Að fyrirgefa skuldunautunum
Covid-19 veirufaraldurinn hefur ekki bara kollsiglt vanbúnu heilbrigðiskerfi á Ítalíu, Spáni, Bandaríkjunum og víðar. Þau vandamál eiga eftir að breiðast út, og nálgunarbannið og vinnustaðalokunin þjónar ekki síst þeim tilgangi að vernda starfsfólk í heilbrigðiskerfinu gegn enn stærri flóðbylgju smitaðra. Spádómar upp á vikur eða mánuði sem núverandi ástandið varir eru gerðar út í loftið, því veiran er óþekktur vágestur og enginn veit hvernig hún mun haga sér í framtíðinni.
Þetta hefur í för með sér efnahagsleg áföll sem eiga sér ekki hliðstæðu: miljónir manna missa vinnu, þúsundir fyrirtækja loka, þjóðarframleiðsla dregst saman með meiri hraða en þekkst hefur og þegar má sjá ekki bara efnahagsþrengingar, heldur félagsleg vandamál sem geta auðveldlega breyst í upplausnarástand þar sem hungrað fólk grípur til ofbeldis til að afla sér fæðu og nauðsynja. Og þegar slíkt ástand er fyrirsjáanlegt í þróuðum iðnríkjum má vel ímynda sér hvað muni gerast hjá þeim þróunarríkjum sem búa við frumstæðar aðstæður hvað varðar heilsugæslu, menntun, upplýsingar, samgöngur og fjarskipti við umheiminn.
Við þessar aðstæður hafa stjórnvöld í BNA brugðist hvað skjótast við fjárhagslega og skipað seðlabankanum Federal reserve að setja 2,2 triljónir dollara innspýtingu út í hagkerfið með beinu framlagi bæði til fyrirtækja og einstaklinga. Stjórnvöld í Rússlandi, Japan og S-Kóreu hafa gripið til hliðstæðra ráðstafana og kínversk stjórnvöld hafa lýst því yfir að engin takmörk verði sett á innspýtingu fjármagns til að koma hagkerfinu á réttan kjöl.
Einu ríkin sem ekki geta gripið til þessara ráða eru ríki ESB. Þau eru bundin af regluverki sem bannar þeim að „prenta peninga“ eins og það er kallað. Í stað þess þurfa þau að taka bindandi lán með misháum vöxtum allt eftir skuldastöðu viðkomandi ríkissjóðs á skuldabréfamarkaði þar sem svokölluð „matsfyrirtæki“ skammta þeim vaxtakjör. Allt í einu uppgötva Evru-ríkin að þau eru föst í kerfi sem gerir þau ósamkeppnishæf við ríki sem búa við sjálfstæðan gjaldmiðil og eigin seðlabanka sem veitir takmarkalausa tryggingu fyrir öllum peningum í umferð.
Hvernig stendur á þessum undarlegu aðstæðum? Á markaðurinn ekki að ráða og tryggja jafna samkeppnisaðstöðu allra? Hvers vegna geta Evru-löndin ekki gripið til sömu ráðstafana og samkeppnislöndin fyrir vestan og austan?
Útgáfa peninga og dreifing þeirra til fyrirtækja og einstaklinga er reyndar illa samræmanleg „lögmálum hins frjálsa markaðar“ – öllu heldur ganga slíkar aðgerðir beint gegn lögmálum markaðsins um leið og ríkjandi neyðarástand afhjúpar að „markaðsöflin“ eru ekki bara gagnlaus við ríkjandi aðstæður, – heldur eiga þau stóran þátt í að auka á vandann. Svo dæmi sé tekið, þá hefur Ítalía lokað 70.000 sjúkrarúmum og hundruðum minni sjúkrahúsa „að kröfu markaðsins“ síðan landið gekk í myntsamstarfið 1992, einkum þó eftir fjámálakreppuna 2008. Það er „skuldavandinn“ innan ESB sem hefur kallað á samdrátt í allri félagslegri þjónustu, hækkun skatta samfara lokun fyrirtækja, einkum smáfyrirtækja á sviði handverks, í smaáiðnaða o.s.frv. Það er „Niðurskurðarstefnan“, sem sett hefur lönd eins og Ítalíu, Spán og mörg önnur evru-ríki í þessa biðstofu hins „gríska ástands“ sem nú blasir við með brunaútsölu á verðmætustu samfélagseignum til fjölþjóðlegra fjárfestingasjóða, niðurskurði lífeyrisgreiðslna, lækkun launa o.s.frv., allt að grískri fyrirmynd..
Hagfræðingum og fjármálastofnunum á Vesturlöndum hefur tekist með dyggri aðstoð fjölmiðlaheimsins (sem lýtur stjórn þessara aðila) að gera þessa stöðu svo flókna að hún verður óskiljanleg öllum almennum borgurum.
Á bak við þessa flækju liggur að minnsta kosti að einhverju leyti sú hugsun að hugtakið „skuld“ er í menningu okkar nátengt hugtakinu „synd“, sem er guðfræðilegt hugtak. Fyrsta guðfræðin sem við kennum börnunum okkar er faðirvorið: „…fyrirgef oss vorar skuldir svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum.“ „Skuldunauturinn“ þarf að biðja lánveitanda sinn fyrirgefningar fyrir „skuld“ sína. Þegar Donald Trump dreifir 2,2 triljónum USD á milli þegna sinna eignast hann væntanlega marga „skuldunauta“ sem þurfa að biðjast fyrirgefningar á skuldum sínum og tilveru, og í ljósi reynslunnar verður hann væntanlega örlátur á fyrirgefningarnar. Hins vegar virðast Evru-löndin ekki eiga neinn svona örlátan „pabba“. Hvers vegna skyldi það vera?
Í Bandaríkjunum er peningaflæði í umferð stjórnað af „Federal reserve“ og „Treasury“, sem halda utan um ríkisfjármálin. Þetta eru í raun einkafyrirtæki sem lúta stjórn örfárra manna sem ekki eru lýðræðislega kjörnir. Þegar láta þarf skyndilega 2,3 triljónir út í hagkerfið láta þeir þessar stofnanir prenta þessa peninga – að stærstum hluta á stafrænu formi, en að hluta til í seðlum og mynt. Í raun eru þessar stofnanir í senn eigin lánveitendur og skuldunautar.
Sú var tíðin að bankar þurftu að eiga gullforða til að tryggja peningamagn í umferð, en þegar Bandaríkin sáu að þau áttu ekki gullforða til að standa undir kostnaði við Víetnamstríið lét Nixon forseti afnema þessa reglu 1972. Síðan hefur ekki annað staðið á bak við dollara eða aðrar myntir í heiminum en tiltrúin.
Hvaðan koma þá verðmæti peninganna? Sjálfsnægtarbúskapurinn hefur kennt mannkyninu í gegnum árþúsundin að verðmætasköpun verði til við framleiðsluna, að vinnan sé uppspretta auðsins. Sá sem tekur við peningaseðli lætur af hendi afrakstur vinnu sinnar og þiggur í staðinn pening. Þannig eru viðskiptin og báðir ganga jafnir frá borði: bóndinn selur 8 lömb og getur keypt eina kú fyrir peninginn. Hver er lánveitandi og hver er syndugur skuldunautur í þessu tilfelli? Hver á heimtingu á syndafyrirgefningu? Ekki verður betur séð en hér gangi báðir jafnir frá borði. Á meðan við gátum gengið í bankann og tekið út gull fyrir peninga okkar voru viðskiptin í raun svona auðveld.
Flækjustigið var hins vegar magnað þegar gullfætinum var kippt undan peningaseðlinum og átrúnaðurinn settur í staðinn. Trúin flytur fjöll segir máltækið, og í fjármálaheiminum er átrúnaðurinn mikilvægasta flutningatækið. Í kring um þessi trúarbrögð peninganna hafa helgidómar og bænahús peningatrúarinnar sprottið upp eins og gorkúlur og sveipað sig ógagnsæjum vafningatjöldum til þess að Guðinn geti sýnt sig í ósýnileik sínum rétt eins og Guð Abrahams birtist Mósesi sem eldur í logandi runna sem gat ekki brunnið. Hinn ósýnilegi Guð er frumforsenda syndarinnar og okkur er kennt af þessum öflum að við höfum tekið þessa skuld í arf: Faðir vor, „fyrirgef oss vorar skuldir, svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum“.
Bandaríkin, Rússland, Kína, Japan og fleiri ríki virðast við þessar aðstæður (sem heyra til undantekningarinnar) eiga tiltölulega miskunnsama guði sem eru örlátir á fyrirgefningar sínar. Þeir láta peninga rigna yfir þjóðina í neyð sinni. Evrubáknið er hins vegar svo flækt í vafningum sínum og innbyrðis trúarbragðadeilum að það stendur ráðalaust gagnvart lífsháskanum sem við blasir. Innan núverandi kerfis eru lönd eins og Ítalía, Spánn, Portúgal og vafalaust fleiri evru-lönd þegar orðin gjaldþrota. Þessi ríki eiga sér ekki sjálfstæðan gjaldmiðil og engan þjóðlegan seðlabanka til að gefa út lausafé. Þau eru flækt í regluverk fjármálastofnana sem snúast með ógagnsæjum vafningum sínum um Seðlabanka Evrópu eins og trúartákn og hafa sundrað álfunni og att aðildarríkjum ESB upp hverju á móti öðru með ásökunum um syndsamlegt líferni skuldunautanna. Sjálfur guðinn er jafn ósýnilegur og hann er yfirskilvitlegur þegnunum. Eina ráðið fyrir þessar þjóðir til að ná andanum á ný virðist fólginn í þeirri trúvillu að svipta guðinn klæðum sínum og sækja sér súrefni, rétt eins og veirusjúklingarnir, í þá tegund skiptimyntar sem fer ekki í manngreiningarálit eftir þjóðerni eða trú. Peningar eru siðmenningunni jafn nauðsynlegir og súrefnið í andrúmsloftinu, en guðfræði þess fjármálavalds sem hefur falið sig á bak við skuldavafninga evrunnar er nú orðið alvarlegasta ógnin við friðsamlega sambúð okkar sem teljumst tilheyra evrópskri sögu og menningu.
Forsíðumyndin er grísk útgáfa af tveim evrum með mynd af "Ráni Evrópu"