BOREALIS 6 -MAÐUR OG NÁTTÚRA NORÐURSINS

BOREALIS 6 - ORKA OG VÍDDIR

Tiltektin á tölvudiskinum leiðir ótrúlegustu hluti í ljós. Hér er texti sem ég birti í Vikublaðinu í maí 1993 í tilefni sýningarinnar Borealis 6, sem Halldór Björn Runólfsson setti upp í Listasafni Íslands í samvinnu við Norrænu listamiðstöðina í Sveaborg. Textinn takmarkast þó ekki við þessa sýningu heldur leiddi sýningin mig á norðurslóðir á Íslandi, nánar tiltekið í Möðrudal á Fjöllum og eftirminnilega heimsókn þar sem ég var 1969 eða 70, skömmu fyrir andlát Jóns. Ég var þá í gróðurrannsóknarleiðangri með Steindóri Steindórssyni skólameistara, Ingva Þorsteinssyni og Einari Gíslasyni í gróðurkortamönnum. Þar tók Jón bóndi á móti okkur af höfðingsskap, sýndi okkur kirkju sína og altaristöflu, söng fyrir okkur Lofsönginn um Herðubreið og fleiri átakamikil söngverk auk þess sem hann sýndi okkur málverk sín af Herðubreið. Þessi heimsókn er mér ógleymanleg, og varð mér að viðmiði til skilnings á þeirri nútímalegu framúrstefnulist sem kenndi sig við Norðrið og Orkuna og Rýmið. Hvergi kemst maður nær yfirskrift þessarar sýningar en í Möðrudal á Fjöllum. Í raun er slík reynsla dýrmæt til að yfirstíga þann framandleika sem framúrstefnulistin býður upp á. Þessi texti er því hugleiðsla um samband manns og náttúru og hvernig listin getur tekist á við það. Því miður gat ég ekki fundið neina mynd eftir Jón á vefnum af Herðubreið, en sonur hans, Stefán Jónsson Stórval tók við af föður sínum og iðkaði fjöldaframleiðslu af málverkum sem voru hyllingar til „Háfjalladrottningarinnar“. Ekki kann ég að greina mun á handbragði þeirra feðga. Hér fylgir líka hljómdæmi frá Möðrudal, sem ég fann á vefsíðu hjá Ísmús.

HAFIÐ ER FEGURRA EN DÓMKIRKJURNAR

Hugleiðing um sýninguna Borealis 6 – Orka og víddir, sem haldin var í Listasafni Íslands í samvinnu við Norrænu Listamiðstöðina í Sveaborg í umsjón Halldórs Björns Runólfssonar. Þátttakendur voru Giovanni Anselmo, Roman Signer, Steina Vasulka, Bente Stokke, Finn Naur Petersen, Maaria Wirkkala, Finnbogi Pétursson og Ulf Rollof. Pistillinn birtist í Vikublaðinu 14. maí 1993.

 

Stefán Jónsson Stórval: Herðubreið
Jón Stefánsson frá Möðrudal syngur Lofsöng til Háfjalladrottningarinnar. Fengið að láni hjá Ísmús.

Þegar ég leiði hugann að orku og víddum í íslenskri náttúru kemur mér í hug Möðrudalur á Fjöllum. Svartur sandurinn með ljósgrænum víði- og mosaflákum; svartur Möðru[1]dalsfjallgarðurinn sem hverfur út í óendanlega víðáttuna, og í suðri trónir Herðubreið. Yfir þetta víðerni hvolfist himininn með sínum hraðfleygu skýjabólstrum. Fyrir mér er þetta eins og mynd á tjaldi, sem ég get notið í fullkomnu öryggi heima fyrir, án þess að leggja nokkuð í sölurnar. Sama varð ekki sagt um Jón í Möðrudal. Hann var eins og vaxinn út úr þessu umhverfi; útlit hans og atgervi allt svo markað af ævilangri baráttu við náttúruöflin í þessari eyðimörk á hjara veraldar, að hann hlaut að skynja umhverfið með öðrum hætti en ég. Augu hans skutu gneistum þegar hann sat við orgelið í kirkjunni og söng með þessari hásu rödd, sem kom eiginlega ekki úr barkanum, heldur einhvers staðar neðan úr brjóst- og kviðarholinu og magnaðist upp í höfuðskelinni við gífurleg átök. Sálmar hans voru engir auðmjúkir kveinstafir, heldur óviðjafhanleg blanda af ofstopafullum trega. Og þegar hann var búinn að leika og syngja fyrir okkur þessa ógleymanlegu tónlist úti í kirkjunni sinni sýndi hann okkur málverk sín af Herðubreið og sagði: „Eg get auðveldlega málað 30 Herðubreiðar á dag.“

Jón í Möðrudal var ekki bara að storka menningarelítunni fyrir sunnan með listsköpun sinni. Hann var líka að storka náttúrunni, sem hann var samgróinn, með því að hefja sig upp yfir hana. Málverkið af Herðubreið var honum eins og staðfesting á því að hann hefði þennan tákngerving náttúruaflanna á valdi sínu og ætti í fullu tré við umhverfi sitt. Ástríðan í listsköpun hans var nærð af hefndarþorsta fyrir allar þær kárínur sem hann hafði mátt þola af þessari tröllauknu náttúru frá blautu barnsbeini. Umhverfið var honum umfram allt storkun, og reisn hans fólst í því að ögra því á móti með list sinni.

Þessi saga snertir sýninguna Borealis 6 / orka og víddir, vegna þess að hún varðar samband listar og náttúru. Skynjun okkar á náttúrunni í gegnum aldirnar hefur mótast af sögulegum aðstæðum á hverjum tíma. Í íslenska bændasamfélaginu tíðkaðist ekki að lofsyngja náttúruna sem ímynd hins göfuga, hreina og tæra. Fyrir það fólk sem átti í stöðugu návígi við náttúruna upp á líf og dauða var náttúrufegurðin ekki til, nema í besta falli sem góður heyfengur eða veiðibráð. Eða eins og Látra-Björg sagði: „Fagurt er í Fjörðum, þá Frelsarinn gefur veðrið blítt, heyið grænt í görðum, grös og heilagfiskið nýtt.“

Það var fyrst með vaxandi borgarastétt sem menn tóku að setja óbeislaða náttúruna á stall sem ímynd hins háleita, hreina og fagra. Það gerðist ekki fyrr en borgarastéttinni hafði vaxið svo sjálfstraust að hún taldi sig geta haft í fullu tré við náttúruna. Þegar maðurinn hafði losað sig úr viðjum náttúruaflanna gat hann sest andspænis náttúrunni á einhverjum ímynduðum jafhréttisgrundvelli og málað af henni mynd og séð að hún var bæði háleit og göfug.

Myndin var þó ekki síður staðfesting á göfgi mannsins, því ef maðurinn hefði ekki uppgötvað göfgi náttúrunnar með snilli sinni og innsæi, hver hefði þá átt að gera það? Þýski heimspekingurinn Immanuel Kant hélt því fram að hið háleita og göfuga í náttúrunni væri allri list æðra. Listin kæmist aldrei með tærnar þar sem náttúran hefur hælana. Franska ljóðskáldið Paul Verlaine hafði eitthvað svipað í huga þegar hann sagði: „hafið er fegurra en dómkirkjurnar“.

Þessi fullyrðing gefur til kynna að dómkirkjurnar og hafið, listin og náttúran, séu á einhvern hátt sambærileg. í hverju getur sá samanburður falist? Hið hefðbundna svar er fólgið í eftirlíkingunni: landslagið og mynd þess. Fyrir Jóni í Möðrudal var Herðubreið ímynd náttúruaflanna og því málaði hann helst ekkert annað. Verlaine hefur þó væntan[1]lega haft annað í huga þegar hann bar saman dómkirkjurnar og hafið. Því líkingin ristir dýpra en svo að hún takmarkist við hið sýnilega yfirborð.

Fyrir kristnum mönnum er munurinn á náttúrunni og listínni fólginn í því að náttúran er sköpunarverk Guðs og sem slík yfirskilvitleg, á meðan listin, menningin og sagan eru vitnisburður um takmarkaðan skilning mannsins á þessu hugverki skaparans. Maðurinn hefur tileinkað sér tvær leiðir til þess að skilja sköpunarverkið: rökhyggju vísindanna og innsæi og ímyndunarafl listarinnar. Báðar að[1]ferðirnar miða í raun að því að ráða í og skilja tungumál náttúrunnar. Listin beinist því ekki að því að líkja eftir ytra yfirborði náttúrunnar, heldur að skilja tungumál hennar. Tungumál listarinnar og tungumál nátúrunnar eru því af sameiginlegri rót, og það er í þeim skilningi sem dómkirkjurnar verða sambærilegar við hafið. Hið stórbrotna og háleita í náttúrunni á sér hliðstæðu í allri háleitri list þótt samanburðurinn kunni að verða listinni í óhag.

Gagnsæir listamenn

Þetta er orðinn langur inngangur að umfjöllun um þá nýstárlegu sýningu sem nú stendur yfir í Listasafni íslands. En hugsanlega kann hann að varpa ljósi á þann skilning á náttúrunni sem þar er að finna, og sumum mun ef til vill finnast tormeltur. Reyndar er sýningin ekki einhlít hvað þetta varðar, enda listamennirnir átta sem þar sýna verk sín gjörólíkir. Þeir eiga það þó allir sammerkt að horfa frá hinu staðbundna landslagi til hins almenna í náttúrunni, eins og yfirskrift sýningarinnar gefur til kynna: orka og víddir.

Giovanni Anselmo: Particolare. Verkið "Particolare" merkir það "sérstæða" sem sést hvergi nema á áfangastað nákvæms lasergeisla þar sem hægt er að leggja höndina. Hluti af heildarinnsetningu, sem hefur að geyma  Granítstein með inngreypri segulnál sem vísar í  norður og ultramarin bláum skuggamyndum á útveggjum sem vísa til handanhafsins.  Þetta eru þrjú sjálfstæð verk sem mynda eina "kosmíska" heild. Orðið ultramarin merkir það sem er handan hafsins og getur falið í sér það sem er handan Svartahafsins, þar sem lapis azul steinnámurnar voru (í Afghanistan), en þessi steinn var verðmætari en gull og gerði ultramarin að dýrasta lit litrófsins.

Verk ítalans Giovanni Anselmo –Nafnlaust til norðurs frá 1986 – er að þessu leyti lýsandi. í stað þess að draga upp mynd af einhverri Herðubreiðinni sem tákngervingi náttúruaflanna, leiðir hann okkur inn í ákveðnar aðstæður sem veita okkur tækifæri til að skynja og upplifa tungumál náttúrunnar og listarinnar með nýjum hætti. Þungamiðja verksins er basaltsteinn með innbyggðum áttavita sem ákvarðar stöðu hans í salnum: norður-suður. Síðan erum við Ieidd, samkvæmt heiti verksins, að fjórum stöðum í salnum þar sem eru málaðir fjórir fletir með ultramarin-bláum lit á veggi. Liturinn ultramarin hefur táknræna merkingu, því heiti hans vísar til þess sem er handan hafsins: ómælisvíddir náttúrunnar. Auk þessara fjögurra ulramarinbláu flata er í salnum Ijóskastari sem varpar geisla sínum inn í salinn. Ef áhorfandinn stendur í ljósgeislanum í ákveðinni fjarlægð frá ljósgjafanum myndast orðið „particolare“ á honum sjálfum. En það gæti þýtt hið sérstaka eða einstaka. Það „fallega“ við þetta verk er ekki fólgið í því að listamaðurinn geri sig gildan gagnvart náttúrunni með því að gera af henni mynd. Þvert á móti er hann sjálfur eins gagnsær og frekast má vera. Verkið býður hins vegar upp á upplifun, sem hefur skírskotun til kosmískrar reynslu, þar sem við höfum hið jarðbundna og fasta í steininum, ómælisvíddirnar í ultramarínblámanum og hið sérstaka en jafnframt ósýnilega og tímabundna er felst í orðinu „particolare“, sem er ósýnilegt í ljósgeislanum, nema einhver gangi inn í hann á réttum stað.

Finnbogi Pétursson: Pendulum. Þrír pendúlar með hátalarakeilu sem útvarpar hvin af eigin sveifluhreyfingum.

Pendúlar Finnboga Péturssonar eru einnig meðal eftirminnilegri verka á þessari sýningu. Þetta verk er gert af þrem háum pendúlum sem ná frá gólfi til lofts í stóra sal safnsins og fylla hann hálfan þar sem þeir sveiflast stöðugt, knúðir af þöglum rafmóturum. Í enda þeirra eru hátalaratrektir og undir trektunum þar sem þær koma næst gólfi eru litlir míkrafónar sem nema hvininn af hreyfingu þeirra, sem síðan endurvarpast í hátalaranum. Þetta er verk sem framleiðir sín eigin hljóð og endurvarpar þeim um leið og þau verða til. Hljóðin eru því ekki tilbúin eftirlíking náttúruhljóða, heldur náttúruhljóð sem hátalarinn framkallar í tvöfaldri merkingu: sem hljóðgjafi og hljóðmiðill. Þessi staðreynd gerir daufan hvininn úr magnaranum dularfullan og fær okkur til að leggja við hlustír: hver eru upptök hvinsins og hvað hefur hann farið mörgum sinnum í gegnum magnarakerfið? Verk Finnboga er snjallt vegna þess að það er kristaltært í hugsun en hljóðið sem það framkvæmir er margrætt eins og tungumál náttúrunnar.

Eru skil manns og náttúru yfirstíganleg?

Steina Vasulka: Video-innsetning um orku íslenskrar náttúru.

Þriðja verkið sem mér þótti hvað áhrifamest á þessari sýningu var myndbandsverk Steinu Vasulka: það sýnir myndskeið af öldugangi og vatnsnið með innskoti af íslenskum móagróðri, sem varpað er af tveim myndvörpum á fjóra skerma, þannig að fram kemur tvöföld speglun frá tveim myndböndum. Verkið er nánast eins og kvartett fyrir fjögur hljóðfæri, sem spegla hvert annað í samhæfðum myndskeiðum og mynda ákveðna hrynjandi við undirleik vatnsniðsins sem heyrist í bakgrunni. Einnig hér erum við rækilega minnt á hliðstæðuna á milli tungumáls náttúrunnar og listarinnar. Einnig hér er persóna listamannsins sjálfs nánast gagnsæ. Við erum minnt á þann möguleika að hægt sé að yfirstíga tvíhyggjuna á milli manns og náttúru, á milli dómkirkjunnar og hafsins, sem upphaflega er kannski til orðin af lífsnauðsynlegri þörf mannsins til þess að beisla náttúruna og sveigja hana að sínum þörfum. Við getum ekki keypt okkur innrammaða hlutdeild í Herðubreiðinni eða öðrum tákngervingum náttúrunnar á þessari lærdómsríku sýningu, en ég hef þá bjargföstu trú að hún geti orðið okkur að gagni við að skilja betur tungumál náttúrunnar og listarinnar. Og þá er til mikils unnið.

JÓNSMESSA Í ACITREZZA

Jóhannes Skírari á Sikiley

Í tilefni Jónsmessunnar varð mér hugsað til eftirminnilegrar Jónsmessuhátíðar sem ég átti með fjölskyldunni í sjavarþorpinu Acitrezza undir hlíðum Etnu á Sikiley fyrir 3 árum síðan. Þetta var heitur júnímánuður, sólin brennandi hátt á lofti og það fór ekki framhjá neinum að það var mikið í vændum: Jóhannes skírari er verndardýrlingur þessa töfraslungna fiskimannaþorps sem hefur tekist að varðveita hefðir sínar og umhverfi í ólgu samtímans, og það voru uppi götuskreytingar um allan bæ, en þó einkum á dómkirkjutröppunum fyrir ofan höfnina.

Hvarvetna voru rauðir borðar og dúkar til að minna á komu Jóhannesar í bæinn, og ljósadýrðin var mikil um allan bæ eftir sólsetur um níu-leytið þegar efnt var til tónleika fyrir neðan dómkirkjuna.

Það var þó einkum þar sem hátíðahöldin fóru fram og hófust með lúðrablæstri á torginu um miðjan dag. Ég vissi ekkert um þær hefðir sem lágu á bak við þessa hátíð, en þegar lúðrasveitin var búin að þeyta lúðra sína og sælgætissalarnir að bjóða litríka sykurmola til barnanna og lögreglan mætt til að stjórna umferðinni, þá kom að því að kardínálinn með bleiku kollhúfuna, biskupinn og presturinn og borgarstjórinn mættu á torgið og þegar ég fylgdi í humátt á eftir þeim sá ég að kirkjan var þegar troðfull af fólki. Flestar konur í Acitrezza voru í appelsínurauðum skyrtum þennan dag, en margir karlmenn höfðu líka appalsínurauðan hálsklút. Ég tók upp símann minn og myndaði það sem fyrir bar í þessari messu, án þess að vita hvað var í vændum.

Nú þegar ég ryfja þetta upp reyni ég að finna myndskot af því sem gerðist, en í upphafi var mikið skrafað og talað í kirkjunni, allt þar til presturinn steig í stólinn og bað um þögn, því þessi stund væri hugsuð til hugleiðslu um píslarvottinn og skírarann Jóhannes, sem héldi verndarvæng sínum yfir sjómannafjölskyldunum og öllum íbúm Acitrezza. Þetta var löng athöfn sem söfnuðurinn virtist þekkja fyrirfram, presturinn talaði lengi í bundnu máli og söfnuðurinn svaraði með taktföstum hætti, auk þess sem orgelspil og söngur kom á milli ljóðalesturs og predikunar. Athöfnin var löng og það kom í ljós að hún var markviss undirbúningur hámarks athafnarinnar, sem fólst í því að eins konar skápur yfir altari opnaðist hægt og þar birtist við mikinn fögnuð safnaðarins helgimynd dýrlingsins, málað og uppljómað líkneski í fullri líkamsstærð sem var fagnað með dynjandi lófataki, hrópum og köllum áhorfenda. Líkneskið var síðan borið út á kirkjutorgið og í gegnum götur bæjarins með viðeigandi stoppum og helgiathöfnum og fórnargjöfum til góðgerða.

Ég verð að játa að sem nokkuð reyndur fagmaður í listasögu og listheimspeki kom mér eitt mest á óvart: aldrei hafði ég séð myndlistarverk fá slíkar viðtökur með lófaklappi, hrópum og áköllun. Þetta var greinilega frelsandi atburður fyrir söfnuðinn og megintilefni messuhaldsins. Atburðurinn vakti þannig upp ögrandi spurningar um samband listar og trúar.

Ég fann einhverjar slitrur af myndbandsupptökum mínum frá þessari Jónsmessu í síma mínum í dag og setti saman í þetta myndband  sem ég set hér inn á vefin í tilefni dagsins sem hefur misst sitt trúarlega hlutverk í heimi mótmælenda en lifir enn góðu lífi meðal kaþólskra Sikileyinga.

FRELSISHER HVOLPASVEITARINNAR

Hvolpasveitin smalar óþekkum köttum: smellið á þennan hlekk

https://www.ruv.is/utvarp/spila/hvolpasveitin/27920/8a8g8e

Frelsisher Hvolpasveitarinnar er bjargvættur okkar allra
Hvíldarstund frá leikskóla lífsins

 

Hvílík upphefð er það ekki fyrir afa á áttræðisaldri að fá þau skilaboð frá þriggja ára dótturdóttur að hann og enginn annar eigi að sækja hana á leikskólann þennan daginn. Þetta kom fyrir undirritaðan nýverið, sem var samviskusamlega mættur í Grænuborginni við lok skóladgs til að sækja Bubbu litlu, sem kom hlaupandi i fangið á afa sínum eftir annasaman dag við leiki og störf í þessum skóla lífsins þar sem leikirnir eru ungu barni ekki bara leikir, heldur hin blákalda alvara lífsins. Hún fór með mig í fatahengið, dæsandi eftir erfiðan dag og tiltók allt skilmerkilega sem taka ætti með heim, líka listaverk dagsins, sem hún sagðist ætla að færa ömmu sinni.

„Nú veður amma glöð“, sagði Bubba, og ánægjan skein úr svipnum eftir atburðaríkan dag, þar sem þreytan sýndi sig á heimleiðinni í svolitlum geispa úr barnastólnum í aftursætinu. En þegar heim var komið gerði hún sig strax heimakomna, kastaði af sér skóm og yfirhöfn, hljóp rakleitt inn í stofu, settist fyrir framan sjónvarpstækið og bauð afa sæti í sófanum á meðan amma útbjó uppáhalds sjónvarpsmatinn, flatbrauð með lifrakæfu og gúrkubita. Það er bara eitt sem kemur til greina til slökunar eftir annasaman vinnudag hjá litlu skólabarni: Hvolpasveitin, og ekkert annað. Bubba veit nákvæmlega hvað hún vill.

Hvolpasveitin er vissulega afslöppunarefni, en hún er líka dulbúið kennsluefni fyrir lítil börn: hún leiðir okkur inn í öruggan heim hjálparsveitarinnar sem leysir allan vanda og hjálpar öllum úr ógöngum lífsins, ólíkt lífsbaráttunni á leikskólavellinum þar sem hver er sjálfum sér næstur, reyndar innan þaulhugsaðs ramma kennaranna, sem vissulega kunna sitt fag á Grænuborginni. Sjónvarpsþættirnir um Hvolpasveitina eru allegóría um þá útópíu tæknisamfélagsins þar sem alvitrir og allsgáðir stjórnendur tæknivélarinnar finna ráð við sérhverjum vanda, hversu óleysanlegur sem hann kann að virðast. Það er einn stjórnandi í þessum heimi, og hann stýrir honum eins og vel smurðri vél. Hvolpasveitin er fumlaus og tæknilega samhæfður hópur sem lýtur skilyrðislaust og ósjálfrátt tilskipunum yfirboðarans og fullkomins tækjabúnaðarins, og öll aðsteðjandi vandamál leysast á augabragði.

Bubba valdi þáttinn um óþekku kettlingana sem einn hvolpurinn átti að passa fyrir eigandann með pípuhattinn, sem þurfti að gera sér glaðan dag. Það tókst ekki betur til með þessa kettlingapössun en svo að þeir umturnuðu öllu í húsinu, allt á tjá og tundri og óþekktarormarnir enduðu á kafi í freyðibaðinu eftirsótta.

Tiltektartilraunir voru máttlausar og enduðu með því að kraftmikil hárþurrka gerði óþekku kettlingana að biðukollum sem fuku út í buskann og út um háloftin.  Þá var kallað á Róbert, sem kallaði út Hvolpasveitina og á svipstundu voru hvolparnir komnir á björgunartækjum sínum, drónum, þyrlum og dráttarvélum um allar koppagrundir og upp í háloftin til að safna óþekktaröngunum saman og bjarga þeim í hús frá bráðum háska. Allt í tæka tíð og eigandinn heimti nýþvegna kettlingana sína úr helju við mikinn fögnuð allra viðstaddra.

Á tímum pestarinnar er fátt jafn friðþægjandi og svona sögur, ekki bara fyrir leikskólabörnin, heldur líka fyrir afana, sem skynja strax að í raunverunni heitir stjórnandi hvolpasveitarinnar ekki Róbert, heldur annað hvort Þórarinn eða Kári sóttvarnarstjóri. Nema hann heiti Bill Gates. Fagnaðarerindi þessa myndheims er eins og fagnaðarerindi kristindómsins:  fyrirheit um frelsun og eilíft líf án sársauka. Munurinn er sá að þessi draumsýn vísar ekki í annað líf, heldur í hið velsmurða framhaldslíf tæknivélarinnar, þar sem allir eru jafnir fyrir lögmálum vélbúnaðarins, ekki bara Róbert, hvolparnir og mannfólkið, heldur líka öll náttúran í heild sinni. Drottinn þessa heims er ekki í skýjunum, heldur í vélunum, og frelsandi máttur þeirra er ekki tilkominn fyrir fórnir frelsarans, heldur er hann fólginn í sjálfstýrikerfi vélarinnar sjálfrar. Þar er hinn yfirskilvitlega leyndardóm þessa heims að finna, og engu líkara en að hann sé jafn yfirskilvitlegur fyrir Róbert sjálfan og alla undirsáta Hvolpasveitarinnar og kettlingaóvitana sem lifa óhultir í alltumlykjandi verndarhendi hennar.

Hér eru allir bólusettir og allir hugsanlegir smitberar í öruggri sóttkví. Það eru engir „afneitunarsinnar“ til í þessum heimi, engir „popúlistar“ og engir „fullveldissinnar“ sem ekki skilja blessun agavaldsins og fumlausan framgang tilverunnar í hinni vélvæddu náttúru alheimsins. Og ekki bara það: Hér er úlfur Rauðhettu og allur skógurinn orðinn að besta vini barnanna. Hver vill ekki hvíla sig í slíkri draumaveröld eftir annasaman dag í átökum við hráan veruleikann?

Hamingjusamur endir: Allir komnir í heilsusamlegt freyðibað

Fjar(vistar)kennsla úr sóttkvínni: fagurfræði raunverunnar

Á tíma pestarinnar er okkur kennurum gert að tala til nemanda okkar í gegnum internetið, sem er svolítið eins og að tala út í tómið. Ég átti eftir einn fræðslutíma sem átti að binda enda á umfjöllun okkar um Eros í myndlistinni, í goðsögunum, myndunum, hugmyndasögunni og samtímanum. Þetta ferðalag okkar hófst í Grikklandi fyrir 2400 árum og í síðasta tímanum fyrir sóttkví vorum við farin að tala um Eros í samtímanum út frá sálgreiningunni eins og hún er iðkuð af sálgreininum og heimspekingnum Umberto Galimberti. Það vantaði í raun bara endapunktinn, sem ég ætlaði að setja á þessa yfirferð með því að heimfæra hugmyndir sálgreinisins Jacques Lacans upp á samtímalistina, meðal annars með aðstoð ritgerðar eftir sálgreininn og rithöfundinn Massimo Recalcati. Allt fór í vaskinn og ég sat nemandalaus á skrifstofu minni og nemendur mínir úr Háskóla Íslands og Listaháskólanum sátu lokaðir hver í sínu horni. Úr vöndu var að ráða, og á endanum setti ég mig í hlutverk kennarans fyrir framan tölvuna eins og hún væri eitthvað allt annað. Þetta var þykjustuleikur, og úr honum varð þetta myndband sem ég sendi út í myrkrið síðastliðna nótt sem sendibréf úr sóttkvínni. Ég set það hér inn á vefsíðuna ef einhverjir fleiri  kynnu að hafa áhuga. Allar athugasemdar og fyrirspurnir eru velkomnarhér á hugrunir.com.

Til þess að sjá myndbandið þurfið þið að afrita þetta leiðarmerki og setja í leitarvél ykkar á tölvunni. Myndbandið tekur um það bil eina klukkustund og kallar því á svolitla þolinmæði:

https://1drv.ms/v/s!AjnHerssOtqOn-weU0RxNiE6zRgu5A?e=CVWV3Y

OCHÚN – ástargyðja Orisha-trúarbragða á Kúbu

Þegar ástargyðjan kom til Guanacaboa-hverfisins í Havana

Í byrjun þessarar aldar starfaði ég í nokkur ár við leiðsögn ferðamanna á Kúbu, einkum um vetrartímann. Á þessum tíma eignaðist ég innfædda vini sem bjuggu við efnahagslegar þrengingar en lifðu engu að síður auðugu lífi, ekki síst í gegnum trúarbrögðin. Þessir vinir mínir leiddu mig inn í launhelgar Orisha-trúarbragðanna, sem afrískir þrælar höfðu flutt með sér frá vesturströnd Afríku á 17. og 18. öld og voru kjarni Yoruba-menningarinnar sem hafði lengi blómstrað þar sem nú er Nígería.

Orisha-trúarbrögðin hafa blandast rómversk-kaþólskri trú með einstökum hætti á Kúbu, en Orisha er í raun fjölgyðistrú (stundum kölluð með niðrandi hætti „santeria“) sem býr yfir auðugri goðafræði sem á margt sameiginlegt með grísk-rómverskum trúarbrögðum. Þannig eru Orishar guðir sem standa fyrir náttúruöflin og fyrir dyggðir og lesti mannanna, en Orisharnir voru yfirfærðir á kaþólska dýrlinga af spánska rannsóknarréttinum í pólitísku hagræðingarskyni.

Til þess að fá aðgang að leyndardómum Orisha-menningarinnar þurfti ég að vígjast inn í söfnuðinn undir merki og verndarvæng Obatala, en þessi guð á margt sameiginlegt með sólarguðinum Apollon og hefur af kaþólsku kirkjunni verið viðurkenndur nánast sem staðgengill Krists. Guðfaðir minn lagði spurningar fyrir véfréttina í gegnum helgisið þar sem skeljum var kastað, fugli var fórnað og blóði úthellt fyrir guðinn auk þess sem skírnarathöfninni fylgdi bæði seiður villtra jurta og söngvaseiður með taktslætti, hristutakti og söng.

Eftir slíka innvígslu fékk ég innsýn í leyndardóma Orisha-trúarbragðanna sem ekki er á lausu fyrir óinnvígða. Því fylgdu trúarathafnir og samkomur sem oft voru tengdar dýrafórnum, en ekki alltaf. Fórnardýr voru oftast fuglar, dúfur og kjúklingar, en einnig kiðlingar og lömb. Trúarathafnir voru framkvæmdar í lækningaskyni fyrir einstaklinga og til heilla fyrir söfnuðinn og þátttakendur, en einnig fyrir hina látnu. Tónlist, taktsláttur og söngur voru alltaf viðhöfð, innvígðir prestar klæddust guðagervum og féllu í leiðsluástand, sem einng gerðist reglulega meðal þátttakenda.

Þar sem ég er nú að kenna námskeið í Listaháskólanum sem hefur yfirskriftina EROS og hefur það yfirlýsta markmið að bregða ljósi á birtingarmyndir Erosar í sögu listarinnar, þá fannst mér við hæfi að veita þeim aðgang hér á hugrunir.com að stuttu myndbandi sem ég gerði í marsmánuði 2006. Um er að ræða veislu eða hátíð sem haldin var til heiðurs ástargyðjunni Ochún, sem er verndardýrlingur Kúbu og hefur sem sína kaþólsku mynd titilinn La santísima Virgen de la Caridad del Cobre (eða hin heilaga jómfrú kærleikans frá Cobre). Tengsl Ochún við heilaga jómfrú byggja meðal annars á kraftaverkabjörgun skipbrotsmanna eftir fund Maríulíkneskis í sjó undan austurströnd Kúbu, þar sem er bærinn Cobre. Ochún er hin kúbanska Afrodíta, gyðja ástarinnar, kvenlegrar fegurðar, veraldlegs auðs og hinna fersku vatna.

Samkoman sem þetta myndband gefur hugmynd um var haldin í fátæklegu umhverfi í einu af snauðustu úthverfum Havana. Ég var eini útlendingurinn og hafði í raun ekki leyfi til að kvikmynda athöfnina. En guðfaðir minn í Orisha-trúnni og 3 aðrir vinir mínir voru þátttakendur í samkomunni og vissu af uppátæki mínu. Myndbandið lýsir umhverfinu og fórnaraltarinu sem um leið var framlag gestgjafa og þátttakenda.

Það kom mér á óvart þegar ég sá að það var karlmaður sem varð andsetinn af ástargyðjunni og klæddist gulum kjólfatnaði hennar. Ég hafði í raun ekki leyfi til að mynda hann, en tek mér nú það bessaleyfi að birta þetta 14 ára gamla myndband til upplýsingar fyrir nemendur mína og áhugasama fylgjendur þessarar vefsíðu.

Í Samdrykkju Platons, sem við höfum verið að lesa á námskeiði okkar í Listaháskólanum, setendur meðal annars að ástinni fylgi guðdómlegt æði, sem búi handan allrar rökhugsunar og feli í raun í sér guðdómlega náðargjöf og visku. Leiðslan, eða það sem kallað er „trans“ á lélegri íslensku, er eitt helsta markmið margra Orisha-samkomna. Það er ekki bara „presturinn“  (el santero) sem fer í leiðslu, heldur dansa þátttakendur sig í leiðsluástand. Slíkur dans er íbúum Kúbu í blóð borinn og einn af hornsteinum menningar þeirra. Það þarf ekki að hafa fleiri orð um skyldleika slíkrar trúarlegrar danslistar við það guðdómlega æði sem rann ekki síst á dýrkendur Dionysusar í Grikklandi til forna. Um þessa reynslu alla og samfélagslega virkni hennar og mennigarlega þýðingu mætti hafa mörg orð, en hér læt ég nægja að segja að með afnámi fjölgyðistrúarinnar og „dauða Pans“ varð menning okkar mun snautlegri.

%d bloggers like this: