Tvær raddir um heimspeki tungumálsins I. Inngangur

Tvær raddir um frumspeki og heimspeki tungumálsins

Carlo SiniGiorgio Agamben

Í allri umræðunni í samtímanum um falsfréttir og sannar fréttir vaknar sú spurning hvort stóra falsfréttin geti falist í sjálfu tungumálinu?

Þegar ég var að velta þessari spurningu fyrir mér varð mér hugsað til tveggja ítalskra heimspekinga, sem ég hef lært margt af og leita oft til. Ég endurlas fyrsta kaflann í stórvirki Carlo Sini (f. 1933), Transito Verità og eina af ritgerðum Giorgio Agambens (f. 1944) um tungumálið og varð margs vísari. Lesningin varð svo áhugaverð að ég lagðist í að þýða textana á íslensku hugsanlega til frekari samanburðar og upplýsingar.

Þessir tveir heimspekingar eru um margt ólíkir en tilheyra þó óumdeilanlega þeim evrópska meginlandsskóla í nútímaheimspeki sem hefur aðgreint sig frá hinni engilsaxnesku rökgreiningaraðferð meðal annars vegna ólíkra viðhorfa til tungumálsins. Þessi evrópska „meginlandshugsun“ á rætur sínar í hughyggju og díalektík Hegels, tilvistarheimspeki Nietzsche, fyrirbæðafræði Husserls, Heideggers og Merleau-Ponty og þeirri kerfisbundnu ættfærsluhugsun sem trúlega á frumkvöðul sinn í Foucault. Auk þess hefur Sini afrekað að byggja athyglisverða brú á milli þessara meginlanda með því að endurvekja áhuga og skilning á tveim frumkvöðlum hins bandaríska pósitívisma: Charles S. Peirce og Alfred Whitehead.

Eins og þeir Sini og Agamben eru ólíkir í rithætti sínum og nálgun viðfangsefnanna, þá eiga þeir meðal annars tungumálið sem sameiginlegt áhugamál. Þeir eiga það líka sameiginlegt að leita að uppruna fyrirbæranna sem þeir fjalla um og kanna ættfærslu þeirra. Einnig í umræðunni um tungumálið. Munurinn er hins vegar sá að á meðan Sini styðst við nálgun sem við gætum kallað mannfræðilega og leitar upprunans í upphafi siðmenningar, þá er Agamben eins og svo oft áður upptekinn af trúarlegum forsendum sem gjarnan lifa í tungumálinu og samfélagsformunum mun lengur en sjálf trúarbrögðin. Spurningin um frumforsendu tungumálsins og frumforsendu merkingar er því upplýst frá tveim ólíkum sjónarhólum í þessum tveim textum, en ritgerð Agambens er upprunalega skrifuð 1984 og texti Sini er frá 2012, en endurunninn úr löngu ævistarfi hans sem kennara.

Spurningin um upprunann er í báðum tilfellum tengd spurningunni um tilurð og virkni merkingar í tungumálinu, þar sem Agamben leitar til þeirra trúarlegu forsendna sem finnast í trúarlegri opinberun eins og henni er m.a. lýst í upphafi Jóhannesarguðspjalls: í upphafi var orðið og orðið var hjá Guði og orðið var Guð. Út frá snjallri greiningu á opinberunarhugmyndinni kemst Agamben að þeirri niðurstöðu að hún sé frumforsenda allrar frumspeki í heimspekinni og þar með frumforsenda alls algilds sannleika. Upphafsorð Jóhannesarguðspjalls segja okkur að tungumálið og Guð séu eitt og hið sama. Ef til er svokallað meta-tungumá (tungumál sem getur fjallað um sjálft sig án þess að að vera hluti þess) þá sé þetta meta-tungumál jafn yfirskilvitlegt og Guð. Allir heimspekiskólar samtímans eru að mati Agambens sammála um að ekki geti verið um neitt meta-tungumál að ræða. Engu að síður kallar öll rökhugsun orsakar og afleiðingar á að við leitum hins skilyrðislausa uppruna ef við viljum fá skilyrðislausa niðurstöðu. Agamben rekur að nokkru leyti hvenig túlkunarheimspeki Gadamers og ættfærslurannsóknir Jacques Derrida leiða í raun hjá sér þessa grundvallarspurningu og opni þar með fyrir hreina afstæðishyggju, sem er móðir allrar tómhyggju:

„Ekki er óeðlilegt að þeirri spurningu sé varpað fram, hvort þessi viðurkenning á frumforsendu tungumálsins sem einkennir hugsun samtímans, geti í raun og veru verið tæmandi fyrir verkefni heimspekinnar. Þar með væri því haldið fram að hugsunin teldi að eigin verkefni væri lokið með viðurkenningunni á því sem myndar hið dýpsta inntak trúarinnar og opinberunarinnar: staðsetning logos (rökhugsunarinnar) í archè (upprunanunm). Það sem guðfræðin lýsti sem óskiljanlegt fyrir rökhugsunina er nú viðurkennt af rökhugsuninni sem frumforsenda hennar. Sérhver skilningur byggir á hinu yfirskilvitlega.“

Sini kemst að svipaðri niðurstöðu og Agamben eftir öðrum leiðum. Hann gengur í upphafi út frá þeirri forsendu að vísindi og heimspeki nútímans hafi sameiginlega komist að þeirri óumdeildu niðurstöðu að frumspekin væri ótækt tæki til að skýra raunveruleikann. Samkvæmt Aristótelesi er frumspekin sú heimspeki sem fjallar um það sem er handan hins efnilsega og áþreifanlega heims (metafýsik). Hugmyndin um meta-tungumál er samkvæmt þessu kjarninn í allri frumspeki. Sini rekur með snjöllum hætti hvenig vísindin og heimspeki nútímans hafi í sameiningu hafnað hinni frumspekilegu hugmynd um skilyrðislausan uppruna hlutanna og merkinganna (og þar með trúarbrögðunum) en láti síðan þar við sitja og haldi áfram að tala tungumáli frumspekinnar um sannleikann og réttlætið eins og ekkert sé. Þannig dregur Sini fram augljósa þversögn sem birtist í sannleikshugtaki hinnar and-frumspekilegu hugsunar okkar tíma:

And-frumspekin deilir því sérstaklega með frumspekinni að sannleikurinn og þekking sannleikans eigi að vera „algild“: það er satt sem verður áfram satt og sönn þekking er sú þekking sem segir slíkan sannleika með viðeigandi hætti. Nærð og mótuð af sögulegri reynslu sinni og sögulegum anda hefur heimspekiþekking samtímans engu að síður lýst því yfir, að hvergi og aldrei hafi sá sannleikur verið uppi sem reynst hefur varanlegur, og því beri að viðurkenna að öll þekking og allir sannleikar séu „afstæð“…And-frumspeki samtímans endurskapar í sjálfri sér þá þversögn sem hún afneitar í frumspekinni: að láta sem hún tali algilda sannleika til þess að uppgötva svo að þeir eru afstæðir. Reyndin er sú að heimspekiþekking samtímans heldur því fram að allir sannleikar séu afstæðir, til dæmis vegna þess að allt sé túlkun, og heldur þannig fram algildri fullyrðingu sem er í sjálfri sér frumspekileg. Það er fullyrðing sem ómerkir sjálfa sig í inntaki sínu (and-frumspeki sem er ekki annað en „þverstæðufull frumspeki“). Sannlerikurinn er sá að heimspekiþekking samtímans lýsir því yfir að hún vilji vera „endanleg hugsun“ og tilheyra „endanleikanum“ en hún hefur ekki hugmynd um hvað slíkt merkir, né hvernig það sé framkvæmanlegt.

Sjálfum sér samkvæmur hefur Carlo Sini gert þetta viðfangsefni að æfistarfi sínu eins og það birtist í ótrúlega viðamilklum og fjölbreyttum ritstörfum og kennslu, þar sem Opere sem telur 11 bindi (5 bindi óútkomin) og þúsundir blaðsíðna, myndar eins konar úrval og verður að teljast eitt af þrekvirkjum heimspekinnar á okkar tímum.

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

%d bloggers like this: