SKRIFTIN OG SKULDIN

SKILNINGSTRÉIÐ OG TRÉ LÍFSINS

Endursögn á erindi sem ítalski heimspekingurinn Carlo Sini flutti á heimspekihátíðinni í Modena 2015

Í eftirminnilegum fyrirlestri sem Carlo Sini flutti fyrir þúsundir gesta undir beru lofti á hinni árlegu heimspekihátíð í Modena á Ítalíu árið 2015 undir yfirskriftinni „Skriftin og skuldin“ tekur hann upp þráðinn sem rekja má til goðsagnanna um uppruna mannsins sem segja okkur flestar að hann sé fæddur í sekt og skuld og sé sjálfum sér ófullnægður. Þekktust er auðvitað frásögnin úr sköpunarsögu Biblíunnar um hina upprunalegu Paradís og brottrekstur Adams og Evu, þar sem Drottinn boðaði þeim eilífa refsingu vinnunnar, sársaukans og dauðans. Sini benti á að þessi sköpunarsaga væri endurómur mun eldri frásagna og að Eden hefði upprunalega verið nafnið á „landi hinna réttlátu“ meðal Súmera einhvers staðar í Mesópótamíu. En í þessu landi hinna réttlátu var nokkuð sem skiptir meginmáli: í miðju þess  stóð Tré Lífsins og í skugga þess var Skilningstré góðs og ills, þar sem Adam og Eva leiddu syndina í heiminn. Það er á milli þessara trjáa sem leikurinn er háður um uppruna sektar mannsins og skuldar, sagði Sini, upprunasaga sem er margfalt eldri en sköpunarsaga Biblíunnar, en tekur þar á sig þessa skýru og áþreifanlegu mynd þar sem Jave segir eftir brottreksturinn úr Paradís: „Sjá, maðurinn er orðinn sem einn af oss þar sem hann veit skil góðs og ills. Aðeins að hann rétti nú ekki út hönd sína og taki einnig af lífsins tréi og eti – og lifi eilíflega!“

Sini sagði í upphafi máls síns að af þessum þrem refsingum Jave, dauðanum, þjáningunni og vinnunni, væri honum hið síðasta hugleikið, því þeirri spurningu hefði aldrei verið fyllilega svarað hvað fælist í þessu orði. Hagfræðin hefur gefið sínar skilgreiningar á þessu hugtaki vinnunnar, sagði Sini, „en þær eru yfirborðslegar og mig langar til að dýpka þær til að leiða ykkur fyrir sjónir að það er vinnan sem er orsök sektar mannsinns, og takist mér það þá þessum 45 mínútum hef ég ekki komið í erindisleysu hingað til Modena“.

Erindi Sini fjallaði sem sagt um spurninguna „hvað er vinnan?“, hvers vegna er hún rót sektar mannsins, hvernig tengist hún Skilningstréinu í garði hinna réttlátu og hvernig tengist hún um leið „Tréi lífsins“?

Ég ætla hér að freista þess að endursegja í stuttu máli nokkur meginatriði þessa eftirminnilega fyrirlesturs, sem Sini minnti á að hefðu ekki bara verið viðfangsefni guðfræðinga og hagfræðinga, heldur líka heimspekinga á borð við Friedrich Nietzsche og Martin Heidegger, en þar sem guðfræðingarnir og heimspekingarnir fjölluðu fyrst og fremst um sektina og hagfræðingarnir um arðinn, þá má segja að Sini hafi dregið upp nokkuð óvæntri mynd af tengslum þessara  samverkandi þátta og þar með brugðið nýju og ljósi á ævafornan vanda sem varðar ekki síst okkar samtíma. Þannig vildi Sini í upphafi leita svara við spurningunni „hvað er vinnan?“

Vinnan er fyrst og fremst það sem greinir manninn frá dýrunum. Í Lúkasarguðspjalli er bent á að liljur vallarins þurfi ekki að spinna til að auka sér vöxt og skrúða og fuglar himinsins þurfi ekki að safna forðabúri því „lífið er meira en fæðan og líkaminn meira en klæðnaðurinn“ (Lúk. 12, 23-31). Dýrin kunna til verka með margvíslegum hætti, en starf þeirra er þeim meðfætt og eðlislægt og það skilur ekki eftir sig afurðir, úrvinnslu eða umframgetu, afurðir er nýta megi til annars. Dýrin skapa sér ekki áhöld og tækni, heldur eru þau sjálf tæki eigin erfiðis. Steinninn eða prikið í hendi apans tilheyra ekki tækninni heldur eru þau framlenging á handlegg hans og apar koma sér ekki upp forðabúri verkfæra til að auka við framleiðni sína eða framleiðslugetu. Umframgetan er eiginleiki vinnunnar, og hún verður til fyrir forsjálni, sem aftur kallar á umhugsun sem einungis er á valdi mannsins. Allt vegna þess að hann er gæddur tungumáli.

Saga vinnunnar er órjúfanlega tengd  getu mannsins til að hugsa og sjá fyrir um hið ókomna og við þurfum að leita hundruð árþúsunda aftur í tímann til að rekja söguna frá því hvernig maðurinn fór að því að gefa hljóðinu í barka sínum merkingu, tengja saman þessi hljóð í samhengi rökhugsunar og endanlega festa þau á „blað“, það er að segja á stein eða í sand. Vinnan felst í því að gefa hugsuninni efnislega mynd og á sér kannski miljón ára þróunarsögu. Í stuttu máli segir Sini að tilkoma vinnunnar verði ekki skilin frá tilkomu ritmálsins. Hann segir að elstu form táknmáls hafi fundist í menningu Elamíta í núverandi Írak og megi rekja til steinaldar eða til um 8000 f.Kr. Hvað skyldu þessar elstu minjar mannlegs táknmáls segja?

Tungumálið er glatað, en þar sem táknmálið er skráð í myndletri getum við lesið það: elstu minjar um mannlega skrift eru bókhaldstákn: myndletur er vísar í magn tiltekinna forðabúra og þar með til skuldaskila. Frægustu fornminjar af þessum toga er þó að finna í leirtöflunum frá Mesópótamíu frá um 5000 f.Kr., leirtöflum sem einmitt varðveita „bókfærslu“ á forðabúrum og skuldaskilum. Þannig mætast vinnan og skriftin í upphafi siðmenningar mannsins og tengjast órjúfanlega. Hvorugt getur án hins verið.

Hvernig verða skuldirnar til? Í miðjum aldingarðinum var „Lífsins tré“ segir í Sköpunarsögunni. Það var í eigu Guðs. Í upphafi var jörðin í eigu Guðs, hún var í rauninni það sama og Guðirnir. Til þess að þakka guðunum fyrir ávexti jarðarinnar þurfti að færa þeim fórnir. Til urðu hof og hofprestar og þeir söfnuðu fórnum og forðabúrum til að tryggja frjósemi jarðarinnar. Hofprestarnir voru í upphafi eins konar milliliðir á milli Guðs og manna, en með skipulagningu landnýtingar og tilkomu akuryrkju verður skattlagning bændastéttarinnar til, og skuldir hennar eru skráðar á leirtöflur með skuldaskilum. Þar með hefst auðsöfnun og um leið breytast hofprestarnir í eins konar bankastjóra, fjárhirði hofanna. Stéttaskipting er komin til sögunnar og hið ritaða mál verður lögmálsbundið og þar með að valdatæki: sá sem ekki stendur í skilum verður að gjalda með líkama sínum og verður þar með þræll. Lögmál skriftarinnar standa ofar einstaklingsbundnum aðstæðum og þrælahald verður upphaf og forsenda stóraukinnar auðsöfnunar. Til verða lögmál sem greina á milli „hins opinbera“ og einkalífsins, þar sem hið síðarnefnda er skilyrt almennum ófrávíkjanlegum lögum.

Þessi lögmálsbundnu skuldaskil sem eiga sér árþúsunda sögu eru í gildi enn í dag, segir Sini. Við sjáum þau í sinni gleggstu mynd í viðskiptum hráefnisframleiðenda þriðja heimsins og iðnríkjanna, viðskipti sem byggja á siðalögmálinu „að virða skuldirnar“, sem á ítölsku kallast  „onorare il debito“ eða „heiðra skuldirnar“ en það er sama orðalagið og við þekkjum úr boðorðunum: „heiðra skalt þú föður þinn og móður“. Skuldahugtakið tengist þannig forfeðradýrkuninni, en sá þáttur kallar kannski á aðra umræðu. En þegar elsta menningarríki Evrópu stóð nýlega gjaldþrota gagnvart fjármálastofnunum Evrópusambandsins og Alþjóða gjaldeyrissjóðsins var þetta orðalag notað sem áfellisdómur um eina þjóð: gríska þjóðin heiðraði ekki skuldir sínar.

Í sögu mannsins má rekja upphaf hagvaxtarins til þrælahalds, en það hefur eðlilega tekið á sig ýmsar myndir í sögunnar rás. Í akuryrkjusamfélaginu kom það hins vegar í ljós að frjálsir bændur voru afkastameiri en þrælar og gátu jafnvel gefið af sér meiri skatttekjur sem frjálsir menn. Því tóku þjóðhöfðingjar Mesópótamíu upp þann sið á vissu tímaskeiði og við tilteknar aðstæður að „brjóta töflurnar“, en það fól jafnframt í sér afskriftir skuldanna og þar með frelsun þrælanna. Þessi siður var í raun helgiathöfn sem gjarnan tengdist krýningu nýs þjóðhöfðingja, en um leið og hún helgaði vald hans er talið að hún hafi einnig gegnt því hlutverki að koma jafnvægi á „hagkerfið“, og að þessi athöfn hafi jafnvel á endanum orðið til að hleypa nýju lífi í „hagvöxtinn“.

En svo kom að því að höfðingjar er stýrðu auðsöfnuninni og bókhaldinu fóru að gefa út bókhaldstöflur með áletruninni: „þessa töflu má enginn brjóta“. Þetta markar tímamót í sögunni, því héðan í frá „hefur skriftin lagt eignarhald sitt á lífið“ eins og Sini kemst að orði. Hinn opinberi hagvöxtur er settur ofar lífinu og „hið opinbera“ (lögin) ofar hinu einstaklingsbundna lífi. Þetta felur í sér staðfestingu þess að þrælahald í einhverri mynd sé forsenda auðsöfnunar. Í þessu sambandi ráðleggur Sini okkur að lesa „Býflugnaævintýrið -um einkalesti og opinberar dyggðir“ eftir hollenska skáldið Bernard de Mandeville frá fyrri hluta 18. aldar,  sem er miskunnarlaus ádeila á auðsöfnun nýlenduherranna á þeim tíma. En þar segir Mandeville að vissulega hafi iðnaðarsamfélagið skapað áður óþekkta auðlegð, en hún sé ekki sjálfbær nema með stuðningi miljóna einstaklinga er lifi í örbirgð. Mandeville er í raun að lýsa því hvernig skrifræðisvaldið hefur lagt eignarhald sitt á lífið og lögfest það með gjörðum sínum.

Mandeville skrifar þetta fyrir 300 árum, sem er eins og gærdagurinn í sögulegu samhengi, en um svipað leyti gerist einmitt annar tímamótaatburður með stofnun Englandsbanka, sem nokkrir einstaklingar áttu frumkvæði að. Enska krúnan var þá í fjárnauð vegna útgjalda við útvíkkun og eflingu innviða heimsveldisins og nýlendustefnunnar. Eigendur Englandsbanka lánuðu krúnunni umtalsvert auðmagn mælt í gulli, og vel að merkja þá átti lánið að endurgreiðast með 8% vöxtum. Um leið gerðu eigendur nokkuð sem áður var óheyrt: þeir gáfu út „bankabréf“ sem voru sett í umferð sem gjaldmiðill og voru að magni til sögð jafngildi þess gulls sem krúnan hafði fengið að láni. Á bankabréfunum stóð að sá sem færi með þau í bankann gæti fengið jafngildi þeirra endurgreitt í gulli. Slík loforð urðu síðan fyrirmynd allrar bankastarfsemi í Evrópu, en jafnframt er rétt að geta þess að slík endurgreiðsla hefur aldrei komið til framkvæmda í sögu bankastarfseminnar. Bankar hafa aldrei endurgreitt verðbréf sín í gulli. Auk þess var umrætt gull ekki lengur til staðar í Englandsbanka, þar sem breska krúnan hafði fengið það til ráðstöfunar í þeim tilgangi  að styrkja nýlenduveldi sitt. Það var gjaldið fyrir eignarhald á heimsveldinu sem náði til allra heimsálfa, heimsveldinu þar sem sólin gekk aldrei til viðar.

Hér á sér í raun stað einstakur guðfræðilegur atburður, sem verður fyrst skiljanlegur sem slíkur í ljósi þeirrar sögu sem hér var stiklað á frá upphafi og tilkomu skriftarinnar. Til verður svokallaður FIAT-peningur (en fiat er guðfræðilegt hugtak sem rekja má til sköpunarsögunnar, þar sem heimurinn var skapaður úr engu: fiat lux = verði ljós). Fiat-peningur er því peningur sem skapaður er úr engu. Þetta er mikilvæg uppfinning frá sjónarhóli hagstjórnarinnar, en um leið stórhættuleg. Við sjáum hér hvernig skilningstréð í aldingarðinum, þetta skilningstré góðs og ills sem maðurinn hafði etið af, er ekki það eina sem hann ásælist. Hann leitar nú einnig á það „Lífsins tré“ sem Jave hafði varað við: „Aðeins að hann rétti nú ekki út hönd sína og taki einnig af lífsins tré og eti, og lifi eilíflega“ (I. Mósebók 3, 22-24).

Rétt eins og Guð hafði sagt „Verði ljós, og það varð ljós“ þá segir maðurinn nú „Verði peningur, og það varð peningur“. Ensku bankastjórarnir höfðu þarna framið kraftaverk sem er í raun og veru forsenda þess að iðnaðarsamfélag samtímans gæti séð dagsins ljós. Þessi aðferð bresku bankastjóranna varð fyrirmynd allra ríkisbankastjóra í veröldinni og fjármagn í umferð margfaldaðist með þessari aðferð, fjármagnsstreymi sem stöðugt kallar á aukningu sína, ekki síst á okkar „síðustu og verstu tímum“. Þetta var í senn glæpsamleg og stórbrotin uppfinning: glæpsamleg vegna þess að hún byggir á meðvituðum svikum, stórbrotin vegna þess að án fjármagns er ekki framboð á vinnu og engin framleiðsluaukning og ekkert velferðarsamfélag í líkingu við það sem við þekkjum. Þessi samfellda aukning hagvaxtar og fjármagns í umferð er meðvitað byggð á blekkingu, og allur heimurinn veit að hún stenst ekki til lengdar, að hún á sín takmörk.

Allir vita að hin yfirlýsta viðurkenning gullfótarins, loforðið um endurgreiðslu bankabréfsins í gulli, kom aldrei til framkvæmdar, og þetta loforð var endanlega og einhliða afskrifað af Richard Nixon forseta Bandaríkjanna árið 1971, þegar Víetnam-stríðið var að kollsigla efnahag ameríska seðlabankans. Með þessari yfirlýsingu var Nixon í raun að lýsa því yfir að blekkingarleiknum væri lokið, og að verðgildi peninganna væri frá og með þessum tíma ákveðið í kauphöllum heimsins. Peningurinn var með öðrum orðum orðinn að markaðsvöru með sitt sjálfstæða verðgildi sem ákvarðast af markaðnum. Þetta var í raun það sem Karl Marx sagði á sínum tíma: að peningurinn væri hin raunverulega vara um leið og hann væri mælikvarði á verðgildi annarra vara. Hann er í senn tæki og markmið auðsöfnunarinnar með öllum þeim afleiðingum sem þetta hefur í för með sér.

Annað áhyggjuefni sem þarna verður til er vaxtakrafan: 8% vextir á láninu til bresku krúnunnar. Englandsbanki sagði krúnunni að fyrir 100 kg af gulli þyrfti hún að greiða 108 kg til baka. Þetta var skuldakrafa sem miðaldakirkjan hafði fordæmt sem synd. Hún var kölluð „usura“ og var ein af dauðasyndunum sjö. Á okkar tímum er þessi dauðasynd helsta forsenda hagstjórnarinnar. Og afleiðingin er augljós: munurinn á verðmæti hinnar vergu þjóðarframleiðslu í bókhaldi ríkisins og skuldbindingakröfum ríkisskuldanna er óbrúanlegur og í óendanlegum vexti. Vaxtakrafan kallar stöðugt á meiri framleiðslu og meiri framleiðsla kallar stöðugt á meiri lán. Þetta er sjálfvirkt kerfi sem ekkert fær stöðvað.

Ef við lítum nú á þennan vanda í ljósi 5000 ára sögu hagstjórnarinnar þá sjáum við að hinn forni kapítalismi Babiloníumanna setti „skriftina“ ofar gildi einstaklingsins: ef hann gat ekki virt skuldir sínar varð hann að gjalda með líkama sínum og gerast þræll. Fornaldarsamfélagið byggði þannig á þrælahaldi og bjó sem slíkt við nokkurn stöðugleika. Það sem hér blasir hins vegar við er að „skriftin“ var hafin yfir tilvistarlegar aðstæður einstaklingsins og þar með yfir það „Lífsins tré“ sem sérhvert okkar á rætur að rekja til. Ef þetta er síðan borið saman við samtímann, þá sjáum við að þeir sem ráða seðlabönkum okkar og fjármálastofnunum og takast á um markaðsvæðinguna innan Evrópusambandsins og Alþjóðastofnana fjármálakerfisins, styðjast við sambærilegar leirtöflur: þeir gera kröfur til þess að framleiðnin sé meiri en hin samfélagslega lífskeðja getur staðið við. Hinn forni kapítalismi virti líf einstaklingsins að vettugi, en rakst óhjákvæmilega á sín takmörk, því endanlega er það hið einstaklingsbundna líf sem stendur undir framleiðslunni. Kapítalismi samtímans virðir hins vegar líf plánetunnar að vettugi því framfaraforskriftin byggir á stöðugum vexti: 8% + 8% + 8%…án enda.

Það er þessi stórbrotna uppfinning sem gerir það mögulegt að búa til peninga úr engu, skapa vinnu úr engu, skapa afganginn úr engu, alla þessa hluti sem fylla umhverfi okkar. Þetta er stórbrotinn skapnaður sem nálgast næstum hið guðdómlega sköpunarverk, …ég segi næstum, því plánetan jörð, og þetta „Lífsins tré“ sem stendur í miðjum aldingarði hennar, eiga sér sín endimörk, líf plánetunnar getur ekki framlengt skuldahalann í það óendanlega.

Skuldastaðan er nú öllum augljós, og við blasir að maðurinn sem íbúi á plánetunni jörð er í skuld. Goðsögurnar hafa kennt okkur margt um heiminn, en við þurfum ekki lengur á þeim að halda til að skilja að við erum skuldsett, vegna þess að ólíkt dýrunum þá erum við siðmenntaðar verur sem vinna. Skuld okkar er bein afurð menningarinnar, það er að segja skriftarinnar. Um er að ræða skuld gagnvart lífi líðandi stundar -það er að segja gagnvart lífi hvers og eins, einstaklingsins sem hefur með vissum hætti verið einangraður í einsemd sinni og einkalífi – og skuld gagnvart hringrás lífkeðjunnar á hnattrænum skala sem ekki getur mætt kröfum samtíma okkar. Þessi reikningsskil okkar eru á rauðu, og framleiðsluhraðinn hefur farið fram úr möguleikum plánetunnar til endurnýjunar.

Við getum sagt um mann fornaldarinnar að hann hafi borist á vald örlaganna án þess að geta gert sér grein fyrir stefnu þeirra, því líf hans var í stöðugri óvissu. Nútímamaðurinn er hins vegar í bráðri hættu því jörðin undir fótum hans brennur. Hann veit að núverandi framfaraforskrift getur ekki gengið í það óendanlega, lánafyrirgreiðslunni eru takmörk sett og greiðslufresturinn verður ekki framlengdur í hið óendanlega til komandi kynslóða. Því hefur verið haldið fram að það tímabil í jarðsögunni sem kennt er við antropocene, það er að segja tilkomu siðmenningarinnar, hafi frá upphafi falið í sér röskun á vistkerfinu. Um það má deila, og auðvitað getum við ekki sett okkur upp á móti framförum, málið snýst ekki um það, heldur um að finna jafnvægi í sambýli mannsins og lífsins á plánetunni jörð, því Skilningstréið getur aldrei tekið það sæti sem Tré lífsins skipar. Þetta hafði Jave sagt okkur fyrir löngu. Þörf er á sáttmála við Lífsins tré, því hin innbyggðu takmörk Skilningsins gagnvart Lífinu eiga að vera manninum ljós í krafti þeirra miklu dyggða sem honum er gefnar, sem eru menningin og vinnan. Einmitt það sem greinir hann frá dýrinu og gerir hann einstakan. Í þessu tvennu eru dyggðir hans, sérstaða og mikilfengleiki fólgin. Þessi sérstaða hans ætti einmitt að gera honum skiljanlegt að hann mun aldrei geta tekið ráðin af náttúrunni. Skilningstréð getur aldrei tekið sæti þessa Trés lífsins sem sköpunarsagan segir frá. Skilningstréið getur hins vegar gert sér grein fyrir ábyrgð sinni gagnvart Tréi lífsins, sem verður um leið hnattræn ábyrgð okkar gagnvart þessu sandkorni sem við byggjum á mælikvarða alheimsins.

Skilningstréið er ekki bara tæki til eilífs vaxtar fjársjóðsins í hofi guðanna og hofprestanna, heldur einnig tæki til sjálfsmeðvitundar og sjálfsstjórnar, þar sem þekkingin verður ekki bara verkfæri til tæknilegrar úrvinnslu og virkjanaframkvæmda, heldur líka staður hátíðahaldanna. Skuldaskilin leysast ekki af sjálfum sér, þau leysast einungis ef menningin endurreisir sína veraldlegu en um leið heilögu köllun. Ég segi veraldlega vegna þess að við þurfum engin trúarbrögð til að skilja, en um leið heilaga, vegna skilningsins á heilagleika lífsins, sem er um leið heilagleiki menningarinnar.

Hér er átt við það að skapa menningu sem er einungis henni sjálfri til nautnar, það sem sumir franskir menntamenn hafa kallað dépence, (eins konar ókeypis sóun) eins og við erum kannski að framkvæma hér og nú, eitthvað sem auðgar okkur þó það kunni kannski að hafa kostað okkur einhver minni háttar útlát í farareyri og fleiru.

Það er eitthvað fallegt við þessa stund okkar hér og nú. Því vildi ég ljúka þessum orðum mínum með því að vitna í brot úr sendibréfi frá heimspekingnum Ludwig Wittgenstein sem fannst eftir dauða hans 1925. Það er brot úr bréfi sem hann hafði kannski ætlað systur sinni og trúnaðarvini. Í þessu bréfi segir hann: „Siðmenningin mun ekki skilja eftir sig annað en haug af rústum og ösku. En ofan á öskunni mun andinn áfram vera til staðar. Af þessum anda rís heimspekin, iðkuð eins og um tónlist væri að ræða. Eins og hún væri listgrein, köllun sem nálgast hið trúarlega.“ Ég ætla mér ekki að halda því fram að við höfum gert þetta hér í kvöld, en ég vildi meina að við höfum að minnsta kosti reynt…Takk fyrir.

%d bloggers like this: