Getur heimspekin leitt sundraða heimsmynd samtímans til sameiginlegs skilnings komandi kynslóða?
Frásögn af lokafyrirlestri Carlo Sini 17. September s.l.
Nýverið birti ég á Facebook nokkrar fréttir af hinni árlegu „Heimspekihátíð“ sem haldin var í Modena á Ítalíu 15. – 17. september síðastliðinn og var þetta árið helgað listum: „Festival filosofia sulle arti“ Hátíð þessi er menningarviðburður sem á sér varla hliðstæðu í Evrópu eða á Vesturlöndum, þar sem heimspekiumræðan hefur lokast inni í þröngum hóp sérfræðinga er tala og rita sérhæft tæknimál sem allur almenningur á erfitt með að tengja sig við. Slík sérhæfing er aftur á móti eitt af einkenum samtíma okkar, þar sem vísindin og orðræða þeirra hafa einnig lokast inni í þröngum sérfræðisviðum sem talast varla við sín á milli og listirnar hafa einnig einangrast við þrönga áhugamannahópa sem stundum líkjast sértrúarsöfnuðum. Í þessu ljósi hlýtur það að teljast til tíðinda að um 170.000 manns hafi sótt fyrirlestra, sýningar og atburði er tengjast heimspeki og listum (þar af um 90.000 þátttakendur í heimspekifyrirlestrum) þar sem fram komu 52 sérfræðingar og háskólakennarar frá 7 löndum, þar á meðal flestir virtustu heimspekingar á Ítalíu auk fræðimanna á öðrum sviðum.
Samkomur voru flestar utan dyra á torgum í Modena (140 þús. Íbúar)og nágrannabæjunum Carpi (70 þús.) og Sassuolo (40.þús.), en einnig voru listagallerí og kirkjur lögð undir hátíðina og fleiri opinberar byggingar. Það virðist ekki hafa haft áhrif á þessa hátíð að veðrið var undir væntingum, því almenn þátttaka var sambærileg við síðasta ár. Þótt ég hafi lagt mig fram um að sækja sem flesta viðburði þetta árið, þá varð ég að láta mér nægja lítið brot af dagskránni,sem var afar fjölbreytt. Á þrem dögum sótti ég 7 fyrirlestra sem tóku um 2 klst. hver að meðtöldum umræðum og fyrirspurnum.
Hér á eftir langar mig til að freista þess að endursegja í stuttu máli efni þess fyrirlesturs sem mér þótti hvað áhugaverðastur, rétt til að gefa lesendum þessarar vefsíðu hugmynd um eða sýnishorn af því sem þarna fór fram. Carlo Sini hélt lokafyrirlestur hátíðarinnar á aðaltorginu í bænum Carpi við sólarlag. Það kólnaði í veðri við sólarlagið en það hafði ekki áhrif á 3-4 þúsund áhorfendur sem fengu sæti á Torgi píslarvættanna í Carpi.
Carlo Sini er prófessor emeritus í fræðilegri heimspeki viðháskólann í Milano, fæddur1933. Hann er enn mjög virkur í sínu fagi sem fyrirlesari og frá honum koma ný fræðirit nánast á færibandi, það síðasta (L‘Inizio) 2016. Þá er endurskoðuð heildarútgáfa á verkum hans langt komin, það nýjasta af áformuðum 11 bindum kom út á þessu ári (Lo spazio del segno).
Carlo Sini er þekktur fyrir framlög sín til þeirra þátta heimspekinnar sem kenndir eru við fyrirbærafræði og pragmatisma. Þar hefur hann meðal annars lagt áherslu á mannfræðilega þætti er varða uppruna þekkingarinnar, tungumálsins og stafrófsins, rannsóknir sem hafa leitt hann að upprunasögu mannsins sem tengjast með vissum hætti rannsóknum Darwins, þó nálgun hans sé gjörólík. Meðal heimspekinga sem hann hefur fjallað um með eftirminnilegum hætti eru Hegel, Husserl, Nietzsche, Heidegger, Spinoza, Merleau-Ponty og Derrida auk þess sem bandarísku heimspekingarnir Charles Sanders Peirce og Alfred North Whitehead hafa haft mótandi áhrif á hina frumlegu tengingu fyrirbærafræðinnar við bandarískan pragmatisma, sem finna má hjá Sini.
VINNAN SEM LIST ÞEKKINGARINNAR
Sini hélt því fram í upphafi að vinna list og þekking væru öll af sama toga og leiddi okkur þannig strax að grundvallarspurningunni um upprunann, sem er gegnumgangandi í öllum verkum hans. Spurningar eins og „hvað er vinnan?“ og „hvað er þekkingin?“ og „hvað er maðurinn?“ vísa út fyrir hina tæknilegu orðræðu og leiða Sini að upprunasögu mannsins og menningarinnar, og þar með að möguleika hins sameiginlega tungumáls allra manna. Sú einangrun einstakra sviða sem viðgengst í tæknimenningu samtímans er ekki gömul sögulega séð eða innan við 300 ára. Heimspekingur eins og Immanuel Kant taldi sig hafa heildaryfirsýn er náði til allra þessara þátta. Við höfum hins vegar ekki lengur nothæf tæki til slíkrar yfirsýnar í samtímanum sagði Sini, og varpaði um leið fram spurningunni hver væri skilgreining á hugtakinu tæki eða áhald (strumento).og hver væri skilgreiningin á hugtækinu vinna (lavoro), en hvort tveggja væri augljóslega nátengt.
Þegar hagfræðin skilgreinir fyrir okkur vinnuna talar hún um afköst hennar en ekki upprunann. Við þurfum að ganga lengra og spyrja til dæmis hvers vegna vinnan sé það sem einkennir manninn en ekki dýrin, og hvernig hún hafi í upphafi skilið þar á milli.
Vinnan byggir á tækninni sem maðurinn hefur áunnið sér með því að notfæra sér áhöldin, og þannig leiðir Sini okkur að skilgreiningu á áhaldinu (strumento), sem hann skilgreinir gjarnan út frá trjágreininni sem frummaðurinn nýtir sér sem eins konar framlengingu á handleggnum. Við vitum að ýmsar apategundir kunna að nota sér trjágreinar til að slá niður ávexti af trjám eða jafnvel til að veiða termíta sér til matar, en maðurinn tileinkaði sér trjágreinina eða stafinn með öðrum hætti, sem greinir hann frá dýrunum.
Trjágreinin verður honum tæki til margvíslegra nota og hann kastar henni ekki frá sér jafnóðum og hún hefur fært honum tiltekið viðfang, heldur safnar hann greinum og gefur þeim víðtækara notagildi sem stafur, barefli, stunguvopn o.s.frv. Stafurinn verður manninum framlenging á handleggnum og miðill á milli hans og heimsins og hefur þannig ekki einskært gildi hlutar meðal hluta.
Sini segir að elstu merki um tilgerð áhöld séu tilhöggnir steinar sem séu allt að 2 miljón ára gamlir. Það er með tilkomu áhaldanna og þar með vinnunnar sem maðurinn verður til. Maðurinn er mótaður af áhöldum sínum og tækjum sem virka eins og miðill á milli hans og náttúrunnar, og því getum við sagt að maðurinn tilheyri ekki „náttúrunni“ heldur tækninni. Það er tæknin sem skilur á milli mannanna sem lifa af í krafti áhaldanna og vinnunnar og dýranna sem lifa af í krafti eðlishvatarinnar.
Þess vegna hefur Heidegger rangt fyrir sér í grundvallaratriðum þegar hann segir í ritgerð sinni um tækninna að maðurinn sé „ávalt fangi tækninnar og á valdi hennar, hvort sem við tökum henni fagnandi eða formælum henni með vanþóknun.“ Maðurinn stendur ekki andspænis tækninni eins og utanaðkomandi afl, hann er sjálfur afurð hennar og því þurfum við að byrja á áhaldinu ef við viljum skilja hvað maðurinn er.
Trjágreinin (svo dæmi sé tekið) er „esosomatísk“ framlenging líkamans, hún er ekki hlutur í sama skilningi og tréið, hún verður miðill á milli mannsins og náttúrunnar og sem framlenging handleggsins kennir hún manninum hvað handleggurinn er og hvaða möguleikum hann býr yfir.
Þegar maðurinn hefur uppgötvað möguleika trjágreinarinnar og þar með handleggsins verður hún að tæki sem skilur eftir sig afurðir. Einkenni vinnunnar er afraksturinn, umframgetan miðað við brýnustu þarfir, en einnig ný þekking mannsins á eiginleika og möguleikum líkamans, í þessu tilfelli handleggsins. Apinn kastar frá sér greininni um leið og hann er búinn að seðja sig á banana eða termítum og veit ekki hvað hún er eða hvað hún felur í sér. Frummaðurinn sem hefur komið sér upp og heldur til haga safni sérhæfðra trjágreina til að læra á náttúruna og möguleika líkamans er það sem Sini kallar „homo abilis“, (hinn hæfi maður), hann hefur tileinkað sér vinnu sem skilur eftir afrakstur og þekkingu, en þennan mann skortir það tæki sem kallað hefur verið „tæki tækjanna“, það tæki sem er æðra öllum öðrum, en það er tungumálið. Það er með tungumálinu sem maðurinn verður „homo sapiens“ eða hinn skyni gæddi maður, sem kann að greina á milli góðs og ills, á milli sannleika og lygiog kann að greina á milli áhalds og hlutar.
Sini telur sig hafa heimildir fyrir því að tungumálið hafi orðið til fyrir um 300 þúsund árum. Það gerist í kjölfar þess að maðurinn fór að ganga uppréttur og frelsaði þannig bæði hendur og munn frá öðrum verkefnum. En orðið virkar í vissum skilningi eins og trjágreinin: það verður miðill á milli mannsins og náttúrunnar og skapar samfélag: ópið getur sagt frá aðsteðjandi hættu rándýra sem allir bregðast við með sama hætti. Það er sambærilegt við það þegar nýburinn uppgötvar að óp hans kallar á athygli og svörun hinna fullorðnu. Orðið kallar á sameiginlegan skilning á hlutunum, hvað er trjágrein, hvað er hlutur og hvað er lifandi dýr. Orðið kennir manninum líka hvað dauðinn er handan við skilning dýranna: líkami sem ekki talar lengur, hefur glatað „anda“ sínum.
Í kring um tungumálið myndast sameiginlegur skilningur, („religio“ sem merkir bókstaflega samtenging), samfélag sem leiðir til myndunar helgiathafna í kring um dauðann, sem einnig greina manninn frá dýrunum. Maðurinn býr til vinnu í gegnum orðin, orðin yfir áhöldin og afraksturinn. Orðin yfir muninn á hinum lifandi líkama og hinum dauða, orðin yfir hlutina og áhöldin sem eru ólík að því leyti að áhöldin búa yfir möguleika afrakstursins og efla líkamann. Það sem gerir orðið að konungi áhaldanna er algildi þess: Orðið steinn skilgreinir alla heimmsins steina. Þessi töframáttur orðsins á sér aðeins eina hliðstæðu í menningarsögunni: peningnum sem getur gilt fyrir alla hluti.
Vísindin segja okkur gjarnan að það séu talstöðvar og taugafrumur í líkamanum sem láti manninn tala, en því er ekki þannig varið: tungumálið talar okkur. Þar hafði Heidegger rétt fyrir sér. Tungumálið verður til sem hljóðmál í gagnvirkum samskiptum manna og náttúru, það er sjálft afurð vinnunnar en ekki taugafrumanna og maðurinn lærir hvað hann er í gegnum tungumálið en ekki öfugt. Eftir því sem orðaforði okkar eykst, eykst möguleikinn til þekkingar og sjálfseflingar.
Út frá tungumálinu myndast orðræðan sem afurð almenns sammælis um merkingu hljóðanna og hún öðlast þannig altæka merkingu sem gerir það að verkum að tungumálið er ofar öllum öðrum tækjum eða áhöldum mannsins (gildi trjágreinarinnar verður alltaf takmarkað). Það sem allir skilja myndar „religio“, það sem „bindur saman“. Þannig myndast samfélag, þannig verða til trúrabrögð, fjölskyldur, ættbálkahópar, ríkjaheildir og lýðræði.
Sini sleppti því hér að tala um það sem honum hefur orðið tíðrætt um og hann hefur túlkað með nýjum hætti, en það er tilkoma stafrófsins og ritmálsins í sögu tungumálsins. Þar hefur hann sýnt fram á hvernig myndletur og táknmál sameinuðu með sérstökum hætti hljóð og mynd – myndletrið fól hvort tveggja í sér. Með tilkomu gríska stafrófsins verður vestrænt ritmál til, ritmál sem vísar með sértekningu til hljóðanna einna og fjarlægist þannig beina tengingu við hlutveruleikann enn meir. Um þetta hefur Sini skrifað lærðar bækur, en hér lætur hann sér nægja að vísa til Sókratesar:
Við erum öll afkomendur Sókratesar, segir hann, afkomendur heimspekingsins sem notfærði sér ekki ritmálið og talaði blaðalaust, en innleiddi engu að síður vesturlenska rökhugsun sem Platon útfærði í ritverkum sínum. Sókrates gerði líka annað: hann steig skref til baka á duðadegi sínum, þegar hann minnti lærisveinana á skuld sína við Aeskliplos, guð læknislistarinnar, og bað þá um að færa guðinum lifandi hana sem fórnargjöf í þakklætisskyni fyrir að fá að deyja. Þar steig hann skref til baka miðað við boðaða rökhyggju og kom til móts við „hleypidóma“ forfeðranna. Þessi ósk Sókratesar gekk á skjön við afhjúpun hans á hleypidómum goðsagnanna og trúarbragðanna í gegnum rökhugsunina, og markaði viðleitni til að viðhalda tengslum við fortíðina og upphafið.
Það hvarflar ekki að okkur, sagði Sini, að efast um ávinninga vísindanna og tækninnar, við vitum að jörðin stendur ekki kyrr og okkur kemur ekki til hugar að hverfa frá heimsmynd Kóperníkusar aftur til heimsmyndar Tolomeusar. En sú mynd er engu að síður hluti af arfleifð okkar. Við getum ekki annað en virt ávinninga þeirrar sérþekkingar sem tæknimenningin hefur fært mannkyninu, sérhæfni eðlisfræðingsins, læknisins eða listamannsins. En um leið vitum við að til eru ólíkir menningarheimar á okkar tímum og ólíkir afkimar í okkar samfélagi sem búa við ólíkar orðræðuhefðir, ólík „religio“, sem hafa sammælst um ólíkar myndir af heiminum. Þetta sambandsleysi hinna aðskildu hólfa gerir okkur til dæmis erfitt fyrir að tala við unga fólkið okkar: það ber sig að eins og „homo abilis“, sá sem hefur áhöldin við hendina en skilur ekki tilurð þeirra sem afurð langrar þróunarsögu.
Heimurinn er stöðugt umbreytingarferli sem breytist fyrir tilverknað hvers og eins. Það er ekki eðlisfræðin eða erfðafræðin eða hinar ólíku sérgreinar sem breyta heimi okkar. Það er í raun ósýnilegt vald sem stýrir þessu öllu, vald sem er ósýnilegt vegna þess að það byggir á hegðun, hugsun og vinnu hvers og eins og okkar allra. Breytingar sem birtast í nánasta umhverfi okkar þannig að við sækjum til dæmis hvorki þekkingu né þjónustu með sömu aðferðum og fyrir nokkrum árum. Það er ný tækni sem leysir eldri samskiptanet af hólmi, það er ný aðferð að nálgast bækur og ný aðferð til að lesa.texta o.s.frv. Heimurinn breytist í það óendanlega fyrir tilverknað sameiginlegrar vinnu okkar allra í gegnum áhöldin. Það er þar sem hið ósýnilega vald liggur í vali, atferli og vinnu hvers og eins. Vinnu sem skilur eftir sig þann afrakstur sem við færum komandi kynslóðum.
Sjálf heimspekin er einnig eitt form „religio“. Form sammælis og átrúnaðar sem breytist og umbreytir sér með tímanum í gegnum þá vinnu sem mennirnir framkvæma og í gegnum þá þekkingu sem vinnan gefur af sér. Spurning okkar nú er, hvernig við getum fundið þann sameiginlega menningarlega grundvöll, sem nær að sameina ólíkra menningarheima og ólíkra þekkingarheima í eitt samfélag, eina sameiginlega orðræðuhefð, eitt „religio“? Samræðugrundvöll sem getur átt sér farveg í öllum hinum ólíku sviðum sérhæfingar og hefða sem samtími okkar býður upp á?
Ég er þeirrar skoðunar að mikilvægur áfangi í áttinni að lausn slíks verkefnis gæti falist í framsetningu einnrar einfaldrar en aðkallandi spurningar:
Hvað er að gerast hér og nú á þessari stundu?
Er sá sem hér talar af þessum ræðupalli að segja sannleikann?
Stendur hann kannski í þeirri trú sjálfur, vegna umburðarlyndis og kurteisi ykkar áhorfendanna?
Nei, kæru vinir. Ef við hugsum til þess sem sagt var í upphafi, að maðurinn væri afurð vinnunnar og tækninnar, hinnar óendanlegu framþróunar áhaldanna, þá er orðræða hinna vitru, orðræða páfans og orðræða heimspekinnar afurð sameiginlegrar vinnu allra. Einnig sú orðræða sem hér er höfð í frammi. Þessi orðræða okkar er afurð sameiginlegrar vinnu allra manna, einnig þeirra sem aldrei hafa hugleitt að taka þátt í heimspekilegri umræðu eins og þessari. Ég tala svona vegna þess að maðurinn talar svona árið 2017. Ég tala hér með þeim áhöldum sem kynslóðirnar hafa fært okkur með vinnu sinni og get ekki annað. Ég nota þau áhöld sem kennarar mínir hafa fært mér, en ég tala ekki eins og þeir. Með allri virðingu minni fyrir Heidegger og því sem hann hefur kennt mér, þá get ég ekki talað eins og hann, sagt eins og hann, að við þurfum að taka rétta afstöðu til tækninnar sem utanaðkomandi afls.
Nei, kæru vinir, það er tæknin sem hefur gert manninn að því sem hann er, og hún mun halda því áfram. Við þurfum að gangast undir þessa staðreynd. Um leið og við virðum þá stórkostlegu sigra og ávinninga sem tæknin hefur fært okkur á sínum ólíku sviðum getum við ekki haldið áfram að loka okkur inni á sérsviði hvers og eins, hagfræðingurinn í sinni hagfræðiholu, taugalíffræðingurinn í sínum lokaða heimi, erfðafræðingurinn í sínum heimi og listamaðurinn í sínum. Öll sú vinna mun vissulega skipta miklu máli og hafa mikil áhrif á framtíðarmótun mannsins, en þau áhrif byggjast ekki á hinum einangruðu heimum sérhæfingarinnar, eðlisfræðinnar, efnafræðinnar eða listarinnar, heldur á hinni sameiginlegu vinnu allra.
Heimurinn breytist í það óendanlega fyrir tilverknað hvers og eins -eins og Hegel hafði kennt okkur, og það gerist fyrir tilverknað sameiginlegrar vinnu okkar allra í gegnum áhöldin. Það er þar sem hið ósýnilega vald liggur í ósýnilegu vali og atferli og vinnu hvers og eins. Vinnu hvers og eins sem skilur eftir sig þann afrakstur sem við færum komandi kynslóðum. Það er í gegnum þátttöku okkar í þessari altæku en ósýnilegu vinnu okkar allra sem við verðum það sem við erum. Það eru hinir smáu og einangruðu hlutir sem fá okkur til að skipta um skoðanir, en þeir eru smámunir miðað við þann altæka þunga sem liggur á bak við hið ósýnilega vald.
Sú list þekkingarinnar sem við tileinkum okkur í gegnum áhöldin á sér engin endimörk. Þess vegna vil ég leggja fyrir sérhvert ykkar eina spurningu:
hvernig getum við byggt upp menningu án endimarka?
Ég get líka orðað hana meira í ætt við orðfæri Nietzsche:
hvernig getum við gengið inn í sólarlagið með sómasamlegum hætti? Hvernig getum við játast undir eigin endalok og eigin viðskil (transito)? Hvernig getum við sem byggjum hið liðna (því einnig tungumál okkar tilheyrir hinu liðna), hvernig getum við afhent það komandi kynslóðum án þess að halda fast í eignarrétt okkar, afhent hið liðna með örlæti gjafarinnar til þeirra sem eiga eftir að taka sér bústað í þessum merkjum okkar, í þessum trjágreinum (þ.e. áhöldum) okkar, eiga eftir að leiða þau eftir bestu getu til eins mögulegrar einingar og frekast er unnt, án átaka og í fullkomnu örlæti, hvernig förum við að því að skapa slíka menningu og slíka politík?
Það eina sem ég get sagt er að ef heimspekin tekst ekki á við þetta verkefni, þá er hún ekki heimspeki.
Takk fyrir áheyrnina.
Forsíðumyndin er af Torgi píslarvottanna í Carpi, þar sem Carlo Sini var að tala 17. september s.l.
Myndskeiðið er frá fyrirspurnartíma í lok málflutnings Carlo Sini.
Þessi frásögn er tilraun til styttrar endursagnar á mun lengri fyrirlestri