Námsefni fyrir Listaháskólann
Roland Barthes:
Bjarti klefinn / La chambre claire
Kafli 38 úr „Hugleiðingum um ljósmyndun“
Allir þessir ljósmyndarar sem eru að störfum í heiminum, staðráðnir í að höndla það sem er að gerast, gera sér ekki grein fyrir að þeir eru boðberar Dauðans. Þetta er aðferð okkar tíma til að meðtaka Dauðann: með afneitandi fjarvistarsönnun þess sem er óafvitandi „lifandi“ og ljósmyndarinn er sérfræðingur í. Því ljósmyndunin þarf á sérstakri sögulegri tengingu að halda við það sem Edgar Morin kallar „kreppu dauðans“ og hófst um miðbik nítjándu aldar. Í stað þess að tengja tilkomu ljósmyndarinnar stöðugt við tilfallandi félagslegar og efnahagslegar aðstæður hefði ég frekar kosið að tengja tilkomu hennar einnig við mannfræðilega stöðu Dauðans og þessa nýja myndmáls. Dauðinn verður að eiga sinn stað í samfélaginu, og ef hann á sér ekki lengur (eða í minni mæli en áður) griðarstað í trúarbrögðunum, þá kallar hann á nýjan stað, til dæmis í þessari mynd sem framleiðir Dauða á meðan hún leitast við að varðveita lífið.
Samhliða því að helgisiðirnir hverfa í skuggann gæti ljósmyndunin samsvarað innrás hins táknlausa Dauða í okkar nútímalega samfélag, þess dauða sem stendur utan trúarbragðanna, utan helgisiðanna eins og skyndileg sunddífa ofan í hinn bókstaflega dauða. Líf / Dauði : þetta viðmið hefur verið smættað niður í einfaldan smell, þennan smell sem skilur upprunalegu uppstillinguna frá hinni endanlegu framköllun.
Með Ljósmyndinni höldum við innreið inn í hinn flata Dauða. Dag nokkurn þegar ég var að yfirgefa kennslustofu mína sagði einn nemandi við mig með vanþóknunartóni: „Þér talið um Dauðann á mjög flatan hátt.“ – Rétt eins og hryllingur dauðans væri ekki einmitt fólginn í flatneskju hans!. Hryllingurinn er þessi: ekkert að segja um dauða þeirra sem ég elskaði mest, ekkert að segja um ljósmynd þeirra sem ég hugleiði án þess að nokkurn tíman komast að kjarna hennar, umbreyta henni. Eina „hugsunin“ sem ég get nálgast er sú, að á eftir þessum fyrsta dauða hafi minn eigin dauði verið innritaður og að á milli þeirra sé ekkert annað en biðin. Ég hef ekkert annað haldbært en þessa kaldhæðni: að tala um „ekkert að segja“.
Eini möguleiki minn til að umbreyta Ljósmyndinni er höfnunin: annað hvort skúffan eða ruslakarfan. Hún á sér oftast ekki bara sömu örlög og pappírinn (endingarleysið), því jafnvel þó hún sé fest á sterkari undirstöðu þá er hún samt ofurseld eyðileggingunni: rétt eins og lífrænn vefur þá sprettur hún upp af silfurkorninu, blómstrar á yfirborðinu stundarkorn, eldist síðan og deyr… Hún fölnar, veiklast og hverfur undan áreiti ljóssins og rakans, hún er ekki til annars en að kasta henni í ruslið.
Eldri samfélög sáu til þess að minnið, sem er staðgengill lífsins, væri ódauðlegt, og að minnsta kosti þeir hlutir sem töluðu máli Dauðans væru í sjálfum sér ódauðlegir. Þannig var Minnisvarðinn.
Samfélag nútímans hefur afneitað Minnisvarðanum með því að gera hina (dauðlegu) Ljósmynd að almennum og á vissan hátt náttúrlegum vitnisburði um „hið liðna“.
Hér höfum við þversögn: sama öldin fann upp Söguna og Ljósmyndina. En Sagan er tilbúin minning samkvæmt ákveðnum formúlum sem eru hrein vitsmunaleg orðræða er afnemur hinn goðsögulega Tíma – og Ljósmyndin er viss flóttalegur vitnisburður hennar. Þannig er allt á okkar tímum eins og undirbúningur okkar kynslóðar fyrir þetta getuleysi: að glata mættinum til að skynja varanleikann með táknrænum eða tilfinningalegum hætti. Tími Ljósmyndarinnar er líka tími byltinga, andófs, morða og sprengjutilræða, í stuttu máli tími óþols, timi alls þess sem afneitar þroskaferlinu. – Það leikur enginn vafi á því að undrunin yfir „einu-sinni-var“ á einnig eftir að hverfa. Hún er þegar horfin: Ég veit ekki hvers vegna, en ég er einn af síðustu vitnisburðum hennar (vitnisburður hins ótímabæra), og þessi bók er forneskjuleg ummerki þess.
Hvað er það sem við sjáum hverfa ásamt með þessari gulnuðu ljósmynd sem dofnar og mun einn góðan veðurdag hafna í ruslinu – ef ekki af mínum völdum, (of hjátrúarfullur til þess), þá í það minnsta þegar ég dey? Það er ekki bara „lífið“ (þessi voru lifandi, sátu lifandi fyrir linsunni), heldur einnig, -hvernig eigum við að orða það? – líka ástin.
Andspænis einu ljósmyndinni sem ég get fundið af föður mínum og móður saman, af þessu pari sem ég veit að elskaði hvort annað, andspænis þessari mynd geri ég mér grein fyrir þessu: þetta er ástar-dýrgripur sem mun glatast að eilífu, því um leið og ég er farinn mun enginn annar lengur geta borið þessu vitni: ekkert verður eftir nema tillitslaus Náttúran.
Þetta er svo átakanlegur og óbærilegur holskurður að einungis í þessari öld ljósmyndarinnar skynjaði Michelet Söguna sem Andmæli ástarinnar: í því skyni að viðhalda ekki bara lífinu, heldur einnig því sem hann kallaði með sínu úrelta orðalagi hið Góða, Réttlætið, Eininguna, o.s.frv.
Forsíðumynd: Alexander Gardner: Lewis Paine, dauðadæmdur fangi, 1863