CARLO SINI:
UPPNÁM MERKISINS OG DAUÐANS
III
Hið óendanlega uppnám/óvissa
L‘infinita inquietudine
Il sapere dei segni bls. 134 – 139
Nú er komið að því að átta sig á að ímyndir allrar þekkingar eru „ekki-viðvarandi“ (impermanenti). Sérhver ímynd (figura) er í raun og veru afstæð og hin djúpa vera hennar felst í tímabundinni „viðveru“[i] hennar og brotthvarfi. Í þessum efnum er vitundin um dauðann engin undantekning. Eins og öll önnur þekking þá gerist hún (á sér stað) og gerir ógrundaða framtíðarspá sem fyrr eða síðar verður afskrifuð. Framtíðarspárnar eru hins vegar ekki tilefnislausar. Sérhver þekking á sínar röklegu forsendur, sín viðmið almennrar skynsemi og sín tilefni. Þekkingin er reyndar fólgin í „il riconoscimento“ sem merkir á íslensku að „þekkja á ný“ eða „endurnýjuð kynni“ (þar sem Peirce notaði enska orðið „record“). Þessi „endurkynni“ byggja á reglu formsins, eða þeirri reglu að birtast í sífellu á ný. Þekkingin er taktur (rytmi -af grísku: rythmos) sem segir okkur „þarna kemur hann aftur!“: þarna kemur aftur hjartsláttur móðurinnar, þarna kemur móðurröddin enn á ný, andlit hennar, bragð hennar o.s.frv. Það var í þessum fyrirbærum sem Stern rannsakaði og við fundum forsenduna fyrir hinum afstæða uppruna okkar[ii].
Á sama tíma fela „endurkynnin“ í sér „transferimento“ sem við gætum kallað „umgang“ á íslensku, tilbrigði og ummyndanir, vegna þess að þekkingin er ekki sértæk (abstrakt) íhugun, heldur viðbragðsvenja (abito di risposta), viðbúnaður til andsvars, viðvera, og svo er sértæka íhugunin líka verknaður og sama á við um sérhverja kenningu (teoria), sérhverja iðkun fræðikenningar (eins og Husserl komst að orði). Þekkingin er virk framkvæmd og í þessu samhengi er hún einnig „músíkölsk“ því það þarf að „flytja hana“.
Hérna birtist það á ný: hér höfum við nýjan dag og nóttin kemur aftur. Hér sjáum við aftur páfuglinn á súluhöfðinu í klausturgarðinum o.s.frv. Þetta gefur tvennt til kynna:
Fyrst og fremst vísar það til þess að atburður endurkynnanna gerist: það er þetta sem kemur aftur, enn á ný. Í þessum skilningi gerist það eins og um fyrsta skiptið væri að ræða. Þetta er hins vegar „ancora“, það er að segja enn á ný, því það er einungis með endurkomunni sem það verður það sjálft, í þetta skiptið, þessi hlutur.
Í öðru lagi sjáum við að endurkynnin fela í sér eigin ómerkingu þar sem þau eru hverful þekking , því þó vissulega sé það sami „hluturinn“ sem sýnir sig á ný, þá er hann engu að síður orðinn annar, hefur tekið sér bólfestu í nýju burðarverki, samhengi og aðstæðum. Það er hér sem ekki-viðveran (l‘impermanenza) á rætur sínar í öllum efnum þekkingarinnar; það er hinn óleysanlegi mismunur formsins, þessa forms sem leitast við að festa sig í sessi sem merking (með því að gera endurkynnin möguleg) og hið einstaklingsbundna eðli atburðar endurkynnanna, sem verða ekki endurtekin með tilkomu sinni og eru ef svo má segja ávallt ný (alltaf nýtt „nýtt“).
Það sem virðist koma á ný er formið. Þetta var hin mikla uppgötvun Platons og um leið ástæðan fyrir upphafningu hans upp á hið „yfir-úranska“ himinhvel. Hér höfum við fyrir okkur höfuðvanda heimspekinnar: öll vísindi Vesturlanda hafa verið „innformeruð“ (upplýst) um þetta (Sini gerir hér orðaleik úr ítalska sagnorðinu „informare“ ( =“upplýsa“) sem þýðir bókstaflega „að klæða í form“). Við sjáum endurkomu formsins, „hrosseðlið“ sem birtist í óendanlegum myndum allra heimsins hesta, og þar fram eftir götunum. Hver getur andmælt þessu? Einungis með andmælunum höfnum við í eigin mótsögn, því formið er frumforsenda allrar þekkingar og allrar dómgreindar og allra fullyrðinga og allra andmæla.
En efnislega er þetta ekki satt, eða þá eingöngu hálfur sannleikur, því það sem sífellt birtist á ný er atburðurinn sem eyðing (nullificazione). Raunin er sú að þessi flækja gerist ávallt á ný: formið birtist alltaf á ný sem merki atburðarins (merki sem gerist í heiminum), en er ekki sem endurkoma í heiminn, endurkoma til hins sama, því viðfang merkisins, það er að segja atburðurinn sem merkið vildi gefa merkingu með formi sínu, þetta viðfang er alltaf annað merki sem endurspeglar fjarlægðina og lætur sig hverfa inn í hana. Það sem kemur aftur er viðvarandi ekki-viðvera (permanente impermanenza). Hið sama er í raun og veru botnlaust hyldýpi. Sérhver þekking lifir þannig í andrá (transito) algildrar óvissu (assoluta inquietudine). Óvissan sem er ósnertanleg í efnisgerð sinni myndar tómið á þröskuldinum (markalínunni) sem yfirfærist jafnóðum á nýja burðargrind og ný merkingartengsl, það er að segja myndandi og afmyndandi jafn óðum efni ímynda sinna.
Oliver Sachs sagði að sú holdgerða ímynd móðurinnar sem nýburinn tekur inn á sig byggi á grundvelli sameiginlegra tengsla þeirra við umheiminn. Þannig getur móðirin túlkað barnið og það er þannig sem barnið getur fundið svörun í því tungumálslausa einhverfuástandi sem það býr við. Við bendum hins vegar á að þessi „sameiginlegu tengsl“ sem Sachs talar um eru ekki hrein endurspeglun sameiginlegs heims, heldur samfelld yfirfærsla á merkingu hans (senso) og ímyndum (figure) sem eiga það sameiginlegt að vera boðberar hinnar stundlegu verðandi (sem Sini kallar „transito“). Það er rödd móðurinnar sem gerist eins og skynjanlegur atburður er tekur á sig mynd sína í eyra barnsins og það er óp barnsins sem tekur á sig mynd sína í líkama móðurinnar sem svarar. Hvorugur þessara atburða er það sem er algilt og í sjálfu sér, það er að segja eins og endurspeglun og hluti af heimi í sjálfum sér sem er gerður úr röddum og barnsópum. Þvert á móti þá er það í þessum röddum og ópum sem heimurinn „kemur til“ (eviene), aftur og aftur í síbreytilegri verðandi sinni þar sem hann verður að virkum viðbrögðum á milli móður og barns, virku sambandi móður og barns: líf sem speglar sjálft sig og endurnýjar sjálft sig, skynjun á heimi sem umbreytist í ímyndir og leysir sig upp.
Út frá þessu getum við sagt að burðarvirki allra burðargrinda, það sem tengir saman umgang allra ímynda sé atburðurinn sjálfur, „efni“ steypumótsins (svo stuðst sé við myndmálið í Timeusi hjá Platoni) sem er óslitin samfella (continuum) eigin óvissu. Burðarvirki sem er einungis stöðugt í óstöðugleika sínum. Formið, ímyndin, hrapa í samfelldri tilfærslu (transferimento) líkamanna sem eru merktir umgangi sínum (transito). Umgangurinn er ekki andsvar við upprunalegu yfir-úranísku formi, því eins og við höfum sagt, þá er formið ekki annað en endurtekning með tilbrigðum, „tónlistarlegur taktur“.
Atburður endurtekningarinnar á sér ekki uppruna á tilteknum stað eða tilteknum tíma sem hægt er að sjá fyrir. Tilkoma atburðarins felur öllu heldur í sér al-átta fráfærslu (distanziamento onnidirezionale) sem liggur burt frá öllum „hvar“. Þetta gerist einnig í dæmi móðurinnar og barnsins, sem í upphafi voru sameinuð í sameiginlegum atburði, en síðan stöðugt tilfærð með gagnkvæmum hætti í samskiptalegum afstæðum sem aðskilja þau um leið og fjarlægja þau þannig hvort frá öðru með gagnkvæmum hætti.
Í gegnum merki líkamans og raddarinnar þekkja móðir og barn hvort annað aftur og öðlast samkennd sem gefur þeim stöðugt aukna þekkingu hvort á öðru, en á sama tíma skiljast þau að til þess að verða á endanum gagnkvæm minning sem varðveitt er í huga og hjarta í varanlegum mismun. Það er með þessum hætti sem endurkynnin (riconoscimento) tengjast því sem Whithead kallaði „harmsögulega fegurð“ og við munum fjalla um innan skamms.
Sem atburður merkinganna og markalína ummyndana þeirra og endurtekninga með tilbrigðum, sem hann gengur í gegnum, verður atburðurinn burðarvirkið á vegferð þekkinganna og taktsins og æðasláttarins í endurkomunni. En endurkoman felur á endanum einnig í sér eyðingu.
Ef rétt er skilið, þá felur þetta í sér og afmarkar tvöfalda leið að því marki að dvelja í þekkingunni og iðka hana. Fyrst og fremst þá leið sem einbeitir sér að því að fylgja forminu í endalausri runu merkinga: áhersla sem kallar á stöðugt endurtekna tilraun til að höndla viðfangið, skilgreina það í merkingunni og með merkingunni, viðleitni til að ljúka endurkomunni eða fullnusta hana, festa hana fyrir fullt og allt í (forskrifaðri) líkingu við sannleika heimsins og samsama sig án allra efasemda með atburði hans.
Peirce myndi kalla þetta aðferð þrautseglunnar, aðferð sem er dæmd til falls og endanlega merkt hjátrú sinni; aðferð sem er í vissum skilningi óhjákvæmileg og frá sjónarhorni formsins ófrávíkjanleg örlög.
Jafnframt og auk þessarar nálgunar er svo nálgunin sem við kennum við „hérna kemur hann aftur“ sem er yfirferð (transito) hinnar samfelldu eyðingar (nullificazione), yfirferð þar sem þekking formsins verður tilefni sífellt endurnýjaðrar „visku“ (sapienza), staðfastrar visku sem felur atburðinum sannleikann um sína óhjákvæmilegu eyðingu, eyðingu sem felur í sér „hið nýja“ sem stöðugt vofir yfir með endurkomu sinni. Viska sem listin að móttaka, – sem er jafnframt listin að sleppa frá sér (non trattenere)[iii].
Við getum sagt að með þessum hætti transit gloria mundi (=ljúki vegferð dýrðarljóma heimsins) á gönguferð munksins. Hún fer hjá til þess að hverfa í vörslu hins eilífa tóms. Hin hæga og ígrundaða gönguferð munksins í klausturgarði hans verður eins og allir aðrir hlutir snortin af hinni óendanlegu óvissu umsnúnings heimsins (giri del mondo). Með honum ganga tímarnir, stundirnar, árstíðirnar, innritaðar í hina músíkölsku ástríðugöngu/píslargöngu[iv] sérhvers lífs. Allt þetta hreyfist með honum, og enn frekar með okkur, eins og við vitum, sem tilfærðar ímyndir er hafa orðið viðfang þekkinga okkar og okkar lífsreynslu, einnig allt þetta á hreyfingu.
Þannig er allt rósemdar-óvissa og samfelld hreyfing. Í rauninni furðuleg hreyfing: Því betri tökum sem við náum á henni í þekkingunni, þeim mun framandlegri verður hún í verunni, því það er einmitt þekkingin sem hefur breytt okkur og hefur samfleytt umbreytt lífum okkar. Einnig skilningurinn á hreyfingunni er afstæður, eins og sérhver merking. Það er hreyfing út frá kyrrstöðu. Kyrrstaða sem fer á hreyfingu. Svo er kyrrstaða út frá hreyfigunni, hreyfingu sem nemur staðar. Þetta er þó ekki algilt (in assoluto); í hinu algilda getur hvorki verið hreyfing né kyrrstaða. Atburður þeirra er óhjákvæmilega ónæmur þannig að báðir búa yfir möguleika hins. Hvaðan ætti atburður heimsins annars að koma? Og hvert skyldi hann stefna? Og hvar væri hann annars að finna? Það var í þessum skilningi sem við ræddum um merkið: að „hvaðan“ þess er vera í fjarlægð (distanza)[v]. Að „hvert stefnir“ þess sé vera sem „instanza eða d‘instanza“ (= „tilkall“), og „hvar“ þess sé vera „di stanza“ (=vera til staðar): þrír í einum, að þekking skriftarinnar einkennist af þrem myndum orðsins „distanza“ og að atburður raddarinnar líkist þeim.[vi]
Sérhver hreyfing afmáir sjálfa sig andspænis atburði heimsins og sérhver kyrrstaða (stasi) er víðs fjarri. Bæði eyða sjálfum sér í atburðinum rétt eins og hið eilífa líf og dauðinn skilin handan þekkingarinnar. Bæði Parmenides og Melissos fjölluðu um þetta á upphafstíma heimspekilegrar þekkingar, þar sem sá fyrrnefndi sagði að veran gæti ekki hreyft sig (það hefði enga merkingu, engan tilgang, því hvert ætti hún annars að fara?) og sá síðarnefndi sem sagði að hún gæti ekki „staðnæmst“ (stare) og afmarkað sig þannig á einhverjum tilteknum stað og stund. Það eina sem honum „þóknast“ (conviene) er að „gerast“ þar sem hann er tímabundið og staðbundið upplýstur á markalínu sinni. En atburður sérhverrar ímyndar og sérhverrar markalínu, einnig þess „sérhvers“ sem hér skrifar, er hinn ævarandi, óskilgreindi og meðfæddi atburður og umgangur (accadere e transitare) hinnar líðandi markalínu heimsins, hin handansækna framvinda hans (suo continuum transcendentale).
Í vissum skilningi mætti segja að gönguferð munksins, sem felur í sér transit gloria mundi (eða komu og brottför allrar dýrðar heimsins), sé innritað í það sem Whitehead kallaði „frið“. Hann fjallar um þetta í einu af meistaraverkum sínum, sem telst til mikilvægustu framlaga heimspekinnar á 20. öldinni: Adventures of Ideas frá 1933. Sá kafli sem við vísum hér til á sér óvæntan dramatískan bakgrunn. Whitehead missti son sinn, sem var flugmaður og hvarf í orrustunni um England þegar blómi breskra ungmenna fórnaði sér til þess að stöðva innrás Hitlers yfir Ermasundið í síðari heimsstyrjöldinni.
Whitehead lýkur umfjöllun sinni í Adventures of Ideas með skilgreiningu á hugtakinu friður innan þeirra kosmísku og félagslegu hugmynda um forsendur siðmenningar, sem hann setur fram, þar sem þetta hugtak ásamt skilningnum á sannleika, ævintýri, fegurð og harmleik eru frumforsendur og gegna meginhlutverki. Þegar Whitehead var að móta þessar hugmyndir sínar og festa þær á blað 1933 gat hann ekki ímyndað sér að lífið myndi taka hann á orðinu tíu árum seinna og þvinga hann til að upplifa á eigin skinni af fullkominni grimmd það sem hann hafði séð fyrir: að engin friður sé án harmleiks og að vandinn felist í að hefja sig upp á hið fyrrnefnda þrátt fyrir hið síðarnefnda. Nokkuð sem felur í sér þá erfiðu þraut að yfirstíga sjálfan sig.
[i] Sagnorðin „trapassare“ og „transitare“ og nafnorð af þeim dregin, „trapasso“ og „transito“ eru grundvallarhugtök í allri heimspeki Carlo Sini og varða fallvaltleikann sem grundvallareiginleika „merkisins“ og þar með allra „merkja“ og allrar „þekkingar“. Orðin merkja nánast „gegnumferð“, það að líða hjá, sem einnig er tímabundin „viðvera“ merkisins á því andartaki þegar sannleikurinn „gerist“ sem atburður, en ekki sem „staðreynd“. Merkin birtast „in transito“ með tímabundinni „viðveru“ sinni en eru jafnframt öll dæmd til að falla í gleymsku í hinni „óendanlegu óvissu“ verunnar. Höfuðrit Sini, Transito verità, gefur með titli sínum til kynna „fallvaltleik sannleikans“ og þar með einnig lífsins og siðmenningarinnar. Bókin er V. bindi OPERE, heildarútgáfu á verkum Sini á vegum Jaca Book (útg. 2012) og ber undirtitilinn „Figure dell‘enciclopedia filosofica“. Þetta rit er 1028 bls. og skiptist í 6 „bækur“ eða meginkafla er standa fyrir ólíkar greinar „alfræðirits heimspekinnar“.
[ii] Daniel N. Stern: Il mondo interpersonale del bambino, trad. It. Bollati Boringhieri, Torino 2002. Stern er sálfræðingur sem hefur fjallað um þróun sjálfsvitundar hjá ungbörnum.
[iii] Sbr.: Carlo Sini: „Segno e distanza“ birt í Eracle al bivio, bls 234-247.
[iv] Sini notar hér orðið „passione“ sem getur bæði þýtt ástríða og (í kristnu samhengi) píslarganga.
[v] Sini notar hér merkingarblæbrigði ítalska orðsins „stanza“ sem merkir „herbergi“ eða „bústaður“, en getur einnig merkt vers eða stef í ljóði. Orðið er myndað af sögninni „stare“ sem merkir „að vera“ á tilteknum stað eða til staðar, „Distanza“ merkir þá ekki bara fjarlægð, heldur líka fjarveru eða fráveru. Orðið „istanza“ merkir venjulega „beiðni“ eða „umsókn“ eða „tilmæli“ eða „áskorun“ og er algengt í lögfræðimáli. Orðmyndin „instanza“ er yfirleitt ekki notuð, en gæti falið í sér áherslumerki „istanza“. Hér virðist hún þó frekar hafa vísun til þess að „vera í herbergi“ eða „vera til staðar“.
[vi] Þessi setning býður ekki upp á bókstaflega eða „rétta“ þýðingu, en heildarmerking hennar er sú að „atburður heimsins“ eigi sér þrjár birtingarmyndir orðsins „distanza“ (sem merkir fjarlægð, fjar-vera), birtingarmyndir sem hafa með „veru“ að gera þar sem orðið „stanza er dregið af „stare“ sem merkir „að vera“ og að „dvelja“ á tilteknu svæði eða í tilteknu ástandi. Instanza getur þannig út frá orðsifjafræðinni einnig gefið í skyn eða vísað til merkingarinnar „staðbundin ívera“.
Like this:
Like Loading...