CARAVAGGIO OG DAUÐINN
Námsefni fyrir Listaháskólann
Textabrot úr ritgerðinni Il „realismo“ nella poetica del Caravaggio eftir Giulio Carlo Argan
Eftirfarandi textabrot er frá árinu 1956 og birtist fyrst í ritinu Scritti di Storia dell‘Arte in onore di Leonoro Venturi. Hér endursagt úr ritgerðasafninu Immagine e persuasione – saggi sul barocco, útg. Feltrinelli 1986, bls. 147 – 160. Höfundurinn Giulio Carlo Argan (1909-1992) var einn áhrifamesti listfræðingur 20. aldarinnar á Ítalíu, höfundur margra fræðirita um listasögu og um menningarminjar Ítalíu. Hann gegndi stöðu borgarstjóra Rómar á árunum 1976-79 og skrifaði m.a. Storia dell‘Arte Italiana í 3 bindum frá 1968. Í skrifum Argans má greina áhrif frá svokölluðum „íkonologiskum skóla“ Warburg-stofnunarinnar í London og áhrif frá fyrirbærafræði Heideggers og Maurice Merleau-Ponty. Ritgerðin um svokallað raunsæi Caravaggios er skrifuð í anda þessarar módernísku hefðar og veitir einstaka innsýn í málaralist meistarans og hið byltingarkennda inntak hennar. Hér er einungis endursagt lítið (en mikilvægt) brot ritgerðarinnar sem varðar hugleiðingar Caravaggios um dauðann og málaralistina.
Caravaggio: Ávaxtakarfa, 1594-1598 (Natura morta)
….Ef sagan er fólgin í hinni lifandi náttúru getur það sem er handan hennar ekki verið annað en „kyrralífið“ eða „la natura morta“ (hin dauða náttúra).
Það er alkunna að þessi grein málaralistarinnar (la natura morta) á sinn uppruna hjá Caravaggio. Við getum rakið hina táknrænu frumspekilegu merkingu momento mori (áminningarinnar um dauðastundina) til skáldskaparlistar Caravaggios sem tryggur og stöðugur fylginautur hennar. Hlutirnir eru „sýnilegir“ vegna þess að gerðir mannanna hafa glatað gildi sínu, eru endanlegar. Nærvera eða ákall hlutanna felur í sér fjarveru mannanna, í „kyrralífsmyndunum“ (natura morta) eru hlutirnir ekki lifandi, heldur eftirlifendur (það sem eftir stendur).
Listgagnrýnendur sautjándu aldar eru sér fullkomlega meðvitaðir um að endalok málaralistar ímyndunaraflsins og sögumálverksins leiða sjálfkrafa til niðurstöðu „genre“-málverksins[i] og kyrralífsmyndanna. Þar er ekki um frjálst val að ræða, heldur óhjákvæmilega nauðsyn. Hvað getum við annars lesið út úr endalokum ímyndunaraflsins, uppfinninganna og sögunnar annað en endalok sjálfs lífsins? Hvað annað getur falist í þeim raunveruleika sem menn reka sig á sem endamörk, þeim raunveruleika sem ekki felur í sér framþróun, launsagnir eða túlkunarmöguleika, þeim raunveruleika sem er til staðar og ákallar en er þó ekki? (allavega getur hann ekki orðið viðfang hugleiðslu eða hermilistar, heldur einungis athafnar). Hvað annað getur falist í þessum raunveruleika en sjálfur dauðinn?
Hluturinn sem ber enga merkingu lengur[ii]… sem býður ekki upp á neinn möguleika röklegs samhengis í tíma og rými, sá hlutur sem veitir engan möguleika á handanveru utan sjálfs sín, enga yfirfærslu í anda launsagnarinnar, slíkur hlutur felur raunverulega í sér hugsun dauðans. Hugsun sem endurtekur sig með síaukinni áherslu í öllu málverki Caravaggios. Vel að merkja þá eru kyrralífsmyndir Caravaggios (ekki þarf að útskýra að einnig sum mannlífsmálverk Caravaggios falla undir þennan flokk, til dæmis strákarnir með ávaxtakörfuna, María Magdalena o.fl.) mynda forleikinn að hinum miklu harmsögulegu málverkum Caravaggios, rétt eins og hugleiðsla listamannsins um þann raunveruleika sem eftir stóð hafi leitt hann til rannsóknar á hinum raunverulega skurðpunkti, að mærunum á milli hérveru og þarveru og jafngildrar ráðgátu beggja þátta.
Það er augnablikið þar sem ástríða verunnar umbreytist skyndilega í algjört hreyfingarleysi ekki-verunnar. Það er fyrst í þessum skurðpunkti sem raunveran afhjúpar sig í öfgafullri birtu og krafti, þar sem hún á sér hvorki forsendur né fyrirheit og leyfir engin önnur sambönd utan andhverfunnar, þessi raunvera er einvörðungu og altekið hún sjálf. Hún er í senn viðfang og form, raunveruleiki og tákn, því formið er ekki lengur jafngildi heldur afleitt ástand, óhjákvæmileg útkoma eða örlög viðfangsins (þar liggur ástæða þeirrar áherslu sem Caravaggio leggur á hinar jarðnesku leifar sem hafa „form“ persónunnar án þess að vera hún), með sama hætti og ekki er hægt að þekkja raunveruleikann í heild sinni eða eftir á, né heldur gera tilkall til sýningar hans í heild sinni sem „náttúruna sjálfa“. Sérhvert brotabrot raunveruleikans verður tákn hans í heild sinni og þessi táknræna merking verður einungis höndluð í því ofbeldi sem rýfur jafnvægið eða tætir í sundur heildarmynd „náttúrunnar“ til þess að draga fram „brotið“ í sinni hrjúfu og misþyrmdu mynd.
Caravaggio: Fórn Ísaks (myndhluti) 1603
Í skáldskaparmáli Caravaggios (því einnig Caravaggio á sitt skáldskaparmál, sínar goðsagnir) hverfist dauðinn aldrei yfir í annað líf í yfirferð frá hinu náttúrlega til hins yfirnáttúrlega (sem aftur á móti væri ekki annað en hið frumspekilega augnablik hins mögulega eða hugsanlega): hann er atburðurinn sem lokar fyrir, heggur endanlega á alla náttúrlega framvindu, festir raunveruleikann í endanlegum aðstæðum algjörs afstöðuleysis, í samsemd og andstæðu ekki-verunnar.
Raunsæi Caravaggios er ekkert annað en sú sýn á heiminn sem er vakin af hugsuninni um dauðann í stað hugsunarinnar um lífið. Þess vegna er list hans ónáttúruleg, and-söguleg og and-klassísk – en þess á stað þrunginn örvæntingarfullri og djúpri trúhneigð. Dauðinn er alltaf hugsaður sem líkamlegur dauði, tilefnislaus og rakalaus atburður en jafnframt óafturkræft og endanlegt áfall: aftaka eða morð (Júdit sker höfuðið af Holofernosi; Abraham ber hnífinn að hálsi Ísaks; heilagur Matteus undir hrottafenginni stungu sverðsins; heilagur Pétur naglfestur á krossinn með ofbeldi; Davíð með afskorið höfuð Golíats; heilagur Jóhannes hálshogginn o.s.frv.).
Caravaggio: Höfuð Golíats (myndhluti) 1610
Það er myrkrið sem breiðir úr sér að afstöðnum hinum skyndilega dauða, hyldýpisgjáin, skelfing eftirlifendanna (Kristur lagður í gröfina, María látin, heilög Lúsía jarðsett, Lasarus dreginn upp úr gröf sinni). Við megum heldur ekki gleyma því að Lomazzo ráðlagði listmálurunum (samkvæmt fordæmi Leonardos) að fara og virða fyrir sér látbragð hinna dauðadæmdu þar sem þeir voru leiddir á aftökustaðinn, „að taka eftir boga augnbrúnanna og eftir augngotunum og eftir þessu lífi“, og að djúp löngun, nánast kvíði þess að endurupplifa mörkin á milli lífs og dauða, leiddu Leonardo að líffærafræðilegum rannsóknum hans. Viðfangsefni dauðans verður síðan samtvinnað siðaskiptunum, sem einnig voru skilyrt atburðinum, þessum skilum sem skyndileg umskipti frá einni siðferðilegri „vídd“ til annarrar fela í sér, frá „falsinu“ til hins „sanna“. Þar er ekki um hreinsun (kaþarsis) að ræða eða sigur, heldur eins konar sunddýfu ofan í veruleikann sjálfan.
Á bak við hinn hráa og raunsæislega vitnisburð um fyrirbæri „dauðans“ (sannkallað fyrirbæri þar sem það á sér hvorki forboða né eftirmála, er einungis það sjálft) hvílir trúlega hugsun sem átti eftir að ná útbreiðslu víða, ekki bara innan barokklistarinnar á Ítalíu: lífið er draumur og dauðinn er skyndileg uppvakning: náttúran, sagan og raunveruleikinn tilheyra ímynduninni og draumnum, það sem er andstætt ímyndunaraflinu verður einungis „snert“ þegar fortjald draumsins er rifið og hin óumflýjanlega spurning um veruna og ekki-veruna kemur eins og svipuhögg í stað hinnar flöktandi samfellu hins sanna og líkinga þess.
Það er af þessum sökum sem ljósið verður aldrei skærara en þegar skuggaveröldin myndar bakgrunn þess. Það er af þessum sökum sem hreyfingin verður aldrei jafn ofsakennd og þar sem hún er fryst í mynd sinni. Það getur því aldrei komið til neinnar samræðu, skoðanaskipta eða framvindu í þessum aðstæðum endimarkanna, né heldur getur verið um sannferðuga hermilýsingu (rappresentazione) að ræða: málaralistin er það sérstaka ferli þar sem hin náttúrlega samlíking, sem er blekking, raungerir sjálfa sig í ímyndinni: hún leysir ekki vandann, heldur afhjúpar hann.
Andstætt hinni klassísku jafngildingu málverksins og ljóðlistarinnar[iii] setur Caravaggio fram mismuninn á málverkinu og ljóðlistinni og heldur fram forgangsröð hins fyrra. Hér þarf einnig að hafa í huga hvernig hugsun Leonardos liggur til grundvallar skáldskaparmáls Caravaggios: hin djúphugsaða og langt í frá akademíska eða bókmenntalega ígrundun hans um málverkið og ljóðlistina.
Á milli þessara tveggja sviða býr vissulega grundvallar „skyldleiki“ vegna þess að „málverkið er ljóð sem við sjáum en heyrum ekki, og ljóðið er blint málverk“. Þannig verður málaralistin undirseld dómi þess sem er „fæddur án heyrnar“ og ljóðlistin dómi hins „blinda frá fæðingu“. Hugleiðið þannig „mun þess að hlusta á frásögn af einhverju augnayndi í tímanlegri framvindu frásagnarinnar -og að sjá það í þeirri skyndingu sem náttúran veitir“. Því vissulega eru þau vísindi aðdáunarverðari sem sýna verk náttúrunnar en þau sem sýna verk gerandans, það er að segja þau verk mannanna sem felast í orðunum“. Það ber að hafa í huga að vissulega eru verk mannanna líka „verk náttúrunnar“, en við eigum einmitt að horfa á þau sem slík, en ekki í gegnum munnlegar frásagnir, í gegnum söguna. Raunveruleiki ljóðlistarinnar er umtúlkun, raunveruleiki málverksins er án miðlunar orðsins. Ljóðlistin felur í sér miðlun og er þannig eftirgerð, málverkið er nærvera án undangenginnar rökhugsunar. Þess vegna er málverkið annað og meira en ljóðlistin: það er þessi beina íklæðning (icasticità), þessi beina eftirlíking, þessi athöfn sem veitir myndinni umframgildi sem felst ekki í sýningu veruleikans, heldur í sjálfstæðum veruleika.
Þess vegna má halda því fram að frá þessum upphafspunkti hafi raunsæisstefnan sett sig upp á móti natúralismanum : natúralisminn er viðtekin og átakalaus úrlausn á vandamáli raunveruleikans , raunsæið felst hins vegar í vitundinni um þann óendanlega vanda sem raunveruleikinn ber með sér. Það er þetta vandamál raunveruleikans sem öðlast siðferðilega vídd hjá Leonardo og þekkingarfræðilega séð í framhaldinu hjá Caravaggio.
Sá sögulegi leiðarþráður sem rekja má í málverki Caravaggios, sérstaklega þar sem verk hans þróast frá verkunum sem voru fyrst og fremst hugsuð sem „ljóðrænur“ eða jafnvel sem söguljóð (strákarnir með ávextina, myndirnar sem sýna unga tónlistarmenn, myndirnar af Maríu Magdalenu, Hvíldin í Egyptalandi) þróunin frá þessum verkum til hinna harmsögulegu verka hans er eins og rökrétt framhald hugsunar Leonardos um „raunsæislega“ yfirburði málaralistarinnar gagnvart ljóðlistinni. Við sjáum hvernig hinni tímanlegu og rýmislegu vídd sögunnar er mætt með rýmisleysi og tímaleysi ljóðlistarinnar í fyrri verkunum. Í seinni verkunum birtist andófið gegn sögunni í vægðarlausu söguleysi atburðarins. Á eftir depurðaræðinu (furor malinconicus) í fyrri myndunum fylgir hið siðferðislega æðiskast (furor morale) (eða hið hetjulega æði (furor eroico) í anda Giordano Bruno).
Caravaggio: Bakkus, 1596-7
Caravaggio: Salóme með höfuð skírarans, 1607
………….
Af ofangreindum ástæðum er raunveruleikinn ávalt harmsögulegur. Ekki sem harmsaga sjálfs sín, heldur harmsaga mannsins. Málaralist Caravaggios markar vissulega millibilsástand. Ekki þó á milli listar og ekki-listar, heldur á milli trúarlegs skilnings sem felur í sér óljósan umbótavilja (við erum öll eitt með raunveruleikanum, við þekkjum hann ekki og við þekkjum ekki okkur sjálf, einungis náðin sem kemur okkur á óvart í sínu blinda tilvistarlega æði getur bjargað okkur („siðbótaröflin“)) og hins strangkaþólska skilnings (maðurinn býr yfir frjálsu sjálfdæmi, en reynsla sögunnar sem kristallast í agavaldi Kirkjunnar sannfærir hann um að velja hið góða („gagnsiðbótin“)).
Caravaggio er því listamaðurinn sem kemur til Rómar úr norðri, þar sem áhrifa Siðbótarinnar gætti í ríkari mæli, gróska nýrrar trúrækni, trúrækni sem varð fljótt kaffærð og gleymd, en skildi engu að síður eftir sig allmörg spor er leiddu til opnari félagslegrar vitundar er sýndi hinum minna megandi aukinn áhuga og leyfði lágstefndum natúralisma að mæla sig gagnvart hinum hástemmda natúralisma: lýsandi hermilist (il pittoresco) andspænis hinu háleita.
Þegar Bellori[iv] skrifaði „aldrei getum við lesið hræringar sálarinnar nema í tímanlegu ferli eða í gegnum tiltekin upplifuð augnablik“, þá má sjá að þótt hann hafi ekki beinlínis vísað í Caravaggio þá hafði hann augljóslega í huga það frysta og afgerandi nánast þrumuslegna látbragð (samkvæmt ráðleggingu Leonardos) sem finna má í þöglum stellingunum í verkum hans.
En hugsanlega sá hann einnig fyrir að málarinn yrði að hafa í huga með tilliti til áhrifamáttar hermilistarinnar þau tilfinningaáhrif sem falla undir tiltekna tilburði þar sem „skáldið varðveitir hugmynd reiðinnar, óttans, depurðarinnar og sælunnar o.s.frv.“. Látbragðið í verkum Caravaggios er fordæmalaust, algjörlega utan við allar sögulegar tilvísanir eða þá mannlegu tilfinningaflokka sem voru á þessum tíma að festa sig í sessi, einkum hjá Guido Reni. Þar með skorti látbragðið í verkum Caravaggios algjörlega það sem Aristóteles hafði kallað „grundvöll siðvenjanna“. Það er ekki bara að þá skorti rökréttar sögulegar forsendur, þeir geta heldur ekki orðið forsenda nokkurrar uppbyggilegrar dómskvaðningar eða úrskurðar. Í fyrsta skipti gerist það að málari máli án annars tilgangs en að raungera til fulls eigin tilveru, það sem við myndum í dag kalla „veruna í heiminum“, sitt eigið Dasein (til-vist)[v].
Þegar Lomazzo[vi] (sem gekk augljóslega út frá skilgreiningum Leonardos á ástríðunum sem „huglægum áföllum“) segir að „ástríður mannsins séu ekki annað en tilteknar hræringar (moti) er leiði frá tilteknum áföllum“ og að málaranum beri ekki aðeins að „sýna hinar hefðbundnu ástríður sálarinnar í gegnum tilheyrandi látbragð og limaburð, heldur líka í gegnum það sem er tilfallandi eða óvænt og þannig að sýna í einum líkama ólíkar tilfinningar og ástríður“. Af þessum orðum má auðveldlega lesa að hér er verið að fjalla um tilfallandi og óviðráðanleg viðbrögð og hræringar, ástríður er vakna andspænis óvæntum og ófyrirsjáanlegum atburði.
Þessi viðbrögð mótast ekki af fyrirfram forskrifuðum náttúrlegum eða siðferðilegum rökum, og verða því ekki flokkuð í hefðbundnar forskrifaðar kvíar hins góða og hins illa. Þau mótast hins vegar af djúpri sjálfsprottinni siðferðiskennd sem setur þá kröfu á listamanninn að sýna ekki hlutleysi eða afskiptaleysi heldur lifandi þátttöku í því sem er að gerast. Hann þarf því að samsama sig fullkomlega með atburðinum án þess þó að leggja fram siðferðisdóm út frá píslum fórnarlambsins eða ruddaskap morðvargsins eða skelfingu sjónarvottanna.
Það er vissulega rétt að Lomazzo var enn bundinn af kenningunum um skapgerðirnar („vessakenningin“) og kemst því ekki hjá því að viðurkenna að viðbrögð mannanna séu alltaf á sömu lund, en „skapgerðin“ sem stjórnar veruhætti okkar og viðbrögðum gagnvart veruleikanum er ennþá að hans mati eitthvað huglægt og forskrifað, sem leiðir til réttlætingar verka okkar utan allrar rökvísi, sögulegra raka eða jafnvel náttúrlegra. Endanlega getur málarinn ekki verið annað en vitnisburður um þær djúpu hræringar sem eiga sér stað í manninum, eða svo notuð séu orð Lomazzo sjálfs: „hræringameistari“ (esperto motista).
Þessi tækniorðasmíð gefur til kynna hvernig hún vísi til mannlegs látbragðs og hreyfinga utan allra hugsana um röklegar forsendur og markmið. Hreyfigin hreyfingarinnar vegna, þau eðlisviðbrögð er fela í sér nánast með tilraunakenndum hætti veruna andspænis ekki-verunni (l‘esistere dal non-esistere). Þetta er í raun og veru hin eina „raunverulega“ forsenda mannlegrar tilvistar. Og bæði Leonardo og Michelangelo gangast inn á þessa forsendu, hvor með sínum hætti: Leonardo með sinni áherslu á hina tímanlegu íveru (immanentismo), Michelangelo með sinni áherslu á altæka handanveru (trascendentalismo assoluto).
Hjá Leonardo heltekur hreyfingin (il moto) sérhverja mannlega persónu og endurmótar hana í gegnum óendanlegan hreyfimátt (dinamismo) alheimsins. Fyrir Michelangelo heltekur hreyfingin alheiminn í hreyfimætti sem beinir sálinni stöðugt að því að yfirstíga sjálfa sig. Caravaggio varð fyrstur til að skynja með innsæi sínu hvernig niðurstaða þessara gagnstæðu sjónarmiða væri möguleg; andstæð sjónarmið, sem höfðu komið fram á fyrrihluta 16.aldar og sett söguskoðun húmanismans í kreppu, fengu sína úrlausn (syntesu) í siðferðilegri en ekki rökfræðilegri niðurstöðu Caravaggios.
Raunsæi Caravaggios er ekki fólgið í raunsæislýsingu hlutarins, heldur í lýsingu hins huglæga (soggetto) sem staðfestir eigin tilvist og sína virku nærveru í sérhverju brotabroti og sérhverju augnabliki hins óendanlega raunveruleika. Um er að ræða siðferðilegt raunsæi, sem mótast í athöfninni en ekki í lögmálsreglunum, því einungis athöfnin frá einu andartaki til hins næsta gerir frelsunina mögulega (ekki í handanheiminum heldur í hérverunni); frelsunina frá athafnaleysinu (non-fare) og tilvistarleysinu (non-esistere). Það er frelsun frá því sinnuleysi (inerzia) sem ber með sér andlegan og líkamlegan dauða. Athöfnin raungerir sjálfa sig með því að hrífa augnablikið úr tóminu, þetta augnablik sem síðan hverfur aftur í tómið. Tilvistin getur ekki orðið að sögu. Giordano Bruno orðaði þetta á þessa leið: „það sem við höfum upplifað er ekkert (nulla), það sem við upplifum er punktur, það sem við eigum ólifað er ekki ennþá punktur, en það er aftur punktur sem er hvort tveggja í senn „verðandi og verðandi orðinn“ (insieme sarà e sarà stato).[vii]
Caravaggio: Júdit afhöfðar Holofernes, 1602
[i] „genre“-málverk er sú málaralist sem verður til samfara barokklistinni á 17. öld og felur í sér „hlutlæga lýsingu“ hins ytri veruleika, hvort sem umm er að ræða kyrralíf, landslag, borgarumhverfi og arkitektúr eða svokallaðar „þjóðlífsmyndir“, þar sem leitast er við að lýsa hinum ytri veruleika án þess að leggja í hann önnur siðferðileg markmið.
[ii] Athyglisverð er sú ástríðufulla áhersla sem gagnrýnandinn Bellori leggur á að ávextirnir á borðinu í málverki Caravaggios Kvöldverður í Emmaus séu „utan uppskerutímans“ (þ.e.a.s. gamlir og skemmdir) á meðan ávextirnir í málverki Barocci „sýni“sína árstíð og beri þannig með sér „hinn raunverulega tíma“.
[iii] „Ut pictura poesis“ (Ljóðlistin er eins og málaralistin) er orðatiltæki sem á rætur að rekja til rómverska skáldsins Hórasar og var upphafið á endurreisnartímanum sem spakmæli um að sömu lögmál lægju til grundvallar þessara listgreina. Þýski gagnrýnandinn Lessing gagnrýndi þennan skilning á 18.öldinni þegar hann lagði áherslu á að ljóðlistin hefði (líkt og tónlistin) tímanlega framvindu og vídd á meðan myndlistin hefði eina tímanlega vídd nærverunnar (væri synkrónísk).
[iv]Giovanni Pietro Bellori (1613-1696) myndlistarmaður og listfræðingur,höfundur bókarinnar Vite de’Pittori, Scultori et Architetti Moderni (Líf málara, myndhöggvara og arkitekta samtímans), mikill áhrifamaður í listheiminum á 17. og 18.öld.
[v] Hér er vísað í hugtakanotkun Martins Heideggers sem varð mótandi fyrir alla tilvistarspeki á 20. öldinni.
[vi] Giovanni Paolo Lomazzo (1538-1592), einn af fulltrúum mannerismans í málaralist á N-Ítalíu á 16. öld og höfundur mikilvægra texta um listfræði þess tíma.
[vii] Giordano Bruno (1548-1600) ítalskur heimspekingur og munkur af reglu domenikana sem brenndur var á báli af rannsóknarrétti kaþólsku kirkjunnar í Róm 17. Fenrúar árið 1600 fyrir trúvillu sem fólst m.a.algyðistrú (þar sem náttúran og Guð voru eitt og hið sama) og jákvæðri túlkun á sólmiðjukenningu Kóperníkusar og hugmynd um óendanleika alheimsins. Ofangreindar hugmyndir koma fram í riti hans Eroici Furori.
Forsíðumynd: Fórn Ísaks, 1603