FRÁ SÁLGREININGU TIL HAGNÝTRAR IÐKUNAR HEIMSPEKINNAR – Galimberti

Kynning Umberto Galimberti á bókarkápu:
Uggvænleg boðflenna hefur gert sig heimakomna á heimili Sálarinnar (Psyke) og sett fram með áður óþekktri ögrun spurninguna um merkingu tilverunnar. Aðrir gestir sem fyrir voru, heimilisvanir í húsi Sálarinnar, andmæltu spurningunni á þeirri forsendu að hún væri jafn gömul heiminum, því allt frá fæðingu mannkyns hafi maðurinn þekkt sársaukann, eymdina veikindin, viðbjóðinn, óhamingjuna og jafnvel „ok siðmenningarinnar“ sem menn hafa leitað sér lækninga við, fyrst með iðkun trúarbragðanna, síðan í gegnum læknislistirnar þar sem sálgreiningin hefur verið í fararbroddi. Hinn óboðni vágestur þrjóskast hins vegar við að halda því fram að með tilkomu tæknialdarinnar hafi spurningin um merkingu og tilgang (senso) tilverunnar tekið róttækum breytingum. Ástæðan er sú að ef heimurinn og lífið hafa virst án merkingar og tilgangs vegna almennrar eymdar fyrir tíma tæknibyltingarinnar, þá hafi tækniöldin gert lífið og heiminn eymdarleg þar sem hvort tveggja skorti nú tilgang og markmið. Sálgreiningin hefur opinberað vanmátt sinn andspænis þessari greiningu vegna þess að þau tæki sem hún ræður yfir þekkja tilgangsleysi þess lífs sem er undirokað af þjáningu, en ekki þá þjáningu sem ræðst af djúpstæðu brotthvarfi merkingar og tilgangs. Hér þarf að grípa til hagnýtrar heimspekiiðkunar. Heimspekin hefur frá upphafi sínu haft leitina að merkingu að meginviðfangsefni, og ólíkt sálgreiningunni þá hefur hún aldrei hikað við að setja spurningarmerki við þann heim sem á okkar dögum kennir sig við tæknibyltinguna og lítur nú á manninn sem „viðfang (mezzo) í alheimi viðfanganna“ [„mezzo“ getur í þessu samhengi merkt bæði meðal, tæki, viðfang eða efnivið í eitthvað annað, sbr. orðatiltækið „tilgangurinn helgar meðalið“] og varpar honum þannig inn á eyðiland merkingarleysunnar. Það er ekki hægt að leita sér lækninga við merkingarleysunni, því vanlíðanin á ekki rætur sínar í einstaklingnum, heldur í þeirri staðreynd að honum hefur verið varpað inn í sviðsmynd (heim tækninnar) sem er ofvaxinn skilningi hans. Ef vandinn á rætur sínar í skorti á skilningi, þá eru verkfæri heimspekinnar þau einu tiltæku til að átta sig í heimi þar sem merkingin verður stöðugt torsóttari, dularfyllri og fjarlægari fyrir manninn.

Heimurinn í ljósi sálgreiningar og hagnýtrar heimspeki

eftir Umberto Galimberti

Inngangur að bókinni La Casa di Psiche -Dalla psicoanalisi alla pratica filosofica eftir Umberto Galimberti.

Bókin kom út hjá Feltrinelli forlaginu í Róm 2005 (466 bls.).

Í bók þessari fjallar Galimberti um aðferðir trúarbragðanna, læknavísindanna, sálgreiningarinnar og heimspekinnar til að bregðast við mannlegum sársauka og fallvaltleika lífsins. Galimberti er einn af þeim rithöfundum sem hafa haft hvað dýpst áhrif á skilning minn á samtímanum og hann hefur umfram aðra leitt mig af villigötum fagurfræðinnar inn á slóðir heimspekinnar, eins og hann gerir eftirminnilega í þessari bók.  Oft hafa verk hans leitt til þess að að ég hef fundið mig knúinn til að koma hugsunum hans yfir á íslenskt mál. Ég á eina bók eftir hann tilbúna til útgáfu á íslensku, sem bíður útgefanda. Nú þegar ég er að taka til í tölvu minni og greina kjarnann frá hisminu rekst ég á þessa gömlu þýðingu. Hún var ekki unnin að tilefnislausu, hún var unnin af persónulegri þörf.

Bókin Casa di Psiche er eitt af höfuðritum Galimberti á svið sálarfræði, þar sem hann færir um leið rök fyrir þeirri skoðun að fátt sé vænlegra til að bjarga Vesturlandabúum frá þeirri tómhyggju sem hefur gert sig heimakomna í sálartetri þeirra, en að snúa aftur til árdaga vesturlenskrar heimspekiiðkunar eins og hún tíðkaðist í Grikklandi til forna. Það felur jafnfram í sér viðskilnað við þá frelsunarguðfræði og framfaratrú sem hefur einkennt sögu Vesturlanda, að minnsta kosti frá tilkomu kristindómsins. Galimbeti er einhver snjallasti greinir tómhyggjunnar í samtímanum, og það er lærdómsríkt að sjá hvernig hann kennir okkur að bregðast við henni án þess að grípa til annarra læknismeðala en þess sem Grikkir kölluðu mathésis og areté: þekking og dyggð.

 

Ég heiti á ykkur bræður, verið jörðinni trúir

og treystið ekki þeim sem tala um vonir annars heims!

Friedrich Nietzsche: Svo mælti Zaraþústra,

bók fyrir alla og engan.

Háskólaútgáfan 1996, bls. 42.

1.     Spurningin um sársaukann og merkinguna.

Dauði Guðs varð ekki til einskis þegar litið er til mannlegra örlaga, og ekki hvað síst ef litið er til þeirra örlaga sem eru ofar öllum öðrum og varða mannlega þjáningu, en gagnvart henni hafa menn hugsað endalausar lausnir og lækningar.

Sú síðasta í röðinni tímalega séð er hagnýt heimspekiiðkun, sem öfugt við það sem almennt er álitið, deilir ekki rými sínu með öðrum læknislistum, því hún er ekki lækningameðal. Hún hefur satt að segja enga trú á því að hægt sé að læknast af sársaukanum, því hún telur að sársaukinn sé ekki óhagræði sem hellist yfir tilveru okkar eins og afleiðing tiltekinnar þekktrar eða ómeðvitaðrar orsakar, sem hægt sé að bregðast við með tilteknum læknisráðum, heldur telur hún að sársaukinn sé óaðskiljanlegur þáttur tilverunnar, og sem einn af grundvallarþáttum hennar sé hann ekki tækur til lækningar, heldur sé hægt að hafa stjórn á honum með sjálfsstjórn [cura di sé].

Eins og ég hef sýnt fram á í bókinni Psiche e techne með því að rekja þá löngu slóð hefðarinnar sem rekja má frá Platon til Gehlens í gegnum Tómas frá Aquino, Kant, Herder, Schopenhauer, Nietzsche og Bergson, þá er maðurinn eina lífveran sem ekki er búin eðlisávísun, og er því ein um að búa við tilvist sem er ekki fyrirfram forskrifuð, heldur sett fram sem úrlausnarverkefni.

Ef menn vilja leiða hjá sér slíkt úrlausnarverkefni eru menn um leið að segja sig frá mannlegum tilvistaraðstæðum og segja sig frá eigin lífi áður en það er slokknað, sem við slíkar aðstæður merkir þá ekki endalok tiltekinnar tilvistar, heldur einföld líffræðileg endalok.

Með því að beina sjónum okkar að dauðanum, hinu raunverulega huldufyrirbæri vestrænnar menningar, beinum við sjónum okkar að grundvallarmörkum mannlegrar tilveru, endanleik hennar, þar sem þjáningin sem fylgir lífinu, lífi hvers og eins, er bæði forleikur og óhjákvæmilegur fylgifiskur.

Við tölum hér um sérhverja manneskju, einnig um þann sem ekki þjáist á þessari stundu, því hann kemst heldur ekki hjá því að horfast í augu við þann ógnvænlega möguleika að eiga eftir að þjást. Þessi möguleiki gerir þjáninguna að altæku fyrirbæri sem birtist okkur í öllum sínum óhjákvæmileika sem óhjákvæmilegur grundvallarþáttur tilverunnar.

Hér vaknar spurningin um merkingu þjáningarinnar, sem síðan leiðir af sér spurninguna um merkingu lífsins, ef það reynist rétt að þjáningin sé einn af grundvallarþáttum þess. Merkingin er í raun eins og hungrið sem gerir ekki vart við sig á meðan við erum mett, heldur þegar okkur skortir fæðu. Það er reynslan af hinu neikvæða sem kallar fram spurninguna, það er sjúkdómurinn, sársaukinn, angistin, ekki hamingjan, en engum dettur í hug að spyrja sig um merkingu hennar.

Ákall um skort á merkingu jafngildir þá því að kvarta undan sársaukanum, sjúkdómnum og dauðanum. Þess vegna er „spurningin um merkingu“ göfug tjáning sem felur í sér afneitun mannsins á hinni neikvæðu reynslu og afneitun hans á eigin endanleika, eigin takmörkum. Við skulum því rannsaka þessi takmörk og reynum umfram allt að skilja hvað verður um sársaukann, þegar okkur hefur tekist að játast undir og sættast við okkar eigin takmörk.

Spurningin um merkingu verður enn meira aðkallandi á tímaskeiði tækninnar, því tæknin hefur tilhneigingu til að þurrka út einstaklinginn með öllum sínum sérkennum, til þess að gera hann að tæki til að þjóna tiltekinni vél, sem byggir umfram allt á staðgengilshlutverki einstaklingsins en ekki sérkennum hans. Þessi einsleitniárátta sem leitast við að þurrka út öll einstaklingsbundin sérkenni, valtar yfir hina einstöku sjálfsveru sem ekki fær lengur að bregðast við andspænis tilteknu markmiði, heldur ber henni að virka samkvæmt fyrirfram gefnum reglum, án sýnilegs tilgangs er gæti réttlætt og treyst viðkomandi sjálfsveru.

Þetta ferli aftengingar einstaklingseðlisins, sem ég gerði víðtæka grein fyrir í Psiche e tecne, steytir á reynslunni af sársaukanum, sem eins og S. Natoli hefur minnt okkur á „er hin sígilda leið okkar til að reyna einstaklingseðli okkar […] af þeirri einföldu ástæðu að enginn getur orðið staðgengill okkar eigin sársauka, rétt eins og enginn getur orðið staðgengill okkar eigin dauða.“[i]

Með því að aftengja þegnana frá einstaklingseðli sínu hefur tímaskeið tækninnar jarðað sérstöðu einstaklingsins, og þar með svipt hann öllum meðulum til að finna einhverja merkingu út úr þeim sársauka sem hann finnur áþreifanlega með eigin hendi, um leið og hann skynjar þá einstaklingsbundnu vídd eigin tilvistar, sem á sér engan mögulegan staðgengil.

Í sársaukanum getur enginn komið í staðinn fyrir okkur sjálf, því það getur enginn komið í stað okkar sjálfra í dauða okkar, en sársaukinn er forleikur hans að því leyti að hann veiklar lífið, útgeislun þess og útþenslu, felur í sér afturhvarf og samdrátt. Þannig er sársaukinn ekki bara líkamlegt fyrirbæri sem læknisfræðin og sálgreiningin með sín læknismeðöl líta á sem takmörk sín, heldur markar hann óhjákvæmilegar tilvistaraðstæður mannsins: tilvistaraðstæður hins dauðlega manns. Andspænis þessari staðreynd eru bæði læknisfræðin og sálgreiningin ráðalaus, á meðan hin hagnýta heimspeki sem á rætur sínar í vitundinni um mannlegar tilvistaraðstæður, byrjar að tala með sama hætti og viska hinna fornu Grikkja talaði, sem reyndar átti sér tvö orð yfir „manninn“: anér og ánthropos, en notaðist hins vegar nær alltaf við orðin brotós eða thnetós, sem merkir „hinn dauðlegi“.

Það er ekki sjálfur atburður dauðans sem framkallar sársauka okkar, heldur er það vitundin um óhjákvæmileik hans og þess vegna er biðin eftir þessum atburði einnig afgerandi fyrir þennan sársauka. Við þjáumst í raun ekki af þeim líkamlega eða sálræna sársauka sem við mætum, heldur fyrst og fremst af þeim ummerkjum sem eru ávísanir hans. Að þjást /umbera [patire] merkir í raun að verða fyrir [subire] því sem við getum ekki umflúið. Líkamleg og andleg þjáning [patimento] okkar fela ekki bara í sér sársaukann, heldur sársauka biðarinnar eftir dauðanum, en sá sársauki sem þrengir að lífsmöguleikum okkar er ótvírætt merki hans. Því er þolgæðin [la pazienza] sem felur í sér listina að kunna að þjást [patire] hin viðurkennda dyggð sjúklinganna [i pazienti], ekki vegna þess að viðkomandi sjái batann eða lækninguna handan við næsta horn, heldur vegna þess að hann hefur gert sér grein fyrir að hann getur ekki komið í veg fyrir sín dauðlegu örlög.

Með því að umbera [patire] það sem við getum ekki komist undan, hvort sem um er að ræða sálræna eða líkamlega þjáningu, komumst við í snertingu við takmörk okkar, eða öllu heldur felum við okkur sjálf á vald þessara takmarka sem kenna okkur að við höngum í tóminu. Úr tóminu erum við komin og í tómið munum við hverfa. Stakir atburðir sem eru helgaðir fallvaltleik tilverunnar og kalla á spurninguna um merkingu þessa fallvaltleika. Þessi róttæki skortur á merkingu birtist okkur í félagsskap angistarinnar sem bæði Freud og Heidegger hafa kennt okkur að sé að því leyti óskyld hræðslunni að hún eigi sér ekkert viðfang er geti talist uppspretta hennar. Um þetta sagði Freud:

Angistin [Angst] er óaðskiljanlega tengd biðinni: hún er angistin andspænis og áður en eitthvað á sér stað. Hún hefur yfirbragð hins óskilgetna og skorts á viðfangi. Í daglegu tali segjum við að þegar angistin hafi fundið viðfang sitt breyti hún um nafn og kallist hræðsla [Frucht][ii].

Og Heidegger orðar þetta svona:

Með hugtakinu angist [Angst] eigum við ekki við þann kvíða [Ängstlichkeit] sem algengur er, og er í raun hluti þess ótta [Frucht] sem svo auðveldlega nær tökum á okkur. Angistin er í grundvallaratriðum frábrugðin hræðslunni. Við erum alltaf gripin skelfingu gagnvart einhverjum tilteknum hlut eða fyrirbæri, sem við tilteknar aðstæður getur ógnað okkur: hræðslan við … er alltaf hræðslan við tiltekið fyrirbæri. Þar sem einkenni hræðslunnar felast einmitt í afmörkun viðfangsins og markmiði þess, þá er hinn óttaslegni fangi þess sem hann óttast og finnur sig í. Í sjálfsbjargarviðleitninni gagnvart þessu tiltekna viðfangi verður hann óöruggur gagnvart öllu öðru, og verður þannig á endanum „viti sínu fjær“.

Angistin kallar ekki fram sambærileg viðbrögð. Þvert á móti er hún umlukin einstakri kyrrð. Vissulega er angistin alltaf angist fyrir… eða angist gagnvart… en ekki gagnvart þessu eða hinu. Óvissan um það hvað veldur angist okkar stafar samt sem áður ekki bara af skorti okkar á ákveðni, heldur fyrst og fremst af ómöguleika þess að ákveða.[iii]

Við fyllumst ekki angist af hinu eða þessu, heldur af tóminu sem við komum úr og tóminu sem bíður okkar: „Angistin leiðir tómið í ljós“[iv], segir Heidegger.

Það eru hin einstöku tilvik, „hitt og þetta“, sem iðkun sálgreiningarinnar beinist að. Það tóm, sem „hitt og þetta“ eru einungis forboði fyrir er hins vegar viðfangsefni hinnar hagnýtu heimspeki, sem einbeinir sér ekki að fyrirfram skilgreindri þjáningu sem slíkri, þessum tilteknu hömlum sem settar eru á líf okkar, nema í þeim tilgangi að fella þær undir mun víðtækari reynslu er sýnir óhjákvæmilegan forgengileik tilveru okkar, en yfirbreiðsla þessa forgengileika er vísasti vegurinn til örvæntingarinnar.

Sá einn verður örvæntingunni að bráð sem hefur gert sér væntingar um að geta yfirstigið grundvallartakmörk tilverunnar. Í þessu sáu Forn-grikkir þá stærstu synd sem menn gátu drýgt. Þeir kölluðu hana hýbris, oflæti, oflæti þess sem telur sig geta yfirstigið mörkin, og þar með vanvirt allt það sem skapast og tortímist í tilverunni. Þannig hljóðar að minnsta kosti fyrsta yrðing heimspekinnar sem hjá Anassimandrosi er orðuð svona:

Þar sem allar verur eiga uppruna sinn, þar eiga þær einnig tortímingu sína samkvæmt nauðsyn. Þannig greiða þær hver annarri skuld sína og endurgjald óréttlætisins samkvæmt reglu tímans.[v]

Sálgreiningin einbeinir sér að hinni taugaveikluðu angist sem á sína orsök-sök (í grísku –eins og íslensku- eiga bæði orðin sömu rót, aitía) í æviferli hins þjáða, í fortíð hans, í ævisögu hans. Hin hagnýta heimspeki einbeinir sér hins vegar að hinni tilvistarlegu angist, sem hvílir ekki á neinni orsök né heldur sök, vegna þess að hún kviknar af forboða ókomins dauða sem þjáningin í formi takmarkaðrar lífsgetu er vísbending um.

Finna má takmarkaða lækningu á sjúkdómseinkennum taugaveiklunarangistarinnar eins og þau birtast okkur, en enga lækningu á þeim grunni sem slík sjúkdómseinkenni eiga rætur sínar í, en það er grunnur tilvistarinnar skilinn sem vettvangur allgers fallvaltleika. Andspænis þessu er sálgreiningin ráðalaus, á meðan hin hagnýta heimspeki á enn nokkur orð um málið í sínum handraða. Og hún gerir það með því að innrita fallvaltleika tilverunnar inn í hinn algilda fallvaltleika heimsins, sem er ekki sjúkdómur sem hægt er að lækna, því það eru forsendur sérhverrar tilveru sem vill horfast í augu við sjálfa sig en ekki gefa sjálfri sér gylliboð blindra vona. Um þetta segir Æskílos:

Kórinn: En hefur þú auk þess framið eitthvert brot?

                Prómeþeifur: Ég létti af mönnum vitund um sín ævilok.

                Kór: Hver var sá læknisdómur er þar dugði best?

                Prómiþeifur: Ég gróðursetti blinda von í brjósti þeim.

                Kór: Þar hefur þú veitt hinum feigu sanna líkn.[vi]

Þennan vitnisburð um algildan fallvaltleika er líka að finna hjá Freud þar sem hann segir:

Fyrir ekki all-löngu síðan var ég á gönguferð eftir gangstíg í fullum sumarskrúða  í félagsskap þöguls vinar og ungs skálds, sem þegar naut frægðar þrátt fyrir ungan aldur. Skáldið dáðist að fegurð náttúrunnar í kringum okkur án þess að gleðjast. Það sem truflaði gleði hans var tilhugsunin um að öll þessi fegurð væri dæmd til að hverfa, að hún myndi tortímast strax með komu vetrarins. Rétt eins og öll mannleg fegurð, rétt eins og allt hið fagra og göfuga sem mennirnir hafa skapað eða munu geta skapað. Allt það sem hann hefði að öðrum kosti elskað og dáð birtist honum nú sem þegar gengisfelld bráð þess fallvaltleika sem beið handan hornsins. […] Tilhugsunin um að öll þessi fegurð væri forgengileg fyllti báðar þessar tilfinninganæmu sálir sorg yfir forgengileikanum. Og þar sem það er eðli mannssálarinnar að forðast ósjálfrátt allt það sem vekur sársauka fundu þeir í nautn sinni á fegurðinni truflandi íhlutun hugsunarinnar um fallvaltleikann.[vii]

Freud er fljótur að grípa til þess ráðs – í þeim tilgangi að verja sálgreiningaraðferð sína gegn fallvaltleikanum – að segja það „eðli mannssálarinnar að forðast ósjálfrátt allt það sem vekur sársauka“ . Engu að síður var það einmitt Freud sem kenndi okkur að það væri ekki rétta lausnin á vandamálunum að fela þau (með yfirfærslu eða yfirbreiðslu). Því er vettvanginn þar sem hin hagnýta heimspeki vill hasla sér völl einmitt að finna í hinu sársaukafulla, það er vettvangur spurningarinnar um merkingu tilverunnar þar sem fallvaltleikinn er frumforsendan.

Hér sjáum við skilin á milli austurlenskrar og vesturlenskrar hugsunar. Austurlensk hugsun kennir okkur að sá sársauki sem fallvaltleiki tilverunnar birtist í, sé ekki sannur, heldur sé hann einungis tálsýn [apparenza]. Hann verður til vegna þess að menn hafi frá upphafi ranga afstöðu til tilverunnar og því nægi að breyta afstöðunni til heimsins, afneita til dæmis hinni viljabundnu vídd er vilji ráða yfir öllum hlutum, og þá muni heimur sársaukans birtast okkur í sinni réttu mynd sem hrein tálsýn [apparenza].

Vesturlensk hugsun er hins vegar fullviss um að fallvaltleiki tilverunnar, eins og fallvaltleiki allra hluta, sé ekki sýndarvera heldur veruleiki, sem síðan framkallar sársaukann. Það er einmitt hér sem vatnaskil verða á milli þeirra tveggja stóru heimssýna sem mótuðu vesturlenska menningu, hinnar grísku og hinnar gyðinglegu-kristnu.

Hin gyðinglega-kristna hefð lítur á sársaukann sem afleiðingu falls, er á rætur sínar í sök er þurfi á endurlausn að halda og að sársaukinn sé því undir frelsuninni kominn. Samkvæmt þessum skilningi er sársaukinn refsing en um leið hreinsandi atburður. Sem slíkur leitar hann eftir endurlausn og frelsun. Í þeim skilningi er sársaukinn ekki grundvallarþáttur tilverunnar, heldur sektar hennar, um leið og hann verður meðal endurlausnarinnar.

Afhelgun þessarar trúarlegu sýnar á heiminn leiðir síðan til þeirrar túlkunar á sársaukanum, að hann tilheyri þeim ákomum tilverunnar, sem hægt sé að leita sér lækningar við. Ástundun sálgreiningarinnar tilheyrir að öllu leyti þessari trúarlegu sýn á heiminn.

Samkvæmt grískum skilningi  orsakast sársaukinn ekki af sekt, heldur myndar hann grundvallarþátt tilverunnar, og því þurfi menn að taka fallvaltleikann inn á sig í einu og öllu, án þess að gera sér vonir um handanheima eða tilgátur um frelsun frá upprunalegri sök. Þegar fallvaltleiki tilverunnar hefur verið meðtekinn þurfa menn að læra að lifa alla þá útvíkkun sem lífið býður upp á og allan samdrátt þess, því þannig eru aðstæður hinna dauðlegu sem engin frásögn fær umbreytt.  Hin hagnýta heimspekiiðkun er innrituð í slíka sýn á heiminn, hún þekkir því engar frelsandi vonir með tilheyrandi örvæntingum, heldur einungis hina yfirveguðu vissu þess að hægt sé að standast sársaukann og að hægt sé að ná stjórn á honum að vissum mörkum.

2.     Andsvar hinnar gyðinglegu kristnu hefðar og iðkun sálgreiningarinnar

Ef þjáningin er afleiðing sektar sem getur orðið viðfangsefni endurlausnar, þá verða þessi jörð og sú tilvera sem á henni er lifuð skynjaðar sem biðstöð [transito]. Sú framtíð sem er í vændum mildar þá grimmd sársaukans, því sá sem þjáist í dag verður frelsaður á morgun. Í þessum skilningi er sársaukinn ekki lengur skilinn sem eitthvað óaðskiljanlegt frá lífinu, heldur eitthvað sem hefur komið fyrir hið jarðneska líf í kjölfar sektar, og er þannig eitthvað sem í grundvallareðli sínu er aðskilið frá lífinu. Þetta þýðir að hið sanna líf þekkir ekki sársaukann, og ef lífið á jörðinni er ekki án sársauka, þá er það einungis vegna þess að lífið á jörðinni er ekki hið sanna líf, þetta líf sem við erum fædd og borin til að lifa.

Þetta felur í sér gengisfellingu hins jarðneska lífs, „táradalsins“ sem eins og Jesaja segir, finnur réttlætingu sína í biðinni eftir nýjum himnum og nýjum jörðum:

Því sjá, eg skapa nýjan himin og nýja jörð, hins fyrra skal ekki minnst verða og það skal engum í hug koma. Nei, gleðjist og fagnið æfinlega yfir því sem eg skapa, því sjá, ég gjöri Jerúsalem að fögnuði og fólkið í henni að gleði.“[viii]

Ólíkt hinum gríska skilningi, sem sér lífið sem grimmd og fegurð í senn, þá hefur hinni gyðinglegu-kristnu hefð tekist, með loforðinu um endurlausn og frelsun í framtíðinni, að taka á eigin herðar og samsama sig með allri þjáningu mannanna – og vanvirða þannig fegurð hins jarðneska lífs eins og það sé líf í biðstöðu og vanvirða þannig þennan heim sem heim sársaukans.

En ef sársaukinn er að einu leyti það sem leiðir til gengisfellingar þessa heims, þá er hann jafnframt áhrifamesta hvatningin til vonarinnar og trúfestunnar. Þegar einu sinni er búið að sýna fram á að þessi jörð og þessi jarðneska tilvist séu lifuð sem jörð og tilvist sársaukans, þá verður veðmálið á Guð ekki raunverulegt veðmál, eins og Pascal hélt fram[ix], því hann verður hinsta vonin.

Ef sársaukinn er endurgjald frelsunarinnar, þá ber okkur ekki bara að umbera hann, heldur líka að elska hann. Sama á við um siðfræði valdbeitingarinnar og meðalhófsins, siðfræði sjálfsvirðingar mannsins sem á að kunna að standast sársaukann allt þar til hann verður sæmandi upplifun hins fagra dauðdaga, þessari siðfræði sem heimspekiskóli stóikeranna hafði lofsungið sem hina æðstu þolgæði og hófsemd (substine et abstine / að umbera og neita sér um ). Eftir að kristnin hafði eyrnamerkt sársaukanum ábyrgðartryggingu frelsunarinnar þá kallar hún á ástina á sársaukanum vegna þess að þjáning líðandi stundar er innborgun inn á framtíðarreikninginn.

Francesco di Sales, höfundur þessarar uppeldisfræði sársaukans samkvæmt tilvistarskilningi kristindómsins, er sér vel meðvitaður um þá gjá sem skilur á milli grískrar hugsunar og kristindómsins, og í rökræðu sinni gegn boðorði stóikeranna substine et abstine segir hann bein út:

Hin kristna kenning, hin eina sanna heimspeki, byggir öll á þessum reglum: sjálfsafneituninni sem er til mikilla muna æðri afneitun nautnanna; burð krossins, sem er mun göfugra en að umbera hann; fylgja Herranum, ekki bara í sjálfsafneituninni eða því að bera eigin kross, heldur einnig í iðkun allra góðra verka. Þegar á allt er litið þá birtist hin hreina ást ekki fyrst og fremst í sjálfsafneituninni og verknaðinum, heldur sýnir hún sig í þjáningunni.[x]

Sú gyðinglega-kristna hugsun, sem réttlætir þjáninguna í þessari jarðnesku biðstöðutilvist með hina eilífu tilvist án sársauka að leiðarljósi, setur í gang hugsun sem lítur á lífið sem sjúkdóm, sjúkdóm sem menn munu dag nokkurn fá lækningu á. Þessi sýn lifir dauða Guðs af og myndar í sjálfu sér þann mannfræðilega skilning sem er innifalinn í sálgreiningunni, þar sem litið er á manninn sem sjúkdómstilfelli [pato-logico] eins og þann sem umber og þolir [subisce e patisce] hin myrku öfl dulvitundarinnar þar sem orsakir þjáninga hans og vanlíðunar hvíla, og sem hann þarf að frelsa sig undan. Það er í þessum skilningi sem Freud skrifar: „Þar sem þaðið var þarf Égið að taka sér stöðu. Það er verknaður siðmenningarinnar, sambærilegur við uppþurrkun Zuiderzee.“[xi] Og enn fremur:

„Komandi tímar munu bera í skauti sínu nýjar og líklega ótrúlega miklar framfarir á þessu sviði menningar, og maðurinn mun líkjast Guði enn meir. En í samræmi við þá athugun sem við höfum hér tekist á hendur, skulum við ekki gleyma því, að nútímamaðurinn er ekki sæll í hinu goðumlíka ástandi sínu“.[xii]

Ógæfa líðandi stundar leiðir til vonarinnar um framtíðina. Í handanheiminum samkvæmt hinni gyðinglegu-kristnu heimssýn, í framförum þekkingarinnar samkvæmt hinni afhelguðu útgáfu þessarar heimssýnar. Rétt eins og tilvistarsársaukinn er ekki endanlegur samkvæmt hinni gyðinglegu-kristnu sýn, því handan við hornið bíður tilvera án sársauka, þá gildir hið sama um hina einstaklingsbundnu þjáningu og „ok siðmenningarinnar“, hvorugt er endanlegt, því læknismeðferðin mun, rétt eins og trúariðkunin á tímum átrúnaðarins á Guð, tryggja endurlausnina, sem á hinu hæverska tungumáli sálgreiningarinnar kallast heilbrigði. Um þetta segir Natoli:

„Dauði Guðs skilur ekki bara eftir sig munaðarleysingja, heldur líka erfingja. Þessi Guð var þegar í andaslitrunum er staðgenglar hans fóru að birtast á sviðinu: heimspekingar framfaranna og hugmyndafræðingar byltinganna. Drepið sem gróf um sig í Guði skapaði pláss fyrir mýgrút af mannlegum endurlausnurum sem eykst bara að umfangi í réttu hlutfalli við fjölda gjaldþrotanna. Þetta fyrirbæri er nú orðið þekkt sem ferli veraldarvæðingarinnar [secularizzazione]. Veraldarvæðingin veitir þörfinni fyrir frelsun veraldlegan farveg og þannig verða menn sjálfir frumkvöðlar eigin frelsunar. Engu að síður er því ekki þannig farið að veraldarvæðingin feli manninn jörðinni, eins og halda mætti við fyrstu sýn, heldur færir hún jörðina í hendur mannsins svo að hann sjálfur geti orðið frelsari hennar.“[xiii]

Frelsunin kemur með þekkingunni, með hinni vísindalegu þekkingu, sem þegar í upphafi skilur sjálfa sig sem vald. Staðfestingu slíks skilnings getum við fundið hjá Francis Bacon, ekki bara þar sem hann segir beint út „vísindin eru vald“[xiv], heldur líka í því skilyrðislausa trausti sem hann setur á möguleika vísindanna og tækninnar í viðleitni þeirra að bæta tilvistaraðstæður mannsins.

Þó Bacon leggi fram fordæmisgefandi reglur er byggi ekki á neinum hlutlægum vísindalegum niðurstöðum, þá er hann innblásinn af þeirri sannfæringu að vísindaleg umbylting heimsins í þjónustu mannsins sé ekki bara eitthvað sem sé í þann veginn að gerast, heldur eitthvað sem beri að láta gerast, eitthvað sem verði að siðferðilegri skyldu er beri að fylgja eftir af trúarsannfæringu, rétt eins og mönnum beri að hlýða boðorðum Guðs. Þetta er í það minnsta merkingin sem hægt er að lesa út úr lokaorðunum í riti hans Novum Organum:

Í kjölfar erfðasyndarinnar glataði maðurinn sakleysi sínu og yfirráðum sínum yfir sköpunarverkinu. En hvorttveggja má endurheimta, að minnsta kosti að hluta til, í þessu lífi. Hið fyrra í gegnum trúræknina, hið seinna í gegnum tæknina og vísindin. Sköpunarverkið var ekki allt og um alla eilífð í uppreisn í kjölfar hinnar guðdómlegu útskúfunar. Samkvæmt reglunni  „í sveita andlits þíns skalt þú neyta brauðs þíns“ (1. Mós. 3,19) og eftir mikla erfiðismuni (þó ekki fánýtar orðræður og tilgangslausa galdraseyði) er maðurinn loks skuldbundinn því að gefa mönnum brauð og uppfylla þarfir mannlegs lífs.“[xv]

Þannig upphefst hin mikla vísinda- og tækniáætlun nútímans sem trúarleg áætlun, innrituð í hinn trúarlega ramma. Áætlun sem hugsar sjálfa sig annars vegar sem framkvæmdaarm guðdómlegra áforma og hins vegar sem árangursríka virkjun siðferðislegrar skyldu. Í þessu samhengi birtist það þekkingarlega vald, sem fólgið er í hinum „nýju vísindum“, sem auðmjúkur gjörningur, rétt eins og eitt form endurgjalds fyrir þá synd sem framin var í öndverðu með þeim vitsmunalega hroka sem fólst í erfðasyndinni, en Bacon taldi að hin forn-gríska hugsun væri alls ekki ósnortin af honum. En ef forngrísk hugsun setti „athöfnina“ þrepi neðar en það „íhugula innsæi“ sem tók mið af óbreytanleika náttúrunnar, þá settu hin nýju vísindi „innsæið“ skör neðar hinni „íhlutandi aðgerð“ sem uppgötvar í náttúrulögmálunum fótspor Guðs, og sér í þeirri uppgötvun forsendur hinnar mannlegu endurlausnar. [xvi]

Ef þekkingin veitir endurlausn og frelsun með sama hætti og trúin á orð Guðs gerði í eina tíð, þá er sú handleiðsla sálarinnar, sem eitt sinn var falin trúariðkuninni, á okkar dögum falin í hendur sálgreiningarinnar. Við eigum að vera þakklát sálgreiningunni fyrir það sem hún hefur kennt okkur um kraftaflæði hvatanna og öll tákngervingarferlin, en það breytir því ekki að þessi þekking, eins og öll önnur þekking, á sér markmið valdsins, valdsins til að lækna sársauka mannsins.

Með þessum hætti er sálgreiningin fullkomlega innrituð í trúarlega sýn hinnar gyðinglegu-kristnu hefðar sem lítur svo á að sársaukinn sé ekki einn af grundvallarþáttum mannlegrar tilvistar, heldur eitthvað sem þurfi að skilja frá, úthýsa, særa burt eða lækna samkvæmt formúlum sem greina sig frá hinni hefðbundnu trúariðkun einungis hvað inntakið varðar, því formlega séð eru báðir þættirnir innritaðir í þá heimsmynd sem lítur ekki á sársaukann sem óhjákvæmilegan þátt tilverunnar, heldur sem sjúkdóm sem við getum og okkur ber skylda til að lækna.

Með þessum hætti kynnir sálgreiningin sig til sögunnar sem eins konar sjúkdómavæðing [medicalizzazione] hins mannlega, sem er hin veraldarvædda [secolarizzata] útgáfa trúarlegrar endurlausnar. Í báðum tilfellum þarf að frelsa manninn undan sársaukanum, því sársaukinn er ekki óhjákvæmilegt skilyrði tilverunnar, eins og Forn-grikkir hugsuðu, heldur á hann sína vel skilgreindu orsök/sök (aitía) sem við getum hlotið endurlausn frá á máli trúarinnar – en læknað á hinu veraldarvædda tungumáli vísindanna.

Vald þeirrar þekkingar sem læknar er þannig veraldarvædd útgáfa á valdi trúarbragðanna sem veita endurlausn, og því ber okkur að leggja traust okkar á þekkinguna, rétt eins og við lögðum einu sinni traust okkar á trúarbrögðin, þegar við stöndum andspænis sársaukanum. Niðurstaðan í báðum tilfellum er úthýsing [rimozione] sársaukans sem grundvallarþætti tilverunnar. Þess vegna er sársaukinn ekki á dagskrá í daglegu lífi manna, heldur hefur honum verið úthýst eins og Foucault kenndi okkur í Naissance de la cinique[xvii] (Fæðing sjúkrastofnunarinnar) á staði þar sem sérhæfing þekkingarinnar beitir valdi sínu. Móttökustofa sálgreinisins er einn af þessum stöðum þar sem „meint þekking“, eins og Lacan hefði orðað það,[xviii] bendir á braut heilsunnar rétt eins og kennisetning kirkjunnar bendir á hina beinu braut frelsunarinnar. Fullkomin samsömun áformanna þó leiðirnar sem fylgja ber virðist vísa í ólíkar áttir.

Úthýsing sársaukans, sem hinn þjáði sækist líka eftir í skelfingu þess að verða skilinn eftir, gerir það að verkum að maðurinn glatar því sem Forn-grikkir kölluðu „hinn rétta mælikvarða“ (katà métron)[xix], sem er mælikvarði endanleikans sem maðurinn á ekki að yfirstíga (hyper tò anthrópinon métyron)[xx]. Hvað þá ef tæknin, tilkomin sem áætlun um frelsun og endurlausn, myndi stíga yfir þessi mörk? Ef hún yrði, eins og raun er á orðin, albúin að þurrka út tilkomu mannsins? Ef, eins og Gunther Anders hefur skrifað, „Tæknin getur markað þann algjörlega nýja punkt í sögunni, kannski óafturkræfa, þar sem spurningunni verður ekki lengur til að dreifa: hvað getum við gert með tæknina, eða öllu heldur, hvað getur tæknin gert með okkur?“[xxi] Ef allt þetta er satt, hver á þá að verja okkur gegn þessari angist? Sálgreiningin sem þekkir hina taugaveikluðu angist eða hin hagnýta heimspekiiðkun sem þekkir hinn rétta mælikvarða?

3.     Andsvar hinnar grísku menningar og iðkun heimspekinnar

Nietzsche segir að hið stórbrotna við Grikkina felist í þeirri staðreynd að þeir hafi haft hugrekki til „að horfast í augu við sársaukann og þekkja og finna hrylling og grimmd tilverunnar“[xxii], án þess að sefa hann með vonum um handanveru. Þetta var mögulegt á grundvelli þess skilnings sem þeir höfðu á náttúrunni. Ekki sköpunarverk Guðs, skipulagt samkvæmt forsjálni hans, heldur óbreytanlegur grunnur „sem enginn Guð og enginn maður hafði skapað“[xxiii], þar sem hringferlið stýrir flæðinu og upplausn sérhvers lífs samkvæmt nauðsyn. Náttúra sem er samtímis skapandi og tortímandi, yfirfull af lífi jafnt sem dauða.

Með þessu hafa Grikkir náð að skilja kjarna hins harmsögulega sem er ekki fólginn í einfaldri þjáningu og dauða einstakra lífvera, heldur í nauðsyninni á dauða þeirra, svo lífið geti blómstrað. Lífsgleðin er gerð möguleg með grimmd dauðans, og því eru sársaukinn og dauðinn ekki eitthvað sem hefur hellst yfir lífið í kjölfar falls eða einhverrar sektar, heldur er hann samfléttaður sjálfu lífinu sem forsenda tilverunnar. Það er hér sem við finnum kjarna hins harmsögulega. Atburður sem er einvörðungu grískur, skrifar Karl Jaspers, því einungis Grikkir meðtóku hringferli lífsins og dauðans, hamingju og gleði lífsins sem óaðskiljanleg frá sársaukanum og dauðanum er tortímir því. Um þetta segir Jaspers:

Hin harmsögulega vitund fullgerir sársauka mannsins, ógæfu hans og dauða. Systkini hennar eru hin dýpsta depurð og hinn dýpsti fagnaðaróður. Depurðin sprettur af vitundinni um eilíf umskipti lífsins, dauðans og endurfæðingarinnar í myndhvörfum sem engan enda taka. Guðinn sem deyr en snýr síðan aftur, hin árstíðabundna hátíð eins og tákn þessa dauða og upprisu, þetta er grundvallarveruleiki þessa heims. Hinn goðsögulegi skilningur á móðurgyðjunni, uppsprettu lífsins og gyðju dauðans, henni sem fæðir af sér, nærir og hlúir að, elskar og kemur öllum hlutum til þroska, hún er sú sama og tekur til sín alla hluti, einnig í sitt eigið brjóst, og lætur það miskunnarlaust deyja. […]

Í hinum opinberuðu gyðinglegu-kristnu trúarbrögðum eru allar misfellur tilverunnar og allt það sem birtist okkur sem harmleikur rakið til sjálfs uppruna mannsins: erfðasyndin sem á uppruna sinn í falli Adams. Endurlausnin kemur til sögunnar með dauða Jesú Krists á krossinum. Hlutir þessa heims eru sem slíkir laskaðir. Maðurinn er fléttaður inn í óafturkræfa sök, jafnvel áður en hann á þess kost að syndga sem einstaklingur. Hann er samfléttaður í þau sömu réttarhöld sektar og endurlausnar er allt byggir á, þátttakandi í hvorutveggja fyrir eigin hönd og annarra. Fyrirfram sekur vegna erfðasyndarinnar fær hann endurlausn fyrir náð. Hann getur axlað sinn kross, ekki bara til að sýna stundarþolgæði, heldur til að taka á sig sársauka tilverunnar, þverstæður og kárínur lífsins. Það er ekki lengur neinn harmsögulegur atburður í gangi, því í gegnum hinar hryllilegustu þolraunir brýst fram blessaður ljómi náðarinnar.

Í þessum skilningi er hin kristna endurlausn andstæð harmsögulegri vitund. Sá möguleiki sem einstaklingnum býðst að verða hólpinn jarðar hinn harmsögulega skilning á tortímingu án undankomuleiðar. Þess vegna er ekki til að dreifa neinum raunverulegum kristnum harmleik, því leyndardómur endurlausnarinnar myndar grunninn og andrúmsloftið fyrir sérhvert kristið drama. Hin harmsögulega vitund hefur þegar verið leyst upp í fyrirfram gefinni fullvissu um að hægt sé að öðlast fullkomnun og frelsun í gegnum náðina.[…].

Öll grundvallarreynsla mannsins, sem einu sinni var kristin, er ekki lengur harmsöguleg. Syndin umbreytist í felix culpa (lánssama sök) sem gerir endurlausnina mögulega. Svik Júdasar leiða til frelsandi dauða Krists, sem er orsök eilífrar hamingju allra trúaðra manna. Ef Kristur er dýpsta táknið fyrir fall heimsins, þá er hann það alls ekki í harmsögulegum skilningi, því fall hans er ljós, sigur, athöfn.“[xxiv]

Sú hringrás lífs og dauða sem fólgin er í harmsögulegri vitund skilur náttúruna annars vegar eftir í sakleysi sínu með sína ofgnótt lífs og grimmdar, hins vegar tekst hún á við það einstaklingsbundna líf, sem vill vara áfram. Fyrir einstaklinginn fellur náttúrlegt eðli dauðdagans ekki saman við óvirka meðtöku dauðans, því þó svo að það sé rétt að sérhvert líf verði að taka enda til þess að lífið lifi, þá er það jafnframt svo að sérhvert líf er ekki tilbúið að gangast undir dauðann, ekki vegna þess sem kann að henda eftirá, heldur vegna þess að það er líf, og sem slíkt hafnar það dauðanum.

Hér birtist okkur hið harmsögulega í öllu sínu veldi, sem byggist ekki á andstæðum lífs og dauða eins og í hinni kristnu vitund (samanber orð Páls frá Tarsos eftir upprisu Krists:  „Dauði, hvar er sigur þinn? Dauði, hvar er broddur þinn?“[xxv]), heldur felst það í andstæðum á milli lífsins og lífsins: lífi náttúrunnar, sem til þess að lifa kallar á dauða einstakra lífvera, og hinnar einstöku lífveru, sem til þess að lifa þarf að bægja frá sér dauðanum.

Hið harmsögulega skilur átökin ekki sem andstöðu náttúrunnar og annarra þátta, sem gætu verið maðurinn eða Guð, heldur gerast þau innan sjálfrar náttúrunnar, á milli hinnar almennu hagfræði náttúrunnar, þar sem dauðinn er forsenda lífsins, og hagfræði hinna einstöku lífvera, þar sem dauðinn felur í sér mörk og endalok lífsins. Þegar Heraklítos túlkar fyrir okkur þennan árekstur segir hann:

Maðurinn verður að gera sér grein fyrir að stríð eru tíð, og barátta er réttlæti, og að allir hlutir verða fyrir tilverknað baráttu og nauðsynjar.[xxvi]

Í átökunum veit maðurinn að hann verður að deyja vegna þess að það tilheyrir hringrás lífsins sem eru umskiptin á milli lífs og dauða, en engu að síður veitir hann dauðanum mótspyrnu, því þannig sýnir hann viljann til þess lífs sem í honum býr. Að veita andspyrnu felur ekki í sér uppgjöf og mótþróalausa undirgefni undir hringrás lífsins, en það er heldur ekki sá hræðslublandni verknaður sem þykist ætla að yfirstíga mörk náttúrunnar. Andspyrnan felst í samþættingu vitundarinnar um dauðann og tileinkun þeirrar þekkingar sem gerir manninum kleift að slá honum á frest eða komast hjá honum þegar um það er að ræða.

Með því að lifa hina harmsögulegu vídd stígur Grikkinn fram sem sá sem ímyndar sér ekki aðra veröld handan þessarar, heldur sá sem þræðir þolgóður slóð þekkingarinnar . Hippokrates staðfestir þetta þegar hann fjallar um „hið heilaga illa“ og segir:

Hvað varðar það sem kallað hefur verið hið heilaga illa, þá er þetta raunveruleikinn. Það er með engu móti – virðist mér – guðdómlegra eða heilagra en aðrir sjúkdómar, heldur hefur það náttúrlega byggingu (phýsin) og rökrænar orsakir (próphasin): mennirnir telja það engu að síður vera með einhverjum hætti guðdómlegan gjörning vegna reynsluleysis (apeiríes) og furðu (thaumasiótetos), þar sem það líkist með engum hætti hinum plágunum. Slíkt guðdómlegt eðli er staðfest vegna þeirra erfiðleika sem menn hafa við að skilja það.[xxvii]

Sem fræðigreinin um sársaukann kennir læknisfræði Hippokratesar manninum – auk hinnar raunverulegu virkni sinnar –, að menn eigi ekki að setja traust sitt á „blindar vonir (typhlàs elpídas)“[xxviii], heldur að þræða slóðir þekkingarinnar (loghismòs), því þó þekkingin geti ekki losað okkur við sársaukann, þá geti hún að minnsta kosti linað hann og slegið endalokunum á frest.

Í hinni náttúrlegu hringrás lífs og dauða hefur Grikkinn sett fram virk andsvör gegn óhjákvæmileika dauðans. Það þýðir að styrkja sjálfan sig í gegnum sársaukann, umbreyta fallvaltleikanum í verkefni fyrir þekkinguna. Ekki gefast upp, ekki gefa sér falskar vonir, heldur þekkja. Fyrst og fremst að þekkja eigin aðstæður og þær tæknilegu aðferðir er varðveita lífið til þess að forðast þann dauða sem getur mætt manni fyrir tilviljun eða vegna vanþekkingar.

Að vera forsjáll er það sama og að vera ekki einfaldlega allur á valdi náttúrunnar, en óendanlegir duttlungar hennar eru að einhverju leyti meðhöndlanlegir og frestanlegir fyrir tilstilli þekkingarinnar.

Þessi afstaða, sem er einkennandi fyrir gríska hugsun og á rætur sínar í harmsögulegum skilningi, átti eftir að setja mark sitt á vesturlenska hugsun, sem að þessu leyti greinir sig frá óvirkri afstöðu [passività] Austurlanda, og lætur heldur ekki undan þeirri kristnu freistingu að elska sársaukann sem innistæðu fyrir frelsuninni. Grikkinn elskar ekki sársaukann, hann elskar lífið og allt sem getur látið það vaxa og dafna og eflast að mætti, – en ólíkt okkur nútímamönnum innan sinna marka [con misura, katà metron], því án eðlilegra takmarka verða allar dyggðir ómerkar.

Hjá Grikkjum felst dyggðin (areté) ekki í meinlæti og fórnarlund, heldur er hún eins og hin latneska virtus (dyggð) getan til að skara fram úr, að verða betri, þannig að engin dyggð verður áunnin án baráttu. Baráttan snýr ekki bara að óvininum, heldur að þeim þörfum og nauðsynjum sem menn standa frammi fyrir, að þeim örlögum sem geta verið ógnvekjandi í grimmd sinni. Því snýst dyggðin um getuna til að hafa stjórn á aðstæðum, að þvinga ógnvænlega þróun til betri vegar, eða eins og Natoli skrifar:

Hin gríska areté felur í sér snilli, því hún snýst fyrst og fremst um virkni. Virkni merkir að sigra óvininn, ráða yfir náttúrunni, losa sig úr vandræðum. Í þessu sambandi telst það til dyggðar að láta ekki bugast af sársaukanum, bregðast við honum með virkum hætti. Hin gríska areté þróast þannig í takt við skortinn og þarfirnar og tekst stöðugt á við sársaukann. Þetta er hin sanngríska hugsun, þar sem lífið gat ekki verið annað en samofið sársaukanum fyrir Grikkjum. Lífsfylling mannsins er áunnin í umgengni við þjáninguna, hún tilheyrir honum ekki eins og frumlægt eðlisástand[xxix].

Grikkir skilja sársaukann því ekki sem hið kristilega endurgjald mannsins fyrir áunna sök, heldur innan hins harmsögulega ramma hins óhjákvæmilega náttúrulögmáls. Út frá þessum forsendum verða til tveir þættir sem fela ekki í sér uppgjöf heldur viðnám gagnvart sársaukanum: annars vegar er það þekking (máthesis), sem gerir mönnum kleift að komast hjá yfirstíganlegri þjáningu, hins vegar dyggðin (areté) sem gerir mönnum kleift innan vissra marka að hafa stjórn á sársaukanum.

Til þess að dyggðin dafni, sú dyggð sem hér er skilin sem lífskraftur og hugrekki til að yfirstíga mótlæti, er nauðsynlegt að búa við mælikvarða hófsemdar (métron), en án hans eru lífsþrótturinn og hugrekkið dæmd til ósigurs, því sá maður sem vill yfirstíga eigin takmörk gengur beint í glötun. Þegar hann verður hrokafullurumbreytist lífsþróttur hans í veikleika og gæfa hans í ógæfu. Því kallar dyggðin á að maðurinn skynji takmörk sín, og þessa aðgát kölluðu Grikkir phrónesis, forsjálni eða visku.

Menn eiga ekki að storka guðunum. Grikkir trúðu ekki á guði sína, en þeir bjuggu þá til sem verur er væru undanskildar dauðanum (athánatoi),einungis til þess að skilgreina það sem maðurinn er ekki og getur aldrei orðið, og þar með til þess að búa til mælikvarða í tvöfaldri merkingu: maðurinn getur ekki orðið ódauðlegur eins og guðinn, en hann á jafnframt að lifa í stöðugu spennuþrungnu sambandi við hina ódauðlegu fyrirmynd guðsins til þess að geta af sér forsjálni og visku, eins og Dante kemst að orði þar sem hann vitnar í goðsöguna um Ódysseif.[xxx]

Hér hittir Dante á kjarna hinnar grísku hugsunar sem gerir sér ekki upp gyllivonir um ódauðleika til þess að losa sig úr sínum harmsögulegu aðstæðum. Slík úrlausn fæli í sér hroka og oflæti (hýbris) í stað dyggðar og þekkingar til að sefa sársaukann og setja dauðann á frest. Þetta er gert sem virðingarvottur við lífið, sem innan sinna takmarka er enginn táradalur, heldur fegurð.

Heimspekiiðkunin felur í sér endurheimt á þessari grísku visku. Hún lítur ekki á manninn sem sakborning (kristindómurinn) eða sjúkling (sálgreiningin) heldur hefur hún harmsöglega sýn á manninn með róttækum hætti. Þess vegna kallar hún ekki á frelsunina eða lækninguna heldur á umhirðu hins harmsögulega eftir þeim leiðum sem þekkingin og dyggðin vísa á. Hér er dyggðin skilin sem hugrekkið til að lifa, þrátt fyrir allt mótlæti, með sjálfsstjórn og innan gefinna marka (kata métron).

_____________________________________________________________

Forsíðumyndin er af hluta svokallaðs Boston-sætis, brot úr grískum legsteini frá 5. öld f.Kr. sem sýnir engil dauðans á milli syrgjandans og hins látna

_________________________________________________________________

 [i] S. Natoli: L‘esperienza del dolore. Le forme del patire nella cultura occidentale, Feltrinelli, Milano 1986, bls. 15.

[ii] S. Freud: Hemmung, Symptom und Angst (1926)

[iii] M.Heidegger: Was ist Metaphysik? (1929)

[iv] Sama rit

[v] Anassimandro, B 1.

[vi] Æskílos: Prómeþeifur, 248-253, Grískir harmleikir í þýðingu Helga Hálfdanarsonar, Mál og menning 1990, bls. 206

[vii] S. Freud: Vergänglichkeit (1916)

[viii] Jesaja, 65, 17-19.

[ix] B.Pascal: Pensées (1657-1662): „Við hugsum í gróða og tapi: ef krossinn vinnur, þá er Guð til. Lítum á þessi tvö dæmi: ef þið vinnið, þá vinnið þið allt; ef þið tapið, þá tapið þið engu. Þið skuluð því veðja á að Guð sé til, án þess að hika.“

[x] Francesco di Sales: Teotimo, Traitéde l‘amour de Dieu (1616)

[xi] S.Freud: Neue Folge der Vorlesungen zur Einfürung in die Psychoanalyse. Freud hafði áður tekið þetta mál upp í Das Ich und Es, (1923) þar sem stendur „Sálgreiningin er tæki sem hugsað er til þess að gera Éginu fært að yfirvinna Þaðið.“ Samlíkingin við Zuiderzee á við þá framkvæmd þegar Hollendingar þurrkuðu upp þetta mikla sjávarlón með varnargörðum.

[xii] S. Freud: Undir oki siðmenningar, (1930), þýð. Sigurjón Björnsson, útg Hið íslenska bókmenntafélag, 1997, bls. 36.

[xiii] S.Natoli, L‘esperienza del dolore. Le forme del patire nella cultura occidentale, Milano 1986, bls. 265.

[xiv] F.Bacon, Instauratio Magna. Pars secunda. Novum organum. Bók I, §3, bls 552 (1620): „Vísindin og mannlegt vald fara saman, því vanþekking á orsökinni kemur í veg fyrir afleiðinguna. Náttúran verður í raun ekki sigruð nema menn hlýði henni, og það sem samkvæmt fræðikenningunni hefur ígildi orsakar hefur ígildi reglu í hinni verklegu framkvæmd.“

[xv] Sama verk, Bók II, §52, bls. 795.

[xvi] Sjá í þessu samhengi U.Galimberti, Psiche e tecne. L‘uomo nell‘età della tecnica, kafli 33: „L‘epoca moderna e il primato della scienza e della tecnica come deriva teologica“.

[xvii] M.Foucault, Naissance de la clinique. Une archeologie du regard médical (1963)

[xviii] J.Lacan, La science et la vérité (1966)

[xix] Esiódus, Verk og dagar, ít. útg. Opere e giorni, birt í Opere, Torino 1977, bls. 291.

[xx] Luciano Sofista, sjá M.Untersteiner, Sofisti. Testimonianze e frammenti, Nuova Italia, Firenze 1949-62, vol.II, bls 124.

[xxi] G.Anders, Die Antiquiertheit des Menschen, vol II: Über die Zerstörung des Lebens im Zeitalter der dritten industrieller Revolution (1980)

[xxii] F.Nietzsche, Die Geburt der Tragödie aus dem Geiste der Musik (1972)

[xxiii] Heraklítos: Þessi alheimur sem við höfum andspænis okkurog er sá sami fyrir alla, var ekki skapaður af neinum guðanna og engum manni, heldur hefur alltaf verið og er og mun verða eilífur eldur sem glæðist samkvæmt málinu og slokknar samkvæmt málinu.“

[xxiv] K.Jaspers, Über das Tragische, birt í Von der Wahrheit (1947).

[xxv] Páll frá Tarsos, Fyrra bref Páls postula til Kórintumanna, 15, 55.

[xxvi] Heraklítos, B 80

[xxvii] Hippocrates, Male sacro, í Opere, Torino 1976, bls. 297. Niðurfallssýki var talinn til „heilagra sjúkdóma“ í fornöld.

[xxviii] Æskílos: Prómeþeifur, 250.

[xxix] S.Natoli: L‘esperienza del dolore. Le forme del patire nella cultura occidentale,Milano 1986, bls. 90

[xxx] Dante Alighieri: Inferno, XXVI, 118-120: „Considerate la vostra semenza / fatti non foste a viver come bruti, / ma per seguir virtute e conoscenza.“

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

%d bloggers like this: