Carlo Sini:
Rökfræðin og orðið
(Heimspeki og frumspeki)
(Fyrsti kafli í ritverkinu Transito Verità frá 2012)
Fyrsta ímyndin
Merkið innritað og afmarkað
il segno iscritto e circoscritto[i]
Ímynd markalínu[ii]
Myndin af hinu innritaða og afmarkaða merki er hér notuð til að sýna and-frumspekina sem býr innan frumspekinnar en lætur sem hún standi utan hennar. And-frumspekin ímyndar sig reyndar staðsetta á utangarðs dómarasvæði andspænis frumspekinni, þaðan sem hún geti lagt mat á hana og afmarkað svæði hennar.
Reyndin er hins vegar sú að and-frumspekin er ein ímynd frumspekinnar.
Hins vegar þurfum við að afmarka það svið sem við skiljum sem „and-frumspeki“. Með mikilli og almennri einföldun má skipta henni í eftirfarandi þrjú lög, sem skilgreina má með eftirfarandi hætti:
„Þekking nútímavísinda“;
„Þekking nútímaheimspeki“;
„Þekking samtímaheimspeki“.
Þessi þrjú þekkingarsvið hafa öll til að bera and-frumspekileg einkenni eða mætast í þeim.
1.2. Vísindaþekking samtímans er and-frumspekileg vegna þess að hún spyr ekki „hvernig gengur manni á himninum“ heldur „hvernig gengur himininn“. Hún leiðir hjá sér spurninguna um undirstöðumerkingu þess sem við mætum (það sem frumspekin kallar veru) en veltir einvörðungu fyrir sér veruhætti hlutarins (sem er aðskilinn frá verunni).
Vísindaþekking nútímans setur staðbundnar orsakir í stað endanlegra orsaka og hið óvirka viðfang í staðinn fyrir ratio essendi (rök verunnar). Heimurinn „gengur“ og það er allt og sumt: við teljum okkur sjá hvernig gengur, ekki hvert skal ganga eða hvers vegna ganga.
Vísindaleg þekking nútímans setur aðferðina sem mælikvarða sinn en ekki kerfisbundna hugsun. Þess vegna gat hin nýja hugsun Galileo virst „rökleysa“ í augum skólaspekinganna: hún lagði meira upp úr „staðreyndunum“ en „skynseminni“, meira upp úr „tilraununum“ en „afleiðslunni“ og hinum vitrænu framsetningum. Hún setur staðbundnar orsakir í stað markmiðsbundinna orsaka, hlutleysið í stað ratio essendi (tilverurakanna)
Vísindaþekking nútímans er „sundurgreinandi“ (analitico) en ekki „samþættandi“ (sintetico). Hún nálgast allt með samsetningu partanna (þar sem allt er regluföst hugmynd, það er að segja leiðbeinandi aðferðarfræði) andstætt frumspekinni sem lítur á einstaka hluta sem part af heildarvirkninni.
Af þessum ástæðum hallast þekking nútímavísinda að því að styðjast við úthugsuð hugtök með algildum og hreinum táknum stærðfræðinnar (í raun iðkar hún stærðfræðilega umskrift á „raunveruleika“ almennrar reynslu. Hún hafnar hins vegar eftir fremsta megni þeirri umskrift yfir á samræðuform (trascrizione dialogica) sem tilheyrir hinni frumspekilegu röksemdafærslu.
Í stuttu máli: skynjuð reynsla, stærðfræðilegar sannanir og tilraunir andstætt röksemdafærslum, aðleiðslum og díalektískum röksemdafærslum.
1.3. heimspekileg þekking samtímans, það er að segja nútímaleg frumspeki, einkennist af tilraunum til að iðka kerfisbundna samkvæmni og endanlega að koma föstum grundvelli undir vísindaþekkingu samtímans.
Það liggur í eðli þessarar tilraunar að hún leiðir okkur til and-frumspekinnar að því marki sem hún mælir sig við hina vísindalegu mælikvarða, þar sem þess er krafist að sérhver rökvís tilgáta finni samsvörun og sönnun sína í „staðreyndinni“. En sú heildarsýn sem frumspekin gerir tilkall til, hinn algildi grunnur hennar, er í eðli sínu ósamræmanlegur og ósmættanlegur niður í „staðreyndir málsins“. Þessar grundvallar forsendur frumspekinnar reynast annars vegar hrapallega huglægar og tilviljanakenndar, hins vegar algjör óþarfi af hálfu vísindanna.
1.4. Hin forna frumspeki þurfti ekki að glíma við þessi vandamál. Hún mældi sig ekki við sjálfstæða vísindalega þekkingu, nema þá í minniháttar smáatriðum. Eina aðgreiningin sem hún glíndi við varðaði rök og reynsu (ragione e empiria) þar sem til dæmis flatarmálsfræðin (geometria) féll líka undir empiria eða reynsluheiminn vegna „tæknilegrar“ og sértækrar merkingar virkni hennar og hinna afmörkuðu viðfangsefna hennar miðað við hlutstæða eiginleika hinna „raunverulegu“ hluta. Þessi aðgreining rataði meðal annars inn í sjálfa frumspekina sem innlimaði alla mögulega þekkingu innan sinna marka. Það var því vandalaust fyrir hina fornu frumspeki að viðurkenna brotakennt og ágiskandi eðli yfirlýsinga sinna, þar sem um væri að ræða „mannasetningar“ er væru samkvæmt skilgreiningunni ávallt ófullkomnar miðað við þekkingu Guðs. Hin forna frumspeki flokkaði og skilgreindi veruleika reynslunnar og reyndi að skapa úr henni rökhugsun. Þekking hennar náði hámarki í viskunni, en ekki í þeirri þekkingu sem miðar að tæknilegum umbreytingum og virkni. Hugsun hennar beindist að bærilegu líferni og þolgæði gagnvart örlögunum. Nútímalegt bergmál slíkrar hugsunar birtist einkum á sviði „siðaboðanna“, (morale) sem sýnir að hin eina og sanna þekking hefur flutt sig um set, það er að segja á vit vísindanna.
1.5. Þekkingarímynd nútíma heimspeki má því draga upp hugmyndalega út frá þrem hnattlíkönum með sameiginlega miðju. Í miðjunni höfum við fyrsta hnattlíkanið, sem er hin frumspekilega þekking fornaldar. Utan um þetta líkan kemur hnattlíkan þekkingarsviðs nútímavísinda, sem vissulega á rætur sínar í hinum frumspekilega kjarna, en vex út frá honum. Síðasta hnattlíkanið er svið hinnar nútímalegu frumspeki: hjúpur sjálfsblekkingar sem hlutgerist í hreinu yfirskini vegna þess að í grundvallaráformum hennar rúmast engin varanleg og áþreifanleg markmið, heldur einvörðungu ítrekuð spenna, þar sem hið endanlega viðfang er hið ósegjanlega. (þetta þýðir ekki að slík spenna geti ekki getið af sér margvíslegar og dýrmætar vísbendingar, uppljómanir sem geta verið gefandi bæði fyrir heimspekina og vísindin.)
Þegar öllu er á botninn hvolft, þá reynist vísindaþekking nútímans (tré sem meðal greina sinna geymir einnig grein siðaboðanna (la morale)) óyfirstíganleg (intranscendibile). Heimspekiþekking nútímans hefur árangurslaust reynt að setja henni mörk (circoscrivere), og þar með að gefa henni fastan grundvöll: hin afmarkaða ímynd hennar endar alltaf með undanskoti eins x (einnar óþekktrar stærðar). Heimspekiþekking nútímans getur ekki annað en játað gjaldþrot frumspekinnar og endar þar af leiðandi í and-frumspekinni.
1.6. Heimspekiþekking samtímans með sinni yfirgnæfandi and-frumspekilegu tilhneigingu er fyrst og fremst afsprengi þeirra öfgakenndu frumspekilegu áætlana nútímans sem fólust í því að setja jafnaðarmerki á milli hins algilda og sinnar eigin þróunar, það er sögu sinnar og þar með „sögunnar“.
Þessi tilraun hefur haft í för með sér sólsetur hefðbundins skilnings á náttúrunni og andanum, á líkamanum og sálinni, sem hin forna frumspeki – fyrst sú heiðna en síðan hin kristna – höfðu byggt grunn sinn á. Þessi tilraun hefur haldið áfram inn í samtímann í erfiðri, en að lokum tapaðri, jafnvægisleit gagnvart hinum nýja vísindalega natúralisma.
Með þessu örlagaríka skrefi yfir í hið „sögulega“ algildi hefur nútíma heimspekiþekking gengist undir óbætanleg sambúðarslit gagnvart vísindaþekkingu samtímans, en í aðferðarfræðilegum heimi hennar reyndist ekkert rými fyrir merkingu fyrirbæranna, heldur einungis vélrænar tengingar orsakar og afleiðingar. Sú rökhugsun sem skilur, og sú rökhugsun sem skýrir, gengu í gegnum skilnað og héldu hvor sína leið.[iii]
Heimspekiþekking samtímans gerir ekki annað en að leiða fram öfgafyllstu afleiðingar þeirra röksemdafærslna sem fylgja söguskýringum nútímans. Mikilvægasti gjörningur hennar fólst í því að leiða hið söglega algildi inn í tilfallandi vef þróunarinnar, inn í framþróun-öfugþróun fyrirbæranna, og afneita þar með allri mögulegri handanveru innan marka röksemdar og skilnings.
Við sjáum þannig að allar ímyndir þekkingarinnar eru hagsmunatengdar, að sérhvert sjónarmið er túlkun, og þar af leiðandi að sérhver túlkun hefur skilyrt og endanlegt markmið. Á grundvelli þessarar röksemdafærslu hefur þekking nútímaheimspekinnar lýst yfir endalokum heimspekinnar sem „vísindi sannleikans“ (episteme tes aletheias) og ómöguleika hennar að tengjast „hlutnum í sjálfum sér“ (to pragma auto), það er að segja viðfangsefni heimspekinnar.
Sviðið er nú yfirtekið af afstæðishyggjunni, tómhyggjunni, díalektískri efnishyggju, pósitívisma svokallaðra félagsvísinda o.s.frv. Andspænis þessum niðurstöðum blossa síðan upp hvers konar and-rökhyggja, andatrú, handanhyggja (esotism) o.s.frv., hugmyndaheimar sem eru með sama hætti and-frumspekilegir og til þess fallnir að styrkja öldu tómhyggjunnar.
Þannig verður heimspekin þvinguð til að horfast í augu við takmörk sín (Grenze) í vonlausri baráttu, því endurvakin innri sýn hennar á skilyrtum takmörkum sínum fól í sér ómöguleika þess að yfirstíga þau , það er að geta loksins sagt eitthvað skynsamlegt um sjálf takmörkin sem hún hafði sett sér. Sérhver „eyðing“, „afbygging“ eða „smættun“ á rökleysu frumspekinnar gat ekki leitt til annarar niðurstöðu en þagnar hinnar heimspekilegu raddar (þagnar sem með þverstæðufullum hætti hefur eflt og styrkt flóðbylgju orðaflaums og heimspekilegra umræðna).
1.7. Sá staðfesti hringur sem heimspekiþekking samtímans hefur leiðst inn í mætti til dæmis líkja við þá mynd að verða að spíralhreyfingu er ætti upptök sín í hinum frumspekilega kjarna og reyndi án árangurs að snúa aftur til sjálfs sín.
Þetta merkir að and-frumspeki samtímaheimspekinnar reyndi að afmarka (circoscrivere) og skilja frumspekina, en að spíralhreyfingin hafnaði óhjákvæmilega innan marka hinnar frumspekilegu innritunar (iscrizione metafisica).
Á heildina litið getum við sagt að vísindaþekking samtímans og heimspekiþekking samtímans, sem báðar lýsa sig and-frumspekilegar, sýni í raun og veru sína djúpu málamiðlun með hinni frumspekilegu hugsun með því að standa að stærstum hluta innan marka hennar.
1.8. Vísindaþekking samtímans dvelur áfram í frumspekinni að því marki sem hún heldur sig kreddubundið við hina altæku sýn hennar en ástundar síðan hugtaksleg vinnubrögð (operazione concettuale) sem felast í að tefla titeknum raunveruleika í sjálfum sér („sjálfum hlutnum“) skilgreindum sem viðfang (oggetto) gegn þeirri huglægu mynd, sem talin er tilheyra gerandanum (il soggetto). Síðan heldur hún sig við þá rökvísi sem er innifalin í stafrófslegri virkni þar sem hinn skynjanlegi hluti merkisins stendur gegn hinum ofurskynnæma hluta táknsins (simbolo) ( eða gegn ofurskynnæmi lögmálanna og formúlanna).
Vísindastarf samtímans hefur engu að síður innleitt frelsun frá hinni frumspekilegu þekkingu (án þess að gera sér grein fyrir því) í krafti þess trausts sem hún leggur á ritmál stærðfræðinnar. Stærðfræðin framleiðir merki og „setningafræði“ (sintassi) þekkingar sem ekki er frumspekileg (með því að útiloka og sneiða markvisst hjá sérhverri þeirri spurningu eða tjáningu er gæti talist frumspekilegs eðlis), jafnvel þótt spurningarnar um hvernig, hvers vegna og til hvers séu að stærstum hluta skildar eftir í myrkri misskilnings og fávisku.
Iðkun hins stærðfræðilega ritmáls er í veigamiklum atriðum frábrugðin iðkun ritmáls stafrófsins, einnig hvað varðar áhrif þess sannleika sem hún leiðir í ljós, (þar með talin ímynd hlutanna (oggetti) og inntaksins (soggetti)). Þessi mismunur hefur í grundvallar atriðum ekki verið skilinn í samtímanum og ekki verið til umræðu eins og við mætum honum í daglegu lífi og í þekkingu þeirra Vesturlanda sem freista þess nú að kynna sig sem hnattrænan sannleika og „ópólitíska“ niðurstöðu sögunnar.
1.9. Heimspekiþekking samtímans dvelur með sínum hætti í frumspekinni vegna þess að „nei“ hennar kallar augljóslega fram spegilmynd frumspekinnar sjálfrar.
Fyrst og fremst vegna þess að sérhver afneitun mælir sig við það sem hún afneitar. And-frumspekin deilir því sérstaklega með frumspekinni að sannleikurinn og þekking sannleikans eigi að vera „algild“ (assoluti): það er satt sem verður áfram satt og sönn þekking er sú þekking sem segir slíkan sannleika með viðeigandi hætti. Nærð og mótuð af sögulegri reynslu sinni og sögulegum anda hefur heimspekiþekking samtímans engu að síður lýst því yfir, að hvergi og aldrei hafi sá sannleikur verið uppi sem reynst hefur varanlegur, og því beri að viðurkenna að öll þekking og allir sannleikar séu „afstæð“.
Þessi háttur skynjunar og rökhugsunar (hvort sem hann er opinskár eða undirliggjandi) sýnir sjálfkrafa að sá mælikvarði sem heimspekiþekking samtímans leggur á sannleikann fer í einu og öllu eftir þeirri ímynd sannleikans sem talin er hæfa hinni frumspekilegu þekkingu: „Við vitum það nú að sannleikurinn er afstæður, það er að segja ekki algildur“. Þannig er því haldið fram að til þess að sannleikurinn geti verið sannur þurfi hann að vera algildur eins og frumspekin heldur fram. Þetta er eini skilningurinn á sannleikanum sem heimspekiþekking samtímans er fær um að hugsa samkvæmnt sínum and-frumspekilega vilja: þannig ætti sannleikurinn að vera; en því miður (eða sem betur fer samkvæmt annarri útgáfu, sem reynist reyndar einungis sálfræðileg eða fagurfræðileg eða siðferðileg, og því „ekki-heimspekileg“ því hún á sér enga forsendu) þá er þessi sannleikur ekki til.
Í annan stað má segja að þar sem and-frumspeki nútíma heimspekiþekkingar hafi ekki losað sig í einu og öllu við skilning frumspekinnar á sannleikanum, þá endurskapi hún í sjálfri sér þá þversögn sem hún afneitar í frumspekinni: að láta sem hún tali algilda sannleika til þess að uppgötva svo að þeir eru afstæðir. Reyndin er sú að heimspekiþekking samtímans heldur því fram að allir sannleikar séu afstæðir, til dæmis vegna þess að allt sé túlkun, og heldur þannig fram algildri fullyrðingu sem er í sjálfri sér frumspekileg. Það er fullyrðing sem ómerkir sjálfa sig í inntaki sínu (and-frumspeki sem er ekki annað en „þverstæðufull frumspeki“). Sannlerikurinn er sá að heimspekiþekking samtímans lýsir því yfir að hún vilji vera „endanleg hugsun“ og tilheyra „endanleikanum“ en hún hefur ekki hugmynd um hvað slíkt merkir, né hvernig það sé framkvæmanlegt.
Í þriðja lagi má segja að viðvera and-frumspekinnar í frumspekinni varði ekki einungis hið tjáða innihald, þar sem niðurstöðunum virðist beinlínis snúið á haus (ekki að sannleikurinn sé einn, heldur séu þeir margir, að grundvöllurinn sé ekki algildur heldur afstæður o.s.frv.). Við það bætist (enn djúpsóttara) að slík viðvera felur í sér algjör sammæli um frumspekilega iðkun og orðanotkun. Öll „gagnrýni“ and-frumspekinnar leysist upp í áreynslulausri og ótruflaðri framkvæmdinni, í „hinum rökvísa huga“ í hinni „altæku yfirsýn hugtaksins“, í sundurgreinandi-samþættandi röksemdafærslu hinnar stafrófsbundnu hugsunar[iv], í hinni verufræðilegu tvíhyggju „merkisins-hins merkta“ eða „orðsins-hlutarins“ o.s.frv. Öll þessi dæmigerðu hugsanamynstur merkingarinnar í iðkun frumspekinnar eru meðtekin sem „augljós“, sem vandkvæðalaus gildi óumdeilanlegrar orðræðu, sem á endanum fela í sér fulla friðsemd gagnvart „raunveruleikanum“ sem menn telja sig geta vísað beint til á þessu rökfræðilega slangurmáli frumspekinnar, sem and-frumspekin hefur tileinkað sér ómeðvitað. And-frumspekin rökræðir í raun, andmælir, skilgreinir, sýnir og sannar og í öllu þessu hugsanalega látbragði sínu fer hún sér að óvöru, eins og slíkt hefði alltaf verið „eðlilegt“ til þess að tengjast sannleikanum eða afneita honum, rétt eins og ekkert annað viðfangsefni væri á dagskrá, né annað orðfæri í boði, sem varðaði sannleikann.
Heimspekiþekking samtímans lætur sem hún segi skilið við frumspekina eða taki stöðu gegn henni án þess þó að hún þurfi að hafa klæðaskipti eða taka upp annað ritmál en þau sem iðkun frumspekinnar hefur alltaf notað.
[i] Hugtökin iscritto og circoscritto eru skilgreind frekar í textanum. Þau merkja bókstaflega það sem er „innritað“ og „umritað“. Það sem er „innritað“ er það sem er innan tiltekinna marka eða tiltekinnar eigindar. Það sem er „umritað“ hefur verið afmarkað og skilgreint utanfrá, utan marka viðfangsins. Viðfangsefnin sem hér er átt við og eru meginefni þessa texta eru frumspekin (metafisica) og and-frumspekin, sem telur sig standa utan frumspekinnar, en Sini sýnir fram á að svo er ekki: and-frumspekin stendur jöfnum fótum innan garðs og utan, án þess að gera sér grein fyrir því.
[ii] Verkið Transito Verità – Figure dell‘enciclopedia filosofica er V. Bindi heildarritsafns Carlo Sini, Opere. Ritsafnið er fyrirhugað í VI bindum, en hvert „bindi“ (volume) skiptist síðan í tvö „hefti“ (tomo) ( Heildarritsafnið er því 11 „hefti“, hvert um sig um 3-400 bls. nema V. Bindið sem er eitt „hefti“ upp á 1021 bls. Nú eru 6 „hefti“ útgefin og 5 í vinnslu). Allt ritsafnið kann að virðast flókið í uppbyggingu sinni, en það hefur að geyma úrval verka Sini ekki út frá beinni tímaröð, heldur frekar út frá viðfangsefnum. Engu að síður lítur hann á Opere sem sjálfsævisögulegt heildarverk í þeirri merkingu að það segi ekki bara frá viðfengsefnunum, heldur endurspegli glíma hans við þau líka sjálfsæfisögu hans. V. Bindið er hugsað sem alfræðirit um 6 efnisflokka sem skiptast í 6 „bækur“ (libro 1-6): frumspeki, sálfræði, atferlisfræði, mannfræði, heimsmyndafræði og uppeldisfræði. Sérhver þessara „bóka“ í Transito Verità skiptist síðan í 9 undirkafla sem höfundur kallar „figura“, sem hér er þýtt sem „ímynd“. Sá „ímyndarkafli“ sem hér hefur verið þýddur er „Fyrsta ímyndin – hið innritaða og umritaða merki. Ímynd markalínunnar“. Markalínan sem hér um ræðir er markalína frumspeki og and-frumspeki.
[iii] Höfundur á hér við ósættanlegan ágreining fyrirbærafræðinnar í heimspekisögu nútímans annars vegar og vísindahyggju samtímans hins vegar.
[iv] „hin stafrófsbundna hugsun“ er orðanotkun sem geymir einn mikilvægasta þáttinn í rannsóknarstarfi Carlo Sini og varðar tilurð tækninnar, mannlegs tungumáls, ritmálsins og siðmenningarinnar. Carlo Sini leggur þann skilning í tæknina að hún sé ekki afurð mannsins, heldur sé hann fyrst og fremst sjálfur afurð tækninnar og mótaður af henni frá upphafi vega. Mikilvægasta byltingin í langri þróunarsögu tækininnar er að sögn Sini tilkoma tungumálsins, sem er ekki meðfætt manninum heldur „esosomatískt“ fyrirbæri (utan líkamans) rétt eins og fyrstu áhöldin. Önnur mikilvægasta tæknibyltingin á Vesturlöndum er tilkoma þess ritmáls sem byggir ekki á myndrænum vísunum (myndletri) heldur hljóðum raddarinnar, en það er „ritmál stafrófsins“, sem var á sínum tíma grísk uppfinning.
Kynningarmyndin er koparstunga eftir Cornelis Cort: Grammatica (Málfræðin) frá 16. öld.