viðskilnaðarins (versammelende Verweilentlassen[vi]) er hluttekning hlutanna[vii] (das Dingen der Dinge). Við köllum þessa einingu Fernunnar -Himins og Jarðar, þess Guðdómlega  og hinna dauðlegu – sem á sér stað við hluttekningu hlutanna (das Dingen der Dinge) Heiminn[viii]. Með því að nefna hlutina eru þeir kallaðir til hluttekningar (Dingen) sinnar. Með hluttekningu sinni opna þeir Heim sem hlutirnir dvelja í (weilen) og eiga hlutdeild í (je die welligen sind). Með hluttekningu sinni bera hlutirnir fram (austragen) Heiminn. Okkar gamla tungumál kallar það Austragen (út-burð): bern, bären, og afleiddar myndir ”gebären” (bera) og ”Gebärde” (byrði)[ix]. Hluttekning er að gera hlutinn að hlut (Dingend sind die Dinge Dinge). Með hluttekningunni geta þeir af sér (gebärden) Heim.

Fyrsta erindið kallar hlutina til hluttekningar sinnar, segir þeim að koma. Slík segð, sem ákallar hlutina, kallar þá inn og kallar þá um leið til hluttekningar og fela þá þannig Heiminum sem þeir birtast í.  Þess vegna nefnir fyrsta ljóðlínan ekki bara hluti. Hún nefnir um leið Heim. Hún ákallar fjöldann (Vielen), sem á hlutdeild í Fernu Heimsins sem hinir dauðlegu. Hlutirnir skuld-binda (hlut-gera; be-dingen)[x] hina Dauðlegu. Þetta merkir nú: Hlutirnir heimsækja hina Dauðlegu ávallt og einkum með Heiminum. Fyrsta erindið talar þar sem það lætur hlutina koma.

Annað erindið talar með öðrum hætti en það fyrsta. Vissulega kallar það líka. En tilkall þess nefnir og ákallar fyrst hina dauðlegu:

Mancher auf der Wanderschaft…

(Margur farandmaðurinn kemur…)

Ekki eru allir dauðlegir ákallaðir hér, ekki fjöldinn (die Vielen), heldur einungis ”Margur”. Þeir sem ferðast um dimma vegu. Þessir dauðlegu umbera dauðann sem förumennskuna til dauðs. Í dauðanum mætast stærstu leyndardómar verunnar. Dauðinn (der Tot) hefur yfirstigið (ὕberholt) sérhvert andlát (Sterben). Þeir sem koma ”úr förumennskunni” (auf der Wanderschaft) þurfa fyrst að ganga í gegnum Hús og Dúkað borð á sinni dimmu slóð, ekki bara sjálfs sín vegna, heldur vegna fjöldans (die Vielen). Því fjöldinn telur að hann sé, hafi honum einungis auðnast að komast í hús, setjast við dúkað borð og gerast hlutbundinn (be-dingt -skuldbundinn).

Annað erindið byrjar þar sem ”Margur” hinna dauðlegu er ákallaður. Enda þótt hinir dauðlegu tilheyri Fernu Heimsins ásamt með hinum Guðdómlegu og Jörðinni og Himninum, þá er Heimurinn ekki ákallaður í fyrstu tveim línunum í öðru versi. Frekar nefna þær hlutina, eins og gerðist í fyrsta versinu, en bara í annari röð: dyrnar, hina dimmu vegslóð; það er fyrst í tveim síðari línum annars erindisins sem heimurinn er í raun og veru ákallaður. Fytrst í báðum seinni ljóðlínum annars erindis er heimurinn kallaður til sögunnar. Allt í einu er eitthvað allt annað í myndinni:

Golden blüht der Baum der Gnaden
aus der Erde kühlem Saft.

(Gylltur er blómi Náðartrésins / Nært af köldum safa jarðar.)

Tréið stendur rótfast í jörðu. Blómstrun þess er svo hrein að það opnar sig fyrir blessun Himinsins. Toppur trésins er ákallaður. Það sameinar í eitt vímu blómgunarinnar og allsgáða hollustu úr safa jarðarinnar. Hófsamur vöxtur Jarðarinnar og örlæti Himinsins vinna saman.

Ljóðið nefnir Tré Náðarinnar. Hin hreina blómgun þess getur af sér óverðskuldaðan ávöxt: heilagur bjargvættur sem hinir dauðlegu unna. Himinn og Jörð sameinast í gylltum blóma trésins, Guðir og dauðlegir. Þeirra sameiginlega Ferna (Geviert) er Heimurinn. Orðið ”Heimur” er ekki lengur notað í frumspekilegri merkingu. Það merkir hvorki ímynd hins veraldlega alheims náttúru og sögu, né heldur guðfræðilega ímynd sköpunarinnar (mundus), né heldur merkir það einfaldlega heildarmynd þess sem er til staðar (Anwesende), (kosmos).

Þriðja og fjórða ljóðlínan í öðru erindi ljóðsins kalla á Tré Náðarinnar. Þær kalla á heiminn að koma. Þær ákalla Heims-Fernuna og kalla þannig Heiminn til hlutanna. Ljóðlínurnar hefjast með orðinu ”Golden” (gylltur). Til þess að skilja betur þetta orð og áköllun þess erum við minnt á ljóð eftir Pindar (Isthm. V.). Í upphafi þessa ljóðs kallar skáldið gullið ”perioosion pantoon”, það sem gegnumlýsir allt (panta), allt sem umlykur það.  Dýrð gullsins umlykur og verndar allt nálægt (Anwesende) í ljóma sínum.

Eins og ákallið sem nefnir hlutina í nálægð og fjarlægð, þannig kallar segðin (Sagen) sem nefnir Heiminn og biður um nálægð hans og fjarlægð í senn. Hún felur Heiminn í skaut hlutanna um leið og hún gætir hlutanna í dýrðarljóma Heimsins. Þetta gæðir hlutina eðli (Wesen) sínu. Hlutirnir geta af sér (gebärden) Heim. Heimurinn ann (gönnt) hlutunum.

Tal fyrstu tveggja erindanna talar þar sem það kallar (heisst)[xi] hluti til Heimsins og Heim til hlutanna. Rof (Reissen) þeirra er í báðum tilfellum skorið (geschieden) en ekki aðskilið (getrennt). Ekki er heldur um samtengingu að ræða, því Heimur og hlutir standa ekki hlið við hlið. Þeir gagntaka (durchgehen) hvorn annan. Við þessa gagntekningu fara þessir þættir yfir miðju. Þessi miðja felur í sér einingu þeirra. Í gegnum þessa miðjulínu eru þeir nákomnir. Þýsk tunga notar hugtakið das Zwischen (millibilið) til að nefna miðju milli tveggja hluta. Latnesku tungumálin notast við hugtakið inter. Þetta orð er skylt þýska orðinu ”unter” (í merkingunni ”á milli”, ”unter Uns”). Nánd og innileiki Heims og hlutar er ekki sambræðsla. Nándin og innileikinn[xii] (Innigkeit) ríkja aðeins þar sem Heimur og hlutur eru og verða áfram skýrt aðgreind. Á milli þeirra tveggja, milli hlutar og Heims, í nánd þeirra og innileika hefur aðskilnaðurinn (der Schied) undirtökin.

Innileiki Heims og hlutar dvelur í aðskilnaðnum (Schied), hann dvelur í mis-muninum (Unter-Schied). Orðið ”Unter-Schied” (mismunur) er hér undaskilið hefðbundnum skilningi. Það sem orðið ”der Unter-Schied” merkir hér og nú er ekki almennt hugtak er felur í sér mismun af margvíslegum toga. Sá mismunur (Unter-Schied) sem hér er nefndur er aðeins þessi eini.  Hann er einstakur. Mis-munurinn sem hér um ræðir heldur sig fyrir utan miðjuna sem heimurinn og hlutirnir sameinast um.

Innileiki mis-munarins (des Unter-Schiedens) er einingarmerki Δίαϕορά (diaphora; gegnflæðis eða útgufunar). Mis-munurinn lætur heiminn verða Heim og ljær hlutunum hlutareðli sitt. Fullnusta mis-munarins færir báða hluta nær hvor öðrum. Hún gerist ekki eftirá, þar sem heimur og hlutir eru bundnir saman með aðfenginni miðjulínu. Sem miðjulína miðlar mis-munurinn fyrst  Heim og hlut eðli sínu, það er að segja í  einingu sem hann lætur gerast.[xiii]

Hugtakið ”mis-munur” felur þannig ekki lengur í sér þá aðgreiningu sem áður var skilgreind samkvæmt hugmyndum okkar sem aðskilnaður hluta. Mis-munurinn er enn síður samband er ríki á milli Heims og hlutar þannig að ímyndin sem sýnir það geti skilgreint hann. Mis-munurinn verður ekki ályktaður út frá Heimi og hlut eins og um upphafið samband þeirra væri að ræða. Mis-munur Heims og hlutar gerir hlutunum kleift (ereignet) að geta af sér heim og hann gerir Heiminum kleift að unna (Gönnen) hlutunum.

Mis-munurinn felur því hvorki í sér aðgreiningu né samband. Mis-munurinn er í hæsta lagi vídd hlutar og Heims. En í þessu tilfelli felur ”vídd” heldur ekki í sér neitt fyrirfram gefið umfang sem hitt eða þetta spannar (ansiedelt). Mis-munurinn er víddin, að því marki sem hún metur (er-misst) Heiminn og hlutinn innan sinna marka. Mat hennar opnar möguleika úti og inni-rýmis Heims og hlutar. Slík opnun er sá háttur mis-munarins að gagntaka (durchmessen) báða hluta. Sem miðja Heims og hlutar skilgreinir mis-munurinn eðli þeirra. Ákall (heissen) sem kallar Heim og hlut er hin eiginlega nafngift: mis-munurinn.

Fyrsta erindi ljóðsins kallar hlutina til leiks, þá sem geta af sér Heim hlutanna (dingende Welt). Annað erindið kallar á Heiminn, sem ann hlutum heimsins (weltende Dinge).  Þriðja erindið kallar miðju Heims og hlutar til leiks: útrás innileikans (Austrag der Innigkeit). Þriðja erindið hefst því með ákveðnara ákalli:

Wanderer tritt still herein;

(Förumaður gengur hljóðlátur inn)

Hvert? Erindið skýrir það ekki nánar. Hins vegar ákallar það inngöngu förumannsins í kyrrðinni. Kyrrðin vakir yfir þröskuldinum. Og hann fær óvænt ákall:

Schmerz versteinerte die Schwelle.

(Sársauki steingerði þröskuldinn)

Í öllu ljóðinu er einungis talað um hið liðna í þessu erindi. Það nefnir sársaukann. Hvaða? Erindið segir aðeins:

”Sársauki…” Hvar og úr hvaða fjarska er kallað til sársaukans?

 Schmerz versteinerte die Schwelle.

”…steingerði…” þetta er eina orðið í öllu ljóðinu sem nefnir tímavídd hins liðna. Engu að síður nefnir það ekki liðna tíð, ekki það sem þegar er liðið. Það nefnir það sem er (wesendes) nýverið. Í veru hins steingerða býr fyrst og fremst þröskuldurinn.

Þröskuldurinn er burðarásinn sem ber allan innganginn. Hann ber uppi miðjuna þar sem innrýmið og útrýmið skerast. þröskuldurinn ber millibilið (das Zwischen). Það sem fer inn og út um millibilið treystir á styrk hans. Áreiðanleiki miðjunar verður að vera hinn sami fyrir alla umgengni, inngang og útgang. Umgangur (Austrag) millibilsins kallar á endingu og þar með hörku. Þröskuldurinn er harður sem útgangur (Austrag) millibilsins vegna þess að sársaukinn hefur steingert hann. En hinn steingerði sársauki hefur ekki sótt hörku sína í þröskuldinn til forherðingar. Sársaukinn í þröskuldinum varðveitist sem sársauki.

Hvað er þá sársauki? Sársaukinn rífur í. Hann er rifan (Riss). En hann rífur ekki í tætlur. Sársaukinn rífur vissulega í sundur, hann aðskilur en þó þannig að hann tekur allt til sín, samantekið eins og rispa eða áverkar útlínunnar sem aðgreinir og tengir saman. Sársaukinn er eins og rauf rispunnar. Hann er þröskuldurinn. Hann dregur fram millibilið, miðju hins tvískipta. Sársaukinn fyllir rauf mis-munarins (Unter-Sciedes). Sársaukinn er sjálfur mis-munurinn.

Schmerz versteinerte die Schwelle.

Ljóðlínan kallar á mis-muninn, en hún hugsar hann eiginlega ekki né heldur nefnir hún eðli hans með þessu nafni. Ljóðlínan ákallar rof millibilsins, hina sameinandi miðju, sem í innileika sínum gegntekur þungun (Gebärde) hlutanna og velþóknun Heimsins.

Er innivera (Innigkeit) mis-munarins þá sársauki fyrir Heiminn og hlutinn? Vissulega. Við þurfum bara ekki lengur að hugsa sársaukann mannfræðilega sem tilfinningu er gerir okkur sorgmædd. Við þurfum ekki lengur að hugsa innileikann sálfræðilega sem svæðið þar sem tilfinningasemin þrýfst.

Schmerz versteinerte die Schwelle.

 Sársaukinn hefur þegar bætt þröskuldinum við byrði sína. Mis-munurinn tilheyrir þegar þeirri forreynslu (Gewese) sem leiðir til fullnustu (Austrag) Heims og hlutar. Hvernig í ósköpunum ?

Da erglänzt in reiner Helle
auf dem Tische Brot und Wein.

(Þar blasir við í hreinni birtu / Á borðunum brauð og vín.)

Hvar ljómar hið hreina ljós? Á þröskuldinum, í útrás (Austrag) sársaukans. Rifa (Riss) mis-munarins lætur hina hreinu birtu ljóma. Hin lýsandi samfella hans veldur uppljómun Heimsins í sjálfum sér. Rifa mis-munarins  tæmir (enteignet) Heiminn í þeirri fullnustu sem hlutirnir njóta. Fyrir tilverknað uppljómunar Heimsins í sínum gyllta loga birtast einnig ljómandi brauð og vín. Þessir stórbrotnu hlutir ljóma í einfaldleika hlutarins. Brauð og vín eru ávextir Himins og Jarðar, gjöf hinna Guðdómlegu og hinna dauðlegu. Brauð og vín sameina í sér þessa fernu með einfaldleik fjórföldunarinnar (Vierung). Þessir tilnefndu hlutir, brauð og vín, eru í einfaldleika sínum þar sem þungun þeirra af völdum velvildar Heimsins er umsvifalaust uppfyllt. Slíkir hlutir njóta góðs af því að Ferna Heimsins hefur tekið sér bólfestu í þeim.  Hið hreina ljós Heimsins og hinn einfaldi ljómi hlutanna gagntaka millibil sitt, mis-muninn.

Þriðja erindið kallar Heim og hluti að miðju innileika (Innigkeit, hugsanlega ”innivera”) þeirra. Rauf (die Fuge) sambands þeirra er sársaukinn. Þriðja erindið safnar saman kalli hlutanna og kalli Heimsins. Síðan kallar þriðja erindið upprunalega á einlægni innrofsins (des innigen Reissens), sem kallar á mis-muninn sem látinn er ónefndur. Hið upprunalega ákall sem segir tikomu Innileika Heims og hlutar, er hið eiginlega ákall. Þetta ákall er eðli talmálsins. Talmálið dvelur í talanda ljóðsins.  Það er talandi tungumálsins.

Tungumálið talar. Það talar um leið og það kallar hið ákallaða, Hlut-Heiminn og Heims-hlutinn til millibils mis-munarins. Það sem þannig er ákallað er um leið kallað til innkomu frá mis-muninum sem varðveitir (befehlen) það. Hér hugsum við út frá hinum gamla skilningi á Befehlen, sem við þekkjum úr orðatiltækinu ”Befiehl dem Herrn deine Wege” (Fel vegferð þína í hendur Herrans). Kall tungumálsins felur hið tiltalaða með þessum hætti í vörslu mis-munarins.  Mis-munurinn lætur hluttekningu hlutarins hvíla í faðmi Heimsins. Mismunurinn afsalar hlutnum í hvílu Fernunnar. Slíkt afsal rírir alls ekki hlutinn. Það upphefur hlutinn til sjálfs sín: að hann gangi inn í Heiminn. Að bjarga til hvílu er kyrrðin. Mis-munurinn róar hlutinn sem hlut í Heiminum.

Slík værð gerist þó aðeins með þeim hætti að Ferna Heimsins (das Geviert) uppfylli jafnframt þungun (Gebärde) hlutarins  að sama skapi og kyrrðin unnir hlutnum því að dvelja í Heiminum. Mismunurinn veitir tvöfalda kyrrð. Hann veitir kyrrð þar sem hann nýtur velþóknunar Heimsins. Hann veitir kyrrð þar sem hann lætur Heiminn njóta sín í hlutnum. Kyrrðin raungerist með tvöfaldri kyrrðarvirkni mis-munarins.

Hvað er kyrrðin? Hún takmarkast engan vegin við hið hljóðlausa. Það felur einungis í sér að viðhalda hreyfingarleysi hljómsins (Tönens) og hljóðanna. En hreyfingarleysið verður hvorki hamið með kæfingu hljómsins né heldur er það sjálft hið eiginlega værðarmeðal. Hreyfingarleysið verður ef svo mætti segja, hin hliðin á rósemdinni. Hreyfingarleysið er sjálft háð kyrrðinni.  Eðli kyrrðarinnar er hins vegar fólgið í því að hún róar niður. Sem róandi meðal værðarinnar er kyrrðin satt að segja alltaf á meiri hreyfingu en allar aðrar hreyfingar og ávallt í meiri viðbragðsstöðu en sérhver hreyfing.

Mis-munurinn róar hins vegar með tvennu móti: með því að færa hlutina að kjarna þeirra sem hlut, og Heiminn að kjarna sínum sem Heimur. Með slíkri róun verða hluturinn og Heimurinn aldrei til þess að veikla mis-muninn. Öllu heldur viðhalda þau honum í kyrrðarviðleitni sinni þar sem mis-munurinn er einmitt kyrrðin sjálf.

Með því að róa hluti og heiminn og leiða þá til þess að vera þeir sjálfir kallar mis-munurinn Heiminn og hlutina að línu innveru (Innigkeit) sinnar. Það er mis-munurinn sem kallar. Mis-munurinn kallar báða til sín þar sem hann kallar þá í rifuna, sem er hann sjálfur. Þetta ákall til samfundar er hljómburður (Läuten). Með þessu á sér stað allt annað en hreinn tilbúningur og hrein útbreiðsla hávaða.

Þegar mis-munurinn safnar Heimi og hlutum saman í einfaldleika sársauka innverunnar merkir það að leiða báða aðila að eigin kjarna (Wesen). Mis-munurinn er ákallið (das Geheiss) sem sérhvert kall á uppruna sinn í, þannig að áklallið tilheyri hverjum og einum. Ákall mis-munarins hefur þegar safnað til sín öllum tilköllum. Hið samansafnaða hróp (Rufen), sem sameinast í ákallinu, er hljómurinn (das Läuten) sem klukknahljómur (Geläut).

Ákall (das Rufen) mis-munarins er hin tvíþætta kyrrð. Hið sameinaða kall, ákallið sem mis-munur Heims og hluta kallar, er ákall kyrrðarinnar. Tungumálið talar þar sem ákall mis-munar Heims og hluta lætur í sér heyra í innileika sínum.

Tungumálið talar eins og klukknahljómur kyrrðarinnar. Kyrrðin róar um leið og hún ber Heiminn og hlutina að kjarna sínum. Atburður mis-munarins felst í að leiða Heim og hlut út í viðmót kyrrðarinnar.Tungumálið, hljómur kyrrðarinnar, er að því marki sem það tileinkar sér mis-muninn. Vera tungumálsins er tilkoma mis-munarins.

Hljómur kyrrðarinnar er á engan hátt mannlegur. Þvert á móti er hið mannlega í eðli sínu talandi. Þetta orð ”talandi” merkir hér: það sem tilheyrir tali tungumálsins.

Mannseðlið sem þannig er yfirtekið (ὕberereignet), hefur með þeim hætti  komist til sjálf sín að það er á valdi klukknahljóms kyrrðarinnar og eðlis tungumálsins til frambúðar.

Slík yfirtaka gerist að því tilskyldu að eðli tungumálsins, klukknahljómur kyrrðarinnar og tal hinna dauðlegu þarfnist þess að klukknahljómur kyrrðarinnar hljómi fyrir hlustum hinna dauðlegu

Að því marki sem mennirnir leggja hlustir sínar við klukknahljóm kyrrðarinnar megna hinir dauðlegu að láta til sín heyra á sínu tungumáli.

Hið dauðlega tal er nefnandi tilkall, ákall um komu hlutanna og Heimsins út úr eifaldleika mis-munarins.

Hreint ákall hins dauðlega tals er talandi ljóðsins. Eiginleg ljóðlist er aldrei einskorðuð við upphafningu á hljómi (Melos) hversdagsmálsins. Miklu frekar er því þveröfugt farið: hversdagslegt talmál er gleymt og þar með brúkað ljóð, sem varla gefur frá sér nokkuð ákall. Andstæða hins hreina tals, ljóðsins, er ekki óbundið mál. Hreinn prósi er aldrei ”prósalegur”. Hann er jafn skáldlegur og því jafn sjaldgæfur og ljóðlistin.

Ef athygli okkar er eingöngu beint að mannlegu máli, ef horft er eingönu á það sem birtingu innri hugarheims mannsins, ef slík hugmynd um talmálið er skilin eins og hún sé sjálft tungumálið, þá mun eðli tungumálsins ávallt birtast sem mannleg tjáning og virkni.

Sem tungumál hinna dauðlegu hvílir hið mannlega tungumál hins vegar ekki í sjalfu sér. Tungumál hinna dauðlegu á sínar forsendur í sambandinu við tal tungumálsins.

Óhjákvæmilega kemur að þeirri stundu að horft sé til þeirrar spurningar hvernig tal hinna dauðlegu og hljóðmyndun þess geti orðið til í tali tungumálsins sem hljómur kyrrðar mis-munarins. Við þessa hljóðmyndun – hér skiptir ekki máli hvort um sé að ræða talað eða ritað orð – er kyrrðin rofin. Hvernig nær kyrrðin, sem er rofin, til hljóðs orðsins? Hvernig nær hin rofna kyrrð til hljóms orðsins? Hvernig getur sú kyrrð, sem hefur verið rofin, höndlað þá dauðlegu orðræðu sem hljómar í kvæðum og staðhæfingum?

Gefum okkur að dag nokkurn muni sú stund upp renna, að við fáum svör við þessum spurningum. Þá verðum við að gæta þess að líta ekki á hljóðmyndun og tjáningu einar og sér sem grundvallarþætti mannlegs máls.

Samsetning (das Gefüge) mannlegs máls getur aðeins orðið með þeim tónræna hætti (das Melos), að tal tungumálsins, hljómur kyrrðar mis-munarins, sameini hina dauðlegu í gegnum ákall mis-munarins.

Sá talsmáti sem hinir dauðlegu beita til að mæta mis-muninum í kalli sínu felst í samsvöruninni. Hið dauðlega tal þarf fyrst að hafa hlustað á ákallið, þar sem kyrrð mis-munar Heims og hluta er ákölluð í öllum sínum einfaldleik. Sérhvert orð hins dauðlega tungumáls talar út frá slíkri hlustun og að hætti hennar.

Hinir dauðlegu tala að því tilskyldu að þeir hafi hlustað. Þeir bregðast við talandi ákalli kyrrðar mis-munarins, einnig þegar þeir þekkja það ekki. Hlustunin skynjar í ákalli mis-munarins hljóðmynd orðsins. Hið hlustandi talmál er sam-svörun (Entsprechen).

Þegar hið dauðlega tal meðtekur hins vegar talandi tilmæli (Geheiss) mis-munarins, er það með sínum hætti þegar á spori ákallsins (der Ruf). Sem hlustandi skynjun felur andsvarið (das Entsprechen) um leið í sér viðurkenningarandsvar. Hið dauðlega orð talar að því marki sem það veitir fjölþætt andsvar.

Sérhver sönn hlustun felur í sér aðhald eigin segðar. Þar sem hlustunin heldur sig til hlés í gegnum heyrnina getur hún tileinkað sér ákall (Geheiss) kyrrðarinnar. Öll andsvör ákvarðast af hlédrægninni. Því þarf slík hlédrægni að felast í undirbúningi hlustunar á ákall mis-munarins. Hlédrægnin verður hins vegar að varast að meðtaka ákall kyrrðarinnar eftirá, öllu heldur að taka því sem forhlustun þannig að hún geti veitt ákallinu forgangssvörun.

Slík forgangsröðun (Zuvorkommen) hlédrægninnar ákvarðar með hvaða hætti andsvar hinna dauðlegu mætir mis-muninum. Með þessum hætti dvelja hinir dauðlegu í tali tungumálsins.

Tungumálið talar. Tal þess tikallar mis-muninn sem afsalar (enteignet) Heim og hluti í innileika (Innigkeit) sínum.

Tungumálið talar.

Maðurinn talar í þeim mæli sem hann veitir tungumálinu andsvar.

Að svara er að hlusta. Hlustunin heyrir í þeim mæli sem hún skynjar ákall (Geheiss) kyrrðarinnar.

Ekkert kallar á að setja fram nýjan skilning á tungumálinu. Allt er undir því komið að læra að dvelja í tali tungumálsins. Það kallar á stöðuga sjálfsprófun á því, hvort og í hve ríkum mæli við völdum því að veita eiginleg andsvör: forgangsröðun hlédrægninnar. Því:

Maðurinn talar aðeins þegar hann samsvarar (entspricht) tungumálinu.

Tungumálið talar.

Tal þess talar fyrir okkur í hinu talaða orði:

EIN WINTERABEND

Wenn der Schnee ans Fenster fällt,
lang die Abendglocke läutet,
vielen ist der Tisch bereitet
und das Haus ist wohlbestellt.

Mancher auf der Wanderschaft
kommt ans Tor auf dunklen Pfaden.
Golden blüht der Baum der Gnaden
aus der Erde kühlem Saft.

Wanderer tritt still herein;
Schmerz versteinerte die Schwelle.
Da erglänzt in reiner Helle
auf dem Tische Brot und Wein.

 

 

[i] Fyrsta ritgerðin í bókinni Unterwegs zur Sprache, hér fengið úr útgáfu Verlag Gunther Neske, Pfullingen, 1959, bls. 9-33. Með hliðsjón af ítalskri þýðingu Alberto Caracciolo: Il cammino verso il linguaggio, Mursia editore 1973, bls. 27-44..

[ii] Hugtakið Ereignis (atburður) hefur sérstaka merkingu hjá Heidegger þar sem hann tengir atburðinn við sagnorðin eignen og ereignen sem merkja að „til-eigna“ sér e-ð, og „Eigenschaft“ sem „eigin-leiki“ e-s og þar með færist áhersla hugtaksins „atburður“ (Ereignis) yfir á gerandann sem geranda þess sem gerst hefur. Þýð.

[iii] Hamanns Schriften, Ed. Roth VII, bls. 151 f

[iv] Sjá die Scweizer Neuausgabe der Dichtungen von G. Takl, ritstj. Kurt Horwitz, 1946. Þýðingin er endursögn á „hinum hreinu orðum“ Georgs Takl, sem einungis eru í frummálinu.

[v] Hugtakið „das Geviert“ sem hér er þýtt sem „Ferna“ hefur þá sérstöku merkingu hjá Heidegger að tengja saman fjórar „höfuðskepnur“: Himnana og Guðina annars vegar og Jörðina og mennina (hina dauðlegu) hins vegar. Hjá Heidegger hefur þetta hugtak nánast guðfræðilega merkingu í líkingu við heilaga þrenningu kristindómsins. Þýð.

[vi] Orðið „Verweilentlassen” er ein af mörgum orðmydunum Heideggers sem þola illa þýðingu, en sagnorðin  „verweilen“ og „entlassen“ merkja „að staldra við“ og að „losa við“. Samsetta orðið felur í sér hlutlæga en ekki málfræðilega „rétta“ samtengingu orðanna, því lesa má úr þessu orðaleikinn „Verweilen-lassen“ (að bjóða upp á viðdvöl)  eða  „Verweil-Entlassen“ (losa við dvöl, skapa aðskilnað). Orðmyndin „Verweil“ er hins vegar ekki til í hefðbundinni þýsku, en myndi þá vera orðaleikur hliðstæður því að nefna hið íslenska „dok“ sem styttingu á sagnorðinu „að doka“. Þannig mætti hugsa sér að búa til orðið  „dokléttir“ á íslensku en það hljómar augljóslega ekki sérlega vel. Hér eins og víða annars staðar leikur Heidegger trúlega með tungumálið í þeim tilgangi að fá okkur til að hugsa um þversagnarkennt eðli þess frá frumspekilegu-merkingarfræðilegu sjónarhorni. Þýð.

[vii] Þýska nafnorðið „Dingen“ í orðasambandinu „Dingen der Dinge“ verður ekki þýtt á íslensku með viðteknum hætti þar sem nafnorðið „Dingen“ er að því er best verður séð nýyrði í þýsku og lýsir viðleitni Heideggers að losa sig úr frumspekilegum viðjum tungumálsins. Íslenska orðið „hluttekning“ er í þessu sambandi merkingarleg afbökun, rétt eins og „Dingen“ á þýsku, en ef rétt er skilið þá felur þetta hugak hjá Heidegger í sér að hlutirnir „verði þeir sjálfir“, en hvorki orðið né viðfang þess. Þar í liggur „mis-munurinn“, „der Unter-Schied“. Hér gildir því að „hluttekning“ merkir ekki „umhyggju eða samúð“ með öðrum, heldur að hluturinn verði hann sjálfur, taki á sinn eiginn hlut sem hluti af Heiminum.Þýð.

[viii] „Heimurinn“ héðan í frá hafður með stóru „H“ í þessari merkingu sem nánast guðfræðilegt hugtak í hugarheimi Heideggers, en þetta er lykilhugmynd sem hér er skýrð með „stefnumóti“ þeirra fjögurra höfuðskepna sem Heidegger finnur í „aðskildri sameiningu“ Himins og Jarðar, dauðlegra og Ódauðlegra. Í þessari sameiningu sér Heidegger sannleikann „gerast“ í gegnum virkni hins „hreina“ tungumáls. Þýð.

[ix] Sbr. Íslensk Orðsifjabók eftir Ásgeir Blöndal Magnússon: „bera (st)s. „færa, flytja e-ð (sem byrði), halda e-u uppi, eignast afkvæmi, fæða…“, sbr fær. og nno. bera, sæ. bära, d. bære, fe. og fhþ. beran, gotn. bairan, ne. bear, nhþ. behren… Þýð.

[x] Hér er enn einn orðaleikurinn þar sem „bedingen“ getur haft tvær merkingar: að skuldbinda e-ð eða að hlutgera e-ð. Þýð

[xi] Sögnin heissen og nafnorðið Heissen koma víða fyrir í þessum texta og eru notuð af Heidegger í óvenjulegu samhengi. Algengasta merkingin er samstofna íslensku sögninni „að heita“, en í þessari rannsókn Heideggers á eðli tungumálsins þá heitir tungumálið sjálft sig og því verður „heissen“ að kalli eða ákalli, og er hér þýtt sem slíkt. Þýð.

[xii] Hugtakið „Innigkeit“ hjá Heidegger hefur trúlega frekar með staðsetningu að gera en tilfinningalega nánd. Þannig væri hugsanlegt að þýða það sem „inniveru“ en ekki „innileika“, en Innigkeit vísar trúlega í báðar merkingarnar.  Þýð.

[xiii] Í þessari ritgerð er hugtakið „Unter-Schied“ (hér þýtt sem mis-munur) eitt af lykilhugtökunum, og skilgreining þess er hér mætavel skýrð af Heidegger sjálfum. Þýðingin mis-munur er hér haft með bandstriki til að leggja áherslu á að ekki er um hefðbundinn skilning á mismun að ræða, heldur er mis-munur hér sem einstakur atburður (Ereignis) sem „getur af sér Heiminn“ í skilningi Heideggers. Hugtakið er samsett af „unter“ (í latínu „inter“) og „Scheidung“ sem merkir klofningur og á sér m.a. orðmyndina „Entscheidung“ sem þýðir beinlínis „úrskurður“ á íslensku. Annað skylt orð er Scheide sem merkir sverðslíður en líka leggöng. Íslenska orðið skeið er samstofna Sceide og Schied og getur m.a. þýtt klof eða rauf á íslensku. Þýð

 

Forsíðumyndin er af Martein Heidegger og austurríska skáldinu George Takl.

Ritgerð Heideggers á frummálinu má finna hér: heidegger-unterwegs der Sprache doc.docx

 

HOFMANNAÁSTIR I. -Jacques Lacan um formgerð merkingar í skáldskap og myndlist

Jacques Lacan:

 

VII. Seminarið

(1959-1960)

Um siðfræði sálgreiningarinnar

Hofmannaástir I.

(L‘amour courtois)

 

  1. kafli

Spássíunótur um spádómsorð,

list, trúarbrögð, vísindi,

anamorfosis og byggingarlist

forgangsstaða Þaðsins

 

Þessa stundina er ég ekki  í því ástandi að það fullnægi kröfunni um framhald námskeiðs okkar með sama hætti og frá var horfið. En þar vorum við einmitt komin á þann stað þar sem mig langaði til að geta sett fram skýrar reglur. Þið verðið því að bíða með slíkt þangað til í næsta tíma.

Tveggja vikna forföll mín komu á óheppilegum tíma því ég hefði kosið að ganga lengra nú en ég hafði boðað síðast, auðvitað eftir að hafa afgreitt kjarna málsins.

1.

Hofmannaástir eru í raun og veru öfgafullt og fordæmisgefandi form göfgunar (sublimation). Við höfum vitnisburði þar um einungis úr listum, en við getum engu að síður rakið anga þeirra allt til okkar samtíma.

[Hugtakið hofmannaástir er trúlega nýyrði í íslensku, en sjálfur orðstofninn „hof“ er samstofna þýska orðinu Hof sem merkir konungleg hirð. Orðið „hofróða“ er þannig notað um konu sem tilheyrir konungshirðinni. Hofmaður er til í afleiddum myndum, t.d. „hofmannsdropar“ sem voru áfengir kvefdropar heldri manna notaðir gegn flensu. Staðarheitið „Hofstaðir“ er trúlega einnig samstofna þýsku „Hofstadt“ og merkir þannig höfðingjaból. Orðið hofmann kemur fyrir í ljóði HKL, Dans: „Ríður ríður hofmann í rauðan skóg…, og vísar til þeirrar hefðar riddaraástar sem hér er til umfjöllunar hjá Lacan. Aths. Þýð.]

Þrátt fyrir þann líflega áhuga sem finna má í fornaldarfræðunum um þetta málefni og þó frumheimildirnar sem okkur eru aðgengilegar um málið séu nánast dauður bókstafur, þá blasir við að hinn siðferðilegi þáttur málsins gerir ennþá vart við sig í samskiptum kynjanna.

Þessi langvinnu áhrif hofmannaástarinnar, fyrirbæris sem fljótt á litið virðist einungis fagurfræðilegt, eru þess eðlis að þau vekja okkur til skilnings um mikilvægi göfgunar – málefnis sem sálgreiningin hefur sett í forgrunn.

Ég hefði kosið að vera í toppformi til að geta sýnt ykkur hvernig þetta mál hefur verið skilið sögulega séð, og hvaða aðferðarfræði menn hafa beitt við nálgun þess, því ég held að þar séum við einmitt í stakk búin til að benda á vissa erfiðleika sem sagnfræðingarnir og bókmenntafræðingar miðalda-rómansins, fornmálafræðingarnir og sérfræðingar af ýmsum gerðum hafa rekist á. Svo virðist sem þeim sé orðið ljóst að þeim hafi engan vegin tekist að afmarka fyrirbæri hofmannaástarinnar sem tiltekið fordæmisgefandi form í sögulegu samhengi.

Við sjáum þetta gerast víða og nánast alltaf með sama hætti. Við rekumst á þversagnarfullt fyrirbæri sem er nánast tekið sem sjálfsagt eða fyrir fram gefið. Nánast alls staðar leiðast fræðimennirnir út í að kanna áhrifavaldana, – sem oftar en ekki verður einungis til þess að víkja vandanum til hliðar. Þeir telja að uppruna málsins megi rekja til yfirfærslu á einhverju sem gerðist annars staðar. Já, við þurfum að kanna hvernig þetta gerðist einhvers staðar annars staðar. En þar með villumst við af leið og tínum kjarna málsins.

Í þessu tilfelli er það fjarri sanni að leitin að áhrifavöldunum hafi brugðið ljósi á vandann. Við munum leitast við að nálgast rætur vandans og við munum komast að því að fræðikenning Freuds getur gagnast okkur til að varpa ljósi á hann. Ég mun því nálgast hofmannaástina ekki bara sem dæmigert fyrirbæri heldur einnig út frá gildi þess fyrir aðferðarfræðina.

Þetta tiltekna sjónarhorn felur ekki í sér að allt sem varðar göfgun (sublimation) verði túlkað út frá því sjónarhorni sem hér verður til, nánar tiltekið út frá kynferðissambandi karls og konu sem pars. Ég er ekki að halda því fram að hægt sé að skilgreina göfgunina með þeim hætti eða skýra hana á þeim forsendum. Þvert á móti held ég því fram að það sé grundvallaratriði að byrja rannsóknina út frá þessum forsendum til þess að ná fram til hinnar almennu reglu göfgunarinnar, en upphaf hennar getum við sótt til Freuds – ef við vitum hvar á að leita – en þar á ég ekki við að leita að einhverjum tilteknum smáatriðum.

Ef mál mitt fer stundum út í það að leggja áherslu á tiltekin orð Freuds, tiltekna einangraða reglu eða einhverjar spámannlegar tilgátur, þá er það vegna þeirrar sannfæringar að þau spámannlegu orð muni nýtast mér.

Þegar ég legg fyrir ykkur meginregluna „Langanir mannsins felast í löngunum Hins“, þá eru það spámannleg orð, jafnvel þó Freud hafi ekki sett þau fram sem slík. En hann gerir það engu að síður  endurtekið án þess að það sé í fullkomlega meðvituðum tilgangi. Þannig vitnaði ég einu sinni í stutta reglu þar sem hann tengdi saman þau virknilögmál sem liggja annars vegar til grundvallar móðursýki/taugaveiklunar (hystérie), sjúklegrar þráhyggju (nevrose obsessionelle) og ofsóknaræðis (paranoia)  – og hins vegar til grundvallar listum, trúarbrögðum og vísindum.

Annars staðar tengir hann [Freud] ofsóknaræði og vísindalega orðræðuhefð. Þessi lykilatriði munu á endanum hjálpa okkur til að setja fram grundvallarregluna um göfgun og tengsl hennar við Þingið[ii].

[Þingið = Das Ding  er hugtak sem Freud notar til aðgreiningar frá Die Sache=hluturinn eða hinn áþreifanlegi kjarni máls. Das Ding er í þessum freudiska skilningi óáþreifanlegur hlutur, og samstofna íslenska orðinu þing, sem er til í hliðstæðri merkingu sem t.d. „þarfaþing“ eða „þarflaust þing“ Aths. þýðandi].

Þetta „Þing“ getum við nálgast í grundvallaratriðum sem eru nánast eins augljós og sú klassíska heimspekilega rökræða sem við sjáum í svörtu veggtöflunni og hvíta krítarmolanum. Ég vísaði í síðasta tíma í hið formlega fordæmi vasans til þess að skýra fyrir ykkur staðsetningu Þingsins í því samhengi sem setur manninn í miðilssamband á milli raunverunnar (the real) og nefnarans (signifiant).

[Tilvísunin í vasann er dæmi sem Lacan tekur um form sem er mótað utan um tómarými, en vasinn markar um leið upphaf formmótunar í siðmenningunni. .Aths. þýð.]

Þetta Þing mun alltaf verða sýnt í formi tómsins, en öll form þess sem sköpuð eru af mannavöldum tilheyra sviði göfgunarinnar. Þingið verður ávallt sýnt með tóminu af þeirri einföldu ástæðu að það er ekki sýnanlegt öðruvísi – eða með öðrum orðum, það er einungis hægt að sýna það sem eitthvað annað. En tómið er grundvallar forsenda sérhverrar göfgunar.

Ég mun beinlínis sýna fram á hvernig listir, trúarbrögð og hin vísindalega orðræða tengjast þessum frumforsendum  með þrennum hætti. Ég mun gera grein fyrir þessu með því að kynna þrjár reglur sem ég mun setja fram í lokin, þegar þessu ferðalagi okkar lýkur.

Öll form listar einkennast af sérstakri aðferð skipulagningar í kringum þetta tóm. Ég tel ekki að þetta sé tilgangslaus formúla fyrir þá sem vilja hugleiða vandamál listarinnar, þó hún sé almenns eðlis. Ég tel að ég hafi tæki til að sýna ykkur fram á þetta með sláandi hætti.

Öll form trúarbragða felast í því að forðast þetta tóm. Við getum sýnt fram á það með því að notfæra okkur sálgreiningu Freuds, þar sem hann leggur megináherslu á þráhyggju sem helsta einkenni trúarlegrar hegðunar. En jafnvel þó hinir trúarlegu hættir helgisiðanna falli allir undir þennan ramma getum við varla gert okkur þessa skýringu að góðu. Orðasamband eins og „að virða þetta tóm“ nær því kannski betur. Engu að síður hefur tómið miðlæga stöðu, og það er einmitt átæða þess að göfgunin blandast í málið.

Hvað varðar þriðja atriðið, sem er hin vísindalega orðræða, þá á hún að vissu marki uppruna sinn í vísdómsorðræðunni eða heimspekinni, og þar skiptir okkur máli hugtakið Unglauben [=vantrú] sem Freud notar í tengslum við ofsóknaræðið og tengsl þess við efnisveruleikann.

Ég kom örlítið inn á þetta á nýliðnu Seminari: Unglauben er ekki afneitun þeirrar fyrirbærafræði sem við kennum við Glauben eða tiltrú. Freud tók málið aldrei aftur upp með heildstæðum og afgerandi hætti þó það skíni engu að síður í gegnum verk hans, og hann leggur ofuráherslu á þessa virkni í sambandi við hugtakið Entwurf [=uppkast, skissa]. Fyrirbærafræði átrúnaðarins var alla tíð ástríðuárátta hjá Freud. Þannig er bókin Moses und Monotheismus eingöngu rituð til að skýra fyrirbæri átrúnaðarins.

Það sem skiptir meira máli fyrir okkur og hefur dýpri merkingu er fyrirbærafræði vantrúarinnar. Þar er ekki um bælingu átrúnaðar að ræða, heldur afstöðu mannsins til umheimsins og þess sannleika sem tilheyrir manninum einum, afstaða sem hann dvelur í.

Í þessu samhengi væri rangt að reiða sig á fljóthugsaðar andstæður, eða að halda því fram að sagan hafi gengið í gegnum afgerandi umbreytingarskeið eins og til dæmis umskiptin frá tíma klerkastjórnar (theocratic age) til svokallaðra húmaniskra samfélagsforma er fælu í sér frelsun einstaklingsins og raunveruleikans. Hér er skilningurinn á heiminum ekki það sem skiptir máli. Hér erum við ekki að fjalla um neitt sem hefur með einhvers konar Weltanschauung [heimsmynd, lífsskoðun] að gera – og allra síst mína eigin. Hér er ég einungis að benda á leiðina, hér er ég einungis að reyna að hjálpa ykkur að ná áttum í bókasafni marktækra verka sem um málið hafa fjallað, í verkum eftir sérfræðinga sem hafa sýnt greiningarhæfileika á ólíkum sviðum. Ég ráðlegg ykkur að líta í verk sagnfræðingsins Lucien Febvre, sem er höfundur bókarinnar Problème de l’incroyance au XVI siécle (Vandamál vantrúar á 17. öld). Þetta er rit sem gerir ykkur kleift að skilja hvernig ígrunduð notkun sagnfræðilegra aðferða hjálpar okkur við að forma með nákvæmari hætti spurningarnar um þróunarform hugsunarinnar hvað varðar vandamál trúarinnar.

Ef þið hafið nægan tíma og ykkur langar til að lesa eitthvað skemmtilegt ættuð þið að lesa lítið kver eftir sama höfund sem er viðauki við bókina en engin aukageta í eftirmála. Bæklingurinn heitir  Autour de l’Heptaméron (Umfjöllun í kringum Heptameron). Höfundur Heptameron er Marguerite de Navarre, sem ég vona að þið ruglið ekki saman við Queen Margot, eiginkonu Hinriks VI. Hún er ekki bara fríhyggjuhöfundur, heldur reynist hún vera höfundur af dulspekilegum toga. En það er nokkuð sem kveikir hrifningu eða forvitni hjá sagnfræðingnum.

Forsíða Penguin-útgáfunnar af Heptameron

Hann reynir að sýna okkur hvaða merkingu mætti finna í þessu sögusafni sem gengur undir nafninu Heptameron ef það er skoðað í ljósi samtíma síns og út frá lundarfari höfundarins. Hann gerir þetta með þeim hætti að leyfa okkur að lesa textann ekki endilega með upplýstara auga, heldur með auga þess sem lætur hjá líða að ritskoða textann eða einstakar vangaveltur persónanna, sem eiga að vera trúverðugar og eru það vissulega að miklu leyti. Um er að ræða hugsanir viðmælenda sem eiga að endurspegla siðferðisviðmið og jafnvel formlegar trúarlegar reglur viðkomandi, sem venjan er að ritskoða þegar gengið er út frá Því í upphafi að slík atriði séu ekki annað en sósukryddið í aðalréttinum. En það er einmitt mikilvægt að misskilja ekki sósuna sem er meginatriðið í sérhverjum málsverði. Lucien Febvre kennir okkur hvernig við eigum að lesa Heptameron. Ef við kynnum hins vegar að lesa, þá hefðum við ekki þörf fyrir leiðbeiningar hans.

Hvað varðar vantrúna, þá er hún frá okkar sjónarhóli sá staður í orðræðunni sem okkur ber að meðtaka einmitt með tilliti til Þingsins (das Ding) – en Þingið er falið eða útilokað samkvæmt hinni réttu merkingu Verwerfung. [orð sem Lacan hefur eftir Freud og við gætum þýtt á íslensku sem „sniðganga“].

Það er með sama hætti sem við finnum Verdrängung [bælingu] í listum, en það er yfirbreiðsla Þingsins. Þá höfum við trúlega Verscheibung [hliðrun] eða tilfærslu í trúarbrögðunum, en í hreinskilni sagt er þar um Verwerfung [undanskot] að ræða, sem fólgin eru í orðræðu vísindanna.

Orðræða vísindanna hafnar tilveru Þingsins þar sem frá hennar sjónarhorni er hápunktur algildrar þekkingar leiftursýn, það er að segja eitthvað sem heldur Þinginu til hliðar á meðan hún beinir allri athygli frá því. Sem kunnugt er þá hefur það verið sögulega sannað að þessi afstaða er röng.

[Trúlega vísar Lacan hér til rökfræðilegrar gagnrýni fyrirbærafræðinnar á vísindahyggju, til dæmis í verkum Maurice Merleau-Ponty. Sjá t.d. upphafsorðin í „Augað og andinn“ hér á vefsíðunni. Aths. Þýð.]

Orðræða vísindanna er mótuð af þessari Verwerfung [sniðgöngu], og í ljósi þeirrar reglu minnar að það sem er útilokað í hinu táknræna komi í ljós í raunverunni, skýrast þær aðstæður sem endanlega koma upp sem niðurstaða eðlisfræðinnar og verða alltaf jafn mikil ráðgáta og leiftursýn sjálfs Þingsins.

Ég fresta til næsta tíma frekari umræðum um fordæmisreglu hofmannaástarinnar [l’amour courtois], sem dæmi um göfgun í listum og við rekumst á enn þann dag í dag. Við munum taka þetta efni fyrir eftir að ég kem til baka úr ferðalagi mínu, við munum rekja dæmi þessa fyrirbæris og þau óumdeilanlegu ummerki þeirra merkingarfræðilegu kastalabygginga sem eru megineinkenni hofmannaástarinnar.  Við munum einnig leitast við að sjá í fyrirbærum úr samtímanum nokkuð sem ekki verður skýrt nema út frá slíkum uppruna.

Þar sem við erum einungis á vettvangi spássiunótanna í dag, þá vildi ég benda á að það væri rangt af ykkur að hugsa sem svo að hugtakið Þing, sem ég hef sett í nýtt samhengi á þessu ári, hafi ekki verið til staðar í umfjöllun okkar á umliðnum árum.

Þar sem þeir eru til sem hafa efasemdir um stíl minn í fræðilegri framsetningu, þá vil ég minna ykkur á hugtakið „Freudiska þingið“ [La Chose Freudienne], sem var titillinn á einhverjum texta sem ég skrifaði, og það væri ekki svo vitlaust að ráðleggja ykkur að rifja hann upp. Sá texti og titill hans vöktu nokkra undrun, því ef menn fara að greina áform mín frá heimspekilegum sjónarhóli, þá enda þeir með að tengja hann fyrirbæri sem eitt sinn naut vinsælda, en það var andófið gegn hlutgervingunni. Auðvitað sagði ég aldrei neitt um hlutgervinguna. En það er alltaf hægt að finna ásetning út úr sérhverri orðræðu. Það ætti að vera ljóst, að þar sem ég valdi slíkan titil á texta minn, þá gerði ég það af ásettu ráði. Ef þið lesið textann aftur sjáið þið að ég er fyrst og fremst að fjalla um Þingið [la Chose]. Og ég fjalla um það með þeim hætti sem augljóslega kom illa við menn á þeim tíma. Staðreyndin er sú að ég læt Þingið stundum tala sjálft.

2.

Nú myndi ég vilja að fundur okkar í dag kæmi þeim að notum sem hafa lagt á sig ferðalag til að komast hingað.

Með tilliti til þess hvert við erum komin í þessu Seminari er ekki ólíklegt að einhver ykkar hafi spurningar fram að færa eða búi yfir svörum er gætu brugðið ljósi á skilning þeirra á tilteknum atriðum í röksemdafærslu minni.

Ég veit að það er aldrei auðvelt að rjúfa þögnina innan hópsins, að hringja litlu bjöllunni ef svo mætti segja. Ég ætla þess vegna að gefa ykkur tækifæri til að leggja fyrir mig skrifaðar spurningar. Eini gallinn á slíku fyrirkomulagi væri sá að ég gæti lesið úr spurningunn það sem mér hentaði.

Á sama tíma ætlum við að gera nokkuð óvænt sem ég held að væri góð hugmynd. Sum ykkar tóku þátt í vísindaráðstefnu Félagsins okkar í gær. Ég veit ekki hvernig því lauk, því ég varð að yfirgefa svæðið eftir að hafa gefið andsvör við nokkrum fyrirlestrum frá fólki sem ég met afar mikils, eftir að ég hafði látið í ljós mikinn áhuga minn á starfi þeirra. Þeir eru mættir hér í dag og ég vildi spyrja Smirnov spurningar varðandi „No and Yes“ í máli Spitz….

[hér koma orðaskipti Lacans og viðstadda um efni ráðstefnu sem snerta ekki leiðarþráð þessa fyrirlesturs beint og er því sleppt, þar til kemur að spurningu Audouards:.]

Audouard:

„Hvers vegna talar þú við okkur um „Þingið“ í stað þess að tala einfaldlega um miðlun [mediation]?

Til þess að gefa beint svar þá vildi ég segja að ég hef tekið eftir áhuga þínum á því sem við gætum kallað hegelska framsetningu á analítískri (rökgreinandi)  reynslu. Við erum hér að fjalla um freudíska reynslu sem siðfræði, hvort sem okkur líkar það betur eða ver – þar sem hún leiðir okkur alltaf að lækningarmeðferð sem óhjákvæmilega fellur innan ramma siðfræðinnar. Því meir sem við reynum að andmæla þessu, því augljósara verður það. Reynslan kennir okkur þetta: það form sálgreiningar sem státar af sínum háleitu vísindalegu eiginleikum leiðir okkur til þess skilnings sem lesa má úr fordæmingu Matthíasar guðspjallamanns gagnvart þeim sem  þyngja byrðarnar með því að leggja þær á aðra. Með því að þrengja og festa í sessi flokka tilfinningalegra regluverka endum við í skelfilegum niðurstöðum.

Það er augljóst að við leggjum áherslu á óhjákvæmilegt mikilvægi innsæisins, á það sem virðist vera mörk miðlunarinnar (mediation) sem verður hlutgervingunni óviðráðanleg. En með því að rannsaka mörk einhvers í gegnum að nálgast það utan frá erum við að umkringja hina tómu mynd.

Þau meðvituðu áform að leggja áherslu á þessa nálgun hafa aldrei fallið utan þess sem ég hef sagt hingað til. Ef þú flettir upp í þeim textum sem ég vitnaði til um þetta efni sérðu að hér er engin tvíræðni. Sú Hegelska róttækni sem ég var kenndur við í fljótfærnislegum athugasemdum einhvers í Les Temps Modernes á alls ekki við mig. Öll sú díalektík [=gagnvirkni] löngunar sem ég setti fram hér og sem ég var að byrja að móta þegar þessi fljótfærnislega samlíking var sett fram, öll þessi díalektík er í grundvallaratriðum frábrugðin Hegelisma. Það verður enn ljósara nú í ár. Hinn óhjákvæmilegi karakter virðist einkum og sér í lagi mótaður af göfguninni.

Herra X:

Sú göfgunarregla sem þú hefur lagt fyrir okkur felst í því að veita hlutnum virðingarstig Þingsins.  Í byrjun virðist þetta „Þing“ ekki vera til, því göfgunin á að leiða okkur að því. Spurning mín verður því hvort þetta Þing sé alls ekki raunverulegt Þing, heldur þvert á móti Ekki-Þing, og að göfgunin fái okkur til þess að sjá það sem Þingið (…)?

Það sem þú ert að segja slær mig þannig að mér virðist þú vera á réttri leið. Það er augljóst að þú hefur fylgst vel og áreynslulaust  með framsetningu minni á þessum vandamálum. Við mætum einhverju sem sálgreinar ef við fylgjum heildarsummu reynslu okkar og ef við erum dómbærir á hana. Þú segir að atlagan að göfguninni beinist að því að raungera Þingið eða bjarga því. Það er rétt og ekki rétt. Það er blekking fólgin í þessu.

3.

Hvorki vísindin né trúarbrögðin eru þess eðlis að þau bjargi Þinginu eða færi okkur það í fangið, því sá töfrahringur sem aðskilur okkur frá því markast af sambandi okkar við nefnarann (the signifiant)[iii].

[Lacan vitnar hér í strúktúralisma eða formgerðarstefnu í málvísindum eins og hún var sett fram af svissneska málfræðingnum Ferdinand Saussure í upphafi 20. aldar: Merkingargjöfin felur í sér að stofnað er til sambands á milli nefnarans (orðsins, hugtaksins, fr.: signifiant) og hins nefnda (fr.: signifié, e,:the signified), en slík tengsl byggja á tilviljun eða almennu samþykki, en ekki áþreifanlegri efnislegri líkingu eða samsvörun.(Aths. Þýð.]

Eins og ég hef sagt ykkur þá er Þingið það í raunverunni sem þjáist af þessu grundvallandi og frumlæga sambandi sem dæmir manninn inn á leiðir nefnarans í gegnum þá röklegu staðreynd að hann er undirseldur því sem Freud kallar nautnalögmálið, sem ég vona að þið skiljið að er ekkert annað en yfirdrottnun nefnarans  – hér á ég auðvitað við nautnalögmálið eins og það virkar hjá Freud.

Í stuttu máli þá snýst þetta um áhrifavald nefnarans á þá sálrænu raunveru[iv] sem um er að ræða, og þess vegna er virkni göfgunarinnar ekki einfaldlega merkingarlaus í öllum skilningi – menn svara með því sem er tiltækt.

[Hugtakið „raunvera“ er eitt af lykilhugtökunum í sálgreiningu Lacans, og hefur ekkert með raunveruleika að gera í hefðbundnum skilningi sem hinn ytri heimur. Lacan skiptir mannssálinni í þrenn svið, sem eru svið ímyndunar, tákngervingar og raunveru. Raunveran er það „tómarúm“ innan mannsins sem ímyndanir okkar ná ekki utan um og tákngervingarnar (tungumálið /nefnararnir) ekki heldur. Raunveran er uppspretta langananna og það er viðfangsefni ímyndana og tákngervinga að „ná utan um“ raunveruna, gefa okkur mynd af henni. Það er í raun einnig verkefni sálgreiningarinnar og listarinnar. Aths. Þýðanda.]

Í dag ætlaði ég að hafa meðferðis hlut sem ég ætlaði að sýna ykkur í lok námskeiðsins. Það er hlutur sem kallar á langa athugasemd um listasöguna ef hann á að verða skiljanlegur. Sú staðreynd að mönnum tókst að smíða slíkan grip og finna í honum ánægjuefni kallar á umtalsverðan útúrdúr.

Ég ætla að lýsa fyrir ykkur hlutnum. Þetta er hlutur sem felur í sér anamorfosis eða afmyndun. Ég geri ráð fyrir að mörg ykkar viti hvað í því felst. Það er hvers kyns hlutur sem lætur það gerast með ljósfræðilegri yfirfærslu að hlutur sem ekki var sýnilegur í fyrsta áhorfi gerir sig sýnilegan sem læsileg mynd. Ánægjan felst í að sjá myndina verða til út úr ógreinanlegri formleysu.

Anamorphosis, formleysa myndarinnar á borðdúknum verður heilsteypt málverk í spegilmynd sívalningsins. 16. öld.

Slíkir hlutir eru mjög algengir í sögu listarinnar. Farið bara á Louvre-safnið og skoðið málverk Holbeins Sendiherrarnir. Þið munið sjá að undir fæti annars sendiherrans sem er eins vel skapaður og þið eða ég, undir fæti hans er dularfullt form sem teygist niður til vinstri á gólfinu.  Það líkist einna helst spældu eggi. Ef þið takið ykkur hins vegar stöðu til hliðar þar sem sjálf myndin hverfur inn í eigið yfirborð vegna stefnu fjarvíddarlínanna, þá sjáið þið hauskúpuna birtast, sígilt þema svokallaðra vanitas mynda (um forgengileikann). Þetta finnum við í raunverulegu málverki sem greinilega hefur verið pantað af sendiherrunum á Englandi, sem hljóta að hafa verið ánægðir með verkið. Og það sem var fyrir neðan þá á myndinni hlýtur líka að hafa skemmt þeim.

Hans Holbein: Sendiherrarnir, olíumálverk, 1533. National Gallery London

Við getum tímasett þetta fyrirbæri. Það var á sextándu og sautjándu öldinni sem hlutir á borð við þessa náðu hámarki vinsælda og hrifningar. Í kapellu einni sem reist var af Jesúítum á tímum Descartes mátti finna langan vegg sem nálgaðist 18 metra og sýndi atriði úr lífi dýrlinganna eða fæðingarsenu frelsarans, en myndin var hins vegar algjörlega óskiljanleg innan veggja salarins. Ef farið var inn í aðliggjandi gang mátti hins vegar á tilteknu augabragði sjá hvernig hinar tvístruðu línur málverksins féllu saman og mynduðu sviðsmyndina í heild sinni.

Anamorfosis-gripurinn sem ég ætlaði að hafa með mér hér í dag er mun smærri í sniðum. Hann er í eigu safnara sem ég hef þegar minnst á. Gripurinn samanstendur af spegilfáguðum sívalning, en undir hann er lagður dúkur með ósamstæðum og óskiljanlegum línum. Ef menn taka sér hins vegar stöðu út frá tilteknu sjónarhorni má sjá hvernig myndin verður til á sívalningnum, í þessu tilfelli bráðfalleg anamorfosis-mynd af krossfestingunni, sem er kópía af málverki eftir Rubens.

Á bak við verk af þessu tagi liggur óhjákvæmilega löng þróunarsaga. Á bak við hlutinn liggur löng saga byggingarlistar og málaralistar, hvernig þessar listgreinar tengjast saman og með hvaða hætti það gerðist.

Í stuttu máli má segja að skilgreina megi frumstæða byggingarlist eins og eitthvað sem hefur verið skipulagt í kringum tómarúm. Þau sönnu áhrif sem við verðum fyrir af dómkirkjum á borð við Markúsarkirkjuna eru af sama toga og segja okkur hina sönnu merkingu allrar byggingarlistar. Í kjölfarið gerist það af efnahagslegum ástæðum að menn gera sig ánægða með myndir af þessum sömu byggingum, menn læra að mála byggingarlist á veggi bygginganna. Einnig málaralistin er fyrst og fremst eitthvað sem er skipulagt í kringum tóm. Þar sem málið snýst um að finna aftur hið heilaga tómarými byggingarlistarinnar í einfaldari mynd málverksins þá verður markmiðið að gera æ nákvæmari eftirlíkingu byggingarinnar og þar með er fjarvíddarteikningin uppgötvuð.

Það sem við tók var þversagnarkennt og skemmtilegt í senn: það sýnir hvernig maður kyrkir sjálfan sig með eigin hengingarhnút.

Allt frá þeim tíma þegar menn uppgötvuðu fjarvídd í málverkinu verður til byggingarlist sem tileinkar sér fjarvíddarreglur málverksins. Þetta verður til dæmis augljóst í byggingarlist Palladios. Farið og skoðið leikhúsið hans í Vicenza, sérstakt lítið snilldarverk sem læra má af. Nýklassíska listin [Lacan virðist hér eiga við endurreisnartímann sem „nýklassík“] gengst undir lögmál fjarvíddarinnar, leikur sér með þau og gerir þau að sínum. Sem felur aftur í sér að hún fellir þau inn í eitthvað sem gert var í málverkinu í því skyni að enduruppgötva tómarýmið í frumstæðri byggingarlist.


Palladio: Olympíska leikhúsið í Vicenza, 1580. Leikhúsið er innandyra eftirlíking af útileikhúsi með tilbúinni fjarvíddarblekkingu í sviðsmynd.

Þaðan í frá eru menn fastir í snöru sem felst að því er virðist í eilífum flótta frá þessu tómi.

Ég held að afturhvarf barokklistarinnar til leiksins með formin og til allra hugsanlegra meðala þar sem anamorfosis er ekki undanskilið, öll þessi viðleitni beindist að marki að endurreisa hina sönnu merkingu listrænnar rannsóknar. Listamenn nýta sér uppgötvanir á eiginleikum línunnar til þess að láta eitthvað í ljós sem við finnum nákvæmlega þar sem menn hafa misst áttir, eða nánar tiltekið, hvergi.

Málverkið eftir Rubens sem birtist skyndilega í stað hins óskiljanlega myndverks afhjúpar það sem hér er á seyði. Málið snýst um að í hinu analogíska (hliðstæða) eða anamorfíska (afmyndaða) formi er enn einu sinni vísað í þá staðreynd að það sem við sækjumst eftir í blekkingunni eða sjónhverfingunni verður þar sem sjálf blekkingin yfirstígur sjálfa sig með því sýna sig einungis sem nefnara (signifier).

Einmitt þetta setur tungumálið í algjöran forgrunn þar sem innan þess þurfum við í öllum tilfellum ekki að takast á við annað en nefnarann sjálfan. Þetta er ástæða þess að þegar ég vil nú vekja athygli á vandamáli sambandsins á milli listar og göfgunar, þá kýs ég að byrja á hofmannaástinni (l’amour courtois). Í þeim heimi finnum við texta sem sýna með einstökum hætti sína hefðbundnu hlið í þeim skilningi að tungumálið leitar alltaf í tilbúning þegar það vill vísa til alls þess sem viðkemur innsæi, efniskennd eða lifaðri reynslu.

Þetta fyrirbæri verður þeim mun eftirtektarverðara þegar til þess er tekið að þetta á sér stað á tímaskeiði óhefts kynlífs. Ég á við að þarna var talað tæpitungulaust.

Það athyglisverða er að þarna þrífast tvenns konar stílar eða talsmátar samtímis.

Þið stunguð upp á hugmyndinni um Þingið og Ekki-Þingið. Ef þið viljið hafa það þannig þá er það líka satt að Þingið er líka Ekki-Þing. Í raunveruleikanum er það vissulega þannig að Ekkið sem slíkt er ekki til með merkingarbærum hætti. Nákvæmlega það sama á við þegar við fjöllum um hinn freudíska skilning á Todestrieb (dauðahvötinni), þar sem Freud segir okkur að ekki sé nein neitun til staðar í dulvitundinni.

Við viljum ekki gera þetta að heimspekilegu vandamáli. Ég vildi minna ykkur á athugasemdina sem ég breytti um daginn til þess að girða fyrir þann misskilning að ég afsali mér ábyrgðartilfinningu. Þegar ég tala um Þingið er ég vissulega að tala um tiltekið efni. En ég er auðvitað að tala með virkum hætti, með vísun til þess staðar sem það fyllir á sérstöku rökfræðilegu stigi hugsunar okkar og hugtakasmíða, með vísun í virknina sem snertir okkur.

Í gærkvöldi vísaði ég í og gagnrýndi tilkomu staðgengils fyrir hugtakið „ego“ í klassískri heildarmynd Freuds af mannssálinni. Nokkuð sem verður átakanlegt að sjá hjá manni sem er jafn djúpt sokkinn í sálgreininguna og Spiz.

Það er vissulega erfitt að sjá í þessu hugtaki þá grundvallarvirkni sem upphaf sálgreiningarinnar byggði á, hugtak sem fól í sér sjokkáhrif hennar, bergmál og eftirskjálfta. Við megum hins vegar ekki gleyma að Freud tengdi það strax við uppgötvun annars hugtaks sem var Das ES (Þaðið). Það forgangsatriði sem fólst í Þaðinu er nú gleymt og grafið.

Að sumu leyti er Þaðið (das Es) ekki sett nægilega í forgang eins og það er kynnt til sögunnar í textum um seinna efnið. Þetta árið ætla ég að styðjast við sérstakt kaflasvið undir nafninu „Þingið“ í því skyni að leggja áherslu á frumlæga grundvallarþýðingu þessa innsæis í reynslu okkar á siðfræðilegu sviði.

[Hér er sleppt stuttri spurningu frá Laplanche um samband nautnalögmálsins og nefnarans og munnlegu svari Lacans við þeirri spurningu.]

___________________________________________

 

 

 

[i] Orðið „hofmann“ eða „hofmaður“ er íslenska orðið yfir konunglegan hirðmann sem kann til reiðlistar. „Hof“ er í þessu samhengi sama og „Hof“ á þýsku, það er að segja konungshirð. Dæmi um þessa notkun orðsins í íslensku er ljóðið Dans eftir HKL: „Ríður ríður hofmann / í rauðan skóg /þar sem laufin vaxa á viðum… Kvæðakver, bls. 89. (Aths. Þýð).

[ii] Sú merking sem Lacan leggur í hugtakið das Ding, sem hann fær að láni hjá Freud, verður ekki skilin með hefðbundinni þýðingu sem „hluturinn“ á íslensku. Þar sem hugtakið er mikilvægt fagorð í hugsun og texta Lacans er hér gripið til íslenska hugtaksins „þing“ sem er af sama uppruna og sprottið af sömu upprunalegu merkingunni og das Ding á þýsku: eins konar „hlutur“ sem er óáþreifanlegur í sinni efnislegu mynd, öfugt við Die Sache, sem hinn efnislegi kjarni málsins.  Hugtakið das Ding (Þingið)  tengist öðru lykilhugtaki sálgreiningarinnar sem er „þaðið“, persónufornafnið „það“ umbreytt í mynd nafnorðsins.(Aths. Þýð.)

[iii] Lacan vitnar hér í strúktúralismann eða formgerðarstefnu í málvísindum eins og hún var sett fram af svissneska málfræðingnum Ferdinand Saussure í upphafi 20. aldar: Merkingargjöfin felur í sér að stofnað er til sambands á milli nefnarans (orðsins, fr.: signifiant) og hins nefnda (fr.: signifié), en slík tengsl byggja á tilviljun eða almennu samþykki, en ekki áþreifanlegri líkingu.(Aths. Þýð.)

[iv] Hugtakið „raunvera“ er eitt af lykilhugtökunum í sálgreining Lacans, og hefur ekkert með raunveruleika að gera í hefðbundnum skilningi sem hinn ytri heimur. Lacan skiptir mannssálinni í þrenn svið, sem eru svið ímyndunar, tákngervingar og raunveru. Raunveran er það „tómarúm“ innan mannsins sem ímyndanir okkar ná ekki utan um og tákngervingarnar (tungumálið /nefnararnir) ekki heldur. Raunveran er uppspretta langananna og það er viðfangsefni ímyndana og tákngervinga að „ná utan um“ raunveruna, gefa okkur mynd af henni. Það er í raun verkefni sálgreiningarinnar. Aths. Þýðanda.

Forsíðumyndin er úr Roman de la Rose handriti frá 14. öld

NÆTURLJÓÐ

NÆTURSÖNGUR HIRÐINGJANS EFTIR LEOPARDI
Eg birti hér þýðingu mína á ljóði eftir ítalska ljóðskáldið og heimspekinginn Giacomo Leopardi (1798-1837). Ljóðið skrifaði Leopardi árið 1830. 
Atlaga að þessari þýðingu var upphaflega gerð fyrir allmörgum árum af einhverri innri nauðsyn sem stundum hellist yfir okkur þegar við lesum erlendan texta sem hrópar á íslenskan skilning, þó slíkt sé að sjálfsögðu aldrei hægt, þegar um ljóðlist er að ræða. En einhvern veginn fannst mér ég hafa þörf fyrir að heyra ljóðið á íslensku til þess að staðfesta með einhverjum hætti að ég hefði skilið það.
 
Þetta er heimspekilegt ljóð sem endurspeglar bölsýni þess sem upplifir framandleika mannsins gagnvart náttúrunni og miskunnarlausri framvindu tímans. Ljóð sem á ýmislegt sameiginlegt með frægri ritsmíð Leopardis um "Samtal Íslendingsins og Náttúrunnar", sem ég þýddi einhvern tíman í kringum 1970 og birtist í öðru hefti Tímarits Máls og menningar 1971 (sjá:https://timarit.is/page/6285978?iabr=on#page/n99/mode/2up/search/T%C3%ADmarit%20M%C3%A1ls%20og%20menningar%201971).
 
Þetta ljóð er eins og samtalið, harmsögulegt ákall um örlög mannlegrar tilveru, þar sem skáldið talar fyrir munn hirðingjans frá Asíu sem verður eins og táknmynd fyrir manninn og mannleg örlög almennt. 
Það mætti hafa mörg orð um þetta ljóð, merkingu þess,táknmál og tónlist, en hljómfall ljóðlistar er eitt af því sem aldrei verður flutt á milli tungumála.
 
Ljóðið er lausrímað og í tiltölulega frjálsu formi, en sérhvert erindi endar á endingunni -ale (eins og í mortale (dauðlegur) og natale (jól)). Ekki kunni ég slíkan galdur og lít ekki á þessa þýðingu sem annað en tilraun til endursagnar.
 
Tilgangurinn með birtingunni er hins vegar annar, og tengist vangaveltum um tímann og söguna, sem ég ætla að birta hér á vefnum, meðal annars með þýðingu á kaflabroti úr bók Friedrich Nietzsche "Um nytsemd og skaðsemi sögunnar fyrir lífið", en ýmislegt bendir til að Nietzshe hafi verið undir áhrifum frá Leopardi og þessu ljóði hans, þegar hann skrifaði þennan texta. Meira um það þegar ég birti kaflabrot Nietzsche. 
En þar sem þetta ljóð er ekki bara harmasöngur hiðingjans frá Asíu, heldur líka áhrifamikið tónverk tungumálsins sem íslenskan nær aldrei að endursegja, þá vísa ég hér í upplestur ítalska leikarans Carmelo Bene á þessu ljóði á frummálinu, þar sem tónlistin og takturinn fá að njóta sín. Upplesturinn má finna á þessari vefslóð: https://youtu.be/y7PaXzp2Zh8?list=RDy7PaXzp2Zh8
Frumtextinn er birtur í lok íslenska textans.
Forsíðumynmdin er málverk af Leopardi eftir A. Ferrazzi
Erfið þýðing lokaorða kvæðisins var endurskoðuð í nóvember 2020.
Giacomo Leopardi:

Næturljóð villuráfandi hirðisins í Asíu

 

Hvað hefur þú fyrir stafni, tungl á himni, segðu mér

hvert er erindi þitt,  þögla tungl?

Þú kemur upp að kveldi, og ferð

hugleiðandi auðnirnar, og sest til hvílu.

Finnur þú engin þreytumerki

á þessu endalausa hringsóli?

Finnurðu ekki til leiðans, ertu enn óðfúst

að upplifa þessa dali?

Tilvera þín líkist

lífi fjárhirðisins.

Hann fer á fætur við sólarupprás

rekur hjörð sína yfir engið, og sér

hjarðir, uppsprettulindir og grös;

þreyttur hallar hann sér inn í kvöldhúmið

og óskar sér einskis meir.

Segðu mér tungl: hvers virði

er hirðingjans líf honum sjálfum?

Eða lífið fyrir þig? Segðu mér: hvar

samtvinnast þetta stutta lífshlaup mitt

þinni ódauðlegu hringrás?

 

Nábleikur og sjúkur gamlingi

hálfklæddur og skólaus,

með þungan bagga á herðum

æðandi yfir fjöll, yfir dali,

yfir urðir, eyðisanda og klungur,

gegn veðri og  vindum

og þegar stundin brennur

og þegar hún frýs,

blásandi æðir hann áfram

yfir straumþungar ár og forir,

sest og rís óðfluga aftur

án minnstu hvíldar né næðis.

Blóðrisa og sár nær hann loksins

endastöðinni þangað

sem öllu erfiðinu var stefnt:

ómæld hyldýpisskelfing

þar sem hann hverfur í algleymi tímans,

þannig, ó,  hreinlífa tungl,

er ævi dauðlegra manna.

 

Maðurinn fæðist með herkjum

og sérhver fæðing er lífshættan sjálf.

Fyrsta reynslan  er sársaukinn

og fyrsta verk föður og móður

eru huggunaratlotin blíðu

fyrir að fæðast í heiminn.

Eftir sem árin líða

hvetja þau hann og styðja

í orði og verki, veita hugrekki.

Hughreysting og styrkur

andspænis örlögum mannsins

er þakklátasta foreldragjöfin.

En hvers vegna að bera út í ljósið,

hvers vegna viðhalda  lífi

þess sem slíkrar huggunar þarfnast?

Ef lífið er ógæfa og böl

hví ber okkur að una þessari dvöl?

Ó, fölskvalausa tungl,

þannig er dauðlegra kvöl.

En þú ert ekki dauðlegt,

og kannski varða kvartanir mínar þig engu.

 

En þú sem ert eilífur pílagrímur

einmana og hugsandi, kannski þú skiljir

þetta jarðneska líf,

þjáningu okkar og andvörp,

þennan nábleika vanga

andspænis dauðanum,

að hverfa af yfirborði jarðar,

að slíta tengslin við sérhvern sið og vinabönd.

Þú hlýtur að skilja

forsendur hlutanna og sjá

ávexti morgunsins og kvöldsins

og linnulausa hrynjandi tímans.

Þú hlýtur að vita

að hvaða ástvini beinist

hið glaðværa bros vorsins,

hver skuli njóta ástríðuhitans

og hverjum gagnist vetrarkuldinn.

Þú veist og afhjúpar þúsund hluti

sem eru einföldum hirðingja á huldu.

Oft þegar ég virði þig fyrir mér

svo þögult á eyðimerkurför þinni,

í órafjarlægð við sjóndeildarhringinn

eða þar sem þú fylgir mér

hönd í hönd og hjörðinni á róli;

og þegar ég horfi til lýsandi stjarnanna

á himninum, segi ég hugsandi við sjálfan mig:

Hvers vegna öll þessi ljósadýrð?

Hvað gerir óendanlegt himinhvolfið

og þessi óendanlega heiðríkja?

Hvað vill þessi ómælanlega einsemd segja okkur?  og hvað er ég?

Þannig hugsa ég með sjálfum mér:

um þessa stórbrotnu vistarveru ómælanleikans

og allar stjörnuþokurnar,

um allan manngrúann og  alla vinnuna og allar tilfærslurnar

á sérhverjum himnakroppi og sérhverri jarðarveru

sem hringsnúast linnulaust og án hvíldar

til að hverfa alltaf til upphafsins.

Sumir gagnast mér, sumra nýt ég,

en ráðgátan er mér hulin.

En þú, ódauðlega ungmey,

þú þekkir allt.

það eitt veit ég og finn

að þó þetta eilífa hringsól

og mín veikburða tilvera

kunni að vera uppspretta unaðar

eða til góðs fyrir aðra; þá er lífið mér böl.

 

Ó, sauðahjörðin mín sem hvílist, ó þú sæla,

óvitandi um eymd þína, að ég held!

Hversu ég öfunda þig!

Ekki bara vegna þess að þú virðist

nánast laus við allt strit;

að þú skulir umsvifalaust gleyma sérhverjum áverka

öllum skaða og allri skelfingu;

en mesta öfundin er

að þú skulir ekki þekkja  leiðann.

Þegar þú leggst í skuggann á grasið

ertu sæl og hljóð;

og stóran hluta ársins

liggur þú þannig á jórtri.

Þegar ég sit hins vegar í skugganum og grasinu

hellist tregi yfir huga minn

og angrið stingur mig næstum

já, sitjandi er ég langt því frá

að finna mér hvídarstað.

Þó finn ég enga löngun

og hef til þessa ekki fundið ástæðu til að gráta.

Nautnir þínar kann ég ekki að nefna

en lukkan er með þér

á meðan ég hef lítils að njóta,

ó, hjörðin mín, en þetta er ekki eina kvörtunarefnið.

Ef þú hefðir mál, þá myndi ég spyrja:

Segðu mér: hvers vegna sérhverri skepnu er lagið

liggjandi í leti að njóta

á meðan leiðinn heltekur mig hvílandi í skjóli mínu?

 

Kannski, ef hefði ég vængi

til að fljúga yfir skýin

og telja stjörnurnar, eina í senn,

eða æða með storminum tind af tindi,

kannski yrði ég sælli, kæra hjörðin mín,

þá yrði ég sælli, bjarta tungl.

Eða kannski er hugsun mín

horfandi á annarra örlög

vaðandi í villu:

Kannski skiptir ekki máli

hver svo sem umgjörðin er

í skútanum eða jötunni,

hún boðar feigð  þess sem fæðist á jólum.

 

 

 

CANTO NOTTURNO DI UN PASTORE ERRANTE DELL’ASIA

Di Giacomo Leopardi

 

Che fai tu, luna, in ciel? dimmi, che fai,

Silenziosa luna?

Sorgi la sera, e vai,

Contemplando i deserti; indi ti posi.

Ancor non sei tu paga

Di riandare i sempiterni calli?

Ancor non prendi a schivo, ancor sei vaga

Di mirar queste valli?

Somiglia alla tua vita

La vita del pastore.

Sorge in sul primo albore

Move la greggia oltre pel campo, e vede

Greggi, fontane ed erbe;

Poi stanco si riposa in su la sera:

Altro mai non ispera.

Dimmi, o luna: a che vale

Al pastor la sua vita,

La vostra vita a voi? dimmi: ove tende

Questo vagar mio breve,

Il tuo corso immortale?

 

Vecchierel bianco, infermo,

Mezzo vestito e scalzo,

Con gravissimo fascio in su le spalle,

Per montagna e per valle,

Per sassi acuti, ed alta rena, e fratte,

Al vento, alla tempesta, e quando avvampa

L’ora, e quando poi gela,

Corre via, corre, anela,

Varca torrenti e stagni,

Cade, risorge, e più e più s’affretta,

Senza posa o ristoro,

Lacero, sanguinoso; infin ch’arriva

Colà dove la via

E dove il tanto affaticar fu volto:

Abisso orrido, immenso,

Ov’ei precipitando, il tutto obblia.

Vergine luna, tale

E’ la vita mortale.

 

Nasce l’uomo a fatica,

Ed è rischio di morte il nascimento.

Prova pena e tormento

Per prima cosa; e in sul principio stesso

La madre e il genitore

Il prende a consolar dell’esser nato.

Poi che crescendo viene,

L’uno e l’altro il sostiene, e via pur sempre

Con atti e con parole

Studiasi fargli core,

E consolarlo dell’umano stato:

Altro ufficio più grato

Non si fa da parenti alla lor prole.

Ma perchè dare al sole,

Perchè reggere in vita

Chi poi di quella consolar convenga?

Se la vita è sventura,

Perchè da noi si dura?

Intatta luna, tale

E’ lo stato mortale.

Ma tu mortal non sei,

E forse del mio dir poco ti cale.

 

Pur tu, solinga, eterna peregrina,

Che sì pensosa sei, tu forse intendi,

Questo viver terreno,

Il patir nostro, il sospirar, che sia;

Che sia questo morir, questo supremo

Scolorar del sembiante,

E perir dalla terra, e venir meno

Ad ogni usata, amante compagnia.

E tu certo comprendi

Il perchè delle cose, e vedi il frutto

Del mattin, della sera,

Del tacito, infinito andar del tempo.

Tu sai, tu certo, a qual suo dolce amore

Rida la primavera,

A chi giovi l’ardore, e che procacci

Il verno co’ suoi ghiacci.

Mille cose sai tu, mille discopri,

Che son celate al semplice pastore.

Spesso quand’io ti miro

Star così muta in sul deserto piano,

Che, in suo giro lontano, al ciel confina;

Ovver con la mia greggia

Seguirmi viaggiando a mano, a mano;

E quando miro in cielo arder le stelle;

Dico fra me pensando:

A che tante facelle?

Che fa l’aria infinita, e quel profondo

Infinito Seren? che vuol dir questa

Solitudine immensa? ed io che sono?

Così meco ragiono: e della stanza

Smisurata e superba,

E dell’innumerabile famiglia;

Poi di tanto adoprar, di tanti moti

D’ogni celeste, ogni terrena cosa,

Girando senza posa,

Per tornar sempre là donde son mosse;

Uso alcuno, alcun frutto

Indovinar non so. Ma tu per certo,

Giovinetta immortal, conosci il tutto.

Questo io conosco e sento,

Che degli eterni giri,

Che dell’esser mio frale,

Qualche bene o contento

Avrà fors’altri; a me la vita è male.

 

O greggia mia che posi, oh te beata,

Che la miseria tua, credo, non sai!

Quanta invidia ti porto!

Non sol perchè d’affanno

Quasi libera vai;

Ch’ogni stento, ogni danno,

Ogni estremo timor subito scordi;

Ma più perchè giammai tedio non provi.

Quando tu siedi all’ombra, sovra l’erbe,

Tu se’ queta e contenta;

E gran parte dell’anno

Senza noia consumi in quello stato.

Ed io pur seggo sovra l’erbe, all’ombra,

E un fastidio m’ingombra

La mente, ed uno spron quasi mi punge

Sì che, sedendo, più che mai son lunge

Da trovar pace o loco.

E pur nulla non bramo,

E non ho fino a qui cagion di pianto.

Quel che tu goda o quanto,

Non so già dir; ma fortunata sei.

Ed io godo ancor poco,

O greggia mia, nè di ciò sol mi lagno.

Se tu parlar sapessi, io chiederei:

Dimmi: perchè giacendo

A bell’agio, ozioso,

S’appaga ogni animale;

Me, s’io giaccio in riposo, il tedio assale?

 

Forse s’avess’io l’ale

Da volar su le nubi,

E noverar le stelle ad una ad una,

O come il tuono errar di giogo in giogo,

Più felice sarei, dolce mia greggia,

Più felice sarei, candida luna.

O forse erra dal vero,

Mirando all’altrui sorte, il mio pensiero:

Forse in qual forma, in quale

Stato che sia, dentro covile o cuna,

E’ funesto a chi nasce il dì natale.

 

 

%d bloggers like this: