LÖGMÁL HAGFRÆÐINNAR OG STJÓRNMÁLANNA

 

Kosningabaráttan á Ítalíu og stjórnmálaumræðan í Evrópu

Úrklippa úr dagblaðinu La Repubblica í dag: Georgia Meloni, leiðtogi Ítalska bræðralagsins (Fratelli di Italia), sem skoðanakannanir segja að verði leiðtogi og forsætisráðherraefni hægri-blokkarinnar í ítölskum stjórnmálum í kjölfar væntanlegra kosninga. Hún er fulltrúi „þjóðernissinnaðrar íhaldsstefnu“ og blaðið hefur eftir henni: „Svona verður landið að þjóð og borgararnir að föðurlandssinnum…“

Fyrsta lögmálið sem við lærum í hagfræði er að framboð og eftirspurn stjórni markaðsverði: þegar framboð eykst lækkar verðið, þegar eftirsókn eykst hækkar það.

Nú er komið að tímamótum í sögu hagfræðinnar: minnkandi framboð hækkar verð á orkugjöfum upp úr öllu valdi. Þegar ekki er hægt að auka á framboðið er gefin út tilskipun frá ESB og stjórnvöldum sjö af stærstu orkuneytendum í heiminum (kallast G7): setja skal lögbundið þak á orkuverð frá Rússlandi um víða veröld. Ekki er enn ljóst hvort þetta eigi að ná til annarra framleiðenda á orku, né hver verðmiðinn verði.

Þessi örvæningarfulla umræða um orkukreppuna tekur reyndar á sig hinar ótrúlegustu myndir, en það sem einkennir hana fyrst og fremst virðist vera hlaup kattarins í kringum þann sjóðheita graut sem ekki má snerta: Siðmenning Vesturlanda, sem hafa búið til þetta órjúfanlega lögmál hagfræðinnar sem áður var nefnt og enginn vill afneita, horfist nú í augu við að örlög hennar byggja á fyrirfram gefnu og óheftu framboði þeirrar orku sem er undirstaða iðnvæðingarinnar og þar með allra tækniframfaranna: og nú eru það einmitt Vesturlönd sem vilja taka þessi lögmál úr sambandi: yfirlýsingar forseta ESB um þetta baráttumál sambandsins sem lausn á orkukreppunni voru fyrsta málið í sjónvarpsfréttum á Íslandi í dag, og voru sögð svar við stríðsárás Rússlands á þessi grundvallarlögmál allrar hagfræði. Vopnið í höndum ESB og NATO í stríðinu gegn Rússlandi er að rjúfa þetta lögmál um samband framboðs og eftirspurnar. Þak skal sett á uppsprengt verð á rússnesku gasi.

Fyrsta Evrópulandið til að setja þetta stríðsvopn í dóm almennings í Evrópu er Ítalía, þar sem kosningar til þings eiga að fara fram innan þriggja vikna. Þessar kosningar eru reyndar óvenjulegar, því til þeirra er boðað í kjölfar afsagnar forsætisráðherrans, Mario Draghi, sem sagði af sér embætti án þess að hafa fengið á sig vantraust í þinginu. Stjórn sem hafði yfirgnæfandi meirihluta á þingi, og glímdi í raun aðeins við einn stjórnarandstöðuflokk sem máli skipti -með innan við 10% þingmanna- þó skoðanakannanir sýni hann reyndar nú með mest kjörfylgi allra flokka (hægri flokkurinn Ítalska bræðralagið, FI, um 23% fylgi samkvæmt nýlegum skoðanakönnunum).

Allir hinir þingflokkarnir sem máli skipta áttu aðild að þessari stjórn utanflokksmannsins og hagfræðisnillingsins  Mario Draghi, en keppast þó um að sýna sérstöðu sína í yfirstandandi kosningabaráttu, sem er einhver sú furðulegasta sem um getur.

Endalaus sjónvarpsviðtöl við leiðtoga stjórnarinnar sem ekki feldi sjálfa sig -en féll þó, einkennast af gagnkvæmum ásökunum um stjórnarslitin og meira og minna hástemmdu lofi um fráfarandi forsætisráðherra, sem auk þess að hafa stýrt bólusetningarherferð gegn kóvidveirunni með hervæðingu og stjórnskipunum, átti í ljósi hagfræðisnilldar sinnar stóran þátt í smíði þeirra flóknu ákvæða Vesturlanda um eignaupptöku, viðskiptabann og útilokun Rússlands úr hinu fjölþjóðlega viðskiptakerfi banka og fjármálaviðskipta sem svar við ummdeildri innrás Rússlands í Úkraínu í kjölfar 8 ára hernaðar þarlendra stjórnvalda gegn rússneskumælandi íbúum landsins.

Þrátt fyrir átakanlegar tilraunir leiðtoga um 5 fullgildra flokka og álíka margra smáflokka til að leggja áherslu á einstaka stefnu sína og óbrigðult erindi síns flokks á þingi, þá hljómar alls staðar sami söngurinn, þar sem fyrsta boðorðið er að rjúfa grundvallarlögmál hagfræðinnar: þak á orkuverðið.

Allir flokkar virðast styðja þetta illframkvæmanlega brot á lögmáli framboðs og eftirspurnar. En í kjölfarið koma fleiri kröfur og loforð:

Ríkisstuðningur við heimilin og fyrirtækin. Enginn flokkur hefur skilgreint þessi loforð í smáatriðum, en þau miða að því að auka kaupgetu heimila og fyrirtækja á orku. Sem aftur felur í sér aukna eftirspurn (og hækkandi orkuverð).

Í kjölfarið koma loforð sumra flokka um „hreina orku“, sem fela í sér fleir vindmyllugarða og sólarspegla, sem allir vita þó að vega engan veginn upp á móti orkuskortinum, þar sem Ítalía er snauð af olíulindum, fátæk af dýru jarðgasi og án kjarnorkuvera, og því það land í Evrópu sem er háðast gasinnflutningi frá Rússlandi ásamt Þýskalandi.

Í kjölfarið koma svo kröfur flestra flokka um lækkun skatta, sem eru reyndar með hæsta móti á Ítalíu í evrópskum samanburði. Skattalækkanir eiga eins og orkustyrkirnir að koma í veg fyrir fyrirsjáanlega lokun fyrirtækja og gjaldþrot heimilanna, þar sem hlutfall þeirra er lifa undir fátæktarmörkum er þegar mjög hátt (2 miljónir fjölskyldna eða 5,6 miljónir einstaklinga, 9,4% þjóðarinnar).

Ekki verður séð hvernig ríkissjóður á að mæta þessum útgjöldum öðruvísi en með lántökum, en skuldir ítalska ríkisins eru um þessar mundir um 150% af vergri þjóðarframleiðslu, sem er næst á eftir Grikklandi á Evrusvæðinu (209%) á meðan Poryúgal og Spánn skulda um 130%. Þessi lönd hafa öll farið langt yfir „leyfileg“ mörk ESB um skuldasöfnun. Þó þessar opinberu skuldir séu ærið áhyggjuefni fyrir ESB, þá siglir landið ennþá í skjóli ákvörðunar Mario Draghi, þáverandi bankastjóra Evrópubankans, frá árinu 2012, um að kaupa öll föl ítölsk ríkisskuldabréf, „whatever it takes“ til að koma í veg fyrir yfirvofandi gjaldþrot ítalska ríkisins á skuldabréfamarkaði. Þessi ákvörðun var talin hafa bjargað ekki bara ítalíu, heldur evrunni sjálfri frá gjaldþroti, og varð til að sveipa Draghi þeim hetjuljóma, sem enn umlykur þennan lykilmann í evrópskum stjórnmálum. En Adam verður ekki lengi í Paradís, því samkvæmt yfirlýstri stefnu BCE mun bankinn hætta að prenta evrur til að kaupa ríkisskuldabréf 1. Desember næstkomandi, og enginn veit hvað gerast mun þá á skuldabréfamarkaðnum. En búast má við stórhækkuðum vaxtakröfum á ítölsk ríkisskuldabréf, og þar með stórhækkaðri skuldabyrði og þrengri lánakjörum ríkisins.

Það sem vekur athygli í kosningabaráttunni á Ítalíu er ekki síst þetta: ekki verður fundinn áþreifanlegur munur á stefnuskrám þeirra meginflokka sem keppa um völdin, og verður þar nánast ógerningur að greina á milli hægri og vinstri, enda allir flokkar meira og minna undir vörumerkinu „Draghi“. Skiptir þá litlu hvort flokkar teljast til hægri eða vinstri samkvæmt hefðbundinni skiptingu. Þannig eru þeir tveir flokkar sem hafa haft hæst um stuðning við NATO og ESB í deilunum um Úkraínustríðið annars vegar „vinstri-flokkurinn“ PD (Partito democratico, arftaki gamla kommúnistaflokksins) og Fratelli di Italia, sá flokkur sem er talinn lengst til hægri og kenndur við „þjóðlega íhaldsstefnu“. Ef hægt er að greina stefnumun varðandi Úkraínustríðið, þá hafa tveir flokkar, Lega-Salvini (hægri) og Movimento 5 stelle (óskilgreind leif af gömlu grasrótarhreyfingunni) haft uppi afar varkárar efasemdir um vopnasendingar til Ukraínu, án þess þó að gera það að stórmáli.

Ástæðan fyrir þessari þoku í þessu andrúmslofti ítalskra stjórnmála liggur þó annars staðar. Hana má finna í ESB og ákvörðunum bandalagsins um „bjargráð“ gegn veirufaraldrinum frá síðasta ári: stofnun „Recovery Fund“ og „Europe next Generation“, en þetta eru sjóðir sem ESB kom sér saman um að mynda með seðlaútgáfu Evrópubankans til að endurreisa Evrópu eftir veirupláguna. Ítalía er það land sem fær lang stærsta bitann af þessari lánaköku, sem mun að stærstum hluta leggjast á skuldabagga þjóðarinnar, en til þess að úr því geti orðið þarf landið að fylgja skilyrðum ESB um fjárlagagerð, skattastefnu, reglugerðir varðandi opinberar framkvæmdir o.s.frv. Það verður því verkefni komandi ríkisstjórnar á Ítalíu að framkvæma þessa stefnu ESB, hvað sem öllum kosningaloforðum líður. En síðustu tölur herma að verðbólga á ítalíu sé nú um 8% og ekkert bendi til lækkunar hennar á næstunni, nema síður sé.

Þar sem fáir lesendur þessarar blog-síðu kunna ítölsku er erfitt að finna beina tilvitnun í stjórnmálaumræðuna á Ítalíu þessa dagana sem lesendur skilja. En þar sem ástandið á Ítalíu virðist í litlu frábrugðið því sem gerist á evrusvæðinu almennt, þá birti ég hér brot úr nýlegu sjónvarpsamtali við Robert Habeck, fjármálaráðherra og varakanslara Þýskalands, sem jafnframt er leiðtogi Græningja í Þýskalandi og yfirlýstur stuðningsmaður Zelensky í stríði hans við Rússa í Úkraínu. Habeck er hér að ræða orkukreppuna sem afleiðingu þessa stríðs og áhrif hennar á verðbólgu, atvinnulíf og afkomu fjölskyldnanna í Þýskalandi. Evrópsk stjórnmálaumræða á hæsta stigi um þessar mundir.

Sjálfsákvörðunarréttur þjóða og hinn yfirþjóðlegi fjálmálamarkaður

Átakavettvangur kosninganna á Ítalíu

Sjálfsákvörðunarréttur þjóða og hinn yfirþjóðlegi fjálmálamarkaður

Ég hef reynt að fylgjast með stjórnmálum á Ítalíu frá því ég kom þangað fyrst fyrir 52 árum síðan.
Oft hefur verið erfitt fyrir utanaðkomandi gesti að skilja þann flókna hagsmunavef sem hefur mótað þessa ævintýralegu sögu sem oft hefur nálgast átakavettvang glæpareifarans með hinu flókna hugmyndafræðilega samspili kaþólsku og kommúnisma, miðstýringar og stjórnleysis sem hefur einkennt þessa sögu. Og enn í dag ganga Ítalir að kjörborðinu í sögulegum kosningum til þingsins, og satt að segja virðist átakavettvangurinn flóknari nú en nokkru sinni og niðurstöðurnar ófyrirsjáanlegri.
Málið er flóknara en svo að það komist fyrir á einni blog-síðu, og forsagan flóknari en hægt er að skýra í stuttu máli.
Margir flokkar og „flokkabandalög“ eru í framboði og kosningalögin eru nánast óskiljanleg fyrir allan almenning, að hluta til eiga úrslitn að verðlauna stærstu flokkana, að hluta til eiga allir flokkar að búa við sömu hlutfallaregluna.
Þessi óskapnaður var málamiðlun Demókrataflokksins og FI-flokksins (flokks Silvio Berlusconi) og átti að tryggja tveggja flokka kerfi. Það þveröfuga gerðist og síðasta áratuginn hafa amk. þrír flokkar verið á jöfnu róli, og nú enn fleiri, en það sem ruglar dæmið er einkum 5 stjörnu hreyfingin sem kennd er við grínistann Beppe Grillo, sem síustu skoðanakannanir segja stærsta flokkinn með um 30% fylgi. Þessi flokkur eða hreyfing hefur ekki staðfesta stefnu í öðru en að „vera á móti kerfinu“ og hefur því ekki verið tekinn alvarlega af hinum flokkunum.
Hinir pólarnir eru Demókrataflokkurinn (PD) sem er sögulegir arftaki gamla Kommúnistaflokksins og telst meðal sósíaldemókrata á evrópskan mælikvarða (og skoðanakannanir hafa sagt hafa um eða undir 20% atkvæða) og Kosningabandalag Mið-hægri flokkanna (hagsmunabandalag vegna kosningalaganna) sem skoðanakannanir hafa sagt sigurstranglegast með allt að 40%. Þetta er bandalag FI, Lega og Fratelli d’Italia, þar sem FI og Lega eru taldir berjast um yfirráð með rúm 15% hvor flokkur og Fratelli-flokkurinn 5-10%. Skoðanakannanir eru 2 vikna gamlar og því ónákvæmar.

Fyrir utanaðkomandi er þetta síðasttalda bandalag mesta ráðgátan,en FI flokkurinn (og mið-hægri bandalagið) eru gjarnan kennd við Silvio Berlusconi, margdæmdann fjársvikamann sem hefur verið sviptur kjörgengi og er því ekki í framboði. Flokkur hans er því höfuðlaus her, og tilnefndi sinn kandidat í forsætisráðuneytið örfáum dögum fyrir kosningar, lítt þekktan þingmann Evrópuþingsins sem ekki tekur þátt í kosningabaráttunni.

Það er ekki síst bandalagsflokkur Berlusconi, Lega-flokkurinn, sem hefur sett svip á kosningabaráttuna og valdið umróti og ótta, ekki síst vegna stefnu sinnar í Evrópumálum og gagnvart innflytjendum. Þessi flokkur á sér sögu sem flokkur aðskilnaðarsinna N-Ítalíu frá Róm, en átti engu að síður lengi samstarf við flokk SB á stjórnartíma hans. Lega flokkurinn hefur nú kúvent, tekið „norður“-hugtakið úr nafni sínu og hafið kosningabaráttu af miklum krafti á landsvísu. Þessi umskipti hafa staðið yfir síðustu 2 árin, en urðu afgerandi þegar flokksleiðtoginn Salvini leiddi tvo virta hagfræðinga til áhrifa innan flokksins sem hafa frá áramótum hleypt nýju blóði í hina pólitísku umræðu, þó málflutningur þeirra hafi átt erfitt uppdráttar í meginfjölmiðlum. Margir spá því nú að Lega-flokkurinn verði stærri en FI innan „Mið-hægri bandalagsins“ og fái því rétt til að tilnefna forsætisráðherraefni bandalagsins. Það vald er þó formlega í höndum Mattarella forseta lýðveldisins.

Hver eru þá deiluefnin sem kosningarnar snúast um?
Það sem fyrst blasir við hjá hinum almenna kjósanda er atvinnuleysið sem hefur verið 12% og 25-30% hjá ungu fólki. Þetta hefur verið viðvarandi ástand undanfarinn áratug og tengist efnahagslegri stöðnun sem lýsir sér í samdrætti í þjóðarframleiðslu og samdrætti í félagslegri þjónustu. Upphaflega var þessi slæma útkoma gjarnan tengd stjórnarferli Silvio Berlusconi, en þar sem PD hefur ekki fundið lausnir á þessum vanda á valdatíma sínum hefur almenningur glatað trausti sínu á flokkakerfinu, hinni hefðbundnu pólitík, og þannig skýrist hið mikla fylgi 5 stjörnu hreyfingarinnar. Fáir trúa því þó að sú hreyfing hafi lausnir á þessum vanda, og því leita menn skýringa annars staðar.

Þessi umræða hefur tengst innflytjendavandanum og tregðu Evrópusambandsins að deila þeim vanda með Ítölum, sem hafa borið þyngstu byrðina eftir innrás NATO-ríkja í Líbýu og hernað BNA og bandalagsríkjanna í Mið-Austurlöndum með tilheyrandi flóttamannastraumi.

Það eru þessi tengsl ESB við hinn pólitíska vanda á Ítalíu sem nú veldur titringi í valdamiðstöðum sambandsins í Brussel, Berlín og Frankfurt. Það er ekki síst málflutningur Lega-flokksins sem veldur þessum skjálfta, en einnig tortryggni í garð sambandsins meðal kjósenda 5 stjörnu hreyfingarinnar og flokks Berlusconi. En Berlusconi lýsti því nýverið yfir að hann myndi senda 600.000 „ólöglega“ innflytjendur til heimahúsanna ef hann kæmist til valda.

Hin almenna pólitíska umræða í Evrópu hefur búið til orðið „popúlisma“ um þau stjórnmálaöfl sem hafa haft uppi efasemdir um myntsamstarfið og og þá skerðingu á lýðræði sem Evrópusamstarfið hefur haft í för með sér. Þetta neikvæða slagorð er til þess fallið að breiða yfir þann raunverulega vanda sem blasir við öllum almenningi og gefur nú til kynna að öll stærstu stjórnmálaöflin á Ítalíu að Demókrataflokknum undanskildum séu „popúlísk“ og sem slík óalandi og óferjandi. Demókrataflokkurinn gengur til móts við sögulegan ósigur í kosnngunum í dag undir kjörorðum um „stöðugleika“ og „ábyrgð“ er felast í óbreyttum grundvallarreglum í samstarfinu innan ESB. Öll hin öflin beina spjótum sínum gegn ESB.

Þar eru áherslur þó mismunandi. Fimm stjörnu-hreyfingin er hætt að berjast fyrir úrsögn úr myntsamstarfinu, án þess að benda á valkosti. Silvio Berlusconi segist líka styðja myntsamstarfið en hefur óskýra stefnu gagnvart sambandinu að öðru leyti. Hagfræðingarnir sem hafa gengið til liðs við Lega-flokkinn hafa hins vegar beitt sinni fræðilegu þekkingu til þess að greina þann vanda sem myntsamstarfið hefur skapað, og reynt að móta mótvægisstefnu gegn þeim.

Hagfræðingurinn Alberto Bagnai, sem er helsti efnahagsráðgjafi Lega flokksins, á sér sögu sem fræðimaður og gagnrýnandi myntsamstarfsins allt frá því Maastricht samkomulagið var gert 1992, en það var undanfari Evrunnar sem tekin var í notkun 2002. Bagnai hefur með sannfærandi fræðilegum málflutningi rakið meginorsök þeirrar stöðnunar sem verið hefur viðvarandi á Ítalíu undanfarinn áratug til þess ójöfnuðar sem óhjákvæmilega verður fylgifiskur þess að ólík hagkerfi eiga að starfa í innbyrðis samkeppni undir sama gjaldmiðli án þess að hann sé tengdur sameiginlegri stjórnsýslu hvað varðar vexti, viðskiptajöfnuð skuldaábyrgð og aðra meginþætti stjórnmálanna. Það merkilega er að þessi hagfræðingur skrifaði sínar fræðigreinar upphaflega í málgögn sem voru talin yst á vinstri-vængnum (il manifesto og síðar Il Fatto Quitidiano) en er nú helsti málsvari Lega-flokksins sem telst „til hægri“ við flokk Berlusconi og hefur uppi slagorð um „þjóðleg gildi“ og „Ítalía fyrst“ í anda Trump forseta BNA. Enginn fræðimaður hefur svarað greiningu Bagnai með fræðilegum rökum, enda eru hagfræðiskýringar hans byggðar á alþekktum rökum sem nóbelsverðlaunahafinn Stieglitz hefur verið hvað ötulastur að setja fram um strúktúrgalla evrópska myntsamstarfsins. Hér stöndum við þannig frammi fyrir þeirri þversögn að hið málefnalega frumkvæði í kosningabaráttunni hefur komið fram frá gömlum róttæklingi sem nú er í framboði fyrir flokk sem er ekki bara kenndur við popúlisma, heldur jafnvel rasisma og kynþáttastefnu.

Þetta skýrir að einhverju leyti glundroðann í ítölsku kosningabaráttunni, en segir þó alls ekki alla söguna. Það er tiltölulega auðvelt að sýna fram á að Evran hefur gert Þýskaland með sinn jákvæða viðskiptajöfnuð að fjárhagslegu yfirvaldi yfir þeim „jaðarríkjum“ innan sambandsins sem búa við neikvæðan viðskiptajöfnuð en sama gjaldmiðil og að þau eru dæmd til viðvarandi efnahagslegrar stöðnunar með „niðurskurðarstefnu“ ESB. Þó búið sé að greina efnahagslegu forsendurnar, þá skortir á hina pólitísku, tilfinningalegu og sálfræðilegu greiningu sem tengist þessum leikreglum óbeint, en einnig heimspólitíkinni í víðara samhengi.

ESB var sambandið sem átti að efla jaðarríkin til jafnræðis við höfuðbólin í Þýslkalandi og Frakklandi. Nú hefur hið þveröfuga sýnt sig að vera niðurstaðan eftir 10 ára stöðnunartímabil. Þá kemur í ljós að þessi vandi virðist ekki komast á dagskrá stjórnmálanna, þar sem hann er ofar því sem kallað hefur verið „sjálfsákvörðunarréttur þjóða“, og er orðið úrelt slagorð í alþjóðastjórnmálum eins og Grikkir hafa t.d. sannreynt. Þjóðríkið sem slíkt hefur fúnar og feysknar undirstöður á tímum hins fjölþjóðlega fjármálavalds, og almenningur skynjar vel að stjórnmálaflokkarnir hafa lítið eða ekkert að segja um vandamál dagsins: réttinn til vinnu, menntunar, heilsugæslu, lífeyris o.s.frv.

Þetta skapar ekki bara efnahagslega neyð eða skort, þetta framkallar tilfinningalegt og sálrænt öryggisleysi sem birtist í vantrausti á stjórnmálunum og uppvaxandi „popúlisma“. Hverjar eru sálrænar og tilfinningalegar afleiðingar þess að upplifa upplausn slíkrar undirstöðu tilverunnar sem hugtakið „sjálfsákvörðnarréttur þjóða“ hefur verið allt frá tilkomu upplýsingar í Evrópu á 17. og 18. öldinni?

Þetta eru spurningar sem ekki komast upp á yfirborðið í kosningabaráttunni á Ítalíu, en kalla engu að síður á umhugsun ef við viljum í reynd reyna að skilja hvernig stjórnmálaumhverfið getur breyst með jafn afgerandi hætti á svo stuttum tíma. Það er ekki hægt að horfa framhjá þeirri staðreynd að eins og er þá hafa hugtökin hægri og vinstri ekki skýra merkingu í ítölsku kosningabaráttunni. Þetta ástand á sér hliðstæður í Austurríki, Frakklandi, Póllandi, Ungverjalandi, Króatíu, Grikklandi og þó víðar væri leitað, svo ekki sé minnst á Bretland.

Einhver kynni að halda að ég væri með þessum pistli að lýsa yfir stuðningi mínum við „hægri-flokkinn“ Lega Salvini, sem hefur verið orðaður við rasisma og flest illt. Það er ekki svo. Mér sýnist margt undarlegt við einstakar hugmyndir þessa flokks, en umfram allt þá er eitt sem skortir í málflutning allra flokkanna sem nú gefa kost á sér til þingsins á Ítalíu: spurningin um framtíðarmarkmið ESB og hlutverk þess í heiminum. ESB hafði í upphafi stórbrotin markmið um að skapa frið í álfunni. Nú er Sambandið orðið uppspretta nýrrar þjóðernisstefnu, sem getur allt eins orðið stórhættuleg ef hún miðar að afturhvarfi til hins gamla þjóðríkis. Mikilvægasta vandamálið í Evrópskum stórnmálum á okkar tímum er að marka ESB framtíðarstefnu og framtíðarsýn sem íbúar Evrópu geta fundið sig í sem fullgildir þegnar. Afturhvarf til hins gamla þjóðríkis mun fela í sér upplausn og átök. Því miður var mikilvægasta pólitíska vandamálið í Evrópu ekki á dagskrá í ítölsku þingkosningunum  2018.

%d bloggers like this: