ÆTTFRÆÐI SKULDARINNAR, SEKTARINNAR OG SYNDARINNAR SAMKVÆMT NIETZSCHE

Dimbilvikan í félagsskap Nietzsche
Eftirfarand kaflar úr Ættfræði siðferðisins voru hluti af lesefni mínu um skuldina og sektina í Dimbilvikunni fyrir páska. Uppggjör Nietzsche frá árinu 1887 við þá siðfræði erfðasyndarinnar sem fylgir kristindómnum og kristallast í Dimbilvikunni, sem er vika iðrunar og sektarkenndar, vika beiðninnar um fyrirgefningu þeirrar sektar sem manninum er ásköpuð en Kristur vildi frelsa hann undan. Þessi bók er ekki bara uppgjör við kristindóminn, heldur líka við alla frumspekilega siðfræði og tengingu hennar við algilda sekt og sektardóma. Þegar Nietzsche gaf út sína alræmdu yfirlýsingu um "dauða Guðs" í bókinni "Hin kátu vísindi" frá 1881 (gr. 125) þá gerði hann það með óbeinum hætti í formi dæmisögu, þar sem geðsjúki maðurinn kom hlaupandi inn á markaðstorgið í fullri morgunbirtu með ljósker í hendi og hrópaði hástöfum: "Ég er að leita að Guði!, ég leita að Guði!". Og eftir nákvæma eftirgrennslan hrópaði hann: "Hvert hefur Guð farið?...Ég skal segja ykkur það! Við höfum drepið hann - þið og ég! Við erum öll morðingjar hans!...Á hvaða róli er hann núna? Á havða róli erum við? Ein og yfirgefin... Er þetta ekki okkar eilífa glötun... er einhverju uppi og niðri lengur til að dreifa? Sveimum við ekki um í einhverju endalausu tómi? Er ekki tómarýmið að hellast yfir okkur?..." Þetta voru orð sem eðlilega ollu hneykslun á sínum tíma, en þau áttu sína skýringu í dæmisögunni um markaðstorgið sem Guð hafði yfirgefið rétt eins og Kristur hafði á sínum tíma rekið sölumennina úr hofinu með harðri hendi. Peningurinn tilheyrði ekki húsi Guðs. Nietzsche gerði ekki annað en að færa þessa dæmisögu úr Biblíunni upp á sinn samtíma. Í bókinni um Ættfræði siðferðisins gengur hann hins vegar mun lengra og ræðst beinlínis gegn Kristindómnum sem slíkum, en um leið gegn allri frumspekilegri siðfræði um eðlisbundna sekt og fyrirgefningu. Ættfræði siðferðisins verður honum leið til ættfærslu frumspekinnar sem birtist í einni mynd sinni í meðfæddri skuld mannsins við forfeðurna og síðan við þær guðamyndir sem forfeðurnir tóku á sig í aldanna rás. Þar gerir hann hins vegar greinarmun á fjölgyðistrúnni eins og hún birtist hjá Grikkjum og eingyðistrúarbrögðunum sem verða fyrir honum eins konar forsenda hinnar frumspekilegu sektar mannsins. Grikkir skildu hið guðdómlega í dýrseðli mannsins segir Nietzsche og vitnar þar óbeint til byltingarkenndrar greiningar sinnar á hinu dionýsiska í fyrstu bók sinni, Fæðing harmleiksins frá 1876. Á bak við hið sérstaka ákall Nietzsche um frelsun mannsins undan "tómhyggju kristindómsins", sem lesa má úr þessum textabrotum, má merkja tengslin við þann frelsandi máltt listanna og þá sérstaklega hinnar díonýsisku tónlistar sem hann hafði lofsungið í Fæðingu harmleiksins ellefu árum áður.
Friedrich Nietzsche:

 Ættfræði siðferðisins

20.

Eins og sagan kennir okkur þá leið vitundin um skuldsetningu gagnvart guðdómnum ekki undir lok með endalokum þess ættarsamfélags sem byggir á blóðböndum. Rétt eins og mannkynið hafði tekið hugtökin “gott” og “vont” í arf frá forfeðrum ættaraðalsins (ásamt með sálfræðilegri hneigð til félagslegrar aðgreiningar) þá fylgdi arfleifð hinna kynbundnu ættbálkaguða ánauð skuldsetningarinnar og löngunin til endurgreiðslu þeirra. Umskiptin fólust í yfirfærslu á hina fjölmennu stétt þræla og ánauðugra bænda sem hafa ýmist með þrýstingi eða kúgun og “eftirlíkingu” aðlagað sig að trúarbrögðum yfirsáta sinna. Þannig náðu þessar hneigðir að breiðast út um heiminn. Tilfinningin fyrir skuldsetningu gagnvart guðinum hefur bara vaxið í gegnum aldirnar samhliða því að hugmyndin um Guð hefur eflst og dafnað meðal þjóðanna. (Öll sagan um ættbálkaátök, sigra, sáttagjörðir og samlögun, sem eru undanfari stéttskiptingar á grundvelli kynblöndunar, öll þessi saga endurspeglar ættarsögu Guðanna sem birtist í átökum þeirra, styrjöldum og sáttagjörðum. Framsóknin til heimsveldisins samsvarar framsókninni til hinna alvöldu Guða, harðstjórnar þeirra og tilheyrandi undirokunar frá hendi sjálfstæðrar yfirstéttar eða aðals, nokkuð sem varðar leiðina til eingyðistrúar af einum eða öðrum meiði.) Tilkoma hins kristna Guðs sem hins æðsta Guðs síns tíma fól þannig í sér samsvarandi hámörkun sektarkenndarinnar. Að því gefnu að nú séum við á hnignunartímum er ekki ólíklegt að sektarkenndin dofni samfara því að stöðugt flæðir undan hinum kristna átrúnaði, þannig að við finnum nú þegar áþreifanlega veiklun tilfinningarinnar fyrir skuldsetningu. Reyndar getum við ekki lokað augum okkar fyrir möguleika endanlegs sigurs guðleysisins er muni jafnframt leysa mannkynið undan allri sektarkennd gagnvart uppruna sínum og gagnvart frumforsendu þess (causa prima). Guðleysið og eins konar “seinna sakleysi” eiga hér samleið.

Látum þetta nægja í bili sem bráðabirgða uppdrátt af myndinni af sambandi hugmyndanna um skuld og skuldbindingar og hinna trúarlegu róta þessa sambands. Af ásettu ráði hef ég heimfært þessa þróun upp á samtímann og þá siðferðilegu mynd sem hún hefur tekið á sig (þar sem skuldin og skyldan hafa verið endurvaktar í vitund okkar með því að flétta hinni slæmu samvisku saman við hugmyndina um Guð). Í síðustu setningunni hér á undan beitti ég tungumálinu til að gefa í skyn að þessi siðaboð væru ekki lengur gild og því myndi tilgátan um trúna á Guð sem “lánardrottinn” okkar óhjákvæmilega fjara út.

Raunverulegar aðstæður ganga hins vegar þvert gegn þessari kenningu. Með siðvæðingu hugmyndanna um “skuld” og “skyldu” og með þvingun þeirra inn í hina slæmu samvisku sjáum við fyrstu atlöguna að umsnúningi þeirrar þróunar sem við höfum nýlega lýst, eða í það minnsta stöðvun hennar. Það er einmitt á þessum vegamótum sem öll von um hugsanlega frelsun er nauðbeygð til að loka sig inni í fangaklefa bölsýninnar. Hér er augað þvingað til að horfa í örvæntingu fram hjá öllum ómögulegum  sælulausnum. Það er á þessum tímamótum sem hugtökin “skuld” og “skylda” þurfa að skipta um stefnu, en að hverjum beinast þessi hugtök nú?

Svarið liggur í augum uppi, þessi hugtök beinast nú að “skuldaranum” þar sem hin slæma samviska tekur sér bólfestu í huga hans, nærist, dafnar og breiðist út eins og kolkrabbi í breidd og lengd og með slíkum krafti að loks gerist það andspænis ómöguleikanum á endurgreiðslu skuldanna og í krafti hins óafturkræfa (og hugmyndarinnar um “eilífa refsingu”) þá snýst skuldarinn nú gegn  „lánadrottninum” -hvort sem hann er skilinn sem „frumorsök” mannsins (causa prima), frumglæðir mannkynsins, herra eða drottinn, hann verður héðan í frá sökudólgurinn sem merktur er bölvuninni (sem „Adam”, „erfðasyndin”, „viljaásetningurinn”) eða þá að Náttúran verður sökudólgurinn, þessi Náttúra sem maðurinn er fæddur af og sem telst nú vera ábyrg fyrir hinu illa (Djöflavæðing náttúrunnar), eða þá að óvinurinn verður tilveran sjálf í krafti rökvísi þess mjallhvíta fíls sem mannkynið er nú lent í faðmlögum við (lífsflótti tómhyggjunnar, krafan um tómið eða aðra tilveru, Búddismi og því um líkt). Að lokum stöndum við andspænis þessu þverstæðufulla og skelfilega fyrirbæri þar sem mannkynið hefur fundið sér stundarskjól, þessu snilldarbragði sem kallast Kristindómur: – Guð sem í eigin persónu tortímir sjálfum sér til þess að greiða fyrir skuldir mannanna, Guð sem staðgreiðir skuldir mannsins með pundi af eigin holdi. Guð sem sú eina vera er losar manninn undan því sem hann hafði reynst ófær um að greiða fyrir úr eigin vasa – lánardrottinn sem leikur fórnarlamb fyrir eigin skuldunaut í krafti ástar (-trúir þú því?), í krafti ástarinnar á hinum skulduga!…

22.

Lesandin mun þegar geta gert sér í hugarlund hvernig hin náttúrlega útrás átti sér stað í þessari leiksýningu, bæði á sviðinu og að tjaldabaki. Þessi vilji til sjálfspyntingar og þessi umsnúna grimmd mannskepnunnar sem hvarf hrædd og innhverf á vit innri sjálfsskoðunar. (Innilokuð eins og hún var í „Ríkinu“ sem hluta af tamningarferlinu). Maðurinn fann upp hina slæmu samvisku til að skaða sjálfan sig, innilokaður og knúinn af þessari náttúrlegu skaðahvöt sinni. Þessi maður hinnar slæmu samvisku notaði  trúarlega tilgátu til að fullnusta píslarvætti sitt og hefja það í æðsta veldi. Að standa í þakkarskuld við Guð. Þessi hugsun varð eftirlætis píslartól hans.  Í Guði skilur hann sterkustu andhverfuna sem hann getur fundið við eigin náttúru og sínar meðfæddu dýrslegu hvatir. Hann umtúlkar þessar dýrslegu hvatir eins og þær væru andstæða þess sem hann „skuldar“ Guði (eins og andspyrna, uppreisn gegn „Drottinvaldinu“, „Föðurnum“, „Herranum“, „Frumglæði heimsins“). Hann staðsetur sjálfan sig á milli tveggja andstæðna, á milli „Guðs“ og „Djöfulsins“. Sérhverju nei-i sem hann beinir gegn sjálfum sér, gegn eðlishneigð sinni, gegn raunveruleika eigin veru, umbreytir hann í „já“ sem hann stynur upp eins og einhverjum raunverulegum, lifandi og virkum veruleika, eins og það væri Guð, heilagleiki Guðs, eins og það væri dómsvald Drottins og böðulsverk, eins og handanveran, eins og eilífðin, eins og endalaus kvöl, eins og víti, eins og óendanleg refsing og sekt.

Þetta er eins konar geðveiki þess vilja sem í grimmd sinni á sér enga hliðstæðu í gjörvallri sálfræðinni: vilji mannsinns til að finna til sektar sinnar og smánar allt að mörkum hins ófyrirgefanlega, vilji hans til að hugsa sig sem hinn húðstríkta, jafnvel þótt refsingin geti aldrei jafnað skuldareikninginn. Það er viljinn til að eitra og sýkja undirstöður allra hluta með vandamálum refsingar og sektar, viljinn til að girða í eitt skipti fyrir öll fyrir allar útgönguleiðir þessa völundarhúss hinna „óhagganlegu  hugmynda“, viljinn til að hefja til vegs hugsjón – hugsjónina um „almáttugan Guð“ sem hann getur mælt smæð sína og vansæmd við.

Vei sé þessari vesælu og döpru mannskepnu! Hvaða órar hafa sest að í huga hennar, hvaða öfuguggaháttur, hvaða taugaveiklaða tilfinningaleysi og hvaða huglægi skepnuskapur hefur brotist út við minnstu prófraun hins virka skepnuskapar! Allt er þetta yfir máta áhugavert, en um leið litað svartri og myrkri melankólíu þannig að óhjákvæmilegt verður að setja  blátt bann við framlengt áhorf inn í þessa rökkurheima. Hér erum við að horfast í augu við ótvíræðan sjúkdóm, þann hræðilegasta sjúkdóm sem gert hefur vart við sig í mannheimum. Sá sem heyrn hefur  ætti að heyra hvernig angistaróp ástarinnar hafa hljómað í þessu vitskerta svartnætti, en menn snúa nú sínu daufa eyra gegn slíku ákalli um ást, maðurinn snýr sér undan, heltekinn óstöðvandi hryllingi, – maðurinn býr yfir svo mikilli illsku því heimurinn hefur of lengi líkst geðveikrahæli.

23.

Látum þetta duga í eitt skipti fyrir öll um uppruna hins „Heilaga Guðs“. Það er í sjálfu sér staðreynd málsins að hugmyndin um Guðina þarf ekki óhjákvæmanlega að leiða til þessarar örkumlunar ímyndunaraflsins (sem við fundum okkur knúin til að draga upp tímabundna mynd af). Það er staðreynd að til eru göfugri aðferðir við iðkun og nýtingu hugmyndarinnar um guðina en þessi sjálfs-krossfesting og sjálfs-niðurlæging mannsins sem Evrópubúar hafa iðkað svo meistaralega síðustu tvö árþúsundin; þessi staðreynd blasir við í hvert skipti sem við lítum til hinna grísku Guða, þessara spegilmynda mikilla og göfugra manna þar sem dýrið í manninum átti sér sína guðdómlegu mynd og tortímdi ekki sjálfu sér í niðurlægjandi æði sektarkenndarinnar. Þetta gríska fólk notaði Guði sína lengst af sem  stuðpúða gegn hinni „slæmu samvisku“ svo það mætti halda áfram að njóta áunnins frelsis sálarinnar. Þetta var auðvitað fullkomin andstæða hinnar kristnu hugmyndar um Guð. Þeir gengu mjög langt í að framfylgja þessari reglu með myndinni af börnunum með ljónshjartað, og það er enginn annar en hinn hómerski Seifur sem gerir þetta fólk stundum meðvituð um að það sé að taka lífinu of kæruleysislega. „Furðulegt“ segir hann á einum stað, – og á þar við söguna um örlög Ægistusar, sem vissulega er afar slæmt fordæmi – „Furðulegt hvað hinir dauðlegu eru kvartsárir gagnvart okkur hinum ódauðlegu. Þeir telja að allt hið illa sé frá okkur komið þegar um er að ræða þeirra eigin örlagabundnu sjálfskaparvíti, tilkomin af vanþekkingu.“

Engu að síður mun lesandinn taka eftir að þessi olympíski áhorfandi og dómari er alls ekki reiður eða illa hugsandi í þeirra garð af þessum sökum. „Hvílík er ekki heimska þeirra!“ hugsar hann þegar misgjörðir mannanna ber á góma. Jafnvel á sínum hetjufyllstu og stórbrotnustu tímum eru orðin sem Grikkir notuðu um nokkrar afdrifaríkustu og skelfilegustu misgjörðir mannanna orð eins og „brjálæði“, „afglapaháttur“ og „geðtruflanir“ – vitskerðing en ekki synd, er það skilið?…

En jafnvel þessar „geðtruflanir“ voru vandamál: „já, hvernig gátu þær átt sér stað? Hvaðan gátu þær eiginlega hafa ratað inn í okkar hausa, okkar sem eigum okkur göfugan uppruna úr ríki hamingju og velsældar, samfélagi göfuglyndis og dyggða?“

Þetta voru setningarnar sem hin gríska yfirstétt (aristokratía) spurði sjálfa sig öldum saman þegar hún stóð frammi fyrir hverju því ódæðisverki og villimennsku sem einhver meðbræðra þeirra hafði saurgað sig á – og voru í þeirra augum óskiljanleg. „það hlýtur að vera að einhver Guðinn hafi villt þeim sýn“ yrði lokasvar Grikkjans, um leið og hann lyti höfði.  -Skýring eins og þessi er dæmigerð fyrir Grikki… og samkvæmt því þá voru það Guðir þessara tíma sem gegndu því hlutverki að réttlæta gjörðir mannanna að vissu marki, jafnvel í hinu illa.  Á þessum tímum tóku Guðirnir ekki  á sig refsinguna, heldur það sem var enn göfugmannlegra, það er að segja sökina.

24.

Ég lýk þessu með þrem spurningum sem þið munið sjá. „Er það göfugt fordæmi sem hér hefur verið hafið til vegs, eða er um niðurrif að ræða?“ -þannig mætti ef til vill spyrja mig… En hafið þið sjálf spurt ykkur þeirrar spurningar nægilega vel, hversu dýru verði sérhver upphafning hinnar göfugu hugsjónar hafi verið keypt í sögunnar rás? Hversu miklum sannleika hefur verið sópað undir teppið í slíkum tilgangi, hversu margar lygar gerðar heilagar, hversu margar sálir afvegaleiddar, hversu mörgum „Guðum“ hafi verið fórnað við sérhverja upphafningu?

Að stofnsetja nýjan helgidóm kallar ávallt á eyðingu annars, það er einfalt lögmál. Nefnið dæmi þar sem slíkt hefur ekki gerst!… Við nútímafólk, við erum arftakar árþúsunda hefðar í limlestingum vitundarinnar og þess hluta okkar sem tilheyrir dýraríkinu. Ekkert jafnast á við þjálfun okkar og hæfileika á þessu sviði, nokkuð sem kannski hefur mótað listrænan smekk okkar umfram annað, að minnsta kosti þann fágaðasta og háþróaðasta. Maðurinn hefur allt of lengi litið náttúrlegar hneigðir sínar  „illu auga“, þannig að þær hafa blandast hinni „slæmu samvisku“.

Umsnúningur hvað þetta varðar væri í sjálfu sér mögulegur, en hver hefur þrek og styrk til slíks?  Umsnúningur á samþættingu hinnar slæmu samvisku og þessara ónáttúrlegu hneigða, á samþættingu allra þessara væntinga um handanveru, allra þessara afneitana hins skynjanlega, hins hvatvísa, hins náttúrlega,  hins dýrslega, umsnúningur á samþættingu allra þessara höfuðdyggða sem hingað til hafa verið í hávegum hafðar, allra þessara lífsfjandsamlegu höfuðdyggða og allrar þessara höfnunar hins veraldlega sem bundið er hinni slæmu samvisku.

Til hvers getum við leitað á okkar dögum með slíkar væntingar? Í þeirri leit myndum við fyrst mæta hinum góðu manneskjum. Þar við bættust ef að líkum lætur hinir auðsveipu, hinir sáttfúsu, elítan, hinir smjaðurfúsu, hinir þreyttu…. Hvað er aumkunarverðara og um leið útsmognara en að gefa í skyn minnstu vísbendingu um strangleika og upphafningu gagnvart sjálfum sér? Og hvílíka sáttfýsi og hvílíkt ástríki sýnir heimurinn okkur ekki þegar við „látum til leiðast“ og gerum það sama og allur heimurinn?…

Til að ná þessu marki (þessum umsnúningi) þurfum við sálir af annarri gerð en þær sem líklegar eru til að verða á vegi okkar á þessum síðustu tímum: sálir sem eru hertar í gegnum styrjaldir og sigra, sálir sem lifa fyrir þörfina á ævintýrum, hættum, ávinningi og sársauka, sálir sem hafa vanist fjallaloftinu, vetrarveðrunum, ísnum og hálendinu í öllum sínum myndum – að viðbættri vissri tegund af háleitri illkvittni, og því sjálfsmeðvitaða hugrekki sem tilheyrir góðri heilsu, í stuttu máli einmitt þessi góða heilsa!… Er hún möguleg á þessari stundu, nú á okkar tímum?

En dag nokkurn á tímum sem eru kraftmeiri en þessi rotni og vílsami samtími okkar býður upp á, þá mun hin frelsandi maður hinnar miklu ástar og hinnar miklu fyrirlitningar birtast, þessi skapandi andi: innblásinn af eigin sálarkrafti mun hann koma aftur, laus úr viðjum allrar handanveru og laus úr allri þeirri einsemd sem fólkið hafði misskilið sem flótta frá veruleikanum – þar sem einungis er um að ræða djúpköfun í veruleikann, það að vera grafinn í veruleikanum til þess að rísa upp frá honum til ljóssins til að frelsa hann: frelsa veruleikann undan fordæmingunni sem hugsjónir hins liðna höfðu lagt yfir hann.  Þessi mannvera komandi tíma mun leysa okkur undan oki gamals hugmyndaheims eins og hún mun losa okkur við þessa ógleði, við þennan vilja til tómsins, losa okkur við sjálfa tómhyggjuna. Hann mun birtast við klukknahljóm hádegisstundarinnar og þeirrar miklu ákvörðunar sem endurleysir hinn frjálsa vilja, sem endurfærir jörðinni markmið sín og mannfólkinu vonir sínar, þessi And-Kristur og þessi And-tómhyggjusinni, þessi sigurvegari Guðsins og tómsins – einn góðan veðurdag mun hann birtast.

Forsíðumyndin er ljósmynd frá iðrunargöngu hinna syndugu þar sem þeir fylgja Kristi til grafar á föstudaginn langa í borginni Enna á Sikiley. Myndina tók ég við þetta minnisstæða tækifæri fyrir nokkrum árum.

SKRIFTIN OG SKULDIN

SKILNINGSTRÉIÐ OG TRÉ LÍFSINS

Endursögn á erindi sem ítalski heimspekingurinn Carlo Sini flutti á heimspekihátíðinni í Modena 2015

Í eftirminnilegum fyrirlestri sem Carlo Sini flutti fyrir þúsundir gesta undir beru lofti á hinni árlegu heimspekihátíð í Modena á Ítalíu árið 2015 undir yfirskriftinni „Skriftin og skuldin“ tekur hann upp þráðinn sem rekja má til goðsagnanna um uppruna mannsins sem segja okkur flestar að hann sé fæddur í sekt og skuld og sé sjálfum sér ófullnægður. Þekktust er auðvitað frásögnin úr sköpunarsögu Biblíunnar um hina upprunalegu Paradís og brottrekstur Adams og Evu, þar sem Drottinn boðaði þeim eilífa refsingu vinnunnar, sársaukans og dauðans. Sini benti á að þessi sköpunarsaga væri endurómur mun eldri frásagna og að Eden hefði upprunalega verið nafnið á „landi hinna réttlátu“ meðal Súmera einhvers staðar í Mesópótamíu. En í þessu landi hinna réttlátu var nokkuð sem skiptir meginmáli: í miðju þess  stóð Tré Lífsins og í skugga þess var Skilningstré góðs og ills, þar sem Adam og Eva leiddu syndina í heiminn. Það er á milli þessara trjáa sem leikurinn er háður um uppruna sektar mannsins og skuldar, sagði Sini, upprunasaga sem er margfalt eldri en sköpunarsaga Biblíunnar, en tekur þar á sig þessa skýru og áþreifanlegu mynd þar sem Jave segir eftir brottreksturinn úr Paradís: „Sjá, maðurinn er orðinn sem einn af oss þar sem hann veit skil góðs og ills. Aðeins að hann rétti nú ekki út hönd sína og taki einnig af lífsins tréi og eti – og lifi eilíflega!“

Sini sagði í upphafi máls síns að af þessum þrem refsingum Jave, dauðanum, þjáningunni og vinnunni, væri honum hið síðasta hugleikið, því þeirri spurningu hefði aldrei verið fyllilega svarað hvað fælist í þessu orði. Hagfræðin hefur gefið sínar skilgreiningar á þessu hugtaki vinnunnar, sagði Sini, „en þær eru yfirborðslegar og mig langar til að dýpka þær til að leiða ykkur fyrir sjónir að það er vinnan sem er orsök sektar mannsinns, og takist mér það þá þessum 45 mínútum hef ég ekki komið í erindisleysu hingað til Modena“.

Erindi Sini fjallaði sem sagt um spurninguna „hvað er vinnan?“, hvers vegna er hún rót sektar mannsins, hvernig tengist hún Skilningstréinu í garði hinna réttlátu og hvernig tengist hún um leið „Tréi lífsins“?

Ég ætla hér að freista þess að endursegja í stuttu máli nokkur meginatriði þessa eftirminnilega fyrirlesturs, sem Sini minnti á að hefðu ekki bara verið viðfangsefni guðfræðinga og hagfræðinga, heldur líka heimspekinga á borð við Friedrich Nietzsche og Martin Heidegger, en þar sem guðfræðingarnir og heimspekingarnir fjölluðu fyrst og fremst um sektina og hagfræðingarnir um arðinn, þá má segja að Sini hafi dregið upp nokkuð óvæntri mynd af tengslum þessara  samverkandi þátta og þar með brugðið nýju og ljósi á ævafornan vanda sem varðar ekki síst okkar samtíma. Þannig vildi Sini í upphafi leita svara við spurningunni „hvað er vinnan?“

Vinnan er fyrst og fremst það sem greinir manninn frá dýrunum. Í Lúkasarguðspjalli er bent á að liljur vallarins þurfi ekki að spinna til að auka sér vöxt og skrúða og fuglar himinsins þurfi ekki að safna forðabúri því „lífið er meira en fæðan og líkaminn meira en klæðnaðurinn“ (Lúk. 12, 23-31). Dýrin kunna til verka með margvíslegum hætti, en starf þeirra er þeim meðfætt og eðlislægt og það skilur ekki eftir sig afurðir, úrvinnslu eða umframgetu, afurðir er nýta megi til annars. Dýrin skapa sér ekki áhöld og tækni, heldur eru þau sjálf tæki eigin erfiðis. Steinninn eða prikið í hendi apans tilheyra ekki tækninni heldur eru þau framlenging á handlegg hans og apar koma sér ekki upp forðabúri verkfæra til að auka við framleiðni sína eða framleiðslugetu. Umframgetan er eiginleiki vinnunnar, og hún verður til fyrir forsjálni, sem aftur kallar á umhugsun sem einungis er á valdi mannsins. Allt vegna þess að hann er gæddur tungumáli.

Saga vinnunnar er órjúfanlega tengd  getu mannsins til að hugsa og sjá fyrir um hið ókomna og við þurfum að leita hundruð árþúsunda aftur í tímann til að rekja söguna frá því hvernig maðurinn fór að því að gefa hljóðinu í barka sínum merkingu, tengja saman þessi hljóð í samhengi rökhugsunar og endanlega festa þau á „blað“, það er að segja á stein eða í sand. Vinnan felst í því að gefa hugsuninni efnislega mynd og á sér kannski miljón ára þróunarsögu. Í stuttu máli segir Sini að tilkoma vinnunnar verði ekki skilin frá tilkomu ritmálsins. Hann segir að elstu form táknmáls hafi fundist í menningu Elamíta í núverandi Írak og megi rekja til steinaldar eða til um 8000 f.Kr. Hvað skyldu þessar elstu minjar mannlegs táknmáls segja?

Tungumálið er glatað, en þar sem táknmálið er skráð í myndletri getum við lesið það: elstu minjar um mannlega skrift eru bókhaldstákn: myndletur er vísar í magn tiltekinna forðabúra og þar með til skuldaskila. Frægustu fornminjar af þessum toga er þó að finna í leirtöflunum frá Mesópótamíu frá um 5000 f.Kr., leirtöflum sem einmitt varðveita „bókfærslu“ á forðabúrum og skuldaskilum. Þannig mætast vinnan og skriftin í upphafi siðmenningar mannsins og tengjast órjúfanlega. Hvorugt getur án hins verið.

Hvernig verða skuldirnar til? Í miðjum aldingarðinum var „Lífsins tré“ segir í Sköpunarsögunni. Það var í eigu Guðs. Í upphafi var jörðin í eigu Guðs, hún var í rauninni það sama og Guðirnir. Til þess að þakka guðunum fyrir ávexti jarðarinnar þurfti að færa þeim fórnir. Til urðu hof og hofprestar og þeir söfnuðu fórnum og forðabúrum til að tryggja frjósemi jarðarinnar. Hofprestarnir voru í upphafi eins konar milliliðir á milli Guðs og manna, en með skipulagningu landnýtingar og tilkomu akuryrkju verður skattlagning bændastéttarinnar til, og skuldir hennar eru skráðar á leirtöflur með skuldaskilum. Þar með hefst auðsöfnun og um leið breytast hofprestarnir í eins konar bankastjóra, fjárhirði hofanna. Stéttaskipting er komin til sögunnar og hið ritaða mál verður lögmálsbundið og þar með að valdatæki: sá sem ekki stendur í skilum verður að gjalda með líkama sínum og verður þar með þræll. Lögmál skriftarinnar standa ofar einstaklingsbundnum aðstæðum og þrælahald verður upphaf og forsenda stóraukinnar auðsöfnunar. Til verða lögmál sem greina á milli „hins opinbera“ og einkalífsins, þar sem hið síðarnefnda er skilyrt almennum ófrávíkjanlegum lögum.

Þessi lögmálsbundnu skuldaskil sem eiga sér árþúsunda sögu eru í gildi enn í dag, segir Sini. Við sjáum þau í sinni gleggstu mynd í viðskiptum hráefnisframleiðenda þriðja heimsins og iðnríkjanna, viðskipti sem byggja á siðalögmálinu „að virða skuldirnar“, sem á ítölsku kallast  „onorare il debito“ eða „heiðra skuldirnar“ en það er sama orðalagið og við þekkjum úr boðorðunum: „heiðra skalt þú föður þinn og móður“. Skuldahugtakið tengist þannig forfeðradýrkuninni, en sá þáttur kallar kannski á aðra umræðu. En þegar elsta menningarríki Evrópu stóð nýlega gjaldþrota gagnvart fjármálastofnunum Evrópusambandsins og Alþjóða gjaldeyrissjóðsins var þetta orðalag notað sem áfellisdómur um eina þjóð: gríska þjóðin heiðraði ekki skuldir sínar.

Í sögu mannsins má rekja upphaf hagvaxtarins til þrælahalds, en það hefur eðlilega tekið á sig ýmsar myndir í sögunnar rás. Í akuryrkjusamfélaginu kom það hins vegar í ljós að frjálsir bændur voru afkastameiri en þrælar og gátu jafnvel gefið af sér meiri skatttekjur sem frjálsir menn. Því tóku þjóðhöfðingjar Mesópótamíu upp þann sið á vissu tímaskeiði og við tilteknar aðstæður að „brjóta töflurnar“, en það fól jafnframt í sér afskriftir skuldanna og þar með frelsun þrælanna. Þessi siður var í raun helgiathöfn sem gjarnan tengdist krýningu nýs þjóðhöfðingja, en um leið og hún helgaði vald hans er talið að hún hafi einnig gegnt því hlutverki að koma jafnvægi á „hagkerfið“, og að þessi athöfn hafi jafnvel á endanum orðið til að hleypa nýju lífi í „hagvöxtinn“.

En svo kom að því að höfðingjar er stýrðu auðsöfnuninni og bókhaldinu fóru að gefa út bókhaldstöflur með áletruninni: „þessa töflu má enginn brjóta“. Þetta markar tímamót í sögunni, því héðan í frá „hefur skriftin lagt eignarhald sitt á lífið“ eins og Sini kemst að orði. Hinn opinberi hagvöxtur er settur ofar lífinu og „hið opinbera“ (lögin) ofar hinu einstaklingsbundna lífi. Þetta felur í sér staðfestingu þess að þrælahald í einhverri mynd sé forsenda auðsöfnunar. Í þessu sambandi ráðleggur Sini okkur að lesa „Býflugnaævintýrið -um einkalesti og opinberar dyggðir“ eftir hollenska skáldið Bernard de Mandeville frá fyrri hluta 18. aldar,  sem er miskunnarlaus ádeila á auðsöfnun nýlenduherranna á þeim tíma. En þar segir Mandeville að vissulega hafi iðnaðarsamfélagið skapað áður óþekkta auðlegð, en hún sé ekki sjálfbær nema með stuðningi miljóna einstaklinga er lifi í örbirgð. Mandeville er í raun að lýsa því hvernig skrifræðisvaldið hefur lagt eignarhald sitt á lífið og lögfest það með gjörðum sínum.

Mandeville skrifar þetta fyrir 300 árum, sem er eins og gærdagurinn í sögulegu samhengi, en um svipað leyti gerist einmitt annar tímamótaatburður með stofnun Englandsbanka, sem nokkrir einstaklingar áttu frumkvæði að. Enska krúnan var þá í fjárnauð vegna útgjalda við útvíkkun og eflingu innviða heimsveldisins og nýlendustefnunnar. Eigendur Englandsbanka lánuðu krúnunni umtalsvert auðmagn mælt í gulli, og vel að merkja þá átti lánið að endurgreiðast með 8% vöxtum. Um leið gerðu eigendur nokkuð sem áður var óheyrt: þeir gáfu út „bankabréf“ sem voru sett í umferð sem gjaldmiðill og voru að magni til sögð jafngildi þess gulls sem krúnan hafði fengið að láni. Á bankabréfunum stóð að sá sem færi með þau í bankann gæti fengið jafngildi þeirra endurgreitt í gulli. Slík loforð urðu síðan fyrirmynd allrar bankastarfsemi í Evrópu, en jafnframt er rétt að geta þess að slík endurgreiðsla hefur aldrei komið til framkvæmda í sögu bankastarfseminnar. Bankar hafa aldrei endurgreitt verðbréf sín í gulli. Auk þess var umrætt gull ekki lengur til staðar í Englandsbanka, þar sem breska krúnan hafði fengið það til ráðstöfunar í þeim tilgangi  að styrkja nýlenduveldi sitt. Það var gjaldið fyrir eignarhald á heimsveldinu sem náði til allra heimsálfa, heimsveldinu þar sem sólin gekk aldrei til viðar.

Hér á sér í raun stað einstakur guðfræðilegur atburður, sem verður fyrst skiljanlegur sem slíkur í ljósi þeirrar sögu sem hér var stiklað á frá upphafi og tilkomu skriftarinnar. Til verður svokallaður FIAT-peningur (en fiat er guðfræðilegt hugtak sem rekja má til sköpunarsögunnar, þar sem heimurinn var skapaður úr engu: fiat lux = verði ljós). Fiat-peningur er því peningur sem skapaður er úr engu. Þetta er mikilvæg uppfinning frá sjónarhóli hagstjórnarinnar, en um leið stórhættuleg. Við sjáum hér hvernig skilningstréð í aldingarðinum, þetta skilningstré góðs og ills sem maðurinn hafði etið af, er ekki það eina sem hann ásælist. Hann leitar nú einnig á það „Lífsins tré“ sem Jave hafði varað við: „Aðeins að hann rétti nú ekki út hönd sína og taki einnig af lífsins tré og eti, og lifi eilíflega“ (I. Mósebók 3, 22-24).

Rétt eins og Guð hafði sagt „Verði ljós, og það varð ljós“ þá segir maðurinn nú „Verði peningur, og það varð peningur“. Ensku bankastjórarnir höfðu þarna framið kraftaverk sem er í raun og veru forsenda þess að iðnaðarsamfélag samtímans gæti séð dagsins ljós. Þessi aðferð bresku bankastjóranna varð fyrirmynd allra ríkisbankastjóra í veröldinni og fjármagn í umferð margfaldaðist með þessari aðferð, fjármagnsstreymi sem stöðugt kallar á aukningu sína, ekki síst á okkar „síðustu og verstu tímum“. Þetta var í senn glæpsamleg og stórbrotin uppfinning: glæpsamleg vegna þess að hún byggir á meðvituðum svikum, stórbrotin vegna þess að án fjármagns er ekki framboð á vinnu og engin framleiðsluaukning og ekkert velferðarsamfélag í líkingu við það sem við þekkjum. Þessi samfellda aukning hagvaxtar og fjármagns í umferð er meðvitað byggð á blekkingu, og allur heimurinn veit að hún stenst ekki til lengdar, að hún á sín takmörk.

Allir vita að hin yfirlýsta viðurkenning gullfótarins, loforðið um endurgreiðslu bankabréfsins í gulli, kom aldrei til framkvæmdar, og þetta loforð var endanlega og einhliða afskrifað af Richard Nixon forseta Bandaríkjanna árið 1971, þegar Víetnam-stríðið var að kollsigla efnahag ameríska seðlabankans. Með þessari yfirlýsingu var Nixon í raun að lýsa því yfir að blekkingarleiknum væri lokið, og að verðgildi peninganna væri frá og með þessum tíma ákveðið í kauphöllum heimsins. Peningurinn var með öðrum orðum orðinn að markaðsvöru með sitt sjálfstæða verðgildi sem ákvarðast af markaðnum. Þetta var í raun það sem Karl Marx sagði á sínum tíma: að peningurinn væri hin raunverulega vara um leið og hann væri mælikvarði á verðgildi annarra vara. Hann er í senn tæki og markmið auðsöfnunarinnar með öllum þeim afleiðingum sem þetta hefur í för með sér.

Annað áhyggjuefni sem þarna verður til er vaxtakrafan: 8% vextir á láninu til bresku krúnunnar. Englandsbanki sagði krúnunni að fyrir 100 kg af gulli þyrfti hún að greiða 108 kg til baka. Þetta var skuldakrafa sem miðaldakirkjan hafði fordæmt sem synd. Hún var kölluð „usura“ og var ein af dauðasyndunum sjö. Á okkar tímum er þessi dauðasynd helsta forsenda hagstjórnarinnar. Og afleiðingin er augljós: munurinn á verðmæti hinnar vergu þjóðarframleiðslu í bókhaldi ríkisins og skuldbindingakröfum ríkisskuldanna er óbrúanlegur og í óendanlegum vexti. Vaxtakrafan kallar stöðugt á meiri framleiðslu og meiri framleiðsla kallar stöðugt á meiri lán. Þetta er sjálfvirkt kerfi sem ekkert fær stöðvað.

Ef við lítum nú á þennan vanda í ljósi 5000 ára sögu hagstjórnarinnar þá sjáum við að hinn forni kapítalismi Babiloníumanna setti „skriftina“ ofar gildi einstaklingsins: ef hann gat ekki virt skuldir sínar varð hann að gjalda með líkama sínum og gerast þræll. Fornaldarsamfélagið byggði þannig á þrælahaldi og bjó sem slíkt við nokkurn stöðugleika. Það sem hér blasir hins vegar við er að „skriftin“ var hafin yfir tilvistarlegar aðstæður einstaklingsins og þar með yfir það „Lífsins tré“ sem sérhvert okkar á rætur að rekja til. Ef þetta er síðan borið saman við samtímann, þá sjáum við að þeir sem ráða seðlabönkum okkar og fjármálastofnunum og takast á um markaðsvæðinguna innan Evrópusambandsins og Alþjóðastofnana fjármálakerfisins, styðjast við sambærilegar leirtöflur: þeir gera kröfur til þess að framleiðnin sé meiri en hin samfélagslega lífskeðja getur staðið við. Hinn forni kapítalismi virti líf einstaklingsins að vettugi, en rakst óhjákvæmilega á sín takmörk, því endanlega er það hið einstaklingsbundna líf sem stendur undir framleiðslunni. Kapítalismi samtímans virðir hins vegar líf plánetunnar að vettugi því framfaraforskriftin byggir á stöðugum vexti: 8% + 8% + 8%…án enda.

Það er þessi stórbrotna uppfinning sem gerir það mögulegt að búa til peninga úr engu, skapa vinnu úr engu, skapa afganginn úr engu, alla þessa hluti sem fylla umhverfi okkar. Þetta er stórbrotinn skapnaður sem nálgast næstum hið guðdómlega sköpunarverk, …ég segi næstum, því plánetan jörð, og þetta „Lífsins tré“ sem stendur í miðjum aldingarði hennar, eiga sér sín endimörk, líf plánetunnar getur ekki framlengt skuldahalann í það óendanlega.

Skuldastaðan er nú öllum augljós, og við blasir að maðurinn sem íbúi á plánetunni jörð er í skuld. Goðsögurnar hafa kennt okkur margt um heiminn, en við þurfum ekki lengur á þeim að halda til að skilja að við erum skuldsett, vegna þess að ólíkt dýrunum þá erum við siðmenntaðar verur sem vinna. Skuld okkar er bein afurð menningarinnar, það er að segja skriftarinnar. Um er að ræða skuld gagnvart lífi líðandi stundar -það er að segja gagnvart lífi hvers og eins, einstaklingsins sem hefur með vissum hætti verið einangraður í einsemd sinni og einkalífi – og skuld gagnvart hringrás lífkeðjunnar á hnattrænum skala sem ekki getur mætt kröfum samtíma okkar. Þessi reikningsskil okkar eru á rauðu, og framleiðsluhraðinn hefur farið fram úr möguleikum plánetunnar til endurnýjunar.

Við getum sagt um mann fornaldarinnar að hann hafi borist á vald örlaganna án þess að geta gert sér grein fyrir stefnu þeirra, því líf hans var í stöðugri óvissu. Nútímamaðurinn er hins vegar í bráðri hættu því jörðin undir fótum hans brennur. Hann veit að núverandi framfaraforskrift getur ekki gengið í það óendanlega, lánafyrirgreiðslunni eru takmörk sett og greiðslufresturinn verður ekki framlengdur í hið óendanlega til komandi kynslóða. Því hefur verið haldið fram að það tímabil í jarðsögunni sem kennt er við antropocene, það er að segja tilkomu siðmenningarinnar, hafi frá upphafi falið í sér röskun á vistkerfinu. Um það má deila, og auðvitað getum við ekki sett okkur upp á móti framförum, málið snýst ekki um það, heldur um að finna jafnvægi í sambýli mannsins og lífsins á plánetunni jörð, því Skilningstréið getur aldrei tekið það sæti sem Tré lífsins skipar. Þetta hafði Jave sagt okkur fyrir löngu. Þörf er á sáttmála við Lífsins tré, því hin innbyggðu takmörk Skilningsins gagnvart Lífinu eiga að vera manninum ljós í krafti þeirra miklu dyggða sem honum er gefnar, sem eru menningin og vinnan. Einmitt það sem greinir hann frá dýrinu og gerir hann einstakan. Í þessu tvennu eru dyggðir hans, sérstaða og mikilfengleiki fólgin. Þessi sérstaða hans ætti einmitt að gera honum skiljanlegt að hann mun aldrei geta tekið ráðin af náttúrunni. Skilningstréð getur aldrei tekið sæti þessa Trés lífsins sem sköpunarsagan segir frá. Skilningstréið getur hins vegar gert sér grein fyrir ábyrgð sinni gagnvart Tréi lífsins, sem verður um leið hnattræn ábyrgð okkar gagnvart þessu sandkorni sem við byggjum á mælikvarða alheimsins.

Skilningstréið er ekki bara tæki til eilífs vaxtar fjársjóðsins í hofi guðanna og hofprestanna, heldur einnig tæki til sjálfsmeðvitundar og sjálfsstjórnar, þar sem þekkingin verður ekki bara verkfæri til tæknilegrar úrvinnslu og virkjanaframkvæmda, heldur líka staður hátíðahaldanna. Skuldaskilin leysast ekki af sjálfum sér, þau leysast einungis ef menningin endurreisir sína veraldlegu en um leið heilögu köllun. Ég segi veraldlega vegna þess að við þurfum engin trúarbrögð til að skilja, en um leið heilaga, vegna skilningsins á heilagleika lífsins, sem er um leið heilagleiki menningarinnar.

Hér er átt við það að skapa menningu sem er einungis henni sjálfri til nautnar, það sem sumir franskir menntamenn hafa kallað dépence, (eins konar ókeypis sóun) eins og við erum kannski að framkvæma hér og nú, eitthvað sem auðgar okkur þó það kunni kannski að hafa kostað okkur einhver minni háttar útlát í farareyri og fleiru.

Það er eitthvað fallegt við þessa stund okkar hér og nú. Því vildi ég ljúka þessum orðum mínum með því að vitna í brot úr sendibréfi frá heimspekingnum Ludwig Wittgenstein sem fannst eftir dauða hans 1925. Það er brot úr bréfi sem hann hafði kannski ætlað systur sinni og trúnaðarvini. Í þessu bréfi segir hann: „Siðmenningin mun ekki skilja eftir sig annað en haug af rústum og ösku. En ofan á öskunni mun andinn áfram vera til staðar. Af þessum anda rís heimspekin, iðkuð eins og um tónlist væri að ræða. Eins og hún væri listgrein, köllun sem nálgast hið trúarlega.“ Ég ætla mér ekki að halda því fram að við höfum gert þetta hér í kvöld, en ég vildi meina að við höfum að minnsta kosti reynt…Takk fyrir.

Táknmál peninganna og upplýsingin

Dimbilvikan leiddi mig í hugleiðingar um skuldina og sektina, um sektargildi skuldarinnar og trúarlegar forsendur hennar. Ég datt í lestur þriggja höfunda sem eiga það sameiginlegt að leggja mannfræðilegan mælikvarða á tilurð skuldarinnar og sektarinnar, allt út frá ólíkum forsendum. Þessir höfundar eru David Graeber, Carlo Sini og Friedrich Nietzsche. Ég stóðst ekki þá freistingu að snúa á íslensku nokkrum orðum Carlo Sini um þessi tengsl táknmáls, trúar og vísinda. Þessi texti hans er birtur á vefsíðunni "noema" og er frá 2017.  Ég snéri líka nokkrum köflum úr Ættfærslu siðferðisins eftir Friedrich Nietzsche um skyld mál en frá gjörólíkum sjónarhóli. Sá texti kemur einnig hér á hugrúnir.com. Tímamótaverk David Graebers um skuldina (Debt, the first 5000 years) frá 2011 er hins vegar doðrantur upp á um 500 bls sem ég ræð ekki við að endursegja, en gæti ráðlagt öllum áhugamönnum um hinar mannfræðilegu rætur vísindanna um verðmæti hlutanna og mannanna.

En í texta Sini finnum við m.a. þessi orð, sem gætu gagnast sem bólusetning gegn mörgu því sem hægt er að finna í hagfræðiumræðu samtímans:


Ef eitthvað telst hafa mælanlegt verðgildi, það er að segja vera gjaldgengt fyrir tiltekna verðlagningu á mælikvarða hagfræðinnar, þá getur slíkt ekki gerst nema í samanburði við það sem er ómetanlegt, það sem er utan allra hugsanlegra mælanlegra mælikvarða á endurgreiðslu og því ótækt til samningsbundinna skipta á markaðstorgi viðskiptanna. Hér finnum við einmitt hinn vísindalega grundvöll hagfræðinnar. Skilningurinn á þessum  grundvallar mismun er óhjákvæmiegur vandi hagfræðinnar, jafnvel þótt hin vísindalega umræða þessara fræða hafi kerfisbundið horft framhjá honum. Þetta er jafnframt grundvallaratriði þegar horft er til oikos, eða sambýlis mannsins og plánetunnar jörð.

 

 

Merkingarfræðin og táknmál peninganna

Carlo Sini
(Nóema, 7-2 (2016) https://doi.org/10.13130/2239-5474/7883

 

Peningar og upplýsingar eru tvö einkenni siðmenningar mannsins. Tengsl þeirra við tungumálið eru augljós. Gildi þeirra byggja á sköpunarmætti mannlegrar vinnu. Samtíminn stendur frammi fyrir ógn sem stafar af smættun peningsins og vinnunnar í skiptagildi vörunnar.

 

Á frægum stað í bókinni Auðlegð þjóðanna spyr Adam Smith sig þeirrar spurningar hvort sú tilhneiging mannsins að miðla, versla með og skiptast á hlutum eigi sér ekki sína skýringu í mætti rökhugsunarinnar og orðsins.  Þannig væru til staðar djúpstæð tengsl á milli hagfræði og tungumáls, peninga og orða, en í rauninni eru peningurinn og tungumálið tvö merkjakerfi sem einkenna manninn sérstaklega. Merkjaskipti af þessu tagi er hvergi að finna í dýraríkinu, nema ef vera kynni á fósturstigi þar sem þau verða allsendis ósambærileg.

Við getum hér stuðst við mjög einfalda skilgreiningu á hugtakinu merki. Pierce hélt því fram að merki sé eitthvað er standi í staðinn fyrir eitthvað annað á grundvelli félagslegs samkomulags eða almenns skilnings.

Þetta hlutverk merkisins „að standa fyrir“ (rappresentare) greiðir þannig fyrir skiptunum. Að skipta einum hlut fyrir annann felur í sér að einn hlutur sé jafngildi annars, nokkuð sem á sér þannig stað í skiptum á gæðum og upplýsingum. Að öðlast eignarhald á hlutum og upplýsingum. Athyglisvert er að skipti geta einnig átt sér stað á milli tiltekinnar vöru og upplýsinga: ef ég ek um á Ferrari bifreið þá er ég um leið að upplýsa umheiminn um að ég sé enginn fátæklingur. Ef ég veit hins vegar hvernig málum er háttað á óaðgengilegum eða leyndum stöðum, þá er augljóst að slík þekking getur orðið mér verðmætur hlutur.

Við skulum nú spyrja okkur hvað felist í verðgildi tiltekinna upplýsinga og tiltekinna vöruskipta. Í fyrra tilfellinu skiptir augljóslega máli að upplýsingin sé rétt. Það sem hér er átt við með hugtakinu „réttur“ verður ekki útþynnt og hér má ekki rugla því saman við það sem tíðkast hefur víða á 20. öldinni að rökgreina sérhvern boðskap með hlægilegum hætti sundurgreiningar, t.d. með því að spyrja hvaða upplýsingar sé að finna í Hinum guðdómlega gleðileik Dante. Spádómar Síbillanna[i] ganga út frá „réttri“ framsetningu og  notkun og sama á við um forsendur óskeikulleika páfans og sannleika tölfræðilegra upplýsinga félagsfræðinnar.

Hvað varðar verðgildi vöruskiptanna, þá held ég að mælikvarðinn hljóti í þessu tilfelli að vera sanngirnin/jafnræðið (equo). Að báðir aðilar hafi hag af viðskiptunum og njóti fullkomins frelsis um hvort þeir vilji ganga að viðskiptunum eða ekki. Merking þessa „frelsis“ er hins vegar flókin og ekki auðveld í skilgreiningu. Hún takmarkast alls ekki við þá bjartsýnu túlkun frjálshyggjunnar sem gengur út frá huglægri löngun viðkomandi til að ganga til viðskiptanna. Ef um misvægi er að ræða hvað varðar þarfir, til dæmis í þeim skilningi að annar aðilinn geti hafnað viðskiptunum sér að meinalausu en hinn aðilinn ekki, þá eru skiptin ekki sanngjörn frá félagslegum sjónarhóli. Sama á við ef tilboð er lagt fyrir óupplýstan aðila eða óforsjárlan (til dæmis þegar annar aðilinn þekkir vel verðgildi samningsins og nýtir sér algjöra vanþekkingu mótaðilans hvað varðar verðgildi vörunnar). Hér eru viðskiptin siðferðilega ósanngjörn.

Þau atriði sem hér hafa verið nefnd eru mótandi fyrir tvo grundvallar þætti sem mynda efnahagslegar forsendur verðgildis peninganna, allt vel þekkt og dýrmæt viðmið. Fyrra atriðið varða peninginn sem tæki til viðskipta þar sem hann kemur í stað beinna vöruskipta (að því tilskildu að hægt sé að tala um bein vöruskipti í hagfræðinni). Seinna atriðið varðar það hlutverk peningsins að vera mælieining verðmætis þeirra hluta sem skipst er á.

Hér komum við að hefðbundnu vandamáli  hinnar klassísku hagfræði: nauðsyn þess að fastbinda verðgildi vinnunnar, hvert sé verðgildi afurða vinnunnar, hvert sé verðgildi afurða náttúrunnar o.s.frv. og skapa þannig sameiginlegan viðmiðunarramma.

Hér verður strax nauðsynlegt að benda á einn grundvallar vanda sem þekking og vísindi hagfræðinnar ná ekki utan um, eðli sínu samkvæmt. Við gætum skilgreint hann með eftirfarandi hætti: Ef eitthvað telst hafa mælanlegt verðgildi, það er að segja vera gjaldgengt fyrir tiltekna verðlagningu á mælikvarða hagfræðinnar, þá getur slíkt ekki gerst nema í samanburði við það sem er ómetanlegt, það sem er utan allra hugsanlegra mælanlegra mælikvarða á endurgreiðslu og því ótækt til samningsbundinna skipta á markaðstorgi viðskiptanna.

Hér finnum við einmitt hinn vísindalega grundvöll hagfræðinnar. Skilningurinn á þessum  grundvallar mismun er óhjákvæmiegur vandi hagfræðinnar, jafnvel þótt hin vísindalega umræða þessara fræða hafi kerfisbundið horft framhjá honum. Þetta er jafnframt grundvallaratriði þegar horft er til oikos, eða sambýlis mannsins og plánetunnar jörð.

Á grundvelli þeirra tveggja grundvallar þátta peninganna sem hér hafa verið raktir öðlast peningurinn sem slíkur ákveðið gildi sem samfélagslegt merki. Það sem skilgreinir verðgildi tiltekinnar vöru verður vara í sjálfu sér. Þannig verður tækið sem auðveldar og metur vöruskiptin að markmiði. Við gætum orðað þetta samkvæmt hugtakasmíð Karls Marx: tækið sem auðveldar markað vöruskiptanna verður um leið að markmiði. Eða svona: verkfæri skiptanna umbreytist í markmið þeirra.

Hið kapítalíska stjórntæki, fjármálakapítalið (regime capitalistico), umbreytist í vöru sem viðurnefni (per autonomasia), og þar af leiðandi verður það ráðandi og raunverulegt markmið markaðsviðskiptanna. Þannig verður peningurinn eftirsóttasta varan og sú marktækasta (rappresentativo) (fyrir þau samskipti við upplýsingarnar sem rakin voru hér að framan).

Það er hér sem við sjáum upphaf hins mikla ferlis sívaxandi markaðsvæðingar allra félagslegra samskipta og allra afurða mannlegrar vinnu. Sérhver skipti manna á milli umbreytast í skipti á hlutum, þar sem peningurinn er sú fyrirmynd og frumforsenda er felur í sér og mælir alla aðra hluti: í þessu tilliti öðlast líf mannsins einnig sitt verðgildi.

Margt hefur verið ritað og rætt um þessa þætti í hagkerfi samtímans. Þó því hafi verið minni gaumur gefinn, þá gæti slík umræða reynst árangursríkari ef við beindum athygli okkar að hliðstæðu þessa ferlis í heimi fjármálanna sem finna má á sviði tungumálsins, sem er annar þáttur þeirra merkjakerfa mannsins sem hér eru á dagskrá.

Virkjun upplýsingamiðlunar er í reynd einnig orðið markmið í sjálfu sér. Upplýsingarnar skapa vald og þeir sem hafa tækni hennar á sínu valdi finna í þeim sjálfstæð verðmæti. Þegar upplýsingarnar hafa umbreyst í vald þá skapast gildi þeirra ekki lengur af því hvort þær séu réttar eða einungis réttar, heldur skiptir eignahaldið þar meginmáli. Í raun mæla upplýsingarnar sjálfar áreiðanleika sinn og réttmæli, þar sem sjálf útbreiðslan verður jafngildi réttmætis og trúverðugleika, útbreiðsla sem borin er uppi af fjármálavaldinu.

Upplýsingamiðlunin mælir ekki bara trúverðugleika sinn á kvarða áunnins . félagslegs valds í gegnum hefðbundna valdabaráttu, heldur metur hún líka hvað verðskuldi að teljast til upplýsinga og hvað ekki. Eða eins og sagt er: ef það hefur verið sýnt í sjónvarpinu, og sérstaklega á tilteknum sjónvarpsrásum, þá er um markverða hluti að ræða sem raunverulega hafa átt sér stað, annars hafa hlutirnir annað hvort ekki gerst eða svo virðist að minnsta kosti vera þar sem þeir bíða í Limbói hins óþekkta og óséða. Yfirleitt er þar um að ræða hluti sem ekki hafa sölugildi og eru því óhæfir sem söluvara eða hvati að eflingu fjármálavaldsins. Ef tiltekinn hlutur á sér ekki verðmiða, þá er hann einfaldlega ekki til.

Í hvaða skilningi getur peningurinn talist vera vara? Við skulum reyna til þrautar að skilja þessa gátu sem oft er tekin sem augljós. Við vorum búin að minnast á fyrstu einkennin á gildi peninganna: peningurinn auðveldar viðskiptin. Í rauninni er það svo að ef viðskiptin eru á jafnréttisgrundvelli, þá á sér stað verðmætaaukning fyrir báða aðila. Þeir bjóða til skiptanna eitthvað sem þeir hafa í ofgnótt. Niðurstaðan verður sú, að báðir aðilar komast yfir það sem er annars vegar í ofgnótt, hins vegar í skorti. Báðir aðilar auðgast og eign beggja eykst.

Frá þessari niðurstöðu nálgumst við annað atriði: ef peningurinn auðveldar viðskiptin þá fer geta mín til að ganga í viðskipti eftir því hversu mikla peninga ég á fyrir. Þannig held ég stöðugt áfram að auðgast. Út frá þessu getum við kannski með einfaldri niðurstöðu nálgast hið mikla leyndarmál nútíma hagfræði, markaðshagfræðinnar, hagfræði auðmagnsins, leyndarmál iðnaðarhagfræðinnar og fjármálahagfræðinnar (economia postindustriale).

Þetta leiðir óhjákvæmilega í ljós þriðja eðlisþáttinn: ef það sem á undan er komið reynist rétt, er eðlilegt að markaðsviðskiptunum sé sífellt beint að þeim viðskiptum er auka fjármálaauðmagnið (capitale finanziario), að þau séu látin greiða fyrir þeim og efla. Eftir því sem fjármálaauðmagnið eykst aukast viðskiptin, og þar með vöruverðmætin.

Þetta virðist augljóst, en engu að síður blasir við að eitthvað gengur ekki upp. Kannski væri hægt að lýsa því svona: þar sem peningurinn er orðinn að verðmæti sem æðsta form vörunnar, þá fylgir hann eigin hagsmunum með því að beina viðskiptunum að þeim þáttum sem einskorðast við fjármálahagsmuni en ekki að þeim viðskiptum sem byggja á sjálfstæðri framleiðslu. Sjálf framleiðslan verður skilyrt af útvöldu þróunarferli: einungis þær framleiðslugreinar sem framleiða peninga njóta forgangs, hinar „detta út af markaðnum“ eins og sagt er. Sú endanlega áhætta sem slík hagstjórn felur í sér mun vissulega auka fjármagn til ráðstöfunar, en einungis í skilningi Krösusar[ii], sem lá fyrir dauðanum af svengd þar sem honum var varnaður aðgangur að efnislegum eða andlegum gæðum.

Sú mynd sem hér hefur verið dregin upp í grófum dráttum á líka við um upplýsingarnar, og það skiptir ekki litlu máli frá samfélagslegum sjónarhóli. Sú einstaka magnaukning upplýsinga og  sú augljósa valdefling þeirra og útbreiðsla sem við sjáum í samtímanum, veldur því að upplýsingaafurðin verður sjálf að söluvöru, einhverju sem gengur kaupum og sölum. Upplýsingamiðlarnir velja út þær upplýsingar sem gefa af sér ákveðinn ávinning í samræmi við hagsmuni útsendarans. Og þar sem útsendarinn fylgir fjárhagslegum hagsmunum  síns fyrirtækis sendir hann augljóslega fyrst og fremst út þær upplýsingar sem njóta mestra vinsælda og minnsta tilkostnaðar, það er að segja þær upplýsingar sem samræmast smekk fjöldans, ef svo mætti segja. Að útsendar upplýsingar séu réttar verður í þessu samhengi síðasta áhyggjuefnið. Þar sem upplýsingar eru óneitanlega ómissandi þáttur sérhvers lýðræðis og frumforsenda þess að kjósendur geti myndað sér sjálfstæðar pólitískar skoðanir, þá verður tæringin og úrkynjunin í heimi upplýsinganna augljós Akkillesarhæll nútíma lýðræðis.

Eftir standa þær staðreyndir að peningar og upplýsingar eru merki sem kalla á samfélagslega viðurkenningu til þess að þau virki. Hvað varðar upplýsingarnar þá fellur þessi viðurkenning saman við áreiðanleika upplýsingaveitunnar. Eitt sinn var það guðinn, síðan túlkur hans og hofprestur, konungurinn, spekingurinn, lénsherrann, lögin, Ríkið, vísindin o.s.frv., allt fram til þeirra nútímalegu og samfélagslega ábyrgu upplýsingaveitna sem eru útvarpið, sjónvarpið og netið. En þegar kemur að peningnum, hvað getum við þá sagt um trúverðugleika hans?

Í upphafi var samfélagslegur áreiðanleiki peningsins fólginn í efniskennd hans. Menn notuðust til dæmis við salt eða hrísgrjón sem gjaldmiðil, þar sem um var að ræða algild gæði, útbreidd og öllum nauðsynleg. Gæði sem gátu þannig orðið viðmið og mælieining fyrir margvísleg vöruskipti. Síðan komu gullið og silfrið, en bæði einkenndust af því að vera sjaldgæf og eftirsótt sem virðingarvottur og skraut í sjálfum sér. Síðar kom til sögunnar félagslegur virðingarvottur útgefandans sem ábyrgðist verðmæti myntsláttunnar.

Hér sjáum við fyrir okkur langa og heillandi sögu sem kannski upphefst með stofnun bankanna í Genovu og Flórens, með markaðskaupstefnum miðalda og við upphaf nútíma, þar sem menn studdust við ímyndaða verðmyndun gjaldmiðilsins. Síðan kom Englandsbanki til sögunnar (1694) sem gaf út fyrstu peningaseðlana er mörkuðu upphaf FIAT-peninganna, hreinar peningaframleiðslu út frá engu. Saga sem síðan leiddi til Bretton Woods samkomulagsins, þar sem dollarinn og gullforði Bandaríkjanna urðu viðmið gjaldmiðla um allan heim. Síðan kom afnám gulltryggingar dollarans (1971) þróun sem haldið hefur áfram til okkar tíma með stofnun kauphalla fjármálavaldsins og tilkomu matsfyrirtækja um lánshæfi þar sem í raun var komið á fót lögvernduðu fjármálavaldi án landamæra með ógnvekjandi spákaupmennsku án takmarkana og án eftirlits.

Það er einmitt í gegnum þessa sögu sem vandamál vandamálanna kemur í ljós, eða ef við viljum það frekar, þessi ekki-efnahagslega undirstaða hagfræðinnar sem vikið var að í upphafi. Þessa undirstöðu er hægt að nefna með einu einföldu orði: tiltrú (pistis, fides). Grundvöllur sem á sínar djúpu rætur í hinu táknfræðilega (semiotico) lögmáli hins mannlega. Við getum orðað þetta með einfaldari hætti: hið merkingarfræðilega (segnica) lögmál mannlegs samfélags byggir á tiltrú á virkni merkjanna, það er að segja getu þeirra til að „standa fyrir í fjarveru“ (rappresentare in absentia). Um er að ræða samfélagssáttmála er liggur til grundvallar allra félagslegra samskipta. Samfélagssáttmála sem mætti orða með þessum hætti: að hafa tiltrú á hinu sagða, hvort sem það er beinlínis tengt tungunni í þröngri merkingu eða í yfirfærslu á kaupgetu, það er að segja út frá yfirlýstu verðgildi myntarinnar. Hið sagða gerir myntina ráðandi, því hin efnislegu gæði myntarinnar, til dæmis húsaskjólið, er alltaf afstætt og hverfult. Gullið kallar ekki fram rigningu, peningaseðlarnir framleiða ekki næringu en það var einmitt hinn áðurnefndi veruleiki Krösusar.

Engu að síður hefur hagstjórnarkerfi fjármálavaldsins (capitale finanziario) leitt í ljós betur en nokkru sinnum áður fjórðu einkenni peningsins, sem eru afar þýðingarmikil: árangursrík og ómissandi virkni hans við efnahagslega og félagslega stýringu lánafyrirgreiðslunnar (antecipazione del capitale). Einungis stórfelld og kerfisbundin lánafyrirgreiðsla gefur að lokum af sér hina eftirsóttu Auðlegð þjóðanna[iii]. Sjálfur Karl Marx viðurkenndi þetta með sínum hætti. Hér rekumst við aftur á þennan for-hagfræðilega grundvöll í verki, sem við nefndum áður með orðinu „tiltrú“.

Lánafyrirgreiðslan (l‘anticipazione del capitale eða forgjafarfjárveitingin) hefur tiltrú á skapandi og framleiðandi getu mannsins. Án þessarar miklu hagstjórnarlegu og fjármálalegu byltingar hefði hin einstaka þróun til nútíma lífshátta hvorki getað átt sér stað né átt sér skiljanlega forsendu.

Hér rekumst við hins vegar á vandamál sem er ofarlega á dagskrá í samtímanum: lánafyrirgreiðslan innleiðir vaxtamuninn sem á endanum leiðir í raun til skuldsetningar án enda. Sú framleiðsla sem verður framkvæmanleg með forgjöf á fjármagni þarf ávallt að yfirstíga sjálfa sig  (fyrirbæri sem oft er lýst sem nauðsyninni á óendanlegri aukningu á vergri þjóðarframleiðslu): það er lífsnauðsyn að framleiða stöðugt meira um leið og skuldauppgjörinu er stöðugt slegið á frest. Um er að ræða félagslega skuldasöfnun sem vegna innri gerðar sinnar er óstöðvandi og hægt er að lesa með bjartsýnisgleraugum sem efnahagslegar og félagslegar framfarir eða með öðrum gleraugum sem félagslegt og vistfræðilegt stórslys og hamfarir á hnattrænum skala.

Við getum ekki neitað okkur um þau miklu gæði lánafyrirgreiðslunnar sem lánasjóðir fjármagnsins veita. Hún er ómissandi fyrir vinnu og velferð á jörðinni. En við verðum jafnframt að halda fast við þá kröfu að markaðurinn þjóni öllum þáttum lífsins, en ekki hið þveröfuga. Það er einmitt vinnan í sem víðustum skilningi sem er hinn eini raunverulegi grundvöllur gildanna. Þess vegna er verðmæti hennar óútreiknanlegt og óborganlegt: hún á sér engan verðmiða.

Markaðurinn á uppruna sinn í vinnunni og það er í vinnunni sem endanleg markmið hans er að finna. Því getur vinnan ekki orðið viðfang markaðsins þegar allt kemur til alls, heldur er vinnan samfélagslegt markmið í sjálfu sér. Því geta einkahagsmunir ekki tekið samband vinnunnar og fjármálaauðvaldsins í gíslingu eins og ýmsir hagfræðingar (til dæmis Stieglitz) hafa ítrekað bent á. Peningurinn er samfélagslegt verkfæri löngu áður en hann verður einkaeign, og ef það er rétt að ekki sé hægt að láta sem virkni einstaklingsins stjórnist algjörlega af samfélagslegum hagsmunum (vanhugsuð hugmynd og óraunsæ) þá er hið fræga boðorð Keynes enn í fullu gildi: „það sem hinn einstaki samborgari finnur ekki samræmast eigin hagsmunum á að vera á hendi ríkisins“. Það er einnig rétt að umfang ríkisafskipta á okkar tímum er deiluefni, þannig að frá þessu sjónarmiði opnast enn fleiri tilefni umræðna og greiningar.

Ef litið er til upplýsinganna þá er mikilvægt hér að leggja áherslu á að miðlun þekkingar á að vera eina lögmæta forsenda og markmiðið, en ekki útbreiðsla hvers kyns hjátrúar eða áróðurs fyrir hóphegðun er stjórnast af einkahagsmunum eða mótast af hagsmunaárekstrum. Í þessu skyni ættu þau samfélagsöfl er taka mið af heildarhagsmunum, það er að segja af þeim grundvallargæðum er ættu að gera friðsamlega sambúð mögulega, þessi samfélagsöfl ættu í stuttu máli að sameinast um að tala bæði gegn fjármagninu og upplýsingaflæðinu. Til dæmis með því að stefna að upptöku myntar er hafi markmið (tilraunir í þessa átt eru þegar á teikniborðinu): mynt sem er aftengd vaxtarhugsuninni og ekki fjársjóðsmyndandi á einstaklingsgrundvelli, mynt er  ljúki ætlunarhlutverki sínu með þeirri framkvæmd sem hún hefur verið sköpuð fyrir.

Hvað varðar hið alþjóðlega kerfi upplýsingamiðlunarinnar verður ekki hjá því komist að huga að opinberri varðstöðu um menninguna – í hreinni andstöðu við þá úrkynjun og útvötnun sem einkennir framleiðslu og útbreiðslu skilaboðanna, sem á okkar tímum eru órjúfanlega mótuð af markaðslögmálum auglýsingaheimsins: aðferð og málsmeðferð sem hefur sett mark sitt á verksvið vísindanna, bókmenntanna, heimspekinnar, listanna o.s.frv. Varðstaða um og styrking þeirrar menningar sem lifir ekki á tilfallandi ölmusugjöfum sem deilt er út af fjármagninu, heldur sé menningin varin í krafti getu sinnar til að skapa raunverulega þekkingu er sé aðgengileg fyrir alla eða sem flesta, og sé stöðugt og samfleytt undir gagnkvæmu endurmati og endurskoðun.

Mér sýnist þetta vera einu mögulegu leiðirnar til að endurvekja þá tiltrú sem liggur til grundvallar framleiðsluferlisins í heild sinni. Allt líf okkar er mótað af henni frá fæðingu. Einkum og sér í lagi á því formi sem við gætum kallað – með hliðraðri tilvísun í George Santayana – „tiltrú dýrsins“ eða „fede animale“. Þessi trú er í þjónustu þeirrar keðju lífsformanna er byggja plánetuna jörð og þess tvöfalda forms sem einkennir þær.

Annars vegar virðist gjörvöll tilvera lífsformanna bundin og merkt áhyggjum er varða komandi kynslóðir, í því gagnkvæma trausti er tengir foreldra og afkvæmi. Hins vegar þeim skilningi að þessi örlög þurfi engu að síður að eiga sér stað í gegnum einstaklingsbundna holdgervingu er verða til að vekja upp þá tiltrú að eins konar úrval örlaganna ráði baráttunni til viðhalds tegundarinnar.

Í öðru lagi varðar trúartraustið okkur mennina sem verur er búa yfir rökhugsun og tungumáli, eins og Smith sagði, og búa þess vegna yfir þessum fjársjóði algildrar þekkingar sem einkennir menningarlegt eðli vinnunnar, þeirrar efnislegu jafnt sem hinnar andlegu.  Hér tjáir trúnaðartraustið sig í til dæmis í hugtakanotkun Kants. Það er að segja í þeirri lögmætu von að við getum stöðugt aukið við þekkingu okkar á því húsi og þeim heimkynnum sem örlögin hafa skapað okkur í þessum heimi, þó hún verði aldrei í þeirri endanlegu mynd er segist hafa tæmt lífsform alheimsins í sínum tilfallandi og sögulegu myndum í landakortum vitringa okkar.  Einnig í þeirri von að geta gert okkur óendanlega hæfari til að hreiðra um okkur í þessu húsi  af forsjálni þar sem  hvorki ofbeldið né stríðið eru lögð til grundvallar, heldur friður og algild réttindi fólksins.

 

Heimildir:

AA.VV., L’economia palaziale e la nascita della moneta: dalla Mesopotamia all’Egeo, Accademia Nazionale dei Lincei, Roma 2005.

Amato, Massimo, Le radici di una fede. Per una storia del rapporto tra moneta e credito in Occidente, Bruno Mondadori, Milano 2008.

Marx, Karl, Il Capitale, Libro terzo, a cura di B. Maffi, Utet, Torino 2013.

Natoli, Salvatore, Il rischio di fidarsi, il Mulino, Bologna 2016.

Papi, Fulvio, Dalla parte di Marx. Per una genealogia dell’epoca contemporanea, Mimesis, Milano-Udine 2014.

Redaelli, Enrico, Far lavorare gli Dei. Dal debito primordiale al debito pubblico, in C. Sini (a cura di), Prospettive della differenza, Lubrina, Bergamo 2014.

Sini, Carlo, Del viver bene, Jaca Book, Milano 2015.

Smith, Adam, La ricchezza delle nazioni, trad. it., Utet, Torino 1950.

Zhok, Andrea, Lo spirito del denaro e la liquidazione del mondo, Jaca Book, Milano 2006

[i] Síbyllur voru spákonur hinna fornu rómversku guða sem höfðu mátt og visku til að túlka skilaboð þeirra. (Innsk. Þýð)

[ii] Krösus var konungur í Lídíu á Grikklandi á 6. öld f.KR. Hann tók mikinn auð í arf og margfaldaði auð sinn með útgáfu gullmyntar og gerði Lídíu að síðustu brjóstvörn Grikkja gegn Persum. Sem þjóðsagnapersóna var hann bendlaður við auð sinn og endanlegan ósigur gegn Persum. Í munnlegum frásögnum blandaðist sagan um Krösus goðsögunni um Midas konung, sem varð að ósk sinni um að allt sem hann snerti yrði að gulli. Auðæfi hans urðu honum þannig að falli og aldurtila. (innsk. Þýð.)


	

AÐ FYRIRGEFA SKULDUNAUTUNUM

Að fyrirgefa skuldunautunum

Covid-19 veirufaraldurinn hefur ekki bara kollsiglt vanbúnu heilbrigðiskerfi á Ítalíu, Spáni, Bandaríkjunum og víðar. Þau vandamál eiga eftir að breiðast út, og nálgunarbannið og vinnustaðalokunin þjónar ekki síst þeim tilgangi að vernda starfsfólk í heilbrigðiskerfinu gegn enn stærri flóðbylgju smitaðra. Spádómar upp á vikur eða mánuði sem núverandi ástandið varir eru gerðar út í loftið, því veiran er óþekktur vágestur og enginn veit hvernig hún mun haga sér í framtíðinni.

Þetta hefur í för með sér efnahagsleg áföll sem eiga sér ekki hliðstæðu: miljónir manna missa vinnu, þúsundir fyrirtækja loka, þjóðarframleiðsla dregst saman með meiri hraða en þekkst hefur og þegar má sjá ekki bara efnahagsþrengingar, heldur félagsleg vandamál sem geta auðveldlega breyst í upplausnarástand þar sem hungrað fólk grípur til ofbeldis til að afla sér fæðu og nauðsynja. Og þegar slíkt ástand er fyrirsjáanlegt í þróuðum iðnríkjum má vel ímynda sér hvað muni gerast hjá þeim þróunarríkjum sem búa við frumstæðar aðstæður hvað varðar heilsugæslu, menntun, upplýsingar, samgöngur og fjarskipti við umheiminn.

Við þessar aðstæður hafa stjórnvöld í BNA brugðist hvað skjótast við fjárhagslega og skipað seðlabankanum Federal reserve að setja 2,2 triljónir dollara innspýtingu út í hagkerfið með beinu framlagi bæði til fyrirtækja og einstaklinga. Stjórnvöld í Rússlandi, Japan og S-Kóreu hafa gripið til hliðstæðra ráðstafana og kínversk stjórnvöld hafa lýst því yfir að engin takmörk verði sett á innspýtingu fjármagns til að koma hagkerfinu á réttan kjöl.

Einu ríkin sem ekki geta gripið til þessara ráða eru ríki ESB. Þau eru bundin af regluverki sem bannar þeim að „prenta peninga“ eins og það er kallað. Í stað þess þurfa þau að taka bindandi lán með misháum vöxtum allt eftir skuldastöðu viðkomandi ríkissjóðs á skuldabréfamarkaði þar sem svokölluð „matsfyrirtæki“ skammta þeim vaxtakjör. Allt í einu uppgötva Evru-ríkin að þau eru föst í kerfi sem gerir þau ósamkeppnishæf við ríki sem búa við sjálfstæðan gjaldmiðil og eigin seðlabanka sem veitir takmarkalausa tryggingu fyrir öllum peningum í umferð.

Hvernig stendur á þessum undarlegu aðstæðum? Á markaðurinn ekki að ráða og tryggja jafna samkeppnisaðstöðu allra? Hvers vegna geta Evru-löndin ekki gripið til sömu ráðstafana og samkeppnislöndin fyrir vestan og austan?

Útgáfa peninga og dreifing þeirra til fyrirtækja og einstaklinga er reyndar illa samræmanleg  „lögmálum hins frjálsa markaðar“ – öllu heldur ganga slíkar aðgerðir beint gegn lögmálum markaðsins um leið og ríkjandi neyðarástand afhjúpar að „markaðsöflin“ eru ekki bara gagnlaus við ríkjandi aðstæður, – heldur eiga þau stóran þátt í að auka á vandann. Svo dæmi sé tekið, þá hefur Ítalía lokað 70.000 sjúkrarúmum og hundruðum minni sjúkrahúsa „að kröfu markaðsins“  síðan landið gekk í myntsamstarfið 1992, einkum þó eftir fjámálakreppuna 2008. Það er „skuldavandinn“ innan ESB sem hefur kallað á samdrátt í allri félagslegri þjónustu, hækkun skatta samfara lokun fyrirtækja, einkum smáfyrirtækja á sviði handverks, í smaáiðnaða o.s.frv. Það er „Niðurskurðarstefnan“, sem sett hefur lönd eins og Ítalíu, Spán og mörg önnur evru-ríki í þessa biðstofu hins „gríska ástands“ sem nú blasir við með brunaútsölu á verðmætustu samfélagseignum til fjölþjóðlegra fjárfestingasjóða, niðurskurði lífeyrisgreiðslna, lækkun launa o.s.frv., allt að grískri fyrirmynd..

Hagfræðingum og fjármálastofnunum á Vesturlöndum hefur tekist með dyggri aðstoð fjölmiðlaheimsins (sem lýtur stjórn þessara aðila) að gera þessa stöðu svo flókna að hún verður óskiljanleg öllum almennum borgurum.

Á bak við þessa flækju liggur að minnsta kosti að einhverju leyti sú hugsun að hugtakið „skuld“ er í menningu okkar nátengt hugtakinu „synd“, sem er guðfræðilegt hugtak. Fyrsta guðfræðin sem við kennum börnunum okkar er faðirvorið: „…fyrirgef oss vorar skuldir svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum.“ „Skuldunauturinn“ þarf að biðja lánveitanda sinn fyrirgefningar fyrir „skuld“ sína. Þegar Donald Trump dreifir 2,2 triljónum USD á milli þegna sinna eignast hann væntanlega marga „skuldunauta“ sem þurfa að biðjast fyrirgefningar á skuldum sínum og tilveru, og í ljósi reynslunnar verður hann væntanlega örlátur á fyrirgefningarnar.  Hins vegar virðast Evru-löndin ekki eiga neinn svona örlátan „pabba“. Hvers vegna skyldi það vera?

Í Bandaríkjunum er peningaflæði í umferð stjórnað af „Federal reserve“ og „Treasury“, sem halda utan um ríkisfjármálin. Þetta eru í raun einkafyrirtæki sem lúta stjórn örfárra manna sem ekki eru lýðræðislega kjörnir. Þegar láta þarf skyndilega 2,3 triljónir út í hagkerfið láta þeir þessar stofnanir prenta þessa peninga – að stærstum hluta á stafrænu formi, en að hluta til í seðlum og mynt. Í raun eru þessar stofnanir í senn eigin lánveitendur og skuldunautar.

Sú var tíðin að bankar þurftu að eiga gullforða til að tryggja peningamagn í umferð, en þegar Bandaríkin sáu að þau áttu ekki gullforða  til að standa undir kostnaði við Víetnamstríið lét Nixon forseti afnema þessa reglu 1972. Síðan hefur ekki annað staðið á bak við dollara eða aðrar myntir í heiminum en tiltrúin.

Hvaðan koma þá verðmæti peninganna? Sjálfsnægtarbúskapurinn hefur kennt mannkyninu í gegnum árþúsundin að verðmætasköpun verði til við framleiðsluna, að vinnan sé uppspretta auðsins. Sá sem tekur við peningaseðli lætur af hendi afrakstur vinnu sinnar og þiggur í staðinn pening. Þannig eru viðskiptin og báðir ganga jafnir frá borði: bóndinn selur 8 lömb og getur keypt eina kú fyrir peninginn. Hver er lánveitandi og hver er syndugur skuldunautur í þessu tilfelli? Hver á heimtingu á syndafyrirgefningu? Ekki verður betur séð en hér gangi báðir jafnir frá borði. Á meðan við gátum gengið í bankann og tekið út gull fyrir peninga okkar voru viðskiptin í raun svona auðveld.

Flækjustigið var hins vegar magnað þegar gullfætinum var kippt undan peningaseðlinum og átrúnaðurinn settur í staðinn. Trúin flytur fjöll segir máltækið, og í fjármálaheiminum er átrúnaðurinn mikilvægasta flutningatækið. Í kring um þessi trúarbrögð peninganna hafa helgidómar og bænahús peningatrúarinnar sprottið upp eins og gorkúlur og sveipað sig ógagnsæjum vafningatjöldum til þess að Guðinn geti sýnt sig í ósýnileik sínum rétt eins og Guð Abrahams birtist Mósesi sem eldur í logandi runna sem gat ekki brunnið. Hinn ósýnilegi Guð er frumforsenda syndarinnar og okkur er kennt af þessum öflum að við höfum tekið þessa skuld í arf: Faðir vor,  „fyrirgef oss vorar skuldir, svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum“.

Bandaríkin, Rússland, Kína, Japan og fleiri ríki virðast við þessar aðstæður (sem heyra til undantekningarinnar) eiga tiltölulega  miskunnsama guði sem eru örlátir á fyrirgefningar sínar. Þeir láta peninga rigna yfir þjóðina í neyð sinni. Evrubáknið er hins vegar svo flækt í vafningum sínum og innbyrðis trúarbragðadeilum  að það stendur ráðalaust gagnvart lífsháskanum sem við blasir. Innan núverandi kerfis eru lönd eins og Ítalía, Spánn, Portúgal og vafalaust fleiri evru-lönd þegar orðin gjaldþrota. Þessi ríki eiga sér ekki sjálfstæðan gjaldmiðil og engan þjóðlegan seðlabanka til að gefa út lausafé. Þau eru flækt í regluverk fjármálastofnana sem  snúast með ógagnsæjum vafningum sínum um Seðlabanka Evrópu eins og trúartákn og hafa sundrað álfunni og att aðildarríkjum ESB upp hverju á móti öðru með ásökunum um syndsamlegt líferni skuldunautanna. Sjálfur guðinn er jafn ósýnilegur og hann er yfirskilvitlegur þegnunum. Eina ráðið fyrir þessar þjóðir til að ná andanum á ný virðist fólginn í þeirri trúvillu að svipta guðinn klæðum sínum og sækja sér súrefni, rétt eins og veirusjúklingarnir, í þá tegund skiptimyntar sem fer ekki í manngreiningarálit eftir þjóðerni eða trú. Peningar eru siðmenningunni jafn nauðsynlegir og súrefnið í andrúmsloftinu, en guðfræði þess fjármálavalds sem hefur falið sig á bak við skuldavafninga evrunnar er nú orðið alvarlegasta ógnin við friðsamlega sambúð okkar sem teljumst tilheyra evrópskri sögu og menningu.

Forsíðumyndin er grísk útgáfa af tveim evrum með mynd af "Ráni Evrópu"
%d bloggers like this: