AÐSKILNAÐARSTEFNA GRÆNA PASSANS

Fréttapistill frá Ítalíu

„Hvatning til að láta ekki bólusetja sig er hvatning til dauða, efnislega er það svo að ef þú lætur ekki bólusetja þig þá veikist þú og deyrð, þú lætur ekki bólusetja þig og smitar þannig aðra og deyðir“.

Þessi orð lét Mario Draghi, forsætisráðherra Ítalíu, falla á mikilvægum blaðamannafundi 22. Júlí síðastliðinn þegar hann kynnti áform ríkisstjórnar sinnar um útgáfu „Græna passans“ til þeirra sem eru bólusettir og um leið takmörkun á frelsi þeirra sem ekki hefðu slíkan passa. Þeir sem ekki vilja gangast undir bólusetningu geta fengið sambærileg réttindi með því að sýna vottorð um smitlausa nefpinna-sýnatöku 48 klst fyrir aðgang. Tilskipunin var réttlætt fyrst og fremst með því að án hennar yrði nauðsynlegt að loka vinnustöðum og opinberum þjónustufyrirtækjum í stórum stíl vegna nýja Delta-afbrigðisins af Sars-veirunni.  Þegar þessi orð voru töluð hafði um helmingur þjóðarinnar fengið 2 skammta af tilraunabóluefni gegn Covid19. Viðurkennd bóluefni eru háð samþykki Evrópska heilbrigðiseftirlitsins, en það hefur ekki viðurkennt undanþágu fyrir Sputnik-bóluefnin frá Rússlandi, né heldur kínversk bóluefni. Græni passinn mun gilda í 9 mánuði fyrir bólusetta en 6 mánuði fyrir þá sem sýna vottorð um að hafa læknast af Covid19.

Áformin um Græna passann voru samþykkt á ítalska þinginu án mikillar umræðu og komu til framkvæmda 6. ágúst. Mario Draghi forsætisráðherra er sem kunnugt er fyrrverandi bankastjóri Evrópska seðlabankans og myndaði samsteypustjórn 4 flokka í fyrra eftir tilnefningu Mattarella forseta. Samsteypustjórnin er í kjarna sínum stjórn 4 flokka sem spanna sviðið frá hægri til vinstri, og lýstu allir stuðningi við Græna passann en Ítalski bræðralagsflokkurinn, sem er nú einn í stjórnarandstöðu sem þjóðernissinnaður hægri-flokkur, var á móti.

Þótt málið hafi fengið skjóta afgreiðslu í þinginu  gengu umræður um málið fjöllum hærra á samfélagsmiðlum og hefur komið til fjöldamótmæla í flestum borgum Ítalíu þá viku sem tilskipunin hefur verið í gildi. Tilskipunin fékk lagalegt gildi 6. ágúst síðastliðinn og hefur víðtæk áhrif á fjölmörgum sviðum og eru ýmis vafaatriði enn óleyst .

Tilskipunin um Græna passann felur í sér að bólusettir eru skyldaðir til að sýna QR merki um bólusetningu á snjallsíma sínum (eða útprentað vottorð á pappír) og persónuskilríki ef krafist er. Framsal þessa vottorðs er krafist í flestum þeim lokuðu rýmum sem veita opinbera þjónustu eins og veitingastaðir, barir, gististaðir, söfn, leikhús og aðrir lokaðir samkomustaðir. Þeir sem ekki hafa fengið passann geta framvísað neikvæðri nefsýnatöku sem gildir í 48 klst. Hver sýnataka kostar 15 evrur.

Reglan gildir einnig um samgöngur með skipum og flugvélum milli landa og hraðlestum milli héraða, en samgöngur innan héraða eru undanskildar í bili. Græni passinn er fyrirhugaður í öllum lestum og rútubílum innanlands með haustinu.

Kirkjur eru undnþegnar passaskyldu, en þar er grímuskylda og tilskilin fjarlægðarmörk.

Starfsfólk skóla á öllum stigum og starfsfólk sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva  er skyldað að bera passann og fær starfsfólk þessara stofnana 5 daga frest, en verður annars af launum sínum.

Nemendur á háskólastigi þurfa að sýna Græna passann eða neikvæða nefpinnagreiningu til að fá aðgang að skólum. Passaskylda á að ná allt niður að 12 ára aldri, en börn undir þeim aldri eru ekki krafin um passa. Ljóst er að afar fá börn á aldrinum 12-18 ára hafa fengið bólusetningu, og eru heilbrigðisyfirvöld nú með sérstaka bólusetningarherferð í  gangi fyrir þessi börn, og hafa þau aðgang að ókeypis bólusetningu í lyfjaverslunum og heilsugæslustöðvum næstu mánuði án pöntunar. Ljóst er að þessi tilraunabólusetning á börnum á eftir að vekja margar spurningar, bæði lagalegar og heilsufarslegar.

Stéttarfélög kennara hafa mótmælt passaskyldunni, en hún er ekki síður viðkvæm í heilbrigðisgeiranum þar sem þeir sem ekki hafa tekið bólusetningu í þessum starfsgreinum byggja þá ákvörðun yfirleitt á sínu faglega mati, þar sem bóluefnin eru á undanþágu sem tilraunaverkefni og hafa ekki gengist undir almennt tilskildar prófanir á bóluefnum. Um 2,3% stafsfólks við heilsugæslu mun vera óbólusett að sögn fjölmiðla, en þessi tala er mismunandi á milli héraða og til dæmis eru um 11% starfsmanna við heilsugæslu óbólusettir í héruðunum Friuli-Venezia Giulia og Trento, svo dæmi séu tekin. Ástæðan er augljóslega sú að enginn veit um langvarandi virkni bóluefnanna og notkun þeirra er byggð á undanþágu sem veitt hefur verið vegna ríkjandi aðstæðna. Þannig hafa lyfjaframleiðendur tryggt sig gegn sakhæfri ábyrgð vegna hugsanlegs skaða eða aukaverkana. Samkvæmt ítölsku stjórnarskránni og Evrópurétti er einnig bannað að þvinga fólk til bólusetningar eða mismuna einstaklingum eftir því hvort þeir láta bólusetja sig í tilraunaskyni eða ekki. Ljóst er að þessi ákvæði stjórnarskrár og Evrópuréttar koma í veg fyrir lögskipaða bólusetningu, en Græni passinn kemur í raun í stað hennar og býður upp á afar þröngan valkost síendurtekinnar sýnatöku með nefpinnum. Augljóst er að hér eiga eftir að koma upp mörg lagaleg og heilsufarsleg ágreiningsmál og má reikna með að þau muni fara fyrir dómstóla. Athygli vekur til dæmis að innan Evrópu eru fjölmargir sem hafa fengið Sputnik-bóluefnið sem ekki er viðurkennt af ESB, m.a. flestir íbúar Ungverjalands og San Marino.

Eftirlisskylda með framvísun á „passanum“ hvílir á starfsmönnum og rekstraraðilum viðkomandi  þjónustumiðstöðva og varðar sönnuð vanræksla 400-1000 evra sekt og lokun staðarins ef brot eru endurtekin þrisvar.

Auk hinnar samþykktu tilskipunar hefur verið gefin út sérstök „fréttatilkynning“ í blöðum þar sem  tekið er fram að starfsmenn stofnana er hafa eftirlitsskyldu séu „skyldaðir“ til bólusetningar. Þetta form fréttatilkynningar á sér þá skýringu að samkvæmt stjórnarskrá er ekki hægt að skylda neinn til tilraunabólusetningar með lagasetningu, og er þá gripið til fréttatilkynningar í staðinn, sem í raun hefur ekki lagalegt gildi.

Græni passinn er því leiðin sem Mario Draghi og allir flokkarnir sem að stjórn hans standa hafa valið til að koma á þessari bólusetningarskyldu í raun, þó formlega sé hægt að víkja sér undan henni með ærnum tilkostnaði og fyrirhöfn eða með sjálfseinangrun.

Ekki hef ég séð undantekningarákvæði gegn þessari nýju tilskipun varðandi þungaðar konur, en óvissa um áhrif bóluefna á frjósemi og fósturþroska hefur verið nokkuð áberandi í umræðu fagfólks um bóluefnin. Sömuleiðis vantar nánari ákvæði um þá sem teljast löglega undanþegnir tilraunabólusetningu, til dæmis vegna ofnæmis eða af öðrum heilsufarsákvæðum.

Mario Draghi forsætisráðherra lýsti því yfir á fréttafundinum um Græna passann að þessi skylda væri til þess að veita aukið frelsi. Frelsi til vinnu, vegna þess að aðgerðin kemur í veg fyrir lokun vinnustaða, en einkum þó frelsi fólks til að sækja opinbera staði í vernduðu öryggi gegn smitun. Samkvæmt hinni opinberu stefnu snúist Græni passinn um frjálst val, og hann veiti því hinum sem ekki vilja bólusetningu frelsi til þeirrar ákvörðunar með sjálfvalinni einangrun eða stöðugri sýnatöku.

Athygli vekur að um svipað leyti og Mario Draghi hélt blaðamannafundinn um Græna passann kom Antony Fauci, yfirmaður veiruvarna Bandaríkjastjórnar, fram í fjölmiðlum og lýsti því yfir að bólusetning gegn Sars veirunni veitti enga vörn gegn smitun af Delta afbrigði veirunnar, og að í ljós hefði komið að bólusettir einstaklingar með einkennalausa smitun hefðu ekki minna magn veiru í líkama sínum og væru því ekki minni smitberar en óblóusettir. Því ættu bólusettir alltaf að bera grímur í lokuðu almannarými, rétt eins og óbólusettir. Þar sem Antony Fauci hefur verið valdamesti og áhrifamesti einstaklingurinn í baráttunni gegn þessum heimsfaraldri, þá vekja þessi ummæli hans þá spurningu hvort Græni passinn veki ekki falskt öryggi eða hafi kannski annan tilgang en Mario Draghi boðaði á fundi sínum.

HRINGEKJA ÍTALSKRA STJÓRNMÁLA

 

 

Mario Draghi reynir stjórnarmyndun

eftir að seinni stjórn Giuseppe Conte springur

 

Hringekja ítalskra stjórnmála tekur engan enda og stjórnmálaflokkar og hreyfingar fara hamskiptum eins og salamandran. Til þess að fá einhverja mynd af ástandinu þurfum við að fara aftur til þingkosninganna í mars 2018, sem mörkuðu viss þáttaskil. Eftir nær aldarfjórðungs samdrátt í kaupmætti og þjóðarframleiðslu undir stjórn flokks Silvio Berlusconi (FI) annars vegar og vinstriflokksins PD hins vegar. Tveir flokkar urðu ótvíræðir sigurvegarar þessara kosninga sem rugluðu flokkakerfinu og heildarmynd ítalskra stjórnmála: Gömlu kerfisflokkarnir (FI og PD) guldu afhroð og tveir flokkar eða hreyfingar sem boðuðu andóf gegn „kerfinu“, stjórnmálaelítunni og ekki síst niðurskurðarstefnunni sem myntsamstarf evru-ríkjanna kallaði á, fengu hreinan meirihluta á þingi.

Þetta voru „5 Stjörnu hreyfingin“ (5*)  (35-36% atkv.) og Lega-Salvini flokkurinn (L-S) (17-18% atkv).  Þótt þessir flokkar teldust báðir ganga gegn „kefinu“ og hefðu stimpil „populista“ komu þeir nánast úr sitt hvoru áttinni: 5* hafði stolið fylgi frá PD („vinstri-kanturinn“) og L-S hafði stolið fylgi frá FI („hægri-kantinum“). Kerfissinnar (miðjumenn) kölluðu þá „öfgaflokka til hægri og vinstri“. Mögulegri myndun „vinstri“ stjórnar með PD (um 17% atkv.) og 5* var hafnað af PD og þar með urðu fyrstu „hamskiptin“ þar sem „öfgaöflin“ til hægri og vinstri sameinuðust undir ráðuneyti lögfræðingsins Giuseppe Conte, sem var óflokksbundinn og utan þings, en studdur af 5*. Þessi stjórn setti 2 mál á oddinn á sínum stutta ferli: borgaralaun og stöðvun flóttamannastraums frá Afríku og Mið-Austurlöndum. Hið fyrra í nafni „jafnaðarstefnu“, hið síðara í nafni „fullveldishyggju“ sem flokksforinginn Matteo Salvini setti á oddinn sem innanríkisráðherra. Einnig var afnumin löggjöf niðurskurðarflokkanna í lífeyrismálum og réttur lífeyrisþega styrktur. Ekki var merkjanlegt viðnám gegn atvinnuleysi og samdrætti í þjóðarframleiðslu á stjórnartímanum sem varaði í um það bil 1 ár, þar til Matteo Salvini skar á líftaugina fyrirvaralítið í ágúst 2019.

Til að gera flókna sögu stutta lauk stjórnarkreppu Giuseppe Conte með því að hann fékk umboð til að mynda nýja stjórn með 5* hreyfingunni og höfuðandstæðingnum PD, sem 5* hafði skilgreint sem dyggasta þjón hins yfirþjóðlega auðvalds og niðurskurðarstefnu þess undir regnhlíf Evrópusambandsins. Þessi hamskipti áttu sér aðra og praktískari skýringu: í stjórnarsamstarfinu með L-S flokknum höfðu skoðanakannanir sýnt fylgishrap 5* og þetta fylgi fór ekki til PD heldur til L-S flokksins sem mældist í skoðanakönnunum með 30-35% fylgi. Sergio Mattarella forseta, gömlu kerfisflokkunum og 5* hreyfingunni var mikið í mun að koma í veg fyrir „ótímabærar“ þingkosningar við þessar aðstæður og því fékk Conte nýtt umboð til stjórnarmyndunar. Þar með urðu ný hamskipti, og 5* hreyfingin gekk nú í sæng með PD og „kerfinu“, en andstaðan gegn því hafði verið líftaug hreyfingarinnar frá upphafi. Fyrirboði þessara hamskipta sást reyndar á þingi Evrópusambandsins skömmu fyrir stjórnarslit, þar sem di Maio utanríkisráðherra og leiðtogi 5* réði úrslitum í tvísýnni kosningu um Ursulu von der Layen í forsæti Evrópusamstarfsins. Þar var fyrsta skrefið stigið hjá 5* hreyfingunni  yfir í sængina með „kerfisflokkunum“ á Evrópuþinginu. Baráttan á milli „Evrópusinnanna“ og „fullveldissinnanna“ gufaði þannig upp í 5* hreyfingunni en Lega-Salvini flokkurinn gekk í harða stjórnarandstöðu gegn nýju stjórninni sem fékk nafnið Conte2.  Stjórnartími Conte2 hefur að mestu snúist um „Recovery Plan“ Evrópusambandsins og stýringu Covid19-kreppunnar, sem hefur að mestu farið fram með tilskipunum úr forsætisráðuneytinu án aðkomu þingsins. Segja má að framkvæmd „Endurreisnaráforms“ Evrópusambandsins hafi orðið banabiti Conte2 stjórnarinnar, en það var flokksbrot úr PD flokknum undir forystu Matteo Renzi sem veitti Conte2 náðarhöggið í þetta sinn með því að neita að styðja stuðningsyfirlýsingu við stjórnina í atkvæðagreiðslu á þingi.

Deilurnar um „Recovery-plan“ ESB voru reyndar svo flóknar að almenningur var hættur að skilja um hvað málin snerust og á það ekki síður við um stjórnarsinna en andstæðinga. Mynd fjölmiðla af þessum deilum var handan alls þess veruleika sem almenningur á við að glíma: 450.000 hafa misst vinnuna af völdum Covid19, þúsundir fyrirtækja lokað, skólar verið óstarfhæfir í heilt ár og vonarglæta bóluefnanna eins og fjarlægar hillingar og mýraljós. Allir fréttatímar sjónvarps síðastliðið ár hafa byrjað með „fjölda látinna“ og „fjölda smitaðra“ síðasta daginn, og skelfingin hefur lagst yfir mannlífið eins og þoka.

En hringekjan var ekki stöðvuð: á krepputímum má ekki ganga til kosninga, allra síst ef það eykur á „smithættuna“ sagði Mattarella forseti og dró óvænt nýja kanínu upp úr pípuhatti sínum. Eftir stutt samtöl við leiðtoga þingflokkanna sagðist hann sjá að ekki væri möguleiki á nýrri stjórnarmyndun undir forystu Conte, en bæði 5* og PD og smærri stuðningsflokkar Conte2 á þingi höfðu lagt áherslu á að hann væri eina sameiningaraflið er gæti myndað starfhæfa ríkisstjórn. Forsetinn virti vilja þingflokkanna að vettugi og veitti að eigin frumkvæði fyrrverandi bankastjóra Evrópska Seðlabankans umboð til stjórnarmyndunar: Mario Draghi varð skyndilega og óvænt hið nýja sameiningartákn, hagfræðingur sem stóð utan flokka og utan þings og hafði „bjargað evrunni og Ítalíu“ á sögulegri stund er hann lýsti því yfir þegar skuldastaðan var að sliga ítölsku ríkisfjármálin að Evrópubankinn myndi gera „whatever it takes“ til þess að bjarga skuldastöðu Ítalska ríkisins með kaupum á ítölskum ríkisskuldabréfum. Þetta er aðferð sem kallast „quantitave easing“ á tæknimáli hagfræðinnar og felst í því að prenta peninga þegar fjárstreymisstífla myndast í hagkerfinu. Kollsigling Ítalíu hefði kostað kollsiglingu evrunnar, en þessi aðgerð Evrópubankans var engu að síður framkvæmd gegn vilja þýskra stjórnvalda.

Þessi aðgerð Mario Draghi gerði hann að þjóðsagnapersónu á Ítalíu, og nú fór hringekjan heldur betur að snúast: allir flokkar á þingi lýstu skyndilega yfir stuðningi við þennan nýja „bjargvætt“ þjóðarinnar, líka L-S flokkurinn. Einungis Ítalska Bræðralagið (Fratelli di Italia) kallaði á tafarlausar kosningar, en þessi flokkur sem hefur þrefaldað fylgi sitt í skoðanakönnunum frá síðustu þingkosningum (úr5% í 15%) skilgreinir sig lengst til hægri í litrófinu og byggir á þjóðernishyggju og klassískri íhaldssemi. Hvað veldur hamskiptum Salvini, og hvaða baktjaldaleikhús er hér í gangi?

Til þess að skilja það þarf að líta svolítið til forsögu Mario Draghi, þessarar persónu sem er sveipuð dularhjúp og talar nær aldrei við fjölmiðla, að því er virðist af eðlislægri hlédrægni. Hann er 73 ára og má segja að hann sé fæddur inn í valdastöður fjármálaheimsins því faðir gegndi stjórnunarstöðum í nokkrum helstu fjármálastofnunum Ítalíu. Draghi útskrifaðist sem doktor í hagfræði frá Sapienza háskólanum í Róm þar sem hann naut leiðsagnar prófessors að nafni Federico Caffé, sem var af skóla svokallaðrar Keynesíanskrar hagfræði og því andstæðingur Chicago-skólans og svokallaðrar frjálslyndisstefnu í hagstjórn: ríkisafskipti eru nauðsynleg til að stýra markaðshagkerfinu segja Keynesianar. Þessi uppruni Draghi mun vera ein skýring þess að málsmetandi hagfræðingar af hinum Keynesíanska skóla innan L-S flokksins hafa lýst stuðningi við Draghi sem forsætisráðherra. Starfsferil sinn hóf Draghi sem háskólaprófessor, en hann dróst inn í fjármálaheiminn, fyrst sem ráðgjafi Alþjóðabankans í Washington, svo sem ráðgjafi ítalskra stjórnvalda þar sem hann varð einn helsti hvatamaður að einkavæðingu stærstu fyrirtækjanna í eigu ítalska ríkisins á 9. og 10. áratug síðustu aldar. Á sama tíma varð hann forstjóri Goldman Sachs International – alþjóðadeildar bankans sem kom stórlega við sögu í gjaldþrotum Grikklands. Hann varð yfirmaður Seðlabanka Ítalíu 2005 og síðan einnig forstöðumaður alþjóðastofnunarinnar Financial Stability Board sem var samráðsvettvangur hins yfirþjóðlega fjármálavalds stærstu bankastofnana heimsins. Kórónan á fjármálaferli hans var síðan bankastjórastaðan í Seðlabanka ESB frá 2011-2019. Hann hefur því gegnt leiðandi stöðu yfir landamæri þjóðríkjanna og haft leiðandi áhrif á stefnu ESB í fjármálum, þar með talið aðkomu ESB að gríska gjaldþrotinu 2010 og hamskiptum Syriza-flokksins og leiðtoga hans, Alexis Tsipras, sem gekkst undir afarkosti þríeykisins (Alþjóðabankans, Alþjóða gjaldeyrissjóðsins og ESB) þvert gegn vilja þjóðarinnar. Margir stuðningsmenn L-S flokksins telja nú að Salvini sé að fylgja fordæmi Tsipras og gangast undir þá afarkosti sem óhjákvæmilega tengjast hinum leyndardómsfulla ráðamanni í heimi þess yfirþjóðlega valds sem skirrtist ekki við að ganga gegn yfirlýstum vilja grísku þjóðarinnar í lýðræðislegum þingkosningum. Þar voru hagsmunir bankanna settir ofar lýðræðinu með skýlausum hætti.

Nú stendur Ítalía frammi fyrir efnahagskreppu sem enginn spámaður á sviði hagfræðinnar virðist sjá hvernig hægt sé að snúa við – innan þeirrar spennutreyju sem hið yfirþjóðlega fjármálavald hefur lagt á heiminn. Þau 27 ríki sem tilheyra evru-svæðinu gerðu með sér svokallaðan „Stability and Growth pact“ sem tók gildi1998 og í endurnýjaðri mynd 1. Janúar 1999. Samkvæmt þessum sáttmála eiga aðildarríki myntsamstarfsins ekki að skulda meira en sem nemur 60% af vergri þjóðarframleiðslu. Þessi sáttmáli er hin formlega forsenda niðurskurðarstefnu ESB: fari aðildarríkin yfir strikið eiga þau að draga saman ríkisútgjöld þar til þessu markmiði er náð. Þessi „Stöðugleikasáttmáli“ er hvort tveggja í senn, hornsteinn myntsamstarfsins og hornsteinn svokallaðrar „niðurskurðarstefnu ESB“ sem útilokar ríkisafskipti af hinum frjálsa markaði innan ramma sameiginlegrar myntar.

Segja má að málsmetandi hagfræðingar á svokölluðum vinstri og hægri væng ítalskra stjórnmála hafi sameinast um gagnrýni á þessa stefnu, oftast í nafni svokallaðrar Keynesískrar hagfræði sem byggir á kröfunni um inngrip ríkisins í fjármálamarkaðinn þegar gefur á bátinn. Efnahagskreppa Ítalíu á sér jafn langan aldur og „Stöðugleikasáttmálinn“. Allt frá 1992 hefur þjóðarframleiðsla og kaupmáttur launa dregist saman og atvinnuleysi aukist. Þetta er vítahringur sem enginn sér í raun fram úr þegar litið er á staðreyndir málsins: lítum aðeins á meðfylgjandi línurit yfir skuldastöðu nokkurra skuldugustu ríkja ESB miðað við þjóðarframleiðslu. Tölfræðin er opinber frá þessu ári. Meðaltal evru-svæðisins er 86,3% á þessu ári. Hlutfallstala Ítalíu er 137,6%. Meira en tvöfalt markmið Stöðugleikasáttmálans og nálgast Grikkland.

Þjóðarskuldir sem hlutfall af vergri þjóðarframleiðslu í nokkrum aðildarlöndum ESB 2021

 

Ítalía er jafnframt það land sem hefur farið hvað verst út úr Covid19 plágunni í Evrópu. Bæði efnahagslega, heilsufarslega og pólitískt. Þjóðin hefur nú þörf fyrir lántökur til að standa straum af veiruplágunni upp á hundruð milljarða evra. Sumir spámenn segja að þetta skuldahlutfall fari upp í 160% á næsta ári/árum eða jafnvel meira. ESB hefur nú í undirbúningi „Rcovery Plan“ sem er neyðaráætlun um endurreisn þar sem sjóðum bandalagsins verður veitt í endurreisn – sumir segja í líkingu við Marshall-aðstoðina. Hvaðan kemur þetta fé? Frá aðildarríkjunum, þar sem Ítalía er þriðji stærsti „hluthafinn“ á eftir Þýskalandi og Frakklandi. Málsmetandi menn hafa sagt að þetta sé sýndarmennska í líkingu við það að pissa í skóinn sinn til að halda hita. En það verður varla dregið í efa að Mario Draghi er efnilegur leikstjóri fyrir þennan sýndarleik. Hann hefur verið að undirbúa sig undir þetta kraftaverk allan sinn glæsta starfsferil, og hvað gera salamöndrur stjórnmálanna andspænis töframanninum: þær skipta litum.

Forsíðumyndin: Sergio Mattarella forseti Ítalíu og Mario Draghi fyrrverandi forstjóri Seðlabanka Evrópu ræða væntanlega stjórnarmyndun á Ítalíu í forsetahöllinni nýverið

 

 

 

 

Agamben um tímann sem kemur

Ítalski heimspekingurinn Giorgio Agamben birti í dag eftirfarandi pistil á blogsíðu sinni, sem er á heimasíðu bókaútgáfunnar Quodlibet: Giorgio Agamben, Sul tempo che viene - Quodlibet

Ég tók mér það bessaleyfi að snara pistlinum á íslensku. Hann á erindi líka til okkar. Fjölmarga aðra texta Agambens  má finna í íslenskri þýðingu minni hér á hugrunir.com

 

Giorgio Agamben:

Um komandi tíma

 

Sú hnattræna atburðarás sem við upplifum í dag felur vissulega í sér endalok tiltekins heims. En ekki í þeim skilningi að um sé að ræða umskipti yfir í heim er mæti nýjum þörfum hins mannlega samfélags með hagkvæmari hætti – eins og þeir tala sem stýra honum samkvæmt eigin hagsmunum.

Við horfum nú upp á sólsetur hins borgaralega lýðræðis með sínum réttindum, sínum stjórnarskrám og sínum þjóðþingum. En handan þessa lögfræðilega búnings, sem vissulega skiptir máli, þá horfum við nú upp á endalok þess heims er átti upptök sín í  iðnbyltingunni og gekk á þroskaferli sínum í gegnum tvær eða þrjár heimsstyrjaldir og það alræðisfyrirkomulag er byggði ýmist á harðstjórn eða lýðræði.

Ef þau yfirvöld er stýra heiminum hafa talið það skyldu sína að grípa til jafn öfgafullra ráðstafana eins og líföryggið og heilbrigðisharðstjórnin vitna um – og hafa nú verið virkjaðar án undantekningar  um leið og hættan á að allt fari úr böndunum blasir við – þá er það vegna þess að yfirvöldin óttuðust augljóslega að þau ættu engra annarra kosta völ, ef þau vildu lifa af.

Og ef fólk hefur gengist viljandi undir þessar fordæmalausu þvinganir og tilskipanir án nokkurrar tryggingar, þá stafar það ekki eingöngu af óttanum við drepsóttina, heldur bendir allt til að það stafi af meira og minna dulvitaðri vissu þess, að sá heimur sem það hefur lifað í fram til þessa væri of óréttlátur og of ómanneskjulegur til þess að eiga sér nokkra framtíð. Burtséð frá því að stjórnvöld leggi nú drög að enn ómannúðlegri og óréttlátari heimi,  þá mátti alltaf sjá það einhvern veginn fyrir, að sá heimur sem var – eins og við erum nú farin að kalla hann – átti sér enga framtíð.

Eins og ávallt gerist þegar um óljósa forboða er að ræða, þá er tilfinningin að einhverju leyti trúarlegs eðlis. Heilsan hefur komið í stað hinnar trúarlegu endurlausnar. Hið líffræðilega líf hefur komið í stað eilífs lífs, og Kirkjan sem hefur fyrir löngu lært að sættast við og aðlaga sig að hinum veraldlegu aðstæðum, hefur nánast skilyrðislaust undirgengist þessi umskipti.

Við grátum ekki þennan heim sem nú líður undir lok. Við berum enga eftirsjá í brjósti gagnvart hugsjónunum um  hið mannlega og guðdómlega sem hinar linnulausu öldur tímans eru í óða önn að þurrka út eins og kastala í fjöruborði sögunnar.

En með sömu staðfestunni afneitum við því nakta, mállausa og andlitslausa lífi og þeim trúarbrögðum heilsugæslunnar sem ríkisvaldið býður okkur nú upp á. Við vonumst hvorki né bíðum eftir nýjum manni né nýjum guði.  Öllu heldur leitum við, hér og nú, innan um rústirnar sem umlykja okkur, að auðmjúkara og einfaldara lífsformi, lífi sem ekki er í hillingum, því við erum brennd af reynslunni og minningunum, jafnvel þó við búum við stöðugan innanverðan og utanaðkomandi þrýsting sem vill kæfa þessar minningar í gleymskunni.

  1. nóvember 2020

Giorgio Agamben

„THE GREAT RESET“ – EÐA TILVERAN EFTIR COVID

„THE GREAT RESET“ EÐA MARTRAÐARSÝN FYRIR MANNKYNIÐ

Samtal um mannlega tilveru í kjölfar veirupestarinnar

Guido Grossi er ítalskur hagfræðingur sem gegndi háttsettum ábyrgðarstöðum m.a. innan stærstu banka Ítalíu, Banca Nazionale del Lavoro og Ítalska seðlabankans (Banca d‘Italia), áður en hann sagði skilið við innviði bankakerfisins og fjármálaheimsins og fór að rannsaka hann utan frá sem sjálfstæður óháður fræðimaður. Síðustu árin hefur hann gerst virkur í ítölskum stjórnmálum, m.a. með aðild að samtökum og tímariti sem kenna sig við „Sovranità popolare“ eða „fullveldi alþýðunnar“ og hafa meðal annars gagnrýnt neikvæð áhrif myntsamstarfs evru-ríkjanna á ítalskt efnahagslíf á síðustu árum. Guido Grossi hefur verið ötull við að fræða almenning um virkni og eðli þess yfirþjóðlega fjármálakerfis sem heimurinn býr nú við og byggir í grundvallaratriðum á skuldasöfnun.

Í fyrradag birti sjónvarpsstöðin Byoblu athyglisvert og fróðlegt viðtal við Grossi um þær hugmyndir sem hafa verið reifaðar innan margra miðstöðva hins yfirþjóðlega fjármálaheims undanfarið um nauðsyn þess að framkvæma grundvallarbreytingu á hagkerfi heimsins með kerfisbreytingu sem einvalalið alþjóðahyggju auðkýfingana gaf nýverið enska heitið „The Great Reset“ á fundi sínum í DAVOS í Sviss, en á máli tölvualdar myndi það þýða „hin mikla endurræsing“, þar sem hagkerfi heimsins er líkt við bilaða tölvu er þyrfti nauðsynlega að endurræasa með hnýjum hugbúnaði.

Hér er birt stytt video-útgáfa viðtalsins og  endursögn eða útdráttur í styttu máli, þar sem Grossi er fyrst spurður hvað þetta feli í sér.

– Endurræsingin („the reset“) merkir, segir Grossi, að byrja þurfi á nýjan leik með hreint borð, því núgildandi kerfi sé hætt að virka. Ástæður þess eru flóknar, en ef við horfum á það frá heimsvísu, þá blasa við vandamál fólksfjölgunar og fólksflutninga, umhverfisvandamál, vandamál framleiðslu og neyslu, vaxandi misrétti, vaxandi atvinnuleysi og síðast en ekki síst hraðvaxandi skuldasöfnun. Allt vandamál sem eru til staðar vegna aðgerða fjármálavaldsins, þeirra sömu afla sem segjast nú vilja snúa við blaðinu og byrja upp á nýtt.

Ég þekkti vel innviði fjármálaheimsins meðan ég starfaði þar, segir Grossi, en ég skildi ekki heildarmyndina fyrr en ég sleit mig frá þessum stofnunum og fór að horfa á þetta utan frá. Viss umsnúningur hefur átt sér stað í fjármálakerfi heimsins á undanförnum áratugum. Hér áður fyrr laut fjármálaheimurinn yfirstjórn og eftirliti stjórnvalda einstakra ríkja eða eftirliti stjórnmálanna sem slíkra á meðan seðlabankar og stærstu fjármálastofnanir voru í ríkiseign. Nú búum við við þær aðstæður að fjármálastofnanirnar hafa verið einkavæddar og nú eru það þær sem setja stjórnvöldum einstakra ríkja reglurnar. Þetta hefur gerst hægt og sígandi samfara uppbyggingu þess fjármálakerfis sem nú ríkir og byggir fyrst og fremst á skuldsetningu, þar sem þessar einkavæddu fjármálastofnanirnar,  búa til peninga úr engu (í skjóli einokunarréttar) og skapa þannig innistæðulausan „hagvöxt“. Stjórnvöld einstakra ríkja eru þannig skilyrt af lánveitendunum sem hafa skuldakröfur sínar sem vogarafl, án þess að hafa kostað nokkru til, þar sem þessar stofnanir hafa einkaleyfi á að búa til peninga úr engu.

Nú telja sameiginlegar skuldir þjóða heimsins um 260.000 miljarða dollara, sem mun vera nálægt þrefaldri þjóðarframleiðslu allra ríkja heimsins. Það er deginum ljósara að þessar skuldir verða aldrei endurgreiddar, og á bak við þessa miljarða hvílir ekkert nema tiltrú.

Þó þessar skuldir væru afskrifaðar myndi það ekki valda útgefendunum neinum efnislegum skaða, því þeir hafa engu til kostað. Eini skaðinn væri glötun þess vogarafls sem skuldakröfurnar veita gagnvart skuldunautunum. Þetta vogarafl byggir á almennri tiltrú sem nú er að bresta um allan heim. Sú spurning vaknar hvers vegna og hvernig við (og stjórnvöldin sem við höfum kosið yfir okkur) hafa veitt einkareknum fjármálastofnunum þennan einkarétt og þetta ofurvald. Sú spurning vaknar líka hvort við eigum að trúa þeim sömu öflum sem hafa skapað þetta ástand til að umturna því með því sem þau kalla „The Great Reset“? Hvað felst í þessum áformum úrvalsliðs miljarðamæringanna í DAVOS, sem nú eru upphafsmenn þessarar umræðu?

Þessar aðstæður hafa, segir Grossi,  myndast hægt en með sívaxandi þunga, sem nú hefur leitt til þess að stór hluti almennings er farinn að vantreysta bæði stjórnvöldum og fjármálastofnunum. Mikilvægur áfangi þessarar þróunar fólst í afnámi gullfótarins gagnvart dollara 1971, og gagnvart öðrum gjaldmiðlum í kjölfarið. Gullið hentaði ekki lengur, því við getum hvorki nært okkur né klætt á gulli.  Í framhaldi þessa var skuldsetning einstakra ríkja að þessu vogarafli heimsvæðingar viðskiptanna þar sem samkeppni heimsmarkaðsins var jafnframt sett á oddinn. Til þess að standa undir vaxtakröfum lána þurftu stjórnvöld að selja ríkiseignir og náttúruauðlindir, hækka skatta og draga úr eða einkavæða þjónustu hins opinbera.

Frá sjónarhóli fjármálavaldsins vænkast hagur þess því meir sem einstök ríki skuldsetjast og sýna hallarekstur og því meir sem atvinnuleysi eykst. Það styrkir eignarhald fjármálavaldsins á auðlindum. Þessi þróun stenst til skamms tíma en á sér augljós takmörk. Um leið sjáum við að hið yfirþjóðlega fjármálavald hefur fyrst og fremst tvíþætt meginmarkmið: að veikja tilvist ríkisvaldsins sem slíks og alla tiltrú á það, samfara vélvæðingu vinnumarkaðsins; allt undir því merki að vinnan sé ekki fyrir alla á vélvæddri tölvuöld og heldur ekki á allra valdi. Atvinnuleysi sé eðlilegt ástand á tækniöld. Hins vegar er ljóst að tiltrú almennings á þessu kerfi er nú að bresta, og því er  kallað á „umsnúning“.

Hvað felur „The Great Reset“ í sér?

Grossi bregður sér í hlutverk hugmyndabankastjóranna frá DAVOS og segir okkur að það fyrsta sem við munum sjá sé afnám peninganna, um leið og búin verður til ein sameiginleg alheimsmynt á stafrænu formi undir miðstýrðri alheimsstjórn. Við sjáum þegar í samtímanum háværar kröfur um afnám smitberandi seðla og smámyntar, en það er aðeins forleikurinn að afnámi ríkismyntanna sem slíkra, þar með talið dollarans og evrunnar og yensins. Í stað þeirra verður framboðið stafrænt fjármagn sett undir eina alheimsstjórn, sem stýrt er af þeim sömu öflum og hafa komið okkur í þennan vanda.

Um leið verða allar ríkisskuldir afskrifaðar. Þetta felur jafnframt í sér eignaupptöku skuldaranna þar sem úrelt smáfyrirtæki og úrelt millistétt smá-atvinnuveitenda hverfur undir verndarvæng alþjóðlegra viðskiptakeðja er yfirtaka vörudreifingu og þjónustu. Ríkisvaldið fær hlutverk sem afgreiðslustofnun hins yfirþjóðlega fjármagns þar sem hlutverk þess verður fyrst og fremst að tryggja afkomu almennings með svokölluðum „borgaralaunum“, er koma í stað atvinnuleysisbótanna. Vinnan sem slík verður afskrifuð sem undirstaða mannlegra gilda, í stað stéttabaráttu launþegans (og sjálfsvirðingar hans)  kemur þegnskapurinn við fjármálakerfið í hlutverki bótaþegans. Í stað vinnunnar sem forsendu skapandi tilveru koma framfærslustyrkir borgaralaunanna. Í stað samstöðu á vinnumarkaði kemur samkeppnin: þeir verðskulduðu sigra eins og í hæfileikakeppnum sjónvarpsins, hinir verða bótaþegar í forsjá tryggingakerfisins, því vélarnar og stafræna tæknin leysa vinnuaflið af hólmi. Samstaðan verður dyggð sem yfirfærist á herðar alþjóðlegra hjálparstofnana sem losa okkur undan slíkum áhyggjum  og alþjóðlegar sóttvarnarstofnanir munu sjá um að halda utanaðkomandi váberum og smitberum í þar til gerðum sóttvarnarhólfum og stofnunum.

Það er ekki síst núverandi veirufaraldur sem hefur gefið þessum hugmyndum byr undir vængi. Heimurinn bíður nú í ofvæni eftir bólusetningu, þegnskyldu sem verður um leið aðgönguforsenda að annarri þjónustu á sviði samgangna og heilbrigðisþjónustu. Þegnskyldan gagnvart ógn veirunnar verður eins og leikskólinn, undirbúningur undir þá tilveru sem koma skal undir traustri stjórn tölvuvæddrar alheimsstjórnar þegar veiran hefur verið sigruð…

Er þetta það hlutskipti sem við kjósum okkur? spyr Guido Grossi, og hefur ekki afgerandi valkosti á boðstólnum fyrir mannkynið í heild sinni, því þeir hljóti að mótast af staðháttum. En þeir hljóti að taka mið af þeirri hugsun að peningar séu ekki markmið í sjálfu sér til að stjórna lífi okkar, heldur í besta falli eitt af mörgum meðulum til að skapa manninum merkingarfulla tilveru. Því séu hugmyndirnar frá DAVOS um „The Great Reset“ fyrst og fremst martraðarlík framtíðarsýn fyrir mannkynið.

NÝ COVID19 KYNSLÓÐ Í MÓTUN Í EVRÓPU

Ný COVID19-KYNSLÓÐ Í MÓTUN Í EVRÓPU

„NEXT GENERATION EU“

Myndbandið sýnir skólasetningu í ítölskum framhaldsskóla í fyrradag

Þessa dagana upplifa börn og ungmenni um alla Evrópu upphaf nýs skólaárs, víða í kjölfar a.m.k. hálfs árs skólahlés vegna Covid19 veirufársins. Evrópuþjóðir hafa brugðist ólíkt við, en eitt eiga evrópsk ungmenni þó sameiginlegt: alls staðar ríkir öngþveiti og óvissa, ekki bara um framtíðina til langs tíma litið, heldur ekki síst um næstu daga við upphaf nýs skólaárs. Ég hef fylgst með þessum undirbúningi á Ítalíu gegnum fjölmiðla undanfarið og sé ekki annað en að ef eitthvað einkenni þessa tíma, þá sé það öngþveiti sem eigi eftir að hafa ófyrirsjáanlegar afleiðingar. Erfitt er að skilja þær reglur sem settar hafa verið með reglugerðum stjórnvalda sem oft virðast jafnvel illa samræmast ríkjandi stjórnarskrá um réttindi barna til menntunar.

Meðal reglugerða sem settar hafa verið á Ítalíu eru þær er skylda nemendur frá 6 ára aldri til að bera andlitsgrímu skólanum alls staðar nema í matsal meðan borðað er og í skólastofu meðan setið er við skólaborð. Skólaborð eiga að vera fyrir einn nemanda og raðað upp þannig að 1 m í það minnsta skilji nemendur að. Þetta fækkar plássum í hverri skólastofu. Öllum gömlum tvískiptum skólaborðum hefur verið kastað á haugana (eða þau söguð í tvennt) og miljónum af nýju skólaborðum og stólum dreift til skóla um alla Ítalíu. Foreldrar eiga að mæla líkamshita nemenda áður en þau fara í skólann og ekki hleypa þeim í skólann ef hiti er hærri en 37,5 gráður. Ef nemendur sýna merki um veikleika í skólanum – hita, nefrennsli eða hósta – skulu þau umsvifalaust færð í sérstakan Covid19 sal og látin gangast undir veiruprufu um leið og foreldrar eru kallaðir til að sækja börn sín og fara í einangrun meðan beðið er eftir niðurstöðu. Sé niðurstaða jákvæð verður öll fjölskyldan sett í tveggja vikna sóttkví og jafnvel bekkurinn líka. Kennari á að vera í 2 m fjarlægð frá nemendum í sæti sínu og setja upp grímu ef hann fer um kennslustofuna eða í nánd við nemendur. Kennari má ekki snerta skólabækur eða verkefni nemenda. Meðal áhættuatriða sem hafa verið bönnuð í skólastarfi er söngur og hreyfingar eins og dans sem kalla á snertingu og nálægð. Börn mega ekki skiptast á eða lána hvort öðru ritföng eða önnur skólagögn. Þau fá ókeypis grímur í skólanum en eiga að skipta um grímur verði þær rakar og hafa með sér sérstaka poka til að geyma notaðar grímur og taka með sér heim. Rakar grímur má helst ekki snerta, og sótthreinsa á hendur eftir hverja snertingu. Vegna plássleysis í skólum og þrengsla við inngöngu eru settar reglur um breytilegan skólatíma eftir aðstæðum, þannig að allir nemendur hafi ekki sama komu- og brottfarartíma úr skólanum. Þessar reglur eiga sérstaklega við um barnaskóla og gagnfræða- eða menntaskóla, en hliðstæðar reglur eiga væntanlega einnig að gilda á háskólastigi.

Það kemur ekki á óvart að háværar gagnrýnisraddir hafi heyrst um þessar ráðstafanir. Ekki bara vegna þess að þær reynast víða óframkvæmanlegar í reynd (það vantar enn hátt í 100.000 kennara til að mæta nýjum aðstæðum og víða vantar enn skólaborð og stóla o.s.frv. (Þannig birtast í dag myndir af börnum sem vinna á hnjánum í skólastofunni og hafa stólinn fyrir skrifborð.)) Það er þó kannski ekki erfiðasti vandinn, heldur áhyggjur foreldra, kennara, sálfræðinga og menntafrömuða vegna heilsufarslegra og uppeldisfræðilegra afleiðinga þessa skóla sem virðist hugsaður út frá tæknilegum forsendum en ekki uppeldisfræðilegum. Læknar hafa stigið fram og haldið því fram að grímur takmarki eðlilegan andardrátt barna og feli í sér að þau andi að sér óeðlilegu magni koltvísýrings með vota grímu fyrir vitunum. Þegar eru komin fram dæmi um börn sem hafa fallið í yfirlið af súrefnisskorti vegna grímunnar. Sálfræðilega hefur fjarlægðarkrafan og grímukrafan það í för með sér að hún takmarkar eðlileg samskipti skólabarna og að þau líti á skólafélaga sína sem mögulega smitbera og óvini.  Þá fela þessar reglur í sér augljósa takmörkun  margra námsgreina, þar sem greinar eins og tónlist og dans og leikfimi verða til dæmis skyndilega hættulegar og snertinálgun torveldar alla verklega kennslu. Þess eru dæmi að kennarar hafa andmælt þessum nýju skólareglum, og kennaraskorturinn mun stafa af því að margir kennarar hika við að nálgast þetta nýja hættusvæði sem skólinn er orðinn. Þá eru dæmi þess að foreldrar neiti að láta börn sín í svona skóla.

Þessi aðstaða vekur óhug og ótta um fyrirsjáanlegar – og ófyrirsjáanlegar – afleiðingar skólastarfs þar sem einangrun einstaklingsins er sett í fyrirrúm og innræting tortryggni, ótta og hræðslu við náungann, þar sem möguleikum kennara til að sinna tilfinningalegri umönnun nemenda eru settar alvarlegar skorður og andlegri og líkamlegri heilsu þeirra er stefnt í voða. Það furðulegasta af öllu er þó sú staðreynd að í þeirri miklu umræðu sem mál þessi hafa vakið hefur nánast ekkert borið á umræðu um uppeldisfræðileg markmið þessa skóla eða mennigarlegan tilgang hans.

Þann 27. maí síðastliðinn flutti Ursula von der Leyen forseti Evrópusambandsins sögulega ræðu um nýja framtíðaráætlun fyrir Evrópu, sem hún kallaði upp á enska tungu „Next Generation EU“. Þar lofaði hún að hrista fram úr erminni 2,4 biljónir Evra til að endurreisa ESB og búa í haginn fyrir komandi kynslóð, þá kynslóð sem býr nú víðast við 20-30% atvinnuleysi og fyrir afkomendur hennar. Myndirnar sem fylgja þessum pistli segja hluta af sögunni um framkvæmd þessarar stórbrotnu áætlunar.

Reglugerð Menntamálaráðherrans:

  1. Gríma á að hylja nef og munn
  2. Nemendur frá 6 ára aldri noti grímur
  3. Fatlaðir eru undanskyldir grímunotkun
  4. Skólinn skaffar andlitsgrímur
  5. Grímur skal bera við alla hreyfingu innan skólasvæðis
  6. Grímur skal bera þegar komið er inn og farið úr skóla, farið á salerni eða í matsal
  7. Einungis er leyfilegt að taka niður grímu í stofu þegar 1 m fjarlægð er tryggð milli nemenda og 2 m. frá kennara.
  8. Þvo skal hendur áður en gríma er sett upp. Gæta þess að gríman falli þétt að og hylji munn og nef. Skipta skal um grímu verði hún rök. Ekki snerta grímuna heldur böndin þegar hún er tekin af, setja hana í þar til gerðan grímu-poka og þvo hendur.

Forsíðumyndin sýnir barnaskólanemendur á fyrsta skóladegi á Ítalíu

UPPLÝSINGAÓREIÐAN OG COVID19 PLÁGAN

 

Í dag sjá ég fréttainnskot frá ítölsku fréttaveitunni ControTV, sem vakti athygli mína, en þetta er fréttaveita af þeirri tegund sem stofnanir á borð við hið íslenska „þjóðaröryggisráð“ hafa verið að vara okkur við undanfarið vegna meintra „falsfrétta“.

Fréttainnskotið varðaði umræðuna um Covid19 veirupláguna og viðbrögð vísindasamfélagsins við henni. Nánar tiltekið bann við notkun lyfsins hydroxichloroquine í lækningarskyni við veirunni, en þetta bann var ráðlagt af Alþjóða heilbrigðisstofnuninni (WHO) 27. maí sl. og tekið upp í kjölfarið á Ítalíu, í Frakklandi og víðar á Vesturlöndum.

Í tilefni þessa vitnaði Massimo Mazzucco ritstjóri ControTV í frétt úr ítalska dagblaðinu Fatto Quotadiano frá 28. apríl s.l. þar sem vakin var athygli á því að Lyfjastofnun Ítalíu hefði leyft notkun lyfsins í tilraunaskyni, en frumkvöðull í tilraunum með lyfið er sagður vera farsóttarlæknirinn Luigi Cavanna við sjúkrahúsið í Piacenza. Blaðið hefur eftir prófessor Cavanna: „Frá 25. Febrúar hef ég meðhöndlað 209 sjúklinga með þessu lyfi og í 90% tilfella voru niðurstöður jákvæðar. Spítalainnlagnir hríðféllu: frá því að leggja 30% sjúklinga á sjúkrahús (með alvarlega eða merkjanlega sýkingu) féllu innlagningar undir 5%“. Breytingin stafaði af notkun hydroxichloroquine á fyrsta stigi sýkingarinnar á meðan sjúklingarnir voru heima, en sú meðferð kallaði á örfáar innlagnir. Í frétt Fatto Quotidiano kemur fram að samkvæmt Lyfjastofnuninni séu 1039 ítalskir sjúklingar nú (27. apríl) í meðferð með þessu lyfi.

Um mánuði eftir þessa frétt birtist greinin í tímaritinu Lancet, sem sýndi tölfræðilega rannsókn á notkun lyfsins. Þar kemur fram að rannsóknin hafi náð til 96.032 innlagðra covid19-sjúklinga í 671 sjúkrahúsi í sex löndum (þar af 15.000 sem hefðu fengið umrætt lyf) á tímabilinu 20.12.19 til 14.04.00 með samnaburði við þá sem ekki fengu umrædda meðferð. Niðurstaðan var sú að enginn mælanlegur bati var sjáanlegur af lyfinu, en hliðaverkanir merkjanlegar í auknum æðasjúkdómum.

Fréttastjóri ControTV vekur athygli á að þessi rannsókn taki einungis til innlagðra sjúklinga (með alvarleg einkenn), en brautryðjandinn í notkun lyfsins hafði lagt áherslu á að notkun þess væri mikilvæg á fyrstu stigum sjúkdómsins, áður en til innlagnar kæmi. Notkun lyfsins var ekki ráðlögð eftir innlögn.

Einnig má geta þess að strax eftir birtingu greinarinnar í Lancet birti The Guardian grein þar sem læknar frá Ástralíu véfengdu rannsóknina og viðbrögð WHO við henni. Meðal annars kom fram í Lancet-greininni að vitnað var til 73 dauðsfalla í Ástralíu á tiltekinni dagsetningu, þegar staðfest dauðsföll voru einungis 67. Þessi misfella gæfi tilefni til að kanna fleiri tölfræðivillur í greininni.

Í kjölfar þessara fálmkenndu viðbragða vísindasamfélagsins birtist sú frétt m.a. í breska tímaritinu HealthWorld (hliðarútgáfa The Economic Times) 30. maí þar sem fram kemur að rannsóknir Oxford-háskóla á bóluefni gegn Covid19 veirunni væru í uppnámi vegna minnkandi tíðni sýkinga. Í fréttinni kemur fram að 224 rannsóknir séu í gangi í heiminum og að 10.000 sjálfboðaliðar taki þátt í rannsókn Oxford háskóla. „Jú þetta er kapphlaup“, sagði prófessor Adrian Hill, forstöðumaður Jenner Stofnunarinnar: „en þetta er ekki kapphlaup við samkeppnisaðilana. Þetta er kapphlaup gegn brotthvarfi veirunnar. Nú þegar eru 50% líkur á því að við getum náð einhverjum niðurstöðum.“ Samkvæmt þessu er helsta áhyggjuefni vísindasamfélagsins að veiran hverfi. Það er augljósleg ógn við mikilvæga viðskiptalega, og ekki síður heimspólitískra hagsmuni.

Við þetta má bæta að WHO stendur nú fyrir alþjóðlegri vísindarannsókn á Covid19 veirusjúkdómnum sem gengur undir nafninu „Solidarity“ eða „Samstaða“. Samkvæmt frétt frá heimasíðu WHO hélt framkvæmdastjórn Solidarity rannsóknarinnar fund með fulltrúum 10 ríkja sem eiga aðild að henni í kjölfar Lancet-greinarinnar. Þar var samþykkt var að gera „tímabundið hlé“ á rannsóknum með hydroxichloroquine innan Solidarity á meðan niðurstöður Lancet-greinarinnar verða metnar af „Data Safety Monitoring Board“.

Við þetta er því að bæta að kapphlaupið um bólusetningarefni gegn Covid19 hefur ekki bara beinst gegn þessu alkunna malaríulyfi, sem hefur verið notað áratugum saman gegn þeim skæða sjúkdómi án umtalaðra hliðarverkana. Lælnasamtökin á Ítalíu létu loka tiltekinni einkarekinni sjónvarpsstöð sem hafði haldið því fram að mikilvægasta lyfið til að hefta útbreiðslu veirunnar væru C og D vítamín. Sjónvarpsstöðin sem er rekin af „heilsugúrúnum “ Adriano Panzironi hefur lagt áherslu á að styrking ónæmiskerfisins væri mikilvægasta vörnin gegn veirunni, og hélt uppi áróðri fyrir því að ítalska ríkið gæfi öllum Ítölum tiltekna skammta af þessum vítamínum í því skyni að styrkja ónæmiskerfi og viðnámsþrótt þjóðarinnar. Þetta var talin ógn við læknavísindin að mati Læknasamtakanna, jafnvel þótt óteljandi rannsóknir sýni að þessi efni styrki ónæmiskerfið.

Þá má nefna það að tveir læknar á sjúkrahúsunum í Pavia og Mantova á Ítalíu áttu frumkvæði að því að nota blóðplasma úr sjúklingum sem hefðu myndað mótefni gegn Covid19. Tilraunir þeirra báru undraverðan árangur en voru eðli málsins samkvæmt ekki tölfræðilega viðurkenndar vegna of fárra sjúklinga. En í kjölfarið greip heilbrigðisráðherra til þeirra ráða að veita fé og yfirumsjón með ítölskum rannsóknum á blóðplasmalækningum til sjúkrahússins í Pisa, sem hafði engar tilraunir gert í þessum efnum. Viðkomandi prófessor var hins vegar sagður í hagsmunasamtökum við lyfjafyrirtæki.

Að lokum má geta þess að í umræddum fréttapistli ControTV komu tengsl Bill Gates við veirurannsóknir og bólusetningarherferðir til tals í samtali við Margaritu Forlandi, ritstjóra fréttaveitunnar PandoraTV. Fréttakonan upplýsti að Bill Gates hefði hagsmunatengsl við flestar þær stofnanir sem koma að bóluefnisleitinni. Þar ber fyrst að nefna Alþjóða Heilbrigðisstofnunina, en BG er helsti stuðningsmaður hennar með 4,3 miljarða USD framlagi. Þá styrkir hann meðal annars Oxford háskóla með 243 miljónum USD árlega, breska Imperial College um 280 miljónir USD, BBC um 53 miljónir USD og ekki síst eina helstu vísindastofnunina um Covid19, John Hopkins University um 860 miljónir USD. Augljóst má vera að á bak við alla umræðu um Covid19 pestina liggja umtalsverðir viðskiptalegir og pólitískir hagsmunir.

Að lokum má geta þess að í umræddum þætti frétamiðilsins ControTV komu fram, auk ritstjórans Massimo Mazzucco þau Roberto Quaglia og Margarita Forlandi, sú síðastnefnda arftaki Giulietto Chiesa hjá fréttamiðlinum PandoraTV. Hvort tveggja leiðandi fréttamiðlar, ekki síst um þöggunarstefnu meginfjölmiðlanna sem telja sig ásamt hinu íslenska „þjóðaröryggisráði“ í forystu í baráttunni gegn „falsfréttum“. Umræddur fréttaþáttur er á þessari vefslóð netsins: https://www.youtube.com/watch?v=1yleF_MyjwA

Forsíðumyndin er úr frétt ítalska dagblaðsins La Repubblica af viðtali við prófessor Adrian Hill, forstöðumann mótefnisrannsókna gegn Covid19 við Oxford University

 

 

%d bloggers like this: