Dagur í Gaza
Við tókum leigubíl frá Jerúsalem til Gaza. Það var rúmlega tveggja klukkustunda akstur í gegnum blómlega akra Ísraels þar sem áveitur tryggðu hvarvetna hámarksuppskeru. Þegar við komum að mörkum hernámssvæðisins í Gaza, sem Ísraelsmenn lögðu undir sig 1967, vorum við stöðvaðir af ísraelskum hermönnum og leigubílstjórinn fékk ekki að fara lengra. Hann var arabi. Hervörðurinn hristi höfuðið þegar við sögðumst samt vilja fara inn. „Þið hafið ekkert hingað að gera“, sagði hann og skoðaði skilríki okkar. En hleypti okkur svo í gegn, þegar við höfðum fundið annan bíl sem hafði leyfi til að fara inn. Og óskaði okkur ánægjulegrar dvalar um leið og hann minnti okkur á að Gaza-svæðinu væri alltaf lokað frá kl. 22 til 03 að morgni.
Gaza-svæðið er eitt þéttbýlasta svæði jarðarinnar. Það er um 50 km á lengd og 5 km á breidd. Samkvæmt heimildum UNWRA bjuggu 445.397 palestínskir flóttamenn á þessu svæði í júní 1987. Um helmingur þessara flóttamanna býr í átta flóttamannabúðum, hinn helmingurinn býr utan búðanna. Palestínskir flóttamenn eru yfir 2/3 hlutar íbúa svæðisins sem eru yfir 600.000. Svæðið var undir egypskri lögsögu frá 1948, þar til Ísrael lagði svæðið undir sig í sex daga stríðinu 1967. Flóttamannabúðirnar eru hins vegar frá 1948, þegar Ísraelsríki var stofnað, en þá voru 200.000 Palestínumenn hraktir yfir á Gaza-svæðið. Í sex daga stríðinu gerðust um 38.000 flóttamenn á Gaza flóttamenn í annað sinn, og flúðu þá yfir til Jórdaníu undan hörmungum stríðsins. Nú býr um fimmtungur allra skráðra palestínskra flóttamanna á Gaza-svæðinu.
Úr öskunni í eldinn
Þegar komið er inn í borgina Gaza er það fyrsta sem maður tekur eftir að sorphirða virðist engin í borginni. Sorpið liggur og rotnar á víð og dreif á götunum í steikjandi sólarhitanum, sem fer upp í 40 gráður eða meira um þetta leyti. Og ég hafði ekki dvalið nema um 20 mínútur í borginni þegar ég sá herjeppana koma með sírenuvæli eftir aðalgötunni og táragasský leggjast yfir göturnar í fjarska. Ef hægt er að segja að það ríki umsátursástand á Vesturbakkanum, þá ríkir styrjaldarástand í Gaza. „Hér getur allt gerst hvenær sem er og ekkert kemur lengur á óvart“, sagði blaðamaður sem starfar við fréttastofu í borginni. Og okkur varð litið út um gluggann á skrifstofu hans og sáum herjeppa hverfa á brott með hvítklæddan fanga.
Ísraelskur herjeppi á götunni í Gaza. Myndin er tekin úr skrifstofuglugga blaðamannanna. Ekki er leyfilegt að ljósmynda ísraelska hermenn í Gaza. Ljósm. olg
Það voru tveir ungir menn sem unnu á þessari fréttastofu. Annar þeirra, sá eldri og reyndari, var nýsloppinn úr fangelsi. Hann bjó á skrifstofunni og eina atvinnutækið þeirra beggja var sími. Þeir söfnuðu upplýsingum um það sem var að gerast á svæðinu og komu þeim áleiðis. Og þeir báðu fram aðstoð sína við okkur eftir getu. Ég bar fram óskir um að sjá sjúkrahús, flóttamannabúðir, og hitta einhvern fulltrúa Palestínumanna á svæðinu að máli.
Í snarhasti var fundinn fyrir okkur bíll og bílstjóri. Meiri vandkvæðum var bundið að finna hvaða flóttamannabúðir voru opnar, því útgöngubann ríkti í flestum þeirra. Það þýðir í raun að fólkið innan búðanna er bjargarlaust og sambandslaust við umheiminn. Vænlegast þótti að fara að búðunum við ströndina, sem ganga undir nafninu Beach-camp (Strandbúðirnar). En þegar á hólminn var komið þorði bílstjórinn ekki að fara með okkur inn í búðirnar og sagði þær fullar af hermönnum og að þar mætti búast við átökum á hverri stundu.
Heimsókn á sjúkrahús
Við fórum því á Shéfra-sjúkrahúsið, sem er lítið sjúkrahús í Gaza. Enginn læknir var til viðtals, en hjúkrunarmenn leiddu mig að fjórum rúmum, þar sem lágu ungir menn um eða undir tvítugu sem höfðu verið lamdir af ísraelsku hermönnunum.
Sjúklingur nr. 1. Ljósm. olg
Sjúklingur nr 1:
„Það voru mótmæli í Jabalia-búðunum, þar sem ég bý, og þeir komu inn í hús mitt, drógu mig út og hófu að lemja mig. Þetta voru óbreyttir hermenn og þeir lömdu mig og fóru svo með mig í nálægar herbúðir. Þar sáu þeir að ég var orðinn illa á mig kominn, svo að þeir slepptu mér og ég fór á sjúkrahúsið. Þar gekkst ég undir uppskurð vegna alvarlegs brots á handlegg. Um það bil mánuði síðar, þegar ég var enn með gifsið á handleggnum, komu þeir aftur í búðirnar. Þar voru strákar sem köstuðu grjóti í hermennina og þeir fóru um allt að leita þeirra. Þeir komu líka í mitt hús, en fundu engan þeirra, aðeins mig þar sem ég lá í rúminu með gifsið á handleggnum. Þeir drógu mig út og hófu að lemja mig á gifsið og þeir brutu handlegg minn á ný. Þeir fóru aftur með mig í herbúðirnar, en þegar þeir sáu að ég hafði misst meðvitund og gat ekki farið í fangelsi var mér sleppt, og vinir mínir fóru svo með mig hingað á sjúkrahúsið. Ég er með tvö brot á handleggnum núna. Þetta gerðist með mig.“
Sjúklingur nr. 2. Ljósm. olg
Sjúklingur nr. 2: „Ég var á gangi úti á götu þegar hermenn komu til mín og sögðu mér að fjarlægja vegartálma sem einhver hafði lagt á götuna. Ég neitaði því og þá tóku þeir mig, reyrðu saman á mér hendurnar og festu reipið síðan aftan í herjeppann. Síðan var ég dreginn eftir götunni a.m.k. 30 metra eða þangað til ég hafði nær misst meðvitund. Þeir skildu mig þannig eftir á götunni alblóðugan og sáran um allan líkamann.“
Sjúklingur nr. 3. Ljósm. olg
Sjúklingur nr. 3: „Ég var úti á götu og sá hvar krakkar voru að kasta grjóti að hermönnum. Ég lagði á flótta þegar ég sá hvað var í vændum. Þeir eltu mig á stórum herbíl, drógu mig inn í bílinn og börðu mig þar og spörkuðu í mig. Ég hlaut nefbrot, augnskaða, áverka á hálsi þannig að ég get varla hreyft höfuðið og innvortis blæðingar og áverka, þannig að ég á mjög erfitt með að hreyfa mig. Þegar þeir höfðu misþyrmt mér skildu þeir mig eftir á götunni.“
Sjúklingur nr. 4 (ca. 16-17 ára): „Ég var einn á gangi þegar þeir stoppuðu mig og spurðu um skil[1]ríki. Fyrst héldu þeir mér í 15 mínútur eða svo. Þá komu 4 her[1]menn og börðu mig án tilefnis. Þeir lögðu mig á götuna og spörkuðu í andlitið á mér með hermannastígvélunum. Svo fluttu þeir mig á sjúkrahúsið. Ég er með brotið nef og marga áverka á höfði.“
Ég þurfti ekki fleiri vitni, en hjúkrunarmennirnir á þessu litla sjúkrahúsi sögðu mér að þeir hefðu fengið 400 tilfelli þessu lík síðastliðna 6 mánuði. Og þetta var aðeins lítið sjúkrahús og eitt af mörgum í Gaza. Aðbúnaður þar líktist reyndar ekki sjúkrahúsi, og hreinlætisaðstaða var þar verri en engin, því salernin minntu meira á svínastíu en mannabústað.
Gaza Centre for Right and Law
Við fórum á stofnun sem heitir Gaza Centre for Right and Law og hittum þar fyrir dr. Abu Jaffar, lögfræðing, blaðamann og skáld og fyrrverandi starfsmann UNWRA. Þetta er menntamaður á sjötugsaldri sem gaf af sér mikinn þokka og talaði af fullkominni yfirvegun og yfirlætisleysi þess sem býr yfir mikilli reynslu og visku. Hann tjáir okkur að stofnun þessi hafi verið mynduð af nokkrum lögfræðingum frá Gaza-svæðinu árið 1985. Stofnunin hafi sett sér að vinna að því að lög og mannréttindi væru virt á svæðinu í samræmi við alþjóðleg mannréttindaákvæði. Stofnunin hefur samband og samvinnu við alþjóðasamtök eins og Amnesty International, Alþjóðasamtök lögmanna í Genf og Christian Aid. Meginstarfið hefur hingað til falist í því að safna upplýsingum, gera rannsóknir og gefa út skýrslur og miðla þekkingu og rannsóknum til útlanda. Auk þess veitir stofnunin einstaklingum lögfræðiaðstoð endurgjaldslaust. Annar mikilvægur þáttur í starfseminni er einnig að koma upp lögfræðibókasafni í Gaza, en slíkt er ekki fyrir hendi enn.
Intifadan, uppreisn unga fólksins í Palestínu 1987, var framkvæmd með heimatilbúnum vopnum. Hér sýnir ungur drengur ljósmyndara heimatilbúið vopn sitt. Ljósm. olg
Dr. Abu Jaffar:
„Intifadan eða uppreisnin hófst hér á Gaza-svæðinu þann 9. desember 1987. Hvað felst í henni? Jú, íbúar svæðisins eru að láta í ljós vilja sinn. Þeir sætta sig ekki lengur við ríkjandi ástand. Þeir vilja að almenn mannréttindi séu virt. Þeir vilja sinn sjálfsákvörðunarrétt, þeir krefjast réttar til ríkisfangs, til þess að mynda eigið ríki. Þessi uppreisn kom innan frá, henni er ekki stýrt að utan. Og hvernig er þessum kröfum svarað? Þeim er svarað með táragasi, gúmmíkúlum og föstum skotvopnum. Þeim er svarað með fjöldarefsingum eins og útgöngubanni á heilar flóttamannabúðir eða jafnvel allt svæðið. Þeim er svarað með húsrannsóknum. Hús og heimili eru lögð í rúst með jarðýtum. Og þeir sem eru uppvísir að því að tala við blaðamenn eru kallaðir fyrir og fangelsaðir.
Frá 9. des. 1987 til 11. júní sl. höfum við heimildir fyrir því að 520 einstaklingum hafi verið misþyrmt með barsmíðum hér á Gaza-svæðinu. Á sama tíma hafa 99 hlotið sár af gúmmíkúlum og 469 hafa hlotið sár af föstum skotum. 65 hafa látist af skotsárum, 20 hafa látist af völdum táragass. Síðastliðna 3 mánuði höfum við heimildir um 33 konur sem misstu fóstur af völdum táragass og 3 konur sem misstu fóstur vegna barsmíða. Á tímabilinu frá 9. des. sl. og út janúar voru 30 heimili lögð í rúst með jarðýtum í einum flóttamannabúðunum og þann 5. febrúar sl. kl. 17:00 var 22 einstaklingum á aldrinum 12 – 70 ára misþyrmt með barsmíðum í einum búðunum.
Þetta eru svörin sem þetta fólk hefur fengið við kröfum sínum um grundvallaratriði allra mannréttinda eins og eigið vegabréf og eigin þjóðfána. Palestínumenn hafa verið neyddir til að nota þær baráttuaðferðir sem þeir vildu síst nota. Því Palestínumenn eru friðelskandi þjóð og saga þeirra sannar það. Þegar Palestína var undir yfirráðum Tyrkja greiddu þeir sérstakan skatt til þess að komast hjá því að þurfa að senda syni sína í herinn. Þeir hafa alltaf tekið vel á móti gestum, og þeir tóku einnig vel á móti gyðingum á sínum tíma. En gyðingar hafa misnotað gestrisni þeirra með því að flæma þá burt af landi sínu og svipta þá eignum sínum og sjálfsvirðingu.“
-Hvaða framtíðarlausn sérð þú fyrir þér á þessari deilu? –
,,Ég er skáld, og framtíðarsýn mín mótast af því. Þótt framtíðin kunni að virðast svört, þá er ég bjartsýnismaður. Menn geta beitt ofurefli í skjóli vopna, en þegar til lengdar lætur geta menn aldrei réttlætt nærveru sína með vopnavaldi. Við sjáum það af sögunni: Frakkar héldu Alsír í skjóli vopna en urðu um síðir að hörfa. Indverjar lutu bresku yfirvaldi í 300 ár en jafnvel breska heimsveldið varð að lokum að leggja niður vopnin. Dæmin eru fjölmörg. Mér verður oft hugsað til þeirra orða Sókratesar, að það sé betra hlutskipti að líða misrétti en að beita því gagnvart öðrum. Og ef menn hafa liðið misrétti, eins og gyðingar hafa gert, hvernig geta þeir þá leyft sér að beita því gegn öðrum?
Ég er af menntafólki kominn. Faðir minn var kennari í heimspeki og sálarfræði. Mér er minnisstætt það sem hann sagði við mig þegar ég var ungur drengur. Ég hafði þá fengið mína fyrstu fræðslu í trúarbrögðum múslima, og var að myndast við að gera bæn mína samkvæmt kenningum kóransins í fyrsta skipti. Þegar ég hafði gert bæn mína kallaði faðir minn mig til sín og sagði: Ég ætla ekki að skipta mér af þínum trúariðkunum, því trú sína velur maður sjálfur. En eitt langar mig til að biðja þig um: áður en þú ferð með bænir þínar vil ég að þú segir við sjálfan þig: „ég óttast engan og ég elska alla“. Þetta gerði ég, og löngu síðar skildist mér að þarna hafði faðir minn kennt mér kjarna allra trúarbragða, sem er kærleikur. Og þessi afstaða föður míns hefur mótað líf mitt. Þess vegna óttast ég ekki um framtíðina. Hins vegar getum við spurt okkur hvað réttlæti það að skapa alla þessa óþörfu þjáningu? Því slæmur málstaður getur ekki sigrað.“
Meðal sjómanna
Við kvöddum þennan mæta mann og héldum á fréttastofuna, þar sem starfsbróðir minn var að senda fréttaskeyti í gegnum síma. Þegar hann frétti að við hefðum ekki komist í flóttamannabúðirnar á ströndinni fór hann nokkrum vel völdum orðum um hugleysi bílstjórans okkar, og sagðist fara með okkur sjálfur. Við fengum annan bíl og bílstjóra af götunni og ókum inn að búðunum. Fylgdarmaður okkar var þekktur í búðunum, og þegar börnin ætluðu að þyrpast í kringum okkur og gera hávaða eins og gerst hafði í Ramallah, þá gaf hann þeim fyrirskipanir og þau hlýddu. Í stað þess að elta okkur og heimta að vera ljósmynduð, þá fóru þau á varðberg, dreifðu sér um búðirnar og létu skilaboð ganga þegar hermannajepparnir sem voru á eftirlitsferðum um búðirnar nálguðust. Við máttum oft taka til fótanna eða forða okkur inn í næsta kofa, en með aðstoð barnanna komumst við ferða okkar óséðir. Við komumst í gegnum búðirnar niður að ströndinni, og þar sá ég í fyrsta skipti Miðjarðarhafið í þessari ferð. Fyrir neðan strandgötuna voru verbúðakofar í röðum sem mynduðu gott skjól. Bátar voru einnig í röðum á ströndinni, litlar skektur sem tóku ekki nema 1-2 menn, og þarna voru sjómenn að gera að netum sínum. Því fólkið í Beach-camp hefur lífsviðurværi sitt af fiski. Mér var tjáð að hernaðaryfirvöldin hefðu ákveðið að ryðja öllum verbúðunum í burt næstu daga í öryggisskini. Nokkrir sjómenn voru þarna að draga bát á land, aðrir að gera að netum.
Sjómenn í strandbúðunum á Gaza leita skjóls undan sólinni. Þeim hefur verið bannað að sækja sjóinn. Ljósm. olg
Ég gaf mig á tal við þá og spurði hvernig útgerðin gengi. Þeir sögðu að yfirvöldin væru að eyðileggja fyrir þeim lífsbjörgina. Ákveðið hefði verið að setja skatt sem næmi 1000 jórdönskum dínörum (hátt í árslaun verkamanns) á hvern bát fyrir að sækja sjóinn. Enginn fiskimaður þarna hefur möguleika á að reiða fram slíka fjárhæð. Þeir sem ekki borga eru fangelsaðir fyrir að fara út. Og þeir bentu mér á að allir bátarnir sem væru netalausir á ströndinni væru í eigu sjómanna sem þegar væru komnir í fangelsi. „Við höfum ákveðið að fara í verkfall í einn dag, og ef þessum ákvæðum verður ekki breytt, þá höfum við ekki önnur ráð en að hlaða stóran bálköst hér á ströndinni og brenna bátana okkar.“
Er mikill fiskur í sjónum?
„Nei, stóru bátarnir hirða allt. Við förum út klukkan 4 á morgnana og leggjum netin og sofum svo í bátnum og komum að landi um eftirmiðdaginn. Veiðin gerir lítið meira en að næra fjölskyld[1]una. En ef við missum hana höf[1]um við ekkert að borða.“
Með hungurvofuna að vopni
Við héldum upp í kampinn á ný, og heimsóttum eina fiskimannafjölskyldu. Húsakynnin voru eins og ég hafði séð áður: hlaðnir múrsteinskofar með bárujárnsþaki, afgirtur garður með steyptu og hvítskúruðu gólfi. Inni í kofanum var eldri kona á flatsæng og grét með ekkasogum. Maður hennar, sem reyndist 58 ára þótt hann virtist vera eldri, var hjá henni. Og tveir synir hans birtust fljótlega, nokkrar yngri konur og sægur af börnum. Það voru 35 munnar að mata í þessari fjölskyldu. Húsmóðirin var greinilega sjúk, elsti sonurinn var nýkominn úr fangelsi og annar sonurinn var veikur af brjósklosi í baki.
Hluti sjómannafjölskyldunnar á Gaza. Það voru 35 munnar að fæða í þessari fjölskyldu. Ljósm. olg
„Ég er fæddur í Jaffa 1930. Fjölskylda mín átti sitt hús og sitt land og sitt lífsviðurværi þar. Ég flúði hingað 1948. Ég hef stundað sjóinn og ég á 5 syni sem allir eru sjómenn. Nú heimta þeir að við borgum 1000 dínara hver og einn. Ég er hættur að sækja sjóinn. Ég hef engar tekjur og húsið er matarlaust. Við erum seld undir guðs náð. Sjómenn eru stolt fólk eins og þú, sem kemur frá Íslandi, veist. En það er búið að ræna okkur allri sjálfsvirðingu. Jafnvel aðstoðin sem okkur er send frá Evrópu lendir í vösum gyðinganna. Við þurfum að kaupa aðstoðina frá fiskifélaginu sem gyðingarnir stjórna. Aðstæðurnar hér eru verri en í Líbanon, því hér er verið að svelta okkur til hlýðni. Ég vil að þú komir þessum skilaboðum á framfæri við íslenska sjómenn, því að ég veit að sjómenn allra landa finna til samstöðu. Sjómenn eru stolt fólk.“
Þessi lífsreyndi sjómaður horfði til mín vonaraugum eins og ég gæti veitt honum einhverja björg. Dóttir hans færði okkur tebolla og börnin hópuðust í kringum okkur. Hann sýndi mér lúin persónuskilríki gefin út af bresku landsstjórninni fyrir 1948, eins og til að sanna mál sitt. Það var eina vegabréfið hans. Hann sýndi mér leyfisbréfið sem hernámsyfirvöldin höfðu gefið honum til þess að sækja lífsbjörgina í sjóinn. Nú gilti það ekki lengur. Ég kvaddi þessi sjómannshjón með kossi og fyrirvarð mig fyrir þá niðurlægingu sem ég hafði séð.
Reynsla af fangavist
Þegar við gengum í gegnum búðirnar til baka sáum við hermannajeppa í fjarska og fylgdarmaður minn tók á sprett. Við hlupum sem fætur toguðu á eftir honum á milli kofaraðanna og yfir opin skolpræsin þar sem dauðar rottur og annar óþrifnaður lá á víð og dreif. Þetta var leikvöllur berfættu barnanna í búðunum.
Þegar við töldum okkur hólpna spurði ég fylgdarmann okkar hvað myndi gerast ef þeir sæju okkur?
-„Þeir taka myndavélina þína og filmurnar. Og þeir setja mig í fangelsi aftur.“
-Hvernig var vist þín í fangelsinu?
-„Þeir handjárnuðu mig og bundu fyrir augun þannig að ég vissi ekki fyrr en eftir nokkra daga hvar ég var staddur. Þeir létu mig standa uppréttan með hendur bundnar fyrir aftan bak í nokkra daga og létu mig hoppa dag og nótt. Svo var ég settur í klefa sem var 1×0,5 m að flatarmáli. Það var ekki hægt að leggjast niður. Ég held að ég hafi verið í þeim klefa í 3 daga, annars man ég það ekki. En ég þekki menn sem hafa verið í þannig klefa í 18 daga. Þeir spörkuðu í mig með hermannaklossunum og köstuðu sandi í vit mín… Ég held ég hafi verið þarna í 2 vikur, ég man það ekki, sagði þessi starfsbróðir minn og vildi ekki ræða það meira.
Tveir heimar
Starfsbræður mínir í Gaza lögðu hart að okkur að gista yfir nóttina. Við gætum sofið á skrifstofunni. Það væri hvort sem er engan bíl að fá, og brátt yrði Gaza-svæðinu lokað. Á morgun yrði allsherjarverkfall, og þá myndum við geta séð raunveruleg átök. Ég þurfti að beita öllum mínum sannfæringarkrafti til að fá fylgdarmann okkar til að aðstoða okkur við að finna bíl. Þegar við komum í bæinn var allt krökkt af hermönnum. Fylgdarmaður okkar gekk 30 metrum á undan okkur og við létum sem við þekktum hann ekki. Hann setti sjálfan sig í hættu með því að leiðbeina okkur.
Að lokum fann hann bíl sem var reiðubúinn til að aka okkur til Tel Aviv. Við komumst klakklaust í gegnum vegabréfsskoðun til Tel Aviv, og þaðan með áætlunarvagni til Jerúsalem. Þar lentum við á stássgötu borgarinnar, þar sem ferðamenn sitja við útikaffihúsin yfir ölglasi. Þetta var eins og að sitja á Café de Paris við Via Veneto í Róm. Áhyggjur heimsins voru víðs fjarri. Á skemmtistaðnum „Underground disco“ var unga fólkið að skemmta sér og þar glumdi við ærandi disco-tónlist: „Tell me lies, tell me lies, tell me sweet little lies…“ rétt eins og maður væri kominn í Hollywood-skemmtistaðinn í Ármúlanum. Þetta var eins og eiturvíma, og þegar ég breiddi yfir mig lakið uppi á hótelinu seint um kvöldið fór ég að gráta. Olg.