AGAMBEN: KENNSLUSTUND UM KANT OG HEIDEGGER

Giorgio Agamben:

Kant og Heidegger andspænis hyldýpinu

LÍNUDANSINN Á MILLI SKYNJUNAR OG SKILNINGS

Þegar ég hafði í nokkra daga legið yfir ritgerð Heideggers um das Ding, og yfir hinni snjöllu greiningu hans á krúsinni í anda hreinnar fyrirbærafræði (sjá https://wp.me/p7Ursx-1cy), þá fór ekki framhjá mér að á bak við þessa atlögu var að finna ágreining hans við Imanuel Kant og hina forskilvitlegu heimspeki hans, þar sem tekist er á um forsendur frumspekinnar og þekkingarinnar. Þá varð mér hugsað til þessarar ritgerðar Giorgio Agamben sem ég hafði nýverið lesið, þar sem hann teflir hugmyndum þessara risa í evrópskri hugmyndasögu saman á frumlegan hátt og með óvæntri niðurstöðu. Þessi ritsmíð Agambens er að forminu til fyrirlestur frá árinu 1987, sem hann flutti fyrir akademíu vegna starfsumsóknar sem háskólakennari. Fyrirlesturinn var hins vegar fyrst birtur sem viðauki í splunkunýju ritgerðarsafni sem kom út snemma á þessu ári undir titlinum „Hið ógerlega – framlag til pólitískrar verufræði“. Þegar betur er gáð þá eru settar fram í þessari stuttu ritgerð hugmyndir sem Agamben er að þróa áfram í meginefni þessa nýja ritgerðasafns.

Hin djúphugsaða greining Kants á venslum skynjunar og skilnings, á þessum landamærum sem hann glímdi við að tengja saman í því óleysanlega verkefni að leggja grunninn að „vísindalegri frumspeki“, hefur verið skotspónn hvassyrtrar gagnrýni og stundum háðs hjá sumum fulltrúum fyrirbærafræðinnar og arftaka formgerðarstefnunnar í heimspeki 20. aldarinnar, og þá ekki síst frá forvera þeirra, Friedrich Nietzsche, eins og Agamben greinir reyndar frá í fyrstu ritgerð bókarinnar „Maðurinn án innihalds“ frá 1994, og finna má hér á vefsíðunni í íslenskri þýðingu: https://wp.me/p7Ursx-3E. Þar vitnar Agamben í hvassyrta gagnrýni Nietzsche á þá „hlutlausu fullnægju“ sem hann las út úr skilningi Kants á fagurfræðilegri reynslu. Þessi „hlutlausa fullnægja“ var trúlega línudansinn á milli fortakslausrar sjálfsprottinnar skynhæfni og hinnar forskilvitlegu rökhugsunar sem Kant virðist hafa glímt við í öllum meginverkum sínum. Agamben tók undir þessa gagnrýni Nietzsche, og það virðist Heidegger hafa gert líka. En þá kemur þessi síðútkomni viðauki eins og skrattinn úr sauðaleggnum, þar sem Agamben færir rök fyrir því að hyldýpið sem Nietzsche og Heidegger horfðust báðir í augu við sem endalok formlegrar heimspeki (eða fumspekinnar sem slíkrar): það er sama hyldýpið og Kant glímdi við og olli honum æ meira hugarangri á efri árum, eins og fram kemur í eftirlátnum handritum sem hafa verið gefin út sem „Opus postumum“.

Þessi ritsmíð Agambens, sem hann segir sniðna að þeim mörkum sem hefðbundin kennslustund í háskóla setur, hefur væntanlega dugað honum sem aðgangur að þeirri „akademíu“ sem hann hefur löngu sagt skilið við. En þetta er frjó og vekjandi greining á þeim vandamálum sem Kant glímdi við fyrir 250 árum síðan og enn eru í brennideplinum. Það má sjá af öðrum ritgerðum í þessu nýja ritgerðarsafni Agambens, þar sem hann rekur vanda þessa línudans heimspekinnar á landamærum skynjunar og skilnings allt aftur til Timeusar Platons og skilning hans á hugtakinu „chora“, sem hann segir einmitt að hafi falið í sér þessa eftirsóttu samtengingu tveggj aðskildra heima. En ég hef leikið  mér í þessari glímu við að klæða þessi hugmyndatengsl höfuðrisanna í íslenskan búning undanfarna daga og sendi niðurstöður hennar nú hér á vefinn með þakklæti til Agambens fyrir að greina leynda þræði hugmyndasögu okkar um uppspretturnar. Þá naut ég þess einnig í leiðinni að lesa frábærar þýðingar Skúla Pálssonar og Viðars Þorsteinssona á bók Kants, „Forspjall að frumspeki“, þar sem erfið hugtök Kants hafa fengið að því er virðist nokkuð varanlegan íslenskan búning.

 

Giorgio Agamben:

Kennslustund fyrir umsókn um kennarastöðu

(Fyrirlestur sem próf um prófessorsstöðu 1987)
Titill: Lezione per concorso di professore associciato
Viðauki í ritgerðarsafninu „L‘irrealisabile“ – per una politica dell‘ontologia“, útgefin af Einaudi , Torino 2022.

 

Þema þessarar kennslustundar er: Kant, Heidegger og vandamál fagurfræðinnar. Ég mun þó ekki einskorða mig við sögulegt yfirlit um samband þessara tveggja höfunda, en með því að fara yfir eitt grundvallar svið fagurfræðinnar – það sem varðar birtingarmyndina/ yfirbragðið/ ásýndina (apparenza) – þá mun ég leitast við að setja fram það heimspekilega vandamál sem mér virðist vera þungamiðjan í þessu sambandi. Ásetningurinn er því að gera grein fyrir raunverulegu heimspekilegu vandamáli innan þess takmarkandi ramma sem felst í einni háskólakennslustund.

Aðalatriðið í fræðiriti Heideggers, Kant og vandamál frumspekinnar, sem hann gaf út 1929, en skrifaði á sama tíma og hann vann að Veru og Tíma, er áherslan á sjálfstæði – og í vissum skilningi forgangsstöðu – hins forskilvitlega (transcendentale) ímyndunarafls sem „frum-uppsprettu“ þekkingarinnar, ásamt með tveim öðrum Grundquellen (frumuppsprettum), skynhæfni / skynnæmi og vitsmunum (intelletto). Heidegger beitir hér því túlkunarfræðilega ofbeldi sem hann hefur oft verið gagnrýndur fyrir, með greiningu sem takmarkast við nokkrar setningar úr fyrstu útgáfu Kritik [der reinen Vernuft], setninga sem Kant hafð síðan þurrkað út eða breytt í annarri útgáfu verksins. Heidegger heldur því fram að í lokaútgáfunni hafi Kant hörfað til baka í umfjöllun sinni um þessar óþekktu uppsprettur sérhverrar þekkingar, sem opnuðust með hinu forskilvitlega ímyndunarafli. Þannig er það ekki lengur sjálfstæður þáttur, og glatar þar með sínu frumlæga eðli, er hopar fyrir rökhugsuninni eða skilningnum (intelletto) sem öðlast þar með eiginleikann að virka sem frumforsenda sérhverrar niðurstöðu (sintesi). Þessir þrír frumþættir þekkingarinnar smættast þannig í tvo: skynnæmi og skilning (sensibilità e intelletto), skynhæfnina og hið sjálfsprottna. Það hyldýpi sem hið forskilvitlega ímyndunarafl hafði opnað gagnvart rökhugsuninni lokaðist án þess að skilja eftir sig nein spor í textanum. Heidegger skrifar:

„Með hinu róttæka rannsóknarferli sínu leiddi Kant möguleika frumspekinnar fram á brún þessa hengiflugs. Hann sá hið óþekkta og varð frá að hverfa.“

Ég ætla hins vegar að reyna að sýna fram á að Kant hafi í raun og veru aldrei hætt að horfa í þessa heljargjá, að hann hafi þvert á móti tekið málið fyrir á ný í Kritik der Urteilskraft og að lokum í hinu ófullgerða verki síðustu æviáranna, þar sem hann tókst aftur á við vandann með enn skilmerkilegri og róttækari hætti.

 

Ég vildi hefja þessa greiningu mína með umfjöllun um þýska hugtakið Schein, yfirbragð, ásýnd (apparenza). Þið munið að í lok Analitica trascendentale, rétt áður Kant lýsir yfir að allir hlutir skiptist í fyrirbæri (fenomeni) og það hugsaða (skilningshugtök, noumeni), þá lýsir hann „jörð sannleikans“ eins og eyju sem er afgirt innan lokaðra landamæra og umflotin úthafi yfirbragðsins eða sýndarinnar (apparenza) á alla vegu.

„Þessi jörð“, segir hann, „er eyja innilokuð af náttúrinni innan óyfirstíganlegra landamæra. Það er jörð sannleikans, heillandi nafn umlukt óravíðu stormasömu hafi, sem er konungsríki yfirskynsins og sýndarinnar (apparenza) þar sem þokubakkar og bráðnandi ísjakar gefa sífellt til kynna hillingar nýrra landa, og blekkja linnulaust villuráfandi sæfarann með fölskum vonum um nýja landafundi, leiða hann í ævintýri sem hann fær ekki staðist og mun aldrei leiða til lykta.“

Skömmu síðar, þar sem munurinn á fyrirbærum og ímynduðum (hugsuðum) veruleika (fenomeni e noumeni) er skilgreindur, kallar Kant aftur fram „blekkingu sem illt er að varast“ (eine schwer zu vermeidende Tauschung) er ýti undir óleyfilega útvíkkun á notkun þeirra hugkvía skilningsins (intelletto) sem geta eingöngu reitt sig á skynjanlegar hugljómanir (dati dell‘intuizione sensibile), handan allra viðfanga reynslunnar.

Þetta hugtak „ásýndarinnar“ (apparenza, yfirskynsins, þess sem sýnist) og frænka þess, „blekkingin“, (illusione) koma víða fyrir, einnig í þeim „athugasemdum um tvíræðni hugtaka umhugsunarinnar (riflessione)“ sem fylgja í kjölfarið. Það er hins vegar í „Hinni forskilvitlegu Díalektík“ sem Kant skilgreinir með afgerandi hætti  hvernig viss Rökfræði ásýndarinnar (Logik der Schein) er leidd til sinna endanlegu lykta með öllum sínum ýtrustu þversögnum.  Hér verður yfirskynið, sem Kant kallar forskilvitlegt, ekki bara það sem „erfitt er að varast“, heldur nákvæmlega „óhjákvæmilegt“ (unvermeidlich). Hér skrifar Kant að hin forskilvitlega ásýnd – ólíkt hinni rökrænu ásýnd – hætti ekki að birtast okkur þótt búið sé að bera kennsl á blekkinguna. Um leið og menn hafa áttað sig á hinu rökræna yfirskyni er það horfið, en Kant skrifar:

„hið forskilvitlega yfirskyn lætur sig ekki hverfa, jafnvel þó einhver hafi afhjúpað það og sýnt fram á ógildi (nullità) þess í gegnum hina forskilvitlegu gagnrýni […] hin forskilvitlega (trascendentale) díalektík (þrætubók) gerir sér hins vegar að góðu að uppgötva yfirborðsmennsku yfirskilvitlegra (trascendenti) gildisdóma, og koma þannig í veg fyrir að þeir afvegaleiði fólk; en það þýðir aldrei að einmitt þessar birtingarmyndir (Schein) láti sig einnig hverfa og hætti að vera ásýndir, slíkt getir aldrei gerst […]  Hér erum við einfaldlega að fjalla um náttúrlega og óhjákvæmilega blekkingu.“ (Hér er Agamben að vísa í muninn á hinu forskilvitlega (transzendental) og yfirskilvitlega (transzendent) hjá Kant. Innsk. Þýð.)

Þó við séum vön að hugsa sem svo, að með afhjúpun og brotthvarfi sýndarinnar (apparenza, Schein) komi sannleikurinn í ljós, þá stöndum við hér frammi fyrir þversögn þeirrar sýndar (Schein) sem situr sem fastast, þrátt fyrir afhjúpunina, og er þannig ódrepandi. Frá þessum sjónarhóli sýnir Gagnrýnin (Kritik) sig sem vegslóði er leiði okkur stöðugt lengra inn í óleysanleg flækjustig sýndarinnar. Þar með lendir heimspekingurinn sem hinn skipreka sæfari í reynslu eigin blekkinga, sem virðist ómótstæðileg. En í hverju felst þessi sýndarreynsla? Hvernig verður sýndin til? Hvernig stendur á að hún hverfur ekki þegar hún hefur verið afhjúpuð?

Þetta er eitt af þeim atriðum sem Kant kemur oftar en einu sinni að í köflunum Transzendentale Analytik og Transzendentale Dialektik í Kritik der reinen Vernuft, þar sem hann gefur í skyn að það sem hér gerist sé, að við notum hugtakakvíar hins forskilvitlega eins og þær væru raunvísindalegar (empirico) og meðtökum þannig hið hreina viðfang skilningsins (intelletto), eitthvað almennt = X, rétt eins og það sé skilgreint viðfang. Við notfærum okkur því hugtakakvíar er hafi eingöngu hreina forskilvitlega merkingu en engin not (hafa engin merkingarmið, enga Bedeutung, eins og sagt er í dag), rétt eins og þau vísuðu í viðföng reynslunnar.

Skilningurinn (vitsmunirnir, l‘intelletto) vísa því til viðfangs eða hlutar sem ekki vísar til neins. Eina lögmæta aðferðin til að hugsa skilningshugtökin (noumeno) felst þess vegna í því að hugsa þau sem Grenzbegriff, -hugtök sem eru á mörkunum, þar sem ekkert er hugsað nema hið hreina form hugtaksins almennt. Þetta hugtak á mörkunum er líka óhjákvæmilegt, en því fylgir ekkert viðfang, nema ef vera kynni tómarými. Þá spyrjum við enn og aftur, hvers vegna ásýnd eða yfirbragð geti verið til staðar í þessu tómarými, hvers vegna óhjákvæmilegt en tómt hugtak geti framkallað jafn óhjákvæmilega sýnd? Er ekki eitthvað í þessu tómarými sem hefur farið fram hjá okkur og á sín ummerki í sýndinni?

Andspænis þessari spurningu lætur Kant sér nægja að endurtaka að „þetta gerist vegna þess að hugsunin komi á undan sérhverri mögulegri reglu er ákvarðist af framsetningunni (rappresentazione). Við hugsum hér eitthvað almenns eðlis, hins vegar greinum við það út frá skynjuninni, jafnvel þó við gerum engu að síður með þessum hætti greinarmun á þessu almenna hugtaki í sértækri (astratto) framsetningu sinni og aðferðinni við að skynja það (intuirlo). Þannig höldum við einungis einni aðferð eftir til að skilgreina viðfangið, það er að segja með hugsuninni. Okkur virðist (scheint) þetta engu að síður vera aðferð þar sem viðfangið sé til í sjálfu sér, án tillits til innsæisins sem takmarkast af skynjunum okkar.“

 

Það sem Kant skýrir ekki fyrir okkur er, hvernig þetta „hreina rökfræðilega form án innihalds“ (blosse logische Form ohne Inhalt) geti átt sér ásýnd (scheinen), birst í fullum ljóma sínum (ljóminn er einnig ein merking þýska orðsins Schein). Hvers vegna höfum við hér viðvarandi ásetning, vísun í eitthvað, þar sem ekki er um neinn hlut að ræða sem við er átt? Hvernig geta vitsmunirnir búið yfir skynhæfni (ricettività) sem virðist koma á undan þeirri sem býr í skynnæminu (sensibilità)? Ef hugsunin er ekki mötuð á neinu í þessu tilfelli, hvernig getur þá eitthvað ekkert „birst“ okkur (apparire), eitthvað rými sem er tómt? Er það sem hér birtist ekki eitthvað í líkingu við spor eða ummerki grundvallarreglu hins forskilvitlega ímyndunarafls (immaginazione trascendentale) sem uppsprettu þekkingarinnar. Þeirrar uppsprettu er búi handan klofningsins á milli skilnings og skynjunar, á milli skynhæfni og hins sjálfsprottna (spontaneità), Er þetta ekki það sem Heidegger ásakar Kant um að hafa breitt yfir í skyndingu í annarri útgáfunni af Kritik? Hvernig stendur á því að hafísinn sem er í þann mund að bráðna, og Kant hafði séð fyrir sér í staðfræðilegum upprætti sínum af jörð sannleikans, getur ekki horfið?

Ég vildi reyna að svara þessari spurningu fyrst með því að vísa í flokkunartöflu hinna tómu hugtaka, sem Kant birtir í lok Transzendentale Analytik -kaflans. Þessi tafla er sett upp eins og ein af þessum  gömlu skólabókaræfingum sem virðast ekki kalla fram neinn umhugsunarvanda. Kannski er þetta einmitt ástæða þess að Heidegger staðnæmist við þessa töflu, en hugtakið um tómið (ekkert /nulla) er mikilvægt í allri hugsun hans. Engu að síður er það svo, að í birtingarleysi sínu (inapparenza) sinni felur þessi tafla í sér afgerandi vandamál. Kant gerir greinarmun á fjórum skilgreiningum tómsins, tveim sem kalla mætti jákvæðar og tveim neikvæðum.

Númer 2 og 4 fela ekki í sér nein vandamál: Nihil privativum er einfaldlega neikvæðið, eða „hugtak skortsins á viðfangi, eins og skugginn eða kuldinn“. Nihil negativum er viðfang tiltekins hugtaks sem er í mótsögn við sjálft sig, eins og „bein lína tveggja hliða“. Við þurfum hins vegar að staðnæmast við 1 og 3, þessi Ens rationis (hugsaðir hlutir) og  Ens imaginarium (ímyndaðir hlutir), sem skipta Kant greinilega miklu máli. Það fyrra er hugtak sem á sér ekkert sambærilegt viðfang, en það á við um hlutinn í sjálfum sér og hið huglæga viðfang eða hugtak (noumeno). Dæmi um ens imaginarium eru hins vegar hið hreina rými og hinn hreini tími, einföld form innsæis (intuizione) án efnis (sostanza). Kant segir að hin fyrri séu leere Begriffe, tóm hugtök þar sem ekkert er í raun og veru hugsað, hin seinni eru leere Data zu Begriffen. Þessi síðasta yrðing „innantóm gögn handa hugtökunum“ er svo einstök, að hinir ítölsku þýðendur ritsins frá 1910, Giovanni Gentile og Giuseppe Lombardo Radice, lentu í þýðingarvillu sem hefur af mikilli þrjósku hlotið framhaldslíf í öllum nýrri og endurskoðuðum útgáfum. Þeir hafa sem sagt þýtt svona: „vuoti dati di concetti“ (tóm gögn af hugtökum). Andspænis þversögninni að færa hugtökunum og hugsuninni tómeins og þýski textinn segir óumdeilanlega – þá hafa þýðendurnir stigið skrefið til baka og hörfað frá heljarbrún hins forskilvitlega ímyndunarafls eins og Heidegger kemst að orði.

Hér blasir við óleystur vandi þessara tveggja ímynda tómsins (nulla). Hvernig getum við hugsað þessa gjöf tómsins, að færa tómið til ens imaginarium (veru ímyndanna)? Og þegar kemur að ens rationis, (veru rökhugsunarinnar), hvað hugsar sú hugsun sem hugsar ekkert? Hér höfum við annars vegar móttökuskilyrði, innsæi, sem færir okkur einungis tómið, hins vegar sjálfsprottna hugsun (spontaneità) þar sem ekkert er hugsað.

Hin nauðsynlega eining tveggja Grundquellen (frumuppsprettna), þessara tveggja upprunastaða þekkingarinnar, skyngeta (ricettività) og sjálfsprottið fyrirvaraleysi (spontaneità), sem mynda grunnþátt Kritik, virðast hér bresta í tvennt. Engu er líkara en að í þessu broti opnist neikvæð mynd þriðja upprunastaðar þekkingarinnar: þess forskilvitlega ímyndunarafls (immaginazione tranzscendentale), sem var þurrkuð út í seinni útgáfu Kritik. Þannig fengist enn ein staðfesting á túlkun Heideggers á Kant: á undan skyngetunni og rökhugsuninni finnum við skyngetu sem stendur ekki fyrir neitt, rétt eins og við höfum hugsun sem hugsar ekkert. Það er í þessu tómi sem hin óslökkvanlega sýnd eða yfirbragð hinnar forskilvitlegu díalektíkur hangir.

 

Ég hefði viljað sýna fram á að Kant hafi í raun og veru aldrei hætt að spyrja sjálfan sig um stöðu þessara tveggja ímynda tómsins, og hvernig hugsun hans síðustu árin hafi þvert á móti snúist æ meir um þennan vanda og orðið að ástríðufullri áráttu. Áður en við könnum endurupptöku málsins í Opus postumum  (Eftirlátin skrif), vildi ég staldra stuttlega við nokkrar setningar í kafla Kritik der Urteils sem ber titilinn Analytik des Erhabene (Greining hins háleita). Ég kýs þennan kafla því vandinn birtist þar í sérstaklega afgerandi setningum, en ég held að allt þriðja Kritik -ritið (Kritik der Urteils) bjóði upp á lestur í þessa átt.

Kant skilgreinir hið háleita (Þýska: Erhabene, ítalska: sublime) sem framsetningu

„sem fær hugann eða skaphöfnina (animo) til að hugsa, eins og í hugmyndasýningu, ómöguleika þess að höndla náttúruna“

og hann gætir þess að taka fram, að allt frá þeirri stund þegar hugmyndirnar verða með engu móti sýndar, verði átökin við myndasmíðina óhjákvæmilega unnin fyrir gýg. En svo bætir hann við:

„Þessi áreynsla og tilfinningin fyrir getuleysi hugmyndarinnar andspænis því verkefni að höndla náttúruna […] knýr okkur til að hugsa sjálfa náttúruna í heild sinni með huglægum hætti (soggettivamente) eins og sýningu einhvers yfirskynvitlegs (soprasensibile), án þess þó að þessari sýningu verði komið til skila með raunvirkum hætti“.

Við upplifun hins háleita – að því gefnu að hér sé hægt að tala um reynslu –  getum við sagt að ímyndunaraflið hafi verið leitt út fyrir eigin mörk, en í þessu átaki „finnur það engu að síður ekkert handan hins skynjanlega sem það getur hengt sig á“. Kant leggur ítrekað áherslu á að „hér hafi skynfærin ekkert á milli handanna“. Hin háleita sýning er þannig að öllu leyti neikvæð: hún sýnir í raun og veru ekkert. Í tiltölulega nýlegri umfjöllun um Greiningu hins háleita hitti Jean-Luc Nancy naglann á höfuðið þar sem hann skrifaði:

hér á tiltekin framsetning (presentazione) sér stað, en hún sýnir ekkert. Hin hreina framsetning er, sem sýning (presentazione) á sjálfri sýningunni, framsetning einskis.“

(Nánari útlistun þessarar hugsunar er að finna í hinni snjöllu grein Nancy Vegsummerki listarinnar í ísl. Þýðingu á hugrunir: https://wp.me/p7Ursx-eh)

Ég held að þessi athugasemd, sem kallar á skáletrun, geri okkur kleift að afhjúpa hliðstæðuna sem er á milli hins háleita og þess að „darsi di un vuoto“ (að gefa sér tiltekið tóm) í ens imaginarium. En hér gerist það enn einu sinni, að Kant skýrir ekki til fulls hvernig hægt sé að hugsa sýningu (esibizione) sem er fullkomlega neikvæð.

 

Í Opus postumum er þetta vandamál, sem skilið er eftir óleyst í Kritik, tekið fyrir á ný, og ef vandinn er ekki leystur þar, þá er í það minnsta boðið upp á hina ýtrustu og meðvituðustu framsetningu hans. Hér þarf að hafa nokkur orð um þetta ófullgerða verk, sem Kant talar stundum um sem sitt mikilvægasta verk. Það hefur hins vegar fengið eins konar Öskubuskuhlutverk meðal höfuðverka hans. Þó verkið hafi fengið vandaða heimildaskrá, þá er hún ekki tæmandi. Við eigum eina ítalska þýðingu undir umsjón Vittorio Mathieu í XXI og XXII bindum af Academie Ausgabe, sem hefur þann stóra kost að hafa sett kerfisbundið saman hið ruglingslega efni handritanna. Með því að beina túlkun sinni fyrst og fremst að vandamálinu sem varðar skrefið frá frumspekinni til raunspekinnar (dalla metafisica alla fisica) kom Mathieu hins vegar í veg fyrir að hann gæti náð utan um allar hliðar þessa ýtrasta átakaverks Kants.

Hér gengur Kant einmitt út frá þeim leere Data (tómu gögnum), þessari tómu áfyllingu hugtakanna, sem er til umræðu í ens imaginarium (veru ímyndananna), það er að segja út frá þessu hreina rými og þessum hreina tíma og þeim hugtökum sem virðast tóm, út frá því sem við köllum noumeno og eru áhersluhugtök sem tilheyra eternum og efninu og verða ekki sannreynd, jafnvel þótt eðlisfræði hans samtíma hafi gengið út frá tilvist þeirra. Kant hugsar þannig þessa uppskiptingu þekkingarinnar aftur út frá tveim grundvallar uppsprettum sem voru mikilvægustu meginforsendur Kritik-verkanna. Í fyrri uppsprettunni er viðfangið gefið, í þeirri seinni er það hugsað út frá framsetningunni (rappresentazione). Kjarni gagnrýninnar fólst í því að þekkingin gæti ekki sprottið nema af einingu þessara tveggja frumlægu uppsprettna. En nú spyr Kant sjálfan sig: hvernig getur þessi „tóma ágjöf“ (vuoto darsi) átt sér stað í ens imaginarium, í hinu hreina rými og hinum hreina tíma? Hvernig getur tóm hugsun verið til? Hvað á sér stað í móttöku (ricettività) án viðfangs og í hinu sjálfsprottna tómi? Hreint rými og hreinn tími, noumeno (hið hugsaða), efnið og aðdráttaraflið, fá hann til að horfast í augu við tilkall til þeirrar veru (pretesa di cosnsistenza) sem ekki verður lengur útilokuð með hugmyndinni um Schein, um hina forskilvitlegu birtingu. Þessi hugmynd er reyndar algjörlega afskrifuð í Opus postumum, nema í einu atriði, þar sem hún víkur fyrir nýju hugtaki, sem að okkar mati skiptir meginmáli í allri túlkun á síðustu verkum Kants: hugtakið „Erscheinung einer Erscheinung“ eða fyrirbæri fyrirbærisins, birting sjálfrar birtingarinnar.

Með nánast áráttukenndri ákefð fer Kant að setja spurningarmerki við reglu hins hreina rýmis og hreina tíma, sem virtist endanlega fastbundin í Kritik-bókunum. Eitt dæmi af fjölmörgum nánast samhljóma í bindunum VII og XI:

„Tími og rými eru ekki viðföng innsæisins (intuizione). Ef svo væri, væru þau reyndar raunverulegir hlutir og kölluðu hvort um sig á annað innsæi, þar til við gætum sett þau fram sem viðföng (oggetti), og þannig áfram í hið óendanlega. Innsæið er ekki skynjun þegar það er HREINT, því það kallar á öfl sem skilgreina merkinguna. Hvernig getur það annars gerst, að innsæið setji sér samtímis reglur fyrir skynjunina, til dæmis hvað varðar aðdráttarafl himintunglanna? [Rými og tími eru ekki viðföng innsæis], heldur huglæg (soggettive) form sjálfs innsæisins, þar sem þau hafa að geyma reglu fyrir fram samantekinna fullyrðinga (proposizioni sintetiche a priori) og möguleika forskilvitlegrar heimspeki (filosofia trascendentale): fyrirbæri á undan öllum skynjunum (Erscheinungen vor allen Wahrnemungen)“.

Ég vildi vekja athygli ykkar á þessari þverstæðufullu fullyrðingu, sem væri merkingarlaus á forsendum Kritik-bókanna: „fyrirbæri á undan öllum skynjunum“. Hér er um að ræða fyrirbærafræðilega vídd er kemur á undan allri hlutlægri reynslu, rétt eins og eitthvað í líkingu fyrirbæris gæti gefið sig fram á undan hinni skynjanlegu reynslu, á undan sjálfum fyrirbærunum. Það er ekkert lát á ábendingum sem þessum, að rýmið og tíminn séu ekki bara form innsæisins, heldur séu þau sjálf innsæi, jafnvel þó ekki sé ljóst hvað það sé í þeim sem tilheyri innsæinu. Sem hreint innsæi eru þau samkvæmt skilgreiningunni án viðfangs, jafnvel þó við lítum á þau sem eins konar efni. Þannig getur Kant skrifað eftirfarandi um hið tóma rými: „Ekki getur verið um að ræða neina reynslu varðandi hið tóma rými, né heldur neitt innsæi gagnvart viðfangi þess. Ég þarf á innflæði (influsso) einhvers efnis á skilningarvit mín að halda til að geta meðtekið upplýsingar um tiltekið efni. Af þessu leiðir að setningin „það er tómt rými“ getur aldrei verið fullyrðing sprottin af reynslunni, hvorki beinni né óbeinni, heldur er hún eingöngu rökhugsuð (raziocinato).

Vandamálið sem Kant er hér að takast á við er reglan um þessa upprunalegu uppsprettulind þekkingarinnar, sem virtist ekki skapa neinn vanda í Kritik-bókunum. Hvernig er hægt að gefa sér eitthvað sem „uppsprettu“ og hvernig er hægt að hugsa hreina móttöku, það er að segja fyrirbæri er kemur á undan öllum fyrirbærum? Ef tíminn og rýmið sem ímyndaðar verur (enti) eru hreint tóm (nulla), einfalt rökfærslutóm (vacuo raziocinico), hvernig stendur þá á því að þau eru ekki lengur tóm, en bjóða hins vegar upp á skynjunarreglur sambærilegar við efnið og aðdráttaröflin?

Sem svar við þessu heldur Kant fram tilvist etersins með miklum sannfæringarkrafti í Opus postumum, það er að segja tilvist fulls og skynjanlegs rýmis, eins konar efnis er sé forveri sérhvers skynjanlegs hlutar og liggi til grundvallar allri mögulegri reynslu. Tilvist etersins er með engu móti reynsluskilyrt staðreynd, en þrátt fyrir það ekki heldur einföld tilgáta. Eterinn er með einhverjum hætti birting sem er óhjákvæmileg, algjörlega nauðsynleg ens rationis (rökhugsuð vera) þar sem eitthvað er ekki bara einfaldlega hugsað, heldur gefur sig hugsuninni á vald án þess að upplifun komi til. Með orðalagi, sem frá sjónarhóli Kritik-­verkanna væri hrein fásinna, skrifar Kant að eterinn sé „rými gert skynjanlegt en ekki gefið skynfærunum heldur hugsuninni.“

Þannig er eitthvað sem gefur sig með tómri gjöf hins hreina rýmis og tíma sem entia imaginaria (vera ímyndunarinnar), rétt eins og þær entia rationis (verur rökhugsunarinnar) sem eru hlutir í sjálfum sér, eter og efni. Hvað er hér á seyði?

Það er hér sem Kant tekst á við hugmyndina um „fyrirbæri fyrirbærisins“ (fenomeno del fenomeno / Erscheinung einer Erscheinung), sem mig langar til að skýra betur innan mögulegra marka.

Þegar við tölum um rýmið eða tímann sem hreint innsæi, um eterinn sem hreint rými gert skynjanlegt, eða þegar við tölum um hlutinn í sjálfum sér, þá erum við ekki að tala um fyrirbæri (fenomeni) heldur um þann hátt sem sjálfsveran (soggetto) er snortin með, ekki af hlutnum, heldur af sjálfri sér, af sínum eigin móttökuskilyrðum. Kant skrifar:

„fyrirbæri fyrirbærisins er framsetning (sýning / rappresentazione) aðferðarinnar (formale) sem einstaklingurinn (soggetto) beitir á sjálfan sig þar sem hann verður sjálfur sitt eigið viðfang“.

Á annari örk getum við lesið að „fyrirbæri fyrirbærisins er fyrirbæri einstaklingsins (soggetto) límt við (afficiente) hann sjálfan“.

Það sama er endurtekið varðandi hlutinn í sjálfum sér, sem Kant gefur skilgreiningu sem hljóðar undarlega í ætt við Nietzsche:

„Hluturinn í sjálfum sér er ekki annað viðfang, heldur önnur tengsl framsetningarinnar við sama hlutinn […] Ens rationis = X er staða sjálfsins samkvæmt reglu samsemdarinnar (identità), þar sem sjálfsveran er hugsuð sem áfest (afficiente) sjálfri sér, og er því að forminu til einungis fyrirbæri.“

Grunnforsenda þess að gefa sér hrein móttökuskilyrði (ricettività) er sjálfselska (autoaffezione). Hin frumlæga uppspretta þekkingarinnar er fyrirfram gefin og óumdeilanleg – og þetta er nýmælið í Opus postumum – hún hefur í grunni sínum form sjálfselsku sem kemur heim og saman við sjálfan möguleika þekkingarinnar.

 

Kannski getum við nú reynt að svara þeirri spurningu sem hefur verið margítrekuð hér í þessari kennslustund, og varðar hina tómu gjöf ens imaginarium (veru ímyndunarinnar) og hina tómu hugsun ens rationis (veru rökhugsunarinnar). Það sem er gefið í þessari tómu gjöf, það sem er hugsað í þessari tómu hugsun, er hrein sjálfselska (autoaffezione). Með henni er sjálfsveran fangin (affetto) af sjálfri sér, má þola eigin móttækileika (ricettività) og „fangar“ (appassiona) sjálfa sig í málsögulegum skilningi ítalska hugtaksins, hún finnur til sín, gefur sjálfri sér og opnar sig um leið gagnvart umheiminum. Ein setning í Opus postumum tjáir eðli þessarar frumlægu gjafar með orðalagi þar sem merking hinnar kantísku kennisetningar um tvær uppsprettur þekkingarinnar er fullkomlega ummynduð (trasfigurato):

„Þekkingin felur í sér innsæi og hugtak: að ég sé sjálfum mér gefinn og hugsaður af mér sjálfum sem viðfang. Eitthvað er til, ég er ekki einfaldlega rökfræðilegt viðfang og umsögn, heldur líka viðfang skynjunar, dabile, non solum cogitabile. (gefanlegt, ekki bara hugsanlegt).

Í hinni hreinu sjálfshrifningu, í þessari gjöf sjálfsins til sín sjálfs, falla þessar tvær upprunalegu uppsprettur þekkingarinnar saman eins og hönd í hanska. Hið hreina afskiptaleysi (passività) og hið hreina sjálfsprottna fyrirvaraleysi (spontaneità) falla saman í ástríðu á eigin sjálfi. Ein tilvitnunin staðfestir þetta svo ekki verður um villst: Afstaða og skynjun, sjálfsprottið fyrirvaraleysi (spontaneità) og skynfærni (ricettività), hlutlæg og huglæg tengsl eru eins (zugleich), vegna þess að þau eru eitt og hið sama (identici) sem fyrirbæri þess hvernig sjálfsveran (soggetto) verður fangin (affetto), og eru þannig fyrir fram gefnir þættir sama gjörningsins“. Það er þessi sjálfshrifning (autoaffezione), þessi tilkoma sömu birtingarinnar sem er hyldýpið sem þessar tvær uppsprettur þekkingarinnar hrapa saman ofaní í einingu sinni.

Ef við hugum nú að hugtakinu um þá óslökkvandi birtingu sem við gengum út frá í upphafi, þá sjáum við að það sem fyrsta Kritik-verkið kynnti til sögunnar sem blekkingu verður hér að þeirri sjálfshrifningu sem er frumlægari en sjálfsprottið fyrirvaraleysið og skynhæfnin og verður því undirstaða sérhverrar þekkingar. „Fyrirbæri fyrirbærisins“ endurómar aðra tilvitnun svo ekki verður um villst: „birtingin, það er yfirbragðið (die Apparenz, das ist der Schein)“

Birtingin var þannig raunverulega óslökkvandi: sæfarinn getur aldrei náð endastöð hennar, því í henni er fólginn sjálf uppspretta þekkingarinnar, hin hreina gjöf sjálfsverunnar til sjálfs sín. Staðfræði eyju sannleikans er virkilega flóknari en virtist í fyrstu. Túlkun Heideggers, sem leitaði í hinu forskilvitlega ímyndunarafli að frumlægari opnun, hitti þannig í mark; en það var augliti til auglitis við hyldýpi þessarar uppsprettu. Kant hefur alls ekki snúið sér undan, þvert á móti sneri hann aftur síðustu árin til þess að horfast í augu við þetta hyldýpi í allri sinni þversagnakenndu mynd (aporeticità). Og ég held að aðeins þetta mótsagnakennda hugtak hinnar upprunalegu sjálfsástríðu, þar sem ekkert er afhent sem gjöf annað en sjálf afhendingin, gæti fært okkur á hinn rétta stað þeirrar fagurfræði sem vildi hugsa Kant og Heidegger saman með róttækum hætti.

 

 

 

 

NOKKRAR ORÐASKÝRINGAR

A Posteriori (eftir á)

Animo (Gemut, skap, viðbrögð móttekins áreitis)

Aporeticità Mótsögn, þversagnarfull framsetning.

Apparenza, apparire, parvenza (Schein, Erscheinung, die Apparenz, birting, ásjóna, ásýnd, sýn

Categoria (hugtakakví, hugkví)

Denotazione (Bedeutung, merking, vísbending))

Ens imaginarium (ímyndaður hlutur, hjá Kant tómt innsæi án viðfangs,“)

Ens rationis (rökhugsun, hjá Kant „tómt hugtak án viðfangs“ t.d. „hluturinn í sjálfum sér“, noumeno)

Fenomeno (Erscheinung, fyrirbæri, „skynrænar skoðanir“ samkvæmt K.)

Intuizione (Anschauung, beint og milliliðalaust innsæi)

Influsso (Einfluss, hjá Kant, kenningin um að hlutir geti haft milliliðalaus gagnkvæm áhrif sín á milli)

La cosa in sé (Das Ding an sich, hluturinn í sjálfum sé, utan mannlegs innsæis eða áhorfs, hluturinn sem eigið viðfang.)

Noumeno (viðfang hreinnar hugsunar (gríska nous), en „hrein hugsun“ er samkvæmt K. hrein af allri skynjun.)

Percezione (Wahrnehmung, skynjun)

Raziocinata (Schluss, sillogismo, rökhenda, röksemdafærsla)

Ricettività (Empfänglichkeit, Skynhæfni, skyngeta, móttökuhæfni)

Sensibilità (skynhæfni skynnæmi)

Spazio (Raum, rými, Það form innsæisins sem maðurinn notar til að staðsetja og skipuleggja „ytri“ skynjanir. Rýmið er ekki tilkomið af „ytri skynjun“, heldur er það fyrir fram tilkomin framsetning sem forsenda allrar ytri skynjunar mannsins samkvæmt K.

Spontaneità (Spontaneität, fortakslaus sjálfsprottin virkni sem býr í þekkingu mannsins samkvæmt K.)

Sublime (Hið háleita, das Erhabene, lýsing á getuleysi og vanmætti mannsins andspænis yfirgnæfandi ógnarvaldi náttúrunnar sakmvæmt K.)

Trascendentale (transzendental): Forskilvitlegur. Forskilvitlegt er það sem vísar til forgjafar tiltekinnar forsendu sem býr handan mögulegrar reynslu eða skynjunar.

„Ég kalla alla þá þekkingu forskilvitlega sem snýr ekki að hlutunum, heldur að þeirri aðferð þekkingaröflunar sem við beitum gagnvart hlutunum þar sem þessi aðferð þarf að vera fyrir fram möguleg.“

„Hin forskilvitlega heimspeki tekur nafn sitt af mörkum hins yfirskilvitlega og af þeirri hættu sem vofir yfir henni að falla ekki bara í hið yfirskilvitlega (űbersinnlich), heldur í það sem enga merkingu hefur.“

Trascendente (Transzendent, űbersinnlich, űberschwenglich ): Yfirskilvitlegur

Yfirskilvitlegt ar það sem býr handan allrar mögulegrar reynslu. Þetta orð hefur ekki sömu merkingu og transcendentale… sú regla sem afnemur mörk mögulegrar reynslu og hvetur til að yfirstíga þau. Andstæða þessa hugtaks er „immanente“, sem notað er um beina og milliliðalausa reynslu.

Wahrnemung : Skynjun

Vouto (leer, tóm án rýmis og tíma samkvæmt K.)

 

HVAÐ ER MÁLVERKIÐ? (fyrri hluti) – Jacques Lacan

Í XI. Námskeiði sínu um sálgreiningu (frá 1964) fjallar Jacques Lacan meðal annars um málaralistina og virkni sjónskynsins með afar frumlegum og áhrifaríkum hætti. Þetta er þó einungis einn þáttur þessa námskeiðs, sem hefur yfirskriftina „Fjögur grundvallarhugtök sálgreiningarinnar“. Það má segja að þessi texti sé ekki auðlesinn, en það á sínar skýringar. Námskeið Lacans voru haldin fyrir nemendur sem voru að búa sig undir að starfa sem sálgreinar, innan þeirrar greinar læknisfræðinnar sem byggir á lækningarmætti hins talaða orðs. Lacan skrifaði ekki texta sinn sjálfur, heldur var hann færður á ritað mál af Jacques-Allain Miller, sem var einnig sálgreinir og tengdasonur Lacans. Hér er því um munnlega frásögn að ræða, og það sést á textanum. Hann er vissulega óvenjulegur, og kallar á vandaðan lestur. Þá er þýðing þessa texta yfir á íslensku ekki síður vandasöm. Það er nánast ógerningur að koma frönsku talmáli til skila á íslensku, og þegar við bætist að kunnátta mín í frönsku er afar takmörkuð, þannig að ég þurfti að reiða mig á ítalska þýðingu Sciana Loaldi og Irène Molina (frá 1979). Það skapar nýtt flækjustig. Ég hef hins vegar lagt mig eftir að reyna að skilja orðræðu Lacans efnislega, og þannig trúlega fært mál hans nær íslensku ritmáli en frönsku talmáli.

Þeir tveir kaflar sem ég birti nú hér á vefsíðu minni eru tveir af fjórum sem bera yfirskriftina Áhorfið sem viðfangið a í Seminari XI. Þetta er óskiljanleg yfirskrift fyrir þá sem ekki hafa fyrir fram þekkingu á hvað „viðfangið a“ merkir í sálgreiningu Lacans. Það kostar langa yfirlegu í umfjöllun hans um langanir mannsins og ímyndanir, þar sem þetta viðfang verður eins konar staðgengill óuppfylltra langana mannsins. Það verður ekki skýrt frekar hér, en þessi tiltekni vandi er einkennandi fyrir alla nálgun nýrra lesenda að höfundarverki Lacans: hugmyndheimur hans er í senn ótrúlega ríkur og ótrúleg flækja í allri framsetningu, og af minni reynslu kostar það margra mánaða vinnu að setja sig inn í hugsunargang Lacans og hugtakasmíð hans, hugmyndaheim sem var í stöðugri þróun á þeim aldarfjórðungi sem hann vann að Námskeiðunum. Mín reynsla er allavega sú að það kemur enginn samur út úr glímunni við Lacan. En hann leit ekki á sjálfan sig sem læriföður í þeim skilningi að hugmyndir hans væru fastmótaður „skóli“, miklu frekar eru þær fóður fyrir hugann til frekari rannsóknar á furðum mannlegrar tilveru.
Jacques Lacan:
SEMINAR XI
(Fjögur grundvallarhugtök sálgreiningarinnar)

 

Hvað er málverkið?

 

VIII. Kafli

Línan og ljósið

 

Löngunin og myndin. – Saga af sardínudós. – Skermurinn. – Hermilistin. – Líffærið. – Þú horfir aldrei á mig frá mínum sjónarhóli.

 

Virkni augans getur leitt þann sem reynir að upplýsa ykkur í langa rannsóknarleiðangra. Til dæmis með spurningunni hvenær kemur þetta líffæri til sögunnar í sögu tegundanna?

Kjarnann í reynslu okkar er að finna í sambandi hugverunnar við líffærið. Meðal allra þeirra líkamsparta sem málið snýst um, allt frá brjóstunum og hægðunum  o.s.frv., höfum við augað, og það er sláandi þegar við hugsum til þess hversu löng tilvera þess er í sögu tegundanna, allt frá tilkomu lífsins á jörðinni. Trúlega borðið þið öll ostrur með bestu samvisku án þess að vita að þegar á þessu þróunarskeiði dýraríkisins var augað til staðar. Það á vel við að minna á, að djúpar vangaveltur af þessu tagi bjóða upp á óvæntustu þekkingarsvið. Engu að síður er það einmitt í þessari þekkingaróreiðu sem okkur ber að velja og hafna og draga fram einmitt það sem vekur áhuga okkar.

Ég held að umfjöllun mín í síðasta fyrirlestri hafi dugað til að vekja áhuga ykkar á þessari litlu skýringarmynd þríhyrninganna sem er sára einföld og ég hef dregið hér upp á töfluna:

[Oggetto = hlutur, viðfang. / Immagine = mynd. / Punto geometrale = rúmfræðilegur útgangspunktur. / Punto luminoso = ljósfræðilegur útgangspunktur. / Schermo = skermur. / Quadro = málverk.]

Hún þjónar eingöngu þeim tilgangi að minna ykkur á þrjú hugtök sem ljósfræðin notar í þessu dæmi sjónskynsins, og vitna um öfuga virkni fjarvíddarinnar, þessa hugtaks sem hefur ráðið ríkjum í tækni málaralistarinnar sem mælikvarði á nákvæmni hennar allt frá 15. öld og alla 16. og 17. öldina. Myndbrenglunin (anamorfosi) sýnir okkur að í málverkinu snýst málið ekki um að framkalla raunsæislega eftirlíkingu hlutarins í rýminu, – orðalag sem reyndar er umdeilanlegt.

Þessi litla skýringarmynd gerir okkur líka kleift koma auga á að viss ljósfræði (optik) felur fyrir okkur atriði sem tilheyra eðli sjónskynsins.

Þessi ljósfræði er hinum blindu auðskilin.  Ég hef bent ykkur á Bréf Diderots, þar sem skýrt er hvernig hinn blindi sé fullfær um að gera sér grein fyrir öllu því sem sjónin segir okkur um rýmið. Hann getur endurmótað það, ímyndað sér það og komið orðum að því. Augljóst er að Diderot býr til viðvarandi misskilning með frumspekilegum meginforsendum sínum, en slík tvíræðni lífgar bara upp á texta hans og gerir hann beittari.

Fyrir okkur leyfir vídd rýmisins (geometríunnar) okkur að sjá í gegnum það hvernig sú hugvera sem gerist þátttakandi  er hrifin, hvernig henni er stýrt og plantað niður á vettvang sjónsviðsins.

Hans Holbein: Sendiherrarnir, 1533

Ég benti ykkur  strax á það í málverki Holbeins -án þess að fela meira en það sem bakgrunnurinn gerir venjulega – hvernig þessi sérstæði hlutur svífur í forgrunninum, að þar sé áhorfið sem ef svo mætti segja veiði áhorfandann í gildru sína, og við erum áhorfandinn.

Hér er um úthugsaða yfirlýsingu að ræða, sem á sér vafalaust enga hliðstæðu og á sér óþekkta bakþanka frá hendi málarans.

En myndin sýnir svo ekki verður um villst hvernig við sem áhorfendur erum nánast bókstaflega hrifin inn í myndina og því sýnd um leið sem hinn handsamaði.

Leyndardómur þessa hrífandi málverks sem ég benti ykkur á að ætti skyldleika við vanitates-myndhefðina (myndefni forgengileikans -nature mort) og sýnir okkur allt það sem á tíma myndarinnar gat talist til forgengileika vísindanna og listanna, sett fram á milli tveggja prúðbúinna og uppstilltra manna. Leyndardómurinn felst í því að þegar við fjarlægjumst myndina hægt og rólega til vinstri  og snúum okkur síðan að henni, þá  áttum við okkur skyndilega á hvað þetta svífandi furðufyrirbæri fyrirstillir.  Það endurspeglar okkar eigið tóm í mynd hauskúpunnar. Hér er þannig gripið til hins rýmislega (geometríska) útgangspunkts sjónarinnar til þess að hrífa áhorfandann, augljós tengsl við löngunina sem engu að síður er áfram ráðgáta.

„Anamorfosa“ eða Myndskekking í málverki Holbeins séð með ljósmyndavél frá ólíkum sjónarhornum .

En hvaða löngun er það sem hér er hrifin inn í myndina og fest þar, en verður listamanninum um leið tilefni til að setja eitthvað inn í verkið, og hvað er það eiginlega? Þetta er slóðin sem við ætlum nú að reyna að rekja.

I

Þegar við hugleiðum sýnileikann verður allt að gildru með einstökum hætti -eins og Maurice Merleau-Ponty benti réttilega á með einu kaflaheitinu í bókinni Hið sýnilega og ósýnilega, sem hann nefndi entrelacs eða samfléttur. Ekkert á sviði sýnileikans, engin þeirra tvöföldu hliða sem virkni sjónskynsins býður okkur upp á, er ósnortið af flækjustigi völundarhússins. Þegar við höfum smám saman greint í sundur hin ólíku svið sýnileikans uppgötvum við jafnóðum hvernig þau samfléttast aftur.

Á því sviði sem ég hef kallað hið geometríska eða rúmfræðilega svið virðist í upphafi sem það sé ljósið sem veitir okkur þráðinn, ef svo mætti segja. Þið sáuð í síðasta fyrirlestri hvernig þessi þráður tengist sérhverjum punkti viðfangsins og hvernig þráðurinn sker netskerminn sem við notum til að höndla myndina, þetta virkar allt eins og beinn þráður. Þarna framlengir ljósið sig eftir beinni línu eins og um línuás væri að ræða. Það er engu líkara en að ljósið færi okkur þráðinn.

Hugleiðið hins vegar að þessi þráður hefur enga þörf fyrir ljósið til þess að vera þráðbein lína. Þar liggur ástæða þess að hinn blindi getur fylgst með öllum sýnitilburðum okkar, að því tilskyldu að við leggjum okkur fram. Við getum látið hann snerta tiltekinn hlut í ákveðinni hæð, síðan fylgja hinum strengda þræði, við getum kennt honum hvernig hann getur með fingursnertingunni þreifað á tilteknu yfirborði, skilgreint tiltekna formgerð sem endurgerir staðsetningu myndanna alveg á sama hátt og gerist í hreinni sjónfræði þar sem hlutir, sem eru eins en í ólíkum hlutfallsstærðum, samsvari ólíkum stöðum í rýminu, sem þýðir alltaf að við festum tvo punkta á sama þráðinn. Slík myndbygging gefur okkur því engin færi á að miðla sérstaklega því sem ljósið opinberar okkur.

Albrecht Durer: Að teikna mandólín. Skýringarmynd um fjarvíddartækni, 1525

Hvernig eigum við þá að höndla það sem virðist ganga okkur úr greipum við þessa ljósfræðilegu byggingu rýmisins? Það er þetta sem hefðbundin röksemdafærsla byggir á. Heimspekingarnir hafa -allt fram að Allain,  nýjasta meistaranum í snilldarlegum æfingum sínum – horft til Kants og alla leið til Platons til að skella skuldinni á meinta blekkingu sjónskynsins. Og allir sýna þeir vald sitt á æfingunni þar sem þeir benda á að skynjunin finni hlutinn þar sem hann er, og að birtingarmynd teningsins sem samsíðungs sé nákvæmlega  samkvæmt rýminu sem liggur til grundvallar skynjunar okkar og geri að verkum að við skynjum hann sem tening. Allur leikurinn, snilldarlausn klassískrar þrætubókar (dialettica) á skynjuninni, felst í því að hún snýst um hina rúmfræðilegu sjón flatarmálsfræðinnar, það er að segja um þá sjón sem er staðsett í rými sem í kjarna sínum er ekki rými sjónskynsins.

Kjarnann í sambandinu á milli birtingarinnar og verunnar, sem sá heimspekingur er sérhæfir sig í   sjónskyninu þykist hafa svo kyrfilega á valdi sínu, þennan kjarna er hins vegar annars staðar að finna. Hann felst ekki í þessari beinu línu, hann er að finna í ljóspunktinum, punkti útgeislunarinnar, eldsins, blikandi glampa endurspeglunarinnar. Það er alveg ljóst að ljósið fer eftir beinni línu, en það brotnar, breiðist út, fyllir – við skulum ekki gleyma skálinni sem auga okkar er – fer líka út fyrir barmana, og þegar kemur að skál augnanna þarf það á alls kyns líffærum að halda, tækjum og varnartólum. Lithimnan meðtekur ekki bara fjarlægðirnar, heldur líka birtuna og þarf að verja það sem er í skálarbotninum og gæti við sérstakar aðstæður skaðast af ljósinu. Andspænis of sterku ljósi eru augnlok okkar líka kölluð til að blikka og skreppa saman í þekktum andlitsdráttum.

Svo er það ekki bara augað sem býr yfir ljósnæmi. Allt yfirborð húðarinnar og ýmislegt sem kann að leynast undir yfirborði hennar getur búið yfir ljósnæmi og þetta ljósnæmi getur ekki einskorðast við sjónina. Til er sérstök risskennd mynd af ljósnæmum líffærum sem við getum séð í húðblettum og freknum. Í auganu eru litarefnin í fullri virkni sem er óendanlega flókin, þau virka innan augans til dæmis í formi rodopsina (ljósnæmt eggjahvítuefni) og virka einnig í hinum ólíku lögum nethimnunnar.

Þetta litarefni kemur og fer samkvæmt virkni sem er ekki alltaf skynjanleg eða ljós, en bendir öll á dýptina, flækjustigið og jafnframt á heildstæða samvirkni móttökutækjanna fyrir ljósið.

Samband hugverunnar og þess sem snertir ljósið virðist þannig vera margrætt. Þið sjáið það annars á uppdrætti þríhyrninganna tveggja sem umsnúast um leið og þeir eru felldir saman. Þeir gefa þannig fyrstu myndina af samfléttunni, og krosstengslunum (chiasma) sem ég minntist á áðan og liggur til grundvallar umfjöllunarefnis okkar.

Ég ætla að segja ykkur svolitla dæmisögu til að bregða ljósi á þessi tengsl sjálfsverunnar og ljóssins, til að sýna að staður þeirra er víðs fjarri þeim geometríska punkti sem sjónfræðin kenna okkur.

Þetta er sönn saga. Hún átti sér stað þegar ég var um tvítugt, og sem ungur menntamaður á þeim tíma hafði ég ekki önnur áhyggjuefni en að fara eitthvað burt, að einhenda mér í einhver áþreifanleg verkefni, sveitastörf, dýraveiðar eða fiskirí.

Dag einn var ég staddur á bátkænu með nokkrum einstaklingum sem voru úr fiskimannafjölskyldu í litlu sjávarplássi. Á þeim tíma var okkar Bretagne-hérað ekki enn orðið að háþróuðu iðnaðarsamfélagi, ekki heldur í útgerðinni. Fiskimaðurinn tók sjálfur áhættuna af veiðunum á bátkænu sinni. Það heillaði mig að deila þeirri áhættu með þessu fólki, en það var ekki alltaf vá fyrir dyrum, það voru einnig blíðviðrisdagar. Það var sem sagt dag einn á meðan við biðum þess að draga upp netin að þessi Jói litli, við getum kallað hann því nafni – hann dó skömmu síðar eins og öll fjölskyldan af völdum berklanna, á þessum árum voru berklarnir útbreiddir og náðu til allra þjóðfélagshópa – Jói litli benti mér á svolítið sem flaut í öldufaldinum. Það var lítil dós, nánar tiltekið sardínudós. Þarna flaut hún í sólskininu, vitnisburður um niðursuðuiðnaðinn sem við vorum reyndar að vinna fyrir. Það glampaði á hana í sólinni. Og Jói sagði við mig: Sérðu þessa dós? Sérð‘ana? Gott og vel, en hún sér þig ekki!

Honum fannst þetta atvik afar fyndið, mér síður. Ég hef reynt að skilja hvers vegna ég kunni ekki að meta þessa fyndni. Það er afar lærdómsríkt.

Í fyrsta lagi þá er skilyrði þess að vit sé í því sem Jói sagði mér, fólgið í því að dósin horfir á mig (me regard hefur tvíþætta merkingu: horfir á mig / kemur mér við). Hún horfir (regard) á þeim upplýsta punkti þar sem allt er að finna sem horfir á mig (me regard). Þetta er engin myndlíking.

Þungaviktin í þessari dæmisögu eins og hún varð til í uppátæki félaga míns –  og sú staðreynd að honum fannst hún fyndin en ekki mér, átti sínar ástæður.  Úr því að hann var að segja mér svona sögu, þá var það vegna þess að á þessum tímapunkti hafði ég sett mig inn í mynd þessa fólks sem dró fram lífið með erfiðismunum í stöðugum átökum við það sem í þeirra augum var hin óblíða náttúra, eins og ég væri lítillar frásagnar verður. En ég var þó engu að síður blettur í myndinni. Þarna lá ástæðan fyrir því að mér var alls ekki skemmt við að fá framan í mig fyndna og kaldhæðnislega spurningu af þessu tagi.

Ég lít hér á myndbygginguna frá sjónarhóli frumlagsins / sjálfsverunnar, en hún endurspeglar eitthvað sem er þegar fyrir hendi í því náttúrlega sambandi sem augað meðtekur gagnvart ljósinu. Ég er ekki bara sú vera sem hefur hlutverk punktsins í hinu geometríska fjarvíddarskyni. Myndin málar sig augljóslega í botni auga míns. En ég, ég er í myndinni.

Það sem er ljós horfir á mig (me regard) , og þökk sé þessu ljósi í botni auga míns er eitthvað sem málar sig. Þetta eitthvað er ekki bara tilsniðið samband, hluturinn sem heimspekingurinn tefst við, – heldur er það hughrif og tilfinning, glampi frá yfirborði sem er ekki fyrir fram til staðar fyrir mig, staðsett í tiltekinni fjarlægð. Hér er eitthvað í gangi sem virkjar það sem hefur verið þurrkað út úr hinni geometrísku frásögn – dýpt sjónsviðsins með allri þeirri tvíræðni sem það hefur til að bera, með breytileika sem er með öllu utan míns yfirráðasvæðis. Það er öllu heldur dýpt sjónsviðsins sem hefur heltekið mig og ýtt stöðugt við mér og gert úr landslaginu eitthvað allt annað en fjarvíddarmynd, eitthvað allt annað en það sem ég hef kallað málverkið.

Samsvörun myndarinnar sem við staðsetjum á sama stað og hún fyllir,  það er að segja fyrir utan, er áhorfspunkturinn. Það sem tengir þetta tvennt saman, það sem er á milli þeirra, er eitthvað sem er annars eðlis en hið sjónfræðilega rými flatarmálsfræðinnar, eitthvað sem gegnir þveröfugu hlutverki, eitthvað sem virkar ekki til þess að vera gegnsætt, heldur þvert á móti,  virkar vegna ógagnsæis síns,  og er skermurinn.

Það sem birtist mér sem rými ljóssins, það sem er áhorf, felur alltaf í sér vissan leik ljóss og ógagnsæis. Það er alltaf þessi ljósglampi sem áðan var miðpunktur dæmisögu minnar, hann er alltaf það sem í sérhverjum punkti bindur mig við að vera skermur, skermur sem lætur ljósið birtast mér sem ljósblik er flæðir út yfir mörkin og vex mér í augum. Svo ekkert sé dregið undan: áhorfspunkturinn á alltaf hlutdeild í tvíræðni skartgripsins.

Og ég, ef ég er eitthvað í málverkinu, þá er ég einnig í formi skermsins sem ég kallaði áður blett.

 

2.

Þannig eru tengsl sjálfsverunnar (soggetto, sujet) við verksvið sjónarinnar. Hugtakið sujet ber ekki að skilja hér í hinum hefðbundna skilningi sem hið huglæga – hér er ekki um ídealískt samband að ræða. Sú heildarsýn (það yfirflug) sem ég kalla sujet og ég tel að gefi málverkinu inntak, er ekki einföld yfirsýn sem byggir á einfaldri framsetningu.

Það eru ýmsar leiðir til þess að misskilja þetta hlutverk sjálfsverunnar (sujet) þegar kemur að sýningarþættinum (ambito dello spettacolo).

Vissulega höfum við skilgreind dæmi um hvað gerist á bak við sjónhimnuna í Fyrirbærafræði skynjunarinnar[i]. Út frá ríkulegri heimildaöflun dregur Merleau-Ponty  fram mjög athyglisverðar staðreyndir út frá djúpri greiningu, staðreyndir sem sýna meðal annars að einungis með því að hylja með skermi hluta af sviði sem virkar sem uppspretta tiltekinnar litasamsetningar er hægt að gjörbreyta litasvæðinu, með yfirbreiðslu sem byggir til dæmis á tveim skífum er snúast hver á eftir annarri og eiga þannig að miðla sérstökum litatón – þegar skermur hylur hluta af fyrirbærinu gjörbreytir það litasvæðinu sem um ræðir. Hér sjáum við hreina huglæga virkni í hefðbundnum skilningi hins subjektífa / huglæga, þar sem sá leikur með ljós sem stuðst er við í tilrauninni breytir hinni huglægu skynjun (subjektsins).

Annað dæmi sem vert væri að staldra við  – og einnig hefur með huglæg (subjektíf) viðbrögð að gera, en þó með ólíkum hætti, varðar endurskin frá ólíkum litaflötum. Setjum til dæmis gulan flöt við hlið flatar sem er blár. Þegar blái flöturinn fær á sig endurskin frá gula fletinum breytist hann. En auðvitað er allt sem varðar liti huglægt (subjektift) – engin hlutlægur samanburður leyfir okkur að binda litinn við lengd ljósbylgjanna, eða ljóstíðnina sem verður við þessar aðstæður. Hér er um eitthvað huglægt að ræða, af allt öðrum toga.

Er þetta allt og sumt? Er það þetta sem ég á við þegar ég tala um afstöðu sjáandans (soggetto / sujet) til þess sem ég hef kallað málverk? Auðvitað ekki.

Afstaða áhorfandans (soggetto) til málverksins (eða myndarinnar) hefur verið til rannsóknar hjá vissum heimspekingum, en sem hliðarverkefni ef svo mætti segja. Þið skuluð lesa bók Raymond Ruyer sem ber heitið Neo-finalisme (frá 1952) og þið munið sjá hvernig hann finnur sig knúinn til að staðsetja áhorfandann (soggetto / sujet) í algildu yfirflugi (yfirsýn) þegar hann reynir að staðsetja skynjunina innan ramma tiltekinnar markhyggju eða ásetnings. Engin nauðsyn kallar á staðsetningu áhorfandans (soggetto) í algildu yfirflugi ef einungis á að skilja  hvað felist til dæmis í skynjun á einföldu skákborðsmynstri sem í kjarna sínum byggir á  þeirri geometrísku sjónfræði sem við höfum fjallað um. Hér erum við í rými aðskildra hluta (partes extra partes), sem koma í veg fyrir inntöku hlutarins. Við slíkar aðstæður er hluturinn óbifanlegur.

Hins vegar er til svið fyrirbæranna sem er óendanlega miklu víðfemara en þeir sýnilegu punktar sem virðast í forgrunni. Slíkt svið hrífur okkur fyrir tilverknað eigin eðlis til hins algilda yfirflugs hugverunnar. Það er ekki vegna þess að við getum ekki fundið því stað sem það verður óhöndlanlegt. Til eru staðreyndir sem geta einungis raungert sig í sviði fyrirbæranna í gegnum þetta yfirflug (þessa yfirsýn) þar sem ég staðset sjálfan mig í málverkinu eins og blettur – það eru staðreyndir felubúnaðarins og hermilistarinnar (mimetismo).

Leonardo da Vinci: Lotning vitringanna frá 1481. Skissa að bakgrunni og ófullgert málverk. Uffizi-safnið í Flórens. Skissan sýnir rýmið sem „skákborðsmynstur“.……

[Hér er tveim síðum úr textanum sleppt sem fjalla um hermilist í heimi dýranna annars vegar og myndlistinni hins vegar, hvernig sum dýr skríðast dulbúningi til að líkjast umhverfinu, og hvernig málverkið dulbýr sig til að líkjast fyrirmynd sinni. Þessi kafli er að nokkru leyti útúrdúr þar sem vitnað er í rit eftir fræðimanninn René Caillois , Auga Medúsu. Samhengið í textanum heldur sér að mestu án þessa innskots sem reyndist ofraun þýðandans. Innsk þýð.]

……….

Sjálfur René Caillois  hefur fullvissað okkur um að tilfelli felubúningsins (mimetismo)  meðal dýranna séu hliðstæð því sem hjá manninum birtist sem myndlist. Einu andmælin sem hægt er að bera fram gegn þessu felast í því að þetta virðist gefa til kynna að myndlistin sé nægilega skýr til þess að geta notað hana til að skýra eitthvað annað.

Hvað er málaralistin? Engin tilviljun ræður því að við höfum kallað málverkið þá virkni þar sem hugveran verður að finna sjálfa sig sem slíka. En þegar mannleg hugvera einsetur sér að gera sér málverk, að virkja það sem byggir miðlægt á áhorfinu, hvað er þá að gerast?

Sumir segja að listamaðurinn vilji vera inntakið (soggetto) í málverkinu, og að málaralistin greini sig frá öðrum listgreinum í því að listamaðurinn vilji ná til okkar í verkinu sem hugvera (soggetto) og sem áhorf.

Aðrir hafa svarað þessu með því að leggja áherslu á gildi hlutarins sem afurð listarinnar.  Þessi tvö sjónarmið hafa meira og minna eitthvað til síns máls, en þau gefa örugglega ekki tæmandi svör.

Ég mun setja fram eftirfarandi tilgátu: það er öruggt mál að í málverkinu birtist alltaf eitthvað er varðar áhorfið.  Málarinn veit það mætavel. Hvort sem um er að ræða staðfestu eða umskipti í siðferðislegum efnum, rannsóknir eða útfærslu, þá felur val hans alltaf í sér tiltekið áhorf.

Þegar horft er á málverk, jafnvel af þeim sem eru gjörsneyddir því sem við almennt köllum áhorfsgáfu og byggir á tveim augum, þá höfum við það alltaf á tilfinningunni að til staðar séu, rétt eins og í fínasta víravirki, einhver þau sérkenni sérhvers málara sem gefi til kynna nærveru áhorfsins, jafnvel í málverkum sem sýna ekki vott mannlegrar nærveru eins og sjá má til dæmis í hollenskum eða flæmskum landslagsmyndum.

Ef við horfum á virkni málverksins  – með tilliti til þess áhorfanda sem málarinn leggur mynd sína fyrir, nánast sem gjöf – þá tengist hún virkni áhorfsins. Þetta samband felur samt ekki í sér áhorfsgildru eins og virðast kann í fyrstu.

Menn gætu ályktað sem svo, að málarinn hafi sömu löngun og leikarinn til þess að á hann sé horft. Ég hef ekki trú á því. Ég held að um sé að ræða samband við áhorf þess sem hefur til að bera skilning, en að sambandið sé flóknara. Málarinn gefur þeim sem stendur andspænis verki hans eitthvað, sem að minnsta kosti í stórum hluta myndlistarinnar mætti orða sem svo: Viltu sjá? Jæja, þá skaltu horfa á þetta!

 Hann gefur augunum eitthvert fóður, en býður jafnframt áhorfandanum að fela í verkinu eigið áhorf, rétt eins og menn leggja frá sér vopn. Þetta er hinn friðþægjandi og appollóníska virkni málverksins. Eitthvað er borið fram sem gjöf, ekki fyrst og fremst til áhorfsins, heldur til augnanna, til einhvers sem felur í sér að við leggjum frá okkur áhorfið, rétt eins og til geymslu (eins og að leggja frá sér vopnin. -innsk. Þýð.).

Vandinn er hins vegar sá að einn geiri myndlistarinnar greinir sig frá þessari virkni. Það er málaralist expressíónistanna. Það sem greinir þessa tegund málaralistar frá öðrum gerðum hennar leiðir til einhvers konar fullnægju í þeim skilningi sem Freud leggur í orðið, þar sem um fullnægju hvatanna er að ræða, en það er tiltekin fullnægja sem áhorfið kallar eftir.

Með öðrum orðum þá þurfum við hér að velta fyrir okkur virkni augans sem líffæris. Okkur er sagt að það sé virknin sem skapi líffærið. Það er hrein fjarstæða, hún skýrir það ekki einu sinni. Allt sem virkar í líkamanum sem líffæri birtist ávallt sem blanda óteljandi virknisviða. Við vitum að í auganu mætast mörg virknisvið. Helsta greiningarsvæðið er miðgróin í augnbotninum, hinn útvaldi punktur sundurgreinandi sjónar. Allt hitt gerist á yfirborði nethimnunnar, sem sérfræðingarnir hafa ranglega skýrt sem skynfæri rökkurskynjunarinnar (scotopica). Þar á krossvirknin (chiasma) sér hins vegar stað, því þetta er sagður sá hluti nethimnunnar er gefi möguleika á skynjun daufari birtuskilyrða, og feli í sér næmustu möguleika til ljósskynsins. Ef þið viljið sjá stjörnu af fimmtu eða sjöttu stærðargráðu, ef þið viljið sjá hana, þá eigið þið ekki að beina sjóninni beint að henni, heldur örlítið til hliðar. Það er þá sem hún getur birst ykkur. Þetta er Arago-fyrirbærið (sem felst í skarpara sjónskyni á jaðrinum miðað við miðsvæðið við dauf birtuskilyrði -innsk. Þýð.).

Þessi virknisvið augans eru ekki tæmandi um eðli líffærisins eins og kemur í ljós á beddanum og ákvarðar það sem sérhvert líffæri ákvarðar. (Beddinn = Legustaður skjólstæðings sálgreinisins? Lacan talar hér til nema í geðlækningum orðsins. Innsk. Þýð.)

Hin útbreidda villa um eðlisávísunina felst í að menn hafa ekki áttað sig á að það er eðlishvötin sem gerir okkur kleift að vinna eftir bestu getu úr boðflækju líffærisins. Við höfum mörg dæmi þess úr heimi dýranna að líkaminn láti undan ofvirkni og umframvirkni líffæranna. Hin meinta virkni eðlisávísunarinnar í sambandi líffærisins og líkamans virðist kalla á siðferðilegan skilning. Aðlögunarhæfni eðlisávísunarinnar vekur oft furðu og aðdáun. Það furðulega er að líkaminn geti gert eitthvað með líffæri sín.

Við sem höfum vitneskju um dulvitundina gerum okkur grein fyrir að hér er um sambandið við líffærið að ræða. Hér er ekki um að ræða sambandið við kynferðið, og varla um sambandið við kynfærin, að því gefnu að við getum lagt sérstaka merkingu í það hugtak – heldur sambandið við fallusinn[ii], að því leyti sem hann nær skemmra en hann ætti að geta gert í raunveruleikanum hvað varðar kynlífið. [Fallusinn eða reðurmyndin, sem er lykilatriði í Ödipusarkomplex Freuds, fær nýja vídd í sálgreiningu Lacans, þar sem hann er tákn nautnarinnar (φ=pí) sem er í raun óháð kynferði (sem tómur „nefnari“), um leið og „vönunarduldin“ (castration complex) er merki ófullnægðar löngunar og tákngerð hjá Lacan með merkinu (-φ) eða mínus pi. Innsk. þýð]

Það er einmitt vegna þess að þetta líffæri (fallusinn/augað) er miðlægt í reynslu dulvitundarinnar  – sem einkennist í sjálfsverunni af ófullnægju er stafar frá vönunarduldinni  (castration complex) – sem við þurfum að kanna að hvaða marki augað skuli vera í hliðstæðri aðstöðu.

Frá upphafi sjáum við i þeirri díalektík (því gagnvirka samtali) sem á sér stað á milli augans og áhorfsins, að ekki er neinni samkvæmni til að dreifa, heldur fyrst og fremst blekkingu. Þegar ég kalla eftir áhorfi í ástarsambandi er orsök ófullnægjunnar undantekningalaust falin í því  að þú horfir aldrei á mig frá þeim sjónarhóli sem ég sé þig.

Frá hinum sjónarhólnum segir þetta okkur hins vegar að það sem ég horfi á er aldrei það sem ég vildi sjá.

Filippo Lippi: Maður og kona horfast í augu, 1440

Þetta er það sambandið sem ég hef  áður fjallað um sem sambandið á  milli málarans og hins glögga áhorfanda.  Hér er um hreinan leik að ræða, trompe-l‘œil-leik (sjónblekkingarleik), hvað sem hver vill segja. Hér ekki um að ræða neina vísun í það sem við með óréttu köllum hið fígúratíva, ef menn vildu benda á einhverja undirliggjandi vísun í það sem við með óréttu köllum fígúratíft í málverkinu.

Í hinni fornu dæmisögu um  Zeux og Parrasíus var það merki um snilld Zeuxar að hafa málað vínber sem fuglarnir sóttu í. Hér var ekki lögð áhersla á að þessi vínber væru í einhverjum skilningi fullkomin, áherslan var öll á þá staðreynd að jafnvel augu fuglanna hefðu látið blekkjast. Það sjáum við af því að keppinautur hans, Parrasius, sigrar hann fyrir að hafa með snilli sinni getað málað tjald á vegginn, tjald sem var svo líkt tjaldi að þegar Zeux snéri sér að honum þá sagði hann: Jæja, láttu okkur nú sjá hvað þú hefur málað á bak við tjaldið.  Með þessum hætti var það sannað að hér snerist málið raunverulega um blekkingu augans, um trompe-l‘œil. Sigur áhorfsins yfir auganu.

Við munum halda áfram að fjalla um þessa virkni augans á næsta fundi okkar

Zeux og Parrasíus, koparstunga eftir j. Sanredam, 17. öld. Yfirbreiðsla málverksins  reyndist inntak þess.

Fyrirspurnir  frá  áheyrendum, sem voru nemendur Lacans í sálgreiningu:

  1. SAFOUAN: Ef rétt er skilið, þá hvílir augað sig á áhorfinu meðan það hugleiðir málverkið?

Ég vitna hér aftur í það gagnvirka samtal (díalektík) sem á sér stað á milli birtingarmyndarinnar og handanveru hennar með því að segja að handan birtingarmyndarinnar finnum við ekki hlutinn í sjálfum sér, heldur áhorfið. Það er í þessu (gagnvirka) sambandi sem augað er staðsett sem líffæri.

  1. SAFOUAN: Handan birtingarinnar, er þar að finna skort áhorfsins?

Að því marki sem hvatirnar virka á hinu sjónræna sviði þá er um að ræða þá sömu virkni viðfangsins (lítið) a, sem við getum fundið á öllum öðrum sviðum.

Viðfangið a er nokkuð sem hugveran (soggetto) hefur skilið sig frá sem líffæri til að  staðfesta sjálfa sig. Það samsvarar tákni skortsins, það er að segja tákn fallusarins (reðursins), reyndar ekki tákn fallusarins sem slíks, heldur tákn þess skorts sem hann veldur (-φ; innsk . þýð.). Því er nauðsynlegt að til staðar sé hlutur sem er í fyrsta lagi aðskiljanlegur og tengist í öðru lagi skortinum. Ég mun brátt leiða í ljós það sem ég vildi sagt hafa.

Að því marki sem hugveran (soggetto) hefur skilið sig frá viðfanginu þá skiptir það engu máli í mæltu máli. Í huglægri anorexíu er það sem barnið borðar tómið. Reynið að skilja út frá þessari samlíkingu hvernig viðfang aðskilnaðarins kann að virka á sviði vönunarinnar sem sviptir.

Á hinu anala sviði (endaþarmssviðinu)er þetta staður myndlíkingarinnar – einn hlutur fyrir annan, að gefa saur í stað fallusar. Skiljið þið hér hvers vegna endaþarmshvötin er svið oblátuháttarins, svið gjafmildinnar. Þar sem við lendum í ófyrirsjáanlegum aðstæðum, þar sem menn geta ekki vegna skortsins gefið það sem ber að gefa, er ávallt til staðar varasjóður einhvers annars. Það er af þessari ástæðu sem maðurinn innritar sig á svið hins anala (endaþarmssviðið) í siðferðilegu tilliti. Þetta á sérstaklega við um efnishyggjumenn.

Þegar við erum á hinu sjónræna sviði erum við ekki á sviði spurningarinnar, heldur á sviði löngunarinnar, löngunarinnar eftir Hinum. Sama gildir um hið ákallandi hvatasvið, sem stendur næst reynslu dulvitundarinnar.

Almennt getum við sagt að samband áhorfsins og þess sem við viljum sjá sé blekkingarleikur. Hugveran kynnir sig sem annað en hún er, og það sem henni er boðið að sjá er ekki það sem hún vill sjá. Í þessum skilningi getur augað virkað sem viðfangið a, það er að segja á sviði skortsins (-ϕ).

  1. mars 1964.

 

[i] M. Merleau-Ponty: Phénomenologie de la perception, Gallimard, Paris, 1945.

[ii] Fallusinn eða reðurmyndin, sem er lykilatriði í Ödipusarkomplex Freuds, fær nýja vídd í sálgreiningu Lacans, þar sem hann er tákn nautnarinnar (φ=pí) sem er í raun óháð kynferði (sem tómur „nefnari“), um leið og „vönunarduldin“ (castration complex) er merki ófullnægðar löngunar og tákngerð hjá Lacan með merkinu (-φ) eða mínus pi. Innsk. þýð)

LEIKUR SANNLEIKANS III.

Carlo Sini:

 

HANDANVERA TUNGUMÁLSINS

 

 

Þessi snjalla ritgerð um handanveruna og sannleikann er birt í "Viðaukum" í bókinni „Il gioco della veritá“, (OPERE Volume I, Tomo II, Semiotica ed ermeneutica, bls 403-409; Jaca Book, 2019). Hún fjallar á snjallan hátt um landamæri og endimörk í raunveruleikanum og hugmyndasögunni, þar sem höfundur greinir á frumlegan hátt tengslin á milli orðanna (tungumálsins) og hlutanna og í hverju þessi tengsl eru fólgin. Ritgerðin er í samhengi við ritgerðirnar um Ástríðu sannleikans og Tímann og þögnina, sem eru birtar hér á vefsíðunni á íslensku og fjalla í raun allar um þessi tengsl frá ólíkum sjónarhornum. Hér er ekki efni til að endursegja textann eða hugsun hans, heldur benda á hugmyndatengsl sem eiga sterkt erindi inn í alla heimspekiumræðu í samtímanum.

 

Í 57. grein Prolegomeni a ogni metafisica futura che vorra presentarsi come scienza (Inngangur að sérhverri frumspeki sem vill kynna sig sem vísindi) þar sem fjallað er um takmörk hreinnar skynsemi, setur Immanuel Kant fram skilgreiningu á mikilvægum greinarmun: muninum á landamærum og endimörkum (limite e confine). Almennt eiga landamæri einungis við um það sem er að finna innan þeirra, endimörkin gefa hins vegar vísbendingu um handanveru þeirra. Kant segir að Stærðfræðin og eðlisfræðin, svo dæmi sé tekið, eigi sér sín landamæri er hafi með verksvið þessara vísinda að gera. Í raun og veru eru viðfangsefni þeirra fyrirbæri, en ekki hlutir í sjálfum sér. Frumspekin á sér hins vegar raunveruleg endimörk, því viðfangsefni hennar eru hugmyndir rökhugsunarinnar (sál, heimur, Guð). Sem kunnugt er fjalla hugmyndirnar um hið skilyrðislausa, hlutina í sjálfum sér, og hið skilyrðislausa er grunnurinn að allri frumspeki þar sem það er ófrávíkjanleg krafa mannlegrar rökhugsunar. Hins vegar getur einungis hið skilyrðislausa réttlætt þá tilfallandi og endanlegu náttúru (þ.e.a.s. hið óskilyrðisbundna) sem einkennir alla okkar reynslu, það er að segja það fyrirbærafræðilega eðli heimsins sem við búum í. Þess vegna verðum með einhverjum hætti að ganga fyrir fram út frá hinu skilyrðislausa til að skilja fallvalta og endanlega tilveru okkar, jafnvel þótt hið skilyrðislausa geti aldrei fært okkur vísindin. Hið skilyrðislausa er ekki einhver „hlutur“, heldur hugmyndaleg þörf innan sjálfs reynsluheimsins sem heims mannlegrar reynslu. Svo langt fylgjum við Kant, en framhaldið kallar á umhugsun.

Við skulum spyrja sjálf okkur: Getur eitthvað verið til sem er handan endimarkanna? Getum við með einhverjum hætti gert okkur mynd af því sem „að handan“? Ef það er eitthvað fyrir handan verður samkvæmt orðanna hljóðan að vera eitthvað hérna megin, en í endimörkunum er ekki um neitt hérna megin eða þarna megin að ræða: ef slíkt væri, þá væri ekki um nein endimörk að ræða heldur einmitt landamæri, það er að segja greinarmunur á fyrirbærum og áþreifanlegum hlutum. Hérna megin Ítalía, hinum megin Frakkland. Á milli eru landamærin. Ef þú einungis ímyndar þér endimörkin, ef þú einungis dregur upp mynd þeirra, þá eru komin landamæri með hérveru og handanveru. Hvar myndir þú þá leita endimarkanna? Ekki meðal fyrirbæranna, ekki meðal „hlutanna“. Hvað felst í raun og veru í því að draga upp merki „handanverunnar“? Og hvar staðsetjum við endimörkin? Hvaða merki er það sem ekki er hægt að festa á blað? Vandamálið virðist þversagnarkennt og óleysanlegt, en viðfangsefnið opnast, og slóð kemur í ljós, ef við gefum til dæmis þetta svar: merkið er á vettvangi tungumálsins: það er þar, og einungis þar, sem þessi mæri og „handanvera“ þeirra eiga sér stað.

Til að skilja merkingu þessa svars verður nauðsynlegt að efna til þrætu við almenningsálitið, því merking svarsins gengur gegn því. Hér höfum við tungumálið, töluð orð og skrifuð; handan orðanna höfum við hins vegar hlutina. Almenningsálitið gengur út frá því að það hafi á hreinu muninn á orðunum og hlutunum. Það telur sig geta neglt niður landamærin þar á milli: hér eru hlutirnir, þarna eru orðin. Orðið „rigning“ er ekki blautt og framkallar ekki rigningu. (Husserl sagði að orðið Feuer brenndi ekki). Sá sem hugsar hið gagnstæða er annað hvort geggjaður eða sófisti. En þessi einfaldi hugsanagangur ruglar saman atburðarásinni í heiminum, fyrirbærum reynsluheims okkar og merkingu þessara sömu atburða og fyrirbæra. Merki talmálsins eru vissulega ekki völd að atburðum hlutanna, og í þeim skilningi eru það ekki hlutirnir sem þau segja. Þó byrji að rigna þá orsakast það ekki af orðinu „rigning“, þeirri staðreynd að við segjum það eða hugsum. En við þurfum að geta sagt það, að það sé einmitt þetta sem gerist, að „núna rignir“, við þurfum að geta fest það í tungumálinu og þannig merkt það eða gefið því merkingu. Þetta liggur í rauninni strax í augum uppi, eins og margoft hefur verið bent á,:það sem hefur verið höndlað í tungumálinu erum við, talendur þess. Einu sinni gengnir inn í heim tungumálsins virðist sem við eigum engrar undankomu auðið. Oft hafa menn bent á mynd Wittgensteins af „búri“ tungumálsins í þessu sambandi.

Það gerist af sjálfu sér ef svo mætti segja að eitthvað eigi sér stað, hvort sem við höfum orð á því eða ekki. En ef við spyrjum: hvað hefur gerst, ef við viljum vita um hvað málið snýst, þá er það tungumálið sem grípur inn í. En almenningsálitið andmælir: handan við tungumálið eru hlutirnir. Hvaða hlutir? spyrjum við. Auðvitað hlutirnir! Til dæmis rigningin, sólin og svo framvegis. Augljóslega getum við aldrei vísað til þessara hluta án þess að kalla tungumálið til leiks. Það er eitt að upplifa reynsluna af því sem hendir, hvort sem okkur líkar betur eða ver. Annað er að hafa þekkingu á því sem við höfum upplifað. Aðeins þá eru „hlutirnir“ sem vísað er til kallaðir til leiks, ekki á undan og ekki utan tungumálsins. Hlutirnir eru þannig ávallt á mörkum tungumálsins, ekki handan við það. Við vorum áður búin að minnast á að hérna megin og handan við vísi ávallt til landamæra sem hægt er að vísa til með ábendingu: Sjáðu? Hér er Ítalía, hér er Frakkland. Hér er Ventimiglia, þarna er Mentone. Og þú getur bent með vísifingrinum á þá staðreynd að þú sért að tala: þú hreyfir varirnar, mótar röddina og beinir hendinni til að vekja athygli á öllu saman: sjáið?, ég er að tala. En hvað ert þú að segja, þú getur ekki bent á það því það er einmitt tungumálið, eða öllu heldur merking þess, sem hefur með endimörkin að gera, en ekki landamærin. Það er tungumálið sem leiðir í ljós, en það sem er sýnt er til staðar á endimörkum tungumálsins, og ef það er ígrundað í sjálfu sér, þá er það ekki raunverulega tungumál.

Almenningsálitið kallar á nánari skýringu. Það hefur rétt fyrir sér og ákallinu verður svarað. Við skulum spyrja okkur þessarar spurningar: get ég sýnt tungumálið og bent á það með sama hætti og ég bendi á rigninguna, sólina, eplið o.s.frv.? Við höfum sagt að við getum bent á að við erum að tala. Ef við hljóðritum síðan rödd okkar, þá getum við sýnt að við höfum talað. Eða þá að við getum sýnt að við erum að skrifa og höfum skrifað. Við getum sýnt að atburður hefur átt sér stað, rétt eins og það atvikast að það rignir o.s.frv. Með sama hætti gerist það að við tölum eða skrifum. En við getum hins vegar ekki sýnt að það sem gerðist hafi verið atburður tungumálsins, það er ekki mögulegt að sýna. Hvað getið þið raunverulega sýnt? Röð af sérhljóðum? Blekmerki á blaðinu? Hvernig getið þið vitað að það eru orð sem þið sýnið eða ykkur eru sýnd? Það þarf að vera ykkar tungumál og auðvitað þurfið þið að þekkja stafrófið.

En gerum nú ráð fyrir að þið séuð að hlusta á Kínverja og skiljið ekkert í máli hans. Hvernig getið þið vitað hvort hann sé í raun og veru að segja orð eða hvort hann sé einfaldlega að blekkja ykkur með tilviljanakenndum hljóðum sem líkjast kínverskum orðum? Sama gerist ef hann sýnir ykkur myndletur sem gæti að ykkar mati verið hvaða tilviljanakennda riss sem hugsast getur. Allt leiðir okkur að þeirri niðurstöðu að tungumálið sé ekki til staðar í hinum sýnilega „líkama“ sínum, í merkingargjöfum sínum („significanti“ eins og merkingarfræðingarnir kalla það), það hvílir í merkingunum sem það ber með sér og miðlar. En hvar eru merkingarnar? Á mörkunum segir almenningsálitið nú, þar sem það er farið að læra lexíuna og sýna slægð, þó enn hafi það að öllum líkindum ekki skilið kjarna málsins.

Hlutirnir sem við tölum um eru merkingar að því marki sem við tölum um þá. En merkingarnar eru ekki hlutir: þú getur ekki stungið þeim í vasann til að geyma þær þangað til eftir kvöldmatinn. Þessi staðreynd, þessi ómöguleiki hefur skapað mikinn rugling einnig innan heimspekinnar. Til dæmis eins konar vonbrigði og óánægju: við erum fangar tungumálsins og getuleysis þess til að segja „hlutina sjálfa“. Menn segja að „raunveruleikinn“ sé annað en tungumálið (án þess að hugleiða að „raunveruleiki“ er líka orð og að það sé einmitt tungumálinu að þakka að menn velti fyrir sér þessum mismun og láti þessa frumspekilegu óánægju í ljós.)

Hinum megin höfum við hina ánægðu: vissulega er ekki hægt að segja hinn „sanna“ veruleika hlutanna. Þó það nú væri! Þannig laumast úr fylgsnum sínum hópar andatrúarmanna, and-rökhyggjusinna, áhangendur hins yfirnáttúrulega og dulhyggjukenninga af ólíkum toga (raunverulegir iðkendur dulhyggjnnar hafa skynsamlega hljótt um sig og helga sig ávöxtum virðingarverðrar íhugunar).

Milli þessara öfga höfum við okkar ríkjandi almenningsálit sem venjulega lætur sér fátt um finnast en stendur engu að síður fast á því að orðin séu samsvarandi hlutir „án frekari spurninga“. „Færðu mér saltið“. Þú réttir mér það og þetta sýnir svart á hvítu að á bak við orðið „salt“ sé saltstaukur sem inniheldur salt. Eins og vera bar. En hlutirnir eru hreint ekki svo einfaldir eins og þegar hefur verið sýnt fram á. Það er kominn tími til að reyna að sýna hvernig þessum málum er í raun háttað. Almenningsálit lesandans andar nú léttar án þess að yfirgefa varðbergið, því ef satt skal segja þá er trúartraustið takmarkað: hvaða óskapnaði eigum við nú von á?

Við segjum fyrst og fremst að hrein andstæða orða og hluta gengur ekki upp. Og þá ekki heldur hin meinta einfalda samkvæmni: hvernig getum við komið henni heim og saman? Sá sem talar er ekki fær um utanstæða afstöðu sem gerir honum fært að segja: hér sjáið þið það, hérna eru orðin (salt, rigning o.s.frv.) og hérna hafið þið samsvarandi hluti. Þetta er ekki gerlegt, ekki er hægt að hafa í annarri hendi orðin, og hlutina í hinni og bera þau saman sem jafngildi. Þú getur ekki gert það vegna þess að sem sá sem hefur orðið ert þú augljóslega staddur innan sjónarhorns og iðkunarhefða tungumálsins. En þó svo væri ekki gæti það heldur ekki komið til greina að spyrja sig hvað séu orðin og hvað séu hlutirnir í mismun sínum og samsvörun. En það er staðreynd að orðin vísa með árangri til hlutanna; ef ég bið um „saltið“ (orð) og ég fæ saltið (hlutinn); hvernig getur þetta kraftaverk átt sér stað?

Til að skilja þetta þurfum við að skilgreina með hvaða hætti við segjum að hlutirnir standi á mörkum tungumálsins (eða hvernig tungumálið er í almennara samhengi endimörk sem viðurnefni (antonomasia) jafnvel þótt vera hlutanna virki ekki sem atburður tungumálsins. Við höfum þegar áttað okkur á að endimörk eru ekki það sama og landamæri (hlutirnir hérna megin og orðin fyrir handan, hérna Ítalía og hinum megin Frakkland), en hvernig eigum við þá að hugsa endimörkin? Skilningurinn á endimörkunum varðar augljóslega margvíslegar merkingar. Hér takmörkum við okkur við hvernig þessi skilningur snertir okkar tilfelli og hvernig ég telji hann samsvara merkingu endimarkanna í heimspekinni (það var engin tilviljun að við byrjuðum á Kant). Við segjum þá að umfram annað merki endimörkin takmörk og skilyrði þess að „vera í tiltekinni sögu“. Tökum dæmi:

Sérhvert dauðlegt líf, til dæmis líf mannlegrar veru, takmarkast af tímalengd sinni. Það er í þeim tíma sem er þess tími, ekki á undan og ekki á eftir. Fæddur 1632, dáinn 1677 (þetta eru ártöl hins mikla Spinoza); en vel að merkja, þau eru til staðar fyrir frásögn annars, ekki hans sjálfs. Annar skoðar utanfrá, með tímatal almanaksins að vopni, til að skilgreina landamæri dauðlegs manns. En hinn lifandi getur ekki gert það á meðan hann er á lífi. Bæði vegna þess að lífið er ekki liðið, jafnvel þó hann viti að það er endanlegt, það er að segja dauðlegt. En einnig vegna þess að hann veit ekkert um fæðingu sína (nema auðvitað að hún hafi átt sér stað). Hann þarf því að leita til vitneskju og frásagna annarra sem voru vitni. Það er með þessum hætti sem líf hinna lifandi er innan endimarka, ekki landamæra. Þetta felur í sér að vera hins lifandi í tiltekinni sögu, sem hann er í raun og veru staddur í, getur aldrei takmarkast af einhverjum áþreifanlegum mörkum; það eru örlög hins lifandi að færa sig stöðugt um set, að fara stöðugt „yfir mörkin“, fram og aftur, það er að segja túlka upp á nýtt samband sitt við hið liðna og endurmóta afstöðu sína til framtíðarinnar.

Sá sem lifir endursegir stöðugt á ný upprunasögu sína, frásögnin breytist jafn óðum á meðan hann lifir. Upphafið, sú staðreynd að vera fæddur, er undir vitneskju annarra komin og heimildum manntalsbókanna. Hvað varðar merkingu þess sem hann hefur upplifað, þá er hún háð óljósum endurminningum hans sjálfs og breytilegum túlkunum á þeim. Þegar hann var tíu ára hafði frásögnin tiltekinn tón, um tvítugt allt annan og þannig áfram. Merking lífs hans birtist honum undir formerki færanlegra marka sem aldrei verða fest endanlega í sessi sem áþreifanlegar staðreyndir. Með öðrum orðum þá mætir líf hans stöðugt endimörkum merkingar sinnar, allt fram að hinum endanlega atburði dauðans. Þá kemur í hlut annarra (eins og Charles Sanders Peirce benti á) að gera upp við sig merkingu þessa lífs, fella það inn í eigin endimörk. Við deyjum eftirlifendunum, sagði Gentile, og öðrum er falið að gera upp merkingu lífs míns, sagði Peirce. Frásögnin er því falin síbreytilegri dómgreind hinna, og brothættu minni þeirra, sem er í stöðugri endurmótun innan endimarka sérhverrar lifandi sögu.

Ef þetta dæmi hefur komist til skila, þá getum við notað það til þess að varpa ljósi á vandamál okkar. Við sögðum að hlutirnir væru við endimörk orðanna. Sem áþreifanlegar staðreyndir eru orðin (hljóðin, blekmerkin, merkingarnar) á endimörkum merkinga sinna. En að vera á endimörkunum felur í sér að dvelja í lifandi sögu, sögu sem enn hefur ekki hlotið skilgreind áþreifanleg landamæri, heldur sögu sem er að gerast í verðandi sinni og lýtur stöðugri endurtúlkun í báðar áttir, hvað varðar upphaf sitt og endalok. Þetta felur í sér að á bak við sérhvert orð eru ekki bara meintir einfaldir hlutir, heldur öll athafnasaga lífsins, saga tjáninga, ástríðna og þekkingar. Það er þessi saga sem við þurfum að vekja til lífsins andspænis okkar eigin innri sýn, ef við viljum skilja vandamál okkar til botns. Þú segir: „Sjáðu, það rignir“. Auðvitað gerir þú þér grein fyrir að einfalt orð eins og „rigning“ (ít.: pioggia) er stefnumót við óralanga sögu: hún hefur mótast með tímanum samkvæmt ítölskum málfarsreglum sem Vico hefði sagt að ættu rætur sínar í ómælanlegri forneskju, það er að segja löngu áður en ítalska þjóðin og tungumál hennar urðu til.

En orðin fæddust ekki af sjálfum sér og þau hafa heldur ekki ferðast sjálfkrafa með tímanum. Líf og störf mannkynsins hafa fléttast inn í orðin og sögu þeirra, einnig sú iðja sem fólst í því að talast við, skiptast á tilfinningum og upplýsingum. Einn góðan veðurdag komu steypiregn og þrumuveður yfir frumskóginn í Nemeu, sem fram að þeim tíma hafði verndað og falið hina sterkbyggðu villimenn sem Vico kenndi við „æðisfulla grimmd“. Þetta fólk hafði til þess tíma byggt samskipti sín á látbragði, frumstæðum andlitsgrettum og ýlfrandi raddbeitingum: það skiptist á hótunum, löngunum, viðvörunum og tilfinningum. En dag nokkurn var eins og rödd þeirra springi út, rétt eins og þrumurödd eldingarinnar á himnum og hún barst um nágrennið: „þarna fyrir utan“ þar sem allir heyrðu, því allir brugðust við með samstilltum hætti. Til dæmis brást þetta fólk með samsvarandi hætti við atburði eins og steypiregninu og röddinni sem gaf það til kynna. Það var þannig sem heimurinn og orð mannanna urðu endanlega samtvinnuð með varanlegum hætti. Þannig gerðist það að andsvarið við röddina, það er að segja andsvarið við merkingu hennar, endurómaði hjá öllum hópnum, endurómaði í þeim og skapaði þannig „hið innra“ meðal þeirra. Þannig varð þetta fólk að talandi hugverum (soggetti) í heiminum, hugverum sem túlkuðu sig og sögðu frá sjálfum sér í gagnkvæmi sameiginlegrar sögu þeirra.

Þessi saga hefur haldið áfram sleitulaust allt frá upphafi sínu. Virknin varð samhliða segðinni og segðin sjálf festi sig í sessi sem ný virkni er endurnýjaði virknina almennt, umbreytti henni í þekkingu (að þekkja það sem er gert, það er að segja merkingu verknaðarins) svo ekki sé minnst á stöðuga endurmótun talmálsins sem slíks. Nú getur þú vel séð að þegar þú segir orðið „pioggia“ (rigning) ert þú ekki bara að vísa til tiltekinna hluta (eins og til dæmis „baðandi súldin sem fellur af himni“ sem aftur eru ný orð), að vísa til hluta sem væru í einhverju ótilteknu „úti“ miðað við eitthvað óþekkt „inni“. Það sem vísað er til er þekking, fyrst og fremst málfarsleg þekking, þar sem merkingin hvílir hvorki í tungumálinu, skilið sem áþreifanleg staðreynd (til dæmis tungumálið sem rannsóknarviðfang málfræðinganna eða sem safn uppsláttaratriða í orðabók), né heldur í ímynduðum heimi „hlutanna í sjálfum sér“. Merkingin (þess sem þú segir, og þess sem þú gerir með því að tala) hvílir í hinu sameiginlega og samfélagslega andsvari, í þeim samfélagslegu hefðum sem tengjast talmálinu, eða í því sem við erum reiðubúin að gera sameiginlega (til dæmis leita skjóls undir þakskeggi eða skjóta upp regnhlífinni), allt á grundvelli óendanlegrar atferlissögu sem hefur mótast í margvíslegri og flókinni iðju mannsins sem átti upprunalega tilefni sitt og tilgang í því sem við nú köllum rigningu. Þetta er arfleifð sem hefur aldrei takmarkast við eitt skipti fyrir öll, heldur á sér stað á endimörkum hins óstöðvandi breytileika iðju okkar og talsmáta, því eins og við vitum vel, þá breytist merking orðanna með tímanum, breytist án þess við tökum eftir því í hvert skipti sem við tölum. Með sama hætti breytast hlutirnir sem við gerum, þar sem þeir eru háðir iðju okkar og talsmáta. Þessi talandi og gerandi iðja á sér stað í sögu sem á sér engin hugmyndaleg takmörk, sem er skorðuð í staðfastri þekkingu og á endimörkum örlaga er leiða inn í rigningar framtíðarinnar, færandi blessun, bölvun, skaða, harmleiki, hreinsanir o.s.frv. Þessi vegferð túlkar sjálfa sig stöðugt með nýjum hætti, og endurmótar þannig það sem við köllum „hið innra“ (sjálfsþekkingu okkar, það er að segja þá þöglu rödd sem talar í hverju okkar úr þeirri rödd sem kallar okkur að samfélagi hinna talandi) og endurmótar það sem við köllum „hið ytra“, það er að segja hluti heimsins, þessa atburði sem við mætum sífellt á ný og aðlaga okkur að nauðsyn örlaganna.

Heimurinn gerist á endimörkum orðanna. Atburður orðanna sýnir okkur atburð heimsins með því að umbreyta honum í merkingu, það er að segja í tilgreinda en aldrei altæka þekkingu verksins, þekkingu talandans, þekkingu skriftarinnar: að yfirfæra heiminn í sögu, í okkar sögu, í hin myrku upprunasvið hans og hin óvissu endalok hans. Á mærum orðsins, á endimörkum þess, kallar heimurinn fram þekkingu, „rökvísi hlutanna“ sem eins og Alfred North Whitehead komst að orði „vegur salt og er óljós, en er samt“. Handanvera orðsins, handanvera tungumálsins, er hin lifandi saga þessarar rökvísi sem hver og einn iðkar og fremur með talanda sínum eftir þekkingu og getu.

Þessi frásögn er auðvitað líka saga, ein aðferð til að endurmóta sjálfan sig í heiminum og endurmóta heiminn um leið. Í hvaða tilgangi? Í þeim tilgangi sem er, svo enn sé vitnað í Whitehead, tilgangur allra athafna okkar og allra sagna okkar: til þess að lifa, umfram allt. Svo til þess að lifa vel; þess vegna lifa betur. Það er allt og sumt.

CARLO SINI Í SAMTALI VIÐ SAMTÍMANN UM SANNLEIKANN

Horft á handanveru himinhvolfsins.
Óreiða alheimsins frá sjónarhóli jarðarinnar

Þessi skemmtilega ritgerð Carlo Sini er birt í "Appendici" eða viðaukum aftast í bókinni "Leikur sannleikans" (Opere: Il gioco della veritá -Semiotica e ermeneutica, Volume I, Tomo II, Jaca Book, Milano 2019, bls 279-285) og er ádeila á viðtekna trú í samtímanum á "hlutlægan sannleika". Sannleikurinn er ekki "hlutlægur" segir Sini, því hann er ekki "hlutur", heldur atburður, og sá almenni átrúnaður á "hlutlægni" til dæmis í allri umræðu um vísindi í samtímanum, er knúinn áfram af engu öðru en einmitt ástríðunni, ástríðunni sem er huglægt fyrirbæri og er þar með talið hagsmunatengt, afstætt og í alla staði óáreiðanlegt. Sini á hér í meistaralegri samræðu við samtíma sinn, ekki síst fulltrúa svokallaðs "nýraunsæis" í samtímanum, en ekki síður við kollega sinn Gianni Vattimo, sem hefur innleitt hugtakið "Hin veika hugsun" í ítalskri samtímaheimspeki, hugsun er lítur á möguleika heimspekinnar fyrst og fremst sem túlkun er byggi á eldri túlkun og vísi til annarrar túlkunar í það óendanlega. Hér er semsagt á ferðinni snörp ádeila á tvær höfuðslóðir í ítalskri og evrópskri samtímaheimspeki, þá sem kennir sig við nýraunsæi og hina sem byggir á túlkunarheimspekinni eða Hermeneutics eins og það er kallað upp á ensku. Eitursnjöll ritgerð og hrein skemmtilesning, sem fyllir upp í spurningar við lestur færslunnar um "Tæknina og ofbeldið". Þýðingin og uppsetningin er nýendurbætt í febrúar 2023.
Carlo Sini:

Ástríða sannleikans

Ástríðurnar eru fyrirbæri sem tilheyra hinu innra og huglæga. Sannleikurinn er hins vegar það sem er, eitthvað hlutlægt og handfast, eitthvað sem er óháð ástríðum okkar. Þessi útbreiddi hugsunarháttur er ekki ástæðulaus. Engu að síður vildi ég sýna fram á að einnig sannleikurinn er í kjarna sínum ástríða, reyndar að ekkert sé jafn ástríðuþrungið og einmitt hann. Til að rökstyðja þessa staðhæfingu verður óhjákvæmilega að kollvarpa þeirri útbreiddu skoðun sem lítur á sannleikann sem eitthvað “hlutlægt”: það er vandasöm aðgerð og ekki hættulaus, því hún mun fá marga til að hugsa að “í raun og sannleika” hljóti sá sem heldur fram slíkum efasendum um hinn “hlutlæga sannleika” að vera “níhilisti” (tómhyggjusinni), einhver andstæðingur rökhyggjunnar og sérstaklega vísindalegrar rökhyggju og aðferðarfræði. Einhver ómerkilegur sófisti, ídealisti eða afsprengi áhangenda tískubólu túlkunarfræðanna, í stuttu máli eitthvert “illmenni” eins og Kant sagði í gríni um sjálfan sig.

Hvað um það, hvernig svarar maður slíku? Ástríða sannleikans er sjálfum mér augljóslega svo í brjóst borin að hún leyfir mér ekki að hlaupast undan slíkri áhættu.

Hin almenna og opinbera skoðun segir okkur þetta: sannleikur felst í því að segja, tjá, merkja og sýna hlutina eins og þeir eru, en ekki eins og ég held að þeir séu eða vildi að þeir væru. Ástríða mín óskaði sér þess að þú elskaðir mig í raun og veru, að eftir dauðann biði okkar annað líf þar sem réttlætið ríkir o.s.frv. En elskar þú mig í raun og veru? Og bíður okkar í raun og veru annað líf þar sem hið góða ríkir eitt? Sú staðreynd að mér hugnist að hugsa þannig er engin sönnun á sannleika slíkra hugsana. Þetta virðist benda til eftirfarandi: ég er ekki nægilega upplýstur um hvernig hlutirnir eru í sjálfum sér, handan allra langana minna og óskhyggju minnar. Þetta er án alls vafa ávallt satt um sérhverja staðhæfingu. Ég er ekki einu sinni nægilega upplýstur um sjálfan mig, um eðli og umfang minna eigin ástríðna og langana, hvað þá um það sem er “fyrir utan sjálfan mig”.

Þá spyr ég sjálfan mig: hvernig gæti ég orðið nægjanlega upplýstur? Til dæmis: ætti ég að verða þess megnugur að horfa beint inn í hjarta þitt, eða sjá með eigin augum þetta fyrirheitna land og lífið í handanverunni sem bíður okkar allra? Ímyndum okkur eitt andartak að slíkt væri hægt. Hluturinn sjálfur birtist okkur beinlínis sem slíkur: hjarta þitt eða handanheimurinn. En hvað merkir þetta “beinlínis”? Augu mín sjá aldrei allt sem er í sjónmáli, og það er einmitt þess vegna sem ég leiði það hjá mér hvort þú elskir mig í raun og veru (mig grunar innst inni að þú leiðir það líka hjá þér) og hvort handanheimurinn sé í raun og veru til. En það er einnig rétt, að án augnanna myndi ég ekki sjá neitt. Þversögn hins meinta hlutlæga sanneika liggur einmitt hér: Hún ímyndar sér hluti sem eru sýnilegir án augnanna og raunverleika er geti sýnt sig þó við horfum ekki á hann. Við sjáum ekki ástina í sjálfri sér, og heldur ekki handanheiminn. Við sjáum hins vegar mörg meint ummerki. Hvort þau merkja ást þína eða handanveruna er sú áhætta sannleikans sem við erum sífellt undirseld. Þetta eru óyfirstíganlegar hindranir. En þú segir: Hvað varðar handanheiminn að minnsta kosti, þá höfum við kannski önnur augu þar, eða jafnvel að hluturinn sýni sig án þess að nauðsynlegt sé að skoða hann í genum merki hans.

Kæri vinur, ef þessi orð þín eiga að hafa merkingu þurfum við bæta þessu við: Hlutunum getur verið þannig varið (eins og þú heldur nú fram), en þá værum við ekki til staðar; annað hvort vegna þess að við værum eitt og hið sama með hlutnum eða viðfangi okkar, í einu og öllu, eða þá að við værum sérstakar verur sem ekki er hægt að ímynda sér, og ég get ekki skilið hvernig gætu varðveitt nokkur tengsl við það sem ég er nú. Það verður handanheimur, en hann kemur mér ekki við, hvorki er um mig að ræða né þann handanheim sem ég er að tala um. Þannig get ég ekki séð hvernig þessi “handanheimur í sjálfum sér” sé frábrugðinn þeirri hugmynd að lífið muni vafalaust halda áfram með dauða mínum, en ekki mitt líf eða það sem er líf fyrir mig.

Það er ekki hægt að undanskilja augað frá sjóninni, það er ekki hægt að undanskilja merkin frá hlutunum sem þau merkja, það er ekki hægt að útiloka túlkunina frá sannleikanum. Hér er hins vegar ekki um að ræða “getuleysi” okkar sem hugsanlega muni breytast með tímanum, eða fyrir tilverknað guðdómlegrar náðar. Um er að ræða eðli sannleikans og reynslunnar sem við höfum ávallt af honum. Það merkir ekki, eins og einhver sjálfskipaður “heimspekingur” gæti haldið, að borðið sé ef ég hugsa það, og að hinsti sannleikur þess búi í höfði mér. Þessi heimskulega aðferð við að smætta svokallaðar hughyggjukenningar (eða kenningar túlkunarheimspekinnar á okkar tímum) er einungis vitnisburður um ruddaskap þess sem þannig hugsar, kannski mótaður óljóst af einhverri pólitískri eða þekkingarfræðilegri ástríðu. Þetta á hvorki við um mig né nokkurt ímyndað einstakt og tiltekið “ég”. Enginn heimspekingur hefur nokkru sinni gælt við þá hlægilegu hugsun, að borðið sé þegar ég hugsa það, og sé ekki þegar ég gleymi því, eða þá að það sé undir mér komið að túlka það sem borð eða dúfu. Sannleikurinn (um borðið eins og sérhvern hlut) er örlög sem sérhverjum er trúað fyrir, þar sem sérhver er það sem hann er. Við erum ekki “andspænis heiminum”, virk í okkar litlu heilabúum ímynduðum utan heimsins, en þannig eru mismunandi fáránlegar eða tilbúnar hugmyndir um það hvernig heimurinn sé gerður. Augljóslega erum við “í” heiminum, og allt það sem við hugsum um heiminn, um veruleika hans og sanneika, er sjálft hluti af heimi sem hreyfist í og með honum og framleiðir okkur sjálf, hlutina okkar og merki þeirra fyrir okkur.

Þetta er ástæða þess að ég segi að sannleikurinn sé ástríða. Við göngumst undir það sem Peirce kallaði áhrif sannleikans eða “tilætluð ummerki”. Vitringarnir þrír (á Betlehemsvöllum) voru ekki frjálsir að túlka halastjörnurnar eins og þeir gerðu eða öðruvísi, og hvað okkur varðar, þá höfum við ekki frjálst val um hvort við viljum styðjast við sömu túlkun og vitringarnir eða viljum byggja á nýjustu niðurstöðum stjörnufræðinnar. Þegnarnir eru holdgerving arfborinna hefða sem móta þá, þeir ástunda lifnaðarhætti og þekkingu sem gera þá að þeim þegnum sem þeir eru, og eru þess valdandi að þeir mæta heiminum eins og þeir umgangast hann. Þetta á einnig við um okkar samtíma, eða í almennara samhengi um þá heimspekilegu rökfræðihugsun sem við erum til dæmis að fást við hér og nú til góðs eða ills.

Við erum alltaf í sannleikanum (Arstóteles sagði þetta líka með sínum hætti), því að vera lifandi vera felur í sér lifnaðarhætti sem festa sig í sessi, samræmast og breytast á öldufaldi sigurgöngu og sammælis. Þetta felur í sér málfarslegar siðvenjur, tjáningu og samskipti sem njóta sammælis, felur í sér tilgátur og átrúnaði (til dæmis að þú elskir mig eða að handanheimurinn sé til staðar), allt byggt á túlkunum og íhlutunum sem eiga sínar forsendur og sína þrautsegju (þar til annað kemur í ljós, eins og sagt er).

Þannig er veran í sannleikanum sem við búum í og getum ekki staðið utan við. Lífshættir breytast og þekkingin, túlkunarvenjur og talsmátar taka á sig nýja og áður óhugsandi mynd. Börnin eru öll englabörn. Börnin eru lítil og ómeðvituð glæpakríli sem stýrast af dulinni kynhvöt. Halastjörnurnar eru leiðarvísir allra velviljaðra manna. Halastjörnurnar eru tilviljanakenndur efnismassi úr himingeimnum.

Við sjáum nú að það sem ég skilgreini sem veruna í sannleikanum frá sjónarhorni mannsins, grundvallandi ástríða hans, grundvallandi eins og við blasir eða skynja má af því sem hér hefur verið sagt, einnig varðandi allar aðrar ástríður hans;  þessi vera í sannleikanum er líka veran í villunni, nokkuð sem er ekki síður grundvallaratriði. Hér komum við að afgerandi spurningum. Til þess að stytta málið og tjá mig á sem skilmerkilegastan hátt fækka ég þeim í tvær.

Fyrsta spurning: ef ástríðan á sannleikanum og stöðug ástundun hennar leiðir manninn í samfellda veru í villunni, ertu þá ekki að segja að sannleikurinn sé ekki til, og að ástríðan á sannleikanum sé endanlega “óþörf og gagnlaus”? Felur hún ekki einmitt í sér níhilismann, afstæðishyggjuna, efahyggjuna og annað af þeim toga?

Önnur spurning: Þú staðhæfir að þú standir vörð um veru mannsins í sannleikanum, að hann eigi að “gangast undir hann” með ólíkum hætti eftir stað og stund í altækri veru í villunni. Hvernig getur þú neitað því að til séu ólíkar villur eða öllu heldur villa og sannleikur?

Menn fornaldarinnar hugsuðu heiminn með vissum hætti (til dæmis að jörðin væri miðja alheimsins), nokkuð sem við vitum nú með vissu að er ekki rétt. Sannleikurinn hefur þannig þróast í vissa átt, sem ræðst af því hvernig hlutunum er varið, en ekki af því hvernig mennirnir umgangast þá, tala um þá og hugsa þá. Það er rétt, að hlutirnir eru eins og mennirnir segja þá vera, en það er til önnur forsenda umfram þá sem mennirnir segja um hlutina á hverjum tíma, nokkuð sem engin skoðun getur haft áhrif á, nokkuð sem þvert á móti leiðir skoðanirnar stöðugt nær sannleikanum samkvæmt skilningi vísindanna.

Að vera í sannleikanum, að vera í villunni: ég segi að það sé eitt og hið sama.

Þú andmælir og segir sannleikann ekki vera villu, og öfugt (augljóslega geri ég mér líka grein fyrir því, dettur þér í hug að ég skilji þetta ekki?). Þú bætir við að sannleikur sem er í villu sé ekki sannleikur og geti því ekki verið sannleikurinn (með ákveðnum greini). Því sé ég að leika ljótan leik með orðin, en endanlega haldi ég því fram að sannleikurinn sé ekki til. Því sé ég hættulegur eða öllu heldur heimskur tómhyggjumaður (níhilisti) sem er vanhæfur um að hugsa það rétt sem hann segir.

Takk fyrir þetta. Snúum okkur þá að þér. Með sambærilegum hætti segi ég að þú hugsir sannleikann með hjátrúarfullri blætishugsun og lítir á hann sem hlut, sem eitthvað “algilt” (assoluto), þ.e.a.s. aðskilið og skilyrðislaust gagnvart sérhverri tjáningu og hugsun, án þess að gera þér grein fyrir að það er einmitt þú sem skilyrðir hann þannig, nokkuð sem öll reynsla okkar andmælir. Auðvitað hugsa hinir sönnu tómhyggjumenn þetta ennþá þannig, þeir sem aðhyllast afstæðishyggjuna og efahyggjuna. Þeir sem láta sig dreyma um fjöþættan og veiklaðan sannleika (miðað við hinn frumspekilega sannleika, eins og þeir segja). Einnig þeir halda því fram að sannleikurinn sé algildur, að hann ætti í það minnsta að vera það. En þar sem slíkur sannleikur er ekki í sjónmáli, þá sé það sem sjáist “veiklaður sannleikur” sem við erum nauðbeygð að játast og hugsanlega að gleðjast saman yfir, því þegar öllu er á botninn hvolft þá er auðveldara að lifa með honum en með hinum krefjandi og algilda sannleika. Í báðum tilfellum er um hjátrú og hlutadýrkun að ræða.

É held því hins vegar fram að sannleikurinn ekki bara sé, og að annað væri óhugsandi, heldur líka að hann blasi við hverjum og einum. Munurinn er sá að ég lít á hann sem atburð en ekki hlut eða algilda vídd, ekki eitthvað “í sjálfu sér eins og það er” (eins og kreddutrú okkar ímyndar sér hann).

Ef þú hugsar sannleikann sem tilkomu ímynda hans, það er að segja eins og hinar áþreifanlegu ástríður hans, þá er það sem þú hugsar sannleikurinn, og þessi hugsun sem hér er skrifuð á blað er ein ástríða hans eða ímynd, eða hún er atburður hans þar sem sannleikurinn er ávallt til staðar, það er að segja í tilteknum gjörningi eða verknaði, sem í þessu tilfelli okkar er iðkun heimspekinnar. Þessi uppákoma í tiltekinni iðkun -eða þessi staðreynd, þar sem sannleikurinn gerist með því að iðka hann eins og hann er iðkaður, festir síðan í sessi hina almennu mælikvarða sem gera okkur kleift innan atburðar sannleikans að greina á milli merkinga sem við dæmum sem sannar eða falsar.

Innan sagnfræðiiðkunarinnar -eins og við skiljum hana á okkar tímum -telst sú hugmynd að tengja Platon við Móses, og telja slík tengsl forsendu hinnar kristnu opinberunar, fullkomin endaleysa. Engu að síður voru þessi tengsl ástríðufullur sannleikur fyrir Marsilio Ficino. Einmitt innan hefðar sagnfræðiritunarinnar, en iðkun sagnfræðinnar er, eins og öll iðkun, ein aðferð til að kalla fram sannleikann, en ekki eitthvað sem á að herma upp á og bera saman við einhvern meintan hlutlægan sannleika í sjálfum sér.

Þegar sagt er að heimspekin sé og hafi verð með þeim hætti sem heimspekisagan endursegir hana, þá er það ein leið sannleika til að gerast, en ekki eitthvað satt, vegna þess að sannleikurinn sé sjálfur sögulegur eða sagnfræðilegur. Slík hugsun felur í sér hreina klifun og sýnir að viðkomandi er fullkomlega blindur á eigin iðkun og sér hana í hjátrúarfullu ljósi eins og líffæri ósmitað af hinu sanna.

Hið sanna í sjálfu sér er hið sanna sem á sér stað, en við megum ekki rugla saman tilkomu hins sanna, atburði þess, og þeirri merkingu sem verður til við þennan atburð. Merkingin er hið sanna sem skilur eftir sig ummerki þar sem það gerist. Ef þú leggur að jöfnu merkið og atburð þess, ef þú samsamar merkið og merkingu merkisins við atburð þess (þú munt ekki finna annað merki utan mín), eða ef þú þvert á móti lítur á sérhvert merki sem ófullnægjandi, vegna þess að þú heimfærir það huglægt upp á meintan sannleika – eitthvað sem er í sjálfu sér eins og það er, handan merkja sinna, þá skortir þig skilning á sannleikanum, jafnvel þótt þú sért á þinn hátt vitnisburður hans, einmitt með þeim hætti og í þeirri mynd sem þú iðkar hann. Ástríða þín er einnig bundin sannleikanum og nú sérð þú vel að hún er í villu eins og allar ástríður.

Sú staðreynd að ástríða þín er í villu, það er að segja í fjarlægð, vegna tiltekinna ummerkja og hefða, gerir hana ekki ósannari sem slíka, óvirkari í atburðarás sannleikans í ímyndum sínum og siðvenjum. Ekki nema þú haldir áfram að trúa því að sannleikurinn sé dómur er snerti tiltekinn hlut í sjálfum sér, en ekki tiltekna iðkun (til dæmis iðkun dómsúrskurðarins, sem ein aðferðin í atburði sannleikans), í samræmi við þá kenningu mína sem meðtekur sannleikann sem ástríðu, að þegar allt kemur til alls, þá sé einungis tiltekin siðfræði sem samsvarar sannleikanum en ekki tiltekin rökfræði. Svo bæti ég þessu við: því einnig rökfræðin er ekki annað en tiltekin siðfræði, það er að segja tiltekin aðferð til að búa í sannleikanum, umgangast hann og tjá hann með tiltekinni iðkun sem er sönn með róttækum hætti í veru sinni í villunni.

Að því gefnu að mér hafi fram að þessu tekist að gera mig skiljanlegan verður ekki erfitt að takast á við seinni spurninguna, sem ég mun einungis gera lauslega. Mér virðist auðskilið að sannleikurinn, eins og ég skil hann, sé í villu, það er að segja að við séum á samfelldri vegferð frá villunni til sannleikans, jafnvel þótt hann sé aðeins brotakenndur og á stöðugri vegferð eins og margir vísindamenn tala um, einmitt vegna þess að sannleikurinn er ekki tiltekinn hlutur er væri þegar til staðar eins og hann er, án okkar vitundar, heldur sé hann einmitt atburður. Sem slíkur setji hann engin takmörk á rannsóknina, eða eins og réttara væri að segja, engin takmörk á ástríðuna. Hins vegar eru menn vanir að andmæla þessu með því að benda á að jörðin hafi ekki verið talin miðpunktur okkar litla heims, jafnvel á tímum Aristótelesar: þá þegar var sólin búin að taka þetta sæti miðjunnar.

Þetta er óumdeilanlega rétt fullyrðing, að því tilskyldu að menn gangist jafnframt skilyrðislaust undir eftirtaldar staðhæfingar (venjulega faldar):

-að jörðin, sólin og hinar stjörnurnar séu hlutir í sjálfum sér, óháðir þeim mannlegu augum sem sjá þá, og óháðir þeim orðum sem nefna þá (í raun erum við að afneita þessu um leið og við nefnum þá);

– að því tilskyldu að sú iðkun stjarnfræðinnar og þeir iðkendur hennar sem höfðu tileinkað sér aðferðir hennar á dögum Aristótelesar, hafi verið sömu gerðar og iðkendur hennar á okkar tímum.

(Við vitum mæta vel að sú er ekki raunin, en við gleymum því stöðugt að sá stjarnfræðilegi og algildi alheimur sem við höfum lengi verið að móta, er árangur okkar skilgreindu rannsóknaraðferða, þannig að við erum sjálfkrafa undirseld þeim.

Við erum afsprengi þessara vísindahefða, sem hugsa það sem sjálfsagðan hlut að til sé algildur stjarnfræðilegur alheimur, sem er skoðaður af augum er séu með sama hætti algild og „hlutlæg“ – með öðrum orðum, þá er „hlutlægnin“ ástríða vísinda okkar. Það er í senn virðingarverð og afgerandi aðferð við framkvæmd sannleikans, og um leið einkennisímynd vísindanna fyrir veru þeirra í villunni.)

Fullyrðingin að jörðin hafi ekki verið miðja alheimsins á tíma Aristótelesar, heldur sólin, er jafnframt rétt að því tilskyldu að þekkingin sé endurspeglun hlutanna eins og þeir eru í raun og veru, óháð öllum hagsmunum (en ekki tiltekin iðja, tiltekin siðfræði, það er að segja aðferð til þess að byggja og búa í heiminum og staðfesta okkur þar sem iðkendur þeirrar iðju sem í raun er ástunduð þannig að til verða hlutir, möguleikar og sambönd, það er að segja án þess að íhuga að hagsmunahlutleysið sé ein mynd hagsmunagæslunnar og ímynd ástríðunnar, nefnilega ástríðu sannleikans.

Við getum reyndar ekki ákveðið niðurstöður þekkingariðju okkar fyrir fram, hins vegar hafa menn bent á að yfirleitt sé hún sigursæl. Hvernig gæti það gerst ef þekkingariðjan væri ekki í samræmi við heiminn eins og hann er?

Einmitt, en trúið þið því í raun og veru að auga Aristótelesar hafi ekki á sínum tíma upplifað sína sigra? Eða augu vitringanna? Ástríður okkar eiga sér langa keðju. Hefðirnar framlengja sig í gegnum breytingar, og sama gildir um orðin, þannig að jörðin og sólin bæði eru og eru ekki það sama fyrir Aristótelesi og okkur.

Frá ómunatíð höfum við dvalið í ástríðum skynjana okkar og hugsana, við höfum tekið sigra þeirra í arf, breytt stefnu þeirra vegna þess að þessi ástríða sannleikans, sem knýr okkur áfram, bendir okkur líka á nýja hagsmuni sem umbreyta gömlum hlutum og einnig okkur sjálfum, okkur sem erum á valdi þessarar ástríðu.

Það er ekki lengur nein ráðgáta fólgin í að sjónin afhjúpi heiminn fyrir mér og staðsetji mig með ákveðnum hætti sem mannkynið hefur frá upphafi sínu fram á okkar daga spunnið; né heldur er sú staðreynd ráðgáta að stjörnusjónaukinn Hubble hafi fært okkur á allra síðustu árum hluti sem enginn lifandi maður gat áður ímyndað sér. Hvers vegna hefð hann ekki átt að gera það? Er hann ekki einmitt sjónauki í sannleikanum, þó það sé með hans máta, það er að segja í merkjum villunnar sem hann dvelur í?

Er það ekki af hinu góða að ég sé á varðbergi gagnvart merkjum ástar þinnar ef ég vil skilja betur sannleika ástríðna okkar, – eða hvert þær eru að leiða okkar sem undirsátar þeirra og ástleitnir gerendur? Þurfum við á altækri ást að halda til þess að sjá og vita hvort þú elskar mig? Er algildur heimur okkur nauðsyn ef heimurinn sem ég tala um er heimur augna minna og sjónauka?

Endanlega verður ástríða sannleikans spurning samtvinnuð örlagasögu okkar sem þegnar hennar (soggetti), og með hvaða hætti við göngumst undir hana innan tiltekinnar hefðar (pratiche). Merki ástríðna okkar þurrausa aldrei sannleikann, ekki frekar en að orðin sem við notum tæmi möguleika tungumálsins.

Tungumálð er heldur ekki  tiltekinn hlutur, heldur atburður segðarinnar í gegnum sín tjáningarfullu merki. Um leið tjá merki ástríðu okkar (eins og orð tungumála okkar), sem verða til í mismun sínum, samstöðu með ástríðum og merkjum fortíðarinnar, og leggja þannig grunninn að samstöðu og mismun framtíðarinnar.

Þú munt ekki finna hina algildu ást í neinu augntilliti eða orði; en getur þú kannski andmælt því að ástin gagnsýri sérhvert það orð og sérhvert augnatillit sem vilja sýna og tjá ástleitnina? Er atburður ástarinnar ekki einmitt fólginn í þessu, og engu öðru, jafnvel þótt hann sé í villu og villuráfandi í merkjum sínum? Hvaða ást vilt þú umfram þessa sem þú dvelur í raun og veru í, og getur íklæðst innan óbrúanlegra fjarlægða hins ófullgerða, langananna, eftirsjárinnar og minnisins? Það er einmitt ástin sem gerist, ef hún gerist, í villum hinna ástleitnu ástríðna, og hvergi annars staðar. Það er einmitt sannleikurinn sem gerist í villu sérhverrar ástríðu. Og kannski þyrftum við einnig að hugsa með sama hætti um hið eilífa líf; en til þess þyrftum við aðrar og sérhæfðar ástríður, þar sem ég verð að viðurkenna ólæknandi vanþekkingu mína.

%d