Fréttapistill frá Ítalíu
„Hvatning til að láta ekki bólusetja sig er hvatning til dauða, efnislega er það svo að ef þú lætur ekki bólusetja þig þá veikist þú og deyrð, þú lætur ekki bólusetja þig og smitar þannig aðra og deyðir“.
Þessi orð lét Mario Draghi, forsætisráðherra Ítalíu, falla á mikilvægum blaðamannafundi 22. Júlí síðastliðinn þegar hann kynnti áform ríkisstjórnar sinnar um útgáfu „Græna passans“ til þeirra sem eru bólusettir og um leið takmörkun á frelsi þeirra sem ekki hefðu slíkan passa. Þeir sem ekki vilja gangast undir bólusetningu geta fengið sambærileg réttindi með því að sýna vottorð um smitlausa nefpinna-sýnatöku 48 klst fyrir aðgang. Tilskipunin var réttlætt fyrst og fremst með því að án hennar yrði nauðsynlegt að loka vinnustöðum og opinberum þjónustufyrirtækjum í stórum stíl vegna nýja Delta-afbrigðisins af Sars-veirunni. Þegar þessi orð voru töluð hafði um helmingur þjóðarinnar fengið 2 skammta af tilraunabóluefni gegn Covid19. Viðurkennd bóluefni eru háð samþykki Evrópska heilbrigðiseftirlitsins, en það hefur ekki viðurkennt undanþágu fyrir Sputnik-bóluefnin frá Rússlandi, né heldur kínversk bóluefni. Græni passinn mun gilda í 9 mánuði fyrir bólusetta en 6 mánuði fyrir þá sem sýna vottorð um að hafa læknast af Covid19.
Áformin um Græna passann voru samþykkt á ítalska þinginu án mikillar umræðu og komu til framkvæmda 6. ágúst. Mario Draghi forsætisráðherra er sem kunnugt er fyrrverandi bankastjóri Evrópska seðlabankans og myndaði samsteypustjórn 4 flokka í fyrra eftir tilnefningu Mattarella forseta. Samsteypustjórnin er í kjarna sínum stjórn 4 flokka sem spanna sviðið frá hægri til vinstri, og lýstu allir stuðningi við Græna passann en Ítalski bræðralagsflokkurinn, sem er nú einn í stjórnarandstöðu sem þjóðernissinnaður hægri-flokkur, var á móti.
Þótt málið hafi fengið skjóta afgreiðslu í þinginu gengu umræður um málið fjöllum hærra á samfélagsmiðlum og hefur komið til fjöldamótmæla í flestum borgum Ítalíu þá viku sem tilskipunin hefur verið í gildi. Tilskipunin fékk lagalegt gildi 6. ágúst síðastliðinn og hefur víðtæk áhrif á fjölmörgum sviðum og eru ýmis vafaatriði enn óleyst .
Tilskipunin um Græna passann felur í sér að bólusettir eru skyldaðir til að sýna QR merki um bólusetningu á snjallsíma sínum (eða útprentað vottorð á pappír) og persónuskilríki ef krafist er. Framsal þessa vottorðs er krafist í flestum þeim lokuðu rýmum sem veita opinbera þjónustu eins og veitingastaðir, barir, gististaðir, söfn, leikhús og aðrir lokaðir samkomustaðir. Þeir sem ekki hafa fengið passann geta framvísað neikvæðri nefsýnatöku sem gildir í 48 klst. Hver sýnataka kostar 15 evrur.
Reglan gildir einnig um samgöngur með skipum og flugvélum milli landa og hraðlestum milli héraða, en samgöngur innan héraða eru undanskildar í bili. Græni passinn er fyrirhugaður í öllum lestum og rútubílum innanlands með haustinu.
Kirkjur eru undnþegnar passaskyldu, en þar er grímuskylda og tilskilin fjarlægðarmörk.
Starfsfólk skóla á öllum stigum og starfsfólk sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva er skyldað að bera passann og fær starfsfólk þessara stofnana 5 daga frest, en verður annars af launum sínum.
Nemendur á háskólastigi þurfa að sýna Græna passann eða neikvæða nefpinnagreiningu til að fá aðgang að skólum. Passaskylda á að ná allt niður að 12 ára aldri, en börn undir þeim aldri eru ekki krafin um passa. Ljóst er að afar fá börn á aldrinum 12-18 ára hafa fengið bólusetningu, og eru heilbrigðisyfirvöld nú með sérstaka bólusetningarherferð í gangi fyrir þessi börn, og hafa þau aðgang að ókeypis bólusetningu í lyfjaverslunum og heilsugæslustöðvum næstu mánuði án pöntunar. Ljóst er að þessi tilraunabólusetning á börnum á eftir að vekja margar spurningar, bæði lagalegar og heilsufarslegar.
Stéttarfélög kennara hafa mótmælt passaskyldunni, en hún er ekki síður viðkvæm í heilbrigðisgeiranum þar sem þeir sem ekki hafa tekið bólusetningu í þessum starfsgreinum byggja þá ákvörðun yfirleitt á sínu faglega mati, þar sem bóluefnin eru á undanþágu sem tilraunaverkefni og hafa ekki gengist undir almennt tilskildar prófanir á bóluefnum. Um 2,3% stafsfólks við heilsugæslu mun vera óbólusett að sögn fjölmiðla, en þessi tala er mismunandi á milli héraða og til dæmis eru um 11% starfsmanna við heilsugæslu óbólusettir í héruðunum Friuli-Venezia Giulia og Trento, svo dæmi séu tekin. Ástæðan er augljóslega sú að enginn veit um langvarandi virkni bóluefnanna og notkun þeirra er byggð á undanþágu sem veitt hefur verið vegna ríkjandi aðstæðna. Þannig hafa lyfjaframleiðendur tryggt sig gegn sakhæfri ábyrgð vegna hugsanlegs skaða eða aukaverkana. Samkvæmt ítölsku stjórnarskránni og Evrópurétti er einnig bannað að þvinga fólk til bólusetningar eða mismuna einstaklingum eftir því hvort þeir láta bólusetja sig í tilraunaskyni eða ekki. Ljóst er að þessi ákvæði stjórnarskrár og Evrópuréttar koma í veg fyrir lögskipaða bólusetningu, en Græni passinn kemur í raun í stað hennar og býður upp á afar þröngan valkost síendurtekinnar sýnatöku með nefpinnum. Augljóst er að hér eiga eftir að koma upp mörg lagaleg og heilsufarsleg ágreiningsmál og má reikna með að þau muni fara fyrir dómstóla. Athygli vekur til dæmis að innan Evrópu eru fjölmargir sem hafa fengið Sputnik-bóluefnið sem ekki er viðurkennt af ESB, m.a. flestir íbúar Ungverjalands og San Marino.
Eftirlisskylda með framvísun á „passanum“ hvílir á starfsmönnum og rekstraraðilum viðkomandi þjónustumiðstöðva og varðar sönnuð vanræksla 400-1000 evra sekt og lokun staðarins ef brot eru endurtekin þrisvar.
Auk hinnar samþykktu tilskipunar hefur verið gefin út sérstök „fréttatilkynning“ í blöðum þar sem tekið er fram að starfsmenn stofnana er hafa eftirlitsskyldu séu „skyldaðir“ til bólusetningar. Þetta form fréttatilkynningar á sér þá skýringu að samkvæmt stjórnarskrá er ekki hægt að skylda neinn til tilraunabólusetningar með lagasetningu, og er þá gripið til fréttatilkynningar í staðinn, sem í raun hefur ekki lagalegt gildi.
Græni passinn er því leiðin sem Mario Draghi og allir flokkarnir sem að stjórn hans standa hafa valið til að koma á þessari bólusetningarskyldu í raun, þó formlega sé hægt að víkja sér undan henni með ærnum tilkostnaði og fyrirhöfn eða með sjálfseinangrun.
Ekki hef ég séð undantekningarákvæði gegn þessari nýju tilskipun varðandi þungaðar konur, en óvissa um áhrif bóluefna á frjósemi og fósturþroska hefur verið nokkuð áberandi í umræðu fagfólks um bóluefnin. Sömuleiðis vantar nánari ákvæði um þá sem teljast löglega undanþegnir tilraunabólusetningu, til dæmis vegna ofnæmis eða af öðrum heilsufarsákvæðum.
Mario Draghi forsætisráðherra lýsti því yfir á fréttafundinum um Græna passann að þessi skylda væri til þess að veita aukið frelsi. Frelsi til vinnu, vegna þess að aðgerðin kemur í veg fyrir lokun vinnustaða, en einkum þó frelsi fólks til að sækja opinbera staði í vernduðu öryggi gegn smitun. Samkvæmt hinni opinberu stefnu snúist Græni passinn um frjálst val, og hann veiti því hinum sem ekki vilja bólusetningu frelsi til þeirrar ákvörðunar með sjálfvalinni einangrun eða stöðugri sýnatöku.
Athygli vekur að um svipað leyti og Mario Draghi hélt blaðamannafundinn um Græna passann kom Antony Fauci, yfirmaður veiruvarna Bandaríkjastjórnar, fram í fjölmiðlum og lýsti því yfir að bólusetning gegn Sars veirunni veitti enga vörn gegn smitun af Delta afbrigði veirunnar, og að í ljós hefði komið að bólusettir einstaklingar með einkennalausa smitun hefðu ekki minna magn veiru í líkama sínum og væru því ekki minni smitberar en óblóusettir. Því ættu bólusettir alltaf að bera grímur í lokuðu almannarými, rétt eins og óbólusettir. Þar sem Antony Fauci hefur verið valdamesti og áhrifamesti einstaklingurinn í baráttunni gegn þessum heimsfaraldri, þá vekja þessi ummæli hans þá spurningu hvort Græni passinn veki ekki falskt öryggi eða hafi kannski annan tilgang en Mario Draghi boðaði á fundi sínum.