Dimbilvikan leiddi mig í hugleiðingar um skuldina og sektina, um sektargildi skuldarinnar og trúarlegar forsendur hennar. Ég datt í lestur þriggja höfunda sem eiga það sameiginlegt að leggja mannfræðilegan mælikvarða á tilurð skuldarinnar og sektarinnar, allt út frá ólíkum forsendum. Þessir höfundar eru David Graeber, Carlo Sini og Friedrich Nietzsche. Ég stóðst ekki þá freistingu að snúa á íslensku nokkrum orðum Carlo Sini um þessi tengsl táknmáls, trúar og vísinda. Þessi texti hans er birtur á vefsíðunni "noema" og er frá 2017. Ég snéri líka nokkrum köflum úr Ættfærslu siðferðisins eftir Friedrich Nietzsche um skyld mál en frá gjörólíkum sjónarhóli. Sá texti kemur einnig hér á hugrúnir.com. Tímamótaverk David Graebers um skuldina (Debt, the first 5000 years) frá 2011 er hins vegar doðrantur upp á um 500 bls sem ég ræð ekki við að endursegja, en gæti ráðlagt öllum áhugamönnum um hinar mannfræðilegu rætur vísindanna um verðmæti hlutanna og mannanna. En í texta Sini finnum við m.a. þessi orð, sem gætu gagnast sem bólusetning gegn mörgu því sem hægt er að finna í hagfræðiumræðu samtímans: Ef eitthvað telst hafa mælanlegt verðgildi, það er að segja vera gjaldgengt fyrir tiltekna verðlagningu á mælikvarða hagfræðinnar, þá getur slíkt ekki gerst nema í samanburði við það sem er ómetanlegt, það sem er utan allra hugsanlegra mælanlegra mælikvarða á endurgreiðslu og því ótækt til samningsbundinna skipta á markaðstorgi viðskiptanna. Hér finnum við einmitt hinn vísindalega grundvöll hagfræðinnar. Skilningurinn á þessum grundvallar mismun er óhjákvæmiegur vandi hagfræðinnar, jafnvel þótt hin vísindalega umræða þessara fræða hafi kerfisbundið horft framhjá honum. Þetta er jafnframt grundvallaratriði þegar horft er til oikos, eða sambýlis mannsins og plánetunnar jörð.
Merkingarfræðin og táknmál peninganna
Carlo Sini
(Nóema, 7-2 (2016) https://doi.org/10.13130/2239-5474/7883
Peningar og upplýsingar eru tvö einkenni siðmenningar mannsins. Tengsl þeirra við tungumálið eru augljós. Gildi þeirra byggja á sköpunarmætti mannlegrar vinnu. Samtíminn stendur frammi fyrir ógn sem stafar af smættun peningsins og vinnunnar í skiptagildi vörunnar.
Á frægum stað í bókinni Auðlegð þjóðanna spyr Adam Smith sig þeirrar spurningar hvort sú tilhneiging mannsins að miðla, versla með og skiptast á hlutum eigi sér ekki sína skýringu í mætti rökhugsunarinnar og orðsins. Þannig væru til staðar djúpstæð tengsl á milli hagfræði og tungumáls, peninga og orða, en í rauninni eru peningurinn og tungumálið tvö merkjakerfi sem einkenna manninn sérstaklega. Merkjaskipti af þessu tagi er hvergi að finna í dýraríkinu, nema ef vera kynni á fósturstigi þar sem þau verða allsendis ósambærileg.
Við getum hér stuðst við mjög einfalda skilgreiningu á hugtakinu merki. Pierce hélt því fram að merki sé eitthvað er standi í staðinn fyrir eitthvað annað á grundvelli félagslegs samkomulags eða almenns skilnings.
Þetta hlutverk merkisins „að standa fyrir“ (rappresentare) greiðir þannig fyrir skiptunum. Að skipta einum hlut fyrir annann felur í sér að einn hlutur sé jafngildi annars, nokkuð sem á sér þannig stað í skiptum á gæðum og upplýsingum. Að öðlast eignarhald á hlutum og upplýsingum. Athyglisvert er að skipti geta einnig átt sér stað á milli tiltekinnar vöru og upplýsinga: ef ég ek um á Ferrari bifreið þá er ég um leið að upplýsa umheiminn um að ég sé enginn fátæklingur. Ef ég veit hins vegar hvernig málum er háttað á óaðgengilegum eða leyndum stöðum, þá er augljóst að slík þekking getur orðið mér verðmætur hlutur.
Við skulum nú spyrja okkur hvað felist í verðgildi tiltekinna upplýsinga og tiltekinna vöruskipta. Í fyrra tilfellinu skiptir augljóslega máli að upplýsingin sé rétt. Það sem hér er átt við með hugtakinu „réttur“ verður ekki útþynnt og hér má ekki rugla því saman við það sem tíðkast hefur víða á 20. öldinni að rökgreina sérhvern boðskap með hlægilegum hætti sundurgreiningar, t.d. með því að spyrja hvaða upplýsingar sé að finna í Hinum guðdómlega gleðileik Dante. Spádómar Síbillanna[i] ganga út frá „réttri“ framsetningu og notkun og sama á við um forsendur óskeikulleika páfans og sannleika tölfræðilegra upplýsinga félagsfræðinnar.
Hvað varðar verðgildi vöruskiptanna, þá held ég að mælikvarðinn hljóti í þessu tilfelli að vera sanngirnin/jafnræðið (equo). Að báðir aðilar hafi hag af viðskiptunum og njóti fullkomins frelsis um hvort þeir vilji ganga að viðskiptunum eða ekki. Merking þessa „frelsis“ er hins vegar flókin og ekki auðveld í skilgreiningu. Hún takmarkast alls ekki við þá bjartsýnu túlkun frjálshyggjunnar sem gengur út frá huglægri löngun viðkomandi til að ganga til viðskiptanna. Ef um misvægi er að ræða hvað varðar þarfir, til dæmis í þeim skilningi að annar aðilinn geti hafnað viðskiptunum sér að meinalausu en hinn aðilinn ekki, þá eru skiptin ekki sanngjörn frá félagslegum sjónarhóli. Sama á við ef tilboð er lagt fyrir óupplýstan aðila eða óforsjárlan (til dæmis þegar annar aðilinn þekkir vel verðgildi samningsins og nýtir sér algjöra vanþekkingu mótaðilans hvað varðar verðgildi vörunnar). Hér eru viðskiptin siðferðilega ósanngjörn.
Þau atriði sem hér hafa verið nefnd eru mótandi fyrir tvo grundvallar þætti sem mynda efnahagslegar forsendur verðgildis peninganna, allt vel þekkt og dýrmæt viðmið. Fyrra atriðið varða peninginn sem tæki til viðskipta þar sem hann kemur í stað beinna vöruskipta (að því tilskildu að hægt sé að tala um bein vöruskipti í hagfræðinni). Seinna atriðið varðar það hlutverk peningsins að vera mælieining verðmætis þeirra hluta sem skipst er á.
Hér komum við að hefðbundnu vandamáli hinnar klassísku hagfræði: nauðsyn þess að fastbinda verðgildi vinnunnar, hvert sé verðgildi afurða vinnunnar, hvert sé verðgildi afurða náttúrunnar o.s.frv. og skapa þannig sameiginlegan viðmiðunarramma.
Hér verður strax nauðsynlegt að benda á einn grundvallar vanda sem þekking og vísindi hagfræðinnar ná ekki utan um, eðli sínu samkvæmt. Við gætum skilgreint hann með eftirfarandi hætti: Ef eitthvað telst hafa mælanlegt verðgildi, það er að segja vera gjaldgengt fyrir tiltekna verðlagningu á mælikvarða hagfræðinnar, þá getur slíkt ekki gerst nema í samanburði við það sem er ómetanlegt, það sem er utan allra hugsanlegra mælanlegra mælikvarða á endurgreiðslu og því ótækt til samningsbundinna skipta á markaðstorgi viðskiptanna.
Hér finnum við einmitt hinn vísindalega grundvöll hagfræðinnar. Skilningurinn á þessum grundvallar mismun er óhjákvæmiegur vandi hagfræðinnar, jafnvel þótt hin vísindalega umræða þessara fræða hafi kerfisbundið horft framhjá honum. Þetta er jafnframt grundvallaratriði þegar horft er til oikos, eða sambýlis mannsins og plánetunnar jörð.
Á grundvelli þeirra tveggja grundvallar þátta peninganna sem hér hafa verið raktir öðlast peningurinn sem slíkur ákveðið gildi sem samfélagslegt merki. Það sem skilgreinir verðgildi tiltekinnar vöru verður vara í sjálfu sér. Þannig verður tækið sem auðveldar og metur vöruskiptin að markmiði. Við gætum orðað þetta samkvæmt hugtakasmíð Karls Marx: tækið sem auðveldar markað vöruskiptanna verður um leið að markmiði. Eða svona: verkfæri skiptanna umbreytist í markmið þeirra.
Hið kapítalíska stjórntæki, fjármálakapítalið (regime capitalistico), umbreytist í vöru sem viðurnefni (per autonomasia), og þar af leiðandi verður það ráðandi og raunverulegt markmið markaðsviðskiptanna. Þannig verður peningurinn eftirsóttasta varan og sú marktækasta (rappresentativo) (fyrir þau samskipti við upplýsingarnar sem rakin voru hér að framan).
Það er hér sem við sjáum upphaf hins mikla ferlis sívaxandi markaðsvæðingar allra félagslegra samskipta og allra afurða mannlegrar vinnu. Sérhver skipti manna á milli umbreytast í skipti á hlutum, þar sem peningurinn er sú fyrirmynd og frumforsenda er felur í sér og mælir alla aðra hluti: í þessu tilliti öðlast líf mannsins einnig sitt verðgildi.
Margt hefur verið ritað og rætt um þessa þætti í hagkerfi samtímans. Þó því hafi verið minni gaumur gefinn, þá gæti slík umræða reynst árangursríkari ef við beindum athygli okkar að hliðstæðu þessa ferlis í heimi fjármálanna sem finna má á sviði tungumálsins, sem er annar þáttur þeirra merkjakerfa mannsins sem hér eru á dagskrá.
Virkjun upplýsingamiðlunar er í reynd einnig orðið markmið í sjálfu sér. Upplýsingarnar skapa vald og þeir sem hafa tækni hennar á sínu valdi finna í þeim sjálfstæð verðmæti. Þegar upplýsingarnar hafa umbreyst í vald þá skapast gildi þeirra ekki lengur af því hvort þær séu réttar eða einungis réttar, heldur skiptir eignahaldið þar meginmáli. Í raun mæla upplýsingarnar sjálfar áreiðanleika sinn og réttmæli, þar sem sjálf útbreiðslan verður jafngildi réttmætis og trúverðugleika, útbreiðsla sem borin er uppi af fjármálavaldinu.
Upplýsingamiðlunin mælir ekki bara trúverðugleika sinn á kvarða áunnins . félagslegs valds í gegnum hefðbundna valdabaráttu, heldur metur hún líka hvað verðskuldi að teljast til upplýsinga og hvað ekki. Eða eins og sagt er: ef það hefur verið sýnt í sjónvarpinu, og sérstaklega á tilteknum sjónvarpsrásum, þá er um markverða hluti að ræða sem raunverulega hafa átt sér stað, annars hafa hlutirnir annað hvort ekki gerst eða svo virðist að minnsta kosti vera þar sem þeir bíða í Limbói hins óþekkta og óséða. Yfirleitt er þar um að ræða hluti sem ekki hafa sölugildi og eru því óhæfir sem söluvara eða hvati að eflingu fjármálavaldsins. Ef tiltekinn hlutur á sér ekki verðmiða, þá er hann einfaldlega ekki til.
Í hvaða skilningi getur peningurinn talist vera vara? Við skulum reyna til þrautar að skilja þessa gátu sem oft er tekin sem augljós. Við vorum búin að minnast á fyrstu einkennin á gildi peninganna: peningurinn auðveldar viðskiptin. Í rauninni er það svo að ef viðskiptin eru á jafnréttisgrundvelli, þá á sér stað verðmætaaukning fyrir báða aðila. Þeir bjóða til skiptanna eitthvað sem þeir hafa í ofgnótt. Niðurstaðan verður sú, að báðir aðilar komast yfir það sem er annars vegar í ofgnótt, hins vegar í skorti. Báðir aðilar auðgast og eign beggja eykst.
Frá þessari niðurstöðu nálgumst við annað atriði: ef peningurinn auðveldar viðskiptin þá fer geta mín til að ganga í viðskipti eftir því hversu mikla peninga ég á fyrir. Þannig held ég stöðugt áfram að auðgast. Út frá þessu getum við kannski með einfaldri niðurstöðu nálgast hið mikla leyndarmál nútíma hagfræði, markaðshagfræðinnar, hagfræði auðmagnsins, leyndarmál iðnaðarhagfræðinnar og fjármálahagfræðinnar (economia postindustriale).
Þetta leiðir óhjákvæmilega í ljós þriðja eðlisþáttinn: ef það sem á undan er komið reynist rétt, er eðlilegt að markaðsviðskiptunum sé sífellt beint að þeim viðskiptum er auka fjármálaauðmagnið (capitale finanziario), að þau séu látin greiða fyrir þeim og efla. Eftir því sem fjármálaauðmagnið eykst aukast viðskiptin, og þar með vöruverðmætin.
Þetta virðist augljóst, en engu að síður blasir við að eitthvað gengur ekki upp. Kannski væri hægt að lýsa því svona: þar sem peningurinn er orðinn að verðmæti sem æðsta form vörunnar, þá fylgir hann eigin hagsmunum með því að beina viðskiptunum að þeim þáttum sem einskorðast við fjármálahagsmuni en ekki að þeim viðskiptum sem byggja á sjálfstæðri framleiðslu. Sjálf framleiðslan verður skilyrt af útvöldu þróunarferli: einungis þær framleiðslugreinar sem framleiða peninga njóta forgangs, hinar „detta út af markaðnum“ eins og sagt er. Sú endanlega áhætta sem slík hagstjórn felur í sér mun vissulega auka fjármagn til ráðstöfunar, en einungis í skilningi Krösusar[ii], sem lá fyrir dauðanum af svengd þar sem honum var varnaður aðgangur að efnislegum eða andlegum gæðum.
Sú mynd sem hér hefur verið dregin upp í grófum dráttum á líka við um upplýsingarnar, og það skiptir ekki litlu máli frá samfélagslegum sjónarhóli. Sú einstaka magnaukning upplýsinga og sú augljósa valdefling þeirra og útbreiðsla sem við sjáum í samtímanum, veldur því að upplýsingaafurðin verður sjálf að söluvöru, einhverju sem gengur kaupum og sölum. Upplýsingamiðlarnir velja út þær upplýsingar sem gefa af sér ákveðinn ávinning í samræmi við hagsmuni útsendarans. Og þar sem útsendarinn fylgir fjárhagslegum hagsmunum síns fyrirtækis sendir hann augljóslega fyrst og fremst út þær upplýsingar sem njóta mestra vinsælda og minnsta tilkostnaðar, það er að segja þær upplýsingar sem samræmast smekk fjöldans, ef svo mætti segja. Að útsendar upplýsingar séu réttar verður í þessu samhengi síðasta áhyggjuefnið. Þar sem upplýsingar eru óneitanlega ómissandi þáttur sérhvers lýðræðis og frumforsenda þess að kjósendur geti myndað sér sjálfstæðar pólitískar skoðanir, þá verður tæringin og úrkynjunin í heimi upplýsinganna augljós Akkillesarhæll nútíma lýðræðis.
Eftir standa þær staðreyndir að peningar og upplýsingar eru merki sem kalla á samfélagslega viðurkenningu til þess að þau virki. Hvað varðar upplýsingarnar þá fellur þessi viðurkenning saman við áreiðanleika upplýsingaveitunnar. Eitt sinn var það guðinn, síðan túlkur hans og hofprestur, konungurinn, spekingurinn, lénsherrann, lögin, Ríkið, vísindin o.s.frv., allt fram til þeirra nútímalegu og samfélagslega ábyrgu upplýsingaveitna sem eru útvarpið, sjónvarpið og netið. En þegar kemur að peningnum, hvað getum við þá sagt um trúverðugleika hans?
Í upphafi var samfélagslegur áreiðanleiki peningsins fólginn í efniskennd hans. Menn notuðust til dæmis við salt eða hrísgrjón sem gjaldmiðil, þar sem um var að ræða algild gæði, útbreidd og öllum nauðsynleg. Gæði sem gátu þannig orðið viðmið og mælieining fyrir margvísleg vöruskipti. Síðan komu gullið og silfrið, en bæði einkenndust af því að vera sjaldgæf og eftirsótt sem virðingarvottur og skraut í sjálfum sér. Síðar kom til sögunnar félagslegur virðingarvottur útgefandans sem ábyrgðist verðmæti myntsláttunnar.
Hér sjáum við fyrir okkur langa og heillandi sögu sem kannski upphefst með stofnun bankanna í Genovu og Flórens, með markaðskaupstefnum miðalda og við upphaf nútíma, þar sem menn studdust við ímyndaða verðmyndun gjaldmiðilsins. Síðan kom Englandsbanki til sögunnar (1694) sem gaf út fyrstu peningaseðlana er mörkuðu upphaf FIAT-peninganna, hreinar peningaframleiðslu út frá engu. Saga sem síðan leiddi til Bretton Woods samkomulagsins, þar sem dollarinn og gullforði Bandaríkjanna urðu viðmið gjaldmiðla um allan heim. Síðan kom afnám gulltryggingar dollarans (1971) þróun sem haldið hefur áfram til okkar tíma með stofnun kauphalla fjármálavaldsins og tilkomu matsfyrirtækja um lánshæfi þar sem í raun var komið á fót lögvernduðu fjármálavaldi án landamæra með ógnvekjandi spákaupmennsku án takmarkana og án eftirlits.
Það er einmitt í gegnum þessa sögu sem vandamál vandamálanna kemur í ljós, eða ef við viljum það frekar, þessi ekki-efnahagslega undirstaða hagfræðinnar sem vikið var að í upphafi. Þessa undirstöðu er hægt að nefna með einu einföldu orði: tiltrú (pistis, fides). Grundvöllur sem á sínar djúpu rætur í hinu táknfræðilega (semiotico) lögmáli hins mannlega. Við getum orðað þetta með einfaldari hætti: hið merkingarfræðilega (segnica) lögmál mannlegs samfélags byggir á tiltrú á virkni merkjanna, það er að segja getu þeirra til að „standa fyrir í fjarveru“ (rappresentare in absentia). Um er að ræða samfélagssáttmála er liggur til grundvallar allra félagslegra samskipta. Samfélagssáttmála sem mætti orða með þessum hætti: að hafa tiltrú á hinu sagða, hvort sem það er beinlínis tengt tungunni í þröngri merkingu eða í yfirfærslu á kaupgetu, það er að segja út frá yfirlýstu verðgildi myntarinnar. Hið sagða gerir myntina ráðandi, því hin efnislegu gæði myntarinnar, til dæmis húsaskjólið, er alltaf afstætt og hverfult. Gullið kallar ekki fram rigningu, peningaseðlarnir framleiða ekki næringu en það var einmitt hinn áðurnefndi veruleiki Krösusar.
Engu að síður hefur hagstjórnarkerfi fjármálavaldsins (capitale finanziario) leitt í ljós betur en nokkru sinnum áður fjórðu einkenni peningsins, sem eru afar þýðingarmikil: árangursrík og ómissandi virkni hans við efnahagslega og félagslega stýringu lánafyrirgreiðslunnar (antecipazione del capitale). Einungis stórfelld og kerfisbundin lánafyrirgreiðsla gefur að lokum af sér hina eftirsóttu Auðlegð þjóðanna[iii]. Sjálfur Karl Marx viðurkenndi þetta með sínum hætti. Hér rekumst við aftur á þennan for-hagfræðilega grundvöll í verki, sem við nefndum áður með orðinu „tiltrú“.
Lánafyrirgreiðslan (l‘anticipazione del capitale eða forgjafarfjárveitingin) hefur tiltrú á skapandi og framleiðandi getu mannsins. Án þessarar miklu hagstjórnarlegu og fjármálalegu byltingar hefði hin einstaka þróun til nútíma lífshátta hvorki getað átt sér stað né átt sér skiljanlega forsendu.
Hér rekumst við hins vegar á vandamál sem er ofarlega á dagskrá í samtímanum: lánafyrirgreiðslan innleiðir vaxtamuninn sem á endanum leiðir í raun til skuldsetningar án enda. Sú framleiðsla sem verður framkvæmanleg með forgjöf á fjármagni þarf ávallt að yfirstíga sjálfa sig (fyrirbæri sem oft er lýst sem nauðsyninni á óendanlegri aukningu á vergri þjóðarframleiðslu): það er lífsnauðsyn að framleiða stöðugt meira um leið og skuldauppgjörinu er stöðugt slegið á frest. Um er að ræða félagslega skuldasöfnun sem vegna innri gerðar sinnar er óstöðvandi og hægt er að lesa með bjartsýnisgleraugum sem efnahagslegar og félagslegar framfarir eða með öðrum gleraugum sem félagslegt og vistfræðilegt stórslys og hamfarir á hnattrænum skala.
Við getum ekki neitað okkur um þau miklu gæði lánafyrirgreiðslunnar sem lánasjóðir fjármagnsins veita. Hún er ómissandi fyrir vinnu og velferð á jörðinni. En við verðum jafnframt að halda fast við þá kröfu að markaðurinn þjóni öllum þáttum lífsins, en ekki hið þveröfuga. Það er einmitt vinnan í sem víðustum skilningi sem er hinn eini raunverulegi grundvöllur gildanna. Þess vegna er verðmæti hennar óútreiknanlegt og óborganlegt: hún á sér engan verðmiða.
Markaðurinn á uppruna sinn í vinnunni og það er í vinnunni sem endanleg markmið hans er að finna. Því getur vinnan ekki orðið viðfang markaðsins þegar allt kemur til alls, heldur er vinnan samfélagslegt markmið í sjálfu sér. Því geta einkahagsmunir ekki tekið samband vinnunnar og fjármálaauðvaldsins í gíslingu eins og ýmsir hagfræðingar (til dæmis Stieglitz) hafa ítrekað bent á. Peningurinn er samfélagslegt verkfæri löngu áður en hann verður einkaeign, og ef það er rétt að ekki sé hægt að láta sem virkni einstaklingsins stjórnist algjörlega af samfélagslegum hagsmunum (vanhugsuð hugmynd og óraunsæ) þá er hið fræga boðorð Keynes enn í fullu gildi: „það sem hinn einstaki samborgari finnur ekki samræmast eigin hagsmunum á að vera á hendi ríkisins“. Það er einnig rétt að umfang ríkisafskipta á okkar tímum er deiluefni, þannig að frá þessu sjónarmiði opnast enn fleiri tilefni umræðna og greiningar.
Ef litið er til upplýsinganna þá er mikilvægt hér að leggja áherslu á að miðlun þekkingar á að vera eina lögmæta forsenda og markmiðið, en ekki útbreiðsla hvers kyns hjátrúar eða áróðurs fyrir hóphegðun er stjórnast af einkahagsmunum eða mótast af hagsmunaárekstrum. Í þessu skyni ættu þau samfélagsöfl er taka mið af heildarhagsmunum, það er að segja af þeim grundvallargæðum er ættu að gera friðsamlega sambúð mögulega, þessi samfélagsöfl ættu í stuttu máli að sameinast um að tala bæði gegn fjármagninu og upplýsingaflæðinu. Til dæmis með því að stefna að upptöku myntar er hafi markmið (tilraunir í þessa átt eru þegar á teikniborðinu): mynt sem er aftengd vaxtarhugsuninni og ekki fjársjóðsmyndandi á einstaklingsgrundvelli, mynt er ljúki ætlunarhlutverki sínu með þeirri framkvæmd sem hún hefur verið sköpuð fyrir.
Hvað varðar hið alþjóðlega kerfi upplýsingamiðlunarinnar verður ekki hjá því komist að huga að opinberri varðstöðu um menninguna – í hreinni andstöðu við þá úrkynjun og útvötnun sem einkennir framleiðslu og útbreiðslu skilaboðanna, sem á okkar tímum eru órjúfanlega mótuð af markaðslögmálum auglýsingaheimsins: aðferð og málsmeðferð sem hefur sett mark sitt á verksvið vísindanna, bókmenntanna, heimspekinnar, listanna o.s.frv. Varðstaða um og styrking þeirrar menningar sem lifir ekki á tilfallandi ölmusugjöfum sem deilt er út af fjármagninu, heldur sé menningin varin í krafti getu sinnar til að skapa raunverulega þekkingu er sé aðgengileg fyrir alla eða sem flesta, og sé stöðugt og samfleytt undir gagnkvæmu endurmati og endurskoðun.
Mér sýnist þetta vera einu mögulegu leiðirnar til að endurvekja þá tiltrú sem liggur til grundvallar framleiðsluferlisins í heild sinni. Allt líf okkar er mótað af henni frá fæðingu. Einkum og sér í lagi á því formi sem við gætum kallað – með hliðraðri tilvísun í George Santayana – „tiltrú dýrsins“ eða „fede animale“. Þessi trú er í þjónustu þeirrar keðju lífsformanna er byggja plánetuna jörð og þess tvöfalda forms sem einkennir þær.
Annars vegar virðist gjörvöll tilvera lífsformanna bundin og merkt áhyggjum er varða komandi kynslóðir, í því gagnkvæma trausti er tengir foreldra og afkvæmi. Hins vegar þeim skilningi að þessi örlög þurfi engu að síður að eiga sér stað í gegnum einstaklingsbundna holdgervingu er verða til að vekja upp þá tiltrú að eins konar úrval örlaganna ráði baráttunni til viðhalds tegundarinnar.
Í öðru lagi varðar trúartraustið okkur mennina sem verur er búa yfir rökhugsun og tungumáli, eins og Smith sagði, og búa þess vegna yfir þessum fjársjóði algildrar þekkingar sem einkennir menningarlegt eðli vinnunnar, þeirrar efnislegu jafnt sem hinnar andlegu. Hér tjáir trúnaðartraustið sig í til dæmis í hugtakanotkun Kants. Það er að segja í þeirri lögmætu von að við getum stöðugt aukið við þekkingu okkar á því húsi og þeim heimkynnum sem örlögin hafa skapað okkur í þessum heimi, þó hún verði aldrei í þeirri endanlegu mynd er segist hafa tæmt lífsform alheimsins í sínum tilfallandi og sögulegu myndum í landakortum vitringa okkar. Einnig í þeirri von að geta gert okkur óendanlega hæfari til að hreiðra um okkur í þessu húsi af forsjálni þar sem hvorki ofbeldið né stríðið eru lögð til grundvallar, heldur friður og algild réttindi fólksins.
Heimildir:
AA.VV., L’economia palaziale e la nascita della moneta: dalla Mesopotamia all’Egeo, Accademia Nazionale dei Lincei, Roma 2005.
Amato, Massimo, Le radici di una fede. Per una storia del rapporto tra moneta e credito in Occidente, Bruno Mondadori, Milano 2008.
Marx, Karl, Il Capitale, Libro terzo, a cura di B. Maffi, Utet, Torino 2013.
Natoli, Salvatore, Il rischio di fidarsi, il Mulino, Bologna 2016.
Papi, Fulvio, Dalla parte di Marx. Per una genealogia dell’epoca contemporanea, Mimesis, Milano-Udine 2014.
Redaelli, Enrico, Far lavorare gli Dei. Dal debito primordiale al debito pubblico, in C. Sini (a cura di), Prospettive della differenza, Lubrina, Bergamo 2014.
Sini, Carlo, Del viver bene, Jaca Book, Milano 2015.
Smith, Adam, La ricchezza delle nazioni, trad. it., Utet, Torino 1950.
Zhok, Andrea, Lo spirito del denaro e la liquidazione del mondo, Jaca Book, Milano 2006
[i] Síbyllur voru spákonur hinna fornu rómversku guða sem höfðu mátt og visku til að túlka skilaboð þeirra. (Innsk. Þýð)
[ii] Krösus var konungur í Lídíu á Grikklandi á 6. öld f.KR. Hann tók mikinn auð í arf og margfaldaði auð sinn með útgáfu gullmyntar og gerði Lídíu að síðustu brjóstvörn Grikkja gegn Persum. Sem þjóðsagnapersóna var hann bendlaður við auð sinn og endanlegan ósigur gegn Persum. Í munnlegum frásögnum blandaðist sagan um Krösus goðsögunni um Midas konung, sem varð að ósk sinni um að allt sem hann snerti yrði að gulli. Auðæfi hans urðu honum þannig að falli og aldurtila. (innsk. Þýð.)