NIETZSCHE: FÖRUMAÐURINN OG SKUGGI HANS III.

 

NIETZSCHE UM GILDRU TUNGUMÁLSINS, FRELSI VILJANS OG SKEMMTIKRAFT GUÐS

Í þessum þriðja og síðasta kafla úr verki Nietzsche birti ég hér þrjú orðspjót, sem fela í sér þrjú sjónarhorn á villuráf mannsins um heim staðreyndanna, um vegleysur tungumálsins og samanburðinn á skopskyni mannsins og skapara hans. Þetta villuráf á sér sameiginlegan leiðarvísi í hlutverki tungumálsins sem er í senn blessun mannsins og bölvun.

Þessi þrjú orðspjót birta að hætti Nietzsche djúphugsaðar og raunverulegar athuganir á flóknum heimspekilegum vanda sem heimspekin hefur glímt við frá upphafi vega. Sérhvert þessara þriggja orðspjóta væri metnaðarfullum akademískum heimspekingum efni í þykka doðranta upp á hundruð blaðsíðna og óteljandi bindi, en Nietzsche fann aldrei hjá sér kvöð til akademískra málalenginga: hér segir hann flókin heimspekileg vandamál um tungumálið, frelsi viljans, jafngildingu og sundurgreiningu  staðreyndanna og hið mannlega sjónarhorn sagnfræðinnar í örfáum orðum og í meitluðum ritstíl sem á sér varla hliðstæðu. Í heild sinni er Nietzsche hér að benda okkur á takmörk þeirrar frumspeki sem ávallt er lögð til grundvallar, hvort sem við fjöllum um huglæg hugtök eins og frelsi, „hlutlægar“ skoðanir vísinda og þekkingar eða sagnfræði er tekur óhjákvæmilega mið af manninum andspænis alheimi sem á sér yfirskilvitleg endamörk handan allrar mennsku.

Ekki er tilefni til að orðlengja um þessa pistla umfram það sem liggur í augum uppi: til dæmis vandamál „staðreyndanna“ sem Nietzsche átti eftir að afgreiða síðar með fullyrðingu sinni um að „ekki séu til staðreyndir, heldur einungis túlkanir á staðreyndum“, með þeirri viðbót að einnig þessi yfirlýsing fæli í sér túlkun. Þessi fræga yfirlýsing Nietzsche hefur orðið mörgum hreintrúarmanninum hneykslunarefni, en Nietzsche bendir hér á þá grunnforsendu allrar fyrirbærafræði, að skynjun og skilningur veruleikans sé óhjákvæmilega bundinn gagnkvæmu sambandi, þar sem aðskilnaður áhorfandans frá viðfangi sínu felur óhjákvæmilega í sér sjónarhorn sem er jafn hverfult og tíminn sjálfur: hugmyndinn um „hlutinn í sjálfum sér“ sem „hlutlægt“ viðfang vísindalegrar rannsóknar felur alltaf í sér frumlægar forsendur sem eru hverfular eins og tíminn, og því er hugmyndin um eilífan sannleika vissulega falleg en óhjákvæmilega fallvölt eins og tíminn í ljósi eilífðarinnar.

Það er tungumálið sem hefur fært manninum þetta verkfæri til „hlutlægrar“ rannsóknar á veruleikanum, sem er dýrunum forboðið. Hér bendir Nietzsche einfaldlega á að um leið og hugtökin gefa okkur tilfinningu fyrir því að við höfum hlutina í hendi okkar þegar við höfum orðað þá, þá blasir hið þveröfuga við, því til dæmis orðið „hönd“ er ekki til í veröldinni sem hlutur í sjálfum sér, heldur einungis sem líffæri er eigi sér jafn margræða reynslu og þekkingu og rekja má til fjölda forfeðra okkar frá örófi alda. Engin hendi er „hlutur í sjálfum sér“ heldur tengd órjúfanlegum böndum tiltekins líkama með öllum þeim flókna tengslabúnaði og sögu sem því fylgir. Mynd líffærafræðanna af hönd okkar er sértekning sem á sér ekki sannanlega samsvörun, hvorki í hljóðmyndunum orðsins né á líkskurðarborðinu, þar sem höndin hefur verið aftengd allri reynslusögu sinni frá upphafi vega.

Það er þetta sem Husserl, Heidegger, Merleau-Ponty og aðrir frumkvöðlar fyrirbærafræðanna tóku upp frá Nietzsche og lögðu sig eftir að skilja í löngum og flóknum fræðiritum er sýna sögu þekkingarleitar mannsins í nýju ljósi.

Tilhneigingin að einangra „staðreyndirnar“ frá umhverfi sínu til að öðlast „rétta“ mynd af veruleikanum er stöðugt virk í samtíma okkar, einnig í þessum skrifum.

Til þess að sjá hversu villandi þessi einangrun „staðreyndanna“ getur verið nægir að kveikja á sjónvarpinu þessa stundina og sjá myndirnar af hryðjuverkaárásinni 6. október síðastliðinn, þar sem hrottafengnar aftökur og mannrán eiga sér stað. Sjónvarpið sýnir okkur þetta í nafni „staðreyndanna“ til að auka á augljósan hrylling atburðarins, þar sem hann er sýndur „sem slíkur“, aftakan „í sjálfri sér“ sem „staðreynd“.

Óhugnaðurinn sem slíkar myndir vekja er ekki til þess fallinn að vekja skilning á vandamálinu. Ef við stöndum frammi fyrir vanda sem þessum, þá er fyrsta skilyrði þess að lausn verði fundin, að við hættum að líta á „staðreyndina sem slíka“ en reynum að spyrja okkur hvernig slík voðaverk geta átt sér stað. Það kallar á að athyglinni sé beint að því sem Nietzsche kallar hið samfellda „flæði“ verðandinnar: hver var saga þessara fórnarlamba voðaverkanna, og hver var saga gjörningsmannanna?

Getur verið að hægt hefði verið að koma í veg fyrir voðaverkið? Var um að kenna lélegri gæslu við víggirðinguna sem hefur haldið 2,3 miljónum Palestínumanna innilokuðum áratugum saman án allra þeirra gæða sem við teljum forsendur „frelsis“? Voru gjörningsmennirnir að sleppa í fyrsta skiptið úr búrum sem hafði hindrað frelsi þeirra frá fæðingu? Voru fórnarlömbin búsett á landsvæði sem hafði tilheyrt fjölskyldum gjörningsmannanna, landi sem þeir töldu sig eiga erfðarétt á?

Þessar spurningar eru ekki settar fram til að réttlæta voðaverkin, og heldur ekki til að fordæma þau. Slíkir dómar leysa ekki vandann. Þeir frelsa ekki fólk í gíslingu og þeir vekja ekki fórnarlömb voðaverka upp frá dauða. Slíkar spurningar eru hins vegar nauðsynlegar ef raunverulegur vilji er fyrir hendi til að leysa vandann.

Slíkur vilji var ekki sjáanlegur í fréttaskýringu ítalska sjónvarpsins, sem ég var að horfa á. Slíkur vilji hefur ekki verið merkjanlegur hjá stjórnvöldum þeirra Evrópuríkja sem stofnuðu til þessa vandamáls með gyðingaofsóknum, heimsstyrjöldinni síðari og sviknum loforðum og mannréttindabrotum á íbúum Palestínu í lok heimsstyrjaldarinnar. Leitin að skilningi á voðaverkunum í ísraelsku samyrkjubúunum handan fangelsisgirðinga Gaza-svæðisins leiðir okkur að sögu Evrópu og þátt Evrópuríkja í að skapa þennan vanda.

„Staðreyndasýningar“ sjónvarpsfréttanna eru til þess fallnar að breiða yfir þessi tengsl og fela orsakasamhengið. Á meðan slík „fréttamennska“ er ástunduð er tilgangslaust að tala um „fordæmingu“ voðaverka og „fortakslausan rétt til sjálfsvarnar“. Það eru hin innantómu orð sem ekki breyta öðru en að kynda undir þá tilfinningaþrungnu hatursorðræðu sem blæs súrefni á stríðseldana. Það er í þessum skilningi sem við eigum að taka orð Nietzsche um „staðreyndirnar“ alvarlega.

Í örfáum orðum bendir Nietzsche okkur á að samsemd orðanna og hlutanna sé blekking, og að þessi blekking hafi jafnvel leitt manninn í aðra villu um hinn frjálsa vilja: Var vilji gjörningsmanna Hamas-samtakanna „frjáls“, gildir það sama um vilja þeirra hermanna sem látið hafa sprengjuregn rigna yfir varnarlaust og innilokað fólk í heila viku og skilið eftir sig á fimmta þúsund fórnarlömb og enn fleiri limlesta?

Nietzsche segir okkur að þar sem „staðreyndirnar“ og „hlutirnir“ séu bundnir samfelldu og órjúfanlegu flæði orsakar og afleiðingar sé tómt mál að tala um frjálsan vilja. En það þarf ekki að þýða að skilningur sé ómögulegur. Þvert á móti er hann eina leiðin til að hafa stjórn á viljanum.

Síðasta orðskeytið í þessari samantekt varðar þann trúarlega skilning á manninum sem kennir okkur að hann sé kóróna sköpunarverksins og í raun arftaki Guðs og yfirvald hans á jörðinni. Hér fer Nietzsche á kostum og snýr endanlega upp á mannhyggju húmanismans með bví að sýna manninn sem skemmtikraft og „apakött“ þess Guðs sem óhjákvæmlega búi við ógnir leiðans í allt of langri eilífð sinni og hafi því skapað manninn sem skemmtikraft. Þó maðurinn hafi skopskyn umfram dýrin, þá verður allur samanburður við skopskyn Guðs að hjómi, þar sem hégómagirnd mannsins beitir hinum „frjálsa vilja“ til eigin niðurlægingar og sjálfstortímingar er lýkur með mannlausri jarðarför hins síðasta manns og umbreytir plánetunni jörð í fljúgandi ljómandi grafardyngju mannkynsins.

Það er heilsubót af því að lesa Nietzsche


Friedrich Nietzsche:

Förumaðurinn og skuggi hans III.

Þrjú orðspjót um frjálsan vilja, gildrur tungumálsins og manninn sem skemmtikraft Guðs

 

11. Frelsi viljans og einangrun staðreyndanna

Hin hefðbundna og ónákvæma athugun okkar á hlutunum sér fyrir sér tiltekin hóp fyrirbæra sem mynda eina heild og athugun okkar kallar þessa einingu staðreynd. Á milli þessarar einingar og annarra ímyndum við okkur tómarými, og einangrum þannig sérhverja staðreynd. Sannleikurinn er hins vegar sá, að virkni okkar og þekking er ekki mótuð af röð staðreynda sem eru aðskildar með tómarými, heldur er um samfellt flæði að ræða. Við sjáum þannig að trúin á sjálfstæðan vilja mannsins er ósamræmanleg hugmyndinni um samfleytt og óstöðvandi flæði, sem ekki verður sundurslitið og einangrað.

Trúin á frjálsan vilja gengur út frá því að sérhver athöfn sé einstök og ódeilanleg. Að hún feli í sér stak-hugsun afmarkaðra eininga (Atomatismus) á sviði viljans og þekkingarinnar. – Við meðtökum staðreyndirnar með sama hætti og við leggjum óljósan skilning í bókstafina: við tölum um eins bókstafi: þeir eru hvorki þessir né hinir. Nú fellum við hins vegar jákvæða eða neikvæða dóma á þessum fölsku forsendum sem segja að til séu eins staðreyndir, að til sé stigveldisregla staðreyndakvía er eigi sér hliðstæðu í stigveldisafstæðu gildanna. Þetta felur í sér að við einangrum ekki bara tiltekna staðreynd, heldur einnig staðreyndaflokka er gefa sig út fyrir að vera eins (góðverk, illvirki, öfund eða umhyggja o.s.frv.), en hvort tveggja byggir á misskilningi. Orðið og hugtakið eru augljósustu vitnisburðirnir um trú okkar á einangrun tiltekinna hópa atvika. Við notum þau ekki bara til að merkja hlutina, heldur teljum við okkur þegar hafa í hendi okkar kjarna þeirra. Enn í dag erum við sífellt leidd af orðunum og hugtökunum til þess að ímynda okkur hlutina í einangrun sinni, einfaldari en þeir eru í raun og veru, við sjáum ódeilanleika þeirra þar sem þeir eru hver um sig í sjálfum sér og fyrir sjálfan sig. Tungumálið felur í sér heimspekilega goðafræði sem stingur endurtekið upp höfðinu, hversu vandir sem menn vilja vera að virðingu sinni. Átrúnaðurinn á hinn frjálsa vilja, það er að segja átrúðnaðurinn á eins staðreyndir og einangraðar staðreyndir, þessi átrúnaður á sinn guðspjallamann og sinn lögfræðilega verjanda í tungumálinu.

12. Grundvallarvillurnar

Til þess að maðurinn finni til einhverrar andlegrar velþóknunar eða andúðar þarf hann að vera á valdi annarrar af þessum tveim blekkingum: að hann trúi á jafngildi tiltekinna staðreynda eða tilfinninga og geti þannig brugðist stundlega við með vísun í fyrri reynslu, og fundið þar fullvissa samsvörun eða mismun (eins og gerist um sérhverja endurminningu), og finni þannig til velþóknunar eða andúðar, – eða þá að hann trúir á hinn frjálsa vilja, til dæmis þegar hann hugsar „ég hefði ekki átt að gera þetta“, „þetta hefði getað farið öðruvísi“. Þannig upplifir hann með sama hætti andúð eða velþóknun. Án þessara yfirsjóna, sem eru að verki í sérhverri velþóknun eða andúð, hefði aldrei neitt mannkyn komið til sögunnar – en grundvallartilfinning sérhvers manns er og verður sú, að maðurinn sé frjáls vera í heimi nauðsynjarinnar. Hann er hinn eilífi Taumaturg eða galdralæknir, hvort sem hann vinnur til góðs eða ills, hann er hin undraverða undantekning, ofurskepnan og næstum-Guðinn, sem felur í sér merkingu sköpunarverksins, hið óhugsandi jafnt og hið ósegjanlega, hið endanlega hugtak hinnar kosmísku ráðgátu alheimsins, hinn mikla yfirdrottnara og smánara náttúrunnar, hann er veran sem kallar sína sögu sögu alheimsins. – Vanitas vanitatum homo.

 

14. Manneskjan sem skemmtikraftur alheimsins

Ætla mætti að til væru í heiminum verur gæddar dýpra skopskyni en mannfólkið, þó ekki væri nema til að skynja til fulls þá fyndni sem fólgin er í því að maðurinn skuli líta á sjálfan sig sem æðsta markmið alheimsins, og að mannkynið er þá fyrst sátt með sjálft sig þegar það hefur sett sér trúboðsmarkmið er taki til veraldarinnar allrar. Ef einhver Guð hefur skapað heiminn, þá hefur hann skapað manninn sem apakött Guðs, sem óendanlegt tilefni til skemmtunar í allt of langri eilífðartilveru hans.

Hljómkviða himinhvolfanna sem umlykja jörðina væri þá aðhláturssöngur allra annarra skepna sem umlykja manninn. Það er ekki án sársauka sem þessi depurðarþjáða eilífðarvera etur uppáhalds dýrinu sínu á vaðið til þess að geta notið hinna harmsögulegu og metnaðarfullu tilþrifa þess, notið túlkananna á þjáningu þess og umfram allt á hinni andlegu uppátekt hégómafyllstu skepnunnar – í mynd uppfinningamanns þessa uppfinningameistara. Því sá sem fann upp manninn sér til skemmtunar var gæddur meira skopskyni en maðurinn, og var meira fyrir fyndnina gefinn.

Einnig hér, þar sem okkar mannkyn niðurlægir sjálft sig af frjálsum vilja, einnig hér hittir hégómagirnd okkar í mark, því að minnsta kosti í því efni er varðar hégómagirndina vildum við mennirnir vera framúrskarandi og stórbrotnir umfram aðrar skepnur.

Hin einstaka staða okkar í alheiminum! Guð minn góður, hún á sér engan líka!

Stjörnufræðingarnir okkar, sem stundum þurfa raunverulega að líta til sjóndeildarhrings sem er aðskilinn frá jörðinni, veita okkur skilning á því að þeir örsmáu agnardropar lífs, sem finna má í alheiminum, hafa nær enga þýðingu ef litið er til heildareðlis þess óhemjuúthafs framtíðar og fortíðar sem finna má í óendanlegum fjölda þeirra himnakroppa er bjóða upp á lífsskilyrði sambærileg jörðinni hvað varðar framleiðslu lífs; þeir eru reyndar fjölmargir, en engu að síður í afar takmörkuðu magni, ef borið er saman við óendanlegan fjölda allra hinna, er aldrei hafa reynt uppsprettu lífs eða hafa fyrir margt löngu læknast af slíkri uppákomu. Einnig hafa stjörnufræðingarnir  sagt okkur að miðað við tímanlega tilveru þessara himnakroppa þá hefur tilverutími lífsins varað stundarkorn, eins og augnabliksgos, er markast af óralöngum aðdraganda, og það getur því hvorki talist áfangastaður né endanlegt markmið tilveru þeirra.

Hugsanlegt er að maurinn í skóginum hafi jafn sterkt ímyndunarafl þess að sjá sjálfan sig sem endanlegt markmið og tilgang skógarins og við, þegar við ímyndum okkur nánast óviljandi að  endalok mannkynsins feli í sér endalok jarðarinnar.

Reyndar erum við full hæversku þegar við staðnæmumst við þann atburð sem við skipuleggjum ekki sjálf, það er að fylgja síðasta manninum til grafar í alheimsrökkri guðanna. Jafnvel hinn harðsvíraðasti meðal stjarnfræðinganna á erfitt með að hugsa sér jörðina án lífs öðruvísi en sem ljómandi og svífandi grafardyngju mannkynsins.

 

Forsíðumyndin er ljósmynd eftir Claudio Parmiggiani frá 1972: Afritun eða "Deiscrizione"

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

%d