LACAN UM SKÖPUN EX NIHILO

Jacques Lacan:

Um sköpun Ex Nihilo

Níundi kafli Sjöunda námskeiðsins um Siðfræði sálgreiningarinnar

 

Ráðgátur sálgreiningarinnar

Það í raunverunni sem þjáist af nefnaranum

Sagan um krúsina og vasann

Kynning á Katarisma

Verufræðilegar athugasemdir um Hvatir

 

Ég ætla hér að halda áfram umræðu minni um það hlutverk sem ég hef eignað Le Chose, (Das Ding, „þingið“, „þaðið“, „hluturinn“) í skilgreiningunni á göfgun (sublimation) með því að segja ykkur skemmtilega sögu.

Þegar ég kvaddi ykkur um daginn fékk ég skyndilegt samviskubit eins og oft gerist þegar ég fæ það á tilfinningunna að ég hafi ekki gefið tæmandi úttekt á viðfangsefni okkar, og um eftirmiðdaginn leit ég í tvær greinar eftir Melanie Klein, sem Glover vitnar í. Þær eru birtar í Contributions to Psychoanalysis.

Fyrri greinin, „Sálgreining ungbarna“ frá 1923 hefur að geyma afar áhugaverða umfjöllun um göfgunarferlið og bælingarfyrirbærið sem eftirköst þess. Um er að ræða þann skilning sem Klein leggur í það hvernig kenndir fullnægjandi lífshvatar í gegnum göfgun verða hjá barninu tilefni til bælingar.

Ég ætla ekki að eyða tíma í þetta sérstaklega, heldur vil ég fyrst og fremst beina athygli ykkar að göfgunarhugtakinu (sublimation) sem slíku, og öllum þeim misskilningi sem óljósar hugmyndir um þann vanda geta valdið.

Það var hins vegar seinni greinin frá 1929 sem ég sá eftir að hafa ekki kannað. Hún heitir „Infantile Anxiety Situations Reflected in a Work of Art and in the Creative Impulse“ (Barnakvíði sem birtist í listaverkum og sköpunarþörfinni). Þetta er stuttur texti, en eins og stundum gerist, þá gaf hann mér þá fullnægju að uppfylla áform mín eins og höndin fylgir hanskanum.

René Magritte: The Spirit of Geometry, 1937

1.

Fyrsti hlutinn er umræða um tónsmíð eftir Ravel sem byggir á sviðsmynd Colette, L‘Enfantet les Sortilèges. Ég las þennan texta með mikilli ánægju, sem var ekki sjálfgefið þar sem fjallað er um verkið í þýskum og enskum þýðingum.

Það sem vekur furðu Melaine Klein, er að listaverk geti fallið svo nákvæmlega að hugarburði barnsins um líkama móðurinnar, hugarburði varðandi frumstæða árásargirni og gagnárásir er barnið skynjar. Í stuttu máli er þarna um að ræða nokkuð langa og áhugaverða staðfestingu á þeim þáttum í ímyndunarafli skapara verksins, sérstaklega hjá tónskáldinu, sem falla merkilega vel saman við það frumlæga og miðlæga svið í byggingu sálarinnar, sem Klein hefur fundið í barnasálgreiningu sinni. Um leið er það stórmerkilegt að skynja hvernig þetta fellur saman við byggingu listaverksins, – jafnvel þótt þetta fullnægi eðlilega ekki öllum okkar kröfum.

En það er seinni hluti greinarinnar sem er áhugaverðari, þar verður textinn skemmtilegur. Hér er um að ræða vísun í greiningu sálgreinis sem heitir Karin Mikailis, sem segir undir titlinum „Tómt rými“ frá greiningartilfelli sem er á vissan hátt sláandi. Á þeim fjórum blaðsíðum sem greina frá þessari sögu er sagt frá vissu jaðartilfelli, sem þó felur ekki í sér að hægt sé að setja fram ákveðna greiningu, eða segja til um hvort um sé að ræða melankólska depurð eða ekki.

Málið varðar skjólstæðing sem er kölluð Ruth Kjar, og fylgir stutt lýsing á lífshlaupi hennar. Þessi kona var aldrei listmálari, en depurðarköstum hennar var þannig lýst að hún fengi sterka tilfinningu fyrir innra tómarými sem hún gæti aldrei fyllt.

Ég ætla ekki að trufla ykkur með lýsingu á lífshlaupi hennar, en með aðstoð sálgreinis síns gat hún gengið að eiga mann, og eftir hjónabandið gekk allt vel í fyrstu. En eftir tiltölulega stuttan tíma gerðu melankólíuköstin vart við sig á ný. Og þar komum við að hinu áhugaverða í sögunni. Við finnum okkur í raun og veru stödd í töfraheimi sálgreiningarinnar eins og hún getur virkað, þó fullnægja okkar kunni að vera nokkuð barnaleg.

Af óþekktum ástæðum eru veggirnir í húsi hjónakornanna þaktir málverkum eftir mág konunnar, sem er listmálari. Þetta átti sérstaklega við um eitt herbergið. Svo gerist það á tilteknum tíma að mágurinn, sem var hæfileikaríkur málari – án þess að við getum um það dæmt – selur eitt málverkanna, sem hann fjarlægir af veggnum. Eftir stendur tómt rými á veggnum.

Í ljós kemur að þetta tóma rými leikur afgerandi hlutverk í þunglyndisköstum konunnar, sem taka sig upp að nýju við þessa breytingu. Hún nær hins vegar að endurheimta bata með eftirfarandi hætti. Einn góðan veðurdag ákveður hún að „daub a little“ (setja smá klessuverk) á vegginn, í þeim tilgangi að fylla upp í þetta bölvaða tómarými, sem hafði heltekið hana með afgerandi hætti. Nokkuð sem við myndum vilja hafa frekari vitneskju um og nánari sjúkdómsgreiningu á en hér er í boði. Þannig reyndi hún að fylla upp í þetta tóma rými með eftirlíkingu verka mágsins, þar sem hún reyndi að fylgja aðferð og efnistökum hans eftir bestu getu. Hún sótti litaskala samkvæmt litanotkun mágsins í listmálarabúðina og hóf að mála af ástríðu sem mér virðist dæmigerð fyrir upphafsfasa geðlægðar. Úr þessu verður til listaverk.

Það skemmtilega við söguna er að þegar mágurinn fær að sjá verkið, og listakonan er komin í kvíðakast með hjartsláttareinkennum þar sem hún bíður eftir dómi meistarans, þá bregst hann við í hálfgerðu reiðikasti: „Þú munt aldrei geta talið mér trú um að þú hafir málað þetta“ segir hann. „Þetta er verk listamanns, ekki bara handverksmanns, heldur þroskaðs listamanns. Fjandinn hirði þessa sögu þína. Hver gæti þetta annars verið?“

Þau geta með engu móti sannfært manninn, og hann heldur áfram að sverja að ef mágkona hans hafi málað þetta verk, þá gæti hann eins vel stjórnað sinfóníu Beethovens í Royal Chapel, jafnvel þótt hann sé ólæs á nótnaskrift.

Það vantar gagnrýna fjarlægð á frásögnina af þessum orðaskiptum, sem óhjákvæmilega kalla á vissar spurningar. Slíkt tæknilegt kraftaverk hlýtur að vekja vissar spurningar. En það skiptir okkur ekki öllu máli í þessu tilfelli. Melanie Klein finnur í þessu atviki staðfestingu á ákveðnum strúktúr sem vekur aðdáun hennar. Og þið komist ekki hjá því að sjá, hvernig þessi strúktúr fellur saman við þann miðlæga uppdrátt sem ég notast við í skipuriti staðsetningar þar sem spurningin um La Chose (þingið, hlutinn, þaðið) er sett fram.

Eins og ég sagði, þá er þetta staður móðurlíkamans samkvæmt kenningu Klein. Hún staðsetur öll stig göfgunar (sublimation) þar, einnig þá göldrum líku göfgun sem felst í þessari sjálfsprottnu atlögu eða uppljómun sem birtist í þessum tökum byrjandans á tækni meistarans. Frú Klein finnur þarna staðfestingu kenningar sinnar, og það skýrir trúlega skort hennar á undrun yfir þessum fyrirbærum, sem skjólstæðingur hennar málaði í þeim tilgangi að fylla upp í tómarýmið. Fyrst kemur nakin negrastúlka, síðan mjög gömul kona sem ber öll líkamseinkenni öldrunar sinnar, vonbrigða og óhjákvæmilegrar uppgjafar gagnvart háum aldri sínum, en síðan endar þessi sería með endurfæðingu, endurkomu móður hennar í blóma eigin fegurðar í ljómandi birtu nýs dags. Samkvæmt Klein er kenningin hér með sönnuð (Q.E.D.), við þurfum einungis að skilja hvað kallaði á þessa atburðarás.

Það skemmtilega við þetta er augljóslega það sem okkur er sagt varðandi staðsetningu göfgunarfyrirbærisins. En þið hljótið að skynja að við erum skilin eftir í nokkru myrkri varðandi möguleika hennar.

Ég er að reyna að færa ykkur þær upplýsingar um göfgun, sem eru nauðsynlegar ef við eigum að skilja hvernig tengingu hennar við það sem við köllum La Chose / „Þingið“ er háttað – miðlæga stöðu þess hvað varðar raunveru einstaklingsins. Hvernig getum við skilgreint þetta „þing“ nánar í staðfræðilegu skipuriti okkar?

Litla dæmisagan úr síðasta tíma, sem við fengum að láni úr söfnunarsálfræðinni, var dæmi sem rangt væri að taka sem tæmingu vandamálsins, jafnvel þó það hjálpi okkur góðan spöl áleiðis. Það dæmi sýnir í stuttu máli umbreytingu hlutar yfir í „þing“ (La chose), skyndilega upphafningu eldspýtustokksins til þess virðingarstigs sem hann hafði ekki áður. En hann er hlutur sem er auðvitað ekki „Þingið“ (das Ding)

Ef „Þingið“ væri ekki í eðli sínu hulið, þá hefðum við ekki þá afstöðu til þess sem skyldar okkur – og alla sálina – til að umkringja það eða sneiða hjá því, ef við ætlum að skynja það. Hvar sem „Þingið“ staðfestir tilvist sína, þá gerist það á heimavelli (domesticated spheres). Það skýrir hvers vegna við skilgreinum sviðið með þessum hætti, því „þingið“ kynnir sig alltaf sem hulið fyrirbæri.

René Magritte: Le bagneuse de clair au sombre, 1932

Í dag skulum við segja að „Þingið“ fylli þann stað í byggingu mannssálarinnar, sem Freud skilgreindi á grundvelli nautnalögmálsins. Ég vil meina að þetta skýrist af því að „Þingið“ er það sem þjáist af völdum nefnarans (signifier) innan raunverunnar, hinnar frumlægu raunveru. Þið eigið að skilja að um er að ræða raunveru sem við þurfum ekki enn að afmarka, heldur raunveruna í heild sinni. Bæði raunveru einstaklingsins og þá utanaðkomandi raunveru sem hann þarf að glíma við.

Fyrstu tengslin sem myndast í sál sjálfsverunnar, sem sjálf er mótuð af jafnvægismyndun (homeostasis) á grundvelli nautnalögmálsins, fela í sér flækjustig (flocculation) og kristallamyndun nefnandi eininga. Sálarbúnaður einstaklingsins er undirorpinn nefnandi skipulagningu eins og hann birtist okkur við greiningu skjólstæðingsins. Út frá því getum við sagt með neikvæðum hætti, að ekkert standi á milli skipulagningar hins nefnandi sviðs ( Vorstellungsreprasentanzen) og myndunar raunveru rýmisins, eða þess miðlæga rýmis þar sem svið „Þingsin“ sem slíks kynnir sig fyrir okkur.

Það er einmitt á þessu sviði sem við ættum að staðsetja það sem Freud kennir okkur hins vegar að sé samsvörun við fundinn, sem hið endurfundna (Wiedergefundene) eða hinn endurfundna hlut. Þannig er grundvallar skilgreining hlutarins hjá Freud fólgin í leiðandi hlutverki hans, en ég hef þegar sýnt fram á þversögnina sem þetta felur í sér, því ekki er gengið út frá að þetta viðfang hafi þegar verið glatað. Eðli sínu samkvæmt er viðfangið (the object) endurfundinn hlutur. Glötun þess er afleiðingin. Þannig er um endurfund að ræða, án vitundar okkar, en í gegnum endurfundinn upplifum við glötun þess að eilífu.

Við stöndum hér enn á ný andspænis grundvallar byggingu sem leyfir okkur að orða þá staðreynd að „Þingið“ sem um ræðir er fyrir tilstilli innri byggingar sinnar opið fyrir því að vera kynnt til staðar með því sem ég hafði áður kallað Hinn hlutinn, í tengslum við leiðann og bænina.

En þar finnum við annað einkennismerki hins hulda „Þings“: með endurfundi þess er það eðli málsins samkvæmt kynnt til staðar (represented) með einhverju öðru.

Við komumst ekki hjá því að sjá þetta í frægum orðum Picasso þar sem hann sagði: „Ég leita ekki, ég finn“. Það er sá fundur (trouver, trobar) trúbadoranna frá Provence (trouvères = farandsöngvarar) og allra þeirra mælskulistarskóla er koma á undan allri leit.

Augljóslega er hið fundna árangur leitar. En leitin fer fram í sporum og slóð nefnarans. Nú er þessi leit á vissan hátt and-sálræn, þar sem hún er handan nautnalögmálsins í virkni sinni og staðsetningu. Því samkvæmt nautnalögmálinu vísar nefnarinn til þessarar yfirfærðu jöfnu (beyond equalisation) sem er homeostasis (jafnvægisregla) og til hinnar einsleitu kerfisviðleitni sjálfsins. Hún framkallar eigin villu. Hlutverk nautnalögmálsins felst í raun í því að leiða sjálfsveruna frá einum nefnara til annars og kalla fram eins marga nefnara og nauðsyn krefur, til að halda því spennustigi í lágmarki sem stýrir hinni sálrænu virkni.

Við erum þannig leidd að þeim venslum sem ríkja á milli mannsins og þessa nefnara – nokkuð sem mun leyfa okkur að stíga enn eitt skref fram á við.

Ef nautnin stýrir mannlegri umhugsun í gegnum lögmál freistingarinnar og þá ofboðslegu orðræðu sem er ekki bara gerð úr því sem hún skilgreinir, heldur úr gjörvallri virkni sinni – að því marki sem hún stýrist af leit sem leiðir til uppgötvun hluta í gegnum merki. Hvernig geta tengsl mannsins við nefnarann sett hann í samband við viðfang sem stendur fyrir „Þingið“? Þannig komum við að spurningunni um hvað það er sem maðurinn gerir þegar hann býr til nefnara.

Ren´3 Magritte: Hið fullkomna málverk, 1928

2.

Hvað nefnarann (signifier) varðar, þá er vandinn fólginn í að varast að stökkva á þá staðreynd að maðurinn sé smiður og hönnuður eigin stoðkerfis.

Ég hef nú í mörg ár vanið ykkur við þann skilning, þann ríkjandi forgangsskilning, að nefnarinn sem slíkur sé samsettur af gagnvirkum (oppositional) þáttum og að tilkoma þeirra hefur í för með sér grundvallar breytingu á veröld mannsins. Málið snýst einnig um að þessir nefnarar eru hver um sig tilsniðnir af manninum, og trúlega meira með handavinnunni en í gegnum andlegri vinnu.

Hér mætum við aftur þeirri málvenju, að minnsta kosti í tengslum við göfgun á sviði listanna, að aldrei er hikað við að tala um sköpun. Þess vegna þurfum við nú að hugleiða skilning okkar á sköpunarhugtakinu með öllu sem því fylgir, þekkingu á skaparanum (creator) og skepnunni (creature), því hún er miðlæg, ekki bara varðandi spurninguna um hvað kalli á göfgunina, heldur líka hvað kalli á siðfræðina í víðtækri merkingu.

Ég legg eftirfarandi fram: að því marki sem tiltekinn hlutur er tilbúinn hlutur getur hann gegnt því hlutverki sem gerir manninum kleift að forðast ekki „Þingið“ sem nefnara, heldur að framkalla (represent) það. Samkvæmt þjóðsögu sem keðja kynslóðanna hefur fært okkur og ekkert hindrar okkur í að nota, þá ætlum við nú að vísa í það sem er frumstæðast af allri listrænni virkni, sem er iðja leirkerasmiðsins.

Í síðasta tíma talaði ég við ykkur um eldspýtustokkinn; það var út frá persónulegri reynslu og við munum koma að því síðar. Hugsanlega getur það einnig gert okkur kleift að kanna nánar díalektík leirkersins. En leirkrúsin er einfaldari. Hún kom sannarlega til sögunnar á undan eldspýtustokknum. Krúsin hefur alltaf verið þarna, hún er kannski frumlægasta fyrirbærið í iðnsögu mannsins. Hún er vissulega tól eða nytjahlutur sem gerir okkur kleift að staðfesta mannlega nærveru, hvar sem við finnum hana. Þessi krús sem hefur alltaf verið til staðar og hefur lengi verið notuð til að kynna okkur leyndardóma sköpunarinnar í gegnum dæmisögur, hliðstæður og myndlíkingar, gæti enn reynst okkur gagnleg.

Staðfestingu á gagnsemi vasans í þessum tilgangi finnum við hjá Heidegger í því sem hann skrifar um das Ding (hlutinn eða „þingið“). Hann er sá síðasti í langri röð manna sem hafa hugleitt sköpunina sem slíka; og hann býr til díalektík sína út frá vasanum.

Ég ætla ekki að gera virkni das Ding að umræðuefni hér í skilgreiningu Heideggers á Dasein (tilvera) og tengist greiningu hans á frumspekinni. Þið getið öll flett upp í riti hans Essays and Lectures (Vorträge und Aufsätze) og lesið ritgerðina um das Ding. Þar sjáið þið hvernig hann tengir það við sameiningu jarðneskra og himneskra afla í kjarna mannlegrar tilveru.

Í dag vildi ég einfaldlega halda mig við þá grundvallar aðgreiningu sem hann gerir á notkun vasans sem nytjahlut og merkingarlegri virkni hans. Það er spurningin um hvort hann sé í raun nefnari (signifier) og þá sá fyrsti af slíkum nefnurum sem skapaðir voru af mennskri hönd. Ef svo er, þá er hann í nafngefandi kjarna sínum nefnari einskis annars en nafngiftarinnar sem slíkrar, eða með öðrum orðum nefnari einskis tiltekins viðfangs. Heidegger staðsetur vasann í miðju kjarna jarðar og himins. Fyrst og fremst í því sem við köllum „að skála“ í gegnum tvöfalda virkni þess gjörnings: upp til að taka á móti og niður til jarðarinnar þar sem hann sækir eitthvað. Það er virkni vasans.

Þetta tóm í sjálfu sér, sem einkennir vasann í nefnandi virkni sinni (signifying function), er það sem einkennir vasann sem slíkan í sinni efnislegu mynd. Hann skapar tómið og kallar þannig fram möguleika á fyllingu þess. Tóm og fylling eru þannig kynnt til sögunnar í heimi sem er sér ekki meðvitaður um tilvist þeirra. Það er á grundvelli þessa tilbúna nefnara, þessa vasa, sem tómið og fyllingin fæðast inn í heiminn sem slík, hvorki meira né minna og í sama skilningi.

Þetta er rétta augnablikið til að benda á þær fölsku andstæður sem hafa verið búnar til á milli þess sem kallað er hlutlægt (concrete) og fígúratíft (hlutbundin ímynd). Ef hægt er að fylla vasann, þá er það fyrst og fremst vegna þess að hann er tómur í kjarna sínum. Það gerist með nákvæmlega sama hætti og tal og orðræða geta verið full eða tóm.

Þetta er vandamál sem við tókum til umræðu á ráðstefnu sem haldin var í Royaumont, þar sem ég lagði áherslu á þá staðreynd að sinnepskrukka hafi að geyma þá staðreynd að hún kynnir sig í kjarna okkar hversdagslífs sem tóma sinnepskrukku. Þetta var athugasemd, sem örugglega hefur verið meðtekin sem hugarórar eða hroki. En þessi athugasemd fær sinn rökstuðning í þeirri röksemdafærslu sem ég legg nú hér fram. Gangið nú eins langt og ímyndunarafl ykkar leyfir í þessa átt. Ég set það í raun ekki fyrir mig ef þið sjáið fyrir ykkur guðdómlegt fyrirbæri í nafninu Bornibus (þekkt frönsk sinnepstegund), nokkuð sem er kunnuglegasta og algengasta formið sem sinnepskrúsir taka á sig, þar sem það er einmitt Bornibus sem fyllir þessar krúsir. Þetta setur okkur mörk – við erum ef svo mætti segja, skilyrt af Bornibus. (nafnið á Bornibus-sinnepinu er hér notað í orðaleik með líkinguna við afturbeygða sagnorðið „se borner“ sem merkir að setja sér mörk,)

Dæmið um sinnepskrúsina og leirvasann leyfir okkur að kynna til sögunnar það hringtorg sem höfuðvandi „Þingsins“ hefur snúist um, allt til þess að verða grundvallaratriði siðfræðinnar og felst einfaldlega í spurningunni hvort heimurinn hafi verið skapaður af skyni gæddri veru. Ef Guð skapaði heiminn, hvernig stendur þá á því að heimurinn sé í jafn slæmu ástandi og raun ber vitni, óháð því hvað við tökum okkur fyrir hendur?

Leirkerasmiðurinn hefur verk sitt með Því að hafa á milli handanna meira eða minna fíngerðan leirklump. Það er einmitt á þessum punkti sem trúboðar okkar setja okkur stólinn fyrir dyrnar, rétt til að láta okkur hlusta á kvalastunur leirklumpsins í höndum leirkerasmiðsins. Trúboðinn lætur hann tala með sem átakanlegustum hætti, allt að kvalastununum, og lætur hann spyrja skapara sinn hvers vegna hann fari um sig jafn hörðum höndum – eða þvert á móti, jafn mjúkum höndum. Það sem er hins vegar á huldu í þessari goðafræði sköpunarsinnanna, og merkilegt nokk, einnig hjá þeim sem styðjast við dæmið um vasann, sem er svo kunnuglegur í hugmyndasmíðum um sköpunarferlið (ég sagði ykkur að þeir væru alltaf rithöfundar sem starfa af gildum ástæðum á mörkum trúarbragða og goðafræði) – það er sú staðreynd að vasinn er búinn til úr áþreifanlegu efni. Ekkert er búið til úr engu.

Öll heimspeki fornaldarinnar snýst um þetta atriði. Ef okkur reynist erfitt að hugsa aristótelíska heimspeki, þá er það vegna þess að hana verður að hugsa út frá þeirri forsendu sem aldrei gleymir því að efnið er eilíft og að ekkert er gert úr engu. Sem felur aftur í sér að við erum djúpt sokkin í mynd af heiminum sem opnar aldrei fyrir þann möguleika, ekki einu sinni fyrir sjálfan Aristóteles – og það er erfitt að hugsa sér jafn voldugan hugsuð í gjörvallri sögu mannsandans – að stíga út fyrir það lokaða rými sem himinhvolfið myndar fyrir augum hans, og þar með að sneiða hjá því að hugsa heiminn, einnig heim mannlegra samskipta eða heim tungumálsins, eins og það sem er innifalið í þeirri eilífu náttúru sem er í grunni sínum takmörkuð.

Ef við lítum nú á vasann út frá því sjónarhorni sem ég gekk út frá í upphafi, að hann væri hlutur skapaður til að standa fyrir eða sýna (represent) tilvist tómsins sem miðju þeirrar raunveru sem við köllum „Þingið“, þá er þetta tóm eins og það sýnir sig í sýningunni sem nihil, sem ekkert. Það felur í sér að leirkerasmiðurinn, rétt eins og þú sem ég nú tala til, skapar vasann með eigin höndum utan um þetta tóm, skapar það rétt eins og hinn dularfulli skapari, ex nihilo, þar sem byrjað er á holinu.

Allir búa til brandara um makkarónurnar, því þær eru hol með eitthvað utan um sig, eins og fallbyssuhlaupin. Sú staðreynd að þetta kitlar hláturtaugarnar breytir ekki staðreynd málsins, því hér blasir við að það að búa til nefnara og að búa til holrými í raunverunni er eitt og hið sama.

René Magtritte: Representation („Endursýning“), 1937

 

Mér er minnisstæð kvöldstund sem ég átti með einum af afkomendum þeirra konunglegu bankamanna sem höfðu tekið á móti skáldinu Heinrich Heine, þegar hann kom Parísar fyrir um hundrað árum síðan. Ég kom honum á óvart með fullyrðingum mínum um nútíma vísindi – ég held að undrun hans sé enn vakandi og ekki undir það búin að jafna sig – en fullyrðingin varðaði tilkomu þeirra vísinda sem við kennum við Galileo Galilei, nánar tiltekið að þessi vísindi hefðu einungis getað fæðst og þróast út frá biblíulegri eða gyðinglegri hugmyndafræði, en ekki út frá fornri heimspekihefð eða hinni Aristótelísku hefð. Sívaxandi geta og máttur tákngervingarinnar hefur ekki linnt látum við útvíkkun athafnasviðs síns frá tímum Galileo, og hefur heldur ekki linnt látum við að gleypa í sig öll þau fyrirbæri er gætu hugsanlega takmarkað athafnasvæðið við tiltekin svið upplýsinga. Með því að veita leiknum með nefnarana óheft athafnasvæði hafa orðið til vísindi sem stefna að sívaxandi samsvarandi heild, án þess þó að nokkuð skipti minna máli en það sem er til staðar á hverjum tíma.

Með öðrum orðum, þá er himinhvolfið ekki lengur til, og allir himnakropparnir sem eru hér besta viðmiðunin, birtast okkur eins og þeir gætu allt eins ekki verið til staðar. Raunveruleiki þeirra, eins og tilvistarstefnan myndi segja, einkennist fyrst og fremst af staðreyndatali, þeir eru í grundvallaratriðum skilyrtir (contingent).

Rétt er líka að minna á að það sem okkur er tjáð með orku/efnis-jöfnunni er að einn góðan veðurdag gætum við séð alla samloðun birtingarmyndarinnar sundurtætta, allt út frá gjánni (gap) sem við höfum fest í hana, þannig að öll myndin gæti horfið okkur sjónum.

Með tilkomu þessa tilbúna nefnara, sem er vasinn, höfum við þegar til staðar skilning á sköpun sem er ex nihilo (úr engu). Og þessi skilningur á sköpun ex nihilo er fullkomlega samsvarandi stöðu „Þingsins“ sem slíks. Það er einmitt á þessu sviði sem framsetning og jafnvægisstilling siðferðilegra vandamála hefur verið staðsett í gegnum aldirnar, en einkum þó á þeim öldum sem standa okkur næst og hafa haft mótandi áhrif á okkur.

Til er staður í Biblíunni sem einkennist af glaðlegri bjartsýni, og segir okkur að Drottinn hafi lokið við hinn fræga sex daga sköpunargjörning sinn og hugleitt hann í lokinn og séð að hann var „harla góður“. Við getum sagt það sama um leirkerasmiðinn við verkalokin – verkið er gott, það er heilsteypt, það er umlykjandi. Með öðrum orðum þá er það ávallt gott frá sjónarhorni verksins.

Engu að síður vita allir hvað getur komið úr vasa eða hvað hægt er að láta í hann. Augljóslega er engin bjartsýni réttlætanleg út frá því hvernig málin ganga fyrir sig í heimi mannanna eða hvað þau kunna að leiða af sér. Þannig hefur kreppa samviskunnar kristallast út frá spurningunum um ávinning eða kostnað verksins, en að minnsta kosti á Vesturlöndum hafði þessi samviska verið í jafnvægisástandi sem lauk á tímanum sem ég vísaði í um daginn, þegar ég vitnaði í sígilda setningu Marteins Lúthers – manns sem lengi hefur nagað kristilega samviskusemi. (Hér notar Lacan orðaleik um tvíræða merkingu franska orðsins conscience, sem getur bæði merkt samvisku og (með-vitund. ) En Lúther hélt því fram að vinnan eða gjörningurinn væru ekki innistæður verðleika.

Hér er ekki um neina ómerka trúvillu að ræða. Það eru gild rök fyrir slíkri afstöðu. Til þess að skilja betur á trúflokkaflóðið, sem hefur meðvitað eða ómeðvitað orðið viðskila vegna spurningarinnar um hið illa, er upplagt að styðjast við þá einföldu þrískiptingu sem útlegging okkar á dæminu um vasann kennir okkur.

Í erfiðri leit mannsins að uppruna hins illa upplifir hann sig standa frammi fyrir þrem kostum, því um aðra er ekki að ræða.

Það er gjörningurinn, verkið, og þetta er afneitunarafstaða sem aðrir hópar hefðbundinnar visku en okkar hafa tileinkað sér. Sérhvert verk er í sjálfu sér skaðlegt, og það hefur í för með sér afleiðingar sem hafa að minnsta kosti jafn margar neikvæðar og jákvæðar hliðar. Þessi afstaða birtist með formlegum hætti í Taoisma, svo dæmi sé tekið, að því marki að það er varla liðið að menn noti til dæmis vasa sem skeið – með því að innleiða skeiðina í heiminn hefur heimurinn þegar öðlast flóðbylgju díalektískra mótsagna.

Svo er það efnið. Þar mætum við þeim kenningum sem ég geri ráð fyrir að þið hafið heyrt eitthvað um, en það eru kenningar trúarhóps sem kenndur er við Katara – nafn sem við vitum ekki hvaðan er komið. Þetta er mál sem kallar á smá umfjöllun.

3.

Ég ætla ekki að flytja ykkur fyrirlestur um Katara-trúna, en ég mun benda ykkur á hvar hægt er að finna góða heimild um efnið, í bók sem þið hafið örugglega heyrt minnst á, nefnilega Love and the Western World eftir Denis de Rougement. Það er hvorki besta bókin um efnið, né hin djúphugsaðasta, en hún er skemmtilestur.

Ég las mig í gegnum þetta í endurskoðaðri útgáfu, og við seinni lesturinn voru vonbrigði mín minni en ég átti von á. Mér líkaði lesturinn næstum því. Í bókinni má finna alls konar staðreyndir í tengslum við hina sérstöku kenningu höfundarins, og þessar staðreyndir hjálpa okkur að skilja þá djúpstæðu kreppu sem hugmyndafræði eða öllu heldur guðfræði Kataranna stendur fyrir, andspænis þróunarsögu vesturlenskrar hugsunar. Því hér snýst málið um hinn Vesturlenska mann, jafnvel þótt höfundurinn sýni okkur að vandamálið eigi frekar rætur sínar við jaðarmörk þess sem við erum vön að kalla Vestrið. En þetta er hugtak sem ég hef engar sérstakar mætur á, og enginn ætti að líta á sem miðlægt hugtak í minni hugsun.

Engu að síður gerist það á vissum tímapunkti í lífi Evrópubúa að þeirri spurningu er varpað fram, hvað sé í raun og veru rangt við sköpunina sem slíka. Þessi spurning var sett fram af fólki sem bjó við hugsanagang sem við getum illa gert okkur grein fyrir, né heldur hvaða djúpstæðari hugsanir sú trúarlega og dulspekilega hreyfing stóð fyrir sem við kennum við Katara-trúvilluna. Jafnvel má segja að um sé að ræða eina dæmið í sögunni þar sem tímabundið yfirvald reyndist svo afgerandi að því tókst að nánast þurrka út öll spor réttarhaldanna. Þannig voru hin hörðu viðbrögð (tour de force) hinnar heilögu Kaþólsku kirkju í Róm. Við erum háð heimildaleit í skúmaskotum og fáar þessara heimilda eru áreiðanlegar. Dómsskjöl Rannsóknarréttarins eru horfin, og allt sem við finnum eru örfá óbein vitni hér og þar. Til dæmis er munkur af reglu Dómenikana sem segir okkur að Katarar hafi verið gott fólk með djúpa kristna trú og það hafi lifað einstaklega hreinu og siðavöndu lífi.

Ég get vel keypt það að siðavendni þeirra hafi einkennst af óvenjulegum hreinleika, því þeim bar í grunninn að forðast sérhvern þann verknað er gæti með nokkrum hætti orðið til eilífðar-framlengingar heimsins, sem þeir töldu að væri óhreinn og illur í kjarna sínum. Þannig var hin fullkomna iðja fólgin í viðleitninni að öðlast dauða með eins kærulausum hætti og unnt var, því það fæli í sér endursameiningu við þann Edenlíka heim sem einkennist af hreinleika og ljósi, hinn sanna heim hins upprunalega og góða Skapara eða Frumglæðis. En sköpunarverk hans hafði verið saurgað með aðkomu hins illa Skapara. Sá síðarnefndi hafði innleitt þann skelfilega þátt í heiminn sem fólst í getnaði og spillingu, sem er það sama og umbreyting.

Hugmyndin um að varanleiki efnisins sé rót hins illa á rætur sínar í hugmyndum Aristótelesar um umbreytingu eins efnis yfir í annað efni sem síðan framlengist sjálfkrafa

Eins og þið sjáið, þá er lausnin einföld. Hún felur í sér vissa samkvæmni, þó hún feli ekki í sér allan þá rökfestu sem við teldum ákjósanlega.

Ein þeirra sjaldgæfu áreiðanlegu heimilda sem við höfum um þessi mál – því við vitum í raun og veru ekki hvað fólst í grundvallar kenningu Katara -, er seinni tíma verk, sem þess vegna býður upp á vissar efasemdir. Þessi heimild fannst 1939 og var gefin út undir titlinum Book of Two Principles. Það er auðvelt að nálgast hana í ágætri bók sem nefnist Cathar Writings og René Nelli ritstýrði.

Hið illa býr í efninu. En hið illa getur líka verið annars staðar. Spurningunni er ósvarað. Svarið er hins vegar óhjákvæmilegur lykill, ef við viljum skilja hvaða sögulegi atburður varð til þess að breyta siðferðishugsun mannsins gagnvart hinu illa. Hið illa getur ekki eingöngu verið bundið við verkin og gjörðirnar, ekki við hinn andstyggilega efnisheim – sem öll meinlætaviðleitni beinist þar af leiðandi gegn – án þess að rata inn í þann heim sem við kennum við dulhyggju, og gæti allt eins verið kallaður goðsagnalegur eða jafnvel ímyndaður heimur blekkinga – hið illa gæti leynst í „Þinginu“.

René Magritte: Ógnardagar, 1928

Hið illa gæti verið í „Þinginu“ að því tilskyldu að það sé ekki nefnarinn sem stýrir verkinu eða að því tilskyldu að hann sé ekki inntak verksins. sem það er heldur ekki efni verksins, heldur einungis að því marki sem það viðhaldi nærveru mannlega þáttarins í hjarta sköpunargoðsagnarinnar sem allt hitt hvílir á. Innan sviga mætti taka fram að hvað sem við tökum okkur fyrir hendur, jafnvel þó þú gefir skít í Skaparann – þá er það engu að síður satt, að þú hugsar um ímynd hins illa og nálgast það á forsendum sköpunarsinnans.

„Þingið“ skiptir hér máli að því marki sem það er hugsað út frá þeirri staðreynd að það skilgreini mannlega þáttinn, – jafnvel þó við vitum mætavel að mannlegi þátturinn gengur okkur úr greipum.

Við getum ekki skilgreint „mannlega þáttinn“ í þessu samhengi öðruvísi en þeim sem ég skilgreindi „Þingið“ rétt í þessu, það er að segja sem það í raunverunni sem þjáist fyrir tilverknað nefnarans.

Hafið nú eftirfarandi í huga: hugsun Freuds kennir okkur að spyrja spurningarinnar hvað það sé í raun og veru sem við finnum í kjarna nautnalögmálsins, en það er nokkuð sem er handan nautnalögmálsins og að öllum líkindum það sama og ég kallaði um daginn hinn grundvallandi góði eða illi vilji. Auðvitað er það rétt að hvers kyns gildrur og freistingar koma fram í hugsun manns, eins og til dæmis hvað það er sem við köllum mann – eins og það væri leikur einn að skilgreina mann – sé í grundvelli sínum gott eða illt. En spurningin snýst ekki um það, heldur öllu frekar um heildina. Staðreyndin er sú að maðurinn býr sjálfur til þennan nefnara og kynnir hann fyrir heiminum. Með öðrum orðum, þá verðum við að vita hvað hann býr til þegar hann býr það til í mynd „Þingsins“ þegar það er höfuðeinkenni „Þingsins“ að ekki er mögulegt að ímynda sér það. Það er hér sem við rekumst á vandamál göfgunarinnar.

Þetta er ástæða þess að ég hef valið sögu Minne (orð notað um mansöngva frá miðöldum) sem upphafspunkt. Ég byrja þar vegna einstaks gildis þessarar ljóðahefðar, og vegna þess að orðið er án allrar tvíræðni á þýsku. Minne er gjörólíkt Liebe, en í frönsku höfum við einungis eitt orð, „amour“ eða ást.

Vandamálið sem sett var fyrir áðurnefndan höfund varðar tengslin sem kunna að vera á milli hinnar mjög svo djúpu og leyndu trúvillu sem varð ríkjandi í Evrópu undir lok elleftu aldar – án þess að við vitum nákvæmlega hversu langt aftur í söguna þetta náði annars – og þeirrar birtingar, framsetningar og innleiðingar heils siðaramma sem var fullkomlega siðfræðilegur lífsmáti og kallaðist hofmannaástir (courtly love).

Það eru engar ýkjur að halda því fram að þegar menn hafa einu sinni rannsakað allar sögulegar, félagslegar, pólitískar og hagfræðilegar aðstæður og beitt öllum tiltækum túlkunaraðferðum hinnar samfélagslegu yfirbyggingar, þá hafa sagnfræðingar samtíma okkar sammælst um að vandinn sé óleysanlegur.

Ekkert getur gefið okkur sannfærandi skýringu á vinsældum þessarar einstöku tísku á tímum sem – trúið mér – voru alls ekki svo umburðalyndir eða siðmenntaðir. Þvert á móti var um að ræða samfélag sem var skríða út úr fyrsta tímaskeiði lénsveldisins, sem hægt er að lýsa í stuttu máli sem afmörkuðu landsvæði er stýrt var af glæpamönnum. Einmitt þar finnum við skyndilega siðareglur er stýra sambandi manna og kvenna er bera öll einkenni stórfurðulegrar þversagnar.

Með hliðsjón af tíma okkar þá ætla ég ekki að hefja umræðuna um þetta í dag. Þið ættuð hins vegar vera undirbúin undir það sem ég ætla að fjalla um næst. Það mun hafa með hin tvíræðu og leyndardómsfullu vandamál hins kvenlega viðfangs að gera.

Látið ykkur ekki til hugar koma að þetta sé eitthvað er varði mig sérstaklega. Ég mun ekki reyna að beita mínum veika rannsóknarmætti á þetta viðfangsefni. En sú staðreynd að þetta viðfangsefni lofgerðar, þjónslundar, hollustu og hvers kyns tilfinnigasemi staðlaðrar hegðunar sem einkennir dýrkendur hofmannaástanna gagnvart hefðardömunni, fær einn fræðimanninn til að segja að svo virðist sem þessir söngvarar hafi allir verið að lofsyngja sömu persónuna. Og það er staðreynd sem við getum reiknað með að skilji eftir spurningarmerki. Fræðimaðurinn sem hér um ræðir er Hr. André Morin, prófessor í bókmenntadeild Université de Lille, en við eigum honum einnig að þakka vandaða safnútgáfu Minnesang, sem Aubier gaf út.

Sköpunarverkið sem hér um ræðir er angi viðfangsefnis sem á eðlilega eftir að vekja furðu okkar: hvað var hið raunverulega hlutverk þeirra mannvera af holdi og blóði sem hér áttu hlut að máli? Okkur er ekkert að vanbúnaði að nefna þessar hefðarkonur og fólkið sem var í miðri útbreiðslu þessa nýja stíls og lífsmáta á því tímaskeiði sem hann varð til. Við þekkjum fyrstu stjörnurnar í þessari félagslegu farsótt jafn vel og við þekkjum Herra Sartre og Frú de Beauvoir. Eleanor frá Aquitaine er engin goðsagnavera, ekki frekar en dóttir hennar, greifynjan af Champagne.

Aðalatriðið verður að sjá hvernig vissar af þeim gátum, sem sagnfræðingarnir hafa sett fram um þessi mál, má leysa út frá þeirri kennisetningu sem ég er hér að halda fram, kennisetningu sálgreiningarinnar. Að hve miklu leyti leyfir hún okkur að skýra fyrirbærið sem göfgunargjörning (work of sublimation) í sinni hreinustu mynd?

Þið munið sjá í smáatriðum hvernig það var gerlegt að gefa viðfangi, sem í þessu tilfelli var kallað Hefðarfrúin (The Lady) gildi þess að standa fyrir „Þingið“. Til þess að gefa ykkur hugmynd um slóðina sem ég ætla að rekja til þess augnabliks er ég yfirgef ykkur í Febrúar, þá bið ég ykkur að taka eftir að þetta mun gefa mér færi á að fylgja málinu eftir og sýna fram á þau áframhaldandi þróunarferli er varða tilurð þess sem við köllum hið kvenlega viðfang, þar á meðal hvernig þetta vandamál snýr að okkur í dag. Við munum nálgast viðfangsefnið út frá hinum greinandi formgerðum.

Eftir febrúarhléið er markmiðið að leyfa ykkur að reikna út frumleikann í framlagi Freuds til þessara mála.

Hugmyndin um sköpun er samtvinnuð hugsun ykkar. Þið getið ekki hugsað, enginn getur hugsað, nema á forsendum sköpunar. Það sem ykkur er tamast í hugsanagangi ykkar, það er að segja þróunarhyggjan (evolutionism), er innbyggt í ykkur eins og samtímafólk ykkar, eins og varnarviðbúnaður og viðhald í trúarlega handfestu sem kemur í veg fyrir að þið sjáið það sem er að gerast í heiminum í kringum ykkur. Hvort sem þið vitið það eða ekki, þá er það er ekki vegna þess að þið (og allir aðrir) eruð fangin í hugsuninni um sköpunina sem Skaparinn er stöðugt í sjónmáli ykkar.

Það er augljóst að Guð er dauður. Það er nokkuð sem Freud tjáir frá upphafi til enda goðsagnar sinnar. Þar sem Guð stafar af þeirri staðreynd að Faðirinn er dáinn, þá merkir það augljóslega að við öll höfum skilið að Guð er dauður. Það er líka ástæða þess að Freud veitir efninu svo mikla athygli. Um leið er það svo að það er hinn upprunalega dauði Faðir sem Guð endurleysir, þá var hann einnig dauður frá byrjun. Spurningin um Skaparann hjá Freud tengist þess vegna í dag við það sem heldur áfram að virka á þessu sviði.

Þetta er markmið rannsóknar okkar í ár; form spurningarinnar um hvað „Þingið“ er í raun og veru kallar á andsvar okkar. Það er nokkuð sem Freud hugleiðir í sálfræði hvatanna, en það sem hann kallar Trieb getur með engu móti takmarkast við hinn sálfræðilega skilning. Um er að ræða fullkominn verufræðilegan (ontological) skilning, sem er andsvar við samviskukreppu sem okkur ber skylda til að bera kennsl á, því við erum að upplifa hana.

Hvernig svo sem við upplifum samviskukreppuna, þá er markmið þess sem ég er að reyna að opna augu ykkar fyrir jafnframt tilraun til að gera ykkur hana ljósa.

René Magritte: Að gera hið ómögulega, 1928. Höfundur málar málverlið, höfundur málar „fyrirmyndina“ og sjálft málverkið. Fyrirmyndin er Georgette Magritte, eiginkona málarans.

Forsíðumyndin er málverkið „Falskur spegill“ eftir René Magritte frá 1928

LACAN: HLUTURINN OG GÖFGUN HANS

LACAN SKYNJAR "HLUTINN Í SJÁLFUM SÉR" Í GEGNUM ELDSPÝTUSTOKKINN

Í framhaldi af færslunni með ritgerð Heideggers um "das Ding - leirkrúsina" og fyrirlestri Agambens um Kant og Heidegger er við hæfi að birta kaflabrot úr Sjöunda Seminari Jacques Lacans um Siðfræði sálgreiningarinnar, þar sem sömu mál eru á dagskrá, en skoðuð frá gjörólíku sjónarhorni. Það eru fyrirlestrarnir um "das Ding" eða "þingið" sem hefur sérstaka merkingu í sálgreiningu Freuds sem Lacan tengir jafnframt við göfgunarhugtakið, sem hann tók upp frá Kant en túlkaði á sinn hátt. Freud tengir "þingið" við löngunina, en Lacan þróar þær hugmyndir lengra og dregur í því skyni fram gamla endurminningu sem hann hafði frá stríðsárunum um veggskreytingu sem hann hafði séð á heimili vinar síns, ljóðskáldsins Jacques Prévert, og var gerð úr tómum eldspýtustokkum. Þessi veggskreyting verður Lacan tilefni til skýringar á eldspýtustokknum sem "das Ding", sem verður hjá honum mynd er nær langt út yfir hinn einfalda nytjahlut, rétt eins og lýsing Heideggers á leirkrúsinni. Lacan sér í veggskreytingu Préverts dæmi um göfgun hlutarins þar sem hann hefur verið gæddur nýju gildi sem er í senn listrænt og siðferðilegt. Þó nálgunaraðferð Lacans sé allt önnur en Heideggers, þá eru hugmyndir þeirra skyldar, þar sem þeir ganga gegn hefðbundinni frumspekilegri skilgreiningu til þess að nálgast kjarna hlutarins sem veru. Lýsing Lacans á eldspýtnaverkinu er tvíræð og hefur í senn erótíska vísun, þar sem "skúffa" eins eldspýtustokks er hálfopin og stunginn inn í þann næsta og þannig koll af kolli í eins konar æxlunarleik, sem jafnframt hefur óbeina vísun í skilning Lacans á tungumálinu, sem hann segir, ólíkt Freud, að stýri dulvitund mannsins. Út frá Saussure leggur Lacan áherslu á vensl hugtakanna /orðanna og hlutanna sem þau vísa til. Þar eru orðin "signifier" (hér þýtrt sem nefnari) og hluturinn "signified" (hér þýtt sem "hið nefnda"). Samkvæmt skilningi Lacans á tungumálinu geta "nefnarar" endanlega ekki vísað í annað en annan "nefnara" sem gerir það að verkum að tungumálið byggir á keðju nefnara. Keðja eldspýtustokkanna í stofu Préverts verður þannig eins og mynd af tungumálinu, þótt Lacan komistr ekki þannig að orði í þessum fyrirlestri. En umfjöllunin um eldspýtustokkana og "göfgun" þeirra verður að mikilvægu forspjalli um hofmannaástirnar sem Lacan fjallar um í næstu fyrirlestrum. Það er framhaldssaga þessa fyrirlesturs, sem er eins og öll seminör Lacans, munnleg blaðalaus framsetning, skráð af nemendum hans og síðan yfirfærð í einar 20 bækur sem tengdasonur Lacans, sálgreinirinn Jacques-Allain Miller hefur séð um útgáfu á. Þessi seminör eru einstök í evrópskri bókmenntasögu, því bindin 20 eru ekki skrifuð af höfundi sínum, heldur nemendum hans, sem voru tilvonandi fagfólk í sálgreiningu. Hugmyndir Lacans um listræna sköpun og tengsl hennar við göfgunina, löngunina og lífshvötina hafa grundvallar þýðingu í allri listgagnrýni okkar tíma, og þar skiptir greining Lacans á ástarsöngum miðalda í Þýskalandi og Frakklandi ekki síst máli, það sem við köllum ljóðlist hofmannaástarinnar. Fyrir nokkrum árum snéri ég kaflanum um hofmannaástirnar á íslensku og er hann hér á vefsíðunni sem 10. fyrirlestur námskeiðsins. Níundi fyrirlesturinn um "sköpun úr tóminu" er væntanleg hér á síðuna sem framhald þessarar umræðu.
Jacques Lacan:

Siðfræði sálgreiningarinnar

Hluturinn og hin listræna göfgun
Eldspýtustokkurinn og das Ding

Seminar VII; Seinni hluti 8. fyrirlesturs: „Hluturinn og þingið“

(Endursögn úr enskri þýðingu Dennis Porter The Ethics of Psychoanalysis 1959-1960, Routledge útgáfan 2008, ritstj. Jacques-Allain Miller)

Hafið í huga að ekkert rétt gildismat á göfgun í listum er mögulegt ef við horfum framhjá þeirri staðreynd að öll listræn framleiðsla, en einkum þó myndlistin, er sögulega skilyrt. Við málum ekki málverk á tíma Picasso með sama hætti og málað var á tímum Velazquez, við skrifum ekki skáldsögu á fjórða tug 20. aldar eins og gert var á tíma Stendhal. Þetta er grundvallar atriði sem  við þurfum ekki að setja undir mælistiku hins félagslega eða einstaklingsbundna, allavega ekki í bili. Við getum þá sett það á menningarbásinn. Hvað er það sem samfélagið sér jákvætt í þessu mati? Það er spurningin sem við leitum svars við.

Vandamál göfgunar (sublimation) er til staðar, þeirrar göfgunar er getur af sér tiltekinn fjölda forma, sem heyra ekki bara undir listirnar, en við munum hins vegar einbeita okkur sérstaklega að einni listgrein, bókmenntunum, sem standa svo nærri sviði hins siðferðilega. Þegar allt kemur til alls, þá er það virkni siðferðisins sem setur okkur mælikvarða gildisdóma á göfgunina: það skapar gildi sem eru viðurkennd af samfélaginu.

Hversu þversagnarkennt sem það kann að virðast, þá held ég að við verðum að taka mið af þeim hugsunum sem ollu straumskiptum í þessu gildismati, en það eru sjónarmið Kants á þessu sviði.

Ásamt með hugmyndinni um das Ding (Hlutinn, þingið), sem við vonum sannarlega að leggist á jákvæðu vogarskálina, þá mætum við á hinn bóginn hugmyndum Kants um skylduna. Það er önnur leið til að leggja á vogarskálarnar. Kant boðar setningu algildra siðareglna sem eru með öðrum orðum  þyngdarafl rökhugsunarinnar. Auðvitað situr þá eftir að meta hvernig þetta þyngdarafl leggst á mannfólkið.

Það hefur alltaf augljósan kost í för með sér að lesa höfunda á frummálinu. Um daginn vakti ég athygli ykkar á hugtakinu Schmerz, sársauka, sem fylginaut siðferðilegrar breytni. Ég tók eftir því að jafnvel sum ykkar sem þekktu þessa texta fyrir, náðu ekki að skilja ábendingu mína. En ef við opnum núna Kritik der reine Vernuft (Gagnrýni hreinnar skynsemi), þá getum við séð að Kant hefur dregið fram kennslufræðileg dæmi sem eiga að auka skilning okkar á þungavigt skynseminnar. Og þessi dæmi eru stórbrotin í  skýrleika sínum. Um er að ræða tvöfalda dæmisögu sem á að fá okkur til að finna þungann af siðferðislögmálinu með hreinum og einföldum hætti, hina voldugu yfirdrottnun skyldunnar gagnvart öllu því sem menn kunna að upplifa sem lífsnauðsynlega löngun.

Lykilinn að sönnuninni liggur í samanburði tveggja aðstæðna. Hugsum okkur, segir Kant, að til þess að öðlast stjórn á öfgum skynfíkilsins (sensualist) séu settar upp tvær sviðsmyndir: Við höfum svefnherbergi þar sem konan sem hann girnist dvelur. Honum er veitt leyfi til að fara í þetta herbergi og fullnægja löngun sinni eða þörf, en handan við útgöngudyrnar sem hann þarf að fara í gegnum að athöfninni lokinni, býður hans gálgi sem hann verður hengdur í. Þetta er þó smáatriði, og ekki kjarninn í siðaboðskap Kants. Við erum rétt ókomin að lyklinum að sönnuninni. Hvað Kant varðar, þá fer ekki á milli mála að gálginn sé fullnægjandi hemill á lönguninni: engum dettur í hug að fara að ríða konu þegar hann veit að hans býður henging að afloknu verki.

Næst kemur hins vegar sviðsmynd þar sem útkoman er sambærileg í hryllingi sínum, en þar varðar málið harðstjóra sem býður einhverjum að velja á milli gálgans og þess greiða að bera fram falsvitni gegn vini sínum. Kant leggur hér réttilega áherslu á að vel megi skilja þann sem kýs eigið líf fram yfir það að bera falsvitni, sérstaklega ef fyrirfram er vitað að hinn falsi vitnisburður muni ekki hafa hörmulegar afleiðingar fyrir vininn.

Það sem hér skiptir meginmáli er að vald sönnunargagnsins er hér sett í hendur veruleikans – til raunverulegrar hegðunar einstaklingsins. Kant biður okkur að hugleiða hér áhrifamátt þunga raunveruleikans, en sá þungi er að mati Kants jafngildur þunga skyldunnar.

Með því að fylgja þessari frásögn uppgötvum við að eitthvað hefur farið úrskeiðis. Þegar öllu er á botninn hvolft, þá er ekki hægt að útiloka þær aðstæður að viðkomandi persóna í fyrra dæminu myndi kannski ekki bjóða sig fram til að verða hengdur, en að minnsta kosti hugleiða þann valkost.

Heimspekingurinn okkar frá Köningsberg var sómamaður, og ég myndi ekki gefa í skyn að hann væri að einhverju leyti lítilmótlegur eða ástríðulaus, en hann virðist ekki hafa hugleitt vissar aðstæður sem Freud hefði kallað Űberschätzung eða ofmat viðfangsins – og ég myndi hér eftir kalla göfgun hlutarins. En það eru aðstæður þar sem ástarástríðan öðlast sérstaka þýðingu (og eins og þið munið sjá, þá stefnir sú díalektík sem ég ætla nú að leggja fyrir ykkur í þessa átt, þar sem ég hugsa mér að kenna ykkur hvernig hægt er að samsama sig við það sem göfgunin felur í raun í sér). Þetta á sérstaklega við um göfgun (sublimation) hins kvenlega viðfangs, upphafningu þess sem við köllum ást – ein tegund upphafningar sem á sér sögulegar rætur.

Í stuttu innslagi sem ég átti með ykkur um daginn gaf Freud okkur innsýn í þetta mál, þar sem hann segir að í nútímanum beinist libido (lífshvötin) að viðfanginu eða hlutnum, frekar en að eðliávísuninni (nokkuð sem vekur mikilvæga spurningu sem ég mun með ykkar leyfi kynna ykkur fyrir. En það er viðfangsefni sem kallar á nokkrar kennslustundir um fyrirbæri í þýskri sögu sem ég tengdi um daginn við söguna af Hamlet, nefnilega Minne (ást eða mansöngvar á miðaldaþýsku), með öðrum orðum kenningasmíð og iðkun hofmannaásta (courtly love) – og hvers vegna skyldum við ekki eyða völdum tíma í það miðað við allan þann tíma sem við eyðum í þjóðháttarannsóknir almennt? Sérstaklega ef mér tekst að sannfæra ykkur um að þetta varði sérstaklega viss tengsl okkar við hlutina, sem eru óhugsandi án þessara sögulegu forsendna). Þannig er það hugsanlegt við sérstakar aðstæður göfgunar (sublimation) að slík skref séu stigin, eitt af öðru. Hér er að öllu sögðu um heilan flokk sagna að ræða er byggja á hugarórum, ef ekki á sérstökum sögulegum aðstæðum. Einnig höfum við margar hliðstæðar og gildar sögusagnir í dagblöðunum. Allt leiðir þetta að þeirri niðurstöðu að það sé ekki óhugsandi fyrir karlmann að sofa hjá konu vitandi að hann verði sleginn af á útleiðinni, í gálganum eða hvernig sem er (augljóslega flokkast þetta allt undir ástríðuöfgar, fyrirsögn sem vekur margar spurningar). Það er ekki óhugsandi að þessi maður gangist undir slíkan möguleika með köldu blóði – allt fyrir ánægjuna af því að brytja viðkomandi hefðarmey í marga parta, svo dæmi sé tekið.

Hitt dæmið sem við getum séð fyrir okkur á sér ótal fyrirmyndir í annálum afbrotafræðanna. Það er auðvitað dæmi sem breytir aðstæðunum og ekki síst gildi fordæmis Kants.

Ég hef þá dregið fram tvö atriði sem Kant hafði ekki séð fyrir, tvö form yfirgangs (transgression) sem er handan þeirra marka sem venjulega eru eignuð nautnalögmálinu, og eru andstæð því raunveruleikalögmáli sem við höfum til viðmiðs. Um er að ræða yfirgengilega göfgun viðfangsins, sem yfirleitt gengur undir nafninu afvegaleidd siðspilling eða öfuguggaháttur (perversion). Göfgun og perversion eru bæði spunnin úr löngun sem beinir athygli okkar að mögulegri skilgreiningu (hugsanlega í formi spurningar) á öðrum mælikvarða annars eða sama siðferðis, andstætt raunveruleikalögmálinu. Því til er önnur siðferðisregla sem gengur út frá því sem tilheyrir sviði das Ding (hluturinn, þingið). Það er siðferðið sem fær einstaklinginn til að hika þegar hann er kominn á fremsta hlunn með að bera fram falskan vitnisburð gegn das Ding, það er að segja kominn á stað löngunarinnar, hvort sem um er að ræða göfgun eða spillingu.

 

Við erum hér á hálfgerðu ráfi, fylgjandi slóðum greinandi skynsemi, sem er í raun ekki það sama og  annars konar almenn skynsemi hversdagsins. Þegar við komumst á svið das Ding opnast fyrir okkur svið Triebe, hvatanna.  En með hvötunum á ég við, rétt eins og Freud kenndi okkur, nokkuð sem ekki er hægt að fullnægja með málamiðlun og hófstillingu (moderation); með þessari hófstillingu sem samstillir af yfirvegun samskipti manneskjunnar við meðbræður sína á hinum ýmsu þrepum stigveldisins í samræmdri reglu, allt frá hjónabandinu til Ríkisins með stóru R.

Við þurfum nú að hverfa aftur til göfgunarinnar eins og Freud skilgreinir hana fyrir okkur.

Hann tengir göfgunina við Triebe, (hvatirnar) sem slíkar, og það er einmitt þessi tenging sem gerir kenningarsmíðina erfiða fyrir sálgreininguna.

Þið verðið að fyrirgefa að ég skuli ekki lesa fyrir ykkur í dag vissa kafla úr Freud, sem ykkur myndi hugsanlega leiðast, og ég mun taka fyrir við rétt tækifæri, þegar þið hafið skilið gildi þess að taka eina stefnu frekar en aðra varðandi afstöðuna til hinnar freudísku kenningar.

Ég held hins vegar að ég geti ekki viðhaldið áhuga ykkar hér án þess að skýra hvert markmið mitt er, eða hvert ég  vildi leiða ykkur.

Freud segir okkur að göfgun (sublimation) feli í sér sérstakt form fullnægju hvatanna (Triebe), orð sem hefur ranglega verið þýtt sem instinct (eðlisávísun) en ætti að þýðast nákvæmlega sem pulsions (franska) eða „drifts“ (enska) til að leggja áherslu á þá staðreynd að Trieb er í óbeinum tengslum við það sem Freud kallar Ziel þess, það er að segja markmið.

Við skilgreinum göfgun sem nokkuð sem er aðgreint frá hagfræði hinna gagnkvæmu skipta sem hinar bældu hvatir eru venjulega friðaðar með. Markmið hvatarinnar í hinni merkingarlegu staðgegnd (substitution) er symptom (sjúkdómseinkenni). Það er hérna sem virkni nefnarans segir endanlega til sín, því án vísunar í þessa virkni hans getum við ekki greint á milli staðgöngu hins bælda og göfgunarinnar sem hugsanlegra forma á fullnægju hvatarinnar.

Það er þverstæðukennd staðreynd, að hvatirnar geta fundið markmið sín annars staðar en þar sem þau eru, án þess að um sé að ræða þennan nefnda staðgengil sem felur í sér þá ofmetnu byggingu og þá tvíræðni og það tvöfalda orsakasamhengi sem felst í sjúkdómseinkenninu (symptom) sem málamiðlun.

Seinni skilningurinn hefur valdið jafnt kenningasmiðum og sálgreinum endalausum vandræðum. Hvað getur falist í þessum umskiptum á markmiðum? Það snýst um markmið, en ekki bara um einfalt viðfang, og eins og ég lagði áherslu á síðast, enda þótt hið síðarnefnda (viðfangið) komi fljótt í hugann. Við megum ekki gleyma því sem Freud sagði áður, að ekki má rugla skilningi markmiðsins saman við viðfangið eða hlutinn. Hjá Freud finnum við sérstakan kafla um þetta, sem ég mun lesa fyrir ykkur við rétt tækifæri, en ég bendi ykkur á hann hér og nú. Ef ég man rétt, þá er það í Einfűhrung des Narzissmus sem Freud leggur áherslu á muninn sem er til staðar á milli göfgunar (sublimation) og hugsjónar (idealization) hvað varðar viðfangið. Staðreyndin er sú að hugsjónin felur í sér samsemd sjálfsins (subject) og viðfangsins (object), á meðan allt annað á sér stað með göfguninni.

Ég ráðlegg þeim sem lesa þýsku að lesa stutta grein eftir Richard Serba sem birtist í Internazionale Zeitschrift árið 1930 „Zur Problematik der Sublimierungslehre“: hún dregur saman erfiðleikana sem sálgreiningin fann í þessu hugtaki á sínum tíma, – það er að segja eftir afgerandi grein Bernfelds um efnið, og aðra eftir Glover í International Journal of Psychoanalysis, frá 1931: „Sublimation, Substitution and Social Anxiety“. Þessi enska grein mun setja ykkur í enn meiri vanda. Hún er mjög löng og erfið, því hún skautar bókstaflega yfir allar þekktar skilgreiningar sálgreiningarinnar á þessum tíma til þess að sjá hvernig hægt væri að heimfæra þær upp á ólík stig hinnar fræðilegu kenningar. Niðurstaða þessa yfirlits er undravert, það býður upp á endurskoðun allra kenninga sálgreiningarinnar frá upphafi til enda, en þetta sýnir um leið þá miklu erfiðleika sem felast í því að nota göfgunarhugtakið í reynd, án þess að bjóða upp á mótsagnir, sem þessi texti er einnig fullur af.

Ég vildi nú reyna að sýna ykkur, hvernig við ætlum að setja göfgunarhugtakið fyrir okkur, þó ekki væri nema til að gera ykkur kleift að meta virkni þess og gildi.

Fullnæging hvatanna er þannig þversagnakennd, því hún virðist eiga sér stað annars staðar en í áfangastað sínum. Eigum við til dæmis að sættast á það sem Serba sagði, að markmiðið hafi í raun og veru breyst, að það hafi verið kynferðislegt áður, en sé það ekki lengur? Þannig er það reyndar sem Freud lýsir því. Þess vegna ættum við að draga þá ályktun að hið kynferðislega libido hafi afkynjast (desexualised). Þess vegna er dóttir þín mállaus.

Eigum við kannski að sættast á reglu Klein , sem mér virðist reyndar hafa að geyma visst brot af sannleikanum, nefnilega að tala um ímyndaða lausn á staðgengisþörf, á viðgerð er hafi með líkama móðurinnar að gera?

Þessar formúlur munu virka sem ögrun á alla þá sem ekki sætta sig við orðaskýringar, – það er að segja lausnir án eiginlegrar merkingar – í stað þess  að spyrja nánar, hvað felist eiginlega í göfguninni.

Þið ættuð strax að finna á ykkur hvert ég stefni. Göfgunin sem færir hvötunum (Trieb) fullnægju sem er ólík markmiði þeirra – markmiði sem enn er skilgreint sem hið náttúrlega markmið – er einmitt það sem einkennir hið sanna eðli hvatanna, að því marki að það er ekki bara eðlisávísun (instinct), heldur er það í venslum við das Ding sem slíkt, (við hlutinn / þingið) að því marki sem það er ólíkt hlutnum /viðfanginu (object).

Við þurfum að horfa til hinnar freudísku kenningar um narsissískan grundvöll viðfangsins og heimfærslu þess í reglu ímyndunarinnar (imaginary register). Hlutur eða viðfang sem hefur póla eða áttir aðdráttarafls gagnvart manninum í hans opna heimi, hlutur sem vekur áhuga hans vegna þess að hann sér í honum meira eða minna af eigin spegilmynd, – einmitt slíkur hlutur er ekki das Ding, að því marki sem þetta síðastnefnda býr í hjarta hagkerfis lífshvatarinnar (libidinal economy). Því hljóðar almennasta skilgreiningin sem ég get gefið ykkur á sublimation svona: hún reisir viðfang – og ég set mig ekki upp á móti tilgátu um orðaleik í orðanotkun minni – upp í virðingarsæti das Ding.

Þetta skiptir meginmáli, til dæmis, varðandi nokkuð sem ég ympraði á í lok samtals okkar, nokkuð sem ég mun fjalla um í næsta tíma, sem er göfgun hins kvenlega viðfangs. Öll kenningasmíðin um Minne (þýsku mansöngvana frá miðöldum) eða um hofmannaástirnar (courtly love), hafa í raun skipt sköpum. Þó þessi fyrirbæri séu nú algerlega horfin af hinu félagsfræðilega sviði, þá hafa hofmannaástirnar engu að síður skilið eftir sig spor í dulvitund sem við þurfum ekki einu sinni að kalla „sammannlega“, í hefðbundinni dulvitund sem byggir á bókmenntahefð og myndasmíð sem heldur áfram að búa í okkur þegar kemur að samskiptum við kvenkynið.

Þetta viðmót var skapað á meðvitaðan hátt. Það var engan veginn sköpun vinsællar sálar, þessarar frægu og miklu sálar hinna blessuðu Miðalda, eins og Gustave Cohen var vanur að segja. Reglur kurteisrar hegðunar voru mótaðar á meðvitaðan hátt í fámennum bókmenntahópum, og árangurinn varð sá að dýrkun viðfangsins var gerð möguleg, – en fáránleika hennar mun ég sýna ykkur í smáatriðum. Þýskur rithöfundur, sem er sérmenntaður í þessum þýsku miðaldabókmenntum, hefur talað um „absurd Minne“ (fáránlegar ástir) í þessu sambandi. Þessi siðaregla stofnsetti tiltekið viðfang í hjarta tiltekins samfélags, viðfang sem er engu að síður fullkomlega náttúrlegt. Þið skulið ekki ímynda ykkur að fólk hafi elskast minna á þessum tímum en við gerum.

Viðfangið er hafið upp í virðingarsæti das Ding eins og við skilgreinum það í okkar freudisku staðfræði – að því marki að það sé ekki innritað eða flækt í vef markmiðanna (Ziele). Forsenda þess að við höfum getað útskýrt fyrirbæri sem frá félagsfræðilegu sjónarhorni hafa alltaf birst okkur sem hrein þverstæða, byggist á því hvort þetta nýja viðfang hafi á vissu tímabili hlotið virðingarstöðu das Ding í virkni sinni.

Við munum vissulega ekki geta tæmt það forðabúr ummerkja, helgisiða, þjóðhátta og siðaskipta, ekki síst á bókmenntasviðinu, sem hafa falið í sér efnislegan kjarna þessa áhrifavalds í mannlegri breytni, sem við köllum hofmannaástir eða Minne, en hafa reyndar átt sér ólíkar nafngiftir í tímans rás eftir stað og stund. Munið bara að þeir karla- og kvennaklúbbar í upphafi sautjándu aldar sem kenndir voru við La littérature precieuse  (gersemdabókmenntir) eru aðeins síðasta birtingarmynd þessa fyrirbæris á okkar sviði.

Þar með hefur síðasta orðið alls ekki verið sagt um efnið, því ekki dugar að afgreiða málið með því að segja bara „þetta aðhöfðust þeir“ eða „svona var þetta“, þar sem þessi háttsemi blómstraði og gegndi sínu hlutverki. Mér er ekki bara umhugað um að færa ykkur lykil að þessu sögulega skeiði; það sem endanlega vakir fyrir mér er bæði að ná betri tökum á vissu atriði sem varðar das Ding, nokkuð sem við höfum orðið fyrir í gegnum samfélagslegt uppeldi okkar allra og kallar á frekari skilgreiningu, en gengur nú undir hugtakinu list. Um er að ræða skilning á atferli okkar á sviði göfgunarinnar.

Skilgreiningin sem ég gaf ykkur lokar ekki umræðunni, í fyrsta lagi vegna þess að ég verð að staðfesta málavextina og lýsa þeim fyrir ykkur, og í öðru lagi vegna þess að ég þarf að sýna ykkur að ef tiltekið viðfang af þessu tagi rekst á fjörur okkar, þá hlýtur eitthvað að hafa gerst er varðar samband viðfangs og löngunar. Þetta verður ekki réttilega skýrt án vísunar í það sem ég sagði í fyrra um langanirnar og atferli þeirra.

 

Ég ætla að ljúka þessu í dag með lítilli dæmisögu sem ég vildi að opnaði ykkur sýn á það sem gerist við göfgunina, en það er dæmi sem er reyndar bæði krefjandi og þversagnakennt. Þar sem við höfum haldið okkur í dag á sviði viðfangsins og das Ding, þá langar mig til að sýna ykkur hvað felst í því að uppgötva hlut hugsaðan fyrir sérstakan tilgang sem samfélagið gæti metið að verðleikum og látið sér vel lynda.

Ég leitaði í minningabanka minn í þessum tilgangi, í nokkuð sem þið getið, ef ykkur þóknast, sett undir hina sálfræðilegu kví söfnunaráráttunnar. Maður nokkur sem nýverið gaf út bók um safnara og það uppboðshald sem sagt er að geti gert safnara ríka, hefur oft farið þess á leit við mig að fræða hann um hver væri merkingin á bak við söfnunaráráttuna. Nokkuð sem ég gerði ekki, því ég hefði þurft að segja honum að sækja námskeið mín í fimm eða sex ár.

Sálfræði söfnunaráráttunnar er gríðarstórt sálfræðilegt verkefni. Í mér sjálfum býr líka brot af safnara. Og látum það vera ef sum ykkar fáið þá hugmynd að hér sé verið að herma eftir Freud. Ég held hins vegar að mínar ástæður séu gjörólíkar hans. Ég hef séð það sem varðveist hefur af safni Freud í hillunum hjá Önnu dóttur hans. Mér sýndist það benda til þeirrar hrifningar á sambýli […] og egypskrar siðmenningar sem verkaði á hann á sviði nefnarans (signifier), mun frekar en að um væri að ræða upplýstan smekk á því sem er kallað viðfang (object, hlutur, safngripur).

Það sem við köllum object (safngrip) á sviði söfnunarinnar ætti að vera kyrfilega aðgreint frá því sem við köllum object í sálgreiningu. Í sálgreiningunni er object dæmi um áráttubundna festingu (fixation) imyndunaraflsins við tiltekinn hlut, sem veitir ánægju eða fróun tiltekinnar hvatar á hvaða sviði sem verða vill. Safngripurinn er hins vegar eitthvað gjörólíkt, eins og ég mun sýna ykkur með eftirfarandi dæmisögu, þar sem söfnunin er sýnd í sinni frumstæðustu mynd. Yfirleitt hugsa menn sem svo að safn feli í sér fjölbreytileika hlutanna, en svo þarf alls ekki að vera.

Á þeim mikla tíma yfirbótar og iðrunar sem þjóð okkar gekk í gegnum á dögum Pétains, á tímum „Vinnunnar, Fjölskyldunnar og Föðurlandsins“ og hinnar aðhertu beltisólar fór ég eitt sinn í heimsókn til vinar míns Jacques Prévert í Saint-Paul-de-Vence. Þar sá ég safn af eldspýtustokkum. Ég kann enga skýringu á því hvers vegna þessi endurminning hefur skyndilega skotið upp kollinum í huga mínum.

Þetta var sú tegund söfnunar sem kallaði ekki á fjárútlát á þessum tímum, kannski var þetta eina mögulega söfnunin þá. En eldspýtustokkarnir voru sýndir með eftirfarandi hætti: þeir voru allir sömu tegundar, og var raðað upp á einstaklega þokkafullan hátt, sem fól í sér að sérhver stokkur var svo nálægur þeim næsta að litla skúffan var örlítið útstæð. Þetta gerði það að verkum að allir stokkarnir féllu saman og mynduðu samfellda röð sem lá eftir arinhyllunni og skreið upp eftir veggnum, upp að vegglistanum og síðan niður aftur, niður að hurðinni. Ég er ekki að halda því fram að þetta hafi verið endalaus runa, en hún tók sig afar vel út sem heimilisprýði (ornament).

Ég held engu að síður að þetta hafi ekki verið allt og sumt sem gerði þessa „söfnunaráráttu“ undraverða, né heldur sú uppspretta af hugarfró sem safnarinn fann í henni. Ég held að það nýbreytni-áfall sem stafaði frá þessu safni tómra eldspýtustokka – og þarna komum við að kjarna málsins – hafi leitt í ljós nokkuð sem við veitum kannski ekki nægilega athygli, nefnilega að eldspýtustokkur er ekki bara einfaldur eldspýtustokkur, heldur hafi hann í formi Erscheinung (birtingar) opinberað sinn áhrifamikla margbreytileika sem gæti falist í das Ding.

Með öðrum orðum þá sýndi þessi uppsetning að eldspýtustokkur er ekki bara eitthvað sem gegnir tilteknu þjónustuhlutverki sem áhald, að hann er ekki einu sinni tegund í platonskum skilningi, abstrakt eldspýtustokkur, að eldspýtustokkurinn er að öllu leyti í sjálfum sér hlutur sem hefur að geyma allt sem tilheyrir verunni. Fullkomlega óumbeðinn æxlast hann í ofgnótt sinni í nánast fáránlegri gerð þessa safns sem vísar til hlutareðlis síns sem eldspýtustokkur. Safnarinn fann þannig markmið sitt í þessu formi skilnings er varðar ekki eldspýtustokkinn sem slíkan, heldur öllu frekar das Ding (hlutinn) sem býr í eldspýtustokknum.

Það skiptir ekki máli hvað við tökum okkur fyrir hendur, við finnum það aldrei af handahófi í einhverjum hlut. Ef grannt er hugsað, þá virðist eldspýtustokkurinn vera stökkbreytt form einhvers sem skiptir okkur svo miklu máli að það getur jafnvel tekið á sig siðferðilega merkingu; það sem við köllum skúffu. Í þessu tilfelli var skúffan frelsuð og ekki lengur fest í allt umlykjandi umbúðum kistu sinnar, þannig kynnir hún sig til sögunnar sem sá samfarakraftur sem þessi mynd Préverts átti að koma til skila.

Nú hefur þessi litla dæmisaga um opinberun das Ding handan hlutarins sýnt ykkur eitthvert einfaldasta form göfgunar sem völ er á. Ef til vill getið þið jafnvel fundið eitthvað birtast í henni sem samfélagið megnar að finna sér fróun í.

Ef um fróun er að ræða, þá er hún í þessu tilfelli nokkuð sem krefst einskis af engum.

 

______________

Forsíðumyndin er fengin að láni frá Byggðasafni Skagfirðinga.

%d