Ítalski heimspekingurinn Giorgio Agamben birti í dag eftirfarandi pistil á blogsíðu sinni, sem er á heimasíðu bókaútgáfunnar Quodlibet: Giorgio Agamben, Sul tempo che viene - Quodlibet Ég tók mér það bessaleyfi að snara pistlinum á íslensku. Hann á erindi líka til okkar. Fjölmarga aðra texta Agambens má finna í íslenskri þýðingu minni hér á hugrunir.com
Giorgio Agamben:
Um komandi tíma
Sú hnattræna atburðarás sem við upplifum í dag felur vissulega í sér endalok tiltekins heims. En ekki í þeim skilningi að um sé að ræða umskipti yfir í heim er mæti nýjum þörfum hins mannlega samfélags með hagkvæmari hætti – eins og þeir tala sem stýra honum samkvæmt eigin hagsmunum.
Við horfum nú upp á sólsetur hins borgaralega lýðræðis með sínum réttindum, sínum stjórnarskrám og sínum þjóðþingum. En handan þessa lögfræðilega búnings, sem vissulega skiptir máli, þá horfum við nú upp á endalok þess heims er átti upptök sín í iðnbyltingunni og gekk á þroskaferli sínum í gegnum tvær eða þrjár heimsstyrjaldir og það alræðisfyrirkomulag er byggði ýmist á harðstjórn eða lýðræði.
Ef þau yfirvöld er stýra heiminum hafa talið það skyldu sína að grípa til jafn öfgafullra ráðstafana eins og líföryggið og heilbrigðisharðstjórnin vitna um – og hafa nú verið virkjaðar án undantekningar um leið og hættan á að allt fari úr böndunum blasir við – þá er það vegna þess að yfirvöldin óttuðust augljóslega að þau ættu engra annarra kosta völ, ef þau vildu lifa af.
Og ef fólk hefur gengist viljandi undir þessar fordæmalausu þvinganir og tilskipanir án nokkurrar tryggingar, þá stafar það ekki eingöngu af óttanum við drepsóttina, heldur bendir allt til að það stafi af meira og minna dulvitaðri vissu þess, að sá heimur sem það hefur lifað í fram til þessa væri of óréttlátur og of ómanneskjulegur til þess að eiga sér nokkra framtíð. Burtséð frá því að stjórnvöld leggi nú drög að enn ómannúðlegri og óréttlátari heimi, þá mátti alltaf sjá það einhvern veginn fyrir, að sá heimur sem var – eins og við erum nú farin að kalla hann – átti sér enga framtíð.
Eins og ávallt gerist þegar um óljósa forboða er að ræða, þá er tilfinningin að einhverju leyti trúarlegs eðlis. Heilsan hefur komið í stað hinnar trúarlegu endurlausnar. Hið líffræðilega líf hefur komið í stað eilífs lífs, og Kirkjan sem hefur fyrir löngu lært að sættast við og aðlaga sig að hinum veraldlegu aðstæðum, hefur nánast skilyrðislaust undirgengist þessi umskipti.
Við grátum ekki þennan heim sem nú líður undir lok. Við berum enga eftirsjá í brjósti gagnvart hugsjónunum um hið mannlega og guðdómlega sem hinar linnulausu öldur tímans eru í óða önn að þurrka út eins og kastala í fjöruborði sögunnar.
En með sömu staðfestunni afneitum við því nakta, mállausa og andlitslausa lífi og þeim trúarbrögðum heilsugæslunnar sem ríkisvaldið býður okkur nú upp á. Við vonumst hvorki né bíðum eftir nýjum manni né nýjum guði. Öllu heldur leitum við, hér og nú, innan um rústirnar sem umlykja okkur, að auðmjúkara og einfaldara lífsformi, lífi sem ekki er í hillingum, því við erum brennd af reynslunni og minningunum, jafnvel þó við búum við stöðugan innanverðan og utanaðkomandi þrýsting sem vill kæfa þessar minningar í gleymskunni.
- nóvember 2020
Giorgio Agamben