HRINGEKJA ÍTALSKRA STJÓRNMÁLA

 

 

Mario Draghi reynir stjórnarmyndun

eftir að seinni stjórn Giuseppe Conte springur

 

Hringekja ítalskra stjórnmála tekur engan enda og stjórnmálaflokkar og hreyfingar fara hamskiptum eins og salamandran. Til þess að fá einhverja mynd af ástandinu þurfum við að fara aftur til þingkosninganna í mars 2018, sem mörkuðu viss þáttaskil. Eftir nær aldarfjórðungs samdrátt í kaupmætti og þjóðarframleiðslu undir stjórn flokks Silvio Berlusconi (FI) annars vegar og vinstriflokksins PD hins vegar. Tveir flokkar urðu ótvíræðir sigurvegarar þessara kosninga sem rugluðu flokkakerfinu og heildarmynd ítalskra stjórnmála: Gömlu kerfisflokkarnir (FI og PD) guldu afhroð og tveir flokkar eða hreyfingar sem boðuðu andóf gegn „kerfinu“, stjórnmálaelítunni og ekki síst niðurskurðarstefnunni sem myntsamstarf evru-ríkjanna kallaði á, fengu hreinan meirihluta á þingi.

Þetta voru „5 Stjörnu hreyfingin“ (5*)  (35-36% atkv.) og Lega-Salvini flokkurinn (L-S) (17-18% atkv).  Þótt þessir flokkar teldust báðir ganga gegn „kefinu“ og hefðu stimpil „populista“ komu þeir nánast úr sitt hvoru áttinni: 5* hafði stolið fylgi frá PD („vinstri-kanturinn“) og L-S hafði stolið fylgi frá FI („hægri-kantinum“). Kerfissinnar (miðjumenn) kölluðu þá „öfgaflokka til hægri og vinstri“. Mögulegri myndun „vinstri“ stjórnar með PD (um 17% atkv.) og 5* var hafnað af PD og þar með urðu fyrstu „hamskiptin“ þar sem „öfgaöflin“ til hægri og vinstri sameinuðust undir ráðuneyti lögfræðingsins Giuseppe Conte, sem var óflokksbundinn og utan þings, en studdur af 5*. Þessi stjórn setti 2 mál á oddinn á sínum stutta ferli: borgaralaun og stöðvun flóttamannastraums frá Afríku og Mið-Austurlöndum. Hið fyrra í nafni „jafnaðarstefnu“, hið síðara í nafni „fullveldishyggju“ sem flokksforinginn Matteo Salvini setti á oddinn sem innanríkisráðherra. Einnig var afnumin löggjöf niðurskurðarflokkanna í lífeyrismálum og réttur lífeyrisþega styrktur. Ekki var merkjanlegt viðnám gegn atvinnuleysi og samdrætti í þjóðarframleiðslu á stjórnartímanum sem varaði í um það bil 1 ár, þar til Matteo Salvini skar á líftaugina fyrirvaralítið í ágúst 2019.

Til að gera flókna sögu stutta lauk stjórnarkreppu Giuseppe Conte með því að hann fékk umboð til að mynda nýja stjórn með 5* hreyfingunni og höfuðandstæðingnum PD, sem 5* hafði skilgreint sem dyggasta þjón hins yfirþjóðlega auðvalds og niðurskurðarstefnu þess undir regnhlíf Evrópusambandsins. Þessi hamskipti áttu sér aðra og praktískari skýringu: í stjórnarsamstarfinu með L-S flokknum höfðu skoðanakannanir sýnt fylgishrap 5* og þetta fylgi fór ekki til PD heldur til L-S flokksins sem mældist í skoðanakönnunum með 30-35% fylgi. Sergio Mattarella forseta, gömlu kerfisflokkunum og 5* hreyfingunni var mikið í mun að koma í veg fyrir „ótímabærar“ þingkosningar við þessar aðstæður og því fékk Conte nýtt umboð til stjórnarmyndunar. Þar með urðu ný hamskipti, og 5* hreyfingin gekk nú í sæng með PD og „kerfinu“, en andstaðan gegn því hafði verið líftaug hreyfingarinnar frá upphafi. Fyrirboði þessara hamskipta sást reyndar á þingi Evrópusambandsins skömmu fyrir stjórnarslit, þar sem di Maio utanríkisráðherra og leiðtogi 5* réði úrslitum í tvísýnni kosningu um Ursulu von der Layen í forsæti Evrópusamstarfsins. Þar var fyrsta skrefið stigið hjá 5* hreyfingunni  yfir í sængina með „kerfisflokkunum“ á Evrópuþinginu. Baráttan á milli „Evrópusinnanna“ og „fullveldissinnanna“ gufaði þannig upp í 5* hreyfingunni en Lega-Salvini flokkurinn gekk í harða stjórnarandstöðu gegn nýju stjórninni sem fékk nafnið Conte2.  Stjórnartími Conte2 hefur að mestu snúist um „Recovery Plan“ Evrópusambandsins og stýringu Covid19-kreppunnar, sem hefur að mestu farið fram með tilskipunum úr forsætisráðuneytinu án aðkomu þingsins. Segja má að framkvæmd „Endurreisnaráforms“ Evrópusambandsins hafi orðið banabiti Conte2 stjórnarinnar, en það var flokksbrot úr PD flokknum undir forystu Matteo Renzi sem veitti Conte2 náðarhöggið í þetta sinn með því að neita að styðja stuðningsyfirlýsingu við stjórnina í atkvæðagreiðslu á þingi.

Deilurnar um „Recovery-plan“ ESB voru reyndar svo flóknar að almenningur var hættur að skilja um hvað málin snerust og á það ekki síður við um stjórnarsinna en andstæðinga. Mynd fjölmiðla af þessum deilum var handan alls þess veruleika sem almenningur á við að glíma: 450.000 hafa misst vinnuna af völdum Covid19, þúsundir fyrirtækja lokað, skólar verið óstarfhæfir í heilt ár og vonarglæta bóluefnanna eins og fjarlægar hillingar og mýraljós. Allir fréttatímar sjónvarps síðastliðið ár hafa byrjað með „fjölda látinna“ og „fjölda smitaðra“ síðasta daginn, og skelfingin hefur lagst yfir mannlífið eins og þoka.

En hringekjan var ekki stöðvuð: á krepputímum má ekki ganga til kosninga, allra síst ef það eykur á „smithættuna“ sagði Mattarella forseti og dró óvænt nýja kanínu upp úr pípuhatti sínum. Eftir stutt samtöl við leiðtoga þingflokkanna sagðist hann sjá að ekki væri möguleiki á nýrri stjórnarmyndun undir forystu Conte, en bæði 5* og PD og smærri stuðningsflokkar Conte2 á þingi höfðu lagt áherslu á að hann væri eina sameiningaraflið er gæti myndað starfhæfa ríkisstjórn. Forsetinn virti vilja þingflokkanna að vettugi og veitti að eigin frumkvæði fyrrverandi bankastjóra Evrópska Seðlabankans umboð til stjórnarmyndunar: Mario Draghi varð skyndilega og óvænt hið nýja sameiningartákn, hagfræðingur sem stóð utan flokka og utan þings og hafði „bjargað evrunni og Ítalíu“ á sögulegri stund er hann lýsti því yfir þegar skuldastaðan var að sliga ítölsku ríkisfjármálin að Evrópubankinn myndi gera „whatever it takes“ til þess að bjarga skuldastöðu Ítalska ríkisins með kaupum á ítölskum ríkisskuldabréfum. Þetta er aðferð sem kallast „quantitave easing“ á tæknimáli hagfræðinnar og felst í því að prenta peninga þegar fjárstreymisstífla myndast í hagkerfinu. Kollsigling Ítalíu hefði kostað kollsiglingu evrunnar, en þessi aðgerð Evrópubankans var engu að síður framkvæmd gegn vilja þýskra stjórnvalda.

Þessi aðgerð Mario Draghi gerði hann að þjóðsagnapersónu á Ítalíu, og nú fór hringekjan heldur betur að snúast: allir flokkar á þingi lýstu skyndilega yfir stuðningi við þennan nýja „bjargvætt“ þjóðarinnar, líka L-S flokkurinn. Einungis Ítalska Bræðralagið (Fratelli di Italia) kallaði á tafarlausar kosningar, en þessi flokkur sem hefur þrefaldað fylgi sitt í skoðanakönnunum frá síðustu þingkosningum (úr5% í 15%) skilgreinir sig lengst til hægri í litrófinu og byggir á þjóðernishyggju og klassískri íhaldssemi. Hvað veldur hamskiptum Salvini, og hvaða baktjaldaleikhús er hér í gangi?

Til þess að skilja það þarf að líta svolítið til forsögu Mario Draghi, þessarar persónu sem er sveipuð dularhjúp og talar nær aldrei við fjölmiðla, að því er virðist af eðlislægri hlédrægni. Hann er 73 ára og má segja að hann sé fæddur inn í valdastöður fjármálaheimsins því faðir gegndi stjórnunarstöðum í nokkrum helstu fjármálastofnunum Ítalíu. Draghi útskrifaðist sem doktor í hagfræði frá Sapienza háskólanum í Róm þar sem hann naut leiðsagnar prófessors að nafni Federico Caffé, sem var af skóla svokallaðrar Keynesíanskrar hagfræði og því andstæðingur Chicago-skólans og svokallaðrar frjálslyndisstefnu í hagstjórn: ríkisafskipti eru nauðsynleg til að stýra markaðshagkerfinu segja Keynesianar. Þessi uppruni Draghi mun vera ein skýring þess að málsmetandi hagfræðingar af hinum Keynesíanska skóla innan L-S flokksins hafa lýst stuðningi við Draghi sem forsætisráðherra. Starfsferil sinn hóf Draghi sem háskólaprófessor, en hann dróst inn í fjármálaheiminn, fyrst sem ráðgjafi Alþjóðabankans í Washington, svo sem ráðgjafi ítalskra stjórnvalda þar sem hann varð einn helsti hvatamaður að einkavæðingu stærstu fyrirtækjanna í eigu ítalska ríkisins á 9. og 10. áratug síðustu aldar. Á sama tíma varð hann forstjóri Goldman Sachs International – alþjóðadeildar bankans sem kom stórlega við sögu í gjaldþrotum Grikklands. Hann varð yfirmaður Seðlabanka Ítalíu 2005 og síðan einnig forstöðumaður alþjóðastofnunarinnar Financial Stability Board sem var samráðsvettvangur hins yfirþjóðlega fjármálavalds stærstu bankastofnana heimsins. Kórónan á fjármálaferli hans var síðan bankastjórastaðan í Seðlabanka ESB frá 2011-2019. Hann hefur því gegnt leiðandi stöðu yfir landamæri þjóðríkjanna og haft leiðandi áhrif á stefnu ESB í fjármálum, þar með talið aðkomu ESB að gríska gjaldþrotinu 2010 og hamskiptum Syriza-flokksins og leiðtoga hans, Alexis Tsipras, sem gekkst undir afarkosti þríeykisins (Alþjóðabankans, Alþjóða gjaldeyrissjóðsins og ESB) þvert gegn vilja þjóðarinnar. Margir stuðningsmenn L-S flokksins telja nú að Salvini sé að fylgja fordæmi Tsipras og gangast undir þá afarkosti sem óhjákvæmilega tengjast hinum leyndardómsfulla ráðamanni í heimi þess yfirþjóðlega valds sem skirrtist ekki við að ganga gegn yfirlýstum vilja grísku þjóðarinnar í lýðræðislegum þingkosningum. Þar voru hagsmunir bankanna settir ofar lýðræðinu með skýlausum hætti.

Nú stendur Ítalía frammi fyrir efnahagskreppu sem enginn spámaður á sviði hagfræðinnar virðist sjá hvernig hægt sé að snúa við – innan þeirrar spennutreyju sem hið yfirþjóðlega fjármálavald hefur lagt á heiminn. Þau 27 ríki sem tilheyra evru-svæðinu gerðu með sér svokallaðan „Stability and Growth pact“ sem tók gildi1998 og í endurnýjaðri mynd 1. Janúar 1999. Samkvæmt þessum sáttmála eiga aðildarríki myntsamstarfsins ekki að skulda meira en sem nemur 60% af vergri þjóðarframleiðslu. Þessi sáttmáli er hin formlega forsenda niðurskurðarstefnu ESB: fari aðildarríkin yfir strikið eiga þau að draga saman ríkisútgjöld þar til þessu markmiði er náð. Þessi „Stöðugleikasáttmáli“ er hvort tveggja í senn, hornsteinn myntsamstarfsins og hornsteinn svokallaðrar „niðurskurðarstefnu ESB“ sem útilokar ríkisafskipti af hinum frjálsa markaði innan ramma sameiginlegrar myntar.

Segja má að málsmetandi hagfræðingar á svokölluðum vinstri og hægri væng ítalskra stjórnmála hafi sameinast um gagnrýni á þessa stefnu, oftast í nafni svokallaðrar Keynesískrar hagfræði sem byggir á kröfunni um inngrip ríkisins í fjármálamarkaðinn þegar gefur á bátinn. Efnahagskreppa Ítalíu á sér jafn langan aldur og „Stöðugleikasáttmálinn“. Allt frá 1992 hefur þjóðarframleiðsla og kaupmáttur launa dregist saman og atvinnuleysi aukist. Þetta er vítahringur sem enginn sér í raun fram úr þegar litið er á staðreyndir málsins: lítum aðeins á meðfylgjandi línurit yfir skuldastöðu nokkurra skuldugustu ríkja ESB miðað við þjóðarframleiðslu. Tölfræðin er opinber frá þessu ári. Meðaltal evru-svæðisins er 86,3% á þessu ári. Hlutfallstala Ítalíu er 137,6%. Meira en tvöfalt markmið Stöðugleikasáttmálans og nálgast Grikkland.

Þjóðarskuldir sem hlutfall af vergri þjóðarframleiðslu í nokkrum aðildarlöndum ESB 2021

 

Ítalía er jafnframt það land sem hefur farið hvað verst út úr Covid19 plágunni í Evrópu. Bæði efnahagslega, heilsufarslega og pólitískt. Þjóðin hefur nú þörf fyrir lántökur til að standa straum af veiruplágunni upp á hundruð milljarða evra. Sumir spámenn segja að þetta skuldahlutfall fari upp í 160% á næsta ári/árum eða jafnvel meira. ESB hefur nú í undirbúningi „Rcovery Plan“ sem er neyðaráætlun um endurreisn þar sem sjóðum bandalagsins verður veitt í endurreisn – sumir segja í líkingu við Marshall-aðstoðina. Hvaðan kemur þetta fé? Frá aðildarríkjunum, þar sem Ítalía er þriðji stærsti „hluthafinn“ á eftir Þýskalandi og Frakklandi. Málsmetandi menn hafa sagt að þetta sé sýndarmennska í líkingu við það að pissa í skóinn sinn til að halda hita. En það verður varla dregið í efa að Mario Draghi er efnilegur leikstjóri fyrir þennan sýndarleik. Hann hefur verið að undirbúa sig undir þetta kraftaverk allan sinn glæsta starfsferil, og hvað gera salamöndrur stjórnmálanna andspænis töframanninum: þær skipta litum.

Forsíðumyndin: Sergio Mattarella forseti Ítalíu og Mario Draghi fyrrverandi forstjóri Seðlabanka Evrópu ræða væntanlega stjórnarmyndun á Ítalíu í forsetahöllinni nýverið

 

 

 

 

Sjálfsákvörðunarréttur þjóða og hinn yfirþjóðlegi fjálmálamarkaður

Átakavettvangur kosninganna á Ítalíu

Sjálfsákvörðunarréttur þjóða og hinn yfirþjóðlegi fjálmálamarkaður

Ég hef reynt að fylgjast með stjórnmálum á Ítalíu frá því ég kom þangað fyrst fyrir 52 árum síðan.
Oft hefur verið erfitt fyrir utanaðkomandi gesti að skilja þann flókna hagsmunavef sem hefur mótað þessa ævintýralegu sögu sem oft hefur nálgast átakavettvang glæpareifarans með hinu flókna hugmyndafræðilega samspili kaþólsku og kommúnisma, miðstýringar og stjórnleysis sem hefur einkennt þessa sögu. Og enn í dag ganga Ítalir að kjörborðinu í sögulegum kosningum til þingsins, og satt að segja virðist átakavettvangurinn flóknari nú en nokkru sinni og niðurstöðurnar ófyrirsjáanlegri.
Málið er flóknara en svo að það komist fyrir á einni blog-síðu, og forsagan flóknari en hægt er að skýra í stuttu máli.
Margir flokkar og „flokkabandalög“ eru í framboði og kosningalögin eru nánast óskiljanleg fyrir allan almenning, að hluta til eiga úrslitn að verðlauna stærstu flokkana, að hluta til eiga allir flokkar að búa við sömu hlutfallaregluna.
Þessi óskapnaður var málamiðlun Demókrataflokksins og FI-flokksins (flokks Silvio Berlusconi) og átti að tryggja tveggja flokka kerfi. Það þveröfuga gerðist og síðasta áratuginn hafa amk. þrír flokkar verið á jöfnu róli, og nú enn fleiri, en það sem ruglar dæmið er einkum 5 stjörnu hreyfingin sem kennd er við grínistann Beppe Grillo, sem síustu skoðanakannanir segja stærsta flokkinn með um 30% fylgi. Þessi flokkur eða hreyfing hefur ekki staðfesta stefnu í öðru en að „vera á móti kerfinu“ og hefur því ekki verið tekinn alvarlega af hinum flokkunum.
Hinir pólarnir eru Demókrataflokkurinn (PD) sem er sögulegir arftaki gamla Kommúnistaflokksins og telst meðal sósíaldemókrata á evrópskan mælikvarða (og skoðanakannanir hafa sagt hafa um eða undir 20% atkvæða) og Kosningabandalag Mið-hægri flokkanna (hagsmunabandalag vegna kosningalaganna) sem skoðanakannanir hafa sagt sigurstranglegast með allt að 40%. Þetta er bandalag FI, Lega og Fratelli d’Italia, þar sem FI og Lega eru taldir berjast um yfirráð með rúm 15% hvor flokkur og Fratelli-flokkurinn 5-10%. Skoðanakannanir eru 2 vikna gamlar og því ónákvæmar.

Fyrir utanaðkomandi er þetta síðasttalda bandalag mesta ráðgátan,en FI flokkurinn (og mið-hægri bandalagið) eru gjarnan kennd við Silvio Berlusconi, margdæmdann fjársvikamann sem hefur verið sviptur kjörgengi og er því ekki í framboði. Flokkur hans er því höfuðlaus her, og tilnefndi sinn kandidat í forsætisráðuneytið örfáum dögum fyrir kosningar, lítt þekktan þingmann Evrópuþingsins sem ekki tekur þátt í kosningabaráttunni.

Það er ekki síst bandalagsflokkur Berlusconi, Lega-flokkurinn, sem hefur sett svip á kosningabaráttuna og valdið umróti og ótta, ekki síst vegna stefnu sinnar í Evrópumálum og gagnvart innflytjendum. Þessi flokkur á sér sögu sem flokkur aðskilnaðarsinna N-Ítalíu frá Róm, en átti engu að síður lengi samstarf við flokk SB á stjórnartíma hans. Lega flokkurinn hefur nú kúvent, tekið „norður“-hugtakið úr nafni sínu og hafið kosningabaráttu af miklum krafti á landsvísu. Þessi umskipti hafa staðið yfir síðustu 2 árin, en urðu afgerandi þegar flokksleiðtoginn Salvini leiddi tvo virta hagfræðinga til áhrifa innan flokksins sem hafa frá áramótum hleypt nýju blóði í hina pólitísku umræðu, þó málflutningur þeirra hafi átt erfitt uppdráttar í meginfjölmiðlum. Margir spá því nú að Lega-flokkurinn verði stærri en FI innan „Mið-hægri bandalagsins“ og fái því rétt til að tilnefna forsætisráðherraefni bandalagsins. Það vald er þó formlega í höndum Mattarella forseta lýðveldisins.

Hver eru þá deiluefnin sem kosningarnar snúast um?
Það sem fyrst blasir við hjá hinum almenna kjósanda er atvinnuleysið sem hefur verið 12% og 25-30% hjá ungu fólki. Þetta hefur verið viðvarandi ástand undanfarinn áratug og tengist efnahagslegri stöðnun sem lýsir sér í samdrætti í þjóðarframleiðslu og samdrætti í félagslegri þjónustu. Upphaflega var þessi slæma útkoma gjarnan tengd stjórnarferli Silvio Berlusconi, en þar sem PD hefur ekki fundið lausnir á þessum vanda á valdatíma sínum hefur almenningur glatað trausti sínu á flokkakerfinu, hinni hefðbundnu pólitík, og þannig skýrist hið mikla fylgi 5 stjörnu hreyfingarinnar. Fáir trúa því þó að sú hreyfing hafi lausnir á þessum vanda, og því leita menn skýringa annars staðar.

Þessi umræða hefur tengst innflytjendavandanum og tregðu Evrópusambandsins að deila þeim vanda með Ítölum, sem hafa borið þyngstu byrðina eftir innrás NATO-ríkja í Líbýu og hernað BNA og bandalagsríkjanna í Mið-Austurlöndum með tilheyrandi flóttamannastraumi.

Það eru þessi tengsl ESB við hinn pólitíska vanda á Ítalíu sem nú veldur titringi í valdamiðstöðum sambandsins í Brussel, Berlín og Frankfurt. Það er ekki síst málflutningur Lega-flokksins sem veldur þessum skjálfta, en einnig tortryggni í garð sambandsins meðal kjósenda 5 stjörnu hreyfingarinnar og flokks Berlusconi. En Berlusconi lýsti því nýverið yfir að hann myndi senda 600.000 „ólöglega“ innflytjendur til heimahúsanna ef hann kæmist til valda.

Hin almenna pólitíska umræða í Evrópu hefur búið til orðið „popúlisma“ um þau stjórnmálaöfl sem hafa haft uppi efasemdir um myntsamstarfið og og þá skerðingu á lýðræði sem Evrópusamstarfið hefur haft í för með sér. Þetta neikvæða slagorð er til þess fallið að breiða yfir þann raunverulega vanda sem blasir við öllum almenningi og gefur nú til kynna að öll stærstu stjórnmálaöflin á Ítalíu að Demókrataflokknum undanskildum séu „popúlísk“ og sem slík óalandi og óferjandi. Demókrataflokkurinn gengur til móts við sögulegan ósigur í kosnngunum í dag undir kjörorðum um „stöðugleika“ og „ábyrgð“ er felast í óbreyttum grundvallarreglum í samstarfinu innan ESB. Öll hin öflin beina spjótum sínum gegn ESB.

Þar eru áherslur þó mismunandi. Fimm stjörnu-hreyfingin er hætt að berjast fyrir úrsögn úr myntsamstarfinu, án þess að benda á valkosti. Silvio Berlusconi segist líka styðja myntsamstarfið en hefur óskýra stefnu gagnvart sambandinu að öðru leyti. Hagfræðingarnir sem hafa gengið til liðs við Lega-flokkinn hafa hins vegar beitt sinni fræðilegu þekkingu til þess að greina þann vanda sem myntsamstarfið hefur skapað, og reynt að móta mótvægisstefnu gegn þeim.

Hagfræðingurinn Alberto Bagnai, sem er helsti efnahagsráðgjafi Lega flokksins, á sér sögu sem fræðimaður og gagnrýnandi myntsamstarfsins allt frá því Maastricht samkomulagið var gert 1992, en það var undanfari Evrunnar sem tekin var í notkun 2002. Bagnai hefur með sannfærandi fræðilegum málflutningi rakið meginorsök þeirrar stöðnunar sem verið hefur viðvarandi á Ítalíu undanfarinn áratug til þess ójöfnuðar sem óhjákvæmilega verður fylgifiskur þess að ólík hagkerfi eiga að starfa í innbyrðis samkeppni undir sama gjaldmiðli án þess að hann sé tengdur sameiginlegri stjórnsýslu hvað varðar vexti, viðskiptajöfnuð skuldaábyrgð og aðra meginþætti stjórnmálanna. Það merkilega er að þessi hagfræðingur skrifaði sínar fræðigreinar upphaflega í málgögn sem voru talin yst á vinstri-vængnum (il manifesto og síðar Il Fatto Quitidiano) en er nú helsti málsvari Lega-flokksins sem telst „til hægri“ við flokk Berlusconi og hefur uppi slagorð um „þjóðleg gildi“ og „Ítalía fyrst“ í anda Trump forseta BNA. Enginn fræðimaður hefur svarað greiningu Bagnai með fræðilegum rökum, enda eru hagfræðiskýringar hans byggðar á alþekktum rökum sem nóbelsverðlaunahafinn Stieglitz hefur verið hvað ötulastur að setja fram um strúktúrgalla evrópska myntsamstarfsins. Hér stöndum við þannig frammi fyrir þeirri þversögn að hið málefnalega frumkvæði í kosningabaráttunni hefur komið fram frá gömlum róttæklingi sem nú er í framboði fyrir flokk sem er ekki bara kenndur við popúlisma, heldur jafnvel rasisma og kynþáttastefnu.

Þetta skýrir að einhverju leyti glundroðann í ítölsku kosningabaráttunni, en segir þó alls ekki alla söguna. Það er tiltölulega auðvelt að sýna fram á að Evran hefur gert Þýskaland með sinn jákvæða viðskiptajöfnuð að fjárhagslegu yfirvaldi yfir þeim „jaðarríkjum“ innan sambandsins sem búa við neikvæðan viðskiptajöfnuð en sama gjaldmiðil og að þau eru dæmd til viðvarandi efnahagslegrar stöðnunar með „niðurskurðarstefnu“ ESB. Þó búið sé að greina efnahagslegu forsendurnar, þá skortir á hina pólitísku, tilfinningalegu og sálfræðilegu greiningu sem tengist þessum leikreglum óbeint, en einnig heimspólitíkinni í víðara samhengi.

ESB var sambandið sem átti að efla jaðarríkin til jafnræðis við höfuðbólin í Þýslkalandi og Frakklandi. Nú hefur hið þveröfuga sýnt sig að vera niðurstaðan eftir 10 ára stöðnunartímabil. Þá kemur í ljós að þessi vandi virðist ekki komast á dagskrá stjórnmálanna, þar sem hann er ofar því sem kallað hefur verið „sjálfsákvörðunarréttur þjóða“, og er orðið úrelt slagorð í alþjóðastjórnmálum eins og Grikkir hafa t.d. sannreynt. Þjóðríkið sem slíkt hefur fúnar og feysknar undirstöður á tímum hins fjölþjóðlega fjármálavalds, og almenningur skynjar vel að stjórnmálaflokkarnir hafa lítið eða ekkert að segja um vandamál dagsins: réttinn til vinnu, menntunar, heilsugæslu, lífeyris o.s.frv.

Þetta skapar ekki bara efnahagslega neyð eða skort, þetta framkallar tilfinningalegt og sálrænt öryggisleysi sem birtist í vantrausti á stjórnmálunum og uppvaxandi „popúlisma“. Hverjar eru sálrænar og tilfinningalegar afleiðingar þess að upplifa upplausn slíkrar undirstöðu tilverunnar sem hugtakið „sjálfsákvörðnarréttur þjóða“ hefur verið allt frá tilkomu upplýsingar í Evrópu á 17. og 18. öldinni?

Þetta eru spurningar sem ekki komast upp á yfirborðið í kosningabaráttunni á Ítalíu, en kalla engu að síður á umhugsun ef við viljum í reynd reyna að skilja hvernig stjórnmálaumhverfið getur breyst með jafn afgerandi hætti á svo stuttum tíma. Það er ekki hægt að horfa framhjá þeirri staðreynd að eins og er þá hafa hugtökin hægri og vinstri ekki skýra merkingu í ítölsku kosningabaráttunni. Þetta ástand á sér hliðstæður í Austurríki, Frakklandi, Póllandi, Ungverjalandi, Króatíu, Grikklandi og þó víðar væri leitað, svo ekki sé minnst á Bretland.

Einhver kynni að halda að ég væri með þessum pistli að lýsa yfir stuðningi mínum við „hægri-flokkinn“ Lega Salvini, sem hefur verið orðaður við rasisma og flest illt. Það er ekki svo. Mér sýnist margt undarlegt við einstakar hugmyndir þessa flokks, en umfram allt þá er eitt sem skortir í málflutning allra flokkanna sem nú gefa kost á sér til þingsins á Ítalíu: spurningin um framtíðarmarkmið ESB og hlutverk þess í heiminum. ESB hafði í upphafi stórbrotin markmið um að skapa frið í álfunni. Nú er Sambandið orðið uppspretta nýrrar þjóðernisstefnu, sem getur allt eins orðið stórhættuleg ef hún miðar að afturhvarfi til hins gamla þjóðríkis. Mikilvægasta vandamálið í Evrópskum stórnmálum á okkar tímum er að marka ESB framtíðarstefnu og framtíðarsýn sem íbúar Evrópu geta fundið sig í sem fullgildir þegnar. Afturhvarf til hins gamla þjóðríkis mun fela í sér upplausn og átök. Því miður var mikilvægasta pólitíska vandamálið í Evrópu ekki á dagskrá í ítölsku þingkosningunum  2018.

%d bloggers like this: