Í dag sjá ég fréttainnskot frá ítölsku fréttaveitunni ControTV, sem vakti athygli mína, en þetta er fréttaveita af þeirri tegund sem stofnanir á borð við hið íslenska „þjóðaröryggisráð“ hafa verið að vara okkur við undanfarið vegna meintra „falsfrétta“.
Fréttainnskotið varðaði umræðuna um Covid19 veirupláguna og viðbrögð vísindasamfélagsins við henni. Nánar tiltekið bann við notkun lyfsins hydroxichloroquine í lækningarskyni við veirunni, en þetta bann var ráðlagt af Alþjóða heilbrigðisstofnuninni (WHO) 27. maí sl. og tekið upp í kjölfarið á Ítalíu, í Frakklandi og víðar á Vesturlöndum.
Í tilefni þessa vitnaði Massimo Mazzucco ritstjóri ControTV í frétt úr ítalska dagblaðinu Fatto Quotadiano frá 28. apríl s.l. þar sem vakin var athygli á því að Lyfjastofnun Ítalíu hefði leyft notkun lyfsins í tilraunaskyni, en frumkvöðull í tilraunum með lyfið er sagður vera farsóttarlæknirinn Luigi Cavanna við sjúkrahúsið í Piacenza. Blaðið hefur eftir prófessor Cavanna: „Frá 25. Febrúar hef ég meðhöndlað 209 sjúklinga með þessu lyfi og í 90% tilfella voru niðurstöður jákvæðar. Spítalainnlagnir hríðféllu: frá því að leggja 30% sjúklinga á sjúkrahús (með alvarlega eða merkjanlega sýkingu) féllu innlagningar undir 5%“. Breytingin stafaði af notkun hydroxichloroquine á fyrsta stigi sýkingarinnar á meðan sjúklingarnir voru heima, en sú meðferð kallaði á örfáar innlagnir. Í frétt Fatto Quotidiano kemur fram að samkvæmt Lyfjastofnuninni séu 1039 ítalskir sjúklingar nú (27. apríl) í meðferð með þessu lyfi.
Um mánuði eftir þessa frétt birtist greinin í tímaritinu Lancet, sem sýndi tölfræðilega rannsókn á notkun lyfsins. Þar kemur fram að rannsóknin hafi náð til 96.032 innlagðra covid19-sjúklinga í 671 sjúkrahúsi í sex löndum (þar af 15.000 sem hefðu fengið umrætt lyf) á tímabilinu 20.12.19 til 14.04.00 með samnaburði við þá sem ekki fengu umrædda meðferð. Niðurstaðan var sú að enginn mælanlegur bati var sjáanlegur af lyfinu, en hliðaverkanir merkjanlegar í auknum æðasjúkdómum.
Fréttastjóri ControTV vekur athygli á að þessi rannsókn taki einungis til innlagðra sjúklinga (með alvarleg einkenn), en brautryðjandinn í notkun lyfsins hafði lagt áherslu á að notkun þess væri mikilvæg á fyrstu stigum sjúkdómsins, áður en til innlagnar kæmi. Notkun lyfsins var ekki ráðlögð eftir innlögn.
Einnig má geta þess að strax eftir birtingu greinarinnar í Lancet birti The Guardian grein þar sem læknar frá Ástralíu véfengdu rannsóknina og viðbrögð WHO við henni. Meðal annars kom fram í Lancet-greininni að vitnað var til 73 dauðsfalla í Ástralíu á tiltekinni dagsetningu, þegar staðfest dauðsföll voru einungis 67. Þessi misfella gæfi tilefni til að kanna fleiri tölfræðivillur í greininni.
Í kjölfar þessara fálmkenndu viðbragða vísindasamfélagsins birtist sú frétt m.a. í breska tímaritinu HealthWorld (hliðarútgáfa The Economic Times) 30. maí þar sem fram kemur að rannsóknir Oxford-háskóla á bóluefni gegn Covid19 veirunni væru í uppnámi vegna minnkandi tíðni sýkinga. Í fréttinni kemur fram að 224 rannsóknir séu í gangi í heiminum og að 10.000 sjálfboðaliðar taki þátt í rannsókn Oxford háskóla. „Jú þetta er kapphlaup“, sagði prófessor Adrian Hill, forstöðumaður Jenner Stofnunarinnar: „en þetta er ekki kapphlaup við samkeppnisaðilana. Þetta er kapphlaup gegn brotthvarfi veirunnar. Nú þegar eru 50% líkur á því að við getum náð einhverjum niðurstöðum.“ Samkvæmt þessu er helsta áhyggjuefni vísindasamfélagsins að veiran hverfi. Það er augljósleg ógn við mikilvæga viðskiptalega, og ekki síður heimspólitískra hagsmuni.
Við þetta má bæta að WHO stendur nú fyrir alþjóðlegri vísindarannsókn á Covid19 veirusjúkdómnum sem gengur undir nafninu „Solidarity“ eða „Samstaða“. Samkvæmt frétt frá heimasíðu WHO hélt framkvæmdastjórn Solidarity rannsóknarinnar fund með fulltrúum 10 ríkja sem eiga aðild að henni í kjölfar Lancet-greinarinnar. Þar var samþykkt var að gera „tímabundið hlé“ á rannsóknum með hydroxichloroquine innan Solidarity á meðan niðurstöður Lancet-greinarinnar verða metnar af „Data Safety Monitoring Board“.
Við þetta er því að bæta að kapphlaupið um bólusetningarefni gegn Covid19 hefur ekki bara beinst gegn þessu alkunna malaríulyfi, sem hefur verið notað áratugum saman gegn þeim skæða sjúkdómi án umtalaðra hliðarverkana. Lælnasamtökin á Ítalíu létu loka tiltekinni einkarekinni sjónvarpsstöð sem hafði haldið því fram að mikilvægasta lyfið til að hefta útbreiðslu veirunnar væru C og D vítamín. Sjónvarpsstöðin sem er rekin af „heilsugúrúnum “ Adriano Panzironi hefur lagt áherslu á að styrking ónæmiskerfisins væri mikilvægasta vörnin gegn veirunni, og hélt uppi áróðri fyrir því að ítalska ríkið gæfi öllum Ítölum tiltekna skammta af þessum vítamínum í því skyni að styrkja ónæmiskerfi og viðnámsþrótt þjóðarinnar. Þetta var talin ógn við læknavísindin að mati Læknasamtakanna, jafnvel þótt óteljandi rannsóknir sýni að þessi efni styrki ónæmiskerfið.
Þá má nefna það að tveir læknar á sjúkrahúsunum í Pavia og Mantova á Ítalíu áttu frumkvæði að því að nota blóðplasma úr sjúklingum sem hefðu myndað mótefni gegn Covid19. Tilraunir þeirra báru undraverðan árangur en voru eðli málsins samkvæmt ekki tölfræðilega viðurkenndar vegna of fárra sjúklinga. En í kjölfarið greip heilbrigðisráðherra til þeirra ráða að veita fé og yfirumsjón með ítölskum rannsóknum á blóðplasmalækningum til sjúkrahússins í Pisa, sem hafði engar tilraunir gert í þessum efnum. Viðkomandi prófessor var hins vegar sagður í hagsmunasamtökum við lyfjafyrirtæki.
Að lokum má geta þess að í umræddum fréttapistli ControTV komu tengsl Bill Gates við veirurannsóknir og bólusetningarherferðir til tals í samtali við Margaritu Forlandi, ritstjóra fréttaveitunnar PandoraTV. Fréttakonan upplýsti að Bill Gates hefði hagsmunatengsl við flestar þær stofnanir sem koma að bóluefnisleitinni. Þar ber fyrst að nefna Alþjóða Heilbrigðisstofnunina, en BG er helsti stuðningsmaður hennar með 4,3 miljarða USD framlagi. Þá styrkir hann meðal annars Oxford háskóla með 243 miljónum USD árlega, breska Imperial College um 280 miljónir USD, BBC um 53 miljónir USD og ekki síst eina helstu vísindastofnunina um Covid19, John Hopkins University um 860 miljónir USD. Augljóst má vera að á bak við alla umræðu um Covid19 pestina liggja umtalsverðir viðskiptalegir og pólitískir hagsmunir.
Að lokum má geta þess að í umræddum þætti frétamiðilsins ControTV komu fram, auk ritstjórans Massimo Mazzucco þau Roberto Quaglia og Margarita Forlandi, sú síðastnefnda arftaki Giulietto Chiesa hjá fréttamiðlinum PandoraTV. Hvort tveggja leiðandi fréttamiðlar, ekki síst um þöggunarstefnu meginfjölmiðlanna sem telja sig ásamt hinu íslenska „þjóðaröryggisráði“ í forystu í baráttunni gegn „falsfréttum“. Umræddur fréttaþáttur er á þessari vefslóð netsins: https://www.youtube.com/watch?v=1yleF_MyjwA
Forsíðumyndin er úr frétt ítalska dagblaðsins La Repubblica af viðtali við prófessor Adrian Hill, forstöðumann mótefnisrannsókna gegn Covid19 við Oxford University