Hvolpasveitin smalar óþekkum köttum: smellið á þennan hlekk
https://www.ruv.is/utvarp/spila/hvolpasveitin/27920/8a8g8e
Frelsisher Hvolpasveitarinnar er bjargvættur okkar allra
Hvíldarstund frá leikskóla lífsins
Hvílík upphefð er það ekki fyrir afa á áttræðisaldri að fá þau skilaboð frá þriggja ára dótturdóttur að hann og enginn annar eigi að sækja hana á leikskólann þennan daginn. Þetta kom fyrir undirritaðan nýverið, sem var samviskusamlega mættur í Grænuborginni við lok skóladgs til að sækja Bubbu litlu, sem kom hlaupandi i fangið á afa sínum eftir annasaman dag við leiki og störf í þessum skóla lífsins þar sem leikirnir eru ungu barni ekki bara leikir, heldur hin blákalda alvara lífsins. Hún fór með mig í fatahengið, dæsandi eftir erfiðan dag og tiltók allt skilmerkilega sem taka ætti með heim, líka listaverk dagsins, sem hún sagðist ætla að færa ömmu sinni.
„Nú veður amma glöð“, sagði Bubba, og ánægjan skein úr svipnum eftir atburðaríkan dag, þar sem þreytan sýndi sig á heimleiðinni í svolitlum geispa úr barnastólnum í aftursætinu. En þegar heim var komið gerði hún sig strax heimakomna, kastaði af sér skóm og yfirhöfn, hljóp rakleitt inn í stofu, settist fyrir framan sjónvarpstækið og bauð afa sæti í sófanum á meðan amma útbjó uppáhalds sjónvarpsmatinn, flatbrauð með lifrakæfu og gúrkubita. Það er bara eitt sem kemur til greina til slökunar eftir annasaman vinnudag hjá litlu skólabarni: Hvolpasveitin, og ekkert annað. Bubba veit nákvæmlega hvað hún vill.
Hvolpasveitin er vissulega afslöppunarefni, en hún er líka dulbúið kennsluefni fyrir lítil börn: hún leiðir okkur inn í öruggan heim hjálparsveitarinnar sem leysir allan vanda og hjálpar öllum úr ógöngum lífsins, ólíkt lífsbaráttunni á leikskólavellinum þar sem hver er sjálfum sér næstur, reyndar innan þaulhugsaðs ramma kennaranna, sem vissulega kunna sitt fag á Grænuborginni. Sjónvarpsþættirnir um Hvolpasveitina eru allegóría um þá útópíu tæknisamfélagsins þar sem alvitrir og allsgáðir stjórnendur tæknivélarinnar finna ráð við sérhverjum vanda, hversu óleysanlegur sem hann kann að virðast. Það er einn stjórnandi í þessum heimi, og hann stýrir honum eins og vel smurðri vél. Hvolpasveitin er fumlaus og tæknilega samhæfður hópur sem lýtur skilyrðislaust og ósjálfrátt tilskipunum yfirboðarans og fullkomins tækjabúnaðarins, og öll aðsteðjandi vandamál leysast á augabragði.
Bubba valdi þáttinn um óþekku kettlingana sem einn hvolpurinn átti að passa fyrir eigandann með pípuhattinn, sem þurfti að gera sér glaðan dag. Það tókst ekki betur til með þessa kettlingapössun en svo að þeir umturnuðu öllu í húsinu, allt á tjá og tundri og óþekktarormarnir enduðu á kafi í freyðibaðinu eftirsótta.
Tiltektartilraunir voru máttlausar og enduðu með því að kraftmikil hárþurrka gerði óþekku kettlingana að biðukollum sem fuku út í buskann og út um háloftin. Þá var kallað á Róbert, sem kallaði út Hvolpasveitina og á svipstundu voru hvolparnir komnir á björgunartækjum sínum, drónum, þyrlum og dráttarvélum um allar koppagrundir og upp í háloftin til að safna óþekktaröngunum saman og bjarga þeim í hús frá bráðum háska. Allt í tæka tíð og eigandinn heimti nýþvegna kettlingana sína úr helju við mikinn fögnuð allra viðstaddra.
Á tímum pestarinnar er fátt jafn friðþægjandi og svona sögur, ekki bara fyrir leikskólabörnin, heldur líka fyrir afana, sem skynja strax að í raunverunni heitir stjórnandi hvolpasveitarinnar ekki Róbert, heldur annað hvort Þórarinn eða Kári sóttvarnarstjóri. Nema hann heiti Bill Gates. Fagnaðarerindi þessa myndheims er eins og fagnaðarerindi kristindómsins: fyrirheit um frelsun og eilíft líf án sársauka. Munurinn er sá að þessi draumsýn vísar ekki í annað líf, heldur í hið velsmurða framhaldslíf tæknivélarinnar, þar sem allir eru jafnir fyrir lögmálum vélbúnaðarins, ekki bara Róbert, hvolparnir og mannfólkið, heldur líka öll náttúran í heild sinni. Drottinn þessa heims er ekki í skýjunum, heldur í vélunum, og frelsandi máttur þeirra er ekki tilkominn fyrir fórnir frelsarans, heldur er hann fólginn í sjálfstýrikerfi vélarinnar sjálfrar. Þar er hinn yfirskilvitlega leyndardóm þessa heims að finna, og engu líkara en að hann sé jafn yfirskilvitlegur fyrir Róbert sjálfan og alla undirsáta Hvolpasveitarinnar og kettlingaóvitana sem lifa óhultir í alltumlykjandi verndarhendi hennar.
Hér eru allir bólusettir og allir hugsanlegir smitberar í öruggri sóttkví. Það eru engir „afneitunarsinnar“ til í þessum heimi, engir „popúlistar“ og engir „fullveldissinnar“ sem ekki skilja blessun agavaldsins og fumlausan framgang tilverunnar í hinni vélvæddu náttúru alheimsins. Og ekki bara það: Hér er úlfur Rauðhettu og allur skógurinn orðinn að besta vini barnanna. Hver vill ekki hvíla sig í slíkri draumaveröld eftir annasaman dag í átökum við hráan veruleikann?
Hamingjusamur endir: Allir komnir í heilsusamlegt freyðibað