OVERDOSE AF SILVIO

Overdose af Silvio

Hugleiðing í tilefni af fráfalli leiðtogans

Þar sem ég er nú staddur á Ítalíu komst ég ekki hjá að upplifa þá holskeflu persónudýrkunar og sjálfsskoðunar sem fylgdi í kjölfar andláts Silvio Berlusconi 12. Júní s.l. Það voru fjölmiðlarnir sem fundu í þessu andláti uppgjör við þjóðarsálina og fortíðina með linnulausum fréttaflutningi, lofgjörðum og vitnaleiðslum sem stóðu yfir nánast samfleytt síðastliðna þrjá sólarhringa og sér vart fyrir endann á enn. Hámarkið var bein útsending frá útför á vegum ríkisins í dómkirkju Milano að viðstöddum nokkrum tugum þúsunda gesta á dómkirkjutorginu og fyrirmönnum og hefðarfólki sem sýndi sig í kirkjunni sjálfri.  Hvaða skoðun sem menn hafa á persónu Silvio Berlusconi, þá fór ekki fram hjá neinum aðkomugesti að hér var um atburð að ræða sem snerti ítalska þjóðarsál með afar sérstæðum hætti.

Þar sem ég hef dvalið árlega hér á Ítalíu lengri eða skemmri tíma síðustu 4 áratugina, og þar með átt samleið með valdatíma SB allan tímann, þótti mér viðeigandi að leggja örfá orð í allan orðaflauminn í tilefni þessa andláts, þó ekki væri nema til að gera upp eigin hug gagnvart þessum stjórnmálamanni sem sett hefur svo afgerandi mark ekki bara á ævintýralega stjórnmálasögu þessa tímabils, heldur líka á þjóðarsálina sjálfa.

Stór þáttur í persónuleika Silvio var bráð þörf hans fyrir að vera elskaður, einkum af konum.

Þegar ég hóf sumarstörf hér á Ítalíu sumarið 1980 var SB ekki byrjaður á virku stjórnmálastarfi, en hann var hins vegar þegar orðin sögupersónan sem umbylti fjölmiðlaheiminum og innleiddi einkareknar sjónvarpsstöðvar á landsvísu sem mörkuðu ekki bara nýja tæknibyltingu í fjölmiðlun, heldur líka byltingu í efnistökum og tungumáli sjónvarpsins. Þetta var á lokaspretti „Fyrsta Lýðveldisins“ eins og það var kallað, lýðveldisins sem stofnað var til af andspyrnuhreyfingunni gegn fasismanum í kjölfar heimsstyrjaldarinnar síðari og leið undir lok með upplausn flokkakerfisins á Ítalíu í kjölfar herferðarinnar „Hreinar hendur“ 1992, í kjölfar réttarfara sem setti þorra ítölsku stjórnmálastéttarinnar á sakabekk og undirbjó þann popúlíska jarðveg sem SB kunni að nýta sér umfram aðra með stofnun stjórnmálaflokksins „Forza Italia“ rétt fyrir kosningar árið 1994. Aðdragandi þessara atburða og niðurstaða er of flókin saga til að hægt sé að rekja hana hér, en hún fól í sér að allir stjórnmálaflokkarnir nema einn (popúlistaflokkurinn Lega nord) voru lagðir niður, þar á meðal burðarstoðirnar sem mynduðu kjarna „Fyrsta lýðveldisins“, Kristilegir demókratar og Ítalski kommúnistaflokkurinn (sem var sá langstærsti í V-Evrópu) sem áttu í raun höfundarréttinn að hinni andfasísku og framsæknu stjórnarskrá Ítalíu umfram aðra. Segja má að dauðateygjur „fimm-flokka-kerfisins“ hafi staðið yfir allan 9. áratuginn og það var í þessu andrúmslofti sem SB stóð fyrir fjölmiðlabyltingu sinni sem undirbjó um leið jarðveginn fyrir stjórnmálaferil hans.

Kannski var stærsta "afrek" SB á hinu pólitíska sviði að sameina 3 flokka á hægri vængnum í eina "hægri blokk" er  var mótvægi við "mið-vinstriflokkana". Hér er SB með Giorgiu Meloni forsætisráðherra og Salvini vara-forsætisráðherra Ítalíu í dag.

Eftir á að hyggja þá tengist þessi atburðarás dýpri samfélagsbreytingum sem áttu sér stað með tilkomu Evrópubandalagsin og síðan ESB og djúpstæðum efnahagslegum og lýðræðislegum breytingum sem því fylgdu. Það var undiraldan sem SB kunni að nýta sér. Hann hafði hafið feril sinn fyrst sem uppistandari á skemmtiferðaskipum og síðan sem iðnrekandi, þar sem hann stóð fyrir uppbyggingu heils íbúðahverfis í útjaðri Milano, meðal annars með pólitískum stuðningi hins atkvæðamikla leiðtoga Sósíalistaflokksins, Bettino Craxi. Þó ferillinn hafi þannig hafist í hlutverki iðnrekandans var SB aldrei eiginlegur hluti þeirrar stéttar iðnrekenda sem hafði lagt grundvöllinn að „ítalska efnahagsundrinu“ á seinni hluta 20. aldarinnar (Fiat, Olivetti, Pirelli osfrv.) samfara umtalsverðum ríkisrekstri sem tengdist ekki síst orku- og efnaiðnaði. SB féll ekki inn í þennan hóp, hann boðaði minni skatta, minni ríkisumsvif og breytt samskipti launavinnu og auðmagns, umbreytingar sem á Vesturlöndum voru gjarnan kenndar við Reagan og Thatcher, en höfðu í stefnumótun SB ákveðinn popúlískan undirtón sem hann ræktaði í raun í gegnum hið nýja tungumál einkarekinna sjónvarpsstöðva sem töluðu til almennings með beinum hraðskeyttum og linnulausum hætti, þar sem skemmtiefni og auglýsingar runnu saman í eitt. Sjónvarpið varð leiksvið hins nýja hagkerfis sem byggði á auglýsingum og neyslustýringu frekar en beinum átakavettvangi launavinnu og auðmagns. Mér er það minnistætt þegar ég áttaði mig á þessu eftir að hafa séð það haft eftir SB að hann stefndi með fjárfestingum sínum í fjölmiðlum að því að ná 80% af auglýsingamarkaðnum á Ítalíu, ekki bara með einkareknum sjónvarpsstöðvum á landsvísu, heldur líka með kaupum á Mondadori útgáfufélaginu (því stærsta á Ítalíu) og dagblöðum og tímaritum sem því fylgdu. Kjörorð fjölmiðlaveldis SB var frelsi og fögnuður með endalausum skemmtiþáttum, sem meðal annars urðu frægir fyrir ríkt hlutverk léttklæddra kvenna í nánast öllu sjónvarpsefni, nokkuð sem ekki þekktist fyrir þessa byltingu. Ríkisstöðvarnar þrjár urðu tilneyddar að taka upp frásagnarhátt einkastöðva SB í samkeppninni um auglýsingamarkaðinn. Almenn má segja að þessi fjölmiðlaheimur hafi falið í sér minni og yfirborðskenndari umræðu um alvörumál, hvort sem um var að ræða stjórnmál, menningu eða íþróttir, en SB hafði keypt knattspyrnufélagið Milan og rak það eins og hluta af veldi sínu allt til ársins 2017 sem mikilvægan þátt í samtali hans við þjóðina. SB náði sambandi við fjöldann, m.a. í gegnum þáttastjórnendur eins og mann að nafni Mike Bongiorno, sem leitaðist við að flytja bandaríska sjónvarpsmenningu til Ítalíu. Fjölmiðlareksturinn smitaði síðan út frá sér í skemmtanaiðnaði, kvikmyndagerð og dægurtónlist og blaðaútgáfu, allt þættir sem SB kunni að nýta sér í samskiptum og nýjum talsmáta við almenning á tungumáli sem gömlu iðnjöfrarnir úr framleiðsluiðnaðinum fulltrúar gamla flokkakerfisins kunnu ekki að tala.

Þetta varð grundvöllurinn að stjórnmálaferlinum sem SB hóf með dramatískum hætti með stofnun flokksins Forza Italia 1994, rétt fyrir kosningar til þings, og byggði í raun á neti aðdáendaklúbba Milan-knattspyrnufélagsins sem var þá á hátindi frægðar sinnar eftir fjármagnsinnspýtingu og auglýsingaherferð SB. Þessi flokkur SB hafði einföld skilaboð um minni skatta, minni ríkisumsvif og aukið einstaklingsfrelsi í atvinnurekstri og neyslu. SB naut aðstoðar ráðagóðra manna við stofnun flokksins, einkum Sikileyingsins Marcello dell‘Urti, sem var helsti skipulagsráðunautur FI-flokksins frá upphafi. Hann var seinna dæmdur fyrir fjármálamisferli með sikileysku mafíunni þar sem hann var milligöngumaður SB og mafíuforingja í Palermo. Það samband tengdist leyndu samkomulagi sem átti að tryggja SB og flokki hans frið eftir blóðugt stríð mafíunnar og ríkisvaldsins er náði hámarki með morðum á tveim dómurum sumarið 1992. Flokkur SB sigraði í fyrstu kosningum sínum 1994 og SB myndaði fyrstu stjórn sína undir kjörorðunum meira frelsi, minni skattar og minni ríkisumsvif. Um leið hófst útsala á sölu ríkiseigna, einkum í orku og stóriðjufyrirtækjum, sem tengdust Maastricht samkomulaginu og boðaðri stefnu ESB. SB taldi sig geta bætt hag allra með auknu frelsi, en sannleikurinn er sá að kaupmáttur launa hefur staðið í stað síðustu þrjá áratugina (eftir samfellt hagvaxtarskeið eftirstríðsáranna), og í stað þess að minnka ríkisskuldirnar þá uxu þær stöðugt þar til að því kom árið 2011, eftir að SB hafði stýrt 4 ríkisstjórnum í 10 ár (með millistjórn sósíalistans Romano Prodi 2006-2008) að vaxtamunur á ítölsku ríkisskuldunum og þeim Þýsku varð svo mikill að stefndi í ríkisgjaldþrot. Þá var hagfræðingurinn Mario Monti fenginn frá Goldman Sachs bankanum í New York til að mynda „tæknilega“ ríkisstjórn (án kosninga) sem skar niður ríkisútgjöld (m.a. lífeyrisframlög) til að bjarga þjóðarskútunni. Eftir á hafa margir sagt þetta hafa verið skipulega aðför að ítalska hagkerfinu sem stýrt var utanfrá af fjármálakerfi Evrópubankans og bandaríska fjármálastofnana.

Þetta leiðir í ljós atburðarás sem hefur leitt til endurmats margra andstæðinga SB á pólitískum áhrifum hans og þýðingu. Í þeim leik er ekki alt sem sýnist. Stærsta pólitíska „afrek“ SB var trúlega að mynda samsteypustjórnir á hægri vængnum, er náðu að sameina tvo flokka sem töldust til hægri en á öfugum forsendum þó: annars vegar MSI-flokkinn, sem var í raun arftaki gamla fasistaflokksins og kenndi sig við þjóðernissinnaða hægristefnu með sterku miðstýringarvaldi ríkisins. Hins vegar Lega-nord- flokkurinn sem höfðaði til millistéttar í auðugustu iðnhéruðum Norður-Ítalíu og höfðu sjálfstæði norður-héraðanna á stefnuskrá sinni. MSI-flokkurinn (sem síðar fékk nafnið Fratelli d‘Italia, ítalska bræðralagið sem þjóðsöngurinn lofsyngur) hafði í raun verið talin óstjórntækur af þeim flokkum sem kenndu sig við lýðræði og arfleifð andspyrnuhreyfingarinnar gegn fasismanum. SB dró MSI-flokkinn inn í stjórnarsamstarf, þvoði hann af fortíðinni og síðan hafa þessir þrír flokkar myndað grunnin að hægri-samsteypustjórnum á Ítalíu. Nú er forsætisráðherra Ítalíu, Giorgia Meloni, formaður Fratelli-d‘Italia flokksins, staða sem hefði verið óhugsandi á tímum „Fyrsta lýðveldisins“. Flokkur hennar er í raun eins konar bræðra- eða systraflokkur þýska AFD-flokksins og Þjóðfylkingar Mariu Le Pen í Frakklandi, báðir taldir óhæfir flokkar til stjórnarsamstarfs af svokölluðum lýðræðisflokkum í þessum löndum. Þessi staða segir okkur að SB sé í raun höfundurinn að samstarfi miðhægriflokka er mynda pól gegn mið-vinstri öflum inna ítalska flokkakerfisins. Á hinu pólitíska sviði mun þetta trúlega teljast helsta „afrek“ SB.

SB átti marga valdamikla vini og elskaði að sýna þeim stórbýli sitt á Costa Smeralda á eyjunni Sardiníu. Hér með vini sínum Vladimir Pútin.

SB fékk Pútín og Georg Bush til að takast í hendur með táknrænum hætti á NATO fundi í Róm 2002

Þetta segir þó ekki alla söguna. Báðir samstarfsflokkar SB á hægri-vængnum hafa verið kenndir við „popúlisma“ (sem í raun er hugtak sem notað er til mótvægis við „glóbalisma“ hins yfirþjóðlega fjármálavalds í heiminum). Sjálfur er SB í raun ekki heldur laus við þennan stimpil. Hann hefur birst í svokölluðum „pragmatisma“ hans, sem horfir framhjá hugmyndafræðunum og til meints þjóðarhags, nokkuð sem hefur gefið mönnum tilefni til að benda á vissan skyldleika SB við vestræna leiðtoga á borð við Donald Trump, Vladimir Pútin og jafnvel Brexit-sinnann Boris Johnson. Meintur  „pragmatismi“ SB á að hafa falið í sér fráhvarf frá hugmyndafræðilegum kreddum með hag þjóðarinnar í fyrirrúmi, en í reynd beindist hann fyrst og fremst að því að vernda hagsmuni fjölmiðlarisans Fininvest og styrkja stöðu hans á auglýsingamarkaðnum. En „pragnatisminn“ birtist líka í fordómalausu samneyti SB við valdsmenn af ólíkum toga. Hann átti vingott ekki bara við Georg Bush yngri, heldur líka við valdamenn eins og Vladimir Pútin og Muhammed Gaddafi í Libýu, Mubarak í Egyptalandi, Ben Ali í Túnis og Tony Blair í Bretlandi. Hann naut þess að bjóða fyrirmönnum á sveitasetur sitt á Sikiley og halda þar veislur, og árið 2002 stóð hann fyrir því að Pútin Rússlandsforseta væri boðið á leiðtogafund NATO í Róm, þar sem forsetar Rússlands og Bandaríkjanna tókust í hendur undir yfirskyni endaloka Kalda stríðsins. Þau vináttubönd sem SB skapaði með gestrisni sinni og vinarhjali entust þó misvel: nokkrum mánuðum eftir að SB hafði gert sérstakan vináttusamning á milli Ítalíu og Líbýu í kjölfar opinberrar heimsóknar Gaddafis til Rómar 2011 var SB tilneyddur að styðja innrás NATO-ríkja í Libýu er leiddi til morðs á leiðtoganum og gjöreyðleggingar allra innviða samfélagsins í Libýu. Vináttusamningur SB og Gaddafi fól í sér tryggingu á olíuviðskiptum og ítölskum fjárfestingum í Libýu til hagsbóta fyrir bæði ríkin. Afleiðing innrásarinnar var ekki bara morðið á Gaddafi, heldur lömun líbýska stjórnkerfisins sem leiddi til flóðgáttar afrískra flóttamanna til Ítalíu, sem staðið hefur alla tíð síðan. Það voru Sarkosy Frakklandsforseti, Tony Blair og Georg Bush,  „vinir“ Berlusconi, sem settu honum stólinn fyrir dyrnar og neyddu hann undir agavald NATO til þessarar glæpsamlegu innrásar í Líbýu, sem enginn hefur þó tekið ábyrgð á. Vinátta Berlusconi og Vladimirs Pútíns reyndist þó traustari. Þeir áttu sameiginlega vinafundi í gegnum árin, skiptust á gjöfum, og þegar kom að deilunni um Úkraínu 2021 – eftir að SB hafði látið af öðrum embættum en forseta FI-flokksins – þá lýsti SB yfir vantrausti sínu á Zelensky vegna framkomu hans gagnvart rússneskumælandi Úkraínumönnum og lýsti skilningi á viðbrögðum Pútíns, er hefðu ekki verið „tilefnislaus“. Þessi síðasta yfirlýsing SB var vandlega falin í öllum líkræðunum, enda er Georgia Meloni meðal herskáustu stuðningsmanna Zelensky í herferðinni gegn Rússneskri innrás.

Meðal vina SB var Muammar Gaddafi forseti Libýu sem heimsótti Róm og undirritaði samstarfssamning Ítalíu og Libýu 2011. Fáeinum mánuðum síðan neyddist SB til að lýsa stuðningi við innrás NATO í Libýu.

Þegar litið er yfir pólitískan valdatíma SB í heild sinni, þá blasir í raun við að hann gaf Ítalíu fátt annað en falska drauma, drauma sem vissulega reyndust engu að síður góð söluvara. Hann átti í samfelldu stríði við dómarastétt landsins og réttarkerfið í heild sinni og mætti á starfsferli sínum yfir 30 dómsmálum er snerust flest um fjármálamisferli og mútugreiðslur. Þessir fölsku draumar sem SB seldi ítölsku þjóðinni snerust flestir um hann sjálfan, uppistandarann á skemmtiferðaskipinu sem varð „af sjálfsdáðum“ að auðugasta manni Ítalíu. Frægðarsól hans reis hæst eftir að síðari hjónabandi hans lauk með miklum skelli, þar sem eiginkona hans og móðir þriggja barna sagðist ekki lengur geta búið með manni sem væri haldinn ólæknandi girnd til stúlkna undir lögaldri. Þá og í kjölfarið flugu fréttir um veislur SB í lúxusvillum sínum á Sardiníu og í Lombardíu, þar sem léttklæddar ungar konur veittu miðaldra karlmönnum ómælda gleði með nærveru sinni um leið og þær nutu ómælds örlætis gestgjafans á lífeyri. Sjálfur kenndi SB veislur sínar við „Bunga-Bunga“ og sagði þær byggja á hefðbundnum og menningarlegum skemmtanaiðnaði. Mörg sakamál sköpuðust þó af þessari gleðifíkn „forsetans“, en ekkert leiddi til sakfellingar. Aðeins í einu af dómsmálunum 30 var SB sakfelldur, þar sem sakarefnið var víðtæk skattsvik í kringum fjölmiðlafyrirtækið Fininvest. Dómurinn frá 2013 fól í sér að SB missti kjörgengi til þings í 5 ár og drógu umtalsvert úr pólitísku vægi hans.

Nú við dauða hans er eins og ítalska þjóðin hafi loks vaknað af þessum stóra draumi um frelsarann SB sem skilur eftir sig  heljarstórt tómarúm. Líkamsleifar foringjans voru brenndar í gær, og framtíðarstaður öskunnar verður í hinu mystíska grafhýsi sem hann hafði reyst sér á sveitasetrinu á Sardiníu: grafhýsi sem hann hafði lofað ekki bara fjölskyldu sinni til afnota í framtíðinni, heldur líka öllum nánustu vinum sínum og fylgdarmönnum í gegnum langan feril. FI-flokkurinn, sem nú á aðild að Mið-hægri-stjórn Meloni stendur eftir sem skip án skipstjóra. Flokkurinn var byggður í kring um nafn SB og vörumerki. Ítalskir stjórnmálamenn á hægri væng og langt yfir miðjuna til vinstri safnast nú saman í harmasöngnum um mikilmennið SB, mesta áhrifavaldinn í ítölskum stjórnmálum síðustu áratuga. Draumurinn hvarf með hundruðum blárra gúmmíblaðra sem sleppt var í loftið á dómkirkjutorginu við lok útfararinnar.

Kannski er arfleifð SB einmitt þessi: hann skilur eftir sig stjórnmálasvið án innihalds. Stjórnmálaþátttaka almennings hefur farið hraðminnkanndi, og samkvæmt ítölsku hagstofunni fór kosningaþátttaka úr 87% árið 1992 í 64% árið 2022. Þetta þýðir að almenningur lítur ekki til stjórnmálaflokkana sem breytiafls í samfélaginu með sama hætti og fyrir 30 árum. Hrun ítalska flokkakerfisins 1992 hafði vissulega sín áhrif, en kosningaþáttaka fer nú stigminnkandi með hverju árinu. Það er ekki bara FI flokkurinn sem tæmist af innihaldi með fráfalli foringjans. Hinir flokkarnir fylgja í kjölfarið. SB uppgötvaði tómarúmið 1994 og kunni að fylla það, en tómarúmið sem nú myndast er annars eðlis. Sjónvarpið er að vísu áhrifamikill miðill, en fjölmiðlun flyst nú æ meir yfir á netmiðla. Sá auglýsingamarkaður sem SB lagði undir sig undir lok 9. áratugarins flyst nú í vaxandi mæli yfir á netið og verður alþjóðlegur. Það eru Google, Youtube, Facebook, Instagram og TikTok sem leggja undir sig þennan markað, sem í æ ríkari mæli stjórnast af reiknilíkönum gervigreindarinnar þar sem valdið er falið í upplýsingabönkum internetsins. Skemmtanaefnið sem SB höndlaði með í samtali sínu við þjóðina er nú horfið til Netflix og annarra netmiðla og hinir hefðbundnu stóru fjölmiðlarisar draga saman seglin rúnir öllu trúnaðartrausti. Brotthvarf SB markar líka brotthvarf þeirrar undiröldu sem hann náði að beisla sér til hagsbóta í tækniþróun samtímans. Nú er sá tími að líða undir lok. Kannski er ítalski harmagráturinn um brotthvarf SB líka merki um eftirsjá okkar kynslóðar eftir því sem hún veit að kemur aldrei aftur. Grafhýsið á sveitasetri fjölskylduföðursins í Arcore verður nú að kalkaðri gröf kynslóðarinnar sem trúði á einstaklingsfrelsið við hlaðborð neyslusamfélagsins. Unga kynslóðin horfir annað í örvæntingarfullri leit að vegvísi til framtíðar sem aldrei hefur verið óvissari.

Forsíðumyndin er fengin af fréttasíðu Reuters

STJÓRNARKREPPA Á ÍTALÍU

Stjórnarkreppa á Ítalíu

Mario Draghi kveður ítalska þingið 20. júlí s.l.

SKIPSTJÓRI STEKKUR FRÁ SÖKKVANDI SKIPI SÍNU

 

„Á ítalska þinginu hafa gerst atburðir sem eiga sér ekki hliðstæðu í 100 ára sögu lýðræðis í Evrópu“.

Þannig komst heimspekingurinn Massimo Cacciari að orði í viðtali við ítalska fréttastofu í kjölfar afsagnar Mario Draghi forsætisráðherra nýverið. Hið einstaka við þessa stjórnarkreppu er að mati Cacciari sú staðreynd að „einingarstjórnin“, eins og Draghi kallaði hana, hafði starfað í 18 mánuði og „unnið stórvirki“ að mati forsætisráðherrans, stjórnin hafði vænan meirihluta á þingi og hafði ekki fengið vantrauststillögu, hvað þá vantraust. Engu að síður tók Mattarella forseti afsögn Draghi gilda og leysti upp þingið, að því er virðist í andstöðu við vilja þess: enginn stjórnarflokkanna fjögurra sem mynduðu þessa ríkisstjórn vill kannast við að hafa lýst vantrausti á stjórn sína og í kjölfarið hófst mikið hnútukast á milli þingmanna og flokka um hver bæri ábyrgð á stjórnarslitum við aðstæður sem kalla einmitt á festu, samstöðu og traust viðbrögð við pestinni, verðbólgunni, viðskiptastríðinu og hernaðinum í Evrópu þar sem Ítalía hefur þá sérstöðu að vera skuldugasta ríki álfunnar á eftir Grikklandi miðað við þjóðarframleiðslu og æpandi vandamál blasa við á öllum vígstöðum: stríðsástand í álfunni, heilbrigðiskerfi í lamasessi, skólakerfi í uppnámi eftir lokun í heilt skólaár, óðaverðbólga, atvinnuleysi 25% meðal ungs fólks, methalli á rekstri ríkissjóðs, stighækkandi vaxtakröfur á ríkisskuldum og vaxandi flóttamannastraumur svo nokkur vandamál séu talin upp. Ofan á þetta er þjóðinni nú boðið upp á kosningaslag um hásumar og þingkosningar 25. september næstkomandi.

Enginn virðist skilja þá stöðu sem upp er komin á Ítalíu, og jafnvel stjórnmálaskýrendurnir standa eftir með opinn munninn án þess að geta gefið lesendum fjölmiðla nokkra heildstæða og vitræna skýringu á því sem þarna er að gerast. Hér skal reynt að skýra myndina af veikum mætti, en undirritaður hefur fylgst með mörgum ævintýralegum kollsteypum ítalskra stjórnmála í hálfa öld og man þó ekki eftir neinu sambærilegu við það sem nú blasir við.

Ríkisstjórn Mario Draghi var mynduð 13. Febrúar 2021 að frumkvæði Sergio Mattarella forseta, sem veitti þessum fyrrverandi bankastjóra Seðlabanka Evrópu umboð til myndunar þriðju ríkisstjórnarinnar á þessu kjörtímabili í miðju stríði við Covid19-pestina, sem hafði valdið meiri skaða á Ítalíu en í öðrum Evrópuríkjum. Hinar ríkisstjórnirnar tvær voru samsteypustjórnir tveggja flokka, 5*-hreyfingarinnar og Lega Salvini (LS) annars vegar og 5*-hreyfingarinnar og Demókrataflokksins (PD) hins vegar. Forsætisráðherra þessara tveggja stjórna var einnig utan flokka: lögfræðingurinn Giuseppe Conte. Mario Draghi myndaði samsteypustjórn þessara þriggja flokka og flokks Silvio Berlusconi (FI), og var stjórnin kölluð „stjórn þjóðareiningar“ og hafði meginmarkmið að berjast við veirupestina og mæta þeim félagslega og efnahagslega vanda sem hún hafði valdið.

Erfitt er fyrir Íslendinga að skilja ítölsk stjórnmál vegna þess að flokkakerfið er framandlegt og tók stakkaskiptum í kjölfar réttarhalda yfir gömlu flokkunum 1991, herferð sem kennd var við hreinar hendur. Þessi réttarhöld leiddu til þess að stærstu flokkarnir voru lagðir niður eða skiptu um nöfn og nýir flokkar fylltu í skörðin. Meðal annars Forza Italia, flokkur Silvio Berlusconi, sem kalla má „miðjuflokk“ og tók við stórum hluta hefðbundinna kjósenda Kristilega Demókrataflokksins, á meðan hinn helmingurinn fluttist yfir á Demókrataflokkinn, sem í raun er arftaki gamla kommúnistaflokksins. Lega-Salvini (LS) og 5*-hreyfingin (5*) eru einnig afsprengi þessara umbrota og hafa báðir verið kenndir við „popúlisma“ af andstæðingum sínum: LS (kennd við foringjann, Matteo Salvini) byggir á fylgi millistéttar og minni atvinnurekenda, hefur alið á tortryggni í garð útlendinga og ESB og haft „fullveldi“ sem leiðarstef. 5*-hreyfingin hefur skilgreint sig sem grasrótarhreyfingu án „flokksformanns“ en skipulögð undir verndarvæng uppistandarans og grínleikarans Beppe Grillo. Hún hefur lagt áherslu á umhverfismál, jafnréttismál og baráttu gegn spillingu. Það voru þessi ólíku öfl sem stóðu að stjórn Mario Draghi, en stjórnarandstaðan var nánast eingöngu í höndum „Fratelli d‘Italia“, þjóðernissinnaðs hægriflokks sem á rætur í gamla fasistaflokknum og nýtur nú forystu kvenskörungsins Giorgiu Meloni.

Áður en við stiklum á ferli ríkisstjórnar Mario Draghi er rétt að draga fram nokkur atriði um feril hans á undan þessari stuttu innkomu hans í ítölsk stjórnmál. Hann er hagfræðingur að mennt, fæddur 1944, og stundaði háskólakennslu og fræðistörf áður en hann réðst til Alþjóðabankans á 9. áratugnum og gerðist síðan ráðuneytisstjóri í ítalska fjármálaráðuneytinu 1991. Það var á hinum örlagaríku tímum Maastricht-samkomulagsins og myntsamstarfs ESB-ríkjanna. Á þessum tíma átti Draghi m.a. ríkan þátt í framkvæmd einkavæðingar á ítölskum ríkisfyrirtækjum í samræmi við reglur ESB. Draghi tók við stjórnunarstöðu í Goldman Sachs bankanum í BNA í kringum aldamótin, um svipað leyti og Ítalía innleiddi evruna og afnam þannig sjálfstæða peningastefnu Ítalska Seðlabankans, sem nú var færð í umsjá Evrópska Seðlabankans. Draghi var bankastjóri Ítalíubankans 2006 til 2011, en þá skipaði Evrópuráðið hann í stöðu yfirmanns Seðlabanka Evrópu. Á þeim tíma glímdu ríki og fjármálastofnanir Vesturlanda við afleiðingarnar af gjaldþroti Leaman-brothers bankans í BNA. Draghi vakti mikla athygli þegar hann tók þá afdrifaríku ákvörðun að bankinn myndi hefja ótakmörkuð innkaup á ítölskum ríkisskuldabréfum, „whatever it takes“,  en þessi aðgerð var talin hafa bjargað Ítalíu frá gjaldþrotaskiptum sambærilegum við þau er urðu á Grikklandi. Aðgerðin var um leið talin hafa bjargað fjármálastofnunum Evrópu frá gjaldþrotahrynu og þar með evrunni sem gjaldmiðli. Önnur verkefni Draghi á þessum tíma fólust m.a. í skuldauppgjöri bankans og Alþjóða Gjaldeyrissjóðsins við Grikkland 2015, þar sem gripið var fyrir hendur þarlendra lýðræðislega kjörinna stjórnvalda til að verja evrópska lánardrottna fyrir gjaldþroti vegna greiðsluþrots Grikkja. Draghi lauk störfum hjá ESB 2019, og hafði þá hlotið mikla alþjóðlega viðurkenningu fyrir starfsframa sinn, þar sem, hann var m.a. talinn í röð valdamestu manna heims af tímaritunum Times, Fortune og Politico Europe.

Það var því söguleg ákvörðun þegar Sergio Mattarella, forseti Ítalíu, kallaði Draghi til Rómar að mynda nýja kreppustjórn til að takast á við veirufaraldurinn. Hann virtist njóta takmarkalítils trausts, og þessir fjóru ólíku flokkar sem höfðu alið á fjandskap sín á milli skutust nú óðfúsir undir verndarvæng mannsins sem var kallaður „Super Mario“ og allir töldu að væri rétti maðurinn til að stýra ítölsku þjóðarskútunni í gegnum veirufaraldurinn. Segja má að Draghi hafi tekið þessa baráttu með trompi, hann réð háttsettan herforingja til að stjórna baráttunni við Covid19 og náði fljótt undraverðum árangri í bólusetningarherferðinni, þar sem 85% þjóðarinnar var fljótlega bólusett. Segja má að Draghi hafi tekist á við þetta verkefni með offorsi, þar sem hræðsla við veiruna varð skæðasta vopn stjórnvalda eins og lesa má úr eftirfarandi orðum, sem Draghi lét falla á blaðamannafundi 22. Júlí 2021:

„Hvatning til að láta ekki bólusetja sig er hvatning til dauða, efnislega er það svo að ef þú lætur ekki bólusetja þig þá veikist þú og deyrð, þú lætur ekki bólusetja þig og smitar þannig aðra og deyðir“.

Þessum hræðsluáróðri var síðan fylgt eftir með útgáfu veiruvegabréfs eða „græna passans“ þann 1. ágúst 2021, sem síðan var uppfærður í „super green pass“ frá 6. desember. Þessi veiruvegabréf voru bólusetningarvottorð og urðu skilyrði fyrir aðgengi að opinberum stöðum, samgöngum, þjónustu og vinnustöðum jafnt sem skólum og sjúkrahúsum og fylgdu þeim flóknar reglugerðir sem stöðugt voru í endurskoðun. Með hinu eflda veiruvegabréfi var enn hert á ákvæðum, m.a. var öllum starfsmönnum heilsugæslu og skóla og öllum yfir 50 ára aldri gert að hafa og sýna slíkt bréf, einnig á vinnustöðum, og þeir sem ekki höfðu slík vegabréf voru sviptir vinnu og launum. Þannig var í raun komið á þvingaðri bólusetningu m.a. fyrir heilbrigðisstarfsfólk, kennara og alla yfir 50 ára aldri. Reglugerðir um þessi vegabréf voru í stöðugri endurskoðun, og eru enn að einhverju leyti, en meginregla var sú að þau giltu fyrst í 9 og svo í 6 mánuði, þegar í ljós kom að bóluefni komu hvorki í veg fyrir smitun né smitburð. Samfara þessu voru gefnar út tilskipanir um grímunotkun, m.a. í grunnskólum eftir að þeir voru opnaðir aftur 2022, og má segja að allar þessar reglur og tilskipanir hafi lagst á þjóðina og breytt andrúmsloftinu í landinu öllu. Stjórnvöld töldu auðvelt að finna rök fyrir þessum aðgerðum sem eðlilega voru umdeildar, en við blasti að veirusmit ollu miklum dauðsföllum, einkum í Lombardíu-héraði, í upphafi ferilsins, og efnahagslegar afleiðingar lokana í skólum og á vinnustöðum höfðu m.a. í för með sér að verg þjóðarframleiðsla dróst saman um 7% á árinu 2021, sem var hærra hlutfall en í flestum Evrópulöndum.

Ekki er tilefni umræðu um gagnsemi eða árangur þessara aðgerða hér á þessum vettvangi, en segja má að þjóðin hafi sýnt mikla samstöðu og þolgæði í upphafi og fram eftir ári 2021, en sú samstaða hafi dvínað eftir að ljóst varð að bóluefni komu ekki í veg fyrir smit, höfðu óvæntar aukaverkanir og ekki varð marktækur munur á árangri milli ólíkra aðferða við beitingu veiruvarna er á faraldurinn leið. Hins vegar er óhætt að segja að þær hörðu reglur og sú stífa eftirfylgni sem ríkisstjórn Draghi sýndi hafi skilað tölfræðilegum árangri í fjölda bólusetninga, um leið og aðferðafræðin við sóttvarnirnar varð jafnframt lýsandi fyrir stjórnarhætti hans á öðrum sviðum stjórnmálanna. Þá er ástæða til að benda á að skoðanaskipti eða gagnrýni á ýmsa þætti veiruvarnanna voru nánast bannaðar í fjölmiðlum og þeir stimplaðir sem „afneitunarsinnar“ er höfðu aðrar skoðanir en stjórnvöld á þessum málum. Veirufaraldurinn varð þannig valdur að nánast trúarlegu ofstæki, sem oft reynist grunnt á þegar maðurinn stendur frammi fyrir vanda eða hættu sem hann hefur ekki fullan skilning og vald á. Slík afstaða var í raun grunnurinn að ofangreindri yfirlýsingu Draghi á blaðamannafundinum í júlí 2021. Þannig máttu þeir sem höfðu meira eða minna rökstuddar efasemdir um ólíka þætti veiruvarnanna þola að vera stimplaðir sem „utangarðsmenn“ er væru hættulegir „smitberar“ og ættu ekki rétt til málfrelsis eða jafnvel vinnu eins og aðrir. Í tiltölulega þröngum hópi andstæðinga bólusetninga var þessari reynslu líkt við harðstjórn er fæli í sér brot á mannréttindum og lýðræðislegum rétti. Því er ekki að leyna að svörnustu andstæðingar Draghi bera hann þessum þungu sökum.

Samhliða heilsuvörnunum greip stjórn Draghi til fjölþættra efnahagslegra ráðstafana til að jafna þá efnahagslegu byrði sem veirufaraldurinn olli. Þar var 5* hreyfingin virk og stóð fast við fyrri löggjöf um borgaralaun og um afsláttarbónusa er áttu að létta byrði hinna verst settu. Allar slíkar aðgerðir voru augljóslega umdeilanlegar þegar kom að útfærslu þeirra og var það einmitt eitt af þeim deiluefnum sem komu upp á endaspretti stjórnarinnar. Slíkar ráðstafanir tengdust líka framkvæmd umbóta í stjórnsýslulögum sem ESB gerði kröfu um í tengslum við endurreisnarráðstafanirnar sem efnt var til vegna veirufaraldursins. Um var að ræða endurreisnarsjóð upp á 750 milljarða evra sem áttu að vera lán til langs tíma og að hluta til styrkir. Af þessum sjóði átti Ítalía að fá nærri 200 milljarða  vegna þess að faraldurinn var talinn hafa valdið mestum skaða þar. Mario Draghi átti virkan þátt í ákvörðunum ESB um endurreisnarsjóðinn.

Annað atriði sem skipti máli á stjórnarferli Draghi voru kosningar til forseta Ítalíu sem fóru fram í lok janúar 2022, mánuði fyrir innrás Rússa í Úkraínu. Sjö ára kjörtímabili Sergio Mattarella (f. 1941) var lokið og hann hafði lýst því yfir að samkvæmt hefð og reglum myndi hann vilja hætta. Miklar deilur spunnust um eftirmanninn, en forsetinn er kosinn af þinginu. Engin sátt náðist um eftirmanninn, en sú hugmynd lá í loftinu að enginn væri betur hæfur til þessa embættis en Mario Draghi. Sú laumufrétt var líka á kreiki að hann hefði áhuga á starfinu. Niðurstaðan í þessu valdatafli varð hins vegar sú að Mattarella gaf kost á sér til endurkjörs, og var það túlkað af fréttaskýrendum sem svik við Draghi, sem hafði einmitt þegið stjórnarmyndunarleyfið úr hendi forsetans. Segja má að óþol hafi gert vart við sig í starfsháttum forsætisráðherrans eftir þessar niðurstöður.

Slagurinn um forsetaembættið var þó eins og lognið á undan þeim stormi sem skall á mánuði síðar með innrás Rússa í Úkraínu, sem þarlend stjórnvöld kalla „sérstakar aðgerðir“.  Viðbrögð Bandaríkjanna, NATO og ESB við þessum atburðum eru alkunn, en kannski ekki þáttur Mario Draghi í útfærslu tæknilegra atriða á viðskiptabanninu, einkum gagnvart Seðlabanka Rússlands og öðrum rússneskum fjármálastofnunum. Nýlega lýsti Joe Biden því yfir, að Draghi hefði verið nánasti og tryggasti samstarfsmaður Bandaríkjanna í Evrópu við framkvæmd viðskiptabannsins og virkjun ESB og NATO í aðstoð við Úkraínu. Það framlag ítalska forsætisráðherrans hefur hins vegar ekki verið gert opinbert að öðru leyti. En ljóst er að Mario Draghi beitti sér fyrir nánu samstarfi Evrópu við Bandaríkin í þessari deilu, og taldi Biden ástæðu til að nefna framlag hans til þessara mála sérstaklega í tilefni stjórnarslitanna. Sem kunnugt er lýstu bandarísk stjórnvöld, NATO og ESB, því yfir í upphafi stríðsins að viðskiptabannið myndi á skömmum tíma rústa rússnesku efnahagslífi, gera rúbluna verðlausa og gera eftirleik Úkraínumanna auðveldan: að sigra Rússa hernaðarlega. Nú, fimm mánuðum síðar, blasir annar veruleiki við: viðskiptabannið er orðin versta ógn gegn efnahag Evrópu frá stríðslokum, rússneski gjaldmiðillinn hefur aldrei verið hærri og landhernaður Rússa er í stöðugri framrás. Jafnframt glímir Ítalía -eins og aðrar Evrópuþjóðir – við orkuskort, stórhækkað verð á olíu, gasi og matvælum og ófyrirsjáanlegar þrengingar þegar eldsneytisskortur gerir vart við sig í vetur. ESB hefur þegar sett fram reglur um 15% niðurskurð á gasneyslu ESB landa í vetur, en Portúgal, Spánn og Ítalía hafa þegar mótmælt þessum tilmælum. Ofan á þetta bætast kröfur um aukinn stuðning við úkraínsk stjórnvöld með vopnum og fjármunum.

Hvernig tengjast þessi vandamál stjórnarslitunum á Ítalíu?

Ljóst er að rétt eins og almenningur tók tiltölulega fljótt við sér og sýndi samstöðu í bólusetningaherferðinni gegn veirunni, þá voru Ítalir eins og flestir Evrópubúar tilbúnir að sýna Úkraínu stuðning gegn grimmilegri innrás. Ítalía hefur þegar tekið á móti yfir 100.000 flóttamönnum frá Úkraínu og ríkisstjórn Mario Draghi hefur lagt áherslu á skilyrðislausan stuðning Ítalíu við stefnu NATO í þessari deilu, bæði hvað varðar fjármuni og hergögn. Andspænis þessum vanda eru hins vegar ýmis álitamál sem ekki hafa fengist rædd á þinginu, ekki frekar en álitamál um veiruvandann, og er það mikilvægur þáttur í þeim ágreiningi sem upp hefur komið í stjórnmálaumræðunni og Giuseppe Conte, leiðtogi 5* hreyfingarinnar, hefur lagt áherslu á að þurfi þinglega meðferð og umræður.

Segja má að stjórnarflokkarnir hafi að mestu leyti þagað um ágreiningsmál sín lengst af, en 5*-hreyfingin hafi átt frumkvæði að því að gera þau opinber. Sá ágreiningur komst þó ekki í hámæli fyrr en sá óvænti atburður átti sér stað að Luigi di Maio, einn af stofnendum 5*, sem hreppti utanríkisráðuneytið í stjórn Draghi, sagði sig úr hreyfingunni og með honum um 60 þingmenn hennar þann 21. Júní síðastliðinn. Di Maio lýsti því yfir að hreyfingin ynni gegn stjórninni og að hinar gömlu hugsjónir hreyfingarinnar um grasrótarlýðræði og andstöðu við ESB og Atlantshafssamstarfið, umhverfismál og friðarboðskap væru úrelt. Sagðist di Maio hyggja á stofnun nýs stjórnmálaafls „fyrir framtíðina“. Samfara þessu komst sá orðrómur á kreik að Draghi hefði farið þess á leit við Beppe Grillo, „verndara“ og stofnanda hreyfingarinnar, að hún losaði sig við lögfræðinginn Giuseppe Conte. Þessir atburðir gerðu hið nána samstarf di Maio og Draghi opinbert og sameiginlega óvild þeirra gagnvart Giuseppe Conte.

Þessi atburðarás bregður ljósi á það sem eftir fylgdi. Draghi fylgdi áfram þeim starfsháttum sínum gagnvart þinginu að bera þingmál undir atkvæðagreiðslu án málefnalegra umræðna, og virti að vettugi m.a. kröfu Conte um að vopnasendingar Ítalíu til Úkraínu yrðu teknar til umræðu. Innan hreyfingarinnar voru þær skoðanir áberandi að vopnasendingar bæru olíu á eldana í Úkraínu og væru ekki vænlegar til vopnahlés- eða friðarsamninga. Conte setti ekki fram aðrar kröfur en umræður um þessi álitamál og ýmis önnur. Þegar umleitunum hans var hafnað og stjórnin setti fram málefni sín í formi traustsyfirlýsingar á stjórnina ákváðu stuðningsmenn Conte í efri deild þingsins að sniðganga atkvæðagreiðsluna. Draghi brást við með því að fara á fund forseta og biðjast lausnar. Stjórn um „þjóðareiningu“ væri ekki starfhæf án virkrar þátttöku 5*. Mattarella forseti sagði lausn ekki í boði nema stjórnin hefði tapað meirihluta á þingi. Draghi yrði að fá traustyfirlýsingu þingsins. Þar með var sviðið sett fyrir þann fáheyrða atburð sem átti sér stað 20. júlí s.l., viku eftir fyrri afsagnarbeiðni Draghi.

 

Þingfundur var settur í efri deild þingsins, þar sem afgreiða átti traust á ríkisstjórnina. Enginn af flokkunum 4 hafði lýst vantrausti á stjórnina, þingmenn 5* höfðu aðeins sniðgengið eina atkvæðagreiðslu um tiltekið mál. Mario Draghi talaði í um 30 mínútur og byrjaði á að þakka samstarfsmönnum sínum í stjórnarflokkunum fyrir drengilegt samstarf við úrlausn margra erfiðra þjóðþrifamála, stjórnarsamstarfi sem hann væri stoltur af. Lýsti hann síðan einstökum málefnum sem stjórnin hefði hrint í framkvæmd. Ræða hans fékk glimrandi undirtektir þingmanna, jafnvel svo að Draghi komst við og sagði að jafnvel bankastjórahjörtu kynnu að hrærast. En síðan breytti hann skyndilega um tón og fór að tala um „óleyfilegar“ athugasemdir sem ótilgreindir aðilar hefðu haft í frammi við afgreiðslu einstakra mála, og nefndi þar bæði málefni er snerti 5* og LS flokkinn sérstaklega. Á endanum varð ræðan að reiðilestri sem greinilega fór fyrir brjóstið á mörgum stjórnarliðum. Ráðherrann lauk máli sínu með því að segja að hann myndi fara á fund forseta næsta morgun til að tilkynna honum ákvörðun sína.

Síðan urðu líflegar umræður, sem óþarfi er að rekja hér, nema hvað LS setti fram kröfu um myndun nýrrar „sáttastjórnar“ þar sem 5* hreyfingin yrði útilokuð, en LS fengi fleiri ráðherrastóla. Síðan kom ein tillaga til atkvæðagreiðslu. Hún var eins og sniðin fyrir Mattarella forseta og hljóðaði svona:

„Efri deild þingsins,

Eftir að hafa hlustað á orð forsætisráðherrans

Veitir þeim samþykki sitt.“

Undirskrift: Ferdinando Casini

Óútfyllt ávísun Mario Draghi til ítalskra þingmanna

Ljóst var að hér var um hreina ögrun að ræða frá forsætisráðherra til samstarfsflokka sinna: hér er auð ávísun sem þið eigið að skrifa undir, það sem ég segi eru lög.

Skyndilega höfðu veður skipast í lofti. Í upphafi þessa þingfundar bjuggust allir við sáttum og áframhaldandi stjórnarsamstarfi. Skyndilega var það ekki bara 5* hreyfingin sem hundsaði þessa atkvæðagreiðslu, heldur líka LS og FI, flokkur Silvio Berlusconi. Tveir ráðherrar úr flokki Berlusconi sögðu sig úr flokknum eftir atkvæðagreiðsluna. Ljóst var að Draghi myndi ítreka afsögn sína við forsetann daginn eftir. Það gekk eftir og Draghi fékk því framgengt að þingið var leyst upp, þingmenn voru sviptir rétti sínum til þingsetu og boðað var til kosninga 25. september. Hér hafði það gerst í fyrsta skipti í sögu evrópsks þingræðis að efnt var til stjórnarslita án vantrausts, forsætisráðherra veitt lausn að eigin kröfu og þingmenn sviptir þinghelgi gegn eigin vilja.

Hér hefur þessari atburðarás verið lýst í nokkrum smáatriðum  vegna þess að hún er, eins og heimspekingurinn Cacciari sagði, einstök í sögu evrópsks þingræðis. Hann bætti því reyndar við að þessi atburðarás væri „óskiljanleg rökleysa“. En þegar betur er að gáð má kannski sjá í þessum vef forboða og endurtekningu þess sem er að gerast bæði vestan og austan Atlantshafsins: Stjórnmálin eru orðin innihaldslaus, lýðræðið er orðið að leiksýningu, leiðtogarnir sem hafa spunnið vefinn í kringum Hrunadansinn í Úkraínu hafa misst tökin á veruleikanum og dansa í lausu lofti. Um svipað leyti og þingkosningar verða á Ítalíu verða svokallaðar „Midterm“-kosningar í Bandaríkjunum þar sem Joe Biden á von á miklum hrakförum. Bresk stjórnmál eru í uppnámi í kjölfar Brexit- og Úkraínuævintyra Johnsons, götubardagar eru háðir í Amsterdam vegna hækkana á orku, áburði og matvælum, Macron Frakklandsforseti hefur misst meirihluta á þingi og þar með ímyndað forystuhlutverk sitt í Evrópu, Þjóðverjar búa sig undir frostavetur, Spánverjar og Portúgalar mótmæla orkustefnu ESB, og síðast en ekki síst: Mario Draghi, „Super Mario“, skilur þjóð sína eftir ráðalausa andspænis óyfirstíganlegu skuldafjalli, orkuskorti, atvinnuleysi og verðbólgu. Það er skiljanlegt að hann vilji stökkva frá borði áður en skipið sekkur, rétt eins og kapteinn Schettino gerði, skipstjórinn á skemmtiferðaskipinu Costa Concordia sem sigldi skipi sínu í strand við Isola del Giglio fyrir réttum 10 árum síðan.

 

Forsíðumyndin er af skemmtiferðaskipinu Costa Concordia, sem strandaði við Isola del Giglio 2012

HRINGEKJA ÍTALSKRA STJÓRNMÁLA

 

 

Mario Draghi reynir stjórnarmyndun

eftir að seinni stjórn Giuseppe Conte springur

 

Hringekja ítalskra stjórnmála tekur engan enda og stjórnmálaflokkar og hreyfingar fara hamskiptum eins og salamandran. Til þess að fá einhverja mynd af ástandinu þurfum við að fara aftur til þingkosninganna í mars 2018, sem mörkuðu viss þáttaskil. Eftir nær aldarfjórðungs samdrátt í kaupmætti og þjóðarframleiðslu undir stjórn flokks Silvio Berlusconi (FI) annars vegar og vinstriflokksins PD hins vegar. Tveir flokkar urðu ótvíræðir sigurvegarar þessara kosninga sem rugluðu flokkakerfinu og heildarmynd ítalskra stjórnmála: Gömlu kerfisflokkarnir (FI og PD) guldu afhroð og tveir flokkar eða hreyfingar sem boðuðu andóf gegn „kerfinu“, stjórnmálaelítunni og ekki síst niðurskurðarstefnunni sem myntsamstarf evru-ríkjanna kallaði á, fengu hreinan meirihluta á þingi.

Þetta voru „5 Stjörnu hreyfingin“ (5*)  (35-36% atkv.) og Lega-Salvini flokkurinn (L-S) (17-18% atkv).  Þótt þessir flokkar teldust báðir ganga gegn „kefinu“ og hefðu stimpil „populista“ komu þeir nánast úr sitt hvoru áttinni: 5* hafði stolið fylgi frá PD („vinstri-kanturinn“) og L-S hafði stolið fylgi frá FI („hægri-kantinum“). Kerfissinnar (miðjumenn) kölluðu þá „öfgaflokka til hægri og vinstri“. Mögulegri myndun „vinstri“ stjórnar með PD (um 17% atkv.) og 5* var hafnað af PD og þar með urðu fyrstu „hamskiptin“ þar sem „öfgaöflin“ til hægri og vinstri sameinuðust undir ráðuneyti lögfræðingsins Giuseppe Conte, sem var óflokksbundinn og utan þings, en studdur af 5*. Þessi stjórn setti 2 mál á oddinn á sínum stutta ferli: borgaralaun og stöðvun flóttamannastraums frá Afríku og Mið-Austurlöndum. Hið fyrra í nafni „jafnaðarstefnu“, hið síðara í nafni „fullveldishyggju“ sem flokksforinginn Matteo Salvini setti á oddinn sem innanríkisráðherra. Einnig var afnumin löggjöf niðurskurðarflokkanna í lífeyrismálum og réttur lífeyrisþega styrktur. Ekki var merkjanlegt viðnám gegn atvinnuleysi og samdrætti í þjóðarframleiðslu á stjórnartímanum sem varaði í um það bil 1 ár, þar til Matteo Salvini skar á líftaugina fyrirvaralítið í ágúst 2019.

Til að gera flókna sögu stutta lauk stjórnarkreppu Giuseppe Conte með því að hann fékk umboð til að mynda nýja stjórn með 5* hreyfingunni og höfuðandstæðingnum PD, sem 5* hafði skilgreint sem dyggasta þjón hins yfirþjóðlega auðvalds og niðurskurðarstefnu þess undir regnhlíf Evrópusambandsins. Þessi hamskipti áttu sér aðra og praktískari skýringu: í stjórnarsamstarfinu með L-S flokknum höfðu skoðanakannanir sýnt fylgishrap 5* og þetta fylgi fór ekki til PD heldur til L-S flokksins sem mældist í skoðanakönnunum með 30-35% fylgi. Sergio Mattarella forseta, gömlu kerfisflokkunum og 5* hreyfingunni var mikið í mun að koma í veg fyrir „ótímabærar“ þingkosningar við þessar aðstæður og því fékk Conte nýtt umboð til stjórnarmyndunar. Þar með urðu ný hamskipti, og 5* hreyfingin gekk nú í sæng með PD og „kerfinu“, en andstaðan gegn því hafði verið líftaug hreyfingarinnar frá upphafi. Fyrirboði þessara hamskipta sást reyndar á þingi Evrópusambandsins skömmu fyrir stjórnarslit, þar sem di Maio utanríkisráðherra og leiðtogi 5* réði úrslitum í tvísýnni kosningu um Ursulu von der Layen í forsæti Evrópusamstarfsins. Þar var fyrsta skrefið stigið hjá 5* hreyfingunni  yfir í sængina með „kerfisflokkunum“ á Evrópuþinginu. Baráttan á milli „Evrópusinnanna“ og „fullveldissinnanna“ gufaði þannig upp í 5* hreyfingunni en Lega-Salvini flokkurinn gekk í harða stjórnarandstöðu gegn nýju stjórninni sem fékk nafnið Conte2.  Stjórnartími Conte2 hefur að mestu snúist um „Recovery Plan“ Evrópusambandsins og stýringu Covid19-kreppunnar, sem hefur að mestu farið fram með tilskipunum úr forsætisráðuneytinu án aðkomu þingsins. Segja má að framkvæmd „Endurreisnaráforms“ Evrópusambandsins hafi orðið banabiti Conte2 stjórnarinnar, en það var flokksbrot úr PD flokknum undir forystu Matteo Renzi sem veitti Conte2 náðarhöggið í þetta sinn með því að neita að styðja stuðningsyfirlýsingu við stjórnina í atkvæðagreiðslu á þingi.

Deilurnar um „Recovery-plan“ ESB voru reyndar svo flóknar að almenningur var hættur að skilja um hvað málin snerust og á það ekki síður við um stjórnarsinna en andstæðinga. Mynd fjölmiðla af þessum deilum var handan alls þess veruleika sem almenningur á við að glíma: 450.000 hafa misst vinnuna af völdum Covid19, þúsundir fyrirtækja lokað, skólar verið óstarfhæfir í heilt ár og vonarglæta bóluefnanna eins og fjarlægar hillingar og mýraljós. Allir fréttatímar sjónvarps síðastliðið ár hafa byrjað með „fjölda látinna“ og „fjölda smitaðra“ síðasta daginn, og skelfingin hefur lagst yfir mannlífið eins og þoka.

En hringekjan var ekki stöðvuð: á krepputímum má ekki ganga til kosninga, allra síst ef það eykur á „smithættuna“ sagði Mattarella forseti og dró óvænt nýja kanínu upp úr pípuhatti sínum. Eftir stutt samtöl við leiðtoga þingflokkanna sagðist hann sjá að ekki væri möguleiki á nýrri stjórnarmyndun undir forystu Conte, en bæði 5* og PD og smærri stuðningsflokkar Conte2 á þingi höfðu lagt áherslu á að hann væri eina sameiningaraflið er gæti myndað starfhæfa ríkisstjórn. Forsetinn virti vilja þingflokkanna að vettugi og veitti að eigin frumkvæði fyrrverandi bankastjóra Evrópska Seðlabankans umboð til stjórnarmyndunar: Mario Draghi varð skyndilega og óvænt hið nýja sameiningartákn, hagfræðingur sem stóð utan flokka og utan þings og hafði „bjargað evrunni og Ítalíu“ á sögulegri stund er hann lýsti því yfir þegar skuldastaðan var að sliga ítölsku ríkisfjármálin að Evrópubankinn myndi gera „whatever it takes“ til þess að bjarga skuldastöðu Ítalska ríkisins með kaupum á ítölskum ríkisskuldabréfum. Þetta er aðferð sem kallast „quantitave easing“ á tæknimáli hagfræðinnar og felst í því að prenta peninga þegar fjárstreymisstífla myndast í hagkerfinu. Kollsigling Ítalíu hefði kostað kollsiglingu evrunnar, en þessi aðgerð Evrópubankans var engu að síður framkvæmd gegn vilja þýskra stjórnvalda.

Þessi aðgerð Mario Draghi gerði hann að þjóðsagnapersónu á Ítalíu, og nú fór hringekjan heldur betur að snúast: allir flokkar á þingi lýstu skyndilega yfir stuðningi við þennan nýja „bjargvætt“ þjóðarinnar, líka L-S flokkurinn. Einungis Ítalska Bræðralagið (Fratelli di Italia) kallaði á tafarlausar kosningar, en þessi flokkur sem hefur þrefaldað fylgi sitt í skoðanakönnunum frá síðustu þingkosningum (úr5% í 15%) skilgreinir sig lengst til hægri í litrófinu og byggir á þjóðernishyggju og klassískri íhaldssemi. Hvað veldur hamskiptum Salvini, og hvaða baktjaldaleikhús er hér í gangi?

Til þess að skilja það þarf að líta svolítið til forsögu Mario Draghi, þessarar persónu sem er sveipuð dularhjúp og talar nær aldrei við fjölmiðla, að því er virðist af eðlislægri hlédrægni. Hann er 73 ára og má segja að hann sé fæddur inn í valdastöður fjármálaheimsins því faðir gegndi stjórnunarstöðum í nokkrum helstu fjármálastofnunum Ítalíu. Draghi útskrifaðist sem doktor í hagfræði frá Sapienza háskólanum í Róm þar sem hann naut leiðsagnar prófessors að nafni Federico Caffé, sem var af skóla svokallaðrar Keynesíanskrar hagfræði og því andstæðingur Chicago-skólans og svokallaðrar frjálslyndisstefnu í hagstjórn: ríkisafskipti eru nauðsynleg til að stýra markaðshagkerfinu segja Keynesianar. Þessi uppruni Draghi mun vera ein skýring þess að málsmetandi hagfræðingar af hinum Keynesíanska skóla innan L-S flokksins hafa lýst stuðningi við Draghi sem forsætisráðherra. Starfsferil sinn hóf Draghi sem háskólaprófessor, en hann dróst inn í fjármálaheiminn, fyrst sem ráðgjafi Alþjóðabankans í Washington, svo sem ráðgjafi ítalskra stjórnvalda þar sem hann varð einn helsti hvatamaður að einkavæðingu stærstu fyrirtækjanna í eigu ítalska ríkisins á 9. og 10. áratug síðustu aldar. Á sama tíma varð hann forstjóri Goldman Sachs International – alþjóðadeildar bankans sem kom stórlega við sögu í gjaldþrotum Grikklands. Hann varð yfirmaður Seðlabanka Ítalíu 2005 og síðan einnig forstöðumaður alþjóðastofnunarinnar Financial Stability Board sem var samráðsvettvangur hins yfirþjóðlega fjármálavalds stærstu bankastofnana heimsins. Kórónan á fjármálaferli hans var síðan bankastjórastaðan í Seðlabanka ESB frá 2011-2019. Hann hefur því gegnt leiðandi stöðu yfir landamæri þjóðríkjanna og haft leiðandi áhrif á stefnu ESB í fjármálum, þar með talið aðkomu ESB að gríska gjaldþrotinu 2010 og hamskiptum Syriza-flokksins og leiðtoga hans, Alexis Tsipras, sem gekkst undir afarkosti þríeykisins (Alþjóðabankans, Alþjóða gjaldeyrissjóðsins og ESB) þvert gegn vilja þjóðarinnar. Margir stuðningsmenn L-S flokksins telja nú að Salvini sé að fylgja fordæmi Tsipras og gangast undir þá afarkosti sem óhjákvæmilega tengjast hinum leyndardómsfulla ráðamanni í heimi þess yfirþjóðlega valds sem skirrtist ekki við að ganga gegn yfirlýstum vilja grísku þjóðarinnar í lýðræðislegum þingkosningum. Þar voru hagsmunir bankanna settir ofar lýðræðinu með skýlausum hætti.

Nú stendur Ítalía frammi fyrir efnahagskreppu sem enginn spámaður á sviði hagfræðinnar virðist sjá hvernig hægt sé að snúa við – innan þeirrar spennutreyju sem hið yfirþjóðlega fjármálavald hefur lagt á heiminn. Þau 27 ríki sem tilheyra evru-svæðinu gerðu með sér svokallaðan „Stability and Growth pact“ sem tók gildi1998 og í endurnýjaðri mynd 1. Janúar 1999. Samkvæmt þessum sáttmála eiga aðildarríki myntsamstarfsins ekki að skulda meira en sem nemur 60% af vergri þjóðarframleiðslu. Þessi sáttmáli er hin formlega forsenda niðurskurðarstefnu ESB: fari aðildarríkin yfir strikið eiga þau að draga saman ríkisútgjöld þar til þessu markmiði er náð. Þessi „Stöðugleikasáttmáli“ er hvort tveggja í senn, hornsteinn myntsamstarfsins og hornsteinn svokallaðrar „niðurskurðarstefnu ESB“ sem útilokar ríkisafskipti af hinum frjálsa markaði innan ramma sameiginlegrar myntar.

Segja má að málsmetandi hagfræðingar á svokölluðum vinstri og hægri væng ítalskra stjórnmála hafi sameinast um gagnrýni á þessa stefnu, oftast í nafni svokallaðrar Keynesískrar hagfræði sem byggir á kröfunni um inngrip ríkisins í fjármálamarkaðinn þegar gefur á bátinn. Efnahagskreppa Ítalíu á sér jafn langan aldur og „Stöðugleikasáttmálinn“. Allt frá 1992 hefur þjóðarframleiðsla og kaupmáttur launa dregist saman og atvinnuleysi aukist. Þetta er vítahringur sem enginn sér í raun fram úr þegar litið er á staðreyndir málsins: lítum aðeins á meðfylgjandi línurit yfir skuldastöðu nokkurra skuldugustu ríkja ESB miðað við þjóðarframleiðslu. Tölfræðin er opinber frá þessu ári. Meðaltal evru-svæðisins er 86,3% á þessu ári. Hlutfallstala Ítalíu er 137,6%. Meira en tvöfalt markmið Stöðugleikasáttmálans og nálgast Grikkland.

Þjóðarskuldir sem hlutfall af vergri þjóðarframleiðslu í nokkrum aðildarlöndum ESB 2021

 

Ítalía er jafnframt það land sem hefur farið hvað verst út úr Covid19 plágunni í Evrópu. Bæði efnahagslega, heilsufarslega og pólitískt. Þjóðin hefur nú þörf fyrir lántökur til að standa straum af veiruplágunni upp á hundruð milljarða evra. Sumir spámenn segja að þetta skuldahlutfall fari upp í 160% á næsta ári/árum eða jafnvel meira. ESB hefur nú í undirbúningi „Rcovery Plan“ sem er neyðaráætlun um endurreisn þar sem sjóðum bandalagsins verður veitt í endurreisn – sumir segja í líkingu við Marshall-aðstoðina. Hvaðan kemur þetta fé? Frá aðildarríkjunum, þar sem Ítalía er þriðji stærsti „hluthafinn“ á eftir Þýskalandi og Frakklandi. Málsmetandi menn hafa sagt að þetta sé sýndarmennska í líkingu við það að pissa í skóinn sinn til að halda hita. En það verður varla dregið í efa að Mario Draghi er efnilegur leikstjóri fyrir þennan sýndarleik. Hann hefur verið að undirbúa sig undir þetta kraftaverk allan sinn glæsta starfsferil, og hvað gera salamöndrur stjórnmálanna andspænis töframanninum: þær skipta litum.

Forsíðumyndin: Sergio Mattarella forseti Ítalíu og Mario Draghi fyrrverandi forstjóri Seðlabanka Evrópu ræða væntanlega stjórnarmyndun á Ítalíu í forsetahöllinni nýverið

 

 

 

 

STJÓRNARKREPPAN Á ÍTALÍU

Stjórnarkreppan á Ítalíu endurspeglar kreppu lýðræðis á Vesturlöndum

Í gær lýsti Sergio Mattarella forseti Ítalíu því yfir að tilraunum stjórnmálaflokkanna til að mynda stjórn í kjölfar kosninganna 4. mars s.l. væri lokið, og að hann myndi sjálfur tilnefna „hlutlausa“ bráðabirgðastjórn er tæki við af ríkisstjórn Gentiloni (Demókrataflokksins-PD) og myndi stjórna fram að kosningum seinnipart þessa sumars.

Þessi staða á sér varla fordæmi í sögu evrópsks lýðræðis, og erfitt að segja hvað hugtakið forsetaskipuð  „hlutlaus ríkisstjórn“ merkir í þessu samhengi, en forsetinn lýsti því jafnframt yfir að ráðherratilnefning hans hefði 2 skilyrði: tilvonandi ráðherrar væru utan flokka og mættu ekki bjóða sig fram í næstu kosningum.

Einna helst minnir þetta á þá stöðu sem kom upp þegar alþjóðlegar fjármálastofnanir með evrópska seðlabankann í fararbroddi gerðu árás á skuldastöðu ríkissjóðs Ítalíu með því að selja sín ítölsku ríkisskuldabréf og snarhækka þannig vaxtagreiðslur ríkissjóðs með þeim afleiðingum að Silvio Berlusconi neyddist til að segja af sér. Þessi atlaga hefur eftirá verið kölluð „valdarán“, ekki bara af S.B., heldur líka af andstæðingum hans. Við tók forsetaskipuð „tæknileg“ stjórn hagfræðingsins Mario Monti (m.a. fyrrverandi ráðgjafa fjármálastofnana og ráðherranefndar ESB um skipulag innri markaðarins) sem aldrei var kosin af almenningi, en var skipuð til að framkvæma niðurskurðarstefnu ESB með rótttækum hætti og skelfilegum afleiðingum fyrir efnahag og atvinnuöryggi ítalskra launþega. Sú stjórn starfaði með stuðningi PD (mið-vinstri flokksins eða ítölsku Samfylkingarinnar) frá 2011-2013.

Segja má að síðan stjórn Mario Monti fór frá hafi vanheilagt og að stórum hluta leynilegt bandalag Matteo Renzi (leiðtoga PD) og Silvio Berlusconi (leiðtoga Forza Italia) séð um að framkvæma efnahagsstefnu ESB á Ítalíu(niðurskurðarstefnuna) með stuðningi Mario Dragi, bankastjóra Seðlabanka Evrópu, sem lýsti því yfir að hann myndi gera „það sem þyrfti“ til að halda uppi verði ítalskra ríkisskuldabréfa á markaði.

Þetta vanheilaga bandalag splundraðist endanlega í kosningunum 4. mars s.l. þegar sérstaklega vinstri öflin (PD) en einnig FI flokkur Berlusconi biðu stóran ósigur á kostnað tveggja „popúlistaflokka“ til „vinstri“ (5 stjörnu hreyfingin) og til „hægri“ (Lega /Salvini). Kosningaúrslitin réðust á grundvelli undarlegra kosningalaga sem Berlusconi og Renzi höfðu upphaflega sameinast um til að útiloka 5*-hreyfinguna.

Tvíveldi PD og FI féll með sigri þeirra afla sem þeir vidu með öllum ráðum kveða niður.
Ástæða þess að „popúlistaflokkarnir“ hafa nú gefist upp á því að mynda samsteypustjórn er fyrst og fremst sú að hinn gamli refur Silvio Berlusconi hafði innan ramma kosningalaganna myndað formlegt bandalag við Lega-flokkinn (og vafalaust beitt þar peningavaldi sínu) þannig að hann reyndist ófær um stjórnarsamstarf við 5* hreyfinguna nema með draug SB innanborðs, sem var óhugsandi fyrir 5*-hreyfinguna sem byggði fylgi sitt á viðtækri andstöðu við SB meðal kjósenda sinna.

Þessi stutta lýsing á stöðunni í ítölskum stjórnmálum þessa stundina segir þó ekki nema hálfa söguna. Forsaga hennar er löng og er um leið hluti þróunar lýðræðis, ekki bara í Evrópu, heldur einnig í BNA síðustu áratugina. Á síðustu misserum og árum má sjá þessi tengsl í hruni sósíalista- og jafnaðarmannaflokka í Evrópu og ósigri Demókrata í forsetakosningum í BNA. Í Evrópu er ekki bara stjórnarkreppa á Ítalíu: Spánn og Belgía búa við hliðstæða kreppu, í Frakklandi þurrkaði Macron út tvær meginstoðir franskra stjórnmála í einum kosningum og reynir nú „popúliska“ stjórnarhætti „án hugmyndafræði“. Í Þýskalandi hangir samsteypustjórn tveggja-stðoa kerfisins í þessu burðarafli ESB á brauðfótum eftir hrikalegar ófarir Sósíaldemókrata í kosningum. Þá dugir að minnast á upplausn í bresku stjórnarkerfi eftir Brexit-kosningarnar og einnig er skammt að minnast þess að Sósíalistaflokkur Grikklands var þurrkaður út af „populistaflokkinum“ Syriza.

Þessi umbrot hafa öll sínar skýringar sem flestir myndu rekja til fjármálakreppunnar 2008, en þá fóru sprungurnar í innri markaði og myntsamstarfi ESB-ríkja fyrst að opnast með stórfelldri tilfærslu á almannafé í helstu aðildarríkjum myntsamstarfsins til stærstu fjármálastofnananna í álfunni. Í kjölfarið kom niðurskurðarstefnan (öðru nafni deflation) með niðurskurði á opinberri þjónustu, auknu atvinnuleysi og launahjöðnun einkum í þeim löndum sem höfðu veikari samkeppnisaðstöðu innan ESB, þar á meðal Ítalíu.

Eftirskjálftar heimskreppunnar 2008 standa enn yfir, og ástandið á Ítalíu nú er einn þeirra. Hins vegar má rekja þá kreppu lýðræðisins sem riðið hefur yfir Vesturlönd enn dýpra og til enn skelfilegri atburða en efnahagskreppunnar, atburða sem hafa smám saman grafið undan tiltrú almennings á stjórnvöldum, stjórnmálaflokkum og ekki síst á fjórða valdinu í sérhverju lýðræðisríki sem er opin og traust miðlun upplýsinga. Þar hefur orðið trúnaðarbrestur sem verður æ víðtækari og við getum rakið til viðburðarásar sem hefst í Kalda stríðinu með Kúbu-deilunni og morðinu á John Kennedy forseta Bandaríkjanna í kjölfarið. Það tók mörg ár að upplýsa það sem nú er á vitorði upplýstra manna og kvenna að morðið á Kennedy var framið að frumkvæði ólýðræðislegra afla sem áttu sínar rætur í bandarískum hergagnaiðnaði og bandarísku leyniþjónustunni. Í kjölfarið kom hinn falski fáni Lyndon B. Johnson um Tonkinflóa-árásinni sem varð tilefnið til helfarar Bandaríkjanna í Víetnam.

Það er á fárra vitorði utan Ítalíu að Ítalir gengu í gegnum harmleik sem var hrein hliðstaða við morðið á J.F.Kennedy fyrir réttum 40 árum síðan. Það var morðið á Aldo Moro, fyrrverandi forsætisráðherra og þáverandi formanni Kristilega demókrataflokksins, sem átti sér stað 1978, fyrir réttum 40 árum. Þessara tímamóta er nú minnst víða í frjálsum fjölmiðlum á Ítalíu og hafa af því tilefni verið dregin fram opinber nefndarálit og vitnisburðir dómara sem leiða í ljós að Rauðu herdeildirnar voru ekki einar að verki í þessari atburðarás: þvert ofan í opinbera lýsingu hafa tveir dómarar staðfest að leyniþjónustur í Bretlandi, BNA, Frakklandi og Sovétríkjunum áttu aðkomu að þessu máli og voru jafnvel kallaðar til aðstoðar af þáverandi innanríkisráðherra, Francesco Cossiga, sem í kjölfarið var kjörinn forseti lýðveldisins af ítalska þinginu(með stuðningi PD). Þetta er flókin saga en kjarna hennar má lesa úr vitnisburði rannsóknardómarans Ferdinando Imposimato, sem staðfestir með sönnunargögnum að lögreglan hafi fundið „fangelsi“ Aldo Moro 4 dögum eftir handtökuna og vaktað það með aðstoð sérstaks ráðgjafa Bandaríkjastjórnar í 50 daga eða þangað til hann var tekinn af lífi (sbr: https://www.youtube.com/watch?v=H6T_uMAEaPA&t=60s). Lögreglustjórinn Dalla Chiesa sem fann fangelsi Aldo Moro og vildi frelsa hann með valdi var drepinn af mafíunni fáum árum síðar og persónulegum gögnum hans um málið komið í öruggt skjól.

Aldo Moro hafði á sínum tíma hlotið persónulega stuðningsyfirlýsingu J.F.Kennedys fyrir þá stefnu sína að leysa að því er virtist óleysanlegan hnút ítalskra stjórnmála á þessum tíma, sem fólst í gagnkvæmri útilokun kaþólikka og kommúnista í kjölfar loka heimsstyrjaldarinnar. Aldo Moro formaður Kaþólikka og Enrico Berlinguer leiðtogi ítalskra kommúnista höfðu komist að samkomulagi um að höggva á þennan hnút og opna á gagnkvæmt samstarf. Þetta var talið ógn við öryggi NATO-ríkja í Evrópu og ógn við alræðisstjórnir í valdablokk Sovétríkjanna í A-Evrópu. Henry Kissinger hafði í persónulegu samtali við Moro haft í frami beinar hótanir um persónulegt öryggi hans vegna þessarar stefnu, og sá sem vaktaði fangelsi Moro með ítölsku leynilögreglunni meðan hann var í fangelsi Rauðu herdeildanna hafði einmitt verið sérstakur ráðgjafi Kissingers. Þessi hörmulega atburðarás markaði hápunkt „ára blýsins“ á Ítalíu á 8. áratugnum, en sagan um það sem raunverulega gerðist er fyrst að verða ljós nú fyrir þá kynslóð sem ekki upplifði atburðina. Harmsaga sem var túlkuð af opinberum aðilum og dómsvaldinu sem afmarkað mál „Rauðu herdeildanna“. Rétt eins og árásin á Tvíburaturnana og WTC-7 bygginguna og Pentagon 11. septemer 2001 voru sagðar verknaður 11 hryðjuverkamanna frá Saudi Arabíu og öðrum Arabalöndum sem lutu stjórn „ímyndar hins illa“, fjallabúans  Osama Bin Laden. Allir upplýstir menn, og einkum ungt fólk á Vesturlöndum, veit nú að þetta er ein stórbrotnasta lygasaga sem borin hefur verið fram af stjórnmálastéttinni og upplýsingamiðlum hennar á Vesturlöndum. Svo furða menn sig á tilkomu „popúlista“. Það þarf ekkii að rifja upp sögurnar um efnavopnin, „weapons of Mass Desruction“ sem urðu tilefni stríðsins í Írak, sem enn stendur, og því síður framhaldssöguna um sambærilegan vopnaburð í Sýrlandi og Rússlandi síðustu dagana og misserin. Öll þessi atburðarás ber vott um veikar undirstöður lýðræðis á Vesturlöndum og þær „popúlistahreyfingar“ sem nú eru líklegar til að ná meirihluta á ítalska þinginu í komandi þingkosningum eru bara eitt afsprengi þessarar þróunar.

%d bloggers like this: