LÖGMÁL HAGFRÆÐINNAR OG STJÓRNMÁLANNA

 

Kosningabaráttan á Ítalíu og stjórnmálaumræðan í Evrópu

Úrklippa úr dagblaðinu La Repubblica í dag: Georgia Meloni, leiðtogi Ítalska bræðralagsins (Fratelli di Italia), sem skoðanakannanir segja að verði leiðtogi og forsætisráðherraefni hægri-blokkarinnar í ítölskum stjórnmálum í kjölfar væntanlegra kosninga. Hún er fulltrúi „þjóðernissinnaðrar íhaldsstefnu“ og blaðið hefur eftir henni: „Svona verður landið að þjóð og borgararnir að föðurlandssinnum…“

Fyrsta lögmálið sem við lærum í hagfræði er að framboð og eftirspurn stjórni markaðsverði: þegar framboð eykst lækkar verðið, þegar eftirsókn eykst hækkar það.

Nú er komið að tímamótum í sögu hagfræðinnar: minnkandi framboð hækkar verð á orkugjöfum upp úr öllu valdi. Þegar ekki er hægt að auka á framboðið er gefin út tilskipun frá ESB og stjórnvöldum sjö af stærstu orkuneytendum í heiminum (kallast G7): setja skal lögbundið þak á orkuverð frá Rússlandi um víða veröld. Ekki er enn ljóst hvort þetta eigi að ná til annarra framleiðenda á orku, né hver verðmiðinn verði.

Þessi örvæningarfulla umræða um orkukreppuna tekur reyndar á sig hinar ótrúlegustu myndir, en það sem einkennir hana fyrst og fremst virðist vera hlaup kattarins í kringum þann sjóðheita graut sem ekki má snerta: Siðmenning Vesturlanda, sem hafa búið til þetta órjúfanlega lögmál hagfræðinnar sem áður var nefnt og enginn vill afneita, horfist nú í augu við að örlög hennar byggja á fyrirfram gefnu og óheftu framboði þeirrar orku sem er undirstaða iðnvæðingarinnar og þar með allra tækniframfaranna: og nú eru það einmitt Vesturlönd sem vilja taka þessi lögmál úr sambandi: yfirlýsingar forseta ESB um þetta baráttumál sambandsins sem lausn á orkukreppunni voru fyrsta málið í sjónvarpsfréttum á Íslandi í dag, og voru sögð svar við stríðsárás Rússlands á þessi grundvallarlögmál allrar hagfræði. Vopnið í höndum ESB og NATO í stríðinu gegn Rússlandi er að rjúfa þetta lögmál um samband framboðs og eftirspurnar. Þak skal sett á uppsprengt verð á rússnesku gasi.

Fyrsta Evrópulandið til að setja þetta stríðsvopn í dóm almennings í Evrópu er Ítalía, þar sem kosningar til þings eiga að fara fram innan þriggja vikna. Þessar kosningar eru reyndar óvenjulegar, því til þeirra er boðað í kjölfar afsagnar forsætisráðherrans, Mario Draghi, sem sagði af sér embætti án þess að hafa fengið á sig vantraust í þinginu. Stjórn sem hafði yfirgnæfandi meirihluta á þingi, og glímdi í raun aðeins við einn stjórnarandstöðuflokk sem máli skipti -með innan við 10% þingmanna- þó skoðanakannanir sýni hann reyndar nú með mest kjörfylgi allra flokka (hægri flokkurinn Ítalska bræðralagið, FI, um 23% fylgi samkvæmt nýlegum skoðanakönnunum).

Allir hinir þingflokkarnir sem máli skipta áttu aðild að þessari stjórn utanflokksmannsins og hagfræðisnillingsins  Mario Draghi, en keppast þó um að sýna sérstöðu sína í yfirstandandi kosningabaráttu, sem er einhver sú furðulegasta sem um getur.

Endalaus sjónvarpsviðtöl við leiðtoga stjórnarinnar sem ekki feldi sjálfa sig -en féll þó, einkennast af gagnkvæmum ásökunum um stjórnarslitin og meira og minna hástemmdu lofi um fráfarandi forsætisráðherra, sem auk þess að hafa stýrt bólusetningarherferð gegn kóvidveirunni með hervæðingu og stjórnskipunum, átti í ljósi hagfræðisnilldar sinnar stóran þátt í smíði þeirra flóknu ákvæða Vesturlanda um eignaupptöku, viðskiptabann og útilokun Rússlands úr hinu fjölþjóðlega viðskiptakerfi banka og fjármálaviðskipta sem svar við ummdeildri innrás Rússlands í Úkraínu í kjölfar 8 ára hernaðar þarlendra stjórnvalda gegn rússneskumælandi íbúum landsins.

Þrátt fyrir átakanlegar tilraunir leiðtoga um 5 fullgildra flokka og álíka margra smáflokka til að leggja áherslu á einstaka stefnu sína og óbrigðult erindi síns flokks á þingi, þá hljómar alls staðar sami söngurinn, þar sem fyrsta boðorðið er að rjúfa grundvallarlögmál hagfræðinnar: þak á orkuverðið.

Allir flokkar virðast styðja þetta illframkvæmanlega brot á lögmáli framboðs og eftirspurnar. En í kjölfarið koma fleiri kröfur og loforð:

Ríkisstuðningur við heimilin og fyrirtækin. Enginn flokkur hefur skilgreint þessi loforð í smáatriðum, en þau miða að því að auka kaupgetu heimila og fyrirtækja á orku. Sem aftur felur í sér aukna eftirspurn (og hækkandi orkuverð).

Í kjölfarið koma loforð sumra flokka um „hreina orku“, sem fela í sér fleir vindmyllugarða og sólarspegla, sem allir vita þó að vega engan veginn upp á móti orkuskortinum, þar sem Ítalía er snauð af olíulindum, fátæk af dýru jarðgasi og án kjarnorkuvera, og því það land í Evrópu sem er háðast gasinnflutningi frá Rússlandi ásamt Þýskalandi.

Í kjölfarið koma svo kröfur flestra flokka um lækkun skatta, sem eru reyndar með hæsta móti á Ítalíu í evrópskum samanburði. Skattalækkanir eiga eins og orkustyrkirnir að koma í veg fyrir fyrirsjáanlega lokun fyrirtækja og gjaldþrot heimilanna, þar sem hlutfall þeirra er lifa undir fátæktarmörkum er þegar mjög hátt (2 miljónir fjölskyldna eða 5,6 miljónir einstaklinga, 9,4% þjóðarinnar).

Ekki verður séð hvernig ríkissjóður á að mæta þessum útgjöldum öðruvísi en með lántökum, en skuldir ítalska ríkisins eru um þessar mundir um 150% af vergri þjóðarframleiðslu, sem er næst á eftir Grikklandi á Evrusvæðinu (209%) á meðan Poryúgal og Spánn skulda um 130%. Þessi lönd hafa öll farið langt yfir „leyfileg“ mörk ESB um skuldasöfnun. Þó þessar opinberu skuldir séu ærið áhyggjuefni fyrir ESB, þá siglir landið ennþá í skjóli ákvörðunar Mario Draghi, þáverandi bankastjóra Evrópubankans, frá árinu 2012, um að kaupa öll föl ítölsk ríkisskuldabréf, „whatever it takes“ til að koma í veg fyrir yfirvofandi gjaldþrot ítalska ríkisins á skuldabréfamarkaði. Þessi ákvörðun var talin hafa bjargað ekki bara ítalíu, heldur evrunni sjálfri frá gjaldþroti, og varð til að sveipa Draghi þeim hetjuljóma, sem enn umlykur þennan lykilmann í evrópskum stjórnmálum. En Adam verður ekki lengi í Paradís, því samkvæmt yfirlýstri stefnu BCE mun bankinn hætta að prenta evrur til að kaupa ríkisskuldabréf 1. Desember næstkomandi, og enginn veit hvað gerast mun þá á skuldabréfamarkaðnum. En búast má við stórhækkuðum vaxtakröfum á ítölsk ríkisskuldabréf, og þar með stórhækkaðri skuldabyrði og þrengri lánakjörum ríkisins.

Það sem vekur athygli í kosningabaráttunni á Ítalíu er ekki síst þetta: ekki verður fundinn áþreifanlegur munur á stefnuskrám þeirra meginflokka sem keppa um völdin, og verður þar nánast ógerningur að greina á milli hægri og vinstri, enda allir flokkar meira og minna undir vörumerkinu „Draghi“. Skiptir þá litlu hvort flokkar teljast til hægri eða vinstri samkvæmt hefðbundinni skiptingu. Þannig eru þeir tveir flokkar sem hafa haft hæst um stuðning við NATO og ESB í deilunum um Úkraínustríðið annars vegar „vinstri-flokkurinn“ PD (Partito democratico, arftaki gamla kommúnistaflokksins) og Fratelli di Italia, sá flokkur sem er talinn lengst til hægri og kenndur við „þjóðlega íhaldsstefnu“. Ef hægt er að greina stefnumun varðandi Úkraínustríðið, þá hafa tveir flokkar, Lega-Salvini (hægri) og Movimento 5 stelle (óskilgreind leif af gömlu grasrótarhreyfingunni) haft uppi afar varkárar efasemdir um vopnasendingar til Ukraínu, án þess þó að gera það að stórmáli.

Ástæðan fyrir þessari þoku í þessu andrúmslofti ítalskra stjórnmála liggur þó annars staðar. Hana má finna í ESB og ákvörðunum bandalagsins um „bjargráð“ gegn veirufaraldrinum frá síðasta ári: stofnun „Recovery Fund“ og „Europe next Generation“, en þetta eru sjóðir sem ESB kom sér saman um að mynda með seðlaútgáfu Evrópubankans til að endurreisa Evrópu eftir veirupláguna. Ítalía er það land sem fær lang stærsta bitann af þessari lánaköku, sem mun að stærstum hluta leggjast á skuldabagga þjóðarinnar, en til þess að úr því geti orðið þarf landið að fylgja skilyrðum ESB um fjárlagagerð, skattastefnu, reglugerðir varðandi opinberar framkvæmdir o.s.frv. Það verður því verkefni komandi ríkisstjórnar á Ítalíu að framkvæma þessa stefnu ESB, hvað sem öllum kosningaloforðum líður. En síðustu tölur herma að verðbólga á ítalíu sé nú um 8% og ekkert bendi til lækkunar hennar á næstunni, nema síður sé.

Þar sem fáir lesendur þessarar blog-síðu kunna ítölsku er erfitt að finna beina tilvitnun í stjórnmálaumræðuna á Ítalíu þessa dagana sem lesendur skilja. En þar sem ástandið á Ítalíu virðist í litlu frábrugðið því sem gerist á evrusvæðinu almennt, þá birti ég hér brot úr nýlegu sjónvarpsamtali við Robert Habeck, fjármálaráðherra og varakanslara Þýskalands, sem jafnframt er leiðtogi Græningja í Þýskalandi og yfirlýstur stuðningsmaður Zelensky í stríði hans við Rússa í Úkraínu. Habeck er hér að ræða orkukreppuna sem afleiðingu þessa stríðs og áhrif hennar á verðbólgu, atvinnulíf og afkomu fjölskyldnanna í Þýskalandi. Evrópsk stjórnmálaumræða á hæsta stigi um þessar mundir.

KARL KVARAN: ÉG FORÐAST ALLT SEM ER HÉRUMBIL…

MÁLVERKIÐ OG FLÖTUR ÞESS
Þegar ég fór að rifja upp gömul viðtöl við listamenn kom upp í hugan minnisstætt samtal sem ég átti við Karl Kvaran á hinu sérstaka heimili hans og vinnustað á efstu hæð Símahússins við Austurvöll í máímánuði 1988. Hann var að undirbúa sýningu í Gallrí Svart á hvítu á gömlum teikningum. Þetta var síðasta sýning Karls meðan hann lifði, því hann lést rúmu ári síðar. Viðtalið birtist í Þjóðviljanum 8. maí 1988.

Karl Kvaran á vinnustofu sinni í maí 1988. Ljósm. Þjóðviljinn / Sig.

ÉG FORÐAST ALLT SEM ER HÉRUMBIL…

Segir Karl Kvaran í samtali við Ólaf Gíslason sem birtist í Þjóðviljanum 1988

„Það sem við gerðum með abstraktmálverkinu var að láta myndina gerast á fletinum, en ekki úti í náttúrunni eins og tíðkaðist í íslenska landslagsmálverkinu. Menn höfðu alltaf tengt bláa litinn við himininn eða hafið, en við slitum hann úr tengslum við náttúruna og litum bara á hann sem andstæðu við til dæmis gult. Annars hef ég unnið svo lengi með liti að ég er hættur að botna nokkuð í þeim. Það er línan sem skiptir meginmáli í mínu málverki, en þó get ég ekki sagt þér út á hvað hún gengur. Ég hef hins vegar lagt áherslu á að línan sé ekkert hikandi og að liturinn sé ekki hérumbil, heldur alveg blár. Allt sem er hérumbil hefur aldrei höfðað til mín, það er eins og sósíaldemókratarnir sem geta unnið með öllum…“

Þetta sagði Karl Kvaran listmálari þar sem ég hitti hann á vinnustofu hans og heimili á efstu hæð símahússins við Austurvöll. Þar hefur Karl unnið að myndlist sinni síðastliðin 30 ár og ekki fengist við annað en línur og liti. Og nærri hálfrar aldar reynsla hans af glímunni við myndflötinn hefur kennt honum þá sparsemi á stóru orðin sem við sjáum endurspeglast í verkum hans, þar sem allt stefnir til einfaldari og skýrari framsetningar og þar sem línurnar verða þeim mun hlaðnari merkingu sem þær eru færri og litirnir tala þeim mun sterkar til okkar sem andstæður þeirra eru hreinni og klárari. Og þegar ég spurði hann hvort hann fengi aldrei þá tilfinningu að þessi myndflötur með sínum línum og litaandstæðum væri þröngur starfsvettvangur, svaraði hann:

-Nei, síður en svo, í línunni rúmast svo margt og hún dugir mér prýðilega. Menn hafa bent mér á að það sé mikið af bognum línum í mínum myndum…ég held að það skipti ekki svo miklu máli á meðan ekki er eitthvað bogið við myndirnar…

Það er lítið um það sem telst til nútímaþæginda á vinnustofu og heimili Karls Kvaran. Myndir standa í stöflum meðfram veggjum, trönur eru á miðju gólfi með ófullgerðri mynd, litaslettur margra ára þekja gólfið og á vinnuborðinu eru haugar af litatúpum, skyssum og pappírum. Einn kollur og hægindastóll og skápur með plötusafni og nokkrum bókum um myndlist. En á bak við málaratrönurnar er heimilisdýrgripurinn, splunkunýr skápur með hljómflutningstækjum og hátölurum sem virðast geta nægt heilum hljómleikasal.

– Ég er með dellu fyrir hljómflutningstækjum, segir hann, -en hún er fyrst og fremst tæknileg, því ég hef ekkert vit á tónlist.

Við komum okkur fyrir í fremri stofunni þar sem er gamall legubekkur og hægindastóll og borð sem er hlaðið yfirfullum öskubökkum, pípum og píputóbaki. Á veggjunum hanga nokkur ófullgerð málverk og nokkrar fjölskylduljósmyndir eru á veggnum í einu horninu. Karl er orðinn einbúi í þessu húsi, konan dáin og börnin flogin úr hreiðrinu, og það er greinilegt að innan þessara veggja stefnir allt að einu marki, hinni hreinu og sönnu línu sem í spennu sinni og sveigju birtir af lítillæti sínu það sem kannski er endanlega hægt að segja í mynd: hið hreinræktaða form.

– Hvenær byrjaðir þú að fást við myndlist?

– Ætli ég hafi ekki verið fimmtán ára þegar ég fór í teikniskóla til þeirra Marteins Guðmundssonar og Björns Björnssonar. Eftir það fór ég líka til þeirra Jóhanns Briem og Finns Jónssonar, það var á árunum 1941-42. Það var Finnur sem sagði að línan í myndinni skipti öllu máli, að hún væri nógu kröftug. Jóhann sagði hins vegar að aðalatriðið væri að hafa enga línu, því línan væri ekki til. Þegar menn voru orðnir þreyttir á þessari þrætu hættu menn í þessum skóla. Svo fór ég í Handíða- og myndlistaskólann þar sem Þorvaldur Skúlason var aðalkennarinn, þá nýkominn frá námi. Hann hafði mjög ákveðnar skoðanir og var bæði greindur og áhrifamikill sem kennari. Hann og Jóhann Briem voru af gagnstæðum skóla og gjörólíkir, en báðir sannir í því sem þeir voru að gera og gegnum vandaðir málarar. Síðan lá leiðin til Kaupmannahafnar, þar sem ég var í þrjú ár á Listaakademíunni hjá Kirsten Iversen. Hann var góður maður en lélegur kennari og sagði aldrei neitt sem skipti mig máli. Aðrir kennarar þar voru Axel Jörgensen sem hafði tíma í listasögu og svo Lundström, sem var stórkostlegur málari en beitti sér lítið við kennsluna. Hann kom kannski inn í vinnustofuna og spurði: Skal jeg sige noget? Ef enginn svaraði var hann rokinn á dyr. Hann var líka oft við skál. Þessi fátæklega reynsla mín af Akademíunni gekk mest út á að teikna módel, og þar sem kennslan var ekki upp á marga fiska, þá fór ég á einkaskóla til Boyesen, þar sem við teiknuðum afsteypur af gömlum grísk-rómverskum styttum undir járnaga. Boyesen skammaði okkur gríðarlega og talaði gjarnan um heimska Íslendinga. Eitt sinn spurði hann mig hversu margar kindur væru á Íslandi. Ég svaraði: „tre“. Eftir það skildum við á jöfnu.

– Varðst þú fyrir áhrifum af abstrakt-málverki á þessum árum í Danmörku?

– Nei, abstraktlistin var varla orðin til þar þá, þeir voru ákaflega fáir sem lögðu stund á hana. Ég sá til dæmis engar myndir eftir Richard Mortensen á þessum tíma. Ég var alltaf að teikna og hafði ekki áhuga á öðru. Þeir málarar sem höfðu mest áhrif á mig í Danmörku á þessum tíma voru Lundström, Leergaard og Hoppe. Þegar ég kom heim 1948 málaði ég myndir af húsunum og sjónum, mínu nánasta umhverfi. Húsin voru brún og hafið blátt, ég átti heima þarna við sjóinn. Það var viss breyting frá rómantíska landslagsmálverkinu þar sem fjöllin og firnindin réðu ríkjum og smám saman fór maður að víkja frá þessum ytri mótífum. Danmerkurárin voru þýðingarmikil fyrir myndbygginguna og teikninguna, en maður gat ekki haldið áfram að teikna módel endalaust. Það er betra að gera eitthvað annað við konurnar en að teikna þær…

– Hvenær ferð þú að mála abstraktmyndir?

Það var um 1951. Valtýr Pétursson varð fyrstur okkar til  að tileinka sér geómetríuna út í París. Hann kom með þessar hugmyndir hingað heim. Og svo auðvitað Þorvaldur, sem fór að gera geómetrískar myndir 1952, og var mjög fljótur að tileinka sér þessa myndhugsun og ná góðum árangri. Við hittumst á þessum tíma reglubundið, Jóhannes Jóhannesson, Kjartan Guðjónsson, Valtýr, Þorvaldur og ég, og það var mikill hugur í mönnum. Annars held ég að abstraktlistin hafi ekki hvað síst borist hingað til landsins með listatímaritinu Aujourd’hui. Þetta var eins og hálfgerð sprenging, og það var eitthvað í andrúmsloftinu og tíðarandanum sem kallaði á þetta hjá okkur. En það er hins vegar ekki hægt að segja að þetta hafi verið vinsælar myndir. Það var almennur dómur fólks að þetta væri hrein vitleysa, og það kom varla fyrir að við seldum mynd.

– Um hvað rædduð þið þegar þið hittust, félagamir hér heima? Myndlist?

– Nei, ekkert frekar. Við ræddum um allt mögulegt, en fyrst og fremst held ég að við höfum styrkt hver annan og fundist það skipta máli að hittast.

– Á þessum árum var nokkuð áberandi, sérstaklega meðal róttækra vinstri-manna, að menn hefðu trú á vísindum og vísindalegri skipulagningu þjóðfélagsins. Sumir litu nánast á sósíalismann sem hlutlæg vísindi. Er hægt að sjá hliðstæðu á milli þessarar trúar á vísindin og geómetrísku abstraktlistarinnar?

– Nei, ég held að þetta hafi ekki haft neitt með vísindatrú að gera. Enda vorum við oft fullir efasemda. Ég veit ekki til þess að geómetríska listin hafi haft neina hugmyndafræðilega skírskotun. Við vorum hins vegar að flytja viðfangsefni listarinnar frá náttúrunni yfir á myndflötinn og byggja myndirnar á hreinum eigindum forms og lita.

-Áttuð þið ekki samleið eða samstarf við skáld eða rithöfunda á þessum tíma?

– Nei, það get ég varla sagt. Við þekktum að vísu Stein, og hann var mjög fljótur að tileinka sér skilning á abstraktlistinni, en annars var ekki um beint samstarf að ræða.

– En hvernig skýrir þú það út eftir á, að þú varðst móttækilegur fyrir abstraktmálverkinu á þessum tíma og fórst að gera slíkar myndir sjálfur?

– Það var Cezanne sem lagði grundvöllinn að abstraktmálverkinu, og hann dó 1906, þannig að þetta átti sér langan aðdraganda. Og ég hafði séð verk hans og Matisse á Ríkislistasafninu í Höfn á námsárunum. Þetta fólst allt í því að láta myndina gerast í fletinum, andstætt því sem þeir Jón Stefánsson og Ásgrímur höfðu gert. Jón Stefánsson hafði reyndar verið nemandi Matisse, en hann botnaði ekki í honum. Því þótt Matisse notaði fyrirmyndir, þá gerðist galdurinn í myndum hans í sjálfum myndfletinum. Jón sagði einhvern tímann frá því að hann hefði gengið framhjá vinnustofu Matisse, og séð inn um gluggann að hann var að mála uppstillingu sem var í brúnu. Þegar hann og félagar hans áttu svo leið framhjá skömmu síðar, sáu þeir að myndin var orðin blá. þetta þótti þeim skrýtið. En Matisse byggði á litaandstæðum í verkum sínum og sérstökum eigindum litarins. Módelið var bara viðmiðun. Þótt Jón hafi aldrei getað tileinkað sér þennan skilning Matisse, þá breytir það því hins vegar ekki að hann var hörkumálari. En það var Gunnlaugur Blöndal sem fyrstur fór að mála í andstæðum litum hér á landi.

– Ég sé það á hljómlistargræjunum hjá þér að þú hlustar mikið á tónlist. Eru einhver tengsl á milli tónlistarinnar og þess hvernig þú málar?

-Nei, ég held að tónlistin hafi ekkert með það að gera… nema kannski strengjakvartettar Beethovens, þeir eru svo agaðir í forminu… það kunna að hafa komið fram einhver áhrif í teikningu eða formi hjá mér þar. Ég hef ákaflega gaman af tónlist, en ég hef hins vegar ekkert vit á henni. En mér finnst yfirleitt tónlistin batna eftir því sem flytjendum fækkar. Ég kann til dæmis ekki að hlusta á kóra, hvað þá blandaða kóra, biddu fyrir þér… Ég held hins vegar að við eigum góð tónskáld, til dæmis hann Leif (Þórarinsson) og Þorkel Sigurbjörnsson. Ég man reyndar eftir einu atviki sem kom fyrir mig eftir að ég hafði hlustað á tónverk eftir Þorkel sem heitir „Læti“. Þetta eru öguð og blæbrigðarík læti, og þegar ég kom af tónleikunum málaði ég mynd sem var bókstaflega þetta tónverk. En slíkt kemur ekki oft fyrir. En þegar þú segir það þá er ég ekki frá því að það séu kannski einhver tengsl þarna á milli.

– Það má kannski segja að geómetríska abstraktlistin hafi fyrst verið búin að fá almenna viðurkenningu þegar hún fór úr tísku og aðrir vindar urðu ríkjandi í myndlistarheiminum. Margir kollegar þínir sem unnu abstraktmyndir hafa snúið blaðinu við og mála jafnvel í anda þess sem þeir snerust gegn sem ungir menn. En hvernig stendur á því að þú ert ennþá á svipuðu róli?

– Jú, þetta má til sanns vegar færa, að minnsta kosti um þá félaga mína, Valtý og Kjartan, og ég held að það sé ekkert við því að segja. Við höfum allir elst og sennilega sljóvgast, og þá taka menn upp á öllu mögulegu og ómögulegu. En sumir hafa líka haldið sínu striki. Til dæmis Jóhannes Jóhannesson, sem er gott dæmi um góðan málara sem er alltaf að bæta við sig. Annars finnst mér það vera einkenni á skandinavískri myndlist, og þar með talinni íslenskri myndlist, að hún er eitthvað hérumbil en ekki eitthvað ákveðið. Allt sem er hérumbil hefur ekki höfðað til mín. Það er kannski þess vegna sem ég er enn að fást við það sama.

– Þegar þú lítur yfir farinn veg finnst þér þá að áhrif ykkar abstraktmálaranna á myndskyn okkar og daglegt myndmál hafi verið meiri eða minni en þið væntuð ykkur í hita slagsins í byrjun 6. áratugarins?

– Ég held satt að segja að þessar myndir mínar hafi varla haft áhrif á aðra formsköpun. Þó er hugsanlegt að þetta hafi einhverju breytt. En það er alltaf stór hópur fólks sem vill hafa sinn læk eða sína hríslu í myndinni, og það er reyndar allt í Iagi, ef það er vel gert. Það hefur alltaf verið meiri sala í landslagsmyndum hér á landi en abstraktmyndum, en það segir reyndar ekkert um gæði verkanna. Hér áður fyrr voru yfirleitt allir sammála um að þetta væri ómögulegir hlutir, breytingin felst kannski í því að nú verður þessi list frekar tilefni rifrildis. Þegar best tekst til, hafa menn einhverja ánægju af þessu, og meðan maður hefur sjálfur ánægju af því að mála skiptir öllu máli að halda áfram.

– Þegar ég kvaddi Karl Kvaran eftir langt spjall og mikla kaffidrykkju var sendiferðabílstjórinn kominn að sækja teikningarnar á sýninguna í Gallerí Svart á hvítu. Þetta eru einfaldar línuteikningar, dregnar með blýanti og lýsa öruggri hendi og rannsakandi og öguðum vinnubrögðum Karls mætavel. Myndirnar gerði hann fyrir 10-15 árum, en hefur ekki sýnt þær áður. Sýningin stendur frá 7.-22. maí og verður opin frá kl. 14-18. -ólg

%d bloggers like this: