NÝ COVID19 KYNSLÓÐ Í MÓTUN Í EVRÓPU

Ný COVID19-KYNSLÓÐ Í MÓTUN Í EVRÓPU

„NEXT GENERATION EU“

Myndbandið sýnir skólasetningu í ítölskum framhaldsskóla í fyrradag

Þessa dagana upplifa börn og ungmenni um alla Evrópu upphaf nýs skólaárs, víða í kjölfar a.m.k. hálfs árs skólahlés vegna Covid19 veirufársins. Evrópuþjóðir hafa brugðist ólíkt við, en eitt eiga evrópsk ungmenni þó sameiginlegt: alls staðar ríkir öngþveiti og óvissa, ekki bara um framtíðina til langs tíma litið, heldur ekki síst um næstu daga við upphaf nýs skólaárs. Ég hef fylgst með þessum undirbúningi á Ítalíu gegnum fjölmiðla undanfarið og sé ekki annað en að ef eitthvað einkenni þessa tíma, þá sé það öngþveiti sem eigi eftir að hafa ófyrirsjáanlegar afleiðingar. Erfitt er að skilja þær reglur sem settar hafa verið með reglugerðum stjórnvalda sem oft virðast jafnvel illa samræmast ríkjandi stjórnarskrá um réttindi barna til menntunar.

Meðal reglugerða sem settar hafa verið á Ítalíu eru þær er skylda nemendur frá 6 ára aldri til að bera andlitsgrímu skólanum alls staðar nema í matsal meðan borðað er og í skólastofu meðan setið er við skólaborð. Skólaborð eiga að vera fyrir einn nemanda og raðað upp þannig að 1 m í það minnsta skilji nemendur að. Þetta fækkar plássum í hverri skólastofu. Öllum gömlum tvískiptum skólaborðum hefur verið kastað á haugana (eða þau söguð í tvennt) og miljónum af nýju skólaborðum og stólum dreift til skóla um alla Ítalíu. Foreldrar eiga að mæla líkamshita nemenda áður en þau fara í skólann og ekki hleypa þeim í skólann ef hiti er hærri en 37,5 gráður. Ef nemendur sýna merki um veikleika í skólanum – hita, nefrennsli eða hósta – skulu þau umsvifalaust færð í sérstakan Covid19 sal og látin gangast undir veiruprufu um leið og foreldrar eru kallaðir til að sækja börn sín og fara í einangrun meðan beðið er eftir niðurstöðu. Sé niðurstaða jákvæð verður öll fjölskyldan sett í tveggja vikna sóttkví og jafnvel bekkurinn líka. Kennari á að vera í 2 m fjarlægð frá nemendum í sæti sínu og setja upp grímu ef hann fer um kennslustofuna eða í nánd við nemendur. Kennari má ekki snerta skólabækur eða verkefni nemenda. Meðal áhættuatriða sem hafa verið bönnuð í skólastarfi er söngur og hreyfingar eins og dans sem kalla á snertingu og nálægð. Börn mega ekki skiptast á eða lána hvort öðru ritföng eða önnur skólagögn. Þau fá ókeypis grímur í skólanum en eiga að skipta um grímur verði þær rakar og hafa með sér sérstaka poka til að geyma notaðar grímur og taka með sér heim. Rakar grímur má helst ekki snerta, og sótthreinsa á hendur eftir hverja snertingu. Vegna plássleysis í skólum og þrengsla við inngöngu eru settar reglur um breytilegan skólatíma eftir aðstæðum, þannig að allir nemendur hafi ekki sama komu- og brottfarartíma úr skólanum. Þessar reglur eiga sérstaklega við um barnaskóla og gagnfræða- eða menntaskóla, en hliðstæðar reglur eiga væntanlega einnig að gilda á háskólastigi.

Það kemur ekki á óvart að háværar gagnrýnisraddir hafi heyrst um þessar ráðstafanir. Ekki bara vegna þess að þær reynast víða óframkvæmanlegar í reynd (það vantar enn hátt í 100.000 kennara til að mæta nýjum aðstæðum og víða vantar enn skólaborð og stóla o.s.frv. (Þannig birtast í dag myndir af börnum sem vinna á hnjánum í skólastofunni og hafa stólinn fyrir skrifborð.)) Það er þó kannski ekki erfiðasti vandinn, heldur áhyggjur foreldra, kennara, sálfræðinga og menntafrömuða vegna heilsufarslegra og uppeldisfræðilegra afleiðinga þessa skóla sem virðist hugsaður út frá tæknilegum forsendum en ekki uppeldisfræðilegum. Læknar hafa stigið fram og haldið því fram að grímur takmarki eðlilegan andardrátt barna og feli í sér að þau andi að sér óeðlilegu magni koltvísýrings með vota grímu fyrir vitunum. Þegar eru komin fram dæmi um börn sem hafa fallið í yfirlið af súrefnisskorti vegna grímunnar. Sálfræðilega hefur fjarlægðarkrafan og grímukrafan það í för með sér að hún takmarkar eðlileg samskipti skólabarna og að þau líti á skólafélaga sína sem mögulega smitbera og óvini.  Þá fela þessar reglur í sér augljósa takmörkun  margra námsgreina, þar sem greinar eins og tónlist og dans og leikfimi verða til dæmis skyndilega hættulegar og snertinálgun torveldar alla verklega kennslu. Þess eru dæmi að kennarar hafa andmælt þessum nýju skólareglum, og kennaraskorturinn mun stafa af því að margir kennarar hika við að nálgast þetta nýja hættusvæði sem skólinn er orðinn. Þá eru dæmi þess að foreldrar neiti að láta börn sín í svona skóla.

Þessi aðstaða vekur óhug og ótta um fyrirsjáanlegar – og ófyrirsjáanlegar – afleiðingar skólastarfs þar sem einangrun einstaklingsins er sett í fyrirrúm og innræting tortryggni, ótta og hræðslu við náungann, þar sem möguleikum kennara til að sinna tilfinningalegri umönnun nemenda eru settar alvarlegar skorður og andlegri og líkamlegri heilsu þeirra er stefnt í voða. Það furðulegasta af öllu er þó sú staðreynd að í þeirri miklu umræðu sem mál þessi hafa vakið hefur nánast ekkert borið á umræðu um uppeldisfræðileg markmið þessa skóla eða mennigarlegan tilgang hans.

Þann 27. maí síðastliðinn flutti Ursula von der Leyen forseti Evrópusambandsins sögulega ræðu um nýja framtíðaráætlun fyrir Evrópu, sem hún kallaði upp á enska tungu „Next Generation EU“. Þar lofaði hún að hrista fram úr erminni 2,4 biljónir Evra til að endurreisa ESB og búa í haginn fyrir komandi kynslóð, þá kynslóð sem býr nú víðast við 20-30% atvinnuleysi og fyrir afkomendur hennar. Myndirnar sem fylgja þessum pistli segja hluta af sögunni um framkvæmd þessarar stórbrotnu áætlunar.

Reglugerð Menntamálaráðherrans:

  1. Gríma á að hylja nef og munn
  2. Nemendur frá 6 ára aldri noti grímur
  3. Fatlaðir eru undanskyldir grímunotkun
  4. Skólinn skaffar andlitsgrímur
  5. Grímur skal bera við alla hreyfingu innan skólasvæðis
  6. Grímur skal bera þegar komið er inn og farið úr skóla, farið á salerni eða í matsal
  7. Einungis er leyfilegt að taka niður grímu í stofu þegar 1 m fjarlægð er tryggð milli nemenda og 2 m. frá kennara.
  8. Þvo skal hendur áður en gríma er sett upp. Gæta þess að gríman falli þétt að og hylji munn og nef. Skipta skal um grímu verði hún rök. Ekki snerta grímuna heldur böndin þegar hún er tekin af, setja hana í þar til gerðan grímu-poka og þvo hendur.

Forsíðumyndin sýnir barnaskólanemendur á fyrsta skóladegi á Ítalíu

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

%d bloggers like this: