„THE GREAT RESET“ EÐA MARTRAÐARSÝN FYRIR MANNKYNIÐ
Samtal um mannlega tilveru í kjölfar veirupestarinnar
Guido Grossi er ítalskur hagfræðingur sem gegndi háttsettum ábyrgðarstöðum m.a. innan stærstu banka Ítalíu, Banca Nazionale del Lavoro og Ítalska seðlabankans (Banca d‘Italia), áður en hann sagði skilið við innviði bankakerfisins og fjármálaheimsins og fór að rannsaka hann utan frá sem sjálfstæður óháður fræðimaður. Síðustu árin hefur hann gerst virkur í ítölskum stjórnmálum, m.a. með aðild að samtökum og tímariti sem kenna sig við „Sovranità popolare“ eða „fullveldi alþýðunnar“ og hafa meðal annars gagnrýnt neikvæð áhrif myntsamstarfs evru-ríkjanna á ítalskt efnahagslíf á síðustu árum. Guido Grossi hefur verið ötull við að fræða almenning um virkni og eðli þess yfirþjóðlega fjármálakerfis sem heimurinn býr nú við og byggir í grundvallaratriðum á skuldasöfnun.
Í fyrradag birti sjónvarpsstöðin Byoblu athyglisvert og fróðlegt viðtal við Grossi um þær hugmyndir sem hafa verið reifaðar innan margra miðstöðva hins yfirþjóðlega fjármálaheims undanfarið um nauðsyn þess að framkvæma grundvallarbreytingu á hagkerfi heimsins með kerfisbreytingu sem einvalalið alþjóðahyggju auðkýfingana gaf nýverið enska heitið „The Great Reset“ á fundi sínum í DAVOS í Sviss, en á máli tölvualdar myndi það þýða „hin mikla endurræsing“, þar sem hagkerfi heimsins er líkt við bilaða tölvu er þyrfti nauðsynlega að endurræasa með hnýjum hugbúnaði.
Hér er birt stytt video-útgáfa viðtalsins og endursögn eða útdráttur í styttu máli, þar sem Grossi er fyrst spurður hvað þetta feli í sér.
– Endurræsingin („the reset“) merkir, segir Grossi, að byrja þurfi á nýjan leik með hreint borð, því núgildandi kerfi sé hætt að virka. Ástæður þess eru flóknar, en ef við horfum á það frá heimsvísu, þá blasa við vandamál fólksfjölgunar og fólksflutninga, umhverfisvandamál, vandamál framleiðslu og neyslu, vaxandi misrétti, vaxandi atvinnuleysi og síðast en ekki síst hraðvaxandi skuldasöfnun. Allt vandamál sem eru til staðar vegna aðgerða fjármálavaldsins, þeirra sömu afla sem segjast nú vilja snúa við blaðinu og byrja upp á nýtt.
Ég þekkti vel innviði fjármálaheimsins meðan ég starfaði þar, segir Grossi, en ég skildi ekki heildarmyndina fyrr en ég sleit mig frá þessum stofnunum og fór að horfa á þetta utan frá. Viss umsnúningur hefur átt sér stað í fjármálakerfi heimsins á undanförnum áratugum. Hér áður fyrr laut fjármálaheimurinn yfirstjórn og eftirliti stjórnvalda einstakra ríkja eða eftirliti stjórnmálanna sem slíkra á meðan seðlabankar og stærstu fjármálastofnanir voru í ríkiseign. Nú búum við við þær aðstæður að fjármálastofnanirnar hafa verið einkavæddar og nú eru það þær sem setja stjórnvöldum einstakra ríkja reglurnar. Þetta hefur gerst hægt og sígandi samfara uppbyggingu þess fjármálakerfis sem nú ríkir og byggir fyrst og fremst á skuldsetningu, þar sem þessar einkavæddu fjármálastofnanirnar, búa til peninga úr engu (í skjóli einokunarréttar) og skapa þannig innistæðulausan „hagvöxt“. Stjórnvöld einstakra ríkja eru þannig skilyrt af lánveitendunum sem hafa skuldakröfur sínar sem vogarafl, án þess að hafa kostað nokkru til, þar sem þessar stofnanir hafa einkaleyfi á að búa til peninga úr engu.
Nú telja sameiginlegar skuldir þjóða heimsins um 260.000 miljarða dollara, sem mun vera nálægt þrefaldri þjóðarframleiðslu allra ríkja heimsins. Það er deginum ljósara að þessar skuldir verða aldrei endurgreiddar, og á bak við þessa miljarða hvílir ekkert nema tiltrú.
Þó þessar skuldir væru afskrifaðar myndi það ekki valda útgefendunum neinum efnislegum skaða, því þeir hafa engu til kostað. Eini skaðinn væri glötun þess vogarafls sem skuldakröfurnar veita gagnvart skuldunautunum. Þetta vogarafl byggir á almennri tiltrú sem nú er að bresta um allan heim. Sú spurning vaknar hvers vegna og hvernig við (og stjórnvöldin sem við höfum kosið yfir okkur) hafa veitt einkareknum fjármálastofnunum þennan einkarétt og þetta ofurvald. Sú spurning vaknar líka hvort við eigum að trúa þeim sömu öflum sem hafa skapað þetta ástand til að umturna því með því sem þau kalla „The Great Reset“? Hvað felst í þessum áformum úrvalsliðs miljarðamæringanna í DAVOS, sem nú eru upphafsmenn þessarar umræðu?
Þessar aðstæður hafa, segir Grossi, myndast hægt en með sívaxandi þunga, sem nú hefur leitt til þess að stór hluti almennings er farinn að vantreysta bæði stjórnvöldum og fjármálastofnunum. Mikilvægur áfangi þessarar þróunar fólst í afnámi gullfótarins gagnvart dollara 1971, og gagnvart öðrum gjaldmiðlum í kjölfarið. Gullið hentaði ekki lengur, því við getum hvorki nært okkur né klætt á gulli. Í framhaldi þessa var skuldsetning einstakra ríkja að þessu vogarafli heimsvæðingar viðskiptanna þar sem samkeppni heimsmarkaðsins var jafnframt sett á oddinn. Til þess að standa undir vaxtakröfum lána þurftu stjórnvöld að selja ríkiseignir og náttúruauðlindir, hækka skatta og draga úr eða einkavæða þjónustu hins opinbera.
Frá sjónarhóli fjármálavaldsins vænkast hagur þess því meir sem einstök ríki skuldsetjast og sýna hallarekstur og því meir sem atvinnuleysi eykst. Það styrkir eignarhald fjármálavaldsins á auðlindum. Þessi þróun stenst til skamms tíma en á sér augljós takmörk. Um leið sjáum við að hið yfirþjóðlega fjármálavald hefur fyrst og fremst tvíþætt meginmarkmið: að veikja tilvist ríkisvaldsins sem slíks og alla tiltrú á það, samfara vélvæðingu vinnumarkaðsins; allt undir því merki að vinnan sé ekki fyrir alla á vélvæddri tölvuöld og heldur ekki á allra valdi. Atvinnuleysi sé eðlilegt ástand á tækniöld. Hins vegar er ljóst að tiltrú almennings á þessu kerfi er nú að bresta, og því er kallað á „umsnúning“.
Hvað felur „The Great Reset“ í sér?
Grossi bregður sér í hlutverk hugmyndabankastjóranna frá DAVOS og segir okkur að það fyrsta sem við munum sjá sé afnám peninganna, um leið og búin verður til ein sameiginleg alheimsmynt á stafrænu formi undir miðstýrðri alheimsstjórn. Við sjáum þegar í samtímanum háværar kröfur um afnám smitberandi seðla og smámyntar, en það er aðeins forleikurinn að afnámi ríkismyntanna sem slíkra, þar með talið dollarans og evrunnar og yensins. Í stað þeirra verður framboðið stafrænt fjármagn sett undir eina alheimsstjórn, sem stýrt er af þeim sömu öflum og hafa komið okkur í þennan vanda.
Um leið verða allar ríkisskuldir afskrifaðar. Þetta felur jafnframt í sér eignaupptöku skuldaranna þar sem úrelt smáfyrirtæki og úrelt millistétt smá-atvinnuveitenda hverfur undir verndarvæng alþjóðlegra viðskiptakeðja er yfirtaka vörudreifingu og þjónustu. Ríkisvaldið fær hlutverk sem afgreiðslustofnun hins yfirþjóðlega fjármagns þar sem hlutverk þess verður fyrst og fremst að tryggja afkomu almennings með svokölluðum „borgaralaunum“, er koma í stað atvinnuleysisbótanna. Vinnan sem slík verður afskrifuð sem undirstaða mannlegra gilda, í stað stéttabaráttu launþegans (og sjálfsvirðingar hans) kemur þegnskapurinn við fjármálakerfið í hlutverki bótaþegans. Í stað vinnunnar sem forsendu skapandi tilveru koma framfærslustyrkir borgaralaunanna. Í stað samstöðu á vinnumarkaði kemur samkeppnin: þeir verðskulduðu sigra eins og í hæfileikakeppnum sjónvarpsins, hinir verða bótaþegar í forsjá tryggingakerfisins, því vélarnar og stafræna tæknin leysa vinnuaflið af hólmi. Samstaðan verður dyggð sem yfirfærist á herðar alþjóðlegra hjálparstofnana sem losa okkur undan slíkum áhyggjum og alþjóðlegar sóttvarnarstofnanir munu sjá um að halda utanaðkomandi váberum og smitberum í þar til gerðum sóttvarnarhólfum og stofnunum.
Það er ekki síst núverandi veirufaraldur sem hefur gefið þessum hugmyndum byr undir vængi. Heimurinn bíður nú í ofvæni eftir bólusetningu, þegnskyldu sem verður um leið aðgönguforsenda að annarri þjónustu á sviði samgangna og heilbrigðisþjónustu. Þegnskyldan gagnvart ógn veirunnar verður eins og leikskólinn, undirbúningur undir þá tilveru sem koma skal undir traustri stjórn tölvuvæddrar alheimsstjórnar þegar veiran hefur verið sigruð…
Er þetta það hlutskipti sem við kjósum okkur? spyr Guido Grossi, og hefur ekki afgerandi valkosti á boðstólnum fyrir mannkynið í heild sinni, því þeir hljóti að mótast af staðháttum. En þeir hljóti að taka mið af þeirri hugsun að peningar séu ekki markmið í sjálfu sér til að stjórna lífi okkar, heldur í besta falli eitt af mörgum meðulum til að skapa manninum merkingarfulla tilveru. Því séu hugmyndirnar frá DAVOS um „The Great Reset“ fyrst og fremst martraðarlík framtíðarsýn fyrir mannkynið.